Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir tók saman grein, „Lesið í landið – Vinisburður búsetuminja„, sem gefin var út í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010. Hér má sjá hluta efnisins:
Formáli

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.
Uppflettirit þetta er fyrir þá sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um gamla tíma og horfna búskaparhætti á ferð um landið. Falleg náttúra virkar eins og segull á sálina. Þangað þyrpist fólk til að njóta og nærast. Með vaxandi áhuga á ferðalögum innanlands hafa augu okkar opnast fyrir því að fleira er í umhverfi okkar sem skiptir máli en náttúran sjálf. Ef grannt er skoðað má finna og sjá menningarminjar sem landið geymir enn þar sem menn hafa ekki umbylt jörðu og kaffært með húsum. Það er spennandi viðbót á ferð um landið að geta lesið í gamlar tóftir og spáð í hvað var þar umleikis fyrir hundrað árum og jafnvel fyrr. Sagan talar til okkar frá gömlum tóftarbrotum og örnefni minna á þjóðhætti. Mörgum þykir lítið augnayndi í veggjabrotum og hálfhrundum húsum, en ef við þekkjum hlutverk þeirra og horfum á þau út frá handverkinu sem í þeim felst blasa við okkur heimildir sem geta sannarlega kryddað tilveruna.

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.
Með þessu smáriti er gerð tilraun til að skapa fólki, sem er á faraldsfæti möguleika til að lesa í landið og sjá við hverju má búast, og hvar og hvers vegna. Því þrátt fyrir alla náttúrfegurðina sem við njótum á ferð um landið okkar er það mikils virði fyrir marga að geta bætt inn í myndina væntingum um að sjá meira en augað nemur í fljótu bragði og átta sig á hvernig forfeður okkar nýttu sér þetta sama umhverfi og settu mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta þar sem sjá má bæjarnöfn og örnefni. Með þetta litla kver í viðbót við landakortið er von okkar sú að ferðin verði enn meira spennandi. „Landslagið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“, sagði skáldið og til viðbótar má bæta við … og hvergi sæjust spor genginna kynslóða.
Búsetuminjar

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – uppdráttur ÓSÁ.
Búsetuminjum má gróflega skipta í tvo flokka, minjar í túni og minjar utan túna. Stærsti minjaflokkurinn teljast útihús hverskonar. Innan túns má nefna fjós, fjárhús, hrútakofa, hesthús, hlöðu, lambhús, smiðju og skemmu. Utan túns eru beitarhús, stekkur, heytóft, rétt, smalakofi, sel og byrgi ýmiskonar og fleira. Aldur útihúsa er sjaldan þekktur. Oft voru þau byggð öldum saman á sama stað. Leifar eldri mannvirkja kunna því að leynast undir tóftum þeirra yngri.
Lega og útlit minja gefur oft til kynna hvaða minjar um er að ræða þó svo engar heimildir séu til um notkun þeirra. Í mörgum tilvikum er þó erfitt að ákvarða um notkun mannvirkisins.

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.
Bæjarhólar urðu til við það að sífellt var bætt við, endurbyggt og húsum breytt á sama stað. Við það hækkuðu hólarnir og breikkuðu eftir því hve lengi var búið á sama stað og hve húsin voru mörg og stór. Bæjarhólar eru gríðarlega mikilvægar heimildir um mannlíf fyrr á öldum því þeir varðveita upplýsingar um húsakost og lifnaðarhætti og þar eru mestar líkur á að verðmætir gripir finnist. Núverandi hús eru oft byggð ofan á eða inn í gömlu bæjarhólana, en oft má líka sjá þá sem grænar stórar þústir og hóla í landslaginu.
Minjar innan túns og heimalands

Elliðakot – beðasléttur.
Minjar innan túns eru oft horfnar vegna jarðabóta eða annarra framkvæmda nútímans. Þó má enn finna merki um búsetuhætti á gömlum túnum, einkum þar sem bæir hafa farið í eyði um og fyrir vélvæðingu.
Beðasléttur – Leifar túnsléttunar frá um 1880-1925. Minjar um þúfnasléttun, jarðrækt sem unnin var í höndunum og hafa yfirleitt verið útmáðar. Helst sjáanlegar á eyðibýlum sem fóru í eyði fyrir vélvæðingu. Beðasléttur eru fremur mjóir, lítið eitt kýfðir teigar með rásum (ræsum) á milli þannig að vatn rennur af þeim.
Baðlaugar – Hér og hvar á landinu má enn finna náttúrulegar laugar þar sem fólk tók sér bað sér til heilsubótar. Nokkrar eru upphlaðnar. Á nokkrum stöðum voru laugarnar einnig notaðar til þvotta.

Stafnesbrunnur.
Brunnar – Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum var valinn staður.
Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.
Fjárhús/kvikfénaðarhús/búpeningshús: Fjárhústóftir eru margvíslegar og stærð þeirra getur verið mismunandi og oft má greina garða eftir miðri tóftinni eða stalla við veggi.
Fjós – Fjóstóftir eru oft fast við bæinn sjálfan eða nálægt honum. Einkenni þeirra er flórinn, básarnir og jatan, við annan hvor vegginn.
Geymsla – Skemma fyrir verkfæri, ull eða matvæli.
Heimreið – Síðasti spott afleggjarans heim á bæjarhlaðið. Oft upphlaðin meðfram götum í gegn um túnið og heim á hlað.
Hestasteinn – Var yfirleitt staðsettur á bæjarhlaði eða á stöðli. Til að binda á ferðahesta meðan staldrað var við eða á meðan menn bjuggu sig til ferðar.
Hesthús – Hús með stalli við annan langvegg. Ýmist heima við bæi, yst í túni eða við túngarð.
Heyhlaða – Hlöður voru yfirleitt áfastar við búpeningshúsin en þær gátu líka verið frístandandi.
Heytóft/heykuml – Hey var hlaðið upp í fúlgur og tyrft yfir þannig að skepnur komust ekki að því. Hyllst var til að velja þurran og góð an stað þar sem vatn rann frá heyjum og hlaðinn garðstubbur umhverfis heyið. Sami staður var notaður ár eftir ár og smám saman myndaðist tóft sem oft eru með ógreinilegum „veggbrotum“.
Hjallur – Geymsla eða skúrbygging úr timbri, þiljuð til hálfs. Notuð til að þurrka og geyma í mat, s.s. þurrkað kjöt, skreið, hákarl og fleira.
Hlaða – Heygeymsla fyrir hey, hlaðið úr torfi og grjóti með þaki. Yfirleitt áföst við búpeningshús, en þekkjast stakar.

Hrútakofi.
Hrútakofar – Smærri torf- og grjóthlaðnir kofar, oft yst í túni, með jötu við langvegg.
Kálgarður – Nærri húsum eða utanvið túngarð þar sem sólar naut og var vel varinn fyrir búfénaði. Oftast með hlöðnum torf- eða grjótgörðum.
Kofar – Torf- og grjóthlaðnir kofar til geymslu búfjár, hænsna, eða annarra eigna.
Kvíar – Kvíar voru oftast í túni eða rétt utan þess. Þar voru kvíaær mjólkaðar. Kvíar voru oft hlaðnar úr torfi og grjóti, aflangar, fremur þröng rétt. Breiddin var tvær ærlengdir með gangvegi á milli. Bændur voru einnig með kvíar úr timbri, færikvíar, sem þeir gátu fært til eftir þörfum. Örnefnir kvíaból vísar til þess hvar kvíarnar stóðu.
Lambhús – Smærri kofar eða hús oft sambyggð öðrum búpeningshúsum eða mannabústöðum.
Myllur – Kornmyllur knúðar vatni voru við marga bæi á 19. öld og fram á þá 20. Oft hafa myllusteinarnir einir, sem möluðu kornið, varðveist eftir að myllurnar sjálfar hrundu. Mylluörnefni á mörgum bæjum vísa til þess hvar myllurnar voru. Myllutóftir eru enn finnan legar við ár eða læki. Þær eru litlar, grjót- og torfhlaðnar og dyr eða op er á tóftinni þar sem vatnið var leitt inn og út. Grafnar rennur eru úr læk ofan við að tóftina sem vatnsmagninu var stýrt um.
Ræsi – Stungin rás fyrir vatn. Oft var brúað yfir og þá var einnig talað um ræsi.

Skemma.
Skemmur – Geymsla fyrir verkfæri, áhöld, matvæli, ull, tjöru, of fleira sem búið þurfti. Yfirleitt hlaðin upp af torfi og grjóti, með framþili úr timbri.
Skurðir – Grafnar vatnsrásir til að ræsa fram vatn og þurrka upp landið. Verulegur munur eru á handgröfnum og vélgröfnum skurðum, sem þekkist best á stærð þeirra.
Smiðjur – Smiðjur voru oft við bæjarstæðið sjálft, en einnig eru dæmi þess að þær hafi staðið í túni dálítið frá bænum, vegna eldhættu. Oftast frekar smáar tóftir.
Túngarður – Hlaðinn garðveggur úr torfi og/eða grjóti, til að verja tún.
Minjar utan túns

Garðatúngarður.
Sá flokkur minja sem jafnan hefur varðveist best eru hverskyns minjar utan túns. Þær liggja gjarnan á stöðum þar sem nútíma jarðrækt hefur aldrei verið beitt.
Áveitu- og stíflugarðar – Víða á engjum, við ár og vötn, eru enn gamlir áveitu- eða stíflugarðar, frá þeim tíma er menn nýttu áburð vorflóðanna. Þegar flæddi hlóðu menn garða fyrir útfallið þannig að leðjan úr vatninu, sem var hinn besti áburður, settist til og varð eftir þegar vatnið gufaði upp eða sjatnaði.
Beitarhús/hagahús – Beitarhús voru oft byggð upp þar sem góður hagi var eða á gömlum selstæðum, allt upp í nokkurra kílómetra fjarlægð frá bæ. Þar var fé beitt yfir vetrartímann til að hlífa túnum og heimahögum. Beitarhúsatóftir samanstanda af myndarlegri fjárhústóft eða tóftum, og yfirleitt er hlaða áföst fjárhúsunum.

Fjárborg við Nes í Selvogi.
Borgir – Hrossaborgir, sauðfjárborgir. Hringlaga, yfirleitt hlaðnar úr grjóti, þykkir veggir, með dyrum á. Lágum fyrir sauðfé, hærri fyrir hross.
Brunnur – Þar sem ekki var hægt að ganga að uppsprettu eða rennandi læk með hreinu vatni grófu menn brunna nálægt bæjum sínum. Oft um 5-7 m. djúpir og grjóthlaðnir að innan. Með vindu yfir og oft svokölluðu brunnhúsi sem byggt var yfir brunnana. Víða má sjá merki hringlaga jarðfalls þar sem brunnurinn var, en sjaldnast er nokkuð eftir af þeim þar sem menn hafa sléttað tún umhverfis bæina og fyllt upp í brunnana.
Brú – Brúað var yfir ár með trjám, sem lögð voru á örugga kletta eða aðra undirstöðu, stundum hlaðna brúarstöpla. Og eru það oft einu sjáanlegu merki brúargerðar yfir ár og læki. Önnur brúargerð var þegar hlaðin var jarðvegsbrú úr gjóti og/eða torfi yfir mýrlendi. Einnig Jarðbrú.

Fjárbyrgi í Katlahrauni.
Byrgi – Fjárbyrgi, lambabyrgi. Hlaðið skjól fyrir búfé líkt og fjárborgirnar. Einnig eru sumstaðar skotbyrgi, til tófu- og refaveiða á heiðum og upp il fjalla, en þau eru miklu minni en fyrir búfénað.
Búð – Tjaldbúð, þingbúð. Stundum er hægt að greina lága veggi úr torfi og/eða grjóti umhverfis „búðina“.
Dómhringir – Hugsanlega hringlaga garðaleifar, ef sjáanlegar. Fremur ólíklegt er að sjá dómhringi í minjaumhverfinu.
Dysjar/kuml – Heiðnir fornmenn voru dysjaðir í kumlum sem hægt er að sjá hér og hvar þar sem jörð hefur beitt og er ósnert frá þjóðveldistíma. Dysjar/kuml má þekkja á því að oft er steinum raðað í sporöskjulaga.

Villingavatn – fjárborg á Borgarholti.
Fjárborgir – Fjárborgir voru hringlaga, hlaðnar úr torfi eða grjóti. Fjárborgir voru algengar sunnan lands og austan, en fáséðari norðan og vestan. Hlaðnar nær sama í toppinn og dyr miðaðar við sauðfé, sem borgirnar voru fyrir, oft fjarri bæjum.
Garðlög – Margskonar garðlög er að finna umhverfis tún og utan þeirra. Bæjarstæði voru oftast afmörkuð með hlöðnum túngarði þá oftast úr grjóti og torfi. Garðar umhverfis beitarhús geta verið vísbendingar um að áður hafi verið þar býli. Vallargarðar eru garðar utan túna. Oft er erfitt að geta sér til um not þessara garða en líklega hafa þeir þjónað þeim tilgangi að aðgreina land í nytjaeiningar. Svokallaðir landamerkjagarðar voru einnig hlaðnir á mörkum landeigna.

Forn gata á Hellisheiði.
Gata/götur – Leið sem menn og skepnur hafa farið aftur og aftur þar til myndast hefur greinileg slóð, gata, götur sem haldast árum og árhundruðum saman.
Gerði – Afgirt svæði yfirleitt með hlöðnum garðveggjum umhverfis. Sennilega eru þau í flestum tilfellum leifar fornbýla.
Gildrur – Refagildrur, fiskigildrur. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti.
Gjafaréttir – Gjafagirðingar eru hringlaga opnar réttir eða aðhald fyrir sauðfé í útbeit. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti og torfi.
Heytóftir – Þar sem hey var slegið á engjum eða mýrum voru hlaðnir upp garðstubbar um svokallaðar heytóftir. Þar var heyinu safnað saman og það sett upp í heyfúlgu sem byrgð til geymslu fram á vetur þegar þurfti að fóðra búsmalann. Slíkar tóftir eru oftast ferkantaðar eða sporöskjulaga með engum dyrum. Að vanda eru tóftirnar nokkru hærri en umhverfið til að halda heyinu þurru og til að varna því að búsmali kæmist að því.

Heytóft.
Heyvinnsla – Stundum má sjá minjar um fyrstu tilraunir til túnsléttu og kallast það beðasléttur. Frá aldamótum og fram um 1930 var unnið að túnasléttun og framræslu á flestum bæjum. Tímabilið er í þessu sambandi oft nefnt þaksléttutími. Fyrsta áratuginn voru notuð handverkfæri. Sléttað var í löngum ræmum eða beðum sem síðan settu svip á túnið. Sléttaðar voru tóftir næst bæjum og jafnað úr gömlum húsum sem staðið höfðu dreifð innan túns.
Hrossaborgir – Svipaðar og fjárborgirnar, með hestgengum dyrum. Af sama tagi voru skjólgarðar sem hlaðnir voru fyrir stóðhross á útigangi og svokallaðir krossgarðar, sem gegndu sama hlutverki og voru hlaðnir í kross.
Kartöflugarður/jurtagarður – Yfirleitt voru kál- og kartöflugarðar upp við bæinn eða utan túns, upp við túngarðinn, þannig að hann nýttist sem ein hlið garðsins. Hyllst var til að hafa jurtagarða á móti suðri. Garðveggir voru hlaðnir úr torfi.

Flekkuvíkursel – kolagröf.
Kolagröf – Hér og hvar á heiðum og innst í dölum, oft á afréttarsvæðum, finnast grunnar, gryfjur eða grafir, þar sem gert var til kola fyrr á tíð. Þá var safnað hrísi, fjalldrapa og öðrum grófum runnagróðri. Greinarnar rifnar af og hafðar til eldiviðar en leggirnir högg nir í gryfjuna sem var fyllt. Þá var kveikt í gryfjunni og tyrft yfir þannig að lofttæming varð. Við þetta myndaðist mikill hiti og tréð þornaði. Brúnkol, eins og þetta efni var kallað, voru mun betri á smiðjuaflinn en t.d. mór.
Kláfar – Trékassar sem dregnir voru á strengjum yfir ár á milli gljúfurbarma. Merki þeirra eru hugsanlega vinduleifar eða hlaðnir stöplar.

Brennisel – kolagröf í miðið.
Kolagrafir – Þar sem áður var kjarr- og skóglendi má finna grafir sem í eru koluð tré. Það eru leifar eldiviðar sem unnin var í gröfum þessum. Þ.e. runnar voru rifnir og tré höggvin ofan í gryfjuna, kveikt í og allt byrgt með torfi. Við hitunina koluðust trén og gáfu mun meiri hita þannig.
Lambabyrgi – Skjól, byrgi eða kró, ýmist náttúruleg eða upphlaðin, til að hýsa lömb í.
Laug – Heitavatns uppsprettur og volgrur voru notaðar til baða og fataþvotta. Stundum voru þær upphlaðnar að hluta eða öllu leyti.
Yfirleitt eru þær utan túna en ekki var það regla.
Leiði – Legstaður grafinna í kirkjugarði. Oft sem aflangar risaþúfur í gömlum kirkjugörðum sem ekki hafa verð sléttaðir.

Krýsuvík – mógrafir.
Mógrafir – Má enn finna í mýrlendi þar sem er þykkur jarðvegur vel varðveittra lífrænna árþúsunda gamalla jurtaleifa. Yfirleitt eru þær fallnar saman og grunnar, uppgrónar og hættulausar.
Nátthagi – Torf og grjóthlaðnir yfirleitt hringlaga garðar, með hliði á. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar fráfærur voru stundaðar í stórum stíl. Næturhólf til að bæla fráfærulömbin á stekktíðinni. Mylkum ám var haldið innan nátthagans á næturnar en sleppt út fyrir á daginn og haldið til haga. Lömbin voru lokuð inni í lítilli kró við stekkinn yfir nóttina, en sleppt með ánum á daginn. Innan nátthaganna, eða í næsta nágrenni var stekkur þar sem ærnar voru mjólkaðar.

Keflavík – rekafjara.
Rekavinnslustaður – Staður þar sem gott aðgengi var í rekafjöruna og öruggt fyrir sjávarágangi. Örnefni vísa til þessara staða, en þeir hafa vaflaust færst til eftir því hvernig/hvort strandlengjan breyttist.
Rétt – Réttir og gripheldi hverskonar finnast gjarna fjarri bæjum, oft mitt á milli bæja. Smærri réttir til heimabrúks voru þó nálægt bæjum. Lögréttir nefndust þær réttir sem byggðar voru upp sem skilaréttir fyrir heimfjallasmölun eða afaréttir. Oft hlaðnar úr grjóti, gjarnan upp við klettaveggi eða annað náttúrulegt aðhald. Réttir sem voru notaðar á einstakra bæja voru oftast smáar og einfaldar að gerð en stærri lögréttir svo sem til vorrúnings eða haustsmölunar voru stórar og oft margskiptar með dilkum.

Í Brunnastaðaseli.
Sel – Yfirleitt voru sel nokkurn veg frá bæjum, oftast við ár eða læki. Þangað var búsmali rekinn á sumrum og þar hafði fólk sumardvöl við að vinna mjólkurmat til vetrarins. Sel voru í notkun allt frá landnámstíð og fram undir 17-18. öld. Seltóftir eru jafnan leifar þriggja eða fleiri tófta, oft samfastar. Stundum voru þar líka krær eða gripheldi. Oft byggðust upp býli af þessum seljum og einnig beitarhús. Býli þessi tóku þá gjarnan nafn með viðskeytinu -sel. Erfitt getur verið að greina milli tófta selbúskapar eða smábýla þar sem búseta var í e.t.v. í skemmri tíma. Oft greina smábýlin á túngarðinum sem hefur verið hlaðinn umhverfis bæjarhúsin.
Skáli – Langhús, aflangt hús, íveruhús frá þjóðveldistíma.

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.
Smalakofar – Fé var smalað í haga að morgni og heim til mjalta að kveldi. Smalar sátu yfir fénu á daginn og voru það oft börn eða unglingar sem gegndu því starfi. Algengt var að smalar hlæðu sér smákofa eða afdrep fyrir veðri og vindum meðan setið var yfir. Tóftir smalakofa eru oft mjög litlar og standa í brekkum eða á hólum þar sem víðsýnt var.
Stakkgarður – Torf- eða heystakkur, þar sem torfi eða heyi var stakkað upp til geymslu. Líkist heytóftum í landslaginu.
Stekkir – Á stekkjum var fært frá, lömb færð frá ánum til að hægt væri að nýta mjólkina til manneldis. Þeir liggja gjarnan utan túna nokkurn spöl frá bæjum, svokallaðan stekkjarveg. Stekkir eru oftast hlaðnir úr grjóti, tvískiptir í rétt og lambakró. Króin var lítil og þakið reft og tyrft. Þeir eru gjarnan hlaðnir upp við stóra náttúrusteina eða klettaveggi.
Stöðull – Þurr valllendisbali eða hæð við túngarð þar sem kýr, kvíaær tóku sér stöðu, biðu t.d. eftir mjöltum og brúkshestar stóðu milli þess sem þeir voru á beit eða í notkun. Búféð vandist þangað, kynslóð eftir kynslóð. Nú er þar fátt að sjá, en örnefnið hefur varðveist á stöku stað.

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.
Sæluhús – Torf- og/eða grjóthlaðnir kofar við fjallvegi. Tóftir sæluhúsa má finna við gamla fjallvegi þar sem áður lá alfaraleið. Rústir þeirra líkjast helst tættum húsa, s.s. skemma, heima við bæi.
Túngarður – Garður var hlaðinn umhverfis tún til að verja þau gagnvart búpeningi yfir sprettutímann. Túngarðarnir voru yfirleitt hlaðnir úr torfi og grjóti.
Vað – Þar sem götur liggja að vötnum, ám og lækjum er yfirleitt vað yfir og grynnra eða sléttara í botninn en annars staðar. Eða þægilegra að komast að því.
Varða – Uppmjó áberandi grjóthleðsla við götur, einkum fjallvegi, sem hlaðin hefur verið til að varða slóðina þar sem best er að fara.

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.
Vegir – Varðveist hafa gamlar kerruslóðir og upphlaðnir vegir.
Virki – Verndaður staður, hús eða garður umhverfis bústað með háum vegghleðslum eða rammbyggðum úr tré. Yfirleitt löngu horfnir.
Þvottaból – Staður þar sem þvottur var þveginn við rennandi vatn, læk eða ár. Yfirleitt ekkert lengur sjáanlegt en örnefni vísa á þessa staði. Sjá einnig laugar.
Ærgötur – Mjóar götur, eftir sauðfé, sem þræða fjöll og heiðar. Yfirleitt er óhætt að treysta því að þær séu færar fólki, hvort sem þær
eru um mýrlendi eða skriður.
Við sjóinn

Selatangar – sjóbúðartóft.
Oft varðveitast menjar um sjósókn illa vegna nálægðar við hafið og vegna framkvæmda við þéttbýlismyndun og hafnargerð. Verstöðvar eða útgerðarstaðir voru oft notaðir frá mörgum bæjum/byggðarlögum og því kann þar að finna nokkuð fjölbreyttar minjar.
Fiskbyrgi: Oftast grjóthlaðnar einfaldar byggingar, ferhyrndar eða hringlaga, þar sem þurrkaður og saltaður fiskur var geymdur.
Hafnir: Varðveisla hafna er oft vond enda brjóta brim mannanna verk niður þar sem sjór nær til þeirra. Náttúrulegar hafnir eru yfirleitt enn þær sömu, þótt þær hafi margar breyst á mörg hundruð árum, eins og höfnin á Kolkuósi. Hafnir þar sem menn hafa reynt að hlaða var fyrir báta, eru langoftast löngu horfnar.

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.
Hjallur – Oft finnast hleðslur undan hjöllum, fiskhjöllum og geymslum. Slíkar hleðslur eru oft ferköntuðu upphleðsla sem myndar sléttan flöt eða grunn. Einnig er oft einföld grjótröð sem markar af grunninn.
Hróf – Staður þar sem skip voru dregin á land og komið fyrir til geymslu. Um hverfis þau var hróflað upp veggjum sem yfirleitt voru ekki mjög vönduð og líkjast hrúgöldum.
Lending – Hér og hvar í fjörum má enn sjá lendingar, þ.e. einskonar „rennur“ upp í og í gegn um grýttar fjörur þar sem bátum var lent þegar komið var úr róðrum. Breiddin er u.þ.b. bátsbreidd.

Garðahraun – naust.
Naust – Tóftir í eða við fjörur þar sem bátar voru dregnir upp og geymdir. Naust geta verið á ýmsa vegu, allt frá tóftum sem reft hefur verið yfir til einfaldra vegghleðsla sem bátar hafa verið lagðir á milli. Oft eru naust bátslaga, þar sem bátum hefur verið smeygt inn. Sjóhús/verbúðir voru íverustaðir sjómanna á meðan á vertíð stóð. Stundum voru þessi hús á tveimur hæðum. Geymsla undir veiðarfæri og annan búnað á neðri hæðinni en svefnstaður manna á þeirri efri. Grunnur húsanna var grjóthlaðinn en efri hæðin úr timbri. Einnig voru verbúðir oft einföld grjót- og torfhlaðin hús.
Uppsátur – Þar lögðu menn upp bátum. Uppsátur eru oft samsíða grjóthleðslur sem liggja í sjó fram. Upphlaðnir sjógarðar eða bryggjur eru voru líka til, en eru sjaldgæfari.
Varnargarður – Þar sem brim brýtur land eða þar sem flóð geta skemmt vatnsbakka hafa menn reynt að verja bakkana, með grjóti.
Bás – Afmarkað svæði, milli stoða, hver fyrir eina kú.
Beitarhús – Sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var. Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust varvar hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.

Beitarhús ofan Knarrarness.
Brúarstöpull – Stöpull, stallur fyrir brúarendann.
Búpeningshús – Fjárhús, fjós, hesthús og önnur hús yfir búpening, húsdýr.
Dilkur – Sá hluti af rétt, þar sem sauðfé og annar búfénaður er dreginn inn í þegar fé var dregið í sundur á vor- og haustsmölun.
Dysjað/grafið – Dys, legstaður ókristins manns eða dýrs.
Flór – Langur lítið eitt niður grafinn skorningur, yfirleitt lagður steinhellum sem þægilegt var að hreinsa.

Færikvíar.
Færikvíar – Kvíar sem gerðar voru úr timburflekum og hægt var að færa til.
Haustsmölun – Þegar fé er smalað af fjalli að hausti.
Heimfjallasmölun – Hvert haust var farið til heiða og fjalla og öllu búfé smalað til rétta. Þar var féð dregið í sundur.
Heimiliskapella – Guðshús þar sem heimilisfólk fór með bænir.
Jarðabætur – Túnræktun, þurrkun lands og vinnsla til grasræktunar.
Jata – Stokkur úr tré, þar sem kúnum var gefið. Yfirleitt negld á stoðir við vegg. Í einstaka tilfellum eru jötur upphlaðnar úr grjóti og torfi, við langvegg húsa.

Knarrarnessel – stekkur.
Kvíaær – Ærnar (kindurnar) voru mjólkaðar kvölds og morguns allt sumarið. Úr mjólkinni var gert rjómi og undanrenna, smjör, skyr og mysa. Eftir sauðburð var lömbum kvíaánna leyft að vera með þeim í 2-3 vikur. Á stekktímanum var þeim haldið á beit yfir daginn og að kvöldi voru þau reknar í stekkinn, sem var lítil rétt oft nokkuð langt frá bæ, og hafðar þar yfir nóttina. Lömbin voru sett inn í litla kró (lambakró) við stekkinn. Um morguninn voru ærnar mjólkaðar og svo var bæði ám og lömbum hleyp saman til beitar yfir daginn. Að fráfærum liðnum voru lömbin færð frá ánum og rekin til fjalls, en ærnar voru reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna á kvíunum.
Mylkar/mjólkandi ær – Ærnar voru mjólkaðar til skyr- og ostagerðar.
Reft – Raftar lagðir yfir grindarviði, undir torf, grjóthellur eða járn.

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.
Selstæði – Staður þar sem haft var í seli. Þ.e. á sumrin var búsmalinn rekinn í þó nokkra fjarlægð frá heimilinu þar sem var góður sumarhagi. Þar var m.a. unnið úr mjólkinni.
Skjólgarður – Garður sem settur var upp fyrir búfénað til skjóls fyrir veðrum. Krossgarður hét svo ef hann var hlaðinn í kross.
Smiðjuafl – Aflinn, þar sem eldurinn logar, hlóðir.
Sprettutími – Sá tími sem mest grasspretta er snemma sumars.
Tyrft – Að tyrfa, setja torf yfir, þekja.

Ás – fjárhústóft.
Tættur – Tóftir, húsarústir, tætlur af húsum.
Valllendisbali – Þar sem er þurrt og slétt. Valllendi, völlur, sléttlendi. Bali – þurr og sléttur flötur.
Vorrúningur – Rúningur að vori. Rúningur. Rýað. Þ.e. þegar ullin er klippt, rúin er af sauðfénu.
Þaksléttutími – Snemma sumars þegar frost var farið úr jörðu var land sléttað.
Þúfnasléttun – Þegar þúfur voru skornar burtu eða barðar niður til að slétta út land og auðvelda það til ávinnslu og sláttar.
Ærlengdir – Hver ær um 50-70 cm á lengd. Tvær ærlengdir eru jafnlengd tveggja áa (kinda).
Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga, Lesið í landið – Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, 2010.

Vindheimar – tómthús við Húsatóftir.
Hvaleyri – fornleifaskráning 2019
Í „Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði“ árið 2019 segir m.a.:
Saga
Elstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.
Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.
Hvaleyri 1772.
Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.
Hvaleyri 1776.
Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.
Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði fagnaði þorranum í nýju félagsheimili í árslok 1992. Á meðan brann gamla félagsheimilið, Vesturkot. Hafnfirskir kylfarar kveiktu sjálfir í húsinu.
Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.
Hvaleyri – hér sést Vesturkot ofan við Flókastein.
Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.
Hvaleyri – Flókasteinn.
Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.
Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.
Flókasteinn
Hvaleyri-Flókaklöpp.
Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.
Flókaklöppin í dag.
Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir „Bergristur á Hvaleyri“ eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.
Flókaklöpp – tákn.
Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.
Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.
Hvaleyri – áletrun á Minorsteininum.
Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.
Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.
Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði
Hvaleyri – uppdráttur.
Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.
Halldórskot
Hvaleyri um 1950.
Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.
Skotbyrgi
Hvaleyri – skotbyrgi.
Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.
Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.
Hvaleyri – loftmynd 1954.
Landmælingar Íslands – koparskildirnir?
Víða um land má bæði sjá koparskildi á landmælingavörðum og steypustöplum með áletrun Landmælinga Íslands, auk málmpunkta eða -skrúfur í klöppum og á steinbjörgum. Bæði eru til dæmi um að fyrstu landmælingarmenn 20. aldar hafi nýtt sér fyrirliggjanfi vörðuhleðslur eða jafnvel hlaðið nýjar. Margar þeirra standa enn í dag.
Koparskjöldur á landmælingavörðu (1958).
Á koparskjöldunum segir að „Röskun varði refsingu„. Hins vegar er hvergi að finna laga- eða reglugerðarbókstaf um það hver refsingin gæti verið. Hvorki er getið um refsiákvæði í „Lögum um landmælingar og kortagerð“ frá árinu 1997 né í „Lög um landmælingar og grunnkortagerð“ frá 2006. Í 12. gr. fyrrnefndu laganna segir að „Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara“ og í 9. grein þeirra síðarnefndu er samskonar texti. Þær meintu reglugerðir er ekki að finna í Reglugerðarsafni ráðuneytanna, sbr. Island.is.
Margir þeirra sem leggja land undir fót um víðáttur landsins hafa eflaust rekist á framangreinda skildi á fjöllum og við forna vegi.
Landmælingar – koparskjöldur á steinsteypustöpli.
Í því tilviki snertir röskun mannvirki en orðið röskun höfðar engu að síður til haga almennings og hinna margvíslegu verka hans og reglna. Siðmenntuð þjóðfélög setja vissar hömlur á athafnir þegna sinna og mynda lagalegan ramma um starfsemi og framferði þeirra, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í Biblíunni er t.d. varað við röskun landamerkja. Sama má segja um viðfangsefni íslenskra þjóðsagna. Í þeim er beinlínis bent á að sá eða þeir sem raska eða færa til vörður á merkjum verði refsað að afloknu þessu jarðlífi með því að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er þegar yfrum er komið. Sennilega á koparskjaldaviðvörunin á landmælingamerkjunum að höfða til slíks, enda hvoru tveggja jafn mikilvægt, bæði landeigendunum og landmælingafólkinu.
Sum bæjarfélög létu hlaða vörður á mörkum og koma fyrir koparskjöldum með áletrun, s.s. Hafnarfjörður 1956. Á skildinum segir „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ með nr. og ártali. Það var endurtekið 1978, en í stað þess að hlaða vörður voru steyptir stöplar á mörkunum með áföstum skjöldum.
Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1978.
Dæmi var um að einhverjir landeigendur hafi ekki viljað sætta sig við staðsetninguna, einkum þegar um breytingar var að ræða, og fjarlægðu koparskildina – líkt og gerðist á Setbergshamri. Setberg hafði áður tilheyrt Garðabæ, en við breytingarnar varð hálf landareignin færð undir Hafnarfjörð í skiptum fyrir hraunspildu.
Þegar koparskildirnir á vörðunum og steinsteypustöplunum eru skoðaðir, a.m.k. á Reykjanesskaganum, má t.d. sjá á þeim ártölin 1957, 1958 og 1959. Dæmi eru þó til um eldri gerð slíkra skjalda annars staðar á landinu, jafnvel frá konungstímabilinu millum 1919-1044. Margir þeirra eru þó án ártala, einungis með skráðu númeri. Hafa ber a.m.k. tvennt í huga. Annars vegar að Landmælingar Íslands urðu til sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og hins vegar að á skjöldum stofnunarinnar er skjaldarmerki Íslands frá 1944.
Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani.
Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins, þ.e. það skjaldarmerki sem vér þekkjum í dag.
Þessir kopaskildir eru vandlega boltaðir, stundum með einu og jafnvel með þremur hnoðum hver og hafa því flestir staðist mjög svo veðraða tímans tönn. Fáir hafa verið fjarlægðir með handafli, a.m.k. hingað til.
Sennilega hefur verið talin ríkari ástæða til að merkja og/eða viðhalda mikilvægum fyrrum mælipunktunum bæði fyrir og á fyrstu árum stofnunarinnar, ekki síst í hinu sögulega samhengi landmælinga í landinu, þegar einungis var stuðst við þrívíddamælingar en er síðar varð með tilkomu nútímalegri mæliaðferða þar sem hæðir og lægðir réðu meiru. Enda má segja að upp frá því hafi föstum hnoðpunktum og skrúfum fjölgað til mikilla muna á landinu. Við flesta þá punkta er stuðst við GPS-mælingarnar enn þann dag í dag.
Skjaldarmerki Íslands.
Eftirfarandi samantekt er að hluta unnin upp úr “Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006” sem Svavar Berg skrifaði, án þess þó að minnst sé á fyrrnefnda kopaskildi eða „refsinguna“ þeim til handa:
Mælingar og kortagerð Dana á Íslandi
Árið 1956 urðu Landmælingar Íslands til sem sjálfstæð stofnun. Sögu þeirra verkefna sem stofnunin tók við árið 1956 má þó rekja aftur til aldamótanna 1900 þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins (síðar Geodætisk Institut) hóf landmælingar og kortagerð hér á landi. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900 til 1940. Afraksturinn var 670 kortatitlar en af þeim voru 227 útgefnir m.a. Atlaskortin og Herforingjaráðskortin sem margir þekkja.
Landmælingar- herforingjakort af Álftanesi frá 1904.
Í tengslum við mælingarnar urðu til mikill fjöldi frumgagna sem geymdar voru hjá Geodætisk Institut s.s. teikningar, ljósmyndir og mælingabækur.
Ágúst Böðvarsson (seinna forstjóri LMÍ) lagði áherslu á að Íslendingar fengju þessi gögn til varðveislu og eignar. Samningar milli Landmælinga Íslands og Geodætisk Intstitut leiddu til þess að frumgögnin voru send til Íslands, í áföngum, sú síðasta árið 1985.
Loftmyndataka af Íslandi Danir höfðu einnig tekið ljósmyndir úr lofti af Íslandi árin 1937 og 1938 til að auðvelda gerð korta af hálendinu, en fyrirkomulag þeirrar myndatöku var annars eðlis en þeirrar sem almennt er notuð til kortagerðar (skámyndir).
Árið 1951 hófst nýr kafli í kortagerð á Íslandi; taka og gerð loftmynda til kortagerðar. Þar með hófst hjá Landmælingum Íslands tímabil þessarar sérhæfðu myndatöku sem stóð til ársins 2000 en alls voru teknar um 140.000 loftmyndir af landinu.
Landmælingar NATO og nýtt þríhyrningamælinet Hjörsey 1955
Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).
Árið 1955 hófust umfangsmiklar landmælingar á Íslandi að frumkvæði Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), en þær voru liður í stærra mælingaverkefni landa við Norður-Atlantshafi. Mælingunum lauk sumarið 1956 og hafði Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, AMS, yfirumsjón verksins á Íslandi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut.
Afurðirnar úr þessu verkefni voru meðal annars nýtt og aukið þríhyrningamælinet af öllu Íslandi sem kennt var við Hjörsey á Mýrum og flokkur staðfræðikorta af Íslandi í mælikvarða 1:50 000. Kortin voru gerð í samvinnu við AMS og fór vinnan fram bæði vestanhafs og hér heima. Samkvæmt yfirliti yfir kortin þekja um það bil 200 kortblöð allt landið.
Landmælingar Íslands í Reykjavík 1956-1998
Landmælingar á frumstigi.
Landmælingar Íslands voru stofnaðar árið 1956 og tóku við verkefnum á sviði landmælinga, loftmyndatöku og gerð korta af Íslandi. Fyrsti forstjóri stofnunarinnar var Geir G. Zoëga og tilheyrði stofnunin fyrst samgönguráðuneytinu.
Landmælingar hér á landi höfðu fram til þessa verið hluti Vegagerðar ríkisins en við stofnun Landmælinga Íslands var starfsemin flutt í hús Vitamálastofnunarinnar að Seljavegi 32 í Reykjavík. Árið 1961 flutti stofnunin í stærra húsnæði að Laugavegi 178 en árið 1959 hafði Ágúst Böðvarsson tekið við sem forstjóri stofnunarinnar.
Fara á alla punkta
Landmælingar á nútíma við göml stöplana.
Þrátt fyrir alla tækni þurfa landmælingamenn eftir sem áður að fara um allt land og mæla eins og gert hefur verið frá því mælingar hófust hér á landi fyrir rúmri öld. „Við förum á alla punkta og setjum upp tækin. Við þurfum minna að klöngrast upp á fjöll en áður eftir að GPS-tæknin kom til. Punktarnir okkar eru ýmist steyptir stöplar eða koparboltar steyptir niður í klöpp. Við stillum
loftneti yfir þessa punkta, mælum hæðina og tækið er láta ganga. GPS-tæknin er mesta byltingin sem orðið hefur í þessum mælingum en síðan eru ýmsar aðrar breytingar eins og fjölgun gervitungla. Annars er mikil þróun í þessu um allan heim.
Landmælingastöpull á Krýsuvíkur-Mælifelli.
Maður sér þetta kannski helst á því hve allar upplýsingar eru meira notaðar en áður eftir að GPS-tæknin kom í símana. Þeir eiga eftir að verða enn nákvæmari en núna er skekkjan í þeim um fimm metrar. Staðsetningatæki skipta gríðarlegu máli í nútíma samfélagi, ekki bara á landi heldur líka til sjós og í lofti.“ Guðmundur segir 3-4 menn frá Landmælingum Íslands verða við mælingarnar í sumar. „Það er komin mikil reynsla á GPS-mælingar hér. Tækin eru orðin betri og með endingarbetri rafhlöðum, þannig að nú getum við keyrt þetta á mun færri mönnum en við gerðum áður.“
Gerðir fastmerkja
Landmælingar – bolti á Sýslusteini sunnan Lyklafells.
Algengustugerðir fastmerkja í landshæðarnetinu eru: bolti, láréttur bolti,bolti í steini og bolti í röri. Þegar talað er um bolta er átt við fastmerki sem steypt er niður á stað sem talist getur varanlegur s.s. klöpp, brúarundirstöður o.fl. Þegar því er ekki komið við er reynt að finna mannvirki þar sem hægt er að setja láréttann bolta. Á landsvæðum þar sem lítið er um klappir og byggingar hefur reynst nauðsynlegt að setja bolta í jarðfasta steina eða reka niður galvaniserað rör og steypa bolta í það. Möguleiki er á að hæð þessara fastmerkja hafi breyst frá því að þeir voru mældir t.d. vegna frostlyftingar.
Landmælingar – mælistöpull.
Mælt er með því að notast sé við fastmerki á varanlegum stað sé þess kostur. Sé annað valið ber að kanna gaumgæfilega hvort ætla megi að fastmerkið hafi haggast síðan það var mælt. Á nokkrum stöðum var notast við skrúfur sem fast merki. Hæð þessara fastmerkja miðast alltaf við hæsta punkt skrúfunnar og ber að haga mælingu eftir því. Þá hafa verið mældir þeir stöplar í grunnstöðvanetinu sem mögulegt var að tengja við hæðarkerfið með ásættanlegum tilkostnaði og fyrirhöfn.“
Heimildir:
-https://www-gamli.lmi.is/wp-content/uploads/2016/11/saga_lmi_56_16-1.pdf
-Lög um landmælingar og grunnkortagerð, 2006.
-Lög um landmælingar og kortagerð 1997 nr. 95 26. maí.
-Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands, Ágúst Böðvarsson, Landmælingar Íslands 1996.
– Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006, Svavar Berg.
Landmælingar – koparskjöldur í Hvassahrauni (1959).
Kaðalhellir – Hreiðrið
Gengið var með Þórarni Björnsyni, hellamanni, í Kaðalhelli norðvestan Kaldársels, og í Hreiðrið þar skammt frá. Þórarinn lék sér í Kaðalhelli ásamt ungum mönnum í Kaldárseli, en síðar fann hann Hreiðrið, sem mun vera einstakt í sinni röð. Hann var eini maðurinn, sem fram að þessu hafði litið innvolsið augum.
Kaðalhellir.
Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjarðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals. Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum.
Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, sem með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur. Umhverfið er mjög myndrænt.
Hreiðrið – op.
Nokkru vestar er Hreiðrið. Opið er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummmerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Frábært veður – reynar kemur veður ekkert við sögu inni í hellum – en hvað um það. Fljótlega verður farið á ný í Hreiðrið og það myndað, ásamt Kaðalhelli.
Í Hreiðrinu.
Mundastekkur – Vatnsleysustekkur – Flekkuvíkurstekkir – Borgarkotsstekkur – Bakkastekkur – Heimristekkur – Staðarstekkur
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ fjallar höfundurinn, Sesselja Guðmundsdóttir, um stekkina ofan Vatnsleysu, Flekkuvíkur, Borgarkots, Bakka og Kálfatjarnar.
Mundastekkur.
Um Mundastekk segir: „Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.“
Um Borgarkotsstekk segir: “ Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða.
Stefánsvarða.
Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á lcöflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líldega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar og norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.“
Staðarstekkur – teikning.
Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni fyrir Kálfatjörn og Litlabæ frá Bakkastekk: „Upp frá Nausthól er Vatnsstæðið, áður nefnt, en þar ofar eru svo kallaðar Kálfatjarnarmógrafir rétt ofan við Langahrygg. Þar enn ofar er Bakkastekkur og sjást þar rústir. Þá er hér einnig að finna Borgarkotsstekk suður og upp frá Borgarkoti.“
Sesselja segir: „Norður af Staðarborg og vestur af Þorsteinsskála er Staðarstekkur.“ Um er að ræða óljósar tóftir í lágum klofnum klapparhól. „Nú förum við aftur niður á Strandarveg og fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ, (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur vestan undir Heimristekkhól. A hólnum er há þúfa en hóllinn er rétt fyrir ofan Almenningsveginn. Heimari = heimri þýðir það sem er nær bæ af tvennu og í þessu tilviki var Heimristekkur nær bæ en Staðarstekkur.“
Bakkastekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir um Bakkastekk: „Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,“ segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ.
Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að Gamla-Bakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5x m að stærð og snýr NNV-SSA. Í suðurendanum er lítið hólf, um 1 x 2 m að innanmáli, snýr VSV-ANA. Í norðurendanum er óljós grjótþúst, um 1,5×1,5 m að stærð.“
Borgarkotsstekkur.
Um Borgarkotsstekk segir: „Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti 027 og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn. Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs. Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6×3 m og mesta hleðsluhæð er 0.5-10 cmetrar. Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.“
Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Um Heimristekk segir: „Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll.Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,“ segir í örnefnaskrá. Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn.
Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu.
Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1×1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.“
Staðarstekkur.
Um Staðarstekk segir: „Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg 049 og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn.
Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22×3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m. Almennt fer lítið fyrir hleðslum sem eru þvert á sprunguna því hún er mjög grasi vaxin og hleðslur eru flestar lágar. Sumstaðar sést í grjót.“
Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.
Um Flekkuvíkurstekk segir: „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ.
Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Hólf I) er í norðurenda, það er um 1,5 x 0,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur, ógreinilegt. Op er á því til austurs.“
Flekkuvíkurstekkur II.
Um Flekkuvíkursel II segir: „Á heimasíðu Ferli[r]s segir: „Annar stekkur, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.“ Steinhlaðin tóft er skammt utan túns, um 10 m vestan við núverandi veg heim að Flekkuvík og um 180 m norðaustur af bænum.
Tóftin er í grasgefnum móa þar sem eru lágir klapparhólar. Tóftin er grjóthlaðin og skiptist í þrjú hólf. Hún er um 10×5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er hlaðin sunnan í lágan klapparhól og er lágur bergveggur notaður í norðausturvegg. Hlaðið er ofan á hann að hluta.
Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftin er hlaðin úr stóru hraungrýti en hleðslur hrundar að miklu leyti. Hólf A) er stærsta hólfið, það er um 4×3 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Innan við það til vesturs er lítið hólf B) , um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Í suðausturenda tóftarinnar er svo hólf C) sem er að innanmáli um 3, 5 m í þvermál. Einföld hleðsla er í veggjum þess og hefur sennilega verið aðhald í því framan við tóftina. Op er á þessu hólfi til norðausturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,4 m. Ekki sjást op inn í hólf A eða B. Hlutverk tóftar er ekki þekkt með vissu en höfundur texta á heimasíðu Ferli[r]s telur að um stekk sé að ræða. Ef til vill er hér um útihús eða kvíar að ræða.“
Ef um útihús hafi verið að ræða á nefndum stað mætti nefndi „höfundur“ þess vegna heita haughús. Þarna eru engar minjar um útihús, hvorki á stanum né í umhverfinu. Ef ekki hafi verið um stekk að ræða þarna hefur þar verið tvískipt gerði, jafnvel rúniningsrétt. Af umhverfinu að dæma virðist hún ekki hafa verið varanlega notuð.
Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Um Mundastekk segir: „[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ.
Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7×6 m að stærð og snýr austur-vestur.
Mundastekkur.
Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt. Hólfin eru samsíða í sömu stefnu og tóftin. Syðra hólfið I) er um 1×3 m að innanmáli og nyrðra hólfið II) er um 4,5×2 m að innanmáli. Í austurenda þess virðist vera lítið hólf sem er um 1×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður en það getur verið að það sé aðeins hrun úr veggjum.“
Stekkir eru hluti búsetuminja fyrri tíðar. Þá ber að varðveita, líkt nauðsynlegt er að varðveita söguna.
Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjörn, Litlibær – Gísli Sigurðsson.
Heimristekkur.
Búsetuminjar
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir tók saman grein, „Lesið í landið – Vinisburður búsetuminja„, sem gefin var út í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010. Hér má sjá hluta efnisins:
Formáli
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.
Uppflettirit þetta er fyrir þá sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um gamla tíma og horfna búskaparhætti á ferð um landið. Falleg náttúra virkar eins og segull á sálina. Þangað þyrpist fólk til að njóta og nærast. Með vaxandi áhuga á ferðalögum innanlands hafa augu okkar opnast fyrir því að fleira er í umhverfi okkar sem skiptir máli en náttúran sjálf. Ef grannt er skoðað má finna og sjá menningarminjar sem landið geymir enn þar sem menn hafa ekki umbylt jörðu og kaffært með húsum. Það er spennandi viðbót á ferð um landið að geta lesið í gamlar tóftir og spáð í hvað var þar umleikis fyrir hundrað árum og jafnvel fyrr. Sagan talar til okkar frá gömlum tóftarbrotum og örnefni minna á þjóðhætti. Mörgum þykir lítið augnayndi í veggjabrotum og hálfhrundum húsum, en ef við þekkjum hlutverk þeirra og horfum á þau út frá handverkinu sem í þeim felst blasa við okkur heimildir sem geta sannarlega kryddað tilveruna.
Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.
Með þessu smáriti er gerð tilraun til að skapa fólki, sem er á faraldsfæti möguleika til að lesa í landið og sjá við hverju má búast, og hvar og hvers vegna. Því þrátt fyrir alla náttúrfegurðina sem við njótum á ferð um landið okkar er það mikils virði fyrir marga að geta bætt inn í myndina væntingum um að sjá meira en augað nemur í fljótu bragði og átta sig á hvernig forfeður okkar nýttu sér þetta sama umhverfi og settu mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta þar sem sjá má bæjarnöfn og örnefni. Með þetta litla kver í viðbót við landakortið er von okkar sú að ferðin verði enn meira spennandi. „Landslagið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“, sagði skáldið og til viðbótar má bæta við … og hvergi sæjust spor genginna kynslóða.
Búsetuminjar
Þorbjarnarstaðir í Hraunum – uppdráttur ÓSÁ.
Búsetuminjum má gróflega skipta í tvo flokka, minjar í túni og minjar utan túna. Stærsti minjaflokkurinn teljast útihús hverskonar. Innan túns má nefna fjós, fjárhús, hrútakofa, hesthús, hlöðu, lambhús, smiðju og skemmu. Utan túns eru beitarhús, stekkur, heytóft, rétt, smalakofi, sel og byrgi ýmiskonar og fleira. Aldur útihúsa er sjaldan þekktur. Oft voru þau byggð öldum saman á sama stað. Leifar eldri mannvirkja kunna því að leynast undir tóftum þeirra yngri.
Lega og útlit minja gefur oft til kynna hvaða minjar um er að ræða þó svo engar heimildir séu til um notkun þeirra. Í mörgum tilvikum er þó erfitt að ákvarða um notkun mannvirkisins.
Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.
Bæjarhólar urðu til við það að sífellt var bætt við, endurbyggt og húsum breytt á sama stað. Við það hækkuðu hólarnir og breikkuðu eftir því hve lengi var búið á sama stað og hve húsin voru mörg og stór. Bæjarhólar eru gríðarlega mikilvægar heimildir um mannlíf fyrr á öldum því þeir varðveita upplýsingar um húsakost og lifnaðarhætti og þar eru mestar líkur á að verðmætir gripir finnist. Núverandi hús eru oft byggð ofan á eða inn í gömlu bæjarhólana, en oft má líka sjá þá sem grænar stórar þústir og hóla í landslaginu.
Minjar innan túns og heimalands
Elliðakot – beðasléttur.
Minjar innan túns eru oft horfnar vegna jarðabóta eða annarra framkvæmda nútímans. Þó má enn finna merki um búsetuhætti á gömlum túnum, einkum þar sem bæir hafa farið í eyði um og fyrir vélvæðingu.
Beðasléttur – Leifar túnsléttunar frá um 1880-1925. Minjar um þúfnasléttun, jarðrækt sem unnin var í höndunum og hafa yfirleitt verið útmáðar. Helst sjáanlegar á eyðibýlum sem fóru í eyði fyrir vélvæðingu. Beðasléttur eru fremur mjóir, lítið eitt kýfðir teigar með rásum (ræsum) á milli þannig að vatn rennur af þeim.
Baðlaugar – Hér og hvar á landinu má enn finna náttúrulegar laugar þar sem fólk tók sér bað sér til heilsubótar. Nokkrar eru upphlaðnar. Á nokkrum stöðum voru laugarnar einnig notaðar til þvotta.
Stafnesbrunnur.
Brunnar – Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum var valinn staður.
Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.
Fjárhús/kvikfénaðarhús/búpeningshús: Fjárhústóftir eru margvíslegar og stærð þeirra getur verið mismunandi og oft má greina garða eftir miðri tóftinni eða stalla við veggi.
Fjós – Fjóstóftir eru oft fast við bæinn sjálfan eða nálægt honum. Einkenni þeirra er flórinn, básarnir og jatan, við annan hvor vegginn.
Heimreið – Síðasti spott afleggjarans heim á bæjarhlaðið. Oft upphlaðin meðfram götum í gegn um túnið og heim á hlað.
Hestasteinn – Var yfirleitt staðsettur á bæjarhlaði eða á stöðli. Til að binda á ferðahesta meðan staldrað var við eða á meðan menn bjuggu sig til ferðar.
Hesthús – Hús með stalli við annan langvegg. Ýmist heima við bæi, yst í túni eða við túngarð.
Heyhlaða – Hlöður voru yfirleitt áfastar við búpeningshúsin en þær gátu líka verið frístandandi.
Hjallur – Geymsla eða skúrbygging úr timbri, þiljuð til hálfs. Notuð til að þurrka og geyma í mat, s.s. þurrkað kjöt, skreið, hákarl og fleira.
Hlaða – Heygeymsla fyrir hey, hlaðið úr torfi og grjóti með þaki. Yfirleitt áföst við búpeningshús, en þekkjast stakar.
Hrútakofi.
Hrútakofar – Smærri torf- og grjóthlaðnir kofar, oft yst í túni, með jötu við langvegg.
Kálgarður – Nærri húsum eða utanvið túngarð þar sem sólar naut og var vel varinn fyrir búfénaði. Oftast með hlöðnum torf- eða grjótgörðum.
Kofar – Torf- og grjóthlaðnir kofar til geymslu búfjár, hænsna, eða annarra eigna.
Kvíar – Kvíar voru oftast í túni eða rétt utan þess. Þar voru kvíaær mjólkaðar. Kvíar voru oft hlaðnar úr torfi og grjóti, aflangar, fremur þröng rétt. Breiddin var tvær ærlengdir með gangvegi á milli. Bændur voru einnig með kvíar úr timbri, færikvíar, sem þeir gátu fært til eftir þörfum. Örnefnir kvíaból vísar til þess hvar kvíarnar stóðu.
Myllur – Kornmyllur knúðar vatni voru við marga bæi á 19. öld og fram á þá 20. Oft hafa myllusteinarnir einir, sem möluðu kornið, varðveist eftir að myllurnar sjálfar hrundu. Mylluörnefni á mörgum bæjum vísa til þess hvar myllurnar voru. Myllutóftir eru enn finnan legar við ár eða læki. Þær eru litlar, grjót- og torfhlaðnar og dyr eða op er á tóftinni þar sem vatnið var leitt inn og út. Grafnar rennur eru úr læk ofan við að tóftina sem vatnsmagninu var stýrt um.
Ræsi – Stungin rás fyrir vatn. Oft var brúað yfir og þá var einnig talað um ræsi.
Skemma.
Skemmur – Geymsla fyrir verkfæri, áhöld, matvæli, ull, tjöru, of fleira sem búið þurfti. Yfirleitt hlaðin upp af torfi og grjóti, með framþili úr timbri.
Skurðir – Grafnar vatnsrásir til að ræsa fram vatn og þurrka upp landið. Verulegur munur eru á handgröfnum og vélgröfnum skurðum, sem þekkist best á stærð þeirra.
Smiðjur – Smiðjur voru oft við bæjarstæðið sjálft, en einnig eru dæmi þess að þær hafi staðið í túni dálítið frá bænum, vegna eldhættu. Oftast frekar smáar tóftir.
Túngarður – Hlaðinn garðveggur úr torfi og/eða grjóti, til að verja tún.
Minjar utan túns
Garðatúngarður.
Sá flokkur minja sem jafnan hefur varðveist best eru hverskyns minjar utan túns. Þær liggja gjarnan á stöðum þar sem nútíma jarðrækt hefur aldrei verið beitt.
Áveitu- og stíflugarðar – Víða á engjum, við ár og vötn, eru enn gamlir áveitu- eða stíflugarðar, frá þeim tíma er menn nýttu áburð vorflóðanna. Þegar flæddi hlóðu menn garða fyrir útfallið þannig að leðjan úr vatninu, sem var hinn besti áburður, settist til og varð eftir þegar vatnið gufaði upp eða sjatnaði.
Beitarhús/hagahús – Beitarhús voru oft byggð upp þar sem góður hagi var eða á gömlum selstæðum, allt upp í nokkurra kílómetra fjarlægð frá bæ. Þar var fé beitt yfir vetrartímann til að hlífa túnum og heimahögum. Beitarhúsatóftir samanstanda af myndarlegri fjárhústóft eða tóftum, og yfirleitt er hlaða áföst fjárhúsunum.
Fjárborg við Nes í Selvogi.
Borgir – Hrossaborgir, sauðfjárborgir. Hringlaga, yfirleitt hlaðnar úr grjóti, þykkir veggir, með dyrum á. Lágum fyrir sauðfé, hærri fyrir hross.
Brunnur – Þar sem ekki var hægt að ganga að uppsprettu eða rennandi læk með hreinu vatni grófu menn brunna nálægt bæjum sínum. Oft um 5-7 m. djúpir og grjóthlaðnir að innan. Með vindu yfir og oft svokölluðu brunnhúsi sem byggt var yfir brunnana. Víða má sjá merki hringlaga jarðfalls þar sem brunnurinn var, en sjaldnast er nokkuð eftir af þeim þar sem menn hafa sléttað tún umhverfis bæina og fyllt upp í brunnana.
Brú – Brúað var yfir ár með trjám, sem lögð voru á örugga kletta eða aðra undirstöðu, stundum hlaðna brúarstöpla. Og eru það oft einu sjáanlegu merki brúargerðar yfir ár og læki. Önnur brúargerð var þegar hlaðin var jarðvegsbrú úr gjóti og/eða torfi yfir mýrlendi. Einnig Jarðbrú.
Fjárbyrgi í Katlahrauni.
Byrgi – Fjárbyrgi, lambabyrgi. Hlaðið skjól fyrir búfé líkt og fjárborgirnar. Einnig eru sumstaðar skotbyrgi, til tófu- og refaveiða á heiðum og upp il fjalla, en þau eru miklu minni en fyrir búfénað.
Búð – Tjaldbúð, þingbúð. Stundum er hægt að greina lága veggi úr torfi og/eða grjóti umhverfis „búðina“.
Dómhringir – Hugsanlega hringlaga garðaleifar, ef sjáanlegar. Fremur ólíklegt er að sjá dómhringi í minjaumhverfinu.
Dysjar/kuml – Heiðnir fornmenn voru dysjaðir í kumlum sem hægt er að sjá hér og hvar þar sem jörð hefur beitt og er ósnert frá þjóðveldistíma. Dysjar/kuml má þekkja á því að oft er steinum raðað í sporöskjulaga.
Villingavatn – fjárborg á Borgarholti.
Fjárborgir – Fjárborgir voru hringlaga, hlaðnar úr torfi eða grjóti. Fjárborgir voru algengar sunnan lands og austan, en fáséðari norðan og vestan. Hlaðnar nær sama í toppinn og dyr miðaðar við sauðfé, sem borgirnar voru fyrir, oft fjarri bæjum.
Garðlög – Margskonar garðlög er að finna umhverfis tún og utan þeirra. Bæjarstæði voru oftast afmörkuð með hlöðnum túngarði þá oftast úr grjóti og torfi. Garðar umhverfis beitarhús geta verið vísbendingar um að áður hafi verið þar býli. Vallargarðar eru garðar utan túna. Oft er erfitt að geta sér til um not þessara garða en líklega hafa þeir þjónað þeim tilgangi að aðgreina land í nytjaeiningar. Svokallaðir landamerkjagarðar voru einnig hlaðnir á mörkum landeigna.
Forn gata á Hellisheiði.
Gata/götur – Leið sem menn og skepnur hafa farið aftur og aftur þar til myndast hefur greinileg slóð, gata, götur sem haldast árum og árhundruðum saman.
Gerði – Afgirt svæði yfirleitt með hlöðnum garðveggjum umhverfis. Sennilega eru þau í flestum tilfellum leifar fornbýla.
Gildrur – Refagildrur, fiskigildrur. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti.
Gjafaréttir – Gjafagirðingar eru hringlaga opnar réttir eða aðhald fyrir sauðfé í útbeit. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti og torfi.
Heytóftir – Þar sem hey var slegið á engjum eða mýrum voru hlaðnir upp garðstubbar um svokallaðar heytóftir. Þar var heyinu safnað saman og það sett upp í heyfúlgu sem byrgð til geymslu fram á vetur þegar þurfti að fóðra búsmalann. Slíkar tóftir eru oftast ferkantaðar eða sporöskjulaga með engum dyrum. Að vanda eru tóftirnar nokkru hærri en umhverfið til að halda heyinu þurru og til að varna því að búsmali kæmist að því.
Heytóft.
Heyvinnsla – Stundum má sjá minjar um fyrstu tilraunir til túnsléttu og kallast það beðasléttur. Frá aldamótum og fram um 1930 var unnið að túnasléttun og framræslu á flestum bæjum. Tímabilið er í þessu sambandi oft nefnt þaksléttutími. Fyrsta áratuginn voru notuð handverkfæri. Sléttað var í löngum ræmum eða beðum sem síðan settu svip á túnið. Sléttaðar voru tóftir næst bæjum og jafnað úr gömlum húsum sem staðið höfðu dreifð innan túns.
Hrossaborgir – Svipaðar og fjárborgirnar, með hestgengum dyrum. Af sama tagi voru skjólgarðar sem hlaðnir voru fyrir stóðhross á útigangi og svokallaðir krossgarðar, sem gegndu sama hlutverki og voru hlaðnir í kross.
Kartöflugarður/jurtagarður – Yfirleitt voru kál- og kartöflugarðar upp við bæinn eða utan túns, upp við túngarðinn, þannig að hann nýttist sem ein hlið garðsins. Hyllst var til að hafa jurtagarða á móti suðri. Garðveggir voru hlaðnir úr torfi.
Flekkuvíkursel – kolagröf.
Kolagröf – Hér og hvar á heiðum og innst í dölum, oft á afréttarsvæðum, finnast grunnar, gryfjur eða grafir, þar sem gert var til kola fyrr á tíð. Þá var safnað hrísi, fjalldrapa og öðrum grófum runnagróðri. Greinarnar rifnar af og hafðar til eldiviðar en leggirnir högg nir í gryfjuna sem var fyllt. Þá var kveikt í gryfjunni og tyrft yfir þannig að lofttæming varð. Við þetta myndaðist mikill hiti og tréð þornaði. Brúnkol, eins og þetta efni var kallað, voru mun betri á smiðjuaflinn en t.d. mór.
Kláfar – Trékassar sem dregnir voru á strengjum yfir ár á milli gljúfurbarma. Merki þeirra eru hugsanlega vinduleifar eða hlaðnir stöplar.
Brennisel – kolagröf í miðið.
Kolagrafir – Þar sem áður var kjarr- og skóglendi má finna grafir sem í eru koluð tré. Það eru leifar eldiviðar sem unnin var í gröfum þessum. Þ.e. runnar voru rifnir og tré höggvin ofan í gryfjuna, kveikt í og allt byrgt með torfi. Við hitunina koluðust trén og gáfu mun meiri hita þannig.
Lambabyrgi – Skjól, byrgi eða kró, ýmist náttúruleg eða upphlaðin, til að hýsa lömb í.
Laug – Heitavatns uppsprettur og volgrur voru notaðar til baða og fataþvotta. Stundum voru þær upphlaðnar að hluta eða öllu leyti.
Yfirleitt eru þær utan túna en ekki var það regla.
Leiði – Legstaður grafinna í kirkjugarði. Oft sem aflangar risaþúfur í gömlum kirkjugörðum sem ekki hafa verð sléttaðir.
Krýsuvík – mógrafir.
Mógrafir – Má enn finna í mýrlendi þar sem er þykkur jarðvegur vel varðveittra lífrænna árþúsunda gamalla jurtaleifa. Yfirleitt eru þær fallnar saman og grunnar, uppgrónar og hættulausar.
Nátthagi – Torf og grjóthlaðnir yfirleitt hringlaga garðar, með hliði á. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar fráfærur voru stundaðar í stórum stíl. Næturhólf til að bæla fráfærulömbin á stekktíðinni. Mylkum ám var haldið innan nátthagans á næturnar en sleppt út fyrir á daginn og haldið til haga. Lömbin voru lokuð inni í lítilli kró við stekkinn yfir nóttina, en sleppt með ánum á daginn. Innan nátthaganna, eða í næsta nágrenni var stekkur þar sem ærnar voru mjólkaðar.
Keflavík – rekafjara.
Rekavinnslustaður – Staður þar sem gott aðgengi var í rekafjöruna og öruggt fyrir sjávarágangi. Örnefni vísa til þessara staða, en þeir hafa vaflaust færst til eftir því hvernig/hvort strandlengjan breyttist.
Rétt – Réttir og gripheldi hverskonar finnast gjarna fjarri bæjum, oft mitt á milli bæja. Smærri réttir til heimabrúks voru þó nálægt bæjum. Lögréttir nefndust þær réttir sem byggðar voru upp sem skilaréttir fyrir heimfjallasmölun eða afaréttir. Oft hlaðnar úr grjóti, gjarnan upp við klettaveggi eða annað náttúrulegt aðhald. Réttir sem voru notaðar á einstakra bæja voru oftast smáar og einfaldar að gerð en stærri lögréttir svo sem til vorrúnings eða haustsmölunar voru stórar og oft margskiptar með dilkum.
Í Brunnastaðaseli.
Sel – Yfirleitt voru sel nokkurn veg frá bæjum, oftast við ár eða læki. Þangað var búsmali rekinn á sumrum og þar hafði fólk sumardvöl við að vinna mjólkurmat til vetrarins. Sel voru í notkun allt frá landnámstíð og fram undir 17-18. öld. Seltóftir eru jafnan leifar þriggja eða fleiri tófta, oft samfastar. Stundum voru þar líka krær eða gripheldi. Oft byggðust upp býli af þessum seljum og einnig beitarhús. Býli þessi tóku þá gjarnan nafn með viðskeytinu -sel. Erfitt getur verið að greina milli tófta selbúskapar eða smábýla þar sem búseta var í e.t.v. í skemmri tíma. Oft greina smábýlin á túngarðinum sem hefur verið hlaðinn umhverfis bæjarhúsin.
Skáli – Langhús, aflangt hús, íveruhús frá þjóðveldistíma.
Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.
Smalakofar – Fé var smalað í haga að morgni og heim til mjalta að kveldi. Smalar sátu yfir fénu á daginn og voru það oft börn eða unglingar sem gegndu því starfi. Algengt var að smalar hlæðu sér smákofa eða afdrep fyrir veðri og vindum meðan setið var yfir. Tóftir smalakofa eru oft mjög litlar og standa í brekkum eða á hólum þar sem víðsýnt var.
Stakkgarður – Torf- eða heystakkur, þar sem torfi eða heyi var stakkað upp til geymslu. Líkist heytóftum í landslaginu.
Stekkir – Á stekkjum var fært frá, lömb færð frá ánum til að hægt væri að nýta mjólkina til manneldis. Þeir liggja gjarnan utan túna nokkurn spöl frá bæjum, svokallaðan stekkjarveg. Stekkir eru oftast hlaðnir úr grjóti, tvískiptir í rétt og lambakró. Króin var lítil og þakið reft og tyrft. Þeir eru gjarnan hlaðnir upp við stóra náttúrusteina eða klettaveggi.
Stöðull – Þurr valllendisbali eða hæð við túngarð þar sem kýr, kvíaær tóku sér stöðu, biðu t.d. eftir mjöltum og brúkshestar stóðu milli þess sem þeir voru á beit eða í notkun. Búféð vandist þangað, kynslóð eftir kynslóð. Nú er þar fátt að sjá, en örnefnið hefur varðveist á stöku stað.
Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.
Sæluhús – Torf- og/eða grjóthlaðnir kofar við fjallvegi. Tóftir sæluhúsa má finna við gamla fjallvegi þar sem áður lá alfaraleið. Rústir þeirra líkjast helst tættum húsa, s.s. skemma, heima við bæi.
Túngarður – Garður var hlaðinn umhverfis tún til að verja þau gagnvart búpeningi yfir sprettutímann. Túngarðarnir voru yfirleitt hlaðnir úr torfi og grjóti.
Vað – Þar sem götur liggja að vötnum, ám og lækjum er yfirleitt vað yfir og grynnra eða sléttara í botninn en annars staðar. Eða þægilegra að komast að því.
Varða – Uppmjó áberandi grjóthleðsla við götur, einkum fjallvegi, sem hlaðin hefur verið til að varða slóðina þar sem best er að fara.
Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.
Vegir – Varðveist hafa gamlar kerruslóðir og upphlaðnir vegir.
Virki – Verndaður staður, hús eða garður umhverfis bústað með háum vegghleðslum eða rammbyggðum úr tré. Yfirleitt löngu horfnir.
Þvottaból – Staður þar sem þvottur var þveginn við rennandi vatn, læk eða ár. Yfirleitt ekkert lengur sjáanlegt en örnefni vísa á þessa staði. Sjá einnig laugar.
Ærgötur – Mjóar götur, eftir sauðfé, sem þræða fjöll og heiðar. Yfirleitt er óhætt að treysta því að þær séu færar fólki, hvort sem þær
eru um mýrlendi eða skriður.
Við sjóinn
Selatangar – sjóbúðartóft.
Oft varðveitast menjar um sjósókn illa vegna nálægðar við hafið og vegna framkvæmda við þéttbýlismyndun og hafnargerð. Verstöðvar eða útgerðarstaðir voru oft notaðir frá mörgum bæjum/byggðarlögum og því kann þar að finna nokkuð fjölbreyttar minjar.
Fiskbyrgi: Oftast grjóthlaðnar einfaldar byggingar, ferhyrndar eða hringlaga, þar sem þurrkaður og saltaður fiskur var geymdur.
Hafnir: Varðveisla hafna er oft vond enda brjóta brim mannanna verk niður þar sem sjór nær til þeirra. Náttúrulegar hafnir eru yfirleitt enn þær sömu, þótt þær hafi margar breyst á mörg hundruð árum, eins og höfnin á Kolkuósi. Hafnir þar sem menn hafa reynt að hlaða var fyrir báta, eru langoftast löngu horfnar.
Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.
Hjallur – Oft finnast hleðslur undan hjöllum, fiskhjöllum og geymslum. Slíkar hleðslur eru oft ferköntuðu upphleðsla sem myndar sléttan flöt eða grunn. Einnig er oft einföld grjótröð sem markar af grunninn.
Hróf – Staður þar sem skip voru dregin á land og komið fyrir til geymslu. Um hverfis þau var hróflað upp veggjum sem yfirleitt voru ekki mjög vönduð og líkjast hrúgöldum.
Lending – Hér og hvar í fjörum má enn sjá lendingar, þ.e. einskonar „rennur“ upp í og í gegn um grýttar fjörur þar sem bátum var lent þegar komið var úr róðrum. Breiddin er u.þ.b. bátsbreidd.
Garðahraun – naust.
Naust – Tóftir í eða við fjörur þar sem bátar voru dregnir upp og geymdir. Naust geta verið á ýmsa vegu, allt frá tóftum sem reft hefur verið yfir til einfaldra vegghleðsla sem bátar hafa verið lagðir á milli. Oft eru naust bátslaga, þar sem bátum hefur verið smeygt inn. Sjóhús/verbúðir voru íverustaðir sjómanna á meðan á vertíð stóð. Stundum voru þessi hús á tveimur hæðum. Geymsla undir veiðarfæri og annan búnað á neðri hæðinni en svefnstaður manna á þeirri efri. Grunnur húsanna var grjóthlaðinn en efri hæðin úr timbri. Einnig voru verbúðir oft einföld grjót- og torfhlaðin hús.
Uppsátur – Þar lögðu menn upp bátum. Uppsátur eru oft samsíða grjóthleðslur sem liggja í sjó fram. Upphlaðnir sjógarðar eða bryggjur eru voru líka til, en eru sjaldgæfari.
Bás – Afmarkað svæði, milli stoða, hver fyrir eina kú.
Beitarhús – Sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var. Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust varvar hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.
Beitarhús ofan Knarrarness.
Brúarstöpull – Stöpull, stallur fyrir brúarendann.
Búpeningshús – Fjárhús, fjós, hesthús og önnur hús yfir búpening, húsdýr.
Dilkur – Sá hluti af rétt, þar sem sauðfé og annar búfénaður er dreginn inn í þegar fé var dregið í sundur á vor- og haustsmölun.
Dysjað/grafið – Dys, legstaður ókristins manns eða dýrs.
Flór – Langur lítið eitt niður grafinn skorningur, yfirleitt lagður steinhellum sem þægilegt var að hreinsa.
Færikvíar.
Færikvíar – Kvíar sem gerðar voru úr timburflekum og hægt var að færa til.
Haustsmölun – Þegar fé er smalað af fjalli að hausti.
Heimfjallasmölun – Hvert haust var farið til heiða og fjalla og öllu búfé smalað til rétta. Þar var féð dregið í sundur.
Heimiliskapella – Guðshús þar sem heimilisfólk fór með bænir.
Jarðabætur – Túnræktun, þurrkun lands og vinnsla til grasræktunar.
Jata – Stokkur úr tré, þar sem kúnum var gefið. Yfirleitt negld á stoðir við vegg. Í einstaka tilfellum eru jötur upphlaðnar úr grjóti og torfi, við langvegg húsa.
Knarrarnessel – stekkur.
Kvíaær – Ærnar (kindurnar) voru mjólkaðar kvölds og morguns allt sumarið. Úr mjólkinni var gert rjómi og undanrenna, smjör, skyr og mysa. Eftir sauðburð var lömbum kvíaánna leyft að vera með þeim í 2-3 vikur. Á stekktímanum var þeim haldið á beit yfir daginn og að kvöldi voru þau reknar í stekkinn, sem var lítil rétt oft nokkuð langt frá bæ, og hafðar þar yfir nóttina. Lömbin voru sett inn í litla kró (lambakró) við stekkinn. Um morguninn voru ærnar mjólkaðar og svo var bæði ám og lömbum hleyp saman til beitar yfir daginn. Að fráfærum liðnum voru lömbin færð frá ánum og rekin til fjalls, en ærnar voru reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna á kvíunum.
Mylkar/mjólkandi ær – Ærnar voru mjólkaðar til skyr- og ostagerðar.
Reft – Raftar lagðir yfir grindarviði, undir torf, grjóthellur eða járn.
Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.
Selstæði – Staður þar sem haft var í seli. Þ.e. á sumrin var búsmalinn rekinn í þó nokkra fjarlægð frá heimilinu þar sem var góður sumarhagi. Þar var m.a. unnið úr mjólkinni.
Skjólgarður – Garður sem settur var upp fyrir búfénað til skjóls fyrir veðrum. Krossgarður hét svo ef hann var hlaðinn í kross.
Smiðjuafl – Aflinn, þar sem eldurinn logar, hlóðir.
Sprettutími – Sá tími sem mest grasspretta er snemma sumars.
Tyrft – Að tyrfa, setja torf yfir, þekja.
Ás – fjárhústóft.
Tættur – Tóftir, húsarústir, tætlur af húsum.
Valllendisbali – Þar sem er þurrt og slétt. Valllendi, völlur, sléttlendi. Bali – þurr og sléttur flötur.
Vorrúningur – Rúningur að vori. Rúningur. Rýað. Þ.e. þegar ullin er klippt, rúin er af sauðfénu.
Þaksléttutími – Snemma sumars þegar frost var farið úr jörðu var land sléttað.
Þúfnasléttun – Þegar þúfur voru skornar burtu eða barðar niður til að slétta út land og auðvelda það til ávinnslu og sláttar.
Ærlengdir – Hver ær um 50-70 cm á lengd. Tvær ærlengdir eru jafnlengd tveggja áa (kinda).
Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga, Lesið í landið – Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, 2010.
Vindheimar – tómthús við Húsatóftir.
Minjastofnun – Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi
Minjastofnun Íslands lýsti því opinberlega fyrir nokkrum árum að starfsfólk stofnunarinnar hefði mun meiri áhuga en áður að vinna með íbúum, staðkunnugum og áhugafólki um fornminjar sem og öðrum með þekkingu á efninu á einstökum svæðum landsins. Síðan hafa liðið misserin – án nokkurra sýnilegra viðbragða.
Minjastofnun.
Til hvers eru stofnanir ríkisins? Þær virðast, þegar betur er gáð, fyrst og fremst vera fyrir starfsfólkið sem og viðfangsefnin, oftast án nokkurra tenginga við þá/þau er þjónustunnar eiga að njóta? Oftar en ekki virðist starfsfólk opinberra stofnana fremur líta á skjólstæðinga sína sem „óþægindi“ en viðskiptavini. Hversu þægileg væri t.d. vinnan í hugum þess ef engin væru „óþægindin“, þ.e. skjólstæðingarnir? Möguleikar hinna síðarnefndu hafa a.m.k. verið takmarkaðir til muna í seinni tíð til að ná símasambandi við hlutaðeigendur.
Í skýrslu Minjastofnunar Íslands; „Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi“ má m.a. lesa eftirfarandi um að „Auka samstöðu um vernd fornleifa og byggingararfs„: „Fornleifar og byggingararfur og vernd þeirra er ekki einkamál einnar ríkisstofnunar heldur kalla vernd og stýrð nýting minja á samstarf margra aðila. Vernd fornleifa og byggingararfs er nauðsynleg til að tryggja að þekking á þróun og breytingum samfélagsins á hverjum tíma varðveitist. Byggingararfurinn, einstakar fornleifar, samgöngumannvirki og búsetulandslag eru hlutar af heild sem skýrir þróun samfélagsins. Fornleifar og byggingararfur eru vernduð með friðun og friðlýsingu og skapa þarf samfélagslega sátt um mikilvægi þess að varðveita þau og efla skilning á tilgangi og tækifærum verndunarinnar.
Svo virðist, af fenginni reynslu áhugafólks um fornminjar, sem framangreint gildi einnig um starfsfólk Minjastofnunar Íslands.
Þegar hins vegar betur er að gáð virtust upphafleg fyrirheit stofnunarinnar hafa lofað góðu – en gleymst einhverra hluta vegna, líkt og gerist jafnan hjá opinberum stofnunum.
Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Nýting jarðfastra menningarminja hefur ýmsar hliðar, svo sem notkun byggingar, rannsókn á fornleifum eða nýting í ferðaþjónustu, m.a. með því að auka aðgengi að minjastað eða byggingu fyrir gesti. Byggingararfur er best varðveittur með notkun, þ.e. að byggingin hafi tilgang og henni sé viðhaldið til að þjóna þeim tilgangi. Stýrð nýting er því mikilvæg þegar kemur að verndun fornleifa og byggingararfs.
Ákvörðun um nýtingu þarf alltaf að taka út frá mati á ástandi og gildi í hverju tilfelli fyrir sig. Eftirfarandi áhersluatriði tryggja sameiginlega sýn á vernd menningarminja og mikilvægi hennar:
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
B. Aukin áhersla á vægi fornleifa og byggingararfs
C. Skýr sýn á friðlýsingar
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
Minna-Knarrarnes; selsminjar og beitarhús í Sauðholtum – uppdráttur ÓSÁ.
Vernd fornleifa og byggingararfs er þverfaglegt verkefni. Öllu máli skiptir að aðilar sem koma að málaflokknum á einhvern hátt tali saman og nýti þekkingu og samtakamátt heildarinnar. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar eigi samtal um sameiginlega hagsmuni sem mikilvægt er að efla. Sameiginlegir snertifletir fornleifa, byggingararfs og náttúru eru víða og er nauðsynlegt að taka höndum saman um vernd og nýtingu slíkra svæða. Lögð verður áhersla á samvinnu vegna umfangsmikilla framkvæmda í umhverfinu þannig að öll sjónarmið fái að heyrast og sameiginleg ákvörðun sé tekin um bestu leiðir.
Stefna um vernd fornleifa og byggingararfs mun styðjast við sterkt, jákvætt bakland sem um leið skapar sterka stöðu minjavörslunnar. Auka þarf skilning á mikilvægi fornleifa og byggingararfs innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga og gildi þess að vernda þau, skrá og rannsaka.
Til að friðlýsingar skili tilætluðum árangri þurfa forsendur þeirra að vera skýrar.
Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.
Forsendurnar, og þau fjölþættu gildi sem stuðst er við í ferlinu, t.a.m. við mat á sérstöðu og verndargildi, þurfa að vera gegnsæ og í samræmi við alþjóðlega staðla við vernd byggingararfs og fornleifa. Val á þeim fornleifum og byggingararfi sem talið er mikilvægt að friðlýsa þarf að byggja á víðtækri þekkingu og er mikilvægt að leita álits bæði íbúa og sérfræðinga.“
Auk þess er fjallað um að „Styrkja vitund um mikilvægi fornleifa og byggingararfs“:
„Vernd menningararfs er sameiginlegt verkefni allra landsmanna. Aukinn sýnileiki sögunnar er forsenda fyrir sterkari upplifun samfélagsins og þar með aukinni vitund um það virði sem í henni felst. Fornleifar og byggingararfur eru meðal þess sem mótar sjálfsmynd samfélaga og íbúa þeirra.
Nauðsynlegt er að almenningur átti sig á mikilvægi fornleifa og byggingararfs í þessu tilliti.
Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.
Fornleifar og byggingararfur, og vernd þeirra, hafa einnig hagrænt gildi fyrir samfélagið. Þau eru auðlind sem hægt er að nýta til góðs um allt land, svo sem í ferðaþjónustu og kennslu. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla og fræða yngri kynslóðina um nærumhverfið og söguna og þýðingu hennar fyrir þjóðina. Sérstaklega er lögð áhersla á að dýpka áhuga og þekkingu almennings á fornleifum og byggingararfi með því að tengja þau við sögur og annan lifandi menningararf, ekki síst með notkun stafrænna leiða.
Lögð er áhersla á að styrkja ímynd og veg fornleifa og byggingararfs með auknu samtali fagaðila og heimafólks. Í samtakamætti felast tækifæri til að efla stöðu fornleifa og byggingararfs um land allt.
Áhugamannafélög og hollvinasamtök af ýmsu tagi sýna málaflokknum áhuga og sinna honum af krafti. Mikilvægt er að virkja þá orku sem í þeim er fólgin með því að útfæra leiðir til að auka aðkomu þeirra að vernd fornleifa og byggingararfs. Minjaráðin eru kjölfesta minjaverndar í héraði. Þau hafa skilgreint hlutverk í minjalögum og er mikilvægt að hlúa að þeim og efla rödd þeirra.
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Auka þarf þátttöku heimamanna í minjavernd og skilgreina aðkomu þeirra að staðbundnum verkefnum.
Leita þarf samráðs við minjaráð og íbúa hvers landsvæðis við val á fornleifum og byggingararfi sem vert væri að friðlýsa.
Móta þarf farveg fyrir almenning til að koma á framfæri upplýsingum um menningararfinn.
Samstarf þarf við viðeigandi stofnun um söfnun upplýsinga um fornleifar og byggingararf í tengslum við örnefnasöfnun í landinu.“
Líkt og í upphafi sagði virtust fyrirheit stofnunarinnar, a.m.k. í fyrstu, hafa lofað góðu. Svo virðist sem starfsfólk hennar hafi þó hvorki haft hinn minnsta áhuga á að framfylgja framngreindri stefnu stofnunarinnar né hafi gert nokkra tilraun til að samhæfa sig framangreindum samstarfsáhuga við þá hlutaðeigendur er nefndir eru í „Stefnu stofnunarinnar 2022–2027„.
Hafa ber þó í huga að enn lifa a.m.k. tvö ár af líftíma nefndrar „stefnu„….
Heimild:
–https://www.minjastofnun.is/static/files/stefnumotun/fornleifar-og-byggingararf-2022-2027.pdf
Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.
Gamla tímatalið og eyktarmörk
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir fjallar m.a. um „Gamla tímatalið og Eyktarmörk“ í skrifum sínum um „Vitnisburð búsetuminja“ í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010:
Gamla tímatalið
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.
Í Smáritinu er ýmiss fróðleikur um búsetuminjar tekinn saman og þær útskýrðar. Hér verður þó einungs fjallað um tvennt ofangreint:
„Þótt mánaðaheitin okkar hafi gilt áður fyrr eins og þau enn gera þá var fólki tamara að nota önnur og eldri heiti sem fremur voru bundin við athafnir og afkomu fólks heldur en mánaðaheitin. Nöfn eins og mörsugur um háveturinn sem lýsir því að þá reynir á vetrarforðann og sýgur mörinn af tvífættum jafnt og ferfættum, eða heyannir um þann tíma sem heyskapur stóð sem hæst. Þessi þula lýsir vel við hverju mátti búast á hverjum tíma.
–Mörsugur, á miðjum vetri, markar spor í gljúfrasetri.
–Þorri hristir fannafeldinn, fnæsir í bæ og drepur eldinn.
–Góa á til grimmd og blíðu, gengur í éljapilsi síðu.
–Einmánuður andar nepju, öslar snjó og hendir krepju.
–Harpa vekur von og kæti, vingjarnleg og kvik á fæti.
–Skerpla lífsins vöggu vaggar, vitjar hrelldra, sorgir þaggar.
–Sólmánuður ljóssins ljóma leggur til og fuglahljóma.
–Heyannir og hundadagar, hlynna að gæðum fróns og lagar.
–Tvímánuður allan arðinn, ýtum færir heim í garðinn.
–Haustmánuður, hreggi grætur, hljóða daga, langar nætur.
–Gormánuður, grettið tetur, gengur í hlað og leiðir vetur.
–Ýlir ber, en byrgist sólin. Brosa stjörnur, koma jólin.“
Árni Björnsson.
Eftirfarandi um Gamla tímatalið er úr bók Árna Björnssonar, „Saga daganna„:
„Harpa var fyrsti mánuður sumars og líklega ársins. Harpa hófst með sumardeginum fyrsta. Nafnið Harpa er ekki mjög gamalt, e.t.v. frá 17. öld, og uppruni þess óljós en tengist kannski vorhörkum, herpingi. Í Snorra-Eddu er mánuðurinn kallaður gaukmánuður og sáðtíð. …
Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar . Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld og þær því miklu eldri en jólagjafir.
Skerpla var annar mánuður sumars og hófst á laugardegi í 5. viku sumars (19.–25. maí). Nafnskýring er óljós en hugsanlega er vísað til þess að á þessum árstíma er gróður skammt á veg kominn. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður eggtíð og stekktíð .
Gamla tímatalið.
Sólmánuður var þriðji mánuður sumars og hófst mánudaginn í 9. viku sumars (18.–24. júní). Heitið sólmánuður skýrir sig sjálft. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður einnig nefndur selmánuður .
Heyannir var fjórði mánuður sumars og hófst með miðsumri (23.–29. júlí). Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar .
Tvímánuður var fimmti mánuður sumars og hófst þriðjudaginn í 18. viku sumars (22.–28. ágúst). Nafnið vísar hugsanlega til þess að við upphaf hans voru tveir mánuðir eftir af sumri. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður líka nefndur kornskurðarmánuður.
Haustmánuður var síðasti mánuður sumars. Haustmánuður hófst (oftast) á fimmtudegi í 23. viku sumars (21.–27. september).
Gamla tímatalið.
Gormánuður var fyrsti mánuður vetrar. Gormánuður hófst fyrsta vetrardag . Nafnið mun vísa til sláturtíðar en gor þýðir hálfmelt fæða í innyflum dýra, einkum hjá grasbítum. Fyrsti vetrardagur var á laugardegi sem nú fellur á milli 21. og 27. október. Sumardagurinn fyrsti var alltaf á fimmtudegi svo að sumarvikum lauk á miðvikudegi. Dagarnir frá síðustu viku sumars og fram að fyrsta vetrardegi, þ.e. fimmtudagurinn og föstudagurinn, voru kallaðir veturnætur. Veturnætur og fyrsti vetrardagur voru samkomu- og veislutími til forna hjá norrænum mönnum enda heppilegur sem slíkur því að þá var til gnótt matar og drykkjar eftir uppskeru haustsins og sláturtíð. Í fornsögum er víða minnst á veislur og brúðkaup á þessum tíma. Kirkjan mun hafa amast við þessum hátíðum og því lögðust þær af eða færðust yfir á allraheilaramessu , 1. nóvember, sem var hátíðisdagur kirkjunnar.
Gamla tímatalið.
Ýlir var annar mánuður vetrar. Hann hófst með mánudegi í 5. viku vetrar (20.–26. nóvember). Nafnið trúlega skylt orðinu jól. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður frermánuður .
Þorri var persónugerður sem vetrarvættur á miðöldum. Fyrsti dagur þorra var tileinkaður húsbændum og síðar var farið að kalla hann bóndadag . Líklega eru þorrablót ævagömul hefð sem hefur verið endurvakin á síðustu áratugum.
Mörsugur var þriðji mánuður vetrar. Mörsugur hefst með miðvikudegi í 9. viku vetrar (20.–26. desember). Hvað nafnið mörsugur þýðir er ekki vitað. Þessi mánuður var einnig kallaður jólmánuður . Í Snorra-Eddu er hann kallaður hrútmánuður, enda var þá hrútum hleypt til ánna .
Þorri var fjórði mánuður vetrar, miðsvetrarmánuður. Þorri hefst með föstudegi í 13. viku vetrar (19–25. janúar). Ekki er nákvæmlega vitað hvað nafnið merkir. Oftast er það þó tengt sögninni að þverra eða að minnka eða talið skylt lýsingarorðinu þurr. Einnig hefur verið nefnt að það gæti verið gælunafn Ása-Þórs.
Öskudagur. Af þeim bræðrum bolludegi, sprengidegi og öskudegi er sá síðastnefndi langelstur. Heiti hans er þekkt allt frá 14. öld en flengingar og bolluát munu ekki hafa borist til landsins fyrr en með erlendum bökurum seint á 19. öld. Á öskudag reyndu konur að láta karla bera ösku en karlar að fá konur til að bera steina. Til að svo mætti verða saumaði fólk litla poka sem konur setti ösku í en karlar steina og reyndu svo að hengja pokana á hitt kynið svo að lítið bæri á. Þetta er mjög gamall siður á Íslandi en þekkist ekki í öðrum löndum.
Lambagjá í Haustmánuði.
Góa (áður gói ) var fimmti mánuður vetrar. Góa hófst með sunnudegi í 18. viku vetrar (18.–24. febrúar). Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa heitis. Góa var líka vetrarvættur sem skyldi fagna, rétt eins og þorra, og var fagnaðurinn tileinkaður húsfreyjum. Í fornum sögnum var góa talin dóttir þorra en síðar talið að hún væri eiginkona hans.
Einmánuður var síðasti mánuður vetrar. Einmánuður hófst á þriðjudegi í 22. viku vetrar (20.–26. mars). Ekki er vitað hvað heitið einmánuður merkir en kannski vísar nafnið til þess að mánuðurinn er síðastur vetrarmánaða, aðeins einn mánuður eftir af vetri.“
Eyktamörk
Eyktarhringur.
„Hverjum sólarhring var skipt í 8 eyktir. Í hverri eykt voru 3 klst. Sólin vísaði á hvað tímanum leið. Menn settu áttirnar á sig og fundu út mið fyrir eyktahringinn, eða einskonar sólarúr allan sjóndeildarhringinn. Miðin voru kölluð eyktamörk og þegar sólin var yfir eyktamarkinu var hún á hátímanum, hver sem hann var. Þegar sólar gætti ekki gat verið erfitt að átta sig, en fólk var yfirleitt ekki í vandræðum með það.
Eyktamörkin voru jafnframt áttatákn þannig að örnefnið Hádegishólar var hluti af eyktahringnum og eru í hásuðri frá einhverjum bæ. Út frá því má finna hverjir notuðu það sem eyktamark sé það ekki þekkt.“
Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga – Lesið í landið; Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, bls. 20-21, 2010.
-Tímatal Íslendinga til forna, Sigurbjörn Svavarsson 2020.
-Árni Björnsson, Saga daganna, Mál og menning, 1993.
Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.
Brunnastaðir – Fornistekkur – Guðmundarstekkur – Nafnlausistekkur
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir m.a. um svæðið neðan Arnarbælis í landi Brunnastaða:
Gamlivegur.
„Nú förum við niður og vestur fyrir Arnarbæli en þar er stekkur í lágri grasbrekku sem snýr í norðvestur og heitir Fornistekkur. Stekkurinn er á milli Skjaldarkotslága og Arnarbælis.
Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er lítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum. Vestan undir Brunnhóli er gamall nafnlaus stekkur.“
Hlöðunes – Fornistekkur.
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur.“
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ er getið um Fornastekk: „Fornistekkur er um 1,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Stekkurinn er um 50 m norðaustan við núverandi landamerki á móti Hlöðunesi og kann því að hafa tilheyrt þeirri jörð.
Brunnastaðir – Nafnlausistekkur.
Stekkurinn er í aflíðandi brekku í norðvestanverðu holti. Uppgræddur mói er til norðvesturs. Tóftin er um 10×5,5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún skiptist í tvö hólf og er sigin og gróin. Hólf I er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á því.
Hólf II er í suðvesturenda tóftar. Það er um 4 m á lengd og 2-3 m á breidd, breiðast í suðausturenda. Op er á hólfi II í norðurhorni.
Nafnlausistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftin er að mestu leyti grjóthlaðin en torf hefur líklega einnig verið í hleðslum í hólfi I í norðausturhlutanum. Mesta hleðsluhæð er 0,3 m, ekki sést fjöldi umfara í hleðslum sem eru allar hrundar. Um 4 m suðaustan við tóftina og ofar í brekkunni er þýfð þúst sem er um 3×3 m að stærð og 0,3 m á hæð. Þar kunna frekari mannvirki að leynast undir sverði.“
Um nafnlausa stekkinn í Brunnhól segir: „Stekkurinn er í grasi gróinni, aflíðandi brekku til norðvesturs. Allstórt, flatlent og grösugt svæði er norðvestan við stekkinn í annars fremur hrjóstrugum hraunmóa.
Stekkjartóftin er grjóthlaðin og skiptist í 3 hólf. Hún er um 6×6 m að stærð. Hólf I er í suðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 0,5×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því til norðvesturs.
Brunnhóll – stekkur.
Hólf II er í austurhorni tóftar og er um 1×1 m að innanmáli. Ekki sést skýrt op á því. Hólf III er fast norðvestan við hólf II og er um 2×1 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Ekki er veggur fyrir norðvesturhlið hólfsins og það því opið til þeirrar áttar. Frá norðurhorni tóftarinnar liggur aðrekstrargarður til suðvesturs og er um 6 m að lengd og 0,5 m á breidd. Tóftin er gróin í suðvesturhluta. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m og mest sjást 3 umför.“
Reyndar eru leifar þriggja fornra stekkja í og við Brunnhól, auk smalabyrgis og refaskyttuskjóls. „Brunnurinn“ er þar skammt frá. „Nafnlausi“ stekkurinn er ólíkur hinum, þ.á.m. Guðmundarstekk og Fornastekk, að í honum eru þrjú afmörkuð hólf. Heimastekkir höfðu jafnan tvö hólf líkt og stekkir í seljum (þar voru líka kofar fyrir búr, baðstofu og eldhús), en „millistekkir“, þ.e. á millum seljanna í heiðinni og bæja, höfðu þessi þrjú hólf, en voru án fyrrnefndra kofa. Aukahólfið var notað til skammtímageymslu afurðanna. Nafnlausistekkur ber því keim af heimaseli.
Brunnhóll – stekkur.
Í „Örnefni og göngleiðir“ er Guðmundarborg lýst: „Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar og var honum lýst hér á undan. Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti.
Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar, Efri-Presthóll og Neðri-Presthóll, og sagt var að þar væri mikil huldufólksbyggð. Sigurjón Sigurðsson (1902—1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: „Sagt er, að þeir dragi nafn sitt afþví, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og haft prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari. “
Brunnhóll – vatnsstæði.
Milli Presthóla liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vel vörðuð á þessum kafla íyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppum.“
Í Örnefnalýsingunni fyrir Brunnastaði segir: „Austan Lúsaborgar er hóll með vörðu á, upp af Grænhól, sá heitir Lambskinnshóll. Og þar upp af eru tveir hólar, allstórir klapparhólar, mjög líkir og skammt á milli þeirra. Þeir heita Presthólar, sunnan þeirra er varða sem er á merkjum. Í Presthólum er allt iðandi af lífi, það er huldufólkslífi. Milli Lambskinnshóls og Presthóla er stekkur, Guðmundarstekkur, stekkur þessi var frá Neðri-Brunnastöðum.“
Brunnhóll – refaskyttuskjól.
Guðmundarstekk er lýst í fornleifaskráningunni: „Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól og 390 m suðvestan stekk. Stekkurinn er um 1,72 km sunnan við bæ.
Stekkurinn er norðan undir hlíðum lágs hóls eða holts sem er norðvestur af Presthólum. Umhverfis stekkinn er allgróið en annars er hraunmóinn í kring gróðurlítill.
Brunnastaðir – Guðmundarstekkur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn og skiptist í þrjú hólf. Hann er um 11×9 m að stærð og snýr norður-suður. Hólf I er um 4×7 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á því í norðurenda. Innan þess er lítið hólf II sem er um 2×2 m að stærð og snýr NNV-SSA. NNV-endi þess er óskýr og kann það að hafa náð lengra í þá átt. Ekki er veggur fyrir þeim enda. Mögulega var op úr hólfi II til austurs inn í hólf III sem er um 2,5×1,5 m að innanmáli og snýr nálega norður-suður. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og sjást mest 3 umför. Suðvesturhornið er mjög gróið og óskýrt.“
„Ekki fjarri stekknum eru Neðri- og Efri-Presthóll, sem oft eru aðeins nefndir Presthólar. Presthólar eru 1,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 100 m suðaustan við Guðmundarstekk.
Framangreindir stekkir eru nokkurn veginn í línu í skjóli fyrir austanáttinni til norðnorðausturs frá Prestshól að Brunnhól.
Guðmundarstekkur – uppdráttur ÓSÁ
Presthólar eru allháir hraunhólar í móa sem er að nokkru leyti uppblásinn. Varða er á Neðri-Presthól og hleðsla er á Efri-Presthól. Minjarnar eru á svæði sem er um 145×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Varðan A á Neðri-Presthóli er norðvestast á svæðinu. Hún er um 1,2×1,2 að grunnfleti. Varðan er nokkuð ferköntuð að lögun og eru hleðslur hennar hrundar. Hún er um 0,5 m á hæð og sjást 3 umför í henni en þau eru illgreinanleg. Ekki er vitað í hvaða tilgangi varðan var hlaðin en hún kann að hafa vísað á Almenningsleið/Alfaraleið sem lá á milli Presthólanna.
Hleðsla B á Efri-Presthól er suðaustast á svæðinu. Hún er á háhólnum í grunnri sprungu sem liggur eftir hólnum. Hleðslan er útflött og gróin. Hún er um 1,5×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð hleðslunnar er 0,3 m og 2 umför sjást á einum stað. Hlutverk hleðslunnar er ekki þekkt en þarna kann að hafa verið vatnsstæði.“
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir 2007.
-Örnefnalýsing fyrir Brunnastaði – Ari Gíslason.
-Ragnar Ágústsson – Ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Guðmundarstekkur.
Lögberg á Þingvöllum
Í skrifum Birgirs Hermannssonar um „Þingvelli og íslenska þjóðernishyggju“ fjallar hann m.a. um staðsetningu Lögbergs á Völlunum:
Birgir Hermannsson.
Ein augljós vandkvæði við upphafningu þjóðveldisins var skortur á mannvistarleifum frá þessum tíma. Í samanburði við nágrannaríkin er Ísland óvenju fátækt af gömlum byggingum frá öllum tímum sögu sinnar. Hér eru engir gamlir herragarðar sem minna á ríkidæmi, vald eða afrek í menningarefnum. Engir eru hér kastalar frá miðöldum, gamlar kirkjur eða augljósar rústir. Íslensk menningararfleifð felst í bókmenntum, en þær hafa dugað vel sem aflvaki þjóðlegrar vakningar og sköpunar. Bókmenntir verða þó mun áhrifaríkari, í pólitísku samhengi, ef sögusviðið er annað og meira en ímyndaður heimur. Til þess þarf að jarðtengja þær. Með Íslendingasögurnar er þetta oftast auðvelt: hetjur riðu um tiltekin héröð og bjuggu á bæjum með nöfn. Það er einnig ljóst að Íslendingar tengdu tóftir og hugsanlegar mannvistarleifar í ríkum mæli við stofnanir þjóðveldisins: hof, þing, lögréttur og dómhringir eru næsta algeng nöfn á hugsanlegum fornleifum, en segja oft á tíðum meira um hugarfar þeirra sem gefa fornleifunum nafn en það sem leynist undir yfirborði jarðar.
Örn yfir Lögbergi á Þingvöllum.
Þingvellir eru í algjörum sérflokki þegar kemur að því að tengja saman bókmenntir, landsvæði, fornleifar og sögu. Þegar þjóðveldið var gert að gullöld Íslandssögunnar og Alþingi þar með miðpunktur athyglinnar, urðu tengslin við Þingvelli sjálfgefin. Á Þingvöllum voru þjóðveldið og Alþingi tengd með áþreifanlegum og sýnilegum hætti við ákveðið landssvæði, landslag, ummerki um mannvistir og örnefni. Það var því tilvalið að gera Þingvelli að sögulegu minnismerki.
Það er þó einnig ljóst að tengsl sjáanlegra mannvistarleifa á Þingvöllum og Alþingis á þjóðveldistímanum eru ekki skýr, enda erfitt að bera saman frásagnir frá 13. öld um enn eldri atburði og stofnanir við sýnilegar mannvistarleifar sem eru líklega flestar frá 18. öld. Umræða um forn mannvirki á Þingvöllum hefur því að miklu leyti snúist um ágiskanir og jafnvel hreinan tilbúning. Það sem skiptir máli hér er viðhorfið til staðarins fremur en staðurinn sjálfur.
Þingvellir – kort.
Hugmyndir og viðtekin söguleg þekking hefur mótast af þeim gleraugum sem Þingvellir voru skoðaðir í gegnum. Umræðan um staðsetningu Lögbergs er ágætt dæmi um vandkvæðin við að festa horfna sögulega stofnun við afmarkaðan stað á Þingvöllum. Íslenska lýðveldið var „endurreist“ að Lögbergi 1944. Þar blaktir nú ríkisfáni lýðveldisins og er án efa helgasti staður Þingvalla. Lögberg var ekki notað við þinghald eftir 1271 og með árunum munaði minnstu að staðurinn týndist, eins og Björn Th. Björnsson kemst að orði. Allnokkur umræða var meðal fræðimanna á nítjándu öld og fyrri hluta tuttugustu aldar um tilvist Lögbergs og hvar hin rétta staðsetning þess væri. Vinsæl og lífsseig skoðun var að Lögberg væri á Spönginni milli Flosagjár og Nikulásargjár. Þessi staður hefur oft verið kallaður Heiðna-Lögberg eða Gamla-Lögberg og því haldið fram að Lögberg hafi síðar verið flutt. Sigurður Vigfússon gróf eftir fornminjum 1879, bæði á Spönginni og á Hallinum þar sem margir töldu Lögberg vera, en fann engar afgerandi vísbendingar.
Þingvellir.
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður átti drjúgan hlut í því að „festa“ Lögberg við núverandi staðsetningu. Í ritgerðum í Árbók Hins íslenska forleifafélags frá 1911, 1921-22 og 1943 færir hann rök fyrir máli sínu og gagnrýnir nokkuð fræðimenn fyrri tíma. Í merkri bók sinni um Þingvelli frá 1945 finnur hann sig enn knúinn til að ræða staðsetningu Lögbergs með ýtarlegum hætti: „Á þessum stað á gjábakkanum […] var lögberg, – og er enn“. En af því að það virðist hafa verið orðið óljóst mönnum, „fallið í gleymsku og þá,“ á hinni síðustu öld, og af því að svo virðist enn fremur hins vegar, sem ýmsum sé enn ekki orðið það fullkomlega ljóst, að lögberg var á þessum stað, verður að gera hér nokkru frekari grein fyrir því, hvaða rök liggja fyrir þeirri vissu og fullyrðingu, að lögberg hafi verið einmitt þarna á gjábakkanum.
Þingvellir – minjakort.
Þessi orð – sér í lagi sá tónn sem sleginn er – segja langa sögu um þá óvissu sem ríkir um staðsetningu Lögbergs, sérstaklega ef haft er í huga að íslenska lýðveldið var stofnsett á þessum helga stað einu ári fyrr. Matthías færir skýr og skilmerkileg rök (fornar sögur, fornleifar og örnefni) fyrir máli sínu, þó hann sé á hálum ís í því að fullyrða að fornleifar – „þetta einkennilega og mikla mannvirki frá fornöld“ – veiti „hina áþreifanlegustu, óhrekjandi sönnun“ fyrir staðsetningu Lögbergs.80 Fornleifafræðin hefur enn sem komið er ekki veitt neina slíka vitneskju. Öll röksemdafærsla Matthíasar byggist á misjafnlega sannfærandi líkindum sem eðli málsins samkvæmt eru opin fyrir efasemdum og gagnrýni. Um örnefnin segir Matthías: „Ýmsir menn á vorum dögum hafa viljað líta svo á, að það sé ótrúlegt og jafnvel óhugsandi, að það hafi gleymzt, hvar lögberg var, eða að örnefnið Lögberg á Alþingis-staðnum hafi glatazt, og síðan hafi fengið það nafn annar staðar þar, sem aldrei var lögberg. Þessi skoðun manna hefur sennilega átt drjúgan þátt í því, að halda við, jafnvel allt fram á þessa öld […] þeirri trú, að lögberg hafi verið á Spönginni“.
Þingvellir – Alþingi til forna.
Niðurstaða Matthíasar var sú að örnefnið hafi „horfið af þeim stað, sem átti hann einn með réttu, horfið og dautt af vörum þjóðarinnar“ og „tímans tönn látin níða og naga bótalaust hið sýnilega minnismerki fullkomins frjálsræðis þjóðar vorrar.“ Með tilstuðlan fræðimanna á borð við Matthías hefur þó örnefnið Lögberg verið sameinað „heimastað“ sínum að nýju og lifir í huga þjóðarinnar, verndað og upphafið af íslenska ríkinu sem hinn upprunalegi helgistaður frelsis og sjálfstæðis þjóðarinnar. Þar blaktir nú ríkisfáninn íslenski sem endanleg staðfesting þessa. Fræðimenn og aðrir áhugasamir geta eflaust deilt lengi enn um staðsetningu Lögbergs, en það breytir litlu um opinbera staðsetningu staðarins. Staðsetning og merking Lögbergs hefur verið „fryst,“ enda geta opinberir helgistaðir þjóða ekki þolað óvissu um hugmyndalegan og landfræðilegan miðpunkt sinn.“
Heimild:
-Bifröst Journal of Social Science — 5-6 (2011-2012), Hjartastaðurinn: Þingvellir og íslensk þjóðernishyggja, Birgir Hermannsson, bls. 37-39.
Horft til norðurs yfir þingstaðinn.
Gjár – Búrfellshraun – Kaldársel
Guðmundur Kjartansson fjallar um Búrfellshraun og tilurð Gjánna norðan Kaldársels í Náttúrufræðingnum árið 1973:
„Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 71/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun.
Heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka.
Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.
En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. Í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum.
Borgarstandur – fjárborg.
Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess.
Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.
En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.
Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel.
Borgarstandur – misgengi.
Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hún hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli.
Fjárskjól.
Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.
Um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað.
Gjár.
Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, hverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.
Gjárnar eru fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.
Gjár.
Einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af þessum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.
Gjár.
Meðan enn hélst allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins tif Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann af afli burt undan hallanum, uns „gjáin“ tæmdist smám saman að meira eða minna leyti.
Gjár – garður.
Mikið misgengi liggur um austanverðar Gjár. Jón Jónsson (1965) nefnir hana Hjallamisgengið, og er það réttnefni, því að Hjallarnir sunnan og austan við Vífilsstaðahlíð eru sjálfur misgengisstallurinn þar sem hann er hæstur.
Frá suðurenda Vífilsstaðahlíðar heldur Hjallamisgengið áfram með lítið eitt suðlægri stefnu þvert yfir Búrfellshraun og kemur að Kaldá laust vestan við Kaldársel.
Hjallar – misgengi.
Misgengið er glöggt alla þessa leið, en stallurinn er miklu lægri í Búrfellshrauni en í Hjallagrágrýtinu. Í ungu hraununum sunnan við Kaldá vottar ekkert fyrir misgenginu, allt þangað til kemur að Sauðabrekkugjá í Hrútargjárdyngjuhrauni í vestri.
Búrfellshraun rann um tíma í tveimur kvíslum norðvestur yfir misgengisbrúnina, annarri hjá Gjáarrétt og hinni vestur af Kaldárseli. Það er einsætt, að syðri kvíslin, sem hér verður til bráðabirgða kölluð „Kaldárhraun“, rann fyrr í gosinu.
Kringlóttagjá – hrauntjörn.
Í henni er Lambagjá, leifar hrauntraðar, sem fylltist að mestu er á leið gosið. Ætla má, að sú kvísl hafi lagt leið sína um lægsta skarð, sem þá var í misgengisbrúninni. Þessi hraunálma stefnir litlu vestar en norður á leið sinni milli Fremstahöfða og Miðhöfða að vestan og Sléttuhlíðar að austan, en hverfur þar undir Gráhelluhraun, sem er kvísl úr nyrðri hraunálmunni, runninni síðar í gosinu.“
Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.
Sennilega hefur Kaldá, fyrir Búrfellshraunagosið, fyrrum runnið til norðurs og vesturs millum grágrýtishlíðanna vestan Vífilsstaða, í sjó nálægt Langeyri, en um stutt skeið vegna hraunskriðsins úr austri á gostímabilinu hefur hún runnið þá leið, sem „Kaldárhraun“ rann síðar, og hefur áin þá átt sér farveg ofanjarðar um hraunlausan dal, þar sem nú liggja „Kaldárhraun“ og Gráhelluhraun, eitt affalla Gjánna, alla leið í botn Hafnarfjarðar.
Eftir að gosinu lauk leitaði Kaldá sér nýjan farveg, líkt og ár gera, niður með vesturkanti Búrfellshraunsins (Kaldárshrauns), alla leið til sjávar austan Hvaleyrarhöfða. Seinni tíma hraungos, s.s. í Óbrinnishólum, í Bollum og í Undirhlíðum þrýstu að ánni úr vestri svo hún neyddist til að hörfa af yfirborðinu og leita leiða neðanjarðar milli hraunlaganna, alla leið til sjávar á svæðinu millum Hvaleyrar og Straumsvíkur.
Vífilsstaðahellir.
Árni Hjartarson fjallar um Búrfellshraun og Maríuhella í Náttúrufræðingnum 2009. Hann leggur reyndar of mikla áherslu á hellamyndunina og heiti einstakra hella, sem reyndar er villandi í ljósi sögunnar. En hvað um það; vel má una við hluta umfjöllunarinnar: „Búrfellsgígur og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanes[skaga]i. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.
I. Straumsvíkurlota. Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.
Lambagjá.
II. Lambagjárlota. Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
III. Urriðavatnslota. Þegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi.
Búrfellsgjá.
Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.
IV. Goslok. Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.“
1. Hleinar – Voru friðlýstir 2009. Fjöldi fornra búsetuminja. 2. Gálgahraun – Í friðlýsingarferli vegna jarðmyndana og lífríkis. 3. Stekkjarhraun – Friðlýst til að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi. Athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. 4. Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár – Verndað vegna jarðmyndana sem hafa vísinda, fræðslu og útivistargildi. Fornminjar má finna á svæðinu. 5. Garðahraun neðra – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningar minjar eru verndaðar. 6. Maríuhellar – Fyrrum fjárhellar og stærstu þekktu hellar innan höfuðborgarsvæðisins. 7. Garðahraun efra, Vífilsstaðahraun – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar eru verndaðar. 8. Kaldárhraun og Gjárnar – Verndaðar vegna helluhraunsmyndana og fagurra klettamyndana í vestari hrauntröðinni frá Búrfelli.
Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárnar, þ.m.t. Lambagjá: „Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.
Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.
Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.“
Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir: „Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.
Borgarstandur – nátthagi.
Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.“
Borgarstandur – fjárskjól.
Gjárnar eru stórbrotin hrauntjörn, afurð Búrfellshrauns að sunnanverðu um Lambagjá, rúmlega 5000 ára gamalt. Þrátt fyrir að sá hluti hraunsins hafi runnið um forn misgengissvæði með tilheyrandi dölum og lægðum náði það, þrátt fyrir allt, smám saman allt til strandar.
Frá þeim tíma sem hraunið rann fyrir meira en fimm þúsund árum hefur orðið framhald á misgenginu, er gerir heildarsvip þess nær óþekkjanlega miðað við það hvernig það leit út í lok gossins. Bara misgengið í gegnum Búrfellsgjá, sem sker hana í sundur og aðskilur frá Selgjá, útskýrir vel breytingarnar.
Í Gjánum eru minjar. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið er meint aðhald norðan undir Nyrstastapa skráð sem stekkur, en við skoðun á vettvangi var augljóslega um náttúrmyndun að ræða. Þarna eru tvær vörður og virðist önnur vísa á þokkalegt hraunskjól, væntanlega fyrir smala.
Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.
Í gjánum norðvestanverðum eru leifar sumarbústaðar og hlaðinn garður honum tengdum þvert yfir djúpan hraunbollar.
Skammt norðaustan við Gjárnar eru Kaldárselsfjárhellar með heykumli og suðaustan þeirra er leiðigarður vestan Borgarstands, skráður stekkur sem reyndar hefur verið notaður sem nátthagi, leifar fjárskjóls og fjárborg efra. Borgirnar voru reyndar tvær fyrrum, en við gerð vatnsleiðslunnar um Lambagjá var grjóið úr eystri borginni notað í hleðsluna.
Um norðanverðar Gjárnar lá hinn forni Kaldárstígur. Enn má sjá hann klappaðan í hraunhelluna á kafla og áfram yfir hraunsprungu suðvestan Borgarstand áleiðis að Kaldárseli.
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 1973, Guðmundur Kjartansson, Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð, bls. 159-183.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2009, Búrfellshraun og Maríuhellar, Árni Hjartarson, bls. 93-100.
-Fjarðarpósturinn, 40. tbl. 311.10.2013, Skilti um Búrfellshraun, bls. 4.
Gjár – minjar.