Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans „Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar„.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
„… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
Í skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!“ Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn“ (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
Sveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.“
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
Einar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla“ og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt“ fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu“. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
Haustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut“ og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi“. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari“, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga“. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
Samskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
Hlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!“ En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.“
Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.
Herdísarvík.
Stiflishóladraugur
„Þeir vóru margir saman í einu félagi, skiptu sér niður á bæi á Álftanesi og gengu ljósum loganum svo enginn hafði frið. Þeir vóru kallaðir Hverfisdraugar.
Brúsastaðir og Stifnishólar.
Þetta var seint á 18 öld, og þá var séra Guðlaugur prestur í Görðum og hann kunni margt fyrir sér. Nú þegar bændur voru orðnir ráðalausir með þessa aðsókn þá fóru þeir til séra Guðlaugs og beiddu hann að hjálpa. „Mikið er að vita,“ segir prestur, „að þið skulið ekki hafa komið fyrr; það er nú orðið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaðir, ég get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af stað og fékkst lengi við draugana og gat komið þeim að Stiflishólum, en lengra kom hann þeim ekki í því hvar sem hann leitaði á þar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stiflishóladraugar, og hefur lengi verið þar reimt og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar fram hjá, en nú eru þeir farnir að dofna því þeir eru orðnir svo gamlir.“
Heimild:
-Jón Árnason I (1954), 254.
Stifnishóll.
Álftanes – Litlibær
Gengið var um vestanvert Álftanes, norðan Skógtjarnar. M.a. var komið við í tóftum Litlabæjar, gengið út á Litlabæjartanga og síðan gengið með ströndinni innan við Sandskarð. Þar fyrir innan er t.d. Bakkakot og Bakkakotstjörn. Fyrir innan röðuðu kotin (Hákot, Gesthús, Sveinskot, Kekkjakot, Mýrarkot, Garðskot, Þóroddarkot, Grashús, Þórukot, Bjarnastaðir og Friðrikskot) sér í þétta þyrpingu fyrr á öldum.
Hlóðareldhús – Gaimard.
Sá hluti Álftaness, sem tilheyrir landi Garðabæjar, afmarkast af vestanverðu af Skógtjörn. Í tjörninni gætir mikils munar flóðs og fjöru. Í Skógtjörn er fjölbreyttur gróður og dýralíf. Skógtjörn er mikilvægur viðkomustaður farfugla. Yfir vetrarmánuðina halda þar til endur og álftir. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir Árni Helgason að sögur hermi að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.
Þegar staðið er á Litlabæjartanga í svo “stórri sveit”, sem Álftanesið hefur verið í gegnum aldirnar með stjórnsýslusetrið Bessastaði innanborðs, með hafið á mót ströndinni og lífsblett smælingjans landmegin, verður ekki hjá því komist að velta lífi hins venjulega fólks fyrir sér hér fyrr á öldum. Nákvæm lýsing á búskapnum í Litlabæ er til frá því á ofanverðri nítjándu öld. Gísli Jónsson, alþingismaður, skrifaði þær og studdist við minnisblöð föðurs síns, Jóns Hallgrímssonar. Foreldrar Gísla fengu jörðina til ábúðar árið 1884 og bjuggu þar í tólf ár.
Stíflisgarður við Skógtjörn.
Í Litlabæ bjuggu 11 manns samkvæmt manntalinu 1890; hjón ásamt fimm börnum sínum, tveimur vinnumönnum og tveimur vinnukonum. “Þar hefur fjölskyldan verið í hörðum skóla. Þar hefur hún liðið sult, klæðleysi, sjúkdóma og fátækt. Þar hefur faðir minn margoft teflt á tæpasta vaðið í baráttu við æðisgengnar öldur, stórviðri, myrkur og byl.”
Lýsing Gísla gæti átt við svo til sérhverja fjölskyldu á Íslandi á þessum tíma.
Jörðinni og híbýlum þeirra lýsir Gísli svo: “Suðvestast á Nesinu, alveg fast að klettóttri ströndinni, er lítið kot. Litlibær heitir það, og ber nafn með rentu. Húsakynnin eru lítill torfbær, byggður í gömlum íslenskum bæjarstíl, með göflum og dyrum gegnt hafinu.
Í bæjargöngum.
Þegar gengið er inn moldargöngin, er til vinstri handar þiljuð örlítil stofa með timburgólfi. Til hægri handar er moldareldhús, með hlóðum,… en óþiljað. Fyrir enda gangsins er stigi upp í baðstofu. Hún er tvö stafgólf, með súð og torfþaki. Þar er engin upphitun. Einn fjögurra rúðu gluggi er á stofugafli, en á hvorum enda baðstofu er einnig gluggi, en nokkru minni. Á eldhúsi er enginn gluggi, en birta fæst niður um víðan stromp, sme er beint yfir hlóðunum og tekur frá þeim allan reyk. Við norðurvegg eldhússins er gripahús. Er þar bás fyrir eina kú, stalldur fyrir einn hest, og stía fyrir sex kindur. Inn af því er heygarður til geymslu á fóðri, og op á milli svo að taka má heyið, án þess að fara út. Beint fram af gripahúsinu er safnþró, opin og óvarin. Við suðurvegg er hjallur, sem notaður er til geymslu og til að þurrka föt og fisk…
Álftanes fyrrum.
Túnið er lítið og þýft. Sjávarmegin er hár kambur af möl, sem brimið hefur sópað upp.
Bæjargöng.
Þegar úfinn er sjór og brim er mikið í stórstaumum, gengur möl, sandur og sjávargróðurinn yfir kambinn og alla leið inn á túnið. Verður því að hreinsa það á hverju vori. Í sæmilegu ári gefur túnið af sér kýrfóður. Fyrir aðrar skepnur verður að afla heyja á annarra landi.”
Svo mörg voru þau orð – lýsing á dæmigerðum íslenskum bæ á nítjánu öld. Síðan eru liðin mörg ár – eða hvað?
Stundum er hollt að staldra við, setjast niður og rifja upp við hvaða kost forfeður okkar bjuggu við fyrir tiltölulega stuttu síðan. Árið 1910 -´20 voru helmingur allra húsa á Íslandi úr torfi og grjóti. Nú, 85 árum síðar, eru torfbæir ekki til (nema sem söfn). Hugsaðu um það – lesandi góður!
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín – en hugurinn reikaði á þeim tíma allt að 101 ár aftur í tímann, eða hér um bil.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanesssaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson – 1996.
Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.
Grásteinn – Garðastekkur – Gálgahraun
Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.
Gálgahraun – skófir.
Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.
Í Garðastekk.
Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, „stíflurnar“ yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna „allmikið verk, en illa gert“.
Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin.
Skógartjörn – brú.
Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.
Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.
Fógetagatan um Garðahraun.
Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.
Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang.
Garðastekkur.
Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.
Gálgahraun – kort.
Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.
Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.
Gálgaklettar.
Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.
Gálgaklettar – meintur grafreitur.
Hnúkar – Hnúkavatnsstæði – tóftir – Hnúkahellir
Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.
Hnúkar – sel.
Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.
Hnúkar.
Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.
Hnúkar – vatnsstæði.
Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Lóa í Hnúkum.
Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Hraundríli í Hnúkum.
Eyktarmörk
Í bókinni „Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni“ eftir Jón Jónsson Aðils er m.a. fjallað um eyktarmörk. Bókin er samansafn alþýðufyrirlestra með myndum.
„Dægrinu skiptu forfeður vorir eftir áttum og sólargangi niður í eyktir, og voru eyktirnar 8 (sbr. áttirnar) í hverjum sólarhring og 3 stundir í hverri eykt. Í elztu tíð hafa menn að líkindum talið tímann eftir nóttum, en eigi eftir dögum, og vottar víða fyrir því í fornum ritum. Svo komst Ari fróði að orði, er hann telur mánuðina „þrítugnætta“, og algengt er í fornu máli að miða tímann við nóttina („á tveggja tíma fresti“), „þriggja nátta gamall!“ o.s.frv.). Á þetta að líkindum rót sína að rekja til hins forna tunglárs, er menn töldu eftir tungli og stjörnum, annars voru stundir dagsins taldar eftir aðstöðu sólar við hæðir, fjöll og gnýpur úti við sjóndeildarhringinn (dagsmörk), líkt og enn tíðkast víða til sveita, en eigi er slíkt stundatal fast eða nákvæmt. Aðalstundir dagsins voru þessara: Rismál eða miðr morgunn (kl. 6 að morgni); dagmál (kl. 9 árd.); hádegi (kl. 12); miðmundi (kl. 1 1/2 síðd.); nón (kl. 3); miðr aftann (kl. 6); náttmál (kl. 9): miðnætti (kl. 12); síðari hluti nætur undir morgun var nefndur ótta (sbr. óttusöngur).“
Eyktarörnefni eru fjölmörg á Reykjanesskaganum. Varla er til sú örnefnalýsing þar sem þeirra er ekki getið. Í lýsingu fyrir Járngerðarstaði í Grindavík er t.d. getið um Hádegisgil og Miðmundagil í Þorbirni ofan við Baðsvelli. Skýringin á nöfnunum er sú að þau voru eyktarmörk frá seljunum norðan undir fellinu.
Þá er Miðmundahæð ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum þekkt kennileiti. Svo virðist, af örnefnunum að dæma, sem meira hafi að öllu jöfnu verið haft um miðmunda en önnur eyktarmörk því örnefni því tengdu eru allmörg. Hádegishólar eru og til, en mun færri.
Heimild:
-Jón Jónsson Aðils, Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni, Reykjavík 1948, bls. 200, sbr. Skand. Verhältn. bl. 39-40.
Hafnarétt
Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.
Hafnarétt.
Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.
Hafnarrétt 2021.
Elliðavatn – fyrr og nú
Gísli Sigurðsson skrifar um „Elliðavatn“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
„Bújörðin Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað; þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað.
Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesingasögu, sem skrifuð
var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var Kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með ,4ii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol). Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“. Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé. Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“. En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Uggjaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap. Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk
með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Merkir gestir á Elliðavatni Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal yar teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum. Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafí verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekM verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“ Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns og nöturlegt til þess að vita að hluti þingstaðarins lenti undir vatni þegar stíflað var. Þá verður það naumast talið til fyrirmyndar að sumarbústaður hefur verið fast uppi við hinn forna þingstað og skilti með nafni Þingness virðist vera hlið að sumarbústaðarlandinu.
Algengt er að sjá í bókum aðra mynd af Elliðavatnsbænum en þá sem Mayer teiknaði og er sú mynd sögð vera teiknuð aðeins 9 árum eftir að Mayer var þar á ferðinni. Vegna Heklugossins 1845 kom náttúruvísindaleiðangur undir forustu Danans J.C. Schiitte til rannsókna á Íslandi og með í för var ungur myndlistarmaður, Emanuel Larsen, sem var ígildi ljósmyndara og vann sitt verk dyggilega.
Teikning, sem oft hefur birst og eignuð er Schiitte þessum, er sögð vera af Elliðavatnsbænum en er þó fremur grunsamleg. Enda þótt skammt sé um liðið frá því bær silfursmiðsins var teiknaður er ekM annað hægt að sjá en að sá bær hafi verið rifinn svo til grunna að enginn kofi hafi eftir staðið, en annar bær byggður með gerólíku lagi; þó ekki burstabæjarstílnum sem ruddi sér til rúms á 19. öldinni. Þarna er kominn þverstæður bær með bæjardyrum fyrir miðju og tveim gluggum sín hvorum megin við þær. Ætla má að loft hafi verið á þessum bæ yfir baðstofu og stofu; að minnsta kosti eru tveir litlir gluggar á þekjunni. Óvenjulegt verður að tefja að þarna er snyrtileg steinhleðsla utan með bænum sem einungis virðist vera til prýði, en grjótgarðar voru yfirleitt ekki hlaðnir öðruvísi en í ákveðnum tilgangi, til dæmis utanum tún eða gerði.
Í forgrunni myndarinnar er mjó vík sem er harla ósennilegt er að hafi nokkru sinni getað verið þarna og ennþá síður stenzt það, að sá bratti sem var og er frá bæjarstæðinu niður að vatninu er nánast ekkert til þarna. Ótrúlegast er samt að hvorki standa eftir tangur né tetur af bæ silfursmiðsins eftir svo fá ár. Jafnvel ennþá síður marktæk er teikning af þriggja bursta steinbæ á Elliðavatni, sem birt er í ritröðinni, Reykjavík – sögustaður við Sund. Þar er sagt að þetta muni vera húsið sem Sverrir Runólfsson byggði á Elliðavatni. Það var steinhús sem Sverrir byggði og ekkert svipað burstabænum á myndinni. Árið 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði „fyrirmyndarbýli“ eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar:
„Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard…“ Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: „…ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst.“ Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kyr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda. Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það.
Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.
Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt missti trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi. Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.
Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.
Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar. Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.
Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja. Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast vfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.
Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir. Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru. En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.
Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust.
Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði
laxastiganum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni. En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekid að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: „Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, – og svo er það fylleríið!“
Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.
Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.
Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt
smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.
Bensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.
Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.
Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir. Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.
Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keyptí Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp á
ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja tímburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.
Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við
það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960. Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.
Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt
grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem
áður afar lítið. Þessi umstópti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum
1923-28 af Krisjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætianir um nýtingu á jörðinni – eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.
En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni?
Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir
sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við ELliðavatn og stækkun vatnsins um !
helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað til muna.
Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins 19. febrúar 2000, bls. 10-12.
Elliðavatn.
Væringinn mikli; Einar Benediktsson
Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans „Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar„.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
„… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
Í skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!“ Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn“ (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
Sveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.“
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
Einar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla“ og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt“ fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu“. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
Haustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut“ og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi“. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari“, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga“. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
Samskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
Hlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!“ En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.“
Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.
Herdísarvík.
Selbúskapur – endalok
Þorvaldur Thoroddsen skrifaði í Andavara árið 1916 um „Endalok seljabúskaparins“ hér á landi:
„Menn höfðu til forna miklu meira í seljum en nú og sel voru víða hátt til fjalla og heiða; þau lögðust niður, ekki vegna þess að landkostir rýrnuðu, heldur af breytingu á búskaparlagi og af vinnufólkseklu, það hefir altaf smátt og smátt orðið örðugra og dýrara að búa á stóru jörðunum af því vinnukrafturinn varð dýrari, ekki að eins kaupgjaldið, hækkun þess hefir eigi alténd verið eins tilfinnanleg eins og kostnaðurinn við að fæða fólkið eftir að kröfurnar urðu meiri, og eyðslan hefir jafnan vaxið fljótar en afraksturinn. Svo þegar harðindi bætast ofan á örðuga verzlun og búskaparbasl, slær óbug á menn, þeir leggja árar í bát, þrekið linast og hugurinn á að bjarga sér; þetta er sérstaklega augljóst á 17. öld.
Utan til á hálendinu og í afdölum upp til heiða eru margar rústir af smábýlum frá ýmsum öldum; þessi fjallakot hafa eyðst af ýmsum orsökum, oft vegna harðinda, eldgosa og drepsótta; á þeim hafa jafnan búið fátæklingar, sem ekkert mótstöðuafl höfðu þegar móti blés. Fæst af þessum fjallakotum á hálendinu hafa verið bygð í fornöld, fæst virðast hafa verið tekin upp á seinni öldum á 14., 15. og 16. öld, en mörg þeirra hafa fljótt aftur lagst í eyði.“
Heimild:
-Andvari 41. árg. 1916, 1. tbl., Þorvaldur Thoroddsen, bls. 73-74.
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Eldborgir – Krýsuvíkurhraun
Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.
Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).
Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.
Svæðið.
Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.
Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.
Stóra-Eldborg.
Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.
Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.
Æsubúðir.
Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:
Stóra Eldborg.
”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.
Dysjar Herdísar og Krýsu.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.
Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.
Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.
Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.
Eldborgarhraunin.
Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Leifar gígs Litlu-Eldborgar.