Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I, árið 2011 má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um bæi, s.s. Stóru-Voga, Snorrastaði, Stapakot, Brekku, Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot, Tjarnarkot, Minni-Voga, Norðurkot, Auðna, Auðnakot, Landakot, Þórustaði, Kálfatjörn, Naustakot, Móakot, Hátún, Fjósakot, Bakka og Flekkuvík, og nokkrar merkar minjar í sveitarfélaginu.
Stóru Vogar (býli)
Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).
Jarðadýrleiki óviss 1703. Hrolllaugur sem fékk Vatnsleysustrandarhrepp hjá Eyvindi landámsmanni bjó í Kvíguvogum. Kvíguvoga er getið í Sturlungu, (Sturlunga saga I, 406). Máldagi í Kvíguvogum frá árinu 1367 (DI III, 221).
18.4.1434: Jörðin seld fyrir 60 hundruð (DI IV 540).
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr). (DI IV 707-708).
4.10.1489. Jörðin Stærri-Vogar seld (þá 50 hundruð) fyrir jarðirnar Skarð í Fnjóskadal og Mýri í Bárðardal (DI VI, 686).
1496: Eru báðir hlutar jarðarinnar fengnir Viðeyjarklaustri til eignar. (DI VII, 299, 303).
1533: Hálfkirkjan á jörðinni nefnd í sakamáli (DI IX, 660).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 7 vættir fiska (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Árið 1703 er þess getið að Snorrastaðir, forn eyðihjáleiga, hafi verið lögð undir jörðina. Hjáleigur jarðarinnar árið 1703 voru Eyrarkot, Gata og Syðsta hjáleiga í byggð.
Eyðihjáleigur voru Tjarnarkot, Valgarðshjáleiga, Garðhús, Móakot, Halakot og Krunakot [Bræðrapartur] (JÁM III, 119-121).
Seint á 18., öld er getið um hjáleigu sem nýtt var sem lambhús.
Hjáleigur í byggð 1847: Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot og Tjarnarkot. Nýibær, Stapabúð, Brekka, Steinsholt, Klöpp, Garðbær, og Hábær voru afbýli byggð á 19. öld. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Upprunalegt nafn bæjarins er Kvíguvogar (Ö-Vogar, 7).
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá uppruna örnefnisins Kvíguvogar í þjóðsögunni um bónda einn í Vogum og marbendil sem bóndi veiðir í net sín. Í sögunni segir m.a.: „Þóttist hann skilja að kýr þessar hefði marbendill sent sér í þakkarskyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumannsgripur sem á Ísland hefur komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn sem víða hefur dreifzt um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja að hann varð mesti auðnumaður alla ævi. Hann lengdi og nafn byggðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga er áður voru kallaðir Vogar.“ (Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 127-128).
1703: „Túnin líða skaða af sands og sjávarágángi, og gjörist að því ár frá ári meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagarnir litlir sumar og vetur.“ (JÁM III, 119). Túnakort 1919: Tún 2,3 teigar, garðar 1220m2.
Stóru-Vogar.
„Neðan vert og nær sjónum eru svo Stóru-Vogar og stóðu á Bæjarhólnum í Stóru-Vogatúni. Þar eru nú rústir einar, því Stóru-Vogar eru í eyði.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, segir: „Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 […]. Það Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. […] Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.“
Stóru-Vogar eru um 370 m sunnan við Minni-Voga og 310 m SSA við Suðurkot. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta í vestri vegna ágangs sjávar. Bæjarleifar Stóru-Voga eru um 5 m austan við efribrún Vogafjöru. Malbikaður göngustígur liggur N-S meðfram vesturvegg íbúðarhúss Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er grasigróinn, 2-3 m á hæð, um 30 m á lengd, um 20 m á breidd og snýr N-S. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni ber minna á bæjarhólnum í dag (2007) vegna framkvæmda við Stóru-Vogaskóla þar sem jarðvegi úr grunni hússins var ýtt yfir stóran hluta heimatúns bæjarins. Á hólnum eru enn tóftir íbúðarhússins sem byggt var árið 1912 og signar hleðslur grjótveggja fjóss sem var fast norðan við húsið. Grunnur íbúðarhússins er steinsteyptur og grjóthlaðinn, um 12 m á lengd, um 6 m á breidd og snýr A-V.
Innanveggir grunnsins eru alveg steinsteyptir um 0,2 m á breidd og um 1 m á hæð. Ytri veggir eru um 0,5 m á breidd og um 1-1,4 m á hæð. Steinsteyptar tröppur voru upp á aðra hæð húss að sunnan við SA horn þess. Tröppurnar eru um 2 m á breidd, um 3 m á lengd og um 1,4 m á hæð. Kjallarinn var þrískiptur, með sjö dyrum og einum glugga á austurvegg. Tvennar dyr eru á vesturhlið, tvennar á suðurhlið, einar á austurhlið og tvennar á norðurhlið. Samkvæmt Viktori Guðmundssyni og Sesselju Guðmundsdóttur var grunnur hússins að hluta til byggður 1871 og svo bætt við hann 1912. Eldri hluti grunnsins er tilhöggvið grjót límt saman á meðan yngri hluti hans er að verulegu leyti fjörugrjót sem steypt var í mót og múrhúðað. Tröppur hússins eru taldar vera frá 1912. Samkvæmt Helga D. Davíðssyni var hluti af byggingarefni íbúðarhússins svo notað í húsið Aragerði 7. Vestari dyr á norðurhlið íbúðarhúss lágu upp í sambyggt fjós og hlöðu sem er um 2 m norðar. Um 1,5 m breiður og um 2 m langur gangur lá N-S á milli húsanna. Veggir fjóssins og hlöðunnar eru grjóthlaðnir og mjög hrundir en þeir eru um 0,5-1 m á breidd og um 0,2-0,4 m á hæð.
Stóru-Vogakirkja (útkirkja)
Stóru-Vogar – fornleifar.
Í bókinni Strönd og Vogar segir: „Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var kirkjan líklega á vestanverðum bæjarhól Stóru-Voga en ekkert sést til hennar í dag, trúlega vegna sjávarrofs. Mjög líklegt er að mannabein sem fundust í sniði bæjarhólsins að vestanverðu (sjá 059) séu vísbending um staðsetningu kirkju og kirkjugarðs þó ekki sé hægt að fullyrða það án frekari rannsókna. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta vegna ágangs sjávar. Grunnur íbúðarhússins er enn uppistandandi og leifar hleðslna í fjósi eru sjáanlegar.
KVÍGUVOGAR (G) -Þorláki, Maríu (KÁLFATJARNARÞING) – HÁLFKIRKJA [1367]: lxv. Mariu kirkia og hinz heilaga Thorlaks Biskups j kuiguvogum a xc j heimalande. vj ær. ij saude tuævetra. les Vilchinsbok; Hítardalsbók DI III 221 1397: a .xc. j Heimalandi portio Ecclesiæ vmm iiij ar .iiij. merkur þau sem Andries Magnusson a ad svara. Þar skal takast heimatiund heimamanna; Máld DI IV 105-106 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 61}. Ekkert sést til fornleifa.
Snorrastaðir (býli)
Snorrastaðir – tóft.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.“ Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. „Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. […] Fyrir ofan neðstu tjörnina er nýreistur skáli frá Skátafélaginu Heiðarbúum í Keflavík,“ segir í Örnefni og gönguleiðir. Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustur-suðvestur.
„Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Staðsetning býlisins er ókunn.
Snorrastaðir.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.“ Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. „Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. …
Nýibær (býli)
Nýibær.
„Einnig Nýibær og Hábær [enn í byggð]. […] Þá er Nýibær í Nýjabæjartúni og liggur Nýjabæjarstígur niður þaðan í Nýjabæjarvör. Tún Tumakots og Nýjabæjar liggja saman á hólnum, sem nefnast Borhólar og skammt þaðan er Nýjabæjarbrunnur, […].“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Nýjibær (Vogagerði 24). Árið 1872 hófu ung hjón búskap að Nýjabæ. […] Stuttu eftir að Andrés tók við búinu [eftir 1899] byggði hann nýtt íbúðarhús. […] Árið 1927 lagði Andrés í það mikla verk að byggja nýtt og stærra íbúðarhús.“ Nýibær (byggður 1927) er nú Vogagerði 24, um 200 m NNA við Suðurkot og um 180 m SA við Stóru-Voga.
Nýibær stendur fast vestan við malbikaða götu sem liggur N-S, Vogagerði, og fast sunnan við malbikaða götu, Ægisgötu, sem liggur A-V. Vestan við Nýjabæ er svo sléttað moldarbarð þar sem áður stóð steinsteypt íbúðarhús og sunnan við hann er íbúðarhús við Vogagerði 26.
1919: Tún 1 teigur, garðar 550 m2. Ekkert sést til eldri bæjar og enginn bæjarhóll er greinanlegur vegna sléttunar, bygginga og vegagerðar. Íbúðarhúsið sem byggt var 1927 er bárujárnsklætt timburhús sem snýr N-S. Gengið er inn að vestan og er grunnur hússins grjóthlaðinn og steinsteyptur. Húsið er á tveimur hæðum og samkvæmt Særúnu Jónsdóttur, heimildarmanni, er ómanngengur kjallari undir húsinu. Engir gluggar eru á grunni hússins og er þak þess með burst. Grunnurinn er um 7×7 m að flatarmáli fyrir utan steinsteypta viðbyggingu að norðanverðu.
Hábær (býli)
Hábær.
„Einnig Nýibær og Hábær. […] Hábær stendur í Hábæjartúni en heima frá bæ liggur Hábæjarstígur í Hábæjarvör. Rétt hjá bænum var Hábæjarbrunnur.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Hábær er nyrsti jarðarhlutinn sem látinn var úr Stóru-Vogajörðinni. […] Árið 1920 reif Ásmundur [Árnason] Hábæ og byggði hann upp aftur í Hafnarfirði og gaf því húsi sama nafn, (nú Skúlaskeið 3). […] Hábær í Vogum var aðeins kjallaragrunnur eftir að húsið sjálft var rifið. […] lét hann [Árni T. Pétursson] rífa Hvamm og byggja upp á Hábæjargrunninum, þó í öðrum stíl væri en áður, og er það enn í dag sá hluti hússins sem snýr mót suðri. […] Árni byggði Hábæ árið 1921 […].“ Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var Hábær um 160 m NA við Stóru-Voga og um 160 m sunnan við Austurkot. Í raun er Hábær um 150 m NA við Stóru-Voga og um 200 m SSV við Austurkot. Upprunalegt byggingarár Hábæjar er óþekkt og ekki er vitað hvort einhvern tíman stóð torfbær á þessu svæði.
Hábær stendur enn í grasigrónum garði fast norðan við Tjarnargötu í vesturenda hennar, NA við grunnskóla Voga.
1919: Tún 1,5 teigar, garðar 450 m2. Hábær sem byggður var 1922 stendur enn en búið er að byggja við upprunalegu bygginguna 2-3 sinnum. Gera má ráð fyrir því að aðeins grunnur fyrra timburhúss sem rifið var árið 1920 sé enn til staðar af eldri byggingum. Enginn bæjarhóll er greinanlegur hugsanlega vegna rasks í kringum húsið en einnig er hugsanlegt að enginn bæjarhóll hafi náð að myndast síðan Hábær byggðist. Ekkert sést til fornleifa.
Kvennagönguskarðsstígur (leið)
Kvennagönguskarð.
„Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagönguskarðsstígur,“ segir í örnefnaskrá.
Kvennagönguskarð er næsta skarð austan við Brekkuskarð, á milli þess og Reiðskarðs. Skarðið er snarbratt og stórgrýtt, gróið mosa og lyngi. Engin ummerki gatna eða slóða eru í skarðinu, en Stapagata liggur sunnan við skarðið í austur-vestur. Mögulega hefur skarðið verið áningarstaður á þeirri leið og þess vegna hlotið þetta nafn.
Kálgarðsbjalli (kálgarður)
Kálgarðsbjalli.
„Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli […],“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt athugasemdum við örnefnaskrá var þar kálgarður um aldamótin 1900. Samkvæmt heimildamanni var garðurinn svokallaður hreppsgarður og hlaðinn í atvinnubótavinnu. Í honum voru ræktaðar kartöflur. Kálgarðsbjalli er um 1,3 km SSV af Stóru-Vogum 001 og um 400 m suður af Brekku 036, en garðhleðslur eru sunnan í honum.
Stapinn – hreppsgarðurinn.
Bjallinn er gróinn en mjög grýttur. Brekkan sem hleðslurnar eru í er allbrött til suðurs en klettar efst í henni. Lúpínubreiður eru til suðurs og austurs.
Garðarnir eru mjög greinilegir og ná yfir svæði sem er um 34×28 m að stærð og snýr í norður-suður. Á svæðinu er eitt stórt gerði og tveir niðurgrafnir eða jafnaðir stallar sunnan við það. Gerðið er efst í brekkunni, um 24×24 m að utanmáli. Hleðslur eru úr grjóti í austur-, norður-, og hluta vesturveggjar. Í suðurvegg og syðri hluta vesturveggjar eru hleðslur úr torfi og grjóti. Hleðslur eru allt að 1,2 m á hæð og mest að 3 m á breidd í suðurvegg. Hleðslur eru rofnar í hluta vesturveggjar en standa að öðru leyti. Efst innan gerðisins eru lágir klettar og mikil grjótdreif undir þeim. Op er á suðurhlið gerðisins en suðaustan við það, undir suðurvegg gerðisins, er jafnaður stallur í brekkunni.
Hann er um 6×2 m og snýr austur-vestur. Engar vegghleðslur umlykja stallinn nema að austanverðu, þar sem garðstubbur, um 2 m langur, sameinast suðurvegg gerðisins. Um 3 m neðan, eða sunnan, við stallinn er annar jafnaður stallur í brekkunni. Á honum eru tvö niðurgrafin hólf. Hið vestra er ferhyrnt, um 5×4 m að stærð, 0,3 á dýpt og snýr austurvestur. Hið eystra er sporöskjulaga, um 0,4 m á dýpt, um 4×2 m að stærð og snýr norður-suður.
Kerlingarbúðir (verbúð)
Kerlingarbúðir.
„Vestan undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef, þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingabúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn, er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu,“ segir í örnefnaskrá „Undir Vogastapa er lítið undirlendi og ekki búsældarlegt, og treystu búendur þar því nær eingöngu á sjávarútveg. Vestast undir Stapanum þar sem minnst er undirlendið, eru Kerlingabúðir. … Í Kerlingabúðum má sjá margar tóftir sem ýmist hafa verið mannabústaðir eða fiskibyrgi. … Stór steinn sem í var höggið ártalið 1780 var allt fram á síðustu ár þarna fyrir neðan sjávarbakkann,“ segir í Mannlíf og mannvirki. Kerlingabúðir eru um 120 m vestur af vestasta hluta túnskikans á Stapa 036, um 1,5 km VSV af Stóru-Vogum 001. Þar er mosagróin grjóturð í í brekkunni og eru rústirnar neðst í henni.
Kerlingarbúðir.
Neðst í brattri og grýttri hlíð undir klettahömrum. Sjór hefur brotið nær allt undirlendi neðan hlíðarinnar. Lítil ummerki sjást nú af verbúðinni, en mikið hefur horfið í sjó á undangengnum áratugum. Minjarnar dreifast á svæði sem er um 40×8 m að stærð, landræma sem liggur í austur-vestur milli brekkunnar og sjávar. Austast á svæðinu, í urðarfætinum, eru tvö samliggjandi hólf. Þau eru grjóthlaðin, en uppistaðan í hleðslunum er þó jarðfast grjót neðst í urðinni. Hleðslur eru mest tvö til þrjú umför, og 0,5 m á hæð. Eystra hólfið er um 3×1 að innanmáli með op á norðurhlið og snýr austur-vestur. Vestara hólfið er um 3,5×3 m að innanmáli með op á norðurhlið. Syðst í hólfinu er mikið hrunið ofan í það og virðist þar hafa verið hleðsla. Þar er hólfið líka alldjúpt og því mögulega niðurgrafið. Fleiri mannvirki hafa líklega verið vestan við hólfin en hleðslubrot er fast vestan við þau. Engin önnur glögg ummerki er þó um að ræða enda hefur grjóthrun og sjávarrof líklega eytt þeim. Um 20 m vestur af hólfunum, í sjávarbrotinu, er garðbrot. Það er um 1,2 m á hæð, 1,5 m á breidd og sigið út. Það er hlaðið við tvo stóra steina og er hleðslan úr torfi og grjóti.
Stapabúð (býli)
Stapabúð.
„Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því, en Stapabúðarvarir voru þar fram undan,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir: „Nokkru austar [en Kerlingabúðir] meðfram Stapanum eru aðrar kofarústir er heita Stapabúðir. Síðast var búið þar árið 1899 […].“ Stapabúð er um 130 m norðvestan við Brekku 036 og um 1,5 km suðvestan við Stóru-Voga.
Stapabúð er í grasi grónu túni niður undan mosagróinni en stórgrýttri brekku. Norðaustan við hana er djúp og breið lægð í landið, líklega vegna sjávarrofs og er hún sendin og vaxin melgresi. Aðrar minjar í tengslum við Stapabúð eru vestan við lægðina fyrir utan tóft sem er sunnan við hana. Þar er lítið láglendi en allt er það grasi vaxið frá brekkurótum fram á sjávarbakka.
Fyrst var þurrabúð á staðnum en síðar grasbýli. Stapabúð er með á túnakorti Brekku frá árinu 1919 var samanlagt tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt því. Á túnakortinu sjást 6 byggingar, kálgarður, vör, brunnur og líklega túngarður. „Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér […] áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1829-1840,“ segir Árni Óla í bók sinni.
Stapabúð.
Einnig er getið um Stapabúð í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki. Þar segir: „Stapabúð var grasbýli og greiddi landskuld til Stóru-Voga, er átti allt land meðfram Vogastapa. Þar má enn vel sjá hvernig húsaskipan var háttað. Útræðisaðstaða var mjög góð og fisksæld mikil.“ Í Stapabúð sjást enn miklar leifar. Þar eru 4 tóftir, kálgarður, leifar af túngarði og brunnur á svæði sem er um 170 x 90 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þessar minjar eru merktar inn á túnakort Brekku frá 1919.
Brekka (býli)
Brekka.
„Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],“ segir í örnefnaskrá. Brekkubærinn er neðan og vestan við Brekkuskarð, sunnan við Hólmann, um 1,5 km suðvestur frá Stóru-Vogum. Bærinn stóð á litlu undirlendi undir bröttum hömrum og grjótskriðum. Brekkan suðaustan við bæinn er vel gróin og vex þar aðallega elfting eins og í norðurjaðri túnsins. Annarsstaðar er grasgefnara, sérstaklega næst bæjartóftinni. Sandhólar og -dalir eru vaxnir hvönn og melgresi. Undirlendið sem er gróið er um 100 x 150 m og snýr austurvestur.
Upphaflega var Brekka þurrabúð en varð síðar grasbýli. Býlið var reist 1848. Árið 1919 var tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt túnakorti með túninu í Stapabúð. Getið er um Brekku í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Að Brekku undir Vogastapa fluttu hjón frá Hólmabúðum árið 1861. […] Byggðu þau upp bæinn og bjuggu þar til ársins 1869. […] Brekka var grasbýli, leiguland eins og stapabúð og greiddi afnotagjöldin til Stóru-Voga […] Þetta gjald hélst þar til Brekka lagðist í eyði árið 1928.“ Minjasvæðið er um 40 x 20 m og snýr austurvestur. Á vettvangi voru tvær tóftir skráðar, kálgarður og brunnur og eru þau mannvirki sýnd á túnakorti auk réttar í vesturjaðri túnsins á Brekku en ekki sést til hennar á vettvangi. Ef til vill er hún farin í sjó fram.
Brekkulónsvarir (lending)
Brekkulónsvarir.
„Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],“ segir í örnefnaskrá. Brekkuvarir eru um 100 m suðaustan við Brekkubæ.
Lendingin er í sandfjöru norðan við hraunbrúnina. Rétt norðan við lendinguna er dálítil klöpp og sunnan við hana er grjót sem að líkindum hefur hrunið úr hraunbrúninni. Lendingin snýr austur-vestur og er sendin í botninn en þó er eitthvað af grjóti í henni vestarlega. Hún er um 1-4 m á breidd, breiðust vestast, og um 20 m löng. Líklega hefur lendingin verið rudd en það er ekki augljóst.
Hólmsbúð (bústaður)
Hólmsbúð – uppdráttur.
„Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir: „Á Hólminum eru rústir og stórir húsagrunnar, því þar var með stærstu útgerðarstöðum á landinu um tíma.“ „Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland.
Aftur á móti sést enn vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót.“ Hólmurinn er lágreistur, landfastur (á fjöru) og gróinn hólmi fram undan Brekkutúni, um 1,3 km SV af Stóru-Vogum. Á honum eru greinilegar og umfangsmiklar rústir Að austanverðu á Hólminum er sandfjara en berar og grófar hraunklappir í sjó fram á aðra kanta.
Hólmsbúð undir Stapa.
„Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi sem líklega hefur veið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt. Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörk þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína … Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830 …, “ segir Árni Óla í bók sinni.
Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.
Einnig er getið um Hólmabúðir í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland. Aftur á móti sést en vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót. Voru þar eingöngu svokölluð !innitökuskip“, aðkomuskip um vetrarvertíðina, eða frá byrjun mars til lokadags 11. maí. …Á Hólmabúðum voru komin stór salthús 1839-1840 og á lofti þeirra voru verbúðir aðkomumanna. … Þar eru grunnar eftir tvö stór salthús og á Kristjánstanga, sem er milli Voga og Vogastapa var þriðja salthúsið. Allt árið urðu að vera saltafgreiðslumenn á Hólmabúðum, sem afgreiddu salt og aðrar nauðsynjar, þó helst á vetrarvertíðinni. Voru því, utan vertíðar, búendur allt árið í Hólmabúðum. … Talið er að þegar útgerð var mest frá Hólmabúðum hafi verið gerð út þaðan 18 skip og ef áætlað er að jafnaði 7 menn á hvert skip verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna um 140-150 manns á vetrarvertíðinni.“ Tóftirnar dreifast um Hólminn sem er um 50×50 m að stærð.
Hólmsbúðarvör (lending)
Stapinn – flugmynd.
„Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, mun þar hafa verið pláss fyrir tvo báta, en hún hefur ekki fundið staðsetningu vararinnar. Vörin hefur þó líklega verið austan í Hólminum, þar sem er dálítil sandvik, því annarstaðar eru umhverfis hann grófar hraunklappir sem flæðir yfir. Hólmurinn er landfastur (á fjöru) gróinn hólmi fram undan Brekkutúni.
Ekki er vitað hvar Hólmsbúðarvör hefur verið.
Vogaréttir (rétt)
Vogaréttir.
„Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar. Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.
Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina.
Steinsholt (býli)
Steinsholt.
„Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Mannlíf og Mannvirki í Vatnleysustrandarhreppi var Steinsholt byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæði um 740 m SSA við Stóru-Voga og um 1100 m SSA við Minni-Voga. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, eru tvær af tóftunum (E og M) örugglega Steinsholt, en Guðrún kannaðist ekki við hinar. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29 mars árið 1879.“
Vogasel (sel)
Vogasel yngri.
„Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá. Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun.
Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m. Mannvirkjunum verður nú lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Bræðrapartur (býli)
Bræðrapartur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Krunakot hefur verið tómthús, þar var landskuld ein vætt fiska til heimabóndans, það hefur sjaldan bygt verið, en nú síðast yfir sex ár í eyði legið.“ „Bræðrapartur enn í byggð.“ segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: „Bræðrapartur er syðsta hús í Vogum og stendur í Bræðrapartstúni.“ segir í örnefnaskrá. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti úr Suðurkots – og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það sé grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag. […] Í Bræðraparti urðu allmikil umskipti er Guðmundur Kortsson tók við búinu árið 1928. Árið 1929 byggði hann hús og reif það gamla, er hafði þótt gott á sínum tíma. […] Árið 1947 byggði Guðmundur við og breytti húsinu í núverandi horf.“ Bræðrapartur var um 370 m sunnan við Stóru-Voga og um 60 m sunnan við Suðurkot.
Á þessu svæði er sléttuð grasflöt og íbúðarhús við Brekkugötu 6.
1919: Tún 1,3 ha, garðar 1000 m2. Ekkert sést til fornleifa en húsið við Brekkugötu 6 stendur á greinilegum egglaga hól sem er um 30 m á breidd, um 50 m á lengd, 1-2 m á hæð og snýr NV-SA.
Stóru-Vogasjóhús (sjóbúð)
Stóru-Vogasjóhús.
„Heiman frá bæ lá Stóru-Vogastígur niður í Stóru-Vogavör við Stóru-Vogatanga. Upp var [svo] Vörinni var Stóru-Voganaust og Stóru-Vogasjóhús.“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var fiskhús um 120 m NV við Stóru-Voga og um 170 m VSV við Tjarnarkot. Tvöföld tóft er um 130 m VNV við bæ og um 170 m SV við Tjarnarkot. Tóftin stendur á efribrún fjöru í sléttu graslendi á Stóru-Vogartanga.
Tóftin er tvískipt, um 9 m á lengd, um 7 m á breidd og snýr ASA-VNV. Hér hefur trúlega verið timburhús á grjóthlöðnum grunni. Tóftin er vel grasigróin og lítið rofin en efri brún fjöru er komin mjög nálægt tóftinni að V svo hún er í hættu vegna sjávarrofs.
Samkvæmt Magnúsi Ágústssyni var fjárhús frá Stóru-Vogum á þessu svæði en samkvæmt ljósmynd sem tekin er árið 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands voru þarna sjóhús frá Stóru-Vogum.
Dys (legstaður)
Stóru-Vogar 1950.
Í Strönd og Vogar segir: „“Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Hans son var Svertingur, faðir Gríms lögsögumanns á Mosfelli.“ Enginn veit nú, hvar haugur Hrolleifs er. Sumir hafa giskað á, að hann muni vera rétt hjá húsinu, sem nú er í Stóru-Vogum, því að mannsbein hafa fundizt þar í hólbarði. Kålund getur um hauginn í Íslandslýsingu sinni og segir, að á haugnum hafi fyrst verið reist hjáleiga og síðan fjárhús.“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, fundust mannbeinin í fjöru í sniði bæjarhóls að vestanverðu um 15 m vestan við íbúðarhús Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er nú að hálfu rofinn í burtu að vestan vegna ágangs sjávar. Þar er nú brött grýtt brún sem hallar um 30-40° til V.
Stóru-Vogar – skilti.
Ekkert sést til fornleifa í dag. Guðrún sagðist ekki vera viss um það hvort beinin hafi verið rofin úr bæjarhólnum eða hvort um hafi verið að ræða bein óþekkts sjómanns. Samkvæmt Helga Davíðssyni, einum eiganda Ásláksstaða, fundust beinin í sjávarbakkanum skammt norðan við bæjarrústina, á ská út frá tóft útihúsanna. Líklegast er að beinin tengist í raun kirkjugarði hálfkirkju Stóru-Voga sem talið er að hafi verið á jörðinni þó ekki sé hægt að fullyrða það en einnig gæti alveg verið um legstað Hrolleifs að ræða. Snið bæjarhólsins er ógreinilegt vegna jarðvegshruns og rasks vegna byggingar sjávarvarnargarðs, göngustígs og skólabyggingar. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni fundust beinin 5. júní 1976 og voru þau send Þjóðminjasafni Íslands til greiningar og varðveislu.
Móakot (býli)
Móakot – uppdráttur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Móakot hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru þar allir hinir sömu, grasnyt sem því fylgdi brúkar heimabóndinn, og má ekki að skaðlausu án vera.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við Móakot í Vogum. Samkvæmt heimildarmönnum eru þó Móakot inn á Strönd rétt hjá Ásláksstöðum og einnig er hjáleiga frá Kálfatjörn sem kallast Móakot.
Valgarðshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Valgards hjáleiga hefur fimm ár í eyði legið, þar voru kostir allir hinir sömu sem á Tjarnarkoti. Nú brúkar heimabóndinn grasnautnina og kann hennar ei að missa að skaðlausu.“ Prestur telur hjáleigurnar Valgarðskot og Garðhús með 1803. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.
Heimildir:JÁM III, 121; JJ 1847, 89.
Gvendarbrunnur (vatnsból)
Gvendarbrunnur í Vogum.
„Þar skammt frá Veginum er vatnsból er nefndist Gvendarbrunnur eitt þeirra vatnsbóla er vor ágæti Gvendur góði vígði,“ segir í örnefnaskrá. „Milli Leirdals og efstu húsanna er Gvendarbrunnur sem sagður er vígður af Guðmundi góða Arasyni Hólabiskupi. Brunnurinn er lítil hola við klappir oftast með einhverju vatni í,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Gvendarbrunnur er um 10 m austan við íbúðarhús við Hvammsdal 14 og um 450 m suðaustan við Suðurkot.
Brunnurinn er í grasi- og mosagrónu grýttu hrauni. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Skammt fyrir ofan Hvamm er Gvendarbrunnur, vígður af Guðmundi biskupi góða, og er mikilvægt að friðlýsa brunninn, því byggðin er farin að nálgast hann. Brunnurinn er um 260 metrum fyrir ofan gamla þjóðveginn (þeim ökufæra) og nánari staðsetning er sú að húsið í Hvamm skal bera í miðja Ytri-Njarðvík.“
Gvendarbrunnur er egglaga hola austan undir kletti sem Hvammsdalur 14 stendur á. Holan er um 1 m á breidd og um 1,2 m á lengd og um 0,4 m á dýpt. Engar greinilegar hleðslur eru sjáanlegar en holan er þó full af grjóti.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var þarna aldrei eiginlegur brunnur í hennar tíð heldur aðeins hola í hrauninu sem oft var vatn í. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur hefur mjög líklega verið vel nýtanlegt náttúrulegt vatnsból á þessu svæði sem hefur þó þurft að grafa upp úr við og við vegna jarðvegssöfnunar.
Gíslaborg (fjárskýli)
Gíslaborg.
„Rétt heima við Vegamótin er svæði sem nefnist Lægðin. Austar og hærri er fjárborg, nefnist hún Gíslaborg og vestan undir henni lægðir heita Gíslaborgarlágar,“ segir í örnefnaskrá. „Suður undir Vogaafleggjara og suðvestur af Brunnastaðalangholti er Gíslaborg og Gíslaborgarlágar austur og norður af henni. Þarna eru rústir af stórri fjárborg og er mál borgarinnar u.þ.b. 10×7 m og veggþykktin töluverð,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Áður en kemur inn í þéttbýlið Voga er verksmiðjuhúsnæði Norma ehf. við Harunholt austan afleggjarans. Austan við verksmiðjuna, í grónu hrauni, er grjóthlaðin fjárborg og sést hún vel að. Um 1,1 km austur af Stóru-Vogum.
Fjárborgin stendur á dálitlum grónum hól í uppgrónu hrauni.
Gíslaborg.
Fjárborgin er um 10×7 m að utanmáli, en hleðslur eru nokkuð hrundar út og virðist umfang hennar því meira. Hún snýr norður-suður og er op á miðri suðurhlið. Borgin er öll grjóthlaðin, en í norðurhluta hennar virðist torfi eða jarðvegi vera hlaðið með utanverðum veggjum. Að innan er borgin einnig niðurgrafin í norðurhluta og er þykkt veggja þar allt að 2,5 m, en annars um 1 m. Engu síður hallar fletinum nokkuð til suðurs innan tóftarinnar. Grjót í hleðslum er nokkuð stórt, hleðslur grónar og hæð þeirra um 1,2 m. Innan tóftarinnar má greina 6 lítil aðskilin hólf, öll aðgreind með einföldum grjóthleðslum. Talsvert hefur hrunið úr hleðslum innan tóftarinnar og er mögulegt að hólfin hafi verið fleiri.
Þórusel (sel)
Selhólar – Þórusel.
„Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur.“ segir í örnefnaskrá „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan Reykjanesbrautar og rétt austan vogaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Eins og sést af ofangreindum frásögnum ber mönnum ekki saman um hvar Þórusel hafi verið. „Vogamenn“ segja það norðan Reykjanesbrautar og austan Vogaafleggjara. Þar er gróið hraun og enginn staður sérstaklega vænlegur fyrir sel, eins og umhverfið er nú.
Þórusel – heimasel.
Beint sunnan gatnamóta Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara er grasi gróinn blettur sem að nokkru hefur verið raskað. Er þetta sá staður sem margir telja að selið hafi verið. Engar leifar um selið er nú að sjá á þessum stað en þar er mjög grösugt og þýft. Svæðið er um 30 m sunnan (ofan) við Reykjanesbraut og um 1,8 km suðaustan við bæ og kemur til með að hverfa undir mislæg gatnamót.
Gróinn grasblettur upp af Reykjanesbraut. Umhverfis eru mosavaxin hraun.
Veturinn 2006-2007 voru ráðgerðar framkvæmdir á þessum slóðum og tóku þá vinnuvélar prufuskurð á svæðinu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur vaktaði. Ekki komu í ljós neinar mannvistarleifar á þessum slóðum, en það segir þó lítið um að Þórusel hafi verið á þessum stað. Að teknu tilliti til nálægðar við bæi hefur Þórusel að öllum líkindum verið heimasel. Í slíkum seljum voru ekki önnur mannvirki en stakur stekkur.
Snorrastaðasel (sel)
Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.
„Við Nyrstu-Vatnsgjá mótar fyrir Snorrastaðaseli,“ segir í örnefnaskrá, en heimildir herma að á þessum slóðum hafi verið býlið Snorrastaðir þótt staðsetning þess sé nú týnd. „Þrjár kofatóftir eru á nyrðri bakka neðstu og stærstu tjarnarinnar. Ein heimild segir að þarna hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Þetta er annað af tveimur selstæðum í hreppnum sem eru svo nálægt byggð og má ætla að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustursuðvestur. Tóftir Snorrastaðasels eru við nyrðri bakka nyrstu tjarnarinnar, en göngustígur liggur fram á bakkann við tóftirnar frá bílastæði við Háabjalla. Selið er um 2,9 km SSV af Stóru-Vogum.
Tóftirnar eru sunnanundir hálfgróinni hrauntungu, á dálitlu grónu nesi um 5 m frá vatnsbakkanum. Handan tjarnarinnar stendur skáli Skátafélagsins Heiðarbúa í Keflavík. Á þessum stað eru tvær tóftir á svæði sem er um 22×5 m að stærð og snýr norður-suður meðfram vatnsbakkanum.
Nýjasel (sel)
Nýjasel.
„Austur frá Vatnsgjánum er grágrýtisholt er nefnist Nielsarbjalli að því er sumir segja, en líklega er hér um mismæli að ræða. Nýjaselsbjalli mun hann heita og þar er Nýjasel,“
segir í örnefnaskrá. „Út frá tveimur efstu tjörnunum til norðausturs er Nýjaselsbjalli eða Níelsarbjalli. Ballinn er nokkuð langt grágrýtisholt sem sker sig dálítið úr umhverfinu.
Hann líkist ekki hinum bjöllunum því þeir eru allir með nokkuð brattri hlíð sem snýr í suðaustur en Nýjaselsbjalli er frekar holt en hjalli. […] en Nýjaselsbjalli mun hann heita og dregur nafn sitt af litlu seli sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. […] Undir bjallanum eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Nýjasel.
Nýjasel er um 1,1 km norðaustur af Snorrastaðaseli, norðanundir gjávegg skammt norður af Skógfellavegi sem er stikuð og vörðuð leið um hraunið. Selið er um 2,5 km suður af Stóru-Vogum.
Selrústirnar eru fast undir gjáveggnum, sem er þarna um 3 m hár. Meðfram veggnum er dálítil skjólsæl og gróin lægð en allt umhverfis er gróið hraun.
Á heimasíðu Ferlis segir: „Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.“ Selrústirnar dreifast á svæði sem er um 34×14 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu eru þrjár tóftir og auk þess tveir skútar. Hér á eftir verður hverju þessara mannvirkja lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Stærsta og umfangsmesta tóftin (A) er á miðju svæðinu. Hún er um 11×8 m að stærð, snýr austur-vestur og greinist í 6 hólf. Megininngangur er á miðri norðurhlið tóftarinnar og er þaðan gengt í öll hólf að einu undanskildu. Komið er inn í hólf 1 sem er um 2×2 m að innanmáli.
Úr því er op til vesturs inn í hólf 2 sem er um 1×1,5 m að innanmáli. Í því er talsvert af grjóthruni gróið í svörðinn. Mögulega hefur verið annar inngangur í þetta hólf á norðurhlið, en hann er fallinn saman.
Pétursborg (fjárskýli)
Pétursborg.
„Þar rétt við Veginn á Barminum er Huldugjárvarða. Þar er fjárborg hlaðin af Pétri nokkrum föður Benedikts í Suðurkoti, föður Jóns, er þar býr núna, heitir Pétursborg,“ segir í örnefnaskrá. Pétursborg stendur hátt, á barmi Huldugjár, og sést langt að. Hún er um 700 m norðaustur af Nýjaseli og um 1,6 km austur af Snorrastaðaseli. Hún er um 2,9 km SSA af Stóru-Vogum.
Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.
Gjáveggur Huldugjár er allhár og er gróið undir honum. Uppi á barminum þar sem borgin stendur eru hins vegar berar hraunklappir og hrjóstrugt. Á barmi gjárinnar er fjárborg ásamt tveimur grónum tóftum á svæði sem er um 36×16 m og snýr N-S. Fjárborgin er sporöskulaga, um 7×5 m að utanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Hleðslur eru úr grjóti, um 0,5 m á breidd og allt að 1,8 m á hæð í suðurhluta. Þar eru umför allt að 12.
Austurhluti borgarinnar er hinsvegar að mestu fallinn. Op er á suðausturhlið borgarinnar og liggur dyrahella yfir því. Hæð undir henni er um 1 m. Á gróinni spildu austan við borgina eru tvær tóftir.
Hólssel (sel)
Hólssel.
„Norður og upp frá borginni [Pétursborg] er Hólssel […],“ segir í örnefnaskrá. „Norðaustur og upp frá Pétursborg en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegnum einn hólinn. Rústirnar eru ekki dæmigerðar selrústir en þó má ekki útiloka að þarna hafi einhvern tímann verið haft í seli,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Hólssel er beint í austur frá þéttbýlinu í Vogum og sér vel í það úr selinu.
Það er um 1 km norðaustur af Pétursborg, um 2,66 km austnorðaustur af Snorrastaðaseli og um 3,1 km SA af Stóru-Vogum. Rústirnar eru í gróinni lægð á milli tveggja allhárra og sprunginna hraunhóla. Austan og vestan við þær er hálfgróinn melur en fleiri hraunhólar til suðurs og norðurs. Svæðið allt er um 26×26 m stórt og eru rústirnar á tveimur stöðum. Annars vegar eru þær í lægðinni á milli hraunhólanna og hins vegar eru hleðslur í sprungunni á nyrðri hólnum.
Arahnúkssel (sel)
Arahnúkasel.
„Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel,“ segir í örnefnaskrá. „Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel frá Vogum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Aragjáin er stór og mikil og rís gjárveggurinn hátt og sést langt að. Á barmi gjárinnar er Aragjárvarða, afar greinileg, og þar aðeins norðar undir gjárveggnum eru seltóftir. Þær eru um 750 m suður af Hólsseli 075 og um 1,2 km austur af Pétursborg 074, en um 3,9 km suðaustur af Stóru-Vogum. Í grónum skjólsælum slakka undir gjáveggnum. Til norðurs og vesturs eru mosagrónar hraunbreiður.
Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um selstöðuna, en það kom fyrir að þær væru færðar neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Af þessu má ætla að Arahnúkssel hafi byggst eftir árið 1703 enda höfðu Vogamenn sel í Vogaholti það ár.
Arahnúkasel – stekkur.
Selstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar sjáum við margar kofatóftir ásamt kví. Sagt er að seltúnið hafi síðast verið slegið árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið svo líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir, eins gæti verið að vatn hafi verið í gjánni. Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnslaupur og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Gjáin nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá […] þegar komið er austar í heiðina.“ Á svæði sem er um 100×20 m og liggur norðaustur-suðvestur með gjánni eru 7 tóftir (en líklega hefur verið átt við hólf en ekki kofa í tilvitnuninni hér að framan). Mannvirkjunum verður nú öllum lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Vogaselið (sel)
Vogasel eldri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt […]. “ „Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og
ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel. Enn austar er svo Vogaselið gamla,“ segir í örnefnaskrá. Vogaselið gamla er um 155 m norðan við sel 084 og um 5,9 km suðaustan við Stóru-Voga.
Suðaustast í breiðum dal er grasi gróin hæð áður en farið er til suðurs upp brekku að yngri seltóftum og í þessari hæð er ógreinileg seltóft. Uppblásið er norðaustan við tóftina og norðan við tóftina eru hraunbreiður, mosavaxnar.
Vogasel eldri.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Gömlu Vogasel eru greinilega mjög gömul. Þau liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu […]. Mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar. Jarðvegseyðing hefur náð upp að torfu þeirri, sem selin eru á. Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. 2-3 ógreinilegar tóftir eru á svæði sem er um 40 x 12 m og snýr austur-vestur.
Í ritgerð ÓSÁ um sel á Reykjanesskaga segir: „Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, tvískipt, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóftirnar er stekkur á bersvæði. Veggir eru heillegir en grónir.“ Seltóftir eru um 155 m sunnan við Vogaselið gamla og um 6 km í suðaustur frá Stóru-Vogum.
Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki eru aðrar heimildir um örnefnið Vogasel yngri og kannaðist Sesselja Guðmundsdóttir ekki við það. Hún telur að örnefnið Vogaselið gamla, Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel eigi við um sel og þær tóftir sem hér eru skráðar.
Fjórir hólar eru í brekku sem liggur til suðausturs upp úr víðum dal. Seltóftir eru við þrjá efstu hólana og stekkjartóft og lítil grjóthlaðin tóft eru á grösugum en grýttum bletti þar austan við.
Minjasvæðið er í heild um 46 x 68 m og snýr norðaustursuðvestur. Á þessu svæði eru samtals 5 tóftir.
Halakot (býli)
Halakot – bæjarstæði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Halakot hefur í eyði legið fimm ár, þar voru allir kostir hinir sömu sem á hinum og brúkar heimabóndinn grasnytina og getur ekki burt leigt að skaðlausu.“
Staðsetning Halakots er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við að bær að nafni Halakot hafi staðið í Vogunum. Heimildarmenn könnuðust aðeins vð Halakot í Brunnastaðahverfi en Magnús Ágústsson er sjálfur þaðan.
Garðbær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Garðbær var aflagður fyrir 1920. Var það hús á milli Brekku og Suðurkots og þá í Stóra-Vogalandi og Suðurkotslandi, eins og Bræðrapartur var lengi vel.“ Þar er nú Brekkugata 7 um 80 m suðaustan við Suðurkot og um 50 m ANA við Bræðrapart. Á þessu svæði er íbúðarhús og slétt graslóð við Brekkugötu 7.
Ekkert sést til fornleifa.
Syðsta hjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Sidsta hjáleiga, þriðja. Jarðardýrleiki er óviss.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og Guðrún L. Magnúsdóttir, heimildarmaður, kannaðist ekki við nafnið. Hugsanlegt er að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað og Suðurkot er nú en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L.Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið. Hugsanlegt er að um sé að ræða Suðurkot en engar heimildir hafa fundist sem styðja þá hugmynd.
Dailey Camp (herminjar)
Daily Camp – minjar.
„Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Daily camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Daily Camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Daily Camp var á sléttu svæði norðan Reykjanesbrautar og að
Kálgarðsbjalla. Á þessum slóðum liggur nú vegarslóði upp að Grímshól. Á þessum stað er mikið sléttlendi. Svæðið er vaxið mosa og grasi. Vestan slóðans er sérstaklega slétt.
Ekki sáust skýr ummerki um hverfið á vettvangi en samkvæmt heimildarmanni, Viktori Guðmundssyni, eru sökklar og aðrar minjar auk frárennslislagna á svæðinu.
Grímshóll (þjóðsaga)
Á Grímshól.
Grímshóll er hæsti punktur Vogastapa. Á honum er hringsjá og útsýnisstaður. Við hringsjána, á kolli hólsins, er grjóthleðsla. Hóllinn er 2,2 km suðvestur af bæ.
Þjóðsaga tengist hólnum og er hún á þessa leið: „[…] En einu sinni bar svo við að unglingsmaður nokkur, Grímur að nafni, ætlaði suður í Leiru til útróðra. Grímur var fyrirvinna hjá móður sinni, en faðir hans var dáinn. Grímur fór nú með öðrum Rangvellingum suður, en er þeir komu suður undir Vogastapa bar svo við sem oft má verða að reiðgjörð slitnaði á hesti Gríms svo hann varð að staldra við til að bæta gjörðina. […] En er Grímur var einn orðinn kom að honum maður einn. Sá maður falar Grím til að róa hjá sér um vertíðina, en Grímur skorast undan og kveðst vera ráðinn hjá manni í Leirunni […] Og hvernig sem þeim hafa nú farizt orð í milli þá fór Grímur með hinum ókunna manni.“ Grímur aflar vel hjá ókunna manninum og fer heim með miklar birgðir til móður sinnar. Hann segir engum af viðskiptum sínum við ókunna manninn nema móður sinni og er nokkrar vertíðir hjá honum. Maðurinn býður Grími að koma til sín þegar móðir hans væri önduð og eiga dóttur sína. Grímur þiggur boð mannsins og heldur suður eftir andlát móður sinnar “ […] en engi vissi upp á víst hvert hann fór nema hvað samferðamenn hans komust næst að hann mundi hafa farið að hól þeim sem er á Vogastapa fyrir ofan Reiðskarð. Hóll þessi er æði stór með vörðu á og er hann kallaður Grímshóll síðan. Aldrei varð neitt vart við Grím eftir þetta hvorki á Rangárvöllum né í veiðistöðvum.“
Hóllinn er gróinn í kollinn en annars blásinn og grýttur eins og umhverfið. Þó eru umhverfis hann miklar lúpínubreiður. Sunnan hólsins liggur Stapagata í austur-vestur.
Umhverfis hringsjána er hlaðinn hringur eða stallur úr grjóti og steypu. Fast sunnan við stallinn er gróin hvilft og grjóthleðsla með börmum hennar. Hvilftin er skálarlaga og lækkar inna að miðju. Hún er um 3 m í þvermál og myndar hleðslan hring með börmum hennar. Þar standa mest 2 umför en hleðsluhæð er um 0,4 m í norðurhlið. Á lítilli klöpp í hlíð hólsins, sunnan við hvilftina, eru einnig þrjár lítilfjörlegar grjóthrúgur. Þær liggja í röð í austur-vestur og eru hver um sig varla meira en 0,5 m í þvermál. Sunnan undir hólnum eru svo tveir grjótruðningar. Sá eystri er um 10 m langur og liggur norðvestur-suðaustur. Hann virðist niðurgrafinn að hluta. Vestari ruðningurinn liggur á yfirborði og er um 3,5 m langur í norður-suður. Hæð ruðninganna er um 0,3 m. Tilgangur mannvirkjanna er óþekktur en nokkuð er af járn- og spýtnabraki á og við hólinn.
Jónasarvarða (legstaður)
„Á Holtsgjábarmi er Varðan, Jónasarvarða og er við Jónasarsprungu. Þá eru ýmsir sem nefna hér Jóhannesarvörðu og Jóhannesarsprungu […],“ segir í örnefnaskrá. Varðan stendur á klettanibbu suðaustan í krosssprungnum hraunhól og sést langt að. Hún er um 5 km SA af Stóru-Vogum. Austan við hólinn er slakki fram á gjávegginn sem liggur norðaustur-suðvestur um 100 m austan við vörðuna. Varðan er reisuleg, um 1,3 m á hæð, 0,8×0,8 m að ummáli og köntuð. Hún er hlaðin úr fremur stóru hraungrjóti og er hleðslan um 6 umför. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, á varðan að vera hlaðin á þeim stað sem maður, líklega að nafni Jón eða Jónas, varð úti.
Kálffell (fjárskýli)
Kálffell – fjárskjól.
„Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925),“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell eða gígur, sem þó rís nokkuð upp úr umhverfinu og er eina fellið á þessum slóðum vestan fjallgarðsins. Austan við hæsta punkt fellsins, norðaustan í hlíðum þess, eru tvö fjárskýli í hellisskútum, en vörslugarður í gígnum. Rústirnar eru tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum.
Í mosagróinni hraungrýtishlíð, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
„Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Fjárskýlin tvö eru í lágum hraunhellum sem hlaðið hefur verði að og fyrir til þess að mynda skjól, en svæðið er um 15×15 m. Nyrðri skútinn er um 4 m djúpur og 10 m breiður og snýr austur-vestur. Lofthæð er mest um 1 m, en lækkar mjög frá miðju. Hlaðið hefur verið að munnanum og hraunhellur reistar upp á rönd til þess að loka honum fyrir veðri og vindum. Ein hella stendur en a.m.k. tvær eru fallnar. Austast við munnann er grjóthlaðinn rani sem myndar op inn í skútann, en gengið er inn í hann til norðurs. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og tvö umför.
Fjárskjól í Kálffelli.
Um 7 m sunnan við skútann er annar hraunskúti. Hann er um 5 m djúpur og um 15 m breiður og snýr norður-suður. Lofthæð er um 1 m en lækkar mjög frá miðju. Gengið er inn í skútann til austurs og er grjóthlaðinn rani að opinu. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og 3 umför. Næst munnanum liggur hraunhella þvert yfir ranann og myndar þak. Fleiri skútar eru á svæðinu umhverfis en á þeim eru engin mannaverk.
Um 140 m vestur af fjárskýlunum, ofan í gígnum í Kálffellinu, er grjóthlaðinn vörslugarður. Hleðslan er úr stóru hraungrýti og liggur í vinkil með horn í suðvestur og myndar þannig gerði við gígbarminn. Vesturhliðin er um 12 m löng, en suðurhliðin um 10 m löng. Umför eru allt að fjögur en hleðslan er sigin og hrunin út á köflum. Hæð hennar er mest um 0,8 m. Minjarnar lenda lítillega utan við landamerki sem fengin voru hjá sveitarfélaginu en þær eru engu að síður skráðar með Stóru-Vogum þar sem þær eru í tengslum við Oddshelli sem er skammt frá og möguleiki er á því að landamerkin séu ekki eins nákvæm uppi í heiðinni og niðri við byggðina.
Oddshellir (hellir/smalakofi)
Oddshellir.
„Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). […] Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhóli rétt sunnan við gígskálina,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell, eða öllu heldur gígur, í hrauninu um 3 km suður af Arahnjúksseli. Oddshellir er í suðausturhlíð fellsins, fast sunnan við gígbrúnina. Hellirinn er tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum. Í hálfgróinni hlíð fellsins, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
„Hóllin dregur nafn af lögun hellisins og eða „dyrum“ hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan „dyranna“. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkima,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Erfitt er að finna hellinn þar sem opið er ofan á hólnum og því lítt áberandi fyrr en komið er alveg að því. Hóllin sjálfur, gróinn hraunhóll, er hins vegar áberandi. Op hellisins er um 1×1,5 m að stærð og er hellirinn nokkuð rúmur. Ekki var farið ofan í hann við skráninguna. Hellirinn lendir utan við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu en hann er talinn með í örnefnaskrá Voga og tilheyrir að öllum líkindum StóruVogum og er því skráður innan þeirrar jarðar.
Eyrarkot (býli)
Hjáleiga Stóru Voga 1703 (JÁM III, 123). „Eyrarkot var á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar …“ Fór í eyði um 1922 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 103).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Stóru-Vogum: „Eirarkot, fyrsta hjáleiga.“ Í Manntali frá 1801 er einnig minnst á hjáleiguna Eyrarkot undir Stóru-Vogum. Í örnefnaskrá segir svo: „Í norður frá Stóru-Vogabakka er Eyrarkotsbakki, þar stóð Eyrarkot í Eyrarkotstúni og þar niður undan var Eyrarkotsvöru.“ Á túnakorti frá því um árið 1919 stendur: „Eyrarkot, þ.búð, færð nýl. á lágan bakka, er brotnar garðlag lágt og kg. framanvið“. Í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Eyrarkot (horfið). Eyrarkot á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar, eða þar sem nú er syðsti hluti af fiskhúsi Valdimars hf. […] sem var timburhús að mestu, […]. Eyrarkot fór í eyði um 1922.“ Samkvæmt túnakorti var Eyrarkot á svæði um 320 m NV við Stóru-Voga og um 250 m VNV við Tjarnarkot á svæði 50-80 m V-VSV við Vogatjörn. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktors Guðmundssonar er nákvæm staðsetning Eyrakots undir suðurhorni fiskverkunarhúss Þorbjarnar Fiskanes. Á svæðinu eru bárujárnsklædd og steinsteypt iðnaðarhúsnæði og malbikað plan.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, voru tættur á þessu svæði áður en iðnaðarhúsnæði voru reist vestan við Vogatjörn. Ekkert sést til fornleifa.
Tumakot (býli)
Tumakot.
Hjáleiga Stóru-Voga 1847. Brann 26. ágúst 1960 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 61-62). Túnakort 1919: Tún 0,6 teigar, garðar 620 m2.
„Þá var Tumakot í Tumakotstúni […],“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir svo: „Tumakot (brann 26. ágúst 1960). […] Eyjólfur Pétursson endurbyggði Tumakot um 1910. Þótti húsið reisulegt á þeim tíma. Einnig byggði hann upp öll útihúsin.“ Samkvæmt Guðmundi var einnig búið í Tumakoti fyrir 1910. Grjóthlaðinn grunnur Tumakots er 6-8 m vestan við íbúðarhús við Akurgerði 8 og um 55 m suðaustur við Stóru-Voga.
Norðan og vestan við grunninn er slétt graslendi. Austan og suðaustan við hann er um 3 m hár jarðvegshaugur úr grunni íbúðarhússins við Akurgerði 8.
Grasigróinn og grjóthlaðinn grunnur húss sem samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttir var bárujárnsklætt timburhúss. Grunnurinn er niðurgrafinn um 0,8-1 m og eru um 5 umför sjáanleg. Grunnurinn er um 6 m á lengd og um 5 m á breidd að innanmáli. Mikið af grjóthruni er í honum. Grjótveggir grunnsins eru um 1 m á breidd og eru þeir hlaðnir úr hraungrýti. Því er flatarmál grunnsins um 8 m á lengd og 7 m á breidd. Samkvæmt ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki og líkani Guðmunda M. Jónssonar af Vogum árið 1930 var inngangur í húsið á vesturhlið um 1 m norðan við suðvesturhorn hússins. Þar er um 0,4 m hátt grjóthlaðið þrep með steypuhúð ofaná sem trúlega hefur verið hluti af forstofunni. Á ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki sést greinilega að húsið var á 2 hæðum, jarðhæð og ris, byggt úr timbri og klætt bárujárni. Ómanngengur kjallari var undir húsinu og gluggar á grunni hússins.
Suðurkot (býli)
Suðurkot.
Hjáleiga Stóru Voga 1847 samkvæmt Jarðabók Johnsens. Túnakort 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 1180m2.
„Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni,“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Eftir aldarmótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur.“ Tóft Suðurkots er um 310 m sunnan við Stóru-Voga og um 180 m SSV við Nýjabæ. Tóftin er á milli suðurenda malbikaðrar götu sem kallast Akurgerði og malbikaðs göngustígs og íbúðarhúss við Brekkugötu 3.
Bæjarhóll er ekki greinanlegur lengur þar sem búið er að umturna öllu svæðinu í kring um bæjartóftina vegna byggingavinnu, vegagerðar og göngustíga en þó er ekki ólíklegt að einhverjar leifar finnist undir sverði á svæðinu.
Tóft bæjarins er vel grasigróin, um 18 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr VNV-ASA. Veggir tóftarinnar eru mjög rofnir og hleðslur þeirra signar en þeir eru hlaðnir úr torfi og grjóti. Veggir sem ennþá standa eru um 1-2,5 m á breidd og um 0,4-1,4 m á hæð. Óljóst er hvar inngangar voru í tóftina en gengið hefur verið inn á N- eða S-hlið hennar. Hólf innan tóftarinnar eru óljós og er hvorki hægt að segja til um það hversu stór þau voru né hvernig þau lágu. Á túnakorti sést að á bæjarhólnum hefur einnig mjög líklega verið niðurgrafin þró fyrir mykju og annan úrgang líkt og þrær sem skráðar voru heima við bæ í Austurkoti en ekkert sést til slíks mannvirkis.
Hof (örnefni)
Hof.
„Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni. Þar er hóll í túninu [er] nefnist Suðurkotshóll eða Hof. Á þeim hól eru þau álög,að ekki má slá hann eða hreifa við honum á nokkurn hátt.“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir: „Hof var byggt um 1945, þá sem sumarbústaður, […]. Hof er í landi Suðurkots. […] stendur á hól er Hofhóll heitir og réði það nafninu á húsi og götu.“ Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildarmanni, eru Hofhóll og Suðurkotshóll ekki sami hóllinn líkt og segir í örnefnaskrá.
Hof/Hofhóll er um 260 m suðaustan við Stóru-Voga og um 160 m NA við Suðurkot. Stórt steinsteypt íbúðarhús, Hofgerði 6, er austan í hólnum. Hóllinn er aflangur, vel grasigróinn og sést greinilega enn. Hann er ávalur, 2-4 m á hæð, um 50 m á breidd og snýr N-S. Óljóst er hversu langur hann er vegna íbúðarhúsa í kring en er hann a.m.k. um 50 m á lengd. Ekkert sést til fornleifa.
Klöpp (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Klöpp var þar sem nú stendur Suðurkot (Suðurgata 2) og var timburhús. Minnist ég þess að hafa séð það í barnæsku sem útihús eða geymslu, annað hvort var það tjöruborið eða tjörupappaklætt og svart á að líta. […] Klöpp lagðist undir Suðurkot og var rifið þegar núverandi hús þar var byggt.“ Í byggð rétt eftir aldamótin. Klöpp var um 80 m austan við Suðurkot.
Á þessu svæði er nú íbúðarhús og sléttuð grasflöt við Suðurgötu 2. Ekkert sést til fornleifa. Hugsanlegt er að Klöpp sé hús 012 sem sýnt er á túnakorti frá árinu 1919 en ekki er hægt að sýna fram á það með neinni vissu.
Tjarnarkot (býli)
Hjáleiga Stóru-Voga árið 1703, þá í eyði en í byggð árið 1847 (skv. Jarðabók Árna og Páls og síðan Jarðatali Johnsens). Tjarnarkot var byggt upp um 1880 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 75).
Túnakort 1919: Tún 0,11 teigar, garðar 620 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Tiarnarkot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið fjögur ár. […] Nú er grasnaut lögð til heimabóndans, og kann ekki hjáleigan aftur að byggjast án heimabóndans skaða.“ Í örnefnaskrá segir: „Tjarnarkot stóð í Tjarnarkotstúni niðurundan er Tjarnarkotsklöpp og rétt við hana Eyrarkotsvör, Tjarnarkotsvör [,] Hábæjarvör og vörin Fúla eða Fúlavik en þarna safnaðist mikið þang og þari og fúlnaði.“ Í bókinni Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: Tjarnarkot var byggt upp um 1880 af Magnúsi J.Waage, (yngri). Var það talið gott timburhús og stóð í landi Stóru-Voga austan við Vogatjörn, nálægt tjarnarbakkanum. [Eftir að flutt var úr] Tjarnarkoti var það ábúendalaust en notað sem danshús á vetrarvertíðinni árið 1904, […].“ Tjarnarkot er um 200 m norðan við Tumakot og um 160 m norðan við Stóru-Voga.
Tóft Tjarnarkots er í þýfðu graslendi á suðausturbakka Vogatjarnar. Um 8 m austan við tóftina er svo malbikaður göngustígur.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Tjarnarkot aðeins tóftir er hún settist að í Vogum árið 1942. Á svæðinu er einföld tóft og mjög óskýrt garðlag utan um kálgarð. Tóftin er um 11 m á lengd, um 9 m á breidd og snýr N-S. Trúlega er tóftin aðeins leifar af niðurgröfnum grjóthlöðnum grunni timburhússins en tóftin er mjög grasigróin svo lítið sem ekkert sést í grjóthleðslur. Tóftin er ferköntuð og eru veggir grunnsins nú um 2-4 m á breidd og um 0,4-1 m á hæð. Innanmál tóftar er um 5 m á lengd og 4 m á breidd.
Minni Vogar (býli)
Minni-Vogar.
Jarðardýrleiki óviss 1703. Konungseign. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Hjáleigur í eyði 1703: Eyrarkot og Hólshjáleiga ásamt tómthúsinu Renslutóft. (JÁM III, 123). Norðurkot hjáleiga í byggð 1847. Óljósar sagnir eru um býli nefnt Hólkot en engar upplýsingar hafa varðveist um það.
Mýrarhús, Austurkot, Helgabær, Mörk og Grænaborg voru afbýli sem byggðust í landi Minni-Voga eftir 1847. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónsson um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi 1703: „Túnin brýtur sjór og skemmir sandur árlega. Engjar eru öngvar. Hagar og útigángur litlir sumar og vetur.“
(JÁM III, 123). Túnakort 1919: Tún 3,4 teigar, garðar 2480m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Minne Vogar. Jarðardýrleiki óviss.“ Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Minni-Vogar (Egilsgata 8). […] Klemens [Egilsson] lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, […]. Húsið var byggt sem tvíbýli og var gert ráð fyrir að tveir synir Klemensar, Þórður og Sæmundur byggju í sitthvorum enda hússins.“ Minni-Vogar eru um 370 m norðan við Stóru-Voga og um 230 m austan við Norðurkot við miðja Egilsgötu vestanverða. Á bæjarhólnum stendur íbúðarhúsið sem byggt var upp árið 1922.
Íbúðarhúsið snýr A-V, er með bárujárnsklætt þak, plastklætt að utan og með steinsteyptum og grjóthlöðnum kjallara.
Steinsteypt viðbygging hefur verið byggð við timburhúsið að vestan. Húsið er á þremur hæðum, kjallara, jarðhæð og risi. Gengið er inn að norðan. Mjög líklegt er að áður en timburhús var byggt að MinniVogum hafi staðið þar grjót- og torfhlaðinn bær. Útlínur bæjarhóls eru orðnar mjög óskýrar vegna vegagerðar og nýlegra bygginga í kringum bæinn en vestan og norðvestan við hús er grasigróin brekka sem hallar um 5° í V um 20 m út frá bæ sem gefur til kynna að húsið standi á hól. Ólíklegt er þó að mikið af óhreifðum fornleifum finnist í bæjarhólnum. Á ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands sést eldra timburhúsið og viðbyggingin sem áður var fast norðan við það. Gamla timburhúsið var á þremur hæðum, byggt úr timbri og með bárujárnsþaki. Þar sést einnig að veggir viðbyggingarinnar hafa trúlega verið hlaðnir úr grjóti á meðan þakið var timburbyggt. Skorsteinn í þaki gæti gefið til kynna að í húsinu hafi hugsanlega verið hlóðaeldhús líkt og í Austurkoti.
Mýrarhús (bústaður)
„Frá Eystraskarðshorni liggur Grjótgarður í norður meðfram Mýrinni skammt fyrir norðan Mýrarhúsatóftir og beygir garður þar til suð-austurs og liggur alla leið að mörkum Austurkots og Minni-Voga…“ segir í örnefnaskrá. Í henni segir ennfremur: „Mýrarhús þar er búið nú, þurabúð.“ Mýrarhúsa er einnig getið í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar segir „Mýrarhús er norður af Minni-Vogum á landi þeirra. Húsið byggði Hinrik A. Hansen árið 1885.“
Mýrarhús voru m 90 metra suður af meintri verbúð. Þau eru á mörkum deiliskráningarreits sem nú er skipulagður, á milli nyrstu húsa við Marargötu eða rétt norður af þeim. Grjótgarðurinn sem nefndur er í lýsingunni sést enn að hluta til norðaustan byggðarinnar Í Vogum en hverfur beint norður af nyrstu húsum við Marargötu. Á þessu svæði eru nú hús og garðar og engin merki um Mýrarhús eru sjáanleg.
Helgabær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Helgabær var um 100 metra í norðaustur frá Minni-Vogum, í landi þeirra. Bærinn var jarðlaus og því aðeins stunduð þar sjómennska […].“Á þessu svæði eru nú íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Ekkert sést til fornleifa.
Mörk (býli)
„Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […] Mörk þurrabúð, nú í eyði. […] Frá Minni-Vogum liggur Merkurgata, að Mörk, en kringum þá þurrabúð var Merkurflöt.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Mörk (horfin). Mörk var byggð í MinniVogalandi, milli Minni-Voga og Norðurkots. […] Þar bjuggu hjónin Skúli Magnússon f. 1844 og kona hans Elín Bjarnadóttir f. 1859. Skúli í Mörk var af Austurkotsættinni og fékk hann að byggja í sameignartúni Minni -Voga og Austurkots. Hann byggði bæinn úr timbri og var það sjaldgæft á þeim tíma […] Mörk hafði einnig nafnið Tómásarkot [svo].“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Mörk um 80 m ASA við Norðurkot og um 150 m vestan við Minni-Voga.
Á þessu svæði er sléttað graslendi, malbikaður göngustígur og íbúðarhús við Hólagötu 1e. Ekkert sést til fornleifa.
Hólkot (býli)
„Grænaborg var byggð árið 1881 á landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. … Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Grunar mig að Ari, sem þekkti þessa sögu, hafi flutt til hússtæðið, enda
nefnir hann það ekki Hólkot, heldur Grænuborg,“ segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi. Ekki ljóst hvort þetta er á svipuðum stað og byggingar skráðar innan túnstæðis Grænuborgar en hér er gengið út frá því að svo sé.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn í Grænuborg. Nokkuð hraun og grjót í túninu.
Grænaborg (býli)
Grænaborg.
„Ennfremur fylgir Austurkoti og Minni-Vogum eyðibýlið Grænaborg umgirt grjótgörðum.“ segir í örnefnaskrá. Þar segir ennfremur: „Og svo er Grænaborg, þar býr Baldvin Oddsson.““Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við Kampinn Grænuborgarstígur allt heim í Vesturhlið á Grænuborgar túngarði, sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á Bæjarhólnum … Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. … Sjávargatan liggur heiman að niður á Kampinn, en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. … Þar sem Sjóvarnargarðurinn og Suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshlið Eystra.“ Bæjarhóllinn í Grænaborg er um 650 m norður af Austurkoti.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru nokkrar í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn. Nokkuð hraun og grjót í túninu.
„Ari lét byggja húsið úr hlöðnu grjóti og bundnu sem sementsteypu. … stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann vorið 1883 þá tveggja ára gamalt … Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1916, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í StóraKnarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg … Hann byggði upp húsið, fór í útgerð og tapaði öllu sínu og flutti eftir það að Stóra-Knarrarnesi 2. Eftir nokkur ár, eða um 1922, fluttu að Grænuborg fjölskylda frá Eyrarkoti, sem áður er sagt frá … Vormur lét endurbæta Grænuborg árið 1932 …. ,“ segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Dys (legstaður)
Dys.
Um 60 m norðvestur af norðurenda garðlags eru tvær grjóthrúgur. Ekki tókst að afla upplýsinga um hlutverk þeirra en mögulegt er að hrúgurnar séu aðeins upphleðslur af eldra hleðslugrjóti. Grjóthrúgurnar eru á nokkuð sléttum grasbala, hraun gægist þar uppúr sverði. Syðri hrúgan er um 2 m á hæð og 2 m að þvermáli. Nokkur mosi er á steinunum en þetta þurfa þó ekki að vera gömul mannvirki. Um 1 m er á milli grjóthrúgnanna. Nyrðri hrúgan er minni, aðeins 1,2 m á hæð og um 1,5 m að þvermáli.
Grænuborgarrétt (rétt)
Grænaborgarrétt.
„Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs [Grænaborg] var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.“ segir í örnefnaskrá.
Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum. Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. Op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Austurkot (býli)
Austurkot.
„Austurkot sem enn er í byggð.“ segir í örnefnaskrá. Austurkot er í dag við Egilsgötu 11 um 70 m sunnan við Minni-Voga og um 315 m NNA við Stóru-Voga. Norðan við Austurkot er malbikuð heimreið, að vestan er malbikuð Egilsgata, að sunnan er íbúðarhús við Egilsgötu 9 og að austan er Egilsgata 11b sem deilir heimkeyrslu með Austurkoti. Inn á túnakort frá árinu 1919 eru færðar eftirfarandi upplýsingar: Tún 1,64 teigar, garðar 1700 m2. Austurkot er bárujárnsklætt timburhús sem byggt var 1911. Húsið er á þremur hæðum, kjallari, jarðhæð og ris undir burst. Húsið snýr N-S og gengið er inn í hús að austan og í steinsteyptan kjallarann að vestan. Þetta hús er á mörkunum að vera löggild fornleif en ákveðið var að skrá hana samt lauslega.
Samkvæmt Ásu Árnadóttur, heimildarmanni, var annað eldra íbúðarhús í Austurkoti á svæði um 50 m SA við núverandi íbúðarhús. Ekki er minnst á bæinn Austurkot í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því um 1703 en hjáleigan Austurkot er skráð í Manntali fyrir Suðuramt árið 1801. Trúlega er þar um að ræða eldri bæinn í Austurkoti. Á þessum stað er sléttuð grasflöt í garði Austurkots og Egilsgötu 13 vestur undir Arahóli.
Ekkert sést til fornleifar.
Hólshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólshjáleiga hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru sömu sem á hinni. Nú hafa bændur grasnytina sjálfir og þykjast ei skaðlaust afleggja mega.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.
Arahólsvarða (varða)
Arahólavarða.
„Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: „[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.“
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga 001 og um 125 m SA við Minni-Voga. Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.
Karlshóll (huldufólksbústaður)
Karlshóll.
Í örnefnaskrá segir: „Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […].“ Karlshóll er greinilegur grösugur hóll framan við íbúðarhúsið við Hafnargötu 1A. Í húsagarði. Hóllinn er ávalur, um 15 m á lengd og 10 m á breidd.
Eirarkot (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Minni-Vogum: „Eirarkot, eyðihjáleiga, hefur óbygð verið næstu þrjú ár […] Nú er grasnautn lögð til heimabændanna og þykjast þeim hennar ei að skaðlausu missa kunna.“ Staðsetning óþekkt.
Norðurkot (býli)
Norðurkot.
Hjáleiga Minni Voga 1847 samkvæmt Jarðatali Johnsens. Í byggð fram á þessa öld. Túnakort 1919: Tún 1,2 teigar, garðar 560 m2.
„Af Norðurkoti er nú ekki annað að sjá en Norðurkotsrústir,“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: „Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. […] Nikulás [Jónsson] lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. […] Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Á rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest á þeim rætur. Hluti húsanna eru þó hruninn fram af sjávarbakkanum.“ Tóftirnar eru um 200 m vestan við Minni-Voga, um 410 m NNV við Stóru-Voga og 20-30 m NA við steinsteypt frystihús Voga h/f. Tóftin er í sléttu graslendi fast suðaustan við grjóthlaðinn sjávarvarnargarð í Vogafjöru.
Í Norðurkoti virðist enginn bæjarhólsmyndun hafa átt sér stað en svæðinu umhverfis bæjartóftirnar hefur þó verið umturnað þó nokkuð vegna sjávarvarnargarðs og iðnaðarhúsnæðis svo hugsanlegt er að búið sé að slétta eitthvað úr honum eða fylla upp í svæðið í kring um hann. Tóftin sem eftir stendur er um 15 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr NA-SV. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var húsið sem enn er undir þaki hlaðið upp sem fiskhús fyrir Minni-Voga eftir að hætt var að búa í Norðurkoti. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og sjást 4 hólf í henni. Samkvæmt túnakorti voru árið 1919 sex hólf í tóftinni og kálgarð inn á milli þeirra en líklega hefur nyrsta hólfið hrunið í sjóinn og austasta hólfið verið sléttað eða rifið.
Auðnar (býli)
Auðnar – loftmynd.
Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna. Ö-Auðnahverfi, 2.
„Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“ GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: „Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 138. 1919: Tún A og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.
Höfði og Auðnar.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir um bæinn á Auðnum: „[Guðmundur Guðmundsson] byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“
Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan.
Bæjarhóll Auðna er í miðju túni. Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.
Auðnabrunnur (vatnsból)
Auðnabrunnur.
„Auðnabrunnur var austan bæjarins, og Auðnabrunnstígur heim til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Um 60 m NNA við bæ og um 20 m NNA við útihús er merktur brunnur á túnakort frá 1919.
Brunnurinn er á röskuðu óræktarsvæði um 20 m norðaustan við skemmu sem er áföst gömlu steyptu útihúsi. Brunnurinn er byrgður og sést illa en steyptur kantur sést við brunninn. Brunnurinn sjálfur er líklega um 2×2 m að stærð að utanmáli en það sést illa vegna gróðurs og efnis sem sett hefur verið ofan á hann.
Höfði (býli)
Auðnar.
„Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,“ segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ. Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar. Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.
Ólafsbúð (bústaður)
Ólafsbúð.
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: „Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].“ Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það. Tóftirnar eru í þýfðum og grónum hraunmóa skammt utan túns. Fast austan við tóftirnar er lítill skúr sem virðist vera notaður sem sumarhús.
Minjarnar eru á svæði sem er um 32×14 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.“ Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.
Hólmsteinshús (bústaður)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.
Auðnaborg (fjárskýli)
Auðnaborg.
„Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.“ Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Minjarnar eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum. Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þær fá bókstafi til aðgreiningar.
Hóll (bústaður)
Hóll.
„Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar. Tóftin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 6×13 m að stærð og snýr NNVSSA. Mesta hleðsluhæð er um 1,6 m og sjást 5 umför í innanverðum hleðslum. Ekki fundust heimildir um aldur bústaðarins.
Mylluhús (mylla)
Vindmylluhúsið.
Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.“ Myllan er um 150 m suðvestan við bæ. Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.
Auðnakot/Bergskot (býli)
Auðnakot.
Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302. 1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.
„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn.
Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu.
Landakot (býli)
Landakot.
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata 013 var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.
Gata við Landakot – tóftir.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“ „Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.
Landakot – tóftir.
Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.
Gata (býli)
Gata.
„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. „Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni.
Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu. Mannvirkin eru á svæði sem er um 22×18 m að stærð og snýr NNV-SSA.
Landakotsskiparétt (rétt)
Landakotsskiparétt.
„Á Landakotskampi var Landakotsnaust og Landakotsskiparétt.“ segir í örnefnaskrá. „Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerð fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla. Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi,“ segir í örnefnaskrá. Grjóthlaðin rétt og áfast garðlag er um 150 m norðan við bæ. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, endurhlóð Guðni Einarsson þessi mannvirki og notaði sem fjárrétt. Líklegt er að hún hafi verið skiparétt áður. Réttin er á grýttum sjávarkambi.
Alls eru minjarnar á svæði sem er um 17×10 m að stærð og snýr austur-vestur. Réttin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 10×7 m að stærð og snýr norður-suður. Norðurgaflinn er horfinn vegna landbrots. Op er inn í réttina á sunnanverðum vestanvegg. Mesta hleðsluhæð réttarinnar er um 1 m og sjást 4 umför í hleðslum. Frá inngangi liggur garðlag að húsi. Það er um 10 m langt til vesturs og er lítið horn á því við endann, um 2 m langt garðlag til norðurs. Hlið er á girðingu á milli garðlagsins og húss. Garðlagið er hæst um 1,1 m og um 1 m á breidd. Mest sjást 5 umför hleðslu.
Landakotsbrunnur (vatnsból)
Landakotsbrunnur.
„Vatnsbólið var annar brunnur [annar en Djúpagröf] miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað en Brunnurinn.“ Brunnurinn er um 90 m norðan við bæ.
Brunnurinn er fast norðan við lágan hól í túni sem nýtt er til beitar. Brunnurinn er grjóthlaðinn og hringlaga. Hann er um 3 m í þvermál og stendur um 0,4 m upp úr sverði. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, er hann djúpur en ekki vissi hún hversu djúpur hann var. Reft hefur verið yfir brunninn og sést því ekki ofan í hann. Leiðsla var lögð úr brunninum í fjósið (áfast núverandi íbúðarhúsi) í tíð Margrétar og sést enn móta fyrir henni þar sem hún liggur úr suðausturhorni brunnsins fyrir hólinn og til suðurs. Hún líkist sokknu garðlagi sem er um 0,5 m á breidd og 0,2-0,4 m á hæð.
Auðnasel (sel)
Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.
Samkvæmt núverandi landamerkjum sem Sveitarfélagið Vogar hefur látið í té er Auðnasel á merkjum milli Þórustaða og Landakots, og eru minjar því tengdar á báðum jörðunum. Flestar tóftirnar eru í landi Landakots og er það því skráð undir þeirri jörð. Auðnasel er um 4,7 km suðaustan við Þórustaði, 4,8 km norðaustan við Landakot og 4,9 km suðaustan við Auðnir. Seljatóftirnar eru í grónum og gróðursælum hvilftum umhverfis allhátt holt en einnig eru minjar uppi á holtinu og í seltúni sem er norðaustan við holtið. Allt er hér gróið en stutt er í uppblásinn hraunmóa utan svæðisins.
Selið er á svæði sem er um 110×120 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Tvær tóftaþyrpingar eru á vesturhluta svæðisins og stekkir eða kvíar eru á þremur stöðum.
Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Grjóthlaðin tóft A, sennilega stekkur, er uppi á holtinu suðaustan við aðaltóftasvæði 1. Hún er tvískipt, um 8×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Um 4 m langur innrekstrargarður liggur til norðvesturs frá inngangi á norðvesturgafli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m en hleðslur eru hrundar. Tóftin er gróin að hluta.
Þórustaðir (býli)
Þórustaðir – loftmynd.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. (JJ, 91). Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.“ JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Þórustaðir.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: „Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.“ Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.
Þórustaðir – kort.
Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs 043 sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.
Þórusstaðabrunnur (vatnsból)
Þórustaðabrunnur.
Samkvæmt túnakorti var brunnur fast við Sjávarstíginn, um 60 m norðvestan við bæ. Á heimasíðu Ferlis segir um sama brunn: „Nyrðri brunnurinn er vestan götu frá bænum niður að sjávarhúsnum. Steypt er við opið og stór hringlaga hlemmur ofan á. Hann er fallega hliðinn [svo] niður.“
Brunnurinn er fast suðvestan við bílslóða niður að sjó, í túni. Umhverfis brunninn er nú steyptur kassi og er hann byrgður með miklum tréhlemmi. Samkvæmt Margréti Guðnadóttur, heimildamanni, var brunnurinn hlaðinn niður. Hann er um 2,5×2,5 m að stærð og rís um 0,3 m upp úr jörðu. Fast suðaustan við brunninn er kofahræ, að falli komið, úr viði og bárujárni og á litlu þakinu er allþykk jarðvegstorfa. Líklega eru þetta leifar einhvers konar brunnhúss.
Þórustaða-Verbúðir (verbúð)
Þórustaðaverbúðir.
„Næst landi var Baðstofusker, sem einnig var nefnt Burstasker. Þar var einnig Fjósboði. Utan voru svo Geitlarnir, eða Þórustaða-Geitlar, Stóri-Geitill og Litli-Geitill og þar var Músasund og þar utar Þórustaðahnýll.
Uppundir fjöru var Hannesarklöpp og á Kampinum voru Þórustaða-Verbúðir,“ segir í örnefnaskrá. Ekki sjást ummerki um verbúðir á Kampinum sem er um 230 m norðvestan við bæ.
Verbúðirnar voru á grýttum sjávarkambi sem er gróinn að hluta milli fjöru og lítillar tjarnar. Ekki sést til minja og líklegt er að þær séu horfnar vegna landbrots.
Hellukot (býli)
Hellukot.
„Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.“ Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.
Á túnakorti frá 1919 kemur fram stærð túns og kálgarða Hellukots: Tún, 13 teigar, garðar 200m2. Býlið og mannvirki sem tilheyrðu því eru merkt inn á túnakortið.
Þórustaðaborg (fjárskýli)
Þórustaðaborg.
„Markalína nyrðri liggur úr Vatnagarði í Hólaþyrpinga, sem eru margir Hólar og nefnast einu nafni Þórustaðaborg. Þar í er Stekkatúnið gamla eða Þórustaðastekkatún,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Við fylgjum Þórustaðastíg upp í Þórustaðaborg sem er ofar og suðaustar í heiðinni, u.þ.b. km frá veginum. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin.
Þórustaðaborg.
Þórustaðaborg hefur upphaflega verið fjárborg og liggur vestan undir allháum hól.“ Þórustaðaborg og fleiri minjar henni tengdar eru um 1,2 km suðaustan við bæ.
Þórustaðaborg er umkringd hraunhelluhólum á alla vegu nema til suðvesturs þar sem Þórustaðastekkatún er enn allgróið en litlir rofaflekkir eru farnir að myndast í og við það.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.“
Minjar við Þórustaðaborg eru á svæði sem er um 20×50 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingunni. Borgin sjálf A er um 10 m í þvermál en hún er ekki alveg hringlaga og sést móta fyrir horni á henni í norðausturhluta. Borgin er þrískipt og er op á henni til suðurs.
Fornasel (sel)
Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.
„Þar suður af [Klifgjá og Klifgjárbarmi sem eru sunnan við Kolgrafarholt] er Fornasel eða Litlasel,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fornasels er ekki getið í örnefnaskrá Þórustaða en samkvæmt núverandi landamerkjum er selið innan landamerkja þeirra. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir um Fornasel: “ Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel.
Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.
Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum [mögulega úr bókinni Strönd og Vogar] en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti [í örnefnalýsingu Landakots eftir Gísla Sigurðsson segir: „Ekki er með öllu víst, að Fornasel tilheyri landi Landskots, en hafi svo verið nefndist það einnig Litlasel.“ Ekki er ljóst hvernig Litlasel kemur til sögunnar. Þess virðist ekki vera getið annarsstaðar en í þessari örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá fyrir Landakot er Fornasel talið til örnefna sem tilheyra því en framar í skránni er tekið fram að erfitt sé að staðsetja þekkta hóla og kennileiti í Strandarheiði í landi hverrar einstakrar jarðar vegna þess hve þéttbýlt sé á svæðinu]. Í Jarðabókinni er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum en bókin nefnir Fornuselshæðir sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni […].“ Í bókinni Strönd og Vogar segir: „Þá er Fornasel. Þar áttu fyrst selstöðu Kálfatjörn og Þórustaðir en Kálfatjörn fékk seinna selstöðu, þar sem heitir Sogasel […].“ Mögulega er hér átt við sel í Fornuselshæðum en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 kemur fram að Kálfatjörn og Þórustaðir hafi átt selstöðu þar. Fornasel er um 3,2 km suðaustan við bæ.
Selið er í hrauninu sunnan við Reykjanesbraut þar sem landið fer hækkandi og er selið á dálítilli hæð. Gróið er í kringum selið.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel og selstöður á Reykjanesskaga segir um Fornasel: „Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum. Tóftirnar eru grónar, en vel sést móta fyrir veggjum. Hleðslur sjást í veggjum. Hlaðið er um vatnsstæðið.“ Heildarstærð minjasvæðisins er um 68×20 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Seltóftirnar eru á tveimur stöðum. a
Norðurkot (býli)
Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.
Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316).
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga“. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris.
Norðurkot.
[…] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […]. Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.“ Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði.
Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað.
Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Hann er um 1,2 m á hæð. Náttúrulegt framhald er á hólnum til norðausturs. Á hólnum eru byggingaleifar sem ná yfir svæði sem er 14×15 m og snýr suðvesturnorðaustur. Eldri minjar eru í norðausturenda svæðisins, þar eru tvö hólf í hlaðinni tóft, A, sem er 14×8,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Norðurkotsbrunnur (vatnsból)
Norðurkotsbrunnur.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Norðurkotsbrunnurinn er einn fallegast brunnurinn á ströndinni og nær alveg heill. Hann er í lægð skammt norðan við túngarðinn.“ Brunnurinn er um 60 m norðaustan við bæ.
Brunnurinn er í lægð í móa innan um gróna hraunhóla. Brunnurinn er grjóthlaðinn, og er sementslím í hleðslunni. Brunnurinn er um 2,5 m í þvermál og er byrgður með viðarplötu svo ekki er hægt að sjá ofan í hann. Hleðslur standa um 0,4 m upp úr jörðinni. Gaddavír er strengdur á staura umhverfis brunninn.
Tíðagerði (býli)
Norðurkot og Tíðargerði – uppdráttur ÓSÁ.
„Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: „Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.“ Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði, þró, útihús, túngarður og kálgarður.
Minjar um býlið eru í hæðóttu túni. Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Harðangur (bústaður)
Harðangur.
„Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarður upphaflega,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Harðangur hafi verið tómthús frá Norðurkoti og að það hafi verið í byggð 1885 en hafi aflagst um aldamótin 1900. Óljósar leifar um býlið sjást enn þar sem er ógreinileg tóft er á hól sem virðist vera náttúrulegur að mestu leyti. Hóllinn er við merki milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Umhverfis tóftina er túngarður eða kálgarður. Mannvirkin eru um 135 m austan við bæ. Býlið er í grónum hraunmóa. Býlistóftin er fast við túngarð Goðhóls sem er á merkjum milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Gerði sem er umhverfis tóftina og afmarkar svæði sem er um 15×70 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Garðurinn er hæstur um 0,5 m en er víðast hruninn. Tóftin er tvískipt, 8×4 m að stærð og snýr suðausturnorðvestur. Ekki sést í grjót nema á stöku stað í suðausturenda þar sem rof hefur myndast í tóftinni innanverðri.
Álfhóll (huldufólksbústaður)
Álfhóll.
Á uppdrætti af Norðurkoti á heimasíðu Ferlis er merktur Álfhóll norðvestan við Stórhól, niður undan Norðurkoti. Ekki er minnst á þennan hól í örnefnaskrám. Hólinn er fast norðan við hrunið byrgi og um 120 m norður frá bæ.
Hóllinn er í norðurjaðri túnsins. Hóllinn er allhár og stór, hömrum girtur til suðausturs. Að öðru leyti er hann vel gróinn, mjókkar upp og eru nokkrar fuglaþúfur efst á honum. Hann er 3-4 m á hæð, hæstur til norðurs og er um 25×15 m að stærð, snýr austur-vestur.
Stórhóll (huldufólksbústaður)
Stórhóll.
„Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum,“ segir í örnefnaskrá. Hóllinn er um 30 m norðvestan við bæ. Hóllinn er í hæðóttu túni. Hóllinn er algróinn og hefur að öllum líkindum verið sleginn með túninu. Hann er um 3 m á hæð og er um 15×10 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Bratt er fram af honum til vesturs.
Kálfatjörn (kirkja)
Kálfatjarnarkirkja.
1703: Jarðadýrleki óviss. Kirkjustaður. Kirkjunnar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 (DI XII 9).
[1379]: „Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi. Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda.“ (DI III 340) [1379]: „Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.“ (DI III 341) 1379: Kalfatiorn. „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon 175 Kirkja, horft til norðausturs oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.“ (DI III 341).
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; (DI IV 540).
9.9.1447: Er þess getið að Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir tilheyri Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI IV 707-708).
[1477]: “kalua Tiornn.“Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese.“ (DI VI, 124).
28.4.1479: Er þess getið að Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 185-86) 4.10.1489 er þess getið að jörðin Stærri-Vogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 686) 9.7.1496 er þess getið að jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 299, 303) 13.9.1500 er þess getið að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 513, 561).
Hjáleigur 1703: Naustakot, Móakot, Fjósakot og Borgarkot í byggð, í eyði voru Hólakot, Hátún og Árnahús.
Hjáleigur 1847: Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot. JJ, 91. Hlið var tómthús frá Kálfatjörn til 1923, Góðhóll var einnig tómthús sem var í byggð til 1935.
Sama má segja um Litlabæ sem var byggður fyrir 1884. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 319, 321-22, 337-340). Jörðin hét áður Gamlatjörn.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi, og þó enn meir af vatnarásum, sem uppá bera leir til skemda. Engjar eru öngvar. Úthagar lakir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 143. 1919: Tún 7 teigar, garðar 1180m2.
„Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin,“ segir í örnefnaskrá.
Kálfatjarnarkirkja.
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.“ Í broti úr sögu Vatnsleysuhrepps, samantekt eftir Viktor Guðmundsson segir enn fremur um kirkjuna: “ Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893.“ Kirkjan stendur á golfvellinum miðjum, um 25 m austan við bæjarhól.
Golfvöllur hefur verið gerður í hrauninu. Kirkjan stendur á sléttaðri flöt en utan vallarins er mosagróið hraun.
KÁLFATJÖRN Á VATNSLEYSUSTRÖND (G) -Pétri c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9.
[1379]: Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa. Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi.
Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda. Bessastaðabók DI III 340.
[1379]: Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. Bessastaðabók DI III 341.
1379: Kalfatiorn. Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini M. iij°. lxxxix ar. Bessastaðabók DI III 341.
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; DI IV 540.
9.9.1447: Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir … liggia í Kalfatiarnar kirkivsokn; DI IV 707-708
[1477]: kalua Tiornn. Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese. iiij mesoklæde et cetera. atta kyr. þriu asaudar kugillde oc j hestur. Máld DI VI, 124 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 122a].
Kálfatjarnarkirkja – fontur.
28.4.1479: Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 185-86.
4.10.1489: Jörðin Stærrivogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 686.
9.7.1496: Jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 299, 303.
13.9.1500: Jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
1575: Máld DI XV 638.
26.4.1815: Njarðvíkurkirkja gerð að annexíu frá Kálfatjörn; (PP, 107) [konungsbréf].
16.11.1907: Kálfatjarnarprestakall lagt niður og leggst sóknin til Garða á Álftanesi; (PP, 107) [lög]. Kirkjan stendur á grjóthlöðnum grunni. Hún er byggð úr timbri og klædd með bárujárni. Er hún á tveimur hæðum og að auki er kirkjuturn austast á byggingunni. Snýr hún í austur-vestur. Umhverfis kikjuna er kirkjugarður, 65 x 35 m stór. Hann snýr eins og kirkjan. Hann er afmarkaður af grjóthleðslu í suðri og vestri, u.þ.b. 0,4 m hárri og 0,2 m breiðri. Hleðslan virðist fremur nýleg. Líklega hefur grjóthleðsla verið umhverfis garðinn allan áður fyrr en þar sem mörk hans eru afar skýr en hún er horfin nú. Kirkjugarðurinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og virðist hann vera álíka stór í dag að því frátöldu að hann hefur verið stækkaður örlítið til vesturs. Á heimasíðu Ferlis segir um stein í kirkjugarðinum: „Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.“
Steinninn er um 2 m innan við hliðið á hægri hönd þegar gengið er að kirkjunni. Hann er um 0,4 m að hæð og 0,3 m í þvermál. Bolli, 0,2 m í þvermál og 0,1 m djúpur er í honum miðjum. Steininn er nokkuð mosagróinn.
Kálfatjörn (býli)
„Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan,“ segir í örnefnaskrá. „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998,“ segir í erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 og birt er á heimasíðu Ferlirs. Samkvæmt túnakorti stóð bærinn árið 1919 ríflega 20 m VSV af kirkjunni 002. Ekki er lengur búið á Kálfatjörn en þar er nú golfvöllur Golfklúbbs Vatnsleysustrandar. Umhverfis bæjarstæðið er nú golfvöllur. Utan hans er mosagróið hraun.
Þar sem bærinn stóð er nú lítill hóll, u.þ.b. 40 x 15 m að stærð og 2 m hár. Hann snýr í NNV-SSA og er bratt niður til suðurs af honum. Í jaðri hólsins er nú malarplan og efst á honum stendur fánastöng. Líklega hefur bærinn staðið um 15 m vestur af henni. Hóllinn hefur verið sléttaður. Norðan við hólinn er bali, hugsanlega sá sem nefndur er í örnefnaskránni. Sunnan við bæjarhólinn er kálgarður. Hann er 30 x 40 m og snýr líkt og bæjarhóllinn í NNV-SSA að stærð og er hlaðið í kringum hann á þrjá vegu, norðurhliðin er opin. Breidd veggja er 1 m og hæð þeirra 0,3 m. Þeir eru grjóthlaðnir. Túnakortið sýnir annan kálgarð fast austan við hinn. Hann hefur verið um 30 x 30 m að stærð og garðlag hlaðið utan um hann í suðri og austri. Hann er horfinn og er nú slétt flöt sem tilheyrir golfvellinum þar.
Skjaldbreið (hlaða)
Skjaldbreið.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var útihús um 10 m vestur af bæ. Tóft hússins sést enn. Golfvöllur er á þessum slóðum en umhverfis er mosagróið hraun.
Á heimasíðu Ferlirs er þessari tóft lýst: „Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. […] Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins.“
Húsið er í jaðri bæjarhólsins, rétt við malarveginn sem liggur fram hjá kirkjunni. Sést í sement í veggjahleðslunum. Húsið snýr norður-suður og er um 10 x 8 m að stærð. Breidd veggja er 0,4 m og hæð þeirra 2 m. Vesturhlið hússins er nánast alveg hrunin. Inngangur hefur líklega verið í SV-horni.
Kálfatjarnarbrunnur (vatnsból)
Kálfatjarnarbrunnur.
„Niður með Sjávargötunni [065] er Kálfatjarnarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. „Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Umræddur brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919 um 100 m norðvestur af bæ. Hann er í óslegnu belti milli sleginna flata á golfvellinum. Golfvöllur, mosagróið hraun í utan hans. Brunnurinn er á litlum hól, 0,5 m háum og 5 m í þvermál.
Brunnurinn sjálfur er 2 m í þvermál. Ekki sést í neinar hleðslur í honum. Nú hefur hann verið byrgður. Mikið og hátt gras er í kringum brunninn.
Hornsteinn (áletrun)
Ártalssteinninn á Kálfatjörn.
Á heimasíðu Ferlis segir: „Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina.“ Skálinn er nú á malarplani um 40 m norður af kirkjunni og 45 m norðaustan við bæ.
Steinninn er á malarplani norðan við kirkjuna. Golfvöllur er austan og vestan við hann.
Steinninn er 0,5 m á lengd, 0,3 m á breidd og 0,3 m hár. Á hann er letrað A°1674. Steininn er líklega úr grágrýti.
Hlið (býli)
Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.
„Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Milli Goðhóls og Norðurkotstúns var Hlið og var þar í kring Hliðslóð eða Hliðstún umgirt Hliðstúngörðum, hlöðnum af grjóti og ofan lóðarinnar svo svo Heiðargarðurinn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.
Hlið.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hlið var tómthús frá Kálfatjörn.“ Þar lagðist niður búskapur 1923 en þar var byggður sumarbústaður sem ekki er notaður nú. Þar sem Hlið stóð sést enn stór tóft og túngarður. Hlið er um 260 m suðvestan við Kálfatjarnarbæ 001 og um 110 m norðnorðaustan við Goðhólsbæ. Gróinn túnblettur milli hraunhóla í vesturjaðri golfvallar. Dálítill holmói er austan við Hlið, utan garðs.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndin í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.“
Kirkjubrú (brú)
Kirkjubrúin við Kálfatjörn.
„Rétt ofan við götuna [Kirkjugötuna] lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstún, kölluð Kirkjubrú,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Strönd og vogar segir enn fremur: „Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás. Þessi farvegur var alltaf þurr, nema í leysingum á vorin. Þá gat safnazt saman mikið vatn fram í heiði og fékk þá framrás um Rásina og gat þar orðið allmikill flaumur, jafnvel í mitti á mönnum. En yfir Rásina hefir verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum.“ Kirkjubrú liggur nokkuð samsíða Kirkjugötu, 10-30 m suðaustan við hana, og liggur frá suðvestri til norðausturs. Brúin er um 55 m austnorðaustan við Hlið og um 175 m suðvestan við bæ. Brúin liggur yfir hraunmóa en suðvesturhluti brúarinnar liggur yfir holmóa. Er í jaðri golfvallar, suðvestan við Landagarð. Brúin er úr grjóti sem hrúgað hefur verið yfir Rásina en ekki er um vandaða stétt að ræða. Grjótið í brúnni er meðalstórt og stórt hraungrýti. Brúin er um 2 m á breidd og um 32 m löng. Brúin er nokkuð sokkin og er mesta hæð hennar um 0,2-0,3 m. Steinninn með áletruninni er norðaustan við miðja brú. Steinninn er um 0,6 x 0,6 m
að stærð, ferkantaður, og um 0,3 m á þykkt. Steinninn er flatur að ofan og mosavaxinn. Áletrunin er á suðurhlið steinsins, og þekur flöt sem er um 0,2 x 0,1 m, snýr norðaustur-suðvestur. Í bókinni Strönd og vogar er ártalið lesið 1706 og á heimasíðu Ferlis er það sagt vera 1790. Áletrunin er orðin mjög óskýr en ekki var hægt að sjá annað á vettvangi en ártalið 1700 og ekki sást í A° á undan því.
Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.
Breiðufit (girðing)
Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.“Minjasvæðið er um 200 m langt og 50 m breitt. Það snýr gróflega frá austri til vesturs.
Goðhóll (býli)
Goðhóll – Kálfatjarnarkirkja fjær.
„Svo sem 20 m neðar en brunnurinn er Rásin, en þar er farvegur, er Goðhólsrás hefur grafið sér, en hún rennur að nokkru inn á Kálfatjarnartún. […] Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. […] Nokkurt tún er í Goðhól. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bærinn var skammt frá suðurtúngarði og eigi alllangt frá sjó. Beint niður undan bænum er uppsátrið, skiparéttin og vörin […],“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Goðhóll 1933.
„Ofan og sunnan Naustakots var býlið Goðhóll, sem stóð í Goðhólstúni, á suðurhlið túnsins var svokallaður Heimagarður og Vatnagarður eða Móinn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. […] afleggst Goðhóll […] árið 1935.“ Bæjarstæði Goðhóls er í suðvesturjaðri golfvallar skammt frá sjó, um 275 m vestan við Kálfatjarnarbæ. Norðan við bæinn eru golfflatir og sunnan og vestan við hann eru lágar klappir og grösugir balar þar á milli. Nokkuð er um flagmóa austan við bæinn.
1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2. Minjasvæðið sem tilheyrir Goðhól er um 150 x 70 m og snýr norðvestur-suðaustur. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru á svæðinu bæjarhús a), brunnur b), þró c), útihús d), kálgarður e), kálgarður f), útihús g), útihús h), slóði i), slóði j), kálgarður k), útihús l), útihús m) og túngarður n). Bæjarhúsin a) eru mjög greinileg og vel uppi standandi. Þau standa sunnan í Goðhól, litlum bröttum og grónum hól og vestan í öðrum stærri klapparhól. Bæjartóftin er um 11 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin skiptist í þrjú hólf. Inngangur inn í tóftina er á miðri suðvesturhlið og eru þar tvö hólf, hvort til sinnar handar. Þau snúa eins og tóftin.
Bakkastekkur (stekkur)
Bakkastekkur.
„Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,“ segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ. Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að GamlaBakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5 x 3 m að stærð og snýr NNV-SSA.
Helgahús (beitarhús)
Helgahús.
„Örskammt innan við Nausthól (60-80 m) eru sléttar klappir á kampi og grónir balar. Þarna heitir Litli-Nausthóll; upp frá honum um 100 m, eru fjárhústóftir, Helgahús, nefnd eftir þeim er lét reisa þau, Helga kenndan við Tungu í Reykjavík. Þau voru reist um 1920,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir að húsið hafi verið reist a.m.k. 3-4 árum fyrr. Helgahús er 280 m austur af Bakkakrók og 1,1 km norðaustan við bæ.
Grasi gróinn melur sem hraunklappir standa upp úr. Stórgrýtt fjara ásamt klettabeltum niður (norður) af tóftinni. Tvískipt grjóthlaðin tóft, 14 x 10 m að stærð. Snýr hún í norðvestur-suðaustur. Breidd útveggja á langhliðum er 1,5 m en innveggurinn sem skiptir tóftinni í tvö hólf er um 1 m að breidd. Tóftin er byggð upp að kletti í suðaustri og er hann notaður sem gafl í öðru hólfinu. Hæð veggjanna er víðast hvar 0,5 m en hæst er skammhliðin sem snýr til suðausturs, 1,5 m há. Norðvesturgafl hefur líklega verið úr timbri eða öðru léttu efni þar sem hleðslur eru mun lægri þar og í vestari hólfinu hulin grasi. Vestara hólfið er 9 x 2,2 m að innanmáli en hið austara er styttra og breiðara, 7 x 4 m að stærð.
Vatnssteinar/Vaðssteinar (vatnsból)
Vatnssteinar.
„Ofan við Breiðufit [inn með sjónum frá rétt] miðja eru 2 hólar allstórir hver upp af öðrum og grónir nokkuð upp. Norðan undir þeim, sem nær er bakkanum, er lítið vatnsstæði, það heitir Vatnssteinar,“ segir í örnefnaskrá. Vatnssteinar eru um 400 m norðaustan við Nausthól 034, 310 m norðaustur af Litla-Nausthól og um 1,4 km norðaustur af bæ. Ekki er ljóst hvort fólk sótti vatn í vatnsbólið og þá hvaðan það var sótt eða hvort skepnum hafi verið brynnt þar.
Grasi gróið nef sem gengur út í stórgrýtta fjöru. Ofan við það er mosagróið hraun.
Líklegt er að hólarnir tveir sem nefndir eru í örnefnaskrá séu Réttarhólar. Um 50 m norður af þeim nyrðri og 10 m frá fjörunni er stórgrýtt dæld. Hún er 3 x 1,5 m að stærð og 0,3 m djúp. Hugsanlega eru Vatnssteinar þar. Nú er dældin þó þurr og grasi gróin. Stór trjádrumbur liggur ofan í henni.
Stefánsvarða (varða)
Stefánsvarða.
„Í austur frá Bakkastekk dregur til hæðarbungu. Hún kallast Hæðin. Þar á há-Hæðinni stendur Stefánsvarða, rétt við þjóðveginn. Hún var rifin af vegagerðarmönnum á stríðsárunum síðari en var byggð upp um 1970. Það gerði Jón Helgason frá Litlabæ og Magnús sonur hans. Settu þeir og nafnspjald á vörðuna,“ segir í örnefnaskrá.
Stefánsvarða – letursteinn.
Varðan er skammt norðan við aðalveginn og sést vel af honum. Hún er um 15 m norðan við leið og um 1,6 km ANA af Kálfatjörn. Varðan stendur á flatri og sléttri klapparhellu. Umhverfis vörðuna er klappir og klapparhólar. Milli klappa eru grýttir melar, mosagrónir að hluta. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Varðan er vandlega hlaðin úr hraungrýti. Hún er köntuð og mjókkar lítillega upp. Varðan er um 1 x 1 m að grunnfleti og er um 1,8 m á hæð. Hrunið hefur lítillega úr vörðunni efst en 8 umför eru í hleðslunni. Grjótið er af öllum stærðum en stærst neðst og minnkar eftir því sem ofar dregur. Grjótið virðist vera tilhöggvið. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.
Borgarkotsstekkur (stekkur)
Borgarkotsstekkur.
„Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn.
Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs.
Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6 x 3 m og mesta hleðsluhæð er um 0,4 m. Í syðri enda er lítið hólf, um 1 x 1 m að innanmáli og í nyrðri enda er lítið gerði, að því er virðist, þar eru veggir mun ógreinilegri og efnisminni. Það er um 2 x 2,5 m að innanmáli og snýr norðursuður. Óljóst op sést í norðvesturhorni gerðisins.
Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.
Heimristekkur (stekkur)
Heimristekkur.
„Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll. Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,“ segir í örnefnaskrá. „Nú förum við aftur niður á Strandarveg fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn. Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu. Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1 x 1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.
Staðarstekkur (stekkur)
Staðarstekkur.
„Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn. Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22 x 3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m.
Staðarborg (fjárskýli)
Staðarborg.
„Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur. Litlu ofar og sunnar er Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin, – er friðlýstar minjar,“ segir í örnefnaskrá. Friðlýsingin var gerð ógild árið 1990 samkvæmt Skrá um friðlýstar minjar. Staðarborg er um 300 m suðvestur frá tóft á Þorsteinsskála og um 1,8 km suðaustur frá Kálfatjörn.
Borgin stendur suðaustast á sléttum hraunhelluhrygg, ekki mjög háum. Innan og utan borgarinnar er grasi vaxið en að öðru leyti er hryggurinn að mestu gróðurlaus.
Staðarborg.
„Ólafur heyrði þá sögu um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. […] Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr,“ segir í örnefnaskrá. „Borgin er hringlaga, um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin er um 2 m,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni, að þar hefir handlaginn maður verið að verki. Borgin er hringlaga og er hlaðin úr grjóti einu, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en fyllt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþykktin neðst um 1 1/2 metri, en 1 metri efst. Þvermál borgarinnar að innan er um 8 metrar, ummál hringsins að innan 23 metrar, en 35 metrar að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og hleðslumeistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land,“ segir í Strönd og vogum.
Staðarborg.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn. Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana. Strandarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið. Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951. […] Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.“ Borgin er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti að mestu leyti að stórt grjót er í dyrum. Hún er hringlaga, um 6 m að innanmáli í þvermál. Veggir eru um 1,3 m á þykkt (neðst í dyrum) og þynnast lítið er ofar dregur. Utanmál borgarinnar er þá um 8,5 m. Hæð veggja er um 2 m. Dyr eru á borginni til vesturs, þær eru um 0,5 m á breidd og jafnháar veggjum en eins og kemur fram í texta hefur verið rifið upp úr dyrunum. Borgin er mjög heilleg og lítið sem ekkert virðist hafa hrunið úr henni.
Þorsteinsskáli (tóft )
Þorsteinsskáli.
„Skammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni,“ segir í örnefnaskrá. Tóftarbrotið er efst á suðaustanverðri hæðinni, um 1 km suður af Stefánsvörðu og um 1,9 km suðaustur af Kálfatjörn.
Hæðin Þorsteinsskáli stendur hvað hæst upp úr umhverfinu og þaðan sést mjög víða. Hæðin er mjög grýtt og á henni sprungnar hraunhellur. Hún er ekki mjög gróin en víða er mosi. Um 5 m norðvestan við tóftabrotið er grasi gróinn hraunhelluhóll og hundaþúfa á honum efst. Tóftarbrotið er steinhlaðið. Það er um 2 x 2 m að stærð, snýr norður-suður. aðeins sjást suður- og vesturveggir og örlítið af austurvegg. Mesta hleðsluhæð er um 0,8 m í suðurvegg og er þar tvöföld hleðsla, 4 umför. Frá tóftinni hallar landið til norðurs. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið skotbyrgi.
Prestsvarða (varða)
Prestsvarða.
„Prestsvarða eða Staðarvarða er nálægt 200-250 m í austsuðaustur frá Heiðargarði, beint upp af Hátúni. […] Oddmyndaður steinn er út úr henni neðan við miðju. Hann vísar í norður (þ.e. til byggða),“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Fast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Í athugasemdum við örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis er varðan einnig nefnd Berjavarða. Varðan er rétt sunnan við afleggjara að Kálfatjörn, um 480 m suðaustan við bæ og um 530 m vestan við Heimristekk. Varðan stendur lágt á sléttri hraunhellu. Í kringum hana er að mestu gróið hraun. Varðan er vandlega hlaðin, köntuð að lögun. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og um 1,6 m á hæð. Hleðslugrjótið er meðalstórt og smátt, nokkuð skófum vaxið. Neðarlega á norðurhlið vörðunnar stendur stór, flatur steinn út úr henni og vísar nokkurn veginn til norðurs, í átt að Kálfatjarnarbænum. Ofan á þessum steini er annar minni sem hefur e.t.v. verið settur þangað nýlega eða hrunið úr toppi vörðunnar. Prestsvarðan stendur við Almenningsveg.
Landabrunnur (vatnsból)
Landabrunnur.
„Í Landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann 2x3m ummáls og 1,3m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsbólið er um 10 m norðan við Heiðargarð og 160 m suður af bæ. Golfvöllur, umkringdur mosagrónu hrauni.
Andrés Guðmundsson, heimildamaður, sagði vatnsbólið ná niður á klöpp. Það var dýpkað með dínamíti um miðja síðustu öld. Líkt og segir í örnefnaskrá er vatnsbólið 2 x 3 m að stærð og nær niður á klöppina, um 1 m að dýpt. Ekkert vatn er hins vegar nú í dældinni og vex nokkur gróður í botni hennar. Engar hleðslur eru sýnilegar við vatnsbólið og er grasi gróið allt í kringum hann.
Fornuselshæðir (sel)
Fornusel.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „[…] áður hefur hann [staðurinn] og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði [svo], þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir […].“ Í Jarðabókinni segir einnig að Þórustaðir eigi selstöðu í Fornuselshæðum: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ „Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur líklega verið selstaða fyrrum og gæti verið selstaða sú er getið er um í Jarðabókinni,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Þrískipt tóft („þrjár mjög gamlar kofatóftir“) er vestan í Sýrholti, um 980 m suðvestan við Flekkuvíkursel, um 4,4 km suðaustan við Kálfatjörn og um 4,6 km suðaustan við Þórustaði.
Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftirnar eru allhátt á holtinu og er þar grasi gróinn blettur í kring. Umhverfis holtið eru hraunbreiður sem eru grónar á köflum en nokkur gróðureyðing er hér í kring.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Vestan í holtinu [Sýrholti] sjást þrjár mjög gamlar jarlægar [svo] kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu. Útveggir sjást. Tvær tóftanna [hér hefur líklega átt að standa „Þrjár tóftanna…“ þar sem áður hefur verið talað um að kofatóftirnar séu þrjár vestan í holtinu og uppdráttur sem fylgir umfjölluninni sýnir einnig þrjár tóftir] eru suðvestan í hæðunum, en sú þriðja er á gróðurbleðli skammt vestar. Hlaðin kví] er í gróinni gjá þar skammt vestan hennar.“ Tóftirnar þrjár vestan í Sýrholti sem nefndar eru í heimildum er í raun ein tóft, en þrískipt. Tóftin er um 8 x 4 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hólfin 3 snúa suðvestur-norðaustur. Þau eru 1,5×0,5-1 m að innanmáli og er norðvestasta hólfið ógreinilegast. Hleðslur eru mjög signar en hólfin eru enn nokkuð djúp. Mesta hleðsluhæð utanmáls er um 0,3 m en innanmáls er hún um 1 m. Ekki sjást op inn í hólfin og ekki sést í grjót. Efst uppi á Sýrholti er mikil hundaþúfa, grasi vaxin. Líklegt er að þar hafi staðið varða sem vísað hefur á selið því lausir steinar sjást grónir við þúfuna og minnst er á það í örnefnaskrá Kálfatjarnar (AG) að á þessu svæði sé landamerkjavarða, Sýrholtsvarða, og kann að vera að þessi meinta varða hafi einnig haft það hlutverk. Hleðsla er í gjá um 290 m norðvestur af seltóftinni og er þar líklega um meintan stekk að ræða sem nefndur er á heimasíðu Ferlis. Samkvæmt landamerkjum sem fengust hjá sveitarfélaginu er selið á merkjum milli Kálfatjarnar og Þórustaða. Það er skráð með Kálfatjörn þar sem líkur eru til þess að hér sé um selið að ræða sem talað er um í Jarðabók Árna og Páls og hefur það þá verið í landi Kálfatjarnar. Hleðslan og tóftin sem Ómar Smári talar um í ritgerð sinni eru að öllum líkindum það langt frá seltóftinni og nokkuð inn í landi Þórustaða og eru þær minjar því ekki skráðar með selinu heldur í sitt hvoru lagi með Þórustöðum.
Hólakot (býli)
Hólskot.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varðveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir enn fremur: „Holakot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár […]. Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og má ei að skaðlausu missa.“ „Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thoraresen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn [1831-1892]. Sagt er, að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðar),“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Rétt við Naustið hafði verið þurrabúðin Hóll eða Hólakot, en þar er nú Fjárhúsið. Þegar Hóll lagðist niður var þarna reist Sjóbúð, Kálfatjarnarsjóbúð og hafði rúmað 16 menn,“ segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur líklega verið um 175 m norðvestan við bæ. Sjóbúðin var þar sem nú er golfvöllur. Utan hans er gróið hraun.
Sjóbúðinni var síðar breytt í fjárhús eða ný fjárhús voru reist á sama stað. Ekki sést til minja um Hólakot.
Árnahús (býli)
Árnahús.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Arnahus hafa í eyði legið þrettán ár. […] Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og kann ei án vera fyrir utan sinn skaða.“ „Ofan hans [Tjarnarbakkans], við austurhorn Tjarnarinnar (hún má reyndar heita nær hringlaga) er dálítil lægð eða pollur, mun hafa verið kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið mjög nærri. En gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið,“ segir í örnefnaskrá. Víti er um 110 m norðan við bæ. Tóftin er á golfvelli. Gróið hraun er utan hans.
Pollurinn Víti er nú uppþornaður en hann má þó greina sem smá dæld. Gróður innan dældarinnar er einnig frábrugðinn þeim í kring. Rétt norðan Vítis er grasi gróinn hóll. Ofan á honum er ógreinileg tóft. Hugsanlegt er tóftin sé rústir Árnahúss eða útihúss þess. Hún er 4 x 4 m að stærð og snýr norður-suður. Er hún opin til norðurs. Breidd veggja er um 1 m og er hæð þeirra mest 0,5 m. Víðast hvar eru veggirnir þó aðeins 0,2 m háir. Glitta sést í grjót á vestanverðum langvegg innanverðum. Erfitt er að skera úr um hvort þar sé náttúruleg klöpp eða hleðsla úr grjóti.
Naustakot (býli)
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Á heimasíðu FERLIRs segir: „Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar.“
„Neðan Rásar og sunnan Sjávargötu er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð 1703), hefur lengi verið í eyði. Þar er nú fjárhús,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „En neðst í túninu var Naustakot og stóð á Naustakotshól og þar í kring hafa verið Naustakotstún. Á hólnum er nú Naustakotsfjárhús, fjárhús frá Kálfatjörn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.“
Kálfatjörn – túnakort 1919.
Fjárhúsin eru merkt á túnakort Kálfatjarnar frá 1919. Naustakot hefur staðið þar sem nú er tóft fjárhúss sem tilheyrt hefur Kálfatjörn, 285 m norðvestan við þann bæ. Golfvöllur er sunnan við tóftina. Þar sem honum sleppir tekur við hraun. Fjaran er prýdd klettabeltum. Tóftin er á lágum hól, u.þ.b. 12 x 20 m stórum og snýr austur-vestur, sem er að líkindum bæjarhóll Naustakots. Tóftin er tvískipt og sambyggðar við hana eru tvær réttir eða hólf. Byggingin nær yfir svæði sem er u.þ.b. 20 x 9 m stórt. Tóftin er grjóthlaðin, 8 x 9 m að stærð og snýr í austur-vestur. Skiptist hún í tvö hólf.
Naustakotsbrunnur (vatnsból)
„Við bæinn hefur svo verið Naustakotsbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Ekki reyndist unnt að staðsetja hann. Stórgrýtt fjara. Víða ganga klappir fram í sjó og mynda víkur sín á milli. Milli golfvallarins og fjörunnar er blautt valllendi. Enginn brunnur fannst við Naustakot. Mögulegt er þó að hann sé kominn undir flöt á golfvellinum eða að um sama brunn og sé að ræða og nafn hans hafi breyst eftir að Naustakot fór í eyði.
Móakot (býli)
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Fór í eyði um 1940 eða 1950.
1919: Tún 1,8 teigar, garðar 450m2.
„Fyrir ofan Móakotsbakkann er lítil mýrartjörn, Móakotstjörn. Skammt fyrir ofan hana er bærinn í Móakoti, nokkuð miðsvæðis í túninu og þó heldur nær suðurmörkum. […] Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Norð-Austur af Kálfatjarnarhúsinu er Móakot og þar í kring Móakotstún, eða Móakotspartur, sem var umgirt Móakotstúngörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að húsin í Móakoti hafi verið rifin 1919 en ný byggð fljótlega. Móakot er 220 m suðaustan við Kálfatjörn.
Móakot er nú inni á golfvelli og er allt snöggslegið á milli bygginga og annarra mannvirkja en minjarnar virðast að mestu hafa fengið að halda sér. Bærinn er fast norðan við Álfhól.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða í Móakoti. Tóft húss sem er líklega það sama og sýnt er á túnakorti frá 1919 sést ógreinilega en annað hús hefur verið hlaðið í norðurhluta hennar.
Móakotsbrunnur (vatnsból)
Móakotsbrunnur.
Um 1 m utan við túngarð Móakots virðist vera hlaðinn brunnur. Hann er um 90 m norðaustan við bæ. Brunnurinn er í grasi grónum móa þar sem eru nokkrir klapparhólar.
Hátún (býli)
Hátún.
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, þá í eyði frá 1700. Fór í eyði um 1920 en föst búseta tekin upp aftur, um 1960, þar brann fyrir nokkrum árum.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 750m2.
„Úr austurhorni Kálfatjarnartúns liggur girðing til austurs út að Heiðargarði. Hún skilur tún Fjósakots og Hátúns en svo heitir býli, sem er suðaustan megin upptúns á Kálfatjörn. Má það í raun kallast austurhorn Kálfatjarnartúns. Það fór í eyði um 1920. Árið 1941 var byggður þar sumarbústaður, en föst búseta tekin upp um 1960. Grjótgarður umlykur túnið heiðarmegin,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Hátún.
„Hátún stóð í Hátúnstúni, sem girt var Grjótgörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Hátún er um 160 m suðaustur af Kálfatjörn.
Hátún stendur nokkuð hátt og lækkar landið til suðurs og vesturs. Innan golfvallar.
Bærinn í Hátúni hefur að líkindum staðið á náttúrulegri hæð og bæjarhóllinn ekki verið afgerandi. Engin hús eða tóftir sjást lengur á bæjarstæðinu nema stöku steinaraðir og golfteigur er nú norðvestast á bæjarhólnum. Umfang bæjarhólsins sjálfs er um 35 x 20 m og snýr hann suðaustur-norðvestur. Mesta hæð bæjarhólsins er um 1 m. Leifar kálgarða sem voru umhverfis bæinn sjást enn að miklu leyti. Grjóti hefur verið bætt í þessa garða sumstaðar og norðaustast á svæðinu er dálítill grjóthryggur innan við garð. Samkvæmt túnakorti voru bæjarhúsin um 20 x 10 m að stærð og sneru norðaustur-suðvestur. Kálgarðarnir umhverfis bæjarstæðið girtu af svæði sem var um 30 x 40 m að stærð og sneri norðaustur-suðvestur.
Hátúnsbrunnur (vatnsból)
Brunnurinn er um 1 m í þvermál að innanmáli og fullur af grjóti. Tvö stór björg eru í austur- og vesturbrún brunnsins en minni steinar til annarra átta. Líklegt er að brunnurinn hafi verið hlaðinn að innan en grjótið sem sést efst í honum kann að hafa verið sett í hann til að fylla upp í hann eftir að hætt vara að nota hann.
Fjósakot (býli)
Fjósakot.
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Í eyði frá um 1920. Því tilheyrðu 3/4 hlutar Nausthólsvíkur. ÖKálfatjörn, 6. „Fjósakot var smá grasbýli frá kirkjujörðinni á Kálfatjörn. Var það norðaustur af kirkjugarðinum.“
GJ: Mannlíf og mannvirki, 330.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 500m2.
„Ofan Móakots (fjær sjó) er Fjósakot. Túnin liggja saman og einnig bæði að Kálfatjarnartúni. Bærinn í Fjósakoti stóð á stórri hólbungu í miðju túni. Þar sér nú aðeins grjóthrúgur. Mold úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreitinn á Kálfatjörn. […] Fjósakot fór í eyði um 1920. Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Fjósakot.
„Fjósakot stóð í Fjósakotstúni og lágu að því Grjótgarðurinn Syðri og Grjótgarðurinn Nyrðri,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fjósakot er um 200 m austur af bæjarstæðinu á Kálfatjörn og 170 m austur af Kálfatjarnarkirkju. Tóftin er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Bærinn hefur staðið á litlum hól, u.þ.b. 26 x 30 m stórum og 2 m háum sem snýr í austur-vestur. Samkvæmt túnakorti stóð húsaþyrping nyrst á hólnum. Túnakortið virðist sýna 8 byggingar (þó teiknaðar í einni þyrpingu, sjálfsagt að miklu leyti sambyggðar og því erfitt að aðgreina þær) en aðeins er hægt að greina leifar sex bygginga á hólnum. Nú sést lítið til þeirra en svo virðist sem sléttað hafi verið úr minjum ofan á hólnum. Þó má enn greina
garðlag nyrst meðfram bungunni.
Vatnsgjá (vatnsból)
Vatnsgjáarvatnsbólið.
„Hér var Vatnsstæðið vatn í klöpp og þraut aldrei, sem einnig var nefnt Vatnsgjá,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsstæðið er milli tveggja lágra hóla um 90 m norðvestur af bæ. Vatnsbólið er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Vatnsgjá er 1,4 m djúp dæld og 3 x 2,5 m stór. Glitta sést í grjót í dældinni og hefur líklega verið hlaðið ofan í hana. Hún er nú gróin grasi og er þurr.
Bakki (býli)
Bakki.
1703 var jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Bakkakrókur eyðihjáleiga 1703.
[1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124). Bjarg var tómthús frá Kálfatjörn en fór í eyði 1934 og sameinaðist Bakka. Litlibær var tómthús í upphafi (fyrir 1884), en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 333-340).
Bakki (nýi) fór í eyði árið 1963 (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). „Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó út, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni“ (GJ:Mannlíf og mannvirki, 337).
Bakki.
„Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn“ (ÁÓ: Strönd og Vogar, 183).
1703: „Túnin fordjarfast af sands og sjáfarágángi árlega meir og meir, og þarf ábúandinn með kostnaði og ómaki sandinn af að moka og burt að færa. Engjar eru ongvar. Útihagar lakir um sumar, um vetur nær öngvir, nema fjaran.“ JÁM III, 146. 1919: Tún 1,5 teigar, 760m2. „Norðan eða innan Móakots og Kotagirðingar, þar sem nú eru býlin Bakki og Litlibær ásamt því landi öðru, sem innan Heiðargarðs er frá Móakotsmörkum, var um langan aldur kúabeit frá Kálfatjörn, kölluð Kálfatjarnargirðingar. En þetta hafa áður verið tún og beitarland Bakka hins forna býlis, er þar var, en lagðist í eyði vegna sjávarágangs og lagðist þá undir Kálfatjörn“ (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 9). Eftir að bærinn á Bakka var síðast fluttur vegna sjávarágangs árið 1904 fékk ábúandi smám saman útmælt land og ræktaði tún allt frá sjó að Heiðargarði (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). Óljóst er hversu mikið land hefur upphaflega tilheyrt jörðinni Bakka. Í örnefnaskrá Kálfatjarnar segir að Kálfatjörn tilheyri „innangarðs allt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (Nýja), Bjargi og Litlabæ.“ Líklegt er að Bakka hafi að fornu a.m.k. tilheyrt land frá Bakkarkóki að túnmörkum Nýja-Bakka á móti Kálfatjörn. Einnig eru líkur til þess að jörðin hafi átt land áfram upp í heiðina eins og flestir aðrir bæir á ströndinni. Heiðargarður skilur á milli túna og hraunmóa frá Kálfatjörn að Bakkakróki. Í skráningunni er Bakkaland skilgreint þannig að það sé innan Heiðargarðs, frá suðvesturhlið túngarðs Nýja-Bakka að Bakkakróki. Á því svæði eru eyðibýlin Litlibær, Bjarg og Nýi-Bakki, Gamli-Bakki og Bakkakrókur. Utan Heiðargarðs er Bakkastekkur en hann er skráður með Kálfatjörn. Ekki eru aðrar minjar utan Heiðargarðs sem tengjast Bakka svo vitað sé.
Gamli-Bakki (býli)
Gamli-Bakki.
„Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,“ segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. „Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […]. Nálægt síðustu aldamótum var sjór farin að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Bakki – örnefni.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“ Gamli-Bakki er 200 m suðaustan við núverandi bæjarstæði Bakka. Á túnakorti má sjá ýmis garðlög, hús og húsaleifar þar sem Gamli-Bakki stóð. Suðvestan við gamla bæjarstæðið var ræktað út tún eftir að bærinn var fluttur árið 1904 og tilheyrði það tún Bjargi. Gamli-Bakki er fast norðvestan við Bakkatjörn. Sumt af því sem er á túnakortinu er horfið vegna ágangs sjávar og vegna fjörugrjóts sem borist hefur upp á bakkann og hylur e.t.v. sumar minjarnar.
Gamli-Bakki.
Gamli-Bakki stendur fram á sjávarbakka. Í fjörunni til norðurs og norðvesturs er klapparfjara en sunnan við hann er Bakkatjörn. Grasi gróið er allt í kringum minjarnar og grýtt.
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar segir: „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af. Erfitt er að gera sér grein fyrir stærð bæjarhólsins vegna gróðurs og sjávarrofs en sýnilegar leifar hans eru um 15 x 15 m að stærð og mesta hæð um 1 m. Á bæjarhólnum er minjasvæði sem er um 12 x 12 m að stærð.
„Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þarfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“ Ekki sést til fornleifar.
Bakkakirkja (kirkja)
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.“ Ef kirkja hefur verið á Bakka er líklegt að hún hafi staðið þar sem elsta þekkta bæjarstæðið var en það er nú komið út á sjó og löngu horfið og því ólíklegt að nokkrar leifar kirkju eða krikjugarðs kunni að koma í leitirnar héðan í frá, nema að kirkjan hafi fylgt bænum eftir að hann var fluttur á bæjarstæði 001 en engar sagnir eru um slíkt. Ennfremur er erfitt að fullyrða nokkuð um að kirkja hafi verið á Bakka þar sem engar fornar heimildir eru til um hana.
Bjarg (býli)
Bjarg.
„Örstutt upp frá Naustunum var býlið Bjarg, hafði það kálgarð og dálítinn túnblett. Það fór í eyði 1936 og er nú sameinað Bakkatúni. Þar standa enn hús,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Niður við Gamla-Bakka stóð býlið Bjarg í Bjargslóð umgirt Bjargsgörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Bjarg var tómthús frá kirkjugjörðinni Kálfatjörn. Þau er munu hafa búið þar fyrst, um 1850 voru Jón Ólafsson og kona hans Katrín.“ Enginn ábúandi eftir 1934. Bjarg er um 105 m sunnan við Gamla-Bakka og um 110 m norðaustan við Bakka. Á túnakorti eru eftirtalin mannvirki sem talin eru með býlinu Bjarg: A) Þrískiptur bæjarhús; B) útihús; C) garður sem liggur umhverfis A) og B) og kálgarð; D) garðlag sem er niður við sjó og byggt er við túngarð Bakka; E) gerði utan um kvía- eða kúamóa og áfast því er rétt eða annað mannvirki; F) túngarður sem afmarkar lítinn túnblett milli Gamla-Bakka og Bjargs.
Bærinn stendur á tiltölulega sléttri brún í landslaginu sem liggur norðvestur-suðaustur. Fram af honum til suðvesturs er dálítill bratti niður að kálgarði og túni. Allt umhverfis bæinn er grasi gróið og nokkuð er um steyptar byggingar á bæjarstæðinu.
Bjarg.
1919: Tún 0,27 teigar, garðar 940m2. Heildarstærð minjasvæðisins er um 30 x 60 m og snýr það norðvestursuðaustur. Auk þess er túngarður F) skráður með Bjargi þar sem túnið innan hans tilheyrði býlinu en hann kann að hafa tilheyrt Gamla-Bakka upphaflega. Samkvæmt túnakorti stóðu bæjarhúsin í röð frá norðvestri-suðausturs. Þar sem bærinn stóð er nú steyptur húsgrunnur og leifar samtengdra húsa sem eru að hluta steypt og að hluta hlaðin.
Húsin standa í röð meðfram jarðvegsbakka norðaustan við kálgarð. Suðaustast er steypti húsgrunnurinn, tvískiptur, og fáum metrum norðvestar er steypt og hlaðið hús sem skiptist í 4 hólf. Það er alls um 18 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Það hólf sem er austast I) er að mestu hrunið eða hefur verið rifið. Það hefur verið hlaðið að einhverju leyti og er um 8 x 8 m, snýr suðaustur-norðvestur.
Litlibær (býli)
Litlibær – brunnur.
„Litlibær stóð í Litlabæjartúni eða Litlubæjarlóð. Þar var rétt hjá Litlabæjartjörn,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Litlibær var tómthús í upphafi, en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Helgi byggði upp Litlabæ úr torfbæ í timburhús árið 1906.“ Þar kemur einnig fram að býlið hafi verið byggt fyrir 1884. Húsið sem stendur nú var byggt 1934 og notað sem sumarbústaður. Litlibær er 155 m suðaustur af Gamla-Bakka og um 60 m norðaustur af Nýja-Bakka. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru innan túngarðs G), auk bæjarins á Litlabæ A), tvö útihús B) og C) og þrír kálgarðar D), E) og F) þar af tveir heim við bæ. Bærinn stendur skammt suðaustur frá sjó, á grónu flatlendi, umkringdu mosagrónu hrauni.
Bakki, Bjarg og Litlibær – túnakort 1919.
Túnakort 1919: Tún 1,15 teigar, garðar 900m2. Minjar sem tilheyra Litlabæ eru á svæði sem er 200 x 95 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Skráðar voru 9 minjar og fær hver þeirra bókstaf til aðgreiningar. Ekki er að sjá uppsafnaðar mannvistarleifar eða gömul mannvirki á bæjarstæði Litlabæjar A) en nokkuð rask hefur þó orðið á því og við það vegna byggingaframkvæmda. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir frá eldra húsi sem stóð á bæjarstæðinu og byggt var 1906. Það var rifið og flutt til Hafnarfjarðar árið 1921. Húsið var sett á steyptan kjallara að Hverfisgötu 21 b þar í bæ. Á bæjarstæðinu standa nú þrjú sambyggð hús í röð. Húsin snúa norðvestur-suðaustur en húsaröðin snýr norðaustur-suðvestur. Suðvestasta húsið er stærst og sennilega er það húsið sem byggt var 1934.
Það er bárujárnsklætt, með háu risi, og við það hefur verið byggður timburskáli til norðvesturs. Þar norðaustan við er minna hús sem hefur sama lag.
Flekkuvík (býli)
Flekkuvík – uppdráttur ÓSÁ.
1703: Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. [1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124) 28.4.1479: Í þessu bréfi lýsir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. (DI VI, 185-86) 1553-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 577).
1703 eru hjáleigur Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. (JÁM III, 148-149). „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. (Ö-Flekkuvík, 4). Tvíbýli var á jörðinni frá því fyrir aldamótin 1900 og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli tl sem hétu Holt og Járnshaus. (Ö-Flekkuvík GE, 6). Jörðin í eyði frá 1959.
1703: „Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.“ JÁM III, 147. 1919: Tún alls 4,7 teigar, garðar 2170m2.
Tvíbýli var í Flekkuvík fyrir og eftir aldamótin 1900. Flekkuvíkurbæirnir stóðu vestanvert í samnefndri vík. Umhverfis bæina voru tún á nokkru flatlendi en þó eru grónir hraunhólar í norðvestanverðu túninu sem tilheyrði Vesturbænum. Samkvæmt túnakorti voru bæði Austur- og Vesturbærinn á sama stað, austan við traðir, og var stutt á milli þeirra og eru þeir báðir skráðir undir þessu númeri.
Sólsetur við Flekkuvík.
Vesturbærinn fór í eyði 1935 þegar íbúðarhúsið brann til grunna og Austurbærinn fór í eyði 1959. Í Austurbænum voru 2 hús sem tengd voru með litlu húsi. Vesturbærinn var eitt stórt hús og við vesturhlið þess lítið hús áfast. Norðan við vesturbæinn er þró eða gryfja. Á túnakorti er bæjarstæðið með báðum bæjum um 20 x 30 m stórt og snýr austur-vestur.
Bæjarstæðið er á láglendi en þó stendur það aðeins upp úr umhverfinu. Tún og túngarðar eru umhverfis bæjarstæðið og er það að miklu leyti flatlent en norðvestan og norðanvert eru grónir hraunhólar. Mikið rask hefur orðið á bæjarstæðinu vegna byggingaframkvæmda.
Flekkuvík.
Erfitt er að átta sig á umfangi bæjarhólsins í Flekkuvík vegna gróðurs og framkvæmda sem farið hafa fram á honum. Hóllinn virðist að nokkru leyti náttúrulegur en hann er gróflega áætlað um 20 x 30 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er um 1-1,5 m á hæð. Á bæjarstæðinu stendur allstórt hús, steinsteypt auk kjallara austan við það. Steypt plata er ofan á kjallaranum og nær hún að húsinu og er einnig meðfram suðvesturhlið þess. Við norðausturhorn hússins er niðurgrafin steypt laug. Rétt utan bæjarstæðisins eða í vesturjaðri þess er annað minna, steinsteypt hús í niðurníðslu.
Það er vestan við heimreið og stendur þar sem útihús Vesturbæjarins voru eða rétt norðan við þau. Byggingarnar á bæjarstæðinu ná yfir svæði sem er um 22 x 22 m að stærð. Rask hefur hins vegar orðið á mun stærra svæði. Ekki eru kjallarar undir steyptu húsunum sjálfum svo að von er til þess að undir þeim kunni að vera óraskaðar minjar. Norðan við stóra húsið austanmegin á hlaðinu er nokkuð um grjót sem rutt hefur verið út og er gamalt bárujárn í því. Vegna rasks við byggingaframkvæmdir og vegagerð er lítið eftir af miklum grjóthlöðnum kálgörðum sem voru í kringum allt bæjarstæðið og sýndir eru á túnakorti. Þó sést til þeirra suðvestan við stóra steinhúsið, austan við heimreið, og í kringum minna húsið. Þar eru grjóthleðslur að mestu hrundar en mesta hleðsluhæð er um 1,5 m.
Vatnagarður (býli)
Vatnagarður.
„Við Bælingsklappir er túnhorn Vesturbæjar. Þaðan liggur garður til útsuðurs og skilur hann á milli túnsins og Vatnagarðsins, en svo nefnist grasbrekka og lágar flatir, er fara í kaf með stórstraumsflóði. Í Vatnagarði, niður frá Álfhól er síðar getur, eru rústir. Gætu þær verið af gömlu koti (e.t.v. Péturskoti eða Úlfshjáleigu sem G.S. getum um í lýsingu sinni),“ segir í örnefnaskrá GE. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Utan Norðurtúngarðs var hjáleigan Vatnagarður umgirt Vatnagarðsgörðum að sunnan,“ segir í örnefnaskrá. Í fyrri tilvísuninni er ekki gert ráð fyrir því að umrædd tóft geti verið leifar af býlinu Vatnagarði. Innan Vatnagarðsgarða eru tvær sýnilegar tóftir og eru um 65 m á milli þeirra. Önnur þeirra er nærri Norðurtúngarði en hin er nærri sjó. Líklegra er talið að tóftin nær sjó sé býlið Vatnagarður en ekki er útilokað að báðar tóftirnar hafi tilheyrt því. Vatnagarðstóftin er um 175 m norðvestan við bæ. Svæðið sem tilheyrt hefur Vatnagarði er afmarkað af Norðurtúngarði til suðausturs, löngum beinum garði til vesturs, sem líklega er hluti af Vatnagarðsgörðum og skráður er hér, og af fjörunni til norðurs og austurs. Svæðið er þríhyrningslaga og er alls um 290 x 185 m að stærð, snýr norður-suður. Garðurinn sem skráður er með Vatnagarði er 160 m norðvestur af Flekkuvík og um 55 m vestur af Vatnagarðstóftinni. Varla er hægt að telja garðinn túngarð, þar sem ekki virðist hafa verið tún í Vatnagarði nema mjög lítill blettur umhverfis tóftina. Garðurinn er því skilgreindur sem vörslugarður. Tóftin er á grasi grónum bala norðan við hraunhóla. Framan við tóftina til norðurs og norðausturs eru grasi grónar klapparflatir í fjörunni. Bílslóði er sunnan við tóftina, milli hennar og fjörunnar.
Flekkuvíkurstekkur (stekkur)
Flekkuvíkurstekkur.
„Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ. Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m.
Úlfshjáleiga (býli)
Úlfshjáleiga.
„Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. […] Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.“ „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll [einnig Álfhóll] þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil,“ segir í örnefnaskrá. Álfhóll eða Úlfshóll er um 60 m norðvestan við bæ. Hóllinn er á milli hólaþyrpingar til norðurs og steyptra húsa á bæjarhlaðinu til suðurs. Hann er innan túns og afar grasgefinn.
Hóllinn er nokkuð langur og liggur í boga frá suðvestrinorðausturs. Hann er um 35 x 10 m að stærð og um 2 m hár. Hóllinn er mjög grasgefinn og sést lítið í klappir nema við suðvesturenda hólsins. Þar hefur verið hlaðið í kringum járnstaura og sementslím notað til að halda hleðslum saman. Aðrar hleðslur er ekki að sjá við eða á hólnum. Að ofan er hóllinn nokkuð flatur en ójafn. Ekki er ólíklegt að á hólnum hafi staðið einhver hús en á þessum hól er áberandi mikill grasvöxtur í samanburði við aðra hraunhóla í túninu sem eru jafnvel lægri. Um 5 m norðan við norðausturenda Álfhóls/Úlfhóls er lágur klapparhóll, gróinn að mestu leyti. Hann snýr suðvestur-norðaustur og er um 10 m langur, 5 breiður og um 1 m á hæð. Hóllinn hækkar til suðvesturs og á miðjum hólnum er dæld í sömu stefnu og hóllinn, um 2,5×1,5 m að stærð. Norðvestan við dældina, á hólbrún, er stórt grjót á svæði sem er um 1,5 x 1 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestan við hólinn er einnig stórt grjót í um 2 m langri röð, snýr norður-suður. Ekki er útilokað að hér hafi staðið hús, e.t.v. í tengslum við Úlfshjáleigu.
Holt (býli)
„Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Holts sést enn um 130 m suðvestan við bæ. Tóftin er í túni en utan þess er gróið hraun. Tvískipt og ferhyrnd tóft, 11 x 6 m að stærð. Snýr hún í norðaustur-suðvestur. Breidd veggja er um 1 m nema sá sem aðgreinir hólfin tvo. Hann er 2 m breiður. Mesta hæð veggjanna er 1 m (norðaustanverður innveggur) en víðast hvar eru þeir 0,4 m háir.
Járnhaus.
Járnhaus (býli)
„Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,“ segir í örnefnaskrá. Tóft er vestanvert í klapparhól, fast við túngarðinn í túni Austurbæjar, um 140 m suðvestur frá bæ 001 og um 40 m suðaustan við Holti. Tóftin er vestan í hól í suðurjaðri Austurbæjartúns, grasi grónu. Sunnan og vestan við túnið er gróið hraun. Suðaustast á hólnum sést í klöpp. Rústahóllinn sjálfur eru um 14 x 8 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er hæstur í ASA enda en þar er hann um 2 m á hæð. Mikill gróður vex þar sem hóllinn er hæstur, sérstaklega mikið vex þar af umfeðmingi. Þarna efst sést annað tveggja hólfa í tóftinni.
Flekkuleiði (legstaður/áletrun)
Flekkuleiði.
„Flekkuleiði er suðaustur frá bænum, fáa metra innan við túngarðinn og um 90 m til vesturs með túngarði – frá afleggjaranum talið,“ segir í örnefnaskrá. Flekkuleiði er um 145 m suður af bæ og um 90 m suðaustur af Járnhaus. Steinninn er um 5 m innan við túngarð. Flekkuleiði er í grasgefnum túnjaðri. Dálítill kambur er upp frá því til suðvesturs að túngarði.
Í Frásögnum af fornaldarleifum segir: „Hóll í Sudur undan Fleckuvíkur bæ, þar í Túninu 6 álna lángur, 3 1/2 alin breidur, vid jarðveg, allur Grasi vaxin, hefur 1 álnar lángan – 2 1/3 qvart: breidan hraunstein ofan i midjum Mæni þessari Skript grafinni […].“ „Flekkuleiði snýr frá norðri til suðurs og er um þriggja metra langt, 1,30m breidd og 30 sm hátt. Á því er rúnasteinn. – Það var trú fólks, að hér væri Flekka sú, er Flekkuvík nam, grafin. Leiði mun þó aðeins vera klapparbali, en ekki grafreitur,“ segir í örnefnaskrá. Árni Óla segir að á rúnasteininum standi „hér hvílir Flekka.“ Jónas Hallgrímsson gróf þar upp 1841 og undir var bara jarðföst klöpp og ljóst að enginn hefur verið grafinn þar. Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, um 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna lengd og 2 1/2 álnar breitt, sem sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri: [rúnaáletrunin] Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla. […] Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd, 15-16 1/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4-5 þuml., Hann er því, sem sjá má lítill og heldur ólöguleg hraunhella […].“
Rúnasteinninn á Flekkuleiði – uppdráttur ÓSÁ.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er „rúnasteinn“, sem segir að þar „Hvíli Flekka“. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga [Óvíst er hvaðan þessi heimild er fengin en í athugasemdum Matthíasar Þórðarsonar við dagbókarskrif Jónasar um rúnasteininn kemur fram að hann telji steininn vera frá 17. eða 18. öld og að hann hafi verið gerður vegna munnmæla um Flekku, sjá JH Rit III, 300].
Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin. Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast. Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.“ Á þessum stað er upphækkun sem er um 2 x 1 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur og er um 0,5 m á hæð. Steinninn er á því miðju, nær norðvesturbrún langhliðar. Hann er lítillega skófum vaxinn, sést vel en áletrunin óskýr. Steinninn er úr hraungrýti, um 0,3 x 0,4 m að stærð og snýr eins og leiðið.
Austurbæjarbrunnur (vatnsból)
Flekkuvík – Austurbæjarbrunnur.
„Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. […] Austurbæjarbrunn er víst óhætt að kalla Brunninn sem áður er nefndur,“ segir í örnefnaskrá. 70 m ASA af bæjarstæði er brunnur, rétt vestan við gróna heimreið að bænum em liggur í gegnum túnið. Brunnurinn er merktur á túnakort frá 1919. Brunnurinn er í grónu túni. Hringlaga brunnur, 2,5 m í þvermál og 2,5 m djúpur.
Hann er hlaðinn úr grjóti sem hefur að hluta verið höggvið til. Brunnurinn er nú þurr og sést í grjót í botni
hans.
Vesturbæjarbrunnur (vatnsból)
Flekkuvík – Vesturbæjarbrunnur.
„Vestan við bæ er svo Brunnurinn. Vesturbæjarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Sami brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919, í túni Vesturbæjar, um 70 m norðvestan við bæ og um 60 m suðvestur af brunni Austurbæjarbrunni.
Brunnurinn er í túni, nokkuð sléttlendu, en norðan við hann eru lágir og grónir klapparhólar. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál og um 1 m djúpur. Ekki er vatn í brunninum. Brúnir brunnsins slúta nokkuð inn og hrunið hefur úr brún hans í suðausturjaðri.
Skiparéttin (naust)
„Norðan við víkina eru svo Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör og Naustið þar upp af og Skiparéttin,“ segir í örnefnaskrá. Á túnakorti eru sýnd nokkur mannvirki við bæði Austurbæjar- og Vesturbæjarvarir. Ekki er ljóst við hvað af þeim mannvirkjum Naustið og Skiparéttin eiga við sem nefnd eru í örnefnaskrá. Við Austurbæjarvör eru á túnakorti spil, tvískipt hús vestan við það sem opið er til norðurs og svo þar suðaustan við eru fjögur samliggjandi og/eða samtengd lítil hús sem hér eru skráð sem Skiparéttin/Naustið. Líklegt er að eitthvað af þessu hafi verið naust og/eða skiparétt. Lítið sést nú til þessara minja á vettvangi.
Bræður (vörður)
Bræður.
„Enn austar eru Bræður, tvær vörður, hvor hjá annarri,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur segir: „Eftir því sem talið er við Kálfatjörn er Stóri-Hafnhóll, SyðriHafnhóll að einhverju leyti í Flekkuvíkurlandi. Svo er einnig með vörðurnar Bræður, Bróðir innri og Bróðir syðri.“ Vörðurnar eru 700 m norðan við Flekkuvíkursel og 3,4 km suður frá bæ. Miðað við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu eru vörðurnar í miðju Flekkuvíkurlandi og því ekki vafamál að báðar vörðurnar tilheyra Flekkuvík. Mosagróið hraun og klapparholt. Víða eru grasi grónar hvilftir.
Tvær veglegar grjóthlaðnar vörður, tveir metrar eru á milli þeirra. Sú austari er 1,5 x 1 m að flatarmáli og 1,5 m há. Sú vestari hefur sama flatarmál en er aðeins lægri, um 1,2 m að hæð. Grunnflötur þeirra beggja er nokkurn vegin kantaður. Þar sem vörðurnar standa enn svo vel eru þær varla mjög gamlar eða hafa verið endurreistar. Vörðurnar eru á svæði sem er um 5 x 1,5 m og snýr austur-vestur. Ekki er vitað í hvaða tilgangi vörðurnar voru hlaðnar.
Mundastekkur (stekkur)
Mundastekkur.
„[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ. Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7 x 6 m að stærð og snýr austurvestur. Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt.
Flekkuvíkursel (sel)
Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“ „Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálfatjarnar,“ segir í örnefnaskrá GE. „Þar rétt hjá er Selstígurinn [svo] beint suður í Flekkuvíkursel. Það stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. […] Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka,“ segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. „Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs, Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í ritgerð Gunnars Ingimundarsonar um örnefni í Brunnastaðahverfi kemur fram að Flekkuvíkursel hafi verið síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1870.
Flekkuvíkursel.
Selið er 4 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og NyrðriFlekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í Örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Annað sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel en það er að öllum líkindum í landi Vatnsleysu og er skráð með Stóru-Vatnsleysu. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.
Flekkuvíkursel.
Flekkuvíkursel er norðvestan undir Mið-Selás sem er allhátt hraunholt. Seltóftirnar eru í Seltúninu sem er nokkuð flatlendur og grasi gróinn túnblettur. „Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjáanlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins.“ Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel.
Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum [Framangreindar minjar: kví, sel og hóll með hleðslum er skráð saman auk vatnsstæðis. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“ Flekkuvíkursel er á svæði sem er 100 x 80 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Þar eru sex tóftir og eitt garðlag.
Selásvarða (varða)
Selásvarða.
„Þarna [hjá Flekkuvíkurseli] er dálítill hvammur með Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás framundan og þar á Selásvörðuna,“ segir í örnefnaskrá.
„Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Selsvarða ofan Flekkuvíkursels.
Heimildum ber ekki saman um hvort Selásvarða er á Mið-Selási eða Vestri-Flekkuvíkurselás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og NyrðriFlekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Selásvarðan er um 100 m sunnan við Flekkuvíkursel. Varðan stendur nokkuð hátt á ásnum á gróinni hæð. Varðan er hrunin og mikil um sig. Hún er um 1,2 m í þvermál en norðan við hana er grjótdreif sem er um 1 m í þvermál og er hún, a.m.k. að hluta, hrun úr vörðunni. Varðan er um 1 m á hæð og grjótið í henni meðalstórt. Um 100 m norðaustan við Selásvörðuna eru 2 lítilfjörlegar grjóthrúgur með stuttu millibili sem kunna að vera þær vörður sem í heimild eru sagðar á miðhluta og nyrðri enda Vestri-Flekkuvíkurássins og eru þær skráðar með henni.
Selásvarða hefur vísað á Flekkuvíkursel.
Sigurðarhjáleiga (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Sigurðarhjáleiga í byggð árið 1703. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Sigurðarhjáleiga stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Blíðheimar (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir að Blíðheimur sé hjáleiga í byggð. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Blíðheimur stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.
Péturskot (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Péturskot hjáleiga í byggð árið 1703. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Péturskot stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.
Refshali (býli)
Refshali.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Refshale hefur í eyði legið fjögur ár […]. Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirflóði af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja mega.“ „Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali,“ segir í örnefnaskrá GE. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst,“ segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23. Refshali er um 240 m austur af bæjarhólnum.
Býlið stendur á grónu nefi við stórgrýtta fjöru. Sunnan og vestan við nefið eru tún.
Samkvæmt túnakorti stóðu fjögur hús í Refshala og voru tvö þeirra sambyggð. Austasta húsið hefur verið þró eða gryfja. Þau stóðu í túni sem var um 30 x 40 m stórt og sneri í norðaustur-suðvestur. Talsverð mannvirki sjást enn í túninu sem er um 10 x 25 m að stærð í dag. Líklegt er að íbúðarhúsið hafi verið í öðru eða báðum sambyggðu húsunum. Kálgarður, um 10 x 10 m að stærð, er einnig sýndur á túnakortinu norðan við sambyggðu húsin. Virðist hann hafa verið umkringdur garðlagi.
Miðmundahólar (stekkur)
Miðmundahólar – tóft.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Á Flekkuvíkurheiði er falleg hólaþyrping sem ber við himinn sé komið að þeim úr norðri. Þeir heita Miðmundahólar. Vestan undir hólunum er tóft, sem ekki virðist vera til í örnefnalýsingum eða fornleifaskrám.“ Tóft er sunnan undir suðvestasta Miðmundahólnum, um 265 m suðaustan við Arnarvörðu og um 1,3 km suðvestan við bæ.
Tóftin er fremst (suðaustast) í grasgefnum krók undir suðvestasta Miðmundahólnum og klapparhæðar þar suðvestan við. Flagmói er kominn fast upp að tóftinni að suðaustanverðu.
Tóftin er grjóthlaðin en hún er afar vel gróin og lítið sést af grjóti í henni. Tóftin er einföld, snýr norðursuður og er um 3 x 5 m að stærð, mesta hleðsluhæð um 0,5 m. Ekki sést op á tóftinni en líklega hefur það verið á suðurgafli. Hólarnir norðan og suðvestan við tóftina mynda aðhald kringum lítinn grasblett norðvestan við tóftina. Líklegt er að hér hafi verið stekkur og benda fjarlægð frá bæ, staðsetning og útlit tóftar til þess.
Þórustaðastígur (leið)
Þórustaðastígur við Selsvelli.
„Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp að og yfir Vesturháls [Núpshlíðarháls] og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Stígur liggur upp frá Þórustaðahlið[i], nefnist Kúastígur, upp í heiðina. Sama [svo] stígur er líka nefndur Þórustaðastígur og liggur alla leið suður og upp til Núphlíðarháls og hann sameiginlegur Heiðarstígur fyrir alla Inn-Ströndina,“ segir í örnefnaskrá. Leiðin sést suðaustan við Þórustaðaborg og frá henni til norðvesturs að Þórustöðum. Á þeim kafla eru nokkrar vörður. Leiðin sést einnig skammt suðaustan við traðir á Þórustöðum. Árið 2000 var leiðin skoðuð í nágrenni Reykjanesbrautar. Leiðin liggur yfir gróið hraun.
Um stíginn segir einnig í Örnefnum og gönguleiðum: „Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi gata verið. Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs, sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa, vestan undir allháum hól. Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól […]. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól, Kolgrafarholti, skammt ofan Reykjanesbrautar, og liggur gatan með fram honum norðaustanmegin. […] [Stígurinn er nú stikaður sunnan við holtið enda ljóst að þar hafa menn og hestar einnig farið um]. Áframhald lýsingarinnar er á bls. 151-152. Leiðin var skoðuð á kafla í landi Þórustaða við aðalskráningu 2009.
Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.
Gatan sést við Þórustaðaborg þar sem hún liggur um gróinn móa. Þar er ein mjó gata, um 0,3 m á breidd og um 0, 3 m djúp. Hún er gróin að mestu leyti á þessum kafla en þar sem hún liggur um gróðurminna svæði norðvestan við Þórustaðaborg sést lítið sem ekkert til hennar. Á leiðinni frá Þórustaðaborg að Þórustöðum sjást fjórar vörður við leiðina. Gatan sést á um 70 m löngum kafla og stefnir nálega austur-vestur. Við skráningu vegna breikkunar Reykjanesbrautar árið 2000 var leiðin skoðuð við Kolgrafarholt. Milli Kolagrafarholts og annars hóls sem er norðar er dæld sem er grasi gróin. Merki Þórustaðastígsins eru greinileg í dældinni. Göturnar lágu svo áfram yfir hraunið til suðurs. Ekki sjást skýr merki um Þórustaðastíg við Reykjanesbrautina.
Alfaraleið (leið)
Alfaraleiðin.
„Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […] Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.
Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs. Skráning 2009: Í landi Þórustaða er ein varða og ein grjótþúst á allháu holti nærri núverandi malbikuðum vegi um Vatnsleysuströnd. Varða A er á norðausturenda holtsins. Hún er um 1,2×1 m að grunnfleti, snýr austur-vestur og er um 0,4 m á hæð. Varðan er gróin neðst og skófum vaxin. Um 28 m vestar er útflött grjótþúst B sem kann að hafa verið varða á sömu leið. Þústin er um 2 m í þvermál og stendur ekki steinn yfir steini. Hundaþúfa er fast norðvestan við þústina. Mögulega hefur verið smalakofi þar sem þústin er nú.
Stapavegur (leið)
Stapavegur.
„Svokallaður gamlivegur lá ofan við byggðina [við Brunnastaði ?] og meðfram henni allt utan úr Njarðvíkum um Vogastapa (þar nefndur Stapavegur], Voga og meðfram Djúpavogi um Djúpavogsheiði og áfram inn Vatnsleysuströnd. Sér nú á enda þessa vegar við Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu. Gamlivegur er talinn vera nærri jafngamall byggðinni í landinu og var á sínum tíma þjóðvegur um Suðurnes. Var hann fær bæði gangandi og ríðandi mönnum og vel mátti greina hann, meitlaðan í hraunklappirnar eftir gengnar kynslóðir. Höfundur [Gunnar Ingimundarson] gat ekki betur séð en búið væri að stórskemma og jafnvel eyðileggja veg þennan þegar á leið veturinn, vegna hitaveituleiðslu, sem lögð var úr Vogum að Brunnastaðahverfi nær því samsíða honum,“ segir í ritgerðinni Örnefni í Brunnastaðahverfi. Leiðin var gengin að miklu leyti á Stapa í landi Sveitarfélagsins Voga.
Leiðin liggur eftir einstigi í brattri og grösugri götu við vesturjaðar Stapans, upp Reiðskarð og þaðan eftir hrjóstrugu og blásnu hrauninu sem er sumstaðar mosagróið.
Leiðinni var fylgt þar sem hún liggur um Vogastapa, frá vestri til austurs. Vestast er leiðin mjótt einstigi í grasi gróinni brekku en verður strax mjög greinileg þegar komið er í Reiðskarð. Neðst í skarðinu hefur stórgrýti verið rutt úr götunni og hlaðið vestan við götuna. Ofar í skarðinu er ruðningur á báðar hendur þar til komið er að upphlöðnum kafla á leiðinni. Hlaðni kaflinn er um 20 m langur og er vesturkanturinn hlaðinn en grjótruðningur er við austurkantinn. Hleðslan er um 1,5 m á hæð og eru 4 umför grjóts sýnileg. Svo virðist sem fyllt hafi verið upp með smáu grjóti og jarðvegi milli hleðslunnar og ruðningsins á þessum kafla. Svo virðist sem leiðin hafi einnig legið í sveig framhjá upphlaðna kaflanum og ef til vill áður en bætur voru gerðar á honum. Í Reiðskarði er gatan víðast um 2 m breið og er dýpst um 0,5 m. Þegar komið er upp úr skarðinu eru miklir grjótruðningar meðfram götunni, allt að 1,5 m á hæð og er gatan þar 1,5-2 m breið en mjókkar svo og ruðningar lækka. Leiðinni var fylgt að mestu leyti yfir í land Njarðvíkur og sést hún halda áfram þar. Gamli-Keflavíkurvegurinn liggur yfir Stapaveg á kafla við GrynnriSkor en annars er furðulítið rask á leiðinni þar sem henni var fylgt. Leiðinni er viðhaldið af göngufólki. Skammt sunnan við leiðina er mikið jarðrask í landi Njarðvíkur vegna efnistöku eða annarra framkvæmda og kann Stapavegi að stafa hætta af því. Lýsing á Stapagötu er að finna í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 132-134.
Gamli-Stapavegur (leið)
Stapavegur-Gamli.
„Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum Leiðin hefur legið um svæði sem nú er hrjóstrugt, grýtt og gróðurlítið en verið er að græða upp með lúpínu.
Ekki sást til leiðarinnar á vettvangi en eftir að vettvangsvinnu lauk fengust upplýsingar um hvar helst væri að sjá ummerki hennar hjá Sesselju Guðmundsdóttur. Samkvæmt Sesselju sést til leiðarinnar við Mörguvörður en þær eru um 200 m neðan (norðan) við Reykjanesbraut, og um 1 km frá Grindavíkurafleggjara (sennilega
norðvestan við hann, ekki er mögulegt að þær séu austan við afleggjarann ef þær hafa verið sunnan við Kolaskor skv. landamerkjalýsingu). Vörðurnar fundust ekki á vettvangi.
Skógfellavegur (leið)
Skógfellastígur sunnan Litla Skógfells.
„Í lægðinni við Stapahornið og ofan Reykjanesbrautar sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakradalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víðar var á öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af. […] Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðum alla leið „upp eftir“ eins og hér var og er málvenja að segja,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Skógafellavegur er merktur með skilti um 20-30 m neðan Reykjanesbrautar. Skiltið er hins vegar norðaustan við leiðina sjálfa en það má sjá móta óljóst fyrir henni suðvestan við skiltið. Leiðin liggur um gróið hraunið.
Ýtarleg lýsing á veginum er í bók Sesselju Guðmundsdóttur á blaðsíðu 153-159.
Almenningsvegur (leið)
Almenningsvegur.
„Varðan [Stefánsvarða] stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á köflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líklega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Um 150 m vestan við Stefánssvörðu og um 90 m suðaustur af tóft sjást ógreinileg merki götu í dálítilli rás milli grasfláka og klappa og er þetta leiðin sem nefnd er í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Leiðin liggur norðan við aðalveginn um svæðið í allgrónu hrauni en holmóaflákar eru á stöku stað. Þaðan sem leiðin sést fyrst var henni fylgt að Stefánsvörðu en hún liggur skammt suðvestan við hana. Þar verður hún ógreinileg en sést aftur í landi Flekkuvíkur hjá vörðu. Þaðan var henni fylgt að núverandi afleggjara heim að Flekkuvík. Breidd götunnar á kaflanum við Stefánsvörðu er 1-2 m og þar er hún um 0,3 m djúp. Þar er mikið grjót í henni og hún liggur að miklu leyti yfir holmóa. Á þeim kafla sem skráður er í landi Flekkuvíkur er gatan um 0,5 m breið og 0,2-0,4 m djúp. Þar er gatan víðast gróin og grýtt.
Sumstaðar hefur grjóti verið rutt úr götunni.
Kirkjugata (leið)
Kálfatjörn – kirkjugatan.
„Við vesturenda baðstofunnar í Hliði lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugatan,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.“ Kirkjugatan var skoðuð í landi Kálfatjarnar, Norðurkots og Þórustaða. Í landi Kálfatjarnar liggur leiðin að mestu leyti um snöggt sleginn golfvöll. Annars staðar liggur leiðin um tún og hraunmóa. Gatan liggur frá bæ Kálfatjarnar til VSV hjá Hliði en verður ógreinileg í landi Norðurkots. Þar sem leiðin liggur um golfvöllinn sést óljóst móta fyrir henni sem dæld á sléttri flötinni. Leiðin liggur í gegnum túngarð Kálfatjarnar (Landagarð) og er þar rof í garðinn. Þaðan og að Hliði er gatan skýrari en þó vel gróin. Þar sem gatan er breiðust er hún um 0,6 m, hún er mjög grunn, mesta dýpt er 0,1-0,2 m. Leiðin er samtals greinileg á um 200 m löngum kafla innan Kálfatjarnar. Í Norðurkoti sést gatan óljóst á milli kálgarða og við bæjarhól Norðurkots. Möl hefur verið borin í götuna suðvestan við kálgarðana milli Norðurkots og Þórustaða, líklega þegar Norðurkotshúsið var flutt að Kálfatjörn. Mjó landræma, um 1 m á breidd, er á milli kálgarðs og byggingaleifa á bæjarhólnum og hefur gatan legið um hana. Lágur kantur er meðfram götunni þar sem hún liggur suðaustan við kálgarð. Að öðru leyti sjást ekki skýr ummerki um götuna í landi Norðurkots og hún sést ekki í landi Þórustaða.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.
Vatnsleysuströnd – bæir og nokkrar merkar minjar I
Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I, árið 2011 má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um bæi, s.s. Stóru-Voga, Snorrastaði, Stapakot, Brekku, Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot, Tjarnarkot, Minni-Voga, Norðurkot, Auðna, Auðnakot, Landakot, Þórustaði, Kálfatjörn, Naustakot, Móakot, Hátún, Fjósakot, Bakka og Flekkuvík, og nokkrar merkar minjar í sveitarfélaginu.
Stóru Vogar (býli)
Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).
Jarðadýrleiki óviss 1703. Hrolllaugur sem fékk Vatnsleysustrandarhrepp hjá Eyvindi landámsmanni bjó í Kvíguvogum. Kvíguvoga er getið í Sturlungu, (Sturlunga saga I, 406). Máldagi í Kvíguvogum frá árinu 1367 (DI III, 221).
18.4.1434: Jörðin seld fyrir 60 hundruð (DI IV 540).
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr). (DI IV 707-708).
4.10.1489. Jörðin Stærri-Vogar seld (þá 50 hundruð) fyrir jarðirnar Skarð í Fnjóskadal og Mýri í Bárðardal (DI VI, 686).
1496: Eru báðir hlutar jarðarinnar fengnir Viðeyjarklaustri til eignar. (DI VII, 299, 303).
1533: Hálfkirkjan á jörðinni nefnd í sakamáli (DI IX, 660).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 7 vættir fiska (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Árið 1703 er þess getið að Snorrastaðir, forn eyðihjáleiga, hafi verið lögð undir jörðina. Hjáleigur jarðarinnar árið 1703 voru Eyrarkot, Gata og Syðsta hjáleiga í byggð.
Eyðihjáleigur voru Tjarnarkot, Valgarðshjáleiga, Garðhús, Móakot, Halakot og Krunakot [Bræðrapartur] (JÁM III, 119-121).
Seint á 18., öld er getið um hjáleigu sem nýtt var sem lambhús.
Hjáleigur í byggð 1847: Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot og Tjarnarkot. Nýibær, Stapabúð, Brekka, Steinsholt, Klöpp, Garðbær, og Hábær voru afbýli byggð á 19. öld. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Upprunalegt nafn bæjarins er Kvíguvogar (Ö-Vogar, 7).
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá uppruna örnefnisins Kvíguvogar í þjóðsögunni um bónda einn í Vogum og marbendil sem bóndi veiðir í net sín. Í sögunni segir m.a.: „Þóttist hann skilja að kýr þessar hefði marbendill sent sér í þakkarskyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumannsgripur sem á Ísland hefur komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn sem víða hefur dreifzt um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja að hann varð mesti auðnumaður alla ævi. Hann lengdi og nafn byggðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga er áður voru kallaðir Vogar.“ (Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 127-128).
1703: „Túnin líða skaða af sands og sjávarágángi, og gjörist að því ár frá ári meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagarnir litlir sumar og vetur.“ (JÁM III, 119). Túnakort 1919: Tún 2,3 teigar, garðar 1220m2.
Stóru-Vogar.
„Neðan vert og nær sjónum eru svo Stóru-Vogar og stóðu á Bæjarhólnum í Stóru-Vogatúni. Þar eru nú rústir einar, því Stóru-Vogar eru í eyði.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, segir: „Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 […]. Það Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. […] Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.“
Stóru-Vogar eru um 370 m sunnan við Minni-Voga og 310 m SSA við Suðurkot. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta í vestri vegna ágangs sjávar. Bæjarleifar Stóru-Voga eru um 5 m austan við efribrún Vogafjöru. Malbikaður göngustígur liggur N-S meðfram vesturvegg íbúðarhúss Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er grasigróinn, 2-3 m á hæð, um 30 m á lengd, um 20 m á breidd og snýr N-S. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni ber minna á bæjarhólnum í dag (2007) vegna framkvæmda við Stóru-Vogaskóla þar sem jarðvegi úr grunni hússins var ýtt yfir stóran hluta heimatúns bæjarins. Á hólnum eru enn tóftir íbúðarhússins sem byggt var árið 1912 og signar hleðslur grjótveggja fjóss sem var fast norðan við húsið. Grunnur íbúðarhússins er steinsteyptur og grjóthlaðinn, um 12 m á lengd, um 6 m á breidd og snýr A-V.
Innanveggir grunnsins eru alveg steinsteyptir um 0,2 m á breidd og um 1 m á hæð. Ytri veggir eru um 0,5 m á breidd og um 1-1,4 m á hæð. Steinsteyptar tröppur voru upp á aðra hæð húss að sunnan við SA horn þess. Tröppurnar eru um 2 m á breidd, um 3 m á lengd og um 1,4 m á hæð. Kjallarinn var þrískiptur, með sjö dyrum og einum glugga á austurvegg. Tvennar dyr eru á vesturhlið, tvennar á suðurhlið, einar á austurhlið og tvennar á norðurhlið. Samkvæmt Viktori Guðmundssyni og Sesselju Guðmundsdóttur var grunnur hússins að hluta til byggður 1871 og svo bætt við hann 1912. Eldri hluti grunnsins er tilhöggvið grjót límt saman á meðan yngri hluti hans er að verulegu leyti fjörugrjót sem steypt var í mót og múrhúðað. Tröppur hússins eru taldar vera frá 1912. Samkvæmt Helga D. Davíðssyni var hluti af byggingarefni íbúðarhússins svo notað í húsið Aragerði 7. Vestari dyr á norðurhlið íbúðarhúss lágu upp í sambyggt fjós og hlöðu sem er um 2 m norðar. Um 1,5 m breiður og um 2 m langur gangur lá N-S á milli húsanna. Veggir fjóssins og hlöðunnar eru grjóthlaðnir og mjög hrundir en þeir eru um 0,5-1 m á breidd og um 0,2-0,4 m á hæð.
Stóru-Vogakirkja (útkirkja)
Stóru-Vogar – fornleifar.
Í bókinni Strönd og Vogar segir: „Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var kirkjan líklega á vestanverðum bæjarhól Stóru-Voga en ekkert sést til hennar í dag, trúlega vegna sjávarrofs. Mjög líklegt er að mannabein sem fundust í sniði bæjarhólsins að vestanverðu (sjá 059) séu vísbending um staðsetningu kirkju og kirkjugarðs þó ekki sé hægt að fullyrða það án frekari rannsókna. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta vegna ágangs sjávar. Grunnur íbúðarhússins er enn uppistandandi og leifar hleðslna í fjósi eru sjáanlegar.
KVÍGUVOGAR (G) -Þorláki, Maríu (KÁLFATJARNARÞING) – HÁLFKIRKJA [1367]: lxv. Mariu kirkia og hinz heilaga Thorlaks Biskups j kuiguvogum a xc j heimalande. vj ær. ij saude tuævetra. les Vilchinsbok; Hítardalsbók DI III 221 1397: a .xc. j Heimalandi portio Ecclesiæ vmm iiij ar .iiij. merkur þau sem Andries Magnusson a ad svara. Þar skal takast heimatiund heimamanna; Máld DI IV 105-106 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 61}. Ekkert sést til fornleifa.
Snorrastaðir (býli)
Snorrastaðir – tóft.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.“ Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. „Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. […] Fyrir ofan neðstu tjörnina er nýreistur skáli frá Skátafélaginu Heiðarbúum í Keflavík,“ segir í Örnefni og gönguleiðir. Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustur-suðvestur.
„Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Staðsetning býlisins er ókunn.
Snorrastaðir.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.“ Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. „Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. …
Nýibær (býli)
Nýibær.
„Einnig Nýibær og Hábær [enn í byggð]. […] Þá er Nýibær í Nýjabæjartúni og liggur Nýjabæjarstígur niður þaðan í Nýjabæjarvör. Tún Tumakots og Nýjabæjar liggja saman á hólnum, sem nefnast Borhólar og skammt þaðan er Nýjabæjarbrunnur, […].“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Nýjibær (Vogagerði 24). Árið 1872 hófu ung hjón búskap að Nýjabæ. […] Stuttu eftir að Andrés tók við búinu [eftir 1899] byggði hann nýtt íbúðarhús. […] Árið 1927 lagði Andrés í það mikla verk að byggja nýtt og stærra íbúðarhús.“ Nýibær (byggður 1927) er nú Vogagerði 24, um 200 m NNA við Suðurkot og um 180 m SA við Stóru-Voga.
Nýibær stendur fast vestan við malbikaða götu sem liggur N-S, Vogagerði, og fast sunnan við malbikaða götu, Ægisgötu, sem liggur A-V. Vestan við Nýjabæ er svo sléttað moldarbarð þar sem áður stóð steinsteypt íbúðarhús og sunnan við hann er íbúðarhús við Vogagerði 26.
1919: Tún 1 teigur, garðar 550 m2. Ekkert sést til eldri bæjar og enginn bæjarhóll er greinanlegur vegna sléttunar, bygginga og vegagerðar. Íbúðarhúsið sem byggt var 1927 er bárujárnsklætt timburhús sem snýr N-S. Gengið er inn að vestan og er grunnur hússins grjóthlaðinn og steinsteyptur. Húsið er á tveimur hæðum og samkvæmt Særúnu Jónsdóttur, heimildarmanni, er ómanngengur kjallari undir húsinu. Engir gluggar eru á grunni hússins og er þak þess með burst. Grunnurinn er um 7×7 m að flatarmáli fyrir utan steinsteypta viðbyggingu að norðanverðu.
Hábær (býli)
Hábær.
„Einnig Nýibær og Hábær. […] Hábær stendur í Hábæjartúni en heima frá bæ liggur Hábæjarstígur í Hábæjarvör. Rétt hjá bænum var Hábæjarbrunnur.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Hábær er nyrsti jarðarhlutinn sem látinn var úr Stóru-Vogajörðinni. […] Árið 1920 reif Ásmundur [Árnason] Hábæ og byggði hann upp aftur í Hafnarfirði og gaf því húsi sama nafn, (nú Skúlaskeið 3). […] Hábær í Vogum var aðeins kjallaragrunnur eftir að húsið sjálft var rifið. […] lét hann [Árni T. Pétursson] rífa Hvamm og byggja upp á Hábæjargrunninum, þó í öðrum stíl væri en áður, og er það enn í dag sá hluti hússins sem snýr mót suðri. […] Árni byggði Hábæ árið 1921 […].“ Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var Hábær um 160 m NA við Stóru-Voga og um 160 m sunnan við Austurkot. Í raun er Hábær um 150 m NA við Stóru-Voga og um 200 m SSV við Austurkot. Upprunalegt byggingarár Hábæjar er óþekkt og ekki er vitað hvort einhvern tíman stóð torfbær á þessu svæði.
Hábær stendur enn í grasigrónum garði fast norðan við Tjarnargötu í vesturenda hennar, NA við grunnskóla Voga.
1919: Tún 1,5 teigar, garðar 450 m2. Hábær sem byggður var 1922 stendur enn en búið er að byggja við upprunalegu bygginguna 2-3 sinnum. Gera má ráð fyrir því að aðeins grunnur fyrra timburhúss sem rifið var árið 1920 sé enn til staðar af eldri byggingum. Enginn bæjarhóll er greinanlegur hugsanlega vegna rasks í kringum húsið en einnig er hugsanlegt að enginn bæjarhóll hafi náð að myndast síðan Hábær byggðist. Ekkert sést til fornleifa.
Kvennagönguskarðsstígur (leið)
Kvennagönguskarð.
„Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagönguskarðsstígur,“ segir í örnefnaskrá.
Kvennagönguskarð er næsta skarð austan við Brekkuskarð, á milli þess og Reiðskarðs. Skarðið er snarbratt og stórgrýtt, gróið mosa og lyngi. Engin ummerki gatna eða slóða eru í skarðinu, en Stapagata liggur sunnan við skarðið í austur-vestur. Mögulega hefur skarðið verið áningarstaður á þeirri leið og þess vegna hlotið þetta nafn.
Kálgarðsbjalli (kálgarður)
Kálgarðsbjalli.
„Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli […],“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt athugasemdum við örnefnaskrá var þar kálgarður um aldamótin 1900. Samkvæmt heimildamanni var garðurinn svokallaður hreppsgarður og hlaðinn í atvinnubótavinnu. Í honum voru ræktaðar kartöflur. Kálgarðsbjalli er um 1,3 km SSV af Stóru-Vogum 001 og um 400 m suður af Brekku 036, en garðhleðslur eru sunnan í honum.
Stapinn – hreppsgarðurinn.
Bjallinn er gróinn en mjög grýttur. Brekkan sem hleðslurnar eru í er allbrött til suðurs en klettar efst í henni. Lúpínubreiður eru til suðurs og austurs.
Garðarnir eru mjög greinilegir og ná yfir svæði sem er um 34×28 m að stærð og snýr í norður-suður. Á svæðinu er eitt stórt gerði og tveir niðurgrafnir eða jafnaðir stallar sunnan við það. Gerðið er efst í brekkunni, um 24×24 m að utanmáli. Hleðslur eru úr grjóti í austur-, norður-, og hluta vesturveggjar. Í suðurvegg og syðri hluta vesturveggjar eru hleðslur úr torfi og grjóti. Hleðslur eru allt að 1,2 m á hæð og mest að 3 m á breidd í suðurvegg. Hleðslur eru rofnar í hluta vesturveggjar en standa að öðru leyti. Efst innan gerðisins eru lágir klettar og mikil grjótdreif undir þeim. Op er á suðurhlið gerðisins en suðaustan við það, undir suðurvegg gerðisins, er jafnaður stallur í brekkunni.
Hann er um 6×2 m og snýr austur-vestur. Engar vegghleðslur umlykja stallinn nema að austanverðu, þar sem garðstubbur, um 2 m langur, sameinast suðurvegg gerðisins. Um 3 m neðan, eða sunnan, við stallinn er annar jafnaður stallur í brekkunni. Á honum eru tvö niðurgrafin hólf. Hið vestra er ferhyrnt, um 5×4 m að stærð, 0,3 á dýpt og snýr austurvestur. Hið eystra er sporöskjulaga, um 0,4 m á dýpt, um 4×2 m að stærð og snýr norður-suður.
Kerlingarbúðir (verbúð)
Kerlingarbúðir.
„Vestan undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef, þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingabúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn, er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu,“ segir í örnefnaskrá „Undir Vogastapa er lítið undirlendi og ekki búsældarlegt, og treystu búendur þar því nær eingöngu á sjávarútveg. Vestast undir Stapanum þar sem minnst er undirlendið, eru Kerlingabúðir. … Í Kerlingabúðum má sjá margar tóftir sem ýmist hafa verið mannabústaðir eða fiskibyrgi. … Stór steinn sem í var höggið ártalið 1780 var allt fram á síðustu ár þarna fyrir neðan sjávarbakkann,“ segir í Mannlíf og mannvirki. Kerlingabúðir eru um 120 m vestur af vestasta hluta túnskikans á Stapa 036, um 1,5 km VSV af Stóru-Vogum 001. Þar er mosagróin grjóturð í í brekkunni og eru rústirnar neðst í henni.
Kerlingarbúðir.
Neðst í brattri og grýttri hlíð undir klettahömrum. Sjór hefur brotið nær allt undirlendi neðan hlíðarinnar. Lítil ummerki sjást nú af verbúðinni, en mikið hefur horfið í sjó á undangengnum áratugum. Minjarnar dreifast á svæði sem er um 40×8 m að stærð, landræma sem liggur í austur-vestur milli brekkunnar og sjávar. Austast á svæðinu, í urðarfætinum, eru tvö samliggjandi hólf. Þau eru grjóthlaðin, en uppistaðan í hleðslunum er þó jarðfast grjót neðst í urðinni. Hleðslur eru mest tvö til þrjú umför, og 0,5 m á hæð. Eystra hólfið er um 3×1 að innanmáli með op á norðurhlið og snýr austur-vestur. Vestara hólfið er um 3,5×3 m að innanmáli með op á norðurhlið. Syðst í hólfinu er mikið hrunið ofan í það og virðist þar hafa verið hleðsla. Þar er hólfið líka alldjúpt og því mögulega niðurgrafið. Fleiri mannvirki hafa líklega verið vestan við hólfin en hleðslubrot er fast vestan við þau. Engin önnur glögg ummerki er þó um að ræða enda hefur grjóthrun og sjávarrof líklega eytt þeim. Um 20 m vestur af hólfunum, í sjávarbrotinu, er garðbrot. Það er um 1,2 m á hæð, 1,5 m á breidd og sigið út. Það er hlaðið við tvo stóra steina og er hleðslan úr torfi og grjóti.
Stapabúð (býli)
Stapabúð.
„Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því, en Stapabúðarvarir voru þar fram undan,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir: „Nokkru austar [en Kerlingabúðir] meðfram Stapanum eru aðrar kofarústir er heita Stapabúðir. Síðast var búið þar árið 1899 […].“ Stapabúð er um 130 m norðvestan við Brekku 036 og um 1,5 km suðvestan við Stóru-Voga.
Stapabúð er í grasi grónu túni niður undan mosagróinni en stórgrýttri brekku. Norðaustan við hana er djúp og breið lægð í landið, líklega vegna sjávarrofs og er hún sendin og vaxin melgresi. Aðrar minjar í tengslum við Stapabúð eru vestan við lægðina fyrir utan tóft sem er sunnan við hana. Þar er lítið láglendi en allt er það grasi vaxið frá brekkurótum fram á sjávarbakka.
Fyrst var þurrabúð á staðnum en síðar grasbýli. Stapabúð er með á túnakorti Brekku frá árinu 1919 var samanlagt tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt því. Á túnakortinu sjást 6 byggingar, kálgarður, vör, brunnur og líklega túngarður. „Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér […] áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1829-1840,“ segir Árni Óla í bók sinni.
Stapabúð.
Einnig er getið um Stapabúð í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki. Þar segir: „Stapabúð var grasbýli og greiddi landskuld til Stóru-Voga, er átti allt land meðfram Vogastapa. Þar má enn vel sjá hvernig húsaskipan var háttað. Útræðisaðstaða var mjög góð og fisksæld mikil.“ Í Stapabúð sjást enn miklar leifar. Þar eru 4 tóftir, kálgarður, leifar af túngarði og brunnur á svæði sem er um 170 x 90 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þessar minjar eru merktar inn á túnakort Brekku frá 1919.
Brekka (býli)
Brekka.
„Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],“ segir í örnefnaskrá. Brekkubærinn er neðan og vestan við Brekkuskarð, sunnan við Hólmann, um 1,5 km suðvestur frá Stóru-Vogum. Bærinn stóð á litlu undirlendi undir bröttum hömrum og grjótskriðum. Brekkan suðaustan við bæinn er vel gróin og vex þar aðallega elfting eins og í norðurjaðri túnsins. Annarsstaðar er grasgefnara, sérstaklega næst bæjartóftinni. Sandhólar og -dalir eru vaxnir hvönn og melgresi. Undirlendið sem er gróið er um 100 x 150 m og snýr austurvestur.
Upphaflega var Brekka þurrabúð en varð síðar grasbýli. Býlið var reist 1848. Árið 1919 var tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt túnakorti með túninu í Stapabúð. Getið er um Brekku í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Að Brekku undir Vogastapa fluttu hjón frá Hólmabúðum árið 1861. […] Byggðu þau upp bæinn og bjuggu þar til ársins 1869. […] Brekka var grasbýli, leiguland eins og stapabúð og greiddi afnotagjöldin til Stóru-Voga […] Þetta gjald hélst þar til Brekka lagðist í eyði árið 1928.“ Minjasvæðið er um 40 x 20 m og snýr austurvestur. Á vettvangi voru tvær tóftir skráðar, kálgarður og brunnur og eru þau mannvirki sýnd á túnakorti auk réttar í vesturjaðri túnsins á Brekku en ekki sést til hennar á vettvangi. Ef til vill er hún farin í sjó fram.
Brekkulónsvarir (lending)
Brekkulónsvarir.
„Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],“ segir í örnefnaskrá. Brekkuvarir eru um 100 m suðaustan við Brekkubæ.
Lendingin er í sandfjöru norðan við hraunbrúnina. Rétt norðan við lendinguna er dálítil klöpp og sunnan við hana er grjót sem að líkindum hefur hrunið úr hraunbrúninni. Lendingin snýr austur-vestur og er sendin í botninn en þó er eitthvað af grjóti í henni vestarlega. Hún er um 1-4 m á breidd, breiðust vestast, og um 20 m löng. Líklega hefur lendingin verið rudd en það er ekki augljóst.
Hólmsbúð (bústaður)
Hólmsbúð – uppdráttur.
„Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir: „Á Hólminum eru rústir og stórir húsagrunnar, því þar var með stærstu útgerðarstöðum á landinu um tíma.“ „Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland.
Aftur á móti sést enn vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót.“ Hólmurinn er lágreistur, landfastur (á fjöru) og gróinn hólmi fram undan Brekkutúni, um 1,3 km SV af Stóru-Vogum. Á honum eru greinilegar og umfangsmiklar rústir Að austanverðu á Hólminum er sandfjara en berar og grófar hraunklappir í sjó fram á aðra kanta.
Hólmsbúð undir Stapa.
„Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi sem líklega hefur veið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt. Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörk þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína … Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830 …, “ segir Árni Óla í bók sinni.
Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.
Einnig er getið um Hólmabúðir í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland. Aftur á móti sést en vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót. Voru þar eingöngu svokölluð !innitökuskip“, aðkomuskip um vetrarvertíðina, eða frá byrjun mars til lokadags 11. maí. …Á Hólmabúðum voru komin stór salthús 1839-1840 og á lofti þeirra voru verbúðir aðkomumanna. … Þar eru grunnar eftir tvö stór salthús og á Kristjánstanga, sem er milli Voga og Vogastapa var þriðja salthúsið. Allt árið urðu að vera saltafgreiðslumenn á Hólmabúðum, sem afgreiddu salt og aðrar nauðsynjar, þó helst á vetrarvertíðinni. Voru því, utan vertíðar, búendur allt árið í Hólmabúðum. … Talið er að þegar útgerð var mest frá Hólmabúðum hafi verið gerð út þaðan 18 skip og ef áætlað er að jafnaði 7 menn á hvert skip verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna um 140-150 manns á vetrarvertíðinni.“ Tóftirnar dreifast um Hólminn sem er um 50×50 m að stærð.
Hólmsbúðarvör (lending)
Stapinn – flugmynd.
„Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, mun þar hafa verið pláss fyrir tvo báta, en hún hefur ekki fundið staðsetningu vararinnar. Vörin hefur þó líklega verið austan í Hólminum, þar sem er dálítil sandvik, því annarstaðar eru umhverfis hann grófar hraunklappir sem flæðir yfir. Hólmurinn er landfastur (á fjöru) gróinn hólmi fram undan Brekkutúni.
Ekki er vitað hvar Hólmsbúðarvör hefur verið.
Vogaréttir (rétt)
Vogaréttir.
„Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar. Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.
Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina.
Steinsholt (býli)
Steinsholt.
„Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Mannlíf og Mannvirki í Vatnleysustrandarhreppi var Steinsholt byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæði um 740 m SSA við Stóru-Voga og um 1100 m SSA við Minni-Voga. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, eru tvær af tóftunum (E og M) örugglega Steinsholt, en Guðrún kannaðist ekki við hinar. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29 mars árið 1879.“
Vogasel (sel)
Vogasel yngri.
„Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá. Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun.
Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m. Mannvirkjunum verður nú lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Bræðrapartur (býli)
Bræðrapartur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Krunakot hefur verið tómthús, þar var landskuld ein vætt fiska til heimabóndans, það hefur sjaldan bygt verið, en nú síðast yfir sex ár í eyði legið.“ „Bræðrapartur enn í byggð.“ segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: „Bræðrapartur er syðsta hús í Vogum og stendur í Bræðrapartstúni.“ segir í örnefnaskrá. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti úr Suðurkots – og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það sé grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag. […] Í Bræðraparti urðu allmikil umskipti er Guðmundur Kortsson tók við búinu árið 1928. Árið 1929 byggði hann hús og reif það gamla, er hafði þótt gott á sínum tíma. […] Árið 1947 byggði Guðmundur við og breytti húsinu í núverandi horf.“ Bræðrapartur var um 370 m sunnan við Stóru-Voga og um 60 m sunnan við Suðurkot.
Á þessu svæði er sléttuð grasflöt og íbúðarhús við Brekkugötu 6.
1919: Tún 1,3 ha, garðar 1000 m2. Ekkert sést til fornleifa en húsið við Brekkugötu 6 stendur á greinilegum egglaga hól sem er um 30 m á breidd, um 50 m á lengd, 1-2 m á hæð og snýr NV-SA.
Stóru-Vogasjóhús (sjóbúð)
Stóru-Vogasjóhús.
„Heiman frá bæ lá Stóru-Vogastígur niður í Stóru-Vogavör við Stóru-Vogatanga. Upp var [svo] Vörinni var Stóru-Voganaust og Stóru-Vogasjóhús.“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var fiskhús um 120 m NV við Stóru-Voga og um 170 m VSV við Tjarnarkot. Tvöföld tóft er um 130 m VNV við bæ og um 170 m SV við Tjarnarkot. Tóftin stendur á efribrún fjöru í sléttu graslendi á Stóru-Vogartanga.
Tóftin er tvískipt, um 9 m á lengd, um 7 m á breidd og snýr ASA-VNV. Hér hefur trúlega verið timburhús á grjóthlöðnum grunni. Tóftin er vel grasigróin og lítið rofin en efri brún fjöru er komin mjög nálægt tóftinni að V svo hún er í hættu vegna sjávarrofs.
Samkvæmt Magnúsi Ágústssyni var fjárhús frá Stóru-Vogum á þessu svæði en samkvæmt ljósmynd sem tekin er árið 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands voru þarna sjóhús frá Stóru-Vogum.
Dys (legstaður)
Stóru-Vogar 1950.
Í Strönd og Vogar segir: „“Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Hans son var Svertingur, faðir Gríms lögsögumanns á Mosfelli.“ Enginn veit nú, hvar haugur Hrolleifs er. Sumir hafa giskað á, að hann muni vera rétt hjá húsinu, sem nú er í Stóru-Vogum, því að mannsbein hafa fundizt þar í hólbarði. Kålund getur um hauginn í Íslandslýsingu sinni og segir, að á haugnum hafi fyrst verið reist hjáleiga og síðan fjárhús.“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, fundust mannbeinin í fjöru í sniði bæjarhóls að vestanverðu um 15 m vestan við íbúðarhús Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er nú að hálfu rofinn í burtu að vestan vegna ágangs sjávar. Þar er nú brött grýtt brún sem hallar um 30-40° til V.
Stóru-Vogar – skilti.
Ekkert sést til fornleifa í dag. Guðrún sagðist ekki vera viss um það hvort beinin hafi verið rofin úr bæjarhólnum eða hvort um hafi verið að ræða bein óþekkts sjómanns. Samkvæmt Helga Davíðssyni, einum eiganda Ásláksstaða, fundust beinin í sjávarbakkanum skammt norðan við bæjarrústina, á ská út frá tóft útihúsanna. Líklegast er að beinin tengist í raun kirkjugarði hálfkirkju Stóru-Voga sem talið er að hafi verið á jörðinni þó ekki sé hægt að fullyrða það en einnig gæti alveg verið um legstað Hrolleifs að ræða. Snið bæjarhólsins er ógreinilegt vegna jarðvegshruns og rasks vegna byggingar sjávarvarnargarðs, göngustígs og skólabyggingar. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni fundust beinin 5. júní 1976 og voru þau send Þjóðminjasafni Íslands til greiningar og varðveislu.
Móakot (býli)
Móakot – uppdráttur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Móakot hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru þar allir hinir sömu, grasnyt sem því fylgdi brúkar heimabóndinn, og má ekki að skaðlausu án vera.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við Móakot í Vogum. Samkvæmt heimildarmönnum eru þó Móakot inn á Strönd rétt hjá Ásláksstöðum og einnig er hjáleiga frá Kálfatjörn sem kallast Móakot.
Valgarðshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Valgards hjáleiga hefur fimm ár í eyði legið, þar voru kostir allir hinir sömu sem á Tjarnarkoti. Nú brúkar heimabóndinn grasnautnina og kann hennar ei að missa að skaðlausu.“ Prestur telur hjáleigurnar Valgarðskot og Garðhús með 1803. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.
Heimildir:JÁM III, 121; JJ 1847, 89.
Gvendarbrunnur (vatnsból)
Gvendarbrunnur í Vogum.
„Þar skammt frá Veginum er vatnsból er nefndist Gvendarbrunnur eitt þeirra vatnsbóla er vor ágæti Gvendur góði vígði,“ segir í örnefnaskrá. „Milli Leirdals og efstu húsanna er Gvendarbrunnur sem sagður er vígður af Guðmundi góða Arasyni Hólabiskupi. Brunnurinn er lítil hola við klappir oftast með einhverju vatni í,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Gvendarbrunnur er um 10 m austan við íbúðarhús við Hvammsdal 14 og um 450 m suðaustan við Suðurkot.
Brunnurinn er í grasi- og mosagrónu grýttu hrauni. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: „Skammt fyrir ofan Hvamm er Gvendarbrunnur, vígður af Guðmundi biskupi góða, og er mikilvægt að friðlýsa brunninn, því byggðin er farin að nálgast hann. Brunnurinn er um 260 metrum fyrir ofan gamla þjóðveginn (þeim ökufæra) og nánari staðsetning er sú að húsið í Hvamm skal bera í miðja Ytri-Njarðvík.“
Gvendarbrunnur er egglaga hola austan undir kletti sem Hvammsdalur 14 stendur á. Holan er um 1 m á breidd og um 1,2 m á lengd og um 0,4 m á dýpt. Engar greinilegar hleðslur eru sjáanlegar en holan er þó full af grjóti.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var þarna aldrei eiginlegur brunnur í hennar tíð heldur aðeins hola í hrauninu sem oft var vatn í. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur hefur mjög líklega verið vel nýtanlegt náttúrulegt vatnsból á þessu svæði sem hefur þó þurft að grafa upp úr við og við vegna jarðvegssöfnunar.
Gíslaborg (fjárskýli)
Gíslaborg.
„Rétt heima við Vegamótin er svæði sem nefnist Lægðin. Austar og hærri er fjárborg, nefnist hún Gíslaborg og vestan undir henni lægðir heita Gíslaborgarlágar,“ segir í örnefnaskrá. „Suður undir Vogaafleggjara og suðvestur af Brunnastaðalangholti er Gíslaborg og Gíslaborgarlágar austur og norður af henni. Þarna eru rústir af stórri fjárborg og er mál borgarinnar u.þ.b. 10×7 m og veggþykktin töluverð,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Áður en kemur inn í þéttbýlið Voga er verksmiðjuhúsnæði Norma ehf. við Harunholt austan afleggjarans. Austan við verksmiðjuna, í grónu hrauni, er grjóthlaðin fjárborg og sést hún vel að. Um 1,1 km austur af Stóru-Vogum.
Fjárborgin stendur á dálitlum grónum hól í uppgrónu hrauni.
Gíslaborg.
Fjárborgin er um 10×7 m að utanmáli, en hleðslur eru nokkuð hrundar út og virðist umfang hennar því meira. Hún snýr norður-suður og er op á miðri suðurhlið. Borgin er öll grjóthlaðin, en í norðurhluta hennar virðist torfi eða jarðvegi vera hlaðið með utanverðum veggjum. Að innan er borgin einnig niðurgrafin í norðurhluta og er þykkt veggja þar allt að 2,5 m, en annars um 1 m. Engu síður hallar fletinum nokkuð til suðurs innan tóftarinnar. Grjót í hleðslum er nokkuð stórt, hleðslur grónar og hæð þeirra um 1,2 m. Innan tóftarinnar má greina 6 lítil aðskilin hólf, öll aðgreind með einföldum grjóthleðslum. Talsvert hefur hrunið úr hleðslum innan tóftarinnar og er mögulegt að hólfin hafi verið fleiri.
Þórusel (sel)
Selhólar – Þórusel.
„Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur.“ segir í örnefnaskrá „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan Reykjanesbrautar og rétt austan vogaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Eins og sést af ofangreindum frásögnum ber mönnum ekki saman um hvar Þórusel hafi verið. „Vogamenn“ segja það norðan Reykjanesbrautar og austan Vogaafleggjara. Þar er gróið hraun og enginn staður sérstaklega vænlegur fyrir sel, eins og umhverfið er nú.
Þórusel – heimasel.
Beint sunnan gatnamóta Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara er grasi gróinn blettur sem að nokkru hefur verið raskað. Er þetta sá staður sem margir telja að selið hafi verið. Engar leifar um selið er nú að sjá á þessum stað en þar er mjög grösugt og þýft. Svæðið er um 30 m sunnan (ofan) við Reykjanesbraut og um 1,8 km suðaustan við bæ og kemur til með að hverfa undir mislæg gatnamót.
Gróinn grasblettur upp af Reykjanesbraut. Umhverfis eru mosavaxin hraun.
Veturinn 2006-2007 voru ráðgerðar framkvæmdir á þessum slóðum og tóku þá vinnuvélar prufuskurð á svæðinu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur vaktaði. Ekki komu í ljós neinar mannvistarleifar á þessum slóðum, en það segir þó lítið um að Þórusel hafi verið á þessum stað. Að teknu tilliti til nálægðar við bæi hefur Þórusel að öllum líkindum verið heimasel. Í slíkum seljum voru ekki önnur mannvirki en stakur stekkur.
Snorrastaðasel (sel)
Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.
„Við Nyrstu-Vatnsgjá mótar fyrir Snorrastaðaseli,“ segir í örnefnaskrá, en heimildir herma að á þessum slóðum hafi verið býlið Snorrastaðir þótt staðsetning þess sé nú týnd. „Þrjár kofatóftir eru á nyrðri bakka neðstu og stærstu tjarnarinnar. Ein heimild segir að þarna hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Þetta er annað af tveimur selstæðum í hreppnum sem eru svo nálægt byggð og má ætla að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustursuðvestur. Tóftir Snorrastaðasels eru við nyrðri bakka nyrstu tjarnarinnar, en göngustígur liggur fram á bakkann við tóftirnar frá bílastæði við Háabjalla. Selið er um 2,9 km SSV af Stóru-Vogum.
Tóftirnar eru sunnanundir hálfgróinni hrauntungu, á dálitlu grónu nesi um 5 m frá vatnsbakkanum. Handan tjarnarinnar stendur skáli Skátafélagsins Heiðarbúa í Keflavík. Á þessum stað eru tvær tóftir á svæði sem er um 22×5 m að stærð og snýr norður-suður meðfram vatnsbakkanum.
Nýjasel (sel)
Nýjasel.
„Austur frá Vatnsgjánum er grágrýtisholt er nefnist Nielsarbjalli að því er sumir segja, en líklega er hér um mismæli að ræða. Nýjaselsbjalli mun hann heita og þar er Nýjasel,“
segir í örnefnaskrá. „Út frá tveimur efstu tjörnunum til norðausturs er Nýjaselsbjalli eða Níelsarbjalli. Ballinn er nokkuð langt grágrýtisholt sem sker sig dálítið úr umhverfinu.
Hann líkist ekki hinum bjöllunum því þeir eru allir með nokkuð brattri hlíð sem snýr í suðaustur en Nýjaselsbjalli er frekar holt en hjalli. […] en Nýjaselsbjalli mun hann heita og dregur nafn sitt af litlu seli sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. […] Undir bjallanum eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Nýjasel.
Nýjasel er um 1,1 km norðaustur af Snorrastaðaseli, norðanundir gjávegg skammt norður af Skógfellavegi sem er stikuð og vörðuð leið um hraunið. Selið er um 2,5 km suður af Stóru-Vogum.
Selrústirnar eru fast undir gjáveggnum, sem er þarna um 3 m hár. Meðfram veggnum er dálítil skjólsæl og gróin lægð en allt umhverfis er gróið hraun.
Á heimasíðu Ferlis segir: „Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.“ Selrústirnar dreifast á svæði sem er um 34×14 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu eru þrjár tóftir og auk þess tveir skútar. Hér á eftir verður hverju þessara mannvirkja lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Stærsta og umfangsmesta tóftin (A) er á miðju svæðinu. Hún er um 11×8 m að stærð, snýr austur-vestur og greinist í 6 hólf. Megininngangur er á miðri norðurhlið tóftarinnar og er þaðan gengt í öll hólf að einu undanskildu. Komið er inn í hólf 1 sem er um 2×2 m að innanmáli.
Úr því er op til vesturs inn í hólf 2 sem er um 1×1,5 m að innanmáli. Í því er talsvert af grjóthruni gróið í svörðinn. Mögulega hefur verið annar inngangur í þetta hólf á norðurhlið, en hann er fallinn saman.
Pétursborg (fjárskýli)
Pétursborg.
„Þar rétt við Veginn á Barminum er Huldugjárvarða. Þar er fjárborg hlaðin af Pétri nokkrum föður Benedikts í Suðurkoti, föður Jóns, er þar býr núna, heitir Pétursborg,“ segir í örnefnaskrá. Pétursborg stendur hátt, á barmi Huldugjár, og sést langt að. Hún er um 700 m norðaustur af Nýjaseli og um 1,6 km austur af Snorrastaðaseli. Hún er um 2,9 km SSA af Stóru-Vogum.
Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.
Gjáveggur Huldugjár er allhár og er gróið undir honum. Uppi á barminum þar sem borgin stendur eru hins vegar berar hraunklappir og hrjóstrugt. Á barmi gjárinnar er fjárborg ásamt tveimur grónum tóftum á svæði sem er um 36×16 m og snýr N-S. Fjárborgin er sporöskulaga, um 7×5 m að utanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Hleðslur eru úr grjóti, um 0,5 m á breidd og allt að 1,8 m á hæð í suðurhluta. Þar eru umför allt að 12.
Austurhluti borgarinnar er hinsvegar að mestu fallinn. Op er á suðausturhlið borgarinnar og liggur dyrahella yfir því. Hæð undir henni er um 1 m. Á gróinni spildu austan við borgina eru tvær tóftir.
Hólssel (sel)
Hólssel.
„Norður og upp frá borginni [Pétursborg] er Hólssel […],“ segir í örnefnaskrá. „Norðaustur og upp frá Pétursborg en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegnum einn hólinn. Rústirnar eru ekki dæmigerðar selrústir en þó má ekki útiloka að þarna hafi einhvern tímann verið haft í seli,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Hólssel er beint í austur frá þéttbýlinu í Vogum og sér vel í það úr selinu.
Það er um 1 km norðaustur af Pétursborg, um 2,66 km austnorðaustur af Snorrastaðaseli og um 3,1 km SA af Stóru-Vogum. Rústirnar eru í gróinni lægð á milli tveggja allhárra og sprunginna hraunhóla. Austan og vestan við þær er hálfgróinn melur en fleiri hraunhólar til suðurs og norðurs. Svæðið allt er um 26×26 m stórt og eru rústirnar á tveimur stöðum. Annars vegar eru þær í lægðinni á milli hraunhólanna og hins vegar eru hleðslur í sprungunni á nyrðri hólnum.
Arahnúkssel (sel)
Arahnúkasel.
„Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel,“ segir í örnefnaskrá. „Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel frá Vogum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Aragjáin er stór og mikil og rís gjárveggurinn hátt og sést langt að. Á barmi gjárinnar er Aragjárvarða, afar greinileg, og þar aðeins norðar undir gjárveggnum eru seltóftir. Þær eru um 750 m suður af Hólsseli 075 og um 1,2 km austur af Pétursborg 074, en um 3,9 km suðaustur af Stóru-Vogum. Í grónum skjólsælum slakka undir gjáveggnum. Til norðurs og vesturs eru mosagrónar hraunbreiður.
Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um selstöðuna, en það kom fyrir að þær væru færðar neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Af þessu má ætla að Arahnúkssel hafi byggst eftir árið 1703 enda höfðu Vogamenn sel í Vogaholti það ár.
Arahnúkasel – stekkur.
Selstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar sjáum við margar kofatóftir ásamt kví. Sagt er að seltúnið hafi síðast verið slegið árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið svo líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir, eins gæti verið að vatn hafi verið í gjánni. Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnslaupur og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Gjáin nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá […] þegar komið er austar í heiðina.“ Á svæði sem er um 100×20 m og liggur norðaustur-suðvestur með gjánni eru 7 tóftir (en líklega hefur verið átt við hólf en ekki kofa í tilvitnuninni hér að framan). Mannvirkjunum verður nú öllum lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Vogaselið (sel)
Vogasel eldri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt […]. “ „Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og
ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel. Enn austar er svo Vogaselið gamla,“ segir í örnefnaskrá. Vogaselið gamla er um 155 m norðan við sel 084 og um 5,9 km suðaustan við Stóru-Voga.
Suðaustast í breiðum dal er grasi gróin hæð áður en farið er til suðurs upp brekku að yngri seltóftum og í þessari hæð er ógreinileg seltóft. Uppblásið er norðaustan við tóftina og norðan við tóftina eru hraunbreiður, mosavaxnar.
Vogasel eldri.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Gömlu Vogasel eru greinilega mjög gömul. Þau liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu […]. Mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar. Jarðvegseyðing hefur náð upp að torfu þeirri, sem selin eru á. Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. 2-3 ógreinilegar tóftir eru á svæði sem er um 40 x 12 m og snýr austur-vestur.
Í ritgerð ÓSÁ um sel á Reykjanesskaga segir: „Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, tvískipt, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóftirnar er stekkur á bersvæði. Veggir eru heillegir en grónir.“ Seltóftir eru um 155 m sunnan við Vogaselið gamla og um 6 km í suðaustur frá Stóru-Vogum.
Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki eru aðrar heimildir um örnefnið Vogasel yngri og kannaðist Sesselja Guðmundsdóttir ekki við það. Hún telur að örnefnið Vogaselið gamla, Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel eigi við um sel og þær tóftir sem hér eru skráðar.
Fjórir hólar eru í brekku sem liggur til suðausturs upp úr víðum dal. Seltóftir eru við þrjá efstu hólana og stekkjartóft og lítil grjóthlaðin tóft eru á grösugum en grýttum bletti þar austan við.
Minjasvæðið er í heild um 46 x 68 m og snýr norðaustursuðvestur. Á þessu svæði eru samtals 5 tóftir.
Halakot (býli)
Halakot – bæjarstæði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Halakot hefur í eyði legið fimm ár, þar voru allir kostir hinir sömu sem á hinum og brúkar heimabóndinn grasnytina og getur ekki burt leigt að skaðlausu.“
Staðsetning Halakots er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við að bær að nafni Halakot hafi staðið í Vogunum. Heimildarmenn könnuðust aðeins vð Halakot í Brunnastaðahverfi en Magnús Ágústsson er sjálfur þaðan.
Garðbær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Garðbær var aflagður fyrir 1920. Var það hús á milli Brekku og Suðurkots og þá í Stóra-Vogalandi og Suðurkotslandi, eins og Bræðrapartur var lengi vel.“ Þar er nú Brekkugata 7 um 80 m suðaustan við Suðurkot og um 50 m ANA við Bræðrapart. Á þessu svæði er íbúðarhús og slétt graslóð við Brekkugötu 7.
Ekkert sést til fornleifa.
Syðsta hjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Sidsta hjáleiga, þriðja. Jarðardýrleiki er óviss.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og Guðrún L. Magnúsdóttir, heimildarmaður, kannaðist ekki við nafnið. Hugsanlegt er að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað og Suðurkot er nú en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L.Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið. Hugsanlegt er að um sé að ræða Suðurkot en engar heimildir hafa fundist sem styðja þá hugmynd.
Dailey Camp (herminjar)
Daily Camp – minjar.
„Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Daily camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Daily Camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Daily Camp var á sléttu svæði norðan Reykjanesbrautar og að
Kálgarðsbjalla. Á þessum slóðum liggur nú vegarslóði upp að Grímshól. Á þessum stað er mikið sléttlendi. Svæðið er vaxið mosa og grasi. Vestan slóðans er sérstaklega slétt.
Ekki sáust skýr ummerki um hverfið á vettvangi en samkvæmt heimildarmanni, Viktori Guðmundssyni, eru sökklar og aðrar minjar auk frárennslislagna á svæðinu.
Grímshóll (þjóðsaga)
Á Grímshól.
Grímshóll er hæsti punktur Vogastapa. Á honum er hringsjá og útsýnisstaður. Við hringsjána, á kolli hólsins, er grjóthleðsla. Hóllinn er 2,2 km suðvestur af bæ.
Þjóðsaga tengist hólnum og er hún á þessa leið: „[…] En einu sinni bar svo við að unglingsmaður nokkur, Grímur að nafni, ætlaði suður í Leiru til útróðra. Grímur var fyrirvinna hjá móður sinni, en faðir hans var dáinn. Grímur fór nú með öðrum Rangvellingum suður, en er þeir komu suður undir Vogastapa bar svo við sem oft má verða að reiðgjörð slitnaði á hesti Gríms svo hann varð að staldra við til að bæta gjörðina. […] En er Grímur var einn orðinn kom að honum maður einn. Sá maður falar Grím til að róa hjá sér um vertíðina, en Grímur skorast undan og kveðst vera ráðinn hjá manni í Leirunni […] Og hvernig sem þeim hafa nú farizt orð í milli þá fór Grímur með hinum ókunna manni.“ Grímur aflar vel hjá ókunna manninum og fer heim með miklar birgðir til móður sinnar. Hann segir engum af viðskiptum sínum við ókunna manninn nema móður sinni og er nokkrar vertíðir hjá honum. Maðurinn býður Grími að koma til sín þegar móðir hans væri önduð og eiga dóttur sína. Grímur þiggur boð mannsins og heldur suður eftir andlát móður sinnar “ […] en engi vissi upp á víst hvert hann fór nema hvað samferðamenn hans komust næst að hann mundi hafa farið að hól þeim sem er á Vogastapa fyrir ofan Reiðskarð. Hóll þessi er æði stór með vörðu á og er hann kallaður Grímshóll síðan. Aldrei varð neitt vart við Grím eftir þetta hvorki á Rangárvöllum né í veiðistöðvum.“
Hóllinn er gróinn í kollinn en annars blásinn og grýttur eins og umhverfið. Þó eru umhverfis hann miklar lúpínubreiður. Sunnan hólsins liggur Stapagata í austur-vestur.
Umhverfis hringsjána er hlaðinn hringur eða stallur úr grjóti og steypu. Fast sunnan við stallinn er gróin hvilft og grjóthleðsla með börmum hennar. Hvilftin er skálarlaga og lækkar inna að miðju. Hún er um 3 m í þvermál og myndar hleðslan hring með börmum hennar. Þar standa mest 2 umför en hleðsluhæð er um 0,4 m í norðurhlið. Á lítilli klöpp í hlíð hólsins, sunnan við hvilftina, eru einnig þrjár lítilfjörlegar grjóthrúgur. Þær liggja í röð í austur-vestur og eru hver um sig varla meira en 0,5 m í þvermál. Sunnan undir hólnum eru svo tveir grjótruðningar. Sá eystri er um 10 m langur og liggur norðvestur-suðaustur. Hann virðist niðurgrafinn að hluta. Vestari ruðningurinn liggur á yfirborði og er um 3,5 m langur í norður-suður. Hæð ruðninganna er um 0,3 m. Tilgangur mannvirkjanna er óþekktur en nokkuð er af járn- og spýtnabraki á og við hólinn.
Jónasarvarða (legstaður)
„Á Holtsgjábarmi er Varðan, Jónasarvarða og er við Jónasarsprungu. Þá eru ýmsir sem nefna hér Jóhannesarvörðu og Jóhannesarsprungu […],“ segir í örnefnaskrá. Varðan stendur á klettanibbu suðaustan í krosssprungnum hraunhól og sést langt að. Hún er um 5 km SA af Stóru-Vogum. Austan við hólinn er slakki fram á gjávegginn sem liggur norðaustur-suðvestur um 100 m austan við vörðuna. Varðan er reisuleg, um 1,3 m á hæð, 0,8×0,8 m að ummáli og köntuð. Hún er hlaðin úr fremur stóru hraungrjóti og er hleðslan um 6 umför. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, á varðan að vera hlaðin á þeim stað sem maður, líklega að nafni Jón eða Jónas, varð úti.
Kálffell (fjárskýli)
Kálffell – fjárskjól.
„Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925),“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell eða gígur, sem þó rís nokkuð upp úr umhverfinu og er eina fellið á þessum slóðum vestan fjallgarðsins. Austan við hæsta punkt fellsins, norðaustan í hlíðum þess, eru tvö fjárskýli í hellisskútum, en vörslugarður í gígnum. Rústirnar eru tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum.
Í mosagróinni hraungrýtishlíð, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
„Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Fjárskýlin tvö eru í lágum hraunhellum sem hlaðið hefur verði að og fyrir til þess að mynda skjól, en svæðið er um 15×15 m. Nyrðri skútinn er um 4 m djúpur og 10 m breiður og snýr austur-vestur. Lofthæð er mest um 1 m, en lækkar mjög frá miðju. Hlaðið hefur verið að munnanum og hraunhellur reistar upp á rönd til þess að loka honum fyrir veðri og vindum. Ein hella stendur en a.m.k. tvær eru fallnar. Austast við munnann er grjóthlaðinn rani sem myndar op inn í skútann, en gengið er inn í hann til norðurs. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og tvö umför.
Fjárskjól í Kálffelli.
Um 7 m sunnan við skútann er annar hraunskúti. Hann er um 5 m djúpur og um 15 m breiður og snýr norður-suður. Lofthæð er um 1 m en lækkar mjög frá miðju. Gengið er inn í skútann til austurs og er grjóthlaðinn rani að opinu. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og 3 umför. Næst munnanum liggur hraunhella þvert yfir ranann og myndar þak. Fleiri skútar eru á svæðinu umhverfis en á þeim eru engin mannaverk.
Um 140 m vestur af fjárskýlunum, ofan í gígnum í Kálffellinu, er grjóthlaðinn vörslugarður. Hleðslan er úr stóru hraungrýti og liggur í vinkil með horn í suðvestur og myndar þannig gerði við gígbarminn. Vesturhliðin er um 12 m löng, en suðurhliðin um 10 m löng. Umför eru allt að fjögur en hleðslan er sigin og hrunin út á köflum. Hæð hennar er mest um 0,8 m. Minjarnar lenda lítillega utan við landamerki sem fengin voru hjá sveitarfélaginu en þær eru engu að síður skráðar með Stóru-Vogum þar sem þær eru í tengslum við Oddshelli sem er skammt frá og möguleiki er á því að landamerkin séu ekki eins nákvæm uppi í heiðinni og niðri við byggðina.
Oddshellir (hellir/smalakofi)
Oddshellir.
„Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). […] Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhóli rétt sunnan við gígskálina,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell, eða öllu heldur gígur, í hrauninu um 3 km suður af Arahnjúksseli. Oddshellir er í suðausturhlíð fellsins, fast sunnan við gígbrúnina. Hellirinn er tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum. Í hálfgróinni hlíð fellsins, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
„Hóllin dregur nafn af lögun hellisins og eða „dyrum“ hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan „dyranna“. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkima,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Erfitt er að finna hellinn þar sem opið er ofan á hólnum og því lítt áberandi fyrr en komið er alveg að því. Hóllin sjálfur, gróinn hraunhóll, er hins vegar áberandi. Op hellisins er um 1×1,5 m að stærð og er hellirinn nokkuð rúmur. Ekki var farið ofan í hann við skráninguna. Hellirinn lendir utan við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu en hann er talinn með í örnefnaskrá Voga og tilheyrir að öllum líkindum StóruVogum og er því skráður innan þeirrar jarðar.
Eyrarkot (býli)
Hjáleiga Stóru Voga 1703 (JÁM III, 123). „Eyrarkot var á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar …“ Fór í eyði um 1922 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 103).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Stóru-Vogum: „Eirarkot, fyrsta hjáleiga.“ Í Manntali frá 1801 er einnig minnst á hjáleiguna Eyrarkot undir Stóru-Vogum. Í örnefnaskrá segir svo: „Í norður frá Stóru-Vogabakka er Eyrarkotsbakki, þar stóð Eyrarkot í Eyrarkotstúni og þar niður undan var Eyrarkotsvöru.“ Á túnakorti frá því um árið 1919 stendur: „Eyrarkot, þ.búð, færð nýl. á lágan bakka, er brotnar garðlag lágt og kg. framanvið“. Í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Eyrarkot (horfið). Eyrarkot á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar, eða þar sem nú er syðsti hluti af fiskhúsi Valdimars hf. […] sem var timburhús að mestu, […]. Eyrarkot fór í eyði um 1922.“ Samkvæmt túnakorti var Eyrarkot á svæði um 320 m NV við Stóru-Voga og um 250 m VNV við Tjarnarkot á svæði 50-80 m V-VSV við Vogatjörn. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktors Guðmundssonar er nákvæm staðsetning Eyrakots undir suðurhorni fiskverkunarhúss Þorbjarnar Fiskanes. Á svæðinu eru bárujárnsklædd og steinsteypt iðnaðarhúsnæði og malbikað plan.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, voru tættur á þessu svæði áður en iðnaðarhúsnæði voru reist vestan við Vogatjörn. Ekkert sést til fornleifa.
Tumakot (býli)
Tumakot.
Hjáleiga Stóru-Voga 1847. Brann 26. ágúst 1960 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 61-62). Túnakort 1919: Tún 0,6 teigar, garðar 620 m2.
„Þá var Tumakot í Tumakotstúni […],“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir svo: „Tumakot (brann 26. ágúst 1960). […] Eyjólfur Pétursson endurbyggði Tumakot um 1910. Þótti húsið reisulegt á þeim tíma. Einnig byggði hann upp öll útihúsin.“ Samkvæmt Guðmundi var einnig búið í Tumakoti fyrir 1910. Grjóthlaðinn grunnur Tumakots er 6-8 m vestan við íbúðarhús við Akurgerði 8 og um 55 m suðaustur við Stóru-Voga.
Norðan og vestan við grunninn er slétt graslendi. Austan og suðaustan við hann er um 3 m hár jarðvegshaugur úr grunni íbúðarhússins við Akurgerði 8.
Grasigróinn og grjóthlaðinn grunnur húss sem samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttir var bárujárnsklætt timburhúss. Grunnurinn er niðurgrafinn um 0,8-1 m og eru um 5 umför sjáanleg. Grunnurinn er um 6 m á lengd og um 5 m á breidd að innanmáli. Mikið af grjóthruni er í honum. Grjótveggir grunnsins eru um 1 m á breidd og eru þeir hlaðnir úr hraungrýti. Því er flatarmál grunnsins um 8 m á lengd og 7 m á breidd. Samkvæmt ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki og líkani Guðmunda M. Jónssonar af Vogum árið 1930 var inngangur í húsið á vesturhlið um 1 m norðan við suðvesturhorn hússins. Þar er um 0,4 m hátt grjóthlaðið þrep með steypuhúð ofaná sem trúlega hefur verið hluti af forstofunni. Á ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki sést greinilega að húsið var á 2 hæðum, jarðhæð og ris, byggt úr timbri og klætt bárujárni. Ómanngengur kjallari var undir húsinu og gluggar á grunni hússins.
Suðurkot (býli)
Suðurkot.
Hjáleiga Stóru Voga 1847 samkvæmt Jarðabók Johnsens. Túnakort 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 1180m2.
„Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni,“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Eftir aldarmótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur.“ Tóft Suðurkots er um 310 m sunnan við Stóru-Voga og um 180 m SSV við Nýjabæ. Tóftin er á milli suðurenda malbikaðrar götu sem kallast Akurgerði og malbikaðs göngustígs og íbúðarhúss við Brekkugötu 3.
Bæjarhóll er ekki greinanlegur lengur þar sem búið er að umturna öllu svæðinu í kring um bæjartóftina vegna byggingavinnu, vegagerðar og göngustíga en þó er ekki ólíklegt að einhverjar leifar finnist undir sverði á svæðinu.
Tóft bæjarins er vel grasigróin, um 18 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr VNV-ASA. Veggir tóftarinnar eru mjög rofnir og hleðslur þeirra signar en þeir eru hlaðnir úr torfi og grjóti. Veggir sem ennþá standa eru um 1-2,5 m á breidd og um 0,4-1,4 m á hæð. Óljóst er hvar inngangar voru í tóftina en gengið hefur verið inn á N- eða S-hlið hennar. Hólf innan tóftarinnar eru óljós og er hvorki hægt að segja til um það hversu stór þau voru né hvernig þau lágu. Á túnakorti sést að á bæjarhólnum hefur einnig mjög líklega verið niðurgrafin þró fyrir mykju og annan úrgang líkt og þrær sem skráðar voru heima við bæ í Austurkoti en ekkert sést til slíks mannvirkis.
Hof (örnefni)
Hof.
„Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni. Þar er hóll í túninu [er] nefnist Suðurkotshóll eða Hof. Á þeim hól eru þau álög,að ekki má slá hann eða hreifa við honum á nokkurn hátt.“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir: „Hof var byggt um 1945, þá sem sumarbústaður, […]. Hof er í landi Suðurkots. […] stendur á hól er Hofhóll heitir og réði það nafninu á húsi og götu.“ Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildarmanni, eru Hofhóll og Suðurkotshóll ekki sami hóllinn líkt og segir í örnefnaskrá.
Hof/Hofhóll er um 260 m suðaustan við Stóru-Voga og um 160 m NA við Suðurkot. Stórt steinsteypt íbúðarhús, Hofgerði 6, er austan í hólnum. Hóllinn er aflangur, vel grasigróinn og sést greinilega enn. Hann er ávalur, 2-4 m á hæð, um 50 m á breidd og snýr N-S. Óljóst er hversu langur hann er vegna íbúðarhúsa í kring en er hann a.m.k. um 50 m á lengd. Ekkert sést til fornleifa.
Klöpp (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Klöpp var þar sem nú stendur Suðurkot (Suðurgata 2) og var timburhús. Minnist ég þess að hafa séð það í barnæsku sem útihús eða geymslu, annað hvort var það tjöruborið eða tjörupappaklætt og svart á að líta. […] Klöpp lagðist undir Suðurkot og var rifið þegar núverandi hús þar var byggt.“ Í byggð rétt eftir aldamótin. Klöpp var um 80 m austan við Suðurkot.
Á þessu svæði er nú íbúðarhús og sléttuð grasflöt við Suðurgötu 2. Ekkert sést til fornleifa. Hugsanlegt er að Klöpp sé hús 012 sem sýnt er á túnakorti frá árinu 1919 en ekki er hægt að sýna fram á það með neinni vissu.
Tjarnarkot (býli)
Hjáleiga Stóru-Voga árið 1703, þá í eyði en í byggð árið 1847 (skv. Jarðabók Árna og Páls og síðan Jarðatali Johnsens). Tjarnarkot var byggt upp um 1880 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 75).
Túnakort 1919: Tún 0,11 teigar, garðar 620 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Tiarnarkot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið fjögur ár. […] Nú er grasnaut lögð til heimabóndans, og kann ekki hjáleigan aftur að byggjast án heimabóndans skaða.“ Í örnefnaskrá segir: „Tjarnarkot stóð í Tjarnarkotstúni niðurundan er Tjarnarkotsklöpp og rétt við hana Eyrarkotsvör, Tjarnarkotsvör [,] Hábæjarvör og vörin Fúla eða Fúlavik en þarna safnaðist mikið þang og þari og fúlnaði.“ Í bókinni Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: Tjarnarkot var byggt upp um 1880 af Magnúsi J.Waage, (yngri). Var það talið gott timburhús og stóð í landi Stóru-Voga austan við Vogatjörn, nálægt tjarnarbakkanum. [Eftir að flutt var úr] Tjarnarkoti var það ábúendalaust en notað sem danshús á vetrarvertíðinni árið 1904, […].“ Tjarnarkot er um 200 m norðan við Tumakot og um 160 m norðan við Stóru-Voga.
Tóft Tjarnarkots er í þýfðu graslendi á suðausturbakka Vogatjarnar. Um 8 m austan við tóftina er svo malbikaður göngustígur.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Tjarnarkot aðeins tóftir er hún settist að í Vogum árið 1942. Á svæðinu er einföld tóft og mjög óskýrt garðlag utan um kálgarð. Tóftin er um 11 m á lengd, um 9 m á breidd og snýr N-S. Trúlega er tóftin aðeins leifar af niðurgröfnum grjóthlöðnum grunni timburhússins en tóftin er mjög grasigróin svo lítið sem ekkert sést í grjóthleðslur. Tóftin er ferköntuð og eru veggir grunnsins nú um 2-4 m á breidd og um 0,4-1 m á hæð. Innanmál tóftar er um 5 m á lengd og 4 m á breidd.
Minni Vogar (býli)
Minni-Vogar.
Jarðardýrleiki óviss 1703. Konungseign. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Hjáleigur í eyði 1703: Eyrarkot og Hólshjáleiga ásamt tómthúsinu Renslutóft. (JÁM III, 123). Norðurkot hjáleiga í byggð 1847. Óljósar sagnir eru um býli nefnt Hólkot en engar upplýsingar hafa varðveist um það.
Mýrarhús, Austurkot, Helgabær, Mörk og Grænaborg voru afbýli sem byggðust í landi Minni-Voga eftir 1847. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónsson um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi 1703: „Túnin brýtur sjór og skemmir sandur árlega. Engjar eru öngvar. Hagar og útigángur litlir sumar og vetur.“
(JÁM III, 123). Túnakort 1919: Tún 3,4 teigar, garðar 2480m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Minne Vogar. Jarðardýrleiki óviss.“ Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Minni-Vogar (Egilsgata 8). […] Klemens [Egilsson] lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, […]. Húsið var byggt sem tvíbýli og var gert ráð fyrir að tveir synir Klemensar, Þórður og Sæmundur byggju í sitthvorum enda hússins.“ Minni-Vogar eru um 370 m norðan við Stóru-Voga og um 230 m austan við Norðurkot við miðja Egilsgötu vestanverða. Á bæjarhólnum stendur íbúðarhúsið sem byggt var upp árið 1922.
Íbúðarhúsið snýr A-V, er með bárujárnsklætt þak, plastklætt að utan og með steinsteyptum og grjóthlöðnum kjallara.
Steinsteypt viðbygging hefur verið byggð við timburhúsið að vestan. Húsið er á þremur hæðum, kjallara, jarðhæð og risi. Gengið er inn að norðan. Mjög líklegt er að áður en timburhús var byggt að MinniVogum hafi staðið þar grjót- og torfhlaðinn bær. Útlínur bæjarhóls eru orðnar mjög óskýrar vegna vegagerðar og nýlegra bygginga í kringum bæinn en vestan og norðvestan við hús er grasigróin brekka sem hallar um 5° í V um 20 m út frá bæ sem gefur til kynna að húsið standi á hól. Ólíklegt er þó að mikið af óhreifðum fornleifum finnist í bæjarhólnum. Á ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands sést eldra timburhúsið og viðbyggingin sem áður var fast norðan við það. Gamla timburhúsið var á þremur hæðum, byggt úr timbri og með bárujárnsþaki. Þar sést einnig að veggir viðbyggingarinnar hafa trúlega verið hlaðnir úr grjóti á meðan þakið var timburbyggt. Skorsteinn í þaki gæti gefið til kynna að í húsinu hafi hugsanlega verið hlóðaeldhús líkt og í Austurkoti.
Mýrarhús (bústaður)
„Frá Eystraskarðshorni liggur Grjótgarður í norður meðfram Mýrinni skammt fyrir norðan Mýrarhúsatóftir og beygir garður þar til suð-austurs og liggur alla leið að mörkum Austurkots og Minni-Voga…“ segir í örnefnaskrá. Í henni segir ennfremur: „Mýrarhús þar er búið nú, þurabúð.“ Mýrarhúsa er einnig getið í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar segir „Mýrarhús er norður af Minni-Vogum á landi þeirra. Húsið byggði Hinrik A. Hansen árið 1885.“
Mýrarhús voru m 90 metra suður af meintri verbúð. Þau eru á mörkum deiliskráningarreits sem nú er skipulagður, á milli nyrstu húsa við Marargötu eða rétt norður af þeim. Grjótgarðurinn sem nefndur er í lýsingunni sést enn að hluta til norðaustan byggðarinnar Í Vogum en hverfur beint norður af nyrstu húsum við Marargötu. Á þessu svæði eru nú hús og garðar og engin merki um Mýrarhús eru sjáanleg.
Helgabær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Helgabær var um 100 metra í norðaustur frá Minni-Vogum, í landi þeirra. Bærinn var jarðlaus og því aðeins stunduð þar sjómennska […].“Á þessu svæði eru nú íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Ekkert sést til fornleifa.
Mörk (býli)
„Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […] Mörk þurrabúð, nú í eyði. […] Frá Minni-Vogum liggur Merkurgata, að Mörk, en kringum þá þurrabúð var Merkurflöt.“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Mörk (horfin). Mörk var byggð í MinniVogalandi, milli Minni-Voga og Norðurkots. […] Þar bjuggu hjónin Skúli Magnússon f. 1844 og kona hans Elín Bjarnadóttir f. 1859. Skúli í Mörk var af Austurkotsættinni og fékk hann að byggja í sameignartúni Minni -Voga og Austurkots. Hann byggði bæinn úr timbri og var það sjaldgæft á þeim tíma […] Mörk hafði einnig nafnið Tómásarkot [svo].“ Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Mörk um 80 m ASA við Norðurkot og um 150 m vestan við Minni-Voga.
Á þessu svæði er sléttað graslendi, malbikaður göngustígur og íbúðarhús við Hólagötu 1e. Ekkert sést til fornleifa.
Hólkot (býli)
„Grænaborg var byggð árið 1881 á landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. … Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Grunar mig að Ari, sem þekkti þessa sögu, hafi flutt til hússtæðið, enda
nefnir hann það ekki Hólkot, heldur Grænuborg,“ segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi. Ekki ljóst hvort þetta er á svipuðum stað og byggingar skráðar innan túnstæðis Grænuborgar en hér er gengið út frá því að svo sé.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn í Grænuborg. Nokkuð hraun og grjót í túninu.
Grænaborg (býli)
Grænaborg.
„Ennfremur fylgir Austurkoti og Minni-Vogum eyðibýlið Grænaborg umgirt grjótgörðum.“ segir í örnefnaskrá. Þar segir ennfremur: „Og svo er Grænaborg, þar býr Baldvin Oddsson.““Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við Kampinn Grænuborgarstígur allt heim í Vesturhlið á Grænuborgar túngarði, sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á Bæjarhólnum … Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. … Sjávargatan liggur heiman að niður á Kampinn, en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. … Þar sem Sjóvarnargarðurinn og Suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshlið Eystra.“ Bæjarhóllinn í Grænaborg er um 650 m norður af Austurkoti.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru nokkrar í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn. Nokkuð hraun og grjót í túninu.
„Ari lét byggja húsið úr hlöðnu grjóti og bundnu sem sementsteypu. … stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann vorið 1883 þá tveggja ára gamalt … Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1916, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í StóraKnarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg … Hann byggði upp húsið, fór í útgerð og tapaði öllu sínu og flutti eftir það að Stóra-Knarrarnesi 2. Eftir nokkur ár, eða um 1922, fluttu að Grænuborg fjölskylda frá Eyrarkoti, sem áður er sagt frá … Vormur lét endurbæta Grænuborg árið 1932 …. ,“ segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Dys (legstaður)
Dys.
Um 60 m norðvestur af norðurenda garðlags eru tvær grjóthrúgur. Ekki tókst að afla upplýsinga um hlutverk þeirra en mögulegt er að hrúgurnar séu aðeins upphleðslur af eldra hleðslugrjóti. Grjóthrúgurnar eru á nokkuð sléttum grasbala, hraun gægist þar uppúr sverði. Syðri hrúgan er um 2 m á hæð og 2 m að þvermáli. Nokkur mosi er á steinunum en þetta þurfa þó ekki að vera gömul mannvirki. Um 1 m er á milli grjóthrúgnanna. Nyrðri hrúgan er minni, aðeins 1,2 m á hæð og um 1,5 m að þvermáli.
Grænuborgarrétt (rétt)
Grænaborgarrétt.
„Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs [Grænaborg] var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.“ segir í örnefnaskrá.
Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum. Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. Op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Austurkot (býli)
Austurkot.
„Austurkot sem enn er í byggð.“ segir í örnefnaskrá. Austurkot er í dag við Egilsgötu 11 um 70 m sunnan við Minni-Voga og um 315 m NNA við Stóru-Voga. Norðan við Austurkot er malbikuð heimreið, að vestan er malbikuð Egilsgata, að sunnan er íbúðarhús við Egilsgötu 9 og að austan er Egilsgata 11b sem deilir heimkeyrslu með Austurkoti. Inn á túnakort frá árinu 1919 eru færðar eftirfarandi upplýsingar: Tún 1,64 teigar, garðar 1700 m2. Austurkot er bárujárnsklætt timburhús sem byggt var 1911. Húsið er á þremur hæðum, kjallari, jarðhæð og ris undir burst. Húsið snýr N-S og gengið er inn í hús að austan og í steinsteyptan kjallarann að vestan. Þetta hús er á mörkunum að vera löggild fornleif en ákveðið var að skrá hana samt lauslega.
Samkvæmt Ásu Árnadóttur, heimildarmanni, var annað eldra íbúðarhús í Austurkoti á svæði um 50 m SA við núverandi íbúðarhús. Ekki er minnst á bæinn Austurkot í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því um 1703 en hjáleigan Austurkot er skráð í Manntali fyrir Suðuramt árið 1801. Trúlega er þar um að ræða eldri bæinn í Austurkoti. Á þessum stað er sléttuð grasflöt í garði Austurkots og Egilsgötu 13 vestur undir Arahóli.
Ekkert sést til fornleifar.
Hólshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólshjáleiga hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru sömu sem á hinni. Nú hafa bændur grasnytina sjálfir og þykjast ei skaðlaust afleggja mega.“ Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.
Arahólsvarða (varða)
Arahólavarða.
„Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: „[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.“
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga 001 og um 125 m SA við Minni-Voga. Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.
Karlshóll (huldufólksbústaður)
Karlshóll.
Í örnefnaskrá segir: „Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […].“ Karlshóll er greinilegur grösugur hóll framan við íbúðarhúsið við Hafnargötu 1A. Í húsagarði. Hóllinn er ávalur, um 15 m á lengd og 10 m á breidd.
Eirarkot (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Minni-Vogum: „Eirarkot, eyðihjáleiga, hefur óbygð verið næstu þrjú ár […] Nú er grasnautn lögð til heimabændanna og þykjast þeim hennar ei að skaðlausu missa kunna.“ Staðsetning óþekkt.
Norðurkot (býli)
Norðurkot.
Hjáleiga Minni Voga 1847 samkvæmt Jarðatali Johnsens. Í byggð fram á þessa öld. Túnakort 1919: Tún 1,2 teigar, garðar 560 m2.
„Af Norðurkoti er nú ekki annað að sjá en Norðurkotsrústir,“ segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: „Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. […] Nikulás [Jónsson] lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. […] Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Á rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest á þeim rætur. Hluti húsanna eru þó hruninn fram af sjávarbakkanum.“ Tóftirnar eru um 200 m vestan við Minni-Voga, um 410 m NNV við Stóru-Voga og 20-30 m NA við steinsteypt frystihús Voga h/f. Tóftin er í sléttu graslendi fast suðaustan við grjóthlaðinn sjávarvarnargarð í Vogafjöru.
Í Norðurkoti virðist enginn bæjarhólsmyndun hafa átt sér stað en svæðinu umhverfis bæjartóftirnar hefur þó verið umturnað þó nokkuð vegna sjávarvarnargarðs og iðnaðarhúsnæðis svo hugsanlegt er að búið sé að slétta eitthvað úr honum eða fylla upp í svæðið í kring um hann. Tóftin sem eftir stendur er um 15 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr NA-SV. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var húsið sem enn er undir þaki hlaðið upp sem fiskhús fyrir Minni-Voga eftir að hætt var að búa í Norðurkoti. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og sjást 4 hólf í henni. Samkvæmt túnakorti voru árið 1919 sex hólf í tóftinni og kálgarð inn á milli þeirra en líklega hefur nyrsta hólfið hrunið í sjóinn og austasta hólfið verið sléttað eða rifið.
Auðnar (býli)
Auðnar – loftmynd.
Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna. Ö-Auðnahverfi, 2.
„Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“ GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: „Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 138. 1919: Tún A og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.
Höfði og Auðnar.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir um bæinn á Auðnum: „[Guðmundur Guðmundsson] byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“
Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan.
Bæjarhóll Auðna er í miðju túni. Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.
Auðnabrunnur (vatnsból)
Auðnabrunnur.
„Auðnabrunnur var austan bæjarins, og Auðnabrunnstígur heim til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Um 60 m NNA við bæ og um 20 m NNA við útihús er merktur brunnur á túnakort frá 1919.
Brunnurinn er á röskuðu óræktarsvæði um 20 m norðaustan við skemmu sem er áföst gömlu steyptu útihúsi. Brunnurinn er byrgður og sést illa en steyptur kantur sést við brunninn. Brunnurinn sjálfur er líklega um 2×2 m að stærð að utanmáli en það sést illa vegna gróðurs og efnis sem sett hefur verið ofan á hann.
Höfði (býli)
Auðnar.
„Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,“ segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ. Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar. Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.
Ólafsbúð (bústaður)
Ólafsbúð.
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: „Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].“ Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það. Tóftirnar eru í þýfðum og grónum hraunmóa skammt utan túns. Fast austan við tóftirnar er lítill skúr sem virðist vera notaður sem sumarhús.
Minjarnar eru á svæði sem er um 32×14 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.“ Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.
Hólmsteinshús (bústaður)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.
Auðnaborg (fjárskýli)
Auðnaborg.
„Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.“ Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Minjarnar eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum. Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þær fá bókstafi til aðgreiningar.
Hóll (bústaður)
Hóll.
„Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar. Tóftin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 6×13 m að stærð og snýr NNVSSA. Mesta hleðsluhæð er um 1,6 m og sjást 5 umför í innanverðum hleðslum. Ekki fundust heimildir um aldur bústaðarins.
Mylluhús (mylla)
Vindmylluhúsið.
Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.“ Myllan er um 150 m suðvestan við bæ. Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.
Auðnakot/Bergskot (býli)
Auðnakot.
Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302. 1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.
„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn.
Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu.
Landakot (býli)
Landakot.
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata 013 var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.
Gata við Landakot – tóftir.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“ „Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.
Landakot – tóftir.
Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.
Gata (býli)
Gata.
„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. „Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni.
Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu. Mannvirkin eru á svæði sem er um 22×18 m að stærð og snýr NNV-SSA.
Landakotsskiparétt (rétt)
Landakotsskiparétt.
„Á Landakotskampi var Landakotsnaust og Landakotsskiparétt.“ segir í örnefnaskrá. „Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerð fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla. Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi,“ segir í örnefnaskrá. Grjóthlaðin rétt og áfast garðlag er um 150 m norðan við bæ. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, endurhlóð Guðni Einarsson þessi mannvirki og notaði sem fjárrétt. Líklegt er að hún hafi verið skiparétt áður. Réttin er á grýttum sjávarkambi.
Alls eru minjarnar á svæði sem er um 17×10 m að stærð og snýr austur-vestur. Réttin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 10×7 m að stærð og snýr norður-suður. Norðurgaflinn er horfinn vegna landbrots. Op er inn í réttina á sunnanverðum vestanvegg. Mesta hleðsluhæð réttarinnar er um 1 m og sjást 4 umför í hleðslum. Frá inngangi liggur garðlag að húsi. Það er um 10 m langt til vesturs og er lítið horn á því við endann, um 2 m langt garðlag til norðurs. Hlið er á girðingu á milli garðlagsins og húss. Garðlagið er hæst um 1,1 m og um 1 m á breidd. Mest sjást 5 umför hleðslu.
Landakotsbrunnur (vatnsból)
Landakotsbrunnur.
„Vatnsbólið var annar brunnur [annar en Djúpagröf] miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað en Brunnurinn.“ Brunnurinn er um 90 m norðan við bæ.
Brunnurinn er fast norðan við lágan hól í túni sem nýtt er til beitar. Brunnurinn er grjóthlaðinn og hringlaga. Hann er um 3 m í þvermál og stendur um 0,4 m upp úr sverði. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, er hann djúpur en ekki vissi hún hversu djúpur hann var. Reft hefur verið yfir brunninn og sést því ekki ofan í hann. Leiðsla var lögð úr brunninum í fjósið (áfast núverandi íbúðarhúsi) í tíð Margrétar og sést enn móta fyrir henni þar sem hún liggur úr suðausturhorni brunnsins fyrir hólinn og til suðurs. Hún líkist sokknu garðlagi sem er um 0,5 m á breidd og 0,2-0,4 m á hæð.
Auðnasel (sel)
Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.
Samkvæmt núverandi landamerkjum sem Sveitarfélagið Vogar hefur látið í té er Auðnasel á merkjum milli Þórustaða og Landakots, og eru minjar því tengdar á báðum jörðunum. Flestar tóftirnar eru í landi Landakots og er það því skráð undir þeirri jörð. Auðnasel er um 4,7 km suðaustan við Þórustaði, 4,8 km norðaustan við Landakot og 4,9 km suðaustan við Auðnir. Seljatóftirnar eru í grónum og gróðursælum hvilftum umhverfis allhátt holt en einnig eru minjar uppi á holtinu og í seltúni sem er norðaustan við holtið. Allt er hér gróið en stutt er í uppblásinn hraunmóa utan svæðisins.
Selið er á svæði sem er um 110×120 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Tvær tóftaþyrpingar eru á vesturhluta svæðisins og stekkir eða kvíar eru á þremur stöðum.
Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Grjóthlaðin tóft A, sennilega stekkur, er uppi á holtinu suðaustan við aðaltóftasvæði 1. Hún er tvískipt, um 8×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Um 4 m langur innrekstrargarður liggur til norðvesturs frá inngangi á norðvesturgafli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m en hleðslur eru hrundar. Tóftin er gróin að hluta.
Þórustaðir (býli)
Þórustaðir – loftmynd.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. (JJ, 91). Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.“ JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Þórustaðir.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: „Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.“ Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.
Þórustaðir – kort.
Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs 043 sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.
Þórusstaðabrunnur (vatnsból)
Þórustaðabrunnur.
Samkvæmt túnakorti var brunnur fast við Sjávarstíginn, um 60 m norðvestan við bæ. Á heimasíðu Ferlis segir um sama brunn: „Nyrðri brunnurinn er vestan götu frá bænum niður að sjávarhúsnum. Steypt er við opið og stór hringlaga hlemmur ofan á. Hann er fallega hliðinn [svo] niður.“
Brunnurinn er fast suðvestan við bílslóða niður að sjó, í túni. Umhverfis brunninn er nú steyptur kassi og er hann byrgður með miklum tréhlemmi. Samkvæmt Margréti Guðnadóttur, heimildamanni, var brunnurinn hlaðinn niður. Hann er um 2,5×2,5 m að stærð og rís um 0,3 m upp úr jörðu. Fast suðaustan við brunninn er kofahræ, að falli komið, úr viði og bárujárni og á litlu þakinu er allþykk jarðvegstorfa. Líklega eru þetta leifar einhvers konar brunnhúss.
Þórustaða-Verbúðir (verbúð)
Þórustaðaverbúðir.
„Næst landi var Baðstofusker, sem einnig var nefnt Burstasker. Þar var einnig Fjósboði. Utan voru svo Geitlarnir, eða Þórustaða-Geitlar, Stóri-Geitill og Litli-Geitill og þar var Músasund og þar utar Þórustaðahnýll.
Uppundir fjöru var Hannesarklöpp og á Kampinum voru Þórustaða-Verbúðir,“ segir í örnefnaskrá. Ekki sjást ummerki um verbúðir á Kampinum sem er um 230 m norðvestan við bæ.
Verbúðirnar voru á grýttum sjávarkambi sem er gróinn að hluta milli fjöru og lítillar tjarnar. Ekki sést til minja og líklegt er að þær séu horfnar vegna landbrots.
Hellukot (býli)
Hellukot.
„Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.“ Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.
Á túnakorti frá 1919 kemur fram stærð túns og kálgarða Hellukots: Tún, 13 teigar, garðar 200m2. Býlið og mannvirki sem tilheyrðu því eru merkt inn á túnakortið.
Þórustaðaborg (fjárskýli)
Þórustaðaborg.
„Markalína nyrðri liggur úr Vatnagarði í Hólaþyrpinga, sem eru margir Hólar og nefnast einu nafni Þórustaðaborg. Þar í er Stekkatúnið gamla eða Þórustaðastekkatún,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir: „Við fylgjum Þórustaðastíg upp í Þórustaðaborg sem er ofar og suðaustar í heiðinni, u.þ.b. km frá veginum. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin.
Þórustaðaborg.
Þórustaðaborg hefur upphaflega verið fjárborg og liggur vestan undir allháum hól.“ Þórustaðaborg og fleiri minjar henni tengdar eru um 1,2 km suðaustan við bæ.
Þórustaðaborg er umkringd hraunhelluhólum á alla vegu nema til suðvesturs þar sem Þórustaðastekkatún er enn allgróið en litlir rofaflekkir eru farnir að myndast í og við það.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.“
Minjar við Þórustaðaborg eru á svæði sem er um 20×50 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingunni. Borgin sjálf A er um 10 m í þvermál en hún er ekki alveg hringlaga og sést móta fyrir horni á henni í norðausturhluta. Borgin er þrískipt og er op á henni til suðurs.
Fornasel (sel)
Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.
„Þar suður af [Klifgjá og Klifgjárbarmi sem eru sunnan við Kolgrafarholt] er Fornasel eða Litlasel,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fornasels er ekki getið í örnefnaskrá Þórustaða en samkvæmt núverandi landamerkjum er selið innan landamerkja þeirra. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir um Fornasel: “ Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel.
Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.
Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum [mögulega úr bókinni Strönd og Vogar] en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti [í örnefnalýsingu Landakots eftir Gísla Sigurðsson segir: „Ekki er með öllu víst, að Fornasel tilheyri landi Landskots, en hafi svo verið nefndist það einnig Litlasel.“ Ekki er ljóst hvernig Litlasel kemur til sögunnar. Þess virðist ekki vera getið annarsstaðar en í þessari örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá fyrir Landakot er Fornasel talið til örnefna sem tilheyra því en framar í skránni er tekið fram að erfitt sé að staðsetja þekkta hóla og kennileiti í Strandarheiði í landi hverrar einstakrar jarðar vegna þess hve þéttbýlt sé á svæðinu]. Í Jarðabókinni er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum en bókin nefnir Fornuselshæðir sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni […].“ Í bókinni Strönd og Vogar segir: „Þá er Fornasel. Þar áttu fyrst selstöðu Kálfatjörn og Þórustaðir en Kálfatjörn fékk seinna selstöðu, þar sem heitir Sogasel […].“ Mögulega er hér átt við sel í Fornuselshæðum en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 kemur fram að Kálfatjörn og Þórustaðir hafi átt selstöðu þar. Fornasel er um 3,2 km suðaustan við bæ.
Selið er í hrauninu sunnan við Reykjanesbraut þar sem landið fer hækkandi og er selið á dálítilli hæð. Gróið er í kringum selið.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel og selstöður á Reykjanesskaga segir um Fornasel: „Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum. Tóftirnar eru grónar, en vel sést móta fyrir veggjum. Hleðslur sjást í veggjum. Hlaðið er um vatnsstæðið.“ Heildarstærð minjasvæðisins er um 68×20 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Seltóftirnar eru á tveimur stöðum. a
Norðurkot (býli)
Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.
Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316).
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga“. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris.
Norðurkot.
[…] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […]. Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.“ Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði.
Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað.
Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Hann er um 1,2 m á hæð. Náttúrulegt framhald er á hólnum til norðausturs. Á hólnum eru byggingaleifar sem ná yfir svæði sem er 14×15 m og snýr suðvesturnorðaustur. Eldri minjar eru í norðausturenda svæðisins, þar eru tvö hólf í hlaðinni tóft, A, sem er 14×8,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Norðurkotsbrunnur (vatnsból)
Norðurkotsbrunnur.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Norðurkotsbrunnurinn er einn fallegast brunnurinn á ströndinni og nær alveg heill. Hann er í lægð skammt norðan við túngarðinn.“ Brunnurinn er um 60 m norðaustan við bæ.
Brunnurinn er í lægð í móa innan um gróna hraunhóla. Brunnurinn er grjóthlaðinn, og er sementslím í hleðslunni. Brunnurinn er um 2,5 m í þvermál og er byrgður með viðarplötu svo ekki er hægt að sjá ofan í hann. Hleðslur standa um 0,4 m upp úr jörðinni. Gaddavír er strengdur á staura umhverfis brunninn.
Tíðagerði (býli)
Norðurkot og Tíðargerði – uppdráttur ÓSÁ.
„Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: „Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.“ Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði, þró, útihús, túngarður og kálgarður.
Minjar um býlið eru í hæðóttu túni. Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Harðangur (bústaður)
Harðangur.
„Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarður upphaflega,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Harðangur hafi verið tómthús frá Norðurkoti og að það hafi verið í byggð 1885 en hafi aflagst um aldamótin 1900. Óljósar leifar um býlið sjást enn þar sem er ógreinileg tóft er á hól sem virðist vera náttúrulegur að mestu leyti. Hóllinn er við merki milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Umhverfis tóftina er túngarður eða kálgarður. Mannvirkin eru um 135 m austan við bæ. Býlið er í grónum hraunmóa. Býlistóftin er fast við túngarð Goðhóls sem er á merkjum milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Gerði sem er umhverfis tóftina og afmarkar svæði sem er um 15×70 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Garðurinn er hæstur um 0,5 m en er víðast hruninn. Tóftin er tvískipt, 8×4 m að stærð og snýr suðausturnorðvestur. Ekki sést í grjót nema á stöku stað í suðausturenda þar sem rof hefur myndast í tóftinni innanverðri.
Álfhóll (huldufólksbústaður)
Álfhóll.
Á uppdrætti af Norðurkoti á heimasíðu Ferlis er merktur Álfhóll norðvestan við Stórhól, niður undan Norðurkoti. Ekki er minnst á þennan hól í örnefnaskrám. Hólinn er fast norðan við hrunið byrgi og um 120 m norður frá bæ.
Hóllinn er í norðurjaðri túnsins. Hóllinn er allhár og stór, hömrum girtur til suðausturs. Að öðru leyti er hann vel gróinn, mjókkar upp og eru nokkrar fuglaþúfur efst á honum. Hann er 3-4 m á hæð, hæstur til norðurs og er um 25×15 m að stærð, snýr austur-vestur.
Stórhóll (huldufólksbústaður)
Stórhóll.
„Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum,“ segir í örnefnaskrá. Hóllinn er um 30 m norðvestan við bæ. Hóllinn er í hæðóttu túni. Hóllinn er algróinn og hefur að öllum líkindum verið sleginn með túninu. Hann er um 3 m á hæð og er um 15×10 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Bratt er fram af honum til vesturs.
Kálfatjörn (kirkja)
Kálfatjarnarkirkja.
1703: Jarðadýrleki óviss. Kirkjustaður. Kirkjunnar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 (DI XII 9).
[1379]: „Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi. Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda.“ (DI III 340) [1379]: „Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.“ (DI III 341) 1379: Kalfatiorn. „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon 175 Kirkja, horft til norðausturs oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.“ (DI III 341).
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; (DI IV 540).
9.9.1447: Er þess getið að Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir tilheyri Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI IV 707-708).
[1477]: “kalua Tiornn.“Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese.“ (DI VI, 124).
28.4.1479: Er þess getið að Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 185-86) 4.10.1489 er þess getið að jörðin Stærri-Vogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 686) 9.7.1496 er þess getið að jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 299, 303) 13.9.1500 er þess getið að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 513, 561).
Hjáleigur 1703: Naustakot, Móakot, Fjósakot og Borgarkot í byggð, í eyði voru Hólakot, Hátún og Árnahús.
Hjáleigur 1847: Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot. JJ, 91. Hlið var tómthús frá Kálfatjörn til 1923, Góðhóll var einnig tómthús sem var í byggð til 1935.
Sama má segja um Litlabæ sem var byggður fyrir 1884. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 319, 321-22, 337-340). Jörðin hét áður Gamlatjörn.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi, og þó enn meir af vatnarásum, sem uppá bera leir til skemda. Engjar eru öngvar. Úthagar lakir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 143. 1919: Tún 7 teigar, garðar 1180m2.
„Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin,“ segir í örnefnaskrá.
Kálfatjarnarkirkja.
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.“ Í broti úr sögu Vatnsleysuhrepps, samantekt eftir Viktor Guðmundsson segir enn fremur um kirkjuna: “ Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893.“ Kirkjan stendur á golfvellinum miðjum, um 25 m austan við bæjarhól.
Golfvöllur hefur verið gerður í hrauninu. Kirkjan stendur á sléttaðri flöt en utan vallarins er mosagróið hraun.
KÁLFATJÖRN Á VATNSLEYSUSTRÖND (G) -Pétri c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9.
[1379]: Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa. Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi.
Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda. Bessastaðabók DI III 340.
[1379]: Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. Bessastaðabók DI III 341.
1379: Kalfatiorn. Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini M. iij°. lxxxix ar. Bessastaðabók DI III 341.
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; DI IV 540.
9.9.1447: Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir … liggia í Kalfatiarnar kirkivsokn; DI IV 707-708
[1477]: kalua Tiornn. Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese. iiij mesoklæde et cetera. atta kyr. þriu asaudar kugillde oc j hestur. Máld DI VI, 124 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 122a].
Kálfatjarnarkirkja – fontur.
28.4.1479: Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 185-86.
4.10.1489: Jörðin Stærrivogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 686.
9.7.1496: Jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 299, 303.
13.9.1500: Jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
1575: Máld DI XV 638.
26.4.1815: Njarðvíkurkirkja gerð að annexíu frá Kálfatjörn; (PP, 107) [konungsbréf].
16.11.1907: Kálfatjarnarprestakall lagt niður og leggst sóknin til Garða á Álftanesi; (PP, 107) [lög]. Kirkjan stendur á grjóthlöðnum grunni. Hún er byggð úr timbri og klædd með bárujárni. Er hún á tveimur hæðum og að auki er kirkjuturn austast á byggingunni. Snýr hún í austur-vestur. Umhverfis kikjuna er kirkjugarður, 65 x 35 m stór. Hann snýr eins og kirkjan. Hann er afmarkaður af grjóthleðslu í suðri og vestri, u.þ.b. 0,4 m hárri og 0,2 m breiðri. Hleðslan virðist fremur nýleg. Líklega hefur grjóthleðsla verið umhverfis garðinn allan áður fyrr en þar sem mörk hans eru afar skýr en hún er horfin nú. Kirkjugarðurinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og virðist hann vera álíka stór í dag að því frátöldu að hann hefur verið stækkaður örlítið til vesturs. Á heimasíðu Ferlis segir um stein í kirkjugarðinum: „Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.“
Steinninn er um 2 m innan við hliðið á hægri hönd þegar gengið er að kirkjunni. Hann er um 0,4 m að hæð og 0,3 m í þvermál. Bolli, 0,2 m í þvermál og 0,1 m djúpur er í honum miðjum. Steininn er nokkuð mosagróinn.
Kálfatjörn (býli)
„Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan,“ segir í örnefnaskrá. „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998,“ segir í erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 og birt er á heimasíðu Ferlirs. Samkvæmt túnakorti stóð bærinn árið 1919 ríflega 20 m VSV af kirkjunni 002. Ekki er lengur búið á Kálfatjörn en þar er nú golfvöllur Golfklúbbs Vatnsleysustrandar. Umhverfis bæjarstæðið er nú golfvöllur. Utan hans er mosagróið hraun.
Þar sem bærinn stóð er nú lítill hóll, u.þ.b. 40 x 15 m að stærð og 2 m hár. Hann snýr í NNV-SSA og er bratt niður til suðurs af honum. Í jaðri hólsins er nú malarplan og efst á honum stendur fánastöng. Líklega hefur bærinn staðið um 15 m vestur af henni. Hóllinn hefur verið sléttaður. Norðan við hólinn er bali, hugsanlega sá sem nefndur er í örnefnaskránni. Sunnan við bæjarhólinn er kálgarður. Hann er 30 x 40 m og snýr líkt og bæjarhóllinn í NNV-SSA að stærð og er hlaðið í kringum hann á þrjá vegu, norðurhliðin er opin. Breidd veggja er 1 m og hæð þeirra 0,3 m. Þeir eru grjóthlaðnir. Túnakortið sýnir annan kálgarð fast austan við hinn. Hann hefur verið um 30 x 30 m að stærð og garðlag hlaðið utan um hann í suðri og austri. Hann er horfinn og er nú slétt flöt sem tilheyrir golfvellinum þar.
Skjaldbreið (hlaða)
Skjaldbreið.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var útihús um 10 m vestur af bæ. Tóft hússins sést enn. Golfvöllur er á þessum slóðum en umhverfis er mosagróið hraun.
Á heimasíðu Ferlirs er þessari tóft lýst: „Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. […] Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins.“
Húsið er í jaðri bæjarhólsins, rétt við malarveginn sem liggur fram hjá kirkjunni. Sést í sement í veggjahleðslunum. Húsið snýr norður-suður og er um 10 x 8 m að stærð. Breidd veggja er 0,4 m og hæð þeirra 2 m. Vesturhlið hússins er nánast alveg hrunin. Inngangur hefur líklega verið í SV-horni.
Kálfatjarnarbrunnur (vatnsból)
Kálfatjarnarbrunnur.
„Niður með Sjávargötunni [065] er Kálfatjarnarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. „Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Umræddur brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919 um 100 m norðvestur af bæ. Hann er í óslegnu belti milli sleginna flata á golfvellinum. Golfvöllur, mosagróið hraun í utan hans. Brunnurinn er á litlum hól, 0,5 m háum og 5 m í þvermál.
Brunnurinn sjálfur er 2 m í þvermál. Ekki sést í neinar hleðslur í honum. Nú hefur hann verið byrgður. Mikið og hátt gras er í kringum brunninn.
Hornsteinn (áletrun)
Ártalssteinninn á Kálfatjörn.
Á heimasíðu Ferlis segir: „Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina.“ Skálinn er nú á malarplani um 40 m norður af kirkjunni og 45 m norðaustan við bæ.
Steinninn er á malarplani norðan við kirkjuna. Golfvöllur er austan og vestan við hann.
Steinninn er 0,5 m á lengd, 0,3 m á breidd og 0,3 m hár. Á hann er letrað A°1674. Steininn er líklega úr grágrýti.
Hlið (býli)
Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.
„Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Milli Goðhóls og Norðurkotstúns var Hlið og var þar í kring Hliðslóð eða Hliðstún umgirt Hliðstúngörðum, hlöðnum af grjóti og ofan lóðarinnar svo svo Heiðargarðurinn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.
Hlið.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hlið var tómthús frá Kálfatjörn.“ Þar lagðist niður búskapur 1923 en þar var byggður sumarbústaður sem ekki er notaður nú. Þar sem Hlið stóð sést enn stór tóft og túngarður. Hlið er um 260 m suðvestan við Kálfatjarnarbæ 001 og um 110 m norðnorðaustan við Goðhólsbæ. Gróinn túnblettur milli hraunhóla í vesturjaðri golfvallar. Dálítill holmói er austan við Hlið, utan garðs.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndin í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.“
Kirkjubrú (brú)
Kirkjubrúin við Kálfatjörn.
„Rétt ofan við götuna [Kirkjugötuna] lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstún, kölluð Kirkjubrú,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Strönd og vogar segir enn fremur: „Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás. Þessi farvegur var alltaf þurr, nema í leysingum á vorin. Þá gat safnazt saman mikið vatn fram í heiði og fékk þá framrás um Rásina og gat þar orðið allmikill flaumur, jafnvel í mitti á mönnum. En yfir Rásina hefir verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum.“ Kirkjubrú liggur nokkuð samsíða Kirkjugötu, 10-30 m suðaustan við hana, og liggur frá suðvestri til norðausturs. Brúin er um 55 m austnorðaustan við Hlið og um 175 m suðvestan við bæ. Brúin liggur yfir hraunmóa en suðvesturhluti brúarinnar liggur yfir holmóa. Er í jaðri golfvallar, suðvestan við Landagarð. Brúin er úr grjóti sem hrúgað hefur verið yfir Rásina en ekki er um vandaða stétt að ræða. Grjótið í brúnni er meðalstórt og stórt hraungrýti. Brúin er um 2 m á breidd og um 32 m löng. Brúin er nokkuð sokkin og er mesta hæð hennar um 0,2-0,3 m. Steinninn með áletruninni er norðaustan við miðja brú. Steinninn er um 0,6 x 0,6 m
að stærð, ferkantaður, og um 0,3 m á þykkt. Steinninn er flatur að ofan og mosavaxinn. Áletrunin er á suðurhlið steinsins, og þekur flöt sem er um 0,2 x 0,1 m, snýr norðaustur-suðvestur. Í bókinni Strönd og vogar er ártalið lesið 1706 og á heimasíðu Ferlis er það sagt vera 1790. Áletrunin er orðin mjög óskýr en ekki var hægt að sjá annað á vettvangi en ártalið 1700 og ekki sást í A° á undan því.
Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.
Breiðufit (girðing)
Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.“Minjasvæðið er um 200 m langt og 50 m breitt. Það snýr gróflega frá austri til vesturs.
Goðhóll (býli)
Goðhóll – Kálfatjarnarkirkja fjær.
„Svo sem 20 m neðar en brunnurinn er Rásin, en þar er farvegur, er Goðhólsrás hefur grafið sér, en hún rennur að nokkru inn á Kálfatjarnartún. […] Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. […] Nokkurt tún er í Goðhól. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bærinn var skammt frá suðurtúngarði og eigi alllangt frá sjó. Beint niður undan bænum er uppsátrið, skiparéttin og vörin […],“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Goðhóll 1933.
„Ofan og sunnan Naustakots var býlið Goðhóll, sem stóð í Goðhólstúni, á suðurhlið túnsins var svokallaður Heimagarður og Vatnagarður eða Móinn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. […] afleggst Goðhóll […] árið 1935.“ Bæjarstæði Goðhóls er í suðvesturjaðri golfvallar skammt frá sjó, um 275 m vestan við Kálfatjarnarbæ. Norðan við bæinn eru golfflatir og sunnan og vestan við hann eru lágar klappir og grösugir balar þar á milli. Nokkuð er um flagmóa austan við bæinn.
1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2. Minjasvæðið sem tilheyrir Goðhól er um 150 x 70 m og snýr norðvestur-suðaustur. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru á svæðinu bæjarhús a), brunnur b), þró c), útihús d), kálgarður e), kálgarður f), útihús g), útihús h), slóði i), slóði j), kálgarður k), útihús l), útihús m) og túngarður n). Bæjarhúsin a) eru mjög greinileg og vel uppi standandi. Þau standa sunnan í Goðhól, litlum bröttum og grónum hól og vestan í öðrum stærri klapparhól. Bæjartóftin er um 11 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin skiptist í þrjú hólf. Inngangur inn í tóftina er á miðri suðvesturhlið og eru þar tvö hólf, hvort til sinnar handar. Þau snúa eins og tóftin.
Bakkastekkur (stekkur)
Bakkastekkur.
„Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,“ segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ. Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að GamlaBakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5 x 3 m að stærð og snýr NNV-SSA.
Helgahús (beitarhús)
Helgahús.
„Örskammt innan við Nausthól (60-80 m) eru sléttar klappir á kampi og grónir balar. Þarna heitir Litli-Nausthóll; upp frá honum um 100 m, eru fjárhústóftir, Helgahús, nefnd eftir þeim er lét reisa þau, Helga kenndan við Tungu í Reykjavík. Þau voru reist um 1920,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir að húsið hafi verið reist a.m.k. 3-4 árum fyrr. Helgahús er 280 m austur af Bakkakrók og 1,1 km norðaustan við bæ.
Grasi gróinn melur sem hraunklappir standa upp úr. Stórgrýtt fjara ásamt klettabeltum niður (norður) af tóftinni. Tvískipt grjóthlaðin tóft, 14 x 10 m að stærð. Snýr hún í norðvestur-suðaustur. Breidd útveggja á langhliðum er 1,5 m en innveggurinn sem skiptir tóftinni í tvö hólf er um 1 m að breidd. Tóftin er byggð upp að kletti í suðaustri og er hann notaður sem gafl í öðru hólfinu. Hæð veggjanna er víðast hvar 0,5 m en hæst er skammhliðin sem snýr til suðausturs, 1,5 m há. Norðvesturgafl hefur líklega verið úr timbri eða öðru léttu efni þar sem hleðslur eru mun lægri þar og í vestari hólfinu hulin grasi. Vestara hólfið er 9 x 2,2 m að innanmáli en hið austara er styttra og breiðara, 7 x 4 m að stærð.
Vatnssteinar/Vaðssteinar (vatnsból)
Vatnssteinar.
„Ofan við Breiðufit [inn með sjónum frá rétt] miðja eru 2 hólar allstórir hver upp af öðrum og grónir nokkuð upp. Norðan undir þeim, sem nær er bakkanum, er lítið vatnsstæði, það heitir Vatnssteinar,“ segir í örnefnaskrá. Vatnssteinar eru um 400 m norðaustan við Nausthól 034, 310 m norðaustur af Litla-Nausthól og um 1,4 km norðaustur af bæ. Ekki er ljóst hvort fólk sótti vatn í vatnsbólið og þá hvaðan það var sótt eða hvort skepnum hafi verið brynnt þar.
Grasi gróið nef sem gengur út í stórgrýtta fjöru. Ofan við það er mosagróið hraun.
Líklegt er að hólarnir tveir sem nefndir eru í örnefnaskrá séu Réttarhólar. Um 50 m norður af þeim nyrðri og 10 m frá fjörunni er stórgrýtt dæld. Hún er 3 x 1,5 m að stærð og 0,3 m djúp. Hugsanlega eru Vatnssteinar þar. Nú er dældin þó þurr og grasi gróin. Stór trjádrumbur liggur ofan í henni.
Stefánsvarða (varða)
Stefánsvarða.
„Í austur frá Bakkastekk dregur til hæðarbungu. Hún kallast Hæðin. Þar á há-Hæðinni stendur Stefánsvarða, rétt við þjóðveginn. Hún var rifin af vegagerðarmönnum á stríðsárunum síðari en var byggð upp um 1970. Það gerði Jón Helgason frá Litlabæ og Magnús sonur hans. Settu þeir og nafnspjald á vörðuna,“ segir í örnefnaskrá.
Stefánsvarða – letursteinn.
Varðan er skammt norðan við aðalveginn og sést vel af honum. Hún er um 15 m norðan við leið og um 1,6 km ANA af Kálfatjörn. Varðan stendur á flatri og sléttri klapparhellu. Umhverfis vörðuna er klappir og klapparhólar. Milli klappa eru grýttir melar, mosagrónir að hluta. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Varðan er vandlega hlaðin úr hraungrýti. Hún er köntuð og mjókkar lítillega upp. Varðan er um 1 x 1 m að grunnfleti og er um 1,8 m á hæð. Hrunið hefur lítillega úr vörðunni efst en 8 umför eru í hleðslunni. Grjótið er af öllum stærðum en stærst neðst og minnkar eftir því sem ofar dregur. Grjótið virðist vera tilhöggvið. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.
Borgarkotsstekkur (stekkur)
Borgarkotsstekkur.
„Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn.
Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs.
Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6 x 3 m og mesta hleðsluhæð er um 0,4 m. Í syðri enda er lítið hólf, um 1 x 1 m að innanmáli og í nyrðri enda er lítið gerði, að því er virðist, þar eru veggir mun ógreinilegri og efnisminni. Það er um 2 x 2,5 m að innanmáli og snýr norðursuður. Óljóst op sést í norðvesturhorni gerðisins.
Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.
Heimristekkur (stekkur)
Heimristekkur.
„Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll. Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,“ segir í örnefnaskrá. „Nú förum við aftur niður á Strandarveg fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn. Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu. Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1 x 1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.
Staðarstekkur (stekkur)
Staðarstekkur.
„Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn. Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22 x 3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m.
Staðarborg (fjárskýli)
Staðarborg.
„Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur. Litlu ofar og sunnar er Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin, – er friðlýstar minjar,“ segir í örnefnaskrá. Friðlýsingin var gerð ógild árið 1990 samkvæmt Skrá um friðlýstar minjar. Staðarborg er um 300 m suðvestur frá tóft á Þorsteinsskála og um 1,8 km suðaustur frá Kálfatjörn.
Borgin stendur suðaustast á sléttum hraunhelluhrygg, ekki mjög háum. Innan og utan borgarinnar er grasi vaxið en að öðru leyti er hryggurinn að mestu gróðurlaus.
Staðarborg.
„Ólafur heyrði þá sögu um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. […] Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr,“ segir í örnefnaskrá. „Borgin er hringlaga, um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin er um 2 m,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni, að þar hefir handlaginn maður verið að verki. Borgin er hringlaga og er hlaðin úr grjóti einu, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en fyllt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþykktin neðst um 1 1/2 metri, en 1 metri efst. Þvermál borgarinnar að innan er um 8 metrar, ummál hringsins að innan 23 metrar, en 35 metrar að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og hleðslumeistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land,“ segir í Strönd og vogum.
Staðarborg.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn. Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana. Strandarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið. Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951. […] Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.“ Borgin er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti að mestu leyti að stórt grjót er í dyrum. Hún er hringlaga, um 6 m að innanmáli í þvermál. Veggir eru um 1,3 m á þykkt (neðst í dyrum) og þynnast lítið er ofar dregur. Utanmál borgarinnar er þá um 8,5 m. Hæð veggja er um 2 m. Dyr eru á borginni til vesturs, þær eru um 0,5 m á breidd og jafnháar veggjum en eins og kemur fram í texta hefur verið rifið upp úr dyrunum. Borgin er mjög heilleg og lítið sem ekkert virðist hafa hrunið úr henni.
Þorsteinsskáli (tóft )
Þorsteinsskáli.
„Skammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni,“ segir í örnefnaskrá. Tóftarbrotið er efst á suðaustanverðri hæðinni, um 1 km suður af Stefánsvörðu og um 1,9 km suðaustur af Kálfatjörn.
Hæðin Þorsteinsskáli stendur hvað hæst upp úr umhverfinu og þaðan sést mjög víða. Hæðin er mjög grýtt og á henni sprungnar hraunhellur. Hún er ekki mjög gróin en víða er mosi. Um 5 m norðvestan við tóftabrotið er grasi gróinn hraunhelluhóll og hundaþúfa á honum efst. Tóftarbrotið er steinhlaðið. Það er um 2 x 2 m að stærð, snýr norður-suður. aðeins sjást suður- og vesturveggir og örlítið af austurvegg. Mesta hleðsluhæð er um 0,8 m í suðurvegg og er þar tvöföld hleðsla, 4 umför. Frá tóftinni hallar landið til norðurs. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið skotbyrgi.
Prestsvarða (varða)
Prestsvarða.
„Prestsvarða eða Staðarvarða er nálægt 200-250 m í austsuðaustur frá Heiðargarði, beint upp af Hátúni. […] Oddmyndaður steinn er út úr henni neðan við miðju. Hann vísar í norður (þ.e. til byggða),“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Fast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Í athugasemdum við örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis er varðan einnig nefnd Berjavarða. Varðan er rétt sunnan við afleggjara að Kálfatjörn, um 480 m suðaustan við bæ og um 530 m vestan við Heimristekk. Varðan stendur lágt á sléttri hraunhellu. Í kringum hana er að mestu gróið hraun. Varðan er vandlega hlaðin, köntuð að lögun. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og um 1,6 m á hæð. Hleðslugrjótið er meðalstórt og smátt, nokkuð skófum vaxið. Neðarlega á norðurhlið vörðunnar stendur stór, flatur steinn út úr henni og vísar nokkurn veginn til norðurs, í átt að Kálfatjarnarbænum. Ofan á þessum steini er annar minni sem hefur e.t.v. verið settur þangað nýlega eða hrunið úr toppi vörðunnar. Prestsvarðan stendur við Almenningsveg.
Landabrunnur (vatnsból)
Landabrunnur.
„Í Landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann 2x3m ummáls og 1,3m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsbólið er um 10 m norðan við Heiðargarð og 160 m suður af bæ. Golfvöllur, umkringdur mosagrónu hrauni.
Andrés Guðmundsson, heimildamaður, sagði vatnsbólið ná niður á klöpp. Það var dýpkað með dínamíti um miðja síðustu öld. Líkt og segir í örnefnaskrá er vatnsbólið 2 x 3 m að stærð og nær niður á klöppina, um 1 m að dýpt. Ekkert vatn er hins vegar nú í dældinni og vex nokkur gróður í botni hennar. Engar hleðslur eru sýnilegar við vatnsbólið og er grasi gróið allt í kringum hann.
Fornuselshæðir (sel)
Fornusel.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „[…] áður hefur hann [staðurinn] og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði [svo], þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir […].“ Í Jarðabókinni segir einnig að Þórustaðir eigi selstöðu í Fornuselshæðum: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ „Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur líklega verið selstaða fyrrum og gæti verið selstaða sú er getið er um í Jarðabókinni,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Þrískipt tóft („þrjár mjög gamlar kofatóftir“) er vestan í Sýrholti, um 980 m suðvestan við Flekkuvíkursel, um 4,4 km suðaustan við Kálfatjörn og um 4,6 km suðaustan við Þórustaði.
Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftirnar eru allhátt á holtinu og er þar grasi gróinn blettur í kring. Umhverfis holtið eru hraunbreiður sem eru grónar á köflum en nokkur gróðureyðing er hér í kring.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Vestan í holtinu [Sýrholti] sjást þrjár mjög gamlar jarlægar [svo] kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu. Útveggir sjást. Tvær tóftanna [hér hefur líklega átt að standa „Þrjár tóftanna…“ þar sem áður hefur verið talað um að kofatóftirnar séu þrjár vestan í holtinu og uppdráttur sem fylgir umfjölluninni sýnir einnig þrjár tóftir] eru suðvestan í hæðunum, en sú þriðja er á gróðurbleðli skammt vestar. Hlaðin kví] er í gróinni gjá þar skammt vestan hennar.“ Tóftirnar þrjár vestan í Sýrholti sem nefndar eru í heimildum er í raun ein tóft, en þrískipt. Tóftin er um 8 x 4 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hólfin 3 snúa suðvestur-norðaustur. Þau eru 1,5×0,5-1 m að innanmáli og er norðvestasta hólfið ógreinilegast. Hleðslur eru mjög signar en hólfin eru enn nokkuð djúp. Mesta hleðsluhæð utanmáls er um 0,3 m en innanmáls er hún um 1 m. Ekki sjást op inn í hólfin og ekki sést í grjót. Efst uppi á Sýrholti er mikil hundaþúfa, grasi vaxin. Líklegt er að þar hafi staðið varða sem vísað hefur á selið því lausir steinar sjást grónir við þúfuna og minnst er á það í örnefnaskrá Kálfatjarnar (AG) að á þessu svæði sé landamerkjavarða, Sýrholtsvarða, og kann að vera að þessi meinta varða hafi einnig haft það hlutverk. Hleðsla er í gjá um 290 m norðvestur af seltóftinni og er þar líklega um meintan stekk að ræða sem nefndur er á heimasíðu Ferlis. Samkvæmt landamerkjum sem fengust hjá sveitarfélaginu er selið á merkjum milli Kálfatjarnar og Þórustaða. Það er skráð með Kálfatjörn þar sem líkur eru til þess að hér sé um selið að ræða sem talað er um í Jarðabók Árna og Páls og hefur það þá verið í landi Kálfatjarnar. Hleðslan og tóftin sem Ómar Smári talar um í ritgerð sinni eru að öllum líkindum það langt frá seltóftinni og nokkuð inn í landi Þórustaða og eru þær minjar því ekki skráðar með selinu heldur í sitt hvoru lagi með Þórustöðum.
Hólakot (býli)
Hólskot.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varðveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir enn fremur: „Holakot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár […]. Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og má ei að skaðlausu missa.“ „Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thoraresen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn [1831-1892]. Sagt er, að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðar),“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Rétt við Naustið hafði verið þurrabúðin Hóll eða Hólakot, en þar er nú Fjárhúsið. Þegar Hóll lagðist niður var þarna reist Sjóbúð, Kálfatjarnarsjóbúð og hafði rúmað 16 menn,“ segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur líklega verið um 175 m norðvestan við bæ. Sjóbúðin var þar sem nú er golfvöllur. Utan hans er gróið hraun.
Sjóbúðinni var síðar breytt í fjárhús eða ný fjárhús voru reist á sama stað. Ekki sést til minja um Hólakot.
Árnahús (býli)
Árnahús.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Arnahus hafa í eyði legið þrettán ár. […] Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og kann ei án vera fyrir utan sinn skaða.“ „Ofan hans [Tjarnarbakkans], við austurhorn Tjarnarinnar (hún má reyndar heita nær hringlaga) er dálítil lægð eða pollur, mun hafa verið kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið mjög nærri. En gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið,“ segir í örnefnaskrá. Víti er um 110 m norðan við bæ. Tóftin er á golfvelli. Gróið hraun er utan hans.
Pollurinn Víti er nú uppþornaður en hann má þó greina sem smá dæld. Gróður innan dældarinnar er einnig frábrugðinn þeim í kring. Rétt norðan Vítis er grasi gróinn hóll. Ofan á honum er ógreinileg tóft. Hugsanlegt er tóftin sé rústir Árnahúss eða útihúss þess. Hún er 4 x 4 m að stærð og snýr norður-suður. Er hún opin til norðurs. Breidd veggja er um 1 m og er hæð þeirra mest 0,5 m. Víðast hvar eru veggirnir þó aðeins 0,2 m háir. Glitta sést í grjót á vestanverðum langvegg innanverðum. Erfitt er að skera úr um hvort þar sé náttúruleg klöpp eða hleðsla úr grjóti.
Naustakot (býli)
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Á heimasíðu FERLIRs segir: „Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar.“
„Neðan Rásar og sunnan Sjávargötu er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð 1703), hefur lengi verið í eyði. Þar er nú fjárhús,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „En neðst í túninu var Naustakot og stóð á Naustakotshól og þar í kring hafa verið Naustakotstún. Á hólnum er nú Naustakotsfjárhús, fjárhús frá Kálfatjörn,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.“
Kálfatjörn – túnakort 1919.
Fjárhúsin eru merkt á túnakort Kálfatjarnar frá 1919. Naustakot hefur staðið þar sem nú er tóft fjárhúss sem tilheyrt hefur Kálfatjörn, 285 m norðvestan við þann bæ. Golfvöllur er sunnan við tóftina. Þar sem honum sleppir tekur við hraun. Fjaran er prýdd klettabeltum. Tóftin er á lágum hól, u.þ.b. 12 x 20 m stórum og snýr austur-vestur, sem er að líkindum bæjarhóll Naustakots. Tóftin er tvískipt og sambyggðar við hana eru tvær réttir eða hólf. Byggingin nær yfir svæði sem er u.þ.b. 20 x 9 m stórt. Tóftin er grjóthlaðin, 8 x 9 m að stærð og snýr í austur-vestur. Skiptist hún í tvö hólf.
Naustakotsbrunnur (vatnsból)
„Við bæinn hefur svo verið Naustakotsbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Ekki reyndist unnt að staðsetja hann. Stórgrýtt fjara. Víða ganga klappir fram í sjó og mynda víkur sín á milli. Milli golfvallarins og fjörunnar er blautt valllendi. Enginn brunnur fannst við Naustakot. Mögulegt er þó að hann sé kominn undir flöt á golfvellinum eða að um sama brunn og sé að ræða og nafn hans hafi breyst eftir að Naustakot fór í eyði.
Móakot (býli)
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Fór í eyði um 1940 eða 1950.
1919: Tún 1,8 teigar, garðar 450m2.
„Fyrir ofan Móakotsbakkann er lítil mýrartjörn, Móakotstjörn. Skammt fyrir ofan hana er bærinn í Móakoti, nokkuð miðsvæðis í túninu og þó heldur nær suðurmörkum. […] Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Norð-Austur af Kálfatjarnarhúsinu er Móakot og þar í kring Móakotstún, eða Móakotspartur, sem var umgirt Móakotstúngörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að húsin í Móakoti hafi verið rifin 1919 en ný byggð fljótlega. Móakot er 220 m suðaustan við Kálfatjörn.
Móakot er nú inni á golfvelli og er allt snöggslegið á milli bygginga og annarra mannvirkja en minjarnar virðast að mestu hafa fengið að halda sér. Bærinn er fast norðan við Álfhól.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða í Móakoti. Tóft húss sem er líklega það sama og sýnt er á túnakorti frá 1919 sést ógreinilega en annað hús hefur verið hlaðið í norðurhluta hennar.
Móakotsbrunnur (vatnsból)
Móakotsbrunnur.
Um 1 m utan við túngarð Móakots virðist vera hlaðinn brunnur. Hann er um 90 m norðaustan við bæ. Brunnurinn er í grasi grónum móa þar sem eru nokkrir klapparhólar.
Hátún (býli)
Hátún.
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, þá í eyði frá 1700. Fór í eyði um 1920 en föst búseta tekin upp aftur, um 1960, þar brann fyrir nokkrum árum.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 750m2.
„Úr austurhorni Kálfatjarnartúns liggur girðing til austurs út að Heiðargarði. Hún skilur tún Fjósakots og Hátúns en svo heitir býli, sem er suðaustan megin upptúns á Kálfatjörn. Má það í raun kallast austurhorn Kálfatjarnartúns. Það fór í eyði um 1920. Árið 1941 var byggður þar sumarbústaður, en föst búseta tekin upp um 1960. Grjótgarður umlykur túnið heiðarmegin,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Hátún.
„Hátún stóð í Hátúnstúni, sem girt var Grjótgörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Hátún er um 160 m suðaustur af Kálfatjörn.
Hátún stendur nokkuð hátt og lækkar landið til suðurs og vesturs. Innan golfvallar.
Bærinn í Hátúni hefur að líkindum staðið á náttúrulegri hæð og bæjarhóllinn ekki verið afgerandi. Engin hús eða tóftir sjást lengur á bæjarstæðinu nema stöku steinaraðir og golfteigur er nú norðvestast á bæjarhólnum. Umfang bæjarhólsins sjálfs er um 35 x 20 m og snýr hann suðaustur-norðvestur. Mesta hæð bæjarhólsins er um 1 m. Leifar kálgarða sem voru umhverfis bæinn sjást enn að miklu leyti. Grjóti hefur verið bætt í þessa garða sumstaðar og norðaustast á svæðinu er dálítill grjóthryggur innan við garð. Samkvæmt túnakorti voru bæjarhúsin um 20 x 10 m að stærð og sneru norðaustur-suðvestur. Kálgarðarnir umhverfis bæjarstæðið girtu af svæði sem var um 30 x 40 m að stærð og sneri norðaustur-suðvestur.
Hátúnsbrunnur (vatnsból)
Brunnurinn er um 1 m í þvermál að innanmáli og fullur af grjóti. Tvö stór björg eru í austur- og vesturbrún brunnsins en minni steinar til annarra átta. Líklegt er að brunnurinn hafi verið hlaðinn að innan en grjótið sem sést efst í honum kann að hafa verið sett í hann til að fylla upp í hann eftir að hætt vara að nota hann.
Fjósakot (býli)
Fjósakot.
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Í eyði frá um 1920. Því tilheyrðu 3/4 hlutar Nausthólsvíkur. ÖKálfatjörn, 6. „Fjósakot var smá grasbýli frá kirkjujörðinni á Kálfatjörn. Var það norðaustur af kirkjugarðinum.“
GJ: Mannlíf og mannvirki, 330.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 500m2.
„Ofan Móakots (fjær sjó) er Fjósakot. Túnin liggja saman og einnig bæði að Kálfatjarnartúni. Bærinn í Fjósakoti stóð á stórri hólbungu í miðju túni. Þar sér nú aðeins grjóthrúgur. Mold úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreitinn á Kálfatjörn. […] Fjósakot fór í eyði um 1920. Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Fjósakot.
„Fjósakot stóð í Fjósakotstúni og lágu að því Grjótgarðurinn Syðri og Grjótgarðurinn Nyrðri,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fjósakot er um 200 m austur af bæjarstæðinu á Kálfatjörn og 170 m austur af Kálfatjarnarkirkju. Tóftin er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Bærinn hefur staðið á litlum hól, u.þ.b. 26 x 30 m stórum og 2 m háum sem snýr í austur-vestur. Samkvæmt túnakorti stóð húsaþyrping nyrst á hólnum. Túnakortið virðist sýna 8 byggingar (þó teiknaðar í einni þyrpingu, sjálfsagt að miklu leyti sambyggðar og því erfitt að aðgreina þær) en aðeins er hægt að greina leifar sex bygginga á hólnum. Nú sést lítið til þeirra en svo virðist sem sléttað hafi verið úr minjum ofan á hólnum. Þó má enn greina
garðlag nyrst meðfram bungunni.
Vatnsgjá (vatnsból)
Vatnsgjáarvatnsbólið.
„Hér var Vatnsstæðið vatn í klöpp og þraut aldrei, sem einnig var nefnt Vatnsgjá,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsstæðið er milli tveggja lágra hóla um 90 m norðvestur af bæ. Vatnsbólið er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Vatnsgjá er 1,4 m djúp dæld og 3 x 2,5 m stór. Glitta sést í grjót í dældinni og hefur líklega verið hlaðið ofan í hana. Hún er nú gróin grasi og er þurr.
Bakki (býli)
Bakki.
1703 var jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Bakkakrókur eyðihjáleiga 1703.
[1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124). Bjarg var tómthús frá Kálfatjörn en fór í eyði 1934 og sameinaðist Bakka. Litlibær var tómthús í upphafi (fyrir 1884), en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 333-340).
Bakki (nýi) fór í eyði árið 1963 (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). „Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó út, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni“ (GJ:Mannlíf og mannvirki, 337).
Bakki.
„Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn“ (ÁÓ: Strönd og Vogar, 183).
1703: „Túnin fordjarfast af sands og sjáfarágángi árlega meir og meir, og þarf ábúandinn með kostnaði og ómaki sandinn af að moka og burt að færa. Engjar eru ongvar. Útihagar lakir um sumar, um vetur nær öngvir, nema fjaran.“ JÁM III, 146. 1919: Tún 1,5 teigar, 760m2. „Norðan eða innan Móakots og Kotagirðingar, þar sem nú eru býlin Bakki og Litlibær ásamt því landi öðru, sem innan Heiðargarðs er frá Móakotsmörkum, var um langan aldur kúabeit frá Kálfatjörn, kölluð Kálfatjarnargirðingar. En þetta hafa áður verið tún og beitarland Bakka hins forna býlis, er þar var, en lagðist í eyði vegna sjávarágangs og lagðist þá undir Kálfatjörn“ (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 9). Eftir að bærinn á Bakka var síðast fluttur vegna sjávarágangs árið 1904 fékk ábúandi smám saman útmælt land og ræktaði tún allt frá sjó að Heiðargarði (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). Óljóst er hversu mikið land hefur upphaflega tilheyrt jörðinni Bakka. Í örnefnaskrá Kálfatjarnar segir að Kálfatjörn tilheyri „innangarðs allt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (Nýja), Bjargi og Litlabæ.“ Líklegt er að Bakka hafi að fornu a.m.k. tilheyrt land frá Bakkarkóki að túnmörkum Nýja-Bakka á móti Kálfatjörn. Einnig eru líkur til þess að jörðin hafi átt land áfram upp í heiðina eins og flestir aðrir bæir á ströndinni. Heiðargarður skilur á milli túna og hraunmóa frá Kálfatjörn að Bakkakróki. Í skráningunni er Bakkaland skilgreint þannig að það sé innan Heiðargarðs, frá suðvesturhlið túngarðs Nýja-Bakka að Bakkakróki. Á því svæði eru eyðibýlin Litlibær, Bjarg og Nýi-Bakki, Gamli-Bakki og Bakkakrókur. Utan Heiðargarðs er Bakkastekkur en hann er skráður með Kálfatjörn. Ekki eru aðrar minjar utan Heiðargarðs sem tengjast Bakka svo vitað sé.
Gamli-Bakki (býli)
Gamli-Bakki.
„Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,“ segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. „Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […]. Nálægt síðustu aldamótum var sjór farin að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Bakki – örnefni.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“ Gamli-Bakki er 200 m suðaustan við núverandi bæjarstæði Bakka. Á túnakorti má sjá ýmis garðlög, hús og húsaleifar þar sem Gamli-Bakki stóð. Suðvestan við gamla bæjarstæðið var ræktað út tún eftir að bærinn var fluttur árið 1904 og tilheyrði það tún Bjargi. Gamli-Bakki er fast norðvestan við Bakkatjörn. Sumt af því sem er á túnakortinu er horfið vegna ágangs sjávar og vegna fjörugrjóts sem borist hefur upp á bakkann og hylur e.t.v. sumar minjarnar.
Gamli-Bakki.
Gamli-Bakki stendur fram á sjávarbakka. Í fjörunni til norðurs og norðvesturs er klapparfjara en sunnan við hann er Bakkatjörn. Grasi gróið er allt í kringum minjarnar og grýtt.
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar segir: „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af. Erfitt er að gera sér grein fyrir stærð bæjarhólsins vegna gróðurs og sjávarrofs en sýnilegar leifar hans eru um 15 x 15 m að stærð og mesta hæð um 1 m. Á bæjarhólnum er minjasvæði sem er um 12 x 12 m að stærð.
„Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þarfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“ Ekki sést til fornleifar.
Bakkakirkja (kirkja)
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.“ Ef kirkja hefur verið á Bakka er líklegt að hún hafi staðið þar sem elsta þekkta bæjarstæðið var en það er nú komið út á sjó og löngu horfið og því ólíklegt að nokkrar leifar kirkju eða krikjugarðs kunni að koma í leitirnar héðan í frá, nema að kirkjan hafi fylgt bænum eftir að hann var fluttur á bæjarstæði 001 en engar sagnir eru um slíkt. Ennfremur er erfitt að fullyrða nokkuð um að kirkja hafi verið á Bakka þar sem engar fornar heimildir eru til um hana.
Bjarg (býli)
Bjarg.
„Örstutt upp frá Naustunum var býlið Bjarg, hafði það kálgarð og dálítinn túnblett. Það fór í eyði 1936 og er nú sameinað Bakkatúni. Þar standa enn hús,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. „Niður við Gamla-Bakka stóð býlið Bjarg í Bjargslóð umgirt Bjargsgörðum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Bjarg var tómthús frá kirkjugjörðinni Kálfatjörn. Þau er munu hafa búið þar fyrst, um 1850 voru Jón Ólafsson og kona hans Katrín.“ Enginn ábúandi eftir 1934. Bjarg er um 105 m sunnan við Gamla-Bakka og um 110 m norðaustan við Bakka. Á túnakorti eru eftirtalin mannvirki sem talin eru með býlinu Bjarg: A) Þrískiptur bæjarhús; B) útihús; C) garður sem liggur umhverfis A) og B) og kálgarð; D) garðlag sem er niður við sjó og byggt er við túngarð Bakka; E) gerði utan um kvía- eða kúamóa og áfast því er rétt eða annað mannvirki; F) túngarður sem afmarkar lítinn túnblett milli Gamla-Bakka og Bjargs.
Bærinn stendur á tiltölulega sléttri brún í landslaginu sem liggur norðvestur-suðaustur. Fram af honum til suðvesturs er dálítill bratti niður að kálgarði og túni. Allt umhverfis bæinn er grasi gróið og nokkuð er um steyptar byggingar á bæjarstæðinu.
Bjarg.
1919: Tún 0,27 teigar, garðar 940m2. Heildarstærð minjasvæðisins er um 30 x 60 m og snýr það norðvestursuðaustur. Auk þess er túngarður F) skráður með Bjargi þar sem túnið innan hans tilheyrði býlinu en hann kann að hafa tilheyrt Gamla-Bakka upphaflega. Samkvæmt túnakorti stóðu bæjarhúsin í röð frá norðvestri-suðausturs. Þar sem bærinn stóð er nú steyptur húsgrunnur og leifar samtengdra húsa sem eru að hluta steypt og að hluta hlaðin.
Húsin standa í röð meðfram jarðvegsbakka norðaustan við kálgarð. Suðaustast er steypti húsgrunnurinn, tvískiptur, og fáum metrum norðvestar er steypt og hlaðið hús sem skiptist í 4 hólf. Það er alls um 18 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Það hólf sem er austast I) er að mestu hrunið eða hefur verið rifið. Það hefur verið hlaðið að einhverju leyti og er um 8 x 8 m, snýr suðaustur-norðvestur.
Litlibær (býli)
Litlibær – brunnur.
„Litlibær stóð í Litlabæjartúni eða Litlubæjarlóð. Þar var rétt hjá Litlabæjartjörn,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Litlibær var tómthús í upphafi, en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Helgi byggði upp Litlabæ úr torfbæ í timburhús árið 1906.“ Þar kemur einnig fram að býlið hafi verið byggt fyrir 1884. Húsið sem stendur nú var byggt 1934 og notað sem sumarbústaður. Litlibær er 155 m suðaustur af Gamla-Bakka og um 60 m norðaustur af Nýja-Bakka. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru innan túngarðs G), auk bæjarins á Litlabæ A), tvö útihús B) og C) og þrír kálgarðar D), E) og F) þar af tveir heim við bæ. Bærinn stendur skammt suðaustur frá sjó, á grónu flatlendi, umkringdu mosagrónu hrauni.
Bakki, Bjarg og Litlibær – túnakort 1919.
Túnakort 1919: Tún 1,15 teigar, garðar 900m2. Minjar sem tilheyra Litlabæ eru á svæði sem er 200 x 95 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Skráðar voru 9 minjar og fær hver þeirra bókstaf til aðgreiningar. Ekki er að sjá uppsafnaðar mannvistarleifar eða gömul mannvirki á bæjarstæði Litlabæjar A) en nokkuð rask hefur þó orðið á því og við það vegna byggingaframkvæmda. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir frá eldra húsi sem stóð á bæjarstæðinu og byggt var 1906. Það var rifið og flutt til Hafnarfjarðar árið 1921. Húsið var sett á steyptan kjallara að Hverfisgötu 21 b þar í bæ. Á bæjarstæðinu standa nú þrjú sambyggð hús í röð. Húsin snúa norðvestur-suðaustur en húsaröðin snýr norðaustur-suðvestur. Suðvestasta húsið er stærst og sennilega er það húsið sem byggt var 1934.
Það er bárujárnsklætt, með háu risi, og við það hefur verið byggður timburskáli til norðvesturs. Þar norðaustan við er minna hús sem hefur sama lag.
Flekkuvík (býli)
Flekkuvík – uppdráttur ÓSÁ.
1703: Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. [1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124) 28.4.1479: Í þessu bréfi lýsir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. (DI VI, 185-86) 1553-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 577).
1703 eru hjáleigur Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. (JÁM III, 148-149). „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. (Ö-Flekkuvík, 4). Tvíbýli var á jörðinni frá því fyrir aldamótin 1900 og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli tl sem hétu Holt og Járnshaus. (Ö-Flekkuvík GE, 6). Jörðin í eyði frá 1959.
1703: „Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.“ JÁM III, 147. 1919: Tún alls 4,7 teigar, garðar 2170m2.
Tvíbýli var í Flekkuvík fyrir og eftir aldamótin 1900. Flekkuvíkurbæirnir stóðu vestanvert í samnefndri vík. Umhverfis bæina voru tún á nokkru flatlendi en þó eru grónir hraunhólar í norðvestanverðu túninu sem tilheyrði Vesturbænum. Samkvæmt túnakorti voru bæði Austur- og Vesturbærinn á sama stað, austan við traðir, og var stutt á milli þeirra og eru þeir báðir skráðir undir þessu númeri.
Sólsetur við Flekkuvík.
Vesturbærinn fór í eyði 1935 þegar íbúðarhúsið brann til grunna og Austurbærinn fór í eyði 1959. Í Austurbænum voru 2 hús sem tengd voru með litlu húsi. Vesturbærinn var eitt stórt hús og við vesturhlið þess lítið hús áfast. Norðan við vesturbæinn er þró eða gryfja. Á túnakorti er bæjarstæðið með báðum bæjum um 20 x 30 m stórt og snýr austur-vestur.
Bæjarstæðið er á láglendi en þó stendur það aðeins upp úr umhverfinu. Tún og túngarðar eru umhverfis bæjarstæðið og er það að miklu leyti flatlent en norðvestan og norðanvert eru grónir hraunhólar. Mikið rask hefur orðið á bæjarstæðinu vegna byggingaframkvæmda.
Flekkuvík.
Erfitt er að átta sig á umfangi bæjarhólsins í Flekkuvík vegna gróðurs og framkvæmda sem farið hafa fram á honum. Hóllinn virðist að nokkru leyti náttúrulegur en hann er gróflega áætlað um 20 x 30 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er um 1-1,5 m á hæð. Á bæjarstæðinu stendur allstórt hús, steinsteypt auk kjallara austan við það. Steypt plata er ofan á kjallaranum og nær hún að húsinu og er einnig meðfram suðvesturhlið þess. Við norðausturhorn hússins er niðurgrafin steypt laug. Rétt utan bæjarstæðisins eða í vesturjaðri þess er annað minna, steinsteypt hús í niðurníðslu.
Það er vestan við heimreið og stendur þar sem útihús Vesturbæjarins voru eða rétt norðan við þau. Byggingarnar á bæjarstæðinu ná yfir svæði sem er um 22 x 22 m að stærð. Rask hefur hins vegar orðið á mun stærra svæði. Ekki eru kjallarar undir steyptu húsunum sjálfum svo að von er til þess að undir þeim kunni að vera óraskaðar minjar. Norðan við stóra húsið austanmegin á hlaðinu er nokkuð um grjót sem rutt hefur verið út og er gamalt bárujárn í því. Vegna rasks við byggingaframkvæmdir og vegagerð er lítið eftir af miklum grjóthlöðnum kálgörðum sem voru í kringum allt bæjarstæðið og sýndir eru á túnakorti. Þó sést til þeirra suðvestan við stóra steinhúsið, austan við heimreið, og í kringum minna húsið. Þar eru grjóthleðslur að mestu hrundar en mesta hleðsluhæð er um 1,5 m.
Vatnagarður (býli)
Vatnagarður.
„Við Bælingsklappir er túnhorn Vesturbæjar. Þaðan liggur garður til útsuðurs og skilur hann á milli túnsins og Vatnagarðsins, en svo nefnist grasbrekka og lágar flatir, er fara í kaf með stórstraumsflóði. Í Vatnagarði, niður frá Álfhól er síðar getur, eru rústir. Gætu þær verið af gömlu koti (e.t.v. Péturskoti eða Úlfshjáleigu sem G.S. getum um í lýsingu sinni),“ segir í örnefnaskrá GE. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Utan Norðurtúngarðs var hjáleigan Vatnagarður umgirt Vatnagarðsgörðum að sunnan,“ segir í örnefnaskrá. Í fyrri tilvísuninni er ekki gert ráð fyrir því að umrædd tóft geti verið leifar af býlinu Vatnagarði. Innan Vatnagarðsgarða eru tvær sýnilegar tóftir og eru um 65 m á milli þeirra. Önnur þeirra er nærri Norðurtúngarði en hin er nærri sjó. Líklegra er talið að tóftin nær sjó sé býlið Vatnagarður en ekki er útilokað að báðar tóftirnar hafi tilheyrt því. Vatnagarðstóftin er um 175 m norðvestan við bæ. Svæðið sem tilheyrt hefur Vatnagarði er afmarkað af Norðurtúngarði til suðausturs, löngum beinum garði til vesturs, sem líklega er hluti af Vatnagarðsgörðum og skráður er hér, og af fjörunni til norðurs og austurs. Svæðið er þríhyrningslaga og er alls um 290 x 185 m að stærð, snýr norður-suður. Garðurinn sem skráður er með Vatnagarði er 160 m norðvestur af Flekkuvík og um 55 m vestur af Vatnagarðstóftinni. Varla er hægt að telja garðinn túngarð, þar sem ekki virðist hafa verið tún í Vatnagarði nema mjög lítill blettur umhverfis tóftina. Garðurinn er því skilgreindur sem vörslugarður. Tóftin er á grasi grónum bala norðan við hraunhóla. Framan við tóftina til norðurs og norðausturs eru grasi grónar klapparflatir í fjörunni. Bílslóði er sunnan við tóftina, milli hennar og fjörunnar.
Flekkuvíkurstekkur (stekkur)
Flekkuvíkurstekkur.
„Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ. Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m.
Úlfshjáleiga (býli)
Úlfshjáleiga.
„Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. […] Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.“ „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll [einnig Álfhóll] þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil,“ segir í örnefnaskrá. Álfhóll eða Úlfshóll er um 60 m norðvestan við bæ. Hóllinn er á milli hólaþyrpingar til norðurs og steyptra húsa á bæjarhlaðinu til suðurs. Hann er innan túns og afar grasgefinn.
Hóllinn er nokkuð langur og liggur í boga frá suðvestrinorðausturs. Hann er um 35 x 10 m að stærð og um 2 m hár. Hóllinn er mjög grasgefinn og sést lítið í klappir nema við suðvesturenda hólsins. Þar hefur verið hlaðið í kringum járnstaura og sementslím notað til að halda hleðslum saman. Aðrar hleðslur er ekki að sjá við eða á hólnum. Að ofan er hóllinn nokkuð flatur en ójafn. Ekki er ólíklegt að á hólnum hafi staðið einhver hús en á þessum hól er áberandi mikill grasvöxtur í samanburði við aðra hraunhóla í túninu sem eru jafnvel lægri. Um 5 m norðan við norðausturenda Álfhóls/Úlfhóls er lágur klapparhóll, gróinn að mestu leyti. Hann snýr suðvestur-norðaustur og er um 10 m langur, 5 breiður og um 1 m á hæð. Hóllinn hækkar til suðvesturs og á miðjum hólnum er dæld í sömu stefnu og hóllinn, um 2,5×1,5 m að stærð. Norðvestan við dældina, á hólbrún, er stórt grjót á svæði sem er um 1,5 x 1 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestan við hólinn er einnig stórt grjót í um 2 m langri röð, snýr norður-suður. Ekki er útilokað að hér hafi staðið hús, e.t.v. í tengslum við Úlfshjáleigu.
Holt (býli)
„Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Holts sést enn um 130 m suðvestan við bæ. Tóftin er í túni en utan þess er gróið hraun. Tvískipt og ferhyrnd tóft, 11 x 6 m að stærð. Snýr hún í norðaustur-suðvestur. Breidd veggja er um 1 m nema sá sem aðgreinir hólfin tvo. Hann er 2 m breiður. Mesta hæð veggjanna er 1 m (norðaustanverður innveggur) en víðast hvar eru þeir 0,4 m háir.
Járnhaus.
Járnhaus (býli)
„Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,“ segir í örnefnaskrá. Tóft er vestanvert í klapparhól, fast við túngarðinn í túni Austurbæjar, um 140 m suðvestur frá bæ 001 og um 40 m suðaustan við Holti. Tóftin er vestan í hól í suðurjaðri Austurbæjartúns, grasi grónu. Sunnan og vestan við túnið er gróið hraun. Suðaustast á hólnum sést í klöpp. Rústahóllinn sjálfur eru um 14 x 8 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er hæstur í ASA enda en þar er hann um 2 m á hæð. Mikill gróður vex þar sem hóllinn er hæstur, sérstaklega mikið vex þar af umfeðmingi. Þarna efst sést annað tveggja hólfa í tóftinni.
Flekkuleiði (legstaður/áletrun)
Flekkuleiði.
„Flekkuleiði er suðaustur frá bænum, fáa metra innan við túngarðinn og um 90 m til vesturs með túngarði – frá afleggjaranum talið,“ segir í örnefnaskrá. Flekkuleiði er um 145 m suður af bæ og um 90 m suðaustur af Járnhaus. Steinninn er um 5 m innan við túngarð. Flekkuleiði er í grasgefnum túnjaðri. Dálítill kambur er upp frá því til suðvesturs að túngarði.
Í Frásögnum af fornaldarleifum segir: „Hóll í Sudur undan Fleckuvíkur bæ, þar í Túninu 6 álna lángur, 3 1/2 alin breidur, vid jarðveg, allur Grasi vaxin, hefur 1 álnar lángan – 2 1/3 qvart: breidan hraunstein ofan i midjum Mæni þessari Skript grafinni […].“ „Flekkuleiði snýr frá norðri til suðurs og er um þriggja metra langt, 1,30m breidd og 30 sm hátt. Á því er rúnasteinn. – Það var trú fólks, að hér væri Flekka sú, er Flekkuvík nam, grafin. Leiði mun þó aðeins vera klapparbali, en ekki grafreitur,“ segir í örnefnaskrá. Árni Óla segir að á rúnasteininum standi „hér hvílir Flekka.“ Jónas Hallgrímsson gróf þar upp 1841 og undir var bara jarðföst klöpp og ljóst að enginn hefur verið grafinn þar. Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, um 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna lengd og 2 1/2 álnar breitt, sem sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri: [rúnaáletrunin] Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla. […] Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd, 15-16 1/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4-5 þuml., Hann er því, sem sjá má lítill og heldur ólöguleg hraunhella […].“
Rúnasteinninn á Flekkuleiði – uppdráttur ÓSÁ.
Á heimasíðu FERLIRs segir: „Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er „rúnasteinn“, sem segir að þar „Hvíli Flekka“. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga [Óvíst er hvaðan þessi heimild er fengin en í athugasemdum Matthíasar Þórðarsonar við dagbókarskrif Jónasar um rúnasteininn kemur fram að hann telji steininn vera frá 17. eða 18. öld og að hann hafi verið gerður vegna munnmæla um Flekku, sjá JH Rit III, 300].
Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin. Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast. Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.“ Á þessum stað er upphækkun sem er um 2 x 1 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur og er um 0,5 m á hæð. Steinninn er á því miðju, nær norðvesturbrún langhliðar. Hann er lítillega skófum vaxinn, sést vel en áletrunin óskýr. Steinninn er úr hraungrýti, um 0,3 x 0,4 m að stærð og snýr eins og leiðið.
Austurbæjarbrunnur (vatnsból)
Flekkuvík – Austurbæjarbrunnur.
„Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. […] Austurbæjarbrunn er víst óhætt að kalla Brunninn sem áður er nefndur,“ segir í örnefnaskrá. 70 m ASA af bæjarstæði er brunnur, rétt vestan við gróna heimreið að bænum em liggur í gegnum túnið. Brunnurinn er merktur á túnakort frá 1919. Brunnurinn er í grónu túni. Hringlaga brunnur, 2,5 m í þvermál og 2,5 m djúpur.
Hann er hlaðinn úr grjóti sem hefur að hluta verið höggvið til. Brunnurinn er nú þurr og sést í grjót í botni
hans.
Vesturbæjarbrunnur (vatnsból)
Flekkuvík – Vesturbæjarbrunnur.
„Vestan við bæ er svo Brunnurinn. Vesturbæjarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Sami brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919, í túni Vesturbæjar, um 70 m norðvestan við bæ og um 60 m suðvestur af brunni Austurbæjarbrunni.
Brunnurinn er í túni, nokkuð sléttlendu, en norðan við hann eru lágir og grónir klapparhólar. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál og um 1 m djúpur. Ekki er vatn í brunninum. Brúnir brunnsins slúta nokkuð inn og hrunið hefur úr brún hans í suðausturjaðri.
Skiparéttin (naust)
„Norðan við víkina eru svo Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör og Naustið þar upp af og Skiparéttin,“ segir í örnefnaskrá. Á túnakorti eru sýnd nokkur mannvirki við bæði Austurbæjar- og Vesturbæjarvarir. Ekki er ljóst við hvað af þeim mannvirkjum Naustið og Skiparéttin eiga við sem nefnd eru í örnefnaskrá. Við Austurbæjarvör eru á túnakorti spil, tvískipt hús vestan við það sem opið er til norðurs og svo þar suðaustan við eru fjögur samliggjandi og/eða samtengd lítil hús sem hér eru skráð sem Skiparéttin/Naustið. Líklegt er að eitthvað af þessu hafi verið naust og/eða skiparétt. Lítið sést nú til þessara minja á vettvangi.
Bræður (vörður)
Bræður.
„Enn austar eru Bræður, tvær vörður, hvor hjá annarri,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur segir: „Eftir því sem talið er við Kálfatjörn er Stóri-Hafnhóll, SyðriHafnhóll að einhverju leyti í Flekkuvíkurlandi. Svo er einnig með vörðurnar Bræður, Bróðir innri og Bróðir syðri.“ Vörðurnar eru 700 m norðan við Flekkuvíkursel og 3,4 km suður frá bæ. Miðað við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu eru vörðurnar í miðju Flekkuvíkurlandi og því ekki vafamál að báðar vörðurnar tilheyra Flekkuvík. Mosagróið hraun og klapparholt. Víða eru grasi grónar hvilftir.
Tvær veglegar grjóthlaðnar vörður, tveir metrar eru á milli þeirra. Sú austari er 1,5 x 1 m að flatarmáli og 1,5 m há. Sú vestari hefur sama flatarmál en er aðeins lægri, um 1,2 m að hæð. Grunnflötur þeirra beggja er nokkurn vegin kantaður. Þar sem vörðurnar standa enn svo vel eru þær varla mjög gamlar eða hafa verið endurreistar. Vörðurnar eru á svæði sem er um 5 x 1,5 m og snýr austur-vestur. Ekki er vitað í hvaða tilgangi vörðurnar voru hlaðnar.
Mundastekkur (stekkur)
Mundastekkur.
„[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ. Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7 x 6 m að stærð og snýr austurvestur. Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt.
Flekkuvíkursel (sel)
Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“ „Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálfatjarnar,“ segir í örnefnaskrá GE. „Þar rétt hjá er Selstígurinn [svo] beint suður í Flekkuvíkursel. Það stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. […] Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka,“ segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. „Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs, Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í ritgerð Gunnars Ingimundarsonar um örnefni í Brunnastaðahverfi kemur fram að Flekkuvíkursel hafi verið síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1870.
Flekkuvíkursel.
Selið er 4 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og NyrðriFlekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í Örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Annað sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel en það er að öllum líkindum í landi Vatnsleysu og er skráð með Stóru-Vatnsleysu. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.
Flekkuvíkursel.
Flekkuvíkursel er norðvestan undir Mið-Selás sem er allhátt hraunholt. Seltóftirnar eru í Seltúninu sem er nokkuð flatlendur og grasi gróinn túnblettur. „Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjáanlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins.“ Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel.
Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum [Framangreindar minjar: kví, sel og hóll með hleðslum er skráð saman auk vatnsstæðis. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“ Flekkuvíkursel er á svæði sem er 100 x 80 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Þar eru sex tóftir og eitt garðlag.
Selásvarða (varða)
Selásvarða.
„Þarna [hjá Flekkuvíkurseli] er dálítill hvammur með Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás framundan og þar á Selásvörðuna,“ segir í örnefnaskrá.
„Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Selsvarða ofan Flekkuvíkursels.
Heimildum ber ekki saman um hvort Selásvarða er á Mið-Selási eða Vestri-Flekkuvíkurselás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og NyrðriFlekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Selásvarðan er um 100 m sunnan við Flekkuvíkursel. Varðan stendur nokkuð hátt á ásnum á gróinni hæð. Varðan er hrunin og mikil um sig. Hún er um 1,2 m í þvermál en norðan við hana er grjótdreif sem er um 1 m í þvermál og er hún, a.m.k. að hluta, hrun úr vörðunni. Varðan er um 1 m á hæð og grjótið í henni meðalstórt. Um 100 m norðaustan við Selásvörðuna eru 2 lítilfjörlegar grjóthrúgur með stuttu millibili sem kunna að vera þær vörður sem í heimild eru sagðar á miðhluta og nyrðri enda Vestri-Flekkuvíkurássins og eru þær skráðar með henni.
Selásvarða hefur vísað á Flekkuvíkursel.
Sigurðarhjáleiga (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Sigurðarhjáleiga í byggð árið 1703. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Sigurðarhjáleiga stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Blíðheimar (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir að Blíðheimur sé hjáleiga í byggð. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Blíðheimur stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.
Péturskot (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Péturskot hjáleiga í byggð árið 1703. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Péturskot stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.
Refshali (býli)
Refshali.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Refshale hefur í eyði legið fjögur ár […]. Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirflóði af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja mega.“ „Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali,“ segir í örnefnaskrá GE. „Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst,“ segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23. Refshali er um 240 m austur af bæjarhólnum.
Býlið stendur á grónu nefi við stórgrýtta fjöru. Sunnan og vestan við nefið eru tún.
Samkvæmt túnakorti stóðu fjögur hús í Refshala og voru tvö þeirra sambyggð. Austasta húsið hefur verið þró eða gryfja. Þau stóðu í túni sem var um 30 x 40 m stórt og sneri í norðaustur-suðvestur. Talsverð mannvirki sjást enn í túninu sem er um 10 x 25 m að stærð í dag. Líklegt er að íbúðarhúsið hafi verið í öðru eða báðum sambyggðu húsunum. Kálgarður, um 10 x 10 m að stærð, er einnig sýndur á túnakortinu norðan við sambyggðu húsin. Virðist hann hafa verið umkringdur garðlagi.
Miðmundahólar (stekkur)
Miðmundahólar – tóft.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Á Flekkuvíkurheiði er falleg hólaþyrping sem ber við himinn sé komið að þeim úr norðri. Þeir heita Miðmundahólar. Vestan undir hólunum er tóft, sem ekki virðist vera til í örnefnalýsingum eða fornleifaskrám.“ Tóft er sunnan undir suðvestasta Miðmundahólnum, um 265 m suðaustan við Arnarvörðu og um 1,3 km suðvestan við bæ.
Tóftin er fremst (suðaustast) í grasgefnum krók undir suðvestasta Miðmundahólnum og klapparhæðar þar suðvestan við. Flagmói er kominn fast upp að tóftinni að suðaustanverðu.
Tóftin er grjóthlaðin en hún er afar vel gróin og lítið sést af grjóti í henni. Tóftin er einföld, snýr norðursuður og er um 3 x 5 m að stærð, mesta hleðsluhæð um 0,5 m. Ekki sést op á tóftinni en líklega hefur það verið á suðurgafli. Hólarnir norðan og suðvestan við tóftina mynda aðhald kringum lítinn grasblett norðvestan við tóftina. Líklegt er að hér hafi verið stekkur og benda fjarlægð frá bæ, staðsetning og útlit tóftar til þess.
Þórustaðastígur (leið)
Þórustaðastígur við Selsvelli.
„Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp að og yfir Vesturháls [Núpshlíðarháls] og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Stígur liggur upp frá Þórustaðahlið[i], nefnist Kúastígur, upp í heiðina. Sama [svo] stígur er líka nefndur Þórustaðastígur og liggur alla leið suður og upp til Núphlíðarháls og hann sameiginlegur Heiðarstígur fyrir alla Inn-Ströndina,“ segir í örnefnaskrá. Leiðin sést suðaustan við Þórustaðaborg og frá henni til norðvesturs að Þórustöðum. Á þeim kafla eru nokkrar vörður. Leiðin sést einnig skammt suðaustan við traðir á Þórustöðum. Árið 2000 var leiðin skoðuð í nágrenni Reykjanesbrautar. Leiðin liggur yfir gróið hraun.
Um stíginn segir einnig í Örnefnum og gönguleiðum: „Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi gata verið. Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs, sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa, vestan undir allháum hól. Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól […]. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól, Kolgrafarholti, skammt ofan Reykjanesbrautar, og liggur gatan með fram honum norðaustanmegin. […] [Stígurinn er nú stikaður sunnan við holtið enda ljóst að þar hafa menn og hestar einnig farið um]. Áframhald lýsingarinnar er á bls. 151-152. Leiðin var skoðuð á kafla í landi Þórustaða við aðalskráningu 2009.
Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.
Gatan sést við Þórustaðaborg þar sem hún liggur um gróinn móa. Þar er ein mjó gata, um 0,3 m á breidd og um 0, 3 m djúp. Hún er gróin að mestu leyti á þessum kafla en þar sem hún liggur um gróðurminna svæði norðvestan við Þórustaðaborg sést lítið sem ekkert til hennar. Á leiðinni frá Þórustaðaborg að Þórustöðum sjást fjórar vörður við leiðina. Gatan sést á um 70 m löngum kafla og stefnir nálega austur-vestur. Við skráningu vegna breikkunar Reykjanesbrautar árið 2000 var leiðin skoðuð við Kolgrafarholt. Milli Kolagrafarholts og annars hóls sem er norðar er dæld sem er grasi gróin. Merki Þórustaðastígsins eru greinileg í dældinni. Göturnar lágu svo áfram yfir hraunið til suðurs. Ekki sjást skýr merki um Þórustaðastíg við Reykjanesbrautina.
Alfaraleið (leið)
Alfaraleiðin.
„Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […] Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.
Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs. Skráning 2009: Í landi Þórustaða er ein varða og ein grjótþúst á allháu holti nærri núverandi malbikuðum vegi um Vatnsleysuströnd. Varða A er á norðausturenda holtsins. Hún er um 1,2×1 m að grunnfleti, snýr austur-vestur og er um 0,4 m á hæð. Varðan er gróin neðst og skófum vaxin. Um 28 m vestar er útflött grjótþúst B sem kann að hafa verið varða á sömu leið. Þústin er um 2 m í þvermál og stendur ekki steinn yfir steini. Hundaþúfa er fast norðvestan við þústina. Mögulega hefur verið smalakofi þar sem þústin er nú.
Stapavegur (leið)
Stapavegur.
„Svokallaður gamlivegur lá ofan við byggðina [við Brunnastaði ?] og meðfram henni allt utan úr Njarðvíkum um Vogastapa (þar nefndur Stapavegur], Voga og meðfram Djúpavogi um Djúpavogsheiði og áfram inn Vatnsleysuströnd. Sér nú á enda þessa vegar við Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu. Gamlivegur er talinn vera nærri jafngamall byggðinni í landinu og var á sínum tíma þjóðvegur um Suðurnes. Var hann fær bæði gangandi og ríðandi mönnum og vel mátti greina hann, meitlaðan í hraunklappirnar eftir gengnar kynslóðir. Höfundur [Gunnar Ingimundarson] gat ekki betur séð en búið væri að stórskemma og jafnvel eyðileggja veg þennan þegar á leið veturinn, vegna hitaveituleiðslu, sem lögð var úr Vogum að Brunnastaðahverfi nær því samsíða honum,“ segir í ritgerðinni Örnefni í Brunnastaðahverfi. Leiðin var gengin að miklu leyti á Stapa í landi Sveitarfélagsins Voga.
Leiðin liggur eftir einstigi í brattri og grösugri götu við vesturjaðar Stapans, upp Reiðskarð og þaðan eftir hrjóstrugu og blásnu hrauninu sem er sumstaðar mosagróið.
Leiðinni var fylgt þar sem hún liggur um Vogastapa, frá vestri til austurs. Vestast er leiðin mjótt einstigi í grasi gróinni brekku en verður strax mjög greinileg þegar komið er í Reiðskarð. Neðst í skarðinu hefur stórgrýti verið rutt úr götunni og hlaðið vestan við götuna. Ofar í skarðinu er ruðningur á báðar hendur þar til komið er að upphlöðnum kafla á leiðinni. Hlaðni kaflinn er um 20 m langur og er vesturkanturinn hlaðinn en grjótruðningur er við austurkantinn. Hleðslan er um 1,5 m á hæð og eru 4 umför grjóts sýnileg. Svo virðist sem fyllt hafi verið upp með smáu grjóti og jarðvegi milli hleðslunnar og ruðningsins á þessum kafla. Svo virðist sem leiðin hafi einnig legið í sveig framhjá upphlaðna kaflanum og ef til vill áður en bætur voru gerðar á honum. Í Reiðskarði er gatan víðast um 2 m breið og er dýpst um 0,5 m. Þegar komið er upp úr skarðinu eru miklir grjótruðningar meðfram götunni, allt að 1,5 m á hæð og er gatan þar 1,5-2 m breið en mjókkar svo og ruðningar lækka. Leiðinni var fylgt að mestu leyti yfir í land Njarðvíkur og sést hún halda áfram þar. Gamli-Keflavíkurvegurinn liggur yfir Stapaveg á kafla við GrynnriSkor en annars er furðulítið rask á leiðinni þar sem henni var fylgt. Leiðinni er viðhaldið af göngufólki. Skammt sunnan við leiðina er mikið jarðrask í landi Njarðvíkur vegna efnistöku eða annarra framkvæmda og kann Stapavegi að stafa hætta af því. Lýsing á Stapagötu er að finna í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 132-134.
Gamli-Stapavegur (leið)
Stapavegur-Gamli.
„Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum Leiðin hefur legið um svæði sem nú er hrjóstrugt, grýtt og gróðurlítið en verið er að græða upp með lúpínu.
Ekki sást til leiðarinnar á vettvangi en eftir að vettvangsvinnu lauk fengust upplýsingar um hvar helst væri að sjá ummerki hennar hjá Sesselju Guðmundsdóttur. Samkvæmt Sesselju sést til leiðarinnar við Mörguvörður en þær eru um 200 m neðan (norðan) við Reykjanesbraut, og um 1 km frá Grindavíkurafleggjara (sennilega
norðvestan við hann, ekki er mögulegt að þær séu austan við afleggjarann ef þær hafa verið sunnan við Kolaskor skv. landamerkjalýsingu). Vörðurnar fundust ekki á vettvangi.
Skógfellavegur (leið)
Skógfellastígur sunnan Litla Skógfells.
„Í lægðinni við Stapahornið og ofan Reykjanesbrautar sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakradalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víðar var á öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af. […] Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðum alla leið „upp eftir“ eins og hér var og er málvenja að segja,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Skógafellavegur er merktur með skilti um 20-30 m neðan Reykjanesbrautar. Skiltið er hins vegar norðaustan við leiðina sjálfa en það má sjá móta óljóst fyrir henni suðvestan við skiltið. Leiðin liggur um gróið hraunið.
Ýtarleg lýsing á veginum er í bók Sesselju Guðmundsdóttur á blaðsíðu 153-159.
Almenningsvegur (leið)
Almenningsvegur.
„Varðan [Stefánsvarða] stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á köflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líklega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Um 150 m vestan við Stefánssvörðu og um 90 m suðaustur af tóft sjást ógreinileg merki götu í dálítilli rás milli grasfláka og klappa og er þetta leiðin sem nefnd er í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Leiðin liggur norðan við aðalveginn um svæðið í allgrónu hrauni en holmóaflákar eru á stöku stað. Þaðan sem leiðin sést fyrst var henni fylgt að Stefánsvörðu en hún liggur skammt suðvestan við hana. Þar verður hún ógreinileg en sést aftur í landi Flekkuvíkur hjá vörðu. Þaðan var henni fylgt að núverandi afleggjara heim að Flekkuvík. Breidd götunnar á kaflanum við Stefánsvörðu er 1-2 m og þar er hún um 0,3 m djúp. Þar er mikið grjót í henni og hún liggur að miklu leyti yfir holmóa. Á þeim kafla sem skráður er í landi Flekkuvíkur er gatan um 0,5 m breið og 0,2-0,4 m djúp. Þar er gatan víðast gróin og grýtt.
Sumstaðar hefur grjóti verið rutt úr götunni.
Kirkjugata (leið)
Kálfatjörn – kirkjugatan.
„Við vesturenda baðstofunnar í Hliði lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugatan,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.“ Kirkjugatan var skoðuð í landi Kálfatjarnar, Norðurkots og Þórustaða. Í landi Kálfatjarnar liggur leiðin að mestu leyti um snöggt sleginn golfvöll. Annars staðar liggur leiðin um tún og hraunmóa. Gatan liggur frá bæ Kálfatjarnar til VSV hjá Hliði en verður ógreinileg í landi Norðurkots. Þar sem leiðin liggur um golfvöllinn sést óljóst móta fyrir henni sem dæld á sléttri flötinni. Leiðin liggur í gegnum túngarð Kálfatjarnar (Landagarð) og er þar rof í garðinn. Þaðan og að Hliði er gatan skýrari en þó vel gróin. Þar sem gatan er breiðust er hún um 0,6 m, hún er mjög grunn, mesta dýpt er 0,1-0,2 m. Leiðin er samtals greinileg á um 200 m löngum kafla innan Kálfatjarnar. Í Norðurkoti sést gatan óljóst á milli kálgarða og við bæjarhól Norðurkots. Möl hefur verið borin í götuna suðvestan við kálgarðana milli Norðurkots og Þórustaða, líklega þegar Norðurkotshúsið var flutt að Kálfatjörn. Mjó landræma, um 1 m á breidd, er á milli kálgarðs og byggingaleifa á bæjarhólnum og hefur gatan legið um hana. Lágur kantur er meðfram götunni þar sem hún liggur suðaustan við kálgarð. Að öðru leyti sjást ekki skýr ummerki um götuna í landi Norðurkots og hún sést ekki í landi Þórustaða.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.
Ölfus – Bæir og nokkrar merkar minjar IV
Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Alviðru, Tannastaði, Laugarbakka, Fjall, Árbæ, Þórustaði, Hvoll, Kirkjuferju, Kotströnd, Gljúfur og Sogn, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:
Alviðra (býli)
Alviðra.
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 389.
1847: 12 hdr, bændaeign.
1487: Árið 1487 selur Hálfdan Nikulásarson Guðmundi Einarssyni jörðina Alviðru í Ölfusi fyrir jörðina Egilsstaði í Flóa. DI VI, 589.
“Alviðra er austasti bær í Ölfusi, nær land að hreppamörkum, við land Torfastaða í Grafningi […] Landamerki: Norðan, úr Prestatanga við Sogið, bein lína í Hádegisholt, þaðan í Hádegisholtseggjar,
þaðan lína í Inghól. Sunnan: úr Miðmarkasteini á Hrútasteinatanga við Sogið, bein lína til fjalls, yfir Tannastaðadali í Inghólshæðir uppi á Ingólfsfjalli. Austan: Sogið.” Jörðin er sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973. Íbúðarhúsið er í útleigu en jörðin er ekki nýtt að öðru leyti.
1912: Tún 6.6 ha, þar af c.9/10 slétt. Garðar 1545 m2.
Alviðra.
“Bærinn stendur á sama stað og hefir staðið í manna minnum,” segir í örnefnaskrá. Bærinn í Alviðru er sýndur á túnakorti frá 1920, nánast í miðju túninu. Öll mannvirki sem eru sýnd á túnakortinu eru horfin.
Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna bygginga, samt er enn hægt að greina hluta hans á yfirborði til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs, heygarður var þar í brekku niður af holtinu sem bærinn er á. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún. Þau eru komin í órækt og ekki slegin síðustu ár. Fyrir sunnan núverandi útihús er kálgarður, þar er enn rabarbari að hluta. Fyrir austan hólinn er bakgarður núverandi íbúðarhúss. Þar er mikið af trjám. Bæjarhóllinn er um 40×30 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Núverandi íbúðarhús er í austurhluta bæjarhólsins. Fyrir sunnan bæinn var kál- og heygarður samkvæmt túnakorti. Vesturhluti bæjarhólsins er undir úthúsum sem byggð voru um miðja 20. öld. Fyrir sunnan útihúsin sést móta fyrir kanti en mikill gróður var á svæðinu þegar skrásetjari var á ferðinni og hann illgreinilegur. Kanturinn og fjarar svo út til norðurs. Þar er malarplan og núverandi heimreið að bænum. Kálgarðurinn er sunnan við kantinn og ekki sýndur á túnakortinu. Hann er 29×9 m að stærð, L-laga og veggirnir eru 2 m á breidd. Þeir mjókka upp og eru algrónir. Aðrar hliðar kálgarðsins eru horfnar. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð. Það glittir í 1-2 umför af grjóti í botninum. Ekki er langt síðan ræktun var hætt í kálgarðinum.
Inghóll (legstaður)
Inghóll.
Í mörkum á milli Hvamms og Alviðru er hóll sem Inghóll heitir, hár hóll, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti,» segir í örnefnalýsingu.
1641-42: “Kveðið ex tempore yfi r haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfi r haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfi r leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.” Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
1703: “Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.” Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
Um 1750: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.” Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfi alli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfi alls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fl eiri Hieród; umm Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi – … Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fi armuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfi all eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.
1840: “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.” SSÁ, 195.
Inghóll.
1873: “Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
1898: “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heitir hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. Hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðan í honum stórgrýti nokkuð. Aðeins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfi s hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni.
Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.” Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15. Varða er rúmum 5,8 km norðaustan við bæ, á Ingólfsfjalli og 3,5 km norðan við Þórustaðanámu, nálægt norður enda fjallsins. Varðan er upp á Inghól og rafmagnsgirðing liggur meðfram hólnum austanverðum.
Útsýni er til allra átta. “Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona:
Stóðu að steindu smíði,
staður fornmanns hlaðinn,
hlóðu að herrans boði
heiða teikn yfir leiði.
Haugur var hár og fagur
hrundin saman á grundu.
Draugur dimmur og magur
drundi í björgum undir.
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi , allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi veirðum annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.” Einnig skráður í landi Hvamms. Hóllinn er líklega hæsti punkturinn á Ingólfsfjalli. Hann er að miklu leiti ógróinn og steinarnir í honum eru mjög stórir. Inn á milli steinanna vex gráleitur mosi. Varðan er 1,5×1,5 m að stærð og fremur hringlaga. Hún er 0,7 m á hæð og sjást 4-5 umför af grjóti. Varðan er ekki vandlega hlaðin og virðist grjótið vera að lagt þar að handahófi í hrúgu en ekki hlaðið upp. Steinarnir í vörðunni eru ekki mosagrónir og greinilegt er að eintthvað hefur verið bætt í hana á seinni tímum. Það þarf því ekki að vera að hún sé gömul.
Tannastaðir (býli)
Tannastaðir.
“Jarðardýrleiki x og so tíundast á fjórum tíundum.” JÁM II, 390. 1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74.
1520: „Andrés Andrésson selr Sæmundi Eiríkssyni jörðina Tannastaði í Ölvesi fyrir tiu hundruð i lausafé.“ DI VIII, 548.
“Landamerki: Úr Hrútasteinstanga við Sogið, til vesturs í Miðmarkastein, þaðan bein lína til fjalls yfir Tannastaðadali í Ingólfshæðir. Sogið og Ölfusá að austan. Vestan (sunnan): Úr Einbúa við Ölfusá bein lína um Grákollu upp í Sandhæð, uppi á Ingólfsfjalli. Þaðan í Alviðruland í Ingólfshæðum.” Ö-Tannastaðir, 1. Ekki er föst ábúð á Tannastöðum lengur og jörðin í eigu nokkurra aðila, íbúðarhúsið er leigt út og landið er nýtt til beitar að hluta.
1917: Tún 4.6 ha, allt slétt. Garðar 905 m2. “Kaldakinn. Snögglend brún, sunnan við Dimmutó og náði túnið ekki lengra 1836.” Ö-Tannastaðir, 2.
Tannastaðir 1930.
“Bærinn hefur staðið á sama stað og nú er,” segir í örnefnaskrá Tannastaða. Samkvæmt túnakorti frá 1920 var bærinn í miðju túninu og auk bæjarhúsanna var þar martjurtagarður og heyhlaða. Hluti af gamla bænum er enn varðveittur og enn er búið í íbúðarhúsinu. Enn eru uppistandandi sex hús. Syðsta húsið er skemma sem byggð var árið 1924. Við hliðina á skemmunni er íbúðarhús með tveimur burstum og var það byggt árið 1939. Norðan við íbúðarhúsið og sambyggt því er stór hlaða sem byggð var árið 1927. Nyrst eru svo fjós og annað geymsluhús. Fast sunnan við bæjarhúsin eru tóftir af eldri útihúsum og kálgarði sem eru 80 m frá þjóðveginum. Þétt austan við bæjartóftirnar og kálgarðana er braggi og geymsluhús, þar liggur heimreið til vesturs frá Biskupstungnabraut og beygir svo til norðurs í átt að bænum. Lítill olíutankur liggur nyrst í útihúsatóftunum, nálægt geymslunni.
Ártalssteinn (áletrun)
Letursteinn – 1893.
Í örnefnalýsingu segir: «Ártalssteinn. Stór steinn í túngarðinum ofan (vestan) Gerðisins. Á hann er letrað 3/10 1893. Mun vera með stærstu hleðslusteinum, sem sjást.” Steinninn er tæpum 130 m suðvestan við bæ og rúmlega 15 m austan við háspennulínu, sem liggur vestan við heimatúnið. Steininn er hluti af suðvesturhluta túngarðs.
Ártalssteinninn er í óræktuðu túni, sem hallar aflíðandi til austurs. Ártalssteinninn er 1 m á hæð og 2 m á lengd. Sjálfur steinninn er áberandi stærri en aðrir hleðslusteinar túngarðs á svæðinu. Áletrunin 3/10 1898 er meitluð fyrir miðju steinsins og er hún 0,3 m á hæð og 0,4 m á lengd. Hún ristir djúpt og sést vel úr fjarska. Að sögn Jóns H. Gíslasonar, heimildamanns, meitlaði bróðir Þórðar Sigurðssonar áletrunina á síðari hluta 19. aldar.
Réttarbjarg (rétt)
Réttarbjarg.
Í örnefnaskrá Tannastaða segir: «Réttarbjarg. Stór steinn í túngarðinum vestur af bænum, þar er fjárrétt. «Þar var áður hrútakofi Jóns Guðmundssonar.”” Rúmum 100 metrum vestan við bæ og upp við túngarð er fjárrétt. Skammt austan við réttina í túninu liggja rafmangslínur frá suðri til norðurs yfir túnið. Stór steinn er innan réttarinnar.
Á þessum slóðum er grasivaxið og óslegið tún sem liggur við rætur fjallsins. Réttin er 14×9,5 m að stærð og snýr norður-suður. Opið er til suðurs, í suðausturhorni. Hún er einföld og 12×7,5 m að innanmáli. Hleðsluhæð veggja er 1-1,2 m. Réttin er grjóthlaðin og það sjást 4-5 umför af steinum í veggjum hennar. Steinn með áletruninni 1888 er í suðvesturhorni réttarinnar, í henni innanverðri. Réttin er nokkuð vel varðveitt og stendur enn að mestu leyti. Smávegis hrun hefur fallið inn í réttina úr austurvegg, alveg við opið. Innan í réttinni er nú geymd gömul rakstrarvél. Vesturveggurinn, sá sem liggur upp í fjallshlíðina, gengur lengur til suðurs en hinir veggir og virðist vera hlaðinn upp í grjótskriðu. Túngarðurinn stendur svo 2 metrum vestar, hærra uppi en réttin og virðist því sem túngarðurinn sé tvöfaldur á þessu svæði.
Gvendarbrunnur (þjóðsaga/vatnsból)
Gvendarbrunnur.
“Gvendarbrunnur: Er lítil lækjarsytra, sem kemur upp við gamla veginn fyrir norðan Ytri-Hákon.
Munnmæli herma, að Guðmundur Arason góði hafi vígt þennan læk, þegar hann var á ferðum sínum,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er 400 m sunnan við Grænutóftir og tæpum 820 m sunnan við bæ. Lækurinn rennur undan brekkurótum Ingólfsfjalls, skammt vestan við Biskupstungnabraut. Lækurinn er kominn í vélgrafinn skurð vestan þjóðvegarins.
Skriða er í fjallinu, Gvendarbrunnur kemur upp undan henni. Lækurinn rennur til austurs, á milli stórra, stakstæðra bjarga í mýrlendi. Hann er 1 m á breidd og vatnslítill.
Laugarbakkar (býli)
Laugarbakkar.
“Annað býli af sömu jörðu [og Fjall]. Dýrleiki þess er kallað vi lxxx álnior og sotíundast.” JÁM II, 392.
1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74. “Landamerki I: Gagnvart Tannastöðum úr þúfuá Einbúa, er stendur niður við Ölfusá, sem hann er hæstur, beina línu í stein sem nefnist Grákollur neðri, og beina línu á Ingólfsfjallsbrún; úr vörðunni beina línu í vörðu, sem er á melhrygg á miðju Ingólfsfjalli, sem er hornmark. II: Gagnvart Helli úr áðurnefndri vörðu á melhrygg, beina línu í vörðu, sem stendur á vesturgilklofningsbrún á Brennu[dals]gili; þaðan niður Brennidalsgil í vörðu á Fjallstóttum beina línu í Mígandaþúfu; úr Mígandaþúfu til Ölfusár.”
“Bærinn var færður norður á syðri bakka Laugalækjar um og eftir 1930. […] Bæjarhóll. Hóll í túninu fyrir sunnan bæinn. Þar stóðu lambhúsin, mjólkurkofinn og smiðjan,” segir í örnefnaskrá. Bæjarhóllinn er rúmum 350 m sunnan við núverandi bæjarstæði og 50-60 m vestan við Ölfusá. Lítill tangi eða nes skagar út í ánna fyrir austan bæjarhólinn og ekki hætta á að áin fl æði hér yfi r. Sandhóll er fast vestan við bæjarhólinn, á milli bæjarins og árinnar. Smá lægð er á milli hólanna. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru en traðir/leið 025 lá fast vestan við heimatúnið sem bendir til þess að stafnar hafi mögulega snúið til suðurs. Við plægingu hafa komið upp hellur, hleðslugrjót og fleiri mannvistarleifar. Slétt, ræktað tún er allt umhverfi s hólinn. Það er slegið og nýtt til beitar.
Bæjarhóllinn er 75×30 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er grasivaxinn, sléttur og þar eru ekki mannvirki að sjá á yfirborði. Bærinn sjálfur var á suðurhluta hólsins þegar túnakortið var gert árið 1920 og útihús á nyrðri hlutanum. Traðir 025 lágu að bænum að suðvestan en þær sjást ekki. Bæjarhóllinn er ekki reglulegur í laginu og helst líkist hann tölustafnum átta, tveir hólar með lágu hafti í miðjunni.
Uppi á hólunum eru lautir án þess að hægt sé að gera sér grein fyrir nákvæmu lagi mannvirkja. Hóllinn er 0,3-1 m á hæð, hæstur til vesturs og norðurs. Sléttun hefur raskað hólnum mikið og erfi tt að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegum hólum.
Fjall (býli)
Fjall.
„Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnst að tíðir hafi hjer verið fluttar. Jarðardýrleiki XXX hdr og svo tíundast fjórum tíunudm. (…) NB. Þessi jörð er afdeild í fjögur býli, sem eru sundurgreindir fjórir bæir. Þeir heita so: Fjall. Þetta býli stendur í aðalstæði jarðarinnar og heldur því forna nafninu. Dýrleiki þessa partsins er talinn og tíundaður 6 hdr.“ JÁM II, 391.
Landnáma: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.” ÍF, 45.
Þuríður Grímkelsdóttir “fæddist upp með þeim manni, er Sigurður múli hét; hann bjó undir Felli” Harðar saga, ÍF XIII, 4 sbr. 5 (Fjalli) og 35.
1397: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.“ DI IV,101. 1524: „selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni hálft Fjall“. DI IX, 258.
Erlingur Gíslason átti Fjall í Ölfusi, Þorsteinn yngri son hans bjó þar og átti Halldóru Pálsdóttur, Eyjólfssonar frá Hjalla og Ásdísar Pálsdóttur, systur Ögmundar biskups – Bsk II, 298.
Fjall – minjar.
1604: Eydís Helgadóttir, móðursystir Odds biskups, var í Fjalli 1604 og átti Jón Ásgrímsson er þar bjó fyrst en varð eftir það bryti í Skálholti – Bsk II, 661. Á öðrum stað er þó sagt að Jón Ásgrímsson hafi fyrst verið bryti í Skálholti en síðar verið ráðsmaður fyrir Fjalls búi – Bsk II, 675.
“Bærinn hefi r staðið fram á átjándu öld. Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún. Af JÁM sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu, er jarðabókin var samin. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphafl ega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, og hefir nafn af lítilli dalkvos er Branddalur heitir, sem þar er uppi í gilinu, en sjest ekki fyrr en að er komið. Branddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Er líklegt að nafnið sé dregið af kolabröndum og að þar hafi verið kol brennd meðan fjallshlíðin var skógi vaxin … enn heldur [gilið] áfram að hækka bunguna smátt og smátt; enda er hún nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. … Hefir hjer verið gott til heyafla og tún eigi alllítið meðan bungan var í friði fyrir skriðum.
Fjall – tóftir.
Líklegra er, að þær hafi valdið eyðileggingunni smátt og smátt heldur en allt í einu; en auðvitað er, að loksins hefir eitt skriðuhlaup riðið baggamuninn.” Brynjúlfur Jónsson. 1897, bls. 18-19.
„Fjallstún. Skriðurunnin hæð; leifar af túni bæjarins Fjalls. Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður,” segir í örnefnaskrá Laugarbakka. Í örnefnalýsingu Hellis og Fossness segir: „Austur merki Hellis eru við Fjall og segir í örnefnaskrá: “Landamerki: Að austanverðu er varða á Fjallstóftum.”
Varðan er horfin.
Brynjúlfur Jónsson, fræðimaður frá Minna-Núpi, kannaði rústirnar og ritaði um niðurstöður sínar í Árbók fornleifafélagsins 1897. Þar segir hann að á grasflöt þeirri, sem heitir Fjallstún, séu rústir bæjarins, og sjái allvel fyrir bæjarrústinni. Bærinn hafi snúið framhliðinni móti suðaustri. Þó virðist hún í fljótu áliti, þegar litið sé á rústina alla, að hún snúi á móti suðri. Það komi til að því, að byggingar hafi verið fram á hlaðinu, sem að austan til gangi lengst fram og myndist þar eins og lítil hólbrekka af gamalli hleðslu. Jafnframt segir Brynjúlfur: “Bæjartóftin snýr hliðinni fram, og er framhúsið nálægt 10 faðma langt frá norðaustri til suðvesturs. Dyr eru á framhliðinni vestan til miðri. Beint inn af þeim er inngangur í bakhús, er liggur samhliða hinu, og eru dyrnar á miðri framhlið þess. Það er rúmlega 3 faðma langt. Er sýnilegt að það hafi upp á síðkastið verið baðstofan en hitt framhýsi.” Við hvorn enda bæjartóftarinnar var sín hvor tóftin og snéru dyrum fram á hlaðið, og taldi hann það geta hafa verið skemma og smiðja.
Vegurinn hefur legið um hlaðið og hefur svo haldizt eftir að bærinn lagðist í eyði, og voru þar uppgrónar götur. En nú sagði hann veginn liggja bak við rústirnar. Brynjúlfur hafði sagnir af því, að bænhús hafi verið í Fjalli og hafði eftir Jóni bónda Árnasyni í Alviðru, sem var “fróður maður og vel að sér”. Taldi hann það hafa staðið frammi á hlaðinu fyrir framan veginn, en “hafi það verið austast og fremst, sem mér þykir liggja næst að ætla, þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Við báða enda bakhússins virðist Brynjúlfi vera autt svæði, sem svara myndi rými fyrir dálítið hús. Var þetta svæði innlokað að garði fyrir allri bakhlið bæjarins og myndaði þar “húsagarð”. Þar sem Fjall stóð forðum, eru nú vallgrónar rústir fast við þjóðveginn ofanverðan, og voru þær friðlýstar 1927. Hefur þeim þó verið raskað, þegar nýi vegurinn var lagður með fjallinu.” Brynjúlfur teiknaði minjarnar sem hann sá og birti aftast í Árbókinni.
Fjall – minjar.
Í bókinni Saga Selfoss er fjallað um Fjall. Þar segir: „Austurmörk Hellis eru um Fjallstóftir, sem síðar voru nefnd Fjallstún. Þar eru rústir eyðibýlisins Fjalls, alveg við þjóðveginn. […] Meðan stórbýli var í Fjalli fyrrum hefur þar verið gott undir bú og tún eigi alllítil. En skriðurennsli úr Brennudalsgili spillti túnum smám saman og síðast er líklegt, að eitt skriðuhlaup hafi riðið baggamuninn og gert túnið að grjóturð og brotið bæinn. Hann stóð þó fram á 18. öld. Þórður hinn fróði Sigurðsson, sem er fæddur á næsta bæ, Tannastöðum, árið 1864 , og bjó þar langa æfi, lýsti rústum bæjarins 1931: “Ein tóft sést ennþá greinilega fyrir neðan veginn, en uppi á hátúninu sá ég glöggt fyrir fimm húsatóftum, hverjum við aðra, þegar ég var unglingur, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir nokkru. Líka tók ég þá eftir niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu.”” Minjarnar eru friðlýstar. Í skránni segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls.
Sbr. Árb. 1897: 18-19. […] . Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Friðlýsingarskilti er á bæjarhólnum en er mjög máð. Bæjarhóllinn sést ennþá en honum var raskað ennfrekar við vegagerð á 20. öld. Ekið er um hlað bæjarins eftir Biskupstungabraut og tóftin sem var „neðan“ vegarins þar undir að öllum líkindum. Vegurinn liggur þvert yfi r bæjarhólinn og vírgirðing þvert vestan hans.
Hægt er að greina hólinn sem allháa þúst í landinu en erfitt er að greina mismunandi byggingarþætti.
Skriður úr Brennudalsgili fara austan og vestan við gamla heimatúnið og nærri bænum. Bæjarhóllinn er greinilegur en tóftir hlaupnar í þúfur svo ekki hægt að greina nákvæmt lag þeirra.
Bæjarhóllinn er 63×28 m að stærð, 0,3-0,8 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grasivaxinn og vegstæðið hefur raskað austastahluta hólsins. Eins og fyrr segir þá liggur núverandi þjóðvegur um bæjarhlaðið og minjum sem Brynjúlfur lýsir „fyrir neðan veginn“ eru horfnar.
Fjallskirkja (kirkja)
“Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður. Þar var kirkja, og liggur vegurinn um kirkjugarðinn,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706 segir: “Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.” Í grein sinni um Fjall í Ölfusi í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1897 segir Brynjúlfur Jónsson: “Sögn er, að bænahús hafi verið í Fjalli; svo sagði mjer Jón bóndi Árnason í Alviðru, fróður maður og vel að sjer. Hefi r þá bænahúsið án efa verið fram á hlaðinu, en hafi það verið austast og fremst, – sem mjer þykir liggja næst að ætla, – þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 (sem kvöð á landi Hellis) samkvæmt friðlýsingarskrá. Þar segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls. Sbr. Árb. 1897: 18-19.
”Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett, en líklega var hún á bæjarhólnum, austan við bæ. Brynjólfur gerði uppdrátt af minjum í Fjalli og birti í grein sinni árið 1897. Allt eins er líklegt að kirkjan hafi farið undir Biskupstungnabraut 35, skammt suðaustar en hnit var tekið. Þar voru minjar samkvæmt teikningunni. Kirkjan er rúmlega 50 m austan við bæ og um 75 m suðvestan við útihús.
Minjastaðurinn er í aflíðandi brekku. Sé horft til austurs er mýrlendi allsráðandi en til norðvesturs, við rætur Ingólfsfjalls, er yfirgefin malarnáma.
Ekki er vitað hvar kirkjan var staðsett. Af lýsingum ritheimilda að dæma þá hefur kirkjan að öllum líkindum staðið þar sem nú (2016) er Biskupstungnabraut. Ummerki kirkjunnar hafa líklega farið undir veginn við vegagerð á 20. öld. Þó er ekki loku fyrir það skotið að mannvistaleifar séu undir jörðu.
Saumakonuhellir (þjóðsaga)
Saumakonuhellir.
“Saumakonuhellir. Hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma í bæinn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Saumakonuhellir var rúma 270 m norðaustan við bæ 001 og 100 m VNV við sumarbústað sem er við Biskupstungnabraut. Hellirinn er staðsettur í skriðunni, ofan við Fjallslæk. Í skýrslunni Fornleifaskráning í Áborg I segir; “Þetta er ekki hellir í þeim skilningi heldur meira skjól myndað úr þremur vel grónum klettu. Sá sem er í miðjunni er stærstu og hvílir á hinum. Nokkup stórt bjarg hjálpar til við skjólmyndunina og er beint á móti hinum. Vel gróin dæld er á milli.”
Fjallsklettar eru skriða, aðallega stór björg og steinar, sem féllu hér niður Ingólfsfjall. Sumir steinarnir eru 3-4 m á hæð. Skriðan er nokkuð gróin og þetta svæði er nýtt til beitar.
Eini staðurinn sem kemur til greina sem Saumakonuhellir er smá gjóta sem þrír, stórir steinar mynda. Gjótan er opin í báða enda og ekki hægt að fara þar inn með góðu. Þessi steinar eru nánast í miðju Fjallskletta, ofarlega. Skútinn er mest 2 m á hæð og 4×2 m að stærð.
Árbær (býli)
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 393. „34 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: LXXX. Arbær. Kirkia ad Arbæ a .iiij. kyr. Jnnan sig kluckur .iiij. Mariuskriptter tuær. krossar .ij. kiertistika med kopar. paxspialld. Sacrarium. mvnnlaug. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xvij. aurar oc iij. Alnar.” DI IV, 92
1502: Stefán Skálholtsbiskup selur Þorvarði Erlendssyni lögmanni Árbæ. DI VII, 622-23.
1546: Erlendur lögmaður Þorvarðarson seldi Gizuri biskupi jarðir og þar á meðal Árbæ. DI XI, 479-480. “Landamerki. Ölfusá að sunnan. Vestan: úr Svörtubökkum við Ölfusá og til Ingólfsfjalls. Austan: úr Markakletti við Ölfusána og til Ingólfsfjalls. (Meiri upplýsingar gáfu heimildarmenn ekki).” Ö-Árbær, 1.
1917: ´Tun 8.3 ha, þar af c. 3/4 slétt. Garðar 2176 m2.
Þórustaðir (býli)
Þórustaðir – kort.
“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 394. „30 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi. Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn“ DI XI, 472. Það bendir til þess að þessi bær hafi þegar verið til þá.
“Landamerki: Úr Graflækjum (Giljum, Flugugili og Engjagili) við Ölfusá stutt fyrir austan ferjustaðinn á Kotferju. […] Úr þessum giljum bein lína í stórann múla austan við Þunnubrekkur. Þessi eru mörk á milli Hvols og Þórustaða, fleiri upplýsingar voru ekki fyrir hendi.” Ö-Þórustaðir, 1.
Þórustaðir skiptast a.m.k. tvö lögbýli í dag. Eitt er Garðyrkjustöðin Kjarr ásamt hrossarækt en á hinum hlutanum er rekið svínabú. Einnig er starfrækt kjúklingabú á syðsta hluta jarðarinnar.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 5/6 slétt. Garðar 1456 m2.
“Bærinn stóð í miðju túni og sneri þiljum til suðurs,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1920 var, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta.
Sé tekið mið af fyrirliggjandi gögnum var bærinn líklega vestan og norðvestur af núverandi íbúðarhúsi eða nánast á sama stað. Íbúðarhúsið er því á bæjarhólnum enn í dag. Bæjarhóllinn er mikið raskaður, á honum eru hús til suðurs, núverandi íbúðarhús til suðausturs og byggingar tilheyrandi svínabúi til suðvesturs og vesturs. Á milli mannvirkja á bæjarhólnum eru malbikuð plön, steyptir grunnar frá húsum sem hafa verið rifin og bakgarðar.
Engin ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög sjást á yfirborði. Algjört þekkingarrof hefur orðið á Þórustöðum enda langt um liðið síðan föst ábúð var hér. Áður en jörðin var nýtt undir svínarækt og skipt upp í minni einingar voru ábúendaskipti tíð og fólk stoppaði stutt við. Síðustu áratugi hafa ábúendur
verið bústjórar svínabúsins.
Hvoll (býli)
Hvoll.
“Jarðardýrleiki er xx og tíundast þó jörðin öngvum.” JÁM II, 396. 1847, 20 hdr. JJ, 74. „Gömul jörð, 20 hundruð að fornu mati. […] Hvolshjáleiga er nefnd í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1706.“ Sunnlenskar byggðir III, 393.
Ekki er til túnakort af heimatúninu.
“Bæjarhóll. Lítill, gróinn hóll. Þar stóð bærinn áður,” segir í örnefnalýsingu Hvols a. “[…]. Bæjarhóll var þar sem Hvoll I er núna. Honum var rutt þegar nýja íbúðarhúsið var byggt, fyrir um það bil 35 árum,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn var líklega fast vestan við íbúðarhús sem var reist árið 1963 á Hvoli þar sem bílastæði er nú (2016) og heimreið kemur að bænum. Ekki er til túnakort af jörðinni og þekkingarrof mikið. Það er því ekki hægt að staðsetja bæinn nánar en hér er gert. Einungis er hægt að geta þess að skv. herforingjaráðskorti frá 1908 lágu þjóðleiðir að bænum úr vestri og líklegt er að stafnar hafi snúið í þá átt. Á ljósmynd af bænum sem tekin er um 1980 og birt í Sunnlenskum byggðum III sést upphækkun fyrir norðan 20. aldar útihús. Þetta er suðvestan við íbúðarhúsið, ekki er ólíklegt að þetta sé uppmokstur vegna framkvæmda eða hluti af bæjarhólnum. Þessi hóll sést ekki lengur.
Á þessum slóðum er bílaplan, fjós og hestagerði núverandi íbúðarhúss jarðarinnar. Þessu til viðbótar er bakgarður umhverfi s húsið og greina má hávaxinn og ósamfelldan trjágróður á því svæði.
Samkvæmt Ólafi H. Einarssyni, heimildamanni, komu mannvistarleifar í ljós þegar bygging áföst íbúðarhúsinu var reist á fyrsta áratugi 21. aldar. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hluti af bæjarhólnum.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins né hæð vegna jarðrasks.
Ámundarétt (rétt)
Ámundarétt.
“Ámundarétt. Stór klettur og hleðsla hjá skammt fyrir ofan veginn,” segir í örnefnaskrá. Ámundarétt er rúmum 1,6 km fyrir norðaustan bæ og rúmum 700 m suðaustan við stekk. Réttin er byggð upp við stakstætt bjarg, milli tveggja þjóðvega. Þjóðvegur sem gerður var 1908 er fast norðan við tóftina en vegur frá 20. öld er 20-30 m sunnar. Réttin sést lítið fyrr en að henni er komið. Í skýrslunni Skráning menningarminja í Ölfusi sem var gerð um 1980 segir: “Ámundarétt. Gömul hleðsla við stóran klett. Sagnir herma, að Ámundi þessi hafi verið veinn þar. Erlendur á Strönd í Selvogi hafi verið þar að verki.”
Réttin er í suðaustarlega, inn á milli kletta sem hafa fallið niður hlíðar Ingólfsfjalls. Ámundamúli er fast austan við réttina, á merkjum milli Hvols og Þórustaða. Brekkan er gróin.
Þjóðvegur er fast við réttina og raskar henni nokkuð. Kletturinn myndar suðurvegg réttarinnar, en að öðru leyti eru þeir grjóthlaðnir. Réttin er 21×14 m að stærð, einföld og snýr austur-vestur. Ekkert op sést inn í hana á yfirborði. Norðausturhluti hennar er raskaður, líklega vegna þjóðvegarins. Veggirnir eru gerðir úr stórum steinum og sést enn eitt umfar. Grjótið er tekið úr Klettabrekku. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð. Kletturinn er 3 m á hár og snarbrattur inni í réttinni, hann lækkar til suðurs.
Kögunarhóll/Knarrarhól (þjóðsaga/legstaður)
Kögunarhóll – Collingvood 1896.
Í bókinni Frásögur um fornaldarleifar frá 1821 segir: «… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt umm kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framann undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fi alli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata Skip sitt.» Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 segir: «Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.» Í bókinni Íslenskir sögustaðir frá 1873 segir: «keilu- eða toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.“
«Kögunarhóll. Strýtumyndaður hóll, sunnan vegar, lítið gróinn nema að vestan. Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu […] Þjóðsögur herma, að Ingólfs landnámsmanns sé heygður í hólnum og heiti hann Knarrarhóll. Engan hef ég heyrt bera sér það í munn sem lifandi örnefni.»
Kögunarhóll stendur suðvestan við Þjóðveg 1, ekki langt frá rótum Ingólfsfjalls og rúmum 940 m frá bæ. Hóllinn er áberandi og Þjóðvegur 1 liggur fast norðan hans. Hóllinn er stór og ekki mjög gróðursæll. Þar vex þó nokkurt gras en mikið er af berum malarsvæðum á honum, þá sérstaklega á toppi hólsins, þar sem gróðurþekja er mjög slitin.
Hóllinn er frekar hringlaga og mjög stór. Á toppi hans sést mjög vel til allra átta.
Hvolshjáleiga (býli)
“Hjáleiga hefur verið með jörðinni, en nú í auðn yfir 20 ár en bygðist þó fyrri ei lengur en um 10 ára tíma og var kölluð Hvolshiáleiga.” segir í örnefnalýsingu. Óvíst er hvar hjáleigan stóð og frekari þarf upplýsingar svo að hægt sé að staðsetja hana með innan við 50 m nákvæmni.
Kirkjuferja (býli)
Kirkjuferja.
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum og hefur ei tíundast so lángt menn minnast” JÁM II 395. „42 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: „LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur. nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione firir vppgiord a kirkiunni“. DI IV, 92.
1544: „skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara.“ DI XI, 295.
1545: segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450.
1569: „16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi.“ DI XV, 313.
“Landamerki: Úr Mókeldukjafti við Ölfusá lína til norðurs í Árnadys (sjá Auðsholt). Þaðan í hol norðan við Hvolsskyggni (Hvolsborg/[Ferjuborg?]). Þaðan lína til austurs í hornmark Hvols og Þórustaða. Þaðan lína til suðurs í Ölfusá, milli Kirkjuferju og Þórustaða. Þessi mörk eru ekki gildandi nú. Bræðrabýli hefur fengið drjúga landspildu af Hvolslandi.” Ö-Kirkjuferja, 1.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/4 slétt. Garðar 960 m2.
“Tvíbýli var lengi á Kirkjuferju […] Bærinn á Kirkjuferju hefur staðið á sama stað og hann er nú,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn er einnig sýndur á túnakorti frá 1920, nyrst í túninu. Komið er að bænum úr austurátt, ekið er framhjá Kirkjuhól, þá hesthúsum og svo að gamla íbúðarhúsinu. Yngra íbúðarhús er um 80 m vestar. Samkvæmt Guðmundi Baldurssyni, heimildamanni, hefur bærinn og útihúsin alltaf verið á þessu svæði, og þá um leið á bæjarhólnum.
Gamla íbúðarhúsið er á miðjum bæjarhólnum, í smá halla. Það ber meira á kjallara þess sunnan til, þar er bakgarður hússins. Norðan við húsið er bílastæði.
Bæjarhóllinn er um 60×30 m að stærð og snýr austur – vestur. Íbúðarhúsið er byggt 1956, er með niðurgröfnum kjallara og er í beinni línu við Kirkjuhól 002. Hesthúsin eru á austurhluta
bæjarhólsins en ekki er ljóst hvernig afmörkunin er til norðurs og vesturs. Þar eru bílaplön og gróin tún. Mikið af hríslum er við hesthúsið og upphækkun á landi eins og á bæjarhólnum. Eldri bærinn var nærri
íbúðarhúsinu og snéri stöfnum til suðurs. Ekki er hægt að áætla hæð bæjarhólsins vegna jarðrasks en hann er 1-2 m á hæð að sunnan.
Kirkjuferjukirkja (kirkja)
Kirkjuferjukirkja.
1397: LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur.nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione fi rir vppgiord a kirkiunni; DI IV, 92. 1544 skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara – DI XI, 295. [1545] segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450. 16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi – DI XV, 313. “So segja menn hjer jafi að fornu kirkja verið; sjást enn nú merki kirkjugarðs, og er þar nú tóftarstæði eftir, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn minnist hjer hafi tíðir verið fl uttar,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í örnefnaskrá segir: “Kirkjuhóll. Hóll austur á túninu, sunnan vegar. Álagablettu: Blettur við hólinn, sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó).” Kirkjuhóll er um 75 m norðaustan við bæ, austan við hesthús og gamla íbúðarhúsið. Hóllinn er sunnan megin við núverandi heimtröð sem liggur meðfram honum.
Svæðið er í mikilli notkun og áberandi ummerki eftir yfi rferð stórra vinnuvéla. Svæðið er afgirt og notað sem bithagi fyrir hesta. Fyrst var komið að Kirkjuferju árið 2004 í tengslum við skráningu á bænhúsum á Íslandi. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan, nú er Kirkjuhóll innan svæðis sem ekki er nýtt og þar er mikill gróður. Nýtt hús var byggt norðvestan við hesthúsið en raskaði ekki Kirkjuhól.
Það litla sem ennþá sést er líklega skemmt af umferð og gæti orsakað skrítið lag tóftarinnar. Það má sjá að eitthvað mannvirki var þarna er það er tiltölulega mikill ágangur svo erfitt reyndist að áætla skörp skil. Tóftin er 8×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggirnir eru 0,15 m á hæð og algrónir.
Álagablettur (álagablettur)
Kirkjuhóll.
“Álagablettur. Blettur við hólinn [Kirkjuhól], sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó,” segir í örnefnalýsingu. Álagablettur er ekki við Kirkjuhóll að sögn Guðmundar Baldurssonar, heimildamanns, og það er villa í örnefnalýsingunni. Álagabletturinn er rúmum 90 m norðvestan við bæ og 50 m vestan við útihús. Þar er strýtumyndaður hóll og stuðlaberg syðst í honum. Ekki eru frekari sagnir tengdar þessum hól eða huldufólkinu sem í honum bjó. Hóllinn er 2-3 m á hæð og klettar syðst í honum. Þeir eru 2,5 m á hæð en aðrar hliðar eru grónar. Umhverfis hólinn er gróin brekka og hér og þar smá hólar og mishæðir. Vegslóði er fast norðaustan við hólinn.
Hjáleigutóft (býli)
“Hjáleigutóft. Tóftarbrot austan Kinnar,” segir í örnefnalýsingu. Hjáleigutóft var líklega nýtt frá Kirkjuferjuhjáleigu smbr. örnefnið. Tóftin var uppi á hæð, rúmum 260 m norðan við bæ. Þar er lítill hryggur og þar var Hjáleigutóft. Hólinn er nú beittur hestum og þar er tún. Þar er grasivaxið, óræktað svæði. Það er í aflíðandi halla til suðvesturs, niður holtið sem bæirnir eru á.
Engin ummerki um minjar sjást á yfi rborði.
Völukirkja/Kirkjuhóll (þjóðsaga/huldufólkssaga)
Völukirkja.
“Völukirkja. Strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Guðjón hafði þá sögn eftir Birni bóndi, samkvæmt heimildum móður hans, Ingigerðar, að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfi r mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. „Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.” (Halldóra Jónsdóttir),” segir í örnefnaskrá. Völukirkja er tæpum 1,5 km vestan við bæ, rétt austan við landamerki við Auðsholts. Þetta land tilheyrir í dag Kirkjuferjuhjáleigu.
Völukirkja er syðst í holtaröð sem er á merkjum Kirkjuferju og Auðsholts. Þarna raðast nokkur stuðlabergsholt frá norðri til suðurs, Völukirkja er syðst og minnst. Hóllinn er um 30×15 m að stærð, brattur og áberandi. Austurhlið holtsins er með stuðlabergi en til vesturs er hún lægri og grónari. Hóllinn er 3-5 m á hæð.
Móra (þjóðsaga/draugur)
Móruhóll.
“Móra (Móruhóll). Hóll austur í Móru. Þar var draugur, og sumir veiktust, sem voru þar á ferð í myrkri,” segir í örnefnalýsingu. Móra er um 980 m norðvestan við bæ og tæpum 400 m norðan við rétt. Hóllinn er í norðvesturhorni jarðarinnar, milli Ferjukots (nýbýli) og Kirkjuferjuhjáleigu. Umhverfis Móru er mýrlendi og óræktuð tún. Hóllinn er á víðfeðmu svæði og sést víða að.
Móra er 4×2 m að stærð og 1,5 m á hæð. Hólinn snýr svo að segja austur-vestur og er strýtulaga, svo og heildargróðurþekja mikil. Gróður er fremur lágvaxinn og á vissum stöðum glittir í mosagróið bjarg og klappir. Einnig eru smáir moldarflagsblettir sjáanlegir á víð og dreif á hólnum.
Gilsbakki (býli)
Gilsbakki.
“Þurrabúð, sem stóð austan við Rásina, suðaustur af núverandi Hjáleigu. Í byggð í skamman tíma eftir síðustu aldamót,” segir í örnefnalýsingu. Býlið stóð um 440 m norðan við bæ, austan við núverandi heimreið. Þar er nokkur dæld í landslaginu þar sem girðingin liggur samsíða þjóðveginum og mætir honum. Þarna er nú óræktað grasivaxið svæði sem hallar til austurs. Það er nokkuð blautt og deiglent undir.
Minjarnar eru mjög grónar og vex þar hátt og mikið gras. Þar sést óljós veggur sem liggur austur-vestur.
Hann er um 4 m langur og beygir til suðurs þar sem örlítill og óljós veggur er varðveittur. Veggurinn er um 0,4 m á hæð. Dæld er í landslaginu þar sem býlið hefur staðið.
Kirkjuferjuhjáleiga (býli)
Kirkjuferjuhjáleiga.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir, líklega um Kirkjuferjuhjáleigu sé tekið mið af lýsingum af staðsetningu: „Önnur hjáleiga efst menn að hjer hafi verið til forna: líkindi eru þar til fornar tóftaleifar og garða, og er ómögulegt að hjer eftir að byggjast kunni nema til meins heimajörðinni. Liggur þetta byggingarlag utangarðs og má ei byggjast ábúendanum án skaða.“ JÁM II; 396.
Hjáleiga frá Kirkjuferju. “Þessi jörð hefur yfirleitt verið jafnstór aðaljörðinni, Kirkjuferju, og eru landkostir jarðanna svipaðir.” SB III, 391.
1917: Tún 2.9 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 352 m2.
Bærinn er merktur í norðvesturhluta heimatúnsins á túnakorti frá 1920. Þar er einnig sýndur kálgarður fast sunnan við bæinn. Í Sunnlenskum byggðum III segir: “[b]ærinn stóð áður sunnan í holtinu, en var færður upp á holtið 1940.” Í örnefnaskrá segir: “Gamla-Hjáleiga. Sýnilegar leifar af gamla bænum, áður en byggðin var færð norður fyrir túnið.” Bær 001 er tæpum 120 m sunnan við yngra bæjarstæðið og tæpum 20 m vestan við akveg að Kirkjuferju. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið að Kirkjuferju, uppi í holtinu. Bærinn er á sama holti og Kirkjuferja, um 270 m eru á milli bæjanna.
Bæjarhóllinn er ofarlega á náttúrulegum hól sem er hluti af ósléttuðu túni. Landið er algróið og smáþýft.
Til norðurs og vesturs er sléttað tún og það nýtt til hrossabeitar. Bæjarhóllinn er 32×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er nær óraskaður ef frá er talinn norðvesturhlutinn, hann er sléttaður vegna túnagerðar.
Kotströnd (býli)
Kotströnd.
“Jarðdýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. „22 hdr, 1847.“ JJ, 75.
1917: Tún 3.8 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1221 m2.
Bærinn stóð í miðju heimatúninu, uppi á lágu holti sem þar er. Það er víðsýnt til allra átta. Stafnar bæjarins snéru til suðurs en ekki virðist hafa verið sambyggður kálgarður þar. Það er mikið rask á þessu svæði og erfi tt að greina bæjarhólinn á holtinu. Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í túninu og allt landlagið breytt frá því áður var.
Þar sem bærinn stóð eru steinsteypt útihús frá 20. öld til norðurs, malarplan til suðurs frá þeim og vegslóði.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn. Hluti 20. aldar útihúsanna eyðilagðist í jarðskjálfta 2008 og voru rifin.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins vegna allra þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið á síðustu öld. Núverandi íbúðarhús er grafið inn í suðvesturhorn holtsins, líklega rétt utan við bæjarhólinn. Sagnir eru þó um að þar hafi komið upp mannvist. Ekki er vitað hvort að mannvistarlög komu upp þegar útihúsin norðan við bæinn voru byggð á 20. öld og um leið líklega á bæjarhólnum. Uppmokstur úr þeim framkvæmdum var settur í tjörn sem var austarlega í heimatúninu, fast sunnan við kirkjugarðinn. Það er að öllum líkindum búið að grafa stóran hluta bæjarhólsins í burtu og þá um leið mannvistarlög þrátt fyrir að þekkingin um þau hafi ekki varðveist. Fyrir sunnan bæjarhólinn er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Heimildamaðurinn var ekki viss hvar nákvæmlega á bæjarhólnum bærinn stóð, hann gæti hafa verið skammt austar en þar er mun minna jarðrask.
Kotstrandarkirkja (kirkja)
Kotstrandarkirkja.
“Kirkjutún, sléttur túnblettur sunnan undir kirkjugarðinum, sem nú er orðinn grafreitur,” segir í örefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: “Kirkjan var byggð sumarið 1909 og vígð 14. nóv. Um haustið. […] Yfi rsmiður var Samúel Jónsson frá Hunkubökkum á Síðu (faðir Guðjóns húsameistara). Kirkjuhúsið úr timbri, járnklætt, 85 m2 að fl atarmáli. […] Gtafreiturinn var tekinn í notkun um sama leyti og kirkjan. Nokkru síðar var hann afgirtur með grjótgarði. Efnis í þá girðingu var hægt að afla með vinnu sem kostaði þá ekki beina peninga. Grjótið var flutt á vögnum um 3 kmm leið og prýðilega byggt úr því. Sá garður stóð óhaggaður þar til kirkjugarðurinn var stækkaður. Efnis dugði þá aðeins á tvo vegu um kirkjugarðinn.” Kirkjan er um 120 m NNA við bæ, líklega rétt utan heimatúnsins. Hún er ekki sýnd á túnakorti frá 1920 sem bendir einna helst til þess að hún hafi verið utan þess. Kirkjan er reist 1909, þegar kirkjur á Arnarbæli og Reykjum voru lagðar niður, fyrir þann tíma var ekki kirkja á Kotströnd. Kirkjan er ennþá í notkun og tilheyrir Hveragerðisprestakalli.
Steinvararhús (býli)
“Bær var í túninu, kallað Steinvararhús. Kona að nafni Steinvör hafði búið þar,” segir í örnefnalýsingu.
“Steinvararhús er ekki lengur til. Búið er að slétta allt út. Sigmar man eftir húsinu; það var síðast haft fyrir fé,” segir í athugasemdum við örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar Steinvararhús var staðsett, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta. Þekkingin um staðsetninguna hvarf að öllum líkindum með Sigmari. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja býlið en það var innan heimatúnsins líkt og segir í örnefnaská.
Bali (býli)
“Upp með ánni var kallaður Bali. Þar var gamalt býli, og var þar tekinn mór,” segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Sigmars Sigurðssonar segir: „Bali: Þurrlendur, kúptur mýrarfláki; er norður við Gljúfursmörk.“ Í skýrslunni Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi segir að engin ummerki um býlið sjáist á yfi rborði. Hnitið í skýrslunni lendir hins vegar skammt sunnan við beitarhús 012 og það er nokkuð langt frá staðsetningu þess í örnefnaskrám. Bali var líklega vestan við mógrafir, þar er holt en engin mannvist sést þar. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja staðinn með betri nákvæmni en hann var rúmum 1,7 km norðan við bæ.
Þetta svæði er mýrlent, framræst og mjög gróið. Það er nýtt til hrossabeitar.
Klettar (þjóðsaga/huldufólksbústaður)
“Í klettunum (?) var sögð vera kirkja; þar mátti ekki hreyfa stein,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað í hvaða klettum þessi kirkja var. Líklega eru það þó klettarnir norðan við heimatúnið sem átt er við, innan nýbýlisins Mæri. Frekari heimildir þarf til þess að staðfesta það.
Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, heimildamanns, var álagablettur í hlaðinu á Kotströnd. Hann er um 20 m sunnan við bæ og 30 m norðan við Kotstrandarbrunn. Álagabletturinn er fast við núverandi heimreið að bænum. Heimreiðin er malbikuð og skjólbelti er fast austan blettsins. Hóllinn er 7×5 m að stærð og snýr norðvestursuðaustur. Beinn bakki er til suðvesturs í hólnum, mögulega vegna vegagerðar þegar heimreiðin var malbikuð. Í hólnum glittir víða í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Hóllinn er 0,3-0,5 m á hæð og algróinn.
Gljúfur (býli)
Gljúfur.
“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 397. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
“Landamerki: Úr Sauðaklöpp, til austurs í Langanef. Þaðan til norðurs í Orustuhól, þaðan lína í Sandfell. Þaðan, til norðvesturs stefna í Efjumýrarvörðu (sjá Sogn), í miðgilið í Klyftartungum, síðan Gljúfurá og Gljúfursá móts við Sauðaklöpp.” Ö-Gljúfur, 1.
1917: Tún 5.9 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1584 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1920 og Stefáni Jónssyni, heimildamanni, var bær vestan við núverandi íbúðarhús, nánast í miðju heimatúninu. Nú er þar skemma, önnur útihús frá 20. öld og heimahagi.
Nýtt íbúðarhús var byggt árið 1964, um 40 m austan við bæjarhólinn, en eldra íbúðarhús sem byggt á fyrrihluta 20. aldar sést á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Það hús eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2000 en það var á vesturhluta bæjarhólsins. Bærinn á túnakortinu var undir útihúsunum, fast austan við staðsetningu eldra íbúðarhússins. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og kálgarður var þar framan við, niður holtið sem bærinn er á.
Tún í órækt er sunnan við hólinn, í vesturhluta hans eru tré sem áður voru í bakgarði íbúðarhússins sem var rifið. Til annarra átta eru grasivaxin ræktuð tún.
Bæjarhóllinn er 50×35 metrar að stærð og snýr í austur-vestur. Hann er 0,2-0,4 m á hæð og fjarar út til suðurs. Bæjarhóllinn er horfi n til norðurs, þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Ekki mótar fyrir upphækkun þar í landslaginu. Til vesturs sést bakki, um 0,2 metra hár. Þar var eldra íbúðarhúsið og sunnan megin við það hefur verið kálgarður til suðurs og austurs. Engin merki um tóftir sjást á honum og skemman hefur efl aust raskað honum þar sem hún
stendur. Það er greinilegt að mannvist er enn hér undir sverði, þrátt fyrir mikið jarðrask.
Gljúfurshellir (hellir/fjárhús)
Gljúfurhellir.
“Gljúfurshellir: (Hellirinn) Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús,” segir í örnefnaskrá. “Gljúfurshellir er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegar. Nýleg fjárhús standa við læk nokkru ofan við hellinn.” segir í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi. Hellirinn er tæplega 550 m suðaustan við bæ og rúmlega 170 m vestan við nýleg fjárhús sem nefnd eru í Manngerðum hellum. Hellirinn sést ekki frá fjárhúsunum og ekki fyrr en komið er nær honum, hann er í gilinu norðanmegin.
Uppspretta er í gólfi nú innan við hellismunnann, en hún sést ekki lengur þar sem byggt hefur verið yfir hana. Hún rennur í lækinn sem er 3 metrum frá hellismunnanum. Litlir kindastígar liggja að hellinum beggja vegna við hann að norðan. Gilbotninn er grasigróinn, smáþýfður með villiblómum. Hellismunninn er tveim metrum ofan við lækinn.
Í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi er hellinum lýst. Þar segir: «Hann er grafi nn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m. Muninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg sem á eru dyr fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í gólfi nu innan við munnann og smáspræna rennur út um hann í aðallækinn. Leifar af jötum sjást með veggjum […] Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellinn segir Gljúfursbóndi.» Litlu er við þessa lýsingu að bæta. Steypt hefur verið utan með hleðslunum og sést aðeins í þær fyrir ofan steypuna. «Örfáar unglegar áletranir eru á veggjum. Þar er m.a. hakakross.» segir einnig í Manngerðir Hellar á Íslandi. Áletranirnar eru mjög ógreinilegar en tveir hakakrossar eru enn sjáanlegir. Steypustyrktarjárn og bárujárn eru í hellismunnanum, ekki sést lengur móta fyrir jötum. Veggirnir eru mosavaxnir og gólfið er moldargólf með smásteinum. Hæð veggjar er fyrir dyrunum er 1,2 metrar en veggir hellisins eru aflíðandi.
Gljúfurseldalur (sel)
Gljúfursel.
“Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur,” segir í örnefnalýsingu Hengils. Á heimasíðu Ferlis segir: „Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns. Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum. […] Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að fi nna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.“ Ekki er hægt að sjá tóftir í Gljúfurseldal, dalurinn er lítill og vel afmarkaður. Sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára Ármannssonar á heimasíðu Ferlis er einungis einn staður sem passar við lýsingar hans á staðnum. Selið var rúma 200 m norðaustan við Sognsel og rúmum 1,8 km norðan við bæ.
Austurhluti Gljúfurselsdals er gróinn og brattar brekkur afmarka þann hluta til austurs. Landið fer lækkandi til vesturs, að ánni, og rakt undirlendi er þar á kafla. Lækur rennur til vesturs, syðst í dalnum, og sameinast ánni. Selið var að öllum líkindum þar, á bakkanum sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára. Ekki er hægt að greina mannvist á þessu svæði. Þegar skrásetjari var á ferðinni var mikill gróður þarna, allt að mittishár. Þarna eru þýfðir bakkar en ekki hæft að greina neina lögun eða tóftir í þeim.
Sogn (býli)
Sogn.
“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 398. 20 hdr. 1847. JJ, 75“.
1542: Þann 11.janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni. DI X, 698 – 699.
Landamerki: Skráð eftir minni úr landamerkjabréfi , afriti úr embættisbókum sýslumanns, sem var í eigu foreldra minna, en látið af hendi þegar þau fóru frá Sogni (1935)… Gljúfurá… er markaá milli Sogns og Gljúfurs, austan Sognslands, allt þar til Gljúfurholtslands tekur við. Mörkin eru úr steini (merktum) efst við Haukamýragljúfur, þvert vestur í Stórumýri í “stefnu á Varghól” (svo í bréfi nu) í hlaðna vörðu (Markavörðu) vestur undir Múla (sjá Reykjatorfu). Nú er girðing á þessum mörkum… Frá áðurnefndri vörðu bein lína um Fögrubrekku (miðja) til norðurs í vörðu, sem er austan á Álút (hana hef ég ekki séð), þaðan í Efjumýrarvörðu. Þaðan á sveitarmörkum Grafnings og Ölfus stefna til suðausturs í Sandfell (Gljúfur), skammt ofan við Klyftartungur. Þar eru 3 gil og mörkin talin um miðgilið, sem rennur í Gljúfurá, svo er það hún og Gljúfursáin.” Ö-Sogn, 1.
Sogn – túnakort 1918.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni. Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn. Nú er rekið fangelsi á jörðinni og hún nýtt til beitar.
1917: Heimatún 4.9. Fjárhústún 1.0 ha, alls 5.9 ha, allt slétt. Garðar 1250 m2.
“Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður). Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það ævinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslunni Hengill og umhverfi eftir Kristinn Magnússon segir: “Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 45m í þvermál. […] Gamla bæjarstæðið á Sogni hefur verið sléttað. Enn stendur þó eftir áberandi hóll sem eflaust geymir leifar bygginga og mannvistarlaga frá þeim tíma er bærinn stóð á þessum stað..” Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, suðvestarlega í heimatúninu. Hann er um 130 m vestan við núverandi byggingar á Sogni.
Bærinn brann en ekki er vitað hvenær, í kjölfarið var hann fl uttur. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs og þaðan víðsýnt yfir Ölfusforir.
Sléttað var yfir bæjarhólinn en þar eru ekki byggingar á yfirborði. Hóllinn er sléttur, grasivaxinn og sést sem hæð í túninu. Hann er 50×30 m að stærð, 0,2-1 m
á hæð og snýr austur-vestur. Vírgirðing liggur yfir vesturhluta hans, meðfram Bæjargilinu.
Stóri-Hellir (fjárskýli)
Stóri-Hellir.
“Stóri-Hellir: Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð.
Stóri-Hellir.
Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.” Hellirinn er um 300 m suðvestan við bæ og 100 m sunnan við Litla-helli 010. Hann er enn uppistandandi en ekki nýttur.
Hellirinn er í Hellisbrekku, þar á mörkum kletta og gróinnar brekku. Efst í brekkunni eru háir hamrar en gróin brekka neðan þeirra, niður að Hellismýri. Hellirinn er náttúrulegur og mesta lofthæð er 1,5 m. Hann er opin til austurs og þaðan er víðsýnt. Innst í hellinum eru tvö lítil gjögur, mögulega var hægt að skipta honum í fleiri hólf. Það eru þó ekki berghöld eða aðrar ristur í veggjum hellisins sem styðja þá tilgátu. Hleðslan fyrir framan hellinn sést enn, hún
er afar sigin. Hún er líkust öngli í laginu, og snýr norðaustur-suðvestur. Það er gróið yfir alla steina í veggnum. Réttin var opin til suðurs.
Litli-Hellir (fjárskýli)
Litli-Hellir.
“Litli-Hellir: Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tíman notað sem fjárhús,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli.” Litli-hellir er tæpum 230 m vestan við bæ og um 80 m sunnan við Trippakofa.
Litli-hellir er í gróinni brekku, neðarlega. Allt umhverfis er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Litli-hellir er lítill og þegar skásetjari var á ferðinni var mikið gras á svæðinu sem gerði minjarnar óskýrar. Hellirinn er um 0,8-1 m á hæð, skrásetjari komst ekki inn í hellinn. Tóftin er fyrir austan hellinn. Hún er 4×2 m að stærð og snýr austur-vestur. Tóftin er opin til austurs en hvergi sést glitta í grjót í veggjum.
Kot (býli)
“Kot: (upp í Kot, uppi í Kot) Þar var bær ( í byggð 1896). Mun hafa verið stutt í byggð og bjó þar Eyjólfur Símonarson. Þar stóð heyhlaða, sér enn fyrir,” segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Kots sést enn, á túnakorti frá 1920 er útihús á sama stað. Tóftir bæjarins voru því notaðar áfram eftir að hann féll úr ábúð. Kot var rúmum 210 m vestan við bæ og 50 m sunnan við Ærhús.
Gróið tún, fast austan við Hellisfjall. Svæðið er í halla til suðausturs, niður að Hellismýri. Kristinn Magnússon lýsir minjunum svohljóðandi: “Um 10m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7m x 9m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.” Bæjarstæðið er 14×14 m að stærð og 0,2 m á hæð. Tóftin er sigin og sést illa. Hún er skeifulaga og þúst er til suðvesturs, mögulega veggur. Tóftin er opin til suðausturs. Það er líklega tóft hlöðunnar sem enn sést hér. Þeir eru 0,2 m á hæð og algrónir. Til suðausturs sést kantur, mögulega hluti af bæjahúsunum.
Stóri-Einbúi (þjóðsaga/huldufólksbústaður)
Stóri-Einbúi.
“Stóri-Einbúi: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sognseinbúa). Klettahóll í Einbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja,” segir í örnefnaskrá. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn.” Stóri-Einbúi er um 720 SSV við bæ og rúmlega 160 m ASA við áfangastað. Hóllinn sker sig úr út úr landinu og er auðgreinanlegur úr mikilli fjarlægð úr öllum áttum.
Umhverfis Stóra-Einbúa er mýrlendi og þekur mýrastör og annar votlendisgróður stóran hluta af gróðurþekjunni.
Stóri-Einbúi er 60×40 m að stærð og snýr svo að segja austur-vestur. Hann er rúmlega 60 m hár. Einbúinn er grösugur til norðurs og suðurs, en gróðursnauður og erfi ður yfirfærðar til austurs og vesturs. Í skýrslu Kristin Magnússonar er Stóra-Einbúa lýst svo: “Hann er um 70m x 50m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið […]. Hann er stór og áberandi klettur sem rís upp úr flatlendinu í kring. Það er því ekki skrítið að frásagnir um Álfakirkju hafi tengst klettinum.»
Bakkárholtssel (sel)
“Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í litlu gili í Selá í Seldalnum.
Þarna var selstaða frá Bakkárholti í Skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab. A.M.). Sér enn fyrir tóftum,” segir í örnefnalýsingu. Selið er rúman 1,7 km NNV við bæ og rúma 880 m vestan við Seldal. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina.”
Selið er á grónu svæði, skammt norðan við vírgirðingu sem afmarkar land Sogns. Mosi, gras og elfting er áberandi. Tvær tóftir eru á svæði sem er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Í skýrslu Kristins segir: Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa.
Seldalur/ Sognsel (sel)
“Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot.
Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá fl öt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin (nr. 786) er 8,5m x 4,1m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2m í NV er önnur tóft á litlum grasivöxnum hól. Hún er 9,2mx7,3m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6mx6m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.” Selið er rúmum 880 m austan við sel og tæpum 1,7 km norðan við bæ. Selið er líkt og segir í örnefnalýsingu, vestan við Gljúfurá, þarna eru tær tóftir auk tveggja óljósari mannvirkja.
Rafmagnsgirðing á merkjum Sogns og Gljúfurs er 50 m austan við selið. Selið er á gróinni tungu, þarna er mosi, lyng og elfting áberandi. Landið lækkar til suðvesturs, að ánum. Mýrarvik, að Selá, er sunnan við tóftirnar. Svæðið er 50×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Gljúfurholt (býli)
“Jarðdýrleiki óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
1522: Jörðin er nefnd í fjárskiptabréfi milli Hólmfríðar Erlendsdóttur og Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar og systkina hans. DI IX, 87. “Mörk fyrir engjum Gljúfurholts voru mjög sérkennileg. Gömul árför í mörgum krókum á báða vegu. Austan gamall farvegur Gljúfurholtsár. Vestan gamall farvegur Varmár.” Ö-Gljúfurholt, 3.
1920: Tún 3.8 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1025 m2.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2020.
Gljúfursel.
Ölfus – Bæir og nokkrar merkar minjar III
Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla II“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Auðsholt, Egilsstaði, Hala, Arnarbæli, Bakkárholt, Reyki, Kross, Saurbæ, Kröggólfsstaði og Hraun, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:
Auðsholt (býli)
Auðsholt.
30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.
„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs.
Auðholtsbyrgi.
Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa. Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.
Auðsholtskirkja (kirkja)
Auðsholt – túnakort 1918.
Í máldaga kirkjunnar frá 1397 segir: „LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ Í örnefnalýsingu jarðarinnar segir: „Auðsholt er ein af stærri jörðum í Ölfusi. Þar var kirkja samkvæmt gömlum máldögum. Nú vita menn ekki hvar hún stóð. Ýmsar sterkar líkur benda til að hún hafi staðið á hól þar, sem nú stendur fjós og heyhlaða og eru til þess þessar orsakir. Þegar Grímur Hákonarson keypti Auðsholtið skömmu eftir 1930, lét hann byggja myndarleg peningshús í hól norðvestur af íbúðarhúsinu. Þar var djúpur jarðvegur og mikið flutt til af mold. Í moldinni sáust leifar af beinum. Þó varla svo greinilegum að sannað væri að það væru mannabein, enda lítið grannskoðað. Síðar þóttust skyggnir menn verða vara við „hreifing“ í fjósinu, þegar farið var að ganga þar um. Í Jarðab. A.M. er ekki minnst á kirkjuna, hún er þá gleymd.“ Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett. Samkvæmt Magnúsi Gíslasyni, heimildamanni, var þessum uppmokstri hent í Bæjarmýri skammt frá bænum og kallaðist hóllinn Beinahóll. Lengi sáust bein í hólnum en þau eru horfinn nú. Þetta voru einungis dýrabein, þarna var ekki neitt um stór bein. Fjósið var vestan við hlöðuna sem ennþá stendur en það var rifið eftir 2008.
Engin ummerki kirkjunnar sjást á yfirborði.
Miðhjáleiga (býli)
Miðhjáleiga.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Auðsholtshjáleiga heimari, bygð af heimalandi fyrir manna minni.“ „Mið hjáleiga: […] Smáhóll í túninu, mitt á milli bæjanna,“ segir í örnefnalýsingu. Miðhjáleiga er rúmum 110 m sunnan við bæ 001 og tæpum 170 m norðan við Auðsholtshjáleigu. Bæjarhóllinn sést ennþá þrátt fyrir að svæðið hafi margsinnis verið plægt og sléttað hér yfir. Við sléttun hefur komið upp mikið af grjóti, veggir og aðrar mannvistarleifar að sögn Runólfs Gíslasonar, heimildamanns.
Slétt, ræktað tún er umhverfis bæjarhólinn. Miðhjáleiga, Auðsholt og Auðsholtshjáleiga, eru á sama holtinu en mýrlent er til allra átta frá því. Bæirnir raðast í einfalda röð, N-S, eftir holtinu. Klettar eru uppi á holtinu og var Miðhjáleiga eflaust á einum slíkum, við vesturmörk holtsins, þar sem það lækkar niður í mýrina.
Bæjarhóllinn er 55 x 35 m að stærð, snýr norður-suður og er hæstur um 2 m. Hann fjarar út til allra átta og er það af völdum sléttunar. Bærinn er á miðjum bæjarhólnum.
Audsholt station (herminjar)
Camp Audsholt.
„Ærhúshólar: Hólar austan við Miðskák […] Breski herinn byggði þar byssustæði og skotgrafir á stríðsárunum, sér enn fyrir þeim mannvirkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Reist voru ein 20 topptjöld á árbakkanum við Ólafsstekk, fram af Auðsholtshjáleigu. Aðrar tjaldbúðir reistu þeir uppi á Auðsholtstúni, norðaustur frá bænum og timburskúr fyrir eldhús. Þangað fór einnig 40 manna kanadísk vélbyssusveit, […] nefndu þeir herbúðirnar Audsholt station. […] Áttu þeir að styðja Kanadamenn við varnir flugvallarins í Kaldaðarnesi og settu upp stórar loftvarnarbyssur syðst á hæðardraginu austur af Auðsholtsbænum. […] Uppi á hæðardraginu, skammt norðan við byssurnar, var steypt gluggalaust byrgi með steyptu lofti og hulið með mold og sniddu. Það var 14 m langt, tæpir 4 á vídd og með 2,25 metra lofthæð. Það var stjórnstöðin fyrir byssurnar. Dyr voru á norðurenda og tvær á hvorri hlið. Með vesturhliðinni var axlarhá skotgröf fram í vígi með þremur smáútskotum sunnan við byrgið. […] ekið var inn í kampinn af Arnarbælisvegi úr norðri framhjá varðmönnum í skýli. Þaðan lá vegur til suðurs, austan við Gónhól og byrgið og að loftvarnarbyssunum. Þegar ekið var suður herbúðarveginn, var fyrst komið að eldhúsinu vestan við veginn. Þar tóku við hlaðnir garðar beggja vegna vegarins. Fyrir ofan veginn voru skotgrafir og 1-2 braggar í brekkunni upp að Gónhól, þar sem vatnsgeymir var byggður. Fyrir neðan veginn voru einir tíu braggar og suður af þeim var stakur braggi offísera. Og niðri á láglendinu syðst var 5 metra djúpur brunnur, steyptur og dæluhús úr holsteini. Tveir braggar voru reistir austur við Tjaldhól, annar fyrir skotfæri en hinn fyrir verkfæri.
Þegar herinn fór frá Kaldaðarnesi haustið 1943, yfirgáfu hermennirnir kampinn í Auðsholti og tóku niður stóru loftvarnarbyssurnar. Settu þeir í staðinn upp langa, svarta símastaura til þess að villa um fyrir óvinaflugvélum.“ Herbúðirnar eru rúmum 150 m suðaustan við bæ, uppi á Ærhúshólum. Hluti af mannvirkjunum eru ennþá varðveitt en minjarnar hafa látið á sjá frá árinu 1998 þegar þeim var fyrst lýst.
Sorgarsteinn (þjóðsaga)
Sorgarsteinn.
„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras.
Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.
Auðsholtshellir (fjárskýli)
Auðsholtshellir.
„Auðsholtshellir: Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ og tæpa 300 m suðvestan við mógrafir. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum. Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.
Brú (brú)
Brú við Stapakletta.
„Stapaklettar: (heimri og syðri). Tveir klettar, sem skaga út í Ölfusá […] Mannvirki eru á þeim frá hernámsárunum. Þessir klettar eru ranglega nefndir Laxaklettar,“ segir í örnefnaskrá. Brúin er rúmum 1 km suðaustan við bæ og tæpum 800 m vestan við mógrafir. Stapaklettar eru tveir og mannvirki eru á þeim báðum. Bát þarf til að komast á milli Stapaklettanna þrátt fyrir að stutt sé þar á milli, Ölfusá rennur þar í djúpum, straumhörðum ál. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Bretar ákváðu að setja létta göngubrú fyrir benzínleiðslu á Ölfusá hjá Kaldaðarnesi. Skyldi hún liggja frá Stapaklettum fyrir austan Auðsholt í Ölfusi að vestanverðum flugvellinum í Kaldaðarnesi. En þar er Ölfusá um 800 metra breið. Þetta yrði því lengsta brúarmannvirki, sem gert hefði verið á landinu. Þetta var hengibrú á 20 stöplum, aðeins um 1,5 m breið, og var hvert brúarhaf um 40 metrar.
Brúin.
Stöplarnir voru gerðir af fjórum trjám, fet á kant, sem rekin voru niður í ána. Þau voru boltuð saman með krosstrjám og mynduðu undirstöður undir brúargólfin. Ofan á hvern stöpul voru reist há stauravirki með krosstrjám, sem báru uppi burðarstrengi brúarinnar, og á hana var sett tæplega meters hátt handrið. (…) Á árbakkanum var hlaðinn mannhæðarhár pallur úr grjóti og sementi fyrir olíubíla, þaðan sem benzíni skyldi dælt um brúarleiðsluna í geyma við flugvöllinn. Pallinn hlóð Sigurjón Steinþórsson, frá Króki, sem var snillingshleðslumaður, ásamt Guðbirni, syni sínum. […] Þannig þokaðist brúin lengra og lengra út í ána […] Sunnudaginn 25. október voru 10 brúarhöf sunnan megin brúarinnar fullgerð […] 11. nóvember […] gerði hvassann landsynning og illviðri […] Veðurofsinn stóð allan daginn en snérist á áttinni um hádegi. Þá gjöreyðilögðust stokkfestingar, svo að brúargólfin […] snérust og stórskemmdust.
[…] Um veturinn brotnaði þessi lengsta brú, sem smíðuð hafði verið á landinu, í spón.“ Brúin er rúman kílómetra suðaustan við bæ og fast sunnan við rétt.
Stapaklettar eru á norðurbakka Ölfusár og úti í ánni sjálfri, skammt frá landi. Umhverfis þá er sendinn árbakki og áin breiðir úr sér.
Klettarnir eru áberandi og sjást víða að.
Á syðri klettinum, sem er úti í ánni er steypt mannvirki en ekki reyndist unnað komast þangað. Þetta er brúarstöpull. Á heimri klettinum, sem er landfastur, er einnig brúarstöpull og fleiri steinsteypt mannvirki. Samtals eru þau um 30 x 1,5 m á stærð og liggja eftir endilöngum klettinum. Þarna var mögulega hús eða sambyggt rými. Olíupallurinn er 60 m norðar, við rétt 021. Hann sést vel í gegnum gróður og hleðslan að utan. Steinsteypa er á milli umfara. Pallurinn er 21 x 3 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann mjókkar eftir því sem ofar dregur og er 2 m á hæð.
Auðsholtshjáleiga (býli)
Auðsholtshjáleiga.
„Sydri hjáleiga, önnur af sömu jörðu. Dýrleikinn áðurtalinn með heimajörðunni.“ JÁM II, 409. Hjáleiga frá Auðsholti. „Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1708 nefnir tvær hjáleigur frá Auðsholti: Auðsholtshjáleigu heimari, sem er löngu komin í eyði, og Syðri-hjáleigu. Hún er enn sérstök jörð og kallast Auðsholtshjáleiga.“ SB III, 389. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Grænhól og nýtt samhliða henni. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 8/9 slétt. Garðar 1105 m2.
„…Auðsholtshjáleiga (syðri hjáleiga) standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhús Auðsholtshjáleigu eru sýnd á túnakorti frá 1918. Bærinn er á svipuðum stað og þá, var sunnarlega á holti. Ekki er vitað nákvæmlega hvar bæjarhúsin sem sýnd eru túnakortinu stóðu en líklega er hús byggt 1948 á svipuðum stað. Ekki er föst ábúð á jörðinni en hún er nytjuð frá Grænhól og í eigu ábúenda þar. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var þar í brekkunni fyrir neðan, allt niður að mýrlendi sem þar tekur við.
Mikið rask er á bæjarhólnum, aðallega vegna bygginga og gróðurs. Þar eru öll 20. aldar útihúsin ásamt tilheyrandi raski.
Íbúðarhúsið er í miðjum hólnum, útihús frá seinni hluta 20. aldar eru í norðurhlutanum og gróinn bakgarður til suðurs, þar sem kálgarðurinn var áður. Erfitt er að átta sig á náttúrulegri upphækkun og mannvistarlögum af þessum sökum. Bæjarhóllinn er um 50 x 30 m að stærð og snýr austur-vestur. Bærinn hefur líklega staðið á náttúrulegum hól. Fyrir austan húsið er malarplan og umhverfis byggingarnar eru ræktuð tún. Þegar komið er að bænum er ekið upp brekku sem mögulega er uppsöfnuð mannvistarlög að einhverju leyti.
Egilsstaðir (býli)
Egilsstaðir.
20 hdr. 1847. JJ, 74. „Jarðardýrleikinn áðurtalinnn í heimastaðnum Arnarbæli.“ JÁM II, 414. Hjáleiga frá Arnarbæli. „Gömul jörð, nátengd Arnarbælinu. Prestekkjujörðin. Að fornu mati 20 jarðhundruð. Landið allt gróið og grasgefið, mýrar og holt. Liggur undir flóðhættu frá Ölfusá, bærinn stendur á lágum hól. Hjábýli var í túninu, hér Egilsstaðahali, nefnt Hali.“ SB III, 381. Ekki er lengur föst ábúð á jörðinni, hún hefur verið í eyði nokkur ár. Jörðin er í eigu ábúenda á næstu jörð sem nýta hana til beitar.
1917: Tún 2.2 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 1026 m2.
„Egilsstaðir: Hafa staðið á sama stað: Tvíbýli var á Egilsstöðum og átti prestekkjan rétt á hálfri jörðinni þegar náðarárið var á enda,“ segir í örnefnaskrá. Egilsstaðir eru rúmum 650 m norðan við Arnarbæli. Bærinn er á náttúrulegum, stakstæðum hól og hefur alltaf staðið þar. Ástæðan er flóðahætta, Ölfusá hefur í gegnum tíðina flætt hér yfir en hóllinn stendur alltaf uppúr. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum). Timbrhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og sambyggður kálgarður var þar framan við. Traðir lágu þar þvert í gegnum hann. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Ósgerði sem nýta hana til hrossabeitar. Öll hús á jörðinni eru í mikilli niðurníðslu.
Bæjarhóllinn er á tiltölulega sléttu landi. Á honum eru nokkur 20. aldar útihús ásamt íbúðarhúsinu.
Íbúðarhúsið er byggt 1925-1953 á miðjum bæjarhólum sem er frekar lágur og lítið áberandi. Hóllinn er mikið athafnasvæði og jarðrask þar mikið. Ekki er hægt að segja til um nákvæma stærð, hæð og legu bæjarhólsins, hann rennur saman við náttúrulega hólinn. Þarna eru mikið af byggingum, malarvegur liggur upp á hólinn úr suðri og þvert yfir hólinn að útihúsum til norðurs.
Hali (býli)
Hali.
Hjáleiga frá Egilsstöðum. „Hjábýli var í túninu, hét Egilsstaðahali, nefnt Hali. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín árið 1708 er talið að Hali hafi í byggð verið undir 40 ár. Í byggð fram undir síðustu aldamót [1900].“ SB III, 381.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Hjáleiga af Egilsstöðum, hefur bygð undir 40 ár.“ Í örnefnalýsingu Arnarbælis segir: „Hali (Egilsstaðahali): Eitt af kotunum í Arnabælistorfunni stóð suðvestur af Egilsstöðum, sér enn hól þar, sem bærinn var.“
Hali var fast sunnan við bæjarhól Egilsstaða en nákvæm staðsetning er á reiki. Býlið var á svipuðum slóðum og núverandi hesthús, fast vestan við heimreiðina að Egilsstöðum, áður en ekið er upp á hólinn. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er Hali sýndur SSV við Egilsstaði, þar sem fyrrnefnt hesthús er núna. Sú staðsetning kemur einnig heim og saman við lýsingu í örnefnaskrá hér ofar. Hali var rúmum 20 m suðvestan við Egilsstaði og rúmum 630 m norðaustan við Arnarbæli. Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns, voru lágir hólar nyrst í heimatúninu sem kenndir voru við Hala en þar voru ekki tóftir. Þessi hólar eru horfnir en mögulega voru þetta útihús frá hjáleigunni.
Ekki sér til minja né hóla þar sem Hali stóð. Bygging hesthússins sem og túnasléttun á eflaust stóran þátt í því. Hali var á mörkum holts og mýrlendis, fyrir suðvestan hesthúsið er mýrarsund sem náði allt að hólnum sem Arnarbæli og fleiri bæir eru á. Fyrir sunnan hesthúsið er smá hólmyndun en erfitt er að greina hvort að hún tengist því eða eldri mannvirkjum án frekari rannsókna. Túnið til suðurs frá hesthúsinu er óræktað og þar eru einnig fleiri lágir hólar á mörkum mýrlendis. Ekki sást til mannvistar í þeim. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja bæinn með enn meiri nákvæmni.
Engin ummerki Hala sjást á yfirborði.
Ósgerði (býli)
Ósgerði – túnakort 1918.
5 hdr. 1847, JJ, 74. „Úrskift býli úr heimastaðnum Arnarbæli, og er haldið almennielga sextándi partur jarðarinnar, skyldi þá heimastaðurinn allur vera 80 hdr, en þetta býli v hdr. Jarðdýrleiki var v og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM, 409. „Ósgerði er sérstök jörð og hefur verið það lengi. Hún var að fornu talin 1/17 hluti úr Arnarbælistorfunni. […] Ósgerði stóð austast á Arnarbælishólnum.“ Nú er búið í Ósgerði og jörðin nýtt til hrossabeitar.“ SB III, 387.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 2/3 slétt. Garðar 336 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir að Ósgerði sé hjáleiga frá Arnarbæli. „Ósgerði: Bærinn stendur á sama stað, norðan Nethamra. (1/16. hluti úr Arnarbælinu, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ósgerði er um 230 m ANA við Arnarbæli og 100 m norðan við Nethamra, malarvegur liggur á milli þeirra. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemmdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […] Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. Í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum).
Ósgerði.
Timburhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Búið var að rífa öll mannvirki á jörðinni þegar Sunnlenskar byggðir III koma út árið 1983 en ljósmynd er þar af bænum. Þá var ekki búið að vera ábúð á jörðinni í tæp 20 ár, hún einungis nytjuð.
Árið 1997 var reistur sumarbústaður á bæjarhólnum og íbúðarhús fast norðvestan þess árið 2014 – 2015 samkvæmt Fasteignaskrá. Nú er föst ábúð á jörðinni og hrossarækt. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sést á túnakorti frá 1918 og bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1908 var staðsettur, líklega var hann á sama stað og fyrrnefndur sumarbústaður. Mikið rask er á bæjarhólnum, það er búið að byggja og rífa nokkur hús á 20. öld.
Mynd af 20. aldar bænum er í Sunnlenskum byggðum III eins og áður sagði. Þar sést að íbúðarhúsið var á svipuðum stað og sumarbústaður frá 1997, útihúsin voru þar skammt suðaustar, á hólbruninni. Þarna eru nú ræktuð tún nýtt til beitar, skjólbelti, malarvegir og fleiri mannvirki. Ekki sér til greinilegrar upphækkunar á yfirborði en mannvist er án efa enn undir sverði þrátt fyrir mikið rask. Kálgarður var suðvestan við bæinn, líklega í brekku sem þar er og sést hann á bæjarteikningunni og túnakorti.
Engin ummerki um bæjarhólinn sjást á yfirborði.
Arnarbæli (býli)
Arnarbæli – bæjarhóll.
80 hdr. JJ, 74. Getið í Harðar sögu: “Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla, en utan um Arnarbæli ok upp eptir Flóa í Oddgeirsshóla …” ÍF XIII, 25. 6.10.1289: “Reið [Árni biskup Þorláksson] í Arnarbæli og var þar fögur veisla. Þar bjó herra Þorvarður [Þórarinsson d. 1296], Árna saga biskups, Sturl, 874. „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja. Jarðardýrleiki segja menn áður hafa verið 80 með Ósgerði. Skyldi þá staðurinn sjálfur lxxv.“ JÁM, 410. 23.4.1509 er borinn vitnisburður um að kirkjan í Arnarbæli eigi fjórðung í hvalreka og viðreka á Skeiði, þ.e. frá Ölfusá og út til Þorlákshafnar – DI VIII, 277. [1524] selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni Arnarbæli – DI IX, 258. [1545] hafði Arnór Eyjólfsson tekið út eitt kúgildi
Skálholtsstóls í Arnarbæli – DI XI, 450. 1547 byggir Gissur biskup Arnóri Eyjólfssyni “Schalholltzstadar jord. arnarbæli j auluesi … til äbylis. sua leingi sem ec a med at giora … skal hann giallda j landskylld af iordunni vppa huertt äar ij malnytu kugilldi – DI XI, 597. 1550: Arnór bóndi, sem þá bjó í Arnarbæli … Bsk II, 352. 1575: Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. … Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. DI XV 643.
[Um 1600]: Síra Sigurður Oddsson, vel lærður maður, hélt Arnarbæli í Ölvesi og átti Brynhildi dóttur Ara Magnússonar [Sigurður var sonur sr. Odds Stefánssonar og Ingibjargar Eiríksdóttur Eyjólfssonar Einarssonar og Helgu Jónsdóttur biskups Arasonar] – Bsk II, 399, 640. [um 1670]: Katrín Kortsdóttir [systir Þorleifs] kvinna síra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, Bsk II, 625, 639. 30.4.1675 seldi konungur Henrik Bjelke m.a. 5 hdr í Arnarbæli, en hann seldi strax aftur Árna Pálssyni – JJ, 444, JÁM XIII, 500.
Arnarbæli eftir jarðskjálfta 1896.
„Arnarbæli er ein af stærstu jörðum í Ölfusi, 60 jarðarhundruð. Arnarbæli og fylgijarðir standa á stórum hól, sem allur er gróin tún. […] Arnarbælinu fylgdu „kot“ sem presturinn hafði umráð yfir, leifar af fátækraframfæri kirkjunnar á liðnum öldum. Vitað er um nöfn á 11 kotum, þar af eru 6 komin í eyði fyrir síðustu aldamót: Bjálkhús (Búlkhús), Litli-Krókur, Kaldakinn, Garðshús, Sigurðarhús. Þessi kot eru komin í eyði fyrir 1703. Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót. Réttindi kotanna voru túnblettur á hólnum (1 ha.), slægjustykki í „flóðum“ (kúgæft hey) og „rimi“ í útjaðri.“ SB III, 382-383. Ekki er búið í Arnarbæli og öll hús þar hafa verið rifin. Íbúðarhúsið var brennt á seinnihluta 20. aldar. Jörðin er nytjuð.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1578 m2.
„Arnarbæli hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi gegnum aldirnar. Þar var snemma kirkja, […] Ýmsir þekktir menn úr sögunni bjuggu í Arnarbæli. Tumi Sighvatsson um 1200 og Þorvarður Þórarinsson 1289. Þar hefur hann skrifað Njálu, ef trúa má tilgátum Barða Guðmundss. Árið 1510 lætur Stefán Jónsson dæma jörðina, sem var í konungs eign, til handa dómkirkjunni í Skálholti, vegna vanskila bóndans við kirkjuna.
Arnarbæli 1907.
Prestsetur (Beneficum) verður hún 1580. […] Arnarbæli: (Staðurinn) hefur alltaf staðið á sama stað og nú,“ segir í örnefnaskrá. Í Fitjaannál segir: „En sá stóri hræðilegi skeði þann 20. Aprilis […] Í þeim jarðskjálfta hrundu niður í Ölfusi 24 lögbýli og að auki hjáleigur margar. En þessi bæir niðurhrundu gersamlega: Staðurinn Arnarbæli allur (nema kirkjan, hver þó mjög laskaðist) […]“. Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Bærinn er syðst á stórum hól, Arnarbælishól, og hjáleigur og minni býli raðast þar umhverfis eins og kragi. Bærinn er á Ölfusárbökkum en þar er ekki flóðahætta sökum þess hve hátt uppi bæjarhóllinn er. Þar sem bærinn var er upphækkað plan, norðan við kirkjugarð 002. Undir hluta af þessu plani stóð bærinn og sést enn í hleðslur af skúr sem tengdist húsinu. Gyðríður Einarsdóttir, heimildarmaður, sagði að íbúðarhúsið sem var byggt 1897, hafi staðið svotil beint fyrir ofan kirkjuna en litlu vestar en kirkjugarðurinn er hóll sem hefur greinileg ummerki eftir byggingar og má finna þar steyptan sökkul, mikið af grjóti og steypubrotum. Þetta eru útihús, útihús og útihús. Þeim var öllum rutt út fyrir árið 2000. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er teikning af bænum frá 1890.
Þar sést að breytingar verða á bæjarskipuninni, líklega í kjölfar jarðskjálfta árið 1896. Á ljósmynd sem tekin er af bænum árið 1907 sést að hvorki íbúðarhúsið og útihúsin eru á sama stað, þau voru færð til á bæjarhólnum. Eldra íbúðarhúsið var vestar og útihúsin voru norðar og norðaustar, þar sem yngra íbúðarhúsið var síðar reist.
Fyrir norðan bæjarhólinn er malarvegur, á sama stað og traðir. Til annarra átta er slétt, ræktað tún. Hlutar þess eru í órækt. Túnið er í aflíðandi halla til suðurs.
Bæjarhóllin er 90×40 m og snýr norðvestursuðaustur. Hann er 0,5-5 m á hæð og algróinn. Hann er lægstur til norðurs, upp brekkuna en hæstur til suðvesturs og suðausturs. Það er búið að slétta yfir svæðið og öll mannvirki horfinn.
Íbúðarhúsið var byggt 1897 og sést því bæði á bæjarteikningunni og túnakortinu. Íbúðarhúsið var uppi á „planinu“ sem þarna er. Á loftmynd sem tekin er um 1998-2000 sést eitt 20. aldar útihús vestarlega á bæjarhólnum. Kveikt var í íbúðarhúsinu í stað þess að rífa það og var það umdeilt á þeim tíma. Hér er greinilega mikil mannvist ennþá undir sverði.
Arnarbæliskirkja (kirkja)
Arnarbæliskirkja.
c. 1200: Kirknaskrá Páls. DI XII 8
c. 1200: Magnús bóndi þar, Páll bp á yfirreið, rigning; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339 [gæti fullt eins átt við Arnarbæli undir Eyjafjöllum].
1382-91: XCIV. Arnarbæle. Kirkia j Arnarbæli j Avlfvesi er helgud hinum heilaga Nicholao. Þar er heimilisprestskylld oc diakns. Hun a .xvj. kyr. fiordung j Skeidi. fiordung j Skierdingarholmi. tiolld vmm kirkiu. messuklædi tvenn .iij. alltarisklædi .ij. kantarakapur. psalltara oc .ij. Bækur adrar. kaleik. kiertistikur .ij. sacrarium mvnnlaug. krossar .iij. Nichulasskriptt. merki. glodarkier. vattzkietill. Mariuskriptter .ij. kluckur .v. fonts vmmbuning .iiij. merkur vax. Reiknadist portio Ecclesiæ vmm .vj. är med[an] Erlingur sat .c. oc .xij. alnar a hveriu äre. DI IV, 97-98.
1397: Hun aa ad auk þess sem j maldaga herra Michels er skrifad .v. hross vc. er Biarni gaf kirkiunni i sitt Testamentum og þar j eitt hross. portio Ecclesiæ vmm .ij. är næstu medann Jon hefr bued .c. oc ix. Alnar Enn vmm .iij. är medann Arnvidur bio .ij. merkur aa hveriu äre. vmm næstu .v. ar fyrr er Sturli atti .xij. aurar aa hveriu are. gaf Jon kirkiunni gridungh; DI IV, 97-98.
11.2.1487: Jörðin Alviðra í Ölfusi er í Arnarbæliskirkjusókn. DI VI, 589 30.6.1501: [Dómur klerka og leikmanna dæmir] um jnstædu porcionem og mortuarium kirkiu hins heilaga nikolai biskups j … rnarbæli og um þann reikningskap annan fleira sem þa hafdi upp a fallith um kirkiuspell. tiunder og afgiolld. taulldum uær peninga uoxt j kirkiusokninni. nu um nalægan ärgang og reiknadizt upp a atian aura kirkiunnar pocio þetta arit. Jtem kuomu fyrir os þesser menn sem suo heita. kolbeirn biarnarson og bergsteirn oddzson og saugduzt hafa ut lukt og afhent kirkiunar peninga j arnarbæli epter odd oddzson. xxx. hundrada j kum og äum. natum og saudum. suo at j þessum. xxx. hundrada uoru ecki meir enn .iij. hestar. uoru til uitnis um þenna peninga lyktning gudbrandr sygurdson og gudmundr þorsteinsson og handfestu biskupinum at sueria hier epter fullan bokareid nær sem þurfa þiker. Jtem litu uær a kirkiu uidin þann sem nu er til og giordu uær hann fyrir cccc. Enn ef kirkian uæri sup upp giord sem henni somdi strafanarlaust þa leitz oss hun mundi verd. xv. hundrut. Jtem hafdi og fallit j plagunni. cccc. j mortuarium. Jtem reiknadiz porcio uppa summeran um .xxx. ära og vj. ar. tolf hundrut og. xx. og vi aurar betur. Enn jnstædan syndizt eingin suo sem stod og adur hafdi med kirkiunni golldit uerit. Jtem j reikningskap biskupsens j tiunder og sekter einfalldar. uoru reiknut .xx. hundrut og halfri maurk midr. Enn allur saman talin reikningskapur kirkiunar og biskupsen[s] upp a arnarbæli reiknadizt. xvi. hundrut og .lxxx.
hundrada og er þa þo oreiknut biskups afgiolld um .x. är. Og ad heilax anda nad til kalladri og suo proffudu og fyrir oss komnu dæmdum uær jordina arnarbæli j auluose alla at frateknum. v. hundrada parti kongsins j greindri jordu. fallna uera kirkiuni og biskupinum j reikningskap. og .xvic. meir en jordin er dyr til. med þeim skilmala at þeir sem eigendur uerda jardarenar leysi hana til sin med þrennum saulum hin fystu j næstum fardaugum komendum aunnr at mikaels messo. hin þridiu at audrum fardaugum. og skal gialldazt j kugillda uirdum peningum heima j arnarbæli jnnan greindz tima. Enn þat æfinlig eign kirkiunar og biskupsens sem eigi er leyst at siduztum saulum. og eignazt suo micid j jordo huort fyrir sig sem tala rennur til epter fiarmagni … DI VII, 567-69 [Þjsks Bps A, Fasc XI, 14, frumrit; AM Apogr. 2441 – AM: Af þessu Arnarbælisbrefi 1501 siest, ad Arnarbæli var þá allz ad dyrleika 80c. atti kongur þar i 5c enn bondinn 75c.]
1575: CLXXXIX. Arnarbæle. Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. Jtem Jnnan kirkiu. ein messuklæde. ein klucka. ij koparpijpur. metaskäler einar. hialmsbrot. eirn silfur kaleikur. alltarisdukur. eirn Jarnkall. Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. Jtem fastagötz Lxxc. Lausagötz jc. hundrada. og xxxc. betur. Máld DI XV 643.
1708: Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja.“
16.2.1907: Strandarsókn í Selvogi lögð til Arnarbælis; (PP, 93) [lög].
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í Arnarbæli er kirkju fyrst getið um 1200. Hún var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara, og var ætið í umsjá prestsins. […] Kirkja stóð þar til 1909 þegar sóknir Arnarbælis og Reykja voru sameinaðar og kirkja reist á Kotströnd. Enn sér fyrir kirkjustaði og grafreit en tímans tönn vinnur að því að útmá það og er lítið við því hamlað.“ „Þar var snemma kirkja, getið fyrst í máld. Páls biskups um 1200. […] Prestsetur (Beneficum) verður hún [Arnarbælisjörðin] 1580.
Kirkja í Arnarbæli var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara. […] Kirkja er í Arnarbæli til 1909, að sameinaðar voru Arnarbælis og Reykjasókn og kirkja reist að Kotströnd. Síðasti prestur í Arnarbæli var Sr. Helgi Sveinsson, sem flutti þaðan í 1943 í Hveragerði. Þar með var sögu prestsetursins lokið,“ segir í örnefnalýsingu. Kirkjugarðurinn er merktur á túnakort frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kirkjan er 25 m sunnan við bæ, neðan við bæjarhólinn á „stalli“ þar. Tóft kirkjunnar er í miðjum kirkjugarðinum en hann er afgirtur með girðingu.
Kirkjugarðurinn er grasivaxinn og þar eru þrír járnkrossar. Minnismerki úr stuðlabergi er inni í tóftinni. Umhverfis kirkjugarðinn eru ræktuð tún og Ölfusá er skammt sunnar, árbakkinn er brattur og sandur að ánni. Tóftin er 9×6 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er útflött og greinilega verið sléttað úr henni ásamt leiðum innan kirkjugarðsins. Það ber lítið á tóftinni til norðurs en suðurveggurinn er 0,4 m á hæð og þar glittir í þrjá hornsteina. Engin dæld er inni í þústinni.
Sigurðarhús (býli)
„Sigurdarhús. Þriðja hjáleiga í auðn yfir 20 ár. […] Túnið og engið að mestu brúka nú Nethamrar.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Sigurðarhús: Kot, stóð við Ullarklöpp. Ölfusá hefur brotið landið, svo að nú sést ekkert eftir af því (Í eyði yfir 20 ár. Túnið og engið nota Nethamrar. Jarðab. A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Sigurðarhús voru 150 m suðaustan við bæ 001 en öll ummerki um bæinn eru að öllum líkindum horfin vegna landbrots.
Slétt, grasivaxið tún er meðfram Ölfusárbökkum. Árbakkinn er aflíðandi, gróinn og 0,2-0,4 m á hæð.
Engin ummerki býlisins eru varðveitt á yfirborði.
Bjálkhús (býli)
Bjálkhús.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Búlkhús. Fimmta hjáleiga, hefur í auðn verið yfir 20 ár. […] Túnið hálft brúkar heimastaðurinn, en hálft túnið og allt engið brúkar hjáleigan Stöðlar.“ “Fyrir vestan staðinn, í túninu, hefur býli verið, nú fyrir nokkrum árum í eyði, er Búlkhús var kallað. Þar var farmur tekinn af því skipi og öðrum fleirum, er Ögmundur biskup lét til Noregs sækja timbur á.” Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu segir. „Sagnir herma að hafskip hafi silgt upp Ölfusá að Arnarbæli og bendir nafnið Bjálkhús (Búlkhús) til þess að farmur hafi verið borinn af skipi þar.“ Í örnefnalýsingu segir: „Bjálkhús: Grænn hóll í Bjálkhústúni, með laut í. (Búlkhús: í eyði yfir 20 ár, 1/2 notar Staðurinn, hitt og engið nota Stöðlar. Jarðab.A.M.),“ Bjálkhús eru 170 m VSV við bæ og 15 m VSV við traðir. Bjálkhús eru norðvestarlega í heimatúninu og sést bæjarhóllinn vel.
Allt umhverfis bæjarhólinn er slétt, ræktað tún. Það er slegið en hluti þess er komið órækt. Bærinn er uppi á hólbrúninni í aflíðandi halla til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðurs, í átt að Ölfusá.
Bæjarhóllinn er 45×35 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hóllinn er 0,3-0,5 m hæð, bratt er niður af honum sunnan við bæjartóftina. Á hólnum eru ennþá bæjartóftir, bæjarhúsin voru sunnar og hey-/kálgarður til norðurs.
Skottusteinn (þjóðsaga/draugur)
„Skottusteinn. Var í bakkanum vestast í Bjálkhústúni. Horfinn nú, grafinn í sand. Þar var Arnarbælisskotta sett niður,“ segir í örnefnalýsingu. Í bók Árna Björnssonar, Íslenskt vættatal segir: „Arnarbælisskotta. Jón Daðason var prestur í Ögurþingum og varð þar mannsbani. Eftir það varð hann prestur í Arnarbæli í Ölfusi 1642-1676, en Vestfirðingar sendu til hans kvendraug sem að endanum varð honum að bana. Skotta settist síðan að í Arnarbæli. Hún hafði prjónaskotthúfu á höfði og sat í koluskugga á vökunni, tafði fyrir og skemmdi verk manna. Ætla varð henni auðan fjósbás til að sofa í, ella gerði hún einhverja skömm af sér. Henni var að lokum komið fyrir seint á 18. öld við stein í Búlkhúsósi.“ Skottusteinn var um 200 m norðvestan við bæ og 40 m vestan við Bjálkhús.
Steinninn sést ekki lengur enda grafinn í Bjálkhúsósi ef sagan reynist rétt. Hann er skammt vestan við heimatúnið, við Ölfusá.
Vestan við heimatúnið er óræktað tún. Þar er mikill sandur sem víða kemur uppúr sverði og það er nýtt til hrossabeitar. Áður fyrr runnu hér fjölmargir lækir en það breyttist með framræslu.
Þingholt (þingstaður)
Þingholt.
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1905 segir: „Norður frá túni í Arnarbæli er lágt holt, er Þingholt heitir. Holtið er aflangt frá norðri til suðurs, og er það upplásið eftir endilangri miðjunni, en óblásið utan með. Þar eru á því margar tóftir, en flestar eru þær frá seinni tímum: það er fjárhústóft ein nýleg og margar stekkjartóftir, misgamlar að sjá. Aðeins ein tóft er þar verulega forn, og er hún svo sokkin og óglögg, að ekki er hægt að mæla hana. En allstór er hún að sjá og eigi ólíklegt til að vera forn búðartóft, þó að það verði nú ekki fullyrt, þar eð eigi sjást fleiri á hennar reki.
Þær geta nú verið eyðilagðar, hver veit hve margar, bæði verið blásnar burtu, og líka verið teknar upp í hinar nýrri tóftir. En þótt það geti verið, og þótt, meira að segja, engin ólíkindi séu á því þá vantar samt vissuna um það.“ Í friðlýsingarskrá segir: „Arnarbæli, Forn og mikil tóft á Þingholti, sem er norður frá bænum.” Tóftin á Þingholti var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927, sem kvöð á landi Arnarbælis.
Þar er nú einungis ein tóft rúman 1,1 km norðan við bæ og rúmum 500 m norðan við áveitu.
Á Þingholti er nú ræktað tún og öll mannvirki horfin fyrir utan hina meintu þingbúð. Tóftin er á grónu svæði rétt sunnan við túnið. Fallin vírgirðing er þar á milli. Ekkert friðlýsingarskilti er við tóftina.
Tóftin er á háum hól sem að mestu er uppsöfnuð mannvistarlög. Tóftin er 17×15 m að stærð, einföld og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er 0,3 m á hæð og tóftin er uppi á honum. Hún er opin til norðvesturs og er einföld. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, 5-7 m á breidd og algrónir. Hvergi sér til hólfaskiptingar.
Garðhús (býli)
„Gardhús. Önnur hjáleiga, hefur í auð legið yfir 20 ár.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Garðhús: Austan í hólnum, sér enn fyrir. (Í auðn yfir 20 ár… Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar þessi bær var, fyrir utan að hann var austan í Arnarbælishól.
Svæðið sem um ræðir er nokkuð stórt og allt eins líklegt að útihús frá Nýjabæ og Stöðla séu á sama stað. Einnig kemur til greina að bærinn sé innan sumarbústaðarlands í eigu Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Sá bústaður er suðaustarlega í hólnum, fast við vegum rétt áður en komið er að bæ. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.
Holt (býli)
Holt.
„Holt: Þurrabúð, stóð á Bæjarholtinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Holt var þurrabúð sem stóð á holtinu norðan við Arnarbælishverfi. Sigurður Þorbjörnsson og Ingigerður Björnsdóttir bjuggu þar 1896-1903. Þá komu þangað Jón Jónsson og Signý Pálsdóttir og voru þar til 1903 -1935.“ Holt dregur nafn sitt af Bæjarholtinu og var þar nánast fyrir miðju. Bæjarholtið er stakstætt, lítið holt norðan við Arnarbælishól. Bærinn er á austurhluta holtsins en ekki er vitað hvort að eldri búseta var þarna þegar bærinn er byggður 1896.
Bæjarholt er tæplega 200×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það er mýrlent allt umhverfis það nema til suðvesturs, þar er hryggur sem sameinast Arnarbælishól. Allt holtið er ræktað en túnið er í órækt og nýtt til hrossabeitar. Ekki sér til fleiri mannvirkja við bæjarhólinn eða á holtinu. Bæjarhóllinn er 28×20 m að stærð og snýr austurvestur. Hann er brattur til norðurs og bakkarnir þar eru fremur háir. Hann er 0,5-1 m á hæð og algróinn. Til suðurs lækkar hóllinn og fjarar út. Hvergi sér til mannvistar á yfirborði, fyrir utan nokkra útveggi íbúðarhússins sem var byggt um 1930. Hlutar af útveggjunum sjást enn, þeir eru 2,5 m á hæð og steinsteyptir. Bárujárn og annað rusl liggur „inni“ í húsinu en þakið er farið ásamt innri veggjum.
Kerlingagöng (þjóðsaga)
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Hjá Arnarbæli í Ölfusi heitir á einum stað Kerlingagöng […] [þangað] fóru konur sem ekki treystust til að fara krossför alla leið til Kaldaðarness […] [þaðan] mátti sjá Kaldaðarnes fyrir austan Ölfusá þar sem krossinn var sem mest helgi og trú var höfð á páfadómi. En því sóttu menn eftir að sjá krossinn að því var trúað að menn fengju af því lækningu meina sinna.“ Í örnefnaskrá segir: „Nafnsins er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar, II, bls. 56. Þekkir enginn nú. Gömul munnmæli herma að konur í Arnarbæli og Kaldaðarnesi hafi notað sama klappið og henst því á milli sín.“ Í tímaritinu Sögu frá 1970 segir: „Heldur litlar sagnir um dýrkun á krossinum helga í Kaldaðarnesi geymdust fram á 19. öld. Þó eru tvö örnefni tengd dýrkuninni, en það eru Kerlingagöng hjá Arnarbæli í Ölfusi og Kvennagönguhólar. Frá báðum stöðunum mátti sjá Kaldaðarnes, en það var trú manna, að það dygði til að fá bót meina sinna, og á þessa staði fóru konur, sem ekki treystust alla leið til Kaldaðarness. Virðist þarna um gamlar sagnir vera að ræða, því að Jón Halldórsson prófastur segir í Biskupsannálum sínum, að mönnum fyndist það duga sér til meinabótar og huggunar að komast þó ekki væri nema á Kambabrún.“ Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.
Grímshús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 17108 segir: „Ellefta hjáleiga, hefur í auðn legið undir 20 ár. […] Tún og engi er ekkert, hafinn brúkast af staðnum.“ Í örnefnalýsingu segir: „Grímshús: Engar upplýsingar hvar hafi verið.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.
Nethamrar (býli)
Nethamrar.
„Fyrsta hjáleiga af Arnarbæli.“ JÁM II, 411. „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ SB III, 385. „Nethmaratún: Austast, mill árinnar og vegarins.
Innanvið hektar að stærð. Ölfusá hefur brotið það mjög í manna minnum.“ Ö-Arnarbæli a, 2.
Ekki til túnakort en bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907.
„Nethamrar: Eitt „kotið“, syðst og austast í hólnum [svo],“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, þá var bærinn í norðvesturhorni bæjarhúsanna, kálgarður til suðurs og aðar sambyggðar byggingar fyrir austan og vestan bæinn. Túngarður lá fast austan við bæinn. Stafnar snéru til suðurs að ánni. Engin mannvirki eru nú á bæjahólnum né ábúð jörðinni. Það er lítið sem ber bænum vitni á yfirborði. Í dag er þetta ríkisjörð líkt og Arnarbæli.
Slétt, ræktað tún nýtt til beitar. Traðir lágu fast norðan við bæinn, þar er nú malarvegur að Ósgerði og Arnarbæli.
Nethamrar voru um 250 m austan við Arnarbæli og 90 m sunnan við Ósgerði. Bæjarhóllinn er 34×28 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er sléttur, 0,2-0,3 m á hæð en hvergi sér móta fyri mannvist á yfirborði. Til norðausturs og austurs sést glitta í steypu, líklega úr útihúsum sem sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Hér er búið að slétta mikið yfir bæjarhóllinn og taka jarðveg, það glittir í klöpp ofan á bæjarhólnum.
Hóll (býli)
Hóll.
„Hóll. Fjórða hjáleiga.“ JÁM II, 412. „Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót.“ SB III, 383. Ekki er föst ábúð á jörðinni né vitað hvar hún stóð nákvæmlega. Mastur sem er uppi á háhólnum er þó líklega byggt í bæjarhólinn. Ekki til túnakort né er hann sýndur á bæjateikningu danskra landmælingamanna 1907.
„Hóll: Kot, stóð upp á hólnum, þar, sem hann er hæstur, norðaustur af Arnarbæli og átti tún suðaustur í hólnum. (Í byggð, fóðrar 7 kýr. Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1926 byggðu þarna á holtinu Þórður Magnússon frá Ósgerði og Arnþrúður Hannesdóttir. Þau ræktuðu þarna blett í kringum hús sitt. Þennan blett nefndi Þórður Hól (…) nafnið er dregið af koti sem áður stóð á háhólnum norðan Arnarbælis.“ Ekki er vitað hvar nákvæmlega yngri bærinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og eldri Hóllinn. Hóll var 70 m norðaustan við Arnarbæli og 30 m norðaustan við kálgarð. Mastur er uppi á háhólnum, líklega á sama stað og bærinn var. Ekki er vitað hvenær ábúð féll niður, áður en yngra býlið er byggt 1926. Í manntölum 1835-1870 er ábúð á jörðinni. Eftir það fer bærinn í eyði, líklega á millu 1870-1880.
Mikið rask er uppi á háhólnum. Þar er mastur ofan á litlu húsi og malarvegur að því. Mastrið og húsið eru á steyptum grunni. Allt umhverfis er ræktað tún, nýtt til hrossabeitar.
Bæjarhóllinn er 38 x 26 m að stærð og snýr austur-vestur. Stafnar bæjarins snéru líklega til suðurs, í átt að Ölfusá. Til suðausturs sést glitta í grjóthlaðinn kant, hann er 1 m á hæð og bogadreginn. Fyrir norðan mastrið er einnig hóll, líklega hluti af bæjarhólnum. Þar sjást ummerki um mannvist, járnrör og grjót standa þar upp úr hólnum. Tún Hóls tilheyrir nú sumarbústaðalandi Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Vírgirðing liggur yfir austurhluta hólsins og þar er búið að planta miklu magni af trjám. Hvergi sjást ummerki um greinilegar tóftir á yfirborði.
Krókur/Stóri-Krókur (býli)
Krókur – túnakort 1918.
„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ JÁM II, 413. Ekki er föst ábúð á jörðinni, þar er nú sumarbústaður og trjárækt í heimatúninu.
1917: Tún 1.1 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 747 m2. „Krókstún: Vestan í hólnum, frá gömlu tröðunum og norður að veitu.“ Ö-Arnarbæli a, 3.
„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708.
„Krókur: Stendur enn á sama stað og áður (Stóri-Krókur í ábúð 1/2, hitt notað frá Stöðlum, fóðrar 9 kýr, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnaskrá. Krókur er um 150 m NNV við Arnarbæli og 50 m sunnan við Stöðla. Bærinn var uppi á hólnum, vestan við traðir sem lágu áfram að Stöðlum og Nýjabæ. Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Kálgarður var sambyggður bænum til vesturs og suðurs og útihús til norðurs og norðausturs. Kálgarður Stöðla var sambyggður útihúsunum að norðan. Öll bæjarhús hafa verið rifin og lítil ummerki um bæjarhól sjást á yfirborði. Þarna er nú sumarbústaður og gróinn bakgarður honum tengdur með tilheyrnandi jarðraski. Ekki er lengur ábúð á jörðinni. Samkvæmt túnakorti frá 1918 var bærinn efst í túninu til norðurs, nánast fyrir miðju. Túnið var allt fyrir sunnan bæinn og sést það einnig á bæjarteikningunni, afmarkarð með gaddavír að öllum líkundum.
Bakgarður sumarbústaðarins er gróinn. Þar er búið að planta miklu af trjám og gera sléttar grasflatir inn á milli.
Erfitt er að greina stærð bæjarhólsins á yfirborði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Sjöunda hjáleiga, hefur í auðn verið síðan fardaga. […] Grasnautn alla brúkar áðurnefnd húskona á Stöðlum.“ „Litli-Krókur: Stóð hjá Stóra-Króki (Í eyði frá síðustu fardögum… Jarðab.A.M),“ segir í örnefnalýsingu.
Litli-Krókur er 30 m sunnan við bæ og rúmum 100 m NNV við Arnarbæli. Staðsetning býlisins er sýnd á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, syðst í túni Króks. Umrætt svæði er í miðri skógrækt, miklu af trjám hefur verið plantað á merkjum við Arnarbæli með tilheyrandi jarðraski. Ekki er vitað hvernig stafnar bæjarins snéru, líklega til austurs eða vesturs sé tekið mið af lagi hólsins.
Bæjarhóllinn er á hólhrygg sem snýr NNV-SSA. Hóllinn er brattur til norðurs en fjarar út til annarra hliða. Bæjarhóllinn er um 18 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Hliðar hans eru aflíðandi og grónar.
Erfitt er að greina nákvæma stærð bæjarhólsins á yfirborði.
Stöðlar (býli)
Stöðlar.
„Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu. Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni LitlaKróki.“ JÁM II, 412. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1961 féllu jarðnot Stöðla til Króks.
Ríkissjóður á jörðina.“ SB III, 384. Ekki er búið á jörðinni, þar er sumarhús.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 11/12 slétt. Garðar 720 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu.
Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni Litla-Króki.“ Í örnefnalýsingu segir: „Stöðlatún: Suðvestan í Hólnum, norðan vegarins vestur á engjar að gömlum tröðum, sem lágu frá Króki og niður að Bjálkhúsós. […] Stöðlar: (í Stöðlum) Stóðu áður norðan Króks, áfast við (í ábúð, fóðrast 9 kýr, Jarðab.A.M.).“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir
bæir: Stöðlar, Nýibær, […].“ Stöðlar eru sýndir á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Bærinn var uppi á háhólnum, milli Króks og Nýjabæjar. Stöðlar eru rúmum 200 m norðan við Arnarbæli og um 50 m norðan við Krók. Bærinn var austan við veginn sem lá upp að Nýjabæ, kálgarður var fyrir sunnan, suðvestan og norðvestan bæinn. Túnið var fyrir suðvestan bæinn og það var stækkað til vesturs á milli þess sem bæjarteikningin og túnakortið er gert.
Bæjarhóllinn er horfinn, þarna eru nú sléttar grasflatir, skógrækt og skjólbelti úr öspum og birki. Sumarbústaður er nú á vesturhluta bæjarhólsins og öll hús horfin. Miklar breytingar hefur átt sér stað frá því að ábúð var hætt á jörðinni 1961.
Bæjarhóllinn sést ekki né ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði. Hvar nákvæmlega bærinn stóð er ekki vitað, líklega var það skammt austan eða norðaustan við sumarhús sem þarna er nú.
Umhverfis sumarhúsið er búið að planta trjám og gera grasflatir.
Nýibær (býli)
Nýibær.
„Níunda hjáleiga.“ JÁM II, 413. „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1950. Króksbóndi fékk þá túnið.“ SB III, 386. Ekki er föst ábúð á jörðinni og hún innan sumarbústaðalands á Króki og Stöðlum.
1917: Tún 1.6 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 910 m2. „Nýjabæjartún: Norðurbrekkan á hólnum“ Ö-Arnarbæli a, 3.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Níunda hjáleiga.“ „Nýjibær: Stóð norðast í hólnum, sér fyrir bæjarstæði.
Nýlega kominn í eyði. Síðasti ábúandi, Björn Sigurðsson, bróðir heimildarmanns,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1960. Krókur fékk þá túnið.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […].“ Nýibær er 270 m norðan við Arnarbæli og 100 m NNA við Stöðla. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kálgarður var sambyggður bæjahúsunum til suðurs og vesturs. Öll hús á jörðinni hafa verið rifin en þau sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Túngarður lá að bænum til norðurs. Hóllinn er sléttur og bærinn var nyrst á honum. Þarna eru nú tún og skógrækt í tengslum við sumarbústaði sem þarna eru.
Bæjarhóllinn er 16×10 m að stærð, snýr norður-suður og er 0,5 m á hæð. Hóllinn er mikið raskaður, bæði vegna niðurrifs, sléttunar og skógræktar. Fyrir sunnan hólinn hefur mikið af trjám verið plantað, aðallega öspum og birki. Bæjarhóllinn er algróinn en uppi á norðurhluta hans er búið að stafla miklu af trjágreinum. Hóllinn skagar fram í brekkubrúnina og ennþá er líklega mannvist undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs að öllum líkindum.
Kaldakinn (býli)
Kaldakinn.
„Kaldakinn: Smáhóll norðaustan í hólnum, syðst í Nýjabæjartúni. Þar stóð kot (í eyði síðustu árdaga, staðurinn notar túnið),“ segir í örnefnalýsingu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Tíunda hjáleiga, bygð fyrir 2 árum. Nú í eyði síðan fardaga. […] Túnið er brúkað til slægna frá staðnum.“ Þegar Jarðabókin er gerð í ágúst en jörðin búin að vera í eyði um 2 mánuði. Ekki er vitað hvort að býlið byggðist upp aftur, hafi það eins verið í byggð í 6 ár er ekki mikilla minja að vænta. Ekki er vitað með vissu hvar Kaldakinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og útihús. Kaldakinn var tæpum 60 m suðaustan við bæ og 15 m norðan við útihús. Kaldakinn var á brekkubrúninni, hóllinn lækkar til austurs frá bænum. Gróið tún í halla til austurs. Svæðið er innan sumarbústaðalóða og þar eru víða skjólbelti og grænar flatir. Túnið er ekki nýtt.
Tvær þústir komu til greina sem Kaldakinn.
Bakkárholt (býli)
Bakkárholt.
30 hdr. JÁM II, 405. 12 ½ hdr. 1847, JJ, 74. „Jarðdýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum. NB. Þessi jörð er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr XX hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr XXX hdr, er kallað Partur (ÁR507] […]“ JÁM II, 405. Bærinn stendur á holti og þar var túnið. Vestur af því eru blautar engjar nema bakkar Gljúfurholtsár. […] Mótak gott. Selstaða var í Sogni og beit í Gljúfri. Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ SB III, 378.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1460 m2.
Bærinn á Bakkarholti stendur enn á samnefndu holti. Bærinn er sýndur, nánast í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918.
Íbúðarhús var byggt 1908 – 1910 á bæjarhólnum og núverandi íbúðarhús þar rétt norðar, árið 1944. Það hús er ónýtt og fór bærinn úr ábúð árið 2016 þegar síðasti ábúandi flutti burt. Útihús voru reist á 20. öld í suðurhluta bæjarhólsins en þau voru rifin í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Þau útihús sjást á loftmynd frá árunum 1998 – 2000. Þegar „stóra hlaðan“ var rifin komu í ljós minjar í gólfi hennar og eru þær ennþá varðveittar þar undir sverði. Þetta eru minjar líklega allt frá landnámstíma að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og útihúsin röðuðust til norðurs á túnakorti frá 1918.
Bakkárholt – túnakort.
Bærinn hefur alltaf staðið á þessum slóðum að sögn Margrétar.
Núverandi íbúðarhús var um 30 m norðvestan við úthús frá 20. öld sem reist voru í suðurhluta bæjarhólsins. Þar er slétt, grasivaxið svæði og þar norðar er „hóll“ sem er að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög þrátt fyrir mikið rask. Allur bæjarhóllinn er mikið raskaður og þar er nú slétt, gróið svæði. Bæjarhóllinn er 60 x 40 m að stærð og snýr austur-vestur. Á túnakortinu eru bæjarhúsin til norðurs en svo hefur ekki alltaf verið sé tekið mið af stærð bæjarhólsins. Bærinn náði mögulega allt fram á brekkubrúnina fyrir sunnan 20. aldar útihúsin að sögn Margrétar. Ljósmynd af bænum er til í fórum Margrétar en erfitt er að sjá hvar húsið var nákvæmlega, mikið rask er sem fyrr segir á bæjarhólnum. Erfitt er að greina náttúrulega uppsöfnun mannvistarlaga á yfirborði en nóg er af þeim undir sverði.
Þegar hlaðan var rifin komu m.a. í ljós hlóðir og ummerki um langeld. Margrét Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur, skoðaði þessar minjar árið 2009. Núverandi hóll sem sést á yfirborði er að mestu ummerki um mannvist tengd 20. aldar mannvirkjum. Víða má sjá timburleifar, járnarusl og tilfallandi brak. Bæjarhóllinn er 0,5-1 m á hæð, á köflum eru brattar brúnir þar. Alls svæðið er mjög gróið, aðallega gras og njóli.
Gálgaklettar (aftökustaður)
Gálgaklettar.
„Gálgaklettar. Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, en hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni,“ segir í örnefnalýsingu. Gálgakletta er getið í Lýsingu Ölfus frá 1703 sem birt er í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu. Þetta eru ekki hinir eiginlegu Gálgaklettar að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Þeir eru sunnar og skráðir undir númeri 032 hér í skránni. Þessir klettar fá að njóta vafans og taldir til fornleifa. Þetta er nyrsti hluti Bakkárholtskletta, um 190 m norðan við bæ og 30 m norðan við hestarétt.
Þetta er norðvesturendi Bakkárholtskletta, vestarlega í heimatúni bæjarins. Skoran sem lýst er í örnefnaskrá sést vel en ekki sér til neinna mannvirkja þarna.
Þinglaut (þingstaður)
Þinglaut.
„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum [ÁR-525] og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús [sjá 039] stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“
Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt 015, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.
Borgarkotsmelsrétt (rétt)
Borgarkotsrétt.
Tóft er í svokölluðum Borgarkotsmel, í vesturhluta hans. Þetta land tilheyrði Strýtu eftir að jörðinni var skipt upp. Tóftin er rúmum 30 m vestan við tóft og um 840 m suðaustan við bæ. Tóftin er vestan við hraunhól/hrygg og sést ekki fyrr en að henni er komið. Lag og staðsetning tóftarinnar bendir einna helst til þess að um heimarétt sé að ræða. Gróinn mói. Víða koma klapparhólar og hryggir upp úr sverði. Hóllinn er 2 – 3 m á hæð. Uppblásinn melur er þar á milli. Skammt vestan við tóftina er uppblásið svæði. Þetta svæði er nýtt til hrossabeitar.
Tóftin er 11,5 x 7 m að stærð og snýr norður-suður. Hún skiptist í þrjú hólf og aðrekstrargarður liggur að henni til suðurs.
Gálgaklettar (aftökustaður)
„Gálgaklettar. Stakir klettar nyrzt á Másteinsholti. Þar er nú fjárhús. Ég tel ólíklegra, að þar hafi sakamenn verið hengdir en í hinum Gálgaklettunum,“ segir í örnefnaskrá. Gálgaklettar eru tæpum 600 m suðvestan við bæ og 90 m vestan við tóftir. Þetta eru náttúrulegir klettar syðst á Másteinsholti. Þeir eru innan landsvæðis sem tilheyrir Grænhól í dag.
Fjárhúsin voru byggð um miðja 20. öld. Allt umhverfis þau, og klettana, er ræktað tún, nýtt til beitar.
Gálaklettar eru sunnarlega í klettahól. Þeir eru þrír talsins, sá vestasti hefur klofnað frá hinum tveimur. Hliðar klettanna eru víða beinar og lóðréttar. Þeir eru 1 – 2 m á hæð og gróður er neðst í þeim. Víða má ímynda sér að gálgi hafi verið.
Bakkárholtspartur (býli)
7,5 hdr. JJ, 75. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Þessi jörð [Bakkárholt] er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr 30 hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr 30 hdr, er kallað Partur og stundum Bakkárholtspartur, vide infra.“ JÁM II, 405. „Sandhóll hét áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum. Engjastykki í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því.
Árið 1935 keypti ábúandinn […] gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hét það.“ SB III, 377. Ennþá er búið á jörðinni og er hún ein af síðustu jörðum í Ölfusi með sauðfjárbúskap.
Ekki til túnakort.
Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e.m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. —
Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ „Bakkárholtspartur heitir nú Sandhóll – núverandi bóndi þar, […] keypti samkomuhús með því nafni og flutti bæinn og „Parturinn“ hefur nú fengið það nafn; […] Sandhóll. Hóll norðan Partstúns. Þar byggði Umf. Skarphéðinn samkomuhús, sem notað var til skólahalds og samkomu, þar til þinghús var byggt í Hveragerði 1931. Þá keypti Þorlákur Sveinsson, sem bjó í Bakkárholtsparti, húsið og flutti búsetu þangað; þá hvarf nafnið á Partinum,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sandhóll hér áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum.
Engjastykki var í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því. Árið 1935 keypti ábúandinn, Þorlákur Sveinsson, gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hér það.“ Öll hús sem stóðu þegar bærinn var fluttur 1931 eru horfin af bæjarhólnum.
Það eina sem ber bænum vitni er steypt haughús sem skagar fram til austurs úr brekkunni. Bærinn var þar vestar, uppi í brekkunni, að sögn Páls Auðar Þorlákssonar, heimildamanns. Bæjahóllinn er rúmum 330 m sunnan við Sandhól.
Bæjarhóllinn er í sléttu túni. Það er slegið og nýtt ennþá. Brekkan er aflíðandi, um 10 m há og bærinn var ofarlega í henni. Lagnaskurður úr Partslind 003 liggur fyrir vestan bæjarhólinn en ekki eru sagnir um mannvist hafi komið í ljós við gerð hans. Bæjarhóllinn er um 50 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er sléttur, 0,2-0,4 m á hæð og hliðar hans aflíðandi. Ekki sér til annarra mannvirkja þar. Bærinn var ofarlega í Bæjarholtinu, á halla til austurs. Þarna er smá „stallur“ í brekkunni og var bærinn þar. Haughúsið er í austurhluta bæjarhólsins, þar er slétt plata og er það grafið niður í bæjarhólinn. Platan er 10 x 7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hægt er að kíkja þar inn, op sést til austurs. Ekki eru önnur mannvirki sjáanleg á hólnum eða ummerki um mannvist, gera má ráð fyrir að töluvert sé ennþá undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til austurs að öllum líkindum.
Borgarkot (býli)
Borgarkot.
5 hdr, 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Borgarkot, hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn með heimajörunni og er því óviss. Eigandinn sami og heimajarðarinnar.“ JÁM II, 407.
„Ingólfshvoll. Hét áður Borgarkot en nafninu breytt árið 1931, 5 hundruð úr Bakkárholtstorfunni.“ SB III, 379. Ekki er föst ábúð á jörðinni. Þar er nú starfrækt fyrirtæki, Fákasel. Það sérhæfir sig í hestasýningum, þar er búð og veitingastaður. Einnig er hrossarækt og tamningastöð þarna.
Ekki til túnakort.
„…Borgarkot (heitir Ingólfshvoll frá 1931) austan árinnar; […] Lágt holt er austan gamla bæjarins.
Þar stendur nú íbúðarhúsið og peningshús. (Borgarkotsholt?),“ segir í örnefnalýsingu.
Borgarkot var rúmum 310 m ASA við Bakkárholt, austan við ánna á stakstæðu holti. Holtið er ekki mjög stórt en bærinn var á því miðju og til austurs. Á loftmynd sem tekin var skömmu fyrir 2000 sjást ennþá bæjarhús/útihús á gamla bæjarstæðinu en þau hafa nú verið rifin og mikið jarðrask er á bæjarhólnum. Bærinn var fluttur 130 m suðaustar árið 1963. Ekki er ljóst í hvaða átt stafnar bæjarins snéru. Það er ólíklegt að mikil mannvistarlög séu undir sverði á bæjarhólnum, þar sést í klappir. Holtið er 10 m hátt, 90 x 50 m að stærð og snýr NNV-SSA. Klettar eru efst á holtinu og mynda grónar þústir þar uppi á. Jarðvegurinn er þunnur þar. Umhverfis bæinn var sléttað tún sem nú er komið í órækt og nýtt sem beitarhólf fyrir hross.
Ekki er vitað hvar bærinn var nákvæmlega á holtinu, líklega hefur hann þó alltaf verið á sama stað, austan við útihúsið sem sést á loftmyndinni. Þar er mikið jarðrask, sérstaklega þar sem útihúsin voru vestan í holtinu. Þau voru mögulega niðurgrafin eða að öllum bæjarhólnum hefur verið rutt burtu. Uppi á holtinu er flatt svæði og það lítur út fyrir að uppblástur hafi verið að verki, raskið er slíkt. Það er ekki tilfellið, þetta er manngert rask. Bæjarhóllinn en nánast niðurgrafinn, það er „laut“ þarna og hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga. Það má sjá grjótdreif, steinsteypu norðan í holtinu, bars þangað með vinnuvélum. Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins af þessum sökum. Fyrir austan holtið er nokkuð djúp laut vegna jarðrasks og þar er einnig rusl úr 20. aldar byggingum.
Strýta (býli)
Strýta.
Hjáleiga frá Bakkárholti. 2,5 hdr. 1847. JJ, 75. „Önnur hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn og tíundaður í heimajörðunni.“ JÁM II, 407. „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Landið þar um kring er blautt en jörðin notaði mest landið niður með ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ SM III, 380. Grænhóll notar enn jörðina og hún er nytjuð samhliða þeirri jörð.
Ekki til túnakort.
„Strýta. Gamalt býli á vestri árbakkanum, sunnan Bakkárholts,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Ekki er til túnakort af jörðinni en bærinn var rúmum 220 m sunnan við Bakkárholt og rúmum 210 m suðaustan við Grænhól. Þar sjást engin hús og sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru eða hvar á bæjarhólum bærinn stóð.
Strýta tilheyrir Grænhól, heimatúnið er komið í órækt, er smáþýft og nýtt til hrossabeitar. Það liggur undir miklum ágangi af þeim sökum. Túnið er grasivaxið, í aflíðandi halla til suðurs. Bakkárholtsá rennur fast suðaustan við bæjarhólinn.
Bærinn var á náttúrulegum hól sem skagar til SSA, fram að Bakkárholtsá. Hóllinn er sléttaður og mikið raskaður. Hann er um 30 x 20 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er 0,2 – 1,5 m á hæð, þýfður, grasivaxinn og víða glittir í hleðslugrjót. Bæjarhóllinn er greinilegastur til suðurs, þar er brún hans hæst og brött. Þar er hann jafnframt sléttur og mögulega var kálgarður þar. Hóllinn hækkar til norðurs, líkt og holtið og þar er mikið jarðrask.
Grænhóll (býli)
Grænhóll.
2 ½ hdr. 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Þriðja hjáleiga í eyði, bygð í heimalandi fyrir vel 40 árum, varðaði bygðin inn til næstliðinna 4 ára. Dýrleikinn talinn í heimajörðunni ut supra.“ JÁM II, 407-408. „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landsnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar. Þar voru þurrlendir móar sem nú eru ræktaðir. Engjar góðar, lágu á bökkum Gljúfurholtsár.“ SB III, 380.
1917: Tún 6 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1844 m2.
„Grænhóll. Býli suðvestur af Bakkárholti. Heitir eftir hólnum sem það stendur á,“ segir í örnefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Núverandi íbúðarhús er það þriðja síðan bærinn brann árið 1936. Sá bær var nyrstur, þá var byggt hús rétt sunnar sem var rifið. Núverandi hús er syðst en engu að síður á bæjarhólnum að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns. Húsin hafa smám saman færst til suðvesturs. Ekki er vitað í hvaða átt stafnar bæjarins snéru en mikið rask er á bæjarhólnum og hann sést ekki á yfirborði. Bærinn dregur nafn sitt af stakstæðum hól/holti og er hann ennþá á honum. Bærinn hefur alltaf verið á sama stað en húsin færst til á holtinu.
Þarna er mikið rask vegna bygginga og annarra framkvæmda. Yfir norðurhluta bæjarhólsins er malbikað plan og 20. aldar útihús sem nýtt eru sem hesthús. Í suðurhlutanum er núverandi íbúðarhús og bakgarður þess. Enginn ummerki um eldri húsin sjást. Planið er hæst í miðjunni en erfitt er að áætla hvort þar er vegna mannvistarlaga.
Engin ummerki bæjarhólsins sjást á yfirborði.
Vellir (býli)
„Bærinn á Völlum stendur á litlum hól, sem sennilega hefur myndast af því að bærinn hefur verið byggður þar öld eftir öld.“ segir í örnefnalýsingu. Íbúðarhús – elsti hluti þess byggður 1906 – stendur enn á hólnum. Í suðurmörkum hans hafa verið byggð fjögur lítil sumarhús/svefnskálar. Uppi á hólnum er íbúðarhús vestast með hálfniðugröfnum kjallara en útihús eru sambyggð því að austanverðu, hlaða næst íbúðarhús og fjós austan við hana – þar austan við er hlað. Hólnum sjálfum og umhverfi hans hefur verið breytt mikið og eru þar nú aðkeyrslur og göngustígar, lystigarður að sunnan og vestan en athafnasvæði að austan og norðan.
Stór ávalur hóll, rúmlega 40 m frá austri til vesturs og um 30 m frá suðri til norðurs. Bærinn hefur verið byggður á lágri brún í landslaginu og er hóllinn því mun brattari að vestan og sunnan – þar rúmlega 2 m hár. Hlaðan sem er næst íbúðarhúsinu að austan brann að hluta 1955 og var þá handgrafinn kjallari undir núverandi hlöðu. Eldra fjós þar austan við – forveri þess sem nú er, snéri stafni til suðurs. Þegar grafið var fyrir súrheysgryfju norðan við íbúðarhúsið var komið niðurá hveraleir. Húsin eru nú í eigu Eldhesta.
Vallakirkja (kirkja)
20 hdr. 1706 og 1847. JJ, 75. Reykjakirkjujörð.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. DI IV 96.
1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. DI XV 643-644.
1708: “ Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einninn til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni frá 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“
Jörðin var hluti af Reykjatorfu og átti hluta í óskiptu landi. Núverandi eignamörk ná aðeins yfir næsta nágrenni bæjarins, milli þjóðvegar 1 og gamla farvegar Varmár/Vorsabæjarlands.
1918: Tún 4,2 ha, 4/5 slétt. Garðar 984 m2. Túnið var að mestu náttúrulega slétt og sama gildir um valllendið austan við það, austur að núverandi farvegi Vallalækjar (sem áður rann um túnið). Þar er harðbali og hefur aldrei verið sléttað með vélum. Sunnan við túnið voru engjar, blautari eftir því sem sunnar dró og þar hefur verið ræst fram.
„Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einning til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1706. Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“ Í örnefnalýsingu segir: “ Á hlaðinu framan (suðaustan) við bæinn stendur hjallur. Munnmæli herma að þar hafi staðið kirkja eða bænhús. […] Ég spurði sérstaklega um hvort nokkurn tíma hefði komið nokkuð fram, sem benti til þess að þar hefði verið grafreitur. Heim. vissi ekki til þess. En sú trú er enn við lýði að á þessum stað eigi alltaf að standa hús.“ Hjallurinn hafði norðvesturhorn þar sem nú er hliðstólpi um 4 m sunnan við suðausturhorn hlöðu sem er sambyggð íbúðarhúsi að austan. Kirkjugarðurinn náði innundir núverandi hlöðugrunn.
Nú er malarborið hlað að austan, stétt að vestan en lystigarður með trjáhríslum að sunnanverðu. Þegar hlaðan var undurbyggð eftir bruna 1956 var handgrafinn kjallari undir henni. Komu þá í ljós mannabein syðst í grunninum. Hjallurinn – sem staðið hefur á hinni fornu kirkjutóft – fauk en var endurbyggður á sama stað um 1960. Yngri hjallurinn snéri eins og framhlið húsanna en mjög þröngt hafði verið að komast á milli gamla hjallsins og bæjarhúsanna.
Vallasel (sel)
Vallasel.
„Vallasel: Grasflöt neðan við brekkuna, frá Lækjum og að borholunni,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Vallasel er um 60 m sunnan við fjárborg og 150 m norðaustan við brýr.
Selið er 2 m vestan við upplýsingaskilti neðan við Rjúpnabrekkur. Malarvegur að fyrrnefndri borholu er 2 – 4 m frá tóftinni og ferðamenn fara þar fram hjá við upphaf göngu inn Reykjadal. Selið er í stórhættu vegna staðsetningar skiltisins og ágangs sem því fylgir. Vallasel er á grasivöxnu svæði neðan við brekku. Svæðið er slétt en grjót kemur á stöku stað upp úr sverði. Seltóftirnar eru ógreinilegar, frekar er um rústahól með veggjabrotum en skýra tóft að ræða. Hóllinn er 30 x 12 m að stærð og snýr norður-suður. Framhlið selsins snéri til austurs, enn má sjá op og dyrastein um 2 m til austurs frá fyrrnefndu minjaskilti.
Reykir (býli)
Reykir.
1706. 67 2/3 hdr. Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399. 1847. 27 hdr. JJ, 75. “Maðr bjó at Reykjum í Ölfusi, er Ingólfr hét ok var Arnarson. Setti hann fyrstr manna byggð á Íslandi. Þá var hann á gamals aldri ok sjónlauss. Þar beiddist Ármann gistingar [Ingólfr vísar Ármanni til landa uppi við Hrafnabjörg].” Ármanns saga, Íslendinga sögur II, 423.
“Eftir jól 1237 fór Snorri Sturluson vestur í Ölfus til Gissurar Þorvaldssonar. Hann fór síðan aftur af nesjum suður til Reykja og var með Gissuri um föstuna […] Gissur Þorvaldsson bjó að Reykjum í Ölfusi þau misseri er þeir önduðust Magnús biskup og Guðmundur biskup [1237]”, Sturlunga, 383, 388.
“1238, eftir Apavatnsför […] Gissur var hinn kátasti og reið um kveldið út til Reykja. voru þá sendir menn um Grímsnes og Ölfus eftir nautum og voru rekin til reykja og etin þar um helgina.” Sturlunga, 400 sbr. 406.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. … Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæarland. … Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are. DI ??
1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. … lagdi Sturli til kirkiunnar … firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. DI IV 96-97.
6.5.1446 voru 20 hdr í Reykjum meðal eigna Þorvarðar Loptssonar að honum látnum. DI IV, 679.
Reykir, Stanley 1789.
22.9.1540 er dæmt að Gissur biskup mætti heimta allan reikningsskap Skálholtsstól eftir Ögmund biskup og var jörðin Reykir í Ölvesi þar nefnd sérstaklega. DI X, 561.
1540 fyrirbýðir Gissur biskup öllum að byggja eða bæla jörðina Reyki í Ölfusi “Sakir þess ad kyrckiunnar radi hefur virdst sem reikir j Olvesi væri riettileg domkyrckiunnar Eign og ecki yfer þeigia meiga ad þessi jord drægist vndan heilagri Scalholltz kyrkiu.” DI X, 579 sbr. bréf Gissurar til Ögmundar biskups í byrjun árs 1541 þar sem hann biður Ögmund að leggja sitt til að Reykir drægist ekki undan dómkirkjunni “þui eg vil helst giarnan eiga allt gott vid ydvart folk mier ad vijtalausu.” DI X, 600.
1540 veitir Gissur biskup Oddi Gottskálkssyni alla jörðina Reyki til leigulausrar ábúðar “Suo skulu og fyrrgreindir reyker eiga skipstodu frij j þorlakshofn epter þui sem adur uar j tijd b[iskups] augmundar.”
DI X, 576 (sbr. “settest [Oddur] i bu med Þuride Einarsdottur oc bio med henne nockur aar aa Reykium i Olvese ogiptur. þangad til hann ætti son med henne. Petur ad nafne. sijdan tok hann hana til egta – DI XIII, 134. Á Reykjum þýddi Oddur Píningarsögu Bugenhagens 1545 en hún kom út 1558).
1541 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla kærður fyrir að hafa markað undan kirkjumarki Reykjakirkju. DI X, 677-78.
1541 lögfestir Gissur biskup Skálholtskirkju Reyki í Ölfusi. DI X, 686.
11.1.1542 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla dæmdur fyrir að hafa haldið fyrir kirkjunni á Reykjum 6 kúgildum. DI X, 698.
[1553-54] Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. DI XII, 662.
Reykir 1930, berklahæli…
1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. Ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga I Surbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. DI XV 643-644.
1706 eru kirkjujörðin Vellir í óskiptu landi Reykja, og auk þess hjáleigurnar Reykjakot, Reykjahjáleiga og Kross, sem síðar urðu sjálfstæðar jarðir. Þá nefnir jarðabókin eyðihjáleigurnar Engjagarð, Grændalsvöll og Litlu-Reyki. Reykjahjáleiga var lögð undir búið 1931.
1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
Hefðbundin búskapur hætti á Reykjum 1930 og árið 1931-1938 var rekið þar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Árið 1939 tók Garðyrkjuskóli ríkisins við jörðinni, nú er Landbúnaðarháskóli Íslands með starfsstöð á jörðinni. Árið 1963 var Skógrækt ríkisins falið að girða og friða landið til skógræktar í samvinnu við Garðyrkjuskólann. 1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
„Reykir hafa verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi, gegnum aldirnar. Þar sátu höfðingjar á Sturlungaöld. […] Síðar sátu þar merkisklerkar . […] Bærinn á Reykjum stóð þar sem nú stendur geymsluhús Garðyrkjuskólans. Bæjardyr til suðurs og kálgarður sunnan undir bænum vestanverðum. Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. […] Af hlaðinu lágu traðir til suðausturs, sér enn fyrir og götuna austur með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, fyrir miðju gamla heimatúnsins. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sumir telja að Reykir muni vera fyrsti bærinn í Ölfusi. Þar hafi fengið bólfestu Karli „Þræll“ Ingólfs Arnarsonar, sá er fór fyrir ásamt Vífli og leitaði öndvegissúlnanna.“ Öll ummerki bæjarhóls og bæjahúsa eru horfin af yfirborði vegna bygginga frá á 20. öld og annarra framkvæmda á svæðinu. Bærinn var nánast í miðju þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands hefur til umráða.
Malbikaður vegur liggur að bæ 001 úr vestri og annar vegur liggur yfir bæjarhólinn til austurs. Nú er tvílyft, steinsteypt geymsluhús þar sem bærinn var áður og bílaplan til norðurs og suðurs. Húsið er notað sem geymsla og verkstæði en þarfnast viðhalds.
Kirkjugarður er 10 m austan við bæ en teikningar af bæjarhúsum á Reykjum er m.a. að finna í bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789.
Malarvegur liggur milli kirkjugarðsins og geymsluhússins. Öllu svæðinu umhverfis geymsluhúsið hefur verið raskað. Malarborin bílastæði eru til norðurs og suðurs, vegur til austurs og gróðurhús til vesturs.
Lág hólmyndum sést sunnan við húsið en ekki er hægt að fullyrða að um ummerki bæjarhóls sé að ræða, jarðrask er of mikið.
Reykjakirkja (kirkja)
Reykir – kirkja.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykir eru og gamall kirkjustaður. Sú kirkja var helguð heiligum Laurentsíusi […] Kirkjan var flutt um skamman tíma að Völlum „vegna þess að hver kom upp í kikrjunni“ eins og segir í heimildum. Kirkjan á Reykjum fauk af grunni í ofviðri haustið 1908. Ekki byggð upp aftur. […] Grafreitur er sléttaður, sér enn fyrir kirkjustæðinu. Er vel girtur og í góðri hirðu.“
c. 1200: Páll bp Þar á yfirreið, munngát á móti honum; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339.
c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 8.
1382-91: XCII. Reyker. Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. Þar skal vera heimilisprestur. Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæar land. tvenn messuklædi oc hokul med pell .ij. alltarisklædi. annad med pell. kaleik. kiertistikur .iij. sacrarium mvnnlaug. glodarkier. krossar .ij. Mariuskriptt. Laurentiusskriptt oc tiolld vmm kor. fontklædi .xiij. bækur. kantarakapa. merki. glerglugg. Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are 1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. Jtem .c. er Halldora gaf oc .c. er Jon Gilsson gaf oc hestr er gafst eptir Jon Jvarsson. lagdi Sturli til kirkiunnar alltaraklædi oc dvk. hokul. paxspiolld .ij. oc pentan frammi firir kor. þetta allt saman firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. ar fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. Jtem forn tyund er i maldaga Herra Michaels er skrifad .viijc. og .xvij. aurar. DI IV 96-97.
[1553-54]: Reyker j Olvese. Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. Þar liggia til x Bæer. og fellur nu: [vantar] kirkian sterck og nockud geingin. DI XII, 662.
1575: CXCI. Reyker. Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga i Saurbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. Jtem i kirkiunne ij messuklæde. ein klucka. korbialla. silffur kaleikur. Jtem lijtill Jarnkall. ij koparpijpur. Jtem fastagötz Lxc. Lausagötz Lxxxxiiijc. DI XV 643-644.
f. 1700: Reykjakirkja var flutt að Völlum um 30 ára tíma; (PP, 93).
1706: Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399.
21.7.1786: Skipað að Reykjakirkja skuli aftakast; (PP, 93) [konungsbréf].
21.5.1790: Fyrri skipun tekin aftur; (PP, 93) [konungsbréf].
Þar segir í SSÁ: „2ur að Reykjum, sem er annexíukirkja. Sóknarbæir þangað liggjandi 12.“
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
„Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. Garðurinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og vel gripheldur 1929. Sú girðing, sem nú er um garðinn, var gerð seinna og lögðu ýmsir, sem áttu þar ættingja í jörðu fé til, sér enn fyrir kirkjustæðinu og fáeinum leiðum,“ segir í örnefnalýsingu. Lág veggjabrot bera kirkjunni vitni sem og kirkjugarður þar umhverfis. Kirkjan er 10 m austan við bæ, innan þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands er með starfsemi.
Fyrir vestan og sunnan kirkjugarðinn eru byggingar tengdar skólastarfsemi Landbúnaðarháskólans. Til norðurs er malarvegur og slétt grasflöt.
Kirkjugarðurinn er 24×20 m að stærð, snýr austur-vestur og afmarkast af torf- og grjóthlöðnum veggjum. Eins og segir hér ofar, er ekki um fornan vegg að ræða, hann var hlaðinn um miðja 20. öld á sama stað og eldri veggurinn að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns. Veggurinn er algróinn innan kirkjugarðsins en að utan má sjá 3-4 umför af grjóthleðslu. Hann er 0,4-1 m á hæð. Gengið er inn í kirkjugarðinn að norðan en ekki vestan líkt og áður var. Kirkjutóftin er í miðjum kirkjugarðinum sem er grasivaxinn og sléttur. Ekki sér móta fyrir gröfum né minnismerkjum þar. Kirkjutóftin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð að utan, snyrtilegir og jafnir. Það bendir til þess að tóftin og nánasta umhverfi hafi verið snyrt, sléttað og lagfært á einhverjum tímapunkti. Mögulega var fyllt upp í tóftina, veggirnir eru það lágir. Ekki sér móta fyrir opi inn í kirkjuna en líklega var það á miðjum austurvegg.
Engjagarður (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 stendur: „Hjáleiga hefur hjer ein verið í engjatakmarki, nú í auðn í 20 ár og 6 ár, er kölluð var Engiagardur, og hyggja menn verið mun hafa þar, þá bygð var, landskuld lx álnir og kúgildi iii, er og víst að ei kann aftur að byggjast jörðinni að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett nema að hún var í engjum samkvæmt Jarðabókinni.
Þetta býli hefur gjarnan verið sett í samhengi við örnefnin Innri- og Fremri Engjamúla, Húsmúla og Nóngiljalæki í Grændal án beinna tengsla. Í Grændal voru engjar og ekkert sem bendir til þess að örnefnin tengist þessu býli frekar en slætti. Lýsing á staðsetningu býlisins gæti allt eins átt við Engjahól. Ekki er hægt að staðsetja býlið án frekari heimilda.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Önnur hjáleiga kölluð Grændalsvöllur, bygð í fyrstu innan 20 ára, varaði sú bygð 4 ár; síðan hefur hún í auðn legið og brúkast nú fyrir stekkatún frá Reykjakoti, kann ei aftur byggjast nema jörðinni til skaða.“ Í örnefnalýsingu Reykjakots eru leiddar líkur að því að Grændalsvöllur sé í Stekkatúni. Ekki er hægt að staðsetja Grændalsvöll án frekari heimilda né staðfesta að um sama stað og Stekkatún sé að ræða. Ekki er mikilla búsetjuminja að vænta eftir fjögurra ára búsetu en líklega var hjáleigan innan landsvæðis sem nýtt var frá Reykjakoti.
Reykjarétt (rétt)
Reykjarétt.
„Reykjarétt: Var í brekkunni upp undan Tumavelli, sér enn fyrir,“ segir í örnefnalýsingu. Reykjarétt er 230 m austan við bæ og 170 m suðaustan við fjárhús. Réttin er ofarlega í brekku, upp Reykjafjall. Þar er autt svæði á milli hárra greni- og furutrjáa sem plantað var á seinni hluta 20. aldar. Stórt grenitré vex í einu horni réttarinnar og hefur raskað henni að hluta. Réttin sést illa fyrr að henni er komið.
Réttin er í brekku í vesturhlíðum Reykjafjalls, nánast beint austan við bæ. Réttin er á náttúrulegum „stalli“ og hallar lítillega til vesturs. Allt umhverfis réttina eru há greni- og furutré og stór björg sem hrunið hafa niður fjallshlíðina. Réttin er 18 x 14 m að stærð, gróin og snýr norður-suður. Suðurhluti réttarinnar er raskaður, þar er 10-15 m hátt grenitré sem rutt hefur veggjum um koll. Reykjarétt er grjóthlaðin og skiptist í fimm hólf.
Selgil (sel)
Reykjasel.
„Selgil: Gróið gil, kemur ofan af fjalli, fyrir norðan Gufudal, rennur í Sauðá fyrir norðan Búra. Selmýri: Mýrarblettur fyrir norðan Selgil, nær að Sauðá.“ segir í örnefnalýsingu. Sennilega er þetta sami staður og getið er í lýsingu Ölfus frá 1703 eftir Hálfdan Jónsson. Þar segir:“ En til austurs frá Grænsdal taka til Klóarmelar, aldeilis graslausir. Plássið þar fyrir austan er selhagar frá Reykjum og það pláss kallað Reykjafjall, þó lágt liggi sem annar dalur. Þetta takmark er með grasi víða, so valllendi sem mýrum, gott til haglendis en undirlagt af snjóum á vetrartímanum […]“. Selið er tæpum 1,7 km norðan við bæ og 1 km norðan við Hrútastíg 019. Tóftir sjást þar á gróinni tungu, milli tveggja lækjardraga, beint vestan við Selgil og norðan við golfvölinn í Gufudal.
Selið er á gróinni tungu, sem hallar til vesturs frá Selgili. Þær eru innan afgirts beitarhólfs fyrir hross. Tóftirnar eru undir hólbarði og fornlegar að sjá. Þýfður mói er allt umhverfis þær.
Reykjakot (býli)
Reykjakot – túnakort 1918.
1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847, 20 hdr. JJ, 75. Fór í eyði 1967, en frá 1980 garðyrkjubýli á 3,3 ha og nefnist Reykjakot. Reykjakot II byggt 1947.
1918: Tún 8,2 ha, slétt. Garðar 1282 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í norðvesturhorni heimatúnsins. Mikil skekkja er á túnakortinu, afstaða minjanna er rétt en fjarlægðir rangar. Núverandi ábúendur fluttu að Reykjakoti 1980 og reistu íbúðarhús sama ár, 20 m norðan við bæjarhólinn. Þá var gamli bærinn horfinn og búið að slétta yfir svæðið. Við byggingu íbúðarhússins var ekki komið niður á mannvistarlög en kjallari er undir húsinu. Að sögn Margrétar Magnúsdóttur, heimildamanns, þurfti að grafa djúpt niður til að komast á fast berg við bygginguna og mikil mold þar yfir. Mikið rask er innan gamla heimatúnsins og hefur verið lengi.
Skólasel Menntaskólans í Reykjavík var byggt milli 1930-1940 sunnan við bæinn og í tengslum við það voru reistir nokkrir sumarbústaðir, gróðurhús og önnur mannvirki sem nýtt voru af kennurum skólans. Á tímabili var hippakommúna í einum þessara bústaða. Reykjakot II var reist 1947, tæpum 250 m sunnan við bæ. Að sögn Margrétar, var gamli bærinn þar sem rólur eru nú í bakgarði þeirra. Til eru gamlar ljósmyndir af bænum.
Frá árinu 1980 hefur hundruðum trjáa verðið plantað í og við bæjarhólinn, aðallega greni, öspum og lerki. Þar er nú bakgarður, sunnan við núverandi íbúðarhús. Inn á milli trjánna eru sléttar grasflatir, rólur og fleiri leiktæki fyrir börn. Fast SSV við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins er upphækkað, malbikað bílaplan og vegur.
Bæjarhóllinn og bæjarhúsin í Reykjakoti eru horfinn af yfirborði.
Reykjahjáleiga (býli)
Reykjahjáleiga.
706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847. 10 hdr. JJ, 75. Lögð undir Reyki 1931 og fór í eyði 1938.
1918: Tún 3,8 ha, slétt. Garðar 728 m2. 1932: Tún 5 ha.
„[Bærinn í Reykjahjáleigu stóð] undir Neðra-Dekkinu, neðst á þurrlendinu. Bæjardyr sneru til suðvesturs og kálgarður var í bæjarskjólinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykjahjáleiga var 1/8 partur úr Reykjatorfunni. Bærinn stóð austast í túninu á Reykjum. Notaði mest landið suðaustur frá bænum. […] Átti sameiginlegt beitiland með öðrum jörðum í torfunni, einnig torfristu og mótak […] og ákveðið slægjuland í engjunum.“ Í Sunnlenskum byggðum III er jafnframt teikning af bæjarhúsunum. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, syðst í miðju túninu. Á gömlum loftmyndum frá 1946 og 1956 í eigu Héraðsskjalasafns Árnesinga má sjá óljós mannvirki á bæjarhólnum. Bæjarhúsin voru sléttuð út árið 1938 þegar síðasti ábúandi flutti þaðan. Að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns, var grjót tekið úr bæjarhúsum og bæjarhólnum þegar gróðurhús Garðyrkjuskólans voru byggð, um miðja 20. öld. Reykjahjáleiga var rúmum 370 m suðaustan við Reyki. Reiðstígur er 10 m norðan við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins og vírgirðing liggur eftir suðurhlutanum.
Bæjarhóllinn og öll bæjarhús eru horfin af yfirborði. Svæðið var sléttað og öllum mannvirkjum rutt niður barð sunnan kálgarðsins. Barðið kallast Neðra-Dekk og er náttúruleg brún. Slétt, grasivaxið tún er á svæðinu og reiðstígur. Ennþá má sjá grjót sunnan undir Neðra-Dekki en mikið af því var tekið þegar gróðurhúsin voru byggð. Útivistarsvæði er meðfram allri vesturhlíð Reykjafjalls og bæjarstæði Reykjahjáleigu er innan þess.
Þar sem bæjahóllinn var er nú óljós hólmyndun en ekkert er hægt að áætla um umfang mannvistarlaga. Mögulega er hólbungan tilkomin vegna sléttunar og niðurrifs á svæðinu. Suðurveggur kálgarðsins er ennþá varðveittur sem kantur í brún Neðra-Dekks. Kanturinn er 26 m langur, 1-1,5 m á hæð og er grjóthlaðinn. Þar má sjá 3-4 umför gjóthleðslu, inni á milli gróðurs.
Kross (býli)
Kross – túnakort 1918.
1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 401-402. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Mörkin á milli Kross og Valla [ÁR-516] eru um gamalt árfar (Sennilega eftir Varmá).“ Ö-Reykjatorfa, 2
1918: Tún 3,4 ha, 2/3 slétt. Garðar 874 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Kross er gömul hjáleiga frá Reykjum, 10 hdr jörð og 1/8 partur úr Reykjatorfu. Bærinn stendur á mótum mýrar og engja, suðaustast í landi Reykjatorfu. Á sameinginlegt beitiland, mótak og torfristu með öðrum jörðum torfunnar.“ „Bærinn í Krossi stendur suðaustan undir Krossklettum. […] Bærinn stóð áður þar, sem fjósið og heyhlaðan er nú, en íbúðarhúsið er austast,“ segir í örnefnalýsingu. Hlaðan og fjósið voru norðvestan við bæjarhólinn að sögn Eyrúnar Þorláksdóttur, heimildamanns. Frá 1918 er búið að flytja bæjarstæðið á Krossi tvisvar sinnum. Fyrst var bærinn fluttur 1955, þá var íbúðarhús byggt um 60 norðar. Það íbúðarhús eyðilagðist í jarðskjálfta 2008. Þriðja íbúðarhúsið var byggt á Móholti syðst í jörðinni um 2010, rúmum 320 m suðaustar. Elstu bæjarhúsunum var rutt út 1954, fljótlega eftir að Eyrún fluttist þangað. Sléttað var yfir svæðið og ræktað tún er þar nú. Búskap var hætt á Krossi 2002-2003 en nýbýlið Lind var byggt 2008, á miðri jörðinni. Engin búskapur er á jörðinni né er hún nýtt að stórum hluta.
Bæjarhóllinn er horfinn. Þar eru nú gróin tún til allra átta nema norðurs, þar er íbúðarhúsið frá 1955 og garður umhverfis það. Malarvegur að íbúðarhúsinu liggur þvert yfir hólinn. Túnið er í órækt og þar mikið gras og bleyta til vesturs.
Öll ummerki bæjarhólsins eru horfin af yfirborði. Stafnar bæjarhúsanna snéru til suðvesturs en hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga.
Krossselsflöt (sel)
Krosssel.
„Krossselsflöt: Slétt grasflöt neðan (austan) Nóngilja,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Krosssel er tæpum 200 m VSV við tóft og rúmum 550 m suðvestan við Vallasel. Selið er á graslendi í aflíðandi halla til suðurs og austurs. Svæðið er slétt og lækir renna úr báðum Nóngiljum rúmum 50 m sunnan við selið. Selið er á sléttu graslendi austan við Nóngilsbrekku. Til austurs frá Krossselsflöt er rofbakki og hrauntunga, á milli selsins og Djúpagils. Á svæði sem er 30 x 13 m að stærð og snýr austur-vestur eru tvær tóftir, báðar tilheyrðu þær selinu.
Saurbær (býli)
26 hdr 1847. JJ, 75. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 416. „26 hundruð að fornu mati. Á land upp á fjall, allt að afréttarmörkum, sæmilega gróið, góð sumarbeit. Neðar er gamalt gróið hraun „heiði“, skjólsælt með grónum lautum. Bærinn stendur í hraunbrúninni.“ SB III, 352. Stóri-Saurbær er ekki í fastri ábúð. Búið er að stofna fjögur lögbýli, á jörðinni, Litla-Saurbæ, Hreiður, Vindás og Víðigerði.
Ekki er föst ábúð á Stóra-Saurbæ. Árið 1979 var bærinn fluttur tæplega 50 til NNV, af bæjarhólnum. Þar er íbúðarhús er byggt sama ár. Eldra íbúðarhúsið var byggt 1933 og var fast VSV við 20. aldar útihús sem eru á miðjum bæjarhólnum. Það hefur verið rifið en þar sést hólmyndun, líklega hluti af bæjarhólnum. Hluti af útihúsinum voru einnig rifin. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, sunnarlega í heimatúninu. Ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakortinu var á bæjarhólnum. Líklega var íbúðarhúsið frá 1933 byggt í miðjan hólinn eða vesturhlutann.
Bæjarhóllinn er grasivaxinn og njóli vex í vesturhluta hans. Íbúðarhús byggt 1933 var vestast á bæjarröndinni og það sést enn á loftmynd frá um 2000. Líklega var það rifið í kjölfar jarðskjálftans 2000 eða 2008. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún, bæði ræktuð og óræktuð. Bæjarhóllinn er um 60 x 30 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Bærinn raðaðist eftir hólnum endilöngum og stafnar snéru til suðurs. Bæjarhóllinn er algróinn en mikið jarðrask er til norðurs og austurs. Þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Þar sjást engin ummerki um mannvist á yfirborði. Bærinn er byggður á hraunbrún, mýri er til suðurs frá honum. Vesturhluti bæjarhólsins sést ennþá en þar er jafnramt jarðrask. Hóllinn er 0,3 – 0,5 m á hæð og skagar fram í mýrina.
Seldalur (sel)
Saurbæjarsel.
„Seldalur: Gróin laut í Hrauninu. Þar sér enn fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ,“ segir í örnefnaskrá. Í dalnum var einnig sel frá Öxnalæk. Í örnefnalýsingu þess bæjar segir: „Rétt fyrir innan Skyggni hefur verið sel frá Öxnalæk, í Öxnalækjarlandi. Ögmundur man eftir að hafa séð þarna grjóttóft, þegar hann var barn. Líklega má sjá tóftina enn. Selið er í Öxnalækjar-Seldal.“ Í skýrslu Fornleifaverndar ríkisins, nú Minjastofnunar Íslands, Hengill og umhverfi segir: „Öxnalækjar-Seldalur liggur austan í Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum U-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla.“ Selið er 3,6 km norðvestan við bæ, þjóðvegur 1 er um 200 m austar. Hér eru tvö sel, annað sunnan í dalnum og hitt norðan í honum. Hér er fremur um gróið vik en dal að ræða sem liggur austurvestur.
Dalurinn, eða vikið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 35 – 50 m breiður og austarlega liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Saurbæjarhjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Saurbæjarhjáleiga hefur hjer verið í túninu, bygð fyrir innan 30 ára tíma, hefur í auðn legið undir eður yfir 20 ár.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.
Litli-Saurbær (býli)
Litli-Saurbær, túnakort 1918.
„Um 1850 er fjórði hluti úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni […].“ SB III, 351. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er á söluskrá og hluti hennar er kominn undir sveitarfélagið Hveragerði. Jörðin féll úr ábúð eftir að jarðeignafélagið Lífsval hætti starfsemi milli 2008-2012 eða svo.
1917:
„Um 1850 er fjórði úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut hann þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni.“ segir í Sunnlenskum byggðum III. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Litli-Saurbær og Þórustaðir.
Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði (býli)
Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum.“ Íbúðarhús var byggt árið 1938 en árið 1962 varð þarna mikill bruni. Í Sunnlenskum byggðum III segir að nýtt íbúðarhús hafi verið reist síðar (en húsið byggt 1938) en ekki er vitað hvort það er að hluta sama húsið né hvaða ár það var byggt. Nú er eitt íbúðarhús á Litla-Saurbæ og það er nokkurra áratuga gamalt og er hér líklega um sama hús að ræða.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Sá bær var líklega á svipuðum stað og núverandi íbúðarhús en ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og það þarfnast staðfestingar. Bærinn var þó líklega á þessum slóðum, flest útihúsin sem þar sjást núna eru byggð á árunum 1950 – 1960. Ábúð á þessum stað hófst ekki fyrr en um 1850 og því lítilla ummerkja um búsetu að vænta undir sverði. Hvergi sér til uppsafnaðra mannvistarlaga á yfirborði, líklega vegna jarðrasks.
Umhverfis núverandi bæjarstæði eru 20. aldar útihús, íbúðarhús og malarplan. Til allra átta frá bæjarstæðinu eru grasivaxin tún sem komin eru að hluta í órækt.
Engin ummerki bæjarhóls sjást á yfirborði.
Þúfa (býli)
Þúfa.
1708. „Jarðdýrleiki er x og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 417. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […]
Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.6 ha, 2/3 slétt. Garðar 1485 m2.
„Bærinn á Þúfu er norðaustur af Kröggólfsstöðum. Hann hefur staðið á sama stað. Heimvegi hefur verið breytt, færður sunnar,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í suðausturhorni heimatúnsins. Þúfutjörn er vestan við bæinn og var innan heimatúnsins. Gamli bærinn stóð í „sundi“ á milli núverandi íbúðarhúss, byggt 1955, og fjóssins sem var byggt á 20. öld. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var framan við bæinn að sögn Sigurðar Ragnarssonar, heimildamanns. Sundið er 5 m breitt og öll ummerki bæjarins sem og bæjarhólsins eru horfin. Íbúðarhúsið frá 1955 er byggt í suðurhluta bæjarhólsins og fjósið í austurhlutann. Að sögn Sigurðar sléttaði hann út hól norðan og vestan við íbúðarhúsið og gerði malbikað bílaplan. Að hans sögn var eingöngu mold í hólnum. Við jarðrask í kálgarðinum kom fannst hestasteinn úr stuðlabergi, líklega úr landi Auðsholts. Bæjarstæðið er á náttúrulegri, lágri brún sem lækkar til suðurs og afmarkast heimatúnið af henni.
Engin ummerki bæjarins né bæjarhóls sjást á yfirborði.
Þúfuhjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Bygð fyrir 8 árum. Varaði bygðin til næstliðins hausts, þá dó fólkið sem þar var, nema kona ein, og hefur síðan í auðn legið.“ Ekki er vitað með vissu hvar Þúfuhjáleiga var staðsett, byggðin varði í tæp 8 ár og því ekki mikilla ummerkja að vænta. Samkvæmt Sigurði Ragnarssyni, heimildamanni, er örnefnið Hjáleiguengi þekkt og líklega nýtt til sláttar frá Þúfuhjáleigu. Hann hafði einnig heyrt að Þúfuhjáleiga hafi verið sunnan við bæ, utan heimatúnsins. Nánari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.
Kröggólfsstaðir (býli)
Kröggólfsstaðir.
1708. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum […]“ JÁM II, 418. 1847. 32 hdr. JJ, 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn… Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin…Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“
1918: Tún 5.1 ha, 2/5 slétt. Garðar 1752 m2.
„Kröggólfsstaðir: Bærinn á Kröggólfsstöðum hefur staðið á sama stað svo lengi sem elstu menn muna. […] Þjóðsaga sem ég hef heyrt hér í Ölfusi hermir. Þegar Karl þræll Ingólfs stauk frá honum af því að hann neitaði að byggja útsker það, sem guðirnir settu Ingólf á, (Landnáma) Hann fannst þar sem eru Reykir í Ölfusi. Hann bjó þar síðar. Þegar hann fór huldu höfði átti hann í mestu kröggum. Þá fæddi „kona hans“ son, sem þau nefna Kröggólf. Hann byggði Kröggólfsstaði.“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Íbúðarhúsið á Kröggólfsstöðum er byggt 1961, í suðurhluta bæjarhólsins. Að sögn Moniku S. Pálsdóttur, heimildamanns, var annað íbúðarhús norðan þess, rúmur 1 metri var á milli þeirra. Það hús var byggt á fyrri hluta 20. aldar en var rifið í minni Moniku. Núverandi íbúðarhús snýr austur-vestur en eldra húsið snéri norðaustur-suðvestur og var á miðjum bæjarhólnum. Að sögn Moniku koma alltaf upp hleðslusteinar og ummerki um búsetu við jarðrask í kringum íbúðarhúsið.
Bærinn á Kröggólfsstöðum er á lágu holti, allt umhverfis það eru grasivaxin tún. Bærinn er nánast á miðju holtinu. Núverandi íbúðarhús er í suðurhluta bæjarhólsins, bakgarður er sunnan og suðvestan þess.
Til austurs er malarplan og liggur malarvegur þar að bænum. Vírgirðing liggur þvert yfir norðurhluta hólsins.
Mikið rask hefur orðið á bæjarhólnum, ekki síst vegna byggingaframkvæmda á síðustu öld. Það hafa tvö íbúðarhús verið byggð í hólinn á 20. öld, malarplan er yfir norðurhlutanum og vegur þvert yfir hann.
Auk þess hafa flest útihús frá 20. öld verið byggð nærri hólnum og nartað af hliðum hans. Enn má greina norður- og norðausturhluta bæjarhólsins á 21 x 10 m stóru svæði. Þar er grasivaxið, slétt tún nýtt til beitar. Greinilegt er að sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn sem er ávöl hólbunga, um 0,4 m þar sem hún er hæst. Erfitt er að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegu holtinu en víða glittir í staka hleðslusteina og beina bakka. Dæld, 7 x 5 m að stærð, sést til norðurs á hólnum.
Vatnastekkur (stekkur)
Vatnstekkur.
„Vatnastekkur: Gamall stekkur á Vatnabrekkum, síðar var þar sauðahús, sér enn fyrir,“ segir í örnefnaskrá. Vatnastekkur er 900 m norðvestan við bæ 001 og tæpum 600 m norðvestan við Vötn. Stekkurinn er fast austan við landamerki Núpa ÁR-527 og þar er vírgirðing á merkjum. Að sögn Aldísar Pálsdóttur, heimildamanns, voru sauðahúsin notuð langt fram á 20. öld. Grasivaxið, slétt tún er allt umhverfis tóftina. Túnið er nýtt til hrossabeitar og er ekki slegið. Tóftin er 23 x 10 m að stærð, snýr norður-suður og skiptist í tvö hólf.
Gvendarbrunnur (þjóðsaga)
„Gvendarbrunnur: Uppspretta suður af Vatnabrekkum, sennilega hefur Guðmundur góði vígt hana,“ segir í örnefnalýsingu. Gvendarbrunnur er rúma 700 m norðvestan við bæ og 200 m austan við Vatnastekk. Hraunbrúnin er 3-4 m há og algróin. Vatn seytlar undan henni á nokkrum stöðum og myndar litla tjörn
sem sameinast Vatnatjörn.
Undan gróinni hraunbrún sprettur vatn upp á nokkrum stöðum og myndar læk sem rennur í Vatnatjörn nokkru sunnar. Stærsta uppsprettan rennur í miðjan lækinn og steypt rör er þar. Minni uppsprettur eru þar víða og svæðið undir hraunbrúninni er mýrlent. Fyrir vestan lækinn er búið að raða steinum ofan á steinsteypt rör og líklega er uppspretta þar líka. Hver þeirra er Gvendarbrunnur er ekki vitað.
Kröggólfsstaðahjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Kröggólfsstaðahjáleiga. Dýrleikinn talinn með heimajörðinni.“ Ekki er vitað hvar Kröggólfsstaðahjáleiga var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.
Vötn (býli)
Vötn.
1708. „Jarðdýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 419. 1847. 32 hdr. JJ. 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […] Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.1 ha, 2/3 slétt. Garðar 1440 m2.
„Vötn: Bærinn Vötnum stendur í hraunjaðrinum, norður frá Kröggólfsstöðum. Núverandi íbúðarhús stendur skammt suðaustur af gamla bænum. Heimreið til suðausturs á svipuðum stað og nú,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og stóð við norðausturhorn Vatnatjarnar. Í örnefnalýsingunni er talað um íbúðarhús, byggt 1944, sem er horfið.
Núverandi íbúðarhús er byggt 1974, um 100 m austar. Um miðja 20. öld voru byggð steinsteypt útihús í bæjarhólinn sem röskuðu honum mikið og hann horfinn af yfirborði.
Stafnar bæjarins snéru líklega til austurs.
Gamli bærinn er til á myndum í eigu Aldísar Eyjólfsdóttur, heimildamanns. Bæjarhóllinn var við norðausturbrún hraunjaðarsins, við Vatnatjörn. Um 30 m voru frá bænum að tjörninni sem afmakaði vesturhlið heimatúnsins. Að sögn Aldísar var kálgarður suðvestan við bæinn, allt að vatninu. Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarhólnum og nánasta umhverfi. Íbúðarhúsið frá 1944 var líklega byggt fast suðaustan við hólinn. Öll ummerki þess eru horfin. Um miðja 20. öld voru einnig byggð steinsteypt útihús sem röskuðu öllum bæjarhólnum. Öll þessi mannvirki frá 20. öld hafa verið rifin en sjást að hluta á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Nú, 2014, er búið að hlaða gerði úr efni þessara mannvirkja, á bæjarhólnum. Gerðið er 50 x 20 m að stærð og snýr NNV-SSA. Veggir þess eru 1,5 – 2 m háir, 3 m breiðir og grasivaxnir. Innan þess er m.a. búvélar og rusl. Til norðausturs frá gerðinu er malarplan. Til suðvesturs, allt að tjörninni sést víða grjót úr mannvirkjum, líklega eftir sléttun og niðurrif.
Hraun (býli)
Hraun.
1708. „Jarðadýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 430. 1847. 20 hdr. Bændaeign. JJ,76. „Landamerki eru, samkvæmt bréfi: Framan frá sjó í vörðu fyrir ofan Leirar og um fjórar vörður í stefnu á Skóghlíð (svo er skráð þar, en annars er miðað við Skóghlíðargafl), merktar M hjá þeim, upp að Tíðagötu. Hana austur þar til varða: sézt á hrauninu fyrir framan veginn og önnur í Eiríksstekkatúni, í krossmark í klöpp í Ferðamannahól, allt í sömu línu, ósinn sem liggur milli Lágaengja og Grímslækjarengja.“ Ö-Hraun, 1.
1918: Tún 3.9 ha, 9/10 slétt. Garðar 1144 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar
kalla Leitahraun. […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru: Hraun, síðar Vesturbær, Lágar, síðar Austurbær, Hraunshóll, Hof, Slapp og Hraunshjáleiga,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhóll Hrauns er mikið rakskaður sökum byggingaframkvæmda.
Eldri bæjarhús voru fast norðaustan við tvö hús sem byggð voru 1924 og 1945-56, þ.e. Hraun I og Hraun II. Þau hús eru í útleigu og yngri íbúðarhús beggja bæjanna voru byggð 130-200 m til austurs eftir 1970. Samtals eru því fjögur íbúðarhús nú á Hrauni. Fast austan við eldra íbúðarhúsið Hraun I er malbikað bílaplan. Það er yfir bæjarhólnum og er í halla til suðurs, niður af honum…
Hraun fyrrum.
Íbúðarhúsin frá 1924 og 1945 standa hlið við hlið, suðvestan við bæjarhólinn. Norðan við eystra húsið er skemma og súrheysturn, byggð í bæjarhólinn. Til suðvesturs frá húsinu eru tré og rotþró.
Suðvesturshluti bæjarhólsins sést að hluta. Þar má greina upphækkun, 22 x 8 m að stærð, 0,6 m á hæð og snýr hún norðaustur-suðvestur. Upphækkunin fjarar út til suðurs, líkt og fyrrnefnt bílapalan. Stafnar bæjarins snéru til suðvesturs og sambyggður kálgarður var þar framan við smkv. túnakorti frá 1918.
Hof (býli)
Hof.
„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru. […] Hof […] Hof var austan túnsins, fjær læknum en Lágar, þar sem nú er hlaðinn túngarður,“ segir í örefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá 1858-1873. Not féllu þá til Hrauns.“ Hof er rúma 100 m NNA við bæ og 40 m austan við þúst. Ekki var löng ábúð á býlinu og lítilla uppsafnaðra mannvistarlaga að vænta.
Malarvegur að Hrauni er 20 um til austurs og suðausturs frá áætlaðri staðsetningu Hofs. Þar sem Hof stóð er grasblettur meðfram afgirtu túni nýttu til hrossabeitar. Túngarður afmarkar það tún ásamt vírgirðingu.
Hof var austan við túnið. Ekki er um eiginlegan bæjarhól né bæjarstæði að ræða. Á svæði sem er 15×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur eru tvær þústir. Við austurhorn túngarðisins er grasivaxin upphækkun 7×7 m að stærð og 0,5 m á hæð. Mögulega er hún tengd búsetunni á Hofi. Önnur þúst, 4×4 m að stærð og 0,4 m á hæð, er 4 m norðaustar. Hvergi sér til hleðslugrjóts eða annarra ummerkja sem gefa stærð bæjarins, áttahorf og lag hans til kynna.
Slapp (býli)
Slapp.
„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […]
Slapp […] Slapp [stóð] að bæjarbaki,“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá því fyrir 1700 og til 1842. Þá féllu not til Hrauns.“ Slapp var innan heimatúns Lága eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1918. Slapp er tæpum 200 m norðvestan við bæ og 130 m norðvestan við Hof, undir gróinni hraunbrún. Blaut tjörn er 100 m sunnan við bæjarhólinn. Á örnefnauppdrætti Ingólfs Einarssonar er Slapp sýnd mun nær bæ, þar sem þúst er. Það er ekki rétt að sögn Hrafnkels Karlssonar,
heimildamanns.
Bæjarhóllinn er í grasivöxnu, óræktuðu túni. Náttúrulegir hólar og lægðir eru í túninu. Þar vex mikið af njóla.
Bæjarhóllinn er 20 x 10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er 1-1,5 m á hæð, algróinn og sléttur. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til suðvesturs. Óljóst mótar fyrir dældum ofan á hólnum ekki er hægt að segja til um nákvæmt lag bæjarins né stærð hans.
Hraunssel (sel)
Hraunssel.
„Selstöðu hefur jörðin keypt í Hjallalandi, vide Hjalla supra.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. Um 1980 var heimildum um helstu menningarleifar í Ölfusi safnað saman að frumkvæði Ölfushrepps. Skýrslan var ekki útgefin en Hrafnkell Karlsson, heimildamaður, átti handrit sem var afritað. Þar segir í kafla 3.2 um sel: „22. Hraunssel. Það stóð vestan Lönguhlíðarhorns, í hraunjaðrinum fyrir ofan Selstíg. Þar sjást rústir nokkrar.“ Hraunssel er í landi Hjalla. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 2,5 km norðvestan við vörðu.
Selið er við svokallaðan Selsstíg sem er gömul leið sem liggur milli hraunbrúnar og gróinnar brekku á þessum slóðum, þar er 10-15 m breitt gróðurlendi. Allt selið er mjög gróið, hleðslur signar og óskýrar á köflum. Úfið, mosa- og lyngivaxið hraun er vestan við selið. Til austurs er há brekka. Selið er á grasivöxnu svæði milli hraunsins og brekkunnar.
Selið samanstendur af tveimur tóftum og helli á svæði sem er 20×14 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Dys Lénharðs fógeta (legstaður)
Dys Lénharðs.
Á heimasíðu Ferlis segir: „Í öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta: „Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann. […] Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann var ófriðarins var. […] Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, […]“. Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkuð ofar í ánni. Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannabein er stóð út úr hólnum. […] Munnmæli hafa verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi allt eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.“ Dysin er rúma 1,7 km suðaustan við bæ og 1,5 m km suðaustan við fjárhús. Dysin, eða hóllinn, er á tanga sem skagar til austurs út í Ölfusá. Tanginn er vaxinn lyngi, mosa og víðtrjám. Dysin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er hæst 2,2 m til austurs og vestur- og suðurhliðar brattar. Dysin er algróin nema til vesturs, þar sést glitta í grjót. Ekki var unnt að greina hvort að um hleðslu sé að ræða sökum gróðurs. Dysin er þó líklega náttúruleg.
Lágar (býli)
Lágar – túnakort 1918.
1708. „Lágar, hjáleiga bygð fyrir manna minni. Dýrleikinn áðurtalin í heimajörðinni.“ JÁM II, 431.
„Forn hjáleiga frá Hrauni. Í byggð til 1950. Síðan nytjuð frá Hrauni.“ SB III, 322.
1918: Tún 2,6 ha, 4/5 slétt. Garðar 420 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Lágar, síðar Austurbær […] Lágar [stóðu] austan við Hraun,“ segir í örnefnalýsingu. Síðasti bærinn í Lágum var rifinn árið 2012 og var líklega á bæjarhólnum. Lágar eru 40 m norðan við Hraun og 50 m SSA við þúst. Á túnakorti Lága frá 1918 er sambyggður kálgarður sunnan við bæjarhúsin. Stafnar bæjarins snéru jafnframt í þá átt. Síðasta húsið í Lágum var á hægri hönd þegar ekið er yfir brú að eldri íbúðarhúsunum í Hrauni. Sá vegur liggur fast upp við bæjarstæðið til austurs. Þar er nú steinsteyptur grunnur en húsið er ennþá uppstandandi á loftmynd frá 1999.
Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarstæði Lága. Íbúðarhús og útihús voru byggð á 20. öld, líklega í bæjarstæðið. Þau hús hafa verið rifin og sléttað yfir svæðið.
Lítið sést til ummerkja um bæinn í Lágum. Þar sem bæjarhúsin voru er malarplan, fast suðaustan við steinsteyptan grunn útihúsa sem byggð voru á 20. öld. Mölin er á 20 x 8 m stóru svæði og snýr norðaustur-suðvestur. Malarpalnið er slétt en steypuleifar sjást víða. Óljóst mótar fyrir uppsöfnuðum mannvistarlögum fyrir norðaustan malarplanið. Þar er 0,5 m aflíðandi brekka í átt að fyrrnefndum malarvegi. Bærinn var upp á náttúrulegum klapparhól og sést víða í grjót.
Hraunshjáleiga (býli)
Hraunshjáleiga.
1708: „Sudur Hjáleiga, fjórða hjáleiga af heimajörðunni, bygð fyrir manna minni. Varaði bygðin þar til næstu fardaga. Síðan hefur verið þar fyrirvinnulaus kona, og er til vonar að hún viki þaðan á næstkomandi hausti.“ JÁM II, 432. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Nefnd Suðurhjáleiga í Jarðabókinni 1706. Hjáleigan var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1906 féllu not hennar til Lága“
Sunnlenskar byggðir III, 332.
1918: Tún 1.5 ha, 9/10 slétt. Garðar 868 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshjáleiga, sem oftar var nefnd Hjáleiga […] Hjáleigan er suður frá Hrauni, vestan lækjarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu.
Hraunshjáleiga er um 220 m sunnan við Hraun. Hesthús var byggð á 20. öld í bæjarstæðið og eru þau enn í notkun. Á túnakorti frá 1918, sést að kálgarður var sambyggður bæjarhúsunum til suðurs. Stafnar bæjarhúsanna snéru jafnframt í þá átt. Á túnakortinu eru sýndar traðir fast vestan við bæinn, þetta er framhald traða sem skráðar voru með Hrauni.
Engin ummerki bæjarstæðisins sjást á yfirborði.
Hraunshóll/Hóll (býli)
Hraunshóll.
1708. „Hooll, önnur hjáleiga, bygð fyrir manna minni. Jarðardýrleikinn talinn í heimajörðinni“. JÁM II, 431. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1905 féllu not hennar að jöfnu til Hrauns og Ytri-Grímslækjar.“ SB III, 332.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshóll […] Hraunshóll, sem oft var nefndur aðeins Hóll, er austan lækjarins, sunnan vegarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu. Hraunshóll er 60 m norðaustan við Hraun, austan bæjarlækjarins. Bæjarhóllinn er á tanga sem skagar til suðurs fram í bæjarlækinn, á milli tveggja uppsprettna. Bærinn var syðst á tanganum.
Bæjarhóllinn er á grasivöxnum tanga, um 5 m háum. Svæðið hefur verið ræktað án þess að sléttað hafi verið þar yfir. Brú yfir lækinn er um 10 m VSV við bæjarstæðið. Hóllinn sem bærinn var er 4 m hár og hlíðarnar brattar til suðurs, vesturs og austurs, niður í bæjarlækinn. Bæjarhóllinn sjálfur er 10 x 10 m að stærð, 0,4 m á hæð og sléttur að ofan. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til norðurs. Á bæjarhólnum er veggjabrot, líklega hluti af austurvegg. Hann er 6 m langur, 1,5 m breiður og 0,4 m á hæð. Veggurinn er algróinn og hvergi glittir í grjót.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.
Hraun – örnefnakort.
Ölfus – Bæir og nokkrar merkar minjar II
Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Núpa, Eystri-Þurá, Ytri-Þurá, Þóroddsstaði, Riftún, Bakka, Hjalla, Læk, Bjarnastaði, Þorgrímsstaði, Krók og Gerðakot, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:
Núpar (býli)
Núpar.
“Jarðardýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 420. 30 hdr. 1847. JJ, 75. Landnáma: „Álfur hinn egski stökk fyrir Haraldi konungi af Ögðum úr Noregi; hann fór til Íslands og kom skipi sínu í ós þann, er við hann er kenndur og Álfsóss heitir; hann nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum.“ ÍF I, 390.1397: „XCI. Gnwpar. Kirkia ad Gnupumm hins heilaga Þollaks a .xc. j heimalandi. viij. ær. rodukross oc annann til. kluckur .ij. oc er onnur brotin. kiertistikur .ij. alltaraklædi oc bryk. dvk. paxspialld eitt. portio Ecclesiæ vmm .iiij. ar .ix. aurar oc .iiij. alnar. Hefur Gudrydur oc Þorallr bondi hennar lated vppgiora ad ollu kirkiuna a fyrr greindum ärum. Hun a syna portionem vmm .vij. ar næstu halfur atiandi eyrer medann Þormodur hefr bved. Þar fylger Andres lykneski vmm þat framm sem adr er j maldagahennar oc alltarisdvkur.“ DI IV, 95-96.1575: „CXC. Nupar. Hälfkirkian ä Nupum ä xc. i heimalande.“ DI XV, 643. “Landamerki: Austan: Úr Fífuhólma í Álftarósi (Ósnefi ) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, síðan sama stefna norður í afrétt. Sunnan: Þorleifslækur. Vestan: Úr Strút um Þúfuhraun og í mitt Vatnsskarð og sömu stefnu í afrétt.” Ö-Núpur, 1. “Núpar er önnur af tveimur jörðum í Ölfusi sem nefndar eru í Landnámu. Það er allstór jörð, 18 hundruð að fornu mati, óskipt.” Sunnlenskar byggðir III, 345.1917: Tún 2.9 ha (Austurpartur) & 6.2 ha (Vesturpartur) alls 9.1 ha, allt slétt. Garðar 930 m2. (Austurpartur) & 1448 m2. (Vesturpartur) alls 2378 m2.
“Tvíbýli var lengi á Núpum og var skipting á túni og engjum mjög sérkennileg. Austurbær var 1/3 af jörðinni og var engjum skipt í þrennt og notaði Austurbær aldrei sama blettinn nema eitt ár í senn. Austurbæjarbóndi komst ekki á tún sitt, nemafara yfir tún Vesturbæjarbónda…,” segir í örnefnalýsingu.
Núpar.
Í Sunnlenskum byggðum II segir að á Núpum hafi verið tvíbýli a.m.k. frá 1729 er manntal ver tekið í Ölfushreppi. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Á Núpum eru nú þrjú býli en að sögn Hauks Gunnlaugssonar, heimildamanns, var tvíbýli hér eins langt og menn muna. Bæirnir voru sambyggðir, á bæjarhólnum og eru þar enn Núpar I og II eru á bæjarhólnum og einungis nokkrir metrar eru á milli húsanna. Húsin snúa norðaustur-suðvestur, meðfram hlíðinni og neðan við húsin þ.e. til suðausturs er brattur bakki. Húsin eru á brún þessa bakka. Á síðustu árum hefur mikil skógrækt verið í suðurhluta bæjahólsins. Allt svæðið fyrir sunnan húsið er innan bakgarða húsanna en til norðurs er malarplan.Ekki sést mikið til bæjarhóls þar sem húsin eru. Þau eru byggð 1910 og 1971 en ekki er búið í Vesturbænum lengur. Bæjarhóllinn var 50×30 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki er hægt áætla hæð hans á vettvangi vegna rasks. Malarvegur- og plan eru til vesturs en húsin eru á miðjum hólnum. Allt umhverfi s bæinn eru ræktuð tún.
Kirkja (kirkja)
Núpakirkja – tilgáta (ÓSÁ).
1397: XCI. Gnwpar. Kirkia ad Gnupumm hins heilaga Þollaks a .xc. j heimalandi. viij. ær. rodukross oc annann til. kluckur .ij. oc er onnur brotin. kiertistikur .ij. alltaraklædi oc bryk. dvk. paxspialld eitt. portio Ecclesiæ vmm .iiij. ar .ix. aurar oc .iiij. alnar. Hefur Gudrydur oc Þorallr bondi hennar lated vppgiora ad ollu kirkiuna a fyrr greindum ärum. Hun a syna portionem vmm .vij. ar næstu halfur atiandi eyrer medann Þormodur hefr bved. Þar fylger Andres lykneski vmm þat framm sem adr er j maldagahennar oc alltarisdvkur. DI IV, 95-96.1575: CXC. Nupar. Hälfkirkian ä Nupum ä xc. i heimalande. DI XV, 643. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1709 segir: “Munnmæli eru, að hjer hafi til forna kirkja verið, en engin sjást þess viss merki og eru því gátur einar.” “Kirkjufl öt: Smáfl öt suðaustur af Grjóttungu. Nafnið gæti bent til að þar hafi kirkjan verið, þó er það ólíklegt, því kirkjur stóðu oftast við bæina,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar kirkjan á Núpum var staðsett með vissu, hvergi hafa komið upp mannabein í námunda við bæinn svo vitað sé. Hugmyndir eru uppi um að útihús sé kirkjan, það verður að teljast afar ólíklegt fjarlægð frá bæ er það mikil. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja kirkjuna með innan við 50 m skekkju. Engin ummerki um kirkjuna sjást á yfirborði.
Núpasel I (sel)
Núpasel I.
Forn selstaða er um 870 m norðan við rétt 028 og rúma 2,2 km norðvestan við bæ, uppi á Núpafjalli. Á heimasíðu Ferlis segir: “Skv. heimildum Gunlaugs: „Ef stefnan er tekin á Skálafell og gengið u.þ.b. 400 metra? frá stígnum er komið að tættum – seli. Það er vel gróið og nánast horfið í jörðina. Tjörnin, Hurðarásvötn, er norðan við selið, en það á að vera um 200-300 m frá henni. Þarna hafa verið dýr á sumrin, enda skammt í vatn og hagar góðir.”
Selið er fast austan við Þurárhraun, á grónu svæði milli þess og Núpafjalls að austan.Þurárhraun er mosavaxið en nokkuð úfi ð. Tóftirnar eru hlaðnar undir austurbrún hraunsins en umhverfi s þær er gróinn mói. Þar er gras, lyng og mosi áberandi.Selið er á svæði sem er 55×12 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þar eru sex tóftir í þyrpingu. Tunga gengur til norðausturs ú15hrauninu, selið er þar undir. Í lýsingu þessari er hverri tóft gefi n bókstafur til aðgreiningar. Tóft A er norðvestust og einna best varðveitt. Hún er 7×5 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er hlaðin upp að hraunbrúninni til suðvesturs og er grjóthlaðin. Tóftin er opin til norðvesturs og er rétt eða nátthagi. Veggirnir eru 0,2-1 m á hæð, hæstir að innan. Hrun er í opi og mikið hefur jafnframt hrunið úr veggjum. Það eru 1-8 umför af steinum í veggjunum.
Núpasel II (sel)
Núpasel II.
“Seldalur: Gróin dæld upp frá Núpastíg. Þar lá gata. Stundum var slegið og flutt á klökkum niður Núpastíg,” segir í örnefnalýsingu. Tóft er tæpum 1,2 km norðvestan við bæ og 690 m suðaustan við rétt í Seldal. Selið er fast austan við Þurárhraun, í grónu viki norðvestast í dalnum. Seldalur er mosavaxinn og gróinn. Þurárhraun afmarkar hann til vesturs en Núpafjall til austurs, Mosi og gras er áberandi þar. Ein tóft sést í selstöðunni, líklega voru þær fleiri. Hún er í viki á milli tveggja hrauntungna og sést illa fyrr en að henni er komið. Tóftin er 7×5 m að stærð, einföld og snýr norðvestur-suðaustur. Hún er grjóthlaðin en gróið er yfir veggi, aðallega mosi. Mikið hrun er í veggjum. Tóftin er opin til suðausturs. Það má greina 1-3 umför af grjóti í veggjum sem eru 0,3-0,2 m á hæð. Tóftin er óskýr engu að síður. Jarðfastur klettur er hluti af suðurvegg, hann er 1,5 m á hæð. Þar við er grjóthrun og ekki útilokað að annað hólf eða skúti hafi verið þar. Ekki sjást fleiri mannvirki á svæðinu en tvær dældir eru fyrir suðvestan klettinn. Þar voru mögulega tóftir en ekki sjást hleðslur þar.
Camp Cameron (herminjar)
“Vorið 1941 sendu Bretar aftur herlið fram á Núpafjall. Gerðu þeir bílfæra braut, kílómetra langa, suður af Hellisheiðarvegi […]. Þaðan lá brautin vestan undir klettabelti um einstigi og á sveig niður í dalverpið norður af Hurðarásvötnum. Þar reistu þeir tjaldbúðir og eitthvað af bröggum fyrir veturinn […]. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum Suðurlands vorið 1942, yfirtóku þeir stöðvarnar á fjallinu af Bretum. Við Hurðarásvötn voru reistir einir 15 braggar. Þar var sett upp öflug dísilstöð og kampurinn raflýstur, en neyzluvatn sótt á tankbíl úr Hveragerði,” segir í Styrjaldarárin á Suðurlandi e. Guðmund Kristinsson. Camp Cameroner í hálfgrónu dalverpi ofarlega á norðausturhluta Núpsfjalli. Landið er smáhæðótt og er mosi mikill í sverði, þó stendur smágrýti og annað grjót sums staðar upp úr mosanum. Herminjar eru innan svæðis sem er 440×270 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi er teikning birt af braggahverfi nu, byggður á þeim minjum sem sáust á yfi rborði árið 1998. Teikningin er ekki í réttum hlutföllum, en sýnir ágætlega þær minjar sem sjáanlegar eru þegar komið er á vettvang. Grunnar rafstöðvarinnar er auðgreinanlegur, 16×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grunnurinn er steyptur til norðurs, en moldarborinn til suðurs. Talsvert er um rusl í og við grunninn, s.s. af bárujárni og glerbrotum.
Eystri-Þurá (býli)
Eystri-Þurá 1982.
“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 421. 30 hdr. 1847. “Öll Eystri-Þurá var 30 hundraða jörð… tvíbýlið þegar komið á árið 1801 en þá eru jarðirnar nefndar Þóroddsá. Jarðabókin 1708 talar hins vegar um Eystri-Þurá og Ytri-Þurá.” Sunnlenskar byggðir III, 343.1917: Tún 2.3 ha, 5/6 slétt (Frambær) & 2.9 ha, 2/3 slétt ( Norðurbær) alls 5.2 ha. Garðar 1218 m2. (Frambær) & 776 m2. (Norðurbær), alls 1994 m2.
Tvíbýli var á Eystri-Þurá, frá upphafi 19. aldar til loka þeirra 21. Bæirnir voru aðskildir í Frambæ og Norðurbæ og voru gerð sér túnakort fyrir sitt hvora bæina. Hér er verið að skrá Norðurbæinn. Óljóst vottar fyrir bæjarstæði Norðurbæjar, um 10 m norðan við bæ og rúmlega 220 m austan við Þorlákshafnarveg. Bærinn er merktur á syðstu mörkum túnsins, fyrir miðju, á túnakorti frá 1920. Skv. túnakortinu eru útihús innan heimatúns Norðurbæjar. Bæjarhóllinn er raskaður vegna trjáræktunar, og munu rætur þeirra ljóslega raska minjastaðnum í nánustu framtíð. Þó mótar ágætlega fyrir bæjarhólnum. Á ljósmynd í fórum Ara Eggertssonar, heimildarmanns, frá 1980 sést Norðurbær vel og snéru stafnar mót norðvestri.Bærinn var holti, þar sem nú er trjárækt. Suðvestan við hóllinn er heimreið að núverandi íbúðarhúsi á Eystri-Þurá og til suðausturs er bakgarður núverandi íbúðarhúss jarðarinnar; að öðru leyti eru tún umhverfis hóllinn. Bæjarhóllinn er 30×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Bæjarhóllinn er á greinilegur og er meiri gróska þar en annars staðar; bendir það til mannvistar undir sverði. Að sögn Ara Eggertssonar, heimildamanns, var bærinn rifinn skömmu eftir aldamótin 2000 og byggingarefni hans endurnýtt í tilfallandi byggingagerð.
Samkæmt túnakorti frá 1920 var Frambærinn um 10 m fyrir sunnan Norðurbæ, norðvestast í túninu. Á túnakorti er merktur bær, peningahús og kálgarður á bæjarhólnum en öll ummerki um mannvirki eru horfin af yfirborði. Núverandi íbúðarhús er byggt ofan í miðjan bæjarhólinn, báðir bæirnir voru á honum en ekki sambyggðir þegar túnakortið var gert. Ekki er víst að þeir hafi nokkurn tíma verið sambyggðir. Við lagfæringar á húsinu árin 2000-2008 kom m.a. í ljós hlóðaeldhús sem var rifið, fast norðan við húsið. Ekki var komið niður á aðrar mannvistarleifar. Kálgarðurinn var fyrir sunnan bæinn, í aflíðandi brekku. Stafnar bæjarins snéru líklega til norðurs eða suðurs. Bærinn var á náttúrulegu holti, Þurá rennur fast vestan þess. Núverandi heimreið kemur að bæjarhólnum úr norðvestri. Til annarra átta eru tún. Bæjarhóllinn er um 40×30 m og snýr austur-vestur. Ekki er hægt að segja til um hæð hans á yfirborði, hann er mikið raskaður. Búið er að byggja hús á honum miðjum og gera bakgarð umhverfis húsið. Malarplan er á hólnum sjálfum og stafnar bæjarins sneru til SSA. Til austurs sést ennþá kantur eða hlaðinn veggur. Hann er 0,3-0,8 m á hæð og liggur til austurs og sveigir síðan til suðvesturs. Mögulega er þetta hluti af kálgarðsvegg. Fyrir sunnan núverandi íbúðarhús, á mörkum bakgarðsins og bílaplans sést hluti af hlaðinni stétt sem tilheyrði gamla bænum.
Grænavik (býli)
Grænavik.
Í Sunnlenskum byggðum segir: «Grænavik var annar bær, austur við hraunið, í byggð um aldamót.» Í örnefnalýsingu segir: «Nokkru ofar, austur af bæjunum, er annað vik lítið og heitir Grænavik. Þar var áður fyrr tómthúskot, síðar sauðahús frá Norðurbæ og síðast fjarrétt.» Grænavik er rúmum 380 m austan við bæ og rúmum 250 m austan við Dimmuhól. Eftir að bærinn fór í eyði voru hér fjárhús. Minjarnar eru á grónum hraunhól og sjást víða að. Hóllinn er við vesturhlið Þurárhrauns og er mun umfangsmeiri en aðrir hólar á þessu svæði.Til norðvesturs er ræktað tún sem komið er í órækt. Til vesturs er vélgrafi nn skurður, vírgirðing er þar við. Gömul malarnáma er hér fast til austurs, við nátthaga. Hóllinn er 40×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Á honum er tóft, þústir og dældir sem í lýsingu þessari frá bókstaf til aðgreiningar. Tóft A er á suðurhluta hólsins, í tungu sem gengur til suðvesturs. Hún er 16×8 m að stærð, snýr norður-suður og er einföld. Veggirnir eru 3 m á breidd, grjóthlaðnir að utan en líklega torfhlaðnir að innan. Op er á miðri suðurhlið.
Hraunrétt (rétt)
“Um miðja vegu milli Vatnsskarðs og þjóðvegarins er fjárrétt austan undir lágri brún í hrauninu. Hún heitir Hraunrétt,” segir í örnefnaskrá. Hraunrétt er 840 m norðaustan við bæ. Hraunið er 1-1,5 m á hæð, réttin er í lágu viki austan við brúnina. Hraunið til austurs hefur verið sléttað og því raskað að hluta. Mosavaxið hraun er vestan við réttina, rétt suðaustan við Vatnsskarð. Hraunið klofnar hér og myndar græna eyju, réttin er vestarlega í því. Mosi og gras er áberandi. Réttin er 15×8 m að stærð og snýr norður-suður, Hún skiptist í tvö hólf, er grjóthlaðin og er mikið röskuð. Suðausturhluti hennar var líklega sléttaður og möl tekin þaðan.
Selás (sel)
Selás er fast vestan við Þurárhraun, uppi á heiðinni. “Í hraunbrúninni rétt fyrir austan Selás eru ógreinilegar rústir, sem gætu verið selsrústir. Við Selás voru setin lömb, meðan fært var frá,” segir í örnefnalýsingu. Selás er áberandi þegar komið er upp á heiðina. Hraunbrúnin er há austan við ásinn, hann er gróinn með moldarflögum. Selið er um 2,3 km norðan við bæ og rúmum 310 m suðaustan við vörðu. Selið er suðaustan við Selás, í gróinni lægð á milli tveggja hrauneggja. Selið er í hraunbrúninni en sést ekki fyrr en að því er komið. Selið er á svæði sem er 60×8 m að stærð og snýr norður-suður. Á milli eggjanna er grasivaxin lág, þar er selið.
Ytri-Þurá (býli)
Ytri-Þurá.
“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 421. 20 hdr. 1847. JJ, 75. “10 hundruð að fornu mati. Jörðin á land til fjalls.”1917: Tún 2 ha, 4/5 slétt. Garðar 936 m2.
“Niður frá fjallinu er mýrlendi nema þar sem bærinn stóð, vestan Þurárinnar,” segir í Sunnlenskum byggðum III. Bærinn er sýndur í norðvesturhluta heimatúns á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið er að Eystri-Þurá. Núverandi íbúðarhús jarðarinnar (b. 1997) er um 50 austan við bæjarhóllinn. Ekki er engur heilsársbúseta á jörðinni, en ábúendur dvelja þar stóra hluta af árinu. Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna byggingu frístundahúss (b. 1936), um 10 m sunnan við bæjarhóllinn. Jafnframt er búið að stinga trjágróðri meðfram norðurhlið bæjarhólsins og munu rætur þeirra ljóslega raska minjastaðnum í nánustu framtíð. Því til viðbótar liggur vírgirðing svo að segja norðvestur-suðaustur þvert í gegnum miðjan bæjarhóllinn. Bæjarhóllinn er á grösugu svæði og til suðurs er frístundahús. Þegar því sleppur tekur við sléttað tún, en inn á milli má sjá óræktuð svæði. Bæjarhóllinn er 40×20 m að stærð og snýr NNA-SSV.
Þóroddsstaðir (býli)
Þóroddsstaðir.
“Jarðdýrleiki xv og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 423. 16 hdr. Bændaeign. 1847. JJ, 75.1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi.“ Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn.“ DI XI, 472.“Sennilega landnámsjörð, kennd við Þórodd goða, föður skafta á Hjalla. 15 hundraða jörð að fornu mati.” Sunnlenskar byggðir III, 342.1917: Tún 1.9 ha, 2/3 slétt (Vesturpartur) & 1.8 ha, 3/4 slétt (Austurpartur), alls 3.7 ha. Garðar 1051 m2. (Vesturpartur) & 814 m2. alls 1865 m2.
“Bærinn stendur á grasbrekku. Landið þar fyrir neðan var blautt,” segir í örnefnaskrá. Tvíbýli var á Þóroddstöðum og voru bæirnir hlið við hlið, á sama bæjarhól. Þetta voru Austur- og Vesturbær. Þeir eru sýndir á túnakortum frá 1920. Um 5 m voru á milli bæjanna að sögn Tómasar Jónssonar, heimildamanns. Bærinn var fluttur um 50 m til vesturs árið 1936 og nú er búið að skipta báðum jörðunum í nokkur minni lögbýli. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Á bæjarhólnum er malarplan, núverandi vegur að bænum liggur þvert þarna yfir. Fyrir norðan bæjarhólinn eru útihús frá miðri 20. öld, á hólnum sjálfum eru ekki byggingar. Norðausturhluti bæjarhólsins er undir fyllingu, svæðið var jafnað út á síðustu öld, bæði sléttað yfir og fyllt meðfram hólnum. Mikið jarðrask er á þessu svæði.
Hvanngil (býli)
Hvanngil, nýbýli, var um 50 m suðaustan við bæjarhól Þóroddsstaða, útihús eru einnig fast þar til vesturs. Húsin á bæjarhólnum voru rifin og öllu rutt út. Jafnframt var komið með fyllingu og svæðið til austurs jafnað út. Á bæjarhólunum sjást ekki uppsöfnuð mannvistarlög og erfitt að áætla stærð hans. Hann var a.m.k. 60×30 m að stærð.
Torfakot (býli)
Þóroddsstaðir – túnakort 1918.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: «Skálholt og Torfakot hafa heitið tvær hjáleigur bygðar í heimalandi (í manna minni) á Þórustöðum, og varaði bygðin á hverugri lengi, þó skemur á Torfakoti. Í auðn hafa þær verið eflaust 14 eður 15 ár.” Í Sunnlenskum byggðum segir: “Í gömlum heimildum er talað um Torfatættur. Sáust leifar þeirra þegar Egill Steindórsson byggði þar bæ, sem nefndur var Litlibær. Þar var hann frá 1885 til 1905 ásamt konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur. Munu hafa haft litla grasnyt. Torfatættur munu eru það sama og Jarðabókin 1708 nefnir Torfakot…”. Torfakot er um 340 m suðvestan við bæ, á landamerkjum við Riftún. Búið er að slétta svæðið í tún. Engin ummerki um Torfakot sjást á yfirborði.
Skálholt (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: «Skálholt og Torfakot hafa heitið tvær hjáleigur bygðar í heimalandi (í manna minni) á Þórustöðum, og varaði bygðin á hvorugri lengi, þó skemur á Torfakoti. Í auðn hafa þær verið eflaust 14 eður 15 ár.» Ekki er vitað hvar Skálholt var staðsett, frekari heimildir þarf til þess.
Kirkja (kirkja)
Ómar Smári Ármannsson telur að kirkja hafi verið nyrst í heimatúni Austurbæjar. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Skammt frá eru kirkjuleifar og grafreitur frá árinu 1000, án þess þó að nokkur hafi veitt því athygli.“ Á loftmyndum frá því um 2000 sést móta fyrir hring í túninu rúmum 120 m norðan við bæ. Ekkert útihús er sýnt á túnakorti né eru til þekktar heimildir um bænhús, kirkju eða mannbeinafundi á jörðinni. Á loftmyndinni er hringurinn um 20 m í þvermál en hann sést ekki lengur á yfirborði. Öspum hefur verið plantað í tvöfalda röð umhverfis svæðið en innan þeirra er ræktað tún. Heimildamenn muna ekki eftir mannvirkjum þarna.
Hellir (fjárskýli)
Hellir.
[…] stóð sauðahús og vestan við það hellisskúti sem heitir Hellir, notaður sem fjárrétt,” segir í örnefnalýsingu. Hellirinn er um 230 m vestan við bæ og 20 m norðvestan við sauðahús. Stór, stakstæð björg og klettar mynda náttúrulegt vik og undir þeim er hellirinn til norðurs og minna gjögur þar suðaustar. Hellirinn er nánast í bakgarði nýbýlisins Þóroddsstaða. Trjárækt er suðaustan við hellinn en annars sléttar flatir. Hellirinn er 3×3 m að stærð og opinn til suðurs, Hann er náttúrulegur og hvergi sér til mannvistar. Hellirinn er 1 m á hæð og afmarkast sem fyrr af stakstæðum björgum og klettum. Hellirinn er norðvestast í vikinu en gjögrið er skammt suðaustar. Gjögrið er mun minna, 0,5 m á hæð og 2 m á lengd. Líklega var hlaðið hér fyrir eða timbur notað.
Riftún (býli)
Riftún.
Partur úr heimajörðinni, bygt fyrir 30 árum, innan 40 eður yfi r. Jarðdýrleiki v og so tíundast fjórum tíundum í næstliðin 7 ár. Áður var það kölluð hjáleiga, og var þá dýrleikinn talinn í heimajörðinni sjálfum Þórustöðum, og hún þá kölluð xx öll” JÁM II, 423. “Eigi heldur þessarar jarðar getur stólsjarðabókin, en seld er hún, sem eyðistólsjörð (1798), með hér greindum dýrleika og lsk., fyrir 67 rd. Hreppstjórinn telur hana 10 h. dýrleika.” JJ, 76.1917: Tún 2.3 ha, 8/9 slétt. Garðar 1760 m2.
“Bærinn stóð áður í miðri brekkunni. Árið 1942 byggir Kristján Teitsson íbúðarhús í gamla túnjaðrinum niður við veginn – ásamt peningshúsum,” segir í Sunnlenskum byggðum.
Riftún.
Nokkuð áberandi bæjarhóll er um 120 m VNV við Riftún 2 (b. 1965) og tæpum 230 m vestan við Þorlákshafnarveg. Bærinn er taðsettur fyrir miðju heimatúns eins og það er afarkað á túnakorti frá 1920 og er kálgarður sambyggður bæjarhúsinu til norðurs og austurs. Skv. túnakortinu snéru stafnar bæjarins til suðurs. Bæjarhóllinn er í grasríku og smáþýfðu landi. Búið er að slétta túnið og hefur það ljóslega raskað hólnum að stórum hluta. Bæjarhóllinn er 22×20 m að stærð og snýr svo að segja norðaustur-suðvestur. Hóllinn er mikið raskaður vegna túnasléttunar og er mesta hæð bæjarhólsins 0,3 m. Þar er gróður áberandi grænni samanborið við umhverfi ð í kring og hávaxnari, og bendir það til mannvistar undir sverði. Bæjarhóllinn er á kafi í grasi og ekki sér móta hólfum eða dældum á því. Hér og þar glittir þó í stæðilegt grjót sem líklega eru leifar veggjar. Grjóthrúga er um 90 m austan við bæjarhóllinn sem vísast til eru hleðslusteinar frá bænum og hefur þeim verið hrúgað þar þegar túnið var sléttað.
Strokkhellir (fjárskýli)
Strokkshellir.
“Í mörkum upp við klettana er lítill skúti sem heitir Strokkhellir, af því að kona nokkur faldi þar strokkinn sinn,” segir í örnefnalýsingu Riftúns. Strokkhellir er rúmum 230 m suðvestan við bæ og um 170 m NNV við Markastein. Hellirinn er vestan við landamerki Hjalla eins og þau eru í dag. Hellirinn er einnan skógræktar svæðis, sumarbústaður er þarna sunnar og hlaðin rétt. Hellirinn er undir hömrum, neðarlega í brekku. Hann er 3×3 m að innanmáli og stór stakstæður steinn lokar honum að hluta. Hann er opin til suðausturs. Hleðslubrot er ofan á honum. Það sést eitt umfar af steinum þar ofan á lofthæðin inni í hellinum er 1,5 m. Ekki er að sjá önnur mannaverk.
Bakki (býli)
Bakki túnakort 1918.
“Jarðardýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 424. 1382-91: Mádagi Hjallakirkju. DI IV: 97 1400: Mádagi Hjallakirkju. DI IV: 243-244. 1575: Máldagi Hjallakirkju. DI XV: 642-643.“Bakki er hluti af Hjallatorfu, með sameiginlegum landamerkjum út á við, og sameiginlegu beitilandi á miklu leyti. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl. Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segir landamerkjabréf.” Ö-Bakki.
1917: Tún 2.3 ha, 5/6 slétt (Austurbær) & 2.4 ha, 5/6 slétt (Vesturbær), alls 4.7 ha. Garðar 750 m2. (Austurbær) & 896 m2. (Vesturbær), alls 1646 m2.
Í örnefnaskrá Bakka segir: «Bakki stendur á lágu holti niðri við mýrina, engjarnar.» Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1920 af austurbæ og vesturbæ Bakka og sést að hann hefur verið sambyggður. Á bæjarhólnum voru heygarður, heyhlaða og peningshús. Stafnar snéru til suður eða norðurs. Staðsetning Bakka er einnig merkt inn á örnefnuppdrátt Ingólfs Einarssonar frá 1968 sem er lauslega teiknaður upp eftir loftmynd. Ekki eru til neinar upplýsingar um gömlu bæjarhúsin en þau hafa líklega verið rifin áður en ný íbúðarhús voru byggð á svæðinu; árið 1931 á vesturbænum og árið 1947 á austurbænum. Nýju íbúðarhúsin voru ekki sambyggð líkt og hafði verið áður eins og sést á mynd í ritinu Sunnlenskar byggðir III. Bæjarhúsin á Bakka hafa nú verið rifin og engin íbúðarhús standa nú á bæjarhólnum. Nýleg útihús standa vestan við bæjarhólinn. Þó er enn búið á jörðinni á Bakka, á nýbýli sem kallast Bakkatjörn og er rúmum 520 m vestan við bæ. Þar er íbúðarhús og tvö nýleg útihús.Svæðið er grasi vaxið og mikil hvönn vex á svæðinu. Malarfl ákar sjást innan gróðurþekjunnar þar sem bæjarhúsin stóðu og lítil brekka er sunnan við bæjarstæðið sem liggur niður að myrinni. Tvö nýleg útihús eru í vesturjaðri hans. Vísir af bæjarhól sést á svæðinu og er hann 34×25 m að stærð og snýr VSV-ANA. Bæjarhólinn hefur að öllum líkindum verið ruddur niður og sléttaður enda sést lítil uppsöfnun mannvistarlaga. Hann er flatur að ofan og sést í möl þar annað hús Bakka hefur staðið.
Gapi (fjárskýli)
Gapi.
“Gapi heitir hellisskúti í snös fram úr hlíðinni skammt fyrir utan Riftúnsmörk. Þar sér fyrir gamalli hleðslu,” segir í örnefnalýsingu. Gapi er rúmum 1 km norðan við bæ. Hellirinn er efst í Bakkabrekku sem er til suðurs, niður Neðrafjall. Þegar skrásetjari var á ferðinni var snjór inni í hellinum en hluti af hleðslu sást engu að síður austast í hellinum. Sé tekið mið af staðsetningu er um fjárskýli að ræða. Bakkabrekka brött og klettabelti eru efst í henni. Víða eru grjótskriður og stök björg. Inn á milli eru gróin svæði. Hellirinn er efst í brekku, klettar eru til austurs og vesturs frá honum. Hellirinn er um 8×6 m að stærð og hvelfi ng hans bogadregin. Opið er um 6 m hátt og lítið skjól er inni í hellinum. Það mótar fyrir hleðslu austast í opinu en snjór var yfir stórum hluta hennar. Hleðslan er um 6 m löng, 2 m á breidd 0,2 m á hæð og óskýr. Það glitti í eitt umfar af grjóti þar sem snjór lá ekki yfir.
Hjalli (býli)
Hjalli.
“Jarðardýrleiki lx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 425. 1000-1030: „[Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja] Váru þeir allir jarðaðir at þeiri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeira í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at kapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hon var at léreptum sínum.“ Flóamannasaga, ÍF XIII, 325-326. c.
1200: Kirknaskrá Páls. DI XII: 8.1382-91: „XCIII. Hialle. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa. xij. kyr. iij. hundradz hross. vidreka j Kiefl avijk. biargfesti edur hvd. lykakrak. kaleik. alltaraklædi .ij. kantarakäpur .ij. dvkar med liereptt. merki .iiij. kluckur. ein messuklædi ad ollu. sacrarium mvvnlaug .ij. krossa. glerglugg. glodarkier. Graduale per Anni circulum. Mariuskriptt. Olafsskriptt. vattzkietill. paxspialld. fonts vmbuningur med skyrnarsä. Þar skal vera heimilis prestskylld. kross yfer alltari med vnderstodum. tialld vmm kor. dvk yfer Olafs lykneski. messuklædi. ny bryk yfer alltari. tuær kiertistikur med kopar.“
1397: „Hun a ad auk þess sem skrifad er j maldaga herra Michæls .ij. kyr. glodarkier. elldbera. messuklædi ad ollu. alltarisklædi .iij. med dvkum. lagdi þetta til Nichulas bondi allt saman .vjc. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xiijc. oc x. aurar.“ DI IV: 97.
1400: „Maldage Hialla kirkiu. Suo mikid gotz kirkiunnar ä Hialla og stadarens. Jn primis J fi rstu einn gradall vondur og annar alfær. ottusaunguabok. salltare. vondan kirial. einn kalekur. ij messuklæde. iij klukkur. iij tinfot. ein skaptpanna. einn pottur. xix kyr. xxx asaudar. Jtem a Hiallakirkia landed [ä] Backa frä Sandvade sionhendijng j klettinn fyrer austan backa j huerholmunum. Og þadan j þufuna fyrer austan hellrana og so j austanversann hest. Hier med a Hialle landed vestur j lækiarbotnalæk og j gard þann sem liggur firir utan borgarstigenn j goturnar under fi alled og fi alled alltt gagnvartt a motz vid skog hlijdarenda enn ytra. alla longuhlijd j sanddale. rædur þa merkium gata su er þar liggur. a þa Hialle enn nordara partt. reykiafell og laka med. Somuleides a Hialle hws og skipstodu frij j Thorlakshofn. enn þeir sem j Thorlakshofn bua eiga stodhrossa beit j Melsmyre. So og a Hialla kirkia reka og fiorufar a Keflavijk ä motz vid nes. datum m. cccc.“ DI IV: 243-244 [AM 66A 8vo, bl. 5a-b, skr. 1612].
Hjalli 1898.
1549: „Anno m vc xl. ix so miked afhendte Eyolfur Jonsson syne sijnum Pale Eyolfssyne med kirkiunne. vij kyr. ij asaudar kugillde. ij naut tuævetur. messuklæde. kalek. kluckur. ij. Máld DI XI 740 [AM 66A 8vo, bl. 5b, skr. 1612]1575: CLXXXVIII. Kirkian ä Hialla i Olvese. ä landid ad Backa. vidreka i Kiefl avijk. Biargfeste edur hud og fi orufar skipslaudu i Thorlakshofn. enn their sem i Thorlakshofn bua. eiga stödhrossabeit 82i Melsmelamijre. Jtem viij kijr og äsaudarkugillde. thar eru ij naut ij vetur. Jtem Jnnann kirkiu. ein messuklædi og laus haukull thar til. iij Skrædur vondar. Jtem kaleikur. ij kluckur vænar og ein körbialla. glödarkier vondtt. Jtem eirn Davijdz psalltare gamall.“ DI XV: 642-643.
Hjalli 1957.
“Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfi ng undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi, 1. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl . Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segjir landamerkjabréf.” Ö-Bakki, 11917: Tún 6.6 ha, 9/10 slétt. Garðar 3442 m2.
“Eins og venjulega stendur bærinn dálítið hærra en umhverfið, austan við bæ er kirkjan, en lítill lækur fyrir vestan.” «Hjalli stendur nokkuð frá fjallshlíðinni, á hæð nokkurri, örlítið hærra en hinir bæirnir,» segir í örnefnaskrá. Bærinn stendur nálægt núverandi akvegi, norðan og vestan meginn við kirkju og kirkjugarð. Árið 1928 var byggt hús á bæjarhólnum, en útihúsin eru yngri, sennilega frá 1940-1950 eða þar um bil. Gryfja er undir öllum útihúsum, bæjarhólnum var öllum rutt til og honum breytt. Hóllinn var jafnaður út, brattar brekkur lágu upp að þáverandi húsi sem einnig voru jafnaðar út. Þær sjást vel á ljósmynd sem varðveitt er í Sarpi og tekin er 1898. Þegar grafið var fyrir bílskúrnum á 9. áratug síðustu aldar fannst mikið af beinum, þá talið gamal mok úr kirkjugarðinum. Ekkert af því voru hauskúpur en timburkirkja var þarna áður en núvernaid kirkja var reist. Að sögn Finnboga Vikar, heimildamanns, var oft grafið í eldri grafnir en þegar núverandi kirkja var byggð var kirkjugarðurinn stækkaður. Þegar grafið var fyrir leiðslu á milli íbúðarhússins og og bílskúrs var komið niður á stóra steina og kvarnastein sem er í garðinum. Gamli bærinn snéri framhliðum til suðurs. Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á þessu svæði að þar verður tæplega neitt fundið af bæjarhólnum.
Hjallakirkja (kirkja)
Hjallakirkja 1927.
“Hjallakirkja stendur austan við bæinn. Kring um hana er kirkjugarður,” segir örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Líklegt má teljast að elsti kirkjugarðurinn [í Ölfusi] sé Hjalli. Slíkur höfðingi sem Skafti Þóroddsson var hefur fljótt látið kirkju gera. Fyrsta skráða heimildin um Hjallakirkju er frá 1200 … Kirkjan á Hjalla var Ólafskirkja. Hún var bændakirkja allt til 1928. Þá var kirkjuhúsið byggt upp og söfnuðurinn tók við henni. Kirkjan var gerð úr steinsteypu, 300 m3 með gotneskum gluggum. Teikningu gerði Þorleifur Eyjólfsson frá Grímslæk. Yfirsmiður var Kristinn Vigfússon á Selfossi. Í kirkjunni er raflýsing og rafhitun. Grafreitur er við kirkjuna, girtum hlöðnum veggjum prýðilegum.”
1000-1030: „[Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja] Váru þeir allir jarðaðir at þeiri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeira í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at Skapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hon var at léreptum sínum.“ Flóamannasaga, ÍF XIII, 325-326. c. 1200: Kirknaskrá Páls. DI XII: 8.1382-91: „XCIII. Hialle. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa. xij. kyr. iij. hundradz hross. vidreka j Kiefl avijk. biargfesti edur hvd. lykakrak. kaleik. alltaraklædi .ij. kantarakäpur .ij. dvkar med liereptt. merki .iiij. kluckur. ein messuklædi ad ollu. sacrarium mvvnlaug .ij. krossa. glerglugg. glodarkier. Graduale per Anni circulum. Mariuskriptt. Olafsskriptt. vattzkietill. 83paxspialld. fonts vmbuningur med skyrnarsä. Þar skal vera heimilis prestskylld. kross yfer alltari med vnderstodum. tialld vmm kor. dvk yfer Olafs lykneski. messuklædi. ny bryk yfer alltari. tuær kiertistikur med kopar.“
Hjallakirkja.
1397: „Hun a ad auk þess sem skrifad er j maldaga herra Michæls .ij. kyr. glodarkier. elldbera. messuklædi ad ollu. alltarisklædi .iij. med dvkum. lagdi þetta til Nichulas bondi allt saman .vjc. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xiijc. oc x. aurar.“ DI IV: 97.
1400: „Maldage Hialla kirkiu. Suo mikid gotz kirkiunnar ä Hialla og stadarens. Jn primis J fi rstu einn gradall vondur og annar alfær. ottusaunguabok. salltare. vondan kirial. einn kalekur. ij messuklæde. iij klukkur. iij tinfot. ein skaptpanna. einn pottur. xix kyr. xxx asaudar. Jtem a Hiallakirkia landed [ä] Backa frä Sandvade sionhendijng j klettinn fyrer austan backa j huerholmunum. Og þadan j þufuna fyrer austan hellrana og so j austanversann hest. Hier med a Hialle landed vestur j lækiarbotnalæk og j gard þann sem liggur fi rir utan borgarstigenn j goturnar under fi alled og fi alled alltt gagnvartt a motz vid skog hlijdarenda enn ytra. alla longuhlijd j sanddale. rædur þa merkium gata su er þar liggur. a þa Hialle enn nordara partt. reykiafell og laka med. Somuleides a Hialle hws og skipstodu frij j Thorlakshofn. enn þeir sem j Thorlakshofn bua eiga stodhrossa beit j Melsmyre. So og a Hialla kirkia reka og fi orufar a Keflavijk ä motz vid nes. datum m. cccc.“ DI IV: 243-244 [AM 66A 8vo, bl. 5a-b, skr. 1612].
1549: „Anno m vc xl. ix so miked afhendte Eyolfur Jonsson syne sijnum Pale Eyolfssyne med kirkiunne. vij kyr. ij asaudar kugillde. ij naut tuævetur. messuklæde. kalek. kluckur. ij. Máld DI XI 740 [AM 66A 8vo, bl. 5b, skr. 1612].
1575: CLXXXVIII. Kirkian ä Hialla i Olvese. ä landid ad Backa. vidreka i Kiefl avijk. Biargfeste edur hud og fi orufar skipslaudu i Thorlakshofn. enn their sem i Thorlakshofn bua. eiga stödhrossabeit i Melsmelamijre. Jtem viij kijr og äsaudarkugillde. thar eru ij naut ij vetur. Jtem Jnnann kirkiu. ein messuklædi og laus haukull thar til. iij Skrædur vondar. Jtem kaleikur. ij kluckur vænar og ein körbialla. glödarkier vondtt. Jtem eirn Davijdz psalltare gamall.“ DI XV: 642-643. Núverandi kirkja er reist um 1930, á undan henni var tiburkirkja á sama stað. Krikjugarðurinn var stækkaður við endubygginguna en ekki er vitað til hvaða átta. Kirkjugarðsveggurinn er hlaðinn að utan en að innan sést hann ekki.Þegar ekið er til norðurs að bæ, blasir kirkjan við á miðju bæjarhlaðinu. Kirkjan og kirkjugarðurinn sjást enn. Líklega er ekki ýkja langt síðan kirkjugarðsveggurinn var hlaðinn eða lagfræður. Fjölmörg leiði eru í kirkjugarðinum sem enn er í notkun.
Hjallarétt (rétt)
Hjallarétt.
“Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust,” segir í örnefnalýsingu. Um 1980 var heimildum um helstu menningarleifar hreppsins afnað saman að frumkvæði Ölfushrepps. Þar segir: „Hjallarétt er austan Hjalla og hefur verið aðal sundurdráttarrétt fyrir Hjallasókn.” Bakkarétt er rúmum 670 m norðaustan við bæ og um 470 m norðan við Móakot. Réttin er hlaðin upp við kletta og inn á milli stakstæða steina og er mikið skemmd. Bakkarás hefur brotið sér leið í gegnum réttina og skemmt eitt hólfið og almenninginn. Réttin er við landamerki Hjalla og Bakka.Réttin er hlaðin vestan Bakkarásar, stór björg hafa hrunið hér niður og notuð sem hluti af veggjum. Umhverfis réttina eru malarskriður en tún eru til suðurs. Réttin er 35×30 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur og skiptist í fimm hólf. Ekki er itað hversu margir dilkar voru í réttinni. Hún er mikið röskuð og af þeim sökum er lýsingin brotakennd. Ekki er vitað hversu margir bæir notuðu réttina en gera má ráð fyrir að flestar jarðirnar í Hjallahvefi hafi gert það samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Réttin er grjóthlaðin og stakstæð björg eru víða hluti af veggjum. Sum þeirra eru 2-3 m á hæð. Til austurs er hólf 1. Það er 11×8 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er opið til vesturs, inn í almenninginn (sjá hólf 5) og annað op er til austurs, út úr hólfi nu. Veggirnir eru 0,2-1,2 m á hæð og má greina 4-5 umför í veggjum. Stórt bjarg afmarkar norðurhlið hólfsins að mestu. Annar stein er í norðvesturhorni, uppi á honum er jafnframt hleðsla. Hólf 2 er NNV við hólf 1 og er mikið skemmt. Það er 6,5×4 m að innanmáli og snýr norður-suður. Gólfið er 1 m hærra en í hinum hólfunum. Bakkarás rennur í votviðrum í gegnum hólfið og raskar því mikið. Veggirnir eru 0,3-1,5 m á hæð og eru hlaðnir upp á steinum og inn á milli þeirra.
Bolasteinn (þjóðsaga/rétt)
Í örnefnaskrá Hjallahverfi ssegir: «Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.» Bolasteinn er rúmum 2,6 km suðvestan við bæ og Tíðgata lá fast sunnan hans. Bolasteinn er á grónu svæði neðan (sunnan) við Neðrafjall, á milli brekkna og sumarhúsa sem þar eru. Bolasteinn sést enn og grjóthlaðin fjárrétt er sambyggð honum til austurs.Fyrir sunnan steininn eru a.m.k. fjórar sumarhúsalóðir og mikil trjárækt á þeim fl estum. Gróið svæði er við steininn og innan í réttinni.Bolasteinn sést vel. Hann er um 4×3,5 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur og hliðar hans um 4 m á hæð. Þær eru brattar og erfitt að komast upp á steininn. Fyrir austan steininn er grjóthlaðin rétt. Hún er um 9×5 m að stærð og er einföld. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,2-0,4 m á hæð og það má greina 13 umför af grjóthleðslu í þeim. Í norðvesturhorni er jarðfastur steinn hluti af veggjum, hann er mun minni en Bolasteinn. Austurhluti réttarinnar er einna best varðveittur. Réttin er opin til suðurs, við Bolastein.
Selbrekkur (sel)
Hjallasel.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Í brúninni vestur af Bröttubrekku, og nokkru lægri, eru Selbrekkur, algrónar.» Selið er tæpa 2,5 km norðvestan við bæ og tæpa 1,3 km norðan við beitarhús. Það er uppi á svokölluðu Efrafjalli. Selið er í gróinni kvos, sunnan undir lágri brekku. Ekkert vatn eða hellir er hér nærri og ljóst að vatnsskortur hlýtur af hafa haft áhrif á starfsemi á staðnum. Svæðið næst minjunum er gróið grasi og mosa. Víða eru klapparhólar og rof, utan við gróna svæðið. Selið sést ekki fyrr en komið er í kvosina. Svæðið er 30×20 m að stærð og snýr austur-vestur. Þrjár tóftir og eitt garðlag eru þar og fá þau bókstaf til aðgreiningar í lýsingu þessari.
Lækjarborg (sel/stekkur)
Lækjarborg.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: « Vestan við Selbrekkur verður rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar eru rústir sels eða stekks, og heitir Lækjarborg.» Lækjarborg er uppi á Hjallafjalli, 1,7 km vestan við bæ og 740 m norðan við Sólstígsvörðu. Tóftin er á lágum grónum hól með útsýni til allra átta, innan skógræktarsvæðis á Hjallafjalli. Engum trjám hefur verið plantað í 10-15 m fjarlægð frá tóftinni. Hóllinn er að mestu gróinn en umhverfis hann er melur og rof í gróðurþekjunni. Þar vex að mestu mosi, lyng og gras.Hóllinn er grasi gróinn og ólíkur öðrum hólum í kring. Hann er 24×24 m að stærð. Líkast til hefur þetta verið stekkur en vera kann að eldri minjar sels leynist undir sverði á svæðinu líkt og heimildir bera vitni um. Hóllinn er ólíkur öðrum hólum í kring vegna mikillar grænku.
Fjallsendaborg (fjárskýli)
Fjallsendaborg.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Aðeins vestan við hann [Skjólgarð] er Fjallsendaborg, gömul fjárborg.» Tóft er við vesturenda á Hjallafjalls, tæpum 3 km vestan við bæ og tæpum 760 m norðvestan við Steinkustíg.Tóftin er byggð upp við klettahól að sunnan. Trjám hefur verið plantað um 5 m vestan og sunnan við tóftina. Tóftin er 15×13 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er nánast hringlaga og byggð upp við klett að sunnan. Hún er mjög gróin og ekki sést í neitt grjót þó ætla megi að hún sé grjóthlaðin. Veggir eru 0,8-1,2 m að hæð, afl íðandi og mjög breiðir, allt að 4 m. Innanmál tóftarinnar er 5.5 x 5.5 m. Líklega var op á suðvesturhlið en þar er veggurinn mun lægri. Veggir eru hæstir til suðurs, upp við klettahólinn.
Lækur (býli)
Lækur í dag.
“Lækur, fimta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM II, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðjuhverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl. Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segjir landamerkjabréf.” Ö-Bakki, 1.
1917: Tún 2.6 ha, 5/6 slétt. Garðar 752 m2.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Lækur er vestan Bæjarlækjar, vestur frá Hjalla. Gamla gatan lá úr Hjallavaðli suðurfyrir Lækjartún, en þar skiptist í Norðurtún norðan bæjar og Framtún sunnan bæjar. Nú liggur vegurinn yfir Framtúnið.» Í Jaðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: «Lækur, fimta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.» Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1920, við austurjaðar heimatúnsins. Heygarður er merktur norðan við bæ, á bæjarhólnum.
Lækur um 1900.
Samkvæmt Hirti Jónssyni og móður hans Sigurhönnu Gunnarsdóttur, stóð gamli burstabærinn nokkru norðan við núverandi íbúðarhús. Þar er malarhlað, austan við gömul hesthús sem enn standa, norðan við núverandi íbúðarhús. Sögusagnir frá svæðinu herma að Hjalli og kirkjan þar hafi eitt sinn staðið vestan við lækinn sem rennur á milli bæjanna (Læks og Hjalla) en hafi snemma á öldum verið fært austur yfir bæjarlæk, þar sem hún stendur nú. Sigurhanna og Hjörtur eru þess fullviss að þetta elsta bæjarstæði Hjalla og gamla bæjarstæði Lækjar hafi verið á sama stað enda sé bæjarstæðið krökkt af minjum og hvergi sé hægt að grafa án þess að rekast á minjar. Hjörtur og Sigurhanna hafa í fórum sér ljósmynd þar sem bæjarhúsin, kálgarður og brunnur sjást vel. Ljósmyndin var tekin af bæjarhúsunum og íbúum þeirra um aldamótin 1900. Malarplan er norðan við íbúðarhúsið og einnig nokkuð nýleg útihús. Bæði Hjörtur og Sigurhanna muna vel eftir burstabænum. Fjórar burstir voru á bænum, í röð á bæjarhólum frá vestri – austurs, og snéru til suðurs. Vestast var hlaða, í miðjunni var baðstofan, svo betri stofan og austast var fjósið. Vestustu burstirnar þrjár voru rifnar árin 1965-70 en fjósið fékk hinsvegar að standa lengi og var rifið í kringum árið 2008. Torf- og grjóthleðslur voru á milli burstanna og voru tröppur upp hleðslurnar á milli hlöðunnar og baðstofunnar svo hægt var að ganga þar yfir. Stór bæjarhóll sást lengi aftan við bæjarhúsin en hann var einnig sléttaður út á árunum 1965-70. Hjörtur var ekki á staðnum þegar húsin voru rifi n og man því ekki eftir hvort einhverjar byggingaleifar hafi komið upp við það. Í dag sjást lítil sem engin ummerki um bæjarhólinn en má ætla að mikið sé um minjar undir malarplaninu þar sem bærinn stóð, þó svo að yngstu minjunum hafi líklega verið raskað mikið þegar hóllinn var sléttaður út. Samkvæmt túnakortinu frá 1920 hefur
bæjarhóllinn verið 50×45 m og snúið norður-suður.
Bjarnastaðir (býli)
Bjarnastaðir.
“Bjarnastaðir, sjötta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 428. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er jalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1.
1917: Tún 3.8 ha, allt slétt. Garðar 1191 m2. “Bjarnastaðatún er kring um bæinn, austur að Þorgrímsstaðatúni, vestur að Svartamóa, ofan lækjartúns.” Ö-Hjallastaðahverfi.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Bjarnastaðir eru uppi við Hjallafjall þar sem það er hæst, norður frá læk.» Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, fyrir miðju heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Núverandi íbúðarhús er skammt suðvestan við bæjarhólinn en núverandi útihús eru á miðjum bæjarhólnum og ná yfir hann allan. Lítið sem ekkert sést af honum á yfirborði. Gróin tún, nýtt til beitar eru allt umhverfis bæjarhólinn. Á honum sjálfum eru útihús og malarplan. Bæjarhóllinn sést ekki á yfirborði, núverandi íbúðarhús er í suðausturhorni hólsins en yfir norðurhlutanum eru útihús og malarplan til vesturs. Hvegi sést upphækkun á yfirborði. Bæjarhúsin á túnakorti eru um 35 m að lengd og 10 m á breidd sem gæti gefið hugmyndir um stærð bæjarhólsins við upphaf 20. aldar.
Þorgrímsstaðir (býli)
Þorgrímsstaðir.
“Þorgrímsstader, hjáleiga af heimajörðinni, bygð fyrir manna minni. Jarðdýrleiki kallaður x…“ JÁM, 426. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1.
1917: Tún 2.2 ha, 5/6 slétt. Garðar 876 m2. “Túnið var allt í kring um bæinn og skiptist í Heimatún, kring um bæinn, austur að Þorgrímsstaðagili… Túnið austan gilsins nær austur að Króksrás og heitir Kinn.” Ö-Hjallahverfi.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Þorgrímsstaðir stóðu austur frá Bjarnastöðum, fyrir botni Bæjarlækjar. […] Nú eru allar byggingar afmáðar á Þorgrímsstöðum». Þorgrímsstaðir eru nefndir í Jarðabók Árna og Páls frá 1708 og þar er bærinn sagður hjáleiga frá Hjalla sem byggð var fyrir manna minni. Þorgrímsstaðir eru staðsettir rúmum 220 m norðaustan við Bjarnastaði og tæpum 180 m vestan við Krók. Þar er aflangur bæjarhóll í túninu þar sem Þorgrímsstaðir stóðu. Svæðið hefur að mestu verið sléttað í tún. Norðaustan við bæinn er grýtt lækjargil, um 4-5 m djúpt. Allar minjar á bæjarhólnum hafa verið rifnar niður og hann sléttaður og má ætla að yngstu minjarnar séu að mestu leiti horfnar. Hóllinn sem sést í túninu er 34×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er mun greinilegri neðar í túninu en fjarar út ofar. Hann er ekki mjög hár, aðeins um 0,5 m á hæð. Miðað við að búið var á bænum að minnsta kosti í 3. aldir, líklega lengur, má ætla að enn leynist óraskaðar minjar í túninu. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðausturs.
Biskupaleiði (örnefni)
Biskupaleiði.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Þar í brekkurótunum, austan og ofan bæjarins er húslaga steinn sem heitir Álfakirkja. Neðan við hana eru þrjár þúfur sem heita Biskupaleiði. Þar hvíla huldufólksbiskupar. Aldrei má slá Biskupaleiðin né slétta þau út.» Biskupaleiði eru 4 m sunnan við Álfakirkju og rúmum 45 m norðaustan við bæ. Þýfð og grasi vaxin brekka í rótum fjallsins. Svæðið er allt fremur þýft en þó sjást enn þrjár stærri þúfur en aðrar, beint sunnan við Álfakirkju. Þúfurnar eru á svæði sem er 2×2 m að stærð. Þær liggja í röð frá austri til vesturs, þúfan í miðjunni er stærst þeirra. Þúfurnar eru um 0,6-1 m í þvermál og um 0,5 m á hæð.
Krókur (býli)
Krókur.
“Krókur, önnur hjáleiga, nú í eyði síðan í næstliðnum fardögum, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…» Ö-Hjallahverfi , 1.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Krókur, líka nefndur Hjalla-Krókur er norðaustur frá Hjalla og nær hlíðinni.» Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir um Krók: «Krókur, önnur hjáleiga, nú í eyði síðan í næstliðum fardögum, bygð fyrir manna minni.» Í Sunnlenskum Byggðum III segir: « Ein af Hjallajörðunum, 5 hundruð að fornu mati og því um tólfti hluti Hjallatorfunnar. Bærinn stendur undir brekkunni, austan lækjarins. Jörðin notar norðurhluta landsins.» Samkvæmt túnakorti Króks frá 1920, var gamli bærinn staðsettur við miðjan vesturjaðar gamla heimatúnsins. Jón Ögmundsson, bóndi á Hjallakrók, man eftir húsum frá gamla bænum sem hafði þá verið í eyði í einhvern tíma, líklega frá því að nýtt íbúðarhús var byggt 100 m norðaustar á bæjarstæðinu, árið 1946. Jón sagði húsin hafa verið hrörleg þegar hann keypti landið og að þau hafi öll staðið á ama blettinum, bæjar- og útihús. Ábúð á Króki var stopul á seinni árum en samkvæmt jarðarbókinni var bærinn í eyði árið 1708. Ekki er vitað hvenær jörðin byggist aftur upp. Ábúð hefur þó haldist frá 1892-1975. Á og við bæjarhólinn eru nú gróðurhús og gámar, vestan við heimreiðina þar sem hún beygir til norðurs í átt að núverandi íbúðarhúsi. Ræktuð tún í kring en smávegis trjáreitur norðan við. Lítil hólmyndun sést á svæðinu, aðallega til suðausturs. Bærinn stóð norðan við gróðurhús þar sem nú eru geymd ýmis tæki og plöntur. Skjólgarður úr trjám hefur verið plantað í kringum svæðið. Hóllinn hefur líklega verið sléttaður út á einhverjum tímapunkti eftir að hætt var að búa á svæðinu en þó má ætla að einhverjar leifar leynist undir sverði. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðurs.
Gerðakot (býli)
Gerðakot?
“Gerðakot, fjórða hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi, 1.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Gerðakot er sunnan þjóðvegarins og austan lækjarins. Gerðakotstún er allt í kring um bæinn.» Í Jarðabók Árna Magússonar og Páls Vídalíns segir: «Gerðakot, fjórða hjáleigan, bygð fyrir manna minni.» Samkvæmt túnakorti frá 1920 stóð bærinn nánast í miðju heimatúninu. Bærinn hefur staðið þar sem íbúðarhús stendur ennþá í dag. Á bæjarstæðinu standa fjögur steypt hús og er malarheimreið nánast í kringum þau. Ekki sjást nein ummerki um bæjarhól á svæðinu en þó mun hafa verið búið þar stöðugt um aldir. Líklega hefur gamli bæjarhóllinn verið sléttaður út þegar íbúðarhúsið var byggt á árunum 1925-1958. Ætla má að einhverjar mannvistarleifar liggi enn óraskaðar undir sverði, þó svo að stór hluti yngri minja sé horfinn. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðausturs.
Vegur (leið)
Vegurinn ofan Þurár.
Gamla þjóðleiðin/Sýsluvegurinn er sýnd á herforingjaráðskorti nr. 37 frá 1908. Hún lá til suðvesturs, sveigði til vesturs við heimatún Vorsabæjar og lá áfram að myllu í landi Núpa. Leiðin lá áfram til vesturs, meðfram Núpafjalli, sunnan og norðan við Þverárbæina. Þaðan lá leiðin sunnan við heimatún Þóroddsstaða og Riftúns og lá að Hjalla og áfram að. Leiðarinnar er getið í örnefnalýsingum nokkurra jarða. „Mói, nú ræktaður, norður frá Vatnatúni. Þar mættust heimagötur og gamla þjóðleiðin,“ segir í örnefnaskrá Kröggólfsstaða. Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: “Gamla gatan lá meðfram Móakotstúni frá Krókströðum vestur að Hjallatúni […] Gamla gatan lá úr Hjallavaðli suður fyrir Lækjartún …”. Seinna segir í sömu örnefnaskrá: „Með Bakka eru talin nöfn í Bakkabrekkum, út að Hjallarás, nema gatan út með fjallinu, en af efri bæjum sóknarinnar var hún nefnd Hjallagötur.” “Krossgötur: Mói, nú ræktaður, norður frá Vatnatúni. Þar mættust heimagötur og gamla þjóðleiðin,” segir í örnefnalýsingu Kröggólfsstaða.
Sýsluvegurinn.
Í bréfi Björns Pálssonar og birt er í viðauka 5 við skýrslu FS187-001172 segir: “Sýsluvegurinn gamli: hann er vel sýnilegur af Stekkjartúninu sunnan fjárhúsanna þar og norður undir Öxnalækjarveg. Þá er bútur hans enn til milli rafl ínunnar og Þjóðvegar 1 um 50 m vestan við veginn sem gerður var niður í Ölfus upp úr 1930. […] Sýsluvegurinn gamli: kom neðan úr Ölfusi, um Gránulág (ekki Grænulág sem er ritvilla í tilvitnuðum fornleifaskrám) og upp á Kirkjubrún vestanverða. Hann er ekki nefndur í fornleifaskráningunum né örnefnaskrám en er að stofni forn þjóðleið og var síðan ruddur vagn- og bílfær og notaður fram yfir 1930.” Vegurinn sést m.a. vel í landi Öxnalækjar, Kröggólfsstaða, Vatna og Þúfu.Leiðin var skoðuð og rakin á nokkurum stöðum. Leiðin er horfi n í landi Hjalla og Bakka. Í landi Núpa og Þurár sést leiðin vel. Þar er hún rudd vagnleið, 3 m breið, slétt í botninn og er um 0,2 m djúp. Í landi Núpa eru upphlaðnir kaflar, yfir gil og hlaðnar brýr eru yfir mýrar í landi Þverár. Í landi Kröggólfsstaða, Vatna og Þúfu er hægt að rekja veginn á rúmlega 720 m löngum kafl a. Hann er ruddur, vagnfær, 3 m á breidd og 0,2 m djúpur. Vegurinn er sléttur í botninn og lítið gróinn. Vegurinn sést einnig vel í landi Öxnalækjar, rúmum 90 m austan við Þorlákshafnarveg. Þar liggur vegurinn þvert í gegnum fyrirhugað áhrifasvæði vegna tilfærslu á Suðurlandsvegi, hann er nánast í miðju þess svæðis. Vegurinn er upphlaðinn, yfir gróna lág og sést vel. Hann er tæplega 80 m að lengd, 3 m á breidd og 0,3m á hæð. Norðurhluti vegarins, skammt sunnan við Öxnalækjarveg, er lítið annað lág í grónum mel og sést illa.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.
Hjalli – örnefnakort.
Ölfus – Bæir og nokkrar merkar minjar I
Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Efri- og Ytri-Grímslæk, Breiðbólstað, Vindheima, Litlaland, Hlíðarenda, Nes, Bjarnastaði, Þorkelsstaði, Eimu, Strönd, Vogsósa, Hlíð og Stakkavík, og nokkra merka staði í Selvogi og neðanverðu Ölfusi ofan Þorlákshafnar:
Efri-Grímslækur (býli)
Efri-Grímslækur – túnakort 1918.
1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytrieða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman“. Ö-Grímslækir, 1.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Þar stendur að bærinn, heyhlaða og fl. tilheyri bæjarhúsunum. Kálgarður var sambyggður bæjarhúsunum til suðurs. „Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn,“ segir í örnefnalýsingu. Fyrst var komið að Efri-Grímslæk árið 2004 í tengslum við kirkju- og bænhúsaskráningu. Bærinn er sunnan við malarveg sem liggur áfram að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Núverandi hús snúa eins og gamli bærinn og eru byggð í bæjarhólinn. Yngri húsin eru byggð á sama stað og íbúðarhúsið er ekki með kjallara. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs.
Núverandi hús eru komin til ára sinna og ekki víst að mikið jarðrask hafi orðið við byggingu þeirra. Íbúðarhúsið er byggt 1927-1952.
Bæjarhóllinn er rúmum 220 m sunnan við malarveginn. Hóllinn er fremur lágur, að framan er mikil hleðsla sem er að hluta farin og síga og falla. Þessi hleðsla stóð fyrir framan eldri bæjarhúsin sem núna eru horfin. Gunnar Konráðsson, heimildamaður, á ljósmynd og málverk af eldri bænum. Bæjarhóllinn er 43×24 m að stærð og snýr austur-vestur. Ekki er hægt að áætla hæð hans sökum bygginga sem þar eru.
Ytri-Grímslækur (býli)
Ytri-Þurá.
1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytrieða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Þar stendur að bærinn og hlaðan tilheyri bæjarhúsunum. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs. Sambyggður kálgarður var suðaustan við þau. Fyrst var komið að Ytri-Grímslæk árið 2004 í tengslum við kirkju- og bænhúsaskráningu.“Ytri-Grímslækur er vestar í samliggjandi túni,“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er föst ábúð á jörðinni. Hún er í eigu ábúaenda á Litlalandi frá árinu 2005 og nýtt til hrossabeitar. Einnig er búið að byggja tvenn nýbýli og sumarbústaði í vestur- og norðvesturhluta jarðarinnar. Búið er að rífa öll hús á jörðinni fyrir utan eina skemmu. Í Sunnlenskum byggðum III sjást bæði skemman og bæjarhús sem voru byggð á 20. öld. Þau sjást einnig á loftmynd frá árinu 1999 og notast er við í þessari skráningu. Bæjarhúsin sem sýnd eru á túnakortinu voru fast norðaustan við íbúðarhús byggt árið 1925.
Breiðabólsstaður (býli)
Breiðabólstaður.
1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.
„Breiðabólsstaður var oftar nefndur Breiðabólsstaðir, eða stytt í Breiða […] Bærinn stóð í túninu ofan við Bæjarlæk, þar sem á honum er hornrétt beygja frá suðvestri til suðausturs. Nú eru öll verksummerki afmáð á þeim stað, allt bæjarstæðið sléttað út.“
Bæjarhóllinn var skráður árið 2004 í tengslum við verkefnið bænhús á Íslandi. Bæjarhóllinn er nánast í beinni línu við eystri gafl á stóru húsi sem líklega var heimavist meðan skóli var rekin á jörðinni. Rúmir 200 m eru á milli hússins og bæjarhólsins. Bærinn sjálfur, var fluttur árið 1954, og er rúmum 350 m sunnan við bæjarhólinn.
Bæjarhóllinn er í ræktuðu túni sem notað er undir hrossabeit. Eric Guðmundsson man hvar bærinn stóð og ljósmynd er til af honum.
Bæjarhóllinn er enn varðveittur en sléttað hefur verið yfir hann og öllum húsum rutt út. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Bærinn fór í eyði 1928 en jörðin nýtt áfram frá Vindheimum ÁR-545. Bæjarhúsin voru jöfnuð við jörðu árið 1955 eða 1956.
Breiðabólstakirkja (kirkja)
Breiðabólstaður – örnefnakort.
„1397: XCV. A Breidabolstad. Mariukirkia oc hins heilaga Olafs kongs a Breidabolstad j Olfusi a .xc. j heimalandi. iij. kluckur. rodukross. ein kiertistika med kopar. glodarkier. paxspialld. kirkiann aa eina kv. portio Ecclesiæ vmm .viij. ar oc .xx. tiu hundrad oc mork. Hun a vmm þat framm sem herra Michels maldagi vottar .iij. kyr er Andres gaf. Jnnan kirkiu. bryk yfer alltari. Laurentius lykneski. paxspialld steintt. portio Ecclesiæ vmm vj. ar næstu medan Jon hefr bued halfur fimtandi eyrer oc .xij. aurar af jordunni heima þar. fiellu nidur .xij. aurar er hann liet hlada veggi vmm kirkiuna oc gaf til alltarisklædi med liereptt. forn tiund adr vmm .iiij. ar hundrad oc .xij. Alnar,“ DI IV.
„8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Breiðabólstaðarkirkju sem var “af fallin med aullu” og lofaði hann að “giora upp breidabolstadar kirkiu” –“ DI IX.
„1575: CLXXXVI. Breidabolstadur. Hälfkirkian ä Breidabölstad i Olvese. ä xc. i heimalande. Jordin xLc.“ DI XV. „Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III. Ekki er vitað hvar kirkjan var en líklega var hún nærri bæ 001. Ekki er vitað hvenær hún féll úr notkun.
Engin ummerki kirkjunnar sjást á yfirborði.
Breiðabólsstaðarsel II (sel)
Breiðabólstaðasel II – uppdráttur ÓSÁ.
Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: „Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].“ Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ 001 og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla. Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar. Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norðursuður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar.
Ingjaldsborg (fjárskýli)
Ingjaldsborg.
„Um 3 – 4 hundruð metrum vestar [en Bræðraborg] á brúninni er mikil rústaþyrping, og vel gróið kringum þær. Þar eru rústir af nokkrum hringhlöðnum fjárborgum og einu sauðahúsi. Steindór Egilsson byggði það 1912. Þetta heitir Ingjaldsborg,“ segir í örnefnalýsingu.
Ingjaldsborg er tæpum 200 m vestar en Bræðraborg og rúmlega 850 m suðvestan við bæ. Þar eru ummerki um þrjár fjárborgir og eitt fjárhús sem líklega er yngra. Bygging þess raskaði fjárborgunum og grjót án efa borið úr þeim við byggingu þess.
Ingjaldsborg er á grasivöxnu svæði. Allt umhverfis er heiði með mosa, lyngi og þúfum. Víða eru moldarflög og hraungrýti.
Á svæði sem er 32×23 og snýr austur-vestur eru fjórar tóftir og garðlag. Var hverju þeirra gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Fjárborg A er austast. Hún er hrunin og einungis mótar fyrir útveggjum hennar. Grjóthrúga er inni í fjárborginni, líklega frá því að fjárhúsið var gert. Fjárborgin er 7 m í þvermál og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3-0,4 m á hæð og sést 1 umfar grjóthleðslu.
Breiðabólsstaðarsel I (sel)
Breiðabólstaðasel.
„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberg, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmál þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli,“ segir í örnefnalýsingu. Þetta er falleg selstaða og allt svæðið umhverfis.
Selið er í grösugum dal, undir klettabergi. Þar vex gras, lyng og mosi. Selið er á svæði sem er 15×15 m að stærð.
Breiðabólsstaðarborg (fjárskýli)
Breiðabólstaðaborg.
„Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta. Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.
Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað
hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.
Þorlákshafnarsel (sel)
Þorlákshafnarsel undir Votabergi – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: „Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.“
Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla Helgason segir: „Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin, sem svo eru kölluð sunnan Hellisheiðar… Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við lítinn hamraskúta kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.“ Á myndasíðum sömu bókar framan við miðju er uppdráttur af selinu sem Kristján Eldjárn hefur gert þann 28.09.1963 og sömuleiðis ljósmynd af Skúla Helgasyni þar sem hann stendur og virðir fyrir sér rústirnar. Þær eru friðlýstar eins og frá segir í Friðlýsingarskrá: „Breiðabólsstaður. Rústir Þorlákshafnarsels undir Votabergi á Hellisheiði.
Skjal undirritað af ÞM 20.01.1976. Þinglýst 16.06.1977.“ Tóftirnar eru enn mjög greinilegar, um 300 m norður af Þrengslavegi en um 100 m suður af Votabergi, sem er lóðrétt hamrastál sem liggur frá norðri til suðurs vestan í Meitilstagli, sem gengur frá fjallinu Litla-Meitli til suðurs. Selið er um 13 km norður af Þorlákshöfn. Það hefur einnig verið nefnt Hafnarsel, t.d. á örnefnakorti Ingólfs Einarssonar frá 1969. Tóftirnar eru vestan undir stöku bjargi sem er suðvestan Votabergs. Um 20 m vestan tóftanna er ágætlega gróið hraun en grösugar grundir eru undir berginu og þar vestar, sunnan undir fjallinu.
Vindheimar (býli)
Vindheimar og Breiðabólstaður – loftmynd.
1847:“…Vindheima getur engin jarðabók, og er jörð þessi því að líkindum nýbýli frá Breiðabólsstað.“ Bændaeign, 40 hdr með Breiðabólsstað. JJ, 76.
1708: „Vindheimur og Skrida voru hjer hjáleigunöfn. Þær bygðust báðar fyrst í voru minni, þar sem aldrei hafði
bygð verið. Varaði bygðin hjer um 10 eður 12 ár, hafa nú í auðn verið 19 ár eður skemur,“ JÁM II, 440.
1917: Tún 4.8 ha, 7/8 slétt. Garðar 886 m2.
„Vindheimar stóðu um 200 m ofar í brekkunni.
Einnig þar er mest allt útsléttað, nema íbúðarhús, sem byggt var 1930, aðeins neðan við bæjarstæðið, niðri við lækinn. Það er nú kennarabústaður Hlíðardalsskólans, og er nefnt Vindheimar, eins og áður,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Vindheima er komið úr notkun og standa þar engin hús lengur. Milli bæjarstæðanna á Breiðabólstað og Vindheima eru um 125-130 m. Vindheimar eru austan við Breiðabólstað.
Bæjarhóllinn er tiltölulega flatur og er notaður undir hrossabeit.
Litlaland (býli)
Litlaland.
1847: Bændaeign, 10 hdr. JJ, 76
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1708: „Jarðardýrleiki x og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 441.
1917: Tún 3.7 ha, 9/10 slétt. Garðar 782 m2.
„Litlaland stendur í grunnum hvammi eða dal, undir sömu hlíð og eystri Hlíðarbæirnir. En þar er hlíðin lág, nema á litlum kafla fyrir austan túnið. Þessi staðarákvörðun er miðuð við þann stað sem bærinn hefur staðið frá fornu fari. En nú, 1968, er bærinn staðsettur austur í Ás, miðsvæðis, þó eldra bæjarstæði og tún sé greinilegt. […] en Fjósabrunnur var austan við fjósið, austasta húsið í bæjarröðinni,“ segir í örnefnalýsingu. Eldra bæjarstæði Litlalands er tæpum 700 m vestan við núverandi íbúðarhús. Gamla heimatúnið er óraskað að mestu en var ræktað upp á einhverjum tímapunkti. Sléttað hefur verið yfir bæjahólinn og öllum húsum þar rutt út. Á túnakorti frá 1920 sést að stafnar bæjarins snéru til suðurs og sambyggður kálgarður var þar.
Bæjarhóllinn er því sem næst í miðju gamla heimatúninu. Það er grasivaxið og fremur slétt. Það er ekki slegið heldur nýtt til hrossabeitar. Túnið er í aflíðandi halla til suðurs, niður frá fyrrnefndri hlíð. Bæjarhóllinn er 32×25 m að stærð, 0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Hann er grasivaxinn og sléttað hefur verið yfir hann. Hlíðar hólsins eru aflíðandi en víða eru þýfðir og beinir bakkar án þess að hægt sé að segja til um lögun eða gerð bæjarhúsanna. Hér og þar sjást stöku hleðslusteinar í gegnum grasið. Greinilegt er að ennþá eru töluverð mannvistarlög undir sverði.
Litlalandssel (sel)
Litlalandssel.
„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg,“ segir í örnefnalýsingu. Í BA ritgerð Ómars Smára Ármannssonar segir: „Það er utan í hól þar sem heiðina tekur að halla verulega til suðurs. Tóftin er norðvestan í hólnum og við hlið hennar er stekkur. Hóllinn sjálfur er holur innan og er hægt að ganga í gegnum hann. Hann hefur líkast til verið hluti af selbúskapnum. Selið sker sig nokkuð úr umhverfinu því meira gróið er í kringum hólinn er annars staðar á svæðinu. Selið er mjög gróið. Þó má sjá móta fyrir rýmum. Veggir eru um 60 cm að hæð. Fallin varða er á hraunhól ofan (norðvestan) við selið.“ Litlalandssel er 2 km norðvestan við bæ og 1,7 km norðvestan við nátthaga. Þar eru þrjár greinilegar tóftir, tvær þústir, hellir og varða. Flestar minjarnar eru signar, grónar og óskýrar.
Selið er í mosa- og lyngivöxnu hrauni. Víða eru klettar, lágir hólar og moldarflög. Selið er á svæði sem er 90×40 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru þrjár tóftir, tvær þústir, varða og hellir.
Draugshellir (þjóðsaga)
Við Draugshelli.
„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir. Um hann er skráð saga í Þjóðsögu Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar,“ segir í örnefnaskrá Breiðabólsstaðar. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. […] Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hann gömul landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðaustan við bæinn. […] Hafist var handa við mokstur. […] Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn, Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir. […] því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.“ Draugahellir er 1,1 km austan við bæ.
Draugshellir er sem fyrr segir á mörkum Breiðabólstaðar og Litlalands. Núverandi mörk eru spölkorn austar en áður var og er vírgirðing þar. Gróið, óræktað tún í halla til suðurs er umhverfis hellinn. Skjólbelti er 4 m vestar og birkitré við austurenda hellisopsins.
Hellisopið sést ennþá enda einungis um 10 ár síðan það var opnað aftur. Ekki er hægt að fara inn í hellinn né sjá þar inn, opið er það lítið. Það er 3×1 m að stærð og moldarhrun er allt þar umhverfis. Lofthæðin inni í hellinum virðist vera um 1 m, séð ofan frá.
Litlalandshellir (fjárskýli)
Litlalandshellir.
Í norðvesturhorni heimatúnsins er hellir og liggur túngarður upp að honum. Hleðsla er framan við hellinn, lokar honum og hann var nýttur sem útihús. Hellirinn er 130 m norðvestan við bæ og 13 m norðvestan við útihús. Hellirinn er ofarlega í hlíðinni en er ekki áberandi sökum hleðslunnar sem er grasivaxin og fellur inn í túnið. Grasivaxin brekka er til suðausturs frá hellinum. Neðan hennar er gamla heimatúnið en klettar fyrir ofan.
Hellirinn er náttúrulegur og engin mannvirki inni í honum né ummerki um að t.d. berghöld hafi verið klöppuð þar. Lofthæðin inni í hellinum er mest 2 m. Hleðslan lokar öllu opi hellisins. Hún er 11×2 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er 0,5-1,1 m á hæð og grjóthlaðin. Hleðslan er hæst innan í hellinum og lítið gróin. Að utan er hún algróin. Mest má sjá 4 umför af grjóti innan í hellinum. Op inn í hellinn er í suðurenda.
Hlíðarendi (býli)
Hlíðarendi.
„Jarðardýrleiki xx og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 441. „Landamerki eru bókfærð þannig: þrívörður við sjó í Markhól, merki L.M., í Fálkaklett. Við Litlaland; Austur miðjan Sand frá sjó til heiðar, í vörðu, sem er klappaður kross í klöppina undir vörðunni, úr henni í þrívörður. Þaðan í Fuglastapaþúfu, í Nátthagaöxl, í vörðu sem stendur við Stórugjá. Þaðan í Eiturhól – Fjallið eina. Ath. Þrívörður við sjó eru ekki nærri Hlíðarendalandi og Fjallið eina er utan takmarka Ölfuss.“ Ö-Hlíðarendi, 1. Jörðin fór í eyði árið 2001 þegar síðasti ábúandi, Ólafur H. Þórðarson lést. Hluti heimatúnsins er nýttur fyrir hrossabeit í dag (2011) en túnin virðast ekki vera nytjuð að öðru leyti.
1917: Tún 7 ha, 7/8 slétt. Garðar 943 m2.
Hlíðarendi 1898.
„Bærinn stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan,“ segir í örnefnaskrá.
Á túnakorti frá 1918 sést að bærinn stóð nyrst í túninu, fast norðan við læk sem rennur um það. Tveir matjurtagarðar voru sunnan við bæ, annar þeirra fast sunnan við íbúðarhúsið og hinn fast austan við þann fyrrnefnda. Þeir eru skráðir með bæjarhólnum. Í bókinni Ísland Howells er ljósmynd af bænum frá því skömmu fyrir aldamótin 1900. Á myndinni er sést bærinn sem virðist vera með grjóthlaðna veggi og fjórar burstir. Stafnar húsanna virðast ýmist vera úr timbri eða forskalaðir. Bárujárn er á þökum. Á myndinni sjást einnig tveir grjóthlaðnir kálgarðar (þeir sömu og á túnakorti) og hellulagður stígur sem liggur yfir Bæjarlækinn, á milli kálgarðanna og að bæ. Traðir eru á milli kálgarðanna og á ljósmyndinni er fjöldi hesta í tröðunum. Jörðin fór í eyði árið 2001 þegar síðasti ábúandi, Ólafur H. Þórðarson lést. Hluti heimatúnsins er nýttur fyrir hrossabeit í dag (2011) en túnin virðast ekki vera nytjuð að öðru leyti eða aðrir hlutar jarðarinnar.
Fast norðan og austan [núverandi] hússins er malarplan, liggur vegur að planinu og bænum úr suðri og heldur áfram til NNV að nýju húsi við lækjaruppsprettu og byggt var í tengslum við vatnsverksmiðjuna sem risin er á jörðinni. Austan við planið er gróið yfir byggingaleifar húsa sem stóðu á hólnum á síðari hluta 20. aldar.
Fjallsendahellir (fjárskýli)
Í Fjallsendahelli.
„Vestan í Fjallsenda er Fjallsendahellir. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m. til 1,7 m. hár og um 2 m. víður, gólfið er allséttt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m. fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4-5 m. djúpt og 8-10 m. í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn,“ segir í örnefnaskrá. Hellirinn er um 2,5 km vestan við bæ.
Hellirinn er í hraunmóa vestan í Fjallsenda. Stutt er upp í hellinn og framan við hann til vesturs er grasi gróið jarðfall, 2-3 m djúpt, um 5×10 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hrunið hefur úr gólfi hellisins við innganginn og ekki er hægt að komast inn í fjárskýlið til að skoða það nánar. Hlaðni garðurinn sést ekki frá innganginum því hellirinn liggur í svolítinn sveig frá suðvestri til ANA. Hellirinn virðist vera um 1,5 m á hæð og um 2 m á breidd. Gólfið er slétt en hallar lítillega til suðvesturs. Hellirinn sem er vinstra megin (norðvestan) við fjárskýlið er gríðarstór en þakið á honum er hrunið ofan í hann. Afhellir liggur úr þeim helli til norðurs.
Hlíðarendahellir (fjárskjól)
Hlíðarendahellir.
„Yst undir Hellisbergi er Hellir, eða Hlíðarendahellir, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m. langur veggur verið hlaðinn
upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellirinn,“ segir í örnefnaskrá. Hleðsla framan við hellinn og heytóft er um 1,8 km suðvestan við bæ
og um 790 m austan við Fjallsendahelli.
Undir slútandi berginu er mikill stórgrýtishaugur sem hefur hrunið úr bergveggnum og er gróinn. Haugurinn er um 5 m á hæð og ofan á honum er hlaðinn veggur sem myndar skjól með bergveggnum. Heytóftin er svo fast suðaustan við hauginn, neðan við hann.
Minjarnar eru á svæði sem er um 30×40 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í lýsingunni hér á eftir verður hverri fornleif gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Hlíðarendahellir – heytóft.
Hleðsla A er um 40 m löng og liggur eftir bergveggnum frá norðaustri til suðvesturs. Mesta hæð veggja innanmáls er um 1,5 m. Mest sjást 5 umför í hleðslum en þær eru víða fallnar inn í hellinn. Op er inn í fjárskýlið um 15 m suðvestan við norðausturenda. Mesta breidd skýlisins
innanmáls er um 3 m. Ekki sjást merki þess að hólfaskipting hafi verið innan þess. Heytóft B er um 20 m suðaustan við hleðslu A. Hún er grjóthlaðin og einföld. Tóftin er um 4×4 m að stærð og er op á henni í austurhorni. Tóftin virðist vera niðurgrafin, mesta hæð veggja er um 1 m og sjást 4 umför af hleðslu. Mikið af grjóti er hrunið inn í hana. Frá austurhorni tóftar liggur 15 m löng grjótröð C til norðurs upp í miðjar hlíðar stórgrýtishaugsins. Tilgangur hennar er óljós en ef til vill hefur verið hægt að ganga eftir henni upp í fjárskýlið til þess að forðast stórgrýtið sem er í brekkunni.
Fjárborg (Djúpudalaborg) (fjárskýli)
Djúpudalaborg.
„Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítilsháttar inn, um 3,5 til 4 m. á hæð, og um 5 m. í þvermál að innan. Dyr eru móti suðri, um 1 m. á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan metir á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan,“ segir í örnefnaskrá. Fjárborgin er um 3,7 km suðvestan við bæ.
Fárborgin er í fremur úfnu en grónu hrauni, skammt austan við malarnámu. Borgin er grjóthlaðin og stendur enn að langmestu leyti. Hún er um 9 m í þvermál og um 3 m á hæð. Þykkt veggja er um 2 m. Víða hefur hrunið úr utanverðri hleðslunni; sitt hvorum megin við dyrnar inn í tóftina og til norðausturs og norðvesturs en veggirnir eru heillegir að innan. Mest sjást 18 umför af hleðslu í veggjum og er flatt, fremur þunnt hellugrjót í hleðslum. Dyr eru inn í borgina úr suðri en þær eru 1,2 m á hæð og um 0,5 m á breidd. Ekki er sýnileg hólfaskipting innan borgarinnar en inn í hana hefur hrunið dálítið af grjóti.
Hlíðarendasel (sel)
Hlíðarendasel.
„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitafelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil,“ segir í örnefnaskrá. Hlíðarendasel er um 2,8 km norðvestan við bæ. Stikuð leið liggur frá Búrfelli að selinu og áfram að Geitafelli og sameinast Ólafsskarðsvegi norðaustan við það. Selið er í kvos á milli þriggja allhárra krosssprunginna hraunhóla í mosa- og lyngivöxnum hraunmóa. Fjórar tóftir eru á svæði sem er um 35×31 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nes (býli)
1847: Bændaeign, 16 hdr. JJ, 76. 1313: Fyrst getið í máldaga, DI II, 378. 1379: Getið í Vilchinsmáldaga, DI IV, bls. 99. 1491-1518 í máldaga segir: „Kirkian j nese j Selvoge a Snothus viijc. ….kirkian nidri og hefur suo leingi verid.“ DI VII, bls. 48. 1508: Getið í kaupmálabréfi, þá metin á 60 hdr. DI VIII, bls. 230. 1525: Aftur getið í kaupmálabréfi: „Nes j selvogi lxxx c og þar til .xl. kugillda…“ DI IX, bls. 288. 1706: „Jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 444. 1961: Í eyði, sbr. Sunnlenskar byggðir III, bls. 487.
Túnakort 1920: Tún 9,7 ha., allt slétt. Matjurtagarðar 2794 m2. „Lýngrif til eldiviðar sem á Snjóthúsum. Þángtak til eldiviðar brúkast og, og er mjög af skorti. Rekavon er góð, en hvalrekann eigna menn Strandarkirkju. Sölvafjara misjöfn eftir því sem fært er. Fjörugös bjargleg heimamönnum. Heimræði árið um kring, en sæta þarf sjáfarfalli þá lenda skal. Engjar öngvar. Túninu grandar sandfjúk að ofan, en sjór að framan…Torfrista og stúnga verri en ill sem áður segir um Snjóthús, og er að þessu mikið mein bæði húsum og heyjum.“ JÁM II, bls. 445.
Nes um 1915 – sama mynd og að ofan.
Í Sunnlenskum byggðum segir: „Jörðin Nes er mjög landmikil en þurrlend. Efri hluti jarðarinnar er algróinn heiðargróðri en nær sjónum var fyrr á árum mikill uppblástur og sandfok; á síðari árum hefur það gróið allmikið. Fjörubeit hefur verið talin góð. Beitilandið er ógirt en stór hluti jarðarinnar liggur vel við trjáreka.“ Sunnlenskar byggðir III, 487.
„Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum segir um Austur-Nes: „Þar bjuggu Jón Jasonarson og Vilborg Gunnarsdóttir, bústýra, frá 1887-1919, síðan í eyði. Árið 1922 var fasteignamat ekki skráð.“ Jörðin fór í eyði árið 1961. Bærinn í Nesi stóð austarlega í túni og er bæjarhóllinn nú 40-50 m upp eða norður frá sjó. Austur- og Vesturnes hafa staðið á einum og sama bæjarhól. Í Sunnlenskum byggðum er mynd af gamla bænum í Nesi ásamt þinghúsi, sem stóð austan eða suðaustan við bæinn.
Í Nesi er stórt tún sem er ágætlega slétt, nú í órækt að hluta en slegið að hluta, norðan og norðvestan við bæinn. Tún virðist víða sandborið undir sverði.
Bæjarhóllinn er mjög stór, allt að 70 x 50 m og snýr austur-vestur en dregst heldur saman í vesturátt. Hæstur er hann vestast og þar eru miklar bæjarrústir en lækkar til austurs þar sem kirkja og kirkjugarður 002 hafa verið. Þar eru nú steinsteyptir veggir, leifar fjárhúsa og hlöðu sem voru með braggalagi. Sunnan og vestan undir bæjarrústunum hafa verið kálgarðar.
Samkvæmt risskorti sem fylgir með örnefnalýsingu var brunnurinn undir þaki og enn er reft yfir grjóthleðsluna kringum brunninn. Vatn er í honum en ekki ljóst hvað hann er djúpur. Innangengt hefur verið í brunnhúsið að sunnanverðu og þar liggja 2-3 grjótþrep niður að vatnsborðinu.
Veggir eru hlaðnir umhverfis nema að sunnanverðu og ná upp í allt að rúma 2 m upp fyrir vatnsborðið.
Brunnhúsið er ílangt og snýr norður-suður. Það er um 2 x 1 m að innanmáli. Reft hefur verið yfir með gömlum spýtum, plötur lagðar yfir og torf.
Neskirkja (kirkja)
Neskirkjugarður – v.m. við húsið.
„Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla.
Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu,“ segir í örnefnalýsingu. Kirkju í Nesi er getið í ýmsum fornum máldögum en hún var aflögð árið 1706. NES Í SELVOGI (Á) -Maríu, Magnúsi jarli, Þorláki og Katerinu (STRANDARÞING) – ALKIRKJA. [1313]: forn maldage Mariu kirkia j Nese og hins helga magnvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyiar er [Finnr] Biarnason liet giora. a xx hvndrvd j heima lande.og tiolld vmm kirkiv. smelltann kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij. og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysikolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij. kyr. a og kirkia. þar skal oc syngia messv hvern dag helgan. og annann huorn ottv song. Messa skal midvikudag oc favstudag j langafostv og so alla jmbrvdaga. fiogra marka leiga skal greida presti. og senda jafnann mann j mote honvm a vetvrinn. Tijvnd liggur þar til af heima monnvm og af Biarnastyodum. og halfer lysitollar. lofadur groptur heima monnum j Nesi og fatækum monnvm. lofadar erv þar allar heimilis tijder. Sijdan gafu þau finnr og þora mariuskrifer badar. Helga gaf altarisduk glitadann. og kross steindann. þetta gafst til sijdan Halfdän kom. asavdarkugilldi. Halfdan liet bæta brotnv klucku og keipte til kalek er stendur xj avra. Jarngerdur gaf til ravtt Alltaraklædi af silki. sotdrift yfer Peturs likneski. Jtem gafv þav Halfdan og Valgerdur og Jarngerdur kross er stendur yfer kordyrvm med tueim likneskivm. Jtem gaf Jarngerdur Refvil nyiann atta alna langann; Máld DI II 378 [Þessi hluti máld eflaust eldri, Þó pq 1269]. [um árs. sjá MML SAGA III, s. 473]
Neskirkjugarður.
[Erlendr sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld. Sú gæti eins verið systir eða kona Finns. Finnur Bjarnarson var af sömu kynslóð og Árni biskup Þorláksson (ÁSB, 4). JÞ stingur upp á því að Helga gæti verið systir Árna bps og að hún hafi verið kona Finns en þess er ekki getið í ÁSB. en á móti því mælir Eggert Briem sem bendir á að þau hjón hefðu þá verið að öðrum og þriðja – DI II 863].
1397: XCVI. Nes. Mariukirkia j Nesi j Selvogi. oc Magnus Eyiajarls. Thorlaks biskups oc Katerine a .xxc. j heimalandi. iij. kyr oc .vj. ær. tiolld vmm frammkirkiu med dvkumm. smelltann kross oc annann kross storann yfer dyrum med Mariulykneski oc Jons postula oc tuo rodukrossa. Mariuskriptter .ij. Pieturs lykneski. kluckur .v. ij. alltaraklædi med pell oc þridia med silki. messuserkur. hofudlyn. tvo brykarklædi. þridia firir Mariu med pell oc annad med fornt liereptt. vattzkietill. stockull. kirkiu läs stortt. kiertistikur .ij. kaleikur er vegur .xij. aura. sotdriptt yfer Pietursskriptt. paxspialld. sacrarium mvnnlaug. lysikola. læstan kirkiustol. corporalis hvs silkisaumad. glodarkier. glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi. Þar skal syngia hvern helgann dag midvikudaga oc fostudaga vmm langafostv oc ymbrudaga. lvka .iiij. merkur presti oc sækia hann iafnann med hesti fra weturnottum til sumars oc reida hann heim apttur. lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum j Nesi. tyund liggur þar til heimamanna oc af Biarnastodum. Hun aa j syna portionem sydann Arni heitinn kom þar oc atti jordina oc bunad aa .xxc. oc .cc. Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.; Máld DI IV 99.
Neskirkjugarður – afstöðumynd.
[1491-1518]: Byskups stephans maldagi. Kirkian j nese j Selvoge a Snothus viijc. eirn kalek. iij kluckur. þar liggur til eirn Bær ad halfv. og fellur nv half mork. kirkian nidri og hefur suo leingi verid. Máld DI VII, 48 [AM 263 fol, bl. 55]. 8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu” – DI
IX, 159.
23.6.1547 kvittar Erlend Þorvarðsson lögmann “af þui misferli sem hann hefur matt brotligur vm werda. i uidskiptum þeiRa pals eyiolfssonaR i kirkiunne i nesi i seluogi.” DI XI, 558.
1575: CLXXXV. Nes. Kirkian i Nese i Selvoge ä xxc. i heimalande. Jtem var i kirkiunne ein messuklæde. eitt vondtt glödarkier. iij koparpijpur. Jtem iij kluckur. kross lijtill. Máld DI XV 642.
{1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 53, 55}
1702: Jón Jónsson bónd í Nesi [d. 1702] “Byggði hér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans grafinn í skemmunni.” SSÁ, 228 nm.
eftir 1706: Kirkja lögð niður; (PP, 95) Kirkja og kirkjugarðar hafa verið fast austan við bæ, á austurhluta bæjarhóls.
Grösugur bæjarhóll með miklum byggingaleifum, steypu, timbri og bárujárni. Bæjarhóllinn er hæstur vestast en tekur að lækka talsvert á þessum stað.
Engin ummerki sjást um kirkjugarðinn á yfirborði en þó er minnismerki til vitnis um hann. Það er afgirtur reitur, um 2,5 m á kant og tvöföld vírgirðing utan um hann. Innan girðingar er steinkantur og möl á bletti innan hans og liggja þar þrír legsteinar, væntanlega þeir sem komu upp þegar grafið var fyrir stóra útihúsinu sem enn sjást leifar af fast austan við þennan stað. Syðst er lítill steinn með íhöggnu krossmarki, þá ílangur steinn sem einnig er með krossmarki og hring um það. Þriðji steinninn er mjög mosavaxinn. Að öðru leyti sjást engin merki um kirkjugarðinn, hvorki leiði né kirkjurúst. Gríðarlegt rask hefur verið austast á hólnum, austan við minnismerkið vegna umræddrar byggingar. Þó er rétt að taka fram að suðaustasti og lægsti hluti hólsins er með mjög reglulegri brún þar sem örlar á grjóti á nokkrum stöðum. Ekki er útilokað að þar sé brún kirkjugarðsins.
Austurbúð (sjóbúð)
„Tvær sjóbúðir munu hafa verið í hlaðinu í Austurnesi, Austurbúð og Vesturbúð, en það var fyrir minni Eyþórs [Þórðarsonar],“ segir í örnefnalýsingu Ness. Nú er ekki ljóst hvar þessar sjóbúðir hafa verið en er sennilegt að það hafi verið skammt sunnan eða austan við bæjarhól.
Grasi gróið svæði. Ekki sést til stakra tófta þar sem bæjarhól sleppir og raunar ekki hægt að útiloka að búðirnar hafi staðið á sjálfum hólnum.
Nesbrunnur (brunnur)
Nessbrunnur.
„Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er til enn, alltaf fullur af vatni,“ segir í örnefnaskrá. Nesbrunnur er í túni 20-30 m beint suður af bæjarhól.
Grösugt tún. Holsteinshús var byggt yfir brunninn, væntanlega á síðari hluta 20. aldar, og er nú hálfhrunið. Þórður Sveinsson minnist þess að brunnurinn hafi verið ákaflega djúpur.
Nessjóbúð (sjóbúð)
Nes – sjóbúð.
„Upp af vörinni eða vestar voru þrjár sjóbúðir. Sést líklega fyrir þeim enn….“ segir í örnefnalýsingu. Á bls. 1 í sömu lýsingu segir: „Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn,“ og er líklega átt við sama stað. Hleðslur sem væntanlega eru leifar af þessum búðum eru beint upp og vestur af vörinni og rúma 40 m suðvestur af bæjarhól. Á risskorti sem fylgir með örnefnalýsingu eru merktar sjóbúðir og fjárhús á þessum stað og líklegt að þær hafi verið sambyggðar, jafnvel að sum hús hafi verið notuð bæði sem sjóbúðir og fjárhús.
Nes – sjóbúð.
Fremst á sjávarkampi sem er grasi vafin. 6-10 m eru frá tóftaleifunum fram að bakka en þaðan lækkar land skarpt niður í fjöruna sem er grýtt.
Minjar á þessum stað eru ákaflega brotakenndar, sennilega vegna þess að brotnað hefur framan af stærstum hluta tóftanna og eftir er einungis bakveggur á mörgum, sambyggðum húsum. Ekki er óhugsandi að framhluta minjanna hafi verið rutt út. Alls ná mannvirkjaleifarnar yfir svæði sem er um 25 x 5 m stórt og snýr austur-vestur. Gera má ráð fyrir að dyr búðanna hafi snúið að sjónum, til suðurs, en nú er erfitt að segja til um hve margar þær hafa verið eða hversu stórar. Leifarnar sem sjást eru þykkur bakveggur sem er nokkuð beinn og gróinn að norðanverðu en á suðurhliðinni sjást glompur og lægðir sem væntanlega eru leifar af norðurenda hólfa sem hafa verið í rústalengjunni. Af því sem nú sést má ætla að lengjan hafi skipst upp í að minnsta kosti 4 hólf. Austasti parturinn tekur yfir um 6 m af heildarlengd tóftarinnar og er heillegasti parturinn af henni. Hann er alls 4-5 m þykkur. Í honum miðjum er líkt og skora eða göng frá norðri til suðurs, vel hlaðin og steypt í bland. Hæð er allt að 1,8 m ef staðið er inni í skorunni. Norðan við þetta hólf eru leifar af hólfi sem hefur verið breiðara, allt að 4 m að innanmáli. Þá koma óljósar leifar tveggja hólfa norðan við miðja tóft. Í því nyrsta er mikið grjót en annars er tóftin að mestu leyti veg grasi gróin. Að lokum má geta þess að óljós hleðslubútur er um 15 m suðvestur af vesturenda tóftarinnar.
Nesborgir (fjárskýli)
Nesborgir í Selvogi.
„Vestar á kampinum voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925, og nú eru allar farnar, hinar fóru í síðasta flóði,“ segir í örnefnalýsingu.
Þrátt fyrir yfirlýsingar í örnefnaskrár er enn töluvert eftir af tveimur fjárborgum á kampinum um 200 m vestur af bæjarhól. Engin merki sjást hins vegar um þriðju borgina. Grösugur sjávarkampur, allt að 2 m hár bakki niður í fjöru.
Veglegar leifar af tveimur fjárborgum en ljóst að sjór étur sífellt af þeim. Borg sem hér er nefnd A er austar. Ætla má að um helmingur hennar sé farinn, þ.e. hruninn en útflött grjótdreif er á kampinum í framhaldi af veggjunum sem enn standa. Innanmál borgarinnar hefur verið um 11 m en veggjaþykkt þess hluta sem uppi stendur er á bilinu 2-3 m og þvermál að utanverðu því allt að 18 m. Hleðslan er með stalli að utanverðu sem er um 80 cm hár en annars er hleðslan, ef staðið er inni í borginni, allt að 2 m há. Hugsanlega hefur stallurinn átt að gera hleðsluna traustari en hún er úr fremur ávölu fjörugrjóti og því hætt við hruni. Hleðslur sem eftir eru standa vel þótt skarð sé í á einum stað.
Snjóhús/Snjóthús/Snjólfshús (býli)
Snjóthús.
Í máldaga kirkjunnar í Nesi 1491-1518 segir:“Kirkian j nese j Sevoge a Snothus viijc….“ Í örnefnalýsingu segir: „Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús. Bær þessi var kominn í eyði löngu fyrir minni Eyþórs. Þegar hann man eftir, voru öll hús fallin, en kálgarðar voru í tóftunum, kallaðir Halldórsgarðar.“ Talin meðal eyðihjáleiga í Neshverfi 1840 í sóknarlýsingu. Í neðanmálsgrein í Jarðabók Johnsen er vísað í Jarðabók Árna og Páls um dýrleika Snjóthúsa en jafnramt segir um bæinn: „…sem þegar 1803 hlýtur að hafa verið í eyði.“ Eini staðurinn sem virðist koma til greina sem Snjóhús er um 150 m vestan við Selvogsvita núverandi og um 700 m austur af bæjarhólnum í Nesi en þar sést þústarhóll.
Á sjávarkampi. Grjót gengur yfir hólinn og allt um kring. Engar leifar sjást af túnstæði í kring heldur er jarðvegur nánast enginn, berar klappir og flög. Lítill hóll en greinilegur og grænni en umhverfið. Hann er alls um 20 m í þvermál, óreglulegur og hallar dálítið mót vestri, mest um 1,5 m hár en víðast hvar er hann þó lægri. Smástallur gengur út úr hólnum til austurs, um 15 x 8 m stór frá norðri til suðurs, flatur og lægri en hóllinn, gæti veri kálgarður. Norðurbrúnin á honum er upphlaðin með fjörugrjóti sem og kanturinn á hólnum í framhaldi til norðurs og norðvesturs. Annar hugsanlegur stallur gæti hafa verið vestan til í hólnum. Þetta eru líkast til kálgarðarnir, Halldórsgarðar, sem hafa verið í notkun löngu eftir að byggðin lagðist af.
Selvogsviti/Nesviti (viti)
Nesviti – leifar gamla vitans, sá nýi fjær.
„Selvogsviti var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur,“ segir í örnefnalýsingu. Á heimasíðu sveitarfélagsins Ölfuss segir: „Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m. Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. En eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.
Nesviti/Selvogsviti gamli.
Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari.“ Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.“ Enn sjást leifar af gamla vitanum á klöppum sem ganga fram í sjó um 100 m suður af núverandi vita. Hann á enn örfá á eftir til að teljast lagalega séð til fornleifa (þar sem miðað er við minjar 100 ára og eldri) en leifarnar eru þó sérstæðar og merkilegar.
Gróðurlausar, ósléttar hraunklappir. Á klöppunum sést steypt plata, 20-30 cm þykk, ofan á grjóthnullungum. Hún er illa farin og töluvert brotið af. Mikið er af grjóti í steypunni en platan er alls um 3 x 2,5 m stór frá austri til vesturs. Við hana eru steyptir stöplar, þrír að austan, tveir að vestan og járnfleygur í þeim stöplum fjórum sem næstir eru hornunum sem líklegt er að horn stálgrindavitans hafi verið boltuð í.
Kirkjugarður (legstaður)
Nes – legsteinn.
Samkvæmt Þórði Sveinssyni fundust mögulegar leifar af dys vestan við Kvennagönguhól á árunum fyrir 1940.
Fornagata lá um á þessum slóðum. Á staðnum fundust mannabein og hnappar, líklega úr kopar. Á heimasíðu FERLIS er eftirfarandi haft eftir Þórði: „Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.“ Ekki var farið á staðinn sumarið 2013, enda ekki vitað nákvæmlega hvar þetta var. Þetta er þó væntanlega uppi á háheiðinni, suðaustan við Hnúka og sunnan við veginn um heiðina sem nú er nýaflagður eftir að hinn nýi Suðurstrandarvegur var tekinn í notkun.
Miklar sandöldur eru á þessum slóðum og sumstaðar lyngbörð, land almennt lítið gróið.
Nessel (sel)
Nessel.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurlökkum),“ segir í örnefnaskrá. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1706 segir um sel frá Nesi (og er líklega átt við sama stað): „Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“ Ef farið er eftir Krýsuvíkurvegi um 1,7 km til suðvesturs frá pípuhliðinu á mörkum Ölfuss- og Selvogshrepps og þá beygt vinkilrétt til suðausturs og farið um 180 m út af veginum, er komið að Nesseli.
Umhverfis er vel gróið hraun, mikill mosa og lyngivöxtur. Svæðið umhverfis selið er býsna grösugt. Hraunstrýtur eða klappir standa víða upp úr gróðrinum. Á þessu svæði eru fimm tóftir.
Nesselstekkur (stekkur)
Nesselsstekkur – uppdráttur.
Um 240 m suðaustur frá Nesseli 032 er jarðvegstorfa með tóftum á. Umhverfis jarðvegstorfuna er hálfgróið hraun þar sem hraunstrýtur stingast upp úr sverði eða sandi. Jarðvegstorfan er um 25 x 15 m stór og snýr norður-suður. Hún og rís 1 -1,5 m úr umhverfinu. Ógreinileg tóft er á miðri torfunni og önnur í norðvesturhorni. Tóftin í miðjunni er tæpir 8 X 4 m að stærð og snýr norður-suður. Tóftin er tvískipt og er nyrðra hólfið alveg opið til norðurs og er töluvert stærra en syðra hólfið. Mikil sina og mosi er í tóftunum. Syðri tóftin er harla stekkjarleg og ekki er ósennilegt að þessar tóftir standi í sambandi við Nessel því fjarlægðin frá bæ, Nesi, eru rúmir 8 km. Hugsanlega gæti verið um stekk frá Nesseli að ræða.
Hellisþúfa (býli)
Hellisþúfa.
„Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritinu Frjálsri þjóð þann 9. janúar 1960 segir frá Gísla búmanni sem helst var þekktur fyrir að reisa bæi sína fjarri alfaraleiðum. Meðal annars byggði hann fyrstur bæ austan í Hestfjalli í Grímsnesi sem við hann var kenndur og nefndist Gíslastaðir. Áður en hann kom þangað reisti hann bæ við Hellisþúfu, en áður hafði hann búið austur í Skaftafellssýslu. Þetta mun hafa verið 1847 eftir því sem næst verður komist en 1849 flytur Gísli austur í Grímsnes svo að ekki hefur búsetan verið langvinn.
Hellisþúfa – uppdráttur.
Orðrétt segir: Á dálitlum hnjótum á Selvogsheiði, mitt í gráu hrauni, var látið staðar numið. Þar var skýlum hrófað upp og hafizt handa um búskap. Og það var ekkert fámenni, sem ætlaði sér að lifa af stráunum, sem uxu þarna innan um hraungrýtið. Gísli búmann hafði þegar á fyrsta ári níu manns í heimili. Þetta undarlega nýbýli var ýmist nefnt Hellisþúfa eða Heiði.“ Hellirinn sjálfur er raunar ekki í Hellisþúfunni heldur í litlum hól sem er fast suðaustan undir henni. Hellisopið er lágt og lítið áberandi, snýr móti vestri eða norðvestri. Framan við það er greinilega rústahóll, væntanlega leifar af bæ Gísla búmanns. Hóllinn er bungumyndaður og greinilegur og verða að teljast býsna miklar leifar eftir svo skamma búsetu, en hún varði aðeins í um 2 ár ef marka má frásögnina sem vitnað var til hér að framan.
Sennilega hefur hellirinn verið hafður fyrir skepnur eða jafnvel sem geymsla.
Samkvæmt handriti Konráðs Bjarnasonar var Hellisþúfa vinsæll áningarstaður.
Fótalaus (áletrun)
Fótalaus – „LM“.
„Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns,“ segir í örnefnalýsingu. Hásteinar eru skammt norðan við gamla þjóðveginn, um 4 km NNA af bæjarhól. Sunnan í Hásteinum er gamall og hrörlegur sumarbústaður sem hægt er að aka upp að.
Há hæð, að mestu gróin, með áberandi, jarðföstum klettum í toppi. Áletrunin fannst ekki í fyrstu tilraun. Varða er hinsvegar á merkjum, á klöpp eða lágum klettahól sem er eiginlega klofinn í tvennt austan við hæsta Hásteininn. Hún er ekki mikil um sig, 4-5 umför af hleðslum sem ná um 1,5 m hæð að klettinum meðtöldum. Steinarnir eru býsna mosavaxnir. Girðingarstaur stendur upp úr vörðubrotinu og hleðsluleifar undan girðingu, sem hefur þá verið á merkjum milli bæjanna tveggja, sjást í framhaldinu til suðurs. Ferlirsmönnum hefur tekist að finna áletrunina.
Á heimasíðu þeirra segir: „Haldið var í Selvog.
Staðnæmst var við Bjarnastaðasel. Einn FERLIRsfélaga hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og rætt við heimamenn. Hann gekk rakleiðis að klöppinni Fótalaus suðaustan selsins og benti á stafina „LM“, sem klappaðir voru þar. Upp úr klöppinni stendur landamerkjahornstaur bæjanna Ness og Bjarnastaða. Áletrunarinnar er getið í gömlum heimildum, en erfiðlega
hefur gengið að finna hana þangað til nú.“
Nesstekkur (stekkur)
Nesstekkur.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða… Við Nesstekk er Nesstekkatún.“ Á heimasíðu Ferlirs er sagt frá tóft sem gæti verið Nesstekkur: „Ekki er óvarlegt að ætla að Nesstekkur geti verið tvískipt tóft norðan í Fornugötu, örskammt vestan við gatnamótin. Sú tóft hefur ekki verið skýrð og hennar virðist ekki vera getið í örnefnaskrám. Ef þetta er Nesstekkur er hann í Neslandi, svo til alveg við mörkin.“ Tóft sem virðist koma heim og saman við þessa lýsingu er um 2,4 km NNA af Nesi, 200-300 m vestan við gamlan vegarslóða sem Þórður Sveinsson kallar Sandkallaveg, enda farinn af þeim köllum sem sóttu sand í námur. Sá vegur liggur til suðurs frá gamla veginum um Selvog sem nú er nýaflagður.
Sandfylltir hraunhólar og móabörð. Gömul gróðurbunga, nú sandalda með þunnri lyngslæðu, er fast austan við. Falleg og heilleg grjóthlaðin tóft en hún er heldur ankannaleg þarna í auðninni þar sem varla er stingandi strá. Réttin er ferköntuð og snýr norður-suður, er um 19 x 5,5 m stór. Hún er hlaðin úr hraungrýti og standa veggir sæmilega, suðurgafl þó best, allt að 4-5 umförum og er um 0,6 m hár. Rekið hefur verið inn að norðaustan og þar er aðrekstargarður til austurs í framhaldi af norðurgafli tóftar, allt að 7-8 m langur. Tóftin er hálffull af sandi en norðan við miðbik hennar skín í berar hraunklappir í botni.
Geitafellsrétt (rétt)
Geitafellsrétt.
„Austur af Hnúkum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn sitt af. Þær liggja allar í sömu ár, frá Geitafelli… Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.“ Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við bæ og rúma 800 m suðvestan við tóft. Á heimasíðu FERLIRS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim.
Páls Hjáleiga (býli)
„Pals Hialeiga, fimta hjáleiga, so kölluð af þeim, er nú býr á, hefur oft skift um nöfn eftir ábúendum,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Pálshjáleiga hefur verið.
Ormshjáleiga (býli)
„Orms Hialeiga, sjötta hjáleiga, kend við þá er í búa,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Ormshjáleiga hefur verið.
Stéttarkot (býli)
„Stiettarkot, sjöunda hjáleiga,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Stéttarkot hefur verið.
Brinkahús (býli)
„Brinkahús, áttunda hjáleiga, so kölluð eftir þeim er á býr. Bygð innan xl ára og hefur skift nöfnum eftir því sem ábúendur hafa skifst,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Brinkahús hafa verið.
Borgarkot (býli)
Nes og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).
„Borgarkot, níunda hjáleiga, bygð fyrst innan xx ára, þar sem aldrei hafði fyrri býli verið,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Borgarkot hefur verið. Þó er ekki ósennilegt og það hafi verið á sömu slóðum og Borgarhóll, jafnvel sami hóll – þá beint vestan við Bartakot.
Sporakot (býli)
„Sporakot, tíunda hjáleiga afgömul,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Sporakot hefur verið.
Jóns hjáleiga (býli)
„Jóns Hialeiga, þriðja býli af fyrrnefndum xiii og xl álnum, hefur oft skift um nöfn og kend verið oftast við ábúendur, annars hefur hún verið að fornu kölluð Hellukot, og þriðja nafni Krokur,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar hjáleigan stóð.
Marcusarkot (býli)
„Marcusarkot var fyrir þrettán árum bygt, hjáleiga af Snjóthúsum, varaði bygðin ekki fult ár og mun síðan aldrei byggjast,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Ætla má að hjáleigan hafi staðið nokkur hundruð metrum austan við tún í Nesi, einhversstaðar í námunda við Snjóthús. Nú sjást engin ummerki þar í kring og ekki er vitað hvar hjáleigan hefur staðið.
Árnahjáleiga (býli)
„Afbýlismaður í afdeildum bæ, sem kallaður var Arnahialeiga og telst xiii og xl álnir af heimajörðinni,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Árnahjáleiga hefur staðið.
Vörðubakka (býli)
„Fyrir ofan vita [Selvogsvita] voru áður Vörðubakkar. Þar voru gömul tún, sem höfðu blásið upp; var þar áður fyrr býli. Bakkar þessir eru nú horfnir,“ segir í örnefnalýsingu. Bakkarnir hafa væntanlega verið norður af vita.
Þar er lítt gróið, sandfyllt hraun. Engar leifar sem telja mætti af býli fundust á þessum slóðum. Hugsanlega gæti verið átt við sjálf Snjóthúsin eða jafnvel Markúsarkot.
Rétt (aðhald)
Rétt við Fornugötu.
Rúst af gamalli rétt er austan undir Strandarhæð, um 130 m norðan við gamla þjóðveginn um Selvog. Þetta er um 2,8 km NNA af bænum í Nesi. Rústin er hlaðin á töluvert uppgrónu hrauni, norðvestan við stórt, hringlaga og algróið jarðfall sem í sjálfu sér hefði verið ágætt aðhald. Norðvestan við réttina eru greinilega leifar af gamalli götu sem var rakin í átt að Strandarhæð. Það mun vera Fornagata.
Grjóthlaðin, einföld rétt sem er næstum því perulaga. Hún er 14 x 10 m stór en mjókkar til norðurs og er um 7 m breið nyrst. Þar ganga hleðslur út frá báðum hornunum, annars vegar um 5 m til norðvesturs og hins vegar um 10 m til norðausturs. Báðar hleðslurnar ná að götunni fornu sem sést vel á þessum stað, er um 2 m breið með moldarbotni. Ekki er að sjá að hlaðið hafi verið meðfram götunni þótt þar sé grjót á stangli. Hleðslur í réttinni eru að mestu fallnar, mest sjást 2-3 umför grjóts í vesturhliðinni og er hún um 0,3 m há. Hugsanlegt er að hlaðið hafi verið hólf sunnan við réttina, á barmi jarðfallsins en þar er allt gróið og of óljóst til að hægt sé að fullyrða um það. Ofan í jarðfallinu, sem er slétt og vel grasi gróið, eru miklar dældir á tveimur stöðum og ekki óhugsandi að þær séu mannaverk.
Ekki er þekkt nafn á þessari rétt.
Salthóll (býli)
Salthóll er talinn meðal eyðihjáleiga í Neshverfi í sóknarlýsingu 1840. Nú er ekki vitað hvar hjáleigan hefur verið.
Imphólarétt (rétt)
Imphólarétt.
„Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin,“ segir í örnefnalýsingu. Rétt sem nú er þekkt sem Imphólarétt er ennþá til. Hugsanlega hefur eitthvað skolast til við gerð örnefnaskrár eða nafnið hefur flust eða verið endurnýtt á öðrum stað. Réttin er um 360 m sunnan við rétt sem nýaflagður þjóðvegur í Selvog liggur í gegnum og um 3,8 km norðaustur af Nesi. Hálfgróið hraun, mjög sandfyllt á köflum. Sléttar og sæmilega grónar lágar eru norðvestan og vestan við; um þær liggur gamall bílvegur sem nú er ógreinilegur og yfirgróinn á þessum slóðum.
Greinileg rétt, hlaðin norðvestan undir aflöngum hraunhrygg í smáhalla. Hlaðið er úr stóreflis hraungrýti og sést víðast hvar bara ein steinaröð. Engin gróska er í veggjum og lítur út fyrir að réttin hafi ekki verið lengi í notkun.
Réttin er um 19 x 8 m stór og snýr norðaustur-suðvestur en mjókkar til norðausturs. Lítið er hlaðið austanmegin og hefur hryggurinn þar þjónað sem aðhald – aðeins sjást stöku steinar á stangli. Op er nyrst að vestanverunni. Þeim megin vottar fyrir görðum, líklega aðrekstrargörðum, bæði nyrst og vestast og er hvor um sig 8-10 m langur. Þessir garðar gætu líka hugsanlega verið leifar af öðru hólfi. Hleðslur ná mest um 0,5 m hæð og er ekkert hrun að ráði utan eða innan veggja, því ekki að sjá að hleðslur hafi verið háar. Ekki er vitað hvenær þessi rétt var í notkun en hún gæti hugsanlega verið rúningsrétt eða jafnvel stekkur.
Refagildra (gildra)
Refagildra.
Hleðsla, sem virðist við fyrstu sýn vera varða, er um 2,4 km norðaustur af Nesi, milli gamla og nýja vegarins um Selvog. Hún er vestan við slóða sem Þórður Sveinsson kallar „Sandkallaveg“, en hann var lagður frá gamla þjóðveginum sem nú er nýaflagður og til suðurs, út á sandfyllt hraun.
Grýttir hraunhólar og sandöldur. Hleðslan sést ágætlega að úr fjarska þótt ekki standi hún hátt. Sæmileg hleðsla, líkt og varða, næstum ferköntuð í grunninn, um 1 m á kant og 0,8-0,9 m á hæð og virðist ekki hafa verið mikið hærri en það. Þegar betur er að gáð sést grilla í stokk undir vörðunni og því er líklegt að hér sé komin refagildra. Hann er opin mót norðvestri, er um 0,8 m langur, 30-40 ám á kant.
Fornagata (leið)
Fornagata á Strandarhæð.
„Ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi,“ segir í örnefnalýsingu. Svo virðist sem nafnið á götunni hafi færst yfir á klöppina eða öllu heldur sprunguna, sem kölluð er Götugjá. Fornagata sjálf liggur nokkurn veginn frá austri til vesturs og sést til dæmis norðan við þjóðveginn um Selvog, sem nú er nýaflagður eftir að hinn nýi Suðurstrandarvegur kom til sögunnar og var rakin á nokkrum kafla. Gatan liggur um hálfgróið hraun.
Gatan er mjög áberandi fast norðan við réttarrúst, þar allt að 2 m breið og auðveldlega hægt að rekja hana góðan spöl bæði til austurs og vesturs. Réttin áðurnefnda liggur á barmi gróins jarðfalls og ef hún er rakin 20-30 m til vesturs liggur hún þar á barmi annars jarðfalls. Þar er gatan raunar líkari ruddum vegi á kafla, allt að 2 m breið og vottar fyrir hleðslum við hana. Vestar hefur hún hefur væntanlega tengst götum sem áður hafa verið skráðar þar og eru kallaðar Alfaraleið. Til austurs mun gatan hafa legið neðan eða sunnan við Hellisþúfu, hjá Kvennagönguhól og svo væntanlega hjá Ferðamannshól, en um hann segir í örnefnalýsingu: „Rétt hjá Kvennagönguhól er Ferðamannshóll, sem er niðri í sandgræðslu-girðingunni. Þar er uppblásið. Gamli ferðamannavegurinn lá með hólnum og sást austur af, er komið var að honum.“
Selsvellir (sel)
Sel við Selsvelli sunnan Geitafells.
Tóftin á Selsvöllum er 12,7 km norðaustan við bæ og rúma m norðaustan við Geitafellsrétt. Örnefnið Seljavellir er þekkt sunnan við Geitafell og má leiða líkur að þetta séu tóftir selsins eða tengist henni.
Á heimasíður FERLIRS segir: „Þegar komið var upp á Selsvelli var svæðið leitað mjög vel m.t.t. hugsanlegra mannvistarleifa. […] Heimildir eru um að Selsvellir hafi verið slægjuland frá Nesi, en líklegt má telja að Nes eða Strönd hafi haft þar tímabundið í seli eins og minjar þessar benda til.“
Leið liggur fast vestan við tóftina, á milli hennar og hamraveggs Réttargjár. Grasivaxið svæði vestan við hraunhól. Allt umhverfis er gróið hraun. Tóftin er hlaðin vestan undir stórum hraunkletti sem afmarkar alla austurhliðina. Hún er í aflíðandi til halla til vesturs, niður frá hólnum. Tóftin er 9×4 m að stærð, grjóthlaðin og snýr norður-suður. Hún skiptist í fimm hólf.
Hjáleður (býli)
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77.
Túnakort Leðurs um 1920 [ártal vantar]: Tún 1,3 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 421 ha.
gömul bygging sem stendur enn tóft mörk túns og garða skv. túnakorti.
Stóra-Leður (býli)
Stóra-Leður.
Dýrleika hjáleigunnar er ekki getið í Jarðatali Johnsens frá 1847. „Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn,“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Stóra-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu Jón Jónsson og Ragnheiður Þorbjörnsdóttir, bústýra, 1875-1919. Ásmundur Guðnason og Margrét Vigfúsdóttir, bústýra, 1919-1934. Síðan í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn sem og tóftir bæjarhúsanna eru óröskuð innan heimatúns Ness, í austurhorni þess. Allt umhverfis Stóra-Leður eru slétt, grasivaxin tún. Bæjarhóllinn er innan gamla heimatúns Ness sem er slétt og grasivaxið. Þar fer land hækkandi til norðurs, frá fjörunni. Bæjarhóllinn á hólrima og sker sig vel úr nánasta umhverfi.
Bæjarhóllinn er 30×24 m að stærð, 1,6 m á hæð og snýr norður-suður. Tóftir bæjarhúsanna eru á hólnum og ekki sér til annarra mannvistarleifa utan þeirra.
Mögulegt er að hóllinn hafi verið stærri en eldri hlutar horfið vegna túnasléttunar. Bæjartóftin er 30×20 m að stærð og snýr norður-suður. Samtals eru 11 hólf í bæjartóftunum.
Litla-Leður (býli)
Litla-Leður.
„Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Það var við hliðið, þar sem var farið austur að vita. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út,“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Litla-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu síðast Filippus Guðmundsson og Guðrún Friðriksdóttir bústýra, 1888-1904. Síðan í eyði. Árið 1922 er fasteignamat ekki skráð.“
Litla-Leður er 150 m sunnan við StóraLeður, austarlega innan gamla heimatúns Ness. Rúmum 30 m austan við bæjarstæðið er túngarður. Ennþá mótar fyrir uppsöfnuðum mannvistarlögum á bæjarstæðinu þrátt fyrir túnasléttun. Fyrir vestan bæjarstæðið er greinileg laut í túninu. Bæjarstæðið er í sléttu, grasivöxnu túni, beint austan við bæjarhól Ness.
Mikið rask sökum túnasléttunar hefur átt sér stað á bæjarstæðinu. Þó mótar enn fyrir þúst og veggjabrotum.
„Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Það var við hliðið, þar sem var farið austur að vita. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út,“ segir í örnefnalýsingu Ness.
Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Litla-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu síðast Filippus Guðmundsson og Guðrún Friðriksdóttir bústýra, 1888-1904. Síðan í eyði. Árið 1922 er fasteignamat ekki skráð.“
Erta (býli)
Erta.
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77. 1840: Hjáleiga frá Nesi. SSÁ, bls. 104 „Þar bjuggu Gísli G. Scheving og Valgerður Scheving 1889-1906. Sigurður Jónsson og Guðrún Þórðardóttir 1906-1929. Síðan í eyði.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort 1920: Tún 0,9 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 1290 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot [ÁR-553] var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum.“segir í örnefnalýsingu Ness ÁR-549. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Þar bjuggu Gísli G. Scheving og Valgerður Scheving 1889-1906. Sigurður Jónsson og Guðrún Þórðardóttir 1906-1929.
Síðan í eyði.“ Erta er sýnd á túnakorti frá 1920. Bæjarhóll Ertu er ennþá greinilegur en bæjartóftirnar eru horfnar.
Erta er innan gamla heimatúns Ness.
Bæjarhóllinn er í sléttu, grasivöxnu túni sem nýtt er til sláttar. Í því eru víða rústahólar, bæði frá Nesi og öðrum hjáleigum þess.
Bartakot (býli)
Bartakot.
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ,77.
1706: „Bartha Hialeiga, annað býli af fyrrnefndum xiii og xl álnum, og er hún kend við nafn ábúanda; áður til forna var hún kölluð Móakot og þriðja nafn i Þriote.“ JÁM II, 446. 1840: Hjáleiga frá Nesi. 1918: Bartakot I fór í eyði. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
1922: Bartakot II fór í eyði. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort 1920: Tún 2,5 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 760 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum.“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Þar bjuggu Ásmundur Guðnason og Margrét Vigfúsdóttir, bústýra, 1887-1918. Síðan í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóll Bartakots er varðveittur en allar tóftir eru horfnar. Bartakot er innan gamla heimatúns Ness. Á fyrrihluta 20. aldar var tvíbýli í Bartakoti og gekk annar bærinn undir nafninu Bartakot II.
Bæjarhóllinn er í sléttu, grasivöxnu túni sem nýtt er til sláttar.
Bæjarhóllinn er 16×10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er hæstur til norðvesturs, 1 m á hæð, en fjarar út til annarra átta. Hvergi sést móta fyrir veggjabrotum, hólfum eða öðrum mannvistarleifum á yfirborði sökum túnasléttunar. Ekki er vitað neitt um stefnu eða lögun bæjarhúsanna.
Þórðarkot (býli)
Þórðakot – túnakort 1918.
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77. 1840: Hjáleiga frá Nesi, nýbýli sem var tekið upp 1830 skv. sóknarlýsingu. SSÁ, 218 og 221. 1962: í eyði, sbr. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort um 1920 [ártal vantar]:Tún 0,9 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 922 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur […] Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn vegin uppistandandi enn,“ segir í örnefnalýsingu Ness ÁR-549. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Þar bjuggu Guðlaugur Hannesson og Guðrún Guðmundsdóttir 1895-1911. Guðmundur V. Halldórsson og Helga Erlendsdóttir, bústýra, 1911-1962. Síðan í eyði. […] Öll hús eru ónýt.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Öll ummerki Þórðarkots eru horfin. Þar er sumarhús, á stöplum, sem ber sama nafn. Sólpallur er umhverfis bústaðinn og greinilegt að jarðvegi var mokað upp meðfram honum. Ekki er vitað hvort að bæjarhúsunum var rutt út áður en bústaðurinn var byggður eða hvort að þær eru ennþá varðveittar að hluta undir sólpallinum. Mögulegt er að ennþá finnst mannvist undir sverði.
Bæjarstæðið er ofarlega í heimatúni Ness. Heimatúnið er í halla til suðurs og var bæjarstæðið á hólbarði. Slétt, grasivaxið tún er til allra átta.
Engin ummerki bæjarstæðisins sjást á yfirborði.
Bjarnastaðir (býli)
Bjarnastaðir í Selvogi.
1847: Bændaeign, 10 hdr. JJ, 77. 1313: Bjarnastaða er getið í máldaga kirkjunnar í Nesi: Tijvnd liggur þar til af heima monnvm og af Biarnastodum. og halfer lysitollar.“ DI II, 378. 1397: Getið í máldaga Ness: „tyund liggur þar til heimamanna oc af Biarnastodum.“ DI IV, 99. 1501: Bæjarins er getið í jarðaskiptabréfi sem ritað er á Möðruvöllum 18. september. Þar er jörðin látin í skiptum ásamt fleiri jörðum á svæðinu og metin á 40 hdr. DI VII, bls. 583. 1508: Getið í kaupmálabréfi, metin á 40 hdr. DI VIII, bls. 230. 1510: Jarðarinnar getið í dómi um eignaskipti. DI VIII, bls. 322. 1706: „Jarðardýrleiki xl og so tíundast enn nú.“ JÁM, 449. 1960: Íbúðarhúsið á Bjarnastöðum brennur, fluttist þá ábúandinn í íbúðarhúsið í Guðnabæ.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 489.
Túnakort 1920: Tún 7,7 ha, þar af 4/5 sléttir. Matjurtagarðar 1485 m2. „Lýngrif og þángskurður brúkast til eldiviðar og er hvorutveggja af skorti. Selveiði má hjer ekki nafn gefa, þótt nokkrum sinnum hafi ábúendur slysað sel með nótum, einn eður öngvan á ári, öðruhverju eður skjaldnar. Rekavon er lítil…Sölvafjara gagnvæn heimamanna brúkun…Heimræði ár um kríng og lendíng í betra lagi af þessari sveit. Túnið fordjarfar sandur að ofan, en sjávargángur og veður að framan. Engjar eru öngvar…“ JÁM II, 450 Jörðin Bjarnastaðir er nokkuð landmikil, þurrlend, en að mestu algróin. Fjörubeit er mjög góð, beitiland er ógirt. Útræði var fyrr á árum.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 489.
„Bærinn stóð á allbreiðum hól neðanvert við mitt tún,“ segir í örnefnaskrá Bjarnastaða. Í Sunnlenskum Byggðum III segir: „Jörðin Bjarnastaðir er nokkuð landmikil, þurrlend, en að mestu algóin. […] Íbúðarhúsið á Bjarnastöðum brann 1960, fluttist þá ábúandinn í íbúðarhúsið í Guðnabæ. […] Árið 1962 kaupið Teitur Eyjólfsson jörðina og er hún ábúendalaus síðan,“. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Síðustu ummerki torfbæjarins á Bjarnastöðum sjást ennþá á bæjarhólnum og honum lítið verið raskað. Yngri útihús, byggð á 20. öld, eru öll norðaustan og vestan við bæjarhólinn. Bærinn er 50-60 m frá nýlegum sjóvarnargarði, sunnarlega innan gamla heimatúnsins.
Bæjarhóllinn er í sléttu túni, nærri fjöruborði. Túnið er grasivaxið og rústahólar eru hér og þar ásamt 20. aldar mannvirkjum.
Bæjarhóllinn er 52×38 m að stærð, 2,6 m á hæð og snýr NNV-SSA. Á honum eru tóftir bæjarhúsanna.
Guðnabær (býli)
Guðnabær.
Guðnabær er talinn hjáleiga Bjarnastaða í sóknarlýsingu 1840 en var skv. henni var bærinn nýbýli, upptekið 1826. Í JJ segir í neðanmálsgrein: „Prestur nefnir og Guðnabæ sem hjáleigu, en þar eð býla tölunni þannig að eigi ber heim við hreppstjóra, er Guðnabær hér ótalinn.“ „Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komið í eyði,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Íbúðarhúsið í Guðnabæ var byggt 1949 úr holsteini.“ Það hús er ekki byggt á bæjarhólnum heldur austan hans, handan við traðir. Guðnabær virðist hafa farið í eyði 1962 þegar jörðin er seld.
Bæjarhóll Guðnabæjar er í sléttu, grasivöxnu túni. Þar umhverfis er nokkuð af hólum, líklega mest rústahólar.
Bæjarhóll Guðnabæjar er 32×28 m að stærð og snýr norður-suður og er nánast í miðju svæðisins. Á honum eru varðveittar rústir bæjarins.
Klöpp (býli)
Klöpp.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, stóð hún ofan garðs,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Klöpp. Býlið hét áður Útrek en árið 1916 breytti nýi ábúandinn nafni býlisins í Klöpp. Fór í eyði 1951 og er hvorki getið í fasteignamati 1922 né 1977.“
Bæjarhóllinn og bæjarhúsin í Klöpp eru varðveitt tæpum 400 m norðan við bæ og rúmum 100 m norðan við Guðnabæ. Minjarnar samanstanda af bæjarhól, bæjarhúsum, þremur stakstæðum útihúsum, kálgarði, hleðslu og mögulegum brunni. Bærinn er norðan við túngarð.
Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis Klöpp. Túnið er nýtt til hrossa- og sauðfjárbeitar. Í því eru lágir, náttúrulegir hólar og stakir hraunklettar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: “ Hjáleigur hafa hjer verið þrjár, sem grasnautn höfðu; tvær af þeim hafa í auðn verið ix ár eður lengur, ekki var þeim tveimur nafn gefið nema af heitnum ábúendum, menn vita akki hverjir kostir á þeim voru.“ Hér er önnur nafnlausa hjáleigan skráð en ekki er lengur hægt að staðsetja hana enda engar þekktar upplýsingar um hvar hún var.
Heimildir: JÁM II, 451.
Bjarnastaðaból (sel)
Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.
„Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum,“ segir í örnefnalýsingu Bjarnastaða. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1706 segir: „Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“ Annarsstaðar í sömu bók segir um bæinn Götu: „Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“ Tóftir Bjarnastaðabóls eru rúma 800 m ASA af Þorkelsgerðisbóli og um 800 m norðaustur af Hásteinum, en það eru áberandi klettar í heiðinni skammt ofan við ónýtan sumarbústað, þann eina á stóru svæði.
Fremur kennileitasnauð heiði þar sem skiptast á grjóthólar og grónar lægðir. Heiðin smáhækkar upp til norðurs. Selið er sunnan við tvískiptan grjóthól sem rís ekki hátt og er ekki mjög áberandi fyrr en að er komið.
Miklar rústir eru á Bjarnastaðabóli.
Beggakot/Beggjakot (býli)
Beggjakot.
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Bjarnastöðum. JJ,77.
1840: Hjáleiga frá Bjarnastöðum. SSÁ, 218
Túnakort 1920: Tún 1,7 ha, þar af 1/4 slétt. Matjurtagarðar 612 m2.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 er Beggakot talin hjáleiga frá Bjarnastöðum. Í Jarðabók Johnsen frá 1847 er dýrleika ekki getið. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Ábúendur: Stefán Valdason og Kristín Ólafsdóttir, bústýra, 1897-1909. Guðmundur Filipusson og Jóhanna Pétursdóttir 1909-1955. Síðan er jörðin ábúendalaus,“ Í örnefnalýsingu Bjarnastaða segir: „Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æsuhól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Beggakot er 230 m norðan við Bjarnastaði, um 50 m austan við landamerkin við Götu. Þar er gaddavírsgirðing. Bæjarhúsin eru ennþá á bæjarhólnum og útihús í heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs, í átt að sjó.
Bæjarhóllinn er í grasivöxnu og sléttu túni. Víða eru hólar, bæði náttúrulegir og uppsöfnuð mannvistarlög. Þeir eru skráðir hér undir öðrum númerum og í landi Bjarnastaða. Minjar í heimatúni Beggakots eru skráðar undir býlinu en aðrar minjar falla undir Bjarnastaði og eru þar skráðir.
Bæjarhóllinn er 34×28 m að stærð, 2 m á hæð og snýr austurvestur. Þar eru ennþá rústir síðasta bæjarins í Beggakoti.
Gata (býli)
Gata.
1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ,77. 1501: Götu er getið í jarðaskiptabréfi sem ritað er á Möðruvöllum 18. september. Þar er jörðin látin í skiptum ásamt fleiri jörðum á svæðinu og metin á 10 hdr. DI VII, bls. 583.
1510: Jarðarinnar getið í dómi um eignaskipti. DI VIII, bls. 322. 1561: Getið í tylftardómi ásamt Eymu í Selvogi. DI XIII, bls. 623. 1570: Getið í skiptabréfi eftir Pál lögmann Vigfússon, metin á 10 hdr. DI XV, bls. 408.
1706: „Jarðdýrleiki x.“ JÁM, 451. 1840: metin á 5 hdr.
Túnakort 1920: Tún 3,5 ha, þar af 1/4 slétt. Matjurtagarðar 978 m2. „Jörðin Stóra-Gata er fremur landlítil, gróin að mestu, fjörubeit góð, beitiland ógirt.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 491.
Stóra-Gata (býli)
„Tveir bæir voru í götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u.þ.b, mitt á milli landamerkja.,“ segir í örnefnaskrá. Mynd er af hluta gamals torfbæjar í Stóru-Götu í Sunnlenskum byggðum III. Þar sjást tvær burstir og grjóthlaðnir kampar. Um Stóru-Götu segir í sömu bók: „Íbúðarhúsið á Stóru-Götu er ónýtt og flutti fjölskyldan að Litlu-Götu árið 1959 er Runólfur flutti þaðan og keypti hús hans.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn er óraskaður með öllu sem og tóftir síðustu bæjarhúsanna. Bæjarhóllinn er um 50 m norðan við sjóvarnargarð, ekki langt frá fjörunni. Stafnar bæjarins snéru til suðurs í átt að sjó. Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis bæjarhólinn.
Þorkelsgerði (býli)
Þorkelsgerði.
1847: 16 hdr., kirkjueign.
1521: Jarðarinnar getið í upptalningu á erfðagóssi Vigfúsar Erlendssonar. DI VIII, bls. 798 og 805. 1532:
Lesið stefnubréf og dómur yfir Páli Vigfússyni og leyfð lausn á jörðunum Þorkelsgerði, Vindási og Kirkjuvogi.
DI IX, bls. 622-623. 1521: Jörðin látin upp í skuld ásamt Vindási í Selvogi og fleiri jörðum. DI X, bls. 60.
1706: Ein jörð en sundurdeildir fjórir bæir, sem nú eru kallaðir Austurbær, tíundast fyrir xii c. Midbær, tíundast fyrir viii c. Vesturpartur, tíundast fyrir v c. Torfabær, tíundast fyrir v c. Jarðardýrleiki á allri jörðinni er xxx og so tíundast jörðin öll fjórum tíundum.“ JÁM II, 452.
Túnakort 1920: Þorkelsgerði (austurbær): Tún 3,5 ha, allt slétt. Nátthagi 0,3 ha, þar af slétt ca 1/3. Matjurtagarðar 1770 m2. Þorkelsgerði (vesturbær): Tún 1,3 ha, alslétt, tún í Melbúð alslétt, stærð 1,2 ha. Nátthagi 0,3 ha. Matjurtagarðar 717 m2. „Lýngrif til eldiviðar er mjög að þrotum komið, en Þángtekja mjög af skorti, því margbýlið uppetur það einum kynni að nægja ríflega. Selveiði má ekki telja, þó slysast hafi selur í nót sem sagt er um Bjarnastaði. Rekavon lítil…Sölvafjara gagnvæn heimamanna brúkun og stundum betri…Skelfisksfjara næg heimamanna brúkun til beitu fyrir þyskling, brúkast annars ekki nema ýsugengd sje. Sjaldan taka hjer aðrir beitu og af líðan, en ekki rjetti það menn vita. Heimræði ár um kríng og lendíng í besta lagi í þessari sveit, en þó sund lagnsókt og þarf að sæta sjáfarföllum. Engjatak á jörðin í Arnarbælislandi í Ölvesi, þar sem heita Nautaeyrar…Hjer í mót á staðurinn skipsstöðu fyrir Þorkelsgerði, vide Arnarbæli. Túnin fordjarfar sandságángur að ofan, en sjáfargángur að framan….Engjar öngvar nema fyrtalið ítak…Viðureldi af sauð tindgast illa ut supra. Stúngulaust og ristulaust utan túngarða sem fyr segir. Vatnsból ekki nema fjöruvatn.“ JÁM II, 454 „Jörðin er nokkuð landmikil, þurrlend, gróin að mestu, fjörubeit sæmileg, beitiland ógirt að mestu. Útræði var áður fyrr. Áður stóð bærinn neðar í túninu, en 1942 var hann fluttur af þáverandi ábúanda ofar í túnið, þar sem hann er nú.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 492.
Þorkelsgerði.
„Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús…Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir að jörðin sé deild í fjóra bæi: Austurbæ, Miðbæ og Vesturpart og að auki Torfabæ, sem er undir sérstöku númeri í skrá þessari. Ekki er vitað annað en Þorkelsgerðisbæirnir þrír (utan kannski Vesturpartur) hafi staðið á einum og sama bæjarhól og eru hér skráðir undir sama númeri. Bæjarstæðið er enn óspillt um 50 m neðan eða sunnan við íbúðarhúsið í Þorkelsgerði I. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Áður stóð bærinn neðar í túninu, en 1942 var hann fluttur af þáverandi ábúanda ofar í túnið, þar sem hann er nú.“
Bæjarhóllinn er neðst í túni en 60-80 m ofan við sjávarkampinn. Mikið er af uppsöfnuðu rusli kringum bæjarleifarnar. Stór og mikill bæjarhóll. Á austurhluta hans eru miklar leifar af húsum frá því um miðbik 20. aldar. Alls er hóllinn um 80 x 40 m stór og snýr austur-vestur. Hann er mest allt að 2-3 m hár.
Rollubúð (verbúð)
„Upp af lendingunni voru verbúðir. Næst vörinni var Rollubúð, sem var frá Austurbænum í Þorkelsgerði,“ segir í örnefnalýsingu. Rollubúð mun hafa verið rúma 200 m suðaustur af Þorkelsgerði, á sjávarkampinum eða því sem næst. Nú er ekki vitað um nákvæma staðsetningu Rollubúðar en væntanlega hefur hún verið tiltölulega skammt frá vörinni. Hár sjávarkampur sem er ekkert nema grjót. Utan í honum landmegin sjást víða för eftir jarðýtu og sýnilegt að ýtt hefur verið upp grjóti til að mynda hærri kamp og varna því að sjór gangi á land. Mikið grjót er uppi á kampinum og engin heilleg mannvirki en þó má ímynda sér að smáleifar sjáist austast í Þorkelsgerðislandi. Á þeim stað er kampurinn grónari og e.t.v. minna raskaður en í kring. Efst á honum sjást reglulegar steinaraðir sem mynda hólf, um 6 x 3 m frá austri til vesturs. Einkum eru gaflar greinilegir, eins og sokknar grjóthleðslur. Hér gæti verið komið mannvirki en þó erfitt að fullvissa sig um að það sé af Rollubúð.
Sólheimar (býli)
Sólheimar.
„Fyrir ofan Moldu var Tómthús, sem nefnt var Sólheimar. Það er austur undir Götumörkum og átti að fylgja Austurbænum í Þorkelsgerði. Sólheimar standa að mestu enn,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sólheimar voru byggðir af Brynjólfi Guðnasyni 1932, sem bjó með móður sinni, Margréti Brynjólfsdóttur, til 1939.“ Virðist hafa farið í eyði 1953. Sólheimar eru 100 sunnan við Bjarg. Tómas Sigurpálsson, heimildamaður og ábúandi í Götu, talaði um að Sólheimar hefðu verið notaðir sem samkomuhús. Grasivaxið tún með lágum hólum er allt umhverfis Sólheima. Svæðið tilheyrir Þorkelsgerði en er nýtt frá Götu.
Bjarg (býli)
Bjarg.
„Ofar og austar [en Sólheimar] er Bjarg, sem var þurrabúð frá Þorkelsgerði. Það hús var byggt upp í sumar (1980),“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Bjarg var byggt 1932 af Sveini Halldórssyni, sem bjó með konu sinni, Guðbjörgu Þórðardóttur, þar til 1957.
Fasteignamat 1976 ekkert.“
Bjarg er 60 m suðvestan við Katlabyrgi. Það er nýtt sem heilsárshús og umhverfis það er lítið afgirt tún, líklega nýtt að eiganda hússins. Mynd er af bænum í Sunnlenskum byggðum III. Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis Bjarg.
Þorkelsgerðisból (sel)
Þorkelsgerðisból.
„Austan við Strandhæð [Strandarhæð?] eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel,“ segir í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis. Þorkelsgerðisból er um 1,3 km norður af gamla þjóðveginum um Selvog, hér um bil 1 km austur af Vörðufelli og um 800 m VNV af Bjarnastaðabóli. Þetta er rúma 5 km norðaustur af bæjarhól í Þorkelsgerði. Seltóftirnar eru vestan í grónum grjóthól og þeim hallar dálítið mót norðvestri. Umhverfis er heiði með valllendisblettum, lyngmóum og víða rofabörðum.
Miklar tóftir sjást á bólinu, á svæði sem er alls um 30 x 15 m stórt og snýr norður-suður. Þar er rústahóll með fjögurra hólfa, íbjúgri rústalengju.
Gapi (fjárskýli)
Gapi.
Í sóknarlýsingu frá 1840 segir: „Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: „Gapi, tekur 60 kindur““. Í örnefnalýsingu er talað um sama helli: „Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.“ Rétt sem kemur heim og saman við lýsinguna á Gapastekk er um 400 m suðvestur af Strandarhelli og um 2,6 km norðaustur af bæjarhól. Iðagrænn blettur fast við stakan klett eða hraungang. Í honum er hellisskúti sem opnast innundir hraunhelluna. Falleg rétt, hlaðin framan við hellisskúta. Hellirinn opnast mót suðri og er opið býsna hátt og greinilegt, allt að 1,8 m hátt upp á efri brún hellisþaks. Hellirinn er ekki djúpur, vart meira en skúti. Ein hella hefur verið reist upp á rönd vestarlega í opinu og yfir því sjást leifar af hleðslu, austan við miðju. Réttin er sunnan við munnann, einföld og iðagrænt innan hennar, hleðslur standa þokkalega, allt að 3-4 umför af grjóti, hæð allt að 0,5 m. Hlaðið er upp á hellisþakið austanvert og líka aðeins upp á það að vestanverðu. Réttin er um 15 x 11 m stór og snýr austur-vestur. Rekið hefur verið inn að sunnan vestarlega. Þar er aðrekstrargarður sem virðist fornlegri en réttin, liggur í sveig til suður og suðvesturs frá opinu og er hátt í 20 m langur.
Suðurferðavegur (leið)
Suðurferðavegur.
Á korti Ómars Smára Ármannssonar er merktur „Suðurferðavegur“ frá heimreiðinni að Þorkelsgerði og til NNA, framhjá Útvogsvörðu. Innan sviga stendur: „Selvogsgata.“ Þetta er að líkindum sama leið og lýst er í grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48 sem einum anga af leiðinni milli Selvogs og Hafnarfjarðar, Grindaskarðavegi. Hann lá samkvæmt því til norðurs í framhaldi af heimreiðinni að Þorkelsgerði, framhjá Útvogsvörðu og þaðan áfram til norðurs. Ekki fæst betur séð en þessi gata hafi líka verið kölluð Útvogsgata, þá sennilega sá hluti hennar sem næst liggur byggðinni í Selvogi. Um hana segir í örnefnalýsingu: „Útvogsgata lá frá túngarðshliði í Þorkelsgerði, upp Dalhóla og upp hjá Skála [Skáli er varða, sem er rétt vestan við mörkin og því í Strandarlandi.“
Suðurferðavegur.
Fyrsta spölinn af leiðinni, þ.e. næst Þorkelsgerði, nú er akvegur upp á milli tveggja sumarbústaða sem eru norðan og norðaustan við veitingastaðinn T-Bæ. Ekki sjást götuleifar á þeim kafla sem skoðaður var á vettvangi. Samkvæmt korti af leiðinni sem Ólafur Þorvaldsson birtir í grein sinni lá leiðin hér um bil beint til norðurs frá Þorkelsgerði, upp skarð sem er vestan megin við Svörtubjörg og áfram til norðurs og síðar norðvesturs. Þetta mun hafa verið austasti angi leiðarinnar, sú sem lá í Selvog en leiðir skiptust uppi á fjallinu. Miðleiðin lá til Stakkavíkur og Herdísarvíkur [skráð í landi Stakkavíkur, sjá Ár-561:006] en sú þriðja til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð [hefur ekki verið skráð]. Ef loftmynd er skoðuð vandlega örlar á slóða 300-400 m vestan við afleggjarann sem liggur niður frá gamla þjóðvegi (þeim sem er nýaflagður með tilkomu Suðurstrandarvegar) og niður í Selvog. Að öðru leyti er vísað í lýsingu Ólafs Þorvaldssonar á leiðinni. Sömuleiðis er til handrit sem lýsir leiðinni vel eftir Konráð Bjarnason og nefnist „Kaupstaðarleið Selvogsmanna“.
Bjargarhellir (fjárskýli)
Bjargarhellir – hleðslur.
Fjárhellir er tæpa 500 m suðvestur af Strandarhelli, 60-80 m norðan við vörðu. Þetta er væntanlega Bjargarhellir sem er getið í sóknarlýsingu 1840: „Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: Bjargarhellir, [rúmar 200 fjár]…“.
Niðurfall í hraunið og opnast glufa undir hraunhelluna til norðurs og vesturs. Hellisopið er rýmst og hæst til norðurs eða norðvesturs en annars lágt til lofts.
Jarðfallið sjálft er um 10 x 6 m stórt og snýr norður-suður. Iðagrænt er ofan í því, aflíðandi brekka niður að hellisopinu. Að vestan er jarðfallið markað af hraunhellum en fornleg hleðsla virðist vera að austanverðu ofan á hraunklöppinni, 1-2 m breið, 0,3-0,4 m há, algróin og sigin. Einnig gæti hafa verið hlaðið að ofan á brún hellisþaksins vestan við jarðfallið, þar er mikið, hálfgróið lausagrjót. Smájarðföll eru suður af þessu og gætu jafnvel hafa verið notuð sem inn- eða útgönguleiðir. Aðeins var gægst inn í hellinn og virðist sem hleðsla gæti hafa skipt honum í tvennt sunnan við aðalinnganginn. Annar hellir sem opnast undir hraunhellu er 20-30 norðar, opið um 7 m langt og snýr mót norðri. Varða er á hellisþakinu en engar hleðslur sýnilegar.
Eima (býli)
Eima.
1847: Dýrleiki kemur ekki fram.
1501: 18.9. selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Eimu 10 hdr, DI VII, 583 sbr. DI VIII, 322.
1561: 1.7.er dæmt að landskuldir þær sem gjaldast eftir Breiðabólstað, Götu og Eymu skuli Jón Marteinsson svara Þórólfi Eyjólfssyni. DI XIII, 622-23. 1596: Árið 1596 er Solveigu Jónsdóttur dæmd Eima, 10 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur móður sína. AÍ III, 68. 1677-80: Búa 2 Jónar í Eimu Sveitarbragur Jóns Jónssonar í Nesi, SSÁ, 229.
1706: Jarðardýrleiki er X álnir og svo tíundast. Eigandi er prestekkjan Salvör Einarsdóttir á Háholti í Eystra Hrepp.“ JÁM II, 455. 1840 er Eima, tvíbýlisjörð talin meðal eyðibýla í ytra parti Austurvogar og á að hafa farið í eyði eftir 1750. SSA, 221. 1902: „Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra. Dálítið er nú þar farið að gróa upp aftur.“ Brynjúlfur Jónsson 1903, 51.
1927: Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927. Fornleifaskrá, 78.
1706: „Landskuld er nú 1x álnir, hefur áður verið stundum lægst xl álnir, stundum undir hundrað eður yfir, eftir því se, landsdrotni og ábúendum hefur um samið, og þeir hafa komið kaupi sínu so sem jörðin hefur spilst og batnað. Landskuld betalast ýmist í fisi, vætt fyrir xx álnir, eður í peningum uppá landsvísu. Leigukúgildi er nú i, hefur fyrir 12 árum verið hálft þriðja, en því fækkað eð ekki byðist ella. Leigur betalast í fiski heima á jörðinni. JÁM II, 455.
„Nokkuð landmikil jörð, þurrlend, efri hlutinn gróinn en nær sjónum uppblásinn og gróðurlítill. Eyðijörð nytjuð frá Þorkelsgerði I,“ segir í Sunnlenskum byggðum III, bls. 493. „Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Eima liggur undir Austurbæinn í Þorkelsgerði,“ segir í örnefnalýsingu. Í friðlýsingarskrá segir: „Þorkelsgerði. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu,“ Þinglýst 1927. Bæjarhóll Eimu er ennþá varðveittur en allar rústir horfnar. Bæjarhóllinn er merktur með litlu skilti sem á stendur: „Eyma í eyði 1814.
Eiríkur Jónsson síðasti ábúandi.“ Rúmir 30 m eru í sjóvarnargarð til suðurs frá bæjarhólnum. Einnig er sandfláki aðeins 10 m fyrir sunnan hólinn. Fornigarður er 30 m til norðurs frá bæjarhólnum. Slétt, grasivaxið tún er umhverfis bæjarhólinn.
Eimuhjáleiga (býli)
Eimuhjáleiga.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 stendur: „Eimu hjáleiga, gamalt býli, ætla menn að hafi varðað nær 1 eður 1x ár, en þó öðruhvorju fallið í auðn lengur eður skemur í bili. Eyðilagðist til fullt í næstu fardögum. “ Í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis stendur: „Eimu fylgdi Eimuhjáleiga. Tóftir hennar lentu undir veginum út að kirkjunni [Strandakirkju].“ Í friðlýsingarskrá segir: „Þorkelsgerði. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu.“ Þinglýst 1927. Eimuhjáleiga er tæpa 80 m NNV við bæ, utan Fornagarðs.
Ummerki bæjarstæðisins eru horfin af yfirboði en lítið skilti merkir staðsetninguna. Á því stendur einungis „Eymuhjáleiga“. Líkt og segir í örnefnalýsingu lentu tóftirnar undir vegi og restin sléttuð út. Það má greina aflíðandi til brekku til vesturs frá fyrrnefndum vegi en ekki er með vissu hægt að segja að hún tilheyri Eimuhjáleigu. Grasivaxið hólbarð er fast sunnan við fyrrnefndan veg sem er malbikaður. Annar vegslóði liggur til suðvesturs, meðfram áætluðu bæjarstæði. Annars eru grasblettir og grýttir sandflákar allt um kring. Engin ummerki Eimuhjáleigu sjást á yfirboði.
Strandarhellir (fjárskýli)
Í Strandarhelli.
Í sóknarlýsingu frá 1840 segir: „Í Selvogsheiði eru 3 hellar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár…“ Í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis segir: „Í Strandarhæð, sem nú er í Eimulandi, er Strandarhellir. Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.“ Strandarhellir er norðarlega í Strandarhæð. Hann er rúmlega 1 km norðaustur af gatnamótunum þar sem gamli þjóðvegurinn og vegurinn suður að byggðinni í Selvog mætast. Þetta er um 3 km norðaustur af Eimu og rúma 3 km norðaustur af Strönd. Stórt jarðfall í hraunhæð og opnast skútar úr því til norðurs og suðurs. Auk þess er smærra jarðfall með hellisskútum fast norðan við og að auki hleðsla vestan og sunnan við hellana.
Alls er svæðið tæplega 50 x 50 m stórt. Stóra jarðfallið, sem er sunnar, er alls um 17 x 15 m stórt og snýr austur-vestur. Það er algróið og iðagrænt í botni og vel djúpt, allt að 4-5 m sé staðið niðri á botninum. Í raun er aðeins ein leið vel fær niður í það, að sunnanverðu, og það í sjálfu sér vel fjárhelt. Sennilega hefur verið hlaðið fyrir uppi á brúninni að norðvestanverðu á um 15-20 m löngum kafla – þar sést mikið af grónu grjóti utan í barminum en allt gróið og ekkert lag á.
Strandarhellir – uppdráttur ÓSÁ.
Hvorugur hellanna er manngengur, enda virðist mikið efni hafa safnast fyrir inni í þeim, sauðatað. Sá syðri er varla nema smáskúti en sá nyrðri bæði djúpur og dimmur. Ekki var skreiðst langt inn í hann og ekkert vasaljós með í för en tveir angar úr hellinum teygja sig sýnilega býsna langt í norður. Ekki grillti í hleðslur en skv. uppdrætti sem Ómar Smári Ármannsson hefur gert af Strandarhelli eru dálitlar fyrirhleðslur á tveimur eða þremur stöðum innarlega í hellinum. Framan við hellisopið er jarðvegur sem hefur safnast upp að því, nú gróinn bálkur sem lokar fyrir opið að hluta. Í honum sést víða grjót og má vel vera að hlaðið hafi verið fyrir opið að mestu leyti. Norðan við jarðfallið stóra og hellana tvo er annað jarðfall, mun minna (á að giska 10 x 5 m frá austri til vesturs) og ganga smáskútar innundir hraunhelluna frá því bæði til austurs og vesturs. Sá vestari er stærri, líklega um 20 x 5 m stór, manngengur, en hinn varla nema smáhola. Engar hleðslur sjást á þessum stað. Að lokum er hlaðið um svæði vestur og suður af hellunum. Hleðslan myndar ekki óslitið gerði heldur á upptök sín í miðju hrauni um 20 m VNV af jarðfallinu stóra. Þaðan má rekja hana um 40 m til suðvesturs en þar beygir hún í suðausturátt, er slitrótt á kafla en þó hægt að rekja hana um 35 m til viðbótar og er þá komið tæpa 30 metra beint suður fyrir jarðfallið. Ætla má að héðan hafi verið hlaðið til norðurs, þ.e. ef girða hefði átt af svæði við hellana, en það er ekki greinilegt þótt algróinn grjóthryggur sé raunar á því svæði – en hann virðist náttúrverk og má vera að aldrei hafi verið lokið við hleðsluna. Hlaðið er úr hraungrýti og hleðslan nær allsstaðar hrunin en ógróin, mest um 0,2 m há. Líklegasta ástæða fyrir hleðslu á þessum stað og norðar við hólinn er sú að staðið hafi til að rækta upp túnskika með áburði úr hellunum. Ekki virðist mikill árangur hafa náðst, a.m.k. ekki ef marka má núverandi gróðurfar en lítill jarðvegur er innan beggja garða, stutt í rof og hraunklappir.
Ólafarsel (sel)
Ólafarsel.
„Austan og sunnan við [Vörðu]fellið er Vörðufellshraun, smáblettur, sem runnið hefur frá fellinu. Það er ekki vel uppgróið. Í því er hiti og rýkur úr hólnum. Framan í hrauninu (þ.e. sunnan í) er Ólafarsel, er enn sér fyrir. Það tilheyrði líklega Eimu, er alveg við mörk Eimu og Strandar,“ segir í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis. Ólafarsel er um 1,2 km norðnorðaustur af Strandarhæð en suðaustan undir Vörðufelli. Það er um 4,3 km norðaustur af Eimu. Fallegur staður og líklega skjólgóður, gróin kvos með valllendi og grjóthólum, opin mót suðri. Skáhallt ofan við tóft A er aflöng laut sem sennilega hefði verið gott að reka fé inn í. Tvær snyrtilegar tóftir sjást á þessum stað á svæði sem er tæplega 40 x 10 m stórt og snýr austur-vestur. Sýnilegar minjar eru einfaldar í sniðum og engin augljós merki sjást um endurbyggingar eða langa notkun. Engin grænka er í tóftaveggjum.
Torfabær (býli)
Torfabær.
1847: Bændaeign, dýrleika ekki getið. JJ, 77.
1706: Í Jarðabók Árna og Páls er Torfabær talinn hluti Þorkelsgerðis. Alls var Þorkelsgerði metið á 30 hdr en: „Torfabær tíundast fyrir v.“ JÁM II, 452. Auk þess segir í sömu bók, bls. 455: „Hjáleigur tvær byggði hjer Torfi heitinn Ellendsson, þá er hann flutti bústað sinn af Stafnesi eður fám árum síðar, þær setti hann utangarðs af óskiftu landi, en hjelt sjálfur hús þar sem Torfabær heitir síðan; ekki var hjáleigunum nafn gefið.“ Af þessu að dæma hefur Torfabær ekki byggst fyrr en í tíð Torfa Erlendssonar, líkast til milli 1630 og 1640. 1821: „Sýslumadur Tofi, bygdi hér Bæ, sem kéndur er vid Nafn Hans; má þar enn siá mikil vegs ummmerki ad verid hafi stórbýli. Hann tilskickadi: ad hvór, sem ná vildi Tali vid sig, skyldi bera 3 steina ad Bæ sínum. þetta kalla Menn TORFALOG.“ FF, 2281840: 7 hdr. að auki hjáleigan Melborg. SSÁ, 218.
Túnakort 1920: Tún 2,1 ha, allt slétt. Nátthagar 0,6 ha, þar af 3/4 slétt. Matjurtagarðar 1114 m2 „Jörðin er fremur landlítil, gróin að mestu, fjörubeit sæmile, beitiland ógirt að mestu.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 495.
Í Frásögum um fornaldarleifar segir: „Sonur Hanns [Erlends Þorvarðarsonar], Sýslumadur Torfi, bygdi hér Bæ, sem kéndur er vid Nafn Hans; má þar enn siá mikil vegs ummmerki ad verid hafi stórbýli – Hann tilskickadi: ad hvór, sem ná vildi Tali vid sig, skyldi bera 3 Steina ad Bæ sínum. Þetta kalla Menn TORFALÖG. sídan hafa komu Menn innleidt þá veniu t.d. ad slá 1 brínu, reka 1 hitu, leggia 3 steina í vegg, vefa 1t a 3 skaptvóf. etc. og segia þá goldin Torfalógin…“ „Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu,“segir í örnefnalýsingu. Nú stendur nýbyggt íbúðarhús á bæjarhól Torfabæjar. Þetta er vestasta húsið sem stendur uppi í Austurvogi, hér um bil beint niður af veitingahúsinu T-Bæ.
Bærinn stendur ofarnlega í hæðóttu túni sem er bitið af hrossum. Húsið, sem er nýlegt íbúðarhús, stendur á náttúrulegum hæðarhrygg sem snýr hér um bil austur-vestur og er að nokkru leyti grafið inn í hann. Þetta er bárujárnsklætt hús á timburklæddum, steinsteyptum sökkli. Ekki er afgerandi hólmyndun undir húsinu.
Markasteinn (áletrun)
Markasteinn.
Merkjasteinn með áletrun er í fjörunni milli Torfabæjar og Eimu. Hann er 2 m suður og niður af hornstaur núverandi girðingar milli bæjanna og 170-180 m suðvestur af bæjarhól. Um hann segir í örnefnalýsingu: „Landamerki Þorkelsgerðis og Eimu voru þannig: úr fremsta Markaskeri í merktan stein (M) á kampinum við Torfabæjarsjógarðshliðið (til hægri þegar horft er til sjávar við hliðstaur).“ Stórgrýtt fjara. Höggvið hefur verið M í fremur lítinn stein sem er 30-40 cm í þvermál. Stafurinn er grunnur en greinilegur, um 8 cm hár. Þetta er 2,5-3 m vestur af enda sjóvarnargarðs Eyþórs Þórðarsonar.
Útvogsréttir (rétt)
Útvogsrétt.
Í örnefnalýsingu segir: „Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ. Þessar réttir eru enn notaðar. Réttin var flutt þangað eftir flóðið mikla 1925.“ Réttirnar teljast strangt til tekið ekki til fornleifa, enda hafa þær ekki náð 100 ára aldri.
Mannvirki á staðnum eru óljós. Þess má geta að í Mosakrók, sem virðist hafa verið á sömu slóðum getur örnefnalýsing um gamlar rústir, hugsanlegt býli. Mannvirkið sem hér er lýst er í krika utan við Forngarð. Hrossabeit er nú á þessum stað. Allar hleðsluleifar eru mjög óljósar og úr lagi gengnar.
Vogsósar (býli)
Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.
„Nú og um langan aldur hafa Vogósar, bærinn, staðið í Vogósatúni,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn í Vogsósum I er á gamla bæjarstæðinu, vestast í miðju túni og um 340 m NV af Vogsósum II. Búið er í húsinu þótt það sé að hluta orðið ansi laslegt.
Sléttað tún og slegið er alveg upp að bænum að norðan og sunnan. Heimkeyrslan að bæ liggur úr suðri og malarhlað er að framanverðunni. Fjárhús og hlaða úr bárujárni eru fast austan við íbúðarhúsið. Bæjarhúsin standa á sama stað og eldri bær stóð áður. Íbúðarhúsið er austar en fjós og hlaða voru sambyggð því að vestanverðu. Þakið fauk af fjósi og hlöðu nýverið þannig að aðeins veggirnir standa eftir. Íbúðarhúsið var reist í tveimur áföngum, vesturhlutinn 1924 en sá eystri, sem snýr framhlið í suður, á 7. áratug 20. aldar. Austan íbúðarhúss er sund, um 1,5 m breitt en þá tekur við hrörleg skemma með steyptum veggjum og járnþaki. Grjóthleðslur eru meðfram útveggjum í sundinu. Austan við skemmuna stóð lambhús en nú sjást aðeins leifar af grjóthlöðnum útveggjum þess. Þegar Snorri Þórarinsson (f. 1957) var ungur var það haft fyrir hænur en hann man líka eftir að húsið væri kallað Smiðjukofi. Aftan eða norðan við leifar lambhússins er nú járnklædd skemma en þar voru áður hlaða og hesthús, hvorutveggja sambyggt lambhúsinu. Norðaustast allra húsa á bæjarstæðinu er síðan járnklædd skemma. Alls er húsalengja þessi um 30-40 m löng frá austri til vesturs. Lítill sem enginn hóll sést undir húsunum ef staðið er við þau að sunnanverðu en aftan eða norðan við er dálítill hóll, allt að 1,5 m hár, 30 m langur og 8-10 m breiður og telur Snorri Þórarinsson að í honum hafi verið heygarður aftan við íbúðarhúsið og gamla fjósið. Snorri gróf fremur grunnt dren meðfram austanverðu íbúðarhúsinu fyrir nokkrum árum og varð ekki var við mannvistarleifar. Hins vegar gróf hann brunn frammi á hlaði nýlega. Þar kom hann niður á stóra hellu á 1,1-1,2 m dýpi og gólflag, allt að 10 cm þykkt. Áður hafði hann grafið fyrir vatnsleiðslu öllu vestar og komið niður á ruslalag með fiskbeinum á um 1 m dýpi.
Bænhúshóll (bænhús)
Vogsósar – Bænhúsahóll fremst.
„Í framtúninu er Bænhúshóll, sem einnig er kallaður Lambhúshóll…,“ segir í örnefnaskrá. Bænhúshóll er í túni um 40 m SSA af bæ 001 og liggur heimreiðin, áður traðir, í austurjaðri hans. Ekki er getið um bænhús í Vogsósum í máldögum eða öðrum gömlum heimildum svo vitað sé. Hóllinn er sleginn og túnið í kringum hann sömuleiðis. Stakstæður hóll og áberandi, næstum flatur að ofan og allt að 2-3 m hár. Hóllinn er nálægt 20 m í þvermál en þó heldur ílangur NV-SA. Lágur hóll gengur út frá honum til suðurs og sömuleiðis gengur smárani frá honum til austurs sem mótar fyrir handan við heimreiðina. Ekki hafa staðið byggingar þar í minni Þórarins Snorrasonar (f. 1931). Hóllinn gæti verið náttúrulegur að stofni til en þó er lag hans og útlit þannig að þar eru greinilega upphlaðnar mannvistarleifar.
Eiríksvarða (varða)
Eiríksvarða á Svörtubjörgum.
Í sóknarlýsingu frá 1840 segir frá Eiríksvörðu: „Þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir so langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1n faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er so hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon dó 1716 og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.“ Kristian Kaalund minnist á vörðuna í riti sem kom út 1873: „Hátt uppi á brattri fjallsbrún er haglega gerð varða („Eiríksvarða“) til minningar um séra Eirík Magnússon (galdramann), sem var þar eitt sinn prestur.“ Vörðunnar er getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða; hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Sagði Eiríkur að ei mundi Selvogur verða rændur á meðan varða sú stæði óröskuð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Selvogsafrétt segir: „Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum (1677-1716) hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum.“ Varðan er fremst á hæsta punkti Bjarganna, 3,6 km austur af rústum Hlíðar í beinni loftlínu. Varla er hægt að samþykkja að hún standi á Hellisheiði en orðalagið verður hér látið liggja milli hluta. Björgin tróna fremst sunnan í lágu fjalli sem er fremur aflíðandi bæði að austan og vestan en snarbratt að sunnanverðu.Varðan stendur mjög framarlega og er innan við 1 m fram á snarbratta klettabrún. Hún er óvenjuleg að gerð, eins og einföld vegghleðsla, um 2 m löng, sem liggur frá austri til vesturs. Mest er hún um 1,5 m há í miðjunni en yfirlínan er bogadregin þannig að varðan er hæst í miðju en lækkar út til endanna. Stórt grjót er í grunninum en smækkar eftir því sem ofar dregur. Hún er ágætlega hlaðin en ekki loku fyrir það skotið að hún hafi eitthvað verið endurbætt í seinni tíð. Hugsanlegt er að hún hafi verið notuð sem mið frá sjó og það sé ástæðan fyrir því hversu breið hún er – þannig hefur borið meira á henni úr fjarska. Reyndar segir í örnefnalýsingu fyrir Selvogsafrétt að vestari endi Bjarganna sé mið af sjó en varðan er á Björgunum miðjum. Að lokum má geta þess að lýsingin frá 19. öld kemur ekki vel heim og saman við útlit vörðunnar nú, þ.e. steinarnir eru ekki flatir og ílangir. Erfitt er að leggja mat á hvort sú lýsing hefur verið gerð eftir minni eða hversu nákvæm hún hefur verið.
Fornigarður (vörslugarður)
Fornigarður í Selvogi – ofan Ness.
„Túnið var girt Vogósatúngarði aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér…,“ segir í örnefnalýsingu. Fornigarður liggur til suðausturs frá Vogsósum í átt að Selvogi. Hann sést fyrst um 550 m SA af Vogsósum I (001) en tæpa 200 m SA af Vogsósum II. Næst Vogsósum II liggur garðurinn um tún og hefur sennilega verið raskað að einhverju leyti. Þar er girðing ofan á honum. Þar sem túnum sleppir tekur landgræðslugirðing við og þar er sandfyllt hraun, nú með mikilli lúpínu.
Fornigarður í Selvogi – vestan Strandar.
Næst Vogsósum er garðurinn fremur ógreinilegur en líkist helst grjótundirstöðum sem stundum sjást undir girðingum – og það liggur einmitt ein slík á honum í túninu. Grjót gægist upp úr sverði og undir girðingunni má sumsstaðar greina hrygg og gefur hann til kynna að garðurinn sé óraskaður undir sverði og væntanlega þykku lagi af sandi. Svona heldur garðurinn áfram um 200 m til suðurs en þá tekur landgræðslugirðingin við með sandfylltu hrauni og lúpínu svo langt sem augað eygir. Þar er garðurinn vel greinilegur og var rakinn á vettvangi tæplega 1 km til suðurs. Hvarvetna hefur mikill sandur fokið upp að honum beggja vegna svo aðeins stendur efsta steinaröðin upp úr. Á nokkrum stöðum hverfur garðurinn í lúpínubreiður en er þó víðast hvar hægt að sjá hann ágætlega. Bjarni F. Einarsson gróf nýverið í garðinn skammt ofan við Stórhól. Niðurstöður hans verða hér reifaðar í stuttu máli: „Undir einum steini, ofarlega í garðinum, fannst plast….Bendir það eindregið til þess að menn hafi verið að endurhlaða eða gera við Fornagarð allt fram á 20. öld. Nokkru neðar mátti sjá greinileg skil í hleðslutækninni. Við tók mun betur hlaðinn tvöfaldur garður. Varð grjótið stæra eftir því sem neðar dró. Neðst voru í vissum tilfellum steinar meira en manntak. Heildarhæð garðsins, eins og hann leit út nú [eftir uppgröft], var 1,66 metrar…Þar af var 1,1 metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalegum garði…Mesta breidd hans neðst var 0,96 metrar, en yfirleitt var hún 0,80 metrar…Garðurinn mjókkaði mjög upp á við…Var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans. Garðurinn hefur verið hlaðinn þannig að grjótið hefur ekki legið mjög þétt, heldur nokkuð gisið og loftað á milli.“ Um niðurstöður gjóskulagagreiningar segir Bjarni: Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinum 1104. Jarðvegssniðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226…..Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120 – 1226.“ Skammt suðaustan við Stórhól liggur garðlag niður frá Fornagarði í vinkil, fyrst til vesturs en svo beint í norður.
Borgirnar þrjár/Vogsósaborgir (fjárskýli)
Vogsósaborgir – Borgirnar þrjár.
Þrjár tóftir af fjárborgum eru rúmum 150 m vestan við þjóðveginn um Selvog, 1,1 km norðaustur af Vogsósum. Tóftirnar eru á og utan í smáhrygg í nokkuð vel grónu helluhraun. Nokkur grænka er kringum rústirnar og grösugar lægðir víða í kring.
Tóftirnar ná yfir svæði sem er alls um 25 x 25 m stórt. Allar eru þær mjög greinilegar og sennilega ekki mjög gamlar, a.m.k. ekki yngsta byggingarstigið. Nyrsta borgin, A, er á norðurenda hryggjarins. Hún er hringlaga og mikið hraungrýti sést í veggjum, bæði innan- og utanverðum. Sennilega hefur op verið í vestur. Innanmál borgarinnar er um 3 x 3 m en að utan er hún rúmir 7 m í þvermál. Veggir standa nokkuð vel og eru allt að 1 m háir. Rúmum 10 m SSA af A er önnur fjárborg, B. Hún er næstum alveg eins og sú fyrstnefnda en veggir standa þó ívið betur og eru allt að 1,2 m háir. Að utanverðu er hún um 6,5 m í þvermál en að innan um 4 m. Dyr eru greinilegar og snúa í suðvestur. Stór hella er skammt frá opinu og gæti hafa verið yfir dyrunum. Þriðja borgin, C, er um 6 m austur af B og stendur heldur neðar, á stalli utan í hryggnum og í smáhalla mót austri. Hún er rúmir 6 m í þvermál að utan og 3-4 m að innanverðu, veggjahæð mest um 0,8 m. Dyr hafa snúið í suður. Ekki er vitað hvenær fjárborgirnar voru í notkun en þær virðast ekki fornlegar og er helst að giska á að þær hafi verið í notkun á 19. öld. Reið- eða fjárgötur liggja N-S austan við holtið.
Vörðufellsrétt (rétt)
Vörðufellsrétt.
Gamla skilaréttin fyrir Selvog er uppi á Vörðufelli sem er lágt fell í Selvogsheiðinni 3,8 km austur frá Vogsósum. Samkvæmt örnefnalýsingu Þorkelsgerðis var hún ýmist kölluð Selvogsrétt eða Vörðufellsrétt. Lítið og lágt fell, ágætlega flatt og gróið að ofanverðu.
Réttin er norðarlega á vesturbrún fellsins. Þetta er stór og mikil réttarrúst sem er alls um 75 x 50 m stór frá norðri til suðurs og að auki liggur aðrekstrargarður frá henni til norðausturs. Réttin sjálf skiptist í stórt gerði, almenning og dilka. Gerðið myndar nyrðri helming réttarinnar. Það er næstum óaðfinnanlega hringlaga og ekki ólíklegt að lagt hafi verið út fyrir hringnum áður en hleðsla hófst. Alls er gerðið um 45 m í þvermál og hefur verið rekið inn í það að norðaustan. Vestan við opið liggur áðurnefndur aðrekstrargarður út frá opinu og um 50 m til norðausturs. Er því ljóst að rekið hefur verið upp á fjallið að austan eða norðaustan. Op er á hringlaga gerðinu til suðurs, inn í almenning sem er um 17 m í þvermál, næstum hringlaga en ekki jafn reglulegur og gerðið. Út frá almenningnum liggja síðan dilkar í hálfhring, alls 8 eða 9 talsins. Töluvert hefur verið lagt í hleðslu réttarinnar, mikið grjót er í veggjum og víða mjög stórt. Þeir eru að miklu leyti hrundir en standa þó á stöku stað allt að 5-6 umför af hleðslum og er veggurinn mest hátt í 1 m hár. Ekki er víst að allir dilkarnir hafi verið hlaðnir í einu, í það minnsta teygir ytra byrði tveggja eða þriggja hinna vestustu sig utar en þeirra sem austar eru. Hugsanlega hafa þeir verið byggðir síðar ellegar stækkaðir. Þórarinn Snorrason telur að réttinni hafi verið valinn staður uppi á fellinu því þar var nóg af hleðslugrjóti. Að öðru leyti hafi staðsetningin ekki verið sérlega heppileg og ekki alltaf auðvelt að reka féð upp hlíðarnar. Þessi rétt var í notkun framundir 1920. Þá hafði fyrir fáum árum verið reist girðing frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell, m.a. til að hafa betri stjórn á búfénaði en fram að þeim tíma voru menn að missa fé inn um öll fjöll á haustin. Ný rétt var hlaðin við girðinguna og féll þá réttin á Vörðufelli fljótlega úr notkun. Réttin sem er enn í notkun austan við Hlíðarvatn var síðan reist 1953.
Vindássel (sel)
Vindásssel – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftir eru í Selvogsheiði hátt í 300 m NA af Vörðufellsrétt. Sennilega er þetta Vindássel en þess er getið í gamalli landamerkjalýsingu: „Að austanverðu eru landamerki milli Strandarlands og Eymu þessi: Við sjó ræður markhella: Þaðan bein lína í vörðu, vestanvert við Eymuhjáleigu. Þaðan bein lína í Eymuvörðu. Þaðan bein lína í vörðuna á Vörðufelli, og þar er í mörkum hella, sem höggvið er á M. Þaðan liggja mörkin norðar yfir Eymuból, austan til við Vindássel, og á Gapa í Hellholt. Þaðan bein lína í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli.“ Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir um selstöðu Vindáss: „Selstaða á heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“ Heiðalandslag, þýfðir móar en hraun er undir.
Tóftirnar eru tvær, á svæði sem er um 30 x 10 m stórt N-S.
Eymuból (sel)
Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.
Eymubóls er getið í gamalli landamerkjalýsingu: „Að austanverðu eru landamerki milli Strandarlands og Eymu þessi: Við sjó ræður markhella: M. Þaðan bein lína í vörðu, vestanvert við Eymuhjáleigu. Þaðan bein lína í Eymuvörðu. Þaðan bein lína í vörðuna á Vörðufelli, og þar er í mörkum hella, sem höggvið er á M. Þaðan liggja mörkin norðar yfir Eymuból, austan til við Vindássel, og á Gapa í Hellholt. Þaðan bein lína í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli.“ Eymuból er um 100 m austur af Vindásseli og liggur markalínan milli Strandar og Eymu um það. Heiðalandslag, þýfðir móar en hraun er undir.
Gaman er að koma í Eymuból, enda frekar óvenjulegur minjastaður. Um er að ræða jarðfall í hraunrás og opnast skútar inn í jarðfallið bæði til norðurs og suðurs. Alls er jarðfallið sjálft um 13 x 11 m stórt frá norðri til suðurs, hér um bil hringlaga og hefur verið hlaðið með brúnum þess á alla kanta. Hleðslurnar eru hálfgrónar en vel sést í grjót í þeim. Sennilega hefur verið gengið niður í jarðfallið austanmegin en þar er bratti minnstur vegna jarðvegstorfu sem liggur niður brúnina. Botninn er vel gróinn og frá honum rúmir 2 m upp á jafnsléttu. Ekki sjást hleðslur fyrir hellismunnunum eða inni í hellunum en þeir eru báðir manngengir. Sá nyrðri er töluvert stærri en sá syðri. Uppi á jarðfallsbrúninni að austan er rústahóll, nálægt 10 m í þvermál og sjást í honum ógreinilegar dældir.
Strönd (býli)
Minnismerki um Strönd.
1238: “Gissur lét um sumarið taka upp bú Dufguss Þorleifssonar í Selvogi á Strönd og ræna þar öllu fénu en lið allt var óbirgt eftir og sáu bændur fyrir því.” Sturl, 406. [um 1275] Strendur eiga halfann hualriett til mots vid hiallamenn. huar sem rekur: Sex vætter aa huertt land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida med slijku sem rekur: fyrer utan vog eiga strendur þria hlute motz vid herdijsarvijk. j. hual: Enn j herdijsar vijkur fiorum eiga strendur tuo hlute huals huar sem rekur: fra mijgande Grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa er maaldage aa herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skala hollte a halfann vidreka. allan annann enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austann riett til marks vid strandar land. Stadur j skalhollte oc herdijsarvijk eigu iiij vætter huals og skal vega enu fiordu med Brioske og Beine: enn þridiung i ollum ef meire kiemur. enn strandarmenn tuo hlute. Skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsevijk j ollum hual. [125] Enn firer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung I hual ef meire er enn iiij vætter. enn ecke ellegar. DI II, 124-25. 13.5.1367: kirkiann a Strond j Selvogi a xxxc. j heima jordu. landid ad Vägshvsum. hvalreka vid stadinn j Skalahollti oc kirkiuna j Krysuvijk fra Migandi grof oc austr ad Osskerium. vidreka fra Migandi grof oc til Bergsenda. alla veidi j fuglbergi .xv. kyr. gradung. hesta .ij. iiij. ær oc .xx. oc rvtur. DI III, 212. 1397: Kirkiann a .xij. kyr. vxa þrevetrann oc einn hest. …Jtem gaf Jvar bondi kirkiunni a Strond .vjc. og Halla Jonsdotter gaf .vc. ijc. oc .v. aura firir skreidar tiund. sierdeilis firir heitfiska so marger sem þeir verda. DI IV 100-101. [1446] gefur Þorvarður Loptsson Strandarkirkju 1 hdr í testamenti sitt og skipar fátækan mann til bús síns þar, þann sem Margrét kona hans vill taka svo lengi sem hún lifir – DI IV, 675-76. 3.9.1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Strönd í Selvogi fyrir 100 hdr. – DI VIII, 230. 8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Strandarkirkju sem var “mioc hraurnandi Swo hun þurfti botar wid” og lofaði Erlendur að “bæta at Strandarkirkiu” – DI IX, 159.
Strönd – upplýsingaskilti við Strönd í Selvogi.
15.12.1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar hlidarenda. breidabolstad og littllaland. allar fyrir lxxxxc.” – DI IX, 288.
[1560] kveðst Jón Marteinsson ekki hafa “mejre peninga frijda medteked vegna austrond i Selvoge en vjc.” DI XIII, 556. 1575: Kirkian ä Strond i Selvoge. ä xxxc. heima Jordu. Landid ad Vogshusum. hualreka vid stadinn i Skälholltj og kirkiuna i Krijsuvijk. frä Miganda grof og austur ad Ässkerium. vidreka frä Migandagrof og til bergs enda. alla veida i Fuglberge. DI XV 641-642. 1596 er Solveigu Jónsdóttur dæmd 15 hdr í Strönd og Grími Einarssyni 45 í Strönd í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur móður Solveigar og föðurömmu Gríms – AÍ III, 68. “… eftir lát Erlends Þorvarðssonar (1576) og Guðbjargar dóttur hans (1594) mun jafnan hafa verið fleiri en einn ábúandi á Strönd. Á árunum 1677-1680 voru 7 ábúendur á Strönd [Sveitarbragur Jóns Jónssonar bónda í Nesi, SSÁ, 229-230], en um þær mundir var uppblástur farinn að eyða mjög landinu. Laust fyrir aldamótin 1700 var heimajörðin komin í eyði en búið á fornri hjáleigu frá Strönd, Sigurðarhúsum. Árið 1762 var engin ábúð á hjáleigum Strandar og allt komið í eyði.” JHA Strandarkirkja, 25. 1840: 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afbýlum öldungis eyðilögð af sandfoki, og þó þá fyrir nokkrum árum.” SSÁ, 216 . “Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Strönd og Vindási, með hjáleigum” voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 – Fornleifaskrá, 78.
Strönd – hestasteinn.
Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 segir: “Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa. … Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra. Dálítið er nú þar farið að gróa upp aftur. Á Strönd gerir þó enn ýmist að gróa eða blása upp.” Brynjúlfur Jónsson 1903, 51.
„Nú síðan heimajörðin er affallin, eru þær grasnautnarleifar, sem hún brúkaði, deildar á millum eigenda þeirra, sem nú hafa í staðinn þeirra afföllnu heimajarðar reist á fætur forna hjáleigu sem nú er í lögbýlatölu komin [Sigurðarhús].“ JÁM II, 458 “Afrjett hefur jörðin haft og brúkað undir Hengli so sem aðrir hjer í sveit ut supra. Munnmæli eru að jörðin hafi skógarítak átt fyrir sunnan fjall fyrir innan almenninga, þar sem enn í dag eru kallaðar Strandartorfur, þar er nú skógur eyddur og lítið hrís eftir; rök vita menn ekki hjer til nema munnmæli…Eggver hefur jörðin átt í vatnshólma þeim, sem heitir Strandarey og liggur í stöðuvatni því, er heitir Hlíðarvatn, það fer mjög til þurðar, hefur og aldrei dúntekja verið. Hvannatekju, sem í eynni var, má ekki nafn gefa.“ JÁM II, 460 [Nú er Strandarey horfin, komin á kaf eftir að hækkaði í vatninu.]
„Strandarhóll er rétt norðan við kirkjugarðinn. Þar stóð bærinn Strönd,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessýslu 1902 segir: „Svo er að sjá af rústabungum, að á Strönd hafi upp á síðkastið verið tveir bæir; Efribær og Fremri bær. Kirkjugarðurinn og kirkjan stóð fyrir framan hlað Frambæjarins. Þó var þar sund á milli, og er sagt að þar hafi verið uppsprettulind, kölluð Sælubuna.“ Bæjarhóllinn er norðan við Strandarkirkju og hafa kirkja og bær staðið alveg á sömu torfunni. Áberandi gróska er í hólnum sé miðað við hálfuppgróið sandflæmið umhverfis.
Sé allt talið saman, kirkju- og bæjarhóll, er stærðin um 90 x 70 metrar frá norðri til suðurs. Mjög greinileg upphleðsla byggingarefna er norðan við kirkjuna, grænn og ávalur hóll en ekki sjást greinilegar bæjarrústir. Honum hefur verið raskað allnokkuð, sennilega mest þegar klósettaðstaða var grafin inn í hólinn vestanverðan. Vitað er að þá var grafið gegnum mikinn öskuhaug. Árið 1950 var sett höggmynd á hólinn, Landsýn e. Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara. Fánastöng er ofan á miðjum hólnum og einnig er þar minnisvarði með nöfnum nokkurra valinkunnra ábúenda. Þar skammt austar er lítil eftirmynd af torfbæ sem hefur verið lítillega grafin niður í hólinn.
Strandarkirkja (kirkjugarður/kirkja)
Strandarkirkja 1884.
Eggver hefur jörðin átt í vatnshólma þeim, sem heitir Strandarey og liggur í stöðuvatni því, er heitir Hlíðarvatn, það fer mjög til þurðar, hefur og aldrei dúntekja verið. Hvannatekju, sem í eynni STRÖND Í SELVOGI (Á) -Maríu, Tómasi. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9 var, má ekki nafn gefa. JÁM II, 460 [Nú er Strandarey horfin, komin á kaf eftir að hækkaði í vatninu.]
1519: Á þeim dögum var Strandakirkja öll með blýi þakin og yfir dregin; staðurinn sjálfur mikinn part úr timbri byggður. Þótti þá varla slíkt höfuðból og Strönd var. Setbergsannáll IA IV, 55. (gæti verið ruglað saman við kirkjubyggingu 1624).
8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Strandarkirkju sem var „mioc hraurnandi Swo hun þurfti botar wid“ og lofaði Erlendur að „bæta at Strandarkirkiu.“ DI IX, 159.
27.9.1563: Sóknarkirkja lögð niður í Krýsuvík „een læge til Strandar kirkiu j Selvoge til kirckiu soknar sæde Krysevijk og þad kot þar hia er. Suo og gylde til Strandar kirckiu bæde tolla og tijunder og alla adra rentu suo sem adrer almenningzbæer skyllduger eru sijnum soknarkirckium ad veita“ þó skyldi þar lítið húskorn Guðs vegna eftir standa DI XIV 158-159.
1624: Kirkjan nýsmíðuð: fimm bitar á lopti að auk stafnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn predikunarstóll; öll óþiljuð undir bitana, bæði í kórnum og framkirkjunni, einninn fyrir altarinu, utan bjórþilið. Þar fyrir utan blýþak
ofan yfir bjórþilið, og ofan á öllum kórnum er sagt sé blýleingja hvorumegin og ein ofan yfir mænirnum, líka svo á framkirkjunni. Vísitasía Odds Einarssonar – tekið eftir JHA Strandarkirkja, 27. sbr. Blanda I, 322.
1700: Á þessu ári og fyrirfarandi árum eyddust og í eyði lögðust þessir kirkjustaðir í Skálholtsstipti: Strönd í Selvogi af sandi … Kirkjurnar standa enn nú og í þeim heilög þjónustugjörð fram flutt. – Setbergsannáll IA IV, 162.
Strandarkirkja um 1900.
1700: [kirkja komin að falli og fyrirskipar Jón bp Vídalín að endurbyggja hana] JHA Strandarkirkja, 27 1736: [Hin nýja kirkja er byggð var 1735 er] mestan part úr nýjum og sterkum viðum, svo hún er nú bæði að veggjum væn og vel standandi; að því leyti betur á sig komin en hún hefir nokkurn tíma áður verið, að svo er um hana búið að utanverðu, að sandurinn geingur ekki inn í hana; hennar grundvöllur hefir og so verið hækkaður, að hún verst langtum betur en áður fyrir sandinum að utanverðu. Vísitasía Jóns Árnasonar, eftir JHA Strandarkirkja, 27-28.
1751: [kirkjan stæðileg að veggjum, en súð og grind víða fúin] Húsið stendur hér á eyðisandi, svo hér er mikið bágt að fremja guðsþjónustugerð í stormum og stórviðrum; er því mikið nauðsynlegt, hún sé flutt í annan og hentugri stað. Vísitasía Ólafs Gíslasonar, eftir JHA Strandarkirkja, 13.7.1751: [Kirkjan] stendur fjarlægt bæjum á eyðisandi undir einu timburþaki, hver sandur, sem í stórviðrum fýkur að kirkjunni af öllum áttum, aungvu minna foreyðir og fordjarfar bik kirkjunnar, viði og veggi en vatns ágangur, því að það fer dagvaxandi, sérdeilis á vetrartíma í snjófjúkum, að sanfannirnar leggjast upp á veggina því nær miðja. Bréf sr. Einars Jónssonar sóknarprests í Selvogsþingum til Pingel amtmanns og ólafs biskups, eftir JHA Strandarkirkja, 28 [prestur fékk leyfi til að flytja kirkjuna að Vogsósum, en af því varð ekki – JHA Strandarkirkja, 29-30].
1758, gert að kirkjunni.
1763, gert að kirkjunni.
Strandarkirkja 1930.
1848: Ný kirkja byggð á Strönd.
1888: Ný kirkja byggð á Strönd.
16.2.1907: Strandarsókn í Selvogi lögð til Arnarbælis; (PP,93) [lög].
1968: Strandarkirkja endurbyggð: „Strandarkirkja stendur á Kirkjuhólum, eða í kirkjugarðinum,“ segir í örnefnalýsingu. Í grein Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 segir: „Kirkjugarðurinn og kirkjan stóð fyrir framan hlað Frambæjarins.“ Kirkjan stendur á dálitlum hól beint sunnan við bæjarhólinn. Kirkjan er í h.u.b. miðjum kirkjugarðinum. Í kringum garðinn er hlaðinn garður sem hefur án efa verið endurbyggður oft.
Bílastæði er sunnan við kirkjuna en tröppur upp að henni úr vestri.
Kirkjugarðurinn er alls rúmlega 40 x 30 m stór frá austri til vesturs. Hann hlýtur að hafa verið sléttaður, í það minnsta sést lítið sem ekkert móta fyrir gömlum leiðum. Engin tré eru í garðinum. Elstu legsteinarnir sem sjást eru vestan og norðan til við kirkjuna, alveg upp við hana. Vitað er að garðurinn hefur verið stækkaður í það minnsta einu sinni á 20. öld, þá til norðurs. Kirkjan sjálf er timburkirkja með hlöðnum grunni. Svolítil upphækkun sést við
suðurlanghlið kirkjunnar. Sennilega er það gróinn sandskafl, en Þórarinn Snorrason man eftir því að sandur safnaðist gjarnan á þeim stað. Er ekki ólíklegt að sandfok hafi mjög sett svip sinn á mótun bæði kirkju- og
bæjarhóls.
Strandarsel (sel)
Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.
Strandarsel, sem skv. Þórarni Snorrasyni er einnig kallað Staðarsel, er um 100 m sunnan við austurenda Svörtubjarga. Rústirnar eru 6,3 km norðaustur af Strandarkirkju og 1,5 km beint norður af Eymubóli. Undir Björgunum eru fallegir og áberandi sléttir vellir sem skera sig úr í heiðinni. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu.
Í Strandarseli eru a.m.k. 6 tóftir á svæði sem er alls rúmlega 50 x 40 m stórt frá norðri til suðurs.
Krókur (býli)
Krókur.
Krókur er nefndur í Jarðabók Árna og Páls 1706: „Krokur, eytt fyrir tuttugu árum.“ „Þá er Víghóll og Krókshóll þarna norður af [Kirkjuhólum], en Krókur var hjáleiga frá Strönd,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessþingi 1902 segir: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún.“ Í Sveitarbrag frá 1677-80, sem birtist í sóknalýsingu Selvogsþings, er nefndur Erlendur smiður í Króki: „…enn er annar flóki, hann Erlendur smiður í Króki.“ Krókur er rúma 300 m norður af bæjarhól, norðan við hól sem er merktur með litlu skilti sem „Bakrangur“. Hann er nyrstur þeirra rústahóla sem eru í kringum Strandarkirkju.
Nokkuð gróið hraun þar sem töluvert er af lúpínu. Enn sést þó í ógróið hraunið á nokkrum stöðum. Hóllinn er vel gróinn og áberandi og ekki ólíklegt að í honum séu uppsafnaðar mannvistarleifar. Hann er alls um 35 x 20 m stór og snýr h.u.b. NA-SV. Á hólnum er lítill torfbær sem á stendur „Krókur, í eyði 1686.“ Uppi á hólnum sjást dálitlar veggjahleðslur, sennilega tvö veggjarbrot sem mynda L, annað um 2 m langt en hitt um 3 metrar. Aðeins er um eitt umfar af hleðslum að ræða.
Sigurðarhús (býli)
Sigurðarhús.
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Sigurdarhús. Dýrleiki þessa býlis, sem nú er lögbýli kallað í staðinn fyrir Strönd, er xxi C og xv álnir…“
„Sigurðarhóll var austur af kirkjunni, en þar stóðu Sigurðarhús, hjáleigan, og austar Sigurðarhúshjáleiguhóll,“ segir í örnefnalýsingu. “
Í grein Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessýslu 1902 segir: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún.“ Rústahóll er um 120 m austan við bæjarhól, norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju.
Stór og vel gróinn hóll, alls um 40 x 15 m stór frá norðri til suðurs. Á honum er lítil eftirlíking af torfbæ og stendur þar á: „Sigurðarhús, í eyði 1735.“ Ekki sjást leifar af tóft eða hleðslum á hólnum en hann er nokkuð
ósléttur.
Lambhús (býli)
Rústahóll er um 270 m austur af bæjarhól, ofan eða norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju. Væntanlega eru þetta Lambhús en um þau segir í Jarðabók Árna og Páls 1706: “ [Siguðarhús] tíundast í fjóra staði, að meðreiknuðu forna afbýlinu Lambhúsum, sem heita skuli v c.“ Ábúandi á Lambhúsum 1706 var Marin Egilsdóttir, ekkja. Hóllinn sést vel, enda grasi vaxinn. Gras er slegið þar fyrir framan. Engin merki sjást um hleðslur á hólnum en hann er alls um 40 x 40 m stór og allt að 2 m hár. Sennlega er hann að einhverju leyti myndaður úr upphlöðnu byggingarefni og ösku. Sunnan í hólnum er búið að koma fyrir lítilli eftirlíkingu af torfbæ sem á stendur „Lambhús, í eyði 1729.“
Móhús (býli)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 er getið um hjáleigu frá Strönd: „Móhús, eytt fyrir manna minni.“ Nú er ekki vitað hvar Móhús voru.
Bakrangur (býli)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 er getið um hjáleigu frá Strönd: „Bakrangur, eytt fyrir 10 árum.“ Nú er ekki vitað hvar Bakrangur stóð. Þó er einn rústahólanna norðan við Strandarkirkju nú merktur með eftirlíkingu af torfbæ sem á stendur „Bakrangur“. Ekki er vitað hvað er til í því en þó mögulegt að um sama stað sé að ræða.
Bæjarbúð (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir: „Bæjarbúð hefur hjer [á Strönd] verið vermanna búð meðan lendíngin ekki var fordjörfuð; hún kom fyrst í tíð biskupsins meistara Brynjólfs, hvort að gjöf eður kaupi honum til eignar vita
menn ekki. Hitt er víst að Sr. Torfi heitinn í Gaulverjabæ, eftir það að hann erfði meistara Brynjólf, ljet brúka þessa búð og gjörði að sínum kosti…“ Ekki er nú vitað hvar Bæjarbúð var.
Stórhóll (býli)
„Miðhóll er þar, sem nú er suðurhlið. Þá er Stórhóll. Hjáleigur frá Strönd eiga að hafa verið þar sem hólarnir eru nú,“ segir í örnefnaskrá. 1902: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún,“ segir í grein Brynjúlf Jónssonar um fornleifar í Gullbringu- og Árnessýslu. Stórhóll er áberandi klapparhóll um 600 m norður af bæjarhól. Ekki er nú ljóst hvar landamerki Vogsósa og Strandar voru en hér er gert ráð fyrir að hóllinn hafi verið í landi Strandar.
Hóllinn sjálfur er náttúrulegur og ekki sjást neinar rústir við hann. Þar eru hins vegar töluverðar leifar af garðlögum. Ekki er óhugsandi að rústir séu komnar á kaf í sand en þó var svæðið umhverfis hólinn gengið nokkuð rækilega.
Vindás (býli)
Vindás.
Vindás stóð um 380 m suðaustan við bæjarhól. Bæjarstæðið er fast niður við sjóvarnargarðinn, um 50 m sunnan við veginn að Strandarkirkju. Vindáss er getið í fornbréfi um 1275: „Enn firer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. enn ecke ellegar.“ DI II, 124-25. 1677-80: Búa Jón og Hróbjartur í Vindási – Sveitarbragur Jóns Jónssonar í Nesi, SSÁ, 229. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Strönd og Vindási, með hjáleigum voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927. Fornleifaskrá, 78.
1840 er Vindás, tvíbýlisjörð, talin meðal eyðibýla í ytra parti Austurvogar og á að hafa farið í eyði milli 1700 og 1750 – SSÁ, 221.
Beggja megin við hólinn liggja vegarslóðar upp á sjóvarnargarðinn. Sendið, hálfgróið landsvæði liggur frá hólnum og upp að vegi. Áberandi rústahóll og sést hann vel frá vegi. Hugsanlega hefur suðurhlið hans eitthvað verið raskað þegar sjóvarnargarðurinn var byggður. Hóllinn er alls tælega 35 x 20 m frá austri til vesturs og hátt í 2 m hár. Á honum er lítil eftirlíking af torfbæ sem á stendur: „Vindás, fór í eyði 1762“. Uppi á hólnum vottar fyrir hleðslum, líkt og gerði sem er tæpir 20 m í þvermál. Hleðslur eru algrónar og ná varla nema 30-40 cm hæð. Sennilega eru þetta leifar af kálgarði, en Þórarinn Snorrason (f. 1931) man eftir kálgarði í Vindási á sínum yngri árum. Lítil þúst er austan megin við hólinn, hugsanlega rústaleifar. Nokkrum metrum vestan við hólinn sést þráðbein steinaröð sem liggur SV-NA, sennilega undirstaða undan girðingu.
Vindáshjáleiga (býli)
Vindáshjáleiga.
Rústahóll er um 430 m austan við bæjarhól og um 100 m norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju.
Sendið land en vaxið töluverðu melgresi og mosa. Norðan við er hraun og meiri lúpína. Hóllinn er nokkurn veginn hringlaga og um 20 m í þvermál, iðagrænn og mosavaxinn. Búið er að setja eftirlíkingu af torfbæ á suðurenda hólsins. Á honum stendur: „Vindáshjáleiga, í eyði 1772.“
Hlíð (býli)
Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463.
Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464.
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Rústirnar af Hlíð eru við NA-horn Hlíðarvatns, 2,2 km norður af Vogsósum I. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður. Alls er rústin um 35 x 20 m stór en að auki liggur garðlag frá suðurhlið hennar. Þá er bæjarhóllinn sjálfur sem rústin er á heldur stærri en hún, allt að 50 m langur A-V og 30-40 m breiður.
Kirkjuhóll (bænhús)
„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.
Borgaskörð (fjárskýli)
Borg undir Borgarskörðum.
„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og – hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina. Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús. Að innan er tóftin rúmir 3 x 2 m frá norðri til suðurs og mikið grjót í innanverðum veggjum. Hóllinn er á hinn bóginn allt að 10 m í þvermál að ofanverðu en breiðari ef miðað væri við hólræturnar. Hann er sennilega manngerður að einhverju leyti, a.m.k. sést lausagrjót í honum utanverðum á nokkrum stöðum. Að mestu hlýtur hann þó að vera náttúrulegur, enda gnæfir stór klettur upp úr honum fast við tóftina að austan og sunnan. Að innanverðu vottar aðeins fyrir stöllum eða bálkum upp við veggina og gætu það mögulega verið jötur. Heillegasta veggjarhleðslan er að vestanverðu og sjást þar 4 umför.
Hlíðarvegur (leið)
Hlíðarvegur.
Gata, sumsstaðar nefnd Hlíðarvegur, lá upp Hlíðarskarð, sem er í fjallinu norðaustur af bæjarstæðinu í Hlíð.
Sagt er frá leiðinni í örnefnalýsingu Selvogsafréttar: „Upp úr Hlíðarskarði liggur Hlíðarskarðsstígur og er kallaður Hlíðarvegur, göngumannavegur er kemur upp á fjallið. Þetta er þó enginn vegur, aðeins vörður á vegleysu… Göngumannavegur var upp með Hlíðarbæ og með honum vörður, sem standa enn, en þeim er ekki haldið við lengur. Vörðurnar byrja í Hlíðarskarði, liggja inn Langhóla, inn með VestriHvalhnúk, þar til komið er að norðurhorninu. Þá er brunablettur og sléttarhellur og vörður á þeim alla leið í Kerlingarskarð. Stakkavíkurvegur og Hlíðarvegur eru samhliða nokkuð og koma saman við Selvogsveginn við girðingarhlið, þegar komið er fram hjá Litla-Kóngsfelli.“ Ennfremur segir: „Neðanvert við Ásana, við vörðuveginn, sameinast Hlíðarvegur Stakkavíkurvegi.“
Skarðið er bratt og grýtt. Þegar skarðinu sleppti lá gatan áfram, hér um bil beint í norður en sveigði síðan meira í vestur og sameinaðist Stakkavíkurvegi langt uppi á fjalli. Ekki var farið upp Hlíðarskarð með hesta og var gatan af þeim sökum oft nefnd Gönguleið skv. Þórarni Snorrasyni. Hún var vörðuð þegar komið var upp á fjallið.
Eiginleg gata sést ekki í sjálfu skarðinu en á loftmynd virðist votta fyrir götu uppi á fjallsbrúninni.
Hlíðarborg (fjárskýli)
Hlíðarborg
Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls 001. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell.
Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13 x 14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6 x 5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur. Hleðsluhæð er mest á bilinu 0,5-0,7 m.
Hlíðarsel (sel)
Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár og ná yfir svæði sem er rúmlega 30 x 30 m stórt.
„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
ATHS: Ómar Smári gerði eftirfarandi athugasemd við framangreinda skráningu: „Þetta er ekki rétt tilvitnun. Hlíðarsel og Valgarðsborg eru sitthvað. Þið getið ekki um Hlíðarselið, sem slíkt. Selið er í landið Hlíðar. Sendi myndir, uppdrátt og staðsetningu Hlíðarsels sunnan Hlíðarborgar. Óska eftir leiðréttingu….“.
Áni (fjárskýli)
Áni – fjárskjól.
Fjárhellir er úti í hrauni, hér um bil 350 m SA af tóft undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5 x 3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varða er á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.
Stakkavík (býli)
„Jarðardýrleiki x að sögn, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 464.
Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lýngrif brúkast til eldiviðar bjarglegt. Rifhrís og til eldiviðar brúkast og peningi til bjargar í heyskorti….Eggver í Hlíðarvatnshólnum má ekki telja…Rekavon í besta lagi af þessari sveit þá inná voginn líður, og fylgir hún kirkjunni og proprietariis. Sölvafjara bjargvæn heimamönnum og so fjörugrös. Heimræði má hjer valla telja, því bærinn liggur lángt frá sjó, þó hefur það fyrir fám árum reynt verið, og til gagns komið sumar og vetur. Túnin brýtur Hlíðarvatn. Engi litlu betur, en um Hlíð segir. Torfrista og stúnga so sem lökust er hún í þessari sveit, nema miður se fyrir grjótum.“ JÁM II, 465-66.
„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er gamalt veiðihús í niðurníðslu rétt vestan við síðasta bæjarstæðið í Stakkavík.
Bærinn stóð á túnræmu sem afmarkast af túngarði í norðri og nokkuð bröttum hraunkambi í suðri. Þar fyrir neðan er Hlíðarvatn. Túnið er óslétt og töluvert af hrauni stendur upp úr. Trúlega hefur þetta ekki þótt gott tún.
Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.
Stakkavíkurbærinn stóð fremst á hraunkambinum norðan megin við Hlíðarvatn. Um 50 m norðar er túngarður sem liggur austur-vestur. Húsin voru þrjú, íbúðarhús, heyhlaða og skemma sambyggt því. Alls er bæjarstæðið um 16 x 16 m stórt. Húsið sem var framar á hraunkambinum hefur verið steypt, 8×7 m á stærð og veggirnir um 25 cm þykkir. Veggirnir hafa fallið út á við nema vesturveggurinn sem hefur hrunið inn í grunninn. Í grunninum má sjá leifar af eldavél og ef til vill sést þar einnig í steyptan skorstein. Grunnurinn á húsinu er mosa og grasi gróinn. Vestan megin við húsið hefur verið steyptur pallur/stétt um 2×2 m og um 0,5 m há. Virðist hún hafa verið í sömu hæð og gólfflötur hússins og ef til vill var inngangurinn í húsið þar. Ætla má að húsið hafi verið hvítmálað þar sem leifar af málningunni sjást á steypunni. Við húsið er lítil hella og á henni platti sem á stendur. ,,Stakkavík í eyði 1943. síðasti ábúandi Kristmundur Þorláksson“. Norðan við húsið er eitthvað sem virðist vera upphlaðin tóft, ferningslaga, um 5×5 m á stærð. Trúlega eru þetta leifar af skemmunni. Hún er nánast algróin og svo virðist sem fyllt hafi verið upp í hana. Á stöku stað sést í hleðslurnar að utanverðu. Heyhlaðan er 9×7 m á stærð. Veggirnir eru um 1 m á hæð og 1 m á breidd. Allir eru þeir vel hlaðnir nema suðurveggurinn sem ekki sést og ef til vill hefur verið op þar. Veggirnir eru mosa og grasi grónir og þá sérstaklega að utanverðu. Tóftin er algróin að innaN og engar leifar af milliveggjum eru sjáanlegir. Leifar af norðurvegg íbúðahússins eru inn í tóftinni. Mikil gróska er í bæjarstæðinu en ekki teljandi bæjarhóll, enda ekki víst að nokkur mannvirki hafi staðið þarna fyrr en eftir miðja 19. öld.
Alfaraleið/Fornagata (leið)
Fornagata (Hellugatan).
„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,“ segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog. Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn.
Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot. Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.
Helllugata (Fornagata).
Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum. Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.
Bæjarhólmi (bústaður)
„Á þessu vatnsviki (?), sem nú er Gamlatúnið eru þrír hólmar, Hólmarnir. Fyrst er Hólminn syðsti, sem einnig kallast Bæjarhólmi, því þar stóð Stakkavíkurbærinn gamli í eina tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Í svörum við spurningum Örnefnastofnunar er eftirfarandi haft eftir Eggerti Kristmundssyni: „Faðir móður minnar, Láru Sch. Gísladóttir, bjó lengst af sínum búskap í Selvogi, síðast allmörg ár í Stakkavík. Síðan bjó móðir mín ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík í 28 ár, flutti þaðan 1942. Hún telur, að það muni vera 160-170 ár, síðan gamla túnið fór undir vatn. Í grein Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessþingi 1902 segir: „Selvogur hefur, eins og kunnugt er, orðið fyrir miklum sandágangi, bæði að austan og vestan. Að vestan hefir sandurinn borizt með útsynningum utan af Víðasandi, austur yfir Ósinn. Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.“ Nokkrir hólmar eru úti í vatninu sunnan við bæ og mun Bæjarhólmi vera einn þeirra þótt ekki hafi hann verið staðsettur nákvæmlega á vettvangi. Ekki var farið út í neinn hólmanna en frá landi séð virðist enginn þeirra líklegri en annar fyrir bæjarstæði, þ.e. alls engar rústir sjást eða áberandi rústahólar. Allir hólmarnir eru vel grónir.
Fjárborgin (fjárskýli)
Stakkavíkurborg
„Þegar kom upp á Háahraun, var þar fyrst fyrir neðan þjóðveginn Fjárborgin..,“ segir í örnefnalýsingu.
„Fjárborgin stendur enn,“ segir í svörum við spurningum Örnefnstofnunar. Fjárborgin er um 330 m norður af bæjarstæði og um 150 m vestan frá vegi sem liggur frá þjóðveginum niður að nýrra veiðihúsinu sem heitir Stakkavík. Hraunið er mjög mikið gróið nosa, lyngi og kjarri. Það er þó töluvert úfið. Fjárborgin stendur upp á smá hæð og er nokkuð greinileg frá veginum. Fjárborgin er 11 m í þvermál og nánast hringlaga. Veggir hennar eru um 1,5 m á breidd en vegghæðin um 1,7 m og mest 8 umför af hleðslum. Hún er mjög vel hlaðin og lítið farin að hrynja. Steinarnir í hleðslunni eru miðlungsstórir og svolítið mosagrónir. Hleðslan er mjög falleg og heilleg. Hlaðið gerði er við borgina að sunnan og vestanverðu, alls um 40 x 30 m stórt frá austri til vesturs. Veggjabreiddin er mest um 1,2 m og hæðin um 1,1 m. Veggurinn er vel hlaðinn og ekki mikið farinn að hrynja. Hann er mosavaxinn og steinarnir eru miðlungsstórir í hleðslunni. Svæðið innan í er grasi gróið og nokkuð þýft. Borið var á túnið og það slegið samkvæmt Eggerti Kristmundssyni. Fjárborgin var hlaðin langt fyrir hans minni en hugsanlega er gerðið yngra.
Stakkavíkursel yngra (sel)
Stakkavíkrusel yngra- uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna og Páls segir frá selstöðu frá Stakkavík: „Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gangi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“ „Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu,“ segir í örnefnalýsingu. Selrústir eru uppi á fjallinu, um 300 m austan við Stakkavíkurveg og um 2,4 km NNA af bæjarhól. Farið er upp á fjallið eftir Selskarðsstíg eða Stakkavíkurvegi sem er austan við hraunfossinn beint upp af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er upp á fjallið er haldið í norður og eftir um 15-20 mínútna gang sést stór varða í norðaustri. Tóftirnar eru 60-70 m suðvestan við hana. Þýfð kvos milli hraunhóla. Ekkert vatnsból er sjáanlegt í nágrenninu. Alls er rústasvæðið um 20 x 16 m stórt frá norðri til suðurs.
Á miðju svæðinu er lítill hellir í hraunhól og tóftir bæði norðan, norðaustan og vestan við hann. Ekki sjást hleðslur inni í honum en hellisgólfið er grýtt.
Ómar Smári Ármannsson hefur skoðað þessar selrústir og nefnir þær Stakkavíkursel yngra. Samkvæmt honum eru aðrar selrústir suðvestar.
Stakkavíkursel eldra (sel)
Í Stakkavíkurseli eldra.
Samkvæmt Ómari Smára Ármannssyni eru seltóftir við Stakkavíkurveg, rúma 300 m vestsuðvestur af Stakkavíkurseli yngra. Ekki var farið á staðinn á vettvangi. Í BA-ritgerð Ómars um selstöður á Reykjanesskaga segir: „Þegar komið var áleiðis upp í selið frá Brekkunum sást í fallegan gamlan stekk utan í þeim og tóftir skammt neðar, rétt við Stakkavíkurselsstíginn. Tóftirnar eru nær grónar og að mestu jarðlægar. Stekkurinn sést þó vel í hlíðinni. Sel þetta verður nefnt Stakkavíkurselið eldra.“ Nánari lýsing eða uppdráttur er ekki til af tóftunum og ekki ljóst hvað þær eru margar eða hvernig þær líta út.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015.
Selvogur – örnefni (ÓSÁ).
Garðahverfi – bæir og nokkrar merkar minjar II
Í Fornleifaskráningu Garðahverfis 2002 má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Háteig, Hlíð, Hlíðarbúð, Garða, Garðhús, Garðabúð, Óskarsbúð, Pálshús, Dysjar, Dysjakot, Katrínarkot, Hausastaði, Hausastaðakot, Krók, Krókskot, Götu, Holt, Móakot, Höll, Hól og nokkrar merkar minjar:
Garðahverfi
Garðahverfi.
Örnefnaskrá frá 1864 segir: “ Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaða kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. Hér er nú átt við land það sem Garðahverfi tilheyrir. […] Garðahverfi: Þar er átt við Garða og hverfi þar í kring, en í eina tíð voru allir bæir þar hjáleigur frá Görðum.
[…] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi“.
Garðahverfi – flugmynd.
Hið forna Garðahverfi var við sjávarsíðuna á leiðinni út á Álftanes en innan þess voru miðað við Jarðatal 1847 þessar jarðir taldar frá suðaustri til norðvesturs: Dysjar, Bakki, Pálshús. Nýibær, Garðar, Ráðagerði, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir. Á hverri jörð voru auk þess hjáleigur og þurrabúðir, Dysjakot á Dysjum, Krókur, Háteigur, Garðhús, Hóll, Sjávargata og Garðabúð á Görðum, Hlíðarkot og Gata á Hlíð, Katrínarkot, Arndísarkot og Köldukinn á Hausastöðum. Ekki er vitað um staðsetningu Mýrarhúss, Óskarsbúðar og Tómthúss og sumar hjáleigurnar voru utan sjálfs Garðahverfis, Árið 1703 voru lögbýlin: Garðar, Bakki og Dysjar. Einnig hafði Hlíð verið lögbýli áður en Miðengi var hlutað úr landi hennar.
Garðahverfi – bæir.
Garðar voru rétt suðaustan við miðju hverfisins. Norðvestan megin voru Ráðagerði, Háteigur og Miðengi næst sjónum en suðaustan megin Nýibær, Pálshús og Bakki niður við sjó. Milli Garða og Bakka er mýri sem kölluð var Garðamýri eða Garðatjörn. Á mótum hennar og Garðatúns er Garðalind, mikilvægasta vatnsból staðarins. Í hana sóttu stundum öll býlin vatn og þangað lágu götur frá öllu hverfinu en bæirinir voru tengdir saman með innbyrðis leiðarkerfi. Frá Hausastöðum í norðvesturendanum lá gata yfir í Hausastaðakot og þaðan áfram í Móakot, frá því yfir í Hlíð og frá Hlíð áfram í Háteig og Miðengi. Frá Háteigi lá leiðin framhjá Ráðagerði til Garða en frá Miðengi niður að Garðalind. Frá Dysjum í suðausturendanum niður við sjó lágu traðir til Pálshúsa og Nýjabæjar og þaðan áfram til Garða. Þá voru einni götur eða traðir frá bæjunum niður í sjávarvarir en nánast hver bær átti sína vör sem við hann var kennd. Voru víða hlið í sjógarðinum fyrir ofan þær. En leiðir lága líka í hina áttina um hlið á Garðatúngarði og stundum áfram út í land staðarins fyrir ofan þar sem býlin höfðu ýmsar nytjar og þaðan jafnvel til næstu byggða.
Garðahverfi austanvert.
Býlin í Garðahverfi liggja svo þétt að kominn er vísir að svolitlu þorpi og var girt í kringum það allt með görðum. Varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustan megin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður, frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Garðinn lét séra Markús Magnússon reisa í kringum 1800 og væntanlega hafa allir íbúar hverfisins sameinast um verkið undir hans stjórn. Voru þá fjarlægð eldri garðlög við túnin ofanverð. Garðar hafa því verið þarna fyrr þótt þá þyrfti að endurhlaða með jöfnu millibili. Mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari og eru varðveittir garðar annars staðar sem vöru heilu byggðalögin, t.d. Skagagarður á Garðskaga og Bjarnargarður í Landbroti. Í Grágás eru jafnvel lagaákvæði um þetta og segir að löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja að ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma“.
Háteigur (býli)
Býlið Háteigur er vestan Garða. Íbúðarhúsið stendur efst í túnin, rétt fyrir neðan garðinn (ÖS).
Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó (ÖS). Garður er með Garðatúni. Garðinn lét séra Markús Magnússon hlaða á milli Skógtjarnar og Balatjarnar
fyrir ofan öll tún í Garðahverfi (ÖS).
Gripahús eru aðeins vestar og neðar en íbúðarhúsið, við veginn að Miðengi (ÖS).
Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti (ÖS).
Holt er þurrabúð. Þurrabúðin Holt var eina 150-200m norðvestur af Háteigi og verður þess nánar getið síðar (ÖS).
Hlíð (býli)
Hlíð.
Hlíð er talin meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum þegar árin 1397 og 1477. Hún er nefnd í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggð Hákoni og í Gíslamáldaga 1570. Hlíð var lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr landi hennar, skv. Jarðabók enn í eigu kirkjunnar árið 1703 og ábúendur þá orðnir tveir, Sigurður Sighvatsson með fimm í heimili og Bjarni Símonsson með fjóra og hafa búið í Hlíðar-Vesturbæ og Austurbæ. Í Manntali sama árs er einnig tilgreind húskonan Hallgerður Ásbjörnsdóttir. Skv. næsta Manntali bjuggu enn tveir bændur í Hlíð árið 1801. Hjá Sigvalda Guðmundssyni hreppstjóra og Margréti Pétursdóttur voru 9 manns í heimili og jafnmargir hjá hjónunum Gísla Jónssyni og Þóru Daníelsdóttur. Auk þeirra voru tómthúshjónin Sigurður Sigurðsson og Arnbjörg Jónsdóttir, e.t.v. búsett í einhverju af þurrabýlunum sem vitað er um á jörðinni, t.d. Hlíðarkoti eða Sólheimum. Þegar Manntal var tekið 1816 hafði heimilismönnum Sigvalda fjölgað í þrettán og m.a. bæst við systursonur hans, Samúel Jónsson, en Gísli var fluttur með sitt fólk og í hans stað kominn Halldór Erlendsson, kvæntur Elínu Þorsteinsdóttur. Alls voru sjö í heimili en átta í Skv. Jarðabókinni 1703: Hlýd. Hjáleiga í óskiftu staðarins landi. Hlíð var so sem lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina. Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúendur Sigurður Sigvatsson býr á hálfri, annar Bjarni Símonsson. Landskuld xx álnir hjá hvörjum, af allri xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað.
Við til húsabótar leggja ábúendur. Leigukúgildi i sem hjáleigunni hefur að fornu fylgt, en nú tvö fyrir bón og nauðsyn ábúenda. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.
Garðahverfi – bæir.
Kvaðir eru mannslán árið um kring af sjerhverjum ábúenda, en búi einn á er ekki nema eitt mannslán. Hrísshestar tveir ef tveir búa á, einn ella. Dagslættir tveir ef tveir búa á, einn ella. Hestlán eitt ef einn býr á, annars eru tvö. Þessar kvaðir hafa um þrjú eður fjögur næstliðin ár fyrir fátæktar sakir ábúenda hvorki heimtar nje teknar verið fyrir utan dagsláttinn og mannslánið.
Kvikfjenaður er hjá Sigurði Sighvatssyni ii kýr, hjá Bjarna Símonssyni ii kýr. Fóðrast kann á allri jörðinni iiii kýr naumlega. Heimilissmenn hjá Sigurði v, hjá Bjarna iiii. Eldiviðartak af móskurði í kirkjunnar landi.
Manntali 1845. Þá hafði sonum þeirra hjóna fjölgað en sá elsti Erlendur Halldórsson var orðinn heimilisfaðir og bóndi á Dysjum. Ábúendaskipti höfðu einnig orðið á hinum Hlíðarbænum, Samúel var fluttur í tómthús í Miðengi en um aðra í fjölskyldunni er ekki vitað. Nýi bóndinn hét Þórarinn Þorsteinsson og húsfreyjan Geirlaug Jónsdóttir, bæði fyrrverandi vinnuhjú séra Markúsar. Þau voru komin með fjórar dætur og einn son. Loks bjuggu á jörðinni tveir tómthúsmenn, Þórleikur Arngrímsson ásamt konu sinni og móður og Erlendur Jónsson úr hjáleigunni Holti ásamt konu sinni Þóru Rafnsdóttur og tveimur börnum. Skv. Jarðatali var þó aftur aðeins einn ábúandi tveimur árum síðar 1847, jörðin áfram kirkjueign, einnig nefnd í Jarðabók árið 1861 og skv. Fasteignabókum enn í eigu kirkjunnar 1932 og 1942-4.
Árið 1565 galt Hlíðarbóndinn Hákon þrjár fiskavættir í landskuld. Kvaðir voru mannslán og formennska, kúgildi eitt en áður höfðu verið tvö. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld alls 40 álnir sem skiptust milli Sigurðar og Bjarna og guldust með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildið hafði fyrir bón þeirra verið aukið í tvö og guldust í smjöri eða fiski til staðarhaldara sem bar að yngja þau upp. Í kvikfénaði átti hvor um sig tvær kýr sem fóðruðust naumlega. Kvaðir sem skiptust milli ábúenda voru tvö mannslán árið um kring, tveir dagslættir og hrísshestar og tvö hestlán en hrís og hestar höfðu vegna fátæktar þeirra ekki verið heimt í 3-4 ár. Bjarni og Sigurður lögðu sjálfir við til húsabótar en höfðu eldiviðartak af móskurði í landi Garðastaðar.
Hlíð.
Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss, landskuld hin sama og kúgildi sem áður tvö.
1861 var Hlíð talin 16,2 ný hundruð og 1932 með húsakosti metin á 93 hundruð kr. Þá voru kúgildi jarðarinnar fjögur en hún átti 80 sauði og tvö hross. Úr 2100,3 m² matjurtagörðum fengust 50 tunnur á ári og stundað var útræði og hrognkelsaveiði. Skv. Örnefnaskrá 1964 voru hrognkelsamið í Hlíðarþara utan Hlíðarvara niður af bæjunum. Árin 1942-4 var verð jarðarinnar 90 hundruð kr. en í bústofninum voru þá 5 nautgripir, 43 sauðir og eitt hross og afrakstur garðanna um 46 tunnur á ári. Auk fyrrgreindra hlunninda hafði Hlíð mótekju.
Áfram var tvíbýli í Hlíð og skiptist túnið í Hlíðar-Vesturbæjartún sem var 1,2 ha árið 1918 og Hlíðar-Austurbæjartún sem var 1,4 ha. 1932 hafði heildartúnið stækkað í 3,2 ha og í heyafla fengust 145 hestburðir í töðu en 60 í útheyi. Á árunum 1942-4 gáfu túnin 200 hestburði í töðu og 40 í útheyi. 1964 var Hlíðartún talið „allstórt, allt að fjögur kýrgrös“. Hlíðarkot var norðan í því og auk þess þurrabúðin Gata austur upp við Garðatúngarð.
Túnið lá að sjó, umgirt girðingum og görðum og á sjávarkambinum var sjóbúð kennd við Hlíð. Norðvestan megin var Móakot næst sjónum og Hausastaðakot nokkru ofar en suðaustan megin Miðengi og Háteigur. Í landi Hlíðar rétt utan Garðatúngarðs voru auk þess býlin Holt og Sólheimar.
Hlíð.
Á Túnakorti 1918 liggja fimm samfastir kálgarðar með hlöðnum veggjum kringum bæjarhúsin að norðaustan, norðvestan og suðvestan. Af þeim er væntanlega kominn stóri kálgarðurinn sem í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagður vera „fast vestan við íbúðarhúsið“ sem Gísli Guðjónsson reisti 1924 í stæði gamla Austurbæjarins. Hluti garðsins fannst við Fornleifaskráningu 1984 framan eða norðvestan „við bæinn í Hlíð en skrásetjari taldi þar vera gömlu heimakálgarðshleðsluna. Þarna er „yfirgróin grjóthleðsla, nú mjög lág“ og nær um 30 m til norðurs framan eða vestan „við núverandi íbúðarhús […] þar kemur aðeins horn í hleðsluna til austurs“, síðan heldur hún „áfram um 16 m til norðurs“. Hleðslan „myndar bakka þarna í túnið“ og er „uppfyllt að austan“.
Á Túnakortinu 1918 virðist mega sjá varir sitt hvorum megin við enda sjávargötunnar frá Hlíðarbæjum. Í Örnefnaskrá 1964 eru nefndar Hlíðarvör vestri eða Vesturbæjarvör sem „tilheyrði vesturbænum í Hlíð“ og Hlíðarvör eystri eða Austurbæjarvör sem „tilheyrði Austurbænum“. Vesturbæjarvör er líklega rétt fyrir neðan Hlíðarbúð.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í fjörunni, beint niður af húsinu, er Hlíðarvör. Þar er fjaran nokkuð slétt, en safnaðist í hana stórgrýti á vetrum. Þurfti því að ryðja hana á vorin. Hlið var á garðinum fyrir ofan vörina, og voru bátarnir settir um það, upp á tún, ef sjógangur var mikill.“ Umrætt bátahlið má sjá á Túnakortinu þar sem gatan endar milli vara og er það nokkuð breitt. Í Örnefnalýsingu segir enn fremur: „Efra-Hlíðarsker er örskammt frá landi, rétt vestan við vörina. Fram í það er gengt á hverri fjöru. Ytra-Hlíðarsker er u.þ.b. 40 m beint út af því. Út í það er aldrei vætt nema á stórstraumsfjöru.“ Skerin framan við voru kölluð Hlíðarklappir og utan þeirra var hrognkelsamið í Hlíðarþara. Hlíðarklakkar hétu „sandbungur út frá skerjunum og þörunum“.
Hlíð.
Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.“ Gísli mundi eftir bænum í Götu en „Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs „beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð“. Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli. Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli
byggði á bæjatóftunum.
Gata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá hvar gata liggur frá gamla bæjarstæðinu í suðvestur að sjó og við enda hennar sýnist vera breitt hlið á varnargarðinum, líklega bátahlið.
Hlíðarbúð (sjóbúð)
Garðahverfi – bæir.
Á Túnakortinu 1918 er svolítið mannvirki byggt inn í sjógarðinn rétt norðvestan við bátahlið og götu. Það er hlaðið úr grjóti og hólfast í tvennt. Trúlega er þetta Hlíðarbúð sem var á sjávarkambinum.
Brunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind „því þangað var sótt gott neysluvatn“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind“ og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.
Gata (leið)
Á Túnakortinu 1918 liggur ónefnd gata frá Hlíðarbæjum austur um túnið. Hún kvíslast fljótlega í tvennt og liggur önnur kvíslin áfram austur yfir að Háteigi en hin sveigir í norðaustur meðfram gerðum hjá þurrabúðinni Götu. Leiðin liggur um hlið á Garðatúngarði að Illugagerði og býlinu Holti fyrir utan. Á þeim kafla götunnar sem næstur er túngarðinum er hlaðinn veggur vestan megin.
Illugagerði (gerði)
Rétt við norðurhorn kúagerðis, í miðjum Garðatúngarði, er á Túnakortinu 1918 sýndur ferhyrndur kálgarður með grjóthlöðnum veggjum og stefnu með túngarðinum. Þetta er trúlega Illugagerði sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „rétt hjá Holtsgerði“, þ.e. stóra garðinum sem sést austan við það á kortinu. Illugagerði var „ræktað […] þarna á holtinu. Það gerði Illugi Brynjólfsson, er bjó um aldamótin 1900 í Holti“ en þess má geta að alnafni hans og e.t.v. ættingi var bóndi á nágrannabænum Ráðagerði skv. Manntali 1816 og bjó þar fram um miðja 19. öldina.
Garðurinn fannst við Fornleifaskráningu 1984 og er nánar tiltekið staðsettur framan og vestan við núverandi Holt.
Hlíðarkot (býli)
Hlíðarkot.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Hlíðarkot hjáleiga eða þurrabúð frá Hlíð og stóð vestan Hlíðarbæjanna „samhliða, með stétt“, skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „fast austan við Vesturbæinn. Kotið var löngu komið í eyði, þegar Gísli
[Guðjónsson] kom að Hlíð“ 1924. Skv. Fornleifaskráningu 1984 var það í hlaðinu á Hlíð. Minjarnar eru þó horfnar og í þeirra stað komin geymsla.
Hlíðarkot er ekki nefnt í heimildum frá 18. og 19. öld og ekki vitað hvenær það byggðist. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem bjó í Hlíð þegar Manntöl voru gerð 1801 og 1845 gæti þó hafa átt heimili í kotinu.
Karkur (vatnsból)
Karkur.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Brunnur í grjótinu mitt á milli Grjóta og Hlíðar hét Karkur. Í hann safnaðist eingöngu rigningarvatn. Annars var vatn í Hlíð aðallega sótt í Garðalind. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Karkur „um miðja vegu milli bæjanna“ og „grýtt allt um kring. Vatnsbólið var notað í minni Tryggva Gunnarssonar í Grjóta, þá „um 3 álnir á dýpt“. Brunnurinn er „um 0,75 í þvermál – ekki greinilega kringlóttur“, markaður með grjóti „á allar hliðar og sá í vatn, en hann er nú byrgður með fleka“.
Garðatúngarður (garður)
Garðatúngarður.
Á Túnakorti 1918 sést hvernig girt er í kringum allt Hlíðartún með görðum og girðingum. Meðfram Hlíðartröðum sem liggja frá Garðatúngarði til bæja er garður hlaðinn suðvestur að heimakálgarðshleðslunni. Annar garður sem er enn austar skilur milli Götu og Háteigs. Frá honum liggur síðan girðing í vestur milli Götu og Miðengis og við bæjastæði Hlíðar byrjar aftur garður sem nær suðvestur að sjó. Þar er sjóvarnargarðurinn hlaðinn eftir öllum sjávarkambinum framhjá Hlíðarvörum og hefur framhald hans varðveist neðan Móakots. Rétt austan varanna liggur girðing upp frá sjógarðinum að heimakálgarðshleðslunni og nokkru vestan þeirra liggur landamerkjagirðing milli Hlíðar og Móakots. Hún endar við austurvegg Móakotstraða sem liggja áfram norðaustur að Garðatúngarði. Skv. Fasteignabókum eru túngarðar og hagagirðingar við Hlíð árið 1932 og áfram. Við Fornleifaskráningu 1984 fannst hluti Garðatúngarðs ofan Hlíðar en hleðslubrotið endar ofan við Grjótahúsið. Þetta er „þurr grjóthleðsla, þakin skófum og nokkuð gömul að sjá, […] nú innan girðingar Hlíðarmegin á um 70 m kafla eða að heimkeyrslu Hlíðar – og síðan áfram svolítinn spöl“.
Garðar.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagt ýtarlega frá byggingu sjógarðsins: „Á sjávarbakkanum fyrir Hlíðartúni lét Gísli [Guðjónsson] hlaða sjóvarnargarð á árunum 1928-38. Var hann bæði hlaðinn úr fjörugrjóti og grjóti, sem tekið var upp úr túninu. Grjótið í túninu var tekið upp með svonefndum grjótgálga, en slík verkfæri fluttust þá hingað til lands frá Noregi. Voru þeir ýmist gerðir af þrem eða fjórum löngum spýtum (u.þ.b. 3-4 m löngum). Spýturnar mættust í oddi, og var ein lengri og til stuðnings (tvær í fjögurra spýtna gálga). Efst í gálganum var þrískorin blökk og önnur tvískorin rétt fyrir neðan hana. Neðarlega á gálganum voru svo tannhjólin (tvö), og var sveifin fest á svera járnteina á milli aðalspýtnanna. Á endann á vírnum var fest stór járnkjaftatöng til að grípa um steinana. Á veturna var grjótið klofið í hæfilega hleðslusteina. Fyrst voru klappaðar raufir í steinana með stuttu millibili.
Mátti það helzt ekki vera lengra en spönn. Til þessa var notaður sérstakur klöppuhamar. Þá voru stálfleygar reknir niður í holurnar. Oddurinn mátti ekki nema við botn holunnar, því þá kom ekki þvinga á steininn. Til að koma í veg fyrir það var sett gyrði báðum megin á fleyginn, og þrýstist það til hliðanna, um leið og fleygurinn var rekinn niður. Eftir að fleygunum hafði verið fest í raufunum, var rekið nokkuð jafnt á fleygaröðina. Klofnuðu steinarnir þá af þvinguninni, og urðu kantarnir merkilega sléttir. Steinarnir, sem voru klofnir, voru fyrst og fremst grágrýti.“
Garðatúngarður.
Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt.“ Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar.
Var það mikið mannvirki.“ Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru „vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […]“ Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður. Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta.
Garðatúngarður.
Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra
garða og segir þar að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma“.
Sólheimar (býli)
Sólheimar.
Býlið voru við heimkeyrsluna að Grjóta, rétt utan Garðatúngarðs að sögn Tryggva Gunnarsonar. Þar var tómthús en engar minjar fundust við Fornleifaskráningu árið 1984.
Sólheimar eru ekki nefndir í heimildum fyrri alda og því ekki vitað hvenær þeir voru í ábúð. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem getið er um í Hlíð í Manntölum 1801 og 1845 hefur þó e.t.v. haldið til í þessu húsi.
Holt (býli)
Holt.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Holt „þurrabúð í Garðahverfi, ofan Hlíðarbæja“ eða „hjáleiga vestan við Götu“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í háaustur frá Hlíð er Holt. Þar er nú stórt timburhús, byggt nálægt 1942. Rétt fyrir norðan það er pakkhús. Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn. Sá bær fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900, og var Holt ekki aftur í byggð, fyrr en reist var húsið, sem nú er. Holt stendur rétt ofan við túngarðinn í Hlíð (þ.e. garðinn, sem Garðaprestar létu hlaða ofan túna í Garðahverfi).“
Holt er fyrst nefnt í Manntali sem „húsmannspláss“ árið 1801 en þá bjó þar Sigurður Nikulásson, jarðnæðislaus fiskari, ásamt konu sinni Álöfu Höskuldsdóttur og tveimur börnum. Þau voru flutt árið 1816 og í stað þeirra komið húsfólk úr Miðengi, Jón Erlendsson og Ólöf Helgadóttir en hann hefur trúlega verið bróðir Halldórs Erlendssonar Hlíðarbónda. Hjónin í Holti áttu tvo unglingssyni sem báðir hétu Erlendur og í heimili hjá þeim var einnig Guðrún Halldórsdóttir, 72 ára „niðurseta“. 29 árum síðar var Erlendur yngri kominn með eigin fjölskyldu í öðru tómthúsi í Hlíð en tvær nýjar fjölskyldur höfðu tekið við í Holti: annars vegar þau Guðmundur Jónsson, grashúsmaður og fiskari, og Helga Jónsdóttir með þrjú börn á aldrinum 16-22 ára, hins vegar hjónin Sigríður Guðmundsdóttir og Einar Guðmundsson, tómthúsmaður og fiskari.
Holt (býli)
Holtsgerði (gerði)
Holt og Holtsgerði – loftmynd.
Á Túnakorti liggur stór ræktarblettur út frá Garðatúngarði og Illugagerði ofan Hlíðar. Hann er óreglulegur í lögun en þó nokkurn veginn ferhyrndur, umgirtur hlöðnum veggjum, með stefnu norðvestur-suðaustur.
Þetta mun vera Holtsgerði en skv. Örnefnaskrá 1964 ræktaði Eyjólfur Eyjólfsson það umhverfis Holtsbæinn. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er.
Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn.“ Trúlega er þetta grjóthlaðni ferhyrndi garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1964. Hann liggur beint í suður út frá núverandi Holti, í smáþýfi þar sem er grýtt á köflum. Hann er um 30 x 32 m að stærð með stefnu í vestur, veggirnir 1,8 m á breidd.
Hlíðarbúð (sjóbúð)
Á Túnakortinu 1918 er svolítið mannvirki byggt inn í sjógarðinn rétt norðvestan við bátahlið og götu. Það er hlaðið úr grjóti og hólfast í tvennt. Trúlega er þetta Hlíðarbúð sem var á sjávarkambinum.
Hlíðarbrunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind „því þangað var sótt gott neysluvatn“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind“ og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.
Gata (býli)
Gata.
Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið
undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.“ Gísli mundi eftir bænum í Götu en „Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs „beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð“. Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli. Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli byggði á bæjatóftunum.
Gata, „húsmannspláss“, er nefnd í Manntölum árin 1801 og 1816 og bjuggu þar hjónin Guðmundur Þorsteinsson og Valgerður Þorkelsdóttir. Þau áttu tvö börn, Pál og Björgu, og um nokkurt skeið hafði hjá þeim heimili fátæk stúlka, Sigríður Gísladóttir. Fjölskyldan var jarðnæðislaus en stundaði sjóinn.
Hraunsholt (býli)
Hraunsholt – loftmynd.
Býli þetta stendur austanvert við Hafnarfjarðarveg (ÖS-AG). Hraunholtsbærinn stendur suðaustur á rana Hraunholtsins (ÖS-GS). Hraunsholt stendur upp á lágum ás, rétt austan við veginn frá Reykjavík til Hafnarfjarðar (Árbók FÍ 1936).
Hraunsholt 2020.
Efa menn hvort Hraunsholt sé hálflenda eða lögbýli, því þar er magoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið og stendur þetta býli í óskiptu Garðastaðarlandi. Jarðdýrleiki er óviss, eigandi er
Garðakirkja (Jarðarbók ÁM og PV, 1923-24).
Hraunsholtssel (sel)
Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel, en talið er að það hafi verið við Hraunsholtshella, öðru nafni Hraunsholtskletta og er þar grænka kringum, þó hellarnir séu litlir (ÖS).
Hraunholtsselsstígur (leið)
Af hraunbrúninni úr Fjarðargötu lá Hraunholtsselsstígur fram á hraunið (ÖS-GS). Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel, en talið er að það hafi verið við Hraunsholtshella, öðru nafni Hraunsholtskletta og er þar grænka kringum, þó hellarnir séu litlir (ÖS).
Hraun (hús)
Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við Ófeigskirkju. Er það eina húsið sem byggt er á þessu svæði, og sennilega verða ekki byggð fleiri, því allt hraunið á að verða útivistarsvæði (ÖS, 1976-77).
Engidalsgötur (leið)
Engidalsvegur.
Engidalsgötur lágu niður með hrauninu og lágu allt niður í Vikið eða Hraunsvikið (ÖS-GS).
Moldargötur (leið)
Moldargötur lágu niður með hrauninu og allt niður í Vikið eða Hraunsvikið (ÖS-GS).
Gálgahraunsstígur (leið)
Úr Vikinu lá Gálgahraunsstígur vestur hraunið (ÖS-GS).
Gamli vegurinn (leið)
Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann (þar sem sandnámið var). Hann var við líði fram til um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn svokallaði Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.
Hausastaðakot (býli)
Garðahverfi – bæir.
Kringum 1565 galt Hausastaðabóndinn landskuldina með mannsláni um vertíð og mjöltunnu til Garða. Hélst svo meðan Hausastaðakot lá undir jörðinni eða fram um 1640. Kúgildi var eitt.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuldin alls eitt hundrað, nú goldin með 6 fiskavættum í kaupstað. Kúgildi voru tvö og greidd í smjöri eða fiski en séra Ólafi í Görðum bar að uppyngja þau. Sigurður Jónsson átti þrjár kýr, kálf, þrjár ær, tvo tvevetra sauði og fimm veturgamla, fjögur lömb, hest og hross með folaldi en meðábúandi hans tvær kýr, hross með folaldi og lamb. Jörðin öll gat þó aðeins fóðrað fimm kýr og einn hest. Kvaðir voru dagsláttur, hrísshestur og hestlán af hvorum ábúanda. Bændur lögðu sjálfir við til húsabótar en höfðu eldiviðartak af móskurði í landi Garðastaðar og sóttu hrís og kol í skóginn. Torfrista og stunga voru bágar, rekavon lítil en þó festifjara, næg fjörugrasa- og sölvatekja, gagnvænleg hrognkelsafjara en lítil skelfiskfjara. Heimræði var árið um kring þótt lending væri bág og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum.
Hausastaðir.
Hausastaðakot var hjáleiga sem lá undir Hausastöðum fram um 1640 en í eigu Garðakirkju eins og aðrar jarðir í Garðahverfi. Við gerð Jarðabókar árið 1703 var ábúandi Nikulás Jónsson og hjá honum sex menn í heimili. Skv. Manntali bjó þar árið 1801 nafni hans sem var jarðnæðislaus húsmaður og fiskari með konu og tvö börn en annar ábúandi var Árni Jónsson bóndi og fiskari með konu og eitt barn.
Skv. Jarðabók 1703: Hausastadakot, hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, og segja menn hún hafi til forna legið til Hausastaða en verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvoritveggja var áður skilið í landskuld auk þeirrar sem nú er. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Nichulás Jónsson. Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í smjöri heim til staðarins. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru mannslán árið um kring, hefur til forna leyst verið, stundum með einnri vætt fiska, stundum ekki heimt verið nema um vertíð, en stundum í tíð Sr. Brynjúlfs heimt og goldið verið árið um kring. Dagsláttur einn. Hrísshestar einn. Hestlán eitt sem annarstaðar. Kvikfjenaður i kýr, sem er leigukúgildið, i hross. Fóðrast kann ii kýr. Heimilismenn vi. Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.
Garðahverfi – túnakort 1918.
Hausastaðir eru nefndir meðal jarða í eigu Garðakirkju þegar í máldögum frá 1397 og 1477, í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, með Guðmund sem ábúanda og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók voru þeir enn kirkjueign árið 1703, þá með tvo ábúendur . Í Manntali sama árs eru nefndir þeir Guðmundur Jónsson með fjóra heimilismenn og Sigurður Jónsson með sjö og hafa búið í Austurbæ og Vesturbæ. Einnig er nefnt hjábýlisfólk en 5-6 hjáleigur hafa verið á jörðinni á fyrri öldum.
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld 40 álnir, borguð með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt, greitt í smjöri til Garðastaðar og uppyngdi staðarhaldari það. Í búpeningi átti bóndi eitt hross og eina kú en fóðrast gátu tvær. Kvaðir voru hestlán, dagsláttur, hrísshestur og mannslán allt árið. Ábúandi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi staðarins. Dýrleikinn var enn óviss 1847, landskuldin hin sama og kúgildið eitt en 1861 var jörðin talin 6,4 ný hundruð. 1932 var verð hennar með húsakosti 36 hundruð kr., kúgildi tvö, sauðir tíu og hrossið eitt. Afrakstur 1160 m² matjurtagarða voru 15 tunnur á ári. Jörðin hafði hrognkelsaveiði og útræði en uppsátur var í Hausastaðakotsvör. Á árunum 1942-4 hafði landverðið hækkað í 45 hundruð kr., í bústofninum voru fimm nautgripir, 14 sauðir og eitt hross og garðávextir um 13 tunnur á ári. Jörðin hélt fyrri hlunnindum. Árið 1918 var tún Hausastaðakots 1 ha en hafði 1932 stækkað í 1,5 ha og fengust af því 70 hestburðir af töðu. Norðaustan megin var Garðatúngarður en girt var umhverfis allt túnið. Austan í því var Grjóti og þarnæst land Hlíðar en að vestan voru Hausastaðir.
Túnakortið 1918 virðist sýna tvö bæjarstæði með húsaþyrpingum í Hausastaðakotstúni og er hið suðaustara merkt Hausastaðakot. Miðað við aðrar heimildir og upplýsingar heimamanna er þetta þó villa: húsin sem eru norðvestar, nær Hausastöðum, hafa tilheyrt Hausastaðakoti, en í hinu stæðinu var þurrabúðin Grjóti. Í norðvestara stæðinu eru tvær byggingar og kálgarðar. Nyrðra húsið er úr torfi, skiptist í þrennt og er líklega kotið en skv. Örnefnaskrá 1964 var það hjáleiga eða þurrabúð frá Hausastöðum. Í Örnefnalýsingu 1976 segir: „Grjóti […] er norðaustur af Hlíð. […] Býlinu fylgir land Hausastaðakots, en það stóð mitt á milli Grjóta og Hausastaða.“ Þetta kemur saman við Fornleifaskráningu 1984 þar sem segir að kotið sé „í hánorður frá núverandi Grjóta og í vestur frá Breiðholti, sem er nýtt hús. Mitt á milli Grjóta og Hausastaða.“ Þarna er sléttlent og þar sem bærinn stóð er nú kálgarður „girtur á háhólnum“.
Í Manntali 1801 hafði aðalábúandinn Þorvaldur Böðvarsson auk búskapar og útgerðar umsjá með Hausastaðaskóla sem stofnaður var 1791 fyrir gjafafé Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors. Þorvaldur hafði 11 heimilismenn og í heimavist skólans voru 14 börn. Þetta manntalsár var einnig skráð á Hausastöðum jarðnæðislaust húsmannsfólk sem lifði á útgerð, ein 5 manna fjölskylda og önnur þriggja manna. Þær hafa þá ef til vill haft aðsetur á einhverju Hausastaðabýlinu en þó hvorki í þurrabúðinni Köldukinn þar sem aðrir bjuggu né í Katrínarkoti sem mun ekki hafa byggst fyrr en nokkru síðar. Á þessum tíma hefur verið menningarmiðstöð á Hausastöðum því þar var einnig þingstaður Álftaneshrepps (190-6). Skólinn var þó lagður niður árið 1812 og Hausastaðaþinghá aðeins fjórum árum síðar flutt að Görðum. Skv. Manntali voru þá búsett á jörðinni Þorsteinn Magnússon hreppstjóri og kona hans Sigríður Magnúsdóttir úr Hlíð með fjögur börn og vinnufólk, þeirra á meðal Guðmundur vefari, sonur Einars og Rannveigar á Bakka, og nafni hans Guðmundsson, 66 ára húsmaður. Alls voru heimilismenn 12. Aðrir ábúendur voru hjónin Þorvarður Jónsson grashúsmaður og Guðrún Jónsdóttir með tvo á sínu framfæri.
Hausastaðir 2020.
Í Manntali 1816 var ábúandi einn, Gísli Sigurðsson, með þrjá í heimili en 1845 hafði aftur fjölgað í Koti eins og jörðin var einnig kölluð. Þar voru Ólafur Erlendsson hreppstjóri og fiskari og Helga Gamalíelsdóttir, fyrrverandi vinnukona í Miðengi, börn þeirra tvö, tvær vinnukonur og niðurseta. Tómthúsmennirnir voru tveir, báðir með konur og má ætla að önnur hjónin hafi átt heimili í þurrabúðinni Grjóta. Í Jarðatali 1847 er tilgreindur einn ábúandi og jörðin enn sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabók 1861 og hélst skv. Fasteignabókum undir kirkjunni. Í Fasteignamati ríkisins má sjá að jörðin er enn í byggð en liggur nú undir Grjóta sem áður var þurrabúð. Núverandi eigandi Tryggvi Gunnarsson býr í Grjóta.
Þegar Manntal var tekið 1845 voru þau flutt í Krók en tvö uppkomin börn hreppstjórans höfðu tekið við ábúð og grasnyt á Hausastöðum. Margrét var ekkja og tveggja barna móðir og hafði einn vinnumann en Þorsteinn bróðir hennar var með sjö í heimili og hjá honum bjó faðir þeirra systkina, hreppstjórinn gamli. Auk þeirra voru tveir tómthúsmenn og fiskarar.
Skv. Jarðatali 1847 voru Hausastaðir kirkjujörð og ábúendur þrír, þeir eru nefndir í Jarðabók 1961 og voru áfram í eigu kirkjunnar þegar Fasteignabækur voru gerðar árin 1932 og 1942-44. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í ábúð og skráður eigandi er Hörður Sigurvinsson.
Hausastaðir 2020.
Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss, landskuld hin sama og kúgildi sem áður tvö. 1861 voru Hausastaðir taldir 20,2 ný hundruð og 1932 með húsakosti metnir á 79 hundruð kr. Þá voru kúgildin orðin þrjú og þar voru 30 sauðir og eitt hross. Úr matjurtagörðum sem frá gerð Túnakorts 1918 höfðu stækkað úr 720 í 1400 m² fengust um 20 tunnur á ári og jörðin hafði áfram hrognkelsaveiði og útræði. Jarðarmatið hafði á árunum 1942-4 lækkað í 54 hundruð krónur en í bústofninum voru 5 nautgripir, 26 sauðir og eitt hross og afrakstur garðanna um 25 tunnur á ári. Auk fyrrgreindra hlunninda hafði jörðin mótekju og í Örnefnalýsingu 1976-7 kemur fram að þar var áfram sölvatekja, nánar tiltekið á Hausastaðagranda: „Sölvatekja var mikil á Granda. Voru sölin yfirleitt þurrkuð uppi á túni og þeim snúið með hrífu. Er sölin höfðu verið þurrkuð, voru þau látin í kassa úti í hlöðu. Kúnum voru svo gefin sölin, og þóttu þær mjólka vel af þeim. Lengst munu söl hafa verið tekin í Garðahverfi frá Hausastöðum, en þar var sölvatekjunni ekki alveg hætt fyrr en undir 1960.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var hrognkelsamið kallað Krókar í klofningum utanvert við Grandahausinn. Hausastaðatún taldist með þeim stærri í Garðahverfi, um 1,8 ha árið 1918 en 2,6 ha 1932 og fengust af því 100 hestburðir í töðu en 60 í útheyi. Á árunum 1942-44 voru hestburðir 150 í töðu en 40 í útheyi. Norðvestan megin í túninu var Katrínarkot og sá hluti þess kallaður Katrínarkotstún.
Hausastaðir 2020.
Skv. Örnefnalýsingum höfðu mismunandi túnskikar auk þess eigin nöfn: Guðrúnarvöllur hét vestan Katrínarkots, líklega þar sem Katrínarkotsbúð var í vesturhorni túnsins, en Högnavöllur lá vestan Hausastaðabæja niður að Skógtjörn. Hver Högni var er ekki vitað en nokkrar húsfreyjur á Hausastöðum báru gegnum tíðina hið vinsæla Guðrúnarnafn og hefur völlurinn ef til vill heitið eftir einhverri þeirra. Norðarlega í túninu kringum hjáleiguna Köldukinn var svo Köldukinnarvöllur. Enn norðar og niður við litlu tjörnina sem liggur austur úr Skógtjörn norðan Hausastaða eru rústir sem líka gætu verið af býlum. Vestur frá jörðinni liggur Skrefla eða Skerfla, tanginn sem skilur tjörnina frá sjónum, og þar var tómthúsið Arndísarkot. Skrefla nær alveg að Oddakotsósi þar sem sjór flæddi áður en um hana og Skógtjörn lágu landamerki Garðakirkjulands. Við sjóinn neðan túna Katrínarkots og Hausastaða voru túngarðar eða sjógarðar kenndir við bæina. Við suðausturmörk Hausastaða, u.þ.b. 200 m frá þeim, er nýbýlið Breiðholt, reist um 1962, en þar fyrir handan byrjar Hausastaðakotstún og breiðir úr sér norðaustar upp að Garðatúngarði sem skilur tún bæjanna frá nytjalandinu og nær norður að Skógtjörn. Í landi Hausastaða nokkru fyrir utan garð er nýbýlið Brautarholt.
Bæjarstæðið hefur verið jafnað út og eru lítil merki um húsaskipan. Grjót úr veggjum er þó sjáanlegt og virðast húsin hafa staðið í röð og snúið göflum í vestur út á sjó. „Komið mun hafa verið fyrst að bæjargöngum, syðst, og var eldhús þar fyrir austan. Aftan við norðurenda húsalengjunnar var hlaða sem vísar hornrétt á framhúsin, eða í N (10°) – greinilega yfirgróin, grjóthlaðin tóft. Lengd líkl. 4.1 og breidd 2.1.“
Túnakortið 1918 sýnir kálgarða vestan, sunnan og austan við bæjarhúsin. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „er nú kálgarður“ þar sem land Hausastaðakots var og við Fornleifaskráningu 1984 segir að kálgarðshleðslan sé það sem greinilegast er í bæjarstæðinu. Garðurinn liggur í boga vestur af þar sem húsin munu hafa staðið og nær austur fyrir suðurenda húsaraðarinnar. Hann liggur um 9 m í norður frá bæjarhúsum en sveigir þá hornrétt til vesturs, um 23 m, en síðan um 29 m í suður.
Hausastaðir (býli)
Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaðir.
Á Túnakorti 1918 sést steinhús með þrískiptum garði norðan Katrínarkota og Hausastaða. Þetta er nánar tiltekið rétt austan við götu í útjaðri túnsins. Hlaðnir veggir liggja kringum garðinn, milli norðurhluta hans sem er kálgarður, vesturhlutans sem er órækt og austurhlutans sem er túnblettur. Þetta gætu verið Rústirnar sem nefndar eru í Örnefnaskrá 1964: „Litlu norðar en Kaldakinn voru rústir, líklega af bæ.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Rústir eru rétt norðan við Köldukinn, en ekki veit Ólafía, af hverju þær eru.“ Á þessum stað er enn þá mjög greinilegt grjóthlaðið gerði og má vel vera að ein þurrabúðin hafi verið þarna.
Auk ábúenda í Vesturbæ og Austurbæ Hausastaða nefna Manntöl fjölskyldur í nafnlausum hjáleigum og tómthúsum og gætu Rústirnar og aðrar slíkar sem eru nær Litlutjörn verið af einhverju þeirra. Árið 1703 bjuggu búi þau Jakob Stefánsson „hjábýlismaður“, Álfheiður Sigurðardóttir „hans kvinna“ og Guðrún Bjarnadóttir „hennar móðir, ekkja“. Árið 1801 voru tvær jarðnæðislausar fjölskyldur sem lifðu af fiskveiðum: Sigurður Þórðarson húsmaður og Anna Jónsdóttir með þrjú börn á aldrinum 2 til 11 ára, og Sæmundur Friðriksson húsmaður og Ástríður Jónsdóttir með eins árs dóttur. Ekki er greint frá húsfólki á Hausastöðum árið 1816 en 1845 voru komnir þeir Eiríkur Árnason 34 ára og Sigurður Jónsson 61 árs, titlaðir tómthúsmenn og fiskarar. Kona hins fyrrnefnda hét Guðlaug Sveinsdóttir og áttu þau ungan son en kona hins síðarnefnda var Jórunn Eyjólfsdóttir.
Hausastaðir – Austurbær (býli)
Hausastaðir – kort.
Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjastæðið í miðju túni og er þar ein bygging sem skiptist í sex hólf. Hún virðist vera úr torfi og snýr nokkurn veginn í suður.
Aftan við hana eru húsatóftir upp við garðvegg. Líklega er þetta Austurbærinn sem nefndur er í Örnefnaskrá 1964. Vesturbærinn fór í eyði um aldamótin 1900 en „bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 er lýst nýrri vistarverum: „Hausastaðir eru í norðvestur frá Grjóta. Húsið stendur nokkuð hátt, og er útsýni gott frá því. Það var byggt árið 1920 á sama stað og gamli bærinn var áður. Fast norðan við íbúðarhúsið er hlaða með sambyggðu fjósi og fjárhúsi og einnig vatnsgeymi, sem regnvatni var safnað í. Vatnið úr honum rann svo í fjósið. Hlaðan var byggð um 1930.“ Með gamla bænum er átt við Austurbæinn því Katrínarkot var um 1930 flutt þangað sem Vesturbærinn hafði staðið. Skv. Fasteignabókum 1932 og 1942-4 var nýja húsið úr timbri og járnvarið.
Skv. Jarðabókinni 1703: Hausastader, lögbýli kallað, því það hefur fullt fyrirsvar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er Garðarstaðar kirkja.
Abúendur Sigurður Jónsson býr á hálfri, annar Sigurður Petursson býr á hálfri. Landskuld hjá hverjum lx álnir, af allri i [symbol]. Betalast nú yfir 60 ár með vi vættum fiska í kaupstað. Í gamla daga hefur þessi hundraðs landskuld betalast í fríðu hemi til staðarins. En þá var hjer að auki mjeltunna í landskuld og mannslán, sem hveritveggja lagðist af þá er Hausastaðakot var frá jörðinni tekið og lagt til hemiastaðarins, eftir því sem menn að góðra manna líkindum og undirrjetting ) ráða kunna. Við til húsabótar leggja ábúendur.
Leigukúgildi i hjá hverjum, alls ii. Leigur betalast í smjöri eður fiski heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.
Hausastaðir.
Kvaðir eru dagslættir tveir, sinn af hverjum ábúenda, en einn ella ef einn býr á. Tveir hrísshestar þegar tveir á búa, einn ella. Hestlán sitt af hverjum, en ef einn er ábúandi, þá vita menn ekki hvert venjulegt hafi verið eitt eður tvö að heimta.
Kvikfjenaður iii kýr, i kálfur, iii ær, ii sauðir tvævetrir, vi sauðir veturgamlir, iiii lömb, i hestur, i hross með fyli, i lamb. Fóðrast kann á allri jörðinni vi kýr ríflega og bjarga i hesti.
Heimilissmenn hjá Sigurði Jónssyni vi, hjá Sigurði Peturssyni ii. Skóg til hríss og kola lítilsháttar brúkar jörðin í staðarins skógi og stundum í almenningi.
Torfrista og stúnga bág og valla bjargleg. Fjörugrasa og sölvatekja nægileg. Rekavon lítil en þó festifjara. Hrognkelsafjara gagnvænleg. Skelfiskfjara lítil mjög og valla teljandi.
Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi. Heimræði er árið um kring, en lending bág, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Inntökuskip hafa hjer skjaldan verið og mega þó vera, tekur þá ábúandinn undirgift af þeim. En Selskarð, Garðastaður kirkjujörð, brúkar hjer skipsuppsátur frí um lángan aldur og nær undir 30 ár verbúðar stöðu, sem ákomin skal vera eftir dispensation staðarhaldaranna.
Túninu er hætt við að spilli sjáfarágángur. Engjar öngvar. Útihagar sem heima á staðnum í óskiftu landi.
Hausastaðir/Vesturbær (býli)
Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjastæðið í miðju Hausastaðatúni. Á jörðinni var tvíbýli og er í Örnefnaskrá 1964 talað um Austurbæ og Vesturbæ: „bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var“. Byggingin sem sést á Túnakortinu mun vera Austurbærinn en Vesturbærinn var skv. Örnefnalýsingu 1976 „tómthús“. Hann „fór í eyði um aldamótin 1900, og var húsið þá flutt til Hafnarfjarðar“ en hjáleigan Katrínarkot síðar færð í vesturstæðið: „Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“ Stæði Vesturbæjarins og síðar hins yngra Katrínarkots var því norðvestan gamla Austurbæjarins og núverandi íbúðarhúss.
Hausastaðabrunnur (vatnsból)
Hausastaðakotsbrunnur.
Á Túnakorti 1918 er brunnur rétt utan Garðatúngarðs við enda Hausastaðabrunngötu og Katrínarkotsbrunngötu. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Hausastaðabrunnur: „Brunnur norðan bæjarins. Hlaðnar voru tröppur niður í hann. Vatnið spilltist af aðrennslisvatni.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var Hausastaðabrunnur Katrínarkotsmegin: „rétt fyrir austan (u.þ.b 8 m) endann á Stíflisgarði“, sem lá milli Skógtjarnar og syðsta hluta hennar, Litlutjarnar. „Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927, og var þá grafinn brunnur frá Katrínarkoti. Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var ein frá hverjum bæ.“ Brunnurinn sem grafinn var við Katrínarkot reyndist illa og var því aftur gerður Brunnur á slóðum gamla Hausastaðabrunnsins: „Litlamýri er fast austan við Litlutjörn, og flæðir sjórinn upp að henni. Á seinni árum gróf Valgeir, bróðir Ólafíu [á Hausastöðum], brunn í Litlumýri, og reyndist ágætt vatn í honum.“
Hausastaðabrunngata (leið)
Á Túnakortinu 1918 má sjá götu sem liggur norður frá bænum meðfram garði eða girðingu sem skilur milli Hausastaða og Katrínarkots. Hún endar í hliði á Garðatúngarði en þar fyrir utan er brunnur. Þetta er líklega Hausastaðabrunngata sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: „Brunngatan lá frá Brunninum heim til bæjar.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 nefndust slóðar frá Hausastaðabrunni að Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti Brunngötur.
Hausastaðaskóli (skóli)
Hausastaðaskóli um 1800.
Skv. Örnefnaskrá 1964 og Örnefnalýsingu 1976 stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði í austanverðu Hausastaðatúni.
Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunarmaðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari.
Minnismerki um Jón Thorkelsson.
Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var „að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.“ Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: „Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]“. Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla.
Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins.
Hausastaðaþinghá (þingstaður)
Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: „Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Hausastöðum „þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.“ Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816.
Skv. Sóknarlýsingu 1842 skiptist Hausastaðaþingsókn í Garðakirkjusókn og Bessastaðasókn. Í Garðakirkjusókn voru 32 býli og sátu á þeim 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn.
Niðurkot (býli)
Í túninu norðvestur af núverandi Katrínarkoti, liggur í túni. Um er að ræða horfnar minjar. Í mesta lagi sést hér ávalur hóll í túninu, það var mjög kafloðið þegar komið var á staðinn.
Katrínarkot (eldra) – (býli)
Garðahverfi -býli, götur og garðar.
Nokkuð vestar og nær sjó en Hausastaðabærinn sést á Túnakorti 1918 hið gamla Katrínarkot. Bærinn er úr torfi og skiptist í sjö hólf. Hlaðnir veggir kringum garða ganga út frá framhúsunum. Í Örnefnaskrá 1964 er einnig talað um Niðurkot, e.t.v. vegna þess að býlið var niður við sjó: „Hjáleiga eða nýbýli stofnað um 1850 úr Hausastaðalandi […] í Garðahverfi vestast […] tún býlisins lá norðan og vestan Hausastaðatúns“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Þar byggðu fyrst hjón að nafni Eyjólfur og Katrín, líklega snemma á 19. öld, og dregur býlið nafn af konunni. Katrínarkoti fylgdi alltaf grasnyt. Bærinn var fluttur um 1930, þangað sem hann er nú, […] og útihúsin einnig. Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að stæði gamla Katrínarkots sé „í túninu norð-vestur af núverandi Katrínarkoti niður við sjóinn“ en kotið var flutt ofar „undan ágangi sjávar“. Núna er þarna lítill ávalur hóll í mjög grónu túni.
Katrínarkot var eign Garðakirkju en lá sérstaklega undir Hausastöðum. Þess er hvorki getið í Jarðabókum né Manntölum frá 18. og 19. öld enda á það ekki að hafa byggst fyrr en um miðja 19. öld. Hjónin Katrín og Eyjólfur gætu þó verið skyld fólkinu sem bjó í svo kölluðu Tómthúsi árið 1845. Þar hét húsfreyjan líka Katrín, var Eyjólfsdóttir og einn sona hennar hét Eyjólfur. Eiginmaðurinn er hins vegar sagður Jón Jónsson, „vitstola í 10 ár“.
Athyglisvert er raunar að í Manntalinu er Tómthús talið upp á milli Hausastaða og Hausastaðakots eins og það sé staðsett á svipuðum slóðum og Katrínarkot. Freistandi væri að telja þetta eitt og sama býlið. Veikindi eiginmannsins gætu skýrt hvers vegna kotið hlaut nafn af konunni því allur búreksturinn hefur hvílt á henni. Það hefur auk þess komið í hlut elsta sonarins, Eyjólfs, að styðja við bakið á Katrínu og þess vegna hafa seinni tíma menn talið þau hjón.
Vitaskuld verður þó ekki fullyrt um þetta.
Skv. Fasteignabók var jörðin með húsakosti metin á 127 hundruð kr. árið 1932, átti fjögur kúgildi, tíu sauði og tvö hross. Matjurtagarðar sem áður voru 1300 m² voru þá orðnir 1700 m² og gáfu 18 tunnur garðávaxta og túnið hafði stækkað úr 2 í 2,5 ha og fengust af því 100 hestburðir af töðu. Í Fasteignabók 1942-4 hafði landverðið lækkað í 119 hundruð kr. en fjölgað hafði í bústofninum því nautgripir voru átta, sauðir tíu og hrossin þrjú. Sami tunnufjöldi fékkst úr görðunum og áður en af túninu 190 hestburðir af töðu.
Katrínarkotsbúð (sjóbúð)
Á Túnakorti 1918 má sjá ferhyrnt torfhús í suðurhorni Katrínarkotstúns rétt við sjógarðinn. Líklega er það Katrínarkotsbúð sem stóð við Skiptivöllinn á Hausastaðakambi, ofan varanna frá Hlíð, Móakoti, Hausastöðum, Selskarði og Katrínarkoti. Þetta er nánar tiltekið á Guðrúnarvelli, í krikanum þar sem Hliðsnesgata frá Hausastaðasjávarhliði og gatan út á Skreflu mætast og sjást tóftirnar greinilega.
Katrínarkotsbrunnur (vatnsból)
Katrínarkotsbrunnur.
Katrínarkotsbrunnur var skv. Örnefnaskrá 1964 „grafinn í túnið vestan bæjarins“ eftir að hætt var að nota Hausastaðabrunn „en reyndist ekki vel. Vatnið var svo saltmengað.“ Katrínarkotsbrunngatan yngri „lá frá heimabrunni til bæjar“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í túninu skammt vestur af Katrínarkoti (u.þ.b. 60-70 m) er hlaðinn brunnur. Hann var hlaðinn 1927 eða 1928 og átti að vera fyrir bæði býlin (þ.e. Katrínarkot og Hausastaði), en reyndist ómögulegur vegna seltu. Katrínarkot stóð áður beint, örskammt, vestur af honum.“ Brunnur var síðan grafinn aftur þar sem gamli Hausastaðabrunnurinn var. Katrínarkotsbrunnur hefur skv. þessu verið hlaðinn rétt áður en kotið var flutt í stæði Vesturbæjarins á Hausastöðum, staðsettur mitt á milli eldra og yngra kotsins. Hann er vel varðveittur, fallega hlaðinn úr grjóti og hefur ótvírætt minjagildi.
Katrínarkotsbrunngata (leið)
Á Túnakortinu 1918 liggur gata norðaustur frá Katrínarkoti að Hausastaðabrunni utan Garðatúngarðs. Hún liggur nánast samhliða Hausastaðabrunngötu svo líklega er þetta Katrínarkotsbrunngatan eða Brunngatan eldri sem skv. Örnefnaskrá 1964 „lá frá Hausastaðabrunni að Katrínarkoti“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 eru slóðar frá brunninum að Katrínarkoti, Hausastöðum og Hausastaðakoti kallaðir Brunngötur.
Katrínarkotsbrunngatan yngri lá hins vegar frá Katrínarkotsbrunni sem byggður var um 1928 í túninu milli hins gamla og nýja stæðis hjáleigunnar.
Katrínarkot yngra (býli)
Á Túnakorti 1918 eru tveir kálgarðar rétt vestan Hausastaða merktir Katrínarkoti. Þeir eru með hlöðnum veggjum og liggur landamerkjagarður Hausastaða og Katrínarkots þvert á eystri garðinn. Þarna er einnig umgirtur túnblettur. Af Örnefnalýsingu 1976-7 að dæma hefur Katrínarkot yngra verið byggt við þessa garða en ekki fyrr en nokkru síðar: „Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“
Fasteignabók árið 1932 var nýi bærinn úr steini með miðstöð og vatnsveitu.
Kaldakinn (býli)
Kaldakinn.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kaldakinn býli eða „þurrabúð frá Hausastöðum“, norðan þeirra eða „norðast í Hausastaðatúni […] niður undir Aukatjörn“.
Köldukinnargerði hét „lítið gerði umhverfis þessa þurrabúð“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Köldukinn, þurrabúð frá Katrínarkoti, var norðan þess (þ.e. Katrínarkots), niður undir Skógtjörn. Tættur hennar sjást enn. Ólafíu [Eyjólfsdóttur á Hausastöðum] rámar aðeins í byggð í Köldukinn, en hún fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900.“ Skv. Örnefnalýsingu 1958 var Högnavöllur niður undir sjó en „þar norðar […] Köldukinnarvöllur […]“. Við Fornleifaskráningu 1984 er Kaldakinn sögð „norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarðs sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan þess er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili“. Þarna er mjög grasi vaxið en mest áberandi er veggjabrot, um 8,5 m á lengd og 0,5 m á hæð. Brotið stefnir til sjávar en út frá því „í vesturátt virðist hafa verið ferhyrndur garður, nú fremur óljós“, um 11,5 m á breidd. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta telur líka byggðina hafa lagst af í kringum aldamótin.
Skv. Manntali bjuggu árið 1801 tveir jarðnæðislausir fiskarar ásamt konum sínum í húsmannsplássinu Köldukinn. Hjónin Halldór Stígsson og Guðrún Ögmundsdóttir áttu þrjú börn saman og hún auk þeirra einn son en hjónin Jón Gíslason og Margrét Þorsteinsdóttir voru barnlaus.
Norðan við Köldukinn og Rústirnar, eru aðrar rústir sem gætu verið af þriðja býlinu. Þetta er á bakka Litlutjarnar við Skógtjörn. Hjábýlis- og tómthúsfólk sem nefnt er í Manntölum gæti hafa búið þarna eða þar sem nú eru Rústirnar, ein fjölskylda árið 1703, tvær 1801 og aðrar tvær 1845.
Kaldakinn er norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarð sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan við staðinn er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili sem hér var.
Mjög er grasi vaxið á þessum stað. Það sem mest er áberandi er veggjaspotti, um 50 sm hár, yfirgróinn, sem stefnir í átt að sjó. Út frá honum í vesturátt virðist hafa verið ferhyrntur garður, nú fremur óljós. Lengd fyrirgreinds
hleðslubrots 8,5 m og breidd afgirts svæðis til vesturs 11.5 m. E.t.v hefur þetta verið kálgarður bæjarins.
Arndísarkot (býli)
Garður við Arndísarkot.
Í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Arndísarkot: „Kot þetta stóð á Skerflu. Sér enn rústirnar […] Þurrabúð […] Þar bjó Arndís. […] Dalur: Vestan og neðan Katrínarkotstúns var lægð, í hana féll sjór úr Skógtjörn. Lægðin nefndist Dalur.“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Sléttur og grasi gróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógtjarnar. Vegurinn út í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur. Á flóði fellur sjórinn (úr Skógtjörn) inn í hann. Þó er Dalurinn gróinn. Tóftarbrot er nálægt miðjum Dalnum. Þar var eitt sinn tómthús, nefnt Arndísarkot. Áður var Dalurinn minni og tilheyrði Arndísarkot þá Skreflu.“ Tóftirnar eru enn sýnilegar.
Kotið er talið kennt við Arndísi Jónsdóttur (1745-1806) sem kölluð var Barna-Arndís. Frá Arndísi er sagt í Íslenskum sagnaþáttum frá 1954. Hún var ættuð úr Skaftafellssýslu en var lengst af á hrakhólum, átti alls átta börn utan hjónabands, þar af fimm með giftum mönnum, og lenti í útistöðum við yfirvöld vegna þessa. Árið 1776 var hún gerð útlæg úr Sunnlendingafjórðungi en þá hefur hún e.t.v. flust til Gullbringusýslu. Ekki eru heimildir um hvenær hún bjó í Arndísarkoti en 1780 er vitað um hana í Hvaleyrarkoti við Hafnarfjörð. 1784 var hún dæmd í Spunahúsið í Kaupmannahöfn en þangað fór hún ekki. Árið 1786 giftist Arndís Jóni Jónssyni nokkrum og með honum átti hún eina dóttur. Þau bjuggu um nokkurt skeið að Eiði í Mosfellssveit. Þegar hún missti manninn sinn fluttist hún til Reykjavíkur og bjó síðustu æviár sín í Skálholtskoti.
Hausastaðatúngarður (garður)
Hausastaðatúngarður.
Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum tún Hausastaða á alla vegu og einnig milli þess og Katrínarkots. Í Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4 er talað um túngarð og hagagirðingu. Garðatúngarður er norðan megin en Hausastaðatúngarður sunnan megin, nefndur í Örnefnaskrá 1964: „Hann lá á Sjávarkampinum, mikill grjótgarður“ og nefnist framhald hans Katrínarkotstúngarður. Auk þess eru þarna Hausastaðatúngerði neðri neðan Guðrúnarvallar og Högnavallar (G.R.G: 104), e.t.v. milli Hausastaða og Katrínarkots. Suðaustan megin milli Hausastaða og túnspildu frá Hausastaðakoti er sýnd vírgirðing á Túnakortinu en samsíða henni fannst við Fornleifaskráningu 1984 gamall yfirgróinn túngarður hlaðinn upp í 0,6 m hæð.
Katrínarkotstúngarður (garður)
Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum allt Katrínarkotstún en skv. Fasteignabókum 1932 og 1942-4 eru þar túngarðar og hagagirðingar. Garðatúngarður er norðan megin og í Örnefnaskrá 1964 er Katrínarkotstúngarður sagður sunnan megin: Hann var framhald Hausastaðatúngarðs og „lá niður undir sjó, frá Sjávarhliðinu vestur undir Dal“ á Skreflu „vestan og neðan Katrínarkotstúns“. Á Túnakorti sést girðing við túnið vestan megin en skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var a.m.k. byggður þar garður þegar kom fram á 20. öld: „Vestan við túnið í Katrínarkoti er hlaðinn torfgarður til varnar sjávargangi frá Skógtjörn, sem liggur vestan lands Katrínarkots og Hausastaða. Sigurjón Sigurðsson hlóð þennan garð um 1930.“ Garðurinn við Skógtjörn sést enn þá mjög skýrt.
Péturssteinar (landamerki)
Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða 1820 segir séra Markús Magnússon: „Á rifi fram undan Garðahverfinu eru þrír steinar sem kallaðir eru Péturssteinar með bókstöfunum S.P.S.T. áhöggnum. Þeir eru taldir merkissteinar milli prestssetursins og nágrannajarðanna árið 1677 til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni.“ Í Örnefnaskrá 1964 kemur fram að Péturssteinar eru á Hausastaðagranda: „Þrír steinar er liggja úti á Grandanum miðsvæðis […] Péturssteinn innsti: Allstór steinn á Grandanum austanverðum […] Péturssteinn mið: Steinn þessi liggur nokkru utar og vestar […] Péturssteinn ysti: Steinn þessi er yztur […]“. Grandanum og mismunandi hlutum hans er lýst nákvæmlega í Örnefnalýsingu 1976-7: „Fram af miðju Hausastaðatúni gengur skerjagrandi mikill í sjó fram […] Grandi þessi kemur aðeins upp úr á fjöru. […] Kringla heitir á Grandanum næst utan Gedduóss. Þar er Grandinn hæstur, og er Kringla því það fyrsta, sem upp úr kemur af honum. Þrír stórir steinar á Hausastaðagranda, út af Kringlu, heita Péturssteinar. Þeir koma upp úr næst á eftir Kringlu, og er steinninn í miðið þeirra stærstur. Oft liggja uppi selir á Péturssteinum. […] Sölvatekja var mikil á Granda.“ Þar eð kirkjan í Görðum var helguð heilögum Pétri hafa steinarnir e.t.v. verið kenndir við hann.
Pálshús (býli)
Pálshús.
Pálshús birtast fyrst í Jarðaskrá Garðakirkju árið 1565, hjáleiga frá Görðum byggð Herjólfi.
Árið 1565 leigði Herjólfur Pálshús fyrir þrjár fiskavættir og réri auk þess fyrir skipi Garða eftir vilja Jóns Loftssonar staðarhaldara. Kúgildi var eitt.
Í Jarðabók 1703 eru þau sögð „hjáleiga fyrirsvarslaus“, ábúandi Loftur Jónsson og skv. Manntali sama árs fimm heimilismenn auk hans: eiginkonan Aldís Ormsdóttir, þrjú börn og tvítugur „vinnupiltur“.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en 45 álna landskuld galt Loftur með tveimur fjórðungum fiska í kaupstað. Leigukúgildi var enn eitt, borgað í fiski eða smjöri til séra Ólafs í Görðum sem á móti bar að uppyngja það. Í kvikfénaði átti jörðin tvær kýr og fóðraði þær, eina ær, veturgamlan sauð, lamb og eitt hross. Miðað við einbýli voru kvaðir sérlega miklar á Pálshúsum: dagsláttur, tveggja daga hestlán, hrísshestur tekinn í almenningi og mannslán árið um kring. Bóndi varð að láta eina vinnupiltinn sinn róa til fiskjar á skipi prestsins og þurfti auk þess líkt og á fyrri öldum sjálfur að vera formaður. Lofti var því gert nánast ómögulegt að manna eigin bát og þar eð hann mátti ekki heldur taka inn aðkomuskip verður ekki séð að uppsátur jarðarinnar í Pálshúsavör hafi nýst honum. Hann lagði loks sjálfur efni til húsabótar en sótti eldivið í torf og skóg Garða. Árið 1847 var verðmæti jarðarinnar enn óvíst, landskuld hin sama og kúgildi eitt en 1861 var hún talin 10,8 ný hundruð. 1932 var verðið 85 hundruð kr., kúgildin voru orðin þrjú, 90 sauðir og tvö hross. Úr 900 m² görðum fengust 15 tunnur matjurta. 1942-4 hafði jarðarverðið hækkað í 96 hundruð kr., bústofninn taldi sjö nautgripi, 70 sauði og eitt hross og garðarnir gáfu 19 tunnur.
Pálshús.
Pálshúsatún var frekar stórt, stækkaði á tímabilinu 1918-32 úr 1,5 í 2,2 ha og líklega enn meir næsta áratuginn því þá jókst heyaflinn úr 90 töðuhestburðum í 220. Skv. Örnefnaskrá 1964 skiptist túnið í Vesturtún og Austurtún en austast hét Pálshúsagerði. Þeim megin lágu Pálshús að hluta að Garðatúngarði og Dysjamýri en norðaustar var garður eða girðing milli þeirra og Nýjabæjar. Við norðurjaðar túnsins var Garðamýri og handan hennar Garðar sjálfir. Að vestan var girt gegnt Bakka og að sunnan gegnt Dysjum.
Þegar Manntal var tekið 1801 bjuggu í Pálshúsum hjónin Jón Magnússon og Guðrún Þorbjörnsdóttir ásamt fimm manns en í seinni Manntölum hafði heldur fjölgað í húsunum. Árið 1816 voru þar Höskuldur Þorsteinsson og Kristrún Guðlaugsdóttir með fjögur börn og vinnufólk, heimilismenn tólf talsins. Höskuldur var enn bóndi í Pálshúsum 1845 en virðist hafa misst konuna því hún er ekki nefnd. Yngsti sonurinn, Jón, var orðinn hafnsögumaður á Bakka og eldri börnin hafa væntanlega líka verið flutt að heiman. Bóndi var hins vegar komin með 12 ára gamlan fósturson og á heimilinu voru tvær nýjar vinnukonur, nýr vinnumaður og tveir niðursetningar. Í ónafngreindu tómthúsi bjuggu Eyjólfur Guðmundsson fiskari, Sólveig Einardóttir vinnukona og sonur þeirra, Guðmundur. Skv. Jarðatali var þó aðeins einn ábúandi í Pálshúsum árið 1847, þau voru enn í eigu kirkjunnar, nefnd í Jarðabók 1861 og svo í Fasteignabókum 1932 og 1942-4, kirkjujarðir sem áður. Skv. Fasteignamati ríkisins eru þau enn í byggð og skráður eigandi Jósep Guðjónsson.
Á Túnakorti árið 1918 má sjá bæjarstæði Pálshúsa austan megin í túninu. Bærinn er byggður úr torfi og hólfast í fimm hluta með stefnu nokkurn veginn suður-norður. Skv. Fasteignabókum er komið timburhús árið 1932, járnvarið 1942-4 eða fyrr.
Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Pálshús: Hjáleiga frá Garðastað neðan til við Nýjabæ, þar á bala.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 eru Pálshús „skammt norðan Dysja, en lengra frá sjónum“.
Skv. Jarðabókinni 1703: Palshus, hjáleiga fyrirsvarslaus, stendur í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við staðinn og hinar hjáleigurnar í hverfinu. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Loftur Jónsson. Landskuld xlv álnir. Betalast með ii vættum og ii fjórðúngum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í fiski eður smjöri heima til staðarhaldarans. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannlán árið um kring, dagsláttur einn, hestlán um tvo daga, hrísshestur einn, sem tekst í almenningi. Kvikfjenaður ii kýr, i ær, i sauður veturgamall, i lamb, i hross. Fóðrast kann ij kýr.
Heimilissmenn iiii. Eldivið af torfi og skóg hefur ábúandinn í óskiftu kirkjunnar landi. Bát að hafa hefur staðarhaldarinn leyft þessum hjáleigumanni, ef hann þará menn fengi annarstaðar að. En sjálfur á hann að róa á staðarhaldarans bát. Uppsátur hefur staðarhaldarinn unt hönum hjer til þar sem heita Pálshúsvarir. En inntökuskip má hann engin taka.
Pálshúsabrunnur (vatnsból)
Skv. Örnefnaskrá 1964 er Pálshúsabrunnur „rétt fyrir ofan bæinn. Allgott vatnsból“. Hann sést ekki á Túnakorti.
Pálshúsabrunngata (leið)
„Gatan lá frá brunninum heim á bæ.“
Pálshúsasjávargata (leið)
Bakkahryggur var skv. Örnefnaskrá 1964 „hryggur er lá eftir vesturtúninu heiman frá bæ allt niður undir Bakka“ og Pálshúsasjávargata „lá fram Bakkahrygg að sjó í Pálshúsavör“.
Miðengi (býli)
Miðengi og Gata (t.h.).
Skv. Jarðabókinni 1703: Mideinge, hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, hefur ekkert fyrirsvar hvað ábýlið snertir, annars hefur hjer uppá lausafje megandi ábúenda stundum nokkuð fyrirsvar skipað verið.
Gamlir menn segja, að Miðengi sje fyrst bygt úr Hlíðar landi ekki fyrir fullum 100 árum, og hefur í manna minnum verið hálft fyrirsvar, áður en Sr. Ólafur tók það af violenter satis; imó mag. Jón Widalin man og veit að þar hefur hálft fyrirsvar verið. Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúendur Ólafur Magnússon á hálfri, annar Jacob Stefánsson á hálfri. Landskuld er af hvörjum xx álnir en ef allri hjáleigunni xl álnir. Betalast með ii vættum fiska heim til staðarhaldarans. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn.
Kúgildi er i ordinarie og að gamalli venju, en nú fyrir bón og nauðsyn ábúenda sitt hjá hverjum. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn hvort sem er eitt eður fleiri.
Kvaðir eru mannslán af hverjum ábúenda árið um kring, áður þegar einn var ábúandi leystist þetta mannslán venjulega þar með, að þá var landskuld einnri fiskavætt hærri. Dagsláttur einn af hverjum ábúanda, en búi einn á er dagsláttur einn. Hrísshestar heimtast nú ekki fyrir vanmegniss sakir ábúenda. Ei heldur hestlán. Annars ef borgnir væri landsetar, gyldust þeir tveir og tvö hestlán af tvíbýli, en ei nema eitt sjerhvert ef einn á bygði.
Kvikfjenaður hjá Ólafi i kýr, leigukúgildið, hjá Jacob i kýr, leigukúgildið. Fóðrast kann ii kýr ríflega. Heimilissmenn hjá Ólafi iii og fjórði að hálfu, hjá Jacob iii og fjórði að hálfu.
Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.
Miðengi 2013.
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en í landskuld guldust 40 álnir í tveimur vættum fiska. Kúgildi var skv. fornri venju eitt en nú sitt hjá hvorum ábúanda, borguð í fiski eða smjöri til staðarhaldarans í Görðum sem uppyngdi þau. Kvaðir voru mannslán og dagsláttur af báðum árið um kring en hrísshestar og hestlán heimtust ekki vegna vanmegnis þeirra. Hvor hafði eina kýr sem jörðin fóðraði ríflega. Húsavið fengu þeir hjá staðarhaldara og sóttu eldivið eða mó í nytjaland hverfisins. Jarðardýrleiki var enn óviss árið 1847, landskuld hin sama en kúgildið eitt. 1861 taldist Miðengi 12,5 ný hundruð en 1932 var matsverðið 30 hundruð kr. Þá voru kúgildin orðin fjögur, þar voru 80 sauðir og tvö hross og 1180 m² kálgarðar gáfu af sér 18 tunnur. Árin 1942-4 hafði matsverðið hækkað í 52 hundruð kr., í bústofninum voru 5 nautgripir, 8 sauðir og 16 hross og 19 tunnur fengust af garðávöxtum. Jörðin hélt rétti til mótaks, útræði var þar og hrognkelsaveiði en uppsátur í Miðengisvör.
Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið sunnarlega í Miðengistúni, nálægt sjónum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Miðengi er niður frá Háteigi, og er sama heimreið að báðum bæjunum. Húsið í Miðengi stendur u.þ.b. 40-50 m fyrir ofan fjöru. Það var byggt fast aftan (norðaustan) við gamla bæinn (þ.e. þar sem hann var).“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 stóð gamli bærinn beint framan við núverandi íbúðarhús, þar sem hlaðið er nú.
Bærinn á Túnakortinu samanstendur af um sex torfhúsum en eitt þeirra er opin tóft. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skrásetjari segir: „Hafa bæjarhúsin vísað til suðvesturs, út á sjóinn og má sjá á hleðsluraðir, niðurtroðnar í hlaðinu.“
Á Túnakorti 1918 eru tvö samföst útihús rétt vestan við bæinn. Þau eru líklega úr steini og hafa stefnuna suðvestur-norðaustur.
Á Túnakortinu 1918 má sjá tvo kálgarða framan við bæjarhúsin í Miðengi. Sá vestari við útihúsin er líklega sá sem skv. Örnefnalýsingu 1976-7 heitir Fjósgarður“. Á Túnakorti er kálgarður suðaustan við bæjarhúsin, líklega sá sem kallaður er Framgarður í Örnefnalýsingu 1976-7: „Rétt suður af bænum […] kálgarður, aflagður fyrir nokkrum árum.“
Miðengi.
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er garðurinn „beint suður af íbúðarhúsinu“.
Miðengi byggðist fyrst úr landi Hlíðar skömmu eftir 1600 og var skv. Jarðabók Árna og Páls í eigu Garðakirkju árið 1703. Ábúendurnir Ólafur Magnússon og Jakob Stefánsson skiptu þá jörðinni til helminga og voru þrír heimilismenn hjá hvorum en sá fjórði að hálfu. Þegar Manntal var tekið 1801 bjuggu þar Sigurður Halldórsson með fimm í heimili og ung hjón, Jón Erlendsson húsmaður og Ólöf Helgadóttir með eins árs gamlan son og fátæka stúlku. Árið 1816 voru þau flutt í þurrabýlið Holt (188-27) í landi Hlíðar en í Miðengi komið annað húsfólk, Gísli Jónsson og Gróa Jónsdóttir með eina dóttur. Þá hafði Guðmundur Sigmundsson tekið við búskap á aðalbýlinu en hann átti konu og fjögur börn og auk þeirra voru þrír í heimili. Í Manntali 1845 höfðu enn orðið ábúendaskipti. Þá hét grasbóndinn Sigurður Árnason, með konu, þrjú börn og vinnukonu. Einnig voru tómthúsmennirnir Sigurður Guðmundsson og Samúel Jónsson úr Hlíð. Sá fyrrnefndi var kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur og átti með henni þrjú börn og hjá þeim var Jón Pétursson sem lifði af sveit. Húsfreyja Samúels hét Arnleif Guðmundsdóttur og áttu þau þrjú börn. Einnig voru hjá þeim móðir húsbóndans og vinnumaður. Í Jarðatali árið 1847 er þó aðeins tilgreindur einn ábúandi og jörðin sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabókinni 1861 og var skv. Fasteignabókum enn kirkjujörð árin 1932 og 1942-44. Hún hefur verið í ábúð fram á þennan dag og skráður eigandi í Fasteignamati ríkisins er Ágúst Kristjánsson.
Við gerð Túnakorts árið 1918 var Miðengistún 1,4 ha og hélst svo fram til 1932 eða lengur. Þá var heyafli um 65 hestburðir í töðu en 80 árin 1942-4. Girt var kringum túnið á alla vegu með görðum og girðingum. Miðengi er niðri við sjó með Hlíð að norðan og norðaustan, Háteig, Ráðagerði og Garða austan megin.
Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 á jörðin einnig „land uppi á Garðaholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði og Prestshóll. Einnig […] miðhluti Dysjamýrar ofan Garðaholtsvegar“.
Skv. Fasteignabók voru timburhús komin í Miðengi árið 1932.
Götusteinn (samgöngubót/álagablettur)
Götusteinn.
Götusteinn var skv. Örnefnaskrá 1964 „steinn er lá við götuna milli Hlíðar og Miðengis. Á steini þessum voru þau ummæli, að hann mætti ekki hreyfa.“ Við þetta gerir Kristján Eiríksson athugasemd í Örnefnalýsingu 1976-7: „Nokkuð stór steinn er í Miðengistúni, fast vestan við brunngötuna frá Hlíð. G.S. nefnir hann Götustein í lýsingu sinni. Kristján [Eyjólfsson í Miðengi] segir það rangt, en man ekki rétta nafnið.“ Steinninn er enn á sama stað.
Miðengistúngarður (garður)
Á Túnakorti 1918 má sjá að varnargarður er neðan Miðengistúns og út frá honum liggja girðingar kringum túnið. Skv. Fasteignabók var Miðengi árið 1932 umgirt túngarði og hagagirðingu (bls. 23). Miðengistúngarður hét sá hluti sjógarðsins sem var þarna, skv. Örnefnaskrá 1964 „þykkur og mikill“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Á bakkanum er grjótgarður til varnar ágangi sjávar.“ Neðan túnsins er breið klapparfjara og klapparnef fram í sjó. Þarna er ekkert landbrot en flæðir oft inn á lágt land innan við kambinn.
Miðengisbrunngata (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Miðengisbrunnur „neðan og sunnan bæjarins“ og lá Miðengisbrunngata neðan frá honum „heim til bæjar“.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gata liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni, en Brunngata suður að Brunni.“
Miðengisbrunnur (vatnsból)
Miðengisbrunnur.
Á Túnakorti 1918 sést brunnur utarlega í túninu, suðaustan bæjarstæðisins, nálægt mörkum Miðengis og Garða. Miðengisbrunnur er nefndur í Örnefnaskrá 1964, „neðan og sunnan bæjarins. Ekki gott vatn.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var hann „u.þ.b. 20-25 m norðaustur af hólnum“, þar sem sjóbúð var áður „á kampinum milli Miðengis og Garða […]. Af heimafólki var hann bara nefndur Brunnur. Vont vatn þótti í honum og saltblandað.“
Völvuleiði (legstaður)
Á Völvuleiði.
Í Fornleifaskýrslu sinni árið 1820 segir séra Markús Magnússon: „Hér eru engir haugar eða fornmannaleiði nema ef telja skyldi hér fyrir ofan prestssetrið á Garðaholti það sem kallað er Völvuleiði, sem fornar sagnir eru um að þar sé grafin Völva (spákona) sem farið hafi um í heiðni. En við leit finnast þar engar menjar eða leifar af nokkru tagi.“ Við þetta gerir Kålund eftirfarandi athugasemd 1984: „Samkvæmt fornleifaskýrslu (1820) fundust á Álftanesi nokkrar fornaldargrafir, sennilega þó ekki raunsannar […] meðal þeirra „völvuleiði“ […]“.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Syðst á Garðaholti heitir Holtsendi, þar sem nú eru geysimiklar sandgryfjur. Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði.“ Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Svo var allmikil þúst kölluð austarlega á Holtinu. Þúst þessa bar all hátt.“ „Kirkjustígur lá af Flatahrauni vestur eftir holtinu norðan við Völvuleiði og Torfavörðu“. Örnefnalýsing 1976-7 hefur þetta: „Þá á Miðengi land uppi á Garðaholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði og Prestshóll. Á háholtinu, suðaustan við Garðaholtsveg (þ.e. vegarins (svo) yfir holtið), er þúfa, sem kölluð er Völvuleiði. Torfavarða var gegnt Völvuleiði, hinum megin við veginn.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Völvuleiði „uppi á háhæð vestan við þjóðveginn út á Álftanes, sunnan vegar út að Görðum, syðst á Garðaholti“. Þar er miðlungsgrýttur melur, nokkuð grösugur allt um kring. Hóllinn sést greinilega langt að, grænni en umhverfið og stendur hátt. Hann er grasi vaxinn en sjá má grjót og hola er í honum miðjum. Hann er um 11 m að lengd og breidd
og snýr í austur (100°) út úr holunni.
Presthóll (huldufólksbústaður)
Presthóll.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði. Heldur vestar heitir Torfavarða. Enn vestar, austanvert, þar sem Garðavegur kemur á Álftanesveg, er grasi gróinn klapparhóll, ber að norðan og vestan. Þessi hóll heitir Presthóll. Þar hlóð sr. Jón Loftsson, sem hér var prestur 1562, vörðu og dvaldi þar öllum stundum.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 er þetta „grágrýtisklapparhóll við vegamót Garðaholts- og Álftanesvegar“ en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Presthóll er stór klettahóll, klofinn endilangs, í krikanum austan við Garðaholtsveg, þar sem hann liggur af Álftanesvegi.“ Kristján Eldjárn skoðaði hólinn árið 1978: „Þar sem vegurinn út á Álftanes liggur yfir Garðaholtið er til vinstri handar (þegar út á nesið er ekið) dálítill klettahóll, (eða kannski réttara að segja klappahóll), sem heitir Presthóll. Um hann eru þjóðsögur og mun vera huldufólk í.“ Kannski Garðapresturinn hafi átt vingott við það en hóllinn hans er enn á sínum stað.
Nýibær (býli)
Nýibær.
Nýjabæjar er fyrst getið í Jarðaskrá Garðakirkju árið 1565, þá leigður Guðmundi. Í Jarðabók 1703 er svo talað um hálfbýli með hálft fyrirsvar sem Guðmundar tveir, Ólafsson og Bjarnarson, skiptu til helminga, þrír heimilismenn hjá þeim fyrrnefnda en fimm hjá þeim síðarnefnda.
Árið 1565 galt ábúandi í landskuld þrjár fiskavættir, vallarslátt og skipsróður allt árið en jörðinni fylgdi eitt kúgildi.
1703 var jarðardýrleiki óviss og landskuld 80 álnir eða 40 á hvorn ábúanda, borguð með þremur vættum fiska og vallarslætti. Báðir höfðu tvö leigukúgildi sem þeir guldu með smjöri að frádregnum 5 álnum fyrir fæði sláttumannsins. Bar staðarhaldara að uppyngja kúgildin. Nafnarnir Ólafsson og Bjarnarson höfðu engan kvikfénað annan en fóðrast kunnu naumlega þrjár kýr. Kvaðir voru dagsláttur af hvorum, hrísshestur og hestlán. Mannslán sem var eitt af allri jörðinni guldu þeir þetta ár með hálfum skipshlut af eigin bátum en höfðu frí skipsuppsátur í Nýjabæjarvör í fjörunni neðan Bakka. Þeir lögðu sjálfir við til húsabótar en nutu skógartaks, eldingartorfs og annarra þvílíkra hlunninda úr landi Garða.
Skv, Jarðabókinni 1703: Nýebær, kallaður hálfbýli, því þar er ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.
Nýibær.
Eigandi er Garðakirkja. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúendur Guðmundur Ólafsson býr á hálfri, Guðmundur Bjarnarson á annari hálfri. Landskuld lxxx álnir, xl álnir hjá hverjum. Betalast með iii vættum fiska og vallarslætti; fæðir bóndinn verkmanninn og eignast þar fyrir 10 álnir af leigum. Við til húasbótar leggur ábúandi. Leigukúgildi ii, sitt hjá hverjum. Leigur betalast með smjöri heim að fráteknum fimm álnum af hvers parti, sem niður falla fyrir vallarsláttumannsins fæði. Kúgildin uppýngir hússbóndinn. Kvaðir eru dagsláttur einn af hverjum, hrísshestur einn af hverjum, hestlán eitt af hverjum. Betalaðist með fimm álna virði sjerhvert ef ei fram kæmi in natura og ábúendur fullfærir væri til að betala. Mannslán plagar að gjörast in natura eitt af allri jörðinni, en nú um stundir hafa staðarhaldarinn og ábúendur so accorderað, að þeir bíhalda sínum mannslánum sjálfir á sínum eigin bátum og þar á mót gefa staðarhaldaranum hálfan skiphlut af sínum eigin bátum. Kvikfjenaður hjá Guðmundir Ólafssyni enginn fyrir utan kúgildið, hjá Guðmundi Bjarnasyni og ei nema kúgildið. Fóðrast kann iii kýr naumlega. Heimilissmenn hjá Guðmundi Ólafssyni iii, hjá Guðmundi Bjarnasyni v. Skógartaks, eldingartorfs og annara þvílíka hlunninda nýtur þessi jörð úr óskiftu að þörfum eins og hin önnur býlin í hverfinu. Skipsuppsátur heyrir þessu býli til í Bakkavörum frí.
Í Manntali tæpri öld síðar 1801 voru heimilin hins vegar orðin fjögur. Jarðnyt höfðu Þorvaldur Magnússon og kona hans Guðrún Ásgrímsdóttir, hjá þeim fóstursonur og vinnukona. Auk þeirra var húsfólk sem lifði alfarið af fiskveiðum, annar vegar hjónin Magnús Jónsson og Borghildur Jónsdóttir, hins vegar Brynjólfur Sveinsson og Guðrún Þorleifsdóttir sem áttu 2 ára barn.
Garðar. Nýibær framar.
Sérstöðu hafði Þorkell Þorkelson smiður sem lifði af handverki sínu og hafði þrjá í heimili. Flestallt þetta fólk fór annað á næstu fimmtán árum og settust þau Brynjólfur og Guðrún að í Sjávargötu. Sjálfur var Þorvaldur bóndi þó enn búsettur í Nýjabæ þegar Manntal var tekið árið 1816 og giftur í annað sinn. Eiginkonan Vilborg Jónsdóttir hafði með sér þrjú uppkomin börn og einnig var á heimilinu Guðrún, niðurseta á miðjum aldri. Í Manntali 1845 voru ábúendur tveir, Jón Gíslason sem hafði gras og Sveinbjörn Jónsson fiskari, hvor um sig með sex í heimili. Hjá Sveinbirni bjuggu meðal annarra Sigríður Þorsteinsdóttir húskona og 25 ára gamall sonur hennar. Þegar Jarðatal var tekið 1847 var ábúandi þó aftur aðeins einn en Nýibær áfram kirkjueign, einnig nefndur í Jarðabók árið 1961 og í Fasteignabókum 1932 og 1942-44. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í ábúð og nú í eigu Ragnheiðar Jónsdóttur.
Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss en þar voru tvö kúgildi. 1861 var jörðin talin 10,4 ný hundruð. Þegar kom fram á næstu öld var landverðið með húsakosti 44-5 hundruð kr. Árið 1932 voru kúgildin þrjú, á jörðinni 30 sauðir og tvö hross og afrakstur 1200 m² matjurtagarða 20 tunnur. 1942-4 átti jörðin í kvikfénaði fimm nautgripi, 42 sauði og eitt hross og í matjurtum fengust 25 tunnur. Stundað var útræði og hrognkelsaveiði og mór hafður í eldivið.
Nýjabæjartún var allstórt, 1,9 ha þegar Túnakort var gert árið 1918 og stækkaði á fjórtán árum í 2,2 ha sem gáfu 112 töðuhestburði en 170 árin 1942-4. Jörðin er með þeim syðstu í Garðahverfi, fjær sjónum, austur upp við Garðatúngarð, með Dysjamýri (185-70) þar fyrir utan. Handan túngarðsins er nú nýbýlið Grund. Norðan megin Nýjabæjartúns er svo girðing að Króki og Görðum en vestan megin að Pálshúsum.
Á Túnakorti má sjá stæði Nýjabæjar með þyrpingu húsa og garða norðarlega í Nýjabæjartúni. Bærinn er úr torfi og hólfast í þrennt með stefnu suðvestur-norðaustur. Í Örnefnaskrá 1964 segir að hann sé „neðar í túni en Krókur“ og Örnefnalýsing 1976-7 bætir við: „Nýibær er upp af Pálshúsum, og liggja túnin saman. Hlaða og fjós eru rétt austur af gamla húsinu. Nú hefur nýtt hús verið byggt í Nýjabæ í túnjaðrinum austur við veginn.
Nýbýlið Grund, sem byggt var nálægt 1950, er ofan og austan við túngarðinn. Því fylgir ekki grasnyt, aðeins lítil lóð.“ Skv. Fasteignabókum var komið timburhús í Nýjabæ árið 1932 og járnvarið 1942-4 ef ekki fyrr. Núverandi íbúðarhús hefur vafalaust raskað eldri byggingaleifum. Erfitt er að meta hvort einhverjar leifar bæjarhúsanna geti enn leynst undir sverðinum.
Móakot (býli)
Móar.
Móakot var hjáleiga frá Görðum, byggð úr landi Hlíðar um miðja 17. öld eða í minni manna sem lifðu þegar Jarðabók var gerð árið 1703. Þáverandi ábúandi hét Oddur Ásbjörnsson og voru fjórir í heimili. Í Manntali 1801 bjuggu hins vegar tveir bændur á jörðinni, Páll nokkur Ásgrímsson, „bonde af jordbrug og fiskerie“, ásamt konu, tveimur vinnumönnum, vinnukonu og hreppsómaga, svo og tómthúsmaðurinn Nikulás Guðmundsson ásamt konu, syni og hreppsómaga.
Skv. seinni Manntölum fækkaði fólkinu aftur eftir það. Árið 1816 höfðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Hlaðgerður Einarsdóttir tekið við og var hjá þeim ein vinnukona og niðursetningur. 1845 var Guðmundur látinn en Hlaðgerður áttræð að aldri orðin niðursetningur hjá nýrri fjölskyldu, Eyjúlfi Hendrikssyni, Guðrúnu Eyvindsdóttur og þremur börnum. Skv. Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi áfram einn og jörðin í eigu kirkjunnar, hún er nefnd í Jarðabók 1861 og síðan í
Skv. Jarðabókinni 1703: Móakot, hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi (er bygt úr Hlíðarlandi fyrst í þeirra manna minni, sem nú lifa). Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúandinn Oddur Ásbjörnsson.
Móakot.
Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi yfir 40 ár uppbótarlaust, Kúgildi i. Leigur betalast í smjöri eður þjónustulaunum heim til staðarhaldarans. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannslán árið um ) síðan í tíð prófastsins sál. Sr. Brynjúlfs Jónssonar, er hjelt staðinn Garða. Fyr var aldrei sú kvöð með skyldu ákveðin, en síðast í tíð Sr. Þorkels var fyrir utan áðurgreinda landskuld skilin á ábúanda formenska árið um kring fyrir fjegra manna fari því, er hálft átti staðarhaldarinn, en hálft ábúandi og lagði hvor til helming kostnaðar, og á meðan það hjelst hafði bóndinn frjálst, þegar brugðust menn á fjögra manna farið, að brúka sinn eigin bát, tveggja manna far, skilmálalaust. Nú gelst þetta mannslán ei in natura, heldur kvittast árlega með smíðum til fimm aura, og hefur þá bóndinn frjálst orðlof að láta sína báta gánga, tveggja manna för eður þriggja, hvort sem er einn eður fleiri. Hrísshestur einn betalast in natura. Dagsláttur gelst í smíðum. Hestlán so sem annarstaðar.
Kvikfjenaður ii kýr, i hestur, i hross. Fóðrast kann ii kýr naumlega. Heimilissmenn iiii. Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.
Árið 1703 var dýrleiki jarðarinnar óviss en landskuld 40 álnir og galst með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt og greitt fyrir það í smjöri eða þjónustulaunum til staðarhaldara sem uppyngdi það. Í bústofninum voru tvær kýr, hestur og hross og fóðruðust kýrnar naumlega. Um og eftir miðja 17. öldina átti ábúandi fjögurra manna far hálft á móti Garðapresti og var formaður fyrir því en hvor lagði til helming kostnaðar. Ef menn brugðust á þetta far var honum
hins vegar frjálst að „brúka sinn eigin bát, tveggja manna far, skilmálalaust“.
Móakotsbrunnur.
Við gerð Jarðabókarinnar hafði þetta breyst þannig að mannslánið kvittaðist „með smíðum til fimm aura“ og Oddur hafði „frjálst orðlof að láta sína báta gánga, tveggja manna för eður þriggja“. Aðrar kvaðir voru dagsláttur sem einnig galst í smíðum, hrísshestur og hestlán. Bóndi varð sjálfur að leggja til húsavið „yfir 40 ár uppbótarlaust“ en hafði eldiviðartak af móskurði í nytjalandi staðarins. Árið 1847 var jarðardýrleiki enn óviss, landskuld hin sama og kúgildið áfram eitt en 1861 taldist jörðin 6,6 ný hundruð. Árið 1932 var verð hennar með húsakosti 33 hundruð kr., þar var einn sauður og 21 hross og úr 88 m² matjurtagörðum fengust 15 tunnur.
Móakotstún var lítill kýrgrasvöllur í kring um bæinn, skv. Túnakorti 1 ha árið 1918 en um þriðjungur norðan í því stórgrýttur. Túnið stækkaði í 1,3 ha áður en yfir lauk og gaf 72 hestburði af töðu. Það lá að sjónum og var sjógarður þeim megin en girðingar milli þess og næstu bæjatúna. Norðvestan megin var spilda frá Hausastaðakoti og henni næst Hausastaðatún, norðan megin var auk Hausastaðakots þurrabúðin Grjóti og austan megin Hlíð.
Á Túnakorti 1918 sést bæjarstæði Móakots nokkurn vegin í miðju túni, suðvestan Hausastaðakots og norðvestan Hlíðarbæja. Skv. Örnefnaskrá 1964 var býlið „hjáleiga frá Görðum. Ofar en Hlíð.“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Móakot var u.þ.b 150 m suðvestur af Hausastaðakoti. Það fór í eyði um 1930.
Svolítill blettur kringum kotið var nefndur Móakotstún. Bæjartóftirnar eru í landi Hausastaðakots, en túninu er skipt á milli Hlíðar og Hausastaðakots, og á Hlíð eystri hlutann.“ (Bls. 10). Við Fornleifaskráningu 1984 var Móakot staðsett „norðvestur af Grjóta, norðan við Hlíð […] slétt tún fyrir vestan og norðan – aflíðandi gróin en grýtt brekka að baki“.
Á Túnakortinu hólfast bærinn í fernt, byggingarefnið er torf en standþil á tveimur framhúsum, stærstu hólfunum, en þau snúa suðvestur að sjónum. Það kemur heim við lýsingu skrásetjara sem segir lengd bæjarhúsa til vesturs vera 5,85 m og þau hafa vísað göflum út á sjó. Aðeins mótar fyrir veggjum, um 1 m á breidd.
Skv. Fasteignabók stóð þessi torfbær enn árið 1932.
Fasteignabók 1932, enn kirkjujörð. Upp úr því fór hún þó í eyði skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 og skiptist túnið nú milli Hausastaðakots og Hlíðar.
Móakotsbrunnur (vatnsból)
Móakotsbrunnur.
Í þýfi um 17 m norðaustur frá Móakoti fannst við Fornleifaskráningu 1984 brunnur. Hann er hringlaga, um 1 m í þvermál og 1,5 m niður að vatnsyfirborði. Hann er hlaðinn úr grjóti og stendur opinn en gaddavír hefur verið settur fyrir.
Móakotsbúð (búð)
Móakotsbúð var við Skiptivöllinn á Hausastaðakambi, búð og hjallur frá Móakoti.
Ráðagerði (býli)
Ráðagerði.
Í forlið nafnsins Ráðagerði virðist vera orðið ráði en það vísaði í fornu máli sérstaklega til galtar sem hluta svínahjarðar. Nafnið sker sig að þessu leyti frá öðrum svona nöfnum í Garðahverfi því gerðin þar eru ekki kennd við skepnur heldur við þau býli sem þau tilheyra.
Ráðagerði er fyrst nefnt í Jarðabók árið 1703, þá hjáleiga frá Görðum. Bjuggu tveir ábúendur á sín hvorum helmingi, Stígur Jónsson og ekkjan Halldóra Illugadóttir, hvort með tvo heimilismenn. Í Manntali 1801 bjó þar svo Tómas Tómasson gullsmiður, bóndi og útgerðarmaður, með níu í heimili. Í Manntali 1816 hafði Illugi Brynjólfsson tekið við ábúð ásamt konu sinni Flórentínu Jónsdóttur og voru heimilismenn alls 11, auk vinnufólks þrú lítil börn, húskonan Valgerður Ögmundsdóttir og tvær dætur hennar.
Skv. Jarðabókinni 1703: Rádagierde, hjáleiga í óskiftu staðarins landi. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúendur Stígur Jónsson býr á hálfri, annar ekkjan Halldóra Illugadóttir býr á hálfri.
Landskuld hjá hvörjum xxx álnir, af allri lx álnir. Betalast með fiski í kaupstað, ij vætt af hverjum. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn. Leigukúgildi eru nú fyrir nauðsyn ábúendanna ii. En annars fylgir ekki hjáleigunni meir en i kúgildi. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru mannslán árið um kring af hverjum þegar tveir ábuá en annars eitt. Tveir dagslættir ef tveir ábúa en einn er ella. Tveir hrísshestar ef tveir ábúa en einn ella. Hestalán eitt af hverjum ábúanda ef þeir eiga hest, ekkert ella. Eitt er hestlán ef einn býr á. Kvikfjenaður i kýr hjá Stígi, sem er kúgildið, hjá Halldóru i kýr, sem er kúgildið.
Fóðrast kann á allri hjáleigunni ii kýr. Heimilissmenn hjá Stígi ii, hjá Halldóru ii. Eldiviðartak af móskurð í staðarins landi.
Garðaholt – örnefni – ósá.
Þegar Manntal var tekið 29 árum síðar var þetta fólk flest farið, Guðríður, dóttir þeirra Illuga og Flórentínu, var orðin vinnukona hjá séra Árna og Sigríði prestsfrú í Görðum en Tómas Gíslason og Signý Eiríksdóttir höfðu tekið við búskap í Ráðagerði. Sjö aðrir voru í heimili og þeirra á meðal raunar Illugi, gamli húsbóndinn, orðinn 69 ára og lifði af vinnu sinni. Annar ábúandi var silfursmiðurinn Sigurður Benediktsson með sjö í heimili.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 30 álnir hjá hvorum ábúanda og galst með fiski í kaupstað. Leigukúgildi voru tvö og séra Ólafi Péturssyni borgað með fiski eða smjöri en hann uppyngdi þau. Halldóra og Stígur höfðu hvort um sig eina kýr. Kvaðir voru mannslán af báðum árið um kring, dagslættir, hrísshestar og hestlán. Garðar lögðu við til húsabótar og jörðin hafði móskurð í landi þeirra.
Árið 1847 var jarðardýrleiki enn óviss, landskuldin hafði hækkað um helming en kúgildin voru tvö sem áður.
1861 var jörðin talin 9,9 ný hundruð.
Rétt norðvestan við Ráðagerði, upp við túngarð, var Háteigur og höfðu býlin sameiginlegt tún sem var þó framan af kennt við Ráðagerði. Austan og sunnan megin var túnið frá Görðum en suðvestan megin Miðengi.
Árið 1847 voru enn tveir bændur á þessari Garðakirkjujörð, hún er nefnd í Jarðabók 1861 en síðan ekki.
Túnakort sýnir árið 1918 bæ þar sem Ráðagerði á að hafa verið en án nafns og gæti það bent til að býlið hafi verið komið í eyði á þeim tíma.
Á Túnakorti 1918 má sjá hús úr steini eða torfi ofarlega í túninu rétt suðaustan Háteigs og Götu, norðvestan Garða. Húsið hefur stefnuna norðvestur-suðaustur og kálgarðar eru til hliðar við það en líklega er þetta bæjarstæði Ráðagerðis sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1958 og síðan í Örnefnaskrá 1964: „Fyrrum býli, hjáleiga frá Görðum, stendur ofar en Gata […]“ litlu austar en Háteigur sem það liggur nú undir.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Ráðagerði var í Háteigstúni nærri túngarði milli Garða og Háteigs, neðanhallt við húsið í Háteigi. Það er farið í eyði fyrir lifandi löngu.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta í grösugum aflíðandi halla á milli Háteigs og Garðakirkju. Um 19,15 m frá garðhleðslu sem þarna er sést óljós steinaröð, líklega frambrún bæjarins. „Tvær grjóthrúgur eru í sömu línu“.
Ráðagerði (þingstaður)
Í lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofsstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.“ Hinn gamli þingstaður Álftnesinga var þó í dómhring á Hausastöðum áður en hann var fluttur að Görðum eftir konungstilskipun 23. feb. 1816.
Garðar (býli)
Garðar.
Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst. Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum. Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“ og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans. Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Núibær og Garðar.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa. Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397 og 1477 kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd. Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.
Garðar – Túnakort 1918.
Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. Manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801 og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð. Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir. Kirkja (185-6) er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir. Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús, Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum.
Grjóti.
Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Garðar um 1900.
Skv. Jarðabókinni 1703: Gardar. Kirkjustaður og beneficium. Jarðardýrleiki hefur óviss verið, so vítt menn vita, til Anno 1697, þá nefndur staður af sex mönnum (hverja prófasturinn í Kjalarnessþingi og sýslumaðurinn í Gullbringusýslu eftir amtmannsins tilsögn þar til útnefnt höfðu) virtur var xl [symbol] að dýrleika. Ábúandi er staðarhaldarinn Sr. Ólafur Petursson prófastur í Kjalarnessþingi. Landskuld er engin. Fyrgreindir sex menn hafa álitið að staðurinn sambyði ii [symbol] leigu. Leigukúgildi engin. Annars á kirkjan xx kúgildi, hvar af sum eru í leiguburði á kirkjunnar jörðum, sem á hjáleigunum í hverfinu um kring staðinn.
Kvikfjenaður iiii kýr og fimta leigukýr, i kviga þrevetur mylk, i tvævetur geld, ær xxxii, i sauður tvævetur, xviii veturgamlir, lömb xx, i hestur, iii hross, ii folar tvævetrir. Fóðrast kann v kýr og i hestur ríflega. Heimilismenn xv.
Kaldársel við Kaldá – tilgáta ósá.
Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.
Skóg á staðurinn sem brúkast til kolgjörðar og tekur mjög að eyðast. Móskurður til eldiviðar hefur nægur verið, en fer i þurð og gjörist erfiður.
Fjörugrasatekja nægileg. Rekavon í minsta lagi og nær engin en þó festifjara. Sölvafjara bæði góð og mikil. Hrognkelsafjara gagnleg. Skelfiskfjara brúkast til beita en er aðsókt af mörgum og fer því til þurðar.
Heimræði er árið um kring og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer að nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar. Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.
Garðar.
Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni. Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum.
Garðahverfi – flugmynd.
Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni, Móslóði og lá í suðvestur um Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.
Landamerki
Garðar.
Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“. Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum: 1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […] 2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […] 3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn. Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […]
Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Tóft á Garðaflötum.
Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“.
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“.
Garðabúð (býli)
Gardabud, hjáleiga í óskiftu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem áður fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú hin sama hjáleiga.
Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Jón Þórðarson.
Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska eður peningum uppá fiskital heim til staðarhaldarans. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn.
Kúgildi til leigu hefur áður eitt verið, en er nú fyrir ljúfa tillátsemi staðarhaldarans ekkert. Kvaðir eru mannslán árið um kring, betalast nú ekki in natura, heldur leysist með hálfum, skiphlut árið um kring af tveggja manna fari, sem ábúandinn sjálfur á og leggur útgjörð að öllu. Dagsláttur einn. Hestlán á saman hátt sem annarstaðar er sagt. Hrísshestur segir prófasturinn fylgt hafi afgjaldi af Skemmu, en ábúandinn í Búð segir það hafi aldrei á sig skilið verið.
Kvikfjenaður i kýr, i ær með lambi, iii sauðir veturgamlir, ii hestar, og i hross með fyli. Fóðrast kann i kýr naumlega. Heimilissmenn iii. Eldiviðartak í staðarins landi af móskurði frí. Garðshús skv. Jarðabókinni 1703: Gardhus, hjáleiga fyrirsvarslaus samtýniss við hinar í hverfinu. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn Garðarkirkja. Ábúandinn Guðmundur Einarsson. Landskuld xxxv álnir. Betalast í fiski í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í smjöri. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannslán árið um kring, dagsláttur einn, hestlán eins og á hinum, hrísshestur einn, sem tekst í almenningi eður kirkjunnar landi. Kvikfjenaður er kúgildið og ekki víðara. Fórðast kann kúgildið naumlega. Heimilissmenn iiii. Eldiviðartak af móskurði frí í óskiftu staðarins landi.
Garðakirkja (kirkja)
Dysjar, Pálshús, Garðar og Garðakirkja (t.h.).
Í grein frá árinu 1904 segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“
Núverandi kirkja var reist árið 1966.
Garðakirkjugarður (lestaður)
Garðakirkjugarður.
Á Túnakortinu 1918 má sjá gamla grafreitinn í Görðum rétt suðvestan við kirkjuna og bæjarhúsin.
Skv. Örnefnalýsingu 1958 er Garðakirkjugarður neðan bæjarins, upp af þurrabúðinni Hól: „Þarna er svæði slétt upp að kirkjurúst, en á það vantar nöfn.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá hann „neðan kirkjunnar og bæjarhúsanna“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Gamli kirkjugarðurinn er sunnan kirkjunnar og íbúðarhússins. Hann hefur nú verið stækkaður til vesturs.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er kirkjugarðurinn beint niður og vestur af núverandi bæjarhúsum „girtur grjóthlöðnum garði“.
Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Nokkru norðvestan við kirkjuna sýnir Túnakortið 1918 garð. Hlaðnir veggir liggja kringum hann upp að girðingu sem skilur milli Garða annars vegar, Háteigs og Ráðagerðis hins vegar. Þetta hlýtur að vera niðursokkni grjóthlaðni garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984 og vísar eins og á Túnakortinu í norðvestur frá Garðakirkjugarði, „út að girðingu við Ráðagerði“. Hann beygir síðan í horn til vesturs.
Sjávargata (leið)
Garðar – sjávargata.
Á Túnakorti 1918 má sjá hvar gata liggur frá enda Garðatraða við bæjarstæði Garða vestur milli gömlu kirkjunnar og garðs og áfram í átt til sjávar. Líklega er þetta sú Sjávargata sem samnefnt býli hét eftir og nefnd er í Örnefnalýsingu 1958: Þríhyrningur gengur upp frá sjó milli túna Garða og Miðengis en „efst í honum er Grjóthóll. Neðar var svo Sjávargatan […].“
Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Svo var gatan frá Garðastað niður túnið í Garðasjó kölluð.“
Sjávargata (býli)
Gata frá Grjóta að Hlíð í Garðahverfi.
Í manntali sem tekið var árið 1801 er nefnt húsmannsplássið Götuhús. Þess er hvergi getið annars staðar og má vera að átt sé við Sjávargötu. Þar bjuggu hjónin Steinunn Helgadóttir og Gissur Tómasson, jarðnæðislaus húsmaður og fiskari, Katrín Brynjólfsdóttir, hús- og handverkskona og sonur hennar Jón Eysteinsson. Sjávargata er hins vegar örugglega nefnd í seinni manntölum. Árið 1816 voru komnir þangað tveir aðrir húsmenn, Brynjólfur og Bjarni, báðir Sveinssynir. Brynjólfur, eiginkonan Guðrún Þorleifsdóttir og dóttirin Elín voru áður til húsa í Nýjabæ en kona Bjarna var Guðrún, dóttir Jóns Þorsteinssonar bónda á Dysjum. Þau áttu tvö börn og einnig er nefnd Guðrún Sigmundsdóttir, 9 ára „niðurseta“ svo heimilismenn í litlu búðinni voru alls átta. Árið 1845 hafði svo Guðmundur Einarsson vefari tekið við Sjávargötu, bóndasonur frá Bakka sem áður vann fyrir sér á Hausastöðum. Hann var orðinn 58 ára, giftur Ingveldi Þórleifsdóttur og voru hjá þeim ein vinnukona og tvær aldraðar konur.
Garðahverfi – örnefni.
Á Túnakorti 1918 má sjá garð á þeim slóðum sem þurrabýlið Sjávargata á að hafa verið, þ.e. milli samnefndrar götu og landamerkja við Miðengi, skammt frá sjónum. Skv. Örnefnaskrá 1964 er þessi hjáleiga og þurrabúð „í vesturtúni við Sjávargötuna […] niður og vestur frá kirkjunni“.
Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 voru „tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata.“
Við Fornleifaskráningu 1984 var hann staðsettur norðan hins bæjarins Hóls og sunnan Miðengis, slétt tún sunnan og vestan megin. Þótt býlið sjálft sé ekki sýnt á Túnakortinu virðist mega sjá af lögun garðsins að það hefur verið í suðvesturhorninu enda nær hústóftin um 7 m inn í garðshornið þeim megin. Hún er um 6,5 x 7 m að innanmáli, veggir 1,5-2 m á breidd og sýnist inngangur vera suðvestan megin. Stefnan er SSV-NNA.
Túnakortið 1918 sýnir tvo samfasta garða í stæði hjáleigunnar Sjávargötu. Sá nyrðri á mörkum Miðengis og Garða er merktur Háteigi en sá syðri Görðum og er það trúlega svo nefnt Sjávargötugerði sem minnst er á í Örnefnaskrá 1964: „Lítið gerði umhverfis þurrabúðina.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta ferhyrndur grjóthlaðinn garður, veggjabreidd 1,4-2 m. Að innan er hann um 27,2 m á lengd og 17-20 m á breidd, breiðastur í vesturendann og gengur annar minni grjótgarður úr honum í átt til sjávar en endar við girðingu milli Garða og Miðengis. Samanlögð lengd þeirra er 46,6 m og stefnan vestnorðvestur-austsuðaustur. Minni garðurinn er miðað við staðsetningu og stefnu sá sem heyrði undir Háteig.
Hóll (býli)
Hóll.
Nokkru suðaustan Sjávargötu, milli samnefndrar leiðar og Garðalindar og ofan mýrlendis, er á Túnakortinu 1918 tvískiptur kálgarður. Öðrum heimildum ber saman um að þarna sé hið gamla stæði Hóls, hjáleigu og þurrabúðar frá Görðum eða eins og segir í Örnefnalýsingu 1958: „Við mýrarjaðarinn er […] uppspretta, sem heitir Garðalind. Aðeins utar er Hóll.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 stóð hann „neðar en Sjávargata í Garðatúni […] niður undir Garðamýri og í Örnefnalýsingu 1976-77 er sagt svona frá: „Hér áður voru tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. Hét sá eystri Hóll, og voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé „vestan Garðakirkju“ rétt suðaustan við Sjávargötu, „ræktað tún allt í kring“. Þarna er „allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.“ Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggingaleifanna.
Skv. manntölum bjó í þessari hjáleigu grashúsmaðurinn Torfi Sveinsson a.m.k. á tímabilinu frá 1801 til 1816, lifði á jarðnyt og fiskveiðum og hafði 4-5 heimilismenn. Í Manntali 1845 eru skráð þar Hákon Þórleifsson, tómthúsmaður og fiskari, Gróa Þóroddsdóttir, hans kona, og Jón Þórleifsson, fiskari og „sjálfs sín“.
Hólsgarðar (garður)
Hóll og Hólsgarðar – loftmynd. Tóftir bæjar sjást lengst t.v.
Í bæjarstæði Hóls sýnir Túnakortið 1918 tvo samfasta kálgarða með hlöðnum veggjum og götuslóða á milli frá suðaustri til norðvesturs en skv. Örnefnalýsingu 1976-77 umgirtu þeir Hólsbæinn: „[…] voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ Þetta virðist mega lesa úr lýsingu við Fornleifaskráningu 1984: „Þarna er allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.“ Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggðaleifanna.
Óskarsbúð (býli)
Skv. Jarðabókinni 1703: Óskarbud. Tómthús. Stendur í Garðarstaðar landi og er uppbygð af Jakob Bang, sem síðar varð sýslumaður í Árness sýslu, fyrir …) árum eða þar um og bygð einnri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varning. Síðan hafa sjer eignarráð yfir búðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fiskiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, er þó í auðn. Afgift af búðinni meðan hún bygðist var engin að fráteknu mannsláni, en þar á mót var þessi búsetumaður skyldugur kauplaust til vöktunar og verkunar að taka að vertíðarlokum skipsábatana af kóngsskipunum sem þar gengu. Item að hýsa skipshafnirnar, so vel af kóngsskipunum sem hinum, er í Bessastaðamanna leyfi þar gengu, og fjekk hann af öllum þessum soðningarkaup og ekki framar. Þó segist að þá fiskiríið var í mesta máta og búðarmannsins ómak per conseqvens þess stærra hafi hann hjer fyrir utan hugnun nokkra þegið, einu sinni tíu álna virði eða þar um.
Eldiviðartak hafði þessi búðarmaður af mó í Dysjamýri þar nálægt án leyfi staðarhaldarans í Görðum. Um þessa búð er gömul controversia, standa Bessastaðamenn uppá margra ára brúkun, en staðarhaldararnir á Görðum meina þeir hafi þar ekkert eignarskjal fyrir.
Um kring búðina er valllendi, hvar úr tún nokkuð ræktast mætti ef lángvarandi hirðusemi á legðist, og kynni þá þetta hjáleigu ígildi að verða og ef sjer gefa hjer um hálft kýrfóður.
Skv. Jarðabók byggði Jakob Bang, síðar sýslumaður í Árnessýslu, verbúð eða tómthús í landi Garða, í valllendi nálægt Dysjamýri. Hún var uppistandandi árið 1703 en óbyggð og ekki er greint nánar frá staðsetningu.
Ekki er heldur minnst á tómthúsið í síðari heimildum. Búðin var kennd við Ósk, leigjanda Bang, sem „hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng.“ Síðar höfðu Bessastaðamenn útræði frá Óskarbúð og bar búðsetumanni kauplaust að taka skipsábata af kóngsskipum til vöktunar og verkunar og hýsa áhafnarmeðlimi allra skipa sem voru þar á vegum Bessastaða. Afgift af búðinni var auk þess eitt mannslán. Deilur voru um Óskarbúð milli Bessastaðamanna og staðarhaldara í Görðum sem sögðu þá vanta eignarskjal og sótti búðarfólkið í leyfisleysi mó í Dysjamýri.
Garðabúð (býli)
Leifar sjóbúðar frá Görðum.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða.
Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.
Garðavör (uppsátur)
Í Jarðabók 1703 segir: „Heimræði er árið um kríng og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer að nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var lendingin í Garðavör við Garðasjó, fjöruna sunnan Miðengisvarar. „Vörin var nokkuð mikil um sig, enda mikil útgerð oftast frá Görðum. Var ætíð talað um að róa eða lenda í Garðasjó, og sandhryggurinn eða sjávarkampurinn allt austur undir Bakka nefndur svo.“ Enn fremur er nefndur Garðagrandi en „svo var sjávarkampurinn stundum kallaður mest allur“ eða „frá Miðengi suður að Bakka“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 er Grandi við sjóinn framan við Garðamýri en tveir bæir niður við hana „vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata. Garðavör er neðan hennar, vestast á Granda.“
Garðalind (vatnsból)
Garðalind.
Garðalind er á Túnakortinu 1918 merkt inn beint suðvestur af Garðakirkjugarði þar sem túnið mætir mýrlendinu fyrir neðan, þ.e. Garðamýri.
Skv. Örnefnalýsingu 1958 er „við mýrarjaðarinn […] stór steinn, og hjá honum er uppspretta, sem heitir Garðalind.“ Í Örnefnaskrá 1964 er hún einnig nefnd Garðabrunnur: „Svo var aðalvatnsból hverfisins kallað. Lind með rennandi vatni góðu. Þar var brunnur grafinn undir stórum steini og hlaðinn upp með tröppum niður að vatninu. […] Þangað sótti allt hverfið vatn til fjóss og bæjar.“ Steinninn er kallaður Grettistak: „Mátti þar sjá fingraför Grettis er hann tók bjargið og færði í vegg brunnsins, lindarinnar.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Garðalind er niður undir Garðatjörn, beint niður af bænum í Görðum. Stór klettur er yfir lindinni. Er hann nefndur Grettistak. Tvær, þrjár tröppur eru ofan að vatninu í lindinni. Í Garðalind var sótt vatn frá mörgum bæjum í Garðahverfi og jafnvel öllum í miklum þurrkum. Aldrei þraut Garðalind, og þótti í henni bæði heilnæmt og gott vatn. Smálækur rennur frá lindinni.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er lindin beint niður af íbúðarhúsinu í Görðum, í vesturátt til sjávar, með grasbala ofan við upp að gamla kirkjugarðinum og blauta mýri framan við.
Kletturinn liggur yfir lindinni eins og lok eða þak en nafnið Grettistak mun frekar ungt. Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða árið 1820 lýsir séra Markús Magnússon þessu allnákvæmlega: „Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestssetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum svo að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú, eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann.“ Við þetta gerir Kålund eftirfarandi athugasemd 1877: „Samkvæmt fornleifaskýrslu (1820) fundust á Álftanesi nokkrar fornaldargrafir […] einnig brunnur í klettaskjóli, afgirtur“.
Garðalind.
Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: „Mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli, sem heitir Garðalind.“ Árið 1984 kemur vatnið enn undan þessu stóra bjargi sem skrásetjari kallar „framhlið vatnsbólsins en bárujárnsþak, þakið torfi hefur verið reist aftan við það […] Byggt hefur verið utan um vatnsbólið – hlaðið múrsteinum – ferhyrnt lítið [dælu]hús sem gengið er inn í um dyr að sunnan“, um 1,8 x 2 m að stærð og 1,2 m á hæð. Vatnsrásin sem einnig sést á Túnakortinu liggur líkt og áður í átt til sjávar en út í skurð og meðfram henni á um 4rra m kafla næst steininum eru hlaðnir veggir. Dæluhús og seinni tíma hleðslur hafa síðan hrunið utan af lindinni sem varðveist hefur óskemmd með klettinum yfir.
Í Fornleifaskýrslu um Garða 1820 segir séra Markús Magnússon: „Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. […] Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestssetursins, er 13 álnir að umfangi og 1 3/4 alin að hæð og liggur flatur.
Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann. Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja í sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að sjórinn hafi fyrrum gengið svo hátt sem kletturinn stendur nú, fremur en að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan, því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“ Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: „Hvorki blótsteina né Grettistök þekki ég hér, en einstakur steinn, mikill um sig, stendur fyrir vestan Garða, er sumir segja sé brimbarinn þeim megin, er veit frá sjó (hann er frá sjó meir en 100 faðma og 5-6 eða meir yfir sjávarborðið).“ Við Fornleifaskráningu 1984 er getið um „tvö björg“ vestur frá Görðum, um 18 m suðaustan Garðalindar, austan við Garðamýri og er tóft byggð utan í þeim, vestan megin. Þetta gæti verið kletturinn sem séra Markús nefnir.
Garðabrunngata (leið)
Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Garðabrunngata sem „lá upp með Kirkjugarðinum að austan heim á hlað“ eða „frá staðarhúsum niður til lindarinnar“. Hún sést ekki á Túnakorti.
Skóli (hús)
Á Túnakorti 1918 er skólahús beint vestur af Króki, nokkru utan Garðatúngarðs. Húsið er úr timbri og hefur stefnuna norðvestur-suðaustur. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ Þarna er nú samkomuhús.
Garðhús (býli)
Garðakot.
Á Túnakortinu 1918 má sjá byggingu vestan við Garðatraðir og Garðahlið rétt innan túngarðsins, líklega svo nefnd Garðhús. Í Örnefnalýsingu 1958 er talað um hól vestur af Görðum ofan götu en skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta „hjáleiga og þurrabúð“ upp við eða „vestan Garðahliðs“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Efst í Garðatúni, fast vestan við heimreiðina, eru gamlar tóftir af þurrabúðinni Garðhúsum.“
Fornleifaskráning fór fram 1984 og eru minjarnar neðan vegar rétt áður en kemur að „heimkeyrslu að Garðakirkju […] beint niður af spennistöð sem þarna er. „Þjóðvegurinn er beint upp af, tún niður af, að kirkjunni.“ Nokkru vestar kemur fram hluti af landamerkjagarði Garðalands og stefnir á Háteig. Tóftin er ferhyrnd, mjög greinileg og virðist niðurgrafin. Hún skiptist í tvennt, innanlengdin 7 m að skilveggnum og 11,7 m frá honum, innanbreiddin um 3 m og veggirnir 1,5 m á breidd. Tóftin er full af grjóti, hefur nokkurn veginn sömu stefnu og vegurinn og vísar sú langhlið sem fjær honum er í suðvestur að Garðatúni. Fram af henni er eins konar bakki, e.t.v. útlínur kálgarðsins sem þá er um 14 m breiður frá húsinu. Þetta kemur saman við Túnakortið sem sýnir aflangt torfhús með stefnuna norðvestur-suðaustur og áfastan kálgarð suðvestan megin.
Árið 1703 voru Garðhús skv. Jarðabók „hjáleiga fyrirsvarslaus“ í eigu Garðakirkju og bjó þar Guðmundur Einarsson með þrjá í heimili. Í Manntali 1801 var býlið kallað „húsmannspláss“ en þá hafði tekið við ábúð Stefán Þorsteinsson, jarðnæðislaus fiskari, og voru einnig hjá honum þrír í heimili. Í Manntali 1816 var þar húsmaðurinn Árni Magnússon með fjóra heimilismenn og 1845 Guðmundur Sveinsson með þrjá í heimili. Garðhús eru hvorki nefnd í síðari Jarðabókum né Fasteignabókum þegar kemur fram á 20. öld en Tryggvi Gunnarsson í Grjóta mundi eftir bæ á þessum stað.
Jarðardýrleiki var óviss í tíð Guðmundar Einarssonar en hann greiddi 35 álna landskuld með fiski í kaupstað og eitt leigukúgildi með smjöri. Séra Ólafur í Görðum uppyngdi það en hin eina kýr bóndans fóðraðist naumlega. Kvaðir voru mannslán árið um kring, dagsláttur, hrísshestur og hestlán. Bóndi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi Garða.
Garðhúsabrunnur (vatnsból)
Garðhúsabrunnur.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Garðhúsabrunnur „utan garðs rétt við Garðahlið. Allgott vatnsból, þar til sauður drapst þar í, var þá fyllt upp“. Brunnurinn sést ekki á Túnakorti.
Háteigur (býli)
Háteigur 1915.
Á Túnakortinu 1918 er bærinn í Háteigi beint norðvestan Garða, alveg upp við Garðatúngarð. Hann skiptist í fimm hús og er byggður úr steini. Girt er kringum tún hans en nokkru austar í því er hús sem gæti verið Ráðagerði. Byggingarefnið er skv. Fasteignabókum áfram hið sama 1932 en auk þess er nefnt timbur árin 1942-4 og húsið þá járnvarið. Í Örnefnalýsingu 1958 segir að Ráðagerði sé neðar en Gata og „Háteigur í líkri hæð, svo Miðengi neðan undan Háteigi.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 er Háteigur býli eða „hjáleiga frá Görðum litlu vestar en Ráðagerði“ og Háteigstún „nú sameinað Ráðagerðistúni“. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Býlið Háteigur er vestan Garða. Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó. Íbúðarhúsið stendur efst í túninu, rétt fyrir neðan garðinn“, þ.e. túngarðinn.
Háteigs er hvorki getið í jarðabókum né manntölum en var a.m.k. í eigu Garðakirkju 1932-44, metinn á 65-66 hundruð kr. Kúgildi voru tvö í byrjun tímabilsins og auk þeirra tíu sauðir og eitt hross en við lok þess átti jörðin fimm nautgripi og eitt hross. Túnið var um 1,5 ha fram um 1932 og heyafli 90 töðuhestburðir en 180 þegar nálgaðist miðja öldina, girt kringum það með görðum og girðingum. Norðvestan Háteigs voru Gata og Hlíð en nær sjónum Miðengi, suðaustan megin Ráðagerði og Garðar. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í byggð og nú eign Garðabæjar.
Háteigsbrunnur (vatnsból)
Rétt austan Háteigsbæjarins sýnir Túnakortið 1918 tvö hringlaga mannvirki sem gætu verið brunnar. Einhver punktalína liggur frá bænum framhjá þeim að Garðatúngarði en greinileg gata er þar ekki. Í Örnefnaskrá 1964 er þó minnst á Háteigshlið í garðinum.
Mýrarhús (býli)
Mýrarhús hét skv. Jarðabók „hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi“ sem var komin í eyði árið 1701 en hafði verið byggð í 60 ár eða lengur. 35 álna landskuld hafði goldist í fiski í kaupstað og eitt kúgildi í fiski eða smjöri til Garða. Grasnautnin fóðraði kúgildið en hana brúkaði síðan staðarhaldarinn. Hjáleigunnar er ekki getið í síðari heimildum og hefur e.t.v. ekki byggst aftur. Af nafninu að dæma hefur hún verið staðsett nálægt mýri, trúlega Garðamýri en þar nokkru sunnar en Sjávargata og Hóll er greinilegur tóftarhóll.
Skv. Jarðabókinni 1703: Mýrarhús, hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi, bygð yfir 60 ár eður lengur með xxxv álna landskuld, sem betalaðist í fiski í kaupstað. Kúgildi var eitt og guldust leigur heim til staðarins í smjöri eður fiski; nú hefur hjáleigan tvö ár í eyði legið og ekki fengist bygð, brúkar staðarhaldarinn grasnautnina, sem fóðraði eitt kúgildi meðan bygt var. Meinar prófasturinn aftur byggjast kunna ef staðarhaldarinn vill og fiskiríið batnar.
Tómthús (býli)
Í Manntali 1845 er Tómthús talið meðal býla í Garðahverfi en þar bjuggu Jón Jónsson „grashúsmaður, vitstola í 10 ár“, kona hans Katrín Eyjólfsdóttir og fjögur börn þeirra, Eyjúlfur, Erlendur, Jón og Ingveldur. Auk þeirra voru Ingunn Helgadóttir sem lifði „af handavinnu sinni“ og sonur hennar Ólafur Einarsson. Tómthús þetta er ekki nefnt í öðrum heimildum og hefur e.t.v einungis verið byggð í tíð þessara tveggja fjölskyldna. Nöfn húsfreyjunnar og elsta sonarins minna þó á fyrstu ábúendurna í Katrínarkoti sem hétu Katrín og Eyjólfur og gætu þar verið tengsl. Þar eð Katrínarkot á að hafa byggst á sama tíma og Tómthús birtist í Manntalinu vaknar sá grunur að um sama býli sé að ræða. Eðlilega hefur þá með tímanum verið farið að kenna það við húsfreyjuna sem hlýtur að hafa staðið ein fyrir öllum heimilisrekstri og búskap fyrst maður hennar var veikur. Það að Tómthús er í Manntalinu talið upp næst á eftir Hausastöðum en næst á undan Hausastaðakoti gæti bent til að það hafi verið staðsett í nágrenni þeirra eða á sömu slóðum og Katrínarkot. Á móti mælir hins vegar að Katrín og Eyjólfur í Katrínarkoti eru talin hafa verið hjón en ekki mæðgin eins og fólkið í Tómthúsi og því eru býlin skráð sitt í hvoru lagi.
Garðaviti (viti/skotbyrgi)
Garðaviti.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lugt.“ Örnefnaskrá 1964 bætir við: „Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.“
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu „uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi“, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring.
Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli.
Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f. 1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan „selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar“.
Höll (býli)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Höll „hjáleiga og þurrabúð“ frá Görðum og stóð bærinn „utan Garðs, ofan Garðahliðs“. Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóft hans sé svo til beint upp af Garðakirkju, „rétt eftir að kemur að vegamótum heim að henni, að norðan“. Allt í kring er grýtt holtið. Mundi Tryggvi Gunnarsson í Grjóta eftir því þegar búið var í þurrabúðinni. Þarna er garður og við norðausturhorn hans lítil aflöng tóft, grjóthlaðin og niðursokkin. Hún er um 6 m á lengd og 2,1 m á breidd, þykkt veggja um 0,5 m. Stefnan er suður-norður og virðist inngangurinn vera á suðurgafli.
Höll er hvorki nefnd í jarðabókum né manntölum.
Hallargerði (garður)
Hallargerði.
Í Örnefnaskrá 1964 er Hallargerði sagt liggja kringum Höll: „Svo hét gerði umhlaðið miklum grjótgarði norðan vegar […] garður af grjóti kringum bæinn“. Gerði sem teiknað var upp við Fornleifaskráningu 1984 er þó vestan við hústóftina. Þarna er ferhyrndur garður eða þurr grjóthleðsla, um 40,8 m á breidd og 18,2 m á lengd, veggir 1,8 m á breidd. Um 19 m frá austurendanum mótar fyrir yfirgróinni hleðslu, um 1,2 m á breidd, sem liggur þvert inn í garðinn.
Torfavarða (samgöngubót)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Garðaholti svo nefnd Torfavarða eða Torfaleiði „stór varða […] nokkru vestar en Völvuleiði […]“. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Á háholtinu, suðaustan við Garðaholtsveg […] er þúfa, sem kölluð er Völvuleiði. Torfavarða var gegnt Völvuleiði, hinum megin við veginn. Hún er nú horfin, en lítið hús stendur nú, þar sem hún var.“ Þetta er við stíginn sem lá frá Flatahrauni, fram hjá Völvuleiði að Garðatúngarðshliði.
Torfavarða hefur líklega þjónað sem vegvísir við gamla stíginn en þegar hann hætti að gegna hlutverki hefur vörðunni ekki lengur verið haldið við og kann nafn hennar þá að hafa breyst í Torfaleiði með áhrifsbreytingu til líkinda við
Völvuleiði.
Skotbyrgi (stríðsminjar)
Garðaholt – Camp Tilloi og Camp Gardar. Skotbyrgi.
Skv. Fornleifaskráningu 1984 var aðalloftvarnarbyrgi Breta á stríðsárunum hæst á hæðinni, þ.e. í Garðaholtsenda, og mjög grýtt allt í kring. „Nú stendur hús á staðnum og sér engin merki umsvifa Bretanna“.
Skv. Fornleifaskráningu 1984 eru tvö samtengd skotbyrgi ofan Garðakirkju, í austurbrún Garðaholts, beint út frá útsýnisskífu, grýtt holtið allt í kring. Þetta eru ferhyrnd steinsteypt byrgi, 2 x 3 m að stærð. Á 18 m bili milli þeirra hlykkjast grjóthlaðin skotgröf eins og göng, um 1 m á breidd og 0,80-1 m á dýpt. Hún liggur suður út frá vestra byrginu, beygir til austurs, bugðast upp að og austur fyrir eystra byrgið og sveigir svo suður meðfram brún lítils klettabeltis. Útsýni er úr byrgjunum til norðurs, aðallega út á Álftanes.
Mæðgnadys (legstaður)
Mæðgnadys.
Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: „Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu norðan Torfavörðu. Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]“.
Garðagata (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata „frá Garðahliði norður holtið hjá Prestahól í Stekkinn“, þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, „klapparhóll litlu norðar en Prestahóll, rétt við Garðagötu“. Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra eftir um 250 m.
Hvíldarklettar (áningastaður)
Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Hvíldarklettar „grágrýtisklappir upp frá Álamýri. Austan Hausastaða.“ Þeir eru ekki langt frá Garðaveg og hafa e.t.v. verið áningastaður.
Garðastekkur (rétt)
Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Í Örnefnalýsingu 1958 er Garðastekkur sagður vera norðaustan Presthóls, „niður við hraun“. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hann „í hraunbrún Gálgahrauns miðs vegar milli Garðaholtsenda og Lambhúsatjarnar […] spölkorn niður frá vegamótum. Þar eru hleðslur og tættur gamla stekksins.“ Við hann eru kennd Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ Kristján Eldjárn skoðaði svo minjarnar og lýsti þeim árið 1978: „Beint austur af [Presthól], við jaðar Gálgahrauns, heitir Stekkur og er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti. Vafalítið mun hafa verið þarna stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis.
Garðastekkur.
Talsverðar minjar er enn að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. En rétt fyrir norðan réttina er grasivaxin tóft, um 10 m löng og 4-5 m breið. Ekki er skynsamlegt að fullyrða hvað þetta er, en sennilega eru öll þessi gömlu ummerki á einhvern hátt tengd stekkjarlífinu. Mikill graslubbi torveldar að gera sér grein fyrir rústunum. Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt. Heim að Görðum er hæfilegur stekkjarvegur og staðurinn er upplagður sem stekkjarstæði.“ Kristján rissaði upp réttina, hugsanlegar stekkjarleifar og tóft en suðurveggur hennar liggur nokkurn veginn samhliða norðurvegg réttarinnar. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta um 350 m í norðaustur frá Bessastaðaveg. Þarna er ræktað tún sunnan undir hraunbrúninni, tveir túnbleðlar, og rústirnar þar upp við hraunið. Í vestsuðvestur sést lítill grýttur hóll. Um 10 m eru milli réttarinnar og tóftarinnar en hún er í vestari túnblettinum. Tóftin er skýr þótt hún sé grasi vaxin en lögunin ógreinileg. Hún mælist 10,1 m á lengd og 5,2 á breidd, veggirnir um 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Skrásetjari giskar á að þarna hafi verið fjárkofi. Aftur fór svo fram Fornleifakönnun 1999 og segir þá að í krikanum sem myndast vestan við réttina sé „grasi gróin tóft, 10 x 4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Tóftin hefur stefnuna norðvestur-suðaustur.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u. þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg.
Garðastekkur.
Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ Eftir að hafa sagt frá stekknum segir Kristján Eldjárn 1978 að þarna í stekkjarstæðinu séu enn „talsverðar minjar […] að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum [nr. 56], heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni.
Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta „vel hlaðin rétt, skiptist í 4 megin hólf – 1 „safn“ og 3 hólf […] hlaðin úr hvössu grjótinu úr Gálgahrauninu“. Veggir eru 0,3-1 m á breidd og 0,5-1 m á hæð. Við Fornleifakönnun 1999 segir svo: „Grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. […] Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19 x 6 m og er aðeins gengt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnan við. Þau eru bæði um 5 x 5 m með dyr á suðurvegg.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“ Um það segir Kristján Eldjárn árið 1978: „[…] er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti […] stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring.
Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin.
Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt.“ Við Fornleifakönnun 1991 segir: „Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp og er enn notað. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá þessari öld […] Fjær eru stórgrýttir flagmóar.“
Fjárborg við Garðastekk.
Í Minnispunktum úr skoðunarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: „Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.“ Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera „á hrauntá í jaðri Gálgahrauns“ um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðaveg. Rústin er mjög skýr, „hringlaga eða réttur hringur að utanmáli“, um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið.
Skv. Fornleifakönnun 1999 eru um 200 m norðan við Garðastekk hugsanlegar „leifar af eldri stekk […] gömul hleðsla í hraunbrúninni […]“, þ.e. nánar tiltekið „þar sem gamla þjóðleiðin [Fógetastígur] kemur niður úr Gálgahrauni að vestan […] utan í hraunkantinum norðan við götuna […] vallgróinn hvammur næst, fjær eru flagmóar. Hleðslan er 3 m löng, einföld hraungrýtishleðsla, hvergi meir en tvö umför. Austan við hana er vallgróin hvilft upp í hraunbrúnina og er sokkin grjóthrúga um 16 m austar sem gæti hafa verið á móti hleðslunni. Á milli er óreglulegur þúfnarimi sem gæti verið yfirgróin vegghleðsla. Hefur verið einhvers konar rétt eða aðhald, mögulega stekkur.“
Gálgaklettar (aftökustaður)
Gálgaklettar.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Austan við holtið og veginn tekur við hraun, sem nefnt er Garðahraun, og heitir nyrzti hluti þess Gálgahraun. Það liggur norður að Lambhúsatjörn. […] Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga.“ Hraunið og klettarnir eru nefndir í Örnefnaskrá 1964: „Gálgahraun: Svo hét allur nyrsti hluti Garðahrauns, frá Gálgahraunsstígnum syðri allt út að Lambhúsatjörn. […] Gálgaklettar: Í miðju Gálgahrauni niður undir Lambhúsatjörn voru þrjár allháar klettasnasir, sem svo hétu. Þar var til forna aftökustaður frá Bessastöðum. Djúpar skorir voru milli klettanna, þar voru sakamenn dysjaðir. Þar hafa bein fundist. […] Stóri-Gálgi: Vestari klettarnir tveir voru kallaðir svo. […] Litli-Gálgi: Austan við stærsta klettinn var minni klettur. Við þessa kletta var Litli-Gálgi kenndur.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir svo: „Skammt austur frá Hraundröngum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirra var lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessir klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun. Klettur milli Hrauntanga og Gálga er nefndur Litli-Gálgi.“
Við Fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé í úfnum norðvesturhluta Gálgahrauns, um 650 m í norðnorðvestur frá fjárborginni og um 10 m yfir sjávarmáli: „Klofinn hraunklettur – 2 m bil þar sem mest er – á milli gjábarma.“ Gálgaklettar eru þó fjarri þingstað sveitarinnar í Kópavogi og heimildir eru ekki þekktar frá fyrri öldum um aftökur á þessum stað.
Tóft (hús)
Tóftin við Eskines.
Í endurminningum sínum frá 1968 segir Ólafur Þorvaldsson: „Hrauntanga þann, sem gengur fram í sjó, milli Arnarnesvogs og Lambhúsatjarnar, hef ég frá æskuárum heyrt nefndan „Eskineseyrar“ og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt enginn viti nú, af hverju dregið er.“ Síðan segir hann frá kofarúst í hraunjaðrinum upp af Eskineseyrum: „Sögu þessa tóttarbrots hef ég frá fólki, sem mundi byggingu hennar og tildrög. – Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870 að honum kom til hugar, hvort ekki mundi kleift að rækta æðarvarp á Eskineseyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnugur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum, og hvort tveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg og natni og kunnátta viðhöfð.
Tóft af hænsnakofa við Eskines.
Þar eð Garðakirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skammt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun séra Þórarinn hafa talið ómaksvert að reyna, hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét því ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir, og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var, að hænsn lokkuðu fuglinn að með vappi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefur víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Skammt fyrir innan Gálga byrja Vatnagarðar, en svo heitir hraunið með Lambhúsatjörn. […] Nokkru fyrir austan þá eru Eskineseyrar svokallaðar. Í hraunjaðrinum fyrir ofan Eskineseyrar byggði séra Þórarinn í Görðum kofa, er hann hugðist koma sér þar upp æðarvarpi. Rústir kofans sjást enn. Eskineseyrar ganga til austurs út í Arnarnesvog. […] Á Eskineseyrum er fjörumór.“ Skv. Fornleifakönnun 1999 er kofinn í gjá ofan við Eskines. Séra Þórarinn (f. 1825) var prestur í Görðum á tímabilinu 1868-95.
Móslóði (leið)
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Stígur úr Garðahverfi lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. […] Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. […] Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar.“ Við Fornleifakönnun 1999 segir: „Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin […] sem lá norðar.“
Álftanesgata (leið)
Götur í og við Garðahraun.
Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Gálgahraunsstígur nyrðri: „Stígur þessi lá yfir Gálgahraun rétt fyrir sunnan Hrauntangaflöt yfir í Hraunsholt við Hraunsvík.“ Við stíginn var útsýnisklettur, „Stóri-skyggnir: Klettur austarlega í Gálgahrauni suður frá Gálga, sunnan við Gálgahraunsstíg.“ En Litli-Skyggnir hét „annar klettur minni á Gálgahrauni sunnan Stóra-Skyggnis.“ Þarna er verið að lýsa hluta hinnar fornu þjóðleiðar frá Álftanesi inn til Reykjavíkur en hún nefndist einnig Fógetastígur. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann […] Móslóði. Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur. Skammt frá Skyggni var síðasta birkihríslan í Garðahrauni. Stóð hún af sér ágang manna og dýra fram undir 1940.“ Kristján Eldjárn skoðaði svo götuna árið 1979: „Alfaraleið hefur áður fyrri verið yfir Gálgahruan, frá Bessastöðum (eða Álftanesi) og til Arnarnesvogs og svo áfram til Kópavogs og Reykjavíkur. Hér er aðeins verið að tala um vegarspottann yfir Gálgahraun. Hann lést enn mjög greinilega og er ekki líklegur til að hverfa, þó að tímar líði. Vestan hraunsins er auðvelt að greina hina gömlu götuslóð, þó að tímans tönn hafi nokkuð svo máð yfirbragð þeirra, og síðan sveiflar gatan sér upp á hraunið, þar sem vel hefur þótt haga til, og er frá þeim stað ekki nema snertispölur að stekkjarstæðinu og réttinni sem hér er í hraunjaðri. Eins og aðrar hraunslóðir hlykkjar gatan sig þvert yfir hraunið, eftir því sem best hefur þótt henta, sneiðir hjá grófustu svæðunum og lætur sig ekki muna um útúrdúra til þess að sem sléttast sé undir og helst grasi vaxið. Alls staðar er þó grunnt á grjótinu og víða stendur hraunið upp úr, en athyglisvert er að hvergi er mjög áberandi að mörkuð sé gatan í helluna undan hestahófum, aðeins eins og lítið eitt slípað; kannski er hraunið nokkuð hart.
Að innanverðu kemur gatan út úr hrauninu niðri undir sjó, þar sem Arnarnesvogur teygir innsta eða vestasta anga sinn lengst inn í landið, og er lítill vandi að komast þaðan í skarðið sem er upphaf götunnar þarna megin.
Álftanesgata.
Gata þessi er merkileg, meðal annars fyrir það hve skýrt hún er mörkuð nú eins og nokkuð djúpur grasi gróinn skorningur. Maður undrast hvers vegna hún er svona djúp. Helst er að sjá að menn hafi hjálpað upp á hana heilmikið, en ekki að hún sé grafin af hestahófum einum saman. En hún er nú eflaust þrengri að sjá nú en hún hefur verið. Eins og kunnugt er, er Gálgahraun friðlýst, svo hér ekki hætta á ferð.“
Garðahraun – götur: ósá
Götunni var einnig lýst nákvæmlega við Fornleifakönnun 1999 vegna fyrirhugaðra breytinga á veginum milli Engidals og Selskarðs: „Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m beint vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m.
Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við“ hleðslu sem mögulega er af gömlum stekk. „Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður.
Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk […] og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. […] Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.“
Krókur (býli)
Krókur.
Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð og er girt kringum tún býlisins. Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var Krókur „hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt“.
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt upp við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðaholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).“
Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu og garði. Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar, timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4.Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30.
Krókur.
Í Manntali árið 1801 er Krókur kallaður „húsmannspláss“ en þar bjuggu þá tvær jarðnæðislausar útgerðarfjölskyldur: hjónin Árni Einarson og Ólöf Torfadóttir ásamt Unu Ögmundsdóttur, frændkonu mannsins, og hjónin Þórður Jónsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir ásamt Steinunni Jónsdóttur, fátæku barni. Þegar Manntal var tekið 1816 voru þau fyrrnefndu flutt en þau síðarnefndu bjuggu enn á jörðinni. Þórður hafði fengið titilinn „kirkjuforsöngvari“, Steinunn var orðin vinnukona á heimilinu og í fjölskylduna hafði bæst dóttirin Guðríður og fóstursynirnir Jón og Jakob. 29 árum síðar voru þau öll farin og hjónin Þorvarður Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir flutt úr grasbýli sínu á Hausastöðum í Krók en honum fylgdi einnig grasnyt. Hjá þeim voru Þorvarður 23 ára sonur og Ólöf 12 ára fósturdóttir. Býlið er ekki nefnt í Jarðatali 1847 en hins vegar í Jarðabók 1861. Það var í eigu Garðakirkju fram um miðja 20. öld. Árið 1934 fluttust hjónin Vilmundur Gíslason og Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir í Krók og bjó hún þar til 1986, þá orðin 87 ára gömul. Síðan stóð bærinn mannlaus en 1990 gáfu afkomendur þessara síðustu ábúenda húsið ásamt innbúi til Garðabæjar og stendur nú yfir viðgerð.
Árið 1861 var jörðin talin 5 ný hundruð en 1932 var hún metin á 17 hundruð kr. Kúgildi voru tvö, úr 1500 m² matjurtagarði fengust 12 tunnur og af 1 ha túni 36 hestburðir af töðu. 1942-4 hafði matsverð jarðarinnar hækkað í 29 hundruð kr., auk kúgildanna voru 8 sauðir og eitt hross, garðurinn gaf af sér 15 tunnur og túnið 58 töðuhestburði. Hlunnindi voru hrognkelsaveiði, útræði, mótak og ýmislegt fleira en í Örnefnalýsingu segir frá Birni bónda í Króki sem var þar fram um 1917: „einn þeirra, sem sótti þang til eldiviðar í Lambhúsatjörn, og mun hafa verið sá síðasti, sem það gerði. Taldi hann þangið úr Lambhúsatjörn betri eldivið en þangið úr fjörunni í Garðahverfinu. Bar hann allt heim á sjálfum sér, því hest átti hann ekki.“
Króksbrunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 liggur gata milli bæjarstæðis Garða og hjáleigunnar Króks, e.t.v. hluti Króksbrunngötu sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: „Lá neðan frá Garðalind heim að Króki.“ Seinni spottinn sem ekki er sýndur á kortinu væri þá í raun samur og Garðabrunngata.
Króksbrunnur (vatnsból)
Króksbrunnur.
Króksbrunnur var neðan Króks og Nýjabæjar.
Gálgahraunsstígur syðri (leið)
Gálgahraunsstígurinn syðri.
Skv. Örnefnaskrá 1964 tók Gálgahraunsstígur syðri við þar sem Dysjabrú sleppti. Hann lá austur frá Mónefi upp á Flatahraun við Hvítaflöt nokkru norðar, framhjá Oddsnefi og Bakkastekksnefi í hraunjaðrinum og um Gatnamót yfir í Engidal: „Flatahraun: Svo hét hraunið við Garðaholtsendann allt austur í Engidal. Um það lá Gálgahraunsstígur syðri […] sunnan við Ófeigskirkju í Engidalshornið.“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir nánar: „Hvítaflöt er gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á hraunið. Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath. G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef.“ Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið en í miklum leysingum fóru þeir frekar Kirkjustíg síðasta spölinn.
Ófeigskirkja (huldufólksbústaður?)
Meint Ófeigskirkja í Garðahrauni.
Ófeigskirkja (steinn): „Ófeigskirkja nefndist klettur sem brotinn var þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færst á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var kletturinn austarlega á Flatahrauninu, norðan við
Gálgahraunsstíg syðra. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir svo: „Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesvegin.
Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann.“
Dysjabrú (leið)
Garðavegur og gamla sjávargatan að Görðum.
Skv. Örnefnaskrá 1964 náði Dysjamýri frá Garðatúngarði austur að Garðahrauni, frá Dysjamöl og Balatjörn upp að Garðaholti, en norðan við Bala er Mónef, „hraunsnef lítið […] utan í þessu nefi má enn sjá gamalt vegspottabrot. Þar var vegabót til að auðvelda mönnum leið að Garðakirkju.“ Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét vegur sá „er lá af Mónefi norður yfir mýrina upp í holtið“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts. […] Áður lá vegur af Mónefi yfir Dysjamýri. Hann var nefndur Dysjabrú.“ Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið og var hún oftast nefnd brú eða brúin. Í lýsingu á kirkjuferð til garða árið 1891 segir Ólafur Þorvaldsson þingvörður veginn yfir mýrina hafa verið allgóðan yfirferðar í þurru á sumrin en botnlaus aurbleyta í votviðrum, einkum þó þegar frost fór að leysa úr jörðu.
Þegar svo var fóru menn frekar Kirkjustíg. Framhald Dysjabrúar í átt að Hafnarfirði lá meðfram hraunjaðrinum um Gatnamót.
Gatnamót (leið)
Í Örnefnaskrá 1964 eru Gatnamót sögð vera vestast við Garðaholtsenda. „Þar kom troðningur frá Hafnarfirði, troðningur Kirkjustígs frá Urriðakoti, og Setbergi. Þaðan lágu stígar að Garðahliði út á Álftanes, og þaðan lá Gálgahraunsstígurinn syðri yfir í Engidalsgötur.“
Kirkjustígur (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Kirkjustígur „af Vegamótum eftir holtsendanum vestur eftir holtinu að Garðahliði og heim að Görðum.“ Þegar Dysjabrú var ófær vegna frostleysinga fóru menn frekar Kirkjustíg.
Bakki (býli)
Bakki.
Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477 , hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn. Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn nokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur bóndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prestshjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu einn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili. Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var „sjálfrar sinnar“. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign, hún er nefnd í Jarðabók 1861 og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932. 1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni og í dag liggur hún undir Pálshús.
Lóðarsteinn við Bakka.
Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er „fast vestan við Bakkahrygg […]“ en hann liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist. Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru „hrognkelsaveiðar miklar“ í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr. Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Skv. Jarðabókinni 1703: Backe. Kallast lögbýli því það hefur fult fyrirsvar, en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða so sem aðrar hjáleigurnar í hverfinu.
Jarðardýrleikinn er óviss. Eigandinn er Garðakirkja. Ábúandi Jón Petursson.
Tóft við Bakka.
Landskuld lxxx álnir. Betalast með iii vættum fiska og vallarslætti á kýrfóðurs velli eins og á Dysjum. Bóndinn fæðir verkamenn og hefur þar fyrir kvittar tíu álnir af leigunum.
Við til húsabótar leggur ábúandi með styrk hússbóndans.
Leigukúgildi i. Leigur betalast hálfar með smjöri eður fiski til staðarhaldarans, en hálfar falla niður sem sagt er. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru dagsláttur, gjörist in natura. Hrísshestur er sækist í kirkjunnar skógarland so lengi það varir, síðan kannske í almenning ef þar er þá nokkuð. Hestlán uppá sama máta sem skrifað er um Dysjar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, iiii ær, i sauður tvævetur, vii veturgamlir, lömb iii, gimbrar x, i hestar, ii hross. Fóðrast kann iii kýr. Heimilismenn v.
Heimræði er þar árið um kring og lending brúkanleg, kunna og inntökuskip að vera ef vill og voru þá vel fiskaðist. Sölvifjara hefur til forna verið, en nú eyðilögð af ísi og of mikilli fjárbeit.
Hrognkelsfjara nokkur.
Fjörugrös í minna lagi, þó að gagni. Eldivið af mó sker ábúandinn í Dysjamýri, item brennir þönglum þá við liggur.
Túnið spillist stórlega af sjó, sem það brýtur og sand á ber; hefur þetta smám saman ágjörst so að menn segja að bærinn hafi þess vegna þrisvar frá sjónum fluttur verið og sýnist að túnið mestan part muni með tíðinni undir gánga.
Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þar í hverfinu). Var þá landskuldin á Bakka fjórar vættir og vallarslátturinn að auki.
Leigukúgildi voru þar tvö og mannslán um vertíð fyrir utan þær nefndu kvaðir.
Mýrin tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt það eina kúgildið og mannslánið.
Skotbyrgi (stríðsminjar)
Leifar skotbyrgis neðan Bakka.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.“ Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja „en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.“
Býli (býli)
Við sjávarkambinn vestan við bæjarstæðið á Bakka var skv. Túnakorti 1918 „þurrabýli og tún þar fyrir neðan, brotið á dögum núlifandi manna“. Þetta hefur verið við Bakkabryggju sem lá suðvestur út frá jörðinni.
Staðsetningarinnar vegna virðist ekki út í hött að tengja þetta ónafngreinda býli hafnsögumanninum í Garðahverfi en einn slíkur, hinn þrítugi Jón „lóðs“ var á Bakka þegar Manntal var tekið árið 1845. Bústaður hans er ekki nákvæmlega tilgreindur en hann ólst upp á næsta bæ, sonur ábúenda í Pálshúsum, Höskulds Þorsteinssonar og Kristrúnar Guðlaugsdóttur. Jón var giftur Þóru Sigurðardóttur og áttu þau tvær dætur sem báðar hétu Sigríður. Þess má svo minnast að kletturinn Þórarinn fram af Bakkabryggju og Dysjabryggju var ysta skerið við innsiglingu til Hafnarfjarðar gegnt Helgaskeri.
Bakkastekkur (stekkur)
Bakkastekkur.
Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norður frá Bala er hraunsnef lítið“, Mónef. „Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er“ Hvítaflöt, „vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina“, Oddsnef eða Hraunsnef. „Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum“, Bakkastekksnef, „Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri (185-70) en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á“ Garðahraun. „Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkstekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs „í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri“. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu.
Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan (í austur 95°) er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Dysjar (býli)
Dysjar.
Dysjar eru nefndar meðal Garðakirkjujarða í máldögum þegar árin 1397 og 1477, í Jarðaskrá kirkjunnar 1565 með ábúandann Jón Markússon og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók Árna og Páls var þetta lögbýli í eigu Garða og árið 1703 bjó ekkjan Valgerður Nikulásdóttir á hálfri jörðinni með sex manns í heimili. Hinn helmingurinn var ábúandalaus um nokkurt skeið og hafði séra Ólafur í Görðum af honum nytjar en af Manntali má sjá að Ásmundur Gissurarson flutti þangað sama ár ásamt kvinnu sinni Hildi Guðmundsdóttur og 11 ára sveitarómaga. Bændur með jarðnyt voru einnig tveir árið 1801, Jón Þorsteinsson og Hans Ormsson hreppstjóri, og hafa búið á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum sem var stærri bærinn. Jón var giftur Iðunni Jónsdóttur og bjuggu hjá þeim 22 ára dóttir, Guðrún, og Guðbrandur Hannesson vinnumaður.
Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.
Hreppstjórafrúin Vigdís Jónsdóttir var ljósmóðir að atvinnu. Heimilismenn voru 12 og meðal vinnumanna Narfi Jónsson, trúlega sonur hjóna í einu tómthúsi jarðarinnar, Jóns Narfasonar og Solveigar Hannesdóttur. Jarðnæðislaus eins og þau var einnig nafni hreppstjórans Arnórsson, titlaður húsmaður og fiskari og átti heimili ásamt konu sinni og föður. Fyrir fimmta býlinu var loks handverkskonan og ekkjan Ragnheiður Jónsdóttir sem bjó ásamt móður sinni og 82 ára gömlum húsmanni. Einhver af þessum fjölskyldum hefur væntanlega haldið til í hjáleigunni Dysjakoti en aðrar þurrabúðir eru ekki nafngreindar á Dysjum. Í Manntal 1816 var fólkið flutt og ekki vitað hvert nema hvað Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Dysjum giftist Bjarna Sveinssyni húsmanni í Sjávargötu. Jónar tveir höfðu hins vegar tekið við ábúð í Dysjum, bókbindari með konu og þrjú börn sem fyrir tilviljun var alnafni fyrri ábúanda, og svo Þorgrímsson nokkur með sjö í heimili, þeirra á meðal mæðgurnar Herdís Símonsdóttir húskona og Ástríður Jónsdóttir, rétt komin yfir tvítugt. 28 ára gamall sonur húsbóndans, Gamalíel, mun síðar hafa flust í áðurnefnda hjáleigu. Í Manntali 1845 hafði aftur fjölgað á jörðinni en þá var í Vestur-Dysjar kominn Erlendur Halldórsson, þrítugur bóndi og fiskari með konu og þrjú börn, að líkindum sonur Halldórs Erlendssonar í Hlíð. Sjötti heimilismaður hans var Pétur gamli Jónsson sem var á sveitinni. Vigfús Hjörtsson á hinum Dysjabænum hafði sjö í heimili og bjó þar áfram Ástríður, dóttir Herdísar, ekkja og sjálf komin með titilinn húskona og lifði á handiðn. Með henni var fimmtán ára gömul dóttir, Guðrún. Þá voru tómthúsmennirnir þrír, Þórvaldur Sæmundsson með konu og barn, Sigvaldi Árnason með konu og Guðmundur Gíslason með vinnukonu og barn. Loks bjó á jörðinni Ólafur Bjarnason smiður og hafði níu í heimili. Þegar Jarðatal var tekið 1847 voru Dysjar enn í eigu kirkjunnar og ábúendur tveir. Þær eru nefndar í Jarðabók 1861 og voru áfram kirkjueign skv. Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4. Dysjar eru skv. Fasteignamati ríkisins enn í ábúð og skráður eigandi Úlfhildur Kristjánsdóttir.
Dysjar.
Árið 1565 galt Jón Markússon í landskuld þrjár vættir fiska, mannslán og vallarslátt, jörðinni fylgdu tvö kúgildi og bóndi hafði eins dags sölvatekju í landi staðarins. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld orðin hundrað álnir sem guldust með fjórum fiskavættum í kaupstað og vallarslætti. Kúgildi var eitt á jörðinni og borgaði Valgerður það hálft með fæði til vallarsláttarmanna en auk þess með fiski eða smjöri til staðarhaldara sem bar að uppyngja það. Kvaðir á hvern ábúanda voru dagsláttur, hríshestur og hestlán. Í bústofninum voru tvær kýr en fóðrast kunnu þrjár. Heimræði var allt árið og uppsátur í Dysjavör. Jarðardýrleiki var enn óviss 1847 en landskuld hafði lækkað í 80 álnir. Kúgildið var sem áður eitt. 1861 taldist jörðin 11,5 ný hundruð. 1932 var verðið 37 hundruð kr. fyrir Vestur-Dysjar og 51 hundruð fyrir Austur-Dysjar. Fyrrnefnda bænum fylgdu tvö kúgildi og 20 sauðir, þeim síðarnefnda þrjú kúgildi og 30 sauðir og einn hestur hvorum. Matjurtagarðar sem við gerð Túnakorts 1918 voru 900 m² á Vestur-Dysjum og 1100 m² á Austur-Dysjum höfðu minnkað í 480 m² vestan megin en stækkað í 1220 m² austan megin og fengust árlega úr þeim tíu og átján tunnur garðávaxta. Jörðin hafði útræði og hrognkelsaveiði hefur verið í Dysjaþara af Dysjabryggju. Árin 1942-4 eru aðeins nefndar Austur-Dysjar og var fasteignamat þeirra orðið alls 61 hundruð kr. Nautgripir voru fjórir, sauðirnir jafn margir og áður og hesturinn einn. Úr görðunum fengust um 24 tunnur og auk fyrri hlunninda nefnd mótekja.
Túnið skiptist í Dysja-Vesturbæjartún sem skv. Túnakortinu var 1,2 ha og Dysja-Austurbæjartún sem var 2,1 ha, þ.e. „allstórt“ eins og segir í Örnefnaskrá 1964 en þar eru sérstaklega nefndir nokkrir túnskikar: Hólsflöt ofan bæjanna og Minkaflöt austarlega, kennd við minkabú sem þar var í eina tíð. Brúarflatir þrjár sem urðu til eftir að Dysjamýri var ræst fram og ræktuð og liggja meðfram henni og eru kenndar við mýrarveginn Dysjabrú og neðan þeirra er loks nýræktin Dýjaflöt. Frá túnunum er einnig sagt í Örnefnalýsingu 1976-7: „Austan bæjar á Dysjum er túnið sundurskorið af skurðum og teygist upp í Dysjamýrina. Næst bænum er Gerði, þá er Hólsflöt og síðan Minkaflöt. Þar ól Guðmann [Magnússon] eitt sinn minka. Þá er Dýjaflöt og þar fyrir austan Brúarflatir, þrjár flatir, aðgreindar með skurðum, og liggja þær að veginum. Allar þessar flatir hafa verið skírðar í seinni tíð, enda ekki svo langt síðan þær hafa verið ræktaðar.“ Norðan í túninu var svo Dysjakot sem öðru nafni hét Gamlakot og kallaðist þar Dysjakotsvöllur eða Gamlakotsvöllur. Dysjatún var að mestu umgirt garði.
Þetta er syðsta jörðin í Garðahverfi og voru Bakki og Pálshús að vestan og norðan. Austar var jörðin Bali og nefndist vestasti hluti Balamalar Dysjamöl. Að norðaustan var Dysjamýri og við sjóinn suðvestan megin neðan bæjanna hétu Dysjafjörur.
Skv. Túnakortinu heita Dysjar öðru nafni Desjar. Við Fornleifaskráningu 1984 taldi heimildakona skrásetjara nafnið komið frá Völvudys en hún er hins vegar í Miðengislandi. Á Túnakorti er athugasemd um þetta í tengslum við landbrot við Dysjar af völdum sjávar: „Hér munu og hafa brotnað upp síðan í fornöld engjar miklar. – Og líklegra að býlin séu kend við des: (hey) en við dys (dauðra) þar á röku láglendinu.“
Dysjar 2013.
Skv. Jarðabókinni 1703: Dysiar. Lögbýli kallað því það hefur fullkmið fyrirsvar sem aðrar sveitarjarðir, en stendur þó í óskiftu Garðarstaðarlandi og samtýniss við Garða, nema hvað túnið alleina er afdeilt.
Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er Garðastaður.
Ábúandinn á hálfri er ekkjan Valgerður Nichulásdóttir; en hálfa jörðina lætur staðarhaldarinn, prófasturinn Sr. Ólafur brúka fyrir þá orðsök að ei hefur bygða fengið þetta næsta ár.
Landskuld af allri jörðunni er ll álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað og vallarslætti á kýrfóðurs velli, sem að sje fjörutíu málfaðmar í hvört horn ferskeytt, og fæðir bóndinn verkmennina sjálfur og hefur fyrir það fæði hálfa kúgildiss leigu kvitta. Áður var hjer iii vætta landskuld og þessi vallarsláttur, sem reiknast tuttugu álnir, þá fylgdi og mannslán um vertíð til staðarhaldarans, so sem kvöð, en nú er sú kvöð af og í þann stað aftur komin hin fjórða vætt fiska í landskuldina. Við til húsabótar leggja ábúendur.
Leigukúgildi er i með allri jörðinni, og hefur Valgerður það nú til byggingar. Leigur hálfar betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans, en hálfar falla niður fyrir fæði vallarsláttarmanna sem áður segir. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru dagslættir tveir ef tveir búa á en einn ella. Item hrísshestar tveir ef tveir á búa, annars einn, og hestlán tvö ef tveir á búa en einn ella, og brúkast til að færa heim eldivið, til ferða innsveitiss eður þvílíks annars um einn dag eður tvo og ekki fremur. Kvikfjenaður ii kýr. Fóðrast kann iii kýr á allri jörðunni.
Heimilissmenn hjá Valgerði vi. Heimræði er hjer árið um kring og lending góð, varir stórar nóg so inntökuskip mætti gánga, og heyrir þá sú undirgift leiguliða til.
Túnunum spillir sjáfarágángur.
Vestur-Dysjar (býli)
Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).
Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skv. Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í Örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir „lítið eitt aðgreindir fram um 1900“. Í Örnefnalýsingu frá 1976-7 segir: „Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er. Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]“. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar Fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en „hleðslugrjót sést í bakkanum“.
Skv. Túnakortinu 1918 er eystri bærinn, Austur-Dysjar eða Dysjar-Austurbær, ögn stærri er sá vestari. Hann skiptist í fjögur hólf og hefur stefnuna suðvestur-norðaustur. Byggingarefnið virðist vera torf en skv. Fasteignabókum var þar komið timburhús árið 1932 og járnvarið 1942-4.
Bæirnir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar Fornleifaskráning fór fram 1984 en annar þeirra, líklega Austurbærinn var beint norðvestan fjóss og hlöðu sem fundust, milli þeirra „og útihúss sem þarna er nú“.
Dysjabrunnur (vatnsból)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Dysjabrunnur „austan bæjanna […] í mýrlendri flöt“. Brunnurinn sést ekki á Túnakortinu 1918 en þar er hins vegar „pollur“ á þessum slóðum í Dysjatúni og nokkru austar byrjar „mýri“.
Dysjakot/Gamlakot (býli)
Garðahverfi – fornleifar.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Syðsta jörðin og næst sjó er Dysjar. Þar ofan túns var býli, sem nefnt er nú Gamlakot. Nú er þar kálgarður, og þar sem vegurinn liggur heim, er stykki í túni, sem heitir Gamlakotsvöllur.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta „þurrabúð í Dysjatúni upp með veginum“ ýmist nefnt Dysjakot eða Gamlakot og hefur annaðhvort verið „kennt við Gamla er þar bjó, eða verið upprunalegasta kotið við Dysjar“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir nánar frá: „Skammt norðan Dysja, en lengra frá sjónum, eru Pálshús. Á milli Dysja og Pálshúsa var gamalt býli, nefnt Dysjakot. Síðasti ábúandinn þar hét Gamalíel Jónsson, kallaður Gamli. Var kotið í hans tíð nefnt Gamlakot. Dysjakotsvöllur nefndist þríhyrnd spilda, sem fylgdi kotinu. Í tíð Gamla var einnig farið að kalla hana Gamlakotsvöll.
Dysjar – Dysjakot (Gamlakot).
Gamlakot og Gamlakotsvöllur er nú komið í tún.“ Ekki er kotið merkt inn á Túnakortið árið 1918 enda hefur það verið komið í eyði fyrir þann tíma. Þar virðist þó mega sjá garðinn miðja vegu milli Dysja og Pálshúsa. Þegar svæðið var kannað við Fornleifaskráningu 1984 fannst heldur ekkert nema þessi garður.
Dysjakot eða Gamlakot er hvorki nefnt í Jarðabókum né Manntölum en auk þeirra sem bjuggu á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum voru stundum þrjár eða fjórar fjölskyldur í sér húsnæði. Virðist líklegt að fólk Ragnheiðar Jónsdóttur
handverkskonu, Jóns Narfasonar tómthúsmanns eða þá Hans Arnórssonar húsmanns sem öll eru nefnd í Manntali árið 1801 hafi átt þarna heimili. Síðasti ábúandi hjáleigunnar, Gamalíel, sonur Jóns Þorgrímssonar á Austur-Dysjum, hefur eftir Manntali að dæma flutt í kotið fljótlega upp úr 1816 en það jafnvel farið í eyði áður en næsta Manntal var tekið 1845. Nafnsins vegna gæti Helga Gamalíelsdóttir, fyrst vinnukona í Miðengi, síðan húsfreyja í Hausastaðakoti verið skyld Gamla í Gamlakoti. Aldur hennar útilokar þó að hún hafi verið dóttir hans.
Heimild:
-Garðahverfi – fornleifaskráning 2002, Þjóðminjasafnið 2004.
Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).
Álftanes – Bæir og nokkrir merkir staðir
Í Fornleifaskráningu á Álftanesi, á Miðsvæði og Suðurnesi og á Norðursvæði er getið um bæi og merkar minjar. Hér á eftir er þeirra helstu getið.
Skógtjörn (býli)
Skógtjörn um 1900.
Jörðin Skógtjörn er fyrst nefnd í Þórðar sögu kakala í Sturlungu: ,,Gaf Þórður til staðarins í Skálaholti Skógtjörn á Álftanesi fyrir sál föður síns og móður.“ Þetta á að hafa verið árið 1248. Næst er Skógtjarnar getið í jarðskiptabréfi frá 1556 þar sem samþykkt er að eignarhald átta jarða, þar á meðal hennar, færist frá Skálholtsdómkirkju til konungs. Jarðarinnar er einnig getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en þar er jarðardýrleiki sagður óviss. Þá brýtur sjórinn „engi jarðarinnar […] í Skógtjörn og ber þar uppá sand og marálm“. Þetta hefur þó verið stór jörð enda er hún talin eitt af aðalbýlunum á Álftanesi. Tvíbýli er á Skógtjörn og nefnast ábúendur Eyjólfur Einarsson og Jón Jónsson. Átta manns eru í heimili hjá hvorum um sig. Auk þeirra eru nefndir tveir hjáleigumenn, Jón Þóroddarson sem býr innanbæjar hjá Eyjólfi og Bárður Geirmundsson sem býr við nýuppbyggt hesthús hjá Jóni.
Stíflisgarður við Skógtjörn.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin skráð sem bændeign og metin á 20 hdr. Ábúendur eru þá einn eigandi og tveir leiguliðar.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum er Skógtjörn talin upp með einni hjáleigu og þremur tómthúsum. Hjáleigurnar og þurrabúðirnar eru ekki nafngreindar í þessum heimildum en gætu verið einhver þeirra býla sem Erlendur Björnsson lýsir á síðari hluta 19. aldar og greint er frá í örnefnalýsingum.
Áfram hefur verið tvíbýli á jörðinni og getið er um tvo bæi, Eystri-Skógtjörn eða Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn eða Árnakot sem byggst hefur úr henni.
Hjáleigur og þurrabúðir í Skógtjarnarlandi eru taldar vera Moldarhús, Gíslakot, Dómhildarkot, Eysteinskot, Hólakot og Lásakot. Svalbarði og Melshús eru auk þess sögð hafa byggst úr Skógtjarnarlandi og í nágrenni þeirra eru einnig þurrabúðirnar Halakot og Lambhagi. Skógtjörn með hjáleigum og þurrabúðum nefndist Skógtjarnarhverfi. Á túnakorti af Skógtjörn frá 1917 kemur fram að tún eru 2,9 teigar að stærð, að mestu sléttuð en örlítið farin að þýfast.
Nú hefur íbúðarhúsabyggð risið allt í kringum hið gamla bæjarstæði Skógtjarnar nema hvað sléttað tún er austan þess. Land jarðarinnar er í aflíðandi halla mót suðri, niður að sjávarlóninu við Skógtjörn. Landamerkjum jarðarinnar er lýst í örnefnaskrá: „Bæirnir Eystri-Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn liggja norðan samnefndrar tjarnar (sjávarlóns), Skógtjarnar. Austurmörk jarðanna eru á móti Selskarði suður frá Skógtjörn – norður í svonefnt Hreppahlið. En þetta voru jafnframt hreppamörk á milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps, en nú er þetta sameinað sveitarfélag. Norðurmörk eru frá hreppamörkum vestur með landi Kirkjubrúar og Brekku eftir grjótgarði að svonefndum Grásteini. Þaðan liggja merkin eftir Sýsluvegi að Melshúsalandi og þaðan suður í Skógtjörn.“
Skógtjörn – herforingjaráðskort frá 1908.
Á túnakorti frá árinu 1917 er bærinn Skógtjörn staðsettur um 300 m suðvestan við Brekku. Þar má sjá tvö samhliða steinhús eða timburhús sem liggja þétt saman með stefnuna norðvestur – suðaustur. Heimreiðin liggur að norðvestan frá Svalbarði og meðfram göflum húsanna suðaustan megin og má því ætla að þar séu framgaflar. Norðaustara húsið er örlítið stærra. Þetta hafa að öllum líkindum verið íbúðarhúsin á Skógtjörn á þessum tíma en bærinn nefndist einnig stundum Eystri-Skógtjörn til aðgreiningar frá vestari Skógtjarnarbænum. Í örnefnalýsingu segir: „Bæirnir Eysri-Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn liggja norðan samnefndrar tjarnar (sjávarlóns), Skógtjarnar. […] „Eystri-Skógtjörn hét Skógtjörn áður en Vestri-Skógtjörn kom til og svo er hún stundum nefnd enn.“
Nú er íbúðahverfi þar sem Skógtjarnarbæirnir voru áður og íbúðarhús Eystri-Skógtjarnar er staðsett við Miðskóga 22. Það er nokkru austan við bæjarhólinn þar sem talið er að Skógtjarnarbæirnir hafi staðið um aldir og jafnvel frá upphafi. Gamli bærinn sem stóð þar síðast var rifinn árið 2001 og þá byrjað að grafa fyrir nýju húsi í sama stæði. Fljótlega var komið niður á mannvistarleifar og fór þá fram fornleifakönnun þar sem grafnir voru sex könnunarskurðir í hólinn. Komið var niður á þykkar mannvistarleifar, allt að 1 m að þykkt, sem líkur eru á að hafi hlaðist upp á löngum tíma, jafnvel frá því snemma á miðöldum til upphafs 20. aldar. Undir gjóskulagi sem rakið var til Kötlu og talið frá því um 1500 e.kr. fundust öruggar vísbendingar um mannvist. Þar með er ekki sagt að allar minjarnar hafi verið aldursgreindar með vissu en þó er ljóst að þær vitna um búsetu á þessum stað í að minnsta kosti 500-600 ár. Á þessu svæði eru því fornleifar sem ekki má hrófla frekar við án undangenginnar rannsóknar. Stæði nýja íbúðarhússins við Miðskóga 22 var því flutt til og er gamla bæjarstæðið rétt austan við það en norðan við húsið Tjarnarland.
Miðað við Jarðabókina hefur verið tvíbýli á Skógtjörn að minnsta kosti frá því jarðirnar voru skráðar árið 1703.
Á túnakorti árið 1917 er vestari Skógtjarnarbærinn kallaður Árnakot. Þar má sjá tvískipta ferhyrningslaga byggingu sem virðist vera úr torfi en veggurinn suðvestan megin gæti verið úr steini eða timbri. Minna hólf eða anddyri gengur út af húsinu í austur og gæti líka verið steinsteypt eða byggt úr timbri.
Við Skógtjörn.
Erlendur Björnsson segir í endurminningum árið 1945 að Sveinn Gestsson hafi búið í Árnakoti: „Gerði hann út og var einnig járnsmiður, smíðaði öngla og annað, er að útgerð manna laut, og var hann mesti víkingur við það starf.“ Getið er um báða Skógtjarnarbæina í örnefnalýsingum en þar eru þeir jafnframt kallaðir Vestri-Skógtjörn og Eystri-Skógtjörn og nöfnin útskýrð nánar: „Vestri Skógtjörn hét áður Árnakot og var byggt úr landi Skógtjarnar. Klemens, faðir Sigurfinns, skírði það upp og nefndi Vestri-Skógtjörn. Húsið á Vestri-Skógtjörn stendur á hrygg, sem nær frá Bessastaðanesi og vestur að Hliði. Í túninu hefur hryggur þessi verið nefndur Bali. U.þ.b. 20-30 m suðvestur af húsinu á Vestri-Skógtjörn er nýbyggt hús, Tjarnarbakki.“
Þegar fram leið var Árnakot einnig stundum kallað Skógtjörn efri. Árnakot var með grasnyt í landi Skógtjarnar og nefndist túnið kringum býlið Árnakotstún. Það var 3 teigar, að mestu leyti slétt og smáþýft. Garðar ná yfir 1280 m2.
Árnakot – Vestri Skógtjörn (býli)
Miðað við Jarðabókina hefur verið tvíbýli á Skógtjörn að minnsta kosti frá því jarðirnar voru skráðar árið 1703.
Á túnakorti árið 1917 er vestari Skógtjarnarbærinn kallaður Árnakot. Þar má sjá tvískipta ferhyrningslaga byggingu sem virðist vera úr torfi en veggurinn suðvestan megin gæti verið úr steini eða timbri. Minna hólf eða anddyri gengur út af húsinu í austur og gæti líka verið steinsteypt eða byggt úr timbri.
Erlendur Björnsson segir í endurminningum árið 1945 að Sveinn Gestsson hafi búið í Árnakoti: „Gerði hann út og var einnig járnsmiður, smíðaði öngla og annað, er að útgerð manna laut, og var hann mesti víkingur við það starf.“ Getið er um báða Skógtjarnarbæina í örnefnalýsingum en þar eru þeir jafnframt kallaðir Vestri-Skógtjörn og Eystri-Skógtjörn og nöfnin útskýrð nánar: „Vestri Skógtjörn hét áður Árnakot og var byggt úr landi Skógtjarnar. Klemens, faðir Sigurfinns, skírði það upp og nefndi Vestri-Skógtjörn. Húsið á Vestri-Skógtjörn stendur á hrygg, sem nær frá Bessastaðanesi og vestur að Hliði. Í túninu hefur hryggur þessi verið nefndur Bali. U.þ.b. 20-30 m suðvestur af húsinu á Vestri-Skógtjörn er nýbyggt hús, Tjarnarbakki.“
Þegar fram leið var Árnakot einnig stundum kallað Skógtjörn efri. Árnakot var með grasnyt í landi Skógtjarnar og nefndist túnið kringum býlið Árnakotstún. Það var 3 teigar, að mestu leyti slétt og smáþýft. Garðar ná yfir 1280 m2.
Í örnefnaskrá segir: „Árnakotsvör: Hún lá aftur á móti sunnan Hliðsgranda.“ Væntanlega hefur lendingin þá verið í fjörunni vestan í Melshúsagranda. Yst í honum þeim megin, neðan við húsið sem nú stendur við götuna Lambhaga 14, má sjá mannvirki sem gæti verið lending eða bryggja og þá hugsanlega frá Árnakoti. Það er hlaðið úr stórum grjóthnullungum, um 39 m á lengd og 6 m á breidd, og gengur út í suðvestur frá grandanum. Sunnan megin virðast grjóthnullungar liggja áfram í sveig upp í fjöruna.
Árnakotsbúð (verbúð)
Árnakotsbúð var samkvæmt örnefnaskrá „búð frá Árnakoti upp af vörinni, vestan Melshúsabúðar.“ Ekki sést til búðar á þessu svæði en sennilega hefur hún staðið á Búðarflöt eins og fleiri búðir frá bæjunum.
Moldarhús (þurrabúð)
Moldarhús er ekki merkt inn á túnakort árið 1917 en heitið Moldarkot er þó sett innan sviga með spurningarmerki þar sem bæirnir og kotin eru talin upp í titli kortsins. Erlendur Björnsson segir hins vegar frá því í endurminningum sínum frá 1945 að „í Moldarhúsum bjó Brynjólfur, sem gerði út á vertíðum fjögramannafar, en réri fyrir hlut sínum utan vertíðar. Þar var gras handa einni kú.“ Hann merkir Moldarhús inn á kort mitt á milli bæjanna Árnakots og Skógtjarnar við bakka samnefnds sjávarlóns. Staðsetningin er svipuð á örnefnakorti Álftaness frá árinu 1977 en miðað við þetta hefur Moldarkot verið staðsett á sömu slóðum og kálgarður sem sést á túnakorti mitt á milli Skógtjarnarbæjanna tveggja. Í örnefnalýsingu eru Moldarhús talin meðal býla sem liggja meðfram sjávarlóninu innan svokallaðs Skógtjarnarhverfis. Einnig segir: „Moldarhús: Var þurrabúð eða hjáleiga úr Skógtjarnarlandi. Stóð ofan í túninu upp undir Alfaraveginum. Moldarhúsatún: Túnskækill sem fylgdi þurrabúðinni.“ Eins og hjá Erlendi er greint frá staðsetningu miðja vegu milli Skógtjarnarbæjanna tveggja þess eystri (Skógtjarnar) og vestri (Árnakots): „Í línu u.þ.b. mitt á milli Eystri- og Vestri-Skógtjarnar var áður gamall bær, er Moldarhús hét, fór í eyði fyrir 40-50 árum.“40 Miðað við að þetta var skráð 1976 hefur hefur býlið lagst af í kringum 1930. Þarna er komin íbúðabyggð, Miðskógar 8 og 14.
Gíslakot (þurrabúð)
Samkvæmt örnefnaskrá var Gíslakot „þurrabúð frá Skógtjörn suðaustur frá Skógtjörn“ og Gíslakotstún hét „lítið gerði sem fylgdi þurrabúðinni.“
Seint á 19. öld var grasnyt í Gíslakoti og ein kú. Á uppdrætti Erlends Björnssonar sem sýnir byggðina á Álftanesi um 1870 er Gíslakot merkt inn alveg niðri við sjó eða Skógtjörn, um 350 m suðsuðvestur frá Brekku. Auk þess eru þar þrjú önnur kot og öll í einum hnapp á norðurbakka Skógtjarnar. Gíslakot var vestast, Eysteinskot 100 m austar, Hólakot 50 m austur frá Eysteinskoti og 50 m norðan Gíslakots og Eysteinskots var Dómhildarkot. Staðsetning þessara kota kann að hafa breyst og þótt Gíslakot og Dómhildarkot hafi augljóslega verið tvö kot eða bæir um 1870 þá hefur þeim slegið saman síðar. Á túnakorti frá 1917 er Gíslakot merkt inn um 160 m suðsuðvestan við Brekku og 200 m suðaustan við Skógtjörn. Bæjarhúsin eru þó ekki sýnd heldur er heitið haft innan sviga sem gæti þýtt að kotið hafi verið komið í eyði og tóftir einar eftir af því þegar kortið var gert. Staðsetningin er því ef til vill ekki nákvæm þarna. Dómhildarkot er ekki tilgreint á túnakortinu en á örnefnakorti af Álftanesi frá árinu 1977 er Gíslakot hins vegar líka nefnt Dómhildarkot innan sviga.
Bæjarstæði Gíslakots hefur verið sléttað í suðurtúnið austan við bæinn á Skógtjörn og neðan Brekku. Þar gengur þurr rimi gegnum túnið frá vestri til austurs og neðan hans er deiglendisfláki. Á þessum túnrima eru ójöfnur og þúfnahlaup ásamt einstaka steinum sem standa upp úr. Þetta er jafnframt á þeim slóðum sem býlið stóð samkvæmt túnakortinu. Þarna má búast við leifum býlis undir sverði, og hefur það þá staðið á rimanum.
Dómhildarkot (þurrabúð)
Á uppdrætti sem sýnir staðhætti á Álftanesi um 1870 er Dómhildarkot norðar í túni Skógtjarnar en Gíslakot, Eysteinskot og Hólakot. Dómhildarkot er ekki merkt inn á túnakortið frá 1917. Í örnefnaskrá segir hins vegar: ,,Dómhildarkot: Þurrabúð austar en Gíslakot í Skógtjarnarlandi.“
Nöfnin á þessum kotum hafa því færst mikið til frá síðari hluta 19. aldar þangað til örnefni voru skráð á Álftanesi eftir miðja 20. öld Þar eð Gíslakot er auk þess nefnt Dómhildarkot innan sviga á örnefnakorti af Álftanesi frá 1977 er ljóst að þeim hefur líka verið slegið saman. Nákvæm staðsetning Dómhildarkots verður því ekki fundin út frá heimildum. En það eru ójöfnur og þúfnahlaup á þeim stað sem bærinn á að hafa staðið og virðist vera manngert.
Hólakot (þurrabúð)
Í endurminningum Erlends Björnssonar kemur fram að í Hólakoti var þurrabúð um 1870. Á korti þar er það staðsett á Skógtjarnarbakka vestan við Lásakot og skammt austan Eysteinskots sem er austan við Gíslakot. Á túnakort 1917 er í stæði Hólakots teiknuð upp rúst af torfhúsi niðri við Skógtjörn ásamt kálgarði. Þarna eru Eysteinskot og Gíslakot norðar í túni en Hólakot sem er um 100 m sunnan við Eysteinskot og 200 m suðaustan við Skógtjarnarbæinn. Erlendi ber hins vegar saman við upplýsingar sem skráðar voru síðar við örnefnasöfnun: „Hólakot: Þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti.“ Einnig kemur fram að Hólakot var „suðvestan við vestri grjótgarðinn [í svokölluðu Holti] alveg niður undir Skógtjörn.“ Hólakot „mun hafa farið í eyði um aldamótin 1900. Heimildunum ber að minnsta kosti saman um að Hólakot hafi verið skammt frá sjávarbakkanum og fornleifar á staðnum benda til að upplýsingar um innbyrðis afstöðu kotanna sé réttari á túnakortinu.
Hólakot hefur verið rifið og rústirnar jafnaðar í túnið. Hins vegar er stór hóll á bökkum Skógtjarnar, syðst í túninu, sunnan við rimann þar sem Gíslakot, Eysteinskot og að líkindum Dómhildarkot hafa verið. Þessi hóll er um 80 x 60 m að stærð og 1 m á hæð. Hann er þurr og harður en mýrardrög eru í túninu bæði vestan hans og austan. Niður af hólnum er aflíðandi brekka til allra átta sem nær lengst til suðurs. Ójöfnur sjást í hólnum sjálfum og á nokkrum stöðum standa steinar sem líklega eru úr býlinu upp úr sverðinum. Þessi staðsetning kemur heim og saman við túnakortið.
Eysteinskot (grasbýli)
Samkvæmt uppdrætti af Álftanesi frá síðari hluta 19. aldar er Eysteinskot um 350 m sunnan Brekku og 100 m austan við Gíslakot. Þar kemur einnig fram að Eysteinskot hafi verið grasbýli með eitt kýrfóður. Í örnefnaskrá segir: ,,Eysteinskot: Þurrabúð austur frá Gíslakoti nær Skógtjörn en Dómhildarkot. Eysteinskotstún: Tún eða gerði þessarar þurrabúðar.“
Á túnakorti frá 1917 er býlið Eysteinskot hins vegar merkt inn á kortið um 60 m norðvestan við Gíslakot. Það að látið hefur verið nægja að setja heiti bæjarins í sviga á kortið án þess að teikna bæjarhúsin gæti bent til að kotið hafi verið komið í eyði og að þegar á þessum tíma hafi einungis tóftirnar verið eftir. Núna hefur Eysteinskot að minnsta kosti verið rifið og rústirnar jafnaðar í túnið þannig að ekki sést vottur af því lengur. Örlitlar ójöfnur eru þó á rimanum í suðurtúni, neðan Brekku, þar sem kotið er staðsett á túnakortinu og gætu leifar býlis leynst í þeim.
Lásakot (þurrabúð)
Lásakot – uppdráttur.
Lásakot er sýnt austan við Hólakot á korti Erlends Björnssonar. Það er ekki merkt inn á túnakortið 1917 en Erlendi ber saman við örnefnakort af Álftanesi frá 1977 þar sem Lásakort er sýnt skammt norðan Skógtjarnar, suðaustan við Hólakot og Gíslakot. Í endurminningum Erlends segir jafnframt að Lásaskot hafi á síðari hluta 19. aldar verið þurrabúð og að þar hafi oftast verið tvíbýli. Í örnefnaskrá er Lásakot nefnt „þurrabúð austast í Skógtjarnarlandi“ eða fram til 1940.
Lásakot var í svokölluðu Holti eða Holtinu við Skógtjörn, „nokkurn veginn beint niður undan Brekku. Túnbleðill með garði í kringum er þar sem Lásakot var og eru bæjarhúsatætturnar í suðausturhorni hans.“ Að sögn heimildamanna við örnefnaskráningu hét Lásakot áður Skógtjarnarkot en nafnið á að hafa breyst þegar Nikulás nokkur fór að búa þar og hefur þá verið farið að nefna kotið eftir honum. Meðan tvíbýli var í Lásakoti voru bæirnir lengst af sambyggðir. Einnig greinir þó frá Eyjólfi Ísakssyni sem byggði sér bæ efst og vestast í Lásakotstúni en bjó þar mjög stutt þannig að bærinn fékk aldrei neitt fast nafn.
Síðasti ábúandi í Lásakoti var Guðmundur sem sérhæfði sig í marhálmstekju í Skógtjörn og Lambhústjörn. Hann var sonur Þórodds í Þóroddarkoti. Guðmundi í Lásakoti er lýst svo: „Hann var fótaveikur og voru fætur hans mjög snúnir. Hann var alinn upp við harðrétti og vosbúð og hefur fótaveiki hans líklega stafað af því. Vegna göngulagsins var hann kallaður Guðmundur á kartöflunum. […].
Tóftir Lásakots.
Lásakot fór í eyði um 1940 en Guðmundur lifði fram um 1950 og dó í Sviðholti.“ Í Lásakoti var búið einna lengst af öllum Skógtjarnarþurrabúðum.
Tóftir Lásakots hafa varðveist og eru enn þá vel sýnilegar fremst á hörðum grasi grónum en smáþýfðum norðurbökkum Skógtjarnar. Rústasvæðið allt er um 45 x 40 m að stærð og eru sjálfar bæjartóftirnar í suðausturhorni þess. Þær eru frá fjórum sambyggðum húsum, samtals 17 x 13 m að stærð með stefnuna austur – vestur.
Svalbarði (býli)
Svalbarði.
Jörðin er nefnd Svalbarð í elstu heimildinni um hana, bréfi frá árinu 1496 þar sem segir að Barti hafi afhent Lofti Snorrasyni „þriu hundrut j uarni(n)gi oc smiori oc þar til mioltunu uegna magnusar þorkelssonar er hann uard honum skylldugur upp j fiordungin jordena sualbard sem loftur hafde sellt magnusi.“ Síðar er hún kölluð Svalbarði og skilgreind sem hálflenda árið 1703 „því hún hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.“ Jarðardýrleiki er óviss og tvíbýli er á jörðinni.
Samkvæmt Jarðatali Johnsens hefur hún þó ekki talist neitt smábýli árið 1847 því þá er hún metin á 16 2/3 hdr. Hún er í bændaeign og búa þrír leiguliðar á henni.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum er Svalbarði talinn upp með tveimur tómthúsum án þess að nánari staðsetningar sé getið. Þegar túnakort er gert árið 1917 er túnið 1,5 teigar, að mestu sléttað en þó farið að þýfast örlítið aftur. Matjurtagarðar ná yfir 1500 m2 svæði. Erlendur Björnsson segir Þorsteinn Eiríksson hafa búið á Svalbarða á síðari hluta 19. aldar. „Gerði hann út skip. Þar var og grasnyt, hafði hann tvær kýr.“
Í örnefnaskrá er jörðin Svalbarði kölluð hjáleiga frá Skógtjörn. Vesturmörk Svalbarða á móti Halakoti lágu frá smiðju í Sólbarði sem var fast sunnan við Sýsluveginn, beint norður af Eystri-Skógtjörn, og þaðan austur í Grástein. „Sólbarð er nær því í beina stefnu norðan við Árnakot – Eystri-Skógtjörn, fast sunnan við sýsluveginn.
Vesturmörk grasbýlisins Svalbarða voru „á móti Halakoti frá […] smiðju [í Sólbarði] og austur í Grástein (Sjá Sviðholt). Úr Grásteini eru merkin norður í sýsluveg þar sem býlið Krókur var. – Norðurmörk voru á móti Sviðholti og Haugshúsum. – Sýsluvegur sker jörðina í miðju frá Sólbarði norður í Sviðholtsland.“
Sviðholt (býli)
Sviðholt.
Jörðin Sviðholt var í eigu Skálholtskirkju til ársins 1556 en komst eftir það undir konung. Hún er enn í konungseign árið 1703 og skiptist ábúðin þá milli fjögurra bæja. Jarðardýrleiki er óviss. Árið 1847 er Sviðholt hins vegar komið í eigu tveggja bænda sem búa þar sjálfir og jörðin er metin á 33 1/3 hundruð. Tvíbýli hélst fram eftir 19. öld en þegar kom fram á 20. öld urðu bæirnir þrír. Auk þess heyrðu allnokkrar hjáeigur og þurrabúðir undir Sviðholt: Litlibær byggðist fyrst um 1660 og Hjallakot, Hákot, Háholt, Hella, Gesthús og Sveinshús voru komin til í byrjun 19. aldar. Síðar bættust Krókur, Þórukot, Friðrikskot, Bjarnastaðir, Grashús, Kekkjakot og Þóroddarkot við. Einnig byggðust Haukshús eða Haugshús upphaflega úr landi Sviðholts.
Sagt er frá húsunum í Sviðholti í örnefnalýsingu: „Gamla húsið er úr timbri og er kjallari hlaðinn úr höggnum steinum undir því. Elzti hluti þess var byggður um 1911. Nýtt hús stendur rétt norðvestan við gamla húsið. Fjós og hlaða, sambyggð, eru u.þ.b. 20-30 metrum austan við nýja húsið.“ Áður var „þríbýli í Sviðholti. Nefndust bæirnir: Vesturbær, Miðbær og Austurbær. Vesturbær og Miðbær voru sambyggðir og voru bæjardyr sameiginlegar.
Sviðholt.
Austurbærinn var um 10 metrum austan við Miðbæinn á hól, sem nefndur var Sviðholtshóll. Mun hann að mestu hafa verið forn öskuhaugur og er líklegt að aðalbærinn í Sviðholti hafi staðið þar um aldir. Þegar grafið var fyrir vatnsveitunni var komið þar ofan á þykkt öskulag.
Þegar Kristján [Eyjólfsson, fæddur í Sviðholti 1892] var að alast upp var Miðbærinn einnig kallaður Gíslabær eftir bóndanum Gísla Þorkelssyni. Nýja húsið í Sviðholti stendur fast norðan við þar sem Miðbærinn var. Á þeim stað voru áður hesthús, móhús og fjós frá Gíslabæ.“
Húsin í Sviðholti standa á stórum náttúrulegum hól. Norðan megin eru nú tvö íbúðarhús og var grafið fyrir undirstöðum þess yngra en þó ekki gerður kjallari. Hins vegar eru útihúsin austan í hólnum djúpt niðurgrafin. Núna liggur heimreið upp eftir hólnum að suðvestan og við rætur hólsins sunnan hennar er kálgarður. Bæjarhóllinn sjálfur er að minnsta kosti 30 x 30 m að stærð og 1 m á hæð ef ekki meira en erfitt er að greina hvar byggingarleifar taka við af hinni náttúrulegu hæð. Á háhólnum sunnan við íbúðarhúsin er nú slétt flöt með hvompum og flag með miklu hleðslugrjóti um 5-10 sm undir grasrótinni. Ekki er um samhangandi hleðslur að ræða en þarna á flötinni stóðu síðast bæjarhús úr torfi og grjóti.
Ekkert túnakort er til af Sviðholti en auk bæjahúsa voru kálgarðar í túninu og túngarður að austanverðu. Ekki sést lengur til þeirra. Undir grassverði er um 1 m þykkt moldarlag niður á möl en austast næst Breiðumýri er klöpp skammt undir sverði. Moldarlagið er dýpra við bæjarhólinn. Túnið var upphaflega sléttað með herfi og þúfnabana en beðasléttur eru einnig syðst í því. Mikið grjót var tekið úr túninu fyrir og um miðja 20. öld en síðan hefur það ekki verið unnið.
Krókur (þurrabúð)
Kotið Krókur er ekki sýnt á túnakorti 1917 en Erlendur Björnsson nefnir það þurrabúð í endurminningum sínum 1945 og segir að þar hafi búið „Jón Vigfússon, góður og gegn maður.“ Krókur er merktur inn á kort hans norðvestan við Brekku, beint norður af Brekkukoti og norðaustan við Svalbarð. Hann er suðaustan við Sviðholt og í beinni línu vestur frá Kirkjubrú en austur frá Haugshúsum, miðja vegu milli þeirra. Þetta kemur heim við örnefnalýsingar enda er þar meðal annars farið eftir upplýsingum frá Erlendi: „Svo er lína hér norðar þvert yfir nesið, sem hér heitir Suðurnes. Er Kirkjubrú austast, svo Krókur, þá er Haugshús […]“. Krókur var „sunnan við Sviðholtsbrunn“, „syðsta býlið, hjáleigan í Sviðholtslandi“ og honum tilheyrði lítið tún sem hét Krókstún.
Einnig segir: „Eyðibýlið Krókur var suðaustanvert við Sviðholtstún. Þar sér enn fyrir garði, Króksgarði, en vegurinn lenti yfir húsatætturnar. Krókur var grasbýli.“120 Samkvæmt örnefnalýsingum lágu landamerki jarðanna Sviðholts og Brekku úr Grásteini „í Króksgarð miðjan og þaðan í markastein fast norðan við sjávargötu frá Króki.“
Til skamms tíma sást hluti af kálgarði sunnan við Suðurnesveg þar sem göngustígur greinist frá honum að Höfðabraut. Uppbyggður malbikaður vegur og gangbraut eru sunnan við þennan stað en hluti kálgarðsins lenti undir Suðurnesvegi þegar hann var fyrst lagður 1964. Síðan þá hefur meira horfið við vegabætur og lóðaframkvæmdir sunnan við veginn. Þar er nú nýlegt einbýlishús og nær moldaruppfylling fyrir lóð þess niður að gangbraut meðfram veginum.
Ekki er vitað um nákvæma staðsetningu Króks en talið er að kálgarðurinn hafi verið þar sem kotið var áður. Kotið gæti því hafa verið rétt sunnan vegarins eins og garðurinn eða þá að það hefur lent undir veginum. Norðan vegarins eru sléttuð tún Sviðholts.
Þórukot (býli)
Þórukot.
Samkvæmt Erlendi Björnssyni bjuggu um 1870 „Þorlákur, myndarlegur maður og vel látinn“ og „Ingibjörg, orðlögð merkiskona.“ Í örnefnalýsingum segir: „Þórukot: Hjáleiga úr Sviðholtslandi, vestur frá Sviðholti. Þórukotstún: Túnið var allstórt, lá í kringum bæinn.“
„Þórukot er 50-100 metra norðan Haugshúsa. Þar er nú stórt og reisulegt hús, að stofni til byggt úr gamla húsinu.“
Bæjarstæði Þórukots hefur verið um 200 m vestan Sviðholtsbæjar á ávalri smáhæð þar sem nú stendur einnar hæðar timburhús. Fylgja mörk hæðarinnar umfangi núverandi húss og grundin er aflíðandi í vestur. Ekki sést til fornleifa og virðist líklegt að leifar eldra býlis hafi lent undir nýju byggingunni. Sléttuð tún eru allt í kringum hæðina.
Friðrikskot (þurrabúð)
Í örnefnaskrá segir: „Friðrikskot: Þurrabúð í landi Sviðholts, sunnan við Litlabæ.
Friðrikskotstún: Gerði eða túnbleðill við kotið. Friðriksgáfa: Svo var Friðrikskot nefnt í spaugi. Friðriksgáfa á Möðruvöllum í Hörgárdal, var á sínum tíma eitt stærsta hús á Íslandi, en þetta eitt minnsta kot á Álftanesi.“
Samkvæmt örnefnalýsingu Sviðholts er Friðrikskot sunnan til í miðju Bjarnastaðatúni en í örnefnalýsingu Bessastaðahrepps er það staðsett „norðan Hjallakots með Helguvík“. Erlendur Björnsson merkir það inn á kort við sjóinn vestan við Þórukot, miðja vegu milli Hjallakots og Litlabæjar. Virðist sú staðsetning sennilegri og hefur Friðrikskot þá verið á svipuðum slóðum og Hjallaland.
Hjallaland (býli)
Býlið Hjallaland er ekki merkt inn á nein kort en samkvæmt örnefnalýsingu stóð það á miðjum Hjallalandsvelli: „Býlið Hjallaland stóð neðan til á honum miðjum.“
Hjallalandsvöllur er nú sléttað tún syðst, en íbúðarhúsabyggð er risin á vellinum nyrst. Völlurinn er í aflíðandi halla mót vestri. Hjallaland er ekki merkt inn á kort Erlends Björnssonar. Hins vegar er Friðrikskot haft á svipuðum slóðum. Í örnefnaskrá Álftaneshrepps er Hjallaland talið annað nafn á hjáleigunni Hjallakoti.
Hjallakot (þurrabúð)
„Í Hjallakoti bjó Páll Stefánsson í þurrabúð“ segir Erlendur Björnsson og staðsetur hana á korti niður við Helguvík, beint vestur af Haugshúsum. Staðsetning kemur saman við örnefnaskrá en þar er þurrabúðin kölluð Hjallakot eða Hjallaland.“ Landamerki jarðarinnar Sviðholts lágu um norðanverða Helguvík en Hjallakot var upp af víkinni „rétt fyrir norðan merkin“ Þegar örnefnalýsing var gerð árið 1976 var þurrabúðin Hjallakot „löngu komin í eyði“ og hafði „verið byggður sumarbústaður heldur nær sjónum en á tóftum þess.“ Hins vegar virðist Hjallaland þá vera talið annað býli en Hjallkot.
Hjallakot hefur verið rétt norðaustan við sumarbústaðinn sem nú er notaður sem golfskáli, vestan við bæjarhól Haugshúsa, um 20 m norðan við Halakotstjörn og leifar Halakotstúngarðs. Við golfskálann og bæjarstæðið er nú malarborið hlað og þaðan liggur hálfmalbikaður malarvegur austur gegnum golfvöllinn meðfram Halakotstúngarði.
Núverandi sjóvarnargarður við Helguvík er í um 15 m fjarlægð vestan megin. Hjallakot hefur verið rifið og jafnað í golfvöllinn en ekki virðist þó hafa verið byggt á rústum þess. Talsverðar ójöfnur á um 10 x 10 m svæði á yfirborði túnsins norðaustan við golfskálann gætu bent til að hleðslur séu undir sverði. Samkvæmt örnefnaskrá var Hjallakotstún „tún eða gerði sem tilheyrði Hjallakoti“ og „Hjallakotstúngarður: Túngarður norðan, austan og sunnan túnsins.“ Ekki sjást neinar fornleifar.
Haugshús (býli)
Tóftir Haugshúss.
Haukshús eru konungsjörð og kölluð hálflenda árið 1703 en jarðardýrleiki óviss. Talið er að þau hafi byggst úr Sviðholtslandi. Jörðin er síðan nefnd Haugshús, komin í bændaeign árið 1847 og metin á 8,3 hdr.150. Samkvæmt örnefnaskrá var tún býlisins um tvö kýrfóður.
Erlendur Björnsson segir Þorstein Jónsson hafa búið þar og stundaði „mest róðra, hvenær sem gaf. Á móti honum bjó Pétur nokkur og einn húsmaður var þar einnig.“
Staðsetningu Haugshúsa má ráða af túnakorti 1917, korti Erlends Björnssonar og herforingjaráðskorti frá 1902 þar sem sést að gata heim að bænum hefur legið um 100 m suður frá Þórukoti. Vestan megin er Hjallakot beint fyrir ofan Helguvík og Halakot beint í suður. Afstaðan frá Hjallakoti er í samræmi við örnefnalýsingu en þegar hún var gerð voru Haugshús „komin í eyði fyrir löngu. Þar var löngum tvíbýli.“ Í örnefnaskrá er einnig nefnt „salthús Haugshúsa.“
Að sögn Gróu Guðbjörnsdóttur sem ólst upp í Hákoti á Álftanesi voru Haugshús á hólnum sem er þarna enn þá. Hóllinn er rétt sunnan við brunnhús úr torfi og grjóti sem hefur varðveist frá 1950. Nú er golfvöllur allt í kring, frá Höfðabraut til Þórukots og frá Suðurnesvegi niður að sjó við Hjallakot. Sunnan bæjarhólsins er malarvegur niður að golfskálanum, fast sunnan hins gamla bæjarstæðis Hjallakots. Hóllinn er hér um bil á miðjum vellinum. Hann er um 45 x 45 m stór og um 0,5 m hár. Hann hefur verið sléttaður en þó ber á ójöfnum í honum. Þá er líka þúst um 15 m suðaustan háhólsins, um 1 m norðan vegarins að golfskálanum. Hún er um 8 m í þvermál og gætu þar verið leifar útihúss. Milli þessarar smáþústar og bæjarhólsins má sjá steina í sverðinum.
Halakot (býli)
Halakot er merkt inn á túnakort um 170 m vestan við Svalbarða. Þá virðast steinhús eða timburhús hafa verið í bæjarröðinni vestanverðri en stakt torfhús austan megin. Vegur var heim að bæ frá götunni þar sem nú heitir Höfðabraut. Bæjarstæðið er á rennisléttum golfvelli í aflíðandi halla að Halakotstjörn sem er um 20 m vestan við það. Í endurminningum Erlends Björnssonar kemur fram að á grasbýlinu Halakoti hafi venjulega verið hafðar þrjár kýr. Búið er að rífa bæinn og öll ummerki um hann eru horfin en gerði um matjurtagarð norðan hans sést enn þá.
„Suðurmörk Halakots „voru með sýsluvegi frá Sólbarði og niður að Melshúsalandi. Austurmörk voru frá smiðju í Sólbarði – norður að Haugshúsalandi. Þaðan vestur í Helguvík. Á mörkum suður frá Haugshúsum er gamall öskuhóll og garðbrot. Sjór, þ.e. Helguvík, ræður svo merkjum að vestan.“
Melshús (býli)
Melshús – túnakort 1917.
Mölshúsa er getið meðal konungsjarða á Álftanesi árið 1703, talin byggð úr landi Skógtjarnar en jarðardýrleiki er óviss. Samkvæmt Jarðatali Johnsens er hún komin í bændaeign árið 1847, eigandinn býr sjálfur á jörðinni og dýrleikinn er 8,3. Samkvæmt Erlendi Björnssyni bjuggu þar á síðari hluta 19. aldar tveir grasbýlismenn, Ísak Eyjólfsson og Oddur Erlendsson, „báðir duglegir sjómenn og álitnir góðir formenn.“ Auk þeirra voru tveir þurrabúðarmenn búsettir í Melshúsum og var annar þeirra Jón Vigfússon, „orðlagður aflamaður á grunni.“ Anna Ólafsdóttir Björnsson vitnar í minningar Guðnýjar Klemensdóttur um Melshús, en hún lýsir ofurlitlum torfbæ sem kúrði á sjávarbakkanum, hálfhulinn hvönn. ,,Hann var aðeins tvær burstir og svo samofinn umhverfinu að erfitt var að sjá hvar hlaðið tók við.“ Á eftir fylgir nokkuð nákvæm lýsing á bænum eins og hann var í byrjun 20. aldar. Í örnefnaskrá kemur hins vegar fram að bæirnir voru þrír. Melshús sem einnig er kallað Mölshús eða Mulshús „var í eina tíð kallað hálfbýli en seinast þurrabúð“ með þríbýli. „Melshúsatún fóðraði tvær kýr en var komið eyði við örnefnaskráningu eftir miðja 20. öld. Í túninu neðan við bæina var svolítil tjörn, Melshúsatjörn eða Lambhagatjörn.
Melshús um 1910.
Árið 1917 var túnið 1,8 teigar en sjór flæddi yfir þau. Melshús lágu á Hliðsgranda á leiðinni út á Hliðstanga með sjávarlónið Skógtjörn suðaustan megin og Helguvík norðvestan megin og ágangur sjávar frá báðum hliðum var orðið vandamál þegar árið 1703. Samkvæmt örnefnalýsingu voru „norðurmörk jarðarinnar […] eftir sýsluvegi niður að Búðarflöt“ suðvestan megin og þaðan niður í Ós en að austan réði Skógtjörn. Miðað við þetta var nesið Melshúsagrandi innan landamarka Melshúsa.
Á túnakorti frá árinu 1917 má sjá byggingu sem liggur rétt við fjöruna fyrir botni Helguvíkur. Hún samanstendur úr fjórum samföstum torfhúsum sem virðast snúa í suður burt frá víkinni. Norðar og nær sjónum eru tvö minni hús en sunnar tvö stærri hús og virðist hið vestara vera með standþili. Kannski eru þetta Melshúsabæirnir sem hafa þá verið sambyggðir.
Samkvæmt örnefnalýsingu stóðu Melshús hins vegar „áður fyrr norðanmegin við Helguvík; kálgarðar miklir voru þar“ en bæjarhúsin hafa síðan verið færð sunnar. Bæjastæði Melshúsa er nú komið undir íbúðahúsabyggð og veg.
Lambhagi (þurrabúð)
Þurrabúðin Lambhagi lá suður frá Melshúsum, úti á Melshúsagranda sem einnig var kallaður Lambhagatangi eða Lambhagi. Samnefnd þurrabúð var því í landi Melshúsa. Staðsetningin sést á korti Erlends Björnssonar sem segir að ábúandinn á síðari hluta 19. aldar, Hannes, hafi alltaf gert út skip á vertíðum. Samkvæmt örnefnalýsingum var býlið Lambhagi yst á tanganum eða syðst við ósinn en hann var „horfinn fyrir alllöngu“ þegar þær voru gerðar. Á Melshúsagranda er nú íbúðarhúsabyggð.
Brekka (býli)
Brekka, Halakot, Skógtjörn, Dómhildarkot, Lásakot, Haughús og nágrenni – kort.
Búseta á Brekku nær að minnsta kosti aftur til miðrar 16. aldar sé miðað við ritheimildir en jarðarinnar er getið í jarðskiptabréfi frá 1556 þar sem samþykkt er að eignarhald átta jarða, þar á meðal Brekku, færist frá Skálholtsdómkirkju til konungs.200 Árið 1703 er jörðin enn þá konungseign en jarðardýrleiki er óviss. Tún eru farin að spillast vegna sjávarágangs og átroðnings af almenningsvegi. Í Sýslu- og sóknalýsingum frá 1842 er Brekka sögð metin á 16 hdr. og var fáum árum áður seld í sjö pörtum þótt ekki hafi verið skráð lagaheimild fyrir því. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin komin í bændaeign og metin á 16 og 2/3 hdr. Á túnakorti frá 1917 kemur fram að jörðin er 12,2 teigar með hjálendum, tún að mestu sléttuð en þó nokkuð farin að þýfast aftur. Samtals hafa garðarnir á Brekku náð yfir yfir um 3000 fm2 svæði en þá eru þeir sem eru við hjáleigurnar sennilega taldir með. Talað var um Brekkuhverfi en innan þess voru bæirnir Brekka, Brekkukot, Kirkjubrú og Núpskot.
Samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum voru auk þess tvö tómthús við Brekku en ekki kemur fram hvar þau stóðu.
Á túnakorti frá 1917 sést ferhyrnd bygging sem virðist vera úr timbri. Hún er hólfuð í þrennt og er syðsta rýmið stærst. Sennilega er þetta gamli bærinn á Brekku. Bæjarstæðið er á Granda, hrygg sem liggur allt vestur frá Hliði austur að Skerjafirði en „er einna hæstur um Brekku.“ Gamli bærinn var fast vestan við núverandi íbúðarhús sem byrjað var að byggja úr timbri árið 1939. Síðar var bætt við steinsteyptum byggingum með með kjallara.“
Eldri leifar bæjarhúsa má þá ef til vill finna undir núverandi íbúðarhúsi en gætu þó einnig verið í hæð rétt vestan við Granda. Sú hæð er 16 m á lengd, 15 m á breidd og 0,3-0,4 m á hæð og stendur upp úr annars sléttu túni.
Brekkukot (býli)
Á túnakortinu er býlið Brekkukot merkt inn ofan við kálgarðana vestan við Brekku. Ofan við bæjarnafnið er heitið Bjarnarkot sett í sviga með spurningarmerki. Hefur það þá kannski verið annað nafn á Brekkukoti. Býlið er ekki teiknað. Samkvæmt örnefnalýsingu stóð Brekkukot á svipuðum stað og íbúðarhúsið Smiðshús stendur nú, „beint vestur af Brekku c.a. 10 m vestan við merkin“ milli Brekku og Brekkukots. „Smiðshús var reist þar sem neðri kálgarðurinn var“ og telur heimildarmaður við örnefnasöfnun að Brekkukot „hafi staðið í efri (nyrðri) garðinum.“ „Brekkukotstún: Lá bæði norðan og sunnan bæjarins og eins að vestan.“
Kirkjubrú (býli)
Álftanes – kort.
Á túnakorti frá 1917 má sjá býlið Kirkjubrú, staðsett um 220 m austan við Brekku. Þar er þó einungis teiknað eitt lítið hús, líklega úr torfi. Það hefur stefnuna norður – suður og fyrir norðurgaflinum virðist vera opin tóft út að götunni sem liggur þarna framhjá. Við deiliskráningu árið 2004 hafði Kirkjubrú verið í eyði í nokkur ár en þar stóð gamalt steinhús, tvílyft með kjallara, og auk þess útihúsaskúrar sem ekki voru niðurgrafnir.
Af túnakortinu að dæma hefur bærinn áður staðið um 20 m vestan við stæði þess. Við skráningu á vettvangi 2004 var þar hóll, um 25 x 25 m á stærð en 0,5 m á hæð. Hann var nokkuð raskaður og miklar ójöfnur í honum en húsum hafði verið ýtt í suður niður hólbrekkuna og þar fyrir neðan var brak frá spýtum og steypubrot. Að sögn Friðriks Jóhannssonar ábúanda í Sviðholti stóðu útihús á hólnum í seinni tíð. Allt bæjarstæðið var því raskað af sléttun, niðurrifi og nýrri byggingum. Á þessum tíma var gamli bæjarhóllinn þó enn þá varðveittur og var hann skráður, hnitsettur og merktur á kort. Þrátt fyrir það hafa ný íbúðarhús verið byggð á staðnum síðan þá án nauðsynlegrar aðgæslu. Bæjarhóll Kirkjubrúar er því kominn undir byggð og er það miður. Engu að síður þarf að gæta að því í framtíðinni að leifar eldri bæjarins geta leynst undir nýrri byggingum.
Núpskot (býli)
Býlið Núpskot er ekki teiknað en nafnið merkt inn á túnakortið um 170 m austan við Brekku, suðvestan við Kirkjubrú. Samkvæmt örnefnaskrá var Núpskot „á miðju Suðurtúni Kirkjubrúar (Ath.: en talað var um Norðurtún og Suðurtún sitt hvoru megin í áðurnefndum hæðarhrygg [þ.e. Granda] – bæði frá Brekku og Kirkjubrú). Á rústum þess var kálgarður fram til 1940.“ Hann er teiknaður inn á túnakortið. Túnið kringum býlið nefndist einnig Núpskotstún og Núpsflöt.232 Þar sem Núpskot var áður var ávalur hóll, um 30 x 30 m að þvermáli og 0,3-0,4 m hár, við fornleifaskráningu árið 2004. Mörk hans voru þó óskýr þannig að hann rann saman við túnið í kring. Það hafði verið sléttað og rústirnar þá líklega verið jafnaðar við jörðu um leið. Landinu hallaði í suður og austur. Ekki sást til fornleifa á yfirborði en gert var ráð fyrir að hleðslur leyndust undir sverði.
Þrátt fyrir nákvæma skráningu hefur bæjarhóll Núpskots að hluta til lent undir nýrri íbúðarhúsabyggð.
Sýsluvegur (leið)
Sýsluvegurinn.
Í örnefnalýsingum segir: ,,Sýsluvegurinn: Lagður laust fyrir aldamótin 1900 austan frá Selskarði vestur milli Skógtjarnar og Brekku. Þjóðvegurinn: Sýsluvegurinn var einnig kallaður svo.“
„Áður mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur um Suðurnesið og var byggður nokkru fyrir aldamótin.“
Hér er vísað til girðingarstæðis eða túngarðs sem varðveittur er að hluta en vestast meðfram honum liggur upphlaðinn beinn vegur. Stefnan er fremur á nýrra bæjarstæði Selskarðs en hið eldra. Vestar er tún ofan vegarins en austar framræstar mýrar og þýfi.
Vegurinn er orðinn talsvert úr lagi genginn enda byggður á mjög blautu undirlagi. Hlaðið hefur verið undir hann með grjóti. Hleðslur eru 0,2-0,4 m háar að sunnan en lægri að norðan því örlítill halli er á landinu. Vegurinn er að minnsta kosti 400 m langur og víðast um 2 m breiður. Hann liggur í suðaustur – norðvestur. Gerðar hafa verið vegabætur á nokkrum stöðum, til dæmis hlaðið ræsi í gegnum veginn til að koma í veg fyrir að vatn safnaðist ofan hans. Stungið hefur verið fyrir ræsinu og það lagt hellum sem eru reistar á rönd og að lokum lagðar hellur yfir.
Grásteinn (landmerki/álfasteinn)
Grásteinn.
Nokkrar örnefnalýsingar segja frá Grásteini, stórum steini „á Brekkugranda við vegamótin.“ Hann er „fast norðan við veginn, sem liggur út á Suðurnes“. Í hann lágu landamerki Sviðholts og Brekkukots. Grásteinn er um 290 m norðaustan við Brekku og 700 m austnorðaustan við Sviðholt. Hann er um það bil 10 m norðan Suðurnesvegar á náttúrulega hryggnum Granda. Samkvæmt örnefnaskránni býr huldufólk í Grásteini. „Eitt sinn var reynt að kljúfa Grástein og sjást enn þá fleygaförin í honum. Þegar menn voru byrjaðir að kljúfa sýndist þeim húsin á Eyvindarstöðum standa í loga og fóru að athuga. Reyndist þá ekki vera kviknað í. Önnur tilraun var gerð til að kljúfa Grástein og fór allt á sömu leið. Hefur það ekki verið reynt síðan.“
Hvort huldufólk eigi bústað í steininum skal ósagt látið en fleygaför eru vel greinanleg í honum.
Kumlamýri (kuml)
Kumlamýri.
Í Jarðabókinni árið 1703 segir um Brekkuland: „Torfrista og stúnga fer mjög til þurðar.“ Ekki er vitað hvar mór var tekinn í Brekkulandi en það gæti hafa verið í Kumlamýri.
Samkvæmt örnefnalýsingu er hún austan Kirkjubrúartúns og „nær að Lambhúsatjörn. Nær því austast í henni liggur nú þjóðvegurinn út á Álftanes.“
Kumlamýri er framræst og sléttuð. Sléttað túnið er skorið af skurðum og mýrin hefur áður verið slegin þannig að örnefnið gæti vísað til heykumla. Mýrin gæti þó einnig verið kennd við kuml sem virðist mega sjá austan megin í henni. Við Lambhústjörn, rétt austan þjóðvegarins eru tveir reglulegir hólar. Sá þeirra sem er norðar og nær hringtorginu er greinilega manngerður og sá syðri mögulega líka.
Breiðabólsstaðir (býli)
Breiðabólstaðir.
Breiðabólsstaðir voru meðal jarða sem Þorvarður Erlendsson hafði til kaups við brúðkaup þeirra Kristínar Gottskálksdóttur og eru nefndir í kaupmálabréfi hjónanna árið 1508:. ,,voru þessar jarder til greindar j þennan sama kavpmala. […] Breidabolstadir fyrir. xl.c.“
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var jörðin hins vegar komin í konungseign árið 1703, þá kölluð hálfbýli og hafði „ekki fyrirsvar nema að helmíngi.“
Jarðardýrleiki var óviss og þrönglent á sumrin. Mikill ágangur og landbrot var af sjónum og sjávarsandur olli túnunum skaða. Eins og fleiri jarðir á Álftanesi höfðu Breiðabólsstaðir selstöðu í Norðurhellrum í Heiðmörk og sölvafjöru á Lönguskerjum í Skerfjafirði. Ábúandi var Guðlaugur Grímsson og voru 11 manns í heimili. Ekki virðist því hafa verið tvíbýli eins og síðar á Breiðabólsstöðum.
Þegar manntal var tekið árið 1801 skiptist jörðin þó milli tveggja ábúenda. En árið 1847 voru Breiðabólsstaðir komnir í bændaeign og einungis var einn eigandi og ábúandi. Jarðardýrleiki var 20 5/6 hundruð. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru bæirnir síðan tveir þegar foreldrar hans, Björn Björnsson (1814-1879) og Oddný Hjörleifsdóttir (1838-1901), bjuggu á Breiðabólsstöðum á síðari hluta 19. aldar. Á móti þeim Bjuggu Erlendur Erlendsson hreppstjóri og Þuríður Jónsdóttir.
Breiðabólstaðir – túnakort 1917.
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 náðu tún jarðarinnar yfir þrjá teiga og voru sléttuð að mestu. Kálgarðar voru samtals 1792 m2 þannig að töluvert hefur verið ræktað af kartöflum og öðru grænmeti.
Land Breiðabólsstaða er flatlent og gróið. Skammt norðan bæjarins er sjávarkamburinn og var sjórinn stundaður af kappi. Austan bæjastæðisins er Breiðabólsstaðatjörn og enn austar Kálfskinn en svo nefnist norðuranginn af Bessastaðatjörn. Austast breiðir Eyrin úr sér, grasi gróin og flöt. Sunnan bæjarins eru þurrar grundir og enn þá sunnar Stekkjarmýrin niður að Bessastaðatjörn. Grund [783] hét áður hjáleiga Breiðabólsstaða norðaustur upp af Kálfskinni.
Nú er Grund hins vegar húsið sem er áfast gamla bænum eða steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Önnur nýbýli á jörðinni eru Hvoll suður af bænum og Jörfi suðvestur af honum, nær Kálfskinni. Breiðabólsstaðir voru teknir eignarnámi í stríðinu og var reistur kampur [812 o.áfr.] á svæðinu þar sem Jörfi er nú.
Á túnakorti frá 1917 má sjá að steinhúsið sem byggt var á Breiðabólsstöðum árið 1884 hefur verið staðsett nokkru norðar á bæjastæðinu en hin húsin. Eftir að það var byggt fluttu ábúendur sig þangað og enn þá er búið í þessu húsi. Nú hefur íbúðarhús nýbýlisins Grundar auk þess verið byggt við gamla steinhúsið. Þar eð löngum var tvíbýli á Breiðabólsstöðum hefur þó væntanlega líka verið búið í einhverjum þeirra húsa sem voru í húsaröð suðaustan við steinhúsið.
Bæjastæðið er slétt frá náttúrunnar hendi, þurrt og gróið. Breiðabólsstaðatjörn er austan bæjar og sjórinn norðan við. Eiginlegur bæjarhóll sést ekki en örlítill aflíðandi halli er þó frá gamla steinhúsinu [781] og nýbýlinu Grund niður að tjörninni. Ætla má að núverandi byggingar standi á hinu forna bæjastæði Breiðabólsstaða og að þarna hafi bæirnir staðið um aldir. Ef bæjahóll Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi 2019 hefur náð að safnast upp á þessum stað hefur alveg verið sléttað úr honum við byggingu nýrra húsa.
Breiðabólstaðir skv. túnakorti.
Í endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstöðum, Sjósókn, segir eftirfarandi: Erlendur Erlendsson hreppstjóri „bjó í stóru steinhúsi sem hann byggði árið 1884. Það er fjórtán álnir á lengd, en níu álnir á breidd með kjallara og portbyggt. Á vertíðum voru fjörutíu manns í húsi þessu. Húsið er byggt úr klofnu og höggnu grjóti, sem tekið var víðsvegar í landareigninni. Grjótið var klofið þar, sem það var, og allt borið heim á tveggja og fjögurra manna börum, en höggvið og lagað betur heima. Veggirnir voru tvöfaldir og loft á milli, og yfir gluggum og dyrum voru drangar svo langir, að þeir náðu alveg yfir. Er hús þetta að öllu leyti ágætt enn í dag. Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi [799], er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða […] Í kjallaranum í húsi Erlends voru þrjú herbergi, búr, eldhús og sjómannaskáli, sem var helmingur kjallarans. Voru þar tuttugu manns. Á hæðinni fyrir ofan voru þrjú herbergi, stofa fyrir gesti kvennaherbergi, – voru þar átta konur, – svo var helmingurinn af hæðinni kallaður baðstofa, og voru þar húsbændur og heimafólk, fjórtán manns. Var þar unnin ullarvinna og hampvinna á vetrum. Þar var líka vefstóll […] Uppi á loftinu var geymsla.“
Steinhúsið á Breiðabólsstöðum var friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins: „Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var byggt […] úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. […] Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.
Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og er verið að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu.
Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað.“
Akrakot (hálfbýli)
Akrakot – túnakort 1917.
Um Akrakot segir í Jarðbókinni árið 1703: ,,hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki nema helmíngs fyrirsvar á móts við lögbýlissjarðir, hefur í manna minni, innan 60 ára, bygð verið úr Bárhaukseyrar landi á fornum tóftum, sem sumir hyggja fyr hafi bygðar verið og kallað Akrar. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat.“48 Við Jarðatal Johnsens árið 1847 var Akrakot komið í bændaeign og eigandinn bjó sjálfur á jörðinni sem metin var á 12 hundruð. ,,Túnið fordjarfast af sands og sjáfar ágángi“50 segir í Jarðabókinni en samkvæmt túnakorti voru Akrakotstúnin árið 1917 sléttuð að mestu og náðu yfir samtals 2,2 teiga heima við bæinn og við Breiðabólsstaði. Matjurtagarðar voru alls 380 m2.51 Sölvafjara var nægileg og var þangbrennsluverksmiðja rekin í Akrakoti í nokkur ár í byrjun 20. aldar. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru tveir ábúendur á Akrakoti og virðist því hafa verið tvíbýli þar á síðari hluta 19. aldar.
Á túnakorti árið 1917 er teiknað stakt hús innan kálgarðs og þar hjá ritað „gömlu bæir“ innan sviga.
Væntanlega hefur gamli Akrakotsbærinn því staðið þarna rétt sunnan við stærri byggingu, hús þangbrennsluverksmiðju frá því um 1900 sem er sýnt á kortinu og stendur enn á sama stað, nú sem íbúðarhúsið í Akrakoti eða við Blikastíg 16. Lóðin umhverfis íbúðarhúsið er fremur slétt eins og grundirnar víða á Álftanesi en ójöfnur eru í henni þar sem gamli bærinn hefur staðið miðað við túnakortið. Engar leifar frá honum eru þó sýnilegar á yfirborði.
Þangbrennsluverksmiðja (iðnaðarhús)
Norðurnes – örnefni. (JMJ)
Á túnakorti Akrakots má sjá hús þangbrennsluverksmiðjunnar um 10 m norðan gamla bæjarins. Húsið var byggt rétt eftir aldamótin 1900 og stendur enn þá í nokkuð breyttri mynd, nú sem íbúðarhúsið við Blikastíg 16. Austasti hluti hússins er að stofni til gamla þangbrennsluverksmiðjan sem var starfrækt á árunum 1904-1908: „Til vinnslunnar voru reist talsvert umfangsmikil mannvirki. Á víð og dreif um túnin voru settir staurar og vírar strengdir á milli og var þarinn lagður á þá til þurrkunar […] Byggt var stórt steinhús í Akrakoti til þess að brenna þarann í. Eftir endilöngu var steyptur ofn. Fjögur steypt hólf voru til að brenna þarann í og tvö þar sem kol voru brennd.“66 Áberandi strompur stóð lengi við austurgafl hússins og minnti á upphaflegt hlutverk þess en hann hefur nú verið rifinn frá húsinu. Það var breskt félag sem stundaði þarabrennslu á Akrakoti og var hann fluttur út til Skotlands til joðframleiðslu. Á síðustu áratugum hefur húsið svo verið stækkað örlítið og byggður bílskúr norðan við gamla bæjarstæðið.
„Þangbrennslan , er fór fram í Akrakoti hér á Álptanesi síðastl. vetur, mun nú verða aukin að mun, þar sern verið er að reisa þar stórt steinsteypuhús, til þess að brenna þarann í. Síðastl. vetur varð að þurrka þarann, áður en brennslan gat farið fram, og gekk það opt illa vegna óþurrkanna, sem opt eru hór syðra, en nú kvað þarinn verða brenndur, án þess hann sé fyrst þurrkaður.
Það er brezkt félag, sem stundar þarabrennslu þessa, en forstöðumenn fyrirtækisins hér á landi eru hr. Jón Vestdal og Daníel ljósmyndari Daníelsson í Reykjavík.“
Akrasteinn (þjóðsaga/álagablettur)
Akrasteinn.
Í örnefnalýsingum segir frá álagasteini í Akrakotstúni: ,,Akrasteinn: Stór steinn suður á túninu. Álagasteinn.“ Honum fylgja þau ummæli, að hann megi ekki hreyfa. „Steinn þessi er nyrzt í svonefndu Torfholti, grýttu og þýfðu.“ Akrasteinn er um 185 m suðvestur frá Akrakoti. Í túninu er að finna einn stakan stein og síðan rétt sunnan við hann eru nokkrir steinar saman. Sennilega er þessi staki steinn Akrasteinn. Túnið í kringum hann er nú þýft og gróið og svæðið notað fyrir hrossabeit.
Brighton kampur (herminjar)
Minjar í Brighton-kampi.
Það var á sunnudagsmorgni vorið 1940, að kvenfélagskonur voru á leið frá Bjarnastöðum með fötur sína og kústa. Þær höfðu nýlokið við að þrífa húsið, en þar hafði verið dansleikur kvöldið áður. Þegar þær nálguðust Grandann blasti við þeim undarleg sjón, þar sem endalaus runa af einkennisklæddum mönnum marseraði eftir Álftanesvegi en svo segir frá í Álftanessögu. Þetta átti eftir að breyta lífinu á Álftanesi næstu árin, herinn reisti hverfið Brighton á Breiðabólsstöðum og þegar mest var voru 500 hermenn á svæðinu. Herstöðin var reist til að verja Reykjavíkurflugvöll. Fyrst voru það Bretar en síðar Bandaríkjamenn. Sveinn Erlendsson á Grund varð að hætta búskap vegna þess að hann missti allt sitt land meira og minna undir umsvif hersins.
Með innreið hersins vorið 1940 var lagður malarvegur um nesið meðfram sjóvarnargarðinum. Þessi gamli vegur liggur enn þá eftir sjávarkambinum og fljótlega eftir að komið er framhjá Breiðabólsstaðatjörn beygir hann til suðurs í átt að bænum Jörfa. Við vegbrúnina austan megin blasir þá við stæðilegur lítill varðturn en við hann var inngangurinn í Brighton kamp.
Aðalbyggð hersins, svefnskálarnir, voru í slakkanum að sunnanverðu við Jörfa.
Minjar frá setuliðinu eru því allt í kringum bæinn, á hlaðinu og í túninu. Minjasvæðið teygir sig yfir um 300 x 250 m svæði vestan við Kálfskinn.
Varðturn (herminjar)
Álftanes – varðturn.
Turninn er hlaðinn úr ávölu sjávargrjóti og steinsteypt á milli. Hann er um 1,5 m að innanmáli og stendur vel undir þaki. Hann er sexhyrndur, með glugga á fimm hliðum en dyr á þeirri sjöttu. Lítið kringlótt op er þar sem tvær hliðarnar mætast gegnt suðri. Varðturninn er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Mikilvægt er að eitthvað verði gert til að reyna varðveita þetta hús.
Hlið (býli)
1395: ,,Svo margar jarder hafa vunder komit sidan pall aboti kom til videyiar. … Hlid. xvj. c.“ DI. III, 598.
1397: Máldagar Vilchins. ,,Peturskyrkia j Gordum a aaltanesei aa heimaland allt. Havsastder. selskard. hlid…. .“ DI. IV, 107.
1477: Ágrip af Garðamáldaga og Álptanesi. ,,Pieturskirkia j gordum a alftanese a heimaland allt. hausastade. selskard. hlijd. … .“ DI. VI, 123.
1558: Garðakirkja hefur jarðaskipti við umboðsmann konungs, ,, … jeg hefe under köngsins eign til Bessastada tekid jördina Hlid. er liggur a Kongsznese. … .“ DI. XIII, 317. Mikið útræði var frá Melshöfða sem liggur suðvestur frá Hliðstanga. Melshöfða er getið í fógetareikningum yfir leigu, landskyldur og skreiðargjaldsreikninga af konungsjörðum frá 1547-1548.
Einnig í fógetareikningum frá 1552 og 1553. DI. XII, 125,184, 567-568, 591, 595. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus…Jons Marteinssonar hus…Jonshus… Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð.“ Jarðardýrleiki árið 1703 er óviss. Fram kemur að: ,,Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar,…“. JÁM III, 195. Í Jarðtali Johnsens frá árinu 1847 er jarðadýrleiki 20 5/6 hdr. og jörðin er enn í konungseign. JJ, 93. Margbýlt var á Hliðstanga. Árið 1870 var ein þurrabúð hjá Neðra-Hliði og fjórar við Gamla Hlið 065 . EB. Sjósókn 33-34.
Árið 1989 eignast Bessastaðahreppur jörðina. AÓB, 220. Nú er eitt íbúðarhús á Hliðstanga, norðan við bæjarstæði Neðra-Hliðs.
Túnakort árið 1917: Tún (slétt) 3,1 teigar, garðar 1790 m2. 1703:,,Tún jarðarinnar Hliðs brotna og fordjarfast af sjáfarágángi meir og meir.“ JÁM III, 195. Yst á Álftanesi er Hliðstangi: „Ysti og syðsti hluti hans [Hliðstanga] nefnist Melshöfði. Það var einn helsti útróðrarstaður á Suðurnesinu í margar aldir.“AÓB. Hliðstangi er vel gróinn og hallar landið mót suðri. Sjó hefur brotið mikið af landinu, tugi metra frá því túnakort var gert 1917. Melshöfði er nú strípaður gróðurlaus klettatangi sem fer í kaf á flóði.
Efra-Hlið (býli)
Bærinn Efra-Hlið stóð á Hliðstanga, þar sem Grandinn er hæstur. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó sem hefur brotið mikið af landi á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til en Þvottatjörn 058 er þar í fjöruborðinu, u.þ.b. 100 m frá Efra Hliði.
Í örnefnaskrá segir: „Hlið: Forðum stórbýli á Álftanesi. s.v. horni þess. Var í eigu Garðakirkju til 1556, að konungur skifti á því fyrir Vífilstaði og milligjöf, svo sem mjöltunnu, sem aldrei galzt af konungsins valdmönnum. Þar var margt þurrabúða. og þar var margbýlt jafnaðalega.“ Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, Sjósókn, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að þá eru á Hliðstanga eru þrjú býli: Gamla-Hlið, Efra-Hlið og Neðra-Hlið. Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 vegna landbrots og á túnakortið frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla Hlið 2 býli var hér. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Við eyðingu Gamla Hliðs hófst nafnaruglingur og hefur Efra-Hlið stundum verð kallað Gamla-Hlið og ekki er ólíklegt að Gamla Hlið hafi einnig kallast Efra-Hlið áður fyrr enda segir í örnefnaskrá segir: „Efra Hlið: Svo var Gamla-Hlið einnig kallað.“
Einnig kemur fram í örnefnaskrá að bærinn Efra-Hlið var kallaður Kristjánshlið þegar maður að nafni Kristján [Jónsson] bjó þar seint á 19. öld. AÓB.
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Efra-Hliði bjó Kristján Mathiesen, ríkur maður og um leið einn merkasti maður sveitarinnar. Hafði hann útgerð mikla, venjulegast fjögur skip, tvo áttæringa og tvö sexmannaför.“Þegar túnakort var gert fyrir Hlið 1917 eru bæjarhúsin á Efra Hliði úr torfi og grjóti. Húsin snéru þremur burstum til suðurs og eitt hús sambyggt var norðan til. Við bæinn að norðan var kálgarður en bæjarhlað að sunnan. Sunnan bæjarhlaðsins voru einnig kálgarðar og greinir örnefnaskrá frá því að matjurtagarður á hlaðinu hafi heitið Sandagarður.
Stórt hús var reist í Efra-Hliði snemma á 20. öld og má sjá mynd af því Álftaness sögu bls. 219. Það hús brann á seinni hluta 20. aldar. Öll ummerki um Efra-Hliðsbæ og mannvirki umhverfis hann eru horfin. Rústir hafa verið sléttaðar og ekki sést móta fyrir þeim á yfirborði.
Neðra-Hlið (býli)
Hlið.Inn á túnakort frá 1917 er Nýja-Hlið merkt, um 180 m VNV við Gamla-Hlið, á vesturhluta Hliðstanga. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra-Hlið stóð.“
Bærinn á Nýja-Hliði stóð talsvert lægra en Efra-Hlið og var því heitið Neðra-Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bærinn stóð á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda, sem býlin á Suðurnesinu eru mörg hver staðsett á. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins.
Í örnefnaskrá kemur fram að á Neðra-Hliði var tvíbýli. Neðra-Hlið gekk einnig undir heitunum Nýja-Hlið og Jörundarhlið. Þar var þurrabúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1917 sést að þá var bærinn úr torfi og grjóti og sneru burstirnar tvær til suðurs. Sambyggt að norðan til var eitt hús. Kálgarður var kringum bæinn vestan til. Öll ummerki bæinn og kálgarðana sex sem voru sunnan, og austan við bæinn eru horfin. Bærinn hefur verið rifin og rústirnar sléttaðar í tún. Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Neðra-Hliði bjó Ketill Steingrímsson…[hann] hafði alltaf mikla útgerð, þetta tvö og þrjú skip.“ EB.
Hús Jóns Björnssonar (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir:,,Hjáleiga af Hliði kend við þann, sem ábýr í hvört sinni, og nú kölluð Jóns Björnssonar hús. …Jarðardýrleiki er óviss. … Túnum hjáleigunnar spillir sjór árlega. Selstöðu nýtir ábúandi ásamt heimabóndanum.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.
Hálfdánarhús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: ,, Hjáleiga önnur ónafngift, kend í hvört sinn við þann sem á býr og nú kölluð Halfdanarhús. Jarðardýrleiki er óviss. … Túnið brýtur sjór, sandur og veður. Selstaða er ásamt heimajörðinni brúkuð.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.
Lonshus (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: ,,Jarðardýrleiki er óviss. … Túnunum spillir sands og sjáfarágángur. Vatnsból og selstaða er sem á heimajörðinni.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Hún fær hnit með Efra-Hliði.
Kastiansshus (býli)
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: Tómthús kallað Kastiansshus…Eldiviðartak af móskurði ásamt heimabóndanum. Vatnsból sama sem heima á jörðinni Hliði…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.
Hús Jons Marteinssonar (býli)
Á Álftanesi.
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jons Marteinssonar hus, tómthús…Eldiviðartak ásamt heimajörðinni. Vatnsból sama sem heima á jörðinni [Hliði]….Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.
Jónshús (býli)
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jonshus, þriðja tómthús í sama stað [þ.e. Melshöfða]. Það halda Bessastaðamenn undir sínum umráðum og so hefur lengi verið…Eldiviðartak og vatnsból ásamt Hliði. Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.
Verbúð
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus…Jons Marteinssonar hus…Jonshus…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð“.
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.
Hliðskot (býli)
,,Hliðskot: Svo var eitt býlið kallað vestast í túninu [í Hliði]. Partur sá var gefinn Álftaneshreppi 1836…,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur nú brotið mikið land af vestanverðu nesinu og má heita öruggt að Hliðskot sé horfið í sjóinn, sbr. útihús.
„Sveitaparturinn: Hliðskot var einnig kallað þessu nafni. 1910 rak þar hval, en þá átti Hafnarfjörður partinn.
Hvalurinn reyndist Andarnefja kasúldinn,“ segir í örnefnaskrá. Hliðskot hefur sama hnit og útihús og Hliðkotsvör. Það var tekið vestast á Hliðstanga.
Litli bærinn (býli)
Hlið.
„Þurrabúð við Kristjánshlíð [sama og Efra-Hlið,“ segir í örnefnaskrá. Litli bærinn hefur staðið nálægt Efra-Hliði, en ekki er vitað hvar.
Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðsvegur lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó, en mikið land hefur brotnað af sjávargangi síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
Ekki sést til fornleifar.
Gula húsið (býli)
„Gula húsið: Svo var gesthús Kristjáns [Jónssonar] í Hliði kallað. Á hlaðinu…Kinn: Svo var slétta kölluð, er lá framan við Kristjáns Hlið. Þar stóð hús sem kallað var „Gula húsið“,“ segir í örnefnaskrá. Gula húsið hefur verið í hlaðvarpanum sunnan við bæinn.
Bærinn stóð á háhæðinni en aflíðandi halli er niður að sjó sunnan til.
Kristján Jónsson bjó á Hliði seinni hluta 19. aldar. Þegar túnakortið er gert 1917 er Gula húsið horfið af bæjarhlaðinu.
Sandhús (býli)
Hlið – friðlýsing 2020.
Í örnefnaskrá segir:,,Sandhús: Svo hét eitt býlið á Hliði, suð-vestur frá Hliðsbæjum. Það stóð þar sem Melshöfði byrjaði.“
Sjávarágangur hefur brotið mikið af Melshöfða og það sama á við um suðurströnd Hliðstanga. Sandhús voru á þessum slóðum og eru horfin í sjóinn. Það var að líkindum nálægt Sandhúsavör 063. Sandhúsavör er sýnd á korti Erlends Björnssonar í bókinni Sjósókn, sem sýnir örnefni og bæjarskipan á Álftanesi um 1870, og fá Sandhús hnit með vörinni.
Pétursbúð (býli)
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Hjá NeðraHliði var Pétursbúð, er var þurrabýli.“ EB. Ekki er vitað hvar Pétursbúð stóð.
Grasi gróið og þýft er á bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bæjarstæðið er á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins. Ekki sést til fornleifar.
Gamla-Hlið (býli)
Gamla Hlið stóð u.þ.b. 100-120 m ANA við Efra-Hlið, en bæjartóftirnar eru nú horfnar í sjó eða sléttaðar í túnið. Ekki sjást neinar leifar bæjarins á yfirborði.
Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lá áður. Mikið land hefur brotnað í sjó á þeim stað sem bærinn var á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, Sjósókn, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að á Hliðstanga eru þrjú býli: Gamla Hlið, Efra Hlið 001 og Neðra-Hlið 006. Í Sjósókn segir ennfremur: „Á Gamla Hliði voru fjögur þurrabúðarbýli, gerðu þeir bændurnir út í félagi tvö skip.“ EB. Gamla Hlið lagðist í eyði vegna landbrots og á túnakort frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla-Hlið 2 býli var hér [þ.e. fast austan við Hliðstúngarð. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 og þá fluttist nafnið yfir á Efra-Hlið. Í örnefnaskrá segir: “ Efra Hlið: Svo var Gamla-Hlið einnig kallað.“ Að líkindum hefur Gamla-Hlið einnig verið kallað EfraHlið, en nafnið færst yfir á Efra-Hlið þegar gamli bærinn féll í eyði. Sem dæmi um hversu mikið landbrotið er, segir í örnefnaskrá: „Gamla Hliðsbakki: Svo var bakkinn kallaður bak við bæinn. 1900 var hann orðinn örmjór, svo rétt mátti ganga þar bak við bæ.“ Ójöfnur eru í sverðinum kringum veginn og austan við Hliðstúngarð, e.t.v. eru einhverjar leifar Gamla Hliðs þar undir sverði.
Skjónasteinn (áletrun)
Skjónaleiði.
„Skjónaleiði: Lítil þúfa í Hjallavelli þar var 1807 heygður hestur Jörundar bónda Ólafssonar á Hliði er Skjóni hét. Skjónasteinn: Á þúfu þessari eða leiði liggur steinn. Á hann er klöppuð vísa þessi. Ofan við vísuna er ártalið 1807. Heygan Skjóna hér ég tel/þessi Jörsa þjenti vel/Hestinn bezt að liði./Þegar hann bjó á Hliði,“ segir í örnefnaskrá. Ennfremur segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu þar sem Neðra-Hlið stóð.“ 10 m vestan við vesturgafl gerðis er Skjónaleiði. Það er 160 m suðvestan við bæjarstæði Efra-Hliðs og u.þ.b. 30 m frá bæjarstæði Neðra-Hliðs.
Hjallavöllur er í aflíðandi brekka mót suðri, sinuvafin og þýfð.
Skjónaleiði er þúfa, 1 x 1,5 m stór og snýr vestur – austur. Það er 0,3 m hátt og á því miðju er flatur steinn með áletrun. Það sem sést af steininum er 40 x 30 sm. Steinninn er meira en hálfur á kafi í sinu en og sokkinn í þúfuna.
Heimild:
-Fornleifaskráning, Deiliskipulag á Norðurnesi – Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi 2019.
-Fornleifaskráning á Álftanesi, Deiliskipulag Miðsvæði og Suðurnes – Fornleifaskráning á Álftanesi, Miðsvæði og Suðurnes 2019.
-Deiliskráning í Bessastaðahreppi: Fornleifaskráning á völdum aðalskipulagsreitum, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.
-Þangbrennslan, Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi 20:52-53 (1906), bls 211.
Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)
Landnám Ingólfs – II
Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.
Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.
Landnáma – endurgerð.
Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.
Blaðsíða úr Íslendingabók.
Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.
Ingólfur landnámsmaður
Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.
Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).
Landnámið
Landnámið.
Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.
Búfé.
Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.
Landnámsliðið: Frændur og venslamenn
Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.
Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.
Landnám Ingólfs – skipting.
Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.
Jaðarsvæði
Landnámið – landnámsmenn.
Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.
Þórir haustmyrkur nam Selvog.
Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.
Framkvæmd landnámsins
Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.
Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.
Farkostur landnámsmanna.
Grindarvík – merkar minjar
Árið 2001 var gerð svæðaskráning um „Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.
Krýsuvík
Krýsuvíkurkirkja 1945.
Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.“ DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á „Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.“ DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.“ DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, „og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.“ – DI VII, 324. 1563: „Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.“ DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.
Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).
Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. „Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).“ Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: „Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.“ JÁM III, 7.
1840: „Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.“ SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. „Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.“ Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.
Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)
Í Gvendarhelli.
„Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.“
„Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.
Hústóft framan við Gvendarhelli.
Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.
Herdís og Krýs og smali (dysjar)
Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.
„Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …“ segir í örnefnalýsingu. „80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Dysjar tvær eða vörður („Krýs og Herdís“) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.“ Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: „Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.“ Kålund I, 29. 1950:
Dysjar Herdísar og Krýsu.
„Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.
Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.
Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.“ Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: „Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.“
Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
„Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.“
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.“ ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: „Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.“ [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.
Skálatóft í Húshólma.
1840: „Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.“ Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: „Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.“ – ÞT Ferðabók I, 189-90. „Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.
Húshólmi – skálatóft.
Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.
Húshólmastígur.
Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.“
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu „sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.“ Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) „Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er „Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er „Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.“ Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: „Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.“
Óbrennishólmi (fjárskýli)
Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.
„Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.“ segir í örnefnalýsingu. „Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.“ segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. „Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.“ segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.“
8.8.1979: „Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.“ segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.
Ögmundastígur (leið)
Ögmundarstígur.
„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.“
Ögmundarstígur.
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
Ögmundarleiði (legstaður)
Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.
„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.
Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.
Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.“ „Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …“
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.
Hettuvegur (leið)
Hettuvegur.
„[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.“
1883: „Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.“ – ÞT Ferðabók I, 184.
Ketilstígur (leið)
Ketilsstígur.
1755: „Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.“ segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. „Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.“
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: „Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.“ Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: „Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.“ SSÁ, 222.
1879: „Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.“ Kålund I, 29.
Sogasel (sel)
Í Sogaseli.
„Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: „Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.“
Selatangar (verbúð)
Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.
1703: „Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: „Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. „Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. „Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.“ Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.
Selatangar – verbúð.
„Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“ Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.“ „Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Tangadraugur (draugur)
„Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann „fyllti út í fjallaskörðin“ að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.“
Vigdísarvellir (sel/bústaður)
Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.
1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.“JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“ “ … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.“ – ÞT Ferðabók I, 184.
Bali (bústaður)
Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“
Ísólfskáli (bústaður)
Ísólfsskáli 1920.
16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“ JÁM III, 8-9.
Ísólfsskáli.
1840: „Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“, segir í örnefnaskrá.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“
Selsvellir (sel)
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
„…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: „Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.“ – JÁM III, 22. 1840: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.“ segir í sóknarlýsingu og ennfremur: „Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.“ Landnám Ingólfs III, 134. 1844:
Á Selsvöllum.
“ … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins „leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu“. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir „óhemju átroðning og yfirgang“.“ GB Mannlíf, 43-44. 1883: „Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: „Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.“ – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.
Drykkjarsteinn (þjóðsaga)
Drykkjarsteinn.
„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.“, segir í örnefnaskrá AG. „Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“, segir í örnefnaskrá.
„Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1840: „… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.“ segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: „Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.“ ÞT Ferðabók I, 180.
Hraunssel (sel)
Hraunssel.
„Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.“, segir í örnefnaskrá.
„…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: „Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.“ segir í sóknarlýsingu. 1883: „Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: „Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.“
Hraun (bústaður)
Hraun við Grindavík.
26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.
Brunnur á Hrauni.
1703: „Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.“JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: „Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.“ Landnám Ingólfs III, 140.
„Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.“SSG
Bænhús (kapella)
Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.
1840: „Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“ segir í sóknarlýsingu. „Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með „Lónalandi“, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um „Lónaland“ og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og „…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í „Lónalandi“, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á „Lónalandi“ (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).“ Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku „sem kom frá Hrauni“ – Saga Grindavíkur I, 108-109.
Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.
1840: „Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“SSG.
„Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.“, segir í örnefnaskrá AG. „Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.“, segir í örnefnaskrá LJ. „Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.“ Saga Grindavíkur I. „Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.“ Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. „Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.“, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.
Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.
En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.“ BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: „Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið „Húsið“. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
„Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): „Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás“. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.“ KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: „5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.“
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.
Dalssel (sel)
Í Dalsseli.
„Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.“, segir í örnefnaskrá AG.
Sandakravegur (leið)
Sandakravegur.
„…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“ segir í sóknarlýsingu.
Dúnkhellir (hellir)
Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).
„Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…“ KE.
„… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.“KE. „Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.“ segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.
Þorkötlustaðir (bústaður)
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 12, 14.
Þórkötlustaðir 1935.
1840: „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ Landnám Ingólfs III, 139. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: „Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“ Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.
Þórkötlustaðanesviti.
En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum „eldaskdla“. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“BJ.
Þorkötlustaðaviti (viti)
„Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.“, segir í örnefnaskrá AG.
Vogavegur / Skógfellavegur (leið)
Skógfellavegur.
„Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…“, segir í örnefnaskrá AG.
„Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.“, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er „afleggjari“ af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Randeyðarstígur (leið)
Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.
„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.“, segir í örnefnaskrá LJ.
Látragötur (leið)
„Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.“, segir í örnefnaskrá LJ. „… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.“ segir í Sögu Grindavíkur I.
Eyrargata (leið)
Eyrargata.
„Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.“, segir í örnefnaskrá LJ.
Hóp (bústaður)
Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.
32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: „Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“JÁM III, 15. 1840: „Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.“ Landnám Ingólfs III, 138-39. „Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.“Ö-Hóp, 1.
„Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1902: „Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni.“BJ.
Goðatóft (álagablettur)
Hóp – Goðatóft.
„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…“, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Goðahús“ svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós“ – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: „Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.“ Árb. 1903, 46-47
„…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.“, segir í örnefnaskrá AG.
Selháls (sel)
Hópssel.
„Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.“, segir í örnefnaskrá AG.
Járngerðarstaðir (bústaður)
Járngerðarstaðir – gamli bærinn.
125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.“ Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.
Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.
Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“ Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: „Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…“ segir í örnefnalýsingu „Nokkur um Dalinn…Þessar „holur“ voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.
Gerðavellir (búðir)
Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.
„Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG. „Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 251. „Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. „Heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …“ segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.
Skipstígur (leið)
Skipsstígur.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.“ segir í sóknarlýsingu.
Baðsvellir (sel)
Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.
1703: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“ segir í jarðabók Árna og Páls. „Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.“, segir í örnefnaskrá AG.
Stekkjarhóll (stekkur)
„Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]“, segir í örnefnaskrá AG. „Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Gyltustígur (leið)
Gyltustígur (t.h.).
„Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.“, segir í örnefnaskrá AG.
Járngerður (legstaður)
Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.
„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: “ Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“BJ.
Engelska lág (vígi)
Engelska lág.
„Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …“ – „Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir „úti á Hellum“, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.
Virkið.
Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …“ segir í Sögu Grindavíkur I. „… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.“, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“ Skarðsárannáll.
Þjófagjá (þjóðsaga)
Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
„Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.“ segir í Sögu Grindavíkur I.
Húsatóptir (bústaður)
Húsatóftir.
33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: „Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.“ SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).
Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.
1703: „Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.“JÁM III, 20. 1840: „…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.“ Landnám Ingólfs III, 136.
1840: „Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…“ segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns“húsin“ hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóftum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.
Kóngshús (bústaður)
Húsatóftir – Kóngshús.
„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …“ Hjáleiga 1703. JÁM III
Búðasandur (verslunarstaður)
Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.
„Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.“ – GB Mannlíf, 21. „Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.“, segir í örnefnaskrá. „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.“ segir í sóknarlýsingu frá 1840. „Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
„Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.“ ÞT Ferðabók I, 179 „Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.“ GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …“ seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“ en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.
Prestastígur (leið)
Prestastígur.
„Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“, segir í örnefnaskrá.
1840: „Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.“ segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur
Byrgi (útilegumannabústaður)
Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.
„Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.“, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „“Útilegumannabæli“ svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.“ friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.“ ÞT Ferðabók I, 177-78. „Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.“, segir í örnefnaskrá.
Byrgi í Eldvörpum.
Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: „Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.
Byrgi í Eldvörpum.
En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.“ Árbók 1903. 1959: „Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.
Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.
Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.“ segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.
Árnastígur (leið)
Árnastígur.
„Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.“ GB Mannlíf, 23.
Staður (bústaður)
Staður.
Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).
1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …“ sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.
Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.
21.1.1925: „Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“ “ GB Mannlíf, 49.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.“ „Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.
Kirkjugarður / kirkja
Staðarkirkjugarður.
„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.
Sjávarhús (bústaður)
1840: „Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ segir í sóknarlýsingu. „Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.“ Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: „Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: „Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.“ GE Frá Valahnúk.
Staðarvör (lending)
Staðarvör.
Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.“ segir í örnefnalýsingu.
„Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.“ segir Guðsteinn Einarsson.
Básar (þjóðsaga / býli)
„Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.“
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Háleyjar (þjóðsaga / býli)
Háleyjar – tóft.
„Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
„Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.“ segir í Sögu Grindavíkur I.
Háleyjar – tóft.
Í örnefnalýsingu segir: „Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.“ sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.“ Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: „Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …“ sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.“ segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: „… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.“
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.
Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.“ Um 1860: „… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …“ ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.“ segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: „… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.“ segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. „Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.“ segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Krossvík (þjóðsaga / býli)
„Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.
Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
„Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.
Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
„Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar engum amnni byggjandi.“ hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.
Sundlaug
Sundlaugin á Reykjanesi.
„… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.“ segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar „U“ á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.
Gunnuhver (þjóðsaga)
Gunnuhver.
1841: „Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.“ – „Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.“ Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: „“Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.“ – MG. „… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá „Gunnu“ er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.“ Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510
Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
Grindavík.
Járngerðarstaðahverfi – bæir og nokkrar merkar minjar
Árið 2001 var gerð fornleifaskráning um, „Járngerðarstaði og hjáleigur“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.
Járngerðarstaðir
Jángerðarstaðir – gamli bærinn.
Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Gnúpur þessi fór til Íslands fyrir víga sakir og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann, uns byggðin spilltist af hraunstraumi. Eftir vetursetu á Höfðabrekku fór hann um vorið ásamt sonum
sínum vestur til Grindavíkur, og tóku þeir sér þar bólfestu. „Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans, og ekkert er vitað með neinni vissu um byggðina og sögu hennar næstu þrjár aldirnar.“
Heimildir um sögu jarðarinnar og ábúendur þar fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Í fornbréfum er jarðarinnar sjaldan getið nema helst í sambandi við fjöruréttindi. Er þó sýnt að hún hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar. Er Wilkinsmáldagi var settur, árið 1397, hafði Staðarkirkja í Grindavík eignast hálfa heimajörðina á Stað og að auki ítök í Húsatóttum, Járngerðarstöðum og Hrauni.
Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.
Áttatíu árum síðar, 1477, setti Magnús biskup Eyjólfsson kirkjunni nýjan máldaga og átti hún þá allt heimaland á Stað. Í þeim máldaga kom ekkert fram um eignarhald á öðrum jörðum í víkinni, en líklegt er að þær hafi þá allar verið komnar í kirkjueign.
Í manntali 1703 voru tíu hjáleigur á Járngerðarstöðum, engin þeirra er þó nefnd með nafni. Þá voru tíu í heimili á höfuðbólinu. Á árunum 1785-1791 voru flestar stólsjarðirnar seldar og hófst sala stólseigna í Grindavík 30. júlí 1785 með sölu jarðanna Hrauns og Ísólfsskála. Um sölu Járngerðarstaða hafa engin skjöl fundist en jörðin mun engu að síður hafa verið seld um þetta leyti Jóni Jónssyni, ættföður Járngerðarstaðaættar.
Í manntali 1801 voru Járngerðarstaðir tvíbýli með 8 hjáleigum.
1816 voru þeir einnig tvíbýli með 9 hjáleigum, þar af einu tvíbýli.
1845 áfram tvíbýli og 9 hjáleigur, þar af eitt tvíbýli. Á túnakorti sem gert var 1918 kemur fram að tún eru slétt og voru þau flestöll sléttuð stuttu áður en kortið var gert.
Járngerðarstaðir voru þingstaður Grindvíkinga.
Náttúrufar og jarðabætur
Járngerðarstaðir 1890.
Landamerki Járngerðarstaða 1889 voru: „Að vestan byrjuð: Frá Markhól við sjóinn beina stefnu á Stapafellsþúfu, þaðan á Arnarstein fyrir ofan Snorrastaða vatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli, þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi.“ Landamerkjum þessum var mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta.
Í lýsingu Grindavíkursóknar frá 1840-41 eftir sr. Geir Bachmann er svohljóðandi kafli um Járngerðarstaði: „Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utan túns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landskosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita.“
Á bls. 145-6 í sömu lýsingu segir: “ hlunnindi eru hér í sveit engi nema trjáreki, og ef menn kalla svo, allgóð sauðganga í fjörunni þá vel vetrar. …
Alla tíma eru kýr hér inni nema þá 2 mánuði, sem í seli eru. … Engin eru hér beitihús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni gjafarlaust og kemur aldrei í hús.
Það liggur undir upphrófluðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi. … Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi.“
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina. Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Norður- Gjáhús heita nú Vík, en SuðurGjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1)
Elsta heimild um húsakost og mannvirki í Vesturbænum á Járngerðarstöðum er úttekt frá 7. júní 1882, þar eru talin upp: baðstofa, göng frá baðstofu að bæjardyrum, bæjardyr, skáli frá bæjardyrum til eldahúss, eldahús og búr í norðurenda baðstofu. (J.Þ.Þ og G.M.H,58).
Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.
Völlur (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Völlur (byggður úr Kvíhúsum)…“ (Örn.,1).
Aðrar upplýsingar Skv. Guðjóni Þorlákssyni, sem býr í Vík, fór Völlur í miklu flóði 1924. Tóftin er að mestu horfin, þó sést aðeins móta fyrir henni í túninu ASA við Járngerðarstaði.
Gömlu-Rafnshús (hjáleiga)
Staður-loftmynd 1954.
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum, og þar eru Gömlu-Rafnshús um 150 m austar.“ (Örn.,3).
Loftskofi (hjáleiga)
Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.
Í manntali frá 1816 er Loftskofi hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 2 í heimili.
Nýibær (hjáleiga)
Í manntali frá 1816 er Nýibær hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 3 í heimili.
Lambhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hjáleigur eru .. Lambhús, önnur hjáleiga, bygð fyrir innan xx ár“.
Hlaðhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hlaðhús, níunda hjáleiga, gömul.“
Gullekra (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, …“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: Gullekra, hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.“
Rafnshús – Járngerðarstaðir fjær.
Krubba (verbúð)
Grindavík – sjóbúð.
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: …, Krubba,…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga var xx álnir.“
Litlu-Gjáhús (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: … Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Litlu-Gjáhús, hafði grasnyt. Landsskyld var l álnir.“
Skjalda (hjáleiga)
Skjalda.
Geir Bachmann segir svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Eyðikotið kallast Skjalda og liggur í vestur útnorður út við túngarðinn.“ (G.B., 137)
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipsöfnina.“
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eður iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag.
Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi.Og hýsti þá heimabóndi þá skipsöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.“
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.“
Járngerðarleiði
Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.
„Járngerðarleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum á Járngerðarstaðahverfi. Eg lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“ (B.J., 46)
Virki
Virkið ofan við Stórubót.
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki“
„Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið“ (J.Þ.Þ., 240).
Dys
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Tóku sig þá til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“
Sel
Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi,
þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar.“
Baðsvellir voru skammt frá Járngerðarstöðum, þar sem nú er skógræktarlundur Grindvíkinga, skammt fyrir norðan Selháls. (J.Þ.Þ.,165).
Akurhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir:…Akurhús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 18, eru Akurhús sögð „fimta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem um hinar.“
„Akurhús sópaðist af grunni í sjávarflóði 1925, en þá urðu nokkrir bæir að hólma.“ (Örn.,3).
„Akurhús, út við garð, rétt í suðurátt.“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137).
Tún
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn.,1).
Garðhús (hjáleiga)
Garðhús.
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Garðhús…“
(Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 eru Garðhús sögð gömul og jarðardýrleiki óviss.
„Hjáleigan Garðhús stóð nokkru austan við heimabæinn á Járngerðarstöðum, lítið eitt norðar en stórhýsið, sem Einar G. Einarsson reisti og enn stendur. Síðasti torfbærinn stóð fram á þessa öld, og var hann notaður sem verbúð í nokkur ár, eftir að steinhúsið var byggt. … Býlið var tekið út … 14. júní 1861, en blaðsíðan, sem úttektin er færð á er svo ílla farin, að litla vitneskju er af
henni að hafa um húsakost á hjáleigunni og ástand hennar. Þó má greina, að þetta ár hefur verið í Garðhúsum baðstofa, sem var sex álna löng með inngangi og hálf fimmta alin á breidd.
Hún var öll undir súð, með einu rúmi, og á henni var einn þriggja rúða gluggi. Fimm aðrar byggingar voru taldar í úttektinni …“ (J.Þ.Þ. og G.M.H,62-3).
Gjáhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Gjáhús (Norður-Gjáhús heita nú Vík, en Suður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum)…“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls, bls. 18 segir: „Gjahus, sjötta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
Í Manntali 1801, bls. 323 eru Gjáhús einbýli, en 1816 eru þau orðin tvíbýli.
Hóll (hjáleiga)
Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Hóll…“ (Örn.,1).
„Á Hóli bjuggu árið 1822 hjónin Sturlaugur Jónsson og Guðrún Jónsdóttir, en er þau fluttust brott, virðist hjáleigan hafa lagst í eyði um hríð. Árið 1840 var Hóll kominn í byggð á ný og hélst svo fram yfir aldamót.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,71).
Krosshús (hjáleiga)
Gjáhús og Krosshús 1930.
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Krosshús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 segir: „Krosshús, sjöunda hjáleiga, gömul hjáleiga.
Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Krosshús í austur líka, en lengra frá og út við túngarðinn“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137)
Elsta heimild um húsakost í Krosshúsum er úttekt frá árinu 1888. „Samkvæmt henni hafa bæjarhúsin verið fjögur: baðstofa, göng, bæjardyr og eldhús. Baðstofan var fimm ára gömul, hálf sjötta alin á lengd og fimm álnir á breidd. Hún var öll undir súð, ,,…sem er að sjá lítt fúin en nokkuð vatnssósa af megnum slaga,“ eins og segir í úttektinni. Baðstofan var þiljuð innan, með ,, fjalargólfi fyrir gangi“, fjögurra rúða glugga og tveim rúmum. Önnur bæjarhús voru minni og sýnilega í lakara ástandi.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,66).
Kvíhús (hjáleiga)
Járngerðarstaðahverfi – loftmynd 1954.
Kvíhús voru hjáleiga frá bænum Járngerðarstöðum í Grindavík. (Sjá Járngerðarstaði.)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Kvíhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Qví hús, þriðja hjáleiga yfir l ára gömul. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörð.“ (50 ára)
Kvíhús eru ekki nefnd í manntali 1801 né 1816, en 1845 eru þar 6 í heimili.
„Kvíhús í suður frá heimabænum. … Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjóaráfalli…“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum…“ (Örn., 3).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).
Langi (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Langi.“ (Örn., 1).
„Austan við Járngerðarstaði var kot, sem hét Langi, eins og áður er getið. Túnið milli Járngerðarstaða og Garðhúsa var Langatún.“ (Örn.,4)
Rafnshús (hjáleiga)
Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Rafnshús…“ (Örn., 1).
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð var 1703 bls. 18, voru Hrafnshús innan við 40 ára, þ.e. byggð eftir 1663. Jarðardýrleiki óviss.
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).
Vallhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Vallarhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Hjáleigur eru Vallarhús. Hefur verið um lángan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Vallarhús standa í suðurátt að heiman að sjá innan í öllum kotakransinum.“ (G.B.,137)
Staðhættir í Grindavík
Kort af Járngerðarstaðahverfi – ÓSÁ.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar.
Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en
svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru
Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Landnám og byggðaþróun
Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.
Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi1 Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.
Grindavík – Járngerðarstaðarhverfi 1958.
Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Járngerðarstaðahverfi 1946.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili. Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.
Grindavík – seilað í Norðurvör.
miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.
Saga Grindavíkur
Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.
Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.
Fiskveiðar og útgerð
Grindavík 1963.
Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhvers konar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Grindavík – fyrsta bryggjan í Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.
Landbúnaður
Grindavík 1925.
Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.
Járngerðarstaðahverfi
Grindavíkurkirkja – málverk eftir G. Scheving.
Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6 „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“
Grindavík – séð frá Þjófagjá.
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir.
Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Grindavík – gamli skólinn.
Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu.
Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Grindavík – Einarsbúð t.h.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.
Niðurstaða
Í Landnámu er sagt að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík ásamt sonum sínum. Elsta ritaða heimild sem minnist á Járngerðarstaði sjálfa er Wilkinsmáldagi frá 1397. Annars eru heimildir um jörðina fyrir 1700 af mjög skornum skammti.
Heimild:
-Fornleifaskráning, Járngerðarstaðir í Grindavík og hjáleigur. Þjóðminjasafn 2001.
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík – janúar 2015.
Járngerðarstaðahverfi – húsakort.