Hveragerði hefur að geyma marga áhugaverða staði, bæði hvað varðar upphaf bæjarfélagsins sem og sögu þess.
Listamannahverfið
Árin 1940-1965, bjuggu eða dvöldu fjöldi þekktra listamanna í Hveragerði,- skáld, rithöfundar, tónskáld, listmálarar og myndhöggvarar. Af þeim eru þekktust skáldin og rithöfundarnir Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, Gunnar Benediktsson, Sr. Helgi Sveinsson, Kári Tryggvason og Ólafur Jóhann Sigurðsson, tónskáldin Ingunn Bjarnadóttir og Árni Björnsson, myndlistamennirnir Höskuldur Björnsson, Kristinn Pétursson, Gunnlaugur Scheving og myndhöggvarinn Ríkarður Jónsson.

Hveragerði – söguhringur.
Ástæðan fyrir því að listamenn fluttu til Hveragerðis voru einkum þær, að hér voru lóðir ódýrar og ódýrt að kynda húsin með jarðhita. Jafnframt var það góð leið til að losna úr ys og þys Reykjavíkur í byrjun stríðs. En þó að listamennirnir hafi leitað út fyrir borgina í rólegra umhverfi er fjarri því að í kringum þá hafi ríkt nein lognmolla. Þeir létu sig varða öll mál sem til framfara og menningar horfðu og pólitíkin var oft á tíðum hörð. Hinsvegar stóðu allir sem einn maður þegar hin frægu garðyrkju- og listamannaböll stóðu fyrir dyrum, en „Blómaböllin“ í Hveragerði eru afsprengi þessara samkoma. Á slíkum gleðisamkomum voru allir vinir. Þekktust voru þau atriði þegar skáldin stigu upp á svið og kváðust á. Stundum sömdu þau annál ársins eða kvæði kvöldsins. Lausavísur þessara kappa urðu margar hverjar landsfrægar og á hvers manns vörum. Eflaust kannast margir við vísurnar sem fóru á milli þeirra Kristmanns og Jóhannesar úr Kötlum þegar þeir hittust einu sinni á símstöðinni. Þar sátu þeir og spjölluðu saman þar til Jóhannes segir allt í einu:
Lít ég þann er list kann,
löngum hafa þær kysst hann,
– Kristmann.
Þá svaraði Kristmann:
Einkum þó vér ötlum,
að þær fari úr pjötlum,
– í Kötlum.

Hvergagerði – Listamannahverfið.
„Listamannahverfið“ samanstendur af þrem götum. Bláskógar var gata listmálaranna, Laufskógar gata tónlistarmannanna, en flest settust skáldin að við götu sem nú nefnist Frumskógar, en var þá nefnd „Skáldagata“. Til að skoða hús skáldanna er hægt að ganga sem leið liggur vestur Heiðmörk, frá Breiðumörk. Einnig er hægt að taka á sig krók og ganga framhjá hverasvæðinu austanverðu. Þar liggur gatan Hveramörk. Við hverasvæðið er móttökuhús fyrir ferðamenn þar sem hægt er að lesa um jarðfræði og sögu þess, fara um svæðið og kynnast einstakri hveraflórunni.

Kristinn Pétursson.
Gegnt innganginum á hverasvæðið er húsið Helgafell. Þar bjó um tíma Ragnar bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Hann orti m.a. ljóð við lög Kaldalóns (Þú mildi vorsins vindur). Við enda Hveramerkur liggur göngustígur yfir hverasvæðið og endar við Bláskóga. Þegar gengið er niður eftir Bláskógum sést áberandi hús listmálarans Kristins Péturssonar, Bláskógar 6. Þegar Kristinn fluttist til Hveragerðis, haustið 1940, hafði hann þjáðst mjög af gigt og hingað leitaði hann sér heilsubótar í leir- og hveraböðin. Skömmu síðar hóf hann byggingu húss með stórri og myndarlegri vinnustofu. Húsið nefndi hann Seyðtún. Þá var Hveragerði orðið nokkur vísir að listamannabæ. Kristinn ferðaðist mikið um landið, rissaði upp myndir í fáum dráttum og vann úr því þegar heim kom. Haustið 1948 opnaði hann dyrnar að vinnustofu sinni og bauð þeim sem vildu að heimsækja sig og skoða verk sín. Í dag muna margir Hvergerðingar eftir Kristni, sem hávöxnum einfara með sitt síða gráa skegg. Fyrir þá sem vilja kynnast verkum hans skal bent á að nú er lunginn úr ævistarfi hans kominn á Listasafn ASÍ.

Höskuldur Björnsson.
Annar þekktur listmálari, Höskuldur Björnsson, bjó við Bláskóga. Hann fluttist hingað frá Hornafirði árið 1946, keypti húsið Leiðvöll (Bláskóga 2) og byggði við það vinnustofu. Höskuldur ferðaðist mikið um landið, og hélt til haga í myndum sínum ýmsu er honum virtist fornlegt, horfið þjóðlíf og minjar þess. Þekktastur var hann þó fyrir landslags- og fuglamyndir sínar, en þá voru fuglamyndir svo að segja nýtt viðfangsefni í myndlist. Þar túlkaði hann líf fuglanna, hátterni þeirra, liti, hreyfingar og viðmót. Þekking hans á fuglum var orðin slík, að honum tókst oftlega að draga fram sérkenni þessara vængjuðu vina sinna með fáum, stílhreinum dráttum. Á heimili Höskuldar var lengi rekið kaffihús eftir hans dag, þar sem gestir nutu veitinga hjá Hallfríði Pálsdóttur ekkju hans. Þar gafst fólki tækifæri á að skoða listaverk sem héngu á veggjum.

Gunnar Benediktsson.
Hér við hús Höskuldar erum við komin að Heiðmörk. Næsta gata vestan við Bláskóga, er „Skáldagatan“, Frumskógar. Í Vin, húsi númer 5 við Frumskóga, bjó séra Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir. Þau fluttu hingað haustið 1943 í Friðsteinshús (Bláskóga 15) og voru þar eitt ár. Þá keyptu þau Vin og bjuggu þar síðan. Þegar þau fluttu hingað lýsti Gunnar Hveragerði á þennan hátt: „Þá var Hveragerði mjög eftirsóttur staður smáborgurum í Reykjavík, sem efni höfðu á að hrófla sér upp skýli til athvarfs yfir sumarmánuðina sér til hvíldar úr ys stórborgarinnar.“ Það hafði þegar tekist hið elskulegasta bræðralag milli þessa sumarbústaðafólks og íbúa staðarins, þar sem listamenn og garðyrkjufólk var ráðandi um svipmót þessara ára. Gunnar vann að hreppsnefndarstörfum og var einn fimmmenninga sem stofnuðu „Hreyfinguna“ sem vann að því að Hveragerði klauf sig frá Ölfusi og varð sjálfstætt sveitarfélag árið 1946. Á þessum tíma var gatnakerfi þorpsins í mótun og er Gunnar höfundur gatnanafna, eins og Frumskógar, Bláskógar o.fl.

Kristján frá Djúpalæk.
Kristján frá Djúpalæk bjó í Bræðraborg (Frumskógum 6). Þegar hann flutti hingað árið 1949 var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og eftir því sem árin liðu naut hann sífellt meiri vinsælda. Þrátt fyrir vinsældir sínar sem skáld varð hann að sjá fyrir sér með annarri vinnu. Hann var barnakennari í Þorlákshöfn, vann við garðyrkjustörf, húsamálun og fleira sem til féll. Einnig vann hann við jarðboranir í Dölunum í sambandi við rannsóknir á kola- og surtarbrandslögum. Eftir hann lifa mörg þekkt ljóð og lagatextar, svo sem „Vor í Vaglaskógi“.
Sr. Helgi Sveinsson bjó í Ljósafelli (Frumskógum 7). Hann starfaði hér sem prestur og kenndi þar að auki í garðyrkjuskólanum og barna- og miðskólanum. Hann var einstaklega lipur hagyrðingur og svo fljótur var hann að setja saman vísur að engu líkara var en hann talaði í hendingum. Stundum átti hann það til að skjóta orði eða hendingu inn í tal manna svo að úr varð rétt kveðin vísa.

Kristmann Guðmundsson.
Kristmann Guðmundsson bjó í Garðshorni (Frumskógum 9) sem hann byggði 1941. Hann skrifaði nokkur verk þegar hann dvaldi erlendis, stóð þar að útgáfumálum og var farinn að njóta töluverðra vinsælda áður en seinna stríðið skall á. Þá varð hann að flýja frá Þýskalandi þar sem allar hans eignir, bækur o.fl var fryst og hann fékk aldrei krónu fyrir. Hann flutti til Hveragerðis til að losna úr asanum í Reykjavík og dvaldi um tíma á berklahælinu að Reykjum (Reykjahælinu) sem tók til starfa 1931 og var rekið til ársins 1938. Þegar hann kom til Hveragerðis í árslok 1940 kom þorpið honum þannig fyrir sjónir: „Hveragerði var ekki beysið í þá daga. Fáeinir kofar á við og dreif, en götur engar nema afleggjarinn upp að gömlu mjólkurbúshúsunum. Í einu þeirra var lítil verslun, og átti hana eigandi húss þess, sem ég hafði tekið á leigu, Halldór Gunnlaugsson.“ Kristmann tók þátt í einskonar fegrunarfélagi sem átti að stuðla að betri umgengni í þorpinu. Félagið gaf íbúum m.a. ruslatunnur sem þá var lítið um. Á þessum tíma var þorpið ógirt og búfénaður gekk í sorpið og dreifði því þannig að óþrif hlutust af. Kristmann hafði áhrif á gang mála í sveitarstjórnarmálum og var í fimmmanna nefndinni með Gunnari Ben sem vann að stofnun sveitarfélagsins. Hann var mikill áhugamaður um garð- og trjárækt og enn í dag kemur fólk til að líta á hinn fræga „Kristmannsgarð“. En garðurinn hefur breyst mikið í tímans rás og er fátt eftir af honum annað en garðarnir sem Kristmann hlóð og nokkur stakstæð tré. Meðal þeirra er að finna sjaldgæf tré eins og beyki.

Jóhannes úr Kötlum.
Jóhannes úr Kötlum flutti hingað haustið 1940 og bjó hér í 19 ár. Hann bjó fyrst í Friðsteinshúsi (Bláskógum 15), seinna í Miðseli (Frumskógum 10) og síðast í Hnitbjörgum (Bröttuhlíð 9). Þótt hann væri þekktur fyrir verk sín varð hann að vinna fyrir sér með öðrum hætti. Hann starfaði lengi í Þórsmörk og var einn af fyrstu landvörðunum. Einnig var hann vörður við mæðuveikigirðingarnar uppi á fjöllum.
Ríkarður Jónsson átti hér sumarbústað sem hann nefndi Smáragrund (Frumskógar 11). Hann dvaldi hér aðeins á sumrum en vann í Reykjavík við höggmyndir og útskurð. Hann byrjaði að læra tréskurð 17 ára gamall í Reykjavík og lauk sveinsprófi í þeirri iðn þremur árum síðar, 1908, fyrstur Íslendinga. Skömmu síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara náms í útskurðarlist og til þess að læra höggmyndasmíði og almennt listnám. Hann bar djúpa virðingu fyrir handverkinu sem listrænni eigind. Fyrsta sýning hans hér á landi var árið 1915. Ríkarður var glaðvær sagnamaður, rímfróður og hnyttinn hagyrðingur. Kímni hans og lífsgleði mótaði óneitanlega list hans sem sést í mörgum andlitsmyndum eftir hann. Á lóð hans er borhola sem boruð var 1941. Holan var 50 feta djúp og ein af þeim fyrstu í þorpinu. Þetta var samvinnuverkefni Ríkarðs og Kristmanns sem bjó við hliðina á honum. Seinna voru fleiri hús tengd við holuna sem var lengi virk.

Ríkarður Jónsson.
Nú hefur helstu listamanna verið getið sem bjuggu í „Skáldagötunni“. Þá er tilvalið að ganga upp að kirkju, sem stendur tignarlega á „Sandhóli“, og skoða útsýnið þaðan. Þar sést yfir hverasvæðið og stóran hluta bæjarins. Á hverasvæðinu undir Sandhól stóð Ásbyrgi, hús Ásgeirs Jónssonar járnsmiðs byggt 1935. Hann var okkar fyrsta skáld og orti smellna gamanbragi sem sungnir voru á samkomum. Hann var höfundur hinna fleygu orða sem margir Hvergerðingar muna: „Hveragerði er heimsins besti staður.“ Hann vann í Landssmiðjunni og flutti snemma héðan.
Nú hefur verið getið helstu listamanna sem dvöldu í Hveragerði fyrrum. Nokkrir listamenn búa hér í dag og halda uppi heiðri Hveragerðis sem skálda- og listamannabæjar. Meðal þeirra eru skáldin og rithöfundarnir Gunnar Dal og Indriði G. Þorsteinsson og listmálarinn Hans Christiansen.

Gunnar Dal.
Gunnar Dal er með merkari hugsuðum okkar þjóðar og hefur gefið út fjölda bóka. Meðal þeirra eru skáldsögur og ljóðabækur sem hann hefur bæði samið og þýtt, bækur um heimspekileg og trúarleg efni, t.d. Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran.
Gunnar nam heimspeki við Háskólann í Edinborg, Kalkútta og Wisconsin. Hann var kennari til fjölda ára og hefur setið í stjórn Félags íslenskra rithöfunda. Meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið eru listamannalaun, laun Rithöfundasjóðs og bókmenntaverðlaun RÚV. Nýlega hélt Gunnar Dal upp á 50 ára rithöfundarafmælið sitt og kynnti þar m.a. nýútkomna bók sína, Stefnumót við Gunnar Dal.
Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur, byrjaði sem blaðamaður hjá Tímanum 1951, vann síðan hjá Alþýðublaðinu og varð seinna ritstjóri Tímans. Hann skrifaði leikritahandrit að bók sinni, „Sjötíu og níu af stöðinni“, sem er eitt af fyrstu leikritunum sem sýnd voru í íslenska sjónvarpinu.

Indriði G. Þorsteinsson.
Indriði samdi jafnframt kvikmyndahandrit af sögunni um útlagann Gísla Súrsson. Indriði hefur samið skáldsögur, fjölda smásagna, skrifað ævisögur og sagnasöfn.
Listmálarinn Hans Christiansen er einn af fyrstu innfæddu Hvergerðingunum. Hann hefur búið hér um áratuga skeið og haldið fjölda sýninga. Óhætt er að segja að fáir hafi jafn gott auga fyrir mótívum úr landslagi og mannlífi bæjarins. Með pennateikningum og vatnslita- og pastelmyndum hefur Hans lífgað upp á listalíf bæjarins. Margir heimsækja hann í vinnustofuna að Breiðumörk 8, sem opin er gestum og gangandi.
Auk ofangreindra eru ýmsir aðrir lærðir og leiknir í Hveragerði sem stunda list af ýmsu tagi, má þar nefna glerlist, myndlist, útskurð, leirlist, nytjalist, leiklist, tónlist o.fl.
Drullusund

Hveragerði – Upplýsingaskilti við Drullusund.
Örnefni eru oft óvenjuleg og skemmtileg. Drullusund í Hveragerði er eitt þeirra, nafn á göngustíg sem verið hefur í notkun frá upphafi byggðarinnar, þvert yfir hverasvæðið í miðbænum.
Níu söguskilti hafa verið afhjúpuð í Hveragerði á undanförnum árum, það nýjasta segir frá Drullusundi í miðbænum.
„Þetta er annað af tveimur undarlegustu örnefnum í Hveragerði; hitt var Skrattabæli, hús sem eyðilagðist því miður í jarðskálftanum fyrir nokkrum árum og varð að rífa í kjölfarið,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.

Hveragerði – Drullusund fyrrum.
Drullusund er göngustígur þvert yfir hverasvæðið í miðbænum og tengir miðbæinn og efra þorpið, sem svo er kallað. „Þetta er gömul leið sem hefur alltaf borið þetta nafn. Ég hef búið hér í bænum síðan ég var lítil og þetta er þekkt örnefni. Allir þekkja Drullusundið,“ segir Aldís.
„Við höfum verið með í gangi verkefni í áratug, setjum upp eitt söguskilti við markverðan stað á hverju ári og höfum gefið út götukort sem gefur fólki tækifæri til að fara á milli skiltanna og fræðast um sögu Hveragerðis. Sveitarfélagið er ekki gamalt, verður 70 ára á næsta ári, og þótt mörg önnur sveitarfélög séu miklu eldri státum við af skemmtilegri sögu. Gestir bæjarins og jafnvel ekki íbúar sjálfir þekkja þó ekki söguna nema einhver segi þeim hana. Við viljum gefa fólki tækifæri til að kynna sér sögu bæjarins, gárungarnir segja reyndar stundum að í sveitarfélaginu, sem er eitt það minnsta að flatarmáli á landinu, geti ekki verið mjög margir merkilegir staðir, en við erum ekki hálfnuð!“

Hveragerði – Drullusund.
Drullusund liggur milli gatnanna Bláskóga og Hveramerkur. Í upphafi mun Drullusundið aðeins hafa átt við leiðina frá þinghúsinu (Breiðumörk 25) að Ásum (Hveramörk 16) en eftir að byggð fór að myndast vestanmegin við hverasvæðið á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar færðist heitið yfir á núverandi göngustíg.
Drullusundið var einkum notað af íbúum til að stytta sér leið á milli þorpshluta, að sögn Aldísar bæjarstjóra, börnum á leið í skóla og húsmæðrum til innkaupa.
„Áður en Drullusundið var hellulagt myndaðist á gönguleiðinni, einkum í vætu, drullusvað og af því dregur stígurinn nafn sitt. Heppilegasti fótabúnaðurinn var þá gúmmístígvél, sem áttu það til að festast í leðjunni svo erfitt gat reynst að komast þurrum fótum yfir,“ skrifaði á sínum tíma Gunnar Benediktsson, rithöfundur og hreppsnefndarmaður, þegar hann lýsti ástandi samgöngumála í Hveragerði um miðja öldina.

Hveragerði – Drullusund í dag.
Gunnar segir svo frá að eftir að fjölskyldan flutti í Skáldagötu, þar sem nú heita Frumskógar, var þar „enn ekki vottur af götu að öðru leyti en því, að húsalínur voru að nokkru leyti beinar í gegnum þrælþýfðan móa, þá var ekki hægt að fara með litlu dótturina niður í þorp nema með mikilli fyrirhöfn. Það þurfti tvo til að starta því fyrirtæki, þar sem annar þurfti að annast barnið, en hinn að skondrast með vagninn, þar til komið var á breiðstræti hverasvæðisins.“
Hverasvæðið í miðbænum

Manndrápshver – skilti.
Hveragerði dregur nafn sitt af hverasvæðinu í bænum miðjum. Þjóðleiðin forna yfir Hellisheiði og inn á Suðurland lá nærri hverasvæðinu og umferð þar um talsverð. Árið 1906 féll ferðamaður í hver einn á svæðinu og hlaut af bana. Hefur hverinn síðan borið nafnið Manndrápshver. Atvikið varð til þess að sett var upp lítil vatnsknúin rafstöð í Varmá til að skaffa rafmagn til raflýsingar leiðarinnar nærri hverasvæðinu. Þetta var fyrsta rafknúna götulýsing landins í dreifbýli. Aðrir nafntogaðir hverir á svæðinu eru Bláhver en hann er nefndur eftir lit vatnsins.

Ruslahver / Önnuhver.
Ruslahver (einnig þekktur sem Önnuhver) hafði um árabil verið notaður sem ruslagryfja og dregur nafn sitt af því að hann lifnaði við í jarðskjálfta 1947 og þeytti öllu ruslinu úr sér. Dynkur heitir hver sem áður var aðeins lítið gufuauga en eftir Suðurlandsskjálftann 2000 umbreyttist hann í talsvert öflugan leirhver.

Hveragerði- borhola.
Hveragerði er hluti af jarðhitasvæðis Hengilseldstöðvarinnar í rekbelti Mið-Atlantshafsins. Austar er breitt gosbelti, sem teygist frá Heklu og Vestmannaeyjum inn undir Vatnajökul, um Kverkfjöll og Dyngjufjöll norður til Öxarfjarðar. Þar byggist gosvirknin að langmestu á svokölluðum heitum reit, en ekki á plötureki eins og í rekbeltinu. Jarðhitasvæðin myndast á brotasvæðum jarðskorpunnar og gropnum móbergslögum fyrir tilstilli flekahreyfinga og jarðskjálfta, sem geta haldið þeim við eða gert þau óvirk. Þau skiptast í u.þ.b. 30 há- og 300 lághitasvæði. Háhitasvæðin eru innan beggja gosbeltanna. Þau eru mun öflugri en lághitasvæðin og séu þau sýnilega á yfirborðinu ber mest á gufuaugum, brennisteini og bullandi leirhverum. Sé hitinn á 1000 m dýpi hærri en 200°C teljast þau háhitasvæði. Lághitasvæðin eru að langmestu leyti utan gosbeltanna og hitinn á sama dýpi er innan við 150°C. Þau eru ólík háhitasvæðunum, því þar ber lítið eða ekki á brennisteinsgufum og þar eru bullandi vatnshverir, goshverir eða laugar.
Hveragerði – Bakkahver 1943.
Háhitasvæði Hengilsvæðisins eru hundruð þúsunda ára gömul og elzti hlutarnir eru í og við Hveragerði. Forfeður okkar höfðu ímigust á hverasvæðum. Þau voru hættulegur farartálmi og lítt nýtileg, en ferðamönnum þótti og þykir gaman að sjá goshveri. Litli-Geysir á hverasvæðinu var einn slíkur en hann er horfinn. Nýting jarðhitans í Hveragerði hófst í kringum 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga úr öflugum gufuhver, Bakkahver, og tíu árum síðar var fyrsta holan boruð niður á 54 m dýpi og gufan var nýtt í gróðurhúsinu í Fagrahvammi, þar sem ylrækt hófst. Holan er löngu horfin en hún réði úrslitum um framtíð Hveragerðis sem ylræktarþorps. Bakkahver er enn þá þarna með pýramídalöguðu þaki.

Hveragerði – Dynkur.
Hitaveita Hveragerðis nýtir borholurnar HS-02 (311m) og HS-08 (254m), sem voru boraðar 1950 og 1988. Hitaþolnar örveirur í hverunum eru nýttar til framleiðslu hvata (ensíma). Fjöldi þessara örveirna er mikill og sumar sjást með berum augum, s.s. hin blágræna Masigolcladus Laminosus (grænt slim) og hin græna Chloroflexus, sem er í rauninni með glóaldinlit.

Hverasvæðið.
Í Hveragerði liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Garðyrkjuskóla ríkisins, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að labba upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi.

Hverasvæðið – upplýsingaskilti.
Sléttlenda dalverpið, sem blasir við úr Kömbum norðan Hveragerðis og Hamarsins, er í rauninni ónefnt. Árið 1703 talar Hálfdán á Reykjum um Völlinn eða Árhólma, þótt eldri nafngift finnist ekki. Vorsabæjarvellir eru fremri hluti dalsins allt að Hengilsá eins og hún rann áður neðar í honum norðan núverandi hesthúsa. Norður að núverandi farvegi heitir Árhólmar. Líklega flutti áin sig snemma á 20. öld. Hengladalsá rennur um Svartagljúfur norðan Kamba og Svartagljúfursfoss nokkra metra frá veginum nyrzt í Kömbum. Fyrrum féll hún um Nóngil tvö, litlu norðar.

Grýla 1967.
Norðan undir Hamrinum er upphlaðinn hver, Grýla, sem gaus reglulega á 1½ klst. fresti en hefur látið af slíkri reglusemi. Annar frískari goshver er nú sunnan ár nær Menntaskólaseli. Fyrrum voru sel frá Reykjabæjartorfu og Vorsabæ í dalnum og síðar var stofnað til nýbýla þar (Friðarstaðir, Gufudalur). Reykjakot var þar frá fornu fari og nýbýlið Reykjakot II var reist þar skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina. Menntaskólaselið stendur milli Reykjakotanna. Það var byggt 1938 og tekið í notkun í janúar 1939 sem orlofsheimili fyrir kennara og nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Milli þess og Fossmóa var boruð hola 1940. Þar kom upp gufa af 21 m dýpi og fyrsta rafstöð landsins, sem gekk fyrir gufuafli var reist þar.

Reykjasel – uppdráttur ÓSÁ.
Upp frá þessu ónefnda dalverpi ganga þrír samsíða dalir um 4 km til norðurs, Reykjadalur (vestast), Grændalur (í miðju) og ónefndur dalur (austast), sem Sauðá rennur um. Gönguferðir um þá eru öllum ógleymanlegar vegna staðhátta, jarðhita (baðmöguleikar) og grózku.
Kvennaskólinn á Hverabökkum

Árný Filippusdóttir.
Árný Filippusdóttir var fædd 20. mars 1894 að Hellum í Landssveit. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir, ljósmóðir, fædd að Lunansholti í Landi 1851 og Filippus Guðlaugsson fæddur að Hellum á Landi fæddur árið 1850. Árný var sjötta barnið í systkinaröðinni, af sjö börnum en fjögur elstu systkini hennar létust á barnsaldri. Auk sinna eigin barna ólu hjónin að Hellum upp fimm fósturbörn.
Saga skólans að Hverabökkum var alla tíð hörð og má telja hana meiri tilviljun en fyrirætlun, því í upphafi var skólahaldið fætt af þrá Árnýjar fyrir að eiga eigið skjól og fastan samastað. Húsið sem Árný byggði í Hveragerði var stækkað smám saman úr eins herbergis íbúð, í mörgum áföngum, þar til hann rúmaði sem best starfsemi skólans. Fyrsta námskeiðið sem Árný hélt að Hverabökkum var í ársbyrjun 1935. Oftast voru 14 stúlkur á námskeiðunum í einu, en stundum allt að tuttugu. Flestar voru þær á aldrinum 18-20 ára. Í byrjun var um þriggja mánaða námskeið að ræða en síðar var um heilan skólavetur að ræða og kennslugreinunum fjölgaði eftir því sem skólanum óx fiskur um hrygg.
Kennslugreinar við skólann voru meðal annars söngur, leikfimi, sund, matreiðsla, íslenska, heimilisbókhald, heilsufræði, danska, enska, skrift, ræðuflutningur og framkoma auk handavinnunnar. Mest var saumað úr gömlum flíkum, en dúkar voru saumaðir úr nýjum efnum. Kennt var frá klukkan 8 á morgnana og oft til klukkan 11-12 á kvöldin.

Kvennaskóolinn – upplýsingaskilti.
Árný sá sjálf um alla handavinnukennsluna, enda var hún jafnvíg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, vinna úr leðri, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira. Á kvöldin var unnið að handavinnu, hlustað á útvarpið, skipst á að lesa góðar bókmenntir eða spiluð sígild tónlist af grammófónsplötum, auk þess sem margir góðir gestir komu í heimsókn.

Kvennaskólinn á Hverabakka.
Að loknu skólahaldi á vorin var haldin sýning og ýmsum góðum gestum var boðið eins og ráðherrum, þingmönnum, prestum, listamönnum og öðrum kennurum úr Hveragerði. Námsmeyjarnar sungu og fluttu ræður, stiginn var dans og boðið var upp á kaffi og kökur.

Árný Filuppsdóttir.
Árný fékk styrki og gjafir frá nokkrum aðilum til skólahaldsins, meðal annars fjórum sinnum frá Búnaðarsambandi Suðurlands, frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og styrki frá Alþingi, þrátt fyrir að skólinn hennar væri ekki formlega viðurkenndur sem húsmæðraskóli, heldur skólinn að Laugarvatni.
Ein bestu og gróskumestu ár skólans voru árin 1946-1953, þar sem skólinn var fyrst viðurkenndur á fjárlögum og kennarar komust á föst laun. Á þessum árum var skólinn ætið fullsetinn og komust færri að en vildu. Vefnaður bættist við námsgreinarnar sem var afar vinsælt fag, einnig félagsfræði og þjóðskipulagsfræði auk hinna hefðbundnu greina.
Eftir að húsmæðraskólinn á Laugarvatni stóðst opinberar kröfur og var rekinn með fullum ríkisstyrk átti Árný erfitt uppdráttar með fjárveitingu handa skólanum sínum. Styrkupphæðirnar voru misháar og oft fékk hún ekki nema sem nam tæplega 10% af því sem aðrir húsmæðraskólar fengu í styrk. Síðasta styrkveiting sem skráð er til skólans var skjalfest árið 1952. Nokkrir alþingismenn voru hliðhollir Árnýju og studdu hana eins og þeim frekast var unnt.

Kvennaskólinn á Hverabökkum var starfræktur í húsinu Hverabökkum (Breiðamörk 23) frá 1936 til 1955. Nemendur Kvennaskólans á Hverabökkum voru að jafnaði um 20-25 á hverju ári og skólann sóttu stúlkur á aldrinum 16-23 ára alls staðar af landinu þó flestar væru af Suðurlandi. Veturinn 1945-1946 voru 25 stúlkur við nám en þó aðeins þrjár úr Árnessýslu. Árnesingarnir þrír eru hér fyrir framan Hverabakka, frá vinstri Kristrún og Þórunn Jónsdætur frá Skipholti í Hrunamannahreppi og Kristín Björg Jóhannesdóttir frá Ásum í Hveragerði.
Árið 1955 var Árnýju tilkynnt að hún ætti að hætta skólahaldi. Segja má að skólahaldinu á Hverabökkum hafi endað á svipaðan hátt og það hófst, með öflum sem Árný réði ekki við.
Árný beitti ýmsum ráðum til að afla skólanum tekna. Á stríðaárunum setti Árný meðal annars upp veitingasölu á sumrin, þar sem hún matreiddi algengan heimilismat fyrir setuliðsmenn og seldi gegn vægu verði til að verða sér út um fé, auk þess að þvo af þeim þvotta.
Í erindi sem Árný flutti í heimsókn sinni að Kvennaskólanum að Blönduósi árið 1939 kemur fram viðhorf hennar til uppeldis- og menntunar er hún segir: „Takmark hvers nútímaskóla er kunnátta. Án þess að leggja fyllstu stund á kunnáttu nemenda sinna getur skólinn ekki haft þau menntandi áhrif, sem honum eru ætluð. Nemandinn vex og þroskast fyrst og fremst af því að keppa eftir sem mestri kunnáttu og leikni […] Námsafrekið er í því fólgið að tileinka sér undirstöðuatriðin nógu vel og velja svo erfiðari viðfangsefni stig af stigi, eftir því sem hæfileikarnir leyfa…“. Að mati Árnýjar byggðist kunnátta í handavinnu að nokkru leyti á ásköpuðum hæfileikum, en ekki síður á iðn og óþrjótandi námsvilja. Árný var óþrjótandi að útdeila heilræðum til nemenda sinna, bæði munnlega og skriflega.
Eftir 1946 tók Árný að sér að skrifa fyrirlestrarbækur um ýmis málefni. Sú viðamesta hét Félagsfræði eða þjóðskipulagsfræði. Önnur bók var ágrip af hagfræði og bar nafnið: Hvernig fæ ég búi mínu borgið. Aðrar bækur voru Hreinsun og pressun fata og Þvottur og ræsting. Auk bókanna skrifaði Árný langa lista af heilræðum og ritgerðarefnum. Samhliða námsefninu og ritgerðunum samdi Árný spurningar og svör.
Fljótlega eftir að Árný fluttist að Hverabökkum gerðist Herbert Jónsson frá Akureyri heimilismaður hjá Árnýju og bjó hjá henni til æviloka. Herbert var fæddur 20. júlí árið 1903. Hann veiktist ungur af berklum og gekk ekki heill til skógar eftir það. Árný kynntist honum á Reykjahæli þegar hún hélt þar námskeið og féll vel við ljúfmennsku hans og létta lund og réði hann því til skólans. Þar kenndi hann dönsku, ensku, reikning og íslensku. Herbert var vinsæll maður sem gekk undir nafninu „borgarstjórinn“ í Hveragerði. Segja má að Herbert hafi verið Árnýju stoð og stytta á margan hátt meðan hann lifði, en Árný var alla tíð ógift. Árný tók að sér tvö önnur börn meðan hún bjó að Hverabökkum þá orðin 54 ára gömul, þegar móðir þeirra fluttist búferlum til Ameríku.

Árný Filippusdóttir, fædd að Hellum í Landsveit árið 1894 kom mjög við sögu húsmæðrafræðslunnar hér á landi, bæði sunnanlands og norðan um miðja tuttugustu öldina. Hún var frumkvöðull að sérmenntun kvenna á Suðurlandsláglendinu og stofnaði húsmæðraskóla í Hveragerði af litlum efnum og rak sem einkaskóla á annan áratug af mikilli hugsjón. Árný lagði stund á hannyrðir og listir bæði í Danmörku, Þýskalandi og Póllandi í tæpan áratug en kom svo til Íslands til að taka við kennarastöðu hér á landi. Árný var mjög vel menntuð miðað við samtíðakonur sínar. Segja má að Árný hafi hvorki farið troðnar slóðir í einkalífi sínu né starfsvali og var því mjög umdeild fyrir vikið. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir, ljósmóðir, fædd að Lunansholti í Landi 1851 og Filippus Guðlaugsson fæddur að Hellum á Landi fæddur árið 1850. Árný var sjötta barnið í systkinaröðinni, af sjö börnum en fjögur elstu systkini hennar létust á barnsaldri. Auk sinna eigin barna ólu hjónin að Hellum upp fimm fósturbörn. Árný var sextug þegar skólahaldinu lauk og hófst þá nýr kafli í lífi hennar. Henni hafði verið gefin 4000 fermetra lóð í Hveragerði nokkrum árum fyrr og árið 1951 hóf Árný að byggja sér myndarlegt hús sem fékk nafnið Þelar og flutti þangað inn árið 1966 og seldi þá skólahúsnæðið. Að Þelum kom hún fyrir 12 vefstólum, spunavélum og öðru sem til þurfti til vefnaðar. Auk þessa kenndi Árný að loknu skólahaldi sínu bæði við Hlíðardalsskóla og við gagnfræðaskólann í Hveragerði. Árný sjálf var víg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, gera leðurvinnu, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira (Bjarni Bjarnason, 1969). Um sextugt byrjaði heilsu Árnýjar að hraka, hún var langþreytt, slæm af gigtarverkjum. Árný fékk heilablóðfall í febrúarbyrjun 1977 og lést tveimur mánuðum síðan, þann 2. mars 1977. Með Árnýju er tvö af uppeldisbörnum hennar ónafngreind en þau voru alls fimm.
Árný var sextug þegar skólahaldinu lauk og hófst þá nýr kafli í lífi hennar. Henni hafði verið gefin 4000 fermetra lóð í Hveragerði nokkrum árum fyrr og árið 1951 hóf Árný að byggja sér myndarlegt hús sem fékk nafnið Þelar og flutti þangað inn árið 1966 og seldi þá skólahúsnæðið. Að Þelum kom hún fyrir 12 vefstólum, spunavélum og öðru sem til þurfti til vefnaðar. Auk þessa kenndi Árný að loknu skólahaldi sínu bæði við Hlíðardalsskóla og við gagnfræðaskólann í Hveragerði.

Árný Filippusdóttir – 1894-1977.
Árný sjálf var víg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, gera leðurvinnu, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira.
Um sextugt byrjaði heilsu Árnýjar að hraka, hún var langþreytt, slæm af gigtarverkjum. Árný fékk heilablóðfall í febrúarbyrjun 1977 og lést tveimur mánuðum síðan, þann 2. mars 1977.
Gamla hótelið. Þinghús og skyrgerð

Hveragerði 1946.
Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði.

Hveragerðisrétt 1965.
Íbúum í Hveragerði fjölgaði hægt fyrsta áratuginn og í árslok 1941 voru þeir um 140. Næstu árin fjölgaði þeim hratt og voru um 400 í árslok 1946, stofnári Hveragerðishrepps. Næstu áratugina fjölgaði íbúum mun hægar, voru um 530 í árslok 1950, 685 í árslok 1960 og 740 í árslok 1970. Á síðustu árum hefur fjölgunin verið örari og þá einkum áratuginn 1971-1980. Íbúar voru um 1245 í árslok 1980, 1600 í árslok 1992, 1813 í árslok 2000 og um 2.476 í árslok 2016.

Hveragerði – Mjólkurbú (t.h.) og Þinghús (t.v.).
Nýting hverahitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun hafa laðað marga til búsetu í Hveragerði í upphafi. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið. Þvottur var þveginn við hverina eða í hitaþróm við húsvegg. Sveitafólk í Ölfusi hafði lengi nýtt hverina til þvotta og bakað rúgbrauð í heitum jarðvegi við hverina eins og örnefnið Brauðholur vitnar um. Sumarbústaðir voru margir einkum á stríðasárunum. Samkvæmt fasteignaskrá frá 1941 voru 37 íbúðarhús í Hveragerði og 19 sumarbústaðir. Sumarbústaðirnir voru vestan hverasvæðisins flestir við göturnar Laufskóga og Hverahlíð. Á stofnári Hveragerðishrepps 1946 var 91 íbúð skráð þar. En í árslok 2016 voru þær um 900 talsins.

Hvergagerði – Mjólkurbú – upplýsingaskilti.
Ölfushreppur byggði þinghús í Hveragerði árið 1930 að Breiðumörk 25. Veitingasala var í þinghúsi Ölfushrepps frá 1931 og þar hefur verið hótel meira og minna frá 1947. Þá var skyrgerð Mjólkurbús Ölfusinga einnig starfrækt í húsinu. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins, sem teiknaði margar af frægustu byggingum landsins eins og Hallgrímskirkju og Þjóðleikhúsið. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins. Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk. 2016 hófst skyrgerð að nýju í húsinu þegar veitingastaðurinn Skyrgerðin tók til starfa.

Hveragerði-Gamla Þinghúsið og mjólkuhúsið fjær.
Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk.
Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá voru skólahús reist á Kotströnd og Hjalla í Ölfusi. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli og þegar Þinghúsið var byggt í Hveragerði árið fluttist skólahald þangað. Árið 1937 var stofnaður heimavistarskóli í Hveragerði þegar keypt var húsið Egilsstaðir er áður hafði verið barnaheimili Oddfellow-reglunnar. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Árný Filippusdóttir byggði húsið Hverabakka og rak þar kvennaskóla 1936-56. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir. Þegar Gagnfræðaskólinn var stofnaður haustið 1965 var efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði tekin á leigu fyrir þrjá bekki Gagnfræðaskólans. Fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir Gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2. Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun og skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun.

Ungmennafélag Ölfusinga var stofnað árið 1934. Ungmennafélag Hveragerðis og Ölfus setti á stofn skafmiðahappdrættið Ferðaþristinn í lok árs 1987 og átti ágóðinn m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Kostnaður við happdrættið varð þó mun meiri en reiknað hafði verið með og salan minni en vonir stóðu til. Erfiður rekstur happdrættisins varð til þess að árið 1992 var UFHÖ tekið til gjaldþrotaskipta og er eitt fárra íþróttafélaga á landinu sem hafa farið í þrot. Sama ár, nánar tiltekið 28. mars 1992, var nýtt íþróttafélag stofnað í Hveragerði, Íþróttafélagið Hamar.
Mjólkurbú Ölfusinga

Hveragerði – Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Varmahlíð

Varmahlíð – upplýsingaskilti.
Varmahlíðarhúsið er eitt elsta íbúðarhús Hveragerðisbæjar reist árið 1929.
Húsið er einlyft, bárujárnsklætt timburhús með lágreistu mænisþaki. Húsið hefur hlotið faglega endurgerð. Þar er nú gestaíbúð fyrir listamenn en húsið er fullbúið með húsgögnum og tækjum. Afnot af húsinu eru endurgjaldslaus fyrir listamennina en óskað er eftir að listamenn kynni listsköpun sína og stuðli með þeim hætti að því að efla menningaráhuga uppvaxandi kynslóðar í Hveragerði.

Seinna var það endurbyggt með smávægilegum breytingum og fært innar í lóðina.
Menningar- íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar auglýsir árlega í nóvember eftir umsóknum um dvöl í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.
Mynd: Húsnæði Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði. Fyrir aftan vinstramegin er húsið Varmahlíð, fyrsta íbúðarhúsið í Hveragerði og til hægri sést að hluta til húsið Egilstaði sem síðar varð barnaskólahús. Fjærst sést glitta í húsin að Reykjum. Myndin líklega tekin árið 1930.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss

Ullarverskmiðjan – upplýsingaskilti.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss í Varmá í Hveragerði á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar. Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.

Hveragerði – Ullarverksmiðjan.
Lystigarðurinn markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.

Reykjafoss og leifar Ullarverksmiðjunnar.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir.
Útisýningin Listamannabærinn Hveragerði

Hveragerði – sýning í Listigarðinum.
Útisýningin Listamannabærinn Hveragerði, fyrri hluti, er komin upp í Lystigarðinum á Fossflötinni og var vígð á bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar í ágúst. Sýningin er gjöf Listvinafélagsins og Hveragerðisbæjar til íbúa þess í tilefni 70 ára afmælis bæjarins.
Listvinafélagið hefur staðið fyrir endurnýjuðum kunningsskap við listamennina sem lögðu grunn að Hveragerði sem nýlendu listamanna. Á sýningunni í Lystigarðinum eru kynntir rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.
Hluti sýningarinnar er appið Listvinir sem er ókeypis og hægt að nálgast með QR kóða á sýningarveggjunum eða sækja í appverslunum hvort sem er Apple eða Android. Appið býður upp á ýmsa möguleika og gerir sýninguna lifandi. Það gerir njótendum kleift að skoða ítarefni svo sem upplestur, tóndæmi, myndir eða leiðsögn um hvar aðsetur listamannanna var í Hveragerði.

Sýning í Listigarðinum.
Á sýningunni í Lystigarðinum eru kynntir til leiks níu listamenn frá frumbýlisárum bæjarins og þeir mynda kjarna sýningarinnar. Síðar er áætlað að setja upp sýningarvegg í tengslum við kjarnann þar sem tækifæri gefst að kynna enn fleiri listamenn til sögunnar bæði núverandi og fyrrverandi íbúa Hveragerðis. Þar er gert ráð fyrir breytilegum sýningum sem gaman verður að kynna þegar þar að kemur.
Hönnuður útisýningarinnar er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og Einar Bergmundur Þorgerðarson Bóasson hefur þróað appið.

Sýning í Listagarðinum.
Félagið óskar Hvergerðingum til hamingju með afmælið og þakkar félögum sínum og öðrum sem aðstoðað hafa við gerð sýningarinnar. Illugi Jökulsson og stjórnarmenn unnu texta, um þýðingu sáu Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og Vera Júlíusdóttir, myndvinnsla var í höndum Christopher Lund, Exmerkt sá um prentun. Einnig fá þakkir Kjartan Rafnsson verkfræðingur, Járnsmiðja Óðins ehf, Samverk ehf, Smákranar ehf, Stefán Gunnarsson trésmiður, Garpar ehf og starfsmenn áhaldahúss Hveragerðisbæjar.
Helstu styrktaraðilar sýningarinnar eru Hveragerðisbær, Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands, Menningarsjóður Suðurlands, Uppbyggingarsjóður Suðurlands og Dvalarheimilið Ás.
Gamli barnaskólinn – Egilsstaðir

Áður en Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag árið 1946 var skóli starfræktur að Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Hann tók til starfa haustið 1881 og var börnum í Ölfusi sem ekki gátu gengið daglega til skólans komið fyrir á næstu bæjum. Skólinn að Kröggólfsstöðum lagðist af vorið 1892 og var barnakennslu haldið áfram á árunum 1892-1897 með farkennslu. Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá var skólahús reist á Kotströnd og annað á Hjalla. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli.

Hveragerði – Barnaskólinn.
Árið 1930 byggði Ölfushreppur þinghús í Hveragerði og var rekinn farskóli í húsinu til ársins 1937. Sama ár var húsið Egilsstaðir keypt og settur þar fastur skóli fyrir hreppinn með heimavist fyrir þá sem ekki gátu gengið í skólann. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir.

Hveragerði – Barnaskólinn.
Gagnfræðaskóli var frá haustinu 1965 á efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði, fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2.
Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun. Skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun. Skólastjóri varð einn og honum til aðstoðar yfirkennari, síðar aðstoðarskólastjóri.
Sundlaugin Laugaskarði

Sundlaugin í Laugaskarði.
Laugin var byggð í tveimur áföngum, sá fyrri var 25×12 metrar og var tekinn í notkun árið 1938, en síðari hlutinn árið 1945. Í henni æfði íslenska landsliðið í sundi allt til 1966.
Það var Ungmennafélag Ölfushrepps sem beitti sér fyrir byggingu laugarinnar og lögðu félagsmenn fram ómælda sjálfboðavinnu. Þeim bættist góður liðsauki þegar Lárus Rist sundkappi fluttist til Hveragerðis árið 1936 og má segja að hann hafi tekið forystu við uppbyggingu laugarinnar og réði meðal annars staðarvali.
Á haustdögum 1963 var brotið blað í sögu laugarinnar en þá var eldri byggingin í Laugaskarði rifin niður og nýtt veglegt steinhús reis af grunni sínum. Arkitektinn af húsinu er Gísli Halldórsson. Sundlaugarhúsið þykir mjög glæsilegt og hefur vakið athygli fyrir fallega hönnun sem fellur vel inn í landslagið.

Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.
Maður sem stendur á sundlaugarbakkanum er líklega Lárus Rist að kenna sund.
Sundlaugin Laugaskarði er 50 metra löng og 12 metra breið og var um langa hríð langstærsta sundlaug landsins. Hún er svokölluð gegnumrennslislaug, hituð upp með jarðgufu, sem tryggir eðlilegt sýrustig og hreinleika vatnsins. Laugin er í skjólsælli hvilft sem veit gegn suðri, norðan Varmár.

Sundlaugin í Laugaskarði.
Á sundlaugarsvæðinu er heit, grunn setlaug, kaldur pottur, heitur pottur með vatnsnuddi og náttúrulegt gufubað. Í sundlaugarhúsinu er líkamsræktarsalur sem er rekinn af íþróttafélaginu Hamri.
Saga garðyrkju

Hveragerði – upplýsingaskilti við Garðyrkjuskólann.
Um 1929 fór þorpið Hveragerði að myndast eftir að samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað. Á sama tíma hófst ylrækt og eru fjölbreyttar tilraunir til nýtingar varmans einkennandi fyrir sögu bæjarins. Að hafa jarðhitasvæði í miðjum bænum er mjög einstakt á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Dæmi um nýtingu jarðhitans má nefna Þangmjölsverksmiðju þar sem þangmjöl var framleitt og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu nemendur árið 1941. Margar garðyrkjustöðvar risu á næstu árum og fóru Reykvíkingar að venja komu sínar til Hveragerðis til að kaupa afurðir garðyrkjubænda. Árið 1946 hóf Hverabakarí starfsemi sína sem heitir nú Almar bakari. Enn þann dag í dag er gufa nýtt til baksturs í Hveragerði.

Garðyrkjuskólinn fyrrum.
Áður fyrr voru hverir litnir hornauga enda slysagildrur fyrir menn og fé. Erlendir garðyrkjumenn sáu þó möguleika í að nýta heita vatnið og upp úr 1900 voru einstaklingar og áhugafélög farin að gera ýmsar ræktunartilraunir. Stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi, þar sem mikilvæg starfsemi er í gang, enda byggist meðal annars okkar framtíð á að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða.
Garðyrkjuskóli ríkisins sem er nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands er enn starfræktur á Reykjum. Hann er opinn almenningi sumardaginn fyrsta hvert ár og er þá hægt að skoða framandi hitabeltisgróður eins og kakóplöntur og bananaplöntur. Bananauppskeran er um tonn á ári sem má ekki selja og njóta því starfsmenn og nemendur góðs af henni.

Hveragerði – Garðyrkjuskólinn.
Skyrgerðin í Hveragerði var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þegar hún var reist 1930. Var skyr aðalframleiðsluvaran en einnig var fyrsta jógúrtin á Íslandi framleidd þar, nefndist heilsumjólk. Í dag er enn verið að framleiða þar skyr upp á gamla mátann og er það nýtt í matargerð, bakstur og í blöndun á drykkjum hjá veitingastaðnum Skyrgerðin.
Auk grænmetisframleiðslu og blómaframleiðslu er eitt stærsti ísframleiðandi landsins staðsettur í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækið Kjörís sem hóf starfsemi 1969.
Vigdísarlundur

Hveragerði – Vigdísarlundur.
Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti fyrstu trén í Vigdísarlundi á föstudaginn en þá var lundurinn afhjúpaður í Hveragerði, henni til heiðurs.
Haldið var upp á þau tímamót að 35 ár eru síðan Vigdís var kjörin forseti Íslands, og var hún fyrst kvenna í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti. Til að fagna þessum tímamótum var ákveðið að gróðursetja þrjú birkitré af stofni Emblu.
Skógræktarfélög um allt land stóðu að verkefninu en einnig komu Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmdinni og ýmis félagasamtök og fyrirtæki.
Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir.
Hveragerðiskirkja

Hveragerðiskirkja.
Hveragerðiskirkja er í Hveragerðisprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1967-1972 var vígð 14. maí. Árið 1941 var prestssetrið flutt frá Arnarbæli til Hveragerðis og bærinn varð sérstök sókn 1941.

Hveragerðiskirkja.
Útkirkjur eru á Kotströnd, Hjalla og Strönd. Arkitekt núverandi kirkju var Jörundur Pálsson og Jón Guðmundsson var byggingameistari. Kirkjan er úr steinsteypu og rúmar 200 manns í sæti. Söngloft er stórt og gott og rúm er fyrir 80-100 manns í hliðarsal, sem er safnaðarheimili með eldhúsi. Skírnarsárinn er stuðlabergssúla með ígreiptri silfurskál. Altarið er úr slípuðum grásteini.
Heimildir:
-http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041021185957/www.hveragerdi.is/template1.php?file=lysing_skalda.htm
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1574121/
-https://is.nat.is/hverasvaedid-i-hveragerdi/
-https://notendur.hi.is/jtj/vefsidurnemenda/Konur/arnyfil1.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hverager%C3%B0isb%C3%A6r
-https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/ullarverksmi%C3%B0jan-reykjafoss-var-starfr%C3%A6kt-vi%C3%B0-samnefndan-foss-%C3%A1-%C3%A1runum-1902-1914/774876869318812/
-https://listvinir.is/en/utisyningin-listamannabaerinn-hveragerdi/
-https://www.bbl.is/frettir/syningin-listamannabaerinn-hveragerdi
-https://grunnskoli.hveragerdi.is/is/skolinn/saga-skolans
-https://www.hveragerdi.is/is/mannlif/hvad-er-i-hvergerdi/sundlaug
-https://www.south.is/is/gisting-og-veitingar/mataraudur-sudurlands-2/mataraudur-gullna-hrings-svaedisins-1/hveragerdi
-https://www.sunnlenska.is/frettir/hati%C3%B0leg-gro%C3%B0ursetning-i-vigdisarlundi/

Hveragerði – Drullusund í dag.
Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes
Í Morgunblaðinu árið 2001 er skemmtileg umfjöllun; „Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes„;
„Rannsóknarlögreglumenn sem beygja út af Reykjanesbraut og þramma skimandi um hraun og hlíðar, eru án efa að leita verksummerkja um glæpsamlegt athæfi. Eða hvað? Sigurbjörg Þrastardóttir og Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, slógust í för með löggum sem leita fremur að félagsskap, náttúrufegurð og anda liðinna alda.
Lögreglumennirnir snarast út úr bifreiðum sínum við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, vasklegir í fasi og vel skóaðir. Við garðinn er upphafspunktur 100. Reykjanesgöngunnar í röðinni síðan Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) tók til starfa í fyrrasumar. Á bílastæðinu standa tveir af helstu göngugörpunum, Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson, en sá fyrrnefndi er ókrýndur forsprakki framtaksins.
„Nýliðar fá oftast svona nýliðaprik til að styðja sig við,“ segja forsprakkarnir og lyfta gömlum kústsköftum. Sjálfir eru þeir með fallega útskorna stafi um hönd. „Ef einhver dregst aftur úr eða týnist, snúum við aldrei við til að leita þeirra. En ef nýliði týnist, verðum við að snúa við til að finna prikið. Þetta eru ómetanleg prik.“
Með þessum orðum er tónninn sleginn fyrir taktinn í ferðinni – allt er fyndið eða hóflega nákvæmt og ekki að ástæðulausu. „Þessar ferðir eru ekki síst ætlaðar til þess að dreifa huga manna frá vinnunni, sem oft er íþyngjandi. Hér reynum við að gleyma áhyggjum hversdagsins og því er eiginlega bannað að segja nokkuð af viti – það er nánast glæpur,“ segir Ómar Smári og glottir.
Landið fær nýja merkingu
Ómar Smári Ármannsson.
Ekið er af stað á nokkrum bílum og á leiðinni segir Ómar Smári frá hugsjóninni að baki ferðahópnum, þar sem mæting er algjörlega frjáls og engar afsakanir nauðsynlegar. „Ef einhver hefur önnur plön, þá hefur hann önnur plön. Þetta er fyrir þá sem eru upplagðir, þá sem vilja, þá sem hafa tíma og þá sem nenna. Og það þarf ekki alltaf að vera sama fólkið. Fyrst og fremst eru þessar gönguferðir hugsaðar til skemmtunar og sem hreyfing. En um leið hjálpa þær okkur að kynnast landinu betur og gera okkur grein fyrir því hvernig kynslóðirnar á undan okkur lifðu af landsins gæðum.“
Leitin að minjum um búskap og mannvistir er einmitt það sem setur svip á ferðir FERLIR, og sker þær frá hefðbundnum gönguferðum um hóla og holt.
Jóhann Davíðsson – við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.
Fyrir hverja ferð er sett upp áætlun, rissað er upp kort af fyrirhugaðri leið og merktar inn minjar sem sögur herma að séu á svæðinu. „Það geta verið hleðslur, réttir, fjárhellar, stekkir eða dysjar. Að ógleymdum þjóðleiðum sem sýna glöggt hvernig skór, hófar og klaufar hafa meitlað í berg eða troðið mýrar í gegnum aldirnar.
Við leitum gamalla heimilda, skoðum landabréf og bækur og höfum einnig talsvert rætt við gamalt fólk sem er alið upp á svæðinu. Í gönguferðunum svipumst við svo um eftir þessum minjum,“ segir Ómar og tekur fram að FERLIR kunni Reyni Sveinssyni, Helga Gamalíelssyni frá Stað við Grindavík, Fræðasetrinu í Sandgerði, Sigurði á Hrauni, Þórarni Snorrasyni í Vogsósum og Kristófer, kirkjuverði í Strandarkirkju, sem og ótal öðrum þakkir fyrir ómetanlega leiðsögn. Bætir svo við að á svæðinu milli Hafnarfjarðar og Voga séu um 40 sel með öllu sem þeim fylgir – brunnum, kvíum, fjárskjólum, hellum, nátthögum og smalabyrgjum – og að minnsta kosti 20 fjárborgir, en aðeins tvær þeirra séu almenningi vel kunnar. Það sé því miklu meira um áhugaverða staði á svæðinu en margan grunar.
„Þegar ekið er út á Keflavíkurflugvöll, eins og flestir hafa gert, er óneitanlega skemmtilegra að hafa gengið um svæðin í kringum Reykjanesbrautina – landið fær allt aðra merkingu. Sjálf höfum við mjög gaman að því að svipast um eftir minjum og kennileitum, og punktum hjá okkur hvað finnst. Hins vegar finnst lítið með því einu að skima úr bílnum. Fólk verður að hreyfa sig til þess að finna eitthvað af viti.“ Hann bendir á að minjaleitin sé einmitt kjörið tilefni fyrir fólk að drífa sig í heilbrigða útivist. „Margir segjast vilja hreyfa sig en vantar til þess ástæðu. Hér er hún komin, minjaleitin getur verið slíkt markmið.“
Sérstaklega samið um gott gönguveður
Á ferðum sínum hafa félagarnir í FERLIR orðis ýmiss vísari og sumar uppgötvanir verið næsta sögulegar. Þeir hafa fundið hella sem jafnvel Hellarannsóknafélagið hafði ekki hugmynd um að væru til, og þeir hafa komist að því að örnefni á gömlum landabréfum eru ekki öll nákvæmlega staðsett. „Þarna eru til dæmis Hnúkar,“ segir Ómar og bendir í austurátt, „en þeir eru á kortum ranglega nefndir Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru að vísu til, en eru neðar.“ Hann bendir í gegnum framrúðuna þar sem rúðuþurrkurnar tifa. Veðrið lítur ekki vel út, en Ómar er pollrólegur. „Við semjum með fyrirvara um gott veður og það stenst undantekningarlaust. Höfum aldrei þurft að hætta við ferð vegna veðurs.
Gönguferðirnar áttu í fyrra til dæmis aðeins að vera til hausts, en sökum þess hve veturinn reyndist mildur hefur göngum verið haldið áfram óslitið þar til nú.“ Hann bendir líka á að sjaldnast sé að marka veðurútlitið úr glugga í heimahúsi. Það sem gildi sé veðrið á því svæði sem förinni er heitið um, og það geti verið alls óskylt borgarveðrinu. „Sjáðu til dæmis rofið í skýjabakkanum þarna niðurfrá. Þangað erum við einmitt að fara.“ Ekki þarf að orðlengja um að veður lék við göngumenn alla sex tímana sem gengið var. Samningurinn við veðurguðina hélt, sem fyrr.
Skyggnishúfur með jarðskjálftavörn
FERLIR – einkennismynd.
Við dysjar tröllskessanna Herdísar og Krýsu við Herdísarvíkurveg, er bílalestin stöðvuð og Ómar Smári rekur þjóðsöguna af þeim stallsystrum, sem deildu um landamerki og enduðu með því að berast á banaspjót. „Það er eitt að heyra þessa sögu, en annað að hlýða á hana við dysjarnar sjálfar. Þá sér maður að þetta er að sjálfsögðu allt satt,“ segir Ómar og hinir kinka kolli til samþykkis. Þeir benda á að með FERLIR-húfurnar á höfði öðlist þeir nefnilega einstakan hæfileika til skilnings og samþykkis á þjóðsögum og öðru slíku – þetta séu engar venjulegar húfur. „Eftir fimm ferðir fær fólk FERLIR-húfu að launum fyrir afrekið. Þessar húfur eru framleiddar í austurvegi og búa ekki bara yfir eldfjalla- og jarðskjálftavörn, heldur áhættuvörn líka. Einu sinni misstum við mann ofan í gjá og það varð honum til happs að vera með húfuna. Hann hékk á derinu.“ Ýmsum fleiri tröllasögum um húfurnar er kastað á milli og menn greinilega vanir að gera að gamni sínu í góðum hópi. Jóhann bætir við nokkrum sögum af sprungum og gjám af svæðinu og klykkir út: „Strandagjá er sú dýpsta af þeim ölllum. Einu sinni var ég staddur á brúninni, henti niður steini og hlustaði. Tveim dögum síðar heyrði ég skvampið. Þetta er alveg rosalega djúp gjá.“
Geitafellsrétt.
Þegar gangan loks hefst er fimmtíu kílómetra akstur að baki og búið að koma tveimur bílum fyrir við áætlaðan lokapunkt ferðarinnar. Þangað eru 19 kílómetrar frá upphafspunkti við Geitafell og því ekki seinna vænna en haska sér af stað. „Við munum skoða nokkra fjárhella, líta eftir gömlum réttum og skoða gamlan stein með krossmarki sem sögur herma að liggi á litlu holti.
Svo leitum við að Ólafarseli, Þorkelsgerðisseli, Eimubóli og skoðum Strandarhelli…“ byrjar Ómar Smári en orð hans hætta smám saman að berast til öftustu manna. Hann er nefnilega rokinn af stað á talsverðu blússi, eins og áköfum göngustjóra sæmir.
Varða á Réttargjá.
Krækt er fyrir Geitafellið og innan skamms er fyrsti stekkur fundinn. Göngumenn þefa hann uppi, en eru raunar í fyrstu ekki vissir hvort hann muni liggja í hlíð upp af Seljavöllum eða við holt að neðanverðu. Þeir stansa og litast um. Beita svo lögregluþjálfuninni með því að setja sig í spor „glæpamannsins“ – hugsa eins og sá sem kom stekknum fyrir. „Já, reynsla úr starfinu getur gagnast, nema hvað að hér erum við ekki að fást við glæpamenn. Bændurnir hér voru heiðursmenn og því er ekki síður auðvelt að setja sig í þeirra spor.“
Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.
Spurt er hvort þeir hafi aldrei á ferðum sínum rekist á sönnunargögn um alvöru sakamál, en þeir segja svo ekki vera. „Það er helst að við höfum rannsakað aðsetur útilegumanna, sem voru jú sakamenn. En það eru ekki margir óupplýstir, nýlegir glæpir sem hér liggja í loftinu. Það eru þá frekar fyrnd mál eða þjóðsagnakenndir atburðir,“ svara þeir. Segjast hins vegar hafa komist að ýmsu misjöfnu um búskaparhætti, sönnu en varla sakhæfu. Til að mynda hafi eldhús í seljum verið afspyrnu lítil sem bendir til lítils skilnings á starfi kvenna. „Kannski er það satt sem einn kunningi okkar segir, að konan hafi hér á öldum fyrrum verið meðhöndluð sem eitt af húsdýrunum. En það hefur nú sem betur fer mikið lagast,“ segir einn kæruleysislega og gjóir augum stríðnislega til kvenna í hópnum. Þær láta sem vind um eyru þjóta og hugsa upp skeyti á móti.
Í Fagradal.
Svo færist alvara í talið og rifjaðar eru upp aðstæður barna sem látin voru vaka yfir ánum um nætur, oft í kulda, vætu og einsemd. Hræðsla og vinnuálag hljóti að hafa hindrað leikgleði og áhyggjuleysi ungviðisins; sálarástandið sé án efa fegrað mjög í hinum glaðlega söng um Tuma sem fór á fætur við fyrsta hanagal – til þess að „sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Minna rannsakað en frumskógar Afríku Áfram er haldið og gengið fram á einar þrjár réttir, auk stekkja og fjárhella sem finnast.
Göngumenn benda líka á andlit og aðrar kynjamyndir í hömrunum í kring og eftir ýmsu öðru er tekið á himni og jörðu, skýjabökkum, fjöllum, vörðum og jafnvel sniglum. „Þessi lagði af stað frá Strandarkirkju árið 1967 og er ekki kominn lengra,“ kallar Birgir Bjarnason eftir að hafa þóst eiga orð við sveran, svartan snigil á þúfu.
„Það væri ljótt ef við snerum honum við og hann endaði aftur á upphafspunkti. Sá yrði fúll.“
Við Stígshella í Svörtubjörgum.
Þegar komið er framhjá Svörtubjörgum opnast útsýni til hafs og enn er bjart sem á degi. Ómar Smári heldur áfram að romsa úr sér örnefnum og sögum sem tengjast stöðum í kring, Jón Svanþórsson kann líka ýmsar sagnir og Jóhann, sem er úr Þorlákshöfn, rifjar upp kynni sín af körlum úr sveitinni.
Og rannsóknarlögreglumennirnir virðast síður en svo þreyttir á Reykjanesinu, þótt hundrað ferðir séu að baki.
„Staðreyndin er sú að þetta land hér er minna rannsakað en frumskógar Afríku, eins og við segjum stundum. Fólk hefur á síðari tímum ekki átt hingað mörg erindi, og á fyrri tíð var skóbúnaður fólks þannig að það gat bókstaflega ekki gengið alls staðar um úfið hraunið. Gamlar þjóðleiðir liggja yfirleitt með hraunköntum en á milli eru ókönnuð svæði.
En fyrir utan að vera áhugavert svæði, er Reykjanesið líka svo þægilega innan seilingar, höfuðborgarbúar gætu gert mikið meira af því að koma hingað. Ef veður bregst er stutt að snara sér heim aftur, en annars er lítið mál að sjá veðrið fyrir með jafnvel tveggja daga fyrirvara – ef menn leggja sig eftir því að læra að lesa í veður. Fólk leitar oft langt yfir skammt. Ef maður spyrst fyrir á vinnustað, kemur kannski í ljós að allir hafa komið til Krítar en enginn hefur gengið á Kálffell, þótt þar séu líka bæði gjár og hellar.“
Sleikibrjóstsykur sem vex villtur
Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.
Meðal þjóðsagnanna sem raktar eru, snýst ein um svonefndan Yngingarhelli, sem fullyrt er innan hópsins að svínvirki. „En það þarf að passa sig. Kannski kemur maður út úr honum og hefur þá skyndilega ekki aldur til þess að keyra bíl,“ bendir einhver á og allir skella upp úr. Ekki líður á löngu þar til fjárhellir verður á vegi hópsins og farið er inn með vasaljós. Út koma svo Ómar Smári og Jóhann með glænýjar húfur, en þeir höfðu lagt upp í ferðina með velktar húfur og upplitaðar. Það er ekki um að villast að þarna er Yngingarhellir kominn, þótt áhrifanna gæti ekki að ráði nema á fatnaði, að þessu sinni. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað í ferðum FERLIR-hópsins.
ÁSelatöngum.
„Já, já, draugurinn Tanga-Tómas hefur birst mönnum fyrirvaralaust, gull hefur fundist í hrauni og litríkir sleikibrjóstsykrar hafa jafnvel sprottið á mosaskika. Í síðastnefnda skiptið var lítil stúlka með í göngunni og varð að vonum himinlifandi yfir fundinum – jafnvel þótt henni hafi fundist undarlegt að nýsprottnir pinnar væru allir í bréfinu,“ segja félagarnir kankvíslega.
Þannig verður ýmislegt skrýtið að veruleika í ferðunum og aldrei að vita hvað bíður á næsta holti eða leiti. Og ekki þarf að hinkra lengi eftir annarri óvæntri uppákomu í þessari ferð. Í Selvogsréttinni koma öftustu göngumenn að hinum við neyslu þjóðlegra rétta af hlaðborði á réttarvegg. Hákarli, reyktum rauðmaga, harðfisk og brennivíni hefur verið stillt upp í tilefni 100. göngu FERLIR, en sumir halda því reyndar fram að Selvogsbændur sem síðast réttuðu hafi skilið góssið eftir. „Já, þeir eru hugsunarsamir, bændur hér í sveitinni,“ verður einhverjum að orði.
Orkan úr kræsingunum dugar vel í næsta áfanga göngunnar og göngumenn valhoppa lipurlega milli þúfna, eins og þeir hafi aldrei þekkt sléttar gangstéttir.
Komið er talsvert fram yfir miðnætti og einhver nýliðinn spyr óvarlega hversu langt sé eftir enn. Loðin svör berast frá forsprökkum og talið berst fljótlega aftur að tröllum og útilegumönnum. Spurningin gleymist og enginn saknar svarsins.
Á ferðum FERLIR falla venjulegar klukkur nefnilega úr gildi, við tekur svokallaður FERLIR-tími sem lýtur allt öðrum lögmálum. Þá skipta mínútur og kílómetrar engu máli, það er náttúruupplifunin í hverju skrefi sem gildir.“
Heimild:
-Morgunblaðið 20.07.2001, Að lesa landið, bls. 4B-5B.
Sólsetur í FERLIRsferð við Tvíbolla.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson 1978
Vélritað og síðan ljósritað rit Jóns Jónssonar frá árinu 1978, útgefið af Orskustofnun, „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga„, er tvískipt. Annars vegar eru skýringar við jarðfræðikort, 303 bls., og hins vegar sjálf jarðfræðikortin.
Jón Jónsson, jarðfræðingur.
Hér verður gerður úrdráttur og samantekt skýringanna. Í formála segir: „Í skýrslu þessari er dreginn saman árangur af rannsóknum sem spanna yfir 18 ára skeið. Frá því dragast að vísu tvö ár þegar höfundur dvaldist í El Salvador og Nicaragua. Eins og vikið er að í skýrslunni var lengi um alger íhlaupaverk að ræða.
Kortlagningin er að mínu mati þýðingarmesti hluti þess verks og hef ég við hana notið aðstoðar einkum tveggja manna, sem hafa hreinteiknað kortin. Eru það þeir Sigmundur Einarsson og Jón Eiríksson.
Á sá fyrrnefndi þar langdrýgstan þátt og hefur auk þess aðstoðað við endurskoðun margra athugana í landslaginu, gert jarðlagasnið og teiknað sérkortin öll og fl. o.fl.
Engum getur það verið ljósara en mér að ýmislegt vantar í þessa skýrslu, sem æskilegt hefði verið að taka þar með en ég lít hana fyrst og fremst sem grundvöll fyrir nákvæmari rannsóknir í framtíðinni og sem slík ætti hún, og umfram allt kortið, að hafa sitt gildi. – Reykjavík í maí 1978, Jón Jónsson.“
Reykjanesskagi – nafnið
Jón Jónsson – kortayfirlit af Reykjanesskaga.
„Það svæði, sem hér er nefnt Reykjanesskagi, er í stórum dráttum vestan við línu, sem hugast dregin því sem næst úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar. Nokkuð hefur verið á reiki um nafn þessa svæðis, en nafnið kemur fyrst fyrir, það ég veit, í Svarfaðardalsannál frá 1695. Oft er skaginn í heild nefndur Reykjanes og svo telur Sveinn Pálsson (1945, bls. 659) að hann heiti réttu nafni.
Hins vegar telja aðrir, að það nafn gildi aðeins fyrir vestasta tanga nessins og þá nánast um svæðið milli Stóru-Sandvíkur að norðvestan og Sandvíkur austan við Háleyjabungu sunnan á nesinu.
Jón Jónsson – Reykjanes.
Allra vestasti tanginn er þá til áréttingar nefndur Reykjanestá. Þannig er þetta á korti herforingjaráðsins í mælikvarða 1: 50000 frá árin 1908, og flestum ygri kortum. Þorvaldur Thoroddsen (1958) notaði nafnið Reykjanesskagi um svipað svæði og hér er gert, en tiltekur ekki austurmörk svæðisins. nafnið Reykjanes kemur hins vegar snemma fyrir og þá oft í mjög afskræmdri mynd eins og t.d. á korti L. Benedicts frá 1568, þar sem það er nefnt Robenes (Thoroddsen 1902).
Um upprunna nafnsins er óþarft að fjölyrða. Það er án efa dregið af hverasvæðinu vestast á nesinu og er ekki ólíklegt að sjómenn hafi verið fyrstir til að nota það. Þingavallaskaga er getið í fornri heimild og gæti með því verið átt við Reykjanesskaga, en ekki er það ljóst.
Ekki er mér kunnugt um, að nema tveir höfundar hafi notað nafnið Suðurkjálkinn um þetta svæði, en það er Bjarni Sæmundsson (1936) og Guðmundur Kjartansson (1943). Bjarni telur það nafn oftast notað „manna á milli þar syðra“ og mun þá átt við Grindavík og Hafnir.
Kortlagning
Íslandskort Guðbrandar Þorlákssonar 1590. Um eða eftir 1580 komst Ortelíus í samband við danskan mann, Anders Sörensen Vedel, sem fengizt hafði við kortagerð og sitthvað fleira. Vedel hafði fengið frá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni kort af íslandi, og gerði nú eftirmynd af því fyrir Ortelíus. Ekki er kunnugt um nánari atvik þessara skipta, — nema hvað ýmislegt bendir til, að Otelíus hafði ekki fengið frumteikningu biskups og lík-lega ekki vitað, hvaðan Vedel fékk upplýsingar og fyrirmynd sína. Hefði hinn hollenzki meist ari án efa getið biskups, ef hann hefði þekkt alla málavöxtu. í þess stað fékk Vedel heiður af kortinu og var það tileinkað Friðriki konungi II.
Reykjanesskagi í heild komst að því er virðist fyrst á kort, sem gefið er út af A. Ortelíus í hans Additamentum IV Teatri orbis Terrarum 1590 (Nörlund 1944) og er þar mjög afbakaður. Á því virðist hins vegar ekki leika vafi, að kort það sé í raun réttri frá hendi Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum (1542-1627), en ekki sýnist ljóst hvenær það var gert. Á yngri kortum fær svo Reykjanesskagi að vera með, meira eða minna afbakaður allt þar til Björn Gunnlaugsson mælir Skagann á tímabilinu 30. júní til 30. ágúst 1831. Mælingar hans voru grundvallaðar á strandmælingum þeim, er gerðar voru á árunum 1801-1819. Með mælingum Björns fæst fyrst að mestu rétt mynd af Reykjanesskaga í heild. Fyrta vísi að sérkorti yfir umrætt svæði verður líklega ða telja kort Magnúsar Arasonar frá 1721-22, (Nörlund 1944), en erfitt er að þekkja skagann á því korti. Á kortlagningu skagans verða svo ekki umbætur fyrr en Björn Gunnlaugsson kemur til skjalanna eins og áður er getið.
Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi 1932.
Björn mun hafa gengið á flest fjöll á Reykjanesskaga, og er hann vafalaust fyrsti maður, sem fær gott yfirlit yfir landafræði skagans. Því miður virðist Björn ekki hafa skrifað neina dagbók aðra en mælingadagbók á ferðum sínu og er því ekki vitað hverjar aðrar athuganir en mælingarnar hann kann að hafa gert.
Aðrar rannsóknir á Reykjanesskaga
Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.
Telja verður rannsóknir þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar á árunum 1752-1757 fyrstu skipulögðu rannsóknir á náttúru Íslands í heild og ferðabók þeirra (1766, 1943) fyrsta nokkurn veginn alhliða heildaryfirlit yfir land og þjóð. Hvað jarðfræðinni víkur við eru athuganir og upplýsingar þeirra félaga þó harla sundurleitar sem von er til þar eð jarðfræðin var á þeim tíma á stigi frumbernsku. Hvað varðar Reykjanesskaga eru athuganir þeirra af skornum skammti og varða, það sem að jarðfræði lýtur, einkum eldgos, sem orðið hafa, eða sem talið er að hafi orðið frá landnámstíð og fram til þeirra daga. Er þar vitnað til skráðra heimilda í sögum eða annálum og til sagna, sem lifðu meðal fólks.
Jón Jónsson – Lambafell; Kristnitökuhraun.
Sem fyrsta gos á sögulegum tíma nefna þeir gosið, sem getið er um í Kristnisögu (1946) að orðið hafi árið 1000 og talið að hafi verið á því svæði, sem nú gengur undir nafninu Hellisheiði og hefur lengi verið haft fyrir satt að svo væri. Síðar verður sýnt fram á að hér er málum blandað. Einnig geta þei um gos í Trölladyngjum, sem talið er að orðið hafi 1340 og er í annálum sagt að hraun frá því gosi hafi runnið ofan í Selvog. Thoroddsen (1958, 1925) hefur bent á þetta fái ekki staðist eins og raunar allir, sem kunnugir eru staðháttum hljóta að sjá. Af orðalagi Ferðabókarinnar er raunar ljóst að Trölladyngju-nafnið hefur ekki verið bundið við það fjall eitt, sem nú bera það nafn. Í Ferðabókinni segir svo: „Trölladyngjur – kaldes et af sammenstaaende Bjærge, norden til paa kaldes Undirhlíðar“. Ekki er auðgert að heimfæra þetta upp á það fjall, sem nú teitir Trölladyngja, enda bæta þeir við neðar á sömu blaðsíðu: „Det synes ogsaa, at man har udstrakt detta Navn til flere Bjærge her í Nærverelsen“. Með þessu móti verður frásögn annálsins skiljanleg. Verður nánar vikið að þessu síðar.
Trölladyngja, Sogaselsgígur nær.
Trölladyngja á Reykjanesi er ekki eldfjall í venjulegum skilningi heldur móbergsfjall, en gosið hefur oftar en einu sinni við það eins og síðar verður sgat frá. Annað það, er varðar jarðfræði Reykjaneskaga, rúmast í frásögn þeirra félaga á tæpum 2 blaðsíðum. Sveinn Pálsson (1762-1840) virðist ekki hafa gert verulegar athuganir á þessu landsvæði og frá hans hendi er til aðeins stutt og ekki alls kostar fögur lýsing á Gullbringusýslu og greinarkorn um 4 bls., nefnt Reykjanesför 1796 í ferðabók hans.
Brennisteinsfjöll.
Sá Íslendingur, sem næst kemur við sögu rannsókna á Reykjanesskaga, er Jónas Hallgrímsson (1807-1845). rannsóknir hans ná einkum til nágrennis Reykjavíkur og Krýsuvíkursvæðisins, en á síðarnefnda svæðinu dvaldi hann ásamt Japetus Streemstrup í átta daga vorið 1840 og munu rannsóknir þeirra þar aðallega verið í sambandi viðbrennisteinsnám og því beinst mjög að hverasvæðunum. Einnig skoðuðu þeir félagar Brennisteinsfjöll og Lönguhlíð, og það sama ár kemur nafnið Brennisteinsfjöll fyrst fyrir í skráðum heimildum.
Olavíus – Krýsvíkurnámur.
Þess má geta hér að um miðja 19. öld gerði Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir ýmsar athuganir á Reykjanesskaga einkum hvað varða brennisteinsnámur og hveri og er frá því greint í ritgerð, er hann reit í Ný Félagsrit (XI 1851) og einnig eru ýmar upplýsingar að þessu lútandi að finna í bréfum frá honum til Jóns Sigurðssonar, og eru þau prentuð í sama riti (XII 1852).
Þorvaldur Thoroddsen (1858-1921) ferðaðist um Reykjanesskaga um þriggja mánaða skeið sumarið 1883 og hefur lýst jarðmyndunum þar nokkuð ítarlega í reitgerð í Geologiska foreningens förhandlinger (GFF í Stockholm 1884, Geografisk Tidskrift í Kaupmannahöfn 1903, í Lýsingu Íslands 1911, í „Island, Grundriss der Geografhie und Geologie“ 1905-1906 og í Ferðabík 1913-1915, og loks einnig í „Geschichte der Isländischen Vulkane“ 1926, sem kom út að honum látnum.
Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1901.
Auk þess er jarðfræði Reykjanesskagans gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland (1901) í mælikvarða 1:60000 og á öðru jarðfræðikorti, sem fylgir riti hans „Ísland, Grundriss der Geographie und Geologie“.
Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) tekur fyrstur manna til við nákvæma jarðfræðilega kortlagningu Reykjanesskaga í heild, en fékk því miður ekki lokið því verki. Sen undirlag notaði hann kort herforingjaráðsins frá 1908. Sonur Guðmundar, Dr. Finnur, hefur sýnt mér þá velvild að leyfa mér að athuga drög þau að jarðfræðikorti, sem til er frá hendi Guðmundar og geymt er í Náttúrufræðistofnun Íslands, og jafnframt lánað mér til yfirlestrar dagbækur þær, sem hann til eru um ferðir og rannsóknir hans á þessu svæði.
Guðmundur Kjartansson (1909-1972).
Þorkell Þorkelsson (1867-1961) verður að teljast „Grand Old Man“ íslenskra jarðhitarannsókna, því hann er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni, og raunar er hann í fararbroddi hvað snertir þó leitað sé út fyrir Ísland.
Jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar yfir Suðvesturland kom út 1960 og er það hið nákvæmasta jarðfræðikort yfir svæðið í heild, það sem ennþá er til.
Tómas Tryggvason (1917-1965) er fyrsti Íslendingurinn með sérmenntun í bergfræði. Það er því eðlilegt að hann yrði fyrstu til að rannsaka og rita um gabbró hnyðlinga, sem fundist höfðu við Grænavatn í Krýsuvík.
Erlendir vísindamenn og rannsóknir þeirra á Reykjanesskaga
Gaimard – Hafnarfjörður 1834.
Á fyrri hluta 19. aldar taka ýmsir erlendi vísindamenn að leggja leiðir sínar til Íslands með rannsóknir á náttúru landsins fyrir augum. Meðal þeirra er allmargir, sem einkum hafa helgað sig jarðfræðirannsóknum eða rannsóknum í tengslum við jarðfræði. Talsvert er ritað um Ísland á þessu tímabili og margt af því er á sinn hátt merkilegt, en mikið er aðeins landlýsingar skrifaðar í ferðasöguformi.
Árið 1835 komu hingað til lands tveir franskir vísindamenn, þeir Paul Gaimard og Eugene Robert. Það varð til þess að þeir komu hingað aftur næsta ár og þá sem þátttakendur í leiðangri miklum, sem var undir stjórn Paul Gaimard.
MacKenszie – kort 1810.
Þremur árum síðar sendi ríkisstjórn Danmerkur (og Íslands) hingað til lands tvo danska jarðfræðinga, þá Japetus Streenstrup og J.C. Schythe, og dvöldu þeir hér 1839-1840. Með Streenstrup starfaði um tíma Jónas Hallgrímsson eins og áður er sagt.
Árið 1945 komu hingað þýskir vísindamenn, Sartoríus von Walterhausen og R.W. Bunsen. G.S. Mackenzie (1810) ferðaðist hér um og safnaði talsverðu efni varðandi jarðfræði landsins. Hann reit bók um ferð sína og hefur hún náð verulegri útbreiðslu og orðið til þess að vekja áhuga manna erlendis fyrir landi og þjóð.
Theodor Kjerulf (1825-1888).
Norski jarðfræðingurinn og skáldið Theodor Kjerulf (1853) dvaldi hér á landi 1850 og skrifaði a.m.k. þrjár greinar um jarðfræði landsins og eru þær fyrir ýmsa hluti merkilegar. Geta má þess að þjóðberjar tveir, W. Preyer og R. Zirkel, ferðuðust jér á landi 1860, en ekki verður séð að þeir hafi gert nema fáeinar jarðfræðilegar athuganir á Reykjanesskaga og aðallega skoðað brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Sama ár dvaldi hér á landi nokkurn tíma skoskur efnafræðingur, W.L. Lindsay, og gerði ýmsar efnafræðilegar rannsóknir á hveravatni og útfellingum við hveri, m.a. við Þvottalaugarnar í Reykjavík og við hverina í Krýsuvík.
C.W. Paijkull (1866), sænskur jarðfræðingur, ferðaðist hér á landi 1865 og gerði af því öllu jarðfræðikort, sem að sjálfsögðu er afar ófullkomið, en er að því er ég best veit hið fyrsta í sinni röð. J.K. Johnstrup prófessor í bergfræði við háskólann í Kaupmannahöfn var sendur af stjórninni til Íslands (1871) til að athuga hér brennisteinsnámur, sem bretar höfðu sýnt áhuga á.
C.W. Paijkull – jarðfræðikort 1865.
Hann skoðaði m.a. Krýsuvíkurnámur, en mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi hann ritað um athuganir sínar. Með honum var sá maður, er síðar varð mikilvirkastur allra fyrr og síðar hvað varðar rannsóknir í landafræði og jarðfræði Íslands, Þorvaldur Thoroddsen, sem þá var stúdent í Kaupmannahöfn.
Mauric von Komorowicz (1912) rannsakaði sérstaklega Rauðhóla við Elliðavatn 1997 og gerði af þeim nákvæmt kort. Rit hans, sem kom út 1912, er frábærlega vel myndskreytt og frágengið. Uppdrátt gerði hann af Búrfellsgjá og Búrfelli, sem hann að hætti Þorvaldar Thoroddsen nefnir Garðahraunsstíg. Hans Reck (1910) hefur ferðast talsvert um Reykjanesskaga og gert ýmsar athuganir þar. Hann hefur skoðað gígaraðirnar Stampa yst á Reykjanesi og lýst hluta gígaraðarinnar allvel. Karl Sapper (1866-1945) er einn af öndvegismönnum eldfjallafræðinnar fyrr og síðar, og ótrúlega mikilvirku á því sviði. Hér á landi ferðaðist hann 1906.
Komorowicz – Rauðhólar 1912.
Rannsóknir Sappers snérust aðallega um Eldgjá og Eldborgaraðirnar á Síðuafrétti. Þýskur jarðfræðingur, Konrad Keilhack (1925), gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni 1924 og reit jarðfræðilega lýsingu á því svæði. Mun kort hans vera fyrsta nokkurn veginn nákvæma jarðfræðikortið, sem til er af einum landshluta hér á landi og miklu nákvæmara en eldri kort.
Sama ár og Keilhack var hér einnig enskur leiðangur við jarðfræðirannsóknir. Voru það þeir G.W. Tyrell og Martin A. Peacock. Gerði sá síðarnefndu nákvæmt jarðfræðikort af Viðey.
Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.
Á árunum 1934 og 1937 rannsakaði norskur jarðfræðingur, Tom R.W. Barth, síðar prófessor í Osló og víðar, íslensk jarðhitasvæði og safnaði upplýsingum um þau af öllu landinu. Sumurin 1935 og 1936 dvaldi svissneskur jarðfræðingur, R.A. Sonder (1941), hér á landi við rannsóknir, einkum á jarðhita og brotalínusvæðum landsins.
Árið 1943 kom út í Bratislava ritgerð eftir M.F. Kuthan nefnd „Die Oszillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavik“. Ritgerð þessi er 74 bls. með 22 myndum og stóru jarðfræðikorti.
Tveir frakkar koma hér og lítillega við sögu, þeir P. Bout (1953) og P. Biays (1956), en mest af því, sem í bókum þeirra er, hefur verið til annara sótt, einkum Guðmundar Kjartanssonar og Guðmundar G. Bárðarsonar. Í heild er lítið á ritum þessum að græða ern góðar myndir eru í báðum.
Rannsóknir höfundar
Jón Jónsson – Krýsuvík.
Snemma sumar 1960 var hafist handa um nákvæma jarðfræðilega kortlagningu í Krýsuvík og nágrenni. Frumkvæði að þessu átti Dr. Gunnar Böðvarsson þáverandi forstöðumaður jarðhitadeildar, en djúpboranir í Krýsuvík voru þá í undirbúningi. Korlagt var fysrt svæðið suður af Kleifarvatni og suðurhluti Sveifluháls. Starfið sóttist seint, m.a. vegan þess að ekkert farartæki var að staðaldri til um umráða, en notast var við þær ferðir, sem féllust. Kom fyrir að fara varð fótgangdi af vinnustað til hafnarfjarðar ap loknu dagsverki. Af séstökum ástæðum voru teknar fyrir rannsóknir á jarðhitasvæðinu vestast á reykjanesi og umhverfi þess sumarið 1963.
Árangurinn af þeim rannsóknum kom einkum fram í jarðfræðikorti, sem náði yfir vestasta hluta Reykjanesskaga og gefið var út af Vermi s/f. Það nær vestan frá sjó, austur að Stað í Grindavík og lúitið eitt norður fyrir Kalmanstjörn. Vitað er nú um allmargar skekkjur á þessu korti en talsvert hefur verið notað í sabandi við ýmsar jarðvísndalegar rannsóknir á svæðinu.
Mest var unnið að rannsóknunum sumurin 1968 og 1969. Smásvæði var þó eftir að kortleggja og hefur verið unnið að því að fylla í þau síðan fram á þennan dag (ársbyrjun 1977).
Jón Jónsson – Þráinsskjöldur.
Í framhaldinu lýsir Jón eldri jarðmyndunum, s.s. Rosmhvalanesi og Vogastapa, Stapafelli, Súlum og Þórðarfelli, Sandfelli, Sýrfelli, Bæjarfelli og Valahnúkum, Þorbjarnarfelli, Litla-Skógfelli, Húsfelli, Fiskidalsfjalli, Festarfjalli, Lyngfelli, Fagradalsfjalli, Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfelli, Keili, Móhálsum, Trölladyngju, Traðarfjöllum, Latsfjalli, Mávahlíðum, Krýsuvíkur-Mælifelli, Sveifluhálsi, Undirhlíðum, Valahnúkum, Húsfelli, Vífilsfelli, Helgafelli, Borgarhólum, Krýsuvíkurheiði, Selöldu, Skriðu, Bæjarfelli, Arnarfelli, Litla- og Stóra-Lambafelli, Geitahlíð, Lönguhlíðum, Vörðufelli, Herdísarvíkurfjalli, Vesturásum, Sandfelli, Krossfjöllum, Meitlum, Bláfjöllum, Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum, Grindaskarðahnúkum, Rauðuhnúkum, Selfjalli og Skálafelli.
Þá tekur Jón fyrir jökulberg og aðrar jökulminjar, nútímahraun og eldstöðvar (dyngjurnar Skálafell, Háleyjabungu, Sandfellshæð, Langhól, Berghól, Lágafell, Vatnsheiði, Fagradal (D-11), Þráinsskjöld, Hraunsels-Vatnsfell, Hrútagjá, Brennisteinsfjöll, Leiti, Heiðina há, Selvosgheiði, Strompa, Búrfell í Ölfusi, Dimmadal og Ása).
Jón Jónsson – misgengi og sprungur.
Gossprungum og öðrum eldstöðvum eru gerð góð skil, s.s. Vatnsfelli á Reykjanesi, Yngri- og Eldri-Stömpum, Rauðhólum við Skálafellsdyngju, Sýrfellsgígum, Klofningum, Eldvörpum, Þórðarfelli, Sundhnúkum, Baðsvöllum, Arnarsetri, Kálffelli, Hrafnshlíð, Borgarfelli, Höfða, Eldborg undir Trölladyngju, Sogum, Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi, Lækjarvöllum, Kóngsfelli, Mávahlíðum, Móhálsum, Melrakka, Rauðamel, Rauðhól, Sandfellsklofa, Hraunhól, Óbrennishólum, Kötlum, Gvendarselshæð, Búrfelli, Bæjarfelli í Krýsuvík, Kaldrana, Stóru- og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, Kálfadölum, Vörðufelli, Eldborg í Brennisteinsfjöllum, Breiðdal, Kistu, Kistufelli, Tvíbollum, Stóra-Bolla, Svartahrygg, Þríhnúkum, Stríp, Eldborg við Drottningu, Rauðahnúkum, Vífilsfelli, Eldborgum við Lambafell, Litlahrauni, Sandfelli og Eldborgum undir Meitlum.
Allur er framangreindur hin áhugaverðasti. Jarðfræðikortin af Reykjanesskaganum í hluta II eru ekki síður áhugaverð.
Sjá Jarðfræðikort I í heild HÉR.
Sjá Jarðfræðikor II í heild HÉR.
Heimild:
-Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Jón Jónsson, Orkustofnun; jarðhitadeild, apríl 1978.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga; samsett – Jón Jónsson.
Vífilsstaðasel II
Í ritinu Heima er best árið 2012 ritar Þorkell Jóhannesson, „Þankabrot um Vífilsstaðasel, sel og selbúskapur á Íslandi„. Þar segir hann m.a.:
Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.
„Örugglega má telja, að landnámsmenn hafi í árdaga flutt með sér þekkingu á seljum og selbúskap til nýrra heimkynna á Íslandi og þá væntanlega mest frá vestanverðum Noregi. Um þetta vitna frásagnir í gömlum lögum, elstu máldögum kirkna, Landnámsbók og Íslendingasögum svo sem Njáls sögu og Grettis sögu. Veigamesta heimild um sel og selbúskap á fyrri tíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar. Fyllstu upplýsingar um sel og selbúskap á Íslandi er hins vegar að finna í viðamikilli úttekt eftir þýskan mann, Egon Hitzler, sem birtist árið 1979. Frekari rannsókn á seljum og selbúskap er þó án efa þörf.
Nýlega hefur verið gerð úttekt á rúst Vífilsstaðasels af hálfu Minjasafns Reykjavíkur. Er stuðst við þau gögn hér á eftir, þegar fjallað er um selsrústina. Þá er stuðst við örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og Svans Pálssonar og leiðalýsingu um svæðið. Rent er að huga að legu selgötunnar til heimabæjar svo og að sérstakri rúst í næsta nágrnni viðs elið. Með stoð í Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónasonar frá Hrafnagili, frásögnum frá tveimur meðal síðstu seljanna, sem starfrækt voru hér á landi, og öðrum heimildum er fjallað um búskap í seljum, en hann snerist umfram allt um mjaltir og mjólkurvinnslu. Í því efni var enn fremur leitað fanga í þremur heimildaritum frá fyrri tíð. Þá eru hugleiðingar um langt hnignunuarskeið selsbúskaparins á Íslandi og lok hans. Í lokaorðum er reynt að meta hve lengi Vífilsstaðasel hafi verið notað og vísbendingar um brunn við selið og álykta enn frekar um efnið.
Vífilsstaðasel í landi Vífilsstaða í Garðabæ (áður Garðahreppi í Gullbringusýslu) hefur verið allstórt sel. Rúst þess er og stæðilegri en rústir margra annarra selja í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en einmitt á því svæði voru mörg sel. Það vekur því athygli, að Vífilsstaðasel er í námunda við þekkta gönguleið og reiðleið eftir línuvegi meðfran háspennulínum til Straumsvíkur og þar er stundum áð. Meðan annars af þeim sökum er freistandi að gera Vífilsstaðaseli í nokkur sérstök skil.
Vífilsstaðasel – stekkur.
Vífilsstaðasel er einn af mörgum stöðum í nágrenni þéttbýlis Stór-Reykjavíkur, sem minnir á horna búskaparhætti í seljum. Mörg þessara selja hafa verið utan heimajarðar og seljavegir því oft verið langir eða fremur langir. Vífilsstaðasel var dæmigert heimasel og því ekki óhæfilega langt til heimahúsa eða veturhúsa og stundum var nefnt.
Að vestan og norðan takmarkast hvilft af Selási og Selholti austan og sunnan Vífilsstaðasels.
Við mastur nr. 29 í syðri háspennulínunni, sem ekki er fjarri hábrún Vífilsstaðahlíðar að austan, opnast til suðurs víður, grasigróinn hvammur, sem nefna má Selhvamm. Selás er á austurbrún hvammsins og Selholt lokar honum til suðurs og afmarka hvamminn frá suðurhvilftinni með Grunnavatni syðra. Vestanvert hvamminum er Selhóll og framan í honum allmikill grágrýtishamar, sem nefndur hefur verið Selhamar. Gísli Sigurðsson nefnir í örnefnalýsingu sinni Selkvíar við Selhólinn. Ekki hefur það verið rannsakað til hlítar, hvort þar leynist rúst af kvíum. Þða hlýtur að teljast líklegt.
Suðaustanhallt í hvamminum undir Selásunum eru greinilegar rústir Vífilsstaðasels. Sjáanlegar eru rústir þriggja húsa, sem liggja nokkurn veginn frá norðvestri til suðausturs…
Í lýsingu Garðaprestakalls frá 1842 segir síra Árni Helgason (1777-1869), sem var prestur í Görðum á Álftanesi 1825-1858, að síðast hafi verið haft í seli í Görðum 1832, en selbúskapurinn hafi yfirleitt lagst af í hreppnum á árunum 1780-1790. Heimildum síra Árna og Egon Hitzler ber því ekki fyllilega saman og verður nú ekki skorið úr því hvort þeirra hefur rétt fyrir sér.“
Þess má geta að í framangreindi athugun á selsrústunum yfirsést Þorkeli t.d. stekkur ofan við Vífilsstaðasel, fyrrnefnda kvíin í Selkvíum, tvær eldri selsamstæður sunnan meginselsins sem og stekkur suðvestan þeirra.
Heimild:
-Þorkell Jóhannesson, „Þankabrot um Vífilsstaðasel, sel og selbúskapur á Íslandi“ – Heima er bezt, 1. tbl. 62. árg. 2012, bls. 29-39.
Vífilsstaðasel – tilgáta ÓSÁ.
Hveragerði – söguhringur
Hveragerði hefur að geyma marga áhugaverða staði, bæði hvað varðar upphaf bæjarfélagsins sem og sögu þess.
Listamannahverfið
Árin 1940-1965, bjuggu eða dvöldu fjöldi þekktra listamanna í Hveragerði,- skáld, rithöfundar, tónskáld, listmálarar og myndhöggvarar. Af þeim eru þekktust skáldin og rithöfundarnir Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, Gunnar Benediktsson, Sr. Helgi Sveinsson, Kári Tryggvason og Ólafur Jóhann Sigurðsson, tónskáldin Ingunn Bjarnadóttir og Árni Björnsson, myndlistamennirnir Höskuldur Björnsson, Kristinn Pétursson, Gunnlaugur Scheving og myndhöggvarinn Ríkarður Jónsson.
Hveragerði – söguhringur.
Ástæðan fyrir því að listamenn fluttu til Hveragerðis voru einkum þær, að hér voru lóðir ódýrar og ódýrt að kynda húsin með jarðhita. Jafnframt var það góð leið til að losna úr ys og þys Reykjavíkur í byrjun stríðs. En þó að listamennirnir hafi leitað út fyrir borgina í rólegra umhverfi er fjarri því að í kringum þá hafi ríkt nein lognmolla. Þeir létu sig varða öll mál sem til framfara og menningar horfðu og pólitíkin var oft á tíðum hörð. Hinsvegar stóðu allir sem einn maður þegar hin frægu garðyrkju- og listamannaböll stóðu fyrir dyrum, en „Blómaböllin“ í Hveragerði eru afsprengi þessara samkoma. Á slíkum gleðisamkomum voru allir vinir. Þekktust voru þau atriði þegar skáldin stigu upp á svið og kváðust á. Stundum sömdu þau annál ársins eða kvæði kvöldsins. Lausavísur þessara kappa urðu margar hverjar landsfrægar og á hvers manns vörum. Eflaust kannast margir við vísurnar sem fóru á milli þeirra Kristmanns og Jóhannesar úr Kötlum þegar þeir hittust einu sinni á símstöðinni. Þar sátu þeir og spjölluðu saman þar til Jóhannes segir allt í einu:
Lít ég þann er list kann,
löngum hafa þær kysst hann,
– Kristmann.
Þá svaraði Kristmann:
Einkum þó vér ötlum,
að þær fari úr pjötlum,
– í Kötlum.
Hvergagerði – Listamannahverfið.
„Listamannahverfið“ samanstendur af þrem götum. Bláskógar var gata listmálaranna, Laufskógar gata tónlistarmannanna, en flest settust skáldin að við götu sem nú nefnist Frumskógar, en var þá nefnd „Skáldagata“. Til að skoða hús skáldanna er hægt að ganga sem leið liggur vestur Heiðmörk, frá Breiðumörk. Einnig er hægt að taka á sig krók og ganga framhjá hverasvæðinu austanverðu. Þar liggur gatan Hveramörk. Við hverasvæðið er móttökuhús fyrir ferðamenn þar sem hægt er að lesa um jarðfræði og sögu þess, fara um svæðið og kynnast einstakri hveraflórunni.
Kristinn Pétursson.
Gegnt innganginum á hverasvæðið er húsið Helgafell. Þar bjó um tíma Ragnar bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Hann orti m.a. ljóð við lög Kaldalóns (Þú mildi vorsins vindur). Við enda Hveramerkur liggur göngustígur yfir hverasvæðið og endar við Bláskóga. Þegar gengið er niður eftir Bláskógum sést áberandi hús listmálarans Kristins Péturssonar, Bláskógar 6. Þegar Kristinn fluttist til Hveragerðis, haustið 1940, hafði hann þjáðst mjög af gigt og hingað leitaði hann sér heilsubótar í leir- og hveraböðin. Skömmu síðar hóf hann byggingu húss með stórri og myndarlegri vinnustofu. Húsið nefndi hann Seyðtún. Þá var Hveragerði orðið nokkur vísir að listamannabæ. Kristinn ferðaðist mikið um landið, rissaði upp myndir í fáum dráttum og vann úr því þegar heim kom. Haustið 1948 opnaði hann dyrnar að vinnustofu sinni og bauð þeim sem vildu að heimsækja sig og skoða verk sín. Í dag muna margir Hvergerðingar eftir Kristni, sem hávöxnum einfara með sitt síða gráa skegg. Fyrir þá sem vilja kynnast verkum hans skal bent á að nú er lunginn úr ævistarfi hans kominn á Listasafn ASÍ.
Höskuldur Björnsson.
Annar þekktur listmálari, Höskuldur Björnsson, bjó við Bláskóga. Hann fluttist hingað frá Hornafirði árið 1946, keypti húsið Leiðvöll (Bláskóga 2) og byggði við það vinnustofu. Höskuldur ferðaðist mikið um landið, og hélt til haga í myndum sínum ýmsu er honum virtist fornlegt, horfið þjóðlíf og minjar þess. Þekktastur var hann þó fyrir landslags- og fuglamyndir sínar, en þá voru fuglamyndir svo að segja nýtt viðfangsefni í myndlist. Þar túlkaði hann líf fuglanna, hátterni þeirra, liti, hreyfingar og viðmót. Þekking hans á fuglum var orðin slík, að honum tókst oftlega að draga fram sérkenni þessara vængjuðu vina sinna með fáum, stílhreinum dráttum. Á heimili Höskuldar var lengi rekið kaffihús eftir hans dag, þar sem gestir nutu veitinga hjá Hallfríði Pálsdóttur ekkju hans. Þar gafst fólki tækifæri á að skoða listaverk sem héngu á veggjum.
Gunnar Benediktsson.
Hér við hús Höskuldar erum við komin að Heiðmörk. Næsta gata vestan við Bláskóga, er „Skáldagatan“, Frumskógar. Í Vin, húsi númer 5 við Frumskóga, bjó séra Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir. Þau fluttu hingað haustið 1943 í Friðsteinshús (Bláskóga 15) og voru þar eitt ár. Þá keyptu þau Vin og bjuggu þar síðan. Þegar þau fluttu hingað lýsti Gunnar Hveragerði á þennan hátt: „Þá var Hveragerði mjög eftirsóttur staður smáborgurum í Reykjavík, sem efni höfðu á að hrófla sér upp skýli til athvarfs yfir sumarmánuðina sér til hvíldar úr ys stórborgarinnar.“ Það hafði þegar tekist hið elskulegasta bræðralag milli þessa sumarbústaðafólks og íbúa staðarins, þar sem listamenn og garðyrkjufólk var ráðandi um svipmót þessara ára. Gunnar vann að hreppsnefndarstörfum og var einn fimmmenninga sem stofnuðu „Hreyfinguna“ sem vann að því að Hveragerði klauf sig frá Ölfusi og varð sjálfstætt sveitarfélag árið 1946. Á þessum tíma var gatnakerfi þorpsins í mótun og er Gunnar höfundur gatnanafna, eins og Frumskógar, Bláskógar o.fl.
Kristján frá Djúpalæk.
Kristján frá Djúpalæk bjó í Bræðraborg (Frumskógum 6). Þegar hann flutti hingað árið 1949 var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og eftir því sem árin liðu naut hann sífellt meiri vinsælda. Þrátt fyrir vinsældir sínar sem skáld varð hann að sjá fyrir sér með annarri vinnu. Hann var barnakennari í Þorlákshöfn, vann við garðyrkjustörf, húsamálun og fleira sem til féll. Einnig vann hann við jarðboranir í Dölunum í sambandi við rannsóknir á kola- og surtarbrandslögum. Eftir hann lifa mörg þekkt ljóð og lagatextar, svo sem „Vor í Vaglaskógi“.
Sr. Helgi Sveinsson bjó í Ljósafelli (Frumskógum 7). Hann starfaði hér sem prestur og kenndi þar að auki í garðyrkjuskólanum og barna- og miðskólanum. Hann var einstaklega lipur hagyrðingur og svo fljótur var hann að setja saman vísur að engu líkara var en hann talaði í hendingum. Stundum átti hann það til að skjóta orði eða hendingu inn í tal manna svo að úr varð rétt kveðin vísa.
Kristmann Guðmundsson.
Kristmann Guðmundsson bjó í Garðshorni (Frumskógum 9) sem hann byggði 1941. Hann skrifaði nokkur verk þegar hann dvaldi erlendis, stóð þar að útgáfumálum og var farinn að njóta töluverðra vinsælda áður en seinna stríðið skall á. Þá varð hann að flýja frá Þýskalandi þar sem allar hans eignir, bækur o.fl var fryst og hann fékk aldrei krónu fyrir. Hann flutti til Hveragerðis til að losna úr asanum í Reykjavík og dvaldi um tíma á berklahælinu að Reykjum (Reykjahælinu) sem tók til starfa 1931 og var rekið til ársins 1938. Þegar hann kom til Hveragerðis í árslok 1940 kom þorpið honum þannig fyrir sjónir: „Hveragerði var ekki beysið í þá daga. Fáeinir kofar á við og dreif, en götur engar nema afleggjarinn upp að gömlu mjólkurbúshúsunum. Í einu þeirra var lítil verslun, og átti hana eigandi húss þess, sem ég hafði tekið á leigu, Halldór Gunnlaugsson.“ Kristmann tók þátt í einskonar fegrunarfélagi sem átti að stuðla að betri umgengni í þorpinu. Félagið gaf íbúum m.a. ruslatunnur sem þá var lítið um. Á þessum tíma var þorpið ógirt og búfénaður gekk í sorpið og dreifði því þannig að óþrif hlutust af. Kristmann hafði áhrif á gang mála í sveitarstjórnarmálum og var í fimmmanna nefndinni með Gunnari Ben sem vann að stofnun sveitarfélagsins. Hann var mikill áhugamaður um garð- og trjárækt og enn í dag kemur fólk til að líta á hinn fræga „Kristmannsgarð“. En garðurinn hefur breyst mikið í tímans rás og er fátt eftir af honum annað en garðarnir sem Kristmann hlóð og nokkur stakstæð tré. Meðal þeirra er að finna sjaldgæf tré eins og beyki.
Jóhannes úr Kötlum.
Jóhannes úr Kötlum flutti hingað haustið 1940 og bjó hér í 19 ár. Hann bjó fyrst í Friðsteinshúsi (Bláskógum 15), seinna í Miðseli (Frumskógum 10) og síðast í Hnitbjörgum (Bröttuhlíð 9). Þótt hann væri þekktur fyrir verk sín varð hann að vinna fyrir sér með öðrum hætti. Hann starfaði lengi í Þórsmörk og var einn af fyrstu landvörðunum. Einnig var hann vörður við mæðuveikigirðingarnar uppi á fjöllum.
Ríkarður Jónsson átti hér sumarbústað sem hann nefndi Smáragrund (Frumskógar 11). Hann dvaldi hér aðeins á sumrum en vann í Reykjavík við höggmyndir og útskurð. Hann byrjaði að læra tréskurð 17 ára gamall í Reykjavík og lauk sveinsprófi í þeirri iðn þremur árum síðar, 1908, fyrstur Íslendinga. Skömmu síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara náms í útskurðarlist og til þess að læra höggmyndasmíði og almennt listnám. Hann bar djúpa virðingu fyrir handverkinu sem listrænni eigind. Fyrsta sýning hans hér á landi var árið 1915. Ríkarður var glaðvær sagnamaður, rímfróður og hnyttinn hagyrðingur. Kímni hans og lífsgleði mótaði óneitanlega list hans sem sést í mörgum andlitsmyndum eftir hann. Á lóð hans er borhola sem boruð var 1941. Holan var 50 feta djúp og ein af þeim fyrstu í þorpinu. Þetta var samvinnuverkefni Ríkarðs og Kristmanns sem bjó við hliðina á honum. Seinna voru fleiri hús tengd við holuna sem var lengi virk.
Ríkarður Jónsson.
Nú hefur helstu listamanna verið getið sem bjuggu í „Skáldagötunni“. Þá er tilvalið að ganga upp að kirkju, sem stendur tignarlega á „Sandhóli“, og skoða útsýnið þaðan. Þar sést yfir hverasvæðið og stóran hluta bæjarins. Á hverasvæðinu undir Sandhól stóð Ásbyrgi, hús Ásgeirs Jónssonar járnsmiðs byggt 1935. Hann var okkar fyrsta skáld og orti smellna gamanbragi sem sungnir voru á samkomum. Hann var höfundur hinna fleygu orða sem margir Hvergerðingar muna: „Hveragerði er heimsins besti staður.“ Hann vann í Landssmiðjunni og flutti snemma héðan.
Nú hefur verið getið helstu listamanna sem dvöldu í Hveragerði fyrrum. Nokkrir listamenn búa hér í dag og halda uppi heiðri Hveragerðis sem skálda- og listamannabæjar. Meðal þeirra eru skáldin og rithöfundarnir Gunnar Dal og Indriði G. Þorsteinsson og listmálarinn Hans Christiansen.
Gunnar Dal.
Gunnar Dal er með merkari hugsuðum okkar þjóðar og hefur gefið út fjölda bóka. Meðal þeirra eru skáldsögur og ljóðabækur sem hann hefur bæði samið og þýtt, bækur um heimspekileg og trúarleg efni, t.d. Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran.
Gunnar nam heimspeki við Háskólann í Edinborg, Kalkútta og Wisconsin. Hann var kennari til fjölda ára og hefur setið í stjórn Félags íslenskra rithöfunda. Meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið eru listamannalaun, laun Rithöfundasjóðs og bókmenntaverðlaun RÚV. Nýlega hélt Gunnar Dal upp á 50 ára rithöfundarafmælið sitt og kynnti þar m.a. nýútkomna bók sína, Stefnumót við Gunnar Dal.
Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur, byrjaði sem blaðamaður hjá Tímanum 1951, vann síðan hjá Alþýðublaðinu og varð seinna ritstjóri Tímans. Hann skrifaði leikritahandrit að bók sinni, „Sjötíu og níu af stöðinni“, sem er eitt af fyrstu leikritunum sem sýnd voru í íslenska sjónvarpinu.
Indriði G. Þorsteinsson.
Indriði samdi jafnframt kvikmyndahandrit af sögunni um útlagann Gísla Súrsson. Indriði hefur samið skáldsögur, fjölda smásagna, skrifað ævisögur og sagnasöfn.
Listmálarinn Hans Christiansen er einn af fyrstu innfæddu Hvergerðingunum. Hann hefur búið hér um áratuga skeið og haldið fjölda sýninga. Óhætt er að segja að fáir hafi jafn gott auga fyrir mótívum úr landslagi og mannlífi bæjarins. Með pennateikningum og vatnslita- og pastelmyndum hefur Hans lífgað upp á listalíf bæjarins. Margir heimsækja hann í vinnustofuna að Breiðumörk 8, sem opin er gestum og gangandi.
Auk ofangreindra eru ýmsir aðrir lærðir og leiknir í Hveragerði sem stunda list af ýmsu tagi, má þar nefna glerlist, myndlist, útskurð, leirlist, nytjalist, leiklist, tónlist o.fl.
Drullusund
Hveragerði – Upplýsingaskilti við Drullusund.
Örnefni eru oft óvenjuleg og skemmtileg. Drullusund í Hveragerði er eitt þeirra, nafn á göngustíg sem verið hefur í notkun frá upphafi byggðarinnar, þvert yfir hverasvæðið í miðbænum.
Níu söguskilti hafa verið afhjúpuð í Hveragerði á undanförnum árum, það nýjasta segir frá Drullusundi í miðbænum.
„Þetta er annað af tveimur undarlegustu örnefnum í Hveragerði; hitt var Skrattabæli, hús sem eyðilagðist því miður í jarðskálftanum fyrir nokkrum árum og varð að rífa í kjölfarið,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.
Hveragerði – Drullusund fyrrum.
Drullusund er göngustígur þvert yfir hverasvæðið í miðbænum og tengir miðbæinn og efra þorpið, sem svo er kallað. „Þetta er gömul leið sem hefur alltaf borið þetta nafn. Ég hef búið hér í bænum síðan ég var lítil og þetta er þekkt örnefni. Allir þekkja Drullusundið,“ segir Aldís.
„Við höfum verið með í gangi verkefni í áratug, setjum upp eitt söguskilti við markverðan stað á hverju ári og höfum gefið út götukort sem gefur fólki tækifæri til að fara á milli skiltanna og fræðast um sögu Hveragerðis. Sveitarfélagið er ekki gamalt, verður 70 ára á næsta ári, og þótt mörg önnur sveitarfélög séu miklu eldri státum við af skemmtilegri sögu. Gestir bæjarins og jafnvel ekki íbúar sjálfir þekkja þó ekki söguna nema einhver segi þeim hana. Við viljum gefa fólki tækifæri til að kynna sér sögu bæjarins, gárungarnir segja reyndar stundum að í sveitarfélaginu, sem er eitt það minnsta að flatarmáli á landinu, geti ekki verið mjög margir merkilegir staðir, en við erum ekki hálfnuð!“
Hveragerði – Drullusund.
Drullusund liggur milli gatnanna Bláskóga og Hveramerkur. Í upphafi mun Drullusundið aðeins hafa átt við leiðina frá þinghúsinu (Breiðumörk 25) að Ásum (Hveramörk 16) en eftir að byggð fór að myndast vestanmegin við hverasvæðið á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar færðist heitið yfir á núverandi göngustíg.
Drullusundið var einkum notað af íbúum til að stytta sér leið á milli þorpshluta, að sögn Aldísar bæjarstjóra, börnum á leið í skóla og húsmæðrum til innkaupa.
„Áður en Drullusundið var hellulagt myndaðist á gönguleiðinni, einkum í vætu, drullusvað og af því dregur stígurinn nafn sitt. Heppilegasti fótabúnaðurinn var þá gúmmístígvél, sem áttu það til að festast í leðjunni svo erfitt gat reynst að komast þurrum fótum yfir,“ skrifaði á sínum tíma Gunnar Benediktsson, rithöfundur og hreppsnefndarmaður, þegar hann lýsti ástandi samgöngumála í Hveragerði um miðja öldina.
Hveragerði – Drullusund í dag.
Gunnar segir svo frá að eftir að fjölskyldan flutti í Skáldagötu, þar sem nú heita Frumskógar, var þar „enn ekki vottur af götu að öðru leyti en því, að húsalínur voru að nokkru leyti beinar í gegnum þrælþýfðan móa, þá var ekki hægt að fara með litlu dótturina niður í þorp nema með mikilli fyrirhöfn. Það þurfti tvo til að starta því fyrirtæki, þar sem annar þurfti að annast barnið, en hinn að skondrast með vagninn, þar til komið var á breiðstræti hverasvæðisins.“
Hverasvæðið í miðbænum
Manndrápshver – skilti.
Hveragerði dregur nafn sitt af hverasvæðinu í bænum miðjum. Þjóðleiðin forna yfir Hellisheiði og inn á Suðurland lá nærri hverasvæðinu og umferð þar um talsverð. Árið 1906 féll ferðamaður í hver einn á svæðinu og hlaut af bana. Hefur hverinn síðan borið nafnið Manndrápshver. Atvikið varð til þess að sett var upp lítil vatnsknúin rafstöð í Varmá til að skaffa rafmagn til raflýsingar leiðarinnar nærri hverasvæðinu. Þetta var fyrsta rafknúna götulýsing landins í dreifbýli. Aðrir nafntogaðir hverir á svæðinu eru Bláhver en hann er nefndur eftir lit vatnsins.
Ruslahver / Önnuhver.
Ruslahver (einnig þekktur sem Önnuhver) hafði um árabil verið notaður sem ruslagryfja og dregur nafn sitt af því að hann lifnaði við í jarðskjálfta 1947 og þeytti öllu ruslinu úr sér. Dynkur heitir hver sem áður var aðeins lítið gufuauga en eftir Suðurlandsskjálftann 2000 umbreyttist hann í talsvert öflugan leirhver.
Hveragerði- borhola.
Hveragerði er hluti af jarðhitasvæðis Hengilseldstöðvarinnar í rekbelti Mið-Atlantshafsins. Austar er breitt gosbelti, sem teygist frá Heklu og Vestmannaeyjum inn undir Vatnajökul, um Kverkfjöll og Dyngjufjöll norður til Öxarfjarðar. Þar byggist gosvirknin að langmestu á svokölluðum heitum reit, en ekki á plötureki eins og í rekbeltinu. Jarðhitasvæðin myndast á brotasvæðum jarðskorpunnar og gropnum móbergslögum fyrir tilstilli flekahreyfinga og jarðskjálfta, sem geta haldið þeim við eða gert þau óvirk. Þau skiptast í u.þ.b. 30 há- og 300 lághitasvæði. Háhitasvæðin eru innan beggja gosbeltanna. Þau eru mun öflugri en lághitasvæðin og séu þau sýnilega á yfirborðinu ber mest á gufuaugum, brennisteini og bullandi leirhverum. Sé hitinn á 1000 m dýpi hærri en 200°C teljast þau háhitasvæði. Lághitasvæðin eru að langmestu leyti utan gosbeltanna og hitinn á sama dýpi er innan við 150°C. Þau eru ólík háhitasvæðunum, því þar ber lítið eða ekki á brennisteinsgufum og þar eru bullandi vatnshverir, goshverir eða laugar.
Hveragerði – Bakkahver 1943.
Háhitasvæði Hengilsvæðisins eru hundruð þúsunda ára gömul og elzti hlutarnir eru í og við Hveragerði. Forfeður okkar höfðu ímigust á hverasvæðum. Þau voru hættulegur farartálmi og lítt nýtileg, en ferðamönnum þótti og þykir gaman að sjá goshveri. Litli-Geysir á hverasvæðinu var einn slíkur en hann er horfinn. Nýting jarðhitans í Hveragerði hófst í kringum 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga úr öflugum gufuhver, Bakkahver, og tíu árum síðar var fyrsta holan boruð niður á 54 m dýpi og gufan var nýtt í gróðurhúsinu í Fagrahvammi, þar sem ylrækt hófst. Holan er löngu horfin en hún réði úrslitum um framtíð Hveragerðis sem ylræktarþorps. Bakkahver er enn þá þarna með pýramídalöguðu þaki.
Hveragerði – Dynkur.
Hitaveita Hveragerðis nýtir borholurnar HS-02 (311m) og HS-08 (254m), sem voru boraðar 1950 og 1988. Hitaþolnar örveirur í hverunum eru nýttar til framleiðslu hvata (ensíma). Fjöldi þessara örveirna er mikill og sumar sjást með berum augum, s.s. hin blágræna Masigolcladus Laminosus (grænt slim) og hin græna Chloroflexus, sem er í rauninni með glóaldinlit.
Hverasvæðið.
Í Hveragerði liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Garðyrkjuskóla ríkisins, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að labba upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi.
Hverasvæðið – upplýsingaskilti.
Sléttlenda dalverpið, sem blasir við úr Kömbum norðan Hveragerðis og Hamarsins, er í rauninni ónefnt. Árið 1703 talar Hálfdán á Reykjum um Völlinn eða Árhólma, þótt eldri nafngift finnist ekki. Vorsabæjarvellir eru fremri hluti dalsins allt að Hengilsá eins og hún rann áður neðar í honum norðan núverandi hesthúsa. Norður að núverandi farvegi heitir Árhólmar. Líklega flutti áin sig snemma á 20. öld. Hengladalsá rennur um Svartagljúfur norðan Kamba og Svartagljúfursfoss nokkra metra frá veginum nyrzt í Kömbum. Fyrrum féll hún um Nóngil tvö, litlu norðar.
Grýla 1967.
Norðan undir Hamrinum er upphlaðinn hver, Grýla, sem gaus reglulega á 1½ klst. fresti en hefur látið af slíkri reglusemi. Annar frískari goshver er nú sunnan ár nær Menntaskólaseli. Fyrrum voru sel frá Reykjabæjartorfu og Vorsabæ í dalnum og síðar var stofnað til nýbýla þar (Friðarstaðir, Gufudalur). Reykjakot var þar frá fornu fari og nýbýlið Reykjakot II var reist þar skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina. Menntaskólaselið stendur milli Reykjakotanna. Það var byggt 1938 og tekið í notkun í janúar 1939 sem orlofsheimili fyrir kennara og nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Milli þess og Fossmóa var boruð hola 1940. Þar kom upp gufa af 21 m dýpi og fyrsta rafstöð landsins, sem gekk fyrir gufuafli var reist þar.
Reykjasel – uppdráttur ÓSÁ.
Upp frá þessu ónefnda dalverpi ganga þrír samsíða dalir um 4 km til norðurs, Reykjadalur (vestast), Grændalur (í miðju) og ónefndur dalur (austast), sem Sauðá rennur um. Gönguferðir um þá eru öllum ógleymanlegar vegna staðhátta, jarðhita (baðmöguleikar) og grózku.
Kvennaskólinn á Hverabökkum
Árný Filippusdóttir.
Árný Filippusdóttir var fædd 20. mars 1894 að Hellum í Landssveit. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir, ljósmóðir, fædd að Lunansholti í Landi 1851 og Filippus Guðlaugsson fæddur að Hellum á Landi fæddur árið 1850. Árný var sjötta barnið í systkinaröðinni, af sjö börnum en fjögur elstu systkini hennar létust á barnsaldri. Auk sinna eigin barna ólu hjónin að Hellum upp fimm fósturbörn.
Saga skólans að Hverabökkum var alla tíð hörð og má telja hana meiri tilviljun en fyrirætlun, því í upphafi var skólahaldið fætt af þrá Árnýjar fyrir að eiga eigið skjól og fastan samastað. Húsið sem Árný byggði í Hveragerði var stækkað smám saman úr eins herbergis íbúð, í mörgum áföngum, þar til hann rúmaði sem best starfsemi skólans. Fyrsta námskeiðið sem Árný hélt að Hverabökkum var í ársbyrjun 1935. Oftast voru 14 stúlkur á námskeiðunum í einu, en stundum allt að tuttugu. Flestar voru þær á aldrinum 18-20 ára. Í byrjun var um þriggja mánaða námskeið að ræða en síðar var um heilan skólavetur að ræða og kennslugreinunum fjölgaði eftir því sem skólanum óx fiskur um hrygg.
Kennslugreinar við skólann voru meðal annars söngur, leikfimi, sund, matreiðsla, íslenska, heimilisbókhald, heilsufræði, danska, enska, skrift, ræðuflutningur og framkoma auk handavinnunnar. Mest var saumað úr gömlum flíkum, en dúkar voru saumaðir úr nýjum efnum. Kennt var frá klukkan 8 á morgnana og oft til klukkan 11-12 á kvöldin.
Kvennaskóolinn – upplýsingaskilti.
Árný sá sjálf um alla handavinnukennsluna, enda var hún jafnvíg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, vinna úr leðri, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira. Á kvöldin var unnið að handavinnu, hlustað á útvarpið, skipst á að lesa góðar bókmenntir eða spiluð sígild tónlist af grammófónsplötum, auk þess sem margir góðir gestir komu í heimsókn.
Kvennaskólinn á Hverabakka.
Að loknu skólahaldi á vorin var haldin sýning og ýmsum góðum gestum var boðið eins og ráðherrum, þingmönnum, prestum, listamönnum og öðrum kennurum úr Hveragerði. Námsmeyjarnar sungu og fluttu ræður, stiginn var dans og boðið var upp á kaffi og kökur.
Árný Filuppsdóttir.
Árný fékk styrki og gjafir frá nokkrum aðilum til skólahaldsins, meðal annars fjórum sinnum frá Búnaðarsambandi Suðurlands, frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og styrki frá Alþingi, þrátt fyrir að skólinn hennar væri ekki formlega viðurkenndur sem húsmæðraskóli, heldur skólinn að Laugarvatni.
Ein bestu og gróskumestu ár skólans voru árin 1946-1953, þar sem skólinn var fyrst viðurkenndur á fjárlögum og kennarar komust á föst laun. Á þessum árum var skólinn ætið fullsetinn og komust færri að en vildu. Vefnaður bættist við námsgreinarnar sem var afar vinsælt fag, einnig félagsfræði og þjóðskipulagsfræði auk hinna hefðbundnu greina.
Eftir að húsmæðraskólinn á Laugarvatni stóðst opinberar kröfur og var rekinn með fullum ríkisstyrk átti Árný erfitt uppdráttar með fjárveitingu handa skólanum sínum. Styrkupphæðirnar voru misháar og oft fékk hún ekki nema sem nam tæplega 10% af því sem aðrir húsmæðraskólar fengu í styrk. Síðasta styrkveiting sem skráð er til skólans var skjalfest árið 1952. Nokkrir alþingismenn voru hliðhollir Árnýju og studdu hana eins og þeim frekast var unnt.
Kvennaskólinn á Hverabökkum var starfræktur í húsinu Hverabökkum (Breiðamörk 23) frá 1936 til 1955. Nemendur Kvennaskólans á Hverabökkum voru að jafnaði um 20-25 á hverju ári og skólann sóttu stúlkur á aldrinum 16-23 ára alls staðar af landinu þó flestar væru af Suðurlandi. Veturinn 1945-1946 voru 25 stúlkur við nám en þó aðeins þrjár úr Árnessýslu. Árnesingarnir þrír eru hér fyrir framan Hverabakka, frá vinstri Kristrún og Þórunn Jónsdætur frá Skipholti í Hrunamannahreppi og Kristín Björg Jóhannesdóttir frá Ásum í Hveragerði.
Árið 1955 var Árnýju tilkynnt að hún ætti að hætta skólahaldi. Segja má að skólahaldinu á Hverabökkum hafi endað á svipaðan hátt og það hófst, með öflum sem Árný réði ekki við.
Árný beitti ýmsum ráðum til að afla skólanum tekna. Á stríðaárunum setti Árný meðal annars upp veitingasölu á sumrin, þar sem hún matreiddi algengan heimilismat fyrir setuliðsmenn og seldi gegn vægu verði til að verða sér út um fé, auk þess að þvo af þeim þvotta.
Í erindi sem Árný flutti í heimsókn sinni að Kvennaskólanum að Blönduósi árið 1939 kemur fram viðhorf hennar til uppeldis- og menntunar er hún segir: „Takmark hvers nútímaskóla er kunnátta. Án þess að leggja fyllstu stund á kunnáttu nemenda sinna getur skólinn ekki haft þau menntandi áhrif, sem honum eru ætluð. Nemandinn vex og þroskast fyrst og fremst af því að keppa eftir sem mestri kunnáttu og leikni […] Námsafrekið er í því fólgið að tileinka sér undirstöðuatriðin nógu vel og velja svo erfiðari viðfangsefni stig af stigi, eftir því sem hæfileikarnir leyfa…“. Að mati Árnýjar byggðist kunnátta í handavinnu að nokkru leyti á ásköpuðum hæfileikum, en ekki síður á iðn og óþrjótandi námsvilja. Árný var óþrjótandi að útdeila heilræðum til nemenda sinna, bæði munnlega og skriflega.
Eftir 1946 tók Árný að sér að skrifa fyrirlestrarbækur um ýmis málefni. Sú viðamesta hét Félagsfræði eða þjóðskipulagsfræði. Önnur bók var ágrip af hagfræði og bar nafnið: Hvernig fæ ég búi mínu borgið. Aðrar bækur voru Hreinsun og pressun fata og Þvottur og ræsting. Auk bókanna skrifaði Árný langa lista af heilræðum og ritgerðarefnum. Samhliða námsefninu og ritgerðunum samdi Árný spurningar og svör.
Fljótlega eftir að Árný fluttist að Hverabökkum gerðist Herbert Jónsson frá Akureyri heimilismaður hjá Árnýju og bjó hjá henni til æviloka. Herbert var fæddur 20. júlí árið 1903. Hann veiktist ungur af berklum og gekk ekki heill til skógar eftir það. Árný kynntist honum á Reykjahæli þegar hún hélt þar námskeið og féll vel við ljúfmennsku hans og létta lund og réði hann því til skólans. Þar kenndi hann dönsku, ensku, reikning og íslensku. Herbert var vinsæll maður sem gekk undir nafninu „borgarstjórinn“ í Hveragerði. Segja má að Herbert hafi verið Árnýju stoð og stytta á margan hátt meðan hann lifði, en Árný var alla tíð ógift. Árný tók að sér tvö önnur börn meðan hún bjó að Hverabökkum þá orðin 54 ára gömul, þegar móðir þeirra fluttist búferlum til Ameríku.
Árný Filippusdóttir, fædd að Hellum í Landsveit árið 1894 kom mjög við sögu húsmæðrafræðslunnar hér á landi, bæði sunnanlands og norðan um miðja tuttugustu öldina. Hún var frumkvöðull að sérmenntun kvenna á Suðurlandsláglendinu og stofnaði húsmæðraskóla í Hveragerði af litlum efnum og rak sem einkaskóla á annan áratug af mikilli hugsjón. Árný lagði stund á hannyrðir og listir bæði í Danmörku, Þýskalandi og Póllandi í tæpan áratug en kom svo til Íslands til að taka við kennarastöðu hér á landi. Árný var mjög vel menntuð miðað við samtíðakonur sínar. Segja má að Árný hafi hvorki farið troðnar slóðir í einkalífi sínu né starfsvali og var því mjög umdeild fyrir vikið. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir, ljósmóðir, fædd að Lunansholti í Landi 1851 og Filippus Guðlaugsson fæddur að Hellum á Landi fæddur árið 1850. Árný var sjötta barnið í systkinaröðinni, af sjö börnum en fjögur elstu systkini hennar létust á barnsaldri. Auk sinna eigin barna ólu hjónin að Hellum upp fimm fósturbörn. Árný var sextug þegar skólahaldinu lauk og hófst þá nýr kafli í lífi hennar. Henni hafði verið gefin 4000 fermetra lóð í Hveragerði nokkrum árum fyrr og árið 1951 hóf Árný að byggja sér myndarlegt hús sem fékk nafnið Þelar og flutti þangað inn árið 1966 og seldi þá skólahúsnæðið. Að Þelum kom hún fyrir 12 vefstólum, spunavélum og öðru sem til þurfti til vefnaðar. Auk þessa kenndi Árný að loknu skólahaldi sínu bæði við Hlíðardalsskóla og við gagnfræðaskólann í Hveragerði. Árný sjálf var víg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, gera leðurvinnu, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira (Bjarni Bjarnason, 1969). Um sextugt byrjaði heilsu Árnýjar að hraka, hún var langþreytt, slæm af gigtarverkjum. Árný fékk heilablóðfall í febrúarbyrjun 1977 og lést tveimur mánuðum síðan, þann 2. mars 1977. Með Árnýju er tvö af uppeldisbörnum hennar ónafngreind en þau voru alls fimm.
Árný var sextug þegar skólahaldinu lauk og hófst þá nýr kafli í lífi hennar. Henni hafði verið gefin 4000 fermetra lóð í Hveragerði nokkrum árum fyrr og árið 1951 hóf Árný að byggja sér myndarlegt hús sem fékk nafnið Þelar og flutti þangað inn árið 1966 og seldi þá skólahúsnæðið. Að Þelum kom hún fyrir 12 vefstólum, spunavélum og öðru sem til þurfti til vefnaðar. Auk þessa kenndi Árný að loknu skólahaldi sínu bæði við Hlíðardalsskóla og við gagnfræðaskólann í Hveragerði.
Árný Filippusdóttir – 1894-1977.
Árný sjálf var víg á margt eins og að sauma hvítasaumsdúka, gera veggteppi, púða, knipla blúndur, gera leðurvinnu, skera út, teikna, mála á postulín og margt fleira.
Um sextugt byrjaði heilsu Árnýjar að hraka, hún var langþreytt, slæm af gigtarverkjum. Árný fékk heilablóðfall í febrúarbyrjun 1977 og lést tveimur mánuðum síðan, þann 2. mars 1977.
Gamla hótelið. Þinghús og skyrgerð
Hveragerði 1946.
Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði.
Hveragerðisrétt 1965.
Íbúum í Hveragerði fjölgaði hægt fyrsta áratuginn og í árslok 1941 voru þeir um 140. Næstu árin fjölgaði þeim hratt og voru um 400 í árslok 1946, stofnári Hveragerðishrepps. Næstu áratugina fjölgaði íbúum mun hægar, voru um 530 í árslok 1950, 685 í árslok 1960 og 740 í árslok 1970. Á síðustu árum hefur fjölgunin verið örari og þá einkum áratuginn 1971-1980. Íbúar voru um 1245 í árslok 1980, 1600 í árslok 1992, 1813 í árslok 2000 og um 2.476 í árslok 2016.
Hveragerði – Mjólkurbú (t.h.) og Þinghús (t.v.).
Nýting hverahitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun hafa laðað marga til búsetu í Hveragerði í upphafi. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið. Þvottur var þveginn við hverina eða í hitaþróm við húsvegg. Sveitafólk í Ölfusi hafði lengi nýtt hverina til þvotta og bakað rúgbrauð í heitum jarðvegi við hverina eins og örnefnið Brauðholur vitnar um. Sumarbústaðir voru margir einkum á stríðasárunum. Samkvæmt fasteignaskrá frá 1941 voru 37 íbúðarhús í Hveragerði og 19 sumarbústaðir. Sumarbústaðirnir voru vestan hverasvæðisins flestir við göturnar Laufskóga og Hverahlíð. Á stofnári Hveragerðishrepps 1946 var 91 íbúð skráð þar. En í árslok 2016 voru þær um 900 talsins.
Hvergagerði – Mjólkurbú – upplýsingaskilti.
Ölfushreppur byggði þinghús í Hveragerði árið 1930 að Breiðumörk 25. Veitingasala var í þinghúsi Ölfushrepps frá 1931 og þar hefur verið hótel meira og minna frá 1947. Þá var skyrgerð Mjólkurbús Ölfusinga einnig starfrækt í húsinu. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins, sem teiknaði margar af frægustu byggingum landsins eins og Hallgrímskirkju og Þjóðleikhúsið. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins. Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk. 2016 hófst skyrgerð að nýju í húsinu þegar veitingastaðurinn Skyrgerðin tók til starfa.
Hveragerði-Gamla Þinghúsið og mjólkuhúsið fjær.
Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk.
Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá voru skólahús reist á Kotströnd og Hjalla í Ölfusi. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli og þegar Þinghúsið var byggt í Hveragerði árið fluttist skólahald þangað. Árið 1937 var stofnaður heimavistarskóli í Hveragerði þegar keypt var húsið Egilsstaðir er áður hafði verið barnaheimili Oddfellow-reglunnar. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Árný Filippusdóttir byggði húsið Hverabakka og rak þar kvennaskóla 1936-56. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir. Þegar Gagnfræðaskólinn var stofnaður haustið 1965 var efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði tekin á leigu fyrir þrjá bekki Gagnfræðaskólans. Fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir Gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2. Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun og skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun.
Ungmennafélag Ölfusinga var stofnað árið 1934. Ungmennafélag Hveragerðis og Ölfus setti á stofn skafmiðahappdrættið Ferðaþristinn í lok árs 1987 og átti ágóðinn m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Kostnaður við happdrættið varð þó mun meiri en reiknað hafði verið með og salan minni en vonir stóðu til. Erfiður rekstur happdrættisins varð til þess að árið 1992 var UFHÖ tekið til gjaldþrotaskipta og er eitt fárra íþróttafélaga á landinu sem hafa farið í þrot. Sama ár, nánar tiltekið 28. mars 1992, var nýtt íþróttafélag stofnað í Hveragerði, Íþróttafélagið Hamar.
Mjólkurbú Ölfusinga
Hveragerði – Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Varmahlíð
Varmahlíð – upplýsingaskilti.
Varmahlíðarhúsið er eitt elsta íbúðarhús Hveragerðisbæjar reist árið 1929.
Húsið er einlyft, bárujárnsklætt timburhús með lágreistu mænisþaki. Húsið hefur hlotið faglega endurgerð. Þar er nú gestaíbúð fyrir listamenn en húsið er fullbúið með húsgögnum og tækjum. Afnot af húsinu eru endurgjaldslaus fyrir listamennina en óskað er eftir að listamenn kynni listsköpun sína og stuðli með þeim hætti að því að efla menningaráhuga uppvaxandi kynslóðar í Hveragerði.
Seinna var það endurbyggt með smávægilegum breytingum og fært innar í lóðina.
Menningar- íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar auglýsir árlega í nóvember eftir umsóknum um dvöl í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.
Mynd: Húsnæði Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði. Fyrir aftan vinstramegin er húsið Varmahlíð, fyrsta íbúðarhúsið í Hveragerði og til hægri sést að hluta til húsið Egilstaði sem síðar varð barnaskólahús. Fjærst sést glitta í húsin að Reykjum. Myndin líklega tekin árið 1930.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss
Ullarverskmiðjan – upplýsingaskilti.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss í Varmá í Hveragerði á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar. Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.
Hveragerði – Ullarverksmiðjan.
Lystigarðurinn markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.
Reykjafoss og leifar Ullarverksmiðjunnar.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir.
Útisýningin Listamannabærinn Hveragerði
Hveragerði – sýning í Listigarðinum.
Útisýningin Listamannabærinn Hveragerði, fyrri hluti, er komin upp í Lystigarðinum á Fossflötinni og var vígð á bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar í ágúst. Sýningin er gjöf Listvinafélagsins og Hveragerðisbæjar til íbúa þess í tilefni 70 ára afmælis bæjarins.
Listvinafélagið hefur staðið fyrir endurnýjuðum kunningsskap við listamennina sem lögðu grunn að Hveragerði sem nýlendu listamanna. Á sýningunni í Lystigarðinum eru kynntir rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.
Hluti sýningarinnar er appið Listvinir sem er ókeypis og hægt að nálgast með QR kóða á sýningarveggjunum eða sækja í appverslunum hvort sem er Apple eða Android. Appið býður upp á ýmsa möguleika og gerir sýninguna lifandi. Það gerir njótendum kleift að skoða ítarefni svo sem upplestur, tóndæmi, myndir eða leiðsögn um hvar aðsetur listamannanna var í Hveragerði.
Sýning í Listigarðinum.
Á sýningunni í Lystigarðinum eru kynntir til leiks níu listamenn frá frumbýlisárum bæjarins og þeir mynda kjarna sýningarinnar. Síðar er áætlað að setja upp sýningarvegg í tengslum við kjarnann þar sem tækifæri gefst að kynna enn fleiri listamenn til sögunnar bæði núverandi og fyrrverandi íbúa Hveragerðis. Þar er gert ráð fyrir breytilegum sýningum sem gaman verður að kynna þegar þar að kemur.
Hönnuður útisýningarinnar er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og Einar Bergmundur Þorgerðarson Bóasson hefur þróað appið.
Sýning í Listagarðinum.
Félagið óskar Hvergerðingum til hamingju með afmælið og þakkar félögum sínum og öðrum sem aðstoðað hafa við gerð sýningarinnar. Illugi Jökulsson og stjórnarmenn unnu texta, um þýðingu sáu Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og Vera Júlíusdóttir, myndvinnsla var í höndum Christopher Lund, Exmerkt sá um prentun. Einnig fá þakkir Kjartan Rafnsson verkfræðingur, Járnsmiðja Óðins ehf, Samverk ehf, Smákranar ehf, Stefán Gunnarsson trésmiður, Garpar ehf og starfsmenn áhaldahúss Hveragerðisbæjar.
Helstu styrktaraðilar sýningarinnar eru Hveragerðisbær, Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands, Menningarsjóður Suðurlands, Uppbyggingarsjóður Suðurlands og Dvalarheimilið Ás.
Gamli barnaskólinn – Egilsstaðir

Áður en Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag árið 1946 var skóli starfræktur að Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Hann tók til starfa haustið 1881 og var börnum í Ölfusi sem ekki gátu gengið daglega til skólans komið fyrir á næstu bæjum. Skólinn að Kröggólfsstöðum lagðist af vorið 1892 og var barnakennslu haldið áfram á árunum 1892-1897 með farkennslu. Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá var skólahús reist á Kotströnd og annað á Hjalla. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli.
Hveragerði – Barnaskólinn.
Árið 1930 byggði Ölfushreppur þinghús í Hveragerði og var rekinn farskóli í húsinu til ársins 1937. Sama ár var húsið Egilsstaðir keypt og settur þar fastur skóli fyrir hreppinn með heimavist fyrir þá sem ekki gátu gengið í skólann. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir.
Hveragerði – Barnaskólinn.
Gagnfræðaskóli var frá haustinu 1965 á efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði, fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2.
Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun. Skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun. Skólastjóri varð einn og honum til aðstoðar yfirkennari, síðar aðstoðarskólastjóri.
Sundlaugin Laugaskarði
Sundlaugin í Laugaskarði.
Laugin var byggð í tveimur áföngum, sá fyrri var 25×12 metrar og var tekinn í notkun árið 1938, en síðari hlutinn árið 1945. Í henni æfði íslenska landsliðið í sundi allt til 1966.
Það var Ungmennafélag Ölfushrepps sem beitti sér fyrir byggingu laugarinnar og lögðu félagsmenn fram ómælda sjálfboðavinnu. Þeim bættist góður liðsauki þegar Lárus Rist sundkappi fluttist til Hveragerðis árið 1936 og má segja að hann hafi tekið forystu við uppbyggingu laugarinnar og réði meðal annars staðarvali.
Á haustdögum 1963 var brotið blað í sögu laugarinnar en þá var eldri byggingin í Laugaskarði rifin niður og nýtt veglegt steinhús reis af grunni sínum. Arkitektinn af húsinu er Gísli Halldórsson. Sundlaugarhúsið þykir mjög glæsilegt og hefur vakið athygli fyrir fallega hönnun sem fellur vel inn í landslagið.
Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.
Maður sem stendur á sundlaugarbakkanum er líklega Lárus Rist að kenna sund.
Sundlaugin Laugaskarði er 50 metra löng og 12 metra breið og var um langa hríð langstærsta sundlaug landsins. Hún er svokölluð gegnumrennslislaug, hituð upp með jarðgufu, sem tryggir eðlilegt sýrustig og hreinleika vatnsins. Laugin er í skjólsælli hvilft sem veit gegn suðri, norðan Varmár.
Sundlaugin í Laugaskarði.
Á sundlaugarsvæðinu er heit, grunn setlaug, kaldur pottur, heitur pottur með vatnsnuddi og náttúrulegt gufubað. Í sundlaugarhúsinu er líkamsræktarsalur sem er rekinn af íþróttafélaginu Hamri.
Saga garðyrkju
Hveragerði – upplýsingaskilti við Garðyrkjuskólann.
Um 1929 fór þorpið Hveragerði að myndast eftir að samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað. Á sama tíma hófst ylrækt og eru fjölbreyttar tilraunir til nýtingar varmans einkennandi fyrir sögu bæjarins. Að hafa jarðhitasvæði í miðjum bænum er mjög einstakt á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Dæmi um nýtingu jarðhitans má nefna Þangmjölsverksmiðju þar sem þangmjöl var framleitt og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu nemendur árið 1941. Margar garðyrkjustöðvar risu á næstu árum og fóru Reykvíkingar að venja komu sínar til Hveragerðis til að kaupa afurðir garðyrkjubænda. Árið 1946 hóf Hverabakarí starfsemi sína sem heitir nú Almar bakari. Enn þann dag í dag er gufa nýtt til baksturs í Hveragerði.
Garðyrkjuskólinn fyrrum.
Áður fyrr voru hverir litnir hornauga enda slysagildrur fyrir menn og fé. Erlendir garðyrkjumenn sáu þó möguleika í að nýta heita vatnið og upp úr 1900 voru einstaklingar og áhugafélög farin að gera ýmsar ræktunartilraunir. Stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi, þar sem mikilvæg starfsemi er í gang, enda byggist meðal annars okkar framtíð á að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða.
Garðyrkjuskóli ríkisins sem er nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands er enn starfræktur á Reykjum. Hann er opinn almenningi sumardaginn fyrsta hvert ár og er þá hægt að skoða framandi hitabeltisgróður eins og kakóplöntur og bananaplöntur. Bananauppskeran er um tonn á ári sem má ekki selja og njóta því starfsmenn og nemendur góðs af henni.
Hveragerði – Garðyrkjuskólinn.
Skyrgerðin í Hveragerði var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þegar hún var reist 1930. Var skyr aðalframleiðsluvaran en einnig var fyrsta jógúrtin á Íslandi framleidd þar, nefndist heilsumjólk. Í dag er enn verið að framleiða þar skyr upp á gamla mátann og er það nýtt í matargerð, bakstur og í blöndun á drykkjum hjá veitingastaðnum Skyrgerðin.
Auk grænmetisframleiðslu og blómaframleiðslu er eitt stærsti ísframleiðandi landsins staðsettur í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækið Kjörís sem hóf starfsemi 1969.
Vigdísarlundur
Hveragerði – Vigdísarlundur.
Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti fyrstu trén í Vigdísarlundi á föstudaginn en þá var lundurinn afhjúpaður í Hveragerði, henni til heiðurs.
Haldið var upp á þau tímamót að 35 ár eru síðan Vigdís var kjörin forseti Íslands, og var hún fyrst kvenna í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti. Til að fagna þessum tímamótum var ákveðið að gróðursetja þrjú birkitré af stofni Emblu.
Skógræktarfélög um allt land stóðu að verkefninu en einnig komu Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmdinni og ýmis félagasamtök og fyrirtæki.
Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir.
Hveragerðiskirkja
Hveragerðiskirkja.
Hveragerðiskirkja er í Hveragerðisprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1967-1972 var vígð 14. maí. Árið 1941 var prestssetrið flutt frá Arnarbæli til Hveragerðis og bærinn varð sérstök sókn 1941.
Hveragerðiskirkja.
Útkirkjur eru á Kotströnd, Hjalla og Strönd. Arkitekt núverandi kirkju var Jörundur Pálsson og Jón Guðmundsson var byggingameistari. Kirkjan er úr steinsteypu og rúmar 200 manns í sæti. Söngloft er stórt og gott og rúm er fyrir 80-100 manns í hliðarsal, sem er safnaðarheimili með eldhúsi. Skírnarsárinn er stuðlabergssúla með ígreiptri silfurskál. Altarið er úr slípuðum grásteini.
Heimildir:
-http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041021185957/www.hveragerdi.is/template1.php?file=lysing_skalda.htm
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1574121/
-https://is.nat.is/hverasvaedid-i-hveragerdi/
-https://notendur.hi.is/jtj/vefsidurnemenda/Konur/arnyfil1.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hverager%C3%B0isb%C3%A6r
-https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/ullarverksmi%C3%B0jan-reykjafoss-var-starfr%C3%A6kt-vi%C3%B0-samnefndan-foss-%C3%A1-%C3%A1runum-1902-1914/774876869318812/
-https://listvinir.is/en/utisyningin-listamannabaerinn-hveragerdi/
-https://www.bbl.is/frettir/syningin-listamannabaerinn-hveragerdi
-https://grunnskoli.hveragerdi.is/is/skolinn/saga-skolans
-https://www.hveragerdi.is/is/mannlif/hvad-er-i-hvergerdi/sundlaug
-https://www.south.is/is/gisting-og-veitingar/mataraudur-sudurlands-2/mataraudur-gullna-hrings-svaedisins-1/hveragerdi
-https://www.sunnlenska.is/frettir/hati%C3%B0leg-gro%C3%B0ursetning-i-vigdisarlundi/
Hveragerði – Drullusund í dag.
Kúagerði
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 segir m.a. um „Kúagerði„:
sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefir sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið, að þetta stendur í engu sambandi við rúst kots þess, sem fyrir nokkrum áratugum var bygt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessara rústa.“
„Í Kúagerði, fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bær verið fyrir löngu. Sér þar til rústa innan til við
Í Búnaðarriti árið 1910 segir m.a. um sama stað: „Í Vatnsleysustrandarhreppi: Kúagerði (eyðibýli hjá Hvassahrauni, sjá Árb. Fornlfs. 1903, 35. bls.). Akurgerði (sjá nr. 15), Landakot, Breiðagerði, Hlöðunes, Traðarkot (hjáleiga frá Brunnastöðum), Garðhús (hjáleiga frá Stóruvogum), Garðhús (hjál. frá Ytri Njarðvík (Johnsens Jarðat. 458. bls.).
Þorskhausar.
Og í Eimreiðinni árið 1928 segir m.a.: „Þorshausar voru þá aldrei neitt eftirsótt vara. Þeir voru aðeins fluttir heim og étnir á þeim heimilum, sem ekki höfðu ráð á að eignast annað fiskæti eða áttu þá af hlutum sínum, því sjálfsagt var að hirða alt, sem hægt var að hirða, hverju nafni sem nefndist. Eftirsóknin eftir þorskhausum byrjaði fyrst eftir það, að annað harðæti fór að verða ófáanlegt, þegar allur fiskur var saltaður.
Þegar nóg skreið var fengin upp á lestina, annaðhvort með kaupum eða hluta-afla, eða hvorutveggja, byrjaði hin þreytandi og erfiða vinna, er þessum ferðalögum fylgdi. Á meðan menn dvöldu á Suðurnesjum, urðu þeir að flýta sér mest mátti verða, vegna gras- og vatnsleysis fyrir hrossin; fylgdi því ávalt allmiklar vökur, umsvif og áreynsla, en hagnýtara sýni og vandvirkni þurfti til þess, að »búa vel upp á«, svo að klyfjarnar færu vel á hestunum og ekkert eða sem allra minst skemdist á hinum langa og vonda vegi. Lagt var klyfjar þannig, að af harðfiski allskonar fóru um 60—70 í baggann, en af haustfiski fóru um 600 á hestinn, voru þá klyfjarnar vafðar netariðli og kistubundnar, en af meðalþorskhausum fóru 120 í klyfið eða 240 á hestinn.
Það kom fyrir, að fátækir menn neyddust til að takast á hendur þessar löngu ferðir, með aðeins eina eða tvær drógar í taumi, til þess — eins og þeir komust að orði — »að vita hvort Guð uppvekti ekki einhvern til að víkja að sér einum vanga«. Urðu margir vel við tilmælum þeirra, svo sem Ketill í Kotvogi, sem skipaði eitt sinn sonum sínum eða vinnumönnum að láta nægilegar klyfjar — og það ekki eintómar hausaskræður — upp á þrjár drógar, er einn þessara manna var með, svo hann þyrfti ekki að ganga fyrir kné fleiri manna. Var þó maðurinn Katli öldungis ókunnur.
Skreiðalest í Ögmundarhrauni.
Einstöku útróðramaður reif hausa sína áður en hann fór úr verinu, þannig að öll bein voru tekin úr hausnum, en allur fiskurinn hélt sér í heilu lagi, það hét að sekkrífa. Þurfti til þess sérstaka kunnáttu og var fremur seinlegt verk, en af þannig rifnum hausum fóru 800 í sekk, sem var hæfilegur baggi. Aldrei varð þó þessi aðferð almenn, hausarnir þóttu ódrýgri til skömtunar, enda vantaði öll tálknin.
Þegar nú alt var tilbúið, var lagt af stað heimleiðis. Nú var áríðandi að láta fara vel á, meðan klyfjar og reiðingar voru að jafna sig. Að því bjó síðan alla heimferðina. Ferðamaðurinn varð að sjá um, að ekki hallaðist á, að reiðingurinn væri hvorki of framarlega eða of aftarlega á hestinum, og að hvorki væri gvúfið eða keikt. Væri vanrækt að bera að, ef eitthvað af þessu átti sér stað, þá var hesturinn viss að meiðast.
Skreiðalest.
Flestir, sem komu af Suðurnesjum, áðu fyrst í Kúagerði, því þar var oftast vatn og ofurlítið gras. Þannig áningar hétu reiðingsáfangar, af því að flestum þótti eKKi taka því að spretta af fyrir svo stutta stund, en það var óhygni, oftast sprottin af þreytu eða leti ferðamannsins. Hestarnir þurftu að velta sér, en annað hvort gátu það ekki eða gerðu það með þeim afleiðingum, að reiðingarnir aflögðust og vildu síðan meiða.
Allra versti kaflinn til yfirferðar þar syðra í þá daga var Hraunin, einkum í vætutíð. Gatan var afarþröng og krókótt, full af þröskuldum og lónum. Lestir urðu að gæta mestu varfærni að mætast þar. Á Hraunsholtsmýri eða í Fossvogi legið svo lengi, að hrossin gætu vel fylt sig og hvílst. Og ferðamenn vildu helst liggja jafnlengi og ferðast var, margir gættu þess ekki, af of mikilli löngun til að vera sem fljótastir í ferðum. Þegar komið var í tjaldstað í votviðn, það ærið verk að bera saman klyfjarnar af langri lest og ganga svo frá þeim með skinnvörðum meljunum, að ekkert eða sem allra minst blotnaði til muna. Það hét að fansa. Væri nú einhver hestur meiddur eða vottaði fyrir því, var nauðsynlegt að reyna að lækna það sem fyrst.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 35.
-Búnaðarrit, 24. árg. 1910, 1. tbl., bls. 96.
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti. bls. 31.
Kúagerði 1912.
Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson
Björn Þorsteinsson skrifaði um „Básendaorustuna 1532“ í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.
Skip Hansamanna á miðöldum.
Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.
Enskt miðaldaskip.
Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.
Rif á Snæfellsnesi.
Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.
Íslandskort 1590 -Abraham Ortelius.
Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.
Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.
Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.
Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.
Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.
Básendar.
Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum.
Básendar – festarhringur.
Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.
Reykjanesskagi – kort.
Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.
Básendar – bærinn.
Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.
Báendar – tóftir bæjarins.
Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina“ að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.
Básendar – drónamynd.
Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.
Básendar – minjar.
Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.
Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.
Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.
Frá Básendum.
Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.
Básendar – loftmynd.
Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.
Festarkengur á Básendum.
Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.
Básendar – festarhringur.
Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga.
Básendar – bærinn.
Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.
Letursteinn við Básenda.
En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.
Kengur á Básendum.
Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers“ og dæmist það réttilega fallið undir konung.
Básendar – merki um friðlýstar minjar.
Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.
Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.“
Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.
Básendar – uppdráttur ÓSÁ.
Eldgos á Reykjanesskaga
„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi, sbr. nýjasta eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli.
Svínahraun.
Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða“ . Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld“ og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali.
Í Húshólma í Ögmundarhrauni.
Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 . Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.
Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.
Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs .
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900.
Gjóskulög í jarðvegssniði.
Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.
Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.
Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar.
Ögmundarhraun – kort.
Þegar Krýsuvíkureldar loguðu var aðalgosið árið 1151. Í því gosi opnaðist 25 km löng gossprunga, og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan er það Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður við sjávarbakkann.
Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg.
Hér á eftir má sjá nokkrar umfjallanir um afmörkuð hraun:
Svínahraun — Kristnitökuhraunið

Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna.
Edborg undir Meitlum.
Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan . Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (. Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.
Rjúpnadyngnahraun
Rjúpnadyngjuhraun.
Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og [Húsfells] er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp.
Jón Jónsson; jarðfræðikort – Rjúpnadyngjuhraun og nágrenni.
Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur.
Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.
Kóngsfellshraun
Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.
Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.
Breiðdalshraun
Breiðdalur.
Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun.
Útsýnið að Brennisteinsfjöllum úr Kistuhrauni (ÓSÁ).
Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C“ ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.
Gráfeldur á Draugahlíðum
Gráfeldsgígur í Draugahlíðum.
Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita,
Gráfeldur – loftmynd.
Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 . Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.
Tvíbollahraun
Tvíbollar.
Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins .
Tvíbolli (Miðbolli).
Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C'4 ár, en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.
Gvendarselshraun
Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.
Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk.
Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.
Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur
Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.
Nýjahraun — Kapelluhraun
Kapelluhraun – loftmynd.
Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á
sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við
þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.
Ögmundarhraun
Latur í Ögmundarhrauni.
Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).
Ögmundarhraun – yfirlit.
Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið . Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið
fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því.
Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga
Arnarseturshraun
Arnarseturshraun.
Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur.
Arnarseturshraun.
Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár.
Eldborg við Trölladyngju
Eldborg við Trölladyngju.
Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann.
Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.
Traðarfjöll
Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….
Í jarðfræði Reykjanesskaga (eftir Jón Jónsson 1978,) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.
Traðarfjöll – loftmynd.
Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.
Nöfn á hraunum á Reykjanesskaga.
1. Rjúpnadyngjuhraun
2. Húsfellsbruni
3. Tvíbollahraun (Hellnahraun eldra)
4. Grindaskarðahraun (Hellnahraun yngra)
5. Þríhnúkahraun
6. Þjófakrikahraun (Eyrahraun)
7. Kristjánsdalahraun
8. Hellur
9. Markrakahraun (Hellnahraun yngra)
10. Dauðadalahraun (Hellnahraun eldra)
11. Skúlatúnshraun (Hellnahraun eldra)
12. Búrfellshraun
13. Flatahraun (Búrfellshraun)
14. Selgjárhraun (Búrfellshraun)
15. Svínahraun
16. Urriðakotshraun (Búrfellshraun)
17. Vífilsstaðahraun (Búrfellshraun)
18. Stórakrókshraun (Búrfellshraun)
19. Garðahraun (Búrfellshraun)
20. Gálgahraun (Búrfellshraun)
21. Klettahraun (Klettar)
22. Mosar (Eldborgarhraun)
23. Smyrlabúðahraun (Búrfellshraun)
24. Gjárnar (Búrfellshraun)
25. Norðurgjár (Búrfellshraun)
26. Seljahraun
27. Gráhelluhraun (Búrfellshraun)
28. Lækjarbotnahraun (Búrfellshraun)
29. Stekkjahraun (Búrfellshraun)
30. Sjávarhraun
31. Hörðuvallahraun (Búrfellshraun)
32. Hafnarfjarðarhraun (Búrfellshraun)
33. Helgafellshraun (Stórabollahraun)
34. Kaldárhraun (Búrfellshraun)
35. Brunahryggur
36. Óbrinnishólabruni
37. Arnarklettabruni
38. Stórhöfðahraun (Hellnahraun yngra)
39. Kornstangarhraun
40. Selhraun (Eldra Afstapahraun)
41. Hellisdalshraun
42. Hellnahraun
43. Leynidalahraun
44. Hvaleyrarhraun (Hellnahraun eldra)
45. Hraunhólshraun
46. Nýjahraun
47. Háibruni
48. Bruni (Kapelluhraun/Nýjahraun)
49. Hrauntungur (Hrútagjárdyngjuhraun)
50. Brenna
51. Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn)
52. Snókalönd (Hrútagjárdyngjuhraun)
53. Hrútadyngjuhraun
54. Almenningur (Hrútagjárdyngjuhraun)
55. Hólahraun
56. Sauðabrekkuhraun (Sauðabrekkugígar)
57. Fjallgrenshraun (Sauðabrekkugígar)
58. Brundtorfuhraun (Brunntorfuhraun)
59. Hafurbjarnarholtshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
60. Stórhólshraun
61. Eyjólfsbalahraun
62. Bringur (Hvammahraun)
63. Einihólshraun
64. Merarhólahraun
65. Rauðhólshraun (Kapelluhraun)
66. Tóhólahraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
67. Þúfuhólshraun
68. Sléttahraun (Búrfellshraun)
69. Laufhólshraun (Hrútargjárdyngjuhraun)
71. Meitlahraun (Eldborgarhraun)
72. Bekkjahraun (Hrútargjárdynguhraun)
73. Brenniselshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
74. Katlar (Hrútagjárdyngjuhraun)
75. Draughólshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
76. Flár (Hrútagjárdyngjuhraun)
77. Rauðamelshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
78. Ögmundarhraun
79. Katlahraun (Moshólshraun)
80. Leggjabrjótshraun (Höfðagígahraun)
81. Beinavörðuhraun (Sunhnúkahraun)
82. Illahraun
83. Bræðrahraun og Blettahraun (Eldvarparhraun)
84. Eldvarparhraun
85. Stampahraun
86. Eldvörp
87. Þríhnúkahraun
88. Hellisheiðarhraun
89. Eldborgarhraun
90. Eldborgahraun
91. Hnúkahraun
92. Dauðadalahraun (Hnúkahraun)
93. Kistufellshraun
94. Draugahlíðahraun
95. Heiðin há
96. Leitarhraun
97. Þurárhraun
98. Astapahraun
99. Kálffellshraun
Heimild:
-https://redlion.blog.is/blog/redlion/
Eldgos á Reykjanesskaga – Geldingadalur mars 2021.
Sæfinnur með sextán skó
Raunasaga „Sæfinns með sextán skó“ hefur þegar verið skráð.
ka, sem hóf nafn hans upp úr hópi hinna nafnlausu og nafngetnu vatnsbera því hann þótti [einfaldlega] óglæsilegastur þeirra allra.
Sæfinnur Hannesson, þekktastur undir nafninu Sæfinnur með sextán skó, var einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hann var hinn ókrýndi konungur þeirrar stéttar þótt ekki hafi það verið glæsimenns
Sæfinnur var, sem fyrr sagði, einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Einleikar hans, geðprýði, ráðvendni, kurteisi og gott hjartalag, lyftu honum í minningunni á hærra stig en nokkrum öðrum úr hans stétt. Saga hans er þó átakanleg raunasaga, þótt samtíð hans hefði engan skilning á því. Það var ekki fyrr en hann hvarf af sjónarsviðinu og brunnurinn í Aðalstræti hafði verið byrgður, að augu manna opnuðust fyrir þeim mannlega harmleik sem saga hans geymir.
Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826, fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs.
Sæfinnur Hannesson.
Samkvæmt lýsingu og frásögnum manna, sem mundu Sæfinn ungan, þótti hann bera af öðrum mönnum um gjörvuleik og líkamsfegurð. Hann var og talinn vel greindur og afburðamaður til allra verka. En það voru ekki einu kostir hans því geðgóður var hann og prúður í allri framgöngu, reglumaður og neytti hvorki áfengis né tóbaks og því hélt hann alla ævi. Hann hafði alist upp við lítil efni og einsett sér að brjótast upp úr fátæktinni og byrjaði því ungur að temja sér sparsemi og nýtni. Ekki var hann þó öfundsjúkur eða ágjarn á eigur annarra, heldur var frómlyndi hans og ráðvendni viðbrugðið.
Margar meyjar hafa eflaust litið þennan unga og efnilega mann hýru auga. Fjöllyndi átti hann þó ekki til, en var tilfinninganæmur og bar heitt hjarta í brjósti. Svo fór að hann felldi ástarhug til ungrar og glæsilegrar stúlku og hún játaði fyrir honum að hún elskaði hann líka og bundust þau ævilöngum trúnaðarheitum. Framtíðin virtist því brosa við björt og fögur og Sæfinnur lagði nú alla stund á að búa svo í haginn, að þau gætu stofnað eigið heimili. Ekki er vitað hversu lengi þessi sæli draumur um fullkomna hamingju stóð, en Sæfinnur fékk að reyna, „að svo er friður kvinna, þeirra er flátt hyggja, sem í byr óðum beiti stjórnlausu“.
Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.
Ekki er vitað hverjar orsakir lágu til þess að unnustan sleit tryggð við hann, en með þeirri harmastund urðu alger þáttaskil í lífi hans. Um þetta segir svo frá í frásögn Árna Óla í ritverkinu Reykjavík fyrri tíma:
Flóahreppur – kort.
„Hann tók sér þetta svo nærri, að hann varð ekki mönnum sinnandi. Myrkur grúfði yfir sál hans og lamaði hið innra líf. Og þegar hann vaknaði að lokum af þessari martröð, þá var hann orðinn annar maður. Hinn hrausti og gjörvulegi æskumaður var horfinn, en í hans stað kominn annar Sæfinnur, gamall um aldur fram og andlega bilaður. Hann var að vísu ekki geðveikur í hinni venjulegu merkingu þess orðs, en hann hafði glatað hinni heilbrigðu skynsemi og lifði nú og hrærðist í öðrum heimi en samtíðarmenn hans. Hann gat ekki trúað því, að hann hefði misst stúlkuna sína. Hann var alltaf viss um, að hún myndi koma aftur til sín og þá yrði allt gott aftur. Og þess vegna hélt hann áfram að safna til þess að geta tekið vel á móti henni og gert henni yndislegt heimili. En allt var það ímyndun ein og sjálfsblekking, sjúkleg sjálfsblekking. Að öðru leyti hafði hann ekki tapað gáfum sínum.“
Margt var af einkennilegu fólki í Reykjavík á ofanverðri nítjándu öld en þótti þó kasta tólfunum er Sæfinnur bættist í hópinn. Í fyrstu vildu götustrákar gera sér dælt við hann, erta hann og stríða eins og öðrum fáráðlingum í bænum, en gáfust fljótt upp á því. Sæfinnur skipti aldrei skapi og tók öllum hrekkjum og strákapörum með mesta rólyndi og jafnaðargeði, en hélt sínum háttum eins og ekkert hefði í skorist.
Vesturgata 5 a, stórhýsið Glasgow, í Reykjavík, um 1885.
Sæfinnur bjó í útihúsi við Glasgow-verslunina þangað sem hann dró að ýmsa muni. Hann vildi vera viðbúinn ef ástin hans kæmi til baka og búa henni heimili. Þegar Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður af vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta. Halldór fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja bústang hans niður í sjó. Hann brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent í nærliggjandi fjöru 10. júlí 1890. Eftir það sást til hans í fjörunni við að reyna að tína saman leifar af dóti sínu enn með hugann við að unnustan myndi koma til hans. Sæfinnur lést árið 1896.
Sá var ljóður á ráði Sæfinns að hann vildi allt gera til að eignast peninga og notfærðu menn sér það til að henda gaman af honum. Sæfinni græddist með þessum hætti nokkuð fé og byrjaði einnig að draga björg í bú með öðrum hætti. Hann tíndi upp af götunum öll bréfsnifsi sem hann fann og druslur, glerbrot og flöskur. Og einatt mátti sjá hann niðri í fjöru þar sem hann rótaði í drasli og hirti, hvort heldur voru slitin föt eða skóræflar, skeljar, flöskur og jafnvel þara bar hann heim til sín. Þessari söfnun hélt hann alla ævi. En til hvers var hann að safna? Hjálmar Sigurðsson segir svo frá í blaðinu Íslandi 1898:
„Enn þráir hann bjarteygu, ljóshærðu meyna, og enn vonast hann eftir að hún muni koma á hverju andartaki og dveljast hjá sér það sem eftir er og aldrei framar við sig skilja. Hann hefur hvorki látið kemba né skera hár sitt frá því er hann sá hana síðast og hvorki kambar né eggverkfæri eiga að fá að snerta það fyrr en hún kemur með gullkambinn og gullskærin, því hún ein á hvert hár á höfði hans. Heima í höll sinni á hann stóra hrúgu af alls konar gersemum. Þar eru bjarnarfeldir og bjórskinn, safali og silkidúkar, pell og purpuri, gull og gimsteinar og alls konar kjörgripir og fágæti, sem nöfnum tjáir að nefna. Þessu hefur hann safnað saman um mörg ár, og sí og æ bætt við einhverju nýju á degi hverjum. Þetta má enginn hreyfa, enginn skoða, þangað til hún kemur, drottning hans, sem hann hefur vonast eftir á hverjum degi nú um mörg ár, því handa henni einni hefur hann safnað, utan á hana eina ætlar hann að hlaða öllum þessum gersemum.“….
Þessi var draumheimur sá, er Sæfinnur lifði og hrærðist í.
Melbær í Reykjavík um 1900. Talið er að bærinn hafi verið fyrirmynd Laxness af Brekkukoti.
Með hverju árinu sem leið gerðist Sæfinnur ótrúlegri ásýndum. Enginn slíkur tötradúði hefur sézt hér í bæ fyrr né síðar. Maður, sem þekkti hann, lýsti honum þannig:
„Hann hefur síðan hött á höfði. Hárið hangir í flókaberði dökkjarpt niður um herðar, og skeggið niður á bringu, allt í eintómum flygsum. Hann er í þremur eða fjórum vestum, jafn mörgum brókum, jökkum, frökkum eða úlpum, með fyrnin öll af skóm á fótunum, sem allt er margslitið, marggötótt og margstagað og hanga tuskurnar alls staðar út úr flíkum þessum. Um mjóaleggina eru buxurnar margvafðar að fótunum með samanhnýttum snærisspottum.“
Vatnsberarnir Gvendur Vísir og Álfrún.
Sæfinnur bjó lengst af í svonefndu Glasgow-húsi og eftir að Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður að vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta, sem fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja allt draslið niður í sjó. Er menn höfðu verið að um stund datt spesía út úr tusku og er betur var að gáð kom í ljós að silfur og gull var víðs vegar um ruslabinginn. Mörg ár eftir þetta voru strákar að finna peninga í fjörunni á þeim stað er rusli Sæfinns var fleygt.
Horft til vesturs úr fjörunni hjá Grófinni um 1890. Stóra húsið vinstra megin er Glasgow. Við hliðin á er Sjóbúð sem er reisulegt timburhús byggt var 1859 í stað torfbæjar með sama nafni. Hægra megin sjást tómthúsbýli norðan við Hlíðarhúsastíg, núverandi Vesturgötu. Á þessu svæði voru allnokkrir torfbæir um miðja 19. öld. Þeir voru auk Sjóbúðar, Hóll, Helluland, Merkisteinn, Klettakot og Jafetsbær. Dúkskot og Gróubær voru á sömu slóðum við Garðastræti.
Þegar Sæfinnur kom heim að loknum vatnsburði þennan dag þótti honum að vonum köld aðkoman. Hann horfði nokkra stund á hervirkið og gekk svo þegjandi burt. Er sagt að hann hafi komið við í Fischersbúð raunamæddur mjög og haft á orði að einkennilegt réttlæti ríkti hér á landi, að eignir manna skyldu ekki vera friðhelgar. Meira sagði hann ekki, en fór niður í fjöru og fór að tína saman það, er hann náði af drasli sínu.
Í frásögn Árna Óla segir svo frá þessum atburði: „En þótt Sæfinnur segði fátt, var þetta annað stóra áfallið, er hann varð fyrir í lífinu. Áður hafði hann talið sig ríkan, en nú fannst honum hann vera orðinn öreigi. Heimurinn var verri en hann hafði haldið. Menn, sem hann hafði aldrei sagt eitt styggðaryrði við, né gert á hluta þeirra, höfðu ráðist inn í helgidóm hans, allsnægtabúrið, og hagað sér eins og og verstu ræningjar, sópað öllu burt og fleygt því í sjóinn. Hann talaði ekki um þetta við neinn, því að geðprýðin var hin sama og endranær. En eitthvað brast í sál hans – héðan af gat han ekki tekið eins vel á móti stúlkunni sinni og hann hafði ætlað. Og hann varð hrörlegri og rolulegri með hverjum deginum sem leið.“
Sæfinnur náði sér aldrei eftir þetta, heilsunni hnignaði smám saman og lést hann 5. febrúar 1896 tæplega sjötugur að aldri.
Séð til norðurs frá Tjörninni á dögum vatnsberanna. Dómkirkjan, Lærði skólinn nú MR og stjórnarráðshúsið eru á sínum stað. Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796 og var fyrsta byggingin sem reist var sérstaklega með tilliti til þess að Reykjavík skyldi verða höfuðstaður landsins.
Neðst við Vesturgötuna á horni Aðalstrætis og Vesturgötu og upp að Garðastræti og einnig inn í Suðurgötu bjó um aldamótin 1900 fólk sem sumt hvert gekk nokkuð utan alfaraleiðar. Var eftirtektarvert fyrir ýmissa hluta sakir. Framkomu, klæðaburð og öðru sem daglegu líferni horfir. Oft átti þetta fólk við einhverskonar veikindi að stríða sem almenningur bar takmarkað skynbragð á. Þetta fólk vakti athygli. Stundum fundu rithöfundar og listamenn í því fyrirmyndir til verka sinna.
Þegar Halldór Laxnes skrifaði Brekkukotsannál mun hann hafa horft til fólks sem bjó þar sem nú er neðsti hluti Suðurgötu og tengdist einnig neðsta hluta Vesturgötunnar. Magnús í Melkoti er talin fyrirmynd að Birni í Brekkukoti en kona hans var ömmusystir Halldórs. Melkots er ekki getið í heimildum frá 1703 en finna má fyrstu heimildir um það á síðari hluta 18. aldar. Melkot var rifið árið 1915 og mun hafa verið búið þar í um 200 ár.
Ingólfsbrunnur.
Að minnsta kosti ein önnur persóna í Brekkukotsannál mun eiga upptök sín neðst í gamla Vesturbænum á svæðinu á milli Hlíðarhúsa og Aðalstrætis. Í Dúkskoti var til húsa eldri maður hjá Jóni hafnsögumanni sem þar bjó. Að sögn hávaxinn en nokkuð lotinn í herðum með sítt grátt hár og gisið kragaskegg. Útlit hans vakti athygli því hann var jafnan klæddur hálfsíðum klæðisfrakka en ekki vaðmálsflík eins og algengast var með gylltum hnöppum. Var nokkuð keikur í göngulagi og ljóst að hann fann talsvert til sín. Þessi roskni maður kallaði sig jafnan Hogesen en hét Kristján Hákonarson. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og frakkann hjá útendum skipstjóra vegna starfs síns sem hafnsögumaður við að koma skipi hans heilu í höfn. Kristján mun jafnan hafa verið drjúgur yfir þessu afreki þótt óvíst megi telja að hann hafði unnið til þess á nokkurn hátt. Fremur var talið að erlendir menn hefði gefið honum frakkann og uppnefnd hann á dönsku til að draga dár að honum.
Eiríkur Ólafsson (1823-1900), Brúnum undir Eyjafjöllum og Mormóni Utha.
Fullvíst er talið að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogesen í Brekkukotsannál. Í skáldlegum meðförum Laxness hafði Hogesen hlotið nokkra upphefð. Hann hafði verið leiðsögumaður danskra sjómælingamanna á Breiðafirði stað þangað sem hann hafði trúlega aldrei komið. Í Brekkukotsannál er einnig sagt frá því að Hogesen hafi farið á hverjum nýársdegi upp í Næpu á fund landshöfðingja til að fara með bænaskrá fyrir Íslands hönd og þiggja staup af brennivíni. Landshöfðingi á þá að hafa sagt við hann að hann væri nú eini íslenski sjóherinn.
Fleiri kynlegir kvistir bjuggu á þessum slóðum. Einn þeirra var Eiríkur Ólafsson oftast kallaður Eiríkur frá Brúnum. Hann bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár en fór þá til Kaupmannahafnar. Eiríkur fór síðan til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og dvaldi þar í átta ár. Gerðist mormóni en gekk síðan af trúnni. Kom heim og dvaldist í Reykjavík til aldamótaársins 1900 er hann lést.
Halldór Laxnes við Brúnir.
Eiríkur er fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í bókinni Paradísarheimt. Þórbergur Þórðarson fjallaði einnig um ævi Eiríks í kaflanum Bókfell aldanna. Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Bergshús var aðeins ofar í reykvísku byggðinni. Það stóð þar sem Bergstaðastræti og Skólavörðustígur mætast. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865 en það var lengst kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld. Þar var Þórbergur leigjandi um tíma og mun hafa kynnst Eiríki.
Ástarsorgin mikla
Sæfinnur með sextán skó var þekktastur vatnsberanna, en bugaður af ástarsorg.
Fyrir daga vatnsveitu í Reykjavík var hópur sem nefndist vatnsberar. Þeir höfðu þann starfa að sækja vatn í svokallaða vatnspósta sem settir höfðu verið upp við brunna. Einn þeirra var nefndur Ingólfsbrunnur við Aðalstræti. Ingólfsbrunnur var á milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9 og var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið. Í liði vatnsberanna var margt sérkennilegt fólk karlar og konur. Sumt af þessu fólki var bæði vanheilt og þroskaskert og hafði ýmsa kæki, sem gerði það öðruvísi en aðra. Flestir vatnsberarnir voru nefndir styttum nöfnum og án föðurnafns, en höfðu í þess stað auknefni eða kenningarnöfn. Sæfinnur Hannesson eða Sæfinnur með sextán skó var einn þeirra þekktastur.
Sæfinnur lést árið 1896.
Loff Malakoff
Þórður malakoff.
Þórður Árnason var einn af þeim kynlegu kvistum sem héldu til á mörkum Mið- og Vesturbæjarins. Hann var jafnan auðkenndur með heitinu Almala. Margar sögur gengu manna á meðal um afreksverk hans á blómaskeiði ævinnar. Hann var nokkuð ölkær og tíður gestur í þeirri veitingastofu gömlu húsanna við Aðalstræti sem almenningur kallaði Svínastíu. Hugmyndir um vínbann á Íslandi mun eiga rætur til drykkjusiða landans á þessari alræmdu krá. Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Vandræði urðu þó fljótt að fá lík til krufningar. Fólk vildi ekki leyfa læknavísindunum að krukka í ástvini sína látna. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Dag nokkurn fréttist af Þórði dauðum í verslun í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann. En þá reis hann upp. Hafði bara verið brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólsen síðar rektor Menntaskólans kvæðið Loff Malakoff. Þórður dó 1897 og var krufinn í líkhúsinu. Fyrsta erindi kvæðis Björns er á þessa leið.
Þótt deyi aðrir dánumenn,
loff- Malakoff,
hann Þórður gamli þraukar enn.
Loff Malakoff – mala,
lifir enn hann Malakoff
þótt læknar vilji flensa’ í
Malakoff, koff, koff
Þá lifir Malakoff,
þá lifir Malakoff.
Kvæðið varð eins konar dægurlagavísa. Auknefni Þórðar breyttist í munni manna. Hann síðan nefndur: Þórður Malakoff. Kvæðið er með sama lagi og danska skopvísan: „Malabrock er död i Krigen”. Mun Malabrock þessi hafa verið pólskur eða rússneskur herforingi. Sagan segir að læknanemar hafi verið hátt á aðra viku að fást við skrokkinn af Þórði. Vínföng munu hafa verið borin upp í Líkhús og læknanemar héldu ræður yfir líkamspörtunum á allt að sjö tungumálum. Ingólfur Gíslason læknir segir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum þótt hann væri nokkuð laus í böndunum er við sáum hann síðast.“
Þórður Árnason.
Fólk af erlendum uppruna er ekki nýlunda hér á landi. Við Hlíðarhúsastíginn sem er neðsti hluti Vesturgötu var eitt af allra hrörlegustu kotunum í Vesturbænum og hét Helluland. Í þessu hreysi átti heima kona sem var kölluð Rómanía. Ekki er vitað til að hún hafi átt eiginmann eða börn. Hún var sögð nokkuð gild, lág vexti, dálítið lotin í herðum og með mikið hrafnsvart hár sem hélt litnum þrátt fyrir aldurinn. Augun voru móbrún og tinnuhvöss, og eins og gneistaði af þeim ef hún skipti skapi. Andlitið var kringluleitt og smáhrukkótt. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Hún gat tæpast verið af norrænu bergi brotin. Hún þótti skaphörð og óvægin í orðum og athöfnum. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum. Á þessum tíma kom önnur kona við og við í bæinn. Hún var kölluð Manga dauðablóð. Hún mun hafa verið á fimmtugsaldri með tinnusvart hár og skolbrúnt andlit. Ónorræn að útliti. Manga var í meðallagi á vöxt, beinvaxin og bar höfuðið hátt. Hún var skartgjörn. Hafði mikið dálæti á skærum litum, og notaði því marglitan höfuðklút, grænt slifsi og rauða svuntu. Hún mun hafa átt einhverja kunningja í bænum, sem hún heimsótti, því að aldrei sníkti hún í húsum eða á götum úti. Af lýsingum á þessum konum má draga þá ályktun að þær hafi verið af ættum rómafólks sem stundum hefur verið kallað sígaunar hér á landi. Rómanir hafa verið flökkuþjóð. Trúlega hafa menn af ættum rómana komið hingað til lands – hugsanlega með frönskum fiskiskipum og náð að kasta sæði í fróan veg á meðan skipin lágu við festu.
Hlíðarhúsabæirnir um 1870 samkvæmt málverki Jóns Helgasonar biskups. Hlíðarhúsabæirnir voru: Norðurbær, Vesturbær, Sund, Skáli, Miðbær, Jónsbær og Austurbær. Allir þessir bæir nema Vesturbærinn voru rifnir fyrir aldamótin 1900. Hlíðarhús stóðu þar sem nú er Vesturgata 24 og 26 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu.
Í næstvestasta Hlíðarhúsabænum sem var kallaður Sund bjuggu saman Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Vísis nafnið fékk Guðmundur vegna þess að hann var um tíma aðstoðarmaður hjá Skotfélagi Reykjavíkur. Hann þótti seinlátur og lítt vinnugefinn. Álfrún var grannholda og fremur lág vexti, kvik á fæti og hin mesta áhugamanneskja í starfi sínu. Hún stundaði vatnsburð frá Prentsmiðjupóstinum til margra heimila í Miðbænum og Grjótaþorpinu. Hún naut stundum aðstoðar Guðmundar þegar annasamt var. Gekk oftast á undan honum og leit oft við til þess að hvetja hann áfram. Hún kunni illa seinagangi hans. Ekki er vitað hvert sambúðarform þeirra var en ekki voru það eintóm ástarorð sem hún talaði til Guðmundar. Þau dugðu þó illa því að maðurinn var hinn mesti letingi.
Símon Dalaskáld
Símon Dalaskáld og Gvendur dúllari.
Símon Dalaskáld svaraði yfirleitt fyrir sig þegar á hann var deilt. Hann freistaðist meira að segja til að svara eigin andlátsfregn.
Símon Björnsson Dalaskáld (1844-1916) – íslenskt skáld og förumaður á 19. og 20. öld.
Ýmsir fleiri sérlundaðir einstaklingar áttu sér dvalarstað í Rekjavík um lengri eða skemmri tíma. Einn þeirra var Símon Bjarnason. Hann tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali. Hann var fæddur 1844 í Blönduhlíð og lifði til 1916. Símon var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum. Hann giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt. Hann fékkst um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum. Hann fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var ekki umrenningur eða betlari. Miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Hann hafði ekki fastan gistingarstað í Reykjavík en átti þó víða innhlaup hjá fornum kunningjum, eftir því sem honum sjálfum sagðist frá. Margar sögur eru til af Símoni. Ein er sú að eitt sinn mun hann hafa komið að morgni dags í Landsprentsmiðjuna við Aðalstræti þræl timbraður. Hann sagðist hafa skotist inn í hlöðuna hjá blessuninni honum séra Þórhalli í Laufási. Oft minntist hann á góðan viðurgerning við sig á Laufásheimilinu. Þennan morgunn þótti prentsmiðjumönnum Símon vera með einkennilegan trefil um hálsinn og spurðu hann hvar hann hefði fengið hann. Sagðist hann hafa gripið hann einhvers staðar þar sem hann hefði komið um kvöldið því að sér hefði verið orðið kalt. Rakti hann svo þetta af hálsinum og kom þá í ljós að það voru kvenbuxur úr rauðu flúneli.
Sjómannsbýli við Vesturgötu árið 1836, sennilega kotið Helluland sem stóð norðan við Vesturgötu 11 nálægt þeim stað sem áður var veitingahúsið Naustið. Teikning eftir Auguste Mayer.
Kveðskapur Símonar fór fyrir brjóstið á sumum. “Landhreinsun mikil má það teljast í bókmenntum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfur „Dala-skáld,“ sé látinn.“ Á þessum orðum hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Þess má geta að Símon var um þrítugt og snarlifandi þegar þessu orð voru rituð. Ritháttur sem þessi varð ekki til með samfélagsmiðlum nútímans.
Svo tóku vistheimilin við
Reykjavík – Vesturgata um 1900.
Hér er aðeins minnst á fáa af því sérkennilega fólki sem tengdist horninu á mótum Aðalstrætis og Vesturgötu með einhverju móti. Þetta sýnir að sumt fólk hefur alltaf haft tilhneigingu af ýmsum ástæðum til þess að fara utan alfaraleiðar. Þegar byggðin tók á sig meira borgarform þótti ýmum nauðsynlegt að fjarlægja þetta fólk úr húsaskrífum og af götum. Þá hófst saga vistheimilanna sem enn þann dag í dag eru að berast fregnir af hvernig farið var með fólk. Ef til vill leið því ekkert verr frjálsu á ráfi um götur bæjarins.
Heimildir:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/
Reykjavík fyrrum.
Sjötta eldgosið ofan Grindavíkur á níu mánuðum
Eldgos hófst af miklum krafti við Sundhnúk ofan Grindavíkur um klukkan 22.00 þann 22. ágúst 2024.
Eldgos við Grindavík 2. ágúst 2024.
Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöldskímunni. Gosið virðist stærst gosanna í undanförnum hrinum. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Nú þegar er kominn upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði safnast upp á svæðinu.
Þetta er níunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Eða eru þetta bara eitt og sama gosið – með hléum?
Eldgos ofan Grindavík 22. ágúst 2024.
Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024 og það fjórða 16. mars 2024. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí.
Eldgos ofan Grindavíkur 22. ágúst 2024.
Líklegt er að þessi hrina verði svolítið langlífari í tíma talið, þótt skammvinn verði, að mati sérfræðinga. Eitt er þó víst – við getum átt von á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.
Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það. Ný sprunga opnaðist norðan þeirrar eldri, þ.e. á milli Skógfellanna.
Eldgos ofan Grindavík 22. ágúst 2024.
Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, forgengilegir áður en á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…
Sjá Myndir úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.
Eldgos við Grindavík 22. ágúst 2024.
Umhverfis Keili – Sesselja Guðmundsdóttir
Eftirfarandi er frásögn Sesselju Guðmundsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 af „Umhverfi Keilis; einkennisfjalls Reykjanesskagans„:
„Umhverfis Keili eru fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar getum við líka séð fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Við beygjum af Reykjanesbrautinni rétt sunnan Kúagerðis við skilti sem vísar á Keili. Vegurinn (ca 9 km) liggur upp í gegnum úfið Afstapahraunið sem rann á 14. öld og þekur um 22 ferkm. Eftir að hafa ekið nokkra kílómetra sjáum við fjóra Rauðhóla á hægri hönd og norðaustan undir þeim stærsta er gömul selstaða frá Vatnsleysu.
Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd. Þegar upp úr hrauninu kemur blasir við eitt og annað fallegt, svo sem Keilir (378 m) með sínar mjúku línur á aðra hönd en hvöss Trölladyngjan (375 m) á hina. Frá okkar sjónarhorni felur sig svo Grænadyngja (402 m) að baki systur sinnar. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina. Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Vigdísarvelli og mörgu öðru skoðunarverðu.
Við leggjum bílnum við norðvesturhorn vallanna, reimum skóna þétt og höldum nokkurn spöl upp með Oddafellinu að vestanverðu. Fyrr en varir komum við að stíg yfir Afstapahraunið sem heitir Höskuldarvallastígur (7–800 m). Eftir að úfnu hrauninu sleppir tekur við heiðarland allt að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Þegar upp er komið leitum við að „lognblettinum“ sem, svo til undantekningarlaust, má finna á þessum litla kolli þó svo eitthvað blási um og upp hlíðarnar. Þar má þröngt sitja á sléttum mel og nú er lag að
draga upp nestisboxin og brúsana. Af tindi Keilis sjáum við Reykjanesskagann breiða úr sér suður, austur og vestur úr. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær okkur liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Gufustrókarnir úr Svartsengisorkuverinu og Reykjaneshverunum stíga til lofts og utar rís Eldey úr hafi. Nær okkur, í sömu átt, er gamla dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysustrandar-byggð stendur á. Svo fylgjum við sjóndeildarhringnum áfram réttsælis og lítum flatt Miðnesið, síðan Faxaflóann og fallegan Snæfellsjökulinn og loks allan fjallgarðinn til norðurs og austurs, meira að segja Baulu (934 m) í Borgarfirði ef vel er að gáð. Þarna fyrir fótum okkar liggur svo Straumsvíkin og Reykjavíkin, og, og, …Við skrifum nöfnin okkar í gestabókina áður en við höldum niður af toppnum. Á fjallinu hefur verið gestabók síðan árið 1976 og sem dæmi um gestaganginn voru 116 nöfn skráð í bókina á einni viku nú í byrjun sumars.
Frá Keilisrótum þrömmum við svo um Þórustaðastíg fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Viðnorðurenda fellsins er hár og stórbrotinn hraunkantur sem gaman er að skoða á leið okkar austur og suður með fellinu. Þegar við komum á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla, en þeir liggja suður af Höskuldarvöllum eins og fyrr segir, förum við yfir hraunhaft sem mótað er af umferð hesta og manna. Stóri, fallegi, gígurinn heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Við hættum nú að fylgja Þórustaðastígnum sem liggur þarna þvert yfir á Selsvallafjall en göngum heldur suður að Selsvallaseli. Rústirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra eir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um
500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli.
fast norðan við lækinn. Selrústirnar eru inni í mjög fallegum, stórum, gömlum gíg sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd og jafnvel úr Krýsuvík selstöðu og þar sjást margar kofatóftir og kví undir vestari hamraveggnum.
Dyngna um Söðul sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Þarna til vinstri handar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. Nú göngum við á Eldborgarhrauninu um slóð sem liggur austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við höldum vestur með fellinu að norðurenda þess og þar göngum við skyndilega inn í ævintýralegt umhverfi, fyrst verða fyrir dökkir klettar og síðan göng beint inn í fjallið. Þetta er hin stórbrotna Lambafellsgjá og dulúð fellsins hvetur okkur til þess að ganga inn í risastórt anddyrið. Það er vel ratljóst inn í fellinu því langt fyrir ofan okkar þröngvar dagsljósið sér niður bólstrabergsveggina sem eru 20–25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1–3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en
svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl) sem leiðir okkur upp úr „álfheimum“ og á lítinn grasblett sem gott er að hvílast á. Á meðan við maulum úr nestisboxunum skoðum við umhverfið frá þessum notalega stað á fellinu miðju.Þarna norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krísuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli sem við ókum hjá á leiðinni hingað upp eftir. Endur fyrir löngu hefðum við getað séð hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Við höldum nú til baka að Moshóli en í leiðinni lítum við aðeins á eldgamlar tóftir upp við fjallsræturnar, þær liggja fast norðan við syðri lækinn sem rennur um Selsvellina. Frá Moshóli göngum við svo yfir okkuð greiðfært hraun norður að Hvernum eina sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, „…sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Frá Hvernum eina stikum við svo yfir hraunið og upp í gígskreytta fjallshlíðina fyrir ofan nýju hitaveituborholuna og fylgjum Sogalæknum upp að Sogaseli sem liggur
Frá Sogaselsgígnum fylgjum við svo læknum áfram inn í Sogin sem eru djúp gil sem aðgreina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til. Mikil litadýrð er í Sogunum og jarðhiti hefur verið mikil þar fyrrum og sést eima af enn. Frá Sogum gætum við svo gengið upp á Grænudyngju og litið ofan af henni yfir Móhálsadal, Djúpavatn og Sveifluháls en við kjósum heldur lægri veg og förum milli
Við ljúkum þessum skemmtilega hring um Keilis- og Dyngjusvæðið með því að ganga götuna til baka að Eldborginni sem vissulega man sinn fífil fegurri.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Umhverfis Keili, Sesselja Guðmundsdóttir, 11. ágúst 2001, bls. 10.
Keilir.