Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hér, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi.

Skötufoss

Skötufoss.

Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrirneðan Ártún, gekk Sigurður aftur að Sæmundi, sló hann með trébarefli, sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.
Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga til sveitunga sinn að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. “Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við” segir í Vallaannál.

-Elliðaárdalur – ÁH, HMS og RV – 1998.

Elliðaárdalur

Skötufoss.

Kristján Sæmundsson

Í Morgunblaðinu 2013 er fjallað um stórvirkið „Jarðfræðikort ÍSOR“ af Suðvesturhorni Íslands undir fyrirsögninni „Afrakstur rannsókna í áratugi“.

IsorJarðfræði; misgengi, gjár, hverir, lindir og ótalmargar hraunbreiður hafa verið færðar á yfirlitskort. Vísindamenn ÍSOR hafa kannað svæðin ítarlega. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Kortlagning ÍSORs af jarðfræði landsins er og hefur verið grundvöllur verndar og nýtinga náttúruverðmæta þess.

„Árið 2010 kom hjá ÍSOR fyrsta jarðfræðikortið í kvarðanum 1:100.000 en það var af Suðvesturlandi. Nýverið er hafin vinna við kort af syðri hluta norðurgosbeltisins og vonast er til að það komi út árið 2014.
ÍSOR hefur lagt til að hafist verði handa við alhliða rannsóknir á auðlindum gosbelta landsins, en slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar – og grundvöllur þess þegar taka skal ákvörðun um vernd og nýtingu auðlindanna. Reikna má með að átta kort þurfi til þess að ná yfir gosbeltin.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi – auglýsing.

Við lítum á það sem samfélagslega skyldu okkar að koma þeirri þekkingu sem vísindamenn okkar afla á form sem nýtist sem flestum til fróðleiks og skemmtunar. Auk þess að vera undirstaða fyrir umhverfismat, skipulag, nýtingu lands og auðlinda eru slík kort fróðleiksnáma fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess,“ segir Ingibjörg Kaldal, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum.

„Það er misjafnt eftir svæðum hve langan tíma það tekur að afla gagna fyrir svona kort, segir Ingibjörg Kaldal sem er einn jarðfræðinganna sem unnu kortið. Hinir eru Kristján Sæmundsson, Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson.
ISORIngibjörg nefnir í að í sumar séu liðin 50 ár síðan aðalhöfundur jarðfræðikortsins nýja, Kristján Sæmundsson, kom fyrst á Kröflusvæðið til jarðfræðirannsókna. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar þar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Einnig hefur landið verið kannað vegna annarra verkefna eins og vatnsaflsrannsókna og lághitarannsókna. Ingibjörg Kaldal segir þau mál ekki hafa að neinu leyti þrýst á um útgáfu kortsins góða.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

„Nei, eiginlega ekki. Við rannsóknir vegna virkjanahugmynda á svæðinu hefur orðið til fjöldinn allur af jarðfræðikortum sem eingöngu hafa birst í skýrslum og greinargerðum fyrir verkkaupa ÍSOR og því fáum öðrum aðgengileg,“ segir Ingibjörg. Bætir við að það hafi verið með samþykki verkkaupa rannsókna á þessu svæði sem ákveðið hafi verið að gefa kortið góða út.

Gjávella er nýyrði
Við gerð þessa korts af Norðurgosbeltinu varð til nýyrðið gjávella. Þar sem greið leið er ofan í opnar gjár getur hraun runnið ofan í þær og langa leið eftir þeim neðanjarðar.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Hraunið getur jafnvel komið upp um gjá annars staðar í tuga kílómetra fjarlægð og kallast þá gjávella.
„Augu manna opnuðust fyrst fyrir þessu fyrirbæri í Kröflueldum 1975-1984 þar sem menn urðu vitni að því er hraun rann ofan í gjá í 170 m breiðum hraunfossi. Nýyrðið varð þó fyrst til við gerð þessa korts og er Kristján Sæmundsson nýyrðissmiðurinn. Nokkur dæmi er um eldri gjávellur á þessu svæði en þetta fyrirbæri er ekki þekkt í öðrum landshlutum,“ segir Ingibjörg Kaldal. – sbs@mbl.is

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar. Kort Jóns voru öll unnin „á fæti“ fyrir tíma tölva og nákvæmra loftmynda.

OR (Orkuveita Reykjavíkur) birti á sínum tíma áhugavert rit og síst einstök jarðfræðikort Jóns Jónssonar, jarðfræðings, af Reykjanesskaganum. Það var síðan tekið út af vefnum, einhverra hluta vegna. Eitt eintak er til af ritinu í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar.
ÍSOR birti síðan á vefsíðu sinni uppdrátt af jarðfræðikorti Suðvesturlands. Kristján Sæmundsson hafði skömmu áður prentað kortið út fyrir FERLIR, sem fylgdi Kristjáni síðan áfram um Reykjanesskagann með nýjum uppgötvunum. Einhverra hluta vegna var vefútgáfa jarðfræðikortsins í framhaldinu fjarlægð og prentaðri útgáfu komið í sölu í allar helstu bókaverslanir. Slíkt getur nú varla talist „fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess“.

Segja má að Jón Jónsson hafi verið frumkvöðull að gerð jarðfræðikorta á Reykjanesskaga, Kristján Sæmundsson hafi síðan tekið upp þráðinn og Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson bætt um betur. Af þessu má sjá hversu mannkynið er öflugt í eigin þróun, þrátt fyrir tiltölulega stuttan líftíma hvers og eins, miðað við jarðsöguna.
Öllum þessum fólki ber að þakka fyrir þess frábæra framlag…

Heimild:
-Morgunblaðið 25.04.2013, Afrakstur rannsókna í áratugi, bls. 14.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Suðvesturlands í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Jón Arason
Böðullinn sem hjó Jón Arason biskup á Hólum og syni hans tvo, Ara lögmann og séra Björn á Melstað, 7. nóvember árið 1550, var íslenskur og hét Jón Ólafsson.
Norðlenskir hefndu þeirra feðga árið 1551. Í Setbergsannál segir:

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

„Þegar þeir norðlenzku riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd fyrir þá feðga, fundu þeir böðulinn, sem þá feðga líflét í Skálholti og hét Jón Ólafsson. Hann tóku þeir á Álftanesi og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu síðan norður.“ (Ann. IV. 63)
Í annarri heimild er sagt að norðlenskir hafi hellt heitu biki, en ekki blýi, ofan í Jón böðul sem í sumum heimildum er nefndur „herfileg kind“ og „drengtötur.“Oft urðu þeir menn böðlar sem gerst höfðu sekir um smáglæpi og ef til vill hefur það átt við um böðul biskupsins á Hólum. Í Setbergsannál segir frá Guðlaugi sem hafði stolið úr búðum danskra árið 1640. „Þar eftir fékk hann eða var tekinn fyrir böðul.“ (Ann.IV.89) Og í Eyrarannál er þess getið að árið 1671 hafi strákur verið strýktur í Skagafjarðarsýslu fyrir þjófnað. Hann fékk „60 högg og lofaði að verða böðull.“ (Ann.III.298)

Höggstokkur

Höggstokkur sá er þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin á 12. jan. 1830 af Guðmundi Ketilssyni, bróður Nathans þess er þau höfðu myrt. – Aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu og lá höggstokkurinn þar síðan til þess er hann var sendur hingað suður af Árna Árnasyni frá Höfðahólum. – Hann er eikardrumbur, hefur verið röng í skipi. Við aftökuna var höggstokkurinn klæddur rauðu klæði. Hún var framkvæmd með böðulsöxi nýrri, er til þess var fengin; er nú blaðið af henni í safninu; hefur hún ekki verið notuð til aftöku síðan, því að þessar eru hinar síðustu hjer á landi. – Í þá hlið höggstokksins, er virðist hafa snúið upp við aftökuna, eru 2 stórar rifur og 1 lítil í milli. Sagt er að Guðmundur hafi höggvið af svo miklu afli að öxin hafi gengið nokkuð ofan í stokkinn; má vera að smárifan í miðju sje far eptir öxina, en í þeirri rifunni, sem næst er hökuskarðinu virðist jafnvel votta fyrir axarfari, miklu dýpra; sje það sönn sögn, að verið hafi tveggja manna tak að ná öxinni aptur úr stokknum hlýtur hún að hafa sokkið hjer í hann þá, en það var við fyrri aftökuna, Friðriks; hið smærra öxarfarið, ef það er svo, kann þá að vera eptir hina síðari. – Er þar sagt að öxin og höggstokkurinn hafi verið fengin frá Kaupmannahöfn.

Fyrr á öldum var var hálshöggning algeng refsing á Íslandi fyrir stórglæpi eins og morð og dulsmál, þar sem fæðingu barns var leynt og það síðan deytt. Þessari refsingu var þó nær eingöngu beitt gegn karlmönnum en konum var drekkt fyrir dulsmál. Sakamenn voru hálshöggnir með handöxi og höfuð þeirra stundum sett á stengur öðrum til viðvörunar.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Svo virðist sem böðlar á Íslandi hafi ekki alltaf verið stétt sinni til sóma. Í Skarðsárannál segir frá aftöku Björns Þorleifssonar árið 1602:
Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. (Ann.I.187)
Eftir aftöku Björns voru yfirvöld áminnt um að hafa örugga menn í böðulsstarfi svo að landið yrði ekki að spotti.

-Af www.haskolinn.is

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason við Skálholt um 1970.

Jón Arason

Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Loks hemrir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.

-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.

Jón Arason

Minnisvarði um Jón Arason og syni hans við Skálholt.

Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Reykjanesskagi

Góð gönguleiðakort af tilteknum svæðum eru mikilvæg. Svo virðist sem ákveðin feiðmni virðist ráða þegar kemur að birtingu þeirra í góðri upplausn á veraldarvefnum. Hér á eftir eru dæmi um nokkur kort af svæðum á Reykjanesskaganum, s.s. Þingvöllum, Hengli, Heiðmörk, Mosfellsbæ og Reykjanesskaga.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Jarðfræði Reykjanesskagans – Isor.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Mosfellsbær

Gönguleiðir í Mosfellsbæ

Elliðaárdalur

Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Í Landnámu segir: „Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði“.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.

Elliðaárdalur

Elliðaár.

Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.

Kristján X

Kristján X. sem var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947 ásamt Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin drottningu.

Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..

Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöðin.

Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.

Elliðaárdalur

Camp Baldurshagi.

Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.

Elliðaárdalur

Letursteinn í Elliðaárdal.

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.

Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.

Elsta

Viðeyjareldstöðin.

Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is

Við Elliðaárnar

Við Elliðaárnar.

Völvuleiði

Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 fjallar Sigurður Ægisson um „Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi„. Völvur voru fölkunnugar og sögðu fyrir um örlög manna og óorðna hluti. Víða um land, einkum fyrir austan og suðaustan, eru völvuleiði; þúfur í túni, óreglulegar þústir, steinar eða hólar og fylgir oft blettinum sú arfsögn, að sá sem byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn. Hér er drepið niður í frásögnina.

Völvuleiði

FERLIRsfélagar á Völvuleiði ofan Dysja á Álftanesi.

„Hin fornu trúarbrögð Íslendinga eru nefnd ásatrú, eða norræn trú. Árið 999 eða 1000 lögðust þau af, að nafninu til a.m.k., og kristin trú var lögleidd. Ásatrúin var margþætt, og skartaði ýmsum kynjaverum. Þar í flokki voru t.d. dísir, fylgjur og völvur.
Um þessi fyrirbæri er nú á dögum lítið vitað, enda ritaðar heimildir um þennan fyrsta sögulega tíma landsmanna flestar tiltölulega ungar, og því með kristnum formerkjum. Sem dæmi má nefna, að hinar elstu Íslendingasögur eru taldar ritaðar á fyrsta þriðjungi 13. aldar. Engin þeirra er samt til í frumriti sínu; elsta varðveitta söguhandritið er brot úr Egilssögu, frá miðri 13. öld.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Leyningshólum, innst í Eyjafirði; rúnasteinn liggur þar yfir. Jónas Hallgrímsson, skáld, kom þar mörgum sinnum til rannsókna.

Ein heimild telst þó merkilegri en aðrar, þegar kemur að því að forvitnast um völvurnar. Það er Eiríkssaga rauða, er m.a. segir frá Þorbjörgu nokkurri, sem kölluð var lítilvölva. Sagan er talin rituð um miðja 13. öld, en geymir þó tiltölulega lítt brenglaðar eldri myndir, eins og reyndar eftirfarandi lýsing gefur til kynna. Þar segir orðrétt: Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.
Þessi heimild er ómetanleg, og mun vera nákvæmasta lýsing á búnaði seiðkonu eða völvu, er geymst hefur. Athyglisvert er að lesa um þessi dýrindis klæði, sem benda til þess hver virðingarstaða þessara kvenna í raun var á heiðnum tíma. Má geta þess til dæmis, að samkvæmt Grágás var kattarskinn margfalt verðmeira en refaskinn.

Völvuleiði

Völvuleiði við Einholt á Mýrum (Guðm. Ólafsson).

Mikill fjöldi álagabletta á Íslandi er lifandi dæmi um „neista heiðninnar“ fram á okkar daga, þ.e.a.s. trú á huldufólk og álfa margs konar.
Eitt af því sem gæti líka hafa varðveist frá gamalli tíð er merkilegt fyrirbæri, sem kallast völvuleiði, en það eru minjar og örnefni víða um land, einkum þó fyrir austan og suðaustan. Oft er þar um að ræða þúfur í túni, óreglulegar þústir, steina eða hóla.
Um flest þessara völvuleiða er ekkert meira vitað; örfáum fylgja þó sagnir, munnlegar eða ritaðar. Kemur þar iðulega fram, að sá, er byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn.

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn, er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð fyrir utanaðkomandi árásum um aldir. Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á Hólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar, sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri ófúið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða, en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið. 

Það athyglisverðasta við þessi „leiði“ — burtséð frá því, hvað undir kann að liggja — er, að menn hafa verið að hlúa að þeim allt fram á okkar tíma, þ.e.a.s. undir lok 20. aldar, hlaða þau upp og snurfusa, og það í landi, sem búið er að vera kristið í næstum 1000 ár.

Völvurnar

Þeir, sem á landnámsöld vildu fræðast um komandi tíma, gengu m.a. til völvu. Hún var fjölkunnug og sagði fyrir örlög manna og óorðna hluti.
Orðið völva er talið dregið af fornu orði, völur, er merkir stafur, en þess lags tæki munu völvurnar hafa notað, m.a. er þær frömdu seið. Orðtakið „að fara á vonarvöl“, þ.e.a.s. að vera með betlara- eða göngumannastaf, er einnig komið frá þessu, en sumar eða allar völvurnar flökkuðu um.
Af fornum bókum má ráða, þrátt fyrir allt, að völvur hafa á 8., 9., og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar.
Og nú er spurt: Hafi þessar eftirlegukindur heiðindóms lifað fram á 11. öld og haldið iðju sinni áfram, hvað skyldi þá hafa verið gert með jarðneskar leifar þeirra síðar? Í kristnu landi, vel að merkja. Ekki kom til greina að setja þær í kirkjugarð, og því hefur bara eitt verið til ráða: að grafa þær fyrir utan svæði hinnar vígðu moldar.
Á milli 50 og 60 völvuleiði (þ.e.a.s. örnefni óg/eða minjar) hafa varðveist fram á okkar daga á Íslandi, á meðan engin heimild eða vitneskja er til um slík örnefni á Norðurlöndunum og Grænlandi. Mörg leiðanna snúa í norður-suður, eins og títt var með grafir heiðinna manna, en sum þó einnig í austur-vestur.

Staðirnir

Völvuleiði

Völvuleiði – eitt af mörgum.

Í raun og veru skiptir ekki nokkru máli hvort völvuleiðin eru raunverulegar grafir eða ekki. Út frá þjóðfræðilegu sjónarmiði er hitt áhugaverðara, að þessi örnefni kviknuðu, og héldust lifandi fram á okkar daga. Það eitt segir margt.
Tekist hefur verið að finna, með dyggri aðstoð góðra manna, 49 staði á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að vera grafnar. Yfirleitt má finna heimildir um þessi leiði á prenti; í sumum tilvikum þó ekki. Stundum eru fleiri en eitt leiði á hverjum stað. Langoftast er talað um völvuleiði í þessu sambandi (ýmist ritað með hástaf eða litlum), en fyrir kemur þó Völvuhóll, og á örfáum stöðum er þess einungis getið, að þar sé völva grafin, en örefnið sjálft hefur týnst.

Lokaorð

Völvuleiði

Völvuleiðið á Hólmahálsi endurreist.

Í ritgerðarkorni sem þessu verður ekki komist langt í greiningu á jafn viðamiklu efni og hér er á borðinu. Enda var tilefnið ekki það, heldur að vekja athygli á þessu merkilega örefni, Völvuleiði, sem enginn virðist hafa lagt niður fyrir sig að rannsaka fyrr en núna.
Ef við drögum saman ofanritað, kemur þetta í ljós: Til er á Íslandi, einkum þó austanlands og suður eftir, fjöldi svokallaðra völuleiða. Oft er hér um að ræða þúfu í
túni eða utan, stundum í laginu eins og gröf; yfirleitt er samt um ólögulega þúst að ræða, kannski vegna aldursins. Í örfáum tilfellum er þessum leiðum haldið við, og fylgir þá einhver gömul sögn, um að happ reki á fjörur þess, er slíkt gerir, eða því um líkt.

Völvuleiði

Völvuleiðið á Garðaholti ofan Dysja.

Fundist hafa um 50 staðir á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að liggja grafnar. Þó vantar hálft landið inn í myndina, einhverra hluta vegna.
Völvuleiðin eru flest orðin máð og lasin, og því erfitt að sjá hvernig þau í raun snúa. Þó má í sumum tilvikum greina stefnuna, og er hún þá ýmist norður-suður eða austur-vestur. Hvað þetta allt gefur til kynna, er ómögulegt að vita á þessu stigi málsins. En framtíðin á vonandi eftir að skera úr um það.“

Heimildir:
-https://www.bbl.is/folk/menning/volvur-og-volvuleidi
-Lesbók Morgunblaðsins 21. nóv. 1992, Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi, Sigurður Ægisson, bls. 6-8.

Völvuleiði

Völvuleiði á Íslandi.

Víghóll

Örnefnið „Víghóll“ á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

„Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að „Heiðarvígin“ (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

„Liðinu stefnt að Víghól“

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni „búpeningur’“ og ætti Búfell þá að merkja „fell“, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í „seli“, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.“ Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.“
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,“ sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.