Grindavíkurvegur

Tómas Snorrason, útvegsbóndi í Grindavík, skrifaði eftirfarandi grein í sjómannablaðið Ægir árið 1929:

Staðhættir

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið fyrrum.

„Grindavík er ysta byggð sunnan á Reykjanesinu. Það er í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Byggðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu byggð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið og víðast mjög hrjóstrug hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í lendingum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir

Grindavík

Grindavík.

Frá landnámstíð hafa fiskveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og allstaðar annars staðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fögurra manna för voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það var því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum. Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m.fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýmis mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur á Reykjanesröst.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilsnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svil sömuleiðis, allt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hrygnir voru þurrkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fygldu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.
Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hét Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrstu þurrabúðinni í Járngerðarstaðahverfi), en í daglegu tali kallað Kofinn. Hann fékk 2 strengi af línu inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna.
ÞórkötlustaðanesÞað hefði mátt ætla að honum hafi verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt farið. Þegar í land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. – Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá var byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli sál. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir, áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill útvegurinn til að byrja með. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldið áfram að lengjast til þessa.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Árið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði hann (dekkbát) út í Staðarhverfinu. Gísli gerði hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskipið við, en í fyrra (1928) voru settar vélar í níu róðraskip og þrjú ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vélum, en ekki árum, en allt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi vertíð er gert ráð fyrir að allt verði vélskip. Það mun mega telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðraskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minnst og hefur um alllangt skeið fiskast minnst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður af handafli.

Samgöngur

Skipsstígur

Skipsstígur.

Sökum hafnleysis hefur aldrei verið um samgöngur á sjó að ræða, er teljandi séu, þær urðu því að vera á landi. – Um nokkur ár síðast á 19. öldinni gekk lítill gufubátur (Oddur) milli Eyrarbakka og Grindavíkur á vorin öðru hvoru og sumrin, hann var eign Lefolisverlsunar og aðallega ætlaður til að draga kaupskipin út og inn á höfnina þar, en þess á milli var hann notaður til flutninga hafna á milli, þar sem verslunin hafði viðskipti. Að síðustu bar Oddur beinin hér, þ.e.a.s. strandaði.

Þó um eiginlega fjallvegi í venjulegri merkingu sé ekki hér að ræða sveita á milli, þá voru samgöngur mjög erfiðar og hættulegar í slæmri tíð á vetrardegi, enda var það stundum að slysi. Hvert sem farið var lá leiðin meira eða minna um ógreiðfær hraun, víða holótt og sprungin, sumstaðar lá örmjó gata yfir hyldjúpar gjár og var það ekki glæsilegt að vera þar á ferð er ekki sást til vegar fyrir snjó eða myrkri. Víðast voru djúpar götur, allvíða voru djúpar holur í götunum og stigu hestar ofan í þær, en á milli þeirra voru sumstaðar allt að hné há höft.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Hve fjölfarið hefur verið til verstöðvanna á Reykjanesskaganum sést best á hinum djúpu og mörgu götum og troðningum, jafnvel í hinum tiltölulega hörðu helluhraunum. Sennilega hafa fleiri en ég horft með undrun á götunar í helluhraununum, er þeir sáu þær í fyrsta sinn og fundist óskiljanlegt hvernig menn hafa getað farið svo nákvæmlega sömu slóð ára eftir ár að götur gætu myndast, þar sem ekkert er sjáanlegt að væri til leiðbeininga nema stefnan.

Samgöngubætur

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Það var ekki fyrr en eftir að akvegurinn var lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur að menn hér fóru almennt að vakna til meðvitundar um hve hagkvæmt það væri að fá akveg hingað. Tvö slys vildi til um sama leyti (tvo menn kól til örkumla), sem hvöttu menn til framkvæmda og voru óhrekjanleg sönnun fyrir nauðsyn á fullkomri vegabót, einkum voru slys þessi sterk meðmæli með vegi í augum þeirra, er um málið urðu að fjalla áður en til framkvæmda kæmi, en voru lítt kunnir staðháttum. Var nú farið að vinna að því að fá vegarálmu frá Keflavíkurveginum til Grindavíkur. Vegarstæðið var mælt og kostnaðaráætlun saman af Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra í Hafnarfirði, sem síðan hafði umsjón verksins á hendi. Helstu hvatamenn þess, að hrinda verkinu í framkvæmd, voru Einar G. Einarsson kaupmaður í Garðhúsum og síra Brynjólfur Magnússon á Stað.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Hreppurinn tók að sér að greiða ¼ af kostnaðinum. Til þess að standast þá fjárframlög tókst helstu hvatamönnum fyrirtækisins að fá loforð flestra formanna og útvegseigenda um ½ hlut af hverjus skipi er út voru gerð á vetrarvertíð meðan verið væri að leggja veginn. Einstöku maður mun hafa verið tregur til að lofa ½ hlutnum og jafnvel neitað, þóttust tæplega hafa heimild til þess gagnvart hásetum sínum, en allir munu þó hafa látið hann, eða sem honum svaraði, áður en lyki. Þetta var hið mesta heillaráð og til heiðurs fyrri alla, er hlut áttu að máli. Með þessu komu þeir í veg fyrir að binda sveitinni erfiðar og dýrar skuldabyrðar, en sýndu um leið hve almenn samtök, því í litlu sveitafélagi sé, geta miklu til vegar komið. Sýslunefnd Gullbringusýslu lagði fram ¼ kostnaðar og Landssjóður helming kostnaðar, fyrir drengilega framgöngu þingmanna héraðsins og fleiri góðra manna, er það mál studdu.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Einn af merkari þingmönnum komst á þá eið að orði, að Grindavík hefði ekkert við veg að gera, því þar ætti enginn hest sem lið væri í. Þeim þingmanni hefur ekki komið til hugar, fremur en öðrum þá, að vegur mundi létta ferðalögum af hestum.
Á vegarlagningunni var byrjað vorið 1914 og lokið 1918. Alls mun framlag hreppsins hafa orðið rúmar 20 þúsund krónur, fór það langt fram úr áætlun sem vonlegt var, því áætlunin var gjörð áður en stríðið skall á, en verkið framkvæmt á stríðsárunum. Kauphækkunin, sem var aðalorsök þess hve vegurinn varð dýr, kom þó ekki beint hart niður á hreppsbúum, því fiskur hækkaði í verði fullkomlega í hlutfalli við hækkun vinnulauna.
Allar þessar fjórar vetrarvertíðir aflaðist vel, enda hafði ½ hluturinn þá líka borgað hreppstillagið að fullu, er vegurinn var kominn í Járngerðarstaðahverfið.“

-Úr Ægir 1929 – grein eftir Tómas Snorrason, útvegsbónda í Grindavík.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – kort ÓSÁ.

Krýsuvík

Í Krýsuvík eru alsnægtir jarðfræðiáhugafólks – jarðhiti, ísaldarmyndun fjalla, jökulsorf og bergmyndanir í ólíklegasta formi, Má þar nefna bólstraberg, móberg og hnyðlinga, að ónefndum einsökum bergmyndunum í norðanverðu Bæjarfelli.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einhverju sinni skrifaði spakmælt dóttir föður sínum, eftir að hún hafði farið til framhaldsmenntunar í fjarlægðri heimsálfu, eftirfarandi: „Sæll pabbi minn, fór í heimsókn og bar úr bítum lús. Tók eftir því er ég lagðist í rúmið mitt um kvöldið. Segja má því að nú sé ég loksins komin í skóla lífins“. Það má sama hæti segja að enginn jarfræðingur eða áhugamaður/-kona um jarðfræði hafi numið í skóla lífsins fyrr en hann/hún hafi skoðað og gaumgæft Krýsuvíkursvæðið.
Jarðfræðiskóli lífsins er því í Krýsuvík. Þar má sjá með eigin augum ferðalög efnis og áfangastaði þess um allnokkurn tíma, afleiðingar jarðskjálfta og eldsumbrota og þar má auðveldlega geta sér til um hvert framhaldið kann að verða.

Krýsuvík

Grænavatn í Krýsuvík.

Í Krýsuvík er ágætt dæmi um ker, þ.e. sprengigíg með lágum gígrima og þar sem nær eingöngu koma upp gosgufur. Oft er og stöðuvatn í slíkum gígum. Ker þetta er Grænavatn.
Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn í Krýsuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Grænavatn er einnig ágætt dæmi um svonefnd gígvötn.

Hnyðlingur

Hnyðlingur.

Hnyðlingar eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins eins og til dæmis í hrauninu í Hrólfsvík austan Grindavíkur. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.
Þekktur fundarstaður gabbróhnyðlinga á Íslandi eru t.d. við Grænavatn í Krýsuvík og Miðfell og Mælifell við Þingvallavatn. Greina má ólivín (grænt) og plagíoklas (grár) í hnyðlingnum á myndinni auk þess sem greinilega má sjá næstum hvítan hvarfarima á milli hnyðlings og grannbergs. Riminn er svo til eingöngu úr plagíóklas sem hefur vaxið hornrétt á hyðlingana.

Krýsuvík

Hraunmyndun.

Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Seltún

Seltún.

Hverasvæðin í Krýsuvík hafa um aldir haft mikið aðdráttarafl. Stærsti leirhver landsins er í Krýsuvík og þar má reyndar finna flest allt er prýtt getur slík svæði. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil. Brennisteinn var m.a. unninn á svæðinu á 19 öld. Hverasvæðunum er gerð skil í annarri umfjöllun á vefsíðunni.
Helstu skjálftasvæðin á Íslandi eru tvö. Á Suðurlandi er jarðskjálftasvæði sem nær eftir Reykjanesskaga um Ölfus og

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta og Hattur.

Suðurlandsundirlendið austur að Heklu. Úti fyrir Norðurlandi er annað skjálftasvæði. Það nær frá mynni Skagafjarðar og austur að Melrakkasléttu. Á báðum þessum svæðum eru þverbrotabelti með þvergengjum á Atlantshafshryggnum. Á Suðurlandi er vinstra sniðgengi en hægra sniðgengi úti fyrir Norðurlandi.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð..

Vegna ármilljóna langrar sögu af jarðskjálftum og jarðummyndunum á svæðum sem Reykjanesinu þarf enginn í raun að hafa áhyggjur. Ef eithvað áhugavet gerist verður að án efa einhverjum, og jafnvel fleirum, til framdráttar. Eldgos hér á landi hafa ávallt orðið til að auka við landið, sem náttúruöflin hafa reynt að brjóta niður með einum eða öðum hætti. Sjórinn nagar strandirnar, jöklar, vindur og vatn sverfa fjöll og hlíðar og ár og lækir reyna að fletja út bakka og fjallshlíðar.
Lúsin kemur og hverfur. Það gera fjöllin einnig – jafnvel þótt þau virðist tilkomumikil um stund.

Austurengjar

Austurengjalækur.

Hinrik í Merkinesi

Rætt við Hinrik í Merkinesi, 85 ára, um veiðar, sjómennsku, skipasmíðar o. fl.

Merkines

Í Merkinesi.

Hinrík í Merkinesi, er hann nefndur í daglegu tali en heitir fullu nafni Vilhjálmur Hinrík Ívarsson. Vegna þeirra sem ekki eru kunnugir á Suðurnesjum er rétt að taka fram að jörðin Merkines er skammt fyrir utan Hafnir en Hafnir eru vestan Miðnesheiðar. Fyrir utan Merkines eru jarðirnar Kalmarstjörn og Junkaragerði, sögufræg býli, en svo tekur við hraun og sandur og verður að fara allt út á Reykjanes til að finna grænan bala. Úti í hafinu trónar Eldey við sjóndeildarhring – Hinrík skírði dóttur sína Eldey, í höfuðið á eynni, og Elly Vilhjálms var um eitt skeið ein kunnasta söngkona landsins. Vilhjálmur heitinn sonur hans, flugmaður hjá Arnarflugi, var einnig kunnur fyrir söng. Maron sonur hans hlaut útþrána í vöggugjöf og hefur farið um víða veröld og er nú búsettur í Ástralíu en þangað fór hann frá Suður-Ameríku um Bandaríkin. Þá eru tveir synir þeirra hjóna ótaldir, þeir Sigurjón og Þóroddur, sem báðir eru búsettir hér á landi. Þau Hinrík og kona hans, Hólmfríður Oddsdóttir, hafa lengi átt heima í Merkinesi og ég byrja á því að spyrja Hinrík hvort hann hafi kannski alltaf átt þar heima.
„Nei, ég er Eyrbekkingur en fæddur í Grímsnesi þar sem foreldrar mínir voru vinnuhjú hjá Jóni Sigurðssyni á Búrfelli. Faðir minn var jafnframt formaður í Þorlákshöfn. Síðar gerðist hann skipsformaður fyrir Lefolii-verzlun, og var með áttæringinn Vonina frá Þorlákshöfn allt til 1913. Eftir að faðir minn lét af formennsku fyrir Lefolii-verzlun, var hann fenginn til formennsku á teinæring er gera skyldi út frá Herdísarvík. En það var alveg dauðadæmt fyrirtæki frá upphafi því landtaka var þar svo slæm. Ég átti að vera landmaður hjá þeim, en lendingarskilyrðin voru svo vond þarna að þeir urðu að gefast upp á þessari útgerð eftir þrjár vertíðar. Ég gerðist þá vinnumaður hjá Þórarni bónda í Herdísarvík og var þar næstu 3 árin.

Merkines

Í Merkinesi.

Jú, Lefolii-verzlunin hafði mikil umsvif á Eyrarbakka – sveitamenn verzluðu svo mikið þar. En svo fór þetta að breytast fljótlega eftir aldamótin, og verzlunin byrjaði að færast til Reykjavíkur – prísarnir voru víst lægri þar.
En í minni bernsku var mikil stasjón á Bakkanum. Það voru þarna a.m.k. tveir menn sem stunduðu akstur með hestvögnum: þeir Ólafur í Sandprýði og Loftur í Sölkutóft, og alltaf var nóg að gera hjá þeim við aksturinn.
Þórarinn í Herdísarvík átti um 400 fjár og var fénu þar haldið til beitar allan veturinn. Það var alltaf byrjað á að reka upp úr fjörunni á morgnana því féð mátti ekki nærast á eintómum þara. Þarna er gott beitiland víða um hraunið og gott að halda fé til haga. Við misstum tvö lömb eitt árið man ég, þrjú annað og ekkert það þriðja, – þannig að þú sérð að skepnurnar hafa ekki verið illa haldnar. Þarna er mikið og gott fjárland, féð komst hvergi að sjó nema heim við bæinn, því alls staðar annars staðar er berg með sjó. Jú, jú, þetta kostaði óskaplegar göngur þetta kindarag. Tveggja tíma ganga er út í Krísuvík og um einn tími út í Vogsósa.
Ég þurfti að fara í allar Krísuvíkurréttir og eins Gjárréttir fyrir ofan Hafnarfjörð. Þá skellti ég mér bara beinustu leið yfir fjallið. Þarna var ég í 3 ár, þar til ég var 19 ára. Já, maður var léttur á sér hér í gamla daga og lét sér ekki muna um að skreppa bæjarleið.
Svo fór ég til Hafnarfjarðar – var vinnumaður á Jófríðarstöðum hjá Þorvarði Þorvarðssyni, en þar var ég aðeins í eitt ár. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég lærði trésmíði hjá Bjarna Símonarsyni húsasmið. Þar kynntist ég konunni minni og giftum við okkur árið 1923. Það var nóg að gera í trésmíðaiðninni – þó tók ég ekki að mér nein meiriháttar verk til að byrja með heldur var í viðgerðum og ýmsu snatti.

Merkines

Tóft í Merkinesi.

Við bjuggum í Reykjavík fyrstu árin og fluttum ekki hingað í Hafnir fyrr en 1933. Ég hafði þó unnið hér töluvert í bátaviðgerðum og byggt hér 4 hús, þannig að við vorum vel kunnug hér áður en við fluttum hingað.
Það mun hafa verið árið 1930 að ég smíðaði fyrsta áttæringinn minn, og var svo með hann héðan í 3 vertíðir – eins frá Kirkjuvogi og tvær héðan frá Merkinesi. Um það leyti dó hann Guðmundur sem bjó hér á Vesturbænum og talaðist svo til milli mín og erfingjanna að ég fengi jörðina keypta.
Mönnum hefur líkað vel þessir bátar sem ég hef smíðað – þetta hafa verið blendingar af árabátum og vélbátum, allir staðið sig vel held ég. Ég lærði aldrei skipasmíðar sérstaklega en á Eyrarbakka voru miklir skipasmiðir eins og t.d. Steinn í Einarshöfn – og ég hafði þetta svona í blóðinu. Ég gerði mér far um að ná laginu hans Hallgríms á Kalastöðum á Stokkseyri – það voru úrvals skip sem hann smíðaði.
Annars hef ég farið mikið eftir því sem maður hefur fundið og séð. Ég tel mig hafa haft töluverða tilfinningu fyrir þessu, enda lagði ég mig fram um að glöggvar mig á eiginleikum báta, bæði í landi og á sjó. Og ég er ennþá að smíða báta þótt það séu bara smá kríli núorðið – það eru margir sem vilja eiga eftirlíkingar af gömlu áraskipunum, og ég hef ekki undan að smíða. Sérðu hvernig þetta módel hérna er lagað við stafninn að framan – það skiptir afar miklu hvernig byrðingurinn er lagaður. Smá reiging á bógnum getur gert gæfumuninn hvernig sjóskip báturinn verður. Sé stafninn með réttu lagi fara þeir mjúkt í ölduna framan og setjast hæfilega á skutinn. Ef rétta lagið hefur ekki náðst fara bátarnir að höggva þegar eitthvað er að sjó, og geta jafnvel verið hættuleg skip, jafnvel hreinir manndrápsbollar. Alls smíðaði ég níu báta og var sá stærsti 7 tonn og svo eru það ein 9 hús sem ég hef byggt hér í Höfnum.“
– Þú varst hreppstjóri hér í Höfnum og stundaðir hér formennsku lengi.

Merkines

Merkinesvör.

„Já, ég var hreppstjóri hér frá því árið 1956, að mig minnir, þar til ég var áttræður. Þá greip ég tækifærið og lét af starfinu. Ég réri hér á hverri einustu vertíð frá 1931 en hætti 1978. Þá var róið út með Stafnesi eða fyrir Reykjanes, allt inn að Háleyjabungu og Staðarbergi. Þetta gat verið einn vökusprettur ef gott verðu hélst marga daga samfleytt og þótti ekki gott nema farnir væru tveir róðrar á sólarhring að sumrinu.
Þetta er fornfræg veiðistöð hér í Höfnum og héðan hafa róið fræknir formenn. Héðan réri Eldeyjar-Hjalti um eitt skeið, en það var löngu fyrir mína tíð. Þá var Eldeyjar-Hjalti svo fátækur að hann átti ekki heilan stakk og vantaði alveg ermina öðru megin. Þeir sögðu að hann hefði fært stakkinn til eftir því sem hann krusaði og haft heilu ermina áveðurs. Þetta var hörku karl en varð víst rembinn með aldrinum – það hefur sjálfsagt verið tíðarandinn öðrum þræði.
Framanaf voru alltaf einhverjir með mér á sjónum en svo réri ég mest einn síðustu árin. Flugvöllurinn breytti öllu hérna, það fóru allir að vinna þar og menn urðu svo kostbærir að maður hætti að fá nokkurn til að róa með sér. Lengi réri ég héðan úr Merkinesvörinni en svo var gerð bryggja í Höfnum og eftir það fór ég að róa þaðan. Það urðu margar ferðirnar hjá mér á hjóli hér á milli – að athuga með bátinn, maður þurfti alltaf að vera að athuga með bátinn. Nú er ég fyrir löngu hættur öllu sjógutli en maður gat þetta hér í gamla daga – þá gerðist maður mótoristi þegar vélarnar komu og kunni þetta allt saman.
Annars er hafsbotninn hérna útifyrir rannsóknarefni útaf fyrir sig. Það hafa orðið alveg hrikalegar breytingar á landinu hér frá landnámi, og sennilegt að mikið land, sem líklega hefur náð allt út að Eldey, hafi sigið í sæ. Í Íslendingasögunum stendur að landnámsmenn hafi siglt vestur með Reykjanesi þar til þeir höfðu opinn Hvalfjörð – og þá séðu að þeir hafa þá verið langt úti. Þá hefur Reykjanesið verið eitt gjósandi krap og mikið gengið á.

Merkines

Heimtröðin.

Það er grunnt hér út með öllu Reykjanesinu töluvert langt út, og er að jafnaði um 12 faðma dýpi. Svo snöggdýpkar, eins og farið sé fram af klettavegg og er þá um 30 faðma dýpi sem helzt langleiðina út í Eldey.
Þegar komið er svo sem þrjá fjórðu af leiðinni í Eldey tekur við hraunkargi í botninum og síðan kemur stallur þar sem dýpið er aðeins sex faðmar, en þar á milli er dýpið aftur um 30 faðmar, þar til kemur að Eldeyjargrunninu. Þarna hefur mikil landspilda sigið í sæ og hafa það verið ólitlar náttúruhamfarir.“
– Nú varst þú grenjaskytta hér í Hafnahreppi um langt skeið.
„Já, frá árinu 1948 stundaði ég grenjaskytterí og síðar minkaveiði. Ég veit um 14 greni hér á svæðinu og vann mest 4 greni á ári. Núna seinni árin höfum við ekki orðið vör við tófu hér í Hafnahreppi. Ég vorkenndi alltaf refnum – en minkinn hef ég hatað og minkurinn er sú eina skepna sem ég hef haft gaman af að drepa. Það verður þó ekki á móti borið því sem hann Þórður Halldórsson frá Dagverðar á hefur sagt, „að þetta meindýr er til okkar komið í gegn um sali hins Háa Alþingis“. Minkurinn er grimmdarskepna – hann drepur til þess eins að drepa og nýtir ekki nærri alltaf það sem hann drepur. Drápsgirndin er alveg ótrúleg í honum, hann eyðir öllu fuglalífi og er sannkallað afkvæmi andskotans. Tófan vinnur hins vegar upp sína veiði og drepur ekki nema sér til matar. Ég komst upp í 63 minka mest um árið en nú verður ekki vart við mink hérna.“
– Hver heldurðu að sé skýringin á því?
„Ég hef tvær teoríur, en hvoruga get ég þó sannað. Sko, núna undanfarin tvö ár hefi ég gaumgæft landsvæðið hér umhverfis, og aldrei séð far eftir mink, hvorki í snjó eða sandi. Svo virðist sem minkurinn sé hér alveg horfinn. Á sama tíma gengur farsótt í minkabúunum þannig að þeir þurftu að farga hverjum einasta mink. Gæti ekki verið að villiminkurinn hafi fengið þessa sömu veiki? Því þetta virðist gilda um landið allt, að menn verða lítið varir við mink. Vinur minn, Þór Jónsson í Fljótum, hefur veitt 90 minka mest um árið en í fyrra náði hann aðeins tveim. Hann hefur víst veitt eina sex í vor þannig að þeim er eitthvað að fjölga aftur.

Merkines

Brunnurinn.

Svo er það önnur teoría sem ég hef. – Hér á árum áður tóku menn það upp að eitra fyrir refnum og þótti öllum þjóðráð. Upp úr því fækkaði refnum mikið og þökkuðu menn það þessum aðgerðum. En ég er alls ekki á því að þessar aðgerðir hafi fækkað refnum. Athugaðu að á þessum tíma gekk hér einmitt mikið hundafár svo að heilu sýslurnar urðu hundlausar. Refurinn er mjög skyldur hundinum og hefur að minni hyggju smitast af sömu veiki og fækkað vegna þess.
Ég eitraði einu sinni fyrir ref hér í Hafnahreppi á 38 stöðum – með fjallahringnum allt frá Sýrfelli til Hvassahrauns. Ég merkti staðina alla en hræin höfðu aðeins verið snert á tveimur, og ég er alls ekki viss um að það hafi verið tófa sem það gerði. Ég var með afar glöggan hund og hann hafði ekki veður af neinu tófuhræi á allri þessari leið. Ég tel því að fækkun refs á þessum tíma hafi stafað af sjúkdómi í refastofninum en ekki af þessum eitrunum.
Það er nú svona með það sem maður er hneigður fyrir – það lifa margar minningar frá þessum veiðum í gegnum árin. Það skiptir öllu á minkaveiðum að hafa góðan hund. Ég var allaf með byssu til taks þegar ég var á ferðinni ef ég rækist á einhvern af þessum andskotum. Bezt reyndist mér haglaskammbyssa sem ég hef lengi átt en hef nú lánað frá mér.
Einu sinni vann ég þó mink byssulaus – var þá að koma inn úr Kirkjuvogi og verð var við mink í malarkambi hér á Hnausendunum. Ég var með góðan hund með mér og finnur hann strax hvar minkurinn er undir. Ég var ekki einu sinni með hníf og gat ekki farið heim eftir byssu því þá hefði minkurinn sloppið á meðan. Þarna er kastmöl og fer ég að róta til nokkrum steinum þar sem hundurinn ólmaðist og sé þá í skottið á minkinum. Ég bregð þá við, gríp í skottið og kasta honum í háaloft, en svo mikil var snerpan í hundinum að hann greip minkinn á fluginu og allt að því klippti hann í tvennt með kjaftinum.“

Merkines

Möngutóft.

Nú berst talið að ótrúlegum veiðisögum og Hinrík segir mér veiðisögu sem hlýtur að teljast ótrúleg.
„Ég var einu sinni í heimsókn hjá honum séra Lárusi Arnórssyni í Miklabæ. Við vorum að tala um veiðar og ég segi sem svo: „Mikið andsk . . . hefur þetta gengið illa hjá honum Gísla að miss svona þennan stóra fisk.“ Þá segir séra Lárus: „Þegar menn eru að segja þessar veiðisögur ýkja þeir að minnsta kosti til helminga.“ Ég varð reiður við og sagðist skyldi segja ótrúlega veiðisögu sem engu að síður væri sönn, og sagði honum þessa sögu:
Sumrin 1922 og 1923 var ég við stangveiði við Kaldárhöfða við Úlfljósavatn. Þar veiddist oft vel, upp í 111 á einum degi. Þar er bezt veiðin snemmsumars og veiðist þá þriggja punda bleikja, en nú var komið fram í ágúst og veiddist bara depla og dauft við veiðina. Einhvern daginn fer ég þó út á ána – það þurfti að sperra sig töluvert á móti straumnum til að komast á góðan veiðistað og leggjast þar við dreka. Nú, þarna set ég í allvænan fisk og verð að sleppa drekanum svo hann slíti ekki fyrir mér. Svo kem ég fisknum alveg að borðstokknum og sé þá að hann er kræktur í gegnum fremri bakuggann. En þegar ég ætla að innbyrða fiskinn sé ég að háfurinn hafði gleymst í landi. Ég reyni þá að ná fisknum með höndunum en hann sleppur frá mér.
Þegar ég kem í land gengur mér auðvitað illa að sannfæra hina um að ég hafi misst þennan stóra fisk. Daginn eftir fer ég svo aftur út – og hvað heldurðu gerist þá. Set ég ekki aftur í vænan fisk á sama stað og í þetta skipti var háfurinn með í bátnum. Mér brá þó heldur betur í brún þegar ég fór að skoða fiskinn – fremri bakugginn var rifinn að endilögnu, og þarna var kominn sami fiskurinn og ég hafði sett í daginn áður.

Merkines.

Garður.

Sr. Lárus gapti alveg þegar ég sagði honum þetta – hann sagði ekki eitt einasta orð og ég veit ekki enn hvort hann hefur trúað mér.“
– Hefurðu ekki lent í ýmsu misjöfnu til sjós?
„Jú, það var nú sitthvað sem kom fyrir. Einu sinni hafði ég næstum álpast fyrir borð . – það er ekki segjandi frá því. . . . Jæja, það vildi nú svona til. Það var stýrishús á bátnum, og þilfar út í lunninguna frá því örðu megin. Þarna sem ég var hagar svo til að snardýpkar og var lygnt fyrir innan en töluverð ólga utar enda allmikill straumur. Ég var að kippa inn á lygnuna og ætlaði að fara að fá mér í nefið, en þá tek ég eftir því að ég hef gleymt bauknum frammí.
Nú get ég ekki á mér setið og ákveð að skjótast fram í bátinn og ná í baukinn. Það var handrið meðfram stýrishúsinu og held ég mér í það en þegar ég ætla að fara niður í pontuna skriplast mér fótur . . . þá kemur kröpp alda á bátinn og skiptir það engum togum að ég missi fótanna og fer í sjóinn. Svo einstaklega vildi þó til að í fallinu næ ég taki á borðstokknum og gat hangið þar. „Er það nú búið lagsi minn,“ sagði ég þá við sjálfan mig – ég fór alveg í sjóinn upp fyrir haus, en þegar báturinn rétti sig af og valt yfir á hina síðuna, gat ég vegið mig upp og komist um borð aftur.“
– En hvað um refaveiðarnar, á þeim hefur sitthvað borið við er það ekki?
„Jú, það er ekki fyrir aðra en vana menn að sjá við tófunni – hún er svo klækjótt og vör um sig. Svo hafa þau svo ólíkt lundarfar þessi dýr, þau eru rétt eins og menn hvað það varðar. Ég hef oft alið yrðlinga hér sumarlangt og þau geta orðið afskaplega gæf þessi dýr, en svo er eins og önnur sé ómögulegt að temja. Ég var einu sinni með högna og læðu eitt sumar. Högninn var alveg forhertur – virkilegt óartarkvikindi, kom aldrei fram í búrið þegar ég gaf honum og byrjaði aldrei að éta fyrr en ég var farinn. Læðan var aftur afskaplega blíð og vinaleg. Einu sinni ól ég yrðling hérna heimavið og tókst að temja hann. Það var maður sem hét Sólmundur og bjó í Sandgerði sem fékk hann hjá mér og átti í tvö ár. Rebbi elti hann um allt eins og hundur og lagðist aldrei í strok. Það er hægt að temja refinn furðanlega, en þeir veriða aldrei allra og það er alltaf grunnt á villidýrseðlið í þeim.
Hver grenjaferð saga útaf fyrir sig.

Merkines

Varða.

Oft hef ég tekið það nærri mér að vinna greni og sárvorkennt þessum greyjum. Maður verður að spila á þessar helgustu tilfinningar, móðurástina, og það er heldur óskemmtilegt. En þau mega ekki vaxa manninum yfir höfuð.
Annars er gaman að tilstandinu við þetta, og má segja að hver grenjaferð sé saga útaf fyrir sig. Einu sinni sem oftar var ég búinn að vinna bæði læðuna og yrðlingana á greni. Rebba skaut ég í munnanum en hann var það innarlega að ég náði honum ekki. Ekki var hann alveg dauður og gat skreiðst innar í grenið með því að krafsa með löppunum. Nú, ég gat lítið aðhafst og sneri heim við svo búið. Þegar ég kem til hreppstjórans til að fá greitt segi ég honum að ég hafi unnið grenið en misst stegginn inn. „Það er nú venja að sýna þá,“ sagði þá hreppstjórinn.
Nú, ég fer aftur af stað nokkrum dögum síðar, og þá eru þau í för með mér Maron sonur minn sem var átta ára og Eldey dóttir mín. Ég hafði með mér stöng, kerti, band og sitthvað fleira sem að gagni gat komið við að ná refnum. Þegar við komum að grenismunnanum sést hvergi til rebba og var þar myrkt innifyrir. Það verður að ráði hjá mér að láta strákinn skríða inn en bind fyrst kaðalinn um lappirnar á honum. Hann skríður svo inn og lýsir fyrir sér með kertinu sem ég hafði fest framaná prikið, en mér er um og ó ef eitthvað líf væri í refnum sem þá gat bitið illa. Nú, ég öskra á strákinn, hvort hann sjái nokkuð refinn. Hann öskrar á móti að þarna sé hann og virðist dauður. Ég öskra á strákinn að taka kertið og setja það fram á prikið og bera að nefninu á rebba – því þá hlaut hann að sýna viðbrögð. Nú stráksi gerir þetta og reynist refurinn steindauður. Nú, ég dreg svo strákinn út úr greninu með kaðlinum og strákurinn refinn. Þannig lauk þeirri viðureign.

Bragi Óskarsson tók viðtalið.

Hinrik í Merkinesi

Hinrik ásamt fjölskyldu.

Vífilsstaðir

Á landnámstíð bjó sá maður, sem Sviði hét, í Sviðholti á Álftanesi.

Álftanes

Sviðholt.

Bær heitir Vífilsstaðir. Hann er einni og hálfri mílu ofar en Sviðholt. Þá jörð hafði Ingólfur Arnarsson gefið húskarli sínum, sem Vífill hét. Svo er mælt, að Vífill og Sviði hafi róið tveir saman á áttæringi og hafi Vífill gengið á Vífilsfell og gáð til veðurs áður en róið var. Bendir það til þess að hann hafi verið formaður. Þótt löng væri sjávargatan, fór Vífill ætíð heiman og heim þá er þeir reru.
Þeir Vífill og Sviði komu sér saman um að búa til mið, þar sem þeir hefðu best orðið fiskst varir. Er þá sagt, að Sviði hafi kastað heiman frá sér langlegg einum. Kom hann niður fjórar sjómílur sjávar frá landi. Heitir þar Sviðsbrún vestri. Vífill kastaði öðrum legg heiman frá sér. Þar heitir Sviðsbrún grynnri. Var vika sjávar milli leggjanna. Bilið kölluðu þeir Svið og mæltu svo um, að þar skyldi jafnan fiskvart verða, ef ekki var dauður sjór í Faxaflóa.

-Þjóðsögur Jóns Árnasonar II – 1961.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðahlíð.

Strýthólahraun

Gengið var um Strýthólahraun.
Strýthólahraun er ekki stórt, en geymir fjölda minja frá fyrrum Strýthólahraun - byrgiútgerðarháttum, líkt og Slokahraun skammt austar. Hraunið er suðaustasti hluti Þórkötlustaðanessins austan við Grindavík. Nesið, tangi út úr Hópsheiðinni, er allt hrauni þakið. Vel má sjá hvernig meginhraunstraumurinn hefur runnið undan hallanum til suðurs af heiðinni frá Sundhnúkagígaröðinni og út í sjó. Hraunáin hefur verið þung því hún hefu rutt afurð sinni til beggja átta og náð að mynda Nesið. Auðvelt er að ganga eftir hrauntröðinni miklu frá ofanverðu nesinu áleiðis að vitanum syðst á Nesinu. Heimildir segja að sumt bendi til, að hraun þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir u.þ.b. 2400 árum (Jón Jónsson). Þetta er sama hraunið og myndaði hraunlendi það, sem Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfið) stendur nú á. Hvorki er minnst á minjarnar í Strýthólahrauni í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum.
Byrgi í StýthólahrauniÍ örnefnalýsingum má lesa eftirfarandi um Þórkötlustaðanesið: „Í nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir.“
Byrgi í StýthólahrauniÖnnur lýsing segir: „Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum.

Strýthóll

Strýthóll-ytri.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur). Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá.
Byrgi í StýthólahrauniNorður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.“ Hér er Dríli nefndur Driti, Þórkötlustaðaviti nefndur Hópsviti þótt hann standi í Þórkötlustaðalandi og Strýthólarnir orðnir tveir. Ætlunin var þó einungis að beina athyglinu að samnefndu hrauni.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – byrgi.

Athyglisvert verður að telja að í hvorugri örnefnalýsingunni eru nefndar minjar í Strýthólahrauni. Þó má sjá þar örnefnið Látragötur, sem verða að teljast til minja. Þær götur má enn rekja frá norðanverðum hraunkantinum og með honum vestanverðum með stefnu á vitann.
Í austanverðu Strýthólahrauni eru minjar fleiri en 40 fiskbyrgja. Byrgin eru eldri en aðrar þær minjar útgerðar á Nesinu, sem sjá má ofan við bryggjuna austan við nefndar Flæðitjarnir, þar sem áður voru Þórkötlustaðavarir, enda vinnsla fiskjarins önnur áður fyrr. Tengdar minjar má þó sjá ofar á Nesinu, gegnt bryggjusvæðinu. Einnig skammt vestan við bryggjuna, en þar eru að öllum líkindum elstu mannvistarleifarnar á svæðinu, nú grónar og virðast náttúrlegar myndanir.
Uppdráttur af byrgjunum í StrýthólahrauniEn hvað um það – fiskbyrgin fjölmörgu í Strýthólahrauni eru með þeim merkustu sinnar tegundar hér á landi. Þau eru ekki óáþekk þeim er sjá má á Selatöngum, við Nótarhól hjá Ísólfsskála og í Slokahrauni. Þessi byrgi eru þó frábrugðin að því leyti að þau eru bæði mörg mun minni og miklu mun fleiri en annars staðar. Þau eru þó hlaðin með svipuðum hætti. Mörg eru heilleg, en önnur fallin að hluta. Elstu menn á svæðinu muna ekki eftir að hafa orðið varir við byrgin, enda hafa þau sennilega ekki verið í notkun um aldir og falla auk þess vel inn í hraunmyndanirnar svo erfitt er að koma auga á þær við fyrstu sýn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Flest byrgin eru á hraunhólum og bera því við himinn. Sum eru hringlaga hlaðin á meðan önnur eru ferningar. Sumsstaðar eru dyr, annars staðar bil. Hæstu byrgin eru um 1 m á hæð og þau stærstu u.þ.b. 60 cm á breidd og 240 á lengd. Staðsetningin virðist augljós; byrgin eru austast úfnu hrauninu þar sem auðvelt hefur verið að ná í byggingarefni, en austar er tiltölulega slétt gróðurlendi, sem sennilega hefur gróið upp vegna fiskflutninganna í byrgin.
Byrgin í Strýthólahrauni eru ekki fiskgeymsluhús líkt og sjá má í Sundvörðuhrauni eða við Eldvörp og telja má líklegt að hafi verið með „Staðarhúsið“ svonefnda við Þórkötlustaði. Þrjú slík hús má sjá á Selatöngum, þó ekki nákvæmlega sömu gerðar. Byrgin hafa verið þurrkvinnslustaðir ofan og utan við varirnar.
Byrgin eru í raun „hraunhraukar“, sem snjó hefur gjarnan fyrst leyst af þegar sólin skein á vetrarvertíðum.
Byrgi í StrýthólahrauniRekaviðarár, en gnægð rekaviðs má enn sjá þarna innan við sjávarkampinn, hafa líklega verið lagðar yfir „hraukana“ og þannig hafa þurrkmöguleikarnir verið margfaldaðir. Ferskvatn er í tjörn við hraunkantinn þar sem gætir flóðs og fjöru. Að forþurrkun lokinni hefur verið mögulegt að taka fiskinn saman með tiltölulega skjótum hætti og koma honum fyrir í byrgjunum, sem varði hann fyrir regni, uns veður gaf aftur færi á áframhaldandi þurrkun milli róðra.
Byrgin í Strýthólahrauni hafa fengið að vera í friði fyrir forvitnum. Mikil aðsókn hefur hins vegar verið í verminjarnar á Strýthólahraun - minjar Selatöngum, svo mikil að sumar liggja undir skemmdum. Gangan að þeim tekur u.þ.b. 12 mín. um lausasand, en gangan að minjunum í Strýthólahrauni tekur u.þ.b. 2 mín. um grónar hraungötur.
Reykjanesskaginn hefur upp á óteljandi menningarverðmæti að bjóða. FERLIR hefur hins vegar í seinni tíð verið að velta fyrir sér tvennu – að fenginni reynslu: Sveitarstjórnarfólk, kjörið og eiginlega ábyrgt forsvarsfólk íbúanna (eigandanna) virðist áhugalaust um þessi tilteknu verðmæti (með örfáum undantekningum þó) og auk þess virðast afkomendurnir (eigendurnir) ekki minna áhugalausir um hið sama – hin áþreifanlegu og sýnilegu tengsl þeirra við upprunann. Hið fáa, sem sýnir einhvern áhuga, sýnir minjunum (verðmætunum) annað hvort virðingu eða hins algert virðingarleysi. Áhugasama fólkið er því beðið að gæta tillitssemi, láta byrgin óhreyfð og í guðanna bænum; EKKI henda rusli á annars ósnert svæðið!

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Hinir ráðnu opinberu aðilar, s.s. Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafnið undir „meðvitaðri“ stjórn menntamálaráðuneytisins, virðast algerlega áhugalausir gagnvart þjóðargersemum sem þessum. Hvers ber þá að vænta af öðrum!
Útvegsminjarnar í Strýthólahrauni við Grindavík eru í rauninni einn verðmætasti ósnerti minjastaður sinnar tegundar á landinu – og jafnvel þótt víða væri leitað. Þar eru ekki eiginlegar verbúðarminjar útstöðvar, enda nálægðin við Hraun og Þórkötlustaðabæina of lítil til þess.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar mun Skálholtsstóll hafa gert þarna út skip á miðöldum – og jafnvel lengur. Minjar því tengdu gætu leynst í manngerðum grónum hól norðan Strýthólahrauns.
Tækifærið var notað og minjasvæðið rissað upp og myndað.
Frábært veður. Gangan tók 21 mín.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

 

Slok

Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.
Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann Slokitil suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða.  Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.“ Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
SlokiKlofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

SlokiAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
SlokiRandeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  „Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun“ og „síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.“ Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Slokahraun

Slokahraun – minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.

Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].

Sloki

Slokahraun – örnefni.

Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi. Slokahraun er h.m. fyrir miðri mynd.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”

Þórkötlustaðagata

Þórkötlustaðagata.

Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.

Hrauntúnsgata

Hrauntúnsgata.

Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá Slokahraunhonum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.

Garðar

Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá Markhóll17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.

Sloki

Slokahraun – Randeiðarstígur.

Garðanna í Slokahrauni er getið í „Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi“ frá árinu 2002. Þar segir: „“Herslugarður“ – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.“
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka – Hraungarðar.

Bessastaðir

Á Bessastöðum voru gerðar stórmerkilegar tilraunir í matjurtarrækt á ofanverðri 18. öld og þar heppnuðust fyrstu tilraunir til þess að rækta kartöflur á Íslandi, 1758, en ekki í Sauðlauksdal, eins og almennt hefur verið talið. Einnig var kartöflurækt snemma á Görðum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Erlendur grasafræðingur, kallaður Köning, sem hingað var sendur til að skoða jurtir landsins, virðist hafa haft vetursetu á Bessastöðum 1763-64, en var hér hvorki lofaður né lastaður eftir því sem Íslandsárbók segir.

Allan síðari hluta átjándu aldar var mikil garðrækt á Bessastöðum og hafði þessi garðyrkjuáhugi áhrif víðar um nesið. Þegar Skúli fógeti fluttist að nýju að Bessastöðum, fékk hann silfurverðlaun árið 1772-73 fyrir kartöflurækt, en gullverðlaunin hreppti Ólafur amtmaður Stefánsson í Sviðholti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen, amtmaður.

Garðræktin á Bessastöðum virðist hafa verið í hvað mestum blóma í stiftamtmannstíð Jóhanns Levetzow, sem kom að Bessastöðum árið 1785.
Stanley segir í ferðabók sinni árið 1789 “að lokinni máltíð fórum við út í garðana, sem eru fegurri, fjölskrúðugri og skipulagðir af meiri smekkvísi en mig hefði órað fyrir. Þessar plöntur eru ræktaðar þar og dafna flestar ágætlega, grænkál, kál, kálrabí: planta, sem hefir betri rófur en næpa og vex eins vel hér og í Danmörku”.

Skúli Magnússon skrifaði á svipuðum tíma lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar getur hann um jurtir sem ræktaðar eru á Bessastöðum, í Viðey, Nesi, Reykjavík, Keflavík og víðar. Þær eru einkum gulrætur, hvönn eða hvannarót, brúnt, grænt, hvítt og rautt kál, gulrófur, piparrót, Pétursselja, kartöflur, radísur, redíkur, rófur og salat.

Heimildir:
-Sturla Friðriksson – Úr 200 ára sögu kartöflunnar á Íslandi – 1959.

Bessastaðir

Bessataðir fyrrum.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.

Eldvörp

Gengið var suður fyrir Eldvörpin um Árnastíg, inn á Brauðstíginn og áfram áleiðis eftir honum til vesturs. Af honum var stefnan síðan tekin að Tyrkjabyrgjunum í suðvesturkrika Sundvörðuhrauns.

Á leið

Brauðstígurinn liggur  frá Árnastíg frá Húsatóttum og þaðan inn í krikann. Frá honum liggur stuttur stígur að byrgjunum. Er komið var að þeim fyrir nokkrum árum var mosinn næstum óhreyfður. Nú hefur myndast moldar hringstígur um byrginn, sem segir nokkuð um áhugann. Erfitt er að koma auga á þau úr fjarlægð vegna þess hversu vel þau hafa samlagast landslaginu. Þrjú byrgi eru í röð utan við kverkina, en eitt hlaðið inni í henni. Hlaðið skjól er aðeins utar og síðan smá hleðsla. Sunnan og ofan við krikan er eitt byrgi og hringlaga geymsla eða varðturn. Utar með kantinum eru tvö byrgi. Norðan þeirra er hlaðin refagildra. Gengið var yfir hraunið vestur frá byrgjunum. Þar er slétt hraun, sem auðvelt var að fylga upp í Eldvörpin til baka – bakatil við þau.

Tyrkjabyrgi

Í „Tyrkjabyrgjum“.

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum. Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Á þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskbyrgi.

Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgin“ – uppdráttur ÓSÁ.

sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Gengið

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.

Byrgi

Og þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Ranghugmyndir hafa verið uppi um byrgin, allt frá því að Þorvaldur Thorarensen skrifaði um þau á ofanverðri 19. öld. Margir fleiri hafa apað hugmyndirnar eftir.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Staðsetning byrgjanna kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga færðist um tíma að Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum. Verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær fiskgeymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig má sjá dæmi um leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta. 

Gengið

Ákjósanlegt hefur verið að hafa geymslurnar miðsvæðis, hvort sem þær voru frá bæjum á norðanverðum Skaganum, t.d. nálægt Stafnesi, eða frá Grindavíkurbæjunum á sunnanverðu því aldrei var hægt að vita fyrirfram á þeim tíma hvort Þjóðverjar eða Englendingar fengju vorhafnir á hvorum staðnum hvert árið. Reglan var sú að sú áhöfn er fyrst kæmi að höfn að vori héldi henni um sumarið (fyrstur kemur – fyrstur fær).

Nótarhóll

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, austan Nótarhóls við Ísólfsskála, á Seltaöngum og í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan gæti verið sú að þau hafi gleymst eftir að notkun þeirra lauk þegar aðstæður breyttust. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.

Nótarhóll

Nótarhóll – minjar (ÓSÁ.

Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til með sömu lögun, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um innihaldið. Sléttar þunnar hraunhellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast varninginn í byrgjunum.
Hlaðnar refagildrur eru  nálægt við öll fiskibyrgi í nágrenni Grindavíkur. Bendir það til þess að vargurinn hafi ásælst innihaldið. Það gildir einnig um „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.

Eldvörp

Eldvörp – hleðslur í helli.

Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt Byrgifrá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Önnur skýring er til á tilvist byrgjanna og alls ekki sú ólíklegasta. Hún er þessi: „Byrgin í Eldvarparhraunum eru fyrir „stuldfisk“.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Skálholtsbiskup átti nánast allt útræði á sunnanverðum Reykjanesskaganum frá því á 12. öld og fram á 16. öld. Eftir það eignuðust erlendir kaupmenn verslunina. Útvegsbændur í Grindavík líkt og annars staðar þurftu skv. laganna bókstaf að greiða Skálholti eða yfirvaldinu hverju sinni hluta af aflanum, sem annað hvort var fluttur að Skálholti eða seldur til útflutnings. Greindir útvegsbændur eða kotbændur hafa séð sér leik á borði, stolið undan hluta aflans og komið honum í þessar faldar geymslur í ofanverðum hraununum. Þurrkaður fiskurinn hefur síðan verið sóttur þangað ef nauðsyn bar til er sulturinn svarf að. Á einokunartímabilinu, frá 1602 til 1787, hvarf fiskur af Grindavíkurmiðum svo erfitt var um aðdrætti fyrir marga.

Tyrkjabyrgi-21

Þagnargildi hefur ríkt um geymslur þessar svo þær hafa alla tíð verið fáum kunnar.“ Sem sagt; „tyrkjabyrgin“ ku hafa verið með fyrstu skattaskjólum Íslendinga. Með því gæti aldur þeirra framlengst allt fram á 13. öld.
Auðvitað er ávallt „leiðinlegt“ að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan „Tyrkunum“ í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR.

Eldvörp

Fiskbyrgin í Sundvörðuhrauni. Moldarstígur hefur myndast um minjarnar.

Ástæðulaust er að draga úr „sannleiksgildi“ annarra mögulegra ályktana um tilurð og notkun byrgjanna í Sundvörðuhrauni og Eldvörpum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín. Þátttakendur voru um 150.

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.

 

Húsatóftir

Skúli Magnússon, sagnfræðingur, skrifaði í Morgunblaðið 2016 um „Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík„:

Skúli Magnússon„Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur.
Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund.

Húsatóftir

Húsatóftir – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana.

Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210.

Húsatóftir

Neðri-Sundvarða austan Húsatófta

Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Sundvarða

Sundvarða í Sundvörðuhrauni.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.“

Heimild:
-Morgunblaðið 27. feb. 2016, Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík eftir Skúla Magnússon, bls. 30.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.