Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, „Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu“ frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.“

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.

Þorbjarnarstaðir

Menningarlandslag eru svæði sem bera með sérstökum hætti vott um athafnir mannsins á ólíkum tímum við mismunandi aðstæður, og sem þar með bera í sér menningarsögulegt gildi.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Í menningarlandslagi birtist hin sögulega vídd í umhverfi okkar. Það er stöðugum breytingum háð, þar sem gamalt hverfur og nýtt tekur við. (Kulturmiljøet i landskabet, frjálsleg þýðing). Einnig svæði, þmt. menningarlegar og náttúrulegar auðlindir, sem tengjast sögulegum atburðum, aðgerðum eða einstaklingum eða fela í sér önnur menningarleg, þjóðfræðileg, málsöguleg eða fagurfræðileg gildi og öll sýnileg eða ósýnileg ummerki sambúðar manns og lands.
Fyrsta skrefið er að vita hvað er hægt að vernda. Til þess þarf skráningu. Skráning og geymsla upplýsinga þarf að vera vel skipulögð. Það kallar á kortlagningu. Þegar upplýsingarnar liggja fyrir á skipulögðu formi, svo sem á korti, er kominn grundvöllur til að nýta þær við ákvarðanatöku, t.d. við gerð skipulagsáætlana – ekki bara „spari“ heldur alltaf.

Hvað er hægt að skrá? (dæmi)

Miðmundarvarða

Miðmundarvarða við Þorbjarnastaði.

Álagablettir
Álfabyggðir
Beitarhús
Dysir
Draugasögur

Eyktamörk
Gamlar byggingar
Gamlar leiðir
Gangnamannakofar
Garðar
Grasamór
Hákarlshjallar
Hreiðurstæði Íslendingasöguslóðir
Jarðhýsi
Kirkjustaðir

Hólmur

Hólmur – eldhús.

Kvíar
Lendingar
Mið af sjó
Mógrafir
Naust

Sagnir
Selalagnir
Skáldaslóðir
Stafkirkjur
Stekkir Sölvafjörur
Tóftir
Tófugren
Vatnsból
Veðurteikn
Veiðistaðir
Verbúðir

Vorrétt

Vorréttin í Hraunum.

Vígðir blettir
Vörður
Þjóðsögur
Örnefnasögur
Örnefni
Öskuhaugar
(3 x 13 atriði)

Menningarlandslag og sjálfbær þróun
Sjálfbær þróun er þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“ (Brundtlandskýrslan 1987) eða „Við fengum Jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar, við höfum hana að láni frá börnunum okkar“ (Máltæki frá Kenya).

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Til að þróunin sé sjálfbær, þarf hún að vera það jafnt í vistfræðilegu, efnahagslegu og félagslegu tilliti.
Hluti ábyrgðarinnar sem við berum gagnvart komandi kynslóðum felst í því að varðveita þann fjölbreytileika sem er til staðar og þá þekkingu sem honum fylgir. Fjölbreytnin er mikilvæg forsenda sjálfbærrar þróunar.

Líffræðileg fjölbreytni (biodiversity) (þar með talin erfðafræðileg fjölbreytni, fjölbreytni tegunda og fjölbreytni vistkerfa)

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Skipuleg skráning menningarlandslags er skammt á veg komin, en mikið af upplýsingum er til. Ísland er jaðarbyggð með sérstakt hlutverk. Sértækar staðbundnar aðgerðir geta reynst nauðsynlegar til að viðhalda fjölbreytileikanum. Stafræn kortlagning opnar nýja möguleika og auðveldar ákvarðanatöku.
Höfum í huga að: Gamalt fólk deyr; oftar en æskilegt er – og með því hverfur vitneskja, sem við, unga fólkið, gætum nýtt okkur.

-Stefán Gíslason MSc Umhverfisstjórnun. Úr erindi er flutt var á afmælisráðstefna Landverndar laugardaginn 30. október 1999.
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1080.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – dæmi um menningarminjar.

Landrof

Gróður breytist frá einum tíma til annars. Margt getur haft áhrif á það. Reykjanesskaginn er ágætt dæmi um miklar gróðurbreytingar frá upphafi landsnáms til dagsins í dag.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróður- og jarðvegseyðing er að mati margra fræðimanna alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Ekki er til vel rökstutt mat á því hvar mörk samfellds gróðurs lágu inn til landsins við landnám, né hve stór hluti landsins var skógi eða kjarri vaxinn. Hitt er óumdeilanlegt að hér urðu mjög snögg umskipti á gróðurfari fljótlega eftir að land byggðist. Frjókornarannsóknir hafa sýnt að láglendi var að miklu leyti skógi eða kjarri vaxið við landnám. Landið hefur því tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Víða í byggð virðast umskipti frá skógi eða kjarri í nær skóglaust land hafa verið snögg og ef til vill aðeins tekið einn til tvo mannsaldra. Jarðvegur breyttist einnig. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða grófkornóttur með lélega samloðun, hann er ljósari og með miklu meira af áfoksefnum en jarðvegur frá því fyrir landnám. Jarðvegsbreytingarnar sýna hversu þétt uppblásturinn fylgdi í kjölfar skógaeyðingarinnar.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þá er Ísland ákaflega vindasamt land. Sé gróðurþekjan fjarlægð er jarðvegurinn mjög auðrofinn hvort heldur er af vindi eða vatni. Einkum hefur vindurinn verið afkastamikill. Verstu uppblástursskeiðin er ekki hægt að kalla annað en náttúruhamfarir. Dæmi er hinn hamslausi uppblástur sem geisaði í Landssveit og Rangárvöllum og náði hámarki undir lok 19. aldar og sem hefði getað lagt stóran hluta Rangárvallasýslu í eyði. Gróður eyddist annars vegar við uppblástur þannig að vindurinn reif burt jarðveg þar til ekkert varð eftir nema jökulurðin undir en hins vegar við það að þau ógrynni sands sem losnuðu og bárust but með vindi, lögðust yfir gróður annars staðar og kæfðu hann.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnámen olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan.
Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna.

Rof

Rof á Krýsuvíkurheiði.

Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.

Rofabarð

Rofabarð.

Því er stundum haldið fram að jarðvegseyðingu megi rekja til kólnandi loftslags. Fátt bendir til þess að svo sé. Uppblástur hófst skömmu eftir landnám og áður en veðurfar tók að kólna að ráði nálægt 1200. Þorleifur Einarsson taldi til dæmis að á þeim tíma hafi holtin umhverfis Reykjavík verið orðin gróðurvana og uppblástur þar um garð genginn. Annað sem mælir á móti því að frumorsök hnignandi gróðurfars hafi verið kólnandi loftslag er að skógar virðast víða hafa haldist lengst inn til landsins, á mörkum byggðar og óbyggða sem sést til dæmis á breyttum skógarítökum kirkna. Þar hefðu þeir þó átt hörfa fyrst vegna kólnandi loftslags. Litla ísöldin hefur þó lagst á sveif með eyðingaröflunum og haft áhrif, til dæmis í stærri jökulfljótum sem brutu gróið land, meiri jökulhlaupum og í framskriði jökla sem skildu seinna eftir sig gróðurvana auðnir og báru oft einnig fram fínkornótt efni sem farið gat á flakk.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags þrátt fyrir gróðureyðinguna umhverfis.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.

Hér má heyra í Ríó Tríóinu; „Landið fýkur burt“ – Sjá og HEYRA.

-Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við HÍ.
-http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html
-https://www.youtube.com/watch?v=mBwrzCNSP0s

Rof

Landrof.

Njarðvíkursel

Landnám Ingólfs markast af strandlengju Reykjanesskagans og í austri af Ölfusá, Sogi, Þingvallavatni og botni Hvalfjarðar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs er um 3.000 ferkílómetrar að stærð, eða um 3% af landinu öllu. Þar búa hins vegar um 200 þús manns eða tæplega 70% þjóðarinnar.
Gróðurfarslega er Landnám Ingólfs víða grátt leikið. Kemur þar til eldvirkni fyrri tíma auk þess sem svæðið hefur mátt þola ofbeit aldirnar í gegn, líkt og mörg önnur svæði hér á landi. Engu að síður hefur Landnám Ingólfs orðið útundan í viðleitni til landgræðslu á síðustu áratugum. „Gróður fyrir fólk“ leggur áherslu á að gróður eykur útivistargildi lands. Heiðmörkin er gott dæmi þar um, svæði sem lengst af var hrjóstrugir melar og hraunflákar en er nú, fyrir framsýni manna um miðja 20. öld, gróðursæl útivistarparadís fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Á íslenskan mælikvarða eru veðurfarsleg gróðurskilyrði á svæðinu góð og óhætt er að fullyrða að þegar Ingólfur Arnarsson nam þar land hafi svæðið verið nær algróið og láglendið skógi vaxið. Nú, rúmlega 1100 árum síðar, er myndin allt önnur, gróðurfarið ber dapurleg merki aldalangrar búsetu, gróðurnýtingar og annarra mannlegra aðgerða, enda hefur svæðið verið þéttbýlt allt frá landnámi til þessa dags. Skógi og kjarri hefur að mestu verið útrýmt og hefur það víða leitt til mikillar jarðvegs- og gróðureyðingar sem enn hefur ekki tekist að stöðva.

Fossárrétt

Fossárrétt 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Ástæða er til þess að ætla að þrátt fyrir margháttaðar landgræðsluaðgerðir sé gróðurþekjan á svæðinu enn á undanhaldi og aðeins á friðuðum svæðum getur gróður talist í framför.

Nú má víða á Reykjanesskaganum sjá ummerki uppgræðslu og gróðuraðhlynningar. Trjáplöntum hefur verið komið fyrir í fornum tóftum, tré þekja gömul fjárskjól og stekkir hafa horfið í skóga.

Baðsvellir

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Minna þarf áhugafólk um uppgræslu og skógrækt að huga að hugsanlegum mannvistarleifum á einstökum svæðum áður en lengra er haldið. Svæði hafa verið endurskýrð, s.s. Sólskógur þar sem áður hétu Selbrekkur. Selsminjarnar þar hafa verið kaffærðar í skógrækt. Trjám hefur verið plantað í Njarðvíkursel við Seltjörn og í Rósel við Ró[sa]selsvötn ofan Keflavíkur. Þar hefur skógræktarfólk einnig plantað trjám í hina fornu Melabergsleið (Hvalsnesgötu). Þá hafa tré verið gróðursett ofan í fornminjar í svonefndum Selskóg á og ofan Baðsvalla norðan Þorbjarnarfells, líkt og í Víkursel vestan Öskjuhlíðar. Svona mætti, því miður, lengi telja…
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimild:
-http://www.gff.is/landnam-ingolfs.html

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Staðarborg

Við Vatnsleysustrandarveg, ofan Kálfatjarnar er skilti. Á skiltinu er eftirfarandi fróðleikur:

Staðarborg

Staðarborg – upplýsingaskilti.

„Staðarborg er um 1.5 km frá Vatnsleysustrandarvegi, um miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysutrandarvegar í stefnu á Trölladyngju (suðaustur). Borgin sést þó ekki fyrr en komið er nokkuð upp í heiðina vega hæða sem skyggja á hana. Varðan hér litlu austar heitir Pestsvarða. Frá henni má fylgja lágum vörðum sem vísa leiðina að borginni. Fyrst er komið á langan klapparhól er heitir Klifflatarhóll. Þar eru tvær vörður. Þaðan skal fylgja vörðum sem sjást þar til Staðarborg blasir við.

Fjárborgin mikla
Staðarborg er stór og listilega hlaðin fjárborg. Líklegt er að borgin hafi verið hlaðin sem skjól fyrir fé í illviðrum. Áður fyrr voru borgir hlaðnar til að spara húsbyggingar. Þá voru gripahús af skornum skammti heima við bæi og var sauðfé haft úti eins lengi og unnt var. Sauðamenn sem þá voru á flestum bæjum önnuðust sauðféð og fylgdust með því ef þurfa þótti.

Staðarborg

Staðarborg.

Engar heimildir eru til um aldur Staðarborgar. Þó er talið víst að borgin sé nokkur hundruð ára gömul og teljist því til fornminja. Borgin er mjög heilleg og hefur ekki verið hreyft við henni utan þess að ofan dyranna voru tveir stórir steinar sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar til varnar þess að stórgripir kæmust inní borgina. Snemma á 20. öld lenti hins vegar stórgripur þar inni. Til að ná gripnum út var áreftið fyrir ofan dyrnar tekið svo þær uðu heilar uppúr. Staðarborg var friðlýst árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja.

Þjóðsagan

Staðarborg

Staðarborg að innanverðu.

Í þjóðsögu einni er sagt frá því að presturinn á Kálfatjörn hafi fengið hleðslumann til að hlaða borgina. Helðslumaðurinn vandaði vel til verka og notaði grjót úr nágrenninu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp eins og aðrar smærri fjárborgir sem voru víða um land. Má því til stuðnings skoða hleðsluna að innan sem var farin að slúta nokkuð. Er prestur komst að þessu varð hann reiður og harðbannaði þetta þar sem einsýnt var að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfartjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Við þetta á hleðslumanni að hafa gramist svo að hann hljóp frá ókláruðu verkinu og fór frá presti.

Örnefnin í Strandarheiði

Staðarborg

Staðarborg – örnefnin í heiðinni (SG).

Örnefnin hafa að geyma ákveðna sögu og með þeim má oft átta sig á með hvaða hætti landið var nýtt á mismunandi tímum. Örnefnin í heiðinni eru mörg og gönguleiðirnar margar eins og gefur að skilja ef horft er til landnotkunar áður fyrr þegar lifað var af því sem landið gaf. Þá var landið að mestu notað til sauðfjárræktar. Í kjölfar aukinnar vélvæðingar og umbóta í landbúnaði, s..s aukinnar túntæktar, girðingu heimatúna og áburðarnotkunar, um og eftir aldamótin 1900, færðist sauðfjárræktin í aukum mæli frá selstöðum í heiðinni í heimatúnin. Í kjölfarið minnkaði notkun örnefna í heiðinni og er svo komið í dag að mörg þeirra hafa fallið í gleymsku.“

Framangreindur fróðleikur er ágætur – svo langt sem hann nær. Hafa ber í huga að sunnan við Staðarborgina er áberandi hóll. Á henni eru leifar óþekktrar fjárborgar. Austan hennar er annar áberandi hóll með fjárborgarleifum. Vestan Staðarborgar er svo mjög svo áhugaverð Þórustaðaborgin.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þinghóll

Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.

Kópavogur

Þinghóll – dysjar.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei.
Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir.

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi. Jarðneskar leifar Sigurðar og Steinunnar fundust þarna skammt frá er brúin yfir Kópavogslækinn var byggð.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.

Þinghóll

Minnismerki um erfðahyllinguna á Þinghóli.

Erfðahyllingareiðurinn – Skjalið er varðveitt Þjóðskjalasafni í skjalasafni Öxarárþings, Alþingisbók frá Bjarna Þorsteinssyni.
Texti erfðahyllingareiðsins er ekki til í frumriti en hér er hann tekinn eftir alþingisbók í Þjóðskjalasafni.
Efni skjalsins er á þá leið að á Kópavogsfundinum 1662 hafi Íslendingar gengið undir einveldi Danakonungs en það hafði hann þegar fengið í Danmörku tveimur árum fyrr. Ætlast var til að gengið yrði frá málum á alþingi en höfuðsmaðurinn, Henrik Bjelke, kom ekki til landsins í tæka tíð.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Ýmist er talað um erfðahyllingareið eða einveldisskuldbindinguna. Textinn er til í nokkrum afritum. Hér er eiðurinn í alþingisbók, sem óvíst er hver ritað hefur, og má benda á síðustu orðin á blaðsíðunni „O tempora! o mores!“ (Ó tímar, ó siðir!) sem bera vitni um dapurt hugarástand skrifarans.
Á Kópavogsfundi viðurkenndu Íslendingar einveldi Danakonungs og höfðu Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup og Árni Oddsson lögmaður forystu fyrir landsmönnum þar. Með tímanum komst allt ríkisvald (löggjafarvald, framkvæmdavald og æðsta dómsvald) í hendur konungs og embættismanna hans. Í raun var kóngur þó farinn að ráða því sem hann kærði sig um á Íslandi löngu fyrr og viðurkenning einveldisins var fremur formsatriði en breyting.

Þinghóll

Þinghóll.

Forsaga málsins er sú að ári áður hafði Danakonungur ákveðið að svipta aðalinn öllum völdum og stofna konungseinveldi í ríki sínu í samstarfi við borgara Kaupmannahafnar. Íslendingar samþykktu hið sama á Kópavogsfundi með því skilyrði að þeir fengju að halda fornum lögum sínum, frelsi og rétti. Það virðist einkennileg krafa þegar þess er gætt að allt átti þetta að hverfa með einveldisskuldbindingunni.
Kópavogsfundurinn hlaut óvænta athygli löngu síðar þegar Jón Sigurðsson sjálfstæðishetja dró fram í dagsljósið tvo bréfmiða sem Árni Magnússon handritasafnari hafði skrifað nokkrum áratugum eftir fundinn. Þar segir að Brynjólfur biskup og Árni Oddsson hafi verið neyddir til að skrifa undir skuldbindinguna með vopnavaldi, Árni hafi streist á móti heilan dag en loks látið undan og undirritað skjalið grátandi. Þótti 19. aldar mönnum þetta talandi dæmi um svívirðilega framkomu Dana gagnvart Íslendingum í gegnum tíðina.

(Byggt á riti Gunnars Karlssonar, Kóngsins menn. Reykjavík 1990, Mál og menning).
Heimildir: Einar Laxness. Íslandssaga a-ö, II. bindi. Reykjavík 1995. Vaka – Helgafell – og Árni Daníel Júlíusson, Helgi Skúli Kjartansson og Jón Ólafur Ísberg (ritstj.). Íslenskur söguatlas I. Reykjavík 1989. Almenna bókafélagið.

Þinghóll

Þinghóll.

Garðastekkur

Birna Lárusdóttir skrifar um „Fjárborgir“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2010. Skrifin eru sérstaklega áhugaverð þegar litið er til mikils fjölda fjárborga á Reykjanesskaganum. Þar segir m.a.:

Fjárborg

Árnaborg/Árnarétt.

„Fornleifar hafa strangvísindalegt gildi en þær geta líka höfðað til tilfinninga, verið fallegar, dularfullar og jafnvel orðið kveikjan að alls kyns sögum og vangaveltum. Hringlaga rústir hafa oft vakið undrun meðal fólks, jafnvel frekar en rústir með aðra lögun þótt ekki hafi mikið verið skrifað um þær. Sennilega er lögunin aðalástæðan en hringformið er ekki mjög algengt meðal íslenskra fornleifa. Þessar tóftir eru auðvitað með ýmsu móti, litlar eða stórar, stæðilegar eða jarðlægar, í túni eða úthögum. Sumar þeirra hafa verið túlkaðar sem hof eða lögréttur í meðförum fornfræðinga á 19. öld og jafnvel hafa hringlaga tóftir, ætlaðir dómhringar, verið hafðar sem aðalrök fyrir því að tilteknar tóftaþyrpingar séu þingstaðir.

Fjárborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ennþá eru sumar hringlaga rústir sveipaðar dular fullum ljóma og t.d. er ekki langt síðan höfundur þessarar greinar hitti bónda sem gaf lítið út á þá skýringu að hringlaga rústir skammt frá bæ hans væru fjárborgir. Hann taldi þær vera virki. Og hver veit? Það er ekki hægt að alhæfa um hlutverk rústa af útlitinu einu saman. Stundum eru þessar rústir ekki mjög gamlar og jafnvel til ritaðar heimildir um notkun þeirra. Aðrar hringrústir eru fornar og án skilríkja, t.d. hefur verið grafið í eina slíka í Húshólma á Reykjanesi sem er eldri en miðaldalagið frá 1226 og hefur verið túlkuð sem fjárborg þótt sannanir fyrir því skorti reyndar.

Fjárborg

Staðarborg.

Ritheimildir hafa hingað til verið aðaluppspretta vitneskju okkar um fjárborgir og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fjöldi meintra fjárborga hefur verið skoðaður á vettvangi við fornleifaskráningu. Í heimildum, þá aðallega örnefnaskrám, eru hringlaga mannvirki, oftast í úthögum, gjarnan kynnt sem ævagamlar eða fornar fjárborgir. Það hvílir því oft yfir þeim fyrnska og dulúð en þó er ljóst að þær eru alls ekki alltaf gamlar.

Staðarborg

Staðarborg.

Þótt fjárborgir séu oft hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið. Þetta skýrir sennilega af hverju fjárborgir undir þaki, eins og t.d. í Húsagarði, eru oft litlar, enda er væntanlega erfiðara að ná grjótinu saman í toppinn eftir því sem mannvirkið er stærra að grunnfleti.
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að leggja grunn að sögu fjárborga.

Heimildir um fjárborgir

Í Íslendingasögum og Sturlungu er hvergi minnst á fjárborgir þótt þar sé enginn hörgull á sauðfé, enda er umhirða þess stór hluti af daglegu lífi sumra sögupersóna auk þess sem sauðaþjófnaðir koma oft af stað æsilegri atburðarás. Þá eru sauðamenn sömuleiðis eftirminnilegar persónur, oft tröllslegir, einrænir og sérlundaðir, fara víða og fá oft veður af válegum atburðum. Þrátt fyrir að borga sé ekki getið koma fjárhús oft fyrir í sögunum, ýmist nærri eða fjarri bæjum en þau eru næstum alltaf kölluð sauðahús, enda er sauður yfirleitt notað sem samheiti fyrir fé á þessum tíma en vanaðir hrútar kallaðir geldingar. Ekki er heldur minnst á borgir eða fjárborgir í fornbréfum þótt þar megi tína til ýmislegt sem tengist annars konar mannvirkjum fyrir sauðfé, t.d. fjárhús, lambhús og sauðahús.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við upphaf 18. aldar fer fjárborgum að bregða fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Tilgangurinn með ritun jarðabókar var að gefa yfirlit um allar bújarðir á Íslandi, skrá fróðleik um eyðibýli og nýbýli og kanna möguleika til frekari byggðar. Höfundarnir höfðu því ekki sérstakan áhuga á útihúsum, hvað þá fjárborgum. Samt sem áður minnast þeir stuttlega á borgir þrisvar sinnum, alltaf í tengslum við hjáleigubyggð.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um fjárborgir í Skaftafellssýslum um miðbik 18. aldar og hæla þeim nokkuð: „Fjárborgir kallast strýtulaga skýli, hlaðin úr torfi og grjóti. Eru þau kringlótt að lögun og dyr á þeim niðri við jörðu, svo lágar, að maður getur aðeins skriðið inn um þær, en í toppi borgarinnar er gat eða ljóri“. Í sömu heimild er minnst lauslega á að fé þrífist mjög vel í hellum og stórum fjárborgum á Rangárvöllum en ástandið í Árnes- og Rangárvallasýslum er þó almennt ekki beysið. Fé fellur þar oft hundruðum saman á vetrum, hirðingarlaust á útigangi.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Ekki er einsdæmi að menn finni samsvörun milli eldvarpa og fjárborga eins og Eggert og Bjarni, því hið sama gerði Sveinn Pálsson í skýrslu um Mývatnselda nokkrum áratugum síðar. Hann lýsir atburðarásinni svo: „Á mörgum stöðum uppkomu nú smærri eldvörp eða borgir í hrauninu sjálfu, sem á eptir verða sem uppmjó, stærri og smærri fjárbyrgi, kringlótt í lögun, hol að innan og glasseruð með allra handa myndum og sléttu steingólfi að neðan og dyrum á sumum einhvers staðar út úr sjer.“ Í ferðabók sinni getur Sveinn auk þess um fjárborgir í Skaftafellssýslu og Landeyjum. Fjárborgir eru raunar eina húsaskjólið fyrir fé sem Sveinn minnist á og vekur það upp nokkrar spurningar, t.d. má velta fyrir sér hvort þær hafi verið nýjung í hans augum eða jafnvel hið gagnstæða, að þær hafi verið orðnar sjaldgæfar.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Skúli Magnússon, fógeti, fékk sænskan mann, Hastfer nokkurn, til að reka sauðfjárbú á Elliðavatni. Þar áttu að fara fram skipulagðar kynbætur, einkum með tilliti til ullargæða. Hastfer gaf út leiðbeiningarrit um hirðingu sauðfjár þar sem hann gagnrýnir m.a. meðferð fjár á Suðurlandi. Hann minnist stuttlega á fjárborgir og telur þær ágætar til síns brúks. Því er ljóst að hann hefur séð þær eða heyrt af þeim í það minnsta. Helsti ókostur borganna þótti honum að þar var erfitt að fóðra fé vegna þess að moð vildi setjast í ullina og varð hún ekki hreinsuð nema með mestu erfiðismunum. Því mælir hann frekar með garðahúsum, eins og tíðkuðust norðanlands. Hafi menn gefið í borgum hefur heyið því ekki farið í þar til gerðar jötur eða garða og því viljað slæðast um gólfið.

Þorbjarnarstaðarborg

Þorbjarnarstaðarborg.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu og upplýsingarfrömuður, ritaði um flestar hliðar sauðfjárhirðingar næstur á eftir Hastfer í yfirgripsmiklu riti sem kom út árið 1778. Hann á varla til nógu mörg orð til að lýsa hrifningu sinni á fjárskýlum öðrum en húsum. Hann skilgreinir tvennskonar hringlaga skýli: fjárborgir og fjárbyrgi. Borgirnar eru skv. honum miklu sjaldgæfari og aðallega til á Austurlandi. Um þær segir hann að þær eigi að mjókka upp á við, það sé vandasamt að hlaða þær og aðeins á fárra manna færi.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Fjárbyrgi, þ.e. opin hringlaga fjárskýli, staðhæfir hann hafi víða verið brúkuð til forna og sjáist enn þá rústir þeirra en þau séu nú víðast aflögð. „Þesse byrge brúkudu fornmenn til ad nýta ser þess betr vetrarbeitina, þvi vída er so landslage háttad, serdeiles á þeim jördum sem ega fialland, ad viss partr landsins verz lenge og slær þar úr þó annad af landinu legge under.“

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Skv. Magnúsi voru byrgin aðallega notuð framan af vetrinum og stundum fram yfir jól en þá var farið að gefa fénu. Magnús hvetur menn mjög til að hlaða slík byrgi, enda geti það allir og ekki þurfi viðarskortur að letja menn til verksins. Þetta eru því viðarlaus mannvirki. Þau hafi marga aðra kosti, t.d. lofti þar vel um féð. Leiðbeiningar um hleðslu byrgja fylgja með kaflanum og eiga að henta sauðsvörtum almúganum sem ekkert kann í reikningslist skv. Magnúsi.

Hringurinn

Hringurinn.

Sveinn Pálsson lofar mjög dugnaðarbónda í Görðum á Álftanesi sem sumarið 1793 hafði nýlega látið gera nokkrar fjárborgir í grennd við bæ sinn. Fjárborgunum lýsir hann svo: „Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“ Virðist sem Sveinn sé hér að lýsa borgum sem hlaðnar voru alveg upp í topp.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Árið 1837 sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til allra sóknarpresta á Íslandi til að fá upplýsingar um ýmislegt sem varðaði náttúrufar, örnefni og búskaparhætti. Ein spurninganna fjallaði um fjárborgir og beitarhús. Í Árnessýslu þekkjast borgir í sex sóknum og virðast hafa verið aðalfjárskýlin í Selvogi, a.m.k. er þar bara getið um fjárhús á einum bæ: í Krýsuvík.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Hvergi er getið um fjárborgir í Gullbringusýslu og kemur kannski ekki á óvart, enda er íbúum þar oft úthúðað í heimildum fyrir slæma meðferð á sauðfé, sem reyndar var ekki mjög margt á þessu svæði.

Fjárborg

Við Hólmsborg.

Í lok 19. aldar ferðaðist Daniel Bruun víða um Ísland og kynnti sér fornar byggingarhefðir. Í umfjöllun um þaklaus hús minnist hann á tvær gerðir fjárborga: Hér er átt við hinar kringlóttu fjárborgir, sem mest er af á Suðvesturlandi, en þar gekk féð fyrrum úti allt árið en leitaði skjóls í fjárborgunum í illviðrum. Einfaldastar eru skjólborgirnar, sem opnar eru að ofan, en hinar fullkomnari eru hlaðnar saman í eins konar hvelfingu, með loftgat á toppnum, sem hægt var að loka. Borgirnar eru hlaðnar úr torfi eða grjóti, en hvort sem er, gengur efra lag alltaf ögn lengra inn í borgina en hið neðra, þar til allt nær saman og lokast í toppnum. Þá segir Bruun frá kringlóttum fjárborgum á Reykjanesskaga sem voru ýmist opnar eða hlaðnar saman í toppinn. Uppruna byggingarstílsins telur hann mega rekja til Hjaltlands og Írlands.

Fjárborg

Við Staðarborg.

Fornleifaskráning
Mikið verk er fyrir höndum að kanna gögn um fjárborgir sem hafa safnast við fornleifaskráningu á undanförnum árum. Í grófum dráttum virðist þó skráningin endurspegla þá mynd sem heimildir draga upp af fjárborgum hvað varðar dreifingu. Tóftir sem eru sagðar fjárborgir, oftast hringlaga, eru býsna algengar á Suðurlandi, t.d. í Rangárvallasýslu, Grafningi og Grímsnesi. Í Grímsnesi eru þær oft stór og sigin mannvirki, um eða yfir 10 m í þvermál en í Rangárvallasýslu finnast oftar lítil mannvirki sem virðast hafa verið topphlaðin, oft um 6 m í þvermál.

Fjárborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgir eru líka algengar á Reykjanesi, oft mjög stæðilegar rústir, og vekur það upp spurningar um hvort þær séu flestar hlaðnar um eða eftir miðja 19. öld fyrst þeirra er ekki getið í sóknarlýsingum þar, eins og áður var reifað. Heimildir greina reyndar frá nokkrum borgum á Reykjanesi sem voru reistar á 19. öld en um þetta verður auðvitað ekkert alhæft. Í Kjós er fornleifaskráningu ekki lokið en þar virðast borgir þó fremur fátíðar og þær þekkjast ekki í Leirár- og Melasveit.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Nokkur dæmi eru um að fjárborgir hafi verið aflagðar þegar betri hús komu til sögunnar. Stundum er þess beinlínis getið, t.d. var hætt að nota fjárborg á Úlfljótsvatni árið 1887 þegar byggð voru fjárhús, en oftar eru óbeinar vísbendingar um hið sama, t.d. eru Borgaörnefni oft tengd beitarhúsum og benda í það minnsta til að þau hafi verið reist þar sem áður voru borgir. Í því sambandi má nefna að beitarhús á Þorláksstöðum í Kjós eru í Borgarskarði, og sést greinilega á yfirborði að eldri byggingaleifar eru undir stórum húsum sem voru notuð fram á 20. öld.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Í Selvogi hafa fjárborgir verið í notkun fram á 19.-20. öld ef marka má ástand mannvirkjanna og þá frásögn sóknarlýsingar að þær hafi verið einu fjárskjólin á svæðinu á fyrri hluta 19. aldar. Á tveimur stöðum sjást skrýtnar rústir sem mætti túlka sem þróun frá borgum yfir í beitarhús – þ.e. engu líkara en borgarrústum hafi verið breytt í fjárhús. Þetta er augljóst á Hlíðarborg, þar sem beitarhús hafa verið reist inni í borginni sjálfri. Undir Borgarskörðum ekki langt frá er hringlaga rústahóll og hefur lítil fjárhúsrúst verið grafin inn í hann.
Selvogurinn var annars annálaður fyrir góðan útigang og þar hafa m.a. tvær jarðir fengið þá einkunn að vera sennilega bestu útigangsjarðir á öllu Íslandi. Í því samhengi er athyglisvert að í beitarhúsarústum á svæðinu sjást yfirleitt ekki hlöður, jötur eða garðar en það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.

Fjárborg

Viðeyjarborg.

Samantekt og umræða
Fjárborgir þekkjast ekki af heimildum fyrr en á 18. öld og raunar er ekkert vitað um hvenær farið var að reisa þær hér á landi. Þá þegar eru borgir víða á undanhaldi, m.a. eru vísbendingar um að hjáleigur hafi verið reistar á gömlum fjárborgastæðum og sumir virðast aðeins þekkja mannvirkin af afspurn og rústum. Þrjár fjárborgarústir sem grafið hefur verið í staðfesta þetta og virðast allar hafa verið aflagðar fyrir 1721 eða mögulega skömmu eftir það.

Pétursborg

Pétursborg.

Á síðari hluta 18. aldar verður mönnum nokkuð tíðrætt um borgir og notkun þeirra eykst að nýju, m.a. fyrir tilstilli Magnúsar Ketilssonar og umbótamanna sem vildu auka gæði íslensku ullarinnar. Enn er verið að hlaða borgir á fyrri hluta 20. aldar og margar borgarrústir sem enn eru vel uppistandandi, t.d. á Reykjanesi og í Rangárvallasýslu, eru líklega hlaðnar á 19. öld.
Fjárborgirnar eiga sér bæði aðdáendur og andmælendur í heimildunum. Upplýsingarmenn virðast almennt hrifnir af þeim, aðallega af því að ekki þurfi við til byggingarinnar og líka séu þær góður kostur fyrir ullina sem var mikilvæg framleiðsluvara á 18. öld. Aðdáunin beinist líka auðsjáanlega að þeim bændum sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig til að reisa mannvirki sem eru ekki dæmigerð og ekki á allra færi – þannig geta fjárborgir verið tákn um framfarahug og hugsun sem nær út fyrir rammann. Aukin krafa um heygjöf virðist svo aðalorsök þess að síðla á 19. öld er frekar hvatt til fjárhúsbygginga, og allra helst til garðahúsa, enda hentaði illa að gefa í fjárborgum. Flest bendir til að þetta megi skýra með veðurfari og landsháttum, að borgirnar séu aðallega bundnar við svæði þar sem útigangur var mögulegur án gjafar og eftirlits sauðamanns.
Til gamans má geta þess að Ólafur Þorvaldsson telur í bók sinni Harðsporar upp helstu útigöngusvæði á landinu sem hann þekkir til: Nokkrar jarðir í Selvogi, Ölfusi og í Þingvallasveit, Biskupstungum, Rangárvallasýslu, Skaftafell o.fl. jarðir þar í nánd, Horn í Nesjum og líkast til fleiri jarðir á Suðaustur- og Austurlandi, t.d. Brú á Jökuldal og að lokum Melrakkasléttu. Þetta kemur nokkurn veginn heim og saman við hugmyndir um dreifingu fjárborga. Gamlir sauðir, sem þoldu útiganginn best, gáfu af sér meiri ull en annað fé, allt að 2 kg á ári en af ám og yngri sauðum fékkst yfirleitt minna eða tæp 1,5 kg. Þá var ullin talin best af sauðum en á hinn bóginn er mögulegt að hvoru tveggja, bæði ullarmagn og -gæði megi rekja til útigangsins fremur en líffræðilegra orsaka. Ullargæði eru einmitt ein meginástæða þess að menn mæla með fjárborgum að nýju á 18. öld, þegar ullin fór að skipta verulegu máli vegna Innréttinganna. Fjárborgir fyrir þann tíma gætu verið til marks um að menn hafi haft hugann sérstaklega við ullarframleiðslu þótt auðvitað hafi aðrar afurðir, kjöt, feiti og mjólk, vissulega einnig verið til staðar. Útigangur fjár og fjárborgir þurfa alls ekki að vera til marks um slæma meðferð, hnignun eða úrræðaleysi þótt þeirri skoðun sjáist bregða fyrir á 19. öldinni.

Árnaborg

Árnaborg.

Fjárhús tíðkuðust snemma hér á landi en bændur gætu hafa kosið útiganginn einfaldlega vegna þess að þannig var hægt að fá betri ull. Það má velta því upp hvort áhættan hafi þótt eðlileg og fjárfellir við og við einfaldlega verið hluti af lögmáli sem var öðrum þræði gert ráð fyrir. Meira að segja þótti sumum á 20. öld ekkert óeðlilegt við að nokkrar skjátur féllu úr hor á hverju vori. Á þetta minnir máltækið „að setja fé á Guð og gaddinn“, þ.e. fé var sett á útigang í þeirri von að sá almáttugi sæi aumur á því og skilaði lífsneista í skjátunum að vori.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Hafi fjárhús þegar verið orðin nægilega mörg og stór skýrir það auðvitað hvers vegna menn þurftu ekki að ráðast í fjárborgahleðslu á 19. og 20. öld. Þetta er ósannað, enda hefur ekki verið grafið í nein fjárhús á svæðinu.“

Þess ber að geta að í dag eru þekktar a.m.k. 135 fjárborgir á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs.

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 101. árgangur 2010 (01.01.2010), Birna Lárusdóttir; Fjárborgir, bls. 57-80.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Hvalsnesgata

Kunnur Suðurnesjamaður frá fyrri tíð var Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsneskirkju.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Á síðari hluta sextándu aldar og fram á þá sautjándu sat á Hólum einn merkasti biskup Íslendinga eftir siðskiptin, Guðbrandur Þorláksson, mjög afkastamikill bókaútgefandi, en í hans tíð var prentaður á Hólum fjöldinn allur af sálmum, kvæðum og guðsorðaritum, bæði þýddum og frumsömdum og hann sá um fyrstu heildarútgáfu Biblíunnar á íslensku 1584. Mjög mikilvægt var fyrir Íslendinga að fá Biblíuna svo snemma á móðurmálinu, það átti eflaust þátt í að íslenskan varðveittist sem tungumál á þeim tíma þegar Ísland var hluti af danska konungsríkinu.
Hallgrímur Pétursson var skyldur Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum og faðir hans var hringjari þar á staðnum. Á Hólum ólst Hallgrímur að nokkru leyti upp og þar hefði honum verið auðvelt að feta menntaveginn en að loknu námi við skólana á Hólum og í Skálholti héldu ungir efnilegir menn oftast til náms við háskólann í Kaupmannahöfn og áttu síðan von um góð embætti heima á Íslandi.

Glückstadt

Glückstadt.

Af einhverjum ástæðum sem ekki eru fyllilega kunnar hraktist Hallgrímur frá Hólum og hélt til útlanda. Sagt er að hann hafi orðið óvinsæll á staðnum vegna gamansamra og jafnvel dónalegra vísna sem hann orti um þá sem þar voru hátt settir og verið rekinn, en aðrar sögur segja að hann hafi farið að eigin ósk. Hann virðist hafa tekið sér far með erlendum sjómönnum og næst fréttist af honum í Norður-Þýskalandi, í Glückstadt, þar sem hann er kominn í þjónustu hjá járnsmið sem fór heldur illa með hann. Sagt er að hann hafi einhverju sinni gengið út bálreiður og hallmælt húsbóndanum á ófagurri íslensku en þá hafi þar átt leið hjá fyrir tilviljun íslenskur maður að nafni Brynjólfur Sveinsson sem heyrði að pilturinn var íslenskur og þótti hann „heldur orðhittinn, þó ei væri orðfagur í það sinn, ávítaði hann og sagði, að ei ætti hann so sárlega að formæla sínum samkristnum.

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson.

Hallgrímur tók því að sönnu vel en spurði hvort hann vildi ekki vorkenna sér nokkuð þar hann ætti allt illt og þar á ofan fyrir sakleysi barinn og laminn. Brynjólfur fann að nokkuð mundi þó neytt með þessum pilti, réði honum að skilja við þessa þjónustu og leggja annað fyrir sig, svo af hans áeggjan og tilstilli komst hann í vorfrúeskóla í Kaupinhafn.“ Brynjólfur þessi Sveinsson varð síðar biskup í Skálholti og kom aftur við sögu Hallgríms síðar.

Í Kaupmannahöfn hefst nýr kafli í lífi Hallgríms Péturssonar. Hann var góðum gáfum gæddur og skáldhneigður og víst er að námið í vorfrúarskóla hefur haft góð og hvetjandi áhrif á hann. Vitað er að hann náði skjótt góðum árangri og var brátt kominn í hóp bestu nemenda.

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn.

Hann er um þetta leyti 22 ára gamall og þá verða örlagaríkir atburðir í lífi hans. Til Kaupmannahafnar kemur hópur af Íslendingum sem sjóræningjar frá Alsír – sem Íslendingar kölluðu Tyrki – höfðu rænt og hneppt í ánauð fyrir tæpum tíu árum síðan en höfðu nú verið keyptir lausir af Danakonungi. Hallgrímur er fenginn til þess að kenna þessu fólki kristin fræði. Í hópnum er kona sem heitir Guðríður Símonardóttir og hafði verið gift kona og móðir en orðið viðskila við mann sinn og barn. Þessi kona og Hallgrímur fella hugi saman og ekki líður á löngu þar til hún er orðin barnshafandi af hans völdum. Guðríður var þá 38 ára gömul þannig að með þeim var 16 ára aldursmunur. Þetta verður til þess að Hallgrímur hættir námi í annað sinn og þau Guðríður halda heim til Íslands.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík.

Um þetta leyti munu þau hafa frétt að eiginmaður Guðríðar var látinn. Hallgrímur gekk að eiga hana „fyrst hann varð ekki af því talinn“ eins og segir í gamalli heimild og vann fyrir sér og fjölskyldu sinni með erfiðisvinnu. Það er ljóst að þetta hafa verið erfið ár, þau hjónin voru fátæk og einnig er vitað að þau misstu nokkur börn ung að árum.
En það verður aftur róttæk breyting á lífi og högum Hallgríms og í annað sinn er það Brynjólfur Sveinsson sem breytir gangi máli, nú orðinn biskup í Skálholti; hann veitir Hallgrími prestsembætti og lætur vígja hann. Fyrstu árin í prestsembætti hafa þó ekki verið Hallgrími beinlínis auðveld; sumir áttu erfitt með að gleyma því að hann hafði verið fátækur vinnumaður.

Sauðbæjarkirkja

Sauðbæjarkirkja.

Til er gömul heimild þess efnis að fólki hafi þótt biskupinn haga sér undarlega að vígja þennan fátækling til prests en það hafi skipt um skoðun þegar það heyrði hann predika fyrir vígsluna. Aðeins ein predikun Hallgríms, líkræða, hefur varðveist en vitað er að hann þótti frábær predikari. Það sýnir einnig glöggt að Hallgrímur hefur ekki valdið vonbrigðum í starfi heldur þvert á móti vaxið í áliti að þegar Saurbær á Hvalfjarðarströnd, sem var miklu betra prestakall, losnaði var það Hallgrímur sem hlaut það 1651.

Fyrsti áratugurinn á eftir var honum frjór tími til ritstarfa. Öll mestu verk hans munu vera frá þessum árum og öll trúarleg: tveir sálmaflokkar, Samúelssálmar ortir út af Samúelsbókum Gamla testamentisins og Passíusálmarnir; og tvö guðræknisrit í lausu máli sem heita Dagleg iðkun af öllum drottins verkum og Sjö guðrækilegar umþenkingar. Efnahagsleg afkoma var þá vel viðunandi og heilsan góð.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Árið 1662 brann bærinn í Saurbæ og var það skiljanlega mikið áfall þótt strax væri hafist handa að byggja bæinn upp að nýju. Eftir þetta fór heilsu Hallgríms hrakandi, í ljós kom að hann var haldinn holdsveiki, úr þeim sjúkdómi lést hann sextugur að aldri árið 1674.
Eina barn þeirra Hallgríms og Guðríðar sem upp komst var Eyjólfur sonur þeirra. Dótturina Steinunni misstu þau þegar hún var aðeins þriggja og hálfs árs. Legsteinn með nafni hennar sem Hallgrímur hjó sjálfur út hefur varðveist og er í kirkjunni í Hvalsnesi þar sem Hallgrímur þjónaði fyrst sem prestur.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887. Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Tréverkið í kirkjuna vann Magnús Ólafsson snikkari úr Reykjavík. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.
Hvalsneskirkja var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Nokkrar minjar eru á Suðurnesjum tengdar Hallgrími, en aðrar eru horfnar, s.s. Bolafótur, bær sá er hann bjó í þar sem nú er skipasmíðastöðin í Njarðvíkum. Letursteinn norðan við Þórshöfn norðan Ósa er sagður hafa fangamarkið HP og letur í klöpp ofan við Þórshöfn ber stafina HP, en séra Hallgrímur er sagður hafa gengið þá leið að heiman til messu í Hvalsnesi.

M.a. af:
http://servefir.ruv.is/passiusalmar/hhallgrim.htm

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Skansinn
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:
Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmannaeyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.
Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokkra og haft á brott með sér hátt á fjórða hundrað Ísledninga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem átti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipiðog réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.
Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.Tyrkjaránið

Hellukofinn

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703, eftir Hálfdán Jónsson, segir m.a. um vegi um Hellisheiði:

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Fyrir austan … Bæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
Árið 1840 segir: „Hellirsheiði er … vel rudd. Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“
„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“

„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði.
Eirikisvegur-221Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól. …Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum.
hellisheidi-222Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum… . Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ 

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur… . Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.

Hellisheiði

Hellisheiði – skjól við gömlu götuna.

Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klö

ppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu.

hellukofinn-121

Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp.
Friðlýstur 13.5.1971. – var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa).

Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ „Á þeim stað sem hétu Syðri Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“  Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellisheiðargatan. Girðingarvinnugerð hefur hunsað allar fornleifar á stórum kafla á heiðinni.

Í takmarkaðri fornleifaskráningu vegna framkvæmda Hitaveitunnar á Hellisheiði (svo virðist sem nánar engar kröfur hafi verið gerðar til skráninga fornminja á svæðinu þrátt fyrir einar mestu framkvæmdir frá upphafi byggðar) segir m.a.: „Hellukofi, Hellisheiði„- Friðlýst hús, byggingarár: 1830. Hönnuður: Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi. Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Í Örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar um Hellisheiði segir: „Gamli hellukofinn var byggður 1830 á grunni krossvörðu sem þarna var fólki og skepnum til skjóls, líklega í hundruðir ára. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði var allur varðaður. Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m. í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak. Þar austur á miðri heiðinni eru Þrívörður við veginn, segir Hálfdán Jónsson í Ölfuslýsingu sinni 1703.
Syðri vegurinn var líka vel varðaður, þar stóðu vel hlaðnar, mannháar vörður, með nef út að veginum. Þannig voru þær tölusettar. En tréspjöldin með tölunum fuku og fúnuðu, og nú eru
allar vörðurnar horfnar, fyrir tönn tímans og jarðýtanna“.

Hellisheiði

Ásýnd Hellisheiðar 2023.

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990„, segir um Hellukofann: „Ölfushreppur; Afréttarland. Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.“

Heimildir:
-SSÁ, 238, 205 .
-SK, 1 .
-SB III, 282.
-Ö-Hellisheiði,1 .
-Útivist 6(1980), 82-86.
-Jón Pálsson.
-Austantórur II, 131-2 .
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148.
-Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
-Íslenzkir sagnaþættir XI, 113-129.
-Morgunblaðið, 26. júní 1980, Gamla gatan á Hellisheiði, bls. 22.
-Hellisheiði – Örnefnaskráning; Eiríkur Einarsson.
-Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990, Hellukofinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.