Í Dagblaðinu í apríl 1978 er m.a. fjallað um skiptar skoðanir á nýsamþykktum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar, sem síðar urðu grundvöllur að uppbyggingu íbúabyggðar í landi Setbergs. Áður hafði Hafnarfjarðabær vaxið með eignarnámi nálægra jarða, en að þessu sinni var sú aðferð valin að nágrannasveitarfélög kæmu sér saman um breytingar á umdæmismörkum þvert á einstakar jarðir.
Setberg 1959.
Í blaðinu mátti t.d. lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ný landamerki Hafnarfjarðar — steypt upp á eignarlöndum án samráðs„: „Fjórir steinstólpar með ígreyptum koparskjöldum hafa nú verið settir upp á nýjum „landamærum” Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Er uppsetning þeirra i samræmi við samkomulag bæjarstjóra beggja bæjanna um makaskipti á landsvæði.
Merki á „landamerkjastöpli“ millum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1956.
Hið undarlega er að steinstólparnir hafa verið settir upp í eignarlöndum einstaklinga án þeirra leyfis og þykir íbúum og eigendum þess lands sem Garðabær nú afsalar Hafnarfirði einkennilega að málum staðið og lítil samráð við þá höfð þó ákvörðunin geti haft viðtæk áhrif á framvindu eignarréttar þeirra á lóðum og löndum. Við makaskiptin sem bæjarstjórnirnar hafa samþykkt fær Hafnarfjörður 109 hektara lands sem tilheyrt hafa Garðabæ. Garðabær fær í staðinn 33 hektara lands í hrauni milli kaupstaðanna.
Við makaskiptin lendir um fjórðungur jarðarinnar Setbergs í landi Hafnarfjarðar en um 75% jarðarinnar verður áfram í Garðabæ. Um 85—90% jarðarinnar Þórsbergs, sem byggð er úr landi Setbergs, lendir nú í Hafnarfirði. Stór hluti jarðarinnar Hlébergs, sem einnig er byggð úr landi Setbergs lendir einnig í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Þá lenda og ýmsar húsalóðir i einkaeign í landi Hafnarfjarðar.
Hafnarfjörður – Setberg 1983.
Íbúum og eigendum jarðanna þykir undarlegt að steypa ný landamerki án heimildar og vitneskju landeigenda og það áður en tillagan um makaskiptin er lögð fram á Alþingi en þar verður hún að hljóta samþykki áður en landamærabreytingin er lögleg. Ótti eigenda og ábúenda jarðanna sem lenda í Hafnarfirði stafar kannski ekki sízt af því að þeir óttast að fasteignagjöld hækki nú verulega, og jafnvel svo að eigendum verði gert ókleift að eiga áfram lönd sín, en jafnframt að löndin verði ekki seljanleg nema á venjulegu matsverði óbyggðra og óskipulagðra landsvæða, sem er aðeins hluti af því gjaldi sem lagt er til grundvallar fasteignagjalda á skipulögðu landi.
DB ræddi málin við nokkra aðila og fylgja umsagnir þeirra hér með.
Undir fyrirsögninni „Íbúar og landeigendur hissa á leynimakkinu með makaskiptin“ segir einn íbúi í Setbergslandi og skipulagsnefndarmaður í Garðabæ: „Ein af steinsúlunum fjórum sem steyptar voru í eignarlönd án vitundar landeiganda og löngu áður en tillaga um málið er komin fram á Alþingi.
Það einkennilega við makaskipti kaupstaðanna á landeignum er að um þau hefur ekki verið fjallað i skipulagsnefnd Garðabæjar,” sagði Sigurður Gíslason arkitekt, íbúi í Setbergslandi og nefndarmaður i skipulagsnefnd Garðabæjar.
Landamerkjastöpull á norðanverðu Norðlingaholti.
„17. nóvember var lagt fram á bæjarstjórnarfundi í Garðabæ bréf frá skipulagsstjóra dagsett tveimur dögum áður ásamt drögum um lögsagnarumdæmisskipti. Þar lagði bæjarstjóri fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra að ræða framgang málsins við fulltrúa Hafnarfjarðar“. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Fulltrúi Alþýðubandalagsins sat hjá og lét bóka að hann teldi rétt að ekki aðeins landeigendum heldur og íbúum svæðanna er afsala átti yrði gerð grein fyrir gangi mála áður en lengra væri haldið.”
Merki á landamerkjastöplinum á Norðingaholti.
Sigurður sagði að í lok marz sl. hefði einhverjum af eigendum Setbergs og e.t.v. Þórsbergs verið skýrt frá málum. Var þá talað um að samhliða breytingunni fengju þessar jarðir hitaveitu og skolp frá Hafnarfjarðarbæ. Í viðræðum landeigenda síðar við yfirvöld í Hafnarfirði muni hins vegar hafa komið fram að það fæst ekki fyrr en svæðið byggist upp.
Taldi Sigurður að upplýsingar til eigenda væru mjög takmarkaðar og þeir fréttu utan að sér um framgang mála. Svartast hefði verið að Hafnarfjarðarbær lét steypa stjóra með landamerkjum án samráðs við landeigendur þar sem landamerkin voru steypt niður. Hefð væri að setja niður mælipunkta en mannvirki sem þessi væri einsdæmi að reisa án samþykkis landeigenda. Sigurður sagði að síðustu tvenn eða þrenn makaskipti bæjanna væru óuppgerð.
Hafnarfjörður – landamerkjastöpull á Fjárhúsholti.
Hafnarfjörður hefði i öll skiptin tekið stærra land en átti að vera i skiptunum. Garðabæ hefði því vantað um 15—25 hektara til jöfnunar eftir því hvernig á málin væri litið.
Nú átti að jafna málin, sagði Sigurður. En staðreynd er að Garðabær fær 33 hektra í hrauni þar sem bæjarmörk voru óljós og Garðabær fær því að hluta til eitthvað af landi sem hann mun sennilega hafa átt fyrir. Hafnarfjörður fær í staðinn 109 hektara lands þar sem er fallegt byggingaland, sagði Sigurður.
Hafnarfjörður – merki á landamerkjastöpli á Fjárhúsholti.
Þetta er réttlætt með því að Garðabær fái mjög gott byggingarland, en í 109 hekturunum sem Hafnarfjörður fær séu hlíðar, þegar uppbyggt svæði og eignarland,“ sagði Sigurður. „Ef frá er dreginn fyrri mismunur makaskipta sem var Hafnarfirði í vil um minnst 15 hektara, fær Garðabær nú 18 hektara fyrir 109. Er það á sama vegg og áður Hafnarfjörður stækkar en Garðabær minnkar. Hefði það átt að vera á annan veg því Hafnarfjörður leitar eftir makaskiptunum og ætti Garðabær því að bera hærri hlut,” sagði Sigurður.
Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi.
Annar íbúi minnti á hið fræga dæmi er Hafnarfjörður fékk Straumsvík frá Garðabæ í skiptum fyrir kálgarðaland nálægt Garðabæ.
Sigurður Gíslason minnti á að í ýmsum lóðaskiptum kaupstaðaryfirvalda og landeiganda væri fyrirfram um það samið að bæjarfélag gerði skipulag og legði götur um landeigendur sæju um sölu ákveðins lóðafjölda i staðinn fyrir afsal annarra. Um slíkt hefði ekkert verið rætt nú enda litið sem ekkert um málin rætt við landeigendur.“
Í annarri grein undir fyrirsögninni „Makaskiptin flýta fyrir skipulagi í Setbergslandi“ segir bæjarstjóri Garðabæjar makaskiptin skynsamlega ráðstöfun.
Hafnarfjörður – landamerkjastöpull efst á Setbergshamri.
„Við höfum átt fund með bæjarstjóra Hafnarfjarðar og eigendum Þórsbergs og Setbergsfjölskyldunni. Við höfum lagt áherzlu á að svæðin sem Garðabær lætur af hendi fái hitaveitu og aðra þjónustu fljótt. Einhver vandkvæði eru á framkvæmdum hjá hitaveitunni, en makaskiptin flýta alla vega fyrir framkvæmdum hvað varðar skipulag og fleira á þeim svæðum, sem nú tengjast Hafnarfirði,” sagði Garðar Sigurgeirsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Garðar taldi makaskiptin mjög hagstæð Garðabæ. „Í stað afmarkaðs skika úr Garðabæ sem í eru snarbrattar hlíðar, byggð svæði og ekkert sambærilegt byggingarland við það sem Garðabær fær í staðinn,” sagði hann.
Hafnarfjörður – landamerkjastpullinn á Setbergshamri; merkið hefur verið fjarlægt.
Hann taldi að önugt hefði verið fyrir Garðabæ að þjóna þeim hverfum sen nú fara til Hafnarfjarðar. Minnst tveir áratugir hefðu liðið þar til þjónusta hefði þar verið komin fyrir frumkvæði Garðabæjar. Þá dreifðu byggð sem nú er á þeim svæðum sem Hafnarfjörður fær vantar ákveðið skipulag og hitaveita er ekki lögð í svo dreifða byggð. Sömu erfiðleikar hefðu því verið áfram ríkjandi þarna ef Garðabær hefði áfram átt að sjá um málin. Ljóst þarf að vera hve margt fólk kemur til með að byggja óbyggð svæði áður en hitaveita og annað er þar lagt. Þess vegna er nauðsyn á skipulagi og framkvæmdum og landeigendur ættu að vera betur settir með það í höndum Hafnarfjarðar.
Garðar hvað nýju landamerkjastólpana ekki setta upp með vitund bæjarstjórnar Garðabæjar og harmaði að ekki skyldi samráð haft við landeigendur um þá framkvæmd. Þar hefði að verki verið verkfræðingur frá Skipulagi ríkisins.
Garðar kvað það ekki undarlegt að Garðahær skyldi minnka en Hafnarfjörður stækka. Allur Hafnarfjörður væri byggður úr landi Garðabæjar og Garðahrepps. Ekki skipti höfuðmáli, þó sama jörðin væri í tveimur lögsagnarumdæmum. Það væri jú allt eitt svæði sem þessir kaupstaðir skiptu með sér um að skipuleggja. Breytingin yrði að teljast skynsamleg.
Varðandi framkvæmdir á hinum nýju svæðum Hafnarfjarðar í Setbergslandi og útjörðum Setbergs kvaðst Kristinn ekki vilja lofa neinu, „en það verður þegar farið að huga að framtíðarskipulagi og byggð þessara svæða og miklu eðlilegra að ætla að Hafnarfjörður geti lokið því verki mun fljótar en Garðabær.
„Við munum stuðla að því að einhverjar bráðabirgðaráðstafanir verði gerðar með hitaveitu á nýju svæðin og það verður reynt að stuðla að því að þær framkvæmdir verði gerðar svo fljótt sem unnt er,” sagði bæjarstjórinn.“ -ASt
Í erindi bæjarstjóra Hafnarfjarðar 3. apríl 1978 segir m.a. um framangreint: „Á undanförnum árum hafa fulltrúar Garðabæjar og Hafnarfjarðar rætt breytingar á lögsagnarumdæmismörkum bæjarfélaganna. Fyrir milligöngu skipulagsstjóra ríkisins, Zóphóníasar Pálssonar, og að hans tillögu hafa sveitarstjórnirnar gert með sér samning, fskj. nr. 1, sbr. samþykkt bæiarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóv. 1977, fskj. nr. 2, og samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. nóv. s.l., fskj. nr. 3, um breytingu á lögsagnarumdæmismörkum sveitarfélaganna, sbr. og uppdrátt, fskj. nr. 4, sem sýnir hin nýju mörk sveitarfélaganna milli Engidals og Lækjarbotna eins og sveitarstjórnirnar hafa kornið sér saman um að þau verði m.a. (með vísan til nefndu landamerkjastöplanna):
Í frumvarpi til laga árið 1971 um „breyting á lögum nr. 46, 16. apríl 1971, um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar“ segir um framangreindar „landamerkjasúlur“:
13. Hnit X 22.094,89, Y 10.079,01 (steyptur stöpull í hraunjaðrinum milli Kaplakrika og Stórakróks).
14. Hnit X 22.110,63, Y 9,534.19 (steyptur stöpull efst á Setbergshamri).
15. Hnit X 21.657,44, Y 8.850,84 (steyptur stöpull efst á Fjárhúsholti).
10. Hnit X 21.590,11, Y 8.417,44 (steyptur stöpull á Norðlingahálsi, norðan vegar).
17. Hnit X 21.903,84, Y 7.972,13 (steyptur stöpull við gömlu landamerkjalínuna í Moshlíð, um 250 m sunnan Elliðavatnsvegar).
Hnit eru í hnitakerfi Reykjavíkur frá 1951.
Af framangreindum fimm steinstólpum á umdæmismörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1978 standa þrír enn. Merkið á einum þeirra, þ.e. á Setbergshamri, hefur verið fjarlægt, væntanlega í framhaldi af uppákomu þess tíma.
Umfjöllun Fjarðarpóstsins.
Í Fjarðarpóstinum 15. september 2005 má lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Garðabær hefur aldrei greitt fyrir Molduhraun„.
„Í ljós hefur komið að samningur sem bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Garðarbæjar gerðu sín á milli, hafa aldrei verið samþykktir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Því hefur aldrei verið veitt afsal fyrir 33 ha. svæði merkt B (grátt svæði) úr landi Hafnarfjarðar skv. umræddum samningi ódagsettum í mars 1978.
Svæði þetta er í landi Garðakirkju sem Hafnarfjarðarbær keypti árið 1913 og sést að hlut á myndinni hér að neðan. Þar má sjá, sem og í lögum um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar síðast frá 1964 að mörk eru m.a. frá vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (við Engidal) og í Hádegishól (rétt aftan við Fjarðarkaup) og í Miðaftanshól sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti. Þaðan liggja svo mörkin í vörðu í Stórakrók.
Landsspildan, sem um ræðir, er merkt B á uppdrættinum.
Skv. teikningu hér til hliðar nær umrætt 33 ha. svæði, sem Hafnarfjörður ætlaði að láta Garðabæ fá, ekki að Miðaftanshól og munar þar um 8 ha. ef tillit er tekið til að gráa svæðið nær út fyrir forn eignarmörk Hafnarfjarðar.
Þar sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur framkvæmt eins og samningurinn hafi verið staðfestur telur Guðmundur Benediktsson, bæjarlögmaður að samningurinn standi en eðlilegt væri að meta verðmæti landsins miðað við verðlag ársins 1978 og uppreikna með vísitölu. Hins vegar er ljóst að um 8 ha. lands eru utan þessa samnings og Hafnarfjarðarbær getur því selt það land á markaðsvirði nú sem er mun hærra en á verðlagi ársins 1978.“
Sjá einnig umdæmismörk Hafnarfjarðar frá 1908.
Heimildir:
-Dagblaðið 7. apríl 1978, bls. 8.
-https://timarit.is/page/3075930?iabr=on#page/n7/mode/2up
-https://www.althingi.is/altext/99/s/pdf/0514.pdf
-Fjarðarpósturinn 15. september 2005, bls. 6.
Hafnarfjörður – umdæmismörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar í Kaplakrika.
Dyrnar og Sporhellan
Í „Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu II“ frá árinu 1997 er m.a. fjallað um Dyrnar í Dyradal og Sporhelluna ofan Sporhelludala norðan Henglafjalla. Um Dyrnar segir:
Dyradalur.
„Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn, segir í örnefnalýsingu. Dyradalur er í landi Nesja en Dyrnar sjálfar, sem eru austanmegin í dalnum, munu vera í Nesjavallalandi. Þær eru skammt norðan við Nesjavallaveginn sem liggur um brekkuna ofan við þær og um þær liggur merkt gönguleið.
Dyrnar eru 15-20 m háar og aðeins um 2 m breiðar þar sem þær eru þrengstar vegna hruns, en víðast um 5-6 m. Austan við skarðið hefur hrunið mikið í það. Vestan við Dyrnar sjást reiðgötur sem beygja til suðurs með austurhlíð Dyradals og virðast stefna upp í fjallshlíðina hinumegin í dalnum, talsvert sunnar en vikið sem Nesjavallavegurinn liggur um.“
Dyrnar í Dyradal.
Um Sporhelluna segir:
„Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Α segir í örnefnalýsingum. Sporhellan er fleiri en ein, en dýpstar og lengstar eru rásirnar fyrir botni Sporhelludals, en þar norðan og vestan við eru líka rásir á nokkrum stöðum.
Sporhellan – Vatnsstæðið fjær.
Vegurinn hlykkjast um dalshlíðar og skorninga, ýmist um grasmóa eða berar móbergsklappir og á þeim hafa rásirnar myndast. Sporhellan er á leið sem er framhald leiða til austurs. Víðast er aðeins ein rás en á nokkrum stöðum hafa þær kvíslast. Alls eru rásirnar 175 m langar, á 5 stöðum á um 500 m bili. Að vestan eru kaflarnir 112 m, 34 m, 8 m, 19 m og 2 m austast. Rásirnar eru víðast 20-30 cm breiðar í botninn og 10-40 cm djúpar.“
Í „Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi“ er einnig fjallað um Dyraveg og Sporhelluna:
Sporhellan – Skeggjadalur fjær.
„Suður úr Foldadölum eru smáskörð og lyngmóar vestan við svokallaða Skriðu, sem er upp af miðdalnum. Þá er komið á Dyraveg, sem er þar suður úr og inn í Dyradal, sem er allur í Nesjalandi. Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn.“ segir í örnefnalýsingu. „Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur.“ „Við vesturendann á Háhrygg liggur Dyravegur. […] Dyravegur lá í gegnum [Litluvelli].“ Dyravegur er merkt gönguleið eftir dalnum og upp að dyrunum í Nesjavallalandi. Dyrnar sjálfar eru í Nesjavallalandi. Frá dyrunum er 4,5 km í Botnadal og 3,6 km. að Nesjavöllum.“
Sporhellan.
Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.
Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir.
Sporhellan.
Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.
Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.
Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.
Sporhellan.
Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.
Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”
Skeggjadalur.
Í Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli eftir Guðmund Jóhannsson segir: „Þar suðvestur af [Hellu] er Dyradalshnjúkur og Dyradalur. Austast í honum eru Dyrnar, milli tveggja hamraveggja. Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Upp af þeim er Skeggjadalur og Skeggi. Suðaustur af Skeggjadal er Kýrdalshryggur, hár melhryggur með móbergi að vestan.
Dyradalur.
Þar suður upp við Hengilinn er Kýrdalur. Þar var áður heyjað. Þar norður af heita Hryggir. Austur á þeim er Miðaftanshnúkur, eyktamark frá gamla bænum á Nesjavöllum.
Norðaustan í Hryggjum eru Rauðuflög. Þar lá lestavegur um þau til Dyradals.
Norður af Rauðuflögum er Svínahlíð. Þar upp af Háhryggur. Vestur af honum eru Sporhelludalir (norður af Sporhellu), grasgrónir dalbotnarnir.“
Dyrakambur.
Í skrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti; „Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann„, segir: „Hengillinn er stórt og hátt fjall. Hæsti hnúkur hans er nefndur í daglegu tali Vörðu-skeggi. Vestan í Henglin[um] er Marardalur, er hann neðan undir Vörðuskeggja. Vestan dalsins er fellið Þjófahlaup. Norðvestur frá Marardal eru Grashólar. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður frá honum kemur (svo) Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur. Hjá Dyravegi er Dyradalshnúkur. Norðan við hann eru Folaldadalir. Vestan við Folaldadali er Sköflungur. Í vesturenda hans er Eggin.“
Heimildir:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu II: Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Árbæjarsafn (Fornleifastofnun Íslands 1997).
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, 2018.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjar.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli – Nesjavellir eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann; skráð hefur Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
kort_Hengill-50-2022
Stekkjarkot – Kirkjuvogur – Kotvogur
Haldið var að Stekkjarkoti í Njarðvíkum.
FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.
Stekkjarkot var byggt 1855. Jón og Rósa bjuggu þar í u.þ.b. hálfa öld. Eignuðst þau þrjár dætur. Kotið var tómthús og grasbýli og dæmigert fyrir slík býli á 19. öld, en jafnframt var róið til fiskjar eins og títt var um útvegsbændur við ströndina. Síðast var búið í kotinu til 1924, en þá fór það í eyði. Jón var frá Vatnsleysuströnd, en er hann hugðist kvænast Rósu var hann gerður arflaus eftir föður sinn. Hann valdi ástina. Mikil umferð ferðamanna var um Stekkjarkot, en þar stöldruðu þeir við áður en þeir héldu yfir Fitjarnar, sandleirurnar, sem áður gátu verið mikill farartálmi á leiðinni um Njarðvíkur. Brunnur er norðan við túngarðinn í Stekkjarkoti og gömul tóft suðaustan við það. Kotið var endurbyggt fyrir nokkrum árum og er nú safn.
Brunnur við Stekkjarkot.
Fitjakot var norðvestar, en það fór í eyði vegna ágangs ferðamanna, en hestar þeirra hreinlega átu upp túnin og þar með fólkið út á gaddinn.
Á vefsíðu Reykjanesbæjar segir um Stekkjarkot: „Hvernig skyldu menn hafa búið hér áður fyrr, fyrir daga bárujárnshúsa og áður en íslenska steinsteypuöldin gekk yfir.
Stekkjarkot er endurgerð á hefðbundinni þurrabúð eins og þær voru kallaðar og voru algengiar hér í eina tíð.
Stekkjarkot.
Þeir sem bjuggu í þurrabúð máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.
Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.“
Stekkjarkot – útihús.
Á Safnavef Reykjanesbæjar segir: „Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992.
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.
Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.
Stekkjarkot.
Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.
Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.
Í Stekkjarkoti.
Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.
Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi.“
Þá var haldið í Hafnir, Kirkjuvog og Kotvog.
Hafnir sunnan Ósabotna, var mikill útgerðarstaður hér áður fyrr. Kirkjan í Höfnum, Kirkjuvogskirkja, var byggð 1861. Það var Vilhjálmur Kr. Hákonarson, sem lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Sagt er að hún hafi kostað 300 kýrverð. Hún er timburkirkja og var upphaflega bikuð að utan með hvítum gluggum. Handan við kirkjuna hefur verið grafinn upp skáli, sem talinn er geta hafa verið frá landnámstíð.
Kirkjuvogskirkja 1970.
Löngu síðar var hún svo múrhúðuð að utan og ljósmáluð. Á árunum 1970-72 var kirkjan endurreist frá grunni og færð til upprunalegs horfs undir umsjón þjóðminjasafns Við Reykjanesveginn í Höfnum er akkeri mikið landmeginn vegarins við björgunarstöðina. Akkerið er af skipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í Ósabotna 1870.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.
Kotvogur og Kirkjuvogur.
Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði og á vindfána kirkjuturnsins. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna.
Séra Oddur V. Gíslason.
Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur á Stað í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.
Kotvogur.
Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón.
Kotvogur.
Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið , uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins.
Sandgræðslugirðing ofan Hafna.
Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu
Gríðarlega stórt tréskip, hlaðið timbri, á land nálægt þar sem heitir Hvalsnes á milli Þórshafnar (verslunarhöfn á 19. öld) og Hestakletts nokkru norðan Ósa og gegnt þorpinu. Skipið, sem hét Jamestown og var frá Maine í Bandaríkjunum, rak að landi mannlaust og var auðséð að það hafði verið lengi á reki. Þetta gerðist að morgni hvítasunnudags þann 26. júní 1881. Skipið, sem var þrímastrað og þriggja þilfara, var sagt tröllaukið að stærð.
Annað ankeri Jamestown í Höfnum.
Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við fyrrum Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni.
Heimildir m.a.:
-leo.is
-https://visitreykjanesbaer.is/upplifun/stekkjarkot/
-https://sofn.reykjanesbaer.is/byggdasafn/vidburdir/Stekkjarkot-2
Stekkjarkot.
Dalurinn – Hellishraunsskjól – eyðilegging II
Í Fjarðarpóstinum 2. mars 2023 er m.a. fjallað um „Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti – Minjastofnun með málið í skoðun„.
Fjárskjólið í Dalnum 2019.
„Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar. Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsingarnar á síðustu öld.
Dalurinn – fjárskjól; ratleikjaspjald 2021.
Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleikskortið þar sem fjárskjólið er merkt. Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.
Við skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.
Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“
Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minjastofnunar hafi ekki komist til skila í
skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.
Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna byggingaframkvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“
Í pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.
Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu. Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamelsnámurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.
Fjárskjólið í Dalnum 2023.
Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjarlandinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrirhugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.“
FERLIR fjallaði um eyðileggingu fjárskjólsins, sjá HÉR. Einnig hafði verið fjallað um fjárskjólið á vefsíðunni mörgum árum fyrr, bæði HÉR og HÉR.
Svar Hafnarfjarðarbæjar við eyðileggingunni.
Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: „Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi„, segir: „Í bréfi frá Minjastofnun dags. 2. mars s.l. er óskað eftir frekari upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess að minjar sem stofnunin benti á í bréfi sínu dags. 20. júlí 2020 að þyrfti að taka tillit til í deiliskipulagsvinnu hefðu verið eyðilagðar. Bréf frá því 2020 var sent vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Hamraneshverfis.
Umhverfis- og skipulagssvið harmar að fornminjarnar hafa verið eyðilagðar og engar afsakanir til sem réttlæta það, þarna er um mannleg mistök að ræða.
Skipulag í Hamraneshverfi var unnið með óhefðbundnum hætti. gert var rammaskipulag þar sem svæðið var reitað niður og reitunum var úthlutað til verktaka og þeir sáu síðan um að deiliskipuleggja sinn reit og byggja. Götur og lagnir voru lagðar í samræmi við rammaskipulagið. Þessi vinnubrögð verða ekki reynd aftur þar sem margt hefur gengið á og farið úrskeiðis og flækjustig eru mörg.
Fjárhellirinn í Dalnum.
Í deiluskipulagi sem nú er í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun er gerð grein fyrir gatnakerfi, stígum og stofnanalóðum hverfisins og það varð út undan þegar úthlutaðir reitir voru deiliskipulagðir. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á lóðinni Hringhamri 16 verði grunn- og leikskóli. Áður en deiliskipulagsvinna þessi hófst var búið að ákveða að leggja lögn þvert á lóðina. Við þá vinnu voru minjarnar eyðilagðar. Um er að ræða regnvatnslögn sem á að miðla vatni innan lóðarinnar.
Framkvæmdarleyfi fyrir gatna- og lagnavinnu í Hamraneshverfi var gefið út af skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 3. mars 2021.
Því miður láðist að merka þessar minjar inn á kortagrunna sveitarfélagsins sem og inn á aðalaskipulagið með þeim afleiðingum sem nú er raunin.“ – Anna Margrét Tómasdóttir, Verkefnastjóri
Dalurinn – fjárskjólið.
Í bréfi Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: „Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi„, segir: „Í tölvupósti 11. apríl 2023 óskar Anna Margrét Tómasdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði hafnarfjarðarbæjar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um ofangreinda deiliskipulagstillögu. Fylgigagn var skipulagsuppdráttur dagsettur í janúar 2023. Fornleifaskráning liggur fyrir á svæðinu; Heiðrún Eva Konráðsdóttir: Hafnarfjörður, Hamranes. Fornleifaskráning vegna deiliskipulags (Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019). Fornleifaskráin er fullnægjandi fyrir afgreiðslu deiliskupulagsins, sbr. 16. gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt henni eru einar skráðar minjar á skipulagssvæðinu, fjárskýli nr. 2061-1, sem er fyrirhleðsla við hraunhelli.
Bréf Minjastofnunar.
Með bréfi dagsett 30 júlí 2020 gaf Minjastofnun umsgögn um ofangreint svæði vegna breytinga á aðalskipulagi. var þá vakin athygli á þessum minjum, að gæta þyrfti að þeim við frekari deiliskupulagsvinnu. Deiliskipulagið var hins vegar ekki sent til umsagnar Minjastofnunar á auglýsingatíma þess, Þann 23. febrúar 2023 fékk Minjastofnun svo ábendingu um að friðaðar minjar í Hamranesi hefðu verið eyðilegðar og reyndist það vera ofangreint fjárskýli. Eftir að tilkynnt var um málið fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að athuga um ástand minjanna. Ljóst er að minjarnar hafa verið eyðilagðar vegna framkvæmda á svæðinu og er það mat stofnunarinnar að þær verði ekki lagaðar eða komið í fyrra horf. Í kjölfarið óskaði Minjastofnun Íslands eftir skýringum hjá Hafnarfjarðarbæ, með bréfi dagsett 2. mars 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess atviks. Svar Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi dagsett 17. mars 2023. Minjastofnun telur skýringar sem þar eru raktar fullnægjandi og er ljóst að um mannleg mistök er að ræða. Mikilvægt er að tryggja að gott verklag komi í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíðinni. Með bréfi þessu er friðun minjanna (fjárskýlis nr. 2061-1) aflétt, sbr. 25. hr. laga um menningarminjar, þar sem segir: „Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga“. Fyrirliggjandi skráning minjanna telst fullnægjandi rannsókn.
Minjastofnun Íslands hefur ekki frekari athugasemdir við ofangreint deiliskipulag.“ – Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness
Þór Hjaltalín.
Í svari Þórs Hjaltalíns við fyrirspurn fréttastjóra Fjarðarfrétta dags 23. ágúst 2023 kemur eftirfarandi fram:“Sæll Gísli. Verkferlar og samskipti eru hér í stöðugri þróun og skoðun til að lágmarka hættuna á að minjar skemmist af vangá, en ef það gerist er það auðvitað áminning til okkar allra.
Eins og rakið er í bréfi bæjarins var skipulagið fyrir Hamraneshverfið unnið með óhefðbundnum hætti (rammaskipulag), sem reyndist illa og segjast þau hverfa frá þeim vinnubrögðum í framtíðinni, sem er vel.
Ef minjar eru skemmdar, þá kemur vissulega til álita að kæra. Eftir að hafa farið yfir málið hér innanhúss varð niðurstaðan hins vegar sú að reyna að laga vinnubrögð/samskipti þannig að slys af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Við eigum í reglulegum samtölum við byggingar- og skipulagsfulltrúa hringin í kringum landið sem miða að því að tryggja vernd menningarminja og það á við um Hafnarfjarðarbæ eins og önnur sveitarfélög. Nú liggur fyrir vönduð heildarskráning minja í Hafnarfirði og stöndum við því mun betur að vígi varðandi vernd fornleifa en við gerðum fyrir örfáum árum síðan. En það kom því miður ekki í veg fyrir að þessar minjar skemmdust. Slík mál lítum við ávallt alvarlegum augum og eins og ég nefndi verður reynt að bæta vinnlag til að lágmarka hættuna á slíkt endurtaki sig.“
Guðni Gíslason, fréttastjóri Fjarðarfétta.
Viðbrögð fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta voru:
„Sæll og takk fyrir svarið.
Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?
Já, mannleg mistök, þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hefði verið upplýst sérstaklega um minjarnar af Minjastofnun og að þær hafi verið skráðar fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar. Forstöðumanni Byggðasafns var bent á að minjarnar væru ekki inn á minjakorti Hafnarfjarðar á map.is en hann gerði ekkert í því.
Það varð til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sáu minjarnar ekki á minjakorti.
Minjarnar höfðu verið í Ratleik Hafnarfjarðar þar sem bæjarstjóri fékk fyrsta kortið.
Er hægt að kalla þetta mistök? Ef svo er getum við búist við að miklu fleiri minjar hverfi.“
Með góðri kveðju,
Guðni Gíslason, útgefandi/ritstjóri
FERLIR sendi Minjastofnun eftirfarandi fyrirspurn í ágústmánuði s.l.: „Sæl, getið þið upplýst um hver voru viðbrögð Minjastofnunar við svari Hafnarfjarðarbæjar v/fyrirspurn hennar um eyðileggingu fjárskjóls í Dalnum norðan Hamraness s.l. vor?“ Minjatofnun hefur ekki talið ástæðu til svara.
FERLIR tekur undir svör fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta. Viðbrögð og svör minjavarðar Reykjaness[kaga] verða að teljast sérstaklega léttvæg í ljósi eyðileggingar fornminja í umdæmi Hafnarfjarðar þar sem fyrir lá staðfest vitneskja um þær þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Ljóst er að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið vanhæft til verka, en skýringar á misferlinu er að hluta til við stofnunina að sakast. Strax þegar fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu hefði átt að merkja þekkt minjasvæðið til að koma í veg fyrir eyðilegginguna, en það var ekki gert. Þá verður að telja viðbrögðin harla máttlaus í ljósi þeirra verðmæta, sem stofnunni ber að vernda, en aðrir komast upp með því að raska með þeirri einni afsökun að um „mannleg mistök“ hafi verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir um minjarnar. „Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?“ Þessi dæmalausu viðbrögð eru fordæmi til framtíðar? „Minjastofnun telur skýringar sem að framan eru raktar fullnægjandi vegna þess að um mannleg mistök hafi verið að ræða“. Ljóst er að Minjastofnun þarf að líta sér nær þegar kemur að málum sem þessu.
Fjárskjólið í Dalnum 2002.
Í Lögum um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní segir m.a. í 23. gr. laganna: „Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða. Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.“
Þá segir í 25. gr.: „Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.“ Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir affriðun þegar um eyðilagðar fornleifar er að ræða, enda er það ekki hlutverk Minjastofnunar að fyrirgefa skemmdarvörgum eða veita þeim syndaaflausn, líkt og tíðkaðist fyrrum í kaþólskri trú.
Heimildir:
-Fjarðarpósturinn 2. mars 2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi, bls. 10.
-Bréf Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi.
-Bréf Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi.
-Lög um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní.
Hellishraunsskjólið fyrrum.
Landamerkjastöplar milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar
Í Dagblaðinu í apríl 1978 er m.a. fjallað um skiptar skoðanir á nýsamþykktum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar, sem síðar urðu grundvöllur að uppbyggingu íbúabyggðar í landi Setbergs. Áður hafði Hafnarfjarðabær vaxið með eignarnámi nálægra jarða, en að þessu sinni var sú aðferð valin að nágrannasveitarfélög kæmu sér saman um breytingar á umdæmismörkum þvert á einstakar jarðir.
Setberg 1959.
Í blaðinu mátti t.d. lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ný landamerki Hafnarfjarðar — steypt upp á eignarlöndum án samráðs„: „Fjórir steinstólpar með ígreyptum koparskjöldum hafa nú verið settir upp á nýjum „landamærum” Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Er uppsetning þeirra i samræmi við samkomulag bæjarstjóra beggja bæjanna um makaskipti á landsvæði.
Merki á „landamerkjastöpli“ millum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1956.
Hið undarlega er að steinstólparnir hafa verið settir upp í eignarlöndum einstaklinga án þeirra leyfis og þykir íbúum og eigendum þess lands sem Garðabær nú afsalar Hafnarfirði einkennilega að málum staðið og lítil samráð við þá höfð þó ákvörðunin geti haft viðtæk áhrif á framvindu eignarréttar þeirra á lóðum og löndum. Við makaskiptin sem bæjarstjórnirnar hafa samþykkt fær Hafnarfjörður 109 hektara lands sem tilheyrt hafa Garðabæ. Garðabær fær í staðinn 33 hektara lands í hrauni milli kaupstaðanna.
Við makaskiptin lendir um fjórðungur jarðarinnar Setbergs í landi Hafnarfjarðar en um 75% jarðarinnar verður áfram í Garðabæ. Um 85—90% jarðarinnar Þórsbergs, sem byggð er úr landi Setbergs, lendir nú í Hafnarfirði. Stór hluti jarðarinnar Hlébergs, sem einnig er byggð úr landi Setbergs lendir einnig í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Þá lenda og ýmsar húsalóðir i einkaeign í landi Hafnarfjarðar.
Hafnarfjörður – Setberg 1983.
Íbúum og eigendum jarðanna þykir undarlegt að steypa ný landamerki án heimildar og vitneskju landeigenda og það áður en tillagan um makaskiptin er lögð fram á Alþingi en þar verður hún að hljóta samþykki áður en landamærabreytingin er lögleg. Ótti eigenda og ábúenda jarðanna sem lenda í Hafnarfirði stafar kannski ekki sízt af því að þeir óttast að fasteignagjöld hækki nú verulega, og jafnvel svo að eigendum verði gert ókleift að eiga áfram lönd sín, en jafnframt að löndin verði ekki seljanleg nema á venjulegu matsverði óbyggðra og óskipulagðra landsvæða, sem er aðeins hluti af því gjaldi sem lagt er til grundvallar fasteignagjalda á skipulögðu landi.
DB ræddi málin við nokkra aðila og fylgja umsagnir þeirra hér með.
Undir fyrirsögninni „Íbúar og landeigendur hissa á leynimakkinu með makaskiptin“ segir einn íbúi í Setbergslandi og skipulagsnefndarmaður í Garðabæ: „Ein af steinsúlunum fjórum sem steyptar voru í eignarlönd án vitundar landeiganda og löngu áður en tillaga um málið er komin fram á Alþingi.
Það einkennilega við makaskipti kaupstaðanna á landeignum er að um þau hefur ekki verið fjallað i skipulagsnefnd Garðabæjar,” sagði Sigurður Gíslason arkitekt, íbúi í Setbergslandi og nefndarmaður i skipulagsnefnd Garðabæjar.
Landamerkjastöpull á norðanverðu Norðlingaholti.
„17. nóvember var lagt fram á bæjarstjórnarfundi í Garðabæ bréf frá skipulagsstjóra dagsett tveimur dögum áður ásamt drögum um lögsagnarumdæmisskipti. Þar lagði bæjarstjóri fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra að ræða framgang málsins við fulltrúa Hafnarfjarðar“. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Fulltrúi Alþýðubandalagsins sat hjá og lét bóka að hann teldi rétt að ekki aðeins landeigendum heldur og íbúum svæðanna er afsala átti yrði gerð grein fyrir gangi mála áður en lengra væri haldið.”
Merki á landamerkjastöplinum á Norðingaholti.
Sigurður sagði að í lok marz sl. hefði einhverjum af eigendum Setbergs og e.t.v. Þórsbergs verið skýrt frá málum. Var þá talað um að samhliða breytingunni fengju þessar jarðir hitaveitu og skolp frá Hafnarfjarðarbæ. Í viðræðum landeigenda síðar við yfirvöld í Hafnarfirði muni hins vegar hafa komið fram að það fæst ekki fyrr en svæðið byggist upp.
Taldi Sigurður að upplýsingar til eigenda væru mjög takmarkaðar og þeir fréttu utan að sér um framgang mála. Svartast hefði verið að Hafnarfjarðarbær lét steypa stjóra með landamerkjum án samráðs við landeigendur þar sem landamerkin voru steypt niður. Hefð væri að setja niður mælipunkta en mannvirki sem þessi væri einsdæmi að reisa án samþykkis landeigenda. Sigurður sagði að síðustu tvenn eða þrenn makaskipti bæjanna væru óuppgerð.
Hafnarfjörður – landamerkjastöpull á Fjárhúsholti.
Hafnarfjörður hefði i öll skiptin tekið stærra land en átti að vera i skiptunum. Garðabæ hefði því vantað um 15—25 hektara til jöfnunar eftir því hvernig á málin væri litið.
Nú átti að jafna málin, sagði Sigurður. En staðreynd er að Garðabær fær 33 hektra í hrauni þar sem bæjarmörk voru óljós og Garðabær fær því að hluta til eitthvað af landi sem hann mun sennilega hafa átt fyrir. Hafnarfjörður fær í staðinn 109 hektara lands þar sem er fallegt byggingaland, sagði Sigurður.
Hafnarfjörður – merki á landamerkjastöpli á Fjárhúsholti.
Þetta er réttlætt með því að Garðabær fái mjög gott byggingarland, en í 109 hekturunum sem Hafnarfjörður fær séu hlíðar, þegar uppbyggt svæði og eignarland,“ sagði Sigurður. „Ef frá er dreginn fyrri mismunur makaskipta sem var Hafnarfirði í vil um minnst 15 hektara, fær Garðabær nú 18 hektara fyrir 109. Er það á sama vegg og áður Hafnarfjörður stækkar en Garðabær minnkar. Hefði það átt að vera á annan veg því Hafnarfjörður leitar eftir makaskiptunum og ætti Garðabær því að bera hærri hlut,” sagði Sigurður.
Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi.
Annar íbúi minnti á hið fræga dæmi er Hafnarfjörður fékk Straumsvík frá Garðabæ í skiptum fyrir kálgarðaland nálægt Garðabæ.
Sigurður Gíslason minnti á að í ýmsum lóðaskiptum kaupstaðaryfirvalda og landeiganda væri fyrirfram um það samið að bæjarfélag gerði skipulag og legði götur um landeigendur sæju um sölu ákveðins lóðafjölda i staðinn fyrir afsal annarra. Um slíkt hefði ekkert verið rætt nú enda litið sem ekkert um málin rætt við landeigendur.“
Í annarri grein undir fyrirsögninni „Makaskiptin flýta fyrir skipulagi í Setbergslandi“ segir bæjarstjóri Garðabæjar makaskiptin skynsamlega ráðstöfun.
Hafnarfjörður – landamerkjastöpull efst á Setbergshamri.
„Við höfum átt fund með bæjarstjóra Hafnarfjarðar og eigendum Þórsbergs og Setbergsfjölskyldunni. Við höfum lagt áherzlu á að svæðin sem Garðabær lætur af hendi fái hitaveitu og aðra þjónustu fljótt. Einhver vandkvæði eru á framkvæmdum hjá hitaveitunni, en makaskiptin flýta alla vega fyrir framkvæmdum hvað varðar skipulag og fleira á þeim svæðum, sem nú tengjast Hafnarfirði,” sagði Garðar Sigurgeirsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Garðar taldi makaskiptin mjög hagstæð Garðabæ. „Í stað afmarkaðs skika úr Garðabæ sem í eru snarbrattar hlíðar, byggð svæði og ekkert sambærilegt byggingarland við það sem Garðabær fær í staðinn,” sagði hann.
Hafnarfjörður – landamerkjastpullinn á Setbergshamri; merkið hefur verið fjarlægt.
Hann taldi að önugt hefði verið fyrir Garðabæ að þjóna þeim hverfum sen nú fara til Hafnarfjarðar. Minnst tveir áratugir hefðu liðið þar til þjónusta hefði þar verið komin fyrir frumkvæði Garðabæjar. Þá dreifðu byggð sem nú er á þeim svæðum sem Hafnarfjörður fær vantar ákveðið skipulag og hitaveita er ekki lögð í svo dreifða byggð. Sömu erfiðleikar hefðu því verið áfram ríkjandi þarna ef Garðabær hefði áfram átt að sjá um málin. Ljóst þarf að vera hve margt fólk kemur til með að byggja óbyggð svæði áður en hitaveita og annað er þar lagt. Þess vegna er nauðsyn á skipulagi og framkvæmdum og landeigendur ættu að vera betur settir með það í höndum Hafnarfjarðar.
Garðar hvað nýju landamerkjastólpana ekki setta upp með vitund bæjarstjórnar Garðabæjar og harmaði að ekki skyldi samráð haft við landeigendur um þá framkvæmd. Þar hefði að verki verið verkfræðingur frá Skipulagi ríkisins.
Garðar kvað það ekki undarlegt að Garðahær skyldi minnka en Hafnarfjörður stækka. Allur Hafnarfjörður væri byggður úr landi Garðabæjar og Garðahrepps. Ekki skipti höfuðmáli, þó sama jörðin væri í tveimur lögsagnarumdæmum. Það væri jú allt eitt svæði sem þessir kaupstaðir skiptu með sér um að skipuleggja. Breytingin yrði að teljast skynsamleg.
Varðandi framkvæmdir á hinum nýju svæðum Hafnarfjarðar í Setbergslandi og útjörðum Setbergs kvaðst Kristinn ekki vilja lofa neinu, „en það verður þegar farið að huga að framtíðarskipulagi og byggð þessara svæða og miklu eðlilegra að ætla að Hafnarfjörður geti lokið því verki mun fljótar en Garðabær.
„Við munum stuðla að því að einhverjar bráðabirgðaráðstafanir verði gerðar með hitaveitu á nýju svæðin og það verður reynt að stuðla að því að þær framkvæmdir verði gerðar svo fljótt sem unnt er,” sagði bæjarstjórinn.“ -ASt
Í erindi bæjarstjóra Hafnarfjarðar 3. apríl 1978 segir m.a. um framangreint: „Á undanförnum árum hafa fulltrúar Garðabæjar og Hafnarfjarðar rætt breytingar á lögsagnarumdæmismörkum bæjarfélaganna. Fyrir milligöngu skipulagsstjóra ríkisins, Zóphóníasar Pálssonar, og að hans tillögu hafa sveitarstjórnirnar gert með sér samning, fskj. nr. 1, sbr. samþykkt bæiarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóv. 1977, fskj. nr. 2, og samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. nóv. s.l., fskj. nr. 3, um breytingu á lögsagnarumdæmismörkum sveitarfélaganna, sbr. og uppdrátt, fskj. nr. 4, sem sýnir hin nýju mörk sveitarfélaganna milli Engidals og Lækjarbotna eins og sveitarstjórnirnar hafa kornið sér saman um að þau verði m.a. (með vísan til nefndu landamerkjastöplanna):
Í frumvarpi til laga árið 1971 um „breyting á lögum nr. 46, 16. apríl 1971, um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar“ segir um framangreindar „landamerkjasúlur“:
13. Hnit X 22.094,89, Y 10.079,01 (steyptur stöpull í hraunjaðrinum milli Kaplakrika og Stórakróks).
14. Hnit X 22.110,63, Y 9,534.19 (steyptur stöpull efst á Setbergshamri).
15. Hnit X 21.657,44, Y 8.850,84 (steyptur stöpull efst á Fjárhúsholti).
10. Hnit X 21.590,11, Y 8.417,44 (steyptur stöpull á Norðlingahálsi, norðan vegar).
17. Hnit X 21.903,84, Y 7.972,13 (steyptur stöpull við gömlu landamerkjalínuna í Moshlíð, um 250 m sunnan Elliðavatnsvegar).
Hnit eru í hnitakerfi Reykjavíkur frá 1951.
Af framangreindum fimm steinstólpum á umdæmismörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1978 standa þrír enn. Merkið á einum þeirra, þ.e. á Setbergshamri, hefur verið fjarlægt, væntanlega í framhaldi af uppákomu þess tíma.
Umfjöllun Fjarðarpóstsins.
Í Fjarðarpóstinum 15. september 2005 má lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Garðabær hefur aldrei greitt fyrir Molduhraun„.
„Í ljós hefur komið að samningur sem bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Garðarbæjar gerðu sín á milli, hafa aldrei verið samþykktir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Því hefur aldrei verið veitt afsal fyrir 33 ha. svæði merkt B (grátt svæði) úr landi Hafnarfjarðar skv. umræddum samningi ódagsettum í mars 1978.
Svæði þetta er í landi Garðakirkju sem Hafnarfjarðarbær keypti árið 1913 og sést að hlut á myndinni hér að neðan. Þar má sjá, sem og í lögum um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar síðast frá 1964 að mörk eru m.a. frá vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (við Engidal) og í Hádegishól (rétt aftan við Fjarðarkaup) og í Miðaftanshól sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti. Þaðan liggja svo mörkin í vörðu í Stórakrók.
Landsspildan, sem um ræðir, er merkt B á uppdrættinum.
Skv. teikningu hér til hliðar nær umrætt 33 ha. svæði, sem Hafnarfjörður ætlaði að láta Garðabæ fá, ekki að Miðaftanshól og munar þar um 8 ha. ef tillit er tekið til að gráa svæðið nær út fyrir forn eignarmörk Hafnarfjarðar.
Þar sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur framkvæmt eins og samningurinn hafi verið staðfestur telur Guðmundur Benediktsson, bæjarlögmaður að samningurinn standi en eðlilegt væri að meta verðmæti landsins miðað við verðlag ársins 1978 og uppreikna með vísitölu. Hins vegar er ljóst að um 8 ha. lands eru utan þessa samnings og Hafnarfjarðarbær getur því selt það land á markaðsvirði nú sem er mun hærra en á verðlagi ársins 1978.“
Sjá einnig umdæmismörk Hafnarfjarðar frá 1908.
Heimildir:
-Dagblaðið 7. apríl 1978, bls. 8.
-https://timarit.is/page/3075930?iabr=on#page/n7/mode/2up
-https://www.althingi.is/altext/99/s/pdf/0514.pdf
-Fjarðarpósturinn 15. september 2005, bls. 6.
Hafnarfjörður – umdæmismörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar í Kaplakrika.
Bessastaðir – Bessastaðakirkja I
Þann 19. september árið 1761 gaf Magnús Gíslason, amtmaður í Viðey, út eftirfarandi fyrirskipun: “Bændur þeir, 36 að tölu, sem eiga dagsverk að vinna um sláttinn á kóngsins garði, Bessastöðum, skulu hver sum sig hálfa dagsláttu eða svokallað fimm álna tún, að viðlagðri hæfilegri refsingu, sem sýslumaðurinn ber að annast.”
Gengið að Bessastöðum.
Í Öldinni okkar segir árið 1761: “Bygging stórhýsa úr höggnum steini er að hefjast á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn. Á Bessastöðum verður reistur embættisbústaður handa stiftamtmanninum, en í Nesi verður setur landlæknis og lyfjabúð.
Í hitteðfyrra var þegar tekið að losa grjót í Fossvogi í bygginguna á Bessastöðum, og var það flutt á gömlum sexæringi að lendingu þar, og í fyrra var byrjað að aka því heim á vagni, er hesti var beitt fyrir. Í sumar hefur fjöldi manna verið í efnisflutningum til Bessastaða, og tekið era ð grafa fyrir grunni hins nýja húss. Er það mikil vinna, því að grafið er átta eða níu álnir niður. Duggan Friðriksvon kom í vor með kalk í byggingarnar, og tveir múrar eru komnir til þess að vinna að steinsmíði og veggjagerð. Annar þeirra heitir Jóhann Georg Berger, en hinn Þorgrímur Þorláksson, íslenskur maður, er lært hefur iðn sína erlendis. Þeir eiga jöfnum höndum að vinna að báðum byggingunum, eftir því sem áfram miðar.
Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.
Næsta ár er von trésmiða. Nú í sumar lét Magnús Gíslason, amtmaður, einnig hefjast handa um undirbúning að byggingu typtunarhúss á Arnarhóli, enda þótt stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn hafi ekki formlega samþykkt, aðþað skuli byggt hér.. Til þessarar vinnu hafa verið setter fangar, en Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli, hefur með höndum umsjón og verkstjórn alla.”
Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum sló Noregskonungur eign sinni á staðinn, sem varð fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar.
Bessastaðir 1722.
Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820-1896), en hann fæddist þar. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Hann var eitt af sérkennilegustu skáldum og rithöfundum okkar á s.hl. 19. aldar. Eftir lát Gríms Tomsens voru Bessastaðir lengst af í eigu einstaklinga unz Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Rvík. gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Síðan hafa forsetar landsins haft aðsetur þar.
Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu og heilögum Nikulási. Um miðja 14. öld átti kirkjan þriðjung Bessastaðalands.
Frederick W.W. Howell, Bessastadakirkja 1900.
Þegar erlendir landstjórar settust þar að, áttu bændur kirkjuna, sló konungsvaldið eign sinni á hana. Afleiðingar þess voru síður en svo ásættanlegar og árið 1616 var hún komin í slíka niðurníðslu, að það varð að endurbyggja hana. Allar aðrar kirkjur landsins voru skattlagðar til að afla fjár til verksins. Nýja kirkjan var mjög falleg bygging en það hafði láðst að setja trébita í hana, svo að hún fauk í stormi tveimum árum síðar. Viðirnir voru notaðir til byggingar nýrrar kirkju með torfveggjum til að hún stæði af sér fárviðri.
Bessastaðir 1720.
Árið 1773 ákvað Kristján 7., Danakonungur, að reisa skyldi steinkirkju á Bessastöðum, þar sem hin gamla var úr sér gengin. Það er ekki að fullu ljóst hver hannaði hana, en líklega var það G.D. Anthon. Steinveggirnir voru byggðir utan um gömlu trékirkjuna, sem var síðan rifin. Veggirnir eru rúmlega 1m þykkir, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni, sem sést austan kirkjunnar. Steinarnir voru fluttir á flatbytnum eftir skurði að Lambhúsatjörn og yfir hana að byggingarstaðnum. Þetta var seinlegur byggingarmáti, svo að kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 1796. Eitt fyrstu embættisverka í kirkjunni var gifting ungs pars frá Reykjavík. Athöfnin fór fram í júlí 1796 að viðstöddum öllum fremstu mönnum þjóðarinnar.
Bessastaðir 1720.
Skömmu eftir aldamótin 1700 þarfnaðist kirkjan þegar viðhalds og þá var ákveðið að ljúka byggingu hennar, því að turninn vantaði. Því verki var lokið árið 1823. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli Bessastaði. Skólabókasafnið var á efri hæð kirkjunnar allan tímann, sem skólinn starfaði þar. Kirkjan varð aftur að bændakirkju árið 1867.
Fyrsti bóndinn, sem keypti Bessastaði 1768, var Grímur Thomsen. Kirkjan þjónaði þessu hlutverki til 1941, þegar Sigurður Jónsson gaf þjóðinni staðinn með því skilyrði, að þar yrði aðsetur þjóðhöfðingja landsins. Við þessar breyttu aðstæður var innviðum kirkjunni líka breytt talsvert á árunum 1945-47 og þannig sjáum við hana nú á dögum. Trégólf kom í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum.
Bessastaðakirkja – gluggi.
Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956 í tilefni sextugsafmælis Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins, sem átti reyndar þetta merkisafmæli tveim árum áður. Gluggarnir eru 8 talsins og listamennirnir voru Finnur Jónsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Fyrsti glugginn til vinstri sýnir komu papa (Finnur).
Á grátunum, sem eru úr smíðajárni, eru myndir postulanna. Þessar myndir minna líka á verndarvættir landsins, drekann, fálkann, nautið og risann, sem er að finna í skjaldarmerki landsins. Guðmundur og Finnur gerðu þær líka.
Í Bessastaðakirkju.
Stóri, útskorni krossinn á norðurveggnum (vinstri) er eftir Ríkarð Jónsson. Hann var áður altaristafla kirkjunnar, en var fyrst færður þaðan á vesturvegginn. Altaristaflan, sem kom í staðinn, kom af Þjóðminjasafninu 1921. Hún er máluð mynd af Kristi að lækna sjúka eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson).
Grafsteinn Magnúss Gíslasonar varalandstjóra (†1766) er í norðurveggnum í kórnum. Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Gagnger viðgerð á kirkjunni fór fram árið 1998.
Bessastaðakirkja 2023.
FERLIR hefur nokkrum sinnum fengið að líta fornleifar þær, sem varðveittar eru undir Bessastaðastofu, augum. Þær lýsa á áhrifaríkan hátt aðstæðum og aðbúnaði fólksins á Bessastöðum fyrr á öldum. Forsetaembættinu eru þakkaðar góðar móttökur.
Heimildir m.a.:
-nat.is
-alftanes.is
-Öldin okkar 1761-1800
Bessastaðir 1789.
Grindavíkurhellir – Dýrfinnuhellir
Gengið var um Grindavík og m.a. hugað að Grindavíkurhelli og Dýrfinnuhelli við Skipsstíg í Skipsstígshrauni. Áhugasömum Grindvíkingum var boðin þátttaka. Upphafsstaður var í Kúadal suðvestan við Hesthúsabrekku.
Kúadalur í Grindavík.
Við Kúadal er varða við gömlu leiðina frá Þórkötlustaðahverfi inn á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur. Frá henni var haldið yfir að Stamphólsgjá. Austan við gjána eru tvær aðrar vörður á sömu leið. Stamphólsgjá lá svo að segja í gegnum núverandi Járngerðarstaðahverfi, frá NA til SV. Hún var síðan fyllt upp eftir því sem byggðin óx. Nú sést gjáin einungs óskert á stuttum kafla efst í landinu norðan og ofan við byggðina, vestan íþróttasvæðisins. Á einum stað í gjánni er hægt að komast niður í hana. Því miður er niðurfallið fullt af rusli svo niðurgangurinn er lítt fýsilegur. Hægt er að komast inn undir hraunið í báðar áttir. Þrengsli eru í syðri hlutanum, en með lagni er hægt að feta sig áfram allnokkurn spöl. Einungis 30 metrar voru farnir að þessu sinni.
Grindavíkurhellir.
Í 19. aldar ferðalýsingu er getið um Grindavíkurhelli. Hellinum er ekki lýst nánar en að hann sé alllangur. Slík lýsing gæti vel átt við svonefndan Gauahelli, sem áður var nefndur Jónshellir. Opið á honum er norðvestan við Stamphólsgjá. Fara þarf niður í gjána um op á hraunbólu. Í því er að sjá sem bólan sé þak á nýrra hrauni, rauðlituðu, en undir er eldra grágrýti.
Slæmt er að sjá hveru innopið hefur dregið að sér mikið af alls kyns drasli. Þegar inn er komið er hellirinn vel rúmgóður. Svo er að sjá sem gólfið hafi verið þakið viðarfjölum, sem nú eru farnar að fúna. Innar er stigi svo til lóðrétt niður í jörðina um sprungu í eldra hrauni.
Þegar niður er komið er fyrir rúmgóður hellir og hægt að fara suðvestur eftir gjánni. Áður fyrr var mögulegt að fara alllangt til suðvesturs og koma upp þar sem nú er félagsheimilið Festi. Opinu þeim megin var lokað þegar félagsheimilið var byggt.
Grindavíkurhellir í dag – opið þakið rusli.
Fólk var jafnan varað við að fara um hellinn því hann er víða þröngur, auk þess sem dæmi eru um að menn hafi lokast inni í honum um tíma eftir jarðskjálfta. Segir sagan að tveir menn hafi verið í hellinum þegar jarðskjálfti reið yfir. Grunur lá á að hellirinn hafi þá verið notaður til brugggerðar um tíma líkt og Hesthellir í Arnarseturshrauni. Lokuðust mennirnir inni, en opnaðist aftur þegar annar jarðskjálfti fylgdi í kjölfarið. Töldu þeir sig heppna að komast út aftur. Sprungunni var ekki fylgt á leiðarenda að þessu sinni, einungis látið nægja að skoða innviðina næst opinu.
Þá var tekið hús á Tómasi Þorvaldssyni og hann spurður um staðsetningu Dýrfinnuhellis. Tómas tók vel á móti viðkomandi, rifjaði upp ferð sína um Skipsstíginn og lýsti opinu, hvorum megin við stíginn það væri og hversu langt frá honum.
Skipsstígur.
Þá var gengið yfir á Skipsstíg vestan Lágafells og honum fylgt áleiðis til norðurs. Stígurinn hefur verið endurgerður á kafla. Líklega hefur sú framkvæmd átt að þjóna vögnum eða bifreiðum. Þar sem kvöldsólin skein á stíginn og heillegar vörðurnar sást hvar hann liðaðist jafnbreiður í gegnum hraunið, vandlega gerður af mannanna höndum. Lítið sem ekkert er vitað um þessar úrbætur á Skipsstíg, sem lengst af var stysta leiðin milli Suðurnesjabyggðalaganna beggja vegna Reykjanesskagans. Það breyttist hins vegar með tilkomu Grindavíkurvegarins um Selháls og í gegnum Arnarseturshraun að Seltjörn og áfram upp á Keflavíkurveginn á Stapa á árunum 1913-1918. Skipsstígur er mjög fallegur á þessari leið þar sem hann liðast í gegnum hraunið.
Varða við Skipsstíg.
Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að „Tyrkirnir“ komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.
Dýrfinnuhellir.
Dýrfinnuhellir, skv. lýsingunni er stutt frá stígnum. Nokkrir hellar eða skútar eru einnig við hann eigi langt frá. Einn er vel manngengur og liðast undir hraunið. Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.
Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn.
Hellir við Skipsstíg.
Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti. Hellir þessi verður skoðaður betur á næstunni.
Í göngunni villtist einn þátttakenda frá hópnum. En eins og jafnan er kynnt er ekki beðið eftir eða leitað að “eftirlegukindum”. Og þar sem þessi þátttakandi hafði ekki göngustað eða önnur verðmæti meðferðis var hann skilinn eftir. Vonandi ratar hann til byggða þá og þegar húmar að kveldi.
Gyltustígur (t.h.).
Í bakaleiðinni léku kvöldsólargeislarnir við Þorbjarnarfellið. Við það sást Gyltustígurinn upp vestanvert fellið mjög vel.
Hraunið er þarna víða mjög úfið, en inni á milli eru tiltölulega slétt apalhraun. Hraunkanturinn er u.þ.b. 6 metra hár og sést vel hvernig hann hefur stöðvast á graslendinu norðan Lágafells. Reykjavegurinn svonefndi liðast vestur með sunnanverðum hraunkantinum. Miðsvæðis sunnan við hann er sæluhús fyrir langþreytta ferðalanga.
Frábært veður.
Dýrfinnuhellir.
Íslenski fáninn
Fánanefndin 1913
Íslenski ríkisfáninn.
Hinn 30. desember 1913 skipaði ráðherra nefnd „til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar, kynna sér eftir föngum hvað fullnægja myndi óskum þjóðarinnar í þessu efni og koma fram með tillögur til stjórnarinnar um lögun og lit fánans svo snemma að stjórnin geti gert Alþingi, þá er það kemur saman næst, kost á að láta uppi skoðun sína um þær.“
Í nefndina voru skipaðir Guðmundur Björnson landlæknir, formaður, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.
Bláhvíti fáninn.
Var talið af sumum, að bláhvíti fáninn líktist svo mjög grískum fána, að konungur myndi eigi vilja á slíka fánagerð fallast fyrir Ísland. Leitaði ráðherra að beiðni fánanefndar álits konungs á því, hvort hann myndi vilja löggilda bláhvíta fánann. Svar konungs var neitandi, þar eð fáninn líktist um of grískum fána. Vegna þessarar andstöðu konungs hætti nefndin við að gera tillögu um bláhvíta fánann. Einnig var álitið eftir athugun, sem skólastjóri Stýrimannaskólans gerði, að slíkur fáni kynni í miður góðu skyggni að reynast of líkur sænska fánanum, sem er gulur kross í bláum feldi, eins og kunnugt er.
Fánanefndin skilaði tveimur tillögum um liti fánans:
(1) Fáninn skyldi vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða
(2) hvítur með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan með beggja vegna.
Ríkisfáninn.
Á fyrsta degi Alþingis 1914, 1. júlí, gerði ráðherra, Hannes Hafstein, grein fyrir hvað gerst hefði í fánamálinu og lét útbýta skýrslu fánanefndarinnar. Lýsti ráðherra meinbugum, er á því væru að fá bláhvíta fánann staðfestan, en á eindæmi hefði hann ekki talið fært að gera tillögu til konungs um aðra gerð. Hefði hann því skipað áðurgreinda nefnd í málið. Um liti fánans voru menn ekki sammála. Sumir vildu bláhvíta fánann að viðbættri stórri hvítri stjörnu í efra stangarreit og loks vildu sumir fána þann sem fánanefndin gerði að aðaltillögu sinni, hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi í miðju.
Bláhvíti fáninn.
Í sameiginlegri tillögu nefnda efri og neðri deilda til þingsályktunar um gerð fánans var í fyrsta lagi mælt með bláhvíta fánanum óbreyttum, í öðru lagi með þeim fána að viðbættri stórri hvítri fimmblaða stjörnu í efra stangarreit og í þriðja lagi með þrílita fánanum.
Á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins er sambandslögin gengu í gildi.
Um leið og fáni hins fullvalda íslenska ríkis var dreginn að hún, kvað við tuttugu og eitt fallbyssuskot frá varðskipinu „Islands Falk“. Skipherra varðskipsins, Victor Lorenz Lorck, flutti ávarp, og einnig forseti sameinaðs Alþingis Jóhannes Jóhannesson. Loks var leikinn konungssöngurinn og danski og íslenski þjóðsöngurinn.
Á 4. áratug 20. aldar var gerð sundlaug hjá sumarbústaðnum Skógarnesi í Reykjahverfi Mosfellsveit. Heitur lækur var stíflaður og þar myndaðist ylvolg laug. Bláhvíti fáninn og þjóðfáninn við húna.
Rauði liturinn á að tákna eld, blái liturinn hafið og himininn og hvíti liturinn jökla. Rautt og hvítt táknar þannig eld og ís.
Rauði liturinn var settur í íslenska fánann að beiðni danskra stjórnvalda en Íslendingar höfðu fyrst valið sér bláhvítan fána. Meginröksemd Dana var sú að bláhvíti fáninn væri allt of líkur gríska fánanum og raunar alveg eins og grískur sérfáni, konungsfáninn. Málið var Danakonungi nokkuð skylt þar sem Georg I, konungur Grikklands 1863-1913, var sonur Kristáns IX Danakonungs (1863-1906) og albróðir Friðriks VIII Danakonungs (1906-1912).
Forsetafáninn.
Margir íslenskir þjóðernissinnar kunnu hins vegar rauða litnum illa vegna þess að tillagan um hann var upphaflega dönsk. Því var haldið fram að tillagan ætti rætur að rekja til þess að minna ætti á tengsl Íslands og Danmerkur en eins og er kunnugt er rautt grunnlitur danska fánans.
Íslendingar hafa löngum kunnað vel við rauða litinn; andstæðurnar eldur og ís koma oft fyrir í ættjarðarumræðum um Ísland.
-Eftir Birgi Thorlacius. Áður birt í ritinu „Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki„, útg. af forsætisráðuneyti 1991
og http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=917
Íslenski fáninn.
Seljabúskapur
Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá.
Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn: ,,Það stenst á endum strokkur og mjaltir“.
Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt. Selin voru venjulega þrjú hús: mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur.
Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar. Heldur þótti það vilja þynnast á selflutningunum, sem von var.
Selsmatsselja.
Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig.
Seljabúskapur – RÚV.
Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju.
Heimild m.a.:
-www.skolavefurinn.is
Brynjudalur – í Þórunnarseli.
Dyravegur – Sporhella
Dyrafjöll eru á Hengilssvæðinu norðnorðaustan við Hengilinn, vestan Nesjavalla.
Dyrnar á Dyravegi.
Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast.
Sporhella.
Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Eldborg í Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hvera-gerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur um Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Milli gosreinanna skilur Þverárdalur og Bitra sem fyllt hefur framhald dalsins til suðurs.
Hengilskerfið er yngst og virkast. Frá ísaldarlokum eru þekkt 4-5 sprungugos á þessu svæði. Síðast gaus fyrir um 2000 árum, er hraunið rann á Hellisheiði, og Nesjahraun í Grafningi. Þá gaus á 25 km langri sprungu, sem náði frá Eldborg undir Meitlinum, um Hellisheiði, Innstadal og norðaustur í Sandey í Þingvallavatni.
Sporhella.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubeltinu, sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og þaðan norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár, um 1-2 m.
Ætlunin er að ganga Dyraveginn fljótlega, frá Nesjavallavegi (Nesjavallarétt) að gatnamótum Austurvegar (Hellisheilarvegar) norðaustan við Lyklafell. Hér verður þó tekið svolítið forskot á sæluna og Sporhellunni lýst, en Dyravegur liggur um hana norðan Skeggjadals. Við Sporhelluna, sunnan Sporhelludals (og norðan Skeggjadals) liggur leiðin upp hálsinn á fleiri en einum stað, enda er Dyravegurinn ekki einsamall á þessum stað.
Gatan um Sporhellu.
Í Dyradal greinist Dyravegur í tvennt, en sameinast aftur í Dyrafjöllum. Annars vegar liggur leiðin um Dyrnar svonefndu, u.þ.b. tveggja til þriggja m breitt gil austnorðaustan í Dyradal og áfram uoo og yfir í Sporhelludali. Þar beygir sú gata til vinstri þar upp á Sporhelluna, sem fyrr er lýst. Sneiðingur sést í hlíðinni, en skriða hefur smám saman afmáð götuna á kafla. Uppi beygir gatan síðan til suðausturs og aftur til norðausturs. Þar eru gatnamót. Þarna er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum, bæði á leiðinni, sem lýst var og til suðurs þar sem hin gatan kemur inn á hana. Sú gata liggur til suðurs inn Dyradal og síðan á ská upp hlíðina í honum austanverðum, upp í Skorhelludali.
Sporhella.
Í stað þess að beygja þar til norðurs að hinni götunni liggur gatan áfram til austurs í sneiðinginn og síðan til norðurs, upp á móbergshelluna. Þarna er gatan einnig djúpt mörkuð í helluna. Fyrrnefnda leiðin er stikuð, en sú síðarnefnda ekki. Líklegt má telja, að hestalestir hafi farið sneiðinginn austan Sporhelludala og síðan upp á helluna síðarnefndu leiðina því hún er auðveldari yfirferðar, einkum fyrir hesta með birgðar. Þá gæti þetta hafa verið kúastígur fyrrum.
Sporhella – skilti.
Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: „Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.
Sporhella.
Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir (sjá meira HÉR og HÉR).
Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.
Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.
Sporhella.
Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.
Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
Flestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.
Gatan um Sporhellu sunnanverða.
Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.“
Tiltölulega auðvelt er að rekja Dyraveginn, eins og hann er skikaður um Sporhellu, en hafa ber í huga að vegurinn var miklu mun lengri og hafði bæði upphaf og endi – mun fjær.
Sjá meira um Dyraveg HÉR og HÉR.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-or.is
Gata um Sporhellu.
Vigdísarvellir – búseta
Á vefsíðu Minjastofnunar getur að lesa eftirfarandi um Vigdísarvelli austan við Núpshlíðarháls (Vesturás):
Vigdísarvellir – uppdráttur Minjastofnunar. Á hann vantar nokkrar minjar.
„Á Vigdísarvöllum má sjá mjög fallegt og heillegt minjasvæði kotbýla frá 19. öld.
Vigdísarvellir.
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.
Vigdísarvellir – Bali.
Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.
Vigdísarvellir – útihús.
Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. [Fell er reyndar ekki nálægt Vigdísarvöllum heldur sunnan Grænavatns]. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.
Bærinn Vigdísarvellir eru í norðvesturhorni vallanna sem þeir heita eftir. Utan um túnið er mikill túngarður afar greinilegur og heill að mestu, alls rúmlega 1 km. að lengd. Bali er í austurhluta túnsins á Vigdísarvöllum. Tóftin er mjög greinileg með tveimur samföstum kálgörðum.
Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.
Minjarnar eru vel varðveittar og menningarlandslagið í heild mjög skýrt. Þó svo minjarnar séu flestar ungar eða frá seinni hluta 19. aldar eru þær afar áhugaverðar sérstaklega sem minnisvarði um kotbýli frá þessum tíma sem annars staðar eru flest horfin vegna seinni tíma byggðar.“
Þess ber að geta að selstaða Þórkötlustaða fyrrum var á sunnanverðum Völlunum, sem þá hétu reyndar ekki Vigdísarvellir en voru norðurhluti Bleikingsvalla. Á þeim tíma var ekkert tún, sem síðar varð umleikis Vigdísarvelli og Bala sunnan undir Bæjarfelli.
Heimild:
-https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2571.pdf
Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.