Kálfatjörn

Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi.

GoðhóllKálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað fjöruparti þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka.

Kálfatjörn

Landabrunnur við Kálfatjörn. Ólafur Erlendsson við brunninn ásamt Selvogs Jóa.

Rétt við túngarðinn á Kálfatjörn er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur. Þar þrýtur sjaldan vatn. Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur. Þá voru teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina. Þessi brunnur er fallega hlaðinn með með heillegri á svæðinu. Væri vert að skoða hvort hægt væri að endurbyggja yfir hann vindu og lok. Færi það væntanlega vel við hugmyndir fólks um að byggja þarna upp minjasvæði.

Hólskot

Hólskot – brunnur.

Á sumrum, einum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu í ljós þegar út fjaraði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvottur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón sem skola mátti.
Flæðibrunnar voru gerðir við flesta bæi og kot á Reykjanesi. FERLIR hefur skoðað um 90 slíka.

Staður

Brunnur við Stað.

Sumir eru djúpir, rúmgóðir og fallega hlaðnir, s.s. brunnurinn á Stað við Grindavík, sem nú er verið að gera upp (hlaðinn árið 1914), brunninn á Stóra-Hólmi við Garð, Kotvogsbrunninn í Höfnum, brunnana í Flekkuvík og Norðurkotsbrunninn. Marga brunna hefur verið fyllt upp í til að afstýra hættum, s.s. brunninn á Þórkötlustöðum og á Selatöngum. Sumir brunnanna eru upprunanlegir og standa enn vel fyrir sínu, s.s. brunnurinn við kot Hólmfasts í Njarðvíkum og brunnurinn í Merkinesi, sem gengið er niður í og inn í, líkt og gamli brunnurinn við Reykjanesvita (1872) sem og brunnurinn við Nes í Selvogi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Brunnarnir eru oft það eina, sem eftir er af minjum sumra kotanna. Ofan við Gufuskála er fallegt vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Vatnsstæðið eða brunnurinn er í raun lind, sem kemur undan klöppunum. Ekki er ólíklegt að þessi lind hafi verið ástæðan fyrir því að Steinunn gamla setti niður bæ sinn á Rosmhvalanesi.

Heimild:
-Úr örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi, Ólafur Erlendsson, 18.11.1976, skráð af Kristjáni Eiríkssyni.

Norðurkotsbrunnur

Norðurkotsbrunnur.

Alþingishátðin 1930

Á vefsíðu Seðlabankans kemur m.a. fram að gefnir hafi verið út sérstakir Alþingishátíðarpeningar í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 þar sem minnst var eitt þúsund ára afmæli Alþingis Íslendinga.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Listamennirnir Einar Jónsson, Baldvin Björnsson, Tryggvi Magnússon og Guðmundur Einarsson frá Miðdal hönnuðu útlit peninganna og þeir voru slegnir í Þýskalandi. Söluverðið var höggvið í röndina á þeim, 2 kr., 5 kr., og 10 kr. en þeir voru aldrei gerðir að gjaldgengri mynt. Þó var tekið sérstaklega fram í lögum um þessa minnispeninga að hægt væri að breyta þeim í lögeyri með konungsúrskurði. Þrátt fyrir að peningunum hafi verið ætlað tiltekið hlutverk á sínum tíma eru þeir sem listaverk öllu merkilegri.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Á 43. fundi Efri deildar Alþingis á 41. löggjafarþingi árið 1929 kemur fram í 123. máli Jóhannesar Jóhannessonarum ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930 að í fraumvarpi þingsins, I. lið, er gert ráð fyrir að „láta slá sjerstaka minnispeninga í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis, en til þess að minnispeningar þessir verði gjaldgeng mynt þarf lagaheimild“.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1962 er grein Kristjáns Eldjárns um „Alþingispeningana„.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Þar segir m.a.: „Að tilhlutan undirbúningsnefndar alþingishátíðarinnar 1930 voru gefnir út þrír minnispeningar, sem seldir voru á 10, 5 og 2 krónur.
Peningar þessir hafa ætíð verið kallaðir „minnispeningar“ á íslenzku og ekkert annað. Í bréfaskiptum útlendra manna við undirbúningsnefndina nefnast þeir ýmsum nöfnum, t. d. „Jubileumsmonter“, „Erindringsmonter“, „jubileumspenge“, „minnepenge“, „erindringsmedaljer“, „commemorative coins“, „celebration coins“, „Jubiláumsmiinzen“, „Gedenkenmiinzen“, „Medaillen“. Georg Galster í Kaupmannhöfn, sem er heimsþekktur myntfræðingur, kallar þá „Erindringsmonter“ í bréfi til alþingishátíðarnefndar 15. október 1930 og sömuleiðis í Numismatisk Forenings Medlemsblad, Bind XIII, janúar 1932, bls. 5, en bætir þó við að þeir hafi „Karaktær af Medailler“.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – framhlið.

Dæmi þessi sýna, að nokkur óvissa hefur frá upphafi ríkt um það, hvernig þá skyldi flokka. Og nú er svo komið, þegar minnispeningarnir eru orðnir þekktir og eftirsóttir af söfnum og söfnururn víða um heim, að nokkuð er á reiki, hvort þá skuli flokka með „myntum“ eða „medalíum“. Hjá Wayte Raymond, Coins of the world, twentieth century issues, 1901—1950, 4. útg., New York 1951, eru birtar myndir af öllum minnispeningunum og þeir taldir með íslenzkum myntum (coins).
Orðið ,,minnispeningur“ — og bókstaflegar þýðingar þess á erlend mál — getur átt nokkurn þátt í þeim ruglingi og misskilningi, sem hér er á orðinn. En „minnispeningur“ merkir (og á að merkja) nákvæmlega hið sama og nefnist „medalíur“ á erlendum málum (Medailler, medaljer, Medaillen, medals). Á því er enginn vafi, að alþingishátíðarpeningarnir eru, „medalíur“, en ekki myntir, og eru því rangt flokkaðir í hinum amerísku ritum, sem til var vitnað.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – bakhlið.

Á fundi sameinaðs alþingis 14. maí 1926 var samþykkt að kjósa 6 manna nefnd til þess að gera tillögur um hátíðahöld 1930 í minningu um stofnun alþingis. Menn voru kosnir í nefndina á þessum sama fundi, og hélt hún fyrsta fund sinn hinn 15. október sama ár og starfaði síðan samfleytt þangað til 26. nóvember 1931, er síðasti fundurinn var haldinn.
Minnispeningamálið kom ekki til umræðu í alþingishátíðarnefndinni (að því er ráðið verður af gerðabók hennar) fyrr en á fundi 8. október 1928.2 Þá var framkvæmdastjóra hennar, Magnúsi Kjaran, falið að ræða við nokkra þekkta íslenzka listamenn um gerð minnispeninga og annarra minjagripa, og varð árangur þessara viðræðna sá, „að framkvæmdastjóra var heimilað á næsta fundi, 15. október, að láta gera uppdrætti að 5 og 10 kr. minnispeningum, er gefnir yrðu út 1930 sem íslenzk skiptimynt“.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – framhlið.

Framkvæmdastjóri skrifaði nokkrum listamönnum og bað þá um tillögur eða fyrirmyndir að minnispeningunum, og varð niðurstaðan sú, að samþykkt var að greiða listamönnunum Einari Jónssyni, Baldvin Björnssyni, Tryggva Magnússyni og Guðmundi Einarssyni þóknun fyrir tillögur þeirra. Höfðu þeir að áliti dómnefndar orðið hlutskarpastir, enda voru peningarnir gerðir eftir tillögum þessara manna.
Hinn 10. apríl 1929 samþykkti nefndin „að biðja allsherjarnefnd efri deildar alþingis að flytja frumvarp til laga, er ritari hafði samið, um heimild fyrir ríkisstjórnina til nokkurra ráðstafana vegna alþingishátíðarinnar 1930“. Fyrsta atriðið var ,,um útgáfu minnispeninga og að þeir séu gjaldgeng mynt“. Nefndin virðist sem sagt hafa hugsað sér í upphafi, að minnispeningarnir yrðu þegar í stað lögleg, gjaldgeng skiptimynt. Hefðu þeir þá að öllu leyti orðið sambærilegir t. d. við 2 kr. minningarpeningana, sem Danir gáfu út á 25 ára ríkisstjórnarafmæli Kristjáns konungs tíunda (og fleiri slíkir peningar eru til).

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Í lagafrumvarpi því, er ritari samdi, er hins vegar ekki gert ráð fyrir þessu,, heldur aðeins að hægt sé með konungsúrskurði að gera minnispeningana að gjaldgengri mynt, og verður nú ekki séð, hvers vegna á þetta ráð var brugðið. Það atriði laganna, sem minnispeningana varðar, er svohljóðandi: „Ríkisstjórninni er heimilt: Að láta slá sérstaka minnispeninga í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis 1930. Má með konungsúrskurði ákveða, að peningar þessir skuli vera skiptimynt, er gjaldgeng sé hér á landi, og sé gildi þeirra 10 kr., 5 kr. og 2 kr.“

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – franska útgáfan (framhlið). Þessi minnispeningur var gefinn út af nefnd Íslandsvina í París í tilefni Alþingishátíðarinnar árið 1930. Peningurinn var sleginn í myntsláttu Frakka eftir mynd Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og gengur hann oft undir nafninu Ásmundarskjöldurinn. Peningurinn var afhendur konungi, ríkisstjórn, þingmönnum og fleirum ásamt því að vera seldur. Peningurinn var endursleginn um 1970.

Úr greinargerðinni: „I. liðurinn er um útgáfu minnispeninga. Er ætlazt til þess, að þeir verði úr silfri og verði gefnir út 10 þús. 10 kr. peningar, 10 þús. 5 kr. peningar og 20 þús. 2 kr. peningar, eða samtals að gildi 190 þús. kr. Gert er ráð fyrir, að helmingur upplagsins verði seldur erlendis.“

Árið 1954 spurðist sendiráð Íslands í París fyrir um minnispeninginn hjá myntsláttunni, og kom þá fram að hann hafði verið sleginn bæði í brons og silfur. Verðið var 5900 frankar fyrir silfurpening, en 970 fyrir bronspening. Þjóðminjavörður skrifaði sendiherra Íslands í París 1959 og bað hann enn grennslast fyrir um sögu peninganna, og einkum lék honum hugur á að fá vitneskju um upplag þeirra, hversu stórt hefði verið. Sendiherra brást vel við þessu, en forstjóri myntsláttunnar taldi, að ekki væri hægt að finna neinar upplýsingar um þessi efni í skjalasafni myntsláttunnar. En í bréfi til Vilhjálms Vilhjálmssonar, verzlunarmanns í Reykjavík, árið 1962, segir myntsláttan, að slegnir hafi verið 10 silfurpeningar, og eignaðist Þjóðminjasafnið einn þeirra það ár.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – franska útgáfan; bakhlið.

Lýsing peningsins: Minnispeningur úr bronsi (og silfri, samkvæmt áðursögðu). Framhlið: Almynd af manni, sem er nakinn að öðru en því að hann virðist hafa einhvers konar skikkju um hálsinn. Hægri hendi heldur hann sverði hátt á loft, en bendir hinni vinstri fram úr stílfærðu klettaskarði. Ofan við vinstri handlegg hans áletrun: ÍSLAND, og neðan við nafnið ártalið 1930. Neðst til hægri (framan við fætur mannsins) A. S., upphafsstafir listamannsins. Bakhlið: Skjaldarmerki Íslands með landvættunum fjórum, mjög stílfærðum. Neðan við nafnið ÍSLAND og þar undir ártalið 1930. Innhöggvið á röndina: BRONZE, en til er einnig að þar standi MONETA, og á silfurpeningunum stendur Í ARGENT. Þyngd: 139,5 grömm, en silfurpeningarnir 146 grömm. Þvermál: 68 mm.

Ásgrímur Jónsson

Ásgrímur Jónsson.

Samkvæmt heimild listamannsins, Ásmundar Sveinssonar, táknar framhliðin fund Þingvalla. Búið er um peningana í snotrum gulleitum pappaöskjum, sem klæddar eru með einhvers konar skinneftirlíkingu. Á lokinu stendur með gylltum stöfum: COMITÉ PARISIEN DU MILLENAIRE og sú áletrun er á eintaki Þjóðminjasafnsins af peningnum.
Forstjóri frönsku myntsláttunnar, herra André Dally, var gerður stórriddari fálkaorðunnar árið 1931 fyrir hugulsemi sína í þessu máli.“

Heimildir:
-https://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2016/12/06/Myntsafn-Sedlabanka-og-Thjodminjasafns-30-ara-i-dag/
-https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=41&rnr=1734
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1962, bls. 115-127.
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík er norðan þjóðvegarins, skammt sunnan við Augun, vestan Grænavatns. Það lætur ekki mikið yfir sér en þar gerðist atburður árið 1801 er nú skal greint frá:

Nýibær

Stóri-Nýibær.

“Uppvíst er orðið, að ógift stúlka nokkur, Steinunn Árnadóttir, frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hefur borið út barn sitt. Segir hún, að barnsfaðir sinn, sem er kvæntur maður, hafi ógnað sér, barið sig og hótað að ganga sem næst lífi sínu, ef hún lýsti hann föður. Er þetta fjórða barnið, sem maður þessi á framhjá konu sinni, og hefur hann tvívegis reynt að fá barnsmæður sínar til að rangfeðra börnin.

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skýrir svo frá, að Steinunn hafi nóttina milli 24. og 25. nóvember s.l. fætt barn í dulsmáli, án þess að leita þeirrar hjálpar, sem henni og fóstrinu kynnu að verða til bjargar. Leyndi hún síðan fóstrinu í rúmi sínu, uns henni tókst nokkrum dögum síðar að varpa því í tjörn skammt frá bænum. Saga þessarar ógæfusömu stúlku er í stuttu máli á þessa leið: „Fyrir tveimur árum átti Steinunn barn með kvæntum manni, Jóni Snorrasyni í Krýsuvík. Kom hann henni þá til að lýsa ranglega föður að því barni giftum manni, Jón Oddsson á Svalbarða, en hið rétta faðerni komst þó upp.

Krýsuvík

Krýsuvík – Sefið.

Þegar Steinunn varð í annað sinn ólétt af völdum Jóns Snorrasonar, kveður hún hann hafa ógnað sér, ef hann lýsti hann föður. Er hún færðist undan að leyna barnsþunganum, hafði Jón barið hana, svo að blánaði undir auga, og hert á hótunum sínum. Ámálgaði hann oftlega, að hún kæmi fóstrinu leynilega undan.
Þegar að fæðingu kom, var Steinunn í rúmi sínu og foreldrar í næsta rúmi. Leitaði hún engrar hjálpar né gaf vandræði sín til kynna með neinu móti, en kæfði niður öll hljóð. Ekki veitti hún fóstrinu neina rækt, batt ekki fyrir naflastreng né skildi á milli. Tróð hún því síðan með fylgju og öllu saman ofan í rúm sitt.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík.

Þegar er Steinunn gat því við komið eftir fæðinguna, fór hún á fund Jóns Snorrasonar og bað hann að koma fóstrinu undan í kirkjugarðinn. Kveður hún hann hafa neitað því, en ráðið sér að lauma því niður í tjörn eina, skammt norður af bænum. Sá hún sér ekki færi á því fyrr en eftir nokkra daga, líklega 2. desember. Tók hún þá fóstrið og fór með það að tjörninni, sem var ísi lögð, pjakkaði vök á hana og sökkti því þar niður með viðbundnum steini.
Kvis um þennan atburð komst á loft daginn eftir, og hinn 4. desember var barnslíkið slætt með öngulkrókum upp úr vökinni. Skoðunarvottorð benti til þess að barnið hafi verið fullburða og sennilega fætt lifandi, en að líkindum dáið af illri meðferð.
Eftir að barnið fannst, játaði Steinunn fyir sóknarpresti sínum, en hélt því þó fram að barnið hefði fæðst andvana.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Jón Snorrason hefur einnig verið handtekinn og yfirheyrður. Neitaði hann flestu því, sem Steinunn hefur á hann borið, en kveðst þó vera faðir barnsins. Hann var einnig ákærður fyrir þjófnað og grunur leikur einnig á honum um sauðaþjófnað.”
Landsyfirréttur dæmdi í dulmálssök Steinunnar Árnadóttur. Var hún dæmd til lífláts.

Úr Öldinni okkar 1802.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík – Bæjarfell fjær.

Kind

Sólarvé Tryggva Gunnars Hansen í Grindavík ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem ferðast um Reykjanesskagann. Í bænum má finna fleiri hleðslur eftir Tryggva, s.s. við Hrafnsbúð.

Tryggvi Gunnar Hansen

Höfundur verksins „Sólarvé“ er heiðinn og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allan Reykjanesskagann, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku.

Í Morgunblaðiðinu 15. júlí 1994 er fjallað um „Sólarvé í Grindavík„: „SÓLARVÉ er nafn á útivistarsvæði sem var vígt í Grindavík 21. júní.
ÁGrindavík þeim degi á að vera lengstur sólargangur samkvæmt tímatali fornmanna og var nafnið valið með hliðsjón af því. Svæðið er við íþróttamannvirkin í Grindavík og var útfært og teiknað af þeim Tryggva Gunnari Hansen steinsmiði og Jóni Sigurðssyni bæjartæknifræðingi.
Vígsluhátíð fór fram með bálkesti og rímkveðskap. Blásarasveit lék undir stjóm Siguróla Geirssonar. Að vígslu lokinni var haldið á Þorbjöm og fylgst með miðnætursólinni og kveiktur varðeldur en að lokum var gestum boðið að baða sig í Bláa lóninu.“

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Í Glatkistunni 2018 fjallar Helgi J. um Tryggva Gunnar Hansen: „Tryggvi Gunnar Hansen (1956-); Fjöllistamaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen á tónlistarferil að baki en á tíunda áratugnum kom hann að útgáfu þriggja platna.
Tryggvi er fæddur á Akureyri 1956 og bjó nyrðra lengi vel, þar hófst myndlistaferill hans og hann varð einnig þekktur fyrir grjóthleðslufærni sína en hann hefur komið að ýmsum grjóthleðsluverkefnum í gegnum tíðina. Þá hefur hann starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, blaðaútgefandi og grafískur hönnuður.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Tryggvi, sem var forðum öflugur í starfi ásatrúarmanna, hafði verið að kveða rímur frá unglingsárum og hóf síðar að vinna með bókmenntaarfinn með ýmsum hætti, m.a. með því að blanda saman rímnakveðskap og raftónlist. Það fyrsta sem fjölmiðlar fjölluðu um Tryggva sem tónlistarmann var þegar hann flutti Völuspá með aðstoð örtölvu árið 1982 og tveimur árum síðar kom hann nokkuð við sögu á safnkassettu sem bar titilinn Bani 1.

Mörgum árum síðar stofnaði hann tónlistarhópinn Seiðbandið (um miðjan tíunda áratuginn) sem sérhæfði sig í slíkum kokteil raftónlistar og forns kveðskaps.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Um svipað leyti (1995) sendi Tryggvi frá sér sjaldséða snældu sem bar titilinn Seiður, þar sem hann sótti einnig í bókmenntaarfinn en að þessu sinni voru eddukvæðin atkvæðamest, einkum Völuspá og Hávamál.

Þremur árum síðar (1998) sendi Seiðbandið ásamt Tryggva (TH) frá sér plötuna Vúbbið er að koma: Íslensk raf og danskvæði. Sú plata hlaut ekkert sérstaka almenna athygli en fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV. Það sama ár kom út önnur snælda með Tryggva einum en hún bar heitið Inuals dansar en þar var raftónlistarmaðurinn Biogen (Sigurbjörn Þorgrímsson) honum innan handar. Snældan fékk nokkuð jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Lítið hefur spurst til tónlistariðkunar Tryggva eftir það, hann birtist sem gestur á plötu Hallvarðs Ásgeirsonar, Los Casas, og söng kvæðið um Ólaf Liljurós á samnorrænni safnplötu með flytjendum frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Lapplandi (World music from the cold seas) árið 2015 en að öðru leyti hefur hann lítt verið viðloðandi tónlist.
Tryggvi hefur hin síðustu ár verið þekktastur fyrir að búa í tjaldi í skóglendi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem er svolítið í anda lífsspeki hans.“ Þar hefur hann fengið að vera í friði fyrir áreiti.

Í Morgunblaðinu 11. nóv. 1994 er grein eftir Tryggva Gunnar Hansen; „Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar„.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þar segir m.a.: „Í Morgunblaðinu 28. október er grein undir fyrirsögninni „Trúfrelsi er fjöregg“ eftir Einar Sigurbjörnsson prófessor í guðfræði. „Tilefni skrifanna eru þær deilur sem upp hafa komið vegna hofbyggingar í Grindavík. Þar sem mér er málið skylt sé ég mig tilneyddan að leiðrétta nokkrar rangfærslur og misskilning sem fram kemur í grein prófessorsins og í umræðunni allri. Undarlegt verður raunar að teljast að prófessor við Háskóla Íslands skuli ekki afla sér betri upplýsinga áður en hann tjáir sig opinberlega um málið.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Enn og aftur verð ég að taka fram að Ásatrúarfélagið stendur ekki að byggingu hofsins. Á þjóðveldisöld voru engin ásatrúarfélög. Íslenskir bændur byggðu sín blóthús sjálfir. Eftir kristnitöku byggðu sjálfstæðir bændur einnig kirkjur á eigin kostnað. Þessi siður hefur haldist alveg fram á tuttugustu öld, þótt oftast séu kirkjur byggðar fyrir almannafé nú á seinni tímum.
Það skal einnig leiðrétt hér að umhverfíslistaverkið Sólarvé í Grindavík var ekki byggt á vegum Vors siðar og þaðan af síður Ásatrúarmanna. Var það unnið sem átaksverkefni í atvinnumálum að tilstuðlan Grindavíkurbæjar. Ég hannaði verkið og vann það með hjálp vaskra Grindvíkinga. Það var þing til samveru og helgað sólinni á sumarsólstöðum 21. júní, en Sólarvé er ekki trúarlegt mannvirki í sjálfu sér.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þjóðmenning og Vor siður Hofið í Grindavík er byggt í nafni félags sem nefnist Vor siður og tveggja einstaklinga. Annar þeirra er höfundur hofsins og heiðinn maður, sá sem þetta ritar, hinn er kristinn. Innan vébanda Vors siðar eru fleiri Ásatrúarmenn en ég, en þeir eru þó ekki í meirihluta í félaginu. Vor siður er þjóðmenningarfélag, ekki trúfélag. Ásatrúarmenn styðja hins vegar byggingu hofs í Grindavík heils hugar. Ég held að flestir Ásatrúarmenn telji það af hinu góða að veita íslenskri menningu lið.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Ég byggi heiðið hof. Það hús er listaverk, sem hefur nálgun við fornan skála, gert af stafverki eða rekaviðarsúlum. Fjórir 6 metra langir stórviðir bera þakið uppi en tólf stafir eru meðfram veggjum. Reft og tyrft yfir þakið með torfi. Þetta er einskonar jarðhýsi, svolítið aflangt, skipslaga, með eldi í miðju gólfi og brann undir hamri. Moldargólf. Stórt op er fyrir miðju gólfi yfir eldinum. Bekkir meðfram veggjum og þiljað að hluta við veggina Húsið er byggt til samveru, til þinghalds og dansa. Ég byggi yfir frjálsa afstöðu nútímamannsins, þar sem hver hefur sína persónulegu mynd af heiminum og ætlar engum að sjá sömu sýnir af þessari annars óskiljanlegu tilvist. Ég vil efla dansa og leika af ýmsu tagi, kveðskap og sönglistir, það helst sem eflir samkennd með fólki.“

Grindavíkurbrim

Grindavíkurbrim.

Það er meginatriði, segir Tryggvi Gunnar Hansen, að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar, sem heimsótt er. Þannig getur Vor siður allt eins þýtt „það sem við erum vön að gera sarnan“. Önnur merking orðsins siður er tengd siðferði. Siður getur vissulega þýtt átrúnaður í fomri merkingu orðsins og er það vel, flestir meðlimir Vors siðar bera að vonum sína persónulegu trú í hjarta sínu.

„Svo virðist sem fólk haldi að ég ætli að neyða ferðafólk til að láta vígjast til heiðni í hofinu, ferðafólkinu alsendis að óvörum.

Grindavík

Grindavík.

Ég held að það sé ljóst að svona málflutningur er út í hött og ætti að vera fyrir neðan virðingu hins siðavanda guðfræðiprófessors. En heimsóknir ferðafólks í trúarleg samkomuhús eru vel þekkt fyrirbæri.

Reykjavík

Reykjavík – Hallgrímskirkja.

Eflaust rekast ferðamenn inn í Hallgrímskirkju við og við, hver veit hvers siðar það fólk er. Flestir ferðamenn reyna að heimsækja hin frægu Shinto-hof og Zen-garða er þeir heimsækja Japan og ekki nema gott eitt um það að segja að fólk fái að kynnast mismunandi siðum og viðhorfum. Trúarlegar stofnanir draga að sér forvitið ferðafólk eins og hvaðeina sem sker sig úr.

Hvernig tengist hofbygging ferðamenningu? Ferðamenning er í raun samskipti. Hugsjón ferðamennskunnar er að auka samskipti og skilning milli þjóða og menningarsvæða. Vera má að ferðamenning geti „læknað“ jarðarbúa af því hatri og ótta sem hvílir eins og mara á samskiptum manna eins og er.

Brim

Grindavíkursjór.

Það er meginatriði að ferðamenn fái að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar sem þeir heimsækja. Þannig er þjóðmenningin framlag til heimsmenningarinnar. Okkar er því að leggja rækt við þekkingu og ærlegan skilning á arfleifðinni og veita öðrum aðgang að henni bæði í orði og á borði.

Ekki er nóg að segja sögur og leika leikrit heldur ættum við að kynnast því fólki sem sækir okkur heim. Ferðalög með tilgangi heitir þessi áætlun.

Grindavík

Grindavík – Jónsmessusólin.

Samskiptamunstur eins og söngvar, matarveislur við elda og dansar í gömlum stíl era í fullu gildi. Allt sem eflir bein samskipti fólks er af hinu góða. Ferðamaðurinn er ekkert öðruvísi en við sjálf — erum við ekki öll fólk á ferð?
Þess má að lokum geta að jafnvel þótt teikningar af hofinu hafi verið samþykktar, hafa bygginganefnd og bæjarstjórn í Grindavík ekki enn gefið leyfi fyrir því að hofið rísi á þeim stað þar sem byrjað er á því, hvort sem það er stífni af trúarlegum rótum eða af öðrum „persónulegum“ ástæðum. Vil ég því velta boltanum áfram og spyrja þá sveitarstjómar- og bæjarstjómarmenn, sem þessi orð lesa, að hugleiða hvort þeir hafi hug á nýskapandi aðgerðum í ferðaþjónustu í sínu sveitarfélagi. Vera má að ég gæti orðið að liði.“ – Höfundur er listamaður og
hofbyggjandi í Grindavík.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 15. júlí 1994, Sólarvé í Grindavík, bls. 6.
-https://glatkistan.com/2018/04/19/tryggvi-gunnar-hansen-1956/
-http://www.sudurnes.net/frettir/faerdu-tryggva-hansen-skjolfatnad-og-stigvel/
-https://www.grindavik.is/ahugaverdirstadir
-Morgunblaðið 11. nóv. 1994, Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar, Tryggvi Gunnar Hansen, bls. 28.
-http://www.visir.is/afkomandi-huldufolks-byr-i-skogarrjodri-vid-reykjavik/article/2015150928779

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Dátahellir

Dátahellir norðan í Gíghæð vestarlega í Arnarseturshrauni ofan Grindavíkur heitir eftir hermönnum sem fundu beinagrind af manni í hellinum 15. júlí 1967. Lögreglan í Hafnarfirði fór með beinin í Fossvogskapellu þar sem þau voru brennd. Lögreglan taldi manninn hafa orðið úti fyrir nokkur hundruð árum síðan. Nokkrum dögum síðar fundu hermennirnir beltisól, sylgju og hnífsblað skammt frá þeim stað sem beinin höfðu legið. Enn síðar fundu þeir svo fataleifar á steini í hellinum sem er um 40 metra langur.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði bendir á, að beinagrindin hlýtur að hafa verið af mjög stórum manni. Bandarísku sjóliðarnir eru frá v.: Jeffrey Haughton, Paul Gougeon og Lawrence Hampton. (Mynd: George Cates).

Í Morgunblaðið 19. júlí 1967 er sagt frá beinafundinum undir fyrirsögninni „Lá á bakinu með aðra höndina undir hnakkanum“ —Viðtal við einn Bandaríkjamannanna sem fann beinagrindina í hellinum við Grindavík.

„Beinafundurinn í hellinum skammt frá Grindavík hefur að vonum vakið mikla athygli, og í ráði er, að fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafninu fari þangað innan skamms til þess að kanna hvort þar er einhverjar frekari leifar að finna. Hnífur og belti fundust einnig í hellinum og telur Gísli Gestsson, safnvörður, að þessir hlutir geti verið 4—500 ára gamlir.

Þeir lágu ekki við hlið beinagrindarinnar og því ekki víst að þeir hafi tilheyrt þeim sem þarna lét líf sitt.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði skoðar hauskúpuna. Í horninu á myndinni má sjá beltissylgjuna og hnífinn, sem sjóliðarnir fundu. (Mynd George Cates).

Það voru þrír bandarískir sjóliðar sem fundu leifarnar, og Morgunblaðið hafði tal af einum þeirra, Paul Gougeon, í gær: „Við vinnum við radarstöðina hér í Grindavík og okkar besta tómstundaiðja er, að ganga út í hraunið og skoða hella sem við rekumst á. Við höfum farið margar ferðir og skoðað fjöldann allan af hellum og smágjótum. Það er ekki mikið að finna í þessum hellum og þetta er í fyrsta skipti sem við rekumst á eitthvað þessu líkt, en við höfum gaman að því engu að síður“.

„Hvað er hellirinn langt frá stöð ykkar í Grindavík?“

„Hann er eitthvað um sex mílur í burtu, í áttina til Keflavíkur.“

„Hvað er hellirinn stór?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Það er erfitt að segja um það nákvæmlega. Við urðum að beygja okkur til að komast inn í hann, ég held að hann sé um fimm metra djúpur. Beinagrindin lá innst í hellinum. Okkur virtist þetta hafa verið mjög stór maður. Hann hafði legið á bakinu, með aðra hendina undir hnakkanum, eins og hann ætti sér einskis ills von. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hann hefur fengið þetta gat á höfuðkúpuna, það lá að vísu stór steinn við aðra öxl hans, en okkur var sagt, að hann hefði fallið eftir að maðurinn var dáinn, og beinagrindin ein var eftir.“

„Funduð þið beltið og hnífinn hjá líkinu?“

Dátahellir

Í Dátahelli.

„Nei, hlutirnir voru framar í hellinum, nokkuð frá beinunum. Við erum ekki vissir um, að þetta hafi verið belti en teljum það mjög líklegt. Það var bara sylgja eftir og svo einhverjar druslur, sem við töldum vera belti. Hnífurinn var að sjálfsögðu illa farinn, en þó greinilega hægt að sjá að þetta er hnífur.“

„Sáuð þið nokkur merki um að þarna hafi verið mannabústaður, t.d. eldstæði eða eitthvað slíkt?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Nei, við urðum þess ekki varir. Satt að segja leituðum við ekki mjög vandlega eftir að við fundum beinin og hnífinn. Íslenska lögreglan var strax látin vita, og þeir tóku málið í sínar hendur. Við höfum áhuga fyrir að fara þangað aftur og leita betur, en mér skilst að íslenskir fornleifafræðingar hafi hug á að kanna staðinn svo að þá er best fyrir okkur að vera ekki að róta við neinu, við gætum hæglega eyðilagt eitthvað, sem sérfræðingsaugað kynni að meta þótt við.“

Þjófagjá

Þjófagjá.

Af hverjum var beinagrindin? Hvernig voru höfuðáverkarnir til komnir og af hvers völdum? Gæti maðurinn hafa tengst ræningjunum í nálægri Þjófagjánni í Þorbjarnarfelli eða varð hann saklaus fyrir barðinu á þeim? Leitaði hann skjóls í hellinum á flótta eftir að hafa verið veittur áverki? Og þá undan hverju eða hverjum? Var maðurinn kannski fyrrum smali í Hópsseli utan í Selshálsi er gæti hafa orðið fyrir óhappi eða tengdist hann mögulega seljum Járngerðarstaðabænda á Baðsvöllum? Gat beltissilgjan gefið einhverja vísbendingu um manninn?
Hellirinn er í hrauni miðja vegu milli tveggja þjóðleiða fyrrum; Skógfellavegar og Skipsstígs. Langt er þeirra á millum. Vagnvegurinn frá Stapanum um úfið hraunið til Grindavíkur var lagður á þessum slóðum árið 1916. Í nágrenninu eru nokkrir hellar og skútar.
Öllum spurningum um dauða mannsins í Dátahelli er enn ósvarað. Hver var t.d. niðurstaða rannsóknar lögreglunnar í Hafnarfirði á dánarorsökinni og var einhver eða einhverjir grunaðir í málinu? Hver var niðurstaða nefnds fornleifafræðings varðandi aldur, aldurtila og dauðdag viðkomandi? Framangreindar niðurstöður hafa aldrei verið gerðar opinberar.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla.

FERLIR leitaði til Þjóðskjalasafnsins og óskaði eftir afriti af lögregluskýrslum um beinafundinn í Dátahelli. Starfsfólkið staðfesti að lögregluskýrslur frá þessum tíma væru í fórum safnsins, en þrátt fyrir ítrekaða nokkurrra mánaða leit hefðu skýrslur um þetta tiltekna mál ekki komið í leitirnar. Nokkrum mánuðum síðar kom eftirfarandi svar:

„Sæll,
Í viðhengi er afrit úr dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem kemur fram að Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tilkynni þeim um líkfund í hrauninu við Grindavík þann 15.7. og sama dag fóru tveir menn til Grindavíkur vegna málsins. Þeir sóttu beinin og fóru með þau í Fossvogskapellu. Daginn eftir tilkynnir varðsjórinn á Keflavíkurflugvelli að hermennn á vellinum hafi fundið belti, sylgju og hníf í sama helli og beinin fundust í. Varðstjórinn ætlar að koma mununum á varðstöðina um kvöldið, sem er svo gert, samkvæmt dagbókinni.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla 2.

Við erum búin að leita að lögregluskýrslu um málið bæði í skjalasafni frá lögreglunni í Hafnarfirði og Keflavík/Keflavíkurflugvelli. Einnig athuguðum við hvort að Ríkissaksóknari hafi fengið gögn um málið en svo sáum við ekki. Þá var leitað í mannskaðaskýrslum sem höfðu verið sendar Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Hagstofunni en án árangurs. Ekki fannst heldur dánarvottorð í gögnum frá Hagstofu.

Því miður verð ég að tilkynna þér að við finnum engar frekari gögn um málið en það sem er í viðhengi.“
kv. Helga Hlín

Svar:
Sæl Helga Hlín; „Þakka þér kærlega. Dáist af dugnaði þínum og eftirfylgni“.

Heimild:
-Morgunblaðið miðvd. 19. júlí 1967, bls. 28 og 20.

Dátahellir

Dátahellir – loftmynd.

Básendar

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.

Stafnes

Við Stafnes – steinbrú.

“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.

Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.

Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.

-Öldin okkar 1799.

Básendar

Básendar – gamli bærinn í sjó fram.

Reykjavík - Grasagarðut

Á vefsíðu Grasagarðsins í Laugardal segir m.a.:

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal.

„Grasagarðurinn í Laugardal var stofnaður 1961 þegar Reykjavíkurborg fékk að gjöf 200 íslenskar plöntur frá þeim hjónum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Plöntunum var komið fyrir við Ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal.
Sigurður Albert Jónsson var fyrsti forstöðumaður garðsins frá 1961 allt til 1999 og byggði garðinn upp frá grunni. Hann hóf einnig strax skráningu og merkingu plantna, fræskipti við útlönd og ýmsar ræktunartilraunir.“
Bærinn Laugatunga féll garðinum í skaut árið 1970.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal – kort.

Garðurinn hefur stækkað í áföngum, hægt og rólega frá upphafi fram til 1990, þegar trjásafnið opnaði, og aftur 2011 þegar garðurinn stækkaði um 2,4 ha og er nú um 5,5 ha.
Lystihús var flutt í garðinn árið 1980 og gróðurhúsið reis nokkrum árum síðar en þar er kaffihúsið Café Flóra til húsa.“Upplýsingarnar stemma ekki við aðrar heimildir.
Jafnframt segir: „Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Hann stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn – skilti.

Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.“
Í garðinum sumarið 2023 hafa verið sett upp nokkur áhugaverð fræðsluskilti, án þess, að því er virðist, að nokkur tilraun hafi verið gerð til að vekja sérstaka athygli á þeim merkilegheitum.
FERLIR fór á vettvang og birtir hér með myndir af skiltunum og meðfylgjandi fróðleik:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Setberg

Myndin hér að neðan er af Setbergsbænum við Hafnarfjörð árið 1772. Þar bjó þá Guðmundur Runólfsson, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Setbergsbærinn

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Þegar konungur bauð kálgarðagerð í landinu, var svo mælt fyrir, að sýslumenn skyldu ganga á undan öðrum með góðu eftirdæmi. Guðmundur Runólfsson gerði það, en svo dýrseldir þóttu honum kaupmenn, er hann var látinn borga spesíudal fyrir níu kvint af kálfræi, að hann kærði það fyrir rentukammerinu. Eftir það lækkaði verðið, og sýslumaður lét bændum í té fræ án endurgjalds. Komust þá upp 84 kálgarðar í Kjalarnesþingi. En nú hefur sýslumaður þá sögu að segja, að flestir hafi hætt við kálgarðana “eftir að okkar góðu verndarar við verslunina þótti það við hæfi að hræða fólkið frá slíku handafla með því að færa okkur fræ, sem ekki dugar, er ég hef mátt kaupa af þeim í tvö ár. Af því hefur ekki sprottið upp úr jörðinni ein einasta planta, sproti eða blað nokkurs staðar, hvorki í Gullbringu-, Kjósar- né Borgarfjarðarsýslu. – Þess konar fræ kom í Hólminn í tvö ár í röð, og annað árið jafngott í Hafnarfjörð”, segir sýslumaður í greinargerð um frækaup sín.

-Öldin okkar 1771

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Hreindýr

Eftirfarandi frásögn um hreindýrin er úr Öldinni okkar 1771.
Hreindýr“Dýr, sem Íslendingar hafa ekki fyrr augum litið, komu hingað með Vestmannaeyjaskipi í sumar. Voru það þrettán eða fjórtán hreindýr af Finnmörku, sem send voru Thodal stiftamtmanni, og er til þess ætlast, að hann gangi úr skugga um, hvort þau geti þrifist hérlendis. Mosi sá, sem hreindýr fíkjast mest eftir, var fluttur í pokum til fóðurs handa þeim á sjónum.
Það hefur áður komið til orða að reyna hér hreindýrarækt. Níels Fuhrmann vakti máls á því fyrir hálfri öld, og fyrir tuttugu árum var það ákveðið í konungsgarði fyrir tilmæli Hans sýslumanns Wíum og fleiri fyrirmanna austan lands að flytja hingað hreindýr. Það fórst þó fyrir í það skiptið.

Kúluhattshellir

Hreindýrabein í Kúluhattshelli.

Kaupmaður í Eyjum, Hans Klog, veitti hreindýrunum viðtöku, þegar þau komu til landsins í sumar, og gerði sér vonir um, að þau gætu lifað þar. En hann sá brátt, að þeim hrakaði frekar en þau brögguðust, og þess vegna tók hann það ráð að manna bát og láta flytja sjö þeirra til lands. Fygldi þeim maður, er átti að reka þau til Bessastaða og leita úrskurðar stiftamtmanns um það, hversu með þau skyldi farið. Hugðist kaupmaður með þessu firra sig ámæli.
Báturinn tók land við Landeyjasand, en hreindýrin voru þá orðin svo máttfarin, að sendimaðurinn kom þeim fyrir í vörslu bónda það við sjávarsíðuna, á meðan hann færi sjálfur til Bessastaða og sækti fyrirmæli stiftamtmanns.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Stiftamtmaðurinn hafði ætlast til að hreindýrunum yrði sleppt á fjöll í grennd við Þingvallasveit og falin umsjá presta, er heima eiga í næstu sveitum. Þótti honum því miður, að þau skyldu ekki flutt til Þorlákshafnar.
Úr því sem komið var, fól hann Þorsteini Magnússyni, sýslumanni Rangæinga, að hlutast til um, að þeim yrði vikið til fjalla þar eystra, því ekki þótti viðlits að reka þær vestur yfir stórárnar.”
Síðar, eða árið 1777, voru nokkur hreindýr sett í land á Hvaleyri við Hafnarfjörð (30 dýr) og gengu þau um Reykjanesskagann og Hengil. Dýrin runnu til fjalla og tímguðust vel. Hreindýrin voru hins vegar eftirsótt til matar og endaði með því að síðasta hreindýrið var skotið á Skaganum í byrjun 20. aldar. Enn má sjá hreindýrabein í hellum á Reykjanesi, s.s. svonefndum “Kúluhattshellum” í Heiðinni há, í hraununum ofan við Helgafell og í Húshelli við Hrútargjárdyngju ofan við Hafnarfjörð.

-Öldin okkar 1771.

Hreindýr

Hreindýr.

Straumur

Húsið í Straumi var reist árið 1927, fyrir Björn Bjarnason barnaskólakennara og síðar skólastjóra Barnaskólans í Hafnarfirði, eftir teikningu Guðmundar Einarssonar trésmíðameistara og framkvæmdarstjóra í Dverg.

Straumur

Straumur – ljósmyndina tók Sigríður Erlendsdóttur um 1930.

Ber húsið keim af hönnun Guðmundar en álíka kvistur er á húsi hans, Hverfisgötu 3 sem hann teiknaði árið 1925. Björn Bjarnason hafði eignast Straum árið 1918 og stóðu þá þar eldri byggingar sem urðu eldi að bráð snemma árs 1927.
Í virðingagjörð sem gerð var árið 1928 er íbúðarhúsinu lýst þannig: „Íbúðarhús úr steinsteypu, byggt 1927. Vandað vel. Tvær íbúðarhæðir, steypt gólf og loft, hátt ris með geymslu og þurrklofti. Tvídyrað. Snoturt útlits.

Hverfisgata 3

Hverfisgata 3.

Skýli heilt með járnþaki við aðrar útidyrnar 3 x 2 ½ m. Stærð 8,6 x 8m. meðalhæð um 6,5m. Á neðri hæð eru 3 stofur, eldhús, búr og gangur (forstofa) á efri hæð: 4 herbergi og gangur. Geymsla á 3. lofti.

Útveggir steyptir: að innan lagðir pappa, korklagi og svo veggjapappi á sléttri súð. Milliloft steinsteypt. Dúkar (linoleum) á gólfum. 1 steinsteyptur reykháfur. 3 ofnar, 2 þeirra ósettir niður, 1 eldavél (glerhúðuð)“. Enginn kjallari en steypt breið stétt á 3 hliðar við íbúðarhúsið, sem stendur á klöpp. Virt á 16.700 kr.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason – Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930.

Útihúsin: „1. Heyhlaða (við húsgafl) tekur um 600h. Steyptir veggir, járnþak, tvíreist. 2. Fjós við, fyrir 13 gripi, steyptir veggir, járn og burðaþak, steypt gólf og áburðargryfjur, vatni dælt að hverjum grip (og í húsið). 3.Fjárhús, tekur 200 að 2 görðum. Steyptir veggir og gólf með baðþró og brunni (300 fjár baðað á kl.st.) járnþak, rimlar á gólfi. „ í virðingu frá 1927 þá af húsinu nýbyggðu eru steypt baðáhöld í fjárhúsinu og fjósið með 14 básum.
Bjarni Bjarnason var kennari og skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Til að drýgja tekjurnar vann hann við heyskap á sumrin þar sem færi gafst en árið 1918 keypti hann Straum og rak þar búskap í rúman tug ára en aldrei bjó hann í húsinu heldur hafði hann þar ráðsmann og leigði út herbergi. Straumur var fyrirmyndar bú, er haft eftir bónda úr Borgarfirði sem kvaðst „aldrei hafa séð 14 kýr í einu fjósi jafn glæsilegar“.

Straumur

Straumur 1935.