Húshellir

Spáð var rigningu og hvassviðri, en stjórn FERLIRs hafði áður samið um gott gönguveður á svæðinu. Það gekk eftir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Gengið var að Fjallinu eina norðan Hrútagjárdyngju. Á norðausturvegg gjáarinnar mátti sjá hversu hrikaleg átök hafa verið þarna í undanför mikillar goshrinu er fyllt hafði innanvert dyngjusvæðið mikilli hraunkviku eftir að landið umhverfis reis. Sjá má landrisið allt umhverfis dyngjuna sem afurðina neðanvert.

Hrútagjá

Í Hrútagjárdyngju.

Skammt frá Fjallinu eina, í Hrútagjár[dyngju]hrauni, eru nokkrir hraunhellar, s.s. Steinbogahellir (Hellirinn eini), Húshellir, Híðið og Maístjörnuna. Hellarnir fundust fyrst, svo vitað sé, árið 1989. Ætlunin var að leita að þessum hellum skv. lýsingum. Um er m.a. um að ræða dropasteinshella, 155-170 m langa. Steinbogahellir dregur nafn sitt af steinboga yfir hrauntröð framan við hellisopið. Híðið er vandfundið því hellismunninn er lítill og þröngur. Það er nyrstur hellanna, en hann er einn fegursti hraunhellir á Íslandi. Í honum eru nokkurra þúsund ára (˜4500) dropasteinar og því þurfti að fara þar mjög varlega.

Innanvert opið á Húshelli

Í Húshelli.

Innan við op Húshellis er hlaðið hús úr hraunhellum. Talið er að hleðslan sé mjög forn. Hellirinn greinist í tvennt er inn er komið. Heimildir eru um að útilegumenn hafi jafnvel hafst við í hellinum um tíma, en líklegra verður að telja að þarna hafi um tíma verið athvarf hreindýraveiðimanna. Til vinstri, þegar inn er komið, eru aðalgöngin og í þeim er talsvert af gripabeinum. Fyrst þegar komið var í hellinn mátti sjá þar hreindýrabein, en nú eru einungist eftir þar nokkur kindabein.

Hrútagjá

Hellir nálægt Selsvöllum.

Sagan segir að útilegumennirnir (á 18. öld) hafi áður verið við Selsvelli, en „flutt sig norður með fjöllunum“. Þar hafi þeir herjað á vegfarendur á leið um þjóðleið, „skammt frá Hvernum eina“, líkt og þjóðsaga og dómar fyrrum kveða á um. Sagt er í heimildum að yfirvaldið hafi lokað hellinum eftir handsömun þjófanna og „hefur hann ekki fundist síðan“. Það er hins vegar ekki allskuldar rétt..

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Væntanlega hefur þakið á húsinu í hellinum verið reft, en fjalirnar forfærst ásamt öðrum verðmætum, sem þar kunna að hafa verið. Gólfið hefur verið þakið mosa, sem nú er orðinn að mold. Þegar á botninn er hvolft gæti þarna líka hafa verið afdrep fyrir hreindýraveiðimenn á meðan þau dýr léku hér lausum hala. Til að botna vangavelturnar um útilegumenninna, staðsetta við gamla þjóðleið, má geta þess að Stórhöfðastígurinn liggur þarna skammt norðar. Við hann, örlítið ofan hellisins er hraunhólshróf. Í miðju hans er hið ágætasta skjól með útsýni yfir þjóðleiðina niður með Sandfelli að Fjallinu eina. Næst götunni hefur verið lagað til í hrófinu, þar sem útsýnið er hvað best. Staðurinn gæti hafa tengst útilegumönnunum í Húshelli?

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Maístjarnan er í senn heillegur og stórbrotinn hraunhellir. Hann er sérstaklega viðkvæmur vegna dropsteina og viðkvæmra hraunmyndana, en litadýrðin og hraunrásirnar eru engu líkar. 
Til að gera langa sögu stutta þá fundust hellarnir með þolinmæði og eftir talsverða leit. En hvorutveggja var líka þess virði, enda fundust nokkrir áður óþekktir hellar við leitina, s.s. Aðventan og nokkur önnur op, sem enn hafa ekki verið könnuð. Aðventan hlaut nafn í tilefni dagsins sem og tveimur dropsteinum á stalli, nokkurs konar altari, sem í hellinum eru.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli.

 

 

Grindavík

Tillaga að nokkrum stuttum gönguleiðum í umdæmi Grindavíkur:

Staðarhverfi

Staðarhverfi – kort ÓSÁ.

a. Staðarhverfi; Kóngsverslunin – Staður – Stóra-Gerði – Staðarvör – Staðarbrunnur – Hvirflar
b. Stóra-Bót: Virkið – Skyggnir – Junkaragerði – Fornavör – Sjávargatan – Járngerðardys
c. Sundvörðuhraun; “Tyrkjabyrgi” – “útilegumannahellir”
d. Eldvörp; jarðfræði – klepragígar – fagurt landslag – hrauntröð
e. Þorbjörn; Ræningjagjá – Camp Vail – Baðsvellir – Gálgaklettar
f. Hópsnes; Hóp – sjóbúðir – Sigga – skipsströnd

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi – ÓSÁ.

g. Þórkötlustaðanes; Strýthólahraun – fiskibyrgi – Leiftrunarhóll – saga útgerðar á fyrri huta 20. aldar – tilfærsa byggðar – minjar ískofa – lifrabræðsla – spil – fjaran
h. Þórkötlustaðahverfi; Buðlunga – Klöpp – Slokahraun – þurrkgarðar – byrgi – varir
i. Hraun; dys – Gamlibrunnur – kapella – krossrefagildra – Guðbjargarhellir– forn skírnarfontur – Hraunssandur
j. Vatnaheiði; K9 – Skógfellavegur – vatnsstæði – myllusteinagerð – hellir (skjól fyrir Tyrkjum)

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

k. Hópsheiði; Jónshellir – Skógfellavegur – Gálgaklettar – Eldborgir
l. Arnarseturshraun; Arnarseturshellir – vegavinnubúðir – Dollan – Kubbur – Hestshellir – Hnappur
m. Skipsstígur; Dýrfinnuhellir – Gíslhellir – forn þjóðleið – Rauðhóll
n. Ísólfsskáli; Hrauntangi – þurrkgarðar – byrgi – Hraunsnes – Rekagata
o. Selatangar; forn verstöð byrgi – hús – garðar – refagildrur – Katlahraun – fjárskjól
p. Húshólmi; fornar minjar – garðar – selstaða – fjárborg – grafreitur
q. Litlahraun; selstaða – rétt – fjárskjól – tóftir
r. Klofningar; Argrímshellir (Gvendarhellir) – Bálkahellir
s. Seljabót; Herdísarvíkursel – gerði – Keflavík – Bergsendar

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Ísland
Náttúrufræðingurinn William Jackson Hooker (1785-1865) samdi og gaf út ferðasögu í Lundúnum um Ísland og Íslendinga. Fyrsti „blómaleiðangur“ hans var til Íslands sumarið 1808 að undirlagi Sir Róberts Banks. Í ferðasögunni kenndi margra grasa.

William

William Jackson Hooker.

Hooker bar Íslendingum vel söguna, en landsmenn voru misjafnlega ánægðir með lýsingar hans af þeim í ritinu. Í því er að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð. Hér fer á eftir kafli úr bókinni, sem segir frá komunni til Reykjavíkur og lýsir sjómönnum og verkamönnum þar, eins og þeir komu höfundinum fyrir sjónir. Telja má líklegt að ekki hafi verið svo mikill munur á Reykvíkingum og öðrum íbúum Reykjanesskagans á þeim tíma. W.J.Hooker varð síðar stofnandi Blómagarðsins í Glasgow.

“Nokkrum klukkustundum eftir að við höfðum gefið ljósmerki, sáum við, að bátur með nokkrum hafnsögumönnum nálgaðist okkur.

Eldhús

Íslenskt Eldhús.

Það gladdi okkur að sjá einhver ný andlit, þótt mennirnir væru óþrifalegir og óþefur af þeim. Þeir voru svo skrýtnir, að vér hentum að því mikið gaman. Þeir voru flestir breiðleitir og ekki sérlega ljóslitaðir.
Flestir voru þeir lágvaxnir, en einn eða tveir þeirra voru fremur háir, ég held varla undir 6 fetum. Sumir þeirra voru ærið síðskeggjaðir, en aðrir ekki meira skeggjaðir en svo, að það gátu verið leifarnar eftir raksturinn með bitlausum hníf eða skærum. Hárið var alveg óhirt, enginn kambur hafði snert það, og féll niður á bak og herðar í flókum, og sást greinilega í því vargurinn og nitin, sem hefst sífellt við á þessum hluta líkamans, þegar hreinlætið er vanrækt…
BlómamyndÍ viðræðum virtust þeir vera mjög örir og höfðu allmikinn handaslátt og höfuðburð. En þegar eitthvað var sagt við þá eða þeim boðið eitthvað, sem gladdi þá, létu þeir ánægju sína í ljós með því að klóra sér og strjúka sig ákaflega og með því að aka sér. Þessir vesalingar gleyptu matvælin, sem við gáfum þeim, með mikilli græðgi. Þeir voru vel tenntir og bruddu harðasta kex okkar, svo að það varð meltanlegt á svipstundu….

Á ströndinni, þar sem við lentum, var hraungrýti, svart á lit og sums staðar molað, svo það var fínt eins og sandur…. Nú var fiskþurrunartíminn, og fólk var önnum kafið við að breiða, þegar við komum. Konur unnu mest að þessari vinnu. Sumar þeirra voru mjög stórar og þreklegar, en ákaflega óhreinar, og þegar við fórum fram hjá hópnum, lagði megnan þráaþef að vitum okkar…
Skotthúfa

Íslensk stúlka með skotthúfu.

Konurnar, sem þarna unnu, voru vissulega ekki að jafnaði steyptar í náttúrunnar fegursta móti, og sumar kerlingarnar voru ljótustu mannverur, sem ég hef augum litið. En í hópi ungu stúlknanna voru ýmsar, sem mundu hafa verið taldar laglegar, jafnvel í Englandi. Og litarháttur íslenskrar stúlku, sem ekki hefur orðið of mjög fyrir óblíðu náttúrunnar, þorlir samanburð við konur hvaða lands, sem er. Þær eru venjulega lægri en enskar konur, en samsvara sér vel og eru mjög heilsuhraustar eftir útliti þeirra að dæma.”

Íslendingar

Íslendingar á tímum Robert Banks.

 

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar,byggð 1943, sem u.þ.b. tíu árum síðar, varð að Sundhöll Hafnarfjarðar, varð áttræð 29. ágúst 2023. Af því tilefni voru sett upp upplýsingaskilti; eitt við Herjólfsgötu utan við Sundlaugina og svo þrjú í anddyri hennar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Frá vígslu Sundlaugar Hafnarfjarðar 1943.

Bygging sundlaugarinnar hófst árið 1940 en verkið tafðist vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Byggingu hennar var lokið árið 1943 og var sundlaugin formlega opnuð sunnudaginn 29. ágúst 1943. Sundlaugin í Hafnarfirði er glæsihús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Byggingarsaga laugarinnar átti sér nokkrun aðdraganda.

Á söguskiltinu utandyra má lesa eftirfarandi texta: „Skipulögð íþróttaiðkun hófst í Hafnarfirði haustið 1894 með leikfimikennslu í Flensborgarskólanum. Í skólaskýrslu fyrir þennan vetur segir að í leikfimi hafi m.a. verið kennt í sund á þurru landi.

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöl Hafnarfjarðar – skilti utandyra.

Það var þó ekki fyrr en árið 1909 sem eiginleg sundkennsla hófst í Hafnarfirði en þá var það Ungmennafélagið 17. júní sem stóð að kennslunni. Hún fór fram í sjónum út af Hamarskotsmöl en síðar við Hellufjöru og árið 1926 var sundkennslan færð vestur að Krosseyrarmölum. Var hún þar í tæpan áratug en var þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum, menn vildu „beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulýður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gagnlegustu íþrótt allra íþrótta, sund“. Á næstu árum komu fram ýmsar hugmyndir um staðsetningu laugarinnar en það var loks árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundæfingar neðan Krosseyrarmalar.

Árið 1843 mátti lesa eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: „Er hjer um hið merkasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Sjór er notaður í laugina og er hann hitaður upp með miðstöðvarhita. Fullkomin hreinsunartæki eru fyrir vatnið.“ Sundlaugin var opin allt árið en rekstrinum var skipt í þrjú tímabil. Frá 1. nóvember til 1. apríl var hún rekin sem baðhús. Mánuðina apríl, maí september og október var aðeins vatnið í grynnri enda hennar hitað og hreinsað og var sundlaugin því aðeins í fullri notkun yfir sumarmánuðina.

Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Samþykkt var að byggja yfir laugina árið 1951 og var hún vígð sem sundhöll tveimur árum síðar. Það var svo árið 1976 sem lögð var hitaveita í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til hins betra. Árið eftir vor settar upp tvær setlaugar í sólskýli við laugina“.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar -Upplýsingaskilti innandyra.

Á söguskiltunum innandyra stendur: „Sundkennsla í sjónum – Elstu heimildir um sundkennslu í Hafnarfirði eru frá árinu 1909 en þá var það Ungmennafélagi 17. júní sem stóð að kennslunni. Þar sem engin sundlaug var í bænum á þessum tíma fór kennslan fram í sjónum úf af Hamarskostmöl. Árið 1911 var tekin á leigu skúr sem stóð á mölinni og var hann notaður sem sundskáli þar sem nemendur gátu skipt um föt. Eftir að starfsemi Ungmennafélagsins lagðist niður, árið 1913, fól Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skólanefnd barnaskólans að annast kennsluna.

Sundlaug hafnarfjarðar

Fyrrum starfsmenn Sundhallarinnar voru heiðraðir með blómvendi í tilefni af 80 ára afmæli Sundlaugar Hafnarfjarðar.

Eins og áður segir fór kennslan fram á Hamarskotmöl, vestan við Vesturhamar en svo lengi fyrir sunnan hamarinn í svokallaðri Hellufjöru. Eftir að St. Jósepsspítali tók til starfa árið 1926 var nauðsynlegt að flytja sundkennsluna vegna frárennslis sem leitt var frá spítalanum niður í sjó. Var sundkennslan þá fær að svokölluðum Gatakletti vestur á Krosseyrarmölum og var sundskálinn fluttur með. Sundkennslan var þar í tæpan áratug en þá þurfti að flytja hana aftur þar sem mengunar var farið að gæta á svæðinu frá fiskvinnslustöðvum þar. Var sundaðstaðan þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundiðkun við Hamarskotsmöl 1915.

Eins og gefur að skilja var aðstaðan aldrei góð til sundiðkunar á meðan synt var í köldum sjónum. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum og var það meðal annars Sundfélag Hafnarfjarðar sem vildi „beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulúður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gegnlegustu íþrótt alla íþrótta, sund.“ Á næstu árum komu upp hugmyndir um byggingu laugarinnar við Strandgötu, við leikfimishús barnaskólans og loks við Krosseyrarmalir upp af Gatakletti. Það var svo árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun, sem Ágúst Pálson byggingarmeistari hafði unnið, af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.“

Sundlaug Hafnarfjarðar

Frá vígslu Sundlaugar Hafnarfjarðar 1943.

Vígsla laugarinnar – Föstudaginn 10. september 1943 mátti lesa í dagblaðinu Fálkanum eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: „Sundlaugin í Hafnarfirði varð vígð á sunnudaginn annan er var að viðstöddu miklu fjölmenni. Er hjer um hið merkilegasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Í anddyrinu er aðgöngumiðasala fyrir gestina og afgreiðsla á handklæðum og sundskýlum. Þá tekur við rúmgóður forsalur en úr honum er gengið inn í búningsklefana…“

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug verður að Sundhöll.

Sundlaug verður Sundhöll – Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var gömlu kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Fljótlega eftir opnun sundlaugarinnar fóru að heyrast raddir um að æskilegt væri að sundlaugin yrði yfirbyggð til að hægt væri að nýta hana betur allt árið. Skiptar skoðanir voru um málið og töldu sumir heppilegast að setja á hana hreyfanlega yfirbyggingu sem hægt væri að opma yfir sumarmánuðina. Fallið var frá þeirri hugmynd og samið við Byggingafélagið Þór um að byggja yfir laugina árið 1951.

HjálmarÍ Hjálmur 1943 mátti lesa eftirfarandi um Sundlaug Hafnarfjarðar: „Sunnudaginn 29. ágúst var vígð og tekin í notkun sundlaug sú, sem verið hefur í smíðum hér undanfarin ár. Var vígsuathöfnin öll hin hátíðlegasta svo sem hæfði þessu tækifæri.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar.

Sundlauginni þarf ekki að lýsa, þar sem öll blöð og útvarp hafa birt mjög ítarlega frásögn og lýsingu á henni og nú er fjöldi bæjarbúa búinn að kynnast henni af eigin raun. Hins vegar verður hér rakin í eins stuttu máli og mögulegt er saga sundlaugarbyggingarinnar: Óvíða á landinu er náttúran jafn ógjöful á sæmilegan baðstað og hér í Hafnarfirði. Þess vegna skapaðist hér fyrr hugmyndin um byggingu sundlaugar en víða annars staðar, þar sem nú eru fyrir löngu komnar sundlaugar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – sundiðkun neðan Krosseyrarmala.

Töluvert fyrir 1930 voru ýmis félög í bænum búin að samþykkja að styðja sundlaugarbyggingu og sum höfðu ákveðið að beita sér fyrir henni og fjársöfnun var hafin til sundlaugarbyggingarinnar. En allt þetta varð til lítils. Sundlaugarmálið sofnaði og var ekki vakið fyrr en 1934. Þá hélt Knattspyrnufélagið Haukar borgarafund um íþróttamál bæjarins og var sundlaugarmálið eitt af aðalmálum fundarins og var gerð í því máli ákveðin samþykkt. Nokkru síðar barst ýmsum félögum í bænum bréf frá bæjarstjóra, sem þá var Emil Jónsson, þar sem óskað var eftir tilnefningu þeirra í nefnd er forgöngu skyldi hafa um byggingu sundlaugar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – upplýsingaskilti innandyra.

Urðu þessi félög við ósk bæjarstjóra og nefndin var skipuð þessum mönnum: Frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar Guðmundur Gissurarson, og var hann formaður nefndarinnar, frá Verkamannafélaginu Hlíf Grímur Kr. Andrésson, frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar Magnús Þórðarson (varamaður Magnúsar var Hans Ólafsson, sem vegna fjarveru Magnúsar tók mikinn þátt í störfum nefndarinnar, Jóngeir E. Davíðsson kom síðar í nefndina sem aðalmaður Sjómannafélagsins). Frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Kára, Loftur Bjarnason, frá Barnaskóla Hafnarfjarðar, Guðjón Guðjónsson, frá Kennarafélagi Hafnarfjarðar Hallsteinn Hinriksson og frá íþróttafélögunum Hermann Guðmundsson.

Sundlaug HafnarfjarðarNefndin hóf þegar starf sitt með því að athuga stæði fyrir væntanlega sundlaugarbyggingu, en varð ekki sammála um það, hvort í sundlauginni skyldi vera vatn eða sjór. Ósamkomulag þetta leiddi til þess að nefndin var ekki starfshæf um langan tíma og má segja að hér um bil 5 ár hafi farið í togstreitu milli þeirra tveggja hluta, sem nefndin klofnaði í.

Loks á árinu 1939 náðist samkomulag í nefndinni um að byggja sjósundlaug, sem standa skyldi á Krosseyrarmölum. Voru þá strax hafnar framkvæmdir og byrjað að grafa grunn fyrir sundlaugina, en vegna ýmissa örðugleika miðaði verkinu mjög hægt áfram þar til á árinu 1941. Þá var hafin bygging sjálfrar laugarinnar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – söguskilti afhjúpað.

Árið eftir tók bærinn raunverulega sundlaugarbygginguna algerlega í sínar hendur með skipun þriggja manna í svo nefnt Sundráð, en í það voru skipaðir Guðmundur Gissurarson, Loftur Bjarnason og Ásgeir Stefánsson. Sundlaugarráðið hagaði þá þannig starfi sínu, að fullt tillit var tekið til samþykkta og ákvarðana sudlaugarnefndarinnar og á marga fundi Sundráðs var var sundlaugarnefndin kvödd.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – óyfirbyggð.

Fyrir dugnað og framtak sundráðs gekk bygging sundlaugarinnar mun betur en hægt var að búast við, og þann 29 ágúst var laugin komin upp og vígð, svo sem áður er að vikið. Er laugin hið myndarlegasta mannvirki. mun fullkomnari en áætlað var í fyrstu, en óyfirbyggð. Er það stór galli hvað snertir vetrarrekstur hennar, hins vegar er hún skemmtilegri óyfirbyggð að sumarlagi í góðri tíð.

Þetta er saga sundlaugarinnar til þessa, en saga hennar er ekki á enda þótt sundlaugin hafi verið vígð og tekin til notkunar, heldur er að eins um þáttaskifti að ræða og hefst nú nýr þáttur, sem ekki er síður þýðingarmikill en sá, sem liðinn er.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Teikning af endurbótum sem fyrirhugaðar eru á Sundhöllinni í framtíðinni.

Er þess að vænta, að bæjarbúar geri sitt til þess að gera þann þátt sem glæsilegastan með því að nota laugina almennt, svo að hún verði í raun og sannleika til þroska og manndóms fyrir Hafnfirðinga.“

Sundlaug Hafnarfjarðar

Í Sveitarstjórnarmál 1943 er fjallað um Sundlaug Hafnarfjarðar: „Sunnudaginn 29. ág. s. l. var opnuð til almenningsnota ný sundlaug í Hafnarfirði.

Fór sú athöfn fram með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni bæði úr Hafnarfirði og Reykjavík.
Sundlaug þessi er mikið mannvirki, er tekur yfir 700 fermetra svæði og er ein hæð. Hún er sjólaug og er við Krosseyrarmalir, í kvos vestan undir hraunbrúninni. Sjónum er dælt i laugina með rafmagnsdælu, hitaður upp með kolum og rafmagni og hreinsaður í fullkomnum hreinsunartækjum, sem vélsmiðjan Hamar í Reykjavík smíðaði og setti upp.

Sjálf laugarþróin er að stærð 25X8.5 m. Dýptin í grynnri endann er 90 cm, en 5 m í dýpri enda. Grynnri hluti laugarinnar er um helmingur af lengdinni, en með jöfnum halla frá 90 cm til 100 cm; úr því dýpkar ört í 5 m. Hrákarenna með niðurföllum er umhverfis alla laugina, enn fremur eru gangpallar með fram allri lauginni og eru að breidd 2 til 2.5 m. Búningsklefum, böðum og afgreiðslu er komið fyrir við grynnri enda laugarinnar…

Sundlaug

Sundlaug Hafnarfjarðar fyrrum – Hallsteinn kennir sund.

Bygging sundlaugarinnar hófst á árinu 1940, en tafðist á ýmsan hátt vegna vöntunar á nægilegu vinnuafli og vegna erfiðleika með að fá efni og alls konar tæki. Upphaflega var ákveðið að byggja sundlaugina með almennum samskotum og þá valin nefnd, er í áttu sæti menn frá ýmsum félagssamtökum í Hafnarfirði og frá bæjarstjórn. En vegna þess hve mannvirkið reyndist umfangsmikið og dýrt, vegna hinna breyttu tíma, varð niðurstaðan sú, að bærinn byggði laugina með styrk úr ríkissjóði. Alls söfnuðust 30 þúsundir króna með frjálsum samskotum. Gerð og fyrirkomulag sundlaugarinnar var ákveðið í samráði við húsameistara ríkisins, íþróttafulltrúa og íþróttanefnd ríkisins. Sundlaugin mun bafa kostað alls rúml. 500 þús. kr., og verður framlag frá ríkissjóði að líkindum 2/5 kostnaðar.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – frá vígslunni 1953.

Sundlaugin er rekin af Hafnarfjarðarkaupstað, og fer kennsla þar fram bæði fyrir skólanemendur og almenning. Með byggingu sundlaugarinnar hafa Hafnfirðingar hrint í framkvæmd miklu nauðsynja- og menningarmáli fyrir þennan mikla útgerðar- og sjómannannabæ.“

Alþýðublað Hafnarfjarðar fjallaði um byggingu sundlaugarinnar 1953 (blaðið var ekki gefið út 1943) undir fyrirsögninni „Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð – Hátíðleg athöfn kl. 2 í dag!“

Sundlaug Hafnarfjarðar„Hin nýja Sundhöll Hafnarfjarðar verður vígð á morgun. Hefur verið byggt yfir gömlu opnu sundlaugina og hafa þær framkvæmdir allar staðið yfir síðan á miðju árið 1951 að fjárfestingarleyfi fékkst fyrir byggingunni en þá hafði árangurslaust verið sótt um slíkt leyfi frá því árið 1947. Auk yfirbyggingarinnar var reist viðbygging að norðanverðu yfir þrjá stóra vatnsgeyma fyrir loftræstingarkerfið, böðin og miðstöðina. Er sundhöllin nú hituð bæði með rafmagnsnæturhitun og olíu. Ýmsar lagfæringar hafa verið gerðar á böðum laugarinnar, búningsklefar lagfærðir og endurbætur gera að á miðasölu o.fl. Er afar snyrtilega frá öllu gengið. Salurinn er bæði hitaður upp með miðstöð og lofthita en það loft er alltaf ferskt, tekið beint að utan, ekki hitað upp á ný. Sundhöllin verður opnuð á morgun kl. 14 með hátíðlegri athöfn. Á eftir verður fólki gefinn kostur a að skoða mannvirkið til kl. 3.30 en þá verður að rýma húsið svo hægt sé að hefja sundmótið „Reykjavík – Utanbæjarmenn“ kl. 5 e.h.“

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar frá vígsluathöfninni 1943.

Það var svo árið 1976 sem skipt var um þak á sundhallarasalnum auk sem hitaveita var lögð í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til his betra. Árið eftir voru settar upp tvær setlaugar í sólskýri laugarinnar og affallsvatn notað til að hita stéttar og sólskýli og við aðalinngang.“

Í umfjölluninni segir m.a.: „Sundhöll Hafnarfjarðar verður opnuð með hátíðlegri viðhöfn í dag, laugardag, 13. júní kl. 2 e.h. Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur, stuttar ræður flytja: Stefán Gunnlaugsson, formaður íþróttanefndar Hafnarfjarðar, Helgi Hannesson, bæjarstjóri, Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi og Jón Egilsson, formaður ÍBH. Að því loknu verður fólki gefinn kostur á að skoða stundhallarbygginguna. Kl. 5 hefst svo sundmót og keppa þar Reykvíkingar við sundmenn úr Hafnarfirði og utan af landi.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – vígsla. 1953.

Bæjarstjórnarmeirihluti Alþýðuflokksins hefur alla tíð lagt á það áherslu og að því unnið eftir því sem efni og ástæður hafa leyft á hverjum tíma, að íþróttamönnum þessa bæjar yrði sköpuð viðunandi skilyrði til iðkunar hinna ýmsu íþróttagreina. Því íþróttir geta verið heilsusamlegar og göfgandi og eru eitt af því ákjósanlegasta, sem ungir menn og konur taka sér fyrir hendur í tómstundum sínum. Nú er það að vísu svo, að skilyrði og aðstæður til íþróttaiðkanda hér í bæ eru enn ekki svo góðar, sem æskilegast væri. En vafalaust stendur það til bóta og er þess að vænta, að sameiginlegt átak íþróttamanna og bæjarfélagsins í þessum málum megi í náinni framtíð skapa hafnfirskri íþróttaæsku þau skilyrði sem hún megi vel við una.

Bygging sundlaugarinnar
Sundlaug HafnarfjarðarBygging sundlaugarinnar var á sínum tíma einn liður í þeirri stefnu Alþýðuflokksmeirihlutans í bæjarstjórn, að bæta aðstæður til íþróttaiðkana.

Þýðing upphitaðrar sundlaugar er augljós. sem heilsulind og orkugjafi þeirra, sem hana skja. Auk þess er sundkunnátta nauðsynleg hverjum manni, til þee að bjarga sínu lífi og annarra frá drukknun.

Yfirbygging sundlaugarinnar var áframhald og einn liður þeirrar stefnu Alþýðuflokksins sem miðar að því að skapa Hafnfirðingum sem best og fullkomnust tæki til gagnlegra íþróttaiðkanda og hollra tómstundaskemmtana.

Bygging sundhallar ákveðin

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar 1953.

Yfirbygging sundlaugarinnar er mál, sem búið er að vera á döfinni nú um nokkurra ára skeið. Til að byrja með voru um það nokkuð skiptar skoðanir, hvort að rétt væri að byggja yfir laugina eða ekki.

Árið 1947 ákvað svo Alþýðuflokksmeirihlutinn í bæjarstjórn að láta til skarar skríða og hefja framkvæmdir þá þegar. En til þess að svo gæti orðið, varð fjárhagsráð að leggja blessun sína yfir þá fyrirætlun Alþýðuflokksins og veita fjárfestingarleyfi til byggingarinnar. Fjárhagsráð synjaði. Árin 1948, 1949, 1950 og 1951 voru aftur sendar umsóknir og alltaf synjaði fjárhagsráð. Þá varð það að fulltrúi Alþýðuflokksins, Baldvin Jónsson, í fjárhagsráði áfrýjaði ákvörðun meirihluta ráðsins, sem voru fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, til þess ráðherra í ríkisstjórn, sem fer með íþróttamál. Fulltrúar frá bæjarstjórn og íþróttasamtökunum hér í bæ fóru á fund ráðherrans til að ræða þetta mál. Árangurinn af þeirri málaleitan varð sá, að áfrýjun fulltrúa Alþýðuflokksins í fjárhagsráði var tekin til greina og fjárfestingarleyfið loksins veitt.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar 2022.

Allt frá árinu 1947 var að því unnið af hálfu bæjarstjórnar, að fjárfestingarleyfi fengist. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárhagsráði stóðu ávallt gegn þessari málaleitan Hafnfirðinga. Fulltrúi Alþýðuflokksins var sá eini í fjárhagsráði, sem ætíð var málinu fylgjandi og greiddi því atkvæði sitt.

Sundhallarbyggingunni lokið
Strax og fjárfestingarleyfið var fengið var hafist handa um byggingarframkvæmdirnar. Byggingafélagið „Þór“ h.f. tók að sér að gera bygginguna fokhelda. Yfirsmiður var Sigurbjartur Vilhjálmsson, en múrarameistari var Sigurjón Jónsson.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – frá vígslunni 1953.

Tréverk annaðist Gestur Gamalíelsson, trésmíðameistari og Byggingafélagið „Þór“ h.f. Málarameistarar voru Aðalsteinn Egilsson og Þórður Sigurðsson. Miðstöðvarlagningu önnuðust Vélsmiðjan Klettur h.f. og Jón Pálsson. Rafvirkjameistari var Sigurjón Guðmundsson. Vatnsgeyma smíðuðu Bror Westerlund og Rafha. Hamar h.f. sá um smíði lofthitunartækja. Yfirumsjón með byggingarframkvæmdum öllum hafði sundhallarforstjórinn Yngvi R. Baldvinsson.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar 2022.

Jafnframt því sem byggt hefur verið yfir laugina, voru gerðar ýmsar endurbætur og lagfæringar á böðum og búningsklefum, komið á rafmagnsnæturhitun, svo hin nýja sundhöll verður upphituð með hvoru tveggja, olíu og rafmagni. Upphitun á sundhallarsalnum er frá lofthitun og ofnum. Reist var viðbygging við sundhallarhúsið að norðanverðu, yfir vatnsgeyma.

Byggingarkostnaðurinn mun nema um 850 þús. kr. Byggingu sundhallarinnar er nú lokið, að öðru leyti en því, að eftir er að múrhúða húsið að utan og útbúa sólskýli, sem fyrirhugað er að verði suð-austan við sundhöllina. Standa vonir til að því verki verði lokið sem fyrst.“

Heimildir:
-Upplýsingaskilti utan og innan Sundlaugar (Sundhallar) Hafnarfjarðar.
-Hjálmur, 7.-8. tbl. 18.09.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Sveitarstjórnarmál 01.12.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 31-32.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 13.06.1953, Bygging sundlaugarinnar, bls. 1 og 4.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar 2023.

Grindavík

Hér á eftir er fjallað um nokkur áhugaverð atriði er varða Grindavík. Fólk á leið í og um bæinn gæti nýtt sér þennan fróðleik til að upplifa hluta af sögu hans því flest það, sem minnst er á má sjá með berum augum ef vel er að gáð.

Þorbjörn

Þorbjörn.

1. Það er alltaf sól í Grindavík – stundum að vísu á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og svo til ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. FERLIR hefur farið um 1310 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtingu skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, eitt helsta sérkenni okkar Íslendinga.

Arnarklettur

Arnarklettur.

2. Mikilvægt er fyrir leiðfarendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlega og leitandi að einhverju áður ókunnu. Nægan eldivið fyrir slíkt er að finna í Grindavík og nágrenni.
3. Mörk Grindavíkur að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Seltjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, og ekki síst ströndin, er víðfeðmt.
4. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að aðalútflutnings- og söluvöru landsins og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðirnar á Reykjanesskaganum, ekki síst til að geta brauðfætt áhangendur biskups og skólasveina hans. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiði til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

5. Sagan segir (Landnámabók) að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Afritum Landnámu ber þó ekki saman um fjölda sona Molda-Gnúps – meira um það á eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

6. Njarðvíkursel er sunnan við Selvatn. Rústir má sjá þar glögglega og sennilega er það eitt nærtækasta selið á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 metra frá veginum – þó utan umdæmis Grindavíkur. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
7. Eitt af viðfangsefnum góðra ferðamanna er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbása sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma. Þá tekur Saga Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór á flestu hinum markverðasta um sögu og staðhætti í Grindavíkurumdæmi.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

8. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærsla byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem örlög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Eimir af því enn þann dag í dag í samskiptum fólksins. Hver landbleðill var nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurfti ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til tímabundinna afnota. Sumir ílengdust. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.

Járngerðarstaðir

Járngerðastaðahverfi í Grindavíkurhreppi – túnakort.

9. Útgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað er áhugavert að fara til að rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði og minjarnar þar er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

10. Á Gíghæð má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili. Hestshellir er þar í leiðinni sem og nokkur heilleg og hús. Arnarseturshraunið rann árið 1226. Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca 2400 ára.
11. Dollan er um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutæki er nota var við vinnu nýja vegarins. Stuttan stiga þarf til að komast niður í hann um jarðfallið. Dæmigerður fyrir u.þ.b. fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

12. Skógfellahraun er eldra en Arnarseturshraun. Hraun á sögulegum tíma eru nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er hins vegar eldra. Það er myndað af gosi í Vatnsheiði, en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.
13. Á Baðsvöllum voru sel Grindvíkinga um tíma, en voru færð á Selsvelli vegna ofbeitar. Þar eru margar tóftir og minjar, djúpt markaðir stígar og vatnsstæði. Hópssel er hins vegar við veginn, visntra megin, rétt áður en komið er að Selhálsi milli Þorbjarnarfells og Svartsengisfjalls.
14. Þorbjarnarfellið er ekki síst merkilegt fyrir misgengið er liggur í gegnum fjallið. Sjá má hvernig miðja fjallsins hefur fallið niður og bergveggir stannda eftir beggja vegna. Sagnir um þjófa er héldu til í fjallinu og herjuðu þaðan á íbúana. Ræningjagja er í fjallinu, en Baðsvellir norðan þess og Gálgaklettar austar. Allir tengjast þessir staðir sögunni.

Hraun

Hraunsvör.

15. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir. En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis. Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök. Fátt er heilsusamlegra en að ganga rekann eða ráfa um fjörurnar í góðu veðri, anda að sér sjávaranganum og skoða aðfallslífið.

Grindavík

Grindavík.

16. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv. sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku er skildi eftir sig dys á Hrauni.
17. Skipsstígur liggur milli Njarðvíkur og Grindavikur, um Rauðamel og áfram þar sem hann klofnar í Árnastíg er liggur niður að Húsatóftum. Við Skipsstíg er m.a. Gíslhellir, skjól eða athvarf einhverra, sem þar vildu dvelja.
18. Sögufrægir staðir eru í umdæminu, s.s. Selatangar og Húshólmi. Á Selatöngum er gamalt útver með öllum þeim minjum, sem þeim fylgja, og í Húshólma eru með merkustu fornleifum landsins, líklega frá upphafi landnáms hér á landi.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

19. Kóngsverslunin var neðan Húsatófta. Þar má í dag m.a. sjá kítarpípur koma undan tóftunum, sem sjóinn er óðum að brjóta iður – Festasker eru utar. Þarna er hin flóraða Staðarvör, bærinn Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914), sem nú er verið að endurgera, og Hvirflarnir, rústir ofan við gömlu bryggjuna í Staðarhverfi. Bjallan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 við Jónssíðubás utan við Húsatóftir er í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Sagt er að á meðan hún stendur mun ekkert illt henta Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
20. Sýlingarfell er mið af sjó. Annars heitir það Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps. Á kolli þess er fallegur gígur.
21. Hópsselið er við veginn skömmu áður en komið er upp á Selháls.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

22. Á Þorbjarnarfelli var um tíma bækistöð Breta. Enn má sjá grunnam hleðslur og vegi uppi á fjallinu sem minjar þessa.
23. Gálgaklettar eru ofan við Hagafell. Þeir tengjast sögunni um ræningjana í Þorbjarnarfelli.
24. Skipsstígur hefur verið endurgerður að hluta utan í Lágafelli –Við hann er Dýfinnuhellir er tengist sögu af samnefndri konu er þangað flúði með börn sín eftir að Tyrkirnir stigu á land í Grindavík.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

25. Fornavör er neðan Járngerðarstaða. Frá bænum lá sjávargatan framhjá Járngerðarleiði, er nú má sjá í eitt hornið af undir veginum gegnt Hliði.
26. Stóra-Bót geymir Virki Jóhanns breiða og samlanda hans og stendur sem minnisvarði um lok ensku aldarinnar hér á landi. Þar er og Junkaragerðið, sem fyrr segir.
27. Einisdalur er fallegur áningastaður vestan Járngerðarstaða.
28. Hóp hefur af sumum verið talið vera landnámsjörð Molda-Gnúps. Hann átti þrjá sonu sbr. Hauksbók, en fjóra sbr. Sturlubók. Þeir hétu a.m.k. Björn (Hafur-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi, sem Þórðarfell er kennt við. Fjórði bróðirinn á að hafa verið Gnúpur er Gnúpshlíðarháls er kenndur við. Talið er jafnvel að landnámið hafi verið þar sem Hóp er nú. Getið er jarðarinnar Hofs í rekamáldaga Skálholtskirkju frá árinu 1270.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Engin jörð við Grindavík hefur borið það nafn á síðari öldum. Um misritun gæti hafa verið að ræða. Hof gæti líka hafa breyst í Hóp eftir að kristni af innleidd. Við Hóp er öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending og mikil fjörugæði. Þar er tóft, sem nefnd er Goðatótt og ekki hefur mátt hrófla við.

Þórkötlustaðanes

Sögusviðið í Þórkötlustaðanesi.

29. Í Þórkötlustaðahverfi má m.a. finna dys Þórkötlu, fiskbyrgi og -garða í Slokahrauni og við Hraun er 14. aldra kapella, Gamlibrunnur, Tyrkjadys, refagildrur og Tyrkjahellir.
30. Þórkötlustaðanesið er lifandi minjasafn um útgerð sjávarþorps á fyrri hluta 20. aldar, semnú er horfið. Eftir standa íshúsin, fiskkofarnir, garðarnir, uppsátrið, rústir lifrabræðslu og grunnar húsa, sem fjarlægð hafa verið og flutt í önnur hverfi – meira lifandi.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Sagan
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934.

Grindavík

Grindavík – kort.

Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.
GrindavíkUpphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl., en eru nú um hálft þriðjaþúsund. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú höfum við bætt við menningu okkar hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar höfum við eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem Íslendinga.

Atvinnulífið

Grindavík

Grindavík 1924.

Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal stærstu fyrirtækjanna má telja Þorbjörn-Fiskanes hf, Stakkavík,Vísir og Samherji/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Þótt Grindavík hafi lengst af byggt afkomu sína á sjávarútvegi hefur á síðustu árum orðið verulegur samdráttur í vinnu landverkafólks og það ýtt undir leit að nýjum atvinnutækifærum. Aukin vinna við þjónustu kom með byggingu glæsilegrar langlegudeildar í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík. Deildin tilheyrir Sjúkrastofnun Suðurnesja í Keflavík.

Saltfisksetur

Í Satfisksetri Íslands.

Þá varð mikill uppgangur í þjónustu við ferðamenn með uppbyggingunni við Bláalónið og tilkomu Saltfiskseturs Íslands í Grindavík. Þar er verið að byggja hótel og meðferðaraðstöðu við Lónið á nýjum stað þar sem baðgestir eru alveg öruggir og öll aðstaða verður eins og best verður á kosið. Nú er hótel við Bláalónið, veitingastaður og einnig fer þar fram vinnsla á heilsuvörum sem unnar eru úr efnum úr Lóninu. Í bænum er öll nauðsynleg þjónusta heilsugæsla, tannlæknir, verslanir, löggæsla, skrifstofa Sýslumanns.

Ferðamenn velkomnir 

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Hér eru nokkur veitingahús, gistihús, hótel og tjaldstæði, ný útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarsal og gufubaði, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er hestaleiga, silungsveiði, góður 13 holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi við sjóinn. Hægt er að fara í sjóstangaveiði eða útsýnissiglingu.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Þá spyr fólk gjarnan eftir Sólarvéinu sem staðsett er milli íþróttahússins og Félagsheimilisins Festi. Það er heiðið listaverk tileinkað sólinni. Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey, en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Saltfisksetur Íslands í Grindavík er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina, er þetta eitt af þeim söfnum sem ferðamaðurinn getur ekki sleppt, þar kemst hann í nálægt við allt sem tengist verkunninni, lykt, hljóð og sjón.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

Grindavík er skammt frá Keflavík og í aðeins 50km. fjarlægð frá Reykjavík. Grindavík er tilvalinn staður að heimsækja hvort heldur sem menn vilja fjölbreytta afþreyingu, eða njóta þess að slaka á í skemmtilegu umhverfi.

Upplýsingaskrifstofa fyrir ferðafólk er rekin allt árið í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.

Umdæmið nær frá Valahnúk í vestri að Seljabót í austri.

Virkið

Virki Jóhanns breiða.

Nokkrir atburðir
Grindavíkurstríðið 1532
Tyrkjaránið 1627
Bátasendaflóðið 1799
Skipsskaðar; Alnaby, Clam, Skúli fógeti
Byggðaþróun – Staðarhverfi – Þórkötlustaðahverfi – Járngerðarstaðahverfi

Sagnir.
TYRKJAR Í GRINDAVÍK
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
(Jón Árnason)

ÞORKATLA OG JÁRNGERÐUR

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af.

Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.
(Jón Árnason)

FESTARFJALL

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
(Ruðskinna)

SILFURGJÁ

Sifra

Silfurgjá.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur.

Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.
(Rauðskinna)

GAMLA KIRKJAN

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja.

Gamla Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum tímum. Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982, frá árinu 1988 hefur verið starfrækt barnaheimili í kirkjunni. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina.

Nokkir staðir áhugaverðir staðir
Staðahverfi, Stórabót, Eldvörp, Hópsnes, Selatangar, Húshólmi, Krýsuvík, Klofningar, Krýsuvíurberg, Selalda, Selsvellir, Baðsvellir Gálgaklettar, Hraunsandur og Festisfjall.

Heimildir:
-grindavik.is
-Saga Grindavíkur
-Tómas Þorvaldsson – ævisaga
-Milli Valahnúka og Seljabótar – Guðfinnur Einarsson
-https://ferlir.is/grindavik-svavar-arnason/

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/

Vatnsleysuströnd

Landnám.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.

Eftir landnám.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.

– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

– 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

Kirkjur.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.

Stefán Thorarensen

Stefán Thorarensen.

Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi. Viðeyjarklaustur – landsetar konungs.
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á síðunni.

Framfarir.

Vogar

Vogar 1954.

Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogsvör – loftmynd.

Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Vogar
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

Áhugaverðir staðir.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

– Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.

– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378m, Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

Sögur og sagnir.

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.

“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti.

Stapagata

Stapavegur.

Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!

Staðarborg

Staðarborg.

Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

-Samantekt Viktor Guðmundsson.

Heimildir.
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland .1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.
www.bokasafn.rnb.is.
www.ferlir.is

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Tyrkjaránið

Á skilti við Grindavíkurkirkju má lesa eftirfarandi texta um Tyrkjaránið. (Skiltið er reyndar óþarflega stórt því til hliðar eru önnur jafnsstór á fimm öðrum tungumálum (sem auðvelt ætti að vera að nálgast á Google translate (þýðingar)). Óþarfi er að vanmeta áhuga útlendinga á íslenskunni.

Tyrkjaránið – Árásin á Grindavík

Grindavík

Grindavík – upplýsingarskilti um Tyrkjaránið við Grindarvíkurkirkju.

Í júnímánuði á því herrans ári 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt byrtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæsltu á þýska tungu, sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.

Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.

Grindavík

Grindavík – upplýsingar um Tyrkjaránið við Grindavíkurkirkju.

Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.

Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna. Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyja beið þess sem verða vili. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af sta. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.

Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 mann hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Að því búnu hugðust illmennin halda burt en sáu þá til ferða annars dansks kaupfars. Þeir sýnu á ný klækindi sín með því að draga að húni danska hornveifu sem þeir höfðu rænt í landi.

Þannig ginntu þeir skipið til sín og reyndist þeim auðvelt að hremma þessa nýju bráð, bæði farm og áhöfn.

Grindvíkingar urðu illa fyrir barðinu á þessum ránsmönnum en komu þó skilaboðum til annarra byggðalaga sem reyndu af veikum mætti að búa sig undir komu vágestanna.

Grindavík

Grindavík – sögu og minjaskilti við Járngerðarstaði. Sjá meira á ferlir.is.

Þeir fundir fóru ýmislega en sú saga verður ekki rakin hér frekar.

Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn í dag finna á þremur stöðum í Grindavík. – (Matthías Kristiansen tók saman á grundvelli bókar Jóns Helgasonar – Tyrkjaránið, sem Setberg gaf út í Reykjavík 1963).

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Markhella

Löngum hefur verið deilt um hvar mörk einstakra jarða liggja eða eiga að liggja.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

FERLIR áskotnaðist nýlega kort af Reykjanesskaganum þar sem tíunduð eru mörk allra stærri jarða á skaganum. Landamerkja jarða er m.a. getið í afsals- og veðmálsbókum. Upphaflegar þinglýsingar er að finna hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, hjá sýslumanninum í Keflavík eftir 1974 og einnig má hafa uppi á þeim á Þjóðskjalasafninu.
Krýsuvík, sbr. veðmálsbók 14.5 1890, þingl. 20.6. 1890, er sögð hafa mörk “1) að vestan; sjónhending úr Dágon (Raufarkletti), sem er klettur við flæðamál á Selatöngum, í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðavatnsstæði. 2) að norðan; úr Markhelluhól sjónhending norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (=Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu. 3) að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur s: sjónhending úr Kóngsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Ítök sem kirkjan á eru þau, sem nú skal greina: 1) Einn fjóri hluti (1/4) alls hvalreka fyrir Strandarkirkjulandi samkvæmt máldögum og samningi, dags. 22. október 18??, staðfestum af Stiptsyfirvöldum Íslands 27. nóvember s.á. 2) Hálfur hvalrki á Hraunnefi, frá vestri fjörumörkum Krýsuvíkur, Dagon, að Rangagjögri, samkvæmt Wilkins og Gíslamáldaga. Skipsuppdráttur í Nausthólsvík í Kálfatjarnarkirkjulandi samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna. Ítök sem aðrir eiga í landi kirkjunnar eru þessi: Tveir þriðjungar af hvalreka fyrir Herdísarvíkurlandi, frá Seljabótanefi að Breiðabás (Helli) sem samkvæmt nefndum máldögum er eign Strandarkirkju. Mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju. Brennisteinsnámur allar á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi með réttindum og skyldum, sem afsalsbréf, dags. 30.9. og 4.10 1858 tekur fram. Ítak þetta er eign útlendinga. Þess skal hér getið að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem ég ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigandi orðið ásáttir um landamerki þau sem hér eru talin.”

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Mörk jarðarinnar Hrauns, skv. gögnunum, eru t.d. við mörk Þórkötlustaða úr „markabás“ inn til heiða vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall upp af „Sogaselsdal“, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkum jarðarinnar Krýsuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Þaðan til suðurs fram yfir Festargnípu í fjöru.

Mörk Þórustaða í austri eru t.a.m. sögð vera „í hæsta hnúkinn á Grænavatnsengjum (-eggjum)“ þar sem eru fyrir landamörk Krýsuvíkur.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Þarna hefur fólk löngum deilt um mörkin, en ef lesnar eru afsals- og þinglýsingar ætti ekki að vera svo erfitt að draga landamerkjalínuna, einkum er höfð er í huga yfirlýsing Vatnsleysustrandarbænda dags. í maí 1920 þar sem þeir „fyrirbjóða innbyggjendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Knarrarnesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru…“. Þar draga þeir línu að fyrrnefndum viðurkenndum mörkum Krýsuvíkur í Trölladyngju.
Krýsuvík hafði, auk þess að nýta Sogagíg sem selstöðu, í seli austast í Selöldu (mjög gamalt), í Húshólma, á Vigdísarvöllum, í Seltúni og jafnvel í Litlahrauni, en þessir staðir eru allir innan landamarka jarðarinnar.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þingvellir

Alþingi var stofnað á Þingvöllum við Öxará árið 930. Það er elsta stofnun íslensks samfélags. Þingið, þinghaldið og hlutverk Alþingis í samfélaginu hafa tekið miklum breytingum frá upphafi.

Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum á Íslandi árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Hátíðin var formlega sett af Kristjáni 10. 26. júní og var slitið 28. júní. Um 40 þúsund manns sótti hátíðina.

Alþingi

Hátíðarblað Morgunblaðsins 1930.

Í tilefni af eitt þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 gaf Morgunblaðið út sérstakt Hátíðarblað. Þar var m.a. að finna greinar eftir Eggert (Eiríksson) Briem, búfræðingur og bóndi í Viðey, og Einar Arnórsson, ráðherra Íslands 1915–1917 og dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944, um sögu þessarar merku stofnunar.

„Á 1000 ára afmæli Alþingis og hins íslenska ríkis, er rjett að horfa yfir farinn veg og íhuga, hvernig þjóðarhögum vorum er nú komið. Í þessu blaði er gerð nokkur tilraun að gefa lesendum útsýn yfir stofnun og þróunarsögu Alþingis og jafnframt yfir nokkra helstu þætti þjóðlífsins — atvinnuvegi og þjóðmenningu.
Er hjer brugðið upp nokkrum myndum frá niðurlægingartímunum, en meiri alúð hefir þó verið lögð við það, að lýsa hinu stutta framfaraskeiði þjóðarinnar, og hvernig umhorfs er í landinu.

Þingvellir

Þingvellir.

Hjer er ekki um nein tímamót að ræða, nema að árum. Þjóðin er í önnum, og alt ber þess vitni, hvert sem litið er. Alt er hjer eins og hálfgert, líkt og um miðjan bjargræðistíma — framfarirnar í miðju kafi eins og hálfsögð saga. En einmitt vegna þess, hefir sú kynslóð, sem nú er uppi, bjargfasta trú á landinu — að hjer sje enn ófundin margskonar auðæfi, að hjer sje nóg orka til þess að vinna þau verk, er hafið geti hina fámennu þjóð til vegs og gengis á komandi öldum.“

Alþingi hið forna – Eggert Briem (1879-1939)

Alþingi„Eins og kunnugt er, er mönnum orðið ljóst, að Alþingi sje framhald og ávöxtur af Kjalarnesþingi, og að Þorstein Ingólfsson beri því að telja þann manninn, er upptök og framkvæmdir átti að því, að Alþingi komst á. Um tilhögun Alþingis í öndverðu eru aftur á móti skiftar skoðanir. Greinir menn á um það, hvort í upphafi hafi aðeins ein stofnun verið á þinginu, lögrjetta, eins og var í Noregi, eftir þeim fornu lögum Noregs, sem til eru, eða skipaður hafi verið jafnframt sjerstakur alþingisdómur. Þetta atriði og aðra skipun Alþingis, sem um er deilt, hefi jeg rannsakað undanfarin ár, og hafa þær rannsóknir leitt til algerlega nýrrar niðurstöðu. Skal hjer í stuttu máli drepið á sumt af því helsta, þótt hjer sje ekki rúm til að rökstyðja það nema að litlu leyti, nje heldur að skýra frá skoðunum annara og gera samanburð á þeim og niðurstöðu rannsókna minna.

Eggert (Eiríksson) Briem

Eggert (Eiríksson) Briem – 1879-1939.

Höfðingjavaldið er það, sem einkennir Alþingi hið forna. Höfðingjar þeir, sem með völdin fóru á þinginu, víðsvegar af landinu, voru upphaflega 36 að tölu. Voru þeir kallaðir landsmenn á sama hátt og höfðingjar fjórðunganna ettir fjórðungaskiftingu voru kallaðir fjórðungsmenn. Þeir 36 landsmenn, sem með völdin fóru á Alþingi, ræddu þar og rjeðu allsherjarmálum þjóðarinnar til lykta. En til þess að dæma einkamál manna, nefndi hver landsmaður einn dómanda meðal þingmanna sinna í sjerstakan alþingisdóm, er dæmdi málin.

Þessi tilhögun er frum-germönsk, eða sú tilhögun er ríkti meðal Germana samkvæmt elstu heimildum. Þar er rit Tacitusar, „Germania“, frumheimildin. En svo sem kunnugt er, hefir frásögn hans í XI. kap. ritsins verið skilin svo, að hann segi þar, að allir frjálsir menn á þingum Germana hafi tekið fullnaðarákvörðun um stórmálin.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

En jeg hefi komist að raun um, að þetta er misskilningur og hægt er að sanna, að tilhögunin var í þess stað sú, að kynbornir höfðingjar rjeðu þar stórmálum til lykta, en nefndu aftur þingmenn sína í dóm, eins og átti sjer stað á Íslandi.
Þessi tilhögun skoða jeg því að enginn vafi geti leikið á, að einnig hafi ríkt í Noregi fyrir daga Haralds hárfagra, og svo sem jeg hefi leitt nokkur rök að í bók minni um Harald hárfagra, þá er ástæða til að ætla, að í Frostaþingslögum hafi höfðingjavaldið fyrir hans daga bygst á mannaforráðum, eins og á Íslandi.

Þar sem Alþingi er frum-germönsk stofnun, er þekkingin á stjórnarskipun Íslands fyrstu aldirnar ekki aðeins mikilsverð fyrir Íslendinga sjálfa, heldur einnig allar aðrar þjóðir, sem af germönsku bergi eru brotnar, til þess að skilja sem gerst sögu þeirra frá elstu tímum og fram á þennan dag.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Frelsi og frjálsræði var aðalundirstaða fjelagslífsins á Íslandi í fornöld. Þeir, sem mannaforráð höfðu, voru fullvalda höfðingjar hver um sig, og allsherjarríkið grundvallaðist á frjálsu bandalagi þeirra, þannig að höfðingjunum var frjálst að segja sig úr lögum hverjir við aðra, eins og fram kom á Alþingi árið 1000, þegar deilt var um trúna. — Undirmönnunum var á sama hátt frjálst að skifta um höfðingja og gerast þegnar þess höfðingja, er þeir kusu helst að þjóna, ef hann vildi við þeim taka. í þessu var hið forn-germanska lýðfrelsi fólgið.

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.

Þessi tilhögun, sem ríkti á Íslandi rúmar þrjár aldir, er að mínu áliti merkilegustu leifar hins forn-germanska fjelagslífs, sem sögur fara af. Mannaforráðin kenndu almenningi, að gera sjer grein fyrir, að það er ekki sama, hvernig stjórnað er, og meta það, hversu mikils virði það er fyrir fjöldann, að vel sje stjórnað. Þeir höfðingjar, er ekki voru hæfir til þess að fara með völd, urðu að þoka fyrir hinum, er sýndu það í verki, að þeir kunnu að stjórna fólki. Afleiðingin varð því sú, að höfðingjaættirnar urðu úrvalsættir að ættgöfgi og stjórnviska var í hávegum höfð.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Svo sem kunnugt er, telja menn, að aðalstofnun Alþingis hafi verið lögrjetta, og lögberg hafi einungis verið heiti á auglýsingastað þingsins. En rannsóknir mínar hafa leitt til þess að lögberg hafi jafnframt verið heiti á þingstofnun, er dregið hafi nafn sitt af staðnum, þar sem hún hafði aðsetur. Og niðurstaðan er, að þessi þingstofnun hafi ekki aðeins verið lögbirtingasamkoma þingsins, heldur aðalstofnun Alþingis, þangað sem öllum málum, er fyrir þingið voru lögð, hafi fyrst verið beint, með því að upphaflega hafi allar athafnir þingsins utan lögbergs verið þar ákveðnar og þaðan hafnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Hjer er ekki rúm til að rökræða þessa athugun mína, um tilhögun hins forna Alþingis, en á hinn bóginn vil jeg verða við þeim tilmælum, að skýra í fám orðum frá niðurstöðu minni um það, hvert hafi verið verksvið þeirra tveggja stofnana, lögbergs og lögrjettu, er jeg skoða að á Alþingi hafi verið, þegar það var í upphafi sett. Lögbergsstofnunin var skipuð þeim 36 landsmönnum, er æðstu völd höfðu í landinu. Lýsingar saka og stefnur voru því aðeins lögmætar, að þær væru sagðar fram „at lögbergi“, sem þýðir: á lögbergsfundi. Til þess að þessir lögbergsfundir væru lögmætir, útheimtist, að meirihluti hinna 36 landsmanna, er lögbergsstofnunina skipuðu, væru á fundi, ásamt lögsögumanni.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Sama gilti og um dómnefnuna, er fór fram í Hamraskarði þar á fundarstaðnum út frá lögbergi, sem alþingisdómurinn sat og dæmdi málin, jafnskjótt og höfðingjarnir höfðu tekið fundarályktun um að dómurinn skyldi taka til starfa. Voru málin upphaflega sótt og varin á lögbergsfundum og þar dæmd. Lögsagan fór fram að lögbergi og urðu þá allir landsmenn að vera á fundi. En ef þeir höfðu ekki tóm til þess, urðu þeir að láta báða umráðamenn sína í lögrjettu hlýða á uppsöguna í sinn stað. Þegar lagabreytingum eða nýmælum var hreyft á Alþingi, Voru þau mál fyrst lögð fyrir lögbergsfund, og borin fram af einhverjum landsmanni. Að umræðu lokinni var það borið undir atkvæði landsmanna, hvort máli skyldi vísað til lögrjettunnar, eða ekki. Að lögbergi rjeð afl atkvæða, og var mál fallið á þinginu, ef því var ekki vísað þar til lögrjettunnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Linun eða eftirgjöf á refsingum og aðrar undanþágur, er veittar voru á Alþingi, hjetu einu nafni lof eða alþingislof í fornöld. Hjet það ýmist sýknulof eða sýknuleyfi, er sekum manni var gefin upp sekt hans. Sáttaleyfi var það kallað, er Alþingi veitti mönnum leyfi til að sættast, en slíkt leyfi var nauðsynlegt, er um víg var að ræða eða áverka veittan á þingi, og fleiri sakamál, er þungar refsingar lágu við, því að öðrum kosti var sáttin ólögleg.
Öll alþingislof ætla jeg að upphaflega hafi verið veitt að lögbergi og oltið þar á því, hvort meiri hluti fjekst fyrir því, að lof skyldi veitt eða ekki. Lögrjettu skipuðu eins og lögberg hinir 36 landsmenn, en jafnframt höfðu þeir þar hver um sig tvo umráðamenn, eða einskonar ráðgjafa, eða ráðuneyti, til þess að vera þar í ráðum með sjer um það mál, er fyrir lá.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Þar fór fram síðari umræða um löggjafarmálin, en gagnstætt því, sem átti sjer stað að lögbergi, að þar rjeð afl atkvæða, þá ultu úrslitin í lögrjettu á því, að samkvæði væri goldið við lagabreytingu, eða nýmæli. Fengist samkvæði, var frumvarpið þar með samþykkt, en ef einn eða fleiri stóðu á móti, var málið aftur á móti fallið. Þetta stafaði af því, að bandalagið um allsherjarlögin bygðist á frjálsum grundvelli. Það var ósamboðið hverjum höfðingja að lúta öðrum lögum en þeim, er hann af frjálsum vilja vildi samþykkja fyrir sína hönd og sinna undirmanna. Þetta, að samþykkja lög eða fella, var hið eina starf, er lögrjettustofnunin hafði með höndum upphaflega, en ástæðan til þess að lögberg gat ekki innt þetta starf af höndum, var sú, að þar rjeð afl atkvæða.

Kristján X

Kristján X.

Í sambandi við hina fyrri umræðu máls að lögbergi var tilhögunin að hafa umráðamenn í lögrjettu mjög hentug. Þótt höfðingjarnir gagnrýndu málin að lögbergi og greiddu þar atkvæði gegn því að þau gengju fram, gátu þeir, ef málið virtist hafa almenningsfylgi, þegar til lögrjettunnar kom, snúið við blaðinu og samþykt nýmælið að ráði umráðamanna sinna, án þess að þeim væri legið á hálsi fyrir það.
Er nýmæli hafði verið samþykkt, var það sagt upp sem lög þrjú sumur í röð að lögbergi. Hið fjórða sumar, er full reynsla var fengin um nýmælið í framkvæmd, var loks tekin ákvörðun um það á lögbergsfundi, hvort nýmælið skyldi sagt upp eða ekki. Fjell það úr gildi, ef meiri hluti fjekst ekki fyrir því, að það skyldi sagt upp; annars gilti það sem lög þaðan í frá.

Alþingi hafði sjerstakan ríkissjóð og má ætla, að hann hafi upphaflega heitið alsherjarfje. Um fastar tekjur ríkisins er ókunnugt, en á hinn bóginn eru til heimildir fyrir því, að þegar um sjerstök útgjöld var að ræða, var lagður nefskattur á þingbændur.

Alþingi

Lögrétta – tilgáta.

Að lögum var lögð ákveðin fjárhæð til höfuðs hverjum sakamanni. Til höfuðs þeim, er unnið höfðu skemmdarvíg, Voru lagðar 3 merkur silfurs, og var það fje goldið á Alþingi af goðum landsins, er síðan jöfnuðu því niður á þingmenn sína. Allur kostnaður við alþingishaldið er eðlilegast að hugsa sjer, að upphaflega hafi verið greiddur af allsherjarfje, og þar á meðal kaup lögsögumanns, sem var 200 álnir.

Allsherjargoðinn, er helgaði þingið, mun hafa undirbúið þinghaldið, sjeð um, að sæti væru sett upp á þingstaðnum og alt væri þar í lagi, er þingið hófst. Ennfremur gekst hann fyrir og stýrði lögsögumannskosningu. Hefir hann óefað haft sjerstaka þóknun fyrir starf sitt. Lögsögumaður var annars sá, sem stjórnaði störfum þingsins. Átti hann sitt sjerstaka ákveðna rúm, bæði á lögbergi og í lögrjettu.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Lögsögumaður var kosinn til þriggja ára í senn. Á lögbergsfundi var gert út um það, hver vera skyldi lögsögumaður, og var útnefningin síðan staðfest á lögrjettufundi, þar sem lögboðið var, að allir skyldu gjalda samkvæði við kosningunni, eða, með öðrum orðum, staðfesta niðurstöðu lögbergsfundarins. Eftir þrjú ár var lögsögumaður laus, ef hann vildi, en að öðrum kosti hjelt hann embættinu áfram, ef meirihluti lögbergs var honum fylgjandi, og fór þá ekki fram nein kosning. En vildi meiri hluti höfðingja ekki hafa hann áfram, eða hann sjálfur vildi vera laus, eða lögsögumaður hafði fallið frá, fór fram lögsögumannskosning.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Einnig gat lögbergsfundur með afli atkvæða, vikið lögsögumanni frá, ef hann vanrækti embættisskyldu sína, var t. d. ekki kominn til þings á föstudagsmorgun, er landsmenn gengu til lögbergs, og hafði ekki lögleg forföll fyrir sig að bera. Lögsögumaður skipaði lögberg, og var það í því fólgið, að þeim mönnum, er mæla þurftu málum sínum á lögbergsfundi, vísaði hann til sætis á lögbergi meðan þeir biðu þess, að röðin kæmi að þeim til þess að segja fram mál sitt.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Lögrjettusamþykktir birti hann þingheimi á lögbergsfundi. Jafnframt hafði hann skyldu til að segja upp hver þau lög, er lögberg óskaði. Entist honum ekki fróðleikur til þess, gat hann kvatt fimm eða fleiri lögfróða menn á fund með sjer til þess að komast að niðurstöðu um, hvað lög væri. Jafnframt var lögsögumaður skyldur til þess að gefa upplýsingar um það á þinginu, ef þess var óskað, hvað lögmál væri, bæði á Alþingi og heima í hjeraði. Nú gat það komið fyrir, að fleiri eða færri höfðingjar hjeldu því fram, að lögsögumaður hefði rangt fyrir sjer um eitt eða annað, er hann kvað lög vera. Var slík þræta kölluð lögmálsþræta og var úrskurður um hana að minni ætlan upphaflega feldur að lögbergi með atkvæðagreiðslu um það, hvorir hefðu rjettara fyrir sjer, lögsögumaður eða hinir, er í móti mæltu.

Nýmæli Þórðar gellis

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Þegar Alþingi hafði starfað um nokkur ár, kom það í ljós, að það var erfitt að fá málsúrslit með dómi á þinginu vegna þess, að dómur var því aðeins gildur, að hann væri ekki vjefengdur og allir dómendur gyldi samkvæði við honum. Afleiðingin var því, að óbilgjarnir höfðingjar, sem verja vildu rangan málstað, gátu nefnt þann mann í dóm, sem þeir fyrir fram höfðu tryggt sjer, að dæmdi sjer í vil, en ekki að lögum. En á þessu rjeð Þórður gellir bót með tillögu sinni um að skifta landinu í fjórðunga, og skipun fjórðungsdóma. Hefir mikið verið ritað um þennan þátt alþingissögunnar, en rannsóknir mínar hafa leitt til þess, að það muni alt miður rjett, og niðurstaðan orðið ný lausn á þessu vandamáli. Er hún í stuttu máli þessu: Alþingisdóminum var skift í fernt, og níu dómendur skipaðir í hvern fjórðungsdóm, á þeim grundvelli, að enginn höfðingi nefndi mann í dóm til þess að dæma um sök á hendur sjer eða sinna samfjórðungsmanna.
ÞingnesVar þessu takmarki náð með þeim hætti, að sett voru á stofn þrjú vorþing í hverjum fjórðungi, með þrem höfðingjum hvert. Var síðan, að því er jeg ætla, hvert hinna þriggja vorþinga í hverjum landsfjórðungi látið skipa einn mann í hvern fjórðungsdóm, fyrir hina aðra þrjá fjórðunga landsins, en ekki skipa neinn mann í sinn eigin fjórðungsdóm. En um það var, að mínu áliti, varpað hlutkesti, í hvern hinna þriggja fjórðungsdóma hver einstakur hinna þriggja höfðingja vorþings skyldi nefna sinn þriðjungsmann, eins og komist er að orði í Grágás. Hvað löggjafinn á hjer við eða meint er með orðinu þriðjungsmaður, er óráðin gáta. Lausnin hjá mjer er, að orðið þriðjungsmenn hafi verið haft til þess að tákna þá íbúa innan hvers vorþings, er heyrðu undir hvert einstakt goðorð hvers hinna þriggja goða í hverju vorþingi.

Kjalarnesþing

Þingin voru haldin undir berum himni.

Tilgangurinn með ákvæði Grágásar um, að goði skuli nefna sinn þriðjungsmann í dóm, skoða jeg því að verið hafi sá, að einskorða dómnefnuna úr hverju vorþingi við íbúa vorþingsins, svo að það ætti sjer ekki stað, að goði gæti nefnt þingmann í dóm, er hann kunni að eiga búsettan í þeim sama fjórðungi, sem hann nefndi í dóm fyrir.

Áður en vorþingaskipulagið komst á, skiftist landið í sveitir, með ákveðnum mörkum og var sveitarstjórnin í höndum sveitarhöfðingja, er jafnframt háðu dómþing, samhliða þeim dómþingum, er landsmenn höfðu stofnað með ráði sveitarhöfðingja hver á sínum stað. Af þessu stafar það, að til eru í landinu nöfn á þingstöðum miklu víðar en vorþing voru háð. Með vorþingaskipulaginu breyttist þetta þannig, að eftirleiðis skyldu ekki aðrir nefna í dóm á þingum, eða stýra sakferlum, heldur en alþingishöfðingjarnir, en ferill sakar var að mínu áliti það, að höfðingjarnir háðu féránsdóm og sáu um, að eigur sekra manna væru gerðar upptækar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Afleiðingin af samkvæðinu, sem krafist var í lögrjettu, til þess að nýmæli gæti orðið að lögum, var sú, að fleiri eða færri höfðingjar höfðu oft ýmis áhugamál, er ekki varð framgengt. Á 10. öld var kristniboð rekið af miklu kappi í Norðurálfunni, og alls staðar þar, sem kristni komst á, var hún lögboðin og allir urðu að láta skírast. Þessi siður, að lögbjóða trú, skoða jeg að verið hafi óþekktur meðal Ásatrúarmanna, eins og eðlilegt var, þar sem guðirnir voru margir, og einn var vinur Þórs, annar blótaði Frey o.s.frv. Til þess að standa á móti kristninni og tryggja það, að Ásatrúin gæti haldist óáreitt í landinu, mun það hafa verið áhugamál margra manna, að Ásatrúin væri lögboðin á sama hátt og átti sjer stað um kristnina. Þegar Þórður gellir kom fram með tillögu sína um skipun fjórðungsdóma, þótti öllum það hin mesta nauðsyn.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Munu þeir, sem lögfesta vildu Ásatrúna, þá hafa notað tækifærið, og sett það sem skilyrði fyrir samkvæði sínu um fjórðungsdómana, að trúin yrði jafnframt lögfest. Og það varð með þeim hætti, að þrjú höfuðhof skyldu vera í hverri vorþingssókn. — Skyldu allir gjalda hoftoll, en Alþingishöfðingjarnir, er til þess tíma höfðu verið kallaðir landsmenn, varðveittu hofin, og var því eftir það farið að kalla þá goða og hofgoða og þeirra tign og umdæmi, er áður hafði heitið mannaforráð, goðorð.

Þegar vorþingin voru sett í lögum, áttu goðarnir í hverju vorþingi að tilkynna á næsta Alþingi vorþingsstaðinn og nafn þingsins. En þegar til framkvæmdanna kom, varð sá þröskuldur á vegi, að Norðlendingar gátu með engu móti komið þessu skipulagi á hjá sjer, því að þeir, sem voru fyrir vestan Skagafjörð, vildu ekki þangað sækja vorþing, og þeir, sem voru fyrir norðan Eyjafjörð, vildu ekki þangað sækja þing. — Norðlendingar fóru því fram á það að hafa vorþingin fjögur, og var það samþykkt, og goðum fjölgað þar um þrjá á þeim grundvelli, að hin tólf goðorð Norðlendinga skyldu vera fjórðungi skerð að Alþingisnefnu.
AlþingiGet jeg til, að þetta hafi verið framkvæmt á þann hátt, að vorþingin í Norðlendingafjórðungi hafi skiftst á að taka þátt í dómnefnunni, þannig að eitt vorþing hafi árlega setið hjá, eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti. Er þessir þrír goðar, sem bætt var við í Norðlendingafjórðungi, fóru að taka þátt í þingstörfum, gerðu þeir kröfu til þess, að sitja í lögrjettu, svo að þeir þyrftu ekki að lúta lögum, er samþykt kynnu að vera að öðrum kosti gegn þeirra vilja. Var sú nauðsyn samþykkt með þeim hætti, að lögrjettuskipan skyldi jöfn úr öllum fjórðungum. Fyrir hvert forráðsgoðorð innan hvers vorþings í hinum fjórðungum landsins sat því eftirleiðis einn maður í lögrjettu til viðbótar hinum þremur goðum vorþingsins. Forráðsgoðorð get jeg til að kallað hafi verið á hverjum tíma það goðorð, er forráðin hafði um að skipa þennan viðbótarmann í lögrjettuna. Ennfremur, að goðarnir í hverju vorþingi hafi skiftst á að hafa þessi forráð eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti.

Þingvellir

Þingvellir.

Hinir 12 nýju lögrjettumenn fengu jafnframt völd á lögbergsfundum um allsherjarmálin, því að skerðingin á þátttöku goðanna úr Norðlendingafjórðungi í þinghaldinu var aðeins bundin við dómnefnuna, og þau mál, er stóðu í beinu sambandi við hana, eða lýsingar saka og stefnur að lögbergi. Er þessar breytingar voru komnar á, voru svo fjórðungsþing sett, eitt fyrir hvern fjórðung, með þeirri undantekning, að í Vestfirðingafjórðungi virðast takmörk Þórsnessþings ekki hafa fylgt fjórðungamörkum, eða ekki hafa náð lengra en að Hvítá í Borgarfirði. Má ætla, að þetta hafi stafað af fjandskap þeirra Tungu-Odds og Þórðar gellis, og Tungu-Oddur hafi ráðið því, að Borgfirðingar sæktu ekki Þórsnessþing, og hafi það haldist síðan. — Í sambandi við það, að vald sveitarhöfðingja til að heyja dómþing var afnumið með lögum Þórðar gellis, er ekki ólíklegt, að sveitarstjórnartilhögunin í heild sinni hafi komið til umræðu, og upp af því hafi sprottið hreppaskipunin í landinu.

Kristnitakan

Þingvellir

Frá Þingvöllum – Stekkjargjá.

Næsta stórbreyting á lögum landsins varð með kristnitökunni.
Þrátt fyrir lögfestingu Ásatrúar varð ekki spornað við kristniboðinu, og hafa að sjálfsögðu þeir, er ljetu skírast, neitað að gjalda hoftoll og ekki tekið þátt í blótum. Þetta ástand, að Ásatrúarlögunum var ekki hlýtt, hefir leitt til virðingarleysis fyrir lögum almennt, og mun þar meðal annars vera að leita orsakanna til þess, að ættardeilurnar og vígaferlin í landinu höfðu náð hámarki sínu í byrjun 11. aldar.

Um trúarbrögð í landinu var svo komið, að höfðingjamir og landslýðurinn skiftist í tvo flokka, þegar þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu frá Noregi sumarið 1000 í trúboðserindum Ólafs konungs Tryggvasonar.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

— Neyttu þá hvorir tveggja, kristnir menn og heiðnir, heimildarinnar til þess að segja sig úr lögum hvorir við aðra, eins og áður er vikið að. Tóku kristnir menn Hall af Síðu til þess að segja upp lög fyrir sig, en Hallur fjekk Þorgeir Ljósvetningagoða, sem þá var lögsögumaður, og Ásatrúar, til þess að ráða fram úr málinu. Þorgeir leysti þennan vanda með því að sýna mönnum fram á, að friðinum væri slitið, og stofnað væri til styrjaldar í landinu, sem enginn gæti sjeð út yfir, ef allir hefðu ekki ein lög. Lausnin var merkileg. Í fyrsta lagi fjekk hann trúbræður sína til þess að viðurkenna kristnina sem opinbera trú í landinu, sem var óumflýjanlegt, sakir ofstækis kristinna manna um trúarbrögðin og sambandsins við útlönd. Í öðru lagi fjekk Þorgeir kristna menn til þess að vera því samþykka, að leynilega eða í heimahúsum mættu menn blóta og dýrka þá guði, er þeir vildu. Afleiðingin var því sú, að þótt landið væri kristið út á við, þá var inn á við fullkomið trúarbragðafrelsi og fjárframlög til trúarbragðaiðkana afnumin í lögum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Kristnitökulög Þorgeirs sýna þannig ekki aðeins, að hann hefir sjeð, hversu óhollt það væri þjóðinni, að hafa lög, er riðu í bág við það, er fjöldi manna í landinu taldi rjett vera, heldur einnig, að honum hefir verið það vel ljóst, að það væri skylda hans sem löggjafa, að finna ráð til þess að lögin um trúarbrögðin gætu ekki haldið áfram að ala upp í mönnum óhlýðni við allsherjarlög, eða með öðrum orðum endurvekja það ástand, að þess væri vandlega gætt, að setja ekki önnur lög en þau, er allir yrðu að viðurkenna að væru rjettmæt og allir vildu því hlýða.

Þorgeir Ljósvetningagoði undirbjó þannig jarðveginn fyrir eftirmann sinn, Skafta Þóroddsson, um að koma á friði í landinu og kenna mönnum að virða lög og rjett. Þorgeir er því einn af þeim afburðalöggjöfum þessa lands, sem sjerstök ástæða er til að minnast á þessu endnrminningaári þjóðarinnar.

Fimmtardómur

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Af virðingarleysinu fyrir lögum almennt, sem áður er að vikið, hlaust það, að umbætur Þórðar gellis urðu ónógar til þess að tryggja málsúrslit, þar til fimmtardómur komst á.
Um stofnun hans vitum vjer ekki annað en það, sem stendur í 97. kap. Njáls sögu. Er hugmyndin þar eignuð Njáli og talið, að hann hafi borið hana fram í þeim tilgangi að útvega Höskuldi fóstursyni sínum goðorð. Er ekkert því til fyrirstöðu, að það geti verið rjett, því að eins og kunnugt er, er það svo nú á dögum, að ýmsar stofnanir eru settar á fót til þess að geta skipað ákveðna menn í embætti. Sama er og að segja um aðferðina, sem söguritarinn segir, að Njáll hafi beitt við stofnun fimmtardómsins: að ala á óánægju manna með ástandið í landinu, að það er hið sama bragð sem einstakir menn og flokkar beita enn í dag, til þess að hafa sitt fram.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Hvatir Njáls voru persónulegar, eftir því sem sagan hermir. En hann hefði vitanlega engu getað um þokað um þetta mál, ef hann hefði ekki notið styrks höfðingja til þess að koma því fram. Eins og kunnugt er, hafði Skafti Þóroddsson þá nýlega tekið lögsögu, en um hans daga, segir Ari fróði, urðu margir ríkismenn sekir og landflótta, af ríkis sökum hans og landstjórn. Jafnframt segir Ari, að Skafti hafi sett fimmtardómslög, eins og líka höfundur Njálu segir að hann hafi gert, enda þótt hann eigni Njáli hugmyndina. Það er ljóst af frásögn Ara fróða, að Skafti hefir sett sjer það mark að ljetta ættardeilunum og vígaferlunum af þjóðinni og koma lögum yfir landið. Til þess að framkvæma það, hefir hann orðið að skapa sjer þá aðstöðu, að hann gæti ráðið lögum og lofum landinu.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

En eins og títt er um mikilhæfa og ráðríka menn, má gera ráð fyrir því, að hann hafi átt ýmsa harðsnúna mótstöðumenn meðal höfðingja Jeg geng að því vísu, að hvatir hans til þess að fylgja fram fimmtardómslögunum, hafi verið pólitískar, og ekki aðeins miðað að því að tryggja málsúrslit fyrir dómi, heldur jafnframt völd hans sjálfs í landinu. Þykir mjer sýnt, að það hafi verið fyrir fram ráðið, hverjir hinir nýju goðar skyldu vera, sem skipaðir voru, og um þann eina, sem vjer þekkjum af þeim, Höskuld Hvítanesgoða, tekur Njálssaga af öll tvímæli um það, að svo var. En um Höskuld er það eftirtektarvert, að sagan getur ekki um, að hann hafi dregið sjer þingmenn undan öðrum goðorðsmönnum í Rangárþingi en þeim feðgum Valgarði og Merði.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

—Í sambandi við það, að ganga má að því vísu, að hinir nýju goðar hafi átt Skafta upphefð sína að þakka og verið hans menn, bendir þetta til þess, að þeir hafi verið ráðnir í þeim ákveðna tilgangi, að veikja völd og virðingar mótstöðumanna Skafta með því að draga þingmenn frá þeim. — Mætti geta þess til, að það hafi jafnframt verið undirmál, að þeir tæki ekki við þingmönnum þeirra höfðingja, er fylgdu Skafta að málum. — Lof öll og úrskurðir lögmálsþrætu hafði verið í höndum lögbergs, þar sem rjeði afl atkvæða. En nú notaði Skafti tækifærið til þess að gera breytingu á því. Um leið og Njáll, sem sjá má að þá var lögrjettumaður fyrir forráðsgoðorð úr Rangárþingi, bar fram fimmtardómslögin, ljet Skafti hann einn ig gera tillögu um það, að leggja sýknuleyfi og sáttaleyfi til lögrjettunnar til þess með því að gera örðugra fyrir en áður að fá þessi lof veitt. Ennfremur að leggja úrskurð lögmálsþrætu til lögrjettunnar með þeim skildaga, að hvorir tveggja skyldu vinna vjefangseið að sínu máli og gera grein fyrir þvi á hverju þeir bygðu álit sitt um það, hvað væri lög. Eins og fimmtardómujrinn miðuðu þessar breytingar að því að tryggja rjettarfarið, og gera ljettara fyrir að koma lögum yfir landið.

Þingvellir

Þingvellir – búð.

Þessar tillögur allar, sem Skafti ljet Njál bera fram á þinginu, voru þess eðlis, að allir sáu nauðsyn þeirra umbóta, sem þær fóru fram á, og með því að láta Njál, sem ekki var höfðingi, bera þessar umbótatillögur fram, kom Skafti í veg fyrir, að þetta vekti tortryggni, og að mótstöðumenn hans meðal höfðingjanna fengi grun um, að annað og meira lægi á bak við en aðeins umbæturnar á rjettarfarinu í landinu. Frásögn Njálu um breytingamar á lögrjettunni er ekki í samræmi við lagaákvæði Grágásar, og sama er einnig að segja um frásögn hennar um fimmtardóminn. Stafar þetta af því, að höfundur Njálu hefir sýnilega verið ólögfróður, enda þótt hann hafi haft ánægju af að segja frá málaferlum og málarekstri. En þetta kemur að mínu áliti ekki að sök, því að jeg skoða, að ákvæði Grágásar í þessum efnum hafi að geyma þær tillögur, er Skafti ljet Njál bera fram og samþyktar voru á þinginu.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg og lögrétta.

Þegar frá leið, voru ýmis fleiri lof smám saman lögð til lögrjettu, og vitum vjer um sum þeirra, að fyrir þau varð að gjalda ákveðið gjald til lögrjettu. Má vel vera, að það hafi verið algild regla að greiða ákveðin gjöld fyrir öll alþingislof, og hafi afleiðingin af því að sýknuleyfi og sáttaleyfi voru flutt yfir í lögrjettu, orðið sú, að önnur fjármál ríkisins hafi þá einnig verið lögð til hennar og allsherjarfjeð gert að lögrjettufjár, svo að fjármál ríkisins gætu öll orðið tekin fyrir í einu lagi.

Til fimmtardóms var aðeins stefnt ákveðnum málum, og eru þau talin upp í Grágás. En nú var rofin sú meginregla löggjafarinnar, að krefjast samkvæðis um alla dóma, því að í fimmtardómi skyldi meiri hluti dómenda ráða, og ef jafnmargir voru með og móti, þá átti að dæma áfall eða dómfella þann, er sóttur var, nema um vjefangsmál úr fjórðungsdómi væri að ræða. Þá skyldi dómurinn, sem upp var kveðinn, velta á hlutkesti.

Þingvellir

Frá Þingvöllum – búðir.

Föst niðurstaða er enn ekki fengin um, hvernig skilja beri þær meginreglur, er annars giltu um það, hvernig dæma skyldi vjefangsmál í fimmtardómi. Eru það aðeins tveir menn, sem reynt hafa að skýra það, þeir Björn M. Ólsen og Vilhjálmur Finsen. Var skýring B. M. Ó. í því fólgin að breyta texta Grágásar. En V. F. benti þá á, hvílík fjarstæða það væri, að ætla sjer að skýra Grágás með textabreytingum og sýndi fram á, að hugmynd B. M. Ó. leiddi þess utan út í ógöngur frá lagalegu sjónarmiði. Setti V. F. jafnframt fram tilgátu þá, er síðan hefir verið búið við, um það, hversu hugsa megi sjer, að þessi ákvæði Grágásar kunni að eiga að skiljast. En tilgáta V. F. hefir þann galla, að fyrir henni skortir heimild í Grágás. Jeg hefi því leitað nýrrar lausnar á þessu máli og er niðurstaðan, að þennan stað í Grágás sje svo að skilja, að ef fjórðungsdómendur voru allir jafnmargir í öllum stöðum, er þeir höfðu vjefengt, og hvorir tveggja höfðu farið rjett að vjefangi, þá hafi fimmtardómur átt að rjúfa þeirra dóm, er síður höfðu að lögum dæmt; ef aftur á móti aðrir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, en aðrir rangt, þá átti þeirra dómur að standast, er rjett höfðu farið að vjefangi, þótt hinir hefðu málaefni betri í upphafi; en ef hvorugir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, þá átti að standast dómur þeirra, er nær höfðu farið að vjefangi, því sem lög voru, og sömuleiðis sá dómur, er fimmtardómendum þótti nær lögum dæmdur.“


Saga Alþingis – Einar Arnórsson
(1880-1955)

AlþingiAlþingi 1271-1874
Í eftirfarandi grein gefur Einar prófessor Amórsson yfirlit yfir sögu Alþingis frá því er Íslendingar gengu Hákoni gamla Noregskonungi á hönd og fram að þjóðhátíðarárinu 1874, er Kristján IX. gaf Íslandi stjórnarskrá. — Er Einar prófessor Arnórsson sá maður, sem vjer vitum fróðastan í þeim efnum, enda munu fáir eða engir hafa kynt sjer, svo sem hann hefir gert, löggjöf Íslendinga og stjómarfar frá öndverðu.

„Árangurinn af þessum breytingum og landstjórn Skafta Þóroddssonar var, að ættardeilunum og vígaferlunum ljetti, og þegar hann fjell frá 1030, hafði hann komið þeim friði á í landinu, er helst á aðra öld, og er það tímabil í sögu landsins, sem kallað hefir verið friðaröldin. Skafti varð einnig fyrstur Íslendinga til þess, svo sögur fari af, að tryggja rjett landsins út á við og afla Íslendingum fríðinda meðal erlendra þjóða, með samningnum við Ólaf helga.
Í ár eru liðin 900 ár síðan Skafti fjell frá, og ætti það því vel við, að hans væri sjerstaklega minnst að einhverju í sambandi við Alþingishátíðina.“

Lagabreyting á Íslandi

Einar Arnórsson

Einar Arnórsson – 1880-1955.

Íslendingar höfðu, sem kunnugt er gengið Hákoni konungi gamla Hákonarsyni á hönd til fulls árin 1262—1264. Þótt eigi verði sannað, að breyting hafi orðið á skipun Alþingis árin 1264 til 1271, þá er þó ljóst, að svo hlaut bráðlega að verða. Margt í hinni eldri löggjöf og stjórnarskipan mátti varla lengi haldast eftir að konungsvald var komið á landið. Í Noregi hafð sonur og eftirmaður Hákonar gamla, sem andaðist 1263, Magnús konungur lagabætir, komið á sameiginlegri og endurbættri löggjöf í öllum hinum gömlu þingdæmum (Gulaþing, Frostaþing og Heiðsifaþing), og hafa þau lög verið nefnd hin yngri landslög. Magnús konungur hugði líka snemma á lagabreytingar á Íslandi. Hann ljet því gera frumvarp að nýrri lögbók, er hann sendi út hingað vorið 1271. Var lögbók þessi, er nefnd hefir verið Járnsíða, mjög sniðin eftir norskum lögum, en miður eftir þörfum Íslands.

Grágás

Grágás.

Árið 1271 var þingfararbálkur hennar lögtekinn hjer. Var þar með hin gamla skipun á Alþingi og vorþingum á Íslandi fallin um koll. Einnig voru goðorðin þá úr sögunni. Fjórðungsdómar á Alþingi fjellu niður og fimmtardómur einnig. Lögberg týndist brátt, því að engar þinglýsingar eða önnur þingstörf fóru þar lengur fram. Og lögsögumannsdæmið var einnig lagt niður. Lögrjettan ein stóð eftir, en mjög í breyttri mynd, eins og sýnt verður. Landinu var skift í 12 þing og sýslumenn komu í stað goðanna fornu. Járnsíða var úr lögum numin með Jónsbók 1281, en engin meginbreyting varð þá á Alþingi. Snemma var einn maður settur yfir alt land, og var hann nefndur hirðstjóri til forna, en síðar höfuðsmaður. Hann var yfirmaður sýslumanna og annara embættismanna á landinu. Sú skipun á æðstu stjórninni innan lands stóð óbreytt þangað til 1683. Þá var skipaður stiftbefalingsmaður svo nefndur, er hafa skyldi æðsta vald hjerlendis, landfógeti, er hafa skyldi yfirumsjón með gjaldheimtu sýslumanna, og amtmaður, sem líta átti eftir löggæslu og kirkjumálum. Síðar (1770) var landinu skift í ömt. Urðu nú amtmenn tveir í upphafi: Annar í Suður- og Vesturamti, og varð hann jafnframt æðsti embættismaður hjerlendur, og hjet stiftamtmaður, en hinn í Norður- og Austuramti. Síðar var Vesturamtið greint frá Suðuramti í stað stiftamtmanns kom landshöfðingjadæmið, er stofnað var 1872, sem kunnugt er. Stóð það til 1904, er æðsta stjórn svo nefndra íslenskra sjermála var flutt hingað inn í landið, eftir að hún hafði verið í höndum erlendra manna, erlendis búsettra, síðan á 13 öld, eða í nærfellt hálft sjö hundruð ára landinu til hins mesta tjóns og niðurdreps.

Skipun Alþingis 1271—1800

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Norsku þingin, sem svara áttu til Alþingis, eins og það varð eftir Járnsíðu og Jónsbók, hjetu lögþing. Þessu nafni átti víst líka að koma á íslenska allsherjarþingið, enda er það mjög oft nefnt því nafni bæði í lögbókunum og annarsstaðar. Jafnhliða heldur þingið þó forna nafninu, Alþingi. En auk þessara heita er það oft nefnt öðrum nöfnum, svo sem Öxarárþing, almennilegt Öxarárþing, síðar Öxarár landsþing o.s.frv. Þingstaðurinn var hinn sami áfram; Þingvöllur við Öxará.
Á 16. öld (1574) stóð þó til að breyta um þingstað og flytja þingið í Kópavog. Þar þótti höfuðsmanni þingið vera nær sjer og því hægara til að sækja. En landsmenn virðast hafa virt þessa ráðstöfun algerlega vettugi, því að aldrei var Alþingi til Kópavogs flutt. Á 18. öld, milli 1780 og 1790, vildi stiftamtmaður flytja þingið til Reykjavíkur og Norðlendingar vildu fá lögþing handa sjer og Austurfirðingum fyrir Norðurland. En af hvorugu varð, og var Alþingi hið forna háð á Þingvelli við Öxará alla tíð, nema 2 síðustu árin, 1799 og 1800. Þá var það háð í Reykjavík.

Járnsíða

Járnsíða.

Þingtími. Eftir lögbókunum, Járnsíðu og og Jónsbók, átti Alþingi að hefjast 29. júní ár hvert, á Pjetursmessu og Páls, eða, ef hana bar á helgan dag, þá næsta virkan dag á eftir. Áttu þingmenn að vera komnir á Þingvöll kvöldið fyrir þingsetningardag, en oft vildi út af því bregða. Árið 1700 hófst „nýi stíll“ svo nefndur, og færðist þingsetningardagur þá til 8. júlí (Seljumannamessu). Með konungsbr. 25. jan. 1754 var aftur breytt til, og skyldi Alþingi nú hefjast 3 júlí. Eigi reyndist þó auðvelt að fá menn til að sækja þingið svo snemma, einkum um og eftir 1780, og var því aftur breytt til með konungsbrjefi 28. apríl 1784, og þingsetning ákveðin að nýju 8. júlí. Og hjelst það uns þingið var lagt niður.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Lögmennirnir settu þingið, að undangenginni guðsþjónustu í Þingvallarkirkju. Lýstu lögmenn griðum og friði manna á meðal, meðan þing stæði og uns þeir væru aftur heim komnir. Eftir þingbókunum skyldi þingið standa svo lengi sem lögmaður vildi og lögrjettumenn. Fram á 17. öld virðist þing hafa staðið venjulega 3—4 daga, enda þótt boðið væri í konungsbrjefi einu frá 9. maí 1593, að það ætti að standa 8 daga að minnsta kosti. En eftir miðja 17. öld fer þingið að standa lengur. Menn komu seinna til þings en skyldi, og þess vegna varð því eigi lokið fyr en eftir 8 daga, og stundum stóð það miklu lengur, stundum um 3 vikur, og var þá margur lögrjettumaður orðinn heimfús. Með konungsbrjefi 28. apríl 1784 var loks svo fyrir mælt, að þingið skyldi óslitið standa frá 8. —22. júlí, og mátti enginn málsaðilja fá neitt bókað í Alþingisbókina eftir þann tíma. En lúka mátti sakamálum og dómum í einkamálum til loka júlímánaðar. Lögmaður sagði Alþingi upp og var þá þingstörfum lokið, og þingmenn máttu hverfa heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á Þingvelli áttu flestir eða allir höfðingjar í fornöld búðir, er þeir, og þinglið þeirra, höfðust við í um þingtímann. Margar þeirra búða hafa sennilega staðið, þegar hin nýja þingskipun komst á. En fátt segir af viðhaldi þeirra og notkun á miðöldum. En þó virðist svo, sem Skálholtsstóll hafi átt búð á Þingvelli fram um siðaskifti, og sjálfsagt ýmsir fleiri. En fallnar munu þær vera á síðara hluta 16. aldar, nema sú búð, er umboðsmaður konungsvaldsins kann að hafa notað.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á síðara hluta 16. aldar og alla 17. öld munu þingheyjendur hafa hafst við í tjöldum um þingtímann, en um og eftir 1700 tóku ýmsir að gera sjer búðir á Þingvelli af nýju, og þótti Þingvallarklerki jarðrask hljótast af. Var veraldarhöfðingjum þá (1786) leyft að gera sjer búðir vestan Öxarár, og munu margir þeirra hafa haldið þeim við fram eftir öldinni. En Skálholtsbiskup og klerkar höfðust við í tjöldum austan Öxarár. Vistir urðu menn mjög að flytja með sjer til Alþingis, eins og í fornöld. —

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Ríkismenn, eins og höfuðsmaður, Skálholtsbiskup og eflaust Hólabiskup líka fram eftir öldum, og meiriháttar sýslumenn, hafa haft með sjer matgerðartæki og matgerðarmenn til Alþingis, eins og í fomöld, enda voru þar einatt veislur haldnar. Þar voru og, einnig eftir að hin forna skipun lagðist af, drykkjur miklar og mannfagnaður. Á 17. öld, og einkum á 18. öld, var mikið drukkið á Íslandi, og voru þingheyjendur sumir þar engir eftirbátar. Sjerstaklega var skaðræðisdrykkjuskapur á Alþingi fyrstu 2 eða 3 tugi 18. aldar, þegar Oddur Sigurðsson lögmaður óð mest uppi.

Þingvellir

Hrossaat á Alþingishátíðinni 1930.

Hrossum sínum hafa þingmenn sjálfsagt komið til geymslu um Þingvallasveit og úti á mýrunum norðanvert við Mosfellsheiði, þegar þingreið var mjög mikil. En eftir að þingheyjendum tók að fækka, einkum eftir 1700, þá hafa þeir haft hesta sína í heimahögum á Þingvöllum. Kvartar Þingvallarprestur mjög undan átroðningi af hestum þingmanna eftir 1730. En bótalaust varð klerkur að þola þann átroðning, því að þinghaldið væri gömul kvöð á landinu. Fram eftir öldum var Alþingi en allfjölmennt. Höfðingjar og ríkismenn höfðu enn langt fram á 16. öld liðskost mikinn til þings, svo sem Torfi í Klofa, biskuparnir Ögmundur og Jón Arason, Magnús prúði Jónsson í Ögri sýslumaður og margir fleiri.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Og enn fóru margir til Alþingis sjer til skemmtunar, eins og í fornöld, og til þess að hitta fyrirmenn landsins og kynnast þeim. Ýmsir fóru þangað til að kæra yfif órjetti, sem þeir eða venslamenn þeirra töldust hafa orðið fyrir, til þess að hreinsa sig með eiði af ámælum, til að flytja mál sín o.s.frv. En þegar líða tekur fram á 18. öld, þá minkar mjög þingsókn. Þá hætta nálega aðrir að sækja þing en þeir, sem lögskylt var þangað að koma — og var þó með torveldleikum þingsókn þeirra — og þeir, sem beinlínis áttu þar málum að gegna.

Lögrjetta

Þingvellir

Konungur og frá á Alþingishátíðinni 1930.

Hún mun hafa verið háð á völlunum austan við Öxará, eins og í fornöld, fram um 1500. Þá er hún í hólma í Öxará. Eftir það virðist hún hafa verið vestan ár. Til 1690 var logrjettan haldin undir beru lofti. Var hún þá girt með strengjum, er festir voru á stengur. Voru strengir þeir nefndir vjebönd. Innan vjebanda var að fornu fari helgistaður mikill og griða. Lágu þungar refsingar við, ef menn glöptu þingmenn, er þeir voru að dómum innan vjebanda, eða rufu dómhelg þeirra. 1690 gekkst landfógeti fyrir því, að reist var hús yfir lögrjettu; var hún að veggjum úr torfi og grjóti, en viðu lagði landfógeti til og sýslumenn vaðmál til þess að tjalda lögrjettu með og þekja. Síðar var reist timburhús yfir lögrjettu og höfðust lögmenn og lögrjettumenn við í því á hverju þingi til 1798. Viðhald á húsinu var lengstum mjög bágborið, enda flýðu menn úr því 1798 og komu eigi í það síðan til þinghalds.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Lögmenn, sem jafnan voru tveir stýrðu lögrjettu. Þeir áttu að hringja til lögrjettufunda „hinni miklu klukku“, eins og í Jónsbók, þingfb. 3. kap., segir. Hefir lögrjetta haft klukku til afnota sinna. 1593 eða 1594 kom ný klukka til þingsins, en ónýt er hún orðin milli 1720 og 1730, og varð þá að fá að láni kirkjuklukku hjá Þingvallarklerki. Konungsvaldinu bar auðvitað að sjá um, að öll tæki til þinghalds væru í lagi, en umboðsmenn þess vanræktu það, eins og flest annað, sem landinu mátti til hagnaðar vera. Nærri má geta, að óþægilegt hefir oft verið að sitja að dómstörfum og öðrum þingstörfum undir beru lofti. En menn höfðu nú verið vanir þessu frá ómunatíð, bæði hjer á landi og annarsstaðar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Og meðan ekkert var skrásett af því, sem gerðist á þingi, nýttist betur af útivistinni. En eftir að tekið var að skrásetja það, er gerðist, þá var þess eigi kostur úti, nema sjerstaklega lygnt og blítt veður væri. Vjer vitum nú eigi, hvenær menn hafa almennt farið að skrá dóma og aðra gjörninga á Alþingi. Líklega verður það eigi fyr en á 16. öld. Lögmenn hafa látið skrá það, er þeim sýndist, og biskupar ef til vill, en engar eiginlegar Alþingisbækur eru haldnar fyr en 1630. Þá er Alþingisskrifari skipaður, og hjelst það embætti síðan, þar til þingið var lagt niður. Eru enn til óslitnar Alþingisbækur frá 1631 til 1800.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Eftir Járnsíðu áttu sýslumenn að nefna í hverju þingi, fyrir páska, bændur (nefndarmenn) til þingfarar, alls 140. Sá, er einu sinni var nefndur, skyldi sækja Alþingi síðan árlega, meðan hann var til þess fær. Eftir Jónsbók var nefndarmannatalan færð niður í 84. 1305 átti, að því er virðist, að fækka nefndarmönnum niður í 42, en sú skipun komst aldrei í framkvæmd. Var Jónsbók jafnan fylgt um kvaðningu nefndarmanna til 1732. Og var krafist þingreiðar af þeim öllum þangað til. En eftir það urðu þeir aðeins þingvottar, og var nú eigi heimtuð þingreið af nema 10 að norðan og vestan, og eitthvað nálægt því úr hinu lögdæminu. Með tilskipun 16. nóv. 1764 var lögrjettumönnum fækkað í 20. Þar af voru 10 úr Árnesþingi, 8 úr Gullbringusýslu og 2 úr Kjósarsýslu. Skyldu aðeins 10 sækja þangað árlega.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Síðar (1770) var ákveðið, að einungis 5 lögrjettumenn skyldu þing sækja og 1796 urðu þessir menn aðeins 4. Nefndarmenn fengu ákveðið kaup fyrir þingförina, er mun svara hjer um bil til 9—10 króna á dag, miðað við kaupmagn peninga nú á dögum. Lengstum áttu sýslumenn að greiða gjald þetta af þingfararkaupum, sem þeir heimtu árlega af skattbændum. Sýslumenn áttu og að fæða nefndarmenn á þingi, en bændur áttu að hýsa þá og fæða á þing og af þingi. Eftir 1764 var tekið að greiða lögrjettu mönnum þingfararkaup í peningum, 24 skildinga á dag, eða ekki langt frá 16 krónum, eftir kaupmagni peninga nú. Af nefndarmönnum áttu lögmenn að nefna 3 úr hverju þingi til setu í lögrjettu innan vjebanda, eða alls 36, og urðu þá 18 úr hvoru lögdæmi. Af þessum 36 lögrjettumönnum nefndu lögmenn svo í dóma 6, 12 eða stundum 24. Lögmenn dæmdu framan af hvor með sínum lögrjettumönnum mál úr sínu lögdæmi, en á 17. öld dæmdu þeir alltaf, eða nær því, báðir saman, úr hvoru lögdæminu sem málin voru.

Þingvellir

Frá Alþingishátðinni 1930.

Eftir 1720 er farið að fara hjer eftir Norsku lögum, sem kennd eru við Kristján fimmta, og lögleidd voru í Noregi 15. apríl 1687. Dæmdu nú lögmenn einir, svo að lögrjettumenn urðu aðeins þingvottar, enda var þeim nú fækkað, eins og áður segir. Helstu störfin, sem fram fóru í lögrjettu, voru þessi: 1. Dómstörf. Lögrjetta var yfirdómstóll yfir sýslumönnum, og auk þess dæmdi hún mál, sem lægsti dómstóll. Lögmenn samþykktu venjulega dóma lögrjettumanna. Þeim varð áfrýjað til konungs og ríkisráðs, upphaflega hins norska, en síðan danska. En 1593 var yfirrjettur stofnsettur á Þingvelli, og mátti til hans skjóta dómum lögrjettu og lögmanna.
Alþingi2. Löggjafarstörf. Framan af voru frumvörp, er konungsvaldið vildi gera hjer að lögum, borin upp á Alþingi,- eins og Jónsbók 1281. Og lengi fram eftir var það svo. En venjulega hafði konungsvaldið sitt fram, að Alþingi samþykkti eða tók við lögum þeim, sem send voru hingað. Og á 17. öld er farið að birta konungsboð hjer á landi án þess að sjá megi, að Alþingi sje spurt að, hvort það vilji samþykkja þau. Sjálft gerði Alþingi samþyktir um ýms efni, er lög mæltu eigi um, og jafnvel um sum, sem lögákveðin voru, alt fram um 1700. En þá hættir Alþingi þessari starfsemi, enda var einveldið þá algerlega komið hjer á. Á 18. öld hefir Alþingi engin afskifti af lagasetningu.

Alþingi

Ráðherrar Íslands 1930.

3. í lögrjettu voru birtar skipanir konungs og annara stjórnarvalda, lesnar lýsingar veðs, landsmála, vogreks, óskilafjár o. s. frv. Síðar voru birt þar afsalsbrjef og makaskifta, og skjöl um allskonar efni, sem of langt yrði upp að telja.

Fram eftir öldum var sakamönnum refsað á Alþingi (galdramenn brenndir, þjófar hengdir, sifjaspellsmenn höggnir, konum drekkt, þjófar brennimerktir o.s.frv.). En af er slíkt lagt á 18. öld. Þá taka menn út refsingar í hjeraði eða í fangelsum erlendis eða í tugthúsi í Reykjavík. Á 18. öld er lögrjetta aðeins dómstóll og þinglýsingastaður. Vegur hennar fór sífellt þverrandi eftir því sem vald hennar minkaði og þingið varð fásóttara. Þangað komu þá lögnjennirnir, 2, 4 eða 5 lögrjettumenn milli 10 og 20 sýslumenn, landfógeti og amtmenn, og þó varla alltaf, og svo þeir, er málum áttu að gegna. Var það fámenni á móts við það, er þangað komu 70—80 lögrjettumenn og margt annara manna.

Yfirrjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Hann var stofnaður með tilskipun 6. desember 1593. Skyldi höfuðsmaður vera forseti hans, og með sjer átti hann að taka 24 dómendur úr tölu sýslumanna og annara embættismanna (klausturhaldara og jarðaljensmanna og lögrjettumanna). Þegar höfuðsmannsdæmið var lagt niður, þá gerðist amtmaður, og eftir 1770 stiftamtmaður, forseti dóms þessa. Eftir konungsbrjefi 17. maí 1735 þurftu meðdómendur í yfirdómi ekki að vera fleiri en 12, en máttu þó vera 24, og loks var þeim fækkað í 6 með konungsbr. 30. apríl 1777. Stóð svo þangað til yfirrjetturinn var lagður niður árið 1800. Dómstóll þessi naut aldrei sjerstakrar virðingar eða trausts landsmanna. Og fór hvorugt vaxandi, enda komu fá mál til hans venjulega. Sum árin þurfti eigi að heyja dóminn, af því að eigi lágu fyrir mál til að dæma. Yfirrjetturinn var alltaf háður á Þingvelli oft, að minsta kosti, í lögrjettuhúsinu á 18. öld. Árin 1799 og 1800 var hann háður í Reykjavík. Dómendur fengu eftir 1770 10 ríkisdali fyrir dómstörf sín í yfirrjetti. Málum frá yfirrjetti mátti skjóta til hæstarjettar Danmerkur í Kaupmannahöfn.

Gestarjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með konungsbrjefi 24. jan. 1738 var stofnaður gestarjettur svo nefndur á Þingvelli. Sýslumaðurinn í Árnessýslu átti að skipa þenna dóm. Það hafði áður tíðkast, að lögrjetta dæmdi sem lægsti dómur mál út af illmælum og barsmíðum og öðru slíku milli manna, er gerst höfðu á Þingvelli, milli þingsóknarmanna, um þingtímann. En þessi mál þóttu tefja störf lögrjettu of mikið, og því var gestarjetturinn stofnaður. Fara ekki margar nje miklar sögur af gestarjetti þessum. Hann hverfur og vitanlega úr sögunni, þegar Alþingi var lagt niður.

Prestastefnur – Synodalrjettur
Eftir Járnsíðu áttu biskupar að nefna 12 skynsama, lærða menn til þingreiðar. En eigi er kunnugt, hvaða hlutverk þeir áttu að vinna á Alþingi. Eigi segir Járnsíða, að biskupar hafi sjálfir verið þingreiðarskyldir.
AlþingiJónsbók segir ekkert um þingreið biskupa eða klerka. Og eigi segir heldur neitt um það efni í kirkjurjetti. Það er þó alkunnugt, að biskupar sóttu venjulega þing, bæði Skálholtsbiskup og Hólabiskup líka. Og á Alþingi stóðu stundum höfuðrimmur milli klerka og leikmanna í katólskum sið, t. d. milli Staða-Árna og Hrafns Oddssonar, Ólafs biskups Rögnvaldssonar og Hrafns Brandssonar, og jafnvel eftir siðaskifti (Guðbrandur biskup Þorláksson og Jón lögmaður Jónsson). Hólabiskupar höfðu ekki slík erindi til Alþingis sem Skálholtsbiskupar, því að nyrðra voru prestastefnur haldnar í Skagafirði, á Flugumýri oftast, eða annarsstaðar þar í biskupsdæminu. En Skálholtsbiskupar hafa lengi haldið prestastefnur fyrir sitt biskupsdæmi á Þingvelli um þingtímann. Þetta hafði þó ekki verið ákveðið eitt skifti fyrir öll fyr en 1639. Þá fjekk Brynjólfur biskup Sveinsson það samþykkt á prestastefnu, að aðalprestastefnu (Synodus generalis) Skálholtsbiskupsdæmis skyldi heyja á Þingvelli við Öxará á sama tima sem Alþingi.

Þingvellir

Bagall er fannst við uppgröft á Þingvöllum.

Þetta var biskupi hentugt, því að þar gat hann jafnframt hitt alla innlenda forráðamenn landsins. Síðan var prestastefna Skálholtsbiskupsdæmis háð á Þingvelli til 1789, enda var það beint lögákveðið í erindisbrjefi biskupa 1. júlí 1746, að þar skyldi prestasefna Skálholtsbiskupsdæmis vera. Sóttu synodus milli 10 og 20 prófastar og prestar úr nærsýslunum eftir kvaðningu biskups. Hjelt biskup þeim kost í tíð Brynjólfs, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Vídalíns, að því er virðist. Fram undir lok 17. aldar mun biskup einn hafa haft forsæti prestastefnu sinnar, en eftir að amtmannsembættið er á stofn sett, fer amtmaður að taka þátt í dómstörfum prestastefnunnar (synodalrjetti). Gerist hann þá jafnframt biskupi forseti synodalrjettar, og stiftamtmaður síðan. Síðar miklu reis deila um forsæti synodalrjettar milli Levetzows stiftamtmanns og Hannesar biskups Finnssonar, því að stiftamtmaður taldist einn eiga að hafa forsæti í dóminum, en biskup kvað þá báða eiga að hafa það, er og var rjett. Fjelst og Kancelli á skoðun biskups.
Synodalrjetturinn dæmdi svonefnd „andleg mál“, þar sem prestar voru annar aðili, enda snertu málin kenningar þeirra og hegðun, hjónabandsmál, mál um kirkjuaga og gildi kirkjulegra athafna, svo sem skírnar, aflausnar o.s.frv. Synodalrjetturinn fluttist af Þingvelli um leið og lögrjetta og yfirrjettur.

Niðurlagning Alþingis hins forna

Alþingi

Oddur Sigurgeirsson sterki af Skaganum og Kristján X. Danakonungur á Alþingishátíðinni 1930. Oddur var mætur maður en stakk aðeins í stúf, m.a. vegna slyss sem hann lenti í sem barn og veikinda síðar á lífsleiðinni sem háðu honum mjög. Hann átti viðburðarríka ævi en Alþingishátíðin hefur verið honum ógleymanleg og kærkomið mótvægi við stríðni og skilningsleysi sem hann fékk vænan skerf af.

Það var nokkurn veginn auðráðið, að Alþingi við Öxará mundi eigi verða flutt þangað aftur, úr því að það var einu sinni komið til Reykjavíkur. Á Þingvelli hefði þurft að reisa nýtt lögrjettuhús, og þá lá nær, að reisa það í Reykjavík eða kaupa þar hús til þinghalds, sem einnig komst til tals. En svo kom annað til. Dómaskipun landsins var mjög óhentug. Alþingi var háð einu sinni á ári. Þetta skipulag olli feikna drætti á málum. Dómstigin voru fjögur, þrjú innlend (hjeraðsdómur sýslumanna, lögmannsdómur eða lögþings, yfirrjettur) og eitt erlent (hæstirjettur í Danmörku). Hlaut því afskaplega langur tími að líða frá því er mál var höfðað og þar til er það hafði gengið gegnum æðsta dómstólinn. Magnús Ólafsson Stefánssonar stiftamtmanns — þeir frændur höfðu þá að heldri manna sið danskað nafn sitt og nefnt sig Stephensen — var þá lögmaður.

Tíu aurar

Tíu aura peningur frá 1940 – með marki Kristján X., konungs Íslands.

Hann var, sem alkunnugt er, að mörgu leyti maður stórvel gefinn, gáfaður og lærður vel að þeirra tíma hætti, starfsmaður í besta lagi, metorðagjarn, fylginn sjer og óvæginn, ef því var að skifta. Hann var, ásamt Vibe landfógeta, Stefáni amtmanni Þórarinssyni — sem líka hafði danskbeyglað föðurnafn sitt í „Thorarensen“ — og Grími Thorkclin, skipaður haustið 1799 í nefnd til að íhuga skólamál landsins og dómsmál. Lagði nefndin til, að Alþingi, bæði ,,lögþingið“ (lögrjetta) og yfirrjettur, yrði algerlega lagt niður, en í staðinn yrði settur á stofn landsyfirrjettur, á borð við stiftsyfirrjettina norsku, sem þá höfðu verið stofnaðir fyrir skömmu. Fara þeir nefndarmenn, og þó aðallega Magnús lögmaður, heldur kuldalegum orðum um þinghaldið á Þingvelli og þingstaðinn, og einkum fær yfirrjetturinn, sem Ólafur gamli stiftamtmaður, faðir Magnúsar, veitti forstöðu, mjög illa útreið hjá honum. Kancellí fjelst á tillögur nefndarinnar um niðurlagningu Alþingis við Öxará og stofnun landsyfirrjettar í Reykjavík í staðinn. Og fór það fram, að þingið var alveg lagt niður árið 1800, eins og kunnugt er.

Alþingi 1845—1874

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með tilskipun 28. maí 1831 og 15. maí 1834 var sett svonefnd ráðgjafarþing á stofn í Danmörku. Voru þau tvö, annað á Jótlandi og hitt í Hróarskeldu. Þing þessi áttu ráðgjafaratkvæði um ýms löggjafarmál. Á Hróarskelduþingi átti Ísland og Færeyjar að hafa 3 fulltrúa. Var með Ísland farið eins og það væri amt í Danmörku, að öðru en því, að landsmenn kusu eigi þessa fulltrúa sína, heldur gerði konungsvaldið það. Íslandi var þá, og hafði lengi verið, stjórnað í Kaupmannahöfn, og fóru stjórnarskrifstofurnar tvær, Kancelli og Rentukammer, með íslensku málin. Íslenskir menn hugðu margir, sem von var, að landinu mundi lítið gagn standa af afskiftum dansks ráðgjafarþings af íslenskum málum. Áhugaleysi þeirra og þekkingarleysi mundi girða fyrir alla nytsemd af meðferð íslenskra mála á dönsku þingi. Baldvin Einarsson skrifaði þegar 1831 ritling um ráðgjafarþingin dönsku og um ráðgjafarþing á Íslandi.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

En þó fyr en 1837. Þá gengust ýmsir merkir menn fyrir því, að gerðar voru bænarskrár til konungs um ráðgjafarþing hjer á landi. Komust þær sumar til Kancellis. En róðurinn var þungur, því að Kancelli taldi það ósæmilegt, að Íslendingar skyldu þá biðja um sérstakt ráðgjafarþing, með því að Friðrik 6., sem þá sat á konungsstóli í Danmörku, hafði lýst yfir því, að hann mundi eigi gera breytingu á ráðgjafarþingunum. Hinsvegar var með konungsúrskurði 22. ág. 1838 efnt til samkomu embættismanna nokkurra hjer undir forsæti stiftamtmanns. — Embættismannanefnd þessi hjelt tvisvar fundi, 1839 og 1841, en var svo lögð niður. Friðrik 6. ljetst 8. des. 1839. Var það happ mikið, bæði Íslandi og Danmörku.

Kristján XIII

Kristján XIII.

Til ríkis kom nú Kristján konungur 8., gáfaður maður og frjálslyndur, miðað við konungmenn þeirra tíma. Hann gaf út konungsúrskurð 29. maí 1840, þar sem gerðar voru ráðstafanir til þess, að embættismannanefndin íslenska yrði spurð að því, hvort eigi myndi Íslandi heppilegast að fá ráðgjafarþing á Íslandi, hvort það ætti eigi að heita Alþingi og hvort það skyldi eiga að heyja á Þingvelli við Öxará. Nefndin lagði auðvitað til, að Ísland fengi sjerstakt ráðgjafarþing er Alþingi hjeti. Meirihluti nefndarinnar lagði ennfremur til, að þingið yrði háð í Reykjavík, en minnihlutinn vildi hafa það á Þingvelli við Öxará. Deildu menn mjög um þingstaðinn, sem kunnugt er. En svo fór að lokum, að Reykjavík var kjörinn þingstaður Það varð mönnum og mikið ágreiningsefni, hvernig haga skyldi ákvæðum um kosningarrjett og kjörgengi til þingsins o. fl. En svo fór, að tillögur embættismannanefndarinnar gengu í flestu fram. Með konungsúrskurði 8. mars 1843 var loks ákveðið að stofna ráðgjafarþing á Íslandi, og átti þingið að heita Alþingi. Með tilskipun s.d. voru settar reglur um kjörgengi og kosningarrjett og þinghaldið alt. Upphaflega átti þingið að koma saman sumarið 1844, en þess varð eigi kostur, því að stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn höfðu að venju dregið nauðsynlegar framkvæmdir til undirbúnings þinghaldinu. Fyrsta ráðgjafarþingið varð því ekki háð fyrr en í júlí 1845.

Skipun Alþingis 1805—1874

Þingvelllir

Frá Aþingishátíðinni 1930.

Landinu var þá skift í 19 sýslur eða lögsagnarumdæmi og Reykjavíkurkaupstaður að auki. Var hver sýsla og Reykjavík kjördæmi sjer og skyldi kjósa einn alþingismann, og einn til vara, í hverju þessara kjördæma. Voru þjóðkjörnir þingmenn á ráðgjafarþingunum því 20, þar til 1857, að Skaftafellssýslur urðu 2 kjördæmi. Urðu þá kjördæmi og þjóðkjömir þingmenn 21. Og var svo síðan til 1874. Auk þessa kjöri konungsvaldið alt að því 6 þingmenn, sem nefndir vóru konungkjömir. Alls áttu því sæti 26 og síðar 27 þingmenn á Alþingi. Þess er þó getanda, að í Vestmannaeyjum varð eigi kosinn þingmaður, meðan kosningarrjettarskilyrði Alþingistilskipunarinnar 8. mars 1843 stóðu, því að enginn hafði þar kosningarrjett. Stóð svo til 1857. Kjörtímabil þingmanna var 6 ár. Alþingi starfaði alltaf í einni málstofu þetta tímabil. Það kom jafnan saman annað hvert ár, stöku árin, nema 1851. Þá var þjóðfundurinn haldinn, en Alþingi eigi, sem vitað er. Aukaþing var ekkert haldið á þessu tímabili, en einu sinni var þing rofið, 1869, og efnt þá til nýrra kosninga, vegna stjórnardeilunnar milli Danmerkur og Íslands. Á þessu tímabili voru 14 þing háð, og þjóðfundurinn að auki, allt regluleg þing. Aukaþing þekktust ekki eftir Alþ.tilsk. 8. mars 1843.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Upphaflega áttu þeir einir karlmenn kosningarrjett, er áttu fasteign að minsta kosti 10 hndr. að mati, eða höfðu lífstíðarábúð á þjóðjörð eða kirkjujörð, er væri að minnsta kosti 20 hndr. að mati, eða ættu húseign, að minsta kosti 1000 rbdl. virði, í Reykjavík eða einhverjum verslunarstaðanna, sem þá voru. Þessi skilyrði þóttu alltof ófrjálsleg, sem von var. Ákvæðin Alþtilsk. um kosningarrjett og kjörgengi voru sniðin eftir samsvarandi fyrirmælum í tilsk. um dönsku ráðgjafarþingin. — Auk þessara skilyrða skyldi kjósandi enn fremur vera 25 ára gamall, hafa óflekkað mannorð, og hafa forræði á fje sínu. Kjörgengis-skilyrðin voru hin sömu sem kosningarrjettar-skilyrðin, að því viðbættu, að þingmaður skyldi vera 80 ára, hafa haft fasteignaráðin í 2 ár — Hann var aðeins kjörgengur í því amti, þar sem fasteign hans var — að hann skyldi vera kristinnar trúar, þegn Danakonungs, og hafa átt heima í 5 síðustu árin í löndum Danakonungs í Norðurálfu.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Með tilsk. 6. janúar 1857 voru skilyrði kosningarrjettar og kjörgengis mjög rýmkuð. Nú var eignarhald á fasteign eða ábúð á jörð eigi lengur skilyrði. — Nú fengu kosningarrjett bændur, sem höfðu grasnyt og guldu gjald til allra stjetta, embættismenn og þeir, sem tekið höfðu lærdómspróf við Kaupmannahafnarháskóla eða Prestaskólann, enda væru þeir eigi hjú, svo og kaupstaðaborgarar og loks þurrabúðarmenn, ef þeir greiddu 6 rbdl. til sveitar sinnar. Auk þess áttu kjósendur vitanlega að fullnægja skilyrðunum um aldur, mannorð, fjárforræði og eigi máttu þeir heldur standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Loks átti kjósandi að hafa haft heimili í kjördæmi síðasta árið fyrir kosningu. Kjörgengisskilyrðin urðu nú hin sömu sem kosningarrjettarskilyrðin, nema þingmannsefni átti að vera 30 ára að aldri, þegn Danakonungs, kristinnar trúar, og hafa verið 5 ár búsettur í löndum Danákonungs í Norðurálfu, en eigi þurfti hann að hafa átt heimili í kjördæminu. Alþingiskosningar voru þá opinberar, og þurftu eigi að fara fram sama dag um land allt, eins og nú. Kjörstaður var þá einn í hverju kjördæmi, enda voru kosningar oft mjög báglega sóttar, í samanburði við það, sem nú er. Á þessu tímabili buðu menn sig eigi fram til þingsetu, eins og nú, og mátti því verða, að sá maður yrði fyrir kjöri, sem alls eigi vildi taka við kosningu. Alþingi úrskurðaði um kjörgengi og lögmæti kosninga, eins og nú. Ef aðalþingmanns missti við, eða hann forfallaðist, þá tók vara-þingmaður sæti.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Alþingi kom saman 1. júlí, eða næsta virkan dag þar á eftir, ef 1. júlí bar á sunnudag, og skyldi standa 4 vikur. Þingtíminn var þó lengdur, ef á þurfti að halda. Konungsfulltrúi setti þingið og sleit því. Þingmálið var íslenska, en þó mátti konungsfulltrúi tala á dönsku, en þýða átti þá jafnharðan ræðu hans. Eftir 1849 — þá varð Páll amtmaður Melsted konungsfulltrúi — hjeldu konungsfulltrúar ræður sínar á íslensku. Fyrstu 2 þingin voru háð fyrir lokuðum dyrum, þrátt fyrir kröfur þingmanna um þinghald í heyranda hljóði, en 1849 og síðan var þing haldið fyrir opnum dyrum. Þingið kjöri forseta sinn og varaforseta og svo skrifara. Þingið var háð í salnum í Latínuskólanum öll þessi ár, því að þinghús var eigi reist þá, og eigi annað hús jafn hentugt þá eða veglegt til þinghalds.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Lagafrumvörp af hendi konungsvaldsins, er snertu mannrjettindi manna, eignir, skatta og álögur í almennings þarfir, átti að leggja fyrir þingið. Það hafði rjett og skyldu til ráðgjafar um þessi efni, en samþyktarvald um löggjöf hafði þingið ekki þá, eins og síðan 1874. Einstakir þingmenn gátu og borið löggjafarmál undir þingið. Um stjórnarfrumvörp voru hafðar tvær umræður. Hjet hin fyrri undirbúningsumræða, en hin síðari ályktunarumræða. Um frumvörp einstakra manna eða málefni, er þeir báru upp, voru hafðar þrjár umræður, inngangsumræða og síðan hinar tvær áðurnefndu.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Ef Alþingi vildi koma máli fram í einhverri mynd, þá var venja, að forseti og skrifari sendi um það bænarskrá til konungs, þar sem fram var tekið, hvers efnis þingið vildi hafa væntanleg lög um málið. En það var auðvitað oft óvíst, hvort tillögur þingsins fyndu náð fyrir augum stjórnarskrifstofanna eða ráðherranna Kaupmannahöfn. Um þeirra hendur fóru málin áður en þau komu til konungs, og þeirra ráðum mun hann nær altaf hafa hlítt. Á þessu tímabili hafði Alþingi með höndum öll þau mál, sem þá kvað mest að og mestu vörðuðu landið. Þegar á fyrsta þinginu (1845) kom verslunarmálið til meðferðar. 1787 hafði verslunin að vísu verið leyst úr versta einokunarlæðingnum, en Danir einir mátti versla hjer leyfislaust og afarkostalaust. Og tiltölulega fáar hafnir voru hjer löggiltar.

Alþingishúsið

Alþingishúsið, byggt 1881 – merki Kristjáns IX (1818-1906) er færði Íslendingum stjórnarskrána 1874.

— Flestir bestu menn landsins vildu fá íslenska verslun við útlönd gefna frjálsa öllum þjóðum og jafnrjetti þeirra á meðal. Stóð í þessu þófi nær áratug, uns verslunarfrelsi fjekst nokkurnveginn með lögum 15. apríl 1854, er ríkisþing Dana og konungur setti. Meðal annara stórmála, er ráðgjafarþingin fóru með, má nefna skólamálin, fjárkláðamálið á þingunum 1857—1869, fjárhagsmálið svo nefnt, um skuldaskifti Íslands og Danmerkur 1865 og síðast en eigi síst stjórnarbótarmálið (sambandsmál Íslands og Danmerkur) 1867, 1869 og 1871 og frumvörp bæði í sambandi við það og sjer í lagi (1878) um stjórnarskrá landsins.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Þau mál tókst Alþingi eigi að leysa. Stöðulög 2. jan. 1871 og stjórnarskrá 5. jan. 1874 voru sett án þess að þau væru lögð fyrir Alþingi og að sumu leyti þvert ofan í vilja þess, eins og kunnugt er.

Á þessu tímabili sátu margir kunnustu og ágætustu menn landsins á þingi. Fyrstan má þar nefna Jón Sigurðsson forseta. Hann var kjörinn þingmaður allt þetta tímabil, en sat þó ekki á þingunum 1861—1863. Þá má nefna menn eins og Þórð Sveinbjörnsson yfirdómsforseta, sem var líka lærður maður og mikilhæfur, Pjetur biskup Pjetursson, Jón Guðmundsson ritstjóra, prófastana Hannes Stephensen og Halldór Jónsson, Benedikt Sveinsson, Arnljót Ólafsson, Jón Sigurðsson á Gautlöndum o.m.fl. þjóðkunna menn.“

Heimildir:
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Eggert Briem, Alþingi hið forna, bls. 4-7.
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Einar Arnórsson, Saga Alþingis, bls. 7-10.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.