Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Tunglið, tunglið taktu mig

FERLIRsfélagar héldu fótagangandi frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík yfir að Víti í Kálfadölum.

Ásgeir Long

Ásgeir Long.

Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson gerðu stuttmyndina „Tunglið, tunglið taktu mig“ árið 1954. Kvikmyndin var að hluta til tekin í bátasmiðjunni Dröfn í Hafnarfirði og útiatriðin vestan við framangreint Víti austan Stóra-Nýjabæjar. Víti er hraunfoss í austanverðum syðri Kálfadölum er rann skömmu fyrir landnám úr eldgosahrinu í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum – ofan Geitahlíðar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir svæðið segir: „Norður af Geitahlíð, sem fyrrnefnd er, tekur við háslétta, sem er víðast eldbrunnin. Vestur af hálendisbrúninni norðan Geitahlíðar fellur hraunfoss, sem allur er vaxinn þykkum grámosa. Foss þessi heitir Víti. Norður af Geitahlíð og Víti eru Kálfadalahlíðar, og vestan þeirra eru dalir eða lægðir, nokkuð djúpar, og heita Kálfadalir. Inn af þeim er svo Kálfadalahnúkur. Hér norðar á hásléttunni er Vörðufellið, sem fyrr var getið, og austan þess heita Sandfjöll. Hér uppi er hásléttan áfram hallandi til vesturs eða suðvesturs. Er hún frekar mishæðalítil, en öll eldbrunnin, með hrauntröðum og formfögrum gígum.

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Efst, þar sem er markalínan móti Herdísarvík, eru svonefnd Brennisteinsfjöll. Hækka þau til norðurs. Heldur sunnar en háaustur frá norðurenda Kleifarvatns er uppi á há Brennisteinsfjöllum svonefnt Kistufell. Þar norður af eru svo Draugahlíðar, sem munu vera í Herdísarvíkurlandi, enda hallar þeim mót austri, og er þá skammt eftir í Kóngsfell.“

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Fátt er um örnefni á svæðinu. Þó er getið um Austurengjafellið milli syðri Kálfadala og Austurengjahvers (Stórahvers), en nafns hinnar feikimiklu hraunbreiðu ofan Geitahlíðar er hvergi getið. Þar eru nokkrir formfagrir gígar og nokkur samliggjandi hraun er benda til þess að gosið hafi þar nokkrum sinnum í mismunandi goshrinum, líkt og nú gerist í og við Fagradalsfjall. Hraunfossinn Víti er afurð eins þessa. Hraunstraumurinn fyllti að hluta til Kálfadalina, bæði til suðurs og norðurs, líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd neðst. Á jarðfræðikortum ÍSOR er hraunið nefnt Kálfadalshraun og aldur þess sagður 1100-4000 ára.

Víti

Víti.

Stórbrotið er að standa andspænis hraunfossinum og ímynda sér þær miklu náttúruhamfarir þá er þar urðu.
Vestan við syðri Kálfadali eru miklar móbergsmyndanir í bland við hraungos undir jökli fyrir meira en ellefu þúsund árum. Landslagið þar mynnir á yfirborð Tunglsins. Það var því ekki að ástæðulausu sem Ásgeir Long og félagar hafi ákveðið að gera það að sviðsmynd stuttmyndarinnar „Tunglið, tunglið taktu mig„. Lengi vel má sjá leifar „kóngulóarvefs“ leikmyndarinnar í móbergsmyndunum.

TungliðÍ Tímanum 16. ágúst 1961 segir m.a. um kvikmynd þeirra Ásgeirs og Valgarðs: „Tunglið, tunglið taktu mig segir frá ferð lítils drengs með eldflaug til tunglsins og ævintýrum hans þar. Leikur Jón Guðjónsson drenginn. Kvikmyndin er að mestu tekin við Víti við Kleifarvatn, en þar er ákaflega tunglslegt landslag. Leikstjórinn að báðum þessum kvikmyndum var Jónas Jónasson útvarpsþulur.“

Tunglið

Úr stuttmyndinni; karlinn í Tunglinu.

Í bæjarblaðinu Hamri 1955 er fjallað um stuttmyndina undir fyrirsögninni „Íslenzk barnakvikmynd“: „Ásgeir Long sýndi barnaskólabörnum og fleirum tvær kvikmyndir, sem hann hefur tekið. Er önnur þeirra „Dagur við ána“, laxveiðimynd, tekin við Haukadalsá í Dölum og er hún mjög vel tekin. Er þar fjölbreytilegt og fagurt landslag en myndin er í litum og eru þeir mjög fagrir. Um 15 mínútur tekur að sýna myndina.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Hin myndin er barnakvikmynd, og heitir „Tunglið, tunglið taktu mig“ og eru þeir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson höfundar hennar, en Ásgeir tók myndina. Tekur um 20 mínútur að sýna hana. Þetta er fyrsta barnamyndin, sem þeir framleiða og er hún því gerð í tilraunaskyni, en ætlun þeirra félaga er að framleiða íslenzkar barnamyndir og nota m. a. efni úr þjóðsögunum.
Myndin segir frá Nonna litla, sem í draumi fer í geymfari til tunglsins og lendir hann í hinum mestu mannraunum bæði á leiðinni og svo eftir að hann kom til tunglsins. Hitti hann þar karlinn í tunglinu og bjargaði honum úr lífsháska, en komst svo í hann krappan sjálfur, því þar átti einnig hin mesta ófreskja heimkynni sín.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Leikendur í myndinni eru: Nonni litli leikinn af Jóni Guðjónssyni, pabbi og mamma leikin af Valgarð Runólfssyni og Guðrúnu Helgadóttur, karlinn í tunglinu leikinn af Ólafi Friðjónssyni og ófreskjan leikin af Jóni Má Þorvaldssyni. Hefur myndin heppnast vel og hafa bæði börnin og fullorðnir haft mikla ánægju af að sjá hana. Þeir Ásgeir og Valgarð eru langt komnir með aðra barnamynd og er við gerð hennar stuðst við þjóðsöguna um Gilitrutt. Mun taka um 1 klst og 20 mínútur að sýna hana.
Hér er um merkilegt starf að ræða í því að framleiða íslenzkar barnakvikmyndir og er vonandi, að þeim Ásgeiri og Valgarð takist að ná því marki að geta framleitt góðar og skemmtilegar barnamyndir.!

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Í ritinu „Unga Ísland“ árið 1954, undir fyrirsögninni „Ný íslensk barnakvikmynd- Tunglið, tunglið taktu mig“, segir: „Bráðum verður farið að sýna nýja íslenzka kvikmynd fyrir börn, sem heitir „Tunglið, tunglið taktu mig.“ En framleiðendur myndarinnar þeir Ásgeir Long vélstjóri í Hafnarfirði og Valgarð Runólfsson kennari í Reykjavík. Myndin fjallar um lítinn dreng, sem kallaður er Nonni.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Á gamlárskvöld horfir hann á eftir flugeldi, sem skotið er upp í loftið. En Nonni litli á sjálfur dálítið geimfar, sem hann leikur sér oft að; og nú sjáum við inn í hugarheim drengsins, — fljúgum með honum út í endalausan geiminn í litlu eldflauginni hans og stefnum á tunglið. Á leiðinni lendir hann í ýmsum erfiðleikum, en kemst að lokum til tunglsins og hittir þar fyrir óvænta íbúa. En ekki meira um efnið að sinni.

Víti

Tökustaðurinn.

Talsverðum erfiðleikum var bundið að gera þessa mynd, og lengi var aðalvandinn að finna hentugt húsnæði. En úr því rættist sem öðru. Skipasmíðastöðin Dröfn í Hafnarfirði lánaði stóran sal endurgjaldslaust í þrjá mánuði undir kvikmyndatökuna. Flugfélag Íslands lánaði ýmislegt er þurfti við smíði flugskipsins, og ennfremur lánuðu Randíóverkstæði Landssímans og Flugskólinn Þytur ýmsa nauðsynlega hluti. Engu starfsfólki var hægt að greiða kaup, og urðu allir, sem hönd lögðu að verkinu, að vera sjálfboðaliðar og áhugafólk.

Víti

Kvikmyndastaðurinn.

Auk Valgarðs og Ásgeirs unnu við myndina þeir Axel Sölvason rafvélavirki, Reykjavík, er sá um ljós og annan rafmagnsútbúnað, Sigurður Haraldsson, Reykjavík, er gerði flug geimfarsins kleift, og Þórður Bjarnar útvarpsvirki, Reykjavík, er tók allar ljósmyndir og vann við ýms tækniatriði. — Einn mann skorti þó tilfinnanlega, en það var leikstjóri. Ber myndin þess að sjálfsögðu merki og hefði vafalaust getað orðið betri, ef hans hefði notið við.
Leikendur eru: Jón Guðjónsson (10 ára), sem leikur Nonna og því aðalhlutverkið; Guðrún Helgadóttir leikur mömmuna og Valgarð Runólfsson pabbann. Auk þess leika þeir Ólafur Friðriksson og Jón Már Þorvaldsson persónur, sem bezt er að vita sem minnst um fyrirfram.

Víti

Víti.

Byrjað er á töku annarrar myndar, sem sótt er í íslenzkar þjóðsögur. Verður Jónas Jónasson útvarpsþulur leikstjóri hennar, en Ásgeir Long sér um kvikmynda- og tónupptökuna o. fl. Ljósameistari verður Axel Sölvason, og Valgarð Runólfsson semur kvikmyndahandritið og leikur eitt aðalhlutverkið.
Erfitt er að spá nokkru um framtíð þessa unga fyrirtækis að svo stöddu, en ef aðstandendur þess vinna áfram af sama áhuga og hingað til, er ekki útilokað að þeir geti með tímanum boðið íslenzkum bömum upp á kvikmyndir, sem þau skilja og sem hafa meiri fræðandi og þroskandi áhrif á þau en mikið af þeim erlendu barnamyndum, sem nú tíðkast í kvikmyndahúsum okkar.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Krýsuvík, örnefnalýsing; Aro Gíslason.
-Tíminn, miðvikudagur 16. ágúst 1961, bls. 16.
-Hamar IX. árg. 9. maí 1955, bls. 3.
-Unga Ísland, 4. tbl. 01.12.1954, Ný íslensk barnakvikmynd, bls. 8-9.
https://www.youtube.com/watch?app=desktop&v=DtYmcBHjRck

Víti

Víti – loftmynd.

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að brjóta þær niður. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan.

Reykjanesskagi

Landeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga – kort.

Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn. Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar.
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.

Reykjavík

Víkurkirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 en
elsti máldagi hennar er frá árinu 1379. Kirkjan var helguð Jóhannesi postula. Gamla
Víkurkirkjan stóð þar sem nú er horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Hún var aflögð árið
1796 og Dómkirkjan reist í staðinn, en gamla kirkjan jöfnuð við jörðu tveimur árum
seinna. Hugmyndir voru upp um að byggja hina nýju dómkirkju utan um Víkurkirkju en
þegar hafist var handa við að grafa fyrir undirstöðum var komið niður á grafir þeirra
sem höfðu látist úr bólusótt. Jón Sveinsson landlæknir lagðist harðlega gegn því að
hreyft yrði við gröfunum vegna smithættu. Sökum þessa var ákveðið að velja hinni nýju
kirkju nýjan stað fyrir utan kirkjugarðinn.22
Kirkjugarðurinn var talinn fullnýttur um aldamótin 1800, um það leyti sem
gamla Víkurkirkjan við Aðalstræti var aflögð.
Upp úr 1883 var gamla kirkjugarðinum breytt í skrúðgarð að undirlagi
Georgs Schierbecks landlæknis en hann fékk lóð undir íbúðarhús norðan við garðinn er
varð Aðalstræti 11.

Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.

Klaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.

ViðeyEftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
Fornleifauppgröftur fór fram í Viðey á árunum 1987-1995 á vegum Árbæjarsafns – Minjasafns Reykjavíkur og fundust við hann margar merkar minjar, ekki síst frá klausturtímanum.

Heimild m.a.:
-nat.is

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnesleið

Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.

Hvalsnesgata

Hvalsnesvegur.

Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.

Hvalsnesleið

Gengið um Hvalsnesleið.

Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata – vörðukort.

Þingvellir

Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Á undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.
Frá öndverðu hafa ferðamenn lagt leið sína á Þingvöll og ástæðan er líklega augljós. Sagan og hrikaleg náttúran gera Þingvelli nánast að skylduáfangastað þeirra sem um landið fara. Um miðja nítjandu öld komu fram hugmyndir í Bandaríkjunum um að friða svæði vegna fegurðar og mikilfengleika þeirra.

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þessar hugmyndir bárust til Íslands í upphafi 20. aldar. Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

Þingvellir

Örn yfir Þingvöllum.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Árið 1930 var Guðmundur Davíðsson ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvellir eru í dag einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins þar sem hundruðir þúsunda gesta koma árlega til að kynnast betur einum mesta sögustað og náttúruperlu Íslands.
Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870.
Margir fylgdu í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – áÍslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum. Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.

Þingvellir

Þingvellir.

Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.

Skógarkot

Skógarkot.

Gangan hófst að þessu sinni ofan við Stekkjargjá norðan við Öxarárfoss. Milli hennar og Snókagjáar liggur flóraður stígur niður í gjána, Langistígur. Gagnheiðarvegur úr Borgarfirði og gamla gatan frá Norðlingavaði að vestan sameinast skammt ofan við þar sem stígurinn fer niður í gjána. Á leiðinni niður er fallega hlaðin brú. Einstaklega fallegt útsýni er í Stekkjargjánni þar sem stígurinn kemur niður í hana. Á barminum hægra megin hvílir tvíhöfða þurs er horfir annars vegar yfir gjána og hins vegar til himins.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið um Efrivelli um Vallarstíg, á hlaðinni brú yfir Valagjá og áfram austur Skógarkotsveg áleiðis að Skógarkoti. Þessi kafli er um 1.8 km langur og er gamli bílvegurinn (sá fyrsti), sem lagður var norður á land um Þingvelli og Kaldadal. Enn þann dag í dag má fylgja honum frá Selvatni ofan við Reykjavík svo til alla leiðina í Borgarfjörð í gegnum vellina. Útsýni á þessari leið er stórbrotið, ekki síst fjalla- og vatnasýnin við Þingvelli. Skógarhólar voru á vinstri hönd skömmu áður en komið var að Skógakoti. Fallega hlaðin heimtröðin tekur á móti ferðalöngum og leiðir þá heim að bæjarstæðinu.

Skógarkot

Tóft í Skógarkoti.

Þar er bæjarhóll, hlaðinn kjallari hlöðu, brunnur, gerði og tóftir austar í túniu. Allt umhverfis er hlaðinn túngarður. Skógarkot er svo til miðsvæðis á Þingvöllum og því fallegt að horfa þaðan til allra átta; Botnssúlurnar, Ármannsfellið, Skjalbreið, Tindaskagi og Hrafnabjörg. Handan vatnsins er Arnarfell og Hengillinn. Háimelur sést í fjarska í vestri sem og Borgarklettarnir. Björn Th. Björnsson hefur m.a. ritað sögulega skáldsögu um lífið og fólkið í Skógarkoti.

Ölkofri

Ölkofri.

Ákveðið var að fylgja Veiðigötunni frá Skógarkoti, áleiðis að Þingvallavatni. Eftir spölkorn var komið að Hellishól og Hallshelli, hægra megin við stíginn. Hleðslur eru inni í hellinum og er honum að meginefni til haldið uppi af stórri náttúrulegri steinsúlu. Ekki er vitað hvort mannvistarleifar þessar hafi verið skoðaðar sérstaklega, en stutt er síðan hellirinn endurfannst.

Ölkofri

Ölkofri – Gamlistekkur.

Veiðigötunni var fylgt til baka inn á Gjábakkaveg. Honum var fylgt niður að Tjörnum norðan Vallavegar (þjóðvegurinn norðan Þingvallavatns. Á móts við Tjarnirnar liggur nær ósýnilegur stígur upp í landið, að Nýja Þingvalahelli, fjárhelli, sem þar er. Skammt suðvestan við hann er skúti. Gjábakkavegi var fylgt áfram að Böðvarshól ofan við norðausturhorn Þingvallavatns. Þar fyrir ofan hólinn er Þingvallahellir, einnig fjárhellir. Mjög er gróið fyrir opið og nær ómögulegt að finna það nema hafa kunnugan með í för.

Þingvellir

Á Þingvöllum.

Gjábakka vegi var fylgt til baka að Tjörnunum, en þar var strikið tekið yfir lyng og móa, milli trjáþyrpinga, upp á svonefndan Klukkustíg. Þeim stíg var fylgt til vesturs að Þórhallsstöðum. Bærinn kúrir suðaustan undir Ölkofrahól. Sennilega er bær þessi frægastur fyrir bruggtilraunir fyrr á öldum.
Klukkustíg var fylgt áfram til vesturs að Skógarkoti og Sandhólastíg síðan fylgt upp á Leirarnar sunnan við Þjónustumiðstöðina með viðkomu í Krókhólum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.thingvellir.is

Ölkofra

Ölkofra – Þórhallsstaðir – loftmynd.

Bessastaðir

Þann 30. júní 2023 friðlýsti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið Bessastaðanesið. Áður hafði Skansinn á Nesinu verið friðlýstur; 25. okt. 1930.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – friðlýsing 2023.

Rökstuðningurinn fyrir friðlýsingunni var að; „Bessastaðanesið er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda og er fræðslu- og vísindagildi svæðisins hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja, en þar er fjöldi menningarminja. Friðlýsta svæðið er 4,45 km² að stærð og nær yfir Bessastaðanes allt, hluta Bessastaðatjarnar og Lambhúsatjarnar og liggur að friðlandinu í Gálgahrauni sem friðlýst var í október 2009.“

Bessastaðanes

Bessastaðanes – friðlýsing (kort).

Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Þá er svæðið viðkomustaður margæsar og rauðbrystings, en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru til að mynda votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Friðlýsingunni er ætlað að tryggja vernd náttúrulegs ástand svæðisins sem bú- og viðkomusvæðis fugla, sem og að vernda líffræðilega fjölbreytni þess – lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi Bessastaðaness, sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

Með friðlýsingunni er Lambhúsatjörn að stærstum hluta friðuð, en við hana er m.a. að finna vistgerðina marhálmsgræður, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Í Wikipadiu segir m.a. um Bessastaði og Besstaðanes: „Á Bessastöðum er þyrping nokkurra húsa: Bessastaðastofa, Norðurhús, þjónustuhús og Suðurálma eru portbyggðar byggingar. Suðurálma samanstendur af móttökuhúsi, bókhlöðu og tengibyggingu við þjónustuhús.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Bessastaðastofa er elsta húsið á jörðinni. Móttökuhús er byggt við hana árið 1941 og tengt á milli með blómaskála sem nemur við suðurgafl Bessastaðstofu og gerður er eftir hugmynd ríkisstjórafrúarinnar, Georgíu Björnsson. Samsíða móttökuhúsinu er bókhlaðan, sem byggð var árið 1968 og gengt er úr henni í borðsal Bessastaðastofu. Bessastaðakirkja stendur fremst en handan portbyggðu húsanna eru forsetahús og ráðsmannshús. Fjær stendur bílageymsla, sem áður var fjós. Sambyggð hlaða gegnir enn sama hlutverki og áður en hlöðuloftið er nú geymsla. Búskapur var á Bessastöðum til ársins 1968.

Bessastaðanes er allstórt og þar má sjá á yfirborði menjar um ýmsa starfsemi. Örnefni vísa til þess að hluta, svo sem Skothús, Prentsmiðjuflöt og Sjóbúðarflöt.

Söguágrip

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Saga Bessastaða nær allt aftur til landnámsaldar, samkvæmt fornleifarannsóknum sem fram fóru á staðnum á 9. og 10. áratug 20. aldar og sem studdar eru rituðum heimildum að nokkru. Bessastaðir hafa ávallt verið mikilvægir í sögu þjóðarinnar og jafnan verið aðsetur höfðingja og háembættismanna. Snorri Sturluson átti jörðina þó svo að óvíst sé að hann hafi nokkru sinni búið þar sjálfur.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Eftir víg hans árið 1241, rann jörðin með öllum gögnum og gæðum undir Noregskonung. Hún varð fyrsta jörðin á Íslandi til þess að komast í konungseigu. Hirðstjórar konungs sátu á Bessastöðum og síðar amtmenn og stiftamtmenn ásamt landfógetum. Nafntogaðasti og jafnfram mögulega verst þokkaði hirðstjórinn var Páll Stígsson en meðal merkustu landseta var Magnús Gíslason (amtmaður) sem þótti milt og gott yfirvald. Magnús var fyrsti Íslendingurinn sem gegndi stöðu amtmanns og hann átti frumkvæði að byggingu steinhúsanna tveggja á 18. öld sem enn standa. All veglegir legsteinar þeirra beggja eru múraðir inn í veggi Bessastaðakirkju.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Bessastaða er vitanlega getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar er getið um að landskuld ýmissa annarra jarða á Álftanesi og leigukúgildi „betalist“ í tunnum kola og smjöri. Um Bessastaði sjálfa segir m.a.: „Jarðarinnar dýrleiki þykjast menn heyrt hafa að verið hafi xii [hundruð]. Eigandinn er kóngl. Majestat. Hjer er amptmannsins residens og fóetans þá so til hagar. Landskuld er hjer engin nje hefur verið í nokkur hundruð ár.[1]

Ólafur Stephensen, stiftamtmaður, sat ekki á Bessastöðum og hann lét staðinn eftir til skólahalds fyrir Lærða skólann sem þá var nefndur Hólavallaskóli árið 1805. Eftir það nefndist hann Bessastaðaskóli, allt til ársins 1846 að hann fluttist í Lækjargötu í Reykjavík og heitir nú Menntaskólinn í Reykjavík. Grímur Thomsen, sem var fæddur og uppalinn á Bessastöðum þar sem faðir hans var skólaráðsmaður, fékk jörðina með konungsúrskurði 28. júní 1867 í skiptum fyrir Belgsholt í Borgarfirði og bjó þar og rak bú í tæp þrjátíu ár til æviloka 1896. Þá eignaðist Landsbanki Íslands staðinn og tveimur árum síðar var hann seldur. Kaupandi var Skúli Thoroddsen, ritstjóri og alþingismaður. Skúli bjó á Bessastöðum ásamt fjölskyldu sinni í tíu ár. Eftir það bjuggu Jón H. Þorbergsson bóndi, Björgúlfur Ólafsson læknir og Sigurður Jónasson forstjóri í Bessastaðastofu en sá síðastnefndi afhenti ríkinu jörðina að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.

Bessastaðastofa

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

Bessastaðastofa var byggð á árunum 1761 til 1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Það var danska stjórnin sem lét byggja húsið en ástand eldra embættisseturs var orðið afar bágborið. Kostnaðurinn nam 4.292 ríkisdölum og 77 skildingum. Þar í reiknast ýmis kostnaður sem til féll vegna vandamála sem upp komu á byggingartímanum. Miklu dýpra var niður á fastan grunn og fór jafnmikið grjót í sökkul hússins og í veggi þess, byggingartíminn varð mjög langur og kostnaðarsöm mistök voru gerð við þakið. Engar teikningar hafa fundist af Bessastaðastofu en talið er að húsameistarinn Jakob Fortling hafi teiknað hana. Bessastaðastofa hefur frá byggingu hússins tekið allmiklum breyting í gegnum tíðina, utan sem innan.

Fornleifakjallari undir Bessastaðastofu

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.

Að áliðinni 20. öld þótti kominn tími til umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar húsanna á Bessastöðum og kallaði ástand Bessastaðastofu á miklar endurbætur. Af heimildum og fyrri rannsóknum þótti ljóst að vænta mætti þess að mannvistarleifar kæmu í ljós við framkvæmdir en þær hófust árið 1989 undir stjórn Bessastaðanefndar (sem skipuð var um endurbæturnar). Sú varð raunin, en miklu meira en menn óraði fyrir og mannvistarlög voru mörg, hvert ofan á öðru. Að endingu spannaði fornleifarannsóknin á Bessastöðum níu ár og varð ein hin umfangsmesta sem fram hafði farið á Íslandi. Samkvæmt rannsóknum nær búseta á Bessastöðum allt aftur á landnámsöld. Auk mannvirkjaleifa, fannst allmikið af gripum við fornleifarannsóknina á Bessastöðum. Þá öfluðu vísindamenn stærsta safns fornvistfræðilegra gagna sem fundist höfðu í einum uppgreftri hérlendis fram að því.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

Við upphaf húsaviðgerðarinnar, var kjallarinn undir Bessastaðastofu grafinn út og fornminjum komið fyrir þar, svo sýna mætti áhugasömum. Þann sóma sem fornminjum staðarins er sýndur með gerð fornleifakjallarans og útfærslu hans, má ekki síst þakka velvilja og skilningi þáverandi forseta, sem var Vigdís Finnbogadóttir. Fyrirhugaður vínkjallari undir húsinu vék fyrir fornleifakjallaranum. Um leið jókst þýðing setursins þar sem unnt varð að sýna gestum forseta raunverulegar menjar um sögu staðarins og veita innsýn að nokkru leyti inn í daglegt líf æðstu embættismanna landsins árhundruð aftur í tímann.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

Bessastaðanefnd og Þjóðminjasafn Íslands sameinuðust um frágang kjallarans sem sýningarhæfs rýmis og útstillingu muna. Frágangi hans var endanlega lokið um mitt árið 1994. Þarna má skyggnast nokkrar aldir aftur í sögu Bessastaða og meðal annars er gengt meðfram austurvegg bústaðar landfógeta frá fyrstu áratugum 18. aldar og má sjá inn á gólf hússins. Það var gert af bindingsverki og gefið er sýnishorn af því hvernig veggir slíkra bygginga voru gerðir en fyrirmyndin er allgömul og kemur frá Evrópu þó svo að hús úr bindingsverki hafi ekki reynst mjög vel hérlendis né verið endingargóð.

Fallbyssa í fornleifakjallaranum

Bessastaðir

Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.

Flestir brenndu leirmunanna voru brot úr leirkerjum frá 17. – 19. öld en eitt brotanna er frá 15. öld. Meira en 100 brot úr krítarpípum fundust, flest frá 18. öld Pípuhausar voru litlir því tóbak var dýrt. Glerið sem fannst, svo sem glasabrot, sýna stöðu Bessastaða sem höfðingjasetur því annað eins var ekki að finna á bæjum. Elsta glerbrotið var úr mannvistarlagi frá 15. eða 16. öld. Meðal óvenjulegust muna voru lítill tálgukarl úr beini og hafa verið leiddar að því líkur að hér sé um að ræða e.t.v. leikfang barns eða taflmann. Allmargir járnmunir fundust, svo sem naglar, hnífur, sylgja og reisla.

Þá má nefna að í fornleifakjallaranum er fallbyssa sem talin er vera frá 15. öld, sem fannst í jörðu á Bessastöðum árið 1888. Trúlega var byssan notuð staðnum til varnar er einnig mögulega til erfðahyllingar þegar við átti. Byssan er trúlega sú næstelsta sem til er hérlendis. Hún er gerð af sex járnhólkum og eru járngjarðir utan um samskeyti þeirra. Mögulega vantar eitthvað á lengd byssunnar. Enn eldri er byssa sem einnig fannst í Bessastaðalandi, en hlaup hennar er gert af járnstöfum sem mynda sívalning sem járngjarðir eru felldar utanum. Sú er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Þrælakistan

Bessastaðir

Lágmynd á Bessastaðakirkju.

Vinnumannaskálinn á Bessastöðum var kallaður Þrælakistan, svarthol konungs í Konungsgarði, og var ætlaður afbrotamönnum. Menn vissu lengi vel ekki hvar hún hefði verið. En árið 1993 stóð yfir uppgröftur í grennd við Bessastaði. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur taldi þá hugsanlegt að Þrælakistan hafi komið í ljós við rannsóknina rétt austan við Bessastaðastofu. Þar fannst niðurgrafin rúst og voru veggirnir gerðir úr stórum björgum, og er líklegt að hún hafi verið þar.

Bessastaðir

Forsetasetrið á Bessastöðum. Lengst til hægri er forsetabústaðurinn sem byggja á upp í sumar, kring um húsagarðinn er lengsttil hægri Hjáleigan svokölluð með nýja eldhúsinu, sem tengist um bókhlöðuálmuna blómaskála, móttökusal í Bessastaðastofu lengsttil vinstri. Norðanmegin er nýuppbyggt Norðurhús með tækniútbúnaði í kjallara, húsvarðaríbúð og öryggisvörslu. Lengst til vinstri má sjá Bessastaðakirkju. Á þessari skipulagstillögu má sjá bætta aðkomu, bílastæði og garða.

Þegar uppgreftrinum lauk varð þessi hugsanlega Þrælakista að vínkjallara Bessastaða. Í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness er minnst á Þrælakistuna: „Allir munu vera okkar vinir, sagði hún; því fólkinu líður vel. Og þrælakistan leggjast niður á Bessastöðum, sagði hann. Því í landi þar sem fólkinu líður vel eru ekki framdir glæpir. Og við ríðum um landið á hvítum hestum, sagði hún“.

Í Morgunblaðinu 1995 er fjallað um „Uppbyggingu á Bessastöðum„:

„Á Bessastöðum hafa síðan 1989 farið fram endurbætur á húsakosti og framtíðaruppbygging á forsetasetrinu. Endurbyggja þurfti Bessastaðastofu og þjónustubyggingar og um sl. áramót var tekið í notkun nýtt fullkomið eldhús í Hjáleigunni svonefndu. Næsta sumar er fyrirhugað íbúðarhús fyrir forseta á grunni Ráðsmannshússins. Formaður byggingarnefndar Helgi Bergs og Pétur Stefánsson framkvæmdastjóri verksins gengu um staðinn með Elínu Pálmadóttur og skýrðu frá endurbótum og áformum.

Bessastaðir

Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.

Fréttir um að kostnaður við framkvæmdir á Bessastöðum fari líklega upp í 900 milljónir, nú þegar búið að verja 560 milljónum í endurbætur, vekja eðlilega spurningar um í hvað þetta hafi farið. Því fremur að ekki verður í fljótu bragði komið auga á afraksturinn, sem stafar af því að þótt nærri allt hafi þurft að endurbyggja, þá er það látið halda sér að ytra útliti þar sem öll hús eru friðuð hið ytra á þessu forna höfðingjasetri. Aðkoman er því og verður nánast óbreytt. En þegar nánar er að gáð kemur í ljós hve gífurlega mikið verkefni þarna er á ferðum.

BessastaðirVar byrjað á að gera faglega úttekt á húsunum og kom í ljós að þau voru miklu verr farin en menn hafði órað fyrir. „Ég hafði ekki hugmynd um það fremur en nokkur annar þegar við þrír vorum skipaðir í nefnd til að hafa umsjón með endurbótum á húsakosti á Bessastöðum,“ sagði Helgi Bergs, en með honum í nefndinni eru Baldvin Tryggvason sparisjóðsstjóri og Gunnar Hall ríkisbókari. Húsameistari ríkisins Garðar Halldórsson er arkitekt verksins í samvinnu við Þorstein Gunnarsson, arkitekt og sérfræðing um gömul hús.

Sumarið 1989 var fyrsta verkefnið að endurbyggja Bessastaðastofu, þetta 200 ára gamla hús. Eftir því sem meira var rifið komu meiri skemmdir í ljós og þurfti að byggja húsið upp á nýtt, svo nánast er ekkert eftir af gömlu byggingunni nema hluti af útveggjum og kjaliara.
„Þurfti nánast að bródera saman það sem eftir var af útveggjunum, sauma steinana með ryðfríu stáli svo að þeir héldust saman.“ En viðgerðarsteinum var safnað úr gömlum byggingum, m.a. komu steinar úr Leynimýri í Öskjuhlíð. En húsið er allt byggt úr sömu efnum. Þegar farið var að rífa þakið sem hriplak var tekið það ráð að tjalda alveg yfir svo húsið var endurbyggt innan í öðru húsi.
BessastaðirBessastaðastofa er því með sama yfirbragði og hún var. Hlutföll hafa þó verið löguð á framhlið, þannig að fimm gluggar eru í stað fjögurra á kvistinum og handriðið yfir svölunum frá 1955 fallegra. Breiðu kvistirnir báðum megin á húsinu voru seinni tíma viðbætur og var bakkvisturinn rifinn og litlu upphaflegu kvistirnir komu í staðinn. Þegar húsið var endurbætt 1941 voru aftur settir á gafla þaksins upphaflegir hálfsneiðingar eða hálfvalmar, sem halda sér á þessu húsi og öðrum.

Steinhúsið sjálft er frá 1760-66, byggt í tíð Magnúsar Gíslasonar amtmanns, svo ekki er að furða þó það hafi verið orðið lasið. Bessastaði sátu síðan umboðsmenn hins danska valds, Lærði skólinn var þar til húsa 1805-1846 og ekki alllöngu síðar komust Bessastaðir í einkaeign og voru það þar til þeir komust í eigu íslenska ríkisins. 1941 voru gerðar víðtækar breytingar á byggingunni undir umsjón Gunnlaugs Halldórsssonar arkitekts í því augnamiði að hún yrði aðsetur þjóðhöfðingjans.

Nýtt hús fyrir forseta

Bessastaðir

Bessastaðir – mynd á vasa frá 19. öld.

Frá því að Bessastaðir urðu setur ríkisstjóra og síðan forseta Íslands hefur notkun forsetasetursins tekið talsverðum breytingum. Í tíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar var þarna bú og húsin nýtt eins og á herragarði með þjónustufólki. Bjuggu forsetafjölskyldurnar í Bessastaðastofu með afnot af stofunum sem jafnframt voru notaðar í opinbera þágu og með svefnherbergi sín uppi. Eftir því sem móttökum fjölgaði hörfaði forsetafjölskyldan upp á loftið og bjó þar að mestu í lítilli íbúð undir risi eftir að Kristján Eldjárn varð forseti. Var svo þegar Vigdís Finnbogadóttir tók við. En vart þykir lengur boðlegt að forseti búi í embættissölum eða risinu á samkomuhúsi, ef svo má segja. Og þegar farið var í endurbætur var ákveðið að forsetinn flytti úr Bessastaðastofu, sem verður að móttökuhúsi, en fái eigið hús fyrir sitt einkalíf. Vegna viðgerðanna hefur Vigdís forseti ekki getað búið á Bessastöðum síðan viðgerðir hófust 1989.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Ákveðið var að byggja forsetabústað á staðnum og er það næsta verkefni. Verður gamla Ráðsmannshúsið, sem var forskalað timburhús byggt 1944 fyrir bústjórann og stendur nokkru norðar, rifið á þessu ári og annað byggt í staðinn, nánast eins í útliti. Er ætlunin að semja við verktaka um það og að gera það fokhelt næsta sumar. Ekki kvaðst Helgi geta lofað því að það yrði fullbúið vorið 1996, það færi eftir fjárveitingum.
Forsetahúsið verður rúmgott hús fyrir eina fjölskyldu, ein hæð að framan og tvær undan brekkunni með risi, eins og gamla húsið og fær sjálfstæðan aðgang og lítinn garð, sem miðar að því að auka möguleika forsetans á að eiga sitt einkalíf.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Verða á húsinu minni háttar útlitsbreytingar, m.a. til að hægt sé að aka inn í bílskúr í enda kjallarans. Þarna eru stofur á aðalhæðinni og eidhús og tvö svefnherbergi uppi og tvö aukaherbergi á jarðhæð. Veitir það sveigjanleika fyrir fjölskyldustærð framtíðarforseta. Verður húsið með valmaþaki og kvistum eins og hið gamla, en á þakið verða settar skífur eins og á önnur hús. Verður þetta hús væntanlega fokhelt næsta haust og gengið alveg frá því að utan og jafnfram gengið frá lóð eftir því sem fjárveitingar leyfa.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Gert er ráð fyrir því að bæta aðkomuna, bílastæðin og umhverfi forsetasetursins og hafa landslagsarkitektarnir Reynir Vilhjálmsson og Ragnhildur Skarphéðinsdóttir unnið að skipulagi þess í samvinnu við arkitekta staðarins. Milli bygginganna er ferhyrndur húsagarður, sem var malbikaður þjónustugarður og stendur fyrir dyrum að fegra hann og gera að inngarði, enda snúa gluggar út að honum.

Fundust líka fleiri húsaleifar

Bessastaðir

Bessastaðir – Skansinn; skilti.

Var haldið áfram uppgrefi í kring, alls á 3.000 fermetra svæði, og var utan við Bessastaðastofu grafið niður á botn. Var komið niður á leifar frá landnámsöld og farið í gegn um mörg lög þar á milli. Segir Guðmundur að það hafi komið á óvart hve umfangsmikil byggð hefur verið á Bessastöðum allt frá uppphafi Íslandsbyggðar, sennilega allt aftur á 10. öld, sem engar ritaðar heimildir era til um.

Skansinn

Bessastaðir – Skansinn.

Undir Bessastaðastofu hefur verið útbúinn gríðarlega merkilegur fornleifakjallari, þar sem hægt er að fara niður og sjá og sýna bæði muni, svo sem iitla mannsmynd úr beini klædda embættisskúða frá 18. öld, og horfa einnig gegn um gler inn á upplýstar mannvistarleifar og hleðslur. Ákaflega fallega og haganlega fyrir komið. Semsagt hægt að sjá sögu staðarins allt aftur á landnámsöld, sem er alveg einstakt hér á landi. Enda eru Bessastaðir einn mesti sögustaður þjóðarinnar.

Bessastaðir

Bessastaðakirkja.

Að lokum spyr ég Helga hvort Bessastaðakirkja sé á verkefnaskrá nefndarinnar. Hann svarar því bæði játandi og neitandi, segir að þessu verkefni tilheyri að gera kirkjunni eitthvað til góða. Pússningin sé laus og illa farin og eins þakviðir og anddyri og þyrfti að gera við það.
Hvort eitthvað yrði meira vildi hann ekkert um segja. Ekki væri í þeirra áætlunum að byggja kirkjuna upp, eins og t.d. hefur verið gert við Hóladómkirkju.“

Á Bessastaðanesi eru margvíslegar fornleifar. Þar má fyrst telja Skansinn og bæ Óla „skans“, grunn prensmiðjuhúss Gríms Thomsen, Sjóðbúð, gerði, fjárborg, skothús, garðhleðslur, Skjónaleiðið, selstöðu, brunna, ummerki mótekju o.fl.

Bessastaðir

Bessastaðir – meint „Þrælakista“.

Líklegt má telja að svonefnd „þrælakista“ hafi aldrei verið á bænum Bessastöðum heldur á tanga sunnan Músarvíkur. Þar eru tóftir, auk garða er umlykja hana.

Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/06/30/Radherra-fridlysir-Bessastadanes/-https://is.wikipedia.org/wiki/Bessasta%C3%B0ir
-Morgunblaðið 15. jan. 1995, Uppbygging á Bessastöðum, bls. 18-19.

Bessastaðir

Bessastaðir – skothús.

Jamestown
FERLIRsmeðlimir hafa ánafnað gönguhópnum brot úr seglskipinu Jamestown er strandaði fyrir utan Hafnir í júnímánuði árið 1881.
Eftirfarandi brot úr frásögn um „Jamestown“ má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.

Jamestown

Ankeri Jamestown í Sandgerði.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.

Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands“.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“

Georg H. Wadleigh

Georg H. Wadleigh.

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.“

Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston“.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.

Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Jamestown

Jamestown – saga.

Breiðabólstaðasel II

FERLIR sótti heim Breiðabólstaðasel II eð Hafnarsel (Þorlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum. Um 10 mín. gangur er að selinu frá Þrengslavegi.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I“ má lesa eftirfarandi um Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) undir norðanverðum Krossfjöllum:
„Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: „Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].“ Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel I. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla.

Breiðabólstaðase II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar.
Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norður-suður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar. Var hverri tóft gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Tóft A er byggð norðan undir fjallshlíð Krossfjalla og er sú stærsta á svæðinu. Hún er 20×7 m að stærð, snýr austur-vestur og skiptist í fjögur hólf. Austast er hólf 1.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Það er 1,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er byggt upp við klett til suðurs en aðrir veggir eru hlaðnir. Þeir eru 0,3-0,4 m að hæð og má sjá tvenn umför grjóthleðslu í þeim. Op er á miðjum norðurvegg.
Hólf 2 er vestan við hólf 1. Það er 5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð og glittir í grjót hér og þar. Op er á miðjum norðurvegg. Hólf 3 er vestan við hólf 2. Það er 5×3 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru algrónir og 0,6-1 m á hæð. Tóftin er betur varðveitt að sunnan en til norðurs. Op er sem fyrr á miðjum norðurvegg.

Breiðabólstasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) – stekkur.

Hólf 4 er vestan við hólf 3. Það er byggt upp við hraunbrún að sunnan. Það er 3×3 m að innanmáli og op er til norðurs. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og grónir. Það má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóft B er 2 m vestan við tóft A, fast upop við gróna hraunbrún til suðurs. Hún er 7×7 m að stærð og einföld. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð, 2-2,5 m á breidd, algrónir og reisulegri að innan en utan. Op er á miðjum norðurvegg. Tóft C er 5 m vestan við tóft B. Hún er 7×6 m að stærð, einföld og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og má greina 2 umför af grjóthleðslu í þeim. Þeir eru mosavaxnir og útflattir. Op er á miðjum austurvegg. Tóft D er 20 m norðan við tóft A. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og snýr suðaustur-norðvestur. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, útflattir og algrónir. Op er á miðjum suðurvegg.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstasel II – uppdráttur í fornleifaskráningunni.

Tóftir E og F eru uppi á mosavaxinni hraunklöpp, tæpum 50 m norðan við tóft D. Tóft E er sunnar. Hún er 3×3 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina eitt umfar grjóthleðslu í þeim. Ekkert op er inn í tóftina.
Tóft F er 2 m norðaustan við tóft E. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Hún snýr norður-suður og líklega er op í suðausturhorni. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóftin er lyngivaxin að innan líkt og hluti af veggjunum. Tóft G er nyrst og er tæpum 30 m norðan við tóft F. Tóftin er 8×8 m að stærð, einföld og er opin til norðvesturs. Veggirnir eru útflattir og lyngivaxnir. Tóftin er í viki inn í hraunbrúnina, suðaustan við mosavaxin hraunhól.“
Ágætt vatnsstæði er norðan við selstöðuna, en hún var þurr að þessu sinni – í lok júlímánaðar. Selstaðan er tiltölulega nýleg, en þó má sjá í henni a.m.k. tvær kynslóðir selja, þ.e. þá nýlegu og aðra mun eldri. Til að gæta allrar sanngirni rak Alda Agnes Sveinsdóttir augun á selstöðuna í seinni tíð á leið hennar norður yfir Krossfjöll frá Breiðagerðisseli I og gerði FERLIR kunnugt um dásemina.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Þórlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum.

Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: „Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.“ Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla
Helgason segir: „Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin. Þar má enn sjá tóftir selsins. Ef Hafnarselið undir Votabergi hafi verið í landi Breiðabólstaðar hefur selið norðan Krossfjalla örugglega verið í landi staðarins.

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi.

Þá sótti FERLIR heim Hraunssel í Ölfusi milli Eldborgarhrauns og Skógarhlíðar. Lagt var af stað frá bifreiðastæðinu við Raufarhólshelli í Þrengslunum og gengið austur yfir gamburmosahraunið með grónum lyngbollum í beina línu að hlíðinni þar sem styst er yfir hraunið. Gangan tók innan við 10 mínútur.
Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið, greinilega miðlungs gamalt. Í selinu eru fimm rými; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn liggur niður með kantinum um Skóghlíðarstíg. Ofan við selið eru grasi grónar Lönguhlíðar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-http://www.ferlir.is/?id=1772

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi – uppdráttur ÓSÁ.

Moldbrekkur

FERLIR ákvað að skoða tvær merkar minjar; sæluhúsið í Moldbrekkum á Mosfellsheiði og Mosfellssel við Leirvogsvatn.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – hin „Sýsluvarðan“, nú fallin.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 2019 segir m.a. um „Sæluhúsið“ í Moldbrekkum: „Árið 1841 var byggt sæluhús í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði og þar vory hlaðnar svonefndar Sýsluvörður á mörkum Kjósarsýslu (nú Mosfellsbæjar) og Árnessýslu. Grjót úr vörðunum var notað í húsið og hreppsstjóri Mosfellinga, Jón Stephensen (1794-1853) á Korpúlfsstöðum, og Þingvellinga, Kristján Magnússon 1777-1843) í Skógarkoti, völdu staðinn.
Sæluhúsið stóð allhátt í landslaginu og örskammt þaðan var vatnslind. [Vatnslindin sést vel norðan í Moldbrekkum, en er nú uppþornuð]. Greint er frá húsinu í sýslulýsingu Árnessýslu frá árinu 1842: „Í sumar er var, var byggt nýtt sæluhús á miðri Mosfellsheiði af Þingvalla- og Mosfellssveitar innbúum. En eftir er þá að ryðja og varða vel heiðina, sérílagi að austanverðu, og mun á því verða byrjað á sumri komanda.“

Moldbrekkur

Moldbrekkur.

Sæluhúsið í Molbrekkum skapaði öryggi fyrir vegfarendur og í illviðrum gat þetta litla torfhýsi skilið á milli feigs og ófeigs. Snemma marsmánaðar árið 1857 héldu 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal frá Þingvöllum vestur yfir Mosfellsheiði þar sem þeir hrepptu norðanstórviðri. Þeir huguðst leita skjósl í sæluhúsinu en fundu það ekki og héldu áfram í áttina að Mosfellsdal með tilfallandi afleiðingum.“

Austan á hálsinum ofan við Moldbrekkur eru svonefndar „Sýsluvörður“ á mörkum Mosfellsbæjar, Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar.  Önnur þeirra stendur enn, en hin mætti sjá fífilinn fegurri.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006” má sjá eftirfarandi um Mosfellssel: “Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir: „Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; er þangað langur vegur og slitróttur yfirferðar“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 237).
„Örnefni benda til fleiri selja. T.d. í Mosfellskirkjulandi er mýrarfláki sem heitir Selflá. Þar voru ær hafðar í seli inni í Klifi [Þetta mun vera Illaklif við Leirvogsvatn]. Selmatráðskona var þar Ragnhildur Þórðardóttir“ (Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Selrústir samanstanda af þremur húsum, sem öll snúa dyrum í N. V húsið er um 3×4 m, að innanmáli. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, móti vatninu. Sjást grjóthleðslurnar í veggjunum vel. Miðhúsið er aflangt og eru dyr á miðri N-langhlið. Stærð þess er um 3×6 m að innanmáli. Hæð veggja er um 1 m, þykkt veggja um 1 m. Hér sjást grjóthleðslurnar í veggjum sérlega vel. Þessi tvö hús (mið- og vesturhús) eru að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið.

Mosfellssel

Mosfellssel – austasta tóftin.

Austasta húsið er skemmt að hluta en þó má vel sjá lögun þess. Stærð þess er um 2×3 m. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, niður að vatninu eins og hin tvö, og á honum eru dyr. Þessi hús, sem mynda selið, standa samsíða. Dálítið bil er á milli miðhúss og austurhúss.
Mætti e.t.v. giska á að þar hafi eldaskáli eða hús verið. Miðhúsið svefn- eða íveruhús og það vestra mjólkurhús. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfellssel

Mosfellssel – stekkur.

Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra. Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Aftan við selið er kvíarúst (N-við). Garðar hafa verið hlaðnir þar við stóra steina og myndar umhverfið þannig verulegan hluta kvíanna. Ofan við kvíarnar er brött og grýtt hlíð (Illaklif). Kvíunum er skipt í tvo hluta með garði og framan við innganginn er aðrekstrargarður til að auðvelda innrekstur ánna. Að innanmáli eru kvíarnar um 5 x 6 m. Eru þær að mestu eða öllu leyti hlaðnar úr grjóti. Veggjahæð er 0,5 – 1,2 m. Selið er allt hlaðið úr torfi og grjóti, en grjót er þó mest áberandi í innri veggjahleðslum (Ágúst Ó. Georgsson).”

Mosfellssel

Mosfellssel.

Hér kemur síðan vísbending um tilvist fyrstnefndu minjanna, þ.e. hugsanlegs kúasels: “Um 12-13 m austan við kvíarnar eru aðrar kvíar sem eru all frábrugðnar að lögun. Þessar kvíar eru aflangar, um 2×14 m, með inngang á miðjum N-langvegg. Veggjaþykkt er ca 1 m og veggjahæð 0,5 m ca. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps. (Heimildaskrá: Ágúst Ó. Georgsson, Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns).”
Svo virðist sem þarna gæti jafnvel hafa verið kúasel forðum, sem síðar hafi, annað hvort breyst í fjársel eða verið fært nær Mosfelli [sbr. sel á Selflötum norðan Mosfells og heimasels í Selbrekkum ofan Laxness]. Minjarnar undir Illaklifi benda þó til þess fyrrnefnda. Auk Mosfellssels má sjá merki um kúasel víðar á Reykjanesskaganum, s.s. við Urriðavatn, í Helguseli í Bringum, í Helgadal, í Kringlumýri, í Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og í Fornaseli.

Mosfellssel

Mosfellssel – selsvarða.

Grafið hafði verið nýlega í vegg og miðju austustu tóftarinnar í Mosfellsseli, væntanlega eldhúsið. Í sjálfu sér mælir fátt á móti slíkri rannsókn í vísandlegum tilgangi, en svo virðist með gleymst hafi að kenna slíku fólki frágang á vettvangi; uppgreftri „höslað“ aftur á sama stað, án nokkurrar vandvirkni eða tillitsemi við minjanna. Afgangsgrjót lá á stangli utan í tóftunum og ásýndin stakk í augu þeirra er hafa eindreginn áhuga á slíkum minjum. Sorglegt á að líta!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 20 mín.

Heimildir m.a:
-Árbók Ferðafélags Íslands 2019.
–Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, Þjóðminjasafn Íslands.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – gamla sæluhúsið.