Reykjanesskagi

Þann 27. apríl 2023 skrifaði Ásgeir Eiríksson áhugaverða grein á vefsíðu Víkurfrétta (Vf.is) undir fyrirsögninni „Reykjanes eða Reykjanesskagi„. Innihald og niðurstaða greinarinnar á erindi til allra er vilja eða hafa áhuga á að tjá sig réttilega um örnefni á Skaganum, en á það hefur verulega skort, ekki síst hjá sveitarstjórnarfólki, löggæsluyfirvöldum og fréttafólki einstakra fjölmiðla.

Ásgeir Eiríksson

Ásgeir Eiríksson.

„Ég er fæddur árið 1957. Í minni æsku var ekkert vafamál hvenær maður væri staddur á Reykjanesi og hvenær ekki. Að minnsta kosti var maður ekki í vafa þegar maður var staddur við Reykjanesvita að maður væri staddur úti á Reykjanesi. Hversu langt í norður og hversu langt í austur Reykjanesið nær var svo aftur meira vafamál. Ég starfaði í nokkra áratugi við sýslumannsembættið í Keflavík og hafði mikinn áhuga á landamerkjamálum. Rétt staðsetning örnefna skiptir þar sköpum en flest hafa þau verið búin til fyrir mörg hundruðum ára og koma fyrir í fornritunum. Það eru því hrein skemmdarverk á söguarfi þjóðarinnar að færa til örnefni eða breyta þeim á einhvern hátt þannig að henti hégómagirnd einhvers eða leti til að kynna sér rétt örnefni. Enn verra er að halda fram röngu örnefni gegn betri vitund.

Reykjanes

Reykjanes á Reykjanesskaga – kort 1952.

Örnefnið Reykjanes kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu og segir þar um komu Hrafna-Flóka sunnan með landinu:
„Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnsföll stór.““

Hrafna-Flóki hefur sennilega ekki gefið nesinu nafnið Reykjanes en þegar Landnáma er skrifuð á fyrri hluta 12. aldar þá hefur nesinu verið gefið nafn. Af lýsingunni á siglingu Hrafna-Flóka mætti dæma að Reykjanesið næði allt til enda Garðskaga.

Reykjanes

Reykjanes.

Nafngiftin Reykjanes getur ekki verið dregin af öðrum stað en jarðhitasvæðinu á Reykjanesi sem hefur verið all sérstakt tilsýndar hjá mönnum sem sjaldan eða aldrei höfðu séð gufu frá jarðhitasvæði. Eftir stutta siglingu frá Reykjanesi hafa þeir séð Snæfellsjökul, ef bjart hefur verið yfir, a.m.k. þegar nær dró Sandgerði og mynni Faxaflóans opnast þegar þeir koma fyrir Garðskaga.

Á Vísindavefnum er ágæt umfjöllun um örnefna-ruglinginn undir heitinu „Er Reykjanes sama og Suðurnes?“ Þar segir m.a. í grein Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica (um 1700). Hann segir um Reykjanes:

„Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (svo heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.““

Árni Magnússon og Páll Vídalín gáfu út jarðabók og manntal á árunum 1702–1714 þar sem lýst er íbúum, ástandi, og búpeningi á flestum jörðum á landinu. Auk þess bjargaði hann sögu þjóðarinnar og flutti til Kaupmannahafnar í þokkalega geymslu að hann hélt. Ella hefðum við sennilega notað fornritin í vettlinga og sokka.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Reykjanesskagi er þakinn stórum hraunum og erfitt að tilgreina nákvæmlega hvar þetta eða hitt örnefnið er. Nokkrir áhugamenn hafa unnið þrekvirki í söfnun örefna og við staðsetningu þeirra. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson frá Merkinesi safnaði örnefnum í Hafnahreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir gaf út bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi og Ómar Smári Ármannsson heldur úti hinum stórmerka vef ferlir.is. Aðrir merkir menn hafa einnig haldið örnefnasögu Reykjanesskagans á lofti svo sem landeigendur og ýmsir fræðimenn.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti. Stundum er örnefnið ritað „Krísuvík“, sem rangnefni.

Íbúar þéttbýlisins nota örnefni ekki síður, t.d. með því að tilgreina staði með götuheitum, en það er auðvitað mun auðveldara þar sem götuheitisskilti eru við hver gatnamót. Yrði einhver sáttur við að götuskilti í Keflavík yrði fært á einhverja aðra götu? Hafnargatan héti Hringbraut og Hringbraut héti Tjarnargata?

Örnefni skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Þau voru meðal annars notuð hér áður fyrr til að staðsetja menn og dýr og til að tilgreina landamerki á milli jarða o.s.frv. Örnefni á landi voru ómissandi fyrir sjómenn til að staðsetja góð fiskimið.

Keflavík

Í Keflavík – neðan Krýsuvíkurhrauns.

Enn þann dag í dag notum við örnefni til að staðsetja okkur og aðra og í ýmsum tilgangi. Í árdaga Neyðarlínunnar kom beiðni um aðstoð frá manneskju sem stödd var í Breiðholti án þess að tilgreina það nánar. Aðstoðin var send í Breiðholtið sem allir þekkja en viðkomandi var staddur í Breiðholti á Akureyri. Sama örnefnið getur verið til víða á landinu, t.d. Reykjanes og Keflavík. Mikilvægt er að allir séu sammála um hver staðsetning örnefnisins er í grófum dráttum til að ekki skapist ruglingur.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi. Reykjanesviti er réttnefndur á „Reykjanesi“.

Ef ég kalla eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíls og er staddur á eða við veginn milli Grindavíkur og Hafnahrepps hins forna þá myndi ég líklega segjast vera úti á Reykjanesi. Þetta er hinn almenni skilningur flestra Suðurnesjamanna og Grindvíkinga á örnefninu Reykjanes að ég tel (margir Grindvíkingar telja sig ekki til Suðurnesjamanna og sá skilningur er virtur hér). Ef ég er austan Grindavíkur eða í Sandgerði, Garði eða á Vatnsleysuströnd dytti mér ekki í hug að tilgreina staðsetninguna Reykjanes. Ég skrapp nýlega út á Reykjanes og við Hafnir sló ég inn orðinu „Reykjanes“ í Google maps. Forritið vildi leiða mig áfram út á Reykjanes og halda þaðan í vestur til Grindavíkur og þaðan áfram að bifreiðastæðunum þar sem gengið er að gosstöðvunum! Hver ber ábyrgð á þessu?

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

En hvenær byrjaði þessi örnefnaruglingur? Sumir telja að ruglingurinn hafi hafist þegar Reykjaneskjördæmi varð til árið 1959 (ferlir.is) og ekki hefur Reykjanesbrautin (1964) bætt úr þessum nafnaruglingi, né heldur þegar sameinað sveitarfélag tók upp nafnið Reykjanesbær. Sumir töldu ímynd okkar Suðurnesjamanna ekki upp á marga á þessum tíma og þótti ráðlegt að skipta um nafn á svæðinu og vonað að það bætti ímyndina. Við bjuggum því ekki lengur á Suðurnesjum heldur á Reykjanesi. Við vorum Reyknesingar en ekki Keflvíkingar, Njarðvíkingar eða Hafnamenn. Vitleysan heldur svo áfram og hver nefndin og stofnunin fær heitið Reykjanes þetta og hitt. Ein þessara nefnda eða stofnunar er Markaðsstofa Reykjaness sem rekur vefinn með útlenska heitinu visitreykjanes.is. Stofan er rekin af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Grindavík og þar eru mætir menn í stjórn. Vefurinn veitir margar góðar upplýsingar um hvað er að sjá og hvers er njóta á Reykjanesskaga en sá meinbugur er á að staðir eru tilgreindir á Reykjanesi en eru í raun langt þar frá.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir. Ekkert þessa er á Reykjanesi.

Eldgosið í Meradölum er t.d. sagt vera á Reykjanesi. Ekki held ég að sá mæti maður, Sigurður heitinn Gíslason, bóndi á Hrauni í Grindavík, myndi segja að fjöllin hans og dalir væru úti á Reykjanesi.

En hvað er til ráða? Eigum við að láta þetta yfir okkur ganga og eftir nokkra áratugi hefur örnefnið Reykjanes allt aðra merkingu en hjá flestum Suðurnesjamönnum og Grindvíkingum í dag? Mitt álit er að við eigum að snúa þessari öfugþróun við og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og í Grindavík hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Ritstjórn Víkurfrétta gæti leitt þá baráttu með því að leiðrétta örnefnaruglinginn í blaði sínu.“ – Ásgeir Eiríksson, Heimavöllum 13, Keflavík.

Heimild:
-https://www.vf.is/adsent/reykjanes-eda-reykjanesskagi – Reykjanes eða Reykjanesskagi?, Ásgeir Eiríksson, fimmtudagur 27. apríl 2023.

Reykjanesskagi

Raykjanesskagi – loftmynd.

Seltún

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar sem er 5 km ganga sem tekur einn og hálfan tíma til tvo tíma að ganga og er erfiðleikstigið 2 á skalanum 1-5. Leiðin er Seltún – Arnarvatn.

Ketilsstígur

Upphaf Ketilsstíg við Seltún.

Hverasvæðið Seltún er staðsett um 40 mínútna akstur frá Reykjavík, við suðvesturenda Kleifarvatns á Reykjanesskaganum. Aksturinn frá höfuðborginni er upplifun útaf fyrir sig, eftir að komið er í gegnum Vatnsskarð. Vegurinn hlykkjast um stórkostlegt landsvæði sem er furðuleg blanda af aðlaðandi svörtum sandströndum og girnilegum grænum lautum og svo skuggalegum móbergsmyndunum og draugalegri jarðhitagufu sem minna mann á að hér er landið okkar unga með vaxtaverki og það þarf ekki mikið til að það teygi sig og hristi. Það er hollt að láta minna sig á að það er náttúran; jörðin sem stjórnar okkur, en ekki við sem stjórnum henni, þegar öllu er á botninn hvolft.

Arnarvatn

Ásdís Dögg Ómarsdóttir á Ketilsstíg.

Það fer ekki á milli mála þegar komið er að Seltúni. Þar rjúka gufustrókar úr hverum, líkt og stórtæk skýjaverksmiðja reki þar starfsemi sína. Veglegt bílastæði tekur á móti manni, sem alla jafna er fullt af bílaleigubílum, rútum og ferðamönnum.

Einu sinni var þarna mikil athafnastarfsemi og brennisteinsvinnsla í blóma. Því miður koma hvorki inn gjaldeyristekjur af brennisteini né ferðamönnum þessa dagana. Það býr þó til meira pláss fyrir okkur sem hér búum, til að njóta.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið er upp Ketilsstíg. Auðvelt er að koma auga á göngustíginn sem er merktur með skilti sem stendur við landvarðarhúsið. Leiðin liggur upp aflíðandi brekku að Arnarvatni. Stígur þessi var fjölfarinn um miðja 19. öld þegar brennisteinsvinnslan var á svæðinu. Þá lá hann yfir Sveifluháls norðan Arnarvatns og síðan um Hrauntungustíg til Hafnarfjarðar, og var flutningsleiðin fyrir brennisteininn.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Tilvalið er að staldra við hjá Arnarvatni og njóta fagurs útsýnis. Þaðan má meðal annars sjá Stóra- og Litla Lamba­fell, Austurengjahver sem er aflmesti gufuhver Reykjanesskagans og Arnarnýpu sem er hæsti tindur Sveifluhálsins. Á meðan við nutum landslagsins hristist jörðin af eftirskjálftum meginskjálfta dagsins og drunur skriðufalla fylgdu í kjölfarið þetta stórskjálftasíðdegi, 20. október síðastliðinn.

Í logni síðdegissólarinnar staðfesti Veðurstofan síðar að skjálfti, 5,6, hefði riðið yfir fyrr um daginn og við fundum svo sannarlega fyrir eftirköstunum af á göngunni. Það fór ekki fram hjá okkur að stórir grjóthnullungar höfðu fallið í skriðum umleikis í stóra skjálftanum fyrr um daginn. Það var ekki laust við að maður yrði á vettvangi frekar lítill í sér í annars stórbrotinni náttúru skagans við þá sjón.

Folaldadalir

Folaldadalir.

Frá norðanverðu Arnarvatni liggja leiðir til allra átta, s.s. til norðvesturs að Katlinum með framhald að Hrauntungustíg, til suðurs að Hettuvegi yfir að Vigdísarvöllum, til norðurs um Folaldadali – en hringurinn sem við lýsum hér, fer með okkur hálfhring um vatnið og að frábærasta útsýnisstaðnum af þeim öllum, hvernum Pýni austan Baðstofu. Leiðin niður að Seltúni er brött á köflum, og þar þarf að fara varlega því undirlagið er laust í sér, hér getur veri gott að hafa með sér göngustafi.

Seltún

Í Seltúni.

Í lok göngunnar er tilvalið að rölta um veglega stíga háhitasvæðisins í Seltúni og hlusta á hviss og bubbl hveranna er eiga sér þá íslenskulegustu lykt sem til er og njóta litadýrðarinnar sem gefur Landmannalaugum og Sogunum sunnan Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi lítið eftir.

Njótið útivistarinnar.

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/10/23/gonguleid_vikunnar_seltun_arnarvatn/

Arnarvatn

Arnarvatn.

Kleifarvatn

Í Morgunblaðinu 1967 fjallar Óttar Kjartansson um „Kleifarvatn„.

Reykjanesskagi

Sveifluháls á Reykjanesskaga.

„Að margra áliti er Reykjanesskaginn bæði ljótur og leiðinlegur. Þar dæmast fjöllin dökk og úfin, gróðursnauð og laus við alla formfegurð, nema þá kannski Keilir, en skaginn í heild nakinn grjótauðn, þurr og óbyggileg að mestu. Jú, rétt er það, víða er þar langt milli vatnsbóla, en ég held samt að margir sem sterk orð nota um eyðileika Reykjanessins séu þeir sem minnst hafa skoðað það. Því, við nánari athugun kemur í ljós að á skaga þessum finnst ótrúlega margt sem gleður augað;

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Göngumaðurinn uppvötvar grösuga velli og gróin heiðarlönd, fjallið reynist geyma bæði mosa og lyng, jafnvel fagra blómabrekku. Og þótt hraun og mosi þeki miklar víðáttur, og þótt móbergsfjöllin og skagarnir séu hvert öðru lík, langt að séð, er fjölbreytnin í smáatriðum óendanleg þegar betur er að gáð. Verði svo fyrir lækur eða stöðuvatn, eða máske aðeins lítil tjörn, sem raunar er allt helzt til fáséð á þessum slóðum, má ganga að því sem vísu að þar í nánd megi finna fornar hleðslur og veggjabrot sem segja utan og ofan af sögu selsins í heiðinni og lífsbaráttunni sem þar var háð. En nú á tímum traktora og mjaltavéla gleymist víst flestum að hugsa til þess hve raunvenulega er stutt síðan öldin var önnur.

Selalda

Vestari Lækur í Krýsuvík.

En það verður víst ekki hrakið, að Reykjanesskaginn er þurrt land. Mig minnir að hafa megi eftir Sigurjóni Rist vatnsmælingamanni, að ef allt vatn afrennslissvæðis Elliðaánna rynni rétta boðleið ofanjarðar, yrði vatnsmagn þeirra sex til áttfallt það sem nú gefur að líta. Þegar svo vestar dregur á nesinu verða hlutföllin milli úrkomu, afrennslis og rennandi vatns enn óhagstæðari, því það er kunnara en frá þurfi að segja, að rekja má alla strandlengjuna frá Elliðaám, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanestá, og þaðan allt austur að Ölfusárósum, án þess að fyrir verði nokkurt vatnsfall sem orð er á gerandi. Ferðast má tugi kílómetra með ströndinni án þess að finna svo mikið sem uppsprettulind. Þó eru þær ekki með öllu óþekktar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Á Vatnsleysuströnd eru til dæmis öflugar lindir í fjöruborðinu. Talið er að nafnið Vatnsleysa tákni ekki vatnsleysi, eða vatnslausan stað, heldur hið gagnstæða, það er að segja staðinn þar, sem vatnið losnar úr læðingi. En eins og rennandi vatn er fátítt á Reykjanesskaga, er þar einnig lítið af stöðuvötnum, þó finnast þau, jafnvel mörg ef allt er tíundað, en hér verður fjallað um hið stærsta þeirra, Kleifarvatn.
Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn í næsta nágrenni Reykjavíkur. Það liggur inni í miðjum Reykjanesskaga, svo til beint í suðurátt frá höfuborginni, í um 25 km fjartægð mælt í beina línu. Hæð þess yfir sjávarmáli er um 140 metrar, og í eðli sínu og útliti er það sannkallað fjallavatn, fagurblátt á sólbjörtum degi.
Vatnið liggur í dalhvilft sem verður milli Sveifluháls að vestanverðu og mikillar heiðarbungu sunnan Lönguuhlíðar að austanverðu. Síðan bílvegur var lagður um Krýsuvík og meðfram Kleifarvatni hefur þar verið fjölfarin leið, en áður en það varð vatnið teljast afskekkt, þótt skammt væri það frá byggðu bóli, Krýsuvík. Fjölfarnasta leiðin milli Hafnarfjarðar var ekki með vatninu, eins og nú er, heldur vestan Sveifluhálsins. Þó var stöku sinnum fært meðfram vatninu þegar lágt var í því, á fjöru undan Stapanum, en það var fremur sjaldgjæft. Kleifarvatn er nokkuð ílangt norðaustur, suðvestur. Það eru röskir 5 kílómetrar að lengd. Flatarmálið er mjög nærri 10 ferkílómetrum.

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Samkvæmt dýptarmælingum, sem gerðar voru veturinn 1963—64, reyndist mesta mesta dýpi 97 metrar. Þetta var við lága vatnsstöðu, þannig að dýpið nær sennilega 100 metrum þegar vatnsborðið stendur hæst. Rúmtakið reyndist 200 gigalítrar þ.e.a.s. 290 milljónir teningsmetra, og meðaldýpið er samkvæmt því 29 metrar.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Nokkrir klettahöfðar ganga út í vatnið, að austanverðu og eru tveir nafngreindir, sá nyrðri heitir Lambhagi, norðan hans er Lambhagatjörn, nyrsti hluti Kleifarvatns. Syðri höfðinn við austanvert vatnið beitir Geithöfði og gengt honum að vesanverðu er Lambatangi. Aðrir tveir höfðar við vestanvert vatnið eru vel kunnir, þeir eru Syðri-Stapi og Innri-Stapi eða Stapinn syðri og Stapinn innri. Við bílveginn yfir Innri-Stapa er greypt í bergið málmplata með nafninu „Stefánshöfði „. Hvort það táknar að nafnið Innri-Stapi sé úr gildi fellt veit ég ekki, en ég vona þó að svo sé ekki. Staparnir tveir, svo og Sveifluhálsinn eru úr móbergi sem veðrast mikið og festir þar lítt gróður, en víða er bergið sérkennilega sorfið, og í Syðri-Stapanum eru skemmtilegir skútar og skvompur sem gaman er að skoða, þá eru staparnir báðir ágætir útsýnisstaðir, sér í lagi liggur vel við að stöðvabifreið á Innri-Stapanum, ganga fram á brúnina og njóta útsýnis yfir vatnið.

Gullbringa

Gullbringa.

Í heiðinni í suðaustur af vatninu og ekki langt frá því er lítið fell, 306 metra hátt yfir sjávarmál, fell þetta heitir Gullbringa, og er talið, þótt ótrúlegt kunni að virðast, að Gullbringusýsla hafi nafn af þessu felli. Krýsuvíkurengjar ganga að vatninu sunnanverðu, þar eru tvö fell, Litla- og Stóra-Lambafell. Skammt austan Stóra Lambafells er hverasvæði sem breyttist mikið í jarðskjálftanum 1924, kom þar m.a. fram mikill gufuhver, sem nefndist Austurengjahver.

Þar til nú fyrir ekki mörgum árum, að fiskiræktartilraunir hófust í Kleifarvatni, hefur það verið talið dautt vatn, það er að segja, botngróður hefur verið þar í minnsta lagi og ekki hefur veiðst þar nytjafiskur.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Fyrr á tímum hafa menn orðið að finna skýringar á þessu fyrirbæri sem öðrum, og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur þar að lútandi. Nefna má til dæmis söguna um Krýsu og Herdísi sem í eina tíð bjuggu á þessum slóðum, Herdís í Herdísarvík, en Krýsa í Krýsuvík, en frá þeim segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar; Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geithlíð alla og væru landamerki í stórum stein sem stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkru vestar en undir miðri Geithlíð og hefur spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til að þær báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan því henni veitti miður þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörninni í Herdísarvík. Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á tjörnina í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna. Þetta gekk allt eftir. Og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu stjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn“.
Fleiri þjóðsögur eru til sem, Kleifarvatn varða, til dæmis segja sumir að bærinn Kaldrani hafi staðið við suðurenda þess. En á þeim bæ dó fólk af að éta öfugugga sem veiðst hafði í vatninu, var Herdísu tröllkonu kennt um tilveru hans þar.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Þá eru einnig sagnir um skrímsli í Kleifarvatni. Eggert og Bjarni segja frá slíkum kynkvendum í ferðabók sinni í Grænavatn í við Krýsuvík og í Kleifarvatni, þeir segja: „öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu. Þegar við vorum á þessum slóðum árið 1750, var okkur sagt margt um Klelfarvatn, aðallega þó það, að vatnið væri fullt af fiski, sem var þar í sífellu í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða hann fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli eða 30—40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þennan, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annara manna, því oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tíu mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig að í ágústmánuð i 1749 hefði allmarg t fólk, bæði karlar og konur, sem þarna var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskinL séð o r m þennan miklu betur en nokkur maður hefði áður gert, því að hana hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það og þar hefði hann legið í hartnær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný. Fólkiið var svo skelft allan þennan tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land, eða hvernig hann fór aftur í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða stækkaði og skreið áfram, meðan þess að á því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til“.

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Menn hafa veitt því athygli að vatnsborð Kleifarvatns er mjög breytilegt, hækkar ýmist eða læklfar á löngum tíma, jafnvel svo að metrum skiptir. Þetta hafa menn að sjálfsögðu undrast alla tíð, og reynt að finna skýringu á. Eins og kunnugt er hefur vatnið ekki afrennsli ofansjávar, en menn hafa samt viljað meina að einhverskonar göng væru milli þess og sjávar, og bent á eitt og annað því til stuðnings.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í þessum göngum átti svo að vera einhver dularfullur sogkraftur að verki sem ylli þeirri miklu lækkun sem orðið gat í vatninu. Þorvaldur Thoroddsen kemur að þessu í ritum sínum, án þess þó að útskýra það frekar. Hann segir til dæmis í Lýsingu Íslands um Kleifarvatn: „Kleifarvatn liggur sem hvos milli Lönguhlíðar og Sveifluháls, menn þykjast hafa tekið eftir því, að vatnið vex og þverrar á víxl, og jafnvel mest þegar þurrkar ganga að því er menn segja; í því e r engin veiði, engin branda nema hornsíli. Á 18. öld gengu munnmæli um að þar hefði áður verið mikil silungaveiði, en menn þorðu þó ekki að reyna veiði sakir skrímsla, sem þeir þóttust hafa séð. Við jarðeldana 1663 er mælt að vatnið hafi orðið fyrir nokkrum breytingum“.
Sumarið 1930 dvaldi Pálmi Hannesson við Kleifarvatn í nokkurn tíma við þriðja mann, gerðu þeir allýtarlegar dýptarmælingar á vatninu og fleiri athugasemdir, eða eins og Pálmi segir sjálfur: „Tilgangur rannsóknanna var að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar eins og kunnugt er og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga“. Páll lýsir útbúnaði iþeirra félaga við rannsóknirnar, sem líklega mundi þykja helzt til frumstæður í dag, þegar t.d. vatnamælingamenn nota hraðskreiðan vélbát og sjálfritandi mæliæki við dýptarmælingar á vötnum. Árið 1930 var aðeins bílfært skammt suðurfyrir Hafnarfjörð, þannig að ærin fyrirhöfn var að koma nothæfum báti austur að Kleifarvatni.
Niðurstöður Pálma eru í skemmstu máli þær að vatnshæð Kleifarvatns stendur í beinu sambandi við hæð jarðvatnsborðs hverju sinni, en jarðvatnsyfirborðið breyttist í samræmi við úrkomumagn á hverjum tíma.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í lok greinargerðarinar um þessar rannsóknir, sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 1941 segir Pálmi: „Jarðvatnsborðinu hallar allstaðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast hvar mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu, Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð, og eyks því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er eklki ósennilegt að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn“, segir Pálmi Hannesson.
Tíu árum síðar, eða árið 1940, eru aftur gerðar all ýtarlegar rannsóknir við Kleifarvatn. Fyrir þeim stóð Geir Gígja ásamt dr. Finni Guðmundssyni, en rannsóknar þessar vonu gerðar með sérstöku tilliti til athuguna á lífs skilyrðum fyrir silung í varninu, og samkvæmt ósk og að tilhlutan Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Rannsóknir þessar voru mjög alhliða og gerir Geir Gígja grein fyrir þeim í riti um Kleifarvatn sem út kom árið 1944. Niðurstöður hans varðandi fiskeldi í Kleifarvatni voru í stuttu máli þær, að þrátt fyrir allt væru tilraunir í þá átt ómaksins verðar, og leggur hann á ráðin um hvernig haga megi þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og þessi tilraun var gerð. Árið 1963 stofna Hafnfirðingar með sér veiðifélag sem strax í upphaf hafði á stefnuskrá sinni fiskiriækt á Kleifarvatni og fleiri vötnum í Reykjanesi. Samið var við Hafnarfjarðarbæ árið 1954 um afnot af Kleifarvatni til 30 ára, og þegar tekið til óspilltra málanna við framkvæmd áætlana um fiskirækt í vatninu. Þetta ár voru 14000 silungsseiði af Þingvallastofni flutt í vatnið, og síðan hafa bætst við tugir þúsunda seiða. Árið 1959 byrjuðu fyrst veiðar í vatninu og hafa haldið áfram síðan, hafa þær orðið í samræmi við vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Nokkurir tímabundnir örðugleikar hafa raunar gert vart við sig, vegna þess að nú stendur vatnsborð í Kleifarvatni óvenjulega lágt, en það hefur áhrif á botngróður. En fiskiræktarmenn við Kleifarvatn ráða væntanlega bót á þessum vanda sern öðrum.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Að lokum langar mig til að minnast í stuttu máli á mjög skemmtilega tilraun sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur gerði við Kleifarvatn árið 1949. Guðmundur segir frá þessari tilraun í Náttúrufræðingnum 2. hefti þetta sama ár, og kallar greinina „Lítil athugun við Kleifarvatn“.
„Sunnudaginn 20. marz síðastliðinn skrapp ég á reihjóli suður að Kleifarvatni til að viðra mig og stíga á skíði mér til skemmtunar. Auðvelt er að binda skíði á reiðhjól svo að vel fari. Ég gerði mér einnig vonir um að geta í þessari ferð gert dálitla athugun, sem mig hafði lengi langað til og hér verður sagt frá. Veður var ókjósanlegt, norðankaldi framan af degi, bjartviðri, hiti um frostmark og sólbráð, en lyngdi um hádegið og þykknaði upp, hvessti síðan af suðri með lítils háttar fjúki — byr báðar leiðir“.
Og Guðmundur segir frá athugunum annarra fræðimanna, sem ásamt hans eigin, bentu til að straumur væri úr aðalvatninu norður í Lambhagatjörn.

Kleifarvatn

Tröllkerling í einum af Kleifarvatnshellunum.

Þegar svo Guðmundur kemur að vatninu í þetta skipti, eru aðstæður eins og hann óskar, vatnið ísi og lagt að msstu, þannig að hvorki vindur né uppgufun gat tnuflað tilraunina sem hann hsifði hugsað sér að gera, að ganga úr skugga um hvort álit manna um strauminn inn í Lambhagatjörn hefði við örugg rök að styðjast. Með einföldustu tækjum hefur svo Guðmundur tilraunina. Hann segir: „Tækin sem ég hafði til athugana minna, voru einföld í meira lagi: öxi, hönk af grönnu snæri, skíðabindin (stálgormur) sígarettur („Raleigh“), málband og úr með sekúnduvísi“. Hér verður þessari tilraun ekki lýst í smærri atriðum, en hún byggist í stuttu máli á því, að Guðmundur hjó vakir með jöfnu millibili þvert yfir ósinn inn í Lambhagatjörn, mældi dýpið í hverri vök, og lét síðan sígarettu pappír sökkva til botns í vðkinni, mældi tímann sem það tók og vik frá lóðréttri stefnu. Með þessu fann hann út með nokkurrn nákvæmni, að rennsli úr aðalvatninu inn í Lambhagatjörn voru fullir 200 lítrar á sekúndu þennan dag.

Kleifarvatn

Hvyrfilstormur í þurri Lambhagatjörn.

Að lokum segir Guðmundur: „Eftir þessa athugun tel ég fullsannaða þá kenningu, sem Ólafur Friðriksson hélt fyrstur fram og nánar var skýrð af Pálma Hannessyni, að vatn streymi stöðugt úr Kleifarvatni inn í Lamibhagatjörn (nema þegar hún er þurr), sígi þar niður og renni burt neðansjávar“.
Eins og Guðmundur Kjartansson nefnir, var það hinn merki áhugamaður um náttúruskoðun, Ólafur Friðriksson, sem fyrstur hélt opinberlega fram kenningu þeirri um afrennsli Kleifarvatns sem nú er viðurkennd. Var það í grein sem hann nefndi „Leyndist í sunnudagsblaði Vísis 29. október 1941.
Umhverfi Kleifarvatns er mjög vel fallið til gönguferða og útivistar, og þar eru ótal viðfangsefni fyrir náttúruskoðara. Sveifluhálsinn er ákjósanlegt verkefni fyrir þá sem vilja fara í stutta fjallgöngu, en kjósi menn lengri gönguferðir, er um að velja t.d. Grindaskörð eða Brennisteinsfjöll austan vatnsins eða t.d. Vesturháls og Trölladyngiu vestan þess. Sunnan vatnsins má nefna Krýsuvíkurberg, skemmtilegt fuglabjarg er nær Reykjavík en margur hyggur.“
Hafa ber í huga að ekki er allt satt, sem sagt er…[ritstjóri FERLIRs].

Heimild:
-Morgunblaðið 25.05.1967, Kleifarvatn eftir Óttar Kjartasson, bls. 7-8.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Elvarpahraun

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun vestan við Staðarhverfi í Grindavík. Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli og því auðveld yfirferðar.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega ofan við Staðarbergið sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu, undir hraunbakka. Staðsetningin er augljós þar sem lágtófan er annars vegar, þá er „dældirnar smjó“. Þegar hleðslan var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var enn fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 26. hlaðna refagildran, sem FERLIR hafði skoðað á Reykjanesskaganum.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Skömmu síðar fundust tvær gamlar refagildrur austan við Ísólfsskála auk tveggja til viðbótar einni austan við Húsatóftir. Fyrir einungis nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til á Nesinu öllu. Ljóst er nú að mun fleiri slíkar eiga eftir að finnast á svæðinu. Þekktar refagildrur hafa allar verið skráðar, myndaðar og staðsettar með gps-hnitum.
Stuttu eftir að þetta var skrifað fór FERLIR aftur um svæðið í öðrum tilgangi. Í þeirri ferð var gengið fram á enn eina refagildruna, skammt norðvestan við hina fyrrnefndu. Sú gildra er einnig alveg heil. Talan er því komin yfir á átta tuginn.
Sjá meira um refagildrur HÉR.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

 

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

FERLIR  hefur nú (2023) endurnýjað þrjú af átta sögu- og minjaskiltum Grindavíkur með stuðningi bæjaryfirvalda.

Grindavík

Grindavík – gamla skiltið við Járngerðarastaði.

Skiltin eru við Járngerðarstaði (sögusvið Tyrkjaránsins), Hóp og í Þórkötlustaðahverfi og eru til viðbótar þeim tveimur, sem endurnýjuð voru á síðasta ári (2022), þ.e. við gömlu kirkjuna og ofan við bryggjuna á Þórkötlustaðanesi. Skiltin voru orðin 12 ára gömul og höfðu látið verulega á sjá vegna ágangs ljóss, veðurs og vinda. Illlæsileg skilti eru engum til ánægju og því nauðsynlegt að viðhalda þeim eftir þörfum.

Grindavík

Grindavík – endurnýjað skilti við Járngerðarstaði.

Örnefna- og minjaskiltunum er ætlað að vera bæjarbúum og gestum þeirra til fróðleiks um þeirra næsta mjög svo áhugaverða umhverfi. Gerð þeirra var upphaflega styrkt af Grindavíkurbæ, Saltfiskssetri Íslands og Pokasjóði. FERLIR gaf alla vinnu við undirbúning og gerð þeirra. Vonir standa til að hægt verði að endurnýja þau þrjú skilti er eftir eru, þ.e. á Holuhól í Staðarhverfi, á Gerðarvöllum og við Hraun, næsta vor.

Sjá umfjöllun um endurnýjun fyrstu tveggja skiltanna HÉR.

Grindavík

Grindavík – Örnefna- og minjaskiltið við Járngerðarstaði.

Ytri-Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um „Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð“ árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Sögulegt ágrip

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Í ritgerð sinni Guðir og goð í Örnefnum skoðar Helgi Biering Þjóðfræðingur meðal annar Njarðar forskeytið í örnefnum á Íslandi. Þar segi hann meðal annars um Njarðvíkurnar.
Ekki er mikið um Njarðar forskeyti í örnefnum á Íslandi en þó eru tvær Njarðvíkur og svo skemmtilega vill til að þær eru á sitthvorum enda landsins. Önnur þeirra er á suðvesturhorni landsins en hin er á norðaustur horninu.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Sú sem er á Suðvesturhorninu er ekki stór landfræðilega heldur einungis lítil vík sem gengur inn úr Staksvík í Faxaflóa og er sá hluti víkurinnar sem er við svokallaðar Njarðvíkurfitjar, eða Fitjarnar eins og þær eru nefndar í daglegu tali. Hún er í landnámi Steinunnar gömlu en samt er líklegt að nafnið á víkinni hafi verið komið fyrir hennar tíð. Þó er áhugaverð kenning í Bókinni Saga Njarðvíkur þar sem haft er eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, sem gegndi starfi forstöðumanns Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins þegar bókin var gefin út, að nafnið tengist ekki átrúnaði á Njörð né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Heldur snúist örnefnið um það að upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”. Hann vill meina að Njarðvík á Suðurnesjum heiti svo vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu beri sitt heiti vegna þess að hún er í næsta nágrenni við Fljótsdalshérað. Ritari ætlar ekki að leggja neinn dóm á það er hitt gæti allt eins verið rétt að nafnið komi af tilbeiðslu við Njörð sem sjávarguð og þá getur Njarðvík vel passa við að vera til marks um góða lendingarstaði og nefnd Njarðvík Nirði til heiðurs.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það gæti vel passað við Njarðvíkurfitjar þar sem þar er mjúk og sendin strönd með grýttar- og klettastrandir í báðar áttir. Þegar skoðað er kort og myndir af Njarðvík sést hve þar er góð lending fyrir skip eins og Knerri og langskip landnámsmanna voru. Tvennt er sameiginlegt með þeim syðri og eystri, annarsvegar eru báðar með sendinn botn og góðar strendur til að lenda skipi á þannig að lágmarks hætta er á að skemmdir á skipi tefji för, slæmar lendingar á báðar hendur með klettum og skerjum. Og báðar eru sennilega lausar við mjög krappa öldur eða brim inni í botni þar sem þær eru báðar grónar alveg niður í fjöru.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Stekkjakot og Víkingasafnið.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. En það hafði verið staðfest með dómi árið 1596. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verslunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verslunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Heldur er það rýrt sem fjallar um það landsvæði sem Njarðvíkurnar tilheyra í Landnámu. Og í raun er það eingöngu um það að Ingólfur hafi gefið Steinunni gömlu landsvæði og hvernig hún deildi því niður á sitt fólk. „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, Borgaði hún honum fyrir með “heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.” Úr Landnámabók, merkir að hún vildi ekki fá landið að gjöf heldur borgaði fyrir líklega með enskri flík, með því vildi hún tryggja eignarhald sitt ef Ingólfi eða erfingjum hans myndi snúast hugur. Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.“

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Landnámsmenn hafa siglt hingað á knörrum sem ekki hafa hentað til fiskveiða, of stór og þurftu góð hafnarskilyrði, minni bátar voru meðfærilegri og auðveldara til dæmis að draga þá á land milli róðra í vörum. Reyndar voru fiskibátarnir sumir hverjir töluverð fley, gott dæmi um þessi stærri skip er hákarlaskipið Ófeigur sem varðveittur er á Byggðasafninu á Reykjum. Í Eiríkssögu rauða er sagt frá ferðum Eiríks og fleiri landnámsmanna til Grænlands og áfram til Vínlands og Íslands.

Víkingar

Víkingaskip – knerrir í legu.

Knerrin voru farskip landsmanna svo lengi sem þeir entust, en ólíklegt er að í landnemahópnum hafi ekki verið menn sem kunnu til skipasmíða. Þeir hafa fljótlega tekið til við að gera heppilega báta til fiskveita við landið, og sterk rök benda til þess að þegar á söguöld – 985, þegar Eiríkur rauði og fleiri Vestlendingar lögðu í landnámsferð til Grænlands – hafi verið komin fram sú gerð fiskibáta sem notuð var víða um land allt fram á þessa öld (20. öld) og hákarlabáturinn Ófeigur sem smíðaður var 1875 og enn er varðveittur þykir góður fulltrúi fyrir.

Ytri-Njarðvík

Ytri-Njarðvík – túnakort 1919.

Landnemarnir voru járnaldarmenn ritaði Kristján Eldjárn, fólk sem byggði verkmenningu sína á víðtækri notkun járns og mikilli leikni í meðferð þess innan þeirra takmarka sem algjör skortur á vélmenningu setti. Lágt tæknistig hefur hins vegar áreiðanlega valdið því að þorri fólks hefur þurft að eyða megninu af tíma sínum til að afla sér fæðis og klæða. Þar hefur verið í mörgu að snúast því hvert heimili þurfti að afla allra sinna fanga sjálft og sjálfsþurftarsamfélagið var afar háð árstíðabreytingum. Allt árið þurfti að sinna skepnum, að vetrarlagi var stunduð tógvinna, þá var gripið til enn fornaldarlegra tækja, halasnældu og kljásteinavefstól, hvorutveggja frá steinöld. Að sumarlagi þurfti að sinna kornyrkju og líklega hafa menn heyjað, lítilsháttar, en treyst á útibeit. Veiðar stundaðar allt árið, fugl, fiskur og selur. Þá var berjum, sölvum og öðrum jarðargróðri verið safnað.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Mikilvægt var að einhver á heimilinu kynni til allra verka, hvort sem var við matseld, klæðagerð, smíðar hverskonar, húsbyggingar, umönnun búfjár o.s.frv. í þessu felst hugtakið sjálfsþurftarbúskapur. Eitthvað þurfti þó alltaf að kaupa að, til dæmis efni eins og góðan við og járn. Treysta varð á innflutning járns, þótt menn hafi reynt að vinna járn úr mýrarrauða þá var það ekki gerlegt nema fyrstu aldirnar, verkþekkingu þurfti og síðan töluverðan skóg til viðarkolagerðar, hvorutveggja minnkaði eftir því sem leið á. Í upphafi var Ísland viði vaxið eins og Ari fróði sagði en ólíklegt má telja að viðurinn hafi alls staðar verið nægilega góður til hús- og skipasmíða. Þá kom til góða, rekafjörur, sem sést að þær hafa verið mjög eftirsóttar, rekinn hins vegar dugði ekki og flutti því landinn inn við. Þannig gerði landlægur efnisskortur á þessum grundvallarþætti húsagerðar og skipasmíða.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Búsetu á jörðinni Njarðvík er fyrst getið á 13. öld. Svo virðist sem 25 jarðir hafa verið í byggð á 13. öld í Rosmhvalaneshreppi og í Vatnsleysustrandarhreppi teljast 19 jarðir örugglega hafa verið byggðar á 13. öld. Alls er talið að sæmileg vitnesja sé um 54 býli á Suðurnesjum á 13. öld en í lok 16 aldar voru þau orðin 65 talsins.
Ályktað hefur verið að byggð hafi verið að þéttast hér á 12. og 13. öld með vaxandi hjáleigu– og kotbúskap og ennfremur hefur verið bent á að hjáleigur hafi flestar verið í fiskveiðihéruðunum sunnanlands og megi því tengja fjöldun þeirra viðleiti til að lifa af sjávarfangi.
Fram til þessa hafa fræðimenn flestir verið þeirrar skoðunar að útflutningur skreiðar frá Íslandi til Noregs hafi komist á um 1330 og valdið því að fleiri tóku að stunda sjósókn en áður hafði tíðkast.“
Framhaldið um sjálfsþurftarbúskapinn þekkja meðvitaðir. Minjar um hann er víða að finna, ef vel er að gáð…

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Innri-Njarðvík

Innri-Njarðvík – loftmynd 1954.

Þingvallavegur

Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – brú.

Nýi Þingvallavegurinn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.

Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn.

Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar „púkkrás“ þvert í gegnum veginn.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.

Seljadalur

Seljadalur – brú á Seljadalsvegi.

Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín.

Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.

Thingvallavegur gamli - 217

Gamli Þingvallavegur – ræsi.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
„1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“ „Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. „Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“ „Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. “ Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: „Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd“.

Í „Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd“ eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
„Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru „kreppuárin“ farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.“

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.