Færslur

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/