Guðsteinn Einarsson lýsir Grindavíkurfjörum „Frá Valahnúk til Seljabótar“ í bókinni „Frá Suðurnesjum“ árið 1960. Hér á eftir fer frásögnin í þremur köflum:
„Það mun rétt, að fróðlegt sé að halda við örnefnum, nú þegar þeir umbrotatímar eru með þjóðinni, að mjög fækkar því fólki, sem stundar starf úti í sjálfri náttúrunni, svo sem smalamennsku, göngu á reka o.fl. – Við þessi störf voru örnefnin nauðsynleg, svo sem hvar kind hefði tapast, hvar fundist hefði reki, sem þyrfti að bjarga undan sjó o.s.frv.
Það sem jög fækkar fólki við þessi störf og þau að verða sem aukaatriði í afkomu fólksins, má og gera ráð fyrir, aðverulegur partur örnefnanna gleymist fljótlega, nema reynt sé að skrásetja þau, áður en til gleymsku kemur.
Vegna þess vil ég nú gera tilraun að því að taka upp öll örnefni, sem þekkt eru í fjörum og meðfram sjó fyrir Grindavíkurlandi. Þetta er löng leið, utan af Reykjanestá og alla leið austur að Selvogi eða að landi Herdísarvíkur, sennilega 70-80 km leið öll strandlengjan. Vitanlega væri það fljótlegast að byrja á öðrum hvorum endanum og þylja svo nöfnin eftir röð til austurs eða vesturs. En svo vill til að einmitt þessi strönd á sér mikla sögu, sem má og telja þess virði, að ekki falli alveg í gleymsku. Frá því er siglingar hófust til landsins, mun það vera ein fjölfarnasta skipaleið meðfram þessari strönd, og „í Húllið er allra vegur“, segir í vísunni, en það. Húllið, er sundið milli Eldeyjar og Reykjaness.
Strönd meðfarm svo fjölfarinni siglingaleið hlýtur því að eiga mikla sögu, þar sem örlög hafa oft og tíðum ráðist á skömmum tíma, örlög, sem ekki aðeins hafa snert okkur hér á ströndinni, heldur hafa náð langt út í heim og í aðrar heimsálfur.
Vegna þessa mun ég því reyna, um leið og ég tel upp örnefnin, að geta þeirra atburða, skipstranda eða björgunar, sem bundin eru við örnefni og gerst hafa síðustu 60-70 árin.
Þegar ég byrja á örnefnum, tel ég eðlilegast að byrja á landmerkjum milli Hafna og Grindavíkur eða jarðanna Kalmanstjarnar og Staðar í Grindavík. Ekki eru sjálf merkin milli jarðanna ágreiningslaus, því máldagar munu fyrir, að þau séu á þremur stöðum, í Valahnúksmöl, austast, vestast og í miðja möl. Án þess að slá nokkru föstu um landamerki ætla ég að byrja við Valahnúkinn – sem óumdeilanlega mun vera í Kalmanstjarnar-landi, en það er örnefni, sem sker sig úr umhverfinu.
Valahnúksmöl er þá fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi. Frá henni taka við básar og hleinar. Í aðalbásnum, rétt austan við mölina, varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið „Clam“ strandaði þar og 27 menn drukknuðu. Þetta mun vera með hörmulegri slysum, sem orðið hafa, þannig, að menn þessir fórust allir vegna hreinna mistaka. Eitthvert ofboð hlýtur að hafa gripið skipshöfnina, eftir að skipið hafði strandað. Vitanlega gengu þarna stórir sjóir á skipið, svo það hefir sennilega látið illa meðan það var að festast í fjörunni, og þá var gripið til þess ráðs að setja út björgunarbáta. Það mun og hafa aukið slysið, að smá-var var undir síðunni andmegin, og fyrir það komust fleiri menn í bátana. En þegar aðeins nokkra metra var komið frá síðunni, náðu holskeflurnar þeim og veltu um á augabragði. Meðan skipið var að stranda, hafði verið dælt miklu af jarðolíu í sjóinn; hún myndar húð á sjónum, ekki ólíka tjöru. Þegar svo mennirnir lentu þarna í sjónum bæði í brimgarðinn og olíubrákina var ekki að undra, þó illa færi. Ekki voru nema 20-30 m í land, en alls staðar klettar í landtökunni. Þrátt fyrir allar þessar aðstæður skolaði þremur mönnum lifandi upp í klappirnar, og var þeim öllum bjargað. Bátarnir höfðu verið settir á flot, áður en björgunarsveitin héðan úr Grindavík kom á vettvang, svo þá var þetta allt um garð gengið.
Það voru 24 menn eftir í skipinu, þegar björgunarsveitin kom, og var þeim öllum bjargað, við einhverja bestu aðstöðu, sem sveitin hefir nokkru sinni haft, þar sem skipið lá undir kletti, álíka háum og skipið sjálft og rúmlega 20 m á milli. Þegar búið var að koma línusambandi á milli skips og lands, voru skipverjar dregnir í land hátt fyrir ofan sjó, svo enginn þeirra vöknaði í fót, hvað þá meira. Skipshöfnin var sögð 54 manns, og réttur helmingur af hvorum, Bretum og Kínverjum. Það var og talið, að um helmingur af hvorum hefði farist, svo ekki virtist þá orðinn mikill munur á kynþáttunum, þegar í þetta óefni var komið. Sama ofboðið eða hræðslan getur gripið jafnt, hvort maðurinn er hvítur eða gulur á litinn. Það sýndi sig og við að fara um vistarverur skipshafnarinnar að hugaðarefnin voru svipuð hjá báðum litunum; víðast hvar var mikið af fjölskyldumyndum, ýmist uppstillt eða í geymslum, myndir af konum og börnum og heilum fjölskyldum.
Það sýndi sig allt á eftir, hversu hörmulega hafði tiltekist hjá skipshöfninni, að ryðjast í bátskeljarnar úr hina stóra skipi, einu hina stærsta, sem strandað hefir hér við land, um 10 þúsund tonn, því það stóð að mestu óhaggað í fjörunni fram á næsta haust.
Austan við hleinarnar kemur Blásíðubás. Það er klettabogi undir stórgrýtiskampi undir klettunum. Uppi á klettunum stendur viti, kallaður Litli viti, og mun þar staðsettur, vegna þess að stóri vitinn á Reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í Grindavíkursjó. Í Blásíðubás er vitað, að þrisvar hafa skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundur frá því að lenda í Reykjanesröst og sogast þannig til hafs, út í stórsjó, og þá vafasamt um björgun.
Fyrst hinn 24 mars 1916 lenti bátur þar með 11 manna áhöfn, formaður var Einar Einarsson frá Merki í Grindavík. Áhöfnin bjargaðist í land, en báturinn brotnaði að heita mátti í spón í lendingunni. Umgetinn mánaðardagur er mjög minnisstæður öllum eldri Grindvíkingum, vegna þess að þann dag urðu hinir mestu hrakningar, sem vitað er um í sjóferðasögu Grindavíkur; aðeins einn bátur af 26 náði sinni lendingu; hina hrakti alla, svo að þeir lentu þar sem þá bar að landi, með því að áhafnir, með þeim tækjum, sem þá voru árar og segl, réðu ekki við neitt. Upp úr hádegi þennan dag, þegar allir bátar voru í veiðifærum sínum á miðunum, skall á, að heita mátti allt í einu, norðanveður, sem nú mundi talið 10-12 vindstig. Umgetinn bátur, sem lenti í Blásíðubás, var sá utasti, sem lenti á Reykjanesinu, en þeir bátar, sem ekki náðu landi á Nesinu höfðu þá jafnframt tapað öllum skilyrðum til að ná landi, og þeir voru fjórir, bátarnir úr Grindavík, sem þannig fór með þannan dag, að þeir náðu ekki Reykjanestá og hrakti því undan sjó og vindi til hafs.
Hamingjan var hliðholl Grindavík þennan dag, því í þessu veðri urðu engir mannskaðar, og var það allt að þakka því að s.a. af Reykjanesinu, seinni part hins eftirminnilega dags, var staddur kútter Ester frá Reykjavík, einmitt á þeim tíma, sem hina fjóra báta tók að hrekja beint til hafs, eftir að þeir höfðu ekki náð Reykjanestánni. Skip þetta mun haaf verið að fara til lands með fullfermi af afla, en hikað við að leggja á „Húllið“ og fá hið mikla norðanveður beint á móti, þegar komið væri fyrir Reykjanesið. Þrátt fyrir að skipið hafi verið hlaðið, bjargaði það öllum af þeim fjórum bátum, sem þarna var að hrekja til hafs, það er um 40 mannslífum, sem um var að ræða. Það segir sig sjálft, hver aðstaða hefir verið að taka á móti svona stórum hóp manna um borð ís kip, sem var innan við 100 tonn að stærð og fullhlaðið. En þegar einbeitur vilji ásamt framsýni er til framkvæmda, er oft hægt að gera það sem lítt sýnist framkvæmanlegt. En þetta heppnaðist allt hjá skipstjóra og skipshöfn á kútter Ester hinn eftirminnilega dag, og þeir skiluðu heilu og höldnu hinum fjórum skipshöfnum, eftir að hafa annast allan hópinn í þrjá daga.
Þetta mun með mestu björgunarafrekum, sem unni hafa verið við strendur landsins. Það er staðreynd, að þegar taka þarf skjótar og mikilsverðar ákvarðanir um borð í skipi, er allt undir skipstjóranum komið, að hann sé nógu úrræðagóður. Maður sá, sem þarna stjórnaði, var Guðbjartur Ólafsson, sem lengi hefir verið forseti Slysavarnarfélags Íslands, en Grindvíkingar telja þar vera réttan mann á réttum stað.
Ekkert örnefni er svo fyrr en kemur á s.a. horn Reykjanessins. Það er klettagjögur, sem heitir Skarfasetur, þá beygir ströndin inn á svo kallaðar Víkur. Skemmur heita klettarnir frá Skarfasetri og þar til þeir lenda í malarbás. Í Skemmum eru hellar og skútar nokkrir, þar sem sjórinn hefir skolað mýrki bergtegund á burtu, en þær harðari standa eftir. Það eru oft þungar drunur, þegar úthafsaldan sogast um skútana.
Malarbás sá, er byrjar við skemmurnar, heitir Básinn. Þar strandaði vélskipið Búðaklettur frá Hafnarfirði hinn 23. desember 1943 eða 44, í s.a. stórviðri og vitanlega veltubrimi. Með skipinu voru, auk skipshafnar, tveir farþegar. Brimið mun hafa skolað skipinu alveg upp í fjöru, því allir mennirnir komust úr því og niður í fjöruna, skömmu eftir að það strandaði, En svo slysalega tókst til, að sjórinn náði báðum farþegunum, og fórust þeir þar, en hinir björguðust. Daginn eftir var skipið brotið í parta, og þannig hefir það verið með þau skip, sem strandað hafa að utanverðu á Reykjanesinu, að hin þunga alda hefir sundrað þeim fljótlega.
Þá tekur við Krossavíkurberg, sem ég hefi heyrt einnig kallað Rafnskelsstaðaberg, en geri ráð fyrir að fyrra nafnið sé rétt. Þetta er nokkuð mishátt berg, 10-40 m á hæð, en hægt að ganga undir því alltaf á fjörum þegar lítið er í sjó. Undir þessu bergi lenti til botns einn bátur hinn umtalaða dag, 24. mars, með 10 eða 11 manna áhöfn; formaður á honum var Ívar Magnússon frá Görðum í Grindavík. Sumir af skipshöfninni töldu, að Kristján Jónsson frá Eri-Grund hefði sennilega bjargað allri skipshöfninni með því að halda skipinu föstu í klettunum, meðan skipshöfnin var að komast úr því, og það síðan dregist út og brotnað. Þetta kom þó skipshöfninni ekki ssman um, og töldu sumir þeirra það fjas eitt. Eitt er það í minni manna hér, frá því er skipshöfn þessi var laus úr sjónum og komin upp í urðina undir berginu, sem sýnir þess tíma hugsunarhátt. Einn af skipshöfninni, sá hét Bárður Jónsson, var orðinn nokkuð fullorðinn og hafði það að aukastarfi að hirða gemlinga sem húsbjóndi hans, Dagbjartur Einarsson, átti. Er Bárður leit upp eftir berginu og sá hvergi upp af brúninni fyrir bylkafaldi, átti hann að hafa sagt: „Seint verður það, sem þeir fá gjöfina sína í kvöld, gemlingarnir hans Dagbjartar“.
Þarna undir Krossavíkurberginu, þar sem það er farið að lækka að innanverðu, skeði og það hrapallega slysa, að togarinn Jón Baldvinsson strandaði þar. Sem betur fór, varð þó mannbjörg þarna, enda sæmilega góð aðstaða, sem alltaf telst vera, þegar hægt er að festa dráttartaugina í landi á heldur hærri stað en hið strandaða skip er. Togarinn brotnaði ekki strax, en þá skeði annað, sem sýnir best þunga og afl öldunnar á þessum slóðum. Hann fór bara á hvolf, þannig að kjölurinn vissi beint upp í loftið.
Þá taka við Krossvíkur, fyrst mölin, þar lenti til brots hinn 24. mars bátur með sex mönnum; formaður á honum var Magnús Guðmundsson frá Akraból. Áhöfnin bjargaðist, en báturinn brotnaði í spón.
Krossvíkurbásar eru að norðan – innan – við Mölina. Í berghlein innst á básunum rak upp hinn 14. apríl 1926 vélbátinn Öðling frá Eyrarbakka, um 12 tonn að stærð. Talsvert varð utan um þetta rek bátsins, vegna þess að upp úr hádegi greindan dags sást báturinn á reki framundan Staðarmölum og var á tímabili gert ráð fyrir, að hann ræki þar upp. Hann hafði flagg uppi í afturmastri og lá alltaf eins í sjónum, „hálsaði“ hverja öldu svo fallega, að sjánlega kom varla dropi á dekk. Vegna flaggsins, sem hann hafði uppi, var búist við því, að menn væri um borð og því sendur mannafli á fjöruna til að reyna að bjarga, ef með þyrfti. Báturinn slapp fyrir Staðarmalir og rak svo vestur yfir Víkurnar. Um leið og sent var á fjörurnar, var og sendur maður í síma, sem þá var á einum stað éi hreppnum, í Járngerðarstaðahverfinu. Ekki fékkst vitneskja um bátinn fyrr en kl. 5 að kvöldi þessa dags. Þá fréttist lokksins, að báturinn mundi vera frá Eyrarbakka og mannlaus, með því daginn áður hafði snögglega gengið í mikið austanveður, svo tveir bátar þaðan höfðu orðið að snúa frá lendingu, en úti fyrir hafði og útfallið verið svo slæmt, að þeir höfðu leitað til togara, sem var grunnt á Selvogsbankanum. Höfðu þeir bjargað áhöfnunum, en ekki getað ráðið við að bjarga bátunum. Þá var og vitað að í öllum flýtinum við að komast um borð í togarann hafði gleymst að draga niður fánann á Öðling.
Að fengnum þessum upplýsingum sneri sendimaður til baka, og þegar út í Staðarhverfi kom, varð hann að halda áfram út í Víkur, því þar var hópur manna að bíða eftir að taka á móti bátnum, og reyndust þeir vera komnir alla leið á Krossvíkur. Þar var og báturinn fram undan og kominn fast að brimgarðinum, en lá alltaf jafn fallega, hálsaði hvern sjó. En svo kom sá aflmesti fyrir Öðling og sá stærsti og tók sig upp utar en aðrir. Öðlingur tók hann jafn fallega og hina, en náði ekki upp í toppinn á sjónum, áður en hann féll, heldur lenti í lykkjunni á sjónum, sem velti honum eins og kefli alla leið til lands, ca. 400-500 metra, og að síðustu skellti honum á réttum kili niður á klapparsyllu, svo hátt uppi, að hann hreyfðist ekki meira.
Það þótti og merkilegt, að þegar farið var að skoða ofan í bátinn, sem var eftir litla stund, kom í ljós, að enginn sjór var í lúkarnum og fatnaður og veiðarfæri í lúkar allt þurrt. Virðist hafa fengið svo fljótar veltur, að enginn sjór fór í hann.
Þá tekur við Háleyjaberg, 10-20 m hátt, með stórgrýttri möl undir. Í þeirri möl rak lík þess óþekkta sjómanns, sem jarðaður er í Fossvogskirkjugarði undir minnismerkinu.
Háleyjar eru næst, og er talinn merkisstaður, kannske mest fyrir það, að þar voru talin góð fiskiið fram undan, í þá daga, sem eingöngu voru notuð handfæri, sbr. vísupartinn: „…á Háleyjum er hugurinn Hafnaformannanna“. En í landi er það og sérstakt, að þar er eini staðurinn, sem heitið geti að lendandi sé á, frá Grindavík og út á Reykjanes. Þó er þarna ekki lendandi nema í góðu verði og tiltölulega öldulitlum sjó.
Þarna mun hafa verið eitthvert útræði, því tóftarbrot er þar á bakka fyrir ofan kampinn, sem sagnir eru um að hafi verið til viðlegu. Landslagi er þarna þannig háttað, að hár stórgrýtiskampur liggur frá norðurenda Háleyjabergs að Sandvíkurbásum, sem er lágt klettabelti. Þar sem kampurinn kemur að klettunum, kemur klettahlein, kölluðu Háleyjahlein, sem liggur út í sjóin og um fjöru ca. 400 m út á móti Háleyjakampinum. Þannig myndast nokkuð djúp renna á milli hleinarinnar og kampsins. Háleyjahlein er þannig eins og bryggja út í sjóinn, þvertnípt báðum megin, og sjómegin er svo djúpt, að hvergi sér til botns um fjöru.
Þarna á Háleyjum lentu fjórir bátar hinn eftirminnilega dag, 24. mars. þeim var öllum bjargað undan sjó án skemmda. Þá mætti það og gjarnan geymast, að tveir af bátunum, sem þarna lentu, voru settir af handafli einu saman alla leið austur í Staðarhverfi, ca. 8-10 km leið, mest yfir apalhraun. Alls voru fjórir bátar settir þannig; aðrir tveir, sem lentu á svo nefndum Kletti. Þannig var farið að, að settir voru tveir bátar, saman hvor á eftir öðrum, svo tvær skipshafnir voru þannig saman. Timbur var mikið á fjörunum þarna og var það notað fyrir „hlunna“, en það voru spýtur kallaðar, sem notaðar voru við setningu báta. Stóra staura varð að nota til að tæki vel upp yfir standana í hrauninu, svo síður bátanna rækjust ekki í þá, enda minnist ég þess, að margir kvörtuðu um aumar axlir, sem voru við þennan stauraburð. En þetta heppnaðist, og ekki var verið nema rúman dag með hverja tvo báta.
Einhvern tíma um árið 1930 vildi það til, er báturinn Elliðaey frá Vestmannaeyjum var við dragnótaveiði austan við Reykjanesið, að í honum kviknaði, svo að bátverjar réðu ekki við eldinn, og tóku þeir það til ráðs að sigla bátnum upp og fóru inn á Háleyjar og björguðust þar í land, en báturinn eyðilagðist alveg.
Fyrir austan Háleyjar taka við Sandvíkurbásar, klettarani með básum í. Þá kemur Sandvíkin sjálf; fyrir austan hana koma klappir; austast í þeim er nefndur „Klettur“, þar sem Mölvíkin tekur við. Fyrir austan „Klettinn“ er og talið hægt að lenda í góðu veðri, og þar lentu þrír bátar í hrakningunum 26. mars og voru tveir af þeim „settir“ austur í Staðarhverfi, sem áður er sagt.
Mölvíkin sjálf er nokkur hundruð metra malarkampur. Fyrir austan hana eru Hróabásar. Þá taka við Sölvabásar og er þá komið austur að Staðabergi vestanverðu. Í því eru tvö örnefni: Vestri- og Eystri-Fiskivörður, þær skera sig úr þannig, að þær er klapparnípur, sem standa upp úr berginu og er að jafnaði hvítar af fugladriti en umhverfið um kring.
Austarlega í Staðarbergi eru svo kallaðar „Klaufir“ og sjálfur austurendinn kallaður Bergsendi. Þar í Bergsendanum er gatklettur mikill. Fyrir austan Staðarberg taka við Staðarmalir og ná þær langleiðina austur undir byggðina, en eru svo með mörgum örnefnum og minningum válegra viðburða. Bergsendaker er vestasta örnefnið á Staðarmölum. Skagar úr kampinum og nokkuð út í sjóinn. Þarna skeði það á sumardaginn fyrsta 1933 eða 34, að trillubátur lenti upp á klettana, og þrátt fyrir að á þessum slóðum virðist helst aldrei kyrrt, en alltaf þannig úthafsalda við klettana, þá skeði það þó í þessu tilfelli að mennirnir björguðust allir og báturinn einnig, svo til óskemmdur. Aðdragandi að þessu var sá, að þennan dag var ágætisveður og ágætis fiskafli. Margir bátar í Grindavík lögðu á sjó um miðjan dag, þegar búið var að draga fyrra kastið, sem kallað var. Þar á meðal var trillubáturinn „Gísli Jónsson“, sem Gunnar Gíslason frá Vík var formaður á. Undir kvöldið gekk í snögga austanátt með stormi og snjókomu. Nokkru eftir að bylurinn skall á, bilaði vélin í Gísla Jónssyni, og varð þá að yfirgefa línuna og setja upp segl og sigla til lands. Þá var byrjað að skyggja að nóttu og einnig vegna bylsins; vissu þeir ekki fyrr en komið var fast að landi; höfðu aðeins svigrúm til að fella seglið og leggja út árar, þegar sjórinn tók bátinn sem skilaði honum fyrir hátt sker, sem þeir voru framan við…
Þegar í land var komkið gátu mennirnir, fimm að tölu, í rólegheitum stigið úr bátnum og upp á kampinn. Sjórinn náði ekki bátnum neitt að ráði meira, enda var útfall. Bátnum var síðan bjargað af fjölmenni fyrir næsta flóð. Þegar bátnum var bjargað, kom í ljós, að hann hafði lent á klapparnefni, sem stóð upp úr kampinum, og svo mjúklega, að varla sást á byrðing bátsins, sem ekki var þó nema 3/4″ á þykkt. Þannig geta hin trylltu náttúruöfl tekið mjúklega á hinum ósjálfbjarga mannim þegar því er að skipta, en það er því miður ekki oft á þessums lóðum sem slíkt hefir skeð. Ofar að það hafi kostað farið og stundum alla ahöfnina að lenda þarna í fjörunni. Og slíkur viðburður er og bundinn við þetta Bergsendasker.
Hinn 1. apríl 1924, var að ganga niður mikið s.v. veður. Þann dag varð vart við eitthvert rekald úti á Staðarmölum og þegar farið var að athuga, reyndist þar hafa farist með öllu saman færeyskur kútter að nafni Anna frá Tofte. Það benti til, að skipið hefði farist á Bergsendaskerinu, að framundan því var afturmastrið á floti og hékk þar fast í botni fram á sumar, en losnaði þá og rak vestur á Sandvík. Þegar skipið fannst, var það þegar brotið í spón og dreift meðfram öllum Staðarmölum. T.d. var stórmastrið í fjórum eða fimm bútum. Ekki man ég, hve margir emm voru á skipi þessu, en 14 eða 15 lík rak úr því, og voru þau jörðuð í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík.
Næst fyrir austan Bergsendasker er Ræningjasker. Það er nokkru stærra og skagar út í sjóinn frá kampinum eins og hitt. Þar segja munnmælin að Tyrkinn hafi gengið á land í ránsförinni 1627, en prestuinn á Stað hafi kunnað nokkuð fyrir sér og hann snarast upp á hæðirnar fyrir vestan Húsatóftir, hlaðið þar í snatri 3 vörður og gengið svo frá, að Tyrkjanum sýndist það her manns. Jafnframt hafi hann mælt svo um, að Staðarhverfi skyldi ekki verða rænt, svo lengi sem steinn stæði yfir steini í vörðunum, enda hafði Tyrkinn snúið við hið skjótasta.
Um vörðurnar er svo aftur það að segja, að þær voru hið meta þarfaþing. Fyrir utan það að vera ræningjavörn voru þær notaðar sem eyktarmörk frá Húsatóftum og kallaðar Nónvörður. Fyrir austan Ræingjasker kemur smávik inn í Malirnar. Það heitir Olnbogi (í daglegu tali Albogi). Þarna hefir verið skammt stórra höggva á milli með slysin, því í þessu viki strandaði Skúli fógeti hinn 10 apríl 1933. Þarna fórust 17 manns, en 26 var bjargað. Með það slys var eins og allt hneigðist að því, að það yrði sem stórkostlegast, þar sem skipið strandaði fullhlaðið, á strórstarumsfjöru, í brimi og vaxandi austanátt og fjaran eintómir klettar. Skipið lagðist strax á botninn, svo sjórinn féll yfir það eins og sker. Býst ég við, að það muni seint gleymast þeim, sem viðstaddir voru um það leyti sem verið var að skjóta línunni um borð, nálægt háflóði um morguninn. Þá gengu sjóirnir alveg yfir skipið, og hvalbakurinn, þéttsettur mönnum, fór í kaf í löðrið, svo búsist var við á hverri stundi, að eitthvað bilaði og áhöfnin sópaðist í hafið. Það fór þó betur en á horfðist, enda batnaði ástandið fljótlega, þegar fór að falla út. Það þótti rösklega gert af öðrum stýrimanni, Kristni Stefánssyni, og bátsmanni, Guðjóni Marteinssyni, að þegar búið var að bjarga mönnunum, sem voru á hvalbaknum, fóru þeir í stólnum út í skipið aftur, með heitt kaffi til að hressa þá tvo menn, sem allt aðfallið höfðust við í afturmastrinu og urðu að bíða þar, þangað til meira lækkaði í. Menn þeir, sem voru í afturmastrinu, voru fyrsti stýrimaður og einn háseti. Höfðu þeir verið að opna lifrar- eða lýsistunnur, en orðið að flýja frá því upp í mastrið og binda sig þar fasta. Undir fjöruna komast þeir fram á hvalbakinn og voru síðan dregnir í land í björgunarstólnum. Ekki vissi ég til, að komist hefði verið um borð í Skúla fógeta, frá því hann strandaði og þar til hann hvarf alveg í maímánuði næsta á efir.
Fyrir austan Olnboga eru Stekkjarklappir, þá Stekkjarnef – lítill tangi út í sjóinn, og þar fyrir austan Malarendi, og er það austurendinn á Staðarmölum. Þar í Malarendanum strandaði í ársbyrjun 1924 þýskur togari, Schluttup að nafni. Þetta var allra rólegasta strand. Skipið lenti um háflóð upp á kampinn, svo ekki voru meira en ca. 15-20 m út í dallinn. Skipshöfnin henti kastlínu í land, og á kaðli handlangaði sig einn lipur drengur í land; hinir biðu svo, þangað til féll út, og gátu þá gengið þurrum fótum í land. Skipstjórinn var mjög feitur og þótti víst óefnilegt að feta sig upp í hála fjöruna, svo það var tekið til ráðs að leggja planka úr dallinum eftirfjörunn handa skipstjóra að ganga eftir.
Skipshöfnin var flutt samdægurs til Reykjavíkur og skipstjóri fór fyrir sjórétt í Hafnarfirði hjá Magnúsi Jónssyni sem þá var sýslumaður Gullbringusýslu, Magnús sagði, að skipstjórinn hefði í réttinum mikið lofað Grindvíkinga fyrir þá dirfsku og dugnað, sem þeir hefðu sýnt við björgunina. „Margur fær af litlu lof og last fyrir ekki parið“. Þá var það og við þetta strand, að mikil vinna var við að bjarga úr skipinu. Allt, sem einhvers virði var, var losað og flutt upp á græn grös og geymt fram á næsta sumar, að það var flutt sjóleiðis til Reykjavíkur. En skipsskrókkurinn sjálfur lá eftir í malarendanum, en veltist svo um allar fjörur, þannig, að hann færðist alltaf til í hverju stórflóði, sem gerði til ársins 1938 eða 30, að hann var rifinn sundur og seldur sem brotajárn til Englands.
Fyrir innan Malarendann heitir Fæðikrókur, þá Móakotssandur, Staðarból, Brunnklettur og Kvíadalssandur. Fyrir austan Kvíadalssand kemur Skítaklettur, þá Litla-Gerðisfjara og Stóra-Klöpp; hún er framan við túngarðinn, á móti þar sem bærinn í Stóra-Gerði stóð. Framundan Stóru-Klöpp, nokkuð úti í sjónum, sér skerstand með lágum sjó. Það heitir Skuggi. Austan við STóru-Klöpp tekur við Gerðismölin, þar út af Gerðistangar; innan undir henni að innanverðu er Kasalón. Á árunum 1880-90 hafði frönsk skúta siglt í góðu veðri upp á Gerðismölina – eða í Kasalónskjaftinn, að sagt var vegna leka. Engar sagnir veit í sérstakar um það strand, aðrar en að gamalt fólk í Staðarhverfinu taldi, að klukka sú, sem nú er í sáluhliðinu í Staðarkirkjugarði, væri skipsbjalla úr því skipi. Að innanverðu við Kasalónið er Staðarklöpp. Að norðanverðu í Staðarklöpp eru tvær varir, ar sem skip lentu að losa aflann; hétu Skökk og Litla-Vör.
Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var þá undir því moldarjarðvegur, ca. 2 m. á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber. Innan undir Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir í land. Utan við Staðarklöpp er lítil klöpp, Vatnstangi, slétt að ofan og í henni miðri stendur járnbolti, ferkantaður, ca. 6″ á kant og með ca. 4″ gati í uppendanum. Utan um boltann hefir verið rennt blýi. Bolti þessi er talinn vera frá Kóngsverslunar-tímanum, þegar skipin voru, sem kallað var, svínbundin. Innan við Staðarvörina er Bjarnasandur. Þá koma Hvirflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta, og tekur þá við Húsatóftaland. Í Hvirflum, rétt norðan við landamerkin, var árið 1933 byggð bátabryggja fyrir Staðarhverfið. Þá kemur Búðarsandur, og er þar talið að verslunarhús kóngsverlsunarinnar hafi staðið. Frá þeim tímum er og fleira þarna af örnefnum. Í Búðasandinum man að við krakkarnir fundum múrsteina, sérstaklega eftir stór flóð, allt til ársins 1910. Fyrir austan Búðarsand er stórt skerjasvæði eða tangi út í víkina, sem heitir einu nafni „Garðafjara“, en í henni eru nokkur örnefni. Uppi í sandinum er fyrst Búðarsandsklöpp; utar er svo Kóngsklöpp, þá Kóngshella og utast á tanganum heitir Barlest eða Ballest; þar hafði hinn bindisboltinn verið, móti þeim, sem áður er getið utan undir Staðarklöppinni. Sá bolti hafði verið losaður og fluttur heim að Húsatóftum og hafður fyrir „hestastein“. Kóngsverslunin eða hús hennar eru talin hafa farið í sjó og verslunin lagst niður í hinu svo nefnda Básendaflóði 1799, en ekki veit ég til, að þess sé getið í annálum. Hæsta klöppin í Garðafjörunni heitir Tóftaklöpp; þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóftum, en þau voru farin fyrir síðustu aldarmót og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Að norðanverðu í Garðafjöru eru tvö sker með nafni, Selsker og út af því Bryggjan.
Í prestskapartíð séra Kristjáns Eldjárns á Stað, frá 1871-1878, vildi það til í góðu veðri, að fólk, sem var við heyvinnu ofarlega á Húsatóftatúninu, tók eftir svartri þúst út við sjóndeildarhring, s.a. í hafi. Þústa þessi sýndíst alltarf vera að breyta um lögun, verða stærri eða minni um sig í sífellu, fljótlega skýrðist hún, virtist fara nokkuð hratt og stefna beint til lands.
Þegar upp undir landið kom, þóttist fólkið sjá, að hér væru höfrungar á ferðinni, en því sýndist og, að einhver stór skepna væru þarna á ferðinni, sem höfrungarnir eltu og berðu á. Hópverð þessi hélt beinustu leið til lands og stoppaði ekki fyrr en uppi í Garðfjöru að innanverðu. Þarna reyndist stór steypireyður að vera á ferðinni að flýja undan höfrungunum; hún hafði nokkuð verið rifin og tætt eftir höfrunguna, sérstaklega á hausnum.
Flestir sem rólfærir voru í Staðarhverfinu, höfðu verið komnir á fjöruna, þar sem hvalurinn lenti, og þar á meðal séra Kristján Eldjárn. Hann hafði átt „korða“, og strax og hvalurinn var „landfastur“ hafði prestur lagt hann undir bægslið öðrum megin. Í þennan tíma þótti það merkur atburður, þegar hvalreki varð, gilti mikinn mat, sem venjulega var of lítið til af. En þarna var sagt að hefði farið eins og fyrri daginn, þegar átti að fara að skipta verðmætunum, því eitthvert ósætti hafði orðið milli prestsins og jarðeigandans, út úr því, hvað stóran hlut prestur skyldi fá fyrir sverðlagið í hvalinn. Jarðeigandinn hafði talið það óþarfa, því hvalurinn hefði drepist án hans.
Það gamla fólk, sem sagði mér þessa sögu, vissi ekki hvernig hvalskiptin höfðu orðið endanlega, en taldi, að þetta ósætti hefði flýtt fyrir því, að séra Kristján sótti frá Stað nokkru síðar.
Norður af Garðafjöru er Tóftarvikið. Þar er ægisandur, og var þar mikið grafið eftir fjörumaðki til beitu. Þá taka við „Þvottaklappir“. Á lágum sjó er þar mikið vatnsrennsli niður fjöruna, og þangað var farið með þvott frá Húsatóftum og hann skolaður þar, kallað „að fara í Vötnin“. Þá tekur við Vatnslón, eiginlega tvö sandvik, sem skiptast af klappabelti, kallað Vatnslónsklappir. Milli Vatnslónsklappa og Garðafjöru þvert fyrir Tóftavikinu eru tvö sker, sem heita Flæðiklettar. Þar varð í alla stórstrauma að líta eftir að sauðfé færi ekki út í, því venjulega hafði það ekki af að synda til lands; drapst á leiðinni.
Árið 1896 eða 97 bar það við, að þarna á Flæðaklettinum innri sást ein ferleg skepna, sem reyndist vera rostungur. Til atlögu við rostunginn lagði bóndinn á Húsatóftum, sem þá var Helgi Þóraðarson, vopnaður byssu (framhlaðning) og hafði af að drepa hann með henni. Ekki hafði þótt mikið varið í kjötið af rostungnum, bæði lítið og seigt; þótti vera mjög horaður, hefir sennilega verið kominn verulega frá sínu umhverfi og lifnaðarháttum. Hins vegar höfðu tennurnar þótt dýrgripir miklir, og húðin hafði öll verið notuð í reipi og þótt góð til þeirra hluta, sérstaklega að þau hörnuðu minna í þurrkum en önur ólarreipi, sem kölluð voru.
Í kringum 1890 sigldi frönsk skúta, „Fransari“, inn á milli Flæðiklettana og strandaði þar. Þetta hafði verið í austan golu, en sæmilegu veðri. Nafn þess var „Bris“. Mikill matur, línur og kaðlar hljíta að hafa verið í þessum skipum, sem áttu að halda úti marga mánuði samfleytt, með 30-40 manna áhöfn, enda töldu strandbyggjarnir slík strönd með stórhöppum, þegar þau lentu á kyrrum og góðum stöðum, þar sem ekkert fór til spillis, en öllu var hægt að bjarga. Þarna höfðu og unnið við björgunina allflestir rólfærir karlmenn, sem þá hafa verið margir í Grindavík, þar sem þetta var seinni part vertíðar. Allt var borið á bakinu og hægt að komast að skipshliðinni á lágum sjó, en langt þurfti að vaða og höfðu flestir verið í skinnbrókum, sem voru þeirra tíma hlífðarföt. Ekki heyrði ég gamla menn segja sérstakar sögur um þessi verðmæti.
En um borð í „Frönsurunum“ var líka kóníak og um það heyrði ég gamla menn tala og segja sögur af með lifandi áhuga. Aðal sögnin var það, að þegar verið var að bjarga koníakstunnunum, vildi það óhapp til, að annar botninn bilaði í einni tunnunni, svo mikið að rétt þegar hún var komin undan sjó, fór hann alveg. egar svo var komið, hafði þótt eðlilegast að karlarnir fengi hressingu, og tóku víst margir hraustlega til drykkjarins. En þrátt fyrir að flestir drukku sem þeir gátu, var enn eftir í tunnunni. Þá var ekki siður, að menn hefðu með sér kaffi eða aðra drykki til vinnu og því voru engin ílátin til nú þegar vökvunin bauðst. En ekki voru menn ráðalausir, því þá var gripið til brókanna og kóníakið látið í brókarskálm og þannig bjargað úr tunninni. Leiðin austur í hverfi, Járngerðar- og Þórkötlustaða, hafði sóst seint hjá mörgum með hinn dýrmæta dropa, og voru margar sagnir um það sem ég kann ekki að segja í einstökum atriðum. En margir höfðu lagt sig á leiðinni og nokkrir ekki náð heim fyrr en næsta dag.
Sérstaklega man ég eftir Þorgeir Björnssyni frá Staðarhverfi. Það var léttlyndur karl, sem virtist ekki taka lífið mjög alvarlega. Hann kunni margar sögur um Brisstrandið og talaði um það sem mestu óhamingju lífs síns, að nokkrum dögum áður en hún strandaði, hafði hann lagst í lungnabólgu, legið fram yfir alla björgun og þannig orðið af öllu koníakinu.
Austan við Vatnslónið kemur Vörðunestanginn. Frá Hvirflum og austur að Vörðunestaknfa eru sendnir grasbakkar, fyrir neðan Húsatóftir, það heitir Arfadalur, daglega kallaður „Dalur“. En víkin öll, milli Vörðunestanga og Gerðistanga, hét Arfadalsvík, nú venjulega kölluð Staðarvík, leiðina inn í víkina, „sundið“, hefi ég heyrt kalla annað en Staðarsund.
Austan við Vörðunestangann er sjálft Vörðunesið. Þá taka við „Karfabásar“ og austan við þá Jónsbásaklettar. Þar varð það slys árið 1902, snemma í janúarmánuði, að enskur togari strandaði og fórust allir, sem á honum vour, 11 manns. Þetta strand átti að heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Alnaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem hefir verið hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði. Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. var grunur á að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið u verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, að hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki löngu seinna, og fyrir tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirðinum. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu ferð hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.
Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna….
Sjá framhald.
Heimild:
-Guðsteinn Einarsson: Frá Valahnúk til Seljabótar – Frá Suðurnesjum 1960, bls. 9-52.
Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.