Tag Archive for: Mælifellsgreni

Húshólmi

Gengið var inn í Ögmundarhraun neðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Þar liggur gata niður í gegnum slétta hraunlænu milli úfinna apalhryggja, alveg niður í Húshólma. Tvö stutt höft eru á stígnum þar sem fara þarf í gegnum úfið hraun. Ætlunin var að skoða Mælifellsgrenin, grenjaskyttubyrgin, arnarhreiðrið í Ögmundarhrauni og garðlag, sem nýlega var komið auga á inni í Húshólma.

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi. Það er vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, en er þó af öðrum toga spunnið. Það nær vestur undir Ísólfsskála; Skollahraun, stundum nefnt Höfðahraun, því það rann úr gígnum Höfða (2000-3000 ára gamalt). Annað hraunlag rann úr Moshól þar skammt austar. Ögmundarhraun er runnið 1151 frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Það er úfið á köflum, en þó má finna í því mjög aðgengilegar lænur, sem auðvelt er að fylgja um hraunið. Grámosinn (gamburmosinn) er ráðandi í hrauninu. Sumsstaðar er hann svo þykkur að það getur verið erfiðleikum háð fyrir óvana að ösla hann upp á leggi. Þess vegna koma hinir gömlu stígar í góðar þarfir.
Mælifellsgrenin eru á tveimur stöðum; efra og neðra. Við efri grenin er hlaðið byrgi fyrir refaskyttuna. Varða er skammt austan við grenin og önnur enn austar. Milli hennar og lítillar vörðu á austustu hraunbrúninni ofan við stórt gróið gerði í hraunkantinum er hálffallin varða. Gróinn stígur liggur frá brúninni yfir að grenjunum. Við neðri grenin eru fleiri byrgi, en minni. Þar er einnig áberandi varða. Grenin eru í nokkuð sléttu helluhrauni.
Haldið var áfram niður stíginn uns komið var að fornu arnarvarpi; Arnarþúfu. Hreiðrið, sem er gróið, stendur á háum ílöngum hraunhól. Frá því hefur verið gott útsýni yfir svo til allt hraunið milli Lats og Borgarhóls. A.m.k. fimm þekkt arnarvörp eru þekkt á Reykjanesi. Líklegt má telja að örninn leiti í þau á ný ef og þegar hann snýr aftur á Reykjanesskagann.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.

Þegar komið var niður hraunbrúnirnar ofan við Húshólma virtist stígurinn hverfa framundan, en hann beygir í um 90° til austurs, yfir hraunhaft og inn í lítinn gróinn hólma ofan við Húshólma. Úr hinum liggur gróinn stígur inn í norðvestanverðan hólmann.
Kíkt var á garðana stóru í Húshólma og reynt að meta afstöðu þeirra hvort til annars. Þá var syðri garðinum fylgt til suðausturs. Út frá honum til austurs liggur garður í stóran sveig upp í hólmann. Gróðureyðingin í hólmanum hefur skemmt hann að hluta og svo virðist sem hún sæki enn freklegar að því sem eftir er.
Sjá má móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Þá er hann enn gróinn á kafla. Garður þessi liggur í sveig upp í hólmann, til norðurs og beygir síðan til norðvesturs, að efri garðinum, sem þar kemur undan hrauninu að vestanverðu. Þarna er kominn garðurinn, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, dró á uppdrátt sinn og birti í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1901. Brynjúlfur dró garðinn syðst í gegnum þann syðri, en allt bendir til þess að garðurinn hafi einungis legið að honum. Þarna hefur verið að ræða nokkuð mikla hleðslu á kafla, þ.e. næst hinni gömlu strönd, en ofar hefur garðurinn að mestu verið úr torfi. Hann hverfur að hluta norðaustast í hólmanum þar sem gróðureyðingin er mest á milli gróðurtorfa og b

endir það einkum til þess að þar hafi garðurinn verið að langmestu leyti úr torfi.

Húshólmastígur

Gatan frá Mælifelli í Húshólma.

Nú loksins hefur skapast grundvöllur til að ljúka uppdráttardrögum af minjasvæðinu í og við Húshólma. Uppdrátturinn mun birtast í væntanlegum bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Húshólma, sögu hans og minjum.
Húshólminn var gaumgæfður enn frekar. Ljóst er að í honum kunna enn að leynast ófundnar minjar. Mikilvægt er að fara yfir hann vel og vandlega með tilliti til þessa. Vel á minnst; þjófurinn sem tók stunguskólfuna með sér úr hólmanum nú í vor losnar vonandi ekki við hikstann.
Mosahraunssvæðið norðvestan við Húshólma var skoðað. Stígur liggur inn í hringlaga slétt mosavaxið svæði, en óvíst er hvort eða til hvers það mun hafa verið notað. Upp frá því liggur gata norður í hraunið, áleiðis að fyrrnefndu götunni í gegnum slétt hraunið ofantil.

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Ögmundarhraun er ekki gersneytt dýralífi þótt rollan hafi fært sig inn í afmarkað beitarhólf austan þess. Talsvert var af rjúpu í hrauninu og skolli var heldur ekki langt undan.
Gengið var upp hraunið vestan Húshólma með Krýsuvíkur-Mælifell í forgrunni. Kíkt var aftur á arnarhreiðrið forna og komið aftur við í neðri Mælifellsgrenjunum, svona til að kanna með hugsanleg afdrep grenjaskyttunnar. Þar við eru nokkrir reglulegir skútar og ekki er ólíklegt að þar hafi menn getað hvílst á með á yfirlegunni stóð.
Þegar gengið er um svæði sem að framan greinir og skoðaðir eru tilgreindir staðir er ekki laust við að viðkomandi fyllist stolti og ánægju yfir því að hafa vilja til og getu að komast þangað. Allt of margir eru því marki brenndir að sitja heima, reykja sínar sigarrettur, drekka sitt kaffi og hafa ekki dug í sér til að komast spönn frá rassi – nema kannski í bíl.
Á forleiðinni hafði Krýsuvíkurréttin undir sunnanverðu Bæjarfelli verið skoðuð, en í bakaleiðinni var komið við í Méltunnuklifi og Festarfjall barið augum frá Hraunssandi.

 

/https://ferlir.is/ogmundarhraun-brunavordur-stigur-husholmi-minjar/

Húshólmi

Ætlunin var að finna og skoða Mælifellsgrenin og Arnarsetursgrenin í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður með austurkanti Ögmundarhrauns uns komið var að grónu gerði utan í hraunkantinum. Uppi á hraunbrúninni skammt sunnar er há varða. Frá henni liggur stígur vestur í mosahraunið, að stórri vörðu, sem þar er. Þegar komið var að þeirri vörðu var aðara að sjá skammt vestar. Við hana eru Mælifellsgrenin, þrjú að tölu. Við eitt þeirra er hlaðið u.þ.b. metershár veggur fyrir lítinn skúta. Þar er greinilegt bæli refskyttu. Einnig mátti sjá aðrar hleðslur við grenin. Til suðvesturs liggur óljós stígur niður í hraunið. Eftir u.þ.b. kílómeter var komið að Arnarsetursgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur, en minni. Frá þessu greni mátti sjá Brúnavörðurnar í suðvestri, en handan þeirra eru Miðrekagrenin. Ekki var farið í þau að þessu sinni.
Annars er Ögmundarhraun ágætt dæmi um nútímahraun.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Frábært veður – og ágætur síðdegisgöngutúr (1 klst og 11 mín).

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.