Hraunssel

Farið var yfir Höskuldarvelli, að Sogagíg utan í vestanverðri Trölladyngju og litið á selin og önnur mannvirki þar. Síðan var haldið inn á Selsvellina og staðnæmst við Selsvallaselin eldri sunnan á vestanverðum völlunum.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Eftir að hafa skoðað tóttirnar tvær undir hálsinum uppgötvaðist þriðja tóttin, greinilega sú elsta þeirra, skammt neðar, nær völlunum. Tóttir þessarra eru því a.m.k. 3 talsins. Þá voru Selsvallaselin yngri norðan í vestanverðum völlunum skoðuð, bæði stekkirnir tveir við þrjár tóttir seljanna sem og hlaðinn stekkur norðan við hraunhólana. Hraunhólinn, sem miðselið stendur utan í, er holur að innan, gat er austan í honum og hefur hann greinilega verið notaður sem skjól. Norðvestan við hólinn liggur selsstígur yfir hraunið og áfram að norðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Selsvallaselin voru útgerð frá Grindavíkurbændum.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Haldið var að Hraunsseli neðan við Þrengslin. Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóttana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra (332), en þau undir hlíðinni nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells.

Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914. Haldið var norður fyrir Fellið og síðan til vesturs norðan þess, niður með austanverðum Merardalahlíðum og áfram niður með Einihlíðum vestan Sandfells. Þessi leið er mjög auðfarin, melar og móar.

Hraunssel

Í Hraunsseli.

Þegar komið var langleiðina niður að Bratthálsi var vent til norðurs upp Lyngbrekkur og upp að gili, sem aðskilur þær frá Langahrygg. Þar niðri í því og upp með hlíðum Langahryggs liggja leifar flaks amerískrar flugvélar er fórst þar á stríðsárunum. Einn hreyfillinn liggur með öðru dóti í gilinu. Annað, þ.e.a.s. það sem ekki var fjarlægt á sínum tíma, er dreift um hlíðina og upp á hryggnum. Frá Lyngbrekku var haldið niður að gömlu þjóðleiðinni er lá þarna um Drykkjarsteinsdal, austur að Méltunnuklifi og áfram austur. Leiðin er þarna mjög greinileg og óspillt. Loks var haldið vestur með Slögu, niður í Drykkjarsteinsdal, Drykkjarsteininn skoðaður, en skálar hans voru skráþurrar aldrei þessu vant, og ferðin enduð á Ísólfsskálavegi.
Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

Ródólfstaðir

“Sælir FERLIRsfélagar,
ég var að kíkja inn á ferlir.is og sá færsluna um Ródólfsstaði. Mér fannst alveg magnað að lesa þetta og get bætt aðeins við þetta.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ég var aldrei fyllilega sáttur við staðsetninguna undir Efri-Rótólfsstaðahæð/Rana og þótt einhver kolalög hefðu komið í ljós fór ég að hallast að því að þetta væru kolagrafir en ekki byggingaleifar. Svæðið undarlegt að byggja á og ég skildi ekki hvernig Brynjúlfur hafi getað séð túngarð á staðnum. Ég hef litið á loftmyndir af svæðinu endrum og sinnum síðan þá og nú síðast í miðjum mars seinastliðnum tók ég eftir staðnum umrædda 600 metrum suðvestar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ég gekk að þessum stað kvöldið 22. maí. Þetta var degi eftir að Gunnar Valdimarsson gerði sér ferð á staðinn og ég get staðfest að á þessum dögum var frekar hvasst. Hvílík tilviljun að tveir einstaklingar — með sama nafn — hafi gengið að þessu með eins dags millibili! Og að sama skapi gleðilegt og algjörlega frábært að fólk hafi áhuga á þessu. Það var veðurgluggi um kl 22 til að fljúga yfir svæðið og ég náði að myndmæla það, útbúa hæðalíkan sem og samsetta loftmynd. Síðan þá hef ég legið á þessu og melt en þegar þú skrifaðir um Mjóaness-selið um daginn áttaði ég mig á að þetta þurfi auðvitað að tilkynna og var byrjaður að skrifa stutta lýsingu til að senda á Minjastofnun. Ég sendi þér textann hér fyrir neðan og einnig nokkrar myndir í viðhengi. Þarna er loftmynd, hæðalíkan, frumtúlkun frá 24. maí og staðsetning Ródólfsstaða + nærliggjandi selja út frá leiðum og slóðum (ég hef teiknað skipulega upp allar leiðir á Þingvallasvæðinu). Svo er nýrri túlkun hjá mér, nokkuð svipuð en ég hef tekið sumt út og bætt öðru inn.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Við Gunnar nafni minn Valdimarsson höfum túlkað þetta mjög svipað í grundvallaratriðum og það er hughreistandi, enda erfitt að greina á milli rofbletta og eiginlegra minja á þessum slóðum. Vatnsbólið er reyndar um 50 m vestan túngarðsins. Þetta rímar við Mjóaness-selið og Hamrasel og ég velti fyrir mér hvort þetta sé gömul selstaða frá Mjóaness- og/eða Miðfellsbændum. Auðvitað getur þetta líka hafa verið býli, sbr. nafnið en maður verður ekki var við mikla húsakosti þarna. Mér finnst áhugaverðast að hugsa um þessi garðlög, bæði m.t.t. aldurs og svo er líkt og það séu tveir garðar þarna, annar ferhyrndur og hinn hringlaga. Og að þeir skarist jafnvel á?! Hvað ætli þetta segi okkur svo um sögu náttúrunnar. Var nægur hvati að hafa einn fjárhelli eða er þetta kannski minnisvarði um horfna skóga fornaldar. Svo er spurningin um “Bæjarstæði” úr sóknarlýsingunni 1840 — ef það hefur yfir höfuð verið til, þá er kannski spurning hvort það sé undir hæðinni 600 m norðaustar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ródólfsstaðir eru staðsettir um 1300 metra norðaustur af Miðfellsfjalli, sunnan undir lágum, mosavöxnum grjótbala. Greinileg leið liggur frá staðnum suðvestur í átt að Miðfelli og virðist halda áfram alla leið til Mjóaness. Önnur leið liggur framhjá Ródólfsstöðum metð stefnu NV-SA milli Gjábakka/Arnarfells og Grímsness. Útlit svæðisins kemur hér um bil heim við lýsingu Brynjúlfs Jónssonar árið 1905. Óglöggar rústir (1) eru norðan við áðurnefnda leið, nokkuð litlar eða um 10 m á lengd og þeim svipar frekar til selstöðu en eiginlegs fornbýlis. Um 20 metrum sunnar eru tveir hellar (5) hlið við hlið og hafa líklega verið fjárhellar.

Mjóanessel

Mjóanessel.

Þetta byggðamynstur rímar við nærliggjandi sel Mjóaness við Selshelli 1,5 km norðvestar og Hamrasel + Hamraselshelli 2,2 km austar. Aftur á móti eru Ródólfsstaðir frábrugðnir seljunum að því leyti að hér er stórt garðlag (2-4) upp við rústirnar (1) líkt og túngarður, um 100 x 50 metrar að flatarmáli. Garðlögin eru mjög fornleg útlits og líkur eru á að þau séu frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Mögulega hefur garðurinn upprunalega verið ferhyrndur, um 50 x 50 m að stærð, en síðar færður út til vesturs. Um 100 metrum norðvestan rústanna (1) er djúpt brunnstæði (6).

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Fleiri hugsanlegar minjar gætu leynst á Ródólfsstöðum en frekari rannsókna er þörf til að meta eðli þeirra. Eru það tvær dældir, ein (7) austarlega í „túninu“ og önnur (8) um 50 m austan „túngarðsins,“ hvorar tveggja möguleg brunnstæði. Nokkrar þústir (9-12) innan „túnsins“ minna á forn mannvirki og enn aðrar (13-15) skammt utan þess. Svæðið er þó afar illa farið, traðkað og uppblásið og því geta ýmsið rofblettir minnt á fornar byggingar. Því þyrfti helst að staðfesta mögulega minjastaði með kjarnaborun.
1. Tóft, um 10 x 6 m að utanmáli, snýr hér um bil N-S. Veggir hennar hafa breitt vel úr sér og eru um 2.5 m að þykkt. Hleðslusteinar eru áþreifanlegir skammt undir sverði. Tóftin er reist upp við garðlag (2) og er inngangur á suðurgafli í átt að fjárhelli (5), sem er um 20 m sunnar. Mannvirkjabrot eru sjáanleg við austurgafl tóftarinnar; líklega eru þau hluti af túngarðinum en e.t.v. gætu hér einnig verið leifar annarrar tóftar. Vel má vera að þetta séu leifar fornrar selstöðu og tengist fjárhellinum. Þetta er líklega tóftin/tóftirnar sem Brynjúlfur getur um árið 1905.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – garður.

2. Mjög fornlegt garðlag eða túngarður, mikið fallnir og um 2-3 m á breidd. Vegghæð er 20-30 cm. Austurhelmingur garðsins er greinilegri en hann virðist nær ferhyrndur, að SV-horninu undanskildu þar sem hann liggur upp við tóft (1). Ekki er endilega víst að garðurinn sé samtíma tóftinni. Garðlagið heldur áfram vestan við tóftina og liggur í sveig þar til hann fjarar út.

Ródólfsstaðir

Ródólfssstaðir – garðlag.

3. Mjög ógreinilegar útlínur sem minna á garðlag. Nánari athugana er þörf til að meta hvort um er að ræða fornleifar. Mögulega hefur upprunalegi túngarðurinn verið um 50 x 50 m, en síðar stækkaður til vesturs (um 100 x 50 m) og þessi hluti túngarðsins rifinn. Fleiri ógreinileg mynstur samsíða þessum má greina örfáum metrum austan þessara útlína en þau voru ekki teiknuð upp.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – fjárhellir.

4. Hugsanleg norðurhlið garðlags (2). Frekari athugana er þörf til að meta hvort garðurinn hafi legið hér yfir höfuð en hér er hann teiknaður með góðum vilja.
5. Jarðfall með tveimur hellum, sem hafa líklega verið nýttir sem fjárhellar. Illa farin grjóthleðsla er á milli hellanna, sem eru um 7 m djúpir og lágir til lofts. Nokkuð af kindabeinum í þeim vestari, líklega frá síðari tímum.
6. Ríflega tveggja metra djúp dæld um 50 m vestan garðlags (2) sem hefur verið brunnstæði.

Ródólfsstaður

Ródólfsstaðir.

7. Gróin dæld, um 40 cm djúp og ríflega 1.5 m í þvermál. Ekki er útilokað að hún sé leifar brunnstæðis eða einhvers konar mannvirkis en þyrfti að athuga nánar á vettvangi.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

8. Rétthyrnd dæld um 50 m austan garðlags (1), 4 x 5 m að flatarmáli og um 1 m djúp. Mögulega hefur hér verið annað brunnstæði en athuga þyrfti það nánar á vettvangi.
9. Ógreinileg ferhyrnd þúst, 9 x 7 m að utanmáli. Líklega er þetta til komið vegna landrofs en athuga mætti þústina nánar. Ef þetta er mannvirki gæti þetta verið stekkur og tengt tóft (1).

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

10. Lág, gróin dæld, um 30-40 cm djúp og lítill kantur umhverfis hana, um 10×10 m að flatarmáli, staðsett í SA-horni túns. Athuga mætti þennan grasblett betur og athuga hvort hér hafi mannvirki staðið.
11. Rétthyrnd upphækkun í norðanverðu túni, um 11 x 7 m að flatarmáli og um 45 cm há. Hún er nokkuð grýtt og mosavaxin að innan og gæti verið náttúrufyrirbæri. Útlitið minnir þó mjög á húsarúst og ráðlagt væri að athuga fyrirbærið nánar. Það finnst fyrir grjóti í ‘veggjum’ þegar gengið er ofan á fyrirbærinu.
12. Lágur kantur, um 8 x 7 m að flatarmáli. Líklega er þetta einungis rof en athuga mætti fyrirbærið nánar og hvort hér hafi verið mannvirki.
13. Lítil nibba rétt norðan túngarðs, þarna er virkt rof og einhverjir steinar að koma í ljós. Ekki er þó víst að þeir teljist til fornleifa.
14. Mjög dauf upphækkun og litabreytingar á gróðri, 10 x 6 m að flatarmáli, rétt vestan túngarðs (2). Ekki er þó víst að það sé vegna fornleifa.
15. Afar ógreinileg upphækkun, 8 x 4.5 m að flatarmáli, líklegast náttúrulegt en mætti athuga nánar á vettvangi.
Ég hlakka til að heyra frá þinni ferð á staðinn og hvort eitthvað nýtt komi í ljós.”

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – minjar.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905 – Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 46-47, segir um Rótólfsstaði: “Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhorníð vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Eódólfsstaðir (o: Róðólfsstaðirj. Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum eu Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg
eg að t í Róíólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.”
Brynjúlfur virðist meira upptekinn að sagnfræðilegum heimildum minjanna en þeim sjálfum.

Þegar meintar minjar Rótólfsstaða eru skoðaðar af FERLIRsfólki mátti sjá þar ummerki garða og fleiri fornra minja. Fjárskjólið tvískipta sunnan garða bar með sér augljósar tvískiptar steinhleðslur. Eystri hlutinn hefur væntanlega verið nýttur sem búr. Vestari hlutinn hefur verið nýttur sem fjárskjól, a.m.k. um tíma.

Tvískiptir veggir umhverfis minjasvæðið virðast augljósir. Innan í ofanverðum eystri hluta þeirra virðast vera minjaleifar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

Ofan minjasvæðisins er varða, sem hefur verið breytt í smalaskjól. Sunnan þess er mosagróinn stekkur (ofan garðs). Þaðan að sjá er augljós þvergarður niður að fyrrum selstöðu (ofan fjárhellisins). Þar mótar fyrir þremur rýmum; dæmigerðum selstöðum á þessu landssvæði sem slíkum. Að öllum líkindum hefur selstaðan verið nýtt þarna um tíma, bæði eftir að “bærinn” lagðist af og löngu áður en selstöður lögðust af á þessu svæði (sbr. Mjóanessel þarna skammt vestar), líkt og Hamraselið þarna skammt austar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hamrasel

Í Örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar frá Hrauntúni (birtist m.a. í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1932) er fjallað um Miðfellshraun og Miðfellsfjall [Miðfell]. Þar segir m.a.: “Miðfellshraun takmarkast af Miðfellsfjalli að norðvestan, Þingvallavatni að vestan og suðvestan, Kaldárhöfða að sunnan og Lyngdalsheiði að austan; að norðan hallar upp að Hrafnabjargahálsi, og eru takmörk þar víðast óglögg, enda mun hraunið að mestu ættað þaðan.

Hamrasel

Hamrasel – Hamrselshæðir.

Þar austur af eru Hamraselshæðir. Ná þær jafnlangt upp og Bringur, og niður að Stóra-Karhrauni og austur að Barmahrauni. Austast á hæðum þessum er hellir, og tóftir, er hæðirnar bera nafn af; þar hefir vafaust verið sel. Syðst á hæðum þessum er stór brekka við Stóra-Karhraun, er Grembás heitir.”

Hamrasel

Hamraselshellir

Í framangreindri lýsingu er þess ekki getið að nefnt sel hafi verið frá Miðfelli þrátt fyrir staðsetningu þess í þeirra landareign. Það bendir til þess að selstaðan sé mjög forn.
Í Jarðabókinni 1703 (bls. 360) segir um selstöðu frá Miðfelli í Þingvallasveit: “Selstöðu á jörðin í sjálfrar sinnar landi, en hefur þó ei að nýtingu brúkuð verið. Selstaða hefur eignuð verið Hömrum í Grímsnesi í Miðfellslandi, þar sem heitir Hamrahellir, og eru munnmæli að Miðfells menn hafi hjer fyrir átt hestagöngu á vetur í Hamralandi. Hvorugt þessara ítaka hefur brúkuð verið í manna minnum.”

Hamrasel

Hamraselshellir.

Þegar selstaðan í Hamraseli er skoðuð er ljóst að um mjög forna slíka er að ræða, þrátt fyrir að Hamrahellir hafi löngum verið nýttur sem afdrep fyrir gesti og gangandi, enda ágætt skjól í nálægð við þekktar þjóðleiðir í Lyngdalsheiði.
Ofan við hellisopið er hlaðið skjól refaskyttu. Þaðan er ágætt útsýni yfir neðanverða heiðina. Varða er við hlið skjólsins, efst á hellisbrúninni. Hellishellir er í enda gróinnar hraunrásar er á sér langan aðdraganda. Í hellinum má sjá aflagaðar hleðslur.

Hamrasel

Hamrasel – stekkur.

Framan við hellinn, á austurbarmi hrauntraðarinnar, eru hleðslur, sennilega stekkur. Annar stekkur er skammt vestan við opið, nú að mestu mosagróinn.
Selið hefur að öllum líkindum verið í hvylft suðvestan við hellinn, í skjóli fyrir austanáttinni. Þar má greina brunn og óljósar minjamyndanir, sem verður að þykja ekki ósennilegar í ljósi aldurs hinna meintu selsminja.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1. mín.

Hamrasel

Hamraselshellir.

Vífilsstaðasel

Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum.
Vífilsstaðaselið er austan hans í grónum skjólgóðum Vifilsstadasel - uppdrattur Iog grasi grónum hvammi. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Vífilsstaði segir m.a. um Vífilsstaðasel og nágrenni: “Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða. Þaðan liggur línan um Básinn eða Vatnsendabás austan í Sandahlíð og svo í Arnarbæli syðst í hlíðinni. Það er nefnt í fornu bréfi frá upphafi 16. aldar Arnarstapi. Héðan af Arnarbæli, sem er hornmark, liggur línan niður um Vatnsásinn eða Grunnvatnsás og þaðan upp í Víkurholtsvörðu á Víkurholti eystra. Þá er Víkurholt nyrðra. Hér norðar á holtinu er Vífilsstaðasel. Sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og hér vestur af liggur Selstígurinn. Milli Sandahlíðar að austan og Vífilsstaðahlíðar að vestan, norðan Vatnaássins, liggja Grunnuvötn, tjarnir og grónar grundir. Þar var slægnapláss fyrr meir og mótekja.”
FERLIR rissaði selstöðuna upp á leið sinni um Selholtið fyrir áratug síðan, líkt og sjá má hér. Nú, Vifilsstadasel - uppdrattur IIIþegar komið var í selstöðuna og hún rissuð upp að áratugafenginni reynslu, leit hún mun öðruvísi út, eins og sjá má hér til hliðar. Uppdrættirnir sem slíkur eru því lýsandi dæmi um mismunandi reynslusýn fólks á mannvistarleifar.
Svo virðist sem þarna séu bæði leifar af nýrri og eldri selstöðum. Sú síðarnefnda er undir brekku austan við þá fyrri. Hún er nú mjög óljós og erfitt að átta sig á húsaskipan. Þó virðist hún í samræmi við eldri gerð selja (klasa), óreglulegri og minni rými. Þegar bæjarskipan komst á, eins og við þekkjum hana best frá 19. öld, urðu selstöðurnar (rýmin) bæði stærri og reglulegri. Kví er undir klettavegg sunnan í kvosinni og eldri stekkur ofan og austan hennar. Stekkurinn með nýrri selstöðunni er norðaustan hennar. Vatnsstæðið er í miðri kvosinni vestan selstöðunnar. Nýrri selstaðan er greinilega frá tvíbýli eða tveimur bæjum. Þarna gæti því bæði hafa verið selstaða um tíma frá Vífilsstöðum og Hofsstöðum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

“Vífilsstaðir sem nefndir eru eftir Vífli leysingja Ingólfs Arnarsonar komust í eigu Viðeyjarklausturs, og komust undir Garðakirkju eftir skiðaskiptin nánar tiltekið 1558. Ofan við miðja Vífilsstaðahlíð skammt sunnan við Grunnuvötn er Selás og sunnan ássins eru eru tóftir Vífilsstaðasels í skjólsælum hvammi. Upp af honum er Selhamarinn einnig nefndur Selholt. Selið virðist hafa verið nokkuð stórt, með álíka húsaskipan og víðast hvar tíðkaðist í seljum hér um slóðir. Skammt austan þrískiptra selhúsanna eru tóftir sem gætu verið af stekk og stöðli.”
Frábært veður – Gangan tók 2 kls og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði
-Hraunavinir.is

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selgjá

Gengið var um Selgjá, eða Norðurhellagjá (Norðurhellragjá), eins og hún jafnan var nefnd. Gjáin dró nafn sitt af fjárhellum norðan hennar, en þeir voru jafnan nefndir Norðurhellar (Norðurhellrar).

Selgjárhellir

Selgjárhellir.

Síðar voru þeir aðgreindir og var þá hellir, sem er norðan úr Gjánni nefndur Selgjárhellir og hellar þar skammt vestur af nefndur Sauðahellirinn nyrðri og Sauðahellirinn syðri. Fyrrnefndi hellirinn gekk um tíma einnig undir nafninu Þorsteinshellir frá því að Þorsteinn Þorsteinsson í Kaldárseli nýtti hann um aldarmótin 1900. Sá hellir er fallega hlaðinn niður og tvískiptur.

Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í vestanverðri Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar ver. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana. Selstaða þarna er nefnd í Jarðabók 1703 og virðist skv. henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Í öllum heimildum er talað um selstöðu þarna í þátíð svo hún virðist vera mjög gömul. Stekkir og kvíar, sem voru hlaðnir, sjást greinilega á flestum staðanna.
Eins og kunnug var búsmalinn hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskonan) og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Sniðugur smali kom sér upp nátthaga til að fé hlypi ekki út og suður á meðan hann hallaði sér um stund á annað eyrað.

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Vatn er ekki að finna í Selgjá, en hins vegar er gott vatn í Vatnsgjánni í Búrfellsgjánni, sem er þarna skammt sunnar. Í raun er Selgjáin og Búfellsgjáin hluti af sömu hraunrásinni frá Búrfelli, en vegna misgengis og ris landsins hafa þær aðskilist a.m.k. hvað hæðarmismuninn varðar.

Selgjá

Rjúpur í Selgjá.

Eftir gjánni lá Norðurhellagjástígur austur með gjánni. Við austurbrúnina er steinn með merkinu B. Annar samskonar steinn fannst skammt norðar, en snúa þarf honum við til að kanna hvort á honum er einnig merki. Steinar þessi hafa verið reistir upp á endann og “púkkað” með þeim. Telja má líklegt að þarna geti hafa verið um hestasteina að ræða, en erfitt er um festur þarna annarss staðar. Stígurinn liggur síðan upp úr gjánni sunnan syðstu seljarústanna.
Gengið var eftir Norðurhellagjárstíg suður með austanverðir gjánni og síðan áfram þangað til komið var á móts við syðstu rústirnar að vestanverðu. Gengið var yfir að þeim og m.a. litið inn í fjárhellinn, sem þar er. Í honum eru hleðslur. Bæði norðan hans og austan eru talsverðar hleðslur. Síðan var haldið norður með vestanverðum barminum og endað á upphafsstað. Á leiðinni var alltaf eitthvað sem bar fyrir augu. Hellarnir norðan og vestan gjárinnar voru ekki skoðaðir að þessu sinni, enda stutt síðan litið var á þá.
Gangan tók um 1 og ½ klst.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Eimuból

Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.

Bjarnastaðasel

Í Bjarnastaðaseli.

Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsgerðisseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur og einng sem stekkur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.

Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og krossmarkið í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Á leiðinni bættist tvennt í hópinn. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna bleytu á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið verður orðið frosið í vetur. Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að fara inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar.

Gapi

Gapi.

Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum innanverðum á tveimur stöðum.
Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Ekki var komið við í Gaphelli að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Við opið er hraunhella. Sagan segir að í þennan skúta hafi Selvogsbúar ætlað að flyja ef Tyrkir létu sjá sig. Einnig eru tveir litlir skútar suðvestan af hólnum – Litli Skolli og Stóri Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.

Strandarhellir

Strandarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ródólfsstaðir

Gunnar Valdimarsson sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik um meinta Ródolfsstaði við Ródolfsstaðahæðir. Upplýsingar Gunnars eru mjög áhugaverðar og gefur FERLIRsfélögum ástæðu til að fara aftur á svæðið og skoða það nánar.

“Sæl FERLIRsfólk.

Ródólfsstaðir

Afstaða rústasvæðanna, 1 eru tóttirnar ykkar, 2 gerðið Hringurinn og gerðið á loftmynd á map.is – Gunnar.

Ég heimsæki vefsíðuna ykkar reglulega og hef mikið gaman af. Ég sá að þið voruð að velta fyrir ykkur staðsetningu Rótólfsstaða eða Bótólfsstaða núna nýverið og hef líka litið á umfjöllun Gunnars Grímssonar í verkefninu um byggðaleifar í Þingvallasveit. Ég get vonandi orðið ykkur að liði varðandi þetta.

Um 500-600 m í nokkurn veginn VSV stefnu frá tóttunum sem þið teljið vera undir Rótólfsstaðahæðum suðaustanverðum er annað rústasvæði. Það er vafalaust staðurinn sem Brynjúlfi Jónssyni var bent á þarna á sínum tíma, þ.e. ferhyrningslaga gerði með tótt í norðvesturhorni.

Ródólfsstaðir

Afstaða mannvirkja – Gunnar.

Veggir eru allskýrir og norðurveggurinn mikill og breiður. Til vesturs frá þessum ferhyrningi er annað gerði sambyggt, afmarkað af hringlaga vegg sem virðist tvöfaldur, eins og sá hluti hafi verið stækkaður (eða minnkaður). Í norðvesturhluta ferhyrningsins er húsatótt sem snýr nokkuð á skjön við gerðið og hefur NV-SA stefnu. Þar virðast vera tvö samsíða innrými frá norðri til suðurs og jafnvel það þriðja í norðurendanum, mögulega með dyrum til norðurs. Tótt þessi er öll mosagróin en sæmilega skýr í formi. Rétt suðaustan við hana er niðurgrafin stía með dyrum úr SV-horni. Það er gleggsta tóttin.

Ródolfsstaðir

Afstaða mannvirkja, hús, vatnsból og X, sem gætu verið mannvirkjaleifar við suðurinnvegg ef bjartsýnin er látin ráða – Gunnar.

Í norðausturhorni ferhyrningsins er áberandi trjárunni. Hugsanlega eru einhverjar leifar með norður-suðurstefnu meðfram runnanum að vestan en harla ólíklegt. Eins gætu verið ummerki tveggja stía innan á suðurvegg ferhyrningsins nærri SA-innhorni en óvíst. Það eru mosahaugar og sá vestari líklegri til að hylja eitthvað.

Til suðurs frá ferhyrningnum eru klettar með hellisskútum sem snúa hvor móti öðrum og þar á milli er hlaðinn veggur að sunnanverðu. Vel má vera að þar sé gamalt vatnsból. Í vestari hellinum eru haugar af kindabeinum, ekki mjög gömlum.

Ródolfsstaðir

Séð í vestur eftir ferhyrningnum nær og hringnum fjær. Norðurveggur ferhyrnings til hægri – Gunnar.

Nærri suðvesturhorni ferhyrningsins gæti vel verið tótt sem liggur N-S, annaðhvort tvö samsíða rými eða þá einföld stía byggð saman við túngarð, sem væri þá væntanlega innanverður vesturveggur gerðisins.

Í norðvestur frá ferhyrningnum er mosavaxin slétta eða flötur og þar virðist vera rúst með stefnu austur-vestur og líklegast dyr í austur. Það er grjóthleðsla. Fleiri tóttir gætu leynst á svæðinu en það er erfitt að glíma við þetta umhverfi og ekkert víst í þeim efnum.

Ródolfsstaðir

Hús A og norðurveggur í ferhyrningnum til hægri, horft í vestur – Gunnar.

Ef miðað er við kortið sem fylgir sóknarlýsingunni frá 1840, þá gæti maður ætlað út frá afstöðu að hér sé það sem menn á þeim tíma kölluðu “Bæjarstæði í Hrauni” og tóttirnar ykkar upp við hæðirnar þá Rótólfsstaðir. Þar virðist reyndar vera greinileg tótt með norður-suðurstefnu. En miðað við hve stutt er milli þessara tveggja rústasvæða er líka freistandi að telja þær samstæðar, þ.e. hluta af sömu heild eða býli. Engin augljós íveruhús eru á svæðinu en verið gæti að þau séu uppi á rústasvæðinu ykkar.

Ródólfsstaðir

Hús B til norðurs – Gunnar.

Varðandi þetta má benda á að nokkurn veginn miðja vegu milli þessara tveggja rústasvæða er glompa eða hvilft sem gæti verið vatnsból, virkar svolítið eins og að því sé veggur vestanmegin og gangvegur niður í holuna. Það kann að vera misskilningur en er þó þess virði að á það sé bent.

Þá eru hér nokkrar gagnlegar upplýsingar:

Ferhyrnda gerðið er um 50 m A-V og um 40 m N-S, virðist örlítið breikka til austurs. Veggir eru 2-3 m á þykkt. Hnit á norðurvegg (X).

Ródólfsstaðir

Hús A til suðurs, tóttin í gerðinu (Brynjúlfstótt) – Gunnar.

Tóttin í norðvesturhorni, Brynjúlfstóttin, er um 9 x 7 m. Köllum hana hús A. Krærnar, eða rýmin, gætu hafa verið 120 cm breiðar, sem er eðlilegt miðað við fjárhús og um 5-6 m langar. Veggir um 180-200 cm breiðir nema að norðan, þar sem veggur er 150 cm. Grjót sést á stöku stað í millivegg. Hnit (X).

Niðurgrafna stían, hús B, liggur A-V á lengdina og er þar um 2 m löng og um 1,5 m á breidd. Dyr, 40 cm breiðar, eru út úr SV-horni meðfram V-innvegg og mögulega stuttur leiðigarður vestan með þeim. Dýpt stíunnar er um 60 cm og veggjaþykkt 80-100 cm. Hnit (X).

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Möguleg tótt við SV-horn ferhyrnings, hús C, er um 5,5 m langt og 2 m breitt. Gætu verið tvö samsíða rými með N-S stefnu en austara rýmið er óvíst.Dyr eru líklega til suðurs og þá um 40 cm breiðar. Grjót er sýnilegt innan í veggjum í innrými hér og þar. Hnit (X).

Tóttin NV við ferhyrninginn uppi í mosanum, hús D, er eitthvað um 6 m löng og 2 m breið. Vesturveggur er um 120 cm þykkur. Fleiri veggjabrot kunna að vera sunnan við suðurvegg.

Ródólfsstaðir

Hringurinn, vesturveggur til S, vatnsból efst á mynd – Gunnar.

Vatnsból og hleðsla sunnan við ferhyrninginn. Klettarnir sjást langt að.

Hringlaga veggur er um 60 m A-V í þvermál í ytri hringnum en um 40 m í þeim innri. Virðist skarast við ferhyrninginn að vestan og er því ekki víst að hringurinn og ferhyrningurinn séu byggðir á sama tíma. Hnit á vesturvegginn er (X).

Mögulegt vatnsból er milli rústasvæðanna.

Mælingar eru grófar ágiskanir og ekki heilagar. Fremur til gamans.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Um myndirnar er það að segja að þær eru teknar í tveimur ferðum á þessu ári, annarri 21. maí og hinni 16. ágúst. Í hinni fyrri varð heldur hvasst fyrri smádróna áður en góður árangur náðist og ekki hægt að ná nægri hæð. Í hinni síðari varð ég fyrir því óláni að missa spaða af drónanum í miðjum klíðum sem leiddi til flugslyss (þó án verulegs tjóns). Því eru yfirlitsmyndir fjærri því að vera eins góðar og ég hefði viljað og þarf að fá þær betri. Þær ættu þó að gefa einhverja hugmynd. Almennt er erfitt að mynda tóttirnar svo vel sé enda svæðið erfitt viðureignar og litir, gróðurfar og yfirbragð tóttanna oftast í engu frábrugðið umhverfinu.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Ég er ekki menntaður fræðimaður. Þið kynnuð því að spyrja hvers vegna ég hafi þetta undir höndum. Ástæðan er sú að ég litaðist um eftir Rótólfsstöðum fyrir allmörgum árum en fann ekkert. Löngu síðar sá ég á síðunni ykkar aðleit stæði yfir og þá ákvað ég að að reyna aftur, mest til gamans og til að fá útivist og hreyfingu. Þá hafði ég eignast dróna og var því vel útbúinn. Eftir að hafa rýnt í loftmyndir þótti mér eins og eitthvað einkennilegt væri á þessum tiltekna stað og svo reyndist líka vera. Auðvitað getur verið að þið hafið vitað af þessu og ef svo er, þá hendið þið bara þessum pósti. Ef þið viljið meira, þá á ég fleiri myndir og upplýsingar. “

FERLIR fékk góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta framangreindan texta.

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Auðnasel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.

Knarrarnessel

Í Knarrarnesseli.

U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Strandarsel

Farið var með Guðmundi Þorsteinssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Hellholtið. Þeir eru kunnugir á svæðinu og ætluðu m.a. að benda á hella og tóttir, sem þeir hafa orðið varir við.

Girðingarrétt

Girðingarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var frá Girðingarréttinni niður á holtið, u.þ.b. 10 mínútna gangur. Byrjað var að líta á fjárhelli utan í vestanverðu Hellholtinu og síðan á hellinn Hafra. Varða er ofan við opið, sem horfir mót norðri. Stór og rúmgóður hellir, en fremur stuttur.
Gengið var vestur að Strandarseli (Staðarsel), sem er sunnan við austanverð Svörtubjörg. Á leiðinni var kíkt í nokur göt. Í einu þeirra vex hár burkni er teygir sig móti sól. Er greinilega búinn að vera þarna lengi. Í öðru voru kindarbein. Þarna er greinilega um sömu rásina að ræða er teygir sig til vesturs frá Hellholti. Önnur sambærileg teygir sig til suðurs. Annars virðist Hellholtið hafa vera dyngja eða þunnfljótandi gígop.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel).

Í Strandarseli eru tóttir tveggja selja. Utan í hól eru stekkir og lambakró suðvestan við hann. Samkv. upplýsingum Þórarins á Vogsósum var þarna um fráfærusel að ræða. Það gæti verið skýringin á því sem síðar kom í ljós. Vestar er hraunhóll. Vestan undir honum er hlaðinn stekkur. Enn vestar er op, Hellholtshellir. Þetta er bæði fallegur og merkilegur hellir. Hann er u.þ.b. 70 metra langur og svo alveg heill. Hann hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, þótt hann hafi verið ákjósanlegur til þess. Í hellinum eru bæði dropasteinar og hraundrýli, auk hraunstráa. Innst í öðrum enda hans er hlaðin fyrirhleðsla.

Strandarsel

Stekkur í Strandarseli.

Sunnar var komið að hleðslur fyrir hellisopi. Greinilegt er að þar hefur verið hlaðið fyrir opið og síðan gangur niður, en þakið fallið að hluta. Inni er fallegasti hraunhellir, víður og hár. Gólfið er slétt. Vel sést hlaðinn niðurhleðslan. Þetta mannvirki er ekki á örnefnaskrá svo vitað sé. Gæti hafa verið forðabúr Staðarsels eða átt að vera athvarf ef tyrkirnir kæmu aftur. Hver veit? Fallegt að minnsta kosti.
Ofan við opið ert ótt, sem ekki heldur er á örnefnaskrá. Enn austar eru enn tvær tóttir, Sunnan við þær er op á fjárhelli. Innan við það er mikil hleðsla. Við suðurenda hellsins er op og ofan þess enn ein hleðslan. Þar hefur greinilega verið gengið niður í þennan fjárhelli. Þarna eru sem sagt á litlu svæði ein tvö sel og sérstakur hellir, sem vert væri að skoða nánar.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Hvaða seltættur eru þarna um að ræða er ekki vitað. Gætu hafa tilheyrt einhverjum Selvogsbæjanna eða jafnvel hjáleigum Strandarkirkju því skv. landamerkjum virðast þau innan lands Strandar. Eða verið eldri sel Strandar því greinilegt er að þessi tvö sel eru mjög gömul, mun eldri en þau sem ofar eru.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp, auk þess sem GPS-punktar voru teknir á sérhverjum stað. Í fjarlægð virðist heiðin auð og tóm. En í nálægð eru þar minjar við hvert fótmál.

Strandarsel

Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Einiber

Ákveðið var að reyna að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.
Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraunssel-22

Hvassahraunssel – stekkur.

Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Hvassahraun segir m.a. um Hvassahraunssel: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hHvassahraunssel-21raunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.
Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings.
Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.
Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krosstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu. Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring.

Urðarás

Urðarás.

Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra. Örn kom fljúgandi úr vestri á leið yfir að Skógarnefi og flaug lágt. Ótrúleg stærð. Hefur líklega komið úr Arnstapahrauni [Afstapahrauni] þarna vestan við.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um Lónakotssel: “Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum.  Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali, klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.” 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvassahraun

Hvassahraunssel

Í Hvassahraunsseli.