Omar

Fáir, ef nokkur núlifandi Grindvíkinga, þekkja sögu samfélagsins, þróun, landamerki og landsgæði bæjarins sem og umhverfi Reykjanesskagans betur en Ómar Smári Ármannsson, hvort sem um er að ræða örnefni, minjar og sögulega staði. Hann ólst upp, á sínum tíma, í gamla útvegsbændasamfélaginu, sem enn á sterkari rætur í grindvísku samfélagi, en marga grunar. Hann fékk þrátt fyrir það tækifæri til að upplifa samtíðina á eigin skinni, með öllum göllum þess og kostum.

-Ertu fæddur Grindvíkingur?

Ómar

Ómar Smári Ármannsson.

Já, ég fæddist í Grindavík, nánar tiltekið í Valhöll í Þórkötlustaðarhverfi og ólst þar upp fyrstu árin, en var síðan fluttur yfir í Járngerðarstaðahverfið. Í uppvextinum í Grindavík var sáð því fræi, sem náði að dafna til lífs.

-Ómar Smári hlýtur að hafa þótt sérstakt samsett nafn árið 1954. Hvernig er það til komið?
Móðir mín ákvað nafnið. Það fékk þó ekki samþykki fyrir því, enda óhefðbundið í þá daga. Það liðu þrjú ár þangað til hún ákvað að ganga með mig til prestsins í Prestshúsum í Grindavík til skírnar.
Presturinn, inni í dimmri stofunni, spurði móður mína hvað drengurinn ætti að heita. Hún svaraði; „Hvers vegna spyrðu hann sjálfan ekki af því.“
Presturinn leit á mig með lítilli tiltrú og spurði: „Hvað viltu heita drengur?“
Ég svaraði feiminn: „Ómar Smári“.
Presturinn virtist hikandi, fletti í skræðum sínum og sagði síðan: „Drengurinn getur ekki heitið Smári. Það er ættarnafn.“
Móðir mín svaraði: „Smári getur ekki verið ættarnafn.“
Presturinn: „Jú, Jakob Smári er með ættarnafn“.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen fremst.

Móðir: „Maðurinn sá heitir kannski Jakob, en hann er sagður „í Smára“. Það getur varla talist ættarnafn. Afi og amma drengsins búa t.d. í Teigi og ekki er það ættarnafn“.
Presturinn: „Ég þarf að hringja suður. Getið þið hinkrað aðeins?“. Hann gekk síðan út úr dimmri stofunni og við sátum þarna eftir í sitt hvorum stólnum móti svörtum krossi yfir altarishillu með kertum á til hvorrar handar. Ég man að kertin voru án loga.
Eftir drjúga stund birtist prestur á ný í stofudyragættinni, leit á okkur mæðgin og upplýsti: „Þetta er í lagi. Smári er ekki ættarnafn.“
Alla tíð síðan hef ég heitið Ómar Smári. Engin athugasemd var gerð við fornafnið enda höfðu einn eða tveir áður verið skírðir því nafni. Í dag heita fjölmargir öðru nafninu eða jafnvel báðum án athugasemda. Maður þurfti snemma að takast á við þjóna hins opinbera.

-Þú lentir undir vörubíl fimm ára?

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Já, það er rétt. Ég lenti undir vörubíl og var varla hugað líf. Slysið var reyndar sjálfum mér að kenna. Eldri bróður mínum og mér datt í hug, í hádeginu einn hversdaginn, að laumast upp í vörubíl, sem faðir okkar ók, en hafði þá skilið eftir ofarlega í aflíðandi brekku á vegi fyrir framan húsið í Sætúni.
Eftir að hafa leikið okkur um stund í vörubílnum, þar sem bróðir minn var bílstjóri og ég farþegi, leit ég á hann og spurði: „Er þetta gírstöngin?“ Hann leit á mig um leið og ég snerti gírstöngina, sem hrökk úr gír. Þegar vörubíllinn byrjaði að renna undan hallanum varð ég verulega hræddur, opnaði farþegahurðina og stökk út. Ekki vildi betur til en svo að féll inn undir bílinn og varð undir hægra afturhjólinu. Bíllinn stöðvaðist sjálfkrafa í U-laga brekkunni skammt neðar.
Móðir mín kom hlaupandi út við óhljóðin, sem fylgdu í kjölfarið, og tók mig í fangið. Stuttu seinna bar þar að Tómas Þorvaldsson á drossíu, en hann var einn fárra, sem áttu slík farartæki í Grindavík á þeim tíma. Mér var skutlað í aftursætið og Tómas ók sem leið lá eftir holóttum Grindarvíkurveginum og bugðóttum Keflavíkurveginum til Reykjavíkur, allt þangað til komið var að Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Þar var ég borinn inn til hjúkrunar. Ég man eftir að hafa misst meðvitund a.m.k. nokkrum sinni á leiðinni.

-Hvernig gekk þér að ná þér eftir bílslysið?

Landsspítali

Landsspítalinn.

Á spítalanum var þetta erfitt. Þar sem ég lá í rúminu var annar fótleggurinn hengdur upp með línu. Í hinum enda hennar, við fótgaflinn, hékk lóð á krók. Þegar ég hreyfði mig féll lóðið af króknum, féll fótleggurinn niður og ég öskraði af kvölum. Hjúkrunarkonurnar brugðust jafnan vel við, hengdu fótlegginn upp á ný og lagfærðu lóðið. Þetta endurtók sig aftur og aftur, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Loks kom að því að ég varð laus við fótakeflið og fékk tækifæri til að stíga fram úr rúminu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir gat ég stigið í fæturnar og jafnvel fetað mig út með rúmgaflinum og aftur til baka.
Eftir að hafa legið u.þ.b. hálft ár margbeinabrotinn á Landspítalanum og þegar heim var komið þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt með aðstoð hækja. Eftir nokkra mánuði gat ég loks gengið óstuddur án þeirra stuðnings og fór fljótlega í framhaldi af því að ganga og hlaupa um holt og hæðir.

-Síðan flyst þú til Hafnarfjarðar.

Holtsgata

Holtsgatan.

Ég fluttist ekki til Hafnarfjarðar. Ég og við systkyninin, vorum flutt til Hafnarfjarðar. Foreldrarnir skyldu og ekki var um annað að ræða en við sex systkynin færum með henni til Hafnarfjarðar. Búslóðinni var komið fyrir á vörubíl. Inni í vörubílshúsinu voru móðir mín og tvö yngstu systkynin, eins og tveggja ára. Aftan á pallinum sátum við hin fjögur. Rykið var kæfandi.
Þegar við stöðvuðumst utan við framtíðarheimili okkar í kjallaranum við Holtsgötu var fólk þar saman komið, tilbúið til aðstoðar. Ég man eftir því ég gekk um þann mund eftir steyptum vegg á milli lóða okkar húss og nágrannanna, en féll og lenti illa á hausnum. Móðir mín kom hlaupandi, greip afkvæmið í fangið, enn einu sinni án þess að andvarpa, og bar það inn; setti kaldavermsl á stærðarinnar enniskúlu, lagði á dýnu. Þar sat hún svo klukkustundum saman og fylgdist með líðaninni, allt til þeirrar stundar að aðgátar væri ekki lengur þörf.

Grænakinn

Grænakinn.

Þótt húsnæðið væri lítið; eldhús, bað, stofa og svefnherbergi, auk geymslu, leið okkur, sjö manna fjölskyldunni vel þarna. Að vísu þurfti á stundum að hafa ráðdeild við útvegun matar, en ég man ekki eftir að hafa farið svangur að sofa. Á sumrin var kíkt í matjurtargarðana uppi í neðanverðu Ásfjalli þar sem hægt var að ná sér í rófu eða klifra yfir háan steinvegginn í kringum klaustrið, hlaupa að beðunum, kippa upp nokkrum gulrótum og síðan á harðahlaupum til baka til að komast yfir vegginn áður en nunnurnar náðu okkur. Það tókst jafnan.
Á öðrum tíma var hægt að nálgast skreið í hjöllunum, sem voru víðs vegar, betla ferskan fisk á höfninni og tína ber í Stekkjarhrauni á haustin. Umhverfið bauð upp á ýmsar bjargir í þá daga.

Búrfell

Hjallur.

Átta ára byrjaði ég að bera út Morgunblaðið í nágrenninu. Síðan bættust við Tíminn og Alþýðublaðið. Blaðburðarpokinn gat stundum verið þungur fyrir lítinn gutta, einkum um helgar. Ég man alltaf eftir fyrstu útburðarferðinni. Daginn áður hafi mér verið fylgt um hverfið og bent á húsin, sem áttu að fá blöðin og fékk jafnframt í hendurnar útprentaðan lista yfir áskrifendur, en þegar á hólminn var komið reyndist þrautin þyngri. Þegar heim var komið bjóst ég því við kvörtunum frá einhverjum, sem ekki höfðu fengið blaðið, en það gerðist ekki. Smám saman lærðist þetta og gekk snurðulaust fyrir sig. Þetta verkefni krafðist þess að ég þurfti að vakna eldsnemma á morgnana og vera búinn að bera út áður en skólinn byrjaði. Helgarblöðin var hægt að bera út á laugardagskvöldum. Tvö aukablöð fylgdu hverjum pakka. Þau gat ég selt áhugasömum sem bónus.
Með blaðaútburðinum náðum við að kaupa okkur lítið sjónvarpstæki, National, og sjónvarpsloftnet á skorsteininn. Í sjónvarpinu gátum við, þegar vel viðraði, horft á kanasjónvarpið, s.s. Bonanza, Combat, Rowhide, Felix the cat og fleiri áhugaverða framhaldsþætti, reyndar í svart/hvítu.
Síðar fluttum við í risíbúð í Kinnunum. Þar voru herbergin þrjú, auk stofu, eldhúss og baðs. Þar rýmkaðist verulega um fjölskylduna um tíma. Ég held að móðir mín hafi þarna verið hve ánægðust.

-Þú varst í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Segðu mér frá þeirri vist.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Barnmörgum fjölskyldum, einstæðum mæðrum og foreldrum, sem voru að glíma við veikindi, bauðst á árunum 1957-1963 að senda sveinbörn sín í Vinnuskólann, sem starfaði í tveimur hollum yfir sumarið, fjórar vikur í senn foreldrunum að kostnaðarlausu.
Ég var í Vinnuskólanum fjögur sumur, frá 8 ára aldri til 11 ára aldurs, og líkaði vel. Mæting var við Lækjarskólann. Farangurinn; stígvél og aukaföt, var venjulega í pappakassa spyrðan saman með snærisspotta.
Í hverjum hópi voru um 60 piltar hverju sinni. Þeir gistu í fimm herbergjum, mismunandi stórum, á fyrstu hæðinni í starfsmannahúsinu í Krýsuvík. Þar voru sturtur og þvottaaðstaða. Drengirnir sáu sjálfir um að þvo af sér fötin og strauja með rúmfjölum, sem þeir náðu í undir dýnunum í herbergiskojunum. Á efri hæðinni að hluta var aðstaða fyrir starfsfólkið, eldhús og matsalur. Í hinum hlutanum var íbúð bústjórans, sem annaðist m.a. gróðurhús, sem þar voru.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Dagurinn hófts venjulega á morgunkaffi í matsalnum; mjólk og matarkexi. Þar var drengjunum skipað til verka fram að hádegi, nema þeim sem gert var að vinna í eldhúsinu; þeir þurftu að vera þar fram yfir kvöldmat. Yfir hvern hóp var settur verkstjóri. Hans hlutverk var m.a. að meta framlag hvers og eins til tekna. Fyrsta sumarið gat hámarks dagsverkið orðið allt að ein króna en síðasta sumarið allt að fimm krónur – slík hafði verðbólgan verið. Vinnan fólst t.d. í að snyrta umhverfið, aðstoða bústjórann í gróðurhúsunum, moka skít út úr fjósinu, sem hafði verið notað sem fjárhús um hríð, grafa fyrir sundlaug vestan við Bleikhól, grafa skurði, hreinsa út úr húsi, sem hafði verið ætlað bústjóranum ofan við Gestsstaðavatn (síðar þekkt sem hús Sveins Björnssonar, listmálara), en það hafði verið notað sem hænsnahús um tíma, fjarlægja gamla hænsnakofann ofan við húsið o.s.frv.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Eftir hádegismat; bjúgu og uppstúf, fiskbúðing úr Oradós og bakaðar baunir, fisk og kartöflur og svoleiðis, var annað hvort farið í skipulagða gönguferð um fjöll og fyrnindi í nágrenninu þar sem áhersla var lögð á að drengirnir lærðu að lesa landið, s.s. upp á Hettu, upp að Arnarvatni, út að Vegghömrum eða að Kleifarvatni til veiða. Unnið var að kofabyggingum við lækjarfarveg innan við gróðurhúsin eða farið í leiki, s.s. rat- eða stríðsleiki. Í ratleikjunum þurfi að finna vísbendingar til að geta leyst tilteknar þrautir og í stríðsleikjunum var hópnum skipt í tvennt; riddara hvítu og rauðu rósarinnar, sem endaði yfirleitt með slagsmálum þar sem markmiðið var að slíta teygju af handlegg andstæðingsins. Í göngurnar var hver og einn útbúin með nesti; mjólk í flösku og brauðsneið.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Eftir að heim var komið gafst drengjunum tími til leikja, s.s. í tindátaleik, við lestur eða í fótboltakeppni milli herbergja.
Kvöldmaturinn var yfirleitt kjarnríkur, sem eldhúshópurinn hafði tekið að sér að fullgera. Hann sá einnig um að skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Eftir matinn var kvöldvaka. Þá sátu drengirnir í tvöfaldri röð á löngum ganginum framan við herbergin og horfðu á kvikmynd, sem varpað var frá sýningarvel á hvítt tjald við enda hans. Að því búnu voru sungin nokkur lög, s.s. „Lóan er komin“, „Sá ég spóa“ o.s.frv. Hörður Zóphaníasson, skátahöfðingi og einn af tilsjónarmönnunum, hafði samið sérstakan „Krýsuvíkursöng“, sem varð að nokkurs konar þjóðsöng Krýsuvíkurdrengjanna:

Hörður Zíophaníasson

Hörður Zóphaníasson.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…“.
Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi; mjólk og kex. Að því loknu var gengið til náða. Stjórnandi mætti í hvert herbergi út af fyrir sig og í sameiningu var farið með „Faðirvorið“. Eftir það varð þögn, enda flestir orðnir dauðþreyttir að dagsverki loknu.
Stjórnendur Vinnuskólans var valið fólk úr hópi skólastjórnenda, kennara og skáta. Sérhver og allir voru þeir framúrskarandi fyrirmyndir ungum uppvaxandi drengjum.
Starfi Vinnuskólans varð sjálfkrafa hætt eftir 1963. Stjórnvöld höfðu þá samþykkt skilyrði í nýrri heilbrigðisreglugerð, sem ómögulegt var að uppfylla miðað við þáverandi aðstæður.

-Hvernig gekk þér í skóla?

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Ég byrjaði í sjöárabekk í Lækjarskóla. Var þar fram til áramóta, en var þá selfluttur upp í Öldutúnsskóla nýbyggðan. Ég man nú lítið frá tímanum í Lækjarskólanum, en því meira frá Öldutúnsskóla. Fyrsti kennarinn minn fyrstu árin þar var frú Sigurlaug, einstaklega þolinmóður og góður kennari. Hún sá líka til þess að við fengjum lýsispillurar okkar reglulega og mættum í ljós í leikfimihúsi Lækjarskóla.
Haukur Helgason var skjólastjóri, en hann annaðist okkur drengina líka yfir sumartímann í Krýsuvík.
Í ellefuárabekk skipti til hins verra; fékk nýjan karlkennara. Okkur lynti ekki hvor við annan. Það leið varla sá dagur að ég var ekki rekinn út úr kennslustund, sem mér þótti bara ágætt; fór heim, út að leika og mætti ekki í skólann næstu daga, eða allt þangað til Haukur kom heim og ræddi við móður mína. Þannig gekk þetta ítrekað um veturinn. Í tólfárabekk fékk ég nýútskráðan kennaranema, Sigrúnu Gísladóttur, síðar skólastjóri í Flataskóla. Hún náði einstaklega vel til nemenda sinna. Eftir veturinn varð ég hæstur í bekknum. Segja má, af þeirri reynslu að dæma, að kennarar geta skipt sköpum fyrir nemendur hverju sinni.

-Áramótabrennur spiluðu stóran þátt í uppeldi barna á þessum tíma?

Áramótabrenna

Áramótabrenna.

Í þá daga var mikil vinna sett í að safna efni í áramótabrennur á milli jóla og nýárs. Segja má að bera þurfti sig eftir sérhverri spýtu og koma henni á brennuna. Við krakkarnir vorum með brennu á bersvæði ofan við klaustrið. Brennan sú var jafnan sú stærsta í Hafnarfirði. Til að selflytja efnið þurftum við ýmist að draga það á höndum okkar í snjónum eða, sem okkur datt í hug, að hnupla líkvagninum í kirkjugarðinum á Öldum að kvöldlagi. Þetta var handvagn, járngrind, á tveimur loftfylltum hjólum. Á hann var hægt að hlaða talsverðu efni. Við skiluðum vagninum seint á virkum dögum, en reyndum að nýta hann þess mun betur um helgar. Það kom fyrir að eitthvað bilaði, grindin gaf sig eða loft fór úr dekki. Eftir það var erfiðara að nálgast vagninn um stund.
Illkvitnir reyndu stundum að kveikja í brennunni fyrir áramót svo við hreiðruðum þannig um okkur inni í henni miðri og notuðum það sem vaktarskjól. Þetta þætti nú ekki boðlegt í dag.

-Og úr Öldutúnsskóla var förinni heitið í Flensborgarskóla?

Flensborgarskóli

Flensborgarskóli.

Já, það voru mikil viðbrigði. Bekkjakerfið held ég að hafi bjargað miklu. Kennararnir sem og skólastjórinn, Ólafur Þ. kristjánsson og síðar sonur hans, Kristján Bersi, voru í einu orði sagt frábærir. Að vísu voru þeir hverjum öðrum ólíkari, en skemmtilegir karakterar hver um sig. Húsvörðurinn, Páll Þorleifsson, var þó máttarstólpurinn í skólastarfinu þótt fáir væru meðvitaðir um það svona dags daglega. Við Páll kynntumst ágætlega – mikill gæðakarl.
Þarna voru gæðakennarar eins og t.d. Egill Strange, sem kenndi handiðn. Eftir skamman tíma í bókbandi bauð hann mér að mæta bara hvernær sem ég vildi og gera það sem ég vildi. Bjarni Jónsson, myndlistarkennari, hafði sama hátt á. Hann sagði við mig að ef ég væri ekki í stuði til að teikna í myndlistartíma mætti ég mæta þegar betur stæði á. Sama var upp á matreiðsluborðinu hjá Hönnu Kjeld. Einar Bollason þótti strangur dönskukennari, en gæðablóð inn við beinið. Ingvar Viktorsson sagði brandara í enskukennslustundum og svona mætti lengi telja um allt ágætið.

Flensborg

Flensborg – stjórn nemendafélagsins, formenn klúbba og fulltrúi skólastjórnar, Ingvar Viktorsson.

Erfiðust var „Pikkólína“ ritvélakennari. Hún gat verið verulega ströng, enda nákvæm fingrasetninginn alvörumál, en hún átti líka sínar góðu stundir.
Eftir að hafa verið í ritstjórn skólablaðsins Draupnis, auk nokkurra annara, s.s. Líkþorns, ásamt Halldóri Árna Sveinssyni og fleirum, var ég í lok þriðja árs valin Inspektor Scolae, formaður Nemendafélagsins, til næsta árs, annar í röðinni frá upphafi. Á því ári voru fjölmargir klúbbar starfandi, skólaskemmtanir haldnar sem og árshátíðin að venju. Þegar enginn vildi taka að sér að verða stjórnandi árshátíðarinnar tók ég það hlutverk að mér ásamt öðru. Í lok skólaársins notuðum við ágóðan af starfseminni til að kaupa nýtt hágæða hljókerfi fyrir sal skólans og afhentum það með hátíðlegri athöfn. Félagsstarfið virtist ekki hafa komið niður á náminu því námsárangurinn var með ágætum.

-Hvað tók við að menntaskólaárunum loknum?

Draupnir

Draupnir.

Á menntaskólaárunum fjármagnaði ég námið með ýmiss konar vinnu; uppskipun úr togurum, verkamannavinnu hjá bænum (vann á loftpressu tvö sumur) og í fiskverkun. Áður en ég útskrifaðist sá ég auglýsingu um sumarstörf í lögreglunni í Reyjavík – sótti um og fékk ráðningu. Um haustið innritaðist ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Sumarhýran entist til áramóta. Lögfræðin höfðaði heldur ekki til mín svo ég sótti aftur um sumarstarf í lögreglunni – og fékk. Þar var ég svo við störf næstu 45 árin.

-Hvernig var að starfa í lögreglunni í Reykjavík allan þennan tíma?
Fjölbreytilegt og krefjandi, en skemmtilegt. Samstarfsfélagarnir voru, án undantekninga, alveg stórkostlegir. Fyrstu árin starfaði ég á vöktum í almennu deild, héldum uppi eftirliti og brugðumst við útköllum. Þá tók við starf á vöktum í slysarannsóknardeild, sem sinnti árekstrum og umferðarslysum, auk rannsóknum á hvorutveggja.

Flensborg

Ómar Smári, Inspector Scholae 1975-’76, og Páll Þorleifsson, húsvörður Flensborgarskóla, ásamt nokkrum skólafélögum.

Eftir að hafa lokið námi við Lögregluskólann var mér boðið að annast kennslu við skólann samhliða lögreglustarfinu. Þannig kynntist ég verðandi lögreglumönnum um allt land til tólf ára.
Árið 1985 var með boðið að verða fulltrúi embættisins í stjórnunarnámi í skóla FBI í Bandaríkjunum, sá fyrsti af nokkrum frá Íslandi sem á eftir fylgdu í áranna rás. Í framhaldinu fylgdu ótal prófgráður og námskeið víðs vegar um Evrópu.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Í áratuga starfi mínu sem lögreglumaður, þar af sem stjórnandi til langs tíma, hefur mér lærst að takast á við hin margvíslegustu vandamál, leggja til lausnir og fylgja þeim eftir í framkvæmd – eins og lesa má ef nafnið er „googlað“, t.d. á timarit.is. Þar má væntanlega uppgötva áhugaverðar fréttir af afrekum umferðardeildar, stofnun forvarnadeildar, aðgerðir gegn óáran unglingagengja í Breiðholti, umfjöllun um stofnun nágrannavörslu í einstökum hverfum í samvinnu við íbúana, rökstuðningi fyrir skiptum skoðunum um „Ökuferilsskrá“ á landsvísu með tilheyrandi punktakerfi að því markmiði að fækka umferðarslysum, yfirtöku lögregluembætta landsins á starfssemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, stofnun rannsóknardeilda einstakra embætta, sameiningu og samhæfingu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu o.m.fl.

Lögreglan

B-vaktin 1975.

 Síðustu árin var ég yfirmaður rannsóknardeildar, stöðvarstjóri á Hverfisgötu, síðar í Kópavogi og í Hafnarfirði og loks umferðardeildar. Í framangreindum störfum fólust m.a. samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld; Vegagerðina, Umferðarráð (síðar Samgöngustofu), einstök sveitarfélög, foreldrafélög, skóla, hverfasamtök o.fl. aðila. Ég var t.d. gerður að heiðursfélaga nr. 900 í Sniglunum, Mótorhjólasamtökum lýðveldisins, eftir átök um stund og í framhaldinu ánægjulegt samstarf þar sembáðir aðilar sameinuðust um gild markmið.

-Þú varst nú nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma?

Ómar

Ómar á ráðstefnu.

Samskipti við fjölmiðla hafa í gegnum tíðina verið stór hluti af störfum undirritaðs, hvort sem var á vettvangi atburða eða eftiráskýringum. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi.
Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til okkar. Mín innkoma á þann vettvang kom því ekki til af engu. Mér fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var ég jafnan á annarri skoðun. Þeirra hlutverk er mikilvægt.
Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, eftir nokkrar þrætur, urðu vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra er unnið hafa til þess – svo þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.
Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af „skýringum lögreglu“ á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála.
Ég var um tíma ritstjóri Lögreglublaðsins og formaður Félags yfirlögregluþjóna – ekki má gleyma því.

-Þú tókst sjálfur þátt í pólitísku starfi – varst frambjóðandi og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði?

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson. Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið mér að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður mína á erfiðleikaárum hennar og ég taldi mig eiga honum gjöld að gjalda – án sérstakra útgjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins.

Saman unnum við hreinan meirihlutasigur fyrsta kjörtímabilið, en þurftum að styðjast við fulltrúa tveggja ágætra sjálfstæðismanna, Jóhanns og Ellerts Borgars, það síðara, eftir að hafa fellt meirihluta sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsins.
Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Mér var á þeim tíma falið að veita formennsku nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við eigin skoðanir.

-Heimildir herma að þú hafir verið stofnandi gönguhópsins FERLIRs, sem í dag heldur úti öflugri vefsíðu um sögu, minjar og jarðfræði Reykjanesskagans. Hver var tilgangurinn í upphafi?

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfans – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að frá upphafi hafa verið farnar rúmlega 3000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 400 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri í Grindavík, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflök, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar,Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað.

Omar

Ómar við leiðsögn á Selatöngum.

Við lögðum upp með það frá upphafi að við myndum ekki borga neitt fyrir okkar framlag og ætluðumst ekki til þess, að sama skapi, að aðrir, sem við þurftum að leita til, krefðust ekki greiðslu fyrir viðvikið. Það hefur gengið eftir hingað til.
Áhugasamt fólk um Reykjanesið var jafnan boðið velkomið í hópinn, en í seinni tíð hefur áherslan verið lögð á að vinna úr þeim gögnum, frásögnum og ljósmyndum, sem safnast hafa í þessum fjölmörgu gönguferðum, með það fyrir augum að gera hvorutveggja aðgengilegt á vefsíðunni www.ferlir.is – eins og sjá má þeim er áhuga hafa…

-Þú stundaðir nám fornleifafræði í Háskólanum, kominn á fimmtugsaldurinn?

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands.

Já, og útskrifaðist sem fornleifafræðingur eftir fjögur ár, samhliða lögreglustarfinu. Áhuginn kom ekki af engu, eins og fram kemur í svari við spurningunni um stofnun FERLIRs. BA-ritgerðin fjallaði um „Sel og selstöður vestan Esju“. Þar eru taldar upp rúmlega eitt hundrað slíkar, þ.e. vestan Esjunnar, en í dag, 2022, höfum við fundið og skrá um 400 á Reykjanesskaganum öllum – fyrrum landnámi Ingólfs. Þannig heldur námið áfram þrátt fyrir útskriftina.

Omar

Ómar – við útskrift í Háskóla Íslands.

Ég lauk námi í svæðaleiðsögn á vegum Símenntunar Suðurnesja á sama tíma og hef nýtt mér hana, m.a. með því að bjóða öllum áhugasömum Grindvíkingum til göngu um Húshólmasvæðið, elstu meintu byggð á Íslandi, í tilefni af afmæli bæjarins fyrir nokkrum árum – með ágætis þátttöku þeirra sömu. Þá lauk ég námi í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskólanum og hef nýtt mér hana, m.a. til þess að koma á framfæri fróðleik við áhugasama um svæðið á vefsíðunni www.ferlir.is.
Síðar útskrifaðist ég sem svæðaleiðsögumaður frá Símenntun Suðurnesja með ágætum árangri.

-Grindavíkuruppdrættirnir, sögu og minjakort yfir þéttbýlissvæðin í Grindavík, voru að þínu frumkvæði?

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Við Óskar Sævarsson, þáverandi forstöðumaður Saltfiskseturs Grindavíkur, fengum menningarverðlaun bæjarins fyrir framtakið. Aðdragandinn var samstarf við Erling Einarsson, þáverandi formann Ferðamálafélags Grindavíkur. Í sameiningu gáfum við m.a. út fróðleiksrit um Selatanga og Húshólma við góðar undirtektir. Í framhaldinu ákvað ég að taka fyrir einstaka bæjarhluta, kalla til aldrað fólk, sem enn var lifandi og þekkti til hinnar deyjandi sögu minja og örnefna á svæðunum, og gera úr því uppdrætti er gætu nýst komandi kynslóðum. Gefnir voru út sjö updrættir og gerðir úr þeim jafnmörg söguskilti er enn standa uppi víðs vegar í Grindavík, áhugasömum til handa.
Ferðamálafélagið gaf síðan út rit með öllum uppdráttunum. Því miður hefur þessu samstarfi ekki verið fylgt eftir sem þyrfti – en uppdrættirnir tala enn þann í dag sínu máli um örnefni og minjar í Grindavík.

-Þú hefur skrifað texta inn í Ratleik Hafnarfjarðar undanfarin ár. Hvernig kom það til?

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022.

Það var félagi minn, Guðni Gíslason, fyrrum ritstjóri Fjarðarpóstsins, nú ritstjóri Fjarðarfrétta, skátaforingi og forstöðumaður Hönnunarhússins, sem bað mig um texta við ratleikinn fyrir nokkrum árum. Leikur þessi er nú kominn á þrítugasta aldursskeiðið. Um er að ræða 27 tiltekna staði hverju sinni. Fjölmargir hafa bæði nýtt sér fróðleikinn sem og tilganginn með leiknum; að ganga um svæðið og leita uppi merkin, skrá þau á lausnarlista og skila síðan inn að leiðarlokum með von um verðlaun. Þetta er ókeypis lífsfullnægjandi leikur í hinu stórkostlega upplandi Hafnarfjarðar.

-Nú ert þú kominn á svokallaðan „eftirlaunaaldur“. Hvað finnst þér um það?

Lögregla

Lögregla – nokkur axlarmerki.

Ég var skyldaður, gildandi lögum samkvæmt, að fara á eftirlaun þegar 65 árunum var náð – eftir 45 ára starf að löggæslumálum. Í raun fylgdi þeirri skyldu engin réttindi önnur en þau að eiga rétt á takmörkuðum eftirlaunagreiðslum. Ef ég hefði verið í öðru starfi hefði komið til álita áframhaldandi starf, eða, hjá ríkinu, sjálfkrafa heimild til að mega starfa til sjötugs.
Það var svolítið sárt að þurfa að ganga út starfslokadaginn. Ég hafði hafnað kveðjusamkundu, þrátt fyrir mótbárur, með þeim orðum að engin hefði móttökuathöfnin verið er ég mætti á laugardagskvöldi til starfa fyrsta sinni.

Lögregan

Lögreglan – myndirn er tekin eftir handtöku þýsks bankaræningja, Lugmeyers, sem strokið hafði úr dómshúsi þar í landi og birst með fúlgur fjár á Íslandi.

Mitt mat er það eigi að afnema aldurstakmörk þegar kemur að starfslokum, sem og allar hömlur (skerðingar) er takmarka möguleika fólks á öllum aldri að sjá sér farborða. Mörkin má gjarnan nota til að meta áunnin réttindi, ef fólk vill nýta sér þau, en ef það óskar eftir áframhaldandi starfi, eða öðru sambærilegu, ætti það að verða samkomulag milli þess og vinnuveitandans. Í þessu starfsfólki felst mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, sem nýtast mætti svo lengi sem umsættanlegt er – punktur og basta.

-Eitthvað að lokum?
Ég tel mig eiga Grindavík, þrátt fyrir allt, skuld að gjalda. Þar liggja jú ræturnar. Einstæð móðirin, með sex börnin sín, naut síðan aðstoðar hreppsins á miklum erfiðleikatímum í hennar lífi, sem nægði til þess að hún gat flutt þau í öruggara atvarf í Hafnarfirði og komið þeim öllum þar til manns. Þess vegna varð ég það sem ég er…

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

Hafnasel

Á landakortum er örnefnið „Seljavogur“ merkt við norðaustanverða Ósa í Höfnum. Örnefnið bendir til að þar hafi verið selstaða og það fleiri en ein. Hingað til hefur ekki verið vitað um aðra selstöðu norðan Ósa en Stafnessel norðan Djúpavogs. Í vettvangsferð FERLIRs átti hins vegar annað eftir að koma í ljós.
Ósar - loftmyndMagnús Þórarinsson lýsir eftirfarandi í ritinu „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi frá árinu 1960 þar sem hann er að lýsa Stafneslandi: „Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
SeltóftNokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Seljavogssel IÁrið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr.
Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru. Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.“
Seljavogssel IINokkurra selstaða er getið frá Hafnabæjunum, s.s. Merkinessel, Gamlasel, Möngusel og Kirkjuvogssel (sjá HÉR). Þær eru allar uppi í Hafnaheiðinni. Kalmannstjörn mun hafa haft selstöðu suður undir Stömpum. Ekki er að sjá í heimildum að selstaða eða selstöður frá bæjunum hafi verið við Seljavog við norðaustanverða Ósa, en þar munu þó vera tóftir. Örnefnið bendir til að þar hafi verið fleiri en ein selstaða, en skv. örnefnalýsingu Stafness voru landamerki milli þess og Hafna að hafa verið við Djúpavog skammt norðvestar. Það er því ekki ólíklegt að þarna kunni að hafa verið selstöður frá Hafnabæjum, s.s. Kotvogi, eða jafnvel frá enn fyrri tíð og þá jafnvel frá Hvalsnesi. Bæði gætu mörk hafa breyst sem og eignarhlutdeild, frændsemi ráðið staðsetningu eða aðstaðan verið keypt í skiptum fyrir aðra önnur hlunnindi.
Seljavogssel IIÍ Jarðabókinni 1703 er getið um selstöður frá Hvalsnesi, en þær eiga þá að vera komnar í eyði. Þrátt fyrir leitir hafa ekki fundist ummerki eftir þær í heiðinni ofan við bæinn, sem verður að teljast óvenjulegt. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöður frá Hvalsnesi (Hualsnesi): „Selstöður tvær er sagt að kirkjan eigi, og eru nú báðar þær næsta því ónýtar fyrir grasleysi, og önnur aldeilis vatnslaus, so er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur“. Skv. þessu er að sjá að Hvalsnes hafi haft selstöður, hugsanlega á mismunandi tímum, á a.m.k. tveimur stöðum. Önnur þeirra gæti hafa verið við Seljavog, a.m.k. er það ekki útilokað. Skoða á eftir heiðina ofan við selstöðurnar m.t.t. hugsanlegra selstíga. Hér eru selstöðurnar einfaldlega nefndar „Hafnasel“ þótt enginn hafi bær verið með því nafni. Hin selstaðan gæti síðar hafa verið frá Kotvogi, jafnvel byggst upp úr þeirri fyrrnefndu. Kirkjuvogur (Kyrkiu Vogur) hafi skv. Jarðabókinni 1703 „selstöðu eigi allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar“. Selstaðan frá Kirkjuvogi er þekkt. Þó er ekki útilokað að við Seljavog hafi verið eldri selstaða frá Gamla-Kirkjuvogi, enda fyrir Djúpavog að fara. Jarðarinnar er getið í Jarðabókinni sem eyðijarðar, en ekkert er fjallað um selstöðu á þessu svæði.
SeljavogurÞegar komið er norður fyrir austanverða Ósa við Hafnir verður fyrst fyrir Djúpivogur er nær þar lengst upp í landið. Suðaustur af voginum er Beinanes. Efst á því er stór klettur; Hestaskjól. Suðaustan við Beinanes er Seljavogur, mjór og langur. Þvert yfir Beinanes, milli Seljavogs og Djúpavogs, á móts við miðja vogina, eru að sjá á loftmynd leifar af hlöðnum garði. Suðvestan innan við garðinn eru tóftir er síðar verður getið. Við vettvangsskoðun var erfitt að koma auga á garð þennan.
Samkvæmt Jarðabókinni 1703 hafði Kirkjuvogur í seli, sbr. „Selstaða eigi allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar“. (Sjá meira um Kirkjuvogssel HÉR.)
Í Jarðabókinni er ekki getið um selstöður frá hjáleigum Kirkjuvogs, s.s. Hólshúsi, Garðhúsum, LandamerkiHaugsendakoti og Árnagerði (Arne gerde). Getið er um Gamla-Kirkjuvog, „forna eyðijörð. Hefur legið í auðn stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sje þaðan fluttur, þángað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sje í Stafness landi“.
Þar sem selstöðu við Seljavog er ekki getið í Jarðabókinn 1703 má telja að annað hvort hafi þær þá verið aflagðar þar fyrir löngu eða teknar upp eftir að Jarðabókin var skrifuð. Af ummerkjum á vettvangi að dæma má telja líklegt að selstöðurnar hafi orðið til talsvert fyrir árið 1700 (a.m.k. sú sem er norðan við Seljavog), en fallið í gleymsku. Til viðmiðunar er t.d. Kirkjuvogsselið, sem verður að teljast af nýrri tegund selja, enda miklu mun greinilegri en þessar selstöður. Fyrrum hefur þetta land væntanlega tilheyrt Gamla-Kirkjuvogi þótt það tilheyri nú Höfnum. Af ummerkjum að dæma virðist þó hafa verið róið í nyrði selstöðuna, en það gæti hafa verið leið til að spara krókinn fyrir Djúpavog.
landamerkinOfan við vörina í nyrðri selstöðinni er tóft. Í selstöðunni, sem er í skjóli fyrir austanáttinni undir lágu klapparholti, eru þrjú rými og hringlaga gerði. Ofan við klapparholtið er ágætt vatnsstæði.
Í syðri selstöðunni, sunnan við Seljavog, eru rými hins vegar reglulegri og virðast nýrri. Þau eru í einni lengju. Norðar, á klapparholti, eru stakar tóftir, sú syðsta greinilegust. Í henni sjást hleðslur. Neðan við hana, undir klapparholtinu og ofan við voginn, er hringlaga hleðsla; lítið gerði, hugsanlega kví í skjóli fyrir austanáttinni. Selstaðan sjálf er óvarin fyrir regni og vindum, sem verður að teljast óvenjulegt. Hins vegar eru góð skjól undir klöppum í nágrenninu.
Grónar vörður ofan við selstöðurnar benda til þess að komið hafi verið að þeim sjóleiðis frá því sem Hafnir eru í dag, þ.e. róið yfir Ósa.
HestaskjólHvenær land Gamla-Kirkjuvogs féll undir Stafnesland er ekki vitað þegar þetta er ritað. Hins vegar má sjá á gamalli gróinni vörðu norðaustan við Djúpavog með línu í hlaðna vörðu norðaustar í heiðinni hvar landamerkin hafi legið á liðnum öldum. Selstöðurnar, sem hér um ræðir eru báðar utan hennar, þ.e. í landi Hafna.
Fyrrnefndar selstöður eru greinilegar þótt ekki væri fyrir annað en að í kringum þær eru mikið graslendi, en óvíða annars staðar norðan Ósa, nema ef vera skyldi á litlum blettum undir klettum vestanverðum, og í þeim báðum má vel greina rými með grónum jarðlægum veggjum og tilheyrandi hleðslum (stekkir).
Hvað sem líður niðurstöðum þess hvaða jörðum þessar selstöður hafa tilheyrt fyrrum verður a.m.k. tvennt að teljast merkilegt; annars Svæðiðvegar sú uppgötvun að örnefnið Seljavogur á sér áreiðanlega og skiljanlega skýringu og hins vegar að þar skuli liggja áhugaverðar fornminjar er legið hafa í þagnargildi um aldir. Auk þess taldist skráning þessara tilteknu selstöðuminja til þeirrar tvöhundruð og sextugustu (260), sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs.
Í leiðinni var ákveðið að skoða tilgreint Stafnessel. Í örnefnalýsingu sem Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni um Stafnes segir m.a. um Stafnessel: „Skammt suður og upp frá Gálga eru lágar klappir nefndar Klofningar. Þar suður og upp af Þórshöfn er einstök varða á klöpp, Mjóavarða, sem var innsiglingarmerki á Þórshöfn. Suðaustur af henni eru svo tvær vörður á klöpp, sem nefndar eru Systur. Þar austur af eru Stórubjörg, og austan þeirra er gamalt sel, sem heitir Stafnessel.“
Magnús Þórarinsson segir í sinni framangreindri lýsingu: „Enn sést móta fyrir rústum af Stafnesseli“.
Við skoðun á selstöðunni var augljóst að þarna eru mannvistarleifar. Þær eru hins vegar mjög fornar að sjá.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Örnefnalýsingar fyrir Hafnir.

Stafnessel

Stafnessel.

Blikdalur

Í Blikdal (Bleikdal) eiga, skv. Jarðabókinni 1703, að vera leifar af a.m.k. 7 selstöðum. FERLIR hafði staðsett þær í fyrri ferðinni um dalinn (sjá Blikdalur – Brautarholtssel – Saurbæjarsel – I). Skv. upplýsingum Páls Ólafssonar, bónda að BlikdalurBrautarhóli, átti Brautarholt sunnanverðan dalinn að mestu og Saurbær hann norðanverðan. Nes og Hof tilheyrðu Brautarholti, en Hof var jafnan sjálfstæð jörð, enda gömlu Hofselin nefnd til sögunnar. Ártún, Hjarðarnes og Mýrarholt (Mýrarhús) tilheyrðu Saurbæjartorfunni. Og nú er bara að reyna að geta í eyðurnar. Á handrituðu örnefnakorti af norðanverðum Blikdal er getið um Selfjall, Selgil, Selgilsbolla, Sel og Holusel.
Tilgangur þessarar FERLIRsgöngu, nr. 1130, var m.a. að staðsetja allar sýnilegar selstöður í dalnum og reyna jafnframt að
tengja sérhverja selstöðu við uppruna sinn. Þannig átti fyrsta – og jafnframt greinilegasta selstaðan, að vera frá Saurbæ, enda er hennar getið í heimildum sem þeirrar síðustu, sbr. ævisögu Matthíasar Jockumsens, skálds og greint er frá í fyrri lýsingu af ferð FERLIRs um dalinn (Blikdalur – Brautarholtssel – Saurbæjarsel I). Í selinu gerði hann sér dælt við Guðrúnu, dóttur Saurbæjarbóndans. Afraksturinn varð stúlkubarn og giftust þau skömmu síðar.
Vetrarsteinbrjóturinn var í blóma. Gaf hann hlíðum dalsins bleikan lit.
Vetrarsteinbrjótur í BlikdalTekið hafði verið fram í kynningu að hafa þurfti meðförum vaðpoka því þverskera varð Blikdalsána í fjórgang á leiðinni. Selstaða nr. 2 er sunnan þeirrar fyrstu, sömu megin árinnar, en þrjár næstu eru sunnan árinnar. Sjötta selstaðan var áætluð norðan árinnar, en sú sjöunda að sunnanverðu. Áttunda selstaðan og sú eftirvæntingarfyllsta átti skv. forkönnun FERLIRs að vera norðan árinnar, svo til beint neðan við svonefndan Leynidal, en varð við athugun sunnan árinnar. Sú selstaða kom einnig til greina sem stefnumótastaður Matthíasar og Guðrúnar, daladrósarinnar af tilskiljanlegu kvæði er hann orti til hennar, en drós rímar jú við rós. Niðurstaðan var þó sú að fyrsta selstaðan væri Saurbæjarselið, en hin síðastnefnda enn ein selstaðan, sem óþekkt hafði verið í dalnum.
Eins og síðast er jafnan getið var veðrið frábært þennan dag – kjördaginn til alþingiskosninga árið 2007. Umræður
forystumanna stjórnmálflokkanna höfðu tekið drjúgan tíma Tóft við Selgilbeggja fjarsýnisstöðvanna kvöldið áður, en ekki skilað einu einasta – ekki einu einasta – nýju orði umfram það sem áður hafði komið fram alla vikudagana þar fyrrum. Þvílík sóun á tíma fólks. Fuglasöngurinn og náttúrufegurðin í Blikdal þennan dag feykti þó þarflausri umræðunni óravegu frá raunveruleikanum – og sýndarveruleiki stjórnmálanna varð að engu. Umhverfisverndin, náttúruverndin, grunnþarfirnar, skattalækkunarmálin og önnur leiktjöld hversdagsleikans skiptu þarna nákvæmlega engu máli. Það var helst málefni aldraða og framtíð þeirra sem virtust hvað áhugaverðust þá stundina – enda hafa allir þörf fyrir hvíld og afslöppun að lokinni langri göngu eða að afloknum löngum „vinnudegi“, hvort sem þreytan hafi verið af „þjóðfélagslega arðbærum“ ástæðum eða einfaldlega „einstaklingslega menningarsjálfbærum“ ástæðum. Að vel ígrunduðu máli virtist enginn stjórnmálaflokkanna verðskulda atkvæði þátttakenda, enda enginn þeirra náð að sannfæra hlutaðeigandi um að hann hefði vilja og getu til að stuðla að eða standa vörð um grunngildi lífsins.
Blikdalsáin „söng“ hið ljúfa vorlag leysinganna. Sólin hafði lyft sér nægilega til að skína í alla skorninga og gil beggja
vegna dalsins. Mófuglarnir léku við hvurn sinn fót; stelkur, spói, tjaldur, hrossagaukur, þröstur og lóa létu að sér kveða – miklu mun betur sannfærandi um grunnþættina en jafnmargir forystumenn stjórnmálaflokkanna höfðu kveðið kvöldið áður. Kannski þeir ættu að hlusta betur á náttúruhljóðin.
Sel í norðanverðum BlikdalSennilega eru fuglsdýrin eðlislega meira sannfærandi vegna þess að þau eru öll fædd og aldin upp af náttúrunni að hálfu mót foreldrunum. Við þær aðstæður verður skilningurinn á umhverfið og verðmæti þess óneitanlega meiri – og næmari. Ef niðurstaðan er skoðuð eftir á í ljósi allrar þvælunnar vekur sú staðreynd mesta athygli að umhverfisvænasti flokkurinn varð til þess að mestu umhverfisskaðvaldsflokkarnir héldu velli. C’et la vie, söng hrossagaukurinn, enda nýkominn frá Frakklandi.
Blikdalur, stundum kallaður Bleikdalur, skerst langt inn í vesturhluta Esjunnar að vestan og rennur Blikdalsá eftir
honum miðjum. Blikdalur norðan árinnar hefur lengst af tilheyrt jörðinni Saurbæ og suðurhlutinn Brautarholti á Kjalarnesi. Nokkrar jarðir áttu beitarítak í norðanverðum dalnum en þau eru nú fallin niður og gekk dómur um það efni í Hæstarétti þann 29. febrúar 1996. Ætla verður að ítök sunnan megin séu einnig fallin niður. Í fyrrgreindum dómi eru rakin mörk Blikdals norðan megin en þau ná frá Saurbæjarlandi og eftir fjöllum norðan megin eftir sem vötnum hallar fram í Blikdalsbotn og þaðan með Blikdalsá, sem einnig er nefnd Ártúnsá til Blikdalsmynnis.
Sel í sunnanverðum BlikdalMynni Blikdals er mjög skýrt í landslaginu þar sem frekar skörp skil eru á fjallsendunum báðum megin og þeir
teygja sig til Blikdalsárinnar. Við landnám var allt land numið milli Ölfusár og Brynjudalsár af Ingólfi Arnarsyni og hans mönnum. Helgi Bjóla var landnámsmaður á Kjalarnesi og bjó að Hofi, sem er ekki langt frá en Blikdalurinn tengist mjög vel Kjalarnesbyggðinni og er með ólíkindum ef hann hefur ekki verið numinn eins og annað land í kring. Andríður, sem var írskur maður, fékk land hjá Helga Bjólu, og reisti bæ að Brautarholti og Arngrímur sonur Helga fékk land á nesinu og reisti Saurbæ. Það er vart tilviljun að þessar tvær síðastnefndu jarðir hafa átt Blikdalinn til okkar tíma.
Ekki er til sjálfstæð landamerkjaskrá fyrir Blikdalinn að sunnan en í landamerkjaskrá Brautarholts frá 31. maí 1921
segir: „Ennfremur fylgir Brautarholti Bleikdalur allur sunnan Bleikdalsár, suður og austur á fjallsbrún eins og vötnum hallar, ennfremur Andríðsey í Hvalfirði.“ Ekki verður Sel í sunnanverðum Blikdalséð annað en eigendur og umráðamenn nágrannajarða allra hafi undirritað skrána. Þann 8. maí 1960 seldi eigandi Brautarholts allt land sitt í Blikdal til Kjalarneshrepps en við sameiningu Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps árið 1978 varð þessi eign skráð eign Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt fyrrnefndri landamerkjaskrá Brautarholts frá 1921 fylgir Blikdalur sunnan Blikdalsár Brautarholti sem
eign þar sem merkjum landsins er lýst. Því verður að líta á þessa eign sem hluta jarðarinnar og háðan beinum eignarrétti eiganda.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er ótvíræð heimild um eignarrétt Brautarholts að Blikdal.
Þar segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan (þ.e. Brautarholtskirkja) á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sér að ganga af skriðum og vatnsgangi“. Í jarðalýsingum nágrannajarða kemur fram að þær eigi selstöðu frítt í Brautarholtskirkjulandi.
Á handrituðu örnefnakorti fyrir norðurhluta Blikdals Bær í sunnanverum Blikdalkemur fram að Hálsinn er á vinstri hönd þegar komið er upp
dalinn að norðanverðu. Þar breytir Blikdalsáin um nafn og nefnist Ártúnsá neðar. Mannskaðafoss er í miklum gilskorningum á hægri hönd. Suðurdalurinn að vestanverðu mun hafa verið landareign Bakka, en efsti hlutinn að sunnanverðu, Suðurdalur, eign Brautarholts. Fyrsti hnúkurinn að norðanverðu er Melahnúkur. Undir honum er Berjahóll. Neðan hans er Selgil og Selgilsbolli niður við ána. Skammt vestan hans er Dyrafoss í ánni. Fjallið innan við Melahnúk nefnist Selfjall. Austurendi þess er við Leynidal, skál í fjallið, og þá tekur Kistufell við að Gunnlaugsskarði. Í botni Blikdals, innst í Blikdalsbotni, eru Kjötfossar, Fosshóll neðan við þá og Fossurð enn neðar. Leynidalsáin kemur úr Leynidal. Vestan hennar eru Stórhæðir, Stórhæðaflatir og Stórhæðafoss. Skammt vestan flatanna á Holusel að vera svo og annað sel, merkt „Sel“. Þar mun vera Norðurdalur gegnt Suðurdal, landareign Saurbæjar. Vestar eru Sel í norðanverðum BlikdalBalagilsblettir, Balagil, þá Mörgil og Skjólgarðamýri enn vestar. Allt er þetta austan Selgils, sem áður var nefnt.
Að  sunnanverðu er erfiðara að nefna örnefni, en þegar gengið er upp (austur) dalinn má þó sjá nokkur einkenni. F
remst er klettur er skagar út úr Esjunni, Sneiðingsklettur. Ofar er Arnarhamar. Úr honum liggur Nóngil niður í dalinn. Uppi á fjallinu má sjá líkt og stóra þúfu, en þær eru í rauninni þrjár þegar upp er komið. Nefnast þær Smáþúfur, en eru þó engar smáþúfur. Þá kemur skál í fjallið, Hrútadalur, og ofan hans þverhníptir hamraveggir, Kambshorn vestast og innar Kerhólakambur. Innan hans er Þverfellshorn að Gunnlaugsskarði. Handan þess er Kistufell, líkt og áður sagði um norðurhluta dalsins.
Og þá var að leggja af stað upp frá Ártúni, norðan Ártúnsár. Ofan við bæjartóftirnar er gamla Ártúnsréttin, nú
gróin. Þegar upp á Hálsinn var komið var gamla selstígnum fylgt áleiðis austur dalinn að norðanverðu. Fyrst var ætlunin að leita að hugsanlegum rústum við Selgil. Selgilsbolli er gróin „stétt“ niður við ána eftir framburð gilsins. Sjálft gilið er gróið. Ofarlega með því að austanverðu vottar fyrir tóftum, nánast jarðlægum. Svo er að sjá að í þeim hafi verið þrjú rými. Erfitt er að greina húsaskipan. Þarna er greinilega um mjög forna selstöðu að ræða.
Næsta selstaða hafði verið skoðuð í fyrri FERLIRsferðinni. Um er að ræða formfagurt og vel greinilegt sel. Veggir
standa grónir, um 80 cm háir, og má sjá hleðslur í innanverðum veggjum. Tvö stór rými (baðstofa og búr) eru í meginhúsinu, en framan og til hliðar er lítil tóft, sennilega eldhúsið. Dyr snúa mót vestri, niður dalinn. Frá þeim hefur mátt greina allar mannaferðir að selinu, enda liggur selstígurinn beinustu leið að því. Austan við selið er stór tóft, sennilega leifar af enn eldra seli eða jafnvel fjárborg. Líklegra er að þarna hafi Sel í norðanverðum Blikdaleldra sel verið endurbyggt nokkrum sinnum og hóllinn smám saman hlaðist upp. Dæld er í miðju hans. Norðar og ofan við tóftirnar er ílangt mannvirki, gróið, en sjá má grjóthleðslur. Líklega hefur þetta verið stekkurinn. Lækur rennur austan selsins. Þetta selstæði er fjærst Blikdalsánni af öllum þeim 10 seljum, sem skoðuð voru í þessari ferð.
Næsta sel að norðanverðu er skammt neðar, nær ánni, þar ofan við gróinn árbakkann þar sem hún hlykkjast. Sjá
má þrjú rými í mjög grónum tóftum. Tvö rýmin eru saman og eitt sunnan við þau. Dyr á meginrýmunum eru mót suðri.
Þá var haldið yfir Blikdalsána því á tungu austan við síðastnefnda selið mátti sjá allnokkrar tóftir á a.m.k. fjórum
stöðum. Fremst (vestast) eru svipaðar tóftir og handan árinnar; tvö rými saman og eitt til hiðar. Veggir eru grónir Tóftirnar eru undir lágum bakka. Þessar minjar virðast tilheyra eldri tegundum selja.
Skammt austar eru tóftir. Þar gæti hafa verið um sjálfstæða selstöðu að ræða eða einfaldlega stekk frá
fyrrnefnda selinu svo og því næsttalda. Það sel er einnig þriggja rýma, en sýnu nýlegra og reglulegra. Það virðist vera tiltölulega nýlegt, bæði hvað varðar útlit og ástand. Veggir standa heilir, en grónir, og sjá má hleðslur að innanverðu. Í miðjunni eru tvö rými með dyr mót vestri. Til beggja hliða, samfast, er sitthvort rýmið, sennilega eldhús annars vegar og kví hinsvegar.
Og þá kom að því… Áður hefur komið fram að Helgi Bjóla hafi verið landnámsmaður á Kjalarnesi og búið að Hofi,
sem er ekki langt frá „en Blikdalurinn tengist mjög vel Kjalarnesbyggðinni og er með ólíkindum ef hann hefur ekki verið numinn eins og annað land í kring“. Í Landnámu (Sturlubók) segir m.a. í  11 kafla: „Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam meðhans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.“
Fyrrum lamb í BlikdalÍ 12. kafla Landámu segir: „Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga)
Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba. Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í
hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað. Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður. Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið Blikdalur til vesturs - Akranes fjærstnam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var. Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba. Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.“
Spurningin er: Hvar byggðu Þórólfur spör, Þorbjörn tálkni og bróðir hans sem og Þorbjörn skúma bæi sína?
Sunnan Blikdalsár virðast í fyrstu vera tóftir fornbæjar, en mjög líklega hefur þarna verið selstað frá landnámstíð
. Þrjú hús eru í bæjarhólnum; 5×3 m rými (mælt að innanverðu) með op til norðurs, að ánni. Utan við það er minna rými með op til vesturs. Austan þeirra er svo sjálfstætt rými, 7×3 metrar að innanmáli. Hleðslur eru mjög grónar, en sjá má rýmin greinilega. Þau Bærinn í sunnanverðum Blikdaleru miklu mun stærri en tíðkast almennt í seljum á þessu landssvæði, ekki síst í Blikdalnum. Að öllum líkindum eru þessar tóftir svar við þeirri spurningu að með ólíkindum þykir að Blikdalurinn hafi ekki verið numinn frá fyrstu tíð.
Næsta selstaða er norðan við ána, undir háum grónum bakka. Um er að ræða tvær tóftir, aðra stærri. Þær eru
báðar grónar og greinilegar gamlar. Hér gæti, miðað við handritaða uppdráttinn, Holuselið verið. Selið, sem merkt er svo á uppdráttinn, gæti hafa verið fyrsta selið að norðanverðu, eftir Selgilsselið. Sá, sem þekkt hefur til í Blikdal, gæti ekki annað en hafa vitað af því seli, enda liggur gatan beint að því, auk þess sem þar eru greinilegustu seltóftirnar í dalnum.
Efstu seltóftirnar er fundust (að þessu sinni) eru sunnan við ána, einnig tveggja rýma og mjög grónar. Þær eru,
líkt og aðrar selstöður, í skjóli fyrir austanáttinni. Annars hefur það komið í ljós í báðum FERLIRsferðunum, að mjög misviðrasamt er í dalnum. Hvasst getur verið að austan í honum neðanverðum, en þegar komið er inn að seljunum lygnir. Enn austar breytist vindáttin Blikdalsainog verður vestlæg.
Selstígar eru greinilegir beggja vegna árinnar. Að sunnanverðu hverfur stígurinn við efsta selið. Líkt er komið að
norðanverðu. Með líkum var hægt að staðsetja Saurbæjarselið og Brautarholtsselið. Um Holusel, það efsta að norðanverðu, er getið í handritaða örnefnakortinu. Borgarsel (frá fyrrum kirkjustað) er sennilega nokkru austan við Brautarholtssel (mun eldra) og Nesselið á milli. Ártúnssel er sennilega Holuselið og Hjarðarnesselið ofan við Selgil, fremst í dalnum. Erfitt er að staðsetja Hofselin gömlu, en líklegt er að þau hafi verið þar sem Saurbæjarselið varð síðar því þar við eru miklar fornar tóftir og stór stekkur ofar. 
Spóinn, lóan, tjaldurinn, maríuerlan og þúfutittlingurinn fylgdust enn vel með öllum mannaferðum um dalinn, líkt og
lambamæðurnar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Saurbaejarsel

 

Hafurbjarnaholtsvarða

„Ofan Straumsselshellra syðri er Gamlaþúfa.
Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, Steinhusskjol-1klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.
Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Auðvelt var að ganga að Skotbyrginu við Fjarsskjolsklettur-1Stórholtsgrenið. Í rauninu eru grenin þar efra tvö; beggja vegna byrgisins. Þau eru bæði merkt með steinum.“
Í Landamerkjabréfi fyrir Straum var undirritað 31. maí 1890 og  
þinglýst 9. júní sama ár. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: „Landamerki milli Straums og Óttarstaða, byrja við sjó á Vatnaskersklöpp, yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra – Nónhól; frá Nónhól, í Gvendarbrunn; frá Gvendarbrunni í Mjósundavörðu; frá Mjósundavörðu í Klofaklett, suður og upp af Steinhúsi. – Á Klofaklett er klappað: „Ótta.“, „Str.“ og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og uppaf Eyólfshól; á þennan Markastein er klappað: „Ótta.“, „Str.“ Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Fjarskjolid-1Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða, byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu; úr Tóu beint í Vestari – Tobbukletta yfir miðjan Jónshöfða, og í vörðu vestarlega á há – Hafurbjarnarholti(nu), og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra – Steins, og Fjárskjólskletts, í vörðu á há – Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við.“
FERLIR hafði áður staðsett Steinhússkjól neðan/ofan (eftir því hvaða lýsing er notuð) við Klofaklett. Um er að ræða lítið hússlaga skjól í kletti með grasi gróinni lægð frramanvert.
Nú var ætlunin að staðsetja Fjárskjólsklett og Fjárskjólið. Þegar tekið var mið af vörðunni vestarlega á há Hafurbjarnaholtinu í sjónhendingu að Fremstahöfða, milli Steinsins og Fjárskjólskletts mátti sjá að síðarnefnda kennileitið var rétt austan við línuna. Norðan við klettinn er Fjárskjólið (með stóru Effi); stórsprunginn hóll með miklum grasgróningum umleikis í lægðum og lágum brekkum skammt ofan (sunnan) við Hafurbjarnarholtið þar sem það er hæst.
Í leiðinni var vandfundið ónefnt og óskráð fjárskjól ofan við Brunntorfur skoðað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing GS fyrir Straum.
-Landamerkjabréf Straums 31. maí 1890.

Gamlaþúfa

Gamlaþúfa.

Í fjölmiðlum að undanförnu (júlí 2008) hefur talsvert verið fjallað um aðstöðuleysi ferðafólks á áhugaverðum áfangastöðum þess, s.s. við Dettifoss, Kerið og reyndar víðast hvar um landið, nema ef vera skyldi á Þingvöllum, við Geysi og við Gullfoss (sjá t.d. umfjöllun HÉR). Lítið hefur reyndar verið bent á allt hið jákvæða sem gert hefur verið í þessum efnum, auk framangreind, s.s. í Skaftafelli, Ásbyrgi og á Reykjanesskaganum.

Skáli við IllahraunSegjast verður eins og er að þrátt fyrir fyrirliggjandi vitneskju og nægan tíma til markvissrar uppbyggingar á aðstöðu fyrir sívaxandi fjölda ferðafólks hér á landi er aðstaðan því til handa yfirleitt bæði til háðungar og vandræða fyrir alla. Þar sem komið hefur verið upp salernisaðstöðu, s.s. við Dettifoss, er hún tæpast fólki bjóðandi. Gripið hefur því verið til þess ráðs að læsa hurðum til að hindra aðgengið að viðbjóðnum. Þar sem enn er opið vogar fólk sér ekki inn af sömu ástæðu.
Á Reykjanesskaganum hafa sveitarfélög útbúið virðingarferða aðstöðu til handa ferðafólki, auk þess sem auðvelt aðgengi fólks er að salernisaðstöðu hvarvetna sem numið er staðar innan þéttbýlismarkanna.

Skáli við LækjarvelliTil að auka enn við þjónustuna voru settir upp opnir skálar, mjög góðir, á völdum gönguleiðum, s.s. undir brún Illahrauns við Lágafell ofan við Grindavík og við Lækjarvelli norðaustan Djúpavatns, auk þess sem salernum var komið fyrir í Króksmýri og á Vigdísarvöllum – og jafnvel við Selatanga. Segja verður hlutina eins og þeir eru – hvarvetna hefur aðstaðan orðið skemmdarvörgum að bráð; við Illahraun hafa rúður og hurðir verið brotnar (sjá HÉR), við Lækjarvelli var allt brotið sem hægt var brjóta, við Vigdísarvelli og Selatanga voru salernin gjöreyðilögð af brjáluðum skotmönnum og svona mætti lengi telja. Orkuveitan hefur lagt fram opna aðstöðu í Engidal undir Hengli og í Reykjadal á Ölkelduhálsi. Það mun vera eina aðstaðan, sem sómasamlega hefur verið gengið um. Auðvitað hefði átt að vera búið að gera miklu mun meira í þessum efnum.
AuðartóftirAf framangreindu má þó leiða a.m.k. tvennt; nauðsynlegt er að koma upp aðstöðu fyrir ferðafólk á áfangastöðum þess, en umgengni um slíka aðstöðu sem komið hefur verið upp er mjög slæm. Hvernig á þá að réttlæta kröfuna um betri og bætta aðstöðu að fenginni reynslu? Hér þarf allt fólk sem hefur framangreindar þarfir og vill sýna öðru fólki gestrisni að taka sér tak – og það verulegt. Ef gera á þá kröfu að sveitafélög og ríki bregðist við frumþörfum fólks og setji upp aðstöðu á völdum stöðum þarf allt fólk, án undantekninga, að umgangast hana sem slíka. Segja má með nokkurri sanngirni að ferðafólk hafi verið fórnarlömb í tvennum skilningi; annars vegar úthaldsleysi hlutaðeigandi yfirvalda og hins vegar ofvirkni fárra skemmdarvarga.

KrosshólaborgEn það er ekki ásættanlegt markmið að geta boðið ferðafólki að gegna frumþörfum sínum með sómasamlegum hætti. Merkingar og leiðbeiningar því til handa á sögustöðum eru ýmist litlar eða engar. Venjulegur ferðamaður getur því ferðast um þjóðvegi Íslands án þess að eiga þess kost á að upplifa sögu þess, nema ef vera skyldi með mikilli yfirlegu fyrir ferð eða miklu magni upplýsinga meðferðis. Tökum Auðartóftir á Reykjanesinu vestra sem dæmi. Um eru að ræða fyrstu búðir landnámsmannsins Auðar djúpúðgu undir Krosshólaborg, enda augljóslega auðvelt að lenda víkingaskipi þar þvert á eyrunum í ofanverðum Berufirði. Þegar ferðast var um svæðið (júní 2008) var hvergi að finna hinar minnstu vísbendingar um staðinn. Samt sem áður er hann innan seilingar frá þjóðveginum. Skammt þarna frá er landnámsjörðin Skarð.

UmmerkiSagt er að engin önnur jörð á landinu hefur verið í eigu sömu ættar lengur en Skarð. Landnáma segir frá landnámi Geirmundar heljarskinns, sem gerði sér bæ og kallaði Geirmundarstaði undir Skarði, en síðan fer fáum sögum af staðnum fyrr en í kringum aldamótin 1200. Björn Þorleifsson (1408-67), hirðstjóri, bjó þar. Englendingar drápu hann á Rifi og ekkja hans, Ólöf ríka Loftsdóttir, dró að sér mannsöfnuð til að hefna bónda sins. Um var að ræða forsögu að uppgjöri enskra hér á landi (sjá Grindavíkurstríðið). Þar var og Skarðsbók Landnámu afrituð. Tóftir Geirmundarstaða eru í túninu á Skarði, en engin vísbending að þeim til handa ferðafólki, hvorki innlendu né útlendu. Hér er verulegra úrbóta þörf. Segja má með nokkurri sanni að menntamálayfirvöld hafi um of allt og langa stund sofið á ráðuneytisgáttinni hvað þennan þátt atvinnuþróunnarinnar varðar. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og spáa ku ferðaþjónustan vera sú atvinnugrein hér á landi er vaxa mun hvað mest á næstu misserum og árum. Því er von að fólk spyrji; hvað dvelur orminn langa?
Sjá nýlega skýrslu um nánast ekki neitt HÉR. Sjá einnig útvarpsumfjöllun 2011 HÉR.

Seltún

Seltún.

 

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði grein í Fjarðarfréttir árið 1969 undir fyrirsögninni „Á fornum slóðum„:

„Eftir að Gvendur góði hafði um árabil verið barinn til bókarinnar, gerðist hann prestur. Hann gerðist andheitari öðrum kennimönnum og ölmusubetri, svo að fáir fóru tómhentir af hans fundi. Hann fór víða um land og vígði björg og vöð, sem hættuleg höfðu verið mönnum. Hann vígði og brunna, svo að hverjum þeim, er úr drakk, varð það að heilsulind og til margs konar blessunar. Enda þótt Gvendur væri Norðlendingur, kom hann ekki svo lítið við hér á Suður- og Inn-Nesjum og vígði hér fleiri brunna en víða annars staðar.
Skulu þeir nú taldir:

Gvendarbrunnur í Vogum

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Sunnan byggðar í Vogum er tjörn lítil og norðan hennar er einn þessara brunna. Hann var um aldabil heilsulind mönnum og skepnum. Má vera að svo sé enn.

Gvendarbrunnur í Hraunum
Gvendarbrunnur í Hraunum er rétt við gamla alfaraveginn. Hann er þar í klöpp undir Gvendarbrunnshæð. Fer ekki mikið fyrir honum, en margur mun á ferð sinni eftir þeim gamla vegi hafa þáð þar svaladrykk. Ekki er vatnið gott á bragðið, svo að mér varð að orði, er ég drakk úr honum fyrir nokkrum árum, það sama og kerlingin sagði: „Beiskur ertu, drottinn minn.“

Gvendarbrunnur í Arnarnesi

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

Norðan í Arnarnesi vestanverðu, rétt spölkorn neðan gömlu alfaraleiðarinnar, er lind lítil og rennur úr henni lækur til sjávar. Upp frá honum liggur stígur, sem svo hefur verið fáfarinn um síðustu aldir, að hann er mosagróinn. En vatnið er gott og heilnæmt.

Gvendarbrunnar í Rauðhólum
Þar höfum við fjórða brunninn, sem Gvendur góði vígði. Frá honum streymir nú það lífsins vatn, sem nær allri Stór-Reykjavík er af brynnt daglega. Eiga fáar höfuðborgir jafn gott vatn íbúum sínum.
Af þessu má sjá, að Gvendur hinn góði var á undan sinni samtíð, því með vígslu staða, eins og þessara brunna, hefur hann bent okkur á hve nauðsynlegt það er, okkur mannanna börnum, að ganga með virðingu um náttúruna og vernda hana, þar sem því verður við komið, gegn allri óhelgi.
Alls staðar kringum okkur eru staðir, minni og stærri, sem okkur ber að ganga um með virðingu og beita getu okkar stöðum þessum til verndar, helga þá með virðulegri umgengni. Hér í Hafnarfirði og nágrenni er margt slíkra staða:

Varðan við Vörðustíg

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

1887 var samningur gerður um land Akurgerðis. Landið var merkt vörðum. Nú er þessi varða ein uppistandandi af þeim. Vörðu þessa ber okkur því að vernda.
[Ákjósanlegast er að ganga að vörðunni um stíg frá Merkurgötu.]

Arnarklettarnir tveir
Við Arnarhraun eru klettar tveir með þessu nafni. Hér hefur rétt verið stefnt, því þeir eru nú verndaðir og eiga að standa eins og þeir eru.

Hellisgerði
Gerðið við Fjarðarhelli var tekið í vernd ágætis félagsskapar, félagsins Magna. Þar átti að vernda svipmót Hafnarfjarðarhrauns. Nú er staður þessi verndaður með því að þar er upp risinn einn hinn sérkennilegasti og fegursti garður á landi hér.

Fagrihvammur

Hafnarfjörður

Fagrihvammur ofan Brúsastaða. Loftmynd 1954.

Hvammur vestur í hrauni, ofan Brúsastaða, hefur, að því er ég bezt veit, verið skráður sem einn þeirra staða, er verndaður verður til framtíðar, að hann haldi og beri svipmót hraunsins.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Hún hefur nú verið skráð verndarsvæði og um eitt hundrað metra landspilda allt um kring tjörnina. Var þessa þörf, þar sem við tjörnina er einn gróðursælasti staður hér nærlendis, með fjölbreyttari gróðri en annars staðar er að finna. Og þar verpir í sefinu
flórgoðinn, sérkennilegur fugl.

Bæjarrústir í Setbergstúni
Ofanvert við heyhlöðu á Setbergi eru rústir gamla Setbergsbæjarins. Það er trúa mín, að þar sé að finna allar þær gerðir bæja, sem tíðkazt hafa á landi hér frá landnámstíð fram til síðustu aldamóta. Þessar rústir ber að varðveita, þar til hægt er að grafa þær upp af vísindalegri nákvæmni.

Setbergssel

Setbergssel.

Þá eru ekki selja-rústirnar fáar í nágrenninu, sem vernda ber. Fjárborgir eru margar hér í nágrenninu og ber að varðveita þær. Sumar eru reyndar komnar undir verndarvæng Þjóðminjasafns Íslands og þeirra ágætu manna, er þar starfa.
Lesari góður, vafalaust munt þú geta bent á miklu fleiri staði en hér eru nefndir. Gerðu það, og þú munt eiga í huga þér ánægjulega hugsun um gott verk, sem ekki kostaði mikið.
En umfram allt, tileinkaðu þér með ferðum um nágrennið þá unaðslegu staði, sem eru allt um kring og kalla á þig og þitt óeigingjarna starf, þína óeigingjörnu umhyggju.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 4. tbl. 01.09.1969, Á fornum slóðum – Gísli Sigurðsson, bls. 3.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg.

Bláfjallafólkvangur

Fjallað er um „Bláfjallafólkvang“ í Morgunblaðinu árið 1983. Þar segir m.a. um fólkvanginn, legu hans, stærð og mörk:
Blafjallafolkvangur-1„Þess verður vart, þegar menn ræða sín á milli um fólkvang þennan, að þeir gera sér ekki fyllilega grein fyrir því svæði sem hann nær yfir. Um þetta efni er stuðst við fyrrnefnda grein Kristjáns Benediktssonar í Sveitarstjórna-málum, 1. hefti 1980, en þar segir hann orðrétt þetta: „Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðinu, sem tengist Austurveginum við Sandskeið. Austurhornið er Vífilsfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingarhnúk á Heiðinni háu. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingarhnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól. Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilsfells.
Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og blafjallafolkvangur-2fylgja merktum gönguleiðum. Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegur frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skiðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni. Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m) þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hefi ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70-80 km2.“
Saga fólkvangs á Bláfjallasvæðinu er ekki löng, en er samt orðin hin merkasta á ekki lengri tíma að liðinn er frá því að svæði þetta var opnað almenningi til útivistar að vetrarlagi.“

Heimild:
-Morgunblaðið 13. apríl 1983, Þorgeir Ibsen, bls. 57.

Bláfjallafólkvangur

Bláfjallafólkvangur – auglýsing.

 

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Sexæringur

Í grein í ritinu ÆGIR árið 1929, eða fyrir nákvæmlega 80 árum, má sjá hvernig útgerð báta var og hafði verið háttað í Grindavík allt til þess tíma. Síðan eru ekki liðin svo mörg ár, en þrátt fyrir það muna fáir núlifandi Grindvíkingar tímann fyrir hafnargerð (um 1930). Segja má að skrásetjari hafi verið að setja á blað tímamótasögu í grindvískum sjávarútvegi þá og þegar verið var að hverfa frá vinnubrögðum fornra útgerðarhátta til nútímavæðingar. Og enn eiga eftir að verða umtalsverðar breytingar á útvegssögu Grindvíkinga.

Áttæringur

„Það er ekki meining mín að rekja menningarsögu Grindavíkur með línum þessum, heldur í stórum dráttum benda á helstu breytingarnar, sem orðið hafa á síðari tímum. En til þess er þó óhjákvæmilegt, að fara nokkuð aftur í tímann til samanburðar.

Staðhættir
DregiðGrindavík er ysta bygð sunnan á Reykjanesi. Það eru í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli  hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Bygðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu bygð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið en víðast mjög hrjóstrugt, hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í leningum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir
GangspilFrá landnámstíð hafa fiskiveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og alstaðar annarsstaðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík bygðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fjögra mannaför voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það er því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum.

Aðstoð

Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m. fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýms mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur í Reykjanesröst. Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilisnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svo sömuleiðis, alt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hryggir voru þurkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fylgdu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.

Seilað

Um miðja 19. öld var fyrst komi með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hjet Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrsta þurrabúðin í Járngerðarstaða-hverfi), en í daglegu tali kallað kofinn. Eftir að Jón fluttist þangað var hann alltaf kallaður Jón í Kofanum. Hann fjekk 2 strengi af línu (200 af lóð) inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna. Það hefði mátt ætla að honum hefði verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt. Þegar á land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær, en það bætt upp með því að beita á sjó.

Lagt úr vör

Á vetrarvertíð mun lína hafa verið lítið notað fyrir 1880, en þá einkum notuð framan af vertíð og þegar útá leið. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári, einkum hjá yngri fornmönnunum. En þá var altaf beitt á sjó ef veður leyfði. Hér er ávalt byrjað að leggja línu á grunnmiðunum og lagt til djúps. Þegar búið var að leggja var róið á milli og farið að draga og beita grynnri helming línunnar, hann síðan lagður aftur á sama stað, síðan farið í hinn endann og honum gerð sömu skil, þannig koll af kolli þar til annað hvort var hlaðið, beita þrotin eða dagur kominn að kvöldi, ef veður leyfði. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. –

Norðurvör

Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá er byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli s.al. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill var netútvegurinn til að byrja með; margir byrjað með 6 netum með áttæringum, en þeim smá fjölgaði ár frá ári. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldist áfram að lengjast til þessa.
GrindavíkÁrið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði út í Staðarhverfinu. Það var dekkbátur þó lítill væri og gerði Gísli hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskip við, en í fyrra (1928) voru settar vjelar í níu róðraskip og þrjú voru ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vjelum, en ekki árum, en alt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi veertíð er gert ráð fyrir að alt verði vélskip. Það mun meiga telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðararskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður með handafli.
Um 80 lóðarstrengir munu fylgja hverju skipi og um 80 þorskanet.“

Heimild:
-Ægir 1929, bls. 43-44 – höfundur óþekktur.
Árabátur nútímans

Stóribolli

Gengið var upp með vestanverðu Stóra-Kóngsfelli austan við hraungíginn Eyra. Stefnt var að því að komast í Litla-Kóngsfell, en í því vestanverðu er Dauðsmannsskúti þar sem maður varð úti.

Eyra

Eyra.

Haldið var á bratt hraunflæmið þar sem það kemur í breiðum fossi fram af hlíðinni norðvestan við fellið. Nokkur myndarleg op eru í hlíðinni og líklegt er að þar kunni að leynast nokkrar hraunrásir, sem vert er að skoða við tækifæri.
Framundan var fallegur eldgígur, sem stundum hefur verið nefndur Kóngsfell, en er í rauninni hinn myndarlegasti þrátt fyrir ruglinginn. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að gígurinn hefur nokkurn veginn sömu lögun og hinir tveir kóngsfellsgígarnir á svæðinu. Gamburmosinn er þykkur á kafla og rjúpan virtist kunna vel við sig á „teppinu“.
Haldið var áfram suður með vestanverðum Strompum. Ekki var kíkt í hellana að þessu sinni, heldur gengið hiklaust áfram upp með gígaröðinni og suður fyrir hana. Þar mátti sjá u.þ.b. fimm metra rifu í sléttu helluhrauni. Undir var greinileg rás, en ekki var hugað frekar að henni að þessu sinni, enda lljóslaust. Þoka lagðist að á báðar hendur, en ratljóst var til suðurs.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Stefnan var tekin á sérkennilega nafnlausa gígaröð í nálægt hálftíma gang frá syðsta hluta Strompanna. Yfir slétt helluhraun var að fara. Gígaröð þessi liggur frá SV til NA eins og venjulega gildir um slíkar raðir. Hún er innan við kílómeters löng. Hún gæti verið hluti af lengri sprungurein lengra til norðurs. Fremur lítið hraun hefur runnið frá gosinu, aðallega til vesturs. Um er að ræða apalhraunsafsprengi inni í miðju helluhrauninu allt um kring. Hraunæðar voru víðar, en allar stuttar og þröngar. Norðan við gígaröðinni lá greinileg gömul gata áleiðis inn á heiðina há. Varða var þar skammt austar.
Frá gígaröðinni var að sjá að nálægt tuttugu mínútna gangur væri yfir að Litla-Kóngsfelli, þ.e. fjörutíu mínútur fram og til baka. Ákveðið var því að geyma heimsóknina í Dauðsmannskúta til betri tíma. Þá verður farið um Kerlingarskarð og áleiðis niður Selvogsgötu. Um 1 og 1/2 klst gang er að ræða þá leiðina.

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell og nágrenni.

Þegar staðið var á gígaröðinni rofaði til. Ágætt útsýni var yfir að Miðbolla og Þríhnúkagígunum. Dökk þokuslæðan lá hins vegar yfir austrinu. Þá heyrðist sérkennilegt hljóð í þögninni er nálgaðist óðfluga. Skyndilega flugu fjölmargar gæsir í oddaflugi út úr þokunni til vesturs. Fögur sjón og einstök. Farfuglarnir á heimleið.

Talsverður ruglingur hefur verið á Kóngsfellsnafninu í gegnum tíðina. Líklega er það vegna þess að Kóngsfellin eru þrjú á þessum slóðum; Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Landamerkin hafa verið dregin um „Kóngsfell“, svonefnt „Konungsfell“, einnig nefnt „Stóri-Bolli“, og því sýna landakort hinar ýmsustu útgáfur landamerkjalínanna. Þær eru ýmist dregnar í Kóngsfell (Konungsfell/Stórabolla) ofan við Miðbolla, Stóra-Kóngsfell norðvestan Drottningar eða Litla-Kóngsfell sunnan Stórkonugjár. Kóngsfellið var nefnt svo vegna þess að á haustin söfnuðust í því fjárkóngar svæðanna, sem áttu mörk um fjallið. Þar réðu þeir ráðum sínum áður en hver hélt í sína áttina með sínum mönnum.
Haldið var til baka að Strompunum og þeir síðan þræddir til norðurs, að upphafsreit. Snjór lá í lautum svo ráðlegra var að halda sig á hraunhryggjum í göngunni. Þarna eru víða göt og hellar undir svo allur er varinn góður.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Konungsfell

Konungsfell – kort 1908.

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum).

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.

Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir

Gönguferð um Hafnir.

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu.

Hafnir

Hafnir – frumdrög af meintum landnámsskála.

Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins.

Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanesbaer.is/
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.