Stekkjargil

Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrra skiltinu; „Stekkjargil„, segir m.a.: „Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins“.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.

Á síðara skiltinu: „Stekkur„, má lesa eftirfarandi fróðleik: „Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.

Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjargil

Stekkjargil – Stórhóll t.h.

Þingvellir

Skammt frá fyrrum Valhöll á Þingvöllum, fast vestan við brúna yfir Öxará, er skilti þar sem gestir eru boðnir „Velkomnir til Þingvalla“ með eftirfarandi boðskap:

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

„Þingvellir við Öxará er merkasti sögustaður Íslands og hvergi kemur saga lands og þjóðar fram með sterkari hætti. Hér var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það hér saman árlega allt til ársins 1798. Margir merkustu atburðir Íslandssögunnar urðu hér, svo sem kristnitakan árið 1000 og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Árið 1930 voru Þingvellir friðlýstir og þjóðgarður stofnaður en árið 2004 var þessi helgistaður allra Íslendinga samþykktur á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Þingvellir

Náttúra Þingvalla er talin einstök.

Náttúra Þingvallasvæðisins er einstök í heiminum. Jarðfræði svæðisins og vistkerfi Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatns Íslands, mynda dýrmæta heild. Lífríki vatnsins er auðugt en vatnasvið Þingvalavatns sem er um 1300 km2 hefur að geyma gríðarlega auðlind fyrir komandi kynslóðir. Þingvellir eru hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem hvergi er eins sýnilegur í veröldinni og einmitt hér. Þá má sjá í fjölmörgum sprungum og gjám svæðisins og gliðnun þess sem sífellt á sér stað.

Alþingi stofnað

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Þú stendur nú á mörkum þinghelginnar þar sem meginstörf hins forna Alþingis fóru fram. Hér sagði lögsögumaður upp lög þjóðveldisins á Lögbergi og goðar landsins sátu ásamt ráðgjöfum sínum í lögréttu. Innan þinghelginnar áttu allir menn að njóta friðar en grasivaxnar rústir búða sem tjaldað var yfir, vitna um þau híbýli sem þingheimur dvaldist í meðan þing stóð.
Fljótlega eftir landnám um 870 fóru landnámsmenn Íslands að velta fyrir sér möguleikum varðandi stjórnskipan og uppbyggingu samfélags á Íslandi. Eftir norrænni fyrirmynd voru héraðsþing stofnuð, það fyrsta í landnámi fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar á Kjalarnesi.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg til forna.

Í Íslendingabók er sagt að maður einn, Úlfljótur að nafni, hafi farið Noregs til að kynna sér lagasetningu og við hann voru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi, Úlfljótslög. Einnig er sagt í Íslendingabók að Grímur geitskör, hafi verið ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að hentugast væri að velja Þingvelli fyrir þing þar sem menn gætu komið saman af landinu öllu.
Heimildir um þinghald landsmanna á þjóðveldistímanum (930-1262/64) bera þjóðskipulagi og réttarvitund germanskra þjóða vitni. Alþingi er einstakt meðal forna germanska þinga sökum þess hve heimildarstaða um þinghaldið er ríkulegt. Þar munar mest um lagasafnið Grágás sem gefur einstaka sýn inn í réttarvitund miðaldamanna. Í grunninn var samfélagsskipanin þó byggð á trúnaðarsambandi milli höfðingja og á sambandi frjálsra bænda.

Hvers vegna Þingvellir?

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Líklega voru ástæður þess að Þingvellir voru valdir sem þingstaður landsmanna nokkrar. Vellirnir lágu vel við öllum helstu leiðum sem þá voru notaðar til ferðalaga milli landshluta. Ferðalag til Alþingis gat þó tekið um og yfir tvær vikur fyrir þá sem lengst þurftu að ferðast. leiðin lá oft yfir þvert hálendi landsins þar sem veður gátu verið válynd. Einnig var hér nægur eldiviður, hagar fyrir búfénað og vatn til drykkjar. Í Sturlungu er að nefnt að fornmenn hafi breytt árfarvegi Öxarár þannig að hún félli á vellina til þess a tryggja þingheimi aðgang að rennandi vatni.

Þingvellir í Íslendingasögum
Þingvellir koma víða við sögu í íslenskum miðaldabókmenntum. Þekktustu kappar Íslandssagnanna, Gunnar Hámundarson á Hlíðaenda og Egill Skallagrímsson, eru dæmi um það.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Í Njáls sögu er Gunnar sagður hafa hitt hina skörulegu Hallgerði hér á völlunum: „Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sa hann konur ganga á móti sér og vour vel búnar. Sú var í fararbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kbenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskykkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Gunnar var í tignarklæðum þeim er haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin“.
Og Egils saga segir frá Agli Skallagrímssyni á gamals aldri þegar hann vill ríða til þings: „Ég skal segja þér.“ kvað hann, „hvað eg hefi hugsað. Eg ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvortveggja er full af ensku silfri. Ætla eg að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast, síðan ætla eg að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli; ætla eg, að þar myndi vera þá hrundingar, eða pústrar“.

Samkomustaður landsmanna

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna.

Um tveggja vikna skeið í síðari hluta júnímánaðar ár hvert lifnuðu Þingvellir við þegar margmenni streymdi til Alþingis. Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu við þingheim. Ýmis varningur var boðin til sölu og veislur voru haldnar. Kaupahéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu vörur og þjónustu, trúðar léku listir og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar.

Þingvellir

Tekist var á í leik og alvöru á Alþingi hinu forna.

Fréttir voru sagðar úr fjarlægum landshlutum og kappleikar háðir. Lausamenn leituðu sér atvinnu og ölmusufólk baðst beininga. Þingvellir voru samkomustaður allra landsmanna, þar var grundvöllur lagður að tungu og bókmenntum sem verið hafa snar þáttur í menningu Íslendinga allar götur síðan.

Þingvellir

Á tíundu öld háðu kappar þjóðveldistímans einvígi í Öxarárhólma, en hólmgöngur voru aflagðar eftir kristnitöku árið 1000.

Eitt er víst að Þingvellir voru með sönnu samkomustaður landsmanna um aldir, frá 930 til 1798, þó að á síðari öldum hafi umsvif þinghaldins dregist saman og störf þess einkum takmarkast við dómsstörf og refsingar. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld tengdust Þingvellir sterkt sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og öðluðust því sess sem sérstakur hátíðarsamkomustaður landsmanna.
Þrátt fyrir marga kosti þess að finna Alþingi stað á Þingvöllum hefur jarðfræði svæðisins haft erfiðleika í för með sér. Landsig Þingvallasigdældarinnar, sem ætla má að hafi verið um 4 metra frá því að Alþingi var stofnað um 930, hefur gert það að verkum að vatn hefyr gengið upp í þinghelgina. Talið er að kirkjan á Þingvöllum hafi verið færð vegna vatnságangs á 16. öld og Lögrétta var einnig færð vegna vatnsflaums árið 1594. Hún var þá við að eingangrast á hólma út í miðri Öxará. Mikið landsig olli frekari vandræðum í jarðskjálfahrinu árið 1789 þegar tún fóru undir vatn og gjár opnuðust. Þá seig land um 2 metra þar sem mest var.

Þingvallakirkja og bær

Þingvellir

Þingvallabærinn, kirkjan og þjóðargrafreiturinn.

Það var Ólafur helgi Noregskonungur sem fyrstur stóð fyrir því að kirkja væri reist á Þingvöllum. Hann sendi við í kirkju og kirkjuklukku til landsins nokkru eftir kristnitöku árið 1000. Núverandi kirkja á Þingvöllum var vígð 1859 en turn hennar var endurbyggður árið 1907. Bak við Þingvallakirkju er þjóðargrafreitur Íslendinga sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.
Þingvallabærinn var reistur fyrir 1000 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 1930, en nú er hann í notkun þjóðgarðsins og forsætisráðherra. Tveimur burstum var bætt við bæinn árið 1974 fyrir þjóðhátíð þar sem Íslendingar minntust ellefuhundruð ára afmælis byggðar á Íslandi.“

Þingvellir

Þingvellir – skiltið við Öxará.

Reykjanesviti

Árið 1804 rak á land á svo nefndri Valahnjúksmöl á Reykjanesi geysistóran timburflota. Var hann alveg ein samfelld heild og gyrtur afardigrum járnböndum. Allt voru það ferstrend tré. Það var til marks um stærð flotans, að 10 metra löng tré stóðu upp á endann í honum. Töluvert hafði verið af fötum og fataræflum upp á flotanum, og var haldið, að skip það, sem hafði hann aftan í, hefði farist, en skipshöfnin komist á flotann, en skolast svo aftur af honum í ofviðrinu.

Valahnúkshellir

Valahnúskhellir.

Þegar mannfjöldi mikill hafði bjargað öllu timbrinu undan sjó, fór opinbert uppboð fram; voru þar mættir bændur úr allri Gullbringusýslu. Seldust trén á 4-8 dali hvert, sum þó nokkuð meira, allt upp að 12 dölum einstök tré. Allt voru þetta rauðviðartré, sem kallað var, og valinn viður. Til marks um gæði viðarins, þá var rifið hús eitt í Höfnum sumarið 1929, sem byggt var að mestu leyti úr Reykjanesstrandinu, og var mikið af viðnum alveg óskemmt eftir meira en heila öld. Mestan hluta trjánna keyptu Hafnahrepps- og Vatnsleysustrandarmenn á uppboðinu, dálítið lenti úti á Rosmhvalanesi, en minna í Grindavík og innhreppum sýslunnar. Ár eftir ár voru menn svo úr þessum sveitum að fletta trén í borðvið. Voru borðin svo flutt á hestum í dráttarklyfjum til eigendanna, og sjást vegslóðarnir inn Hafnaheiðina enn í dag, þar sem Strandarmenn og aðrir innan Stapa fóru með lestir sínar.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Hafnamenn einir söguðu lítið af trjánum suður frá, en reru þau aftan í skipum sínum, þegar logn og ládeyða var. Höfðu þeir oft 4-5 tré aftan í einu; var þá lagt af stað um háfjöru að sunnan og norðurfallið látið létta róðurinn með trén, og ef vel gekk, var lent í Kirkjuvogsvörinni um háflæði eftir 6 tíma þembingsróður. Engin byggð var þá á Reykjanesi og urðu sögunarmennirnir því að liggja í tjöldum eða grjótbyrgjum, er þeir hrófuðu upp og skýldu sér í yfir nóttina. En brátt urðu menn þess varir, að uppi á Valahnjúkshamrinum að sunnanverðu, beint upp af þeim stað, þar sem þeir voru að saga, var hellir; skoðuðu þeir hann, og leist þeim hann mjög girnilegur til hvíldar, því að þar var þurr, bjartur og hlýr bústaður fyrir hretviðrum haustsins. Hugðu nú margir gott til þessa staðar fyrir sjálfa sig og seppa sína.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

Næsta dag var svo hafinn krossmessuflutningur úr tjöldum og grjóthreysum upp í hellinn. Bjuggu menn um sig eftir föngum og gjörðust glaðir mjög; var svo etið og drukkið af kappi miklu, sungin kvæði og sögur sagðar og hlegið dátt, svo að hellirinn glumdi við. Loks voru þó lesnar bænir og lagst til hvíldar. Hvíldi nú grafarkyrrð og helgur friður yfir hellisbúum hálfrar eyktar stund. Allt í einu tóku hundarnir að urra og gelta, og í sama vetfangi var kallað:
„Rífið hann Jón upp; hann er að hengjast. Heyrði þið ekki korrið í honum? Og nú er það komið ofan á hann Brand og hann Gvend og ætlar þá alveg að drepa.“
„Komið með kerti fljótt og kveikið ljós.“

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Nú kom öll hundaþvagan þjótandi og skrækjandi upp í fangið á hellisbúum, og skriðu hundarnir titrandi upp fyrir húsbændur sína og þorðu sig ekki þaðan að hreyfa. Kertið fannst ekki í fátinu og myrkrinu, en úti var aftakaveður af landsuðri með úrfelli, en inni voru reimleikar þeir, sem sóttu að andfærum manna og dýra, og mátti því segja, að menn væru þarna milli steins og sleggju, því að hvorugur kosturinn var góður, að flýja út í veðrið eða reyna að haldast við í hellinum, þar til dagur ljómaði á lofti. Loks urðu hellisbúar ásáttir um að hreyfa sig ekki, en hafa við bænir og sálmasöng, það er eftir var nætur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Var nú allt með kyrrum kjörum, á meðan allir voru vakandi, og hellirinn bergmálaði af bænahaldi og sálmasöng. En er lifa myndi þriðjungur nætur, gerðust sumir af hellisbúum svefnhöfgir mjög og hugðu á hvíld um stund; áttu þeir, er vöktu, að vera trúir í hinu andlega starfi og vera til taks, ef friður yrði rofinn eða korr heyrðist í hálsum hinna sofandi manna. En ekki var mönnum þessum fyrr siginn blundur á brá en sömu ósköpin byrjuðu aftur, hundarnir vitlausir með ýlfri og emji, en mennirnir með kyrkingshljóði og korri miklu þar til félagar þeirra voru búnir að fá þá til fullrar meðvitundar. En nú gekk vindur til vesturs og veðrið batnaði, og skammt var til morguns, fóru því mennirnir allir hið bráðasta út úr hellinum og kvöddu hinn ógestrisna hellisráðanda með ófögrum kveðjum.
Liðu svo full 50 ár, að enginn maður varð til þess að leita skjóls í helli þessum, en árið 1862 leigði presturinn að Stað í Grindavík bændum í Hafnahreppi nokkuð af rekalandi prestssetursins. Bóndinn í Kalmannstjörn leigði svonefndar Krossvíkur sem eru stuttan spöl fyrir austan Valahnjúkinn og nálægt landamerkjum Staðar og Kalmannstjarnar. Valahnjúkurinn fylgir Kalmannstjörn.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Veturinn 1865 rak stórt, ferkantað tré á Krossvíkum. Sendi bóndinn vinnumenn sína og sjómenn marga til þess að koma trénu undan sjó og undir sögun, því að hann ætlaði að láta saga tréð þar suður frá. Lá svo tréð allt vorið og sumarið fram yfir höfuðdag á sögunarpallinum, en seint í september voru tveir vinnumenn, Þorleifur og Eyjólfur, sendir suður eftir að saga tréð. Voru þeir útbúnir með nesti og nýja skó, sængurföt og fleira. Loks var tjaldið og tjaldsúlurnar tekið niður af háalofti.
„Hvað eigum við að gera við þetta?“ spurði Leifi gamli.
„Auðvitað liggið þið ekki undir beru lofti,“ var honum svarað.

Reykjanes

Brim við Reykjanes.

„Það ætla eg ekki heldur að gera,“ segir Leifi. „Eg ætla að lofa Valahnjúkshellinum að hýsa okkur“. Þá var Leifi minntur á ósköpin, sem á gengu, þegar Reykjanesstrandið var, en Leifi svaraði með því einu, að lygaþvættingur, heimska og hjátrú vitlausra manna hefði engin áhrif á sig.
Og svo lögðu þeir Þorleifur og Eyjólfur af stað með hund og hest og tjaldlausir. Eyjólfur var með afbrigðum blótsamur, og mátti segja, að hann tæki ærið oft upp í sig.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Næsta morgun um fótaferðartíma er Eyfi kominn á Blágrána gamla að sækja tjaldið. Nú átti auðvitað að spyrja Eyfa spjörunum úr; en það hafðist ekkert annað upp úr honum en hinar óttalegustu formælingar og helv… hann Kolur, og þóttust sumir hafa heyrt tóninn frá Eyfa suður um allt tún, er hann lagði af stað með tjaldið. En víst er, að Þorleifur þjappaði að Eyjólfi með að láta aldrei uppi við neinn, hvernig þeim reiddi af þessa einu nótt í Valahnjúkshellinum og aldrei hafðist neitt frekara upp úr þeim félögum um dvöl þeirra í hellinum.
Sjá meira um strandið við Valahnúkamöl HÉR.

Heimild:
-Rauðskinna I 161.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þingvellir

Á skilti við Þingvallabæinn má lesa eftirfarandi fróðleik: „Þingvallabær er opinber sumardvalur forsætisráðherra. Hann er jafnframt notaður fyrir móttökur á vegum forsætisráðherra.

Þingvellir

Þingvellir – skilti.

Á Þingvöllum hefur líklega staðið skáli að fornu en á 19. öld stóð þar gangabær sem sneri stöfum til suðurs. Sbemma á 10. öld voru Þingvellir teknir til afnota fyrir Alþingi og var þá öllum sem þingið sóttu þar frjáls ummgangur. Þingvellir þóttu góð jörð til úsetu enda skógurinn nýttur til kolagerðar og beita að vetri til. Jörðinni fylgdi silungsveiði í Þingvallavatni og Öxará. Töldust jarðirnar Skógarkot, Hrauntún, Arnarfell, Svartagil og Vatnskot hjáleigur Þingvalla.

Þingvellir

Þigvellir – konungshúsið.

Konungshúsið var reist á völlunum skammt fyrir neðan Öxarárfoss árið 1907 fyrir komu Friðriks VIII. Næstu ár eftir konungsheimsóknina var húsið leigt út til veitingasölu. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var húsið flutt á ís suður yfir Öxará að Þingvallavatni og gistu Kristján X og Alexandrína drottning þar yfir Alþingishátíðina 1930. Eftir það dvöldu ráðherrar í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir eiginkona hans og ungur dóttursonur Benedikt Vilmundarson.

ÞingvellirNúverandi Þingvallbær var byggður árið 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Fyrst voru reistar þrjár burstir og voru ær nýttar þjóðgarðsverði til úsetu sem jafframt var prestur Þingvallakirkju. Eftir bruna Konungshússins var ákveðið að byggja tvær burstir við Þingvallabæinn. Hefur forsætisráðherra frá 1974 haft opinberan sumardvalarstað í Þingvallabænum. Þjóðgarðsvörður hætti búsetu í Þingvallabænum 1995 og var þá tveimur burstum bætt undir forsætisráðuneytið. Í nyrstu burstuni er aðstaða fyrir þóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Kirkja hefur verið á Þingvöllum frá því skömmu eftir kristnitöku árið 1000. Í Kristnisögu er þess getið að Ólafur helgi Noregskonungur, sem kom til valda árið 1015, hafi gefið sérvalin kirkjuvið til að reisa kirkju á Þingvöllum. Ekki er vitað með vissu hvar sú kirkja stóð en þ.e. þingmannakirkja og búendakirkja. Rannsóknir haf asýnt fram á að kirkjan hafi verið færð á staðinn, þar sem hún stendur nú, um 1500. Núverandi Þingvallakirkja var byggð árið 1859 og vígð á jóladag sama ár. Turninum var bætt við árið 1907. Þar eru þrjár klukkur, ein forn án ártals, önur gefnin kirkjunni af Jóni Vídalín biskupi árið 1698, og sú þriðja er „Íslandsklukkan“ frá 1944.

ÞingvellirTil austurs á bal við kirkjuna er Þjóðargrafreiturinn. Garðurinn var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og hófst gerð hans 1940. Þar hvíla bein skáldanna Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) og Einars Benediktssonar (1864ö1940).

Kirkjugarður hefur verið á Þingvöllum um aldir og er elsta minningarmerkið yfir séra Þórð Þórleifsson (d. 1676). Garðurinn hefur verið fyrir meðlimi sóknarinnar. Hér hvíla sumir fyrrum ábúendur ýmissa býla sem núr eru komin í eyði. Síðasti prestur sem borinn var til moldar hér var sér Heimir Steinsson (d. 2000) sem jafnframt gegndi embætti þjóðgarðsvarðar.

Þingvellir

Þingvellir 2023.

Í tengslum við 150 ára afmæli kirkjunnar árið 2009 var ráðist í að endurhlaða stóran hluta af umgjöð kirkjugarðsins. Um leið var smíðað nýtt sáluhlið sem teiknað var eftir gömlum ljósmyndum frá Þingvöllum. Nemendur í Iðnskólanum í Hafnarfiirði smíðuðu hliðið og spreyttu sig þannig á gömlu handvirki undir stjórm kennara skólans.“

Þingvellir

Þingvellir.

Hunangshella
Þegar gengið er eftir gömlu götunni, alfaraveginum sunnan Ósabotna til Hafna, er slétt jökulsorfin grágrýtishella á hægri hönd, nú orðin nokkuð gróin. Á hellunni, sem nefnd er Hunangshella, er varða.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Gamla gatan er vörðuð, en vörðurnar eru nú flestar fallnar. Á Hunangshellu, segir sagan, var finngálkn unnið fyrrum.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annarra þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki.

Hunangshella

Hunangshella.

Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella sem fyrr segir.

-Jón Árnason I 611

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Helgafell

Fólk hefur löngum deilt um tilefni örnefna á fjöllum, fellum, hæðum og hólum. Á Reykjanesskaganum má t.d. finna Fagradalsfjall, Húsafjall, Fiskidalsfjall, Borgarfjall, Festarfjall, Latsfjall, Fjallið eina og Bláfjöll.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Fellin eru fleiri, s.s. Bæjarfell, Helgafell, Sandfell, Þórðarfell, Mælifell, Arnarfell, Vörðufell, Driffell, Oddafell, Húsafell, Sílingafell, Sýrfell, Geitafell, Vífilsfell, Snókafell, Lambafell, Kóngsfell, Skálafell, Grímannsfell, Reykjafell, Lágafell, Úlfarsfell, Mosfell og Ármannfell.

Esjan er t.d. fjall, sem á sér nokkur fell, s.s. Kistufell og Þverfell.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi: „Engar fastar skilgreiningar eru til á þessu, að minnsta kosti ekki ennþá, en samkvæmt málskyni íslenskumælandi manna er fjall stærst, þá fell, síðan hóll, en þúfa minnst. Öll koma þessi orð fyrir í örnefnum, og rétt stærðaröð kemur til dæmis fram í örnefnunum Akrafjall, Búrfell, Orrustuhóll og Svalþúfa.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefnakort.

Örnefnafræðingar benda á að fell vísi oftast til stakrar myndunar (Búrfell, Vörðufell, Snæfell) en fjall geti hvort sem er verið stakt eða hluti af stærri heild (Akrafjall, Ingólfsfjall/fell, Hverfjall/fell, Selsundsfjall).
Almennt finnst mér að hóll vísi til mishæðar í heimalöndum, til dæmis bæjarhólsins, en fjall hins vegar utan bæjarhólsins.“ – Sigurður Steindórsson

Framangreindur fróðleikur er langt í frá að geta talist tæmandi…

Heimild m.a.:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=797

Helgafell

Búrfell.

Krýsuvíkurbjarg

Eftirfarandi texta um „Átakið mikla – Landnámið í Krýsuvík; merkilegasti þátturinn í þróunarsögu Hafnarfjarðar“ mátti lesa í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950:

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1950.

„Eftir að hafa lesið greinarstúf nokkurn, sem birtist í „Hamri“ þ. 20. þ. m. og bar nafnið: „Búskaparbröltið í Krýsuvík„, eftir Ingólf fyrrverandi bónda Flygenring, hefur sjálfsagt margur hugsað á þessa leið: Því fer nú enn þessi blessaður maður að skrifa um landbúnað og reyna að leggja stein í götu landnámsins í Krýsuvík. Á kannske hans bitra reynsla við landbúnað að vísa okkur leið til nýrra átaka á þessu sviði? Eða er það ef til vill kaldhæðni örlaganna, að einmitt nafnið, sem höfundur velur á grein sína, er svo átakanlega sönn lýsing á búskaparháttum höfundar sjálfs, er hann fyrir mörgum árum, sem ungur búfræðingur rak landbúnað að á heimajörðinni Hvaleyri, einni beztu jörð hér í grennd?
Á ekki hér við: ver farið, en heima setið? Ég verð nú að segja það, að mér finnst yfirleitt ekki svo mikill áhugi hjá þjóð vorri fyrir landbúnaði, að annað henti betur en að þeir sem orðið hafa úti á vettvangi landbúnaðarstarfa séu með úrtölur og vonleysi.

Ingólfur Flygerieng

Ingólfur Flygering – f: 24. júní 1896, d; 15. september 1979. Bóndi á Hvaleyri við Hafnarfjörð 1916–1919.  Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1951–1954. Alþingismaður Hafnfirðinga 1953–1956 (Sjálfstæðisflokkur). Landskjörinn varaþingmaður (Hafnfirðinga) nóvember–desember 1950.

Væri ekki betur viðeigandi að heyra eitthvað um landbúnað frá fyrirmyndarbændum, sem hafa jákvæða reynslu, eins og t. d. Helga Þórðarsyni, sem tók við jörðinni, er höf. gafst upp og hætti að búa, og hefur rekið fyrirmyndarbúskap á þessari jörð um fjölda ára með glæsilegum árangri, og sýndi með því hversu megnug móðurmoldin er að skapa börnum sínum velsæld og auð, ef fyrir hendi er framsýni, dugnaður og óbifanleg trú á mátt moldarinnar. Við höfum ávallt nóg af víli og voli, og stunum uppgefinna manna, þessum eldgamla kotungs hugsunarhætti, sem gætir enn allt of mikið, þessar sífelldu úrtölur og skammsýni, sem virðast vera eins og óumflýjanleg örlög margra þeirra manna, sem hrakið hafa eins og reköld upp á náströnd íhaldsins.

Það eru hugumstórir hugsjónamenn, sem eru stöðugt eins og í snertingu við sjálfa framvindu lífsins, sem hverju bæjarfélagi er svo nauðsynlegt að hafa til starfa á hverjum tíma, og við Hafnfirðingar getum hrósað happi yfir að hafa haft slíka menn í fararbroddi um langt skeið, og munu áreiðanlega hafa áfram.

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1950.

Þjóðfélagsleg þróun hinna síðari ára hefur verið mörgum ærið áhyggjuefni, þessi sífelli fólksstraumur úr sveitunum á mölina, jafnhliða því að fisikimiðin eru ískyggilega að láta á sjá, og eins hitt að hinn aukni sjávarhiti, beínlínis valdi því að margar fiskitegundir leiti nú norðar á bóginn, og þar með fjarlægjast strendur vors lands.
En þessi loftlagsbreyting getur aftur á móti haft óútreiknanlega þýðingu fyrir landbúuaðinn, og vel mætti segja mér, að við værum nú að komast inn á hitatímabil. Þessu til sönnunar skal bent á fátt eitt.

Fyrir um þremur árum koma í ljós bæjarrústir undan jökulröndinni á Breiðamerkurfjalli. Þetta er talinn vera bær Kára Sölmundarsonar, Breiðamörk.
Á hvað bendir þetta?

Hnaus

Hnausar í Krýsuvík.

Það bendir til þess, að þá er Kári reisti bæ sinn þá hafi staðið yfir langt hitatímabil, því að engum dettur í hug að Kári hafi reist bæ alveg uppi við jökulrönd, heldur hafi jökullinn þá verið mjög fjarri. En nú eru jöklarnir alltaf að eyðast og gera vonandi langan tíma enn.
Það er kannske eðlilegt, að í peningaflóði stríðsáranna hafi tilfinning manna fyrir þýðingu landbúnaðar eitthvað sljóvgast.

En nú beinast hugir hugsandi manna aftur að þessum mikilvæga atvinnuvegi.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Og er það ef til vill ekki táknrænt upp á hinn rnikla framfararhug, sem ríkt hefur hér í þessu bæjarfélagi undanfarin 24 ár, að Alþýðuflokkurinn sem var brautryðjandi í bæjarútgerð hefur nú merki landbúnaðarins hátt á loft með hinu glæsilega landnámi í Krýsuvík. Og svo aftur á móti sami flokkurinn, sem skellti sér eins og steinrunnið nátttröll í veg fyrir bæjarútgerðina, ætlar sér að leika sama leikinn við landnámið í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík.

En við Hafnfirðingar sjáum nú til þess 29. jan. að sú aðför misheppnaðist.
Nei, það er áreiðanlegt að nú ríður mikið á, að allir sameinist bæði það opinbera og einstaklingar í hinu „mikla átaki“, sem bíður íslenzku þjóðarinnar í því að hefja landbúnaðinn á það stig, sem honum ber, til þess að hann verði fær um að skapa sjálfum okkur og börnum okkar velsæld og auð um ókomin ár.

Reykjavík

Kútterar á legu.

Ekki er úr leið að minna á í þessu sambandi, að stórútgerðin á sína fyrstu tilveru að þakka landbúnaðinum. Þ.e.a.s. að fyrstu kútterarnir, sem keyptir voru til landsins og urðu grundvöllur stórútgerðar, voru keyptir í Englandi fyrir gullpeninga, sem fengust fyrir íslenzku fjallasauðina, sem seldir voru lifandi til Englands. Þetta er ekki ófróðlegt fyrir þá að vita, sem líta niður á landbúnaðinn. Minna má á, að Alþýðuflokksmenn mega vera ánægðir yfir því að eiga ekki ómerkari samherja í áhuga fyrir eflingu landbúnaðar en t. d. eins og Jón H. Þorbergsson, bónda á Laxamýri, sem hefur verið óþreytandi árum saman að hvetja íslenzku þjóðina til nýrra átaka landbúnaðinum til eflingar, og eins sjálfan forseta Íslands, sem í gagnmerkri nýársræðu hvatti íslenzku þjóðina til nýrra dáða á sama sviði.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Kjósendur góðir, forustumenn okkar Hafnfirðinga eru áreiðanlega á réttri leið. Þeir eru vissulega í samræmi við sjálfa framvindu lífsins, því að framtíðin mun sýna, ef við Íslendingar eigum að geta lifað menningarlífi í okkar eigin landi og verða sjálfum okkur nógir, þá verður það landbúnaður, að meira leyti en sjávarútvegur og iðnaður, sem mun koma til með að standa undir velsæld okkar um ókomin ár.
Möguleikarnir í Krýsuvík eru nær ótæmandi, og ef miðað er við það þar sem tækni og nýting hvers konar jarðargæða er komin á fyllsta stig, þá er óhætt að fullyrða, að Krýsuvíkin gæti fætt okkur Hafnfirðinga, að verulegu leyti. – M

Hmar 1950

Hamar 1950.

Í nefndum Hamri 1950 mátti lesa nefnda grein Ásgeirs um „Búskaparbröltið í Krýsuvík“.: „Þegar Krýsuvíkureignin var keypt, var lítið látið uppi um, til hvers hún yrði notuð, nema að reynt yrði að nota jarðhita eða orku gufunnar til þess að framleiða rafmagn, sem leitt yrði til Hafnarfjarðar. — Aftur á móti virtist allt óráðið með ræktun landsins, en margir bjuggust við, að geta fengið þar smáblett fyrir sumarbústað og einhverja garðrækt. Ur þessu hefur ekki orðið ennþá, enda annað komið upp á teningnum, því að eftir 1940, þegar bærinn hafði orðið miklar tekjur, fóru Alþýðuflokksmenn í bæjarstjórn að líta hýru auga til Krýsuvíkur og láta sér detta í hug að reka þar búskap. Smámsaman kom þetta betur í ljós og út úr ráðagerðum Alþýðuflokksins kom fjós fyrir 100 kýr — til að byrja með — og fyrst og fremst ræktun vegna nauðsynlegs heyafla, en auk þess átti að reisa garðyrkjustöð, þar sem hita átti gróðurh. með hveragufu. Þessu næst voru menn ráðnir til þess að skipuleggja og síðan að stjórna framkvæmdum þessum.

Hamar 1950

Hamar 1950.

Fyrst var hafist handa um byggingu gróðurhúsa og húsnæðis garðyrkjumanna, einnig plægt upp nokkuð land, sem ætlað er að rækta. Síðastliðið sumar er hafin bygging á fjósi, tveir heyturnar voru byggðir og haldið áfram smíði á íbúðarhúsi fyrir bústjóra kúabúsins. Svona standa framkvæmdir þessar nú og er það mikið kapps mál bæjarstjórnarmeirihlutans, er enn situr við völd hér í bæ, að halda þessu áfram, hvað sem tautar.
Væri nú ekki úr vegi að staldra við og spyrja: „Hver nauður rak bæjarstjórnina til þess að ráðast í þetta?.
Fyrst er byrjað á gróðurhúsum, þar sem ræktaðir eru tómatar og blóm og máske eitthvað fleira. Var einhver skortur á þessum vörutegundum eða var það gróðavonin sem dró? Allir vita að nóg er til af þessum varningi og þeir sem framleiða þess ar vörur eiga yfirleitt gróðurhús, sem ekki kosta nema lítið brot af því verði er gróðurhús og aðrar framkvæmdir í Krýsuvík kosta, svo að með öllu er útilokað að þessi framleiðsla geti staðið undir kostnaði, hvað þá gefið arð, því að sjálfsögðu bætist við beinan reksturskostnað afborgun og vextir, eins og allir þurfa að greiða.
KrýsuvíkÞá er næsta að athuga kúabúið, sem eins og áður er getið, er skemmra á veg komið, eða með öðrum orðum, fæst er þar enn fyrir hendi sem með þarf, nema ráðsmaðurinn, en verkefni virðist lítið fyrir hann enn sem komið er, þó hefir hann verið á launum vegna þessa fyrirtækis nær 3 ár og mun hann ráðinn alllangt fram í tímann. Hefði nú ekki verið hyggilegra að leita til ráðunauta Búnaðarfélags Íslands um þessi mál, í stað þess að ráða menn til margra ára til þess að undirbúa þessi verk, fyrst endilega þurfti að fara út í þetta ævintýri, það hefði ekki kostað mikið fé að leita til Búnaðarfélagsins.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Nú er búið að eyða í framkvæmdir í Krýsuvík hátt á fjórðu milljón króna, þar hefur bæjarútgerð og bæjarsjóður lagt fram fé og auk þess verið tekið lán til viðbóta með veði í Krýsuvík. Til þess að ljúka þessum mannvirkjum þarf enn mikið fé, að minnsta kosti tvær milljónir króna. Hvernig þeir, sem málum þessum hafa stjórnað, hugsa sér að fá lán til þessara framkvæmda, veit ég ekki, en hitt veit ég að aðrar framkvæmdir bíða, sem meira liggur á og ég er þess vegna með því að harðloka Krýsuvíkurhliðinu — eins og Alþýðublað Hafnarfjarðar orðar það —, því það er fásinna að halda áfram á þessari braut, án þess að stinga við fótum; en að sjálfsögðu þarf jafnframt að gæta þess að bjarga því, sem bjargað verður. Bæjarsjóður fer ekki neins á mis við slíka ráðstöfun, því að frá Krýsuvíkurbúskapnum er ekki neinna tekna að vænta.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Þær framkvæmdir, sem mest liggur á að haldið sé áfram eftir fyllstu getu, eru fyrst og fremst hafnargerðin, vatnsveitan og elliheimilið auk þess er viðhald gatna og endurbætur á því sviði, sem veitir ólíkt meiri atvinnuverkamönnum til handa framkvæmdir í Krýsuvík.“ – Ingólfur Flygenring

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 4. tbl. 27.01.1950, Átakið mikla – Landnámið í Krýsuvík; merkilegasti þátturinn í þróunarsögu Hafnarfjarðar, bls. 1 og 2.
-Hamar, 3. tbl. 20.01.1950, Búskaparbröltið í Krýsuvík, Ásgeir Flygering, bl.s 4.

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1050.

fiskreitur

Vitað er að konur hafa í gegnum Íslandsaldir oft á tíðum borið hita og þunga dagsins. Til eru ýmsar frásagnir því til staðfestingar, einkum frá gestkomandi útlendingum.

Konur í fiskvinnslu

Konur í fiskvinnslu.

J. Ross Browne og fleiri ferðabókahöfundum, sem ritað hafa um Ísland, verður tíðrætt um það, að konur í Reykjavík vinni margvíslega erfiðisvinnu, en karlmenn lifi hóglífi, a.m.k. þegar þeir eru ekki á sjónum. Meðfylgjandi mynd af konum í fiskvinnu er teiknuð af J.R.B.
Árið 1876 birti Þjóðólfur eftirfarandi kafla, þann 16. febrúar:
“Er ekki vinnandi vegur að gera eitthvað fyrir vesalings vinnukonurnar? Ég á einkum við þessar, sem maður sér bera bagga frá morgni til kvölds, einkum út úr og inn um útibúr kaupmanna. Ég er óvanur að sjá konur hafðar eins og áburðar-ösnur og finnst það vera skrælingjalegt í mesta máta…. Þær, sem hafðar eru eins og ösnur, verða ösnur, og út af þeim geta varla alist nema asnar, eða að minnsta kosti múlasnar, það segir sig sjálft.”
Þrátt fyrir mikið og stöðugt vinnuálag eru ekki til heimildir um að konur hafi kvartað – a.m.k. ekki fyrr en í seinni tíð, enda kannski tími til kominn.

Öldin okkar 1867

Skreið

Skreið í trönum.

Gufuskálar
Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
„Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgarður.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

-Skúli Magnússon – Faxi, október 1999.

Ellustekkur

Ellustekkur 2023.

Lambafellsklofi

Gengið var að Lambafelli frá Eldborg ofan við Höskuldarvelli.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Fylgt var gömlum stíg í gegnum hraunið sunnan og austan fellsins. Hann liggur síðan áfram inn í hraunið til austurs austan þess. Lambafellsklofi er alltaf jafn áhrifamikill heimsóknar. Klofinn er misgengi í gegnum fellið, stundum nefndur Lambagjá. Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli er af sama meiði. Glögglega má sjá heila bólstra í berginu þegar farið er í gegnum og upp úr gjánni um mitt fellið. Einstaklega fallegur brólstri er í gjárbarminum þegar upp er komið. Annars er Lambafellið þrjú fell, sem hraun hafa runnið umhverfis. Austasti hlutinn er skilinn frá hinum með Dyngnahrauni, sem runnið hefur úr nokkrum gígum austan Grænudyngju. Sjá má misgengið ganga áfram í gegnum það. Norðvestan við Lambafell er Snókafell, samskonar jarðfræðifyrirbæri, líkt og Oddafellið vestar. Vestan Lambafells liðast Afstapahraunið áleiðis niður í Kúagerði. Norðan þess er Gamla Afstapahraun er liggur allt niður í Selhraun ofan Þorbjarnarstaða í Hraunum. Austar eru hraun frá Mávahlíðum um Einihlíðar.

Lambafell

Lambafell.

Frá Lambafelli sést vel yfir að Mávahlíðum í suðaustri, dyngjunum; Grænudyngju og Trölladyngju í suðri og Keili í vestri.
Frábært veður. Gangan tók klukkustund og eina mínútu.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.