Gjár

Þann 3. apríl 2009 var birt „AUGLÝSING um náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar„. Hvorki í auglýsingunni né í sérstakri, væntanlega rándýrri, nánast óþarfa skýrslu, um friðlýsingarsvæðið, er hvergi, af einhverri ástæðu, getið um fyrrum skógrækt og bústað og athafnir fólks í Gjánum á síðari árum. Sagan sú virðist ekki heldur hafa verið skráð í opinberar bækur bæjarins, þrátt fyrir fyrirliggjandi heimildir þar um. Sagan sú virðist því með öllu huld þeim er hingað til hafa viljað um þær fjalla.

Gjár

Gjár – loftmynd.

FERLIR lék forvitni á að vita nánar um framangreindar mannvistir í árþúsunda gamalli hrauntjörninni frá Búrfelli vestast í Gjánum. Þar má í dag m.a. sjá hlaðna garða, hleðslu við grunn flaggstangar, húsgrunn og leifar af bústað, auk myndarlegra trjáa, sem þar hafa verið gróðursett, vonandi til langrar framtíðar.

Helgi G. Þórðarson átti bústaðinn síðastur manna uns hann varð skemmdarvörgum að bráð um og í kringum 1980. Uppaflega mun Þórir Grani Baldursson, arkitekt, hafa byggt bústaðinn þarna í skjóli innan friðsældar Gjárinnar á árunum í kringum 1949 með samþykki bæjarráðs og staðfestingu bæjarstjórnar, líkt og gekk og gerðist með frumkvöðla skógræktarmanna í Sléttuhlíð á árunum 1925 og síðar.

Gjár

Gjár – garður.

Baldvin Jónsson? eignaðist bústaðinn um tíma uns Helgi og eiginkona hans, Thorgerd Elísa Mortensen, festu kaup á honum um 1974. Þau hjónin stunduðu m.a. skógrækt í nágrenninu, eða allt þangað til bústaðurinn var gereyðilagður í kringum 1980. Áður hafði hann nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á veiklynduðum skemmdarvörgum.
Bústaðasvæðið hafði verið afgirt, en skömmu fyrir friðlýsinguna 2009 höfðu bæjaryfirvöld fyrirskipað að girðingin skyldi fjarlægð. Eftir standa í dag girðingastaurarnir sem og hliðsstólparnir. Starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafði verið fyriskipað að fjarlægja netgirðinguna á stólpunum.

Gjár

Gjár – aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2024. Skástrikaði hlutinn er friðuð svæði. 

Að sögn afkomenda Helga hefur þeim verið fyrirmunað að endurreisa bústaðinn þrátt fyrir gildandi lóðasamning sem þeim er á hverju ári gert að greiða af lögbundin fasteignagjöld.
Þórir Grani (1901-1986) var þekkur arkitekt. Hann starfaði t.d. sem forstöðumaður hjá Teiknistofu landbúnaðarins 1938-1969, teiknaði fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús víða um landið. Hann var frumkvöðull í gerð húsa með stíl fúnksjónalisma. Hins vegar er hvergi getið um hið lítillátlega athvarf hans í Gjánum.

Helgi G. Þórðarson

Helgi G. Þórðarson (1929-2003).

Nefnds Baldvins virðist hvergi vera getið í tengslum við þennan tiltekna bústað.
Á kortum danska herforingaráðsins frá 1903 til 1974 er á tímabilinu skráð örnefnið „Skátaskáli“ í Gjánum. Hingað til hefur ekki verið hægt að rekja uppruna þessa „örnefnisins“.
Helgi G. Þórðarson var í Skátafélaginu á Ísafirði, þá 18 ára. Á aðalfundi þess árið 1948 mátti t.d. lesa eftirfarandi: „Aðalfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu 7. okt. Ritari var kosinn Magnús Baldvinsson, gjaldkeri Helgi G. Þórðarson og skálavörður Kristján Arngrímsson. Á fundinum var samþykkt, að félagið segði sig úr íþróttasambandi Íslands. Var þetta gert með hliðsjón af ályktun, sem gerð var á aðalfundi B.I.S. 1944, þar sem þess er óskað, að skátafélögin taki ekki þátt i opinberum kappmótum.
1. október hyrjaði félagið á að halda regluleg varðeldakvöld eða skemmtifundi með Valkyrjum, og var fyrsti varðeldurinn haldinn í Alþýðuhúsinu 14. október. Tókst þessi varðeldur mjög vel, og hafa slíkir varðeldar verið haldnir mánaðarlega síðan. Þá byrjaði félagið einnig að gefa út fjölritað innanfélagsblað, sem nefnt var Varðeldar, og var Helgi G. Þórðarson ritstjóri þess.“

Gjár

Gjár – skógrækt.

Þess er og getið í heimildum að Helgi hafi verið ötull skógræktarmaður í upplandi Hafnarfjarðar.
Í Morgunblaðinu 2003 er minningargrein um Helga. Þar segir m.a.: „Helgi kvæntist Thorgerd Elísu Mortensen frá Frodby á Suðurey í Færeyjum, hjúkrunarfræðingi 1929. Hún er dóttir Daniel Mohr Mortensen kóngsbónda þar.
Börn Helga og Thorgerdar eru Þórður, Daníel og Hallur, allt fyrrum skátar með þeim formerkjum „skáti – ávallt skáti“).

Gjár

Gjár – herforingjaráðskortið 1967. „Skátabústaður“ var ekki til á eldri kortum ráðsins.

Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Ögurvík við alla almenna vinnu útvegsmanna eins og hún gerðist á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þar gekk hann í barnaskóla og síðar í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp. Hús foreldra hans brann 1943 og fluttist fjölskyldan ári seinna út á Ísafjörð og þremur árum seinna til Reykjavíkur. Helgi lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1945 og landsprófi 1946, stúdentsprófi frá MR 1950, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1954 og M.Sc.prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1958.

Gjár

Gjár – leifar bústaðar Helga.

Í dag (2025) mæta aðkomufólki á vettvangi annars vegar sorglegar leifar sögu bústaðarins og hins vegar blómstrandi afurð skógræktarinnar.
Skv. framangreindu má sjá að yfrið hefur verið nóg að gera hjá Helga og Elísu samfara slitdróttri dvölinni í Gjánum, enda tala vanrækt verksummerkin þar í dag sínu máli. Hafnarfjarðarskátarnir höfðu sóst eftir að kaupa (aðrir segja að yfirtaka) bústaðinn undir það síðasta, en úr varð  því skiljnlega ekki eftir eyðilegginguna. Skátarnir höfðu þá um þann mund þann draum að byggja skála í Helgadal. Bæjaryfirvöld komu í veg fyrir slíkar hugmyndir, líkt og svo margar aðrar annars góðar, en enn í dag má þó þar sjá þar fyrrum undirstöðurnar undir „draumabústað“ þeirra.

Gjár

Gjár.

Skv. upplýsingum afkomenda Helga er þeim enn gert að greiða fasteignagjöld af „bústaðnum“ í Gjánum, þrátt fyrir að hafa verið meinað af hálfu bæjaryfirvalda að endurbyggja hann og nýta svæðið á upphaflegan hátt. Girt hafði t.d. verið umhverfis bústaðastæðið, en bæjaryfirvöld fengu starfsfólk Skógrækarfélags Hafnarfjarðar til að fjarlægja girðinguna, en girðingarstaurarnir standa þó enn. Svo virðist sem bæjaryfirvöld viti ekkert hvernig þau eigi að bregðast við þessu máli, hvorki laga- né skynsamlega.

Kaldársel

Gjár – herforingjaráðskort frá 1927 – hvergi minnst á „Skátaskála“.

Hið skondna er og að á umræddu athafnasvæðinu hafa í skrám Byggðasafns Hafnarfjarðar opinberlega verið skráðar sjö „fornleifar“ þrátt fyrir að slíkar minjar skv. gildandi Minjalögum verða að teljast a.m.k. eitt hundrað ára eða eldri til að geta talist til slíkra skráninga. Engar þessara tilteknu minja í fornleifaskráningunni uppfylla þau skilyrði!

Allir sem og öll er geta gefið nánari upplýsingar um mannvistirnar í Gjánum er velkomið að hafa samband við ferlir@ferlir.is

Sjá nánar um „Friðlýsingu Kaldárhrauns og GjárnaHÉR.

Gjár

Á þessu opinberlega auglýstu korti virðist bústaðasvæðið „Skátaskáli“, efst fyrir miðju (h.m. við O7), vera undanþegið friðlýsingunni!!??

Heimildir:
-Einhverjar 20 ára, 1. tbl. 29.02.1948.
-Morgunblaðið, 308 tbl. 13.11.2003, bls. 40.
-ust.is/library/sida/Nattura/Kald%c3%a1rhraun%20og%20Gj%c3%a1rnar
-ferlir.is/kaldarhraun-og-gjarnar-fridlysing/
Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2024

Sel

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:

Margrét Björk Magnúsdóttir

Margrét Björk Magnúsdóttir.

„Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel. Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera. Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða.

Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ.

Pálstóftir

Pálstóftir.

Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.

Daniel Bruun.

Daniel Bruun (1856 – 1931).

Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli.

Esjubergssel

Esjubergssel / Móasel – uppdráttur ÓSÁ. Dæmi um nokkrar endurgerðir selstöðu.

Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði.

Sædís Gunnarsdóttir

Sædís Gunnarsdóttir.

Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.

Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“

Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Brunnastaðasteinninn

Í Fréttablaðinu föstudaginn 23. febrúar 2018 mátti lesa eftirfarandi frásögn: „239 ára grjót frá Vatnsleysu metið á hálfa milljón“.

Brunnastaðir

Virgill Scheving Einarsson.

„Danskur grjóthnullungur fannst við jarðvegsframkvæmdir á landi Efri-Brunnastaða á Vatnsleysuströnd fyrir nokkrum árum. Steinninn er frá 1779 og fornmunasali í Skotlandi metur hann á hálfa milljón íslenskra króna.
Þegar Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Efri-Brunnastöðum – Skjaldarkoti í Vogunum, erfði landareignina flutti hann heim frá Skotlandi, þar sem hann hafði búið í fimmtán ár, og réðist í heilmiklar framkvæmdir á eigninni.

„Það var skurðgröftur í gangi hérna fyrir þremur árum og ég fór eitthvað að skoða í jarðvegshauginn sem kom upp úr skurðinum og rek augun í sérkennilegan stein sem liggur þar,“ segir Virgill.

Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir.

„Ég sá að það voru stafir á honum þannig að ég þurrkaði af honum og sé að öðru megin á honum stendur ártalið 1779 og hinum megin eru skrautskrifaðir upphafsstafir tveggja einstaklinga.“

Virgill telur víst að steininn hafi verið steyptur til minningar um brúðkaup, veglegur minnisvarði um tímamótaatburð í lífi löngu horfinna ábúenda. „Ofan á honum hefur verið klemma sem hefur brotnað af. Steininn hefur verið skraut.“

Með hjálp fornmunasala og sérfræðinga í Skotlandi komst Virgill að því að steininn kemur frá Danmörku. „Það voru tvíbýli hérna og einhverjir ábúendur hafa gift sig og látið steypa þetta í Danmörku.“

„Steinninn vegur um eitt kíló og Virgill segir hann ekki mikinn um sig, álíka stóran og „Neskaffi-krukku eða eitthvað þannig.“
Hann fór með steininn til Glasgow og sýndi hann fornsala þar í borg.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn – 1779.

„Karlinn hafði hann í viku, lét skoða hann og röntgenmynda til þess að komast að því hvað væri í honum. Niðurstaðan er að í honum er hart danskt granít, sennilega frá Jótlandi. Hann er vel steyptur. Það var ekki komið svona gott sement, eða steinlím eins og þeir kalla það hingað til lands á þessum tíma. Það kom allt frá Danmörku í þá daga. Hann bauð mér 500 þúsund kall í hann og sjálfsagt smyr hann einhverju á hann og selur hann áfram.“

Virgill byrjaði á að kanna áhugann á steininum hér heima en hann reyndist enginn. „Ég talaði við sveitarfélagið hérna og þeir sýndu mér afturendann. Þeir hafa nú ekki komið vel fram við mig hérna í Vogunum. Þeir hirtu líka nafnið af okkur og kalla þetta Voga. Ég á heima á Vatnsleysuströnd en ekki Vogum. Ég sýndi Minjastofnun hann líka og þar var enginn áhugi heldur.“

Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir um 1980.

Virgill ætlar sér því að fara með steininn aftur til Glasgow og selja hann þar. Steinninn hafi í sjálfu sér ekkert gildi fyrir honum enda ekki frá forfeðrum hans kominn.

„Mitt fólk kom hingað úr Árnessýslu 1943 þannig að hann tengist því ekki þannig að ég er bara að spá í að fara með hann úr landi. Þeir segja að það sé ólöglegt en ég ætla bara að láta karlinn fá hann. Hann lætur mig þá fá hálfa milljón fyrir hann. Ég er ekki í neinu hallæri með peninga eða svoleiðis en finnst alveg eins gott að láta steininn bara fara þessa leið.“

Sjá meira um steininn HÉR.

Heimild:
-Fréttablaðið, föstudagur 23. febrúar 2018.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn.

Gígahnúkur

Neðan við Gígahnúk á Hellisheiði er umferðarmerki á staur, „Þjónustumerki fyrir upplýsingar og áhugaverða staði„.

Hellisheiði

Hellisheiði – virkjunarsvæði.

Frá merkinu liggur brattur göngustígur upp á svonefndan Gígahnúk. Þegar upp er komið blasa við tvö skilti. Milli skiltanna er steyptur stöðull fyrir GPS-mælistöð.
Þegar skiltin efst á Gígahnúk eru skoðuð kemur í ljós að bæði hafa þau að geyma sömu upplýsingarnar. Það vestara er öllu greinilegra; tvö kort af Hellisheiðarvirkjunarsvæðinu, annað með örnefnum og borholum og leiðslum. Gangan upp á Gígahnúk er ekki fyrirhafnarinnar virði.
Merkilegra er þó að berja augum allt jarðraskið á og umhverfis hnúkinn að vestanverðu. Þarna hefur verið efnistaka, en frágangurinn getur ekki talist til fyrirmyndar.

Gígahnúkur

Gígahnúkur – skilti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Aðalstræti

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Landnám – Reykjavík„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

„Staðsetning elstu minja sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í vesturhluta Kvosarinnar.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti.

1. Veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2, elsta mannvirkið sem fundist hefur í Reykjavík.
2. Aflöng bygging, sennilega skáli, frá því eftir 871 +/-2.
3. Skáli frá því um 930-1000.
4. Skáli, viðbygging við nr. 3, frá því um 950-1000.
5. Skáli frá því eftir 871 +/-2.
6. Smiðja, sambyggð skálanum nr. 5.
7. Eldstæði og fleiri minjar, líklega frá 9.-10. öld.
8. Bygging frá 10. öld.
9. Túngarður úr torfi með landnámsgjósku í (971 +/-2).
10. Vinnusvæði frá 9.-10. öld þar sem timbur var unnið, dýrum slátrað og skinn sútað.
11. Tvær smiðjur frá 9. og 10. öld.
12. Járnvinnsluofnar og eldstæði frá 9.-10. öld.
13. Kolagröf frá 9.-10. öld.
14. Bygging frá 9.-10 öld.
15. Túngarður frá 9.-10. öld.
16. Brunnur og grjótgarður frá 9.-10. öld.
17. Byggingar frá 9.-10. öld.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti. Staðsetningar minjastaða.

Elsta byggðin í Reykjavík var á svæðinu milli Tjarnarinnar og sjávar. Talið er að fyrstu húsin hafi risið þar á seinni hluta 9. aldar. Við Aðalstræti hafa fundist merkar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þar fannst meðal annars veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2 og rústir skála, sem nú má sjá á Landnámssýningunni handan götunnar.
Fyrstu landnemarnir komu frá Noregi og Bretlandseyjum á 9. öld. Minjarnar í miðbænum gefa góð mynd af því samfélagi sem hér var fyrstu aldirnar. Fólk bjó í skálum, en það var algeng gerð torfhúsa í Skandinavíu á þeim tíma. Í nágrenni skálanna voru smiðjur þar sem málmur var unninn og svæði þar sem járn var unnið úr mýrarrauða.
Dýrabein sem fundist hafa við fornleifauppgröft sýna að landnámsmenn hafa veitt sér fugl og fisk til matar. Þeir stunduðu landbúnað og ræktuðu nautgripi og svín. Rostungur var veiddur vegna tannanna, sem voru verðmæt útflutningsvara, og skinnið af þeim var notað í reipi.“

Landnámssýning

Landnámsýningin í Aðalstræti. Langeldur í miðju skálans.

Reykjavík - skilti

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Fógetagarðinn frá 1893„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Fógetagarðurinn; skilti.

„Þegar Schierbeck landlæknir fór af landi brott árið 1893 seldi hann Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta húsið sitt og afnot af gamla kirkjugarðinum fylgdi með í kaupunum. Anna, kona Halldóts, annaðsist garðinn af mikilli alúð næstu áratugina. Frá þessum tíma var komið nafnið Bæjarfógetagarðurinn, eða Fógetagarðurinn, sem enn loðir við hann.
Frá Anna Daníelsson var mjög virk í félagsmálum og átti meðal annars sæti í stjórn líknarfélagsins Hringsins og skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík. Hún tók einnig virkan þátt í starfsemi Garðyrkjufélags Íslands og átti sæti í sýningarnefnd vegna garðyrkjusýningar í tilefni 50 ára afmælis þess árið 1935. Anna lést árið 1940.

Faðir Reykjavíkur
Árið 1954 var komið fyrir í garðinum styttu af Skúla Magnýssyni landfógeta (1711-94), sem kallaður hefur verið „faðir Reykjavíkur“. Þegar grafið var fyrir stöpli styttunnar komu í ljós leifar af suðurvegg kirkjunnar sem stóð þar áður.

Reykjavík

Aðalstræti 10.

Skúli stofnaði ásamt fleirum ullarverksmiðjur við Aðalstræti um miðja 18. öld, svokallaðar Innréttingar, og áttu þær mikinn þátt í því að Reykjavík óx og dafnaði sem kaupstaður. Enn stendur eitt hús Innréttinganna, Aðalstræti 10, en það er elsta húsið í miðbæ Reykjavíkur, reist 1762. Þar er nú sýning á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.“

Auk þessa skiltis eru fimm önnur í Fógetagarðinum er lýsa m.a. Víkurgarði, Víkurkirkju, Byggð við Aðalstræti á 10. öld og Landnámi í Reykjavík.

Skúli fógeti Magnússon

Skúli landfógeti Magnússon. Stytta í Fógetagarðinum.

Georg Schierbeck

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Skrúðgarð frá 1883„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Skrúðgarður frá 1883; skilti.

„Georg Schierbeck fæddist árið 1847 í Óðinsvéum á Fjóni og kom hingað sem landlæknir árið 1882. Schierbeck stundaði nám í garðyrkju áður en hann helgaði sig læknisfræði og hafði mikinn áhuga á henni. Eftir aað hann reisti sér hús við norðurnda gamla kikjugarðsins í Aðalstræti fór hann fram á að fá að stunda þar garðrækt. Hann fékk leyfi til þess að rækta tré og blóm í kirkjugarðinum, sem þá var aflagður, en var gert að reisa timburvegg umhverfis garðinn og greiða 25 kr. á ári fyrir afnotin. Hann mátti þó hvorki flytja neitt burt úr garðinum né reisa þar ný mannvirki. Schierbeck gróðursetti meðal annars silfurreyninn sem enn stendur og er talinn elsta tréð í Reykjavík.
Georg Schierbeck var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Hins íslenska garðyrkjufélags árið 1885 og var fyrsti forseti þess.“

Í Fógetagarðinum eru auk þessa fimm önnur upplýsingaskilti um Víkurgarð, Víkurkirkju, Byggð við Aðalstræti á 10. öld, Landnámið o.fl.
Reykjavík - kilti.

Reykjavík

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Víkurkirkju„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Víkurkirkja; skilti.

„Vitað er að kirkja var byggð í Reykjavík fyrir 1200. Elsti máldagi Víkurkirkju er frá árinu 1379 og er hún þar sögð helguð heilögum Jóhannesi.
Í Vík bjuggu höfðingjar af ætt Ingólfs Arnarssonar landnámsmanns. Þormóður langafabarn hans var allsherjargoði árið 1000 þegar kristni var tekin á Þingvöllum. Eftir kristnitökuna létu blndur og höfðingjar byggja kirkjur við bæi sína vegna þess að þeim var lofað því að þeir fengju pláss fyrir jafn margar sálir í himnaríki og rúmuðust í kirkjum þeirra. Kirkja gæti því hafa verið byggð í Reykjavík þegar á 11. öld.
Bóndinn í Vík lét reisa torfkirkju við bæinn árið 1724. Hálfri öld síðar var kirkjan endurbyggð og torfveggjunum skipt út fyrir timburveggi. Einnig var byggður klukkuturn framan við kirkjuna. Sú kirkja var notuð sem dómkirkja eftir að biskupsstóllinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur árið 1785, en þótti reyndar of lítil og ómerkileg sem slík. Eftir að Dómkirkjan við Austurvöll var vígð árið 1796 var gamla kirkjan rifin og grundin sléttuð.
Talið er að kirkjur í Vík hafi ávallt staðið á sama stað í kirkjugarðinum. Í stéttinni í miðjum garði má sjá skjöld sem sýnir hvar altari kirkjunnar er talið hafa verið.“

Reykjavík - Víkurkirkja

Reykjavík – minnismerki um Víkurkirkju.

Reykjavík - Víkurgarður

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Víkurgarður„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Víkurgarður; skilti.

„Gamli kirkjugarðurinn við Aðalstræti, Víkurgarður, er talinn hafa verið í notkun í um 800 ár, eða frá því stuttu eftir kristnitöku árið 1000 og fram á 19. öld. Jarðað var bæði í garðinum sjálfum og inni í kirkjunni. Talið er að garðurinn hafi upphaflega verið um 1500 m2 að flatarmáli.
Kirkjugarðurinn var formlega aflagður árið 1838 þegar Hólavallagarður var tekinn í notkun, en nokkrir einstaklingar voru þó jarðaðir í gamla garðinum eftir það. Ómögulegt er að segja til um hversu margir voru grafnir í Vígurgarði frá upphafi, en ætla má að jarðneskar leifar um þrjátíu kynslóða Reykvíkinga hvíli hér.
Vigurgarður er friðlýstur minjastaður, en það er mesta mögulega vernd sem menningarminjar á Íslandi geta notið.“

Í Fógetagarðinum má auk þessa finna fimm önnur fróðleiksskilti um garðinn og nágrenni hans, s.s. fróðleik um Víkurkirkju, byggð við Aðalstræti á 10. öld, landnámið og fleirra.

Reykjavík

Reykjavík 1786 (Aage Nielsen-Edwin).