Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 400 slíkum.
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Elstu selstöðurnar voru fyrir kýr, en langflestar eru fjársel þar sem búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars, mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar til vetrarnytja.
Sel – hús
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara.
Kringlumýri – ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.
Á Reykjanesskaganum er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í stakt rými; eldhúsið. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í stöku rými.
Möngusel ofan Hafna.
Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum inngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins. Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)). Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr.
Hellisskjól við Hnúkasel.
Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.
Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, reyndar breytileg frá einum tíma til annars. Elstu selshúsin voru lítil, nánast eins og og smákofar, en þegar fram leið stökkuðu vistarverurnar; baðstofan um 240×360, búr um 180-120 og eldhús um 120×120. Til eru sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.
Strandarsel (Staðarsel) í Selvogsheiði.
Ekki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, s.s. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik.
Merkinessel yngra.
Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.
Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim í gegnum tíðina, ef vel er að gáð.
Réttir
Rétt í Stóra-Hamradal.
Réttir voru ekki fast við sel á Reykjanesskaganum, enda seinni tíma mannvirki, þ.e. eftir að seljabúskapurinn lagðist af um og eftir 1870. Þó má víða greina litlar réttir í tengslum við selin, s.s. vorréttir, fráfæru- og rúningsréttir, en slíkar réttir voru þó yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamraveggnum í Stóra Hamradal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli í lok 19. aldar. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.
Fjárskjól
Bekkjarskúti.
Fjárskjól eru um 320 á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sum þeirra eru nálægt seljunum. Samkvæmt örnefnalýsingum eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunabæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum.
Fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Þar skammt frá er stórt fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í hraunrásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar.
Fjárborg – fjárbyrgi
Óttarsstaðaborg.
Fjárborgir (hlaðnar) eru um 145 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir óvæntum veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum.
Stakkavíkurborg.
Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki og „fjárhús“ heima við bæi á vetrum.
Fjárborgirnar voru jafnan grjóthlaðnar, en þó má víða sjá að torf hafi verið notað við gerð þeirra, s.s borgirnar ofan Flaknastaða og Grænaborg í Njarðvíkum.
Nátthagi – smalabyrgi
Óttarsstaðasel – nátthagi.
Nátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í skjóli fyrir vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta. Við flest selin eru fallegir grónir nátthagar.
Stekkur – kví
Stekkur norðan Hádegisskarðs.
Stekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum á meðan þær voru mjólkaðar. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum. Í sumum seljanna eru fleiri en einn stekkur, misgamlir. Fjöldi stekkja í fjölnota selstöðu geta sagt til um fjölda bæja, sem þar höfðu í seli. Stærð stekkjanna gefa einnig mynd af stærð fjárstofnsins hverju sinni.
Flankastaðastekkur.
Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr trjástofnum eða timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar voru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Hlaðnar kvíar og stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni. Hvorutveggja voru jafnan staðsett í góðu skjóli.
Arahnúkasel – stekkur.
Stekkir í spottkornsfjarlægð voru jafnan hlaðnir utan í hæðir eða bergveggi þar sem auðvelt var að leiða eða reka fé að þeim, s.s. við Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II. Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa einnig hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim.
Brunnur – vatnsstæði
Fornasel – vatnsból.
Sel voru jafnan staðsett við brunna eða vatnsstæði, gjarnan nálægt ystu mörkum jarðnæðis. Vatn var bráðnauðsynlegt í seljum eða í nálægð við þau. Vatnsbólin gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli frá einum tíma til annars. Á þurrkatímum eru dæmi um að yfirgefa hafi þurft sel áður en seltíma lauk. Í slíkum tilvikum var ótímabærum draugagangi kennt um.
Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleikum. Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar.
Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.
Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt „Vatnsbólspölkorn“ væri á milli þess og selsins. Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.
Gerði – garður
Stekkur í Eimubóli.
Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls í Selvogsheiði er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur ofan Mosfellsbæjar eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, sem og mörg seljanna í Vogaheiði.
Selstígur – selsgata
Selsstígur.
Selstígur lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir flestum þessara fyrrum stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum.
Selsgatan var mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km). Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 6-7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá við leiðirnar vörður og/eða vörðubrot.
Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Selvogsheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra.
Mannsskapur í seli
Í stekknum.
Í sérhverju seli var a.m.k. selsmatselja og smali. Fjöldinn fór eftir umfanginu.
Bóndinn, eða einhver í hans umboði, flutti vistir í selið og síðan færði nytjarnar til bæjar.
Gegnumgangur um selin hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar virðast hafa nýtt sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði til mjalta að morgni eða sídegis var smalinn jafnan látinn borða borða „skattinn“ sinn, þ.e. hann fékk að borða við skilin.
Nokkrar sögur eru til um að selsmatseljur hafi orðið ófrískar í selinu. Oftar en ekki var huldufólki eða útlegumönnum um kennt, en ógjarnan hugað að ferðum húsbóndans í selið eða aðkomumönnum þar á ferð.
Selsvarða
Lónakot – Skorásvarða.
Selsvarðan stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu. Margar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar orðnar grónar.
Verklag í seli
Selshús – tilgáta ÓSÁ.
Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti, sem fyrr sagði. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.
Skyrhóll neðan Þorkelsgerðissels.
Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur.
Mjólkurtrog.
Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.
Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Mjólkurtrog.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.
Ef rennt var úr trogunum var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat. Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.
Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið.
Rjómatrog.
Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar, alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.
Trog.
Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn.
Smalaskjól við Efri-Straumsselshella.
Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.
Smalaskáli.
Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.
– ÓSÁ
Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.
Grindavíkurskipið
Grindvíkingar hafa í seinni tíð verið duglegir að farga fortíð sinni á áramótabrennum. Má þar t.d. nefna gömlu árabátanna eftir að notkun þeirra var hætt.
Áramótabrenna…
Nú hafa nokkrir samviskubitnir afkomendur, „Hollvinir áttæringsins, látið smíða endurgerð af gömlum tírónum áttæringi með Grindavíkurlagi að tilstuðlan bátasmiða frá Reykhólum og komið honum fyrir utan Kvikuna (fyrrum Saltfiskssetursins) í Grindavík.
Þjóðminjasafnið hafði forgöngu um að láta teikna upp „síðasta Grindavíkurskipið“ á sínum tíma og Lúðvík kristjánsson notaði síðar í stórvirki sínu um „Íslenska sjávarhætti„.
Í nýjasta Sjómannadagsblaði Grindavíkur má lesa eftirfarandi um „Grindavíkurskipið„:
„Allt frá upphafi Íslandsbyggðar var árabáturinn eitt helsta tæki fólks við sjávarsíðuna til sjálfsbjargar. Hann var hluti af daglegu amstri fólks og áhrifavaldur í lífi þess og starfi. Báturinn var forsenda þess að maðurinn gat nýtt sér hafið til framfærslu. Í þúsund ár var hann fiskibátur Íslendinga, oftast knúinn afli mannsins þar sem hver og einn ræðari lagði til orkun af sjálfum sér. Þó að tími árabátanna sé löngu liðinn lifa áfram með þjóðinni ótal tilvitnanir og orðtök frá fyrri tíð sem vitna um mikilvægi hann fyrir líf og störf þjóðarinnar.
Haukur Aðalsteinsson segir m.a. eftirfarandi um fiskibátinn: Þótt uppruni tvíæringsins sé óþekktur er ástæða til að ætla að hann hafi verið algengur fiskibátur við Flóann allt frá fornu fari sbr. lýsingu Skúla Magnússonar: „Sótt var á tveggja manna förum frá ómunatíð í Hafnarfirði og við Stapa“.
Hollvinir áttæringsins í smiðju bátamiðanna.
Haukur segir að árabáturinn hafi jafnan verið skipt í stærðir og samkvæmt hefðinni voru þeir skilgreindir eins og áratal þeirra gaf til kynna: Tvíæringur, feræringur, sexæringur, áttæringur, teinæringur og tólfæringur. það var mikill munur á stærðum skipa og báta sem gengu til sjóróðra og má segja að þar hafi ólíkar aðstæður ráðið. Miðað við hleðslu batanna var miðað við að eftir stæði eitt borð fyrir báru. Á bátunum var sótt jafnt á handfæri og að net eftir að þau komu til sögunnar, en á færaveiðum var legið við stjóra meðan setið var fyrir fiski.
Við undirritun smíðasamnings um byggingu þessa tíróna áttærings með Grindarvíkurlagi voru m.a. fulltrúar Hollvinafélags Áttæringsins, Ólafur R. Sigurðsson, Óskar Sævarsson og Marta Karlsdóttir.
Á vefmiðlinum Vísi 19. jan. 2023 var viðtal við bátasmiðinn Hafliða Má Aðalsteinsson undir fyrirsögninni „Smíða áttæring forfeðranna úr sunnlenskum skógarvið“:
„Meira en öld eftir að Íslendingar hættu almennt að róa til fiskjar á áttæringum eru menn aftur teknir til við að smíða slíkt skip, og það úr íslenskum skógarvið. Tilgangurinn er að halda upp á menningararfinn. Í fréttum Stöðvar 2 var litið inn í skemmu í eigu Faxaflóahafna í Korngörðum í Sundahöfn. Þar vinnur Breiðfirðingurinn Hafliði Már Aðalsteinsson við þriðja mann við að gera upp gamla trébáta. En núna eru þeir að smíða fornbát, svokallaðan áttæring, sem menn réru á fyrir tíma vélbátanna.
Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.
„Þú verður að athuga það að þessir bátar eru grundvöllur að útgerð nútímans. Afar þeirra sem gera út núna gerðu út svona báta. Þetta er bara hluti af menningunni okkar og sögunni okkar,“ segir Hafliði.
Þessi verður ellefu metra langur, á stærð við teinæring en samt áttæringur, smíðaður eftir teikningu úr Íslenskum sjávarháttum. Áhugamenn í Grindavík undir forystu Ólafs Sigurðssonar skipstjóra ásamt Sjómannafélaginu í Grindavík standa fyrir smíðinni.
„Það var enginn svona til. Það var búið að henda þeim öllum. Við erum duglegir að brenna þetta á gamlárskvöld. Áttæringar voru ekkert margir. En svo voru sexæringar, það voru bátar sem þeir notuðu mest í sjóróðrana. Áttæringana í hákarlalegurnar og svoleiðis eitthvað stærra, og svo í flutninga. Menn réðu ekkert við stærri báta en sexæringa. Það þurfti að draga þetta upp alltaf undan sjó. Það voru engar hafnir.
Áttæringurinn á smíðastofunni.
Bátasmíðin fer fram í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn í Reykjavík. Hafliði er sjöundi ættliður bátasmiða, lærði skipasmíðar af föður sínum í Hvallátrum á Breiðafirði, og þar smíðuðu menn síðast svona bát árið 1904 eða 1906. Þó ekki úr íslenskum við.
„Forfeður okkar notuðu rekavið í þetta. Núna er hann hættur að koma. Þá notum við íslenskt.“
Þannig eru böndin og kjölurinn úr sunnlenskum skógi, íslenskt greni úr Þjórsárdal.
„Þetta eru máttarviðirnir. Eins og kjölurinn, rúmlega sjö metra langur. Þannig að það eru orðin sæmileg tré til.“
-Þannig að það er hægt að treysta íslenskum skógum fyrir bátum?
„Já, já, já. Við getum gert það,“ svarar skipasmíðameistarinn. „Finnsk fura fer þó í byrðinginn en möstrin tvö eru íslenskt lerki.“
En hafa menn áður smíðað bát úr íslenskum skógarviði?
Grindavíkurskipið í smíðum.
„Ekki svo að ég viti.“
-Heldurðu að landnámsmenn hafi gert það?
„Jaa.. Hvernig voru skógarnir hérna þá? Voru þeir háir? Eins og það sem við þekkjum af þessu er óttalegt kjarr og hefur varla verið mikið nothæft í smíðar, – ekki í báta. En við vitum að fjörurnar voru fullar af við, væntanlega frá Síberíu.“
-En hvenær á svo að sjósetja?
„Sjómannadaginn.“
-Við hátíðlega athöfn í Grindavík?
„Það geri ég ráð fyrir, já. Það er þeirra hlutur. Ég ætla bara að vera við,“ svarar Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.“
Grindavíkurskipið í smíðum.
Í Vísi 1. júní 2023 er aftur fjallað um bátasmíðina:
„Bátasmiðir voru í dag að leggja lokahönd á fyrsta áttæringinn sem smíðaður hefur verið á Íslandi í meira en öld. Máttarviðir bátsins eru afrakstur íslenskrar skógræktar.
Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá smíði bátsins í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn. Þar var Hafliði Már Aðalsteinsson að tjarga, þó ekki með biksvartri tjöru heldur blandaðri með línóleum.
„Ef þetta er eintóm tjara þá verður hún lin í sólinni og þá fer fólk að skemma fötin sín á þessu. Af því að þetta verður sýningargripur fyrir fólk í góðum fötum en ekki fyrir sjómenn í skinnfötum, eins og var í gamla daga,“ útskýrir bátasmiðurinn.
Báturinn er ellefu metra langur og nær teinæringi í stærð en áttæringi. Svona bátar voru helstu atvinnutæki landsmanna á nítjándu öld fyrir tíma vélbáta.
Grindavíkurskipið við Kvikuna í Grindavík 03. júní 2023.
Við sögðum frá bátasmíðinni í fréttum í janúar þegar hún var nýhafin. Verkbeiðendur eru áhugamenn í Grindavík um forna sjávarhætti og er áformað að Grindvíkingarnir sæki bátinn á morgun.
Hafliði heldur að svona skip hafi síðast verið smíðað á Íslandi árið 1910. Þó að báturinn teljist áttæringur er hann á stærð við teinæring, ellefu metra langur.
„Þeir voru ekkert mikið stærri meðan menn voru að nota þetta í alvörunni. Þetta er náttúrlega nítjándu aldar bátur í rauninni. Svona voru þeir áður en vélarnar komu til.“
Einar Jóhann Lárusson er yngsti iðnlærði bátasmiður landsins.
Yngsti tréskipasmiður landsins, Einar Jóhann Lárusson, var að leggja lokahönd á siglutrén. Þau verða tvö á bátnum, afturmastur og frammastur, smíðuð úr íslenskum við.
„Íslenskt lerki úr Þjórsárdal. Það er mjög gaman að geta byrjað að nota íslenskan við í þetta,“ segir Einar.
„Máttarviðirnir, bönd, kjölur og stefni, eru greni innan úr Þjórsárdal og svolítið af því reyndar úr Heiðmörkinni líka. En furan er finnsk og naglarnir norskir. Þannig að þetta er svona norrænt, samnorrænt,“ segir Hafliði.
Báturinn verður frumsýndur á sjómannadeginum á sunnudag í Grindavík á Sjóaranum síkáta.“
Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2023, Grindavíkurskipið, bls. 36-47.
-https://www.visir.is/g/20232366920d/smida-attaering-forfedranna-ur-sunnlenskum-skogarvid
-https://www.visir.is/g/20232422716d/fyrsti-attaeringurinn-fra-batasmidum-i-heila-old
Grindavíkurskipið í Grindavík í júní 2023.
Teigur – Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir
Í skýrslu um „Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018 eru teknar saman upplýsingar um hús í hverfinu.
Teigur 1988.
Um sambyggðu húsin Klöpp og Teig segir: „Teigur var byggt 1934. Fyrstu eigendur voru Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir. Um er að ræða metnaðarfullt steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar. Það er lítið breytt og er hluti af svipmóti hverfisins. Húsið var byggt 1934, sambyggt Klöpp sem byggð var fjórum árum áður. Steinsteypt hús, ein hæð með einhalla bárujárnsþaki. Útveggir suðvesturhliðar og beggja gafla ná upp fyrir þakið. Þeir eru láréttir að ofan með tökkum. Um tvö sambyggð hús er að ræða en þau eru svo keimlík að nær er að fjalla um þau sem eitt hús með tveimur íbúðum.
Klöpp 2008.
Útidyr eru á göflunum. Við suðurgaflinn er lítil viðbygging úr steinsteyptum hleðslusteinum en sambærileg bygging er ekki á Klöpp. Suðausturhluti hússins hefur verið með skeljasandsmúrhúð á suðurhlið sem að mestu leyti hefur máðst af. Lítilsháttar munur er á frágangi við þakbrún húshlutanna tveggja.
Að Teigi er upphleypt, lárétt brík neðan við takkana en á Klöpp er lítilsháttar láréttur stallur í sömu hæð og efri brún bríkur á Teigi. Á norðvesturhliðinni slútir þakskeggið fram yfir útvegginn.
Teigur og Klöpp 2023 – Þorbjarnarfell í bakgrunni.
Gluggaskipan er líklega óbreytt frá upphafi en gluggar hafa allir verið endurnýjaðir og póstaskipan líklega breytt. Búið er í Klöpp en ekki á Teigi.
Stíleinkenni sem þessi hafa gjarna verið kennd til gotnesk áhrif. Einar Erlendsson húsameistari teiknaði nokkur hús í Reykjavík með þessum einkennum, meðal annarra hús Sturlubræðra við Laufásveg. Nokkuð sérstætt hús.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
„Húsin byggðu hjónin Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir árið 1934. Þau bjuggu áður í Gamla-Teigi sem var fyrir Austan Buðlungu.“ Teigur var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Ekkert hús er við Teig en fjárhúskofi var áður um 20 m ASA við en er horfinn.“
Teigur og Klöpp 2022.
Um Klöpp eða Vestur‐Klöpp segir: “ Byggingarárið er 1930. Fyrsti eigandi var Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir. Um er að ræða metnaðarfull steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar, hluti af svipmóti hverfisins. Önnur lýsing er sú sama og um Teig.
Húsið var byggt 1930 en fjórum árum síðar var byggð spegluð bygging við það sem nefndist Teigur. „Húsið byggðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir árið 1930. Þau bjuggu áður í Gömlu-Klöpp og síðar í Bjarmalandi“. Um 15 m norðaustan við húsið er geymsluskúr, hús 19. Klöpp áttu einnig annað fjárhús sem stóð nálægt þeim stað sem dreifistöðin er nú við Hraðfrystihúsið en það er horfið.“
Gamla-Klöpp.
Klöpp var myndarbýli austan Buðlungu, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar, sem og skemma og útihús. Á túnakorti 1918 er hluti Klappar sagt vera Gerði, sem engar heimildir eru til um. Líklega er þar um að ræða bæinn Vestur-Klöpp. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi.
Árni Guðmundsson frá Teigi.
Í viðtali við Árna kom fram að „bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús a hólnum Harðhaus, sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu [þ.e. Teig]. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði“.
Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.
Við framangreint má bæta að Ármann Árnason keypti Teig af föður sínum árið 1969. Árni Guðmundsson hafði áður, 1947, keypt hálfa jörðina Klöpp af móður sinni, Margréti Árnadóttur. Sýslumaður setti húsið á uppboð árið 1988 vegna kr. 25.000- bankaskuldar, auk hálfrar jarðarinnar Klappar. Landsbankinn keypti húsið og jarðarhlutann. Ómar Smári, sonur Ármanns taldi gjörning sýslumannsins ólöglegan hvað varðaði hálfa jörðina Klöpp. Eftir áralangan málarekstur samþykkti sýslumaður að afhenta afkomendum Ármanns jarðarhlutann og þar með hlutdeildina í óskiptu landi Þórkölustaðahverfis.
Klapparbærinn vestan Buðlungu.
Eigandi Klappar, Jón Ársæll Gíslason, keypti húseignina Teig af Landsbankanum árið 1992 og nýtti það að hluta til íbúðar uns Sverrir Sverrisson keypti Teig árið 2021 og hefur hann síðan verið að gera húsið upp til heiðurs sæmdarhjónunum er byggðu það upphaflega. Sverrir verður með opið hús fyrir afkomendur hjónanna á afmælisdegi Árna, 4. júní n.k. (2023).
Árni Guðmundsson frá Teigi minning 1991
Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri), Miðbær (nú horfinn) og Austurbærinn. Árni Guðmundsson segir frá.
Árni fæddist 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Lífshlaupi hans spannaði nánast eina öld; rúman mánuð vantaði hann í 100 árin.
Þau voru falleg hjónin Árni og Ingveldur í Teigi, svo sallafín og strokin með höfðingjafasi, ástfangin eins og unglingar frá því ég sá þau fyrst, allt þar til leiðir skildust, þegar hún var komin þétt að áttræðu. Nú hefir hann aftur hitt fallegu stúlkuna sína eftir rúmlega 20 ára aðskilnað, sem oft hefir verið honum erfiður, en því mótlæti mætti hann einsog öðru, sem á hann var lagt, æðrulaus eins og formanni sæmir. Framan af ævinni var hann einmitt formaður og útvegsbóndi í Klöpp og síðan í Teigi í Grindavík. Það fórst honum vel úr hendi eins og annað, sem hann tók að sér.
Teigur – minningarskjöldur.
Ég hefi bæði séð í rituðu máli og eins hefir sagt mér gamall háseti hans, að hann hafi verið frábær stjórnandi til sjós, aldrei tapað stillingu á þeim vettvangi, jafnvel á örlagastundum, sem verða svo margar hjá sjómönnum, ekki síst meðan opnu trillurnar voru aðalfarkosturinn, en einmitt slíkum báti stjórnaði Árni.
Gamla Klöpp – flugmynd ÓSÁ.
Þau hjónin, Árni og Ingveldur Þorkelsdóttir, f. 14. des. 1891, eignuðust 11 börn. Úr þeim hópi misstu þau tvo drengi í bernsku.
Árni var maður gleðinnar, naut sín vel þar sem fagnað var, söng bæði mikið og vel og var lengi í kór í Grindavík. Hann var kátur og hlýr í dagfari og mjög spaugsamur. Það væri efni í væna bókað lýsa persónuleika Árna og fer ég ekki út í þá sálma, en það segir dálitla sögu, að hans hefir oftverið getið í rituðu máli og vitnað bæði til hans og heimilis hans. Hinn þekkti þáttagerðarmaður Jónas Jónasson átti við hann ítarlegt viðtal í útvarpinu fyrir nokkrum árum og fór Árni þar á kostum. Höfð hafa verið við hann blaðaviðtöl og síðast eftir að hann var kominn á tíunda áratuginn. Það var opnuviðtal í Morgunblaðinu.
Fyrsta skólfustungan fyrir heimili aldraðra í Grindavík.
Hann kom fram í tveimur kvikmyndum, sem sýndar hafa verið í Sjónvarpinu, og hefir þá eflaust þar ráðið vali kvikmyndastjórans, hvað Árni var mikill persónuleiki í sjón, enda sómdi hann sér vel á hvíta tjaldinu. Hann var með hlutverk í auglýsingu frá DAS, sem lengi birtist á sjónvarpsskjánum.
Árni var fljótur að ná sambandi við fólk, sem hann hitti á förnum vegi. Hann hafði mjög gaman af að spila. Hann var sérstaklega barngóður, enda dýrkaður af afkomendum sínum og því meira, sem þeir voru yngri.
Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson – aldarminning 1991
Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tilgáta
Ingveldur var fædd 14. desember 1891 og lést 21. janúar 1970. Árni var fæddur 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Ingveldar, og 4. júní sl. voru liðin 100 ár frá fæðingu Árna, en hann vantaði rúman mánuð til að lifa það afmæli. Ingveldur var fædd í Lambhaga í Hraunum, dóttir hjónanna Ingveldar Jónsdóttur frá Helludal í Biskupstungum [Jóns Guðmundssonar frá Tortu, Bryggju, Álfsstöðum, Hvaleyri og Setbergi) og Þorkels Árnasonar [frá Guðnabæ í Selvogi] bónda í Lambhaga, síðar á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Árni var fæddur í Klöpp í Grindavík, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar frá Þorkötlustöðum á sama stað og Margrétar Árnadóttur, Klöpp, Grindavík.
Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir ásamt börnum sínum.
Eftir þeim heimildum sem fyrir liggja eru ættir þeirra beggja samansettar af duglegu og umfram allt þrautseigu fólki sem barðist harðri baráttu fyrir tilveru sinni.
Árni og Ingveldur giftust árið 1914 og hófu búskap í Klöpp í Grindavík, síðar í Teigi á sama stað. Þau eignuðust 11 börn á 19 árum. Þau eru í aldursröð: Margrét, fædd 18. febrúar 1915, dáin 9. apríl 1986; Jónína Vilborg, fædd 16. júlí 1917, dáin 24. mars 1968; Dagmar María, fædd 4. apríl 1918; Guðmundur, fæddur 16. janúar 1920; Laufey, fædd 18. júlí 1921; Þorkell, fæddur 3. janúar 1923; Jón, fæddur 25. desember 1925, dáinn 5. janúar 1989; Ingi Ármann, fæddur 18. október 1927, dáinn 4. mars 1934; Unnur, fædd 28. apríl 1929; Vilberg Magnús, fæddur 29. desember 1930, dáinn 27. apríl 1931; Ingi Ármann, fæddur 4. júlí 1934, dáinn 5. desember 1990.
Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson.
Af framangreindri upptalningu er ljóst að einhvern tímann hefir þurft að taka til hendi, hvíld hefir verið knöpp, frístundir engar, allir framkrókar hafðir til að afla daglegs brauðs. Árni stundaði sjóinn frá barnsaldri, var mjög ungur formaður á opnum árabáti, seinna á stærri vélbáti. Er rómuð stjórnun hans af fyrrverandi hásetum sem voru hjá honum margar vertíðir. Einn tók þannig til orða að Árni hefði verið snillingur í brimlendingu. Segir þetta töluvert um skaphöfn hans.
Ekki fær Ingveldur síðri umsögn síns samferðafólks. Hún var tiltekin fyrir dugnað og myndarskap og hagsýni hennar var óumdeild. Var stundum eins og hún skæfi brauð af steinum. Var tiltekið hvað hópurinn hennar var alltaf vel klæddur og að sjálfsögðu saumaði hún og prjónaði á þau hverja flík.
Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.
Eins og að framan segir var sjórinn uppistaða afkomunnar. Árni var útvegsbóndi. Með sjónum stundaði hann smávegis búskap, átti nokkrar kindur, eina til tvær kýr og hest. Heyföng voru lítil og erfið, túnið í Klöpp þætti nytjarýrt á nútíðar máta, og til að ná endum saman var hver grænn blettur nytjaður nær og fjær, t.d. heyjuðu þau hjónin nokkur sumur inn á Vigdísarvöllum sem eru milli Hálsa vestur af Krýsuvík. Þangað er löng leið og ekki auðveld frá Grindavík. Þarna sló Árni og Ingveldur rakaði og þurrkaði. Dagsverkið var baggar upp á einn hest. Ef að líkum lætur hefir Ingveldur stundum verið barnshafandi þegar hún var í þessum heyskaparleiðöngrum og geta má nærri hversu örþreytt hún hefir verið að loknu dagsverki. Þetta dæmi er tekið til að gefa okkur allsnægta kynslóðinni smávegis innsýn í lífsbaráttu foreldra okkar.
Teigur endurgerður…
Sem betur fer breyttust kjör Árna og Ingveldar til betri tíðar þegar lengra leið á ævina og þau kunnu manna best að njóta þess jákvæða sem hver dagur bar í skauti. Börnin flugu úr hreiðrinu og efnahagurinn batnaði. Þau voru einstaklega samhent og mikið ástríki var á milli þeirra svo til var tekið. Þau nutu þess að taka á móti gestum enda gestkvæmt mjög í Teigi. Mikið og innilegt samband var við börnin og þeirra fjölskyldur, allur frændgarðurinn var aufúsugestir hvenær sem var, svo og tengdafólkið. Teigur var í hugum alls þessa fólks, sannur sælureitur þó húsið væri hvorki hátt til lofts né vítt til veggja rúmaði það óendanlega kærleika húsbændanna, sem allir fundu fyrir sem umgengust þessi elskulegu hjón.
Þessi fátæklegu orð eru sett á blað frá okkur sem nutum ástar þeirra og kærleika og við munum finna fyrir alla okkar daga. Við teljum það mikið lán að hafa átt þessa góðu foreldra sem miðluðu okkur ást sinni og lífsvisku sem hvorki mölur né ryð fær grandað.
Blessuð sé minning okkar elskuðu foreldra.“
Sverrir hefur, auk þess að endurbyggja Teig, komið fyrir í húsinu ættartré þeirra Árna Guðmundssonar og Ingveldar Þorkelsdóttur. Tréð sýnir 380 afkomendur þeirra hjóna. Þeir eru boðnir velkomnir að Teigi eftir hádegi n.k. Sjómannsdag, 4. júní, þ.e. á fæðingardegi Árna.
Teigur – ættartré.
Foreldrar Ingveldar og Árna, sem og systkini voru eftirfarandi:
Lambhagi.
Ingveldur Jónsdóttir frá Setbergi við Hafnarfjörð, f: 22. okt. 1862. Þorkell Árnason, f. í Guðnabæ 12. des. 1853, bóndi í Lambhaga, á Þorbjarnarstöðum og í Straumi í Garðahreppi, d. 18. nóv. 1943.
Börn: Oddgeir, f. á Ásólfsstöðum 27. maí 1881, bóndi á Ási við Hafnarfjörð. Ingólfur, f. í Reykjavík 18. okt. 1884, Jón, f. í Lambhaga 1. nóv. 1886, Árni Steindór, f. í Lambhaga 24. júní 1888, Vilborg, f. í Lambhaga 17. júlí 1890, Ingveldur, f. í Lambhaga 14. des. 1891, Guðbjörg, f. í Lambhaga 23. jan. 1894, Steinunn, f. í Lambhaga 17. júlí 1895, Katrín, f. á Þorbjarnarstöðum 3. mars 1898, Guðmundur, f. á Þorbjarnarstöðum 21. ágúst 1900, Ástvaldur, f. í Straumi 11. febr. 1902.
Guðnabær.
Guðmundur Jónsson, f. á Þórkötlustöðum 19. okt. 1858, d. 3. des. 1936. Margrét Árnadóttir, f. 1861, d. 1947.
Börn: Einar Guðjón, f. 1882, d. 1968, Guðrún, f. 1883, d. 1885, Valgerður, f. 1886, d. 1967, Jón, f. 1887, d. 1908, Árni, f. 18891, d. 1991, Guðmundur Ágúst, f. 1894, d. 1963, Guðmann Marel, f. 1900, d. 1936.
Foreldrar Guðmundar voru: Jón Jónsson, f. í Garðhúsum 14. nóv. 1825, d. 13. des. 1882, og Valgerður Guðmundsdóttir, f. á Hrauni 7. feb. 1829, d. í Akurhúsum 25. júní 1895.
Heimild:
-Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Minningagreinar um Árna Guðmundsson og Ingveldi Þorkelsdóttur.
Þórkötlustaðarétt – Klöpp og Teigur t.h.
Smiðjur
Smiðja í Árbæjarsafni.
Járnið unnu fornmenn sjálfir úr mýrarmálmi, og var nefnt rauði og rauðablástr. Dró Rauða-Björn nafn sitt af því, að hann blés fyrstur mann rauða á Íslandi. Skallagrímur var og járnsmiður mikill og hafði rauðablástur mikinn á vetrum. Lét hann gera smiðju með sjónum langa leið frá Borg, þar sem heitir Raufarnes, og þótti honum skógar þar eigi fjarri til eldilviðar. En hann fékk þar engan stein svo harðan eða sléttan, að honum þætti gott að lýja járn við. Fór hann þá til og kafaði eftir steini miklum, er hann setti niður fyrir smiðjudyrum og hafði fyrir rekstein.
Raufarnes – smiðjusteinn Egils. Í Raufarnesi hafði Skallagrímur smiðju og sagt er að hann hafi sjálfur kafað eftir steini niður á hafsbotn, sem heppilegur væri til að lýja á járn, þ.e. berja óhreinindi úr járninu. Raufarnes heitir nú Rauðanes. Niðri í fjöru neðan við bæina Rauðanes I og Rauðanes II má sjá þennan stein en sagan segir að þetta sé steinn Skallagríms. (Bíllyklarnir ofan á steininum eru stærðarviðmiðun. Steinninn er þó alls ekki allur sýnilegur því hann er hálfgrafinn í fjörusandinn.) Í Egils sögu segir að á ritunartíma hafi þurft fjóra menn til að bifa steininum. Væri spennandi að vita hvernig nútíma kraftakarlar stæðu sig í að lyfta þessum steini!
Þegar Egils saga Skallagrímssonar var færð í letur löngu-löngu eftir hans dag, lá steinninn þar enn og mikið sindur hjá, og sá á steininum að hann var barður ofan. Þorsteinn Kuggason í Ljárskógum var og járngerðarmaður mikill og smiður. Hann lét gera kirkju á bæ sínum og brú heiman frá bænum, og var hún ger með hagleik miklum. Utan á brúnni undir ásunum, er héldu henni uppi, voru gerðir hringar og dynbjöllur, svo að heyrði yfir til Skarfsstaða, hálfa viku sjávar, ef gengið var um brúna. Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð. Grettir var hjá honum einn vetur í Ljárskógum og setti Þorsteinn hann til að drepa járn, og þótti hann atgangsmikill, en nennti misjafnt. Við gröft og túnasléttun á síðari árum (1883-84) hafa menn komið ofan á leifarnar af rauðanlásturssmiðju Þorsteins Kuggasonar, að því er ætla má.
Í túninu í Ljárskógum, nál. 30-40 fðm. frá bænum, varð fyrir einkennileg tóft, 20 fet á lengd og 10 á breidd að innanmáli. Í öðrum enda var hlaðinn þverveggur úr stóru grjóti, og myndaðist við það lítið afhús bogadregið fyrir gafl.
Uppgröftur að Skógum – ummerki eftir járnvinnslu.
Gegnum þvervegginn lá steinlögð renna, kjölmynduð í botninn, og voru steinarnir vel lagðir og felldir þétt saman. Fyrir innan rennuna í afhúsinu lá hellusteinn mikill eggsléttur að ofan, en fyrir utan rennuna í aðalhúsinu var þró ofan í gólfið.
Lítur helst út fyrir, að hin svonefnda afhús hafi aðeins verið steinhlaðinn ofan til rauðabræðslu, og hefir þá hið brædda járn runnið úr ofninum eftir rennunni og niður í þróna í aðalhúsinu.
Mýrarrauði – járn.
Var bæði hellusteinninn og grjótið í rennunni mjög eldleikið og eins kamparnir á milliveggnum. Tóftin var öll full af kolaösku og gjalli, en rétt hjá henni var all-stór hóll, er reyndist tóm aska og gjall, þegar grafið var í hann. Ber þetta allt hvað með öðru órækan vott um, að hér hefir verið járngerð mikil og rauðablástur. Smiðjuleifar frá fornöld hafa víða fundist, enda mun hafa verið smiðja svo að segja á hverjum bæ, því fornmenn smíðuðu sjálfir allt járn til heimilsþarfa. Voru sumir þjóðhagir bæði á tré og járn og orðlagðir fyrir smíðar sínar, eins og t.d. Gísli Súrsson.”
Fornleifauppgröftur að Gröf – ummerki eftir járnvinnslu.
Í örnefnaslýsingu fyrir Herdísarvík segir t.d.: „Á lágum hól nær vatninu voru þessi hús: Smiðja, hjallur og austur af þeim var pakkhús.“
Á Reykjanesi má víða sjá smiðjur á „óhefðbundnum“ stöðum, s.s. í helli undir Hellunni á Sveifluhálsi þar sem Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir vann við járnsmíðar um tíma. Í verstöðvum voru smiðjur og má m.a. sjá þess merki í „Smiðjunni“ á Selatöngum, en hún var í skúta skammt norðan við austustu sjóbúðina þar. Sjórinn hefur kastað grjóti fyrir opið, en undir því á t.a.m. að vera bollasteinn þar sem hamrað járnið var kælt.
Mýrarrauði.
Líklegt má telja að rauðablástur (sjá aðra fróðleikslýsingu) hafi verið unninn í sérstökum ofnum, aðskildum frá sjálfri smiðjunni. Á Reykjanesi er líklegt að slíkir ofnar hafi verið fáir þar sem lítið hefur verið um mýrarrauða. Hafa þeir helst verið þar sem hægt var að reisa upp sæmilega stórar hraunhellur eða hlaða ofn úr grjóti á láglendi nálægt eldiviðaraðdrætti og kolagerð. Ekki er mörgum slíkum stöðum til að dreifa, en þeir hafa þó verið til.Úr “Gullöld Íslendinga” – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni – alþýðufyrirlestrar með myndum eftir Jón Jónsson, Reykjavík 1906.
Smiðjuhellir undir Hellunni.
Mannvirki, mannskapur, mannlíf og verklag í seljum
Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 400 slíkum.
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Elstu selstöðurnar voru fyrir kýr, en langflestar eru fjársel þar sem búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars, mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar til vetrarnytja.
Sel – hús
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara.
Kringlumýri – ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.
Á Reykjanesskaganum er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í stakt rými; eldhúsið. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í stöku rými.
Möngusel ofan Hafna.
Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum inngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins. Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)). Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr.
Hellisskjól við Hnúkasel.
Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.
Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, reyndar breytileg frá einum tíma til annars. Elstu selshúsin voru lítil, nánast eins og og smákofar, en þegar fram leið stökkuðu vistarverurnar; baðstofan um 240×360, búr um 180-120 og eldhús um 120×120. Til eru sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.
Strandarsel (Staðarsel) í Selvogsheiði.
Ekki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, s.s. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik.
Merkinessel yngra.
Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.
Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim í gegnum tíðina, ef vel er að gáð.
Réttir
Rétt í Stóra-Hamradal.
Réttir voru ekki fast við sel á Reykjanesskaganum, enda seinni tíma mannvirki, þ.e. eftir að seljabúskapurinn lagðist af um og eftir 1870. Þó má víða greina litlar réttir í tengslum við selin, s.s. vorréttir, fráfæru- og rúningsréttir, en slíkar réttir voru þó yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamraveggnum í Stóra Hamradal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli í lok 19. aldar. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.
Fjárskjól
Bekkjarskúti.
Fjárskjól eru um 320 á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sum þeirra eru nálægt seljunum. Samkvæmt örnefnalýsingum eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunabæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum.
Fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Þar skammt frá er stórt fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í hraunrásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar.
Fjárborg – fjárbyrgi
Óttarsstaðaborg.
Fjárborgir (hlaðnar) eru um 145 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir óvæntum veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum.
Stakkavíkurborg.
Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki og „fjárhús“ heima við bæi á vetrum.
Fjárborgirnar voru jafnan grjóthlaðnar, en þó má víða sjá að torf hafi verið notað við gerð þeirra, s.s borgirnar ofan Flaknastaða og Grænaborg í Njarðvíkum.
Nátthagi – smalabyrgi
Óttarsstaðasel – nátthagi.
Nátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í skjóli fyrir vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta. Við flest selin eru fallegir grónir nátthagar.
Stekkur – kví
Stekkur norðan Hádegisskarðs.
Stekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum á meðan þær voru mjólkaðar. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum. Í sumum seljanna eru fleiri en einn stekkur, misgamlir. Fjöldi stekkja í fjölnota selstöðu geta sagt til um fjölda bæja, sem þar höfðu í seli. Stærð stekkjanna gefa einnig mynd af stærð fjárstofnsins hverju sinni.
Flankastaðastekkur.
Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr trjástofnum eða timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar voru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Hlaðnar kvíar og stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni. Hvorutveggja voru jafnan staðsett í góðu skjóli.
Arahnúkasel – stekkur.
Stekkir í spottkornsfjarlægð voru jafnan hlaðnir utan í hæðir eða bergveggi þar sem auðvelt var að leiða eða reka fé að þeim, s.s. við Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II. Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa einnig hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim.
Brunnur – vatnsstæði
Fornasel – vatnsból.
Sel voru jafnan staðsett við brunna eða vatnsstæði, gjarnan nálægt ystu mörkum jarðnæðis. Vatn var bráðnauðsynlegt í seljum eða í nálægð við þau. Vatnsbólin gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli frá einum tíma til annars. Á þurrkatímum eru dæmi um að yfirgefa hafi þurft sel áður en seltíma lauk. Í slíkum tilvikum var ótímabærum draugagangi kennt um.
Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleikum. Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar.
Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.
Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt „Vatnsbólspölkorn“ væri á milli þess og selsins. Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.
Gerði – garður
Stekkur í Eimubóli.
Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls í Selvogsheiði er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur ofan Mosfellsbæjar eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, sem og mörg seljanna í Vogaheiði.
Selstígur – selsgata
Selsstígur.
Selstígur lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir flestum þessara fyrrum stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum.
Selsgatan var mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km). Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 6-7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá við leiðirnar vörður og/eða vörðubrot.
Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Selvogsheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra.
Mannsskapur í seli
Í stekknum.
Í sérhverju seli var a.m.k. selsmatselja og smali. Fjöldinn fór eftir umfanginu.
Bóndinn, eða einhver í hans umboði, flutti vistir í selið og síðan færði nytjarnar til bæjar.
Gegnumgangur um selin hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar virðast hafa nýtt sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði til mjalta að morgni eða sídegis var smalinn jafnan látinn borða borða „skattinn“ sinn, þ.e. hann fékk að borða við skilin.
Nokkrar sögur eru til um að selsmatseljur hafi orðið ófrískar í selinu. Oftar en ekki var huldufólki eða útlegumönnum um kennt, en ógjarnan hugað að ferðum húsbóndans í selið eða aðkomumönnum þar á ferð.
Selsvarða
Lónakot – Skorásvarða.
Selsvarðan stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu. Margar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar orðnar grónar.
Verklag í seli
Selshús – tilgáta ÓSÁ.
Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti, sem fyrr sagði. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.
Skyrhóll neðan Þorkelsgerðissels.
Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur.
Mjólkurtrog.
Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.
Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Mjólkurtrog.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.
Ef rennt var úr trogunum var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat. Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.
Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið.
Rjómatrog.
Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar, alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.
Trog.
Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn.
Smalaskjól við Efri-Straumsselshella.
Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.
Smalaskáli.
Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.
– ÓSÁ
Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.
Búahellir
Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.
Kjalarnes – kort.
Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.
Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.
Búahellir?
Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.
Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.
Skeggjastaðir og Hrafnhólar.
Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.
Lauganýpa.
Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.
Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.“
Esjuberg á Kjalarnesi.
Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.
Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm
Esjuberg um 1900.
Lambafellsklofi – Trölladyngja – Sog – Sogasel – Höskuldarvellir
Gengið var um Lambafellsklofa og Trölladyngju.
Lambafellsklofi.
Lambafellsklofi er stundum nefndur Lambagjá í Lambafelli. Um er að ræða sprungu, sem myndast hefur eftir misgengi um mitt fellið. Gjáin er nokkuð há og gaman að ganga um hana. Gengið er inn í gjána að norðanverðu og síðan liggur leiðin upp á við í suðurendanum. Ofar má sjá misgengið liggja áfram í gegnum fellið til suðurs. Hraun hafa runnið allt umhverfis. Tófugras vex á gjárbörmunum. Skemmtilegast er að fara um gjána er líða fer á sumarið, en þá er hún jafnan þakin fiðrildum, sem safnast þar saman í skjólinu. Þar sem fyrir liggur lýsing um þetta svæði fer hér á eftir lýsing á því er finna má á vef Hitaveitu Suðurnesja; Fréttaveitunni:
Eftir að áhugi jókst á Trölladyngjusvæðinu, og ekki sízt eftir að tilraunaboranir hófust, hefur nokkuð borið á, að menn færi til og teygi örnefni á svæðinu, svo sem Sog, sem sumir eru búnir að færa allt niður á núverandi borsvæði. Þetta er í sjálfu sér ekki ný bóla. Má t.d. benda á, að eftir að Suðurnesjavegur var skírður Reykjanesbraut og Reykjaneskjördæmi varð jafnframt til, heitir Reykjanesskaginn Reykjanes, Reyknesingar búa allt upp í Hvalfjörð og austur í Ölfus, og orkuver Hitaveitu Suðurnesja er sagt í Svartsengi, enda þott það hafi risið í Illahrauni, sem er í nágrenni Svartsengis.
Keilir – handan hraunsins.
Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.
Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skag á Íslanda og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos.
Lambafellsgjá.
Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.
Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m).
Trölladyngja og Grænadyngja (t.h.) – Sogin nær.
Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.
Ögmundarhraun – loftmynd.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum.
Tröll í Einihlíðum norðan Lambafells.
Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Tröllaödyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það.
Valahnúkar – tröll.
Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.
Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert.
Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?
Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.
Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.
Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir eru eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr járni. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.
Eldborg.
Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð [Eldborgin, sem á mínum skátaárum var nefnd Jónsbrenna, er nú ekki orðin svipur hjá sjón, því vegurinn, sem fyrr er getið, var einmitt lagður til að ná í hraungjall úr hlíðum hennar. (Ath.semd ritstj.)]. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.
Fengið að láni úr bók Árna Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR”, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360
Eldborg undir Dyngju.
Ketilsstígur – Hrauntungustígur
Gengið var um Ketilsstíg frá Seltúni, yfir Sveifluháls með norðanverðu Arnarvatni, niður Ketilinn, eftir Móhálsadal, austur fyrir Hrútafell, niður í Hrúthólma ofan við Mávahlíðar, austur fyrir Mávahlíðahnúka, um Sauðabrekkur vestan Hrútargjárdyngju og niður í Brunntorfur þar sem endað var við gamalt fjárskjól frá Þorbjarnastöðum.
Hrauntungustígur ofan Mosa.
Í leiðinni var komið við í hraunæð vestan Hrútargjár og kíkt á gömul bein, sem þar eru, litið á skjól í gíg ofan við Sauðabrekkur og skoðuð gömul refabyrgi ofan við Hafurbjarnarholt.
Seltúnið er talin vera gömul selstaða frá Krýsuvík. Einu minjarnar er lítil tóft á stórum grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti einnig verið minjar frá brennisteinsvinnslunni, sem þarna var stunduð um tvær aldir.
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust.
Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal frá því um 1755.
Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum.
Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík um 1880.
Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.
Einu minjar námuvinnslunnar, sem enn sjást, er hluti af einni stíflunni neðan þjóðvegarins.
Þegar komið er upp á Sveifluháls er Arnarvatn á vinstri hönd og Arnarnýpa á þá hægri. Fallegt útsýni er er norður eftir hálsinum. Ofan við Ketilinn er varða. Stígurinn liggur í sveigum niður bratta hlíðina, niður á slétt helluhraunið fyrir neðan og stefnir á Hrútafellið. Gatan er bæði bein og slétt. Norðan Hrútafellsins beygir gatan meira til austurs, áleiðis að Hrúthólma. Alla þá leið er hún vel greinileg. Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni).
Hrúthólmastígur – Hrúthólmi framundan.
Hrúthólmi er allgróinn. Mávahlíðar er norðvestan við hann og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Hrauntungustígur austan Hrútfells..
Gatan stefnir austur fyrir hnúkinn með stefnu á Sauðabrekkur. Á leiðinni var litið á hraunæðar vestan við Hrútagjá, en í henni eru gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar „dýri“ beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Sauðabrekkugígar.
Ofan við Sauðabrekkugjár eru tvær gígaraðir. Í vestari röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún var fjarlægð birti verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er lítil varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Líklega er þarna um að ræða byrgi þau er getið er um og eiga að vera austur af Hafurbjarnarholti, svonefnd Stórholtsgreni, en Gamlaþúfa er þarna skammt vestar.
Hrauntunguskjól.
Gengið var áleiðis norður í Brunntorfur með viðkomu í fjárskjóli í skútum. Hlaðinn er tvískiptur gangur fyrir framan opin, en inni eru rúmgóð skjól.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
-Heimild um brennisteinsvinnsluna:
(Sveinn Þórðarson, 1998) af http://hot-springs.org/krysuvik.htm
Ketilsstígur h.m.
Herkampar við Hólm og Geitháls
Í nágrenni við Hólm og Geitháls ofan Reykjavíkur voru nokkur braggahverfi á stríðsárunum, s.s. Camp Swansea, Camp Phinney, Geitháls Dump, Camp Aberdeen, Camp Buller, Camp Columbus Dump, Camp White Heather, Camp Arnold, Camp Clapham og Camp Omskeyri, auk Camp Tinker í Rauðhólum. Enn í dag má sjá ummerki eftir veru hermanna á þessum slóðum þótt mannskepnan, tíminn og lúpínan hjálpist að við að afmá ummerkin og þar með söguna.
Hólmur og nágrenni.
Í Camp Omskeyri voru höfuðstöðvar stórskotaliðs 5. hersveitarinnar á tímum hersetunnar. Þær voru á svæði þar sem nú er beitarhólf suðaustan við Geitháls, fast norðaustan við gamla Suðurlandsveginn. Á svæðinu eru leifar og ummerki eftir veru setuliðsins, s.s. vegir, byssustæði, skotgrafir og braggabotnar. Út frá gamla Suðurlandsveginum liggur vegur í boga og vegir út frá honum. Við þá eru leifar af bröggum.
Steinullarverksmiðjan á leifum Camp Phinney.
Herskálahverfin Swansea og Phinney voru norður af Hólmi, milli Hafravatnsvegar og vegarins upp í Mjóadal og var Camp Phinney austar. Ekki er ljóst hvar skilin á milli þessara herbúða voru nákvæmlega. Steinullarverksmiðja var síðar byggð upp úr Camp Phinney.
Camp Columbus Dump var birgðastöð hersins á mel sunnan við Suðurlandsveg og austan við Hólmavað, þar sem nú er opið svæði. Um 25-30 braggar hafa tilheyrt þessum herbúðum. Vegur lá um svæði frá Suðurlandsvegi að Steinastöðum, sem var sumarhús við Bugðu.
Camp Buller 2021.
Nokkur ummerki eru eftir braggahverfið, en efst við Suðurlandsveginn er ekki hægt að greina nein ummerki þar sem allt er komið á kaf í gróður, aðallega lúpínu. Árið 2006 var þetta svæði fyllt upp og sléttað að norðan, en sunnar, neðan við hljóðmön við Hólmavað, eru steypuleifar, sennilega hluti af braggabotnum sem fóru undir mönina. Þar fyrir neðan er greinilegur vegur, lúpínuvaxinn, sem liggur í boga frá malbikuðum gangstíg og kemur aftur að honum 115 m neðar. Suðaustan við hann eru ummerki eftir bragga og fyrir neðan veginn nær ánni má greina ummerki eftir tvo bragga og annan fyrir ofan.
Camp Swansea – loftmynd 1954.
Camp Buller var 20 m vestan og ofan við Suðurlandsveg, norðvestur af Sandvík og 115 m austur af Rauðási, eru leifar af braggabotni. Á tímum hersetunnar voru þarna höfuðstöðvar strandvarna og/eða loftvarnarstórskotaliðs á svæðinu. Þegar loftmynd var tekin 1954 stóðu þarna tveir braggar en voru horfnir þegar mynd var tekin 1965. Árið 1971 var aðeins grunnur vestara hússins greinilegur en sá eystri hefur horfið við framkvæmdir við Suðurlandsveg 1970.
Camp Aberdeen.
Camp Arnold var austan við sprengigeymslurnar við Mjóadalsveg í Almannadal, norðvestan við Fjárborg. Á tímum hersetunnar voru hér höfuðstöðvar flug- og ratsjárliðs frá Bandaríkjunum. Á svæðinu voru tveir braggar sinn hvorum megin við veginn. Braggabotnarnir sjást á loftmyndum en eru ekki lengur greinilegir á yfirborði og svæðið komið á kaf í gróður.
Camp Phinney 2021.
Camp Phinney var í holtinu fyrir norðan Suðurlandsveg, um 500 m fyrir vestan Geitháls.
Á svæðinu var mikið af braggagrunnum auk þess sem þarna voru tvö steinsteypt hús frá hernum sem síðar hlutu nöfnin Heiðarsel og Heiðarhvammur, rifin um 1985.
Á svæðinu var hýst stórskotalið og voru herbúðirnar höfuðstöðvar herfylkis.
Camp Aberdeen var stærsta braggahverfið, um 600 m norðaustan Geitháls. Grunnar flestra bragganna sjást enn vel.
Hólmur og nágrenni – loftmynd.
Camp White Heather herbúðirnar voru norðan við brúna yfir Hólmsá og uppi í Kotásnum, þar sem nú er íbúabyggð. Þar hafðist við lítil undirfylking skriðdrekaliðs.
Nokkur ummerki eru eftir veru hersins á svæðinu.
Camp Clapham 2022.
Camp Clapham herbúðirnar voru austan við gamla Þingavallaveginn ( Hafravatnsveginn), um 350m fyrir austan Geitháls.
Á svæðinu sem hverfið náði yfir eru nokkrir steyptir braggagrunnar og vegir. Margir braggabotnar voru rifnir upp og notaðir í Steinullarverksmiðjuna.
Geitháls
Býlið Geitháls var byggt við gatnamót Þingvallavegar og Suðurlandsvegar (Austurvegar).
Geitháls.
Eldra íbúðarhúsið á Geithálsi var tvílyft, bárujárnsklætt timburhús á steinhlöðnum grunni. Húsið var um 8×8,2 m og lá norðvestur-suðaustur, með bíslag á norðvesturgafli. Austan við það var skemma (11×8,2 m. Árið 1940 var gamla bæjarhúsið og skemman á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi. Það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Hólmsá, sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið, var færð sunnar þegar nýi Suðurlandsvegurinn var gerður.
Geitháls – túnakort 1916.
Á Geithálsi var bæði búskapur og greiðasala. Þar var símstöð frá 1909. Geitháls varð vinsæll áningarstaður og voru þar oft mikil læti eins og fram kemur í blaðagrein frá 1927: ,,Mér er kunnugt um það, að sá veitingamaður, sem nú rekur veitingar á Geithálsi, kysi ekkert fremur en að honum væri veitt aðstoð til að bægja ölvuðum óþjóðalýð burt frá staðnum, svo að honum gæti veist næði til að reka þar veitingar fyrir friðsama gesti. Geitháls er sérlega vel fallinn til sunnudagaheimsókna Reykvíkinga, bæði sökum góðs húsrúms og einnig vegna fegurðar þar í kring, og þá ekki síst fyrir ríðandi fólk, því að þar er gnægð góðrar hagbeitar og vatns fyrir hesta.“
Geitháls 1920-1935.
Árið 1940 var gamla bæjarhúsið á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi, en það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Engin hús eru í dag á Geithálsi, en leifar eru þar af steinhlöðnum vegg sem hefur verið í porti norðan við gamla húsið. Hólmsá sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið var færð sunnar þegar nýi vegurinn var gerður. Túnakort er til af bæjarstæðinu frá 1916. Á stríðárunum voru braggahverfin Camp Aberdeen og birgðageymslan Geitháls Dump við Geitháls.
Geitháls – geitakofi.
Bæjarstæðið hefur verið byggt utan í hjalla sem hefur verið stallaður upp frá gamla Suðurlandsveginum. Við veginn voru kálgarðar og norðan við þá hefur verið gerður sléttur stallur þar sem íbúðarhúsið og útihúsin stóðu áður. Norðan við húsin var steinhlaðinn veggur sem stendur enn. Ef rýnt er í þessa hleðslu má sjá að hún er samsett, þ.e.a.s. þetta eru leifar af veggjum úr húsum og jarðvegsvegg, um 25 m á lengd, sem gæti líka verið að hluta endurhlaðinn. Vestast á bæjarstæðinu, stallinum, eru leifar tveggja útihúsa úr torfi og grjóti og er austasta vegghleðslan, veggjarkampur, hluti af þeim.
Geitháls 2010.
Suðaustan við veggjakampinn eru sex steinþrep í steinhleðslunni upp á hjallann og frá þeim liggur hleðslan áfram til suðausturs að hlöðnum gafli, en hluti hleðslunnar hefur verið hliðarveggur í útihúsi og gaflinn hefur tilheyrt því. Hornrétt á hann er hleðsla sem gæti hafa verið annar gafl sem gæti hafa tilheyrt skemmu. Þrepin hafa verið gerð síðar því þau sjást ekki á elstu ljósmyndunum. Þegar túnakort var gert 1916 voru tveir kálgarðar fyrir framan bæjarstæðið, meðfram veginum, sem voru afmarkaðir með steinhlöðnum görðum, en sunnan við veginn voru tún bæjarins. Þar sem íbúðarhúsin stóðu og á hlaðinu þar fyrir aftan er mosavaxinn malarjarðvegur.
Geitháls – minjar.
Lítil ummerki eru eftir húsin. Tveir litlir steyptir fletir, sem á eru fest tvö járnrör, eru uppi á stallinum þar sem var inngangur á suðvesturhlið íbúðarhúsanna, og rafmagnskapall stendur upp úr jörðinni þar sem inntakið gæti hafa verið. Bæjarstæðið er mosa- og grasigróið en trjágróður og lúpína sækja stíft að bæjarstæðinu.
Heimildir:
-Þór Whitehead, 2002. Ísland í hershöndum, bls. 124-125.
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar frá gatnamótum við Vesturlandsveg austur að Hólmsá, Reykjavík 2010.
-Bjarki Bjarnarson og Magnús Guðmundsson 2005. Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, bls. 196 og 295.
-Túnakort 1916, Geitháls, Þjóðskjalasafn.
-Vísir 25.08.1927, bls. 4.
-Þjóðviljinn 14.05.1963.
-Alþýðublaðið 28.06.1963.
-Vísir, 15.08.1940.
Herbúðir í landi Geitháls og Hólms, horft í vestur með Hólmsá og Suðurlandsvegi. Neðst til hægri er Camp White Heather við beinan veg, Camp Omskeyri við bogadregin veg aðeins vestar, Camp Geitháls Dump við Geitháls. Vestan við Geitháls ofarlega á myndinni er hvítur braggi sem var kvikmyndahús og síðar steinullarverksmiðja (213-66), þar voru Camp Phinney og Camp Swansea. Myndin er líklega tekin 1943-1945.
Íslandsheimsókn Friðriks VIII árið 1907
Í Tímanum 19. des. 1958 segir Þ.M.J. frá útgáfu bókarinnar um „Íslandsferðina 1907„, þ.e. ferð Friðriks VIII, Danakonungs til Íslands það ár.
Konungsheimsókn Friðriks VIII. Bæjarbryggjan, Steinbryggjan í forgrunni. Danski fáninn við hún. Konungsflotinn sést fyrir utan, 1907. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.
„Sama árið og Friðrik VIII. varð konungur, bauð hann og ríkisþing Dana alþingismönnum og ráðherrum Íslands til Danmerkur, og var þeim tekið þar með mikilli viðhöfn og vinahótum.
Árið á eftir (1907) kom svo konungur hingað til lands ásamt fjörutíu dönskum ríkisþingmönnum og fleira dönsku stórmenni, þar á meðal Haraldi prinsi syni sínum, J.C. Christensen, forsætisráðherra Dana og sagnfræðingnum Troels-Lund. Með í förinni voru og blaðamennirnir Holger Rosenbérg og Sven Poulsen, sem skrifuðu bók um förina til Íslands, og kom hún út á dönsku sama ár og förin var farin, en nú í fyrsta sinn hefur hún verið þýdd og gefin út á íslenzku.
Jens Christian Christensen (J.C. Christensen); 21. nóvember 1856 – 19. desember 1930. Embættismenn er jafnan vanmetnir þegar kemur að sögulegum „ákvörðunartökum“ valdhafa.
Segja þeir í inngangi bókarinnar, að sá hafi orðið árangur Íslandsferðarinnar, að hinn norðlægari og suðlægari hluti ríkisins hafi tengzt stórum traustari böndum en áður. Íslendingar tóku vel á móti konungi og fylgdarliði hans.
Konungur vann sér hér vinsældir vegna ljúfmannlegrar framkomu snnar, en fyrst og fremst fyrir það, að Íslendingar álitu hann vera sér hliðhollan í sjálfstæðisbaráttu sinni. En blaðamennimir hafa misskilið Íslendinga er þeir halda, að gestrisni þeirra hafi táknað, að þeir vildu bindast Danmörku enn fastari böndum en áður. Eg man að vísu eftir einni þingmálafundarsamþykkt frá vorinu 1907, þar sem samþykkt var, að fundurinn óskaði eftir, að Ísland yrði bundið sem traustustu ríkissambandi við Danmörku. Á öðrum fundi í sama kjördæmi kom fram samskonar tillaga, en henni var vikið til hliðar, áður en hún var borin upp. En þetta voru undantekningar. Samþykkt Þingvallafundarins 1907 segir aftur á móti vilja meirihluta þjóðarinnar, eins og sannaðist við þingkosningarnar 1908.“
Friðrik VIII Kristjánsson.
Í Morgunblaðinu 4. ágúst 2007 mátti m.a. lesa eftirfarandi um „Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907“: „Þriðjudaginn 30. júlí eða níu dögum eftir að lagt var af stað [frá Danmörku], með viðkomu Færeyjum, gekk konungur á land í Reykjavík. Allt var með hátíðabrag í bænum, hús voru skreytt og spariklætt fólk á ferli. Í fjöldanum mátti sjá konur í þjóðbúningi, einkennisklædda embættismenn, danska og franska sjóliðsforingja, ræðismenn erlendra ríkja í viðhafnarbúningi, bændur, sjómenn og fleiri.
Friðrik VIII. gekk upp Steinbryggjuna eftir rauðum flosdregli en við enda hans reis hár heiðursbogi, inngangur í bæinn.
Friðrik VIII og fylgdarlið koma til Reykjavíkur 30. júlí 1907.
Hannes Hafstein ráðherra bauð konung velkominn og kynnti fyrir honum helstu embættismenn. Á bryggjunni voru meðal annars eftirtaldir meðlimir í móttökunefnd: Jón Jakobsson landsbókavörður, Guðmundur Björnsson landlæknir, Skúli Thoroddsen ritstjóri og Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. Síðan fylgdi Hannes konungi og fylgdarliði um götur til búsetu í latínuskólanum sem breytt hafði verið í konungsbústað og var fljótlega nefndur konungshöllin.
Hannes Hafstein (1861-1922). Fyrsti ráðherra Íslands (01.02.1904-31.03.1909). Hannes varð fyrsti ráðherra Íslands frá og með 1. febrúar 1904. Meðan Hannes var ráðherra var sími lagður til landsins. Deilur risu um uppkast að nýrri stjórnarskrá og var kosið um „Uppkastið“ árið 1908. Andstæðingar Uppkastsins unnu sigur og Björn Jónsson varð ráðherra 31. mars 1909. Þá varð Hannes bankastjóri Íslandsbanka. Hannes varð ráðherra í annað sinn 24. júlí 1912, þá fyrir Sambandsflokk, þegar Kristján Jónsson lét af embætti, og sat til 21. júlí 1914. Á því tímabili var fánamálið mjög til umræðu, og tapaði Hannes atkvæðagreiðslu um skipan nefndar um tilhögun og tillögugerð í fánamálinu. Tók Sigurður Eggerz við ráðherraembætti af Hannesi. Hannes settist þá aftur í bankastjórastól Íslandsbanka og sat þar til 1917 er hann sagði af sér vegna heilsubrests.
Í latínuskólanum undirritaði konungur þrenn lagafyrirmæli handa Íslendingum, ein um aðflutningsgjöld en hin varðandi útvegsmál. Voru það fyrstu lög sem staðfest höfðu verið á íslenskri grund. Frá sama stað var ennfremur tilkynnt um að skipuð yrði nefnd ríkisþingmanna og alþingismanna til þess að gera ráðstafanir til nýrrar löggjafar varðandi stjórnskipunarlega stöðu Íslands í Danaveldi.
Seinna um daginn var móttökuhátíð í Alþingishúsinu. Deginum lauk með stórri veislu sem Íslandsráðherra og alþingisforsetar buðu til…“
Á vefsíðunni Hugi.is mátti árið 2013 m.a. lesa eftirfarandi um konungskomuna eftir Örn H. Bjarnason árið 1907 undir fyrirsögninni „Gamlar götur“:
„Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. [Friðrik 8. af Glücksborg var konungur Danmerkur frá 1906 – 1912. Hann var elstur barna Kristjáns konungs 9. og Lovísu af Hessen-Kassel.]
Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.
Skrúðganga í Reykjavík í tilefni heimsóknar Friðriks VIII.
Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörku dugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Frá Reykjavík á Þingvöll
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir.
Axel V. Tulinius.
Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi.
Guðmundur Björnsson, alþingismaður. Alþingismaður Reykvíkinga 1905–1908, konungkjörinn alþingismaður 1913–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1922 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).
Forseti efri deildar 1916–1922. Milliþingaforseti efri deildar 1915.
Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.
Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Djúpidalur.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs.
Gamli Þingvallavegurinn 1907.
Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Friðrik VIII.
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Frímerki af tilefni eitt hundrað ára minningar um komu Friðriks VIII. Danakonungs til Íslands 1907.
Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.
En við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs. Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.
Að loknum kvöldverði þennan fyrsta dag gekk konungur um meðal fólksins í tvo klukkutíma. Hann var skrafhreyfinn og lék við hvern sinn fingur. Engin þreytumerki voru á honum að sjá.
Þjóðhátíð á Þingvöllum
Friðrik VIII á Þingvöllum.
Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.
Í Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.
Björn M. Olsen; Konungkjörinn alþingismaður 1905–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).
Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.
Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.
Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.“
Frá Þingvöllum að Geysi
Minningarsteinn um komu Friðriks VIII til Geysis 1907.
Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð…“
Í Fréttablaðinu 7. maí 2019 er fjallað um Gamla Þingvallaveginn á þeim nótum að hann „fái veglegri sess með friðlýsingu“. Þar segir:
Mosfellsheiði.
„Þrjú sveitarfélög við Mosfellsheiði og minjavörður Suðurlands vilja að hafið verði ferli til að breyta skilgreiningu á nítjándu aldar hestvagnavegi sem liggur frá Geithálsi að Almannagjá úr því að vera friðaður í það að verða friðlýstur. Þá yrði vegurinn merktur og vakin á honum athygli sem menningarminjum.
Minjastofnun vinnur nú að því með þremur sveitarfélögum að Gamli Þingvallavegurinn frá því á 19. öld verði friðlýstur.
„Vegna aldurs síns er vegurinn friðaður samkvæmt lögum en vert er að skoða hvort ekki sé ástæða til að ganga lengra og friðlýsa hann. Með friðlýsingu fengi Gamli Þingvallavegurinn veglegri sess, hann yrði merktur og vakin athygli á honum sem merkum menningarminjum,“ segir í minnisblaði Tómasar G. Gíslasonar, umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, sem lagt var fram er bæjarstjórnin þar staðfesti vilja sinn í málinu.
Gamli Þingvallavegur frá 1907 millum Djúpadals og Þingvalla.
Í framhaldinu var málið borið undir yfirvöld í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð þar sem Gamli Þingvallavegurinn liggur einnig um lönd þeirra sveitarfélaga. „Að langstærstum hluta er leiðin á landi Mosfellsbæjar; sker svo norðurhorn Grímsnes-og Grafningshrepps við Klofningstjörn á stuttum kafla en fer þá yfir í Bláskógabyggð, í Vilborgarkeldu nálægt núverandi Þingvallavegi við Torfdalslæk,“ segir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, í samantekt um málið.
Vegurinn hafi verið geysimikið mannvirki á sinni tíð; upphlaðinn á köflum með vatnsræsum, brúm og vel hlöðnum vörðum. Hann sé vel varðveittur hestvagnavegur.
Konungsheimsókn Friðriks VIII 1907. Hannes Hafstein ráðherra kveður konung á Bæjarabryggju (Steinbryggjunni).
Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.
„Hann markaði tímamót í samgöngusögu heiðarinnar og við hann var einnig hlaðið sæluhús úr tilhöggnu grágrýti. Eftir að önnur þjóðbraut var lögð yfir norðanverða
heiðina til Þingvalla um 1930 var þessi leið aflögð að mestu og hlaut hún þá nafnið Gamli Þingvallavegurinn,“ rekur Tómas umhverfisstjóri.
Nú liggur fyrir að afla þurfi upplýsinga um minjarnar og síðan fá ráðgefandi álit Fornminjanefndar áður en málið er kynnt almenningi og á endanum lagt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra til endanlegrar ákvörðunar um friðlýsingu eður ei.“
Heimildir:
-Tíminn 19. des. 1958, Íslandsferðin 1907, bls. 8.
-Gamlar götur-Konungskoman árið 1907, Örn H. Bjarnason – https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/
-Örn H. Bjarnason. Konungskoman árið 1907. Heima er bezt 53. árg., 3. tbl., mars 2003, bls. 122-127.
-Fréttablaðið 7. maí 2019, Gamli Þingvallavegurinn fái veglegri sess með friðlýsingu, bls. 6.
-„Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“, Þ. M. J – Heimsókn Friðrik VIII Danakonungs til Íslands 1907, rit Landsbókasafns Íslands 2007 – https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/9442/Konungskoma_%C3%ADslenska.pdf?sequence=1
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007, Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907, Lesbók Morgunblaðsins.
Friðrik VIII. með ríkisþings- og alþingismönnum við Miðbæjarskólann í Reykjavík.
Sólfarið
Skúlptúrinn „Sólfarið“ er einn af mest heimsóttu stöðum hér í Reykjavík. Hann er við Sæbraut, aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá Hörpu og Hallgrímskirkju.
Jón Gunnar Árnason.
Listamaðurinn Jón Gunnar Árnason gerði skúlptúrinn sem staðsettur er niðri við sjávarsíðuna hér í Reykjavík. Jón Gunnar Árnason (1931-1989) var vélsmiður að mennt en gerðist myndlistarmaður seint á sjötta áratugnum. Hann var einn af stofnendum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, SÚM-hópsins og Nýlistasafnsins í Reykjavík. Listferill Jón Gunnars er fjölbreyttur og var hann óhræddur við að fara nýjar leiðir í listsköpun sinni. Hann vann verk gjarnan í málma og vísaði ýmist í sagnir fortíðar eða kosmískar kenningar. Nokkur verka hans standa í borgarlandslaginu en þekktast er Sólfarið við Sæbraut.
Borgarráð ákvað að efna til listaverkasamkeppni og minnast borgarinnar með útilistaverki. Sun Voyager (Sólfarið) var vinningshönnunin. Listamaðurinn lýsti skúlptúrnum sem Óði til sólarinnar eða draumabát. Hann sagði að þetta væri „loforð um ófundið landsvæði, draum um von, framfarir og frelsi. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að þessi skúlptúr átti upphaflega að vera neðar á strandlengjunni og snúa í vestur í átt að Norður-Ameríku.
Skúptúr við Sæbraut.
Það mun vera algengur misskilningur að Sólfarið sé víkingaskip og að sýn listamannsins hafi verið á ferð íslenska víkingsins Leifs Eiríkssonar eða Leifs heppna til að finna Norður-Ameríku löngu áður en Kristófer Kólumbus gerði það. En í stað þess að snúa til vesturs endaði skúlptúrinn með því að snúa í norður á þessum pínulitla skaga, sem listamaðurinn sjálfur kallaði í gríni, Jónsnes eða Jónsskaga.
Eins og sjá má átti íslensk víkingaarfleifð stóran þátt í hönnuninni þar sem það lítur út eins og víkingalangskip gert með hvalabeinum úr ryðfríu stáli sem standa á graníthring.
Skúlptúr við Sæbraut.
Skúlptúrinn er gríðarlegur (4,2 m x 8,8 m x 3,6m / 16,7 in × 34,6 in × 14,2 tommur) og nær út í geiminn að hafið, himinninn og hugur áhorfandans verða hluti af listaverkinu í heild sinni.
Skúlptúr við Sæbraut.
Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 efndu íbúasamtök Vesturbæjar til samkeppni um útilistaverk. Sólfar Jóns Gunnars varð fyrir valinu og var frummyndin, lítill álskúlptúr gefin Reykjavíkurborg til stækkunar. Sólfarið var sett niður við Sæbraut í fullri stærð og afhjúpað á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 1990. Ári áður féll listamaðurinn frá, langt fyrir aldur fram, og náði því aldrei að njóta verksins í endanlegri mynd.
Skúlptúr við Sæbraut.
Verkið er úr ryðfríu stáli og stendur á graníthellum með svokallaðri ráðhússteypu í stétt umhverfis hellurnar. Aðstoð við frumvinnu og eftirfylgni veitti Kristinn E. Hrafnsson, myndlistarmaður. Sigurjón Yngvason, tæknifræðingur, sá meðal annars um gerð verklýsingar í samvinnu við Jón Gunnar og hafði eftirlit með smíði og uppsetningu verksins. Reynir Hjálmtýsson hafði yfirumsjón með smíði verksins í Vélsmiðjunni Orra í Mosfellssveit. Stærð verksins er 900 x 1800 x 700 cm.
Skúlptúr við Sæbraut.
Sitt sýnist hverjum um staðsetningu verksins við Sæbraut og setja menn helst fyrir sig að skipið snúi ekki stefninu í vestur, í sólsetursátt, samkvæmt hugmyndafræðinni á bak við verkið.
Staðarval Sólfarsins einskorðaðist í upphafi við vesturbæ Reykjavíkur af augljósum ástæðum. Samkvæmt fyrstu tillögum Jóns Gunnars var gert ráð fyrir að Sólfarið stæði á Landakotstúni og stefnið vísaði til miðborgarinnar en skutur að Landakotskirkju. Einnig kom til greina að skipið stæði í Reykjavíkurhöfn á þar til gerðum stöpli. Ánanaust var hins vegar sá staður sem hugnaðist Jóni Gunnari best en áætlanir um breytt skipulag Reykjavíkurborgar komu í veg fyrir það.
Skúlptúr við Sæbraut.
Endanleg ákvörðun var tekin í samráði við Jón Gunnar um staðsetningu Sólfarsins við Sæbraut á litlu nesi, sem hann kallaði Jónsnes í gríni. Hann vissi vel að þótt Sólfarið yrði niðurnjörvað með stefnið í norður þá skipti það ekki máli.
Skúlptúr við Skúlagötu.
Sólfarið var smíðað eftir fríhendisteikningum Jóns Gunnars og óreglulegt form þess, síbylgjandi línur og ljóðræn hreyfing, sem einkenna svo mörg listaverka hans, gera það að verkum að það er eins og skipið svífi í lausu lofti. Það teygir sig út í rýmið þannig að hafið, himinninn og hugur áhorfandans verður hluti af verkinu. Fyrir vikið er Sólfarið gætt þeim einstaka eiginleika að geta flutt hvern og einn þangað sem hugur hans leitar. Fæst verka Jóns Gunnars eru augljós enda sagði hann sjálfur að öll list ætti að hafa merkingu eða boðskap sem vísaði út fyrir hana sjálfa — áhorfandinn ber alltaf ábyrgð á að túlka verkin á sinn hátt og gerist þannig þátttakandi í mótun listaverksins. Verk Jóns Gunnars gera iðulega slíka kröfu til áhorfandans og veita honum þannig tækifæri til að uppgötva nýjan sannleika með þátttöku sinni.
Sólfarið – líkan.
Jón Gunnar var orðinn mjög veikur þegar hafist var handa við stækkun og smíði Sólfarsins og lést hann í apríl 1989. Sá sem ekki veit betur heldur að verkið hafi orðið til á þessu tímabili og ímyndar sér að það tengist hugleiðingum Jóns Gunnars um dauðann — að Sólfarið flytji sálir í ríki dauðans en það er alrangt. Hugsunin er falleg út af fyrir sig en hún er ekki í samræmi við hugmyndafræði Jóns Gunnars. Sólfarið er draumbátur, óður til sólarinnar og felur í sér von og birtu.
Heimildir m.a.:
-https://listasafnreykjavikur.is/frettir/listaverk-vikunnar-solfar
-https://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%B3lfar
Skúlptúr við Sæbraut.