Kastið

Jeppa- og ferðalagaskóli Artic Trucks stefndi að Fagradalsfjalli. Ferðin var framhald kynningar FERLIRs á flugvélaflökum á Reykjanesskaganum í skólanum s.l. vetur.
Kastið - slysið var þar sem fólkið er efst á myndinniLagt var af stað á sérútbúnum jeppum. Þátttakendur voru þeir sem tóku þátt í umræddri kynningu, auk þess sem áhugasömum FERLIRsþátttakendum (húfuhöfum) var að sjálfsögðu boðið að slást með í för. Farið var að Kastinu þar sem skoðaðar voru leifar af flugvél þeirri er Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu fórst með 4. maí 1943. Þá voru skoðaðar leifar flaks í Langhól frá því 24. apríl 1941 og loks flugvélaflak í Langahrygg frá 2. nóv. 1941. Í þessum flugslysum fórust 28 menn, en 11 komust lífs af.
Eins og oft vill vera með nýja vegi þá gleymast þarfir annarra en ökumanna, sem um veginn eiga að fara. Aldrei er gert ráð fyrir útskotum svo fólk gefi stöðvað og lagt bílum sínum, t.d. ef það langar til að skoða nálæga áhugaverða staði. Þá er sjaldan gert ráð fyrir að fólk þurfi að aka spölkorn út fyrir veginn, s.s. inn á gamla slóða. Þannig er málum háttað við nýja Suðurstrandarveginn austan Grindavíkur.

Fagradalsfjall

Ferðalangar á leið umhverfis Fagradalsfjall.

Ekið var eftir slóða yfir Borgarhraun með stefnu á Einbúa, beygt með Kastinu og stöðvað í Fremstadal, en úr honum var þægilegast að ganga upp að fyrsta flakinu.
Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Bráðið ál á slysstað
Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.
Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í KastinuÍ febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., „Hap“ Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.
Í Fremstadal er nokkurt brak, sem vindur og vatn hafa hrakið ofan af Kastinu.
Þá var haldið áfram inn Miðdal, framhjá Sandhól-Innri, eftir Innstadal og yfir Nauthóla og inn Fagradal þar sem staðnæmst var um stund í Dalsseli áður en haldið var á brattann norðvestan og milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Þar er slóðinn hvað óljósastur enda þvær vorvatnið þar klappirnar berar.
Leifar djúpsprengju við LanghólNæsti áfangastaður var norðaustan í Langhól. Leifar af flugvélinni eru af breskum Sunderland flugbát. Svolítið er enn á vettvangi slyssins um 1/5 neðan við efstu brún hlíðarinnar, sem hún skall á, en meira er í gili skammt austar og neðar. Þar eru leifar af djúpsprengum, auk ýmissa hluta úr vélinni.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:
„Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Hreyfill við LangahryggHaldið var áfram eftir slóðanum framhjá Mógili og út með Kistufelli. Haldið var yfir háls milli þess og Litla Hrúts og af honum niður bratta hlíð með stefnu á Stóra Hrút. Þegar komið var suður fyrir Einihlíðar var stefnan tekin að þriðja flugvélaflakinu, í Langahrygg.
Brakið er í grýttri hlíð mót austri. Smæstu hlutirnir eru enn á vettvnagi, en þeir stærri hafa runnið niður hlíðina og staðnæmst þar í gili.
Friðþór Eydal segir að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni „M Samtöl I“ (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna.
Skóleifar við LangahryggTalsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni, sem fyrr sagði. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gilinu, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
„Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur örðum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Slysstaðurinn í LangahryggÞar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – minjar á slysstað.

Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977. Hún var hryllileg, enda fátt stórra hluta heillegir.
Frábært veður. Ferðin tók 8 klst og 8 mín.

Langihryggur

Brak flugvélar í Langahrygg.

 

 

Leiðarendi

Gengið var frá Bláfjallavegi um stíg norður yfir Tvíbollahraun, u.þ.b. 300 metra. Þá var komið í eldra hraun, Stórabollahraun, mosavaxið, en tiltölulega slétt. Hægra megin við stígsendann er jarðfall. Í því er Leiðarendi.

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Haldið var niður um vítt opið að vestanverðu. Stórir steinar eru næst opinu, en hellirinn er samst sem áður greiður niðurgöngu. Fljótlega er komið inn á slétt gólf og víða og háa hraunrás. Litirnir í veggjum rásarinnar eru rauðlitið og verða fallegri eftir því sem innar dregur. Komið er að svolitlu hruni þar sem önnur rás liggur upp til hægri. Á rásmótunum eru falleg steinkerti á gólfum. Þegar gengið er áfram niður rásina má víða sjá stór hraunkerti og fallegar hraunnálar í loftum. Sumsstaðar lækkar rásin og á einum stað þarf að skríða yfir hrun. Þar fyrir innan er mjög hátt og vítt. Þegar komið er innst í rásina er víður hraunpollur.

Leiðarendi

Á leið um Leiðarenda.

Þegar komið er að pollinum má sjá beinagrind af rollu þar undir veggnum hægra megin. Rollan virðist hafa villst alla þessa leið, um 200-300 metra, inn í hellinn og lagst síðan þarna undir vegginn þar sem hún hefur borið beinin. Frá hraunpollinum lækkar hellirinn verulega. Þó má skríða í gegnum hrun lengst til hægri og spölkorn áfram. Ákveðið var að gera það ekki að þessu sinni.
Haldið var til baka og farið í rásina, sem fyrr var lýst. Hraun er víða í annars víðri rásinni, en hægt að fara hægra megin með því. Hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Á einum stað er geisifalleg hraunsepamyndun í loftinu og eins og skrautleg kóróna hangi nuður úr því.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinar. Sá til vinstri er eftirgerð annars, sem glatast hefur.

Innar þrengist hellirinn á ný, en þegar komið er framhjá smá hruni opnast hann inn í víða þverrás. Hlaðin var lítið varða á mótunum svo auðveldara væri að rata til baka því auðvelt er að villast í margskiptum hellum. Þessi varða kom sér líka vel á bakaleiðinni.
Þverrásin virðist lækka nokkuð þegar neðar dregur, en hana á að vera hægt að skríða áfram út um eystra opið í jarðfallinu. Þegar ofar dregur hækkar og víttkar hellirinn og fallegir bálkar eru með veggjum. Efst í honum er hrun, en áður en komið að því er lítil varða hlaðin á mitt gólfið. Hún gaf til kynna að lengra væri ekki komist með góðu móti. Hins vegar liggur rás þarna til hægri, en hún er það lág að skríða þarf hana á maganum. Haldið var til baka að fyrr vörðunni og haldið niður eftir rásinni, sem genginn hafði verið. Þegar farið er til baka er eðlilegra að halda áfram, framhjá aðalrásinni, og því auðvelt að ganga framhjá opinu við hrunið. Seinni rásin er sviðuð að lengd og sú fyrri, um 200-300 metrar.

Leiðarendi

Leiðarendi – kort ÓSÁ.

Eftir smáhvíld var haldið inn um eystra opið í jarðfallinu. Klöngrast þarf spölkorn inn í hellinn, en síðan tekur við slétt gólf. Miklir bálkar eru til beggja handa. Fljótlega er komið að stað þar sem nýja hraunið hefur lekið niður í rásina og storknað. Hægt er að skríða meðfram því vinstra megin og er þá komið inn í víða hraunrásina á ný. Þar fyrir innan er eins og hraunpollur því gólfið framundan hækkar nokkuð. Eftir það lækkar hellirinn mikið og verður einungis skriðinn. Þá er komið inn á þann stað, sem horfið var frá áður. Með eindregnum vilja má fara þar í gegn og er þá stutt eftir í efra opið á jarðfalli Leiðarenda.
Veðrið ofan jarðar skipti í rauninni engu máli. Niðri var bæði hlýtt og skjólgott.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.

Leiðarendi

Hópur ungskáta með FERLIRsfélögum á leið í Leiðarenda.

 

Vífilsstaðaborg

Mikil leit hefur verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar hafa verið um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóftir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóttin, sú stærri, liggur frá til norðurs. Garðar eru fyrir suðugafli, en dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn. Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá.

Urriðakot

Fjáhús í Urriðakotshrauni.

Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að hellinum og hann barinn augum.
Gangan tók um ½ klst, en leitin að fjárborginni tók eina klst.
Veður var frábært – milt og hlýtt.

Vífilsstaðaborg

Vífilsstaðaborg.

Grindavík

Svava Agnarsdóttir fjallar hér um þróun byggðar í Grindavík. Nær hún frá landnámi og að nokkru leyti til okkar daga. Í ritgerðinni, sem birtist hér að hluta, tekur hún fyrir það helsta sem varð til þess að gera Grindavík að þeim bæ sem hann er í dag. Einnig hvernig byggðin þróaðist og skiptist í hverfin þrjú.

Landshættir

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn í Grindavík og Krýsuvíkursókn. Staðarsókn sem nefnd var Grindavíkursókn, náði frá Valahnúk að vestan og austur að Selatöngum. Valahnúkur er landfastur klettur sem skilur að land og reka Grindavíkur og Hafna. Að austan, á, voru landamerki Grindavíkur- og Krýsuvíkursóknar miðuð við klett í fjörunni, sem Dágon nefnist. Skildi hann að land og reka Grindavíkur og Krýsuvíkur. Í norðri eiga Grindvíkingar hreppamörk með Njarðvíkingum, Vogamönnum og Strandarmönnum.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Í lýsingum Geirs Bachmann frá 1835-1882 segir: „Skammt frá Valahnúk í landnorður er aðrísanda fell, Vatnsfell kallað og enn lengra í sömu átt, litla bæjarleið (sem er 3/4 úr mílu), liggur nokkuð hærra og ummálsmeira eins lagað fell, Sílfell, og eru landamerkin sjónhending milli þessarra þriggja punkta. Af Sílfelli sést lengra til norðurs dalverpi, kallað Haugsvörðugjá, er hún bæði löng og breið, þó eigi sé fjarska djúp, með lágum klettum á sumum stöðum, en aftur upplíðanda sandflesjum á öðrum. Teygist hún með afleiðingum sínum fullkomna hálfa aðra mílu til landnorðurs, milli Sílfells og Súlna, og aðskilur land hreppanna og sóknanna, þ.e. Hafna og Grindavíkur.

Súlur

Súlur.

Súlur er bratt, einstakt fell, í kollinum aðskilið sem tvö fell færu, að austnorðanverðu með sléttri, lágri og stuttri hæð eður hálsi áfast við Stapafell, og eru Súlur, sem enn aðskilja nefndra hreppa land, eins og Stapafell, Njarðvíkurland og Grindavíkur. Stapafell er ekki eins hátt og Súlur, en ummálsmeira, og að ofanverðu í það dæld að endilöngu, svo lítur til austurs frá Stapafelli yfir hraun og ógöngur, sjónhending á lágt og lítið, einstakt fell, Litla-Skógfell, sem stendur í hrauni þessu.

Kálffell

Kálffell.

Aftur eru mörkin enn í austur í annað enn lægra fell eður stóra hæð, kallað Kálffell, og þaðan enn þá í austur beina stefnu í nyrðri rætur Fagradals-Hagafells. Er vegalengdin frá Stapafelli til síðst nefnds fells ef beint yrði farið, á að giska hér um þrjár mílur.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Fagradals-Hagafell er að vísu ekki hátt fell, en getur þó vegna ummáls og hæðar talist sem eitt af fjöllum þeim, er liggur fyrir sunnan Keili, og afleiðinga af Lönguhlíðarfjöllumnum fyrir ofan Hafnarfjörð, og þaðan sést í suðurátt. Að norðanverðu við nefnd markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradals-Hagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradals-Hagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunssels-Vatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að giska 2 mílur, ef beint yrði farið.“(Geir,1835-82)

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Í austri eiga Grindvíkingar land á móts við Krýsvíkinga. Grindavíkurhreppur átti landamörk með Strandahreppi í austri og voru þau við sjó í Seljubótarnefi en voru dregin þaðan í svonefndan Sýslustein sem stendur við þjóðveginn í Selvog. Við Sýslustein beygði landamarkalínan aðeins til austurs og þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell og þaðan til fjalla sem nú heita Bláfjöll.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum sem flest eru í landi Grindvíkur. Þau eru frekar lág en setja mikin svip á umhverfið. Þau eru öll talin vera gosmyndanir og eru frá því seint á síðustu öld.
Ströndin meðfram Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Gróðurfar og ræktun

Geldingadalir

Geldingadalir – Gos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.

Af lýsingum að dæma virðist oft ekki hafa verið mjög búsældarlegt í hreppnum. Gróðurfar var frekar lélegt og ræktunarskilyrði slæm Að öllum líkindum hefur verið mun búsældarlegra á landnámsöld, heldur en t.d. um 1700.
Um það bil þrem öldum eftir landnám hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa hafist með neðansjávargosi á árunum 1210-1211 og reis þá Eldey úr sjó. Um árið 1266 varð mikið öskugos við Reykjanestá. Lagði öskulagið yfir allan Reykjanesskaga, upp í Borgarfjörð og austur í Flóa. Í kjölfar öskugossins, eða samtímis því hófust mikil hraungos. Runnu þá ein sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Eins og vænta má ollu þessi umbrot miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróðurinn og valdið bændum miklum búsifjum.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Á þessum tíma hefur jarðvegurinn víðast verið grunnur og sendinn og lítið þurft til að uppblástur yrði. En þó hreppurinn hafi verið mjög gróðursnauður var hægt að finna gróðursæla dali og kvosir sem vaxnar voru grasi og hrísi. Það voru Selsvellir, Baðsvellir og Vigdísarvellir sem reyndust eitt besta gróðurland Grindvíkinga. Á slíkum stöðum höfðu Grindvíkingar sel fyrr á öldum og reyttu hrís til eldiviðar og til fóðurs handa skepnum. Á Vigdísarvöllum var reist bú upp úr seli en það stóð frekar stutt.
Illa gekk bændum að rækta tún og til viðbótar við slæman jarðveg var mikið vatnsleysi. Hraunið var mjög gljúpt og vatnið seytlaði niður á mikið dýpi. Víðast var afar djúpt niður á grunnvatn, og gekk sjór inn í sprungur og gjótur og blandaðist vatninu, gerði það slæmt og jafnvel óhæft til drykkjar. Svo slæmt varð það að reiknað var með að byggð legðist af á Ísólfsskála, austan Grindavíkur, sökum vatnsleysir en það fór þó ekki svo.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1830 fóru bændur verulega að bæta tún sín, og um svipað leyti varð garðrækt almenn. Þar var þó einkum um að ræða kálrækt og ræktunarskilyrðum lýsir Geir Bachmann þannig:

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

„Jarðarrækt er hér stunduð rétt í meðallagi, á sumum bæjum þó betur, t.d. á Hrauni, Járngerðarstöðum, Húsatóttum. Hinar jarðirnar ganga fremur úr sér árlega, bæði fyrir ákomna margra ára níðslu, sem og líka af sandfoki og sjávarágangi. Á tveimur fyrst nefndu bæjum hafa tún í seinni tíð verið mikið sléttuð en túngörðum ætíð vel við haldið á þeim öllum. Greftir til vatnsafleiðinga og skriðugarðahleðsla á hér ekki heima. Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi. Ei eru hér almennt ræktaðar kartöflur, Hefir mér þó allvel lukkast það 2 undanfarin ár, og mætti þó betur takast.“(Geir,1835-82)

Svartengi

Svartsengi.

Á þremur stöðum í hreppnum er jarðhiti: á Baðsvöllum, í Svartsengi og í Krýsuvík. Litlar heimildir eru um nýtingu jarðhitans á Baðsvöllum og í Svartsengi fyrr á öldum. Örnefnið Baðsvellir bendir þó til að þar hafi einhver nýting verið.
Í dag er nokkuð öðruvísi um að litast í Grindavík. Mikið hefur verið gert af því að rækta upp svæði sem áður hafa verið eingöngu hraun.

Hverfin þrjú

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Landnámsmenn í Grindavík voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, sem nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, sem nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám í Grindavík af nákvæmni.Líklegt þykir að það hafi verið á fjórða tug 10. aldar. Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans.
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann ekki mjög fögur: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.“(Geir,1835-82)
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2200 manns og þar af búa aðeins u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.

Íbúafjöldi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Engar áreiðanlegar heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703. sbr. Saga Grindavíkur bls. 87. Ekki virðist vitneskjan vera meiri um mannfjöldaþróun á 16. og 17. öld Byggð á þeim lögbýlum sem í hreppnum voru virðist vera stöðug. Ein breytingarnar voru þegar vel fiskaðist, þá þurftu útvegsbændur á vinnufólki að halda.
Samanburður á íbúum í hverfunum þremur á árunum 1703 og 1762.

Staðarhverfi 1703 = 72 1762 = 44
Þórk.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 90
Járng.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 56

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Á þessari töflu má sjá að fólki fækkaði nokkuð mikið í Staðarhverfi eftir árið 1703. Ástæður þess eru sjálfsagt margar en líklegt má telja að Stóra-Bóla eigi mikinn þátt í því. Annálar frá 1400 – 1800 herma að úr henni hafi 49 manns látist í Staðarsókn í Grindavík. En auk farsóttar voru sjóslys mjög tíð á þessum árum. Við upphaf 19. aldar voru Grindvíkingar um þriðjungi færri en í upphafi 18. aldar og virðist sem 18. öldin hafi verið mönnum mjög erfið. En úr þessu var jöfn þróun í hreppnum og þegar Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974 voru íbúar 1600.

Á árunum 1890 -1920 voru tvær gerðir heimila algengastar í Grindavík. Það voru mjög fjölmenn heimili sem líkjast mjög gömlu sveitaheimilunum. Þessi heimili voru flest á gömlum lögbýlum og jörðum sem á bjuggu útvegsmenn. Á þessum heimilum bjuggu oft 15 – 18 manns. En á ýmsum hjáleigum og nýjum býlum var fátt í heimili jafnvel ekki nema 2 – 4.

Landbúnaður

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina frá Víkurfjárhúsunum í Grindavík

Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru“(S.G, II,163).
Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.

Sjávarútvegur og fiskvinnsla

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.

Grindavík

Grindavíkurbrim.

„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg (milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)“. (S.G.I,188).

Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.

Grindavík

Brim utan við Sloka.

Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.
Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm.

Grindavíkurhöfn

Grindavíkurhöfn – loftmynd/ÓSÁ.

Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.
Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.
Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Grindavík

Grindavík 1963.

Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.
En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.

Skólamál

Grindavík

Grindavík – gamli skólinn.

Allt fram undir lok 18. aldar fór almenn fræðsla í lestri, skrift og kristindómi að mestu fram á heimilunum. Var það undir foreldrum og öðrum komið, hvernig uppfræðing barnanna tókst, en prestum bar þó að fylgjast með kristindómskunnáttu þeirra.
„Um miðja 18. öld fóru þeir Jón Þorkelsson og Ludvig Harboe að ferðast um landið, m.a. til að kanna þekkingu fólks. Komust þeir að raun um, að kunnáttu í lestri og skrift í Grindavík var töluverð ábótavant og kunnátta í reikningi enn minni. Í ljósi þessarar niðurstöðu, lögðu þeir félagar fram ýmsar umbótatillögur, sem m.a. leiddu til þess, að ákveðið var, að prestar skyldu hafa eftirlit með heimakennslunni. Komu þeir árlega á hvert heimili í sóknum sínum til að prófa börnin. Niðurstöður voru svo færðar inn í húsvitjunarbækur.“(S.G.I,330).

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Rúmum áttatíu árum síðar segir síra Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni: „Eigi fæ ég sagt, hvað margir eru hér skrifandi; þykir máske ég herma mikið, ef ég þó segi hér vera 20 og þar af einasta 2 kvenmenn. Þó eru fleiri, sem lesa skrif, og unglingar leggja sig nú margir hér eftir þessarri fögru list, hverja ég ei reikna í hópi þeirra skrifandi.. Þeir, sem ekki eru skrifandi eru á öllum aldri og af báðum kynferðum.“ (G.B.1835-82)
Það var ekki fyrr en árið 1883 að ástæða þótti til að fá mann til að kenna börnum lestur, skrift og reikning, þó svo löngu væri búið að stofna skóla annars staðar á Suðurnesjum. Því fylgdi líka að byggja þyrfti hæfilegt hús fyrir kennsluna. Ekki er talið að kennt hafi verið nema einn vetur til að byrja með. Helsti talsmaður barnaskóla í hreppnum var án nokkurs vafa síra Oddur V. Gíslason. Honum þótti menntun og menning yfir höfuð vera mjög á eftir í Grindavík. Síra Oddur lagði mikið á sig til að koma á barnaskóla, og fékk bændur og sjómenn til að leggja sitt af mörkum. Það hafðist og kennsla hófst 2.október 1888 og fór fram á þremur stöðum: Stað, Garðhúsum(í Járngerðarstaðahverfi) og á Hrauni. Kennt var eina viku í senn á hverjum stað og fengu 25 börn kennslu.
Svona gekk þetta í nokkuð mörg ár, en ekki gekk alltaf vel að fá kennara.

Guðbergur Bergsson

Guðbergur Bergsson.

„Haustið 1893 var ákveðið að hafa skólann á einum stað. Leitað var til stiftyfirvalda um styrk til að koma á fastaskóla í hreppnum, en ekki urðu stiftyfirvöld við þeirri bón. Engu að síður var ákveðið að leigja húsnæði til kennslu. Eitt af síðustu verkum síra Odds áður en hann fluttist til vesturheims árið 1894 var að ítreka beiðnina við stiftyfirvöld. Í þetta sinn urðu stiftyfirvöld við beiðni síra Odds og nú var í fyrsta sinn veitt úr landssjóði til barnaskóla í Grindavík.“(S.G.II,335)
Á þennan hátt var börnum í Grindavík kennt þar til árið 1904, en þá var farið að kenna í samkomuhúsinu. Áramótin 1912-1913 hófst kennsla í nýbyggðu skólahúsi var kostnaðurinn við húsið 3700,56 krónum. Árið 1929 var skólaskylda færð niður í sjö ár og þegar barnaskólinn var settur í september árið 1929 voru alls 68 nemendur og nú þurfti að bæta við kennara. Skólastjóri þá var Einar Kr. Einarsson. Samhliða því var fengið kennsluhúsnæði í Þórkötlustaðahverfi því ekki var hægt að láta sjö ára börn ganga á milli hverfa, en það er u.þ.b. 2 kílómetrar. Árið 1937 þurfti enn að bæta við kennara og var þá Sigrún Guðmundsdóttir ráðin, en hún hafði nýlega lokið námi við Kennaraskólann. Einn af nemendum Sigrúnar var Guðbergur Bergsson rithöfundur og lýsir hann kennlukonunni svona:

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

„Í hverfinu (Þórkötlustaðahverfi) var enginn kennari. Þess vegna kom hann á hverjum morgni þrammandi, í rauðhærðri kvenmannsmynd, í hvaða veðri sem var utan úr Járngerðarstaðahverfi. Á veturna var að líkum stöðug rigning eða snjókoma á víxl og þess vegna kom kennslukonan ýmist rennblaut eða helfrosin í skólann… Þegar frost var úti og kennslukonan kom í skólann, var fyrsta verk hennar að þíða á sér andlitið með lófunum og frosið blekið í byttunum, en fötin sín þurrkaði hún við ofninn. Á þessum tíma þekktist ekki upphitun í húsum og við krakkarnir gengum í ullarfötum jafnt yst sem innst: fyrst í utanyfirpeysu, svo millifatapeysu, síðan í koti, en næst líkamanum vourm við í ullarnærbrók, og því gerði ekki svo mikið til að við værum blaut. Við lyktuðum ymist af frosinni eða blautri ull, og lyktin hefur eflaust verið megn, því að kennslukonan hélt okkur í hæfilegri fjarlægð frá sér, en við slógum um hana hálfhring á meðan hún sat við ofninn.

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

Starfs síns vegna gekk hún í „búðarfötum“ í veðurgarranum. Hún var í kápu og með slæðu um hálsinn, hatt með slöri og fæturnir voru í ljós-eða músarbrúnum bómullarsokkum. Samt breyttu þeir auðvitað um lit eftir veðurfarinu. Kennslukonan fékk sér alltaf sæti til hliðar við ofninn á meðan hún var að þorna eða þíða fötin og blekið. Til þess að vera ekki aðgerðarlaus á meðan ofn krílið gerði kraftaverk á henni, brá hún á loft löngum spjöldum með mislöngum orðum sem við áttum að vera fljót að lesa… Hvað sem því líður þá hættu föt kennslukonunnar smám saman að vera dökkleit þannig að eðlilegur mjúkur litur tók jafnt og þétt yfirhöndina í ljósum, þurrum blettum sem færðust upp eftir líkamanum uns hún varð skjöldótt, heit og rjóð. Þá reis hún á fætur og gekk að púltinu í gufustrók sem lagði af henni og stóð til allra hliða. Hin raunverulega kennsla byrjaði aldrei fyrr en hún hafði breyst í gufustrók.“(Guðb.B,26-29)

Járngerðarstaðahverfi

Frá Járngerðarstaðahverfi.

Á þessum tíma var orðið ljóst að byggja þyrfti nýjan skóla. En ekki var hafist handa við að byggja hann fyrr en árið 1945, vegna erfiðra aðstæðna í byggðarlaginu. Var skólinn reistur rétt vestan við aðalgötuna í Járngerðarstaðahverfinu. Formleg vígsla á skólanum fór fram haustið 1947, þó svo kennsla hafi byrjað þar ári fyrr. Þá voru liðin 60 ár frá því síra Oddur V. Gíslason réð fyrsta kennarann til starfa. Á sama tíma var stofnaður unglingaskóli og kennt þar í einni deild.

Menning og félagsmál
Þar sem lífsbaráttan var hörð gerði fólk ekki margt annað en að afla sér matar og halda sér á lífi og afar lítið var um skemmtanir. Einu mannamótin voru í raun kirkjuferðir á sunnudögum og öðrum hátíðisdögum.

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

Fyrstu heimildir um aðra skemmtun en kirkjuferðir eru frá aldamótum 1900. Var þá talað um að dansað hafi verið í pakkhúsi og spilað á harmonikku og dansað linnulaust alla nóttina. Fyrsta góðtemplarastúkan var stofnuð í Grindavík 1891 og var það Oddur V. Gíslason sem gekkst fyrir stofnun þessarar stúku. Bindindismál vour aðal viðfangsefni stúkunnar, en ýmislegt annað var gert þar t.d. var komið á fót lestrarfélagi. En ekki var þessi stúka lengi við líði, því þegar síra Oddur flutti til Vesturheims með fjölskyldu sína hvarf mesti krafturinn úr henni. En á næstu árum voru nokkuð margar stúkur stofnaðar í Grindavík en þær voru mislengi virkar.
Lestrarfélagið Mímir var stofnað 1904. Félagið var mjög virkt fyrstu árin og mikið af bókum keypt. Til að fjármagna bókakaup voru haldnar tombólur og skemmtanir og þá aðallega dansskemmtanir.
Haustið 1923 var stofnað kvenfélag í Grindavík og var það Guðrún Þorvarðardóttir sem var aðal hvatamaður þess. Hún taldi, að í hreppnum mætti áorka miklu ef konur tækju sig saman og mynduðu félag. Kvenfélag Grindavíkur stóð meðal annars fyrir Svartsengishátíð í mörg ár.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Slysavarnardeildin Þorbjörn var stofnuð formlega 1928 en áður hafði síra Oddur V. Gíslason unnið ötullega að slysavörnum. Hann gaf út einn árgang af blaðinu Sæbjörgu árið 1892 og var það rit helgað slysavörnum. Árið 1930 var ákveðið að koma upp fluglínustöð í Grindavík. Aðeins viku eftir að björgunarsveitarmönnum hafði verið kennt á fluglínutækin þurfti nota þau. Franski togarinn Cap Fagnet, með 38 manna áhöfn strandaði við Hraun. Björgunin tókst giftusamlega og voru þessi nýju tæki strax búin að sanna sig. Áður en langt um leið voru slík tæki komin til allra deilda Slysavarnarsélags Íslands. Árið 1949 var svo stofnuð björgunarsveit þar sem mönnum fannst að það þyrfti vel þjálfaða menn við björgunarstörf. Björgunarsveitin Þorbjörn starfar af krafti í dag og er tækjabúnaður og öll aðstaða orðin mun betri en áður. Árið 1977 var Slysavarnardeildin Þórkatla stofnuð og eignaðist þá björgunarsveitin sterkan bakhjarl.

Cap Fagnet

Björgun áhafnar Cap Fagnet.

Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað árið 1935. Má rekja upphafið að stofnun félagsins til Jóns Guðmundssonar, sem var vitavörður á Reykjanesi í kringum 1930. Hann hafði mikinn áhuga á félagsmálum og hafði talsverða þekkingu á starfi ungmennafélaga. Haldin voru íþróttanámskeið og einnig stóð Íþróttafélagið fyrir danskemmtunum. Íþróttafélagið fékk aðstöðu til íþróttaiðkana í Kvenfélagshúsinu. Strax á fyrstu árum félagsins var farið að kenna sund. Fór þá Einar Kr. Einarson skólastjóri, sem var einn fárra í Grindavík sem kunnu að synda, með börn út á Reykjanes og kenndi sund í gjá, sem í rann volgt vatn. Fótboltinn heillaði snemma og auðvelt var að smala saman í fótboltalið. Það virðist sem Grindvíkingar hafi átt nokkuð efnilega fótboltamenn því þeir urðu Suðurnesjameistarar árið 1950. Íþróttafélagið ásamt Slysavarnardeildinni Þorbirni stóðu fyrir hátíðarhöldum á sjómannadaginn fyrst árið 1949 og gekk það í mörg ár. Árið 1963 fékk félagið nýtt nafn og var nú orðið Ungmennafélag Grindavíkur.

Lokaorð

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Í dag búa í Grindavík um 2200 íbúar (árið 2002). Atvinna er í nokkuð góðu lagi,en það er þó að mestu leyti fiskvinna. Þó eru farin að vaxa hér lítil fyrirtæki með léttan iðnað.
Á síðustu árum hefur orðið gífurleg viðhorfsbreyting hjá fólki varðandi garðrækt. Þar hjálpar mikið til að Grindavíkurbær hefur lagað mikið af sínum svæðum. Þar sem áður hefur verið hraun og sandur er orðið grasi gróið. Þetta hefur orðið til þess að bærinn er orðinn mjög snyrtilegur og fallegur. Vonandi verður framhald á því það er alltaf eitthvað meira sem má laga.
Mikið hefur verið gert af því að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í Grindavík. Og er alveg ástæða til því bærinn hefur upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn. Þá er ég ekki eingöngu að tala um Bláa Lónið sem er þekktasti staðurinn við Grindavík. Mikið er t.d. af fallegum gönguleiðum í kringum bæinn og hafa nokkrar þeirra verið merktar. Þá er mikið af hverum víða í landi Grindavíkur.

Heimildaskrá
1. Geir Bachmann. 1835-1882. Sóknarlýsingar og annar fróðleikur um Grindavík.
2. Jón Þ. Þór. 1994. Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800.
3. Jón Þ. Þór og Guðfinna Hreiðarsdóttir. 1996. Saga Grindavíkur 1800-1974.
4. Þóra K. Ásgeirsdóttir. 1992. Guðbergur Bergsson metsölubók, 26-29.

Heimildir sem stuðst var við:
1. Gísli Brynjólfsson. 1975. Mannfólk milli sæva, Staðhverfingabók.
2. Jón Eyfjörð. Samantekt um Grindavík. (Upplýsingar af Internetinu).

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Húshellir

Gengið var upp með Fjallsgjá að Fjallinu eina og inn á hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju. Ætlunin var að skoða nokkra hella, s.s. Steinbogahelli, Híðið, Húshelli og Maístjörnuna. Nokkrir aðrir hellar eru þarna á svæðinu og sumir nokkuð langir.

Hrútagjárdyngja

Jarðmyndun í Hrútargjárdyngjuhelli.

Op Híðisins lætur lítið yfir sér. Þegar inn var komið sést einungis í fljótu bragði lág hraunbóla með sléttu gólfi. Hægt er þó að halda áfram niður í meginrásina á tveimur stöðum. Auðveldara var að fara til vinstri þegar inn var komið og láta sig síðan síga á aftur bak niður í rásins. Þá tók við greið leið til suðurs, með beygjum og bugðum, dropsteinum, hraunstráum og öðrum fallegum hraunmyndunum. Hellirinn lækkar og hækkar, stuttir hliðargangar liggja út frá meginrásinni og stundum þurfti að skríða á maganum um tíma. Híðið er alllangt með viðkvæmum helladýrgripum.
Húshellir er skammt ofar. Þegar inn var komið tók við stór salur með stuttum rásum til tveggja átta. Á miðju gólfi var hlaðið byrgi. Bein lágu á gólfinu. Erfitt reyndist að ákvarða úr hvaða skepnu þau gætu hafa verið. Jafnvel var talið að þau hafi verið úr hreindýrskálfi. Húshellir hefur alla burði til að geta talist til tímabundinna mannabústaða.

Híðið

Í Híðinu.

Gömul þjóðleið lá upp með Fjallinu eina og skammt frá opi hellisins áleiðis að norðurbrún Hrútagjárdyngju. Sagnir eru af útilegumönnum á þessum slóðum, en í þeim frásögnum er ýmist getið um Hverinn eina eða Fjallið eina. Ein sagan segir að þeir hafi fundið skúta “skammt sunnan Selsvöllu og hreiðrað þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina.” Þar voru þeir handteknir og dæmdir á Bessastöðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sunnan við Selsvelli er hellir, en ekki er fulljóst hvar nefndur hellir hafi verið nálægt Hvernum eina. Þó er þar nálægt gróið jarðfall með lóðréttum veggjum. Auðvelt hefði verið að refta yfir það og fá þannig hið ákjósanlegasta skjól. Þrátt fyrir sagnir af útilegumönnunum við Selsvelli er alls ekki útilokað að útilegumenn hafi hafst við annars staðar í hraununum í skamman tíma, s.s. í Húshelli. Þá gætu refaveiðimenn hafa haft þar skjól, en a.m.k. tvær hlaðnar refagildrur eru í Hrútargjárdyngju skammt ofar.
Samkvæmt lögum þjóðveldisins forna var skóggangur þyngsta refsing sem sakamaður gat fengið. Skóggangur var ævilangur og voru sakamenn þessir gerðir útlægir úr samfélaginu og voru réttdræpir ef til þeirra sást. Þeir leituðu því oftast skjóls í óbyggðum þar sem enginn varð þeirra var.

Húshellir

Við Húshelli.

Sumir útilegumenn áttu að búa í hellum uppi í óbyggðum við frekar kröpp kjör. Líf þessara manna var erfitt og þar eð þeir gátu ekki lifað einungis á náttúrunnar gæðum þá neyddust þeir oft til þess að stunda gripdeildir í byggð. Og þá var ekki verra að vera tiltölulega nálægt henni, en þó í öruggri fjarlægð.
Maístjarnan er með fallegri hellum. Inngangan í hana er áhrifarík, eða í gegnum auga. Hellirinn er viðkvæmur; mikið af dropsteinum og hraunstráum. Litadýrðin er allnokkur og súlnaverkið skrautlegt. Steinbogahellir er hins vegar æskilegri umgangs. Opið er stórt og hellirinn víður. Hrun er inni í rásinni, en hægt er að fara yfir það og áfram niður rásina. Hellirinn er nefndur eftir steinboga, sem er yfir jarðfallinu þar sem opið er.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tók 5 klst og 5 mín.

Híðið

Híðið – op.

ísólfs

Farið var að Ísólfsskála og Selatöngum í fylgd Jóns Valgeirs Guðmundssonar, syni Guðmundssonar Hannessonar frá Vigdísarvöllum. Lýsing á hluta ferðarinnar fer hér á eftir.

Notarholl-223

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Haldið var eftir Ísólfsskálavegi frá Hrauni. Jón benti m.a. á hvilft í vestanverðum Siglubergshálsi þar sem hann kemur í Fiskidalsfjall og nefndi hana Lyngbrekku. Hann benti og á gamla veginn, sem lagður var frá Hraunssandi, upp hálsinn og áfram áleiðis yfir að Skála. Hann sést vel ofanvert í hálsinum og áfram á milli og yfir Móklettana. Þar liggur vegurinn inn með hlíðinni uns hann liggur áleiðis norður fyrir Slögu austan við Litlaháls.
Jón sagðist muna vel eftir LM-merkinu (ártal) í austanverðum Móklettum. Það var skoðað og benti Jón á stað, sem merkið er. Landamerkin að vestanverðu liggja úr Festisnýpu, í merkið á Móklettum og yfir í Rauðamelshól uppi á sunnanverðu Borgarfelli.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskgarðar.

Ekið er yfir Litlaháls og þá er Lyngfjall á hægri hönd, síðan Festisfjall sunnan við það. Áður en haldið var að Ísólfsskála var farið inn í Drykkjarsteinsdal að Drykkjarst. Á leiðinni var farið framhjá grettistaki suðvestan í Slögu, er Jón sagði heita Hattur. Jón sagði Símon Dalaskáld hafa ort fallegt kvæði um steininn, en hann er sunnan við þjóðleiðina austur að Mjöltunnuklifi og til Krýsuvíkur. Jón sagðist nú einn vera eftirlifandi þeirra, sem lögðu veginn árið 1933. Þeir hefðu þá verið fimm saman, en vegurinn hafi verið gerður að beiðni Hlínar í Krýsuvík og á hennar kostnað.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Þeir hafi haft einn hest, Nasa, og einn vagn við vegagerðina. Hún hafi verið tiltölulega auðveld að Méltunnuklifi, en þá hafi þeir þurft að ryðja sér braut niður klifið og í gegnum Leggjabrjótshraun, yfir Núpshlíðina og áfram yfir hraunið að Latfjalli. Þá hafi Ögmundarhraunið tekið við og liggur gamli vegurinn skammt norðan núverandi vegar. Við austurenda hans er komið inn á leið þá er Ögmundur lagði forðum. Gengið var að dysinni, teknir punktar og hún skoðuð. Þá var gengið spölkorn eftir gömlu leið Ögmundar. Enn sést vel móta fyrir henni á kafla í hrauninu.
Komið var að Ísólfsskála. Vestan við Huldukonustein (norðan íbúðarhússins) er Bjallinn. Undir honum, þar sem hann er sléttastur og gamalt garðlag liggur að honum, voru Skálaréttir. Í þeim voru dilkar og almenningur. Þangað komu Grindvíkingar í réttir. Eftir að Borgarhraunsréttir voru hlaðnar lögðust þær af.
Notarholl-224Á Ísólfsskála benti Jón á Gvendarvör, sem er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Jón sagði að fiskurinn hafi verið flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið hafi hann verið tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær hafi verið á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Lending hafi verið í Börubót, sem verið hafði beint neðan við bæinn. Bærinn sjálfur var þar sem nú er bílastæði vestan við græna sumarbústaðinn vestast á túninu, undir Bjallanum. Enn sést móta svolítið fyrir hleðslum hússins að hluta. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Hleðslurnar sjást þar að hluta. Beint þar fyrir neðan sjóbúðina er hlið. Sjávarmegin við það, þar sem nú er sjávarkampurinn, var hlaðinn brunnur bæjarins.

Notarholl-225Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – steinninn.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Austan þess er stór steinn. Hann féll úr Bjallanum er faðir Jóns var níu vetra og lenti á höfði hans. Hlaut hann langt og mikið sá þvert yfir höfuðið svo leðrið hékk laust. Varð að sækja lækni til Keflavíkur til að vinna saumaskapinn. Suðaustan við húsið, þar sem nú er grunnur, stóð Bergsstaðahúsið. Það var síðar flutt út í Þórkötlustaðahverfi og loks út í Járnegarðastaðahverfi, a.m.k. hluti þess. Guðbergur Bergsson hefur búið þar. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn. Jón sagðist muna eftir því, t.d. árið 1928, að mikið af skútum hafi verið við veiðar utan við ströndina. Þær voru franskar, færeyskar, danskar og hollenskar.

Notarholl-226

Séð frá húsinu, í átt að Nótahól, er lágur grashóll og utan í honum hleðslur. Hann nefnist Hestagerði. Rangagerði er djúp skora utar með ströndinni og skerst hún allangt inn í bergið. Þangað komst t.d. sjómaður eitt sinn á bát sínum í vonskuverði og bjargaðist. Rangagerði varð áður fyrr austurmörk Ísólfsskála, eða eftir að bóndinn gaf Kálfatjörn rekann frá gerðinu að Dágon á Selatöngum sem sálargreiða. Í staðinn eftirlét Kálfatjörn Ísólfsskála grásleppuveiði utan við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Bárður, bóndi á Skála, keypti hann til baka árið 1916 svo nú eru austurmörkin aftur í Dágon.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Þegar haldið var áfram austur Ísólfsskálaveg lýsti Jón Hrafnsskriðu undir Slögu, Stórusteinum, Lágaskarði o.fl. stöðum. Vörður tvær á hægri hönd heita Bergsvarða (nær veginum) og Bárðarvarða. Bergur, faðir Guðbergs, hlóð þá veglegri er hann sat yfir fénu þarna og vildi hafa eitthvað um að sýsla. Gil eitt á vinstri hönd er merkilegt fyrir það að í því eru drykkjarskál. Þar settist vatnið og gat fé gengið að því vísu.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Fyrsta hornið við veginn á vinstri hönd heitir Fyrsta brekka í Méltunnuklifi. Síðan tekur við Önnur brekka í Méltunnuklifi. Þangað voru kýrnar frá Skála venjulega reknar til beitar. Loks er Méltunnuklifið. Þá hafi vegurinn um klifið bæði ve mjór og svo þröngur að erfitt gat verið að komast með hesta þar um. Gamla þjóðleiðin, sem fyrr var líst, kemur ofan af klifinu skammt norðar. Þar heitir Innsta brekka í Méltunnuklifi. Grasi gróið dalverpi er þar austanvið. Farið er í gegnu gjallgíga. Þeir heita Moshólar.
Áður en haldið var að Selatöngum var farin gamla leiðin í gegnum Ögmundarhraun, þá er Jón og félagar ruddu á sínum tíma. Jón lýsti leiðinni og vinnunni. Verst gekk, að hans sögn, að komast í gegnum hraunhaftið skömmu áður en komið er austur fyrir hraunið. Í Mjöltunnuklifinu hafi þurft að sprengja klett, sem slútti út í stíginn og orsakaði erfiðleikana við flutninga fyrrum. Við austurjaðar hraunsins er dysin skammt frá. Enn má vel sjá móta fyrir hleðslum í henni.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLIR á Selatöngum 2004.

Á leiðinni niður að Selatöngum lýsti Jón Eystri lestarleiðinni frá Krýsuvík, Rekagötunni og Vestari lestarleiðinni, um Katlahraun út að Ísólfsskála. Eystri leiðin liggur með hraunkantinum, sem er handan hraunssléttunar austan vegarins. Jón að þeir hefðu verið svo til allt haustið að reiða reka heim frá Selatöngum. Tanga Móri hefði stundum gert vart við sig, en vitað var að hann hafi verið vesalingur, sem orðið hafði úti þarna við Tangana. Fræg er sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda.
Gengið var að refagildrunum vestan við Selatanga. Faðir Jóns hlóð þær á sínum tíma. Jón sagði hann hafa verið meira gefinn fyrir veiðar en búskap. Gildrurnar hafði hann ekki séð í u.þ.b. hálfa öld. Gengið var eftir Vestari lestargötunni í gegnum Katlahraun og að Smíðahelli. Á leiðinni benti Jón á skarð suðvestan í Katlinum, en af því var áður tekið mið í Geitahlíðarenda – fiskimið. Jón sagði vermenn á Selatöngum stundum hafa stolist í Smíðahelli í landlegum, tekið með sér rekavið, og dundað við að smíða úr þeim ausur, spæni, tögl o.fl. Þetta hefðu þeir ekki mátt, en í hellinum gátu þeir dulist án þess að nokkur yrði þeirra var.

Selatangar-221Þar sem setið var utan við hellinn í kvöldsólinni benti Jón á Langahrygg í norðri. Hann sagðist hafa verið þarna niður á Töngunum haustið 1940 er hann og bróðir hans hefðu orðið var við hvítann flekk utan í hryggnum. Þeir hafi haldið heim, en síðan farið upp á hrygginn. Þegar þangað kom hafi þeir sé líkamsparta dreifða um hlíðina og brak úr flugvél upp og niður um hana alla. Þeir hafi gengið niður til Grindavíkur til að láta vita. Þaðan hafi verið haft samband við herinn, því þarna var um ameríska flugvél að ræða með marga háttsetta innanborð. Haldið var á hrygginn í bryndreka, en það hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann hafi ferðast með slíku farartæki.

Selatangar

Selatangar – fjárskjólið.

Litið var á fjárskjólið norðan Katlahrauns. Jón sagði það hafa verið hlaðið um 1870 af föður hans, sem þá hafi búið á Vigdísarvöllum, vegna þess að féð hafi leitað niður í sunnanverðar Núpshlíðar og alveg niður í fjöru á Selatöngum. Eftir að faðir hans flutti að Skála komu þangað íslensk kona og fylgd hennar var Þjóðverji. Þetta var á stríðsárunum. Þau hafi beðið um húsaskjól. Guðmundur hafði slíkt ekki á lausu, en vísaði þeim á fjárskjólið. Þar dvaldi parið um tíma eð þangað til þau voru sótt þangað af Bretum.

Nótarhellir

Nótarhellir.

Jón vísaði á Nótahellir vestast á Seltöngum. Þar sagði hann bændur hafa lagt nótina yfir vík, sem þar er, til að veiða selinn, sem hafi verið fjölmennur á og utan við tangana í þá daga. Hellirinn sést vel á lágfjöru, en erfitt er að komast að honum í annan tíma. Fé leitaði stundum inn í hellinn og flæddi þá stundum inni. Þess vegna var reynt að gera gerði utan við hornið landmegin, en það fór veg allrar veraldar.
Þá var gengið um Selatangasvæðið sjálft. Það skal tekið fram að eftir gönguna sáu þátttakendur svæðið í allt öðru ljósi en áður. Þarna er svo margt og merkilegt að finna að erfitt er að lýsa því stuttum texta. Þess vegna var ákveðið að nota ferðina og gera uppdrátt af svo til öllum mannvirkjum á Seltaöngum, nefna þá og staðsetja svona nokkurn veginn.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Vestan við sjálfa Selatangana eru brunnurinn, þar sem vatn aldrei þraut. Ofan hans eru Brunntjarnirnar. Jón sagði að hann og bróðir hans hefðu fyllt svo til alveg upp í brunninn eftir að dauð rolla fannst ofan í honum. Hann hafi áður verið meira en mannhæða djúpur.
Vestast á Selatöngum, austur undir kletti, er hlaðið hesthúsi Á austurveggnum eru garðarnir. Sunnan hesthússins eru búðir þær, sem síðast var hafst við í. Innst, nyrst, er eldhúsið. Sjá má ennþá hlóðarsteinana í suðausturhorni þess. Framan við eldhúsið eru tveir bálkar, svefnhús. Austan við þá er hús, sem var hluti búðanna. Í þeim var hafst við allt til ársins 1880, en þá gerði faðir hans út bát frá Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Báturinn var jafnan í Tangasundinu, sem er neðan við vestasta fiskibyrgið á hól sunnan búðanna. Að því er gengið frá búðunum um hlaðið hlið. Byrgið stendur svo til heilt. Göt eru á báðum göflum. Jón sagði þau hafa verið lyklinn að önduninni. Fiskinum hafi verið staflað líkt og á Nótarhól og þess gætt að kjötið snertist ekki. Þannig hafi hann verið um veturinn. Um vorið hafi fiskurinn verið tekinn og borinn út, þurrkaður og ýmist fluttur út í skútur eða heim. Fiskibyrgin standa sum svo til heil, bæði með húslagi og ein hringlaga. Verbúðirnar eru við fyrstu sín illa sjáanlegar, en þegar betur er að gáð, sjást þær vel. Austustu búðirnar er vestan við Selalónið, en austan þess er klettaveggur. Hann heitir Vestari Látur. Austari Látur eru þar skammt austar. Rétt sést móta fyrir austustu búðunum, sunnan við austasta þurrkbyrgið, sem stendur þar nokkuð heillegt. Búðirnar eru vestan við hlaðinn stíg er liggur frá fiskbyrginu niður að ströndinni. Ofan byrgisins er Smiðjan í klettasprungu. Austan þess er hlaðið hringlaga fallegt fiskibyrgi.

Selatangar-223

Selatangar – Dágon fyrir miðju (nú horfinn).

Dágon er nær horfinn. Hann sést þó í fjöruborðinu sem lítill klettur, suðaustan við vestasta fiskibyrgið. Vestan hans er hærri klettur og annar stór uppi á bakkanum á milli þeirra og byrgisins. Á tiltölulega sléttum grágrýtisklöppunum neðan við Dágon er klappað LM, en þar voru austurmörk Ísólfsskála og Krýsuvík tók við. Áletrunin sést einungis á lágfjöru. Jón sagðist hafa ætlað að skýra fyrsta bátinn sinn Dágon, en þegar hann frétti að nafnið þýddi “djöfull” á dönsku, hafi hann hætt við það.
Neðan við það fiskibyrgi, sem er heillegast miðsvæðis, er Skiptivöllurinn, bergrani út í sjó. Þar voru áður sléttar klappir og voru þær notaðar sem skiptivöllur líkt og vellirnir við Stokkasundið í Selvogi.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga. Þetta byrgi er nú horfið til hálfs.

Þegar gengið er til vesturs á Töngunum má t.d. sjá þurrkgarða, fiskbyrgi fremst, verbúð austan undir kletti (þeirri er lýst var áður), hesthúsið norðar, fiskibyrgi, fjögur kringlótt fiskibyrgi, íveruhús, fullt að sandi, skiptivöllinn, hús, hringlaga fiskibyrgi, fiskibyrgi, tvö sandfyllt hús, tvo hringlaga byrgi, Smiðjuna, fiskibyrgi, hús, eldhús, bálka og loks fiskibyrgi. Utar er Selalón, eins og áður sagði. (Sjá nánar í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga. Í honum er m.a. fyrrnefndur uppdráttur af Töngunum).
Veður var í einu orði sagt frábært – logn, sól og hiti.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Bakki

Ætlunin var að ganga um svæðið neðan við Garðakirkju á Álftanesi. Neðan Kirkjugarðs er Lindarflöt og lá Lindargata eftir henni að Garðalind. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi. Þar var um tíma þurrabúð, Garðhús [tóftir þess eru vestan við núverandi aðkeyrslu að Garðakirkju]. Ofar var Höll í Hallargerði. Sjást leifar gerðisins enn.
Leifar BakkaVestan við Garðamýri var hjáleigan Háteigur. Vestan við Garðamýri var býlið Miðengi. Neðan við Miðengi er breið klapparfjara og klapparnef, Miðengisklappir. Miðengisbrunnur var austan til í Miðengistúni.
Fjaran sunnan við Garðahverfi var oft nefnt einu nafni Garðafjara. Þar var áður góð skelfiskfjara og sölvatekja. Vestan við Bakka tók við Garðagrandi, allt vestur í Garðavarir (Háteigsvör, Ráðgerðisvör, Miðengisvör), milli Garðatjarnar og Garðamýrar. Þar var Garðamýrartjörn. Í Garðavörum var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í hverfinu. Garðabúð stóð ofan varanna og þar var Skiptivöllurinn.
Byrjað var á því að taka hús á Guðjóni Jósepssyni í Pálshúsi. Hann er uppalinn á staðnum og þekkir því vel til kennileita. Hann benti líka hiklaust á fyrrum bæjarstæði Bakka austast á Garðagranda. Það er sunnan við núverandi fjárhús frá bænum. Þrátt fyrir sléttanir mótar enn fyrir veggjum og görðum. Enn mótar fyrir hlöðnum veggjum skemmu, sem nú hefur verið fyllt af rusli. Gegnt hefur verið úr skemmunni um göng niður á sjávarkambinn þar sem sjórinn hefur náð að brjóta verulega framan af. Sagði Guðjón að verulega sæi á bakkanum á tiltölulega skömmum tíma.

Garðagrandi

Ekki er langt um liðið að allar tóftirnar voru landmegin, en nú hefur sjórinn náð að brjóta hluta þeirra undir sig. Smá má móta fyrir hleðslum í moldarbakka sjávarmegin.Guðjón sagði að faðir hans, Jósep, hefði róið frá útræði vestan við Bakka, þ.e. austast í Garðafjöru. Bakki hefði farið í eyði 1927.
Guðjón benti á að þegar komið væri vestur yfir Grandann mætti þar sjá greinilega Sjávargötu upp frá vörunum áleiðis að Görðum.
Í Jarðabókinni 1703 er greint frá nokkrum Garðakirkjujörðum sem höfðu aðgang að skógi eða hrísi í staðarins landi. Skerseyri var hjáleiga Garða og hafði eldiviðartak í landi staðarins. Pálshús voru einnig hjáleiga Garða sem höfðu eldivið bæði af torfi og skógi í óskiptu landi kirkjunnar. Nýibær var eign Garðakirkju en um þá jörð segir Jarðabókin: „Selskarð og Hraunsholt voru einnig Garðakirkjujarðir og höfðu báðar hrístak til kolgerðar og hríshestskvöð í Garðakirkjulandi.

Tóft vestast á Garðagranda

Eftirtaldar Garðakirkjujarðir höfðu hríshest meðal virkra eða aflagðra kvaða sinna: Dysjar, Ráðagerði, Garðabúð, Miðengi, Hlíð, Móakot og Hausastaðakot.“  Ekki er getið um að þær eigi skóg, aðeins sagt að þær eigi eldiviðartak af móskurði í landi staðarins, og því verður að ætla að hríshesturinn hafi verið sóttur í Garðakirkjuland. Loks skal minnst á Vífilsstaði sem voru Garðakirkjujörð.
Garðalind var aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna autast í hverfinu (G.S.) Austan kirkjustaðarins lá Lindargata að Garðalind. Árni Helgason segir í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842: „…mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli sem heitir Garðalind.“

Sjávargata og tóft vestast í Garðamýri

Markús Magnússon segir í lýsingu sinni á Görðum: „Ekki eru hér nein Grettistök en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk er á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum sem að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann. Annars er brunnurinn afmarkaður á báðar hliðar inni undir klettinum með stórum steinum, óhræranlegum, enda hvílir kletturinn á þeim.“
Garðamýri var niður undan Garðatúni og var til forna allmikið flæmi en hefur nú verið minnkað með ári hverju (G.S.). Í Jarðabókinni 1703 segir: „Þessum bæ [Bakka] fylgdi til forna Garðamýri… Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útiheysiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt eina kúgidið og mannslánið.“
Í lýsingu Markúsar um Garðatún fjallar hann um klett í miðju túninu. Þar segir: „Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins – er 13 álnir að umfangi og 1 1/3 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann.

Miðengisbrunnur

Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja á sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“
Gengið var vestur eftir Garðagranda og um Garðafjöru að Garðavörum. Vestast í þeim er gróinn hóll, fremur lítill. Beint ofan við hann er brunnur; Miðengisbrunnurinn.
Í Jarðabókinni 1703 segir um Garðabúd: „Gardabud, hjáleiga í óskiptu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem ðaur fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú sama hjáleiga“. Um Skemmu segir: „Skiemma, útihús heima við staðinn á Görðum. hefur um féina tíma ljeð manni einum til ábúðar so sem hjáleiga, og fylgdi því þá grasnyt, er sú er með hjáleigunni, er Garðatún heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð“. Skemma stóð ofan við Garðavarir líkt og Garðabúð. Í Örnefnalýsingu GS segir: „Garðabúð stóð ofan við Garðavarir með Skiptivöllinn þar sem hlutum var skipt“:
Garðavarir voru vestan við Garðamýri. Þar var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í Garðahverfi, Háteigsvör, Ráðagerðisvör og Miðengisvör.“
GötusteinninnGarðabúð, auk Garðalindar, eru einu friðlýstu fornleifarnar á þessu svæði, þó svo að fleiri slíkra hafi t.d. verið getið í lýsingum prestsins á Görðum í skýrslu sinni til dönsku fonleifanefndarinnar á ofanverðri 19. öld (sjá hér á eftir).
Þegar staðið var við fyrrnefndan hól var að sjá skeljasandsrákir í honum, auk steina á stangli. Fljótt á litið virtust þarna hafa verið leifar af sjóbúð, en ekki kotbýli. Hafa ber þó í huga að land hefur bæði breyst á þessu svæði í aldanna rás og sjórinn tekið talsvert af því til sín, einkum í útsinningi líkt og verið hefur að undanförnu [desember 2007]. Eftir að hafa skoðað Miðengisbrunninn var tekið hús á Ágústi Kristjánssyni í Miðengi. Hann var við gegninga úti við og tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum (þekkti suma þeirra aftur af fyrri heimsóknum).
Ágúst sagði að ekki væri ólíklegt að Garðabúð hefði verið þar sem hóllinn er nú vestast í Garðafjöru, en skeljasandsrákirnar bentu þó fremur til þess að þar hefði verið minni sjóbúð svo framarlega á kampinum. Skeljalögin bentu til þess að þar hefði verið unnin beita úr skelfiski. Benti hann á aðra gróna tóft vestast í Garðamýri, sem hefði verið þar svo lengi sem hann myndi eftir sér, en Ágúst er fæddur í Miðengi 1931, ólst þar upp og hefur búið síðan á staðnum.Túnsteinninn
Tvennu vildi Ágúst vekja athygli á; annars vegar Götusteininum norðvestan við bæinn á Miðengi, og hins vegar Lindargötunni þar sem hún hafði legið frá Garðalind til suðvesturs suður fyrir bæinn og siðan upp með honum að vestanverðu með stefnu að bænum Hlíð [og Grjóta skammt ofar]. Hliðstólpinn sæist enn í griðingunni austan við bæinn og Götusteinninn væri enn ágætt kennileiti þess hvar gatan hefði legið fyrrum – þótt engin sæjust þess merki nú vegna túnsléttna.
Ágúst benti á ferkantaða hlaðna garða norðaustan við Miðengi; sagði það þar væru Hólsgarðar. Ef vel væri gáð mætti sjá leifar bæjarins þar í norðausturhorninu. Sunnar hefði Sjávargatan heim að Görðum legið.
Um Miðengisbrunninn sagði Ágúst að hann hefði ávallt verið notaður til að brynna dýrum. Vatnið hefði verið saltkeimað. Brunnurinn hefði verið hlaðinn þannig að neðst var sett trétunna, hlaðið um hana og siðan upp fyrir yfirborð. Brunnurinn hafi verið alldjúpur, en fylltur þegar vatn kom rennandi heim til bæja og brúkun hans var hætt.
GarðalindUm „Túnsteininn“ fyrrnefnda sagðist Ágúst ekki vera alveg viss, en allt benti til þess að um væri að ræða tiltekinn stein sunnan við suðausturhornið á Háteigsgarðinum. Garðatúnið hefði fyrrum náð bæði allnokkru vestar og austar. Þrátt fyrir hjáleigurnar hefði veriðum óskipt land að ræða, m.a.s. þegar faðir hans fluttist að Miðengi hefði því enn verið þannig háttað.
Þegar steinninn í túninu var skoðaður passaði hann  vel við framangreinda lýsingu. Steinninn er um þriðjungur á hæð á við steininn yfir Garðalindinni og svipaður að sverleika. Hann er greinilega ekki jarðfastur, en nú hefur gróið í kringum hann svo ekki loftar undir. Sagði Ágúst að bóndinn í Háteig hafi jafnan haft á orði að ýmislegt væri um þennan stein að segja og að ekki væri hægt að skýra það allt með eðlilegum hætti. Taldi hann álög hvíla á steininum og að honum mætti ekki raska, enda hefði hann fengið að vera í friði allt til þessa dags. Hins vegar væri alveg eins líklegt að einhverjir framkvæmdamenn myndu ekki hika við að raska steininum ef þeir fengju að leika lausum hala á svæðinu eins og útlit væri fyrir um því búið væri að skipuleggja byggð á þessu svæði til lengri framtíðar. Taldi Ágúst það miður þvi þetta svæði væri síðasti óraskaði sveitarbletturinn á höfðuborgarsvæðinu og ætti fremur að varðveitast sem slíkur – í besta falli að endurbyggja þau bæjarhús, sem fyrir væru, enda mörg hver orðin æri lúin eins og á bárum mátti sjá.
Þegar Hólsgarðar voru skoðaðir virtist augljóst að leifar húsa voru þar í norðausturhorninu; grónar hleðslur, – veggir og stuttur gangur. Hóll skammt austar hefur gjarnan verið talinn til bæjarstæðis Hóls, en við athugun á honum virtist augljóst að þar hefur ekki staðið bær. Hleðslur eru í hólnum vestanverðum, í skjóli fyrir austanáttinni. Líklega hefur þar verið um að ræða gerði eða heimastekk.
BLindargataeint niður af Hóli er fyrrnefnd tóft, sem Ágúst hafði bent á, vestast í Garðamýri. Um er að ræða hóllaga þúst er stendur upp úr mýrinni. Sunnan hennar mótar fyrir götu; Sjávargötunni. Líklegt má telja að Garðavörin hafi verið þarna beint fyrir neðan og gatan verið notuð til að komast milli hennar og bæjar, enda styst að fara um hana heim og að heiman. Þústin gæti mögulega hafa verið fyrrnefnd Garðabúð. Hafa ber í huga að land hefur sigið á þessu svæði á löngum tíma, auk þess sem mýrin hefur áður fyrr þótt arðvænleg, bæði til mó- og torftekju, auk þess sem ætla má að hjáleigan (kotið) hafi fyrst og fremst grundvallast á útræði. Þurrara hefur verið þarna fyrrum því sjávarkamburinn hefur færst mun innar, jafnvel sem nemur hálfum hundraði metra á einum mannsaldri. Mýrin sjálf hefur því verið framar og kotið þá staðið á þurru. Garðhúsabrunnurinn skammt austar gaf það a.m.k. vel til kynna.
Í lýsingum er sagt að Garðhúsabrunnur hafi verið „vestan við Garðalind“. Svo mun og vera. Skammt vestsuðvestan við lindina má enn sjá leifar brunnsins. Hann er nú efst í Garðamýri, en hefur líklegast verið í jarðri hennar á meðan var. Brunnurinn hefur verið fylltur, svo vel að upphlaðningur hefur myndast á honum og gert hann greinilegan.
Skammt austar er Garðalind. Garðaflöt er í raun hallandi þurrþýfi neðan við kirkjugarðinn. Undir grágrýtisklöpp er uppspretta, sem mótuð hefur verið með holu í klöpp. Hlaðið afrennsli (yfirfall) liggur suður úr henni. Á því er hlaðin brú á Lindargötunni, sem lá frá henni bæði til austurs og vesturs. Ofan lindarinnar eru ummerki eftir seinni tíma „tækninýjungar“, þ.e. hlaðið brunnhýsi til að geyma rafmagnsdælu er tengt var við brunninn, sem gefur vel til kynna ágæti innihaldsins til langs tíma.
Lindargötunni var loks fylgt áleiðis að Pálshúsi (Dysjum).
Ljóst er að Garðasvæðið er ómetanlegt menningarminjasvæði. Telja má víst að minjar þess muni týna tölunni, ein af annarri þegar fram líða stundir, en vonandi fær það að verða sem mest óraskað sem lengst.
FERLIR stefnir að því að rissa upp allar minjar á svæðinu og koma á uppdrátt er gæti orðið innlegg í heilstæða mynd af búsetusögu þess um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – 2001.
-Frásagnir um fornaldarleifar, bls. 242-243.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing.
-Guðjón Jósepsson – Pálshúsi.
-Ágúst Kristjánsson – Miðengi.

Hólsgarðar - gula línan sýnir legu Lindargötu

Sveifluháls

Gengið var af Norðlingahálsi yfir í Folaldadali í Sveifluhálsi um Köldunámur. Haldið var upp úr suðurenda dalanna upp að Arnarvatni, niður í Hveradal með Hnakk og síðan upp Ketilsstíg af Seltúni, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal.
Sveifluháls, öðru nafni Austurháls, er móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s). Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur. Þeir sjást vel þegar komið er upp á hrygginn milli Norðlingaháls og Folaldadala.

Ferlir

FERLIR á Sveifluhálsi.

Köldunámur eru þarna vestan í Sveifluhálsinum, alllangt frá öðrum jarðhitasvæðum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Þar sem staðið er á hryggnum og horft anars vegar upp að Stapatindum í austri og Hrútargjárdyngju og hraunin í vestri hlýtur þjóðtrú og útilegumenna ð koma upp í hugann. Orðið þjóðtrú er oft notað um trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í umhverfinu og náttúrunni.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Gísli Sigurðsson segir einhvers staðar að orðið “þjóð” í þjóðtrú vísi til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.
Þekking á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur – sem dæmi eru um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks.

Folaldadalir

Í Folaldadölum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd.

Miðdegishnúkur fór stækkandi á vinstri hönd og Hofmannflöt lá undir hálsinum á þá hægri. Á brúninni var tröllsandlit er fylgdist með mannaferðum úr vestri.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Gengið var um sléttan sendinn dal í miðjum Sveifluhálsi og upp úr honum að Arnarvatni. Svæði þetta er ákaflega tilkomumikið og fallegt þrátt fyrir gróðurfátæktina. Haldið var suður fyrir vatnið og þar beygt til austurs, gengið nuður með Hnakk og stefnan tekin á Hveradal. Kleifarvatnið var framundan, en það er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m.

Sveifluháls

Við Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Í Hveradal eða Seltúni, eins og svæið allt er jafnan nefnt, varð mikil gufusprenging í októbermánuði 1999. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Haldið var upp frá hverasvæðinu um Ketilsstíg, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal um Ketilinn. Af brúninni er fallegt útsýni yfir að Hrútafelli og Núpshlíðarhálsi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2065
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Sveifluhals/
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Óttarsstaðasel

Gengið var eftir Óttarsstaðaselsstíg (Skógargötu/Rauðamelsstíg) upp í Óttarstaðasel. Til hliðsjónar var uppdráttur frá árinu 1932, en á hann er stígurinn merktur.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Tóftir selsins voru skoðaðar, litið á fallegt vatnsstæðið norðaustan þess og síðan haldið áfram sem leið lá upp eftir ætluðum stíg sunnan selsins. Hraunið er vel gróið þarna og ef stígur hefur legið í gegnum selið og áfram upp á hæðirnar væri hann að öllum líkindum horfinn. Gengið var framhjá Rauðhólsskúta og mið tekið á vörðu á hraunhól í hæðunum. Önnur varða var skammt ofan við hana, en síðan ekki söguna meir. Stefnan var því tekin meira ti vesturs, yfir í Skógarnef. Þegar komið var að landamerkjagirðingu Óttarsstaða og Hvassahrans var byrjað að skyggnast eftir Skógarnefsskúta, bæði ofan við ásana neðst í nefninu og neðan þeirra, en án árangurs að þessu sinni.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjalínan, sem kemur ofan úr Markhelluhólnum við Búðarvatnsstæðið, um Kolhól og Skógarnef, á að liggja um Skógarnefsskútann og Skógarnefnsgrenin og áfram niður í gegnum Mið-Krossstapa og niður með Skorás. Grenin sáust skammt neðan við bakkana, skammt vestan girðingarinnar. Hlaðið er um eitt grenið og tveir uppraðaðir steinar þar hjá. Heilleg varða er á hraunhól við girðinguna ofan við bakkana.
Á leið til norðurs í gegnum gróið hraunið neðan við Skógarnefið var komið að hlaðinni vörðu. Við hana var gata með stefnu upp að þeirri við girðinguna í Skógarnefi. Önnur stærri var á hraunhól skammt frá. Þegar betur var að gáð sáust vörður eða vörðubrot í stefnu til norðurs með ca. 10-20 metra millibili.

Þeim var fylgt áfram niður hraunið, en ekki var að sjá greinilegan stíg. Hins vegar var leiðin mjög greiðfær í hrauninu þar sem hún lá með hólum og hryggjum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Vörðurnar voru greinilega mjög gamlar, en auðvelt var að fylgja þeim. Þegar komið var á stíginn, sem liggur milli Óttarstaðasels og Lónakotssels, skammt vestan við hið fyrrnefnda, mátti sjá vel hlaðna vörðu. Stígurinn hélt þar spölkorn áfram til norðurs og beygði síðan til norðausturs, inn á Óttarsstaðaselsstíg / Rauðamelsstíg neðan (norðan) við Meitlana. Þar við gatnamótin voru tvær fallnar vörður og enn önnur skammt sunnar, með stefnu á milli hinna tveggja. Rauðamelsstígurinn upp í Óttarstaðaselið er þarna greinilegur, en gatnamótin hins vegar ekki, nema mjög vel sé að gáð. Telja má nær öruggt að þarna sé sá hluti Rauðamelsstígsins er nefnist Mosastígur.

Óttarsstaðaselsstígur

Gatnamót Skógargötu (tvær vörður).

Þetta er mjög líklega sá hinn sami stígur og Hraunamenn nefndu Mosastíg. Hann var farinn þegar menn voru að rífa mosa til upphitunar (JG). Það er reyndar annar Mosastígur sem liggur upp með Brunanum, sem er á allt öðrum stað (miklu mun vestar og liggur frá Mosum áleiðis niður að Hvassahrauni).
Í Skógarnefi er hann varðaður þar í gegn, áleiðis upp á Mosa þar sem Mosastígur tekur við áleiðis upp fyrir Lambafell. Á uppdrættinum er hann sýndur liggja til vesturs norðan Trölladyngju, en af stígnum að dæma virðist hann liggja til suðurs austan við Trölladyngju, áleiðis yfir að Hrútafelli og að Ketilsstíg yfir Sveifluháls.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaselsstígur.

Kaldársel

Eftirfarandi er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII„, Reykjavík 1957, safnað hefur Guðni Jónsson“

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

„Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Er það nokkur nær Hafnarfirði en Helgafell, en þó mun vera þangað fullur stundargangur, jafnvel þótt hart sé farið. Nú er að sumarlagi unnt að komast í bíl mest af leiðinni. Fyrir nokkrum áratugum var búið í Kaldárseli, ei eigi að staðaldri, heldur 2-3 ár í senn, því fremur hefir það verið lítil og léleg jörð. Túnið var lítið og hefir verið fátt nautgripa, en fjárbeit hefir sennilega verið þar góð.
Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Bjuggu þar foreldrar mínir, Jón Guðmundsson og Vilborg Jónsdóttir. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga. Áttu þau hjón eina kú og nokkrar kindur. Stóð kýrin geld frá því um nýár og þar til vika var af góu, þá bar kýrin.
Þegar hún er um það bil fullgrædd, þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: „Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við“. Þá segi ég: „Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann“.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Lét húsfreyja jafnan mjólk í askinn á hverju kvöldi, og var hann ætíð horfinn næsta dag. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: „Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína“.

Kaldársel

Borgarstandur við Kaldársel.

Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið. Húsfreyja virtist leggja lítið upp úr þessum draum og vildi láta sem minnst á þessu bera. Ég sagði ýmsum drauminn, en húsfreyja var þá vön að þagga niður í mér og sagði: „Vertu ekki að þessu, Sigga. Þetta er eintóm vitleysa“.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Slær nú mamma upp á glensi við Sigríði og segir: „Nú held ég, að glaðni yfir þér, þegar þú fer að taka upp úr rúminu þínu. Það verður líklega eitthvað fémætt, sem þú finnur“. En húsfreyja vildi eigi láta á það minnast með einu orði.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: „Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera“. Mamma svarar þá: „Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor“. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.

Kaldársel

Borgarstandur – garður og stekkur.

Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.“

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta og músagangs.

-http://tradisjoner.no/text91.html

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.