Gengið var frá Garðahúsavík, yfir Lambarif og meðfram Kvíavallavík að Hafurbjarnarstöðum, framhjá Gamlabóli, þ.e. gamla Kirkjubóli, Þóroddsstöðum (Þórustöðum) og Fitjum að Flankastöðum.
Í leiðinni var m.a. ætlunin að skoða kumlateig þann er fannst á Hafurbjarnarstöðum fyrr á árum og telja má merkastan slíkra teiga hér á landi. Eitt kumlið er nú undir fótum sýningargesta í gólfi Þjóðminjasafns Íslands (2008).
Kirkjuból var frægt í eftirmálum aftöku Jóns Arasonar 1551.
Flankastaðir eru hins vegar kunnir í annálum vegna óhóflegs skemmtanahalds. Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Á leiðinni var m.a. gengið framhjá Lambarifi, sem sást einstaklega vel vegna þess hver lágsjávað var. Á þessari stundu var tunglið bæði fullt og stærst, enda nærst jörðu. Á rifinu sást vel til ketils úr King Eduvard er fórst þar fyrir utan á 20. öld. Við þetta langa sker fórst einnig franski togarinn Auguste LeBlonel þann 19. ágúst 1019. Annars er Garðskagaflösin og nálæg sker vörðuð skipssköðum. Sjá má afleiðingar þeirra hvarvetna með ströndinni.
En aftur upp á land; kumlateigurinn á Hafurbjarnarstöðum gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík 934 – fyrir 1074 árum.
Þá má geta þess að um 1450 brenndu skólasveinar Jóns Gerrekssonar, biskups, Kirkjubólsbæinn vegna afbrýðisemi foringja þeirra.
Kirkjubólshverfið var nyrzta byggð á Miðnesi fram undir síðustu aldamót, en þá fór að byggjast einstaka býli á Skaganum. Strandlengjan mestöll frá Skagatá suður að Klapparhverfi er í sjávarmáli þakin þykkum hvítum skeljasandi. Hefur sandur þessi fokið mjög upp á túnin og spillt grasrót, svo að illbyggilegt mátti heita, þar til á síðustu árum að útlendur áburður og betri viðleitni hefur gert byltingu í grasvexti á þessum slóðum.
Kirkjubólshverfingar hafa jafnan sótt sjó með búskapnum, og hafa þar verið margir ágætir sjómenn. En vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga og að brimasamt mjög er út af hverfinu, hafa þeir mest sótt sjávarafla sinn í Garðsjóinn, með lóð á haustin, en þorskanet á vertíðum, einnig handfæri á öllum árstímum eftir ástæðum, og hafa haft uppsátur mest í Út-Garði. Þó var nokkur útgerð, að minnsta kosti öðru hvoru, í suðurdjúpið á vertíð, en oft lentu þeir þá í Flankastaðavör eða jafnvel á Fitjum, ef ekki var fært heim vegna brims.
Hér má sjá Landamerkjalýsingu Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða: „Ár 1886, mánudaginn þann 7. júnímán., voru skýrð upp landamerki áminnztrar jarðar [þ.e. Hafurbjarnarstaða], og eru þau sem hér segir: Sunnan til á Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, þaðan stefna mörkin upp í nyrðri brún á stokkmyndaðri klappavör með mark LM, er liggur niður frá útnorðurhorni túngarðs jarðarinnar við sjóinn. Ræður svo túngarðurinn mörkum, þar til kemur að túnmörkum jarðarinnar að norðan við túnmörk Kolbeinsstaða, er þar merktur steinn LM. Þaðan liggja mörkin milli túna áminnztra jarða til suðurs, þar til kemur að fornaldargarðlagi stutt frá Kolbeinsstaðabrunni, er þar merktur steinn LM, þaðan að jarðföstum steini fyrir vestan Kvíavelli með sama marki, þaðan að vörðu á sjávarkampinum spölkorn fyrir sunnan hústóft, er á kampinum stendur; þaðan fram á Mávatanga að þar settu marki LM á klöpp. Þaðan ræður sama sjónhending alla leið út í sjó. (Áminnzt LM þýðir landamerki.)
Túnmörk jarðarinnar eru; að norðan, frá markasteini við tún Hafurbjarnarstaða liggur túngarður til austurs, er girðir af túnið alla leið upp fyrir þurrabúðarbýlið Efstabæ, beygist þá túngarðurinn til suðurs, þar til kemur að jarðfastri klöpp með mark innan til við túngarðinn, skammt fyrir sunnan þurrabúðarbýlið Suðurkot, beygjast svo mörkin í vestur beint á fornaldargarðlag (í því er merki um friðlýstar fornleifar), er aðskilur tún jarðarinnar frá túni Kvíavallanna, þá áfram eftir garðlaginu, meðan sömu stefnu heldur, að merktum steini sunnan til við Brunn (vatnsból jarðarinnar), beygjast þá túnmörkin til norðurs að þeim upphaflega áminnzta markasteini, síðast umgetin markstefna aðskilur tún jarðarinnar frá túni Hafurbjarnarstaðanna. Einkennismark á áminnztum steinum er LM, er þýðir landamerki.
2. Vestan til á miðju Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, ræður þaðan fjörumarklína að norðanverðu alla leið upp á sjávarkampinn sunnanhallt við þann enda Lambarifs, er að sjávarkampinum liggur; er þar á kampinum varða með marksteini í, merktum LM.
Beygja svo fjörumörkin suður hákampinn suður að útnorðurhorni Hafurbjarnarstaðatúngarðs við sjóinn. Liggja svo merkin niður fyrir sjávarkampinn norðan til í stokkmyndaða klapparvör með mark LM. Þaðan að klöpp sunnanhallt á Lambarifi, er þar mark LM. Þaðan sem sjónhending ræður alla leið á sjó út.
„Hálf-örðugt er að fá nöfn og lýsingar á boðum og skerjum á þessu svæði. Þó þekkja allir Lambarif, sem er langt og allbreitt rif út í sjó norðan við Hafurbjarnarstaði, enda alþekkt fyrir skipströnd og slysfarir fyrr á tíma. Hafliðasker er norðan við rifið. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Norður af Hafliðaskeri er Krosstangi. Árni Jónsson segir, að nafnið sé dregið af legu tangans miðað við önnur sker. En einnig kynni það að vera í einhverju sambandi við kirkju eða bænahús, sem var á Kirkjubóli og markar enn fyrir á Gamla-Bóli.
Þar er einnig kirkjugarður, en hann er farinn að brotna af sjógangi og mannabein að koma úr hólnum, í flóði fyrir nokkrum árum komu m.a. hlutar af tveimur beinagrindum. Hallssker er sunnan við rifið. Ekki er vitað um tilefni þess nafns. Þar suður af er Mávatangi, lágt rif, laust við land, en kemur upp úr um fjöru. Kringum rif þetta eru smásker og flúðir, kallaðar Flögur. Brimbrotið á þessu öllu saman er nefnt Mávatangaflögur.
Kolbeinsstaðavarða er skammt fyrir ofan túngarðinn á Kolbeinsstöðum, rétt við veginn, sem nú liggur þar. Hún er gamalt mið á sundi og fiskimiðum. Hún mun hafa verið myndarleg á beztu árum ævi sinnar. Eigi mun vitað um aldur hennar. Nú er hún ekki annað en fáeinir steinar í hrúgu, mjög sokkin í jörð og úr henni hrunið á allar hliðar. Liggja steinarnir allt í kring, meira eða minna niður sokknir.
Í Kirkjubólshverfi miðju er stór hóll niður undir sjávarbakka. Heitir hann Gamla-Ból, enda stóð þar Kirkjuból áður fyrr með sína fornu sögu. Þegar Magnús Þórarinsson var smástrákur og kom á Gamla-Ból í fyrsta sinn, voru honum syndir þar vel höggnir bollar í stóra steina og sagt, að það væru hlautbollar frá heiðni. Steinar þessir munu nú vera komnir í hleðslu á Gamla-Bóli eða þar í grennd. Sunnan í Gamla-Bóli er lægð eða sýling, sem heitir Borguskarð.
Mið á Kirkjubólssundi er Kolbeinsstaðavarða í Borguskarð. Norðan við Sundið eru Mávatangaflögur, en sunnan við afleiðingar af Hásteinaflögum, sem eru grynningar fyrir norðan Hástein. Lent var í svonefndri Borgu, sem Magnús Þórarinsson segir, að hafi verið sandvik sunnan megin við Gamla-Ból, en Árni Jónsson segir, að Borga hafi verið hlaðin rétt (sbr. borg = hringhlaðin rétt).
Sunnan megin við lendinguna er Borgusker í fjörunni, smáhólmi í þanghafi. Norðan við eru Vallarhúsaklappir, en Kvíavallavik og Kvíavallasker þar norður af. Ekki var gott á land að leggja þarna, því allt var eintómur hvítur sandur, varð því að bera fiskinn upp á tún. Vergögn voru lítil og engir garðar, skipum til skjóls í ofviðrum á landi. Einn kofi hafði lengi staðið á bakkanum, en breyttist síðar í timburskúr. Sundið er sagt að hafi verið sæmilegt, en svo er að skilja, að það hafi náð skammt út fyrir fjöruna, því hvorki varð komizt út né að fyrir brimi, sem var fyrir utan, segja kunnugir. Þarna eru einlægir þarahvirflar um allt þetta svæði og einn brimsvaði, ef hreyfing er í sjó. Mun það allt vera kallað einu nafni Víkurboðar.
Lendingarstaður var við Hafurbjarnarstaði, nyrzta bæ í hverfinu, við sjóinn, en aðeins um sumartímann. Má enn sjá til leifanna af gömlu sjávarhúsi niður undan bænum (nú húsinu); hefur það verið nefnt Gjaldabyrgi, eflaust kennt við Ingjald Tómasson, sem bjó á Kolbeinsstöðum og síðar á Hafurbjarnarstöðum á seinni hluta 19. aldar. Hann var faðir Guðrúnar símstjóra í Gerðum og Margrétar í Melbæ.
Þá var einnig lending við Þóroddsstaði, syðsta bæ í hverfinu; var þar lent í sandviki niður af bænum, norðan við svonefndar Svörtuklappir. Engin sjávarhús eru þar nú sýnileg eða önnur vergögn. Kirkjubólssund var notað fyrir allt hverfið, en svo róið með landi að lendingarstöðum.
Framanskráð er einkum ritað eftir frásögn Magnúsar Þórarinssonar, hið sannasta, er hann vissi og hafði getað upp spurt af kunnugum eldri mönnum um leiðir og lendingar í Kirkjubólshverfi á ævi þálifandi manna.
Eigi er nú vitað, hve mikil sjósóknin hefur verið, en það stingur í augu, að svo er orðað, að „stundum“ hafi gengið þar konungsskip, áttæringur á vertíð. Það bendir til þess, að útgerðin hafi ekki verið stöðug fremur þá en síðar. Þá hefur líka hagað öðruvísi til þar. Sjávarströndin er ávallt að breytast, hægt og sígandi. Vitað er, að landbrot hefur verið ákaflegt á Miðnesi á undanförnum árhundruðum. Sjórinn hefur brotið jarðveginn, en eftir standa klettarnir. Það eru skerin. Áður var Lambarif grasi gróið; svo hefur einnig verið um önnur sker og fjörur, sem nú eru á þessu svæði, og allt annað flóðfar er þar nú en var fyrir 250 árum.
Enginn mun nú vita, hvar gamla vörin var í Hafurbjarnarstaðalandi. En það er víst, að brimasamt hefur ætíð verið út af Kirkjubólshverfi. Það vottar líka umsögnin um gömlu vörina, sem spilltist af grjóti í sjávargangi og sjávarflóðum.
Niður við sjó er, eins og fyrr segir, Gamla-Ból, þar sem Kirkjuból stóð fyrr. Mælt er, að bærinn hafi verið fluttur frá sjó undan sandfoki.
Í suðausturhorni túnsins er svonefnt Rafnshús, kennt við mann, sem þar bjó. Þar norður af er kofi, sem nefndur er Busthús. Þar var bær eða tómthús. Utar, hálfa leið á veginum, er varnargarður úr grjóti. Vestur af bænum, sem nú er, eru miklar hleðslur í hólnum við sjó. Suðvestur í túni eru miklar hleðslur af stórgrýti. Er þar að brotna hár rofabakki, og koma fram úr honum hleðslur. Hleðslur þessar eru leifar af kirkjugarði og byggingum.
Árnadalur er lægð í túni Kirkjubóls, sem liggur suður og norður í átt til Þórustaðatúns. Ekki er vitað með vissu, við hvern Árnadalur er kenndur, e.t.v. Árna nokkurn reipslagara, sem bjó á Kirkjubóli einhvern tíma á síðustu öld.
Fyrir innan túngarðinn á Kirkjubóli tekur við svæði það, sem Almenningur heitir. Það er sameign Kirkjubóls, Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða. Næst norðan við Kvíavelli eru Hafurbjarnarstaðir, sem voru nyrzti bærinn í hverfinu. Þar mátti sjá leifar af gömlu sjávarhúsi neðan túns, sem nefnt var Gjaldabyrgi og áður hefur verið getið.
Neðan við Hafurbjarnarstaði er Kálfhagi. Þar munu kálfar hafa verið geymdir. Þar eru einnig leifar eftir Skagagarð. Kálfhaginn er utast. Skagagarðurinn girti af tána, að talið er, til hlífðar fyrir akra, er þar voru. Upp frá Hafurbjarnarstöðum eru Kolbeinsstaðir. Ofan við túngarðinn þar er byrgi, Árnaborg. Hana hlóð Árni á Meiðastöðum. Á þessum slóðum eru ýmsar vörður. Kolbeinsstaðavarða er rétt ofan við veg upp af bæ, skammt ofan túngarðs, gamalt mið, hrunin að mestu. Ofan við Kálfhaga var Ófeigskot og Efstabæjargarður. Þar innar var tómthúsið Sléttaból, þar sem nú er býlið Ásgarður, austur af Lambarifi. – Ekki er vitað, við hvern Ófeigskot var kennt, en Sléttaból var byggt af Jóni Þórarinssyni, föður Árna Jónssonar, um aldamótin. Jón var frá Flankastöðum og flutti þangað aftur með allt sitt fólk árið 1916. Nú markar aðeins fyrir bæjar- og garðarústum á Sléttabóli.
Uppi í heiðinni austur frá Fitja-Hásteini, allhátt uppi, ef hægt er að tala hér um hátt, er Skiphóll. Suður af honum er annar hóll, sem heitir Grænhóll.
Skiphóll er grjóthóll, grasi gróinn, og var eitt aðalfiskimiðið í Garðsjó. Fyrir ofan veginn eru lægðir, sem nefndar eru Lágar. Í þeim eru rústir eftir stekk. Ekki er vitað, hvenær hann var síðast notaður. Hjá honum er hlaðin varða, en rétt hjá er smárétt, yngri. Skv. örnefnaskrá Ara Gíslasonar eru merkin móti Útskálum úr Útskálaflesju í Selós miðjan og í stein fyrir sunnan Skagavötn. Draughóll er á merkjum. Þar er nú býli, sem heitir Hólabrekka. Þaðan er línan í Skálareyki. Þar breytir um stefnu og verður miklu suðlægari.
Útskálaflesja er sunnan í Garðskagaflös. (Flesja = lág, slétt sker og sandbreiður, sem fara oftast undir sjó um flóð.)
Ekki er vitað, af hverju Selós dregur nafn, en mikið er og var um sel þarna sunnan við Flösina. Var það eini staðurinn þarna við ströndina, þar sem selur var, þegar Halldóra var að alast upp. En nú er þar mikið af honum, alveg frá Flös til Sandgerðis og e.t.v. einnig fyrir sunnan Sandgerði.
Áður var minnst á Jón Gerreksson. Hann (f. 1378) var endurreistur biskup í Skálholti árið 1426. Ýmsum sögum fór af honum og þá ekki síst ódælum sveinum hans. Áður hafði hann stundað nám við Svartaskóla (1401) og verið biskup í Uppsölum, en gerður þaðan burtrækur vegna kvennafars og svalls.
Illugi Jökulsson skrifar um Jón Gerreksson í Morgunblaðið 1986: „Einn kirkjusveinanna, foringi Jóns, Magnús að nafni, biðlaði til Margrétar á Kirkjubóli en var synjað. Hann tók hryggbrotinu svio illa að hann fór með sveinum sínum og brenndi Kirkjubólsbæinn en Margrét – sem var systir Þorvarðar á Mörðuvöllum og komst undan eldinum og flýði norður í land. Af þessum atburðum urðu hefndir miklar en þó lítil málaferli. Magnús flýði að lokum úr landi en það fugði ekki til þess að friða Íslendinga. Þorvarður slapp líka úr haldi og tók að safna liði og fór að lokum gegn Jóni biskupi í Skálholti. Hann var tekinn höndum og drekkt í Brúará, segir þjóðsagan, og er það sennilega alveg sannleikanum samkvæmt. Þannig er nú sagan í stórum dráttum.“
Um kumlateiginn við Hafurbjarnarstaði segir m.a. í eftirfarandi umsögn: „Í Skýrslu um Forngripasafn II, bls. 67-78, hefur Sigurður Guðmundsson málari lýst einum hinum merkasta heiðna kumlateig, sem enn hefur fundizt hér á landi. Sigurður kom hins vegar aldrei á staðinn, að því er séð verður.
Hafurbjarnarstaðir í Miðneshreppi eru rétt austan við Kirkjuból hið forna. Svæðið er mikið skemmt af sandfoki; er strandlengjan öll með ljósum sandi, sem fýkur mjög til og frá og veldur spjöllum. Þetta sandfok hefur leitt í ljós hinn forna kumlateig rétt innan við girðinguna, norður af bæ á Hafurbjarnarstöðum. Sigurður B. Sívertsen, segist minnast þess, að bein úr kumlunum hafi blásið upp og verið færð í kirkjugarð þar um 1828. „Þar fannst og silfurhringur með gömlu verki, líkt eins og á mörgum steyptum beltispörum“. Á öðrum stað segir hann, að hringurinn hafi verið „handhringur“ mjög forn úr silfri og einhvern tíma gylltur, var á hinum upphleypt krossmark, líkt og sézt hefur á gömlu beltispörum.“
Sumarfið 1947 fórum við Jón prófessor Steffesen á staðinn til að rannsaka, hvort nokkuð kynni að vera þar eftir óhreyft.“
Síðan lýsir Kristján kumlunum. Hann segir og að kumlateigur þessi sé vitanlega frá 10. öld, en nánari tímaákvörðun varla leyfileg. Eftir sverðinu að dæma ætti það þó ekki að vera yngra en frá 950. Annars staðar getur hann þess að kumlateigurinn gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík.
Árni Óla segir í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins 1961 að „enda þótt landkostir í Álftaveri hafi verið harla ólíkir landkostum við Raumdalsfjörð, þá tók þó úr er Molda-Gnúpur tók sér byggð í Grindavík, þar sem var lítt gróið hraun niður að sjó. Það hefir því skjótt orðið þröngt um þá bræður (syni hans) fjóra þar. Þess vegna ætla menn að Hafur-Björn hafi farið þaðan er hann kvongaðist Jórunni Svertingsdóttur (Hrolleifssonar), og reist sér bæ á Rosmhvalanesi, er síðan við hann kenndur og heitir Hafurbjarnarstaðir, rétt norðan við Kirkjuból, hinn sögufræga stað, og skammt frá hinum sögufræga garði, sem eitt sinn lá þvert yfir skagann og Garðskagi dregur nafn af. Börn þeirra voru Rannveig og Svertingur.
Húsfreyja á Hafurbjarnastöðum, kona Hafur-Bjarnar, var Jórunn dótturdóttir keltlneska landnámmannsins Ráðorms í Vetleifsholti. Þarna er hið keltneska samband, sem svo vel getur skýrt, hvers vegna hin einkennilega þríblaða næla, með keltnesk-norrænum stíl, skyldi einmitt finnast þarna á þessum stað. Hér styður hvað annað. Gröfin bendir til þess, að hún hafi verið legstaður húsfreyjunnar á Hafurbjarnarstöðum, og hin einkennilega nál bendir til hins keltnesk-norræna ætternis hennar.“
Framangreind vitneskja, þ.e. merkilegheit kumlateigsins sem og hugsanleg tengsl hans við eina hina fyrstu landnámsmenn á Reykjanesskaga, ætti, þótt ekki væri fyrir neitt annað, að vera yfirvöldum fornleifa sérstakt áhugaefni. Ljóst var að þarna hafi bein verið að koma upp úr gröfum a.m.k. frá því á 19. öld. Á 20. öld finnast merkilegstu grafir, sem enn hafa fundist hér á landi. Hvers vegna í ósköpunum, endurtekið – í ósköpunum, hefur ekki farið fram frekari fornleifauppgröftur við Hafurbjarnarstaði? Kristnitökussjóður hefur fjámagnað marga vitleysuna á síðustu árum, en spurningin er; hvers vegna í ósköpunum datt engum forsvarsmanna hans að verja fjármunum til áframhaldandi rannsókna á þessu einstaka svæði? Og hvers vegna gerði enginn sveitarstjórnarmanna þá kröfu að það yrði gert? Krafan myndi þykja mjög eðlileg því vel má leiða að því líkum að jarðneskar leifar Hafur-Bjarnar kunni að leynast þar í sandinum!
Þrátt fyrir merki Þjóðminjasafnsins, bæði á garðinum norðan Hafurbjarnarstaðar (sem líklega má telja hluta af hinum forna Skagagarði) og við kumlateiginn er ekki umm eiginlegar friðlýstar fornleifar skv. Skrá um friðlýstar fornleifar 1990. Þar segir eingungis um slíkar minjar í Gerðarhreppi: „Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga. Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Hér er um að ræða svæðið innan hins forna Skagagarðs. Ekki er minnst á kumlin þótt vitað hafi verið af þeim á þessum tíma. Í núgildandi þjóðminjalögum eru allar fornleifar eldri en 100 ára friðaðar, en skýringin á því hvers vegna kumlteigurinn og garðurinn á Hafurbjarnarstöðum er sérmerktur umfram ákvæði laganna liggur ekki ljós fyrir.
Þórustaðir eða Þóroddsstaðir eru jörð í Miðneshreppi, næst norðan Fitja, og taldir syðsti bær í Kirkjubólshverfi. Árið 1703 er þar getið um tvö Thorustadakot.
Fitjar eru jörð í Miðneshreppi næst norðan við Arnarbæli. Arið 1703 er þetta talið hálfbýli og jafnvel að einhverju leyti tengt Kirkjubóli.
Á Flankastöðum hefur um langan aldur verið tvíbýli. Um aldamót stóðu báðir bæirnir saman á sama hólnum. Síðan voru þeir færðir í sundur, og eru Syðri-Flankastaðir nú komnir í eyði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Kirkjuból, Þórustaðir (þóroddsstaði), Fitjar og Flankastaði.
-Kristján Eldjárn – Árbók hins íslenska fornleifafræðifélags 1943-1948, bls. 108-128.
-Árni Óla, Lesbók Morgunblaðsins 26. febrúar 1961.
-Mbl. 23. des. 1986.
Magnús Hafliðason á Hrauni – Gatan mín…
Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.
Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilað útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
Ég fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á Járngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.
Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“
Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.
Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.
Móðhola
Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. „Utan við Hvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.“
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af „mikilli rás“ út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að „hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.“ FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Járnminningarmörk
Erindi þetta var flutt á sagnakvöldi í Kirkjuvogskirkju í Höfnum þann 14. desember ´06. Fyrirlesarinn var Sigrún Jónsdóttir Franklín.
Járnminnismerki
Í kaflanum Járnöld gengur í garð kemur fram „að listgrein sú sem tekur til minningarmarka um látna menn er nærri jafngömul manninum.“ Steinhöggsverk og marmarahögg voru aðallega í minningarmörkunum. En rétt fyrir miðja 19. öld á iðnbyltingin sér stað í Vestur-Evrópu, „öld eims og eisu.“ Gufuaflið, vélin og fjöldaframleiðslan hélt innreið sína og handverkið féll í skuggann. „Allt handgert þótti gamaldags, en verksmiðjuframleiðsla fín.“ Í kjölfarið breyttist járnsteyputækni og hægt var að fjöldaframleiða járnminnismerki á leiði, s.s járnkrossa, sökkla, járngerði „stakitt“ og „monument“. Hægt var að steypa allskonar flúr, gotnesk munstur o.fl. munstur en þó með mismunandi áletrunum sem við átti á hvert leiði fyrir sig. Járnminnismerkin var hægt að panta eftir príslistum og keyptu Íslendingar aðallega frá verksmiðjum í Danmörku.
Í kaflanum „Svona dauðinn sviptir öllu af foldu sem er áletrun á járnsökkli kemur fram að dönsku mótagerðarmennirnir þekktu annað hvort ekki íslensku stafina eða gátu ekki lesið miðana frá pöntunaraðilum því það koma oft fyrir villur í áletrunum á minningarmörkunum sem þeir sendu til Íslands. Jafnframt kemur fram að þeir sem minna áttu „urðu sem oftast að láta sér nægja græna torfu, nema því aðeins að einstakt trygglyndi færi með fátæktinni.“ Járnminningarmörk voru því nær eingöngu á leiði efnaðra manna.
Í framhaldi af umfjöllun Bautasteins um Hólavallakirkjugarð (Suðurgötugarðinn) í 1. tölublaði var þjóðminjavörður svo vinsamlegur að svara nokkrum spurningum blaðsins. Í upphafi var hann inntur álits um hvers eðlis og hvers virði minnismerkin í Suðurgötugarði og íslenskum kirkjugörðum væru almennt séð.
Í kirkjugarðinum við Suðurgötu getur að líta flestallar gerðir minnismerkja sem á annað borð sjást í íslenskum kirkjugörðum.
Pottjárni hætt við broti
Járnminnismerkin eru ekki síður merkileg. Járnkrossar og steypt járngrindverk um leiði eru allvíða í elsta hluta garðsins. Þetta er dæmigert fyrir 19. öldina. Víða hafa þessi minnismerki þó skemmzt, og ekki síst hefur það gerst víða í görðum úti um land. Sum minnismerkin í gamla garðinum eru í bágbornu standi, hafa tærst af ryði og brotnað, er brotunum sums staðar tjaslað saman, en sums staðar eru garðar óvarðir fyrir skepnum og hafa hross allvíða brotið þessi minnismerki.
Nefna má hér að víða erlendis er nú orðið fátt um slík minnismerki og halda menn þar dauðahaldi í þau sem til eru. Á styrjaldarárunum voru þau víða miskunnarlaust brotin niður og höfð til hergagnasteypu.
Listrænir hlutir frá fyrri öldum eru óvíða til eldri og líklega hvergi í jafn ríkum mæli og í kirkjugörðum okkar. Og raunar er kirkjugarðurinn við Suðurgötu, Hólavallagarður, „stærsta og elsta minjasafn“ Reykjavíkur, eins og Björn Th. Björnsson listfræðingur bendir á í bókinni „Minningarmörk í Hólavallagarði“.
Stærsta minningasafnið
Í kaflanum Vökumaður kemur fram að menn trúðu hér á landi, að sá sem væri fyrstur grafinn í nýjum garði, yrði „vökumaður“ garðsins. „Átti hann ekki að rotna og vaka yfir þeim sem síðar kæmu“. Í kaflanum er vitnað í Þjóðsögur Jóns Árnasonar að menn höfðu nokkurn beyg af því „að láta grafa sig og sína nánustu nálægt gröf vökumanns, s.s. á Görðum á Álftanesi“. Þar er enginn grafinn nálægt gröf vökumanns.
Þegar átti að vígja Hólavallakirkjugarð, sem er gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu, þá voru góð ráð dýr. Því enginn vildi leggjast eða láta leggja sína nánustu í fyrstu gröf garðsins. Ráðamenn vildu að það yrði einhver sérstakur, því það átti að vígja kirkjugarðinn með viðhöfn í leiðinni. Vökukona garðsins varð Guðrún Oddsdóttir, frú Sveinbjörnsson, dómstjórafrú og var garðurinn vígður 11. nóvember 1838, með mikilli viðhöfn.
Á leiði hennar í dag er stærsti járnkrossinn í öllum garðinum. Hann er með nýgotneskum armsprotum (sjá mynd). Á undirstöðu krossins, er mynd af lampa með logandi eldi.
„Í táknfræði sameinar lampinn bæði Vöku og Nótt“. Merkingin á því mjög vel við minningarmark vökumanns garðsins. Samskonar tákn er líka aftan á.
Í kaflanum Monument yfir biskup Steingrím kemur fram að Jón Sigurðsson, sem hafði verið skrifari hjá Steingrími biskup er beðinn um að láta hanna veglegt monument á leiði biskups. Jón var þá við nám í Kaupmannahöfn og því hæg heimatökin. Minnismerkið er bogadreginn laupur (sjá mynd 2; ath. það vantar krossinn sem á að vera ofan á, líklegast er hann í viðgerð.)
Framan á minnismerkinu eru fimm tákn:
Bagall, sem er tákn fyrir biskup.
Heiðurssveigur með flögurborðum, „sem er tákn fyrir virðingarstöðu og lífsheiður hins látna.“
„Rós, sem er notuð í táknrænni merkingu á legmörkum, merkir hún vammleysi eða hreinleika af synd.“
Kross, tákn kristinnar og
Stjarna „í slíku sambandi oftast til orða Krists:“ „Ég er …..stjarna skínandi, morgunstjarna“, úr Opinberun Jóhannesar, 22.16.
Aftan á minnismerkinu er plata með nafni eiginkonu biskups og heiðurskrans og stór stjarna.
Járngerðið eða „stakittið“, umkring er klassískt skreyti. Þar sést grískur Alexanders-bekkur, rósin og liljan.
Fram kemur hjá starfsmanni kirkjugarðsins að járnminningarmörkin eru úr potti eða steypujárni. En þau eru líka til úr smíðajárni. En munurinn er að pottjárnið, ryðgar ekki eða flagnar ekki og er yfirleitt skrautlegra. Það getur þó brotnað. Smíðajárnið er yfirleitt flatt, getur bognað og hægt að snúa upp á það. Það þykir ekki eins fínt og pottjárnið.
Hér á landi er aðallega einn maður sem vinnur við að gera við slík járnminnismerki. Hann heitir Kristján Guðmundsson, og fyrirtæki hans heitir vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Vélsmiðjan sjálf sem slík er safn. Þar er vélum og verkfærum haldið því sem næst óbreyttu frá upphafi. Kristján hefur unnið listilega að verndun og viðhaldi járnminnismarka (sjá mynd af minningarmarki í Hólavallakirkjugarði).
En slík vinna krefst mikillar nákvæmni og kunnáttu sem því miður örfáir kunna. Fram kom hjá Kristjáni að á seinni hluta nítjándu aldar hefðu verið um 200 „steybirí“ í Danmörku en nú væru um 15-20 slík. Hér á landi væri vélsmiðja hans líklegast eina smiðjan sem hefði aðstöðu til að vinna slík verk.
Sagan úr Dýrafirði
Handverkið felst í því að:
Fyrst er útbúið mót úr tré, munstrið er skorið í tréð, mjög djúpt, eða módelið þrykkt í formsand og síðan tekið úr.
Járnið er brætt í deiglu ( þ.e. í potti ) og hitað upp í 1400°C , bræðslumarkið er 1200°C . Í vélsmiðjunni tekur það um 3 tíma að bræða 150 kg af járni.
En það eru misjafnar aðferðir við það. Í olíuofni eða rafmagnsofni, þá tekur það um 1 tíma. Hér áður voru notaðir koksofnar (koks er kol).
Járninu er síðan hellt í formið. Járnið verður að kólna rólega. Venjulega er það tekið úr forminu daginn eftir.
Minningarmarkið er galvaniserað með sink grunni. Hér áður var notað einhvers konar olíu bygg til þess.
Ef um kross er að ræða á sökkli þarf að setja smíðajárnsteina og steypa niður og skrúfa síðan krossinn við teinana.
Steypt er undir sökkulinn. Undirstaðan undir „stakittið“ á sumum grafreitum er þó stundum úr potti, en ekki steypt.
Á landsbyggðinni eru nokkur járnminnismörk í kirkjugörðunum. En í kirkjugarðinum við Suðurgötu er eitt stærsta og elsta minjasafn járnminningarmarka, þó víðar væri leitað.
Minningarmörk í Kirkjuvogsgarði
Sigurður S. Sívertsen sonur Sigurðar B Sívertsen sem gegndi prestsembætti a Útskálum í hálfa öld frá 1831-1887 merkur fyrir Suðurnesjaannála sína. Sonur hans var vígður til Kirkjuvogskirkju 25 ára gamall árið 1843 sem aðstoðarprestur föður sins en hann lést stuttu síðar.
Vilhjálmur Chr. Hákonarson reisti þá kirkju sem við erum í. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri.
Gunnar Halldórsson var óðalsbóndi í Kirkjuvogi var fæddur 1824- 1876.. Hann var heiðursmaður líkt og hinir.
Ketill Ketilsson lét reisa kirkju á Hvalsnesi og hún var vígð 1887 os stendur enn.
Hvað verður um minningarmörkin?
Lítið er til af járnminningarmörkum erlendis, því að á stríðstímum voru minningarmörkin rifin upp og járnið var brætt og notað í stríðstól. En við hér „á hjara veraldar“ höfum varðveitt furðu mikið af slíkum járnminnismörkum. Eitthvað var þó um að járngerðin væru fjarlægð og fleygt úr kirkjugörðum til þess að auðveldara væri að hirða um leiðin. En það er liðin tíð. Í dag er reynt að varðveita slík minningarmörk.
Sumarið 2000 var samningur gerður um skráningu minningarmarka eldri en 100 ára. Til er kirkjugarðasjóður, sem er sameiginlegur sjóður allra kirkjugarða landsins, úthlutað er úr þeim sjóði til að borga viðhald á slíkum gömlum minningarmörkum.
Járnminnismerki illa farin
Reidar Tinnesand, norskur sérfræðingur í lagfæringum og viðgerðum á minnismerkjum úr smíðajárni dvaldi hér í tíu daga í október ´96 á vegum Skipulagsnefndar kirkjugarða til þess að kanna ástand minningarmarka í Suðurgötugarðinum og gera tillögur um úrbætur.
Í greinargerð Reidars Tinnestad um garðinn fullyrðir hann að þessi kirkjugarður sé einn sá merkasti er hann hafi augum litið og leggur áherslu á að allt verði gert til að varðveita þá miklu menningarsögu sem garðurinn býr yfir.
Það hefur mikið menningargildi að varðveita gamalt handverk. Framan af tækniöld setti handverk víðast mjög niður. Það þótti jafnvel vart frambærilegt, enda var hin vélgerða fjöldaframleiðsla ódýr. Þegar stöðluð fjöldaframleiðsla kom til sögu tóku menn henni tveim höndum. Jafnvel þótti stöðluð framleiðsla eftirsótt, þar sem allir hlutir voru nákvæmlega eins.
Hverfi minnismerkin hverfur hluti sögunnar
„Mikilvægt er að varðveita kirkjugarða fyrir komandi kynslóðir. Þýðingarmikið fyrir sögu Íslands og menningu. Minningarmörkin segja sína sögu um þróun bæjarins og fólkið sem þar lifði og bjó fyrrum. Margir legsteinar hljóta að hafa kostað stórfé þegar þeir voru settir upp og sýna hvernig fyrri kynslóðir mátu minningu látinna. Hverfi minnismerkin, hverfur einnig hluti sögunnar.“
Skriflegar heimildir:
-Úr völdum köflum úr bókinni: Minningarmörk í Hólavallagarði eftir Björn Th. Björnsson – Mál og menning – Reykjavík – 1988.
– Aase Faye – Danske Stobejernskors -Jan Faye – NNF – Kaupmannahöfn 1988.
-Munnlegar heimildir:
-Halldór Kristinn Pedersen, kirkjugarðsvörður við Suðurgötu.
-Gunnar Bollason, sagnfræðingur hjá fornleifavernd ríkisins.
-Kristján Guðmundsson, vélsmiður á Þingeyri.
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/brynast.html.
-www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast1/hnignun.html – 6k
-Bautasteinn, Útgefandi: Kirkjugarðasamband Íslands 1. tbl, 1. árg. 1996.
Grísanesskjól – Grófarhellir (Hellrardalsskjól)
Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir að „suðvestur af eða í Grísanesi [við Ástjörn] er smáhellir sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum heitir Grófarhellir (AG)“. Þess hellis er jafnframt getið í örnefnaskrá sem Hellrardalshellisskjóls (fjárskjóls), en dalurinn mun hafa heitið Hellrardalur þótt hann gangi nú jafnan undir heitinu Dalurinn.“
Hellir í Dalnum.
Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er átti landið sem svonefnt Grísanesskjól var, segir“ skjólið er í háum hraunhól í hrauninu norður af Grísanesi (GS).“
Reyndar voru báðar lýsingarnar réttar – a.m.k. að hluta. Grísanesskjól var suðvestan við Grísanes og í hraunhól, en hins vegar er annað skjól í hrauninu norðan við Grísanes. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvort skjólið hafi verið svonefnt Grísanesskjól. Hið fyrrnefnda er horfið, en hið síðarnefnda er enn á sínum stað, þrátt fyrir aðþrengingu frá nærliggjandi byggð.
Skjólið í hrauninu suðvestur af Grísanesi er nú komið undir byggð og horfið. Þegar komið var að því úr suðvestri, eftir gömlu götunni frá Hvaleyri upp að Hvaleyrarvatni og Stórhöfða, virtist þar vera hár hraunhóll eða hraunbakki, sem fara þurfti upp á til að komast í skjólið. Undir það síðasta hafði rýmið að mestu verið fyllt af alls kyns drasli. Síðan komu stórvirkar vinnuvélar og skjólið hvarf endanlega. Norðar, utan í suðvestanverðu Grísanesinu, er hlaðið fjárhús, sem væntanlega hefur tekið við hlutverki skjólsins á sínum tíma.
Vestan frá Grísanesi er hlaðið gerði utan í hraunbrúninni. Norðaustar eru þrjár tóftir, sem væntanlega hefur verið ástæðan fyrir tilurð gerðisins.
Norðan gerðisins, ekki langt frá austurjarði hraunsins, sem lokar Ástjörn af, eru grasgróningar á afmörkuðu svæði, greinilega eftir fjárhald. Í jaðri gróninganna er skjólgott jarðfall, sem auðvelt er að komast niður í. Jarðfallið er gróið í botninn, enda hefur þar verið ágætt skjól fyrir fé. Í jarðfallinu norðanverðu hefur áður verið hlaðinn gangur fyrir framan sæmilega rúmgóðan munna. Hleðslurnar eru nú fallnar að mestu, en þó má enn sjá þær í vesturveggnum. Ekki er [nú á þessari stundu] vitað nákvæmlega hvert nafnið var á þessu skjóli. Í örnefnalýsingu fyrir Ás er getið um Hellirinn á þessum stað, „að mestu falinn saman“. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið hafðir sauðir því rýmið gefur slíkt til kynna.
Um Grófarhelli (fjárskjól) er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.
Í kringum Ás sem og í Hvaleyrarlandi, sem náði upp undir Kaldárssel, má enn líta ýmiss mannvirki frá fyrri tíð. Þau eru nú hluti af búskaparsögu bæjanna, sem og svæðisins í heild. Það er slæmt að ekki skuli allar þessar minjar enn hafa verið skráðar og því eðlilega ekki í vitund þeirra, sem eiga að taka ákvörðun um varðveislu þeirra – en virðast gera það samt sem áður. Verra er að þeir hinir sömu vita í rauninni mjög takmarkað um hvað fer forgörðum þegar verið er að taka ákvarðanir um framkvæmdir á þessu svæði.
Frábært veður.
Nýjasel – Arahnúkasel – Vogasel
Gengið var að Nýjaseli eftir að hafa skoðað Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga. Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Austan við borgina eru tvær tóftir og ein norðan hennar. Þær munu hafa verið fyrrum fjárhús.
Nýjasel.
Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkasel. Þetta eru 5 tóftir undir gjárveggnum. Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku norðan utan í holtinu.
Vogasel yngri.
Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.
Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.
Pétursborg.
Gengið var til vesturs sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.
Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána.
Vörður við Brandsgjá.
Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána.
Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegnt skátaskálanum (sem nú er horfinn).
Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.
Fuglstapaþúfa – Arnarklettar
Nýjar götur eru gjarnan látnar heita eftir nálægum örnefnum. Hér verða nefnd til sögunnar tvö slík í Hafnarfirði; Þúfubarð og Arnarhraun.
Fyrrnefnda gatan er í hverfi er nefnist „Börðin“. Þar er Fuglstapaþúfa. Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að bygjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka. Síðarnefnda gatan er í „Hraununum“. Þar á millum eru óraskaðir hraunblettir og er svæðið umleikis Arnarkletta þess stærst.
Fuglstapaþúfa er á Hvaleyrarholti. Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar. Fuglstapaþúfa voru landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda. Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir: Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns.
Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.
Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Á svæðiunu eru einnig hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.
Ólafur Þorvaldsson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1957 er bar yfirskriftina „Íslenski Örninn“. Fjallar hann þar t.d. um afleiðingar fyrir stofninn vegna eitrunar fyrir refi o.fl. Auk þess segir hann m.a.: „Árið 1913, þegar örninn var alfriðaður, voru aðeins fern arnarpör í landinu. Árið, sem þetta er skrifað eru pörin tíu talsins.
Á síðustu tugum síðustu aldar voru í Gullbringusýslu þrír varpstaðir arnarins, sem mér eru kunnir. Þessir staðir voru: Arnarklettar við Hvaleyrarvatn, Helgafell í Garðakirkjulandi or Arnarnýpa í Krýsuvíkurlandi. Vel má vera, að víðar hafi varpstaðir arna verið í nefndri sýslu, þótt fram hjá mér hafi farið vitneskja um það.
Á eitrunartímabili síðustu aldar fór brátt að sjá á arnarstofninum, sem þar hafðist við, og svo illa var komið á síðasta tug aldarinnar, að allir umgetnir varpstaðir voru af lagðir, auðir og yfirgefnir. Þráttf yrir sýnilega fækkun arnarins á umgetnu tímabili var þó fram á síðasta tug aldarinnar svo til dagleg sjón t.d. þar sem ég er fæddur og uppalinn, að Ási skammt suðaustan frá Hafnarfirði, að sjá, þegar fram á sumarið kom, erni frá fjórum til sjö raða sér eftir brún Ásfjalls upp af bænum.
Þar sátu þessir tignarlegu fuglar, stundum mikinn hluta dags og biðu þess, að endur kæmu með unga sína, sem þá voru að verða fullvaxnir, út úr starar- og hófrótarbreiðum á autt vatnið. Þá tóku sig upp einn eða fleiri ernir, svifu ofan af brún lágt með jörð út yfir tjörnina og reyndu að klófesta eitthvað úr andarhónum. Þessar veiðiaðferðir báru stundum árangur, oft engan. Á þessum ári leið varla sá dagur, hvort heldur var sumar eða vetur, að ekki sæist örn, einn eða fleiri.
Á næstu árum eftir síðstu aldamót urðu mjög skörp umskipti hvað örninn snertir á svæðinu við sunnanverðan Faxaflóa. Þeir hættu sem sé að sjást, enda allmjög hert á eitrun á þessu tímabili, þar eð refum virtist fjölga þá allmikið.
Í þau fjörutíu ár, sem ég stundaði fugla- og refaveiðar, bæði með sjó fram og upp til fjalla, og hafði mikið samneyti við fjölda manna, sem stunduðu þetta verk, vissi ég aldrei til, að örn væri skotinn, og kom þó fyrir, að það hefði verið hægt.“
Til eru gamlir Hafnfirðingar, sem muna sérstaklega eftir einum kletti umfram aðra í hrauninu við Arnarhraun er nefndur var Arnarklettur. Í deildiskipulagi fyrir Hafnarfjörð árið 2005 segir m.a. um hann og nágrennið (einkum af tilfinningarástæðum): „Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Arnarklettur og grænt svæði umhverfis hann, á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs, njóti hverfisverndar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Í umsögn Byggðasafns Hafnarfjarðar segir m.a. að engar ritaðar heimildir hafi fundist um fornminjar á svæðinu en vettvangsferð hafi leitt í ljós bæði hleðslur og garða. Heimildarmenn safnsins fullyrða að um sé að ræða leifar garðlanda en svæðið var m.a. nýtt fyrir kartöflurækt í kring um seinna stríð. Byggðasafnið telur æskilegt að þessar minjar njóti hverfisverndar sem búsetuminjar og ágætt dæmi um hvernig Hafnfirðingar nýttu sér skjólgott hraunið til ræktunar.“
Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar til 2016.
-Deildiskipulag Hafnarfjarðar, Miðbær – Hraun, árið 2005.
-Ólafur Þorvaldsson – Lesbók mbl 19. apríl 1957.
Dauðsmannsvörður
Tekið var hús á Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta ofan við Sandgerði, á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun.
Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.
Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða. Það er talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem hjá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks. Það var notað annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru.
Neðri-Dauðsmannsvarða við Sandgerðisgötu.
Sigurður sagðist hafa skoðað Dauðsmannsvörðuna í heiðinni ofan við Berghús, en hann hefði ekki fundið áletrun á eða við hana. Þá hefði hann frétt að Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp s.l. sumar. Það hefði gert áhugamaður um sögu og minjar, Guðmundur, en sá héldi tilfallandi til í bústað vestan Sandgerðis. Ekki væri vitað hvort áletrun hafi leynst þar á steini, en ólíklegt væri það því varða þessi væri greinilega leiðarmerki við gömlu götuna til Keflavíkur.
Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. fyrir að bíða.
Genginn Sandgerðisvegur.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af „eðlilegum“ ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.
Skilgreiningar á selmannvirkjum (D. Bruun og J. Jónasson)
Eftirfarandi skilgreiningar á selmannvirkjum má sjá í skrifum Daniels Bruun og Jónasar Jónasonar:
Sel:
Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.
Staður þar sem fé og jafnvel kúm var haldið til haga að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars, mjólkurafurðinar unnar og þeim komið til bæjar.
Beitarhús:
Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.
Stekkur:
Hraunssel – stekkur.
Stekkur er fjárrétt eða aðhald, venjulega tvískipt, sem notað var til að fœra frá. Túnbleðlar mynduðust oft í kringum stekki og er hugtakið líka notað um þannig staði, jafnvel þó enginn eiginlegur stekkur sé þar eða hafi verið svo vitað sé.
Tóft:
Orðið tóft er er notað um hús- eða búðargrunn sem verið hefur undir einu þaki eða tjaldi. Einnig er það notaðu um kvía- og stekkjarústir en ekki stœrri réttir. Ekki er hœgt að gefa nákvœma skilgreiningu á hver er munurinn á ‘tóft’ og ‘tóftaþyrpingu’ en ‘tóft’ er yfirleitt ekki meira en 3 hólf. Lögð eru að jöfnu orðin “tóft” og “tótt”.
Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson.
Daniel Bruun var afkastamesti fornleifafræðingurinn á Íslandi og Grænlandi á árunum 1894-1910 og þó sérstaklega á Íslandi. Hann var upphafsmaður etnógrafískrar (þjóðfræðilegrar) fornleifafræði á Íslandi og hafa fáir safnað eins miklum upplýsingum um íslenska þjóðmenningu eins og hann.
Danile skrifaði m.a. „Forlidsminder og Nutidshjem paa Island# (1897). Árið 1987 kom úr bókin „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár“, en hún er byggð á skrifum hans um Ísland og íslenska þjóðhætti. Wikipedia.com.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili fæddist að Úlfá í Hólasókn í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Jónas bóndi Jónsson og kona hans Guðríður Jónasdóttir Guðmundssonar frá Halldórsstöðum í Eyjafirði.
Stórvirkið „Íslenzkir þjóðhættir“ kom fyrst út árið 1934 og hlaut strax geysigóðar viðtökur. Þegar bókin var endurútgefin árið 1945 var fullyrt á bókarkápu að þar færi „…sú bók íslenzk sem tvímælalaust hefur hlotið bezta dóma“.
„Íslenskir þjóðhættir“ urðu feikilega vinsæl bók strax eftir útkomu fyrir fjörutíu árum. Þá skírskotaði hún að nokkru leyti til lifandi reynslu — lífshátta sem hver og einn þekkti af eigin sjón og raun. Nú horfir öðru vísi við. Þessir „íslensku þjóðhættir“ eru svo gersamlega úr sögunni að einungis alelsta núlifandi kynslóð seilist með minni sínu til lokaþáttar hinna fornu lifnaðarhátta sem margir hverjir höfðu tiðkast öldum saman og þekktust hér og þar fram undir 1940 en eru nú með öllu horfnir. Mbl. 5.11.1975, bls. 16.
Litla-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.
Laugarnes – skilti I
Á Laugarnesi í Reykjavík er upplýsingaskilti:
Laugarnes – upplýsingaskilti.
Hafurbjarnarstaðir – Kirkjuból – Flankastaðir
Gengið var frá Garðahúsavík, yfir Lambarif og meðfram Kvíavallavík að Hafurbjarnarstöðum, framhjá Gamlabóli, þ.e. gamla Kirkjubóli, Þóroddsstöðum (Þórustöðum) og Fitjum að Flankastöðum.
Í leiðinni var m.a. ætlunin að skoða kumlateig þann er fannst á Hafurbjarnarstöðum fyrr á árum og telja má merkastan slíkra teiga hér á landi. Eitt kumlið er nú undir fótum sýningargesta í gólfi Þjóðminjasafns Íslands (2008).
Kirkjuból var frægt í eftirmálum aftöku Jóns Arasonar 1551.
Flankastaðir eru hins vegar kunnir í annálum vegna óhóflegs skemmtanahalds. Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Á leiðinni var m.a. gengið framhjá Lambarifi, sem sást einstaklega vel vegna þess hver lágsjávað var. Á þessari stundu var tunglið bæði fullt og stærst, enda nærst jörðu. Á rifinu sást vel til ketils úr King Eduvard er fórst þar fyrir utan á 20. öld. Við þetta langa sker fórst einnig franski togarinn Auguste LeBlonel þann 19. ágúst 1019. Annars er Garðskagaflösin og nálæg sker vörðuð skipssköðum. Sjá má afleiðingar þeirra hvarvetna með ströndinni.
En aftur upp á land; kumlateigurinn á Hafurbjarnarstöðum gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík 934 – fyrir 1074 árum.
Þá má geta þess að um 1450 brenndu skólasveinar Jóns Gerrekssonar, biskups, Kirkjubólsbæinn vegna afbrýðisemi foringja þeirra.
Kirkjubólshverfið var nyrzta byggð á Miðnesi fram undir síðustu aldamót, en þá fór að byggjast einstaka býli á Skaganum. Strandlengjan mestöll frá Skagatá suður að Klapparhverfi er í sjávarmáli þakin þykkum hvítum skeljasandi. Hefur sandur þessi fokið mjög upp á túnin og spillt grasrót, svo að illbyggilegt mátti heita, þar til á síðustu árum að útlendur áburður og betri viðleitni hefur gert byltingu í grasvexti á þessum slóðum.
Kirkjubólshverfingar hafa jafnan sótt sjó með búskapnum, og hafa þar verið margir ágætir sjómenn. En vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga og að brimasamt mjög er út af hverfinu, hafa þeir mest sótt sjávarafla sinn í Garðsjóinn, með lóð á haustin, en þorskanet á vertíðum, einnig handfæri á öllum árstímum eftir ástæðum, og hafa haft uppsátur mest í Út-Garði. Þó var nokkur útgerð, að minnsta kosti öðru hvoru, í suðurdjúpið á vertíð, en oft lentu þeir þá í Flankastaðavör eða jafnvel á Fitjum, ef ekki var fært heim vegna brims.
Hér má sjá Landamerkjalýsingu Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða: „Ár 1886, mánudaginn þann 7. júnímán., voru skýrð upp landamerki áminnztrar jarðar [þ.e. Hafurbjarnarstaða], og eru þau sem hér segir: Sunnan til á Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, þaðan stefna mörkin upp í nyrðri brún á stokkmyndaðri klappavör með mark LM, er liggur niður frá útnorðurhorni túngarðs jarðarinnar við sjóinn. Ræður svo túngarðurinn mörkum, þar til kemur að túnmörkum jarðarinnar að norðan við túnmörk Kolbeinsstaða, er þar merktur steinn LM. Þaðan liggja mörkin milli túna áminnztra jarða til suðurs, þar til kemur að fornaldargarðlagi stutt frá Kolbeinsstaðabrunni, er þar merktur steinn LM, þaðan að jarðföstum steini fyrir vestan Kvíavelli með sama marki, þaðan að vörðu á sjávarkampinum spölkorn fyrir sunnan hústóft, er á kampinum stendur; þaðan fram á Mávatanga að þar settu marki LM á klöpp. Þaðan ræður sama sjónhending alla leið út í sjó. (Áminnzt LM þýðir landamerki.)
Túnmörk jarðarinnar eru; að norðan, frá markasteini við tún Hafurbjarnarstaða liggur túngarður til austurs, er girðir af túnið alla leið upp fyrir þurrabúðarbýlið Efstabæ, beygist þá túngarðurinn til suðurs, þar til kemur að jarðfastri klöpp með mark innan til við túngarðinn, skammt fyrir sunnan þurrabúðarbýlið Suðurkot, beygjast svo mörkin í vestur beint á fornaldargarðlag (í því er merki um friðlýstar fornleifar), er aðskilur tún jarðarinnar frá túni Kvíavallanna, þá áfram eftir garðlaginu, meðan sömu stefnu heldur, að merktum steini sunnan til við Brunn (vatnsból jarðarinnar), beygjast þá túnmörkin til norðurs að þeim upphaflega áminnzta markasteini, síðast umgetin markstefna aðskilur tún jarðarinnar frá túni Hafurbjarnarstaðanna. Einkennismark á áminnztum steinum er LM, er þýðir landamerki.
2. Vestan til á miðju Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, ræður þaðan fjörumarklína að norðanverðu alla leið upp á sjávarkampinn sunnanhallt við þann enda Lambarifs, er að sjávarkampinum liggur; er þar á kampinum varða með marksteini í, merktum LM.
Beygja svo fjörumörkin suður hákampinn suður að útnorðurhorni Hafurbjarnarstaðatúngarðs við sjóinn. Liggja svo merkin niður fyrir sjávarkampinn norðan til í stokkmyndaða klapparvör með mark LM. Þaðan að klöpp sunnanhallt á Lambarifi, er þar mark LM. Þaðan sem sjónhending ræður alla leið á sjó út.
„Hálf-örðugt er að fá nöfn og lýsingar á boðum og skerjum á þessu svæði. Þó þekkja allir Lambarif, sem er langt og allbreitt rif út í sjó norðan við Hafurbjarnarstaði, enda alþekkt fyrir skipströnd og slysfarir fyrr á tíma. Hafliðasker er norðan við rifið. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Norður af Hafliðaskeri er Krosstangi. Árni Jónsson segir, að nafnið sé dregið af legu tangans miðað við önnur sker. En einnig kynni það að vera í einhverju sambandi við kirkju eða bænahús, sem var á Kirkjubóli og markar enn fyrir á Gamla-Bóli.
Þar er einnig kirkjugarður, en hann er farinn að brotna af sjógangi og mannabein að koma úr hólnum, í flóði fyrir nokkrum árum komu m.a. hlutar af tveimur beinagrindum. Hallssker er sunnan við rifið. Ekki er vitað um tilefni þess nafns. Þar suður af er Mávatangi, lágt rif, laust við land, en kemur upp úr um fjöru. Kringum rif þetta eru smásker og flúðir, kallaðar Flögur. Brimbrotið á þessu öllu saman er nefnt Mávatangaflögur.
Kolbeinsstaðavarða er skammt fyrir ofan túngarðinn á Kolbeinsstöðum, rétt við veginn, sem nú liggur þar. Hún er gamalt mið á sundi og fiskimiðum. Hún mun hafa verið myndarleg á beztu árum ævi sinnar. Eigi mun vitað um aldur hennar. Nú er hún ekki annað en fáeinir steinar í hrúgu, mjög sokkin í jörð og úr henni hrunið á allar hliðar. Liggja steinarnir allt í kring, meira eða minna niður sokknir.
Í Kirkjubólshverfi miðju er stór hóll niður undir sjávarbakka. Heitir hann Gamla-Ból, enda stóð þar Kirkjuból áður fyrr með sína fornu sögu. Þegar Magnús Þórarinsson var smástrákur og kom á Gamla-Ból í fyrsta sinn, voru honum syndir þar vel höggnir bollar í stóra steina og sagt, að það væru hlautbollar frá heiðni. Steinar þessir munu nú vera komnir í hleðslu á Gamla-Bóli eða þar í grennd. Sunnan í Gamla-Bóli er lægð eða sýling, sem heitir Borguskarð.
Mið á Kirkjubólssundi er Kolbeinsstaðavarða í Borguskarð. Norðan við Sundið eru Mávatangaflögur, en sunnan við afleiðingar af Hásteinaflögum, sem eru grynningar fyrir norðan Hástein. Lent var í svonefndri Borgu, sem Magnús Þórarinsson segir, að hafi verið sandvik sunnan megin við Gamla-Ból, en Árni Jónsson segir, að Borga hafi verið hlaðin rétt (sbr. borg = hringhlaðin rétt).
Sunnan megin við lendinguna er Borgusker í fjörunni, smáhólmi í þanghafi. Norðan við eru Vallarhúsaklappir, en Kvíavallavik og Kvíavallasker þar norður af. Ekki var gott á land að leggja þarna, því allt var eintómur hvítur sandur, varð því að bera fiskinn upp á tún. Vergögn voru lítil og engir garðar, skipum til skjóls í ofviðrum á landi. Einn kofi hafði lengi staðið á bakkanum, en breyttist síðar í timburskúr. Sundið er sagt að hafi verið sæmilegt, en svo er að skilja, að það hafi náð skammt út fyrir fjöruna, því hvorki varð komizt út né að fyrir brimi, sem var fyrir utan, segja kunnugir. Þarna eru einlægir þarahvirflar um allt þetta svæði og einn brimsvaði, ef hreyfing er í sjó. Mun það allt vera kallað einu nafni Víkurboðar.
Lendingarstaður var við Hafurbjarnarstaði, nyrzta bæ í hverfinu, við sjóinn, en aðeins um sumartímann. Má enn sjá til leifanna af gömlu sjávarhúsi niður undan bænum (nú húsinu); hefur það verið nefnt Gjaldabyrgi, eflaust kennt við Ingjald Tómasson, sem bjó á Kolbeinsstöðum og síðar á Hafurbjarnarstöðum á seinni hluta 19. aldar. Hann var faðir Guðrúnar símstjóra í Gerðum og Margrétar í Melbæ.
Þá var einnig lending við Þóroddsstaði, syðsta bæ í hverfinu; var þar lent í sandviki niður af bænum, norðan við svonefndar Svörtuklappir. Engin sjávarhús eru þar nú sýnileg eða önnur vergögn. Kirkjubólssund var notað fyrir allt hverfið, en svo róið með landi að lendingarstöðum.
Framanskráð er einkum ritað eftir frásögn Magnúsar Þórarinssonar, hið sannasta, er hann vissi og hafði getað upp spurt af kunnugum eldri mönnum um leiðir og lendingar í Kirkjubólshverfi á ævi þálifandi manna.
Eigi er nú vitað, hve mikil sjósóknin hefur verið, en það stingur í augu, að svo er orðað, að „stundum“ hafi gengið þar konungsskip, áttæringur á vertíð. Það bendir til þess, að útgerðin hafi ekki verið stöðug fremur þá en síðar. Þá hefur líka hagað öðruvísi til þar. Sjávarströndin er ávallt að breytast, hægt og sígandi. Vitað er, að landbrot hefur verið ákaflegt á Miðnesi á undanförnum árhundruðum. Sjórinn hefur brotið jarðveginn, en eftir standa klettarnir. Það eru skerin. Áður var Lambarif grasi gróið; svo hefur einnig verið um önnur sker og fjörur, sem nú eru á þessu svæði, og allt annað flóðfar er þar nú en var fyrir 250 árum.
Enginn mun nú vita, hvar gamla vörin var í Hafurbjarnarstaðalandi. En það er víst, að brimasamt hefur ætíð verið út af Kirkjubólshverfi. Það vottar líka umsögnin um gömlu vörina, sem spilltist af grjóti í sjávargangi og sjávarflóðum.
Niður við sjó er, eins og fyrr segir, Gamla-Ból, þar sem Kirkjuból stóð fyrr. Mælt er, að bærinn hafi verið fluttur frá sjó undan sandfoki.
Í suðausturhorni túnsins er svonefnt Rafnshús, kennt við mann, sem þar bjó. Þar norður af er kofi, sem nefndur er Busthús. Þar var bær eða tómthús. Utar, hálfa leið á veginum, er varnargarður úr grjóti. Vestur af bænum, sem nú er, eru miklar hleðslur í hólnum við sjó. Suðvestur í túni eru miklar hleðslur af stórgrýti. Er þar að brotna hár rofabakki, og koma fram úr honum hleðslur. Hleðslur þessar eru leifar af kirkjugarði og byggingum.
Árnadalur er lægð í túni Kirkjubóls, sem liggur suður og norður í átt til Þórustaðatúns. Ekki er vitað með vissu, við hvern Árnadalur er kenndur, e.t.v. Árna nokkurn reipslagara, sem bjó á Kirkjubóli einhvern tíma á síðustu öld.
Fyrir innan túngarðinn á Kirkjubóli tekur við svæði það, sem Almenningur heitir. Það er sameign Kirkjubóls, Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða. Næst norðan við Kvíavelli eru Hafurbjarnarstaðir, sem voru nyrzti bærinn í hverfinu. Þar mátti sjá leifar af gömlu sjávarhúsi neðan túns, sem nefnt var Gjaldabyrgi og áður hefur verið getið.
Neðan við Hafurbjarnarstaði er Kálfhagi. Þar munu kálfar hafa verið geymdir. Þar eru einnig leifar eftir Skagagarð. Kálfhaginn er utast. Skagagarðurinn girti af tána, að talið er, til hlífðar fyrir akra, er þar voru. Upp frá Hafurbjarnarstöðum eru Kolbeinsstaðir. Ofan við túngarðinn þar er byrgi, Árnaborg. Hana hlóð Árni á Meiðastöðum. Á þessum slóðum eru ýmsar vörður. Kolbeinsstaðavarða er rétt ofan við veg upp af bæ, skammt ofan túngarðs, gamalt mið, hrunin að mestu. Ofan við Kálfhaga var Ófeigskot og Efstabæjargarður. Þar innar var tómthúsið Sléttaból, þar sem nú er býlið Ásgarður, austur af Lambarifi. – Ekki er vitað, við hvern Ófeigskot var kennt, en Sléttaból var byggt af Jóni Þórarinssyni, föður Árna Jónssonar, um aldamótin. Jón var frá Flankastöðum og flutti þangað aftur með allt sitt fólk árið 1916. Nú markar aðeins fyrir bæjar- og garðarústum á Sléttabóli.
Uppi í heiðinni austur frá Fitja-Hásteini, allhátt uppi, ef hægt er að tala hér um hátt, er Skiphóll. Suður af honum er annar hóll, sem heitir Grænhóll.
Skiphóll er grjóthóll, grasi gróinn, og var eitt aðalfiskimiðið í Garðsjó. Fyrir ofan veginn eru lægðir, sem nefndar eru Lágar. Í þeim eru rústir eftir stekk. Ekki er vitað, hvenær hann var síðast notaður. Hjá honum er hlaðin varða, en rétt hjá er smárétt, yngri. Skv. örnefnaskrá Ara Gíslasonar eru merkin móti Útskálum úr Útskálaflesju í Selós miðjan og í stein fyrir sunnan Skagavötn. Draughóll er á merkjum. Þar er nú býli, sem heitir Hólabrekka. Þaðan er línan í Skálareyki. Þar breytir um stefnu og verður miklu suðlægari.
Útskálaflesja er sunnan í Garðskagaflös. (Flesja = lág, slétt sker og sandbreiður, sem fara oftast undir sjó um flóð.)
Ekki er vitað, af hverju Selós dregur nafn, en mikið er og var um sel þarna sunnan við Flösina. Var það eini staðurinn þarna við ströndina, þar sem selur var, þegar Halldóra var að alast upp. En nú er þar mikið af honum, alveg frá Flös til Sandgerðis og e.t.v. einnig fyrir sunnan Sandgerði.
Áður var minnst á Jón Gerreksson. Hann (f. 1378) var endurreistur biskup í Skálholti árið 1426. Ýmsum sögum fór af honum og þá ekki síst ódælum sveinum hans. Áður hafði hann stundað nám við Svartaskóla (1401) og verið biskup í Uppsölum, en gerður þaðan burtrækur vegna kvennafars og svalls.
Illugi Jökulsson skrifar um Jón Gerreksson í Morgunblaðið 1986: „Einn kirkjusveinanna, foringi Jóns, Magnús að nafni, biðlaði til Margrétar á Kirkjubóli en var synjað. Hann tók hryggbrotinu svio illa að hann fór með sveinum sínum og brenndi Kirkjubólsbæinn en Margrét – sem var systir Þorvarðar á Mörðuvöllum og komst undan eldinum og flýði norður í land. Af þessum atburðum urðu hefndir miklar en þó lítil málaferli. Magnús flýði að lokum úr landi en það fugði ekki til þess að friða Íslendinga. Þorvarður slapp líka úr haldi og tók að safna liði og fór að lokum gegn Jóni biskupi í Skálholti. Hann var tekinn höndum og drekkt í Brúará, segir þjóðsagan, og er það sennilega alveg sannleikanum samkvæmt. Þannig er nú sagan í stórum dráttum.“
Um kumlateiginn við Hafurbjarnarstaði segir m.a. í eftirfarandi umsögn: „Í Skýrslu um Forngripasafn II, bls. 67-78, hefur Sigurður Guðmundsson málari lýst einum hinum merkasta heiðna kumlateig, sem enn hefur fundizt hér á landi. Sigurður kom hins vegar aldrei á staðinn, að því er séð verður.
Hafurbjarnarstaðir í Miðneshreppi eru rétt austan við Kirkjuból hið forna. Svæðið er mikið skemmt af sandfoki; er strandlengjan öll með ljósum sandi, sem fýkur mjög til og frá og veldur spjöllum. Þetta sandfok hefur leitt í ljós hinn forna kumlateig rétt innan við girðinguna, norður af bæ á Hafurbjarnarstöðum. Sigurður B. Sívertsen, segist minnast þess, að bein úr kumlunum hafi blásið upp og verið færð í kirkjugarð þar um 1828. „Þar fannst og silfurhringur með gömlu verki, líkt eins og á mörgum steyptum beltispörum“. Á öðrum stað segir hann, að hringurinn hafi verið „handhringur“ mjög forn úr silfri og einhvern tíma gylltur, var á hinum upphleypt krossmark, líkt og sézt hefur á gömlu beltispörum.“
Sumarfið 1947 fórum við Jón prófessor Steffesen á staðinn til að rannsaka, hvort nokkuð kynni að vera þar eftir óhreyft.“
Síðan lýsir Kristján kumlunum. Hann segir og að kumlateigur þessi sé vitanlega frá 10. öld, en nánari tímaákvörðun varla leyfileg. Eftir sverðinu að dæma ætti það þó ekki að vera yngra en frá 950. Annars staðar getur hann þess að kumlateigurinn gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík.
Árni Óla segir í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins 1961 að „enda þótt landkostir í Álftaveri hafi verið harla ólíkir landkostum við Raumdalsfjörð, þá tók þó úr er Molda-Gnúpur tók sér byggð í Grindavík, þar sem var lítt gróið hraun niður að sjó. Það hefir því skjótt orðið þröngt um þá bræður (syni hans) fjóra þar. Þess vegna ætla menn að Hafur-Björn hafi farið þaðan er hann kvongaðist Jórunni Svertingsdóttur (Hrolleifssonar), og reist sér bæ á Rosmhvalanesi, er síðan við hann kenndur og heitir Hafurbjarnarstaðir, rétt norðan við Kirkjuból, hinn sögufræga stað, og skammt frá hinum sögufræga garði, sem eitt sinn lá þvert yfir skagann og Garðskagi dregur nafn af. Börn þeirra voru Rannveig og Svertingur.
Húsfreyja á Hafurbjarnastöðum, kona Hafur-Bjarnar, var Jórunn dótturdóttir keltlneska landnámmannsins Ráðorms í Vetleifsholti. Þarna er hið keltneska samband, sem svo vel getur skýrt, hvers vegna hin einkennilega þríblaða næla, með keltnesk-norrænum stíl, skyldi einmitt finnast þarna á þessum stað. Hér styður hvað annað. Gröfin bendir til þess, að hún hafi verið legstaður húsfreyjunnar á Hafurbjarnarstöðum, og hin einkennilega nál bendir til hins keltnesk-norræna ætternis hennar.“
Framangreind vitneskja, þ.e. merkilegheit kumlateigsins sem og hugsanleg tengsl hans við eina hina fyrstu landnámsmenn á Reykjanesskaga, ætti, þótt ekki væri fyrir neitt annað, að vera yfirvöldum fornleifa sérstakt áhugaefni. Ljóst var að þarna hafi bein verið að koma upp úr gröfum a.m.k. frá því á 19. öld. Á 20. öld finnast merkilegstu grafir, sem enn hafa fundist hér á landi. Hvers vegna í ósköpunum, endurtekið – í ósköpunum, hefur ekki farið fram frekari fornleifauppgröftur við Hafurbjarnarstaði? Kristnitökussjóður hefur fjámagnað marga vitleysuna á síðustu árum, en spurningin er; hvers vegna í ósköpunum datt engum forsvarsmanna hans að verja fjármunum til áframhaldandi rannsókna á þessu einstaka svæði? Og hvers vegna gerði enginn sveitarstjórnarmanna þá kröfu að það yrði gert? Krafan myndi þykja mjög eðlileg því vel má leiða að því líkum að jarðneskar leifar Hafur-Bjarnar kunni að leynast þar í sandinum!
Þrátt fyrir merki Þjóðminjasafnsins, bæði á garðinum norðan Hafurbjarnarstaðar (sem líklega má telja hluta af hinum forna Skagagarði) og við kumlateiginn er ekki umm eiginlegar friðlýstar fornleifar skv. Skrá um friðlýstar fornleifar 1990. Þar segir eingungis um slíkar minjar í Gerðarhreppi: „Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga. Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Hér er um að ræða svæðið innan hins forna Skagagarðs. Ekki er minnst á kumlin þótt vitað hafi verið af þeim á þessum tíma. Í núgildandi þjóðminjalögum eru allar fornleifar eldri en 100 ára friðaðar, en skýringin á því hvers vegna kumlteigurinn og garðurinn á Hafurbjarnarstöðum er sérmerktur umfram ákvæði laganna liggur ekki ljós fyrir.
Þórustaðir eða Þóroddsstaðir eru jörð í Miðneshreppi, næst norðan Fitja, og taldir syðsti bær í Kirkjubólshverfi. Árið 1703 er þar getið um tvö Thorustadakot.
Fitjar eru jörð í Miðneshreppi næst norðan við Arnarbæli. Arið 1703 er þetta talið hálfbýli og jafnvel að einhverju leyti tengt Kirkjubóli.
Á Flankastöðum hefur um langan aldur verið tvíbýli. Um aldamót stóðu báðir bæirnir saman á sama hólnum. Síðan voru þeir færðir í sundur, og eru Syðri-Flankastaðir nú komnir í eyði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Kirkjuból, Þórustaðir (þóroddsstaði), Fitjar og Flankastaði.
-Kristján Eldjárn – Árbók hins íslenska fornleifafræðifélags 1943-1948, bls. 108-128.
-Árni Óla, Lesbók Morgunblaðsins 26. febrúar 1961.
-Mbl. 23. des. 1986.