Sveinn Pálsson (1762-1840) var stúdent í Kaupmannahöfn. Hann lærði læknisfræði og náttúrufræði, ferðaðist til Íslands fyrir Náttúrufélag Dana og sendi þeim skýrslur um landann.
Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.
Hér á eftir verður fjallað um lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann fer mjög neikvæðum orðum um sýsluna, talar um að ekki geti aumari sýslu á Íslandi um útsýni og landkosti, en að mannfjöldinn sé þar meiri og strjálbýli minna. Þar er helsti kaupstaðurinn og þar er víðtækasta útræðið.
Hann lýsir landinu sem heimkynni allra ógna í náttúrunnar ríki. Sýslan sé lítið annað en auðn og eldbrunnin og gróðurlaus með öllu. Það sé erfitt að finna ósalt rennandi vatn. Hann talar þó um að mörg hraunanna séu ágætis afréttir fyrir sauðfénað jafnt sumar sem vetur.
Grjótið sem mest er af er vel fallið til húsagerðar en torfið sé erfitt að fá á þessu svæði og víða sé það svo gljúpt í sér að það nýtist ekki í þök né veggi. Bæir séu litlir og þröngir, og illa viðraðir. Allt er þar fullt af viðbjóðslegum óþef sem kemur af daglegum úrgangi frá útveginum og for, sem er grafin niður í jörðina fast við bæjardyrnar og hlaðin upp úr grjóti. Síðan er þetta notað sem áburður á túnin.
Kálfatjörn.
Lítið sé um hlunnindajarðir. En fólki fjölgi mest hér og það sé vegna hins ágæta sjávarafla sem menn sækja utan úr sveitum.
Í sýslunni eru 12 kirkjusóknir og í þeim 144 býli fyrir utan hjáleigur. Árið 1781 voru íbúar 2818. Í sýslunni sitja stiftamtmaður, landfógeti, landlæknir, sýslumaðurinn, lyfsali og ljósmóðir. Fangelsi hefur verið stofnað en það vanti sjúkrahús… Nýju innrétingarnar eru: klæða- eða vefnaðarvöruverksmiðja í Reykjavík, brennisteinshreinsunarstöð í Krýsuvík og sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni.
Reykjavík hefur 4 útibúsverslanir. Höfnin er þar rúmbetri en annars staðar. Biskupsstóllinn fluttist til kaupstaðarins frá Skálholti 1786 og einnig latínuskólinn. Verið sé að reisa dómkirkju.
Stóri-Nýibær í Krýsuvík.
Sveinn talar um að fiskveiðar séu vanræktar hvað varðar veiddar fisktegundir og útbúnað til sjósóknar. Stærri bátum tí- og áttæringum fækki en tveggjamannaför koma í staðinn. Ástæðurnar eru að fjölskyldur eru minni og bændur verða að draga saman seglin og gerast tómthúsmenn. Selveiði og hákarlaveiði eru vanræktar með öllu. Til beitu fyrir þorsk er notaður kræklingur og aða og ef það fæst ekki eru notuð t.d. þorskhrogn. Á vorin fjörumaðkur.
Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.
Merkustu staðir í sýslunni eru: Bessastaðir, Viðey og kaupstaðurinn…
Íbúar í þessum landshluta koma úr öllum landshlutum. Menn eru hér dramblátari, eigingjarnari, ógestrisnari og ólhreinskilnari víð yfirvöld en annars staðar á landinu. Málfar og venjur eru verri. Fólk er uppivöðslusamara, meiri kaffi- og brennivínsdrykkkja og önnur fíflska. Fáir verða mjög gamlir og mörg börn deyja áður en þau verða þriggja ára gömul.
Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.
Ástæðan virðist vera illt viðurværi mæðranna og óþrifnaður. Frjósemi þó mikil. Tala óskilgetinna barna hærri en annars staðar.
Sveinn telur upp sjúkdóma s.s. líkþrá, kreppusótt í harðindum, (þó segir hann börn og unglinga vel hirt), lúa- og liðaverkir eru mjög algengir og einnig handa- og fótadofi. Móðursýki er algeng meðal kvenna og tíðateppu hefur flest kvenfólk hér frekar en annars staðar.
Klæðnaður er íburðarminni hér en fyrir norðan. Skautið er beygt mjög fram á við og fer ekki vel. Menn eiga almennt meira af peningum en minna af öðrum nauðsynjum.
Íslendingar 1810.
Almenningur skiptist hér í stéttir: a) bændur sem búa á lögbýlum, b) grashúsmenn sem búa annað hvort á hjáleigum eða í húsi á heimajörðinni, hafa grasnyt fyrir eina kú, c) tómthúsmenn sem búa á hjáleigu eða í húsi á heimajörðinni, en hafa enga málnytu, d) vinnufólk, karlar og konur, e) börn, f) gamalmenni, g) þurfamenn, sem þiggja af sveit, h) lausamenn, sem hvorki stunda búskap né vinnumennsku, og eru ógiftir og i) sjómenn sveitamenn og vinnumenn sem eru hér við sjó að vetrinum.
Heimild:
-Úr Ferðabók Sveins Pálssonar.
Reykjanesviti.
Æsubúðir – Eldborg
Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.
Stóra-Eldborg.
Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.
Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.
Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.
Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.
Æsubúðir og nágrenni.
Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.
Æsubúðir efst á Geitahlíð.
Skjónaleiði
Leitað var Skjónaleiðis að Hliði á Álftanesi, en á því var sagður vera áletrunarsteinn frá árinu 1807. Steinninn var friðlýstur árið 1965, en hann hefur verið talinn glataður. Hans er m.a. getið í Árbók Fornleifafélagsins 1966 í umfjöllun Kristjáns Eldjárns eftir að Gísli Sigurðsson sýndi honum hann árið 1963.
Skjónaleiði.
Gengið var skipulega um svæðið og tekin mið af fyrirliggjandi vísbendingum, s.s. „innan garða“ og „eigi langt frá“.
Eftir nokkra leit á svæðinu fannst steinninn. Einungis sást lítillega í hann þar sem algróðið er í kring og jarðvegurinn að færa steininn í kaf. Eftir að hafa flett jarðveginum af steininum kom áletrunin í ljós svo og ártalið 1807. Um er að ræða vísu, sem klöppuð er á steininn. Hann var settur þarna yfir dauðan og eftirsjáanlegan Skjóna bóndans á Hliði. Gamlar sagnir eru til um steininn, en sennilega vita fáir núlifandi af honum (árið er 2000). Torfið var sett varfærnislega yfir steininn aftur og allt lagfært svo sem það var.
Best er að ganga að steininum á auðri jörð að vetrarlagi því á sumrin grær hár grasagróður á svæðinu og hylur undirborðið.
Hlið – túnakort 1917.
Á Hliði eru ýmsar sögulegar minjar. Sjórinn hefur hins vegar verið að brjóta þær niður smám saman og taka þær til sín. Þarna væri því tilvalið að koma upp golfvelli ef það mætti verða til þess að varnargarðar yrðu settir upp áveðurs með ströndinni.
Áletrunin á steininum hefur varðveist vel, en líklegt má telja að hún hafi lengi framan af verið ofan jarðar, en síðan smám saman hulist jarðvegi, hann sigið og loks gróið yfir.
Vísan hefur varðveist á prenti. Hún mun vera eitthvað á þessa leið:
1807
HEIGDAN
SKIONA HIER EG TEL
HESTEN BEST AD
LIDE ÞESSE JÖRSA
ÞIENTE VEL ÞEGAR HAN
BIO A HLIDE
Öll N eru öfug í áletruninni eins og altítt er. Vísan, uppfærð, er því svona;
(Heygðan Skjóna hér ég tel,
hestinn bezt að liði;
þessi Jörsa þénti vel,
þegar hann bjó að Hliði).
Skjónaleiði – letursteinn.
Jörsi mun hafa verið Jörundur Ólafsson, ættaðan frá Fossum í Andakíl; hann kom um aldamótin 1800 að Hliði og bjó þar lengi, dó 1843. Kristján Eldjárn nefndi staðinn „Skjónaleiði“.
Rétt er að árétta að skv. núgildandi lögum (sem vonandi verður breytt fljótlega) skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins áður en fornleifar eru grafnar upp, en að þessu sinni var einungis ætlunin að leita staðfestingar á að umrædd sögn ætti við rök að styðjast eður ei. Gengið var frá öllu sem fyrr og steinninn hulinn torfi.
Við Hlið á Álftanesi.
Í nýjum þjóðminjalögum, eða í reglugerð þeim tengdum (sem ekki er til m.v. núverandi lög), þarf að skapa eðlilegan og sjálfsagðan samhljóm á milli stofnana (fagfólks (lærðra)) og áhugasamtaka (leikinna) um söfnun og skráningu upplýsinga. Ljóst er að áhugafólk virðist eiga mun greiðari leið að t.d. eldra fólki (vegna áhuga síns og fórnfýsi (ekki krafist greiðslu fyrir ótakmarkað vinnuframlag)) á hinum ýmsu stöðum og svæðum, fólki sem býr að öllu jöfnu yfir miklum upplýsingum um fyrri búsetu og búsetuhætti, minjar og sögu.
Hlið á Álftanesi.
Áhugafólk virðist einnig vera fundvísara á minjar, sem ekki virðast meðvitaðar fræðingum. Hinir síðarnefndu virðast of uppteknir af greiningu, flokkun og fyrirfram mótuðum listum (formúlum), en hinir fyrrnefndu geta leyft sér að „leika af fingrum fram“, óháð kerfisskráningunni. Hvorutveggja er gott, út af fyrir sig, en saman mætti ná enn betri árangri. Búa þarf til vettvang til þess að þessar upplýsingar, sem ávallt eru að glatast, nýtist sem skyldi. Vettvangurinn þarf ekki að vera stofnun (opinberra kvenna eða karla) með lögbundið vald. Hún getur alveg eins verið aðstaða þægilegs viðmóts og gagnkvæmrar virðingar – samtalsvettvangur „jafningja“ án þvingana.
„Minjar“ á Hliði.
Fjárskjólshraun – Herdísarvíkursel – Fornigarður
Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.
Í Herdísarvíkurseli.
Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.
Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.
Brúnavegur
Ekki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: „Hér er hún“. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. „Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.“
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.
Varða á Hemphól.
Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.
Reykjanesskagi – fornar götur.
Lönguhlíð – Mígandagróf
Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.
Mígandagróf.
Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.
Varða á Lönguhlíð vestan Mígandagrófar.
Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.
Mígandagróf.
Sveinn Pálsson – Ferðabók – Dagbækur og ritgerðir 1791-1797
Sveinn Pálsson (1762-1840) var stúdent í Kaupmannahöfn. Hann lærði læknisfræði og náttúrufræði, ferðaðist til Íslands fyrir Náttúrufélag Dana og sendi þeim skýrslur um landann.
Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.
Hér á eftir verður fjallað um lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann fer mjög neikvæðum orðum um sýsluna, talar um að ekki geti aumari sýslu á Íslandi um útsýni og landkosti, en að mannfjöldinn sé þar meiri og strjálbýli minna. Þar er helsti kaupstaðurinn og þar er víðtækasta útræðið.
Hann lýsir landinu sem heimkynni allra ógna í náttúrunnar ríki. Sýslan sé lítið annað en auðn og eldbrunnin og gróðurlaus með öllu. Það sé erfitt að finna ósalt rennandi vatn. Hann talar þó um að mörg hraunanna séu ágætis afréttir fyrir sauðfénað jafnt sumar sem vetur.
Grjótið sem mest er af er vel fallið til húsagerðar en torfið sé erfitt að fá á þessu svæði og víða sé það svo gljúpt í sér að það nýtist ekki í þök né veggi. Bæir séu litlir og þröngir, og illa viðraðir. Allt er þar fullt af viðbjóðslegum óþef sem kemur af daglegum úrgangi frá útveginum og for, sem er grafin niður í jörðina fast við bæjardyrnar og hlaðin upp úr grjóti. Síðan er þetta notað sem áburður á túnin.
Kálfatjörn.
Lítið sé um hlunnindajarðir. En fólki fjölgi mest hér og það sé vegna hins ágæta sjávarafla sem menn sækja utan úr sveitum.
Í sýslunni eru 12 kirkjusóknir og í þeim 144 býli fyrir utan hjáleigur. Árið 1781 voru íbúar 2818. Í sýslunni sitja stiftamtmaður, landfógeti, landlæknir, sýslumaðurinn, lyfsali og ljósmóðir. Fangelsi hefur verið stofnað en það vanti sjúkrahús… Nýju innrétingarnar eru: klæða- eða vefnaðarvöruverksmiðja í Reykjavík, brennisteinshreinsunarstöð í Krýsuvík og sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni.
Reykjavík hefur 4 útibúsverslanir. Höfnin er þar rúmbetri en annars staðar. Biskupsstóllinn fluttist til kaupstaðarins frá Skálholti 1786 og einnig latínuskólinn. Verið sé að reisa dómkirkju.
Stóri-Nýibær í Krýsuvík.
Sveinn talar um að fiskveiðar séu vanræktar hvað varðar veiddar fisktegundir og útbúnað til sjósóknar. Stærri bátum tí- og áttæringum fækki en tveggjamannaför koma í staðinn. Ástæðurnar eru að fjölskyldur eru minni og bændur verða að draga saman seglin og gerast tómthúsmenn. Selveiði og hákarlaveiði eru vanræktar með öllu. Til beitu fyrir þorsk er notaður kræklingur og aða og ef það fæst ekki eru notuð t.d. þorskhrogn. Á vorin fjörumaðkur.
Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.
Merkustu staðir í sýslunni eru: Bessastaðir, Viðey og kaupstaðurinn…
Íbúar í þessum landshluta koma úr öllum landshlutum. Menn eru hér dramblátari, eigingjarnari, ógestrisnari og ólhreinskilnari víð yfirvöld en annars staðar á landinu. Málfar og venjur eru verri. Fólk er uppivöðslusamara, meiri kaffi- og brennivínsdrykkkja og önnur fíflska. Fáir verða mjög gamlir og mörg börn deyja áður en þau verða þriggja ára gömul.
Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.
Ástæðan virðist vera illt viðurværi mæðranna og óþrifnaður. Frjósemi þó mikil. Tala óskilgetinna barna hærri en annars staðar.
Sveinn telur upp sjúkdóma s.s. líkþrá, kreppusótt í harðindum, (þó segir hann börn og unglinga vel hirt), lúa- og liðaverkir eru mjög algengir og einnig handa- og fótadofi. Móðursýki er algeng meðal kvenna og tíðateppu hefur flest kvenfólk hér frekar en annars staðar.
Klæðnaður er íburðarminni hér en fyrir norðan. Skautið er beygt mjög fram á við og fer ekki vel. Menn eiga almennt meira af peningum en minna af öðrum nauðsynjum.
Íslendingar 1810.
Almenningur skiptist hér í stéttir: a) bændur sem búa á lögbýlum, b) grashúsmenn sem búa annað hvort á hjáleigum eða í húsi á heimajörðinni, hafa grasnyt fyrir eina kú, c) tómthúsmenn sem búa á hjáleigu eða í húsi á heimajörðinni, en hafa enga málnytu, d) vinnufólk, karlar og konur, e) börn, f) gamalmenni, g) þurfamenn, sem þiggja af sveit, h) lausamenn, sem hvorki stunda búskap né vinnumennsku, og eru ógiftir og i) sjómenn sveitamenn og vinnumenn sem eru hér við sjó að vetrinum.
Heimild:
-Úr Ferðabók Sveins Pálssonar.
Reykjanesviti.
Breiðabás – Vogsósagata (Hellisvörðustígur)
Farið var að Breiðabás austan við Herdísarvík og leitað hellisops, sem Einar skáld Benediktsson hafði fyrrum lýst á þeim slóðum. Sagði hann í lýsingu sinni af hellinum að hann hefði náð úr Breiðasbás upp í mitt Mosaskarð, en þangað er vel á annan kílómeter. Vitað er um menn, sem villst höfðu inni í hellinum, en hann mun vera margarma og erfitt að rata inni í honum. Um er að ræða afhelli innan af hinum eiginlega Breiðabáshelli, stórum fjárhelli, sem lengi var notaður frá Herdísarvík.
Fornugata.
Í viðtali Jóhanns Davíðssonar við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík árið 2004 kom eftirfarandi fram um Breiðabáshelli: „Í Breiðabás var mikill sölvareki. Svo komum við að þessum stóra helli. Mig langaði til að fara inn í þennan tigna hellir. Gísli var í opinu í stóra hellinum og ég fór inn hellirinn, langaði að sjá hve hann næði langt þegar ég var kominn inn. Ég var ekki með ljós. Þegar ég var kominn langt inn, komu þrengsli, ég fór yfir þau, þá kom hellir til vinstri og annar lítill til hægri. Þá sá ég að ég var orðinn snarvilltur, ætlaði að finna leiðina til baka, en fann ekki, sá gat og gat skriðið þar upp, mjög þröngt. Ef ég hefði haft vasaljós hefði ég getað haldið áfram að skoða þetta betur. En þarna var bara svarta myrkur.
Í Breiðabás
Þarna getur verið voðalegur hellir og stækkað er innar var komið. Þótt svona þrengsli væru þegar að var komið gæti verið víður hellir innar. Það veit enginn. Hægt væri að skoða þetta með góðum ljósum. Sárt að sjá að hellirinn er nú kominn í kampinn því þetta var góður hellir. Hann tók þrjú til fjögur hundruð fjár. Hann var meira en manngengur, en þegar inn var komið fór hann að þrengjast…, það komu svona göng…skosnur sitt á hvað.. þegar ég fór yfir þrengsin komu þar hellirar.. Það kom einhver smá skíma og þar fór ég upp, annars hefði ég orðið innlyksa.
Gísli var náttúrulega til frásagnar að ég fór inn í hann. Það hefði verið hægt að leita með ljósi því vasalljós voru komin þá – og kerti, en það var svo mikill dragsúgur í hessum hellirum.“
Sjá einnig viðtal og ferð með bróður Eggert í Stakkavík, Þorkeli Kristmundssyni.
Í Breiðabás.
Ofan við opið á Breiðabáshelli, sem nú er komið undir háan sjávarkampinn, sést í fjárgötuna niður að opinu. FERLIRsfélögum í félagi við Hellarannsóknarfélagsmenn hafa komist undir hraunið þar sem yfirborðsrásir liggja þvers og kurs innundir, en ekki hefur enn tekist að finna leiðina að hinni löngu rás, ef frásögnin um hana er þá sönn. Vonir eru bundnar við það að eitthvert þungavinnutækið við lagningu Suðurstrandarvegar muni óvart dumpa niður í rásina þegar þar að kemur.
Fornigarður í Selvogi.
Þrátt fyrir nokkra leit að þessu sinni komust leiðangursmenn ekki lengra en inn undir hraunið á nokkrum stöðum – en hvergi niður í rásina.
Þá var haldið í kaffi til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum. Þórarinn sýndi FERLIRsfélögum Fornagarð, sem var vörslugarður ofan við Selvog. Fornigarður (hét áður Strandargarður) lá frá Hlíðarvatni yfir að Nesi, um 5 km leið. Garðurinn var reistur fyrir árið 1200 og sést hann enn vel þrátt fyrir að sandurinn, sem hafði nær lagt byggðina í aun, hafi fokið vel að honum á köflum. Bæði sést móta fyrir garðinum á Vogsósatúninu sem og á heiðinni ofan þess. Ætlunin er að ganga síðar eftir garðinum frá Vogsósum að Nesi (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Þórarinn vísaði á gömlu Vogsósagötuna frá Ósum að Háahrauni. Um er að ræða tvær götur, gömlu og nýju götuna, að sögn Þórarins. Báðar eru þær klappaðar í helluhraunið og sést gatan mjög vel svo til alla leiðina.
Hellugata (Fornagata) vestan Vogsósa.
Þarna hefur verið mikil umferð áður en gatan lokaðist af Háahrauni er það rann um árið 1320. Víða eru 10-15 cm djúp för langar leiðir í klöppina.Gatan, sem stundum hefur verið nefnd Hellisvörðugata (hún er vörðuð á sléttri hraunhellu er nefnd er Hellan) er tvískipt, sem fyrr segir, sú nýrri er nær sjónum, og kemur aftur fram vestan hraunsins uns hrauntunga fer yfir hana að nýju. Hún greinist varla þegar kemur að túnunum austan Herdísarvíkur, en gamli vegurinn í gegnum hraunið, á milli löngu fiskigarðanna, gæti hafa komið á hana. Skammt vestan Mölvíkurtjarnar greinist gatan, annars vegar að Mölvík (rekagata) og hins vegar áleiðis í spor núverandi þjóðvegar.
Þá lýsti Þórarinn Stakkavíkurhelli og er ætlunin að skoða hann síðar. Hann er vestan og uppi í Nátthagaskarði (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Frábært veður – Ferðin tók 2 klst og 22 mín.
Herdísarvíkurtjörn.
Kerlingargil – Brennisteinsfjöll – norðurljós
Haldið var upp á Lönguhlíðar um Kerlingarskarð og þaðan upp í Kistudal. Dalurinn skartaði sínu fegursta svo stuðlabergið naut sín vel.
Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.
Skoðaðar voru brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum og þátttakendur fundu það sem leitað var að – minjar um bústaði námumanna. Minjarnjar eru í gili undir hlíðum fjallana og mjög heillegar þrátt fyrir að hafa verið yfirgefnar í um 140 ár.
Gengið var um Grindarskörð á bakaleiðinni. Á leiðinni mátti sjá norðurljósin í sinni fegurstu mynd. Þau eru hvergi fallegri en þar sem engra ljósa frá byggð nýtur við.
Norðurljósin munu verða til vegna þess að frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.
Norðurljós.
Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós.Margir af litum norðurljósanna myndast við svokallaðar forboðnar færslur eða ummyndanir milli orkustiga í sameindum og frumeindum í ystu lögum lofthjúpsins.
Sjaldgæf rauð norðurljós eru komin frá súrefni í mikilli hæð, yfir 200 km. Súrefni í um 100 km hæð myndar skæran gulan og grænan lit sem er bjartasti og algengasti liturinn í norðurljósum. Blár og fjólublár litur kemur frá jónuðum nitursameindum en óhlaðið nitur gefur rauðan lit. Purpurarauður litur við neðri rönd og gáraða jaðra á norðurljósum kemur einnig frá nitursameindum.
Veðrið var í einu orði sagt frábært.
Heimildir m.a.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1512
Kerlingargil.
Bálkahellir – Arngrímshellir – með HERFÍ
Haldið var ásamt hellarannsóknarmönnum úr Hellarannsóknarfélaginu í Klofninga til að skoða Bálkahelli, sem FERLIRsfólk endurfann þar s.l. vetur. Þegar þátttaekndur stigu út úr farkostum sínum í upphafi ferðar undir Geitahlíð skalf jörðin líkt og venja er í FERLIRsferðum. Skjálftinn mældist að þessu sinni um 4° á Richter. Sumum varð ekki um sel.
FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.
Um tuttugu mínútur tekur að ganga frá veginum niður í Bálkahelli eftir tiltölulega greiðfærum slóða. Hann er ekki auðfundinn þrátt fyrir stærð, en komið hefur verið fyrir litlum vörðum við opin.
Bálkahellir er um 450 metra langur. Um miðbik efsta hlutans greinist hann í tvennt, en rásirnar koma saman að nýju nokkru neðar. Að jafnaði er hellirinn um 6 metra breiður og 3-5 metrar á hæð og eftir því auðgenginn. Hrun er í efri hluta efsta hluta, en það hættir um miðbik hans. Í loftinu eru fallegar hraunnálar og á gólfinu eru dropasteinar, þ.e. í neðsta hlutanum.
Bálkahellis er getið í gamalli frásögn í umfjöllun um Arngrímshelli, síðar nefndur Gvendarhellir.
Í Arngrímshelli.
Að lokinni skoðun var haldið í Arngrímshelli, hinn fallega fjárhelli með miklum mannvistarleifum, bæði utanhellis og innan, og loks voru skoðuð þrjú önnur jarðföll, sem FERLIR hafði gengið fram á veturinn fyrrum.
Í einu þeirra leyndist nokkur hundruð metra hellir og í öðru urðu rannsóknarmenn frá að hverfa því sá hellir virtist endalaus. Ætlunin er að fara þangað aftur síðar til skoðunar.
Í Arngrímshelli.
Ofangreindir hellar eru líklega með þeim fallegri í nágrenni höfðuborgarinnar. Þeir eru aðgengilegir og auðvelt að ganga að þeim. Staðsetningin er og verður þó að mestu í vitund þess FERLIRsfólks og hellarannsóknarmanna, sem lagt hafa á sig að skoða náttúrugersamirnar.
Veður var frábært (en hvaða máli skiptir það niður í hellum þar sem myrkur ríkir 364 daga á ári (að nýársnótt undanskilinni)).
Gangan og helladvölin tók 4 klst og 4 mín.
Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.
Selvogur – Strandarkirkja – Nes
Ekið var að Strandarkirkju með viðkomu við dysjar Herdísar og Krýsu neðst í Kerlingadal. Við Strandarkirkju tók Kristófer kirkjuvörður vel á móti ferðalöngum. Leiddi hann þá í allan sannleika um kirkjuna, uppruna hennar og sögu.
FERLIRsfélagar við Strandarkirkju.
Fram kom að skyggt fólk hafi komist að því að kirkjan hafi upphaflega verið byggð úr timbri er Gissur hvíti flutti til landsins frá Noregi skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi. Kom hann á leið sinni við í Vestmannaeyjum og reisti þar kirkju, þá sömu og endurbyggð var þar fyrir skömmu, en lenti í hafvillum utan við Selvog. Komst hann þar í land ásamt áhöfn eftir að hafa heitið því að þar skyldi reist kirkju er og ef hann næði landi. Hann og áhöfn hans björguðust og reistu ofan við sjávarkambinn litla áheitakirkju er snéri stafni til hafs. Bekkir voru annars vegar í henni og altari innst.
Núverandi Strandarkirkja er frá árinu 1888 og hefur verið vel við haldið. Í henni má m.a. finna sakramentisbikar frá 1262 og altarisbikar frá um 1340. Þá gripi sýndi Kristófer auk margra fleiri.
FERLIRsfélagar við Nes í Selvogi. Standa á fæti gamla Nesvitans.
Gengið var að Nesi frá Bjarnastöðum og Guðnabæ, skoðaðar fjárborgir, sjóbúðir, brunnhús, gamli kirkjugarðurinn og rústir gamla bæjarins í Nesi. Kristófer lýsti gamla vörsugarðinum er náði frá Nesi ofan Selvogs að Vogsósum, en hann mun vera eitt allra elstu mannvirkja, sem enn eru sýnileg hér landi. Þá var haldið að Hellisþúfu og hellirinn, sem búið var í um tíma, skoðaður, gengið um Djúpadalshraun og skoðuð Djúpadalsborgin.
Djúpudalaborg.