Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.
Í Fjallsendahelli.
Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.
Hlíðarendahellir.
Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.
Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.
Djúpudalaborg.
Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.
Hafnasel – vatnsstæði.
Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.
Þorlákshafnarsel – uppdráttur.
Flekkuvíkursel
Skoðað var Flekkuvíkurselið.
Stekkur í Flekkuvíkurseli.
Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.
Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.“
Bræður – vörður við stíginn í Flekkuvíkursel.
Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.
Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2. mín.
Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
Flekkuvíkursel.
Fjarðarhellir
Leitað var Fjarðarhellis í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann fannst eftir stuttan umgang, en hellir þessi var notaður sem fjárhellir áður en byggð fór að þrengja að honum.
Fjarðarhellir í Hellisgerði.
„Landslag í Hafnarfirði er víða mjög sérkennilegt. Hraunið setti áður fyrr mestan svip á bæinn, enda stendur hann í hraunbrekku, sem hallar niður að flæðamáli. Hraunið var mjög óslétt og mishæðótt, klettar margir og furðurlega lagaðir. Eftir því sem byggðin jókst í Hafnarfirði og færðist út, hurfu ýmiss sérkenni landslagsins. Hamrar voru sprengdir og sléttað yfir gjár. Árið 1922 var lagt til að Málfundafélagið Magni kæmu upp blómagarði og skemmtigarði, þar sem sérkenni landslagsins, hraunborganna og gjánna, fengju að halda sér, en gróðurinn væri aukinn af prýði og yndi. Nefnd, sem sett var í málið, leyst vel á svæði það, sem nú er Hellisgerði, en þar var þá nokkur vísir af trjágróðri. Knud Zimsen, borgarstjóri í Reykjavík, segir í endurminningum sínum, að móðir hans hafi fylgst með gróðrinum í nánd við Fjarðarhelli af miklum áhuga og innileik. Faðir Knuds lét girða og friða allstórt svæði í kringum hellinn, og hlaut það nafnið Hellisgerði. Síðar var svæðið stækkað og aukið. Helstu samkomur Hafnfirðinga voru þar um allnokkurt skeið.“
Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983.
Fjarðarhellir.
Gvendarborg – Rauðhólssel – Kolhólasel
Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.
Kolhólasel.
Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.
Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Rauðhólssel.
Stafnessel I
Á gömlum kortum er Stafnessel sýnt austan við Djúpavog í Ósum.
Stafnessel.
Gengið var með austanverðum Ósabotnum inn að Selhellu. Á henni landmegin eru tvær tóftir, auk mannvirkja á sjálfri hellunni. Þarna er hin ákjósanlegasta lending fyrir smábáta.
Efst á brúninni með sunnanverðum Djúpavogi er tóft. Gamla þjóðleiðin lá fyrir botnsendann. Skammt norðar eru tóftir í víkurmynni. Gamla Kaupstaðagatan liggur ofan við þær, að og ofan við Gamla-Kirkjuvog. Ofan við hana er gróinn klapparhóll. Reyndar eru þeir nokkrir á þessu svæði, en enginn jafnvel gróinn og þessi. Í brekkunni mót norðvestri eru tóftir, að öllum líkindum selstóftir. Ef Stafnessel er þarna komið er það ekki svo mjög langt frá hinum gömlu kortastaðsetningum. Tóftirnar eru greinilega gamlar, en enn má sjá móta fyrir veggjum.
Minkur hafði grafið sig inn undir eina tóftina, en lét fara lítið fyrir sér.
Veðrið var dýrðlegt, logn og hiti.
Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Kaldásel – Þórarinn Björnsson
Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna drög að bók um sögu staðarins. Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl.
Kaldársel – áletrun.
Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir aðrir áhugasamir slógust í hópinn. Veður var frábært.
Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.
Straumssel I
Eftirfarandi er byggt á lýsingu Gísla Sigurðssonar um Straumssel:
“Gengið var í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn austari liggur upp með Þorbjarnarstöðum að austanverðu, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól, yfir Seljahraunið og upp í Toppukletta. Þar taka lárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést að Straumsseli.
En að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til
Straumssel – tilgáta.
suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.
Op með fyrirhleðslu ofan við Neðri-Straumsselsfjárhella.
Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Ber það þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895.
Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.
Straumsselið gamla.
Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.
Efri-Straumsselshellar.
Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.
Neðri-Straumsselshellar.
Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella- neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafa lokað fyrir opið. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í]. Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.
Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir vestari selsstígnum.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst.
Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.
Reiðskarð – Stapinn – Kerlingarbúð
Gengið var um Reiðskarð, gömlu Stapagötuna, sem er sérstaklega falleg á þessum kafla, og með Vogastapanum að Brekku. Þar eru fallegar hleðslur frá tíð gamla bæjarins og hlaðinn brunnur.
Brekka undir Stapa.
Þaðan var gengið yfir að Stapabúð. Segja má að lítið þurfi annað en refta gömlu tóftirnar til að koma þeim í gagnið aftur. Utar er Hólmurinn. Enn má sjá minjar saltfiskverkunarinnar á honum, grunna og steinlagðar tröppur timburhúsa, gerði og garða. Utan í eiði sunnan við Hólmann lúrir gamall innrásarprammi.
Skoðaður var gamli brunnurinn norðan við Stapabúð sem og fjárhúsið. Hvönn og starir vaxa utangarðs og skammt undan landi syndir selur. Hvað er friðsælla en að setjast þarna niður um stund og virða fyrir sér haflífið og fagurt umhverfið.
Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.
Gengið var að Kerlingabúð, sem eru með elstu minjum á Suðurnesjum, en eitt húsanna hafði verið byggt þar utan í stóran klett ofan við fjöruborðið. Sjórinn hefur smám saman verið að brjóta undir sig minjarnar.
Svæði þetta er bæði stórbrotið og sagnaríkt af mannlífsverkum. Lokst var gengið um Brekkuskarðið upp á Stapann og spölkorn eftir gömlu Stapagötunni áleiðis að Grímshól, niður á gamla Keflavíkurveginn og eftir honum að upphafsstað. Í leiðinni var kíkt á leifarnar af herspítalanum, sem þarna var undir sunnanverðum Stapanum fram yfir stríðsárin.
Veður var með ágætum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Stapabúð.
Arnarhreiður – Djúpdalur – Hafnarsel
Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.
Í Fjallsendahelli.
Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.
Hlíðarendahellir.
Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.
Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.
Djúpudalaborg.
Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.
Hafnasel – vatnsstæði.
Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.
Þorlákshafnarsel – uppdráttur.
Hraunssel
Haldið var norður Leggjabrjótshraun vestan við Núpshlíðarháls og gengið í sólskini að Hraunsseli.
Hraunssel.
Selið er merkilegt fyrir að að hafa verið síðasta selið svo vitað sé sem notað var á Reykjanesi, eða allt fram til 1914. Á sumum kortum er það staðsett uppi á hálsinum, en er í norðan undir honum. Selið eru heillgar tóftir og stekkur. Ef vel er að gáð má sjá tóftir eldra sels á sléttlendi skammt norðar. Við þær er einng stekkur, nær jarðlægur. Hraunssels-Vatnsfell, fjallið gegnt selinu, dregur nafn sitt af því.
Núpshlíðarháls – gígur.
Vegna góðs veðurs var ákveðið að ganga einnig á Núpshlíðarhorn og skoða gígana, sem þar eru, en þeir munu vera einstakir í sögu jarðfræðinnar. Fyrir ofan hraunárfarvegina klofnuðu gígarnir eftir endilöngu fjallinu svo sjá má þversnið þeirra og þannig átta sig enn betur á hvernig þeir, og aðrir sambærilegir gjallgígar, hafa myndast upp úr móbergsfjalli, eins og víða má sjá, s.s. inn með austanverðum Núpshlíðarhálsinum. Gígarnir eru hver öðrum fallegri og alveg þess virði að gefa sér góðan tíma til að ganga á milli þeirra, virða þá fyrir sér og skoða hraunæðarnar og – traðirnar, sem frá þeim liggja niður hlíðina að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.
Keilir – uppganga
Gengið var á Keili í frábæru veðri. Lagt var af stað frá austurenda Oddafells, gengið að Höskuldarvallastíg og eftir honum yfir Höskuldarvallahraunið.
Keilir.
Stígnum að fjallinu var fylgt eftir Þráinsskjaldarhrauni. Á leiðinni upp var áð um stund í Fyrstu búðum, ofarlega í klettunum til að jafna þrýstingsmuninn og virða fyrir sér Hrafnafell (raninn norður úr fjalinu) og Keilisbörnin.
FERLIRsfarar voru fyrstir til að skrá sig í gestabókina á toppnum þennan sumardaginn fyrsta. Sjá mátti smáa og stóra flokka mjakast áleiðis að fjallinu niður á sléttlendinu, sem hópurinn síðan mætti á leiðinni niður. Keilir er 379 m hár og tiltölulega auðveldur uppgöngu.
Keilir – útsýnisskífa.
Niðurgangurinn er ekki síðri. Frábært útsýni er af fjallinu um norðan, austan og vestanverðan Reykjanesskagann. Þokan, sem hulið hafði topinn, vék frá stutt stund, í lotningu fyrir viljanum til að njóta.
Í bakaleiðinni var haldið til suðausturs yfir hraunið og eftir ónafngefnum stíg (Þórustaðastíg) austan Driffells yfir Höskuldarvallahraun að suðurenda Oddafells.
Gengið var austur með norðanverðu Oddafelli og skoðaðar hlaðnar kvíar og gamlar selsrústir, sem enn eru þar greinilegar, bæði utan í hraunkantinum og skammt austar, norðan í Oddafellinu.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Keilir. Rauðhólar fremst.