Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.
Ólafarsel.
Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.
Vörðufell – LM/krossmark?
Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.
Vindássel í Strandarheiði.
Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).
Eiríksvarða á Svörtubjörgum.
Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.
Girðingarrétt.
Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.
FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.
Krýsuvíkurheiði – Jónsbúð
Haldið var inn á Krýsuvíkurheiði frá gömlu réttinni undir Stóru-Eldborg.
Jónsbúð.
Heiðin er mikið fokin upp og sjá má stór rofabörð á stangli. Auðvelt er að ganga um heiðina og af henni er hið fallegasta útsýni, bæði til fjalla og hafs. Eldborgin tekur sig vel út sem og Geitahlíðin, Vegghamrarnir, Sveifluhálsinn, og heimafellin í Krýsuvík. Efst á heiðinni er stór fjárhústóft eða sauðakofi, stundum nefnd Jónsbúð eða Jónsvörðubúð. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.
Krýsuvíkurheiði – skjól.
Skammt suðsuðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt og vandlega hlaðið hús. Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið. Þá gæti Magnús hafa dundað sér við að hlaða húsið sem skjól á meðan hann fylgdist með sauðunum. A.m.k. tiplaði hvítur rebbi eftir neðanverðri heiðinni þegar FERLIRsfélagar sátu í tóftinni og virtu fyrir umhverfið.
Húsin eru, nákvæmlega á þessari stundu, hvorki á kortum né skráð í fornminjaskrár.
Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.
Sýrholt – Fornusel
Stefnan var tekin á Sýrholt. Norðvestan í horltinu eru gróðurtorfur og tóftir á þeim.
Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.
Um er að ræða a.m.k. tvö sel. Annað er á torfunum norðvestan í Sýrholtinu, tvær tóttir. Í norðnorðvestur frá því er annað sel, tótt í brekku og mjög gamall stekkur á holti. Bæði selin eru greinilega mjög gömul og því ekki að ástæðulausu sem þau eru nefnd Fornusel. Líklega er erfitt að ákvarða frá hvaða bæjum þau hafi verið gerð út. Á milli seljanna er hlaðinn stekkur á hafti í djúpri gjá, grasi gróinni. Svo virðist sem gengið hafi verið talsvert niður í enda gjárinnar og gæti þar vel hafa verið brunnur. Snór gæti hafa verið í henni fram eftir sumri.
Í bakaleiðinni var komið við hjá Tvíburum, tveimur vörðum við Flekkuvíkurselsstíginn. Ágætt veður hlémeginn við vindinn.
Á uppdrættinum hér til vinstri má sjá tóftirnar í holtinu neðst til hægri, stöku tóftina ofan við miðju og síðan stekkinn í gjánni miðsvæðis ofan við miðju. Uppdráttinn má einnig sjá stærri undir Uppdrættir á vefsíðunni.
Gangan tók um klukkustund.
Sel í Sýrholti (Fornasel).
Reykjanes – yst
„Reykjanesið er undarlegur skapnaður“, sagði Jón Trausti. En þrátt fyrir svartsýni hafa miklar vonir verið bundnar í gegnum tíðina við þennan útskaga, nýjasta hluta landsins.
Tóft á Háleyjabungu.
Gengið var frá Sandvík. Mikill reki er á sandorpnum köflum með ströndinni. Innan um rekann ber margt forvitnilegt fyrir augu. M.a. var þarna hluti úr síðu gamals árabáts. Byrðingurinn var negldur saman með koparnöglum.
Hátt bergið gapið við. „Það er eitthvað hrikalegt og seiðmagnað yfir þessari strönd sem enginn mun gleyma“, sagði séra Gísli Brynjólfsson þegar hann hafði gengið leiðina um 1980. Austast í urðinni undir Háleyjarbungu fannst lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði. Það var vorið eftir Skúlastrandið fógeta á Staðarmölum.
Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.
Í norðurhlíð Skálafells og þar norður af er hverasvæði það sem gefið hefur nesinu öllu nafn. Einn hveranna mun áður hafa verið nefndur Reykjanes-Geysir, en hann var breytilegur, hvarf um lengri tíma en tók sig upp á ný sem goshver 1918. Þá var hverinn einfaldlega nefndur 1918. Í kringum 1960 varð hann hreyfingarlítill, en við jarðskjálftann haustið 1967 tók hann að gjósa ákaflega, en það stóð ekki lengi. Nú er hann tær atkvæðalítill vatnshver með söltu vatni.
Valahnúkur og Valahnúksmöl.
Rétt norðan við Reykjanestána, sem er 78 metra há, skerts smávík inn í bergið, Blásíðubás. Þetta er falleg náttúrusmíð. Oftar en einu sinni hefur lífum sjómanna verið borgið í Blásíðubás þótt þar sé alldrei kyrr sjór.
Vestar er Valahnjúkamölin. Þar fyrir utan strandaði Clam 28. febrúar 1950.
Á skipinu voru 50 manna áhöfn. Af þeim fórst um helmingur er þeir reyndu að komast á land á skipsbátum. Hinum náðu björgunarsveitir.
Á syðri Valahnjúknum var reistur fyrsti viti landsins árið 1878. Hann skemmdist í jarðskjálfta 10 árum síðar. Leifar hans sjást nú neðan við hnúkinn.
Reykjanesviti.
Árið 1908 var núverandi Reykjanesviti byggður á Bæjarfelli. Hann blasti nú við göngufólkinu frá Valbjargargjá, en þaðan séð er hann eins og klipptur út úr landslagsmálverki.
Endað var með því að skoða hlaðna sundlaug í sprungu skammt ofan við Valahnjúkamalir. Þar lærðu Grindavíkurbörn sund um og í kringum 1930. Þá rann volgt vatn um gjána er blandaðist köldum sjónum. Mannvirkið er enn nokkuð heillegt.
Sundlaugin á Reykjanesi.
Sjálfkvíar
Gerð var leit að Sjálfkvíum á Kjalarnesi.
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg segir frá því að; „einu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.“
Ströndin á þessu svæði er við skorin og því erfitt að staðsetja Sjálfkvíarnar utan við Leiðhamra. Þá kom bargvættur skyndilega til sögunnar, Sigurður Einarsson, ábúandi á svæðinu. Hann sagðist vel þekkja til staðarins. Hann væri skammt vinstra megin við yfirgefinn sumarbústað er verið væri að endurbyggja ofan við ströndina. Um væri að ræða klof eða klettaskorning, sem tré hefði verið látið yfir og staðurinn notaður sem aftökustaður – að því er heimildir herma.
Eftir þessa lýsingu var auðvelt að staðsetja Sjálfkvíar. Þær eru ómerktar líkt og önnur merkisörnefni á Kjalarnesi.
Heitið Sjálfkvíar er þekkt víðar á Suðvesturlandi, t.d. í Leirunni við Garð og Innri-Hólm við Akranes og þá ekki alltaf í sömu merkingu orðsins. „Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni.
Á Leirunni mátti hafa sauðfé með nákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændur oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.“ Hér eru Sjálfkvíar notaðar í merkingu „sjálfhelda“.
Innri-Hólmur var einnig nefndur Ásólfshólmur. Þar bjó fyrstur írskur maður, Þormóður Bersason. Hann byggði líklega kirkju á staðnum. Árið 1096, þegar tíundarlögin voru sett, var þar kirkja. Illugi rauði, sem bjó á Hofsstöðum í Hálsasveit, skipti á búi, fé og konu við bóndann að Innra-Hólmi. Þetta féll konu hans, Sigríði svo illa, að hún hengdi sig í hofinu. Konan, sem hann fékk í skiptum, entist ekki lengi og hann kvæntist Þurðíði, systur Harðar Grímkelssonar, sem varð góður vinur mágs síns framan af eða þar til Illuga fékk nóg af yfirgangi Harðar. Eitt sinn lenti Hörður við 23. mann í Sjálfkvíum í landi Illuga og smöluðu Akrafjallið. Illugi safnaði liði og barðist við Hólmverja á meðan þeir slátruðu fénu og fluttu á skip. Svo sagði a.m.k. í Harðar sögu og Hólmverja, 28. kafla.
Frábært veður. Gangan tók 10. mín.
Kort af svæðinu frá 1903.
Húshólmi á forminjadeginum
Fornminjadagurinn var genginn í garð. Lagt var af stað úr bænum í roki og rigningu, en þegar komið var að Húshólmanum í Krýsuvík brosti sólin sínu blíðasta og veðrið gat ekki verið betra.
FERLIRsfélagar í Húshólma.
Sumir taka ávallt mið af veðrinu út um stofugluggann, en aðrir hafa lært að veður á einum stað er ekki endilega sama veðrið og annars staðar.
Í Húshólma tók Magnús, fornleifafræðingur, Kristinsson á móti FERLIRsförum og gekk með þeim um hólmann. Skoðuð var m.a. fjárborgin, Kirkjuflötin, sem sem er gamall kirkjugarður, líklega frá 10. og 11. öld. Þá var gengið eftir bæjargarðinum, sem bendir til að stórbýli hafi verið á svæðinu áður en Ögmundarhraun rann þar yfir landið árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur hins vegar að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85).
Kirkjulág.
Í Kirkjuláginni var skoðuð tótt gömlu Krýsuvíkurkirkju, hleðslurnar þar sem og bæjartóttirinar ofar í hrauninu. Þá var skoðaður skáli, sem hraunið hafði runnið að og í kringum, en hann síðar fallið saman. Við það myndaðist jarðfall og upp úr því stóðu burðarsúlurnar. Enn má sjá holur þeirra í tóttinni.
Á bakaleiðinni var skoðaður stekkur og fleiri minjar með hraunröndinni að norðanverðu. Gamlar sagnir eru um selstöðu Krýsuvíkurbæjanna í Húshólma fyrr á öldum.
Utan við hólmann er gamalt gerði í hraunkantinum.
Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.
Magnús var vel heima í sögu og umhverfi Húshólma. Hann lýsti fyrir þátttakendum því sem fyrir augu bar, kynnti möguleika svæðisins út frá fornminjalegu tilliti og leiddi hópinn frá einu minjasvæðinu yfir í annað.
Þjóðminjasafnið mætti gera meira af því að upplýsa áhugasamt fólk um einstök minjasvæði, en ástæða er til að þakka fyir þetta framlag þess, sem var hið mætasta.
Heimild m.a.:
-J.J. ´81.
Upplýsingaskilti í Húshólma.
Bæjarfell – Arnarfell – Dýrfinnuhellir
Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.
Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.
Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.
Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.
Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.
Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.
Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.
Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.
Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.
Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.
Dýrfinnuhellir.
Hvaleyri – rúnasteinar
Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.
Flókaklöpp.
Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bætt við fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.
Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum.
Áletrun á Flókaklöpp.
Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: „Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri“. Síðan segir hann: „Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.“
Flókaklöppin í dag.
Skógfellavegur
Lagt var af stað frá Vogum og genginn 16 km langur Skógfellavegurinn til Grindavíkur.
Skógfellavegur.
Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur og Vogavegur (notað af Grindvíkingum). Hluti hans var nefndur Sandakravegur eða Sandakradalsvegur. Skógfellaleiðin lagðist af um 1920 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur. Björn Gunnlaugsson skráði Sanakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfir Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr.
Gengið var framhjá Snorrastaðatjörnum, Nýjaseli, yfir Brandsgjá og að Litla-Skógfelli. Bæði er yfir grófara hraun að fara og gróið, en gatan er greið.
Skógfellastígur.
Leiðin frá Litla-Skógfelli að Stóra-Skógfelli er tiltölulega slétt helluhraun og er gatan mörkuð djúpu fari langleiðina. Hún er auk þess ágætlega vörðuð. Áður en komið er að fellinu er vörðubrot vinstra megin (en annars eru vörðurnar hægra megin á þessari leið). Vörðu ber við loft á hæð í suðri. Þarna liggur Sandakravegurinn áleiðis yfir að Slögu.
Vestan við Stóra-Skógfell taka Sundhnúkarnir við, en vestan þeirra hallar undan að Hópsheiði og áfram niður í Grindavík.
Veður var frábært, sól og hiti, svo og útsýni á leiðinni. Gangan tók nákvæmlega 4 klst.
Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
Skógfellavegur.
Sýslusteinn – Keflavík – Bergsendar
Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.
Krýsuvíkurbjarg.
Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.
Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.
Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.
Krýsuvíkurhellir.
Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.
Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.
Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.
Keflavík.
Strandarheiði – Selvogsheiði
Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.
Ólafarsel.
Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.
Vörðufell – LM/krossmark?
Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.
Vindássel í Strandarheiði.
Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).
Eiríksvarða á Svörtubjörgum.
Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.
Girðingarrétt.
Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.
FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.