Stafnes

Gengið var frá Sandgerði að Básendum undir leiðsögn Reynis Sveinssonar, forstöðumanns Fræðaseturs Sandgerðis, björgunarsveitarmanns, Lionsmanns og formann safnaðarnefndar Hvalsnessóknar, bæjarfulltrúa o.fl. Reynir kunni skil á öllu í nútíð og þátíð, auk þess sem hann hafði skoðun á hverju, sem fyrir augu bar.

Hvalsnes

Á Hvalsnesi með Reyni Sveinssyni.

Gengið var um Sandgerðisfjörur, Melgerðisfjörur (hvítar sandbaðstrendur), Másbúðarhólma, Fuglavík og skoðuð Hvalsneskirkja. Í kirkjunni lýsti Reynir kirkjum á staðnum frá öndverðu, viðkomu Hallgríms Péturssonar, letursteini Steinunnar dóttur hans og smíði þeirrar kirkju, sem nú stendur í Hvalsnesi.
Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887.
Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Stafnes

Á Stafnesi.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Þá gengið um Stafnes. Mikið er um minjar á svæðinu.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var höfuðból að fornu. Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum. Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum.
Ótrúlega mikil og margbrotin saga af mannlífi fyrri alda birtist göngufólki á ekki lengri leið. Þótt Miðnesheiðin sé ekki há eða löng urðu t.d. 25 manns úti á henni á árunum 1860-1890.
Veður var frábært, sólskin og logn – Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að „Röskun varði refsingu“. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn „á röngunni“. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Vífilsstaðasel

Til er lýsing af Vífilsstaðaseli í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1985.

Vífilsstaðasel

Stekkur í Vífilsstaðaseli.

Í Árbókinni stendur m.a. (bls. 34): „Nú sést vegur, sem liggur upp Vífilstaðahlíðina, svokallaður línuvegur. Ef þessum vegi er fylgt upp hlíðina, er innan stundar komið að rústum Vífilstaðasels, norðan vegar (vinstra megin). Eru þær allgreinilegar. Við þetta sel er kenndur Selás þar rétt hjá“.
Hópurinn gekk eftir lýsingunni um Vífilstaðahlíðina, um Ljóskollulág og Grunnuvatnaskarð, þ.e. svæðið norðan línuvegar (vinstra megin). Ekkert fannst, sem gæti hafa verið sel.
Þegar þátttakendur komu hins vegar aftur að upphafsstað á línuveginum blasti selið við, sunnan hans (hægra megin). Það er í kvos í u.þ.b. tveggja mínútna gang frá veginum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um er að ræða nokkuð stórt sel með mörgum einingum. Ofan þess blasir Selásinn við, slétt klapparholt. Stekkur er á holtinu austan við selið. Stígur virðist liggja yfir hálsinn og niður að Grunnuvötnum hinum syðri enda ákjósanlegt vatnsstæði. Gróið er í kringum vötnin. Ofan þeirra blasir Arnarbæli við.
Við sjónarrönd, á Hjöllunum, sést í Vatnsendaborgina. Til suðurs er ágætt útsýni yfir Búrfellsgjá, Búrfell, Valahnúka og Helgafell.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Innstidalur

Gengið var Sleggjubeinsskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Húsmúla og inn Innstadal að Vörðu-Skeggja. Farið var yfir hrygginn niður í Marardal, gengið þaðan í Múlasel (sæluhús) í Engidal og meðfram Húsmúla með viðkomu að Draugatjörnum.

Innstidalur

Innstidalur.

Innstidalur er innilyktur af Henglinum, grasi gróinn að miklu leyti og fallegur umgöngu. Innst í honum er hver og heit laug. Hverinn er einn af mestu gufuhverum landsins. Útilegumannahellir er í klettunum.
Allnokkru norðar niðurundir Skeggja er Marardalur. Dalur þessi er umluktur hömrum á alla vegu, gróðursæll og marflatur í botninn eftir framburð lækja úr fjallinu. Í honum er haglendi gott enda notaður til beitar fyrir geldneyti hér áður fyrr. Innst í dalnum er hellir, en um hann má lesa í útilegumannasögum. Grjótgarður, sem hlaðinn hefur verið fyrir eina sæmilega útganginn úr honum sunnanverðum, ber vitni um þetta. Þetta eru nautaréttir, sem lögðust af 1860. Syðst gengur þröngt gil vestur úr dalum.

Engidalur

Engidalur – kort.

Engidalur er grösugur og mýrlendur. Úr norðri kemur Engidalshvísl, sem er samsafn lækja úr vesturhlíðum Hengils. Hana er oftast hægt að stikla. Við suðurenda Þjófahlaups, vestan Engidalshvíslar er nýlegt hús sem Orkuveita Reykjavíkur á. Það er til afnota fyrir gesti og gangandi sem gera vilja stuttan stans á leið sinni um svæðið. Austan árinnar, langleiðina uppi við Hengil, rís upp úr grónu landinu sérkennilegur klettadrangur sem minnir á risavaxna höggmynd af skepnu einni mikilli og er vel þess virði að staldra við og skoða.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

Leiðin lá norður með Þjófahlaupi eftir dal eða lægð vestan undir Hengli. Við Draugatjörn er sæluhúsatótt. Elstu heimildir um hana eru frá 1703. Þá er þar Húsmúlarétt vestan tjarnanna, gömul rétt hlaðin úr hraungrýti. Mikill draugagangur var jafnan í og við sæluhúsið og mun vera enn.Í leiðinni var litið á Hellukofann á Hellisheiði, við gömlu þjóðleiðina. Hann var hlaðinn 1830 og stendur enn.
Frábært veður – Gangan var löng, en eftirminnileg – 4 klst og 44 mín.

Marardalur

Marardalur.

Skansinn

Komið við í Bessastaðarstofu og húsakynnin skoðuð hátt og lágt, bæði minjarnar í kjallara svo og sögufrægir munir hið efra. Staðarhaldari fræddi viðstadda um fornleifauppgröftinn á Bessastöðum, er kallaði á sínum tíma á allskyns vangaveltur um álitamál, sýndi afraksturinn undir stofunni og sagði frá húsdraugnum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í Álftanessögu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson er m.a. fjallað um Skansinn. Þar segir: „Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum og þar var búið til ársins 1927. Bæjarhúsin stóðu við Seiluna, vík sem gengur inn í Álftanes norðanvert. Þar var einnig virki fyrr á tímum.

Þekkt er kvæðið um Óla Skans, Ólaf Eyjólfsson, sem bjó í Skansinum seint á nítjándu öld. Erlendur Björnsson lýsir honum í endurminningum sínum, Sjósókn. Óli var vinnumaður hjá Erlendi á Breiðabólstöðum og móður hans og „liðlegur“ sjómaður. Óli Skans var meðalmaður, grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt en allhátt. Hann var með ljósleitt hár, slétt og sítt, skipti í miðju og var alrakaður. Hakan var óvenju breið og hann var lotinn í herðum.

Skansinn

Skansinn.

Hann var óvenjulegur þrifnaðarmaður, kátur og fjörugur en enginn söngmaður. Um hann er þó sungið enn í dag, en yfirleitt farið rangt með vísuna. Rétt mun hún vera svona:

Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Garður við Skansinn

Garður við Skansinn.

Síðasti ábúandinn í Skansinum var Gísli Jónsson listmálari. Skansinn var þá í eigu Einars Benediktssonar skálds. Gísli var blásnauður en mjög listfengur og eftir hann liggur fjöldi merkra málverka. Árið 1890 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni ASÍ. Á meðan Gísli bjí í Skansinum valdi hann oft myndefni af Álftanesi. Ljósmóðir sem sat yfir fæðingu átta barna Gísla og síðari konu hans, Bjargar Böðvarsdóttur, hefur sagt frá þvía ð þau Gísli og Björg hafi haft fjöruþang til upphitunar og búið við bjargneyð og einangrun. En málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin, sem hér  fylgir af Skansinum, sem Gísli gaf Björgu konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.“

Skansinn

Skansin og hús Óla Skans.

Sveinn fræddi viðstadda um stífluna við Bessastaðatjörn og hina hugvitsamlegu einstreymisloku, sem þar var sett til að jafna og halda vatnsyfirborði tjarnarinnar sem jöfnustu. Þá voru skoðaðar stríðsminjar á norðanverðu Nesinu, gamla steinhleðsluhúsið á Breiðabólstað o. fl.
Annars er ganga með strönd Álftanessins bæði ákjósanleg og áhugaverð. Fuglalífið er mikið og fjölbreytt, auk þess sem fjöruborðið býður upp á hinar ýmsustu kræsingar.
Veður var ágætt – Gangan tók 1 kls og 11 mín.

Heimild:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álftanessaga, kápa – Þjóðsaga 1996
-Sveinn Erlendsson

Skanskinn

Skansinn.

Grótta

Gengið var um Seltjarnarnes umhverfis Bakkatjörn og skoðaðir hringirnir á túninu, sem sjást vel úr flugvél, einkum er sól er lágt á lofti.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. 

Þarna er um nokkra misstóra hringi að ræða. Á teiknuðu korti af Seltjarnarnesi frá árinu 1802 er einn þeirra nefndur Nesborg. Stekkur er í holtinu vestan Valhúsahæðar og ekki er ólíklegt að sel hafi verið þar áður frá öðrum Reykjavíkurbænum og dragi nesið nafn sitt af því. Hitt var í Ánanaustum og var nefnt Reykjavíkursel. Seltjörn sést ekki lengur, en þó má grilla í umgjörð hennar utan við ströndina milli Suðurness og Gróttu. Mikið landrof hefur orðið þarna á síðustu öldum.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547-52. Nafnið þykir fornlegt og benda til þess að þar hafi lengi verið búið. Á fyrri árum stóð bærinn

Grótta ekki á eyju heldur á breiðu nesi. Árið 1703 er talin hjáleiga frá Nesi. Er jörðin alla öldina nefnd meðal átta bestu jarða Framnessins.

Grótta

Grótta.

Í Básendaflóðinu 1799 varð Grótta að eyju og var jörðin talin óbyggileg eftir það. Kveikt var á fyrsta vitanum í Gróttu þann 1. september 1897 og síðan var núverandi viti reistur árið 1947 og hefur lýst sjófarendum æ síðan.
Landslæknisembætti Íslands var stofnað með konunglegri tilskipan árið 1760. Í framhaldi af því var Nesstofa byggð 1761-63, sem læknissetur, lyfjaverslun og vísir að fyrsta læknaskóla landsins. Landlæknar gegndu þá einnig uppfræðslu yfirsetukvenna og tilvonandi læknisefna.

Grótta

Grótta.

Landlæknar og lyfsalar sátu um lengri tíma í Nesi og meðal annars fyrsti apótekarinn, Björn Jónsson. Oddur Thorarensen var síðastur lyfsala í Nesi en hann flutti apótekið með sér til Reykjavíkur árið 1834. Eftir það var Nes í einkaeign fram til 1975 er ríkið keypti húsið og gerði að lækningaminjasafni.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið, sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur.

Elliðarár

Elliðaár 1946.

Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Eyjarnar Örfirisey og Engey voru í Seltjarnarneshreppi árið 1703 og Viðey bættist við seinna. Margar jarðir voru smám saman teknar undir Seltjarnarneshrepp og kom hluti jarðarinnar Reykjavík þar fyrst ásamt Arnarhóli og Örfirisey. Landamörk milli jarða í Seltjarnarneshreppi hinum forna hafa síðan orðið að mörkum sveitarfélaga og má í því sambandi minna á mörk Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar. Þau munu að verulegu leiti markast af landamerkjadómi, sem dæmdur var um 1600 um mörk Víkur annars vegar og Eiðis og Lambastaða hins vegar.

Reykjavík

Seltjarnarnes 1943.

Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og 9 áttæringa, en eiginlegt upphaf þilskipaútgerða hófst 1883-84. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884-85 eignuðust Seltirningar 8 skonnortur. Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskbyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu. Ástæður þess, að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi, eru efalaust ýmsar, en stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Nesinu – áletrun.

Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo: Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað. Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.

Seltjarnarnes

Útsýni af Seltjarnarnesi.

Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús; fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Loddu á Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
Í Örfirisey spilltist land svo af sand- og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var farið að huga því að gera skipulagsuppdrætti að landi vestan í Valhúsahæð, þ.e. landi Bakka og Bygggarðs. Var þetta land í eigu Neskirkju og skyldi það selt undir íbúðarhús til fjáröflunar fyrir kirkjuna. Flestir fundir hreppsnefndar vour um þetta leyti haldnir á heimili oddvita i Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppi. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt skiptingu hreppsins í tvo hreppi og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu í nóvember 1947 sem tók gildi á áramótum sama ár.

Heimild m.a.:
-http://www.seltjarnarnes.is/

Seltjarnarnes

Brunnur á Seltjarnarnesi.

Ögmundastígur

Farið var um Hrauntungu í Kapelluhrauni og leitað fjárhella, sem þar eiga að vera.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Í Tungunni fannst fjárskjól hlaðið fyrir hellisskúta og skjól í jarðfalli, sem hlaðið hafði verið fyrir. Stórt birkitré huldi innganginn í skjólið, sem mun hafa verið afdrep fyrir smala, en þegar inn var komið blasti við talsvert rými og miklar hleðslur.

Þá var haldið í Krýsuvík og gengið norður með vestanverðu Krýsuvíkur-Mælifelli, í kantinum á Ögmundarhrauni, framhjá Drumbi og inn í Bleikingsdal. Til baka var gengið með læk í gegnum hraunið. Staldrað var við hjá Ögmundardys, en eins og flestum er kunnugt lét Krýsuvíkurbóndi (sumir segja Njarðvíkurbóndi) drepa og síðan dysja vinnumanninn Ögmund eftir að hafa svikið hann um að mega eiga dóttur hans ef hann gæti rutt braut í gegnum hraunið innan tilskilins tíma.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Einungis brot af hinum gamla Ögmundavegi er eftir í hrauninu. Nýr vegur, Hlínarvegurinn, var lagður ofan í hann yfir Ögmundarhraun á fyrri hluta 20. aldar.
Loks var gengið yfir Tófubruna vestan Latfjalls, upp í gígana og áfram yfir í Stóra-Hamradal. Þar undir hömrunum er gömul rétt, sem notuð var til rúninga á öldum áður, skv. upplýsingum Jóns Guðmundssonar frá Skála.
Veður var með miklum ágætum.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi undir leiðsögn Helga Gamalíassonar í ágætisveðri.

Staðarvör

Staðarvör.

Helgi, sem er fæddur og uppalinn á Stað, er margfróður um svæðið, sýndi þátttakendum og lýsti m.a. rústum kóngsverslunarinnar ofan við Búðarsand, aðsetri Hansakaupmanna og Englendinga, Húsatóttir, gömlu bryggjuna, Stóra-Gerði, Litla-Gerði og Kvíadal. Hann lýsti mannlífinu í Staðarhverfi fyrr á öldum, ströndum og björgun áhafna báta og skipa, sem leituðu upp að ströndinni eða fórust þar fyrir utan. Þá sýndi hann gamla brunninn við Hiyrfla, við Stóra-Gerði og við Stað (merkilegt, en hulið mannvirki frá 1914), lýsti gömlu bæjarhúsnum á Stað, sýndi kennileiti í kirkjugarðinum, gömlu bæina við Húsatóftir, að Dalbæ, Vindheimum og Hamri, gamla veginn í Staðarhverfi, naust og flórgólf ofan við Staðarbót, nokkur hundruð ára ára gamlan keng á flæðiskeri vestan bótarinnar, fiskibyrgi á Stöllum, lýsti hellum innan við Sundvörðuhraun og í Ögmundarhrauni (verða leitaðir uppi síðar) o.s.frv. o.s.frv.

Staður

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

Helgi sagði að einn hóllinn í Staðartúninu, ofan við Hundadal, innihéldi gamlan bæ, Krukku, sem fór í eyði þegar sandfokið ætlaði allt að drepa. Bærinn væri væntanlega nokkuð heillegur í hólnum og því væri forvitnilegt að grafa hann út til að kanna hvort þar væri eitthvað áhugavert að finna.
Mikil byggð og mannlíf var í Staðarhverfi fyrr á öldum. Hverfið var eitt af þremur byggðakjörnum Grindavíkur, sem stundum hefur verið nefnd Greindarvík vegna hinna mörgu mannkostamanna og -kvenna, sem þar hafa alið manninn – oftast þó í kyrrþey fyrir sjálfa sig og samfélagið.

Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum brunn á Stað.

Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja. Hún hýsir nú leikskóla bæjarins þar sem lagður er grunnur að góðum Grindvíkingum.
Í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgarnum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Helgi sagði að sú saga hafi gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.