Keflavík

Ægir Karl Ægisson fjallaði um örnefnið Keflavík.

“Þegar orðið kefli kemur fyrir í örnefnum eins og í Keflavík er kefli vanalega talið merkja rekaviðardrumbur. Keflavík myndi þá standa fyrir víkina þar sem er mikið af rekakeflum. Það þykir mér nokkuð skringilegt að kenna Keflavíkina við rekakefli þar sem hún er hreint ekki þekkt sem góð rekafjara. Náttúruaðstæður kunna að vísu að hafa breyst og uppsafnaður reki kynni að hafa verið í fjörunni þegar landnámsmenn komu hingað og væri það skásta skýringin á nafngiftinni samkvæmt hefðbundinni túlkun.

Keflavík

Duushús og tóftir Keflavíkurbæjarins.

Ég get þó hugsað mér aðrar skýringar, .s.s. að þarna séu annars kona kefli en rekaviðarkefli eða að nafnið sé afbökun á öðrum orðum. Kefli gæti verið afbökun á kapall, þ.e. hestur sbr. Kaplaskjól. Upp af Keflavíkinni hefðu verið geymdir hestar og hún þá verið kennd við þá og köluð Kaplavík, sem hefði síðan ummyndast í Keflavík. Þá hefur mér dottið í hug að nafnið Keflavík megi rekja til enskra duggara, sem bundið hefðu skip sín vandlega í víkinni og því kennt hana við þau digru reipi, sem til þurfti, nefnilega “Cable”-vík. Því miður er nafnið of gamallt til þess að þessi skemmtilega tilgáta fæst staðist.

Reykjanesskagi

Gamalt örnefnakort af Reykjanesskaga.

En nú hefur mér nýlega komið í hug ný skýring, sem eins og annað nýfengið er nú í uppáhaldi hjá mér. Ég var að spjala við Sigrúnu forstöðukonu byggðasafnsins um hentugar hafnir fyrir víkingaskip hér í nágrenninu. Þó að Keflavík hefði þótt skásta legan hérna austan megin á Rosmhvalanesinu þá væri Njarðvík hentugri höfn fyrir víkingaskip. Þar er nokkuð skjól og þar ætti að vera tiltölulega auðvelt að draga skip á land. Þá væri engin furða að hún væri kennd við sjálft siglingagoðið Njörð.
En svo datt mér í hug að það mætti draga skip upp Grófina, eftir lækjarfarveginum, sem þar var. Sigrún sagði þá að þar kynnu þessi kefli að hafa komið við sögu. Mikið rétt. Keflin gætu hafa verið stokkar eða hlunnar, sem skip voru dregin yfir upp Grófina, upp yfir flóðmörk. Það hefði skipið verið öruggt fyrir sjó að vetrarlagi og haft nokkuð skjól fyrir vindi af Berginu ef ekki hreinlega var reist yfir það bátahús eða naust. Keflavík væri þá víkin þar sem keflin til að draga skip á eru.”Keflavík
Rétt er að geta þess að a.m.k. þrjár Keflavíkur eru á Reykjanesskaganum; vestan við Hlein í  (Þorláks-)Hafnarbergi, neðan Klofninga í Krýsuvíkurhrauni og vestan Grófarinnar við Stakksfjörð. 

Í Keflavík.Á Vísindavef Háskóla Íslands fjallar Svavar Sigmundsson um örnefnið „Keflavík. Þar segir:

Keflavík

Í Keflavík.

„Nafnið Keflavík er vafalítið dregið af orðinu kefli í merkingunni ‚rekaviðarbútur‘.
Allir kannast við Keflavík sem nafn á þéttbýli á Reykjanesi en Keflavíkur eru víðar á landinu, ein á Hellissandi á Snæfellsnesi, önnur vestan við Rauðasand í Vestur-Barðastrandarsýslu, þriðja við Galtarvita í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sú fjórða í Fjörðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Alls staðar er uppruninn hinn sami“.

-Ægir Karl Ægisson – safnvörður við Byggðasafn Reykjanesbæjar.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=51096

Keflavík

Keflavík neðan Herdísarvíkurhrauns.

Skógarkot

Það var grenjandi lárétt rigning í bænum þegar lagt var af stað. Þegar komið var á Þingvelli skein sólin á Þingvallahraunið og nálæg fjöll. Frábært veður. Ætlunin var að ganga í Hrauntún og Skógarkot frá þjónustumiðstöðinni að Skógarkoti og rifja upp búsetusögu og mannlíf á svæðinu fyrr á öldum sem og náttúrufarið. Í Skógarkoti eru ríkulegar minjar í fallegu umhverfi. Um tímamóta FERLIRsferð er að ræða því ekki hefur fyrr verið farið svo langt út fyrir kjörlendið. Svo gæti farið að þetta yrði upphafið að „útrás“ FERLIRs um aðra merkisstaði utan Skagans og þar með formleg „útskrift“ af æfingasvæðinu.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Í tilefni af ferðinni var sett inn ný krækja á vefsíðuna, www.thingvellir.is. Á honum er bæði kort og ýmiss fróðleikur um Þingvelli, einn helgasta stað þjóðarinnar frá árinu 930.

Þingvallahraun er 9000 ára um þessar mundir, en Sandey út í Þingvallavatni er einungis um 2000 ára gömul svo ýmislegt hefur gengið þarna á um langan tíma. Fyrir um 9000 árum, þegar hraunin runnu frá Skjalbreið og gígunum ofan við Hrafnabjörg er mynduðu Þingvallahraunið hefur svæðið verið nokkurn veginn sléttlent með hraunhólum og –hæðum. Síðan hefur landið sigið að hluta á misgengissprungu, sem liggur um landið frá SV til NA. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem sjá má á Atlantshafshryggnum neðansjávar. Landið hefur gliðnað í sigdældinni, en reikna má með að um hálf milljón ár séu liðin frá því að Almannagjá að vestanverðu og Hrafnagjá að austanverðu lágu hlið við hlið.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Þegar litið er glögglega á umhverfið má vel sjá þau frumöfl, sem skópu Ísland í upphafi, þ.e. sprungukerfið, jarðeldarnir og jökulrofið. Áhrif ísaldarjökulsins má t.d. sjá á Henglinum, Hrafnabjörgum, Ármannsfelli og Súlunum.

Götur, vegir og slóðar liggja svo til um allt hraunið, bæði þvert yfir það og á milli bæja og vatnsins. Þarna er kirkjugata, veiðigata og konungsvegur. Orðið stígur á “Þingvallamáli” er einungis ruðningur eða brú yfir gjá. Skógarkotsgatan og Gjábakkavegur annars vegar voru fyrstu akvegirnir í gegnu hraunið til austurs og Nýja Hrauntúnsgatan og Réttargata hins vegar voru leiðin noður á land um Uxahryggi. Þannig lágu “allir vegir um Skógarkot” hér á landi líkt og allir vegir lágu til Rómar enn fyrrum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Þingvellir hétu áður Bláskógar. Sennilega hafa þeir dregið nafn sitt af blágresinu, sem enn er víða áberandi innan um kjarr og lyng í hrauninu. Þingvallavatn hét þá Ölfusvatn (Ölfisvatn), sbr. Ölfusá, en eftir að þinghald varð á Völlunum breyttist nafnið og nú eru þau gömlu að mestu gleymd, líkt og flest gömlu örnefnin á svæðinu. Reyndar eru til miklar örnefnalýsingar, en fáir vita nú hvar þau örnefni eru. Örnefnin höfðu annan tilgang hér áður fyrr en fólk ímyndar sér nú á dögum. En samt er hann ekki svo frábrugðin þegar grannt er skoðað. Maður, sem talar við annan í farsíma, getur þurft að staðsetja sig til að gefa til kynna hvar hann er staddur. Á sama hátt þurfti bóndinn t.d. að geta staðsett kýr eða kindur við eða nálægt tilteknum stað þegar á þurfi að halda, öðrum til glöggvunar.
Utan þingstaðarins forna tengjast þær flestar gömlu eyðibýlunum, Hrauntúni, Skógarkoti og Vatnskoti þar sem enn má sjá ummerki mannvistar fyrir tíma vélvæðingar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Byrjað var á því að ganga frá þjónustumiðstöðinni (sem nú er ekki nema tóftirnar) að Leiragötu (1.5 km) um Leiragjá. Gjáin er bæði breið og falleg á kafla, en annars er hún eins og aðrar gjár á Þingvöllum, djúpar. Leiragata liggur frá Leirum sunnan við miðstöðina og liðast í gegnum hraunið. Smjörgras var áberandi við götuna. Hún er vel greinileg og hefur verið gerð greinilegri á síðustu árum eftir að byrjað var á því að greina aftur gömlu göturnar og vegina í hrauninu. Sumar göturnar eru ekki varðaðar, enda einungis farnar í ákveðnum tilgangi, s.s. með fé eða til að sækja vatn. Aðrar eru greinilegri og hafa jafnvel verið lagfærðar. Þær eru varðaðar, enda oft um þjóðleiðir að ræða. Þannig var Prestastígur með austanverðu og ofanverðu hrauninu notaður þegar Skálholtssbiskupar voru á leið vestur á land og Skógarkotsgata og Gjábakkavegur voru sýsluvegir, sem notaðir voru til að greiða t.d. götu vermanna á leið þeirra yfir hraunið.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið var í gegnum Þrívarðaskóg og yfir á Nýju Hrauntúnsgötu, sem hefur verið endurgerð sem reiðvegur. Hún liggur bæði til norðurs og til suðurs vestan við Skógarkot. Frá gatnamótunum er stutt eftir að Hrauntúni. Þegar stutt er eftir að bænum sést fallega hlaðin varða á hraunhól á vinstri hönd, Litlavarða. Einfaldir háir garðar umlykja túnin. Blæs vel í gegnum þá sumsstaðar. Hrauntún er sunnan Sleðaáss. Halldór Jónsson reisti þar bú 1830 á rústum kots, sem talið er hafa farið í eyði í fyrri plágunni. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir til 1934. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli.

Skógarkot

Skógarkot – teikning 1913.

Sagt er að Halldór bóndi í Hrauntúni, sem hlóð garðana, hafi verið ættaður norðan af landi og taki hleðslulagið mið af því, sem hann var vanur og þekkti. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa varðað hinn gamla Kjalveg. Garðarnir umhverfis Skógarkotið eru hins vegar mun breiðari og taka mið af lagi sveitarinnar. Hrauntúnsgata liggur þarna sunnan garða. Réttargatan er norðan við bæinn. Fallega hlaðin heimtröðin liggur að henni frá bæjarstæðinu. Austan bæjarins eru tóftir útihúsa. Sunnan bæjarins er hlaðin hlaða og brunnurinn er greinilegur í kvos vestan hennar. Ofan og norðan við hann er flórað gólf undan timburhúsi. Fallegri fjallasýn frá bæ er vandfundin, nema ef vera skyldi frá Skógarkoti.

Hrauntún

Hrauntún – örnefni.

Þá bættist Páll Kolka í hópinn. Hann er starfsmaður Þjóðgarðsins, en garðurinn gengst fyrir gönguferðum með leiðsögn um Þingvallasvæðið á laugardögum í sumar. Ætlunin er m.a. að fara síðar í slíka ferð að Þórhallsstöðum skv. auglýstri dagskrá.

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar.

Gengið var áleiðis í Skógarkot um Sandhólaveg og Sandhólastíg yfir Sandhólagjá. Ljósberi var áberandi við götuna. Sandhólavegur er ekki varðaður og er líkt farið með honum og Leiragötu. Á leiðinni upplýsti Páll að árið 1789 hafi hækkað í vatninu og Vatnskot, á norðurbaka Þingvallavatns, hafi þá að hluta farið undir vatn, en enn má sjá garð í vatninu á um 2 metra dýpi. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Símon D. Pétursson, smiður, og Jónína Sveinsdóttir settust þar að 1912 og bjuggu lengst allra í þjóðgarðinu, til 1966. Símon þótt mikill hagleiksmaður.

Þingvellir

Vatnskot við Hallsvík.

Árið 1930 hafi Þingvellir verið gerðir að þjóðgarði og þar með hafi búskapur og flestir bæir skömmu síðar þar lagst af. Bóndinn í Skógarkoti hafi reyndar flutt sig niður að Hallsvík, reist þar hús og ætlað að lifa af vatnabúskap, en það hafi orðið skammlíft. Reyndar hafi Þingvallavatn lítið verið nýtt á öldum áður, þrátt fyrir nægan fisk.
Blágresi var víða með götunni. Páll sagði að túnin við bæina hefðu verið ræktuð með því að mokað var út úr útihúsum og skítnum dreift um mosavaxna hraunhóla og –lægðir. Þannig hefðu þau verið stækkuð smám saman. Reyndar væru þau hvergi mjög stór, en skógurinn hefði bætt upp beitina. Þarna hafi jafnan verið snjólétt og féð geta gengið í skóginn. Fjármargt hafi verið í kotunum. Um 1703 hafi t.d. verið um150 ær í Skógarkoti, en undir það síðasta hefur fjöldinn eflaust verið mun meiri, líkt og á öðrum bæjum í Þingvallasveit.

Skógarkot

Skógarkot – örnefni.

Í Skógarkoti hafi verið strjál búseta og oft á tíðum hafi það verið sel frá Þingavallabænum.
Þegar komið var í Krókhóla var staðnæmst og Páll útskýrði örnefnið; krókóttir hraunhólar að ofanverðu. Lyng og kjarr var í hraunhólunum á móti suðri, en við norðrinu gapti mosinn.
Beygt var til hægri þegar komið var inn á Nýju Hrauntúnsgötu og síðan austur Skógarkotsveg. Af honum var gengið inn á heimtröðina í Skógarkoti. Veggirnir voru veglegir og hafa staðið nokkuð vel því þeir hafa ekki verið endurhlaðnir eftir að búskap lauk þar. Heimtröðin liggur í beygju upp að bæjarhólnum. Margt er líkt með heimtröðinni að Skógarkoti og Stóra-Gerði í Staðarhverfi í Grindavík, báðar tilkomumiklar og fallega formaðar.

Þingvellir

Skógarkot – fjárhús og hlaða.

Í Skógarkoti eru greinilegar rústir þessa býlis, undir Sjónarhóli. Vatn þraut oft í brunninum í túninu. Þarna var búið til 1936.
Páll dró upp teikningu af útliti bæjarins, eins og hann leit út undir það síðasta, og sýndi þátttakendum. Með því var auðveldara að glöggva sig á hvernig umhorfs hafi verið í Skógarkoti á þeim tíma miðað við aðstæður. Blágrsi hafði náð að “fótfesta” sig í túninu við heimtröðina. Suðvestan við heimtröðina að Skógarkoti liggur Vatnskotsgata og Veiðistígur til suðurs, að vatninu, annars vegar að Vatnskoti og hins vegar að Öfugsnáða, en þaðan náði veiðiréttur Skógarkots að Hallvík í austri.

Skógarkot

Skógarkot.

Bæjarhúsin hafa staðið uppi á grónum hól. Suðvestan við þau sést enn verklega hlaðin hlaða. Tóftir útihúss eru ofar. Vel hlaðnir garðar eru allt í kringum heimatúnin. Austan við túngarðana eru Þórhallastaðir við Ölkofrahól og enn ofar í norðraustur er Hellishæð. Þar er fjárhellir.
Áhrifamikil saga tengist einum ábúandanum á Þórhallsstöðum og brugggerð hans.

Ölkofri

Ölkofri – Þórhallastaðir.

Á Þórhallastöðum eru rústir bæjar eru undir Ölkofrahóli. Þar er brunnur og smátún. Ölkofradalur er djúp hraunkvos vestan hólsins. Þar er vatnsstæði, sem þornar í þurrkum. Ölkofri, sem seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg, bjó þar. Talið er, að stóraplága hafi lagt Þórhallastaði í eyði og Skógarkot hafi byggst eftir hana. Að sögn Páls hafa margar minjar á þessu svæði verið upgötvaðar á liðnum árum, en eflaust eru margar enn ófundnar, sem þar kunna að leynast…

Þingvellir

Fjallfífill.

Gengið var til baka um Skógarkotsstíg, greiðfæra götu, enda einu sinni fyrsti bílvegur þá leiðina yfir hraunið, og að Flosagjá. Þar var staðnæmst við brú yfir gjána. Skammt sunnan hennar má sjá enn eldri brú fyrir fótgangandi. Páll sagði að Flosagjá hafi einnig verið nefnd Peningagjá. Á því væru tvær skýringar. Annars vegar sú að í henni hafi verið komið fyrir sjóði falsaðra peninga, en hinsvegar að konungur Dana, sem hafi átt leið um “Konungsveginn” hafi fyrstur staðnæmst þar og kastað í hana pening honum og öðrum til heilla.

Götunni var fylgt upp að gatamótum Langastígs og Þingmannastígs við Vallagjá. Langistígur liggur upp um haft, sem sprengt var niður í Stekkjargjá og mun m.a. vera gömul póstleið. Þingmannastígur liggur norður með Fögrubrekkum, en það var leið Norðlendinga af þingi fyrr á öldum. Þeirri götu var fylgt áleiðis að þjónustumiðstöðinni þar sem gangan endaði. Við götuna mátti bæði berja augum brönugras og fjalldalafífil.

Þórhallastaðir

Þórhallastaðir – örnefni.

Til frekari upplýsinga má geta þess að Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum, sem hafði afnot af fellinu og spildu norðan þess við vatnið og var góð veiðijörð. Enn þá sést móta fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Líklega hefur Fornasel verið sel frá Þingvallabænum. Hjáleigan var ekki stöðugt í ábúð. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll.
Hér á eftir eru tiltekin prestssetur á Þingvöllum með því sem þeim fylgir, með framsettum fyrirvara, sem þjóðkirkjan hefur ekki afsalað sér eða ekki hafa verið seld með lögmætum hætti: Þingvöllur með hjáleigunum í umsjá f.r.: Svartagili, Vatnskoti og Arnarfelli. Hjáleigurnar Skógarkot og Hrauntún hafa verið lögð til Þingvalla.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá vefsjá Þingvalla  HÉR.

Skógarkot

Skógarkot 1918.

Patterssonsflugvöllur

Haldið var út á Pattersonflugvallasvæðið ofan við Njarðvík. Girðingin, sem einhverju sinni hefur umlukið vallarsvæðið, er horfin og standa staurarnir einir eftir.

Patterssonsflugvöllur

Pattersonsflugvöllur – kort.

Skammt fyrir innan “girðinguna”, í jarðri vallarins skammt frá þjóðveginum út að Höfnum, er ruðningur með móbergsmolum, misjafnlega stórum. Móbergið er set, sem hefur þjappast saman undir þrýstingi. Þegar setið er brotið koma stundum í ljós meira en 10 þúsund ára gamlar skeljar. Sagt er að þær séu í “lífsstöðu”, þ.e. þær eru í sömu stöðu nú og þegar þær festust lifandi í setinu og urðu þar til um aldur og ævi. Svipað jarðfræðifyrirbæri má t.d. sjá í sjávarbakka í norðanverðum Kópavogi. Tjörnes er sennilega þekktasti setlagastaður landsins (en er því miður svolítið utan við Reykjanesskagann).

Patterssonflugvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonflugvöll.

Þessi jarðlög hlóðust upp á kvarter (ísöld) fyrir meira en 10 þúsund árum síðan svo segja má að þau séu komin nokkuð til ára sinna. Skeljarnar í setlögunum sýna sjávarstöðu og sjávarhita á þeim tíma.

Yfirborð jarðar er að langmestu leyti hulið setlögum. Þetta á bæði við um víðáttu hafsbotnsins og þurrlendi meginlandanna. Það gefur því auga leið að setlög eru afar fjölbreytileg.
Myndun setlaga hefst með því að setkorn verða til í náttúrunni. Setkornin geta flust úr stað en setjast svo til og mynda setlög. Með tímanum geta þessi lög þjappast og límst saman vegna jarðlagaþunga og orðið að föstu bergi, setbergi. Setkorn geta myndast á marga vegu. Oft losna þau úr föstu bergi við veðrun eða slípun af einhverju tagi, sum setkorn eiga sér lífrænan uppruna en önnur verða til í eldgosum eða öðrum hamförum.
Setlögum má skipta í þrjá flokka eftir því hvert ferlið var við myndun og flutning setkornanna. Þessir flokkar eru efnaset, lífrænt set og molaberg.

Patterssonsflugvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonflugvöll.

Algengustu setlögin eru molaberg sem gert er úr bergmylsnu. Setkornin í molabergi verða til við veðrun bergs. Þessi setkorn eru sjaldnast lengi um kyrrt á veðrunarstað heldur flytjast til með vindi, vatnsföllum, skriði jökla, öldugangi eða hafstraumum. Eðlisfræðileg lögmál ráða því hversu hratt og hversu langt setkornin berast. Þar sem roföflin missa mátt sinn, til dæmis þar sem árstraumur minnkar, hleðst efnið upp og myndar set eða setlög.
Á Tjörnesi, skaganum milli Skjálfanda og Axarfjarðar, er t.d. að finna einhver merkustu setlög á Íslandi. Tjörneslögin eru að meginhluta til molaberg og á skaganum vestanverðum má finna þykkustu samfelldu setlagamyndun sem aðgengileg er hérlendis. Forndýraleifar í Tjörneslögunum eru víðfrægar og benda til þess að rekja megi myndun setlaganna allt aftur á plíósen tíma á síðtertíer (síðtertíer er talið hefjast fyrir um 25 milljónum ára). Jarðeðlisfræðilegar rannsóknir benda þó til þess að mun þykkari setlög séu varðveitt á hafsbotni á íslenska landgrunninu.

Hernám

Patterson flugvöllur.

Pattersonsvæðið er forvitnilegt vegna setlaganna og skeljanna. Að öðru leyti sker það sig því miður ekki úr svæðinu ofan við Njarðvík. Nánast öllu hefur verið raskað meira og minna. Gengið var um móasvæðið sunnan við, en leitun er þar að einhverju merkilegu. Hins vegar bætti fuglalífið og náttúran, dirrindíið, vellingurinn, tístið, söngurinn, vælið, korrið og ámátlegt gargið umhverfið upp að nokkru. Fuglarnir voru á varðbergi og sendu viðvörðunartóna til unganna, sem kúrðu sig niður og biðu uns hættan var gengin hjá, eins og ekkert væri eðlilegra. Geldingahnappur, blóðberg, ljónslappi og lúpina gáfu og svæðinu góða liti. Mörk Hafna og Njarðvíkur eru skammt vestan við vallarsvæðið og má sjá þess merki.
Frábært síðdegiveður – stilla og hægur andvari. Gangan tók 1 klst og 21 mín.

Fræðilegi hlutinn að mestu fenginn af http://visindavefur.hi.is

Pattersson

Pattersonsflugvöllur fyrrum.

Selvogsgata

“Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Selvogsgata/Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellunni.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Selvogsgata

Varða á Selvogsgötu.

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman.

Hlíðarborg

Tóft í Hlíðarborg.

Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Strandardalur

Strandardalur.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.

Selvogsgata

Á Hlíðargötu.

Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Áni

Áni.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.

Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu.

Selvogsgata

Gengið um Hvalskarð.

Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Þingvellir

Lagt var af stað frá Hakinu þar sem horft var yfir Þingvelli og Almannagjá. Leiðin lá niður gjána með viðkomu að Lögbergi, tóftum þingmannabúða, Drekkingarhyl, Öxarárfossi og Langastíg.

Þingvellir

Þingvallabærinn.

Ætlunin var að nota tækifærið í góða veðrinu og rifja upp umhverfislýsingar frá fyrri tíð á þessum helgasta stað íslensku þjóðarinnar. Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.

Þingvellir

Þingvellir.

Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður. Þessi fyrrum krafa hljómar nú um heim allan. Hvarvetna er umræða um mikilvægi náttúru- og söguminja og eru þær taldar ein helstu verðmæti framtíðarinnar. Mikið er t.d. rætt um það meðal ráðherra Evrópusambandsins um þessar mundir að mörkuð verði heilstæð stefna í þessum málum og er eftirlit og gæsla þessara mikilvægu minja hvers lands hluti af þeirri umræðu. Mýmörg og sorgleg dæmi eru um glataðar fornminjar í gegnum aldir er hefðu getað upplýst um sögu og þróun lífs á Jörðinni. Upplýst samfélag vitiborinna manna telur að nú sé nóg komið af eyðileggingunni.

Þingvellir

Almannagjá.

Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-
Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870. Hið rétta er að Ingólfur nam hér land á þeim tíma, en án efa hafa aðrir landnemar verið hér fyrir þótt minna hafi farið fyrir þeim og heimildir um þá ekki verið skráðar sérstaklega.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Margir fylgdu hins vegar í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi. Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg. Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.
Lögsögumaðurinn var kosinn af Lögréttu til þriggja ára og var eini launaði starfsmaður þjóðveldisins. Á Alþingi var lögsögumaðurinn valdamesti maður landsins en þess á milli var hann formlega valdalaus en naut að sjálfsögðu virðingar samferðamanna sinna til samræmis við mikilvægt hlutverk sitt.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Á Lögbergi máttu allir stíga fram, þar voru fluttar ræður er vörðuðu mikilvæg mál og fréttir sagðar af markverðum atburðum. Þinghelgun og þinglausnir fóru fram á Lögbergi og þar voru úrskurðir Lögréttu tilkynntir, tímatal rétt, stefnur birtar og þau tíðindi önnur sett fram er vörðuðu þjóðina alla. Lögberg var opið öllum þingheimi, þar gat hver maður flutt mál sitt í mikilvægum málum. Atburðir á Lögbergi verða lifandi í lýsingum í mörgum Íslendingasögum. Aðdraganda kristnitökunnar er vel lýst í Njáls sögu en þar segir:
“Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. “

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Hlutverk Lögbergs hvarf snemma úr sögu Alþingis er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262-64 með Gamla sáttmála. Af þeim sökum hefur nákvæm staðsetning Lögbergs gefið tilefni til umræðna en rök hafa verið færð fyrir tveimur staðsetningum. Annars vegar að Lögberg hafi verið á flötum bergstalli efst á Hallinum norðan Hamraskarðs þar sem fánastöngin er nú og hins vegar að Lögberg hafi verið inni í Almannagjá uppi við hamravegginn. Einungis fornleifarannsóknir í framtíðarinni geta gefið vísbendingar um staðsetningu Lögbergs en líklega verður nákvæm staðsetning Lögbergs aldrei ákveðin með óyggjandi hætti.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Lögsögumaður stýrði fundum Lögréttu en í henni sátu 48 goðar á miðpalli.
Hver goði hafði tvo ráðgjafa sem sátu fyrir framan og aftan hann.
Eftir að biskupsstólar á Hólum og í Skálholti voru stofnaðir áttu biskupar einnig sæti í Lögréttu. Fjöldi þeirra sem sátu í Lögréttu var því 146 manns eða 147 ef lögsögumaður var ekki goði. Lögrétta kom saman báða þá sunnudagana sem þingið stóð og þinglausnardag en einnig oftar ef lögsögumaður óskaði. Öllum var frjálst að fylgjast með störfum Lögréttu en enginn mátti standa innan við pallana.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Eftir því sem leið á 13.öldina jókst ófriður milli höfðingjaætta sem lauk með því að Íslendingar gengust undir yfirráð Noregskonungs árin 1262-1264 með Gamla sáttmála. Við það hvarf hlutverk Lögbergs úr sögunni og Lögrétta varð megin stofnun Alþingis sem varð dómstóll með takmörkuðu löggjafarvaldi.
Árið 1662 samþykktu lögréttumenn, á samkomu í Kópavogi, að viðurkenna einveldi Danakonunga. Við það fór vegur og vald Alþingis minnkandi allt til síðasta þings á Þingvöllum árið 1798. Fram á 16.öld var Lögrétta staðsett austan megin Öxarár. Vegna breytinga á Öxará einangraðist Lögrétta á litlum hólma og var hún því flutt vestur yfir Öxará árið 1594 þar sem byggt var lítið hús fyrir Lögréttu. Í því húsi fór allt starf þingsins fram til ársins 1798.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.
Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.
Frábært veður – gangan tók 2 klst og 22 mín.

http://www.thingvellir.is/saga/

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Kapella

Gengið var að „kappellunni“, sem eitt sinn átti að hafa verið í Kapelluhrauni, Brunanum eða Nýjahrauni, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (1188).

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Við „kapelluna“ er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján Eldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu hrauni, “niðurgrafin” í það að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Um kapelluna er m.a. skrifað í “Heilög Barbara mær og kapella hennar” (Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88). Þá skrifaði Kristján Eldjárn um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Nú er “kapellan” skammt sunnan Keflavíkurvegar gegnt Álverinu, en hraunið dregur nafn sitt af kapellu þeirri er Kristján Eldjárn rannsakaði árið 1950. Síðan hefur mikið gengið á, hraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin á hraunhól í hennar stað. Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:

„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan lá hann í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að „kapellan“ haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin gamburmosa.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn.

Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju „kapellu“ í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að „grafa“ menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Frá “kapellunni” var gengið að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Á leiðinni var litið á síðustu leifar elsta hluta Keflavíkurvegarins í Hafnarfirði þar sem hann kom niður í Brunnann ofan við Straumstjarnir. Gengið var að gömlu heimaréttinni norðan við Þorbjarnarstaði, skoðað bæjarstæðið, en það er hið síðasta er hýsti „hafnfirskan“ torfbæ í þeirri gömlu mynd, kíkt á Gránuskúta og loks gengið suður yfir Alfararleiðina gömlu og upp að Þorbjarnarstaðarréttinni austan við Miðmundarhól (sem á er Miðmundarvarða). Falleg kvöldsólin gyllti grænt grasið innan réttarveggjanna.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Hraunin lágu milli Straumsvíkur og Hvassahrauna og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari. Árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar. Fyrir u.þ.b. tveimur árum keypti Álfélagið landið sunnan þess, umhverfis Þorbjarnarstaði, af Skógrækt ríkisins. Jafnhliða því “seldi” Hafnarfjarðarbær félaginu hluta af Þorbjarnarstaðalandi án þess kannski að gera sér grein fyrir því hvað var verið að selja í raun og veru. Svæðið, þótt lítið sé eftir að því, er í raun og veru hið merkilegasta í ljósi sögu og búskaparhátta í Hraunum í gegnum aldirnar. En því miður eru þeir ekki margir til, sem áhuga hafa á þeirri hlið umhverfis- og búsetumálanna. Nóg um það í bili.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Straumssel

Straumssel.

Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.

Bekkjaskúti

Bekkjaskjúti.

Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
ÓttarsstaðirSjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Textinn er að hluta til fenginn að láni frá UÚH.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárborg

Mikil leit hafði verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar voru um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.

Heiðmörk

Fjárhústóft í Heiðmörk.

Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.

Heiðmörk

Heiðmörk – minjar.

Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur. Í hlíðinni gegt hellinum er gamla leiðin upp í Vífilsstaðaselið, sem hvílir þar uppi, í gróinni kvos skammt sunnan við línuveginn. Ofan þess að norðanverðu sést móta fyrir stekknum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að sauðahellinum og hann barinn augum. Hleðslurnar fyrir framan munnann hafa haldið sér nokkuð vel. Hann er í nokkurra metra fjarlægð frá göngustígnum undir Vífilsstaðahlíðinni.
Lóuþræll tyllti sér á nálægan hraunklett og fylgdist óhræddur með göngufólkinu. Margt fólk var á ferli á svæðinu, en ekkert virtist hafa áhuga á hinum gömlu minjum, sem þar eru. Líklega hefur það ekki vitað af þeim eða þær ekki verið gerðar nægilega sýnilegar áhugasömu fólki, sem vill nota tækifærið og skoða athyglisverða staði á göngu sinni um svæðið.
Veður var frábært – milt og hlýtt. Gangan tók um 43 mín.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Flekkuleiði

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði, enda hitinn yfir 20°C. Sól skein bæði í heiði og á bæ.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn í túninu.

Byrjað var að skoða letursteininn á túninu sunnan við bæinn. Á honum eru klappaðir stafirnir GI og koma þeir saman með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. FERLIR réð leturgátuna á sínum tíma, en enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Sæmundur sagði að þarna hefði verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar presti að messa þar annan hvern helgidag að minnsta kosti. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.

Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Minni-Vatnsleysu.

Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.n. 130 cm háan, en húsið hafi verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreituninn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.
Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð. Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra hár klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmudnur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.

Hrafnagjá

Hrafnagjá áletrun við Magnúsarsæti á Stóru-Vatnsleysu.

Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá. Álterunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.
Hrossagaukur flaug upp af hreiðri sínu þegarverið var að mynda einn hinna hlöðnu garða umhverfis Vatnsleysubæina. Í hreiðrinu voru fjögur egg, snyrtilega raðað upp að venju. Umhverfis voru gleyméreiar og holtasóleyjar.
Vestan við túnið liggja steinar úr stórgripagirðingu áleiðis niður að sjó annars vegar og til vesturs, áleiðis að Flekkuvík, hins vegar. Um er að ræða svipaða girðingu og ofan við Borgarkot , vestan við Flekkuvík. Tveir holur eru í hverjum steini og í hana reknir tappar, ýmist úr tré eða járni.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Flekkuvíkurvatnsstæðin voru uppþornuð. Á ströndinni var bláliljan byrjuð að blómstra, kuðungar og skeljar voru innan um beitukóngshreiður, en handan við spegilsléttann hafflötinn reis hvannhvítur Snæfellsjökull upp úr láréttunni. Tignarleg sjón.
Umfeðmingsgras umlukti rústir sjóbúða austan við Flekkuvík. Ofan við þær er hlaðið gerði, en vestan þeirra tekur hlaðinn túngarðurinn við. Neðan við rústirnar, sem á einhverju tímabili hefur verið breytt að hluta í matjurtargarð, mótar greinilega fyrir gamalli vör.

Flekkuvík

Flekkuvík – brunnur.

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er dýpri og virðist nýrri. Sunnan við húsið, suður undir túngarðinum er Flekkuleiðið. Á því er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta hola sér niður í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Fagur fuglasöngur fyllti gyllt loftið þessa kvöldstund.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 58 mín.

Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Lækjarbotnar

Gengin var Selvogsgata upp frá Lækjarbotnum og áfram áleiðis upp með Setbergshlíð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Komið var að stíflu vatnsveitunnar í Lækjabotnum og kíkt á hleðslur undan húsinu, sem þar var yfir “vatnsuppsprettunni” nyrst undi Gráhelluhrauni. Enn má sjá leifar gömlu tréleiðslunnar í tjörnunum ofan við stífluna. Andarpar lá við annan bakkann með höfuð undir vængum. Lúpínan er farin svo að segja til um allar hlíðar, en innan um má sjá gytta í hrafnaklukka, blágresi, melasóley, lambagras og gleiri litskrúðugar blómategundir.

Gráhella

Gráhella.

Þegar komið var á móts við Gráhellu var strikið tekið inn á hraunið og að henni. Undir hellunni er hlaðið hús og gerði norðan þess. Austan við helluna er lítil hleðsla, nokkurs konar skjól. Gráhelluminjanar eru frá Setbergi, líklega fyrir þann tíma er Jón Guðmundsson, áður frá Hvaleyri og þar áður frá Haukadal, bjó þar.
Gengið var á ný að Setbergshlíð, mð stefnu á háa vörðu uppi og framan í hlíðinni. Þegar upp að henni var komið, eftir að hafa fetað birkivaxna hlíðina, var þaðan fallegt útsýni yfir að Setbergsseli, Sléttuhlíð og Helgafelli. Sólbjarma sló á Grindaskörðin í bakgrunni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Ofan við vörðuna eru tóftir af stóru fjárhúsi frá Setbergi. Setbergsselið var í alfararleið þars em Selvogsgatan lá í gegnum það. Í kringum selið og í brekkunum ofan við það er ágæt beit, en segja má að aðstaða selsins hafi verið færð úr alfararleiðinni og upp á hlíðina, en ofan við það, með hraunbrúnum og hæðum, hefur einnig verið ágætis beit.
Fjárhúsið hefur verið allstórt. Nyrst í því hefur verið hlaða. Ekki er auðvelt að mynda rústirnar þar sem sléttlent er allt í kring.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Haldið var upp og norður hlíðina. Um eyðimela er að fara í fyrstu, en síðan reynir lúpínan að hefta för, en hún er nú reyndar léttvægur farartálmi. Gengið var upp á Svínholt (Hádegisholt). Uppi á því, á svonefndum Flóðhjalla, er mikið mannvirki eftir breska herinn, sem þarna var svo að segja út um öll holt og hæðir. Stór kampur var t.d. á Urriðakotshæð.  Mannvirkið er hringlaga með byrgjum að innan. Hleðslurnar eru ekki eins vandaðar og verklegar eins og í fjárborgum þeir, sem Íslendingar hafa hlaðið í gegnum aldrirnar.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – áletrun.

Grjótinu er raðað í neðstu raðir, sumu hverju með vélum, og síðan reynt að raða upp á það, en smærra grjótinu kastað innan í og á milli, líkt og hleðslumenn hafi kappkostað að tæma holtið af grjóti og finna því stað í mannvirkinu. Líklega hefur verið bæði kalt og næðingssamt þarna á holtinu, ekki síst að vetri til. Áletranir eru á klöpp inni í hringnum. M.a. má sjá þarna ártalið 1940.
Gengið var niður Svínhöfða að norðanverðu með útsýni yfir að Urriðavatnskoti (Urriðakoti). Gangan endaði við golfskálann ofan við Setberg þar sem ferðalöngum var veittur góður beini.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 1 klst og 59 mín.

Setbergssel

Setbergssel.

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.