Svava Agnarsdóttir fjallar hér um þróun byggðar í Grindavík. Nær hún frá landnámi og að nokkru leyti til okkar daga. Í ritgerðinni, sem birtist hér að hluta, tekur hún fyrir það helsta sem varð til þess að gera Grindavík að þeim bæ sem hann er í dag. Einnig hvernig byggðin þróaðist og skiptist í hverfin þrjú.
Landshættir

Járngerðarstaðir.
Fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn í Grindavík og Krýsuvíkursókn. Staðarsókn sem nefnd var Grindavíkursókn, náði frá Valahnúk að vestan og austur að Selatöngum. Valahnúkur er landfastur klettur sem skilur að land og reka Grindavíkur og Hafna. Að austan, á, voru landamerki Grindavíkur- og Krýsuvíkursóknar miðuð við klett í fjörunni, sem Dágon nefnist. Skildi hann að land og reka Grindavíkur og Krýsuvíkur. Í norðri eiga Grindvíkingar hreppamörk með Njarðvíkingum, Vogamönnum og Strandarmönnum.

Gamli vitinn á Valahnúkum.
Í lýsingum Geirs Bachmann frá 1835-1882 segir: „Skammt frá Valahnúk í landnorður er aðrísanda fell, Vatnsfell kallað og enn lengra í sömu átt, litla bæjarleið (sem er 3/4 úr mílu), liggur nokkuð hærra og ummálsmeira eins lagað fell, Sílfell, og eru landamerkin sjónhending milli þessarra þriggja punkta. Af Sílfelli sést lengra til norðurs dalverpi, kallað Haugsvörðugjá, er hún bæði löng og breið, þó eigi sé fjarska djúp, með lágum klettum á sumum stöðum, en aftur upplíðanda sandflesjum á öðrum. Teygist hún með afleiðingum sínum fullkomna hálfa aðra mílu til landnorðurs, milli Sílfells og Súlna, og aðskilur land hreppanna og sóknanna, þ.e. Hafna og Grindavíkur.

Súlur.
Súlur er bratt, einstakt fell, í kollinum aðskilið sem tvö fell færu, að austnorðanverðu með sléttri, lágri og stuttri hæð eður hálsi áfast við Stapafell, og eru Súlur, sem enn aðskilja nefndra hreppa land, eins og Stapafell, Njarðvíkurland og Grindavíkur. Stapafell er ekki eins hátt og Súlur, en ummálsmeira, og að ofanverðu í það dæld að endilöngu, svo lítur til austurs frá Stapafelli yfir hraun og ógöngur, sjónhending á lágt og lítið, einstakt fell, Litla-Skógfell, sem stendur í hrauni þessu.

Kálffell.
Aftur eru mörkin enn í austur í annað enn lægra fell eður stóra hæð, kallað Kálffell, og þaðan enn þá í austur beina stefnu í nyrðri rætur Fagradals-Hagafells. Er vegalengdin frá Stapafelli til síðst nefnds fells ef beint yrði farið, á að giska hér um þrjár mílur.

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.
Fagradals-Hagafell er að vísu ekki hátt fell, en getur þó vegna ummáls og hæðar talist sem eitt af fjöllum þeim, er liggur fyrir sunnan Keili, og afleiðinga af Lönguhlíðarfjöllumnum fyrir ofan Hafnarfjörð, og þaðan sést í suðurátt. Að norðanverðu við nefnd markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradals-Hagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradals-Hagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunssels-Vatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að giska 2 mílur, ef beint yrði farið.“(Geir,1835-82)

Sýslusteinn.
Í austri eiga Grindvíkingar land á móts við Krýsvíkinga. Grindavíkurhreppur átti landamörk með Strandahreppi í austri og voru þau við sjó í Seljubótarnefi en voru dregin þaðan í svonefndan Sýslustein sem stendur við þjóðveginn í Selvog. Við Sýslustein beygði landamarkalínan aðeins til austurs og þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell og þaðan til fjalla sem nú heita Bláfjöll.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum sem flest eru í landi Grindvíkur. Þau eru frekar lág en setja mikin svip á umhverfið. Þau eru öll talin vera gosmyndanir og eru frá því seint á síðustu öld.
Ströndin meðfram Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Gróðurfar og ræktun

Geldingadalir – Gos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.
Af lýsingum að dæma virðist oft ekki hafa verið mjög búsældarlegt í hreppnum. Gróðurfar var frekar lélegt og ræktunarskilyrði slæm Að öllum líkindum hefur verið mun búsældarlegra á landnámsöld, heldur en t.d. um 1700.
Um það bil þrem öldum eftir landnám hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa hafist með neðansjávargosi á árunum 1210-1211 og reis þá Eldey úr sjó. Um árið 1266 varð mikið öskugos við Reykjanestá. Lagði öskulagið yfir allan Reykjanesskaga, upp í Borgarfjörð og austur í Flóa. Í kjölfar öskugossins, eða samtímis því hófust mikil hraungos. Runnu þá ein sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Eins og vænta má ollu þessi umbrot miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróðurinn og valdið bændum miklum búsifjum.

Vegavinnubúðir á Gíghæð.
Á þessum tíma hefur jarðvegurinn víðast verið grunnur og sendinn og lítið þurft til að uppblástur yrði. En þó hreppurinn hafi verið mjög gróðursnauður var hægt að finna gróðursæla dali og kvosir sem vaxnar voru grasi og hrísi. Það voru Selsvellir, Baðsvellir og Vigdísarvellir sem reyndust eitt besta gróðurland Grindvíkinga. Á slíkum stöðum höfðu Grindvíkingar sel fyrr á öldum og reyttu hrís til eldiviðar og til fóðurs handa skepnum. Á Vigdísarvöllum var reist bú upp úr seli en það stóð frekar stutt.
Illa gekk bændum að rækta tún og til viðbótar við slæman jarðveg var mikið vatnsleysi. Hraunið var mjög gljúpt og vatnið seytlaði niður á mikið dýpi. Víðast var afar djúpt niður á grunnvatn, og gekk sjór inn í sprungur og gjótur og blandaðist vatninu, gerði það slæmt og jafnvel óhæft til drykkjar. Svo slæmt varð það að reiknað var með að byggð legðist af á Ísólfsskála, austan Grindavíkur, sökum vatnsleysir en það fór þó ekki svo.

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.
Um 1830 fóru bændur verulega að bæta tún sín, og um svipað leyti varð garðrækt almenn. Þar var þó einkum um að ræða kálrækt og ræktunarskilyrðum lýsir Geir Bachmann þannig:

Þórkötlustaðahverfi.
„Jarðarrækt er hér stunduð rétt í meðallagi, á sumum bæjum þó betur, t.d. á Hrauni, Járngerðarstöðum, Húsatóttum. Hinar jarðirnar ganga fremur úr sér árlega, bæði fyrir ákomna margra ára níðslu, sem og líka af sandfoki og sjávarágangi. Á tveimur fyrst nefndu bæjum hafa tún í seinni tíð verið mikið sléttuð en túngörðum ætíð vel við haldið á þeim öllum. Greftir til vatnsafleiðinga og skriðugarðahleðsla á hér ekki heima. Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi. Ei eru hér almennt ræktaðar kartöflur, Hefir mér þó allvel lukkast það 2 undanfarin ár, og mætti þó betur takast.“(Geir,1835-82)

Svartsengi.
Á þremur stöðum í hreppnum er jarðhiti: á Baðsvöllum, í Svartsengi og í Krýsuvík. Litlar heimildir eru um nýtingu jarðhitans á Baðsvöllum og í Svartsengi fyrr á öldum. Örnefnið Baðsvellir bendir þó til að þar hafi einhver nýting verið.
Í dag er nokkuð öðruvísi um að litast í Grindavík. Mikið hefur verið gert af því að rækta upp svæði sem áður hafa verið eingöngu hraun.
Hverfin þrjú

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.
Landnámsmenn í Grindavík voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, sem nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, sem nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám í Grindavík af nákvæmni.Líklegt þykir að það hafi verið á fjórða tug 10. aldar. Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans.
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Staðarhverfi.
Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Skógfellastígur.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.
En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann ekki mjög fögur: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.“(Geir,1835-82)
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2200 manns og þar af búa aðeins u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Íbúafjöldi.

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.
Engar áreiðanlegar heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703. sbr. Saga Grindavíkur bls. 87. Ekki virðist vitneskjan vera meiri um mannfjöldaþróun á 16. og 17. öld Byggð á þeim lögbýlum sem í hreppnum voru virðist vera stöðug. Ein breytingarnar voru þegar vel fiskaðist, þá þurftu útvegsbændur á vinnufólki að halda.
Samanburður á íbúum í hverfunum þremur á árunum 1703 og 1762.
Staðarhverfi 1703 = 72 1762 = 44
Þórk.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 90
Járng.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 56

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.
Á þessari töflu má sjá að fólki fækkaði nokkuð mikið í Staðarhverfi eftir árið 1703. Ástæður þess eru sjálfsagt margar en líklegt má telja að Stóra-Bóla eigi mikinn þátt í því. Annálar frá 1400 – 1800 herma að úr henni hafi 49 manns látist í Staðarsókn í Grindavík. En auk farsóttar voru sjóslys mjög tíð á þessum árum. Við upphaf 19. aldar voru Grindvíkingar um þriðjungi færri en í upphafi 18. aldar og virðist sem 18. öldin hafi verið mönnum mjög erfið. En úr þessu var jöfn þróun í hreppnum og þegar Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974 voru íbúar 1600.
Á árunum 1890 -1920 voru tvær gerðir heimila algengastar í Grindavík. Það voru mjög fjölmenn heimili sem líkjast mjög gömlu sveitaheimilunum. Þessi heimili voru flest á gömlum lögbýlum og jörðum sem á bjuggu útvegsmenn. Á þessum heimilum bjuggu oft 15 – 18 manns. En á ýmsum hjáleigum og nýjum býlum var fátt í heimili jafnvel ekki nema 2 – 4.
Landbúnaður

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina frá Víkurfjárhúsunum í Grindavík
Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.
„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru“(S.G, II,163).
Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.
Sjávarútvegur og fiskvinnsla

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).
Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.

Grindavíkurbrim.
„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg (milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)“. (S.G.I,188).
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.

Brim utan við Sloka.
Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.
Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm.

Grindavíkurhöfn – loftmynd/ÓSÁ.
Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.
Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða.

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.
Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.
Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Grindavík 1963.
Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.
En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.
Skólamál

Grindavík – gamli skólinn.
Allt fram undir lok 18. aldar fór almenn fræðsla í lestri, skrift og kristindómi að mestu fram á heimilunum. Var það undir foreldrum og öðrum komið, hvernig uppfræðing barnanna tókst, en prestum bar þó að fylgjast með kristindómskunnáttu þeirra.
„Um miðja 18. öld fóru þeir Jón Þorkelsson og Ludvig Harboe að ferðast um landið, m.a. til að kanna þekkingu fólks. Komust þeir að raun um, að kunnáttu í lestri og skrift í Grindavík var töluverð ábótavant og kunnátta í reikningi enn minni. Í ljósi þessarar niðurstöðu, lögðu þeir félagar fram ýmsar umbótatillögur, sem m.a. leiddu til þess, að ákveðið var, að prestar skyldu hafa eftirlit með heimakennslunni. Komu þeir árlega á hvert heimili í sóknum sínum til að prófa börnin. Niðurstöður voru svo færðar inn í húsvitjunarbækur.“(S.G.I,330).

Séra Oddur V. Gíslason.
Rúmum áttatíu árum síðar segir síra Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni: „Eigi fæ ég sagt, hvað margir eru hér skrifandi; þykir máske ég herma mikið, ef ég þó segi hér vera 20 og þar af einasta 2 kvenmenn. Þó eru fleiri, sem lesa skrif, og unglingar leggja sig nú margir hér eftir þessarri fögru list, hverja ég ei reikna í hópi þeirra skrifandi.. Þeir, sem ekki eru skrifandi eru á öllum aldri og af báðum kynferðum.“ (G.B.1835-82)
Það var ekki fyrr en árið 1883 að ástæða þótti til að fá mann til að kenna börnum lestur, skrift og reikning, þó svo löngu væri búið að stofna skóla annars staðar á Suðurnesjum. Því fylgdi líka að byggja þyrfti hæfilegt hús fyrir kennsluna. Ekki er talið að kennt hafi verið nema einn vetur til að byrja með. Helsti talsmaður barnaskóla í hreppnum var án nokkurs vafa síra Oddur V. Gíslason. Honum þótti menntun og menning yfir höfuð vera mjög á eftir í Grindavík. Síra Oddur lagði mikið á sig til að koma á barnaskóla, og fékk bændur og sjómenn til að leggja sitt af mörkum. Það hafðist og kennsla hófst 2.október 1888 og fór fram á þremur stöðum: Stað, Garðhúsum(í Járngerðarstaðahverfi) og á Hrauni. Kennt var eina viku í senn á hverjum stað og fengu 25 börn kennslu.
Svona gekk þetta í nokkuð mörg ár, en ekki gekk alltaf vel að fá kennara.

Guðbergur Bergsson.
„Haustið 1893 var ákveðið að hafa skólann á einum stað. Leitað var til stiftyfirvalda um styrk til að koma á fastaskóla í hreppnum, en ekki urðu stiftyfirvöld við þeirri bón. Engu að síður var ákveðið að leigja húsnæði til kennslu. Eitt af síðustu verkum síra Odds áður en hann fluttist til vesturheims árið 1894 var að ítreka beiðnina við stiftyfirvöld. Í þetta sinn urðu stiftyfirvöld við beiðni síra Odds og nú var í fyrsta sinn veitt úr landssjóði til barnaskóla í Grindavík.“(S.G.II,335)
Á þennan hátt var börnum í Grindavík kennt þar til árið 1904, en þá var farið að kenna í samkomuhúsinu. Áramótin 1912-1913 hófst kennsla í nýbyggðu skólahúsi var kostnaðurinn við húsið 3700,56 krónum. Árið 1929 var skólaskylda færð niður í sjö ár og þegar barnaskólinn var settur í september árið 1929 voru alls 68 nemendur og nú þurfti að bæta við kennara. Skólastjóri þá var Einar Kr. Einarsson. Samhliða því var fengið kennsluhúsnæði í Þórkötlustaðahverfi því ekki var hægt að láta sjö ára börn ganga á milli hverfa, en það er u.þ.b. 2 kílómetrar. Árið 1937 þurfti enn að bæta við kennara og var þá Sigrún Guðmundsdóttir ráðin, en hún hafði nýlega lokið námi við Kennaraskólann. Einn af nemendum Sigrúnar var Guðbergur Bergsson rithöfundur og lýsir hann kennlukonunni svona:

Frá Þórkötlustaðahverfi.
„Í hverfinu (Þórkötlustaðahverfi) var enginn kennari. Þess vegna kom hann á hverjum morgni þrammandi, í rauðhærðri kvenmannsmynd, í hvaða veðri sem var utan úr Járngerðarstaðahverfi. Á veturna var að líkum stöðug rigning eða snjókoma á víxl og þess vegna kom kennslukonan ýmist rennblaut eða helfrosin í skólann… Þegar frost var úti og kennslukonan kom í skólann, var fyrsta verk hennar að þíða á sér andlitið með lófunum og frosið blekið í byttunum, en fötin sín þurrkaði hún við ofninn. Á þessum tíma þekktist ekki upphitun í húsum og við krakkarnir gengum í ullarfötum jafnt yst sem innst: fyrst í utanyfirpeysu, svo millifatapeysu, síðan í koti, en næst líkamanum vourm við í ullarnærbrók, og því gerði ekki svo mikið til að við værum blaut. Við lyktuðum ymist af frosinni eða blautri ull, og lyktin hefur eflaust verið megn, því að kennslukonan hélt okkur í hæfilegri fjarlægð frá sér, en við slógum um hana hálfhring á meðan hún sat við ofninn.

Frá Þórkötlustaðahverfi.
Starfs síns vegna gekk hún í „búðarfötum“ í veðurgarranum. Hún var í kápu og með slæðu um hálsinn, hatt með slöri og fæturnir voru í ljós-eða músarbrúnum bómullarsokkum. Samt breyttu þeir auðvitað um lit eftir veðurfarinu. Kennslukonan fékk sér alltaf sæti til hliðar við ofninn á meðan hún var að þorna eða þíða fötin og blekið. Til þess að vera ekki aðgerðarlaus á meðan ofn krílið gerði kraftaverk á henni, brá hún á loft löngum spjöldum með mislöngum orðum sem við áttum að vera fljót að lesa… Hvað sem því líður þá hættu föt kennslukonunnar smám saman að vera dökkleit þannig að eðlilegur mjúkur litur tók jafnt og þétt yfirhöndina í ljósum, þurrum blettum sem færðust upp eftir líkamanum uns hún varð skjöldótt, heit og rjóð. Þá reis hún á fætur og gekk að púltinu í gufustrók sem lagði af henni og stóð til allra hliða. Hin raunverulega kennsla byrjaði aldrei fyrr en hún hafði breyst í gufustrók.“(Guðb.B,26-29)

Frá Járngerðarstaðahverfi.
Á þessum tíma var orðið ljóst að byggja þyrfti nýjan skóla. En ekki var hafist handa við að byggja hann fyrr en árið 1945, vegna erfiðra aðstæðna í byggðarlaginu. Var skólinn reistur rétt vestan við aðalgötuna í Járngerðarstaðahverfinu. Formleg vígsla á skólanum fór fram haustið 1947, þó svo kennsla hafi byrjað þar ári fyrr. Þá voru liðin 60 ár frá því síra Oddur V. Gíslason réð fyrsta kennarann til starfa. Á sama tíma var stofnaður unglingaskóli og kennt þar í einni deild.
Menning og félagsmál
Þar sem lífsbaráttan var hörð gerði fólk ekki margt annað en að afla sér matar og halda sér á lífi og afar lítið var um skemmtanir. Einu mannamótin voru í raun kirkjuferðir á sunnudögum og öðrum hátíðisdögum.

Klöpp. Tóftir bæjarins.
Fyrstu heimildir um aðra skemmtun en kirkjuferðir eru frá aldamótum 1900. Var þá talað um að dansað hafi verið í pakkhúsi og spilað á harmonikku og dansað linnulaust alla nóttina. Fyrsta góðtemplarastúkan var stofnuð í Grindavík 1891 og var það Oddur V. Gíslason sem gekkst fyrir stofnun þessarar stúku. Bindindismál vour aðal viðfangsefni stúkunnar, en ýmislegt annað var gert þar t.d. var komið á fót lestrarfélagi. En ekki var þessi stúka lengi við líði, því þegar síra Oddur flutti til Vesturheims með fjölskyldu sína hvarf mesti krafturinn úr henni. En á næstu árum voru nokkuð margar stúkur stofnaðar í Grindavík en þær voru mislengi virkar.
Lestrarfélagið Mímir var stofnað 1904. Félagið var mjög virkt fyrstu árin og mikið af bókum keypt. Til að fjármagna bókakaup voru haldnar tombólur og skemmtanir og þá aðallega dansskemmtanir.
Haustið 1923 var stofnað kvenfélag í Grindavík og var það Guðrún Þorvarðardóttir sem var aðal hvatamaður þess. Hún taldi, að í hreppnum mætti áorka miklu ef konur tækju sig saman og mynduðu félag. Kvenfélag Grindavíkur stóð meðal annars fyrir Svartsengishátíð í mörg ár.

Cap Fagnet á strandsstað.
Slysavarnardeildin Þorbjörn var stofnuð formlega 1928 en áður hafði síra Oddur V. Gíslason unnið ötullega að slysavörnum. Hann gaf út einn árgang af blaðinu Sæbjörgu árið 1892 og var það rit helgað slysavörnum. Árið 1930 var ákveðið að koma upp fluglínustöð í Grindavík. Aðeins viku eftir að björgunarsveitarmönnum hafði verið kennt á fluglínutækin þurfti nota þau. Franski togarinn Cap Fagnet, með 38 manna áhöfn strandaði við Hraun. Björgunin tókst giftusamlega og voru þessi nýju tæki strax búin að sanna sig. Áður en langt um leið voru slík tæki komin til allra deilda Slysavarnarsélags Íslands. Árið 1949 var svo stofnuð björgunarsveit þar sem mönnum fannst að það þyrfti vel þjálfaða menn við björgunarstörf. Björgunarsveitin Þorbjörn starfar af krafti í dag og er tækjabúnaður og öll aðstaða orðin mun betri en áður. Árið 1977 var Slysavarnardeildin Þórkatla stofnuð og eignaðist þá björgunarsveitin sterkan bakhjarl.

Björgun áhafnar Cap Fagnet.
Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað árið 1935. Má rekja upphafið að stofnun félagsins til Jóns Guðmundssonar, sem var vitavörður á Reykjanesi í kringum 1930. Hann hafði mikinn áhuga á félagsmálum og hafði talsverða þekkingu á starfi ungmennafélaga. Haldin voru íþróttanámskeið og einnig stóð Íþróttafélagið fyrir danskemmtunum. Íþróttafélagið fékk aðstöðu til íþróttaiðkana í Kvenfélagshúsinu. Strax á fyrstu árum félagsins var farið að kenna sund. Fór þá Einar Kr. Einarson skólastjóri, sem var einn fárra í Grindavík sem kunnu að synda, með börn út á Reykjanes og kenndi sund í gjá, sem í rann volgt vatn. Fótboltinn heillaði snemma og auðvelt var að smala saman í fótboltalið. Það virðist sem Grindvíkingar hafi átt nokkuð efnilega fótboltamenn því þeir urðu Suðurnesjameistarar árið 1950. Íþróttafélagið ásamt Slysavarnardeildinni Þorbirni stóðu fyrir hátíðarhöldum á sjómannadaginn fyrst árið 1949 og gekk það í mörg ár. Árið 1963 fékk félagið nýtt nafn og var nú orðið Ungmennafélag Grindavíkur.
Lokaorð

Grindavíkurkirkja.
Í dag búa í Grindavík um 2200 íbúar (árið 2002). Atvinna er í nokkuð góðu lagi,en það er þó að mestu leyti fiskvinna. Þó eru farin að vaxa hér lítil fyrirtæki með léttan iðnað.
Á síðustu árum hefur orðið gífurleg viðhorfsbreyting hjá fólki varðandi garðrækt. Þar hjálpar mikið til að Grindavíkurbær hefur lagað mikið af sínum svæðum. Þar sem áður hefur verið hraun og sandur er orðið grasi gróið. Þetta hefur orðið til þess að bærinn er orðinn mjög snyrtilegur og fallegur. Vonandi verður framhald á því það er alltaf eitthvað meira sem má laga.
Mikið hefur verið gert af því að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í Grindavík. Og er alveg ástæða til því bærinn hefur upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn. Þá er ég ekki eingöngu að tala um Bláa Lónið sem er þekktasti staðurinn við Grindavík. Mikið er t.d. af fallegum gönguleiðum í kringum bæinn og hafa nokkrar þeirra verið merktar. Þá er mikið af hverum víða í landi Grindavíkur.
Heimildaskrá
1. Geir Bachmann. 1835-1882. Sóknarlýsingar og annar fróðleikur um Grindavík.
2. Jón Þ. Þór. 1994. Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800.
3. Jón Þ. Þór og Guðfinna Hreiðarsdóttir. 1996. Saga Grindavíkur 1800-1974.
4. Þóra K. Ásgeirsdóttir. 1992. Guðbergur Bergsson metsölubók, 26-29.
Heimildir sem stuðst var við:
1. Gísli Brynjólfsson. 1975. Mannfólk milli sæva, Staðhverfingabók.
2. Jón Eyfjörð. Samantekt um Grindavík. (Upplýsingar af Internetinu).

Grindavík – séð frá Þjófagjá.
Fjallgjá – Markhelluhóll – Búðarvatnsstæði
Gengið var til suðurs með Fjallgjá og síðan beygt til vesturs við vörðu á hól með stefnu að Sauðabrekkum. Litið var á skjólið í Brekkunum. Áður er farið á brú yfir gjá og er þá komi niður í nokkurs konar dal á milli hraunhóla. Þaðan var gangan auðveld til vesturs, upp á hraunhól, grasivöxnum að austanverðu. Áfram var haldið, framhjá hraunhól og með stefnu á Markhelluhól.
Búðarvatnsstæðið.
Gangan þangað tók rúmlega klukkustund. Á þá hlið hólsins, sem snýr mót norðri, eru klappaðir stafir bæjanna Krýsvíkur, Hvassahrauns og Óttarstaða. Norðnorðvestur af Markhelluhól er Búðarvatnsstæðið undir hraunkanti. Ekkert vatn var í vatnsstæðinu að þessu sinni, en það verður að teljast fremur óvejulegt því yfirleitt var hægt að ganga að því vísu að fá vatn þar á langri leið. Lengra í norðri er Gamlaþúfa og á henni er varða. Gengið vað að þúfunni, en hvergi annars staðar eiga eða vera stærri krækiber, en einmitt þarna utan í hólnum. Það reyndist einnig vera að þessu sinni.
Sauðabrekkufjárskjól.
Gengið var að gígagröð norðan við Sauðabrekkur. Á leiðinni fór rebbi á harðahlaupum þvert fyrir göngufólkið og stefndi í norður -og leit ekki aftur. Litið var betur á gígana, sem eru hinir fallegustu. Austan við gígana eru nokkuð slétt hraun. Í því miðju er gat, ca. 7 metrar að ummáli og um 12-15 metra djúpt. Snjór var í botninum. Þetta virðist vera gamall gígur eða að hraun hafi þarna spýst upp um hraunrás. Hún virðist vera lokuð upp á við, til suðurs, en op virðist vera neðast í henni til norðurs. Þetta verður skoðað nánar í samstarfi við Hellarannsóknarfélagið. U.þ.b. hálftíma gangur er að opinu að Krýsuvíkurveginum.
Gangan tók 4 klst 51 mín. Frábært veður – sól og lygna.
Áletrun á Markhellu.
Sængurkonuhellir I
Farið var með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins. Í för voru fjórir áhugasamir Ítalir, samtals 14 manns. Byrjað var að skoða holuna í Brunntorfum. Hún er um sex metra djúp. Innundir henni er skúti. Í honum var talsvert af drasli, s.s. nokkrir plastpokar og krossviðsferðataska.
Sængurkonuhellir.
Þaðan var haldið í Tvíbollahraun. Neðan undir hlíðinni, vestan Kristjánsdala, rakst FERLIR fyrir skömmu á holu í hrauninu. Stigi var látinn síga niður, en dýpið var um 7-8 metrar. Kom í ljós að þarna var um op á fallegri hraunrás að ræða. Lá hún upp á við spölkorn til suðurs, en neðri hraunrásin var á tveimur hæðum. Var skriðið eftir rásunum, en þær enduðu eftir nokkra tugi metra.
Þá var haldið í “Sængurkonuhelli” á Klifshæð í Herdísarvíkurhrauni. Þar er jarðfall. Vestan í því er skúti, sem vel gæti verið svonefndur Sængurkonuhellir, sem lýst er í gamalli sögu. Þar á kona á leið á milli bæja að hafa alið barn.
Hraunstrá í Sængurkonuhelli.
Í einni örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS I) segir m.a.: „Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krýsuvíkurhrauns eða Krýsuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.“
Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir í Klifinu við Herdísarvíkurgötuna gömlu.
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS-II) segir einnig: „Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Þegar FERLIR var þarna á ferð nokkur áður, leitaði á Klifshæðinni og fann fyrst nefndan skúta lá ryðbrunnið emelerað vaskafat í honum – tákn um mannvistir. Kanturinn á nýrra hrauni er skammt ofan við jarðfallið, sem hellirinn er í.
Sunnan í jarðfallinu eru tvö op. Fyrir eystra opinu er steinn, en þegar inn fyrir hann kemur má sjá göng undir hraunið. Eftir m 30 metra þrengist hellirinn, en innan þrengingarinnar greinist hann í þrennt. Þar fyrir innan eru falleg hraunkerti og hraunstrá. Hæg er að fara inn í þessar rásir um gat á milli skútans og austasta opsins, en þþá þarf að skíða yfir lítið jarðfall. Framan við jarðfallið eru mannvistarleifar; m.a. hleðslur á tveimur stöðum.
Hinn þjóðsagnakenndi Sængurkonuhellir, sem nefndur er í örnefnalýsingum er í Klifinu skammt sunnar, eins og áður sagði.
Í Mosaskarðshelli.
Loks var haldið í Mosaskarð. Þar í skarðinu er op uppi á hraunhól. Um 4 metrar eru niður í hraunrás í hólnum. Rásin liggur nokkra metra upp á við, en þegar haldið var niður á við var komið að, því er virtist, sendinni holu í gólfinu. Þegar mokað var upp úr holunni með sléttri nálægri hraunhellu, var hægð að stinga sér ofan í hana – og þá opnaðist gat áfram – að því er virtist. Eftir að hafa skriðið niður í holuna og upp úr henni aftur að handan var komið inn í mannhæða hraunrás, rislaga með tiltölulega sléttum brúnleitum veggjum. Ekkert hrun var í rásinni og gólfið heilt. Það hallaði undan og rásin beygði aflíðandi uns komið var að þeim stað þar sem gólf og loft komu saman. Þetta er með eftirminnilegri hellum, sem farið hefur verið í, bæði fallegur og þurr.
Við op Krýsuvíkurhellis.
Á næstunni er ætlunin að fara með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins í Krýsuvíkurhelli, en í honum eru einnig hleðslur á nokkrum stöðum, auk þess sem alveg er eftir að skoða efri huta hans. Hann er skammt fyrir ofan Krýsuvíkurbergs austan Bergsenda.
Þá er ætlunin að fara í Leiðarenda í Tvíbollahrauni, auk þess sem stefnt er að ferð fljótlega í Hrútardyngjuhellana, s.s. Maístjörnuna, Hýðið, Húshelli, Þumal, Aðventuna, Langhelli, Neyðarútgöngudyrahelli, Steinbogahelli og fleiri hella á svæðinu.
Í Mosaskarðshelli – fyrsta sinni.
Kaldársel I
Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.
Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.
Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.
Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.
Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.
Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.
Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.
Kaldársel – fjárskjól.
Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.
Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.
Kolbeinshæðahellir – Kolbeinshæðaskjól
Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.
Vorréttin.
Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.
Efri-Hellar.
Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.
Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).
Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.
Kolbeinshæðaskjól.
Kristjánsdalir – Grindarskörð
Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.
Tóft ofan Kristjánsdala.
Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.
Selvogsgatan um Grindarskörð.
Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.
Gengið um Selvogsötu.
Markasteinn (Markhella)
Gengið var að Gvendarbrunni við Alfaraleiðina.
fjárskjól. Austar í hraunhólnum, sem skútinn er í, er hornstaur girðingar. Girðingin hefur legið í beina stefnu til suðurs og upp í hraunið, framhjá Gvendarbrunni. Hlaðið hefur verið undir girðinguna og sést hleðslan alla leið að endastaur upp í hrauninu í um tveggja klukkustunda fjarlægð. Þar hefur girðingin beygt til austurs þar sem sú lína endar í hornstaur við Krýsuvíkurveg skammt ofan við vegamót Bláfjallavegar, við landamörk Áss.
Norðan brunnsins er hlaðið fyrir skúta og myndað
Að sögn liggja mörk Straums frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá henni í Klofaklett í suður. Á Klofaklett á að vera klappað “ÓTTA”, “STR” og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól. Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” „KRYSU“. Síðan á línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða í örnefnalýsingum.
Við skoðun á Markasteini (Markhellu) var áletrunin eftirfarandi: KRV – ÓTTAR – HVASSA. Ef tekið er mið af því hversu áletrunin er annars greinilegt á mjúkri nánast lóðréttri hraunhellunni má telja líklegt að hún hafi verið gerð af einhverri óþekktri ástæðu einhvern tímann á 20. öldinni. Markhellan er mjög ólíklega landamerki, enda hafa þau jafnan verið miðuð við Markhelluhól við Búðarvatnsstæðið, sem er tæplega kílómetra norðvestar.
Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.
Gengið var niður með Gömlu-þúfu, sem einnig er getið sem landamerki þarna í stað Markhellu, og að hornstaurnum. Frá hornstaurnum var gengið til norðurs að Straumsseli og komið við í Efri-Straumsselshellum. Á leið frá þeim að Neðri-Straumsselshellum fannst enn ein hleðsla að opi fjárhellis. Allnokkur hleðsla er fyrir opin og hefur loft á gangi þess fallið niður og því sést það nú. Norðar er op Neðri-Straumsselhella og önnur hleðsla í sama helli skammt austar.
Straumsselið var skoðað gaumgæfilega, enda veður með ágætum. Þá var gerður uppdráttur af selinu og nágrenni. Þegar gengið var norðan við selið hljóp grábrúnn refur undan göngufólki, staðnæmdist skammt frá og virti það fyrir sér. Honum leist ekki betur en svo á hópinn að hann ákvað að láta sig hverfa.
Á leiðinni til baka var komið við í rétt, sennilega fráfærurétt, í hrauninu fyrir ofan Selshraun. Þar eru miklar hleðslur og svo er að sjá að þar hafi einnig verið reft yfir byrgi. Greinilegt er að fé hefur verið haldið þarna í hraunkantinum, því vel er gróið þarna í kring.
Gangan tók 6 klst og 2 mín. Frábært veður.
Við Markhellu.
Flugvélaflök við Fagradalsfjall
Jeppa- og ferðalagaskóli Artic Trucks stefndi að Fagradalsfjalli. Ferðin var framhald kynningar FERLIRs á flugvélaflökum á Reykjanesskaganum í skólanum s.l. vetur.
Lagt var af stað á sérútbúnum jeppum. Þátttakendur voru þeir sem tóku þátt í umræddri kynningu, auk þess sem áhugasömum FERLIRsþátttakendum (húfuhöfum) var að sjálfsögðu boðið að slást með í för. Farið var að Kastinu þar sem skoðaðar voru leifar af flugvél þeirri er Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu fórst með 4. maí 1943. Þá voru skoðaðar leifar flaks í Langhól frá því 24. apríl 1941 og loks flugvélaflak í Langahrygg frá 2. nóv. 1941. Í þessum flugslysum fórust 28 menn, en 11 komust lífs af.
Eins og oft vill vera með nýja vegi þá gleymast þarfir annarra en ökumanna, sem um veginn eiga að fara. Aldrei er gert ráð fyrir útskotum svo fólk gefi stöðvað og lagt bílum sínum, t.d. ef það langar til að skoða nálæga áhugaverða staði. Þá er sjaldan gert ráð fyrir að fólk þurfi að aka spölkorn út fyrir veginn, s.s. inn á gamla slóða. Þannig er málum háttað við nýja Suðurstrandarveginn austan Grindavíkur.
Ferðalangar á leið umhverfis Fagradalsfjall.
Ekið var eftir slóða yfir Borgarhraun með stefnu á Einbúa, beygt með Kastinu og stöðvað í Fremstadal, en úr honum var þægilegast að ganga upp að fyrsta flakinu.
Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag.
Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.
Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.
George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.
Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., „Hap“ Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Næsti áfangastaður var norðaustan í Langhól. Leifar af flugvélinni eru af breskum Sunderland flugbát. Svolítið er enn á vettvangi slyssins um 1/5 neðan við efstu brún hlíðarinnar, sem hún skall á, en meira er í gili skammt austar og neðar. Þar eru leifar af djúpsprengum, auk ýmissa hluta úr vélinni.
Haldið var áfram eftir slóðanum framhjá Mógili og út með Kistufelli. Haldið var yfir háls milli þess og Litla Hrúts og af honum niður bratta hlíð með stefnu á Stóra Hrút. Þegar komið var suður fyrir Einihlíðar var stefnan tekin að þriðja flugvélaflakinu, í Langahrygg.
Talsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni, sem fyrr sagði. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gilinu, sem þar er.
Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið.
Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.
Í Fremstadal er nokkurt brak, sem vindur og vatn hafa hrakið ofan af Kastinu.
Þá var haldið áfram inn Miðdal, framhjá Sandhól-Innri, eftir Innstadal og yfir Nauthóla og inn Fagradal þar sem staðnæmst var um stund í Dalsseli áður en haldið var á brattann norðvestan og milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Þar er slóðinn hvað óljósastur enda þvær vorvatnið þar klappirnar berar.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:
„Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Brakið er í grýttri hlíð mót austri. Smæstu hlutirnir eru enn á vettvnagi, en þeir stærri hafa runnið niður hlíðina og staðnæmst þar í gili.
Friðþór Eydal segir að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni „M Samtöl I“ (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
„Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur örðum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Fagradalsfjall – minjar á slysstað.
Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977. Hún var hryllileg, enda fátt stórra hluta heillegir.
Frábært veður. Ferðin tók 8 klst og 8 mín.
Brak flugvélar í Langahrygg.
Leiðarendi II
Gengið var frá Bláfjallavegi um stíg norður yfir Tvíbollahraun, u.þ.b. 300 metra. Þá var komið í eldra hraun, Stórabollahraun, mosavaxið, en tiltölulega slétt. Hægra megin við stígsendann er jarðfall. Í því er Leiðarendi.
Haldið í Leiðarenda.
Haldið var niður um vítt opið að vestanverðu. Stórir steinar eru næst opinu, en hellirinn er samst sem áður greiður niðurgöngu. Fljótlega er komið inn á slétt gólf og víða og háa hraunrás. Litirnir í veggjum rásarinnar eru rauðlitið og verða fallegri eftir því sem innar dregur. Komið er að svolitlu hruni þar sem önnur rás liggur upp til hægri. Á rásmótunum eru falleg steinkerti á gólfum. Þegar gengið er áfram niður rásina má víða sjá stór hraunkerti og fallegar hraunnálar í loftum. Sumsstaðar lækkar rásin og á einum stað þarf að skríða yfir hrun. Þar fyrir innan er mjög hátt og vítt. Þegar komið er innst í rásina er víður hraunpollur.
Á leið um Leiðarenda.
Þegar komið er að pollinum má sjá beinagrind af rollu þar undir veggnum hægra megin. Rollan virðist hafa villst alla þessa leið, um 200-300 metra, inn í hellinn og lagst síðan þarna undir vegginn þar sem hún hefur borið beinin. Frá hraunpollinum lækkar hellirinn verulega. Þó má skríða í gegnum hrun lengst til hægri og spölkorn áfram. Ákveðið var að gera það ekki að þessu sinni.
Haldið var til baka og farið í rásina, sem fyrr var lýst. Hraun er víða í annars víðri rásinni, en hægt að fara hægra megin með því. Hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Á einum stað er geisifalleg hraunsepamyndun í loftinu og eins og skrautleg kóróna hangi nuður úr því.
Leiðarendi – dropsteinar. Sá til vinstri er eftirgerð annars, sem glatast hefur.
Innar þrengist hellirinn á ný, en þegar komið er framhjá smá hruni opnast hann inn í víða þverrás. Hlaðin var lítið varða á mótunum svo auðveldara væri að rata til baka því auðvelt er að villast í margskiptum hellum. Þessi varða kom sér líka vel á bakaleiðinni.
Þverrásin virðist lækka nokkuð þegar neðar dregur, en hana á að vera hægt að skríða áfram út um eystra opið í jarðfallinu. Þegar ofar dregur hækkar og víttkar hellirinn og fallegir bálkar eru með veggjum. Efst í honum er hrun, en áður en komið að því er lítil varða hlaðin á mitt gólfið. Hún gaf til kynna að lengra væri ekki komist með góðu móti. Hins vegar liggur rás þarna til hægri, en hún er það lág að skríða þarf hana á maganum. Haldið var til baka að fyrr vörðunni og haldið niður eftir rásinni, sem genginn hafði verið. Þegar farið er til baka er eðlilegra að halda áfram, framhjá aðalrásinni, og því auðvelt að ganga framhjá opinu við hrunið. Seinni rásin er sviðuð að lengd og sú fyrri, um 200-300 metrar.
Leiðarendi – kort ÓSÁ.
Eftir smáhvíld var haldið inn um eystra opið í jarðfallinu. Klöngrast þarf spölkorn inn í hellinn, en síðan tekur við slétt gólf. Miklir bálkar eru til beggja handa. Fljótlega er komið að stað þar sem nýja hraunið hefur lekið niður í rásina og storknað. Hægt er að skríða meðfram því vinstra megin og er þá komið inn í víða hraunrásina á ný. Þar fyrir innan er eins og hraunpollur því gólfið framundan hækkar nokkuð. Eftir það lækkar hellirinn mikið og verður einungis skriðinn. Þá er komið inn á þann stað, sem horfið var frá áður. Með eindregnum vilja má fara þar í gegn og er þá stutt eftir í efra opið á jarðfalli Leiðarenda.
Veðrið ofan jarðar skipti í rauninni engu máli. Niðri var bæði hlýtt og skjólgott.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.
Hópur ungskáta með FERLIRsfélögum á leið í Leiðarenda.
Heiðmörk – Vífilstaðafjárborg
Mikil leit hefur verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar hafa verið um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.
Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.
Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóftir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóttin, sú stærri, liggur frá til norðurs. Garðar eru fyrir suðugafli, en dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn. Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá.
Fjáhús í Urriðakotshrauni.
Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur.
Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.
Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að hellinum og hann barinn augum.
Gangan tók um ½ klst, en leitin að fjárborginni tók eina klst.
Veður var frábært – milt og hlýtt.
Vífilsstaðaborg.
Grindavík – þróun byggðar
Svava Agnarsdóttir fjallar hér um þróun byggðar í Grindavík. Nær hún frá landnámi og að nokkru leyti til okkar daga. Í ritgerðinni, sem birtist hér að hluta, tekur hún fyrir það helsta sem varð til þess að gera Grindavík að þeim bæ sem hann er í dag. Einnig hvernig byggðin þróaðist og skiptist í hverfin þrjú.
Landshættir
Járngerðarstaðir.
Fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn í Grindavík og Krýsuvíkursókn. Staðarsókn sem nefnd var Grindavíkursókn, náði frá Valahnúk að vestan og austur að Selatöngum. Valahnúkur er landfastur klettur sem skilur að land og reka Grindavíkur og Hafna. Að austan, á, voru landamerki Grindavíkur- og Krýsuvíkursóknar miðuð við klett í fjörunni, sem Dágon nefnist. Skildi hann að land og reka Grindavíkur og Krýsuvíkur. Í norðri eiga Grindvíkingar hreppamörk með Njarðvíkingum, Vogamönnum og Strandarmönnum.
Gamli vitinn á Valahnúkum.
Í lýsingum Geirs Bachmann frá 1835-1882 segir: „Skammt frá Valahnúk í landnorður er aðrísanda fell, Vatnsfell kallað og enn lengra í sömu átt, litla bæjarleið (sem er 3/4 úr mílu), liggur nokkuð hærra og ummálsmeira eins lagað fell, Sílfell, og eru landamerkin sjónhending milli þessarra þriggja punkta. Af Sílfelli sést lengra til norðurs dalverpi, kallað Haugsvörðugjá, er hún bæði löng og breið, þó eigi sé fjarska djúp, með lágum klettum á sumum stöðum, en aftur upplíðanda sandflesjum á öðrum. Teygist hún með afleiðingum sínum fullkomna hálfa aðra mílu til landnorðurs, milli Sílfells og Súlna, og aðskilur land hreppanna og sóknanna, þ.e. Hafna og Grindavíkur.
Súlur.
Súlur er bratt, einstakt fell, í kollinum aðskilið sem tvö fell færu, að austnorðanverðu með sléttri, lágri og stuttri hæð eður hálsi áfast við Stapafell, og eru Súlur, sem enn aðskilja nefndra hreppa land, eins og Stapafell, Njarðvíkurland og Grindavíkur. Stapafell er ekki eins hátt og Súlur, en ummálsmeira, og að ofanverðu í það dæld að endilöngu, svo lítur til austurs frá Stapafelli yfir hraun og ógöngur, sjónhending á lágt og lítið, einstakt fell, Litla-Skógfell, sem stendur í hrauni þessu.
Kálffell.
Aftur eru mörkin enn í austur í annað enn lægra fell eður stóra hæð, kallað Kálffell, og þaðan enn þá í austur beina stefnu í nyrðri rætur Fagradals-Hagafells. Er vegalengdin frá Stapafelli til síðst nefnds fells ef beint yrði farið, á að giska hér um þrjár mílur.
Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.
Fagradals-Hagafell er að vísu ekki hátt fell, en getur þó vegna ummáls og hæðar talist sem eitt af fjöllum þeim, er liggur fyrir sunnan Keili, og afleiðinga af Lönguhlíðarfjöllumnum fyrir ofan Hafnarfjörð, og þaðan sést í suðurátt. Að norðanverðu við nefnd markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradals-Hagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradals-Hagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunssels-Vatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að giska 2 mílur, ef beint yrði farið.“(Geir,1835-82)
Sýslusteinn.
Í austri eiga Grindvíkingar land á móts við Krýsvíkinga. Grindavíkurhreppur átti landamörk með Strandahreppi í austri og voru þau við sjó í Seljubótarnefi en voru dregin þaðan í svonefndan Sýslustein sem stendur við þjóðveginn í Selvog. Við Sýslustein beygði landamarkalínan aðeins til austurs og þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell og þaðan til fjalla sem nú heita Bláfjöll.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum sem flest eru í landi Grindvíkur. Þau eru frekar lág en setja mikin svip á umhverfið. Þau eru öll talin vera gosmyndanir og eru frá því seint á síðustu öld.
Ströndin meðfram Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Gróðurfar og ræktun
Geldingadalir – Gos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.
Af lýsingum að dæma virðist oft ekki hafa verið mjög búsældarlegt í hreppnum. Gróðurfar var frekar lélegt og ræktunarskilyrði slæm Að öllum líkindum hefur verið mun búsældarlegra á landnámsöld, heldur en t.d. um 1700.
Um það bil þrem öldum eftir landnám hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa hafist með neðansjávargosi á árunum 1210-1211 og reis þá Eldey úr sjó. Um árið 1266 varð mikið öskugos við Reykjanestá. Lagði öskulagið yfir allan Reykjanesskaga, upp í Borgarfjörð og austur í Flóa. Í kjölfar öskugossins, eða samtímis því hófust mikil hraungos. Runnu þá ein sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Eins og vænta má ollu þessi umbrot miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróðurinn og valdið bændum miklum búsifjum.
Vegavinnubúðir á Gíghæð.
Á þessum tíma hefur jarðvegurinn víðast verið grunnur og sendinn og lítið þurft til að uppblástur yrði. En þó hreppurinn hafi verið mjög gróðursnauður var hægt að finna gróðursæla dali og kvosir sem vaxnar voru grasi og hrísi. Það voru Selsvellir, Baðsvellir og Vigdísarvellir sem reyndust eitt besta gróðurland Grindvíkinga. Á slíkum stöðum höfðu Grindvíkingar sel fyrr á öldum og reyttu hrís til eldiviðar og til fóðurs handa skepnum. Á Vigdísarvöllum var reist bú upp úr seli en það stóð frekar stutt.
Illa gekk bændum að rækta tún og til viðbótar við slæman jarðveg var mikið vatnsleysi. Hraunið var mjög gljúpt og vatnið seytlaði niður á mikið dýpi. Víðast var afar djúpt niður á grunnvatn, og gekk sjór inn í sprungur og gjótur og blandaðist vatninu, gerði það slæmt og jafnvel óhæft til drykkjar. Svo slæmt varð það að reiknað var með að byggð legðist af á Ísólfsskála, austan Grindavíkur, sökum vatnsleysir en það fór þó ekki svo.
Sloki – uppdráttur ÓSÁ.
Um 1830 fóru bændur verulega að bæta tún sín, og um svipað leyti varð garðrækt almenn. Þar var þó einkum um að ræða kálrækt og ræktunarskilyrðum lýsir Geir Bachmann þannig:
Þórkötlustaðahverfi.
„Jarðarrækt er hér stunduð rétt í meðallagi, á sumum bæjum þó betur, t.d. á Hrauni, Járngerðarstöðum, Húsatóttum. Hinar jarðirnar ganga fremur úr sér árlega, bæði fyrir ákomna margra ára níðslu, sem og líka af sandfoki og sjávarágangi. Á tveimur fyrst nefndu bæjum hafa tún í seinni tíð verið mikið sléttuð en túngörðum ætíð vel við haldið á þeim öllum. Greftir til vatnsafleiðinga og skriðugarðahleðsla á hér ekki heima. Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi. Ei eru hér almennt ræktaðar kartöflur, Hefir mér þó allvel lukkast það 2 undanfarin ár, og mætti þó betur takast.“(Geir,1835-82)
Svartsengi.
Á þremur stöðum í hreppnum er jarðhiti: á Baðsvöllum, í Svartsengi og í Krýsuvík. Litlar heimildir eru um nýtingu jarðhitans á Baðsvöllum og í Svartsengi fyrr á öldum. Örnefnið Baðsvellir bendir þó til að þar hafi einhver nýting verið.
Í dag er nokkuð öðruvísi um að litast í Grindavík. Mikið hefur verið gert af því að rækta upp svæði sem áður hafa verið eingöngu hraun.
Hverfin þrjú
Hóp – uppdráttur ÓSÁ.
Landnámsmenn í Grindavík voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, sem nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, sem nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám í Grindavík af nákvæmni.Líklegt þykir að það hafi verið á fjórða tug 10. aldar. Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans.
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.
Staðarhverfi.
Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.
Skógfellastígur.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.
En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann ekki mjög fögur: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.“(Geir,1835-82)
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2200 manns og þar af búa aðeins u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Íbúafjöldi.
Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.
Engar áreiðanlegar heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703. sbr. Saga Grindavíkur bls. 87. Ekki virðist vitneskjan vera meiri um mannfjöldaþróun á 16. og 17. öld Byggð á þeim lögbýlum sem í hreppnum voru virðist vera stöðug. Ein breytingarnar voru þegar vel fiskaðist, þá þurftu útvegsbændur á vinnufólki að halda.
Samanburður á íbúum í hverfunum þremur á árunum 1703 og 1762.
Staðarhverfi 1703 = 72 1762 = 44
Þórk.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 90
Járng.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 56
Stóra-Gerði í Staðarhverfi.
Á þessari töflu má sjá að fólki fækkaði nokkuð mikið í Staðarhverfi eftir árið 1703. Ástæður þess eru sjálfsagt margar en líklegt má telja að Stóra-Bóla eigi mikinn þátt í því. Annálar frá 1400 – 1800 herma að úr henni hafi 49 manns látist í Staðarsókn í Grindavík. En auk farsóttar voru sjóslys mjög tíð á þessum árum. Við upphaf 19. aldar voru Grindvíkingar um þriðjungi færri en í upphafi 18. aldar og virðist sem 18. öldin hafi verið mönnum mjög erfið. En úr þessu var jöfn þróun í hreppnum og þegar Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974 voru íbúar 1600.
Á árunum 1890 -1920 voru tvær gerðir heimila algengastar í Grindavík. Það voru mjög fjölmenn heimili sem líkjast mjög gömlu sveitaheimilunum. Þessi heimili voru flest á gömlum lögbýlum og jörðum sem á bjuggu útvegsmenn. Á þessum heimilum bjuggu oft 15 – 18 manns. En á ýmsum hjáleigum og nýjum býlum var fátt í heimili jafnvel ekki nema 2 – 4.
Landbúnaður
Kind virðir fyrir sér kvöldsólina frá Víkurfjárhúsunum í Grindavík
Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.
Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.
„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru“(S.G, II,163).
Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.
Sjávarútvegur og fiskvinnsla
Þorbjörn (Þorbjarnarfell).
Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.
Grindavíkurbrim.
„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg (milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)“. (S.G.I,188).
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.
Brim utan við Sloka.
Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.
Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm.
Grindavíkurhöfn – loftmynd/ÓSÁ.
Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.
Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.
Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða.
Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.
Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.
Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.
Grindavík 1963.
Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.
En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.
Skólamál
Grindavík – gamli skólinn.
Allt fram undir lok 18. aldar fór almenn fræðsla í lestri, skrift og kristindómi að mestu fram á heimilunum. Var það undir foreldrum og öðrum komið, hvernig uppfræðing barnanna tókst, en prestum bar þó að fylgjast með kristindómskunnáttu þeirra.
„Um miðja 18. öld fóru þeir Jón Þorkelsson og Ludvig Harboe að ferðast um landið, m.a. til að kanna þekkingu fólks. Komust þeir að raun um, að kunnáttu í lestri og skrift í Grindavík var töluverð ábótavant og kunnátta í reikningi enn minni. Í ljósi þessarar niðurstöðu, lögðu þeir félagar fram ýmsar umbótatillögur, sem m.a. leiddu til þess, að ákveðið var, að prestar skyldu hafa eftirlit með heimakennslunni. Komu þeir árlega á hvert heimili í sóknum sínum til að prófa börnin. Niðurstöður voru svo færðar inn í húsvitjunarbækur.“(S.G.I,330).
Séra Oddur V. Gíslason.
Rúmum áttatíu árum síðar segir síra Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni: „Eigi fæ ég sagt, hvað margir eru hér skrifandi; þykir máske ég herma mikið, ef ég þó segi hér vera 20 og þar af einasta 2 kvenmenn. Þó eru fleiri, sem lesa skrif, og unglingar leggja sig nú margir hér eftir þessarri fögru list, hverja ég ei reikna í hópi þeirra skrifandi.. Þeir, sem ekki eru skrifandi eru á öllum aldri og af báðum kynferðum.“ (G.B.1835-82)
Það var ekki fyrr en árið 1883 að ástæða þótti til að fá mann til að kenna börnum lestur, skrift og reikning, þó svo löngu væri búið að stofna skóla annars staðar á Suðurnesjum. Því fylgdi líka að byggja þyrfti hæfilegt hús fyrir kennsluna. Ekki er talið að kennt hafi verið nema einn vetur til að byrja með. Helsti talsmaður barnaskóla í hreppnum var án nokkurs vafa síra Oddur V. Gíslason. Honum þótti menntun og menning yfir höfuð vera mjög á eftir í Grindavík. Síra Oddur lagði mikið á sig til að koma á barnaskóla, og fékk bændur og sjómenn til að leggja sitt af mörkum. Það hafðist og kennsla hófst 2.október 1888 og fór fram á þremur stöðum: Stað, Garðhúsum(í Járngerðarstaðahverfi) og á Hrauni. Kennt var eina viku í senn á hverjum stað og fengu 25 börn kennslu.
Svona gekk þetta í nokkuð mörg ár, en ekki gekk alltaf vel að fá kennara.
Guðbergur Bergsson.
„Haustið 1893 var ákveðið að hafa skólann á einum stað. Leitað var til stiftyfirvalda um styrk til að koma á fastaskóla í hreppnum, en ekki urðu stiftyfirvöld við þeirri bón. Engu að síður var ákveðið að leigja húsnæði til kennslu. Eitt af síðustu verkum síra Odds áður en hann fluttist til vesturheims árið 1894 var að ítreka beiðnina við stiftyfirvöld. Í þetta sinn urðu stiftyfirvöld við beiðni síra Odds og nú var í fyrsta sinn veitt úr landssjóði til barnaskóla í Grindavík.“(S.G.II,335)
Á þennan hátt var börnum í Grindavík kennt þar til árið 1904, en þá var farið að kenna í samkomuhúsinu. Áramótin 1912-1913 hófst kennsla í nýbyggðu skólahúsi var kostnaðurinn við húsið 3700,56 krónum. Árið 1929 var skólaskylda færð niður í sjö ár og þegar barnaskólinn var settur í september árið 1929 voru alls 68 nemendur og nú þurfti að bæta við kennara. Skólastjóri þá var Einar Kr. Einarsson. Samhliða því var fengið kennsluhúsnæði í Þórkötlustaðahverfi því ekki var hægt að láta sjö ára börn ganga á milli hverfa, en það er u.þ.b. 2 kílómetrar. Árið 1937 þurfti enn að bæta við kennara og var þá Sigrún Guðmundsdóttir ráðin, en hún hafði nýlega lokið námi við Kennaraskólann. Einn af nemendum Sigrúnar var Guðbergur Bergsson rithöfundur og lýsir hann kennlukonunni svona:
Frá Þórkötlustaðahverfi.
„Í hverfinu (Þórkötlustaðahverfi) var enginn kennari. Þess vegna kom hann á hverjum morgni þrammandi, í rauðhærðri kvenmannsmynd, í hvaða veðri sem var utan úr Járngerðarstaðahverfi. Á veturna var að líkum stöðug rigning eða snjókoma á víxl og þess vegna kom kennslukonan ýmist rennblaut eða helfrosin í skólann… Þegar frost var úti og kennslukonan kom í skólann, var fyrsta verk hennar að þíða á sér andlitið með lófunum og frosið blekið í byttunum, en fötin sín þurrkaði hún við ofninn. Á þessum tíma þekktist ekki upphitun í húsum og við krakkarnir gengum í ullarfötum jafnt yst sem innst: fyrst í utanyfirpeysu, svo millifatapeysu, síðan í koti, en næst líkamanum vourm við í ullarnærbrók, og því gerði ekki svo mikið til að við værum blaut. Við lyktuðum ymist af frosinni eða blautri ull, og lyktin hefur eflaust verið megn, því að kennslukonan hélt okkur í hæfilegri fjarlægð frá sér, en við slógum um hana hálfhring á meðan hún sat við ofninn.
Frá Þórkötlustaðahverfi.
Starfs síns vegna gekk hún í „búðarfötum“ í veðurgarranum. Hún var í kápu og með slæðu um hálsinn, hatt með slöri og fæturnir voru í ljós-eða músarbrúnum bómullarsokkum. Samt breyttu þeir auðvitað um lit eftir veðurfarinu. Kennslukonan fékk sér alltaf sæti til hliðar við ofninn á meðan hún var að þorna eða þíða fötin og blekið. Til þess að vera ekki aðgerðarlaus á meðan ofn krílið gerði kraftaverk á henni, brá hún á loft löngum spjöldum með mislöngum orðum sem við áttum að vera fljót að lesa… Hvað sem því líður þá hættu föt kennslukonunnar smám saman að vera dökkleit þannig að eðlilegur mjúkur litur tók jafnt og þétt yfirhöndina í ljósum, þurrum blettum sem færðust upp eftir líkamanum uns hún varð skjöldótt, heit og rjóð. Þá reis hún á fætur og gekk að púltinu í gufustrók sem lagði af henni og stóð til allra hliða. Hin raunverulega kennsla byrjaði aldrei fyrr en hún hafði breyst í gufustrók.“(Guðb.B,26-29)
Frá Járngerðarstaðahverfi.
Á þessum tíma var orðið ljóst að byggja þyrfti nýjan skóla. En ekki var hafist handa við að byggja hann fyrr en árið 1945, vegna erfiðra aðstæðna í byggðarlaginu. Var skólinn reistur rétt vestan við aðalgötuna í Járngerðarstaðahverfinu. Formleg vígsla á skólanum fór fram haustið 1947, þó svo kennsla hafi byrjað þar ári fyrr. Þá voru liðin 60 ár frá því síra Oddur V. Gíslason réð fyrsta kennarann til starfa. Á sama tíma var stofnaður unglingaskóli og kennt þar í einni deild.
Menning og félagsmál
Þar sem lífsbaráttan var hörð gerði fólk ekki margt annað en að afla sér matar og halda sér á lífi og afar lítið var um skemmtanir. Einu mannamótin voru í raun kirkjuferðir á sunnudögum og öðrum hátíðisdögum.
Klöpp. Tóftir bæjarins.
Fyrstu heimildir um aðra skemmtun en kirkjuferðir eru frá aldamótum 1900. Var þá talað um að dansað hafi verið í pakkhúsi og spilað á harmonikku og dansað linnulaust alla nóttina. Fyrsta góðtemplarastúkan var stofnuð í Grindavík 1891 og var það Oddur V. Gíslason sem gekkst fyrir stofnun þessarar stúku. Bindindismál vour aðal viðfangsefni stúkunnar, en ýmislegt annað var gert þar t.d. var komið á fót lestrarfélagi. En ekki var þessi stúka lengi við líði, því þegar síra Oddur flutti til Vesturheims með fjölskyldu sína hvarf mesti krafturinn úr henni. En á næstu árum voru nokkuð margar stúkur stofnaðar í Grindavík en þær voru mislengi virkar.
Lestrarfélagið Mímir var stofnað 1904. Félagið var mjög virkt fyrstu árin og mikið af bókum keypt. Til að fjármagna bókakaup voru haldnar tombólur og skemmtanir og þá aðallega dansskemmtanir.
Haustið 1923 var stofnað kvenfélag í Grindavík og var það Guðrún Þorvarðardóttir sem var aðal hvatamaður þess. Hún taldi, að í hreppnum mætti áorka miklu ef konur tækju sig saman og mynduðu félag. Kvenfélag Grindavíkur stóð meðal annars fyrir Svartsengishátíð í mörg ár.
Cap Fagnet á strandsstað.
Slysavarnardeildin Þorbjörn var stofnuð formlega 1928 en áður hafði síra Oddur V. Gíslason unnið ötullega að slysavörnum. Hann gaf út einn árgang af blaðinu Sæbjörgu árið 1892 og var það rit helgað slysavörnum. Árið 1930 var ákveðið að koma upp fluglínustöð í Grindavík. Aðeins viku eftir að björgunarsveitarmönnum hafði verið kennt á fluglínutækin þurfti nota þau. Franski togarinn Cap Fagnet, með 38 manna áhöfn strandaði við Hraun. Björgunin tókst giftusamlega og voru þessi nýju tæki strax búin að sanna sig. Áður en langt um leið voru slík tæki komin til allra deilda Slysavarnarsélags Íslands. Árið 1949 var svo stofnuð björgunarsveit þar sem mönnum fannst að það þyrfti vel þjálfaða menn við björgunarstörf. Björgunarsveitin Þorbjörn starfar af krafti í dag og er tækjabúnaður og öll aðstaða orðin mun betri en áður. Árið 1977 var Slysavarnardeildin Þórkatla stofnuð og eignaðist þá björgunarsveitin sterkan bakhjarl.
Björgun áhafnar Cap Fagnet.
Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað árið 1935. Má rekja upphafið að stofnun félagsins til Jóns Guðmundssonar, sem var vitavörður á Reykjanesi í kringum 1930. Hann hafði mikinn áhuga á félagsmálum og hafði talsverða þekkingu á starfi ungmennafélaga. Haldin voru íþróttanámskeið og einnig stóð Íþróttafélagið fyrir danskemmtunum. Íþróttafélagið fékk aðstöðu til íþróttaiðkana í Kvenfélagshúsinu. Strax á fyrstu árum félagsins var farið að kenna sund. Fór þá Einar Kr. Einarson skólastjóri, sem var einn fárra í Grindavík sem kunnu að synda, með börn út á Reykjanes og kenndi sund í gjá, sem í rann volgt vatn. Fótboltinn heillaði snemma og auðvelt var að smala saman í fótboltalið. Það virðist sem Grindvíkingar hafi átt nokkuð efnilega fótboltamenn því þeir urðu Suðurnesjameistarar árið 1950. Íþróttafélagið ásamt Slysavarnardeildinni Þorbirni stóðu fyrir hátíðarhöldum á sjómannadaginn fyrst árið 1949 og gekk það í mörg ár. Árið 1963 fékk félagið nýtt nafn og var nú orðið Ungmennafélag Grindavíkur.
Lokaorð
Grindavíkurkirkja.
Í dag búa í Grindavík um 2200 íbúar (árið 2002). Atvinna er í nokkuð góðu lagi,en það er þó að mestu leyti fiskvinna. Þó eru farin að vaxa hér lítil fyrirtæki með léttan iðnað.
Á síðustu árum hefur orðið gífurleg viðhorfsbreyting hjá fólki varðandi garðrækt. Þar hjálpar mikið til að Grindavíkurbær hefur lagað mikið af sínum svæðum. Þar sem áður hefur verið hraun og sandur er orðið grasi gróið. Þetta hefur orðið til þess að bærinn er orðinn mjög snyrtilegur og fallegur. Vonandi verður framhald á því það er alltaf eitthvað meira sem má laga.
Mikið hefur verið gert af því að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í Grindavík. Og er alveg ástæða til því bærinn hefur upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn. Þá er ég ekki eingöngu að tala um Bláa Lónið sem er þekktasti staðurinn við Grindavík. Mikið er t.d. af fallegum gönguleiðum í kringum bæinn og hafa nokkrar þeirra verið merktar. Þá er mikið af hverum víða í landi Grindavíkur.
Heimildaskrá
1. Geir Bachmann. 1835-1882. Sóknarlýsingar og annar fróðleikur um Grindavík.
2. Jón Þ. Þór. 1994. Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800.
3. Jón Þ. Þór og Guðfinna Hreiðarsdóttir. 1996. Saga Grindavíkur 1800-1974.
4. Þóra K. Ásgeirsdóttir. 1992. Guðbergur Bergsson metsölubók, 26-29.
Heimildir sem stuðst var við:
1. Gísli Brynjólfsson. 1975. Mannfólk milli sæva, Staðhverfingabók.
2. Jón Eyfjörð. Samantekt um Grindavík. (Upplýsingar af Internetinu).
Grindavík – séð frá Þjófagjá.