Trönur

 Allar eiga ártíðarnar sína álfa og sín tröll; hraun, skóga, dali og fjöll. Hver ártíð á auk þess sér sinn sjarma; vorið kemur með morgunroðann og laufilman, sumarið með hlýindin og blómgunina, haustið með kvöldroðann og dvalann og loks veturinn með frostmyndanirnar og snjóinn. Allar bjóða þær því upp á útvist með tilbrigðum – allt árið um kring. Allt er þetta mönduhalla jarðarinnar að þakka. Virkni hans er þó mismunandi á jarðarhlutana.

Hraun, dalir, skógar og fjöll

Reykjanesskaginn er hluti af jörðinni og hefur, því líkt og aðrir hlutar hennar, fjórar ártíðir. En eins og vetur í Mið-Afríku eru t.d. öðruvísi en vetur á Íslandi þá eru vetur á Reykjanesskaganum öðruvísi en t.d. á Vestfjörðum. Fyrrnefndi staðurinn er snjóléttur á meðan miklir snjóar eru að jafnaði fyrir Vestan. Það er ekki þar með sagt að vetur fyrir Vestan séu verri, en vályndi þeirra eru þó óneitanlega meiri. Þess vegna er vorið flestu fólki kærkomnara þar en á Reykjanesskaga.
Straumar þeir, er liggja að landinu, hafa mikil áhrif á alla veðráttu. Það er Golfstraumnum að þakka, að loftslag hér á landi er miklu mildara en við mætti búast eftir hnattstöðu landsins. Á Íslandi er eyjaloft; í þeim löndum, þar sem eyjaloft (úthafsloftslag) er, er svo háttað, að vetrarkuldi er lítill og sumarhiti lítill, litlar daglegar hitabreytingar, mikill Golfstraumurinn hitar eigi aðeins Ísland,heldur og allar norðvesturstrendur Evrópu; þess vegna nær hitinn þar miklu lengra norður á við en fyrir vestan haf. Hitamuninn má best sjá á línum, sem menn hugsa sér dregnar um alla þá staði, er hafa jafn mikinn árshita, hitalínur. Eftir sólarganginum ættu allar þessar hitalínur að ganga jafnhliða við breiddarbaugana, en margar orsakir eru til þess, að eigi er svo. Meðalhiti ársins á Ísafirði er 1.6 (Celsíus), í Stykkishólmi 2.7 (Celsius) og á Reykjanesskaganum 4.2 (Celsíus).
MiðsvetrarfrostverkunTil að snjór verði til í háloftunum þarf tvennt: Kulda og raka í loftinu. Hér á Íslandi er báðum þessum skilyrðum oft fullnægt á veturna (og einstaka sinnum á sumrin, til dæmis á fjöllum). Í ýmsum löndum sem liggja nær miðbaug og þar sem vetur eru mildari snjóar hins vegar sjaldan. Við þurfum ekki að fara lengra en til Bretlands til að það eigi við á láglendi, en þar er úthafsloftslag eins og hér þannig að lítill munur er á sumri og vetri og vetur eru mildir.
Fróðlegt er að bera saman snjóalög á Norðurlandi og Suðurlandi. Á Norðurlandi er norðanáttin yfirleitt bæði köld og rök og því miklar líkur á að henni fylgi snjókoma á vetrum. Á Suðurlandi er norðanáttin að vísu oftast köld en hins vegar þurr og þess vegna minni líkur á snjókomu með henni. Sunnanáttin er á hinn bóginn rök en um leið hlý sem dregur úr líkum á snjókomu með henni. Það er þess vegna engin furða að oft er mikill munur á snjóalögum á útmánuðum norðan lands og sunnan.
Snjólaus ReykjanesskaginnÞegar gervitunglamyndir af landinu eru skoðaðar á vetrum má jafnan sjá Reykjanesskagann snjólausan meðan aðrir landshlutar eru alhvítir á að líta. Þetta ætti einhverjum, sem vill nýta sér landssvæðið til útivistar, að verða áhugavert umhugsunarefni. Í raun má segja að allir Reykjanesskagadagar gefi bæði tilefni og tækifæri til útivistar.
Einn er þó að verða hængur á. Það er vaxandi skógrækt. Þegar eru dæmi um að forn mannvirki hafi verið fórnað fyrir trjáplöntur, þrátt fyrir ákvæði í lögum að slíkt sé óheimilt.
Skógur er ekki mikill á Íslandi og er reiknað með að hann sé aðeins um 1% af flatarmáli landsins. Þar er birkið mest áberandi. Mikið er þó plantað í dag af erlendum tegundum eins og ösp, greni og lerki. Þegar síðast var komið í Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir á Reykjanesskaganum mátti sjá hvar plantað hafi verið í seltóftina. Seltóft á Baðsvöllum er nú orðin áratuga gömlum skógi að bráð. Trjám hefur verið plantað í gömlu þjóðleiðina við Ró[s]selsvötn milli Hvalsness og Keflavíkur. Skógur er nú undir Selhlíð [Sólhlíð] þar sem gamla þjóðleiðin ofan af Stapa til Grindavíkur lá fyrrum. Lerkitré eru í stekknum frá Hvaleyrarseli við Hvaleyrarvatn og svo mætti lengi telja.
Líkt og hugsunarleysi getur svo auðveldlega eyðilegt minjar getur áhugaleysi á sama hátt vannýtt tilbrigði ártíðanna – ekki síst hér á Reykjanesskaganum.
Skógur er víða til vandræða

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Víða um land eru duldar (faldar) söguminjar, jafnvel allt frá upphafi landnáms norrænna manna. Sumstaðar eru minjarnar þó bæði heillegar og í rauninni stórmerkilegar í sögulegu samhengi.
En svo virðist sem bæði forsvarsfólk Minnismerkiðsveitarfélaga vegna áhugaleysis og ferðamálafólk ómeðvitað hafi bundist samtökum um að fela þessa aðdrætti fyrir áhugasömum ferðalöngum. Hér skal tekið nýlegt dæmi. FERLIRsfélagi, sem örsjaldan fer út fyrir Reykjanesskagann (enda eitt samfellt minjasvæði), hafði nýlega hug á að skoða svonefndar „Auðartóftir“ við Hvammsfjörð á sunnanverðu Reykjanesi vestra. Félaginn hafði lesið sig til um hugsanlega staðsetningu. Eknir voru ófáir kílómetrarnir með tilheyrandi kostnaði. Kennileitið var Krosshólaborg. Borgin reyndist vera merkt þegar að var komið, enda hefur minnismerki um frú Auði verið reist á henni (minna mátti það varla vera). Steinkross var settur upp á  borginni til minningar um hana árið 1965.
Í Landnámu segir um Auði djúpúðgu: „Kollur hét maður Veðrar-Grímsson, Ásasonar hersis; hann hafði forráð með Auði og var virður mest af henni. Kollur átti Þorgerði, dóttur Þorsteins rauðs.
Erpur hét leysingi Auðar; hann var son Meldúns jarls af Skotlandi, þess er féll fyrir Sigurði jarli hinum ríka; móðir Erps Auðartóftirvar Myrgjol, dóttir Gljómals Írakonungs. Sigurður jarl tók þau að herfangi og þjáði. Myrgjol var ambátt konu jarls og þjónaði henni trúliga; hún var margkunnandi. Hún varðveitti barn drottningar óborið, meðan hún var í laugu. Síðan keypti Auður hana dýrt og hét henni frelsi, ef hún þjónaði svo Þuríði konu Þorsteins rauðs sem drottningu. Þau Myrgjol og Erpur son hennar fóru til Íslands með Auði.
Auður hélt fyrst til Færeyja og gaf þar Álöfu, dóttur Þorsteins rauðs; þaðan eru Götuskeggjar komnir. Síðan fór hún að leita Íslands. Hún kom á Vikrarskeið og braut þar. Fór hún þá á Kjalarnes til Helga bjólu bróður síns. Hann bauð henni þar með helming liðs síns, en henni þótti það varboðið, og kvað hún hann lengi mundu lítilmenni vera. Hún fór þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns; hann gekk mót henni með húskarla sína og lést kunna veglyndi systur sinnar; bauð hann henni þar með alla sína menn, og þá hún það.
Eftir um vorið fór Auður í landaleit inn í Breiðafjörð og Krosshólaborglagsmenn hennar; þau átu dögurð fyrir norðan Breiðafjörð, þar er nú heitir Dögurðarnes. Síðan fóru þau inn eyjasund; þau lendu við nes það, er Auður tapaði kambi sínum; það kallaði hún Kambsnes.
Auður nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár. Hún bjó í Hvammi við Aurriðaárós; þar heita Auðartóftir. Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum; þar lét hún reisa krossa, því að hún var skírð og vel trúuð. Þar höfðu frændur hennar síðan átrúnað mikinn á hólana. Var (þar) þá gör hörg, er blót tóku til; trúðu þeir því, að þeir dæi í hólana, og þar var Þórður gellir leiddur í, áður hann tók mannvirðing, sem segir í sögu hans.“
Í Skrá yfir friðlýstar fornminjar má sjá eftirfarandi um Auðartóftir: „Hvammur. a. Forn, aflangur hringur suðvestur á túninu, nefndur „Lögrjetta“.  b. Virkisbali, svo nefndur, nál. ferhyrnt mannvirki í túninu fyrir ofan og vestan bæinn. Sbr. Árb. 1882: 75. c. Rústabunga forn, suður og niður undir túngarði. d. Auðarnaust, er svo heitir, leifar af tóft á sjávarbakkanum austanmegin við útfall Hvammsár. e. Auðartóftir, svo nefndar, hjer um bil 13 faðma upp og vestur frá naustinu. Sbr. Árb. 1893: 63. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 24.06.1931.“
SöguskiltiÞrátt fyrir leit fundust engar vísbendingar á vettvangi hvert skyldi halda svo hægt væri að skoða fyrrnefnt „Auðarnaust“ og „Auðartóftir“, áþreifanleg ummerki eftir hinn fyrsta landnámsmann á svæðinu. En með reynslu fyrri FERLIRsferða á Reykjanesskaganum fundust minjarnar eftir nokkra leit. Uppgötvunin og staðsetningin við þær veðuraðstæður, blankandi sól og hita, voru leitarinnar virði. Auðartóftir, í skjóli neðan undir Krosshólaborginni, eru en vel greinilegar og þar má enn sjá heillagar hleðslur í tóftunum.
Á vef Dalaprestakalls frá 13. júli 2008 segir: „Vel á annað hundrað manns sóttu guðsþjónustu á Krosshólaborg í dag. Eins og fyrir 43 árum rættist úr veðrinu og var sól í sinni viðstaddra. Athöfnin fór fram á borginni og að henni lokinni var afhjúpað söguskilti fyrir neðan borgina um landnám Auðar. Konur úr kvenfélaginu sem hóf að safna fyrir krossinum afhjúpuðu skiltið. Síðan var drukkið kaffi og djús með veitingum úti í náttúrunni í boði sóknarnefndar.“
Batnandi fólki er best að lifa…. Uppsetning söguskiltisins við Krosshólaborg verður vonandi öðrum um land allt hvatning til frekari dáða – og góðra ráða.

Kristófer Bjarnason

Allt of lítið hefur verið gert að því að leita til eldri Íslendinga með það að markmiði að fá hjá þeim upplýsingar um æviskeið þeirra, sérkenni, breytingar, þróun og aðra vitneskju, t.a.m. um tilvist sjáanlegra minja, tilurð þeirra og notkun. Til eru sérstakar opinberar stofnanir, sem ætlað er að sinna þessu hlutverki, en betur mætti á halda en raun ber vitni.
Eggert KristmundssonÞann 23. nóvember s.l. [2007], stóðu Miðstöð munnlegrar sögu og Minni – félag um munnlegan menningararf fyrir ráðstefnu um byggðarsögu og munnlegar heimildir. Bar ráðstefnan heitið Raddir að heiman – Munnlegar heimildir í byggðarsögu og fór fram í Þjóðarbókhlöðu.
Ráðstefnuna hóf Friðrik G. Olgeirsson sem rakti sögu byggðarsöguritunar á 20. öld. Hann skýrði frá því að hlutur munnlegra heimilda í slíkum rannsóknum væri meiri en flesta renndi í grun. Margir kaflar í byggðarsögu tiltekinna héraða væru reyndar óritanlegir án þess að leitað væri til einstaklinga sem upplifað hefðu söguna á eigin skinni.
Næstur tók til máls Arnþór Gunnarsson. Hann skýrði frá því að fyrir all nokkrum árum hefði bæjarstjórn Hafnar ráðið hann til þess að taka viðtöl við eldri íbúa Hafnar. Verkefnið hefði þróast á þá leið að viðtölin urðu á endanum að tveggja binda verki um sögu Hafnar. Arnþór, sem er alinn upp á Höfn sagði að persónuleg tenging hans við svæðið hefði á margan hátt auðveldað honum vinnuna. Hann hefði þekkt til manna og málefna, staðarnafna og atburða. Það að tilheyra samfélaginu sem hann hafði til rannsóknar gerði það líka að verkum að hann átti greiðan aðgang að viðmælendum sínum. Náin tengsl rannsakandans og viðfangsefnisins höfðu sömuleiðis í för með sér að bæjarbúar voru ófeimnir við að hafa skoðun á vinnu Arnþórs og verklagi.

Gísli Sigurðsson er ágætt dæmi um frumkvæðissafnara

Unnur María Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu, gerði stöðu munnlegra heimilda að umtalsefni sínu þegar hún spurði „Hvað er í kössunum“? Hún benti á að eitt sérkenni sögu sé sá þáttur sem fræðimaðurinn á öllu jafna í sköpun þeirra heimilda sem hann eða hún vinnur með. Þetta sérkenni á reyndar sérstaklega við hinn íslenska fræðiheim, þar sem hingað til hefur verið erfitt hefur að nálgast munnlegar heimildir á annað hátt en með því að fara á stúfana með upptökutæki og taka viðtöl. Safn Árnastofnunar hefur lengst af verið eina aðgengilega safnið þar sem hægt er að nálgast munnlegar heimildir, en því efni sem þar er að finna er vitanlega fyrst og fremst safnað með þjóðfræðina í huga. Fyrir rétt rúmu ári síðan gerði Miðstöð munnlegrar sögu könnun á því hvað væri til af munnlegum heimildum á íslenskum söfnum og setrum og í ljós kom að til er töluvert magn slíks efnis. Vandinn er hinsvegar sá að þetta efni að mestu leyti óskráð og í ofanálág er aðgengi að því í mörgum tilvikum takmarkað. Unnur María ræddi niðurstöður könnunarinnar, benti á dæmi um athyglisverðar heimildir sem enn hefði ekki verið unnið með og útskýrði hversvegna það væri brýnt að samvinna takist milli allra þeirra sem að málinu koma um varðveislu og skráningu þessa efnis.
Margrét Jóhannsdóttir, kennari, sagði frá Þórður Bjarnason - mikil, en vanrækt heimildlokaverkefni sínu við KHÍ. Upphaf verkefnisins rekur hún aftur áranna 1990 – 92, en þá vann hún í litlu skólaseli stutt frá Borgarnesi. Aðstæður voru erfiðar og nemendur á mismunandi aldri. Ásamt þáverandi samkennara var hún í námi í KHÍ og átti að skila ritgerð í kennslufræðum og tilraunakenna efnið sjálf. Þær ákváðu að vinna verkefni um heimabyggðina og nefnduð það Sögur, líf og list á Mýrum. Efnið skiptist í marga þætti og tók til náttúrufræði, listsköpunar og sagnavinnu. Íslenskunámið féll í hlut Margrétar, en það átti að bjóða upp á fjölbreytt verkefni með listrænu ívafi. Þar vaknaði áhugi Margrétar á sagnahefðinni. Hún bendir á að mikilvægi þess að varðveita sagnir, vinnulag, búskaparhætti, samskipti, tækni og fleira verði okkur æ ljósara þegar við eldumst. Það sé nefnilega svo ótrúlega stutt í það að nútíðin verði fortíð, í þessu hraða samfélagi sem við lifum í. Sagnamenn týna tölunni, þeir eldast eins og aðrir og verða ekki endalaust á meðal okkar og það sé hverjum manni nauðsynlegt að þekkja fortíðina og þá þróun sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu.

Fólk vill sögulegan fróðleik

Í seinni hluta ráðstefnunnar var fulltrúum safna og stofnana boðið að kynna þau verkefni sem er annað hvort nýlokið, yfirstandandi eða í bígerð. Safnafólk hefur á síðustu árum orðið vart við stóraukinn áhuga almennings á sögu og menningu síns byggðarlags og á því að taka virkan þátt í sköpun eigin sögu í samvinnu við menningarstofnanir í héraði. Á sama tíma hefur tilkoma stafrænnar tækni og vefmiðlunar fjölgað þeim möguleikum sem eru á bæði söfnun og miðlun munnlegra heimilda. Þau ótal setur og þær fjölmörgu nýjar sýningar sem sprottið hafa upp síðustu ár eru glöggt merki um þessa þróun Byggðasagan skipar þar sterkan sess en jafnframt hefur áhugi á sértækari sögu t.d. atvinnuvega eflst.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar skýrði frá áformum byggðasafnsins um að veita áhugasömum bæjarbúum þjálfun í töku viðtala og veita þeim aðgang að upptökutækjum í þvi skyni að safna frásögnum af svæðinu. [Hér gleymist að sinna þarf hinum áhugasömu því frumkvæðið kemur oftast frá þeim]. Þorsteinn E. Arnórsson frá Iðnaðarsafninu á Akureyri flutti erindi um starfssemi Iðnaðarsafnsins og mikilvægi munnlegra heimilda í starfi þeirra. Heiðrún Konráðsdóttir, sagnfræðingur skýrði frá rannsókn sinni á gamla samfélaginu í Flatey. Björg Erlingsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, sagði frá því hvernig Menningarmiðstöðin hyggst nýta þær munnlegu heimildir sem þar eru varðveittar.
Ljóst er af framangreindu að áhugi byggðasafna og annarra launaðra „verkefnisstjóra“ þeirra virðist fara vaxandi á því hlutverki sínu að sinna menningarsögu byggðalaganna með það fyrir augum að hún varðveitist komandi kynslóðum til handa – en enn er langt í land að sú staða skapist að aldrað fólk og annað fólk með þekkingu á viðfangsefninu fái tækifæri til að skýra arfleifð sína fyrir eftirlifendum.

Óskar Aðalsteinsson

Gísli Sigurðsson ræðir við hjónin Hönnu Jóhannsdóttur vitavörð og Óskar Aðalstein fyrrum vitavörð á Horni og í Galtarvita um ýmis fyrir bæri þessa heims og annars. Viðtalið átti sér stað þegar Hanna var vitavörður í Reykjanesvita. Hér birtist hluti þess:

Hanna Johannsdottir-1„Ætlar ekki telpan að koma með ykkur inn?“
„Hvaða telpa“, spurði ég forviða.
„Telpan, sem er með ykkur í bílnum“, og Óskar Aðalsteinn bendir á mannlausan bílinn.
„Það er engin telpa með okkur“, áréttaði ég; „hún er að minnsta kosti ekki þessa heims. Hvernig lítur hún út?“
„Hún er með kastaníubrúnt hár og klædd í röndótt pils. Látum það vera; maður sér svo margt og hér við Reykjanesvitann ber ýmislegt fyrir augu. Þetta er eins á torgi lífsins. Stundum allt fullt af fólki. Og fegurðin, — allir þessir hreinu litir. Já, eins og á torgi lífsins. Æjá, ég var að vakna, þegar þú bankaðir. Var að skrifa einn kafla í bókina og lagði mig á eftir. Verst að Hanna er ekki heima. Hún rétt skrapp til Grindavíkur og hlýtur að fara að koma. Hún á að taka veðrið eftir smástund og verður hér á mínútunni. Nú skreppur hún í kaupstað, þegar með þarf. Það er einhver munur eða í Galtarvita. Annars kunnum við alltaf vel við okkur þar, enda búin að vera þar í 24 ár“.
Reykjanesviti-221„Og eftir öll þessi ár ertu orðinn vitavörður á Reykjanesi?“
„Nei, konan mín er tekin við. Hanna er vitavörður í Reykjanesvita og ég er bara goskarl hjá henni, enda tími til kominn. Hún er fyrsta konan á Íslandi, sem skipuð er í embætti vitavarðar. Áður var hún búin að vera aðstoðarvitavörður í Galtarvita og þekkti þetta allt vel. Ég er bara að skrifa og held, að ég sé með efni í ágæta bók. Hún kemur út í haust ef guð lofar og Guðmundur Jakobsson. Það er gott að skrifa hérna. Og gott að rölta um hlaðið og sjá útsýnið. Ég tek menn tali og segi þeim frá kríunni. Hún verður eins og voldugt herlið, þegar líða tekur að hausti, — mikill fjaðraþytur, enda langt flug framundan. Já, þetta er eins og leiksvið, — þannig verkar það á mig: Þessi vin hér í auðninni, hóllinn með tígulegum vitanum og heitir víst Bæjarhóll… bíddu annars; við skulum hafa allt á hreinu og fletta þessu upp í bók. Það er allt um þennan stað í Ferðafélagsárbókinni frá 1936.“
Í þeim svifum kom Hanna vitavörður á Skódanum austan úr Grindavík og með henni ungur drengur, sem er til heimilis í vitavarðarhúsinu ásamt með þeim hjónum. Hann kallar þau afa og ömmu, en er raunar kjörsonur eiginkonu sonar þeirra. Hanna tilkynnir um veðrið, ber gestunum kaffi. Allt hennar fas vitnar um festu og örugg tök á hverju verkefni.
Óskar Aðalsteinn: „Nei, hér sé ég, að hann heitir Húshóll. Og vitinn verður 100 ára nú í desember. Kannski verður þá haldin veizla. Reykjanesvitinn var fyrst reistur á Valahnjúk, sem skagar út í sjóinn og sést hér út um gluggann.

Reykjanesviti-223

En eftir snarpar jarðhræringar þótti ekki ráðlegt að hafa hann þar lengur og þá var hann endurreistur á Húshól.“
Hanna er dóttir Jóhanns Loftssonar á Háeyri á Eyrarbakka og áður í Sölkutótt á sama stað. Jóhann var formaður framanaf og átti fyrsta bílinn, sem komst upp Kamba. Óskar Aðalsteinn er aftur á móti frá Ísafirði og hefur þar til nú átt heima á Vestfjörðum. Hann hefur sinnt ritstörfum jafnframt vitavörzlu og hafa alls komið út eftir hann 15 bækur: sú fyrsta 1939.
Óskar Aðalsteinn: „Aðal vitaævintýrið hófst þegar ég gerðist vitavörður í Galtarvita við Súgandafjörð. Sú varðstaða stóð í 24 ár. Við vorum orðin mjög rótgróin þar eins og nærri má geta. Galtarvitinn stendur á allháum sjávarbakka í Keflavík; sá víkurkriki skerst inní hálendið norðan Súgandafjarðar.
Yfir vitann gnæfa fjöllin Göltur og Öskubakur; hamraborgir, þar sem hvert klettabeltið tekur við af öðru frá sjávarmáli Galtarvititil efstu brúna. Líkt og á Horni er Galtarviti með afskekktustu byggðu bólum á landinu. Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður fundin í fjölmenni. En það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem líkja má við bylgjuhreyfingu túngresis á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.
Við Galtarvita er mjög magnað og dulrænt umhverfi; hafi maður þá gáfu að sjá það sem oft er kallað einu nafni huldufólk, er maður aldrei einn. Í nánd við vitann er ein af meiriháttar álfabyggðum á landinu; þar eru Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Og álagablettir eru þar um allt. Sögur af samskiptum manna og huldufólks á þessum stað eru flestar fallnar í gleymsku, en sumar lifa enn; til dæmis sagan um litlu telpuna, sem týndist og var síðan skilað og ekki hægt að sjá á þriðja degi, að neitt hefði fyrir hana komið. Talið var að álfkona hefði lagt ofurást á barnið og hnuplað því, en skilað aftur þegar hún sá hræðsluna og sorgina á bænum. Mér fannst huldufólkið við Galtarvita bæði gott og listrænt. í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit.

Hornbjargsviti

Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum. En þar var líka vera af öðrum toga, sem átti eftir að halda tryggð við okkur æði lengi. Á Horni var slangur af verum á sveimi, þar á meðal Breti, sem gekk þar ljósum logum og vildi helzt vera í fjósinu. Ég talaði oft við hann, sem var erfitt, því hann talaði ensku og ég ekki nógu harður af mér í því máli. Ég var alltaf að hvetja hann til að koma sér áfram til æðri heimkynna, en hann var svo jarðbundinn. Hann hefur líklega ekki kunnað sem verst við félagsskapinn við okkur, því hann fluttist með okkur til Galtarvita og einnig þar hélt hann sig í fjósinu. Ég kallaði hann alltaf Gumma og hann var eins og einn af heimilisfólkinu. Stundum stóð hann við bæjardyrnar og þá sagði ég: „Farðu nú frá Gummi minn, — mér leiðist að ganga í gegnum þig. Ég verð alltaf svo þungur af því. Þú ert svo baneitraður“. Gummi var bezta grey. Lengi vel talaði hann bara ensku.

Reykjanesviti-330

En eftir rúm tuttugu ár var hann töluvert farinn að tala íslenzku og tók framförum. Einu sinni var ég að koma einsamall á báti frá Súgandafirði, þegar vélin bilaði og ég utanvið mig eins og vant er og hafði gleymt að taka árar með. En þá er Gummi allt í einu kominn um borð og knýr bátinn áfram á fullum hraða með fótunum. Hann virtist vita á undan okkur, þegar það skref var tekið að flytja frá Galtarvita og var mjög óánægður, þegar við fórum. Ennþá hefur hann ekki sést hér við Reykjanesvita.
„En eru ekki huldubyggðir hér við Reykjanesvita?“
„Ég hef séð huldufólk hér nærri, en lítið náð sambandi við það, nema einn ungan mann.
Það er truflandi hér, einkum austur undir Grindavík, hvað mikið er um svipi látinna manna. Nokkru áður en við fluttumst að Reykjanesvita, átti ég Reykjanes-brim-2leið hingað frá Grindavík. Veður var vont; rigning og dimmviðri. Þá sá ég einhverja furðulegustu sýn, sem fyrir mín augu hefur borið: Öldur bárust á land, brimöldur og í þeim fjöldi manns, sem barst uppí sjávarlokin. Þessir menn engdust og fórnuðu höndum, — þó var sem þeir væru gagnsæir. Þeir gáfu frá sér lág, en gífurlega sterk hljóð. Ég er ýmsu vanur af þessu tagi, en þarna fylltist ég óhugnaði og varð smeykur. Síðar hef ég oft farið í allskonar veðri til Grindavíkur og alltaf orðið var við eitthvað.
Hér í íbúðarhúsinu hef ég orðið var við karl og konu, sem ganga í gegn annað slagið, en tala ekki við mig. Helzt vildi ég að þau hyrfu og að við gætum fengið að vera hér útaf fyrir okkur. Um það vil ég ekki segja annað í bili.
En hér í kring er allt kvikt og fullt af ljósum, þegar rökkva tekur og það er bara til ánægju. Það eru lituð ljós, oft blá eða ljósgræn og öðruvísi en okkar ljós„.
„En álfar?“
„Ég veit ekki, hvort maður á að kalla það álfa. Líklega hef ég ekki komizt í kynni við þessa blómálfa, sem sumir hafa séð. Aftur á móti sé ég smáfólk, mjög elskulegt og óvíða meira um það en einmitt hér við Reykjanesvitann. Ég veit ekki hvort það er huldufólk. Maður sér það í nánd við uppsprettulindir og eftir að rökkva tekur eru oft heilir skarar að leikjum í nánd við hverina, — það dansar og skemmtir sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem er sérstakt við umhverfi Reykjanesvitans.

Reykjanesviti-332

Ég fer varla svo út í ljósaskiptunum, að ég sjái ekki heilu hringdansana: Karlmenn í grænum, rauðum og bláum kirtlum, en kvenfólkið hvítklætt og með slæður. Þetta er mjög fallegt fólk; aðeins smærra en við. Stundum koma hingað heilar fylkingar, sem virðast ná allt upp til fjallanna innar á skaganum. Einn og einn hefur komið til mín án þess að tala til mín. En þeir vita af mér og þeir vita, að ég sé til þeirra. Smáfólkið aftur á móti; það er öðruvísi og við suma þar hef ég talað. Það er tvennskonar, sumt saklaust og elskulegt og virðist lifa áhyggjutaust frá degi til dags. En svo eru þeir, sem sitja löngum hjá villtum blómum og lifa mikið í hugsuninni. Þeir hafa hvatt mig til að skrifa bókina þá arna, sem nú er í smíðum. Þetta er gott fólk og enginn ótugtarskapur er þar á ferðinni. Og það vil ég segja þeim, sem ekki sjá og efast eðlilega, að þeir hefðu gott af návistum
við þetta fólk aungvu síður. Það gerir maður með því að hverfa til svona staða úti í náttúrunni og setjast niður. Fyrst kemur smáfólkið og kannar stemmninguna, en svo koma aðrir stærri og gefa manni styrk.
Sumt huldufólk hefur þá gáfu til að bera, að það skapar eitthvað úr engu og lætur það eyðast jafnóðum. Sumir skrifa til að mynda með fingrinum út í loftið og þá verða til myndir í litum, en eru við lýði í skamma stund og leysast þá upp. Á sama hátt virðast þeir geta skapað sér hús, sem aðeins standa um stundarsakir.

Reykjanesviti-334

Einstaka sinnum hef ég upplifað það fyrirbæri að fara sálförum, sem kallað er og þó nokkrir hafa reynt og skýrt frá. Það er afar einkennileg reynsla. Hjá mér hafa þetta verið minni háttar sálfarir að ég held, utan einu sinni, að ég brá mér á kreik svo um munaði. Þá fann ég vel eins og fleiri hafa lýst, hvernig ég losnaði við líkamann og gat horft á hann úr fjarlægð. Síðan hvarf ég á brott og kom í borg, sem ég þekkti ekki og var heldur ekki þessa heims. Hún var alveg ólík þeim borgum, sem við þekkjum, bæði að gerð og efni. Mér þótti sem þar ætti að fara fram ráðstefna og allt í einu var ég kominn á þessa ráðstefnu, sem vann að því að magna upp straum til að bjarga einhverju á jörðinni að ég held. Þarna myndaðist einn vilji; ég hafði vitund þeirra hinna og þeir mína. Á eftir tóku allir í hendina á mér, leifturhratt en þægilega og á eftir leystist borgin upp án þess að hljóð heyrðist. Alltaf hafði ég á tilfinningunni samband við líkamann, en ég varð ekki var við neinn þráð eins og sumir hafa talað um. Um tíma var ég staddur í tómarúmi og var skelkaður og ég minnist þess greinilega, þegar ég fann líkamann aö nýju og smaug inn í hann.“
Hanna: „Þetta átti sér nokkuð oft stað, meðan við bjuggum í Galtarvita, en það ber minna á því hér. Það er næstum því óhugnanlegt að horfa á hann í þessu ástandi. Hann virðist í fyrstu falla í trans eða djúpan svefn, en eftir dálitla stund opnast augun. og þá er hann mjög uppljómaður á svipinn.
Það er þá eins og hann vakni til annars heims og talar þá eitthvað, sReykjanesviti-336em ég skil alls ekki. Þetta ástand varir í fimm til tuttugu mínútur og það er eins og hann haldi í hendina á einhverjum á meðan. Hann virtist alltaf tala við sama fólkið og af lýsingum hans þóttist ég vera farin að þekkja, við hverja hann var að tala. Svo dró allt í einu af honum; hann slappaðist allur og lá eins og dauður maður, ýmist með augun opin eða lokuð. Fyrir kom, að ég hélt hreinlega, að hann væri látinn og fór þá að reyna lífgunartilraunir“.
Óskar Aðalsteinn: „Á eftir man ég yfirleitt vel, hvað hefur gerst. Það er rétt, að ég hitti og ræði við sama fólkið; það er á sjöunda sviði frá jörðu. Sjálfsagt finnst einhverjum það hljóma undarlega. En þarna er unnið að jákvæðum áhrifum og þar er kona, sem mestu ræður. Sjálfur hef ég þegið hjálp, sem þaðan kemur. Á tímabili var ég oft með verk og óþægindi fyrir hjarta, en það var lagað og ég tel mig vita, hvaðan sú hjálp kom.“
Hanna: „Eftir að við fluttum á Reykjanes, hef ég minna orðið vör við þetta fyrirbæri, en þaö átti sér oft stað á árunum, sem við vorum í Galtarvita. Ég skal játa, að ég var talsvert smeyk fyrst, ekki sízt vegna þess að það er ekkert auðhlaupið til læknis úr Galtarvita. Það gegnir öðru máli hér. Sjálf er ég annars eins gersneydd dulrænum hæfileikum og hugsast getur. Ég verð aldrei vör við neitt og er öll í þessu jarðneska. Og satt að segja líkar mér það bezt þannig“.
„Þú hefur haft æfingu í vitavarðarstörfum að vestan og ekki þurft að læra neitt nýtt, þegar hingað kom?“
Gunnuhver-222Hanna: „Frá 1967 var ég aðstoðarvitavörður í Galtarvita og hafði því góða reynslu, þegar hingað kom. Erfiðast er í skammdeginu; maður veit aldrei, hvað fyrir getur komið, ef eitthvað bilar. Vitinn sér að verulegu leyti um sig sjálfur. Í dagsbirtu gefur hann engin merki, en fótósella setur ljósið í gang um leið og skyggir. Bregðist rafmagnið, er dísilstöð til vara.“
„En þarftu að fara ofan að nóttunni til að gá, hvort allt sé með felldu?“
Hanna: „Það er að miinnsta kosti ekki skylda. En ég vakna tvisvar eða þrisvar á nóttu og fylgist þá með ljósinu. Það venst og maður sofnar fljótt aftur. Í Galtarvita vorum við alveg háð vélum. Ljósið í vitanum þar var framleitt með rafmagni frá dísilstöð og lítilli vantsaflsstöð yfir sumarið“.
„Vandistu alveg þessari miklu afskekkt þarna við Galtarvita?“
Hanna: „Þegar illviðri geysuðu þótti mér það dálítið öryggislaust, en reyndin varð sú, að það kom ekki að sök. Við höfum aö verulegu leyti unnið þetta verk saman og allt hefur gengið vel. Stundum er spurt, hvort ekki sé hætta á, að hjón verði leið hvort á öðru í svo mikilli einangrun. En ég tel að svo sé ekki. Sambandið verður mjög náið. Óskar gerði mikið af því aö lesa upphátt fyrir okkur úr bókum. Það var þá skemmtun, sem við upplifðum sameiginlega og svo gátum við rætt efni bókarinnar og gerðum mikið af því.“
Oskar Adalsteinn„Hverjar eru annars daglegar skyldur vitavarðarins?“
Hanna: „Til dæmis það að taka veðrið sex sinnum á sólarhring. Í vitanum verð ég að hreinsa ryk og seltu af gluggum og sjálfri krónunni. Hér er líka radíóviti, sem sendir frá sér mors-merki og ég þarf að fylgjast með honum. Við getum ekki brugðið okkur frá bæði; það er viðleguskylda. Þetta er bindandi ekki síður en að búa með kýr og í rauninni miklu meir.“
Við gengum upp snarbrattan hólinn og síðan upp hringstigann, sem liggur eins og snigill unz komið er að ljósaverkinu. Þar var allt vel málað og hreint og útsýnið fagurt á þessum lognkyrra júlídegi. En þarna er veðravíti eins og gróðurinn sýnir bezt og ólíkt umhorfs í illviðrum og myrkri skammdegisins.
Ég spurði vitavörðinn á leiðinni niður, hvort hún væri ekki smeyk að fara ein upp í vitann í svartamyrkri.
Hanna: „Sem betur fer kemur ekki oft til þess að ég þurfi að fara þangað ein í myrkri. Ég skal játa, að ég mundi ekki fá mér kvöldgöngu þangað að gamni mínu. Tilhugsunin um það þætti mér ekki þægileg, en þegar á ætti að herða, mundi ég fara þangað eins og ekkert væri og ég býst við að reyndin yrði ekki nærri eins vond og tilhugsunin“.
Óskar Aðalsteinn beið eftir okkur á tröppum íbúðarhússins. Það var tekið að kvölda. Ég spurði: „Er dansinn byrjaður við hverina?“ Skáldið strauk augun og gekk austur yfir hlaðið og skyggndi með höndunum, líkt og menn gera þegar þeir horfa á móti sólu. „Það er í það bjartasta ennþá,“ sagði hann. „en dansinn fer að hefjast. Ég finn hreyfinguna. Er þetta ekki stórkostlegt? Og litirnir, svo hreinir, svo bjartir.
Eins og á torgi lífsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 3. sept. 1978, bls. 8-12.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi.

Vatnsleysuströnd

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is þann 8. desember 2004 kl 15:06. Fréttin fjallar um að þrjú hross hafi á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst sl. fimmtudag, tvö á sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Hross í nágrenni Sjónarhóls hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra.

Miltisbrandur

Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar. Að sögn embættis yfirdýralæknis og sóttvarnarlæknis hefur rannsókn á blóðsýni úr hrossunum á Tilraunastöðinni að Keldum leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða.

Bóndinn á Minna-Knarrarnesi, Birgir Þórarinsson, og eigandi hrossanna telur landbrot í landi Sjónarhóls síðastliðinn vetur líklegustu skýringuna á því hvernig miltisbrandur barst í hrossin. Að sögn Birgis er hugsanlegt að þegar land náði lengra fram hafi sýktar skepnur verið urðaðar á þessum stað en miltisbrandsgró geta lifað áratugum, jafnvel öldum saman í jarðvegi.
„Það eina sem menn vita er að sjórinn braut bakkann neðan bæjarins síðastliðinn vetur í landi Sjónarhóls og að ekkert annað jarðrask hefur verið þarna.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landbúnaðarráðuneytið hefur að tillögu yfirdýralæknis fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965.
Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn.

Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.
Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.
Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir og Móakot fjær.

Í tilkynningu frá lanbúnaðarráðuneytinu segir að afar ólíklegt sé að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta sé á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.
Sjórinn er smám saman að brjóta af ströndum Reykjanesskagans og draga hann til sín. Víða má sjá í gamlar hleðslur, bein og annað undan bökkum þegar ströndin er gengin.
Miltisbrandur er ein þeirra vá, sem fornleifafræðingar þurfa jafnan að gæta varfærni við þegar grafið er í fornar dysjar, kuml eða svonefnda „álagbletti“ því þar er líklegt að grafið hafi verið sýkt dýr, en síðan saga verið búin til um staðinn varnaðarins vegna.

Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd.

Hvatshellir

Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá. Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.

Kershellir

Kershellir.

Hvatshellir gengur innan af og austur úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 50 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri. Heildarlengd hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-

Hleðsla í Setbergsselsfjárhelli / Kershelli

Setbergsfjæárhellir / Hamarkotsfjárhellir.

Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“
Ketshellir

Í Setbergsfjárhelli /Hamarkotsfjárhelli.

Heimild m.a.:
-Friðþjófur Einarsson, bóndi á Setbergi.

Jólasveinn
Hvað er það að vera til „í alvörunni“? Það er auðvitað ekkert vafamál að jólasveinar eru til í hugum okkar og í sögum og frásögnum af þeim. Í einhverjum skilningi hljóta þeir því að vera til en það er líklega ekki sá skilningur sem átt er við með „í alvörunni“. Líklega er átt við það hvort þeir séu til sem lifandi, áþreifanlegar verur, svona eins og ég og þú.
JólasveinnÞá má auðvitað benda á að til eru lifandi, áþreifanlegir menn í jólasveinafötum sem segjast vera jólasveinar. Er spurningunni þar með svarað? Nei, því stundum heyrist sagt að þessir menn séu bara „venjulegir“ menn með hvítt gerviskegg að leika jólasveina og að þeir eigi alls ekkert heima í helli í fjöllunum og séu þaðan af síður synir Grýlu og Leppalúða. Þetta er talið til marks um að jólasveinar séu ekki til í alvörunni.
Viljum við vita hvort til séu jólasveinar, í sama skilningi og við erum til, 13 rosknir bræður sem búa hjá foreldrum sínum í helli, gegna dags daglega nöfnum á borð við Stekkjastaur, Kertasníkir og Bjúgnakrækir og koma til byggða fyrir jólin og færa börnum gjafir í skóinn.
Óneitanlega eru þær vísbendingar sem við höfum um tilvist jólasveinanna misvísandi. Við skulum nú líta á nokkrar þeirra.

Hvað bendir til þess að jólasveinar séu til?
Margir segja að jólasveinar séu til, meðal annars strangheiðarlegt fólk sem er sjaldan staðið að lygum.
JólasveinnJólasveinar sjást víða um jólaleytið, til dæmis á jólaböllum og niðri í bæ.
Krakkar fá gjafir í skóinn og þeim er sagt að jólasveinarnir setji þær þar. Hver ætti svo sem annars að setja gjafirnar í skóinn?
Mikið er til af sögum og söngvum um jólasveina.
Víða má sjá myndir af jólasveinum.
Heyrst hefur að fólk verði stundum vart við ýmis ummerki eftir komu jólasveina. Til dæmis á Skyrgámur að hafa farið í ísskápinn hjá fólki og skilið eftir sig skyrslettur og kerti að hafa horfið við komu Kertasníkis.

Hvað bendir til þess að jólasveinar séu ekki til?
Hvernig getur einn jólasveinn farið heim til allra barna á landinu og gefið þeim í skóinn á einni nóttu? Á landinu eru um 70.000 börn 15 ára og yngri. Ef við hugsum okkur að jólasveinninn hafi í mesta lagi 12 klukkustundir til að færa þeim öllum gjöf í skóinn á meðan þau sofa þarf hann að setja gjafir í 97 skó á hverri mínútu.
Hvernig getur jólasveinninn borið allt sem krakkarnir fá í skóinn? Ef meðalþyngd gjafar er 200 g þarf jólasveinninn að burðast með 14 tonn af gjöfum þegar hann leggur af stað. Hann getur auðvitað geymt dótið á ákveðnum stað og borið hluta af því í einu, en það tefur hann við verkið þar sem hann þarf að hlaupa meira í staðinn til að sækja dótið.

Hvar fá jólasveinarnir peninga til að kaupa dótið? Ljóst er að verð á gjöfum í skóinn getur verið mjög misjafnt. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að jólasveinarnir fái sérstakan magnafslátt hjá kaupmönnum og komist af með að borga að meðaltali 100 krónur fyrir hverja gjöf. Þá þarf hver jólasveinn að borga 7 milljón krónur á hverju ári fyrir þær gjafir sem hann færir börnunum í skóinn. Ef við reiknum með að hann fái frítt fæði og húsnæði hjá foreldrum sínum og geti eytt öllum sínum launum í gjafir þarf hann að vera með yfir 583 þúsund krónur í mánaðarlaun – eftir skatt.
JólasveinnHvar kaupa jólasveinarnir dótið sem þeir setja í skóinn? Aldrei sést til þeirra við að kaupa neinar af þeim fjölmörgu gjöfum sem þeir gefa.
Hvernig getur jólasveinn sett gjöf í skóinn ef glugginn er lokaður? Heyrst hefur að slíkt komi stundum fyrir.
Af hverju fá krakkar misflottar og misdýrar gjafir frá jólasveinunum?

Ef jólasveinarnir eru til í alvörunni er þetta víst:
Jólasveinar gegna vel launuðum störfum meirihluta ársins og fylgjast vel með því frá ári til árs hvað gleður börnin. Þeir hljóta því að vera vel nettengdir þarna í hellinum sínum, stunda vinnu sína þannig og fylgjast vel með bæjarlífinu. Netið nota þeir líka til innkaupa á dóti í skóinn. Í hellinum er líka fullkomin líkamsræktaraðstaða þar sem þeir lyfta lóðum allan ársins hring til að styrkja sig fyrir gjafaburðinn og hlaupin. Í raun blikna öll helstu íþróttaafrek afreksfólks á heimsmælikvarða í samanburði við afrek jólasveinanna. Líklega ættum við að berjast fyrir því að þeir bræður verði sendir á næstu Ólympíuleika!

Jólasveinar þurfa að fylgjast vel með því sem er að gerast og þeir þurfa að vera meðvitaðir um forna siði og venjur. Kannski jólasveinninn búi enn yfir glötuðum hæfileikum mannsins – góðmennskunni, gjafmildinni, kærleikanum og ekki síst, meðvitundinni.

http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id

Jólasveinn

Íslenskur jólasveinn.

Arnarseturshellir
Íslensku jólasveinarnir eru öldungis óskyldir hinum alþjóðlega rauðklædda Santa Claus sem er kominn af dýrlingnum Nikulási biskupi. Þeir eru af kyni trölla og voru upphaflega barnafælur. Á þessari öld hafa þeir mildast mikið og klæða sig stundum í rauð spariföt, en geta samt verið þjófóttir og hrekkjóttir.
JólasveinnFjöldi jólasveina var fyrr á öldum misjafn eftir landshlutum. Talan 13 sést fyrst í Grýlukvæði frá 18. öld en nöfn þeirra í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862. Um 60 önnur jólasveinanöfn hafa fundist.

12. desember byrja gömlu jólasveinarnir að koma til byggða.
Sá fyrsti heitir Stekkjarstaur og hér áður fyrr reyndi hann oft
að sjúga ærnar í fjárhúsunum hjá bændum.

13. desember kemur Giljagaur.
Áður en mjaltavélar komu til sögu var hann vanur að laumast inn í fjós og stela froðu ofan af mjólkurfötum.

Jólasveinninn sem kemur til byggða 14. desember heitir Stúfur og er heldur lágur til hnésins. Hann var líka kallaður Pönnuskefill, því hann reyndi að hnupla matarögnum af steikarpönnunni.

Jólasveinn

15. desember kemur Þvörusleikir ofan af fjöllum. Hann stalst til þess að sleikja þvöruna, sem potturinn var skafinn með. Hann reynir að finna þvörur í Þjóðminjasafninu, þegar hann kemur þangað í heimsókn.

16. desember má búast við Pottasleiki í heimsókn. Hann sat um að komast í matarpotta, sem ekki var búið að þvo upp og sleikja skófirnar innan úr þeim.

Askasleikir kemur 17. desember. Hann faldi sig undir rúmi og ef fólk setti ask á gólfið þá greip hann askinn og sleikti allt innan úr honum.

Hurðaskellir kemur til húsa 18. desember. Hann gengur skelfing harkalega um og skellir hurðum svo fólk hefur varla svefnfrið.

19. desember er von á jólasveini sem heitir Skyrgámur, af því að honum þótti svo gott skyr að hann stalst inn í búrið og hámaði í sig skyrið upp úr keraldi.

Bjúgnakræki má búast við 20. desember. Honum þótti best að borða bjúgu og pylsur og stal þeim hvar sem hann komst í færi.

21. desember kemur hann Gluggagægir í heimsókn. Hann var ekki eins matgráðugur og sumir bræður hans, en skelfing forvitinn að gægjast á glugga og jafnvel að stela leikföngum, sem honum leist vel á.

Jólasveinn

22. desember má búast við Gáttaþef. Hann er með stórt nef, og honum finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Og svo reynir hann að hnupla einni og einni köku. 22. desember var líka stundum kallaður hlakkandi, því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.

Á Þorláksmessu, 23. desember, kemur Ketkrókur, sem er svo sólginn í ket. Í gamla daga rak hann langan krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækti sér í hangiketslæri sem héngu uppi í rjáfrinu eða hangiketsbita upp úr pottinum, en þá var hangiketið soðið á Þorláksmessu.

Kertasníkir kemur á aðfangadag, 24. desember. Í eldgamla daga voru kertin skærustu ljós sem fólk gat fengið. En þau voru svo sjaldgæf og dýrmæt að mesta gleði barnanna á jólunum var að fá sitt eigið kerti. Og aumingja Kertasníki langaði líka að eignast kerti.

-http://www.natmus.is/adofinni/jolasveinar/

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

Bollar

Selvogsgatan var gengin frá Bláfjallavegi áleiðis að Grindarskörðum við Kristjánsdali.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.

Gamla þjóðleiðin var fetuð upp skörðin, upp á brún og síðan haldið áfram til vesturs ofan hennar. Komið var inn í tiltölulega sléttan dal, opinn til suðurs. Haldið var upp úr honum að norðanverðu. Þegar komið var upp yfir brúnina að austanverðu blasti við fallegt lítið ónafngreint vatn. Á vatninu var gullkista.
Sú saga fylgdi kistunni að hún sæist á vatninu einungis einn dag á ári. Reyndar væri vatnið ekki til, stundum nefnt Ekkitilvatn, en hér verður það nefnt Gullkistuvatn.

Ekkitilvatn

Við Ekkitilvatn.

Sagan segir að í fyrndinni hafi bóndi nokkur, vel efnum búinn, staðið í búferlaflutningum að vetrarlagi. Á leiðinni suður með sjóð sinn hafi hann villst af leið í ófærð, orðið hræddur og ákveðið að sökkva kistlinum, sem sjóðinn geymdi, í vatnið í von um að enginn myndi verða hans var. Auðnaðist honum að komast til byggða myndi hann koma aftur síðar og sækja sjóðinn. Það gekk eftir, en er hann ætlaði að leita vatnsins nokkrum dögum síðar, fann hann það hvergi. Kom hann þá þeirri sögu á framfæri að ef einhver kæmi að vatni á þessum slóðum skyldi hinn sá sami varast að snerta það því vatnið væri eitrað.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Nú voru góð ráð dýr. Þarna var gullkista úti á vatninu, en ekki mátti snerta vatnið. Á bakkanum lágu nokkrir bandspottar. Einhverjum datt í hug að binda þá saman í einn langan, ganga síðan með annan endann yfir á öndverðan bakka og reyna að slæða kistuna þannig yfir vatnið. Það gekk eftir. Þegar kistan var opnuð leyndist í henni bréf frá bóndanum forna, en hins vegar engin veraldleg verðmæti. Kistunni ásamt bréfinu góða var því komið fyrir aftur á sama stað á vatninu. Þess skal getið að er FERLIR kom þarna að nokkrum dögum seinna var ekkert vatn þar að sjá.

 

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli (Konungsfelli).

Gengið var niður af hlíðunum að sunnanverðu og strikið síðan tekið að Kóngsfelli, landamerkjum Gullbringu- og Árnessýslu. Sumir segja þau reyndar vera í Stóra-Kóngsfellið við Drottningu í Bláfjöllum og enn aðrir í Litla-Kóngsfell undir Stórkonugjá, sem er suðaustan við fyrstnefnda Kóngsfellið. Kóngsfellið er fallegur eldgígur, klofinn og auðveldur gegnumgöngu. Í miðju hans er laut, gott skjól fyrir öllum áttum. Segir sagan að nafngiftin sé komin til vegna þess að þarna hafi fjárkóngarnir hist í upphafi leita, ráðið ráðum sínum og skipt liði.
Þá var gengið til vesturs sunnan við Stórabolla og Miðbolla að Kerlingarskarði, niður það með stuttu stoppi við Drykkjarsteininn efst í því og götunni síðan fylgt uns komið var að upphafsstað við Bláfjallaveginn.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Bollar

Bollar.