ísólfs

Gengið var um Selatanga.

Selatangar

Selatangar – fisbyrgi (nú horfið).

Fyrst var haldið til veturs yfir í Katlahraunið. Á leiðinni var nyrsta refagildran skoðuð. Hún líkist vörðubroti, en ef nánar er að gáð má sjá fallhelluna og opið á gildrunni. Hún er ein af fjórum, sem enn má sjá heillegar á Töngunum.
Gengið var eftir Vestari Lestareiðinni í gegnum Borgir (Ketil) yfir að Smíðahelli. Í honum skýldu vermenn á Selatöngum sér í landlegum og dunduðu við að smíða nytjahluti, s.s. ausur, spón og hrífur úr rekavið, sem þeir drógu að sér undan reka Kálfatjarnarkirkju.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Komið var í eldhúshellinn og gengið þaðan yfir að syðstu refagildrunni utan við gerðið. Á leiðinni var komið við í skúta, sem notaður var sem tímabundinn bústaður fyrr á öldum. Efsta refagildran er svo til alveg heil. Lítið vantar annað en að hengja upp fallhelluna og egna fyrir skolla.
Haldið var austur að hesthúsinu og vestasta sjóbúðin síðan skoðuð. Í henni er, auk vistarvera, eldhús og hlóðir. Sjávarmegin við þær er vestasta

fiskibyrgið af þremur. Stendur það mjög heillegt á hæð, en neðan þess er klettur með krossmarki á. Neðan hans eru tveir klettar, alveg niður við fjöruborð. Sá austasti og minnsti, er Dágon, landamerkjasteinn Krýsuvíkur og Ísólfsskála.
Þaðan var haldið um byrgin og búðirnar, hverja á fætur annarri, og staðnæmst við skiptivöllinn, uns komið var að Smiðjunni.

Selatangar

Selatangar – Jón Guðmundsson frá Skála með í för.

Sunnan hennar eru austustu búðirnar á Selatöngum. Í þeim eru einnig eldhús og hlóðir.
Utan í Selalágum, austan tanganna eru fjórir skútar. Hlaðið er fyrir þrjá þeirra. Sá þriðji frá sjó var notaður sem vistarverur. Einnig eru hleðslur fyrir neðan þann fjórða.
Í bakaleiðinni var gengið um byrgin ofan á töngunum og þau skoðuð, uns komið var að Brunninum, en hann var forsenda þess að hægt var að gera út frá Selatöngum. Ofan hans eru tjarnir og gætir sjávarfalla bæði í þeim og brunninum.

Brunnurinn var mannhæða djúpur, að sögn Jóns Guðmundssonar frá Skála, en var fylltur upp er rolla fannst dauð ofan í honum anno 1930. Ekki var vart við Tanga-Tómas á Töngunum að þessu sinni.

Selatangar

Brunnurinn.

Selatangar eru ágætt dæmi um útver. Margar minjanna eru enn heilar, en líklegt má telja að flestar þeirra séu yngri en frá því um 1800. Þó eru sagnir um útver á Selatöngum allt frá því á 12. öld. Krýsuvík og Ísólfsskáli skiptu með sér verinu, en auk þess hafa verið þar uppkomubátar með hlutaskiptum. Verstaða við ströndina kvað á um sérstaka tímabundna menningu, sem vert er að gefa gaum. Hún lítur ekki síst að sagnaskemmtuninni, hefðinni í matarkosti, tignarskipan og fyrirkomulagi róðra og verkunnar.
Á SelatöngumÆgir hefur brotið mikið af ströndinni á umliðnum öldum og árum. Þannig er skiptivöllurinn nú horfinn með öllu, en var vel sýnilegur einungis fyrir nokkrum árum síðan. Líklegt má telja að allar elstu mannvistarleifarnar á Selatöngum séu löngu horfnar og að einungis þær yngstu standi þar nú.
Selatangar eru eitt af merkilegri útverum, sem enn má sjá merki og minjar um, með ströndum Íslands.
Veður var frábært – þægilegur andvari. Gangan tók 2 klst og 2 mín

Selatangar

Á Selatöngum.

Urriðaholt

Að loknum erli dagsins eða í helgarfríum er fátt heilsusamlegra en leita um stund frá umhverfi vanans og hreyfa sig svolítið í fræðandi umhverfi. Í næsta nágrenni höfuðstaðarins eru margir staðir, sem bjóða upp á slíkt. Einn þeirra er Vífilsstaðahlíðin, en svo nefnist hæðin fyrir austan Vífilsstaði og nær allt austur að Búrfellsgjá.

Gunnhildur

Gunnhildur á Vífilsstaðahlíð.

Stefnan er tekin á myndarlega grjótvörðu, sem hlaðin hefur verið vestast á hlíðarbrúninni. Brekkan þangað upp hlíðina frá suðvestanverðu Vífilsstaðavatni er auðveld. Hún er vaxin smávöxnu kjarri, en núorðið liggur greinilegur og margfarinn göngustígur upp að henni. Frá vörðunni er víðsýnt. Þaðan gefur að líta víða sýn yfir kaupstaðina fjóra og Álftanesið, með Bessastaði í forgrunni. Beint á móti, handan við Hraunholtslækinn, sem kemur úr Vífilsstaðavatni, eru Vífilsstaðir, heilsuhæli sjúklinga, sem upphaflega var byggt sem sjúkrahús fyrir berklaveikt fólk, meðan sá sjúkdómur var landlægur hér. Vífilsstaðir voru landnámsjörð, því sagan segir að þar hafi fyrsti bóndinn verið Vífill, þræll Ingólfs Arnarsonar. Vífill fann öndvegissúlur hans reknar á land og fyrir þessa dyggu þjónustu gaf Ingólfur honum frelsi og þessa bújörð.

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðakotsholti

En varðan sjálf er athyglinnar verð. Hún hefur áður verið vel hlaðin en nú hefur fólk lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys. Varðan ber nafnið Gunnhildur. Þessi nafngift er á reiki. Sumir segja, að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju, sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum, en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill, en á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni er enn sjást leifar af. En hvernig sem þetta nafn er til komið, þá mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á hælinu, því sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildur var einnig nefnd Matthildur, er hét áður Grímssetur (Grímsseta). Þeir sem nefndu hana Matthildi studdust við vísuna:

Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Um 250 metrum sunnan við Vífilsstaðavatn er bergrista, sem nú er friðuð.
Skammt frá vörðunni er, sem fyrr sagði, steypt skotbyrgi frá stríðsárunum. Letursteinn við UrriðakotAlþýðuskýringin að nafnið væri afbökun úr ensku (Gun Hill) stenst reyndar ekki því nafnið var þekkt áður en landið var hernumið (1940). Þegar skuggsýnt er  orðið á einum dimmasta degi ársins (12. desember) er ekki svo auðvelt að taka myndir svo skarplegar geta þótt, sbr. sú hér að ofanverðu.
Austan við Vífilsstaðahlíð eru Hjallar, sem eru misgengisbrúnir og norðvestan við þá er hæðin Arnarbæli og Vatnsendaborg. Norðan til á hálsinum er grunn lægð. Þar safnast vatn í vorleysingum og í rigningatíð. Myndast þá tvær tjarnir sem kallast Grunnuvötn. Þurrlendi er á milli þeirra og þar hafa starfsmenn rafveitu gert veg. Af Arnarbælinu sést vel yfir Elliðavatnið, byggðina umhverfis það og austurhlíð Rjúpnahæðarinnar fær ekki dulist. Frá Arnarbæli er stuttur spölur að Vatnsendaborginni, en hún er merkilegt minnismerki um forna búskaparhætti. Áður fyrr urðu menn oft að tefla djarft þegar um stærð bústofnsins var að ræða. Ef ekki var til nægilegt vetrarfóður, settu menn á “guð og gaddinn” sem kallað var. Þá var sauðfénu haldið til beitar eins lengi vetrar og tíð leyfði. Í stað þess að koma því inn í hús til skjóls í slæmum veðrum hlóðu menn oft hringlaga, þaklaus byrgi með háum veggjum.

Heimaréttin að Urriðakoti

Þar var beitarféð geymt meðan óveður geisaði. Í slíkum tilgangi var þessi borg hlaðin, en það mun hafa verið gert snemma á 20.öld. Nú eru komin skörð í veggina á nokkrum stöðum, en meginhluti þeirra stendur enn og gefur glögga mynd af þessu mannvirki, sem er hluti af búskaparsögu landsins. Innan veggja er gott skjól. Gólfið er grasi gróið og slétt. Því er tilvalið að tylla sér þar niður, og halda smá “veislu undir grjótvegg”, svo vitnað sé í þekktan bókartitil.
Að sunnanverðu í Vífilsstaðahlíð hefur verið plantað miklum skógi, sem hefur dafnað vel. Skógræktarmenn hafa unnið við gróðurrækt í hlíðinni og er árangurinn þegar farinn að setja áberandi svip á umhverfið – sumir segja reyndar til hins verra.
Á næstu hæð að suðvestan standa nú yfir miklar framkvæmdir. Nýtt íbúðarhverfi er að rísa þar á jökulleirbornu Urriðaholti (Urriðakotsholti). Á því var kampur á stríðsárunum; Camp Russel. Þótt nú sé búið að umróta holtinu má enn sjá leifar hans á því norðaustanverðu. Á uppdrætti, sem gerður var af kampinum má sjá götur, byggingar og önnur mannvirki. Í dag standa t.d. eftir steyptur arinn og steyptur vatnsgeymir.

Garðar við Urriðakot

Vatnið var sótt í brunn undir hlíðinni sunnanverðri. Úr honum var vatninu dælt stöðugt um leiðslu upp í geyminn. Á uppdrættinum er geymirinn merktur sem og annað, sem þarna var.
Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti). Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir. Áður en hlíðinni var róta upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna) heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er enn letursteinn með áletruninni JTh 1846. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi. Væntanlega er ekki langs að bíða að hann hverfi eins og annað undir jarðraskið, sem er um þessar mundir [2007]. Annars er skondið að lesa lýsingu og rökfærslur framkvæmdaraðila og bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir byggðinni á þessum stað; „umhverfisvæn byggð í beinum tengslum við náttúruna!“ (Sjá meira HÉR). Í þeim orðum hefur bæði gleymst möguleikinn á  varðveislu á a.m.k. hluta bæjarminjanna, þ.e. tengslin við söguna sem og sú vitund að ekki er langt að bíða að önnur byggð muni rísa allt um kring. Þá mun fátt segjast af 
öllum fyrrum fullyrðingum um „vistvæna byggð í sátt við umhverfið“.

Heimild m.a.:
-Mbl. dags. óviss sennil. 1979.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jarðabókin 1703, bls. 223.
-Sævar Jóhannsson.
Camp Russel á Urriðakotsholti á stríðsárunum

Refur

„Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita.
Refaspor-221Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekker bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur.
Árið 1949 samþykkir Alþingi lög um eyðingu refa og minka (nr. 56), og á þessum lögum eru gerðar breytingar 1955 (samþ. á Alþingi 10. marz ’55). í þessum síðustu breytingum er hin illræmda lagagrein: „Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal hægri væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“.
Hinn 10. marz síðastliðinn [1955] voru samþykkt á Alþingi Íslendinga Lög um breytingu á lögum nr. 56 frá 1949 um eyðingu refa og minka. Í 3. grein laganna stendur: „Í stað 1. málsl. 10. gr. laganna komi: Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“. Lög þessi hafa verið samþykkt án þess að leitað hafi verið álits nokkurra þeirra, sem einkum láta sig varðar. Dýravernd í þessu landi og hafa vökulan áhuga og ábyrgðartilfinningu fyrir því, að dýraríki landsins sé ekki sneytt um fram það, sem orðið er.
Eins og menn geta séð af lagagreininni, sem hér er prentuð, er lögboðið að eitra í afréttum og heimalöndum. Nú er vitað mál, að hundar naga hvers konar hræ.
refur-221Í júní 1957 gengu í gildi ný lög um eyðingu refa og minka. Þar var ákveðið, að ríkissjóður skyldi borga framvegis tvo-þriðju hluta kostnaðar. Töldu allir það vel ráðið. Áður voru það hrepparnir, sem kostuðu refaeyðingu að mestu einir.
Í þessum lögum var aftur á móti annað, sem menn deildu um og ávallt síðan. Það var ákvæði 11. gr. um „að skylt væri að eitra fyrir refi og minka“. Þetta valdboð Kom í meira lagi illa við þá, sem höfðu — af áratuga reynslu — verið vitni að því, að bitdýrum fjölgaði stórlega á þeim svæðum, sem eitrað hafði verið að staðaldri fyrir refi, með stryknineitri. Og nú fengu þeir líka sitthvað að heyra.
19. marz 1964, var samþykkt á Alþingi að breyta ákvæði 11. gr. fyrrn. laga á þessa lund: „Fresta skal að framkvæma ákvæði 11. gr. laganna um eitrun fyrir refi og minka næstu fimm ár. Jafnframt er bannað að eitra fyrir þessi dýr á sama tímabili. Það er með öðrum orðum bannað að eitra fyrir refi til 19. marz 1969.
Ástæðan fyrir þessari lagabreyt ingu var fyrst og fremst sú, að náttúruunnendur, sem fylgdust vel með arnarstofninum íslenzka, sönnuðu, svo ekki varð um deilt, að eitruð hræ, sem fyrst og fremst voru ætluð refum, voru á góðri leið með að gjöreyða arnarstofninum. Með því að hætta að bera út eitruð dauðyfli, næstu fimm árin, var gerð mjög virðingarverð tilraun til að bjarga arnarstofninum.
refur-223Tillaga var lögð fram um breytingu á lögum nr. 52, 5. júní 1957, um eyðingu refa og minka.
11. grein laganna falli niður, en í stað komi: „Stjórnum sveitar- og bæjarfélaga er heimilt að eitra fyrir refi og minka, ef nauðsyn ber til, samkvæmt fyrirmælum veiðistjóra og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Óheimilt er að eitra í hræ eða dauðyfli á víðavangi. Hið eitraða agn skal vel falið í gjótum eða holum, þannig að ekki sjáist úr lofti eða þótt gengið sé nærri eiturstaðnum.
Grenjaskyttum er heimilt að eitra fyrir yrðlinga í grenjum, þó skal eigi gripið til þess ráðs, fyrr en önnur ráð hafa brugðizt.
Oddvitum og bæjarstjórum skal látið eitur í té gegn skriflegri umsókn samþykktri af veiðistjóra. Lyfjaverzlun ríkisins annist sölu (dreifingu) eitursins, samkvæmt fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrigðismálaráðuneytisins.“ 7. grein reglugerðar um eyðingu refa og minka breytist í samræmi við ofanritað.
Greinargerð: Hinn 12. marz 1964 voru samþykkt á Alþingi lög um að fresta eitrun fyrir refi og minka næstu fimm árin. Eiturbannið fellur því úr gildi hinn 12. marz n. k. Í lögum og reglugerð um þessi mál, er sveitar- og bæjarstjómum gert skylt að eitra fyrir refi og minka.
Þessum lagaákvæðum er mjög hæpið og óvarlegt að framfylgja, og væri því æskilegra, að um eiturheimild væri að ræða, en ekki lögboðna skyldu.
Að fenginni 5 ára reynslu, sem eiturbannið hefur staðið, mælir margt á móti því að framlengja eiturbannið eða afnema með öllu eituraðgerðir fyrir refi og minka.“

Heimild m.a.:
-Landvernd, nr. 7 (1980) – Villt spendýr, bls. 70-73: Saga refaveiða, Páll Hersteinsson.

Stapi

Eftirfarandi er úr viðtali er birtist í tímaritinu Faxa nr. 7, 43. árg., bls. 84-85, við Karl Guðjónsson þar sem hann lýsir aðstæðum undir Stapanum á fyrri hluta 20. aldar. Karl var 88 ára þegar viðtalið var tekið, en hann var einn af þeim mönnum, sem höfðu upplifað tímanna tvenna þegar verkmenningin var bundin þeim tækjakosti, sem óháður var vélvæðingu og orkubúnaði nútíðar. Einnig hinar mestu tækniframfarir, sem orðið hafa hér á landi.

Karl Guðjónsson

Karl Guðjónsson.

Karl var nefndur ýmsum nöfnum um ævina, s.s. Kalli á Brekku, Kalli mótoristi, Kalli á stöðinni, Kalli sýningarmaður, Kalli rafvirki og Kalli útvarpsvirki.

„Ég er fæddur í Reykjavík árið 1895, þann 14. okt., þ.e.a.s. eftir kirkjubókunum, en það fer nú ekki alveg saman við það sem móðir mín og amma sögðu. Þær sögðu mig fæddan 1896, nú en bókstafurinn blífur sjálfsagt.“ Karl hét fullu nafni Karl Sigurður. Foreldrar hans voru María Bjarnadóttir og Guðjón Pétursson og var einkabarn móður sinnar, en „ég var ekki nema sex mánaða þegar ég var fluttur frá Reykjavik og hér suður í Voga til föðurömmu og afa, sem ólu mig upp. Þau hétu Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir. Var hún ljósmóðir í Vatnsleysstrandarhreppi í um 50 ár.
Þegar ég kom til þeirra bjuggu þau í Vogunum, en fluttu skömmu síðar í Stapabúð. Þegar ég var fjögurra ára fluttum við svo að Brekku, austari bænum, sem þá var þarna undir Stapanum, því þá andaðist Guðmundur, bróðir afa, sem hafði haft jörðina áður. Bæði býlin lágu undir Stóru-Voga, en Stóru-Vogar átti mikið af torfunni í Vogunum og þurfti að greiða þangað eftirgjald.

Brekka

Brekka undir Stapanum.

Ábúð í Vogum lagðist niður um 1940. Þá bjuggu þar Magnús og Guðríður föðursystir mín. Þau hjónin voru orðin heilsulítil og fluttu í Vogana.
Þá rifu þau húsið á Brekku og fluttu efniviðinn inn eftir, því þó húsið væri að minnsta kosti orðið 100 ára gamalt voru viðirnir í því þannig að þeir voru nothæfir, eins og þetta gamla timbur var, það gat enst alveg ótrúlega lengi. Annars voru veggir Brekkuhússins hlaðnir úr grjóti, en port og ris úr timbri. Niðri var forstofa og eldhús, en svefnhús uppi. Loftinu var skipt í sundur, fremra loftið og innra loftið sem kallað var. Á loftinu voru lengst af fimm rúm, lítið borð undir gaflglugganum og einn stóll.

Stapabúð

Stapabúð.

Maður ólst upp við þessi venjulegu störf, sem gerðust á bæjum þá. Þar var t.d. heyskapurinn og skepnuhirðingin. Við höfðum mest 70 ær og vanalega var ein kýr og stundum kálfur. Féð gekk ákaflega mikið úti. Það var svo merkilegt að það voru oft hagar á Stapanum þó þeir væru ekki annars staðar, en það var vegna þess hvað hann stóð hátt og fauk af honum frekar en annars staðar þegar snjóaði og fjörubeit var góð.
Ef eitthvað var að veðri var féð alltaf hýst á hverri nóttu og gerði það sitt, þannig að það var miklu hressara á morgana þegar það hljóð í fjöruna til að ná í einhver snöp. Svo reyndi maður að koma fénu upp á Stapann eftir hádegi til að ná í einhver jórturefni í vömbina eins og sagt var.

Stapinn

Stapabúð.

Afi gerði út fjögurra manna far á hverri vetrarvertíð. Veiðarnar gengu nú misjafnlega, því fiskurinn þurfti að ganga undir Stapann til að hægt væri að ná í hann, því það var ekki hægt að fara í langróðra á þessum litlu fleytum. Nú, ég held að ég hafi ekki beint verið talinn til mikilla starfa á þessum árum, því ég var alltaf með hugann við eitthvað annað en ég átti að gera. – Ég fékk orð fyrir það að vera latur, en sannleikurinn var sá, að ég var alltaf að hugsa um eitthvað annað og það þótti nú ekki passa í þá daga að vera í einhverju grúski, sem ekkert gagn var talið af.
En svo vildi til að það komu á þessum árum vélbátar í Vogana og þeim var alltaf lagt í vetrarlægi uppi í sandinn í vikinu fyrir innan Hólmann, sem var alveg við bæinn Brekku, sem ég átti heima í.“ Grúsk Karls í bátunum, vélunum alveg sérstaklega, varð til þess að afla honum sérþekkingar á því sviði.

Stapinn

Horft niður á Stapabúð í Urðarskarði.

„Bærinn Brekka var syðsti bærinn í Vatnsleysustrandarhreppi, eftir að hætt var að búa í Stapabúð. Var hann alveg suður undir Stapanum, austast þar sem hann byrjar. Þar eru mörg kennileiti, t.d. skörð á milli strandbergs og er það fyrst þegar maður kemur innan að, að maður kemur að skarði, sem kallast Reiðskarð. Þar fóru menn sem voru á hestum. Næsta skarð heitir Kvennagönguskarð og þar var graslendi alveg uppá bjargbrúnina, svo kom Brekka og þar fyrir utan Brekkuskarð og þar fyrir utan kom svo Urðarskarð kallað, því það var svo grýtt. Þar var hægt að ganga upp á Stapann líka og síðast var Rauðistígur, sem kom upp úr Kerlingarbúðum, sem kallaðar voru. Það var gamall útræðisstaður, sem var fyrir vestan Stapabúðina. Þegar ég var drengur fann ég þar stein sem í var höggvið ártalið 1780 og sýnir það, að þá hefur verið byggð þarna.

Vogar

Vogar um 1950.

Ég hóf skólagöngu mína 10 ára og lauk henni á 13. árinu, og gekk ég í barnaskálann á Brunnastöðum. Yfirleitt hljóp maður megnið af leiðinni og minnir mig að ég hafi þurft að leggja af stað að heiman um níu leytið. Urðum við samferða öll börnin úr Vogunum. Þannig að fyrst kom ég að Bræðraparti, svo að Suðurkoti og Nýjabæ, síðan Stóru-Vogum, Hábæ, Austurkoti og Minni-Vogum. Alls staðar þarna voru skólabörn og við gengum, eða öllu heldur hlupum alltaf saman báðar leiðir þessi hópur“.
Þá segir Karl frá ferð sinni norður í Hrísey, vertíð í Dýrafirði og sveitamennsku austur í sveitum.

Heimildir:
-Tímaritið Faxi nr. 7, 43. árg., bls. 84-85 – viðtal við Karl Guðjónsson (Æviminningar).

Stapinn

Brekka.

Arnarseturshraun

FERLIR fór í sína árlegu jólagönguferð s.l. laugardag, 11. desember. Eins og kunnugt er hefur hópurinn verið duglegur að leita uppi fornar minjar á Reykjanesskagagnum og staði, sem flestum eru gleymdir. Þessi ferð var engin undantekning, nema nú var ætlunin að finna þann stað, sem jólasveinarnir halda sig jafan á milli jólahátíða.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Hvar búa jólasveinarnir? Sagnir hafa verið um að þeir, móðir og faðir ásamt jólakettinum, búi í einhverju fjallinu á milli hátíða?
Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hvar lá fiskur undir steini? Þægilegir undirheimar, milt svæði, láglendi, auðvelt með aðdrætti, hreindýramosi og traustsins verðir nágrannar? Rifjað var upp Stóra heimaslátrunarmálið!!! Einungis einn staður gat komið til greina. En svæðið var stórt. En undirheimar þess voru þó á takmarkaðir.
Lagt var af stað inn í norðanvert Skógfellahraun og gegnið áleiðis að Litla-Skógfelli. Fetaður var stígur í gegnum hraunið upp að fellinu. Á því er lítil varða.
Gamla þjóðleiðin um Skógfellaveg liggur sunnan við fellið frá Vogum og áfram áleiðis til G

Jól

Jólasveinn.

rindavíkur. Hún er mikið klöppuð í hraunhelluna. Gæti það m.a. hafa verið eftir hreindýr jólasveinanna til langs tíma?
Gatan var rakin framhjá gatnamótum Sandakravegar og síðan beygt til hægri að Stóra-Skógfelli. Framundan var Arnarseturshraunið, sem er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum um 1226. Líklegt er að jólasveinarnir hafi flust á milli svæða, en þetta svæði er enn volgt – undir niðri – og því kjörlendi þeirra, sem vilja dyljast svo til allt árið.
Ef jólasveinarnir væru þarna einhvers staðar væri best að koma þeim á óvart með því að koma úr þeirri átt, sem síst væri von mannaferða á þessum tíma. Gengið var hljóðlega inn á hraunkantinn og áleiðis að mikill hrauntröð austan við eldgígana. Þegar stutt var eftir í tröðina sást hvar rauð húfa stóð upp úr skjannahvítum snjónum. Þegar þátttakendur nálguðust reis skyndilega upp jólasveinn undir húfunni og virtist hann hálf ringlaður og undrandi. Hann, sem er vanur að finna fók, átti greinilega ekki átt von á að fólk finndi hann.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hikandi gekk hann á móti FERLIRsfélögum, staðnæmdist í hæfilegri fjarlægð og kastaði kveðju á liðið. Það var ekki síður undrandi þótt búast megi nú við hverju sem er í FERLIRsferðum, eins og dæmin sanna.
Eftir svolitla stund hvarf feimnin af honum og hann bauðst til að fylgja FERLIR í hellinn, en einungis inn í anddyrið því annars yrði Grýla alveg brjáluð, eins og hann orðaði það. Auk þess væru hinir bræður hans enn sofandi, en sjálfur ætti hann að leggja af stað til byggða um kvöldið. Þau vildu ekki fá of marga gesti því þá væri hætta á að ekki yrði ráðið við strauminn og því enginn friður lengur.
Í ljós kom m.a., í annars dimmum hellinum, að jólakötturinn var ekki köttur,

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

heldur hundur. Það er greinilega ekki allt satt sem sagt er.
Stekkjastaur, en það sagðist jólasveinnin heita, bauð upp á góðgæti að hætti jólasveina, sagði sögu, flutti gamanmál og vildi síðan heyra fólkið syngja jólasöngva. Þegar sungið var “Jólasveinar ganga um gólf” þurfti hann að leiðrétta texta mannanna, sem notaður var, því auðvitað er farið upp á hól en engin kanna sett upp á stól. Af hólnum var litið til manna, eins og hann sagðist sjálfur oftast gera.
Þegar sveinki var spurður af því hvers vegna sungið væri: „Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum…“, svaraði hann því til að auðvitað væri með þetta eins og annað; hreppstjórinn í Grindavík hafi fyrir nokkrum mílárum handtekið fjóra ræningja, sem haldið höfðu til í gjá uppi á Þorbirni og hengt þá í Gálgaklettum þarna rétt hjá. Einhver fjölmiðill hafi síðar talið þá vera „jólasveina“ og sett þá vitleysu á prent fyrir langalöngu, en hún enn ekki fengist leiðrétt. Þess vegna vissi fólk ekki betur og tryði vitleysunni, eins og svo oft vill verða. „En ekki láta þetta rugla ykkur“, sagði hann, „við erum níu og reyndar fjórum betur. Og auðvitað komum við af fjöllum á leið okkar um og yfir þau með gjafirnar. Hjá því verður ekki komist, a.m.k. ekki hérna á Íslandi.“
„En áttu ekki að vera í íslenskri lopapeysu eða rollukápu?“, spurði snáðinn í hópnum.
„Ekki á jólunum. Þá klæðumst við sparifötunum, þessum hérna“, svaraði jólasveinninn og togaði með annarri hendinni í rauðu treyjuna. „Allshvunndags erum við nú bara í lopanum og skinninu“, lambið mitt. Það hefur reynst okkur best hér á þessum slóðum.“

Arnarseturshellir

Í Arnarseturshelli.

„En segið mér eitt“, bætti jólasveinninn við og lækkaði róminn. „Hafið þið heyrt nokkurn tala um rýrnunina á skreiðinni í trönunum hérna rétt hjá?“ Hann benti í suður. Allir komu af fjöllum. Ekkert svar.
„Nú, það er svo. Þá þarf ekki fleiri orð um það – ekki meira um það“, sagði sveinki og leit flóttalega í kringum sig.
Fljótlega þurfti Stekkjastaur að hverfa til skyldustarfa, greip með sér langan lista og stóran hvítan poka, snaraði honum á bak sér, kvaddi þátttakendur og hvarf út í miðhúmið.
Einn úr hópnum, sem virtist nú fyrst vera að átta sig, leit á hina og spurði með undrunarsvip: „Hver var þetta, hver lék jólasveininn?“.
Hinir litu á hann, brostu síðan og svörðuðu einum rómi. „Þetta var sjálfur jólasveinninn, ekta jólasveinn, sástu það ekki, maður“.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Einhverjir eltu jólasveininn út úr hellinum til að sjá hvers konar farartæki hann notaði, en allt kom fyrir ekki. Hann var horfinn með það sama. Jólasveinar virðast öðlast einhvern yfirnáttúrlegan mátt þegar að þeirra tíma kemur. FERLIR virðist því hafa verið á réttum stað á réttum tíma, rétt áður en máttur Stekkjastaurs varð virkur – ef ekki ofvirkur.

Auðvitað eiga Grindvíkingar jólasveinana, eins og svo margt annað á Reykjanesskaganum. Þeir eiga líka flest hraunin og svo til öll fjöllin og ef Hafnfirðingar hefðu ekki beitt brögðum til að ná til sín Krýsuvík á sínum tíma, ættu þeir nær allt, sem merkilegt getur þótt á skaganum – eða það segja Grindvíkingar a.m.k. Var ekki alþingismaðurinn kra(f)tlegi sem flutti tillögu um að afhenda Hafnfirðingum Krýsuvík jafnframt bæjarfulltrúi Hafnfirðinga? Hvað gátu hinir hógværu og kurteisu Grindvíkingar gert í þeirri pólitísku refskák á þeim tíma? „Pólitíkin er rúin allri kurteisi“ – eða það viðurkennir Gunnar Birgisson a.m.k. núna.

Kjöthvarfið

„Kjöthvarfið mikla“- myndin er úr eftirlitsmyndavél.

Áður en Stekkjastaur kvaddi var hann beðinn um góðar gjafir þátttakendum og öðrum til handa, einkum þó gnægð kærleika, hamingju, góðar heilsu og nægan tíma, ef hann gæti eða mætti miðla einhverju af því sem hann ætti af slíku. Veraldlegar gjafir voru afþakkaðar (þótt góðir gönguskór komi sér nú alltaf vel).

Til fróðleiks má upplýsa hér að Stóra heimaslátrunarmálið snérist um haldlagningu á miklu magni af heimaslátruðu kindakjöti hjá Grindavíkurbændum. Því var síðan stolið úr fórum yfirvalda og virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Íbúarnir þögðu allir sem einn. Utanaðkomandi sögðu þó að eigendurnir hefðu einungis fært það tímabundið á milli frystigáma og læst á eftir því til að tryggja betur geymslu þess, en aðrir vildu halda því fram að „einhverjir jólasveinar“ hefðu tekið það ófrjálsri hendi. En engin trúði hinum síðarnefndu að sjálfsögðu. Að einu má þó ganga sem vísu; það er löngu búið að eta öll sönnunargögnin.
Frábært veður – stilla og logn. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.

Útskálar

„Fornleifastofnun Íslands ses hefur síðustu vikur staðið fyrir björgunnaruppgreftri að beiðni Menningarseturs að Útskálum ehf á bæjarhólnum á Útskálum í Garði á Reykjanesi. Uppgröfturinn flest í rannsókn á um 25 m2 svæði við gamla íbúðarhúsið að Útskálum sem áætlað er að gera upp.

Útskálar

Kambur úr uppgreftri við Útskála.

Grafið hefur verið niður á 2,5 m dýpi og þegar hafa 3 mannvirki komið í ljós. Tvö þeirra eru frá seinni öldum (nákvæm tímasetning hefur ekki enn fengist), hellustétt og torbyggt hús með uppistandandi timburþili. Á síðustu dögum hefur komið í ljós torfbyggt hús með vel varðveittu timbri, hugsanlega úr þaki, sem gjóskulög tímasetja fyrir seinni hluta 12. aldar. Uppgreftri á þessu mannvirki stendur enn yfir, en allt bendir til þess að líklegast sé ekki um íveruhús að ræða, heldur einhversskonar útihús.

Ekki hefur fundist mikið af gripum við uppgröftinn, en á þriðjudaginn var fannst vel varðveittur kambur í hruni úr elsta mannvirkinu. Þessi gripur er einstakur á Íslandi af því best er vitað, en svipaðir kambar hafa fundist í Noregi í lögum frá 13. öld, en þessi er örugglega eldri en það. Kamburinn er einstaklega vel varðveittur, nánast allar tennur eru heilar og er fallega skreyttur með depilhringamunstri. Kamburinn er nú í forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands.“

Uppgröftur þessi staðfestir enn og aftur mikilvægi lítt rannsakaðra fornminja á Reykjanesskaganum.

Sjá meira undir http://www.instarch.is/

Garður

Útskálar – fornleifar.

Selatangar

Gengið var um Katlahraun frá Moshólum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gaf hólunum þetta nafn. Taldi hann þá með merkilegri jarðfræðifyrirbrigðum landsins því í þeim mátti sjá þverskorinn eldgíg (gjall- og klepragíg) sem átti sér fá fordæmi í heiminum. Ekki leið þó á löngu að vegagerðarmenn komust í gíginn og eyðilögðu merkilegheitin.
MoshólarMoshólar eru leifar af eldri gígaröð en þeirri er nálægt hraun, Ögmundarhraun, kom frá árið 1151. Frá þeim liggur falleg hrauntröð til suðurs, áleiðis að Katlinum (Borginni) í Katlahrauni (Borgarhrauni). Katlahraun er á náttúruminjaskrá.
Áður en haldið var í Katlahraun var leitað fararnestis hjá Kristjáni Sæmundssyni, jarðfræðingi Íslands nr. eitt. Kristján brást vel við að venju:
„Ég á svo sem ekki mikið um hraunið. Veit þó um aldurinn, en hann er um 2000 ár. Niðri undir sjó skammt vestan við Selatanga (byrgin) er heilmikið jarðfall í hrauninu. Áður en það myndaðist hefur orðið fyrirstaða í rennslinu og hraunið bunkast upp. Yfirborðið hefur storknað og hraunbráðin síðan hlaupið fram undan bungunni. Klóruför sjást hér og þar, þar sem yfirborðshellan hefur strokist við innveggi jarðfallsins.
Ketillinn í KatlahrauniÞetta er fágæt hliðstæða við Dimmuborgir nema þar er meira gjall í bungunni. Innar á hrauninu, norðvestur af jarðfallinu, eru minni dokkir, en þær held ég að hafi ekki myndast við undanhlaup, heldur við írennsli í hraunið sem áður var storknað efst og neðst, en tjakkaðist við það upp, og dældir urðu til þar sem það var gegnstorkið.“
Við þetta bætti svo Kristján: „Smáviðbót við Katlahraun. Moshólar eru suðvesturstu gígarnir á langri gossprungu sem nær norðaustur í Trölladyngju (í vesturhlíðinni). Afstapahraun kom upp í þessu sama gosi úr gígnum skammt vestan við Hverinn eina. Mig minnir að aðalgígurinn þar heiti Melhóll [Moshóll]. Afstapahraun var lengi talið hafa runnið eftir landnám, en það er ekki svo.
Katlahraun - standurÉg gróf víða á því í fyrrasumar og landnámsöskulagið (frá 871) er ofan á hrauninu sem og annað lag um 1400 ára gamalt. Fékk svo Magnús Sigurgeirsson (aðalsérfræðinginn í öskulögum á Reykjanesskaga) til að skoða með mér. Hann staðfesti.“
Framangreindar upplýsingar Kristjáns eru fyrir marga hluta áhugaverðar. Í fyrsta lagi upplýsir hann um aldur Katlahrauns, en þær upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til. Í öðru lagi segir hann frá myndun Ketilsins og nálægra jarfræðifyrirbæra. Í þriðja lagi upplýsir hann í fyrsta skipti um raunaldur Afstapahrauns. Í fjórða lagi getur hann um uppruna hraunsins og í fimmta lagi kynnir hann samhengi Moshóla við aðrar eldstöðvar, alveg upp undir suðvesturrætur Trölladyngju. Allur þessi stutti, en mikli, fróðleikur gerir svæðið ennþá áhugaverðara til skoðunnar.
KatlahraunsskjólÞegar gengið var um Katlahraun mátti vel bæði sjá og finna hversu slétt helluhraunið er. Kvikan hefur verið þunnfljótandi og runnið í átt til sjávar líkt og vatn. Hin minnsta fyrirstaða hlóð upp tjörnum, sem kvikan bræddi sér leið framhjá. Þess vegna má víða sjá litla katla, sem myndast hafa við þessar aðstæður. Miklar hrauntraðir liggja frá Moshólum áleiðis niður í Ketilinn. Nýrra hraun (apalhraun) hefur runnið ofan frá og umleikið Moshóla. Hraun þetta virðist vera úr gíg undir Höfða og inn undir Selsvöllum. Leggjarbrjótshraun og Skolahraun eru hluti af þeim.
Aðspurður um framangreint svaraði Kristján: „Það er verið að vinna í nýju korti af þessu hrauni. Það verður klárað í næsta mánuði [jan. 2010].
Það er gamalt hraun á smábletti ofan við Moshóla.
HöfðiNA-framhald gossprungunnar í Moshólum er utan í Höfða að austan. Hraunið úr þeim gígum hefur runnið fram milli Núphlíðar og Moshóla. Það nær langleiðis niður að Selatöngum.
Næsti kafli gossprungunnar er austan við Sandfell. Þaðan eru Leggjabrjótshraun (vestan við Höfða) og Skolahraun (austan við Sandfell).
Gossprungan heldur svo áfram inn úr og liggur nærri Selvallafjalli þar til kemur að Selvöllum. Þá víkur hún vestur og er vestan við Vellina. Sá kafli hennar endar í Melhól.
Innsti kafli hennar er svo utan í Trölladyngju (nær reyndar suður fyrir Sogalækinn) og endar loks í Eldborg.
Þessir gígar og hraun er allt af svipuðum aldri, um 2000 ára.
Ég á von á C14-aldursgreiningu á kvistum undan hrauni við Trölldyngju neðst, aðeins sunnar en þar sem vegurinn frá Oddafelli þverbeygir suðvestur með henni.
Það hraun tilheyrir þessu sprungugosi.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

 

Glóra

Á Álfsnesi á Kjalarnesi eru tóftir þriggja bæja, Álfsness, Glóru og Niðurkots. Lítið er til af heimildum um þessi gömlu kot, en talsverðar leifar sjást enn eftir búsetu á Nesinu.
Bæði Glóra og Niðurkot eru í raun ágæt dæmi um heilstæðar

Álfsnes

Álfsnes – loftmynd.

búsetuminjar, annars vegar frá 19. öld og hins vegar frá 17. öld. Flestar eldri minjar við bæinn Álfsnes eru horfnar undir núverandi íbúðar- og útihús, en þessar minjar hafa fengið að vera svo til óraskaðar allt fram á þennan dag.
SORPA er með urðunarstað á Álfsnesi, en ekki er að sjá að þar hafi verið hróflað við minjum. Þær minjar, sem næst standa, eru 19. aldar fjárhústóft frá Álfsnesi. Háir moldarbakkar eru fast við tóftina, en hún hefur fengið að standa vestan í Háheiðarmýrinni, austan við Álfsnesbæjarins.

Nýr Vesturlandsvegur; Sundabrautin svonefnda, á að liggja um þetta svæði. Við það mun verða verulegt rask og ef ekki verður að gætt munu minjar framangreindra bæja (hjáleiga), hverfa eins og aðrar slíkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra / Urðarkot; loftmynd.

Segja má að minjar nær allra bæja, sem núverandi byggð stendur á, hafi verið þurrkaðar út (að Árbæ undanskyldum). Dýrmætustu minjasvæðin, sem eftir eru næst höfðuborgarsvæðinu, eru Þorbjarnarstaðir í Hraunum, sunnan Hafnarfjarðar, og þessir bæir, sem hér er fjallað um. Stundum þarf einungis örlitla hugsun og frumkvæði til að koma í veg fyrir varanlegan skaða. Ágætt dæmi voru framkvæmdirnar við Tjarnargötu í Reykjavík á fimmta áratug síðustu aldar. Ef einungis einn maður hefði staðið keikur gegn byggingaráformum Hjálræðishersins og húss Happdrættis Háskólans; og sagt sem svo: „Færum okkur 50 metra ofar í landið“ þá ættu landsmenn nú elstu minjar búsetu hér á landi (talið er víst að bær Ingólfs hafi verið þar sem fyrrnefnd hús standa nú).

Brunnur Glóru

Oft munar ekki meiru milli feigs og framtíðar þegar minjarnar eru annars vegar. Allt og oft hafa misvitrir forsvarsmenn skipulagsmála fengið að ráða ferðinni. Þeir hinir sömu virðast, af dæmum að meta, hvorki hafa þekkingu né áhuga á fortíðinni og hafa því, hingað til a.m.k., komist upp með að eyðileggja ómetanlega sögulega verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þegar FERLIR kom á svæðið var dagsbirtan u.þ.b. að sigra næturmyrkrið á einum dimmasta degi ársins. Við blöstu urðunarhaugarnir og lyktin var eftir því. Loftmyndir af svæðinu voru dregnar fram og líkleg mannvirki áætluð.

Álfsnes

Niðurkot / Sundakot – loftmynd.

Minjasvæðin virtust aðallega tvö; Glóra og Niðurkot. Ofarlega á túnum Víðinsess vitist móta fyrir tóftum. Annars er það kapítuli út af fyrir sig hversu erfitt það getur verið fyrir áhugasama einstaklinga að nálgast upplýsingar og fróðleik hjá annars kostnaðarsömum ríkisfyrirtækjum. Að vísu er Örnefnastofun Íslands (Svavar og Jónína) alger undantekning þar frá, en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki virðast „gleypa“ allar upplýsingar og leggja sig fram við að torvelda öðrum aðgengi að þeim. Rándýrar fornleifaskráningar eru sumar hverjar ekki aðgengilegar nema gegn gjaldi og ef fá á eina loftljósmynd frá Landmælingum Íslands þá kostar hún þúsundir króna.

Túngarður Glóru

Að vísu hefur þetta ekki bitnað svo mjög á FERLIR því á þeim bænum hafa þeir einkaðailar, sem leitað hefur verið til, verið einkar hjálpsamir, auk þess sem þátttakendur hafa jafnan verið sjálfum sér nægir, þ.e. þeir hafa leitað og lesið úr torveldum landfræðilegum upplýsingum líkt og aðrir lesa texta í bókum. Aukinheldur hafa þeir sýnt frábæran árangur, bæði í starfi og námi. Einn nemanna fékk t.a.m. 10.0 í fornleifaskráningu við HÍ. Hinar fjölmörgu lýsingar á vefsíðunni eru ágætt dæmi um þetta. Í dag er svo komið að fornleifafræðingar nota vefsíðuna við störf sín og vita til hennar, bæði í myndum og texta.
Áður en lagt hafði verið af stað var leitað til Bjarka Bjarnasonar, höfundar Sögu Mosfellsbæjar. Hann er auk þess sá aðili er hvað best gjörþekkir sögu og minjar bæjarlandsins. Reyndar tilheyrir svæðið nú sameinuðu Kjalarneshreppi og Reykjavík (frá árinu 1998).

Álfsnes

Tóftir Glóru.

Bjarki Bjarnason svaraðir fyrirspurninni eftirfarandi: „Ég kannast við bæjarnafnið Glóru en hins vegar er hvorki Glóra né Niðurkot nefnt í Jarðabókinni [1703] og hafa væntanlega ekki verið í byggð þá. Aftur á móti eru tvær hjáleigur nefndar í jarðabókinni, annars vegar Landakot, sem þá var nýfarið í eyði, og hins vegar Sundakot. Þessi kot virðast hafa verið hjáleigur frá Þerney“.
Þegar lengra er haldið virðist ljóst að Landakot var hjáleiga Þerneyjar í eyjunni sjálfri. Sundakot virðist að öllum líkindum hafa verið umrætt Niðurkot enda benda tóftirnar til þess að þar hafi verið byggð áður en Jarðábókin var skrifuð (sjá uppdrátt).
Minjar á Glóru - gervitunglamynd
Í Jarðabókinni 1703 er getið um Landakot, Sundakot, Vidernes, Alsnes (Alfsnes), Urðarkot (Hallsneshjáleiga/Glóra) og Háheide, auk Þerneyjar. Um síðastnefndu jörðina segir m.a.: „…Hestlán eitt til alþingiss. Dagslættir tveir til Viðeyjar hvort sem á býr einn eður fleiri, og fæðir bóndinn sig sjálfur síðan í tíð Jóhanns Klein; alt þángað til var þar matur gefinn þrímælt, en nú alleina lítilsháttar af mjólk, tveimur eður þrem, sem lítt mætti einum nægja í senn. Hrísshestar tveir og kann bóndinn þeirra ekki að afla nær en suður í Almenningum, og kostar það þriggja daga tíma.

Þerney

Þerney – bæjarstæðið.

Móhestar oftast tveir, skjaldan einn. Móskurður til eldiviðar, síðan aflögðust skipaferðir í Heidemanns tíð; skal bóndinn skera tíu fóta breiða gröf og þrjátíu fóta lánga… Torfrista og stúnga er eydd í eyjunni að mestu og því sókt á fastaland, og liggur þar annar helmingur þessarar jarðar… Heimræði er árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en verstaða hefur hjer aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk… Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett… Kirkjuvegur lángur og erfiður.“

Uppdráttur af Glóru

Um Landakot segir: „Hjáleiga, nú í auðn og hefur so verið í 3 ár. Hún var bygð að nýju, þar sem ei hafði fyr býli verið fyrir vel þrjáríi árum… Kvaðir voru mannslán ár um kring og dagsláttur einn, hvortveggja til heimabónda. Item að styrkja til móskurðar á Bessastöðum bóndans vegna… Þessi hjáleiga stendur á eyjunni.“
Um Sundakot segir: „Önnur hjáleiga á fastalandi… Ábúandinn Magnús Hákonarson… Kvaðir eru mannslán árið um kring utan sláttar. einn dagsláttur. Hvortveggja til heimabóndans… Sjávarhlunnindi hefur hjáleigan engin. Átroðningur er mikill. Þessi hjáleiga er eldri en menn til minnast.“
Um Vidernes (Víðines) segir: „Heimræði árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en skipgata löng.“ Víðines er á sunnanverðu Álfsnesi. Bendir þetta til þess að gert hafi verið út frá Þerney þó svo að lending sé víða góð við vestanvert Álfsnes. enda voru kvaðir á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð og hálfur skiphlutur utan vertíðar, ella mannslán árið um kring utan sláttar…“

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Um Alsnes (Alfsnes/Álfsnes) segir: „Tún og engi meinþýft… Landþröng eru mikil og því er þessari jörð til beitar og annara nytja forn eyðijörð hjer nær, sem kallast Háheiði, segja menn, að þá hafi hjer landskuld aukin verið til helminga fyrir þessarar eyðijarðar brúkun. Stórviðri skaðar stundum hús og hey. Kirkjuvegur er lángur og erfiður. Vatnsból er slæmt en skortir þó ekki fyrir pening. Neysluvatn þarf annarstaðar að sækja.“
Um hjáleiguna Urðarkot (Glóru) segir: „Jarðardýrleiki reiknast með heimajörðinni… Vatnsból er á heimajörðinni. (Í Jarðabókinni er á lausu blaði brjef um Urðarkot og hljóðar svo:
Landskuld í Hallsnesshjáleigu, sem kölluð er Urðarkot eður Glóra, betalast með fiski ef til er eður peningum uppá fiskatal).
Glóra - Álfsnes fjærHér virðist Urðarkot, Hallsneshjáleiga og Glóra vera ein og sama bújörðin, auk þess sem Niðurkot og Sundakot virðast vera þær sömu. Af landamerkjavörðum að dæma er að sjá að Niðurkot hafi tilheyrt Þerney sem og Gunnunes. Þá er ljóst að Víðines hafi verið þess megin fyrrum.
Allt eru þetta hinar merkilegustu upplýsingar í ljósi þeirra minja, sem enn má finna á vestanverðu Álfsnesinu.
Við Glóru má sjá bæði tvöfalda fjárhústóft með miðjugörðum, sauðakofa, matjurtargarða o.fl. Af ummerkjum að dæma virðist Glóra hafa verið byggð upp úr eldri hjáleigu (Urðarkoti og Hallsneshjáleigu), en öll núverandi ummerki benda til 19. aldar býlis (reglulaga með fjórum stöfnum mót vestri), auk þess sem túngarðurinn er enn „reisulegur“ á köflum. Hlaðið er um brunnstæðið norðaustan bæjarins og matjurtargarður gefa góða vísbendingu um síðaldur bæjarins.

Rétt suðvestan Niðurkots

Niðurkot (Sundakot) er augljóst dæmi um 17. aldar bæ, sem fyrr segir. Hann er ekki óreglulegur, en ekki heldur reglurlegur. Fjós er norðan í húsaþyrpingunni, sem er af einfaldri gerð. Baðstofa og búr eru mót vestri, þótt dyr baðsofunnar snúi að Þerney. Lendingin er og var neðan bæjarins, sem bendir til þýðingu hjáleigunnar sbr. Jarðabókina 1703. Haðinn garður og gerði eru vestan, sunnan og austan bæjarins. Tóft, sennilega sauðakofi, er skammt suðaustar (innan túngarðs), og einfalt fjárhús sunnar. Það virðist byggt eftir seinni tíma forskrift og hefur því væntanlega tilheyrt Niðurkoti frekar en Sundakoti. Norðvestar virðist vera hleðsla af fiskgeymsluhúsi og mun vestar er hlaðin rétt í gróningum ofan við ströndina. Vörin og aðallending Þerneyjar er neðan við bæinn, malarfjara, sem enn er notuð til flutnings fólks út í Þerney. Bæjarstæðið þar „kallar“ á lendinguna, enda hefur bæði þörfin og mikilvægið augljóslega verið mikið fyrrum. 

Niðurkot

Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir haglega gerða garðhleðslu.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum, hefur m.a. skrifað um „Uppruna íslensku kýrinnar og innflutning á lifandi nautgripum og erfðaefni“. Þar segir kemur Þerney við sögu sbr.: „Um landnám mun svipaður nautgripastofn hafa verið á öllum Norðurlöndunum. Samkvæmt tiltækum upplýsingum, sem greint er frá hér á eftir, virðist íslenska kúakynið vera af norskum uppruna. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.
Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess Uppdráttur af Niðurkotiinnflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi. Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, þ.e. Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr.
Í „Lýsingu Íslands“, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er þessi: 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi (óvíst um innfl. M.Steph. 1831).

Túngarðurinn við Niðurkot

Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi skv. sóknarlýsingum. 1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum. Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni „Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma“, sem út kom 1947. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.

Álfsnes

Álfsnes og nágrenni.

Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans Guðmundur Andrésson (ekki dýralæknislærður) fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúlkindur frá Þýskalandi. Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir í Borgarnesi var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði.

Þerney - loftmynd

Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Gallowaykúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney.
Glóra (Urðarkot) fór í eyði 1896, tíu árum á eftir Niðurkoti (Sundakoti).
Gengið var um Gunnunes og til baka. Í bakaleiðinni voru m.a. ígrunduð landamerki Þerneyjar o.fl. (3:03).

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, bls. 329-335.
-Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum.
-Bjarki Bjarnason.
-Kjalnesingar, 1989.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra.

Bessastaðir

Í skýrslu Þjóðminjasafns Íslands 2013, Guðmundar Ólafssonar, um Bessastaðarannsókn II – Kirkjugarður og miðaldaminjar,uppgraftarsvæði 12-15, má lesa eftirfarandi niðurstöðu:
Bess II-2„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar árið 1988 eru þær að undir bílaplaninu norðan Bessastaðastofu á svæðum U12-U14, reyndist vera þykkur öskuhaugur frá 17., 18. og 19. öld. Þar voru fá mannvirki en nokkuð fannst þar af leirkera-, krítarpípu- og glerbrotum. Undir heimreiðinni á svæðum U14-U15, voru grafnar fram 75 grafir og þar kom í ljós að kirkjugarðurinn hafði náð mun lengra til norðurs á 18. og 19. öld en nú er.
Norðurveggur hans fannst undir miðri núverandi heimreið.
Áhugaverðar mannvirkjaleifar fundust einnig frá miðöldum á svæði U12. Þar reyndust vera mörg byggingarskeið sem erfitt var að greina á milli en þau höfðu skipt margsinnis um hlutverk. Hleðslubrotin voru svo mörg að byggingarnar virtust líka hafa verið endurnýjaðar mjög oft.
Enda þótt minjarnar væru aðeins rannsakaðar að hluta var ljóst út frá afstöðu gjóskulaga að á suðurhelmingi svæðisins höfðu staðið mannvirki allt frá síðari hluta 10. aldar eða byrjun 11. aldar. Kolefnisgreining á klæðisbút (Þjms 1988-213-224) styður þessa aldursgreiningu. Flest mannvirkin á svæðinu voru komin úr notkun um 1500. Elsta mannvirkið var hugsanlega leifar af garðlagi. Ofan á eða við þá hleðslu voru síðan reist hús sem af viðarkolablettum að dæma gætu upphaflega hafa verið íveruhús, þó að þau virtust fljótlega hafa fengið annað hlutverk.
Vonir standa til Bess-II-3þess að þegar úrvinnslu fleiri svæða hefur verið lokið, verði hægt að tengja þessar minjar betur við aðrar miðaldaminjar. Skordýraleifar bentu til þess að þarna hafi um tíma verið kamar, útihús eða úrgangur frá slíkum húsum en varðveisluskilyrði lífrænna minja á þessu svæði voru sérlega góð. Af áhugaverðum minjum má t.d. nefna leifar af kjól og tveimur skinnskóm frá þessum tíma og skordýraleifar, eins og elstu kóngulóarbjöllu sem fundist hefur hér á landi.

Nokkrir gripir undirstrikuðu sérstöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs á Íslandi. Þar má nefna brot úr þremur til fjórum kakalofnum frá 16.-17. öld, sem sýna að hér var ekkert venjulegt heimili, þegar haft er í huga að á Íslandi öllu var talið að aðeins sjö til átta býli byggju þá við slíkan munað (Kålund, 1916:60). Tuttugu og sex brot úr passaglösum eru líka margfalt fleiri en þekkist annars staðar á Íslandi. Á biskupssetrinu á Hólum hafa fundist fáein brot og í Skálholti hefur aðeins fundist eitt brot úr passaglasi. Einn óvæntasti fundur þessa árs voru samt vínberjakjarnarnir sem fundust í miðaldalagi á svæði U12. Þeir vitna um stöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs ásamt fleiri gripum, eins og t.d. passaglösunum og kakalofnunum, sem sýna að yfirstéttin á Íslandi reyndi eftir bestu getu að halda í við yfirstéttina í Norður-Evrópu og fygja siðum þeirra og lífsstíl“.
Í dag er uppgraftarsvæðið undir heimreiðinni (frá kirkjuhliðinu) að Bessastöðum.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn II. Kirkjugarður og miðaldaminjar, uppgraftarsvæði 12-15 – skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2013.

Bessastaðir

Bessastaðir.

 

Nessel

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er í raun vesturhlíð Rjúpnahæðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nafnið bendir til þess að þarna gæti fyrrum hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn og ógreinilegar tóftir, óskráðar. Líklega er þar um að ræða gamla selstaðan frá Fífuhvammi.

Fifuhvammssel

Fífuhvammssel.

Úr bókinni “Viðeyjarklaustur” eftir Árna Óla: “Samkvæmt máldaga klaustursins 1234 hefir það eignast selför í Þormóðsdal efri. Mun þar sennilega átt við þann dal, sem nú kallast Seljadalur, og hefir sennilega fengið það nafn af seli klaustursins. En hve lengi klaustrið hefir haft þar í seli, er ekki vitað, en seinna hafði það í seli undir Selfjalli, skammt frá Lækjarbotnum.

[S.G.] “Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð. Var spöl fyrir innan það litla sem ég fann í gær, þ.e. nær Grímarsfellinu, inn í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.

Mosfellsbær

Kambsrétt.

Talaði við Guðjón Jensson í Mos. og hann sagði að við Nessel séu miklar tóftir á hól og hefði þar verið lögrétt Mosfellinga, kölluð Kambsrétt, lögð af upp úr 1850, þá flutt í Árnakrók austan við Selvatn fram til aldamóta 1900 og svo byggð við Hafravatn. Hann taldi jafnvel að þar sem Kambsrétt stóð hafi verið selstaðan frá Viðey verið áður en hún var flutt undir Selfjall”.
Frábært veður.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.