Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: „Hér er hún“. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. „Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.“
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Kerlingarskarð

Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.

Lönguhlíð

Varða á Lönguhlíð vestan Mígandagrófar.

Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson (1762-1840) var stúdent í Kaupmannahöfn. Hann lærði læknisfræði og náttúrufræði, ferðaðist til Íslands fyrir Náttúrufélag Dana og sendi þeim skýrslur um landann.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

Hér á eftir verður fjallað um lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann fer mjög neikvæðum orðum um sýsluna, talar um að ekki geti aumari sýslu á Íslandi um útsýni og landkosti, en að mannfjöldinn sé þar meiri og strjálbýli minna. Þar er helsti kaupstaðurinn og þar er víðtækasta útræðið.
Hann lýsir landinu sem heimkynni allra ógna í náttúrunnar ríki. Sýslan sé lítið annað en auðn og eldbrunnin og gróðurlaus með öllu. Það sé erfitt að finna ósalt rennandi vatn. Hann talar þó um að mörg hraunanna séu ágætis afréttir fyrir sauðfénað jafnt sumar sem vetur.
Grjótið sem mest er af er vel fallið til húsagerðar en torfið sé erfitt að fá á þessu svæði og víða sé það svo gljúpt í sér að það nýtist ekki í þök né veggi. Bæir séu litlir og þröngir, og illa viðraðir. Allt er þar fullt af viðbjóðslegum óþef sem kemur af daglegum úrgangi frá útveginum og for, sem er grafin niður í jörðina fast við bæjardyrnar og hlaðin upp úr grjóti. Síðan er þetta notað sem áburður á túnin.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Lítið sé um hlunnindajarðir. En fólki fjölgi mest hér og það sé vegna hins ágæta sjávarafla sem menn sækja utan úr sveitum.
Í sýslunni eru 12 kirkjusóknir og í þeim 144 býli fyrir utan hjáleigur. Árið 1781 voru íbúar 2818. Í sýslunni sitja stiftamtmaður, landfógeti, landlæknir, sýslumaðurinn, lyfsali og ljósmóðir. Fangelsi hefur verið stofnað en það vanti sjúkrahús… Nýju innrétingarnar eru: klæða- eða vefnaðarvöruverksmiðja í Reykjavík, brennisteinshreinsunarstöð í Krýsuvík og sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni.
Reykjavík hefur 4 útibúsverslanir. Höfnin er þar rúmbetri en annars staðar. Biskupsstóllinn fluttist til kaupstaðarins frá Skálholti 1786 og einnig latínuskólinn. Verið sé að reisa dómkirkju.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Sveinn talar um að fiskveiðar séu vanræktar hvað varðar veiddar fisktegundir og útbúnað til sjósóknar. Stærri bátum tí- og áttæringum fækki en tveggjamannaför koma í staðinn. Ástæðurnar eru að fjölskyldur eru minni og bændur verða að draga saman seglin og gerast tómthúsmenn. Selveiði og hákarlaveiði eru vanræktar með öllu. Til beitu fyrir þorsk er notaður kræklingur og aða og ef það fæst ekki eru notuð t.d. þorskhrogn. Á vorin fjörumaðkur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Merkustu staðir í sýslunni eru: Bessastaðir, Viðey og kaupstaðurinn…
Íbúar í þessum landshluta koma úr öllum landshlutum. Menn eru hér dramblátari, eigingjarnari, ógestrisnari og ólhreinskilnari víð yfirvöld en annars staðar á landinu. Málfar og venjur eru verri. Fólk er uppivöðslusamara, meiri kaffi- og brennivínsdrykkkja og önnur fíflska. Fáir verða mjög gamlir og mörg börn deyja áður en þau verða þriggja ára gömul.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Ástæðan virðist vera illt viðurværi mæðranna og óþrifnaður. Frjósemi þó mikil. Tala óskilgetinna barna hærri en annars staðar.
Sveinn telur upp sjúkdóma s.s. líkþrá, kreppusótt í harðindum, (þó segir hann börn og unglinga vel hirt), lúa- og liðaverkir eru mjög algengir og einnig handa- og fótadofi. Móðursýki er algeng meðal kvenna og tíðateppu hefur flest kvenfólk hér frekar en annars staðar.
Klæðnaður er íburðarminni hér en fyrir norðan. Skautið er beygt mjög fram á við og fer ekki vel. Menn eiga almennt meira af peningum en minna af öðrum nauðsynjum.

Íslendingar

Íslendingar 1810.

Almenningur skiptist hér í stéttir: a) bændur sem búa á lögbýlum, b) grashúsmenn sem búa annað hvort á hjáleigum eða í húsi á heimajörðinni, hafa grasnyt fyrir eina kú, c) tómthúsmenn sem búa á hjáleigu eða í húsi á heimajörðinni, en hafa enga málnytu, d) vinnufólk, karlar og konur, e) börn, f) gamalmenni, g) þurfamenn, sem þiggja af sveit, h) lausamenn, sem hvorki stunda búskap né vinnumennsku, og eru ógiftir og i) sjómenn sveitamenn og vinnumenn sem eru hér við sjó að vetrinum.

Heimild:
-Úr Ferðabók Sveins Pálssonar.

rek-21

Reykjanesviti.

Breiðabás

Farið var að Breiðabás austan við Herdísarvík og leitað hellisops, sem Einar skáld Benediktsson hafði fyrrum lýst á þeim slóðum. Sagði hann í lýsingu sinni af hellinum að hann hefði náð úr Breiðasbás upp í mitt Mosaskarð, en þangað er vel á annan kílómeter. Vitað er um menn, sem villst höfðu inni í hellinum, en hann mun vera margarma og erfitt að rata inni í honum. Um er að ræða afhelli innan af hinum eiginlega Breiðabáshelli, stórum fjárhelli, sem lengi var notaður frá Herdísarvík.

Fornugata

Fornugata.

Í viðtali Jóhanns Davíðssonar við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík árið 2004 kom eftirfarandi fram um Breiðabáshelli: „Í Breiðabás var mikill sölvareki. Svo komum við að þessum stóra helli. Mig langaði til að fara inn í þennan tigna hellir. Gísli var í opinu í stóra hellinum og ég fór inn hellirinn, langaði að sjá hve hann næði langt þegar ég var kominn inn. Ég var ekki með ljós. Þegar ég var kominn langt inn, komu þrengsli, ég fór yfir þau, þá kom hellir til vinstri og annar lítill til hægri. Þá sá ég að ég var orðinn snarvilltur, ætlaði að finna leiðina til baka, en fann ekki, sá gat og gat skriðið þar upp, mjög þröngt. Ef ég hefði haft vasaljós hefði ég getað haldið áfram að skoða þetta betur. En þarna var bara svarta myrkur.

Breiðabás

Í Breiðabás

Þarna getur verið voðalegur hellir og stækkað er innar var komið. Þótt svona þrengsli væru þegar að var komið gæti verið víður hellir innar. Það veit enginn. Hægt væri að skoða þetta með góðum ljósum. Sárt að sjá að hellirinn er nú kominn í kampinn því þetta var góður hellir. Hann tók þrjú til fjögur hundruð fjár. Hann var meira en manngengur, en þegar inn var komið fór hann að þrengjast…, það komu svona göng…skosnur sitt á hvað.. þegar ég fór yfir þrengsin komu þar hellirar.. Það kom einhver smá skíma og þar fór ég upp, annars hefði ég orðið innlyksa.
Gísli var náttúrulega til frásagnar að ég fór inn í hann. Það hefði verið hægt að leita með ljósi því vasalljós voru komin þá – og kerti, en það var svo mikill dragsúgur í hessum hellirum.

Sjá einnig viðtal og ferð með bróður Eggert í Stakkavík, Þorkeli Kristmundssyni.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Ofan við opið á Breiðabáshelli, sem nú er komið undir háan sjávarkampinn, sést í fjárgötuna niður að opinu. FERLIRsfélögum í félagi við Hellarannsóknarfélagsmenn hafa komist undir hraunið þar sem yfirborðsrásir liggja þvers og kurs innundir, en ekki hefur enn tekist að finna leiðina að hinni löngu rás, ef frásögnin um hana er þá sönn. Vonir eru bundnar við það að eitthvert þungavinnutækið við lagningu Suðurstrandarvegar muni óvart dumpa niður í rásina þegar þar að kemur.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þrátt fyrir nokkra leit að þessu sinni komust leiðangursmenn ekki lengra en inn undir hraunið á nokkrum stöðum – en hvergi niður í rásina.

Þá var haldið í kaffi til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum. Þórarinn sýndi FERLIRsfélögum Fornagarð, sem var vörslugarður ofan við Selvog. Fornigarður (hét áður Strandargarður) lá frá Hlíðarvatni yfir að Nesi, um 5 km leið. Garðurinn var reistur fyrir árið 1200 og sést hann enn vel þrátt fyrir að sandurinn, sem hafði nær lagt byggðina í aun, hafi fokið vel að honum á köflum. Bæði sést móta fyrir garðinum á Vogsósatúninu sem og á heiðinni ofan þess. Ætlunin er að ganga síðar eftir garðinum frá Vogsósum að Nesi (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Þórarinn vísaði á gömlu Vogsósagötuna frá Ósum að Háahrauni. Um er að ræða tvær götur, gömlu og nýju götuna, að sögn Þórarins. Báðar eru þær klappaðar í helluhraunið og sést gatan mjög vel svo til alla leiðina.

Hellugata

Hellugata (Fornagata) vestan Vogsósa.

Þarna hefur verið mikil umferð áður en gatan lokaðist af Háahrauni er það rann um árið 1320. Víða eru 10-15 cm djúp för langar leiðir í klöppina.Gatan, sem stundum hefur verið nefnd Hellisvörðugata (hún er vörðuð á sléttri hraunhellu er nefnd er Hellan) er tvískipt, sem fyrr segir, sú nýrri er nær sjónum, og kemur aftur fram vestan hraunsins uns hrauntunga fer yfir hana að nýju. Hún greinist varla þegar kemur að túnunum austan Herdísarvíkur, en gamli vegurinn í gegnum hraunið, á milli löngu fiskigarðanna, gæti hafa komið á hana. Skammt vestan Mölvíkurtjarnar greinist gatan, annars vegar að Mölvík (rekagata) og hins vegar áleiðis í spor núverandi þjóðvegar.
Þá lýsti Þórarinn Stakkavíkurhelli og er ætlunin að skoða hann síðar. Hann er vestan og uppi í Nátthagaskarði (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Frábært veður – Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

 

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp á Lönguhlíðar um Kerlingarskarð og þaðan upp í Kistudal. Dalurinn skartaði sínu fegursta svo stuðlabergið naut sín vel.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Skoðaðar voru brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum og þátttakendur fundu það sem leitað var að – minjar um bústaði námumanna. Minjarnjar eru í gili undir hlíðum fjallana og mjög heillegar þrátt fyrir að hafa verið yfirgefnar í um 140 ár.
Gengið var um Grindarskörð á bakaleiðinni. Á leiðinni mátti sjá norðurljósin í sinni fegurstu mynd. Þau eru hvergi fallegri en þar sem engra ljósa frá byggð nýtur við.
Norðurljósin munu verða til vegna þess að frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.

Norðurljós

Norðurljós.

Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós.Margir af litum norðurljósanna myndast við svokallaðar forboðnar færslur eða ummyndanir milli orkustiga í sameindum og frumeindum í ystu lögum lofthjúpsins.
Sjaldgæf rauð norðurljós eru komin frá súrefni í mikilli hæð, yfir 200 km. Súrefni í um 100 km hæð myndar skæran gulan og grænan lit sem er bjartasti og algengasti liturinn í norðurljósum. Blár og fjólublár litur kemur frá jónuðum nitursameindum en óhlaðið nitur gefur rauðan lit. Purpurarauður litur við neðri rönd og gáraða jaðra á norðurljósum kemur einnig frá nitursameindum.
Veðrið var í einu orði sagt frábært.

Heimildir m.a.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1512

Kerlingarskarð

Kerlingargil.

Bálkahellir

Haldið var ásamt hellarannsóknarmönnum úr Hellarannsóknarfélaginu í Klofninga til að skoða Bálkahelli, sem FERLIRsfólk endurfann þar s.l. vetur. Þegar þátttaekndur stigu út úr farkostum sínum í upphafi ferðar undir Geitahlíð skalf jörðin líkt og venja er í FERLIRsferðum. Skjálftinn mældist að þessu sinni um 4° á Richter. Sumum varð ekki um sel.

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Um tuttugu mínútur tekur að ganga frá veginum niður í Bálkahelli eftir tiltölulega greiðfærum slóða. Hann er ekki auðfundinn þrátt fyrir stærð, en komið hefur verið fyrir litlum vörðum við opin.
Bálkahellir er um 450 metra langur. Um miðbik efsta hlutans greinist hann í tvennt, en rásirnar koma saman að nýju nokkru neðar. Að jafnaði er hellirinn um 6 metra breiður og 3-5 metrar á hæð og eftir því auðgenginn. Hrun er í efri hluta efsta hluta, en það hættir um miðbik hans. Í loftinu eru fallegar hraunnálar og á gólfinu eru dropasteinar, þ.e. í neðsta hlutanum.
Bálkahellis er getið í gamalli frásögn í umfjöllun um Arngrímshelli, síðar nefndur Gvendarhellir.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Að lokinni skoðun var haldið í Arngrímshelli, hinn fallega fjárhelli með miklum mannvistarleifum, bæði utanhellis og innan, og loks voru skoðuð þrjú önnur jarðföll, sem FERLIR hafði gengið fram á veturinn fyrrum.
Í einu þeirra leyndist nokkur hundruð metra hellir og í öðru urðu rannsóknarmenn frá að hverfa því sá hellir virtist endalaus. Ætlunin er að fara þangað aftur síðar til skoðunar.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ofangreindir hellar eru líklega með þeim fallegri í nágrenni höfðuborgarinnar. Þeir eru aðgengilegir og auðvelt að ganga að þeim. Staðsetningin er og verður þó að mestu í vitund þess FERLIRsfólks og hellarannsóknarmanna, sem lagt hafa á sig að skoða náttúrugersamirnar.
Veður var frábært (en hvaða máli skiptir það niður í hellum þar sem myrkur ríkir 364 daga á ári (að nýársnótt undanskilinni)).
Gangan og helladvölin tók 4 klst og 4 mín.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Djúpudalaborg

Ekið var að Strandarkirkju með viðkomu við dysjar Herdísar og Krýsu neðst í Kerlingadal. Við Strandarkirkju tók Kristófer kirkjuvörður vel á móti ferðalöngum. Leiddi hann þá í allan sannleika um kirkjuna, uppruna hennar og sögu.

Strandarkirkja

FERLIRsfélagar við Strandarkirkju.

Fram kom að skyggt fólk hafi komist að því að kirkjan hafi upphaflega verið byggð úr timbri er Gissur hvíti flutti til landsins frá Noregi skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi. Kom hann á leið sinni við í Vestmannaeyjum og reisti þar kirkju, þá sömu og endurbyggð var þar fyrir skömmu, en lenti í hafvillum utan við Selvog. Komst hann þar í land ásamt áhöfn eftir að hafa heitið því að þar skyldi reist kirkju er og ef hann næði landi. Hann og áhöfn hans björguðust og reistu ofan við sjávarkambinn litla áheitakirkju er snéri stafni til hafs. Bekkir voru annars vegar í henni og altari innst.
Núverandi Strandarkirkja er frá árinu 1888 og hefur verið vel við haldið. Í henni má m.a. finna sakramentisbikar frá 1262 og altarisbikar frá um 1340. Þá gripi sýndi Kristófer auk margra fleiri.

Nes

FERLIRsfélagar við Nes í Selvogi. Standa á fæti gamla Nesvitans.

Gengið var að Nesi frá Bjarnastöðum og Guðnabæ, skoðaðar fjárborgir, sjóbúðir, brunnhús, gamli kirkjugarðurinn og rústir gamla bæjarins í Nesi. Kristófer lýsti gamla vörsugarðinum er náði frá Nesi ofan Selvogs að Vogsósum, en hann mun vera eitt allra elstu mannvirkja, sem enn eru sýnileg hér landi. Þá var haldið að Hellisþúfu og hellirinn, sem búið var í um tíma, skoðaður, gengið um Djúpadalshraun og skoðuð Djúpadalsborgin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Gvendarbrunnar
Gvendarbrunnar eru kenndir við Guðmund Arason biskup hinn góða (1203-1237).
Inntak Gvendarbrunnavatnsins frá 1908-1980Vatnið sem Guðmundur góði vígði var talið heilnæmt með afbrigðum og búa ygir margvíslegum yfirnáttúrlegum eiginleikum. Hinsvegar hafa engar heimildir fundist um sérstök tengsl Guðmundar góða við Gvendarbrunnasvæðið.
Árið 1906 átti Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur, frumkvæðið að því að gera Gvendarbrunna að vatnstökusvæði Reykvíkinga.
Á árunum 1904-1905 hafði bæjarstjórn fjármagnað boranir í Vatnsmýrinni sem reyndust árangurslausar. Vatnið sem upp kom reyndist heitt og óhæft til drykkjar. Við boranir fannst einnig gull og samkvæmt efnarannsóknum var þar að finna ágætis gullnámu.
Guðllæðið í Reykjavík var skammlíft en áfram hélt undirbúningsvinna að vatnsveitu sem markaði tímamót með kaupum bæjarstjórnar á Elliðaánum.
Árið 1908 hófust framkvæmdir á vatnsleiðslu frá Elliðaánum og Gvendarbrunnum. Ári síðar voru leiðslurnar tengdar og vatnsveita í Reykjavík orðin að veruleika.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar – flugmynd.

Kaupstaðavegurinn

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk hins vegar frá því til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda. Ætlunin var að leita að tóftum Stafnessels, sem þar átti að vera ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs.

Stafnessel

Stafnessel.

Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana. Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili.
Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Skammt ofan við voginn er 200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Leiðinni var fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn. Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið hægt suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Frábært veður.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvellir

“Um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.
Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.

Hverinn eini

Hverinn eini vestan Trölladyngju.

Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Odsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.Â
Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil.

Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.

Selsvellir

Selsvellir.

Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, aðþeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Selsvellir

Gata í hrauninu við Selsvelli.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.

Húshellir

Í Húshelli.

Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaup svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna. Þingaði hann í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum.

Böðlar

Aftökur fyrrum mætti vel skoða nánar í sögulegu samhengi.

Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.

Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“

-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.

Þingvellir

Gálgi á Þingvöllum.