Refagildra

Eftirfarandi er hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980. Skrifin eru í framhaldi af skoðun hans á hlaðinni refagildru á Norðausturlandi er þótti merkileg, ekki síst fyrir það að einungis var þá vitað um mjög fáar aðrar slíkar hér á landi, þ.á.m. við Selatanga og Grindavík. Skrifin eru einkar áhugaverð þegar haft er í huga að nú, aldarfjórðungi síðar, eru 102 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum einum, landssvæði sem jafnan hefur þótt lítt áhugavert í augum fornleifafræðinga.

Refagildra

Refagildra á Reykjanesskaga.

„Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.
Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.
Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa

Nes

Refagildra við Nes.

hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu [19.] öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru þar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.

Refagildra

Refagildra við Kánabyrgi.

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þeim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.
Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur, sem ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftir tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Refagildra ofan Húsatófta.

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“
Rétt er að endurtaka það sem fyrst var sagt; að FERLIR hefur nú staðsett og skoðað um 80 hlaðnar refagildrur, sem hér hefur verið lýst, á Reykjanesskaganum. Sumar þeirra verða að teljast fornar og sennilega eru þær allar eldri en 100 ára og því friðaðar skv. ákvæðum gildandi þjóðminjalaga.

Heimild m.a.:
Hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.

Refagildra í Eldvörpum - fallhellan er fyrir opinu

Strandarsel

Farið var með Guðmundi Þorsteinssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Hellholtið. Þeir eru kunnugir á svæðinu og ætluðu m.a. að benda á hella og tóttir, sem þeir hafa orðið varir við.

Girðingarrétt

Girðingarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var frá Girðingarréttinni niður á holtið, u.þ.b. 10 mínútna gangur. Byrjað var að líta á fjárhelli utan í vestanverðu Hellholtinu og síðan á hellinn Hafra. Varða er ofan við opið, sem horfir mót norðri. Stór og rúmgóður hellir, en fremur stuttur.
Gengið var vestur að Strandarseli (Staðarsel), sem er sunnan við austanverð Svörtubjörg. Á leiðinni var kíkt í nokur göt. Í einu þeirra vex hár burkni er teygir sig móti sól. Er greinilega búinn að vera þarna lengi. Í öðru voru kindarbein. Þarna er greinilega um sömu rásina að ræða er teygir sig til vesturs frá Hellholti. Önnur sambærileg teygir sig til suðurs. Annars virðist Hellholtið hafa vera dyngja eða þunnfljótandi gígop.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel).

Í Strandarseli eru tóttir tveggja selja. Utan í hól eru stekkir og lambakró suðvestan við hann. Samkv. upplýsingum Þórarins á Vogsósum var þarna um fráfærusel að ræða. Það gæti verið skýringin á því sem síðar kom í ljós. Vestar er hraunhóll. Vestan undir honum er hlaðinn stekkur. Enn vestar er op, Hellholtshellir. Þetta er bæði fallegur og merkilegur hellir. Hann er u.þ.b. 70 metra langur og svo alveg heill. Hann hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, þótt hann hafi verið ákjósanlegur til þess. Í hellinum eru bæði dropasteinar og hraundrýli, auk hraunstráa. Innst í öðrum enda hans er hlaðin fyrirhleðsla.

Strandarsel

Stekkur í Strandarseli.

Sunnar var komið að hleðslur fyrir hellisopi. Greinilegt er að þar hefur verið hlaðið fyrir opið og síðan gangur niður, en þakið fallið að hluta. Inni er fallegasti hraunhellir, víður og hár. Gólfið er slétt. Vel sést hlaðinn niðurhleðslan. Þetta mannvirki er ekki á örnefnaskrá svo vitað sé. Gæti hafa verið forðabúr Staðarsels eða átt að vera athvarf ef tyrkirnir kæmu aftur. Hver veit? Fallegt að minnsta kosti.
Ofan við opið ert ótt, sem ekki heldur er á örnefnaskrá. Enn austar eru enn tvær tóttir, Sunnan við þær er op á fjárhelli. Innan við það er mikil hleðsla. Við suðurenda hellsins er op og ofan þess enn ein hleðslan. Þar hefur greinilega verið gengið niður í þennan fjárhelli. Þarna eru sem sagt á litlu svæði ein tvö sel og sérstakur hellir, sem vert væri að skoða nánar.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Hvaða seltættur eru þarna um að ræða er ekki vitað. Gætu hafa tilheyrt einhverjum Selvogsbæjanna eða jafnvel hjáleigum Strandarkirkju því skv. landamerkjum virðast þau innan lands Strandar. Eða verið eldri sel Strandar því greinilegt er að þessi tvö sel eru mjög gömul, mun eldri en þau sem ofar eru.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp, auk þess sem GPS-punktar voru teknir á sérhverjum stað. Í fjarlægð virðist heiðin auð og tóm. En í nálægð eru þar minjar við hvert fótmál.

Strandarsel

Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Jafnan er leitað til FERLIRs um leiðsögn um hin og þessi svæði Reykjanesskagans, bæði í styttri og lengri gönguferðir – enda óvíða um meiri uppsafnaðan fróðleik og reynslu að finna um svæðið.
Prestastigur-911Reykjanesskagann má njóta til útivistar allan ársins hring, hvort sem áhugi er á fornminjum eða náttúruminjum. Segja má að hann endurspegli bæði sögu búsetu- og atvinnusögu þjóðarinnar frá upphafi landnáms, auk þess sem náttúran með öllum sínum tilbrigðum hefur upp á nánast allt að bjóða, sem aðrir landshlutar hafa. Á svæðinu má t.d. finna leifar u.m.b. 400 selstöðva, 130 rétta, 80 fjárborga, 67 refagildra, auk allra annarra minja sem og fornra þjóðleiða. Hellar og skjól eru yfir 300 talsins, auk námusvæða og tilkomumikilla hverasvæða.
Fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, Suðurnesja, Grindavíkur og Þorlákshafnar er hvergi styttra að fara á kyngimögnuð útivistarsvæði. Í stað þess að verja tímanum í akstur að göngusvæðinu er hægt að nota hann til ánægjulegrar útivistar svo til allan daginn – og njóta síðan eigin rúms um kvöldið í stað þess að kaupa gistingu.
Hægt er að sníða gönguferðir að óskum og getu hvers og eins, hvort sem hann er einn á ferð eða í hóp…

Hafið samband við ferlir@ferlir.is – og við skoðum málið.

thorbjorn-221

Háspennumöstur

Greinargerð og samantekt um fyrirhugað línustæði milli Hellisheiðar og Hafnarfjarðar.

I. Inngangur
loftlinur-31Eftirfarandi er svolítil greinargerð og samantekt yfir minjar og náttúruverðmæti á fyrirhugaðri leið háspennumastra frá Hellisheiðarvirkjun að Hamranesi við Hafnarfjörð eftir því sem vitneskja liggur fyrir um slíkt. Ekki er um fornleifaskráningu að ræða, enda þarf hún að fara fram undir handleiðslu fornleifafræðings. Í reglugerð um þjóðminjavörslu, sem reyndar er úrelt (því hún miðast við lög sem felld hafa verið úr gildi) segir að “fornleifaskráning skuli gerð undir stjórn fornleifafræðings og að þess sé gætt, að teknar séu saman ritaðar jafnt sem munnlegar heimildir um fornleifar og allir minjastaðir séu kannaðir á vettvangi, hvort sem fornleifar eru sýnilegar á yfirborði eða ekki. Allir minjastaðir skulu færðir á kort og gerðar lýsingar og uppdrættir af þeim minjum sem sýnilegar eru.”
Rétt er því að fram komi að hér er einungis getið um sýnilegar minjar, en fleiri minjar kunna að leynast í jörðu á svæðinu. Það verður því að teljast bæði sjálfsagt og skylt að markviss fornleifaskráning fari fram á áætlaðri línuleið, í a.m.k. 50 metra út frá henni til hvorrar handar. Þá er og mikilvægt að meta bæði landslagið sem slíkt til verðmæta, sjónræn áhrif línunnar og þau áhrif er línugerðin kann að hafa á það með varanlegum hætti. Ekki verður hjá því komist, þótt kostnaðarmismunur virðist allnokkur, að meta hvort jarðstrengur geti verið raunhæfur kostur til lengri tíma litið og/eða aðrar lausnir, sem ekki hafa verið ígrundaðar sérstaklega hingað til.

loftlina-30

Tækniþróun hefur jafnan verið árangur eða krafa um aðrar lausnir en þekkst hafa á hverjum tíma. Ísland hefur verið framarlega í virkjunum og nýtingu orku. Ýmsar lausnir á erfiðum og óvæntum viðfangsefnum hafa komið fram á tiltölulega stuttri sögu virkjana. Fáir virðast hafa lagt sig fram um að leysa flutningsvandann. Fremur hefur verið horft til lausna annars staðar í heiminum í þeim efnum, með tilheyrandi innflutningskostnaðir. Telja má að kominn sé tími til að virkja innlent hugvit til að leysa, annars vegar flutningsmöguleika raforkunnar og hins vegar lækka kostnaðinn við þá. Má í því sambandi nefna þá einföldu lausn að leggja sandlag yfir núverandi yfirborð og undir jarðstreng og síðan annað sandlag ofan á strenginn. Í fyrsta lagi væri um fljótvirkari framkvæmd að ræða og í öðru lagi væri auðveldara að endurnýja strenginn en heilt háspennumasturskerfi úreldist á tiltölulega skömmum tíma. Í þriðja lagi væri um miklu minni sjónmengun að ræða, í fjórða lagi yrði línulögnin afturkræf og í fimmta lagi yrðu lágmarkaðar mögulegar skemmdir á fornleifum. Jarðstrengur yrði væntanlega lagður beinni leið milli staða – og því styttri.
Sérstaklega er tekið fram að hér er hvorki fjallað um viðkvæman né sjaldgæfan gróður eða um dýralíf á svæðinu.

II. Línulögnin

loftlina-29

Landsnet hf hyggst styrkja raforkuflutningskerfið á Suðvesturlandi, frá Ölkelduhálsi og Hellisheiði að Straumsvík vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík og áforma um virkjanir á Hellisheiði, við Hverahlíð og á Ölkelduhálsi. Þessar framkvæmdir eru jafnframt áfangi í langtímauppbyggingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, þ.m.t. 420 kV kerfis.
Ofangreindar háspennulínur liggja að mestu samsíða eldri línum. Að hluta er um að ræða nýbyggingu háspennulína en einnig er um að ræða breytingar eða tilfærslur á núverandi línum.
Einnig er til skoðunar hugsanlegar breytingar á legu Hamraneslínu 1 og 2, en línurnar liggja frá Geithálsi að Hamranesi. Breytingin virðast fela það í sér að í stað þeirrar línu komi lína samhliða nýrri línu frá Sandskeiði að Hamranesi, eða Stórhöfða því þar mun hugsanlega verða tengivirki í stað Hamranesstengivirkis, sem nú er.
Rögnvaldur Guðmundsson hjá “Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar óskaði eftir því við undirritaðan að fara yfir leiðir fyrirhugaðra háspennulína og gera grein fyrir helstu minja- og náttúrufyrirbærum, einkum þeim er sérstök ástæða væri til að gæta varkárni við.
loftlina-28Eftir að hafa skoðað fyrirhugaðar línuleiðir, þ.e. frá vestanverðri Hellisheiði að Hafnarfirði, var eftirfarandi listað upp sbr. framangreint, frá suðaustri til norðvesturs. Tekið var fyrir svæði vel rúmlega út fyrir línur svo minnka megi líkur á að verðmætar minjar eða náttúrufyrirbæri fari forgörðum við framkvæmdirnar.
Fornleifaskráning fyrir Ölfushrepp II, svæðisskráning fyrir Ölfus- og Selvogshrepp (Hildur Gestsdóttir & Orri Vésteinsson) og fornleifaskráning Fornleifastofu Íslands liggur fyrir um fornleifar á Hellisheiði og við Hverahlíð þar sem m.a. er sérstaklega tekið fram að ástæða sé til að fara varlega í nálægð hinnar gömlu mörkuðu þjóðleiðar um heiðina. Við Hverahlíð er steinhlaðinn grunnur húss er brann á fyrri hluta 20. aldar.
Línustæðið liggur um fjögur sveitarfélög, sem öll hafa lagt fram aðalskipulag um nýtingu sinnan umdæma til næst framtíðar. Í aðalskipulagi Ölfuss er t.a.m. tekið fram að “lagt er tila ð fram fari nákvæm skráning og kortlagning fornminja. Þá eru stórframkvæmdir umhverfis-matsskyldar sbr. kafla 4.2. og 4.3., s.s. vegagerð, háspennulínur og virkjanir.” Í aðalskipulagi Kópavogs og Hafnarfjarðar eru hliðstæð ákvæði. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir (a.m.k. í textanum) varfærni og að við engu verið hróflað nema að undangengnum athugunum með tilskyldum skilyrðum. Ljóst er að mikilvægt er að huga vel að undirbúningi, kanna alla möguleika og minnka sem tök eru á afleiðingar á röskun verðmæta er felast í náttúru og minjum á svæðunum.
Jafnan eru fyrirhugaðar framkvæmdir afsakaðar með því að svæðum hafi þegar verið raskað svo og svo mikið og því skipta þær í rauninni litlu máli til eða frá. Slík rök geta varla talist gjaldgeng – a.m.k. ekki lengur.
Flutningur raforku er og verður nauðsynleg. Henni mun ávallt fylgja eitthvert rask og jafnvel umhverfisspjöll.

III. Helstu staðir

loftlina-27

Hér verða tilgreinir helstu staðir og svæði, sem ástæða er til að gaumgæfa og gæta sérstakrar varfærni við á línuleiðinni milli Hellisheiðar og Hafnarfjarðar:

1. Hellisheiðarvegur – Hellisskarð – vegur – Búasteinn
2. Kolviðarhóll – þjóðsaga – legstaður
3. Draugatjörn – sæluhús – rétt – veggur
4. Bolaöldur – Bolasteinn – þjóðsaga
5. Svínahraun (Kristnitökuhraun) – nútímahraun (Landnáma)
loftlina-266. Fóelluvötn – rústir
7. Leitarhraun
8. Arnarþúfur – minjar – letursteinn
9. Lakheiði – ártalssteinn
10. Sandfell
11. Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur
12. Húsfellsbruni – (nútímahraun)
13. Selvogsgata – þjóðleið – Gálgaklettar (GS)
14. Helgafell – Litluborgir (Stórmerkileg jarðfræðifyrirbæri) – gervigígar
15. Skúlatúnshraun – Skúlatún – minjar – þjóðsaga um Skúlastaði?
16. Leiðarendi og fleiri hellar – 6359064N-02150600V
17. Gullkistugjá – þjóðsaga
18. Gvendarselshæð – selsminjar – 6400180N-02153662V
19. Dalaleið (þjóðleið)
20. Undirhlíðar – gígar á sprungurein
21. Undirhlíðavegur (þjóðleið)
22. Óbrennishólabruni (nútímahraun) – hellir – minjar
23. Hafnarfjarðarvegur gamli (Brynjúlfur Jónsson)
24. Selhraun – minjar
25. Stórhöfðastígur (þjóðleið)
26. Snókalönd
27. Dalurinn – minjar (fjárskjól) – 6402510N-02157101V
28. Straumsvíkurhraunin

IV. Lokaorð

loftlina-25

Hér að framan er getið 28 staða eða svæða, sem sérstaklega þar að gæta varfærni við ef og þegar leggja á háspennulínu milli Hellisheiðar og Hafnarfjarðar. Upplýsingarnar gætu einnig komið að notum ef ákvörðun yrði tekin um að leggja jarðstreng þá sömu leið. Líklegt má þó telja að leið með jarðstreng yrði önnur og beinni (og þar með styttri) en hér er áætlað.
Tiltekinna verðmæta á svæðunum er getið hér að framan. Þau gætu verið fleiri, s.s. selsminjar við Hvaleyrarvatn (Hvaleyrarsel og Ássel), sem ekki eru svo fjarri fyrirhugaðri línuleið. Einnig eru hlaðin skjól í Leyninum í Kapelluhrauni.
Þurfi að færa línustæðið m.v. núverandi forsendur þarf að sjálfsögðu að gaumgæfa það eða þau svæði af nákvæmni. Ef svo færi þrátt fyrir allt að fornleifar fyndust við framkvæmdir á svæðinu kveða þjóðminjalög svo um að stöðva beri verkið og tilkynna það til Fornleifaverndar ríkisins sem ákveður hvort verkinu megi halda áfram og með hvaða skilmálum.
Hér er ekki tekin afstaða til áhrifa er háspennumöstur og/eða –línur geta haft á ásýnd og viðhorf útivistarfólks á svæðinu er um ræðir. Einungis er tínt til það helsta er lýtur að kunnum minjum og náttúrufyrirbærum á og nálægt leiðinni, sem fyrirhuguð er.
Hvort sem um verður að ræða jarðstreng eða háspennuloftlínu, eins og hér er lagt upp með, þarf að huga vel að framangreindum svæðum með hliðsjón af minjum og náttúruverðmætum á leiðinni. Mikilvægt er að “jarðýtustjórinn” ráði ekki för þegar af stað verður farið heldur verði mjög nákvæmlega fylgst með framkvæmdum frá einum tíma til annars og að þess verði gætt að valda eins litlu raski og mögulegt er.

Háspennumöstur

Háspennulínur ofan Hafnarfjarðar.

Einiber

Ákveðið var að reyna að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.
Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraunssel-22

Hvassahraunssel – stekkur.

Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Hvassahraun segir m.a. um Hvassahraunssel: „Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.“
Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hHvassahraunssel-21raunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.
Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings.
Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.
Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krosstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu. Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring.

Urðarás

Urðarás.

Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra. Örn kom fljúgandi úr vestri á leið yfir að Skógarnefi og flaug lágt. Ótrúleg stærð. Hefur líklega komið úr Arnstapahrauni [Afstapahrauni] þarna vestan við.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um Lónakotssel: „Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum.  Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali, klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“ 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvassahraun

Hvassahraunssel

Í Hvassahraunsseli.

Reykjanes

Flestir sem fara um eða leiða áhugasamt ferðadólk um Reykjanesskagann enduróma gjarnan uppgötvanir annarra. Þó eru þeir/þau til er miðla fróðleik út frá eigin uppgötvunum. Í þessum fróðleik felast mikil verðmæti – miklu mun meiri en virðist við fyrstu sýn. Hafa ber í huga að þetta er fólkið er horfir til langrar framtíðar – það veit og skilur hvað komandi kynslóðum muni gagnast helst og best.
LóuhreiðurFERLIR hefur um nokkurt skeið leitað uppi minjar og staði á Reykjanesskaganum (í „landnámi Ingólfs“), sem getið hefur verið um í gömlum og nýjum heimildum, sögum, sögnum sem og munnmælum. Oftar en ekki hefur verið hægt að ganga að þessum stöðum vísum, en að sumum hefur þurft að leita, stundum oftar en einu sinni og jafnvel margoft. Við þær leitir hefur fundist ýmislegt, sem ekki er vitað að hafi verið skráð.
Þótt sumir minja- og sögustaðir hafi verið týndir eru þar á meðal staðir, sem í rauninni hafa alltaf verið til staðar. Heimafólk eða kunnugir hafa vitað af þeim þó svo að aðrir, jafnvel „sérfræðingarnir“, hafi ekki vitað um þá.
Fólkið á sérhverjum stað býr yfir ótrúlega miklum upplýsingum, sem stundum bíða þess einungis að verða „leystar úr læðingi“ eða athugaðar nánar.
Ef þú, lesandi góður, telur þig búa yfir vitneskju um stað í líkingu við framangreint, ert þú vinsamlegast beðinn um að hafa samband við
ferlir@ferlir.is. Allar ábendingar verða skoðaðar.
Sem dæmi um ófundna staði er getið er um í heimildum má nefna eftirfarandi:

Fornmannagröf við Stóra-Hólm1. Steinunn gamla mun hafa búið á Hólmi. Í túninu er bátslaga álagahóll, sem aldrei hefur mátt hrófla við – talinn fornmannagröf. Sagan segir og að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn „skammt innan við hliðið“. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Grjótgarðar eru þarna víða. Einnig hlið. Þó er eitt einstaklega áhugavert. Hlaðið hefur verið upp í garðinn, en innan hans er vatnsból. Við það lá gatan heim að bænum til forna. Á 20. öldinni komu menn frá Símanum, ómeðvitaðir um forsöguna, og grófu skurð um svæðið, umbyltu grjóti. Talið er að eitt grjótið hafi verið umræddur letursteinn. Sá, eða þeir, sem hafa séð eða vita af áletruninni eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband.

2. Ofan við tóftir Brekku undir Stapanum (skammt frá Hólmabúðum) á að vera ártal höggvið í stein. Ártalið mun vera 1925. Sá, eða þeir, sem hafa séð áletrunina og vita hvar hún er, eru beðnir um að hafa samband.

Fjárskjól3. FERLIR hefur leitað að fjárskjóli bóndans frá Hömrum við Húsatóftir. Hlaðið á að vera fyrir munna, sem er í tiltölulega litlu niðurfalli er horfir til suðurs. Staðsetning er sögð eiga að vera austan við Sundvörðuhraunið, nálægt Eldvörpum (ekki þó Útilegumannahellirinn (Brauðhellirinn)). Sú saga fylgir að Þorsteinn, bóndi á Hömrum, hafi reiðst við sýslumanninn á Tóftum vegna ágreinings um fjörubeit og flutt þá í skyndi og haldið sauðum sínum í umræddum helli. Sá, sem hefur séð eða veit hvar fjárskjólið er, er beðinn um að hafa samband.

4. Ásrétt er sögð hafa verið ofan eða nálægt Háaleiti ofan við Keflavík. Talsvert hefur verið raskað á svæðinu líkt og um gjörvallan Reykjanesbæ. Svo virðist sem verðmæti fortíðar hafi algerlega gleymst á þeim bænum í kapphlaupinu um nútímaþægindin. Vitað var af réttinni fyrir nokkrum árum. Sá, þeða þeir, sem gefa annað hvort sagt til hvar réttin er eða hvar hún var, eru beðnir um að hafa samband.

5. Ef einhver, eða einhverjir, vita hvar Bolafótsbrunnur í Ytri-Njarðvík er eða var, eru þeir hinir sömu vinsamlegast beðnir um að hafa samband. Brunnurinn var nálægt bæ þeim er Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, bjó í um tíma. Þar er nú forgengileg skipasmíðastöð. Tóftum bæjarins hefur verið eytt. Spyrja má hvort samfélagið hefði ekki verið mun ríkara í dag ef leifum bæjar Hallgríms hefði verið hlíft þegar ákvörðun var tekin um athafnasvæði fyrir skipasmíðastöðina?

Netfangið er ferlir@ferlir.is. Hafið í huga að hinar minnstu vísbendingar geta auðveldlega leitt til ávinnings.Gráhella

Brandur

Guðmundur Guðmundsson, fyrrum bóndi á Ísólfsskála, gat í örnefnalýsingu sinni um Skollanef í Slögu, austan Bólkvosa. Í þeim eru Stórusteinar. Sonur hans, Ísólfur, sagði og frá Skollahrauni sunnan þess sem og Kistu. Hraunið er hluti af Höfðahrauni, sem átti uppruna í Höfða og Moshólum á 12. öld. Aðrir hlutar þess eru Leggjarbrjótshraun og Katlahraun.

Skollanef

Í Skollahrauni eru hlaðnar refagildur, sem ekki er getið í fornleifaskráningu fyrir fyrirhugaðan Suðurstrandarveg um hraunasvæðin, líkt og svo margt annað.
Ætlunin var að ganga um hraunið millum nefnsins og Hraunsness og skoða hvort þar kynnu að leynast fleiri áður óþekktar mannvistarleifar.
Mosinn var frosinn og hraunin því auðvel yfirferðar. Skammt austan við Skollanef eru tvær vörður á brunahæð og neðan þess er klettur í hrauninu, nefndur Kista.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar frá Skála segir m.a.: „Rétt innan við bæinn skagar Kistaklapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista.“
Þegar Ísólfur Guðmundsson, bóndi á Skála, var spurður um svæðið svaraði hann: „Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni. En er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo? Sv.: Nei.“
Í örnefnalýsingu
Lofts Jónssonar fyrir Ísólfsskála segir: „Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu.

Innri-Stórusteinar

Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar. Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur.
Skálamælifell er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð. Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka, Önnurbrekka og Þriðjabrekka. Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu. Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.“

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Í Skollahrauni hlóðu Bergur frá Skála og vinnumaður á bænum sitt hvora vörðuna um miðja 20. öld þegar þeir sátu þar yfir fé. Hafa vörðurnar síðan verið nefndar eftir hleðslumönnunum og nefndar Brandur (sú nyrðri) og Bergur. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið eru vörðurnar taldar til fornleifa, sem er í sjálfu sér allt í lagi því þá ættu að verða minni líkur á að þær verði eyðilagðar – eða hvað?
Stórusteinar í Bólkvos voru flestir teknir þegar malarnám var stundað þar og notaðir í uppfyllingu í bryggjur í Járngerðarstaðarhverfi. Slaga hefur hins vegar gefið af sér nýja Stórusteina niður í Bólkvos, sem eflaust eiga eftir að verða fleiri er fram líða stundir.
Í Skollahrauni er fjölbreytt hraunalandslag. Hrauntröð liggur niður hraunið neðan við Skollanef.
StórusteinarBeggja vegna hennar eru sléttur. Enn neðar er Hraunsnes með sínum miklu hraundröngum og stórbrotnum jarðmyndunum. Neðarlega vestast í Skollahrauni má sjá leifar af sjávardranga, sem hraunið hefur umlukið á leið þess til sjávar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála.

Hraunasvæðin

Flekkuvíkursel
Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni.

Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkur

seli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóftir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Enn norðar er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – selsvarðan.

Skýringin á vörðunum tveimur, „Bræðrum“, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.

Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu.

Flekkuvíkursel

Flekkavíkursel – refagildra.

Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. „Gildrur“ þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesskaga fyrrum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Gangan tók 1 og ½ klst.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

 

Afstapahraun

Gengið var til austurs upp úr Seltóu um stíg yfir Afstapahraun, að hryggjargrenjunum í Geldingahrauni, þaðan upp að Bögguklettum og Mosastígnum síðan fylgt áleiðis að Lambafelli. Áður en komið var yfir hraunið, eða öllu heldur hraunin, norðan hans, var beygt til vesturs og gengið yfir úfið Eldborgarhraunið yfir á Sóleyjarkrika.

Einir

Einir í Geldingahrauni.

Seltóan er efsta Tóan í Afstapahrauni. Neðar er Hrístóa. Tóustígur, eða Tóarstígur, gengur upp í gegnum þær. Í Seltóu eru Seltógrenin. Ekki er vitað til þess að hefðbundin selstaða hafi verið í Seltóu, en þó gæti þar hafa verið beitt frá Rauðhólsseli vestan við hraunið. Sel voru þó með ýmsu móti, s.s. kolasel og hríssel. Þannig gæti fólk hafa dvalið um tíma í Tónni til hrístöku og reitt hann síðan á hestum um stíginn er þræðir Tóurnar, Hrístóustíg og Tóustíg til norðurs.
Gengið var til austurs yfir Afstapahraunið um Seltóarstíg. Hann liggur yfir hraunið þar sem styst er að fara. Grænn einirinn var áberandi í umhverfinu. Komið var niður að sléttu mosahrauni inni í hrauninu, en eftir að hafa fylgt stígnum út úr því til norðurs um hraunhaft var fljótlega komið inn í Geldingahraun. Þar skammt austar eru Hryggjagrenin á lágum hraunhrygg í annars grónu hrauni. Fallegt og heillegt byrgi refaskyttu er þar á hryggnum, auk þess sem grenin tvö hafa verið mörkuð við opin. Skammt vestan við syðra grenið er hlaðið skeifulaga byrgi. Stígur liggur upp hraunið vestan grenjanna.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Haldið var til suðausturs og stefnan tekin á mikinn klofinn hraunhól, sem sést hafði greinilega á loftmynd. Þegar gengið var upp hraunið bar hóllinn í Dyngnahraunið neðan við Einihlíðar. Litlir hraunhólar eru beggja vegna klofans, sá að austanverðu þó sýnu stærstur þeirra. Klofinn, sem er gróin í botninn, liggur til austurs og vesturs. Allt um kring og talsverða fjarlægð er nokkuð slétt mosahraun, svonefndir Mosar.
Kletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Frá Bögguklettum er fallegt útsýni yfir Mosana, upp á Einihlíðum þar sem má sjá hraunfossa Einihlíðabruna steypast fram af hlíðunum og þær sendnar og ljósari litum á milli. Þaðan má einnig sjá beint inn Lambafellsklofann þar sem hann ber í Dyngurnar (Grænudyngju og Trölladyngju). Þar sem staðið var við klettana varð til veðurleysa, þ.e.a. engu veðri var til að dreifa um stund. Mávahlíðarnar í suðri báru sig vel yfir umhverfið.
Haldið var upp Mosastíg, sem liggur þarna suður um hraunið með stefnu rétt austan við Lambafell og í endann á Dyngjuhálsi. Stígurinn er vel greinilegur vestan við Böggukletta, en sunnan við klettana skiptist hann og liggur hinn stígurinn norðar niður Mosana. Mosastígurinn stefnir niður að Skógarnefi og um Skógargötuna niður að Alfaraleið.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Í fyrstu er stígurinn á sléttu helluhrauni, en sunnar þarf að þræða úfnara apalhraun. Hann er þó vel greinilegur svo til alla leiðina í gegnum hraunið. Þarna eru nokkur hraun, hvert ofan á og utan í hverju öðru. Eldborgarhraunið er sýnu umfangsmest að vestanverðu og Dyngnahraunið að austanverðu.
Áður en komið var á stígnum út úr hrauninu að sunnanverðu var stefnan tekin til vesturs yfir úfið Eldborgarhraun og stefnan tekin á Sóleyjarkrika vestan þess.

Reynt göngufólkið var þó ekki í vandræðum með að finna greiðfærustu leiðina. Fljótlega birtist krikinn framundan, gulur og sléttur.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Frá hrauninu var áhugavert að virða fyrir sér sléttuna, Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sem vatnið hefur fært úr hlíðunum vestan Trölladyngju niður á sléttlendið og myndar stærðarinnar gróna og allslétta grasflöt. Lækurinn er enn að bera með sér leir, sand og mold úr hlíðunum og heldur gróðurferð sinni áfram norður með vestanverðu Eldborgarhrauni. Þegar hærra hraunið stöðvar hann á einum stað, flytur han sig yfir að þeim næsta þar sem auðveldara er að komast áfram, því hann ætlar sér ekki að lát stöðva sig fyrr en hann kemst til sjávar. Að lokum mun hann liðast niður um Tóurnar og úr þeim niður að ströndinni við Hvassahraun, hvenær sem það svo sem verður.

Höskuldarvallavegurinn var genginn að upphafsstað. Keilir bar herðar sínar vel í vestri.
Frábært veður – logn og hlýtt. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Garðastekkur

Gengið var um Fógetastíg áleiðis að Garðastekk og áfram eftir Garðagötu.
Í leiðinni var hugað að LoftmyndMóslóða í Garðahrauni. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: „Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið.
Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“ segir í Búrfellshraunörnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness.
Á móts við núverandi Eskines og Gálgahraun austanvertGarðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.“
Um Móslóðan segir skráningin: „Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó.

Gálgahraun

Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar“, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.“
Um Garðastekk segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ segir í örnefnalýsingu.

Garðastekkur

Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar.
Garðagata sést vel þar sem hún liggur upp holtið norðan Garðaholts.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Fornleifakönnun – Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 1999.

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.