Grindavík
Fyrirlestur Jón Þ. Þórs, fluttur í tilefni af 20 ára afmæli Grindavíkurkaupstaðar 10. apríl 1994.
(Birtist í Árbók Suðurnesja 1994, VII. árangi).

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Í almennum ritum um sögu Íslands á fyrri öldum eru þrír staðir nefndir öðrum oftar: Skálholt, Hólar og Þingvellir. Í sömu ritum er okkur tjáð, að biskupsstólarnir hafi verið mestu menningarsetur landsins og jafnframt auðugustu og valdamestu stofnanir á landi hér. Allt er það satt og rétt. Öll vitum við að völd fylgja auði, en jafnframt að auður verður ekki til af engu. Hann skapast því aðeins að menn, fyrirtæki eða stofnanir hafi tekjur, helst miklar og tryggjar tekjur umfram útgjöld í langan tíma. En hér er, að minni hyggju, brotalöm í frásögnum almennra rita um íslenska sögu. Í þeim er þess sjaldan getið hvaðan auður íslensku biskupsstólanna kom, hvernig hann varð til, hver voru tengsl stólanna við byggðir landsins, hver var þýðing einstakra staða og plássa fyrir valda- og menntasetrin. Í þessu stutta erindi verður rætt lítillega um tengsl Grindavíkur og Skálholts á öldum áður, ef það mætti verða til þess að varpa nokkru ljósi á þetta forvitnilega viðfangsefni.
Þegar Jarðabókin, sem tíðast er kennd við Árna Magnússon og Pál Vídalín, var saman tekin árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóttir, í eigu Skálholtsstóls. Húsatóttir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti. Þegar hér var komið tilsögu, hafði biskupsstóll staðið Skálholti í hálfa sjöundu öld og mikinn hluta þess tíma höfðu ítök og eignir stólsins í Grindavík verið að eflast og aukast. Í því viðfangi er athyglisvert, að elsta skjalfesta heimild, sem greinir frá ítökum og fjárhagslegum réttindum í Grindavík er rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Þar er kveðið á um skiptingu reka í Víkinni og er ljóst af skránni að Skálhyltingar hafa fengið umtalsverðan reka úr Grindavík – jafnt matreka sem viðreka – allt frá því snemma á 13. öld.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Þegar kom fram á 14. öld efldust og jukust ítök og eignir stólsins í Víkinni jafnt og þétt og á 15. öld bendir flest til þess að Grindavíkurjarðir hafi allar með tölu orðið kirkjueign. Að vísu er ekki vitað nákvæmlega hvenær þetta gerðist eða hvernig, og varla von, því á ofanverðri 17. öld vissu Skálhyltingar það ekki sjálfir. Eldsvoðar léku skjalasöfn Skálholtsbiskupa grátt fyrr á öldum og eyddust þá margar jarðabækur og skjöl, sem nú myndu veita ómetanlegar upplýsingar. En fleira kom til. Árið 1684 risu deilur vegna rekamála á Ísólfsskálafjörum. Af því tilefni ritaði Þórður biskup Þorláksson bréf, þar sem hann kvartaði undan því, að fátt væri um skjöl er greindu frá eignarhaldi Skálholtsdókmirkju á jörðum í Grindavík. Þar kenndi hann um eldsvoðunum og því að staðarskipið hefði farist á leið til Grindavíkur og með því jarða- og skjalabók, sú besta, er hann jafði heyrt getið um. Þarna átti biskup vafalaust við farmaskip Skálholtsstaðar, sem fórst við Þórkötlustaðanes árið 1602 og með því liðlega tuttugu manns.
Flest rök hníga að því að Skálholtsstóll hafi eignast Grindavíkurjarðir á 15. öld, nánar tiltekið á tímabilinu frá því Vilkinsmáldagi var settur árið 1397 og þar til Magnús biskup Eyjólfsson setti Staðarkirkju í Grindavík nýjan máldaga 1477. Á þessu skeiði voru mikil umbrot og átök í íslensku samfélagi. Á 14. öld varð bylting í atvinnuháttum og utanríkisverlsun landsmanna, er sjávarafurðir urðu verðmætasta útflutningaafurðin og sjávarútvegur arðsamasta atvinnugreinin. Á sama tíma hófu Englendingar stórfelldar fiskveiðar hér við land og á öndverðri 15. öld olli Plágan mikla stórfelldri röskun á mannfjölda og búsetu í landinu. Þessum atburðum verða ekki gerð nánari skil hér, en afleiðing þeirra varð sú, að byggðin færðist nær sjávarsíðunni en áður hafði verið, eftirspurn eftir sjávarjörðum jókst og þær hækkuðu í verði. Sama máli gegndi um sjávarafurðir, einkum skreið. Hefur dr. Þorkell Jóhannesson reiknað út, að skreiðarverð hafi hækkað um samtals 141 prósent á tímabilinu frá 1350 og fram til 1550. Tilkostnaður við útveginn fór vitaskuld hækkandi á sama tíma, en þó hvergi nærri jafn mikið. Við þessar aðstæður var eðlilegt að fjársterkir og valdamiklir aðilar í samfélaginu renndu hýru auga til góðra sjávarjarða, eins og þeirra í Grindavík, og svo mikið er víst, að um miðja 16. öld voru allar jarðir í Víkinni komnar í kirkjueign og hélst svo framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

En hvaða arð hafði biskupsstóllinn af þessum jörðum, hvern þátt áttu þær í viðhaldi stólsins og stofnana hans? Þessum spurningum verður að sönnu ekki svarað af þeirri nákvæmni að við getum áttað okkur á arði stólsins af jörðunum frá einu ári til annars, en tiltækar heimildir gefa þó nokkra mynd af gangi mála.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bygging stóljarðanna fór þannig fram að biskup byggði þær bændum, sem þar með urðu landsetar dómkirkjunnar. Þeir greiddu ákveðið afgjald af jörðunum á ári hverju. Það var nefnt landskuld og fór eftir mati jarðarainnar. Við vitum ekki með fullri vissu hver landskuldin var á 15. og 16. öld, er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var saman tekin árið 1703 var landskuld af jörðum í Grindavík samtals 17 hundruð og 40 álnir. Þessar upplýsingar segja nútímamönnum kannski ekki mikið, en greiðsla landskuldar fór fram í verkuðum fiski, harðfiski, og voru 240 fiskar, svonefndir gildingar, í hverju hundraði. Gildingur vó að jafnaði fjórar merkur, þ.e. eitt kíló, og voru þannig 240 kíló í hverju hundraði, en í hverri alin voru tvö kíló. Landskuld af jörðum Skálholtsstóls í Grindavík árið 1703 nam þannig 4.140 kílóum af fullþurrkuðum harðfiski og vilji fólk reikna það magn til peningaverðs á okkar dögum nægir að skreppa út í búð og athuga hvað harðfiskurinn kostar. Á þessum tíma, þ.e. um aldamótin 1700, var almennt reiknað með því að fullverkaður fiskur vægi um fjórðung af þyngd fisks upp úr sjó. Það þýðir að bændur í Grindavík hafi þurft að afla um það bil hálfa sautjándu smálest af fiski til þess eins að hafa upp í landskuldina.
En landskuldin var aðeins hluti af tekjum Skálholtsstóls af jörðunum í Grindavík. Stóllinn hafði umtalsverða útgerð á eigin vegum í Víkinni. Sú útgerð var vitaskuld mismikil frá einu ári til annars og arður af henni réðst af aflabrögum og árferði. Mest var stólsútgerðin í biskupstíð Brynjólfs Sveinssonar á 17. öld og má nefna sem dæmi um afraksturinn að árið 1674 fluttu faramenn biskups alls 15.357 fiska, þ.e. gildinga, af afla stólsskipanna frá Grindavík, auk lýsis og landskuldafisks. Þetta ár var afraksturinn af stólsútgerðinni þannig um 15 smálestir af fulþurrkuðum fiski, sem samsvarar 60 smálestum upp úr sjó. Gefur það nokkra hugmynd um umsvifin og við þetta bættist lýsi, reki og fleiri sjávar- og fjörunytjar.

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Tekjurnar vor þannig miklar og tilkostnaðurinn við að afla þeirra fremur lítill. Biskupsstóllinn átti að sönnu vergögn í Grindavík, báta, verbúðir o.fl., en landsetar, þ.e. bændurnir, urðu að lána menn til skipsáróðurs á stólsskipunum, auk þess sem þeim bar að annast verkun á fiski stólsins.
En nú kynni einhver að spyrja: Hvaða þýðingu hafði sjávaraflinn úr Grindavík fyrir biskupsstólinn? Þessari spurningu verður best svarað með því að líta á fiskþörf Skálhyltinga og er þá einvörðngu miðað við neyslu þar heima á staðnum.
Af varðveittum heimildum er svo að sjá sem árleg fiskþörf í Skálholti hafi verið 10-11 smálestir. Á árunum 1547-1563 fluttust þangað liðlega 10 smálestir af skerið á ári að meðaltali, minnst 8 en mest 13 smálestir á einu ári. Á fyrri helmingi 18. aldar virðist fiskneyslan hafa verið lítið eitt minni, en á árabilinu 1730-1743 var flutt heim til staðarins hálf níunda smálest á ári að meðaltali. Er athyglisvert, að á þessum árum hefur landskuldarfiskurinn úr Grindavík numið nálægt helmingi af árlegri harðfiskþörf Skálhyltinga og segir það nokkra sögu um þýðingu jarðanna í Víkinni fyrir rekstur biskupsstólsins.
Í Skálholti var jafan fjölmenni, um og yfir eitt hundrað manns þegar allt er talið, og fiskur var meginuppistaðan í fæði vinnufólks og skólapilta. Má í því viðfangi minna á, að á fáfiskisárunum 1685-1704 gerðist það oftar en einu sinni, að illa horfði um skólahald í Skálholti sökum fiskileysis, og eitt árið, 1698, varð að fella niður skóla í marsmánuði og senda pilta heim vegna þess að ekki var til nægur fiskur. Sést mikilvægi harðfisksins í mataræði heima í biskupssterinu ef til vill best af því að á síðari hluta 18. aldar fékk hver skólapiltur harðfisk í tvö mál á rúmhelgum dögum, eða einn gilding yfir daginn. Piltarnir voru að vísu mismargir frá einu ári til annars, en yfirleitt um 30 þegar skóli var fullskipaður.

Slokahraun

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Árið 1770 voru skólapiltar 33, og voru þá skammtaðir 33 fiskar alla rúmhelga daga í þær 35 vikur, sem skóli stóð. Það voru 5-6 smálestir yfir skólatímann og lætur nærri að landskuldarfiskurinn úr Grindavík hafi dugað skólapiltum yfir veturinn. Um þetta leyti fengur skólapiltar 1/5 hluta úr fiski í morgunverð á sunnudögum og öðrum bæna- og helgidögum, og urðu það 363 fiskar á 35 vikum. Í Skálholti var jafnan að störfum sérstakur barsmíðamaður og hafði hann það hlutverk að berja harðfisk. Hann barði 32-360 fiska á viku hverri, og á tímabilinu 29. janúar til 26. febrúar 1723 barði hann t.d. 1670 fiska.
Auk alls þess fisks, sem fluttist frá Grindavík til Skálholts var vitaskuld mikið af afla stólsins í Víkinni flutt í kaupstað og selt utan. Fyrir andvirði þess fisks keyptu biskupar ýmsar nauðsynjar, en þótt fiskurinn hafi verið verðmætasta afurðin sem biskupsstóllinn fékk af jarðeignum sínum í Grindavík má ekki gleyma öðru, t.d. viðrekanum, sem notaður var í húsagerð og viðhald heima í Skálholti.
Jarðirnar í Grindavík voru vitaskuld aðeins brot af öllum jarðeignum Skálholtsstóls. Hér verður þess ekki freistað að meta hve mikill hluti af tekjum stólsins á ári hverju kom úr Grindavík, enda skortir nauðsynleg gögn til að það megi gera af skynsamlegu viti. Engum getur þó dulist, að Grindavík var um aldir ein af styrkustu stoðunum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju, sem þar var stunduð.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól á Ísólfsskála.

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur

Upphaf Prestastígs ofan Hundadals.

Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.

Prestastígur

Prestastígur – Eldvörp.

Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.

Prestastígur

Prestastígur ofan Húsatófta.

Prestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.

Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóptarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrst er nefnd Hrafnagjá. Ofan hennar er svonefnt Sauðabæli. Neðar er Miðgjá og næst Húsatóftum er Hjálmagjá. Komið er inn á vestanvert heimatúnið (golfvöllinn) í skarð á gjánni.

Heimild um jarðfræði:
-Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi.

Ólafur Sigurgeirsson tók saman.

Á Prestastíg

Kolviðarhóll

Í sögunni um Skeiða-Otta segir að „Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram“.
Bolavellir eru nálægt Draugatjörn. Bolalda er vestar, á sýslumörkum. En hvar er Bolasteinn nákvæmlega?

Bolasteinn þjóðsaga
„Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]´rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segjir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.“

Heimild m.a.:
-Byggðasafn Ölfuss – fornleifaskráning

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Skálinn

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það  var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog. Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Landnámsbærinn

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum.

Kirkjuvogskirkja

Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.
Vogur - tilgátaÁ skilti við minjarnar stendur: „Árið 2003 fundust á þessum stað tóftir langhúss sem er 18m að lengd og 8 m að breidd. Þá eru greinilegar tóftir fleiri smáhýsa á svæðinu. Við C14 aldursgreiningu fornleifasýna kom fram sterk vísbending um að bærinn hafi verið reistur fyrir árið 900. Frekari rannsóknir eiga eftir að fara fram á svæðinu. Mögulega er hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Svo segir í Landnámu: „Herjólfr… var frændi Ingólfs ok fóstbróðir. Af því haf Ingólfs honum land millum Reykjaness og Vágs. Hann sonr var Bárðr, faðir Herjólfs, þess er fór til Grænlands ok kom í hafgreningar.“. Herjólfur, landnámsmaður í Vogi, hefur því verið langafi Bjarna Herjólfssonar sem fyrstur Evrópumanna sá meginland Ameríku.
Reykjanesskaginn allur fellur undir Landnám Ingólfs Arnarssonar. Síðar gaf hann þeim sem hann vildi úr landnámi sínu. Þannig hefur landið sem Herjólfur fékk náð yfir allan Hafnahrepp.
Örnefnið „Vogur“ er væntanlega eldri mynd af „Kirkjuvogi“. Einnig er þekkt örnefnið „Lögrétta“ úr nágrenninu sem talið er að sé undir norðaustur horni kirkjugarðsins.“
Við Kirkjuvogskirkju er annað ankerið af Jamestown, sem náðst hefur upp af strandstaðnum við Ósa. Austan þess var Lögréttan.

Heimild:
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.
-Upplýsingaskilti við „landnámsbæinn“ í Vogi (Höfnum).

Hafnir

Skilti við „Vog“ í Höfnum.

Geldingadalur

Fjallað er um örnefnið „Meradali“ á Vísindavefnum:

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

„Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir. Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda.  Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum.

Hraunssel

Hraunssel Sandfell og Höfði fjær.

Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Nauthóll

Nauthóll í Fagradal.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.“

Rétt er að geta þess að örnefnið „Merardalir“ eru jafnan notað í fleirtölu vegna þess að dalirnir eru tveir; Meradalur og Syðri-Meradalur (Fremri-Meradalur). Slíkt og hið sama gilti og um Geldingadalina.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforngjaráðskorti 1906.

Keilisnes

Keilisnes er nes milli Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flestum núlifandi er það ferskast í minni vegna umræðna um væntingabyggingu álvers á síðasta árattug er gufaði upp jafnskjótt og hún hafði kviknað.
Efst á nesinu, skammt frá gamla þjóðveginum, er varða sem Stefánsvarða heitir, á hæð sem við hana er kennd.  Þaðan er mikið útsýni yfir Faxaflóa. Örn Arnarson skáld lýsir siglingu Stjána bláa fyrir Keilisnes í örlagaþrungnasta minnigarkvæði sem ort hefur verið um íslenskan sjómann:

Í FlekkuvíkÆsivindur lotugangur
Löðri siglum hærra blés
Söng í reipum. Sauð á keipum.
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
Stýrði fyrir Keilisnes.

Ríkið á þarna landið. Fjárfest hafði verið í því eftir að vonarblær lék um byggingu álversins. Hugmyndir eru nú um það í bæjarstjórn Voga að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Keilisnes kemur og til greina sem nýr staður undir álver Alcans í kjölfar þess að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík. Bæjaryfirvöld í Vogum á Vatnsleysuströnd íhuga hins vegar að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði.
Hafnfirðingar höfnuðu því að álverið í Straumsvík yrði stækkað í 460.000 tonna ársframleiðslu, í atkvæðagreiðslu á dögunum. Síðan hefur komið fram að hægt er að stækka álverið í Straumsvík umtalsvert á núverandi lóð þess. Þá hefur einnig komið fram að kostnaður álversins vegna hugsanlegrar stækkunar sé þegar kominn yfir miljarð króna og spurning hvort stjórnendur fyrirtækisins vilji nýta þá fjármuni eða hætta rekstri hér og tapa þeim peningum alveg. Haft var eftir Gunnari Guðlaugssyni, sem líka leysir Rannveigu Rist af hólmi, í fréttum Stöðvar tvö að hugmyndin um Keilisnes væri góð. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarmanni í Alcan, sagði í fréttum stöðvarinnar að Keilisnes væri einn möguleikanna. Nýjustu fréttir gefa Hafnfirðingum þó von um að álverið verði um kyrrt á sínum stað næstu nálæga áratugina.“

Coot

Keilisnesið er í Flekkuvíkurlandi. „Ríkið á land á Keilisnesi, sem fyrr sagði, og eignaðist það raunar vegna hugmynda um álver á nesinu, á tímum Viðeyjarstjórnarinnar. Lóðin þar er skilgreind sem iðnaðarlóð í aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að verið sé að endurskoða aðalskipulagið og að það hafi komið til tals í bæjarstjórn, að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Það verði þó ekki gert án samráðs við landeigandann. Fram kom í könnun Gallups að meirihluti landsmanna vill gera hlé á stóriðju næstu fimm árin; 2/3 kvenna og helmingur karla. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að ekki sé farsælt að stíga á bremsuna í þessum efnum.“ Þótt afstaða formannsins hafi verið raunhæf með hliðsjón af þróun þjóðarbúskapsins virtist hún úr takt við viðhorfs fólks er bar umhyggju fyrir náttúru og umhverfi landsins.
Á Keilisnesi dagaði fyrsti togari Íslendinga, Coot, uppi.
„Í marsmánuði (þann 6. mars) árið 1905 kom fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, sem stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður, til heimahafnar í Hafnarfirði. Skipið var breskur gufutogari sem hét Coot, þ.e. blesönd, en skipið var smíðað í Glasgow árið 1892 og mældist 141,5 brl. Útgerðin gekk brösuglega í fyrstu en síðan batnaði afkoman og síðustu árin var ágætis hagnaður af útgerð togarans, en skipið strandaði í desember 1908 við Keilisnes og náðist ekki á flot aftur. Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum.

Frímerki

Togarinn gekk fyrir gufuaflsvél. Sá sem stuðlaði að því að Coot var keyptur til Íslands var útgerðarmaðurinn Einar Þorgilsson. Landsmenn vildu banna botnvörpur en svartsýni þeirra hvarf þegar þeir sáu hvað útgerðin gekk vel.
Á Coot var tólf manna áhöfn, allt Íslendingar. Útgerðin gekk oftast vel og skilaði miklum hagnaði til eigendanna.  Erfiðlega gekk að gera togarann út fyrsta árið en betur þegar á leið og útgerðin skilaði miklum hagnaði eða alveg þangað til Coot strandaði við Keilisnes árið 1908, en það urðu endalok útgerðarinnar. Nú eru engin ummerki eftir strandið á Ströndinni, en ketillinn úr togaranum var tekin þaðan og settur upp við minjasafnið í Hafnarfirði.
Næst á eftir Coot kom togarinn Jón forseti árið 1907.  Hann var á vegum útgerðarfélagsins Alliance.  Eftir það kom hver togarinn á fætur öðrum til landsins og árið 1912 voru þeir orðnir tuttugu talsins á öllu landinu.  Ketillinn
Í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu eftir Skúla Magnússon er fjallað um Kálfatjarnarsókn. Þar eru sagðar 18 jarðir og eigi konungur 15 þeirra, en hinar 3 á Kálfatjarnarprestakall. „Mannfjöldi var árið 1703 [er] 401, en árið 1781 464. Engjar eru sagðar engar og eigi annar heyskapur en sá er fæst af túnunum og er ekki hægt að stækka þau. Frá flestum bæjum eru selstöður upp til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar, þar er Skúli hefur séð á Íslandi á fjögurra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur (danskar) frá sjónum upp að háfjöllunum sem greina Gullbringusýslu frá Árnessýslu. Þannig tekur þetta svæði yfir 8 fermílur.
Segir svo að á milli Kálfatjarnarsóknar og Garðasóknar sé hálent hraunsvæði, sem Almenningur nefnist. Er það 2 mílur að breidd og þriggja mílna langt frá sjónum upp að fjöllunum. Landslag og gróður er þar með sama hætti, sem fyrr segir um Kálfatjarnarþingsókn; þó er þarna meira smáhrís og lyng. Undir þessu hrauni er bærinn Lónakot, sem eyddist fyrir skömmu af sjávargangi (það er að sjóflóð árið 1776 reif bæði burtu grassvörðinn af túninu og fyllti húsin og vörina grjóti og möl).“
Meira er fjallað um Vatnsleysustrandarbæi, minjar og sagnir annars staðar á vefsíðunni.
Ásláksstaðir

Búrfellsgjá

Þegar gengið er að Búrfellsgjá frá sunnanverðri Vífilsstaðahlíð má lesa eftirfarandi texta á tveimur skilti, annars vegar skammt frá akveginum (bílastæðinu) og hins vegar skömmu áður en komið er að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Gjaarrett

Á hinu fyrrnefnda stendur: „Búfellsgjá er syðst í svonefndu Hjallamisgengi sem nær frá Vílfilsstaðahlíð að elliðavatni.  Austan gjárinnar eru Hjallarnir, fallegar og gróskulegar kjarrbrekkur með vöxtulegum birkihríslum og blómlegum undirgróðri. Skammt frá er Hjalladalur, en þar á flötunum er nú áningarstaður og tjaldstæði. Hálftíma gangur er um Búrfellsgjá að Búrfelli. Gjáin er ein sérstæðasta hrauntröð landsins. Búfell er eldstöð frá nútíma og þaðan rann 18 km2 hraun fyrir um 7200 árum. Gjárétt var hlaðin úr hraungrjóti árið 1839. Hún var fjallskilarétt til ársins 1920 en er nú á fornminjaskrá.“
Á skiltinu við Gjáarrétt og Vatnsgjá stendur: „Búrfellsgjá er 3.5 km hrauntröð sem liggur vestur úr VatnsgjaBúrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta hafi runnið fyrir um 7000 árum.
Gjárrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjáarbarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep mann til gistingar.
Alldjúp gjá eða sprunga, Vatnsgjá er í botni Búrfellsgjár skammt norðan réttarinnar. Í gjánni eru um sex metrar niður að vatnsborði, vatnið er ferskt og endurnýjast sífellt. Vatnsgjá hefur verið forsenda fyrir selstöðu sem var á þessum slGjaarrett-2óðum.
Leitir til Gjáarréttar voru þrjár. Í Suðurleit var leitað suður fyrir Kleifarvatn og um fjalllendið þar umhverfis. Í miðleit var leitarsvæðið í Kristjánsdölum og í hlíðunum þar uppaf, í Grindarskörðum og þar sem land liggur til norðurs að Húsafelli. Norðurleit var frá Húsafelli norður um Tungur.“
Þá er getið um tilheyrendur einstakra dilka í réttinni, s.s. 1. Grindavík, 2. Vatnsleysuströnd, 3. Suður Hafnarfjörður, 4. Setberg, 5. Hraunabæir, 6. Garðahverfi, 7. Vestur-Hafnarfjörður, 8. Urriðakot og Hofsstaðir, 9. Vílfilsstaðir, 10. Ómerkingar, 11, Vatnsendi o.fl. bæir í Seltjarnarneshreppi, 12. Selvogur og 13. Almenningur.“
Ekki er getið um vestasta dilkinn og þann ógreinilegasta (hefur ekki verið endurhlaðinn) en hann hefur líklega verið safndilkur til undirbúnings áður en fjárhópar einstakra bæja voru reknir frá réttinni um þær þrjár rekstrargötur er enn sjást upp úr Gjánni, þ.e. til Vatnsenda (Elliðavatns), í Hafnarfjörð og Garðahrepp og loks til Selvogs og Grindavíkur.
Tækifærið var notað í blíðviðrinu til að skoða Gerðið skammt frá réttinni, hrauntröðina, Búrfellsgíginn og nærliggjandi hella og skjól.
Víða á vefsíðunni er fjallað um Búrfellsgjá og nágrenni. Hægt er að finna fróðleikinn með því að skrá nafnið/heiti inn í leitarstrenginn efst á síðunni.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – skilti.

Hrútagjárdyngja

Í Hrútagjárdyngjuhrauni er gígur í gígaröð og falleg hrauntröð út frá honum. Heimildir herma að í hrauntröðinni sé lítill hellir eða stór skúti. Í honum er hlaðið undir bæli. Mosagróin hrossabein eru við opið. Ætlunin var m.a. að finna staðinn – og kíkja á gíginn.
Gígurinn og hrauntröðinHrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 5000 árum síðan. Lítið fell suðaustan við Sandfell nefnist Hrútafell. Það gæti hafa dregið nafn sitt af gjánni – eða öfugt.
Annars er Hrútagjár(miðkjarna)svæðið stórbrotið jarðfræðifyrirbæri. Glóandi kvikan hefur þrýst yfirborðinu upp þannig að fyrrum slétt helluhraunið myndar nú líkt og næstum lóðrétta veggi umhverfis hana, einkum að norðaustan- og suðvestanverðu. Gígurinn er nú hringlaga tjörn þar sem kvikan hefur storknað líkt og tappalaga lægð. Í jöðrunum eru djúpar gasuppstreymisrásir. Þegar hraunkvikan leitaði frá uppsprettunni lá leið hennar um traðir, sem nú eru mest greinilegar næst gígnum. Gífurlegur hraunmassi kom upp í gosinu og myndaði hann allt undirlendið, allt að Óttarstöðum í útnorðri (norðvestri) og að jöðrum Þráinsskjaldar (sem einnig er dyngja) í vestri. Nú er Hrútagjárhraunið þakið birki og víði, lyngi, fjalldrapa, grasi og öðrum þeim plöntutegundum er prýtt geta gamalt hraun hér á landi.
Í HrútagjáTil að auka enn á áhrif dyngusvæðisins seig landið vestan við hana og myndaði sigdal á milli misgengja. Um er að ræða sama virknisreinina og sjá má á Þingvallasvæðinu. Svæðið hefur væntanlega sigið einna mest á síðari öldum því nýrri hraun bæði fylla sigdalinn og efri brúnir hans beggja vegna. Um hefur verið að ræða þunnfljótandi helluhraun, nálægt 1/2 meters þykkt, sem nú er nær eingöngu þakið þykkum hraungambra. Þetta hraun kom upp á sprungurein Trölladyngjusvæðisins líkt og önnur hraun á svæðinu eftir að dyngjugosinu sleppti. Vestar er gígaröð utan í Trölladyngju, við Mávahlíðar, en það hraun rann m.a. niður Einihlíðar, og síðan gígaraðir austan við Fíflavallafjall og loks þessi, sem hér var ætlunin að skoða nánar. Að öllum líkindum er hér um að ræða hluta af gígaröðinni er myndaði Ögmundarhraun að sunnanverðu og Kapelluhraun að norðanverðu árið 1150. Hraunið við þennan hluta er ekki óáþekkt þessum hraunum og gróningarstaðan svipuð. Gígaröðin er um 25 km löng og nær frá Núpshlíðarhorni í suðri að Helgafelli í norðri.
Misgengisveggurinn að vestanverðu - Fjallið eina fjærSkammt austan gígaraðarinnar er gjá, sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að fylla að hluta. Útsýni til norðurs er stórbrotið; hamraveggir og kollurinn á Fjallinu eina í fjarska. Til norðvesturs má sjá Mávahlíðahnúk og Mávahlíðar sunnan hans. Norðlingahálsinn skagar útnorður úr Sveifluhálsi. Vestan hans er falleg klettamyndun. Skammt raunsunnar eru Köldunámur.
Í leiðinni var komið við í hluta Hrútagjárinnar og gjáin fetuð með háa bergveggina til beggja handa. Gjáin gefur Almannagjá og Hrafnagjá lítið eftir hvað mikilfengleik varðar.
Eftir að áð hafði verið í stærsta gígnum var röðinni fylgt til norðurs. Víða mátti sjá göt í gjám, en í jarðfalli einu miðlungsstóru var lítið op. Þar undir niðri virðtist vera stór hellir. Ekki varð komist þangað niður nema með aðstoð reipis. Ætlunin er að fara þangað fljótlega og skoða fyrirbærið. Stærðin gefur von um merkilegheit.
Flóraður stígurKlettamyndanir utan í vestari hamraveggnum eru stórbrotnar. Þrátt fyrir nákvæma leit utan í honum fannst hvorki skúti né lítill hellir. Þegar stefnan var tekin upp á austari brún misgengisins tók við úfnara mosahraun, en þó ekki ógreiðfært. Ljóst er að víðast hvar á svæðinu geta verið rásir og skútar, sem nýta hefði mátt sem afdrep eða skjól um tíma, a.m.k. bentu ummerki austan hraunbrúnarinnar til þess. Þar var hlaðið gerði og flóraður stígur að því – sennilega eftir einhvern nútímamanninn.
Hrútagjárdyngjan sem og hraunasvæðin milli Hálsanna eru stórbrotin útivistarsvæði og koma sífellt á óvart hvað fegurð og mikilfengleik varðar. Að þessu sinni var umhverfismyndin einstök á að líta því hitinn frá sólinni náði að endurheimta regnvatnið frá deginum áður. Við það varð fagurgrænn mosinn smám saman grár, auk þess sem gufan steig svo til beint upp af honum í logninu.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á vettvang og þá skoða hellinn, sem fengið hefur nafnið Ellefuhundruðogfimmtíu, betur með aðstoð hellamanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja

Þegar FERLIR var á gangi um Hrútagjárdyngjuhraun nokkru austan svæðis ofan brúna í Almenningi er liggur milli Óttarsstaðasels og Lónakotssels, virtist mikið ganga á.
Mosavaxin varða við forna leiðGengið hafði verið upp gleymdan fornan stíg vestan við Rauðamelsstíg (sennilega Skógargötuna), í gegnum Óttarsstaðasel og áleiðis upp í Skógarnef. Þyrla hafði lent við litla flugvél, sem hafði hrapað í gróið hraunið efst og austast í Skógarnefinu, og snúist á bakið. Flugvélin bar einkennistafina TF-OND, Cessna 152, og virtist talsvert skemmd. Tveir menn sem verið höfðu í flugvélinni sakaði lítt. FERLIRsfélagar höfðu ekki verið sjónarvottar að aðdraganda óhappsins, en reyndu í framhaldinu að forvitnast svolítið um það.
Í frétt MBL um málið sagði síðan: „Tilkynning um að lítil, tveggja sæta Cessna-152-flugvél með tveimur mönnum innanborðs hefði hrapað í hrauninu suður af álverinu í Straumsvík barst til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar kl. 19.09 í gærkvöldi.
Á vettvangiLögreglubíll frá Hafnarfirði var strax sendur á vettvang og var kölluð til þyrla, sem flutti mennina á slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss en erfiðlega gekk að komast að vélinni þar sem hún lenti í Kapellu- eða Selhrauni um 6 km frá veginum.
Að sögn vakthafandi læknis voru mennirnir afar brattir miðað við óhappið en í gærkvöldi var ekki gert ráð fyrir að þeir yrðu lagðir inn heldur útskrifaðir eftir frekari rannsóknir. Ekki var talið að mennirnir þyrftu á áfallahjálp að halda. Þeir vildu ekki ræða við fjölmiðla.
Rannsókn á tildrögum slyssins hófst strax í gærkvöldi og mun standa yfir næstu daga.“
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu fóru lögreglumenn á vettvang með þyrlu Landhelgisgæslunnar Á vettvangiþar sem ökutæki varð ekki fært um hraunið. Höggið er flugvélin lenti á jörðinni hefði verið töluvert því jarðvegur hafði rifnað upp, nefhjólið brotnað af og skrokkur vélarinnar verið aflagaður. Fulltrúi Rannsóknarnefndar flugslysa var með í för og hélt hann rannsókn sinni áfram þegar flugmaðurinn, nemi, og kennari úr vélinni voru fluttir á slysadeild til skoðunnar. Þeir hefðu verið að æfa hægflug í u.þ.b. 1000 feta hæð; dregið af vélinni og sett flapsana út til að geta flogið hægt. Þegar þeir hafi tekið eftir að flugvélin var að missa hæð reyndu þeir að gefa vélinni inn, en hún þá farið að halla á hliðina. Við það fór flugvélin niður og gat áhöfnin ekki komið í veg fyrir að hún hafnaði í jörðinni í beygjunni. Vélin lenti á nefinu og rann þannig stuttan spöl áður en hún fór yfir sig og hafnaði á hvolfi. Áhöfnin hafi síðan komist af sjálfdáðum út úr vélinni.
Að sögn flugmanna, sem rætt var við, er svæðið þar sem Á vettvangióhappið varð, hluti af aðalæfingasvæði flugnema. Slík atvik séu sem betur fer svo fátíð að sérhvert slíkt verður að teljast til einstakra tíðinda. Hér hafi verið um mannbjörg að ræða og það skipti öllu máli. Rannsókn á óhappinu myndi væntanlega upplýsa nánar um ástæðu þess. FERLIR minnist þess ekki að sambærilegt óhapp hafi áður orðið á þessu svæði – þrátt fyrir hina miklu flugumferð um langt skeið.
Í fréttum fjölmiðla af slysinu var staðsetning þess eitthvað á reiki, ýmist nefnd Afstapahraun, Kapelluhraun eða Selhraun. Ef vel er að gáð gefur gróðurinn í hraununum nokkuð góða mynd af aldri þeirra. Hrútadyngjuhraun er elst sjáanlegu hraunanna neðan móbergshálsanna (sem urðu til í gosum undir ísaldarjökli), um 5000 ára, enda grónast og með fjölbreytilegastri flóru. Selhraunin fjögur, neðanverð, eru yngri, en Afstapahraunið eldra er runnið hefur þvert á þau gæti verið Sveppur við Óttarsstaðaselum 4000 ára. Kapelluhraun, öðru nafni Nýjahraun eða Bruninn, rann árið 1150, enda nær eingöngu þakið mosa (hraungambra). Hrútadyngjuhraunið er upprunnið úr dyngju, enda umfangsmest, en hin komu úr gjóskugígum. Á meðfylgjandi myndum er augljóslega um dyngjuhraun að ræða.

Það sem vakti annars sérstaka athygli í þessari ferð voru hinir myndarlegustu sveppir víðast hvar í hraununum. Þeir höfðu greinilega náð að þroskast því þeir virtust í góðum blóma.
Gangan frá Óttarsstaðafjárborginni upp í ofanvert Skógarnefið tók u.þ.b. klukkustund. Flugvélaflakið er því nálægt 6 km ofan við Reykjanesbrautina. Frábært veður.

Skógarnef

Þyrla hífir vélina upp.

 

Litlibær

Skoðuð var gömul stórgripagirðing austan Litlabæjar. Gengin var Gamlivegur (kirkjuvegurinn) í áttina að Keilisnesi og litið á stöplana. Þeir liggja í um 1.340 m aflíðandi bogadregna línu frá vestri, túngarði Bakka og Litlabæjar, til austurs og austast til norðurs að sjó.

Borgarkot

Girðingarsteinn við Borgarkot.

Um 10 metrar eru á milli steinstöpla og er höggnar tvær holur í hvern stein, önnur ofan á og hin á suðurhliðina. Í þessar holur voru látnir stuttir tréstaurar og upp á þá væntanlega þrætt band á milli þeirra. Girðingin hefur verið til að varna stógripum göngu sunnar en bónda þótti við hæfi.
Steinar þessir eru fyrir margra hluta sakir merkilegir. Þeim er raðað í beina röð langa leið, í þá höggin tvö göt hvern og í götin reknir trétappar. Sennilega þekkjast fáir slíkir hér á landi, a.m.k. ekki á Reykjanesskaganum.
Girðingin er yngri en suðaustanverður túngarðurinn á Bakka og Litlabæ því ella hefði grjótið úr henni næst veggnum verið tekið í hann. Auðveldlega væri hægt að aldursgreina einn trétappann eða fleiri og komast á nálgunaraldri þeirra. En hvað sem öllum ágiskunum um aldur líður er hér um að ræða merkilegt mannvirki.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla, sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik:
„Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
„Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.““

Borgarkot

Þorvaldur Örn við einn stein stórgripagirðingarinnar. Sjá má trétappa með járnlykkju í steininum.