FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi, þ.e. Reykjanesskagans (fyrrum landnáms Ingólfs). Úr varð gönguhópur er líklega, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum slíkum er á eftir komu, hefur stuðlað að meiri upplýsingu um fyrrum vitneskju um svæðið en allir aðrir þeir til samans. Fleira áhugasamt fólk slóst í hópinn, sem um leið varð fyrirmynda annarra slíkra er hvöttu til hreyfingar og útivistar í margbreytilegu umhverfi.

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Árni Torfason, starfsmaður Morgunblaðsins, setti upp fyrstu vefsíðu FERLIRs árið 2000 að tilstuðlan Júlíusar Sigurjónssonar, hins ágæta ljósmyndara sama miðils. Með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans varð vefsíðan síðan að veruleika. Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007, enda þá orðin tæknilega úrelt, og síðan uppfærð í núverandi útgáfu árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fjölmargir hafa ljáð verkefninu stuðning. Má þar t.d. nefna sveitarfélögin á svæðinu. Þátttaka áhugasamra í FERLIRsferðunum, sem og miðlun efnis og nýting annarra á því, hefur jafnan verið öllum endurgjaldslaus.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband og koma áhugaverðu áður óbirtu efni á framfæri, er þeim bent á netfangið ferlir@ferlir.is.

Hér má sjá gömlu vefsíðuna.

Stykkisvöllur

FERLIRsfélagar við Stykkisvöll.

Magnús Jónsson

Í handritaðri bók Magnúsar Jónssonar „Bær í byrjun aldar – Hafnarfjörður„, sem hann gaf út árið 1967 á eigin kostnað, kemur margt fróðlegt fram.

Úr formála fyrstu útgáfu segir:

Magnús Jónsson
„Á þessu verki, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, eru ýmsir ágallar. Er það fyrst til að taka, að betur hefði verið farið á að miða við aldamótin, heldur en við árslok 1902, sem hér er gert aðallega. Þar er því aðeins til að svara, að fyrsta hvatningin til þess starfs, var athugun á korti af Hafnarfirði frá því ári.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann ólst upp í Hafnarfirði.
Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953.
Útskrifaðist frá Kennaraskólanum
1957. Lauk eins árs námskeiði í
bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn
1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar.
Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar.
Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.
Magnús lést á Sólvangi 3. febrúar
2000.

Þá er einnig fjölskyldunum sem hér er gerð grein fyrir, gert misjafnlega hátt undir höfði. Er það bæði til að dreifa ónógri þolinmæði við að leita upplýsinga, og að fallið er í þá freistni að skrifa sumt ýtarlegar en samkvæmt meginreglunni. Þessi meginregla er sú, að nefna fæðingarár og -stað húrráðenda, giftingarár o.fl.
Einnig börn og hverjum þau giftust, séu þau fædd fyrir árslok 1902. Síðan ýmist dánarár húsráðenda eða flutningsár burtu úr bænum, t.d. til Reykjavíkur, ef um það er að ræða. Á stöku stað er leiðst út í að láta nokkur hrósyrði eða aðrar athugasemdir falla, en allt slíkt eru vandrataðir vegir, sem ef til vill væru betur ófarnir.

Reynt hefur verið að afla mynda, og hefðu þær orðið skýrari með venjulegri prentun. Myndastærðir eru tvær, annarsvegar húsráðendur og hins vegar gamalmenni, einhleypingar og fólk sem ekki var fyllilega komið út á lífið. Oft er aðeins til mynd af öðru hjónanna.
Ekki þarf orum að því að eyða, að margir hafa verið ónáðaðir með spurningum og fleiru í þessu sambandi. Er hér með beðið afsökunar á því og þökkuð góð fyrirgreiðsla.
Stundum ber ekki saman kirkjubókum og svo upplýsingum þeirra sem næstir standa. Er hér farið eftir því fyrrnefnda, en ofan og aftan við þau orð eða ártöl er lítið spurningarmerki.“

Um aðra útgáfu segir:
„Um þessa útgáfu er lítið að segja. Hún er svipuð hinni fyrri, sem kom út fyrir jólin 1967 og seldist strax upp. Hér er þó reynt að búa svo um hnútana að myndirnar verði skýrari.“

Hafnarfirði 16.9. 1970
Magnús Jónsson.

Í bókinni eru taldir upp bæirnir í Hafnarfirði um og eftir aldarmótin 1900:

1. Vesturkot
2. Halldórskot
3. Hvaleyri – heimajörðin
4. Tjarnarkot
5. Hjörtskot

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1900 – Óseyri fjær og Flensborg fremst.

6. Óseyri
7. Bær Hannesar Jóhannssonar
8. Ásbúð I (Halldór Helgason)
9. Ásbúð II (Guðm. Sigvaldason
10. Melshús
11. Brandsbær
12. Flensborg
13. Hábær
14. Nýibær
15. Skuld
16. Litla kotið
17. Holt
18. Mýrarhús I (Guðlaug Narfad.)
19. Mýrarhús II (Guðm. Ólafsson)

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir á fyrri hluta 20. aldar.

20. Jófríðarstaðir I (Þorvarður)
21. Jófríðarstaðir II (Hólmfríður o.fl.)
22. Steinar
23. Hella
24. Hamar
25. Bær Sigríðar Ísaksd. (Miðengi)
26. Bjarnabær – á Hamri
27. Gíslashús – Bjarnasonar
28. Hús Ólafs Garða
29. Bær Jóns Vigfússonar
30. Björnshús – Bjarnasonar

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

31. Hamarskot
32. Stefánshús
33. Á Mölinni
34. Undirhamar
35. Klúbburinn

36. Proppé-bakaríið
37. Barnaskólahúsið
38. Blöndalshús
39. Ögmundarhús

Hafnarfjörður 1902

Hafnarfjörður 1902.

40. Hús Daníels frá Hraunprýði
41. Hús Eyjólfs Illugasonar
42. Hús Jóns Jónssonar Lauga
43. Hús sem Þorv. Erlendsson byggði
44. Hús Sveins Auðunssonar
45. Hús Vigfúsar Gestssonar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Dvergasteinn.

46. Dvergasteinn
47. Sýslumannshúsið
48. Brú
49. Kolfinnubær
50. Kofinn – Miðhús
51. Hús Sveins Magnússonar
52. Byggðarendi
53. Lækjarkot I (Ólafur Bjarnason)
54. Lækjarkot II (Anna K. Árnad.)
55. Bossakotshús – Grund
56. Á Hólnum – Balanum
57. Gerðið
58. Bali
59. Hús Kristins Vigfússonar
60. Bær Jóns Á. Mattiesson
61. Bær Einars Þorsteinssonar
62. Helgahús
63. Hús Kristbj. Guðnasonar – Hekla
64. Ragnheiðarhús
65. Hús Guðrúnar Sigvaldad. (Hagakot)
66. Bær Sigurðar lóðs

Siggubær

Siggubær 2020.

67. Bær Kristjáns Friðrikssonar
68. Bær Krístínar Þorsteinsdóttur
69. Elentínusarbær (áður Guðnabær)
70. Steinsbær (áður Bened.bær)
71. Þorkelsbær – Snorrasonar
72. Á Snösinni – Hábær
73. Bær Bjarna Markússonar
74. Gunnarsbær
75. Markúsarbær
76. Ingibjargarbær
77. Hús Hans D. Linnet

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar I.

78. Brúarhraun
79. Jörgínarbær
80. Efra Brúarhraun
81. Arahús
82. Hús Einars Jóhannessonar
83. Hendrikshús

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hraunprýði.

84. Hraunprýði
85. Ólafsbær – Knútsbær
86. Bær Jóns Sigurðs. (Hraungerði)
87. Jörundarhús
88. Hús Hansens kaupmanns
89. Beykishúsið gamla?
90. Theodórshús
91. Filippusarbær
92. Bær Sigríðar Steingrímsd.
93. Bær Jóhanns Björnssonar
94. Stundum nefnt Hansensbær
95. Á Hól
96. Þorkelsbær – Jónssonar
97. Þorlákshús – á Stakkstæðinu
98. Finnshús
99. Brekkubær (?) (Þórður Björnsson)
100. Hús Jóns Steingrímssonar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Þorlákshús á Stakkstæðinu.

101. Efstakot(ið)
102. Hús Steingríms Jónssonar
103. Klettur (Þorst. Þorsteinssonar)
104. Níelsarhús
105. Bær Ólafs Sigurðssonar
106. Daðakot (Magnús Auðuns.)
107. Hraun
108. Bær Erlendar Marteinssonar
109. Illugahús (síðar Kóngsgerði)
110. Veðrás
111. Sigmundarhús
112. Krókur
113. Oddsbær
114. Hús Jóns Þórðars. frá Hliði
115. Flygeringshús

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

116. Sívertsenshús
117. Lóðsbær – Gísla
118. Guðnýjarbær
119. Mörk (Sigurgeir Gíslason)
120. Hús þar sem nú er svæðið gegnt Merkugötu 11
121. Hús Guðmundar Helgasonar
122. Bær Kristjáns Auðunssonar
123. „Svartiskóli“ (Hrómundur)
124. Klofi
125. Árnahús

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar II.

126. Gesthús I (Einar Ólafsson)
127. Gesthús II (Bjarni Ásmunds. o.fl.)
128. Hús Guðm. Halldórss. járnsmiðs
129. Klettur (Ólafur Jónsson)
130. Svendborg
131. Langeyri
132. Brúsastaðir

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Til skaða er hversu meðfylgjandi uppdráttur af herforingjaráðskorti Dana 1902 er óskýr (þess tíma tækni).

Í minningargrein um Magnús 11. febrúar 2000 segir m.a.:
„Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn. Foreldrar hennar voru: Anna og Gravers Pedersen. Börn Magnúsar og Dagnýjar eru þrjú: 1) Jón viðskiptafræðingur, f. 7.11. 1960, kvæntur Helen P. Brown, markaðsfræðingi, f. 13.2. 1960. Synir þeirra eru: Stefán Daníel, f. 1988, og Davíð Þór, f. 1991. Þau eru búsett í Garðabæ. 2) Halla, læknaritari, f. 12.12. 1964, gift Þórði Bragasyni skrifstofumanni, f. 23.9. 1965. Börn þeirra eru Magnús, f. 1991, Bragi, f. 1993, og Ingibjörg, f. 1997. Þau eru búsett í Hafnarfirði. 3) Anna tannlæknir, f. 19.5. 1970, gift Guðmundi Jóhannssyni, sagn- og viðskiptafræðingi, f. 10.7. 1963. Sonur þeirra er Helgi, f. 1997. Þau eru búsett í Reykjavík.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Oddnýjarbær í Hellisgerði.

Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.

Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.“

Hafnarfjörður

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson – Hafnarfjörður, Skuggsjá, gefið út á kostnað höfundar 1970.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/pdf/FF-2017-46-vef.pdf

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Kotvogur

Í bókinni „Hafnir á Reykjanesi„, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið „frændi Ingólfs ok fóstbróðir“, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.

Hafnir

Hafnir.

Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma.

Hafnir

Hafnir – Kirkjuvogur.

Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð “ sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum“ (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið „á milli Vágs og Reykjaness“ tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: „Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda“ (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið a.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, „greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum“. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.

Hafnir

Hafnir (MWL).

Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjóðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.

Hafnir

Hafnir.

Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: „Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan“ (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.“

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, saga byggðar og mannlífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Hvítanes

Hvítanes í sunnanverðum Hvalfirði er merkilegur staður, ekki síst vegna mikilla stríðsminja, sem þar eru.
Friðþór Eydal skrifaði um „Hernámið og hersetuna“ í Fréttablaðið 9. maí 2020. Þar minnist hann t.d. á Hvítanes.

Satt og logið um hernámið og hersetuna

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

„Friðþór Eydal hefur rannsakað umsvif erlendra herja á Íslandi, meðal annars í skjalasöfnum þeirra. Margt reynist ekki eins og almannarómur hafði fyrir satt og Friðþór varpar ljósi á staðreyndirnar.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Stuttur aðdragandi var að þessum sögufræga atburði en þýskir herir gerðu innrás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mótspyrnu norska hersins og breskra og franskra hersveita sem sendar höfðu verið til aðstoðar.
Sumt af breska herliðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Íslands ásamt öðrum liðsauka í júnímánuði og hóf varnarviðbúnað. Skortur á herafla varð til þess að Kanadastjórn lagði til eitt stórfylki með tæplega 2.700 mönnum til Íslandsdvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra áfram til Bretlands um haustið þegar breskur liðsauki barst til landsins. Herafli Breta náði hámarki árið 1941 þegar um 28.000 liðsmenn landhers, flughers og flota dvöldu í landinu.

Til verndar skipaleiðinni

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest á stríðsárunum.

Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en allmikils stuðnings gætti þar við málstað Breta. Ríkisstjórn Roosevelts Bandaríkjaforseta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum margvíslegan herbúnað sem þeir sóttu í bandarískar hafnir. Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hugkvæmdist forsetanum að senda bandarískt herlið til Íslands og láta Bandaríkjaflota þar með veita herskipavernd á siglingaleiðum austur á mitt Atlantshaf. Sömdu ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um það sumarið 1941 að bandarískt herlið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska hernámsliðið smám saman af hólmi.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 þegar meginliðsstyrkur þeirra hvarf heimleiðis, en breski flotinn og flugherinn, sem léku aðalhlutverk í baráttunni við þýska flotann á norðaustanverðu Atlantshafi, starfaði áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.

Hvalfjörður lék stórt hlutverk

Hernámið

Hernámið. Bandaríkjamenn mæta til leiks.

Bandamenn höfðu mikinn viðbúnað til þess að hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir á Atlantshafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða aðstaða til flugvallagerðar og starfsemi sjóflugvéla með vegartengingu við aðra landshluta, svo sem á Suðvesturlandi, við Húnaflóa, Eyjafjörð og á Austurlandi.

Stríð

Frá stríðsárunum á höfuðborgarsvæðinu.

Viðbúnaður var mestur á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurhöfn var lykillinn að liðs- og birgðaflutningum til landsins. Umsvifin voru í meðallagi á Norðurlandi og fremur lítil á Austurlandi, enda vegatengingar við þá landshluta fremur frumstæðar. Bretar lögðu flugvelli í Kaldaðarnesi og Reykjavík en Bandaríkjamenn reistu stóra flugbækistöð við Keflavík, sem lék stórt hlutverk í miklum loftflutningum þeirra til Bretlands.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta höfðu aðstöðu í Hvalfirði og áðu einnig í Seyðisfirði. Hvalfjörður lék stórt hlutverk í siglingum skipalesta með hergögn og birgðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til sovéskra hafna á Kólaskaga og við Hvítahaf er mest reið á, 1941 og 1942.
Heildarheraflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn sjálfir voru einungis um 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000.

Kærkomin umskipti

Hernámið

Hernámið.

Þótt þröngt væri á þingi tókst sambúð landsmanna við hina framandi gesti furðu vel. Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja og sumarið eftir var stór hluti bandaríska herliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin þar sem núr er Hvalstöðin.

Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu Íslendinga. Markaðir opnuðust í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir flestar útflutningsafurðir á margföldu verði og hleypti það, ásamt atvinnu sem skapaðist við fjölbreytt umsvif herliðsins, af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin voru kærkomin eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Íslendingar voru ekki þátttakendur í hernaðinum en bækistöðvar bandamanna og aðstaða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrjöldinni. Landsmenn veittu mikilvægan stuðning, t.d. með sölu matvæla og annarra framleiðsluvara sem kom Bretum afar vel.
Þótt styrjöldin færði þjóðinni auðsæld og umbætur fór hún ekki varhluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Íslendingur af hernaðarvöldum, svo fullvíst sé talið, og skjótur efnahagsuppgangur og herseta höfðu langvarandi þjóðfélagsumrót í för með sér.
Bandamenn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðslok hvíldu 510 erlendir hermenn og sjómenn í íslenskri mold. Þar af voru rúmlega 200 Bandaríkjamenn en líkamsleifar þeirra voru síðar fluttar til heimalandsins.

Bábiljurnar leiðréttar

Hernámið

Hernámið.

Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu staðreyndir, en margvíslegar bábiljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leiðrétta ýmislegt sem misskilningi kann að valda.

Stríðsár

Breskir hermenn á verði í Reykjavík.

Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 og við tók umsamin hervernd Bandaríkjanna.
Herliðið tók sér í fyrstu bólfestu í fjölmörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan herbúðir víða á leigulóðum. Engin mannvirki eða lóðir voru tekin án samninga og endurgjalds til eigenda, sem miðaðist við gangverð í landinu.
Stóraukin dýrtíð olli því þó að endurgjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaðabótanefndir sem í sátu fulltrúar hersins og íslenskra stjórnvalda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið halloka í viðskiptum hlutu bætur frá ríkis­sjóði að styrjöldinni lokinni.
Breska orrustuskipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hvalfirði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkneyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustuskipið Bismarck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykjaness og Hvarfs á Grænlandi en ekki skammt undan Reykjanesi. Ógerlegt er talið að sprengjudrunurnar hafi borist alla leið til Reykja­víkur.

Ofmetinn fjöldi hermanna

Hernámið

Hernámið…

Hermannafjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir landsmenn ályktuðu af umsvifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæplega 50 þúsund.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Hernaðaryfirvöld gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðsaflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóðverja halda að innrás í Noreg væri yfirvofandi frá Íslandi og Bretlandseyjum.
Heraflinn var minnstur á Austurlandi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðisfirði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðarfjarðar. Þar náði hann hámarki rúmlega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúmlega 1.200 eftir að Bandaríkjamenn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.

Íslendingar ekki þátttakendur

Hernámið

Hernámið.

Landsmenn voru ekki þátttakendur í hildarleiknum en allmargir íslenskir sjómenn sigldu á farskipum sem fluttu nauðsynjavörur til landsins og fiskiskipum með afla til sölu á mörkuðum í Bretlandi. Einnig réðust nokkrir ungir sjómenn á erlend farskip, oftast í ævintýraleit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur afleiðing, heldur en þátttaka í átökunum og reyndar engin nýlunda, enda sjómennska jafnan nokkurt hættuspil.

Hvalfjörður

USS KEARNEY , laskaður tundurspillir eftir að hafa leitaðs sér skjóls í Hvalfirði.

Þjóðverjar litu á siglingar Íslendinga til Bretlands sömu augum og bandamenn á siglingar norskra og danskra skipa á hersetnum heimaslóðum sínum, það er í þágu óvinarins og eirðu engu.
Alls fórust um 410 íslenskir sjómenn og farþegar af almennum slysförum eða hernaðarvöldum á styrjaldarárunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir banaskotum hermanna eða sprengjubrotum. Virðist sem sú heildartala hafi snemma verið höfð ranglega til marks um fórnir Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir.
Til samanburðar við þá 260 sjómenn og farþega sem ekki fórust af hernaðarvöldum, svo víst sé talið, fórust samkvæmt skýrslum Slysavarnafélags Íslands að meðaltali um 200 sjómenn á þremur sex ára tímabilum á áratugnum fyrir stríð. Að teknu tilliti til mjög aukinnar sóknar og ástands skipastólsins á stríðsárunum, má því álykta að hlutfallslegur mannskaði af öllum orsökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en áratugina á undan.

Lítinn séns í íslenskar konur

Hernám

Samskipti hernámsliðsins við Íslendinga voru óneitanlega mikil.

Erlendu hermönnunum varð alls ekki eins vel ágengt í samskiptum við íslenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Ástandið“ svonefnda var raunar ekkert frábrugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir vermenn hópuðust til eða í síldarplássum, þótt fjöldi aðkomumanna næði óþekktum hæðum á stríðsárunum.

Stríðsár

Bandarískur hermaður og íslensk kona.

Langflestir hermannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá viðlits.
Bandaríkjaher sem fjölmennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðsmanna sinna. Ákvörðunin var ekki einskorðuð við Ísland og byggðist á því að stjórnvöld vildu forðast að þurfa að annast framfærslu fjölskyldna sem stofnað væri til með óvissa framtíð og e.t.v. í einmanaleika fjarri heimahögum.
Allmikið er til af lýsingum á viðhorfi hermanna til landkosta eða ókosta og dvölinni í landinu almennt, en fremur lítið um viðhorf til lands­manna. Þetta stafar einfaldlega af því að sárafáir kynntust í raun, eða áttu náin samtöl við, landsmenn.
Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungumálakunnáttan var lítil og erfiðlega gekk að eiga gagnleg samtöl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest viðhorfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjarlægð, og upplifði í einhverjum tilvikum, en ekki síst á sögusögnum og getgátum sem gengu manna á milli í fásinninu, enda fréttaflutningi strangar skorður settar.

Báru hver öðrum vel söguna

Hernámið

Hernámið.

Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðsforingjar eða menntamenn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í viðskiptum eða bjuggu í návígi, til dæmis á smærri varðstöðvum á landsbyggðinni.

Stríðsár

Hermenn á vakt við Vesturlandsveg nálægt Þingvallavegi.

Herliðið flutti ógrynni tækja og búnaðar til landsins við uppbyggingu heraflans, til dæmis rúmlega 4.000 bifreiðar og önnur farartæki auk fjölda flugvéla, og reisti um 12.000 braggabyggingar ásamt 1.000 smærri stein- og timburhús í rúmlega 300 íbúðahverfum. Þrjú þúsund farartæki voru flutt aftur úr landi ásamt margvíslegum búnaði.
Árið 1944 samdist svo við ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna um að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem ekki yrði fjarlægður, til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda. Fékk ríkissjóður eignirnar á vægu verði en yfirtók jafnframt skuldbindingar gagnvart landeigendum. Var Sölunefnd setuliðseigna sett á fót til að annast verkið ásamt því að bæta skemmdir á landeignum fyrir ágóða af endursölu til landsmanna.

Hernám

Skjáskot úr sjónvarpsþættinum Stríðsárin á Íslandi, sem sýndur var á RÚV 1990, í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá upphafi hernáms á Íslandi.

Í allmörgum tilvikum fengu landeigendur greitt fyrir að sjá sjálfir um landlögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mannvirki eða minjar standa eftir frá hersetunni, utan flugvallanna í Reykjavík og Keflavík og olíu- og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði, sem voru áfram í notkun.

Hernám

Nissan-braggi í Mosfellsveit á stríðsárunum.

Heyrst hefur að hermannafjöldi í Hvalfirði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bækistöðvar í firðinum voru fremur fáliðaðar en fjöldi sjóliða og sjómanna á skipum sem áðu þar gat auðvitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju landgönguleyfi.
Í Hvalfirði gekk lengi sú saga að við lendingu létt­báta, skammt innan við Hvítanes, hafi verkamenn verið látnir smíða forláta tröppur fyrir komu Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, sem hafði viðdvöl á Íslandi eina dagstund sumarið 1941. Sagan er ólíkleg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og fullvíst er að Churchill steig alls ekki á land í Hvalfirði heldur einungis í Reykjavík.

Engir særðir hermenn að utan

Hernámið

Herspítalinn Cam Dailey á Vogastapa.

Um hríð var útbreidd sú saga að stórir herspítalar hefðu verið reistir á Íslandi fyrir hermenn sem særðust á meginlandi Evrópu eftir innrás bandamanna í Normandí sumarið 1944. Herliðið reisti reyndar braggaþyrpingar fyrir sjúkraskýli og spítala í herbúðum sínum en einungis í samræmi við fjölda hermanna í landinu hverju sinni. Liðsaflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt landsmenn hafi brotið heilann um tilgang svo umfangsmikilla salarkynna, sem skyndilega stóðu auð og yfirgefin.
Sömu vangaveltur eru þekktar í tengslum við bandarísku flugbækistöðina í Narsarsuaq á Grænlandi, þar sem allstór spítali reis fyrir herlið á stríðsárunum og var endurnýjaður í Kóreu­stríðinu, að sögn til líknarmeðferðar illa særðra hermanna, sem herinn vildi að leynt færi.

Draugur kveðinn niður

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reimleikum tengdum hermönnum eða hjúkrunarkonum sem látist hafi á stríðsárunum og jafnvel spítalabröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli landshluta.

Stríðsár

Íslenskur drengur íhugar ástandið, sitjandi á reknu tundurdufli.

Þekkt er saga af bandarískri hjúkrunarkonu, ungri og myndarlegri, sem sögð er hafa látist í bifreiðaslysi í Mosfellssveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðsföll í röðum herliðsins eru vel skilgreind í heimildum hernaðaryfirvalda og sýna að engin hjúkrunarkona hersins lést á Íslandi á stríðsárunum.
Ekki verða bornar brigður á frásagnir fólks af reimleikum en helst er að ætla að afturgengna hjúkrunarkonan unga og myndarlega hafi ef til vill ekki verið öll þar sem hún var séð.“

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins 3. jánúar 1999 er fjallað um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“.
„Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni.

Hernaðarumsvif

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Umsvifum hers og flota bandamanna í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni er lýst ítarlega í bókinni „Vígdrekar og vopnagnýr – Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið“, eftir Friðþór Eydal sem kom út fyrir jóli 1997. Ekki var rými í bókinni fyrir umfjöllun um afdrif stöðva og mannvirkja hersins og umsvif í Hvalfirði að styrjöldinni lokinni og bætir bókarhöfundur úr því nú.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni, en Bandaríkjamenn tvo flugvelli suður með sjó til loftvarna og liðsflutninga til Bretlands. Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta áðu í Hvalfirði og Seyðisfirði. Um eins og hálfs árs skeið var kaupskipum frá Bretlandi og Bandaríkjunum safnað saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum norður fyrir land og um Smuguslóðir til rússneskra hafna. Hætt var að hafa þennan hátt á í árslok 1942 og sigldu Rússlandsskipalestirnar eftir það beint frá Skotlandi án viðkomu. Herskipadeildir og fylgdarskip skipalesta höfðu þó viðkomu hér á landi eftir sem áður.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Í Hvalfirði lá oft fjöldi skipa á kaupskipalæginu utan Hvammsvíkur og á móts við Ferstiklu og herskipalæginu sem var í firðinum annanverðum. Gat þar oft að líta stærstu herskip veraldar sem veittu skipalestunum vernd gegn orrustuskipum þýska flotans í Noregi. Bretar reistu flotastöð í Hvítanesi þar sem m.a. var gert við netalagnir, sem lágu þvert yfir fjörðinn utanverðan, til varnar gegn óvinaskipum og kafbátum, svo og tundurdufl sem girtu fjörðinn við Hálsnes í sama tilgangi. Í stöðinni voru birgðageymslur, verkstæði, íbúðaskálar, spítali, og annað til þjónustu við herskipaflotann ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Öflug flotkví lá innanvert við nesið ásamt viðgerðar- og birgðaskipum og lyfti skipum til botnviðgerðar.

Hvítanes

Hvítanes á stríðsárunum.

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við fjörðinn norðanverðan. Þar tóku skip sem áðu í firðinum olíu og einnig olíuskip sem fylgdu flotadeildunum og gáfu þeim eldsneyti á hafi úti. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða.

Hvammsvík

Hvammsvík. Stjórnstöð hersins efst.

Í Hvammsvík reis birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans ásamt tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Sams konar tómstundaheimili var reist fyrir áhafnir kaupskipanna í Hvammsey. Á Hvammshólum, sem gnæfir yfir Hvammsvíkina, var aðsetur hafnarstjórans í Hvalfirði, sem var breskur sjóliðsforingi, og stjórnuðu menn hans allri skipaumferð í firðinum.
Skipalægið og flotastöðvarnar í Hvalfirði voru vandlega varðar gegn óvinaárásum. Segulmælingalagnir á sjávarbotninum milli Seltjarnarness og Akraness gerðu viðvart um skipaumferð í myrkri eða dimmviðri og varðskip önnuðust eftirlit á innanverðum Faxaflóa. Hljóðsjárbúnaður lá á sjávarbotni beggja vegna álsins í firðinum utanverðum og var eftirlitsstöð með henni að Gröf í Skilamannahreppi. Á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarnesi var talsvert herlið sem hafði það hlutverk að verja óvinum leiðina landveginn. Stórar fallbyssur við bæinn Dalsmynni á Kjalarnesi vörðu innsiglinguna. Slíkar byssur voru einnig á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Úr krikanum utan Hvaleyrar og yfir að Grundartanga lá netalögn úr sverum vír sem stöðva skyldi skip og kafbáta á leið inn fjörðinn. Netunum var haldið uppi af fjölmörgum stórum duflum og lágu festar í akkeri á botninum. Hlið var á lögninni og varðskip við sem hleypti skipum í gegn. Fallbyssur og ljóskastarar á bökkunum undan Útskálahamri að sunnan, og að Klafastöðum að norðan, vörðu netalögnina. Að auki lá tundurduflagirðing með segulnemum þvert yfir fjörðinn undan Hálsnesi.

Hvalfjörður

Herskip við lægi í Hvalfirði.

Í varðstöð á nesinu mátti sprengja duflin, eitt eða fleiri, undir óboðnum kafbátum eða skipum sem kæmust svo langt. Þessi varnarviðbúnaður bandamanna í firðinum ásamt ströngu eftirliti á Faxaflóa var þýskum hernaðaryfirvöldum ljós og aftraði þeim frá að stefna skipum og kafbátum gegn þessum mikilvæga áningarstað. Til loftvarna var öflugum byssum komið fyrir undir Hvammshólum við Hvammsvík, á Hrafneyri handan fjarðarins og á Þyrilsnesi. Smærri loftvarnabyssur voru þar og í Hvítanesi og við olíustöðina á Söndum. Þýskar könnunarflugvélar lögðu oft leið sína með ströndum landsins í leit að skipum, loftmyndatöku af hernaðarmannvirkjum og til veðurathugana. Í einstaka tilfellum gerðu þær árásir á skip eða mannvirki. Oft lá leiðin yfir Hvalfjörð til að gæta að skipum á læginu. Flug þeirra var áhættusamt, enda margar loftvarnabyssur í firðinum bæði í landi og á skipum. Einnig voru flugvellirnir í Reykjavík og Keflavík skammt undan en þar var fjöldi orrustuflugvéla sem höfðu það hlutverk að granda hinum óboðnu gestum. Þýsku njósnaflugvélarnar flugu gjarna lágt yfir fjöllum svo loftvarnaskytturnar rétt grilltu í skotmarkið. Bandaríkjaher grandaði 5 þýskum flugvélum við landið í styrjöldinni, öllum með orrustuflugvélum og tveimur eftir að þær höfðu lagt leið sína yfir Hvalfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Er leið á styrjöldina og bandamenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann fór skipakomum fækkandi í Hvalfirði og viðbúnaður sömuleiðis. Breski flotinn starfrækti flotastöð sína í Hvítanesi til stríðsloka en hóf þá brottflutning. Dregið hafði verulega úr varnarviðbúnaði í firðinum er leið að styrjaldarlokum. Tundurduflagirðingin lá þó enn undan Hálsnesi uns henni var eytt í sprengingu í maí. Um líkt leyti var kafbátanetunum sökkt þar sem þau lágu þvert yfir fjörðinn og höggvið á landfestar þeirra.
Olíustöðin, sem Bandaríkjamenn reistu fyrir Breta á svokölluðum „láns og leigukjörum“ , var rekin af bresku olíufélagi frá ársbyrjun 1944. Réð fyrirtækið til þessa verks um 30 íslenska starfsmenn sem aðsetur höfðu í skálahverfinu á Miðsandi. Að styrjöldinni lokinni tók Bandaríkjafloti aftur við stöðinni og hugðist reka hana áfram samkvæmt áætlunum sem þeir þá höfðu uppi um herstöðvar til langs tíma.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Eftir stóðu í firðinum fjölmörg mannvirki sem reist höfðu verið í miklum flýti og með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Var komið að hernaðaryfirvöldum að losa sig við þessi mannvirki ásamt búnaði og birgðum sem ekki þótti ástæða til að nýta eða flytja af landi brott, enda flutningatæki, mannafli og farmrými af skornum skammti. Ljóst var að verðgildi mannvirkja á svo afskekktum stað gat ekki orðið í neinu samræmi við upphaflegan byggingarkostnað og varla að búast við að þau nýttust nema með flutningi annað.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Samkomulag hafði verið gert milli hernaðaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar um að hún keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðilum eftir atvikum. Í mörgum tilvikum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða.

Í Hvítanesi var hafskipabryggja úr stáli og önnur smærri steinbryggja og heilt þorp íbúðarbragga og vöruskemma auk nokkurra hlaðinna steinhúsa. Þar var að finna vatnsveitu, rafstöð og kyndistöð og gatnakerfi með lýsingu. Í Hvammsvík og nágrenni voru vöruskemmur og skotfærageymslur og fjöldi íbúðarbragga. Þá voru braggahverfi að Dalsminni, Útskálahamri, á Hálsnesi, Þyrilsnesi, Hrafneyri, að Klafastöðum og Gröf. Nefnd setuliðsviðskipta annaðist ráðstöfun búnaðar og mannvirkja hersins fyrir hönd ríkissjóðs. Mannvirki og búnaður í Hvítanesi höfðu kostað breska flotann a.m.k. 270.000 sterlingspund, sem var jafnvirði 2,9 hundraðshluta af verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 1945 og gæti með sömu viðmiðun numið rúmlega 2,7 milljörðum króna í dag. Stöðin á Hálsnesi hafði kostað 10.000 pund og í Hvammsvík átti flotinn mannvirki að verðmæti 7.000 sterlingspund. Greiðlega gekk að selja búnað og byggingar, enda flestar færanlegar.

Hvítanes

Hvítanes.

Helstu mannvirkin í Hvítanesi voru tvær stórar vöruskemmur og steypt plan við þær og bryggjurnar tvær. Fékk Vita- og hafnarmálastofnunin m.a. tvo stóra gufukrana sem gengu á járnbrautarspori fram á bryggjuna ásamt skemmunum tveimur. Greiddi stofnunin 3.000 sterlingspund fyrir þá stærri og flutti á lóð sinna við Vesturvör í Kópavogi.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í bryggjuna sjálfa, sem kostað hafði 126.000 pund að smíða, barst einungis eitt boð að upphæð 400 pund og var það einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni. Mælti breski flotaforinginn í Reykjavík með því að boðinu yrði tekið, þótt lágt væri, enda vart að búast við öðru betra og stofnunin hefði reynst breska flotanum hjálpleg á ýmsan hátt og keypt mikið af búnaði og þ. á m. umrædda skemmu á fullu verði. Breska flotastjórnin ákvað hins vegar að gefa íslenska ríkinu bryggjuna gegn því að ríkisstjórn Bretlands væri þar með leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds hennar eða kröfum sem upp kynnu að koma síðar vegan þessa mannvirkis.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Ekki kom til þess að bryggjan yrði seld eða rifin og töldu íslensk stjórnvöld í fyrstu réttast að eiga hana þar uppistandandi ef til þyrfti að taka og greiddi Vitamálaskrifstofan landeiganda dálitla leigu fyrir aðgang að bryggjunni, a.m.k. fyrstu árin. Snemma fór þó að bera á því að tekið væri timbur úr bryggjunni. Hirti þá Vitamálaskrifstofan það sem hún náði upp af brautarsporinu og undirlagstrjám. Eigandi jarðarinnar óskaði eftir því árið 1949 að fá bryggjuna keypta af ríkissjóði og árið 1960 að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið í Hvítanesi hefði haft í för með sér og hversu takmarkaðar skaðabætur hefðu hlotist fyrir. Var það álit vitamálastjóra í bæði skiptin að ekki væri ástæða til að afsala bryggjunni, heldur bíða hentugs tækifæris í þeirri von að gera mætti úr henni frekari verðmæti en brotajárn. Má eflaust geta sér þess til að mannvirki þau sem eftir stóðu í Hvítanesi hefðu ef til vill fengið nýtt hlutverk ef síld hefði gefið sig oftar í eins ríkum mæli í Hvalfirði og hún gerði veturinn 1947-1948, þegar nánast engar síldarverksmiðjur var að finna á Suðvesturlandi. Þá má ætla að þróun heimsmála í kalda stríðinu hafi gefið mönnum tilefni til að halda að brátt yrði aftur þörf á hernaðaraðstöðu í firðinum.

Hvalfjarðarsíldin og hreinsun fjarðarins

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Veiðar á síld til beitu voru hefðbundnar í Faxaflóa á haustvertíð. Veturinn 1947 varð mikillar síldar vart í Kollafirði og á Sundunum og var talsvert veitt þar um veturinn af blandaðri síld í nót sem siglt var með í bræðslu til Siglufjarðar, enda hefðbundnar síldveiðihafnir á Norður-og Austurlandi og engar stórar síldarbræðslur að finna fyrir sunnan. Sumarsíldveiðarnar fyrir Norðurlandi brugðust illa þetta sumar, svo og veiðar reknetabátanna á Faxaflóa um haustið. Auk þeirrar óáranar sem síldarlaust sumar hafði í för með sér stefndi nú í alvarlegan beituskort um veturinn. Reknetabátarnir lömdu allan flóann um haustið, en án teljandi árangurs uns mikillar síldar varð vart inni í Hvalfirði í byrjun október. Var það upphaf stórfenglegra síldveiða í firðinum sem stóðu fram í marsmánuð árið eftir.

Hvítanes

Hvítanes – varðbyrgi.

Fljótlega kom þó í ljós að víða á veiðislóð síldveiðibátanna var að finna leifar af kafbátagirðingunni, sem sökkt hafði verið við brottför breska flotans, legufæri og víradræsur sem ollu síldarflotanum tilfinnanlegu veiðarfæratjóni. Kvartaði Landssamband íslenskra útvegsmanna yfir þessu ástandi til sjávarútvegsmálaráðherra í janúar 1948. Var vitaskipinu Hermóði falið að athuga hvort mögulegt væri að ná upp nokkru af þessum festum, en svo reyndist ekki vera og ljóst að til þyrfti að koma öflugt sérbúið skip. Samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu 25. febrúar þess efnis að nauðsynlegar ráðstafanir skyldu gerðar til hreinsunar á öllu því sem herliðið hefði skilið eftir á botni Hvalfjarðar sem truflun ylli við veiðar í firðinum og skemmdum á veiðarfærum. Skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þau erlendu ríki sem hér ættu hlut að máli framkvæmdu hreinsun á sinn kostnað auk þess að greiða tjón sem fiskimenn hefðu beðið og kynnu að bera af þessum sökum. Varð að samkomulagi að skip frá breska flotanum, H.M.S. Barrage, sérbúið til lagningar og viðhalds netgirðinga og legufæra, skyldi annast verkið. Hóf skipið að slæða upp kafbátanetin utanvert við Hvalfjarðareyri í lok ágúst.

Hvítanes

Hvítanes – minjar.

Brátt kom í ljós að önnur tveggja lagna sem þar höfðu legið samhliða var enn í heilu lagi, en hin var í nokkrum hlutum og höfðu sumir m.a. verið dregnir inn í víkina innan við Hvalfjarðareyri. Þá héldu dufl, sem skilin höfðu verið eftir á lögnunum er þeim var sökkt, enn hlutum hennar nokkuð frá botni og víða lágu rytjur af nótum síldarbáta frá því um veturinn saman við víraflækjurnar ásamt legufærum skipa. Skipið hélt slæðingum áfram fram í nóvember og hafði þá losað í Hvítanesi 14 farma af netum, duflum og legufærum sem flest voru 6-8 tonna steypuklumpar. Mest af víraflækjunum setti skipið á land upp af bryggjunni í Hvítanesi, en nokkuð var látið í sjóinn og fjöruna upp með henni.
H.M.S. Barrage kom aftur til landsins í apríl 1949 og hóf slæðingu að nýju í maí. Verkið gekk nú mjög vel, enda réttur árstími. Stóð verkið fram í ágúst og taldi skipstjórinn þá að vírnetin sem upp hefðu verið tekin mundu nægja í fjögurra sjómílna samfellda lögn auk dufla og legufæra. Þó var línu yfir fjörðinn frá odda Hvalfjarðareyrar hlíft við slæðingu til að skemma ekki sæsímastreng sem þar hafði verið lagður. En Hvalfjarðarsíldin sást ekki meir.

Nýtt hlutverk

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Þótt Bretar hyrfu á brott úr Hvalfirði að stríðinu loknu starfrækti Bandaríkjafloti áfram olíustöðina á Söndum. Umsvifin voru þó ekkert í líkingu við það sem verið hafði, en Bandaríkjamenn höfðu uppi miklar áætlanir til að tryggja öryggi í þessum heimshluta að styrjöldinni lokinni og óskuðu eftir leyfi til að starfrækja áfram herstöðvar á Íslandi til langs tíma.

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

Hugmyndir Bandaríkjahers voru þær að rekstur Keflavíkurflugvallar yrði óbreyttur, þ. e. sem millilandaflugvöllur og að þar yrði einnig aðstaða fyrir sprengju- og orrustuflugsveitir flughersins eftir því sem þurfa þætti. Í herbúðum Bandaríkjaflota í Washington voru ýmsar hugmyndir viðraðar veturinn 1946 um staðsetningu flotaflugstöðvar eins og þeirrar sem rekin hafði verið í Skerjafirði og á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan höfðu flugvélar flotans stundað eftirlitsflug og kafbátaveiðar á styrjaldarárunum. Þá var rætt um heppilegan stað fyrir flotastöð sem annaðist önnur verkefni og hýsa skyldi yfirstjórn flotans og verið hafði í Camp Knox í Reykjavík. Kom m.a. til álita að taka allt Kársnesið vestan Hafnarfjarðarvegar undir þessa aðstöðu, eða Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll eins og verið hafði, og var rætt um innanverðan Kópavogsdal undir skotfærageymslur.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli á Álftanesi.

Einnig kom til álita að leggja flugvöll á Álftanesi með þremur flugbrautum og yrði þar öll aðstaða flotans utan Hvalfjarðar og næði um allt nesið inn í Hafnarfjörð. Loks kom til álita að flotaflugstöðinni yrði einnig valinn staður á Keflavíkurflugvelli.
Í Hvalfirði gerðu menn ráð fyrir að olíubirgðastöðin á Söndum yrði starfrækt áfram, en ný stöð reist innanvert við Hvítanes ef leyfi fengist ekki til áframhaldandi reksturs. Hvítanes var álitinn heppilegur staður fyrir yfirstjórn flotans og skotfærageymslur hans yrðu áfram í Hvammsvík, eða utanvert við stöðina á Miðsandi. Ekki var búist við því að mikið af þeim byggingum sem reistar höfðu verið á stríðsárunum yrðu nýttar til frambúðar, enda flestar þeirra braggar sem ekki var ætlað að standa lengi.

Hvítanes

Herminjar á Hvítanesi.

Vart er þó ástæða til að ætla að komið hefði til greina að reisa ofangreindar herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þótt rætt hafi verið um þá staði í upphaflegri tillögugerð. Í skjalasafni Bandaríkjaflota er að finna kort með hugmynd að flugvelli á Álftanesi og hefur þar verið ritað: „Nei, forsetinn býr þar.“ Sérstök staðarvalsnefnd á vegum flotans tók sér ferð á hendur til Íslands og kannaði aðstæður síðari hluta aprílmánaðar 1946. Auk hernaðarlegra atriða hafði nefndin þrjú meginatriði að leiðarljósi við tillögugerð sína.
a. Af pólitískum og diplómatískum ástæðum væri óæskilegt að reisa herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
b. Sökum skorts á ræktarlandi væri æskilegt að halda sig við óræktuð svæði þar sem því yrði við komið.
c. Hátt verð á fasteignum mælti með því að valin væru svæði þar sem sem fæstar byggingar væru fyrir.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að flotastöðin skyldi rísa í Hvítanesi; sprengju- og skotfærageymslur fyrir herskipaflotann í Hvammsvík; olíustöðin skyldi vera á sama stað, en austan Hvítaness til vara; Fjarskiptastöð á Kjalarnesi, eða austan Hvítaness til vara; hafnarskrifstofa flotans í Reykjavík sem verið hafði á efstu hæð hafnarhússins á stríðsárunum, yrði best rekin þar áfram; flotaflugstöð og aðstaða öll fyrir flugvélar flotans skyldi vera á Keflavíkurflugvelli.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Er skemmst frá því að segja að ofangreindar áætlanir Bandaríkjamanna komu aldrei til framkvæmda, enda kveðið á um brottför Bandaríkjahers í Keflavíkursamningnum sem undirritaður var 8. október 1946.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – olíustöðin (nú Hvalstöðin).

Er Bandaríkjafloti tók aftur við olíustöðinni í Hvalfirði af Bretum sumarið 1945 hætti Shell olíufélagið breska rekstrinum og við tók bandaríska félagið Standard Oil (ESSO) í gegn um umboðsaðila sinn hér á landi, Hið íslenska steinolíufélag. Sameinuðu þar krafta sína smæsta íslenska olíufélagið og stærsta olíufélag í heimi. Daglegur rekstur stöðvarinnar var áfram í höndum íslenskra starfsmanna. Olíufélagið hf. sem stofnað var vorið 1946 keypti þá um haustið meirihlutann í Hinu íslenska steinolíufélagi, en það félag hafði þá tekið við eldsneytisafgreiðslu á flugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – bryggja olíustöðvarinnar.

Við brottför Bandaríkjahers bauðst stóru olíufélögunum Olíuverslun Íslands og Skeljungi að kaupa olíustöðina í Hvalfirði. Að könnun lokinni var það niðurstaða beggja félaganna að stöðin mundi ekki henta fyrir starfsemi þeirra, enda áttu bæði félögin aðstöðu í Reykjavík. Olíufélaginu var þá boðin stöðin til kaups, en félagið átti ekkert umtalsvert geymarými og þótti henta að kaupa stöðina og reka hana a.m.k. þar til nýrri og fullkomnari aðstöðu yrði komið upp annarsstaðar. Er hér var komið höfðu bæði Hvalur hf., sem þá var nýstofnað fyrirtæki til hvalveiða, og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda sýnt áhuga á að eignast aðstöðuna. Fjöldi nýsköpunartogara var í smíðum og brenndu langflestir svartolíu sem ekki var neitt geymarými fyrir á útgerðarstöðum þeirra. Samdist svo með togaraeigendum og Olíufélaginu, en meðal þeirra er stóðu að stofnun félagsins voru allmargir útvegsmenn, að hinir fyrrnefndu afsöluðu sér tilkalli til kaupa á olíustöðinni eða hluta hennar ef Olíufélagið fengi hana keypta og félagið skyldi sjá útgerðum hinna nýju skipa fyrir brennsluolíu á hagkvæmu verði. Sóttu togarar olíu í stöðina í Hvalfirði allt fram yfir 1950 og þaðan var olíuvörum lengi dreift út um landið. Með kaupum á stöðinni varð fyrst grundvöllur fyrir kaupum á stórum olíuförmum til landsins sem voru miklu hagkvæmari viðskipti en áður höfðu tíðkast.

Hernám

Herspítalahverfi Breta umhverfis Gamla-Garð. Spítalinn rúmaði 200 sjúklinga og 130 starfsmenn.

Við Nefnd setuliðsviðskipta samdist svo vorið 1947 að Oíufélagið og Hvalur keyptu stöðina og skiptu félögin með sér bryggjunni, vatnsveitu, legufærum o.fl., en önnur mannvirki tilheyrðu hvoru félagi um sig. Var mikið af tækjabúnaði stöðvarinnar, sem ekki nýttist félögunum tveimur, selt öðrum, þ. á m. lítið olíuskip af þeirri gerð sem Bandaríkjafloti notaði til flutninga í höfnum og á skipalægjum, sem lá þar með bilaða vél. Gert var við skipið og því gefið nafnið Þyrill. Fékk Skipaútgerð ríkisins Þyril til afnota og var skipið í olíuflutningum innanlands næstu tvo áratugina og síðar, m.a. í síldarflutningum til ársins 1970 er það var selt úr landi.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest Nato 2022 til að minnast atburða Seinni heimstyrjaldarinnar.

Er Bandaríkjaher kom aftur til landsins árið 1951 má segja að olíustöðin á Söndum hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Varnarliðið þarfnaðist mikils geymarýmis fyrir eldsneytisbirgðir sínar, en samið var um leigu á megninu af geymarými stöðvarinnar fyrir eldsneyti á flugvélar og herskip. Mikill hluti birgðanna í Hvalfirði voru reyndar varabirgðir, einkum fyrir Bandaríkjaflota. Auk þess var þar geymt allt flugvélaeldsneyti Varnarliðsins og það flutt í smærri skömmtum sjóleiðina til Keflavíkur eftir því sem gekk á birgðirnar þar. Var þessi háttur hafður á allt til ársins 1990, er ný olíubirgðastöð Varnarliðsins og NATO í Helguvík var komin í notkun.
Með komu Varnarliðsins var herlið á ný staðsett í Hvalfirði. Reis lítið braggahverfi á ásnum vestan Miðsands þar sem dvöldu rúmlega 100 liðsmenn landhersins og önnuðust gæslu olíubirgðastöðvarinnar. Stöðin var nú rekin af sérstöku dótturfyrirtæki Olíufélagsins, Olíustöðinni í Hvalfirði hf., sem stofnað var í því skyni. Landherinn hvarf að mestu af landinu árið 1959 og liðsmenn hans í Hvalfirði síðastir í janúar árið eftir. Önnuðust herlögreglumenn flughersins gæslustörfin uns landgönguliðar flotans tóku við sumarið 1961.

Olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins

Hernám

Orrustuskipið Prince of Wales liggur við festar í Hvalfirði þar sem það bíður meðan forsætisráðherrann bregður sér til Reykjavíkur og nágrennis. Í baksýn er Akrafjall. Í nóvember þetta sama ár, aðeins um fjórum mánuðum eftir að þessi mynd var tekin, sökktu japanskar flugvélar skipinu í Suður-Kínahafi. Af áhöfninni fórust 327 menn.

Bandaríkjafloti tók við hlutverki flughersins við rekstur mannvirkja og þjónustu við Varnarliðið sumarið 1961 í samræmi við aukinn þátt flotans í vörnum á austanverðu Norður-Atlantshafi. Taldi Atlantshafsherstjórn NATO brýnt að tryggja að nægar birgðir eldsneytis væru til staðar í Hvalfirði.

Hvalfjörður

USS Mississippi og RN tunduspillir í Hvalfjirði 4. óctober 1941.

Var hafinn undirbúningur að endurnýjun geyma og lestunaraðstöðu ásamt lagningu legufæra í firðinum sem nýtast mættu herskipum Atlantshafsbandalagsríkjanna á ófriðartímum. Íslenskir aðalverktakar önnuðust framkvæmdir við nýju olíustöðina sem tekin var í notkun árið 1968. Framkvæmdum lauk að fullu árið eftir, en verkið var fjármagnað að mestu leyti af Mannvirkjasjóði NATO. Í stöðinni eru fjórir rúmlega 12.000 tonna svartolíugeymar sem grafnir voru niður í brekkuna upp af Gorvík vestan Miðsands, olíubryggja, dælu- og hitunarbúnaður auk húsnæðis fyrir rekstur stöðvarinnar.
Samkomulag varð um að Íslenskir aðalverktakar önnuðust rekstur nýju stöðvarinnar í samræmi við samning milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 1966 sem kvað á um að fyrirtækinu, sem sérhæfði sig í vinnu fyrir Varnarliðið, skyldu tryggð lágmarks verkefni er umsvif í varnarliðsverkefnum væru lítil. Þá tóku starfsmenn aðalverktaka einnig við gæslu olíubirgðanna og mannvirkja í Hvalfirði og leystu landgönguliðana af hólmi vorið 1967.

Hernám

Winston Churchill og Hermann Jónasson ganga hér um götur Reykjavíkur í heimsókn Churchill hingað til lands 16. ágúst 1941.

Hlutverk olíustöðvar NATO breyttist á öndverðum níunda áratugnum eftir að breytingar höfðu orðið á vélbúnaði herskipa. Eru flest herskip nú knúin dísilvélum eða þotuhreyflum sem krefjast léttara eldsneytis en svartolíunnar sem tankarnir voru upphaflega gerðir fyrir. Voru þeir tæmdir árið 1991 og endurnýjaðir og búnir til geymslu á léttari steinolíublöndu fyrir þotuhreyfla. Þessari framkvæmd lauk nýlega, en ekki liggur fyrir hvenær geymarnir verða fylltir að nýju.
Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi. Er það með heillegustu minjum um þau miklu umsvif sem voru í Hvalfirði og víðar á landinu á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína, og hefur þeim verið vel við haldið, enda í fullri notkun fram á síðari ár.
Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út.

Braggar

Braggi  og dátar á stríðsárunum.

Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út. Hvalfjörður var mikilvægur frá hernaðarsjónarmiði og risu herstöðvar á Miðsandi að norðanverðu og á Hvítanesi að sunnanverðu. Þegar er ekið inn eftir Hvalfirði sunnanverðum og komið fram hjá Hvammsvík liggur vegurinn ofan við Hvítanes, sem hallar niður að firðinum, grasi vafið. Ofan frá þjóðveginum er þar ekkert sérstakt að sjá en útsýnið er fagurt frá þessum stað inn eftir Hvalfirði.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – útsýni frá Hvítanesi.

Gegnt Hvítanesi skagar Þyrilsnes fram í fjörðinn og sundið á milli er aðeins hálfur annar kílómetri. Til austurs sést inn í Brynjudal, en fyrir suðrinu gnæfir Reynivallaháls. Á Hvítanesi var bújörð, en langt mun vera síðan hún fór í eyði.
Afleggjari liggur frá þjóðveginum niður eftir nesinu. Þegar þangð er komið má víða sjá hvar vegir hafa legið um nesið, en grasið sem víðast hvar er hnéhá beðja, hefur miskunnað sig yfir hinar smærri minjar. Eftir standa steinsteyptar tóftir uppi á nesinu og hálffallin, steinhlaðin hús niðri við bryggjuna sem enn hangir uppi. Það af henni sem stendur upp úr sjó er heillegast en sá hluti hennar sem alveg er uppi á ströndinni hefur molnað niður.

Heimildir:
-Fréttablaðið – Friðþór Eydal, Laugardagur 9. maí 2020.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/440784/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/580576/

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

„Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.“

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Móakot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, segir m.a. frá bæjunum í Ásláksstaðahverfi.

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið, sem nú stendur, var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum árið 1881.

Lúðvík og Friðrik Davíðssynir eru eigendur að jörðinni og er Atlagerði, Móakot og Nýjibær í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða þann 16. október 2017 kl. 17:09.

Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Atlagerði

Atlagerði

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða, móðurjörð hvrefisins. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.

Fagurhóll
Fagurhóll var í suðausturhorni Áslákstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus.

Nýibær

Nýibær

Nýibær (Hallandi).

Nýibær hét áður Hallandi. Tóftir bæjarins sjást enn. hann var byggður 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.

Móakot
Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðuhluta Ásláksstaðarjarðarinnar og er nú sameinuð aðaljörðinni.

Sjónarhóll

Sjónarhóll

Sjónarhóll. Innri-Ásláksstaðir að baki.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „homapati“ Sjónarhól. Árið 1885 hafði Lárus keypt hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi hálflendunnar Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðbær. Bær vinnukonu á Sjónarhól, sennilega byggður á tóftum Fagurhóls.

Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott. Núverandi steinhús var byggt 1929. Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, keypti Sjónarhól og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir. Sjónarhóll t.h.

Um aldamótin 1900 bjuggu á Innri Ásláksstöðum Magnús Magnússon og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Eftir að Magnús brá búi og fluttist til Hafnarfjarðar lagðist jörðin undir Sjónarhól og hús Innri-Ásláksstaða voru eftirleiðis notuð sem útihús.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 261-272.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi.

Seltún

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„.

„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“.

Ólafur Þorvaldsson

Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.

Krýsuvíkurgötur
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata.

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.

Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.

Köldunámur

Köldunámur.

Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Seltún

Seltún.

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.

Seltún

Seltún.

Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.

Grænavatn

Grænavatn.

Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgatan milli Grænavatns og Krýsuvíkurbæjar.

Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.

Snókalönd

Snókalönd.

Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur norðan Snókalanda.

Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur – vegvísir.

Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.

Hrúthólmi

Hrúthólmi.

Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur (Rauðmelsstígur).

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.

Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.

Gvendarsel

Askur í Gvendarseli við Bakhlíðar.

Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Krýsuvíkurvegurinn um Helluna undir Sveifluhálsi. Dalaleiðin lá ofar á Hellunni.

Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.

Gullbringa

Gullbringa.

Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:

Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.

Slysadalur

Slysadalur.

Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur – Helgafell fjær.

Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.

Kaldársel

Kaldársel – gamla gatan.

Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.

Litli-Nýibær

Litli-Nýibær í Krýsuvík.

Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.

Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Steðji

Í Kjós ofan Kjalarness er fátt minnismerkja. Þau eru þó þar fleiri en engin.

Neðri-Háls

Kjós

Kjós – minnismerki.

Við þjóðveginn ofan við Neðri-Háls í Kjós er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur með áletrun: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum. Þar búa ekki framan neinar sogir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ – Heimsljós H.K.L.
Hornsteinn Umhverfis- og náttúruverndar, 7. júní 1998 – Sól í Hvalfirði“.

Í mbl.is 7.6.1998 er fyrirsögn; „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa minnisvarða“: Undir henni segir: „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa í dag hornstein að Hálsnesi í Kjós, sem er tileinkaður umhverfis- og náttúruvernd.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að hornsteinninn sé minnisvarði um þá baráttu sem íbúar Hvalfjarðar háðu fyrir umhverfi sínu og jafnframt áminning um það umhverfisslys sem staðsetning álvers á Grundartanga er. Hornsteinninn er ekki síst ætlað að marka upphaf aukinnar sóknar í umhverfismálum á Íslandi í framtíðinni.“

Kjós

Kjós – minnismerki.

Krýsuvík

Þórður Jónsson á Eyrarbakka skrifaði grein í Alþýðublaðið 1935 um „Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna þess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig aö minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.
Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða víst að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Guðmundur Ísleifsson fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík í annað sinn í „ból“ Ísleifs — að því er virðist.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Árið 1861 segir Guðmundur Ísleifsson þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Á heimajörðinni:
Krýsuvík – 2 búendur
Stóra-Nýjabæ – 2 búendur
Litla-Nýjabæ – 1 búandi
Norðurkoti – 1 búandi
Suðurkoti – 1 búandi
Arnarfelli – 1 búandi
Fitjum – 1 búandi
Vigdísarvöllum – 2 ábúendur

[Svo virðist sem bæirnir Lækur og Garðshorn hafi gleymst í upptalningunni, auk Fells.]

Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot.
Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli í Krýsuvíkurhrauni.

Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrir sauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð.
Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu brennisteinsnámur í Krýsuvík, og var brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu þá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og rnessaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Selatangar

Selatangar – búðir Krýsuvíkurbænda.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt var landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar gamla bæjarins.

Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.
Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.

Fornugata

Fornugata austan Herdísarvíkur.

Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.

Fornugötur

Fornugötur.

Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið. Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdisarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stíga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa.

Krýsuvík

Krýsuvík – útihús.

En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.
En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breyíingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan og gömlu bæjartóftirnar. Hnausar h.m. við kirkjuna.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við óblíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Krýsuvík – Garðshorn.

Mér, sem þetta rita, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhríð þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Þá bjó i Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finnst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kennd verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka stáði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargráð verða eins haldgóð til að viðhalda karlmennsku og hreysti og búskapurinn í Krýsuvík, skal ósagt látið.
Krýsuvík 1998Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, tölublað 07.04.1935, Krýsuvík eftir Þórð Jónsson, Eyrarbakka, bls. 3 og 4.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902„. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.