Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:
Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.
„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.
Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.
Vogsósar 1932.
Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.
Herdísarvík 1898.
Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.
Kvennagönguhóll.
Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.
Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.
Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.
Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.
Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.
Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.
Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.
Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.
Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.
Sjóklæði.
Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.
Skrína.
Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:
„Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.“
eða: : ’
„Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.“
Herdísarvík – loftmynd.
Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.
Seilaról og -nál.
Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???
Herdísarvík – sjóbúðirnar.
Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.
Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.
Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.
Ólöf Sveinsdóttir 1910.
Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“
Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.
Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.
Kapelluhraun og kapellan
Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.
Kapella – skilti.
Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.
Alfaraleiðin við kapelluna.
Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.
Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.
Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.
Kapellan.
Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.
Kapellan 1964.
Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.
Kapella – skilti.
Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.
Kapella – skilti.
Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.
Kapelluhraun.
Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,
Kapellan – uppdráttur KE.
„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):
Kapelluhraun – jarðfræðikort.
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.
Kapellan áður en hún var grafin upp.
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.“
Hraunkarl í Kapelluhrauni.
Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.
Kapellan í Kapelluhrauni.
Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.
Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.
ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.
Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er. Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti.
Sem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.
Brennisteinsvinnsla – það sem ósagt er
Tvennt er það sem tengist sýnilegum minjum sem ekki hefur áður verið sett í samhengi við brennisteinsnám í Krýsuvík.
Það er annars vegar minjar ofan við svonefnda Blesaflöt norðan Kleifarvatns (milli Vatnshlíðar-horns og Sveifluhálsar) og hins vegar tvær tóftir úr torfi og grjóti skammt norðaustan við námuvinnslusvæðið við Seltún. Minjanna er hvorki getið í fornleifaskráningum né örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þá er þriggja tófta sunnan við Baðstofu ekki heldur getið í fornleifaskráningum en sagt er frá þeim í lýsingum ferðamanna. Miklar líkur eru á að þar sé um að ræða kofa þá sem t.d. Ole Henchel lýsir í ritgerð sinni 1775. Framangreindar minjar við Baðstofu eru sennilega frá 16. öld og minjarnar við Seltún frá svipuðum tíma. Aðrar minjar við Seltún og ofan við Blesaflöt eru sennilega 19. öld. Óvíst er um aldur „selsminja” neðan við Seltún, en ætla má að þær geti jafnvel verið eldri en frá 16. öld.
Þá kemur fram í heimildum að brennisteinsvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri undir það síðasta eftirsóknaverðari en í Krýsuvík vegna þess að “um styttri vegarlengd” væri að ræða. Að fenginni reynslu, eftir að hafa farið fótgangandi frá Hafnarfirði á báða staðina og til baka, virtist samt sem áður styttra til Krýsuvíkur. Þegar vegarlengdirnar voru mældar kom hins vegar í ljós að rúmir 29 km voru til Krýsuvíkur eftir Undirhlíðavegi og um Ketilsstíg að Seltúnsnámunum, en rúmir 22 km voru í Breinnisteinsfjallanámur um Selvogs-götu, Grindarskörð og suður með Draugahlíðum í Námuhvamm.
Í fyrstu unnu Krýsuvíkur-bændur sjálfir brennistein úr námunum, en Dana-konungur tók þær yfir á 16. öld. Bændur unnu fyrst um sinn eftir sem áður sjálfir brennisteininn og seldu konungshollum aðilum, en fljótlega komst námuvinnlan í hendur einstaklinga og síðar erlendra félaga.
Skipuleg vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir áður en tók að halla undan fæti. Framangreind hús voru reist og undir lokin voru þar reist fyrstu bárujárnshús á Íslandi. Enn þann dag í dag má sjá leifar þessa síðskeiðs námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli. Vegna þess hversu námusvæðinu í Krýsuvík hefur verið raskað, enda í alfaraleið og vinsæll ferðamannastaður, er námusvæðið í Brennisteinsfjöllum þeim mun mikil-vægara til rannsókna og varðveislu sem eina óraskaða brennisteinsnáman á Suðurlandi og jafnvel best varðveitta náman á landinu öllu.
Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum hafa verið nær algerlega óhreyfðar síðan þær voru í notkun seint á 19. öld (1883-1885). Ástæðan fyrir góðri varðveislu er hversu óaðgengilegar þær eru og utan alfaraleiða. Eina smávægilega raskið á svæðinu er af mannavöldum síðusta áratuginn. Á heildina litið er svæðið þrátt fyrir það vel varðveitt sýnishorn af ákveðinni verkmenningu sem stunduð var í afar takmarkaðan tíma. Svæðið er vel afmarkað og því auðvelt að varðveita það sem heild.
Heimild m.a.:
-Ólafur Olavius.
Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.
Útileguþjófar á Reykjanesskaganum
Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. Í eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.
“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Þessum hjúum er lýst annars staðar á vefsíðunni. Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði” og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Ekki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678.
Í Setbergsannál segir að þau Eyvindur og Margrét hafi fundist “í helli á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellsveit og lifðu á kvikfjárstuld.” Í Fitjaannál segir, að þau hafi í síðara skiptið lagst út í Henglafjöllum. Hellirinn í Mosfellsheiði er að öllum líkindum hellirinn ofan við Lækjabotna er fyrr var nefndur, enda var það hluti af Mosfellslandi fyrrum. Hann gæti einnig verið annar tveggja í Henglinum. Í honum eru skútar á tveimur stöðum, hvor skammt frá öðrum. Á öllum stöðunum sjást enn hleðslur.
Leitt hefur verið að því getum að hellir í hraunbólu sunnan við Þríhnúka gæti hafa verið bæli Eyvindar og Margrétar um tíma, en telja verður það ósennilegt. Umbúnaður á helli þessum var síðar “betrumbættur” og sett hurð á dyraopið. Náttúrulegur bálkur er inni og steinker í gólfi. Hins vegar er með þessa hranbólu líkt og aðrar; þær halda ekki vatni og væri því viðvarandi vist þarna verri en engin. Líklegt má telja að skjólið hafi um tíma verið notað af refaskyttum, sem lágum löngum við hlíðarnar, líkt og sjá má á tóftum undir þeim.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í klettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, sem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.” Hér að framan er getið um að Eyvindur og Margrét hafi hafst við í hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign. Hér gætu þau hafa dvalið um sinn enda má berja þarna mannvistarleifar augum.
Í Sleggjubeinsdal í Henglinum má sjá helli ofarlega í klettum með dálitla grastó fyrir framan. Í hellinn er ekki fært öðrum en góðum klettamönnum. Hann er tvegja til þriggja metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um tveir metrar. Greinileg hleðsla er fyrir munnann beggja vegna dyra. Undir hellinum er töluvert af beinum, mest stórgripabeinum. Í öðrum dyraveggnum er hella, sem rís upp á rönd. Á henni er rista er helst líkist galdrastaf, lítið afmáðum. Innan við munnann við hellisvegg er ferstrend grjóthola. Í henni er jafnan vatn. Hún gæti hafa verið notuð sem vatnsgeymir.
Í sögu Jóns Grunnvíkings er fjallað um Völustakk, útilegumann í Hengli. Þórður Sigurðsson á Tannastöðum sagði frá því í Lesbók Morgunblaðsins 1939 að hann hafi heyrt sem unglingur að útilegumenn, 6-7 saman, hefðu verið í Henglinum. “Þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera.” Menn úr Ölvesi og Grafningi, 50 – 60, tóku sig til og héldu með liðsafnað á hendur útilegumönnunum. Hellismenn tóku að flúja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af mesta ákafa og mest þeir er fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, en vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Við Þjófahlaupin voru allir hellismenn drepnir.”
Í alþingisbókinni 1703 er getið um refsingu þriggja útileguþjófa, og voru tveir hengdir, en einn aðeins látinn taka út stórfellda húðláts refsingu, og hét sá Gísli Odsson. Í Grímsstaðaannál er hann sagður Bjarnason. Dvalarstaður útileguþjófanna á að hafa verið hjá Selsvöllum og við Hverinn eina. “Nokkur vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufa úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirgver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að það sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóti upp um leðjuna.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilega rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðadal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Þar kemur fram að þennan dag [13. júlí] hafi þrír þjófar verið hengdir. Hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahreppi, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp…
Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér bæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi á Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þar veru þeirra. Leist þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, ræntu ferðamann, er Bárður hér Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík, upp til hellsins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma uns Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern sinna fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssunar en tvær. Féll þjófunum þá hugur og gengu á hendur þeim. Voru þeir síðan teknir og fluttir til Bessastaða. Þar voru þeir þjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir.”
Í bókinni er jafnframt getið um útilegumannahelli við Eldvörp og rústir í Grindavíkurhrauni. Hvorutveggja hefur verið gerð nokkur skil hér á vefsíðunni. Ólíklegt verður að telja að þar séu leifar útileguþjófa. Aðrir staðir, sem ekki hafa verið tilgreinir hér, en sjá má mannvistarleifar á eða við, verða að teljast líklegri sem slíkir.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem – Úilegumenn og auðar tóttir, 1983, bls. 142-169.
Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason
Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:
Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.
„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.
Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.
Vogsósar 1932.
Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.
Herdísarvík 1898.
Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.
Kvennagönguhóll.
Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.
Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.
Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.
Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.
Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.
Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.
Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.
Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.
Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.
Sjóklæði.
Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.
Skrína.
Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:
„Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.“
eða: : ’
„Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.“
Herdísarvík – loftmynd.
Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.
Seilaról og -nál.
Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???
Herdísarvík – sjóbúðirnar.
Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.
Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.
Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.
Ólöf Sveinsdóttir 1910.
Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“
Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.
Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.
Fjörur II
Í sérprenti Ferðafélags Íslands 1985 fjallar Agnar Ingólfsson um fjörur á Suðrvesturlandi.
„Fjaran er hér talin vera nokkurn veginn sú landspilda, sem nær frá stórstraumsfjörumörkum hið neðra að stórstraumsflóðmörkum hið efra, og er þá miðað við meðalstraum. Útbreiðslumörk tegunda færist ofar, eftir því sem brim er að jafnaði meira. Er þetta afleiðing af því, að áhrif sjávar ná því ofar í landið, sem brim er meira.
Þeir umhverfisþættir, sem einkum hafa áhrif á gerð fjörunnar, lífríki hennar og notagildi, eru eftirfarandi: Undirlag (beður), brim, sjávarföll, hiti og selta.
Klappir og stórgrýtisurð eru víða ríkjandi undirlagsgerð á sunnanverðum Reykjanesskaga, en einnig eru slíkar fjörur hér og þar annars staðar, t.d. við Helguvík og Vogastapa og sums staðar á Kjalarnesi. Fíngerðari hnullungafjörur eru útbreiddar umhverfis Reykjavík svo og í Hvalfirði. Afbrigði af þessum fjörum eru hraunfjörur, þar sem hraun runnin eftir ísöld mynda fjörubeðinn. Þessa fjörugerð er að finna á svæðinu milli Voga og Álftaness, og einnig í Ósum við Hafnir. Þar sem brim er meira verður sums staðar stórgrýtisurð, þar sem hraun hafa runnið til sjávar, eins og á Reykjanesskaganum sunnanverðum. Sandflákar eru víða í fjörum á svæðinu. Á miðnesi er algengasta gerð fjöru víðáttumiklar fjörur með mörgum skerjum og smáhólmum, en sandflákum á milli. Minni svæði af slíkri gerð er einnig að finna t.d. austan Voga, á Álftanesi g seltjarnarnesi.
Í Hvalfirði eru einnig fjörur sem svipar til þessarar gerðar, þótt ekki séu þær víðáttumiklar. Fínkornóttar, víðáttumiklar leirur eru víða á svæðinu. Miklar leirur eru í Botnsvogi, Brynjudalsvogi og Laxárvogi og einnig í Kollafirði og Skerjafirði. Sjávarfitjar má telja afbrigði af leirum, en þetta eru svæði í fjöru þar sem beðurinn er jarðvegskenndur og háplöntugróður er ríkjandi. Víðáttumestu fitjarnar á svæðinu eru við innanverðan Leiruvog, en mjög víða eru smærri skikar.
Brimið er langmest við sunnanverðan Reykjanesskaga, og einnig er mikið brim á skaganum utanverðum sunnan Hafna. Á svæðinu norðan Hafna á Reykjanesskaganum utanverðum eru grynningar, sem draga mjög úr áhrifum brimsins. Þau svæði, sem afur á móti eru í mestu skjóli fyrir úthafsöldunni, eru fjörurnar í Skógtjörn og Ósum svo og leirusvæðin í innanverðum Hvalfirði, Kollafirði og Skerjafirði.
Sjávarföll eru veruleg á svæðinu. Munur fljóðs og fjöru á meðalstórstreymi er yfirleitt á bilinu 3.3 – 3.8 m. Hin miklu sjávarföll stuðla að því að gera fjöruna víðáttumikla. Mestar eru fjörurnar þar sem leirur eru, en minnstar við suðurströnd Reykjanesskaga, þar sem klappir og stórgrýtisurð ráða ríkjum.
Hiti sjávar við svæðið er hár. Meðalhiti í ágúst, sem er hlýjasti mánuðurinn, er nálægt 11°C og verður sumarhotinn hvergi meir hér við land svo nokkru nemi. Í köldustu mánuðum ársins, janúar og febrúar, er meðalhiti sjávar við Reykjanesskaga utan- og sunnanverðum um 4.0 – 5.8 °C og verður hvergi hærri hér við land bema sums staðar við suðurströndina, og munar litlu. Við sunnanverðan Faxaflóa virðist hitastig í febrúar vera eitthvað lægra, eða um 2.5 °C. Hið háa hitastig sjávar veldur því, að ýmsar tegundir dýra og plantna er að finna í fjörum suðvestanlands, en hvergi annars staðar við landið.
Selta sjávar við svæðið er jafnan um 35 prómill. Í fjörunni sjálfri er seltan þó víða lægri vegna frárennslis fersks vatns frá landi. Mest er seltulækkunin við árósa í Brynjudalsvogi, Botnsvogi, Laxárvogi, Leiruvogi og Elliðaárvogi. Þá er mikið um ísaltar tjarnir á svæðinu. Eftirfarandi tjarnir eru stærstar: Tjörnin í reykjavík, Bakkatjörn á Seltjanarnesi og Bessastaðatjörn á Álftanesi, svo og nokkrar tjarnir milli Ósa og Garðskaga. Fjölmargar smærri tjarnir eru á svæðinu, einkum í hrauninu á skaganum norðanverðum. Smálækir valda að auki mjög víða takmarkaðri seltulækkun.
Þar sem undirlag er stórgert og brim er ekki mikið að jafnaði eru stórvaxnir brúnþörungar yfirleitt mjög áberandi; þangfjörur. Þetta er langútbreiddasta fjörugerð á svæðinu. Sunnan Ósa er þó lítið af þangfjörum. Þangið í þessum þangfjörum þekur fjörurnar oft því nær alveg, nema efsta hluta þeirra.
Um er að ræða eftirfarandi tegundir; dvergþang, klapparþang, bóluþang, skúfþang og sagþang. Af áberandi þörungategundum í fjörum þessum má nefna þangskegg, söl, fjörugrös, sjávarkræður og kóralþang. Allar síðarnefndu tegundirnar eru rauðþörungar. Neðst í þangfjörum er einnig stundum dálítið af þara, bæði beltisþara og hrossaþara. Ýmsir grænþörungar eru einnig algengir í þangfjörum, s.s. maríusvunta, marglýja og slavak. Ofan við þangbeltið vaxa oft ýmsir smávaxnir grænþörungar, sem mynda slikju eða ló á steinunum, en sú planta, sem er einna mest áberandi ofan þangbeltisins er fjöruskófin. Myndar hún svarta skán og er oft svo samfelld að fjaran virðist svört tilsýndar á nokkru svæði ofan þangsins.
Dýrin í þangfjörunum eru mikluminna ábernadi en gróðurinn. Flest þeirra eru falin undir steinum eða þörungum, a.m.k. þegar lágsjávað er. Ofan þangbeltisins geta klettadoppur og hrúðukarlar verið mjög áberandi. Kræklingur eða bláskel er einnig stundum áberandi í þangfjörum, einkum þar sem ferks vatns gætir.
Víða í hraunfjörum á norðanverðum Reykjanesskaganum má sjá bláar skellur hér og þar af völdum kræklingsins, þar sem ferskt vatn seytlar. Nákuðungurinn getur einnig á stundum verið alláberandi í þangfjörum. Í þanginu er oft urmull af þangdoppum, mærudoppum, kúfstrútum, þarastrútum og gljáslifrum í þörungunum. Oft er mikið af baugasnotrum undir steinum, og talsvert getur verið af olnbogaskeljum ofan á þeim. Allir þessir sniglar eru þörungaætur. Mæruskel, þanglús og fjörulýs eru þörungaætur. Margar tegundir marflóa eru algengar í þangfjörum. Efst í þanginu eru tvær tegundir stökkmarflóa algengar. Talsvert getur verið af burstaormum í þangfjörum, t.d. pípuorminum.
Geysileg mergð örsmárra dýra innst í fjörunni. eru þessi dýr lítt könnuð hérlendis, en um er að ræða t.d. krabbaflær, þráðorma og sjómaura.
Framangreind dýr eiga uppruna sinn í sjónum. En í fjörunni eru einnig landrænar tegundir dýra, s.s. fjörujötunuxinn, fjörukóngulóin og fjörurykmýið. Villt hryggdýr má einnig finna í fjörunni, s.s. sprettfiskar, hrognkelsaseiði, hornsíli, ufsaseiði, keilubræður og sogfiskar.
Fremur fátt er um fugla í þangfjörum. Sendlingar leita þó þangað í ætisleit, þegar lágsjávað er, en minna er yfirleitt af öðrum vaðfuglum. Á flóðinu eru æðafuglar í þangfjörunni og á seinni árum er orðið algengara að rekast á minka í fæðileiu í fjörum svæðisins.
Fjörur koma manninum að notum á margan hátt, beint eða óbeint. Almennt má segja, að fjörður gegni mikilvægu hlutverki, bæði þegar vistkerfi sjávar og lands eiga í hlut. Gróska fjörugróðurs er mikil. Framleiðsla gróðursins á lífrænum efnum er svo undistaða hins auðuga dýralífs fjörunnar. Að auki sækja fuglar og önnur landdýr mikla fæðu í fjöruna og flytka þannig orku, sem bundist hefur fyrir tilstilli fjörugróðurs, upp á land.
Sjófuglar, eins og æðarfugl, svo og fiskar, flytja á hliðstæðan hátt orku úr fjörunniá haf út. Að aukis litna þörungar úr fjörunni í nokkrum mæli, og skolast bæði upp á land og á haf út, þar sem ýmsar lífverur, bæði gerlar, sveppir og dýr nýta sér þá. Mikil líf verður t.d. oft í þörungum, sem hrannast hafa upp rétt ofan fjöru í brimi. Smádýralífið í hrönnum þessum, ekki síst lirfur og púpur þangflugunnar er mikilvæg fæða ýmissa fugla, m.a. spörugla.
Fjörur eru á margan hátt hentugar sem útivistarsvæði. Fyrir náttúrskoðara er fjaran góssenland, þar sem hægt er að komast í snertingu við hið fjölbreyttasta líf, bæði gróður, smádýralíf og fugla. Lífríkið í fjörunni leggst ekki í dá að vetrinum að sama skapi og gerist uppi á landi, og jafnvel um hávetrartímann er mikið um að vera þar.“
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimild:
-Agnar Ingólfsson, Fjörur á Suðvesturlandi, sérprent úr Árbók FÍ 1985.
Þari.
Bessastaðanes sunnanvert
Þegar gengið var um sunnanvert Bessastaðanes mátti á nokkrum stöðum sjá forna jarðlæga grjótgarða,, bæði neðan við kirkjuna og út á svonefndum Vestaritanga. Þar er greinileg tóft skammt ofan við fjöruborðið og liggja garðarnir í boga út frá henni að sjó. Góð lending er neðan við tóftina. Frá henni er styst sjóleiðina yfir að Gálgaklettum í Gálgahrauni.
Í örnefnaskrá Kristjáns Eldjárns segir m.a. um þetta svæði: „Suður frá bæ voru áður mikil svöð, en nú eru þar ræktuð tún. Er mér ekki kunnugt um nein nöfn þar nema Kringlumýri sem Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, sem nú eru alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi, og er þar mikið æðarvarp, en stóra víkin austan við þá heitir Músavík (eða Músarvík). Nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem mætast Skerjafjörður og Lambhúsatjörn, og allra fremst á Rananum heitir Ranatá hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum, sem er eldri en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber á Bessastaðanesi, er hóll, sem heitir Skothús, og segir B.Gr. nokkuð frá því. Þar hefur verið eitthvert mannvirki, en engar sagnir eru um það.“
Í Árbók hins ísl. fornleifafélags 1981 fjallar KE um svæðið og leggur örnefnalýsinguna til grundvallar. Auk þess segir hann um framangreinda tóft á Vestaritanga: „Tóftarbrot lítilfjörlegt er einnig fremst á Vestaritanga. Rennur mjög saman við þýfið þar og verður ekki séð til hvers verið hefur.“
Í frásögn sinni um sama efni í Árbókinni skrifar hann: „Suður frá staðnum, fyrir sunnan brekkuna sem húsin standa á, er land mjög lágt og hefur verið votlent, en er nú ræktað tún. Einhversstaðar þar voru Akrarnir, sem svo voru kallaðir og Benedikt Gröndal talar um, „stórir ferhyrndir blettir, mig minnir tveir samfastir með lágum torfgarði á milli, mátti vel sjá móta fyrir „akurreinum“ eða löngum þverdældum.“ (Dægradvöl útg. 1965, bls. 11).
Þessir „akrar“ eru nú löngu horfnir. Eitthvað töluvert austar hefur verið mýri sú sem Kringlumýri nefndist og Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Er helst svo að sjá sem þetta hafi verið sama mýrin og Björn Gunnlaugsson kallar Heimamýri á uppdrætti sínum. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi. Er mikið æðarvarp á þessum slóðum. Mýrina upp af
Töngunum nefnir Björn Gunnlaugsson Miðmýri) og virðist það nafn vera gleymt nú. Stóra víkin austan við Tangana heitir Músavík eða Músarvík. Björn Gunnlaugsson notar seinna afbrigðið, en uppmæling hans mun vera elsta heimild sem til er um þetta nafn. Langa nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem Lambhúsatjörn opnast út í
Skerjafjörð. Fremst á Rananum heitir Ranatá, og hefur Björn Erlendsson það eftir Jakob bróður sínum, sem eldri var en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber í Bessastaðanesi, er töluvert reisulegur hóll sem heitir Skothús og segir Benedikt Gröndal nokkuð frá því. Á hólnum hefur verið eitthvert mannvirki en engar sagnir eru um það. Um Skothúsið segir: „Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber í Bessastaðanesi, eða eins og Gröndal segir í Dægradvöl: ,,Þar hæst á bungunni er kringlóttur grasblettur og rúst eftir gamalt byrgi, þar sem fálkarar hafa líklega legið við fyrrum, það var kallað „skothúsið“, og er þaðan víðsýni mikið og fagurt.“ (2. útg. 1965, bls. 4). Hvað sem líður ummælum Gröndals um fálkara, má telja mjög sennilegt að þarna hafi verið skotbyrgi. Gæsir eru t.d. tíðir gestir í nesinu. Hóllinn sem tóftirnar eru á, er 9 m í þvermál við grunninn, sýnist að upphafi hafa verið náttúruverk en þó má vera að hann hafi smám saman hækkað af mannavöldum. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.“
Tóftin og garðarnir á Vestaritanga eru forvitnilegar minjar. Þarna gæti auðveldlega hafa verið sjóbúð og garðarnir þurrkgarðar. Þá gæti húsið hafa tengst fangaflutningum frá Bessastöðum yfir að Gálgaklettum meðan aftökur tíðkuðust þar. Önnur notagildi koma og vissulega til greina.
Heimildir:
-Örnefnalýsing KE fyrir Bessastaði.
-Árbók hins ísl. fornleifafélags, 78. árg. 1981, bls. 132-147 – Kristján Eldjárn.
Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ
Fjörur III
„Fjara er nafn á mjórri ræmu á mörkum lands og vatns. Vatnið getur verið stöðuvatn eða sjór. Þar sem sjávarfalla gætir verður þessi ræma mun breiðari en ella. Sjávarföll sjást varla í stöðuvötnum, en yfirleitt mjög greinileg í sjó, þótt þau séu mjög óveruleg í sumum innhöfum, til dæmis Eystrasalti og Miðjarðarhafi. Annars eru sjávarföll mjög mismikil.
Sjávarföll eru afar regluleg. Þegar sjávarmálið er hæst segjum við að sé flóð, háflóð eða hásjávað. Síðan tekur sjórinn að lækka. Við segjum að það sé fjara eða sé útfall. Um sex klukkustundum og fimmtán mínútum eftir að útfall byrjar stendur sjórin lægst, þá er fjara, háfjara, lágfjara eða lágsjávað. Sjávarföll breytast einnig reglulega eftir því hvernig stendur á tungli. Þau eru einna mest á tveggja vikna fresti þegar tunglið er fullt eða nýtt. Þá er sagt að stórstreymt sé. Minnst eru svo sjávarföllin um viku eftir stórstreymi, og er þá sagt að sé smástreymt. Aðdráttarafl tungls og sólar á jörðinia valda sjávarföllum, og hefur tunglið mun meira segja. Þessir hnettir toga í jörðina, og fer það eftir afstöðu þeirra hvar togkrafturinn verkar mest.
Umhverfið í fjörunni er á margan hátt sérstakt og gerir hana að einstæðu búsvæði fyrir lífverur. Hún liggur á mörkum tveggja ólíkra heima og ber einkenni beggja. Sá umhverfisþáttur sem fyrst og fremst breytist þegar haldið er niður eftir fjörunni eða upp eftir henni er auðvitað vætan, eða með öðrum orðum það hversu oft og hversu lengi í senn fjaran er á kafi eða á þurru. Lífríki fjörunnar er mikið en ætla mætti að það fyndist álíka mikið af sjávarlífverum og landverum en svo er ekki, sjávarlífverur ráða ríkjum í fjörunni. Sumar þeirra lifa helst ekki nema í fjörunni sjálfri, fjaran er aðalkjörlendi þeirra.
Fjörugerðir
Umhverfi fjörunnar er mjög misjafnt, sumstaðar er sandur og möl en svo er sumar fjörur þaktar brimnúnum hnullungum. Þannig að fjörunum er skipt niður í ákveðna flokka eftir hvernig þær eru gerðar. Þangfjörur eru einn af þessum flokkum og eins og nafnið gefur til kynna þá er það þangið sem setur svip sinn á þessar fjörur. Þangfjörur finnum við helst þar sem brim er ekki mikið og þar sem fjörubeðurinn er klappir eða nokkuð stórir hnullungar. Þangfjörur eru ein útbreiddasta fjörugerðin hér við land, en þó er lítið um þangfjörur við suðurströnd landsins. Þangfjörur eru mjög auðugar af lífi, þar þrífast margar tegundir þörunga og dýra. Hrúðukarlafjörur er þar sem brim er mikið og undirlagið klappir en við þessar aðstæður er hrúðukarlinn það sem mest ber á. Hann situr vel fastur og þarf ekki að óttast það að brimið slíti hann upp. Fáar aðrar tegundir þola þetta. Fjörusvertan lætur þó brimið ekki á sig fá og litlar klappir svartar ofan við hrúðukarlana, og í sprungum þar leynast klettadropar. Fjörur af þessu tagi má kalla hrúðurkarlafjörur.
Hnullungafjörur fyrir opnu hafi eru þær fjörur sem innihalda hnullunga sem eru brimnúnir og hafa skarpar brúnir máðst af á löngum tíma. Öldurótið hreyfir hnullungana nema þá stærstu. Ef brim er ekki því meira geta þörungar vaxið á stærstu steinunum, helst ofarlega á þeim þar sem ekki er hætta á því að fá högg frá smáum steinum sem brimið hreyfir. Búsvæði fyrir dýr í þessum fjörum finnast á milli hnullunga langt undir yfirborðinu. Skjóllitlar sandfjörur eru þar sem fjaran er fyrir opnu hafi. Í þessum fjörum er oft mikið brim og sandurinn því á mikilli hreyfingu. Þessar fjörur sýnast alveg lífvana, en við þær má oft sjá seli. En við nákvæma skoðun kemur í ljós ótrúlega mikið af örsmáum dýrum sem hafast á milli sandkorna.
Í sandfjörum fyrir opnu hafi er það mikil endurnýjun á sjónum milli sandkornanna að til súrefnisskorts kemur varla. Kræklingsleirur myndast þar sem er sandur eða möl og gott skjól, við þessar aðstæður verður kræklingu oft mjög áberandi. Þessar fjörur eru yfirleitt sléttar og flatar og mjög stórar um sig. Fjörufuglar sækja mikið í kræklingsleirur. Beðurinn í kræklingsleirum er stundum svo gljúpur að sum dýr geta grafið sig ofan í hann og komið sér þar fyrir. Sandmaðksleirur myndast þar sem skjól er gott og beðurinn mjög fíngerður, fínn sandur eða möl, en við þessar aðstæður verður sandmaðkurinn sú lífvera sem mest ber á. Sandmaðksleirur eru rennisléttar og flatar og mjög stórar um sig. Mestar eru þær innst í fjörðum og vogum. Oft er mikið af fuglum á sandmaðksleirum. Sjávarfitjar myndast ofarlega í fjörum, þar sem skýlt er, og hefur jarðvegur með háplöntugróðri sums staðar náð að myndast. Gróðurinn er fábreyttur. Sjávarfitjungurinn svonefndi, sem er grastegund, er oftast ríkjandi. Á sjávarfitjum er oft mikið af smátjörnum. Lífríki þessara tjarna er nokkuð sérstætt, en misjafnt en það er seltumagnið sem ræður hvers konar plöntur og dýr finnast þar. Sjávarfitjar mynda aðeins hluta fjörunnar á hverjum stað, því neðan við þær taka aðrar fjörugerðir við, þangfjörur eða leirur. Árósar og sjávarlón eru svæði sem bæði hafa fjörur. Árósar er það svæði þar sem sjór og ferskt vatn mætast. Lífríki árósa er að mestu leyti ættað úr sjónum. Sjávarlónin eru svæði sem sumpart líkjast árósum. Þetta eru vötn eða vogar sem tengjast sjónum, en þessi tengsl eru takmörkuð miðað við það sem gerist í opnum árósum. Lífríkið er mjög fábreytt vegna lítillar seltu.
Fjörudýr
Kræklingurinn er eitt allra algengasta dýr fjörunnar hérlendis eins og víða erlendis. Þó er hann enn algengari neðan fjörunnar. Hann gerir raunar óvenju litlar kröfur til umhverfisins. Í fjörum er hann bæði að finna í klettafjörum fyrir opnu hafi þar sem brim er oft mikið, í venjulegum þangfjörum og við árósa. Það má oft sjá þess merki að kræklingurinn kann sérlega vel við sig þar sem ferskt vatn rennur til sjávar, við lækjarsprænur í fjörunni eða við árósa. Kræklingurinn situr fastur við við undirlag sitt með sérstökum þráðum sem hann spinnur. Kræklingurinn er í hópi svonefndra síara, en það eru dýr sem sía örlitlar fæðuagnir úr sjónum með sérstökum líffærum. Kræklingurinn er mikið lostæti að mati manna og ýmissa dýra. Margir fuglar eru gráðugir í krækling, ekki síst æðarfuglinn, en einnig ýmsir vaðfuglar og máfar. Þótt kræklingurinn sé eitt algengasta fjörudýr hér við strendur er það þó svo að langmest af þeim kræklingi sem Íslendingar leggja sér til munns á síðari árum er erlend, niðursoðin vara.
Marflær eru krabbadýr sem eru mjög algeng í fjörum og af þeim eru margar mismunandi tegundir. Algengastar eru svokallaðar fjöruflær, en þarna eru á ferð eina átta tegundir sem eru svo líkar innbyrðis að það er aðeins á færi sérfræðinga að greina þær í sundur.
Þegar lágsjávað er safnast fjöruflær fyrir undir steinum, þangi eða reköldum. Þar helst raki, en fjöruflærnar þola þurrt loft aðeins í skamman tíma. Sumar marflær í fjöru ganga um á réttum kili, en skríða ekki á hliðina eins og fjöruflærnar.
Bogkrabbinn er dæmi um sjávardýr sem er að finna bæði í fjörunni sjálfri og á sjávarbotni neðan fjöru. Það eru einkum smáir krabbar sem halda til í fjörunni, og eingöngu að sumri til. Þegar haustar halda allir bogkrabbar niður úr fjörunni. Bogkrabbinn er rándýr eins og flestir aðrir krabbar. Hann grípur bráð sína með klónum á gripfótunum og heldur henni að munninum, þar sem sterkir kjálkar aðrir munnlimar vinna á henni. Bogkrabbar hafa tíu fætur, þar með taldir hinir stóru gripfætur fremst á bolnum sem eru raunar ekki notaðar til gangs.
Krossfiskar eru flokkaðir í tvo flokka, stórkrossa og roðakrossa. Stórkrossinn verður fimmtán sentimetrar eða meira í þvermál, en roðakrossinn vart meira en átta sentimetrar. Báðir krossfiskarnir eru fimm-arma, en algengt er þó að rekast á krossfiska með færri arma. Krossfiskar eru búnir fjölmörgum smáum sogfótum á neðra borði. Þeir hreyfa sig úr stað með þessum sogfótum, en eru mjög hægfara. Krossfiskar eru rándýr, sem einkum leggjast á samlokur. Þeir skríða yfir bráð sína, festa sogfætur við báða skeljahelminga og taka síðan til við að toga skeljarnar í sundur.
Ásamt þessum dýrategundum má nefna svona helstu tegundir sem finnast við íslenskar fjörur eins og hrúðukarla, slöngustjörnur, skollakroppur og þangflugur.
Fjörugróður
Dvergþang er fremur smávaxinn brúnþörungur sem eingöngu vex mjög ofarlega í fjörunni. Dvergþang vex þar sem sjórinn er sæmilega hlýr. Dvergþang vex oftast á grjóti eins og annað þang, en einnig finnst það stundum á jarðvegi á sjávarfitjum innan um gras. Dvergaþang þolir þurrk betur en flestir aðrir fjöruþörungar. Það getur lifað af þótt það komist ekki í snertingu við sjó vikum saman. Þegar flæðir yfir það drekkur það í sig vökvann og verður á skömmum tíma sem nýtt, rís upp frá dauðum. Dvergþangið þolir hins vegar ekki að vera á kafi í sjó of lengi í senn, og er það óvanalegt fyrir fjöruþörungar.
Þari er samheiti yfir nokkrar tegundir stóvaxinna brúnþörunga. Þarinn vex aðallega neðan fjörunnar þar sem hann myndar víða mikla þaraskóga. Þar er líf fjölskrúðugt og mikið, og á það bæði við dýr og þörunga. Þarinn sem vex í fjörunni er alltaf fremur smávaxinn miðað við þarann í skógunum neðan fjörunnar. Flest þau dýr sem berast með þaranum upp í fjöruna eru dauðadæmd. Þau verða að vera stöðugt í kafi í sjó til þess að halda lífi.
Söl eru með stærstu rauðþörungum sem hér vaxa í fjöru, þótt þau séu minni en margir algengir brúnþörungar. Sölin eru fræg fyrir að vera gómsæt bæði mönnum og skepnum. Söl vaxa neðarlega í fjörunni, oft svo lágt að ekki næst til þeirra nema á stórstraumsfjöru. Þau eru ekki vandlát með setstað, og vaxa bæði á grjóti og oft á öðrum þörungum, til dæmis þara, og jafnvel stundum á þéttu leirseti.
Eins og með dýrin og fjörunni þá eru tegundir einnig margar af fjörugróðrinum og má þá nefna helst marhálm, sagþang, klóþang, purpuruhimnu og steinskúf.“
Sjá meira um fjörur HÉR og HÉR.
Þari.
Urriðakot – búseta
Á skilti við gamla Urriðakotsbæinn segir m.a.: „Ritaðar heimildir segja frá búsetu í Urriðakoti frá upphafi 16. aldar en mannvistarleifar frá miklu eldri tíma komu í ljós við fornleifakönnun 2007.
Leifar mannvirkja allt frá 11. öld hafa komið í ljós; veggjabrot, gólflög og munir, svo sem brýni og snældursnúður. Einnig hafa fundist merki um búsetu í Urriðakoti frá 13. og 14. öld og bendir því rannsóknin til að Urriðakotsland hafi verið nytjað því sem næst samfellt frá því eftir landnám.
Fornminjarnar eru huldar mold og sjást ekki á yfirborði. Á bæjarhólnum sjást leifar af síðasta bænum sem fór í eyði árið 1958. Urriðakot komst í einkaeigu í lok 19. aldar en áður var jörðin í eigu konungs og síðar ríkiseign.
Talið er að Jón Þorvarðarson (1817-1902) og kona hans Jórunn Magnúsdóttir (1828-1912) hafi flust að Urriðakoti árið 1846. Yngsti sonur þeirra, Guðmundur Jónsson (1866-1942) tók við búskap foreldra sinna árið 1935 og bjó þar með konu sinni Sigurbjörgu Jónsdóttur (1865-1951) frá Setbergi til ársins 1942. Guðmundur og Sigurbjörg eignuðust 12 börn.
Óvíða var búmannlegra á svæðinu en í Urriðakoti. Skráð er að árið 1932 hafi þar verið um 140 sauðkindur, 5 kýr og 2 hross. Þegar mest var voru einnig um 20 sauðir.
Sauðir gengu sjálfala og gátu haft afdrep í hellum og skútum en á vetrum voru lömb og ær í fjárhúsi heima við tún. Ær voru einnig hafðar við beitarhús ram eftir vetri í hraunjaðrinum, nærri þar sem nú er Urriðavöllur.
Mjólkin úr kúnum var seld Hafnfirðingum og var vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Fram til ársins 1930 var mjólkin flutt á reiðingi en þá var lagður ökufær vegur milli Urriðakots og Setbergs. Fergin úr Urriðavatni var nýtt sem fóðurbætir fyrir kýrnar. Óðu menn þá út í vatnið og höfðu nót sín á milli. Ferginu var síðan skóflað á land með gaffli og þurrkað á svokallaðri Ferginsflöt.
Árið 1939 seldu Guðmundur og Sigurbjörg tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin þremur árum síðar. Fram til ársins 1960 þegar jörðin fór endanlega í eyði bjuggu ýmsir í Urriðakoti en býlið brann skömmu síðar.
Árið 1946 eignaðist félag Oddfellowbræðra jörðina og voru uppi hugmyndir um að reisa þar sumarbústaði og sumardvalarheimili fyrir börn og hvíldarheimili fyrir aldraða Oddfellowa. Þessar hugmyndir komust þó aldrei til framkvæmda og skömmu eftir að Styrktar- og Líknarsjóður Oddfellowa var stofnaður árið 1956 ánafnaði félagið sjóðnum jörðinni án endurgjalds.
Leifar herbúða frá seinni heimsstyrjöld eru í suðaustanverðu Urriðaholti. Eftir að stríðinu lauk töpuðu mannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru notuð til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð.
Stóravarða er á háholti Urriðaholts. Hana hlóð upphaflega Jón Þorvarðarson ábúandi í Urriðakoti ásamt Dagmálavörðu sem er neðar í hlíðinni.
Fitin er slétt flöt niður við vatnið. Í örnefnaskrá segir að Fitin sé álagablettur sem ekki megi slá. Eitt sinn hafi hún verið slegin sem varð til þess að veturinn eftir drapst besta kýrin.
Dýjakrókahóll er við austurhorn Dýjamýrar. Þar eru uppsprettur undan holtinu og kallast Dýjakrókar. Í hólnum var talið að byggi huldufólk og sá Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti eitt sinn óþekkta konu sækja vatn í fötum í Dýjakróka, snemma á síðustu öld.
Stór áletraður steinn er suður frá Urriðakotsbænum þar sem áður lágu traðir hlaðnar út torfi og grjóti. Jón Þorvarðarson bóndi í Urriðakoti hjó áletrunina JTh 1846 í steininn árið sem hann flutti að Urriðakoti. Utan um stafina er höggvin rétthyrndur rammi. Steinninn er enn á sínum stað og áletrunin læsileg.“ [Rétt er að taka fram að steinninn var færður und suðvestanverðan bæjarvegginn þegar framkvæmdir hófust við gatnagerð og ræsi í Urriðakotslandi. Þar er hann enn.]
Urriðakot – bærinn 1918.
Reykjanes – skemmtiför 1926
Í Lesbók Morgunblaðsins í september 1926 má lesa eftirfarandi lýsingu á skemmtiferð í Reykjanesvita þann 22. ágúst sama ár.
Þessi lýsing er birt til að koma að ljósmyndum frá ferð FERLIRs í leit að vagngötunni milli Grindavíkur og Reykjanesvita er lögð var á árunum 1926-1928 (sjá HÉR). Þessarar götu er hvergi getið í nýlegri lýsingum af svæðinu.
„Þegar komið er vestur á Vogastapa kemur vegur sunnan úr hraunum þvert á Keflavíkurveginn. Það er akbrautin góða til Grindavíkur, áreiðanlega einhver allra besti og skemtilegasti vegur á landinu. Stutt fyrir ofan Stapa er tjörn sem nefnist Seltjörn. — Eigi markar bar fyrir mannvirkjum neinum, en til þess bendir nafnið að þar hafi verið haft í seli áður. Þó er þar auðnarlogt og rjett fyrir sunnan byrjar hraunið, eða hraunin, því að einu nafni eru þau nefnd Illahraun. Kalla má, að þar sje engum yfir fært nema fuglinum fljúgandi. Í gegnum þessa ófæru hefir mannshöndin rutt veg, brotið niður hraunstrýtur, fylt upp gjár og gjótur og mulið sjáift hraunið ofan í veginn. Hefir það runnið þar saman í eina hellu, svo að hrautin er eins og fjalagólf. Að vísu er vegurinn mjór, en það er líka eini ókosturinn á honum.
Til beggja handa er hraunið, líkast gríðarmiklum sullgarði á Góu. — Urðir og eggjagrjót, hellur reistar á rönd og í óteljandi stellingum, gjótur og gígir, hellar og holur og háar strýtur á milli í líkingu manna, dýra og allskonar óvætta. — Fram undan gnæfa Grindavíkurfjöllin. sem sjást hjeðan í suðvestri þegar bjart er veður. Á hægri hönd, eða vestan vegarins, er fyrst Stapafell, þá Súlur, þá Þórðarfell, Svartsengi og hið einkennilega fjall, sem á sjer hið einkennilega nafn Þorbjörn. Það er 243 fet a hæð. Efst á tindinum og þvert í gegn um hann, er gjá ein mikil. sem nefnd er Þjófagjá. Þar voru þjófar hengdir fyrrum. Gæti jeg trúað því að útsýn af Þorbirni sje furðufögur og einkennileg. Öll eru fjöllin grasi gróin upp á brúnir og stingur það mjög í stúf við hraunið, sem er grátt af gamburmosa.
Er það eini gróðurinn þar, því að hvergi sjest stingandi strá. Einu skepnurnar, sem hætta sjer út í hraunið, eru rjúpur, en þó hafast þær ekki við þar. Þegar komið er suður fyrir Þorbjörn blasir Grindavík við, eða öllu heldur nokkur hluti hennar, Járngerðarstaðnhverfið og bygðin í Hópi. Nokkuð þar fyrir austan er Þórkötlustaðahverfi, en vestur að prestsetrinu Stað er stundargangur frá Hópi. Öll Grindavíkurbygðin mun vera 7—8 km. á lengd. Margir ætla að Grindavík sje leiðinlegur staður og ljótur, en því fer fjarri. Þar eru gríðarmikil tún og bygging góð. Og þótt gindhveli hlaupi þar ekki á land líkt og fyrrum (af þeim dregur bygðin sjálfsagt nafn), þá sækja Grindvíkingar sjó af kappi og hafa jafnan mikinn fisk eftir vertíð hverju. — Er það þó ekki heiglum hent að sækja þar sjó. Verður það eigi gert nema á opnum bátum. En bygðin er fyrir opnu hafi og er þar opt ógurlegt um að litast, þegar hafið fer hamförum.
Er þar skemst á að minnast, er hafrótið braut þar allar lendingar í fyrravetur og æddi yfir byggðina, svo að fólk varð að flýja úr flestum húsum, en sum húsin tók brimið, þar á meðal fulla heyhlöðu, og færði langt úr stað. — Mörg hús braut hrimið, og mælt er, að þegar flóðinu slotaði hafi fundist keila inni í einun húsræflinum, og hefir þá brimið skolað henni þangað. Hjer skal ekki lýst leiðinni frá Stað og út á Reykjanes, því að henni hefir verið lýst áður í „Lesbók“. En segja má, að það sje ömurleg leið og erfið. Sunnan við aðalhraunið verpir mikið af kríu og voru þær enn þar með unga sína fullvaxna. En sumar hafa þó orðið seint fyrir. Fundum við þarna hreiður með volgum eggjum og; er hætt við að ungarnir, sem úr þeim koma, fái að bera beinin þar.
Á Reykjanesi er margt að sjá. Þar brennur jörðiu undir fótuni manns, en drunur og blástur heyrist í goshverunum. Annar er leirhver allvíður og spýtir mórrauðu. Hann er í rauninni nafnlaus, kallaður „1910″, vegna þess að hann myndaðist þá. Rjett við hliðina á honum er Litli Geysir“ og gýs silfurtæru vatni. Eru þeir vanalega samtaka og er einkennilegt að sjá kolmórautt gosið rjett hjá hvítum stróknum úr „Geysi“. — Annars naut „Geysir“ sín ‘ekki, því að einhver skemdarvargur hafði fundið upp á því að yelta steini yfir gosholuna, og verður honum eigi náð nema með verkfærum, því að gufan upp úr hvernum er svo heit að hún mundi brenna hvern, sem nærri kæmi. Þarna fyrir norðan en „Gunna“, kúptur leirhóll og kraumar allur. Handan við hólinn er postulínsnáma mikil, Hefir þar verið grafið 28 fet niður og þó eigi komið í botn á námunni. Niðri í jörðunni er postulínið gljúpt eins og linur ostur, en harðnar og steingjörfist er það komur undir bert loft.
Sýnishorn af því geta menn sjeð í glugga Morgunblaðsins. Fyrir vestan hverina er lægð nokkur allstór og sljett. Eru þar óteljandi leirhverir og sýður og bullar í þeim öllum. Er sá grautur misjafnlega þykkur og marglitur. Í sumum hverunum er hann rauður, í öðrum brúnn, blár, grænn, gulur, hvítur o.s.frv. Er mikið gaman fyrir þá, sem eigi hafa sjeð leirhveri, að skoða þessa. Tilbreytingin er afar mikil, því að tæplega munu tveir hverir vera eins að lit op lögun. — Er þetta svæði líkast því, sem er í Námaskarði í Þingeyjarsýslu, en þó eru hjer fjölbreyttari litir í leirnum. Mætti eflaust takast að fá þarna mikið og marglitt dufi til málningar, Zinnoberrautt, okkurgult, stálgrátt, hvítt, ehromhrænt o.s.frv. Austur af vitanum er hnúkur einn sem heitir Skálarfell, 78 metrar yfir sjávarflöt. Þegar gott og kyrt er veður eimir úr honum öllum og eru þar þó engir hverir. Má af því marka hvað mikill er jarðhitinn. Vestan við fell þetta og suður af vitanum er gjá, sem nefnd er Valbjargargjá, á korti herforingjaráðsins, en þar fyrir vestan er djúp lægð, sem nefnd er Vilborgarkelda. Er sennilega annað hvort nafnið rangt, og líklega bæði. Sjávarkamburinn fyrir framan kelduna, sem er allhá; nefnist Valahnúksmöl og Valhnúkur heitir þar rjett fyrir vestan, þar sem gamli vitinn stóð. Er þá eigi ólíklegt að heitið hafi Valabjörg þar nærri, og keldan og gjáin dragi nafn af því. Með flóði gengur sjórinn upp í þessa keldu og hitnar þar svo af jarðhitamvm, að hann verður um 30 stig. Er því þarna sá allra ákjósanlegasti baðstaður, sem til er á landinu. Þyrfti að vísu að dýpka kelduna dálítið, en það er vinnandi vegur.
Væri svo komið þarna sumargistihús mundu áreiðanlega færri komast en vildu þar til dvalar. Yrði þetta jafnframt hið allra besta heilsuhæli og hressingarhæli, sem völ væri á hjer. Hvergi er loftslag hollara en þarna, hreint sjávarloft kryddað eimi hvera og neðanjarðar ölkeldna.
Á Bæjarfelli (eða Vatnsfelli), sem er 50 metra hátt, gnæfir vitinn við ský. Er um 100 tröppur upp að ganga þangað, sem ljósaspeglarnir eru. Þar uppi eru svalir og er eigi holt fyrir þá, sem er svimahætt, að ganga út á þær. Eigi er vitavörður heldur öfundsverður af því, að vera uppi í vitanum þegar jarðskjálftar eru, því að þá ruggar vitinn eins og skip í stórsjó. Geta menn getið nærri hvernig muni vera uppi í 30 metra háum vitanum, þegar bærinn. sem er lágur, „ruggar“ svo rækilega að stólar og borð stökkva um gólf, en myndir á veggjum standa þvert út frá þeim. Það hefir borið við.
Á aðfangadagskvöld jóla í vetur sem leið, bilaði vitinn. Hafði kvikasilfur, sem haft er í stórri skál og vitaljósið snýst í, skvetst út úr skálinni í jarðskjálfta og át sjer síðan framrás og bunaði niður. Vitavörður tók þegar eftir þessu eg fór að stöðva lekann, en við það kom kvikasilfur á hendur hans. Þegar hann hafði gert við þetta eins og föng voru á, saknaði hann hringa síns og lá hann hann á gólfinu í fjórum hlutum og voru þeir snjóhvítir. Sýndi vitavörður okkur brotin og voru þau ólík því, að þau væru úr gulli. Þannig hafði kvikasilfrið farið með hringinn.
Hver sá, sem vill fá að skoða vitann, verður að greiða fyrir það 25 aura, er leggjast í styrktar og sjúkrasjóð vitavarða. Flestir greiða talsvert meira eins og sjá má á gestabókinni, sem jafnframt er sjóðbók. Aldrei hefir verið jafn gestkvæmt á Reykjanesi og í sumar.
Árið 1922 konu þangað 87 gestir, en annars hefir gestatalan á undanförnum árum verið 45—71. Nu höfðu rúmlega 160 menn skoðað vitann á þessu ári, eða nær helmingi fleiri en þá er flest hefir verið áður.
Frá Reykjanesi að Litlu-Sandvík er akvegur, um 3 km. langur. Þar í víkinni er lending og þar stendur geymsluhús, sem vitamálastjórnin hefir látið reisa. Þaðan og til Hafna (Kalmanstjarnar) er erfiður vegur, ægisandur alla leið, og er þungt að kafa hann. — Í Stóru-Sandvík gengurr brimið langt á land upp og er rekaldsröst innan við sandana og á víð og dreif. Er þar dapurlegt um að litast og rifjast upp fyrir manni margar sorgarsögur. Árar og árabrot, þóftur og þóftabrot, styrsisræflar, tunnur, körfur, lósdufl og spýtnarusl úr bátum og skipum mætir auganu hvarvetna, en hingað og þangað standa Upp úr sandinum ryðguð brot úr skipsskrokkum.
Þannig er annars um allan Reykjanesskann og á einum stað (rjett hjá Stað í Grindavík) stendur þýskur botnvörpungur, „Sehlutup“ frá Lübeek, í heilu lagi uppi á þurru landi. Innan við Sandvíkina á söndunum, þar sem sjórinn var að byrja að ganga upp, sáum við stórar hvítar breiður, er við vissum eigi hvað vera mundi. En er nánar var að gætt, voru þarna þúsundir af ritum og veiðibjöllum, svo þjett saman sem kindur í rjett. Var eins og ský drægi fyrir sól er allur skarinn hóf sig til flugs.
Í Höfnum er fallegt, þótt heldur sje lítill gróðnr þar, og sjerstaklega kvað vera fallegt í Ósabotnum inn af Kirkjuvogi. – Hafnahverfið er um 5 km. á lengd Og er akvegur kominn nærri Kirkjuvogi. Kemur hann á aðaveginn hjá Innri Njarðvík.
Þar er gaman að aka í myrkri gegnum hraunin frá Vatnsleysisströnd til Hafnarfjarðar. Á báðar hendur gilllir í hraundranga og strýtur og er nærri því að manni finnist það vera þröng lifandi vera og skrýmsla, sem skrumskæla sig allavega framan í mann um leið og bifreiðin þýtur áfram. Alt hraunið virðist vera kvikt, en sú missýning stafar af því, að maður er sálfur á fleygiferð. Framundan varpa ljósker bifreiðarinnar birtu yfir stuttan kafla af veginum og sjer maður eigi betur, en en veginn þrjóti þar sem birtuna þrýtur og manni finst, að bifreiðin muni óhjákvæmilega þjóta út í úfið hraunið og fara þar í þúsund mola.“
Heimild:
-Lesbók morgunblaðsins, 12. september 1926, bls. 4-5.
Kinnaberg – tóft.
Jeppinn – áhrif á umhverfið
Í MBL þann 1. júlí 1995 birtist grein Ingimundar Þórs Þorsteinssonar, Snorra Ingimarssonar og Þorvarðs Hjalta Magnússonar undir fyrirsögninni „Áhrif jeppanna á umhverfið – að aka í sátt við landið sitt„. Um var að ræða stytta kafla úr bók sem kom út fyrir jól 1994 og heitir: „“Jeppar á fjöllum“. Á þeim 13 árum, sem liðin eru frá skrifunum, hefur margt breyst. Megininntakið er þó enn sem fyrr eftirfarandi: „Það er hættulegt að einblína svo á mikilvægi einstaka framkvæmda, að nánast allt annað skuli víkja fyrir þeim„.
„Við komu fyrstu bílanna til landsins voru engir akvegir til fyrir bíla sem von var á. Engu að síður voru til þekktar þjóðleiðir milli bæja og byggðalaga. Þessar leiðir höfðu verið troðnar af hestum og göngufólki, en ekki með ferfættum ökutækjum. Eins og vænta mátti var slóðagerðin ekki upp á marga fiska í upphafi. Stærstu steinunum var rutt úr vegi og keyrt í lykkjum til að velja færsutu leiðina. Þannig tróðust fyrstu slóðarnir. Síðan þróaðist þetta út í smávegagerð eftir því sem umferðin jókst.
Á þessum tímum var því fyrirbærið utanvegaakstur ekki til í hugum manna. Allur akstur var í upphafi utanvegaakstur, sem í raun var slóðagerð. Það sem þurfti að fara var farið, og sjálfsagt lítið spáð í gróðurvernd eða ljót hjólför. Reyndar er engin ástæða til aðbera þetta sman við hugsunarhátt okkar nú á dögum, því jeppar nútímans eru mun öflugri en fyrstu bílarnir. Með jeppunum er nú auðveldara að komast lengra inn í óbyggðir og þannig inn á svæði sem eru mun viðkvæmari fyrir spóli og traðki. Öflugri jeppar kalla því ámeiri varfærni og hófsem. Á tímum fyrstu bílanna lágu hinsvegar leiðir manna einna helst milli bæja og byggðalaga eins og áður segir. Menn þurftu að komast nauðsynlega leiða sinna, og það langmest á láglendi. Bílstjórar þess tíma ruddu vegina og voru því nokkurs konar hetjur sem fóru ótroðnar slóðir.
Fljótlega kviknaði þó löngun hjá mönnum til að kanna hálendið og ýmsa áhugaverð staði. Þar urðu kannski ekki til troðnar slóðir í fyrst, heldur einungis ferðasögur sem eru til enn þann dag í dag. Eftir því sem árin liðu og bílarnir og dekkin urðu betri, þá fjölgaði slóðum inn til óbyggða. Ef skoðaðar eru loftmyndir af Íslandi má sjá ógrynni af slóðum um allt land. Hluti þeirra, um 3700 km af fjallvegum og sóðum, hefur verið skráður hjá Vegargerðinni. Þar af eru 712 km landsvegir eins og Kjalvegur og Sprengisandur, og afgangurinn er alls konar slóðar og vegir, sem eru misgóðir, misvel þekktir og misgamlir og sumir ófærir núorðið. – Nánast öll þjóðin hefur staðið að þessari slóðagerð en ekki bara einhverjir truflaðir jeppakarlar, ungir eða gamlir.
Það er sjálfsagt að velta fyrir sér hvaða stefnu skuli taka í gerð vega og slóða um hálendið. Fyrst þarf að sjá fyrir sér heildarmynd af einhverju vegakerfi, sem myndar heilsteypra grind. Út frá þessari grind gætiu síðan legið slóðir í botnlanga og um ákveðin svæði. Nota má marga af þeim slóðum sem til eru í dag, en síðan þyrfti að loka öðrum og afmá þær. Í einhverjum tilfellum þyrfti að leggja nýjar slóðir eða lagfæra þær sem fyrir eru.
Í ljósi þeirrar þróunar sem nú á sér stað, þá sjáum við að utanvegaakstur heyrir sögunni til og má ekki eiga sér stað nú, ekki frekar en lagning óþarfa slóða.“ Eða eins og Jón slóði kvað á um á hæsta tindi. „Að spóla upp brekkur og aka utan vega, er því frekja og tillitsleysi við land og þjóð. Það leifast engin mistök í þessum efnum, og þess vegna þarf að veita þeim góða áminningu sem staðnir eru að verki við slíka iðju. Fyrst og fremst ætti fólk að laga þær skemmdir, sem unnar erum og afmá öll för eftir utanvegakstur. Fari einn og skilji eftir sig slóð, þá er víst að seinna kemur annar á eftir, og síðan koll af kolli…
Eftirlit verður alltaf erfitt, og þess vegna er happasælla að ganga þannig frá hnútunum að fólk þekki til verka og fylgi þeim boðorðum sem við setjum okkur. Þannig þarf að fræða landann og sömuleiðis alla erlenda ferðamenn sem koma hingað á eigin vegum. Hér þarf hver að passa sjálfan sig og náungann.
Það hrukku margir í kút, þegar einhver talaði um að leggja hraðbraut yfir hálendi Íslands, svokallaðan hálendisveg. Í þessu sáu menn mjög aukinn þjóðarhag. Vissulega er rétt, að meðan við búum í þessu landi verður það ekki gert án þess að taka einhvers staðar til hendinni og breyta ásjónu landsins. En það má ekki gleyma því, að landið þarf líka að búa við okkur íbúana. Þess vegna eru takmörk fyrir því hvað við getum leyft okkur. Það er hættulegt að einblína svo á mikilvægi einstaka framkvæmda, að nánast allt annað skuli víkja fyrir þeim.“
Heimild:
-Mbl. 1. júlí 1995 – Áhrif jeppenna á umhverfið – Ingimundur Þór Þorsteinsson, Snorri Ingimarsson og Þorvarður Hjalti Magnússon.