Fyrir tæplega hálfri öld (um 1960) var Gísli I. Þorsteinsson (f. 1952) á ferð um norðanvert Álftanes með föður sínum, Þorsteini Einarssyni. Gísli var þá á tíunda ári. Þeir feðgar voru m.a. að skoða fuglalífið í fjörunni við Seyluna. Þeir gengu um Dugguós. Þegar þeir komu út að Skansinum og voru á gangi yfir útveggi hans ofan fjörunnar ráku haukfrá augu Gísla óvænt í eitthvað áhugavert í fjöruborðinu rétt neðan hans (þar sem sjórinn hafi brotið gróðurbakkann).
Betur að gáð kom í ljós að þarna var um heillega blýkúlu að ræða. Við viktun síðar mældist hún um 920 gr. (tæp 2 pund) að þyngd, 5.7 cm að þvermáli og 18.0 cm að ummáli. Drengnum fannst mikið til koma og ákvað að varðveita kúluna. Hún hefur fylgt honum æ síðan með einum eða öðrum hætti.
Fyrir skömmu rifjaðist ferðin forðum upp í tveggja manna tali og Gísli ákvað að leita kúlunnar – og var ekki lengi að finna hana. Við endurheimt hennar var tilefni talið að huga nánar að upprunanum og hugsanlegum tengslum hennar við söguna, skrifaðar heimildir, vangaveltur og aðrar minjar, sem síðar hafa fundist við Bessastaði, t.d. fallbyssuhlut þann er fáum er kunnugt um, en varðveittur hefur verið í þegjandi hljóði undir Bessastaðastofu.
Ákveðið var að reyna að kanna hvort hugsanlegt væri að þessi blýkennda kúla frá Skansinum, er virtist einna líklegast hafa tilheyrt fóðurfangi fallbyssu, gæti með einhverjum hætti tengst fallbyssuhlutnum í kjallara hins sögufræga menningarseturs að Bessastöðum. Með það að markmiði var haft samband við Guðmund Ólafsson, hinn mæta fornleifafræðing hjá Þjóðminjasafni Íslands er tók m.a. hvað virkastan þátt í fornleifauppgrefti þeim að Bessastöðum er endurheimti fallbyssuhlutinn, og hann spurður hvort hann gæti komið og lagt mat á umleitunina.
Þegar vettvangurinn við Skansinn var skoðaður með Gísla í aðdraganda síðdag einn í febrúarmánuði árið 2008 gekk hann hiklaust á staðinn þar sem hann fann kúluna umrætt sinn. Hann staðnæmdist uppi á grónum virkisveggnum, horfði í kringum sig og gekk ákeðnum skrefum niður að fjöruborðinu, síðan þrjú fet áfram og benti; „Hér var það“. Segja verður eins og er að það hefur þurft bæði forvitin og áhugasöm barnsaugu til að koma auga á kúluna innan um jafnlitt fjörugrjótið. Kannski það hafi bara alls ekki verið af einskærri tilviljun. Gæti verið að barninu, sem áður hafði lifað af alvarlegt bílslys, hafi beinlínis, á yfirnáttúrulegan hátt, verið bent á þennan ofurlitla hlut í fjöruborðinu með það fyrir augum að tengja hann síðar við hin menningarsögulegu myndbrot vettvangsins? Fæstir fræðimenn er vildu láta taka sig alvarlega myndu opinberlega samþykkja þá tilgátu, en leikmenn er upplifað hafa hliðstæð tilvik myndu án efa samþykkja hana. Þeir síðarnefndu gætu hins vegar lent í vandræðum ef þeir þyrftu að rökstyðja samþykki sitt því slíka skortir jafnan áþreifanlegar sannanir þegar til kastanna kemur (eða eiga a.m.k. erfitt með að rökstyðja mál sitt).
Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, hafði við umleytan reynst góðfúslega tilbúinn að leyfa FERLIRsfélögum að skoða fallstykkishlutann í kjallaranum og bera kúluna við það. (Svona eiga opinberir starfsmenn að vera – jákvæðir og ávallt reiðubúnir (eins og góðum skátum sæmir)). Tilgangurinn var að meginefni sá að kanna hvort kúlan gæti haft minjagildi eða ekki. Hafa ber í huga að hér gæti verið um „aðskotahlut“ að ræða, þ.e. hann gæti hafa komið úr einhverjum byssum hernámsliðsins er hafði bækistöðvar á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, verið kastað úr flugvél, skolað á land úr skipsflaki eða hreinlega verið kastað þarna af einhverjum áhugalausum um slíka gripi. Eftir sem áður gæti kúlan verið það gömul að hún myndi flokkast undir fornminjar – þótt uppruninn gæti verið annar en beintenging við „verkfærin“, sem notuð voru á Skansinum.
Áður en lengra er haldið er sjálfsagt að rifja eitthvað handhægt upp um fundarstaðinn: „Skansinn er yst á Álftanesi, innan við Seiluna, en þar var byggt vígi til varnar konungsgarðinum á Bessastöðum ef sjóræningjar skyldu leggja þangað leið sína. Inn á Seiluna sigldu sjóræningjarnir sem rændu í Grindavík 1627 og ætluðu að gera Bessastöðum sömu skil. En þeir strönduðu skipi sínu á skeri og sneru frá. Árið 1688 var hlaðið virki á Skansinum, með nokkrum fallbyssum til að verjast innrás sjóræningja og annars illþýðis. Þær voru aldrei notaðar.
Um síðustu aldamót var smákot á Skansinum. Þar bjuggu þá hjónin Málfríður og Eyjólfur ásamt syni sínum Ólafi. Þótt búið væri lítið ríkti þar mikill þrifnaður og ekki spillti Ólafur fyrir því hann var kátur, fjörugur og lífsglaður ungur maður, en enginn söngmaður, svo vitnað sé í samtímaheimild um hann. Ólafur Eyjólfsson er þó þekkt persóna í dansbókmenntum okkar, því um hann var saminn textinn við dansinn Óla skans sem hvert mannsbarn á Íslandi kannast við.“
Skansinn, þetta gamla virki, var friðlýst 1930, sbr.:„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í bók Vilhjálms Þ. Gíslasonar, „Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls“ er m.a. fjallað um Skansinn og Seyluna: „Bessastaðir hafa einu sinni verið herstöð og bardagasvæði. Það var í Tyrkjaráninu 1627. Þó að í þeirri viðureign væri að vísu „fallstykkjum affírað“, og höfðingjar sætu þar á riddaravísu ú gylltum söðlum vopnaðir, þá var sá hernaður enginn hetjusaga. Fyrirliðinn hafði einnig hest söðlaðan að húsabaki, til þess að geta flúið.
Sjóræningar komu að Reykjanesi í júni 1627. Hertóku þeir fólk í Grindavík og sigldu síðan vestur fyrir land. Þessi ótíðindi úr Grindavík spurðust fljótlega til Bessastaða. Þar var þá höfuðsmaður Holger Rosenkranz. Kaupskip varnarlítið lá þá á Seylunni, og skip voru einnig í Hafnarfirði, Keflavík og á Hólmshöfn. Þeim var stefnt til Bessastaða, og urðu þá þrjú hafskip á seylunni. Viðbúnaður var einnig hafður í landi og hlaðið virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna. Þangað voru fluttar fallbyssunar sem til voru á Bessastöðum.Þar voru þá staddir ýmsir fyrirmenn í embættiserindum, og kyrrsetti höfuðsmaður þá alla og setti ýmsa þeirra til varnar í virkið. Meðal þeirra, sem þannig voru staddir á Bessastöðum, voru Þorlákur Skúlason, síðar biskup, Jón Sigurðsson á Reynistað, fyrrum lögmaður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir úr Þingeyjarsýslum og Jón Ólafsson Indíafari, vestan úr fjörðum, en hann var þar með skilaboð frá Ara í Ögri.
Þetta var kvöldið fyrir Jónsmessu, og sáust nú Tyrkjaskipin sigla inn fyrir Álftanes og inn á Seylu og skutu nokkrum fallbyssuskotum. Þeir dönsku í Skansinum skutu á móti. Hugðu nú Tyrkir samt gott til góðarinnar og bjuggust við miklu herfangi úr Seyluskipunum. Almenningur um Nesin var lostinn miklum ótta og flýði. Konur og börn og búsmali var fluttur upp til selja eða upp um hraun til fjalla, segir Björn á Skarðsá.“
Til að gera langt mál stutt þá strandaði annað ræningjaskipið á Seylunni, en áhöfninni tókst að forfæra bæði fanga og farm yfir á hitt skipið og losa þannig um það. Í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, segir m.a. um þetta: „Fýrað var af byssum bæði frá landi og frá skipum. Orrustan var hafin. “En um þetta bil, af Guðs tilsettu ráði, bar annað reyfaraskipið upp á grynningar svo það stóð, því fjörumikið orðið var. Var það það skipið, sem hertekna fólkið á var og mestallt góssið.” Til að létta skipið hófust þá menn af hinu skipinu handa við að flytja fólk og góss af hinu strandaða skipi yfir á hitt. Köstuðu þeir miklu af góssinu í sjóinn, mjöli, öli og annarri góssvöru sem þyngst var. Og sem þeir voru í þessu sjóarsvamli og flutningi skipanna á milli létu þeir dönsku af að skjóta, því miður, en íslendingar vildu að að þeim væri sem mest skotið meðan þeir voru í þessu svamli. Íslendingarnir fengu engu um ráðið…“ Að því búnu var báðum ræningjaskipunum siglt úr úr Skerjafirði óáreitt.
„Eftir þetta var öðru hvoru haldið uppi nokkrum herskap eða herþjónustu í sambandi við Bessastaði. Holger Rosenkranz kom þangað árið eftir Tyrkjaránið með fjögur herskip til landvarnar og eftirlits. Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum, upp af Seylunni. Með konungsbréfi 3. júlí 1667 var krafinn af landsmönnum skattur til þess að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár. Nú var stundumfarið að kalla forráðamann Bessastaða Commendant. Skanstollurinn eða Ottagjaldið, eins og almenningur kallaði hann, var óvinsælt gjald.
Í fyrstu höfðu menn ætlað að mæla á móti þessum skatti, enda galzt hann sums staðar með refjum, en Brynjólfur biskup gekkst í það, að menn skyldu játa honum, því að hann kvaðst óttast að annars yrði annar þyngri á lagður.
Allur heimtist tollurinn ekki fyrr en eftir nokkur ár og ei nema með sleitum.
Suðurnesjamenn voru látnir byggja Skansinn. Sumir segja, að þeir hafi mátt vinna að því kauplaust, og það hefur Árni Magnússon eftir Þormóði Torfasyni, en aðrir sögðu, að kaup hefði verið greitt.
Ekki varð mikið til frambúðar úr Skansbyggingunni, en þó er sagt, að Bjelke hafi gert konungi 800 rd. reikning fyrir viðhaldi virkisins. Ýmsar fleiri álögur var reynt á þessum tímum reynt að leggja á Íslendinga til herskapar, en þeir viku þeim af höndum sér.
Herskapur á Bessastöðum var enginn eftir þetta, og Skansinn féll, og greri yfir hann að mestu. Benedikt Gröndal sagði seinna, að „Skansinn var þá kotrass auðvirðilegur og er enn“.
Ennþá sér vel móta fyrir Skansinum og grasigróinni grjóthleðslunni. Nú er þar hvorki virki né bær. Er þar einn hlýlegasti blettur á Bessastaðalandi og þaðan er oft fagurt að sjá út á Seyluna og yfir um fjörðinn.“
Í bókinni „Sjósókn“ segir Erlendur Björnsson í endurminningum sínum að „Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Í Skansinum var lendingin frá Bessastöðum. Þar var hið gamla virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum, og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju.
Í Skansinum var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbeðillinn fóðraði eina kú. Þar bjuggu hjónin Eyjólfur og Málfríður. Þau áttu einn son, Ólaf að nafni. Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, enn allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans. Hann dó á spítalanum í Laugarnesi“.
Til að lengja textann svolítið til að koma að fleiri ljósmyndum í tengslum við ferðina er rétt að rifja upp ákvæði Þjóðminjalaga um hvað telst til fornleifa. Sérhver kynslóð hefur skilið eftir sig minjar í jörðu sem geyma menningarsögu hennar og vitna um lífsbaráttuna á hverjum tíma. Þessar minjar kallast fornleifar og þær geyma oft mikilvægar heimildir sem hvergi er hægt að fá fram með öðrum hætti. Þess vegna er mikilvægt að fornleifum sé ekki spillt og að þær séu varðveittar fyrir komandi kynslóðir.
En hvað eru fornleifar? Þegar Þjóðminjasafnið hóf undirbúning að skipulagðri fornleifaskráningu árið 1978 kom í ljós að menn hafa lagt mjög misjafnan skilning í hvað séu fornleifar. Sú skoðun var lengi útbreidd að það væru eingöngu mannvirki frá söguöld sem kallast gætu fornleifar, og væru þess virði að skrá og friðlýsa.
Þessi hugmynd sem er mjög í anda sjónarmiða sem uppi voru á 19. öld, hefur fyrir löngu vikið fyrir nútímalegri hugmyndum. Flestar friðlýsingar síðustu áratuga 20. aldar tengjast til dæmis atvinnusögu þjóðarinnar á seinni öldum.
Í Þjóðminjalögunum frá árinu 1989 er í III. kafla um fornminjar m.a. getið um 2e; virki og skansa og önnur varnarmannvirki; [Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 18. gr.]. Sjá einnig sambærilegt ákvæði í þjóðminjalögunum frá árinu 2001. Í 1. g. laganna segir að „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir“. Megináherslan virðist þó fremur hafa verið á minjasvæðin og mannvirkin, sem þekkt hafa verið eða kynnu að finnast. Ákveðnar gripategundir eru tilgreindar sérstaklega, þ.e. kirkjugripir og minningarmörk. Þó eru og nefndir „listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar“. Ætla má þó að fallbyssukúla sú er hér um ræðir gæti falli’ innan ákvæða þjóðminjalaga er varðar verndun því í þjóðminjalögunum (sem reyndar eru ekki afturvirk), 18. gr., segir að „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri…“ Jafnframt að „allir munir, sem grein þessi fjallar um… eru eign ríkisins“. Með ákvæðinu um tilkynningaskyldu til þjóðminjayfirvalda um fund á einstaka grip er verið að auka líkur á að fornminjar varðveitist, ekki síst hið smáa í heildarmyndinni.
Guðmundur hafði haft samband við fallbyssusérfræðing safnsins, Halldór Baldursson, og boðað hann að Bessastöðum þennan dag. Baldur hefur m.a. skrifað greinar í Árbók fornleifafélagsins um fallbyssubrot frá Bessastöðum og um Skansinn.
Áður en gengið var í Bessastaðastofu var viðeigandi að rifja upp forsögu hússins. „Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga. Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Þegar viðgerðir og endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987, kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 m þykk mannvistarlög, sem hlaðist höfðu upp af eldri mannvistarleifum. Hófust þá á staðnum umfangsmestu fornleifarannsóknir sem enn hafa verið gerðar á Íslandi. Á árabilinu 1987 – 1996 var stór hluti bæjarhólsins á Bessastöðum rannsakaður og er rannsóknarsvæðið rúmlega fjögur þúsund fermetrar. Við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum fundust á annað þúsund gripa. Flestir þeirra eru brot af hversdagslegum búsáhöldum, sem hafa brotnað og verið hent. Nefna má fjölmörg leirkers- og postulínsbrot úr diskum og ílátum, kljásteina, fiskisleggjur, nagla, pottbrot, krítarpípur, brýni, kvarnarsteina o.s.frv. Nokkra furðu hefur vakið hve fáir gripir hafa bent til þess að þarna var aðsetur helstu höfðingja landsins á sínum tíma. Þó má ráða af sumum fundanna að hér var ekki venjulegt bændabýli. Nefna má byssukúlur og byssutinnu, leifar af fallbyssu, myndskreyttar glerrúður og austurlenskt postulín, og síðast en ekki síst mikið magn af vínflöskum.“ Sjá meira á www.forseti.is.
Þegar ljóst varð hve vel varðveittar minjar voru undir gólfi Bessastaðastofu, var ákveðið að varðveita þær og gera þær sýnilegar fyrir gestum Bessastaða. Gengið var frá minjunum í kjallara Bessastaðastofu og þar er hægt að ganga niður og horfa inn á gólf landfógetabústaðar konungsgarðsins frá 18. öld og eldri minja frá 15. – 16. öld. Einnig er þar lítið sýnishorn gripa sem fundist hafa á Bessastöðum.
Það var einmitt í þennan kjallara, sem Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, leiddi þátttakendur að þessu sinni. Í fordyrinu eru leifar af annarri fallbyssunni, sem fannst í framangreindum fornleifauppgreftri.
Halldór Baldursson ritaði, sem fyrr sagði, grein í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990 um „Fallbyssubrot frá Bessastöðum“. „Fallbyssur voru fluttar í skansinn frá Bessastöðum [þegar Tyrkir rændu hér á landi 1927]. Skansinn var endurbættur 1668 undir stjórn Otte (eða Otto) Bjelke. Þetta var í tilefni af ófriði, sem þá var á milli Dana og Englendinga. Svo virðist, sem fallbyssum hafi verið bætt í Bessastaðaskans um svipað leyti.
Sumarið 1800 voru þær fallbyssur, sem nothæfar töldust, fluttar úr Bessastaðaskansi í nýtt vígi við Arnarhól, sem nefnt hefur verið Phelps skans, Jörundarvígi eða Batteríið. Þetta voru sex langar fallbyssur, ætlaðar fyrir 6 punda járnkúlur. Engar heimildir hef ég fundið um hvort ónothæfar fallbyssur voru þá skyldar eftir í Bessastaðaskansi.
Bessastaðaskans hefur lítt komið við sögu eftir þetta.
Í Þjóðminjasafni Íslands eru nokkrir hluti, sem geta verið tengdir Bessastaðaskansi. Meðal þeirra eru tveir hlutir, sem líkur bentu til, að væru brot úr fallbyssum. Annar hluturinn fannst við fornleifagröft heima á Bessastöðum 1987. Þetta er járnrör, mjög ryðbólgið, ca. 27 cm langt og ca. 6 cm vítt. Á rörinu eru mjög greinilegar sprungur lagsum. Tveir járnhringir eru þversum utan um rörið, annar við enda og hinn nálægt miðju. Hinn hluturinn er „Kanona gömul og ryðbrunnin mjög, hún er nær al(in) á lengd, mun vera samsett úr hólkum því margir upphækkaðir hringir eru utaná, fylgir mikil járnhalda, sem hún hefir leikið í, og 2 kúlur fundnar þar niðrí jörð“. Þetta er járnrör, ca. 50 cm langt og 8 cm vítt. Utan um rörið eru þversum sex járnhringir með jöfnu millibili. Gapandi sprungur eru þversum utan á rörinu við hringina, en sjást ekki innanfrá.
Á 15. og 16. öld voru fallbyssur oftast smíðaðar úr járni og þá samsettar úr stöngum og þynnum… Fallbyssur úr smíðajárni voru oftast bakhlaðnar og var sérstök laus púðurkrús sett aftan við hlaupið, þegar skotið var, líkt og skothylki í nútíma byssum. Slíka púðurkrús nefnir Jón Indíafari byssukamar.
Byssurnar á Bessastöðum gætu hafa verið sendar úr vopnabúri konungs til landvarna eða til að sýna veldi höfuðsmanns gagnvart þegnunum. Þær gætu í sama tilgangi verið keyptar úr farskipum hér við land. Fallbyssur á Bessastöðum gætu hafa verið upp runnar í ýmsum löndum og hafa borist þangað með skiptum allra þjóða, sem sigldu til Íslands eða á Íslandsmið. Varla hefur jafn-afskekktur hluti Danaveldis og Bessastaðir fengið nýjustu og dýrustu tegundir vopna og er því líklegt, að fornar byssur hafi lengur staðið í Bessastaðaskansi en í þeim virkjum, sem nær voru konungi. Byssurnar geta hafa verið notaðar til að skjóta púðurskotum við hátíðleg tækifæri, eftir að þær voru orðnar lítils virði sem vopn.
Byssurnar eru líklega frá 15. og 16. öld. Þær gætu hafa verið til varna á Bessastöðum fram á 17. öld eða jafnvel lengur.“
Í grein Halldórs í Landnámi Ingólfs 1996 (Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627) segir m.a.: „Í virkið voru fluttar þær fallbyssur, sem til voru á Bessastöðum“. Meðfylgjandi er ljósmynd af bakhlaðinni fallbyssu í Týhússafninu í Kaupmannahöfn. „Hún er svipuð að gerð og stærð og fallbyssuleifar, sem fundist hafa á Bessastöðum. Vel er hugsanlegt að byssur líkar þessari hafi verið í virkinu við Seiluna 1627“. Einnig svolítið til varnar meintu hugleysi Holgers: „Fæstar fallbyssur á 17. öld gátu valdið teljandi tjóni á hafskipi á svo löngu færi. Ekkert bendir til, að Holger hafi ráðið yfir öflugum fallbyssum. Auk þess að eyða skotfærum til einskis (e.t.v. af litlum birgðum), væri með skothríðinni verið að auglýsa fyrir óvininum getuleysi vopnanna. Hér virðist því vera haldið aga og skotfærin geymd, þar til þau hefðu áhrif.“
Í grein sinni í Fylkir um jólin 1997 lýsir Halldór fyrrnefndri fallbyssu (könnubyssu eða porthundi). „Byssur þurftu helst að vera svo öflugar, að þær væru skeinuhættar skipum í innsiglingu og svo liprar, að þær væru hentugar til að verja Skansinn gegn árás óvina, sem leituðu þar inngöngu.
Hér þurfti tvenns konar vopn, annars vegar allstórar framhlaðnar fallbyssur fyrir 6 punda kúlur eða meir, og hins vegar léttar og meðfærilegar byssur, fakonettur eða léttar bakhlaðnar fallbyssur (svokallaðir porthunmdar með kúluþyngd 1/2-2 pund og þyngd byssu jafnvel aðeins nokkrir tugir kílóa… Vitað er, að léttar bakhlaðnar fallbyssur voru á Bessastöðum. Slík vopn gætu hafa verið látin á Skansinn 1585.“
Blýblönduð kúla hefur verið áreiðanlegri en járnkúlur. Á sjó gátu hinar síðarnefndu t.d. ryðgað og því orðið varhugaverðar þegar á þurfti að halda. Blýhúðin hefur farið betur með hlaupið og því aukið endingu byssunnar.
Sérfræðingarnir voru eðlilega varfærnir í áliti sínu. Kúlan virtist við fyrstu sín tilheyra þessari tegund fallbyssna. Hlaupið á byssuhlutanum á Bessastöðum er bólgið af ryði svo kúlan rann ekki greiðlega inn í það. Þó munaði einungis afar litlu. Guðmundur tók við kúlunni og mun reyna að láta meta hana með hliðsjón af mögulegum tengslum hennar við tiltekna tegund skotvopna. Hafa ber einnig í huga aðra möguleika á tilvist kúlunnar við Skansinn, s.s. að einhver hafi skilið hana þar eftir á síðari tímum, hún gæti verið hluti af vopnabúri Breta, sem höfðu bækistöð þarna skammt frá á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, ekki er útilokað að kúlan hafi verið í aðra tegund fallbyssna hvort sem þær hafi verið eldri eða yngri en sú sem hér var miðað við, henni gæti hafa verið skotið frá skipi og lent í torfi við Skansinn. Kúlan gæti einnig hafa verið í torfi, sem síðan var stungið og notað í virkisvegginn eða hún gæti hafa komið hingað til lands með skipi og orðið eftir. Hins vegar eru samt sem áður verulegar líkur á að kúlan hafi verið notuð í fallbyssu, sem var á Skansinum, en fallið til hliðar eða ekki þurft að brúkast lengur og síðan gleymst. Þá er ekki útilokað að komið hafi í ljós að hún passaði ekki í byssu á Skansinum og því verið lögð til hliðar. Sjórinn náði þó loks, u.þ.b. þremur öldum síðar, að krafla í felustaðinn og afhjúpa kúluna á ný, skömmu áður en hin haukfráu augu drengsins komu augu á hana efst í fjörunni neðan virkisveggjarins.
Heimildir m.a.:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason – Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls, 1947, bls.111-116.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn, Jón Thorarensen, 1945, bls. 36.
-Natmus.is
-Þjóðminjalög nr. 52 19. maí 1969.
-Þjóðminjalög nr. 88 29. maí 1989.
-Þjóðminjalög nr. 107 31. maí 2001.
-www.forseti.is
-Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, sem er þriðji partur ævisögunnar. Guðbrandur Jónsson og Bókfellsútgáfan gaf út 1946.
-Halldór Baldursson – Holger Rosenktantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627, Landnám Ingólfs 1996.
-Halldór Baldursson – Fallbyssubrot frá Bessastöðum, Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990.
-Halldór Baldursson – Vígbúnaður á Skansinum 1586-1997, Fylkir 1997.
-Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Þjóðminjasafni Íslands.
-Gísli I. Þorsteinsson, lögreglufulltrúi hjá LRH.
Sængurkonuhellir III – Herdísarvík
Ætlunin var að reyna að finna svonefndan Sængurkonuhelli þann er Lárus Kristmundsson frá Stakkavík lýsti aðspurður í viðtali fyrir nokkrum árum. Í örnefnalýsingum af svæðinu mun vera annar samnefndur hellir í nokkurra hundruð metra fjarlægð, en huldufólkssagan hér að framan hefur ekki verið eignuð honum. Gæti þarna annað hvort einhverju hafa verið hnikað til eða nytsemdarhellarnir til handa aðframkomnum konum hafi bara verið tveir á annars litlu svæði.
Þá var ætlunin að halda inn um Lyngskjöld og skoða svæðið í honum ofanverðum. Skjöldurinn er eldri hraunskjöldur og í honum gætu leynst op, sem áhugavert væri að staðsetja með seinni tíma rannsóknir að markmiði. Auk þess liggja út frá honum gamlar götur í allar höfuðáttirnar fjórar.
Í nefndu viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurlandi. Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að Brunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben. og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.
Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar inni líkt og í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólarhringa, illa haldin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, forkunarfagran skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð, en stúlkan var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þótt hann rúmgóður.
Í örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Í örnefnalýsingunni segir um Grænuflöt og Herdísarvíkurfjall: „Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra. Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Fálkageiraskarð (er skarðið, sem stígurinn liggur um.
Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálfheldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg. Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.
Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.“
Í viðtali við bróður Lárusar, Eggert Kristmundsson, segir hann m.a. frá því er þeir grófu gæðinga Einars Benediktssonar í Grænuflöt: „Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.“
Í leiðinni var drykkjarsteinn skoðaður austan við Grænuflöt. Við þá skoðun fundust m.a. tóft af húsi og ílangt gerði eða stekkur. Grasgróningar eru umleikis svo líklegt má telja að fé hafi verið haldið þarna eða jafnvel kýr um tíma a.m.k. „Stekkurinn“ gæti því hafa verið stöðull eða jafnvel nátthagi. Mannvistarleifa þessarra er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.
Fallegt „mosatákn“ sást skammt frá Grænuflöt; vel við hæfi í tilefni dagsins, þ.e. Valitínusardagsins.
Þrátt fyrir leit fannst fyrrgreint hellisop ekki – að þessu sinni a.m.k.
Spurningar sem vöknuðu voru fleiri en ein: Eru Sængurkonuhellir undir Klifi og Sængurkonuhellir við Grænuflöt einn og sami hellirinn? Innan við 300 metrar eru milli staðanna.
Farið hefur verið um svæðið með stórvirkum vinnuvélum (væntanlega með leyfi Fornleifaverndar)! Við það tækifæri var landinu umbylt, stórum steinum velt við og annað fært í kaf. Við það tækifæri gæti op Sængukonuhellir við Grænuflöt hafa lokast. Tilviljun ein réð því að drykkjarsteininum var ekki raskað.
Var Sængurkonuhellir kannski ekki við Grænuflöt? Hafa ber í huga að búfénaður (kýr, naut og fénaður) hefur að öllum líkindum verið rekinn eftir gömlu þjóðleiðinni milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, áleiðis að Kerlingadal. Hún liggur (lá) skammt frá Sængurkonuhelli undir Klifi. Ef farið hefði verið með fjallinu hefðu viðkomandi þurft að taka á sig krók til að komast fyrir Klifhraunið. Þó er ekki hægt að útiloka þann möguleika að kunnugir hafi frekar viljað reka búfénað með fjallinu, inn í Lyngskjöld og úr honum til suðurs með hraunkantinum að Klifi. Sú leið er (var) bæði þægileg og greið.
Bæði vestan og austan við Grænuflöt eru gróningar við op sem benda til þess að fé hafi legið þar við. Slík verksummerki má gjarnan sjá við gömul fjárskjól. Því er þörf að gaumgæfa svæðið betur þegar vorar.
Við þetta má bæta svolítilli athugasemd við gerð nýs Suðurstrandarvegar í Herdísarvíkurlandi. Nýi vegurinn hefði átt að leggjast nánast í fyrrverandi vegstæði líkt og sést á myndinni, en því miður fer því fjarri. Gert hefur verið nýtt sár í annars fallegt mosahraunið og á kafla hefur verið farið yfir einn fallegasta kaflann á gömlu Herdísarvíkurþjóðleiðinni. Með svolítilli hugsun hefði verið hægt að varðveita götuna komandi kynslóðum til vakningar og fróðleiks um hina fornu leið millum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók klst og 4 mín.
Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum), f: 1. febr. 2006.
-Viðtal við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).
-Viðtal við Þorkel Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).
Staðarstekkur – Vatnsleysustekkur – Vatnaborg – letursteinn v/S-Vatnsleysu
Gengið var að Staðarstekk uppi á Strandarheiði, yfir að Vatnsleysustekk og síðan upp að Vatnaborg. Eftir að hafa skoðað borgina og vatnsstæðið, sem hún dregur nafn sitt af, var haldið niður að Stóru-Vatnsleysu og letursteinninn þar í túninu barinn augum.
Vatnsleysustekkur.
Staðarstekkur er norðan við Staðarborgina á Strandarheiði. Væntanlega hefur þarna verið um heimastekk að ræða. Talsverðar vangaveltur hafa verið um og rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng stekkjargatan hafi verið. Hvað sem öllum niðurstöðum líður í metrum talið er og verður líklegasta svarið alltaf það að vegalengdin hefur ávallt verið fjarlægðin milli bæjar og stekks á hverjum stað. Í þessu tilviki hefur vegalengdin verið u.þ.b. 1000 metrar.
Stóra-Vatnsleysa – letursteinn.
Vatnsleysustekkur er rétt vestan Hrafnagjár til norðurs. Hann er í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar. Hann liggur frá þráðbeinn frá Akursgerðisbökkum og þaðan yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðamannanna, sem hét Eiríkur Ásmundsson frá Gróta í Reykjavík (1840-1893), en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrstu akvegagerð um Kamba.
Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir aldamótin 1900. Almenningsvegur liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans.
Staðarstekkur.
Stefnan var tekin austur og upp heiðina, yfir Reykjanesbrautina. Skammt ofan við brautina er Vatnaborgin, neðst í hæðinni sem liggur suðvestur af Kúagerði. Vatnsstæði er þar í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið fjárborg fyrrum, Vatnaborgin. Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Vatnaborg – uppdráttur ÓSÁ.
Þá var haldið á til baka niður heiðina, áleiðis að Stóru-Vatnsleysu. Þar var litið að letursteinn þann er Sæmundur bóndi hafði bent á og beðið FERLIR að ráða í.
Vatnaborg.
Á steininum eru hástafirnir GI er bindast saman með krossmarki. Þar til hliðar er ártal. Sæmundur taldi að steinninn gæti tengst kapellu eða kirkju, sem verið hafði á Vatnsleysu fyrr á öldum, en hún var einmitt sögð hafa staðið þar skammt frá, sem steinninn er nú.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja. G. Guðmundsdóttir – 1995.
Staðarstekkur.
Eyrarvegur – Sloki – byrgi – garðar – Klöpp
Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.
Slokahraun – Slokagarðar.
Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
Undir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.
Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.
Varða við Sögunarhól.
Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.
Cap Fagnet á strandsstað.
Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.
Slokahraun – fiskbyrgi.
Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.
Eyrargata.
Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.
Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
S-ið – hellir í Núpshlíð
Haldið var í S-ið, helli í Núpshlíð, upptökum Ögmundarhrauns í vestri. Ekki er langt síðan að sást niður í myrkur um þröngt gat á hálsinum. Snjór var í botninum, en hvergi veggi að sjá. Nú var stigi með í för og var ætlunin að fara niður um opið og kanna innihaldið.
Í S-inu.
Björn Hróarsson, hellafræðingur nr. 1, fór fyrstur niður í hellinn. Hann er sennilega fyrstur núlifandi af u.þ.b. 6 milljarða manna á þessari jarðkringlu til að líta hann augum. Hann fetaði öruggum skrefum niður um opið og hvarf.
Þegar niður var komið blasti við litardýrð og mikil klakalistaverk niður úr veggjum. Þarna var greinilega hvelfing undir gosgíg, vel rúmgóð. Kannað var um hugsanlegar rásir út úr henni, en engar fundust að þessu sinni. Þess bera að geta að hvelfingin var rúmlega hálffull af snjó og því erfitt að leita utan í veggnum undir opinu.
Núpshlíð – gígar.
Gígurinn er dæmigerður gjallgígur á sprungurein. Reinin liggur samhliða landrekssprungunni og er hluti af u.þ.b. 25 km langri spungurein er nær alla leið að Gvendarselsgígum í norðri. Hið sérstæða við hellinn er það að hægt er að komast undir gíginn sjálfan og skoða innihaldið, þ.e. það sem öðrum er hulið þegar þeir berja gígin sjálfan augum.
Þessi hellir er ágætt dæmi um hvelfingar undir eða við gígop. Litirnir voru aðallega rauðir og brúnir. Áhugavert væri að setja stiga niður um opið og leyfa honum að vera þar svo vegfarendur gætu kíkt þarna niður og dáðst að jarðfræðifyrirbærinu.
Frábært veður.
S-ið.
Gvendarvör – byrgi – garðar
Gengið var um svæðið á ströndinni austan Ísólfsskála í fylgd Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála (1921). Jón fræddi þátttakendur um örnefni á svæðinu sem og notagildi strandarinnar og mannvirkja, sem standa þarna skammt ofan við hana.
Ísólfsskáli.
Skálavör, stundum nefnd Bótin eða Börubót, er neðan við Ísólfsskála. Austar er Gvendarvörin, Trantar og Hattvík yst. Rangargjögur er skammt austar. Við gjögrin voru forn reka- og landamörk Grindavíkur og Selvogsþinga, en á seinni tímum hafa landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur jafnan verið miðuð við klettinn Dágon við Selatanga.
Nótarhóll er ofan við Gvendarvör. Við hann eru allnokkur hlaðinn mannvirki, bæði garðar og byrgi. Hraunið nefnist Skollahraun.
Jón sagði að jafnan hafi verið róið úr Gvendarvör. Það hefðu gert þeir Brandur og Hjálmar, föðurbræður Jóns. Þeir gerðu út tvö skip. Oftast var unt að lenda í vörinni eða í Bótinni.
Ísólfsskáli.
Hann myndi eftir því að aðeins einu sinni hafi þeir þurft að snúa við og hleypa út í Nes, en annars gátu þeir alltaf lent við Gvendarvör. Ef slæmt var í sjó var þó jafnan lent í Bótinni (Börubót) neðan við sumarbústaðinn, þar sem sjóbúðin var og enn má sjá svolítil ummerki um.
Klöpp er í Gvendarvör, sker, slétt eins og bryggja. Þar var hægt að henda upp aflanum líkt og við lendinguna á Selatöngum. Hún var ástæða þess að garðarnir og byrgin voru hlaðin þar ofan við. Hörkuduglegir karlar frá Hafnarfirði réru með bræðrunum og voru þeir mikið fyrir vín. Einn þeirra (Guðmundur) var stundum sendur fótgangandi í Hafnarfjörð eftir brennivíni og taldi hann það alls ekki eftir sér.
Fiskbyrgi við Nótarhól.
Steinn einn mikill er á hlaðinu á Ísólfsskála. Hann datt eitt sinn úr bjallanum og lenti á höfði Guðmundar föður hans. Steinninn er um 400 pund og má að líkum láta hver áverkinn hefur verið. Afi hans, Guðmundur Hannesson, tók steininn upp af höfði hans og var sárið síðan heimasaumað. Margar sagnir eru til af Guðmundi Hannessyni. Fræg er sagan af honum er hann bar hreindýrskálf heim ofan af heiði alla leið úr Dyngjunni. Guðmundur stundaði mikið hreindýraveiðar við Hrútargjárdyngju. Salt bar hann frá Keflavík, 100 pund í hvorri hendi. Hann var og mikill veiðimaður.
Guðmundur og Agnes á Skála.
Reyndar var hann meira og minna á veiðum, ýmist að eltast við refi, seli eða hreindýr. Dýrin skaut hann eða veiddi á annan hátt, t.d. í gildrur. Eitt sinn skaut Guðmundur hval. Hann var þá með rennilóð framan við bæinn, í Skálabótinni, og hafði framhlaðning sinn, stóran og mikinn, tilbúinn í von um að eitthvert kvikyndi léti sjá sig. Skyndilega bar þar að hval og brá þá Guðmundur snöggt við, skaut hvalinn og dró hann á land.
Fiskverkunin fór fram á Nótarhól, en við hann var einnig mikið af sel.
Sloki – fiskigarðar.
Byrgin og garðar notaðir til að þurrka fiskinn. Eitt húsið var notað til verkunarinnar. Veitt á færi, ekki önnur veiðifæri til þá. Dregið var helvíti mikið á stundum og fylltu þeir Hjálmar og Brandur stundum skip sín, einkum ef mikið var um sílfisk. Stundum var hann slíkur að einungis þurfti að róa út á lónið og mátti þá sjá fiskinn vaða þar um á yfrborðinu. Þá var líka mikið veitt.
Oftar en ekki voru fjölmargar skútur utan við Bótina. Stundum var róið út í þær og fengið kex í skiptum fyrir vettlinga og fleira vaðmáls og einstaka sinnum komu sjómemnirnir í land, einkum til að sækja vatn eða snjó. Eitt sinn taldi Jón á fjórða tug skútna þarna fyrir utan.
Byrgin og garðarnir austan við Skála hafa verið þar mjög lengi. Sama verkun fisksins var þar viðhöfð og á Selatöngum. Allt var nýtt, hausar, hryggir og þunnildi. Slorið var hins vegar stundum notað til að græða upp túnin á hrauninu og gekk það furðu vel.
Við Nótarhól eru langri garðar og fjölmörg byrgi, ágætar minjar um fiskverkun fyrri tíma.
Frábært veður. Birtan var einstök. Gangan tók 66 mín.
Byrgi á Nótarhól.
Álagablettur við Suðurkot – Árni Óla
Í „Strönd og Vogar“ getur Árni Óla um „Álagablett“ við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:
„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.
Þerrir.
Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.“ — (B. H.)
Brunnastaðahverfi.
Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: „Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni“.
Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll“.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: „Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll“, Þerrishóllinn.
Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.
Brunnastaðahverfi.
Skansinn – Bessastaðastofa – fallbyssuskot og fallbyssur
Fyrir tæplega hálfri öld (um 1960) var Gísli I. Þorsteinsson (f. 1952) á ferð um norðanvert Álftanes með föður sínum, Þorsteini Einarssyni. Gísli var þá á tíunda ári. Þeir feðgar voru m.a. að skoða fuglalífið í fjörunni við Seyluna. Þeir gengu um Dugguós. Þegar þeir komu út að Skansinum og voru á gangi yfir útveggi hans ofan fjörunnar ráku haukfrá augu Gísla óvænt í eitthvað áhugavert í fjöruborðinu rétt neðan hans (þar sem sjórinn hafi brotið gróðurbakkann).
Betur að gáð kom í ljós að þarna var um heillega blýkúlu að ræða. Við viktun síðar mældist hún um 920 gr. (tæp 2 pund) að þyngd, 5.7 cm að þvermáli og 18.0 cm að ummáli. Drengnum fannst mikið til koma og ákvað að varðveita kúluna. Hún hefur fylgt honum æ síðan með einum eða öðrum hætti.
Fyrir skömmu rifjaðist ferðin forðum upp í tveggja manna tali og Gísli ákvað að leita kúlunnar – og var ekki lengi að finna hana. Við endurheimt hennar var tilefni talið að huga nánar að upprunanum og hugsanlegum tengslum hennar við söguna, skrifaðar heimildir, vangaveltur og aðrar minjar, sem síðar hafa fundist við Bessastaði, t.d. fallbyssuhlut þann er fáum er kunnugt um, en varðveittur hefur verið í þegjandi hljóði undir Bessastaðastofu.
Ákveðið var að reyna að kanna hvort hugsanlegt væri að þessi blýkennda kúla frá Skansinum, er virtist einna líklegast hafa tilheyrt fóðurfangi fallbyssu, gæti með einhverjum hætti tengst fallbyssuhlutnum í kjallara hins sögufræga menningarseturs að Bessastöðum. Með það að markmiði var haft samband við Guðmund Ólafsson, hinn mæta fornleifafræðing hjá Þjóðminjasafni Íslands er tók m.a. hvað virkastan þátt í fornleifauppgrefti þeim að Bessastöðum er endurheimti fallbyssuhlutinn, og hann spurður hvort hann gæti komið og lagt mat á umleitunina.
Þegar vettvangurinn við Skansinn var skoðaður með Gísla í aðdraganda síðdag einn í febrúarmánuði árið 2008 gekk hann hiklaust á staðinn þar sem hann fann kúluna umrætt sinn. Hann staðnæmdist uppi á grónum virkisveggnum, horfði í kringum sig og gekk ákeðnum skrefum niður að fjöruborðinu, síðan þrjú fet áfram og benti; „Hér var það“. Segja verður eins og er að það hefur þurft bæði forvitin og áhugasöm barnsaugu til að koma auga á kúluna innan um jafnlitt fjörugrjótið. Kannski það hafi bara alls ekki verið af einskærri tilviljun. Gæti verið að barninu, sem áður hafði lifað af alvarlegt bílslys, hafi beinlínis, á yfirnáttúrulegan hátt, verið bent á þennan ofurlitla hlut í fjöruborðinu með það fyrir augum að tengja hann síðar við hin menningarsögulegu myndbrot vettvangsins? Fæstir fræðimenn er vildu láta taka sig alvarlega myndu opinberlega samþykkja þá tilgátu, en leikmenn er upplifað hafa hliðstæð tilvik myndu án efa samþykkja hana. Þeir síðarnefndu gætu hins vegar lent í vandræðum ef þeir þyrftu að rökstyðja samþykki sitt því slíka skortir jafnan áþreifanlegar sannanir þegar til kastanna kemur (eða eiga a.m.k. erfitt með að rökstyðja mál sitt).
Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, hafði við umleytan reynst góðfúslega tilbúinn að leyfa FERLIRsfélögum að skoða fallstykkishlutann í kjallaranum og bera kúluna við það. (Svona eiga opinberir starfsmenn að vera – jákvæðir og ávallt reiðubúnir (eins og góðum skátum sæmir)). Tilgangurinn var að meginefni sá að kanna hvort kúlan gæti haft minjagildi eða ekki. Hafa ber í huga að hér gæti verið um „aðskotahlut“ að ræða, þ.e. hann gæti hafa komið úr einhverjum byssum hernámsliðsins er hafði bækistöðvar á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, verið kastað úr flugvél, skolað á land úr skipsflaki eða hreinlega verið kastað þarna af einhverjum áhugalausum um slíka gripi. Eftir sem áður gæti kúlan verið það gömul að hún myndi flokkast undir fornminjar – þótt uppruninn gæti verið annar en beintenging við „verkfærin“, sem notuð voru á Skansinum.
Áður en lengra er haldið er sjálfsagt að rifja eitthvað handhægt upp um fundarstaðinn: „Skansinn er yst á Álftanesi, innan við Seiluna, en þar var byggt vígi til varnar konungsgarðinum á Bessastöðum ef sjóræningjar skyldu leggja þangað leið sína. Inn á Seiluna sigldu sjóræningjarnir sem rændu í Grindavík 1627 og ætluðu að gera Bessastöðum sömu skil. En þeir strönduðu skipi sínu á skeri og sneru frá. Árið 1688 var hlaðið virki á Skansinum, með nokkrum fallbyssum til að verjast innrás sjóræningja og annars illþýðis. Þær voru aldrei notaðar.
Um síðustu aldamót var smákot á Skansinum. Þar bjuggu þá hjónin Málfríður og Eyjólfur ásamt syni sínum Ólafi. Þótt búið væri lítið ríkti þar mikill þrifnaður og ekki spillti Ólafur fyrir því hann var kátur, fjörugur og lífsglaður ungur maður, en enginn söngmaður, svo vitnað sé í samtímaheimild um hann. Ólafur Eyjólfsson er þó þekkt persóna í dansbókmenntum okkar, því um hann var saminn textinn við dansinn Óla skans sem hvert mannsbarn á Íslandi kannast við.“
Skansinn, þetta gamla virki, var friðlýst 1930, sbr.:„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í bók Vilhjálms Þ. Gíslasonar, „Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls“ er m.a. fjallað um Skansinn og Seyluna: „Bessastaðir hafa einu sinni verið herstöð og bardagasvæði. Það var í Tyrkjaráninu 1627. Þó að í þeirri viðureign væri að vísu „fallstykkjum affírað“, og höfðingjar sætu þar á riddaravísu ú gylltum söðlum vopnaðir, þá var sá hernaður enginn hetjusaga. Fyrirliðinn hafði einnig hest söðlaðan að húsabaki, til þess að geta flúið.
Sjóræningar komu að Reykjanesi í júni 1627. Hertóku þeir fólk í Grindavík og sigldu síðan vestur fyrir land. Þessi ótíðindi úr Grindavík spurðust fljótlega til Bessastaða. Þar var þá höfuðsmaður Holger Rosenkranz. Kaupskip varnarlítið lá þá á Seylunni, og skip voru einnig í Hafnarfirði, Keflavík og á Hólmshöfn. Þeim var stefnt til Bessastaða, og urðu þá þrjú hafskip á seylunni. Viðbúnaður var einnig hafður í landi og hlaðið virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna. Þangað voru fluttar fallbyssunar sem til voru á Bessastöðum.Þar voru þá staddir ýmsir fyrirmenn í embættiserindum, og kyrrsetti höfuðsmaður þá alla og setti ýmsa þeirra til varnar í virkið. Meðal þeirra, sem þannig voru staddir á Bessastöðum, voru Þorlákur Skúlason, síðar biskup, Jón Sigurðsson á Reynistað, fyrrum lögmaður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir úr Þingeyjarsýslum og Jón Ólafsson Indíafari, vestan úr fjörðum, en hann var þar með skilaboð frá Ara í Ögri.
Þetta var kvöldið fyrir Jónsmessu, og sáust nú Tyrkjaskipin sigla inn fyrir Álftanes og inn á Seylu og skutu nokkrum fallbyssuskotum. Þeir dönsku í Skansinum skutu á móti. Hugðu nú Tyrkir samt gott til góðarinnar og bjuggust við miklu herfangi úr Seyluskipunum. Almenningur um Nesin var lostinn miklum ótta og flýði. Konur og börn og búsmali var fluttur upp til selja eða upp um hraun til fjalla, segir Björn á Skarðsá.“
Til að gera langt mál stutt þá strandaði annað ræningjaskipið á Seylunni, en áhöfninni tókst að forfæra bæði fanga og farm yfir á hitt skipið og losa þannig um það. Í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, segir m.a. um þetta: „Fýrað var af byssum bæði frá landi og frá skipum. Orrustan var hafin. “En um þetta bil, af Guðs tilsettu ráði, bar annað reyfaraskipið upp á grynningar svo það stóð, því fjörumikið orðið var. Var það það skipið, sem hertekna fólkið á var og mestallt góssið.” Til að létta skipið hófust þá menn af hinu skipinu handa við að flytja fólk og góss af hinu strandaða skipi yfir á hitt. Köstuðu þeir miklu af góssinu í sjóinn, mjöli, öli og annarri góssvöru sem þyngst var. Og sem þeir voru í þessu sjóarsvamli og flutningi skipanna á milli létu þeir dönsku af að skjóta, því miður, en íslendingar vildu að að þeim væri sem mest skotið meðan þeir voru í þessu svamli. Íslendingarnir fengu engu um ráðið…“ Að því búnu var báðum ræningjaskipunum siglt úr úr Skerjafirði óáreitt.
„Eftir þetta var öðru hvoru haldið uppi nokkrum herskap eða herþjónustu í sambandi við Bessastaði. Holger Rosenkranz kom þangað árið eftir Tyrkjaránið með fjögur herskip til landvarnar og eftirlits. Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum, upp af Seylunni. Með konungsbréfi 3. júlí 1667 var krafinn af landsmönnum skattur til þess að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár. Nú var stundumfarið að kalla forráðamann Bessastaða Commendant. Skanstollurinn eða Ottagjaldið, eins og almenningur kallaði hann, var óvinsælt gjald.
Í fyrstu höfðu menn ætlað að mæla á móti þessum skatti, enda galzt hann sums staðar með refjum, en Brynjólfur biskup gekkst í það, að menn skyldu játa honum, því að hann kvaðst óttast að annars yrði annar þyngri á lagður.
Allur heimtist tollurinn ekki fyrr en eftir nokkur ár og ei nema með sleitum.
Suðurnesjamenn voru látnir byggja Skansinn. Sumir segja, að þeir hafi mátt vinna að því kauplaust, og það hefur Árni Magnússon eftir Þormóði Torfasyni, en aðrir sögðu, að kaup hefði verið greitt.
Ekki varð mikið til frambúðar úr Skansbyggingunni, en þó er sagt, að Bjelke hafi gert konungi 800 rd. reikning fyrir viðhaldi virkisins. Ýmsar fleiri álögur var reynt á þessum tímum reynt að leggja á Íslendinga til herskapar, en þeir viku þeim af höndum sér.
Herskapur á Bessastöðum var enginn eftir þetta, og Skansinn féll, og greri yfir hann að mestu. Benedikt Gröndal sagði seinna, að „Skansinn var þá kotrass auðvirðilegur og er enn“.
Ennþá sér vel móta fyrir Skansinum og grasigróinni grjóthleðslunni. Nú er þar hvorki virki né bær. Er þar einn hlýlegasti blettur á Bessastaðalandi og þaðan er oft fagurt að sjá út á Seyluna og yfir um fjörðinn.“
Í bókinni „Sjósókn“ segir Erlendur Björnsson í endurminningum sínum að „Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Í Skansinum var lendingin frá Bessastöðum. Þar var hið gamla virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum, og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju.
Í Skansinum var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbeðillinn fóðraði eina kú. Þar bjuggu hjónin Eyjólfur og Málfríður. Þau áttu einn son, Ólaf að nafni. Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, enn allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans. Hann dó á spítalanum í Laugarnesi“.
Til að lengja textann svolítið til að koma að fleiri ljósmyndum í tengslum við ferðina er rétt að rifja upp ákvæði Þjóðminjalaga um hvað telst til fornleifa. Sérhver kynslóð hefur skilið eftir sig minjar í jörðu sem geyma menningarsögu hennar og vitna um lífsbaráttuna á hverjum tíma. Þessar minjar kallast fornleifar og þær geyma oft mikilvægar heimildir sem hvergi er hægt að fá fram með öðrum hætti. Þess vegna er mikilvægt að fornleifum sé ekki spillt og að þær séu varðveittar fyrir komandi kynslóðir.
En hvað eru fornleifar? Þegar Þjóðminjasafnið hóf undirbúning að skipulagðri fornleifaskráningu árið 1978 kom í ljós að menn hafa lagt mjög misjafnan skilning í hvað séu fornleifar. Sú skoðun var lengi útbreidd að það væru eingöngu mannvirki frá söguöld sem kallast gætu fornleifar, og væru þess virði að skrá og friðlýsa.
Þessi hugmynd sem er mjög í anda sjónarmiða sem uppi voru á 19. öld, hefur fyrir löngu vikið fyrir nútímalegri hugmyndum. Flestar friðlýsingar síðustu áratuga 20. aldar tengjast til dæmis atvinnusögu þjóðarinnar á seinni öldum.
Í Þjóðminjalögunum frá árinu 1989 er í III. kafla um fornminjar m.a. getið um 2e; virki og skansa og önnur varnarmannvirki; [Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 18. gr.]. Sjá einnig sambærilegt ákvæði í þjóðminjalögunum frá árinu 2001. Í 1. g. laganna segir að „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir“. Megináherslan virðist þó fremur hafa verið á minjasvæðin og mannvirkin, sem þekkt hafa verið eða kynnu að finnast. Ákveðnar gripategundir eru tilgreindar sérstaklega, þ.e. kirkjugripir og minningarmörk. Þó eru og nefndir „listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar“. Ætla má þó að fallbyssukúla sú er hér um ræðir gæti falli’ innan ákvæða þjóðminjalaga er varðar verndun því í þjóðminjalögunum (sem reyndar eru ekki afturvirk), 18. gr., segir að „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri…“ Jafnframt að „allir munir, sem grein þessi fjallar um… eru eign ríkisins“. Með ákvæðinu um tilkynningaskyldu til þjóðminjayfirvalda um fund á einstaka grip er verið að auka líkur á að fornminjar varðveitist, ekki síst hið smáa í heildarmyndinni.
Guðmundur hafði haft samband við fallbyssusérfræðing safnsins, Halldór Baldursson, og boðað hann að Bessastöðum þennan dag. Baldur hefur m.a. skrifað greinar í Árbók fornleifafélagsins um fallbyssubrot frá Bessastöðum og um Skansinn.
Áður en gengið var í Bessastaðastofu var viðeigandi að rifja upp forsögu hússins. „Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga. Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Þegar viðgerðir og endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987, kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 m þykk mannvistarlög, sem hlaðist höfðu upp af eldri mannvistarleifum. Hófust þá á staðnum umfangsmestu fornleifarannsóknir sem enn hafa verið gerðar á Íslandi. Á árabilinu 1987 – 1996 var stór hluti bæjarhólsins á Bessastöðum rannsakaður og er rannsóknarsvæðið rúmlega fjögur þúsund fermetrar. Við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum fundust á annað þúsund gripa. Flestir þeirra eru brot af hversdagslegum búsáhöldum, sem hafa brotnað og verið hent. Nefna má fjölmörg leirkers- og postulínsbrot úr diskum og ílátum, kljásteina, fiskisleggjur, nagla, pottbrot, krítarpípur, brýni, kvarnarsteina o.s.frv. Nokkra furðu hefur vakið hve fáir gripir hafa bent til þess að þarna var aðsetur helstu höfðingja landsins á sínum tíma. Þó má ráða af sumum fundanna að hér var ekki venjulegt bændabýli. Nefna má byssukúlur og byssutinnu, leifar af fallbyssu, myndskreyttar glerrúður og austurlenskt postulín, og síðast en ekki síst mikið magn af vínflöskum.“ Sjá meira á www.forseti.is.
Þegar ljóst varð hve vel varðveittar minjar voru undir gólfi Bessastaðastofu, var ákveðið að varðveita þær og gera þær sýnilegar fyrir gestum Bessastaða. Gengið var frá minjunum í kjallara Bessastaðastofu og þar er hægt að ganga niður og horfa inn á gólf landfógetabústaðar konungsgarðsins frá 18. öld og eldri minja frá 15. – 16. öld. Einnig er þar lítið sýnishorn gripa sem fundist hafa á Bessastöðum.
Það var einmitt í þennan kjallara, sem Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, leiddi þátttakendur að þessu sinni. Í fordyrinu eru leifar af annarri fallbyssunni, sem fannst í framangreindum fornleifauppgreftri.
Halldór Baldursson ritaði, sem fyrr sagði, grein í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990 um „Fallbyssubrot frá Bessastöðum“. „Fallbyssur voru fluttar í skansinn frá Bessastöðum [þegar Tyrkir rændu hér á landi 1927]. Skansinn var endurbættur 1668 undir stjórn Otte (eða Otto) Bjelke. Þetta var í tilefni af ófriði, sem þá var á milli Dana og Englendinga. Svo virðist, sem fallbyssum hafi verið bætt í Bessastaðaskans um svipað leyti.
Sumarið 1800 voru þær fallbyssur, sem nothæfar töldust, fluttar úr Bessastaðaskansi í nýtt vígi við Arnarhól, sem nefnt hefur verið Phelps skans, Jörundarvígi eða Batteríið. Þetta voru sex langar fallbyssur, ætlaðar fyrir 6 punda járnkúlur. Engar heimildir hef ég fundið um hvort ónothæfar fallbyssur voru þá skyldar eftir í Bessastaðaskansi.
Bessastaðaskans hefur lítt komið við sögu eftir þetta.
Í Þjóðminjasafni Íslands eru nokkrir hluti, sem geta verið tengdir Bessastaðaskansi. Meðal þeirra eru tveir hlutir, sem líkur bentu til, að væru brot úr fallbyssum. Annar hluturinn fannst við fornleifagröft heima á Bessastöðum 1987. Þetta er járnrör, mjög ryðbólgið, ca. 27 cm langt og ca. 6 cm vítt. Á rörinu eru mjög greinilegar sprungur lagsum. Tveir járnhringir eru þversum utan um rörið, annar við enda og hinn nálægt miðju. Hinn hluturinn er „Kanona gömul og ryðbrunnin mjög, hún er nær al(in) á lengd, mun vera samsett úr hólkum því margir upphækkaðir hringir eru utaná, fylgir mikil járnhalda, sem hún hefir leikið í, og 2 kúlur fundnar þar niðrí jörð“. Þetta er járnrör, ca. 50 cm langt og 8 cm vítt. Utan um rörið eru þversum sex járnhringir með jöfnu millibili. Gapandi sprungur eru þversum utan á rörinu við hringina, en sjást ekki innanfrá.
Á 15. og 16. öld voru fallbyssur oftast smíðaðar úr járni og þá samsettar úr stöngum og þynnum… Fallbyssur úr smíðajárni voru oftast bakhlaðnar og var sérstök laus púðurkrús sett aftan við hlaupið, þegar skotið var, líkt og skothylki í nútíma byssum. Slíka púðurkrús nefnir Jón Indíafari byssukamar.
Byssurnar á Bessastöðum gætu hafa verið sendar úr vopnabúri konungs til landvarna eða til að sýna veldi höfuðsmanns gagnvart þegnunum. Þær gætu í sama tilgangi verið keyptar úr farskipum hér við land. Fallbyssur á Bessastöðum gætu hafa verið upp runnar í ýmsum löndum og hafa borist þangað með skiptum allra þjóða, sem sigldu til Íslands eða á Íslandsmið. Varla hefur jafn-afskekktur hluti Danaveldis og Bessastaðir fengið nýjustu og dýrustu tegundir vopna og er því líklegt, að fornar byssur hafi lengur staðið í Bessastaðaskansi en í þeim virkjum, sem nær voru konungi. Byssurnar geta hafa verið notaðar til að skjóta púðurskotum við hátíðleg tækifæri, eftir að þær voru orðnar lítils virði sem vopn.
Byssurnar eru líklega frá 15. og 16. öld. Þær gætu hafa verið til varna á Bessastöðum fram á 17. öld eða jafnvel lengur.“
Í grein Halldórs í Landnámi Ingólfs 1996 (Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627) segir m.a.: „Í virkið voru fluttar þær fallbyssur, sem til voru á Bessastöðum“. Meðfylgjandi er ljósmynd af bakhlaðinni fallbyssu í Týhússafninu í Kaupmannahöfn. „Hún er svipuð að gerð og stærð og fallbyssuleifar, sem fundist hafa á Bessastöðum. Vel er hugsanlegt að byssur líkar þessari hafi verið í virkinu við Seiluna 1627“. Einnig svolítið til varnar meintu hugleysi Holgers: „Fæstar fallbyssur á 17. öld gátu valdið teljandi tjóni á hafskipi á svo löngu færi. Ekkert bendir til, að Holger hafi ráðið yfir öflugum fallbyssum. Auk þess að eyða skotfærum til einskis (e.t.v. af litlum birgðum), væri með skothríðinni verið að auglýsa fyrir óvininum getuleysi vopnanna. Hér virðist því vera haldið aga og skotfærin geymd, þar til þau hefðu áhrif.“
Í grein sinni í Fylkir um jólin 1997 lýsir Halldór fyrrnefndri fallbyssu (könnubyssu eða porthundi). „Byssur þurftu helst að vera svo öflugar, að þær væru skeinuhættar skipum í innsiglingu og svo liprar, að þær væru hentugar til að verja Skansinn gegn árás óvina, sem leituðu þar inngöngu.
Hér þurfti tvenns konar vopn, annars vegar allstórar framhlaðnar fallbyssur fyrir 6 punda kúlur eða meir, og hins vegar léttar og meðfærilegar byssur, fakonettur eða léttar bakhlaðnar fallbyssur (svokallaðir porthunmdar með kúluþyngd 1/2-2 pund og þyngd byssu jafnvel aðeins nokkrir tugir kílóa… Vitað er, að léttar bakhlaðnar fallbyssur voru á Bessastöðum. Slík vopn gætu hafa verið látin á Skansinn 1585.“
Blýblönduð kúla hefur verið áreiðanlegri en járnkúlur. Á sjó gátu hinar síðarnefndu t.d. ryðgað og því orðið varhugaverðar þegar á þurfti að halda. Blýhúðin hefur farið betur með hlaupið og því aukið endingu byssunnar.
Sérfræðingarnir voru eðlilega varfærnir í áliti sínu. Kúlan virtist við fyrstu sín tilheyra þessari tegund fallbyssna. Hlaupið á byssuhlutanum á Bessastöðum er bólgið af ryði svo kúlan rann ekki greiðlega inn í það. Þó munaði einungis afar litlu. Guðmundur tók við kúlunni og mun reyna að láta meta hana með hliðsjón af mögulegum tengslum hennar við tiltekna tegund skotvopna. Hafa ber einnig í huga aðra möguleika á tilvist kúlunnar við Skansinn, s.s. að einhver hafi skilið hana þar eftir á síðari tímum, hún gæti verið hluti af vopnabúri Breta, sem höfðu bækistöð þarna skammt frá á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, ekki er útilokað að kúlan hafi verið í aðra tegund fallbyssna hvort sem þær hafi verið eldri eða yngri en sú sem hér var miðað við, henni gæti hafa verið skotið frá skipi og lent í torfi við Skansinn. Kúlan gæti einnig hafa verið í torfi, sem síðan var stungið og notað í virkisvegginn eða hún gæti hafa komið hingað til lands með skipi og orðið eftir. Hins vegar eru samt sem áður verulegar líkur á að kúlan hafi verið notuð í fallbyssu, sem var á Skansinum, en fallið til hliðar eða ekki þurft að brúkast lengur og síðan gleymst. Þá er ekki útilokað að komið hafi í ljós að hún passaði ekki í byssu á Skansinum og því verið lögð til hliðar. Sjórinn náði þó loks, u.þ.b. þremur öldum síðar, að krafla í felustaðinn og afhjúpa kúluna á ný, skömmu áður en hin haukfráu augu drengsins komu augu á hana efst í fjörunni neðan virkisveggjarins.
Heimildir m.a.:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason – Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls, 1947, bls.111-116.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn, Jón Thorarensen, 1945, bls. 36.
-Natmus.is
-Þjóðminjalög nr. 52 19. maí 1969.
-Þjóðminjalög nr. 88 29. maí 1989.
-Þjóðminjalög nr. 107 31. maí 2001.
-www.forseti.is
-Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, sem er þriðji partur ævisögunnar. Guðbrandur Jónsson og Bókfellsútgáfan gaf út 1946.
-Halldór Baldursson – Holger Rosenktantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627, Landnám Ingólfs 1996.
-Halldór Baldursson – Fallbyssubrot frá Bessastöðum, Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990.
-Halldór Baldursson – Vígbúnaður á Skansinum 1586-1997, Fylkir 1997.
-Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Þjóðminjasafni Íslands.
-Gísli I. Þorsteinsson, lögreglufulltrúi hjá LRH.
Undirhlíðar I
Gengið var frá Vatnsskarði til norðurs með vestanverðum Undirhlíðum, áleiðis að Kaldárseli. Undirhlíðar og Sveifluháls mætast í Vatnsskarðinu. Fylgt var nokkurn veginn gömlu þjóðleiðinni, Undirhlíðarvegi, sem lá frá Krýsuvík að Kaldárseli vestan við Sveifluháls og Undirhlíðar.
Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.
Haldið var inn með hlíðunum eftir slóða, sem liggur með þeim að Bláfjallavegi um Óbrinnisbruna. Markrakagil er á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.
Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Stakur er á vinstri hönd og fær má sjá Óbrinnishólana.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.
Kerin í Undirhlíðum.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólanna er fallegt fjárskjól.
Kerin.
Gengið var yfir Bláfjallaveginn og framhjá Kerjunum. Þau eru tveir fallegir gígar utan í Undirhlíðum og munu vera hluti af fyrrnefndu eldstöðvarkerfi. Sjá má slétt helluhraun framundan, en það mun hafa komið úr gígum þessum.
Gengið var framhjá Kýrskarði og Kúadal og síðan haldið eftir Kúastígnum áleiðis í Kaldársel.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi.
Óbrinnishólahellir.
Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918.
Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgadalur, sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Vestan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.
Langhóll – Langihryggur – flugvélaflök
Gengið var frá Móklettum vestan Lyngfells við Ísólfsskála. Ætlunin var að skoða leifar flugvéla er fórust í norðanverðu og austanverðu Fagradalsfjalli árið 1941. Í þessum slysum létust 14 menn, en 11 lifðu annað óhappið af. Fyrra slysið varð 24. apríl, en hið síðara 2. nóvember.
Brak við Langhól.
Stefnan var tekin norður yfir Efra-Borgarhraun með mörkum Beinavarðahrauns með neflínu á Einbúa. Selskálin er þar innar, í fyrrum gróinni kvos undir suðurhlíðum Fagradalsfjalls. Ofan við hana er Görnin. Hún var rakin áleiðis upp á fjallið. Görnin skiptist í þrennt er upp í hana er komið. Vestan í henni er Kastið þar sem enn eitt flugvélaflakið er, B-24 Liberator. Flugvélin fórst 4. maí 1943 og með henni 14 menn. Einn lifði slysið af. Um borð í þessari flugvél var m.a. Andrews, yfirmaður herafla Bandaríkjamanna í Evrópu.
Þegar upp í Görnina var komið var austanverð hlíð þrædd upp á hvirfil Fagradalsfjalls og honum síðan fylgt inn að Langhól. Af hólnum er hvað víðsýnast á Reykjanesskaganum.
Flugvélaflakið utan í Langhól er norðaustan í honum, ofarlega. Það var aðfararnótt 24. apríl 1941 að Sunderland flugbáti var flogið í fjallshlíðina. Þrír menn af 14 manna áhöfn létust í kjölfar slyssins.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá þessu flugslysi í Fagradalsfjalli.
„Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundu og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Ljósmynd, sem tekin var af slysstaðnum á sínum tíma sýnir mikið brak. Í dag má sjá leifar af mótir, auk ýmissa smáhluta. Eitthvað mun hafa verið hirt skömmu eftir slysið, en síðan eru liðin rúmlega 60 ár. Á þeim tíma hefur veður og menn séð um að fjarlægja drjúgan skerf. Brak liggur niður með hlíðinni og lækur, sem rennur úr gili austan við slysstaðinn, hefur dreift léttustu hlutunum vestur með norðurhlíð fjallsins, allt niður að Dalsseli, sem er þar norðvestan í því.
Áhöfnin
Afdrif áhafnarmeðlima er ekki fullu kunn.
Það sem vitað er að 13 menn voru um borð, einn lést í slysinu, tveir létust síðar af sárum sínum. 10 komust lífs af mikið slasaðir.
Pilot/Sq. Leader E.J. Prescott
Pilot/Officer J. Dewer
Flight/Sergeant Anthony Cusworth, Radio operator
F/Lt Huges (unconfirmed)
Sgt. H.W. Taylor (unconfirmed) †
Flugvélin
Short Sunderland Mk I
Registration ID: KG G
Serial no: N9023
RAF No. 204 Squadron
Þá var gengið suður með hlíðinni og stefnan tekin á Stóra-Hrút með Geldingardal og Meradali til beggja handa.
Friðþór Eydal sagði að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 11 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941.
Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni „Samtöl I“ er þeir gengu saman á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna eins og venjan var haustið 1941 áður en Bandaríkin voru komin opinberlega í styrjöldina. Ekki var farið að jarðsetja Ameríkana í Fossvogskirkjugarði fyrr en í janúar 1942.
Talsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gili, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu:
„Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafðist í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í vegf yrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Talsvert smábrak er enn í hlíðinni og annar hreyfillinn þar niður af, sem fyrr sagði. Í læk, sem rennur þar um gil, liggur talsvert af braki, s.s. vélarhlutar.
Haldið var áfram suður með Langahrygg og vestanverðum Einihlíðum niður í Stóra-Leirdal og yfir í Drykkjarsteinsdal. Skömmu áður hafi svartstjörnóttur gemlingur, vel haldinn, mætt ferðalöngunum austan undir hálsinum er skilur af Stóra-Leirdal og Nátthaga. Hann var alls ekki á því að blanda sér í hópinn.
Drykkjarsteinninn var skoðaður, sem og fjárborgin í Neðra-Borgarhrauni, en borgin sú er talinn hafa verið hlaðin af Viðeyjarmönnum og nýtt þaðan.
Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagðist hafa verið staddur ásamt Ísólfi við Veiðibjöllunef milli Skála og Selatanga þegar flugvélin lenti í Langahrygg. Þeir hafi þá þegar haldið þangað upp eftir og séð hvers kyns var – líkamshlutar dreifðir um allt. Þar sem enginn virtist á lífi héldu þeir til Grindavíkur þar sem Tómas Tómasson, sá eini er kunni eitthvað í tungumálum, tilkynnti um slysið. Hermenn komu á beltatækjum og þeir fóru með þeim í dósunum svo til beint að augum upp að Langahrygg. Hann myndi eftir því að einn hermannanna ætlaði að taka einn vindlingapakka af einu líkanna, en dauðbrá við það sama þegar hann sá að hann stóð einungis við hluta þess.
Jón sagðist einnig muna eftir flakinu í Langhól. Hann gekk þangað oft til rjúpna fyrrum. Flakið var hálfbrunnið. Skottið og skyttuturninn voru lengi vel í hlíðinni og skall og small jafnan í skyttustólnum þegar vindurinn næddi um flakið.
Frábært veður. Gengnir voru 17 km á 5 klst. og 5 mín.
Áhöfnin
Allir um borð létust í slysinu.
Ens. G.N. Thornquist capt. †
Ens. C. Bialek, pilot †
2/Lt. William P. Robinson, pass (US Army 10th Infantry) †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class, Vern H. Anderson †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class, Walter V. Garrison †
Radioman 1st Class, Oran G. Knehr †
Seaman 2nd Class, M. Ground †
Seaman 2nd Class, E.L. Cooper †
Aviation Machinist´s Mate 1st Class (Naval Pilot), Coy M. Weems †
Radioman 2nd Class, Joseph S. Wanek †
Aviation Machinist´s Mate 3rd Class, Andrew R. Brazille †
Aviation Ordnanceman 3rd Class, W. Gordon Payne †
Flugvélin
Glenn L. Martin Company, PBM-3D Mariner
Registration ID: 74-P-8
Bu.No: 1248,
US Navy, Squadron VP-74
Flugsveitin notaði PBM-3D Mariner vélar á Íslandi frá 9. ágúst 1941 til 19. janúar 1942.
Sjá einnig flugslysið í Kastinu í Fagradalsfjalli HÉR.
Heimild:
-Flugsaga Íslands – í stríði og friði – Eggert Norðdahl, bls. 153.
-Flugsaga Íslands – í stríði og friði – Eggert Norðdahl, bls. 146.
-Matthías Johannessen – Samtöl I – 1977.
-Magnús Hafliðason – Hrauni.
-Friðþór Eydal.
Krýsuvíkurkirkja IV
Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.
Ólafur Þorvaldsson.
“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Krýsuvíkurkirkja um 1940.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.
Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili.
Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.
Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Krýsuvíkurkirkja 1964.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Magnús Ólafsson í Krýsuvík. Síðasti bóndinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.
Krýsuvíkurkirkja 2010.
Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman.
Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Holland.
Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”.
Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.