C-47

Að kvöldi 5. ágúst 1945 heyrðist flugvélargnýr í Selvogi.

Nes

Nes – C-47 á túninu á Nesi í Selvogi.

Stuttu síðar heyrðist í flugvél yfir Reykjavík. Áhöfnin augljóslega fann ekki flugvellina og var að hringsóla yfir Reykjanesskaga í tvo klukkutíma í mikilli þoku. Um miðnætti sá áhöfnin bæinn Nes í Selvogi og ákvað að lenda á túninu en hafði ekki nema um 50 til 70 metra. Lendingin gekk vel en vélin rakst á heysátu og skar túnið, stöðvaðist svo við girðingu hlaðna úr grjóti. Hjólabúnaður og neðrihluti skrokksins skemmdist talsvert og var vélin dæmd ónýt.
Vélin, C-47 Skytrain, var í herflutningum frá Base Valley í Wales til Reykjavíkur.

Áhöfnin: Hagen, Adam G. flugstjóri og 12 manna áhöfn og farþegar sluppu með skrokkskjóður.

Heimild:
-Styrjaldarárin á suðurlandi, Guðmundur Kristinsson, Friðþór Eydal, USAAF aircraft loss record.
-https://stridsminjar.is/is/flugatvikum-radhadh-eftir-arum/flugatvik-1945/482-c-47-skytrain-selvogur-nes-5-agust-1945

Nes

Nes í Selvogi – loftmynd.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um „Veginn nýja“, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni „Skemmdir af vatnavöxtum“: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. „Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Reykjavík

Austurvegir – herforingjaráðskort 1903.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.

Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna. Kistufell (t.h.) og Hraunssels-Vatnsfell fjær.

Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Á árunum 2021-2023 gaus þrívegis í Fagradalsfjalli, þ.e. í Geldingadölum, við Meradali og við Litla-Hrút. Það þarf þó ekki að koma á óvart því hraun hafa runnið á ýmsum stigum allt umhverfis fjallið.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál, Reykjavík, 165-172.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að nýjum gíg ofan Meradala í Fagradalsfjalli.

Þingvellir

Síra Guðmundur Einarsson skrifar um „Alin-málsteininn á Þingvöllum“ í Dagrenningu árið 1946. Steinn þessi stendur fyrir sjónum manna framan við dyr Þingvallakirkju.

Þingvellir

Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.

„Steinn nokkur allstór stendur fyrir framan dyrnar á Þingvallakirkju, sem mér var sagt, þegar ég kom sem prestur til Þingvalla, að á væri alinmál Íslendinga til forma, og þar sem ég sá,- að þverskorur nokkrar höfðu verið höggnar á steininn, þá taldi ég víst, að þetta væri fyrsta alinmál Íslendinga og löggilt mál þeirra. Þegar ég lagði framhandlegg á steininn frá neðstu skoru til fimmtu, sem allar voru greinilega höggnar, þá kom í ljós, að það var sama og framhandleggurinn frá olnboga til fingurgóms; það staðfesti mér þann orðróm, sem fylgdi steini þessum, og leit ég því svo á stein þennan, að hann væri ein af dýrmætustu eignum Íslendinga og einn merkasti forngripur þeirra.
Nú sé ég, í nýútkominni bók eftir fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, sem hann nefnir „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, að hann efast um að steinn þessi sé alinmálið forna, og jafnvel að skorurnar, sem hann nefnir „rákir“, hafi verið höggnar af mönnum, heldur séu þannig gerðar af náttúrunni. Hann segir svo: „Yfirleitt er það að segja um álnarmál eða stikumál á steini eða steinum við kirkju á Þingvöllum, að ekki er líklegt, að það hafi nokkru sinni verið til.“
Manni verður fyrst á, að hugsa og spyrja, hvernig mældu landsmenn vaðmál sín í „bændakirkjugarði“ á Þingvöllum, þegar þeir greiddu gjöld sín með þessari vöru, ef ekkert alinmál var til, sem hægt væri að byggja á sem löglegu máli?

Þingvellir

Alin-málasteinninn framan við Þingvallakirkju.

Til þess að athuga og mæla steininn, eða bilið milli skoranna, var ég staddur á Þingvöllum 22. júní 1946 og hjálpaði síra Helgi Konráðsson á Sauðárkróki mér til þess að mæla það, eins nákvæmlega og hægt var. Á austurhlið steinsins, þeirri sem snýr að kirkjudyrum eru greinilega höggnar 5 skorur, með mismunandi millibili og litlu ofar á steininum, er sjötta skoran, sem þó virðist fremur vera boruð í steininn, eða gerð með þremur holum, en að hún sé höggvin, og enn ofar, næstum efst á steininum, er sjöunda skoran gerð á svipaðan hátt og sjötta skoran, og virðast þær báðar gerðar síðar en 5 neðri skorurnar, en allar eru þær gerðar þversum á steininn og engin nær yfir alla breidd hans. Skorunar hafa viðrast gegnum aldirnar og því lítt mögulegt að mæla millibilin milli þeirra, svo að nákvæmt sé, en nærri því sanna er hægt að fara. Millibilin milli skoranna frá þeirri neðstu til þeirrar efstu mældust okkur þannig; 7; 11; 19; 10, 5 og 43 sentimetrar. Bilið milli neðstu skoranna fimm voru 47 sentim. samtals; frá neðstu til 6. skoru 52 sm, og frá neðstu skoru til 7. voru 95 sm. (2 19/16; 4 3/16; 7 6/10; 3 13/16 danskir þumlungar eða samtals 18 þumlungar frá 1.—5. skoru, en frá neðstu til efstu skoru ca. 36 1/3 d. þuml.) í bók Matthíasar Þórðarsonar fornminjavarðar segir svo á bls. 270: „Í safni Sigurðar Guðmundssonar til Þingvallalýsingar er teikning eftir hann af steininum, sem nú er fyrir framan kirkjuna. Eru rákirnar 6 og bilin milli þeirra talið frá neðstu, 2″ 9′“, 4″ 3′“, 7″, 3″ 6″‘ og 2″ 6′“. Samkvæmt Skýrslu um Forngripasafnið I bls. 117 hefir hann álitið, að þeir 17″ og 6′“ (þ. e. 17 1/2 þuml.), sem eru samkvæmt teikningu hans milli neðstu og næst efstu rákar, merktu hina fornu alin, en ekki virðist það vera rétt.“

Þingvellir

Alin-málssteinninn – letur.

Bilið milli 5 neðstu skoranna reyndist okkur 18 þuml. (47 sm), sem Sigurður Guðmundsson telur 17 1/2 þuml.; frá neðstu til 6. skoru reyndist okkur 19 7/8 en Sigurður telur það 20 þuml.; bilið milli 5. og 6. skoru mældist honum 2 1/2 þuml. en okkur aðeins 1 7/8 þuml. (5 sm).

Þinfvallakirkja

Þingvallakirkja – mælisteinninn innar.

Það virðist létt, að 5 neðri skorurnar eigi að sýna hina elstu alin á landi hér, eins og Sigurður Guðmundsson hélt fram, það sést af því, að þessar skorur hafa verið höggnar og eru eldri en hinar tvær. Eftir rannsóknum B. M. Ólsen (sbr. Árbók Fornleifafélagsins 1910 bls. 1—27) var hin „elzta alin“, hin náttúrlega öln, lengd framhandleggsins frá olnboga til langafingúrgóms, 47 sm (18 d. þuml.), eins og okkur mældist þessi alin á steininum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

En snemma varð það siður, þegar vaðmál voru mæld, að þumalbreidd var bætt við hverja alin, til þess að tryggja það að vel væri mælt, því ef teygt var á vaðmáli gat það orðið of stutt ef engu var bætt við alinina. Þessi viðbót mun hafa verið 2 til 2 7/2 sm (0,79—0,96 d. þ.). Minn þumalfingur um naglrót er ‘2,4 sm, svo viðbótin mun hafa verið nálægt því, 2—2 1/2 sm. Þetta virðist svo hafa verið hin svonefnda „forna lögalin“ (sbr. B. M. Ó. bls. 27), sem var notuð manna meðal, þótt ekki væri löggilt. En svo þegar tímar liðu, og þessi mæling á alin var orðin að fastri venju, virðast menn enn hafa viljað fá nýja viðbót, og þessi alin verið svo nefnd „þumalalin“. í Grágás ((Havnia I bls. 500) stendur: „Vararfeldur fyrir II aura, sa er fiogörra þumalalna er langr, en II breiðr,“ sem sýnir að þumalalin er hér skoðað sem fast lögákveðið mál, sem allir þekkja, en það var því aðeins löggilt mál, að einhverstaðar væri það afmarkað og þá sérstaklega á alinmál-steininum forna á Þingvöllum, sem notaður var við mælingu vaðmáls, lérefta og klæða, enda voru vaðmálin aðalgjaldmiðill landsmanna til forna.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Þegar þessi þumalalin hefir verið löggilt á Þingvöllum hefir 6. skorunni verið bætt við á steininn, til þess að sýna þetta nýlögákveðna mál, þumalalinina, sem í raun og veru var alin og tveir þumlungar, 52 sm (19 7/8 d. þuml.).
Um 1200 kemur svo nýtt mál til sögunnar, sem nefnt var stika, en hún var 2 álnir. En hvaða álnir hún var miðuð við er ekki víst, hvort það var „elzta alin“, „forn alin“ eða „þumalalin“, en þar eð talað er um að „stikan“ skuli vera uppbætt 1 þuml., fingurbreidd, fyrir hverja stiku, getur naumast verið um þumalalin að ræða. B. M. Ólsen telur í Árb. Fornl.fél. 1910 bls. 27 að það hafi verið „forn alin“, sem var lögð til grundvallar fyrir stikunni, hún hafi verið 2 „fornar álnir“ ca. 98,28 sm, eða 37,58 d. þuml. En hin „forna alin“ virðist aldrei hafa verið lögfest, en aðeins sá siður við mælingu vaðmála, að bregða fingri fyrir framan hverja alin og mæla svo alin frá hinni hlið fingursins, en þá getur ekki verið átt við þessa svonefndu „fornu alin“, heldur hina lögfestu, elztu alin, sem var 47 sm eða 18 d. þuml., stikan hefir þá átt að vera 94 sm eða 36 d. þuml.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Á alinmálsteininn á Þingvöllum er 7. skoran mörkuð með holum, eins og 6. skoran, en milli þeirra eru 43 sm, en frá neðstu skorunni til 7. skoru mældist mér 95 ,sm, en þessi stika er þá ca. 1 sm lengri en 2 álnir, sem stafar af því að bilið milli 5. og 6. skoru var ¥2—1 sm of langt, eða ég hef rnælt of djarft, að mæla frá miðri neðstu skoru til miðrar 7. skoru, eða hvortveggja valdið bilinu, of langt bilið milli 5. og 6. skoru og ég mælt full stranglega.
Tel ég því vafalítið að þessi 7. skora hafi átt að sýna stikuna, svo á steini þessum sjáist greinilega öll þau alinmál, sem lögfest vóru á íslandi frá byrjun þinghalds til loka 16. aldar, að Hamborgaralinin kom til sögunnar.

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Hvort stikumálið hafi verið löggilt hér til samræmis við enska málið „yard“, eins og Jón Sigurðsson hélt, þá er það vafasamt, en þegar þess er gætt, að skotska alinmálið var rúmlega 36 d. þuml. eða sama og tvær „elztu álnirnar“ íslenzku, þá væri eðlilegt, að hugsa sér, að stikan ísl, ætti fremur þaðan uppruna sinn, enn frá enska „yardinum“, sem var 2,72 sm styttri en 2 „elztu álnirnar“ íslenzku.
Stikan var bara 2 ísl. álnir, en skotska málið sannar það, að frumalinin á Norðurlöndum var 47 sm eða 18 d. þuml., en stikan ísl. og mál Skota, yard þeirra, var 94—95 sm, Skota 94,4, en ísl. ca. 95 sm. Ég tel því sennilegast, að alinmál það, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins hafi verið, 47 sm. eða 18 d. þuml., en þá hafi sú alin verið bætt upp með einni þumalfingurbreidd þegar vaðmál og léreft var mælt eftir því.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Af þessu leiði ég það, að á steininum, sem er fyrir kirkjudyrum á Þingvöllum, séu merktar allar þær álnir, sem löggiltar voru á Íslandi frá landsbyggð og til loka 16. aldar og vóru þessar: 1.. að frumalin ísl. hafi verið 47 sm = 18 d. þuml., 2. að þumalalin ísl. hafi verið ca. 52 sm = 19 7/8 þuml. og 3. að stikan ísl. hafi verið ca. 95 sm = 36 1/3 d. þuml., en að „forn alin“ hafi aldrei verið lögfest, heldur orðið að föstum vana í viðskiptum.

Þingvellir

Þingvellir.

Hvað lýsingu Ch. Theilmanns snertir á steini þessum og teikningu hans af honum, er ekki auðvelt að átta sig á eftir frásögn fornminjavarðar á bls. 270 í „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, því þar segir svo eftir Ch. Theilmann: „að ekki hafi þá (um 1820) verið litið svo á, að rákirnar á honum hafi táknað neitt mál, heldur lárétt lægð er var yfir framhlið hans um 1 1/4 alin að lengd.“
Theilmann rannsakar ekkert skorurnar og millibilin milli þeirra, en þessi 1 1/4 alin langa lárétta lægð, sem hann talar um, er ekki til á þeirri hlið, sem skorurnar eru á, en hvaða hlið steinsins er nefnd „framhlið“ er ekki sagt frá, svo á þessari lýsingu er ekkert að græða. Allar skorurnar 7, sem enn sjást á steini þessum, á þeirri hlið, sem snýr mót austri, eru láréttar, nokkuð mislangar, en engin nær þvert yfir steininn, eða nálgast neitt það að vera 1 1/4 alin.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja um 1860.

Millibilið milli skoranna er mjög mismunandi, eins og áður segir, og hefir það sennilega valdið því, að steini þessum var minni gaumur gefinn en ella mundi, og að margir hafa efast um að á honum væri markað alinmálið forna, sem menn vissu um, að skiptist í 2 spannir og 24 þumlunga, og sumir máske haldið, að alinin hafi þá eins og nú skipst í 4 hluta, kvartil, en sú skipting þekktist ekki hér fyrr en Hamborgaralinin kom til sögunnar í lok 16. aldar.
Á stein var auðvitað ekki hægt að höggva út hvern þumlung fyrir sig, en spönn hefði mátt afmarka, en það hefir ekki verið gert. Aftur er hugsanlegt, að við neðsta bilið milli skoranna hafi átt að mælast 3 þuml. „meðalmanns í naglrótum“, 2. millibilið 5 þuml. og 3. millibilið 9 þuml., allt vel mælt, því þessi þrjú millibil eru samtals 37 sm, en B. M. Ólsen telur að 17 þuml. „meðalmanns í naglrótum“ muni hafa verið forðum eins og nú rúmir 35 sm, en þá á síðasta millibilið milli 4. og 5.,  ekkert að þýða, aðeins verið afgangurinn.

II.

Þingvellir

Þingvellir 2023.

Alinmálin hafa verið mjög breytileg hjá þjóðunum og mismunandi hjá einni og sömu þjóð, en hjá flestum, eða öllum þjóðum, virðist frummæling hafa miðazt við framhandlegg, frá alboga til fingurgóms, eða spönn, sem alltaf er helmingur framhandleggsins, en þó virðist fetið hafa verið frumeining nokkurra þjóða, eða að spönn og fet hafi verið tekið jafngilt mál, að minnsta kosti er fram liðu stundir, svo fetið varð að lokum aðal mælikvarðinn, og svo tvöfaldaður orðið lögfesti málkvarðinn, alinin.
Elztu þekktu alinmálin eru hjá Assýríumönnum, Ísraelsmönnum og Egyptum. En þó alinmál Assyríumanna séu enn til, þá er ekki alveg víst hvernig alinmál þeirra varð til, hvort spönn eða fet var frummælingin. Það er aftur talið víst að Ísraelsmenn hati skipt sinni alin í 2 spannir og 24 þumlunga eins og vér Íslendingar gerðum til forna.
Alinmál Ísraelsmanna er talið að hafi verið 48,39 sm, en það er, að kalla, sama og alinmál Egypta, sem var 48,42 sm. Spönnin hefir þá verið ca. 24,195 sm. Nú virðast fræðimenn líta svo á, að alinmál þessara þjóða eigi uppruna sinn frá Assyríumönnum, en þeir hafi lagt fetið til grundvallar sínu alinmáli, því það er víst, að alinmál þeirra í sögutíð var 52,5 sm, næstum því sama og þumalalin á álnarsteininum á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir 1867.

Fetið í þessari alin Assýríumanna hefir verið nálega sama og B. M. Ólsen hefir fundið, að er meðalfet Íslendinga og reyndist vera 26,5 sm (Arb. Fornl. 1910 bls. 14), því fet Assýríumanna var 26,25 sm. Til er forn málstokkur Assýríumanna, á knjám styttunnar í Telló. Honum var skipt í 16 jafna parta, og er talið, að þessi málstokkur, sem var nálega 31,5 sm að lengd, hafi verið Ys úr alin, sem er rétt, að því leyti, að 31,5 sm eru 3/5 af 52,5 sm, en þá hefði alinmál þeirra átt að skiptast í 27 parta, eða þumlunga, en hver þuml. ca. 1,95 sm og spönnin ca. 23,4 sm. Hitt er þó sennilegra, að þessi málstokkur sé 2/3 af fornri alin þeirra og hún hafi verið 47,25 sm, sama að kalla, og elzta alin Íslendinga (sbr. B. M. Ólsen Árb. Fornl. 1910 bls. 24 og mælingu mína á alinmálssteininum á Þingvöllum).

Þingvellir

Þingvellir 1882. Steinninn sést fyrir framan kirkjuna.

Vera má þó, að þessi málstokkur Assýríumanna hafi verið fullt alinmál þeirra, en þá hefir því verið skipt í 16 parta, eins og Grikkja, Rómverja, Þjóðverja og jafnvel Englendinga var skipt til forna (sbr. cubitus Rómverja og Englendinga).
Sé aftur hitt rétt til getið, að alinmáli Assýríumanna hafi verið skipt í 24 parta, eða þuml., hafa verið tvö alinmál í Assýríu, hið eldra 47,25 sm og sú alin miðuð við spönn, og síðari alinin 52,5 sm og hún miðuð við fet.
En það sem sérstaklega vekur athygli, þegar rannsökuð eru alinmál þjóðanna er þetta, að það virðist sem Íslendingar og Ísraelsmenn séu þær einu þjóðir, sem skiptu alinmáli sínu á sama hátt, í 24 þuml. Ísraelsmenn skiptu alin sinni þannig: í 2 spannir, 6 þverhendur og 24 þuml. Íslendingar skiptu sinni alin í 2 spannir og 24 þuml., og þverhönd var líka notuð sem mál hjá þeim, því í sögu Guðmundar góða getur um konu, sem þrútnaði um kviðinn, svo að hún var 3 álnir og þverhandar digur (sbr. Árb. Fornl. 1910 bls. 13 neðanmáls), mun þá þverhönd eiga að jafngilda 1/6 hluta úr alin.

Þingvellir

Þingvallakirkja eftir 1930. Mælisteinninn er á myndinni framan við kirkjuna.

Hjá Ísraelsmönnum var til lengdarmál, sem þeir nefndu „gomed“ og giskað er á, að það sé sama og 2 álnir, eða „stika“ á íslenzku; en það er vafasamt að „gomed“ hafi táknað tvær álnir, eða verið sama og forn „stika.“
Að alinmál Ísraelsmanna og Íslendinga, eða Norðmanna, hafi verið svo lík, eins og raun ber vitni um, er ekki neitt merkilegt, ef Ísraelsmenn hafa fluttst til Norðurlanda og tekið sér bólfestu þar, eins og fjöldi sagnfræðinga er nú farinn að álíta að verið hafi, því þá hafa þeir flutt með sér lengdarmál sitt, eins og þeir notuðu það um 700 árum f. Kr. austur í Asíu, og það síðan orðið að föstu alinmáli í Noregi og Íslandi til forna.“
-Guðm. Einarsson.

Heimild:
-Dagrenning, 3. tbl. 01.08.1946, Alinmál-steinninn á Þingvöllum, síra Guðmundur Einarsson, bls. 22-26.

Þingvellir

Þingvellir. Alin-málssteininn sést framan við kirkjuna.

Álftanes

Í þjóðsögunni um „Steinarnir á Álftanesi“ er getið um tvo staka steina sunnan og neðan við Grástein á Álftanesi. Grásteinn er þekktur af sögnum, en fáir hafa veitt framangreindum steinum sérstaka athygli. Sagan segir:

„Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því sem álfar heita. Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Álftanes

Steinarnir tveir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotizt illt af því, því álfar reiðast illa. Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Svo er t. a. m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist þeim eitthvað] á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku. Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á SkerjafirÖi stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað. Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 8-9.

Grásteinn

Grásteinn

Sandfell

Gengið var norður gamla Svínadalsveginn upp frá Vindáshlíð að Sandfelli og þaðan beygt til austurs að Blautaflóða. Ofan hans átti Hækingsdalsselið að vera í gróinni skriðu. Síðan var gengið niður með Uxagili og skoðað heimasel undir gilinu áður en gengið var að tóftum Sauðhúss, sem ku hafa verið kot byggt upp úr seli frá Hækingsdal.

Hækingsdalssel (sel)

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

„Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá.
Norðaustan og upp af Blautflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs. Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í
grjót.

Saudhus (sel/kot)

Sauðhús

Sauðhús.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Saudhus hefur til forna í Hækingsdalslandi kallað verið þar sem stundum hefur í manna minni selstaða brúkast, og halda menn bygt ból hafi í gamalli tíð verið, og hafa til líkinda þar um girðinga og fóta leifar, ekkert vita menn til þess annað og kann ei aftur að byggjast, því túnstæði alt er komið í mosa, mó og mýri, og mjög brotið af á þeirri, sem þar rennur, kölluð Selá,“ „Utan við Lágamýri er Selármói. Þar fyrir utan Selárflatir. Í Selármóa voru dældir. Sú þeirra, sem var einna mest áberandi, hét Grænadæld. Og svo kemur Selá.

Hækingsdalur

Hækingsdalur – gamla réttin.

Fyrir utan Selá er fyrst Borgarmýri. Á henni efst er mikil móaþyrping, er heitir Fjárborgir,“ segir í örnefnaskrá. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir svo: „Sauðabyrgi var til frá því gamla daga á svæði þar sem heitir Sauðaborg og Borgarmýri.“ Hóllinn Fjárborgir er um 155 m suðvestan við stekk og um 1,7 km VNV við bæ. Á þessu svæði er mikill grasigróinn hóll í brekku sem hallar 5-20° í suður. Hóllinn er 10-20 m ofan og NNA við sléttað tún á vesturbakka Selár. „Það hafði verið hlaðið en var mjög innfallið þegar Hannes sá það fyrst og á geysistóru svæði. Þar er nú stór gróinn hóll núna, það sést aðeins hvað það hefur verið víðáttumikið. Þessi byrgi voru hlaðin úr sniddum þannig að veggirnir voru látnir hallast inn og mætast í toppinn. Það var ekki nokkur spýta notuð í það. Þetta var notað yfir fé, aðallega sauði, yfir veturinn svo ekki þyrfti að smala þeim því þeir fóru þarna inn sjálfir.“

Hækingsdalur

Hækingsdalur – Sauðhús.

Umræddur hóll er í nú (2011) mjög hlaupinn í þúfur og vel grasigróinn. Hóllinn er gróflega hringlaga, um 45×45 m að flatarmáli og um 0,5-3 m á hæð. Aðeins ein greinileg hringlaga tóft er norðarlega og efst á hólnum en frekari mannvistarleifar leynast örugglega undir sverði. Tóftin er einföld, hringlaga og snýr NNA-SSV. Hún er <0,5 m á hæð, um 10 m í þvermál en innanmál er ferkantað og um 4×1 m. Líklegast hefur verið gengið inn að sunnan. Þúfnaþyrpingar eru bæði norðan og austan við tóftina en ekkert greinilegt er hægt að lesa út úr þeim. Um 70 m ASA við tóft A í Fjárborgum, nær Selánni, er önnur þúst B sem hugsanlega gæti einnig leynt fornleifum. Þústin er óregluleg, um 12×10 m að flatarmáli, <0,5 m á hæð og snýr gróflega norðaustur-suðvestur. Engin greinileg dæld er í miðju þústar.

Frábært veður.

Hækingsdalur

Hækingsdalur – stekkur undir Uxagili.

Gunnuhver

Í „Íslenskar þjóðsögur og ævintýri“ Jóns Árnasonar, sem bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1954 eru fjórar sögur um Gunnuhver á Reykjanesi:

Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandu við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagagnn sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skagagnum og var þá allur blár og beinbrotinn.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hafði drepið hann og væri nú afturgeingin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Varð allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík á Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki altént vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðinu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún ætti vera að ósekju.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðinu valt það afs tað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint af afturgöngu Gunnu.
Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverabarminum og trítlar hún þannig eintatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfborgin, því hún vill fyrir hvern mun síst fara ofan í vilpu þessa.

Guðrún Önundardóttir

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum mállaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla. Hún var flutt að útskálum og jarðsungin fyrir norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestinum uppi á garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum. Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða. Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar á milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði. En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes – að fyrirsögn Eiríks – og að hver einum og sleppti henni þar,og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. – Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.

Reykjanes-Gunna

Gunnuhver

Gunnuhver.

Kona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft. Böndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna skammyrti bónda, en slepti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yri lengi. Því var lofað. Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur. Á heimléiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn mölbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður. Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyrir líkfylgdinni.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni. Þá var sent til Eiríks prests á Vogsósum og fékk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann. Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: „Þetta áttu að þvætta“. „Hvur segir það?“, segir Gunna. „Eiríkur á Vogsósum,“ segir maðurinn. Henni brá við og sagði: „Ekki var von á verra.“ Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og genur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn. Nú á dögum er hverinn kallaður Gunnuhver.

Önundar-Gunnar

Gunnuhver

Gunnuhver.

Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörsstaðar suður með sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fékk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl. Svo var sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni var hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korst og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af heni í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Svo er sagt að þegar gunna var grafin þá hafi hún sést á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: „Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja“.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Efrisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sgat að Kort hafi verið einn meða borðsgesta, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þess þó getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leiðina heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hitt hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau höfðu glímt fjarska lengi og loks fannst kort dauður og mjög illa útleikinn.

Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til að bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fékk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur á annan endann.

Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sér á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: „Á helvíti átti ég von, en ekki þessu.“ Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðar og sumur bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 3. bindi 1955, safnað hefur Jón Árnason III, nýtt safn; Bókaútgáfan Þjóðsaga 1954, bls. 508-510.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Digranes

Við leifar gamla Digranesbæjarins í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:

Digranes

Digranes – túnakort 1916.

„Hafinn var búskapur á jörðini Digranesi sennilega á árunum milli 1300 og 1313, en þá er jarðarinnar fyrst getið í máldagaskrá Viðeyjarklausturs. Er hún sennilega elsta jörðin í Kópavogi.

Kópavogur

Digranes – skilti.

Síðasti bóndinn í Digranesi, Jón Guðmundsson, hóf þar búskap árið 1896 og bjó þar til hún var aflögð sem bújörð árið 1936. Digranes var þá þjóðjörð og sá Búnaðarfélag Íslands þá um að útmæla jörðina í smábýli og nýbýli samkvæmt nýjum lögum þar um. Árið 1950 var búið að úthluta úr landi Digraness um 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til að setjast þar að með fasta búsetu, þó svo að mjög fljótlega hafi orðið þar breyting á og lönd þjóðjarðanna í Kópavogi orðið fyrsti vísirinn að þéttbýlismyndun.

Kópavogur

Digranesbærinn.

Digranes var stór jörð, þótt hún hafi kannski ekki þótt eftirsóknarverð eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók Jarðabókarnefndar frá október 1703. Ekki er skráður jarðdýrleiki, eigandinn kóngur eða kóngsgarðurinn í Viðey og bjó ábúandi Sveinn Eiríksson þar einn með sínu fólki. Landsskuld var 90 álnir, greidd með fiski í kaupstað og leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Við til húsagerðar leggur ábúandi til sjálfur og þær kvaðir fylgja að hann láni mann á vertíð eða gegni formennsku. Hann láni hest til Alþingis, vinni við tvær dagsláttur í Viðey og útvegi tvo hríshesta er gjaldist í fríðu. hann leggi til mann í Elliðaár einn dag um sumar, heyhesta til fálkafjár í Hólm eða Reykjavíkurkaupstað, og skal bóndi fæða sig sjálfur við allar þessar kvaðir. Hann hafði 3 kýr, kálf og hross en að auki lamb, ein kýr og tvo kálfa til fóðurs frá öðrum. Hrís tók hann í almenningi, hafði nóg torf, stungu og mó í eigin landi enda taldi úthaga þrönga.

Kópavogur

Digranesbærinn eftir fornleifauppgröft.

Í jarðabókunum 1686 og 1695 svo og jarðabók Johnsens frá 1847 var jörðin metin á um hundruð en í nýju jarðabókinni frá 1848 hefur jörðin rýrnað frá fyrri mötum.
Á seinni hluta 19. aldar voru margar jarðir seldar úr konungseign, en Digranes var áfram í opinberri eigu og varð því þjóðjörð.
Var hún síðan alla tíð í ríkiseign þar til kaupavogskaupstaður keyti hana formlega árið 1957, en þá hafði henni verið skipt upp í lóðir og lendur fyrir íbúa hins unga kaupstaðar.“

Ef vel er að gáð má enn sjá gamla bæjarstæðið.

Kópavogur

Digranes.

Bæjarsker

Í „Fornleifaskráningu fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags“ segir m.a. um Bæjarsker og nágrenni:

Bæjarsker (býli)

Bæjarsker

Bæjarsker 1910.

Nafnið Bæjarsker eða Býjasker á Rosmhvalanesi er nefnt í fjölmörgum heimildum. Elsta heimildin um bæinn kemur fram í Landnámabók og um og eftir 1300 kemur bæjarnafnið oft fram í Diplomatarium Islandicum eða Íslensku fornbréfasafni. Jörðin hefur því að líkindum byggst upp snemma. Samkvæmt heimildum var hálfkirkja á jörðinni og örnefnið Kirkjuklettur er til að mynda að finna á túnakorti Býjaskerjahverfisins.
Örnefnið Lögrétta er einnig að finna á jörðinni sem bendir til þess að þar gæti hafa verið þingstaður. Hér á eftir má sjá upptalningu á þeim heimildum þar sem bærinn er nefndur og tilvitnanirnar sjálfar:

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

[Um 1270]: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. „ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.“( DI II, 77).
[Um 1270]: „Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok keflv vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.“ DI II, 78-79. [1367]: „lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok „; (Hítardalsbók DI III, 221)

Býjaskershverfi

Býjastaðahverfi – túnakort 1919.

10.6.1370: „Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.“ (DI III, 256-257 [Hvalness])
1397: „Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].“ (DI IV, 105).
5.9.1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. „hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi firir halfan fiorda tug hundratha […]“. (DI IV, 658-659).
22.8.1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: „haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fiorvtigi hvndrada […].“ (DI VI, 637).
21.6.1489: „medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.“ (DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758).

Bæjarsker

Bæjarsker 1960.

[1490]: Dómur útnefndur af Diðrik Píning „aa biaskeria þingi“. (DI VI, 719).
10.4.1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði fyrir „[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].“ (DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699).
1525: Máldagi Hóladómkirkju. „(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.“ DI IX, 301-302. 11.9.1539: Dómur tólf mann útnefndra „aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.“ DI X, 474.

Býjastaðahverfi

Býjastaðahverfi – herforingjaráðskort 1903.

1547-1548: Fógetareikningar. „Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].“ (DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403).
1.9.1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. „Biasker half xxc.“ DI XII, 459-460.
25.12.1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. „Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.“ (DI XI, 872).
1686: 45 hdr., 100 ál.,konungseign (Björn Lárusson, 122).
1695: 45 hdr. (Björn Lárusson, 122).
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti, Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigunum Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga (JÁM III, 55-58).
„Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],“(ÍF I, 391).
1703: „[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.“ (Vallaannáll, Annálar I, 451).

Bæjarsker

Bæjarsker – íbúðarhúsið 1960.

1703: „Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfið […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,“ segir í JÁM III, 55.
„Ofan við túnið er kúagerði ,“ segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). „Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,“ segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).

Bæjarstaðarétt

Bæjarstaðarétt – uppdráttur.

[Um 1840]: „Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjále<i>gum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum (Gullbringu- og Kjósarsýsla, 80, 97).
1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, (JJ, 87).
1919: „Stakkagerði, þ. búð eyðilögð f. nák. 20 árum,“ segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.
Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2). Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).

Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum (JÁM III, 55-58.)

Álaborg

Álaborg nyrðri.

„Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,“ segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
1919: „Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.“ Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Bæjarskersrétt (rétt)

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

„Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Pétur Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni […]. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að,“ segir á Ferlir.is. Katrín Gunnarsdóttir skráði réttina árið 2008: „Um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. […] Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim […]. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarrétt.“ Bæjarskersrétt er um 340 m austan við bæ.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Réttin er í heiði, víða eru moldarflög, stakir steinar og melur inn á milli klapparhóla. Mosi og gras er ríkjandi á þessu svæði. Réttin er 24 x 24 m að stærð og er grjóthlaðin. Meðfram veggjum er víða timbur sem notað er til stuðnings og er hluti af veggjum. Jafnframt eru timburhlið í öllum opum. Veggirnir eru 0,4-1,1 m á hæð, 2 m á breidd og það má greina 3-4 umför af grjóthleðslu í þeim. Í miðjunni er almenningur og þaðan eru op til allra átta inn í dilka, í allt eru þau níu talsins. Til vesturs eru fjórir dilkar sem allir eru varðveittir. Að austan er réttin röskuð og allir dilkar horfnir, einungis opin úr almenningnum bera þeim vitni. Opin eru þrjú talsins þar. Þar er nú einungis einn dilkur úr timbri og lágreist hleðsla skammt sunnar. Fyrir norðan réttina er hólf 7 sem afmakast af einfaldri steinaröð. Hleðslan er 0,2 m á hæð og 1 m á breidd. Þar ofan á var líklega vírgirðing en það er ljóst að umfang þess er mun minna en í réttinni sjálfri. Hólfið er ekki inni í réttinni sjálfri, mögulega var það fyrir hesta. Rúmum 8 m austan við réttina er garðlag. Það er 17 m langt og liggur norður-suður í moldarrofi. Það er 1 m á breidd og 0,2 m á hæð. Ekki er ljóst hver tilgangur þess er, það tengist réttinni að öllum líkindum eða er undirhleðsla undir vírgirðingu.

Fjárhús (fjárskýli)

Bæjarsker

Bæjarsker – fjárhús.

Tóftin er hlaðin upp á klettabelti að austan og er uppi á lágum hól. Tóftin er í grónum hvammi, fast vestan við lágt klettabelti. Hvammurinn er afmarkaður til suðurs og austurs af klettum, annars er gras áberandi á svæðinu. Tóftin er 9,5 x 9,5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Veggirnir eru 0,3-1 m á hæð, stórþýfðir og algrónir. Það glittir hér og þar í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Þeir eru eingöngu grjóthlaðnir, líkt og flestar aðrar minjar á svæðinu. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1. Það er 4×2 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Klettarnir til austurs eru 0,8 m á hæð og brattir. Hólfið er opið til vesturs, hluti af nyrðri langhlið nær 2,5 m vestar en suðurlanghlið. Hólf 2 er norðar og stærra. Það er 8,5×2,5 m að innanmáli og opið til vesturs. Sem fyrr afmarka klettar austurvegg.

Heimild:
-Fornleifaskráning fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags, Reykjavík 2017.

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

Hvaleyri

Ofan við Hvaleyri í Hafnarfirði er varða. Ofan hennar er skilti. Á því eru upplýsingar um tilvist vörðunnar sem og söguna að baki henni:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn ofan Hvaleyri frá 1772. Settur inn í nútímamynd. Flókavarðan fremst.