Brunnstígur

Á upplýsingaskilti við gatnamót Brunnstígs og Vesturgötu í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Brunnstígur

Brunnurinn (svartur depill).

„Á fyrrihluta 20 aldar fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar mjög hratt. Samhliða fólksfjölguninni jókst útgerð til mikilla muna og varð þá snemma knýjandi þörf á að koma upp hafskipabryggju í bænum.

Bryggjusmíðin sjálf hófst í mái 1912 og varð hún gerð samkvæmt uppdrætti Th. Krabbe, landsverkfræðings, en bryggjusmiður var Björn Jónsson frá Bíldudal. Laugardaginn 28. desember sama ár lagðist fyrsta skipið að bryggjunni en það var gufuskipið Sterling. Með tilkommu bryggjunnar varð til eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu, þar á meðal vatnssölu til skipanna. Vatnsveita bæjarins var hins vegar ekki í stakk búin að óbreyttu til að veita þessa þjónustu og var því brugðið á það ráð að koma upp geymi til vatnsmiðlunar fyrir bryggjuna. Vatnsgeymirinn eða brunnurinn var reistur hér; honum var valinn staður í hraunbolla við nýja götu sem bar nafnið Vesturbrú en síðar var Brunnstígurinn lagður og er hann nefndur eftir brunninum. Vatn safnaðist í brunninn á næturbar þegar notkun bæjarbúa var í lágmarki en á daginn var því veitt úr honum og niður í vatnsveitukerfi bryggjunnar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fyrsta hafskipabryggjan.

Samkvæmt lýsingu í útboði vegna byggingar vatnsgeymisins var hann 3,2 metrar á dýpt, 9,2 metra víður að innan máli og rúmaði 200 smálestir vatns. Veggirnir voru 50 cm þykkir og inni í geyminum voru fjórar súlur sem héldu þakinu uppi. Eftir að geymirinn var steyptur var jarðvegur setuur upp að honum en þó stóðu alltaf um 40 cm upp úr jörðinni. Geymirinn var niðurgrafinn að stærstum hluta líkt og brunnur og skýrir útlitið því nafngiftina. Guðni Guðmundsson, steinsmiður, sá um að steypa geyminn en Sigurður Thoroddsen, verkfræðingur, teiknaði hann.

Brunnurinn gegndi þessu miðlunarhlutverki fram yfir 1950 en vatn rann þó enn í hann næsta áratuginn. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að ná sér í vatn í brunninn þegar bera fór á vatnsskorti upp úr 1960. Eftir það var brunnurinn meðal annars nýttur sem grænmetisgeymsla.“

Brunnstígur

Brunnstígur – brunnurinn var t.v. á myndinni.

Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að „drepa til hennar hendi sinni“ en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.”

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju.

Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Þessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi.
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansEkki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá „inni í borginni“ vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; „… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda“.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu.
LaugarnesspítaliLaugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: „Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum“.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnesstofa 1836

Austurgata

Á upplýsingaskilti við gatnamót Austurgötu og Linnetsstígs í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Austurgata

Austurgata.

„Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1908 var ekkert skipulag á byggðinni og fáaer eiginlegar götur í bænum, einungis slóðar og troðningar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Þremur árum síðar var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum bæjarins nöfn og tölusetja húsin. Varð úr að nefndarmenn gáfu flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra. Á því svæði sem Austurgatan stendur í dag var svokallað Austurhverfi á þeim tíma. Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918. Á svæði þar sem Austurgatan stendur í dag standa við götuna 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf. Húsin við Austurgötuna mynda einstaklega heildstæða götumynd byggðar frá upphafi 20. aldar og þó að gatan hafi byggst upp að mestu leyti á þessum árum erugerð og stíll húsanna mjög fjölbreytt.
Austurgata

Segja má að Austurgatan sé dæmigerð fyrir gamla Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og mannlífið mynda áhugaverða heild. Við götuna standa, eða hafa staðið, hús með merkilega sögu auk tveggja álfakletta.

Hafnarfjörður

Austurgata – minnismerki um Örn Arnarsson: Þóðviljinn 9. ágúst 1974.

Nyrst við götuna stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.
Litlu sunnar er komið að húsi Ólafs borgara sem áður stóð neðar í lóðinni en hefur nú verið flutt upp að götu. Húsið var byggt árið 1872 sem verslunar- og íbúðarhús.
Gegnt því húsi stendur gamla símstöðin, sem byggð var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríksisins, árið 1922. Þar var rekin símstöð allt til ársins 1962.

Fríkirkjan stendur á kletti yfir götunni en hún er elsta kirkjan í Hafnarfirði, byggð árið 1913. Kirkja þessi er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún var t.d. síðasta tvílyfta timburkirkjan sem byggð var á Íslandi, sú fyrsta sem var raflýst, frá henni lágu á sínum tíma hæstu tröppur landsins og fyrstu útvarpsmessunni hér á landi var útvarpað frá henni árið 1926.
Húsið númer 26 við Austurgötuna er byggt af Hjálpræðishernum sem sjómanna- og gistiheimili. Þar rak bærinn um tíma tvær sjúkrastofur en árið 1927 var allt húsið tekið á leigu undir berklahæli. Árið 1935 hófts rekstur elliheimilis og almenningsmötuneytis í húsinu en Hafnarfjörður varð annað sveitarfélagið á landinu, á eftir Ísafirði, til að reka elliheimili.

Austurgata

Austurgata 26.

Emil Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri og ráðherra, lét byggja eftir eigin teikningu húsið nr. 37 við götuna en það er talið dæmigert fyrir teikningar hans í nýbarrokkstíl með gaflsneiddu þaki. Auk þess að vera íbúðarhús hefur þar verið ýmist starfsemi í gegnum árin, s.s. húsgagnabólstrun, hárgreiðslustofa og sparisjóður.
Við suðurenda götunnar er brúin yfir Hamarskotslæk en hún er í raun stíflan sem Jóhannes Reykdal reisti þegar hann stóð að stofnun fyrstu almenningsrafveitu landsins árið 1904. Þá notaði hann fallorku lækjarins til að knýja níu kílóvatta rafal. Rafveitan var tengd í sextán hús og fjóra ljósastaura í bænum.“

Minnisvarði um Örn Arnarson reistur í Hafnarfirði

Austurgata

Minnisvarði um Örn Arnarson.

Í Tímanum 1973 má lesa eftirfarandi um fyrirhugaðan minnisvarða um Örn Arnarsson í Hafnarfirði. Gísli Sigurðsson, minjavörður Byggðasafnsins, segir frá:

„Á sumri komanda verður sett upp i Hafnarfirði minnismerki um skáldið Örn Arnarson. Hann var búsettur i Hafnarfirði um árabil og er öðrum fremur talinn skáld íslenzkrar sjómannastéttar. Minnismerkið verður sett upp við Reykjavíkurveg, en uppistaða þess er gamalt og stórt ankeri.

Austurgata 1

Austurgata 1 – Hótel Hafnarfjörður.

Í það verður fest viðeigandi keðja og verður þessu komið fyrir á stalli, þar sem einnig verður plata með nafni skáldsins. Að öðru leyti er ekki enn búið að ákveða endanlega hvernig minnismerkið verður.
Ekki er vitað úr hvaða skipi ankerið er, en það er gamalt og miklu stærra en svo, að það geti verið úr skútu. Gripurinn hefur verið gerður upp og sett á hann ryðvarnarefni og nýr tréstokkur smiðaður, en hinn upprunalegi er fyrir löngu fúnaður, en járnböndin eru til.
Magnús Stefánsson, en það var skírnarnafn skáldsins var fæddur á Langanesi, og stundaði sjósókn framan af ævi, en vegna heilsubrests varð hann að hætta sjómennsku og eftir það vann hann átakaminni störf i landi. En hann gleymdi ekki sínu fyrra starfi og sízt gömlum starfsfélögum, sjómönnunum, eins og kvæði hans bera með sér. Sjómennirnir gleyma heldur ekki skáldi sínu og á Sjómannadaginn eru kvæði hans sungin. Má t.d. nefna kvæðið „Íslands Hrafnistumenn.“ – Tíminn, 20.11.1973,  Minnisvarði um Örn Arnarson, bls. 1.
Minnisvarðinn var afhjúpaður á horni Reykjavíkurvegar og Austurgötu árið 1974 – á fæðingarstað skáldsins.

Fríkirkjan

Fríkirkjan

Fríkirkjan.

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður 20. apríl, 1913 en formlegur afmælisdagur er jafnan miðaður við sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða mánaðardag hann ber. Það er vegna þess að þann dag árið 1913, sem þá bar upp á 24. apríl, var fyrsta guðsþjónustan haldin í Góðtemplarahúsinu.

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði í smíðum. Kirkjan var vígð þann 14. desember 1913 af séra Ólafi Ólafssyni presti safnaðarins og hafði hún þá verið reist á aðeins 3-4 mánuðum af nýstofnuðum söfnuðinum. Síðan hefur fjórum sinnum verið byggt við kirkjuna og síðast var henni breytt að innan við gagngerar endurbætur árið 1998.

Kirkjan var síðan vígð þann 14. desember sama ár og hafði þá tekið aðeins rúma þrjá mánuði að byggja hana.
Þegar söfnuðurinn varð 30 ára var birt ítarleg umfjöllun um hann í Lesbók Morgunblaðisns. Umfjöllun blaðsins var birt sunnudaginn 18. apríl 1943. Hér grípum við niður í grein Finnboga J. Arndal í fyrrgreindri Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann skrifar m.a. um tilurð safnaðarins og kirkjuna:

„Söfnuðurinn var stofnaður 20. apríl 1913. Stofnfundurinn var haldinn þann dag í Barnaskólanum í Hafnarfirði. Var boðað til hans af nokkrum Hafnfirðingum, sem áhuga höfðu fyrir því að kirkja yrði reist í Hafnarfirði. Það mál hafði að vísu verið rætt og athugað um allmörg ár af sóknarmönnum Garðasóknar, en af ýmsum ástæðum, en þó sérstaklega vegna fjárhagslegra vandkvæða, átt erfitt uppdráttar fram að þeim tíma.

Samkvæmt lögum safnaðarins skyldi nafn hans vera: Hinn evangelisk- lútherski fríkirkjusöfnuður í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum.
Bæjarstjórn samþykti 15. júlí 1913, að leigja söfnuðinum lóð þessa, en tæpu ári síðar samþykti bæjarstjórnin, að söfnuðurinn skyldi framvegis halda lóð þessari afgjaldalaust.

Fríkirkjan

Fríkirkjan og nágrenni.

Á safnaðarfundi 26. júlí s.á. var samþykt að ráðast í að byggja kirkjuna. Skyldi hún vera úr timbri, járnvarin. Var þá engin kirkja til í Hafnarfirði, eins og fyr er að vikið.
Seint í ágústmánuði var svo kirkjusmíðin hafin. Hafði verið tekið tilboði frá s.f. Dvergur í Hafnarfirði um smíðina og var þar lofað að gera sjálfa kirkjuna og bekki í hana og leggja til efni, hvorttveggja fyrir kr. 7900.00, en undanskilin var múrsmíð, málning, leiðslur og hitunartæki. Aðalumsjón með kirkjusmíðinni hafði trjesmíðameistarinn Guðmundur Einarsson, Davíð Kristjánsson trjesmíðameistari gerði teikningu af kirkjunni.
Kirkjusmíðinni miðaði vel áfram og var henni lokið að öllu snemma í desembermánuði sama ár.

Fríkirkjan

Í Fríkirkjunni.

Árið 1931 fór fram gagngerð viðgerð á kirkjunni. Var kórinn þá stækkaður að mun og turninn hækkaður og honum breytt verulega. Þess utan var kirkjan máluð utan og innan. Teikningar af hinum nýja kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trjesmíðameistari, en smíðið framkvæmdi Haukur Jónsson trjesmíðameistari í Hafnarfirði og fjelagar hans. Málningu alla framkvæmdi Kristinn J. Magnússon, málarameistari í Hafnarfirði.

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði.

Eftir þessa miklu aðgerð og breytingar var kirkjan sem ný orðin. Einn af safnaðarmönnum, Jóhannes J. Reykdal versmiðjueigandi á Setbergi, gaf alt timbur sem fór í stækkun kórsins og Kvenfjelag safnaðarins kostaði málningu á kirkjunni að innan að öðru en kórnum. Um sama leyti gaf það fjelag kolaofn í kirkjuna, stóran og fullkominn, er mun hafa kostað um kr. 1.100.00.
Undir kórgólfi er kjallari, sem notaður er sem líkhús og til geymslu. Kirkjan rúmar í sæti um 350 manns.
Um leið og kirkjan var reist var lögð í hana rafmagnsleiðsla enda þótt að litlar líkur væru fyrir því, að raforka væri þá fáanleg til lýsingar kirkjunni, því um þær mundir gat rafmagnsstöð Hafnarfjarðar ekki fullnægt þörfum bæjarbúa.
Kirkjan var síðast endurbætt árið 1998.“ -Samantekt JGR / síðast breytt 11. júní 2010.

Austurgata

Austurgatan – málverk; Jón Gunnarsson.

Einarsreitur

Á upplýsingaskilti við Einarsreit í Hraununum í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Eunarsreitur

Á Einarsreit.

„Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Einarsreitur fyrrum.

Þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina. framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarharunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir mennn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Einarsreitur

Upplýsingaskilti við Einarsreit.

Saltfiskverkun var mikil í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar en saltfiskur var verkaður frá því í janúar og fram í september ár hvert. Eftir að fiski, sem veiddur var í salt, var landað var honum staflað í stórar stæður sem kallaðar voru staflar. Þegar honum hafði verið umstaflað þrisvar sinnum með nokkurra daga millibili var hann tilbúinn til frekari vinnslu.

Fiskverkun

Saltfiskverkun við útgerðarhús.

Næsta skref var hið svokallaða „fiskvask“. Fyrst var fiskurinn vaskaður í trébölum upp úr sjó niðri í fjöru en síðar var vaskað innanhúss upp úr stórum trékörum sem stóðu í röðum í sérstökum vöskunarhúsum. Þar var fiskurinn skrúbbaður með handbursta en að því loknu var hann settur í rimlakassa þar sem hann var látinn standa í nokkra daga. Þá var hann fluttur á fiskreit þar sem honum var staflað í svokallaða stakka sem staðsettir voru á víð og dreif um reitinn og breitt yfir hann. Þegar viðraði til breiðslu var fiskurinn borinn á handbörum úr stakknum og honum raðað á reitina þannig að hnakki var látinn snúa á móti sporði og með roðið niður.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Einarsreitur (GG).

Fiski úr hverjum stakki var haldið frá öðrum og bilin á milli voru kölluð stakkskil og voru þau notuð sem göngustígar. þetrra var gert vegna þess að fiskur í stökkunum gat verið á misjöfnum verkunarstigum. Aldrei var fiskur á sama stakknum breiddur tvo daga í röð, því að það hafði í för með sér að yfirborð fisksins þornaði of hratt og vökvi lokaðist þá inni í honum. Misjafnt vat hve oft þurfti að breiða fiskinn en það fór eftir stærð hans. Algengast var að fiskur væri breiddur tvisvar eða þrisvar og höfðu menn ýmsar aðferðir við að athuga hvort hann hefði fengið næga þurrkun en það var yfirleitt á ábyrgð verkstjórans. Að þurrkun lokinni var farið með fiskinn í geymsluhús þar sem honum var pakkað til útflutnings.“

Einarsreitur

Einarsreitur.

17. júni

Á RÚV þjóðhátíðardaginn 17. júní 2024 mátti lesa eftirfarandi um fyrsta þjóðhátíðardaginn 1874, eða fyrir um 150 árum. Hér er og bætt um betur. Hlustið sérstaklega eftir duldu ljóði Magnúsar Þórs Sigmarssonar!:

150 ár frá fyrstu þjóðhátíð á Íslandi

Þingvellir

Þjóðhátíðin á Þingvöllum 5.-7. ágúst 1874. Skreyttur ræðustóll með fánum og mannfjöldi í kring.
Úr „Illustrated London News“ 1874. Birtist í bókinni „Þjóðhátíðin 1874“ eftir Brynleif Tobíasson. – Ókunnur höfundur.

Á þessu ári eru 150 ár frá þjóðhátíðinni 1874, fyrstu þjóðhátíð á Íslandi, sem haldin var í tilefni af 1000 ára afmæli Íslands byggðar. Kristján IX Danakonungur heimsótti Ísland og þjóðsöngurinn „Ó, Guð vors lands“ var saminn fyrir þessa hátíð.

Íslands þúsund ár
Ákveðið var að sérstök hátíðaguðsþjónusta skyldi fara fram í öllum aðalkirkjum landsins 2. ágúst 1874, en þann dag átti þjóðhátíðin að hefjast. Pétur Pétursson biskup valdi sjálfur messutextann og tók hann úr Davíðssálmi nr.90.

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson, biskup.

Drottinn, þú varst vort athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og þú tilbjóst jörðina og heiminn, já, frá eilífð til eilífðar ertu guð. Þú gjörðir manninn að dufti og segir: „Komið aftur, þér mannanna börn!“ því þúsund ár eru fyrir þínum augum sem dagurinn í gær, þá hann er liðinn, og eins og næturvaka.

Textinn var reyndar nokkuð lengri, en það var þetta upphaf hans sem hafði þau áhrif á Matthías Jochumsson að hann orti ljóðið „Ó, Guð vors lands“ í nóvember 1873 þegar hann dvaldist í Edinborg í Skotlandi hjá tónlistarmanninum Sveinbirni Sveinbjörnssyni sem þar var búsettur. Í viðkvæði ljóðsins koma einmitt fyrir orðin „Íslands þúsund ár“. Sveinbjörn samdi svo lag við ljóðið vorið 1874.

Ekkert íslenskt lag til?

Kristján IX

Kristján IX. Danakonungur.

Kristján IX var fyrstur Danakonunga til þess að sækja Íslands heim. Freigáta hans, Jylland, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn 30. júlí 1874. Fagurskreyttur heiðursbogi hafði verið reistur á bryggjunni og fjöldi fólks flykktist niður í fjöru og safnaðist í kringum bryggjuna, nokkrar þúsundir manna samkvæmt blaðinu Víkverja. Kór undir stjórn Jónasar Helgasonar söng kvæðið „Velkominn yfir Íslands sæ“ sem Matthías Jochumsson hafði ort af þessu tilefni. Einnig var sungið „Eldgamla Ísafold“, en bæði kvæðin voru sungin við erlend lög. Konungur spurði þá hvort kórinn gæti ekki sungið fyrir sig íslenskt kvæði við íslenskt lag. Jónas svaraði vandræðalega að ekkert slíkt lag væri til, en landshöfðingi benti honum á að hann sjálfur, Jónas, hefði fyrir skömmu samið lag við ljóðið „Minni Ingólfs“ sem Matthías Jochumsson hafði einnig ort í Edinborg árið áður. Var það þá sungið fyrir konunginn, enda átti kvæðið vel við hátíðina þar sem það lýsir landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Með frelsiskrá í föðurhendi

Kristján IX

Kristján IX – stytta framan við Stjórnarráðið.

Í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar hafði Kristján níundi gefið út sérstaka stjórnarskrá fyrir Ísland í febrúar 1874. Íslendingar voru misánægðir með þessa afmælisgjöf. Sumum þóttu réttarbæturnar í henni vera alltof litlar. Aðrir, eins og sjálfstæðisbaráttumaðurinn Jón Sigurðsson, létu í ljós þá skoðun að stjórnarskráin væri að vísu gölluð, en eigi að síður spor í rétta átt. Matthías Jochumsson orti um stjórnarskrána: „Með frelsisskrá í föðurhendi/ þig fyrstan konung Guð oss sendi.“ Styttan af Kristjáni IX sem stendur fyrir framan stjórnarráðshúsið í Reykjavík sýnir konung rétta fram stjórnarskrána á táknrænan hátt. Dagana sem Kristján konungur dvaldist hér á landi mátti stundum sjá hann á gangi í Reykjavík. Hann þótti alþýðlegur og blátt áfram í framgöngu, spjallaði meðal annars við konu sem var að sækja vatn, og gaf henni tveggja króna pening.

Sungin í verbúðum og á smalaþúfum

Ísland

Hversdagsleikinn á Íslandi í kringum aldamótin 1900.

Söngurinn „Ó, Guð vors lands“ var frumfluttur að konungi viðstöddum við hátíðamessuna í Dómkirkjunni 2. ágúst 1874. Amerískur fréttaritari, Bayard Taylor, lýsti í fréttapistli sínum hrifningu sinni af söngnum og sagði að augu margra í Dómkirkjunni hefðu fyllst tárum. Seinna um daginn var haldin útihátíð á Öskjuhlíð og 5.-7. ágúst var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum. Skáldin Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson höfðu ort mörg kvæði sem sungin voru við hátíðahöldin. Á þessum tíma var Kristleifur Þorsteinsson 13 ára gamall unglingur í Borgarfirði, en hann segir:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Það var eins og áður óþekktur fögnuður og samúð bærist frá manni til manns þetta þjóðhátíðarsumar. Kvæði Matthíasar og Steingríms voru sérprentuð og bárust út um byggðir landsins. Urðu þau á hvers manns vörum, og lögin við þau lærðu allir sönghæfir menn. Mátti segja að ómur þessara kvæða bærist frá hafi til heiða. Þau voru sungin á heimilum, í veislum, í verbúðum, ferðamannatjöldum, leitarmannaskálum og á smalaþúfum.

Þjóðhátíðin á þingvöllum 1874 var haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu.
Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874.

Alþingi

Frá því að Alþingi var lagt niður á Þingvöllum 1798 hafa Íslendingar haldið sex miklar hátíðir á Þingvöllum. Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Af því tilefni afhenti Kristján IX. Íslendingum fyrstu stjórnarskrána en samkvæmt henni fékk Alþingi takmarkað löggjafararvald og fjárforræði. Íslendingar fjölmenntu til Þingvalla til að verða vitni að atburði sem markaði þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni. Prentmynd af Illustrated London News 29. ágúst 1874. Frá Þjóðhátiðinni á Þingvöllum 1874. Danakonungi flutt ávarp.

Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.

Meðal gesta á þjóðhátíð okkar Íslendinga á Þingvöllum 1874 var bandarískur blaðamaður, Hays að nafni, frá blaðinu New York Herald. Hann hitti Kristján konung IX. sem dvaldi í landshöfðingjabústaðnum (nú Stjórnarráðshúsinu) í Reykjavík. Óskaði hann eftir því að fá að hafa nokkur orð eftir konungi um þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og hátíðarhöldin.

Konungur svaraði: „Það er mjer kunnugt, að blað yðar er víðfrægt mjög sakir framtakssemi þess og skörungskapar, enda þykir mjer, sem þjer sýnið mjer of mikla kurteisi, með því þjer ætlið að heimurinn hirði um að heyra mína skoðun í svo víðlendu blaði.“

Frá þessu greindi fréttablaðið Þjóðólfur 2. nóv. 1874. Svona gátu kóngar verið hógværir i gamla daga. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar …

Þjóðsöngur Íslendinga

Þjóðsöngur Íslendinga, lofsöngurinn Ó, guð vors lands, er upphaflega ortur sem sálmur og saminn í tilefni af þjóðhátíð sem haldin var á Íslandi árið 1874 til að minnast þúsund ára byggðar í landinu. Messur voru þá sungnar um allt land og í prédikun lagt út af 90. sálmi Davíðs, 1.-4. og 12.-17. versi, samkvæmt ákvörðun biskups. Varð sá texti kveikjan að lofsöngnum sem þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson (1835-1920) orti í Bretlandi veturinn 1873-74. Hann er eitt af ástsælustu ljóðskáldum Íslendinga. Höfundur lagsins var Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld (1847-1926) sem fyrstur Íslendinga gerði tónlistariðkun að ævistarfi sínu. Hann var lengst af búsettur í Edinborg og samdi þar lagið við lofsöng Matthíasar.

Reykjavík 1874

Eldra fólk hélt að Ragnarök væru runnin upp þegar skotið var úr fallbyssum skipanna 1874.

Meðan fullveldið átti enn langt í land var enginn þjóðsöngur til í venjulegum skilningi. Ó, guð vors lands var þó oft sungið opinberlega á síðasta fjórðungi 19. aldar og á tímabilinu frá heimastjórn til fullveldis, 1904-1918, ávann það sér hefð sem þjóðsöngur. Á fullveldisdaginn var það leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og hefur verið það ætíð síðan. Kvæðið er þó fremur sálmur en ættjarðarljóð og lagið nær yfir svo vítt tónsvið að ekki er á færi alls þorra manna að syngja það. Íslendingar setja það þó lítt fyrir sig og ekkert ættjarðarljóð, þótt auðveldara sé í flutningi, hefur þokað Ó, guð vors lands úr sessi þjóðsöngs. Það hefur jafnvel hlotið þeim mun meiri helgi sem því hefur síður verið slitið út hversdagslega. Þjóðin ber lotningu fyrir háleitum skáldskap Matthíasar og hið hátíðlega og hrífandi lag er Íslendingum hjartfólgið.

Þjóðkirkjan 1874

Þjóðkirkjan 1874 – mbls. 02.08.1924. Lofsöngurinn var frumfluttur við hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 að viðstöddum Kristjáni IX. sem kom til landsins á þjóðhátíðina og varð þar með fyrstur ríkjandi konunga til að sækja landið heim. Hann færði þjóðinni stjórnarskrá. Var sá áfangi einn af hinum merkustu í endurheimt sjálfstæðis sem glataðist 1262-64, undanfari heimastjórnar 1904, fullveldis 1918 og loks stofnunar lýðveldis 17. júní 1944. 

Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu árið 1948 og að ljóðinu árið 1949. Forsætisráðuneytið fer með umráð hans. Árið 1983 voru sett lög um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983. Samkvæmt þeim má ekki flytja eða birta þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu. Auk þess leggja þau bann við því að hann sé á nokkurn hátt nýttur í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Saga þjóðsöngsins

Þjóðsöngur Íslendinga, lofsöngurinn Ó, guð vors lands, er upphaflega sálmur, ortur við sérstakt tækifæri, og mun hvorki höfundi ljóðs né lags hafa hugkvæmzt, að úr yrði þjóðsöngur, enda leið meira en mannsaldur, áður en svo varð.

Árið 1874 voru talin 1000 ár liðin frá því, er Norðmaðurinn Ingólfur Arnarson nam fyrstur manna land á Íslandi. Voru það sumar hátíðahöld um gjörvallt land af þessu tilefni, en aðal-þjóðhátíðin fór fram á Þingvöllum og í Reykjavík. Fyrir þessa hátíð var lofsöngurinn ortur, sbr. orðin „Íslands þúsund ár“, sem fyrir koma í öllum þremur erindum, og heitið á frumútgáfu kvæðis og lags (Rvík 1874) er: Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára.

Skv. konungsúrskurði frá 8. sept. 1873 skyldi haldin opinber guðsþjónusta í öllum íslenzkum kirkjum til að minnast þúsund ára byggðar Íslands sumarið 1874, og átti biskupinn yfir Íslandi að kveða nánar á um messudag og ræðutexta.

Þjóðsöngur

Skjöldur utan 15 London Street, Edinburgh, Scotland. Árið 1974 lét Menntamálaráðuneytið koma fyrir minningartöflum að London Street 15 í Edinborg, sú fyrri er á íslensku og á henni stendur: „Íslenski þjóðsöngurinn, “Ó, Guð vors lands” lagið og hluti ljóðsins var saminn í þessu húsi árið 1874 af Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Matthíasi Jochumssyni“ .“ Frumkvæðið að því að koma fyrir töflunum átti dr. Símon Jóhannes Ágústsson, sem ritaði ráðuneytinu um málið, en sendiráð Íslands í Lundúnum og aðalræðismaðurinn í Edinborg aðstoðuðu við framkvæmd þess. Tvennt er athugavert við textann á töflunum, í fyrsta lagi er á þeim báðum staðhæft að lag og ljóð hafi verið samið 1874 en í æviminningum Matthíasar kemur fram að það hafi verið veturinn 1873-1874, í öðru lagi er misræmi á milli þeirra eftir tungumálum, á íslensku útgáfunni er staðhæft að ljóðið hafi að hluta til verið samið í húsinu sem er rétt en á þeirri ensku er staðhæft að það hafi verið samið þar sem er rangt, en síðari versin voru samin í Lundúnum.

Sama haust lét biskupinn, dr. Pétur Pétursson, boð út ganga þess efnis, að messudagurinn yrði 2. ágúst og ræðutextinn 90. sálmur Davíðs, l.-4. og 12.-17. vers. Þessi ákvörðun um hátíðarmessu olli því, að þjóðsöngurinn íslenzki varð til, og textavalið réð kveikju hans.

Um sama leyti og biskupsbréfið var birt, hélt í þriðju utanför sína (af ellefu alls) séra Matthías Jochumsson (1835-1920). Hann var sonur fátækra, barnmargra bóndahjóna og hafði því farið gamall í skóla, kostaður af fólki, sem hrifizt hafði af gáfum hans. Hann hafði lokið guðfræðiprófi í Reykjavík og gerzt klerkur í rýru brauði þar í grennd (í Móum á Kjalarnesi 1867), en sagt af sér prestskap þetta haust, 1873, er hann átti enn í hugarstríði eftir að hafa misst nýlega aðra konu sína, auk þess sem hann háði þá sem oft endranær framan af ævi innri trúarbaráttu. Á næstu árum gerðist hann ritstjóri Þjóðólfs (1874-80), tók síðan aftur við prestsþjónustu í mikils háttar prestaköllum (í Odda á Rangárvöllum til 1887, síðan á Akureyri) og gegndi þeim til aldamóta, er hann hlaut fyrstur Íslendinga skáldalaun frá Alþingi, sem hann naut tvo síðustu áratugi ævinnar.

Kvæðið er ort í Bretlandi veturinn 1873-74, fyrsta erindið í Edinborg, en tvö síðari erindin í Lundúnum, og fannst Matthíasi sjálfum aldrei mikið til þeirra koma. Á þeim tíma var aðeins áratugur liðinn frá því, er hann hafði vakið athygli þjóðarinnar á skáldskap sínum, og enn leið áratugur, þar til út kom sérstök ljóðabók eftir hann.

Höfundur lagsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1926), átti ólík örlög Matthíasi, var sonur eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, Þórðar Sveinbjörnssonar dómstjóra við landsyfirréttinn, og ól mestan aldur sinn erlendis. Hann var guðfræðingur, en gerði síðan fyrstur Íslendinga tónlistariðkan að ævistarfi sínu. Hann hafði lokið 5 ára tónlistarnámi í Kaupmannahöfn, Edinborg og Leipzig og var rétt setztur að sem hljómlistarkennari og píanóleikari í Edinborg, þegar Matthías kom þangað haustið 1873 og bjó þar hjá honum, því að þeir voru skólabræður, þótt aldursmunur væri 12 ár. Þegar Matthías hafði ort þarna upphafserindi lofsöngsins, sýndi hann það Sveinbirni og segir svo frá þessu í Söguköflum af sjálfum sér: „Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim fyrir þjóðhátíðina.“ –

Þjóðsöngur

Skjöldurinn við inngang 15 London Street, Edenburg, Scotland.

Sveinbjörn var síðan búsettur í Edinborg, nema hvað hann átti heima 8 síðustu æviárin í Winnipeg, Reykjavík og Kaupmannahöfn, þar sem hann lézt, sitjandi við píanó sitt. En allt frá því, er hann samdi lagið við „Ó, guð vors lands“, 27 ára gamall, hélt hann áfram margs háttar tónsmíðum alla ævi, og eru þeirra á meðal ýmis ágæt lög við íslenzk ljóð, þótt lengstum væri hann í litlum tengslum við þjóð sína og yrði öllu fyrr kunnur sem tónskáld í dvalarlandi sínu en föðurlandi. Samt eru tónverk hans fremur samin í norrænum anda en engilsaxneskum. Og í fámennum flokki íslenzkra tónskálda er hann bæði meðal brautryðjenda og meðal þeirra, sem hæst ber.

Lofsöngurinn virðist þó ekki hafa vakið sérstaka athygli, hvorki ljóð né lag, er hann var fluttur í fyrsta sinn af blönduðum kór við þrjár hátíðaguðsþjónustur í dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874. Þann dag voru og sungin í Reykjavík 7 minni, sem Matthías hafði ort að beiðni hátíðarnefndar, flest á einum degi – svo hraðkvæður gat hann verið. En lofsöngurinn er meðal þess fáa, sem hann orti fyrir þjóðhátíðina af eigin hvötum.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Meðan fullveldið átti enn langt í land, var ekki um að ræða neinn þjóðsöng í venjulegum skilningi. En þegar Íslendingar sungu fyrir minni ættjarðarinnar, skipaði þar öndvegis-sessinn á 18. öld og fram yfir aldamót „Eldgamla Ísafold“ eftir Bjarna Thorarensen (1786-1841; ort í Kaupmannahöfn, sennil. 1808-09). En tvennt olli því, að það gat ekki orðið þjóðsöngur, þrátt fyrir almennar vinsældir. Annað var, að heimþrá fær þar útrás í snuprum í garð dvalarlandsins, nema í fyrsta og síðasta erindi, sem voru og oftast sungin. En einkum var hitt, að það var sungið undir lagi enska þjóðsöngsins (þótt upphaflega muni það samið við lag eftir Du Puy).

Á síðasta fjórðungi 19. aldar var Ó, guð vors lands oft sungið opinberlega af söngfélögum. En það var ekki fyrr en á tímabilinu frá heimastjórn til fullveldis, milli 1904 og 1918, sem það ávann sér hefð sem þjóðsöngur. Við fullveldistökuna var það leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og hefur verið það ætíð síðan. – Íslenzka ríkið varð eigandi höfundarréttar að laginu – sem áður hafði verið í eigu dansks útgáfufyrirtækis – árið 1948 og að ljóðinu 1949.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Heyra Þjóðsönginn.

Óneitanlega er samt annmarka á þessu að finna sem þjóðsöng. Íslendingar setja það að vísu lítt fyrir sig, að kvæðið er fremur sálmur en ættjarðarljóð. En lagið nær yfir svo vítt tónsvið, að ekki er á færi alls þorra manna að syngja það. Almenningur grípur því oft til annarra ættjarðarljóða til að minnast lands síns, og er þar á síðustu áratugum einkum að nefna „Íslandsvísur“ („Ég vil elska mitt land“) eftir Jón Trausta (skáldheiti Guðmundar Magnússonar, 1873-1918) undir lagi eftir séra Bjarna Þorsteinsson (1861-1938) og „Ísland ögrum skorið“, erindi úr kvæði eftir Eggert Ólafsson (1726-68), lagið eftir Sigvalda Kaldalóns (1881-1946). En hvorki hafa þessi lög né önnur þokað „Ó, guð vors lands“ úr þjóðsöngs-sessi.

Það hefur jafnvel hlotið þeim mun meiri helgi sem því hefur síður verið slitið út hversdagslega. Menn bera lotningu fyrir háleitum skáldskap kvæðisins – einkum fyrsta erindis, sem oftast er sungið eitt saman – og hið hátíðlega og hrífandi lag er Íslendingum hjartfólgið.

Eftir Steingrím J. Þorsteinsson. Áður birt í Ó, guð vors lands – þjóðsöngur Íslendinga útg. af forsætisráðuneyti 1957.

Bjarni Thorarensen

Bjarni Thorarensen.

Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur (og þar með konungur Íslands), Kristján IX, viðstaddur þá athöfn.

Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í „lög um þjóðsöng Íslendinga“, sem voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár.

Lýðveldisstofnun

Við fullveldistökuna árið 1918 var kvæði Matthíasar í fyrsta sinn flutt sem eiginlegur þjóðsöngur Íslands.

Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn.

Lofsöngurinn gengur oftast undir heitinu Ó, Guð vors lands, sem er fyrsta ljóðlína hans og er það meðal annars notað sem heiti ljóðsins í lögum um þjóðsönginn, en er þó skrifað þar án kommu á eftir ó-inu.

Saga

Jón Trausti

Jón Trausti.

Gefinn var út konungsúrskurður þann 8. september 1873 þess efnis að opinber guðsþjónusta skyldi haldin í öllum kirkjum landsins í tilefni 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar sumarið 1874, og átti biskup Íslands samkvæmt honum að ákveða messudag og ræðutexta, Pétur Pétursson sem þá þjónaði sem biskup ákvað að messudagurinn skyldi vera 2. ágúst 1874 og að sálmurinn sem flytja skyldi væri 90. Davíðssálmur, 1.-4. og 12.-17. vers, og urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að Lofsöngnum:urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að lofsöngum [heimild vantar].

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn!“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Steingrímur J. Þorstei nsson

Steingrímur J. Þorsteinsson.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða,
að þú aumkist yfir þjóna þína?
Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss,
ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum
og dýrð þína börnum þeirra.
Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss,
styrk þú verk handa vorra.

Ljóðið var ort á Bretlandseyjum veturinn 1873-1874, fyrsta erindið á heimili Sveinbjörns Sveinbjörnssonar að London Street 15 í Edinborg árið 1873, þar sem Matthías dvaldi um hríð en annað og þriðja erindið í Lundúnum og segir Matthías svo frá yrkingu þess í sjálfsævisögu sinni, Sögukaflar af sjálfum mér, í kaflanum „Þriðja útförin mín“, undirkaflanum „Hjá kunningjum á Bretlandi“:

Gæsalappir

Brynjófur Tóbísarson

Brynjólfur Tóbísuarson.

„Ég bjó hjá Svb. Sveinbjörnsson tónskáldi, og vorum við skólabræður. Þá orti ég nokkur smákvæði, þar á meðal „Lýsti sól“, „Minni Ingólfs“ og þar bjó ég til byrjun lofsöngsins, „Ó, guð vors lands“. Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér til að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim um Þjóðhátíðina. Síðari versin tvö orti ég í Lundúnum, og hefur mér aldrei þótt mikið til þeirra koma.“
Brynjólfur Tóbíasson segir í bók sinni, Þjóðhátíðin 1874, þannig frá fyrsta flutningi Lofsöngsins: „Söngurinn í kirkjunni undir stjórn Péturs Guðjohnsen organleikara þótti áhrifamikill. Sálmar sem Helgi Hálfdánarson, síðar lektor, hafði ort við þetta tækifæri, voru sungnir. Og nú var í fyrsta sinn sunginn sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar, er síðar var þjóðsöngur vor: Ó guð vors lands, undir hinu fagra lagi Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar, tónskálds. Hafði lofsöngur þessi djúp áhrif á marga þá, er hlýddu.“

Umræður um að skipta um þjóðsöng

Reglulega hefur sú hugmynd komið upp í þjóðfélagsumræðunni að skipta um þjóðsöng og hafa þá oft verið nefnd lögin Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Margrétar Jónsdóttur og ljóð Eggerts Ólafssonar Ísland ögrum skorið við lag Sigvalda Kaldalóns og Öxar við ána, lag Helga Helgasonar við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Þjóðsöngurinn hefur einkum verið gagnrýndur fyrir að þykja torsunginn; að vera of langur, en iðulega þarf að auka spilunarhraða lagsins eða stytta það, oftast niður í fyrsta erindið, við alþjóðlega kappleiki og aðrar þjóðlegar samkomur; fyrir að vera torskilinn og að lokum fyrir að fjalla aðallega um Guð kristinna manna.

Kristján IX

Skjaldarmerki Kristáns IX, á Alþingishúsinu.

Árið 1996 (121. löggjafarþing, 35. mál) var lögð fram þingsályktunartillaga um „endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga“ og m.a. lagt til að taka upp annan þjóðsöng ásamt lofsöngnum og hafa þá tvo þjóðsöngva (líkt og t.d. Nýja Sjáland hefur gert), tillagan var felld.

Þann 8. nóvember 2004 (131. löggjafarþing, 279. mál) lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson fram þingsályktunartillögu þess efnis að kannað yrði hvort rétt væri að skipta um þjóðsöng, „með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.“ Þau mæltu einkum með tveimur staðgenglum: ljóðinu Ísland ögrum skorið og laginu Ísland er land þitt. Fyrri umræða var haldin 16. nóvember 2004 og var ákveðið skv. atkvæðagreiðslu að halda henni áfram í síðari umræðu.

Lagaleg staða

Þjóðfáninn

Þjóðfáninn 17. júní.

„Lög um þjóðsöng Íslendinga“, þar sem söngurinn er nefndur „Ó Guð vors lands“, voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Þar er m.a. staðhæft að hann sé eign íslensku þjóðarinnar, að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu, að eigi sé heimilt að nota hann í viðskipta- eða auglýsingaskyni, að forsætisráðherra skuli skera úr um allan ágreining um rétta notkun hans og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti hans. Forsetinn hefur svo vald til að setja nánari ákvæði um notkun hans með forsetaúrskurði ef þörf þykir.

Brot á lögunum vörðuðu upprunalega varðhaldi allt að 2 árum, en því var breytt með lögum nr. 82, 16. júní 1998. Eftir að þau tóku gildi varðaði brot á lögum um þjóðsöng Íslendinga fangelsisvist allt að 2 árum.

Ljóðið
Lofsöngurinn samanstendur af þremur erindum og er yfirleitt látið nægja að syngja það fyrsta við opinberar samkomur.

1. erindi
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

2. erindi
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

3. erindi
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-06-17-150-ar-fra-fyrstu-thjodhatid-a-islandi-415076
-Þjóðsöngurinn – https://www.internet.is/aegiroh/island.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Lofs%C3%B6ngur

17. júní

17. júní 2024.

Búrfellshraun

Á upplýsingaskilti við Bala (Garðabæjarmmegin) í Hafnarfjarðarhrauni má lesa eftirfarandi um Búrfellshraun:

„Við stöndum á jaðri Búrfellshrauns sem stur sterkan svip á ásýnd Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Hér nefnist hraunið Klettar en norðan á nesinu nefnist sama hraun Gálgahraun þar sem það nær í sjó fram. Héðan eru 9 km í beinni loftlínu í gíginn Búrfell þar sem hraunið á upptök sín.

Náttúrulegt vinasamband
BúrfellshraunMeð þessu skilti innsigla Hafnarfjörður og Garðbær yfir náttúrulegu vinasambandi.
Markmið friðlýsingar er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hrauumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri.
Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og þar er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Það er ósk bæjamma að þessi staður, Bali, sé táknrænn fyrir sambandið og að almenningur geti komið hér og notið náttúru og friðsældar.

Aldur

Búrfell

Búrfell.

Búrfellshraun rann frá Búrfelli í sjó fram fyrir um 8000 árum yfir gömul hraun og berggrunn svæðisins. Búrfell er stakur gígur á miklu sprungu- og misgengissvæði sem teygir sig frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Búrfellsgígurinn er það eldvarp sem næst er höfuðborgarsvæðinu, af þeirri gerð sem nefnist eldborg.

Hrauntraðir

Búrfellshraun

Á þessu korti má sjá hversu víðfeðmt Búrfellshraunið er eða um 16 ferkílómetrar. Einng sést hvernig það hefur greinst í tvær meginkvíslar sem svo hafa sameinast og runnið í sjó fram, bæði í Skerjafjörð og Hafnarfjörð.

Búrfellsgjá

Skýringar með korti hér að ofan.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð þegar hrauná rann úr gígnum í lengri tíma og myndaði hraunfarvegi. Þekktastar eru Búrfellsgjá og Selgjá, en Búrfellsgjá á sér fáa sína líka. kringlóttagjá er all sérstæð og hefur orðið til í lokahrinu gossins. Hraunelfan rann meðfram Vífilsstaðahlíð og þar myndaðist Selgjá í tröð og rásum undir storknuðu yfirborðinu. Neðan við Selgjá undir Vífilsstaðahlíð rann hraunáin bæði á yfirborðinu og í rásum undir storknuðu yfirborðinu.

Hellar

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir – fjárhellir.

Í Búrfellshrauni eru fjölmargir skútar og hraunhellar, þeir þekktustu Maríuhellar. Flestir hellarnir við Vífilsstaðahlíð eru svokallaðir hraunrásarhellar, sem mynduðust þegar kvikan barst ekki lengur til hraunrásarinnar, en rennsli úr henni hélt áfram þar sem landhalli var nægur. Þannig tæmdist hraunrásin og hellar mynduðust. Iðulega hefur þakið á hraunrásinni veriðs vo þunnt að víða hefur það fallið niður í hrauntröðina. Því er erfitt að segja hvar einn hellir endar og annar byrjar.

Jökulmenjar

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Jökulruðningur sem ísaldarjökullinn skildi eftir þegar hann hopaði fyrir um tíu þúsund árum hylur víða holt og hæðir. Af jökulrákuðum klöppum má sjá síðasta skrið jökulsins á svæðinu. Ummerki hæstu sjávarstöðu í lok ísaldar eru í um 40 metra hæð yfir sjó hér í næsta nágrenni. Sjór hefur því náð í skarðið á milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í lok ísaldar.
Glögg ummerki eftir ísaldarjökulinn má finna víða í nágrenninu, s.s. á Hamrinum í Hafnarfirði, á holtunum ofan Garðabæjar og á hryggjarhæðum Kópavogs,s.s. Borgarholti og Víghólum.

Sprungur og misgengi

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Við Selgjá má víða sjá sprungur og misgengi sem hafa verið virk eftir að Búrfellshraun rann. Þar skera Hjallamisgengið og nokkur minni misgengi hraunið þvert og hefur land sigið austan þeirra um u.þ.b. 12 m síðan hraunið rann. Vatnsgjá er sprunga sem opin er niður í grunnvatnsborð, svo í botni hennar er ágætt neysluvatn. Sömu aðstæður má sjá við misgengið í Helgadal og í Kaldárbotnum.  Gleggstu misgengin á Reykjanesskagnum eru í Voga- og Strandarheiðinni.

Hin mörgu heiti Búrfellshrauns

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en hefur fjölmörg sérnöfn svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Athyglisverðir staðir
Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá með Gjáarrétt og Vatnsgjá, hrauntröðin Selgjá þar sem fundist hafa 11 seljasamsæður, Maríuhellar sem eru fyrrum fjárhellar, hrauntanginn út í Urriðavatn og Gálgahraun með Gálgakletti og Fógetagötu.“

Við Maríuhella er jafnframt upplýsingaskilti um Búrfellshraun og hellana. Þar stendur:

Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Maríuhellar er samheiti á þremur hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellar en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögum. Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar“. Ef til vill er talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhella við hana.

Draugahellir
Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Urriðakotshellir

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m á lengt. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfall. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist hafa verið hús þar og ef til vill kví.
Margir hafa tengt rás í austurhluta jarðfallsins við Vífilsstaðahelli, en það er misskilningur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella, skammt norðan Urriðakotshelli. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið notaður sem fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið en þar hefur orðið nokkurt hrun á seinni tímum. Framan við opið er grasgróður, ólíkt því sem gerist umhverfis. Gróðurinn gefur skýra vísbendingu um nýtinguna.

Jónshellar

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Einn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Fleiri hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Þeir sem eru mektir á kortinu eru Ketshellir (22 m), Kershellir (34m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43m), Sauðahellir nyrðri (32m), Skátahellir syðri (237m), Skátahellir nyrðri (127 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjárhellir eystri (11 m) og Sauðahellir (12).

Fyrir utan kortið (hér að ofan) má m.a. finna Hundraðmetrahellir (Fosshelli) (102m ), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshelli (65m), Hraunsholtshelli (23 m) og Vatnshelli (23 m).“

Búrfellshraun

Búrfellshraun – loftmynd (FERLIR).

Mosfellsbær

Við Mosfellskirkju eru tvö skilti. Á því fyrra má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Að Mosfelli var fyrst byggð kirkja á 12. öld og löngum var hér kirkja og prestssetur í aldanna rás. Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og ný kirkja byggð að Lágafelli eftir miklar deilur eins og sagt er frá í Innansveitarkroniku eftir Halldór laxness.

Mosfellskirkja hin nýja er teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt og reist fyrir gjafafé Stefáns Þorlákssonar (1895-1959 hreppstjóra í Reykjadal. Merkustu gripir krikjunnar eru gamall kaleikur og forn kirkjuklukka sem geymd var á Hrísbrú á meðan kirkjulaust var í Mosfellsdal. Mosfellskirkja var vígð 4. apríl 1965t.

Messan á Mosfelli
Eitt þekktasta kvæði Einars Benediktssonar (1864-1940) heitir Messan á Mosfelli og greinir frá breyskum presti sem hér bjó. Yfirvöld komu ríðandi úr Reykjavík til að setja prestinn af en hann tók þá menn til bæna í Mosfellskirkju í orðsins fyllstu merkingu.
MosfellsbærEinar sagði sjálfur að kvæðið byggði á þjóðsögu og fyrirmynd skáldsins að prestinum hefur ekki fundist svo óyggjandi sé. Fyrsta og síðasta erindi þessa magnaða kvæðis eru þannig:

Ein sga er geymd og er minningarmerk

um messu hjá gömlum sveitaklerk.

Hann sat á Mosfelli syðra.

Hann saup; en hann smaug um Satans garn.

Í sál bar hann trú, en dró kjólinn í skarn,

-einn herrans þjónn og eitt heimsins barn, með hjarta, sem kunni að iðra.

MosfellsbærÞar heyrðu þeir prest – við eitt bláfátækt brauð,

og brjóst þeirra eigin fundust svo snauð,

em bróðirinn brotlegi ríkur. –

Í minnum er höfðingja heimreiðin enn.

Þeir hurfu í messulok allir senn.

Og voru hljóðir, hógværir menn,

sem héldu til Reykjavíkur.

Egils saga greinir frá því þegar Egill Skallagrímsson dvaldi hér á Mosfelli á efri árum hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni. Samkvæmt sögunni á hann að hafa falið silfursjóð sinn hér í nágrenninu. Frá þessu er sagt í 88. kafla sögunnar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest „vil eg fara til laugar“. Og er Egill var búinn gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór ofan eftir túninu fyrir brekku þá er þar verður er menn sáu síðast.

En um morguninn er menn risu upp þá sáu þeir að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.

En hvorki komu aftur síðan þrælarnir né kisturnar og voru þar margar gátur á hvar Egill hafi fólgið fé sitt.“

Á hinu skiltinu má lesa eftirfarandi:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

„Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímansfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, grettistak á Þverfelli og Seljadal. fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulega minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal er þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður
Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, upp dalina og fellin. Ofan til eru felli gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunna undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.“

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Mosfellsbær

Í Álafosskvos í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos.

„Árið 1896 hófst ullarævintýrið á Álafossi en þá lét Björn Þorláksson (1854-1904) bóndi og hreppstjóri á Varmá reisa ullarvinnsluhús hér á árbakkanum og nýtti vatnsaflið til að knýja tóvinnuvélarnar. Fyrsta húsið sem reist var á staðnum stendur enn en hverfur inn í húsaþyrpinguna í brekkunni hér fyrir handan.

Smám saman myndaðist húsahverfi í kringum verksmiðjureksturinn sem efldist jafnt og þétt, ekki síst í tíð Sigurjóns Péturssonar (1888-1955) en hann rak Álafossverksmiðjuna frá 1919 til dauðadags. Hér ofar í brekkunni getur að líta brjóstmynd af Sigurjóni.

Húsin í Álafosskvos eru frá ýmsum tímaskeiðum. Á árbakkanum stendur gamla sundlaugarbyggingin, ein sú elsta á landinu, vígð árið 1933 og eina sundlaugin í Mosfellssveit um áratugaskeið. Sundlaugarhúsið hefur fengið nýtt hlutverk eins og önnur hús hér í kvosinni. Enginn ullariðnaður er stundaður lengur í Álafosskvos en hér er þó ullarafurðasala þannig að gamli ullarandinn svífur enn yfir vötnunum.“

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos. „Í tíð Sigurjóns Péturssonar var öflugt félags- og íþróttalíf hér á Álafossi. Hann gekkst m.a. fyrir svoköllum Fánadögum á 3. og 4. áratugnum í fjáröflunarskyni fyrir íþróttaskóla sem hann starfrækti á staðnum. Þá voru m.a. sýndir leikþættir, keppt í íþróttum og margt fleira sér til gamans gert en til að njóta betur skemmtiatriða á Fánadögum og öðrum mannamótum að Álafoss voru mótuð sérstök sæti í brekkuna. Dansað var í stóru samkomutjaldi og selt inn, hálftíma í senn. Þegar draga tók úr aðsókninni á einum dansleiknum kallaði Sigurjón yfir svæðið: „Allir inn í tjald, næsti hálftími verður þrjú korter!“
Myndir hér að ofan er tekin á Fánadögum árið 1936. Húsið lengst til vinstri er leikhús. Hægt var að opna austurhlið hússins og blasti þá leiksviðið við áhorfendum sem sátu í brekkunni.“

Mosfellsbær - skilti við Reykjalund.

Við Reykjalund í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Reykjalund.

„Vinnuheimilið að Reykjalundi var vígt 1. febrúar 1945. Þá höfðu nokkur íbúðarhús fyrir vistmenn verið reist við svonefnda Efribraut og bröggum frá hernámsárununum var fundið nýtt hlutverk. Braggarnir voru notaðir sem vinnuskálar en að Reykjalundi var rekinn ýmis konar iðnaður frá fyrstu tíð, m.a. smíðuð leikföng í stórum stíl.

Ap Reykjalundi var háð um árabil ötul barátta gegn berklaveikinni sem var einn helsti vágestur íslensks samfélags á fyrri hluta 20. aldar. Eftir að það tókst að vinna bug á berklum hér á landi varð Reykjalundur alhliða endurhægingarstöð en einnig var rekinn hér umfangsmikil plastiðnaður.

Markmið Reykjalundar er að veita læknisfræðilega, atvinnulega og félagslega endurhæfingu. Reykjalundur er í eigu SÍBS, Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og starfrækir hér einnig vinnustofuna Múlalund.“

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Reykjalund.

Mosfellsbær

Við Lágafell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Lágafell; skilti.

„Að Lágafelli var bænahús á miðöldum en Lágafellskirkja var vígð árið 1889 og er að stofni til sú sama og hér stendur. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1956 og 1979. Lágafellskirkja tekur 160-180 manns í sæti.

Lágafell er gömul bújörð pg prestar Mosfellinga sátu hér í kringum aldamótin 1900, Á þriðja áratug 20. aldar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) jörðina og bjó hér á efri árum sínum í íbúðarhúsi sem stendur enn. Á 5. áratugnum keypti Mosfellshreppur hluta af Lágafellslandi og var því skipt niður í nokkur nýbýli þar sem búskapur var um nokkurt skeið. Stór hluti þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar hefur risið í landi Lágafells.“

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Lágafell; skilti. Mynd: Þessi ljósmynd var tekin af Mosfellingum árið 1901 eftir messu að Lágafelli. Fyrir miðri mynd sitja Guðrún Þorláksdóttir og Sigurður Guðmundsson frá Korpúlfsstöðum sem héldu gullbrúðkaup sitt hátíðlegt þennan dag. Ljósm. Sigfús Eymundsson