Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.
Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.
„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).
Á Hafnavegi 1952.
Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.
Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi
Hafnir – loftmynd 1954.
Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.
Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.
Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness. Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.
Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi
Frá Höfnum.
Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.
Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.
Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Hafnarétt.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Hafnir – Kotvogur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Hafnir – Kotvogur.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún. Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.
Kirkjuvogskirkja 1970.
Selbúskapur – endalok
Þorvaldur Thoroddsen skrifaði í Andavara árið 1916 um „Endalok seljabúskaparins“ hér á landi:
„Menn höfðu til forna miklu meira í seljum en nú og sel voru víða hátt til fjalla og heiða; þau lögðust niður, ekki vegna þess að landkostir rýrnuðu, heldur af breytingu á búskaparlagi og af vinnufólkseklu, það hefir altaf smátt og smátt orðið örðugra og dýrara að búa á stóru jörðunum af því vinnukrafturinn varð dýrari, ekki að eins kaupgjaldið, hækkun þess hefir eigi alténd verið eins tilfinnanleg eins og kostnaðurinn við að fæða fólkið eftir að kröfurnar urðu meiri, og eyðslan hefir jafnan vaxið fljótar en afraksturinn. Svo þegar harðindi bætast ofan á örðuga verzlun og búskaparbasl, slær óbug á menn, þeir leggja árar í bát, þrekið linast og hugurinn á að bjarga sér; þetta er sérstaklega augljóst á 17. öld.
Utan til á hálendinu og í afdölum upp til heiða eru margar rústir af smábýlum frá ýmsum öldum; þessi fjallakot hafa eyðst af ýmsum orsökum, oft vegna harðinda, eldgosa og drepsótta; á þeim hafa jafnan búið fátæklingar, sem ekkert mótstöðuafl höfðu þegar móti blés. Fæst af þessum fjallakotum á hálendinu hafa verið bygð í fornöld, fæst virðast hafa verið tekin upp á seinni öldum á 14., 15. og 16. öld, en mörg þeirra hafa fljótt aftur lagst í eyði.“
Heimild:
-Andvari 41. árg. 1916, 1. tbl., Þorvaldur Thoroddsen, bls. 73-74.
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Eldborgir – Krýsuvíkurhraun
Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.
Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).
Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.
Svæðið.
Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.
Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.
Stóra-Eldborg.
Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.
Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.
Æsubúðir.
Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:
Stóra Eldborg.
”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.
Dysjar Herdísar og Krýsu.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.
Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.
Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.
Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.
Eldborgarhraunin.
Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Leifar gígs Litlu-Eldborgar.
Bessastaðir – konungsgarðurinn 1720
Einar Laxness skrifar í Sögu árið 1977 um Konungsgarðinn á Bessastöðum, „Plan og Prospect af Bessesteds kongsgaard“ árið 1720:
„Bessastaðir á Álftanesi komust í eigu Noregskonungs á miðri 13. öld, þegar eignir Snorra Sturlusonar voru gerðar upptækar eftir dráp hans. Á miðri 14. öld mun staðurinn hafa orðið það, sem síðar var nefnt „konungsgarður“, þ. e. embættisaðsetur æðsta erlenda fulltrúa konungs á Íslandi, hirðstjóra, síðar höfuðsmanns, eða umboðsmanns hans, svonefnds fógeta. Íslenzkir menn, sem höfðu hirðstjóravöld, sátu á höfuðbólum sínum.
Eftir einveldistöku í Danmörku 1661 og erfðahyllingu í Kópavogi 1662 urðu breytingar í stjórnsýslu á Íslandi, sem komust í framkvæmd á árunum 1683—88. Þá var í stað höfuðsmanns skipaður landfógeti 1683 til að annast fjármál og verzlun og stiftamtmaður (stiftbefalingsmaður) 1684 til að annast æðstu stjórn Íslandsmála í umboði konungs. Þar sem embætti stiftamtmanns var í upphafi einungis tignarstaða, sem í var skipaður Ulrik Christian Gyldenlove, 5 ára gamall launsonur Kristjáns konungs V., var sérstakur fulltrúi hans, amtmaður, skipaður 1688 með búsetu á Íslandi og skyldi annast dómsmál og kirkjumál. Þessir tveir embættismenn, landfógeti og amtmaður, áttu báðir að hafa aðsetur í konungsgarði á Bessastöðum. Má því gera ráð fyrir, að þar hafi löngum verið veglegri húsakynni en annars staðar á landinu.
Um 1720 var svo komið, að konungsgarður var í mjög bágbornu ástandi. Það staðfestir sú lýsing, sem Peder Raben stiftamtmaður hefur komið á framfæri við konung í
gegnum rentukammer í Kaupmannahöfn, en amtmaður var þá Niels Fuhrmann og landfógeti Cornelius Wulf. Í skjölum rentukammers frá þessum árum er að finna uppdrátt
af Bessastöðum, — „plan og prospect af Bessesteds kongsgaard“, — sem sýnir glögglega húsaskipan á þessum tíma á staðnum. Í hinum dönsku skýringum við uppdráttinn eru öll uppistandandi íveruhús, svo og kirkja, sögð „brostfældig“, þ.e. hrörleg, svo að þau eru næsta ónothæf. Ennfremur er þarna að finna teikningu af nýrri byggingu, sem gerð er tillaga um að reisa. Þessar myndir, sem ekki hafa birzt áður, fylgja hér með, lesendum Sögu til fróðleiks um það, hvernig konungsgarður á Bessastöðum leit út á öndverðri 18. öld. Þær eru varðveittar á Þjóðskjalasafni.
Afleiðing umkvartana stiftamtmanns um slæmt ástand húsa á Bessastöðum, leiddi einungis til þess, að reist var nýtt timburhús á árunum 1721—25 (fyrir rúmlega 1000 ríkisdali); um það bil tveimur áratugum síðar var ástand þess orðið svo slæmt, að þar fóru fram endurbætur (fyrir um 1500 rd.) 1748—52. Ekki voru þær endurbætur til frambúðar, því að 1760 var ákveðið að reisa nýtt hús úr steini fyrir amtmann einan, þar sem landfógeti (Skúli Magnússon) hafði fengið byggða Viðey og stjórnin látið reisa þar stórhýsi (1752—54). Þannig reis hin nýja Bessastaðastofa á árunum 1761—66, sem hýsti amtmann og frá 1770 stiftamtmann til 1805, þegar latínuskólinn var þangað fluttur, en stiftamtmaður hvarf til Reykjavíkur; þessi Bessastaðastofa stendur enn, nú sem forsetasetur.
Kirkjan á Bessastöðum, sem sést á uppdrættinum, mun reist um 1620 og hlaut gagngerðar endurbætur síðar á 17. öld. 1720 er henni lýst, eins og öðrum staðarhúsum, sem „brastfældig“. Samt stóð þessi kirkja uppi lengi enn, því að nýju steinkirkjunni, sem ákveðið var að reisa 1773, var ekki lokið fyrr en upp úr 1790, og í raun ekki fullgerð fyrr en um 1820. Er það sú kirkja, sem enn stendur.
Skýringar á dönsku, sem fylgja uppdrætti af konungsgarði
á Bessastöðum 1720 (stafrétt):
A. Amptmandens Huus, som hand boer udi, er bögt af Tömmer og Deler, er Gammelt og megit bröstfeldig.
B. og C er tuende öde Pladser huor paa har Staaet huuse til forne Amptmanden tilhörte.
D. huus for Amptmandens Folk, Opbögt af Jord og Steen, mens formedelst dets Bröstfeldighed, bliver neppe halfdeelen nötted.
E. et huus huor udi har veret en mölle tilforne huuset er böggit af Steen og Jord, dog Saaledis forfaldet at det snart af ingen nottis.
F. Landfogdens huus huor udi hand Boer er bogit af Jord og Tömmer, er gammelt og megit bröstfeldig.
G. Kaldis St. Nicolay Kierke er bogt af Tre og Deler, megit forfalden og bröstfaldig.
h. Indgangen till Kongsgaarden.
i. Dören paa Amptmandens huus.
k. Dören till Möllehuuset.
1. Dören till Amptmandens Folkes huus.
m. Dören till Landfogdens huus.
n. Denn Store kierke Dör.
o. Een liden dör paa Kierken.
p. Een liden opkastning af Jord, om kring Kierken, som giör Kirkegaarden.
q. Tuende—Jordhöyer, saaledis opkasted Jefnsides af huerandre, med en gang imellem dem lige for Kierke Dören.“
Heimild:
-Saga, 15. árg. 1977, Einar Laxnes, bls. 223-226.
Bessastaðir.
Gránuhellir við Gjásel
Gengið var um Brunatorfur (Brunntorfur/Brundtorfur) með það fyrir augum að koma við í nálægum seljum, Fornaseli og Gjáseli, og reyna að endurfinna Gránuhelli; fornt fjárskjól.
FERLIR fann hellinn fyrir nokkrum árum, en týndi honum síðan aftur. Mjög erfitt er að staðsetja opið, einkum þegar allt er gróið að sumri til, en því auðveldara að vetrarlagi. Landslagið þarna er keimlíkt; mosa- og kjarrvaxnir hraunhólar og – hryggir. Hlaðinn gangur er framan við opið á hellinum og inni er rými fyrir u.þ.b. þrjátíu kindur. Birkihríslur eru við opið og þekja þær innganginn að hluta.
Síðan hefur verið farið tíu sinnum á vettvang með það að markmiði að reyna að staðsetja opið, en án árangurs.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a. um selin: „Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnar-holtsvörðu lá landamerkjalínan…
Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.“
Hér er augljóslega um nokkra misvíxlun að ræða. Í fyrsta lagi er nöfnum seljanna ruglað saman, nema hér sé um sannnefni að ræða og aðrar lýsingar séu rangar. Sannanlega lítur Gjáselið út fyrir að vera eldra en Fornasel af ummerkjum að dæma. Litlaholt er suðvestur af Gjáseli en ekki Fornaseli. Rústir kvía eru norðan undan núverandi Gjáseli, en slíkar eru sunnan við Fornasel. Ef tekið er mið af því að Gjásel hafi verið Fornasel ætti Gránuhellir suður og upp af selinu (Fornaseli skv. örnefnalýsingu). Ekki er loku fyrir það skotið að hellir kunni að leynast suður af Fornaseli og að Gránuhellir, sem fannst og leitað var að nú, kunni að vera gleymdur fjárhellir.
Ummerki við hann benda frekar til þess. Leitað hefur verið að meintum helli suður af Fornaseli, en hann ekki fundist (fram að þessu a.m.k. hvað sem síðar verður). Mjög erfitt er að finna skjólin í hrauninu vegna þess hversu smáholt eru mörg og sprungin og jarðföll víða.
Eftir u.þ.b. tveggja klst. leit sunnan og vestan við Gjásel, fannst „Gránuhellir“ loks vestnorðvestur af því. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hlaðna ganginum niður í hellinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.
Í Gránuhelli.
Sagnakvöld I – Kálfatjörn, kirkjan og nágrenni
Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 – „Munir og minjar á Kálfatjörn og nágrenni og sagnir þeim tengdar„.
„Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju sem haldið er á vegum leiðsögumanna Reykjaness ses og í samvinnu við Minjafélag Vatnsleysustrandar og Mark – Hús ehf.
Í kvöld munum við bjóða ykkur upp á sögulegan fróðleik og að því loknu er kaffi í boði í þjónustuhúsinu hér við hliðina. Við áætlum að dagskráin taki tæplega tvær klukkustundir hér í kirkjunni og endi í þjónustuhúsinu.
Ég ætla að segja ykkur frá helstu munum og minjum hér á Kálfatjörn og hér í kring og sögnum þeim tengdum.
Viktor Guðmundsson leiðsegir.
Viktor Guðmundsson er innfæddur Vogamaður. Hann mun segja okkur frá fræknum formönnum sem voru uppi á síðari hluta 19. aldar þegar útvegurinn var í miklum blóma hér á Ströndinni og íbúafjöldinn tvöfaldaðist yfir vetrarvertíðina. Ómar Smári Ármannsson er vel þekktur en hann er mikill göngugarpur og er búinn að þræða Suðurnesin fram og aftur og kynna sér margar minjar og skrá þær og mynda og hægt er lesa um ferðir hans á vefslóðinni FERLIR. Hann ætlar í kvöld að segja okkur frá seljabúskap sem var mikið stundaður hér fyrr á öldum og sýna okkur myndir af minjum sem enn má sjá frá þeim búskap.
Þorvaldur Örn Árnason.
Þorvaldur Örn Árnason er Vogamaður og mikill náttúruunnandi. Hann ætlar að fá okkur til að taka lagið á milli atriða og spila undir á gítar. Snæbjörn Reynisson, Vogamaður, mun segja nokkur orð fyrir hönd minjafélagsins.
Eins og þið sjáið þá ákváðum við að vera dálítið þjóðleg í kvöld og klæðumst því íslenskum lopapeysum bæði gamaldags þ.e. hnepptum og beinum og nýmóðins með rennilás og aðskornum. Íslensku peysurnar eru gott dæmi um það hvernig hið gamla getur orðið nýmóðins en það er kannski það sem við viljum koma áleiðis til ykkar í kvöld þ.e að minna ykkur á allar þeir verðmætu minjar og sagnir sem til eru á þessu svæði í von um að þær megi varðveitast og verða að nýjum fróðleik fyrir þá sem á eftir koma.
Hér á Kálfatjörn eru margar minjar og sagnir þeim tengdar. Hér hafa margir fróðir og merkir menn búið og sem betur fer er ýmislegt sem hefur varðveist bæði ritað og hljóðritað. Í efni mínu um muni og minjar á Kálfatjörn og sagnir þeim tengdar styðst ég aðallega við heimildir s.s.:
1. Erindi sem Erlendur Magnússon á Kálfatjörn flutti þegar kirkjan átti 50 ára afmæli og birt var í riti sem gefið var út í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar, 11. júní 1993.
2. Lýsingu á örnefnum í Kálfatjarnarhverfi sem Örnefnastofnun safnaði og höfundar eru synir Erlendar þeir Gunnar og Ólafur Erlendssynir.
3. Fróðleik frá þeim systrum Ingibjörgu og Herdísi Erlendsdóttur sem ég kynntist og þær miðluðu mér.
Kálfatjörn 1978.
Allt þetta fróða fólk er nú því miður látið og hvílir hér í garðinum utan einn bróðirinn Ólafur Erlendsson sem er vel hress og verður níræður á þessu ári. Ég ræddi við hann og tók samtalið upp til varðveislu. Einnig fræddi sonur Ingibjargar, Friðrik H. Ólafsson mig en hann er hér fæddur og alinn upp.
Kálfatjarnarkirkja og næsta nágrenni.
Árið 1200 er fyrst getið kirkju hér og þá í sambandi við rekamörk kirkjunnar. Telja má víst að þá hafi kirkja verið búin að standa hér um nokkurt skeið, því þegar eftir kristnitökuna voru kirkjur reistar í flestum byggðarlögum landsins.
Kirkjustaðurinn getur því verið mjög gamall en með fullri vissu um 800 ára gamall. 1397-1450 er Kálfatjarnarkirkja nefnd Péturskirkja í kaþólskri tíð tileinkuð Pétri postula. Margir prestar hafa setið á Kálfatjörn og ætla ég ekki að fara út í alla þá sögu en nefna þó séra Stefán Thorarensen sem er hér prestur til 1886, í 29 ár. Hann var mikið sálmaskáld og sálmaþýðandi eins og sjá má í sálmabókum en mjög sálmar eru eignaðir honum. Séra Árni Þorsteinsson sat í 33 ár eða til 1919. Hann var síðasti presturinn sem sat hér á Kálfatjörn, því Kálfatjarnarsókn lagðist til Garðaprestakalls 1907.
Kálfatjörn – túnakort 1919 sett ofan á loftmynd. ÓSÁ
Í þau tæp 500 ár sem Kálfatjörn var prestsetur er getið að 15 prestar hafi setið hér og þeir þjónað til jafnaðar 34 ár. Það segir heilmikið um hversu gott brauð þetta hefur verið. Því prestar fóru ekki að fá laun frá ríkinu fyrr en seint á 19.öld en fyrir þann tíma var það jörðin og hlunnindi hennar sem skiptu máli hversu efnaðir prestar urðu. Kirkjan sem var á undan þessari var byggð 1863, og því aðeins 30 ára gömul þegar þessi var byggð. Mun hún hafa verið of lítil fyrir söfnuðinn sem var á þeim tíma 6-700 manns og 10-12 hundruð á vertíðinni.
Hinn 15. maí 1892 eru fermd 25 börn í kirkjunni og daginn eftir er byrjað að rífa hana og hafist handa við byggingu nýrrar kirkju. Sjálfboðaliðsvinna kom þá þegar til sögunnar og var mjög mikil. Fyrir byggingu grunnsins stóð Magnús Árnason steinsmiður. Hann bjó þá í hreppnum í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk enda var það haft eftir yfirsmið kirkjunnar Guðmundi Jakobssyni að hann hefði ekki reist hús á jafnréttum grunni, sem þessum. Allt efni kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp hér, á árabátum, öllum unum við, en stórtré lögð á fleka og róin til lands, aðrir tóku svo við og báru upp hingað heim og var mikið kapp í mönnum að verkið gengi fljótt og vel fyrir sig. Þá voru eigi bílar til að létta og flýta ferðum.
Kálfatjarnarkirkja 1930.
Þegar farið var að höggva til grindina kom í ljós að efni vantaði í fótstykki forkirkjunnar þrátt fyrir að allt hafi verið mjög nákvæmlega útreiknað áður en bygging hófst. Þótti það bagalegt og til tafar, því til að fá þetta efni þurfti að manna skip með 8-10 mönnum og fara til Reykjavíkur til að fá það. En þá kemur frétt um að stórt tré hafi rekið á fjörur kirkjunnar, inn á svokölluðum Réttum. Reyndist tré þetta vera “kjölsvín” úr skipi og mældist 8 x 9 tommur að gildleika og 34 feta langt. Var tréð því svo mátulegt í þau 3 stykki sem vantaði að hvorki þurfti af að taka né við að bæta, en einn kantur forkirkjunnar kom af sjálfu sér frá aðalkirkjunni. Eins og Erlendur Magnússon orðaði svo vel í afmæliserni sínu í tilefni af tímmtíu ara afmæli korkjunnar var þarna komið „fótstykki frá kirkjunni sjálfri til að reisa hinn mikla og glæsilega turn kirkjunnar og eins og kjölsvínið” tengir aðalgrind skipsins innviðum við stofntré þess kjölinn, eins tengdi það nú saman aðalkirkju og forkirkju sem gefur hverri kirkju hinn glæsilega og tilkomumikla svip. Kirkjan var síðan vígð 11. júni 1893.
Aðalsmiðir kirkjunnar voru Guðmundur Jakobsson er teiknaði hana og var yfirsmiður og Sigurjón Jónsson kennari hér við barnaskólann sem einnig var lærður trésmiður. Allt sem rennt var, svo sem pílárar og ljósaliljur gerði Þorkell Jónsson frá Flekkuvík þá bóndi í Móakoti, hér í Kálfatjarnarhverfi. En þá þekktist ekki nein vélarvinna og tiltölulega lítið flutt inn af unnum við og megnið því handunnið og er því um feiknaverk að ræða. Kirkjuna málaði danskur málari, búsettur í Reykjavík, Bertelsen að nafni og málningin á inniveggjunum hefur varðveist fram á þennan dag í yfir 100 ár.
Kálfatjarnarkirkja – altaristafla og málning.
Fyrir utan smá lagfæringar sem gerðar voru við fordyr kirkjunnar en það verk unnu hagleiksmennirnir Jón og Gréta er gistu hér á Kálfatjörn hjá Herdísi Erlendsdóttur meðan á verkinu stóð. Þetta er eina heildar verkið að ég held sem varðveist hefur eftir Bertelsen málara. Hann virðist hafa málað kirkjuna á Akranesi af gömlum myndum af dæma og Iðnó en á báðum stöðunum hefur verið málað yfir og verkið það ekki varðveist eins vel og hér. Hingað komu menn fyrir nokkrum árum síðan og skoðuðu verkið en þá voru þeir að gera upp Iðnó en þar fundust einmitt brot af málningarverki Bertelsen þegar þeir rifu niður veggpappír og þeir vildu reyna að mála Iðnó í sömu mynd aftur eins og Bertelsen hafði málað forðum.
Ýmsir aðrir munir í kirkjunni eiga sér sögu, altaristaflan er eftirmynd Sigurðar málara af upprisunni en fleiri slíkar eru til s.s. í Dómkirkjunni, Hvalsneskirkju og á fleiri stöðum.
Ýmsir munir hafa verið gefnir kirkjunni s.s skírnarfonturinn, ljósastikan úr birki, ikoninn altarisklæði og dúkur, hökull o.fl. oft til minningar um látna ættingja. Fyrir 1935 var turn kirkjunnar öðruvísi en nú er en þá var hann áttstrendur og þótti mjög fallegur. Söfnuðurinn vildi fá að halda sínum gamla og vinsæla turni, en húsameistari ríkisins og biskup lögðust móti því og því var honum breytt eins og hann er í dag. Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.
Kálfatjörn – Móakot; uppdráttur.
Annar steinn, hestasteinninn, er/var á móts við Hátún þ.e. við afleggjarann að kirkjunni hann er með tveimur götum og líklega til að binda hesta við. [Steinn þessi hvarf, en eftir umfjölluna var honum skilað á sinn stað aftur og stendur nú austan megin við heimreiðina að kirkjunni]. Norðan megin við kirkjuna er stór forláta steinhella frá 1669 yfir Erlendi Jónssyni lögréttumanni. sem Björn Th Björnsson, listfræðingur telur vera eftir steinasmiðinn mikla Þorkel Arngrímsson guðsþénara á Görðum á Álftanesi. Verk hans má einnig sjá í kirkjugarðinum á Görðum og á Þingvöllum. Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina. Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka.
Kálfatjörn 2023. Bjarg fjær.
Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999.
Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. Skipið var talið vera á við fótboltavöll á stærð og svo stórt að önnur skip gátu ekki dregið það að landi og bjargað því. Um borð í skipinu var mikill timburfarmur sem átti að fara í járnbrautargerð. Farmurinn kom sér vel á Suðurnesjum og voru mörg hús smíðuð úr viðnum og enn má sjá nokkur þeirra uppistandandi. Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins. Fyrir vestan hlöðuna má sjá móta fyrir sjávargötu sem liggur niður í naustin og lendinguna. Við hana er mjög hagalega hlaðinn djúpur brunnur sem talinn er vera með elstu brunnum á ströndinni.
Kálfatjarnarbrunnur.
Skammt fyrir neðan brunninn lá rásin sem alltaf var full af vatni en tæmst hefur á síðustu árum. Yfir hana sést greinilega steinhleðsla frá fornri tíð. Rásin kom ofan úr heiði og tók oft í sundur veginn eftir að hann kom og bar þá með sér möl sem enn má sjá en rásin hélt síðan áfram niður eftir Goðhólstúninu sem er vestan við Kálfatjarnartúnið en beygði síðan norður neðan Hallhóls og endaði í Kálfatjarnarsíkinu en þaðan rann hún bæði í Kálfatjörnina og út í sjó. Enn sér móta fyrir affallinu. Stundum snéri þetta við á stórstraumsflóði og í vestanátt en þá flæddi inní síkið og jafnvel upp um öll tún. Kálfatjarnarkirkja stóð á hól og stundum var hún eins og á miðri eyju.
Munnmæli herma að fyrrum hafi kirkjan staðið nær sjónum en síðar verið flutt ofar vegna ágangs sjávar og gætu því minjar frá fyrri tíð verið í Kálfatjarnartúninu. Húsið sem stendur neðan við hlöðuna er Norðurkot en það hús stóð aðeins sunnar á Ströndinni og var flutt hingað fyrir stuttu. Í þessu húsi var skóli um tíma eða á árunum frá 1900 – 1911.
Nýstofnað minjafélag Vatnsleysustrandar fékk húsið að gjöf frá afkomendum Erlendar og Kristínar auk ýmissa muna sem þau höfðu geymt þar og segja sögu svæðisins. Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.
Kálfatjörn – sjóhús.
Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar. Vestan við Naustakot og Kálfatjarnartúnið eru tóftir Goðhóls en þar var búið í torfbæ til ársins 1933. Þar má vel sjá hvernig fólk lifði í byrjun tuttugustu aldar en þar eru tóftir baðstofu og fjósið við hliðina og þar er fjárhús og garðar í kringum kálgarðinn og kartöflubeðin. Goðhólsjörðin afmarkast greinilega af hlöðnum görðum. Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.
Mjög víða eru garðar og vörður og merkar minjar sem tengjast útvegi og gömlum búskaparháttum á Vatnsleysuströnd og gæti ég haldið lengi áfram að segja frá þeim og ýmsu öðru en það verður að bíða betri tíma. Fyrirhugað er að leiðsögumenn bjóði upp á gönguferð í sumar um svæðið og skoða minjarnar. Ég hef nú í þessum pistli mínum tekið saman helstu þætti um muni og minjar á Kálfatjörn. Kirkjan var eins og áður hefur komið fram byggð á árunum 1991-1993 en það voru harðræðisárin sem stór hluti landsmanna flúði til Ameríku. Kirkjubyggingin hefur því verið þrekvirki þess tíma.
Von mín er sú að hið nýja minjafélag með hjálp sóknarbarna og annarra velunnara megi eiga þess kost að varðveita muni og minjar og sagnir þeim tengdar og koma Kálfatjarnarkirkjustaðnum til vegs og virðingar á ný eins og hann var um aldir.
Við lokin hér í kirkjunni vil ég fyrir hönd okkar leiðsögumanna þakka öllum fyrir komuna og Minjafélaginu fyrir samvinnuna og Mark-Hús ehf sem er byggingarfyritæki og eiganda þess Markúsi, sem er nýr landeigandi hér á Vatnsleysuströnd og styrkti okkur, Þorvaldi fyrir sönginn og Jóhanni kirkjuhaldara fyrir greiðviknina. Einnig börnum Oktavíu og Helgu Ragnarsdætra fyrir auglýsingaútburðinn sem og þeim systrum fyrir kaffiveitingarnar. Gjörið svo vel að ganga yfir í þjónustuhúsið og þiggja kaffisopa.“
-Framangreint er úr erindi SFJ á Sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju 19. jan. ´06.
Kálfatjörn.
Garðakirkja endurreist – Sigríður Thorlavius
Sigríður Torlavius skrifar í Tímann árið 1965 um endurreisn Garðakirkju:
„Í meira en sex hundruð ár hafði staðið kirkja að Görðum á Álftanesi. Frá kirkjudyrum höfðu menn sýn yfir strönd og nes horfðu vestur um flóa, í sólsetursglóð eða kólgubakka. Þaðan mátti sjá fólk starfa að landbúnaði og við sjófang, báta róa til fiskjar, snúa í höfn — eða hverfa að fullu og öllu. Þar höfðu þjónað 43 klerkar, aðstoðarprestar meðtaldir, þegar ákveðið var árið 1914, að sóknarkirkjan skyldi flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar í sjávarþorpið við hraunjaðarinn í botni víkurinnar.
Mismargt er ritað um þá klerka, sem staðinn hafa setið frá því þar var séra Ólafur Magnússon, sem árið 1284 gerði för sína til Noregs og andaðist þar ári síðar. Árni biskup Þorláksson sem Biskupa sögurnar segja, að hafi „farið fram sem ljón“ í stríði sínu við veraldlega valdið um eignir þær, sem kirkjunum höfðu verið lagðar, setti á staðinn frænda sinn séra Bjarna Helgason, árið 1285. Ekki undi Rafn lögmaður Oddson því, heldur tók staðinn af Bjarna og fékk í hendur Sturlu Sæmundssyni frá Odda. Fleiri urðu átök um yfirráð staðarins á þeim óróatímum.
Árið 1531 fékk séra Einar Helgason staðinn. Ekki var kært nábýlið með honum og Diðriki af Mynden, fógeta á Bessastöðum. Kvaðst klerkur albúinn að lesa ævisögu fógetans upp á Alþingi og væri honum það mátulegt, því bæði stæli hann og kæmi öðrum til að stela. Eftir að Diðrik var dauður óhreinan sveim, lagði þó ári sá aldrei til við séra Einar. En annan mann átti séra Einar að vini. Það var hinn blindi biskup Ögmundur Pálsson, sem svo hart var leikinn af Gissuri eftirmanni sínum. Hann bað séra Einar að skrifa bréfið til Ásdísar systur sinnar á Hjalla, um afhendingu Slifursins, sem duga átti honum til lausnar. Ekki treystu þeir Hvítfeld og Gissur bréfagerð séra Einars, heldur skrifaði Gissur sjálfur annað bréf og sendi séra Einar með það austur.
Árin 1569—1618 sat Jón Kráksson staðinn. Hann var hálfbróðir Guðbrands biskups Þorláksaonar og var með honum erlendis þegar Guðbrandur tók vígslu. Samtímis fengu þeir staðfesta dóma um endurheimt jarða, sem dæmdar höfðu verið af Jóni afa þeirra Sigmundssyni.
Árið 1658 fluttist að Görðum Þorkell prestur Arngrímsson og þar fæddist honum sonur árið 1666, er kunnur varð samtíð og síðari öldum Jón biskup Vídalín. Jón Vídalín var að vísu prestur í Görðum um tveggja ára skeið, 1695—97, en virðist alltaf hafa verið með annan fótinn austur í Skálholti hjá Þórði biskupi Þorlákssyni Þó hafði hann bú á Görðum með móður sinni, en naumast hafa efnin verið mikil. Er að því vikið í Biskupasögunum, að eftir andlát Þórðar biskups, hafi Guðríður ekkja hans veitt Jóni fjárstyrk til að sigla, svo hann næði biskupsembætti og vígsju. Ári eftir að Jón tók vígslu, hélt hann brúðkaup sitt, en ekki sat velgerðarkona hans, biskupsekkjan, þá veizlu. Er sveigt að því, að þá hafi verið tekin að kólna vinátta þeirra. Ó-já, það er svo sem sitt hvað, sagnfræði og slúður!
Fleiri Garðaklerkum samdi illa við höfðingjana á Bessastöðum. Björn Jónsson Thorlacius, sem var þar prestur frá 1720—46, átti í miklum brösum við amtmanninn. Dætur átti séra Björn tvær og giftist önnur Halldóri biskupi Brynjólfssyni, en hin, sem var launbarn, varð eiginkona Skúla fógeta.
Á síðari öldum sátu á Görðum margir lærdómsmenn og menningarfrömuðir, eins og Árni biskup Helgason. Helgi lektor Hálfdánarson og Þórarinn prófastur Böðvarsson. Lét séra Þórarinn hlaða steinkirkju að Görðum árið 1879 og stóð hún ofar í brekkunni en hinar fyrri kirkjur höfðu staðið og utan við kirkjugarðinn. Lét hann Jón son sinn, sem þá var við nám erlendis, kaupa marga góða gripi til kirkjunnar.
Síðasti presturinn sem staðinn sat, var Árni prófastur Björnsson. Bjó hann áfram á Görðum til ársins 1928 þó að búið væri að flytja kirkjuna. En eftir að hann fluttist burtu, gerðist Guðmundur Björnsson ábúandi á jörðinni og situr hana enn.
Sem að líkum lætur voru kirkjugripir úr Garðakirkju fluttir í hina nýju sóknarkirkju. Altaristaflan var tekin að mást og fölna og þótti nauðsynlegt að skýra hana upp og hreinsa og var það gert í Reykjavík. Ólafur þingvörður Þorvaldsson hefur sagt mér, að eitt sinn, er hann var á heimleið frá Reykjavík, hafi hann mætt hóp manna, sem kom berandi með altaristöfluna frá Hafnarfirði.
Garðakirkja fyrrum.
Að Görðum stóð steinkirkjan eftir, rúin og auð. Veðraðist hún og hrörnaði smám saman og þar kom, að eftir stóð tóftin ein og starði holum gluggaskotum yfir hverfið, en þak féll inn. En þegar liðin voru tæp fjörutíu ár frá því, að guðsþjónustur lögðust af á staðnum, var svarað kalli hins hrunda guðshúss.
Árið 1953 stofnuðu 36 konur Kvenfélag Garðahrepps. Formaður var kosin Úlfhildur Kristjánsdóttir, húsfreyja á Dysjum og gegnir hún nú á ný formennsku í félaginu. Úlfhildur þótti alltaf ömurlegt að líta til kirkjurústanna, frá því fyrst hún fluttist í Garðahverfið. Því taldi hún, sem og aðrir stofnendur kvenfélagsins, að það væri í senn veglegt og verðugt hlutverk að gangast fyrir endurreisn kirkjunnar. Þær fengu Björn heitinn Rögnvaldsson byggingameistara til að athuga kirkjurústina og leggja á ráðin um framkvæmdir. Hann taldi, að steypa þyrfti 15 cm. þykkt styrktarlag innan á veggina og tóku konurnar strax til óspilltra mála. Þær söfnuðu sjálfboðaliðum og voru ósmeykar að leggja sjálfar hönd á þau verkfæri, sem beita varð hverju sinni. Þær grófu fyrir undirstöðum, unnu við múrverk og þaklagningu. Bætt var turni á kirkjuna, svo hún er enn reisulegri en áður var.
Við næst síðustu alþingiskosningar var leitað álits sóknarmanna á því, hvort þeir vildu að kirkja yrði á Görðum á ný. Var almennur vilji fyrir því og sóknarnefnd kosin. Er kvenfélagið hafði komið kirkjunni undir þak, afhenti það hana sóknarnefndinni og hafði það þá lagt fram 111 þúsund krónur í reiðufé, auk sjálfboðavinnunnar, sem var afar mikil. Ekki var þó stuðningi félagsins við kirkjuna lokið með þessu. Það heldur áfram að safna til hennar fé með ýmsu móti, hefur árlega kaffisölu og skemmtanir, veitir viðtöku gjöfum og áheitum. Það hefur stofnað minningarsjóð um látna félagskonu og skal verja minningargjöfunum til kirkjunnar. Auk hinna sérstöku fjársafnana leggur félagið árlega fimm þúsund krónur í kirkjubyggingarsjóðinn.
Nú er búið að ganga frá öllu múrverki í kirkjunni, utan sem innan, og lagt hefur verið í hana hellugólf úr íslenzkum steini. Eftir er að smíða bekki, prédikunarstól og altari og tefur það nokkuð framkvæmdir, að panta varð sérstaklega við í þá gripi, því ekki var til nægilega góður viður í landinu. Daginn sem ég kom að Dysjum var verið að ljósmynda kirkjuna að innan, svo að senda mætti myndirnar til útlanda, áður en ráðin væri kaup á ljósaútbúnaði. Allur verður búnaður hinnar endurreistu kirkju nýr, því engum dettur í hug að vilja krefjast aftur þeirra gripa, sem á löglegan hátt voru fluttir í nýja sóknarkirkju. Vonir standa til, að hægt verði að vígja kirkjuna fyrir næstu jól, rösklega hálfri öld eftir að lagðar voru niður guðsþjónustur að Görðum. Þá verður vonandi einnig búið að hlúa að gamla kirkjugarðinum og umhverfi kirkjunnar, en það verk er í höndum fegrunarnefndar sóknarinnar.
Það er full ástæða til að minna á að þakka það merkilega starf, sem Kvenfélag Garðahrepps hefur af hendi leyst við endurreisn kirkjunnar, sem fyrr en varir verður miðdepill þétthýlis, er koma mun í staðinn fyrir smábýlin, sem enn mynda byggðina milli hrauns og hafs. – Sigríður Thorlavius.
Heimild:
-Tíminn 15 apríl 1965, bls. 17 og 31.
Garðakirkja 1956.
Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun 2012
Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:
Sögubrot
„Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.
Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.
Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.
Keflavík 1890.
Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.
Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.
Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.
Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.
Þróun byggðar
Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.
Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
Kauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
Jón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
Bæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
Aðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.
Keflavík – loftmynd 1954.
Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.
Keflavík – Hafnargata 2020.
Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.“
Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.
Keflavík – loftmynd 1954.
Hafnir – Vilhjálmur Hinrik Ívarsson
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.
Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.
„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).
Á Hafnavegi 1952.
Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.
Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi
Hafnir – loftmynd 1954.
Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.
Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.
Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness. Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.
Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi
Frá Höfnum.
Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.
Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.
Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Hafnarétt.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Hafnir – Kotvogur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Hafnir – Kotvogur.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún. Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.
Kirkjuvogskirkja 1970.
Sagnakvöld II – Útgerð og útvegsmenn fyrrum á Vatnsleysuströnd
„Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, tveggja manna för en nú koma stærri skip, sexæringar og áttæringar til sögunar. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“
Í Æskuminningum sínum segir Kristinn P. Briem (barnabarn Guðmundar á Auðnum) svo frá;
„Í prestþjónustubók Kálfatjarnarkirkju fyrir árið 1854 er greint frá fermingu barna. Prestur var séra Jakob Guðmundsson. Þá voru fermdir sjö piltar og sex stúlkur á Kálfatjörn. Eru drengirnir hafðir sér og stúlkurnar sér, og börnunum raðað í bókina eftir kunnáttu. Drengja megin eru þessir þrír piltar efstir:
1. Sæmundur Jónsson, Stapakoti, fæddur 21. ágúst 1840 (síðar bóndi á Minni-Vatnsleysu). Hefur góðar gáfur. Kann og skilur prýðilega. Siðferðisgóður. Les prýðilega.
2. Guðmundur Guðmundsson, Minni-Vatnsleysu, fæddur 30. nóvember 1839, (síðar bóndi á Auðnum). Allgóðar gáfur. Kann vel. Skilur rétt vel. Les dável. Skikkanlegur og ráðsettur unglingur.
3. Guðmundur Ívarsson, Skjaldarkoti, fæddur 21. desember 1838. Allgóðar gáfur. Kann sæmilega. Skilur vel. Les rétt vel. Skikkanlegur.
Þessir þrír piltar urðu síðar mestu aflamenn á Vatnsleysuströnd. Bestir formenn og mestir aflamenn urðu þeir Guðmundarnir. Hvor var öðrum meiri í þessu efni, vil ég ekki leggja dóm á, og líklega mun erfitt að skera úr því. Kristleifur Þorsteinsson, sem reri nokkrar vetrarvertíðir á útvegi Guðmundar á Auðnum, segir að ekki hafi mátt á milli sjá, hvor væri betri formaður Guðmundur Guðmundsson á Auðnum eða Guðmundur Ívarsson frá Skjaldarkoti. Hann segir þá báða mestu aflaklær, en gerir ekki upp á milli þeirra. … Líklega væri réttast að segja að þeir Guðmundarnir hafi verið nokkuð jafnir að formannshæfileikum og ómögulegt að vita með vissu hvor aflaði meira. En í einu þótti Guðmundur á Auðnum standa ýmsum framar. Var það í reglusemi með útveginn og hirðingu veiðarfæra. Sæmundur Jónsson á Minni-Vatnsleysu stóð þeim nöfnum næstur á Vatnsleysuströndinni með aflabrögð en var ekki talinn ná þeim, hvorki með fiskiafla eða formennskuhæfileika.“
Í bók sinni Þættir af Suðurnesjum segir Ágúst Guðmundsson, sonur Guðmundar Ívarssonar svo frá; „Þeir voru víst með réttu taldir stærstu útgerðarmenn í þessari sveit Guðmundur á Auðnum og Guðmundur Ívarsson og víst var að árlega voru hæstir hlutir hjá þeim og formönnum þeirra. Þó mun Guðmundur Ívarsson oft hafa haft betri hlut, en metnaður mun hafa verið með afla á milli þeirra.“
Nú skal segja nokkur orð um Guðmund Ívarsson, stuðst við bók Ágústar.
„Guðmundur Ívarsson var meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, kvikur á fæti og gekk venjulega hart. Hann var svarthærður með kragaskegg. Ennið var í meðallagi hátt, skarpar augnabýr, lítið eitt bogadregnar. Augun dökk og lágu djúpt í höfðinu, beint nef og hækkaði upp að framan, kringluleitur í andliti,en hvítleitur með skarpa og reglulega andlitsdrætti.“
Guðmundur Ívarsson elst upp í Skjaldarkoti, og var oft kendur við þann bæ, flyst síðan að Neðri-Brunnastöðum og hefur búskap þar. Reisir timburhús á Brunnastöðum 1865 talið með fyrstu timburhúsum í hreppnum. Þá er Guðmundur 27 ára.
Hann byrjaði fomennsku 18 ára og gerði út árlega 2-7 skip á vetrarvertíð, sem hann átti sjálfur.Guðmundur Ívarsson átti Valdimar stærsta róðrarskipið, sem þá gekk við Faxaflóa.
Var það teinæringur 42 fet (uþb. 13m) milli stafna og bar 1100 af netfiski uþb 8,5 tonn
Átti hann haffært þilskip (46 tonna) Lovísu hálft á móti Agli Hallgrímssyni Austurkoti.
Ágúst Guðmundur segir eftirfarandi sögu í bók sinni: „Tvo vetur fór Guðmundur Ívarsson suður á Miðnes með þorrakomu og lá við á Hvalsnesi. Var hann þá á 10-rónu skipi með 18 menn. Þá var fiskað á bera öngla og handfæri á Suðurnesjum. Þarna hélt hann sig fram undir netavertíðina, sem byrjaði í miðgóu, eða 14.mars.
Fyrri veturinn fékk hann mikinn fisk þarna suður frá en seinni veturinn hömluðu ógæftir og stóð í mörkum að honum gæfi heim fyrir netavertíðina.
Á sunnudaginn í miðgóu var í þetta sinn messað á Hvalsnesi. Var þá vestanstormur en brim heldur að lægja. Segir Guðmundur Ívarsson þá við menn sína: Nú skulum við allir ganga til kirkju og mun ég sitja þar kyrr þangað til að prestur hefur blessað yfir söfnuðinn. Þá mun ég ganga út og líta eftir brimi og vindi og gefa ykkur bendingu, ef fært er. Skuluð þið þá allir koma fljótt. – Gekk þetta allt eftir umtali og álítur hann sundið fært, þó að vindur væri hvass. Þeir voru fljótir að búa sig og stóð það á að prestur var að ganga úr kirkju og þeir að komast undir segl. En þegar séra Sigurður kemur á Útskálahlað voru þeir komnir inn á Leirusjó og sagðist hann þó hafa riðið hart. Heyrði ég Sigmund Andrésson segja að það hafi hann mestan gang vitað á skipi þar sem hann hafi verið innan borðs enda voru þeir ekki fullar tvær klst. frá Hvalsnesi inn í Brunnastaðasund. Man ég vel, hve kátir þeir voru yfir því að vera komnir heim, en uggvænleg þótti þeim þá aldan á Suðurnesjasjónum og gangurinn á skipinu. Ekki hafði gefið á sjó næsta hálfan mánuð af Miðnesi. En hér fyrir innan Skagann var metafli í þorskanetin.
Svona var það þá, og svo er það enn að oft er gott að vera fljótur til hugsana og framkvæmda ef það er af viti stofnað og réttri útsjón.“
Næst ætla ég að segja nokkur orð um Guðmund Guðmundsson í Auðnum (Guðmundur ríki).
Kristin P. Briem lýsir Guðmundi svo: „Guðmudur á Auðnum var vel meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, beinvaxinn og herðabreiður. Vel vaxinn og fríður sýnum. Svartur á hár og skegg, hafði kragaskegg eins og þá tíðkaðist. Frekar breiðleitur í andliti. Hann var prúður í framkomu og höfðinglegur í sjón, aðgætinn í orðum og vandaði orð sín svo, að vel mátti taka til greina og athyglis það sem hann sagði.“
Guðmundur er barn þegar hann kemur á Minni-Vatnsleysu með móður sinni, þar elst Guðmundur upp og byrjar sýna útgerð. Um 17 ára aldur kaupir Guðmundur sinn fyrsta bát.
Hefur Guðmundur sinn búskap í Miðengi við Vatnsleysur og eykur skipastól sinn.
Árið 1866 flytur Guðmundur að Auðnum, hafði keypt hálfa jörðina ári áður, þá 26 ára gamall.
Þegar best lét gerði Guðmundur út 5 sex-manna för og 2 áttæringa, var sjálfur formaður á öðrum áttæringnum. Guðmundur lét smíða haffært þilskip í Noregi sem hét Auður, (18 tonn). Kostaði skip þetta 7000 kr. sem jafngilti verði 17 sex manna fara.
Árið 1894 fékk Guðmundur heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX fyrir framkvæmdir á jörðinni. Ekki tókst mér að finna neina sjóferða lýsingu með Guðmundi, hef því eftir stutta frásögn eftir Kristinn P. Briem.
„Einu sinni komum við Guðmundur ríðandi innan úr Reykjavík og var Guðmundur við skál, eins og oftast, þegar hann kom úr kaupstað. Komun við í Hvassahraun til Þórunnar Einarsdóttur, sem þar bjó, en hún var frænka konu Guðmundar. Þegar kaffið var komið á borðið, þá sest Þórunn niður hjá okkur og fer að tala við Guðmund. Hún segir: „Nú er verið að tala um að hætta að flytja inn áfenga drykki. Það verður mikil blessun, ef áfengisbannið kemst á. Þá sér maður þig aldrei drukkinn, Guðmundur minn.“ Guðmundur svarar: „Ekki er það nú víst. Áður en bannið skellur á, þá ætla ég að kaupa 10 tunnur af brennivíni og hafa á stokkunum heima.“ Þórunni brá dálítið við þetta og svarar snöggt: „Nei, það veit ég að þú gerir ekki Guðmundur.“ Guðmundur svarar: „Jú, víst geri ég það.“ Féll svo tal um þetta efni niður, en ég þekkti Guðmund nógu vel til þess að vita, að hann mundi aldrei láta sér detta í hug að safna að sér áfengisbirgðum.“
Þá fjallaði Viktor m.a. um samanburð á þessum tveimur heimilum svo sem fjölda í heimili, hjáleigum og hvorir höfðu hag af öðrum. Stikaði hann t.a.m. kirkjugólfið þegar hann lýsti lengd Valdimars og bað Magnús í Halakoti að standa upp þegar hann lýsti Guðmundi Ívarssyni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var annað að sjá en þarna væri lifandi eftirmynd afa hans komin.
Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
-Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Guðmundur B. Jónsson. Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
-Haukur Aðalsteinsson. Árbók Suðurnesja 1994 og 1998.
-Kristinn P. Briem. Æskuminningar frá Vatnsleysuströnd. Heimdragi. Iðunn Reykjavík 1967.
-Kristleifur Þorsteinsson. Litla skinnið. Nesjaútgáfan Reykjavík 1982.
-Kristleifur Þorsteinsson. Rauðskinna I og II, Sagnaþættir af Vatnsleysuströnd. Bókaútg. Þjóðsaga 1971.
Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.
Jón Thorarensen – Gatan mín… I
Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti – frá 28. apríl 1973. Hér að neðan er viðtalið endurritað að hluta.
Sr. Jón Thorarensen var alinn upp í Höfnum hjá frænku sinni Hildi Thorarensen og Katli Ketilssyni, kallaður mið-Ketillinn. Margar sögur skrifaði Jón um lífið í Höfnum. Má þar nefna bækurnar Útnesjamenn og Litla skinnið. Einnig tók Jón saman þjóðsögur bæði af Suðurnesjunum og af landinu öllu í hefti sem kallað hefur verið Rauðskinna, mörg bindi.
„Við erum komnir suður í Hafnir og ætlum okkur að ganga hér götur með séra Jóni Thorarensen. Séra Jón er ekki fæddur hér. Þú sagðir mér aðþú hefði komið hér fimm ára gamall, séra Jón, og það lætur því nærri að liðin eru 65 ár síðan þú komst hingað fyrst, í Hafnir. Mig langar til að spyrja þig áður en við göngum hér götur í Höfnum; hvernig var fyrsti dagurinn þinn hér?“
„Ég kom hér um sumar með föður mínum og ég man það er ég kom að Kotvogi, sem varð æskuheimili mitt, að puntstráin náðu mér í mitti. Annað man ég óglöggt.“
Hafnirnar hafa mikið breyst þótt puntstráin séu þau sömu. Hafnir voru mikið sjósóknarpláss. Getur þú lýst fyrir okkur þorpsbragnum eins og hann var á þínum uppvaxtarárum.“
„Það var mikil útgerð þá, hér, í þessu plássi og feikilegur fjöldi vermanna kom hingað í vertíðarbyrjun. Sjómennrinir voru úr Dalasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafirði, auk þess að sunnan; Rangáringar, Árnesingar og jafnvel austan úr Skaftafellssýslu. Sjósóknin var mikil, mörg stórskip gengu, þau voru nú yfirleitt áttæringar á meðan ég man eftir, en áður voru það teinræingar sem höfðu 19 manna skipshöfn og skipt í 22 staði, en eftir að ég man voru það áttæringar. Þeir voru mjög margir. Sjósóknin var árið um kring, sérstaklega frá 2. febrúar (kyndilmessu) til 11. maí. Nú þá fóru sjómennirnir heim og þá byrjuðu sumarróðarnir frá 11. maí til jónsmessu. Það var kallað vorvertíð. Svo var nú sjálft sumarið. Þá var nú róið dálítið, en ekki mikið, alltaf eitthvað.
En aftur um haustið, á Mikjálsmessu. Þann 29. september þá byrjaði haustvertíðin, sem stóð til Þorláksmessu, 23. desember. Þá var yfirleitt róið á fjögurramanna og aðallega sexmannaförum. Þetta var svona yfirleitt árið um kring. Þegar fiskur gekk inn á grunnið var róið meira en venjulega.
Ég var 9 ára þegar ég fór fyrst á sjó svona fyrir alvöru. Það var 18. maí, bjartur vormorgun. Þá fór ég með formanninum í Kotvogi sem var Bjarni Guðnason. Ég dró 17 ýsur. Fyrsti ýsan sem ég dró var Maríufiskurinn minn, sem ég skar í báðar kinnar krossmark og setti á sérstakan stað því þetta var heilagur fiskur. Þegar ég kom í land sagði formaðurinn mér að fara með fiskinn heim í Vesturbæ. Þar var gömul kona í kör sem hét Ingigerður Ketilsdóttir. Ég labbaði með ýsuna formálalaust inn til hennar, alveg inn að rúmi, og sagði henni að ég væri að koma með Maríufiskinn minn. Hún reis upp í rúminu og lagði hendurnar báðar yfir höfuð mér og bað Guð fyrir mér að ég yrði fengsæll og lánsamur sjómaður og yfirleitt á öllum lífsleiðum mínum. Mér þótti þetta mjög hátíðleg stund.“
„Var þetta gamall siður?“
„Siðurinn var sá fyrrum að gefa alltaf kirkjunni fyrsta fiskinn, sem var Maríufiskur. Þegar var komið að því að ég man eftir var alltaf sú regla höfð að gefa fiskinn elstu konunni í sveitinni.“
„Ef við kannski byrjum hér á fyrsta húsinu. Það stendur að vísu ekki lengur, sést einungis móta fyrir rústum þess…“.
„Hér bjó, hér austast í þorpinu, Ólafur Ormsson og kona hans hét Guðrún Ólafsdóttir. Bærinn eða parturinn þeirra var kallaður Hjalli. Þetta var hluti úr kirkjujörðinni. Ólafur þessi fluttist austan úr Skaftafells´sylum að mig minnir og hann var hér um nokkurt skeið í Höfnum. Hann var fyrir þeirri miklu reynslu að hann missti konuna s´na snemma þegar inflúensa gekk hér í Höfnunum. Hann fluttist síðan til Keflavíkur. Hann er forfaðir hinna frægu Ormsbræðra í Reykjavík. Ólafur hafði mikið yndi af bókum og bókmenntum og fylgdist vel með öllu. Hann hafði mikla tilfinningu fyrir góðu og hreinu íslensku máli.
Skammt frá Ólafi Ormssyni, á býli hér fram á bakkanum, sjávarbakkanum, bjó Magnús Ketilsson, útvegsbóndi. Hann var frá Vesturbæ hér í hverfinu. Faðir hans var Ketill Magnússon og móðir hans var Sigríður Björnsdóttir. Magnús þessi var kvæntur Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Reykjavík, sem lifir enn og er búsett í Keflavík. Magnús þessi var snemma mjög duglegur og kappsamur og hann fór snemmma að stnda sjó og var formaður og formennskan fórst honum mjög vel úr hendi. Hann var fyrsti maður hér í hreppi sem fór að nota vélar í bátana, trillubátana. Hann sótti sjóinn mjög vel og var ákaflega heppinn og fylginn sér við allt sem hann gerði. Hann var glöggur maður og skynsamur. Hann var eiginlega af gömlum höfðingjaættum hér í sveitinni. Ingigerður, amma hans, var sú kona sem hann vék að Maríufiskinn, var dóttir Jóns Ketilssonar og faðir hans var elsti Ketillinn í Kotvogi. Magnús Ketilsson bjó síðast í Keflavík.
Þá kemur næsta býli, sem var nálægt Magnúsi Ketilssyni…“
„Það sést nú ekkert af þessum býlum lengur, þau eru öll horfin…“
„Nei, það var Búðarbakki. Það var sömuleiðis þurrabúð. Þetta voru þurrabúðir, nema Ólafur Ormsson var grasbýlisbóndi. Í Búðarbakka bjó Þorsteinn Árnson. Kona hans hét Gíslína Gísladóttir. Þorsteinn Árnason var gríðarstór maður og mikið karlmenni. Kona hans var í meðallagi há og lagleg kona. Þau áttu mörg börn og ég kom oft að Búðarbakka. Ég var eiginlega alveg hissa hvað þau umbáru okkur þegar við komum með ærslum og látum. Þorsteinn þessi var formaður og ágætur sjómaður. Hann var hagur á tré og járn og mjög laginn við allt sem hann gerði. Hann var mikið karlmenni og sterkur maður. Ég man eftir því einu sinni að hann átti þurrkaðan labra niður á sjávarbakka. Hann hélt að sjórinn myndi fara yfir fiskstakkinn sinn svo hann stökk til og tók hann í fangið í tveimur ferðum og kom honum öllum á land. Hann gerði þetta allt svo léttilega.
Næst fyrir sunnan Búðarbakka, sem stóð í laut hér í inntúninu, var svo hóll fyrir framan eða sunnan. Þar var Staðarhóll. Þar bjó Magnús Pálsson, hreppsstjóri sveitarinnar.
Kona hans hét Kristín Jópsepsdóttir og var ljósmóðir sveitarinnar. Magnús þessi var mikill merkismaður, dugnaðargarpur og ágætur sjósóknari, snilldarlegur sláttumaður með vinnulagni og þrek. Kristín var hin prúðasta og elskulegasta kona. Þau bjuggu þarna lengi. Magnús ver gefinn fyrir söng. Þau hjónin áttu tvær dætur, önnur búsett í Reykjavík og hin í Keflavík. Ég reri hjá Magnúsi eina haustvertíð. Eitt reri há honum sá frægi maður, Stjáni blái.“
„Mannst þú eftir Stána bláa?“
„Ég man vel eftir honum. Hann var hár og grannur, klæddur í blá nankinsföt. Mér fannst honum alltaf vera hálfkalt því það var sultardropi í nefi hans. Eitt sinn voru þeir félagar að skemmta sér, höfðu náð í víntár í Keflavík og það var einhver maður með smáskeyting við Stjána. Hann hafði engin orð við það heldur tók manninn og stakk þumalfingur í vinstra munnvikið á honum og tók með puttunum fyrir kjálkabarðið og sneri hann niður…“
„Við höldum áfram röltinu um götuna í Höfnum. Nú eru við á móts við kirkjugarðinn (norðan ef ég þekki áttir rétt). Hér sést aðeins móta fyrir dálitum rústum.“
„Hér stóð stórt stórt timburhús sem hét Norðurhús. Hér bjó Friðrik Gunnlaugsson, útvegsbóndi. Foreldrar hans voru hér í Hólshúsum nokkru sunnar hér í sveitinni. Þeir hétu Gunnlaugur og Fríður. Friðrik var stór maður, hár og grannur, mjög myndarlegur maður. Kona hans hét Sigurveig Ketilsdóttir, myndarkona og ágæt í öllum húsfreyjustörfum. Friðrik gerði út áttæring og var mjög lánsamur og fiskisæll.“
„Við röltum í landsuður, segir séra Jón mér, frá kirkjugarðinum. Við komum að litlu og lágreistu býli, grænmáluðu og stendur stutt frá veginum. Það heitir Garðbær. Hér eru hjólbörur á hvolfi og tvær pútur að kroppa hér.“
„Hér bjó á sínum tíma Ólafur Einarsson, útvegsbóndi, og kona hans Gróa. Mér er það minnistætt að það var alltaf vaninn hjá Gróu að hún gaf mér alltaf rauðan kandísmola. Ólafur Einarsson var ágætur formaður. Hann stundaði sjóinn árið um kring og reri venjulega á sexmannafari. Þessi hjón voru ákaflega samtaka í allri lífsbaráttu. Ólafur var fámáll og fáskiptin, en honum féll aldrei verk úr hendi.“
„Við röltum aftur til baka, áleiðis að kirkjunni. Hér staðnæmust við andspænis kirkjudyrunum. Hér sést móta fyrir grasi grónum rústum.“
„Nú erum við komin að Kirkjuvogi, sem er höfuðbólið og aðaljörð sveitarinnar. Hann skiptist í Austurbæ, Miðbæ, vesturbæ og Kotvog. Hann fóðraði, torfan, 20 kýr þegar mest var. Hér hafa verið höfðingar á fyrri tíð og hér er margs að minnast. Nú eru hér grasi grónar rústir og byggingar horfnar. Hér var frægur maður, Hákon Vilhjálmsson, Hann var fæddur 1751, lögréttumaður og lögsagnari sýslumanna. Hann var hér útvegsbóndi, mikilsháttar maður. Hann giftist 1784 Ingveldi Guðnadóttur, sem var sýslumannsdóttir frá Stafnesi. Hákon komst í sögurnar árið 1809. Jörundur hundadagakonungur tók völdin og gerðist hæstráðandi til sjós og lands. Sumarið 1809 fór Jörundur með lífverði sínum suður til Keflavík að gera upptækar eignir danskra kaupmanna. Hákon frétti af þessu og reið til móts við hátignina.
Erindið var að biðja Jörund um leyfi að mega eiga Önnu dóttir Jóns Sighvatssonar hins ríka, dannebrogsmanns, í Njarðvík án þess að skilja við eiginkonu sína. Hann veitti honum leyfið en gaf svo stuttu seinna út leyfsibréf til almúgans á Íslandi sem sagði að þótt hann hafi veitt þessum heiðursmanni þetta leyfi myndi hann ekki veita slíkt leyfi aftur því vafamál væri að breyta þeim hjúskaparböndum sem einu sinni væru vígð fyrir ásýnd Guðs. Hákon flutti Önnu sína heim að Kirkjuvogi. Hér var haldin veisla og sögusagnir segja nú að Ingveldur hafi stjórnað veislunni, kona nr. eitt. Þegar þau giftust var Anna 18 ára en Hákon 58 ára. Með Önnu eignaðist Hákon son sem hét Vilhjálmur Christian Hákonarson. Hann tók hér við búi eftir föður sinn, uppgangsmaður. Hann var ákaflega góður formaður. Hákon dío 1821. Anna lifði hann. Hún giftist síðan 1822 Halldóri Gunnarssyni, grepsstjóra í Höfnum. Loks giftist hún í þriðja skiptið Katli Jónssyni í Kotvogi, 1831. Þá var hún orðin eldri en brúðguminn. Allt bendir til þess að hún hafi bæði verið falleg og mikilfengleg kona.
Vilhjálmur var myndarlegur maður í sjón og að sama skapi ákaflega virtu maður. Hann var góður formaður og sjósóknari. Hann reri á stórskipum, teinæringum, á vetrarvertíð. Það þótti fínt hjá merkismönnum að koma ekki nálægt sjó nema á vetrarvertíðum. Hann komst snemma í góðar álnir, erfði m.a. föður sinn.
Hann fékk orðu frá Danakonungi fyrir að bjarga sjómönnum og aðra frá Napóleoni Frakkakóngi. Með konu sinni eignaðist hann tvær dætur, Steinunni og Önnu. Hann byggði kirkjuna hér í Kirkjuvogi. Hann lagði til hennar sem svaraði 300 kýrverð.
Þegar ég var að alast hér upp bjó hér bróðir fóstra míns í Kotvogi, Vilhjálmur Christen Ketilsson. Hann skipti jörðinni og þá kom hingað maður, Ingibergur Þorkelson, trésmíðameistari úr Reykjavík. Kona hans hét Sigurdís, indælishjón.
Vilhjálmur Christen Ketilsson var idealisti frekar en búmaður. Hann var ljóðelskur og hafði gaman af söng. Hann var mikill húmanisti og mikill skepnuvinur. Seinasta árið sem ég var í barnaskóla kenndi Vilhjálmur mér. Það var í fyrsta skipið sem ég fékk nasasjón af bókmenntum. Hann var ágætur kennari, hann var stærðfræðingur og kenndi bæði dönsku og ensku….“
Sjá einnig seinni hlutann.
(Áhugavert væri að merkja öll gömlu bæjarstæðin í Höfnum og opinbera þannig sögu byggðalagsins öllu áhugasömu fólki.)
Heimild:
-ruv.is 2. jan. 2010 – Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti. Frá 28. apríl 1973.