Flensborgarhöfn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna, „Flensborgarhöfnina„, í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerkið við Flensborgarhöfn.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar. Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Á koparskilti áföstu minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna við Flensborgarhöfn má lesa eftirfarandi:
„Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyrarlón.

FERLIR gekk með strandlengju Hafnarfjarðar allt frá Hleinum að Hvaleyrarfjöru. Í sögulegu samhengi bar margt fróðlegt fyrir augu, s.s. leifar útgerðarinnar á Langeyri, lifrabræðslunnar við Gönguhól, fyrrum útvörðinn Fiskaklett, slippstöðina neðan Drafnar, Flensborgarhöfnina allt þar til göngustígurinn endaði skyndilega framan við skilti er á stóð „Hvaleyrarlón“.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Ákveðið var þó að halda áfram eftir fjörunni neðan bátaskýlanna þar sem fyrrum fornfálegar „bryggjurnar“ voru flestar komnar af fótum fram. Hús var tekið á einum eigandanna, sem var að þvo bílinn sinn í góðviðrinu. Hann sagðist hafa haft þarna bát framar fyrrum, en selt hann fyrir nokkrum árum. Skýlið nýttist hins vegar vel áfram sem afrep fyrir gamlan mann.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Þegar gengið var með innanverðu Hvaleyrarlóninu vakti athygli að gerður hafði verið sjóvarnagarður innan þess að hluta. Spurningin var hvaða tilgangi hann hafi átt að þjóna þá er gerður var, væntanlega með tilfallandi kostnaði?

Sjóvörn hefur einig verið gerð norðan Hvaleyrartanga, allt að Hvaleyrarfjöru vestan hans. Þrátt fyrir framkvæmdirnar var enginn göngustígur gerður með ströndinni, sem reyndar hefði verið í lófa lagið. Gangandi þurfa því að ganga upp á og með utanverðum golfvellinum í verulegri óþökk golfaranna hverju sinni.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Ofan Hvaleyrartanga er „Flókaklöppin“ með áhugaverðum áletrunum, fimm skotbyrgi frá seinni heimstyrjöldinni auk annarra minja er minna á þá tíð. Allt umleikis eru minjar Hvaleyrarkotanna sem og höfuðbýlisins. Í dag eru þær allar ómerktar á golfvellinum. Golfararnir, sem rætt var við, höfðu enga meðvitund um nýtingu svæðisins fyrrum. Sorglegt er til þess að vita að ákveðin íþrótt skuli vera orðin svo afgerandi að hún þurrkar út nánast allan áhuga þátttakenda á fortíðinni. Kannski skiptir núvitundin það meira máli en arfleifðin?

Oftar en einu sinni hefur því verið haldið fram að golfvellirnir séu einu staðirnir þar sem hægt er að halda „sjúklingum“ innan afmarkaðs svæðis án girðinga. Afstaða til þess verður ekki tekin hér.

Gangan endaði við flakið við leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Hvaleyrarfjara

Hvaleyrarfjara með minjum Fjaðarkletts.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; „Hugsað til Viðeyjar„:

„“Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli“. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún“.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.“ Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.“
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.“ Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld.

Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins“ í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.“

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um „Viðey á dagskrá„:

Viðey
„Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um „Viðeyjarklaustrið„:

Viðey„Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum“ og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.“

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

„Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld“.

Viðeyjarkirkja
Viðey
„Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna“.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
„Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. „Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes“. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og „hospital“ sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga“.

Kúabúið í Viðey
Viðey
„Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.

Viðey

Fjósið sem sést hér til hægri á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu“.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
„Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað“.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey

Fornbíll

Í Fálkanum 1939 er grein sem fjallar um „Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi„:

Krýsuvík

Krýsuvík – forn þjóðleið til austurs.

„Öldum saman bjuggu Íslendingar við seinagang á sjó og landi. Vindar loftins rjeðu einfarið, hvort fleytunum við strendur landsins miðaði áfram eða aftur á bak. Karlmenni með lúnar og sigggrónar hendur sátu í hverju rúmi og tóku seigdrepandi barning á miðin og af. En á landi var það þarfasti þjónninn, sem lammaði klifjaður eftir slóðum og krókastigum, sem hófur hans hafði markað öldum saman. „Kemst, þótt hægt fari“, sagði Njáll og svo reyndist það. Hesturinn skilaði böggunum í hlað og árabáturinn fengnum í vör. Enginn amaðist við hægaganginum, hann hafði ríkt í rúmar 10 aldir. Hann var þjóðinni meðfæddur og hversvegna skyldi hann ekki fylgja henni að eilífu. Asinn var hættulegur — mörgum hafði orðið hált á bölvuðum flýlinum.
En vorleysing hraðans var óstöðvandi og hún barst hingað til lands, án þess að nokkur fengi rönd við reist. Einmitt í sama mund og hafræna vorsins bljes lífi í framtak og þjóðmál Íslendinga, þá kom hraðinn yfir hafið — litli bíllinn hans Ditlev Thomsens, kaupmanns. Hann var settur á land hjer i Beykjavík snemma sumars fyrir nákvæmlega 35 árum. Var þetta, sem koma átti í stað þarfasta þjónsins? spurði fólkið, er það horfði á þetta gersemi þjóta um götur bæjarins. En þetta nýja farartæki var af mörgum litið óhýru auga. Hefð seinagangsins gat ekki felt sig við hraðann, sem var að halda í garð. Ótal tröllasögur spunnust um Thomsens-bílinn, er flestar voru honum til miska. —
Thomsen
Sannleikurinn var sá, að hann var með öllu ónothæfur hjer á landi, enda var hann af gamalli gerð eftir því sem bílar voru þá. Vjelin var aftan til í honum og ýmsir aðrir ágallar voru á honum, sem ekki fylgdu nýjum bílum. Hann gat farið hraðast 40—50 km. á klukkustund, þegar honum var ekið um bæinn eða nágrenni hans. Lengst komst bíllinn austur á Eyrarbakka. Var ferð sú all söguleg. Kambarnir urðu honum t.d. full erfiðir og varð að fá hesta til að draga hann þar upp. Eftir því sem bíllinn var lengur í Reykjavík jókst löngunin hjá fólki að aka með honum og fengu færri en vildu. — Þorkell Þ. Klementz stýrði þessum bíl og er hann fyrsti bílstjórinn hjer á landi, þótt ekki hefði hann próf.
Fornbíll
Thomsens-bíllinn var sendur til Kaupmannahafnar, en þaðan hafði hann verið keyptur hingað. Byrjunarörðugleikarnir eru jafnan miklir og margvíslegir og svo reyndist hjer.
Thomsens-bíllinn var aðeins óljós fyrirboði þess sem koma átti. Engan grunaði þá, að bílarnir yrðu eins ómetanleg flutningatæki og raun er á orðin.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Árin liðu hvert á fætur öðru og minningarnar um Thomsens-bílinn urðu þokukendar. Gat það verið að öld hraðans, sem blöðin sögðu frá að færi hamförum erlendis, ætlaði alls ekki að koma hjer við? Hægagangurinn var nú ekki lengur algild og óhjákvæmileg eigind, sem fólkið hlaut að halda traustataki í, það var alveg augljóst af þvi, sem vitað var að fram, fór úti i veröldinni. Þessvegna biðu sumir fullir cftirvæntingar eftir að bílarnir kæmu. Og dagurinn rann upp 1913, þegar íbúum höfuðstaðarins gafst að sjá bíl renna eftir götunum í annað sinn. Tveir ungir Íslendingar, þeir Sveinn Oddsson og Jón Sigmundsson, konm þá hingað til lands frá Ameríku og höfðu með sjer Fordbíl. Þeir voru báðir bílstjórar og ætluðu sjer að ganga úr skugga um með þessum bíl, hvort ekki mundi unnt að nota bíla hjer sem í öðrum löndum.

Ford

Ford T 1914.

Með þetta fyrir augum fóru þeir ýmsa leiðangra á bílnum og komust að þeirri niðurstöðu, að hjer mætti einnig nota bíla, ef vegir yrðu lagfærðir. Þar með var gefið fyrsta fyrirheitið um bílaöld á Íslandi og hraðanum boðið í garð. Í september um haustið var stofnað fyrsta bílfjelag á Íslandi, H/F Bifreiðafjelag Reykjavíkur. Á næsta ári hafði fjelagið eignast 6 bíla og hjeldu þeir uppi ferðum um bæinn og nágrenni hans. Að 5 árum liðnum var fjelag þetta leyst upp, eftir að hafa leyst af hendi merkilegt starf fyrir framtíð bílanna á Íslandi. Það varð hlutskipti þeirra manna, sem störfuðu hjá fjelaginu, að kynnast af eigin raun þeim örðugleikum og tálmunum, sem alstaðar voru á vegi og benda, samkvæmt reynslu sinni, á þær nauðsynlegu umbætur, sem gera þurfti, til þess að æfintýrið uni Thomsens-bílinn endurtæki sig ekki, — til þess að bílarnir þyrftu ekki að gefast upp í þeirri Bröttubrekku, sem skilningsleysi og vantrú fólksins hafði skapað.
Fornbíll
Fyrir atbeina Bifreiðafjelagsins var leitað til Alþingis um að það afgreiddi lög viðvíkjandi umferðareglum og notkun bifreiða. Nefnd sú, sem átti að fjalla um bifreiðafrumvarpið á Alþingi sumarið 1914 var skipuð: Julíusi Havsteen (formaður), Guðmundi Björnssyni, landlækni, sem var ritari og framsögumaður nefndarinnar, Guðmundi Ólafssyni, bónda í Ási, Karli Finnbogasyni, skólastjóra á Seyðisfirði og Magnúsi Pjelurssyni, núverandi hjeraðslækni í Reykjavík.

Ford

Ford T 1913.

Guðmundur Björnsson samdi nefndarálit, heilmikið og merkilegt plagg, sem átti að opna augu þingmanna fyrir þeirri nauðsyn, að til væri löggjöf um notkun bifreiða. Svo virðist sem þingmennirnir hafi verið mjög efunarsamir um gagnsemi þessa lagafrumvarps og alt bendir til þess, að innan nefndarinnar hafi menn einnig verið blendnir í trúnni. En Guðm. landlæknir víldi berjast til þrautar og kynna sjer og nefndarmönnum sínum í sjón og reynd, það sem máli skifti fyrir framgang málsins. Þess vegna fór hann fram á það við bifreiðafjelagið, að það legði nefndinni til bíl og bílstjóra, svo að þeir gælu athugað þetta nytsama farartæki.

Fornbíll

Fyrsta bifreið bifreiðast. Steindórs.

Að morgni þess 14. júlí 1914 var hafin einhver sú merkilegasta reisa, sem farin hefir verið í bíl á Íslandi. Fordbíll rann upp úr bænum með fjóra preláta þingsins innanborðs. (Júl. Havsteen var ekki með). Nú skyldi gengið úr skugga um það, hvort þessir hjólavargar gereyðilegðu alla vegi, og hvort blessuðum bændunum og hestunum væri búin bráð lífshætta af að vera á vegi þeirra. Þessir jarðarbótarmenn íslenskrar bifreiðarlöggjafar undu hið besta við sitt og skrifuðu og nóteruðu hjá sjer alt sem um veginn fór, nema hundaskammirnar. Auk þess skrifuðu þeir ýmsar athugasemdir og uppgötvanir.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Leið þeirra lá austur Hellisheiði, niður að Eyrarbakka, austur að Ölfusá og síðan að Þjórsárbrú, en þaðan hjeldu þeir heim og þangað komu þeir kl. 8 1/2 um kvöldið. Á leiðinni urðu þeir varir við á veginum: 4 bíla, 210 vagna, 1 hjólreiðamann, 177 reiðmenn, 15—20 göngumenn, 82 lausa hesta og klyfjahesta, (en alls töldu þeir á veginum 480 hesta), 21 nautgrip og 1 lambahóp. — Beri menn nú saman, það sem nefndarmennirnir sáu á þessari leið og það sem verður þarna á vegi okkar nú. Mismunurinn er auðsær og hann er alsstaðar svipaður þar sem bílarnir hafa lagt undir sig land. Nefndarmennirnir sömdu nú ýtarlega og fróðlega skýrslu um þetta ferðalag.

Overland

Overland – fyrsta bifreið Vedurstofu 1956.

Þeir ljetu þessa rannsóknarför þó ekki nægja, heldur fóru þeir aðra 16. júlí og hjeldu þá á Overland-bifreið austur i Grímsnes og sömu leið til baka. Þar með höfðu þeir kynst þeim tveim tegundum bíla, sem þá voru til hjer á landi. — Nokkrum dögum síðar kom frumvarpið til annarar umræðu og sigldi hraðbyri, enda jós framsögumaður á báða bóga úr brunni reynslu og þekkingar, svo að menn setti hljóða. — Annars kom ýmislegt fram í sambandi við umræðurnar um bifreiðafrumvarpið, sem í augum nútímamanna mun þykja all spaugilegt, en var þó í samræmi við þann hugsunarhátt, sem þá ríkti alment. Einn þingmaðurinn á t. d. að hafa sagt, í sambandi við umferðareglurnar, að það næði ekki nokkurri átt að láta altaf víkja til vinstri, því að þá slitnuðu vegirnir bara öðru megin. — En þrátt fyrir margvíslegar mótbárur varð bifreiðafrumvarpið að lögum á sumarþinginu 1914. Nefndarmennirnir unnu mikið og merkilegt starf. Þeir voru börn bjartsýninnar, sem sáu það fyrir, að bílarnir mundu verða framtíðarfarartæki hjer á landi. — Nú mundu þeir Karl Finnbogason og Magnús Pjetursson ekki hitta fyrir nokkurn mann á Flóaveginum, sem hrópaði til þeirra með þjósti: „Burt með bifreiðarnar“, en slíkt upplifðu þeir í rannsóknarferðinni 14. júlí 1914.

Fornbíll
Fyrstu bifreiðalögin eru stutt og gagnorð — aðeins í 15 greinum. Þar er meðal annars ákveðið, að enginn megi stjórna bíl, nema hann sje orðinn 21 árs og hafi ökuskírteini frá lögreglustjóra, sem heimili honum að stjórna bifreið. Slík skírteini gátu menn ekki öðlast nema að ganga undir próf. Samkvæmt lögunum var hámarksökuhraði bíla í kauptúnum og kaupstöðum 15 km. á klst. Stjórnarráðið mátti þó veita undanþágu frá þessu ákvæði, ef því þótti svo við horfa.

Vegagerð

Vegagerð – Vörubíll Vegagerðarinnar.

Mestur mátti ökuhraðinn vera 35 km. á klst. á þjóðvegum, og hámarksökuhraði bíla i myrkri var ákveðinn 15 km. á klst. — í lögunum má einnig sjá klausur eins og þessar:
„Sje bifreiðin þyngri en 350 kg. skal aflvjelin geta knúið hana afturábak sem áfram.“ „Bifreiðarnar skulu vera svo gerðar, að þær geti farið eftir kröppum bugðum og auðvelt sje að snúa þeim.“ — Efni þessara klausa er framandi fyrir það fólk, sem nú þýtur í bílum um landið þvert og endilangt, en sýnir jafnframt, hversu jarðvegurinn fyrir bílana var svo að segja óplægður fyrir 25 árum.
Barnasjúkdómar bílasamgangnanna voru ennþá hinir skæðustu, þegar bifreiðalögin voru samþykkt. — Þá um sumarið ætlaði t. d. hópur ungmenna austur á Þingvöll og var hann með alllöngum fyrirvara búinn að panta þrjá bíla til þess að flytja sig austur. Þegar leggja átti af stað kom, enginn bíllinn, þeir voru allir í lamasessi hingað og þangað. Hópurinn fór gangandi austur og ekki gekk viðgerðin á bílunum hraðara fyrir sig en það, að aðeins einn bíllinn gat komið á móti ferðalöngunum, er þeir komu gangandi að austan daginn eftir.
Fornbíll
Þá þótti t. d. góður hraði að fara á bíl úr Reykjavík austur í Fljótshlíð á 7 stundum, en nú fara bílarnir þessa sömu vegalengd á 2 1/2 klukkustund. Bílarnir fóru þá ekki á skemmri tíma yfir Hellisheiði, þ.e.a.s. frá Kolviðarhóli að Kambabrún, en á 3/4 klst. Bílanir voru þá mjög tíðar, sjerstaklega á „dekkum“ og gúmmíslöngum. Þess er t. d. getið um einn bílstjórann, að hann var einu sinni 8 stundir milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, en í það skiftið sprakk líka hjá honum á þessari vegalengd milli 30 og 40 sinnum.

Hellisheiði

Þingvellir 1913.

Engar vöruflutningabifreiðar voru þá yfirbygðar, og urðu bílstjórarnir að híma í opnum bílnum, hvernig sem viðraði. Það er fyrst 1918 að byrjað er að byggja yfir flutningabifreiðar. — Ofan á þessa byrjunarörðugleika bættist svo hræðsla fólksins við bílana, sjerstaklega til sveita. Einn bilstjórinn varð t. d. fyrir því, er er hann var að aka austur árið 1915, að á undan honum reið kerling og teymdi trússahest. Þegar hún varð bílsins vör stökk hún af baki og yfir vegskurðinn og klifraði svo yfir girðingu, sem var þar rjett hjá. Hestarnir stóðu kyrrir á veginum, þótt bíllinn nálgaðist. Bílstjórinn fór því út úr bílnum og teymdi þá út af veginum. Þá kom kerling hlaupandi og sagði mjög undrandi: „Þetta fór nú annars nokkuð vel.“
Svo örar hafa framfarirnar orðið í bílaiðnaðinum, að bílar þeir, sem notaðir voru um þetta leyti og svo að segja alt fram til 1926, mundu nú tæpast þykja boðlegir. Þá var eingöngu um að ræða til mannflutninga hina svo nefndu blæjubíla. Var blæjunum þannig fyrir komið, á fyrstu bílunum, að það varð að taka þær niður, ef eitthvað var að veðri. Urðu menn því að sitja í opnum bílunum í roki og úrkomu, ef svo bar undir og reyndist flestum það ærið kalsasamt. Hvílíkur munur eða nú, þegar hægt er að þjóta i hörkufrosti á veturnóttum í upphituðum bílunum yfir Holtavörðuheiði og geta meira að segja hlýtt í rólegheitum á það, sem þulan eða fyrirlesarinn kyrjar í útvarpinu.

Fornbíll

Fornbíll á götum Reykjavíkur.

Fyrsti lokaði bíllinn („drossían“) kom hingað til lands 1915, en ekki urðu þeir algengir fyrr en röskum 10 árum síðar. Fyrsta „drossían“ mundi ekki þykja ásjáleg nú, enda var hún hrikalega há og svo völt, að undrum sætti, að hún skyldi ekki velta um svona endrum og sinnum.
Heimsstyrjöldin átti mestan þátt í því, að bílum fjölgaði ekki neitt verulega fyrstu árin eftir að bifreiðalögin gengu í gildi. Allir hlutir urðu þá svo óhemju dýrir, að menn fengu ekki við neitt ráðið.
En þó keyrði fyrst um þverbak í þessum efnum, fyrstu árin eftir styrjaldarlokin. Þá komst bílsætið til Hafnarfjarðar upp í kr. 3.50 og bensínlítirinn var þá seldur á 1 krónu. Inn að sundlaugum var þá ekki hægt að fá bíl fyrir minna en kr. 7.50. Alt verðlag hljóp þá í slíkar gönur, að annað eins hefir ekki þekst hvorki fyr nje síðar.
Fornbíll
Með árinu 1921 er eiginlega hægt að segja að bílainnflutningur hefjist fyrir alvöru hingað til lands. Það ár voru fluttir inn 7 bílar og svo fjölgar þeim, stöðugt úr því. Notkun bílanna jókst svo gífurlega, að 8 árum síðar voru fluttir inn 66 sinnum fleiri bílar en 1921, eða alls 462, en slíkt hefir heldur ekki endurtekið sig í sögu bílanna á Íslandi.

Vegagerð

Vegagerð um 1960.

Framfarir á Íslandi hafa verið með þeim risastökkum síðastl. aldarfjórðung, að trúlegast þætti að slíkt hefði skeð í æfintýri en ekki í sögu raunveruleikans. Sá maður, sem fyrir 25 árum hefði haldið því fram í alvöru, að nú á þvi Herrans ári 1939 yrði svo að segja hægt að aka í bíl landið á enda, upp til dala og út til annnesja, hefði af almenningsálitinu verið dæmdur á Klepp. Framfarirnar speglast einna raunsæast í samgöngutækninni.
Fjarlægðirnar hafa horfið, vikuferð orðið að dagleið, og alt erfiði, sem slík ferðalög höfðu í för með sjer, þekkist ekki lengur. — íslenska þjóðin hefir eignast fjölmenna stjett bílstjóra, sem hlotið hefir þann almannadóm, að vera dugleg og áræðin. Bifreiðaverkstæði hafa unnvörpum risið upp, þar sem framkvæmdar eru hverskyns viðgerðir og yfirbyggingar bíla.
Á því sviði hefir þróunin tekið örum vexti og er sú iðngrein komin ótrúlega langt á veg hjer á landi. Fjölmennur hópur manna hefir nú orðið arðvænlega atvinnu í bifreiðaverkstæðum. Þeir tvö þúsund og níu bílar, sem nú eru til í landinu, geta þotið yfir fjögur þúsund og átta hundruð km. langan akfæran veg og yfir ótal stórbrýr, sem liggja yfir stærstu ár landsins. Slíkt hefir framtakið orðið á fyrsta fjórðungi bílaaldarinnar á Íslandi. — Bíllinn er eitt hið þarfasta tæki, sem nokkurn tímann hefir flutst hingað til lands.
Hann hefir þegar næstum stjakað klyfjalestinni og reiðskjótanum yfir á svið fortíðarinar. Allsstaðar gætir áhrifa hans í smáu sem stóru — meira að segja út yfir þau takmörk, sem fólk hefir daglega í huga — svo langt, að nú er ekki lengur kastað steinvölum á leiði lánleysingjanna, sem sagt er að dysjaðir sjeu sumstaðar með fram þjóðvegum landsins.“

Heimild:
-Fálkinn, 29. tbl. 21.07.1939, Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi, bls. 4-5.
Fornbíll

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni „Ástarsaga afhjúpuð?“ Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

„Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,“ segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona í stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið.

Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.

Viðey

Letursteinn í Viðey frá árinu 1824.

Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey

Sellesjupollur

Í Fréttablaðinu árið 2020 fjalla þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson um „Litadýrð“ Soganna og nágrennis:

Spákonuvatn

Spákonuvatn- Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

„Stundum er leitað langt yfir skammt þegar kemur að náttúruperlum. Á Reykjanesi, við dyragætt höfuðborgarinnar, er fjöldi spennandi útivistarsvæða sem eru mörgum lítt kunn og ennþá færri hafa heimsótt. Eitt þeirra er sérkennilegt háhitasvæði upp af Höskuldarvöllum, ekki langt frá Keili og sunnan Trölladyngju og Grænudyngju.

Sogasel

Sogaselslækur.

Þessi litríku leirgil kallast því skrítna nafni Sogin og hafa mótast af jarðhita og eldvirkni í iðrum jarðar. Í gegnum gilin rennur Sogalækur en á Reykjanessskaga eru ekki margir lækir eða ár, þar sem yfirborðið er víðast þakið gljúpum en fallega mosavöxnum hraunum.
Sogin eru einkar litrík og minna um margt á Jökulgil á Torfajökulssvæðinu, enda þótt þau séu miklu minni. Þau er því stundum kölluð Litlu Landmannalaugar en ólíkt Torfajökulssvæðinu og hverasvæðinu í Krýsuvík, sem er skammt frá, státa þau ekki lengur [af] spúandi hverum. Engu að síður er svæðið allt sannkölluð útivistarparadís og litadýrð Soganna minnir óneitanlega á olíumálverk.

Sogin

Ofan Soga.

Þarna býðst fjöldi spennandi gönguleiða sem henta flestum og eru tilvaldar fyrir hálfsdags- eða kvöldgöngu. Aðeins tekur hálftíma að komast að svæðinu akandi frá höfuðborginni og er einfaldast að aka veginn upp að Keili og áfram að bílastæði við ónýtta tilraunaborholu upp af Höskuldarvöllum.

Sogin

Sogin.

Annar valkostur er að hefja gönguna austar, frá Krýsuvíkurvegi. Frá bílastæðinu upp af Höskuldarvöllum er gengið í suðaustur í átt að Spákonuvatni, en á leiðinni ber fyrir augu fallegan eldgíg með einkar fallegu útsýni vestur að píramídalaga Keili.
Stuttu síðar blasa tvö önnur falleg gígvötn við, Grænavatn og Djúpavatn, og þegar komið er upp á nálægan hrygg sést vel yfir Sveifluháls og stóran hluta Reykjaness. Sveigt er til norðurs og koma þá litrík Sogin skyndilega í ljós, líkt og úr leynum og með stórkarlalegar Grænudyngju og Trölladyngju í baksýn. Litadýrðin er ólýsanleg, ekki síst í björtu og annað hvort hægt að halda ofan í gilin eða halda sig ofar í gróðurvöxnum hlíðum. Áður en snúið er heim er tilvalið að ná tindi annað hvort Grænudyngju (400) eða Trölladyngju (375 m) en af þeirri síðarnefndu er frábært útsýni yfir höfuðborgina og fjöllin norðan hennar.
Þessi móbergsfjöll urðu til við gos undir ísaldarjöklinum, en í hlíðum þeirra eru síðan yngri eldgígar sem sumir hverjir hafa gosið á nútíma og skilið eftir sig falleg mosavaxin hraun.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 216. tbl. 08.10.2020, Litadýrð í leynu, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 12.

Sogin

Sogin.

Haldið var í Sogin, þvergil er Sogalækur hefur myndað á u.þ.b. ellefu þúsund árum. Afurðin liggur að fótum fram; grasi grónir Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki.

Sogin

Í Sogum.

Litli Sogalækurinn er ágætt dæmi um hversu lítilmagninn fær áorkað á löngum tíma. Hann ætlar sér að ná til sjávar í Kúagerði – og mun eflaust takast það eftir nokkur hundruð ár.
Sogin skilja nánast af Núpshlíðarháls og Dyngurnar (Trölladyngju og Grænudyngju). Þau eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga að Sogunum frá Lækjarmýri norðan Djúpavatns. Þaðan er u.þ.b. 800 m gangur að litadýrðinni.

Sogin

Sogin – skilti við Lækjarmerki. Gefið er til kynna að 5 km gangur sé að Sogunum, en hann er í raun um 800 m.

Auðveld ganga er upp með Djúpavatnseggjum. Sunnan við gilið er útsýnið stórbrotið yfir að Dyngjunum og litadýrðin mikil. Hún breytist jafnan, bæði eftir birtu og veðri. Þannig eru allir litir skarpari í sólskyni eftir rignardag. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Á hálsinum milli Soga og Spákonubatns er ágætt útsýni yfir undirlendið þar sem Keilir trónir í allri sinni dýrð. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk og fallaásýndin sunnan Dyngnanna er stórbrotin. Svæðið er skammt frá höfðuborgarsvæðinu.
Sjá má myndir úr Sogunum og nágrenni HÉR.

Sog

Í Sogum.

 

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“ eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.

Helgadalur

Selvogsgata um Helgadal.

Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Eyrað

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Hólmshraunin fimm„, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:

Inngangur

Jón Jónsson

„Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.

Hólmshraun I

Hólmshraun

Hólmshraun – upptök.

Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget“ stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.

Hólmshraun II

Hólmsborg

Hólmsborg er í Hólmshrauni.

Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.

Hólmshraun III

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.

Drottning

Drottning í Bláfjöllum – gígur.

Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk.

Eyrað

Eyrað – gígur vestan Kónsgfells.

Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.

Hólmshraun IV

Silungapollur

Silungapollur.

Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.

Hólmshraun V

Þríhnúkar

Í gíg Þríhnúka.

Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget“ hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Hólmshraun
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t.d. Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.

Hólmshraun

Hólmshraunin – og önnur nærliggjandi (Ísor.is).

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell.

Esjuberg

Esjuberg – túnakort 1916.

Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.“

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings ofan Leiðvalla.

„Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þingnes

Þingnes.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.“

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
„Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið „Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið „Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um „Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Þingnes
Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Leiðvöllur

Leiðvöllur á Kjalarnesi.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: „Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur „á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: „Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið „og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

LandnámKort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”.
ÞingnesFrásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: „Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi.
ÞingnesÞarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.“

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt „ofan við Leiðvöll“ í Kollafirði.
Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. „Ofan við Leiðvöll“ hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið „Kirkjunýpa“, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.

Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins.
EsjubergVitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.