ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr „Jarðfræðikort af Suðvesturlandi“ í mælikvarðanum 1:100 000.
Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er jafnframt bent á 40 áhugaverða staði og eru lýsingar af þeim að finna hér á vefnum.
Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. „Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.
Sniðgengisþátturinn kemur fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig á Richter.
Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir.
Síðasta gos- og gliðnunartímabili lauk um miðja 13. öld. Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Aðeins tvö síðustu gostímabilin eru vel þekkt, það þriðja að nokkru leyti, en helst til fá hraun því tilheyrandi hafa verið aldursgreind. Eldstöðvakerfin hafa ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með löngum hléum á milli.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar.
Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.
Reykjanesskagi – jarðfræði.
Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum skagans eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli. Hvert hinna þriggja gostímabila sem greind hafa verið byrjaði þar um 200-300 árum fyrr en hin komu til. Endurtaki það sig mætti ætla að Brennisteinsfjallakerfið færi að nálgast nýtt upphaf miðað við lengd undanfarinna sniðgengistímabila. Hin myndu svo fylgja eftir með löngum hléum á milli.
Básendar – Básendaflóð
Eitt mesta sjávarflóð sem orðið hefur við Íslandsstrendur, Básendaflóðið, er kennt við Básenda á Reykjanesi. Básendar var gamall verslunar- og útróðrarstaður skammt sunnan við Stafnes og þekktur frá fornu fari. Þar eru grágrýtisklappir við sjóinn og grýttar fjörur. Ströndin öll liggur fyrir opnu hafi en smávíkur og básar gera veitt bátum og smærri skipum var.
Básendaflóðið varð aðfaranótt 9. janúar 1799. Þetta var stórstraumsflóð samfara lágum loftþrýstingi og aftakaveðri af hafi en við slíkar aðstæður magnast flóðbylgjan. Á Básendum gekk hún langt á land og hreif með sér verslunarhúsin og flest önnur hús á staðnum, eyðilagði lendinguna og braut alla báta sem þar voru í naustum. Margir sluppu naumlega úr flóðinu en gömul kona drukknaði. Þá urðu einnig gríðarmikil flóð og eignatjón víða við Suður- og Vesturland allt frá Þjórsárósi til Barðastrandar.
Allmikil tóftarbrot eru á Básendum. Staðurinn er sæmilega merktur.
Í Reykjavík gekk sjór yfir nesið vestan við Lambastaðahverfið svo Seltjarnarnesið var sem eyja í hafinu. Fátítt er að slíkt gerist en átti sér þó stað 1936 í Pourquoi Pas veðrinu fræga. Bærinn Breið, sem var yst á Akranesi, gereyddist, bæði hús og tún. Talið er að 187 skip og bátar hafi eyðilagst eða stórskemmst en engin sjóslys urðu þó. Fárviðri var að suðvestri þessa nótt þannig að það var ekki einungis sjávargangurinn sem olli eyðileggingu. Kirkjurnar á Hvalsnesi og Nesi við Seltjörn fuku af grunni og brotnuðu í spón og kirkjurnar á Kirkjuvogi og Kálfatjörn stórskemmdust .
Miklar breytingar urðu víða við ströndina, sjávarkambar hurfu og nýir urðu til og grandar og eiði tóku stakkaskiptum. Erfitt er að meta flóðhæðina en þó eru ýmsar vísbendingar í tjónalýsingum. Í skýrslu um tjónið á Básendum er sagt að sjór hafi komist 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur hafi skolast upp á húsþak og liggi þar 4 álnum yfir jafnsléttu. Geir biskup Vídalín sem bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi áleit „að 5 álnum [3 m] hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum“.
Breidd flóðsins innan við Lambastaði mældist 300 faðmar (áln 0,63 m, faðmur 1,88 m). Í Staðarsveit á Snæfellsnesi gekk sjórinn alstaðar meira en 560 m lengra á land en í eðlilegum stórstraumi og allt upp í 2800 m. Í dag eru ummerki Básendaflóðsins hvergi glögg. Þrátt fyrir það eru þetta mestu hamfarið af völdum sjávarfalla sem vitað er til að hafi orðið við Ísland á sögulegum tíma.
Pattersonvöllur – fornskeljar, 20-25.000 ára gamlar
Undir Pattersonflugvellinum sunnan við Innri-Njarðvík eru allþykk, forn, hörðnuð sjávarsetlög. Í þeim er á köflum mikið af steingerðum skeljum. Mest ber á sandmigu (smyrslingi – Mya truncata) og er hún víða í lífsstöðu. Í einstaka samloku hefur fundist steingerður skelfiskur. Aldur skeljanna er 20.000-22.000 ár og þær því lifað skömmu áður en jöklar síðasta jökulskeiðs gengu fram í fremstu stöðu fyrir um 18.000 árum. Sjávarstaða hefir verið a.m.k. 5-10 metrum ofar en nú.
Valahnúksmöl – sjávarkambur
Valahnúksmöl er 420 m langur og 80 m breiður stórgrýttur sjávarkampur (-kambur) úr vel núnum hnullungum, mestmegnis á bilinu 1-3 fet í þvermál. Hann liggur þvert um sigdæld, eða sigdal, sem markast af Valahnúk í norðri og Valbjargagjá í suðri. Þegar hásjávað er myndast lítið lón innan við kampinn.
Uppruna grjótsins í Valahnúksmöl er einkum að leita í sjávarklettum milli kampsins og Reykjanestáar. Ströndin þarna er ákaflega brimasöm og er þungi úthafsöldunnar mikill þegar hún skellur á klettunum. Ber hún skýr merki þessara átaka og er alsett básum og skútum, jafnvel gatklettum. Valahnúksmöl liggur nokkuð inn á Yngra Stampahraun, sem rann á öndverðri 13. öld, og er því yngri.
Reykjanes – sundlaugin neðst.
Vert er að benda á frumstæða sundlaug innan við kampinn gerða af vitaverði í Reykjanesvita á 3. áratug síðustu aldar. Laugin var sprengd niður í sprungu við norðanvert lónið. Hún var einungis nothæf á flóði en með aðfallinu streymir sjór um sprungur inn í lónið og hitnar.
Háleyjabunga – dyngjugígur
Háleyjabunga er lítil hraundyngja austast á Reykjanesi. Í hvirfli dyngjunnar er allstór hringlaga gígur, um 25 m djúpur.Hraunin eru úr bergtegundinni píkrít, sem er mjög auðugt af steindinni ólivín. Í handsýni má auðveldlega sjá mikið af flöskugrænum ólivíndílum. Píkrít flokkast sem frumstætt berg og er talið eiga upptök í möttli jarðar.
Mesta sjáanlega þvermál dyngjunnar er um 1 km en hún er umlukt yngri hraunum á alla kanta nema suðaustanmegin, þar sem hún liggur að sjó. Í sjávarhömrunum er auðvelt að skoða byggingu dyngjunnar og einnig sést vel hvernig yngri hraun hafa runnið upp að henni. Píkríthraun eru talin elst hrauna á Reykjanesskaga, frá því skömmu eftir að ísaldarjöklana tók að leysa.
Kerlingarbás – öskugígur og berggangar
Við Kerlingarbás, sem er grunnur vogur næst sunnan Önglabrjótsnefs, hafa skapast einstakar aðstæður til að skoða innviði eldgíga af ýmsum gerðum. Gígaraðir á vestari gosrein Reykjaness, sem kennd hefur verið við Stampa, liggja að sjó við Kerlingarbás. Þar sem gossprungurnar opnuðust í sjó hlóðust upp gjóskukeilur en gjall- og klepragígar þar sem sjór komst ekki að gosrásinni. Leifar þriggja gjóskugíga af hverfjallsgerð má sjá við ströndina. Þeir tilheyra Eldri og Yngri Stampagígaröðunum sem liggja um 4 km inn til landsins frá Kerlingarbás.
Gígur á Stampagígaröðinni.
Eldra Stampagosið varð fyrir tæpum 2000 árum síðan en það yngra á 13. öld. Gosmyndanir Stampagígaraðanna eru mest áberandi við Kerlingarbás en þó sér þar í eldri myndanir í sjávarmálinu, bæði túff og hraun.
Gígar og hraun við Kerlingarbás á Reykjanesi. Myndin er tekin frá Önglabrjótsnefi.
Norðan til í básnum er þverskorinn gjallgígur á Eldri Stampagígaröðinni. Þar má m.a. sjá bergstólpa í fjörunni sem er hluti af gosrás hans. Gígur þessi ber nafnið Kerling (kemur fram í þjóðsögum ásamt dranginum Karli).
Eftir að virkni á Eldri Stampagígaröðinni lauk tók við goshlé á Reykjanesi í um 1100 ár. Yngra Stampagosið hófst snemma á 13. öld á gossprungu sem lá um 150 m suðaustan Eldri Stampagígaraðarinnar. Í upphafi gossins hlóðust upp tvær gjóskukeilur af hverfjallsgerð við ströndina. Aldursmunur þeirra er vart meiri en nokkrir mánuðir. Gígrimar beggja gíganna náðu inn á land og eru að hluta varðveittir. Yngra Stampahraunið rann upp að gígrimunum og markar hraunbrúnin hringlaga útlínur þeirra. Við miðjan Kerlingarbás má sjá tvo þunna bergganga sem liggja upp í gegnum yngri gjóskukeiluna, í Yngra Stampahraunið. Gefst þarna gott tækifæri til að skoða tengsl hrauns við aðfærsluæðar þess. Um 150 m breið sigdæld liggur um miðjan Kerlingarbás, með skarpa brún norðan megin. Rofmislægi koma fram beggja vegna sigdældarinnar. Við Kerlingarbás má fá góða mynd af gosvirkni við mörk lands og sjávar.
Við Kerlingarbás. Á myndinni hér að ofan sést berggangur sem liggur í gegnum óharðnaða gjósku, upp í Yngra Stampahraunið.
Eldvörp – gígaröð frá 13. öld
Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eld-varpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar. Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun. Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.
Sandfellsdalur – dyngjugígur
Stærstu hraunin á Reykjanesskaga eru dyngjur. Þær elstu og stærstu, hvor um sig yfir 100 km2, eru Sandfellshæð og Þráinsskjöldur. Þær mynduðust á síðjökultíma fyrir um 14.000 árum. Þá var sjávarstaða næstum 30 m lægri en nú.
Gígurinn í Sandfellshæð heitir Sandfellsdalur. Hann er næstum kringlóttur, mest 450 m yfir barminn. Í honum hefur verið hrauntjörn. Hraun úr henni hefur runnið um hellakerfi. Sums staðar hefur ollið upp úr því, t.d. þar sem röð af hraunbólum vísar til vesturs með Langhól og Berghól stærstum. Í lok gossins hefur sigið í tjörninni og hallandi spildur hangið eftir innan á barminum. Hraun hefur einnig runnið yfir gígbarminn. Næst honum er það fremur frauðkennt og þunnbeltótt en fjær eru beltin þykkri og bergið þéttara. Dyngjugos standa lengi, jafnvel í nokkur ár þau stærstu. Bergið í þeim er jafnan ólivínríkt. Um það bil 5 km breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Jaðarmisgengið suðaustan megin skerst yfir gíginn í henni og heldur áfram norðaustur yfir Sandfell, Lágafell og Þórðarfell. Það sést ekki í um það bil 2000 ára hrauni suðvestan við gíginn en kemur aftur fram í eldri hraunum úti á Reykjanesi, svo sem Háleyjabungu.
Stampagígaröðin
Yngra Stampahraun er eitt af hraunum Reykjaneselda 1210-1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum og neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.
Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 km2. Á norðurenda hennar eru tveir allstæðilegir „stamplaga“ gígar sem heita Stampar. Sunnar á gígaröðinni eru nokkrir stæðilegir gígar sem bera nöfn, s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri, en allir þessir gígar voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Að öðru leyti eru gígar Stampagígaraðarinnar lágir klepragígar og fremur lítt áberandi.
Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti sex gosa í sjó við Reykjanes á tímabilinu 1210-1240. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi sem skjóta stoðum undir þessar frásagnir.
Einnig eru þekkt fjögur hraun sem runnu á þessu tímabili, það er Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar 1210-1240. Eldarnir byrjuðu með gosi í sjó við suðvesturströnd Reykjaness. Þar hlóðust upp tveir gjóskugígar af hverfjallsgerð með um 500 metra millibili. Er drangurinn Karl hluti af gígbarmi yngri gígsins. Báðir gígarnir eru nú mikið eyddir vegna rofs en hlutar þeirra eru þó varðveittir á ströndinni. Þar má sjá allt að 20 metra þykka gjóskustabba sem vitna um tilvist gíganna. Í framhaldi af gjóskugosunum rann Yngra Stampahraunið.
Gunnuhver – hverasvæði
Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter.
Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.
Skálafell – jarðskjálfta-sprungur
Skálafell hefur hlaðist upp í nokkrum gosum á gossprungum og aldursmunur á þeim er mikill. Toppgígurinn í því er klepragígur af eldborgargerð. Hann varð til í því yngsta, líklega fyrir rúmum 3000 árum. Kringum toppgíginn eru jarðföll (skálarnar?) þar sem runnið hefur undan. Af þeim toga er einnig smáhellir suður úr toppgígnum. Elstu hraunlögin úr Skálafelli, yfir 8000 ára, sjást í misgengisstalli austan við fellið og í sjávarklettum (Krossvíkurberg). Brotstallar eru stórir í gömlu hraununum en í yngsta hrauninu rétt mótar fyrir þeim. Misgengi þessi takmarka siglægðina á Reykjanesi að austan. Tilsvarandi misgengi á móti eru vestur við Kinn og við táknræna brú yfir flekaskilin. Þar á milli eru 5 km. Á hraunsléttu kippkorn norðaustan við Skálafellsbunguna eru gömul hraun úr Skálafelli og í þeim slitróttar gjár með norð-suðlægri stefnu. Færsla á þeim er lárétt til hægri þegar horft er þvert yfir þær. Einkenni þeirra eru uppskrúfaðir sprunguhólar þar sem sprungubútarnir hliðrast til.
Hrólfsvík – hnyðlingar
Hrólfsvík er þekktur fundarstaður hnyðlinga. Hnyðlingar eru aðskotasteinar sem kvika hefur hrifið með sér í gosum. Ein gerð þeirra er úr gabbrói og svo er um hnyðlingana í Hrólfsvík. Þar eru þeir í hraunlagi, eða öllu heldur í hraunbelti, og krökkt af þeim á litlum kafla austanvert í víkinni. Ekki er vitað um upptök hraunsins. Ofan á því er sandur og möl sem best sést í lágum sjávarbakka. Áhorfsmál er hvort jökull hefur gengið yfir það. Hnyðlingarnir eru ýmist rúnnaðir eða kantaðir. Í þeim er aðallega feldspat en mikið ólivín í sumum. Þeir gætu verið úr botnfalli kvikuinnskots sem var byrjað að storkna en kvika hreif svo með sér eftir viðdvöl í neðra. Skorpan undir Reykjanesskaga er úr gosbergi og minni háttar innskotum niður á 5-6 km dýpi en þar undir innskotsbergi, fyrst berggöngum og síðan gabbrói. Vel mega gabbróhnyðlingarnir vera úr gabbrólaginu.
Festarfjall – rofin eldstöð, aðfærsluæð og berggangar
Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti. Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur. Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.
Vestan Selatanga – tæmd hrauntjörn
Hraunið vestan við Selatanga er úr Moshólum, sundurgröfnum gjallgígum við veginn neðst í hraunsundinu milli Móhálsa. Moshólar eru ysti parturinn af gígaröð sem nær inn fyrir Trölladyngju. Aldur hennar er um 2000 ár. Þekktasta hraunið úr henni er Afstapahraun. Veiðistöðin gamla á Selatöngum er þar sem hraunið úr Moshólum og Ögmundarhraun koma saman. Þar er dálítið var í smáviki.
Katlahraun heitir í Moshólahrauninu (ekki örnefni) þarna vestur af. Í því eru tvær stórar bungur úr helluhrauni skammt vestur af Selatöngum. Hraun hefur safnast í þær en síðan hlaupið undan fram í sjó og miðsvæðið í þeim sigið og 10-20 m hár veggur staðið eftir umhverfis. Stöku strípar standa eftir í siglægðinni. Innveggir eru ýmist hrunskriða eða húðaðir hraunbrynju, svo einnig stríparnir.
Helluhraunið í botni er ýmislega beyglað og brotið. Þessi tæmda hrauntjörn minnir á Dimmuborgir í Mývatnssveit en sá munur er að þær eru gervigígamyndun og hér vantar gjallið sem einkennir þær.
Húshólmi, Óbrennishólmi – rústir og samspil byggðar og eldgosa
Allstór óbrinnishólmi austast í Ögmundarhrauni niður undir sjó. Hólminn opnast niður í fjöru [Hólmasund]. Ögmundarhraun sem brann árið 1151 umlykur hann. Í hólmanum og kimum vestur úr honum eru mannvistarleifar sem eru eldri en hraunið. Í aðalhólmanum eru tveir fornir torfgarðar sem hraunið hefir runnið upp að og yfir. Annar þeirra var hlaðinn fyrir árið 871, er landnámsöskulagið féll, og því eitt elsta mannvirki sem fundist hefir í landinu. Í kimunum eru húsatóftir sem hraunið rann upp að og að stórum hluta yfir. Þar eru leifar af stórum bóndabæ sem hlaðinn hefir verið að hluta úr lábörðu grjóti.
Þar er einnig heilleg tóft sem talin hefur verið af kirkju. Þessi staður nefnist Forna-Krýsuvík og þar hefir Krýsuvíkurbærinn staðið frá upphafi og fram að gosi er hann hefir verið fluttur á núverandi stað.
Óbrennishólmi er í miðju Ögmundarhrauni norðvestur af Húshólma. Gengið er í hólmann frá fjallinu Lat. Þá er farinn misglöggur stígur um Ögmundarhraun sem brann árið 1151. Í Óbrennihólma er forn, hringlaga fjárborg og einnig eru þar leifar af túngarði. Þessar mannvistaleifar eru eldri en hraunið.
Ögmundarhraun við Núphlíð – gígar og hraunfossar
Ögmundarhraun myndaðist í gosi árið 1151. Þá opnaðist um 25 km löng sprunga eftir endilöngum Móhálsadal og allt norður undir Kaldársel. Í henni miðri er gígalaus kafli. Úr suðurhlutanum rann Ögmundarhraun en Kapelluhraun úr þeim nyrðri. Syðst í Vesturhálsi, þar sem heitir Núphlíð, liggur gígaröðin á bláfjallsbrúninni og falla frá gígunum hraunlænur niður þverhnípta hlíðina. Hraunið er að mestu slétt helluhraun og gígarnir eru flestir litlir.
Grænavatn, Gestsstaðavatn – sprengigígar
Í Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára. Þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV.Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni). Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni.
Grænavatn.
Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með. Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á. Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis.
Seltún – háhitasvæði
Seltúnshverir kallast hveraþyrping neðst í lækjarskorningi sem margir skoða, enda við alfaraveg. Fyrir rúmri öld var þar miðstöð brennisteinsvinnslu og fyrir um hálfri öld einn helsti vettvangur borana í Krýsuvík. Þarna eru gufu- og leirhverir og heit jörð umhverfis. Nokkuð er um heiðgulan brennistein en einnig gulleit og hvít hverasölt. Þau þekkjast frá brennisteini á beisku bragði en hverfa að mestu í rigningartíð.
Fúlipollur heitir víð hveraskál austan vegarins en dautt er í honum nú. Kraumandi leirhverir eru fast við veginn aðeins norðar. Gamlir borpallar eru við lækinn vestan við göngustíginn. Borholan í öðrum þeirra reif sig upp í gos veturinn 2010 en dagar liðu og líða enn milli gosa.
Úthlaupi fyrir gosin er beint til hliðar yfir lækinn. Gufusprenging varð í annarri borholu neðst í brekkunni austan við stíginn í nóvember 1999. Hún myndaði gíg um 30 m í þvermál. Úrkastið, leir og grjót, barst inn með hlíðinni til norðausturs og gulleitur hroði situr enn á brekkunni.
Vatnið í hverunum er yfirborðsvatn. Það hitnar af gufu sem sýður upp af jarðhitageyminum undir og þéttist í því. Gastegundir, einkum brennisteinsvetni, fylgja með. Þær sýra yfirborðsvatnið og leysa bergið sundur í leir. Aðeins efstu 300 metrar jarðhitakerfisins undir Seltúnssvæðinu eru í suðu, þ.e. fylgja suðumarksferli með dýpi. Þar fyrir neðan kólnar. Það bendir til flatrennslis frá uppstreymi til hliðar.
Stóra-Eldborg – eldborg
Stóra-Eldborg og Geitahlíð.
Eldborg (Stóra-Eldborg) sunnan við Geitahlíð er dæmi um gíg af eldborgargerð. Gígarnir eru raunar tveir, báðir með eldborgarlögun. Gígar þessir eru á gossprungu með þrem smágígum milli eldborganna og Geitahlíðar. Norðan við Geitahlíð heldur gígaröðin áfram. Eldborgir myndast kringum hrauntjörn af hraunbráð sem fellur úr miðlægum gosstrók, eins og hér, eða smástrókum í tjörninni og hlaða upp kamb allt umhverfis, brattastan efst. Hér er kamburinn úr 5-10 cm þykkum hraunskeljum, líkustum hraunbelti hver og ein, blöðróttar efst en þéttari neðar. Hraun getur runnið yfir gígbarminn og svo var hér um skarð austan í móti. Hrauntraðir eru þar niður undan og sömu þunnu hraunskeljarnar í börmum þeirra.
Bálkahellir í Elborgarhbrauni.
Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun. Það hefur runnið til sjávar fram af Krýsuvíkurbergi austast. Aldur þess er ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.
Sog – gígar og litskrúðug ummyndun
Sogin er slakki sunnan við Trölla- og Grænudyngju. Í Sogunum er litskrúðug háhitaummyndun og nokkrir leirhverir og gufuaugu. Skammt neðan við Sogin er merkileg gígaröð. Norðan við vegslóðann er svonefndur Sogagígur, allstór sprengigígur. Inni í honum eru tóftir af nokkrum fornum seljum. Sunnan við vegslóðann eru nokkrir minni en áberandi sprengigígar. Suður af Sogunum er Spákonuvatn og enn sunnar Grænavatn. Mikið útsýni er af egginni ofan við Sogin. Í sundinu milli Soga og Oddafells eru falleg apalhraun og gufur upp úr þeim í grennd við borholu sem þar er.
Lambafellsgjá – bólstraberg
Norðan við Eldborg við Trölladyngju er lágt, ávallt fell er nefnist Lambafell. Syðst í því eru virk háhitaaugu. Eftir fellinu er slakki eða lág brún sem opnast í hrikalegri gjá sem nefnist Lambafellsgjá. Gjáin er aðeins nokkurra metra víð og mesta dýpi er um 50 metrar. Gjáin opnast út á jafnsléttu í norðurenda fellsins. Hægt er að ganga eftir gjánni endilangri. Auðveldast er að fara upp í fellið að sunnanverðu og ganga niður gjánna. Þar eru bratt og nokkuð laust undir fæti en engin mannhætta. Í veggjum gjárinnar sést bólstraberg sem fellið er byggt úr. Gjá þessi er vafalaust að stórum hluta mynduð við umbrot á nútíma en fellið sjálft virðist aldið og hugsanlega frá næstsíðasta jökulskeiði eða jafnvel eldra.
Hrútagjá – risfláki
Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða sem vert er að skoða. Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts.
Gengið um Almenning í Hraunum.
Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulaga-rannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum.
Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.
Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu. Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast. Hún hefur verið allt að 30 m há.
Hrútargjárdyngja.
Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.
Straumsvík
Straumsvík er lítil sjávarvík sem gengur inn á milli Kapelluhrauns, sem rann árið 1151, og hrauns frá Hrútagjárdyngju sem er um 6000 ára. Keflavíkurvegurinn liggur við víkurbotninn. Bærinn Straumur stendur við víkina og handan hennar er Álverið í Straumsvík. Þarna eru miklar fjörulindir sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund við ströndina og út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar.
Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.
Fjörulindir eru allvíða á Reykjanesi en hvergi eru þær eins vatnsmiklar og áberandi. Vatnið er úrkomuvatn sem fellur á hraunin upp af Straumsvík. Hluti þess er kominn úr Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð. Kaldá kemur upp í Kaldárbotnum en hverfur aftur í hraunin nokkru neðar. Vatnið birtist síðan á ný í Straumsvík. Annar grunnvatnsstraumur kemur frá Kleifarvatni. Við Þorbjarnarstaði hjá Straumsvík eru tjarnir sem flóðs og fjöru gætir í. Við innstu tjörnina er Gvendarbrunnur. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.
Ástjörn
Ástjörn er hraunstífluð tjörn í kvos vestan undir Ásfjalli, tæpir 5 ha að stærð og liggur í um 20 m hæð yfir sjó. Berggrunnurinn í kvosinni undir tjörninni er kubbaberg úr neðsta hluta Reykjavíkur-grágrýtisins en í Ásfjalli er yngra grágrýti. Fyrir um 3000 árum rann svokallað Skúlatúnshraun niður með grágrýtisholtunum. Þetta var þunnfljótandi helluhraun sem nú myndar ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík. Það rann fyrir mynni kvosarinnar og þá hefur Ástjörn líklega orðið til í lægð milli hraunsins og grágrýtisins sem myndar Ásfjall. Skömmu eftir landnámsöld, eða um 950, varð eldgosahrina í Grindaskörðum og Brennisteinsfjöllum.
Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.
Mjóir, þunnfljótandi hraunstraumar teygðu sig allt niður undir Hvaleyrarholt. Þetta er flatt helluhraun og nefnist eftir útliti sínu Hellnahraun. Tunga úr hrauninu rann inn í kvosina við Ástjörn sem þá fékk sitt núverandi lag. Ástjörn er afrennslislaus á yfirborði, eins og flest vötn á Reykjanesskaga, en vatnsstaðan í henni ræðst af grunnvatnsstöðunni í berginu. Þegar hátt stendur má greina streymi frá tjörninni inn í vikið vestast í henni þar sem vatn sígur í hraun og skilar sér með grunnvatnsstraumi til sjávar vestan við Hvaleyrarhöfða. Innrennsli í tjörnina kemur úr mýrunum norðan hennar og austan. Þar eru smálindir sem koma úr grágrýtinu. Vatnasvið tjarnarinnar á yfirborði er ekki nema um 1 km2.
Útsýni af Ásfjalli er gott og áhugavert fyrir fólk sem vill fræðast um jarðfræði og sögu Hafnarfjarðar og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Bærinn Ás stóð skammt frá tjörninni en bæði hún og fjallið þar ofan við heita eftir bænum. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkenndust af fjölbreyttu gróðurfari en nú er lúpínan að leggjast yfir svæðið og rýma brott upprunalegum gróðri. Fugla- og smádýralíf er auðugt. Ástjörn er friðuð og umhverfis hana er friðland og fólkvangur.
Álftanes og Álftanesgarður
Álftanesgarðurinn er jökulgarður sem myndast hefur framan við skriðjökulstungu sem lá yfir Álftanes einhvern tíma í ísaldarlok. Bæjarröðin gamla á nesinu frá Skógtjörn að Bessastöðum er á garðinum sem síðan heldur áfram út á Bessastaðanes. Þar hverfur hann í sjó. Á árum áður mátti sjá hvar hann tók land yst á Kársnesi en nú er hann horfinn undir fyllingu þar. Garðurinn er lágur og breiður og gæti hafa myndast í sjó, a.m.k. er ljóst að sjór hefur gengið yfir hann eftir að hann varð til. Álftanesgarðurinn er langstærsti jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Minni garðar og garðstubbar eru á nokkrum stöðum, s.s. við botn Kópavogs og við Grafarvog. Fátt er vitað með vissu um aldur Álftanesgarðsins. Hann virðist þó vera yngri en skeljalög Fossvogsins og er að líkindum frá yngra dryas kuldakastinu og um 11.000 ára.
Rauðhólar – gervigígar
Í Rauðhólum.
Fyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.
Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp. Hægt er að aka að Rauðhólum frá Suðurlandsvegi, um 1 km austan Rauðavatns.
Viðey – basaltinnskot og keilugangar
Viðey.
Berggrunnur Viðeyjar skiptist alveg í tvennt. Á Vestureynni er grágrýtishraun frá hlýskeiði seint á ísöld. Á Heimaeynni er aftur á móti mest áberandi jarðlög sem myndast hafa í tengslum við svonefnda Viðeyjarmegineldstöð sem var virk fyrir um tveimur milljónum ára. Þar er gosmóberg víða og einnig eru setlög austast á eynni. Inn í móbergið hafa troðist innskotseitlar s.s. Virkishöfði. Norðan á Heimaey er svo grágrýtisflekkur allstór.
Búrfellsgjá – gígur og hrauntröð
Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
Smyrlabúðarhraun
Gráhelluhraun
Lækjarbotnahraun
Urriðakotshraun
Hafnarfjarðarhraun
Garðahraun
Gálgahraun
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
Búrfellshraun – loftmynd.
Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hrauntraðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Margir hraunhellar eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.
Hverahlíð – jökulhamlaður hraunjaðar
Á hverasvæði við Hverahlíð.
Hverahlíð er hluti af bogadregnum stalli. Hann er hæstur á móts við hverina en lækkar niður að jöfnu til austurs og heldur nokkurn veginn hæð til vesturs. Stallur þessi er hraunbrún á dyngju sem myndaðist seint á ísöld, líklega á síðasta jökulskeiði, og nefnd er Skálafellsdyngja (ekki örnefni). Hún er hæst vestan við Skálafell. Þar er gígurinn, Trölladalur. Hraunið er skrapað af jökli sem hvalbök og jökulrákir á því sýna. Hraunbrúnir sem þessar myndast þar sem hraun hafa runnið í aðhaldi af jökli. Hér hefur hann verið á hæð við stallinn eða lítið þar yfir. Neðst í stallinum sést hér og þar móbergsbreksía með bólstrum. Hún nær hátt upp í hann nokkuð austur frá hverunum.
Vatn hefur eftir því staðið mishátt í lóni milli jökuls og hrauns. Lægri stallur í miðri hlíð sýnir hraunrennsli við lága vatnsstöðu. Hverahlíðarhorn skagar vestur úr hraunjaðrinum. Þar hefur hraunið leitað í rás sem þangað lá. Hraunið hefur runnið niður á jafnsléttu í Ölfusi og í sjó við um það bil 30 m háa sjávarstöðu sem skil á breksíu og hraunlögum sýna. Þar er á því hnullungakambur eftir 20 m hærri sjávarstöðu frá lokum ísaldar. Hverirnir sem hlíðin dregur nafn af eru á NA-SV sprungu. Hana má rekja töluverðan spöl suður á dyngjuna. Undir Hverahlíð er hæstur hiti í jarðhitakerfinu sunnan Hengils, vel yfir 300°C.
Ölfusvatnslaugar – uppsprettur
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal [í Þrengslum við Miðdal] inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.
Gjárnar á Þingvöllum
Gliðnunarbelti Reykjaneshryggjar gengur inn í Ísland. Á Reykjanesskaga er það samsett af tveim þáttum, gliðnun og sniðgengi. Það mætti nefna sniðrekbelti. Hreint rekbelti verður hryggjarstykkið ekki fyrr en norðan Hengils, í norðurgrein eldstöðvakerfis hans. Partur af því er Þingvallasigið með gjánum beggja vegna. Gjárnar norðan við Þingvallavatn eru í dyngjuhrauni sem rann fyrir um 10.000 árum. Gígurinn í dyngjunni er suður af Hrafnabjörgum. Nýrunnið náði hraunið suður á móts við Nesjaey. Þingvallavatn var þá að flatarmáli aðeins um þriðjungur þess sem það er nú. Gjárnar komu fram við tognun yfir flekaskilin og því fylgdi landsig. Þetta gerðist í hrinum með gangainnskotum frá Hengli og gliðnun gjánna ofan þess sem gangarnir náðu. Við landsigið færðist ströndin innar. Tímann á milli slíkra umbrota þekkjum við ekki en síðasti atburður af því tagi varð í júní 1789.
Vatnskot.
Sokkinn túngarður í Vatnskoti sýnir að landsigið þar nam um 2,5 metrum. Vestan megin er svo til allt sigið um Almannagjá en austan megin deilist það á fleiri gjár. Sigið í Almannagjá losar 40 m þar sem mest er. Líta má á misgengin við Hestvík sem framhald gjárinnar til suðvesturs. Þar sneiða þau sundur grágrýtisdyngju og er austurhlíð hennar töluvert neðar en botn víkurinnar. Samanlögð stærð sigstallanna, þeir eru tveir stærstir, nemur hátt í 400 metrum. Hún gæti eftir því verið tíu sinnum eldri en Þingvallahraun og þá frá síðasta hlýskeiði ísaldar.
Súlufell – sprengigígar
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan. Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum.
Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum. Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.
Tjarnarhnúkshraun við Ölfusvatnsá – fjölbreyttir hnyðlingar
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
Sogið.
Eftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt.
Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.
Dyrafjöll – móbergshryggir og misgengi
Dyrafjöll eru samsett úr mörgum goseiningum sem skiptast í þrjár syrpur. Tvær af þeim eru við Nesjavallaveginn.
Eldri gossyrpan er úr næstum dílalausu þóleiítbasalti, sem aðallega er móberg, en grágrýtishraunlög samkynja eru ofan á því, ósamfelldir flákar og bleðlar. Grágrýtið er straumlögótt og oft rauðagjall neðst í því. Stærsti flákinn er á Háhrygg.
Yngri syrpan samanstendur af bólstrabergs- og móbergshryggjum úr dílóttu basalti. Móbergshryggirnir eru skarpir en bólstrabergshryggirnir ávalir og skriðurunnir.
Hryggir þessir eru fremur efnisrýrir og dalir skilja þá að, luktir öllum megin. Fyrir kemur þó að rás hafi grafist á milli. Dyrnar eru dæmi. Þar má á nöfinni sjá jökulbergslag á skilum milli þessara myndana.
Grágrýtið í dyngjunni vestan við Hestvík gengur undir Dyrafjöll. Það er sennilega frá síðasta hlýskeiði ísaldar. Fjöldi misgengja liggur eftir Dyrafjöllum. Lóðrétt færsla á þeim er báðum megin frá að Háhrygg. Í honum er siglægðin þannig dýpst þótt landið sé hæst. Frá Háhrygg gengur hún ofan í Hestvík, og til suðvesturs yfir Hengil.
Nesjavellir.
Nesjavellir eru á austurvæng siglægðarinnar. Misgengi eru báðum megin við hann en færsla á þeim er niður til vesturs. Því er líkast að misgengi með færslu niður til austurs sé vestan Nesjavalladalsins en svo er ekki. Þar hefur á austurhlíð Háhryggjar gosið á Hengilssprungunni auk þess sem einn af yngri hryggjunum, Kýrdalsbrúnir, hafa hlaðist þar upp. Eftir Kýrdalsbrúnum liggja að auki tvær gígaraðir. Gosrein þessi er meginuppstreymisrás Nesjavallahluta jarðhitakerfisins sem virkjunin byggir á.
Seltjörn – fjörumór
Land er að síga við sunnanverðan Faxaflóa. Þetta sést bæði í gömlum örnefnum og í jarðlögum. Þegar land byggðist virðist hafa verið allmikil tjörn eða stöðuvatn á Seltjarnarnesi sem nesið dró nafn sitt af. Vegna landsigs og ágangs sjávar breyttist tjörnin í breiða sjávarvík milli Gróttu og Suðurness. Talið er að allt fram á 18. öld hafi Seltjarnarrif (eða Suðurnesrif) lokað Seltjörn og hún því verið með fersku eða lítt söltu vatni fram til þess tíma.
Grótta.
Þegar lágsjávað er við ströndina, t.d. á stórstraumsfjöru, koma sérkennilegar jarðvegstorfur í ljós sem standa upp úr sandinum og sjávarmölinni við ströndina fyrir miðri Seltjörn. Þetta er fjörumór sem myndast hefur í vel gróinni mýri. Mórinn er 3000-9000 ára og sýnir að Seltjarnarnes hefur sigið um 3-5 m á síðustu 3000 árum og um 1-1,5 m frá landnámstíð.
Fossvogur – setlög frá ísaldarlokum
Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar er straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum víða um vesturbæ Reykjavíkur, svo sem á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld.
Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum og allt eru það tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur, t.d.:
smyrslingur (mya truncata)
hallloka (macoma calcaria)
beitukóngur (buccinium undatum)
hrúðurkarlar ((Balanus balanus) o.fl.
Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur eru undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500-13.000 ára, eða frá alleröd-tímabilinu og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá yngra dryas kuldakastinu.
Raufarhólshellir
Raufarhólshellir er rétt fyrir ofan efsta hjallann á Þrengslavegi, áður en farið er niður í áttina til Þorlákshafnar. Hann er ekki vel sýnilegur frá veginum þótt hann sé aðeins steinsnar frá honum austanverðum. Hellirinn er u.þ.b. 1360 m langur og liggur að hluta undir Þrengslaveginum til norðvesturs. Hann er 10-30 m breiður og upp undir 10 m hár.
Í Raufarhólshelli.
Nokkur smá op eru fremst í hellinum og er farið ofan í það syðsta. Raufarhólshellir er fjórði lengsti hraunhellir landsins og sá lengsti utan Hallmundarhrauns í Borgarfirði. Hellirinn er í Leitahrauni sem rann fyrir um 5200 árum en upptökustaður eldsumbrotanna voru rétt austan Bláfjalla í Leitum. [Hann dregur nafn sitt af lágum hól rétt vestan vegarins móts við Hellisopið.]
Hvalfjarðareyri – eyri, baggalútar, geislasteinar og berggangar
Á sunnanverðri Hvalfjarðarströnd norðan við Eyrarfjall er Hvalfjarðareyri. Meðfram ströndinni er að finna mikinn fjölda síðsteinda (seólíta). Bergið er mjög ummyndað af völdum bergganga frá Kjalarneseldstöðinni sem skera jarðlagastaflann. Þeir koma vel fram í Tíðarskarði við mynni fjarðarins og áfram inn með ströndinni. Önnur þyrping bergganga er svo austan og norðan við Hvalfjarðareyri en þeir eru ættaðir frá Hvalfjarðareldstöðinni sem liggur nærri Ferstiklu norðan við fjörðinn.
Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins þegar heitt vatn leikur um það. Vatnið leysir upp frumsteindir bergsins en í staðinn falla út síðsteindir í sprungur og holrými. Dæmi um seólíta sem finna má með ströndinni eru:
kabasít
stilbít
analsím
mesólít
thomsonít
heulandít
Á Hvalfjarðareyrinni er einnig einn aðalfundarstaður baggalúta á suðvestur horni landsins. Baggalútar eða kýlingar nefnast smákúlur sem myndast þar sem gas hefur orðið innlyksa í líparíthraunum eða flikrubergi. Nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5-3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. Baggalútarnir hafa rofist út úr líparíthraunlögum sem mynda jarðlögin með ströndinni austan við eyrina.
Botnsdalur – grafinn móbergshryggur
Innst í Hvalfirði er að finna grafinn móbergshrygg. Hryggurinn kemur fram í miðju Múlafjalli sem skilur á milli Brynjudals og Botnsdals. Móbergshryggurinn hefur myndast undir jökli á jökulskeiði snemma á kvarter. Mörkin milli tertíer og kvarter (2,58 milljóna ára) liggja þarna utar með ströndinni og neðar í staflanum sem sýnir að hryggurinn er um 2,5 milljóna ára gamall. Hann liggur þvert undir Múlafjallið með NNA-stefnu sem er algeng stefna misgengja á svæðinu. Móberghryggurinn kemur best fram í Botnsdal. Þar má sjá hvernig hryggurinn rís hæst í miðju og hvernig hraunlög frá yngri dyngjugosum hafa runnið upp að honum og að lokum kaffært hann.“
Á jarðfræðikortinu eru jafnframt upplýsingar um aldur flestra hraunanna á Reykjanesskaganum.
Heimild:
–http://isor.is/
-Kristján Sæmundsson, 2010.
-Haukur Jóhannesson, 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010.
-Árni Hjartarson, 2010.
-Sigurður Garðar Kristinsson, 2010.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga
Kapellurnar í Kapelluhrauni og í Kapellulág – Kristján Eldjárn
Kristján Eldjárn skrifaði um fornleifarannsóknir í Kapelluhrauni vestan Hafnarfjarðar og Kapellulág austan Grindavíkur í „Árbók hins íslenska fornleifafélags“ árið 1955:
Kristján Eldjárn.
„Á tveimur stöðum á Reykjanesskaga eru örnefni dregin af kapellu. Þau eru Kapelluhraun í landi Lambhaga í Garðahreppi og Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík. Báðum örnefnunum eru tengdar sagnir, sem snúast um mannvirki á stöðunum. Verður hér skýrt frá árangri rannsókna, sem gerðar hafa verið á þessum fyrirferðarlitlu en forvitnilegu mannaverkum.
Kapellan í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð (fornleifarannsókn 1950)
Fyrir sunnan Hafnarfjörð er hraunfláki mikill, sem upptök á í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Hraun þetta heitir nú í daglegu tali Bruninn, nema neðsti eða nyrzti hluti þess heitir Kapelluhraun. Það er mjög úfið og lítt gróið apalhraun, og eru jarðfræðingar á einu máli um, að það hafi runnið eftir að land byggðist. Ráða þeir það af útliti og ástandi hraunsins, en auk þess er talið víst, að þetta sé hraun það, sem í gömlum heimildum er nefnt Nýjahraun.
Kapellan í Kapelluhrauni – herforingjaráðskort 1903.
Í landamerkjaskrám er sagt, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns. Kjalnesinga saga, sem talin er rituð á 14. öld, nefnir og Nýjahraun, og í annálum er þess getið, að skip, er lét út úr Hvalfirði, hafi brotið við Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð, og á þetta að hafa gerzt árið 1343. Nafnið Nýjahraun sýnir ótvírætt, að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld, en heimildirnar, að það sé eldra en frá 1343.
Þegar Nýjahraun rann, hefur það orðið ófær farartálmi á leiðinni suður með sjó. Hefur eflaust þá þegar verið ruddur um það vegur sá, sem síðan var notaður, unz bílvegur var gerður.
Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.
Gamli vegurinn var mikið mannvirki. Hann liggur þar sem skemmst er yfir hraunið (á ská yfir akveginn, sem nú er, 1955), mjög krókóttur, eins og slíkir hraunvegir eru, sem þurfa að þræða milli hárra hraunhóla og djúpra katla, en nóg er af hvoru tveggja í Kapelluhrauni. En vegurinn er sæmilega sléttur og breiður, enda mátti skeiðríða hann. Fast við veginn sjávarmegin, um miðju vegu milli hraunjaðra, er mannvirki, sem kallað er Kapellan, og dregur neðsti hluti hins gamla Nýjahrauns nafn af henni á síðustu tímum.
Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni áður en Suðurnesjavegurinn kom til.
Ekki er mér kunnug eldri heimild um Kapelluna en sóknarlýsing séra Árna Helgasonar um Garðaprestakall frá 1842. Séra Árni segir svo: „Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rétt við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið“.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg.
Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn“. Þessi frásaga mun eiga rætur að rekja til séra Jóns Þórðarsonar á Auðkúlu.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir þannig frá Kapellunni: „Kapellutóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er, að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett, stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum, flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar fjórar álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum“.
Loks má geta þess, að Bjarni Sæmundsson hermir þau munnmæli að í Kapellunni hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Kallar Bjarni mannvirkið grjótdys.
Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð, eftir því sem kostur var á. Auk mín unnu að rannsókninni Gísli Gestsson safnvörður, Jóhann Briem listmálari og dr. Jón Jóhannesson. Þegar við hófum rannsóknina, var húslag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandazt hugur um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. Hið sama kemur berlega fram í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og þjóðsagnanna. Séra Árni Helgason kallar rústina hins vegar „upphlaðna grjóthrúgu“, og bendir það orðalag til þess, að hún hafi litið öðruvísi út á hans dögum, verið líkari hrúgu en hústóft.
Húslagið hefði eftir þessu átt að koma fram seinna við það, að einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki, að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, og líklega hefur þetta gerzt um miðja 19. öld, ef marka má orðalagsmun höfundanna, sem til var vitnað hér að framan. Við tíndum það sem eftir var af grjóti út úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.
Jóhann Briem.
Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í norðausturhorni, 1,35 í suðausturhorni, 0,95 í norðvesturhorni og 1,0 í suðvesturhorni.
Gísli Gestsson, safnvörður. tók fjölmargar myndir, en fáar eru tila f honum sjálfum. Hér er hann við kumlarannsóknir í Þjórsárdal.
Þar sem hægt er að mæla veggþykkt, er hún um 1,0 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út úr dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolunum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hiuta um gólfið allt.
Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.
Ekki tel ég auðið úr því að skera nú, hvort hús þetta hefur verið borghlaðið, eins og Brynjúlfur Jónsson telur. Fremur þykir mér það ólíklegt. Hornin eru að vísu bogadregin, en þó verður húsið að kallast greinilega ferhyrnt að lögun. Hins vegar hafa veggir allir verið hiaðnir í fullri hæð úr hraungrýti, einnig gaflar alveg upp úr, a. m. k. austurgafl með vissu og sennilega einnig vesturgafl. Þakið sjálft tel ég líklegt, að hafi verið uppreft og tyrft, þó að hugsanlegt sé, að það hafi að einhverju leyti verið gert af hraunhellum án þess að vera borghlaðið.
Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.
Eftir rannsóknina var reynt að ganga frá tóftinni sem líkastri því, sem hún var áður. Ég kom aftur að Kapellunni 26. nóv. 1955. Hún hafði farið vel að stöfnum eftir rannsóknina, ekki hrunið, en klæðzt mosa eðlilega. Hins vegar hefur umhverfi hennar stórum verið spillt við stórkostlega töku hraunsalla í vegi og húsgrunna. Hafnarfjarðarbær hefur keypt þennan hluta hraunsins. Á því friðlýsingarskjal Kapellunnar að vera í hans vörzlu, og hafa ráðstafanir verið gerðar til að koma því í rétt horf.
[Lambhagi (181125 167). Kapellutóft (181125 167-1) forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]
Í Kapellunni reyndust vera fjölskrúðugri mannvistarleifar en búizt var við að órannsökuðu máli. M.a. fannst mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman. Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi i kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki.
Endurgerð stytta af heilagri Barböru í kapellunni.
Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tima hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.
Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.
Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið sé frá kaþólskum tíma, en ekki treysti ég mér til að tímasetja það nánar. Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum. Þá bendir og líkneskið eindregið til þess, að nafn rústarinnar segi rétt til um upphaflega notkun hússins. Það hefur að líkindum verið kapella, þar sem vegfarendur gátu staðnæmzt til að gera bæn sína.
Húsið hefur verið alveg við gamla veginn og vitað við áttum eins og kirkja. Mætti hugsa sér, að kapellan hafi verið reist þarna um leið og vegurinn var gerður yfir nýja hraunið, sem þvergirti fyrir leið manna suður með sjó. Eflaust hafa þau tíðindi þótt mikil og ill og ekki hættulaust að ryðja veginn og fara hraunið, meðan það var nýrunnið. Gat hætta sú og óhugnaður, sem hrauninu fylgdi, verið ástæða þess, að kapella var reist einmitt þarna. Stoðar þó að vísu lítt að gizka á slíkt, en hitt má vera því nær víst, að hús þetta hafi í raun og veru verið kapella, eins og nafn þess bendir til.
Kapellan – misvísandi skilti frá mismunandi aðilum…
Líkneski Barböru er af þeirri tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi. Dýrkun heilagrar Barböru meyjar hefur sjálfsagt verið allmikil hér á landi eins og annars staðar. Þó var hún ekki nafndýrlingur neinnar kirkju hér á landi, en meðal verndardýrlinga tveggja, kirknanna í Reykholti og Haukadal. Barbörulíkneski áttu að minnsta kosti fjórar kirkjur, í Reykholti, Vestmannaeyjum, Holti í Saurbæ (Stórholti) og Möðruvöllum í Eyjafirði.
Myndir af Barböru hafa auk þessa auðvitað verið á mörgum kirkjugripum, svo sem altaristöflum og skrúða, og má nefna sem dæmi þess saumaða mynd á kórkápu Jóns Arasonar, Barbörumyndir á útskornum altaristöflum frá Reykholti og Síðumúla og á sjálfri stóru altaristöflunni í Hólakirkju, en fleira mætti sjálfsagt nefna. Barbörumyndin í Kapellunni er vitanlega ekki full sönnun þess, að rúst þessi hafi í raun og veru verið kapella á kaþólskum tíma. En hún bendir þó til þess, að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur.
Leirkersbrot, nagla og skeifubrot treysti ég mér ekki til að tímasetja, en ekkert er óeðlilegt að rekast á þetta dót þarna, þó aldrei nema húsið hafi verið kapella í pápísku. Líklega hefur það verið eins konar sæluhús öðrum þræði, menn hafa farið þar inn til að gera bæn sína, en einnig til þess að hvílast eða leita skjóls í vondu veðri, jafnvel til að matast. Þetta kann að hafa verið frá upphafi ellegar ekki fyrr en eftir siðaskipti, því að sennilega hefur húsið staðið a.m.k. fram á 17. öld. Krítarpípuleggurinn sýnir það. Þarna hafa menn verið á ferð eftir að tóbak komst í notkun hér á landi. Og eldur hefur verið gerður á gólfi til þess að orna sér við, sjóða mat eða hvort tveggja. En ekkert af þessu þarf að mæla því í gegn, að húsið hafi upprunalega verið bænahús vegfarenda á óhugnanlegum stað.
Kapella á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætlaðar vegfarendum til bænagerðar. Þá voru og stundum reistir krossar úti á víðavangi í sama skyni. Slíkur hefur verið krossinn, sem lengi stóð við hættuleiðina í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíka og Borgarfjarðar eystra. Við hann áttu menn að lesa faðirvor. Af slíkum krossum kunna og að vera dregin sum örnefni af krossi eða krossum. Nefna má og í þessu sambandi hústóft litla úr grjóti, sem er uppi á Helgafelli á Snæfellsnesi og kölluð er „kapellan“. Víst mun hún hafa verið bænahús í kaþólskum sið. Hana má bera saman við Kapelluna í Kapelluhrauni, þótt ekki standi hún við veg. Fleiri sambærilegar menjar er mér ekki kunnugt um hér á landi, úr því að rústin í Kapellulág verður að dæmast úr leik, svo sem fram kemur hér að aftan.
Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík (fornleifarannsókn 1954)
Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.
Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum. Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað.
Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur.
Kapellan á Hraunssandi 2023.
Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni.
Kapellan í Kapellulág 2000.
Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: „Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapeliulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans“.
Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni.
Festarfjall frá sunnanverðum Hvalhól.
Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir. Þannig bar Gísli á Hrauni þetta fram mjög greinilega. Magnús bróðir hans sagði Dúknhellir, en Jón Engilbertsson á Hrauni sagði Dúnkshellir. Á korti herforingjaráðsins stendur Dúknahellir. Þannig skrifar einnig séra Geir Bachmann í sóknarlýsingu Grindavíkur 1840— 41 (Landnám Ingólfs III, bls. 142).
Hraunsvík – Dúknahellir.
Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn). Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur.
Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð“. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóli, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
[Hraun (181010 10). Lítil rúst í Kapellulág (181010 10-1), við veginn upp á Siglubergsháls. Sbr. Árb. 1903: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]
Þegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði. Inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu.
Nú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymzt minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið, 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út.
Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.
Ekkert bendir til þess, að hús þetta hafi verið kapella, annað en nafnið Kapellulág. Rústin sjálf var ekki kölluð Kapella, heldur Dysin. Miðnafnið Húsið er fremur bending um, að hús þetta hafi ekki verið kapella. Ekki er þarna heldur neinn svo hættulegur staður, að eðlilegt væri að hafa þar bænhús fyrir vegfarendur, enda örstutt að Hrauni, þar sem áður var kirkja. Þrátt fyrir þetta hefðu þó getað verið einhverjar ástæður til þess að þarna væri reist kapella, en heimildir eða staðhættir mæla ekki sérstaklega með því, og fornleifafundurinn mælir því mikið heldur í gegn, þótt hann afsanni það ekki að fullu. Til dæmis snýr húsið í vestur án þess að sjáist, hvernig á því stendur, jafnvel snýr það dálítið skakkt upp á móti brekku, eins og nokkuð hafi þótt við liggja, að það snéri einmitt þannig. En ekki er þetta nógu veigamikið til þess að halda megi fram þess vegna, að húsið hafi verið bænhús.
Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. „Sigurðarhús“ h.m.
Þegar hinir mörgu smáhlutir komu fram á svo litlum bletti og loks enskur peningur í þokkabót, hvarflaði hugurinn óneitanlega að verzlun Englendinga hér á miðöldum. Eins og kunnugt er, var Grindavík einmitt einn sá staður, þar sem þeir stóðu hvað föstustum fótum. Gat það verið, að þarna væri beinlínis fundin svolítil ensk búðarhola, þar sem einkum hefði verið verzlað með kvenlegan glysvarning? Hugmyndin virtist góð í fyrstu, en ekki get ég þó haldið þessari skýringu til streitu.
Að öllu athuguðu held ég helzt, að hús þetta hafi verið verkstofa málmsmiðs. Því til sönnunar tel ég fyrst og fremst það, að sumir smáhlutirnir virðast greinilega ekki fullgerðir. Afklippur úr látúni og tini benda og í sömu átt. Skylt er þó að vekja athygli á, að ekki fundust nein merki um, að bræddur hefði verið málmur á þessum stað, hvorki málmdropar né gjall, deiglubrot eða þess háttar. En ekki afsannar það, að þarna hafi hafzt við maður, sem hafði að atvinnu að smíða hluti þá ýmsa, sem þarna fundust.
Kapellan á Hraunssandi í dag (2024).
Einkennilegast er staðarvalið. Að vísu er ekki ljóst, hvernig umhverfi hússins hefur verið á miðöldum, þó að trúlegt sé, að þá þegar hafi það verið mjög blásið, og hefði það þó ekki þurft að gera smiðnum neitt til. Hitt er torskýrðara, hversu einangrað þetta hús er og snautt að öllum mannvistarleifum öðrum.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 01.01.1955, Kapelluhraun og Kapellulág; fornleifarannsókn 1950 og 1954, Kristján Eldjárn, bls. 5-34.
Kapellan á Hraunssandi.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga
ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr „Jarðfræðikort af Suðvesturlandi“ í mælikvarðanum 1:100 000.
Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er jafnframt bent á 40 áhugaverða staði og eru lýsingar af þeim að finna hér á vefnum.
Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. „Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.
Sniðgengisþátturinn kemur fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig á Richter.
Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir.
Síðasta gos- og gliðnunartímabili lauk um miðja 13. öld. Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Aðeins tvö síðustu gostímabilin eru vel þekkt, það þriðja að nokkru leyti, en helst til fá hraun því tilheyrandi hafa verið aldursgreind. Eldstöðvakerfin hafa ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með löngum hléum á milli.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar.
Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.
Reykjanesskagi – jarðfræði.
Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum skagans eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli. Hvert hinna þriggja gostímabila sem greind hafa verið byrjaði þar um 200-300 árum fyrr en hin komu til. Endurtaki það sig mætti ætla að Brennisteinsfjallakerfið færi að nálgast nýtt upphaf miðað við lengd undanfarinna sniðgengistímabila. Hin myndu svo fylgja eftir með löngum hléum á milli.
Básendar – Básendaflóð
Eitt mesta sjávarflóð sem orðið hefur við Íslandsstrendur, Básendaflóðið, er kennt við Básenda á Reykjanesi. Básendar var gamall verslunar- og útróðrarstaður skammt sunnan við Stafnes og þekktur frá fornu fari. Þar eru grágrýtisklappir við sjóinn og grýttar fjörur. Ströndin öll liggur fyrir opnu hafi en smávíkur og básar gera veitt bátum og smærri skipum var.
Básendaflóðið varð aðfaranótt 9. janúar 1799. Þetta var stórstraumsflóð samfara lágum loftþrýstingi og aftakaveðri af hafi en við slíkar aðstæður magnast flóðbylgjan. Á Básendum gekk hún langt á land og hreif með sér verslunarhúsin og flest önnur hús á staðnum, eyðilagði lendinguna og braut alla báta sem þar voru í naustum. Margir sluppu naumlega úr flóðinu en gömul kona drukknaði. Þá urðu einnig gríðarmikil flóð og eignatjón víða við Suður- og Vesturland allt frá Þjórsárósi til Barðastrandar.
Allmikil tóftarbrot eru á Básendum. Staðurinn er sæmilega merktur.
Í Reykjavík gekk sjór yfir nesið vestan við Lambastaðahverfið svo Seltjarnarnesið var sem eyja í hafinu. Fátítt er að slíkt gerist en átti sér þó stað 1936 í Pourquoi Pas veðrinu fræga. Bærinn Breið, sem var yst á Akranesi, gereyddist, bæði hús og tún. Talið er að 187 skip og bátar hafi eyðilagst eða stórskemmst en engin sjóslys urðu þó. Fárviðri var að suðvestri þessa nótt þannig að það var ekki einungis sjávargangurinn sem olli eyðileggingu. Kirkjurnar á Hvalsnesi og Nesi við Seltjörn fuku af grunni og brotnuðu í spón og kirkjurnar á Kirkjuvogi og Kálfatjörn stórskemmdust .
Miklar breytingar urðu víða við ströndina, sjávarkambar hurfu og nýir urðu til og grandar og eiði tóku stakkaskiptum. Erfitt er að meta flóðhæðina en þó eru ýmsar vísbendingar í tjónalýsingum. Í skýrslu um tjónið á Básendum er sagt að sjór hafi komist 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur hafi skolast upp á húsþak og liggi þar 4 álnum yfir jafnsléttu. Geir biskup Vídalín sem bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi áleit „að 5 álnum [3 m] hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum“.
Breidd flóðsins innan við Lambastaði mældist 300 faðmar (áln 0,63 m, faðmur 1,88 m). Í Staðarsveit á Snæfellsnesi gekk sjórinn alstaðar meira en 560 m lengra á land en í eðlilegum stórstraumi og allt upp í 2800 m. Í dag eru ummerki Básendaflóðsins hvergi glögg. Þrátt fyrir það eru þetta mestu hamfarið af völdum sjávarfalla sem vitað er til að hafi orðið við Ísland á sögulegum tíma.
Pattersonvöllur – fornskeljar, 20-25.000 ára gamlar
Undir Pattersonflugvellinum sunnan við Innri-Njarðvík eru allþykk, forn, hörðnuð sjávarsetlög. Í þeim er á köflum mikið af steingerðum skeljum. Mest ber á sandmigu (smyrslingi – Mya truncata) og er hún víða í lífsstöðu. Í einstaka samloku hefur fundist steingerður skelfiskur. Aldur skeljanna er 20.000-22.000 ár og þær því lifað skömmu áður en jöklar síðasta jökulskeiðs gengu fram í fremstu stöðu fyrir um 18.000 árum. Sjávarstaða hefir verið a.m.k. 5-10 metrum ofar en nú.
Valahnúksmöl – sjávarkambur
Valahnúksmöl er 420 m langur og 80 m breiður stórgrýttur sjávarkampur (-kambur) úr vel núnum hnullungum, mestmegnis á bilinu 1-3 fet í þvermál. Hann liggur þvert um sigdæld, eða sigdal, sem markast af Valahnúk í norðri og Valbjargagjá í suðri. Þegar hásjávað er myndast lítið lón innan við kampinn.
Uppruna grjótsins í Valahnúksmöl er einkum að leita í sjávarklettum milli kampsins og Reykjanestáar. Ströndin þarna er ákaflega brimasöm og er þungi úthafsöldunnar mikill þegar hún skellur á klettunum. Ber hún skýr merki þessara átaka og er alsett básum og skútum, jafnvel gatklettum. Valahnúksmöl liggur nokkuð inn á Yngra Stampahraun, sem rann á öndverðri 13. öld, og er því yngri.
Reykjanes – sundlaugin neðst.
Vert er að benda á frumstæða sundlaug innan við kampinn gerða af vitaverði í Reykjanesvita á 3. áratug síðustu aldar. Laugin var sprengd niður í sprungu við norðanvert lónið. Hún var einungis nothæf á flóði en með aðfallinu streymir sjór um sprungur inn í lónið og hitnar.
Háleyjabunga – dyngjugígur
Háleyjabunga er lítil hraundyngja austast á Reykjanesi. Í hvirfli dyngjunnar er allstór hringlaga gígur, um 25 m djúpur.Hraunin eru úr bergtegundinni píkrít, sem er mjög auðugt af steindinni ólivín. Í handsýni má auðveldlega sjá mikið af flöskugrænum ólivíndílum. Píkrít flokkast sem frumstætt berg og er talið eiga upptök í möttli jarðar.
Mesta sjáanlega þvermál dyngjunnar er um 1 km en hún er umlukt yngri hraunum á alla kanta nema suðaustanmegin, þar sem hún liggur að sjó. Í sjávarhömrunum er auðvelt að skoða byggingu dyngjunnar og einnig sést vel hvernig yngri hraun hafa runnið upp að henni. Píkríthraun eru talin elst hrauna á Reykjanesskaga, frá því skömmu eftir að ísaldarjöklana tók að leysa.
Kerlingarbás – öskugígur og berggangar
Við Kerlingarbás, sem er grunnur vogur næst sunnan Önglabrjótsnefs, hafa skapast einstakar aðstæður til að skoða innviði eldgíga af ýmsum gerðum. Gígaraðir á vestari gosrein Reykjaness, sem kennd hefur verið við Stampa, liggja að sjó við Kerlingarbás. Þar sem gossprungurnar opnuðust í sjó hlóðust upp gjóskukeilur en gjall- og klepragígar þar sem sjór komst ekki að gosrásinni. Leifar þriggja gjóskugíga af hverfjallsgerð má sjá við ströndina. Þeir tilheyra Eldri og Yngri Stampagígaröðunum sem liggja um 4 km inn til landsins frá Kerlingarbás.
Gígur á Stampagígaröðinni.
Eldra Stampagosið varð fyrir tæpum 2000 árum síðan en það yngra á 13. öld. Gosmyndanir Stampagígaraðanna eru mest áberandi við Kerlingarbás en þó sér þar í eldri myndanir í sjávarmálinu, bæði túff og hraun.
Gígar og hraun við Kerlingarbás á Reykjanesi. Myndin er tekin frá Önglabrjótsnefi.
Norðan til í básnum er þverskorinn gjallgígur á Eldri Stampagígaröðinni. Þar má m.a. sjá bergstólpa í fjörunni sem er hluti af gosrás hans. Gígur þessi ber nafnið Kerling (kemur fram í þjóðsögum ásamt dranginum Karli).
Eftir að virkni á Eldri Stampagígaröðinni lauk tók við goshlé á Reykjanesi í um 1100 ár. Yngra Stampagosið hófst snemma á 13. öld á gossprungu sem lá um 150 m suðaustan Eldri Stampagígaraðarinnar. Í upphafi gossins hlóðust upp tvær gjóskukeilur af hverfjallsgerð við ströndina. Aldursmunur þeirra er vart meiri en nokkrir mánuðir. Gígrimar beggja gíganna náðu inn á land og eru að hluta varðveittir. Yngra Stampahraunið rann upp að gígrimunum og markar hraunbrúnin hringlaga útlínur þeirra. Við miðjan Kerlingarbás má sjá tvo þunna bergganga sem liggja upp í gegnum yngri gjóskukeiluna, í Yngra Stampahraunið. Gefst þarna gott tækifæri til að skoða tengsl hrauns við aðfærsluæðar þess. Um 150 m breið sigdæld liggur um miðjan Kerlingarbás, með skarpa brún norðan megin. Rofmislægi koma fram beggja vegna sigdældarinnar. Við Kerlingarbás má fá góða mynd af gosvirkni við mörk lands og sjávar.
Við Kerlingarbás. Á myndinni hér að ofan sést berggangur sem liggur í gegnum óharðnaða gjósku, upp í Yngra Stampahraunið.
Eldvörp – gígaröð frá 13. öld
Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eld-varpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar. Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun. Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.
Sandfellsdalur – dyngjugígur
Stærstu hraunin á Reykjanesskaga eru dyngjur. Þær elstu og stærstu, hvor um sig yfir 100 km2, eru Sandfellshæð og Þráinsskjöldur. Þær mynduðust á síðjökultíma fyrir um 14.000 árum. Þá var sjávarstaða næstum 30 m lægri en nú.
Gígurinn í Sandfellshæð heitir Sandfellsdalur. Hann er næstum kringlóttur, mest 450 m yfir barminn. Í honum hefur verið hrauntjörn. Hraun úr henni hefur runnið um hellakerfi. Sums staðar hefur ollið upp úr því, t.d. þar sem röð af hraunbólum vísar til vesturs með Langhól og Berghól stærstum. Í lok gossins hefur sigið í tjörninni og hallandi spildur hangið eftir innan á barminum. Hraun hefur einnig runnið yfir gígbarminn. Næst honum er það fremur frauðkennt og þunnbeltótt en fjær eru beltin þykkri og bergið þéttara. Dyngjugos standa lengi, jafnvel í nokkur ár þau stærstu. Bergið í þeim er jafnan ólivínríkt. Um það bil 5 km breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Jaðarmisgengið suðaustan megin skerst yfir gíginn í henni og heldur áfram norðaustur yfir Sandfell, Lágafell og Þórðarfell. Það sést ekki í um það bil 2000 ára hrauni suðvestan við gíginn en kemur aftur fram í eldri hraunum úti á Reykjanesi, svo sem Háleyjabungu.
Stampagígaröðin
Yngra Stampahraun er eitt af hraunum Reykjaneselda 1210-1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum og neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.
Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 km2. Á norðurenda hennar eru tveir allstæðilegir „stamplaga“ gígar sem heita Stampar. Sunnar á gígaröðinni eru nokkrir stæðilegir gígar sem bera nöfn, s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri, en allir þessir gígar voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Að öðru leyti eru gígar Stampagígaraðarinnar lágir klepragígar og fremur lítt áberandi.
Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti sex gosa í sjó við Reykjanes á tímabilinu 1210-1240. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi sem skjóta stoðum undir þessar frásagnir.
Einnig eru þekkt fjögur hraun sem runnu á þessu tímabili, það er Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar 1210-1240. Eldarnir byrjuðu með gosi í sjó við suðvesturströnd Reykjaness. Þar hlóðust upp tveir gjóskugígar af hverfjallsgerð með um 500 metra millibili. Er drangurinn Karl hluti af gígbarmi yngri gígsins. Báðir gígarnir eru nú mikið eyddir vegna rofs en hlutar þeirra eru þó varðveittir á ströndinni. Þar má sjá allt að 20 metra þykka gjóskustabba sem vitna um tilvist gíganna. Í framhaldi af gjóskugosunum rann Yngra Stampahraunið.
Gunnuhver – hverasvæði
Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter.
Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.
Skálafell – jarðskjálfta-sprungur
Skálafell hefur hlaðist upp í nokkrum gosum á gossprungum og aldursmunur á þeim er mikill. Toppgígurinn í því er klepragígur af eldborgargerð. Hann varð til í því yngsta, líklega fyrir rúmum 3000 árum. Kringum toppgíginn eru jarðföll (skálarnar?) þar sem runnið hefur undan. Af þeim toga er einnig smáhellir suður úr toppgígnum. Elstu hraunlögin úr Skálafelli, yfir 8000 ára, sjást í misgengisstalli austan við fellið og í sjávarklettum (Krossvíkurberg). Brotstallar eru stórir í gömlu hraununum en í yngsta hrauninu rétt mótar fyrir þeim. Misgengi þessi takmarka siglægðina á Reykjanesi að austan. Tilsvarandi misgengi á móti eru vestur við Kinn og við táknræna brú yfir flekaskilin. Þar á milli eru 5 km. Á hraunsléttu kippkorn norðaustan við Skálafellsbunguna eru gömul hraun úr Skálafelli og í þeim slitróttar gjár með norð-suðlægri stefnu. Færsla á þeim er lárétt til hægri þegar horft er þvert yfir þær. Einkenni þeirra eru uppskrúfaðir sprunguhólar þar sem sprungubútarnir hliðrast til.
Hrólfsvík – hnyðlingar
Hrólfsvík er þekktur fundarstaður hnyðlinga. Hnyðlingar eru aðskotasteinar sem kvika hefur hrifið með sér í gosum. Ein gerð þeirra er úr gabbrói og svo er um hnyðlingana í Hrólfsvík. Þar eru þeir í hraunlagi, eða öllu heldur í hraunbelti, og krökkt af þeim á litlum kafla austanvert í víkinni. Ekki er vitað um upptök hraunsins. Ofan á því er sandur og möl sem best sést í lágum sjávarbakka. Áhorfsmál er hvort jökull hefur gengið yfir það. Hnyðlingarnir eru ýmist rúnnaðir eða kantaðir. Í þeim er aðallega feldspat en mikið ólivín í sumum. Þeir gætu verið úr botnfalli kvikuinnskots sem var byrjað að storkna en kvika hreif svo með sér eftir viðdvöl í neðra. Skorpan undir Reykjanesskaga er úr gosbergi og minni háttar innskotum niður á 5-6 km dýpi en þar undir innskotsbergi, fyrst berggöngum og síðan gabbrói. Vel mega gabbróhnyðlingarnir vera úr gabbrólaginu.
Festarfjall – rofin eldstöð, aðfærsluæð og berggangar
Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti. Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur. Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.
Vestan Selatanga – tæmd hrauntjörn
Hraunið vestan við Selatanga er úr Moshólum, sundurgröfnum gjallgígum við veginn neðst í hraunsundinu milli Móhálsa. Moshólar eru ysti parturinn af gígaröð sem nær inn fyrir Trölladyngju. Aldur hennar er um 2000 ár. Þekktasta hraunið úr henni er Afstapahraun. Veiðistöðin gamla á Selatöngum er þar sem hraunið úr Moshólum og Ögmundarhraun koma saman. Þar er dálítið var í smáviki.
Katlahraun heitir í Moshólahrauninu (ekki örnefni) þarna vestur af. Í því eru tvær stórar bungur úr helluhrauni skammt vestur af Selatöngum. Hraun hefur safnast í þær en síðan hlaupið undan fram í sjó og miðsvæðið í þeim sigið og 10-20 m hár veggur staðið eftir umhverfis. Stöku strípar standa eftir í siglægðinni. Innveggir eru ýmist hrunskriða eða húðaðir hraunbrynju, svo einnig stríparnir.
Helluhraunið í botni er ýmislega beyglað og brotið. Þessi tæmda hrauntjörn minnir á Dimmuborgir í Mývatnssveit en sá munur er að þær eru gervigígamyndun og hér vantar gjallið sem einkennir þær.
Húshólmi, Óbrennishólmi – rústir og samspil byggðar og eldgosa
Allstór óbrinnishólmi austast í Ögmundarhrauni niður undir sjó. Hólminn opnast niður í fjöru [Hólmasund]. Ögmundarhraun sem brann árið 1151 umlykur hann. Í hólmanum og kimum vestur úr honum eru mannvistarleifar sem eru eldri en hraunið. Í aðalhólmanum eru tveir fornir torfgarðar sem hraunið hefir runnið upp að og yfir. Annar þeirra var hlaðinn fyrir árið 871, er landnámsöskulagið féll, og því eitt elsta mannvirki sem fundist hefir í landinu. Í kimunum eru húsatóftir sem hraunið rann upp að og að stórum hluta yfir. Þar eru leifar af stórum bóndabæ sem hlaðinn hefir verið að hluta úr lábörðu grjóti.
Þar er einnig heilleg tóft sem talin hefur verið af kirkju. Þessi staður nefnist Forna-Krýsuvík og þar hefir Krýsuvíkurbærinn staðið frá upphafi og fram að gosi er hann hefir verið fluttur á núverandi stað.
Óbrennishólmi er í miðju Ögmundarhrauni norðvestur af Húshólma. Gengið er í hólmann frá fjallinu Lat. Þá er farinn misglöggur stígur um Ögmundarhraun sem brann árið 1151. Í Óbrennihólma er forn, hringlaga fjárborg og einnig eru þar leifar af túngarði. Þessar mannvistaleifar eru eldri en hraunið.
Ögmundarhraun við Núphlíð – gígar og hraunfossar
Ögmundarhraun myndaðist í gosi árið 1151. Þá opnaðist um 25 km löng sprunga eftir endilöngum Móhálsadal og allt norður undir Kaldársel. Í henni miðri er gígalaus kafli. Úr suðurhlutanum rann Ögmundarhraun en Kapelluhraun úr þeim nyrðri. Syðst í Vesturhálsi, þar sem heitir Núphlíð, liggur gígaröðin á bláfjallsbrúninni og falla frá gígunum hraunlænur niður þverhnípta hlíðina. Hraunið er að mestu slétt helluhraun og gígarnir eru flestir litlir.
Grænavatn, Gestsstaðavatn – sprengigígar
Í Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára. Þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV.Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni). Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni.
Grænavatn.
Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með. Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á. Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis.
Seltún – háhitasvæði
Seltúnshverir kallast hveraþyrping neðst í lækjarskorningi sem margir skoða, enda við alfaraveg. Fyrir rúmri öld var þar miðstöð brennisteinsvinnslu og fyrir um hálfri öld einn helsti vettvangur borana í Krýsuvík. Þarna eru gufu- og leirhverir og heit jörð umhverfis. Nokkuð er um heiðgulan brennistein en einnig gulleit og hvít hverasölt. Þau þekkjast frá brennisteini á beisku bragði en hverfa að mestu í rigningartíð.
Fúlipollur heitir víð hveraskál austan vegarins en dautt er í honum nú. Kraumandi leirhverir eru fast við veginn aðeins norðar. Gamlir borpallar eru við lækinn vestan við göngustíginn. Borholan í öðrum þeirra reif sig upp í gos veturinn 2010 en dagar liðu og líða enn milli gosa.
Úthlaupi fyrir gosin er beint til hliðar yfir lækinn. Gufusprenging varð í annarri borholu neðst í brekkunni austan við stíginn í nóvember 1999. Hún myndaði gíg um 30 m í þvermál. Úrkastið, leir og grjót, barst inn með hlíðinni til norðausturs og gulleitur hroði situr enn á brekkunni.
Vatnið í hverunum er yfirborðsvatn. Það hitnar af gufu sem sýður upp af jarðhitageyminum undir og þéttist í því. Gastegundir, einkum brennisteinsvetni, fylgja með. Þær sýra yfirborðsvatnið og leysa bergið sundur í leir. Aðeins efstu 300 metrar jarðhitakerfisins undir Seltúnssvæðinu eru í suðu, þ.e. fylgja suðumarksferli með dýpi. Þar fyrir neðan kólnar. Það bendir til flatrennslis frá uppstreymi til hliðar.
Stóra-Eldborg – eldborg
Stóra-Eldborg og Geitahlíð.
Eldborg (Stóra-Eldborg) sunnan við Geitahlíð er dæmi um gíg af eldborgargerð. Gígarnir eru raunar tveir, báðir með eldborgarlögun. Gígar þessir eru á gossprungu með þrem smágígum milli eldborganna og Geitahlíðar. Norðan við Geitahlíð heldur gígaröðin áfram. Eldborgir myndast kringum hrauntjörn af hraunbráð sem fellur úr miðlægum gosstrók, eins og hér, eða smástrókum í tjörninni og hlaða upp kamb allt umhverfis, brattastan efst. Hér er kamburinn úr 5-10 cm þykkum hraunskeljum, líkustum hraunbelti hver og ein, blöðróttar efst en þéttari neðar. Hraun getur runnið yfir gígbarminn og svo var hér um skarð austan í móti. Hrauntraðir eru þar niður undan og sömu þunnu hraunskeljarnar í börmum þeirra.
Bálkahellir í Elborgarhbrauni.
Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun. Það hefur runnið til sjávar fram af Krýsuvíkurbergi austast. Aldur þess er ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.
Sog – gígar og litskrúðug ummyndun
Sogin er slakki sunnan við Trölla- og Grænudyngju. Í Sogunum er litskrúðug háhitaummyndun og nokkrir leirhverir og gufuaugu. Skammt neðan við Sogin er merkileg gígaröð. Norðan við vegslóðann er svonefndur Sogagígur, allstór sprengigígur. Inni í honum eru tóftir af nokkrum fornum seljum. Sunnan við vegslóðann eru nokkrir minni en áberandi sprengigígar. Suður af Sogunum er Spákonuvatn og enn sunnar Grænavatn. Mikið útsýni er af egginni ofan við Sogin. Í sundinu milli Soga og Oddafells eru falleg apalhraun og gufur upp úr þeim í grennd við borholu sem þar er.
Lambafellsgjá – bólstraberg
Norðan við Eldborg við Trölladyngju er lágt, ávallt fell er nefnist Lambafell. Syðst í því eru virk háhitaaugu. Eftir fellinu er slakki eða lág brún sem opnast í hrikalegri gjá sem nefnist Lambafellsgjá. Gjáin er aðeins nokkurra metra víð og mesta dýpi er um 50 metrar. Gjáin opnast út á jafnsléttu í norðurenda fellsins. Hægt er að ganga eftir gjánni endilangri. Auðveldast er að fara upp í fellið að sunnanverðu og ganga niður gjánna. Þar eru bratt og nokkuð laust undir fæti en engin mannhætta. Í veggjum gjárinnar sést bólstraberg sem fellið er byggt úr. Gjá þessi er vafalaust að stórum hluta mynduð við umbrot á nútíma en fellið sjálft virðist aldið og hugsanlega frá næstsíðasta jökulskeiði eða jafnvel eldra.
Hrútagjá – risfláki
Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða sem vert er að skoða. Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts.
Gengið um Almenning í Hraunum.
Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulaga-rannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum.
Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.
Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu. Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast. Hún hefur verið allt að 30 m há.
Hrútargjárdyngja.
Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.
Straumsvík
Straumsvík er lítil sjávarvík sem gengur inn á milli Kapelluhrauns, sem rann árið 1151, og hrauns frá Hrútagjárdyngju sem er um 6000 ára. Keflavíkurvegurinn liggur við víkurbotninn. Bærinn Straumur stendur við víkina og handan hennar er Álverið í Straumsvík. Þarna eru miklar fjörulindir sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund við ströndina og út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar.
Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.
Fjörulindir eru allvíða á Reykjanesi en hvergi eru þær eins vatnsmiklar og áberandi. Vatnið er úrkomuvatn sem fellur á hraunin upp af Straumsvík. Hluti þess er kominn úr Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð. Kaldá kemur upp í Kaldárbotnum en hverfur aftur í hraunin nokkru neðar. Vatnið birtist síðan á ný í Straumsvík. Annar grunnvatnsstraumur kemur frá Kleifarvatni. Við Þorbjarnarstaði hjá Straumsvík eru tjarnir sem flóðs og fjöru gætir í. Við innstu tjörnina er Gvendarbrunnur. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.
Ástjörn
Ástjörn er hraunstífluð tjörn í kvos vestan undir Ásfjalli, tæpir 5 ha að stærð og liggur í um 20 m hæð yfir sjó. Berggrunnurinn í kvosinni undir tjörninni er kubbaberg úr neðsta hluta Reykjavíkur-grágrýtisins en í Ásfjalli er yngra grágrýti. Fyrir um 3000 árum rann svokallað Skúlatúnshraun niður með grágrýtisholtunum. Þetta var þunnfljótandi helluhraun sem nú myndar ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík. Það rann fyrir mynni kvosarinnar og þá hefur Ástjörn líklega orðið til í lægð milli hraunsins og grágrýtisins sem myndar Ásfjall. Skömmu eftir landnámsöld, eða um 950, varð eldgosahrina í Grindaskörðum og Brennisteinsfjöllum.
Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.
Mjóir, þunnfljótandi hraunstraumar teygðu sig allt niður undir Hvaleyrarholt. Þetta er flatt helluhraun og nefnist eftir útliti sínu Hellnahraun. Tunga úr hrauninu rann inn í kvosina við Ástjörn sem þá fékk sitt núverandi lag. Ástjörn er afrennslislaus á yfirborði, eins og flest vötn á Reykjanesskaga, en vatnsstaðan í henni ræðst af grunnvatnsstöðunni í berginu. Þegar hátt stendur má greina streymi frá tjörninni inn í vikið vestast í henni þar sem vatn sígur í hraun og skilar sér með grunnvatnsstraumi til sjávar vestan við Hvaleyrarhöfða. Innrennsli í tjörnina kemur úr mýrunum norðan hennar og austan. Þar eru smálindir sem koma úr grágrýtinu. Vatnasvið tjarnarinnar á yfirborði er ekki nema um 1 km2.
Útsýni af Ásfjalli er gott og áhugavert fyrir fólk sem vill fræðast um jarðfræði og sögu Hafnarfjarðar og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Bærinn Ás stóð skammt frá tjörninni en bæði hún og fjallið þar ofan við heita eftir bænum. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkenndust af fjölbreyttu gróðurfari en nú er lúpínan að leggjast yfir svæðið og rýma brott upprunalegum gróðri. Fugla- og smádýralíf er auðugt. Ástjörn er friðuð og umhverfis hana er friðland og fólkvangur.
Álftanes og Álftanesgarður
Álftanesgarðurinn er jökulgarður sem myndast hefur framan við skriðjökulstungu sem lá yfir Álftanes einhvern tíma í ísaldarlok. Bæjarröðin gamla á nesinu frá Skógtjörn að Bessastöðum er á garðinum sem síðan heldur áfram út á Bessastaðanes. Þar hverfur hann í sjó. Á árum áður mátti sjá hvar hann tók land yst á Kársnesi en nú er hann horfinn undir fyllingu þar. Garðurinn er lágur og breiður og gæti hafa myndast í sjó, a.m.k. er ljóst að sjór hefur gengið yfir hann eftir að hann varð til. Álftanesgarðurinn er langstærsti jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Minni garðar og garðstubbar eru á nokkrum stöðum, s.s. við botn Kópavogs og við Grafarvog. Fátt er vitað með vissu um aldur Álftanesgarðsins. Hann virðist þó vera yngri en skeljalög Fossvogsins og er að líkindum frá yngra dryas kuldakastinu og um 11.000 ára.
Rauðhólar – gervigígar
Í Rauðhólum.
Fyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.
Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp. Hægt er að aka að Rauðhólum frá Suðurlandsvegi, um 1 km austan Rauðavatns.
Viðey – basaltinnskot og keilugangar
Viðey.
Berggrunnur Viðeyjar skiptist alveg í tvennt. Á Vestureynni er grágrýtishraun frá hlýskeiði seint á ísöld. Á Heimaeynni er aftur á móti mest áberandi jarðlög sem myndast hafa í tengslum við svonefnda Viðeyjarmegineldstöð sem var virk fyrir um tveimur milljónum ára. Þar er gosmóberg víða og einnig eru setlög austast á eynni. Inn í móbergið hafa troðist innskotseitlar s.s. Virkishöfði. Norðan á Heimaey er svo grágrýtisflekkur allstór.
Búrfellsgjá – gígur og hrauntröð
Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
Smyrlabúðarhraun
Gráhelluhraun
Lækjarbotnahraun
Urriðakotshraun
Hafnarfjarðarhraun
Garðahraun
Gálgahraun
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
Búrfellshraun – loftmynd.
Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hrauntraðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Margir hraunhellar eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.
Hverahlíð – jökulhamlaður hraunjaðar
Á hverasvæði við Hverahlíð.
Hverahlíð er hluti af bogadregnum stalli. Hann er hæstur á móts við hverina en lækkar niður að jöfnu til austurs og heldur nokkurn veginn hæð til vesturs. Stallur þessi er hraunbrún á dyngju sem myndaðist seint á ísöld, líklega á síðasta jökulskeiði, og nefnd er Skálafellsdyngja (ekki örnefni). Hún er hæst vestan við Skálafell. Þar er gígurinn, Trölladalur. Hraunið er skrapað af jökli sem hvalbök og jökulrákir á því sýna. Hraunbrúnir sem þessar myndast þar sem hraun hafa runnið í aðhaldi af jökli. Hér hefur hann verið á hæð við stallinn eða lítið þar yfir. Neðst í stallinum sést hér og þar móbergsbreksía með bólstrum. Hún nær hátt upp í hann nokkuð austur frá hverunum.
Vatn hefur eftir því staðið mishátt í lóni milli jökuls og hrauns. Lægri stallur í miðri hlíð sýnir hraunrennsli við lága vatnsstöðu. Hverahlíðarhorn skagar vestur úr hraunjaðrinum. Þar hefur hraunið leitað í rás sem þangað lá. Hraunið hefur runnið niður á jafnsléttu í Ölfusi og í sjó við um það bil 30 m háa sjávarstöðu sem skil á breksíu og hraunlögum sýna. Þar er á því hnullungakambur eftir 20 m hærri sjávarstöðu frá lokum ísaldar. Hverirnir sem hlíðin dregur nafn af eru á NA-SV sprungu. Hana má rekja töluverðan spöl suður á dyngjuna. Undir Hverahlíð er hæstur hiti í jarðhitakerfinu sunnan Hengils, vel yfir 300°C.
Ölfusvatnslaugar – uppsprettur
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal [í Þrengslum við Miðdal] inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.
Gjárnar á Þingvöllum
Gliðnunarbelti Reykjaneshryggjar gengur inn í Ísland. Á Reykjanesskaga er það samsett af tveim þáttum, gliðnun og sniðgengi. Það mætti nefna sniðrekbelti. Hreint rekbelti verður hryggjarstykkið ekki fyrr en norðan Hengils, í norðurgrein eldstöðvakerfis hans. Partur af því er Þingvallasigið með gjánum beggja vegna. Gjárnar norðan við Þingvallavatn eru í dyngjuhrauni sem rann fyrir um 10.000 árum. Gígurinn í dyngjunni er suður af Hrafnabjörgum. Nýrunnið náði hraunið suður á móts við Nesjaey. Þingvallavatn var þá að flatarmáli aðeins um þriðjungur þess sem það er nú. Gjárnar komu fram við tognun yfir flekaskilin og því fylgdi landsig. Þetta gerðist í hrinum með gangainnskotum frá Hengli og gliðnun gjánna ofan þess sem gangarnir náðu. Við landsigið færðist ströndin innar. Tímann á milli slíkra umbrota þekkjum við ekki en síðasti atburður af því tagi varð í júní 1789.
Vatnskot.
Sokkinn túngarður í Vatnskoti sýnir að landsigið þar nam um 2,5 metrum. Vestan megin er svo til allt sigið um Almannagjá en austan megin deilist það á fleiri gjár. Sigið í Almannagjá losar 40 m þar sem mest er. Líta má á misgengin við Hestvík sem framhald gjárinnar til suðvesturs. Þar sneiða þau sundur grágrýtisdyngju og er austurhlíð hennar töluvert neðar en botn víkurinnar. Samanlögð stærð sigstallanna, þeir eru tveir stærstir, nemur hátt í 400 metrum. Hún gæti eftir því verið tíu sinnum eldri en Þingvallahraun og þá frá síðasta hlýskeiði ísaldar.
Súlufell – sprengigígar
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan. Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum.
Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum. Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.
Tjarnarhnúkshraun við Ölfusvatnsá – fjölbreyttir hnyðlingar
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
Sogið.
Eftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt.
Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.
Dyrafjöll – móbergshryggir og misgengi
Dyrafjöll eru samsett úr mörgum goseiningum sem skiptast í þrjár syrpur. Tvær af þeim eru við Nesjavallaveginn.
Eldri gossyrpan er úr næstum dílalausu þóleiítbasalti, sem aðallega er móberg, en grágrýtishraunlög samkynja eru ofan á því, ósamfelldir flákar og bleðlar. Grágrýtið er straumlögótt og oft rauðagjall neðst í því. Stærsti flákinn er á Háhrygg.
Yngri syrpan samanstendur af bólstrabergs- og móbergshryggjum úr dílóttu basalti. Móbergshryggirnir eru skarpir en bólstrabergshryggirnir ávalir og skriðurunnir.
Hryggir þessir eru fremur efnisrýrir og dalir skilja þá að, luktir öllum megin. Fyrir kemur þó að rás hafi grafist á milli. Dyrnar eru dæmi. Þar má á nöfinni sjá jökulbergslag á skilum milli þessara myndana.
Grágrýtið í dyngjunni vestan við Hestvík gengur undir Dyrafjöll. Það er sennilega frá síðasta hlýskeiði ísaldar. Fjöldi misgengja liggur eftir Dyrafjöllum. Lóðrétt færsla á þeim er báðum megin frá að Háhrygg. Í honum er siglægðin þannig dýpst þótt landið sé hæst. Frá Háhrygg gengur hún ofan í Hestvík, og til suðvesturs yfir Hengil.
Nesjavellir.
Nesjavellir eru á austurvæng siglægðarinnar. Misgengi eru báðum megin við hann en færsla á þeim er niður til vesturs. Því er líkast að misgengi með færslu niður til austurs sé vestan Nesjavalladalsins en svo er ekki. Þar hefur á austurhlíð Háhryggjar gosið á Hengilssprungunni auk þess sem einn af yngri hryggjunum, Kýrdalsbrúnir, hafa hlaðist þar upp. Eftir Kýrdalsbrúnum liggja að auki tvær gígaraðir. Gosrein þessi er meginuppstreymisrás Nesjavallahluta jarðhitakerfisins sem virkjunin byggir á.
Seltjörn – fjörumór
Land er að síga við sunnanverðan Faxaflóa. Þetta sést bæði í gömlum örnefnum og í jarðlögum. Þegar land byggðist virðist hafa verið allmikil tjörn eða stöðuvatn á Seltjarnarnesi sem nesið dró nafn sitt af. Vegna landsigs og ágangs sjávar breyttist tjörnin í breiða sjávarvík milli Gróttu og Suðurness. Talið er að allt fram á 18. öld hafi Seltjarnarrif (eða Suðurnesrif) lokað Seltjörn og hún því verið með fersku eða lítt söltu vatni fram til þess tíma.
Grótta.
Þegar lágsjávað er við ströndina, t.d. á stórstraumsfjöru, koma sérkennilegar jarðvegstorfur í ljós sem standa upp úr sandinum og sjávarmölinni við ströndina fyrir miðri Seltjörn. Þetta er fjörumór sem myndast hefur í vel gróinni mýri. Mórinn er 3000-9000 ára og sýnir að Seltjarnarnes hefur sigið um 3-5 m á síðustu 3000 árum og um 1-1,5 m frá landnámstíð.
Fossvogur – setlög frá ísaldarlokum
Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar er straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum víða um vesturbæ Reykjavíkur, svo sem á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld.
Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum og allt eru það tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur, t.d.:
smyrslingur (mya truncata)
hallloka (macoma calcaria)
beitukóngur (buccinium undatum)
hrúðurkarlar ((Balanus balanus) o.fl.
Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur eru undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500-13.000 ára, eða frá alleröd-tímabilinu og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá yngra dryas kuldakastinu.
Raufarhólshellir
Raufarhólshellir er rétt fyrir ofan efsta hjallann á Þrengslavegi, áður en farið er niður í áttina til Þorlákshafnar. Hann er ekki vel sýnilegur frá veginum þótt hann sé aðeins steinsnar frá honum austanverðum. Hellirinn er u.þ.b. 1360 m langur og liggur að hluta undir Þrengslaveginum til norðvesturs. Hann er 10-30 m breiður og upp undir 10 m hár.
Í Raufarhólshelli.
Nokkur smá op eru fremst í hellinum og er farið ofan í það syðsta. Raufarhólshellir er fjórði lengsti hraunhellir landsins og sá lengsti utan Hallmundarhrauns í Borgarfirði. Hellirinn er í Leitahrauni sem rann fyrir um 5200 árum en upptökustaður eldsumbrotanna voru rétt austan Bláfjalla í Leitum. [Hann dregur nafn sitt af lágum hól rétt vestan vegarins móts við Hellisopið.]
Hvalfjarðareyri – eyri, baggalútar, geislasteinar og berggangar
Á sunnanverðri Hvalfjarðarströnd norðan við Eyrarfjall er Hvalfjarðareyri. Meðfram ströndinni er að finna mikinn fjölda síðsteinda (seólíta). Bergið er mjög ummyndað af völdum bergganga frá Kjalarneseldstöðinni sem skera jarðlagastaflann. Þeir koma vel fram í Tíðarskarði við mynni fjarðarins og áfram inn með ströndinni. Önnur þyrping bergganga er svo austan og norðan við Hvalfjarðareyri en þeir eru ættaðir frá Hvalfjarðareldstöðinni sem liggur nærri Ferstiklu norðan við fjörðinn.
Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins þegar heitt vatn leikur um það. Vatnið leysir upp frumsteindir bergsins en í staðinn falla út síðsteindir í sprungur og holrými. Dæmi um seólíta sem finna má með ströndinni eru:
kabasít
stilbít
analsím
mesólít
thomsonít
heulandít
Á Hvalfjarðareyrinni er einnig einn aðalfundarstaður baggalúta á suðvestur horni landsins. Baggalútar eða kýlingar nefnast smákúlur sem myndast þar sem gas hefur orðið innlyksa í líparíthraunum eða flikrubergi. Nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5-3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. Baggalútarnir hafa rofist út úr líparíthraunlögum sem mynda jarðlögin með ströndinni austan við eyrina.
Botnsdalur – grafinn móbergshryggur
Innst í Hvalfirði er að finna grafinn móbergshrygg. Hryggurinn kemur fram í miðju Múlafjalli sem skilur á milli Brynjudals og Botnsdals. Móbergshryggurinn hefur myndast undir jökli á jökulskeiði snemma á kvarter. Mörkin milli tertíer og kvarter (2,58 milljóna ára) liggja þarna utar með ströndinni og neðar í staflanum sem sýnir að hryggurinn er um 2,5 milljóna ára gamall. Hann liggur þvert undir Múlafjallið með NNA-stefnu sem er algeng stefna misgengja á svæðinu. Móberghryggurinn kemur best fram í Botnsdal. Þar má sjá hvernig hryggurinn rís hæst í miðju og hvernig hraunlög frá yngri dyngjugosum hafa runnið upp að honum og að lokum kaffært hann.“
Á jarðfræðikortinu eru jafnframt upplýsingar um aldur flestra hraunanna á Reykjanesskaganum.
Heimild:
–http://isor.is/
-Kristján Sæmundsson, 2010.
-Haukur Jóhannesson, 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010.
-Árni Hjartarson, 2010.
-Sigurður Garðar Kristinsson, 2010.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga
Hellisbrú í Ölfusi
Í „Fornleifaskráning á Suðurlandi vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurlandsvegar“ – Unnið fyrir Vegagerðina, Bjarni F. Einarsson, desember 2008, er fátt um örnefni eða minjar á þessu svæði. Þó er a.m.k. getið tveggja, annars vegar „Hellisbrú“ og hins vegar „Kallþúfa“, sbr.:
Hellisbrú
Hellisbrú ofan Hellis.
Í Sunnlenskar byggðir segir að Páll Melsteð sýslumaður hafi látið gera Hellisbrú um 1840. Ekki er ósennilegt að gatan kunni a! hafa verið hlaðin upp á einhvern hátt mun fyrr en 1840. Til eru svokallaðir göngugarpar sem eru mjög gamlir, en þeir gátu m.a. legið yfir mýrar eða votlendi.
Vegir eins og Hellisbrú eru flestir sokknir í dag og því er Hellisbrú góður fulltrúi slíkra samgönguminja.“
Þjóðleið
Hellisbrú ofan Rima.
Leiðin (vegurinn) er upp hlaðinn þar sem hann fer yfir mýrar. Þar sem hann var skoðaður er hann 3 – 4 m breiður og 0,5 – 0,6 m hár (NV-SA). Hann er mjög vel gróin grasi.
Þegar leiðin kemur að Ferjuholtinu hefur stígur verið lagður ofan í hann að mestu leyti. Liggur leiðin svo niður að ánni og er neðsti kaflinn alsettur grenitrjám.
Líklega hefur leiðin svo legið með núverandi vegi að ferjustaðnum. Sagt er að skammt vestur af ferjustaðnum hafi hleðslur í veginum sést (Birna Lárusdóttir o.fl. 2004:20).
Hellisbrú.
Við þessa leið gæti Kallþúfa hafa verið! Skammt frá Kallþúfu var eyðibýlið Rimi. Einungis sést nú, í minningu þess, ein útihúsatóft.
Hellisbrúin er nú komin undir nýlegra vegstæði, en minningin um hana um lifa.
Heimild:
-Fornleifaskráning á Suðurlandi vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurlandsvegar, Bjarni F. Einarsson, des. 2008.
Hellisbrú.
Sogasel
Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, vestan Rauðhóls norðan Keilis og síðan vestur undir Oddafelli, en fengu síðan mun betri selsstöðu í Sogaseli í skiptum við Krýsuvík fyrir uppsátur á Ströndinni.
Sogasel – tóftir einnar stöðunnar.
Enn má sjá leifar selstöðvanna, ekki síst í Sogagíg. Elsta selstöðin, frá Krýsuvík, er reyndar utan við gíginn, neðarlega í Sogadal. Tóftarhóllinn sést vel og enn má, ef vel er að gáð, greina þar rými.
Í Sogagígnum eru leifar þriggja selstöðva. Sú elsta er í miðjum gígnum. Þar má enn greina rými, en þær, sem eru austar og norðar undir gígveggjunum eru augljósar. Þar eru rýmin augljós, s.s. eldhús, baðstofa og búr. Rétt er í gígnum sem og stekkir og kvíar. Gerði norðan nyrstu selstöðunnar hefur nú orðið fyrir áhrifum nýlegrar jarðskjálftarhrinu.
Sogasel í Sogaselsgíg.
Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gýgur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á Höskuldarvellina, allt niður í Sóleyjarkrika. Lækurinn hefur í gegnum tíðina myndað gróðið undirlendi vallanna. Gígurinn, gróinn, er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því ágætt aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og enn fyrrum Krýsuvík um tíma, sem fyrr sagði.
Sogasel.
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.
Í Sogaseli.
Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.
Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: „Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel“. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið „Sogaselshrygg“. Í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjörn má finna örnefndið „Krýsuvíkurvör“ skammt austan Kálfatjarnarvararinnar.
Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.
Þórkötlustaðanes III
Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðiðinu 22. mars árið 1964:
„Sunnan á Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin. Grindavíkin er slitin sundur af þessu nesi. Á því sjálfu er engin byggð, hins vegar eru hverfin beggja vegna við og sést ekki á milli. Í krikanum austan nessins er Þórkötlustaðahverfi, sem nú hefur séð sitt fegursta, en byggð er þar óðum að leggjast af. Vestan megin þar sem heitir Hópsnes er aðalbyggðin og nefnist Járngerðarstaðahverfi. Lengra vesturfrá er enn vogur í víkina, þar sem heitir á Stað. Þar var áður fyrr eitt hverfið enn og nefnist það Staðarhverfi. Útræði var frá öllum hverfunum, en hefur aðeins haldizt frá Járngerðarstaða-hverfinu þar sem hafnarskilyrði eru illskást.
Þegar maður kemur í gegnum skarðið [Selháls], sem er á milli Þorbjarnarfells og Hagafells, er sú hugsun einhvernvegin fjarri, að blómskilja legt þorp með peningareyk og véla skellum blasi allt í einu við augum. Úfið apalhraunið hefur heltekið svo skilningarvitin, að maður er blátt áfram hættur að trúa á tilvist heiðarlegs gróðurs og hvítra snoturra einbýlishúsa. Grindavíkin er því bæði óvænt og skemmtileg tilbreyting fyrir augað.
Landnáma segir að synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík. Reyndar er helzt á henni að skilja að karlinn hafi verið með þeim og hafi þeir feðgar hrakizt í Kúvík alla þessa leið austan úr Álftaveri efiir að hraun eyddi fyrir þeim byggð og þeir lentu í slagsmálum og manndrápum austur í sýslum. Þarna hafa þeir svo að líkindum setzt á friðarstól, enda komnir úr kallfæri við náungann og bergþursar urðu ekki vopnbitnir. Hins vegar er sagt að Björn Molda-Gnúpsson hafi samið við þurs einn um kynbætur á geitafé sínu og orðið ríkur af. Grindavík er þannig vagga búfjárkynbóta á Íslandi. Mönnum þykir einsætt að víkin dragi nafn af hvalfiski þeim, sem Færeyingar kalla grind en Íslendingar uppnefnt og kallað marsvín.
Eins og allir vita fer grindin í stórum vöðum og á það til að ana á land og fjára þar uppi. Líka er hægt að reka vöðurnar eins og fjárhóp inn á víkur og loka fyrir þeim undankomuleiðinni. Undan Grindavík eru góð síldarmið og loðnugöngur stórar á vertíð. Trúlegt er að hvalurinn hafi sótt í hnossgætið og ýmist álpazt á land í víkinni, eða verið rekinn. Gaman væri að geta sér þess til, að Molda-Gnúpssynir hafi búið við, konuríki, eins og margir þeir, sem miklir eru fyrir sér útífrá. Þeir hafi þessvegna kallað bæi sína eftir eiginkonunum, Járngerði og Þórkötlu og viljað með því blíðka skap þeirra, enda er hljómur nafnanna ekki beinlínis blíðlegur.
Útræði hefur verið í Grindavík frá ómunatíð. Opin skip reru frá öllum hverfunum, líklega flest frá Þórkötlustöðum, því þar var þraut að lenda ef brimaði, en segja má að sjór deyi aldrei við ströndina enda er næsta fastaland í hásuðri sjálft Suðurheimskautið. Það hefur því verið harðsótt úr Grindavík og ef allt lokaðist þar af brimi er líka hætt við að Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn hafi verið ófær, og allir vita hvernig innsiglingin til Vestmannaeyja er í stórviðrum. Þannig urðu formenn að horfast í augu við þann möguleika í hvert sinn sem þeir fóru í róður, að ná aldrei landi. En til mikils var að vinna, því undan lélegustu höfnum landsins eru einmitt beztu fiskimiðin á Selvogsbanka, í Grindavíkursjó og í kringum Vestmannaeyjar. Þessar aðstæður hljóta að hafa skapað æðrulausa manngerð og bænheita. Enn eimir eftir af þessu hjá sjómönnum í aðalverstöðvum landsins, þeir eru flestir forlagatrúar. Og mannfólkið skrimti aldirnar af á skreið og þorskhausum, sem þessir menn sóttu út í tvísýnuna.
Enn er sóttur sjór frá Grindavík og nú eingöngu frá Járngerðarstaða-hverfinu. Þar heftur verið gerð höfn með því að grafa rennu inn í Hópið, sem vesturhlið nessins ber nafn af. Inni í þyí hafa svo verið gerðar bryggjur, þ.e.a.s. einn megingarður og tvær bryggjur út úr honum. Þrengsli eru óskapleg við þennan eina garð. Bátarnir liggja í margfaldri tröð í innri krikanum, því þeim ytri er venjulega haldið fyrir landanir, nema þegar landlega er. Nú róa 50 bátar, stórir og smáir frá Grindavík og þangað sækir mikill fjöldi aðkomubáta til að landa á bíla, sem síðan aka með fiskinn til Keflavíkur eða Reykjavíkur. Sundið úti á víkinni er hreint af skerjum, en bátarnir verða að þræða álinn að rennunni í Hópið. Þreföld innsiglingarmerki auðvelda landtökuna.
Auðskilið er að helzta áhugamál Grindvíkinga sé bætt hafnaraðstaða.
Bátarnir verða stærri og rúmfrekari, þeim, fjölgar og ásókn aðkomubáta til umlöndunar er mikil, einkum þegar mikið fæst af góðum fiski í hringnót eins og nú á sér stað. Þá munar miklu fyrir bátana að koma fiskinum af sér sem næst miðunum og þó á þeim stað sem vel liggur við flutningum til vinnsluhúsanna við Faxa flóa. Þessi ásókn hefur einkum bitnað á Þorlákshöfn og Grindavík nú í vetur.
Og máli málanna er sinnt í Grindavík. Þegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppfyllingu út í Hópið. Markað hefur verið fyrir henni með garði, sem er landfastur í báða enda og er aðeins eftir að fylla upp í lónið, sem innan hans er. Því næst er ætlunin að dýpka Hópið, sem mun vera auðvelt vegna hagstæðs botnlags og svo stálþil rekið niður með uppfyllingunni og mikið viðlegu pláss myndast. Leikmanni virðist í fljótu bragði, að hafnarbætur í Grindavík séu tiltölulega auðveldar ef miðað er við það sem ráðizt hefur verið í sums staðar annars staðar. Grindvíkingar vona að þessu verki verði haldið áfram í sumar og lokið við það fyrir næstu vetrarvertíð.
Upp af bryggjunni stendur Hraðfrystihús Grindavíkur, beitingaskúrar og hjállar alls konar. Einnig fiskimjölsverksmiðja, aðgerðarhús og salthús. Vinna er mikil, enda er landað 350-600 tonnum af fiski á sólarhring. en íbúar þorpsins ekki nema 840. Þeim fer að vísu fjölgandi, en fjölgunin takmarkast af húsasmíðum því húsnæðisskortur er óskaplegur eins og í öllum uppgangsplássum. Mikill fjöldi Skagstrendinga hefur sótt til Grindavíkur hin seinni ár, ýmist til vertíðarstarfa, eða fastrar búsetu. Kunnugir segja að svipmót sé með þessum tveim stöðum, þótt þeir séu sitt í hvorum landsfjórðungi.
Áður fyrr var lendingin vestan við Hópið og enn stendur þar niðri á bakkanum þyrping gamalla húsa, m. a. verzlunarhús frá danskri tíð. Á sjávarbakkanum standa nú uppi nótabátar, en mikill földi af þeim liggur í vanhirðu í flestum eða öllum útgerðarplássum landsins. Stokkaðar lóðir hanga til þerris utan á bátunum. Raunar hanga þær hvar sem hægt er að tylla þeim upp, því línuvertíð er nýlokið, en þar er sérkennilegt að sjá gamla nótabáta tjaldaða með snyrtilega stokkuðum lóðum. Niður af kambinum er gamla lendingin eins og fyrr segir. Talið er, að oþin áraskip hafi gengið frá Grindavík allt til ársins 1930. Varirnar eru tvær og heita Norðurvör og Suðurvör. Seinustu árin var komin þar steinsteypt renna með föstum hlunnum, til að draga bátana á upp á kamb. Áður en lent var, hafði fiskurinn verið dreginn upp á band og áður en báturinn kenndi grunns, urðu mennirnir að stökkva útbyrðis og halda honum fríum meðan fiskböndunum var kastað upp, eða þau borin á bakinu upp á kambinn. Þegar svo búið var að létta bálinn var hann settur með aðstoð handvindu í landi.
Allt til stríðsáranna var líka lending í Þórkötlustaða-hverfinu. Hún var svipuð hinni, sem að framan er lýst, nema hafði það fram yfir að bryggjustúfur hafði vorið gerður samhliða vörinni. Uppi á Kambinum má enn sjá handvinduna, sem notuð var við setningu bátanna og einnig er þar ryðguð vinda, sem knúin var af mótor. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en allra síðustu árin. Þórkötlustaðalendingin er alllangt utan við aðalþorpið og ofan við hana hafa verið nokkur hús. Þau hafa nú ýmist verið brotin niður eða færð í burtu. Það eina sem minnir á forna frægð Þórkötlustaða-hverfisins eru gapandi tóttir, steinsteypt vörin og bryggju stúfurinn. Reyndar er enn starfrækt frystihús í hverfinu, en allan fisk til þess verður að flytja að vestan úr Járngerðarstaða-hverfinu. Það er mikið byggt í Grindavík. Hraunið er smám saman að láta undan mannanna verkum. Jarðýturnar slétta úfnasta yfirborðið og brunagjallið er hið ákjósanlegasta undirlag.
Barnaskólinn var byggður árið 1947 og er nú orðinn of lítill. Eins og hægt er að skilja á framansögðu byggja Grindvíkingar allt sitt á sjónum og fiskinum, sem í honum er. Að vísu er þar enn nokkur sauðfjárbúskapur, sem stundaður er í hjáverkum, en geit fé það, sem Björn landnámsmaður kom sér upp og kynbætti með aðstoð trölla mun nú útdautt. Iðnaður er enginn, nema þær löggiltu iðngreinar, sem nauðsynlegar eru til útgerðarrekstursins og þjónustu við almenning.
Undir kvöldið löbbum við niður að höfninni í fylgd með Svavari Árnasyni oddvita. Hann hefur verið hjálplegur með upplýsingar og sýnt okkur það markverðasta í þorpinu.
Allir eru að vinna. Eina fólkið sem er á ferli utan vinnustaða, eru húsmæður hlaðnar matvöru, og börn. Bátarnir eru farnir að koma að og við förum um borð í Hrafn Sveinbjarnarson III. nýjasta og fullkomnasta bát þeirra Grindvíkinga. Hann hefur fengið um 10 tonn í netin og löndun er í fuílum gangi. Björgvin Gunnarsson skipstjóri er á stjórnpalli og lítur eftir verkinu. Hann er ungur maður að sjá, en hann er líka aflakóngurinn á vetrarsíldveiðunum hér við suðvesturlandið. Varð hæstur með rúmar 30.000 tunnur. Björgvin segir að auðvitað langi sig á þorskanótina í uppgripin, en útgerðin á bara enga slíka nót. Hann er mjög ánægður með bátinn enda er þetta stórglæsileg fleyta eins og allir nýju bátarnir. Það þarf ekki annað en að líta út úr höfninni, til að sjá bátana, þar sem þeiar eru að draga netin. Miðin eru uppi í landssteinum. Austur með landinu, inni á svolítilli vík má telja 10 hringnótabáta að veiðum. Þeir eru mjög grunnt. Það kom líka á daginn að einmitt þetta kvöld og nóttina eftir var óhemju magni af fiski landað í Grindavík.
Þegar við förum er háflæði og sjórinn í Hópinu spegilsléttur. Þorbjarnarfell vakir yfir borpinu og til austurs blasa við fjöllin sunnan í Sveifluhálsi. Festarfjall er næst, þverskorin hamraveggur ofan frá og niður i sjó. Vegurinn til Krýsuvíkur liggur yfir þetta fjall og ofan af hálsinum er hægt að sjá út allt Reykjanes og alla leið til Eldeyjar þegar skyggni er gott. Mann langar ósjálfrátt til að koma til Grindavíkur og skoða meira.“
Árið 1975 skrifaði Jón Jónsson, jarðfræðingur, um hraunin ofan Grindavíkur, einkum Sundhnúkahraunin er urðu til á nánast sömu sprungureininni með u.þ.b. 3000 ára tímabili: „Hraun við Grindavík – Norðaustur af Grindavík hefur gosið á sprungu og hefur hraun þaðan flætt í sjó fram og myndað Þórkötlustaðanes. Hluti af hrauni því hefur runnið út á gróna gjallhóla vestan undir Svartsengisfelli.
Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á. Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Frá Melhól er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun.
Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar.
Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum.
Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúka-sprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.
Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.
Fremur lítið hraun hefur runnið lir gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd.
Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð. Eldri gígaröð. Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.
Hvenær rann hraunið?
Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann.
Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C14 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.
Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.
Ummyndun og jarðhiti.
Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0°C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.
Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.
Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.
Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.“
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni: „Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraun skildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður). Slaga.
Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.“
Margar frásagnir eru til um slysfarir utan við Hópsnes og Þórkötlustaðanes. Hér á eftir er t.d. sagt frá því er þilskipið Hákon strandaði:
„Þilskipið „Hákon“ strandar í Grindavík – Menn komust af.
Þann 10. þessa mán. var fiskiskipið Hákon“ hjeðan úr Rvík á leið heim af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðanbyl, mestu stórhríðina, sem hjer hefir komið sunnanlands um mörg ár.
Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi „Hákon“ grunns. Var svartabylir, og vissu skipverjar ekki fyr en þeir voru strandaðir skamt frá Hrauni, insta bæ í Grindavfk, rjett fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fanst skipverja að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglögt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það. Og eftir um klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi, og komust heilu og höldnu í land. Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru daginn eftir til Grindavíkur til þess að líta á skipið. Skipið var mölbrotið þegar á fyrsta degi, og hefir því ekki náðst út.“
Árið 1926 varð til önnur umfjöllun af öllu alvarlegra sjóslysi austan við innsiglinguna í Hópið: „Bátur úr Grindavík fórst við innsiglingunni í fyrrakvöld – 5 manna áhöfn hans drukknaði.
Í fyrrakvöld var þriðja sjóslysið í mánuðinum. Vélbáturinn Grindvíkingur frá Grindavík fórst og með honum áhöfn hans, fimm menn, allir á bezta aldursskeiði, Þrjú börn misstu föður sinn í þessu sviplega slysi, tveir voru fjölskyldumenn og einn heitbundinn. Allir áttu þeir foreldra á lífi. Fjórir mannanna voru úr Grindavík, en sá fimmti af Vestfjörðum.
Skipverjar á Grindvíking voru Jóhann Magnússon, skipstjóri, 24 ára. — Hann lætur eftir sig eitt barn og foreldra átti hann á lífi. Hermann Kristinsson, 1. vélstjóri, 23 ára. — Hann lætur eftir sig unnustu og foreldra. Þorvaldur Kristjánsson, stýrimaður, 25 ára. — Hann lætur eftir sig konu og tvö börn ung, Sigfús Bergmann Árnason, háseti. — Átti foreldra á lífi. Hann var 36 ára. Valgeir Jónsson, háseti. Ættaður af Vestfjörðum. Annað hvort úr Aðalvík eða af Ströndum.
Bátar úr Grindavík voru allir á sjó er veðrið skall á. Þeir, sem komu í höfn, komu að landi milli klukkan fjögur og 6,30. Um klukkan sjö, sást bátur við Þórkötlustaðarnes, en það er við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn. Á þilfari höfðu skipverjar kynnt bál, er gaf til kynna að báturinn væri í nauðum staddur.
Í landi var brugðið skjótt við og þrátt fyrir hríð og mikla ófærð komst björgunarsveitin út í nesið. Þá var þar engan bát að sjá. Þá þegar um kvöldið var gengið á fjörur og um miðnætti tók ýmislegt brak að reka á land. Það reyndist vera úr Grindvíkingi. Í allan gærdag var að reka úr bátnum. Í gærkvöldi hafði eitt lík rekið.
Grindvíkingur var 65 rúmlesta skip. Var byggður á Akranesi árið 1945. Hlutafélagið Ingólfur átti bátinn. Voru þeir aðilar að) félaginu bæði skipstjóri og fyrsti vélstjóri.
Vegurinn til Grindavíkur var illfær í gær. Í hinu harmi lostna sjávarþorpi var ekkert rafmagn og þaðan símasambandslaust bæði við Reykjavík og ýmsar sveitir.“
Heimildir:
-Alþýðublaðið, 22. mars 1964, bls. 8-10.
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Aldur hrauna, 45. árg. 1. tbl. 1975-1976, bls. 27.
-Náttúrufræðingurinn, 43. árg., 3.-4. tbl., 1973, Jón Jónsson, Sundhnúkahraun við Grindavík, bls. 145-153.
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson, bls. 25.
-Ísafold, 15. maí. 1926, bls. 3.
-Morgunblaðið, 20. janúar 1952, bls. 20.
Gamlar slóðir í Hafnarfirði fyrrum – Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson skrifaði um „Gamlar slóðir“ Hafnfirðinga í Hamar 1954:
Engidalsvegur um Flatahraun aftan Fjarðarkaupa. Nú eyðilagður vegna framkvæmda.
„Inn á Flatahrauni mátti til skamms tíma sjá troðning, vallgróinn, í hrauninu sunnan Reykjavíkurvegar. Troðningur þessi lá niður Flatahraunið hjá neðsta hvíldarklettinum eftir balanum, þar sem nú stendur Tunga. Var þar í eina tíð tveggja mannhæða djúpur hraunbolli. Af balanum lá troðningurinn niður í Djúpugjótu og hlykkjaðist eftir henni upp á syðri gjótubarminn. Var allhátt af barminum niður í gjótuna. Þarna varð eitt fyrsta bifreiðaslys sem um getur í bifreiðasögunni, á áliðnum vetri 1913. Frá Djúpugjótu lá troðningurinn eftir hraunbala nokkuð sléttum unz halla tók niður í Háaklif.
Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.
Þröngt var það, svo að varla varð farið um það með klyfjahest. Breyttist það nokkuð, árið 1873. Var þá fyrir forgöngu Christens Zimsen verzlunarstjóra ráðist í að leggja upphleyptan veg, neðan af plássi í Hafnarfirði, austur á hraunbrún við Engidal. Var þetta akfær vegur. Chr. Zimsen vígði svo veginn. Reið hann á þriðjungi skemmri tíma en áður hafði tíðkast að fara þessa leið. Var mikið um þessar framkvæmdir talað og þótti sá maður að meiri, er þær hafði séð. En þröngt var enn um klifið. Háir klettar á báðar hendur. Þegar Hafnfirðingar tóku á móti konungi sínum 1874, Kristjáni níunda, lögðu þeir stórt tré yfir klifið frá einum kletti yfir á annan. Klæddu síðan allt með lyngi og birkigreinum og gerðu þarna hinn fegursta sigurboga.
Hamar 1954…
Reið konungur og fylgdarlið hans hiklaust í gegn og sem leið lá niður á plássið. — Fannst konungi sem hann væri að steypast niður í jörðina er hann kom framundan sigurboganum. En fagurt þótti honum að líta úr klifinu á fagurskyggðan fjörðinn, baðaðann í ágústsól. Í vestur var Hvaleyrin með holtin upp og austur af, allt upp undir Ásfjall og Hamarinn í suður.
Sigðmyndaður Hvaleyrargrandinn með ósum og tjörnunum tveimur undir holtunum. Hvaleyrartjörn, Skiphóll og Óseyrartjörn og Háigrandi sem oddur sigðarinnar syðst gegnt Flensborg. Á klöppinni til hægri við klifið stóð lítil græn þúst, Efstibær, bær Halldórs Beikis.
Lá vegurinn utan í klettinum sem bærinn stóð á og með djúpri gjótu á vinstri hlið allt niður á klöpp er teigði sig yfir í Finnshól og niður með honum, en þá var önnur gjóta mjög djúp komin á hægri hlið og stóð í henni einn bær, Klöpp, bær Þorsteins Þorsteinssonar hins fróða.
Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum; ÓSÁ.
Svo lá vegurinn niður á allbreitt svæði sunnan Christensenverzlunarhúss, kallað Bingurinn.
Þegar Kristján konungur kom á plássið var verið að taka saman fisk. Ekki var fólkið látið leggja frá sér börur, eða hætta verki þó konungur gengi framhjá. Á Knudtzonsbryggju var konungur ávarpaður fagurri kveðju af gömlum manni.
Sú kveðja er nú víst gleymd, en hana mundi Þorsteinn fróði og fór með hana svo ég heyrði eitt sinn, en ég nam hana ekki og heldur ekki nafn þess manns er hana flutti.
Kristján níundi Danakóngur.
Konungur kom í Bjarnahús Sivertsens til Chr. Zimsen. Kathinka litla dóttir hans færði honum blómvönd, en hann þakkaði henni. Tók hana á kné sér og hampaði henni. Þess minntist hún síðan alla ævi og sagði frá því með hrærðum huga.
Á Bingnum voru vegamót. Þá var komið á aðalgötu Fjarðarins, Sjávargötuna. Lá hún með sjónum bak við malarkampinn þar sem hann var annars í fjöruborðinu. Niður fjöruna frá Bingnum lá Christensensbryggjan. Rétt sunnan við hana var sker í fjörunni þar sem nú stendur hús Jóns Mathiesen.
Sunnan skersins kom Beikishúsvör og náði allt suður að Fjósakletti. Þarna áttu uppsátur Hraunprýðismenn og Hansensbræður, Einar og Hendrik og Stakkstæðismenn.
Hafnarfjörður – Hótel Björninn er áður stóð við Binginn.
Þröng var sjávargatan milli malarkambsins og húsanna og framan í Fjósakletti lá hún eins og einstigi, svo að fólk með vatnsfötur í grind varð að skáskjóta sér vestur úr einstiginu. Var þá komið að einhverri fyrstu vegargerð í Firðinum, Arahússtétt, er lá frá Fjósaklettinum yfir að klöppinni, sem Arahús stóð á.
Þar suður af tók við Brúarhraunsvör allt að Brúarhraunskletti. Var malarkampur upp frá vörinni, en milli hans og Brúarhraunsgarðanna lá gatan, fyrir baðstofugluggann á Þorkelskofa, Sigþrúðarbær og Ingibjargarbæ ekkjunnar að Árnabæ Veldings.
Hafnarfjörður fyrrum.
Sunnan þessa bæjar kom Gunnarssund. Þar hafði Gunnar í Gunnarsbæ uppsátur skipa sinna og voru stundum á vetrum þrjú skip í Sundinu. Handan sundsins var allstór hóll, kallaður Ragnheiðarhóll. Klapparrani lá frá honum fram í fjöruna og endaði þar í klöpp, er kölluð var Brúarklöpp. Á henni stóð annar stöpull fyrstu brúarinnar, sem sett var á lækinn, en hinn stöpullinn stóð á malaroddanum. Brúarklöppin mun nú vera undir vestasta hluta Hafnarfjarðarbíós, þar sem inn er gengið.
Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Sunnan klapparranans var allbreiður malarkampur nokkuð suður fyrir Veldingshús (Strg. 33) og lá gatan ofan til við hann. Eitt sinn við ádrátt fyrir ufsa voru færðar upp á malarkampinn 900 tunnur af smáufsa. Var það ekki í fyrsta sinni sem ufsinn bjargaði Hafnfirðingum og mörgum öðrum. Því dæmi voru til þess að bændur komu austan fyrir Fjall að fá sér ufsa. Það var úr þessari ufsakös að Þórður Alamala sótti byrði sína og bar hvíldarlaust til Reykjavíkur, en er þangað kom var hún vegin og reyndist vera rúmt skippund yfir 160 kg.
Hafnarfjörður um 1900.
Upp á þennan malarkamp rak á hverju ári mikið af þaraþönglum. Á hverju hausti söfnuðust allir strákar úr Firðinum þarna saman og efndu til Þönglaslagsins“. Af þeim fundi fór enginn óbarinn. Barist var meðan nokkurt vopn var að fá. Meðan til var þöngull álnarlangur. Mátti um langa leið heyra gný mikinn og vopnaskak og fylgdi með grátur og gnístran tanna. En þó mikið væri barist og margur kappinn félli, þá risu þó allir jafngóðir upp að morgni næsta dags.
Hafnarfjörður – örnefni.
Sjávargatan lá suður með læknum framhjá Helgahúsi, Kringlu og Kolfinnubæ (Tutlukoti) inn að Byggðarenda og Lækjarkoti. Þar í læknum stóð í eina tíð Kornmillan hans Linnets. Var hún fyrst rekin með vatnsafli lækjarins, en síðar voru settir upp mylluvængir. Þannig mundi Gísli bakari eftir henni, en það mun hafa verið á síðustu dögum hennar. En kofinn stóð allt fram á daga Jóh. J. Reykdals, að hann tók grjótið úr honum og hafði í uppfyllingu undir timburverksm. sína 1903. Erum við þá á leiðarenda komin í bili.
Af Bingnum lá Sjávargatan vestur um hornið á Christensenshúsi með bólvirkin á vinstri hönd framhjá Knudtzonsverzlunarhúsunum yfir stakkstæðið, en niður frá miðju þess kom Knudtzonsbryggjan og lá fram í sjó.
Vestan stakkstæðisins stóðu tvö pakkhús og allbreytt port á milli. Framundan portinu var „Dokkin“. Afþiljað skipauppsátur sem Bjami Sivertsen lét gera í sinni tíð og var hún notuð fram um 1880. 1882, eftir að Sveinn Jónsson var kominn í fóstur til Halldórs beikis, gekk Halldór með Sveini þarna um og sýndi honum „Dokkina“ og voru þá þrjár ,,Jaktir“ í henni og stóðu „Brandaukarnir“ inn yfir portið og mátti þar ganga undir. Lá gatan upp brekku allt upp á klifið, en „Jaktaklettur“ var þá á vinstri hönd.
Langeyri um 1920.
Af klifinu lá gatan neðan Jónshúss og Klofabæjar með Klofavör á vinstri hönd neðan Gestshúsa vestur að Kletti, bæ, sem stóð spottakorn upp frá götunni. — Sveigði svo fyrir klapparnef, er var beint upp af Fiskakletti, en vestan klapparinnar stóð bærinn „Fiskaklettur“ og nokkru vestar, við enn eitt klifið stóðu bæirnir Péturskot og Þórnýjarbær.
Vestur kom af klifinu lá gatan um „Krosseyrarmalir“ er voru tvær, sundurskornar af hraunrima. Gatan lá upp á balann við Gatklett og af honum um Draugaklif yfir í lautina austan Gönguhólsklifs. Vestan undir Gönguhólsklifi stóð bærinn Göngubóll eða Sönghóll, en þá tóku við Langeyrarmalir og bærinn í hrauninu upp frá austurenda malanna.
Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.
Fyrir miðjum Langeyrarmölum voru Flatirnar og bær þar samnefndur. Þar óx „Brenninetla“. En því óx hún þar að þar hafði verið barizt og úthellt heiptarblóði. Börðust þar Englendingar og Þjóðverjar (Hansakaupmenn) um yfirráðin yfir verzlunarréttinum í Hafnarirði. Vestan málanna er Hraunsnefstangi og stóð þar í eina tíð „Hammershús“, hvalveiðistöð. Mátti fyrir nokkrum árum finna þar tígulsteina. Tóku þá við Litlu-Langeyrarmalir, eða Brúsastaðamalir. Þá lá gatan eftir þeim út í Stífnishóla um Brúsastaðavör yfír að Skerseyri, um Skerseyrarmalir upp „Sléttubrú“ hlaðinn vegarspotta upp á Balatún yfir það bak við bæinn yfir á Dysjamýri að Görðum og út á Álftanes. Var þetta kirkjugata Hafnfirðinga um langan aldur.
Gamli Setbergsbærinn.
Þó Flatarhraunsleiðin væri fjölfarin hygg ég þó að önnur leið hafi verið fjölfarnari er austanmenn sóttu kaupstefnur til Hafnarfjarðar. Kjóavellir sunnan Rjúpnahæðar voru í eina tíð mikilvægur áningastaður. Þaðan lágu leiðir í ýmsar áttir. Ein lá yfir hálsinn austan Vífilstaðavatns og niður að vatninu meðfram því út á hraunið og niður yfir það í Kaplakrika niður með Kaplakrikalæk. Móts við Setbergshamar skáskar troðningurinn sig yfir Sjávarhraunið. Mátti sjá í hraunklöppunum brautir sorfnar „þar harðir fætur ruddu braut í grjóti“.
Hafnarfjörður – Hörðuvellir.
Úr Sjávarhrauninu lá troðningurinn niður á Hörðuvelli og yfir Hamarskotslæk. Niður með læknum undir Hamrinum niður á Moldarflötina á Hamarskotsmöl. Skiptust þar leiðir. Lá önnur vestur á brúna, en hin suður með Loftsstaðatúngirðingu fram hjá Proppébakaríi, framhjá „Surtlu“, þar sem Brennisteinsfélagið hafði aðalbækistöð sína. Litlu sunnar var braut niður að Egilsonsverzlunarhúsunum. En aðalvegurinn lá með fram Undirhamarstúngarði að litlum læk og var brú á honum, en frá brúnni sniðskar vegurinn sig upp á Vestur- eða Sjóarhamar. Var þá á vinstri hönd bærinn „Hamar“ eða „Bjarnabær“ og fremst fram á brúninni Miðengi og bær sá er síðar tók nafnið „Hamar“.
Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði; Flensborgarhöfn.
Af Hamrinum lá gatan sniðhalt niður’á Ófriðarstaðamöl, Hellufjöru og nokkur önnur nöfn mætti til tína. Eftir henni út að Flensborg ofanvert við Ásbúðarvör. Frá Flensborg lá vegurinn yfir Ásbúðarlæk og á enn sjá troðninga upp melinn frá Óseyrarbanka. Vestur lá vegurinn neðst í holtinu ofan Óseyrartúns um Sandaskörð að Barðinu, en upp frá því með Hvaleyrartúngarði niður á sandinn vestur á Hvaleyrarhraunið og áfram til Suðurnesja og Grindavíkur.
Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur millum Selvogs og Hafnarfjarðar fyrrum.
Leið Selvogsmanna klofnaði sunnarlega á Öldunum. Lá önnur niður með Hamrinum austanverðum að Hamarskotslæk, en hin lá með Hamarskotstúngarði og þaðan niður til Fjarðarins.
Að nokkru hefur nú verið lýst leiðum þeim er lágu til Hafnarfjarðar og aðalleiðum um Fjörðinn. Ekki gefst nú tækifæri til að lýsa stígum þeim og slóðum er lágu út frá aðalleiðunum.
Ég hef fært þetta í letur eftir frásögnum gamalla manna og kvenna. Það er því ekki þeirra sök þó eitthvað sé um missagnir. Væri mér það ljúft að þeir, sem finna missagnir hér í létu mig vita, því það á okkur öllum Hafnfirðingum að vera kappsmál, að hvað sem sagt er eða skrifað um Hafnarfjörð sé sannleikanum samkvæmt.“
Sjá meira um Gísla Sigurðssson HÉR.
Heimild:
-Hamar, 26. tbl. 22. 12.1954, Gamlar slóðir, Gísli Sigurðsson, bls. 5 og 15.
Hafnarfjörður 2023.
Almenningsvegurinn til vesturs (suðurs)
Hér er ætlunin að fylgja Almenningsveginum frá Kúagerði í Voga. Stuðst verður m.a. við lýsingu Sesselju Guðmundsdóttur í bókinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ er endurútgefin var út árið 2007. Um er að ræða nákvæmasta rit um örnefni, vettvangsferðir og sagnir á svæðinu. Auk þess er stuðst við handrit Erlendar Magnússonar á Kálfatjörn þar sem hann lýsir Almenningsveginum svo allri leiðinni frá Reykjavík til Njarðvíkur, sem hann fór margoft.
Þegar leiðin var gengin að þessu sinni, frá norðri til suðurs – og til baka (svona til að bera saman smáatriðin), kom ýmislegt áhugavert í ljós. Við meginleiðirnar liggja hliðarleiðir. Til dæmis má ætla að Almenningsvegurinn hafi fyrrum legið eins og hann liggur nú frá Kúagerði, með Arnarvörðu, niður að Kálfatjörn og áfram með Arnarbæli niður að Vogabæjum. Á þessari leið er hann lítt lagaður að öðru en því sem þótti allra nauðsynlegast. Vörður (vörðubrot) eru fáar, en fjölgar er nær dregur endimörkum hans beggja vegna. Út úr Almenningsvegi hefur þróast „Hestaslóð“, hestvagnsgata. Lagfæringar á veginum er allt frá Kúagerði að Bergþórsvörðu. Frá henni hefur verið lagður, annað hvort nýr vegur eða eldri vegur endurbættur, að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).
Almenningsvegur – Arnarhóll.
Í örnefnalýsingu fyrir Flekkuvík er þar getið um „Almenningsgötur“ er bendir til þess að þær hafi verið fleiri en ein á þessum slóðum, sem þær og eru. Gata liggur frá Bergþórsvörðu til norðurs, um náttúrulega steinbrú á Hrafnagjá og síðan áfram uns sést heim að Flekkuvík. Þar beygir gatan vestur heiðina, en Flekkuvíkurstígurinn liðast niður heiðina heim að bæjum. Efri hluti götunnar gæti hafa verið Flekkuvíkurstígur. Hestvagnsgatan er frá Kúagerði að Vatnsleysu. Þar hefur hún beygt áleiðis heim að bæ og kemur aftur í ljós á milli og sunnan bæjanna. Þaðan er stutt að gatnamótum Flekkuvíkurstígs.
Almenningsvegur – ofan Kálfatjarnar.
Önnur gata, ólöguð, liggur svolítið upp fyrir Bergþórsvörðu og beygir þar einnig til norðurs, yfir hlaðna brú á Hrafnagjá. Þaðan er gatan óljós, en lengra má sjá hvar hún beygir um 90° til vesturs, áleiðis upp heiðina að Arnarvörðu, sem fyrr er nefnt. Þótt Almenningsvegurinn aðskiljist Eiríksvegi að mestu leyti frá Kúagerði að Bergþóruvörðu má ætla, af landfræðilegum aðstæðum, að Eiríksvegur hafi verið lagður ofan á Almenningsleiðina á þessum kafla því þar sem sá fyrrnefndi endar í Flekkuvíkurheiðinni heldur sá síðarnefndi áfram upp hana að Arnarvörðu. Þetta virðist flókið, en ef eftirfarandi skýringarmynd er skoðuð af götum í heiðinni ætti þetta að vera svolítið augljósara hvað framhaldið varðar.
Ferðin hófts i Kúagerði; á Akurgerðisbökkum. „Sagnir eru til um að Akurgerði hafi forðum verið í Kúagerði. Fjórir vegir frá mismunandi tímum liggja um [Vatnsleysustrandar]hreppinn endilangan. Sá nýjasti og jafnframt efsti er línuvegur sem gerður var árið 1992 og fylgir hann rafmagnslínu frá Fitjum í Njarðvík að Hamranesi í Hafnarfjarðarlandi. Vegurinn er lokaður almennri umferð. Reykjanesbraut var gerð á árunum 1960-64 og fyrsti hluti tvöföldunar hennar var tekinn í notkun árið 2004 og enn er verið að vinna við breikkun, þ.e. árið 2007.
Gamli-Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegur var lagður á árunum 1906-’12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Ströndinni en um 1930 var sá partur færður neðar. Gamli-Keflavíkurvegurinn var í upphafi hestvagnavegur og mátti sjá langar vagna- og skreiðarlestir liðast eftir veginum en 1917 tóku bílarnir við. Hér suður um Strönd og að Vogum verður nafnið Strandarvegur haft yfir Gamla-Keflavíkurveginn. Reiðvegur liggur og með Strandarveginum frá Vatnsleysu og suður í Voga (en hann verður ekki hafður í hávegum hér).“
Kúagerði 1912.
Ef staðnæmst er við Kúagerði má sjá hvar Eiríksvegur liggur frá Akursgerðisflötum sem og Almenningsvegurinn. Við framangreindar götur á Ströndinni má bæta Kirkjugötunni er lá samfelldur um bæjartraðirnar. Kirkjubrúin sunnan Kálfatjarnar er á þeirri leið.
„Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn og innarlega í Hvassahraunslandi einnig ofan Reykjanesbrautar. Í lýsingu Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðavíkursókn frá árinu 1840 er leiðinni lýst svohljóðandi: „Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.“ Almenningsvegurinn er til hliðar og sunnan við Eiríksveginn á þessum kafla.
„Bátar voru notaðir en hestar til fólks- og vöruflutninga hér í sveit á öldum áður og margar heimildir bera vitni um.
Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar er hann frekar kallaður Alfaraleiðin. Nafnið sem við notum hér suður frá gæti tengst því að um veginn fóru Suðurnesjamenn um aldir til eldiviðartöku og kolagerðar í Almenning en það er kjarrsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns, ofarlega. Björn Gunnlaugsson, fyrsti íslenski kortagerðarmaðurinn, setur Almenningsveginn inn á kort árið 1831, en á kortum sem gerð hafa verið eftir það er hann ekki skráður.“
Hverfum nú aftur til upphafsstaðar. „Við höldum nú í vesturátt frá Kúagerði meðfram Strandarvegi sem lá áður um Vatnsleysu og áfram (nú er búið að byggja brú og hringtorg aðeins sunnar á brautinni. Eftir u.þ.b. 400 m komum við að litlum uppmjóum hól með hundaþúfu fast við veginn sem heitir Tittlingahóll. Ein heimild segir hólinn hafa í upphafi heitað Þyrsklingahól en nafnið afbakast í tímans rás. Víða við sjó hjá Vatnsleysu einkennast hólarnir af háum „hundaþúfum“.
„Neðan vegar sjáum við Steinkeravík (Stekkjarvík) og upp af henni komum við fyrst á Almenningsveginn. Fyrrum kölluðu sumir hreppsbúar Almenningsveginn Einingaveg og kom það líklega til af því að í landamerkjalýsingu Jóns Daníelssonar í Stóru-Vogum frá árinu 1840 er eyða í handritinu fyrir framan orðið „…eningsveginn“. Einhverjum hefur sennilega þótt hægast að túlka þetta hálfa orð sem einingaveginn og þannig er það örnefni komið til.
Á þessum slóðum sjáum við annað sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en það er Eiríksvegur og liggur vegarstæðið þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og áfram vestur yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.
Á Almenningsvegi.
Neðri-Grænhóll er u.þ.b. miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar, vestur af afleggjarnum að háspennutengingu fiskeldistöðvarinnar á Vatnsleysu. Efri-Grænhóll er ofan við brautina.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðuaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
Digravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.“
Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.
Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg), (sjá síðar).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðuhól. Almenningsvegurinn (eystri) liggur hins vegar til norðurs skammt ofan við Bergþórsvörðu, á brú yfir Hrafnagjá skammt sunnan „hestvagnsgötunnar“. Skammt norðar beygir gatan um 90° til vesturs og liðast þaðan upp heiðina áleiðis að Arnarvörðu. Norðan Bergþórsvörðu er Almenningsvegurinn tvískiptur. Skýringin gæti verið þróun vegarins frá því að vera göngu- og hestagata yfir í að verða hestvagnagata. Þarna gæti hafa verið tenging við veg frá Vatnsleysu, en tenging inn á hestvagnagötuna (vestari götuna) er norðar, ofan túngarðs. Til gaman má geta þess að á báðum götunum mátti sjá leifar af skeifum. Hér á eftir er efri (eystri) leiðinni lýst.
„Næst liggur leið okkar um Hafnhóla. Suðvestur frá Bergþórsvörðu er hár og mikill hóll, nokkuð kúptur, sem heitir Litli-Hafnhóll, Neðri-Hafnhóll eða Eystri-Hafnhóll og við hann er loftnetsmastur og sjálfvirk veðurstöð. Sunnar og fast við Reykjanesbrautina að neðanverðu er svo Stóri-Hafnhóll, Efri-Hafnhóll eða Syðri-Hafnhóll. Jón Helgason (1895-1986) ömmubróðir minn sem alinn er upp í Litlabæ á Strönd sagði mér að sá hóllinn sem heitir Litli-Hafnhóll hafi heitið Stóri-Hafnhóll, og öfugt, því hann hafi sýnist stærri frá sjó.
Nú förum við yfir Hrafnagjá og þá rétt austan við afleggjarann að Minni-Vatnsleysu. Gjáin liggur niður um tún Stóru-Vatnsleysu og þar í sjó fram. Margir telja þessa gjá framhald hinnar eiginlegu Hrafnagjár sem er ofan og innan við Voga, en samkvæmt loftmynd og öðrum athugunum er svo ekki.
Rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar en stuttu ofan við nýju tengibrautina. Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir.“ Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.
Almenningsvegur – refaskyttubyrgi.
„Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg. Nú hækkar landið aðeins og til vinstri handar er rismikil og falleg hólaþyrping sem ber við himinn, heita þar Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
Á háheiðinni norðvestur af Miðmundahólum og nær Strandarveginum, er Arnarvarða eða hluti hennar á hól en við hólinn norðanverðan liggur Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálfatjarnar.“
Þegar komið er upp að Arnarvörðu má sjá yfir gjörvalla heiðina. Ætla mætti að hér hafi tilgangum um verið náð með „ofanleiðinni“, en að sjálfsögðu hlýtur hann að hafa verið allt annar. Ef skoðaðar eru loftmyndir af svæðinu má ætla að í raunþrátt fyrir nokkra hækkun, hafi þessi „úrleið“ ekki verið lengri svo nokkru nemi. „Vestari leiðin“ liggur þó betur við fæti, liggur neðar og er greiðfærari. Hún liggur neðan við Stúlknabyrgi, en við nánari skoðun virðist þar hafa verið um „sæluhús“ eða skjól að ræða á leiðinni. Nafnið er vel við hæfi.
Almenningsvegur genginn.
„Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Miðmundastekkur sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur ef einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.
Suður af Tvívörðuhól sjáum við klapparhryggi með grasrindum utan í sem hita Löngubrekkur. Þesar slóðir eru kallaðar Hæðin en á há Hæðinni er Stefánsvarða neðan vegar. Stefánsvarðan er eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar. Varðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar.
Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum. Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. „Byggð í byrjun aldar.“ Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.“
Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.
Hér „vatnar undir“ lýsinguna. Verið var að rekja „eystri“ leiðina um Almenningsveg, en hér er allt í einu komið niður á „vestari“ leiðina, þ.e. hestvagnagötuna. Ástæðan er líklega sú að hvorutveggja er Almenningsvegur, frá mismunandi tímum. Skammt frá má sjá leifar af fyrstu vegagerð Strandarvegar, sem síðan hefur verðu færður skammt ofar.
Arnarvarðarleiðin, þótt hún virðist lengri í fyrstu, en einstaklega áhugaverð. Frá henni er hið ágætasta útsýn um gjörvalla Vatnsleysustrandarheiði. Ætla mó þá að ferðalangar fyrrum hafi ekki verið að leita eftir slíkum hughrifum á erfiðri þjólðeið millum áfangastaða.
Vegur ofan Arnarvörðu.
Líklegt má telja ef nágrenni Arnarvörðu er skoðað nánar megi þar finna leiðir upp frá henni að áfangastöðum ofar í heiðinni.
„Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur. Aðeins vestar en Löngubrekkur er svo klapparhóll, brattur að norðanverðu, sem heitir Grjóthóll. Á þessu svæði er Almenningsvegurinn frekar óljós.“ Aftur er hér aftur horfið til „vestari leiðar“ Almenningsvegar. Hún sameinast vestari leiðinni neðan undir Hæðinni. Engin ummerki um hana er að sjá vestar, ofan núverandi Strandarvegarm enda má ætla að leiðin hafi fyrrum legið áleiðis niður að Kálfatjörn.
Fast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn. Suðaustur af vörðunni er langur klapparhóll með lítilli grjótþúst á og heitir hann Klifflatarhóll en fyrir austan og ofan hann er nokkuð stór þúfumói sem kallast klifflatir.“ Reyndar eru engin ummerki eftir Almenningsveginn (eystri) á þessum slóðum. Líklegra er að hann hafi sameinast vestari götunni undir Hæðinni og legið með henni að garðhliði Kálfatjarnar.
Þegar skoðaðar eru aðstæður austan og vestan Kálfatjarnar má glögglega sjá hvar leiðir hafa legið að höfuðbýlinu. Hlið er á grjótgarði að vestanverðu þar sem Almenningsvegurinn hefur legið að. Vestan hans sést í hestvagnagötuna ofan suðurgarðs Kálfatjarnar. Þar liggur hún áleiðis upp með ofanverðum túnum Þórustaða, ofan við Þórustaðaréttina. Enda segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að vegurinn hafi legið þarna ofan túngarða.
„Þórustaðarstígur liggur frá túngirðingu Þórustaða, u.þ.b. 200 m norðan afleggjarans að bænum og allt upp að ufir fjallgarðinn (Vesturháls). Stígurinn er ógreinilegur fast við og ofan Strandarvegar. Skammt ofar við götuna er Þórustaðaborg. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin. Þórustaðaborgi hefur upphaflega verið fjárborg, en fjárborgum var stundum breytt í stekki eða aðrar byggingar sem hentuðu búskaparháttum hvers tíma og það virðist hafa verið gert þarna.
Stuttu ofan og á móti Landakoti er breitt og flatt holt sem heitir Skálholt og um það eru mörk Landakots og Auðna. Á Skálholti eru a.m.k. þrjár vörður og leifar af litlu grjótbyrgi með vörðu í. Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnin í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum er uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.“
Rétt ofan við syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á „Hestaslóðina“ sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð sunnan Brunnastaðahverfis. Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götur frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagur af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“
Gamlivegur er að sjálfsögðu fyrrum hluti Gamla-Keflavíkurvegar (Strandarvegar). Líklegt má telja að hann hafi verið lagður yfir „hestvagnsgötuna“. Út frá henni liggur síðan gamli Almenningsvegurinn upp heiðina áleiðis að Arnarbæli.
„Vatnsleysustarndarrétt eða Strandarrétt stendur á sléttu klapparholti vestan Árnastekks. Réttin var hlaðin úr múrestinum og var vígð árið 1956, en fyrir þann tíma var lögrétt hreppsins í Vogalandi suður undir Vogastapa. Fast við réttina að austanverðu stóð Ásláksstaðarétt en grjótið úr henni var notað í vegarlagningu. Fyrir ofan Strandarrétt standa tvær háreistar vörður þétt saman en þær hlóðu sér til gamans tveir vikapiltar á Sjónarhóli fyrir fáum áratugum.
Hér er mjög erfitt að rekja Almenningsveginn en þegar sunnar dregur verður hann greinilegri.
Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki undir lágum hólum. Ofan og austan við Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur.
Vatnshólar heita tveir hólar fast ofan Gamlavegar beint suður af Árnastekk. Suðvestur af Rauðstekk eru fallegustu og grónustu hólar heiðarinnar en þeir heita Arnarbæli eða Arnarbælishólar. Hólarnbir eru mjög áberandi og sjást víða að Stuttu ofna og sunnan við Arnarbæli er Ásláksstaðastekkur í Kúadal, heillegar hleðslur.“
Við Arnarbæli greinist Almenningsvegur; annars vegar vestur fyrir hólana og hins vegar austur fyrir þá. Austari gatan er greinilegri. Líklega hefur Kúadalur verið talinn álitlegri áningastaður áður en lokaáfanganum var náð niður að Vogum.
„Slysabeyja er á mótum Gamlavegar og Strandarvegar. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því degur hún nafnið. Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáaanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað.
Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar. Sigurjón Sigurðsson (1902-1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: „Sagt er, að þeir fragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og hafi prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari.“
Milli Presthólanna liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt a rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vörðuð á þessum kafla fyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarsstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppunum.“ Reyndar sjást engin fá hófaförin þarna, en af verksummerkjum að dæma má telja augljóst að þarna hafi gatan legið.
Almenningsvegur.
Nú erum við komin á Hæðina við Voga þar sem Strandarvegur gengur út úr Vogaafleggjara. Ef grannt er leitað má finna syðsta hluta Almenningsvegar þar sem Hæðina þrýtur til austurs og þá sitt hvoru megin Strandarvegar.“
Reynt hefur verið að lýsa Almenningsveginum á Ströndinni af tímafrekri nákvæmni. Eflaust mun, við nákvæmari skoðun, koma í ljós einhverjar hjáleiðir, sem ekki hafa verið nefndar.
Í Ísafold, 11. okt. 1890, má lesa eftirfarandi: „Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðsmarkið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni. Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi. Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa).
Strandarvegur.
Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn. Ritað á Fidesmessu 1890. Vegfarandi.“
Gatnakerfi Vatnsleysustrandar verður gefinn nánari gaumur á næstunni. Hér var um að leiða lokaáfanga á 1200. FERLIRsáfanganum á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007.
–Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl.
-Erlendur Magnússon, Kálfatjörn – handrit
.
„Hallgrímshellan“ í Þjóðminjasafninu
Löng leit hafði verið gerð að „Hallgrímshellunni“ svonefndu, en hún átti að vera aflöng steinhella á klöpp skammt norðan Þórshafnar við Ósa. Á hellunni átti að vera áletrun (HPS), sem m.a. hefur verið eignuð séra Hallgrími Péturssyni, presti í Hvalsnesi. Leitinni löngu lauk loks í munasafni Þjóðminjasafns Íslands í Kópavogi þar sem Lilja Árnadóttir, yfirmaður munasafnsins, gat upplýst aðspurð að umrædd hella væri í vörslu safnsins.
Flekkuleiði – rúnasteinn.
Þar var steinninn innskráður með eftirfarandi hætti: „Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.“ Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu og átti að vera í einu gripahúsa þess.
Af ljósmynd að dæma, sem tekin var af hellunni á vettvangi árið 1964, virtist ártalið vera 1638.
Lilja og starfsfélagi hennar, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, starfsmaður munasafns Þjóðminjasafns Íslands, gátu síðan staðsett helluna og buðu FERLIR að koma og skoða hana.
Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu
FERLIRsfélagar héldu þá og þegar á fund „Hallgrímshellunnar“. Hún hafði legið í geymslum Þjóðminjasafnsins í 31 ár, eða allt frá því að hún var brottnumin af af klapparholtinu norðan Þórshafnar við Ósa árið 1974, þar sem hún hafði verið allt frá fæðingu. Jafnvel áhugasamasta fólkið á Stafnessvæðinu hafði ekki hugmynd um að hellan hefði verið fjarlægð eða hvað hafði orðið um hana. Flest hélt það reyndar að hellan væri þarna ennþá.
Sem fyrr segir hafa sumir tengt þessa áletrun séra Hallgrími Péturssyni, sem varð prestur í Hvalsnesi um og eftir 1644. Hann þjónaði jafnframt kirkjunni í Höfnum, sem er handan við Ósana. Þar eru örnefni er gefa til kynna ferjusiglingar milli Hafna og austanverða Ósa.
Hallgrímshellan á vettvangi á 20. öld.
Hallgrímur kom til Njarðvíkur eftir dvöl í Kaupmannahöfn árið 1637 ásamt Tyrkja-Guddu og öðrum Íslendingum, sem numdir höfðu verið á brott af „Tyrkjum“ tíu árum fyrr (1627). Það skipti því máli hvaða ártal var nákvæmlega á þessari tilgreindu hellu. Þess ber að geta að mikið er um áletranir á klöppum á þessu svæði við Ósa, bæði við Þórshöfn og við Básenda. Á fyrrnefnda staðnum eru klappaðir bókstafirnir HP á hásæti (miðju) klappar og á síðarnefnda staðnum eru m.a. nokkrar áletranir frá 16. og 17. öld.
Við nákvæma skoðun á hellunni í geymslu Þjms. virtist ártalsáletrunin vera 1628. Eða hvað? Er hugsanlegt að þarna sé ekki um ártal að ræða, heldur eittvað annað? Gæti áletrunin verið HSP 16Z og 8? Gæti áletrunin falið í sér hugsun umfram staðhæfingu? Hvað bjó að baki áletruninni? Hvert var tilefnið?
Básendavegur að Stafnesi.
Hvað fær einhvern til að fara með áhöld á stað nálægt alfaraleið til að klappa vandlega áletrun á stein á þeim tiltekna stað? Hvers vegna að klappa haglega á stein milli mikilla verslunarhafna, en ekki þar og þá? Svaranna er reyndar að leita í nálægð við staðinn. Hann er mitt á milli Þórshafnar og Básenda (sjá aðrar umfjöllun á vefsíðunni – sem gæti nú hafa fallið í „faldar síður“).
Ljóst má vera að „Hallgrímshellan“, eins og henni er nú fyrir komið, verður að teljast ómerkilegur innanhússsafngripur, en í ljósi fyrrum staðsetningar og sögulegs samhengis, má með nokkurri sanngirni telja hana allmerkilega væri hún á sínum upprunalega stað.
Hallgrímshellan í geymslu Þjóðminjasafnsins.
Ef hellan tengist ekki séra Hallgrími þá tengist hún áreiðanlega einhverjum öðrum. T.d. gæti hún verið grafskrift manns, sem varð úti á þessum stað þetta tiltekna ár. Fjölmörg dæmi eru um slíkt á og við Miðnesheiðina, eins og annálar kveða á um. Slíkar grafskriftir eru á nokkrum stöðum á þessu svæði, t.a.m. við Dauðsmannasvörðuna neðri, auk þess vandlega er klappað í hellu við Prestsvörðuna þar sem séra Sig. Sívertssen hafði næstum orðið úti fyrr á öldum. Þá gæti áletrunin verið eftir einhvern er tengdist versluninni í Þórshöfn eða á Básendum.
Ýmislegt annað kemur til greina, en þótt ekki væri fyrir annað en grafskriftina gæti „Hallgrímshellan“ talist merkileg og jafnvel orðið tilefni frekari rannsóknar á tilefni skriftarinnar.
Þórshöfn – áletrun.
Vonast er til að framkvæmdaráð Þjóðminjasafnsins bjóði heimamönnum helluna einhvern tímann til varðveislu á ný eða að heimamenn og aðrir áhugasamir biðji um að fá hana aftur á heimaslóðir.
Margir merkilegir steingripir eru í geymslum Þjóðminjasafnsins og jafnvel víðar. Flestir þeirra bárust Þjms. á fyrri hluta 20. aldar. Síðustu áratugi hefur lítið borist þangað af steinum, nema ef vera skyldi eftir björgunaruppgrefti, því svæðisbundin byggðasöfn hafa að mestu tekið að sér að varðveita þá heima í héraði.
Ekki er ljóst hvaða áletrunarstein megi telja elstan í safninu, en eflaust væri hægt að komast að því með því að skoða skriflegar heimildir og skrár safnsins.
Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.
Vel færi á því að vekja upp málefnalega umræðu hér á landi um „eignarhald“ og eðlilega staðsetningu fornleifa, ekki síst með hliðsjón af þeirri athygli er þær kunna að fá af hálfu ferðalanga sem og nýtan- og heimanleika (upprunaleika) þeirra á einstökum svæðum. Ferðamálasamtök víðs vegar um landið, sveitarstjórnarfólk og jafnvel fleiri aðilar, mættu gefa sér svolítinn tíma frá dagsins amstri og taka þátt í slíkri samræðu. „Hallgrímshellan“ gefur og bæði tilefni til hugleiðinga og spurninga, s.s.: „Hver á fornleifarnar í landinu?“ og „hvar eiga þær að vera?“ Eiga þær t.d. að vera sem næst upprunastað sínum og heimafólki, því og sem flestum gestum þess til fróðleiks, áhugasvölunar og áminningar um gildi þeirra. Eða eiga þær að vera varðveittar í lokuðum geymslum á einu landsvæði frekar en öðru þar sem örfáir fá að nálgast þær? Og hvers vegna ætti frekar að vera hægt að varðveita „sérstaka“ fornmuni í geymslum á höfðuborgarsvæðinu en í öðrum sambærilegum geymslum annars staðar á landinu, t.d. á Raufarhöfn?
Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.
Forngripir, eins og allar aðrar jarðfundnar fornleifar, eru eign ríkisins. Má rekja þá löggjöf aftur til 18. aldar. Ljóst er að byggðasöfnin um allt land, auk Þjms., varðveita fornleifar af ýmsum toga. Hlutverk þeirra hefur verið skilgreint í seinni tíð. Aðstæður hafa því breyst frá því að hinir ýmsu ártalssteinar eða steinar með öðrum áletrunum bárust Þjóðminjasafninu eða Hinu íslenska fornleifafélagi á undan því.
Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.
Ástæða er til í ljósi breyttra aðstæðna að endurmeta og endurskoða matið, sem lagt var til grundvallar því hvar minjum skyldi safnað saman og þær varðveittar? Er jafnvel kominn tími til, í ljósi breyttra aðstæðna, nýrra krafna og annarra nýtingamöguleika, að endurmeta staðsetningu áður uppsafnaðra fornminja með það fyrir augum að gera sem flesta þeirra sýnilegri og meðvitaðri almenningi og gestum landsins? Horfa má til þess að gildi þeirra enduspeglast af sýnileikanum, en auk þess geta fornleifar haft tilfinningagildi.
Hallgrímshellan – áletrun.
Áður fyrr var fornmunaverðmætum safnað saman miðlægt til varðveislu og til að koma í veg fyrir eyðingu þeirra. Í dag býr sérhver landshuti og jafnvel einstök minni svæði yfir ákjósanlegum varðveisluskilyrðum. Og í dag ferðast fornleifafræðingar um malbikaða vegi landsins í bílum eins og annað fólk. Það gerir flest forvörslufólk einnig. Allir aðilar, sem áhuga hafa, komast nú á milli landshluta á tiltölulega skömmum tíma, flesta daga ársins. Hvað er því til fyrirstöðu í dag að forngripir fái að dvelja og varðveitast „heima“ þar sem þeir eiga sínar sögulegu rætur? Lagaákvæði um fornleifaskráningu, bann við röskun minja og virkara eftirlit minnka líkur á að fornleifar glatist. Viðkvæmari gripi má hæglega varðveita í staðbundnum söfnum, kirkjum, opinberum byggingum eða öðrum slíkum. Geymslur Þjóðminjasafnis eru engum til gagns og ánægju.
Heródes; álaga- og rúnasteinn. Hefur verið látinn ósnertur.
Skv. 3. gr. „Þjóðminjalaga“ (107/2001) er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar í landinu. Það „annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar“. Safnið hefur sinnt sínu hlutverki vel þrátt fyrir þröngan stakk. En „hver á fornleifarnar?“ Er það sá, sem ber ábyrgð á þeim? Hver ber ábyrgð á þeim skv. lögum? Svarið er bæði ENGINN og ALLIR. Enginn má raska eða færa fornleifar úr stað nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins og allir eiga að ganga þannig um fornleifar að þær skemmist ekki. Á fornleifum í vörslu safna bera ekki aðrir ábyrgð, a.m.k. ekki skv. lögunum.
Af hverju ekki að leyfa, a.m.k. þeim fornleifum er það þola, að vera sem næst þeim stað sem þeir eiga sinn „sögulega uppruna“, þ.e.a.s. ef þess er nokkurs kostur?
Letursteinar í geymslu Þjóðminjasafnsins.
Í 9. gr. sömu „Þjóðminjalaga“ er ýtarleg skilgreining á fornleifum:
„Þær eru hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum… Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar“.
Í flókinni „Reglugerð um þjóðminjavörslu“ frá árinu 1998 segir í
8. gr. að „meginstarfsemi Þjóðminjasafns Íslands fer fram á vettvangi þriggja sviða. Nefnast þau safnsvið, útiminjasvið og fjármálasvið.“ Í 21. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um söfnun fornleifa, sbr.: „Útiminjasvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar.“
Garður – rúnasteinn á fornmannaleiði.
Í 16. gr. reglugerðarinnar segir að „munadeild varðveitir, skráir, rannsakar og sýnir muni Þjóðminjasafns Íslands og veitir ráðgjöf og fræðslu á sínu fagsviði. Í umsjá deildarinnar eru allir munir skráðir í Þjóðminjasafn sem og munir í sérsöfnum innan vébanda þess nema hlutaðeigandi sérsafn hafi stöðu deildar innan safnsviðs.“. Lán á munum eru bundin takmörkunum því skv. 76. gr. reglugerðarinnar segir að „safnstjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, heimilað að safngripir í eigu Þjóðminjasafns Íslands séu hafðir til sýnis í þeim húsum, er undir það heyra. Safnstjóra er heimilt, með samþykki þjóðminjavarðar, að lána söfnum, stofnunum eða öðrum ábyrgum aðilum safngripi í eigu Þjóðminjasafns Íslands á sérstakar sýningar á þeirra vegum, en skilyrði skal þá setja um tryggingar og örugga vörslu, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga.“ Reyndar er um ranga tlvísun að ræða því reglugerðin er eldri en núgildandi lög. Ný reglugerð hefur enn ekki verið samnin.
Letursteinn í geymslu Þjóðminjasafnsins.
En á yfirleitt að geyma minjar, hverju nafni sem þær nefnast, á einum miðlægum stað? Svarið er auðvitað bæði nei og já. Almennt eiga minjar heima sem næst uppruna sínum. Þó geta verið til svo sérstakar, verðmætar eða viðkvæmar minjar að þær þarf að varðveita við sérstök skilyrði. Einstakar minjar, sem telja má á einstakan hátt sameiginlegan arf þjóðar og endurspegla með áhrifaríkum hætti menningu hennar, gætu hugsanlega átt heima á þjóðminjasafni, en þó einungis þær helstu. Á tímum aukinnar ferðamennsku og áhuga er þörf á að dreifa og draga athygli ferðamanna að sögulegum minjasvæðum. Með það í huga er t.d. er mikilvægt að endurmeta hvort og hvar t.a.m. einhverjar minjar, sem nú eru geymdar í lokuðum geymslum, ættu betur heima með hliðsjón að framansögðu. Á vefsíðu Byggðasafns Hafnarfjarðar er m.a. fjallað um skráningu og varðveislu fornleifa. Þar segir að „hún muni jafnframt einfalda bæjaryfirvöldum stefnumörkun t.d. varðandi umgengnireglur og merkingar og einnig getur ferðaþjónustan haft mikinn hag af slíkri heildarskrá.“ Hér er gert ráð fyrir að ferðamenn hafi áhuga á fornleifum innan bæjarlandsins.
Hafnir – letursteinn.
„Hallgrímshellan“ er vel til þess fallin að vera „steingervingur“ (sbr. persónugervingur) fyrir aðrar fornleifar (forngripi, fornmuni), sem nú hvíla í lokuðum geymslum (gripahúsum), en mættu með réttu vera úti í mörkinni þar sem atburðir eða tilefni gáfu til tilurðar þeirra.
Vonandi verður „Hallgrímshellan“ tilefni til uppbyggilegrar umræðusköpunar og hugsanlega til að breyta afstöðu einhverra til þess hvar geymdar og gleymdar fornleifar eiga að varðveitast í framtíðinni hér á landi. Hafa ber í huga að fornleifar eru verðmæti í fleiri en einum skilningi.
Starfsfólki Þjóðminjasafnsins, sem var boðið og búið til að upplýsa um „Hallgrímshelluna“ og gefa FERLIRsþátttakendum tækifæri til að skoða hana, er hér með þakkað fyrir liðsinnið.
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimildir m.a.:
-Þjóðminjalög – 101/2001.
-Reglugerð um þjóðminjavörslu – 1998.
-Byggingarlög nr. 73/1997.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-Lovsamling for Island II, 276; III, 131-13; VII, 673-74.
-Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, Reykjavík 2000.
-Orri Vésteinsson – Fornleifar, heimildir og samtíminn (2001).
-http://www.kistan.is/efni.asp?n=503&f=3&u=2
-http://www.hafnarfjordur.is/byggdasafn/fornleifar.html
Básendar – letursteinn.
Hraunssandur – Festarfjall – Skálasandur
Meðfram fræðslufæti Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, var gengið um Hraunssand og Skálasand undir Festisfjalli (Festarfjalli), þar sem þjóðsagan er tengist bergganginum og festinni á að hafa gerst.
„Festin“ í Festarfjalli.
Svæðið lýsir stórbrotinni jarðsögu storkubergs, setbergs og myndbreytts bergs, gefur setlögun fyrri jökulskeiða og forðum sjávarstöðu til kynna og kynnir til sögunnar bergganga, syllur og innskot, sprungufyllingar, frumsteindir og samsetningu þeirra. Sjórinn hefur brotið sér leið inn rúmlega miðja eldstöð með öllum þeim „dásemdum“ sem því fylgir. Jarðfræðin og jarðsagan á nútíma er óvíða bersögulli en undir Festisfjalli.
Kristján ásamt félögum sínum hefur staðsett og aldursgreind svo til öll hraun á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Hann þekkir jarðfræði skagans eins og handabökin á sér, enda kom frá honum í ferðinni hafssjór af fróðleik.
Eftir að hafa farið yfir Slokahraun, sem skv. mælingum Kristjáns er um 2300 ára gamalt (hann hafði drög að jarðfræðikorti af ofanverði Grindavík meðferðis) þar sem m.a. kom fram lega Vatnsheiðahraunsins og nýrra yfirspil Sundhnúkahraunsins, en hið nýjasta, Melhólshraunið, á hins vegar meginefni þess hrauns, sem bærinn stendur á eða við.
Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, í með drög að jarðfræðikortinu í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.
Örlög Melhólsins urðu lík og svo margra annarra fallegra gosgíga, að verða rótað upp og ekið undir vegi og hús.
Byrjað byrjað á því að fara niður á vestanverðan Hraunssandinn. Skoðuð voru berglög. Efst trjónar storkubergshraunlag, misþétt, en undir því er aska og gosmöl, þ.e. öfug gossagan. Undir hvorutveggja er móberg frá fyrra ísaldarskeiði. Forvitnilegt er að sjá ísaldarrákirnar á sléttyfirborðs jökul(set)berginu, móbergslagið þar ofan á og enn ofar það sem að framan greinir. Allt sést þetta mjög vel þarna á hraunstöllum þeim er hábáran hefur brotið niður og er smám saman að draga til sín. Víða má sjá bergganga upp í gegnum móbergið sem og sprungur, sem fyllst hafa með setlögum neðanfrá, en gosmöl og ösku ofan frá. Niðri á vestanverðum Hraunssandi er frábær aðstaða til að skoða hraun neðanfrá, þ.e. botninn á því þar sem það hefur runnið yfir og storknað á rakri gosmöl. Neðsta lagið ber þess glögg merki, en síðan þéttist bergið eftir því sem ofar dregur.
„Festin“ í Festarfjalli neðst.
Hafaldan hafði tekið Dúnknahelli. Hellirinn, sem áður var orðinn nokkuð stór innvortis og með fallegu loftgati, lá nú eins og hrávirði neðan undir berginu. Ægisaldan hafði sprengt hellinn svo að segja frá berginu og skilið hann eftir berrassaðan fyrir verði og vindum.
Þegar gengið var undir Festisfjalli mátti vel sjá „festina“, berggang er gengur upp í gegnum fjallið. Um er að ræða fóðuræð fyrir yngra berg, en Festisfjall er lagskipt og hefur því orðið til í fleiru en einu gosi. Undir eru bólstranir, þá móberg, bólstra- og brotaberg þar fyrir ofan og loks móbergshetta með jökulsorfnu yfirborði. Austan við vestursnösina, sem skilur af Hraunssand og Skálasand þar austar, er annars konar berglag, olivíninnihaldríkara og enn austar brotabergskenndara. Austast er svo enn eitt berglagið.
Festarfjall – jökulberg.
Jökulberg er undir neðsta bólstraberginu undir Festisfjalli, en annað slíkt lag tekur síðan við að nýju enn austar, undir Lambafelli. Um er að ræða jökulberg frá tveimur jökulskeiðum. Í þeim má vel sjá grannbergið, sem jökulsetið hefur hnoðað undir sig. Það er hnöttótt, en í nálægum móbergslögum má sjá köflóttara nærberg.
Í Rauðskinnu segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.“
FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Inn undir bergið eru fallegir smáskútar.
Þar sem ekki var vel fært fótum lítilmátturga manna fyrir sæiðandi ytri snösina var ákveðið að nýta tímann og ganga til baka um Hraunssand og koma inn á Skálasand úr austri, frá Lambastapa.
Strax þegar komið er niður í fjöruna vestan Lambastapa, inn í svonefndar Mávafláar, kom í ljós ódílótt bólstraberg, rauðleitt. Annars var losaralegt brotabergið ráðandi. Jökulbergið er skammt að handan, niðurundir bjargbrúninni. Stigi var notaður til að komast niður af austari jökulbergsstappanum og áfram til vesturs inn á Skálasand. Þar tók við stórkostlegt útsýni um bergið, bæði austanvert Festisfjall og vestanvert Lambafell.
Festarfjall – sjávarhellir.
Skútar eru víða og sjá má glögglega jökulbergið þar undir. Ofar trjóna skessumyndir, en ljósbrúnar steinmóbergsklessur niðurundir. Þótti við hæfi að nefna þær skessuskít.
Toppurinn á ferðinni var uppgötvun Kristjáns á fóðuræð Lyngfells. Hún liggur upp í gegnum bergið skammt austan markanna, um 170 cm, breið neðst og liggur áleiðis út í sjó. Þar fyrir utan eru há sker er mynda nokkurn veginn hring. Ekki er með öllu útilokað að þau kunni að geyma fornan eldgíg er fóðraði bæði Festisfjall og Lyngfell, eða a.m.k. annað hvort þeirra.
Skammt austar er berggangur, er virðist nokkuð sprunginn. Hann er yngri en bergið umhverfis og virðist hafa fóðrað eldstöðvar ofar í landinu. Við vettvangsskoðun eftir gönguna komu í ljós tvö móbergssvæði sunnan Mókletta er gætu hafa verið afurðir þessa berggangs.
Sjávarhellir í Festarfjalli.
Allt í ferðinni var hið fróðlegasta. Segja má að hún hafi verið svolítið innlegg í skráningu jarðsögu svæðisins.
Kristján var, sem fyrr sagði, hafsjór fróðleiks. Hann á nú nálægt fimm mánuðum til eftirlaunaaldurs, en virðist aldrei hafa verið frískari í viðleitni sinni og leit að nýjum uppgötvunum um myndun landsins.
Að lokinni göngu var þegið kaffi og meðlæti á Ísólfsskála þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti og uppgötvanir ferðarinnar.
Staðreyndin er sú að einungis örfáir núlifandi (og þótt lengra væri leitað) hafa farið þá leið, sem farin var að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.
Festarfjall og Hraunsvík.
Mannvirki í seljum
Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 420 slíkum. Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Venjulega var búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars, mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar.
Selshús – tilgáta – ÓSÁ.
Hús – megingerð
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara en víða annars staðar, s.s. í gróningum undir hlíðum.
Litla-Botnssel – uppdráttur ÓSÁ.
Eins og fram kemur um staðhætti á Reykjanesskaganum þá er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu?) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í eitt rými; eldhúsið. Það hefur að öllum líkindum staðið stakt. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í staka rýminu.
Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum inngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins. Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)). Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr. Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, um 120×240 sm (Knarrarnessel eða 240-320 sm (Brunnastaðasel), tvískipt og jafnan með þremur rýmum. Þó eru til sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.
Ekki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik. Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.
Þróun seljanna.
Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim ef vel er að gáð.
Réttir
Seljabót – rétt.
Rétt er ofan við Straumssel (Efri-Straumsselshellar), í Seljabót nálægt Herdísarvíkurseli og á Selsvöllum (Vogarétt), en annars eru réttir ekki fast við sel á Reykjanesskaganum. Þessar réttir gætu verið yngri en selin af ummerkjum að dæma því hleðslur standa yfirleitt enn nokkuð vel.
Vorréttir, fráfæru-réttir og rúningsréttir voru yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamra-veggnum í Stóra Hamra-dal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.
Fjárskjól
Fjárskjól eru um 280 á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sum þeirra eru nálægt seljum. Samkvæmt örnefnalýsingum eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunbæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum. Þar skammt frá er fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Bjargarhellir – fjárhellir í Selvogi.
Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í rásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar.
Fjárborg – fjárbyrgi
Fjárborgir (hlaðnar) eru um 90 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum. Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki heima við bæi á vetrum.
Nátthagi
Nátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta.
Við Óttarsstaðasel og Fornasel í Hraunum eru fallegir nátthagar.
Stekkur – kví
Stekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum.
Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar eru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Annað hvort hlaðnar kvíar eða stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni, jafnan staðsett í góðu skjóli.
Brunnur – vatnsstæði
Brunnar og vatnsstæði voru bráðnauðsynleg í seljum eða við þau. Vatnsból gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli. Í þurrkum eru dæmi um að yfirgefa þurfti sel áður en seltíma lauk. Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleika.
Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar. Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt spolkorn væri á milli þess og selsins.
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.
Gerði – garður
Eimusel (Eimuból).
Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, mörg seljanna í Vogaheiði,
Grindavíkurselin og Merkinessel yngra. Stekkir eru þar hlaðnir utan í hæð eða bergvegg auk þess sem auðvelt hefur verið að leiða eða reka fé að þeim.
Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim. Þannig eru hvorutveggja oft undir hlíðum, gjám eða misgengjum, s.s. Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II.
Selstígur – selsgata
Selstígurinn lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir mörgum þessara stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli.
Selsgatan hefur verið mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km).
Selsstígurinn að Selsvöllum.
Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá vörður og/eða vörðubrot.
Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Strandarheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra. Gegnumgangur hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar gætu hins vegar hafa viljað nýta sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.
Smalabyrgi
Efri-Straumsselshellar – smalaskjól.
Hlaðin smalabyrgi eru í nágrenni við örfá sel eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, við Flekkuvíkursel og neðan við Stakkavíkurselið yngra.
Selsvarða
Selsvarða stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi að því. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu.
Margar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar grónar. – ÓSÁ
Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.