Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um „Bessastaði og Bessastaðakirkju“ fyrrum. Hér á eftir verður drepið á fáeitt áhugavert.
Á vefsíðu forseta Íslands segir um sögu Bessastaða:
„Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.

Bessastaðir.
Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.

Bessastaðir 1720.
Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl.

Grímur Thomsen (1820-1896).
Árið 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.“

Bessastaðir.
Í grein í Morgunblaðinu í febrúar árið 2001 segir um Bessastaði á Álftanesi og Bessastaðakirkju:
„Kirkjan, sagan og þjóðin hafa verið rauði þráðurinn í hugvekjunum síðustu misserin. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þann söguríka stað, Bessastaði á Álftanesi.
Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ ekki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppur taumi,
– hvað hjálpar, nema Herrans náð?
„Og því er hver einn bezt til ferða búinn,
ef bilar hann ei vonin eða trúin“. – (Grímur Thomsen.)
Sérhver sæmilega lesinn Íslendingur veit að Ingólfur Arnarson festi fyrstur norrænna manna bú hér á landi.

Bessastaðir 1720.
Fjölmargir en færri þó vita að bróðursonur hans, Ásbjörn Özurarson, „nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum“, eins og segir í Landnámu. Enginn veit með vissu hvar Skúlastaðir vóru. Getgátur nefna m.a. Bessastaði og Garða, höfuðbýli á svæðinu um aldir. Rannsóknir á mannvistarleifum á Bessastöðum benda sterklega til þess að þar hafi bú verið þegar á landnámsöld (870-930). Ummerki um rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru frá 9. öld (Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga – 1996).

Bessastaður 1722.
Bessastaðir tengjast Íslandssögu flestum stöðum sterkar. Hærra rísa Þingvellir, Skálholt, Hólar og Reykjavík. Staðurinn komst í eigu eins virtasta höfðingja Sturlungaaldar, sagnameistarans í Reykholti, Snorra Sturlusonar. Þar dvaldi hann un lengri og skemmri tíma, sbr. Sturlungu. Þar var jafnan annálað höfðingjasetur. Til Bessastaða rekja ýmsir örlagatburðir í sögu þjóðarinnar rætur, illir sem góðir. Þar sátu „kóngsins valdsmenn“ um margra alda skeið. Þar sátu þeir þegar sjálfstæðis- og trúarhetjan Jón biskup Arason og synir hans tveir vóru hálshöggnir. Þangað var böðull þeirra, Jón Ólafsson, sóttur. Þar var latínuskóli (prestaskóli) 1805-1846.

Grímur Thomsen.
Þar fæddist skáldjöfurinn Grímur Thomsen árið 1820. Þar bjó hann myndarbúi eftir nám og farsælan embættisferil í Kaupmannahöfn og sinnti skáldskap og stjórnmálum. Og þar lézt hann árið 1896. Bessastaðir eru nú íslenzkt þjóðhöfðingasetur, bústaður forseta íslenzka lýðveldisins, verndara kirkjunnar.
Höfuðbýlin, Bessastaðir og Garðar, settu um aldir svip á nágrenni sitt. Í bókinni „Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða“ (samantekt í ritstjórn Erlu Jónsdóttur 1992) segir m.a.: „Á síð-miðöldum var nærvera kirkju og krúnu ekki jafn yfirþyrmandi í neinni þingsókn sýslunnar eins og í Hausastaðaþingsókn. Bæði var að hvergi vóru menn í eins mikilli nálægð við valdsmenn konungs og á Bessastöðum og óvíða bar jafn mikið á jarðasöfnun kirkju og krúnu og þar.“ Samkvæmt jarðamati 1695 átti krúnan tilkall til 26 jarða (af 38 lögbýlum í hreppnum) og 10 jarðir vóru kirkjujarðir. „Aðeins ein jörð, Setberg, var í einkaeigu, auk þess sem jarðarpartur úr Ási ofan við Hafnarfjörð var í einkaeign. Setberg hefur reyndar ein jarða í Áltaneshreppi þá sérstöðu að hafa aldrei komið undir kóng eða klerk,“ segir í tilvitnaðri bók um Garðabæ. Sá munur var á kirkju- og konungsjörðum að þær fyrrnefndu heyrðu undir innlenda menn.

Bessastaðir – kort 1770.
Bessastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups árið 1200. Þar er og getið Garðakirkju, sem talin var veglegri. Sú síðarnefnda heyrði kirkjuvaldinu. Hin var fyrst bændakirkja en „síðan kirkja höfuðvígis konungsvaldsins um margra alda skeið“, segir í Álftaness sögu. Bessastaðakirkja sem enn stendur var reist árin 1794-1796, en hefur oft verið betrumbætt síðan. Hún setur ríkulegan svip á íslenzka forsetasetrið: Tákn um tengsl kirkju og þjóðar í þúsund ár.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.
Eitt áttu allar kynslóðir og byggðir Íslands sammerkt: kirkju í miðri sveit, sem var miðstöð mannfunda, menningar og trúar sóknarbarnanna. Kirkjan og þjóðin, kirkjan og kynslóðirnar, kirkjan og einstaklingar hafa átt samleið í þúsund ár – frá vöggu til grafar sérhvers Íslendings. Þessi tryggðabönd kirkju og þjóðar, kirkju og einstaklinga, þarf að treysta og tryggja til langrar framtíðar. Kirkjan er kjölfestan í þjóðarskútunni. Kristinn boðskapur áttavitinn.“
Í Morgunblaðinu í október 2005 segir um Bessastaði á Álftanesi:
„Margir þættir þjóðarsögunnar renna saman á Bessastöðum á Álftanesi, þar sem nú er embættisbústaður forseta Íslands. Sveinn Guðjónsson rifjar upp sögu staðarins, sem nær allt frá landnámsöld til okkar daga.

Bessastaðakirkja – altaristafla.
Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísi
ndamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.

Bessastaðakirkja 2023.
Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.
Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.

Bessastaðir – fornleifarannsóknir.
Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.

Bessastaðasel í Lækjarbotnum.
Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst.
Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar.

Snorri Sturluson.
Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.
Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.
Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.

Henrik Bjelke.
Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.

Bessastaðir.
Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.
Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.
Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.

Bessastaðir.
Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera „kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar“. Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.
Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.

Kristján konungur söundi.
Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.
Bessastaðastofa

Bessastaðir – tákn valdsins.
Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum.

Bessastaðir 1789.
Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 – 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.
Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.“
Í áhugaverðu riti Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði – Sögubrot – frá árinu 2021 og finna má á Netinu má m.a. lesa eftirfarandi:
Formáli höfundar

Júlíus Ó. Einarsson.
„Hér er ekki sögð saga Bessastaða því til þess er ritið of lítið en sagan stór, enda orðaði Árni Óla rithöfundur það þannig að saga Bessastaða væri saga þjóðarinnar í stórum dráttum.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir af ýmsum þáttum úr sögu Bessastaða, því auðvitað er ekki pláss fyrir mjög ítarlega umfjöllun um hina ótal ólíku atburði sem marka meira en þúsund ára ábúð. Mér tekst þó vonandi að gefa nokkuðskýra mynd af staðnum og vægi hans í sögu þjóðarinnar. Ég hvet lesandann um leið til þess að leita sér meiri fróðleiks um allt það sem kann sérstaklega að vekja áhuga hans á komandi blaðsíðum. Sums staðar vísa tenglar á vefsíður með efni sem bætir drjúgmiklu við fróðleikinn sem hér er að finna. Þá er líka heimildaskrá þar sem má finna megnið af þeim heimildum sem stuðst er við. Bókasöfn landsins geyma flestar heimildirnar og í þeim ritum eru áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar frásagnir sem bæta heilmiklu við þá mynd sem hér er dregin upp. Í fyrsta kaflanum er tæpt lauslega á sögu Bessastaða til þess að lesandinn fái heildaryfirsýn en síðari kaflar segja frá ýmsu markverðu ásamt því sem fléttað er inn ýmsu forvitnilegu úr þjóðsögum. Byggt er að mestu á rituðum heimildum en líka stuðst við áður óbirt efni úr fórum mínum. Fyrir utan fróðleiks- og skemmtigildi þessa rits, er það ætlunin að upplýsingar um örnefni, sögustaði, rústir, fuglalíf og almennt náttúrufar glæði göngutúrinn lífi fyrir þá sem kjósa að fara á tveimur jafnfljótum um Bessastaðanes og opni þeim sýn á það sem annars kann að vera hulið á þessum sögulega stað.

Rit Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði á Álftanesi – Sögubrot.
Lítil áhersla er hér á Bessastaði sem aðsetur forseta Íslands en fyrir utan það sem fram kemur í fjölmörgum skrifuðum heimildum um forseta og Bessastaði, er fróðleik um efnið að finna á vefsíðu forsetaembættisins. Ég starfaði á Bessastöðum um tæplega fimm ára skeið frá ársbyrjun 2010 til hausts 2014 og hafði búsetu á staðnum á þeim tíma. Ekki varð komist hjá því að saga Bessastaða ásamt húsum og minjum vektu áhuga minn. Meðal verkefna minna á Bessastöðum var að taka á móti gestum forseta, sýna staðarhúsin og munina, og segja frá. Meðfram þeirri reynslu safnaðist mest af þeim fróðleik sem birtist hér lesandanum. Ég fékk snemma þá hugmynd að opna Bessastaði fyrir almenningi en áður höfðu aðeins gestir forseta og takmarkaðir hópar átt kost á innliti. Þáverandi forseti tók afar vel í hugmyndina og mér var falið að skipuleggja, undirbúa og hafa heildarumsjón með framkvæmdinni. Í kjölfarið var Bessastaðastofa opnuð almenningi 10. febrúar 2012 í tengslum við Safnanótt. Síðan hefur verið kappkostað að gefa almenningi færi á að heimsækja staðinn og fræðast um hann um leið og gengið er um staðarhúsin og nánasta umhverfi.
Bessastaðir eru réttnefnd þjóðareign. Í mínum huga er saga Bessastaða jafn mikil þjóðareign og staðurinn sjálfur, sem er ástæða þess að rafrænni útgáfu bókarinnar er dreift án endurgjalds. Vonandi verður hún til gamans og gleði öllum þeim sem vilja kynna sér efnið eða heimsækja Bessastaði með gönguferð eða innliti.
Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.
Víst þykir að kirkja hafi staðið á Bessastöðum allt frá 12. öld og jafnvel fyrr. Ekki er víst að þar hafi nokkru sinni setið prestur en lengst af var kirkjunni þjónað frá Görðum á Álftanesi. Líkt og reyndin var með önnur hús á Bessastöðum um margra alda skeið, var lengi vel illa staðið að kirkjubyggingum staðarins og kirkjum illa haldið við.

Bessastaðir 1720.
Jafnvel var það stundum svo líka að kirkjan var höfð til annarra og jarðbundnari nota en helgihalds en meðal annars lýsir Sauðlauksdalsannáll því árið 1751 að prestshjónin á Bessastöðum „brúkuðu Bessastaðakirkju fyrir hesthús og svínabæli, glerglugga til kálgarðs, en fjalir til eldiviðar“.
Framan af voru kirkjur á Bessastöðum reistar úr timbri og jafnvel aðeins af torfi og grjóti.

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.
Ástand kirkjubygginga var aldrei beysið og hver kirkjan reist á eftir annarri. Timbur var flutt til Bessastaða til byggingar kirkju árið 1617 en árið áður hafði konungur tilkynnt á Alþingi að lagt yrði gjald á allar kirkjur landsins sem renna skyldi til smíðinnar. Kirkjan sem byggð var þótti stór og til þess tekið í annálum hve háreist hún var en þess jafnframt getið að enga hefði hún bita „hvað byljavindur íslenzkur vel sá“, eins og segir í Vatnsfjarðarannál yngri og fer merking þeirra orða ekki milli mála. Enda hrundi Bessastaðakirkja til grunna í stormi árið 1619. Önnur var svo byggð upp úr viðum hinnar föllnu árið eftir og hafði sú torfveggi og torfþak. Sú kirkja laskaðist svo eða hrundi árið 1624 þó að annálar nefni ekki hvort það var af völdum veðurs eða þess að byggingin var of veikburða og reis ekki undir sér sjálf.
Byrjað var að reisa steinkirkjuna sem nú stendur árið 1777. Byggingartíminn var afar langur, enda varð margt til að tefja smíðina og kirkjan var loks vígð árið 1795.
Kirkjuturninn stóð um hríð lægra en sjálfir kirkjuveggirnir og var ekki lokið við smíði hans fyrr en árið 1823. Einhver áhöld voru um það lengi vel hvort turninn skyldi byggður til stjörnuskoðunar eða til að þjóna sem hefðbundinn kirkjuturn. Hið síðara varð niðurstaðan og efri hluti turnsins byggður í þá mynd sem hann er í dag en vanefnin eru augljós ef hann er skoðaður innanvert.
Mörgum þykir Bessastaðakirkja einkar fögur bygging og að hún samsvari sér vel, enda eru hlutföll hennar þannig að breidd og lengd byggingarinnar ásamt breidd og hæð kirkjuturnsins eru allt nokkurn veginn í hlutföllunum 1:2. Byggingin er teiknuð í svokölluðum ferskeytum, sem voru ríkjandi í hönnun dómkirkja á miðöldum og voru í hávegum í guðfræði þeirra tíma. Ekki er vitað fyrir víst hver teiknaði Bessastaðakirkju en víst er að hann var undir sterkum áhrifum þessarar hefðar.

Bessastaðir.
Kirkjan var byggð utan um timburkirkjuna sem síðast stóð og var orðin afar hrörleg. Aðföng til byggingarinnar sem ekki voru fáanleg hérlendis, svo sem viður og kalk, var flutt sjóleiðina frá Kaupmannahöfn og skipað á land á bakka Bessastaðatjarnar. Grjót það sem notað var í undirstöður og veggi kirkjunnar var annarsvegar hraunsteinar úr Gálgahrauni og grágrýti úr Garðaholti, sem flutt var á pramma yfir Lambhúsatjörn.

Bessastaðakirkja 1955.
Um það leyti sem smíði turnsins var að ljúka, var kirkjan þegar farin að gjalda fyrir viðhaldsleysi og Árni Helgason prófastur í Görðum sagði um hana árið 1843 af því tilefni að hún væri sú vesælasta í hans prófastsdæmi. Áfram hrörnaði byggingin, hún fór að leka og jafnvel hrundi loftið í kórnum að hluta eftir að staðurinn var kominn í eigu Gríms Thomsen. Raunar segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl að Grímur hafi notað kirkjuna meðal annars til þess að þurrka þvott. Það var ekki fyrr en eftir að Skúli Thoroddsen eignaðist Bessastaði, að ráðist var í nauðsynlegt og löngu tímabært viðhald á staðarhúsunum.

Bessastaðakirkja 1930.
Ýmsar breytingar voru gerðar í gegnum tíðina á innréttingum Bessastaðakirkju en líka á ytra útliti. Náðu þær meðal annars til þakkvista, glugga og jafnvel var grafhýsi byggt utan í norðurvegg kirkjunnar á árunum 1784-1786, og það síðar rifið. Enn sést móta fyrir dyraopinu sem var milli kirkju og grafhýsis í steinhleðslunni utan á norðurveggnum. Þá voru líka lengi vel útidyr á syðri langvegg kirkjunnar. Ef til vill má segja að róttækustu breytingarnar á kirkjunni frá upphafi, séu útskipti á öllum innviðum hennar og gólfi, sem fram fóru á árunum 1946-48. Þessar breytingar voru afar umdeildar á sinni tíð og eru jafnvel enn. Í bókinni „Steinhúsin gömlu á Íslandi“ er talað um framkvæmdina
sem „býsna harkalegar viðgerðir og breytingar“. Illa mun hafa verið gengið um gömlu innviðina sem voru rifnir innan úr kirkjunni og þeir látnir liggja úti í öllum veðrum þar til ungur fornleifafræðingur fór að boði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar til þess að líta eftir þeim. Hann kom því til bjargar sem bjargað varð og margt var flutt til geymslu hjá Þjóðminjasafninu. Þessi fornleifafræðingur var Kristján Eldjárn, sem sjálfur varð síðar forseti lýðveldisins og sat sem slíkur á Bessastöðum árin 1968-1980.

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.
Mörgum sérfræðingnum um byggingarlist og byggingasögu þykir að steindir gluggar kirkjunnar séu gróft lýti í samhengi byggingarinnar þó að þeir séu að sönnu afskaplega fallegir gripir í sjálfu sér. Sagt hefur verið jákvætt um gluggana að þeir hylji það þó hvernig kirkjan var leikin að innan við endurbæturnar á fimmta áratugnum.

Ásgeir Ásgeirsson.
Steindu gluggarnir komu þannig til að Ásgeir Ásgeirsson valdi sér þá sjálfur sem sextugsafmælisgjöf frá ríkisstjórn Íslands. Listamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Finnur Jónsson teiknuðu gluggana í samráði við forsetann og þeir smíðaðir í Englandi. Í dag er upphækkun í gólfi einu skilin milli kórs og kirkju. Fremst er lítill söngpallur og orgel, kirkjubekkir og predikunarstóll eru einfaldir að gerð og nokkuð hefðbundnir, teiknaðir af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Predikunarstóllinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Innst í kirkjunni á austurvegg hanga minningarskildir um látna forseta og að auki eru tveir stórir legsteinar múraðir upp á sitthvorn langvegginn, þeirra Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Páls Stígssonar hirðstjóra.

Bessastaðakirkja – altaristafla.
Altaristafla kirkjunnar er máluð af Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni). Hún er eign Listasafns Íslands en er lánuð kirkjunni. Sé grannt skoðað, má telja víst að Muggur hafi aldrei lokið fyllilega við verkið.

Bessastaðakirkja 2023 – vindhani.
Ýmsir áhugamenn um Bessastaði eru áfram um að færa kirkjuna að einhverju leyti til eldra horfs. Tæplega er raunhæft að ætla að færa innviði til upprunalegs orfs og því síður að notast við eldri viði og búnað sem hefur varðveist að einhverju leyti. Nokkrar útfærslur á endurgerð koma til greina, sem allar væru fallnar til þess að sýna kirkju- og staðarsögunni sóma. Ekki er víst að af slíkum hugmyndum verði og þeir sem eru því mótdrægir leiða rök að því að hvert tímabil í notkunarsögu kirkjunnar sé jafn rétthátt öðru og allar breytingar í þessa veru myndu draga úr notagildi kirkjunnar til daglegra athafna.“
Síðasti valdsmaðurinn

Skjaldarmerki Trampe greifa á turni Bessastaðakirkju.
Deilt hefur verið um skjaldarmerkið efst framan á Bessastaðakirkju. í Riti Júlíusar segir: „Trampe greifi, sem hafði verið dómari á Lálandi, var skipaður amtmaður á Íslandi 1804, eftir að Ludvig Erichsen kammerráð lést fyrr á því sama ári. Trampe vék sjálfviljugur af Bessastöðum og settist að í Reykjavík til þess að latínuskólinn gæti komið sér þar fyrir og hafið skólastarf.

Karl Sigurbjörnsson.
Ofan við efri gluggann á framhlið turns Bessastaðakirkju er innfelldur skjöldur úr sandsteini. „Skjaldarmerki ættar Trampe greifa er mótað í skjöldinn en hann var stiftamtmaður þegar smíði turnsins var lokið árið 1823.“
Fékk hins vegar eftirfarandi svar frá Karli Sigurbjörnssyni, fyrrverandi biskupi Íslands: „Blessaður og sæll. Þú varst að spyrja um skjaldarmerkið á Bessastöðum, það mun vera merki Moltkes greifa sem var stiftamtmaður hér þegar turnsmíðinni var lokið, 1823. Bestu kveðjur. – Karl Sigurbjörnsson“
Sjá framhaldið um skjaldarmerkið HÉR.
Rit Júlíusar um „Sögubrot Bessastaða“ má finna HÉR.
Heimild:
-https://www.forseti.is/sagan/bessasta%C3%B0ir/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1042945/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/587259/
-https://juliuseinarsson.files.wordpress.com/2021/01/bessastadir-sogubrot-3.pdf

Bessastaðakirkja 2000.
Ás – letursteinn
Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.
Ás – letursteinn.
FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.
Ás – letursteinn.
Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.
Svar barst loks frá Tryggva: „Kann að meta þetta. Haukur var þarna, en hann virðist ekki muna eftir letursteininum þeim arna. Skondið. Á steininum virðist þó eitthvert táknrænt hafa verið“…
Ás – letursteinn.
Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.
Ás – brúarsmíði.
Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: „Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.“
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.
Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.
Ás – letursteinn.
Reykjanesskaginn, rekaskilin og áhugaverðir staðir
Í ritgerð Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur í Jarðvísindadeild HÍ er m.a. fjallað um Yngra-Stampagosið og fleira um jarðfræði Reykjanesskagans, s.s. rekaskilin o.fl. Ægir Sigurðsson bætir um betur og spyr í grein sínni í Faxa árið 2006: „Er eitthvað áhugavert að sjá á Reykjanesskaganum?
Jarðfræði Íslands
Jarðfræðikort af Íslandi – ÍSOR. Sjá HÉR.
„Jarðfræði Íslands endurspeglast í staðsetningu þess í Norður Atlantsshafi milli Grænlands og Noregs á Mið-Atlantshafshrygg og á Grænlands-Færeyja þverhryggnum (Thordarson og Larsen, 2007, Thordarson og Höskuldsson, 2008). Landið er jarðfræðilega mjög ungt og talið hafa byrjað að myndast fyrir um 24 milljónum ára en elsta aldursgreinda berg á landinu er 14-16 milljón ára gamalt.
Möttulstrókur.
Á Íslandi rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ vegna þess að Ísland er heitur reitur. Heitur reitur er svæði þar sem eldvirkni er meiri þar en á aðliggjandi svæðum. Ástæðan fyrir heita reitnum á Íslandi er sú að Mið-Atlandshafshryggurinn liggur yfir möttulstrók, sem er eðlisléttari en möttulinn umhverfis og rís því í átt að yfirborði. Talið er að möttulstrókurinn undir Íslandi hafi verið virkur að minnsta kosti síðustu 65 milljón árin. Möttulstrókar eru almennt taldir vera tiltölulega kyrrstæð fyrirbæri og flekaskilin á Íslandi leitast við að vera fyrir ofan hann. Rekbeltastökk hefur orðið í jarðsögunni en það er þegar flekaskilin hliðrast til að fylgja möttulstróknum (Ingi Þ. Bjarnason, 2008).
Eldvirkni á Íslandi tengist gliðnun á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Eldvirkni á suðurhluta landsins er aðallega takmörkuð við tvö gosbelti, Eystragosbeltið og Vestra gosbeltið en á norðurhluta landsins er eldvirkni á Norðurgosbeltinu sem nær frá Vatnajökli til Öxarfjarðar en þar hliðrast það til vesturs á Tjörnesbrotabeltið (Jakobsson et. al., 1978).
Flekaskil.
Það eru tvö innanfleka gosbelti á Íslandi en það eru Öræfajökuls og Snæfellsnesgosbeltið. Snæfellsnesgosbeltið er leifar gömlu flekaskilanna og talið er að Öræfagosbeltið kunni að vera byrjun á nýjum skilum (Sæmundsson, 1979, Thordarson og Höskuldsson, 2002). Eldvirkni á Íslandi spannar svið frá neðansjávargosum til eldgosa undir jökli og eldgosum á þurru landi. Samsetning er frá basalti upp í rýólít (Jakobsson et. al., 1978).
Jarðfræði Reykjaness
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – ÍSOR. Sjá HÉR.
Reykjanesskagi er eldvirkt áframhald Reykjaneshryggjar á landi sem myndar hluta Atlantshafshryggs. Þar liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekannn og öll eldvirkni þar er tengd gliðnunarhrinum en gliðnun flekaskilanna er talin vera um 2 cm á ári.
Reykjanes – jarðfræðikort.
Reykjanes er vestasti hluti Reykjanesskaga og er um 5 km langur og dregur nafn sitt af háhitasvæði sem er þar. Reykjanesskagi liggur innan Reykjanes-gosbeltisins sem liggur vestur af Vesturgosbeltinu og skaginn er þakinn hraunum sem runnið hafa á núverandi hlýskeiði, sem upp úr standa en móbergshryggir og stapar sem hafa myndast á meðan jökull lá yfir landinu eða sjávarborð hefur verið hærra.
Reykjanesskagi – sprungureinar.
Innan Reykjanesskaga eru þrjú til fjögur eldstöðvarkerfi, Reykjanes-Svartsengi (stundum talin sem sitt hvort kerfið), Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. Þessi eldstöðvarkerfi eða sprungusveimar hafa stefnuna suðvestur til norðaustur (Jakobsson et. al., 1978, Thordarson og Höskuldsson, 2008, Páll Einarsson, 2008).
Eldstöðvakerfin sitja öll vestur af hvert öðru á skaganum (Mynd 3). Gosefnin úr þessum kerfum eru aðallega basísk og samanstanda af pikríti, ólivín-þóleiíti og þóleiíti. Þóleiít eru einkennandi fyrir sprungugos en pikrítin og ólivín-þóleiítin koma yfirleitt frá dyngjum (Peate et. al., 2008).
Reykjanesskagi vestast – jarðfræðikort.
Það eldstöðvarkerfi sem liggur vestast á Reykjanesskaga er Reykjaneseldstöðvarkerfið sem liggur frá suðvestri til norðausturs á Reykjanesi.
Reykjaneseldstöðvarkerfið er um 25 km langt og 10 km breitt og syðstu 9 km eru neðansjávar (Jakobsson et. al., 1978). Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum og hafa orðið sprungugos á þeim að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma.
Reykjanes er eldbrunnið og að mestu gróðurlaust og þakið úfnum hraunum. Eldvirkni hefur verið mikil á Reykjanesskaga á sögulegum tíma. Þar má nefna að á fyrri hluta 13. aldar voru eldgos tíð og er tímabilið frá 1211-1240 e. Kr. nefnt Reykjaneseldar.
Mosahraun á Reykjanesskaga.
Bæði urðu eldgos á landi og í sjó og finna má fjögur gjóskulög á Reykjanesskaga sem tengjast Reykjaneseldum, þ.e. gjóskulögin R-7 – R-10. Eldgos á gossprungum kerfisins hafa náð í sjó fram með tilheyrandi sprengivirkni við ströndina en að auki hefur runnið hraun á landi (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Athuganir hafa sýnt að það hafa verið að minnsta kosti 10 eldgos í sjó undan Reykjanesi síðan ísaldarjökullinn hörfaði (Sigurður Þórarinsson, 1965). Hraun sem runnið hafa á Reykjanesi eru úr basalti. Þóleiít hefur runnið frá gossprungum en ólivínþóleiít eða pikrít úr dyngjum (Jakobsson et. al., 1978).
Fyrri rannsóknir á Reykjanesi
Yngra-Stampahraunið.
Magnús Á. Sigurgeirsson (1995) lýsir vel áætluðum framgangi gossins sem myndaði gígrimana tvo í ströndinni við Kerlingarbás og skal hér gera stutta grein fyrir því.
Stampar.
Yngsta hraun Reykjaness, Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldum og er talið hafa markað upphaf þeirra. Ekki er hægt að staðfesta nákvæmt gosár en út frá rituðum heimildum og gjóskulagatímatali má leiða líkur að því að það hafi verið árið 1211. Gossprungan er talin hafa náð í sjó fram og myndað þar tvo gjóskugíga en hraun runnið á landi. Þetta gos er kallað Yngra-Stampagosið. Þar sem gossprungan lá á landi mynduðust margir gígar en tveir þeirra, sem kallast Stampar, eru stærstir og er gígaröðin kennd við þá.
Stampar liggja nyrst á gígaröðinni en hún liggur svo í suðvestur í átt að sjó og er 4 km löng. Þau eldvörp sem finna má á gígaröðinni eru byggð úr hraunslettum eða kleprum. Má því áætla að hawaiísk gosvirkni hafi verið ráðandi með tilskyldri kvikustrókavirkni og hraunframleiðslu. Hraunið þekur um 4 km2 lands og flokkast sem klumpa- og helluhraun.
Við endamörk gígaraðarinnar við ströndina er grunn vík sem kallast Kerlingarbás.
Karlinn – utar.
Út af Kerlingarbás í sjónum er drangurinn Karl, sem er 51 m hár og úr móbergi. Hluta þeirra gjóskugíga sem mynduðust í Yngra-Stampagosinu má sjá í ströndinni við Kerlingarbás. Sjórinn hefur rofið talsverðan hluta þeirra en að sama skapi útbúið góðar jarðlagaopnur þar sem skoða má innviði gíganna (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Undir Yngra-Stampahrauninu má finna dökkmóbrúnt gjóskulag sem er nefnt R-7.
Reykjanesviti á Vatnsfelli og Valahnúkar fjær.
Vatnsfell, sem er við ströndina við Kerlingarbás, er að verulegum hluta úr þessari gjósku en þar er þykktin orðin allt að 20 m. Því má áætla að upptök þessa gjóskulags (R-7) séu við ströndina og í Vatnsfelli sé varðveittur gígriminn. Athuganir benda til þess að Yngra-Stampahraunið og gjóskulagið R-7 hafi myndast á svipuðum tíma á gossprungu sem náði frá landi og út í sjó. Kannanir á gígleifunum benda til þess að þar séu tveir aðskildir gjóskugígar og sá yngri hefur kaffært þann eldri. Gígarnir eru ólíkir að byggingu og því auðvelt að greina þá í sundur. Sá eldri er nefndur Vatnsfellsgígur og er talinn hafa átt upptök í fjöruborðinu við Vatnsfell og verið 650 m í þvermál.
Gígur vestast á Stampagígaröðinni.
Sá yngri er nefndur Karlsgígur eftir dranginum Karli og er talið að hann hafi átt upptök um 500 m frá landi og verið stærri að þvermáli eða um 1600 m. Drangurinn Karl er talinn vera hluti yngri gígsins og markar gígskálina. Talið er að Yngra-Stampahraunið hafi svo runnið að jaðri Karlsgígsins á meðan hann var heill og markar nú útlínur hans. Bæði Vatnsfellsgígur og Karlsgígur teljast til hverfjalla (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Walker og Croasdale (1972) notuðu sýni úr Vatnsfells- og Karlsgígnum til þess að skilgreina surtseyska gjósku. Gosið er talið hafa byrjað með sprengigosi út fyrir ströndinni og þar hleðst upp Vatnsfellsgígurinn (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
Berggangur í Kerlingarbás.
Vatnsfellsgígurinn er að hluta til þakinn leifum Karlsgígsins og hefur öðruvísi uppbyggingu. Gígbarminum má skipta í neðri og efri gjóskulagasyrpu. Neðri syrpan er fín aska, mjög þunnlagskipt með gárum. Efri syrpan er úr vikri og bergbrotum sem verður grófari eftir því sem ofar dregur. Efsti hlutinn er nánast eingöngu úr vikri. Eftir upphleðslu Vatnsfellsgígsins gerir síðan stutt goshlé, ekki lengra en nokkrir mánuðir og þá tekur aftur að gjósa undan ströndu en lengra frá landi. Þar hleðst upp Karlsgígurinn og gjóskan frá honum (R-7) berst svo um Reykjanesið en mest út á sjó. Karlsgígurinn er hverfjall sem er uppbyggður úr gusthlaupa- og gjóskufallslögum sem skiptast á.
Algengt er að finna öskubaunir og þétt blöðrótt lög í gígbarminum, sem gefur til kynna að gjóskan hefur verið mettuð gufu þegar hún settist til. Bygging gígsins einkennist í fyrsta lagi af þunnum til þykkum (3-30 cm) lögum af einsleitum gjóskulögum og í öðru lagi af mjög þunnum til þunnum (1-3 cm) lagþynnóttum til lagskiptum lögum. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Í framhaldi af þessum gjóskugosum við ströndina hefst svo hraungosið á landi. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).“
Í Faxa 2006 spyr Ægir Sigurðsson; „Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum„?
Í Illahrauni við Bláa lónið.
„Þessi landslags og mannlífslýsing meistara Þórbergs á einu af innnesjunum á einnig við útnesin í hugum þorra landsmanna og mörgum sem á skaganum búa finnst lítt til um náttúru hans.
Skálafell á Reykjanesi.
Hér rísa vissulega ekki há fjöll þverbrött úr Ægisfaðmi, hér finnast ekki djúpir dalir og ekki liðast hér ár, bakkafullar af laxfiski, um grænar grundir. En skaginn okkar býr yfir öðrum töfrum sem allt of margir hafa látið fram hjá sér fara en eru þó að verða fleirum og fleirum ljósari.
Í þessum greinarstúfi ætla ég að benda á örfáar perlur sem hægt er að nálgast án mikillar fyrirhafnar í þeirri von að einhverjir Suðurnesjamenn geri sér grein fyrir að innan seilingar eigi þeir náttúru sem er einstök í sinni röð. Um seinni línuna í tilvitnuninni ræði ég ekki að sinni.
Í Katlahrauni.
En hvað er það sem gerir Reykjanesið svona sérstætt? Hví hafa jafnt erlendir sem innlendir náttúrufræðingar skrifað aragrúa lærðra greina um náttúru þessa útskaga? Jú hér hagar svo til að rannsaka má úthafshrygg á þurru landi sem óneitanlega er miklu þægilegra en á nokkur hundruð eða þúsund faðma dýpi. Þar hlaðast upp há fjöll svo sem Himalajafjöllin, þar verða jarðskjálftar mun harðari og mannskæðari og gos eldfjallanna ofsafengnari.
Kolbeinsey.
En þar sem við erum á plötuskilum læt ég þetta duga um mótin. Eftir úthöfunum endilöngum liggja 2000-4000 m háir fjallgarðar sem alls eru um 70.000 km að lengd. Víða hafa hryggirnir hliðrast þvert á lengdarás sinn um tugi eða hundruð kílómetra um svo nefnd brotabelti.
Tvenn brotabelti eru á eða við landið. Annað tengir saman gosbeltin á Reykjanesi og á Suðurlandi og þar eiga m.a. hinir illræmdu Suðurlandsskjálftar upptök sín. Hitt er fyrir Norðurlandi og tengir saman eystra gosbeltið í Axarfirði og Kolbeinseyjarhrygginn. Á því urðu fyrir skömmu allsnarpar hræringar.
Hryggirnir, svo og hafsbotninn eru úr eðlisþyngri efnum en meginlöndin og standa því lægra en þau og eru því undir sjó. Undir hryggjunum kemur heitt möttulefnið upp og þeir standa því mun hærra en botninn umhverfis sem er úr kaldara efni. Yfir möttulstrókunum miðjum þar sem landris er mest bæði vegna hitaáhrifanna svo og mikillar efnisframleiðslu getur hafsbotninn risið úr sæ. Ísland er dæmi um slíkt.
Reykjaneshryggur
Reykjaneshryggur.
Reykjaneshryggur er hluti af Atlantshafshryggnum sem liðast eftir hafinu endilöngu og skilur m.a. að Norður Ameríku- og Evrasíuflekana. Reykjanesskaginn tekur síðan við af hryggjunum og markar þannig upphaf gosbeltisins sem nær þvert yfir landið. Reykjanesskaginn er því að klofna.
Þingvellir – misgengi.
Vestari hluti hans færist til norðvesturs að meðaltali um 1 cm/ári en eystri hluti hans til suðausturs með sama hraða. Jarðeldurinn fyllir síðan jafnóðum í rifuna á milli. Þessar hreyfingar verða í rykkjum og fylgja þeim eldgos líkt og í Kröflueldum þar sem land gliðnaði um 78 m á nokkrum árum.
Eldvirknin innan gosbeltanna er ekki samfelld heldur raða eldvörpin sér á afmörkuð svæði, gosreinar. Í miðju hverrar reinar er eldvirknin mest og þar myndast megineldstöðvar sem oft rísa nokkur hundruð metra yfir umhverfi sitt. Þar er að fi nna mun meiri breytileika í bergtegundum og gosmyndunum en utan þeirra og háhitasvæði tengist þeim fl estum. Á Reykjanesskaganum hafa megineldstöðvar ekki náð að myndast enn nema í Hengilsreininni sem er elst. Reinarnar eru mismunandi að lengd, 20-50 km, og breiddin frá 5 og upp í 7 km og stefna þær NA SV. Misgengin í hverri rein mynda grunna sigdali og gígarnir fylgja flestir miðju hverrar reinar. Einstaka hrauntaumar hafa þó runnið langt út fyrir sína heima rein.
Skjól í Snókalöndum.
Fjölbreytileiki eldstöðva er mikill og á fáum stöðum er hægt að skoða allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva á jafn litlu og aðgengilegu svæði.
Trölladyngja og nágrenni.
Dyngjur litlar sem stórar, gígaraðir stuttar og langar úr kleprum og gjalli í ýmsum hlutföllum, gígahópar (svæðisgos), stampar og eldborgir, sprengigígar og jafnvel myndanir sem líkjast sigkötlum. Í útjaðri svæðisins eru megineldstöðvar órofnar eins og Hengilssvæðið eða rofnar til róta líkt og Reykjavíkur, Kjalarnes og Stardalsstöðvarnar. Á utanverðum skaganum er aðeins að finna basalt en þar eru þó allar þrjár megin gerðirnar. Fjölbreytileiki hraunanna og hraunmyndanna er óþrjótandi. Hraunhólar með djúpum sprungum sem veita ýmsum jurtum skjól svo sem blágresi og stóraburkna, hraunbólur, óbrinnishóla inn í miðju hraunhafinu, hrauntraðir með ýmsum myndunum, kargahraun þakið þykkri mosakápu, niðurföll, rásir, skúta og hella af mismunandi lengd og gerð.
Hellar
Í hellinum Ferli.
Fjölmargir hellar eru á skaganum og aðeins hluti þeirra fundinn svo að fyrir þá sem vilja skríða um móður jörð og skoða innviði hennar er þetta kjörsvæði.
Í Strompahellum.
Hellaauðug hraun eru oft aðeins steinsnar frá þjóðleiðum t.d. í Arnaseturshrauni við Grindavíkurveg og hinir rómuðu Bláfjallahellar í Strompahrauni þar sem þúsundir manna fara um á góðviðrisdögum. Konunginn sjálfan hinn 1360 m langa Raufarhólshelli í Leitahrauni þekkja víst flestir. Ekki eru allir hellarnir svo til láréttir heldur er einnig þó nokkuð um lóðrétta hella sem flestir eru afgösunar pípur og þá oft tengdir gígunum. Dýpstur er hellirinn í Þríhnjúkum en þar þarf að síga um 110 m beint niður áður en fætur kenna gólfs og eftir það má enn fara neðar. Fer þá eflaust að styttast til þess höfðingja sem hinir ófrómu munu gista að lokinni jarðvistinni. Um þær myndanir sem hellarnir búa yfir, mætti hafa mörg orð, en þeirra á aðeins að njóta á staðnum, í því sérkennilega andrúmslofti sem þar ríkir og í hinni dularfullu birtu ljóskeranna. Sjálft hraunið og myndanir þess og litbrigði eru svo heimur út af fyrir sig.
Móbergsmyndanir.
Djúpar gjár stundum með köldu tæru vatni og misgengisstallar af mismunandi stærðum og gerðum eru einnig skoðunarverðir staðir. Móbergið sem er mun linara en basaltið er tilvalið efni fyrir vatn og vind til að skera út ýmsar kynjamyndir. Og ekki má láta hjá líða að minnast á háhitasvæðin með öllum þeim furðum sem þar er að sjá og heyra að ógleymdri þeirri ilman sem fylgi skoðandanum langt út fyrir svæðið.
Jarðlagagerð
Þorbjarnarfell – bólstraberg í bland við Hylo.
Ef við lítum aðeins á jarðlagagerðina má skipta henni eftir myndunartíma í þrjá aðal flokka. Grágrýtishraunin frá síðustu hlýskeiðum, móbergs og bólstraberg frá síðustu jökulskeiðum og hraun runnin eftir ísöld.
Þorbjarnarfell ofan Grindavíkur er ágætt dæmi um bólstrabergsmyndun. Hana má glöggt sjá í veggjum Þjófagjár.
Grágrýti
Grágrýti.
Grágrýtishraunin runnu á hlýskeiðum ísaldar og jöklarnir hreinsuðu og skófu síðan allt gjall, hraunreipi og aðrar yfirborðsmyndanir af.
Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.
Ysti hluti skagans, Rosmhvalanes, sem er SV við miðju landrekssprungunnar, er hulið grágrýti og samkvæmt flekakenningunni ætti grágrýti af svipuðum aldri að finnast SA við hana. Ef þið skoðið mynd 3 sjáið þið að svo er t.d. í Krýsuvík. Við skulum líta aðeins nánar á grágrýtið á “Rostunganesinu” en á því eru helstu stórborgir Suðurnesja. Hraunin bera þess greinileg merki að þau eru runnin frá dyngjum. Þar sem sjór og/eða jöklar hafa rofið stalla í það má sjá að þau eru beltótt og smá eða grófkristölluð. Ef rýnt er í bergið má kenna að ljósu kornin í því eru plagíóklas (feldspat) og á einstaka stað má í ljósum og gropnum blettum sjá dökka, nokkuð stóra, ágít kristalla. Þar sem bergið er mishart, veðrast við vissar aðstæður mjög sérkennilegt „bollamunstur” í það og prýða slíkir steinar margan verðlaunagarðinn í Keflavík. Skipta má grágrýtinu upp í þrjár syrpur: Háaleitis, Njarðvíkur og Vogastapagrágrýtið.
Vogastapagrágrýtið
Háaleiti – Áki Granz.
Talið er að Háleitis og Vogastapagrágrýtið hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði fyrir um 200.000 árum en Njarðvíkurgrágrýtið á síðasta hlýskeiði og er þá um 100.000 ára. Talið er næsta víst að Háaleitið sé dyngjuhvirfill samnefnds hrauns en óvíst er um uppkomustað hinna og gætu þeir jafnvel verið horfnir í sæ. Þykkt hraunanna er allt að 90m. Vogagrágrýti hefur snarast til SA, inn að virka svæðinu, og má merkja það á misgengjum svo sem í Háabjalla og stöllunum sitt hvoru megin Seltjarnar.
Móbergs- og bólstramyndanir
Bólstri í Lambatanga.
Móbergs- og bólstramyndanir eru flestar frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir 70.000 árum. Dæmi er um myndanir frá eldri jökulskeiðum. Reynt verður að skýra lauslega frá því hvað á sér stað þegar jarðeldur kemur upp undir jökli eða vatni.
Sundhnúkur – hraunrennsli.
Flestir hafa séð hvernig hraun renna frá eldvörpum t.d. Heklu og Kröflugosum. Ef bergkvika kemur upp undir jökli bræðir hún geil í jökulinn sem hálffyllist af vatni sem snöggkælir hana svo hún nær ekki að kristallast en splundrast í smá gleragnir sem nefnist aska. Margir hafa orðið fyrir því að snöggkæla heita glerhluti og þekkja þetta því af eigin skinni. Ef vatnsþrýstingurinn er nægur nær efnið ekki að splundrast en vegna mikillar kælingar myndar það hnykla eða kodda sem oft eru innan við metri á hvern kant. Nefnist bergið þá bólstraberg. Ef gos stendur það lengi að bólstrabergið og gosaskan ná að hlaða upp gíg sem vatn kemst ekki í rennur hraun sem myndar hettu ofan á eldvarpinu. Nefnist það þá stapi.
Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.
Með tíð og tíma ummyndast og harðnar hin dökka aska og verður að brúnu mógleri sem límist saman og myndar móbergið. Vikur, gjall og hraunmolar smáir og stórir sem blandast öskunni gefur svo móberginu mismunandi ásýnd.
Þegar jökullinn hvarf af landinu stóðu eftir hlíðarbrött fjöll, mismunandi að hæð og gerð. Útlit og gerð þeirra fer eftir því hvenær gosinu lauk og hvort gosið hefur aðallega á einum stað eða á gossprungu. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveiflu og Núpshlíðarhálsa svo og fellin frá Valahnúk að Sýrfelli. Vegna athafna manna er unnt að skoða bólstrabergið í Stapafelli í mjög laglegu sniði, meira að segja, án þess að þurfa að yfirgefa hægindi mótorfáksins. Í Súlunum, sem samfastar eru Stapafelli, má einnig greina gangana sem á sínum tíma veittu eldleðjunni upp í gíginn. Keilir er dæmi um stakstætt móbergsfjall og Fagradalsfjall er myndarlegasti stapinn á utanverðum skaganum.
Hraun
Katlahraun.
Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti hér á skaganum líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum sem oft eru með alldjúpum sprungum í kollinum.
Ný hraunmyndun ofan Grindavíkur.
Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt og áberandi ólivín og/eða plagíóklas dílar eru algengir. Bergtegundin nefnist ólivínþóleiít og er einkennisberg hafsbotnsins. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp. Á skaganum utanverðum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta nefnist Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli.
Þráinsskjöldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.
Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina og er gígur hans rétt austan við Fagradalsfjall-Vatnsfell. Að stærð og aldri eru þessar dyngjur álíka og virðast hafa verið virkar við lægri sjávarstöðu líklega skömmu eftir að ísa leysti af svæðinu. Ef þið hafið ekki tekið eftir þessu mikla eldfjalli, Þráinsskyldi, rennið þá augunum, frá Ströndinni og upp í vikið á milli Keilis og Vatnsfells næst þegar þið eigið leið um Stapann í átt til höfuðstaðarins. Þá blasir við eldstöð þar sem upp kom um 20 sinnum meira efni en í Heimaeyjargosinu. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri. Austar á skaganum eru fleiri dyngjur svo sem Selvogsheiði, Heiðin há og Leitin, en hraunin frá þeim runnu til sjávar bæði í Reykjavík og Þorlákshöfn.
Nokkrar minni dyngjur úr svo nefndu pikríti, er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu út á Reykjanestá en hana prýðir formfagur gígketill. Pikrítið er bergtegund sem er talin vera komin svo til beint frá möttli. Það er grófkornótt og allt löðrandi í ólivíndílum sem stundum eru svolítið brúnleitir vegna ummyndunar í stað þess að vera ólivíngrænir. Pikrít hraunin eru talin vera elstu nútímahraunin á skaganum og hafa því runnið strax eftir ísaldarlok.
Sundhnúkagígaröðin.
Sprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun.
Apalhraun.
Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið. Bergtegundin er þóleiít, algengasta bergtegund landsins, nema hér á nesinu þar sem um 18 % af yfirborðsberginu telst til þess en 78% er ólivínþóleiít og 4% pikrít. Þóleiítið er mun dekkra en dyngjubasaltið og dul- eða fínkornótt og mun minna af dílum er í því en hinum tveim. Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3.
Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.
Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá, líklega 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann líklega 1151. Á kortinu má einnig sjá þau 14 hraun sem upp hafa komið á sögulegum tíma. Athygli skal vakin á austasta hrauninu númer 14, en það telur Jón Jónsson vera Kristnitökuhraun sem rann þegar við kristni var tekið af lýð árið 999.
Hvenær gýs næst?
Má vænta þessa í nánustu framtíð á Reykjanesskaga?
Þó langt sé liðið, á tímakvarða manna, síðan síðast gaus á Reykjanesskaganum er hann langt frá því að vera dauður úr öllum eldæðum. Mun skemmra er síðan stór gos hafa orðið út á Reykjaneshrygg. 1783 hlóðst þar upp eyja sem fékk það frumlega nafn Nýey en hafið vann fljótt og vel á henni. Líkur hafa verið að því leiddar að gosið hafi út á hryggnum á síðustu öld og það oftar en einu sinni.
Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur.
Þó eldgos séu mikil sjónarspil og valdi ekki alltaf miklu tjóni og geti jafnvel verið til bóta fyrir svæðið sem þau koma upp á t.d. með því að leggja til byggingarefni, veita skjól eða draga til sín ferðamenn æskir þeirra enginn.
Mannskepnan er ósköp smá og lítils megnug þegar eldgyðjan blæs í glæður sínar en eitt er víst að jarðeldur á eftir að koma upp hér á skaganum. Eina óvissan er hvar og hvenær.“ – Ægir Sigurðsson.
Heimildir:
-Yngra-Stampagosið á Reykjanesi, Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, Jarðvísindadeild HÍ 2016 – ritgerð í HÍ.
-Faxi, 2. tbl. 66. árg. 2006, Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum, Ægir Sigurðsson, bls. 44-47.
Vel er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesskaga.
Bessastaðir, Bessastaðakirkja – sagan að hluta
Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um „Bessastaði og Bessastaðakirkju“ fyrrum. Hér á eftir verður drepið á fáeitt áhugavert.
Á vefsíðu forseta Íslands segir um sögu Bessastaða:
„Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.
Bessastaðir.
Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Bessastaðir 1720.
Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl.
Grímur Thomsen (1820-1896).
Árið 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.“
Bessastaðir.
Í grein í Morgunblaðinu í febrúar árið 2001 segir um Bessastaði á Álftanesi og Bessastaðakirkju:
„Kirkjan, sagan og þjóðin hafa verið rauði þráðurinn í hugvekjunum síðustu misserin. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þann söguríka stað, Bessastaði á Álftanesi.
Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ ekki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppur taumi,
– hvað hjálpar, nema Herrans náð?
„Og því er hver einn bezt til ferða búinn,
ef bilar hann ei vonin eða trúin“. – (Grímur Thomsen.)
Sérhver sæmilega lesinn Íslendingur veit að Ingólfur Arnarson festi fyrstur norrænna manna bú hér á landi.
Bessastaðir 1720.
Fjölmargir en færri þó vita að bróðursonur hans, Ásbjörn Özurarson, „nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum“, eins og segir í Landnámu. Enginn veit með vissu hvar Skúlastaðir vóru. Getgátur nefna m.a. Bessastaði og Garða, höfuðbýli á svæðinu um aldir. Rannsóknir á mannvistarleifum á Bessastöðum benda sterklega til þess að þar hafi bú verið þegar á landnámsöld (870-930). Ummerki um rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru frá 9. öld (Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga – 1996).
Bessastaður 1722.
Bessastaðir tengjast Íslandssögu flestum stöðum sterkar. Hærra rísa Þingvellir, Skálholt, Hólar og Reykjavík. Staðurinn komst í eigu eins virtasta höfðingja Sturlungaaldar, sagnameistarans í Reykholti, Snorra Sturlusonar. Þar dvaldi hann un lengri og skemmri tíma, sbr. Sturlungu. Þar var jafnan annálað höfðingjasetur. Til Bessastaða rekja ýmsir örlagatburðir í sögu þjóðarinnar rætur, illir sem góðir. Þar sátu „kóngsins valdsmenn“ um margra alda skeið. Þar sátu þeir þegar sjálfstæðis- og trúarhetjan Jón biskup Arason og synir hans tveir vóru hálshöggnir. Þangað var böðull þeirra, Jón Ólafsson, sóttur. Þar var latínuskóli (prestaskóli) 1805-1846.
Grímur Thomsen.
Þar fæddist skáldjöfurinn Grímur Thomsen árið 1820. Þar bjó hann myndarbúi eftir nám og farsælan embættisferil í Kaupmannahöfn og sinnti skáldskap og stjórnmálum. Og þar lézt hann árið 1896. Bessastaðir eru nú íslenzkt þjóðhöfðingasetur, bústaður forseta íslenzka lýðveldisins, verndara kirkjunnar.
Höfuðbýlin, Bessastaðir og Garðar, settu um aldir svip á nágrenni sitt. Í bókinni „Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða“ (samantekt í ritstjórn Erlu Jónsdóttur 1992) segir m.a.: „Á síð-miðöldum var nærvera kirkju og krúnu ekki jafn yfirþyrmandi í neinni þingsókn sýslunnar eins og í Hausastaðaþingsókn. Bæði var að hvergi vóru menn í eins mikilli nálægð við valdsmenn konungs og á Bessastöðum og óvíða bar jafn mikið á jarðasöfnun kirkju og krúnu og þar.“ Samkvæmt jarðamati 1695 átti krúnan tilkall til 26 jarða (af 38 lögbýlum í hreppnum) og 10 jarðir vóru kirkjujarðir. „Aðeins ein jörð, Setberg, var í einkaeigu, auk þess sem jarðarpartur úr Ási ofan við Hafnarfjörð var í einkaeign. Setberg hefur reyndar ein jarða í Áltaneshreppi þá sérstöðu að hafa aldrei komið undir kóng eða klerk,“ segir í tilvitnaðri bók um Garðabæ. Sá munur var á kirkju- og konungsjörðum að þær fyrrnefndu heyrðu undir innlenda menn.
Bessastaðir – kort 1770.
Bessastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups árið 1200. Þar er og getið Garðakirkju, sem talin var veglegri. Sú síðarnefnda heyrði kirkjuvaldinu. Hin var fyrst bændakirkja en „síðan kirkja höfuðvígis konungsvaldsins um margra alda skeið“, segir í Álftaness sögu. Bessastaðakirkja sem enn stendur var reist árin 1794-1796, en hefur oft verið betrumbætt síðan. Hún setur ríkulegan svip á íslenzka forsetasetrið: Tákn um tengsl kirkju og þjóðar í þúsund ár.
Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.
Eitt áttu allar kynslóðir og byggðir Íslands sammerkt: kirkju í miðri sveit, sem var miðstöð mannfunda, menningar og trúar sóknarbarnanna. Kirkjan og þjóðin, kirkjan og kynslóðirnar, kirkjan og einstaklingar hafa átt samleið í þúsund ár – frá vöggu til grafar sérhvers Íslendings. Þessi tryggðabönd kirkju og þjóðar, kirkju og einstaklinga, þarf að treysta og tryggja til langrar framtíðar. Kirkjan er kjölfestan í þjóðarskútunni. Kristinn boðskapur áttavitinn.“
Í Morgunblaðinu í október 2005 segir um Bessastaði á Álftanesi:
„Margir þættir þjóðarsögunnar renna saman á Bessastöðum á Álftanesi, þar sem nú er embættisbústaður forseta Íslands. Sveinn Guðjónsson rifjar upp sögu staðarins, sem nær allt frá landnámsöld til okkar daga.
Bessastaðakirkja – altaristafla.
Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísi
ndamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.
Bessastaðakirkja 2023.
Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.
Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.
Bessastaðir – fornleifarannsóknir.
Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.
Bessastaðasel í Lækjarbotnum.
Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst.
Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar.
Snorri Sturluson.
Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.
Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.
Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.
Henrik Bjelke.
Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.
Bessastaðir.
Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.
Bessastaðakirkja
Bessastaðakirkja.
Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.
Bessastaðir.
Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera „kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar“. Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.
Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.
Kristján konungur söundi.
Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.
Bessastaðastofa
Bessastaðir – tákn valdsins.
Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum.
Bessastaðir 1789.
Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 – 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.
Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.“
Í áhugaverðu riti Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði – Sögubrot – frá árinu 2021 og finna má á Netinu má m.a. lesa eftirfarandi:
Formáli höfundar
Júlíus Ó. Einarsson.
„Hér er ekki sögð saga Bessastaða því til þess er ritið of lítið en sagan stór, enda orðaði Árni Óla rithöfundur það þannig að saga Bessastaða væri saga þjóðarinnar í stórum dráttum.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir af ýmsum þáttum úr sögu Bessastaða, því auðvitað er ekki pláss fyrir mjög ítarlega umfjöllun um hina ótal ólíku atburði sem marka meira en þúsund ára ábúð. Mér tekst þó vonandi að gefa nokkuðskýra mynd af staðnum og vægi hans í sögu þjóðarinnar. Ég hvet lesandann um leið til þess að leita sér meiri fróðleiks um allt það sem kann sérstaklega að vekja áhuga hans á komandi blaðsíðum. Sums staðar vísa tenglar á vefsíður með efni sem bætir drjúgmiklu við fróðleikinn sem hér er að finna. Þá er líka heimildaskrá þar sem má finna megnið af þeim heimildum sem stuðst er við. Bókasöfn landsins geyma flestar heimildirnar og í þeim ritum eru áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar frásagnir sem bæta heilmiklu við þá mynd sem hér er dregin upp. Í fyrsta kaflanum er tæpt lauslega á sögu Bessastaða til þess að lesandinn fái heildaryfirsýn en síðari kaflar segja frá ýmsu markverðu ásamt því sem fléttað er inn ýmsu forvitnilegu úr þjóðsögum. Byggt er að mestu á rituðum heimildum en líka stuðst við áður óbirt efni úr fórum mínum. Fyrir utan fróðleiks- og skemmtigildi þessa rits, er það ætlunin að upplýsingar um örnefni, sögustaði, rústir, fuglalíf og almennt náttúrufar glæði göngutúrinn lífi fyrir þá sem kjósa að fara á tveimur jafnfljótum um Bessastaðanes og opni þeim sýn á það sem annars kann að vera hulið á þessum sögulega stað.
Rit Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði á Álftanesi – Sögubrot.
Lítil áhersla er hér á Bessastaði sem aðsetur forseta Íslands en fyrir utan það sem fram kemur í fjölmörgum skrifuðum heimildum um forseta og Bessastaði, er fróðleik um efnið að finna á vefsíðu forsetaembættisins. Ég starfaði á Bessastöðum um tæplega fimm ára skeið frá ársbyrjun 2010 til hausts 2014 og hafði búsetu á staðnum á þeim tíma. Ekki varð komist hjá því að saga Bessastaða ásamt húsum og minjum vektu áhuga minn. Meðal verkefna minna á Bessastöðum var að taka á móti gestum forseta, sýna staðarhúsin og munina, og segja frá. Meðfram þeirri reynslu safnaðist mest af þeim fróðleik sem birtist hér lesandanum. Ég fékk snemma þá hugmynd að opna Bessastaði fyrir almenningi en áður höfðu aðeins gestir forseta og takmarkaðir hópar átt kost á innliti. Þáverandi forseti tók afar vel í hugmyndina og mér var falið að skipuleggja, undirbúa og hafa heildarumsjón með framkvæmdinni. Í kjölfarið var Bessastaðastofa opnuð almenningi 10. febrúar 2012 í tengslum við Safnanótt. Síðan hefur verið kappkostað að gefa almenningi færi á að heimsækja staðinn og fræðast um hann um leið og gengið er um staðarhúsin og nánasta umhverfi.
Bessastaðir eru réttnefnd þjóðareign. Í mínum huga er saga Bessastaða jafn mikil þjóðareign og staðurinn sjálfur, sem er ástæða þess að rafrænni útgáfu bókarinnar er dreift án endurgjalds. Vonandi verður hún til gamans og gleði öllum þeim sem vilja kynna sér efnið eða heimsækja Bessastaði með gönguferð eða innliti.
Bessastaðakirkja
Í Bessastaðakirkju.
Víst þykir að kirkja hafi staðið á Bessastöðum allt frá 12. öld og jafnvel fyrr. Ekki er víst að þar hafi nokkru sinni setið prestur en lengst af var kirkjunni þjónað frá Görðum á Álftanesi. Líkt og reyndin var með önnur hús á Bessastöðum um margra alda skeið, var lengi vel illa staðið að kirkjubyggingum staðarins og kirkjum illa haldið við.
Bessastaðir 1720.
Jafnvel var það stundum svo líka að kirkjan var höfð til annarra og jarðbundnari nota en helgihalds en meðal annars lýsir Sauðlauksdalsannáll því árið 1751 að prestshjónin á Bessastöðum „brúkuðu Bessastaðakirkju fyrir hesthús og svínabæli, glerglugga til kálgarðs, en fjalir til eldiviðar“.
Framan af voru kirkjur á Bessastöðum reistar úr timbri og jafnvel aðeins af torfi og grjóti.
Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.
Ástand kirkjubygginga var aldrei beysið og hver kirkjan reist á eftir annarri. Timbur var flutt til Bessastaða til byggingar kirkju árið 1617 en árið áður hafði konungur tilkynnt á Alþingi að lagt yrði gjald á allar kirkjur landsins sem renna skyldi til smíðinnar. Kirkjan sem byggð var þótti stór og til þess tekið í annálum hve háreist hún var en þess jafnframt getið að enga hefði hún bita „hvað byljavindur íslenzkur vel sá“, eins og segir í Vatnsfjarðarannál yngri og fer merking þeirra orða ekki milli mála. Enda hrundi Bessastaðakirkja til grunna í stormi árið 1619. Önnur var svo byggð upp úr viðum hinnar föllnu árið eftir og hafði sú torfveggi og torfþak. Sú kirkja laskaðist svo eða hrundi árið 1624 þó að annálar nefni ekki hvort það var af völdum veðurs eða þess að byggingin var of veikburða og reis ekki undir sér sjálf.
Byrjað var að reisa steinkirkjuna sem nú stendur árið 1777. Byggingartíminn var afar langur, enda varð margt til að tefja smíðina og kirkjan var loks vígð árið 1795.
Kirkjuturninn stóð um hríð lægra en sjálfir kirkjuveggirnir og var ekki lokið við smíði hans fyrr en árið 1823. Einhver áhöld voru um það lengi vel hvort turninn skyldi byggður til stjörnuskoðunar eða til að þjóna sem hefðbundinn kirkjuturn. Hið síðara varð niðurstaðan og efri hluti turnsins byggður í þá mynd sem hann er í dag en vanefnin eru augljós ef hann er skoðaður innanvert.
Mörgum þykir Bessastaðakirkja einkar fögur bygging og að hún samsvari sér vel, enda eru hlutföll hennar þannig að breidd og lengd byggingarinnar ásamt breidd og hæð kirkjuturnsins eru allt nokkurn veginn í hlutföllunum 1:2. Byggingin er teiknuð í svokölluðum ferskeytum, sem voru ríkjandi í hönnun dómkirkja á miðöldum og voru í hávegum í guðfræði þeirra tíma. Ekki er vitað fyrir víst hver teiknaði Bessastaðakirkju en víst er að hann var undir sterkum áhrifum þessarar hefðar.
Bessastaðir.
Kirkjan var byggð utan um timburkirkjuna sem síðast stóð og var orðin afar hrörleg. Aðföng til byggingarinnar sem ekki voru fáanleg hérlendis, svo sem viður og kalk, var flutt sjóleiðina frá Kaupmannahöfn og skipað á land á bakka Bessastaðatjarnar. Grjót það sem notað var í undirstöður og veggi kirkjunnar var annarsvegar hraunsteinar úr Gálgahrauni og grágrýti úr Garðaholti, sem flutt var á pramma yfir Lambhúsatjörn.
Bessastaðakirkja 1955.
Um það leyti sem smíði turnsins var að ljúka, var kirkjan þegar farin að gjalda fyrir viðhaldsleysi og Árni Helgason prófastur í Görðum sagði um hana árið 1843 af því tilefni að hún væri sú vesælasta í hans prófastsdæmi. Áfram hrörnaði byggingin, hún fór að leka og jafnvel hrundi loftið í kórnum að hluta eftir að staðurinn var kominn í eigu Gríms Thomsen. Raunar segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl að Grímur hafi notað kirkjuna meðal annars til þess að þurrka þvott. Það var ekki fyrr en eftir að Skúli Thoroddsen eignaðist Bessastaði, að ráðist var í nauðsynlegt og löngu tímabært viðhald á staðarhúsunum.
Bessastaðakirkja 1930.
Ýmsar breytingar voru gerðar í gegnum tíðina á innréttingum Bessastaðakirkju en líka á ytra útliti. Náðu þær meðal annars til þakkvista, glugga og jafnvel var grafhýsi byggt utan í norðurvegg kirkjunnar á árunum 1784-1786, og það síðar rifið. Enn sést móta fyrir dyraopinu sem var milli kirkju og grafhýsis í steinhleðslunni utan á norðurveggnum. Þá voru líka lengi vel útidyr á syðri langvegg kirkjunnar. Ef til vill má segja að róttækustu breytingarnar á kirkjunni frá upphafi, séu útskipti á öllum innviðum hennar og gólfi, sem fram fóru á árunum 1946-48. Þessar breytingar voru afar umdeildar á sinni tíð og eru jafnvel enn. Í bókinni „Steinhúsin gömlu á Íslandi“ er talað um framkvæmdina
sem „býsna harkalegar viðgerðir og breytingar“. Illa mun hafa verið gengið um gömlu innviðina sem voru rifnir innan úr kirkjunni og þeir látnir liggja úti í öllum veðrum þar til ungur fornleifafræðingur fór að boði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar til þess að líta eftir þeim. Hann kom því til bjargar sem bjargað varð og margt var flutt til geymslu hjá Þjóðminjasafninu. Þessi fornleifafræðingur var Kristján Eldjárn, sem sjálfur varð síðar forseti lýðveldisins og sat sem slíkur á Bessastöðum árin 1968-1980.
Bessastaðakirkja – steindur gluggi.
Mörgum sérfræðingnum um byggingarlist og byggingasögu þykir að steindir gluggar kirkjunnar séu gróft lýti í samhengi byggingarinnar þó að þeir séu að sönnu afskaplega fallegir gripir í sjálfu sér. Sagt hefur verið jákvætt um gluggana að þeir hylji það þó hvernig kirkjan var leikin að innan við endurbæturnar á fimmta áratugnum.
Ásgeir Ásgeirsson.
Steindu gluggarnir komu þannig til að Ásgeir Ásgeirsson valdi sér þá sjálfur sem sextugsafmælisgjöf frá ríkisstjórn Íslands. Listamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Finnur Jónsson teiknuðu gluggana í samráði við forsetann og þeir smíðaðir í Englandi. Í dag er upphækkun í gólfi einu skilin milli kórs og kirkju. Fremst er lítill söngpallur og orgel, kirkjubekkir og predikunarstóll eru einfaldir að gerð og nokkuð hefðbundnir, teiknaðir af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Predikunarstóllinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Innst í kirkjunni á austurvegg hanga minningarskildir um látna forseta og að auki eru tveir stórir legsteinar múraðir upp á sitthvorn langvegginn, þeirra Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Páls Stígssonar hirðstjóra.
Bessastaðakirkja – altaristafla.
Altaristafla kirkjunnar er máluð af Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni). Hún er eign Listasafns Íslands en er lánuð kirkjunni. Sé grannt skoðað, má telja víst að Muggur hafi aldrei lokið fyllilega við verkið.
Bessastaðakirkja 2023 – vindhani.
Ýmsir áhugamenn um Bessastaði eru áfram um að færa kirkjuna að einhverju leyti til eldra horfs. Tæplega er raunhæft að ætla að færa innviði til upprunalegs orfs og því síður að notast við eldri viði og búnað sem hefur varðveist að einhverju leyti. Nokkrar útfærslur á endurgerð koma til greina, sem allar væru fallnar til þess að sýna kirkju- og staðarsögunni sóma. Ekki er víst að af slíkum hugmyndum verði og þeir sem eru því mótdrægir leiða rök að því að hvert tímabil í notkunarsögu kirkjunnar sé jafn rétthátt öðru og allar breytingar í þessa veru myndu draga úr notagildi kirkjunnar til daglegra athafna.“
Síðasti valdsmaðurinn
Skjaldarmerki Trampe greifa á turni Bessastaðakirkju.
Deilt hefur verið um skjaldarmerkið efst framan á Bessastaðakirkju. í Riti Júlíusar segir: „Trampe greifi, sem hafði verið dómari á Lálandi, var skipaður amtmaður á Íslandi 1804, eftir að Ludvig Erichsen kammerráð lést fyrr á því sama ári. Trampe vék sjálfviljugur af Bessastöðum og settist að í Reykjavík til þess að latínuskólinn gæti komið sér þar fyrir og hafið skólastarf.
Karl Sigurbjörnsson.
Ofan við efri gluggann á framhlið turns Bessastaðakirkju er innfelldur skjöldur úr sandsteini. „Skjaldarmerki ættar Trampe greifa er mótað í skjöldinn en hann var stiftamtmaður þegar smíði turnsins var lokið árið 1823.“
Fékk hins vegar eftirfarandi svar frá Karli Sigurbjörnssyni, fyrrverandi biskupi Íslands: „Blessaður og sæll. Þú varst að spyrja um skjaldarmerkið á Bessastöðum, það mun vera merki Moltkes greifa sem var stiftamtmaður hér þegar turnsmíðinni var lokið, 1823. Bestu kveðjur. – Karl Sigurbjörnsson“
Sjá framhaldið um skjaldarmerkið HÉR.
Rit Júlíusar um „Sögubrot Bessastaða“ má finna HÉR.
Heimild:
-https://www.forseti.is/sagan/bessasta%C3%B0ir/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1042945/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/587259/
-https://juliuseinarsson.files.wordpress.com/2021/01/bessastadir-sogubrot-3.pdf
Bessastaðakirkja 2000.
Barnahús í örnefnaskrám
Örnefnið „Barnahús“ er til í íslenskum örnefnaskrám fyrrum. Fyrirbærið er áhugavert fyrir margra; ekki síst fyrir barna sakir.
Í Rauðasandshreppi er í örnefnalýsingu örnefnið skráð; „Barnahúslækur. Hann er frammi í Vík, rennur þar í Ána og kemur úr Hreiðurblagili. Þar höfðu krakkar byggt sér grjóthús“.
Í Örnefnalýsingu fyrir Hækingsdal segir: „Fyrir heiman Illugastakksnef og neðan Móa eru Tjarnir, en fyrir utan Illugastakksnef er Flóðamýri. Þegar Kinnarlækur kemur niður úr túni, breytir hann um nafn og heitir Flóðamýrarlækur. Engjarnar fyrir ofan hann næst túni eru Forir. Þar upp af er nokkuð gróinn grjótbali, er heitir Stekkjarbali. Þar var síðast hafður stekkur. Móðir Hannesar mundi eftir honum í bernsku sinni. Fyrir utan Forir eru Enni, þau eru tvö, sitt hvoru megin við Barnhús. Brattar brekkur og grasgefnar. Upp af þeim er Kýrgilsbali. Vestan við hann er Fjólubolli, sem er töluvert breiður og djúpur. Þar vex mikið af fjólu eða blágresi. Fyrir utan Enni er Lágamýri. Upp af henni er klapparhæð, er heitir Barnhús. Enga skýringu kann Hannes á því nafni. Þar var kofi.“
Í Örnefnalýsingu fyrir Flekkudal, Grjóteyri og Sand í Kjós segir; „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu við rætur Sandsfjalls upp í Markagil í Markastein nyrst á Sandsfjalli. Þaðan liggja mörkin suður Sandsfjall um Esjuflóa í Esjuhorn, þaðan sem vötnum hallar í Hátind á Esju syðst upp af Norðurgröf á Kjalarnesi.
Flekkudalur.
Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ segir m.a.: „“Merkin byrja við landsuðurhorn Meðalfellsvatns, í Flekkudalsós, upp úr honum í Barnhús, sem svo er kallað.
Frá því beint upp gilið, upp á Sandfellsbrún…,“ segir í örnefnaskrá Flekkudals. „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu …“ segir í örnefnaskrá Gjóteyrar og Flekkudals. „Barnhús: Hans getur sér þess til að nafnið sé af því dregið, að börn hafi þar verið geymd meðan fólk var á engjum. Langt var á engjar á Sandi og matur færður. Þar voru tóftir. Þess má geta, að í Hækingsdal er einnig til Barnhús, haft um klapparhæð, en á henni voru tóftir. Ekki kunni heimildamaður þar skýringar á nafninu, en framangreind skýring hefur ekki verið borin undir hann.“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá Sands. Skv. lýsingum ætti Barnhús að hafa verið við enda keldunnar, sem er á merkjum milli Grjóteyrar og Sands, í fjallsrótum eða hugsanlega eitthvað ofar. Þetta er um 1,8 km VNV af bæjarhól. Mýri nær að fjallsrótum en svo tekur við brött en ágætlega gróin fjallshlíð. Girt er á merkjum hátt upp í fjall. Alls engar rústir eða vörðuleifar fundust á merkjum. Sennilegast er að Barnhús hafi verið alveg í fjallsrótum og þá vikið þegar keldan var grafin í skurð.“
Örnefnið, er þrátt fyrir allt, einstaklega áhugavert.
Heimildir:
-Örnefnastofnun, Vestur-Barðastrandasýsla Breiðavík, Rauðasandshreppur, Breiðavík, Trausti Ólafsson frá Breiðavík skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hækingsdal.
-Örnefnalýsing á Flekkudal og Grjóteyri.
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Þorláksstaðir, Blönduholt, Þúfa, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, EyrarÚtkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvellir, Írafell, Bær, Meðalfell,
Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahóll, Flekkudalur neðri, Sandur, Neðri-Háls, Hvammur og Hvammsvík. Reykjavík 2008.
Flekkudalur.
Arnarbæli og Fell í Ölfusi – P.E. Kristian Kålund
Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Arnarbæli í Ölfusi.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.
Arnarbæli.
Hverfið, sem Arnarbæli í Ölfusi er hluti af, fékk nafnið Arnarbælishverfi. Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði. Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram. Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur. Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.
Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289. Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár. Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.
Arnarbæliskirkja stóð fyrrum í steinsins stað.
Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur. Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar. Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676. Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár. Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan, sem bekktust við hann, líkt og séra Snorra í Húsafelli.
Arnarbæli eftir jarðskjálftann 1896.
Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta, sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn, Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn. Teinæringur, sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn, fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi. Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.
Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.
Kålund skrifar m.a. um Arnarbæli, skipslátur í Ölfusá og bæinn Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).
Arnarbæli og nágrenni.
„Arnarbæli er nefnt í Harðar sögu Grímkelssonar (17), og er leið þangað með öllu ófær nema með kunnugum fylgdarmanni, og er vel fallin til að veita hugmynd um sérkenni í Ölfusi, flatt land sem flæðir yfir, blautar engjar, lækjar- og ármynni eða kvíslar úr Ölfusá ólga yfir flæðiland; er land þetta frábært til heyskapar.
Ingólfsfjall – AMC-kort.
Norðar sést Hengill og Reykjafjöll, giljótt og mosavaxin, og lengst í norðaustri fjallaþyrping, og áfast henni er Ingólfsfjall, mikið og virðulegt, sést hvartvetna úr Ölfusi og virðist vera stakt. Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannahaugur að lögun og einnig stærð og því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul – Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir við texta Landnámu (45) um Ingólf: „Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“, orðunum „þar sem sumir menn segja að hann sé heygður“; en í Íslendingabók segir aðeins: „er þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá, er hann lagði sína eigu síðan“.
Inghóll á Ingólfsfjalli (-felli).
Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð. (Brynjólfur Sveinsson, hinn frægi biskup (1639-74) reið samkvæmt „Descr. Ölves“ upp á fjallið til að skoða hauginn. Þá var hann mældur og reyndist vera 200 faðmar að ummáli sbr. Ferðarbók E.Ó. 859.- Samkvæmt fornminjaskýrslu (1821) á sögn að vera tengd Ingólfi og Inghól lík sögunni um Egil á Mosfelli í Mosfellssveit og Ketilbjörn á Mosfelli í Grímsnesi; skömmu fyrir dauða sinn á hann að hafa látið tvo þræla sína og ambátt fela fé sitt í Inghól og síðan hafi hann drepið þau á stöðum í fjallinu, sem heita eftir þeim (Ímuskarð, Kagagil og Kaldbakur).
Kögunarhóll 1897 – Collingwood.
Efri helmingi fjallsins hallar jafnt niður, og síðan koma brattar hlíðar niður á jafnlendið, aðeins að sunnan teygir sig fram lágur rani. Fram af honum er keilu- og toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.
Tóftir Fells.
Í Harðar sögu Grímkelssonar segir (2), að maður að nafni Sigurður múli hafi fóstrað dóttur Grímkels goða, sem bjó fyrir sunnan Þingvallavatn. Sigurður á að hafa búið á bænum Felli (undir Felli). Síðar segir, að Hörður sonur Grímkels hafi látið flytja alla vöru sína undir Fwell til Sigurðar í múla, þá er faðir hans hafi látið hann fá, en hann ætlaði utan á Eyrum (austan við minni Ölfusár). Í skinnbókarbroti sem talið er vera af eldri gerð Harðar sögu, er bær Sigurðar múla nefndur Fjall (hann bjó undir Fjalli). Þessi bær Fell eða Fjall er vafalaust eyðibærinn Fjall; sést móta fyrir tóftum hans og túni skammt fyrir sunnan Ingólfsfjall. Jarðabók Á.M. og P.V. (1706) nefnir Fjall, sem áður fyrr hafi verið mikil jörð, og samkvæmt munnmælum á að hafa verið fyrrum þar kirkja. Við upphaf fyrri aldar höfðu verið byggðar fjórar harðir af hinni upphaflegu, en Fjall yngra lagst í eyði, einnig önnur af þessum fjórum (Fossnes), svo að nú séu aðeins tvær eftir af þessum fjórum (Laugarbakki eða -bakkar og Hellir).
Tóft við Fell.
Ekki er líklegt, að neitt af útrennsli Ölfusár hafi borið nafnið Arnarbælisós, því bærinn Arnarbæli stendur allmiklu ofar (1/2-1 mílu). Aftur á móti má hugsa sér, að því að varla hefur verið við mynni Ölfusár nokkurt lægi fyrir skip í fornöld, að lendingarstaðurinn hafi ef til vill nafn af þeim stað, sem skipin lögðu inn eða voru bundin.
Ölfusá – Þorleifslækur.
Þetta fær ef til vill stuning af frásögn Landnámu (390) um landnámsmanninn Álf egska. Hann fór til Íslands og lenti skipi sínu í ósi þeim (mynni) sem hefur fengið nafn af honum og heitir Álfsós; hann nam allt land fyrir uatn Varmá og bjó að Gnúpum. Hér er Ölfusá ekki nefnd, en þótt hann hafi orðið að sigla inn um mynni árinnar til að komast í Álfsós og upp í neðri hluta Varmár, sem nefnist Þorleifslækur. Á sama hátt mætti álíta að Arnarbælisós hafi verið ármynni nálægt Arnarbæli, þar sem hafskipin venjulega lögðu inn og leituðu hafnar, sem var ekki að fá í mynni Ölfusár vegna breiddar ármynnisins, og ef til vill af fleiri ástæðum. Slíkt ármynni hefur einmitt verið þarna, því að varmá féll fyrrum í Ölfusá skammt fyrir austan Arnarbæli, en fyrir um 200 árum braut hún sér farveg í Álfsós og þar með í Þorleifslæk. Enn lifa sagnir sem benda til, að hafskip hafi lagst hjá Arnarbæli, og má nefna nokkur nöfn því til stuðnings, þannig var í túninu fyrir vestan pretsetrið hjáleiga, sem nefndist Búlkhús, þar sem sagt er, að skip hafi verið affermd.“
Heimildir:
-https://www.olfus.is/is/mannlif/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/arnarbaeli
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 56-59.
Arnarbæli og Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).
Nokkur orð um Kjósarsýslu
Í Tímanum 1976 eru sögð „Nokkur orð um Kjósarsýslu – Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?„.
„Sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu eru við Botnsá i Hvalfirði, en Kjós nefnist sveitin frá Hvalfjarðarbotni til Kiðafellsár. Kjós þýðir í raun kvos eða dæld, enda kemur það vel heim og saman við landslag þar í sveit.
Ferð okkar um landnám Ingólfs hefst við Botnsá í Hvalfirði, og þar eru, eins og fyrr segir, sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu.
Botnsá.
Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, 160 m djúpt. Er sagt, að vatnið heiti eftir hval, sem teymdur var í það upp eftir Botnsá. Í Botnsá er fossinn Glymur, hæsti foss á Íslandi, rúmir 200 m að hæð.
Þegar yfir Botnsá er komið, sveigir vegurinn út með Múlafjalli, bröttu og hömrum girt í sjó fram, og er vegastæðið tæpt á kafla. Botnsvogur heitir vogurinn, sem við sjáum á hægri hönd.
Brynjudals á og hellarnir; Bárðarhellir (t.h.) og Maríuhellir (t.v). Huldukona fær sér að drekka vatn úr ánni.
Við ökum út með Múlafelli og yfir Brynjudalsá, sem fellur um lítið dalverpi, Brynjudal, og til sjávar í Brynjudalsvogi. Ofan við brúna á Brynjudalsá var foss, sem sprengdur hefur verið, og við hann er Maríuhellir.
Skammt norðan Laxár komum við að vegamótum Kjósarskarðsvegar, en hann liggur á milli Kjósar og Þingvallavegar, u.þ.b. 22 km langur. Við Kjósarskarðsveg eru meðal annarra bæirnir Reynivellir, sem er kirkjustaður og prestssetur, og Vindáshlíð, þar sem eru sumarbúðir KFUK. Írafell heitir innsti bær í Kjós, og við þann bæ er kenndur Írafells-Móri, frægur draugur í eina tíð.
Við ökum yfir Laxá og höldum fram hjá Félagsgarði. Áður en við vitum af komum við að vegamótum Meðalfellsvegar, sem liggur upp með Meðalfelli að sunnan.
Áin Bugða fellur úr Meðalfellsvatni, og rennur í Laxá, ekki langt frá bænum Ásgarði, Bærinn að Meðalfelli er á vinstri hönd, ef haldið er eftir Meðalfellsvegi.
Eilífsdalur.
Ef við höldum fram hjá vegamótum Meðalfellsvegar, komum við brátt að þriðju vegamótunum, að þessu sinni að vegamótum Eyrarfjallsvegar. Tilvalið er að bregða út af vananum og taka nú beygjuna til vinstri í stað þess að halda beint áfram. Þá höldum við fyrst um grasi gróið undirlendi fram hjá búsældarlegum býlum, yfir Skorá og síðan eftir berangurslegum ruðningsöldum, allt til þess er við komum að mótum Eilífsdals, en Í þeim dal stendur samnefndur bær. Undirlendi er töluvert á þessum slóðum.
Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.
Eilífsdalur er tilkomumikill og hrífandi í senn hið innra, girtur hamrafjöllum á þrjá vegu, Þórnýjartindi að austan, Skálatind að vestan, en Eilífstindi fyrir botni dalsins.
Við höldum fram hjá bænum Eilífsdal, og þegar Miðdalur, Tindastaðir og Mórastaðir eru að baki, komum við til Kiðafells, landnámsjarðar Svartkels hins katneska. Ef við hefðum ekki beygt til vinstri og ekið eftir Eyrarfjallsvegi, hefði leið okkar legið áfram eftir þjóðbrautinni, eins og vaninn er að fara, þegar haldið er til Reykjavíkur. Leiðin liggur þá út með Eyrarfjalli og framhjá bænum Eyri. Til hægri sjáum við Hvalfjarðareyrina, langa og flata, en þaðan liggur sæsímastrengurinn yfir í Katanes á Hvalfjarðarströnd. Á sínum tíma var rætt um að gera þaðan bílferjustað yfir Hvalfjörð, og var nokkur undirbúningur hafinn að því, en ekkert varð meira úr framkvæmdum.
Írafell.
Við höldum fram hjá bænum Kiðafelli, förum yfir Kiðafellsá og sjáum brátt niður að Hjarðarnesi.
Tíðaskarð – loftmynd.
Nú erum við komin á Kjalarnesið, en svo heitir nesið milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Vegurinn liggur um Tíðaskarð, sem svo er nefnt, og brátt opnast okkur mikilfengleg sýn suður um Seltjarnarnes og Faxaflóa.


Þjóðvegurinn liggur fram hjá heimavistarskólanum á Klébergi, og litlu sunnar er félagsheimilið Fólkvangur. Gegnt Fólkvangi er bærinn Vallá, en þaðan var Benedikt Magnússon, sá er stofnsetti steypustöðina B.M. Vallá. Hofsvík heitir víkin fram undan Fólkvangi.
Brátt komum við á steyptabraut og ökum eftir henni framhjá Mógilsá, þar sem Skógrækt ríkisins hefur reist rannsóknarstöð skógræktar fyrir þjóðargjöf Norðmanna. Þar er kalknáma, sem um skeið var unnin, og einnig fannst þar vottur gulls, en því miður ekki nógu mikið. Kalkið, sem unnið var við Mógilsá, var flutt til Reykjavíkur og brennt þar. Heitir Kalkofnsvegur, þar sem brennslan fór fram.
Bærinn Kollafjörður stendur skammt frá Mógilsá og þar hefur ríkið sett upp fiskeldisstöð. Í Kollafirði bjó Kolbeinn Högnason, alþýðuskáld, landskunnur fyrir snjallar lausavísur og ferskeytlur. Fjörðurinn allur milli Seltjarnarness og Kjalarness heitir Kollafjörður, og á honum eru eyjarnar, Viðey, Engey, Akurey, Þerney og Lundey.
Við höldum fram hjá byggingum kaupfélags Kjalarnesþings, og til hægri blasir við okkur Leiruvogurinn.
Mosfellsbær – Lágafell neðst.
Brátt sér heim að Hulduhólum, íbúðarhúsi Sverris Haraldssonar, listmálara , en í túninu framan við hús sitt hefur listamaðurinn komið nokkrum verka sinna fyrir. Lágafell er á vinstri hönd, en þar er kirkja og fagurt íbúðarhús, sem Thor Jensen reisti. Effersöeættin færeyska á rætur sínar að rekja til Lágafells. Þaðan var og ættaður Oddgeir Stephensen, sem meðal annars gegndi starfi forstöðumanns íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Hlíðartún nefnist lítið þorp í Lágafellslandi. Þar er vistheimili fyrir vangefin börn. Leið okkar liggur nú með Úlfarsfelli á vinstri hönd, en til hægri sjáum við heim að Blikastöðum, miklu stórbýli í Mosfellssveit.“
Heimild:

-Tíminn; Nokkur orð um Kjósarsýslu, Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?, 222 tbl. 03.10.1976, bls. 16-17.
Hellisheiðarvegur – P.E. Kristian Kålund
Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kålund á efri árum.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.
Gengið um Hellisskarð.
Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.
Hellisheiðarvegur.
Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.
Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.
Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.
Búasteinn.
Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.
Gata um Helluna á Hellisheiði.
Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“
Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
Hellisheiðarvegur um 1900.
Geldingadalir í Fagradalsfjalli
Í tveimur örnefnalýsingum fyrir Hraun í Grindavík má m.a. sjá örnefnið „Geldingadalir„. Fyrri lýsingin er höfð eftir heimildarmönnunum Gísla Hafliðasyni, bónda á Hrauni, og Guðmundi Guðmundssyni, bóndi á Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði:
Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Merardalir nær.
„Norður frá Langahrygg og Borgarfjalli er hækkandi allmikið fjall, hið stærsta að flatarmáli á þessum slóðum. Á því og í sambandi við það er þegar komið nokkuð af nöfnum, og verður nú tekið meira af því. Sunnan undir Meradölum, sem fyrr var getið og norðan Langahryggs, er Stórihrútur. Sunnan hans er Langihryggur hæstur, og þar austur af, á norðurenda Einihlíða, er Litlihrútur.
Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.
Lægð þar norðar heitir Einihlíðarsandur. Langihryggur nær að Stóra-Leirdal, en Einihlíðar ná að Litla-Leirdal Litlihrútur er grjótmóaþúfa. Einihlíðarnar eru talsvert grónar. Eins og fyrr segir, er vinkillinn vestur af Borgarfjalli nefndur Nátthagakriki. Þar upp af í fjallinu er grasflöt, sem heitir Selskál. Sunnan undir henni á sléttunni er nokkuð stór melhóll, sem heitir Einbúi og fyrr er getið. Þar upp af er Mátthagaskarð. Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt. Norður af þeim er hnúkur, hæsta hæðin á fjallinu, og heitir þar Langhóll. Vestasti hluti fjallsins er nefndur Kast. Þar norður með hlíðinni, allhátt, eru grasgeirar nefndir Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir, heldur brekkur og kvosir.“
Framangreind dys Ísólfs var hraunhóll í miðjum vestasta dalnum, en hún er nú horfin undir hraun.
Síðari lýsingin er skráð af Lofti Jónssyni í Grindavík:
Merardalafjall og Merardalir. Stóri-Hrútur t.h.
„Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.
Geldingadalur fyrir gosið 2021.
Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.“
Rétt er að geta þess, að gefnu tilefni, þótt örnefnið „Geldingadalir“ hafi verið skráð er þar um að ræða þrjár samliggjandi dalkvosir í Fagradalsfjalli, milli Langhóls og Langahryggs. Eldgos það, sem flestir virðast hafa áhuga á um þessar mundir, er einungis ofan við eina kvosina og því er ekki úr hæfi að nefna hana Geldingadal. Réttnefni á nýja hrauninu, til heiðurs dys Ísólfs af Skála, sem nú er endanlega horfin undir það, væri því „Geldingadalshraun“ eða „Geldingahraun“.
Sjá ýmsar MYNDIR af eldgosinu í Geldingadal.
HÉR má sjá eitt streymið af mörgum af eldgosinu….
Fagradalsfjall. Nauthólar nær.
Myndun Þorbjarnarfells – Haukur Björnsson
Haukur Björnsson skrifaði ritgerð árið 2015 við Háskóla Íslands um „Myndun Þorbjarnarfells“ (Þorbjörns) ofan Grindavíkur :
Bólstraberg
„Bólstraberg myndast þegar kvika kemst í snertingu við vatn. Það getur gerst undir jöklum, undir sjávarborði eða vötnum, eða þegar hraun rennur út í vatn eða á. (Moore, J. G. 1997)
Á háum breiddargráðum er mjög algengt að fjöll séu einungis byggð upp af bólstrabergi og hyaloclastite, og mynduðust þau undir jökli. Hryggir sem myndast undir jökli hafa yfirleitt hærra hlutfall á hæð/lengd heldur en önnur, og geta náð hundruðum metra hæð og lengd allt að nokkrum kílómetrum. Eldgos undir jökli sem mynda ekki hryggi, svokallaðir stapar eða ,,basaltic point-source eruption”, mynda fjöll sem eru með brattar hlíðar (Höskuldsson & Sparks 1997).
Á Íslandi myndast þrjú byggingarform bólstrabergs.
1.Hryggir og hólar sem eru einungis byggðir upp sem bólstraberg, en það finnst aðallega í kringum miðju Íslands.
2.Neðri hlutinn af hyaloclastite myndun í stöpum (e. tuya-mountain). Þessi gerð finnst á miðhálendinu og við strendurnar.
3.Þegar hraun kemst ítrekað í snertingu við vatn. Munurinn á því hvort það myndist bólstraberg eða hyaloclastite er einungis þrýstingur. (Höskuldsson & fleiri 2005)
Bólstraberg – myndun.
Bólstraberg byggst þegar sprunga opnast undir vatni eða jökli og kvika flæðir út. Skurn myndast utan um kvikuna, sem síðar brotnar vegna þrýstings og kvikan rennur út um sprunguna. Þetta gerist aftur og aftur, á meðan kvikan er ennþá undir vatni. (Moore, J. G. 1997)
Bólstraberg kólnar á tveimur stigum. Fyrst kólnar það vegna snertingar við vatnið, þar sem það snöggkólnar. Á seinna stiginu þá eru bólstrarnir búnir að hlaðast upp og verða að heilli einingu. Bergið kólnar að mestu vegna vatns sem lekur um bergið. (Höskuldsson & fleiri 2005)
Bólstramyndun.
Skurnin á bólstrunum er mjög glerjuð vegna snöggrar storknunar bergsins þegar það snertir vatnið, svo það nær ekki að kristallast yst. Strax innan við skurnina finnast litlir kristalar í bland við glerjuð efni, en kristalana er aðallega hægt að sjá í smásjá. Innan við skurnina er mikið af loftbólum í berginu, en þær minnka nær kjarnanum. Þegar komið er inn að kjarnanum er glerjaða efnið að mestu horfið og kristalarnir teknir við. Kristalarnir ná nokkrum millimetrum að stærð. (Moore, J. G. 1997)
Hyaloclastite
Hyaloclastite milli bólstra.
Hyaloclastite stendur fyrir fínkornótt, glerjað og brotið hraun og er ákveðið form af brotabergi (e. volcanic breccia) og stundum blandað móbergi. (Francis & Oppenheimer 2004)
Brotabergið er hálfgerður samlímingur af afurðum frá eldfjöllum sem er myndaður af brotum sem ná yfir víðan stærðarskala og geta þau verið mjög lítil upp í að vera mjög stór.
Hyaloclastite myndast við gos undir jökli eða vatni, þegar kvikan storknar fljótt með miklum látum (e. violently shatters) vegna snertingar við vatn og myndar mjög glerjaðan grunnmassa. (Marshak, S. 2012). Hyaloclastite veðrast auðveldlega og því getur reynst erfitt að greina það, eða það hreinlega horfið. (Francis & Oppenheimer 2004)
Móberg
Móberg.
Móberg er fínt berg sem er myndað úr ösku, eða ösku sem er samblönduð vikri sem myndast þegar kvika snöggkælist og splundrast. Móberg getur myndast þegar aska fellur niður úr loftinu eða lag sem flæðir niður hlíðar eldfjallsins eins og gjóskuflóð. Þar getur askan verið svo heit að hún bráðnar saman. (Marshak, S. 2012)
Niðurstöður
Greining fellsins leiddi í ljós að tvær gerðir bergs eru áberandi. Ekki var hægt að finna áberandi lagmót á milli laganna, þar sem bergið var mjög brotið og ekki hægt að finna heila opnu sem lá frá botni upp á topp. Í u.þ.b. 70 m hæð mátti finna mjög glerjaðan grunnmassa með völum í, bæði kantaðar og rúnaðar, með algenga stærð frá 5 til 15 cm.
Þorbjarnarfell – bólstramyndanir í neðanverðu fellinu.
Finna mátti einstaka bólstramyndanir neðarlega í sumum opnunum, en verða þó ekki algengar fyrr en í um 80-100 m hæð. Þar byrjuðu bólstramyndanir að vera algengari og alveg upp í að vera allsráðandi í opnunum. Sprungan sem opnan var í lá í gegnum nær allan flatann og þegar hún var skoðuð voru bólstramyndanir algengar neðst. Bólstrarnir voru flestir um 10-20 cm á lengd og 5-10 cm á breidd, með ljósgráa yfirborðsskán. Efst voru litlar völur límdar nálægt hvorri annarri, með grófan og þunnan grunnmassa í kringum sig.
Þorbjarnarfell – myndun.
Þegar veginum var fylgt upp fellið voru að finna margar góðar opnur. Flestar opnurnar virtust vera mjög bólstraríkar, alveg frá því að vera að mestu bólstrar upp í að vera alveg byggðar upp af bólstrum. Ekki var hægt að sjá mikinn grunnmassa í opnunum sem voru nálægt veginum.
Inni í sprungum á toppi fellsins reyndust einungis vera bólstramyndanir og enginn grunnmassi eða völur. Ekki sást nógu vel í efri hluta veggjanna og því ekki hægt að finna út hvernig efsti hlutinn var.
Þorbjarnarfell – myndun.
Toppurinn á fellinu, austan megin við stóra sprungu sem nær í gegnum hann, er í mjög mikilli óreiðu. Efsta opnan sunnan megin við hann byrjar í um 170 m hæð yfir sjávarmáli, en neðan við hann er engin opna niður að flatanum. Neðsta lagið er álíka byggt upp og neðsta lagið í fellinu, lag eitt, en síðan virðast opnur skiptast á að vera eins og lag eitt og lag tvö. Engin regla virðist vera á því hvort lagið finnst í hverri opnu, eða hvort þau finnist bæði. Neðst í mörgum opnunum er hægt að sjá bólstramyndanir, en þær minnka því ofar sem í opnurnar er farið. Þegar komið er efst í opnurnar má oft finna grunnmassa í kringum litlar völur, sem eru algengastar í kringum 5 cm á lengd. Því nær bólstramyndununum því stærri eru völurnar og minna er um grunnmassann. Þrátt fyrir það var þetta alls ekki allsráðandi og var oft mikill grunnmassi nálægt bólstramyndunum og á milli þeirra.
Þorbjarnarfell – myndun.
Austan megin við sprunguna í gegnum toppinn var svipað útlit og var vestan megin við. Efst í flestum opnum var mikið um litlar völur (flestar um 5 cm) sem lágu nokkuð þétt við hver aðra, með smá grunnmassa á milli. Neðst í opnunum mátti oft sjá bólstramyndanir og flestir bólstrarnir voru 10 cm á lengd eða lengri. Misjafnt var hvernig opnurnar voru, sumar voru með mikinn grunnmassa og völur, aðrar með lítinn grunnmassa og mikið af völum sem lágu þétt við hverja aðra og svo bólstramyndanir. Algengt var að síðarnefndu tveir hlutirnir væru saman, en bólstramyndanirnar voru sjaldan stakar.
Þorbjarnarfell – gígurinn.
Upp á miðju fellinu mátti finna gígmyndun. Gígurinn var gróinn og ekkert um opnur þar ofaní, ásamt því að hann var mikið skemmdur af mannavöldum. Því fundust engin ummerki um rennandi hraun. Toppurinn á fellinu er sunnan- og suðvestan megin við gíginn. Svo virðist sem sprungurnar á leið fimm og sjö snúi á móti hvor annarri, þar sem veggir þeirra liggja að hvor öðrum. Opnurnar tvær liggja þvert í gegnum fellið, með NA – SV stefnu. Á milli opnanna tveggja virðist hafa myndast nokkurs konar dæld í landið, þar sem landið á milli þeirra liggur neðar heldur en opnurnar. Opnurnar tvær liggja hvor sín megin við toppinn, eða gíg fellsins.
Ályktanir
Þorbjarnarfell virðist vera myndað úr tveimur berggerðum og engin þunn setlög voru að finna á milli þeirra. Fyrri gerðin sem var greint frá reyndist vera hyaloclastite, en lýsingin passar vel við niðurstöðurnar. Seinni gerðin reyndist vera bólstraberg. Í neðri hluta fellsins var á mörgum stöðum einungis hægt að sjá hyaloclastite, en bólstramyndanirnar urðu algengari því hærra sem var farið. Þegar þær sáust neðarlega þá var það að mestu í stórum og góðum opnum. Hyaloclastite lagið er ráðandi í fellinu þó stöku opnur sýni aðeins bólstraberg og var bólstrabergið oft ráðandi í opnum ofarlega, eða nálægt flatanum. Toppurinn af fellinu var aftur á móti hálfgerð óreiða, þar sem finna mátti bæði lögin á víxl.
Þrátt fyrir að hyaloclastite lagið finnist neðst í fellinu þá hefur bólstrabergið líklegast myndast á undan því, þar sem bólstrabergið myndast við meiri þrýsting. Það gæti útskýrst af því að stöðuvatn hafi myndast undir jöklinum og hyaloclastic lagið hafi lagst alveg yfir bólstrabergið og falið það. Síðar hafi veðrun og jarðskjálftar haft mikil áhrif, tekið hyaloclastite lagið að hluta í burtu og opnað fyrir bólstrabergið.
Þorbjarnarfell.
Þar sem toppurinn af fellinu er mjög brotinn gæti verið hægt að finna ástæðu fyrir óreiðunni þar með jarðskjálftum og veðrun.
Fellið hafi brotnað mikið efst, hyaloclastite lagið brotnað niður og jafnvel horfið, og opnast fyrir bólstrabergið. Þar sem mikið er um fínt efni í hyaloclastite á það auðveldara með að veðrast og hverfa heldur en bólstrabergið. Magn skriðuefna í fellinu bendir til þess að mikil veðrun hafi átt sér stað og mikið hafi brotnað úr fellinu. Bólstramyndanir í opnum virtust aukast í kringum 100 m hæðarlínuna.
Þorbjarnarfell – bólstrar í Þjófagjá.
Innan í sprungunum á toppnum mátti finna bólstraberg og virtust veggirnir vera alveg byggðir upp af því. Það styður fyrri útskýringu.
Hafi fellið myndast með þessum hætti hefur þetta líklegast einungis verið einn atburður.
Það að Þorbjarnarfell sé byggt upp af bólstrabergi og hyaloclastite passar við lýsingar Ármanns og fleirum á því hvernig bólstraberg á Íslandi myndast. Þeir taka fram að munurinn á því hvort bólstraberg eða hyaloclastite myndist sé aðallega þrýstingsmunur (Höskuldsson & fleiri 2005). Því hafi bólstraberg myndast á undan hyaloclastite laginu, þar sem það myndast við minni þrýsting. Hyaloclastite lagið hefur síðar lagst ofan á bólstrabergið, og myndað hálfgerða kápu utanum bergið.
Þorbjarnarfell – bólstraberg í bnland við Hyaloclastite.
Þar sem engin ummerki fundust um rennandi hraun í fellinu hefur gosið líklegast aldrei komist upp á yfirborð. Gosið hefur því verið alveg undir jökli eða vatni, en samkvæmt Jóni Jónssyni þá var gosið alveg undir jökli (Jón Jónsson 1978) og gígurinn hefur líklegast myndast eftir að bólstrabersgflæðið hætti og hyaloclastite fór að myndast. Þá hefur þrýstingurinn verið orðinn töluvert minni en áður og gosið komið nær yfirborði. Þar sem toppurinn á fellinu liggur ofan við gígmyndunina er líklegt að toppurinn sé hluti af gígbörmunum og að þeir hafi fallið saman hinum megin.
Í toppi Þorbjarnarfells.
Ef toppurinn er hluti af gígbörmunum þá útskýrir það mögulega hvers vegna toppurinn er svona mikil óreiða. Þar hafi sprengivirkni verið meiri og bólstrabergið því brotnað mikið upp og dreifst út um allt. Því gæti móberg eða hyaloclastite lagst inn á milli laganna og lögin því blandast mikið saman.
Jón Jónsson lýsir Þorbjarnarfelli þannig að það sé úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif og að engar vísbendingar um rennandi hraun séu í fellinu.
Það hversu brotið fellið er gæti útskýrst af því að það liggur á flekaskilunum. Reykjanesskagi er þekkt jarðskjálftasvæði og mikið er um misgengi þar. Því er líklegast að sprungurnar sem finnst í fellinu séu misgengi. Samkvæmt Jóni þá er Þorbjarnarfell mjög brotið og mikið finnst af misgengjum og að má finna sigdal í miðju fellinu. Siggengið liggur einmitt á milli leiðar fimm og sjö. Samkvæmt honum eru margar sprungur í kringum sigdalinn tengdar honum, sem og misgengin.
Þorbjarnarfell (Þorbjörn).
Þrátt fyrir að Þorbjarnarfellið sjálft hafi líklegast verið myndað í einu gosi hafa líklegast margir mismunandi atburðir stuðlað að útliti þess. Má þar á meðal nefna þegar sigdalurinn í fellinu myndaðist ásamt öllum sprungum og misgengjum. Sigdalur, eða siggengi, myndast þegar tvö misgengi falla í átt að hvor öðru, og það sem er á milli sígur niður. (Marshak, S. 2012).
Hyaloclastite í móbergi.
Í fellinu fundust sex áberandi misgengi. Tvö þeirra eru staðsett í veggjum sigdalsins með stefnuna NA-SV. Í öðru misgenginu er það vestur hliðin fellur niður og í hinu fellur austur hliðin niður. Í þeim er að finna mestu breytinguna en sprunguveggirnir ná allt að 5-6 m hæð.
Eitt misgengið er að finna í miðjum sigdalnum með stefnuna NA-SV og fer það í gegnum toppinn. Ekki var var neitt áberandi sig þar. Tvö misgengi eru staðsett austan við sigdalinn með svipaða stefnu og áður og fellur austur hliðin í þeim báðum niður. Misgengið sem er staðsett nær sigdalnum var ekki með mikið sig og virtist það vera um 1-2 m. Misgengið sem var staðsett fjær dalnum var með aðeins meira sig og náði allt að þrem metrum þar sem það var stæðst. Vestan við sigdalinn var eitt misgengi sem var með aðeins öðruvísi stefnu heldur en hin. Þar var stefnan meira í N-S átt. Ekki var að finna neitt áberandi sig þar.“
Ritgerðin tekur augljóslega, líkt og svo margar aðrar ritgerðir við Háskóla Íslands, mið af heimildavísan til leiðbeinandans, að þessu sinni Ármanns Höskuldssonar.
Heimild:
-Myndun Þorbjarnarfells, Haukur Björnsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands, 2015.
Þorbjarnarfell. Baðsvellir nær.
Jón á Skála
Eftirfarandi umfjöllun um „Jón á Skála„, Jón Valgeir Guðmundsson, birtist á vefsíðu Grindavíkur árið 2020. Viðtalið við hann hafði áður birst í Járngerði.
Ég væri til í að lifa aftur allt það líf sem ég hef nú þegar lifað
Jón Guðmundsson 18 ára.
Jón á Skála, eða Jón Valgeir Guðmundsson, er elsti núlifandi Grindvíkingurinn og verður 98 ára í sumar. Ritstjóri Járngerðar hitti hann snemma í janúar og tók við hann viðtal sem við endurbirtum núna á heimasíðunni en það birtist áður í Járngerði.
Jón tekur á móti blaðamanni í notalegri íbúð í nýrri viðbyggingu við Víðihlíð rétt eftir áramótin. Jólaljósin eru enn tendruð og fallegur rauður jóladúkur þekur eldhúsborðið þar sem við fáum okkur sæti. Við byrjum á því að ræða flutninginn í Víðihlíð sem Jón er alsæll með, svo ánægður að hann hefur þegar nefnt kotið Sælustaði. Hann lýsir dvölinni í Víðihlíð sem „himnaríki á jörðu“.
Jón Valgeir fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.
Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur
Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.
Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krísuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í Skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.
„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“
Strandaði á síldarveiðum
Jón Valgeir Guðmundsson.
„Árið 1938 fór ég á síld á Ægi frá Sandgerði og fékk 850 krónur fyrir sumarið, þá var róið út á árum. Við köstuðum þar á torfu við Skjálfanda.
Við náðum að fylla Ægi og héldum í land á Siglufirði. Um nóttina, meðan við erum á siglingu, gerist það að það heyrist skruðningur, svo heyrði ég voða læti í vélinni og svo kom dauðaþögn. Það var svarta þoka, sást ekki út úr augunum, sjórinn var spegilsléttur. Við höfðum fengið í skrúfuna og báturinn strandað. Um nóttina erum við allir komnir upp á dekk. Klukkan hálf sex um morguninn var komin fjara og þá gátum við náð úr skrúfunni og svo biðum við bara eftir því að það félli að aftur. Svo líður og bíður og ekkert gerist en báturinn stóð milli tveggja kletta. Klukkan 14:00 daginn eftir losnar báturinn og í því kemur Muninn, bátur frá sömu útgerð og Ægir, sem er þá þegar búinn að landa síldinni sem hann var með og skipstjórinn kallaði: „Hvernig fórstu að því að stranda í svona góðu veðri?“ Okkur gekk í kjölfarið vel að veiða, eltum bara múkkann og fylltum báða bátana.
Dreymdi fyrir sjávarháska við Færeyjabanka
Jón Valgeir Guðmundsson.
Jón segir að lífið hafi alltaf gengið vel hjá honum, „alla tíð, það hefur alltaf verið bjart í kringum mig. Ég er berdreyminn, á sjó og landi, og mig dreymir oft fyrir vandræðum. Ég hef verið heppinn, sloppið úr háska vegna aðvarana sem ég fékk í draumi.“
Jón heldur áfram að rifja upp atvik þar sem hann dreymdi fyrir sjávarháska. „Árið 1959 gerðist ég útgerðarmaður og keypti bát. Við fengum leyfi til að byggja bát í Þýskalandi. Við fórum að sækja bátinn, fórum tveir úr Grindavík, ég og Guðmundur Helgason, en nokkrir voru komnir út. Báturinn átti að leggja af stað heim þremur dögum fyrir jól. Þegar við erum að sigla Eystrasaltið þá dreymir mig að tvær konur ætli að drepa mig. Ég var hálf vankaður þegar ég vakna enda leiðinlegur draumur, svo ég segi við skipsfélaga mína að mig hafi dreymt ljótan draum í nótt og ég túlkaði drauminn á þann veg að litlu myndi muna að við færumst með skipinu. Þegar við erum komnir á Færeyjabankann, þá er hífandi rok og suðaustan 12 vindstig. Ég var skráður annar vélstjóri, en ég var uppi um 10 um morguninn. Þá sé ég þennan voða sjó koma á eftir bátnum, alveg himinháar öldur. Ég stoppa strax vélina til að taka ferðina af bátnum. Þá kemur siglingamaðurinn, Jón Pétursson, og segir: „Hvern djöfulinn, af hverju erum við að hægja á?“ Og ég segi við hann: „Hvað, sérðu ekki hvað er að ske?“
„Þessi 75 tommu trébátur, sem við vorum á, hann stakkst bara á nefið. Ef ég hefði ekki slegið af þá hefði honum bara hvolft. Og þetta hefur fylgt mér alla tíð, bæði á sjó og landi, ég fæ þessar aðvaranir. Mig dreymdi oft fyrir afla og eins þegar ekkert fékkst. Ef það var von á afla þá var báturinn á kafi í draumnum, en ef ekkert fékkst þá var hann bundinn við bryggju í draumnum. Svona hefur þetta verið allt mitt líf, alltaf eitthvað verið til að bjarga mér. Mig dreymdi þó ekki fyrir strandinu á Ægi og það er vegna þess að þá var rennisléttur sjórinn og gott veður.“
„Þú verður ekki gamall maður“
Jón valgeir Guðmundsson.
„Einu sinni dreymdi mig að ég var úti í Hælsvík, ég var á trillu sem var nánast sokkin, sást ekkert í hana nema lestarborðið. Þetta var á sunnudegi og við förum út að Hælsvík og þar er ekkert að hafa. Síðan klukkan ellefu um kvöldið vænkaðist staðan og við fengum fullt af fiski. Drógum fullan bát eða um tvö tonn.“ Jón segir að þegar þeir hafi komið í land á mánudagsmorgni, hafi Þórarinn Pétursson, sem sá um reksturinn í Þórkötlustaðavinnslunni, komið til hans og sagt að nú ætti að skipa út 6000 kössum af fiski. „Hann sagði við mig að ég yrði nú ekki upp á marga fiskana ef ég ætlaði að vinna svona, „þá verður þú nú ekki gamall maður,“ en ég svaraði því til að það besta sem maður gerði væri að vera vinnandi. Svo fór að hann dó því miður úr krabbameini um sextugt og hér er ég, lifandi enn þá!
Berserksgangur í Kvennó
Kvenfélagshúsið.
Gamli tíminn er rifjaður upp og skemmtanir sem oft voru haldnar í Kvennó berast í tal, hvernig nýi tíminn mætir þeim gamla þegar kemur að slíku. Jón rifjar þá upp skemmtun í Kvennó sem haldin var á laugardegi fyrir páska, fyrir töluvert mörgum árum. Félagsheimilið Festi var a.m.k. ekki risið. „Yfirleitt var dansað á neðri hæðinni í Kvennó, setið var á bekkjum og konum boðið upp í dans. Þó var hópur sem hélt sig á efri hæðinni, oftast karlmenn sem sátu og drukku.“ Jóni var minnisstætt atvik þegar Kalli í Karlsskála var búinn að fá sér aðeins of mikið, losaði borðfætur undan borði og gekk svo berserksgang og lamdi alla þá sem fyrir voru. Jón sagði að svo mikil hafi lætin verið að hann hafi hlaupið eins og byssubrandur niður, út og heim. Hann hafi eftir þetta ekki verið mjög spenntur fyrir að sækja skemmtanir sem þessar. Menn hefðu orðið svo lemstraðir í átökunum að þeir gátu ekki róið eftir páskastoppið, „en það hefur aldrei verið stuggað við mér og ég ekki við neinum,“ bætir Jón við.
Mikilvægt að vera heilbrigður á líkama og sál
Ísólfsskáli.
Talið berst að langlífi en nokkur systkina Jóns hafa lifað nokkuð lengi. „Það besta við að vera langlífur er að hafa nóg að gera og nóg að starfa. Og vera heilbrigður á líkama og sál. Það að trúa á almættið skiptir miklu máli. Það styrkir mann svo að vita af því að það er einhver sem lætur mann vita af vandræðum. Þetta hefur fylgt mér alla daga. Ég reri nú einn um nokkurt skeið en aldrei hef ég óttast neitt eða verið hræddur um að nokkuð komi fyrir mig. Þetta er alveg æðislegt að fá að lifa svona lengi og fá að vera svona heilbrigður. Ég væri til í að lifa allt það líf, sem ég hef nú þegar lifað, aftur. Það hefur ekkert komið fyrir mig og ég hef verið látinn vita ef hættur eru framundan. Draumarnir hafa alltaf fylgt mér,“ segir Jón að lokum.
Jón dó ári seinna, líkt og allra núlifandi má vænta.
Heimild:
-https://grindavik.is/v/22455
Ísólfsskáli.