Hvalsnesgata

Friðþór Eydal leiðsagði hópnum um varnarliðssvæði Keflavíkurflugvallar og nágrenni.

Keflavíkurflugvöllur

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.

Braggar

Braggar við Keflavíkurflugvöll.

Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.
Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.

Hvalsnesgata

Gengið um Hvalsnesgötu við flugvöllinn.

Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942. Var Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.
Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.

Pattersonflugvöllur

Pattersonflugvöllur 1958.

Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946. Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturn.

Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið. Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.
Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.
Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel við Keflavíkurflugvöll.

Allnokkrar minjar eru innan varnarsvæðisins. Má t.d. nefna Fuglavíkursel, gömlu Hvalsnesleiðina, Stafnessel, Gamla-Kirkjuvog, tóftir við Djúpavog og á Selhellu, Kaupstaðagötuna, Hansakaupmannaverslunarstaðinn við Þórshöfn og Kirkjuvogssel, auk þess sem svæðið sker í sundur Skipsstíginn, hina gömlu þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Mikilvægt er fyrir stolt okkar Íslendinga að endurheimta það svæði, u.þ.b. 50 metra breytt þar sem hitaveitulögnin liggur í gegn, sem fyrst. Bandaríkjamenn ættu að hafa skilning á því að ávallt er mikilvægt að halda þjóðleiðunum opnum, jafnvel á stríðstímum.

Hvalsnesgata

Varða við Hvalsnesgötu.

Annars hafa minjar innan svæðisins verið ágætlega varðveittar án þess að það hafi beinlínis verið ásetningur þeirra, sem með það höndla.
Þess má geta að lokum, til fróðleiks, að í aðalstjórnstöð NATO á Keflavíkurflugvelli hangir stórt spjald með tveimur myndum undir yfirskriftinni Wanted Dead and Alive; annars vegar er mynd af Bin Laden (dead) og hins vegar (alive) er mynd af hvíthærðri FERLIRsálfkonu. Svo virðist sem hermönnunum sé meira í mun að ná hinni síðarnefndu – alive.

-Upplýsingarnar eru m.a. úr riti um 50 ára afmæli varnarsamningsins 2001 og frá Friðþóri Eydal

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson, bóndi á Kálfatjörn lýsa hér Kálfatjarnarhverfinu. Gunnar er fæddur í Tíðagerði í febrúar 1920. Tíðagerði var byggt úr landi Norðurkots. Hann fluttist að Kálfatjörn fárra vikna gamall og er uppalinn þar. Ólafur er einnig fæddur í Tíðagerði, í október 1916, og ólst þar upp til tvítugs. Hér er getið hluta lýsingar þeirra lesendum til fróðleiks og glöggvunar. Þessi lýsing er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að golfarar að Kálfatjörn hafa verið einka skeytingalausir um varðveistu fornra minja á svæðinu.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

“Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeira hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingarnar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsanna er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin.

Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu, og hefur lengst af þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera verður sökum þess hversu jarðvegurinn er hér grunnur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Nú, um áratugi, hefur garðurinn verið girtur með vírneti. Beint fram af kirkjudyrum er hlið á girðingunni, sáluhliðið. Veit það mót vestri sem vænta má. Sunnan og suðvestan megin bæjarins er túnið, nefnt Land, slétt og hólalaust, utan hólbunga, allmikil um sig, suður við túngarðinn og niður undir Naustakotstúninu svonefndu.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Hólbunga þessi heitir Hallshóll. Efst í suðurtúninu, ofan við landið, er Landamóinn,nú fyrir alllöngu slétt tún að mestu leyti utan dálítil ræma meðfram Heiðargarði, en svo nefnist garðurinn, er ver túnið þeim megin sem að heiðinni veit. Í landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann um 2×3 m ummáls og 1.3 m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn. Austan og norðaustan bæjarins er kallað Upptún. Heim undir bæjarhólmanum að norðanverðu er Fjóshóll. Hann er brattur mót norðri og norðvestri. Það stóð fjósið lengi.
Vestan við bæinn er Kálfatjörnin. Þar segir af skepnum – sækúm.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.

Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í Naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðan þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjöruru. Þá voru og teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru þetta kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Á sumrum, einkum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu íljós þegar út fjarðaði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvotur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón svo skola mátti.

Neðan við Rásina er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð1703), hefur lengi verið í eyði. Þarna eru nú fjárhús. Sunnan við þau er fjárrétt og fast við hana að sunnanverðu grasigróið gerði.Það var kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausra í sumartíð uns það lagðist niður með öllu á stríðsárunum síðari.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefna Thorarensen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn. Agt er a sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðan).
Þegar nálgast suðausturhorn Kálfattjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfajarnartúns) uns hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. Við vesturenda baðstofunnar í Hliði, lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugartan. Rétt ofan við götuna lá grjótsrétt þvert yfir Goðhólstúnin, kölluð Kirkjubrú. Mælt er að Kirkjubrúin hafi verið til þess gerð að aðvelda kirkjufólki för yfir hana. Í brúnni er ártalsstein (1790). Líklega hefur hann gegnt hlutverki skósteins.
Í heiðinni er Staðarborgin, gömul fjárborg frá Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Duushús

Kaupstaðurinn Keflavík stendur við samnefnda vík er markast af Hólmsbergi að norðanverðu, af Vatnsnesi að sunnanverðu, og gengur inn úr vestanverðum Stakksfirði, en svo nefnist syðri hluti Faxaflóa, sem markast af Rosmhvalanesi og Kvíguvogastapa að austanverðu.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Heimafólk segir að fallegt sé í Keflavík – þegar vel viðrar. En þar gnauða líka vindar allra átt. Landsynningurinn og Útsynningurinn hlaupa óhindraðir yfir lágan skagann og norðanstormurinn stendur beint uppá víkina, – þá þeytist sjórokið yfir bæinn, og þeim, sem ókunnugir eru, finnst þá ömurlegt um að litast. Því miður endurspeglar þetta um of viðhorf heimamanna þegar þeir lýsa aðstæðum fyrir utanaðkomandi.
En svona hefur þetta verið frá aldaöðli, þeir bera því vitni klettarnir á Vatnsnesinu og Berginu, þeir eru brimsorfnir langt inn til lands. “Landið er til að láta sér þykja vænt um það. Með því einu er hægt að fá landið til að umbera mann.”

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Jörðin Keflavík var ekki stór. Með sjávarsíðunni afmarkast hún að norðan af “Grófinni”, sem næst er Berginu, að sunnanverðu af Nástrandargróf, sem aðrir kalla Nærstrandar, eða þar sem nú er neðsti hluti Tjarnargötu.
Landamerkin að norðanverðu voru bein lína dregin úr Gróf upp í “Keflavíkurborg”, en svo nefnist gamall stekkur á holtinu upp af Garðvegi, rétt norðan við núverandi byggð, og þar er nú mælipunktur frá Landmælingum Íslands. Þaðan lá svo bein lína í átt að Kölku (sem var stór og mikil hvítkölkuð varða á Háaleitinu), þar til sjónlínu úr Nástrandarvörðu er skar hana í holtinu suðvestur af Iðavöllum.

Keflavík

Brunnur ofan Stekkjarhamars.

Til suðurs frá Grófinni rís landið muög, svo að sjávarkanturinn nær allt að 6 metra hæð og gengur suður að svokallaðri “Stokkavör” þar sem uppsátur Keflavíkurbóndans hafði alltaf verið.

Upp af þessum sjávarkanti reis landið nokkuð og náði 9 metra hæð á áberandi hól, og þar fast fyrir sunnan mun bærinn hafa staðið eftir sögn elstu manna, en túninu hallaði frá bænum í allar áttir.
Marta Valgerður Jónsdóttir getur þess í grein í Faxa í maí 1947, til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, að greint hafi verið frá því, aðþar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldri Duus.

Keflavík

Drykkjarsteinn ofan Keflavíkurbjargs.

Þá hafa einnig verið sagðar sögur af miklum landspjöllum af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land og bakkarnir hrunið smátt og smátt fram.
Frá Stokkavör suður af Nástrandargróf reis landið aftur fram við sjóinn, og náði sjávarkanturinn þar enn um 6 metra hæð. Það urðu mikil landbrot á því svæði, sem ekki var stöðvað fyrr en 1949 er lokið var að gera steinsteyptan sjávargarð á verstu staðina.
Ekki er vitað hvenær búskapur hefur hafist í Keflavík, um það eru engar sagnir, en ætla má að það hafi verið nokkuð snemma, en sennilega hefur sá búskapur aldrei verið mikill, aðeins kotbúskapur sem að miklu leyti hafur byggst á útræði.

Keflavík

Keflavík – gamli bærinn fremst.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir svo um Keflavík: “Hér er fyrirsvar ekkert, jarðardýrleiki óviss. Eigandi kongl. Majestat. Ábúandi Halldór Magnússon, landsskuld (þ.e. afgjald) 25 álnir, sem borgast 1 vætt og 2 fjórðungar fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum.
Við til húsábóta leggur ábúandinn. Kúgildi er ekkert. Inntökuskip eru hér engin, lending slæm. Engjar engar, úthagar í betra lagi og vatnsból í allra lakasta máta sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartímann.”

Keflavík

Keflavík – vinda í Duushúsum.

Samkvæmt jarðabók er hægt að gera sér grein fyrir að land jarðarinnar hafi verið ólíkt grasgefnara þá og fyrr, en varð á síðustu árum og hefur uppbástur eytt jarðvegi og gróðri á þeim tæpum 3 öldum, sem eru liðnar, því allt land fyrir ofan kauptúnið var orðið örfoka, en eldra fólk benti á þykk rofabörð eins og eyjur upp úr melunum með þéttum grasverði, sem sýnishorn af því sem verið hafði.

Keflavík

Stekkur undir Stekkjarhamri.

Í Faxa í maí 1947 segir MVJ um kvaðirnar á Keflavíkurbóndanum. “Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímanna, en svo sem kunnugt er. Hafði konungsvaldið eða umboðsmenn á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabestu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira.”

Keflavík

T.d. voru sumir Innnesjamenn skyldir til að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verslunarskipunum til Danmerkur.
Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni og Páll sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur verið laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verslunarhúsa hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur.
Keflavík
Í Setbergsannál er getið um Grím Bergsson í Keflavík er andaðist 8. janúar 1649 í einni heyótt á kvöldtíma. Grímur hafði fyrrum verið sýslumaður í Kjósasýslu. Hann bjó fyrst á Kirkjubóli á Miðnesi, síðan í Ytri Njarðvík og loks í Keflavík. Á meðan hann var í Ytri Njarðvík varð hann velgjörðarmaður Hallgríms Péturssonar. Tók hann þátt í að liðsinna Hallgrími þegar hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár með konuefni sitt Guðríði, en þau komu út í Keflavík.

KeflavíkÁrið 1750 er í Keflavík einn meðalbær og lítið kot. Þegar bændamanntal er tekið 1762 býr þar Hannes Höskuldsson. Hann mun vera síðasti bóndinn í Keflavík og leggst jörðin undir verslunina þar eftir hans daga.
Hinn 27. júní 1792 var samkvæmt fyrirskipan Ólafs stiftamtmanns háð söluþing í Reykjavík þar sem hann bauð til kaups 24 konungsjarðir á Miðnesi. Jörðin Keflavík var þar á meðal. Hún var slegin kaupmanninum í Keflavík, Christen Adolph Jacobæusi fyrir 50 ríkisdali.

-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.

Keflavík

Keflavík – Gamli bærinn á miðri mynd.

Keflavík

Árið 1845 eru eftirtaldir kaupmenn með verslun í Keflavík: Martinus Smith, Sveinbjörn Ólavsen, W. Ch. H. Fischer og Gros Knutsen.

Duus

Duus-brunnur.

Árið 1848 kaupir Peter Duus Keflavíkurverslunina, sem var norðan Stokkavarar og verslaði hann til 1864 að sonur hans, Hans Peter Duus tók við henni og verslaði hann til dauðadags, en hann lést 23. júlí 1884, aðeins 55 ára að aldri. Ekkja hans, Kristjana Duus, dóttir Sveinbjarnar kaupmanns í Keflavík, hélt áfram verslunarrekstrinum ásamt allri útgerð og umfangi, sem Duus hafði verið með áður, og var bróðir hennar, Ólafur, verslunarstjóri. Þessi verslun og útgerð var rekin til 1918 að Matthías Þórðarson kaupir hana. Matthías var frá Móum á Kjalarnesi.

Duus

Gamla búð er stakstætt bindingshús, kjallari, hæð og portbyggt ris. Það stendur á opnu svæði sunnan við Duus hús. Gamla búð var byggð árið 1870 af Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun á neðri hæð en kaupmaðurinn bjó á efri hæðinni. Húsið er einkum merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð. Grunnflötur hússins er ca. 80 m2, tvær hæðir og lítill kjallari. Hugmyndir um framtíðarnotkun hússins tengjast menningarlífi bæjarins. Húsið skemmdist í eldsvoða á 7. áratug 20. aldar.

H.P. Duus lét reisa nýja búð árið 1870-’71. Var það tveggja hæða hús er stendur enn á gatnamótum Vesturbrautar og Duusgötu. Í dag er það nefnt “Gamla búðin” og er aðeins eitt hús hér í Keflavík talið eldra, en það er Þorvarðarhús – Vallargata 28 – sem mun vera byggt árið 1870. Þá lét Duus einnig byggja árið 1876-77 stórt og mikið pakkhús upp á tvær hæðir og ris, sem stendur við Duusgötu. Var það strax nefnt “Bryggjuhús”, og var Duusbryggjan fram af því miðju.

Um eða fyrir síðustu aldamót hafði Duusverslunin keypt upp verslanirnar af Knutsen og Fischer og var þar með orðin eigandi að allri Keflavíkinni með mikil umsvif.

Við endurgerð Duushúsanna við gömlu Keflavík kom í ljós letursteinn með stöfunum HPD, sem enginn virtist veita sérstaka athygli. Maður, með athyglina í lagi, tók steininn til handargangs og hefur varðveitt hann æ síðan. Um er að ræða merkilega fornleif.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum (Hans Peter Duus) – stoðsteinn og jafnframt hornsteinn Bryggjuhússins. Steinninn er í einkaeigu.

Um aldamótin 1900 var miðhhúsið notað sem bíósalur, sem mun hafa verið sá fyrsti hérlendis.

Sjá meira HÉR.

-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.

Duushús

Bryggjuhúsið er elsta húsið í Duushúsalengjunni utan búðarinnar (1871). Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, forstjóra Duusverslunar. Húsið var mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls tvær hæðir og ris. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Húsið var byggt sem pakkhús eða lagerhús fyrir verslunina og var bryggja (Duusbryggja) byggð við húsið sem þá stóð á sjávarkambinum. Enn má sjá merki um þessa gömlu sögu í húsinu, m.a. er þar forn vatnsbrunnur, og í risi stór vöruvinda sem notuð var til að hífa varning milli hæða.

Alþingishúsið
Uppruni

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki evrópuríkisins Íslands.

Frá fornu fari hafa hermenn skreytt skildi sína en riddaratíminn í Evrópu ca. 1050-1450, var blómatími skjaldramerkjanna. Þá höfðu skjaldarmerkin hagýta þýðingu, m.s. samfara notkun lokaðs hjálms er olli því að ekki sást í andlit riddarans. Skjaldarmerkið var því oft það eina sem þekkja mátti riddrana á. Riddararar og lénsmenn þáðu skildi með merkum af lénsherra sínum og voru merkin tákn um tign og stöðu innan lénskerfis ríkisins.
Oftast var merki lénsmanns og riddara leitt af merki lénsherrans hvað liti og tákn varðaði.
Um skjaldarmerki fóru að gilda ákveðnar reglur sem urðu grundvöllur skjaldarmerkjafræðinnar. Greinin á sér fagorð og má nefna sem dæmi skjaldhöfuð, skjaldflöt, liti og lýsingu skjaldar. Skjaldarmerkjafræðin er ein hjálpargreina sagnfræðinnar, en auk sögulegs gildis hafa skjaldarmerkin listrænt gildi og táknrænt.

Íslensk skjaldarmerki
Skjaldarmerki
Saga íslenskra skjaldarmerkja er ekki eins litrík og skjaldarmerkjasaga þeirra Evrópuþjóða þar sem riddaramenningin blómstraði og íslenska sgan hefur heldur ekki verið rannsökuð til hlítar. Vanþekking og tilfinningasemi hafa oft ráðið skoðunum og ákvörðunum um íslensk skjaldarmerki, einkum á 20. öldinni. Umfjöllun um íslensk skjaldarmerki er skipt í þrjá kafla (hér verður fjallað um fyrsta kaflann):
1) um merki Íslands:
b) um merki Íslendinga sem hlutu aðalstign fyrr á öldum:
c) um merkibyggða, staða og svæða.

Ljónsmerkið
Í merkri skjaldarmerkjabók frá 13. öld, sem varðveitt er í ríkiskjalasafninu í Haag, er merki sem þar er kallað merki konungs Íslands. Í merkinu er upprétt, ókrýnt ljón með öxi. Danskur fræðimaður, Paul Warming, hefur leitt rök að því að merkið hafi verið merki Íslands eða þess manns sem fór með æðsta vald á íslandi í umboði Noregskonungs þá er merkjabók var gerð en Íslendingar höfðu gengið Noregskonungi á hönd árið 1264.

Þorskmerkið
Uppruni þorskmerkisins sem skjaldamerkis Íslands er að mestu hulinn. Danski skjaldarmerkjafræðingurinn Anders Thiset hefur bent á að Hansakaupmenn, sem aðsetur höfðu í Björgvin í Noregi, hafi haft þorsk ásamt fleiri táknum í sinnsigli sínu og þorskurinn hafi verið táknað viðskipti Hansakaupmanna með íslenskan fisk.
Þessi innsigli eru frá upphafi 15 aldar og yngri. Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt innsigli Íslands frá árinu 1593. Á innsiglinu er hausaður þorskur með kórónu. Einnig þekkist fallur þorskur með kórónu sem tákn Íslands um svipað leyti. Á síðari hluta 19. aldar fór að bera á óánægju meðal Íslendinga með þorskmerkið, þ.e. flatta krýnda þorskinn. Þessi óánægja var aðllega tilfinningalegs eðlis og þekkingu á skjaldarmerkjafræði skorti. Ýmsir töldu að Danir hefðu þröngvað merkinu upp á landsmenn og töldu merkið ljótt. Tillögur komu fram um nýtt merki og runnu þær oft saman við óskir Íslendinga á þessum árum, um íslenskan fána. Sumir telja að Sigurður Guðmundsson málari hafi fyrstur manna vakið áhuga Íslendinga á því að íslenski fálkinn væri vel til þess fallinn að vera merki Íslands.

Fálkamerkið
Árið 1897 ritaði Einar Benediktsson skáld grein þar sem hann segir að oft geri Íslendingar ekki mun á merki (skjaldarmerki) og fána. Hann telur fálkann hæfa vel sem merki, en leggur til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum fleti. Árið 1903 var gerð sú breyting á stjórnarskrá Íslands að ráðherra Íslands skyldi vera íslenskur og búsettur á Íslandi. Dönsk stórnvöld notuðu þetta tækifæri og breyttu skjaldarmerki landsins til að koma til móts við óskir Íslendinga um nýtt skjaldarmerki. Úrskurður var gefinn út 3. okróber 1903 um að skjaldarmerkin Íslands skyldi vera hvítur fálki á bláu grunni. Ekki voru allir Íslendingar sáttir við útfærslu merkisins af hálfu Dana og hefðu sumir kosið að teikning Sigurðar Guðmundssonar málara af fálkamerki hefðu verið notaðar, en þær sýndu fálkann með þanda vængi.

Landvættamerkið eldra
Í tilefni fullveldis Íslands 1918 hófust umræður um nýtt skjaldarmerki. Ýmsar tillögur höfu komið fram um nýtt merki í stað fálkans, ma. tillaga Halldórs Hermannssonar prófessors, árið 1916 um að landvættirnar yrðu teknar upp í merkið. Matthías Þórðar

son þjóðminjavörður lagði einnig fram tillögur og var ein þeirra sú að merkið yrðis ömu gerðar og hinn nýi blái, hvíti og rauði þjóðfáni Íslendinga. Jón Magnússon forsætisráðhera bað Ríkharð Jónsson myndhöggvara að vinna úr tillögunum. Mynd Ríkharðs, krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands, en skjaldberar hinar fjórar landvættir, dreki, gammur, uxi og risi, varð skjaldarmerki Íslands frá 1919-1944.

Landvættarmerkið yngra
Fyrir þjóðveldisstofun 1944 fór þáverandi forsætisráðherra, dr. Björn Þórðarson, þess á leit við nokkra menn að þeir gerðu tillögu um gerð skjaldarmerkis fyrir hið nýja lýðveldi. Niðrustaðan var sú að halda bæri landvættamerkinu frá 1919 með nokkrum breytingum. Tryggvi Magnússon listmálari teiknaði nýja merkið og 17. júní 1944 gaf nýkjörninn forseti Íslands, Svein Björnsson, út úrskurð um nýja landvættamerkið, sem síðan hefur verið skjaldarmerki Íslands.

Guðný Jónsdóttir

Stjórnarráðið

Stjórnarráðið.

Álftanes - kort 1870

Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:

Saga Reykjavíkur

Saga Reykjavíkur.

 -Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.

Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.

-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.

Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.

Álftanessaga

Álftanessaga.

Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.

Saga Hafnarfjarðar

Saga Hafnarfjarðar.

-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:

Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.

-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.

Saga Keflavíkur

Saga Keflavíkur.

Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.

Seltirningabók

Seltirningabók.

-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.

-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.

Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.

Saga Grindavíkur

Saga Grindavíkur.

-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.

Grindavík

Grindavík 2023.

Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.

Saga Njarðvíkur

Saga Njarðvíkur.

-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.

Saga Garðabæjar

Saga Garðabæjar.

-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.

-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.

Kópavogur

Kópavogur – jarðir.

Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.

Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.

Kópavogur

Kópavogur 1965.

Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.

http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1913.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin „Keili á og kotið Lóna“ og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarkot

Reykjanesskaginn á sér magnaða sögu.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki.

Íbúarnir hafa hins vegar oft verið meira sem þátttakendur en gerendur í hinum stærri atburðum, s.s. atburðunum í kjölfar átaka Englendinga og Þjóðverja og aftöku Jóns Arasonar. Mikil umferð fólks var um svæðið alls staðar af landinu, það kom á vertíðir og fór síðan. Kot voru mörg hver lítil og oft nýtt til tiltölulega skamms tíma, sbr. Stekkjarkot í Narðvík. Höfuðbýlin voru fá, en lítt ríkmannleg, með örfáum undantekningum.
Í seinni tíð má segja að á Reykjanesskaganum hafi nútíminn verið stærri en sagan, en víða úti á landi hefur sagan verið stærri en nútíminn (SÁJ).

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Þannig hafa íbúarnir vera meira uppteknir af því að hafa ofan af fyrir sér með niðursoðnu afþreyingarefni en leita þess í sögunni, þjóðarmenningunni. Landsbyggðin hefur hins vegar notið fortíðarinnar og nýtt sér hana til framtíðar. Hvorutveggja eru þau næringarefni nútímans, sem maðurinn þarnast til að geta verið sæmilega sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt.

Víðast hvar í heiminum er verið að leggja aukna áherslu á nýtingu áþreifanlegra minja til að gera íbúnum og gestum þeirra mögulegt að „þreifa á“ uppruna sínum.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að uppruninn er sú auðlind, sem allt annað er á eftir kemur byggist á.
Þróun er afbrigði þess þekkta. Sá, sem ekki þekkir, kemur hvorki til með að geta þróað eitt né neitt.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Gömlu-Hafnir

“Það er haft eftir Magnúsi Stephensen, að samkvæmt ævagömlum heimildum hafi mest allur hluti Reykjaness árið 1000 sokkið í sæ, og þá komið upp Geirfuglasker. Ætti þá fyrir þann tíma að hafa verið land langt norðvestur út fyrir Eldeyjar, þannig að Eldey og drangar þeir, sem þar eru, hafi á þeim tíma og fyrr verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Þetta er mjög líklegt, enda kemur það heim við fornsögur vorar, því þar er þess getið, að þegar fornmenn komu siglandi fyrir Reykjanes, þá blasti við þeim opinn Faxaflói. Kemur þetta alveg heim við nútímann.
Árið 1118 er mesta óár, og undur gerast á Reykjanesi. Þá er landskjálfti mikill og eldur þar fyrir; þá farast 18 menn. Svo kemur röðin af óárunum á Reykjanesi og eldgosum, er smátt og smátt eyðileggja allan þann gróður og grashéruð, er hafa verið til forna á Reykjanesi.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Árið 1206 er eldgos á Reykjanesi, sömulieðis 1210, og ’11 brann Reykjanes. Þá sukku ýmsar eyjar, er voru úti fyrir nesinu. 1222 er einnig eldgos, 1223 líka; það sama á gýs Hekla. Fyrri helmingur 13. aldar á mestan þátt í því að leggja býlin í kringum Skjótastaði í auðn. Myrkur var um hábjartan dag á Suðurnesjum árið 1226.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Elsta handrit um byggð í Höfnum, er máldagi, sem Vilkin biskum gjörði, er hann visiteraði í hafnirnar 1397, eða 5 árum fyrir Svartdauða. Þessi visitazía er elsta og merkilegasta lýsing á Höfnum, eða réttra sagt Vogkirkju. Á þessum máldaga sést að Vogskirkja er helgið Maríu mey, fyrst og fremst, og að nokkru leyti Pétri postula.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður ofan Gömlu-Hafna.

Rosmhvalanes var, samkvæmt gömlum skjölum, frá grófinni hjá Duus í Keflavík í Háleitisþúfu og þaðan í Ósabotna, er þeir ná lengst í austur. Hvað byggt hefir verið sunnar með Ósunum á þessum tímum, er ei vitað, en þó líklegt, að í Kirkjuvogi hafi verið kot eða hjáleiga frá Vogi.
Í Kirkjuhöfn var kirkja á 12. og 13. öld, þótt ekki sé hennar getið hjá Vilkin biskupi.
Talið er víst, að byggð hafi verið á Eyri lengi fram eftir 18. öld, því 1770 býr þar í Eyrarbænum Ormur Þórarinsson (Litla Sandhöfn (Sandhöfn)). Um 1702 er Litla-Sandhöfn skilgreind. Bærinn eyðilagðist 1650 og Eyrarbærinn fór í eyði um 1770. Kirkjuhöfn mun leggjast í afslöppun á næstunni nokkru síðar, 1660, og Eyrarbærinn fór í eyði 1776.
Kirkjan er mjög áhugaverð.“

-Séra Jón Thorarensen
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Dauðsmannsvarða

 “Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgatan gengin.

Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar. Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsgata neðri við Sandgerðisgötu.

Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar. Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannvarða.

Sem dæmi um framangreint má nefna Jón Guðmundsson, bónda í Sandgerði, 42 ára. Hann varð úti nóttina 21. desember 1930 í ofsaveðri, þá er hann var á heimleið frá Keflavík eftir forlíkun; fannst nóttina þess 22. desember skammt frá bæjum, helfrosinn.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður Eiríksson við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Þorlákur Stefánsson, 45 ára, vinnumaður frá Núpi í Fljótshlíð, sjóróandi á Hrúðunesi í Leiru, varð úti nóttina að 24. febrúar 1837 á Hólmsbergi á leið frá Keflavík að Hrúðurnesi. Hann fannst látinn um kvöldið daginn eftir.

Ásgeir Sigurðsson, 53 ára, giftur húsmaður frá Keflavík, nú sjóróandi frá Gerðum, varð úti á leið frá Keflavík sunnudagsnóttina 31. mars 1861. Fannst eftir viku, nálægt Hólmsbergi við Sandgerðisvegamót. Hafði verið drukkinn og mun hafa liðið í brjóst.

Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á Miðnesheiði á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.“

Heimild:
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.