Gengið var á Grænudyngju.
Keilir (379 m.y.s.) er áberandi fjall á Reykjanesskaganum. Trölladyngja (375 m.y.s.) er hins vegar áhugaverðari margra hluta vegna. Áhugaverðust er þó Grænadyngja (393 m.y.s. (reyndist vera 402 metrar er upp var komið)), nágranni hennar. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Útsýni af Grænudyngju er bæði mikið og stórbrotið; yfir Sog til suðurs og hraunárnar um Einihlíðar til norðurs.
Trölladyngja og Grænadyngja eru yst á Vesturhálsi. Að ganga á Grænudyngju er ein fallegasta gönguleiðin í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Frá höfuðborgarsvæðinu er ekki gott að greina Grænudyngju því í fjarlægð verða skil á milli fjalla og staða ógreinileg og auk þess hefur hún ekki þá lögun sem búast má við að dyngjur hafi. En þetta er einn fallegasti staðurinn á öllu höfuðborgarsvæðinu að mati þeirra er komið hafa á fjallið.
Um tvær leiðir er að velja á Trölladyngju og Grænudyngju. Hægt er að aka á Höskuldarvelli, sem eru austan við Keili og ganga þaðan á fjallið norðanmegin. Nú er góður vegur af Reykjanesbrautinni inn á vellina og allt að borholusvæðinu neðan við Sogaselsgíg. Þaðan er skammur vegur upp á dyngjurnar. Trölladyngja er vestan við Grænudyngju og skilur á milli lítið dalverpi. Sú fyrrnefnda er klettótt og hvöss en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu.
Að þessu sinni var gengið um dal norðan í dyngjunum, austan við Dyngjurana. Athyglin beinist að fjölbreytilegum litum á landslaginu á þessum slóðum. Hver hefur áður séð grágræna hóla?
Útsýnið stórbrotið þar sem horft var niður á Tröladyngju og Keili. Athyglisvert er að sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem ekki bera nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Tóur eru á stöku stað sem hraunið hefur hlíft.
Milli Trölladyngju og Oddafells eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns. Af Grænudyngju var farið á svipuðum slóðum og upp var komið, en nú var vikið aðeins til vesturs. Þarna heita Sog og þar er Sogaselsgígur, einstaklega fallegur og vel gróinn gígur. Eftir að hafa staldrað við og horft yfir Sog var gengið til norðurs með austanverðri Grænudyngju. Þar í litlum skúta hafi tvo sauði frá Lónakoti fennt inni s.s. vetur. Komið var niður af dyngjunum um miðjan Dynjurana.
Hér á eftir er rifjaður upp svolítill fróðleikur úr góðum ritgerðum um dyngjur og tengd jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum. Í nokkrum tilvikum er um endurtekningar að ræða, en í heild felur efnið í sér mikinn fróðleik um efnið.
„Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri.
Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna). Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).
Nútíma dyngjur á Íslandi eru um 40 talsins. Þær finnast á Reykjanes gosbeltinu, Vestur gosbeltinu og Norður gosbeltinu en engin er á austur gosbeltinu. Þær eru mjög misjafnar að stærð allt frá litlum dyngjum á Reykjanesi og til Skjaldbreiðs og Trölladyngju.
Dyngjur á Íslandi hafa sennilega myndast á löngum tíma og líklega í röð goshrina, Íslensku dyngjurnar voru einkum virkar framan af nútímanum. Líklega hefur engin dyngja verið virk á Íslandi síðustu 2000 árin. Á upphafi nútíma voru dyngjurnar mikilvirkustu gerðir eldstöðva á Íslandi. Hraun runnu langar leiðir úr þeim og má nefna hraun sem rann norður Bárðardal og er talið vera úr Trölladyngju. Ef það er rétt hefur það hraun runnið yfir 100km og er aldur þess yfir 7000 ár. Dyngjurnar eru aðeins á rekbeltinu og eru langan tíma að myndast. Er því líklegt að þær myndist þar sem kvika kemur beint upp frá möttlinum.“
Þegar gengið var um Dyngjurnar mátti í raun sjá ýmsar berg- og gostegundir þegar vel var að gáð, frá ýmsum tímabilum jarðmyndunarinnar.
„Eldborgir eru eitt flæðigos og gos sem þróast í eina gosrás þegar líður á gosið. Þunnfljótandi kvikan safnast í tjörn sem svo flæðir úr með nokkru millibili. Gígveggir verða brattir ofan til. Eldborg undir Geitahlíð er gott dæmi.
Blandgígar eru úr kleprum eða gjalli. Líklega hafa þeir hlaðist upp í byrjun goss en þegar leið á það byrjaði hraun að flæða og þá myndast oft skarð í þá.“ Moshóll við Selsvelli er gott dæmi.
„Sprengigígar gefa af sér aðeins eitt gos upp í sprengigígum og gosefnið er að mestu leiti gjóska. Upphleðsla í kringum gíginn fer eftir krafti gossins, því minni sem gosið er kraftmeira. Hverfell við Mývatn er gríðarlega fallegur sprengigígur.
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands (ekki síst Reykjanessvæðisins) væru það sprungugos. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir. Blandgígar eru t.d. Lakagígar og Eldgjá. Gjallgígaraðir eins og Vatnaöldur myndast við mikla sprengivirkni sem getur verið tengd hárri grunnvatnsstöðu. Heimaeyjargosið og Kröflueldar eru einnig dæmi um sprungugos.
Þó að gervigígar séu ekki gosgígar er vert að minnast á þá sem afurð eldgosa. Þeim hefur ekki verið lýst frá öðrum stöðum í heiminum. Þeir verða til þegar hraun rennur yfir votlendi. Vatnið svo snöggsýður og gufusprengingar verða upp í gegnum hraunið og gígarnir myndast. Oft er hægt að þekkja þá á því að þeir eru reglulegir í lögun og uppröðun þeirra er oftast frekar tilviljanakennd.“
„Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).
Sem fyrr sagði liggur Reykjaneseldstöðvarkerfið í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess. Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krýsuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Það má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð. Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmal þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km 2 og hafa um 1,8 km 3 rúmmál.
Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið. .
Stærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-3500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum.
Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Ösku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík.
Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).
Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám. Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Ögmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879.
Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á
Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krýsuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.
Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950). Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda Bláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).“
Verndargildi jarðminja hefur ekki verið metið á háhitasvæðum landsins. Jarðminjar sem teljast verðmætar eru algengar á slíkum svæðum, s.s. jarðhitaummerki, gígar, hraun, og brýn ástæða er til að meta þær áður en lengra er farið í virkjun svæðanna. Mat á jarðminjum er grunnur að mati á verndargildi háhitasvæða, enda eru þau jarðfræðilega einstök á heimsmælikvarða.
Hér á landi hafa verndunarsjónarmið átt á brattann að sækja vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að nýta orkulindir landsins til framleiðslu á ódýrri og vistvænni orku. Rammaáætlun er ætlað að vera vegvísir til þess að samþætta mismunandi nýtingarsjónarmið, raða svæðum upp þannig að orkugeta þeirra og verndargildi verði ljós og á þann hátt taka ákvarðanir um nýtingu þeirra í framtíðinni. Mat á verndargildi jarð- og lífminja er því mjög mikilvægt til að unnt sé að raða orkuríkum svæðum upp á þann hátt að þau verðmætustu komi í ljós og þá hvort vegi meira verðmæti þeirra til orkuvinnslu, til nýtingar sem útivistarsvæði eða verndun til framtíðar.
Sem fyrr sagði þá er Keilir eitt lögulegasta fjallið, séð frá höfuðborgarsvæðinu, en því að ganga upp á slíkt fjall þegar hægt er að ganga upp á nálægt fjall, litskrúðugra, og virða hitt fyrir sér þaðan. Enda er útsýnið miklu mun betra frá Grænudyngju yfir nálægðina til allra átta. Lagt er til að útsýnisskífu verði komið fyrir uppi á Grænudyngju fyrr en seinna.
Svona í lokin, til að forðast misskilning, þá er hvorki Trölladyngja né Grænadyngja eiginlegar dyngjur heldur mynduðust þær í gosi undir jökli – á sprungurein eins, og Núpshlíðarhálsinn (vesturhálsinn) ber með sér.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild:
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi, HÍ í apríl 2007.
-Helgi Torfason og Kristján Jónasson – Mat á verndargildi jarðminja á háhitasvæðum, 2006.
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, HÍ apríl 2007.