Tag Archive for: Sængurkonuhellir

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Sængurkonuhellir

Farið var með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins. Í för voru fjórir áhugasamir Ítalir, samtals 14 manns. Byrjað var að skoða holuna í Brunntorfum. Hún er um sex metra djúp. Innundir henni er skúti. Í honum var talsvert af drasli, s.s. nokkrir plastpokar og krossviðsferðataska.

Sængurkonuhelir

Sængurkonuhellir.

Þaðan var haldið í Tvíbollahraun. Neðan undir hlíðinni, vestan Kristjánsdala, rakst FERLIR fyrir skömmu á holu í hrauninu. Stigi var látinn síga niður, en dýpið var um 7-8 metrar. Kom í ljós að þarna var um op á fallegri hraunrás að ræða. Lá hún upp á við spölkorn til suðurs, en neðri hraunrásin var á tveimur hæðum. Var skriðið eftir rásunum, en þær enduðu eftir nokkra tugi metra.
Þá var haldið í “Sængurkonuhelli” á Klifshæð í Herdísarvíkurhrauni. Þar er jarðfall. Vestan í því er skúti, sem vel gæti verið svonefndur Sængurkonuhellir, sem lýst er í gamalli sögu. Þar á kona á leið á milli bæja að hafa alið barn.

Sængurkonuhellir

Hraunstrá í Sængurkonuhelli.

Í einni örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS I) segir m.a.: „Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krýsuvíkurhrauns eða Krýsuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.“

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir í Klifinu við Herdísarvíkurgötuna gömlu.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS-II) segir einnig: „Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Þegar FERLIR var þarna á ferð nokkur áður, leitaði á Klifshæðinni og fann fyrst nefndan skúta lá ryðbrunnið emelerað vaskafat í honum – tákn um mannvistir. Kanturinn á nýrra hrauni er skammt ofan við jarðfallið, sem hellirinn er í.
Sunnan í jarðfallinu eru tvö op. Fyrir eystra opinu er steinn, en þegar inn fyrir hann kemur má sjá göng undir hraunið. Eftir m 30 metra þrengist hellirinn, en innan þrengingarinnar greinist hann í þrennt. Þar fyrir innan eru falleg hraunkerti og hraunstrá. Hæg er að fara inn í þessar rásir um gat á milli skútans og austasta opsins, en þþá þarf að skíða yfir lítið jarðfall. Framan við jarðfallið eru mannvistarleifar; m.a. hleðslur á tveimur stöðum.
Hinn þjóðsagnakenndi Sængurkonuhellir, sem nefndur er í örnefnalýsingum er í Klifinu skammt sunnar, eins og áður sagði.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Loks var haldið í Mosaskarð. Þar í skarðinu er op uppi á hraunhól. Um 4 metrar eru niður í hraunrás í hólnum. Rásin liggur nokkra metra upp á við, en þegar haldið var niður á við var komið að, því er virtist, sendinni holu í gólfinu. Þegar mokað var upp úr holunni með sléttri nálægri hraunhellu, var hægð að stinga sér ofan í hana – og þá opnaðist gat áfram – að því er virtist. Eftir að hafa skriðið niður í holuna og upp úr henni aftur að handan var komið inn í mannhæða hraunrás, rislaga með tiltölulega sléttum brúnleitum veggjum. Ekkert hrun var í rásinni og gólfið heilt. Það hallaði undan og rásin beygði aflíðandi uns komið var að þeim stað þar sem gólf og loft komu saman. Þetta er með eftirminnilegri hellum, sem farið hefur verið í, bæði fallegur og þurr.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

Á næstunni er ætlunin að fara með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins í Krýsuvíkurhelli, en í honum eru einnig hleðslur á nokkrum stöðum, auk þess sem alveg er eftir að skoða efri huta hans. Hann er skammt fyrir ofan Krýsuvíkurbergs austan Bergsenda.
Þá er ætlunin að fara í Leiðarenda í Tvíbollahrauni, auk þess sem stefnt er að ferð fljótlega í Hrútardyngjuhellana, s.s. Maístjörnuna, Hýðið, Húshelli, Þumal, Aðventuna, Langhelli, Neyðarútgöngudyrahelli, Steinbogahelli og fleiri hella á svæðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli – fyrsta sinni.

Sængurkonuhellir

Haldið var í Selvog.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Á leiðinni var komið við í Sængurkonuhelli í Klifshæð, skammt frá Herdísarvíkurvegi, austan sýslumarka Árnessýslu og Gullbringusýslu. Að þessu sinni var hellirinn skoðaður betur en áður. Segja má að hann hafi komið mjög skemmtilega á óvart. Gamalt botnlaust emelerað vaskafat var við op hans, en þegar betur var að gáð kom í ljós að hellirinn nær langt undir hraunið. Farið var u.þ.b. 40 metra inn í hellinn og það látið duga að þessu sinni. Var ákveðið að hafa samband við fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins með það fyrir augum að skoða hann gaumgæfilegar.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

Þá var haldið að Þorkelsgerðis og rætt við húsráðanda. Hann vísaði á einn Stokkasundssteinana, sem hann hafði dregið upp á tún. Um er að ræða gataðan stein, sem augsýnilega hefur verið notaður sem rekankeri. Stokkasundið var fallegt yfir að líta og auðvelt að sjá hvernig það hefur verið nýtt. Bátum hefur verið siglt inn sundið og þeir bundnir við sléttar háar hraunhelluvelli beggja vegna. Við leit fannst einn stjórinn njörvaður fastur í klettaskoru. Hafði verið höggvið gat á stjórann og bátar bundnir þar við. Þessi steinn getur þess vegna verið mjög gamall. Hraunhellurnar voru notaðar sem skiptivellir.

Stokkavík

Stokkavíkursteinninn í fjörunni.

Skammt vestan við Stokkasundið sést enn móta fyrir Torfustaðafjárborginni og Þorkelsgerðisfjárborginni inn undir kampinum. Þá má vel sjá móta fyrir Nesborginni (-borgunum) skammt austar. Skv. heimildum áttu borgirnar að hafa eyðst í fárviðrinu 1925 og horfið með öllu, en svo virðist þó ekki hafa verið raunin.

Nesborg

Nesborgin fyrrum. Nes fjær.

Til er falleg mynd af Nesborginni í bók Daniel Brunn – Íslenskt þjóðlíf… Þá var hún vel upp á landi, en er nú í fjörukambinum, sjórinn búinn að taka hana að hálfu – og rúmlega það.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

Í bakaleiðinni var skoðaður fallega hlaðinn brunnur niður undan gömlu húsunum að Þorkelsgerði.

Þá var haldið í Ölfusið og tekið hús á fróðum manni. Framvísaði hann og ánafnaði FERLIR örnefnakortum af svæðinu, með öllum örnöfnum sem og fornum leiðum. Benti hann m.a. á Breiðabólstaðasel, sem er í vestanverðum Krossfjöllum, og Hraunssel, sem er vestan undir Lönguhlíð.
Eftir kortunum var haldið að Draugshelli á landamerkjum Litlalands og Breiðabólstaðar. Þar gerðist fyrir alllöngu saga, sem flestir þekkja.

Ingjaldsborg

Ingjaldsborg.

Frá honum var haldið á Ranann upp að Ingjaldsborg. Um er að ræða mikið hlaðið mannvirki, tvær fjárborgir og 100 rollu fjárhús ofan við brúnirnar, skammt vestan við Brúsavörðu. Frá Ingjaldsborg var gengið að Bræðraborg, sem einnig er hlaðin fjárborg undir Ólafsvörðum ofan Ólafsdals. Þar undir er Skrínuhellir. Frá honum var gengið að gömlu hlöðnu Hákarlsbyrgi austar á brúninni, neðan við Rjúpnavörðunnar.
Ferðin tók um 5 klst með viðtölum við fróðleiksfólk og leit að framangreindum mannvirkjum – en hver mínúta var fullkomlega þess virði.
Frábært veður – logn, sól og hiti.

Sængurkonuhellir

Í Sængukonuhelli.

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs; „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn:  Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
KlifshaedarhellirNú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
Við nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m Hruthraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson -Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Gvendarhellir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um hraunin við Herdísarvík og Krýsuvík undir fyrirsögninni „Aldargömul Íslandslýsing„.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hinn 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess „að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, sem lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á íslandi, en síðan verði prentuð út af fyrir sig á fjelagsins kostnað“. Sama dag var þetta samþykkt á fundi Hafnardeildar Bókmenntafjelagsins og nefnd kosin 21. sept. s.á. Um veturinn sendi nefndin brjef til allra presta og sýslumanna. Fylgdu brjefunum til prestanna 70 spurningar og til sýslumanna fylgdu 12 spurningar. Jafnframt var biskupi, stiftamtmanni og amtmönnum skrifað og þeir beðnir um að lá málinu fylgi.
Ekki verður annað sagt, en að prestar og sýslumenn hafi brugðist vel við þessari málaleitan. Allar lýsingarnar eru geymdar í Landsbókasafninu, fjögur bindi í folio. Er hjer um að ræða eitt hið merkasta heimildarrit, eigi aðeins um landfræði Íslands, heldur einnig um búskaparháttu, atvinnuvegi, hlunnindi, tíðarfar, þjóðháttu, heilsufar, menningu o.s.frv.
Að vísu eru ekki allar lýsingarnar jafn fullkomnar eins og vænta má, og skara ýsmir prestar fram úr ís kilningi á því, hvernig svörin ættu að vera. Hjer skulu nú birtir stuttir útdrættir úr þessum sóknarlýsingum, sem sýnihorn af þessu handritasafni.

Úr sóknarlýsingu síra Jóns Vestmanns, Vogsósum:

Nes er austanvert við Selvog. Þar á stendur bær með sama nafni. Vestan til við voginn er annað nes. kallað Alnbogi, líkt bognum handlegg hvar Herdísarvík t.a.m. skyldi vera í alnbogabótinni og bærinn með sama nafni við víkurbotninn. Á milli tjeðra nesja er breið sjávarbugt, kölluð Selvogur, en stuttleiks vegna má hún ei fjörður nefnast.

Þau merkilegustu eldhraun eru:

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

a) Stakkavíkurhraun [kom] upp í gosi upp úr Kongsfelli (sem hefir nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skifti þar á haustum fólki í fjárleitir); er Kongsfell kringótt eldborg, með háum börmum og djúpri gjótu innanvert, samanluktri í botninn, svo þar er þó ekki gjá, en grjótið brunnið í sand og vikur, sumt útlits sem sindur. Þaðan liggur hraun þetta þvert um fjallið til útsuðurs og ofan yfir Stakkavíkur landeign, en stansaði rjett fyrir ofan sjálft túnið; er þó upp gróið með góðum högum, smáskógi, beiti- og sortulyngi. Á fjallinu framarlega hefir hraunrenslið skift sjer við grjóthæð nokkra og hlaupið fram af fjallsbrún þar sem heitir Mosaskarð og lýsir nafnið þess útliti. Þessi tangi hraunsins er svartur og gróðurlaus þegar frá fjalli dregst alt fram í sjó.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

b) Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum og fram af fjallsbrún beggja megin Lyngskjaldar, en hefir runnið saman aftur á láglendinn fyrir neðan. Þetla hraun er sumsstaðar upp gróið með lyng, litlum skóg, gras, og góða haga í lágum og gjótum. Sums staðar er það svart og ávaxtarlaust, með gjám og stöndum og grámosabreiðum. Engir eru þar hellar eða stórgjár; þó er þar hellir kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn. Hellir þessi er annars ekki stór.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

e) Krýsuvíkurhraun [kom] upp í gosi úr Eldborginni í Deildarhálsi, austan til við Krýsuvík. Eldborg þessi er alt eins útlits og Kongsfell. Hraunið er upp gróið með gras, lyng og smáskóg í lautum og brekkum, en grámosaskóm, gjám og stöndum yfir alt þar sem hærra liggur.

Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,“ svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á einslita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún fœri niður fyrir. Og jafnótt og hann losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrímshellir

Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honnm þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Frá landnámstíð hafa menn engar sögur um breytingar á landslagi alt til l367 að Oddgeir biskup í Skálholti visiteraði kirkjuna á Strönd. Telst hún þar eiga 30 hndr. í heimalandi. Þaðan frá hafa menn enga vissu hjer um fyrri en um daga Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem eftir Árbókum Esphólíns bjó mektarbúi á Strönd í full 30 ár fyrir um og eftir trúarbragðaendurbótina. En hjer uum bil 1700 telur sveitarbragur Jóns bónda Jónssonar í Nesi 7 búendur á Strönd meinast þar sjálfsagt með hjáleigu býli. 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afhýlum öldungis eyðilögð „af sandfoki og þá þó fyrir nokkrum árum.

Æsubúðir

Geitahlíð.

Þar sem ekki er sandágangurinn, þar eru skriðuföll, blástrar; þar að lýtur saga Árna Þorsteinssonar, merkisbónda í Herdísarvík, og þannig hljóðar: ..Þegar jeg var 8 ára fór jeg fyrst með föður mínum út með Geitahlíð og sá jeg þá í einum stað eitt lítið flag blásið í aur hjertta austast í hlíðarhorninu en hvergi annarsstaðar, heldur einlægt graslendi og blóma yfir alt að líta“. Þessa sögu sagði hann mjer þá við eitt sinn urðum samferða með nefndri hlíð, af forundran yfir því hversu hrörleg hún var þá orðin er hann var sjötugur. Sáust þá í henni fáienir grasgeirar hjer og hvar að neðanverðu og einstakir fáir grasblettir einasta þar, sem hlje var við landnyrðingi. —

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Kirkjan á Strönd í Selvogi er kölluð heimakirkja; hún er enn á sama stað, einmana á eyðisandi, þar sem Strandarbær var meðan jörð þessi var bygð. — Hjer var þingabrauð þar til árið 1749 að ekkjufrú biskups Jóns Árnasonar keypti, eður þó hann áður andaðist, eyðijarðirnar Strönd og Vindás og gáfu til Selvogs prestakalls. Síðan hafa prestarnir verið kirknanna forsvarsmenn, en Vogósar hafa ætíð, eftir sem áður, verið prestsetur, en Krýsuvík annexia.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

d) Ögmundarhraun; lítið fyrir vestan Krýsuvík runnið vestan úr Amenningi, sem allar er líka hraun en þó grasi og skógi vaxið — er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits: gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Hríshólmi. Þar eru stórar húsatóttir niður sokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást ei tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg.

Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært; hraun alt um kring nema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríksvarða; þó Eiríksvarða sje ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svo langa tíð. – Hún er einhlaðin, á mjög hárri fjallsbrún, 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, úr einhlöðnum steingarðsparti, er svo hver steinn lagður yfir annan; flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða; allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utan veggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt að norðan og sunnan. Þessi Eiríkur Magnússon var lengi prestur í Selvogi, þótti skrítinn í ýmsu, og dó 1716. Af hans langa prestskap má ráða að hann hafi aldraður orðið, og skyldi menn setja að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa 123 ár.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg.

Arngrímur Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti.
Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust“ (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: —
„Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 49. tbl. 23.12.1954, Aldargömul Íslandslýsing, bls. 642-645.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Sængurkonuhellir

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs;
„Alfaravegurinn Klifshaedarhellirgamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
HrutVið nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m hraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson – Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

 

Grænaflöt

Eftirfarandi er úr viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.“

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Grænaflöt

Ætlunin var að reyna að finna svonefndan Sængurkonuhelli þann er Lárus Kristmundsson frá Stakkavík lýsti aðspurður í viðtali fyrir nokkrum árum. Í örnefnalýsingum af svæðinu mun vera annar samnefndur Grænaflöthellir í nokkurra hundruð metra fjarlægð, en huldufólkssagan hér að framan hefur ekki verið eignuð honum. Gæti þarna annað hvort einhverju hafa verið hnikað til eða nytsemdarhellarnir til handa aðframkomnum konum hafi bara verið tveir á annars litlu svæði.
Þá var ætlunin að halda inn um Lyngskjöld og skoða svæðið í honum ofanverðum. Skjöldurinn er eldri hraunskjöldur og í honum gætu leynst op, sem áhugavert væri að staðsetja með seinni tíma rannsóknir að markmiði. Auk þess liggja út frá honum gamlar götur í allar höfuðáttirnar fjórar.

Drykkjarsteinninn

Í nefndu viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurlandi. Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að Brunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben. og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.
TóftÞað var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar inni líkt og í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólarhringa, illa haldin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, forkunarfagran skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð, en stúlkan var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
GerðiOpið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þótt hann rúmgóður.
Í örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.  Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
GerðiðÍ annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.  Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Í örnefnalýsingunni segir um Grænuflöt og Herdísarvíkurfjall: „Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra. Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Fálkageiraskarð (er skarðið, sem stígurinn liggur um.

Rót

Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálfheldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg.  Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.
Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.“
MosatáknÍ viðtali við bróður Lárusar, Eggert Kristmundsson, segir hann m.a. frá því er þeir grófu gæðinga Einars Benediktssonar í Grænuflöt: „Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.“ 
Í leiðinni var drykkjarsteinn skoðaður austan við Grænuflöt. Við þá skoðun fundust Sængurkonuhellirm.a. tóft af húsi og ílangt gerði eða stekkur. Grasgróningar eru umleikis svo líklegt má telja að fé hafi verið haldið þarna eða jafnvel kýr um tíma a.m.k. „Stekkurinn“ gæti því hafa verið stöðull eða jafnvel nátthagi. Mannvistarleifa þessarra er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.
Fallegt „mosatákn“ sást skammt frá Grænuflöt; vel við hæfi í tilefni dagsins, þ.e. Valitínusardagsins.
Þrátt fyrir leit fannst fyrrgreint hellisop ekki – að þessu sinni a.m.k.
Spurningar sem vöknuðu voru fleiri en ein: Eru Sængurkonuhellir undir Klifi og Sængurkonuhellir við Grænuflöt einn og sami hellirinn? Innan við 300 metrar eru milli staðanna.
Farið hefur verið um svæðið með stórvirkum vinnuvélum (væntanlega með leyfi Fornleifaverndar)! Við það tækifæri var landinu umbylt, stórum steinum velt við og annað fært í kaf. Við það tækifæri gæti op Sængukonuhellir við Grænuflöt hafa lokast. Tilviljun ein réð því að drykkjarsteininum var ekki raskað.
Var Sængurkonuhellir kannski ekki við Grænuflöt? Hafa ber í huga að búfénaður (kýr, naut og fénaður) hefur að öllum líkindum verið rekinn eftir gömlu þjóðleiðinni milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, áleiðis að Kerlingadal. Hún liggur (lá) skammt frá Sængurkonuhelli undir Klifi. Ef farið hefði verið með fjallinu hefðu viðkomandi þurft að taka á sig krók til að komast fyrir Klifhraunið. Þó er ekki hægt að útiloka þann Nýimöguleika að kunnugir hafi frekar viljað reka búfénað með fjallinu, inn í Lyngskjöld og úr honum til suðurs með hraunkantinum að Klifi. Sú leið er (var) bæði þægileg og greið.
Bæði vestan og austan við Grænuflöt eru gróningar við op sem benda til þess að fé hafi legið þar við. Slík verksummerki má gjarnan sjá við gömul fjárskjól. Því er þörf að gaumgæfa svæðið betur þegar vorar.
Við þetta má bæta svolítilli athugasemd við gerð nýs Suðurstrandarvegar í Herdísarvíkurlandi. Nýi vegurinn hefði átt að leggjast nánast í fyrrverandi vegstæði líkt og sést á myndinni, en því miður fer því fjarri. Gert hefur verið nýtt sár í annars fallegt mosahraunið og á kafla hefur verið farið yfir einn fallegasta kaflann á gömlu Herdísarvíkurþjóðleiðinni. Með svolítilli hugsun hefði verið hægt að varðveita götuna komandi kynslóðum til vakningar og fróðleiks um hina fornu leið millum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók  klst og 4 mín.

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum), f: 1. febr. 2006.
-Viðtal við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).
-Viðtal við Þorkel Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).

Gapi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930 er hluti „Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann, 1840“ undir fyrirsögninni „Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840“. Þar fjallar Jón um fjárhellana ofan Selvogs, í Selvogsheiði (Strandarhæð), Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurhrauni og fjárskjólin í Krýsuvíkurhrauni austan Krýsuvíkur:

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni.

„Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum , engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. —

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Í hengisfönninni framaní bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni framaf berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. —

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg. Bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Einhverra hluta vegna gat Jón Vestmann ekki um fjárskjólið góða skammt suðaustan við nefndan helli Arngríms og Guðmundar í Fjárskjólshrauni. Ekki er útilokað, vegna þess hversu stutt er á milli fjárskjólanna, að það austara hafi verið athvarf Arngríms, enda mun nær Krýsuvíkurbergi og aðgengilegra að því þaðan og aðgengi að berginu auðveldara. Inni í fjárskjólinu ú Fjárskjólshrauni er hlaðið athvarf fyrir smala, sem nú hefur að nokkru fallið saman.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1930, Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840 – Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann 1840, bls. 76.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunsskjóli í Fjárskjólshrauni.