Tag Archive for: Selatangar

Selatangar

Farið var að Ísólfsskála og Selatöngum í fylgd Jóns Valgeirs Guðmundssonar, syni Guðmundssonar Hannessonar frá Vigdísarvöllum. Lýsing á hluta ferðarinnar fer hér á eftir.
GarðarHaldið var eftir Ísólfsskálavegi frá Hrauni. Jón benti m.a. á hvilft í vestanverðum Siglubergshálsi þar sem hann kemur í Fiskidalsfjall og nefndi hana Lyngbrekku. Hann benti og á gamla veginn, sem lagður var frá Hraunssandi, upp hálsinn og áfram áleiðis yfir að Skála. Hann sést vel ofanvert í hálsinum og áfram á milli og yfir Móklettana. Þar liggur vegurinn inn með hlíðinni uns hann liggur áleiðis norður fyrir Slögu austan við Litlaháls.
Jón sagðist muna vel eftir LM-merkinu í austanverðum Móklettum. Það var skoðað og benti Jón á merkið (ártal). Landamerkin að vestanverðu liggja úr Festisnýpu, í merkið á Móklettum og yfir í Rauðamelshól uppi á sunnanverðu Borgarfelli.
Ekið er yfir Litlaháls og þá er Lyngfjall á hægri hönd, síðan Festisfjall sunnan við það. Áður en haldið var að Ísólfsskála var farið inn í Drykkjarsteinsdal að Drykkjarsteini. Á leiðinni var farið framhjá grettistaki miklu suðvestan í Slögu, er Jón sagði heita Hattur. Jón sagði Símon Dalaskáld hafa ort fallegt kvæði um steininn, en hann er sunnan við þjóðleiðina austur að Mjöltunnuklifi og til Krýsuvíkur. Jón sagðist nú einn vera eftirlifandi þeirra, sem lögðu veginn árið 1933. Þeir hefðu þá verið fimm saman, en vegurinn hafi verið gerður að beiðni Hlínar í Krýsuvík og á hennar kostnað. Þeir hafi haft einn hest, Nasa, og einn vagn við vegagerðina.

Verkhús

Vegagerðin hafi verið tiltölulega auðveld að Méltunnuklífi, en þá hafi þeir þurft að ryðja sér braut í gegnum Leggjabrjótshraun, yfir Núpshlíðina og áfram yfir hraunið að Latfjalli. Þá hafi Ögmundarhraunið tekið við og liggur gamli vegurinn skammt norðan núverandi vegar. Við austurenda hans er komið inn á leið þá er Ögmundur lagði forðum. Gengið var að dysinni, teknir punktar og hún skoðuð. Þá var gengið spölkorn eftir gömlu leið Ögmundar. Enn sést vel móta fyrir henni í hrauninu.
Komið var að Ísólfsskála. Vestan við Huldukonustein er Bjallinn. Undir honum, þar sem hann er sléttastur og gamalt garðlag liggur að honum, voru Skálaréttir. Í þeim voru dilkar og almenningur. Þangað komu Grindvíkingar í réttir. Eftir að Borgarhraunsréttir voru hlaðnar lögðust þær af.
Á Ísólfsskála benti Jón á Gvendarvör, sem er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Jón sagði að fiskurinn hafi verið flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið hafi hann verið tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær hafi verið á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Á Selatöngum

Lending var í Börubót, sem verið hafði beint neðan við bæinn. Bærinn sjálfur var þar sem nú er bílastæði vestan við græna sumarbústaðinn vestast á túninu, undir Bjallanum. Enn sést móta svolítið fyrir hleðslum hússins að hluta. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum. Sjóbúðin var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Hleðslurnar sjást þar að hluta. Beint þar fyrir neðan sjóbúðina er hlið. Sjávarmegin við það, þar sem nú er sjávarkampurinn, var hlaðinn brunnur bæjarins. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Sjóbúð

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Austan þess er stór steinn. Hann féll úr Bjallanum er faðir Jóns var níu vetra og lenti á höfði hans. Hlaut hann langt og mikið sá þvert yfir höfuðið svo leðrið hékk la. Varð að sækja lækni til Keflavíkur til að vinna saumaskapinn. Suðaustan við húsið, þar sem nú er grunnur, stóð Bergsstaðahúsið. Það var síðar flutt út í Þórkötlustaðahverfi og loks út í Járngerðastaðahverfi, a.m.k. hluti þess. Guðbergur Bergsson hefur búið þar. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn. Jón sagðist muna eftir því, t.d. árið 1928, að mikið af skútum hafi verið við veiðar utan við ströndina. Hafi hann t.a.m. talið þar um 300 slíkar einn daginn. Þær voru franskar, færeyskar, danskar og hollenskar. Séð frá húsinu, í átt að Nótahól, er lágur grashóll og utan í honum hleðslur. Hann nefnist Hestagerði. Rangagerði er djúp skora utar með ströndinni og skerst hún allangt inn í bergið. Þangað komst t.d. sjómaður eitt sinn á bát sínum í vonskuverði og bjargaðist. Rangagerði varð áður fyrr austurmörk Ísólfsskála, eða eftir að bóndinn gaf Kálfatjörn rekann frá gerðinu að Dágon á Selatöngum sem sálargreiða. Í staðinn eftirlét Kálfatjörn Ísólfsskála grásleppuveiði utan við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Bárður, bóndi á Skála, keypti hann til baka árið 1916 svo nú eru austurmörkin aftur í Dágon.
Þegar haldið var áfram austur Ísólfsskálaveg lýsti Jón Hrafnsskriðu undir Slögu, Stórusteinum, Lágaskarði o.fl. stöðum. Vörður tvær á hægri hönd heita Bergsvarða (nær veginum) og Bárðarvarða. Bergur, faðir Guðbergs, hlóð þá veglegri er hann sat yfir fénu þarna og vildi hafa eitthvað um að sýsla. Gil eitt á vinstri hönd er merkilegt fyrir það að í því eru drykkjarskál. Þar settist vatnið og gat fé gengið að því vísu.
Fyrsta hornið við veginn á vinstri hönd heitir Fyrsta brekka í Méltunnuklifi. Síðan tekur við Önnur brekka í Méltunnuklifi. Þangað voru kýrnar frá Skála venjulega reknar til beitar. Loks er Méltunnuklifið. Þá hafi vegurinn um klifið bæði verið mjór og svo þröngur að erfitt gat verið að kmast með hesta þar um. Gamla þjóðleiðin, sem fyrr var líst, kemur ofan af klifinu skammt norðar. Þar heitir Innsta brekka í Méltunnuklifi. Grasi gróið dalverpi er þar austanvið. Farið er í gegnu gjallgíga. þeir heita Moshólar.
Jón Guðmundsson Áður en haldið var að Selatöngum var farin gamla leiðin í gegnum Ögmundarhraun, þá er Jón og félagar ruddu á sínum tíma. Jón lýsti leiðinni og vinnunni. Verst gekk að komast í gegnum hraunhaftið skömmu áður en komið er austur fyrir hraunið. Þar er komið inn á Ögmundarleiðina og er dysin þar skammt frá. Enn má vel sjá móta fyrir hleðslum í dysinni.
Á leiðinni niður að Selatöngum lýsti Jón Eystri lestarleiðinni frá Krýsuvík, Rekagötunni eða Vestari lestarleiðinni, um Katlahraun út að Ísólfsskála. Eystri leiðin liggur með hraunkantinum, sem er handan hraunssléttunar austan vegarins. Jón sagði að þeir hefðu verið svo til allt haustið að reiða reka heim frá Selatöngum. Tanga Móri hefði stundum gert vart við sig, en vitað var að hann hafi verið vesalingur, sem orðið hafði úti þarna við tangana. Fræg er sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda.
Gengið var að refagildrunum vestan við Selatanga. Faðir Jóns hlóð þær á sínum tíma. Jón sagði hann hafa verið meira gefinn fyrir veiðar en búskap. Gildrunar hafði hann ekki séð í u.þ.b. hálfa öld. Gengið var eftir Vestari lestargötunni í gegnum Katlahraun og að Smíðahelli. Á leiðinni benti Jón á skarð suðvestan í Katlinum, en af því var áður tekið mið í Geitahlíðarenda – fiskimið. Jón sagði vermenn á Selatöngum stundum hafa stolist í Smíðahelli í landlegum, tekið með sér rekavið, og dundað við að smíða úr þeim ausur, spæni, tögl o.fl. Þetta hefðu þeir ekki mátt, en í hellinum gátu þeir dulist án þess að nokkur yrði þeirra var.
Jón GuðmundssonÞar sem setið var utan við hellinn í kvöldsólinni benti Jón á Langahrygg í norðri. Hann sagðist hafa verið þarna niður á Töngunum haustið 1940 er hann og bróðir hans hefðu orðið var við hvítann flekk utan í hryggnum. Þeir hafi haldið heim, en síðan farið upp á hrygginn. Þegar þangað kom hafi þeir sé líkamsparta dreifa um hlíðina og brak úr flugvél upp og niður um hana alla. Þeir hafi gengið niður til Grindavíkur til að láta vita. Þaðan hafi verið haft samband við herinn, því þarna var um ameríska flugvél að ræða með marga háttsetta innanborð. Haldið var á hrygginn í bryndreka, en það hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann hafi ferðast með slíku farartæki.
Litið var á fjárhellinn norðan Katlahrauns. Jón sagði hann hafa verið hlaðinn um 1870 af föður hans, sem þá hafi búið á Vigdísarvöllum, vegna þess að féð hafi leitað niður í sunnanverðar Núpshlíðar og alveg niður í fjöru á Selatöngum. Eftir að faðir hans flutti að Skála komu þangað íslensk kona og fylgd hennar var Þjóðverji. Þetta var á stríðsárunum. Þau hafi beðið um húsaskjól. Guðmundur hafði slíkt ekki á lausu, en vísaði þeim á fjárskjólið. Þar dvaldi parið um tíma eð þangað til þau voru sótt þangað af Bretum.
Jón vísaði á Nótahellir vestast á Seltöngum. Þar sagði hann bændur hafa lagt nótina yfir vík, sem þar er, til að veiða selinn, sem hafi verið fjölmennur á og utan við Tangana í þá daga. Hellirinn sést vel á lágfjöru, en erfitt er að komast að honum í annan tíma. Fé leitaði stundum inn í hellinn og flæddi þá stundum inni. Þess vegna var reynt að gera gerði utan við hornið landmegin, en það fór veg allrar veraldar.
Þá var gengið um Selatangasvæðið sjálft. Það skal tekið fram að eftir gönguna sáu þátttakendur svæðið í allt öðru ljósi Sjóbúðen áður. Þarna er svo margt og merkilegt að finna að erfitt er að lýsa því stuttum texta. Þess vegna var ákveðið að nota ferðina og gera uppdrátt af svo til öllum mannvirkjum á Seltaöngum, nefna þá og staðsetja svona nokkurn veginn. Vestan við sjálfa Selatangana eru brunnurinn, þar sem vatn aldrei þraut. Ofan hans eru Brunntjarnirnar. Jón sagði að hann og bróðir hans hefðu fyllt svo til alveg upp í brunninn eftir að dauð rolla fannst ofan í honum. Hann hafi áður verið meira en mannhæða djúpur.
Vestast á Selatöngum, austur undir kletti, er hlaðið hesthúsið. Á austurveggnum eru garðarnir. Sunnan hesthússins eru búðir þær, sem síðast var hafst við í. Innst, nyrst, er eldhúsið. Sjá má ennþá hlóðarsteinana í suðausturhorni þess. Framan við eldhúsið eru tveir bálkar, svefnhús. Austan við þá er hús, sem var hluti búðanna. Í þeim var hafst við allt til ársins 1880, en þá gerði faðir hans út bát frá Selatöngum Báturinn var jafnan í Tangasundinu, sem er neðan við vestasta fiskibyrgið á hól sunnan búðanna.

Tangarnir

Að því er gengið frá búðunum um hlaðið hlið. Byrgið stendur svo til heilt. Göt eru á báðum göflum. Jón sagði þau hafa verið lyklinn að önduninni. Fiskinum hafi verið staflað líkt og á Nótarhól og þess gætt að kjötið snertist ekki. Þannig hafi hann verið um veturinn. Um vorið hafi fiskurinn verið tekinn og borinn út, þurrkaður og ýmist fluttur út í skútur eða heim. Fiskibyrgin standa sum svo til heil, bæði með húslagi og ein hringlaga. Verbúðirnar eru við fyrstu sín illa sjáanlegar, en þegar betur er að gáð, sjást þær vel. Austustu búðirnar er vestan við Selalónið, en austan þess er klettaveggur. Hann heitir Vestari Látur. Austari Látur eru þar skammt austar.
Rétt sést móta fyrir austustu búðunum, sunnan við austasta þurrkbyrgið, sem stendur þar nokkuð heillegt. Búðirnar eru vestan við hlaðinn stíg er liggur frá fiskbyrginu niður að ströndinni. Ofan byrgisins er Smiðjan í klettasprungu. Austan þess er hlaðið hringlaga fallegt fiskibyrgi.
Dágon er nær horfinn. Hann sést þó í fjöruborðinu sem lítill klettur, suðaustan við vestasta fiskibyrgið. Vestan hans er hærri klettur og annar stór uppi á bakkanum á milli þeirra og byrgisins. Á tiltölulega sléttum grágrýtisklöppunum neðan við Dágon er klappað LM, en þar voru austurmörk Ísólfsskála og Krýsuvík tók við. Áletrunin sést einungis á lágfjöru. Jón sagðist hafa ætlað að skýra fyrsta bátinn sinn Dágon, en þegar hann frétti að nafnið þýddi “djöfull” á dönsku, hafi hann hætt við það.
Neðan við það fiskibyrgi, sem er heillegast miðsvæðis, er Skiptivöllurinn, bergrani út í sjó. Þar voru áður sléttar klappir og voru þær notaðar sem skiptivöllur líkt og vellirnir við Stokkasundið í Selvogi.
Þegar gengið er til vesturs á Töngunum má t.d. sjá þurrkgarða, fiskbyrgi fremst, verbúð austan undir kletti (þeirri er lýst var áður), hesthúsið norðar, fiskibyrgi, fjögur kringlótt fiskibyrgi, íveruhús, fullt að sandi, skiptivöllinn, hús, hringlaga fiskibyrgi, fiskibyrgi, tvö sandfyllt hús, tvo hringlaga byrgi, Smiðjuna, fiskibyrgi, hús, eldhús, bálka og loks fiskibyrgi. Utar er Selalón, eins og áður sagði. (Sjá meira í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga. Í honum er m.a. fyrrnefndur uppdráttur af Töngunum).
Veður var í einu orði sagt frábært – logn, sól og hiti.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Eftirfarandi „Tillögur liggja fyrir um frekari rannsóknir, verndun og aðgengi að minjasvæðinu í Húshólma“ í Ögmundarhrauni sem og nærliggjandi svæðum:

Þörf á ítarlegri rannsóknum

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Mikilvægur þáttur fornleifaverndar er varðveisla minja, rannsóknir og varðveisla upplýsinga. Mikilvægt er fyrir þjóðina að vernda minjar; hlúa að menningararfi hennar.
Skv. Þjóðminjalögum lætur Fornleifavernd, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar. Skv. reglugerð um þjóðminjavörslu annast Fornleifavernd einnig rannsóknir, skráningu og kynningu fornleifa.
Mikilvægt er að vettvangsskoða og skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði út frá mögulegum aldri minjanna og hraunsins sem og samhengi þeirra. Þá þarf að rannsaka sérstaklega alla garða, tóftir og meintan grafreit með hliðsjón af tilurð, meintum íbúum og öðru menningar- og búsetusamhengi svæðisins í heild. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan geti haft áhrif á hina stöðluðu mynd af landnámi hér á landi. Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu.

Húshólmi

Gengið í Húshólma um Húshólmastíg.

Rannsóknir, s.s. fornleifaskráning, hafa farið fram í og við Húshólma, samanber m.a. framangreindar athuganir Brynjúlfs, rannsóknir Sigurðar Þórarinssonar, Jóns Jónssonar og Hauks og Sigmundar og skráning Bjarna F. Einarssonar vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.
Í fornleifaskráningu Bjarna kemur m.a. fram að fjárborgin í Húshólma sé eldri en frá 1226, garðar eru sagðir eldri en 1550 sem og tóftir við hólmann. [Líklega er hér ekki um fjárborg að ræða heldur virki í samhengi minjasvæðisins í heild].
Til fróðleiks má geta þess að í fornleifaskýrslunni er Húshólmastígur t.d. sagður vera Ögmundarstígur og vörður austan Ísólfsskála sagðar vera við gömlu þjóðleiðina, en þær voru hlaðnar til gamans af syni Guðmundar á Ísólfsskála og vinnumanni á bænum á fyrstu áratugum 20. aldar (sbr. umsögn bróður þeirra). Þær nefnast Bergur og Brandur.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Suðurstrandarvegur hefur á undanförnum árum fengið talsverða athygli, en nokkrar rannsóknir hafa farið fram á svæði er lútað hefur að fyrirhugaðri legu hans, m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Um tíma var ein hugmynd að leggja veginn í gegnum ofanverðan Húshólma. Skiptar skoðanir voru um ágæti þess m.t.t. verndunarsjónarmiða minjanna.
Bjarni gerði athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar í mars 2001. Í þeim kemur m.a. fram að “getið hefur verið um fyrirhugaða lagningu Suðurstrandarvegar þar sem hann liggur m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Aðilar gáfu út umsagnir um legu vegarins, m.a. með tilliti til fornleifa. Í athugasemdum kom m.a. fram:
Fornleifafræðistofan hefur fengið til athugunar umsagnir fjögurra aðila um tillögu að matsáætlun Suðurstrandarvegar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Allar eru ábendingarnar sem fram koma góðar og eru umsagnaraðilar sammála þegar svo ber undir. Þó er einn staður sem umsagnaraðilar eru ekki sammála um, en það er Húshólmi í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Þjóðminjasafn, Hafnarfjarðarbær og Landmótun leggja til að hinn fyrirhugaði vegur verði færður upp fyrir hólmann, en Grindavík mælir með því að hann verði lagður í gegnum hann.
Rökin með færslunni upp fyrir Húshólma eru þau að um samfellt minjasvæði frá Húshólma, Fitjum og að Selöldu sé að ræða og að færsla vegarins komi betur út vegna tengingar við Ísólfsskálaveg, þ.e.a.s. aðkomu að Krýsuvíkurhverfi að sunnan (Landmótun og Hafnarfjarðarbær).

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Þjóðminjasafnið bendir á að vegurinn muni skera í sundur Húshólma og fjórar fornleifar lenda ofan vegar. Væntanlega er gengið út frá sömu forsendum og Hafnarfjarðarbær og Landmótun gera, þ.e.a.s. að um samfellt minjasvæði sé að ræða, allavega í sjálfum Húshólmanum.
Rök Grindavíkur með því að hafa veginn í gegnum Húshólma voru nokkur: Þau eru; öryggisatriði varðandi hugsanlegan sjávarháska, öryggi gagnvart snjóalögum og skemmti- og fagurfræðilegt gildi vegna ferðamanna (Grindavík). Einnig er bent á að leiðin muni liggja nærri fornminjum og áhugaverðum stöðum sem ekki hafa notið sín eins og verðugt væri hingað til. Er hér átt við þá staðreynd að minjarnar í Húshólma eru afar óaðgengilegar. Þjóðminjasafnið tekur undir þetta sjónarmið en mælir þó gegn legunni. Því ber að álykta að eina röksemdin fyrir færslu vegarins norður fyrir Húshólma sé samfellt minjasvæði.”
Bjarni telur hins vegar að Húshólmi og Selalda eigi fátt annað sameiginlegt en að á þeim séu fornleifar. Hinar fornu rústir í Húshólma séu mun eldri en rústirnar við Selöldu og af allt öðrum toga. Einnig megi benda á að svæðin séu í sitt hvoru sveitarfélaginu og að þau hafi ólíkar skoðanir til umgengis og verndunar minjanna á þeim. Bjarni telur að Húshólminn sjálfur sé merkilegt fyrirbæri, en það sé allt önnur saga.

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

“Skráning fornminja er einn þáttur rannsókna. Í Húshólma þarf að skrá allar fornminjar, hvort sem um er að ræða tóftirnar vestan hólmans, garða, fjárborg, rétt/stekk, gerði, refabyrgi, tóft ofan við Hólmasund, gerði vestan í Ögmundarhrauni, stíga og annað er tengst gæti og skapað heilstæða mynd af minjasvæðinu. Færa þarf upplýsingarnar inn á aðgengilega kortagrunna, merkja minjar, gera ráðstafanir til að varðveita þær, gera ráð fyrir reglubundnu eftirliti eða vöktun á svæðinu, koma á góðu samstarfi við framkvæmda- og hagsmunaaðila tengdum svæðinu, þátttöku almennings og áhugafólks, upplýsingamiðlun og fjármagn til þeirra aðgerða og ráðstafana er lagðar verða til.”
Í grein á vefsíðu Fornleifafræðistofnunar segir Bjarni m.a. að “samband náttúru og menningar hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá tímum Forn-grikkja. Menn sáu snemma sambandið á milli menningar og umhverfis og vægi náttúrunnar í örlögum mannsins.

Húshólmi

Fornmaður í Húshólma.

Manneskjan hefur lagað sig að ólíkustu aðstæðum. Því nær sem dregur nútímanum þeim mun stórtækari er mótun hennar á umhverfinu. Maðurinn hefur tekið meira úr umhverfinu en hann skilar til þess og til frambúðar getur það aðeins þýtt einn hlut ef ekki verður að gáð: stórslys. Og í þessu sambandi á ég ekki aðeins við hið náttúrulega eins og hráefni ýmisskonar, ég á einnig við leifar eftir gengnar kynslóðir en þær eru jafn mikilvægur hluti af umhverfinu og vatnið, grösin og bergið. Umhverfi samanstendur nefnilega bæði af náttúrulegum og menningarlegum þáttum. Hin mikla og nauðsynlega umræða sem tengist umhverfismálum og virðist fara vaxandi hér á landi, hefur því miður nær einvörðungu snúist um hið fyrrnefnda. Nú er tími til kominn að gefa hinu síðarnefnda gaum.
Hinn menningarlegi þáttur umhverfisins er rústir og önnur verksummerki manna, örnefni og ýmsir staðir sem tengjast trú manna, sérstökum atburðum eða verkmenningu þjóðarinnar. Slíkt umhverfi í félagi við hið náttúrulega köllum við menningarlandslag. Menningarlandslagið er mikilvægt fyrir sjálfsvitund einstaklinganna. Það eru minningar sem tengjast forfeðrunum, þeim sjálfum og sögunni. Þeir eru hluti af menningarlandslaginu.
HúshólmiÞegar fé er ráðstafað er mikilvægt að hafa framangreida þætti í huga. Afleiðingarnar gætu komið fram síðar, þegar of seint verður að bregðast við fyrrum mögulegri varðveislu framangreindra menningarminja. Þegar á heildina er litið er það bæði lífríki einstakra staða og mannvistarleifarnar sem gera þessa þjóð að því sem hún er.
Menningararfurinn er ekki aðeins fólginn í handritunum okkar, tungunni eða því sem söfnin geyma. Hann er að verulegu leyti einnig fólginn í rústunum sem finnast út um allt land. Í þeim er fólgin saga, sem hvergi er geymd annarsstaðar. þær eru lykillinn að skilningi okkar á gripunum, sem horfið hafa úr sínu eðlilega umhverfi inn á söfnin og sumar rústanna geta einar varpað ljósi á líf alþýðunnar og hlutskipti hennar í lífsbaráttunni. Íslensk þjóð varð þjóð á meðal þjóða í húsum, sem nú eru rústir einar. Rústirnar skipta okkur því nákvæmlega jafn miklu máli og rústir annarra þjóða skipta þær, þó svo að þær séu ekki jafn miklar að vexti og ekki úr jafn varanlegum efnum og rústir margra annarra þjóða. Minnimáttarkennd okkar Íslendinga í þessum efnum er athyglisverð, en hún stafar fyrst og fremst af vankunnáttu okkar um þessi mál og þeirri staðreynd að við höfum ekki skilið þýðingu rústanna fyrir þjóðarímyndina. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, voru þessar rústir hluti af tilverunni og veruleikanum og þess vegna eru þær mikilvægar fyrir þjóðina, sögu hennar og ímynd. Ef hún eyðir þeim, eyðir hún hluta af sjálfri sér. Mikilvægi rústanna nær að auki út fyrir landsteinana og má t.d. benda á þá staðreynd að erlendis hefur plógurinn meira eða minna afmáð híbýli bænda frá víkingaöld. Hér á landi tíðkuðust aðrir búskaparhættir, sem hlífðu þessum tegundum rústa. Þær varpa því ljósi á hlutskipti manneskjunnar í norrænum veruleika.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Grundvallaratriði í minjavernd af því tagi sem rætt hefur verið um hér að framan, og reyndar minjavörslu allri, er að vita hvað til er svo að hægt sé að marka einhverja skynsamlega stefnu um verndunarmál. Tækið til þess heitir fornleifaskráning.
Minjavernd er umhverfisvernd. Við skiljum ekki umhverfið til fulls ef við skiljum ekki áhrif genginna kynslóða á það.”
Mikilvægt er aðhafa í huga að þótt minjar á nálægum svæðum séu ekki að vera frá sama tíma eða jafnvel minjar innan tiltekins svæðis, geta þær sem heild eftir sem áður verið jafn merkilegar. Þær geta lýst og endusagt búsetu-, atvinnu- og nýtingarsögu svæðisins til lengri tíma.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum er t.d. saga vermennsku og sjósóknar, fiskverkunar og mannlífs í veri, í Húshólma eru væntanlega frumbúsetuminjar og nýting svæðisins til fjárhalds og undir Selöldu er m.a. saga seljabúskapar og væntanlega búskapar á síðari öldum. Allt getur þetta vel spilað saman og bæði stuðlað að fjölbreyttri nýtingu og áhrifaríkri upplýsingagjöf til handa áhugasömu fólki.

Hvað á að rannsaka?
Minjavernd verður að byggja á vettvangsathugunum en benda má á nokkur atriðið sem vert er að hafa í huga við áætlanagerð, skipulag og varðveislu svæða.
Langmest af fornleifum er að finna á gömlum bæjarstæðum sem oftar en ekki er enn búið á. Mikilvægt er að reynt verði að takmarka framkvæmdir á slíkum stöðum og fylgjast vel með því raski sem nauðsynlegt er. Brýnt er að komið verði í veg fyrir eyðileggingu slíkra minja. Auk vegagerðar og línulagna stafar fornleifum nú helst hætta af skógrækt og aukinni sumarbústaðabyggð auk þess sem nýbyggingar og framkvæmdir á þétt-býliskjörnum. Minjunum í Húshólma og nágrenni stafar þó ekki ógn af síðastnefndu þáttunum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Í Húshólma hafa minjarnar varðveist svo vel sem raun ber vitni vegna þess að þær hafa verið tiltölulega óaðgengilegar inni í hrauni og jafnvel þótt áhugasamt fólk hafi reynt að finna þær hefur því fundist það erfitt. Sama á við um minjarnar í Óbrennishólma. Aðrar minjar á svæðinu, þ.e. Selatangar að vestanverðu, hafa um allnokkurt skeið verið aðgengilegar fólki, en þrátt fyrir hversu nærtækar þær hafa verið, hefur furðu mörgum reynst erfitt að finna þær. Verminjunum þar hefur helst stafað hætt af ágangi sjávar, enda má sjá mikinn mun á minjunum er standa næst sjónum frá því einungis fyrir nokkrum árum síðan. M.a. hefur sjórinn nýlega brotið niður hluta eins heillega verkshússins af þremur. Eftir standa tvö, en þau gætu einnig hæglega farið forgörðum í einhverjum stórsjónum einn vondan veðurdag. Að austanverðu stafar minjunum undir Selöldu ekki ógn af fólki vegna þess hve fáir vita af tilvist þeirra. Þar eru jarðvegseyðingaröflin hins vegar ógnandi skaðvaldur. Um þau verður rætt nánar síðar í verkefninu.

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Allar framngreinar minjar eru hvorki aðgengilegar eða einu sinni sýnilegar, en full ástæða væri til að koma upplýsingum um þær á framfæri við ferðamenn og almenning og auka þannig útivistargildi svæðisins að hluta eða í heild. Þegar skipulögð eru útivistarsvæði, þá er sjálfsagt að reyna að nýta þær auðlindir sem fyrir eru og fornleifastaðir geta verið afar spennandi og upplýsandi fyrir skólafólk eða ferðamenn, jafnt innlenda sem útlenda, að skoða. Til þess að það sé hægt þarf ekki annað en að skrá staðinn á vettvangi, merkja hann svo fólk viti hvert að eigi að fara og gera upplýsingar um hlutverk og gildi minjanna aðgengilegt á einn eða annan hátt, t.d. með prentuðum bæklingum eða skiltum á staðnum. Fyrir ferðaþjónustuna, og þá um leið viðkomandi byggðarlag, eru menningarleifar líkt og í Húshólma og nágrenni, mikil verðmæti.
Eins og fram kemur í kaflanum hér að framan er mikilvægt að skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði með hliðsjón af aldri minjanna og hraunsins. Rannsaka þarf garða, tóftir og grafreit með hliðsjón af aldri, tilurð og hugsanlegum menningar- og búsetuminjum.

Gildi minjanna í Húshólma

Húshólmi

Forn garður í Húshólma.

Eins og fram kemur í athugasemdum Bjarna F. Einarssonar er Húshólmi merkilegt fyrirbæri. Sama viðhorf endurspeglast í athugunum Brynjúlfs Jónssonar og annarra, sem skrifað hafa um minjarnar í hólmanum eða rannsakað þær m.t.t. aldurs.
Mikilvægt er að vernda minjar og umhverfi Húshólma. Ljóst er að aldur minjanna er hár og telja má fullvíst að Ögmundarhraun, er færði hluta þeirra í kaf og hlífði öðrum, rann á sögulegum tíma. Það gefur hrauninu ákveðið gildi, auk þess sem einstakt má telja að hægt sé að ganga að minjum við slíkar aðstæður.
Segja má að minjarnar í Húshólma feli í sér flest þau gildi er gjaldgeng eru í minjavernd. Þau hafa mikið gildi fyrir land og þjóð, hvort sem um er að ræða ímyndargildi fyrir landssvæðið og fólkið, tengslagildi við sögu og uppruna, vísindalegt gildi vegna takmarkaðra fyrirliggjandi upplýsinga og hugsanlegra möguleika þeirra á að varpa ljósi á fyrrum óljósa hluti með rannsóknum, upplifunargildi fyrir áhugasamt fólk, fagurfræðilegt gildi vegna aðstæðna á svæðinu þar sem eru samspil hrauns er runnið hefur á sögulegum tíma og minja, sem til eru komnar eftir að fólk settist fyrst að hér á landi, upplýsingagildi er felst í að miðla þekkingu sem aflað hefur verið á fræðilegum grundvelli og ekki síst nota- og fjárhagslegt gildi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Fjallað verður nánar um síðastnefnda gildi sérstaklega.
Minjar eru áþreifanlegur og efnislegur tengill við fortíðina umfram sem bækur eða frásagnir gera. Þær eru tákn fortíðar, geta gefið upplýsingar um liðna sögu, miðla þekkingu milli kynslóða og eru í raun tengill nútímafólks við forfeður þess.
Í bréfi Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, f.h. Þjóðminjasafns Íslands 23. júlí 2003 varðandi Suðurstrandarveginn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar í framhaldi af vettvangsskoðun í Húshólma er m.a. fjallað um fyrrgreindar athugsemdir Bjarna um Húshólma og skilyrði veglagningar í gegnum hólmann.

Húshólmi

Húshólmi – leifar af fornum garði.

“Þjóðminjasafnið telur að til að hægt sé að fallast á lagningu vegarins gegnum Húshókma þurfi aðgera bílastæði við veginn. Mæla þarf rústirnar á svæðinu upp og búa til upplýsingaspjöld á bílastæðinu þar sem almenningur getur fræðst um það sem þar er að sjá. Leggja þarfs tíga ums væðið þannig að umferð um það sé stýrt. Búa þarf til umbúnað um rústirnar sjálfar þannig að þeim stafi ekki hætta af umferð gangandi fólks um svæðið en jafnframt þannig að tilfinningin fyrir mikilfengleika rústanna í hrauninu glatist ekki. Til athugunar er að efna til samkeppni um frágang svæðisins. Huga þyrfti að samtarfi við Þjóðminjasafnið, Vegagerðina, Grindavíkurbæ, Náttúru-vernd ríkisins og e.t.v. fleiri aðila í þessu sambandi. Samningur milli þessara aðila og framkvæmdaáætlun verður að liggja fyrir áður en hafist verður handa við vegaframkvæmdirnar og framkvæmdir við frágang svæðisins verða að haldast í hendur við vegagerðina og vera lokið áður en almennri umferð verður hleypt áveginn. Tryggja þarf viðhald þeirra mannvirkja sem þarna verða reist í framtíðinni og eftirlit með fornleifunum. Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit á svæðinu. Einungis með þessum skilmálum getur Þjóðminjasafn Íslands fallist á að vegur verði lagður í gegnum Húshólma. Ef ekki er hægt að tryggja varðveislu minjanna á svæðinu með slíkum aðgerðum telur safnið að eina leiðin til að forða þeim frá skemmdum sé að viðhalda erfiðu aðgengi að svæðinu með því að leggja veginn norðan Húshólmans.”
Við gerð tillagna, sem hér eru lagðar fram um aðgengi aðminjasvæðinu í Húshólma, var m.a. tekið mið af framangreindum skilyrðum Kristins f.h. Þjóðminjasafnsins, en þær eiga jafnvel við í öllum meginatriðum þótt Suðurstrandarvegur verði lagður ofan við Húshólma.

Ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirstandandi eyðingu minja í Húshólma

Húshólmi

Húshólmavarðan.

Í dag er helsta ógnin við hluta fornleifanna jarðvegsrof í Húshólma. Þegar hafa langir hlutar torfgarða fokið burt og ljóst er að þeir munu hverfa að mestu í framtíðinni verði ekkert aðgert. Landgræsla ríkisins, sem staðið hefur fyrir uppgræðslu og áburðargjöf í Krýsuvíkurheiði austan við Ögmundarhraun, hefur haft áhuga á að græða upp sárin í Húshólma. Mikilvægt er að ákveðið verið sem fyrst hvernig að þeim málum skuli staðið svo minjar í hólmanum beri ekki meiri skaða af.
Landgræðsla ríkisins hefur samið við Landhelgisgæsluna um flutning á fræi og áburði inn í Húshólma. Síðan er ætlunin að leita eftir sjálfboðaliðum á vori komanda til að sá í sárin, sem þegar hafa myndast í hólmanum og stöðva þannig frekari gróðureyðingu.
Einnig er mikilvægt að huga að Óbrennishólma því þar hefur gróðureyðingin bæði sótt að fjárborginni stóru, tóft skammt austan hennar sem og jarðlægum garði er liggur upp með fjárborginni að vestanverðu.
Þá eru minjarnar undir austanverðri Selöldu einnig í mikilli hættu vegna jarðvegseyðingar. Tvær fjárborgir eru nú á rofabörðum, forn tóft stendur á gömlum lækjarfarvegi og veður, vindar og vatn sækja að jarðlægum tóftum skammt austan hennar.
Minjar á Selatöngum eru í hættu vegna ágangs sjávar. Sjórinn hefur t.d. nýlega brotið niður hluta af annars heillegu verkhúsi er stendur hvað næst sjónum. Líklega mun sjórinn smám saman taka til sín flestar minjanna á Selatöngum líkt og hann hefur gert víðast hvar með ströndum Reykjanesskagans í gegnum tíðina.

Aðgangur að minjunum – tillögur

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Mikilvægt er að gefa fólki kost á að skoða minjarnar í Húshólma. Það þarf bæði að gera með ákveðnum takmörkunum, en jafnframt á þann hátt að það auki gildi og áhrif heimsóknarinnar. Í Húshólma eru bæði menningarminjar og náttúruminjar. Hvorutveggja eru greinanlegar minjar og þær þarf að gera aðgengilegar. Í tillögum hópsins hefur verið reynt að samræma þau sjónarmið er lúta að friðun og verndun annars vegar og aðgengi almennings að fornminjum hins vegar. M.a. voru eftirfarandi upplýsingar frá Fornleifavernd ríksins hafðar í huga: “Það að vekja athygli á stað eða minjum og gefa hvorutveggja gildi er besta varðveisluaðferðin.”

Á að tengja Húshólmasvæðið við önnur svæði – af hverju og hvernig?

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Önnur nálæg svæði er tiltölulega auðvelt að tengja Húshólmasvæðinu. Um er að ræða Óbrennishólma annars vegar og Selatanga í vestri og Selöldu í austri hins vegar. Í tillögum hópsins er ekki gert ráð fyrir bættu aðgengi í Óbrennishólma með beinum hætti, að sinni að minnsta kosti. Aftur á móti er lögð áhersla á að tengja saman hin svæðin þrjú með sjávargötu eða -stíg. Bæði myndi það auka möguleika og gildi svæðisins til skoðunar og útivistar og um leið gefa áhugasömu fólki kost á að kynnast samfelldari sögu og atvinnuháttum á suðurströnd Reykjanesskagans í fögru umhverfi, en óvíða er t.d. fallegra útsýni með ströndum landsins, auk þess sem hraunin eru jafn gott skjól fyrir vindum og snjór leysir þar tiltölulega snemma þá sjaldan sem snjóar þar eitthvað að ráði.
Göngugatan myndi, skv. tillögunni, liggja með ströndinni frá Heiðnabergi út á Selatanga, um 6.5 km leið (sjá með-fylgjandi upp-drátt). Það tæki að meðaltali u.þ.b. klukku-stund að ganga þá leið. Upp frá götunni væru lagðir göngu-stígar, sem reyndar er mjög auðvelt (þyrfti einungis að merkja með stikum eða hælum) frá 1. Heiðnabergi við Hælsvík upp að tóftum Eyrar og Krýsuvíkursels og vestur með sunnanverðri Selöldu, að Fitjum, þar sem gert er ráð fyrir bílastæði, 2. upp Húshólma að minjasvæðinu (einnig auðvelt með hraunkantinum að vestanverðu) og 3. um Selatanga, en þar er göngustígur fyrir upp á bílastæðið ofan og vestan við minjasvæðið. Gera þyrfti ráð fyrir göngustíg inn í Ketilinn í Katlahrauni, skammt vestan Seltanga. Þar er skjólgóður og fagur áningarstaður, auk merkilegra jarðfræðifyrirbæra, ekki ólík Dimmuborgum við Mývatn.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Tiltölulega auðvelt er að leggja göngugötu þessa leið með ströndinni, en á köflum verður að vinna gerð hennar á höndum. Sléttlent er frá Hælsvík að austurjaðri Ögmundarhrauns, að mestu mólendi. Ekki er lagt til að fylgt verði gamla Húshólmastígnu í gegnum austan-vert Ögmundarhraun því hann þarf að fá að vera áfram eins og hann er. Um austanvert Ögmundarhraun ofan við ströndina er stígur fyrir og því ætti að vera auðvelt að fylgja honum með tilheyrandi lagfæringum. T.d. þyrfti að bera ofan í hann fínni grús. Í gegnum Húshólma er auðvelt að leggja stíg ofan við sjávarkambinn, með gömlu strandlínunni. Þá tekur við annar af tveimur erfiðari hlutum leiðarinnar m.t.t. stígagerðar. Hægt væri að fara yfir þennan kafla eftir fyrirliggjandi stíg frá minjasvæðinu austan Húshólma, að Brúnavörðum, en hér er hins vegar lagt til að sjávargatan fylgi sem mest ströndinni. Kaflann yfir hraunhaftið vestan Húshólma þarf að handgera, sem fyrr segir. Reynsla er komin á slíka stígagerð í Dimmuborgum á vegum Landgræðslu ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá henni er kostnaður við slíka stígagerð um 100.000 kr. á hverja 100 metra. Vinnan er unnin af sjálfboðaliðum undir leiðsögn sérfræðings. Efni og aðdrættir eru keyptir. Fulltrúi Landgræðslunnar taldi í samtali mjög líklegt að hún gæti orðið þeim, sem leggja vildi stíg þessa leið, innan handar við útvegun sjálfboðaliða og leiðsögn. Í Dimmuborgum er gert ráð fyrir að stígur sé það breiður að a.m.k. tveir geti gengið hann samhliða.
Kaflinn áfram að Selatöngum um Miðreka er misgreiðfær yfirferðar, ágætur á köflum en erfiðari utan þeirra. Þannig er síðasti kaflinn að Selatöngum austanverðum, að Eystri-Látrum, ógreiðfær og þyrfti að sæta sama lagi við stígagerðina og við vestanverðan Húshólma, þ.e. sýna útsjónasemi og taka mið af landslaginu við lagninguna. Á þessum kafla eru m.a. fallegar hraunmyndanir, auk möguleika á greiðfæri gönguleið upp í Óbrennishólma.

Húshólmi

Húshólmi – stoðholur.

Staðsetning bílastæða við minjasvæði er mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum. Því lengra sem er fyrir folk að ganga því færri leggja ferðina á sig. Ástæða er, a.m.k. fyrst um sinn, að takmarka fjölda fólks að minjasvæðinu í Húshólma. Þess vegna er lagt til að bílastæðið við Húshólma verði upp við Suðurstrandarveginn og að fólk þurfi að ganga þaðan niður að minjasvæðinu. Gert e

r ráð fyrir að lengd stígsins geti orðið, miðað við núverandi tillögu að vegstæði, um 2 km. Húshólmastígurinn er 1.1. km. Það tæki því fólk um 20 mín. að ganga stíginn frá bílastæðinu að minjasvæðinu (40 mín fram og til baka). Það er vipuð vegarlengd og upp og niður Laugaveginn.

Hafa þarf samráð við Hafnarfjarðarbæ við samræmingu og vegna ráðstafna með hliðsjón af tillögunum þar sem Selöldusvæðið er undir forsjá bæjarfélagsins, sbr. afsal landbúnaðarráðherra á landi úr Krýsuvíkur til Hafnarfjarðarbæjar 20. febrúar 1941. Þá hafa fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar sínt minni áhuga á nýtingu Krýsuvíkur til útvistar en t.a.m. fulltrúar Grindavíkurbæjar á nýtingu Húshólma og Selatanga, en þeir hafa nýlega m.a. stuðlað að útgáfu bæklings um minjar, sögu og sagnir á síðarnefnda staðnum (2004). Fyrirhuguð er útgáfa á sambærilegum bæklingi um Húshólma. Hvorutveggja er liður í glæða áhuga fólks á svæðunum og auðvelda því jafnframt að gera sér grein fyrir einstökum minjum sem og aðstæðum.

Gildi Húshólma fyrir ferðaþjónustuna

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gildi Húshólma og nærliggjandi svæða, sem og reyndar alls Reykjanesskagans, fyrir ferðaþjónustu á svæðinu er ótvírætt. Í Húshólma eru merkar minjar og fólk hefur áhuga á merkum minjum. Í könnunum ámeðal ferðamanna, sem heimsækja Ísland sem og á meðal innlendra ferðamanna, kemur yfirleitt berlega í ljós að þeir hafa mestan áhuga á náttúrunni og sögulegum menningaminjum. Á Reykjanesskagnum hafa gönguferðir átt auknum vinsældum að fagna. Hingað til hefur skaginn verið stórlega vanmetinn m.t.t. ferðamennsku. Athyglinni hefur verið beint að mjög fáum stöðum, s.s. Bláa lóninu og Reykjanesvita svo einhverjir séu nefndir. Á svæðinu eru hins vegar ótal minjar er tengjast sögu, mannlífi og lífsbaráttu fólks frá upphafi byggðar hér á landi. Má þar nefna t.d. dysjar, tóftir bæja, selja og tengdra mannvirkja, s.s. stekkja, rétta, fjárborga og fjárskjóla, gamlar þjóðleiðir djúpt markaðar í klöppina, vörður er tengjast sögum og sögnum, þjóðsagnatengdir staðir, staðir tengdir þjóðsögum, götur og vegir er lýsa þróun vegagerðar, vitagerð frá upphafi, hús er enduspegla gerð þeirra og notkun um aldir, mannvistaleifar í hellum og skjólum, hlaðnar refagildrur er lýsa veiðiaðferðum og þannig mætti lengi telja. Þá er ónefnd óviðjafnanleg náttúrufegurð og fjölbreytni jarðsögunnar.

Húshólmi

Upplýsingaskilti í Húshólma.

Þegar litið er á hið afmarkaða svæði suðurstrandarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar, verður því varla neitað að það hefur mikla möguleika upp á að bjóða. Hægt er að bæta aðgengið að ákveðum aðgerðum afstöðnum. Tillögur hópsins kveða á um hverja þær eru á þegar tilnefndum svæðu.
Ein af forsendum ferðaþjónustunnar er aðgengi. Mikilvægt er þó að staðsetja bílastæði með hliðsjón af sjónarmiðum um nauðsyn verndunar. Þannig gera tillögur hópsins ráð fyrir staðsetningu bílastæði fólks, er vill heimsækja Húshólma, upp við Suðurstrandarveginn og síðan gerð göngugötu frá því niður að minjasvæðinu við hólmann. Þar er gert ráð fyrir stýringu fólks með merkingum, stígum og jafnvel lágum girðingum. Gert er ráð fyrir að umgengi fólks verði takmarkað og minjunum sjálfum hlíft, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.
Ekki er ástæða til að óttast yfirgengilegan ágang fólks á Seltaöngum og Selöldu og því er lagt til að bílastæðin verði staðsett nær minjasvæðunum. Það er og gert til að göngufólk, er nýtir sér sjávargötuna til skoðunar, eigi auðveldara með að nálgast hana til endanna.

Upplýsingar um minjarnar

Húshólmi

Húshólmi – stoðholur.

Á hverjum stað þurfa að koma fram réttar og hnitmiðaðar upplýsingarnar um aðgengilegar og sýnilegar minjar á viðkomandi svæði. Í Húshólma, og jafnvel víðar, á eftir að framkvæma rannsóknir og sjálfsagt er að leyfa fólki að fylgjast með framgangi þeirra með ákveðinni upplýsingagjöf til hliðar við megin upplýsingatöflurnar. Á töfluna við Húshólmarústirnar er sjálfsagt að geta um hvers vegna fjarlægð frá bílastæðinu að minjunum er eins löng og raun ber vitni, þ.e. út fráverndunarsjónarmiðum. Það myndi jafnframt vera ábending til fólks að umgangast minjarnar með meiri varúð og virðingu. Upplýsingagjöf, ábendingar og vel afmarkaðir stígar geta stuðlað að verndun minja ef rétt er að málum staðið. Reynslan sýnir að langflestir fara eftir leiðbeiningum og fylgja stýringum þar sem þær eru fyrir hendi. Þannig þarf að hafa í huga að nota upplýsingarnar á viðkomandi stöðum bæði til fróðleiks og sem leiðbeinandi tilmæli um umgengni, mikilvægi fornleifa og ábyrgð almennings á verndun þeirra, sbr. gildandi ákvæði laga þar að lútandi.

Gerð og útlit skilta
Mikilvægt er að samræma útlit og upplýsingagjöf á svæðunum.
Í tilllögunum er gert ráð fyrir bílastæðum við Selatanga, við Suðurstrandarveg ofan við Húshólma og vestan við Selöldu. Merkja þarf bílastæðin og aðliggjandi göngustíga að minjasvæðunum. Við aðkomuna að minjasvæðunum sjálfum þurfa að vera upplýsingatöflur með ítarlegri upplýsingum, s.s. v/leiðir og stíga, uppdráttum og áhugaverðum söguskýringum.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Þá þarf að merkja einstakar minjar með minni skiltum eða merkingum þannig að fólki sé ljóst hvaða minjar það er að skoða á hverjum stað. Auk þessa þarf vegvísa við sjávargötuna, t.d. er lagt er af stað frá tilteknum stað og komið er að tilteknum stað. Á þurfa að kom afram vegarlengdir á milli staðanna. Þá þurfa að vera leiðarvísar á einstaka stað, s.s. þar sem hægt er að ganga frá stígnum upp í Óbrennishólma. Ekki er að svo komnu máli gert ráð fyrir sérstakri upplýsingatöflu þar.
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gert áætlun um merkingar leiða og minjasvæða á Suðurnesjum. Samkvæmt upplýsingum þeirra kostar uppsett upplýsingatafla um 250.000 króna. Grindavíkurbær hefur jafnframt lagt fram drög að skipulegum merkingum á minjum í umdæmi bæjarins. Eins og fram kom í upphafi er mikilvægt að samræma uppsettar merkingar og upplýsingatöflur á Reykjanesskaganum og reyndar helst um land allt.

Fá styrktaraðila

Óbrennishólmi

Í Óbrennishólma.

Leita þarf til styrktaraðila til að fjármagna gerð skilta og jafnvel göngustígagerð. Að fenginni reynslu er mjög líklegt að áhugasamir aðilar; fyrirtæki, stofnanir, félög og aðrir, muni sýna verkefninu áhuga, auk þess hægt ætti aðvera að sækja styrki tilverkefnisins frá sjóðum Ferðamálaráðs, Poskasjóði sem og fleiri hálf-opinberum og opinberum aðilum, auk þess líklegt megi telja að Grindavík myndi leggja einhverja fjármuni til verksins.
Ljóst er að Landgræðsla ríksins er reiðubúin að veita aðstoð og faglega ráðgjöf ef eftir því verður leitað. Án efna gildir slíkt hið sama um aðrar stofnanir samfélagsins, s.s. Fornleifavernd ríksins, Þjóðminjasafn Íslands, Byggðasafn hafnarfjarðar o.fl.

Mikilvægt er að ákveðinn aðili, ef af verður, haldi utan um verkefnið, annist framkvæmd þess og hafi samráð við alla þá hlutaðeigandi aðila er stuðlað geta að framgangi þess, samræmt og lagt til góð ráð eða stuðning. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur væri tilvalinn til verksins eða annar, sem bæjarfélagið fengi til þess, í samstarfi við forstöðumann Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Vöktun – Eftirlit

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Í lögum er kveðið á um að allir beri í raun ábyrgð á forlleifunum og varðveislu þeirra. Fornleifavernd ríkisins hefur lagalega umboðið varðandi ákvörðunartöku á varðsveislu, rannsóknir, meðhöndlun eða nýtingu minja.
Rétt er að taka undir skilyrði Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann, sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit með minjum á svæðinu. Gera þarf áætlun um viðhald og varðveislu þeirra.
Reyndar væri tilvalið að knýja á um að Fornleifavernd ríkisins fengi umbeðið stöðugildi minjavarðar á Reykjanesi. Sá aðili gæti annast framangreint eftirlit með þessum svæðum sem og öðrum á skaganum. Reyndar er líkt orðið löngu tímabært.

Framkvæmdaráætlun

Óbrennisbruni

Forn garður í Óbrennisbruna.

Við tillögugerð þessa hefur það verið haft að leiðarljósi að lágmarka kostnað við gerð aðstöðu, en gera hin merkilegu minjasvæði eftir sem áður sem aðgengilegust almenningi, þó með ákveðin verndunarsjónarmið að markmiði.
Þessar tillögur er auðveldlega hægt að framkvæma í áföngum m.v. hvert svæði fyrir sig eða hvert á fætur öðru.
Lagt er til að þeim verði komið í framkvæmd samhliða lagningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar og verði lokið áður en umferð verður hleypt á hinn nýja veg, sbr. fyrrnefndar tillögur Magnúsar Kristinssonar, fornleifafræðings.

Lokaorð

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Í bók sinni Harðsporar lýsir Ólafur Þorvaldsson, sem manna best þekkti til Krýsuvíkur á síðari árum og hafði skoðað minjarnar og velt fyrir sér mögulegu fyrrum mannlífi í Húshólma og veltir vöngum yfir fyrri athugunum. “Vonandi tekst betur til, þegar þeir menn, sem þeim málum ráða, ganga á landamæri nútíðar og fortíðar í Húshólma, til þess að skera úr og ákveða, eftir þeim gögnum, sem þar kunna fram að koma, aldur og annað, sem máli skiptir, varðandi hina fornu byggð, sem þar hefur áður verið og lengi hefur legið óbætt hjá garði – að sá vettvangsdómur, sem þeir þar upp kveða, megi verða svo skýlaus og ákveðinn, að framtíðin þurfi ekki lengur um það efni að deila. Hér mun verða óvenjulegt efni til úrlausnar.”

Skilyrði fornleifauppgrafta í sumum nágrannalandanna er jafnan þau að í upphafi verði gert ráð fyrir hvernig eigi að lokum að gera almenningi kleift að skoða afraksturinn með aðgengilegum hætti. Má nefna Hjaltland og Orkneyjar sem dæmi. Einföld skýrsla á óskiljanlegu máli er ekki látin duga. Strax í byrjun er gert ráð fyrir að uppgröfturinn skili einhverju nýtanlegu – einhverju upplýsandi. Til þess þarf að gera slíkt svæði bæði aðgengilegt og áhugavert með stígagerð, merkingum og skiltum með helstu niðurstöðum. Með því að byggja upp þannig fyrirkomulag hér á landi myndi sýnileiki sögunnar, tengsl þjóðar við fortíð sína, verða markviss og áhrifin á menntastofnanir og ferðaþjónustuna myndu margfaldast frá því sem verið hefur.

Framangreint er unnið af Ómari Smára Ármannssyni – og er til í aðgengilegu ritgerðarformi, sem hann gaf Grindavíkurbæ – bænum að kostnaðarlausu á sínum tíma…

Heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson: Krýsuvík. Fornleifar og umhverfi – Fornleifastofan – 1998.
-Bjarni Einarsson – byggt á grein hans “Minjavernd er umhverfisvernd” á vefslóðinni http://www.mmedia.is/~bjarnif/frame.htm
-Bjarni F. Einarsson: Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar frá Þorlákshöfn að Grindavík. Lokaskýrsla – Reykjavík 2003.
-Bjarni F. Einarsson: Athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar – 2. mars 2001.
-Brynjúlfur Jónsson: Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1903 (bls. 48-50 og myndasíða IX) – Reykjavík 1903.
-Brynjúlfur Jónsson: Tillag til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102). Menningar og fræðasamband alþýðu – 1953.
-Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson: Ferðabók 1752-1757 – Reykjavík 1987.
-Einar Gunnlaugsson: Hraun á Krýsuvíkursvæði. B.S.-ritgerð við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, bls. 79 – 1973.
-Gísli Oddsson: Annalium in Islandia Farrago and De Mirabilibus Islandiae,, Islandica 10: 1-84.
-Gísli Sigurðsson: Gönguleiðir út frá Krýsuvík. Landslag og leiðir – útvarpserindi, ódagsett.
-Gísli Þorkelsson: Setbergsannáll. Í: Annálar 1400-1800 (annals Islandici Posteriorum Sæculorum), 4. bindi 1-215 – Reykjavík 1940-’48.
-Gráskinna hin meiri: Tyrkjarán í Krýsuvík, bls. 257.
-Guðrún Gísladóttir: Environmental Characterisation and Change in South-western Iceland, bls. 111-124 – doktorsritgerð 1998.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull no. 38, (bls. 71-85) – 1988.
-Jón Vestmann: Sóknarlýsing 1840
-Jónas Hallgrímson: Bréf og dagbækur, bls. 366– Reykjavík 1989.
-Kristinn Magnússon: Suðurstrandarvegur milli Grindarvíkur og Þorlákshafnar. Húshólmi – Garðabæ 23. júlí 2001.
-Krýsuvík: Örnefnalýsing – Örnefnastofnun, ódagsett.
-Landbúnaðarráðherra: Afsal af hluta af Krýsuvíkurlandi til Hafnarfjarðarbæjar – 20. febrúar 1941.
-Menningarminjar í Grindavíkurhreppi: Svæðisskráning, Orri Vésteinsson – 2001.
-Náttúruvernadrráð – Skrá um náttúruminjar á Suðvesturlandi – Tillaga um Ögmundarhraun – 1998.
-Jón Jónsson: Um Ögmundarhraun og aldur þess, bls. 193-197 – Reykjavík 1982.
-Ólafur E. Einarsson: Hamfarir í Húshólma – Morgunblaðið 4. september 1989.
-Ólafur E. Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess – Lesbók Mbl. 7. mars 1987.
-Ólafur Olavíus: Ferðabók 1775-1777 – Reykjavík 1965
-Ólafur Þorvaldsson: Krýsuvíkurkirkja að fornu og nýju – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1961.
-Ólafur Þorvaldsson: Harðsporar, bls. 115-120 – Reykjavík 1951.
-Reglugerðð um þjóðminjavörslu: 23. gr. – 1998.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, fyrri hluti – Sunnudagsblað Timans 25. júní 1967.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, seinni hluti – Sunnudagsblað Tímans 2. júlí 1967.
-Sveinn Pálsson: Ferðabók, dagbækur og ritgerðir 1791-1797, bls. 659-660 – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Fyrri hluti (bls. 227). Stofnun Árna Magnússonar – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns. Eldur í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982 (bls. 415-424) – Sögufélag, Reykjavík 1982.
-Tómas Tómasson: Eldsumbrot á Reykjanesi, Faxi 8, 3. tbl, bls. 10, 4. tbl. bls. 6-7 og 5. tbl. bls. 3-4 – 1982.
-Vegagerð ríkisins: Suðurstrandarvegur. Mat á umhverfisáhrifum – 2001.
-Þorleifur Einarsson: Jarðfræði Reykjavíkur og nágrennis – Reykjavík 1974.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók 1883, bls. 180 – Reykjavík 1925.
-Þjóðminjalög: 11. grein – 2001

Aðrar heimildir:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd

Stoðhola

Selatangar

Gengið var um Selatanga og einstakar minjar gaumgæfðar. Skoðaðar voru m.a. sjóbúðir, verkhús, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, brunnur, smiðja, skiptivöllur, byrgi, hella, hlaðnar refagildrur og gamlar götur. Síðan var gengið um Katlahraunið eftir Rekagötunni að Ísólfsskála. Á leiðinni var rifjuð upp jarðsaga svæðisins.

Sjóbúð

Í þessari heimsókn kom berlega í ljós hversu varnarlausar minjarnar á Selatöngum eru. Hraunþakið á fyrirhlöðnum skúta austast á Selatöngum hafði fallið niður á hleðsluna svo hana má varla greina lengur. Þá hefur sjórinn brotið enn meira af miðverkunarhúsinu svo nú er varla nema þriðjungur eftir.
Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars er talið að þaðan hafi fyrrum verið róið á skipum frá Skálholtsbiskupi (sjá má bækling um Selatanga HÉR). Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn á Töngunum. Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880.
Allmiklir verbúðarústir eru þar enn og víða hefur verið hlaðið fyrir hraunskúta, s.s. hesthús og geymslur. Minjarnar þar eru friðlýstar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas. Mikill reki er við Selatanga. Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana. Nefndur Tómas var maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst. Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum. Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum (sjá meira HÉR).

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Nú standa eftir verbúðarústirnar, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti, en sjórinn hefur verið að brjóta smám saman niður þær minjar er standa næst ströndinni. Núverandi minjar eru flestar yngri en 1799 er stórflóð og fárviðri gerði þá á Suðvesturströndinni og braut niður og skolaði í burt fjölmörgum mannvirkjum. Svæði þetta var allt friðlýst, sem fyrr sagði, 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.

Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld (sjá meira HÉR og HÉR. Einnig HÉR). því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru á svonefndum Húshólma. Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld. Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 (sjá meira HÉR og HÉR), og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti féll seinasta sjóbúðin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan, utan þess að bændur frá Skála voru þar lengur við útræði og selveiðar.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.

Rústirnar eru margar, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar.
Á Selatöngum er talið að fyrrum hafi m.a. verið biskupsskip frá Skálholti. Hella við Tangana notuðu vermenn til ýmissa nota. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir í helli einum ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

Selatangar

Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:
„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
SelatangarEinu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti han
n sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.

Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.

Selatangar

Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Austasta sjóbúðin og byrgiKvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund
heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:

„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
VerkhúsSölvi Björn Sigurðson hefur ritað umsögn um eitt verka Árna Bergmanns, Geirfuglinn, en sagan á m.a. að gerast á Selatöngum.

Í Geirfuglunum rekur maður á miðjum aldri uppvaxtarsögu sína og minningar frá æskustöðvunum, þorpi á Suðurnesjum sem nefnist Selatangar og er fyrir ill tíðindi orðið frægari staður en bæði Vestmannaeyjar og Reykjavík. Titill bókarinnar gefur það til kynna að hér er lýst heimi á hverfanda hveli, fólki sem heyrir fortíðinni til og er í bráðri útrýmingarhættu. Hin mikla tákngerving þessarar útrýmingar er ægilegt slys sem veldur bana meiri hluta íbúanna; aðeins fáeinir lifa af og þjást af söknuði, tómleikakennd og væntanlega samviskubiti yfir því að hafa komist af.
RefagildraHin válegu tíðindi sem gerst hafa marka þáttaskil fyrir alla þá sem eftir lifa. Þessi þáttaskil eiga sér ef til vill djúptækar menningarlegar og pólitískar aðstæður sem um nokkurt skeið hafa mótast í landinu og stefnt þjóðinni í voða. 

Ýmsar blikur eru á lofti um að slysið tengist tilraunum bandaríska hersins og aðsetri kafbáta hans í sjávarhellum skammt frá byggðinni. Þetta fæst að vísu ekki staðfest og aðrir telja að ægilegar jarðhræringar hafi valdið slysinu. Það verður samt ekki annað skilið en að hinir nýju landnemar í íslensku samfélagi séu engir aufúsugestir, og að ýmsar þjóðfélagshræringar og stríðsræskingar sem þjóðin hefur bægt frá sér í ellefu aldir etji henni nú á vafasama braut með skelfilegum afleiðingum.

Verbúð

Framármaður – málverk Bjarna Jónssonar.

Kaldastríðsskjálftinn hlýtur að vera raunverulegur áhrifaþáttur við ritun þessarar fyrstu skáldsögu Árna Bergmanns, sem einnig er uppgjör við liðna tíma, horfna bernsku og þjóðlíf sem hans kynslóð hefur séð líða undir lok.
Geirfuglinn er dágætt dæmi um hvernig nútíminn er oft tengdur við liðna sögu, sögu er snert getur hina viðkvæmustu sálarstrengi þjóðar (sjá meira HÉR).
Loks voru refagildrunar skoðaðar sunnan Katlahrauns (sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/um_Reykjanes
-http://www.fornleifavernd.is
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman – Reykjavík 1990.
-Jón Thorarensen: Rauðskinna- Rvk. 1949, bl.72-76
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði – Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11
-http://bokasafn.rnb.is
-http://www.bokmenntir.is

Selatangar

Í Katlahrauni.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

Arnarfell

Gengið var umhverfis Arnarfell í Krýsuvík. Skoðaðar voru tóftir Arnarfellsbæjarins sunnan undir fellinu, útihúsatóftir í fellinu miðju, litið á Arnarfellsvatnið suðaustan við fellið og síðan skúta og stekk norðan við það. Að Arnarfelli að vestanverðu liggja miklir garðar er tengast Suðurkoti og Læk. Frægastur ábúanda á Arnarfelli var Beinteinn Stefánsson, sá er byggði Krýsuvíkurkirkju þá er nú stendur, 1857.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – tóftir gamla bæjarins framar.

Þegar gengið er frá kirkjunni er fyrst fyrir Ræningjahóll sunnan henar, handan þjóðvegarins. Hóllinn, sem og gróinn hóll austan hans, Ræningjadys, tengjast sögnum af Tyrkjunum er komu upp Ræningjastíg á Krýsuvíkurbergi og áleiðis að kirkjunni þegar þeir mættu séra Eiríki á Vogsósum, sem hafði verið þar við messu. Ræningjunum var komið fyrir í dysinni eftir að þeir höfðu vegið hvorn annan að áhrínan séra Eiríks.
Syðri vörslugarðinum, sem nær milli Bæjarfells og Arnarfells, var fylgt áleiðis yfir að síðarnefnda fellinu. Sunnan undir fellinu eru tóftir bæjarins.
Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan segir að eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan af viðureign Beinteins og Tanga-Tómasar á Selatöngu er mörgum kunn. Í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929, var sagan eftirfarandi [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

[Hér er um að ræða stytt afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.

Arnarfell

Tóftir Arnarfellsbæjarins.

Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.

Arnarfellsvatn

Arnarfellsvatn.

[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð].

Arnarfell

Tóft í Arnarfelli.

Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.

Arnarfell

Arnarfellsrétt.

Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.”
Ofar í Arnarfelli eru tóftir útihúsa. Efst á því er Eiríksvarða, sögð hlaðin af séra Eiríki með þeim orðum að á meðan hún stendur munu Tyrkir ekki koma í Krýsuvík. Suðaustan við Arnarfell er Arnarfellsvatn. Vel gróið er við það sunnanvert. Þar munu hestalestarnar á leið austur yfir hafa áð fyrrum. Enn mótar fyrir tóftum við vestanvert vatnið. Nokkru suðvestar er Arnarfellsréttin.
Gengið var norður fyrir Arnarfell. Uppi í því norðaustanverðu er nafngreindur skúti, fremur lítill þó, kenndur við kvenmann frá bænum. Norðan fellsins er hlaðinn stekkur utan í grettistaki. Skammt vestar er hlaðinn garður er nær áleiðis að bænum Læk, austan á austanverðri Krýsuvíkurtorfunni. Honum var fylgt þangað og á leiðinni voru rifjaðar upp sagnir af Arngrími frá Læk og veru hans með fé sitt í fjárhellinum í Klofningum (sjá aðrar FERLIRslýsingar).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Dágon

Í Alþýðublaðinu árið 1970 skrifar Gestur Guðfinnsson um Dágon; Guð Filista á Selatöngum:
Ögmundadys„Í Selatöngum, hinni fornu veiðistöð Krýsvíkinga, er margt athyglisvert að sjá og skoða. Kannski furðar maður sig þó mest á að hitta þar fyrir sjálfan guð Filista í flæðarmálinu, að vísu niðurbrotinn og næstum því að engu orðinn, en samt sem áður gegnandi þýðingarmiklu embætti.
Gísli Sigurðsson varðstjóri og örnafnasafnari í Hafnarfirði vakti athygli okkar á þessu ekki alls fyrir löngu, en hann hafði sína vitneskju frá dr. Jakobi Benediktssyni málfræðingi, svo og úr Biblíunni. Það hefur lengi verið vitað um stand eða drang í Selatöngum, sem kallaður hefur Verið Dágon eða Dagon, — en flestum hefur þótt nafnið torskilið og ekki íslenzkulegt.
dagon-221Í bókinni Frá Suðurnesjum er að finna ritgerð, sem heitir Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson. Þar er m. a. vikið að þessum kletti í eftirfarandi klausu; „Dágon er hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum og eru í honum landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Kirkjurnar komu víða við með ítök í gamla daga, og þarna fyrir Ísólfsskálalandi, frá Dágon að austan og vestur; um Veiðibjöllunef, átti Kálfatjarnarkirkja allan stórviðarreka, þ. e. ábúandinn mátti sjálfur hirða það sem kallað var morkefli. Ítak þetta var svo keypt af núverandi ábúanda og eiganda Ísólfsskála um 1920, svo það er ekki kirkjueign lengur.“

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840—41 eftir séra Geir Bachmann kemur þessi sami klettur einnig við sögu. Þar stendur m. a.: „Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur.“
Gísli kvað ýmsar tilgátur hafa verið uppi um heitið á klettinum og hefði hann þess vegna hringt til dr. Jakobs Benediktssonar málfræðings og spurt hann um það. Taldi Jakob líklegast, að Dagon væri biblíunafn, enda kom það á daginn, þegar Gísli fór að blaða í Biblíunni. Þetta er einmitt nafn á sjálfum guði Filistanna, að vísu ritað Dagón, en ekki Dagon, eins og í sóknarlýsingunni. Það er bezt að gefa heilagri ritningu orðið, þegar málum er þar, komið að Ísraelsmenn hafa beðið ósigur fyrir Filistum og sáttmálsörkin er komin í hendur óvinanna:

Selatangar

Á Selatöngum.

„En Felistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. Og Filistar tóku Guðs örk og fluttu hana í hús Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón. En er Asdódmenn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dágón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve. Tóku þeir þá Dágón og settu hann aftur á sinn stað. Og þeir risu árla u m morguninn daginn -eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve; höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum: bolurinn einn var eftir af Dagón. Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í hús Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helzt það enn í dag. Og hönd Jahve lá þungt á . Asdód-mönnum, hann Skelfdi þá og sló þá með kýlum — Asdód og héraðið umhverfis. En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: Örk Ísrels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum.“ En það er fleira skemmtilegt við þetta en nafnið.

Selatangar

Á Selatöngum.

Örlög Dagons í Selatöngum urðu nefnilega ekki ósvipuð endalokum nafna hans í Biblíunni. Hann brotnaði í einhverju stórbriminu og lagðist á grúfu í flæðarmálinu. Það er ekki einu sinni eftir af honum uppistandandi bölurinn, hvað þá meira. Kunnugir vita hins vegar nokkurn veginn hvar Dagon var, hann stóð í fjörukampinum rétt utan við svokallaða Vestri-Hlein, ekki langt vestan við verbúðirnar og fiskbyrgin, þar sem dálítil klettasnös skagar fram í fjöruna.
Erfitt er að spá nokkuð í tildrögin að nafngiftinni, líklega er merkingin heldur niðrandi, þó að þarna sé að vísu um háttsetta persónu að ræða, Filistar hafa víst aldrei verið hátt upp skrifaðir í almenningsálitinu á Ísandi. Landamerkjadeilur koma kannski einna helzt í hugann, þar sem þetta var landamerkjaklettur, en kirkjur áttu hagsmuna að gæta á báða bóga. Hins vegar virðist ljóst að nafnið sé tilkomið eftir að kristinn siður og biblíuþekking varð almenningseign á Suðurnesjum.“ — G. G.

Heimild:
-Alþýðublaðið 8. október 1970, bls. 7 og 11.

Selatangar

Á Selatöngum.

Saltfiskur

Veiddur fiskur hefur verið verkaður með ýmsum aðferðum í gegnum aldirnar hér á landi.
Í „Þurrkhandbók“ Matís; Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, segir m.a.:

Skreiðalest

Skreiðalest.

„Þurrkun eða hersla fisks er ævaforn aðferð og er enn í dag mikilvæg aðferð til að lengja geymsluþol fiskafurða víða um heim.
Skreið og þurrkaðar fiskafurðir hafa verið verslunarvara í árhundruð í Evrópu og víðar. Fyrr á öldum var skreið mikilvæg verslunarvara í innlendum og erlendum vöruskiptum Íslendinga. Erlendir kaupmenn komu til landsins og fengu skreið í skiptum fyrir ýmsar nauðsynjavörur.
Skreiðar er nokkrum sinnum getið í Íslendingasögum og Sturlungu. Fyrst er hún nefnd um 1200 og eftir það kemur hún ítrekað fram í heimildum. Á fimmtándu öld er talað um að skreið sé orðin mikilvæg verslunarvara hjá þýskum og enskum kaupmönnum. Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin allmörgum nöfnum svo sem „plattfiskur“, „malflattur fiskur“, „kviðflattur fiskur“, „reithertur fiskur“, „hengifiskur“, „hnakkafiskur“, „ráhertur fiskur“ og „ráskerðingur“.
Mörg þessara orða vísa til tiltekinna verkunaraðferða og er rétt að benda á að mikinn fróðleik um skreið og skreiðarverkun fyrr á öldum er að finna í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson.

Skeiðahjalli

Skreiðahjalli á Vestfjörðum.

Algengasta heitið á hertum fiski meðal landsmanna var harðfiskur eða skreið og víða var þetta meginuppistaða fæðu hér á landi. Algengast var að berja fiskinn og neyta hans með smjöri ef það var á boðstólum, en ekki mun það hafa verið algengt að bleyta upp fiskinn og sjóða eins og víða var gert erlendis.
Það þótti ekki gott ef fiskur sem hengdur hafði verið upp frysi, enda var það skemmd á vörunni í augum erlendra kaupmanna, en landanum þótti aftur á móti besta skreiðin vel verkuð freðýsa. Sýnir þetta m.a. að það sem okkur þykir gott er endilega ekki það sem öðrum hentar, enda er neysla landans á harðfiski með öðrum hætti en gerist almennt í helstu viðskiptalöndum okkar.

Hjallur

Dæmigerður fiskhjallur, til vinstri,  við býli fyrrum. Slíkur hjallar þóttu sjálfsagðir á nánast hverjum bæ allt fram til loka 20. aldar.

En það voru fleiri tegundir en þorskur þurrkaðar og má eiginlega segja að nánast allar tegundir væru þurrkaðar með einum eða öðrum hætti, enda litlir möguleikar á öðrum aðferðum til að verja fiskinn skemmdum hér á landi þar sem salt var lengi vel af skornum skammti og kæling og frysting ekki möguleg fyrr en á síðustu öld.
Það eru til frásagnir af þurrkun mjög margra tegunda, sumar voru þurrkaðar að fullu meðan aðrar þóttu betri signar eða kæstar fyrir þurrkun, svo eru til frásagnir af því að háfur hafi verið þurrkaður og nýttur sem eldiviður.

Skreið

Skreiðalest.

Þar sem þorskurinn var og er enn verðmætasta og best nýtta fisktegundin hér við land, þá eru til mestar upplýsingar um verkun og vinnslu hans. Skreiðarverkun var mjög mikilvæg atvinnugrein langt fram á síðustu öld þar sem heill hausaður spyrtur fiskur var hengdur á hjalla í öllum sjávarþorpum landsins. Aðrar tegundir eins og ufsi, langa og keila voru einnig nokkuð algengar tegundir sem fóru svipaða leið og þorskurinn.
Þegar leið á tuttugustu öldina og aflasamdráttur var orðinn staðreynd þá dró umtalsvert úr framleiðslu og útflutningi á skreið, einnig voru ýmsar blikur á lofti á stærsta markaðnum, Nígeríu, á þessum árum. Einhverra hluta vegna þótti hæfa að nota lakara hráefni í þessa vinnslu, jafnvel hráefni sem ekki þótti hæft til frystingar eða söltunar.
Með minni afla og hækkandi verðs á ferskum, frystum og söltuðum afurðum hefur hefðbundin skreiðarverkun minnkað verulega.“

Skreið

Selatangar

Selatangar – verminjar.

Í framangreint yfirlit vantar fiskinn, sem verkaður var í verum landsins allt frá landnámi til loka 19. aldar. Verin voru og eru órjúfanlegur hluti sögu þjóðarinnar. Hjallar voru víða að vísu, en í litlum mæli. Réðst umfang þeirra yfirlit af nálægum aðdráttum rekaviðs. Á hjöllunum var fiskurinn hengdur upp óflattur, þ.e. með haus og sporð. Annars var fiskurinn flattur og vind- og sólþurrkaður á hlöðnum grjótgörðum. Þess á milli var hann geymdur í hlöðnum steinbyrgjum þar sem loft var látið leika um hann svo sem kostur var. Verin voru jafnan mönnuð að vetrarlagi, þ.e. frá byrjun febrúar til lokadags 11. maí. Kuldinn skaðaði ekki verkunina, heldur þvert á móti,  og svartir hraungarðarnir auðvelduðu hana með aðstoð dagshitans frá sólinni.
Leifar mannvirkja, sem notuð voru við þessa vinnsluaðferð má enn finna víða á Reykjanesskaganum, einkum á honum sunnanverðum, s.s. á Selatöngum, í Slokahrauni, í Strýthólahrauni, ofan Húsatófta og í Eldvörpum. Síðastnefndi staðurinn var reyndar ekki verkunnarstaður, heldur geymslustaður. Ummerki má einnig finna á skaganum norðanverðum, s.s. ofan við Krossavíkurbjarg, við Juknkaragerði, Hafnir og Stafnes.

Hjallar/trönur

Trönur

Trönur ofan Grindavíkur.

Þegar Íslendingar uppgötvuðu trönubúskapinn má segja að fjandinn hafi náð að fanga tækifærið. Trönusvæðin spruttu allt umleikis þéttbýlisstaðina á Suðvesturlandi og útflutningur á skreiðinni jókst til mikilla muna. Heilu hjarðsveitirnar voru gerðar út með striga, pressur og sótstrimla… Í dag má sjá heilu hraunssvæðin þakin föllnum trjáspýrum með tilheyrandi rotnun.

Harðfiskur

Harðfisakur

Verðandi harðfiskur; skreið…

Harðfiskur var unninn úr framangreindri fiskverkun. Hann var þurrkaður og barinn fiskur, oftast unninn úr ýsu, steinbít eða þorski, en einnig þekkist harðfiskvinnsla úr ufsa, kolmunna og lúðu. Harðfiskur var áður fyrr einn helsti matur Íslendinga, og var hann gjarnan borðaður með smjöri eða sölvum. Er harðfiskur sérlega próteinrík næring, harðfiskur (ýsa) inniheldur 80-85% prótein.
Í seinni tíð hefur harðfiskur verið flakaður og síðan forunninn með heit loftþurrkun eftir að hafa verið baðaður upp úr 5% saltpækli, fiskurinn er síðan frystur, skorinn í bita og raðað á grind sem sett er inn í þurkklefa. Heita loftið veldur því að fiskurinn hitnar, en við það gufar vatn upp úr honum. Tekur þessi vinnsluaðferð um 36-48 klst.
Einnig hefur kæliþurrkun verið beitt, þar sem fiskurinn er handflakaður, flökin snyrt og hreinsuð og sjáanleg bein og blóð fjarlægð. Þá er fiskurinn látinn liggja í 2% saltpækli í um 30 mínútur. Loks er fiskurinn þurrkaður í þurrklefa, þar sem þurrkað er við -5 °C-0 °C.
Einungis um 10% af upphaflega hráefninu skilar sér í seljanlegri vöru eftir þurrkun. Endurspeglar hátt söluverð á harðfiski í dag þessa staðreynd.

Saltfiskur

Fiskverkun

Saltfiskverkun við útgerðarhús.

Saltfiskur er fiskur, oftast þorskur sem búið er að meðhöndla með söltun til að hann geymist betur. Salti er stráð á nýjan fisk og það dregur til sín vatn úr fiskholdinu, leysist upp og myndar pækil. Pækillinn þynnist eftir því sem hann dregur meira af vatni úr fiskinum og saltið fer smán saman inn í fiskholdið þangað til saltupplausnin í fiskinum er orðin jafnsterk og í pæklinum. Því meira salt sem er í pæklinum, þeim mun saltari verður fiskurinn og með minna vatnsinnihald. Söltunin breytir líka bragði fisksins.

Einarsreitur

Einarsreitur. Einn af fjölmörgum satfiskreitunum ofan Hafnarfjarðar fyrrum.

Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við saltfiskvinnslu. Nú á tímum er fiskur oftast forsaltaður í 2-3 daga með sprautun og pæklun eða pæklun eingöngu. Eftir það er fiskurinn þurrsaltaður eða kafsaltaður í ker og þá mettast fiskurinn af salti. Við söltun fer saltstyrkur í fiskvöðva úr 0,2% NaCI sem er náttúrulegt í rúm 20% í saltaðri afurð. Söltun breytir próteinum fisksins og það verða við það breytingar á bragði og lykt og áferð. Nauðsynlegt er að útvatna saltfisk fyrir neyslu vegna þess hve hátt saltinnihald hans er. útvötnun fer þannig fram að fiskurinn lagður í vatn í nokkra daga og vatnið endurnýjað með vissu millibili. Við útvötnunina flæðir salt úr fiskvöðva út í vatnið og vöðvinn tekur í sig vatn. Eftir útvötnun er vatnsinnihald fisksins svipað og í ferskum fiski en saltinnihaldið er 1-2% hærra. Fisk sem á að steikja eða nota í ofnrétti þarf að útvatna meira en ef sjóða á fiskinn því salt fer út í vatn sem fiskur er soðinn í. Útvötnun saltfisks þarf að fara fram í kæli.

Fiskreitur

Fiskreitur við Ljósutröð-Sólvangur fjær.

Algengast er að nota þorsk sem hráefni til saltfiskvinnslu en einnig má nota aðra bolfiska eins og ufsa, löngu, keilu, blálöngu og ýsu og er prótein og fituinnihald þessara tegunda svipað. Bolfiskar safna ekki fitu í holdið heldur lifrina.

Löng hefð er fyrir neyslu saltfisks í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku.

Fyrr á öldum var saltfiskverkun ekki mögulegt vegna þess að ekki var aðgangur að nægjanlegu miklu salti og var þá fiskur þurrkaður á ýmsan hátt, sem fyrr sagði. Elstu heimildir um saltfiskverkun á Íslandi eru frá því skömmu eftir 1600. Á 17. öld var mest um að saltað væri í tunnur eða fiski staflað beint í lestar skipa. Á 18. öld hófst saltfiskvinnsla á nokkrum stöðum á landinu en samkvæmt konungsbréfi frá 1760 þá skyldu kaupmenn sjá um að í hverri fiskihöfn dveldust í eitt eða tvö ár útlendir menn sem skyldu kenna verkun saltfisks.

Þegar leið á 18. öld var aðferð sem kölluð var „Terraneuf-aðferðin“ eða sú nýfundlenska mest notuð við saltfiskvinnslu en þá var fiskur blóðgaður og útflattur strax og hann var veiddur og þveginn úr vatni eða sjó. Eftir þvottinn átti fiskur að liggja nokkrar klukkustundir í kös áður en hann var saltaður til að vætan rynni úr fiskinum.

Saltfiskssetur

Saltfiskssetur Grindavíkur – Sögusýning saltfiskvinnslunnar.

Saltfiskverkun og saltfisksala var mikilvæg atvinnugrein á 19. og 20. öld og sá grunnur sem sjávarþorp byggðu á. Framleiddur var þurrkaður saltfiskur sem var saltaður í stæður og síðan oftast umsaltað áður byrjað var á vöskun og þurrkun. Það tók fjórar til sex vikur að þurrka fiskinn og þessi aðferð var vinnuaflsfrek því breiða þurfti fiskinn út að morgni ef veður leyfði og taka hann síðan saman um kvöldið. Saltfiskvinnslan stóð vanalega frá vori til hausts. Konur, börn og gamalmenni verkuðu fiskinn í landi en karlarnir voru á sjó. Vöskunarkonur tóku við fisknum þegar búið var að landa aflanum og þær snyrtu og hreinsuðu og himnudrógu og þvoðu fiskinn með strábustum. Fiskurinn var svo skolaður áður en hann var fluttur á fiskreitina til söltunar.

Kirkjusandur

Kirkjusandur – saltfiskþurrkun.

Alveg til 1900 var fiskurinn vaskaður utandyra en síðar voru reist vöskunarhús sem þó voru ekki upphituð. Á fiskireitunum tóku saltarar við fisknum og hlóðu honum í stæður og söltuðu. Fiskurinn var geymdur þar í um tvær vikur en þá hófst útbreiðsla sem fór þannig fram að fiskur var lagður á reitina ofan á grjót eða litlar trégrindur. Hann var þar allan daginn ef veður var gott en á kvöldin var honum aftur hlaðið í stakk og segldúkur breiddur yfir. Eins þurfti að taka hann strax saman ef það gerði rigningu. Fiskur taldist fullþurr ef greina mátti hendi hinnar handar í gegnum hann ef honum var haldið móti sól og hann hélst beinn ef haldið var í sporðinn og honum haldið láréttum. Þegar þurrkun var lokið var fiskur fluttur í hús og skipt eftir stærðum í málfisk, millifisk og smáfisk. Þaðan var honum skipað út á kaupskip og fluttur aðallega til Spánar og Portúgal. Spánarmarkaður lokaðist við borgarastyrjöldina þar 1936.

Það var skortur á vinnuafli á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöldina og þá var farið að flytja út blautverkaðan fisk sem síðan var oft þurrkaður af kaupendum á Spáni og Portúgal þar sem vinnuafl var ódýrara. Stöðug aukning var í framleiðslu saltfisks allt fram undir 1930 og var útflutningur mestur 80 þúsund tonn á ári en oftast 30-50 þúsund tonn. Þegar líða tók á 20. öld gerðu bætt tækni og betri skipakostur kleift að flytja út ísfisk og saltfiskframleiðsla minnkaði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Har%C3%B0fiskur
-https://is.wikipedia.org/wiki/Saltfiskur
-Þurrkhandbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, Matís.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni utan Grindavíkur.

Staðarborg

Í Morgunblaðið 19. ágúst 2021 skrifar Sigurður Bogi Sævarsson um „Rölt að rústum á Reykjanesskaga„:

„Minjar! Hrundar borgir og veröld sem var. Yfirgefnir staðir við Straumsvík og víðar segja miklar sögur.

Kapella við Straumsvík, Staðarborg á Vatnsleysuströnd og Selatangar vestan við Grindavík. Þrír staðir suður með sjó eru hér til frásagnar, minjar frá fyrri tíð sem greinarhöfundur hefur gert sér erindi til að skoða að undanförnu.

Grúsk í gömlum ritum leiðir í framhaldinu oft til ferðalaga þar sem svör við einu leiða af sér spurningar um annað. Svipur landsins er fjölbreyttur; náttúran og minjar um menningu, sögu og lífsbaráttu.

Barbara við Straumsvík

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Á hraunruðningi sunnan við álverið í Straumsvík er hlaðið byrgi; friðlýstar rústir kapellu sem láta lítið yfir sér. Vegur liggur frá Reykjanesbraut að hólnum þar sem kapellan blasir við. Veggir þessa húss voru endurhlaðnir fyrir margt löngu; en þekjan sem hvíldi á veggjunum er löngu fallin. Alfaraleiðin til byggða og verstöðva á Suðurnesjum lá forum daga nærri kapellunni. Við hana var kennt hraunið sem hér rann seint á 12. öld, segir Jónatan Garðarsson útvarpsmaður í pisli á vefnum hraunavinir.is.
Sjálf húsatóftin er rúmir tveir metrar á hvern kant og dyr snúa til vesturs. Á ví herrans ári 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, rústir kapellunnar og fann þá brot úr líkneski heilagrar Barböru.

Kapella

Stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

„Líkneskið sýnir þá að húsarúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti… Það hefur að líkindum verið kapella þar sem vegfarendur gætu staðnæmst til að gera bæn sína,“ segir Kristján Eldján í grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1955. Kristján tók fram að líkneski Barböru sanni ekki fullkomlega að þarna hafi verið kapella „…en hún bendir þó til þess að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur,“ eins og þar stendur.
Á degi heilagrar Barböru þótti gott að heita í háska af eldi, sprengingum og slíku, jafnframt því að vera verndarvættur hermanna. Í dag er í kapellurústinni eftirgerð líkneskis Barböru, en stundum kemur fólk kaþólskrar trúar til bænagjörðar og annars slíks á þessum stað, sem stendur við þjóðbraut þvera.

Hringur á heiði

Staðarborg

Staðarborg.

Á Reykjanesbraut, rétt eftir að komið er suður fyrir Kúagerði og að afleggjaranum á Vatnsleysuströnd, sést Staðarborg, sem er á heiðinni norðan við veginn. Að borginni er best að ganga afleggjarann að Kálfatjarnarkirkju, hvar er skilti og skýrir merkingar sem koma fólki á sporið. Leiðin er um. 1.5 kílómetrar og þegar komið er inn á heiðina sést borgin brátt; hringur sem að utanverðu er umm 35 metrar í ummáli. Tveggja metra háir veggirnir eru hlaðnir úr grjóti og ummál hringsins er um 8 metrar.
Staðarborg var friðlýst árið 1951, en ekki er vitað hvenær hún var hlaðin. Um tilurð hennar er aðeins til munnmælasaga; sú að Guðmundur nokkur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest, sem hafi þótt nóg um þegar honum varð ljóst að fullhlaðið með þekju myndi mannvirkið gnæfa yfir turn kirkjunnar á Kálfatjörn. Hafi prestur þá bannað að haldið yrði áfram, svo Guðmundur hljóp frá verkinu sem síðan hefur staðið óhreyft um aldir.

Verstöð við suðurströnd

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

Selatangar eru gömul verstöð austan við Grindavík, um þrjá kílómetra vestan við minni Geldingadals þar sem hraunelfur úr Geldingadölum hefur runnið fram í átt að Suðurstrandarvegi. Frá Selatöngum var um aldir og alveg fram til ársins 1880 róið til fiskjar á vegum Krýsuvíkurbónda og Skálholtsbiskups og þarna standa enn minjar um verbúðir, fiskbyrgi og fiskigarða.
Alls eru þarna rústir um 20 húsa og nokkurra annarra mannvirkja. Þarna tíðkaðist til dæmis að þurrka fiskinn; sem síðan var geymdur til vertíðarloka.
„Fiskverkunin fólst fyrst og fremst í því að þurrka fiskinn. Fiskurinn var breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn en upp að næturlagi. Sums staðar var fiskur þurrkaður í grjótbyrgjum eins og þeim sem eru á Selatöngum. Birgin voru einnig notuð til að geyma fullharðnaðan fisk,“ segir í umfjöllun á vef Minjastofnunar Íslands.

Heimild:
-Morgunblaðið 19. ágúst 2021, Rölt að rústum á Reykjanesskaga – Sigurður Bogi Sævarsson, bls. 12.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Sloki

FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Ísólfsskáli

Tvær örnefnalýsingar eru til af „Ísólfsskála„, auk tveggja spurningalista er fylgdu í kjölfarið. Fyrri lýsingin er höfð eftir Guðmundi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála og hin síðari af Lofti Jónssyni frá Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Báðar athugasemdirnar við lýsingarnar eru skráðar eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála árið 1982:

Guðmundur GuðmundssonÍsólfsskáli; örnefni – Ari Gíslason skráði eftir Guðmundir Guðmundssyni.
„Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar. Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dagon. Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar. Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Hraunið hér upp af og heim undir tún heitir Ögmundarhraun. Er það mikill hluti hrauns þess, sem sagt var frá við Krýsuvík. Um það liggja margir troðningar, en hraun þetta er mjög úfið. Má þar víða sjá hófaförin mörkuð í klappirnar. En merkin móti Krýsuvík eru úr Dagon upp í austanverðan Núpshlíðarháls.

Vestur af Dagon er sandur með sjó fram og melhóll er þar, sem nefndur er Hóll.

Nótarhellir

Nótarhellir.

Þá er að geta Nótarhellis, sem er vestast á Selatöngum. Þar innar tekur svo við svæði, sem nefnt er Katlahraun. Er það fullkomið réttnefni á landssvæði þessu, sem allt er fullt af kötlum og hraunbollum, djúpum með grasi í botni. Milli þeirra eru háir drangar, en gjóturnar djúpar á milli.

Mölvík

Mölvík.

Vestar er svo vik inn í landið, sem heitir Mölvík. Vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör.

Nótarhóll

Nótarhóll – byrgi.

Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll, og miðið á vörina er, að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhólinn, þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan. Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.

Lambastapi

Lambastapi.

Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót. En hæð vestur af túni með hömrum í hlíðum en grasi á kolli heitir Bjalli. Efst á Bjallanum er nú komið tún. Annars myndar Bjallinn klettahrygg norðan túns og að nokkru að austan. Þetta er mjög gamalt hraun. Þar vestur af er berg og allhár hnúkur, Lambastapi. Þar neðar er svo vík, sem heitir Lambastapavík. Þar er smáreki.

 

Festarfjall

Festi – Festarfjall. 

Á Selatöngum var sundmerkið þannig, að Dagon átti að bera í Litlabólið í Núpshlíð. Vestur af Lambastapa er berg og ekki undirlendi. Undir því bergi er nefnt Skálasandur. Vestar er stuðlabergsgangur, sem heitir Festi. Þaðan á Þórir haustmyrkur að hafa numið land austur í Selvog, og nú eru hér merki móti Hrauni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; Sæmundur G. Guðmundsson. Gamli bærinn neðst t.h.

Nú tökum við aðra umferð og byrjum enn austan frá. Upp af Selatöngum er hraunið nafna- og auðkennalítið, frekar jafnlent, þó ekki sé það slétt. Merkin eru hér línan úr Dagon í Trölladyngjurætur að vestanverðu, en Trölladyngja er útbrunnið eld-fjall. Hraun á ekki svo langt til norðurs. Núpshlíðarháls , sem reyndar vafi er, hvort Hraun á í. Hlíðin sunnan í hálsinum heitir Núpshlíð. Þar uppi er hið forna Vigdísarvallaland. Á móti þar austast er fjallshlíðin nefnd Skalli, og er það í Vigdísarvallalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vestur af því er smárauf nefnd Litlaból, lítið fjárból, er blasir vel við frá Selatöngum, enda innsiglingamið þar á leguna. Þar upp af er lægðin nefnd Dalur og upp, og ofan eða austanvert við há-Núpshlíð heitir Langagörn. Hún liggur meðfram dalnum alla leið að Vigdísarvöllum, breytir þar um útlit og nefnist innst Litli-Hamradalur. Vel má vera, að öll Langagörn sé í Krýsuvíkurlandi, en ég set hana hér, því annars glatast hún. Vestar og hærra en Litlabót er Stórabót. Það er móhella. Þar austur og upp af er Skálagörn, skora, er liggur til norðurs. Þar er vinkilbeygja á gamla veginum.

Grákvíguhraun

Grákvíguhraun.

Vestan við Núpshlíð er hraunspilda, sem heitir Grákvíguhraun og nær vestur að allmikilli hæð, sem nefnd er Höfði. Við suðurenda hans er vegurinn allknappur og heitir þar Méltunnuklif. Er sagt, að þar hafi eitt sinn farið méltunna af hesti og niður fyrir.

Fram af Núpshlíð eru tveir hólar nefndir Moshólar, og vestan þeirra er eins og fyrr segir Grákvíguhraunið. Höfðinn fyrrnefndi nær svo, með mismunandi nöfnum, fram í Bjallan fyrir ofan bæinn á Skála. Suður af Méltunnuklifinu er Skála-Mælifell, ekki mikið um sig, en nokkuð hátt. Sunnan þess er svo hraunið fyrrnefnda, en vestan þess er djúpt skarð, sem heitir Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði. Nú er verið að græða lágarnar upp. Upp og vestur af Lágunum rís Lyngfjall, lítið um sig, en nokkuð hátt. Þar vestur af er Festarfjall, sem fyrr er getið. Suður af Lyngfjallinu er Lambastapinn fyrrnefndi, og uppi á honum er Lambastapabrekka.

Móklettar

Móklettar – áletrun á landamerkjum.

Sunnan í Festarfjalli er Festin fyrrnefnda, en norðan undir því eru móbergsstrýtur og hnúkar, sem heita Móklettar. Þeir eru sjávarmegin við veginn. Austan undir Lyngfjalli er smáhæð og hóll, sem heitir Litliháls. Norður frá Skála-Mælifelli er Skyggnir, hæð alláberandi (á korti nefnd Méltunnuklif).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.

Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Síðan sama sjónhending austur Selvallafjall að merkjum Krýsuvíkur og þá suður að Dagon. Þetta segir þar, en Gísli á Hrauni sagði, að línan væri úr Móklettum og beint í skarðið á Núpshlíð, þar sem vegurinn liggur gegnum, og skakkar það allmiklu. En ég hygg, að merkjabókin hafi hér rétt fyrir sér. Læt ég svo lokið talningu Ísólfsskálaörnefna.“

Ísólfsskáli – athugasemdir:
Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.

Selatangar

Selatangar.

„Selatangar: Selveiði var stundum við þá og útgerð í gamla daga.
-Dágon (ekki Dagon): Ísólfur veit ekki, hvernig stendur á því nafni. Dágon var hraundrangi niðri við sjó, en er nú dottinn. Hann var suður af vestustu sjóbúð á Selatöngum. Ekkert sérstakt var við hann, sem skýrt gæti nafnið.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

-Ögmundarhraun: Ögmundur nokkur lagði hug á dóttur bóndans í Krýsuvík. Bóndi lagði fyrir hann að ryðja veg yfir hraunið, og skyldi hann þá fá stúlkuna. En er verkinu var lokið, lét bóndi drepa Ögmund.
-Nótarhellir er syðst og austast í Katlahrauni. Þar var sagt, að nætur hefðu verið þurrkaðar og gerðar upp.
-Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu.
-Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

-Hattur er klettur uppí á hrauninu, og er gras á honum.
-Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.
-Gvendarsker og Gvendarvör: Ísólfur hefur heyrt sagt, að Guðmundur einhver hafi farizt á skerinu, en veit ekki um það nánar.
-Grákvíguhraun er vestan undir Höfða. Þar eru hraunsteinar með gráum mosa, gráir tilsýndar, og mun nafnið dregið þar af.
-Skollanef: Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni.
-Moshólar eru gamlir, útbrunnir gígar, en ekki meiri mosi á þeim en gengur og gerist. Ekki er vitað um nein not af mosanum.
-Núphlíðarháls (ekkí Núps-) nær frá gamla veginum, sem lá til Krýsuvíkur og inn að Krossgili. Krossgil er vestanverðu í Stóra-Hamradal, er í Vesturhálsi.
-Langagörn er ekki öll í landi Krýsuvíkur. Landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur eru eftir Löngugörn.“

Loftur JónssonÍsólfsskáli; örnefni – Loftur Jónsson skráði.
„Austan við Hraunsvík stendur bærinn Ísólfsskáli. Bærinn stendur niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.
Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi. Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin. Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar.
Ef farið er austur ströndina frá Festi tekur fyrst við Skálasandur, þangað er illfært nema um fjöru vestan frá. Lambastapi er allhár grágrýtishnúkur með grastorfu í toppinn og þar austan við er smáhækkandi alda sem myndar fell austast og heitir Slaga. Þar sem Skálasandur endar að austan eru tveir melhólar upp á brúninni á milli Skálasandsbergs og Lambastapa. Þeir heita Lambastapahryggir. Fyrir austan Lambastapa kemur smávik sem heitir Lambastapavik og þar upp af er Lambastapabrekka. Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli og er eins og smátota fram í sjóinn. Skálabót er víkin þar austur af og þaðan var róið áður fyrr.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – loftmynd.

Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.

Austast í Skálabót eru klapparflúðir sem heita Vötnin. Þar kemur fram ósalt vatn um fjöru. Skammt austur af Vötnunum eru sléttar klappir; Gvendarklöpp og beint suður af henni er Gvendarsker. Þar heitir lendingin Gvendarvör. Þar var lent þegar gott var í sjó. Miðið á vörina er að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhól þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir loftmynd. ÓSÁ

Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum. Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Suður af þeim er skerjagarður sem brýtur á um flóð. Þar heita Trantar. Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur .

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef, er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík. Víkin er með möl í botni og vestast í henni er berg með sjó, ein til tvær mannhæðir á hæð. Inn í það ganga vik, básar og víkur. Hraunið þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun. Hraunið er fullt af kötlum og djúpum hraunbollum með grasi í botni. Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram. Þar sem Katlahraun endar tekur við Bjallinn á Selatöngum. Það er frekar lágur bergstandur og nær í sjó að vestan en gengur síðan upp í landið. Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur sem eru nú friðlýstar.
Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum en er nú hruninn. Hann skipti löndum og reka á milli Ísólfsskála og Vigdísarvalla. Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Austan undir hraunnefinu eru fjórir hellar og var einn þeirra smíðahellir og sést þar enn steinskál sem notuð var til kælingar. Fyrir norðaustan Dágon eru smátjarnir, kallaðar Brunnar. Vörin er að sjá á milli Dágons og Skiptivallar. Sundmerkið í vörina er þannig að Dágon átti að bera í Litlaból í Núphlíð. Hraunið þarna á milli fjalls og fjöru heitir Ögmundarhraun.
Ef farið er aftur vestast í landareignina þá eru móklettar vestast (norðaustan í Festi). Austan þeirra er Borgarhraun og austan þess rís Borgarfjall sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Landamerki Hrauns og Ísólfsskála eru frá Móklettum og í miðja suðuröxl Borgarfjalls. Suður frá Móklettum er Lyngfell og austur úr því er Litliháls. Þar austur af er Litla-Borgarhraun og þar í er hlaðin hringmynduð fjárborg sem kölluð er Borgin.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Melar  er kallað fyrir ofan Skálasandsberg og ná þeir upp að Lyngfelli. Framan undan Lyngfelli er undirlendi með grastorfum á víð og dreif og heitir það Lágar. Lágarnar er nú verið að græða upp og eru að mestu orðnar grasivaxnar. Vestan við veginn þar er sprunginn hóll sem heitir Klofhóll.
Bjallinn  er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður.

Slaga

Slaga.

Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar. Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur.
Skálamælifell er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð. Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka, Önnurbrekka og Þriðjabrekka. Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu. Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Méltunnuklif er norð-norðaustan í Skálamælifelli. Þar er gamli vegurinn í nokkuð brattri og þröngri brekku og segir sagan að þar hafi farið mjöltunna af hesti og niður fyrir. Leggjabrjótshraun er hraunið norðaustur undir Skálamælifelli en sunnan þess og austur um er Ögmundarhraun. Moshólar eru eldgígar úr brunnu hraungjalli austur frá Skálamælifelli. Þar liggur nú akvegur um. Aust-norðaustur frá Moshólum er Núphlíð. Er það suðurhlíð Núphlíðarháls. Skálagörn er jarðsig suð-suðvestan í Núphlíð og liggur frá jafnsléttu að gamla veginum norðan Núphlíðar. Móklettur eða hella í hlíðinni að vestan heitir Stóraból. Skalli er hnúkur sem gengur í suður úr Núphlíð og er hann á mörkum Vigdísarvalla og Ísólfsskála. Vestan Skalla er kvos þvert yfir Núphlíð sem heitir Langagörn (Vallagörn). Vestan undan Löngugörn fremst er klettur sem heitir Litlaból. Vestan Skalla er kvos sem heitir Dalur og þar fyrir norðan kemur Vallagörn eða Langagörn sem nær norður fyrir Litla-Hamradal.

Ísólfsskáli

Rekagatan – Ísólfsskáli fjær.

Eystri-Tangagata liggur frá Skalla og yfir hraunið fram á Selatanga en Vestri-Tangagata frá Skálagörn og fram á Selatanga. Framan undir Núphlíð hét Mýrdalur áður en hraun rann þar yfir allt. Frá Festi og allt austur í Selvog á Þórir haustmyrkur að hafa numið land.
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.
Stóri-Leirdalur er norðaustan undir Slögu. Norðan við hann er Lyngbrekka og Langihryggur. Litli-Leirdalur er þar austur af og norðan við Skálamælifell og vestan við Skyggni sem er klettahæð. Fyrir austan Skyggni (öðru nafni Brattháls) er Bratthálskrókur og þar norður af er Einihlíðarkrókur og síðan Einihlíðar sem ná inn að Sandfelli.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Á milli Brattháls og Höfða heitir Leggjabrjótshraun. Fyrir austan Leggjabrjótshraun er fjall sem heitir Höfði. Norð-norðaustan af Einihlíðum er Sandfell. Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel (fremst. Inn með Núphlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita. Og þar skammt norður af nær hraunið upp að hálsinum og heitir þar Þrengsli og síðan taka við Selsvellir og Selsvallafjall. Núphlíðarháls nær frá gömlu götunni í Núphlíð og fremst í Krossgil. Krossgil er fremst í Stóra-Hamradal og þar fyrir austan er Lyngkrókur.
Að kunnugra manna sögn þá er Leggjabrjótshraun vestan við Höfða en Grákvíguhraun á milli Höfða og Núphlíðarháls. Á korti er Leggjabrjótshraun sagt austan Höfða og er það sennilegra því þar er hraunið úfið og illt yfirferðar en vestan Höfða er það tiltölulega slétt.“ – Grindavík 07.10 ‘80, Loftur Jónsson [sign.].

Ísólfsskáli; athugasemdir:

Ísólfsskáli

„Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG). Um er að ræða tvær spurningaskrár og fyrir kemur að nokkurn veginn sama spurningin er borin upp tvisvar. [HJÁ 15/10/2004.]
l. Er vitað um tilefni nafnanna Skálasandur, Skálabót, Skálabás o. s. frv.
Svar: Kennt við Ísólfsskála, sem oft er í daglegu tali nefndur Skáli.
2. Er vitað, hvers vegna Skiptivöllur var nefndur svo?
Sv.: Fiski var skipt í hluti á þessum stað eftir löndun.
3. Er Lyngfell hátt?
Sv.: Nei.
4. Er Hattur (5l) einnig þekktur undir nafninu Grettistak eða er það alrangt? Eru Hattarnir tveir?
Sv.: Hattur er nefndur Grettistak á landakorti (ekki talið rétt). Þeir eru tveir, annar vestan undir Slögu og hinn hjá Rangagjögri.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Bólið.

5. Hvernig er Ból?
Sv.: Hellisskúti þar sem fé var geymt í.
6. Verpir hrafn á/í Hrafnshreiðri?
Sv.: Ekki nú.
7. Er Leggjabrjótshraun erfitt yfirferðar?
Sv.: Ekki svo mjög auk þess er vegur lagður yfir það

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

8. Er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo?
Sv.: Nei.
9. Er Festarfjall oft nefnt Festi?
Sv.: Já.
l0. Koma fram í lýsingunum öll örnefni, sem þekkt eru í landareigninni? Eru öll örnefnin, sem skráð eru í lýsingunum, innan landareignarinnar?
Sv.: Óvíst.
Gott væri að fá svör við sem flestum eftirfarandi spurninga:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Refagildra í Skollahrauni.

1) Hverjir voru heimildarmenn að lýsingunni?
Sv.: ?
2) Er eitthvað vitað um menn þá, sem eftirtalin örnefni eru kennd við: Hjálmarsbjalli, Gvendarklöpp, Gvendarsker, Gvendarvör og Ögmundarhraun?
Sv.: Hjálmarsbjalli: Hjálmar Guðmundsson. Gvendarklöpp: Sagt var að einhver Guðmundur hefði farist í vörinni. Ögmundur var nafn þess manns, sem fyrst lagði slóða yfir hraunið og var síðan veginn austast í hrauninu.
3) Eru Trantar þröng leið á milli skerja?
Sv.: Hátt brunahraun í sjó fram.
4) Verpa veiðibjöllur í Veiðibjöllunefi?
Sv.: Nei.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Kvennagöngubásar.

5) Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar?
Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.
6) Af hverju ætli Skiptivöllur heiti svo?
Sv.: Fiski var skift þar í hluta.
7) Sjást stundum selir við Selatanga?
Sv.: Já oft.
8) Vex lyng í Lyngfelli, Lyngbrekku og Lyngkrók?
Sv.: Já þar er lyng.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

9) Er vitað, hvers vegna Ból heitir svo?
Sv.: Ból var oft nefnt þar sem fé var geymt.
10) Voru Sláttutorfur slegnar?
Sv.: Já.
11) Eru Moshólar mosavaxnir?
Sv.: Já.
12) Af hverju ætli Leirdalir heiti svo? (Er jarðvegurinn leirborinn og gróður lítill sem enginn?)
Sv.: Já.
13) Vex einir í Einihlíðum?
Sv.: Já.

Hraunssel

Hraunssel.

14) Er Hraunssel í landi Ísólfsskála?
Sv.: Já.
15) Einihlíða- eða Einihlíðarkrókur?
Sv.: Einihlíðarkrókur.
16) Af hverju ætli Krossgil dragi nafn?
Sv.: Tvö gil sem mynda kross.“ – Virðingarfyllst, Ísólfur Guðmundsson [sign.]

Hjónin Valur Helgason og Harpa Guðmundsdóttir hafa átt sumarbústað á jörðinni í um 27 ár. Í viðtali við Val kom í ljós að Hjálmar, bróðir Guðmundar á Skála, hafi um tíma búið í húsi undir Hjálmarsbjalla. Benti hann FERLIR á tóftirnar, sem nú eru að mestu komnar undir kampinn. Var þar kominn skýringin á örnefninu „Hjálmarsbjalli“.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; heimildarmaður: Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; Loftur Jónsson skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG).

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi – og – garðar við Nótarhól.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Festarfjall

Árið 2001 var gerð svæðaskráning um „Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.“ DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á „Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.“ DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.“ DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, „og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.“ – DI VII, 324. 1563: „Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.“ DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. „Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).“ Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: „Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.“ JÁM III, 7.
1840: „Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.“ SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. „Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.“ Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.

Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)

Arngrímshellir

Í Gvendarhelli.

„Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.“
„Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Herdís og Krýs og smali (dysjar)

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

„Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …“ segir í örnefnalýsingu. „80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Dysjar tvær eða vörður („Krýs og Herdís“) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.“ Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: „Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.“ Kålund I, 29. 1950:

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

„Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.

Krýsa

Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.

Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.“ Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: „Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.“

Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.“
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.“ ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: „Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.“ [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

1840: „Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.“ Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: „Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.“ – ÞT Ferðabók I, 189-90. „Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.

Húshólmastígur

Húshólmastígur.

Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.“
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu „sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.“ Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) „Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er „Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er „Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.“ Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: „Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.“

Óbrennishólmi (fjárskýli)

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.“ segir í örnefnalýsingu. „Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.“ segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. „Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.“ segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.“
8.8.1979: „Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.“ segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.

Ögmundastígur (leið)

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.“

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.

Ögmundarleiði (legstaður)

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.“ „Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …“
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Hettuvegur (leið)

Hetturvegur

Hettuvegur.

„[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.“
1883: „Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Ketilstígur (leið)

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

1755: „Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.“ segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. „Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er  kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.“
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: „Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.“ Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: „Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.“ SSÁ, 222.
1879: „Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.“ Kålund I, 29.

Sogasel (sel)

Sogasel

Í Sogaseli.

„Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: „Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.“

Selatangar (verbúð)

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: „Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. „Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. „Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.“ Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

„Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“ Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.“ „Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.

Tangadraugur (draugur)
„Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann „fyllti út í fjallaskörðin“ að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.“

Vigdísarvellir (sel/bústaður)

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.“JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“ “ … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Bali (bústaður)

Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“

Ísólfskáli (bústaður)

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“ JÁM III, 8-9.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

1840: „Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“, segir í örnefnaskrá.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

„…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: „Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.“ – JÁM III, 22. 1840: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.“ segir í sóknarlýsingu og ennfremur: „Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.“ Landnám Ingólfs III, 134. 1844:

Selsvellir

Á Selsvöllum.

“ … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins „leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu“. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir „óhemju átroðning og yfirgang“.“ GB Mannlíf, 43-44. 1883: „Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: „Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.“ – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Drykkjarsteinn (þjóðsaga)

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.“, segir í örnefnaskrá AG. „Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“, segir í örnefnaskrá.
„Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1840: „… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.“ segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: „Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.“ ÞT Ferðabók I, 180.

Hraunssel (sel)

Hraunssel

Hraunssel.

„Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.“, segir í örnefnaskrá.
„…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: „Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.“ segir í sóknarlýsingu. 1883: „Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: „Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.“

Hraun (bústaður)

Hraun

Hraun við Grindavík.

26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.

Hraun

Brunnur á Hrauni.

1703: „Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.“JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: „Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.“ Landnám Ingólfs III, 140.
„Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.“SSG

Bænhús (kapella)

Fornleifar

Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.

1840: „Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“ segir í sóknarlýsingu. „Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með „Lónalandi“, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um „Lónaland“ og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og „…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í „Lónalandi“, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á „Lónalandi“ (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).“ Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku „sem kom frá Hrauni“ – Saga Grindavíkur I, 108-109.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

1840: „Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“SSG.
„Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.“, segir í örnefnaskrá AG. „Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.“, segir í örnefnaskrá LJ. „Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.“ Saga Grindavíkur I. „Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.“ Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. „Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.“, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.

Kapella

Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.

En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.“ BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: „Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið „Húsið“. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
„Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): „Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás“. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.“ KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: „5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.“
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.

Dalssel (sel)

Dalssel

Í Dalsseli.

„Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.“, segir í örnefnaskrá AG.

Sandakravegur (leið)

Sandakravegur

Sandakravegur.

„…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“ segir í sóknarlýsingu.

Dúnkhellir (hellir)

Dunknahellir

Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).

„Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…“ KE.
„… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.“KE. „Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.“ segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.

Þorkötlustaðir (bústaður)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 12, 14.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

1840: „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ Landnám Ingólfs III, 139. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: „Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“ Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum „eldaskdla“. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“BJ.

Þorkötlustaðaviti (viti)

„Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.“, segir í örnefnaskrá AG.

Vogavegur / Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…“, segir í örnefnaskrá AG.
„Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.“, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er „afleggjari“ af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Látragötur (leið)
„Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.“, segir í örnefnaskrá LJ. „… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Hóp (bústaður)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: „Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“JÁM III, 15. 1840: „Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.“ Landnám Ingólfs III, 138-39. „Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.“Ö-Hóp, 1.
„Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1902: „Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni.“BJ.

Goðatóft (álagablettur)

Hóp

Hóp – Goðatóft.

„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…“, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Goðahús“ svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós“ – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: „Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.“ Árb. 1903, 46-47
„…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.“, segir í örnefnaskrá AG.

Selháls (sel)

Hópssel

Hópssel.

„Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerðarstaðir (bústaður)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.“ Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“ Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: „Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…“ segir í örnefnalýsingu „Nokkur um Dalinn…Þessar „holur“ voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.

Gerðavellir (búðir)

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

„Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG. „Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 251. „Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. „Heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …“ segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.

Skipstígur (leið)

Skipsstígur

Skipsstígur.

„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.“ segir í sóknarlýsingu.

Baðsvellir (sel)

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“ segir í jarðabók Árna og Páls. „Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.“, segir í örnefnaskrá AG.

Stekkjarhóll (stekkur)
„Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]“, segir í örnefnaskrá AG. „Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.

Gyltustígur (leið)

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

„Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerður (legstaður)

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: “ Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“BJ.

Engelska lág (vígi)

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

„Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …“ – „Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir „úti á Hellum“, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.

Jángerðarstaðir

Virkið.

Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …“ segir í Sögu Grindavíkur I. „… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.“, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“ Skarðsárannáll.

Þjófagjá (þjóðsaga)

Grindavík

Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

„Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Húsatóptir (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir.

33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: „Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.“ SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).

Húsatóftir

Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.

1703: „Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.“JÁM III, 20. 1840: „…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.“ Landnám Ingólfs III, 136.
1840: „Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…“ segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns“húsin“ hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóftum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.

Kóngshús (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …“ Hjáleiga 1703. JÁM III

Búðasandur (verslunarstaður)

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.“ – GB Mannlíf, 21. „Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.“, segir í örnefnaskrá. „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.“ segir í sóknarlýsingu frá 1840. „Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
„Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.“ ÞT Ferðabók I, 179 „Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.“ GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …“ seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“ en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.

Prestastígur (leið)

Prestastígur

Prestastígur.

„Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“, segir í örnefnaskrá.
1840: „Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.“ segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur

Byrgi (útilegumannabústaður)

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

„Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.“, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „“Útilegumannabæli“ svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.“ friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.“ ÞT Ferðabók I, 177-78. „Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.“, segir í örnefnaskrá.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: „Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.“ Árbók 1903. 1959: „Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.

Eldvörp

Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.

Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.“ segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Árnastígur (leið)

Árnastígur

Árnastígur.

„Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.“ GB Mannlíf, 23.

Staður (bústaður)

Staðahverfi

Staður.

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).

1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …“ sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.

21.1.1925: „Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“ “ GB Mannlíf, 49.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.“ „Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.

Kirkjugarður / kirkja

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.

Sjávarhús (bústaður)
1840: „Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ segir í sóknarlýsingu. „Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.“ Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: „Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: „Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.“ GE Frá Valahnúk.

Staðarvör (lending)

Staðarvör

Staðarvör.

Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.“ segir í örnefnalýsingu.
„Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.“ segir Guðsteinn Einarsson.

Básar (þjóðsaga / býli)
„Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.“
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Háleyjar (þjóðsaga / býli)

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

„Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
„Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Í örnefnalýsingu segir: „Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.“ sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.“ Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: „Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …“ sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma  verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.“ segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: „… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.“
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.

Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.“ Um 1860: „… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …“ ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.“ segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: „… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.“ segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. „Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.“ segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Krossvík (þjóðsaga / býli)
„Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.

Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
„Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.

Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
„Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar  engum amnni byggjandi.“ hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.

Sundlaug

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

„… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.“ segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar „U“ á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.

Gunnuhver (þjóðsaga)

Gunnuhver

Gunnuhver.

1841: „Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.“ – „Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.“ Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: „“Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.“ – MG. „… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá „Gunnu“ er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.“ Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510

Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.

Grindavík

Grindavík.