Urriðakot

Sólveg Eyjólfsdóttir sagði í grein í Fjarðarfréttum frá „Fjölskyldunni í Urriðakoti“ árið 1984:
„Þegar farið er um svokallaðan Flóttamannaveg sér vel heim að Urriðakoti við Urriðakotsvatn. Bæjarstæðið er uppi í hlíð og fyrir vestan er vatnið spegilslétt. Þarna fléttast saman fegurð landslags og vatns.

Jórunn Guðmundsdóttir

Jórunn Guðmundsdóttir (1917-1995).

Útsýni er frjálst og fagurt mjög, — þaðan sér um allt Garðahverfið, Álftanesið, Bessastaði og alla leið á Snæfellsjökul. Einn fagran dag á liðnu hausti var ég stödd á þessum slóðum og rölti heim að gamla bæjarstæðinu í Urriðakoti. Ég minnist löngu liðinna daga er ég fékk að fara með móður minni í heimsókn til Sigurbjargar frænku, en hún var afasystir mín.
Á leiðinni heim urðu á vegi mínum tveir úr ritstjórn þessa blaðs og barst talið að Urriðakoti og því mannlífi sem þar var fyrr á árum. Niðurstaðan varð sú að gaman væri að fræðast nánar um Urriðakot og fjölskylduna er þar bjó.
Það varð því úr að ég gekk á fund systranna Guðbjargar og Jórunnar Guðmundsdætra frá Urriðakoti, sem fúslega lýstu ýmsu er varðaði daglegt líf þeirra á uppvaxtarárunum.
Í þessum bæ bjuggu hjónin Guðmundur Jónson, fæddur 26. jan. 1866 og Sigurbjörg Jónsdóttir, fædd 26. febrúar 1865. Foreldrar Guðmundar voru Jón Þórðarson og kona hans Jórunn Magnúsdóttir er bjuggu í Urriðakoti og var Guðmundur fæddur þar og uppalinn.
Guðmundur JónssonForeldrar Sigurbjargar voru Jón Guðmundsson og seinni kona hans Vilborg Jónsdóttir, sem búsett voru á Hvaleyri við Hafnarfjörð, en þar fæddist Sigurbjörg. Þegar hún var á öðru ári fluttist fjölskyldan að Setbergi við Hafnarfjörð og þar sleit Sigurbjörg barnsskónum í hópi margra systkina.
Jón og Vilborg á Setbergi sátu jörð sína um allmörg ár með miklum myndarbrag á þeirra tíma mælikvarða. Jón á Setbergi var tvígiftur. Hann missti sína fyrri konu sem hét Guðrún Egilsdóttir. Jón á Setbergi átti 19 börn og eru niðjar hans fjölmargir. Er „Setbergsætt“ þekkt víða um land.
Sigurbjörg og Guðmundur byrjuðu sinn búskap í félagi við foreldra hans. Bústofninn var hálf kýr og 13 ær, sem þætti víst heldur lítið í dag. En þau voru hagsýn og búnaðist vel. Þar kom að kýrnar urðu fjórar og stundum fimm og sauðfé á annað hundraðið auk nokkurra hesta.
Sigurbjörg JónsdóttirUrriðakot var ekki stór jörð, en því betur nýtt. T.d. var fergi, grastegund sem slegin var í vatninu, gefin kúnum, en ekki mátti gefa það hestum. „Það fer í fæturna á þeim,“ var sagt. Við sláttinn í vatninu höfðu menn eins konar þrúgur á fótunum. Svo var einnig heyjað í Dýjamýri, fyrir neðan túnið, en það er eina dýjamýrin á Reykjanesskaga.
Mjólkin var seld til Hafnarfjarðar og flutt á hestvagni. Þegar því varð ekki við komið þá á hestum og alltaf farið heim til hvers kaupanda með mjólkina.
Oft var erfitt með færðina á vetrinum og tók oft langan tíma að komast niður í Fjörð. Leiðin lá suður með Hádegisholti og vestur fyrir Setbergshamar en kom svo á Setbergsveg rétt hjá Baggalá. 1930 kemur svo vegur fyrir vestan vatnið. Þá styttist leiðin um helming. Þá var farið yfir Hrauntangann og yfir Setbergstúnið og fram hjá „Galdraprestaþúfunni.“

Urriðakot

Urriðakotsvegur um Vesturmýri að Setbergi.

Gefum nú Jórunni orðið: „Ég var alltaf myrkfælin hjá „þúfunni“ þegar ég var ein á ferð. Faðir okkar fékk leyfi hjá Jóhannesi Reykdal, bónda á Setbergi, til að leggja veg yfir túnið og lagði faðir okkar veginn sjálfur. Meðal daglegra starfa okkar var að fara upp í Sauðahelli hjá Kol í Víðistaðahlíð. Þar áttum við kindur. Heyið bárum við í pokum á bakinu og gáfum fénu á gaddinn.
Svo var það vatnsburðurinn. Vatnsbólið var fyrir neðan túnið. Allt vatn til heimilisins og einnig handa kúnum bárum við í þar til gerðum fötum og mátti aldrei nota þær til annars. Þetta var oft erfitt verk því allbrött er brekkan frá vatnsbólinu upp að bænum.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

En 1926 var sett upp dæla og byggður geymir uppi á bænum svo vatnið var sjálfrennandi inn í bæinn og einnig í fjósið. Þetta var mikill Iéttir þrátt fyrir að dælan væri mjög þung, svo helst þurfti tvo til að „drífa“ hana“.
„Jú það var margt sem þurfti að sinna, m.a. um fráfærurnar“ heldur Guðbjörg áfram. „Kvíarnar voru á Hrauntanganum — seinast var fært frá 1918.
Hér fyrrum var allgóð silungsveiði í vatninu, en veiðin hvarf er Jóhannes Reykdal byggði rafstöð (hina fyrstu á landinu) og kom upp stíflu sem varnaði því að silungur kæmist í vatnið.

Urriðavatn

Urriðavatn 2024.

Við hlökkuðum alltaf til berjaferðanna. Aðal berjalandið var í Vífilsstaðahlíð, sem alltaf var mjög berjarík. Á vetrum vorum við systkinin mikið á skíðum og skautum. Skautasvell var og er oft mjög gott á Urriðakotsvatni. Fyrstu skautarnir okkar voru hrossaleggir og fyrstu skíðin tunnustafir og við þetta skemmtum við okkur alveg konunglega. Um alllangt skeið hafði Skautafélag Hafnarfjarðar skautaæfingar á Urriðakotsvatni, þar sem félagsmenn lýstu upp skautasvellið með gaslugtum.

Urriðakot

Urriðakot.

Oft var ferðagrammófónn hafður meðferðis og spilaðir marsar og göngulög og skautað í takt við músíkina. Þetta var ákaflega vinsælt og fjöldinn allur af fólki á öllum aldri lagði leið sína til Urriðakotsvatns kvöld eftir kvöld til að njóta þessarar hollu íþróttar.“
Og við gefum systrunum orðið áfram: „Við minnumst skólaáranna alltaf með mikilli gleði. Eldri systkinin sóttu skóla út á Garðaholt en yngri systkinin í Hafnarfjörð. Alltaf var gengið til og frá skóla. Guðlaugur, bróðir okkar, var síðastur systkinanna fermdur í Görðum. Katrín var fermd í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1913 og öll yngri systkinin voru einnig fermd í Fríkirkjunni.“

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn. Guðmundur faðir Jórunnar hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum. Áletrunin Jth 1846 vísar væntanlega til Jóns.

Sigurbjörg og Guðmundur eignuðust 12 börn. Misstu þau tvö í frumbernsku en 10 komust upp. Auk sinna eigin barna ólu þau upp að nokkru dótturson sinn Guðmund Björnsson augnlœkni, nú prófessor við Háskóla Íslands. Guðrún dóttir þeirra ólst upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur og manni hennar, Þorsteini Guðmundssyni, er seinast bjuggu að Strandgötu 27 í Hafnarfirði. Það mun ekki ofsagt að Sigurbjörg og Guðmundur voru njótendur gæfu og gleði með sinn stóra barnahóp sem öll hlutu farsælar gáfur í vöggugjöf — komust vel til manns og urðu dugandi og velmetnir borgarar.
Það var vinalegt að líta til þessa býlis meðan allt var þar í blóma, allt iðandi af lífi og athafnasemi. Nú má segja að allt sofi þar Þyrnirósasvefni.
Og í dag segi ég: Vakna þú mín Þyrnirós og hvíslaðu í eyra þess er vill heyra: Væri þessi staður ekki ákjósanlegur Fólkvangur fyrir Hafnarfirðinga þeirra?“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Sólveig Eyjólfsdóttir: Fjölskyldan frá Urriðakoti, bls. 24-25.
Urriðakot

Fornistekkur

Til er áhugasamt fólk sem hefur gaman að skoða útgefnar fornleifaskráningar á Reykjanesskaganum, þ.e. þær skráningar sem yfirleitt eru gerðar opinberar.

Vetrarblóm

Vetrarblóm – fyrstu ummerki vorsins.

Fæstar skráninganna þykja ágætar, en margar eru vægast sagt hjákátlegar – þegar betur er að gáð. Sumar eru og beinlínis rangar, annars vegar að teknu tilliti til opinberra gagna og hins vegar með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi að dæma.

Dæmi um ágæta skráningu er fornleifaskráning um Eldvörpin á vegum stjórnenda HS-Orku annars vegar og hins vegar hjá hinum þröngsýnu ráðamönnum Keflavíkurflugvallar.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta sama fólk hefur stundum verið að velta fyrir sér hvert hlutverk Fornleifarstofnunar Íslands er í að ákvarða áreiðanleika slíkra skráninga? Dæmi er um að stofnunin hafi hunsað framkvæmd mikilvægra fornleifaskráninga þrátt fyrir lögformleg tilmæli þess efnis. Auk þess hefur stofnunin látið hjá líðast að taka á misbrestum á ákvæðum gildandi laga í einstökum tilvikum. Sveitarfélög hafa jafnvel komist upp með að eyðileggja í óleyfi skráðar fornleifar, án áminningar. Þrátt fyrir allt framangreint hefur stofnunin tekið að sér að skrá fornleifar utanaðkominna í sérstaka opna „Minjavefsjá„. Inn í skrána hafa bæði slæðst alls kyns villur og mjög erfitt er fyrir áhugasamt fólk að nálgast og staðsetja einstakar minjar út frá „sjánni“.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning.

Þegar skráningin fyrir Hvassahraun var t.d. skoðuð kom í ljós að á skráningarsvæðinu ættu t.d. að vera (skv. örnefnalýsingum) tveir heimastekkir, annar í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) og annar í Stekkjardal. Skv. fornleifaskráningu svæðisins fannst sá síðarnefndi ekki. Stekkurinn í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) er augljós ef örnefnalýsingar eru skoðaðar. Og þegar betur er að gáð, þrátt fyrir allt, má vel greina minjar stekksins neðst í Stekkjardal, fast ofan við sjávarkampinn.
Framangreint er einungis eitt tilgreint tilvik af fjölmörgum. Ef tíunda ætti þau öll myndi vefsíðan ein ekki duga til. Þess ber að gæta að sá er þetta skrifar fékk einkunnina 10.0 í fornleifaskráningu við nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands á sínum tíma.

Framangreind umfjöllun er fyrst og fremst vinsamleg áminning um mikilvægi þess að vanda þarf vinnubrögð við fornleifaskráningar í hvívetna. Þær virðast kannski ekki skipta miklu máli þá og þegar þær eru gerðar, að teknu tilliti til kostnaðar hverju sinni, en þær munu vissulega gera það sem um munar er fram líða stundir…

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraun

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um Hvassahraunsstekk í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi):

Hvassahraun

Hvassahraun – varða ofan stekksins í Stekkjarnesi. Gerði og skúti á miðri mynd.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur,“ segir í örnefnaskrá.
„Svo er næst við sjó Stekkjarnef þar er rúst eftir Stekk þar er og Stekkjardalur, niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll klofinn grashóll,“ segir í örnefnalýsingu AG. Ekki er annað að skilja af þessum lýsingum að Stekkjarnef/-nes og Stekkjardalur séu á svipuðum slóðum. Það er því líklegt að báðir þessir staðir dragi nafn sitt af Stekk sem þekktur er í Stekkjardal.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjarnesi.

Ekki fannst nema einn stekkur á þessu svæði og er hann í Stekkjardal, allstóru og flatlendu viki inn í hraunið sunnan við grýttan sjávarkampinn, um 760 m norðan við bæ. Auk stekkjartóftar er gerði og hleðsla framan við skúta í dalnum og ungleg varða er austan við stekkinn. Flatlent og smáþýft er í Stekkjardal. Grjót berst á land í sjógangi.
Minjarnar eru á svæði sem er um 28×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í norðausturenda þess er ungleg varða.
Hún er uppi á hraunhól um 15 m austan við stekkjartóft. Hún er um 0,5 m í þvermál og á hæð. Í henni sjást 4 umför en hleðslan er óvönduð.

Hvassahraun

Hvassahraunssstekkur í Stekkjarnesi – Uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjartóftin er austast í Stekkjardalnum, vestan undir hraunvegg. Tóftin er mjög sigin og grjóthleðslur jarðlægar en hún er tvískipt. Tóftin er um 5×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er í norðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 3×1 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er í suðausturenda tóftarinnar. Það er einnig um 3×1 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Op er á báðum hólfum til suðvesturs. Mesta hæð veggja er 0,2 mog er hvergi steinn yfir steini. Gerði B er um 15 m suðvestan við tóft A. Það er einfalt og virðist vera grjóthlaðið. Gerðið er sporöskjulagaog er um 9×7 m að stærð, snýr VSV-ANA. Skýrir veggir eru til norðurs en ógreinilegir til suðurs þar sem hlaðið ermeðfram hraunvegg. Ekki er skýrt op á gerðinu en þaðkann að hafa verið í norðvesturhorni. Hleðslur í gerðinu eru að mestu hrundar en eru 0,2-0,3 m á hæð og mest sjást 2 umför.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Grjót sem sjórinn ber á land er komið fast að gerðinu. Hlutverk gerðisins er óljóst en líklega er það „byrgið“ sem nefnt er í örnefnaskrá AG. Fast vestan við gerðið er skúti. Op hans er um 10 m á lengd. Hlaðið er fyrir skútann að mestu leyti. Sumt af grjótinu í opinu hefur hrunið og svo hefur verið hlaðið ofan á hrunið. Mest sjást 2-3 umför hleðslu.

Hvassahraun

Hvassahraun – fyrirhleðsla við skúta í Stekkjarnefi.

Mögulega hefur norðurhluti skútans verið nýttur sem fjárskjól þar sem gólf er tiltölulega slétt og hæst er til lofts. Ekki er að sjá að skýrt op sé inn í hann og samband gerðis og skúta er óljóst.“

Sem fyrr segir kemur fram í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar fyrir Hvassahraun að svo er næst við sjó Stekkjarnef, þar er rúst eftir Stekk. Þar er og Stekkjardalur niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll, klofinn grashóll.“

Í örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar og Guðmundar Sigurðssonar segir:

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur. Þar upp af er Stekkjarhóll og á honum Stekkjarhólsvarða.“

Stekksins í „Stekkjardal“ er ekki getið sem slíks í fornleifaskráningunni, einungs stekksins í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi), sem sagður er vera í Stekkjardal. Hins vegar er getið um „gerði/kálgarð“ neðst í dalnum, líkt og segir í örnefnalýsingum, sbr. „Grjóthlaðið gerði er um 100 m norðvestan og 380 m NNV við bæ. Líklega afmarkaði gerðið kálgarð. Gerðið er nærri sjó, í grasi vöxnum, hólóttum móa.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðið er um 18×13 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur, mjókkar lítillega til norðvesturs. Veggjahleðslur eru hrundar og eru 1-1,5 m á breidd og hæstar 0,5 m. Mest sjást 2-3 umför hleðslu. Tréstaurar eru hér og hvar í grjótinu og hefur verið girðing ofan á grjóthleðslunni. Ekki sést skýrt op á gerðinu.“

U.þ.b. 20 metrum norðan við „gerðið/kálgarðinn“ mótar fyrir ferhyrndum hleðslum á gróðurbleðli, rétt ofan við núverandi grjótuppkastaðan fjörukampinn. Um er að ræða tvö hólf í aflöngu gerði, 2x 6x12m með op móti suðri. Einungis sést móta fyrir einu umfari, en skýrastir eru veggirnir að austan og norðanverðu. Hér er greinilega um leifar af stekk að ræða, enda stemmir hann við lýsingar í framangreindum örnefnaskrám. Minjarinnar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi; eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt. Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900.

Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt.

Hvassahraun

Hvassahraun – matjurtargarður.

Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þessi virðist hins vegar ekki hafa verið notaður sem slíkur. Hins vegar eru þrír stórir matjurtargarðar með grjóthlöðnum veggjum umhverfis skammt ofar í dalnum.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Gísli Sigurðsson og Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Grindavík

Áttunda eldgosið við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 1. apríl 2025 kl. 09:43 að undangenginni jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Ritstjóri FERLIRs hafði reyndar, fyrir tveimur mánuðum, spáð málamyndareldgosi nefndan þriðjudag og þar með skammvinnum goslokum í framhaldinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gos hófst að þessu sinni af annars litlum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu sunnan Hagafells í norðri og inn á Stamphólshraun í suðvestri þar sem eitthvert hraunflæði náði á kafla inn undir varnargarðinn skammt ofan við bæinn. Stamhólsgjáin liggur jú þarna, ásamt þremur öðrum samliggjandi, niður undir austanvert Járngerðarstaðarhverfi…

Fyrstu fréttir af hraunrennslinu bendir til þess að hraunstraumurinn renni í vestur og liggi sunnanvert austan við Sundhnúk, sem fyrr sagði. Tiltölulega lítill hraunstraumur sést í átt að Grindavík og hefur hann leitað lengra til suðvesturs en áður hefur verið – í átt að hraunspýju, sem kom upp í sjötta eldgosinu þegar tvö hús efst í Hópshverfinu urðu hrauni að bráð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gosmökkurinn er lítill, auk þess sem gosmagnið virðist minna en í öðrum undanfarið. Væntanlega mun því draga úr gosinu fljótlega.

Þetta er ellefta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, þ.e. auk þeirra þriggja fyrstu er áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er samt sem áður um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Líklegt er að þessi hrina verði skammlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á aðdragandann reynir.
Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgos hafi virst óálitlegt tilsýndar, líkt og hin fyrri, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og spennandi tækifæri.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Við stjórnum ekki jarðaröflunum, en við getum nýtt okkur þau þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma okkur, núlifandi, alltaf jafn mikið á óvart.

Grindavík

Grindavík – jarðeldarnir 1. apríl 2025.

Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til atburða sögunnar.

Eld­gosinu lauk um kl. 16.45 sama dag. Gosið stóð þar með aðeins yfir í um sex klukku­tíma og rek­ur því lest­ina hvað varðar lengd ein­stakra elds­um­brota í þeirri gos­hrinu sem hófst í mars fyr­ir fjór­um árum, þrátt fyrir glaðklakkanlegar lýsingar „hinna mætustu“ vísindamanna.

Hermann Ólafsson

Hermann Ólafsson – Hemmi í Stakkavík.

Og svo virðist sem einhverjir óveraldavanir björgunarsveitarliðar sem og sérsveitarmenn hafi farið á taugum af litlu tilefni í aðdraganda gossins þegar nýlega sjötug refaskytta lyfti góðlátlega haglabyssu upp úr annars veraldlegum vönum farangri sínum. Hafa ber í huga að á þessum árstíma snýst, líkt og fyrrum, hugur Hemma fyrst og fremst um að tryggja æðarvarpið á Stað fyrir ásókn árviss Vargsins. Þetta vita innfæddir, en „vígasveitir“ Ríkislögreglustjóra bera hins vegar ekkert skynbragð á rauntilvist tilverunnar. Þeirra skammsýni snýst einungis um byssur og meinta „bófa“ í afar þröngum skilningi fjölbreytileikans.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarrétt.

Umrædd refaskytta, Hermann Ólafsson, eða „Hemmi í Stakkavík“, er innfæddur Grindvíkur, sonur Ólafs Gamalíassonar á Stað. Hermann hefur verið ein helsta burðarásin í atvinnuuppbyggingu Grindavíkur um áratuga skeið, og hvers manns huglúfi. Hann hefur jafnhliða stuðlað, a.m.k. hingað til, að uppbyggingu og viðhaldi björgunarsveitar bæjarins. Ólíklegt er að framhald verði á því í kjölfar framangreinds. Ef lögreglan á Suðurnesjum (Grindavík tilheyrir reyndar ekki Suðurnesjum) á eitthvað sökótt við nefndan Hermann væri það helst vegna áratuga gamals óupplýsts „sakamáls“, „Stóra Kjöthvarfisins“ í bænum, sem nú er reyndar löngu fyrrt…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Færikvíar

Í ritingu „Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV„, skrifar Jónas B. Bjarnason ( 1866-1965) um „Fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum„:

Jóns B. Bjarnason

Jónas B. Bjarnason (1866 – 1965).

„Í inngangi að sögu Búnaðarfélags Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa hef ég lítils háttar minnzt á fráfærur og pössun á ám, en ég hef orðið þess var, að ungt fólk veit naumast nú, hvað við er átt með orðinu fráfærur. Vil ég því reyna að lýsa þeim nokkru nánar.
Flestir hleyptu til, þ. e. byrjuðu að leiða hrúta til ánna, á þeim tíma vetrar, að þær byrjuðu að bera fyrstu daga eftir fjórðu sumarhelgi. Einstöku bændur bundu sig með það eingöngu við sólarganginn og byrjuðu að hleypa til á vetrarsólstöðum.
Ef vel voraði og snemma kom gróður, torguðu sum lömbin ekki allri mjólkinni úr mæðrum sínum, og þurfti þá að mjólka þær ær. Höfðu því fjárgæzlumenn með sér ílát til að mjólka í og komu heim með mjólkina. Voru stundum búnar til ábrystir úr broddinum.
Þegar ærnar voru bornar, voru þær passaðar og gengið til þeirra daglega, og í 9. sumarvikunni var venjulega farið að stía, sem svo var kallað, en það var þannig gjört, að lambærnar voru reknar á kvöldin inn í stekkinn, en stekkur var nefnd fjárrétt sú, sem notuð var fyrir lambféð að vorinu.
Búsæld og BarningurStekkurinn var víðast töluverðan spöl frá túninu, en í góðu haglendi. Hann var þannig byggður, að í enda hans eða einu horni var lítil kró með háurn veggjum og góðri hurð í dyrum, og var hún nefnd lambakró. Þegar ærnar voru komnar á stekkinn, voru lömbin tekin og látin í lambakróna, en ánum hleypt út og látnar eiga sig til morguns.
Snemma næsta morgun var svo farið á stekkinn, ærnar reknar inn í hann og mjólkað úr þeim. Fyrstu morgnana var lítið mjólkað úr þeim, en eftir 2—3 daga voru þær þurrmjólkaðar. Þó var nokkur mjólk skilin eftir í þeim ánum, sem áttu yngstu lömbin. Var svo ánum og lömbunum hleypt út saman. Þessi mjöltun var gjörð í tvennum tilgangi, fyrst og fremst til að fá mjólkina til manneldis og í öðru lagi til þess að venja lömbin við að halda sig að haganum, svo að þeim brygði minna við, þegar þau voru algjörlega tekin frá ánum.

Hálssel

Hálssel – stekkur.

Eftir 10. sumarhelgi, seint eða snemma í þeirri viku eftir því sem veður og aðrar aðstæður leyfðu, var svo fært frá, en það var þannig gjört, að í stað þess að reka ærnar inn í stekkinn að morgninum voru þær reknar í kvíar heima við tún og mjólkaðar þar. Voru þær svo reknar í haga sem lengst frá stekknum og staðið þar yfir þeim til kvölds. Voru þær þá reknar heim til mjalta í kvíunum.
Kvíarnar voru venjulega hlaðnar úr torfi og grjóti og munu hafa verið rúmlega tveggja metra breiðar, en lengdin eftir þörfum miðað við ærtöluna. Þegar svo ærnar röðuðu sér með báðum hliðveggjum, gátu mjaltakonurnar aðeins gengið fyrir aftan þær á milli raðanna.

Kví

Mjaltarstúlkur í kví.

Mjaltakonan setti svo mjólkurfötuna niður aftan við ána, sem hún ætlaði að mjólka, smeygði svo vinstri hendi milli afturfóta ærinnar fram fyrir júgrið og hélt því aftur og mjólkaði svo með hægri hendinni þannig, að hún kreppti þumalfingur í lófann, tók svo spenann milli vísifingurs og þumalfingurshnúans og strauk svo mjólkina þannig úr spenanum.
Fyrstu árin, sem ég man eftir, voru ærnar tvímjólkaðar á hverju máli, en eftir nokkur ár var því hætt og þá aðeins einmjólkað, en meiri áherzla lögð á að mjólka vel.
Þessar hlöðnu kvíar þurfti að moka daglega. Sumir voru þá farnir að nota færikvíar, er svo voru nefndar. Voru þær búnar til úr grindum, sem gjörðar voru úr borðrenningum. Voru þá notaðar hér um bil tveggja metra langar grindur í gaflana, en lengri grindur til hliðanna og tala þeirra eftir þörfum eftir ærtölunni.

Kví

Kvíar.

Voru grindur þessar bundnar saman á endaokunum. Voru þær reistar upp á þurrum og sléttum bala og venjulega færðar til eftir hverja mjöltun. Ef grasvegur var þar, sem þessar kvíar voru notaðar, spratt þar vel. Venjulega voru þær settar á tún, þegar búið var að slá og hirða heyið, og þurfti þar ekki annan áburð. Notkun færikvía fyrir 100 ær yfir sumarið gátu gefið kýrfóður-töðuauka.
Daginn, sem fært var frá, þegar ærnar voru komnar í haga sem lengst í burtu, var lömbunum hleypt út úr stekknum og þau venjulega pössuð þar 2—4 daga og hýst þar á nóttunni. Hví næst voru þau rekin til afréttar.
Stöku menn ráku lömbin með jarmi, þ. e. ráku þau til afréttar strax sama dag og þau voru tekin frá ánum, en þau lömb voru óspakari í högum og flæktust víðar. Það þótti mikils um vert, að kvíaærnar væru vel passaðar. Var það kallað að sitja hjá, og sá, sem það gjörði, var kallaður smali. Það mátti ekki halda ánum of þétt saman. Var það kallað að hnappsitja. Það mátti heldur ekki láta þær dreifa svo mikið úr sér, ajð smalinn vissi ekki jafnan, hvað þeim leið.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Á sumum bæjum var það fullorðinn maður, karl eða kona, sem sat hjá ánum. Þegar ég var krakki, var í nágrenni við mig roskinn maður, sem alla ævi sína hafði setið hjá ám að sumrinu, og ég vissi ekki tii, að honum væri ætlað annað verk árið um kring en að passa ærnar, þótt hann kunni stöku sinnum að hafa gripið í önnur störf, sérstaklega að haustinu, þegar góð var tíð. Allvíðast voru þó krakkar eða unglingar látnir sitja hjá ánum. Var þá venjulega einhver fullorðinn maður með þeim fyrstu dagana til að leiðbeina þeim við starfið.

Smalaskáli

Smalabyrgi.

Sumarið 1875 sat ég fyrst hjá kvíaám, og sat ég hjá þeim á næturnar. Ág var þá á 9. árinu, og kveið ég fyrir því starfi, en leiddist það ekki til muna, þegar á reyndi. Ég var líka nokkuð vanur við næturvökur, því að ég hafði vakað yfir túninu þá um vorið. Tún voru þá alls staðar ógirt, og þurfti því að vaka allt vorið til að verja þau ágangi búfjár.
Ærnar voru passaðar og nytkaðar þar þetta sumar. Var ánum haldið að nóttunni í nærliggjandi högum, en á daginn voru notaðir hagar, sem fjær lágu. Fyrstu næturnar var fullorðinn maður með mér til að sýna mér, hvar og hvernig ég skyldi halda ánum til haga, og benda mér á, eftir hverju ég ætti að fara með heimrekstur á morgnana, því að þá voru ekki úr í hvers manns vasa.

Nátthagi

Nátthagi.

Eins og áður getur, voru næturhagarnir nálægt selinu, svo að sjá mátti þangað heim, þegar bjart var. Þegar leið undir morgun fyrstu nóttina, sem við sátum hjá ánum, sagði þessi leiðbeinandi minn: „Nú skulum við hafa glöggar gætur á, hvað gjörist heima í selinu.“
Nokkru seinna sáum við, að fór að rjúka upp úr eldhússtrompinum í selinu. Þegar rokið hafði þar góða stund, hætti að rjúka, og sáum við ekki rjúka neitt nokkra stund, en svo gaus aftur upp mikil reykur. Sagði þá þessi félagi minn, að við skyldum fara að rölta í kringum ærnar og reka þær heim, og sagði mér jafnframt, að eftir þessu mætti ég fara, því að ég mætti fara að reka heim, þegar færi að rjúka í annað sinn í selinu, stúlkurnar mundu þá tilbúnar að mjólka.

Fé

Fjárhópur.

Seinnipart sumars, þegar dimma tók nótt, var hætt að vaka yfir ánum á nóttunni, en þeim hleypt á haga litla stund eftir kvöldmjaltir, svo reknar lieim á túnkragann kringum selið og bældar þar, þ. e. staðið í kringum þær, þar til þær lögðust.
Vakti svo selráðskonan mig, þegar hún fór á fætur. Smalaði ég þá ánum. Voru þær þá venjulega ekki komnar lengra en á sínar venjulegu næturstöðvar.
Sumarið 1876 sat ég hjá ánum á daginn og hélt þeim þá í högum, sem fjær lágu, svo að ekki sá heim að selinu. Varð ég þá að áætla tímann, hvenær hæfilegt væri að reka heim að kvöldinu. Gekk mér það vel, ef til sólar sást. Annars fór ég mikið eftir því, hvernig ærnar höguðu sér.

Sel

Sel.

Sumarið 1877 var hætt að hafa í selinu, en ærnar nytkaðar heima. Ég sat þá enn hjá. Var þá mjög langt í hagana, því að sömu hagar voru notaðir og áður frá selinu. Þá voru 18 hross á heimilinu að meðtöldum hestum kaupamanns. Ég reið þá alltaf heim á kvöldin og hafði hrossið inni yfir nóttina, skipti svo um hross, þegar ég kom í hagann að morgni. Af því að hrossin voru þetta mörg, þurfti ég ekki að nota sama hrossið nema einn dag í hverjum hálfum mánuði.
Þegar hætt var að hafa í selinu, voru strax notaðar færikvíar. Voru ærnar látnar liggja í þeim yfir lágnættið. Var þá bætt að kvöldinu grindum í kvíarnar og þær hafðar kringlóttar, svo að sem rýmst væri fyrir ærnar að liggja.

Selsmatselja

Selsmatselja – Daniel Bruun.

Jafnan voru þær grindur, sem bætt var í að kvöldinu, strigaklæddar utan og þær látnar snúa í veðrið, ef nokkur gola var, svo að dálítið skjól væri fyrir ærnar að liggja.

Þannig sat ég hjá kvíaám, þar til ég var 14 ára, og hef ég ekkert frekar um það að segja nema það, að þegar hætt var að hafa ærnar í selinu á sumrin, var selið leigt húsmennskufólki, sem hafði nokkrar ær, og passaði ég þær með heimaánum, tók þær með mér á morgnana og skildi þær úr á kvöldin, þegar ég fór heim. Heimaærnar voru venjulega 100—110, og eftir að selið var leigt, voru þar 30—40 ær í kvíum.

Þá skal ég lítils háttar minnast á meðferð mjólkurinnar. Þegar mjöltum var lokið á hverju máli, voru mjólkurföturnar bornar heim að bænum og farið með þær í mjólkurhúsið, sem þurfti að vera kalt, en þó loftgott. Var mjólkin þá síuð og síðan hellt í mjólkurtrogin, sem stóðu í röðum á hillum neðarlega á veggjum mjólkurhússins. Var þetta kallað að setja mjólkina.

Mjólkurbytta

Mjólkurbytta.

Var hún venjulega látin standa í trogunum í þrjú dægur. Bezt man ég eftir þessu, meðan ærnar voru hafðar í selinu. Selráðskonan fór á fætur kl. 5 á morgnana. Þegar hún kom ofan, kveikti hún upp eld og setti upp pott með vatni í. Var það kallað búverkavatn. Því næst fór hún í mjólkurhúsið og tók þar trogin, sem staðið höfðu með mjólkinni í þrjú dægur. Strauk hún með fingri rjómann frá trogbörmunum í einu horni trogsins, lagði svo lófa annarrar handar yfir það horn trogsins, hallaði því svo lítið eitt, svo að undanrennan rann úr því í fötu, er hún hafði undir, en hélt við rjómann með lófanum, svo að hann færi ekki með undanrennunni, strauk svo rjómann úr troginu niður í strokkinn. Var þetta kallað að renna.

Mjólkurtrog

Mjólkurtog.

Þegar ég man fyrst eftir, voru eingöngu notuð þessi mjólkurtrog, en nokkru seinna var farið að nota kringlóttar trébyttur, sem voru 5—6 þumlunga djúpar. Var þá gat á einum stafnum niður við botn og tappi hafður í því. Þótti miklu þægilegra að renna úr þeim en trogunum, því að ekki þurfti annað en taka tappann úr og halla svo byttunni, þar til undanrennan var runnin úr og ekki eftir nema rjóminn. Þegar svo ráðskonan hafði rennt úr öllum trogunum, sem renna átti það málið, og látið rjómann í strokkinn, strokkaði hún hann, tók smjörið úr honum og hnoðaði vel úr því alla mjólk, lét það síðan í kalt vatn og hnoðaði það upp aftur og bjó til úr því sköku.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Sömu störf við mjólkina vann selráðskonan einnig á kvöldin, en byrjaði á þeim einni klukkustund seinna en á morgnana. Voru svo smjörskökurnar geymdar á köldum stað, þar til komið var svo mikið, að hæfilegt þótti til að hnoða það upp aftur og búa um það í sérstöku íláti til geymslu.
Þegar selráðskonan hafði tekið af strokknum, fór hún í eldhúsið og tók búverkavatnið, sem þá var sjóðheitt, þvoði úr því trogin og strokkinn. Þau ílát voru svo þurrkuð við eldsglóð eða úti, ef glatt var sólskin. Því næst lagði hún að aftur í hlóðunum og setti upp stóran pott, sem kallaður var flóningarpottur, lét svo í hann undanrennuna og hitaði hana, þar til hún sauð.

Trékolla

Trékolla.

Var henni þá hellt í stóra trékollu og látin kólna, þar til hún þótti hæfilega volg. Var þá látið saman við hana hleypilyf og þétti, hrært lítið eitt í henni, var svo látinn hlemmur yfir og breitt yfir. Var þetta kallað að gera upp. Eftir hæfilega langan tíma var svo tekið ofan af kollunni. Var þá mjólkin hlaupin, og var þá nefnd ósíað skyr. Þegar það hafði staðið hæfilega lengi í kollunni, var það látið á skyrsíuna, sem var gisið léreft eða fínn, gisinn strigi, strengt á trégrind, sem látin var yfir stóra tunnu. Síaðist þá mysan ofan í tunnuna. Þegar hæfilega þótti síað, var skyrið tekið af grindinni og því safnað í tunnur eða sái. Mysunni var einnig safnað í tunnur. Venjulega var mysu safnað í eina tunnu og hún geymd til vors og var þá nefnd sýra. Var henni blandað í vatn og höfð til drykkjar yfir vorið og sumarið.

Súrtunna

Súrtunna.

Að öðru leyti var mysunni safnað í tunnur og höfð til að súrsa í slátur yfir veturinn. Sú sýra var oft notuð að vetrinum saman við drykkjarvatn handa folöldum og lömbum.
Mikið var borðað af nýju skyri á sumrin. Þó voru alltaf til að haustinu mörg ílát full af skyri, sem haft var í hræring saman við graut allan veturinn og oft allt sumarið líka, því að sumum þótti betra súrt skyr en nýtt í hræring.
Stöku sinnum var mjólkin ekki gerð upp, heldur hleypt og gerður úr henni ostur, bæði mjólkurostur og mysuostur. Mjólkurosturinn var látinn í gisinn poka og létt farg látið á hann. Þessi ostur var svo borðaður nýr í stað brauðs með smjöri og mysuosti.
Stundum á meðan verið var í göngum og á milli rétta, var mjólkin ekki sett, heldur látin strax í pott yfir eld og soðin lítið eitt. Varð hún þá eins og súpa. Var það kallað sauðaþykkni. Var það borðað heitt, og þótti mörgum það góður matur.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Hvað ærnar hafi mjólkað mikið yfir sumarið, get ég ekki sagt um með vissu. Þó má gjöra sér nokkra hugmynd um það eftir því, sem ég man frá þeim tíma. Seinasta sumarið, sem ærnar voru hafðar í selinu, átti selráðskonan, sem var í húsmennsku hjá foreldrum mínum, fjórar ær, sem voru í kvíunurn. Nytkaði hún þær sérstaklega og safnaði mjólkinni í tunnu, sem mun hafa verið rétt lagartunna (120 potta). Ætti því hver ær að hafa mjólkað eitthvað yfir 30 potta að meðaltali yfir sumarið.“ –Ritað á sumardaginn fyrsta 1955.

Heimild:
-Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV, Jónas B. Bjarnason, „Um fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum“, Húnvetningafélagið 1955, bls. 53-62.

Færikvíar

Færikvíar.

Þórkötlustaðahverfi

Árið 2018 var gerð skýrsla um „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð„. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar svæðisins.

Þorkötlustaðir

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Um 1270 er Þórkötlustaða getið í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Um 1275 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI III, 3.
1307 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI II, 361.
1367 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum. DI III, 222.
1477 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík. DI VI, 124.

Þórkötlustaðir

Miðbær Þórkötlustaða 1948.

Um 1500 er jarðarinnar geti í lýsingu á landamerkjum milli Voga og Grindavíkur en þar segir að Vogar eigi ekki land lengra neðan frá en að Kálfsfelli og upp að vatnskötlum fyrir innan Fagradal upp að klettum þeim sem standa við Skógafell hið neðra við götuna „enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmorkum“ og er þessi lýsing í samræmi við elstu lýsingu marka á þessum slóðum frá 1270. DI VII, 457-458.
1534: fram kemur á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi. DI IX, 721.
24. júní 1552 kemur fram í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar af Íslandi frá alþingi 1551 til Jónsmessu 1552 um Þórkötlustaði: „Jtem aff Kettell aff Tórkottelestedom ij skatt viij alne vadmall.“ DI XII, 420.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1553 [1554] kemur fram í máldögum og reikningum kirkna í Skálholtsbiskupsumdæmi (við yfirreið Marteins biskups Einarssonar) að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XII, 662.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 2025.

1562 kemur fram að atvistarmenn að vígi Guðmundar Sigurðssonar séu skyldaðir til að koma fyrir dóm vegna vígis Guðmundar en hann hafði látist eftir slagsmál við fjóra menn á Þórkötlustöðum. DI XIII, 744.
1563 kemur fram í bréfi Gísla biskups Jónssonar um byggingar stólsjarða í Grindavík að ábúendur lúti eftirfarandi skilmálum: „Ad i fyrstu wil eg ad stadurinn i Skalholltti eigi halftt skip vid þann sem byr a Jarngerdarstodum. Þorkotlustodumm og Hraune. Skal stadurinn þessumm skipumm uppkoma ad halfu leyte af þeim stadar Rekum sem liggia fyrir Grijndavijk. Jtem þau Bænhuskugildi se ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snueast i leigukugilldi. Jtem byd eg mijnumm fyrrgrendumm Radsmanne ad hann tilskile i sinne jardabyggingu ad huer leigulide vaktti þann Reka sem fyrir sierhuers lande liggur epter þui sem laug seigia og hafe ecke mejra af enn so sem leigulida ber eptter logmale. Jtem byd eg Radzmannernum ad fyrirbioda Leigulidunumm ad skamptta sier nockur trie sialfer af af rekunumm til stadarjardanna utann þad sem til verdur lagtt af sialfumm Radzmannenumm og naudsyn krefur“ DI XIV, 200-202.

Þórkötlustaðahverfi

Hluti Þórkötlustaðahverfis 2025.

1570 og síðar: kemur fram í Gíslamáldaga að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XV, 641.
1703: dýrleiki óviss. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 11-12, 14.
Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1840: 60 hdr. „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ SSGG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 19. öld: Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Þórkötlustaðir eru elsti bærinn í Þórkötlustaðahverfi. Rétt eftir aldamótin 1900 var byggð hlaða við Miðbæinn og var þá komið niður á langhús með jarðeldi (sjá nánar fornleif 203) sem bendir til að bærinn hafi alltaf verið á svipuðum slóðum. Allt bendir til þess að snemma hafi orðið þéttbýlt á þessum slóðum en elsta heimildin um margbýli á Þórkötlustöðum sjálfum er frá seinni hluta 18. aldar (1785) en var orðið þríbýlt á heimajörðinni.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Þríbýli hélst á Þórkötlustöðum lengst af eftir 19. öldinni og voru býlin samkvæmt Jóni Þ. Þór ýmis nefnd 1.,2. og 3. býli eða austurvestur- og miðpartur (Saga Grindavíkur II, 74, 272). Undir lok 19. aldar bætast svo tveir bæir við og snemma á 20. öld voru því fimm bæjarstæði á Þórkötlustaðatorfunni (Austari eða EystriAusturbær, Vestari Austurbær, Austar eða Eystri Vesturbær og Vestari Vesturbær). Ekki er ljóst hvor austur og vesturbæjanna var eldri en líklegra virðist þó að af austurbæjunum sé Austari/Eystri Austurbærinn og Austari/Eystri Vesturbær. Þórkötlustaðatorfan er á svolítilli hæð um 70 m norðan við sjó. Þórkötlustaðavegur liggur norðan við torfuna, vegarslóði í átt að sjó og fram hjá Sólbakka vestan við og annar vegarslóði að Buðlungu að austan. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Sem fyrr segir var komið niður á skálabyggingu þegar hlaða var reist á bæjartorfunni á Þórkötlustöðum. Til er lýsing af bænum frá seinni hluta 17. aldar, nánar tiltekið frá 1670: „Áður en Sigmundur [Jónasson] tók við búi á Þorkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Hjálmar Guðmundsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 6,46. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Matjurtagarðar 400 faðmar, gefa 16 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í góðu standi. Tún talið 7 dagsláttur, gefur af sér 90 hesta í meðalári, helmingur þýft. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Rekapláss í félagi við vesturbæi. Uppsátur í sambandi við hinar jarðirnar. Ágangur enginn. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Bæjarhóll Þórkötlustaða er lágur og ávalur og aðeins er hægt að greina litla uppsöfnun. Gróflega áætlað er hann um 90-100 x 70 m stór og snýr austur-vestur. Gríðarlegur fjöldi húsa og kofa ásamt kálgörðum er sýndur á bæjartorfunni á túnakorti frá 1918 og er gerð grein fyrir þeim undir sérstökum númerum í fornleifaskránni (en þó skráðar saman sambyggðar fornleifar). Árni Guðmundsson (1891-1991) mundi vel eftir torfbæ á sömu slóðum og Miðbærinn frá því hann var ungur.
ÞórkötlustaðirAf ljósmynd sem tekin var af Þórkötlustaðaþyrpingunni á tímabilinu 1902-1927 má sjá að þá hafa staðið tvö hús þar sem Miðbær er nú og telur Loftur Jónsson heimildamaður að þau hafi bæði verið hluti af Miðbænum. Húsið sem nú stendur var byggt á sama stað og vestara húsið (sem var minna) en austara húsið hefur staðið einhver ár eftir að núverandi íbúðarhús var byggt (stendur þegar ljósmynd er tekin af svæðinu eftir 1932). Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum. Undir þetta númer er skráður bæjarhóll Þórkötlustaða, hús Miðbæjarins (bæði húsin sem stóðu í upphafi 20. aldar og svæðið norðan við þar sem stóðu 3-4 kofar).

Bænhús var áður á Þórkötlustöðum skv. máldaga frá 16. öld.
1563: „Jtem þau Bænhuskugilldi sem ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snuest i leigukugilldi,“ DI XIV, 201.
Ekki er vitað hvar bænhúsið stóð en án efa var það á bæjarstæði Þórkötlustaða, nærri Miðbænum. Ekki eru þekktar frásagnir um að menn hafi komið niður á bein eða annað sem gæti gefið vísbendingu um staðsetningu bænhússins. Staðsetningarhnit var tekið á bæjarhólnum miðjum. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Randeyðarstígur var en hann lá niður á Eyrargötu sem lá syðst í Þórkötlustaðahverfi. Á minjakorti Ómars Smára virðist sem Randeyðarstígur hafi verið sami stígur og Eyrargata en Randeyðarstígsnafnið notað í landi Hrauns. Í öllu falli virðist ljóst að ummerki um Randeyðarstíg er ekki að finna innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi. Frá Hraunkoti vestur að Þórkötlustöðum eru sléttuð tún en austan við Hraunkot er hraunlendi að túninu í Hrauni.

Þjóðsaga – Þórkötluleiði (legstaður)

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Í örnefnaskrá NN segir: „Í túninu austur af bæ er sagt að sé leiði Þórkötlu.“ Fjallað er um staðinn á heimasíðu Ferlirs en þar segir: „Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. (…) Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambhúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórkötludysjar þannig: „Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur í neðra túninu.“ […] Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði Ferli verið bent á hina þúfuna (Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.“ Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Í túninu sunnan Lambhúskots eru þrír hólar. Sagan segir að í þeim lengsta sé leiði Þórkötlu, sem Þórkötlustaðahverfi er kennt við, aðeins Uppmæling hinum meintu dysjum sunnar er leiði smala hennar og þar vestur af er leiði hundsins hennar.“ Líkt og kemur fram hér ofar er á reiki hver af þúfunum er Þórkötludys. Hún er í túninu, rúmum 20 m sunnan við Lambhús og rúmum 150 m norðvestan við bæ. Þar eru fjórar þúfur sem allar voru mældar upp. Ómar Smári Ármannsson merkir Þórkötludys inn á uppdrátt af Þórkötlustaðahverfi en að auki dys hunds og dys smala. Slétt, ræktað tún er allt umhverfis þúfurnar. Þær eru allar sléttar og grasivaxnar og ekki ólíklegt að mannvist sér hér undir sverði.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar
hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar.

Gjáhóll

Gjáhóll.

Eyrargata var á milli Þórkötlustaða (og mögulega líka Hrauns) og Járngerðarstaðahverfis. Innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi var hún alveg við sjávarkampinn og er nú horfin í ágang sjávar og sand. Hún sést hins vegar vestar, utan verndarsvæðis. Brunnflatir 026 eru grónar sandflatir nyrst og austan í Nesinu. Vestan við þær, í hrauninu er Gjáhóll gróinn í toppinn með tveimur hundaþúfum. Hún kom upp úr fjörunni við Skarð en lág þar til austurs neðan við Þórkötlustaðabæina.
Göturnar hafa að hluta legið yfir úfið mosagróið hraun en í Þórkötlustaðahverfi lágu þær nærri sjávarkambinum og yfir Brunnflatir þar sem mikið af sandi hefur safnast. Svæðið er vaxið melgresi og sjór hefur einnig borið á land talsvert af stórgrýti og varpað því yfir svæðið. Gatan hefur líklega legið í austur-vestur yfir Nesið að Rifinu sem nú hefur verið opnað og gert að höfn Grindavíkur. Hún er gróflega staðsett innan verndarsvæðis.

Gata – kirkjugata (leið)

Kirkjugata

Kirkjugatan.

„Önnur gata en Eyrargata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. „Þarna þvert yfir og framhjá Hópi var gangan á milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis áður fyrr og áfram framhjá Miðaftanshól. Austan við Moldarlág í hraunbrúninni eru hraunhólar sem heita Kirkjuhólar. Þar var áður mikil huldufólksbyggð og huldufólkskirkja. Álfar á svæðinu áttu sína kirkju rétt sunnan við núverandi smábátahöfn og heitir þar Álfakirkja,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Kirkjuhólar eru ofan réttarinnar.

Kirkjuhólar eru um 600 m vestnorðvestan við Þórkötlustaði fast sunnan við Austurveg (þ.e. núverandi þjóðveg) en umræddur vegur var á svipuðum slóðum innan Þórkötlustaðahverfis þjóðvegurinn var áður, neðan við  fastaland/Heimaland/Þórsmörk. Á þeim slóðum er enn malarvegur. Uppgrónir hraunhólar eru að hluta þar sem vegurinn lá en yngri malarvegur er á sömu slóðum hluta leiðar. Gatan lá austur-vestur á milli Hóps og Þórkötlustaða og áfram austur.
Í Kirkjuhólum er gatan horfin en sést austar, sunnan undir Austurvegi um 400 m norðvestur af bæjarhól, beint norður af íbúðarhúsinu Klöpp/Teigi. Þar hefur grjót verið fjarlægt úr henni og raðað meðfram henni, í framhaldi liggur gamli malarvegurinn. Í hrauninu milli Þórkötlustaða og Hrauns sést að auki fyrir götunni.

Eyvindarstaðir/Eyvindarhús

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – yfirlit.

Í Jarðabók Árna og Páls 1703 er getið hjáleigu: „Eivindar hús.“ Eyvindarstaðir hét kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns 1918 og er líklega sami staður. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þriðja þurrabúð frá býli 15 [miðbær Þórkötlustaða]. Ábúandi Guðmann J. Jónsson. Eftirgjald 10 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 8 x 6 ál., vegghæð 4 ál. ris ekkert, bygt úr timbri járnklætt, vel bygt eldhús 4 x 5 ál, grjótveggir, þakið úr timbri og járni Húsið er í ábúð 1909 á þessum stað. Guðmann Jónsson, kona hans Guðríður Þórðardóttir og sonur Haraldur Haraldsson endurbyggðu á sama stað 1928. Hjónin Einar Símonarson og Sólrún Guðmundsdóttir flytja síðan húsið 1948 að Ránargötu 2 í Járngerðarstaðahverfi. 1956 var útliti hússins breytt í núverandi mynd.“

Ránargata 2

Ránargata 2 árið 2024.

Eyvindarstaðir voru með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur samkvæmt Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfis. Þar stóð síðast timburhús en það ásamt Miðhúsum (sjá túnakort 1918) var flutt í Járngerðarstaðahverfi 1948 og var þar Ránargata 2. Um 350 m norðvestur af bæjarhól 001 og um 100 m vestan við Búðir er steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Þar voru Eyvindarstaðir. Þau hafa verið byggð upp við innanverðan túngarð sem hér ber númerið 046. Umhverfis eru sléttuð tún en óslétt grýtt svæði til norðurs.
Steyptur grunnur er vestan til, tæplega 7 x 7 m að stærð. Vesturhlið hans er nánast horfin en mótar þó fyrir henni. Leifar af steyptum skorsteini liggja yfir norðurhlið. Tvö op sjást á suðurhlið eftir glugga eða dyr. Austan við húsgrunninn eru lágar hleðslur, áfastar, sem afmarka svæði, eins konar uppgróinn stall, sem er rúmlega 7 x 7 m stór. Á honum um miðbikið er steinn sem gæti verið fiskasteinn (óstaðfest) og gróinn hnúður, um 2 m í þvermál, norðan við hann. Hæst rís steypan líklega 40-50 cm og er gróf möl og steinar í steypunni. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni var steinsteypt fjós/hænsnahús byggt heima við bæinn eftir 1940 og tóku þau við af fjós/fjárhúsi og hænsnakofa. Veggir húsanna við bæinn hafa hins vegar verið brotnir niður.

Borgarkot
Í Sýslu og sóknarlýsingum frá 1840 segir: „Tómthúsið er kallað Borgarkot og stendur fyrir norðan bæinn vestasta,“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er lengur vitað nákvæmlega hvar býlið Borgarkot var. Það var þá líklega norðan við Vesturbæina. Bærinn var gróflega staðsettur í túninu norðan við Þórkötlustaðaveg en allt eins má vera að hann hafi verið nær Vesturbæjunum í sjálfri bæjartorfunni en nokkur fjöldi húsa er t.d. sýndur á túnakortinu norðan við Austar og Vestari Vesturbæ 1918.
Norðan við Þórkötlustaðaveg er grasflöt, vestan við þar sem íbúðarhúsið Valhöll stóð fram til 2010. Svæðið er fast sunnan við vesturenda garðlags. Þar er grasi gróið flöt og örlítil hæð þar sem garðlagið endar. Engin ummerki sjást um Borgarkot og nákvæm staðsetning þess ekki kunn. Loftur Jónsson heimildamaður hafði aldrei heyrt á Borgarkot minnst.

Hvammur

Þórkötlustaðir

Hvammur.

Hvammur var um 350 m norður af bæ og um 100 m austan við Efraland, fast norðaustan við Þórsmörk. Þar er 3 m hár steyptur skorsteinn og við hann eru tóftir bæjarins. Túngarður liggur uppi á hraunbrúninni norðan og austan tóftanna en sunnan þeirra er þýft tún. Hvammur er utan túnakortsins sem gert var af túninu í Þórkötlustöðum 1918 en býlisins er þó getið á kortinu, þar stendur: „Þórkötlustaðahverfi. Þórkötlustaðir, 5 býli […] Buðlunga og Einland (jarðir). Eyvindarstaðir, Búðir, Miðbær, Garðbær, Móar og Klöpp (með túnbletti).“ Þar kemur einnig fram að kálgarðar hafi verið 950 m2 í Hvammi. Í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis eftir Loft Jónsson segir: „Það var byggt um aldamótin 1900.
Þar bjuggu Guðmundur Þorláksson og kona hans Valgerður Einarsdóttir.“ Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: eigandi og ábúandi Guðmundur Þorláksson. Býlið er þurrabúð á Þórkötlustaðalandi: tilheyrir landið engum sérstaklega og ekkert borgað fyrir lóðina, en lóðargjald álíst hæfilegt kr. 15.00. Á lóðinni eru miklir matjurtagarðar en mál óþekkt og eins hvað þeir gefa af sér. Hús sem á lóðinni eru og öll eru eign ábúenda.
Svæðið allt er um 20×13 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru tvær tóftir. Að sögn Guðbjargar Jónsdóttur, frá Efstalandi var lítið timburhús á bænum í Hvammi. Ekkert er eftir af íbúðarhúsinu nema hlaðnar og steinsteyptar undirstöður (kjallari) og brot af skorsteini þar vestan við. Undirstöður hússins eru grjóthlaðnar, um 5×5 m að stærð. Veggirnir er mest um 1,5 m á hæð og um tíu umför tilhöggvins grjóts sjást þar. Steypt hefur verið í hleðsluna í austurvegg. Dyr eru í norðausturshorni, steyptur dyrakampurinn stendur enn.
Grunnurinn er opin til suðurs og þar er fullt af braki og rusli.

Hraunkot

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Austast í túni við túngarð, um 350 m austnorðaustur af bæjarhól eru tóftir býlisins Hraunkots, sem sýnt er á túnakorti 1918. „Í austur frá Brekku, í brúninni á Slokahrauni, var húsið Hraunkot. Það var rifið þegar Ólafur og Helga, sem þar bjuggu, byggðu Bræðratungu. Björn R. Einarsson landskunnur hljómlistamaður og Guðmundur R. Einarsson einnig hljómlistarmaður voru ættaðir frá Hraunkoti synir Einars Jórmanns Jónssonar rakara í Reykjavík,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Í myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986 og rætt við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) kemur fram að Árni mundi vel eftir torfbænum í Hraunkoti en hann virðist hafa verið horfinn þegar Jón fór að muna eftir sér. Árni hafði komið inn í torfbæinn árið 1902 og segir bæjargöngin hafi þá verið svo þröng að hann hafi þurft að smokra sér inn um þau og þó hafi hann verið nettur, aðeins 11 ára gamall. Samkvæmt heimasíðu Ferlirs var Hraunkot þurrabúð frá Klöpp. Á túnakortinu sést að um þetta leyti hefur Hraunkot staðið stakt austan túns en hefur nú verið innlimað í túnið, sem hefur því verið fært út til austurs. Tóftir í Hraunkoti Uppmæling af fjárhúsum og ljósmynd af sömu tóft, horft til vesturs samanstanda af tveimur megintóftum, grunni sem hér er lýst ásamt tóft þar norðan við, tveimur kálgörðum vestar og upphlöðnum vegi milli þeirra úr vestri. Hraunkot er einstök minjaheild sem ekkert hefur verið raskað. Alls er svæðið um 50 x 50 m stórt. Sléttuð tún vestur að bæjarhúsum en mosavaxið úfið hraun er austan túngarðsins.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóftirnar eru á litlum hól austast í túninu upp austasta hluta túngarðs. Hóllinn markast af hleðslu að vestan- og sunnanverðu. Það sem hér er lýst er annars grunnur sem er að mestu steinsteyptur og húsaleifar í framhaldi af honum til norðurs, svæði sem alls er um 30 x 12 m stórt frá norðri til suðurs. Grunnurinn er syðst á svæðinu, beint austur af upphlaðna veginum. Alls er grunnurinn um 6 x 6 m stór. Hlaðið hefur verið undir hann og er það hraungrýti, mest sýnilegt á suður- og vesturhlið. Ofan á liggur talsvert af steypubrotum. Af túnakorti að dæma hefur bæjaröðin verið aflöng frá norðri til suðurs og snúið göflum mót vestri. Húsið á grunninum eða forveri þess hefur staðið syðst í röðinni en ekki er augljóst í dag að það hafi verið samfast tóftum norðar, enda eyða á milli. Tóftum sem þar eru er þó lýst hér í beinu framhaldi, enda hluti sama bæjar af túnakorti að dæma. Þetta eru tóftaleifar sem alls eru 15 x 7 m að stærð og samanstanda af 3-4 hólfum. Tvö eru samföst nyrst, það vestara með op í vestur en hitt opnast til suðurs. Líkast til hefur ekki verið innangengt á milli hólfa. Þar sunnan við markar fyrir tveimur hólfum sem ekki eru með vesturgafli. Sunnan þeirra er svo grunnur eða tóft sem er rúmlega 5 m í þvermál en ekkert sýnilegt op. Vestan í bæjarhól Hraunkots er hólbrúnin hlaðin á um 20 m löngum kafla sem nær frá tröðum 136 og til NNA. Hleðslan er 4-5 umför og vönduð og hlaðin úr flötu grjóti. Austurbrúnin hverfur inn í hólinn en vesturbrúnin er allt að 1,5 m há.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðarétt.

Réttin var byggð í kringum aldamótin 1900 og grjótið að mestu sótt upp í Vatnsheiði,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði. Umhverfis eru sléttuð tún til norðurs og vesturs en vegur liggur fast sunnan og austan réttarinnar.
Réttin er um 41 x 37 m stór og er grjóthlaðin. Hleðsluhæð er um 1,5 m og umför allt að tíu en veggir eru um 0,5 m þykkir. Veggir eru 1,2 m á breidd og flatir í toppinn. Grjót er vel valið og tilhöggvið að verulegu leyti og virðist möl hafa verið notuð til að þétta hleðslurnar.
Almenningur í miðið er um 32×18 m að stærð og nokkurn veginn ferhyrndur (snýr norðursuður). Sex dilkar eru að vestanverðu við hann, sjö að austanverðu og tveir að sunnanverðu, allir með op á þeim vegg sem snýr að almenningnum og annað á andstæðum vegg. Hólfin eru misstór en snúa öll austur-vestur ef frá er talið vestasta hólfið sunnan við almenning sem snýr öfugt. Hlið eru öll úr timbri. Réttinni er viðhaldið. Þegar réttin var skráð í júlí 2017 var mikill grasvöxtur inni í henni. Réttin stendur mjög vel og er greinilega vel við haldið. Aðeins mátti greina hrun í veggjum á einum stað, nálægt norðausturhorni. Hlið eða grindur eru fyrir öllum opum. Norðan við réttina er girðing. Í suðvesturhorni tóftar er nú útsýnispallur, utan hennar.

Gamla-rétt

Þórkötlustaðir

Gamla-rétt.

Um 350 m norður af bæ, í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land, er grasbali inn í kálgarður. Í hvamminum, við túngarð, er hlaðin kró sem nefnd er Gamla-rétt. Réttin er í kvos eða hvilft inn í hraunbrúnina og myndar að hluta náttúrulegt aðhald. Í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði kemur fram að þetta sé gömul fjárrétt og að grjótið úr henni hafi verið notað til að hlaða túngarð. Sunnan við hvamminn er sléttað tún en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins liggur Austurvegur í austur-vestur.
Balinn hækkar nokkuð upp í hraunið til norðurs og myndar grjóthlaðinn túngarðurinn umgjörð um hann norðan- og vestanverðan en hleðsla gengur til suðurs úr túngarðinum og myndar austurvegg réttarinnar. Suðurvegg vantar og er réttin því hálfopin til suðurs. Allar eru hleðslurnar úr grjóti mest um 2 m háar og umför grjóts allt að tólf. Innst, þ.e. nyrst, í balanum liggur hleðsla þvert á réttina og myndar lítið hólf við túngarðinn. Réttin er um 30×12 m að stærð.
Til norðausturs eru birkitré og víðirunnar sem hafa raskað hleðslum þar nokkuð en að er ljóst að réttin hefur látið á sjá og þar voru líklega fleiri hólf enda þetta gömul skilarétt. Það eru 2-3 hólf varðveitt.

Móar

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Býlið Móar eru merktir inn á túnakort frá 1918 um 200 m norðan við bæjarhól. Býlið var um 170 m sunnan við Hvamm 047, á milli kálgarðaþyrpinga. Samkvæmt túnakortinu
voru þrjú hús (þá líklega útihús) sambyggð kálgarði 037 en stök tóft í suðurhorni kálgarðanna og var það líklega sjálf bæjarhúsin. Á þeim stað er nú greinileg upphækkun eða þúst. Um býlið er getið í fasteignamati 1916-1918 en þar segir: þurrabúð liggur undir býli [austurbæina tvo]. Eftirgjald 10 kr., greitt til landeiganda.
Móar voru sunnarlega í því túni sem tilheyrði jörðinni, á milli kálgarða. Ljóst er að a.m.k. þrír kofar sem tilheyrðu Móum voru sambyggðir kálgörðum en eru þeir nú allir horfnir. Óljós ummerki sjást hins vegar um mannvistarleifar undir sverði þar sem líklegast er að sjálft íbúðarhúsið hafi staðið. Á þeim stað sem húsið stóð um 1918 er greinileg þúst, fast norðan við túngarðinn sem gengur á milli kálgarðsþyrpingar. Þúst er byggð upp við suðurvegginn túngarðs Móa. Svæðið er um 6 m á breidd en allt að 20 m langt og snýr austurvestur. Þústin sker sig frá umhverfinu og er allra skýrust brún að austan en fjarar svolítið út þegar vestar dregur.

Garðlag (túngarður)

England

England.

Garðlag afmarkar austasta hluta Þórkötlustaðatúns og virðist þessi hluti túnsins hafa verið færður út og ræktaður einhvern tíma eftir 1918 en þá voru mörk túnsins við garðlög umhverfis Móa og hefur túnið því verið stækkað um 50-150 m til austurs. Hér verða garðlög á þessu svæði, sem marka af austurhlið túna eins og hún er nú öll skráð saman en gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Garðlögin liggja gróflega NNV-SSA og marka samtals af um 500 m svæði en þau liggja í Gerði í nokkrum hlykkjum við hraunbrún Slokahrauns, alla leið til sjávar. Garðurinn liggur á mörkum túns og hrauns.
Garðurinn liggur í beinu framhaldi af NA-horni túngarðs en þó eftir um 30-40 m breiða eyðu. Eins og áður segir hefur honum örugglega hafa verið bætt við túnið eftir 1918 og það þannig fært út til austurs, á svæði sem er á túnakortinu merkt „kúahagi“. Þannig hefur t.d. býlið Hraunkot verið stakstætt utan túngarðs þegar túnakortið var dregið upp en er innan þess garðs sem hér er skráður.

Hjarðarholt

Þórkötlustaðir

Hjarðarholt.

Húsið Hjarðarholt var áður um 400 m vestan við Miðbæ Þórkötlustaða 001 fast vestan við veginn suður í Þórkötlustaðanes og um 30 m vestan við Hraðfrystihúsið. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir um húsið: „Bergur Bjarnason og Jóhanna Vilhjálmsdóttir byggðu húsið árið 1935. Það var síðan flutt árið 1962 að Hvassahrauni 6 í Járngerðarstaðahverfi. Þarna ólst upp rithöfundurinn Guðbergur Bergsson og bræður hans“. Greinilega má sjá hvar lóðarmörk Hjarðarholts hafa verið og eins sjást steypuleifar sunnarlega á svæðinu. Þær eru um 7-8 m til SSA frá steypuleifum 207 þar sem vindmylla frá Hjarðarholti stóð samkvæmt Lofti Jónssyni.
Ummerkin eru á grasi gróin svæði en þó er stutt í möl og svæðið ekki ræktarlegt. Hæðir eru hér og þar á sléttunni í kring. Austan við er vegur í átt að Hópsnesi og svo gamla hraðfrystihúsið að Uppmæld ummerki þar sem húsið Hjarðarholt stóð áður.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Norðan er vegur heim að Auðsholti og réttin að vestan garðurinn sem markar af lóðina við Auðsholt og að sunnan bithagi fyrir hesta, afgirtur rafmagnsgirðingu. Samtals má greina rót á svæði sem er um 30 x 26 m stórt og snýr h.u.b. norður-suður.
Sunnarlega á svæðinu sjást talsverðar steypuleifar. Norðurhliðin er óljósari, líkt og úr henni hafi verið rutt. Steypt plata sést í gólfinu. Steyptar leifar um 23 x 8,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Suðurhliðin er mjög skýr og liggur rafmagnsgirðing um bithólf eftir henni að hluta. Vesturhlið hússins er einnig fremur skýr en reyndar er stallur fram af henni líka, líkt og þar hafi verið stétt eða afmörkun um 1 m vestan við hús (1 m lægra)Um miðbik hússins er hrúga af grjóti sem virðist hafa verið rutt saman. Í veggjum má sum staðar sjá grjót í sverði, þó aldrei hærra en 0,3 m hærra en umhverfi. Ummerkin eru grasi gróin. Við suðurvegg, vestarlega er byggt lítið hólf, ferhyrnt. Hún er 2 x 2 m að stærð en þó aðeins um 1 m að innanmáli. Talsvert af grjóti er inni í hólfinu og það er mun lægra heldur en stóra byggingin eða 0,1 m. Mögulegt er að skúr hafi verið á þessum stað.

Heródes (álagablettur)

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Heródes „álagasteinn eða letursteinn, er í garðinum framan við vestari Vesturbæ. Þann stein varð að umgangast með varúð og ekki hreifa við honum annars mundi illa fara,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.“ Steinninn er tæpum 6 m sunnan við íbúðarhús Vestari Vesturbæjar, í bakgarði hússins sem hallar til suðurs. Allt umhverfis hann eru grjóthleðslur og er hann fast vestan við austurhlið kálgarðs. Steinninn er stöpull um 0,9 m á hæð en um 0,4 x 0,25 m að stærð. Toppur steinsins er flatur en hallar til austurs. Steinninn er mosagróinn en stendur vel þótt hann halli örlítið til suðurs.

Eystri Austurbær

Þórkötlustaðir

Eystri-Austurbær (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og í kringum aldamótin 1900 voru bæirnir orðnir fimm. Ekki er vitað með vissu hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi/sá eldri. Líklega er það þó sá bær sem hér er skráður, Eystri Austurbær, hann er a.m.k. er einfaldlega nefndur Austurbær í Fasteignabók 1932 en hinn bærinn Vestari Austurbær. Árið 1932 stóð þar samkvæmt Fasteignabókinni timburhús. Í Fasteignabók 1938 er sagt að þá búi íbúar í Austurbænum í sérmerktu húsi í annarri fasteign og þá ekki talin upp á umræddum stað og er þar líklega átt við húsið Valhöll 159 en samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni byggðu síðustu ábúendur í Eystri Austurbænum húsið Valhöll 1932 og fluttu þangað og rifu eldra húsið í kjölfarið. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Pétur Helgason. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.23. […] Tún og matjurtagarðar eru sérstakt, en heiðaland og hagabeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar.
Svæðið er markað af margvíslegum yngri mannvirkjum auk þess sem þar vex talsverð sina sem gerir eldri ummerki ógreinilegri en ella hefði verið.
Samkvæmt Lofti Jónssyni stóðu Austurbæirnir tveir nokkuð þétt saman. „Í hinum Austurbænum bjó Pétur Helgason og Sigríður Hermannsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Óljós ummerki sjást nú á því svæði sem Eystri Austurbær Þórkötlustaða stóð. Skýrustu ummerkin eru líklega tröppur sem lágu upp að íbúðarhúsinu sem eru fast suðvestan við malarveg að Buðlungu, 10 m norðvestan við standandi útihús frá Bjarmalandi (hús 13 á húsaskrá) en 25 m austan við Miðbæ Þórkötlustaða (íbúðarhús sem stendur
001). Tröppurnar eru steinsteyptar og sjást 3 þrep en þær eru reyndar að hverfa í sinu og gróður en þó er enn hægt að greina þær á óræktarblett sem þar er. Að tröppunum að dæma hefur húsið að hluta til verið þar sem vegurinn heim að Buðlungu liggur nú. Á þessum slóðum eru nokkur ummerki á svæði sem er 9,5 x 8,5 m stórt, þríhyrnt og liggur undir veg að norðaustan. Á svæðinu sést nokkuð greinileg suðurbrún og sér þar í grjóthleðslu á kafla, 2-3 umför. Á einu stað má sjá móta fyrir hólfi sem er alveg óskýrt til austurs en gæti hafa verið 4 x 3 m að innanmáli og snúið norður-suður. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið opin til suðurs. Í aðalskráningu 2002 var hólfið skráð undir númerinu 001 B. Af ljósmynd í eigu Lofts Jónssonar sem tekin er af hverfinu eftir 1932 má sjá glitta í húsið. Það virðist hafa verið einfalt og lágreist timburhús. Samkvæmt túnakorti frá 1918 virðast hafa staðið nokkrir kofar á þessum slóðum og voru einhverjir þeirra sambyggðir. Líklega hafa lítil hús verið fast norðan við íbúðarhúsið.

Vestari Austurbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Austurbær.- (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og um 1900 voru bæirnir á bæjartorfunni orðnir fimm. Ekki er vitað nákvæmlega hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi. Líklega er það þó sá bær og sá bær sem hér er skráðir því einungis byggður um eða eftir aldamótin 1900. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Ólafur Þórleifsson. Dýrleiki 3.23 eftir síðasta mati. […] Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir um 1960.

Matjurtagarðar 250 faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 4 dagsláttur, gefur af sér 40 hesta í meðalári, helmingur þýft, snögglent. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við hina býlin. Uppsátursréttur í sambandi við allar jarðirnar. Ágangur enginn.
Í Fasteignabók 1932 er sagt standa timburhús í Vestari-Austurbænum og 1938 eru útveggir sagðir úr timbri, járnvarðir. Austurbær Þórkötlustaða var austan við Miðbæ 001 og sunnan við hlöðu sem enn stendur við Miðbæ (sjá Hús 09 í húsakönnun). Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu Austurbæirnir tveir (sjá líka 138) mjög þétt saman. Ólafur Sigurðsson heimildamaður (f. 1941) dvaldi talsvert í Vestari Austurbænum sem barn en amma hans og afi áttu heima þar og hann var mikið hjá þeim. Húsið var samkvæmt honum rifið 1950 en ekki flutt. Samkvæmt Ólafi var hrútakofi sem var sambyggður húsinu að vestan og þegar hann svaf heyrði hann alltaf í hrútunum hinum megin við veginn. Ofan við bæinn og sambyggt honum var eldhús með torfþaki þar sem var geymdur eldiviður (hrossatað) samkvæmt Ólafi. Fiskisteinn var fyrir framan bæinn samkvæmt honum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

Svæðið er grasi gróið, bæjarstæði Þórkötlustaða. Þar sem húsið stóð er greinileg hæð. Austurhlið hæðarinnar er upphlaðin og 1,2-1,3 m á hæð og um 10 umför en ekki sést önnur hleðsla. Svæðið hallar aflíðandi til suðurs en til vesturs og norðurs er það fremur flatt og því er það í raun e.k. upphlaðinn stallur. Bærinn hefur líklega staðið þarna en á milli austurhliðar íbúðarhúss Miðbæjar Þórkötlustaða og austurhliðar hleðslunnar eru innan við 10 m. Engin eiginleg merki sjást um byggingu á þessum stað. Tóft sem er fast austan við gæti hafa tengst Austurbænum. Svæðið er grasi gróið. Samkvæmt myndbandsviðtali við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) voru mjög mörg hús flutt vestur til Grindavíkur (í Járngerðarstaðahverfi) um miðja öld og var annað húsið í Austurbænum eitt þeirra. Þeir nefna ekki hvort húsið var flutt en Loftur Jónsson heimildamaður segir útilokað að það hafi verið Eystri Austurbærinn þar sem síðustu ábúendur þar byggðu Valhöll og rifu svo þann Austurbæ. Samkvæmt því mætti ætla að sá af Austurbæjunum sem hér er skráður hafi verið fluttur.
Loftur Jónsson mundi þó ekki eftir því og var reyndar efins um að annar hvor Austurbæjanna hefði verið fluttur. Engu að síður geta þeir Ari Guðmundsson og Jón Daníelsson þess í myndbandi og virðist það því líklegt.

Austari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Austari-Vesturbær (rammi). Í miðið á hægri myndinni.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Austari Vesturbær Þórkötlustaða er merktur inn á túnakort frá 1918. Hann var á milli Miðbæjar (nánar tiltekið milli hlöðu við Miðbæ) og Vestari Vesturbæjarins. Svæðið sem er á milli núverandi íbúðarhúsa er aðeins um 17 m langt og því ljóst að þröngt var búið. Af ljósmyndum af Austari Vesturbæ að dæma stóð hann nokkuð þétt upp við Vestari Vesturbæinn og var aðeins örlítið bil á milli húsanna.

Þórkötlustaðir

Miðbær.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Benóný Benidiktsson. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Á þessum slóðum er grasi gróin flöt nú og malarplan norðan við. Engin ummerki sjást nú um hús á þessum slóðum.
Í Austari Vesturbænum var tvíbýlt fram eftir 20. öld. Húsið sem þarna stóð var tveggja hæða timburhús sem rifið var eftir 1986 (en húsið sést á myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi árið 1986). Af því að dæma var húsið með nokkuð stórum kvisti á suðurhlið en ekki var kvistur á norðurhliðinni. Á jarðhæð voru a.m.k. 2 gluggar á suðurhlið og dyr á milli þeirra og miðjugluggi á kvisti beint ofan við hurð. Tveir gluggar voru á jarðhæð á báðum göflum hússins á efri hæð og einnig lítill gluggi í risi. „Í eystri-Vesturbæ var tvíbýli (tveggja hæða hús). Þar bjuggu bræðurnir Benedikt Benónýsson og kona hans Magnúsar Ólafsdóttir á neðri hæð og Guðmundur Benónýsson og kona hans Sigríður Ólafsdóttir á efri hæð,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Lítil sem engin ummerki sjást nú um Austari Vesturbæ Þórkötlustaða en þar sem húsið stóð er grasflöt milli húsa.

Vestari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri). Árni Guðmundsson segir frá.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Vestari Vesturbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Vesturbæirnir voru tveir en nú stendur aðeins íbúðarhús þar sem Vestari Vesturbærinn stóð og er það hús byggt á 4. tug 20. aldar. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Jón Þórðarson. Dýrleiki eftir síðasta mati. 3,44. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

„Í Vestari-Vesturbænum bjó Einar Guðmundsson [bróðir Árna] og fyrri kona hans Ingibjörg Jónsdóttir og síðar seinni kona hans Málfríður Einarsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á túnakort frá 1918 eru merktur talsverður fjöldi húsa í þyrpingu á þessum slóðum og hafa nokkur hús staðið norðan við íbúðarhúsið ef frá er talið hesthús/fjós sem stóð norðvestan við íbúðarhúsið fram eftir 20. öld. Í Fasteignabók 1932 er sagt að þar standi timburhús og ólíkt öðrum húsum á Þórkötlustaðabæjarstæðinu sé það enn óvarið 1938. Af ljósmynd sem tekin er eftir að Valhöll er byggð (1932) má sjá að þá er núverandi hús ekki risið en á sama stað stóðu þá tvö lítil timburhús.
Húsið sem nú stendur var líklega byggt skömmu síðar, a.m.k. var stóð það hús þegar Loftur Jónsson (f. 1938) fór að muna eftir sér. Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum en Árni Guðmundsson í Teigi (1891-1991) mundi eftir torfbæ þar sem Vestari Vesturbærinn stendur nú og kom Árni oft í hann sem barn enda Ingibjörg Jónsdóttir sem þar bjó frænka Árna.
Öll Þórkötlustaðaþyrpingin stendur á lágri hæð sem fellur inn í landið til norðurs og af henni hallar aflíðandi til suðurs (að sjó).
Einlyft timburhús á steinsteyptum kjallara er nú þar sem Vestari Vesturbærinn stóð en engin ummerki sjást um eldri hús.

Miðhús

Þórkötlustaðir

Eldri Miðhús.

Miðhús voru um 260 m NNV við Miðbæ Þórkötlustaða. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Þurrabúð frá býli [Miðbæ Þórkötlustaða]. Ábúandi Vilhjálmur Jónsson. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda.
Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 9 x 6 al, vegghæð 2 4/4 al bygt af timbri, þak pappaklætt, hitt áklæth. fornlegt.
Skúr áfastur 7 x 3 ál, úr timbri og járni. „Þar var búið um 1900. Árið 1932 er byggt nýtt hús sem er síðan 1961 flutt í Járngerðarstaðahverfi og er nú Túngata 2,“ segir í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vilhjálmur Jónsson (afi Bjarna Kristins Garðarssonar heimildamanns) byggði bæinn sem reis í Miðhúsum 1932. Miðhús stóðu tæpum 30 m suðaustan við suðausturhorn íbúðarhússins Búða. Húsið var um 260 m norðvestan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 25 m suðaustan við íbúðarhúsið Búðir. Á þessum slóðum hefur safnast upp talsvert af rusli. Gömul bílhræ eru þar, hrúgur af hellusteinum og ýmislegt annað rusl auk þess sem hlut af svæðinu er að hverfa í órækt. Gámur er fast norðaustan við svæðið.
Miðhús eru sýnd á túnakorti frá 1918, nyrst í heimatúninu milli Búða til vesturs og Garðbæjar til suðausturs. Húsið er ranglega merkt „Miðbær“ en ekki „Miðhús“ á túnakortið. Á túnakortinu eru tvö hús á bænum og kálgarðar til norðurs og er svæðið allt skráð saman undir þessu númeri. Allar þessar minjar eru horfnar, þarna er nú m.a. skúr frá Búðum, gámur og mikið drasl og vélabrak. Ekki er hægt að sjá ummerki um mannvistarlög, né bæjarhól á svæðinu en leifar sjást af steyptum grunni eru greinilegar á því syðst, þar sem Miðhús stóð áður en íbúðarhúsið var flutt til Grindavíkur. Á grunninum er mikið af ýmiss konar braki og timbri. Það sem nú vottar best fyrir eru austur- og suðurhlið grunnsins og ná alls yfir svæði sem er um 8 x 8 m stórt. Grunnurinn er mest 0,8 m á hæð til suðurs en hverfur í hæðina og ýmiskonar rusl til norðurs. Samkvæmt Bjarna Kristni Garðarssyni var eldra hús Miðbæjar örlítið norðar en yngri húsin. Samkvæmt Lofti Jónssyni var Miðhús var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Um 4 m vestan við Miðhús stendur illa farið hús sem þjónað hefur hlutverki skemmu og hjalls eins lengi og menn muna. Þetta hús tilheyrði Miðhúsum en eigandi eftir að íbúðarhúsið í Miðhúsum var flutt til Grindavíkur lagði eigandi Búða húsið undir sig. Hjörleifur Stefánsson arkitekt telur að umrætt hús hafi á einhverju tímabili þjónað sem íbúðarhús en staðkunnugir telja það ólíklegt. Umrætt hús er skráð í Húsakönnun vegna verndarsvæðis.

Búðir

Þórkötlustaðir

Búðir 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: önnur þurrabúð frá býli miðbæ Þórkötlustaða. Ábúandi Þórður Magnússon. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar að mestu matjurtagarðar. Hús á lóðinni eru eign ábúanda.
Bærinn Búðir er sýndur á tínakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Bærinn Búðir er sýndur á túnakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ 142. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Nýtt íbúðarhús var byggt á svipuðum stað árið 1928 og stendur það enn (sjá nánar í húsakönnun Þórkötlustaða) en garðhleðsla sem sléttuð hefur verið í tún.
Engin ummerki eldri húsa sjást nú á Búðum en yngsta íbúðarhúsið á bænum stendur samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni er mögulegt að eldra hús hafi verið aðeins norðar en það sem nú stendur.
Íbúðarhúsið Búðir stendur enn þótt það sé í talsverðri niðurníðslu og umhverfis það hefur safnast upp talsvert af rusli, gömul bílhræ og fleira. Þrjú hús sem snéru stöfnum til austurs eða vesturs eru sýnd á túnakorti frá 1918. Ummerki um eldri bæ eru horfin og ekki er hægt að greina mannvistarlög né bæjarhól á svæðinu. Í húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Búðir: Hjónin Magnús Þórðarson og Ingibjörg Þórarinsdóttir byggðu núverandi hús 1932. Þar stóð annað hús áður.“

Garðbær

Þórkötlustaðir

Garðbær 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þurrabúð undir býli  [Vesturbær Þórkötlustaða]. Eftirgjald er ekki greitt, en er talið hæfilegt 10 kr. á ári. Ábúandi Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda er: Íveruhús 10 x 6 ál. vegghæð 4 ál, bygt af timbri og járni varið að mestu.
Garðbær er sýndur á túnakorti frá 1918 nyrst í heimatúninu, skammt suðaustan við Miðbæ.
Það eru sýnd fjögur hús á bænum á túnakortinu og stafnar snéru til suðurs. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Garðbæ byggðu hjónin Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Núverandi hús
byggðu þrjú af börnum þeirra 1933 en því hefur verið breytt nokkuð síðan.“ Kálgarðar voru bæði til norðurs og suðurs frá bænum en þeir eru mikið raskaðir. Kálgarður 039 er fyrir sunnan bæinn en kálgarðarnir til norðurs eru horfnir, einungis hluti af kálgarði er þar eftir. Núverandi íbúðarhús er byggt í vesturhluta bæjarhólsins og mikið jarðrask er af þeim sökum. Fyrir austan og
vestan íbúðarhúsið eru haugar með mannvistarleifum sem komu upp við jarðrask.
Gróin, ræktuð tún eru sunnan, vestan og austan við bæinn. Til norðurs er núverandi íbúðarhús og jarðrask. Gamli bærinn er horfinn og ekki sér móta fyrir bæjarhól, íbúðarhúsið er
byggt í vesturhluta hans. Í austurhluta er m.a. búið að grafa niður rotþró með tilheyrandi raski. Það sést glitta í hlaðinn vegg suðaustan við húsið, það er hluti af húsi sem sést á ljósmynd frá
1978. Húsið er ekki sýnt á túnakorti frá 1918, það er innan kálgarðs. Veggurinn er 2 m á breidd, 0,5 m á hæð og grjóthlaðinn. Það mótar fyrir hólfi sem liggur austur-vestur, norðan við
vegginn en eins og fyrr segir er mikið jarðrask til norðurs, m.a. búið að grafa rotþró í austurhluta bæjarhólsins og erfitt að áætla frekar um minjar á bæjarhólnum og umfang hans.

Brekka

Þórkötlustaðahverfi

Bjarmaland og Buðlunga.

Húsið Brekka var á milli Bjarmalands og Buðlungu. „Það hús byggðu Kristinn Jónsson og Guðríður Pétursdóttur. Þau fluttu húsið í Járngerðarstaðahverfi árið 1949. Það er nú Arnarhraun
4,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Íbúðarhúsið var byggt eftir 1920 og telst því ekki til fornleifa í skilningi laganna en staðsetning þess var þó skráð og höfð með á fornleifalista samkvæmt ráðleggingum frá Minjastofnun Íslands um skráningu á minjum innan verndarsvæðis byggð. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundsyni (1891-1991 á myndbandsupptöku sem er varðveitt á ÍSMUS) stóð Brekka nálægt vegi að Buðlungu, austan hans og aðeins norðar en að vera til móts við norðurenda fjárhúsa frá Bjarmalandi sem enn standa. Húsið var staðsett með aðstoð frá Lofti Jónssyni. Þar sem húsið stóð er nú malarplan þar sem geymdar eru heyrúllur. Engin ummerki sést um húsgrunninn. Sjálft húsið er nú Arnarhraun 4.

Kron (verslunarstaður)

Þórkötlustaðir

Katla.

Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Austan við túnið í Teigi, rétt norðan við beygjuna á veginum, var hús þar sem Kron (Kaupfélag Reykjavíkur og nágr.) hafði verslun í nokkur ár.
Síðast var verslunin opin þar í árslok 1949. Afgreiðslumaður var Árni Helgason. Hann afgreiddi líka í verslun Kron í Múla. […] Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þartil Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla.“ Verslunin Kron er horfin en húsið sést á loftmynd sem tekið er um 1978. Hún var um 160 m norðan við Hraðfrystihúsið en skammt norðvestan við veginn sem liggur frá veginum að Þórkötlustöðum og að gamla þjóðveginum sem enn er notaður. Þarna er nú sléttur melur og gróið svæði þar sem húsið var.

Valhöll

Þórkötlustaðir

Valhöll. Helgi Andersen stendur á brunninum framan við húsið.

„Valhöll: Feðgarnir Pétur Helgason og Þórarin Pétursson byggðu húsið Valhöll 1932. Það var rifið 2010,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Húsið var byggt árið 1932 og telst því ekki til fornleifa í laganna skilningi en staðsetning höfð með á lista yfir fornleifar í Þórkötlustaðahverfi vegna verndarsvæðisskráningar 2017 að ráðleggingu Minjastofnunar Íslands.
Valhöll stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt ofan við Þórkötlustaðaveg en vestan við malarplanið sem er sunnan Einlands 014:001 og vestan íbúðarhússins í Bjarmalandi. Engin ummerki sjást um húsið sem var rifið 2010 en steinstöpull hefur verið settur sunnarlega á svæðið. Af eldri loftmynd af svæðinu má sjá að húsið hefur verið 9 x 8,5 m að grunnfleti en sambyggt því að vestan var hús eða inngangsskúr sem var um 5,5 x 5,5 m stórt. Lóðin var um 28 x 26 m stór og var að hluta mörkuð af með steinsteyptum vegg. Af ljósmynd að dæma var húsið kassalaga og tvær hæðir með flötu þaki. Gengið var inn í húsið að sunnanverðu inn í viðbyggingu, á 2. hæð. Á neðri hæð/kjallara voru fjórir gluggar á suðurhlið en tveir stærri gluggar á 2. hæð. Húsið var afhent slökkviliðinu til æfingar og rifið í kjölfarið.

Pöntunarfélag
„Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þar til Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla. Sumarbústaður í Siglu [á Vondavelli] var fluttur þangað árið 2009,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Pöntunarfélagshúsið var áður innan við 20 m norðaustan við gamla Hraðfrystihúsið, fast neðan við Þórkötlustaðaveg og ofan við gamalt fjárhús sem enn stendur. Þar er grasflöt í órækt en ekki eru greinileg merki um húsið.

Laufás

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

„Laufás: Skammt sunnan við Sólbakka, við grjótgarð umhverfis kartöflugarðana frá Þórkötlustöðum stóð húsið Laufás,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Laufás var vestan við vesturhlið kálgarðs við Vestari Vesturbæ Þórkötlustaða. Samkvæmt túnakorti frá 1918 voru tvö útihús sambyggð vesturhlið kálgarðsins að vestanverðu og það þriðja sem stóð nyrst, var stakstætt. Líklega hefur Laufás verið byggt á svipuðum slóðum og það hús eða mögulega á leifum þess.
Engin ummerki sjást um íbúðarhúsið en þar sem það stóð er malarvegur til suðurs, í átt að sjó, vestan við vestanverðan kálgarðsvegg. Skemma eða geymsla úr timbri og bárujárni er rétt sunnan við þar sem Laufás hefur staðið.
Á þessum stað byggði Einar Guðmundsson fyrst verbúð sem var síðar breytt í íbúðarhús samkvæmt Árna Guðmundssyni og Jóni Daníelssyni (á myndbandsupptöku frá 1986) þá segja þeir að langt sé orðið síðan húsið hafi verið rifið. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu tvö hús á þessum stað, mögulega sambyggð. Það austara var skemma og oftast nefnt „Rauða húsið“ en sjálft íbúðarhúsið var vestar. Laufás stóð þegar Loftur (f. 1938) man fyrst eftir sér en hann man þó ekki vel eftir útliti þess.

Klöpp (eldra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klappartúnið. Klöpp og Buðlunga t.h.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Steinsteypt tvíbýlishús Teigur/Klöpp var byggt um og upp úr 1930 um 600 m norðvestar í hverfinu. Ekki er
nákvæmlega vitað hvar elsta bæjarstæði Klappar var en það er líklega horfið í sjó. Líklegast er að það hafi verið beint suður af því bæjarstæði sem byggt var þegar það var flutt um aldamótin 1800, sjá 002. Staðsetning er því aðeins gróflega ágiskuð. Bærinn er án efa horfinn í sjó.
Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast
var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp [sjá 013:004],“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda og ábúanda.

Klöpp

Buðlunga og Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Að sögn Árna var um að ræða eldhús, baðstofu austar, ískofa norðar, hlöðu sunnar, auk skemmu vestar.

Þórkötlustaðir

Buðlunga og Klöpp.

Norðurveggur er talsvert hruninn inn. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) bjó hann fyrstu árin í Gömlu-Klöpp. Traðk eftir skepnur er sérstaklega áberandi í suðurhlið tóftarinnar. Fast sunnan við austurhluta tóftarinnar er raskað svæði. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin á þessum stað, beint fyrir utan baðstofugluggann. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Tóftir Klappar og Buðlungu.

„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið.

Klöpp

Gamla-Klöpp við Þórkötlustaði.

Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Teigur (eldri)

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson í tóftum gamla Teigs.

„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.

Klöpp

Klapparbærinn vestan Buðlungu.

Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus. Húsið og aðrar minjar utan við túnblett Klappar/Buðlungu eru skráðar undir jarðanúmeri Þórkötlustaða, en rétt að ítreka að svæðið hefur tilheyrt hjáleigunum, a.m.k. frá því í upphafi 20. aldar.
Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35 x 12 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði 011:164 en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5 x 5 m að stærð og snýr norðursuður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást. Um 22 m austar, við austurenda hólsins er hnúta sem hér fær númerið 154_02. Um greinilegan hól er að ræða og er dæld inn í hann að austan en ekki er hægt að tala um eiginlega tóft. Hóllinn er 6 x 6 m að stærð. Umhverfis er grasi gróið og fremur sléttlent en svæðið er nú nýtt sem beitihólf fyrir hross. Sjórinn hefur kastað töluverðu af grjóti inn á svæðið allra syðst.

Vestur-Buðlunga

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vestur-Buðlunga var líklega stutt vestan við Buðlungu 012:001 en austan við Vegamót 156. Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það var rifið/tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar. Á þeim stað er malarplan sunnan við skemmu og fjárhús og þar sunnan við tekur við túnskiki niður að sjó. Ekki sjást skýr merki um hússtæði á þessum slóðum. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Vegamót

Klöpp

Tóftir Klappar og vesturbæjar Buðlungu.

„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Loftur merkir húsið hins vegar ekki inn á uppdrátt af svæðinu sem hann teiknar og fylgir með húsakönnun. Húsið er hins vegar merkt inn á húsa og minjauppdrátt Ferlis/Ómars Smára af Þórkötluhverfi og samkvæmt því var um 30 m sunnan við austurhluta íbúðarhússins í Buðlungu og 10-15 m vestan við skemmu/fjárhús sem stendur á bænum (2017). Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það er tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar.
Húsið hefur samkvæmt tiltækum upplýsingum staðið þar sem nú er sléttað tún sunnan við Buðlungu og líklega náð inn á malarplan sem eru vestan við skemmu og fjárhús.
Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) sem fram koma í myndbandi sem aðgengilegt er á Ísmus var húsið alveg þokkalega stórt. Engin ummerki sjást um húsið nú. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Þórkötlustaðagata (leið)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðagata.

Þórkötlustaðagötur lágu milli Þórkötlustaða og Hrauns og sjást talsverð merki þeirra ennþá innan túns og utan. Göturnar liggja frá Hrauni til vesturs um Slokahraun en voru aðeins skoðaðar innan verndarsvæðis, í túni Þórkötlustaða 2017. Á þeim kafla er gatan merkt inn á túnakort frá 1918, frá túnjaðri og að bæjarhlaðinu á Þórkötlustöðum (nær að Austari Austurbænum 138. Á þessu svæði er gatan merkjanleg allra austast, skammt norðvestan við Hraunkot, nálægt túnjaðri en fjarar út í túnið eftir því sem vestar dregur í túnið. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar af Þórkötlustaðahverfi. Sléttuð tún eru allt í kring.
Allra efst við túnjaðar Þórkötlustaða er dældin um 1 m á breidd og 0,4 m á dýpt. en verður breiðari og greinilegri eftir því sem ofar (suðvestar) dregur. Gatan er mjög skýr á um 100 m kafla en verður þá óljós og er að mestu sléttuð í túnið þar ofan við þótt óljós merki hennar sem rák í túnið megi rekja á um 50 m kafla til viðbótar.

Hraunkotsgata (leið)

Hraunkotsgata

Hraunkotsgata.

Tóftir Hraunkots 051 eru austast í túninu, um 300 m austnorðaustur af Miðbæ Þórkötlustaða, við túngarð. Gatan milli Hrauns og Hraunkots lá í vestur í gegnum hraunið frá Hrauni og með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir götunni í hrauninu austan Hraunkots en best í landi Hrauns. Hins vegar er hún horfin í túninu vestan kotsins og sést því ekki innan þess svæði sem var skráð 2017 í tengslum við verndarsvæði. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar.
Hraunkot er í túnjaðri Þórkötlustaða en austar tekur við Slokahraun. Ekki eru greinileg merki um götuna innan túns við Hraunkot en op eða hlið er á túngarði 030 tæplega 40 m norðan við bæ þar sem gatan hefur legið í gegn. Fast norðaustan við túngarðinn má sjá dæld í framhaldi af hliðinu en gatan tekur á sig en hún verður fljótt mjög skýr í hrauninu og liggur í gegnum það til norðurs að Hrauni. Hún var ekki skráð utan túns þegar fornleifaskráning var gerð vegna verndarsvæðis 2017.

Skarð

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Tvöfalt útihús var vestast í suðurjaðri túnsins, samkvæmt túnakorti frá 1918. Húsið var um 90 m VSV við bæ (Miðbæ). Á svipuðum slóðum var byggt íbúðarhúsið Skarð um 1922. Um Skarð segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar: „Skarð: Skammt vestan við Sólbakka var húsið Skarð. Það byggðu hjónin Magnús Guðmundsson og Sigríður Daníelsdóttir ca. árið 1922 og það var síðan rifið árið 1935 og Magnús byggði Sólvelli (Sunnubraut 8). Það voru afi og amma Más seðlabankastjóra og Magnúsar Tuma jarðeðlisfræðings. Húsið var um 40 m af íbúðarhúsinu Sólbakka í suðvesturhorni sléttaðs túns en þar er nú niðurgröftur og leifar torfkofa og var Skarð þar fast norðan við. Fast sunnan við er stórgrýttur sjávarkampur. Ofan við er sléttuð grasflöt sem tilheyrði líklega Sólbakka.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Af ljósmynd sem tekin er af Þórkötlustaðaþyrpingunni eftir 1902 en fyrir 1927 má sjá dökkleitt hús á þessum slóðum sem Loftur Jónsson heimildamaður telur líklegast að sé Skarð en samkvæmt því væri myndin tekin á árabilinu 1922-1927). Af ljósmyndinni að dæma var húsið lítið, dökkleitt timburhús með mænisþaki. Húsið virðist hafa snúið nálega austur-vestur,
mögulega með skúrbyggingu að austan. Tveir gluggar hafa verið á suðurhlið en annars er lítið hægt að segja um útlit hússins af ljósmyndinni. Skarð er rétt á mörkum þess að teljast til fornleifa en fær engu að síður að vera með á fornleifaskrá. Loftur Jónsson tekur að húsið hafi verið á svipuðum slóðum og útihús fast norðaustar. Er innan lóðamarka lóðarmarka Sólbakka, en neðan við tekur við fjörukambur. Á þessum stað eru tóftir húss, líklega þess húss sem síðast stóð á þessum stað sem hefur þá verið útihús. Kofinn er niðurgrafinn og stendur undir þaki. Hann er 6 x 3 m stór og snýr austur-vestur en dyr eru á vesturgafli. Aðeins þaktoppurinn rís upp úr lóðinni í um 0,5 m hæð en kofinn er mest um 2 m hár, en hleðslur í norður- og suðurvegg eru um 1 m háar. Þær eru úr torfi og grjóti auk þess sem eitthvað er steypt í þær. Laupurinn er úr timbri. Bæði í kampsbrúninni sunnan við kofann og norðvestan við hann eru lágar garðhleðslur sem loka af um 6 x 4 m stóru hólfi vestan við hann. Fyrir framan gaflinn er L-laga dæld og er hlaðið í barðið að hluta. Vestan og sunnan við er sjávarbakki og er þar bratt niður af svæðinu. Dældin er á kafi í sinu og drasli. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Ferlirs voru tóftir „skammt vestan við Sólbakka nýlegar fjárhústóftir frá Hofi“ og er líklega átt við umræddar tóftir.

Buðlúnga (eldra bæjarstæði)

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftiri kili bátanna á klöppinni.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft 002 og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram
af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Þórkötlustaðir1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu.
Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er útihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Buðlungu. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður.

Klöpp

Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.

Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Verður hólfunum gefin númer til samræmis við þetta og svæðinu lýst til á sambærilegan hátt. Sá hluti tóftar sem gera má ráð fyrir að tilheyrt hafi Buðlungu er sá hluti sem verst er farinn. Hluti þess hefur greinilega lent undir skemmu og má áætla að hann hafi náð lengra til vesturs áður. Þessi hluti er samtals um 21,5 x 7-9 m að stærð og snýr norður-suður. Allra syðsti hlutinn markar af norðurhlið til móts við hlið á túngarði Klappar. Allra syðst er lítil hólf sem nú er alveg samanhrunið og ógreinilegt. Inngangur inn í hóflið er stæðilegur og grjóthlaðinn um 0,8 m á breidd og allt að 1 m inn í tóftina en er þá kominn á kaf í torfhrun þannig að ekki er hægt að áætla stærð hólfs. Í þeim vegg sem gengur til vesturs frá opinu er steyptur stampur inn í grjóthleðslunni, þ.e. eins konar upphlaðinn varða, um 1,2 m á hæð sem er samanlímd með steinlími og sker sig úr grjóthleðslunni umhverfis þótt hún sé hlaðinn inn í vegginn. Þar er opið vel greinilegt og liggja stutt göng, sem enn eru undir þaki inn í hólfið. Göngin eru um 1,7 m löng.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

England (Einland)

Þórkötlustaðir

Árni Guðmundsson við Einland.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
1840: „Einland, rétt fyrir norðan austasta heimabæinn,“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu. Húsið Einland stendur enn (2017) og nánar er gerð grein fyrir því í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir að húsið sé byggt 1900 en árið 1896 hafi annað hús verið á sama stað. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) af myndbandi sem tekið var af honum í Þórkötlustaðahverfi 1986 var Einlandshúsið flutt til Þórkötlustaða frá Járngerðarstöðum þar sem Árni taldi það hafa verið byggt fyrir aldamótin 1900. Á Járngerðarstöðum bjó Eiríkur Ketilsson í því (ættaður frá Kotvogi í Höfnum) og Jóhann Einarsdóttir. Árni hafði heyrt að það hefði verið flutt í einu lagi. Loftur Jónsson heimildamaður segist hins vegar hafa heyrt að Einland sé byggt úr timbri sem kom úr timburfarmi skipinu Jamestown sem strandaði við Hvalsnes við Hafnir 1881. Menn víðsvegar af Suðurnesjum keyptu mikið af timbri úr skipinu og notuðu til húsbygginga og Elías Guðmundsson hafði heyrt þá sögu sem strákur að afi hans, Jón Þórarinsson útvegsbóndi í Einlandi hefði keypt húsið í Höfnum, rifið það og flutt til Grindavíkur.
Norðan íbúðarhússins eru tóftir bæjarins en öll þessi mannvirki eru sýnd á túnakorti frá 1918. Einland er norðvestan við Bjarmaland og stutt er á milli húsanna. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Jón Þórarinsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.44. Tún og matjurtargarðar sértakt en hagabeit og heiðaland óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingum. Matjurtagarðar 400 faðm. gefa 20 tn í meðalári, 2 safnþrær, allt í góðu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefur af sér 60 hesta, hefur verið grætt út stórkostlega og má græða meira. Útengi ekkert, útbeit er fjallendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Buðlungu í uppsátursréttar er í sambandi við aðrar jarðir. Ágangur á yrkta lóð enginn.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða og erfitt að greina uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði, það eru mannvirki á öllum hólnum að því virðist. Fast norðan við timburhúsið (byggt 1900) eru
tóftir, fullar af bárujárns- og timburbraki. Bærinn, og um leið bæjarhóllinn, er 21 x 14 m að stærð og snýr norður-suður. Á hólnum er timburhús sem áður er minnst á og tóftir útihúsa fast norðan þess. Árið 1986 þegar viðtal var tekið við Árna Guðmundsson (1891-1991) greindi hann frá því að ekki hefði verið búið í húsinu um nokkurra ára skeið.

Lambhúskot

Þórkötllustaðir

Lambhúskot.

1847: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JJ, 84, en ekki getið 1840 – Landnám Ingólfs III, 139.
Í Fasteignaskrá 1916-1918 segir: Þurrabúð liggjandi undir býli [Vesturbær Þórkötlustaða sem síðar var upp talinn, líklega vestari vesturbær]. Ábúandi Bjarni Bjarnason. Eftirgjald 6 kr, greitt til landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – vindmyllustandur við Eyvindarstaði.

Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Þar var þurrabúð og hét með réttu Lambhúskot. Bærinn snéri líklega stöfnum til austurs og þar eru sýnd a.m.k tvö hús og kálgarðar til norðurs og suðurs.
Bæjarhóllinn er varðveittur ásamt tóft ofan á honum. Nýtt hús, byggt eftir 2002 er fast vestan við bæjarhólinn en raskaði honum ekki. Ekki er vitað hvort að mannvistarleifar hafi komið upp við byggingu þess. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Þórkötlustaðavegur 9: Það hús byggðu Ásmundur Jónsson og Kolbrún Guðmundsdóttir árið 2008 en eldri bærinn, hinn upprunalegi var „í túninu rétt austan við þar sem Ásmundur Jónsson byggði sitt hús.“ Þar segir einnig: „Lambhúskot. Það hús stóð austan við þar sem Þórkötlustaðavegur 9 stendur nú. Hjón sem bjuggu þar síðast voru Helgi og Guðfinna, sem byggðu Stafholt.“ Á myndbandi sem tekið var í Þórkötlustaðahverfi 1986 og þeir Árni Guðmundsson og Jón Daníelsson ræða saman kemur fram að torfbærinn í Lambhúskoti stóð í minni þeirra beggja en þeir voru fæddir 1891 (Árni) og 1904 (Jón). Í sléttuðu túni.
Bæjarhóllinn er um 30×15 m að stærð, 0,4 m á hæð og sker sig úr umhverfinu vegna lits og lögunar þúfna. Hann snýr norður-suður og bærinn snéri stöfnum til vesturs. Um er að ræða þústir en ekki greinilegar tóftir nema á einum stað nokkurn veginn fyrir miðju svæðinu. Tóft er á miðju hans, lág eða veggjarbrot liggur til austurs frá henni. Mögulega var þarna komið að bænum eða voru traðir.

Hverfið
Þórkötlustaðahverfi
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar.18 Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum.19 Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880.23 Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – Miðhús 2020.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Þrátt fyrir aukna atvinnumöguleika með tilkomu hraðfrystihússins fór fólki að fækka í Þórkötlustaðahverfi upp úr miðri 20. öld og varð vöxtur bæjarfélagsins einkum í Járngerðarstaðahverfinu enda var sú jörðin meira miðsvæðis í sveitarfélaginu og hafnaraðstaða þar betri.

Sjá myndband – viðtal við Árna Guðmundsson.

Heimild:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2018.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Kaldársel

Sesselja Guðmundsdóttir tók í janúar 2002 saman upplýsingar um sel, sem getið er um í Jarðabókinni 1703 á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs Arnarssonar. Þau eru eftirfarandi:

Gullbringu-og Kjósarsýsla / Árnessýsla – Nefnd sel og eða selstöður:

Grindavíkurhreppur

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

1. Krisevik:
“Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjálegumenn og bóndi.“ Skógur í landinu.
2. Isólfs Skále:
Ekki nefnd selstaða en eiga skóg í Suðurnesja almenningum.
3. Hraun:
“Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ (Sel í Þrenglsum).

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

4. Þorkötlu stader:
“Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en mikillega lángt og erfitt til að sækja.“
5. Hóp:
“Selstöðu þarf út að kaupa.“ (Sel undir Selhálsi).
6. Jarngerdar stader:
“Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

7. Husa Tofter:
„Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“
8. Stadur:
„Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnu brúkuð verið 1xxx ár á Selsvöllum.“

Hafnahreppur
9. Gálmatjörn:
“Selstöðu hefur jörðin átt sem nú er að mestu eyðilögð fyrir sandi, og verður því valla eður ekki brúkuð, og er augljóst að snart muni hún að öngvu liði verða.“
10. Merke Nes:
“Selstaða mjög haglítil og vatnslaus, so þíða verður snjó fyrir peníng, um sumur, þegar hann bregst, er ekki vært í selinu.“
11. Kyrkiu Vogur:
“Selstaða ei allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar.“

Hafnasel

Hafnasel – uppdráttur ÓSÁ.

12. Gamle Kyrkiu Vogur:
“Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sje þaðan fluttur, þángað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sje í Stafness landi.“
Gamle Kirkiuvogur: “ …. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er bygður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. . .“
13. Stafnes:
Ekkert minnt á selstöðu.
14. Basendar:
Kaupstaður. Nefndar eru 12 hjáleigur í landinu, í eyði fyrir 1-40 árum, landbrot og uppblástur.

15. Hualsnes:
“Selstöður tvær er sagt að kirkjan eigi, og eru nú báðar þær næsta því ónýtar fyrir grasleysi, og önnur aldeilis vatnslaus, so er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur.“

Hvalsnessel

Sigurður Eiríksson við Hvalsnessel.

16. Maasbuder:
“Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans . . .“
17. Melaberg:
“Eyðijörð, hefur legið í auðn yfir hundrað ár.“

Vatnsleysustrandar hreppur

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

18. Innre Niardvik:
“Selstaða mjög haglítil.“
19. Storu Vogar:
“Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“
20. Minne Vogar:
“Selstöðu brúkar jörðin frí hina sömu sem Stóru Vogar.“
21. Brunnastader:
“Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.'“

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

22. Hlodunes:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðuneskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu.“
23. Stóru Aslaksstader:
“Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
24. Minne Aslakstader:
Sama selstaða.
25. Litla Knararnes:
Sama selstaða.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

26. Stóra Knararnes:
“Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.“
27. Breida Gierde:
Sama selstaða.
28. Audnar:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft.“

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

29. Þorustader:
“Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ (tel að þarna sé átt við Sogasel. S.G.)
30. Kalfatiörn:
“Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði (svo hdr), þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja.“

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

31. Backe:
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi.“
32. Fleckuvík:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“
33. Minne Vatnsleisa:
“Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“
34. Stóra Vatnsleisa:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“
35. Huassahraun:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina.“

Álftanesshreppur

Lónakotssel

Lónakotssel.

36. Lónakot.
„Seltöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti.“
37. Ottarstader.
„Selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn hafa við Óttarstaði.“
38. Straumur.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga.“
39. Þorbiarnarstader.
“Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, þar eru hagar góðir, en vatn slæmt.“

Gjásel

Gjásel.

40. Lambhæge.
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt.“
41. Ás.
“Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.“
42. Ofridarstader.
„Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður í Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss haf skipstöðu eignast í Ófriðastaðarlandi sem áður greinir.“
43. Hamarskot.
“Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

44. Setberg.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólarhiti bræðir.“
45. Gardar.
“Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“
46. Sandhus.
„Selstöðu á jörðin og hefur brúkað átölulaust þar sem heita Norðurhellrar.“
47. Hlid.
„Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.“
48. Mölshus.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
49. Brecka.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðruhellrar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

50. Sualbarde.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
51. Suidhollt.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað í Norðurhellrum.“
52. Deild.
„Selstaða hefur brúkuð verið til forna í Norðurhellrum.“
53. Selskard.
„Selstöðu má jörðin brúka í staðarins landi.“

Seltjarnarnesshreppur
54. Lambastader.
„Selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
55. Nes.
“Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið.“

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

56. Erfersey.
“Selstöðu á jörðin undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel.“
57. Reikiavík.
“Selstaða er jörðunni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“

Selvogur
58. Snióthús.
“Selstöðu brúkar jörðin í óskiftum úthögum, sem hún hefur saman við Nesmenn haft og brúkað ómótmælt so lángt menn minnast.“ . . . „Vötn engin nema sjóstemma, og er það flutt á hestum til seljanna á sumardag, en kvikfje rekið meir en fjórðúng þingmannaleiðar til vatns.“ (37,5 km/4 = 9,4 km, aths. S.G.).

Nessel

Nessel.

59. Nes.
“Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“
60. Biarnastader.
“Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“
61. Gata.
“Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“
62. Þorkelsgerde.
“Selstaða vatnslaus ut supra.“

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

63. Eima.
“Selstöðu brúkar jörðin í heiðinni, vatnslausa so sem aðrir.“
64. Windás.
“Selstaða í heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“
65. Straund.
“Selstöðu á jörðin gangvæna í eigin landi, en þó vatnslausa nærri sjer, nema votviðri tilfalli, þó er hjer skemra til vatns en annarstaðar hjer í sveitum frá seljum.“

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

66. Wogshús.
“Selstöðu á jörðin í Hlíðarlandi og færa menn þó vatn til selfólks brúkunar, en kvikfje er vatnað stórbágindalaust í Hlíðarlandi“
67. Stackawijk.
“Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“
68. Herdijsarwijk.
“ Selstöðu eigna menn jörðinni í Krísivíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“

Ölfus

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

69. Breiðabólsstaðarsel.
„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberf, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmá þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli.“

Litlalandssel

Litlalandssel.

70. Litlalandssel.
„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg.“
71. Hlíðarendasel.
„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitarfelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil.“

Framangreindra selja er, sem fyrr segir, getið í Jarðabókinni 1703. FERLIRsfélaga hafa, árið 2024, leitað að og fundið 434 sel og selstöður á Reykjanesskaganum, frá mismunandi tímum. Hafa ber í huga að hér að framan er ekki getið seljanna frá bæjum á Kjalarnesi og í Kjós, sem einnig voru innan landnáms Ingólfs.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám.

Torfbær

Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld – Finnur á Kjörseyri – 1945 – rituð á þriðjungi huta 20. aldar. Þjóðhættir um og eftir miðja 19. öld – Daglegt líf á Suðurlandi.

Húsakynni

Finnur Jónsson

Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924).

1. Dvaldist á Suðurlandi fram yfir tvítugsaldur.
2. Hús voru með líku sniði þar sem ég þekkti til á Suðurlandi um þær mundir. Sneru þau flest frá norðri til suðurs.
3. Baðstofur voru vanalega öðrum megin við bæjardyr. Voru þær annað hvort lágbyggðar (gólfbaðstofur) eða portbyggðar með þiljaðri stofu undir lofti í suðurenda, og á sumum stöðum með þiljuðu herbergi í norðurenda.
4. Þær stofur er þiljaðar voru um 1850, voru flestar þiljaðara með óstrikuðum, plægðum þiljum.
5. Í baðstofunum stóðu rúmin með veggjum, hvert fram af öðru. Í flestum baðstofum var fjalargólf og holt undir rúmum. Á sumum smæri býlum var þó moldargólf.
6. Hvergi sá ég skjáglugga á baðstofum. En á útihúsum sá ég þá og jafnvel í búrum og eldhúsum. Þeir voru vanalega kringlóttir og þaninn líknarbelgur á grind þeirra í glers stað. Ef líknarbelgurinn er hreinn, ber hann nærri eins vel birtu og gler.

Þjóðhættir - Finnur

Þjóðhættir – Finnur Jónsson frá Kjörseyri.

7. Eldhús voru víða beint innar af bæjardyrunum. Voru þau byggð eins og mörg önnur útihús með allt að þriggja álna háum stöfum, er stóð á stoðarsteinum, er svo voru nefndir.
8. Á sumum eldhúsum, þar sem því varð við komið, var gat eða vindauga alla leið úr öskustónni og út úr eldhúsvegg. Var það kallað “gjósta”.
9. Skyrsáir, kaggar, tunnur og önnur hylki stóðu meðfram veggjum á spýtum eða hellusteinum. Dæmi voru til þess, að menn grófu sáina niður í búrgólfin, svo að ekki frysi í þeim.

10. Upp af sumum bæjardyrum stóðu vindhanar. Þeir sáust líka á öðrum húsum. Á mörgum vindhönum var gegnum- eða loftskorið fangamark húsbóndans og ártal.
11. Smiðjur voru á hverju býli sjálfsögð jarðarhús. Þær voru flestar litlar, 4-5 álna breiðar og álíka langar, og reftar upp líkt og portlausar skemmur.
12. Voru það gömul munnmæli, að þær smiðjur, sem í var arnarkló, brynnu ekki.
13. Þar sem heygarðar voru ekki að bæjarbaki, sem almennast var, var hlaðinn garður að baki bæjarhúsunum, svo að skepnur kæmust ekki upp í húsgarðinn, sem kallaður var.

Heygarðar

Heygarður

Torfbær – heygarður á millum.

1. Í heygarðinn var öll taða og úthey látið, nema ef hús voru langt frá bæjum eða túnum. Þá voru dálitlar heytóttir við þau og voru þær kallaðar kuml.

Torfþök
1. Ég heyrði marga segja, að torfþök geti aldrei verið lekalaus. Það hygg ég sé misskilningur, a.m.k. í úrfellameiri héruðum, ef þökin eru nógu brött og vönduð.

Fénaðarhirðing og vorverk
1. Óvíða á Suðurlandi voru hlöður eða heyhús. Í suðurhluta Gullbringusýslu voru víða hús fyrir töðuna, og svo hefur ef til vill verið í sjávarsveitum Árnessýslu.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

2. Um vertíðina, frá því í byrjun febrúar og fram í miðjan maí, var það verk kvenfólks og unglinga að hirða féð, því að karlmenn fóru allir í verið nema efnuðustu bændur og örvasa gamalmenni. Á þeim árum átti kvenfólk á Suðurlandi sannarlega auma ævi allan seinni hluta vetrar og fram á vor.
3. Þegar konur komu frá gegningum á vetrum, settust þær að ullarvinnu og litu ekki upp úr henni, nema meðan þær borðuðu og lesinn var húslestur.
4. Fyrstu vorverkin auk fénaðarhirðingar voru túnaávinnsla og útstunga taðs eða skánar, sem kölluð var.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

5. Stekkir og stekkjartún voru víða nokkuð langt frá bæjum. Stekkirnir voru vanalega byggðir eins og fjárréttir.
6. Þvottur og önnur meðferð ullar, var svipuð því, sem enn er víða. Nokkru áður en ullarþvottur hófst var safnað þvagi í kagga eða annað ílát, sem kallað var hlandstampur. Nýtt hland var talið ónýtt til þvotta.
7. Reiðingar voru almennt úr torfi. Það þótti hlunnindi á hverri jörð, ef þar var góð reiðingsrista, en það var í mýrum, þar sem gulstraungar og horblaðka, einnig kölluð reiðingsgras, uxu.

Klyfberi

Klyfberi.

8. Klyfberar voru úr birki eða rekavið. Klyfberar, hagldir, sylgjur og yfirleitt flest áhöld voru gerð heima í sveitunum, en nú í byrjun 20. aldar er tízka að kaupa margt af því í verslunum.
9. Skeifur voru fjórboraðar, og hestskónaglar voru gildir með stórum og þykkum haus, en allt að því helmingi styttri en hinar erlendu fjaðrir, er nú tíðkast.
10. Um miðja 19. öld gat varla heitið, að járnskóflur þekktust til sveita.
11. Ljósakola var notuð í fjós. Kolurnar loguðu furðu vel, ef lýsið var hreint, og þótti sjálfrunnið sellýsi best. Kolunum var stungið í stoð í fjósununum, meðan stúlkur voru að mjólka.

Skógarvinna

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

1. Vor og haust var á skógarjörðunum mikið starfað að skógarvinnu. Það var kallað “að fara í skóg”. Það gerðu bæði karlar og jafnvel kvenfólk og unglingar.
2. Þegar felldur var skógur eða tekinn upp sem kallað var, voru stofnarnir eða lurkarnir höggnir í sundur við rótina eð vanalegum íslenskum öxum, sem kallaðar voru ýmist skógaraxir, ketaxir eða handaxir.
3. Sumir hjuggu allar rætur og létu þær fylgja stofninum, og þótti það drýgra til kolagerðar.
4. Síðan var afkvistað eða kvistað.
5. Þegar búið var að kvista, var tekið að kurla.
6. Að þessu búnu var farið að svíða kolin.
7. Ekki voru hestar þá notaðir fyrir kerru, plóg, herfi, heyýtur eða sleða, því þau verkfæri þekktust alls ekki, nema sleðar á einstöku stað, en þeir voru dregnir af mönnum.

Réttir

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt ofan Ísólfsskála

1. Réttir voru flestar í 21. viku sumars. Menn slógust í réttunum.

Ullarvinna
1. Að loknum haustverkum settist kvenfólk að ullarvinnu. Karlmenn hjálpuðu einnig við hanna milli þess, er þeir gengdu fénaði.
2. Um dagsetur skyldi gegningum vera lokið, og var kveikt úr því, en oft urðu rökkrin löng.

Mataræði
1. Um túnaslátt vöknuðu menn eða fóru til sláttar um kl. 3 á nóttunni.

Hátíðar

Jól

Jólin.

1. Á Þorláksmessu voru svonefnd “hraun” soðin í hangikjötssoðinu, og höfð til miðdegisverðar ásamt reyktum bjúgum og köku.
2. Sumir suðu harðfisk í hangikjötssoðinu. Var það helst “maltur” fiskur, en svo kallaðist fiskur, sem illa hafði gengið að herða, og hafði komist í hann ýlda áður en hann harðnaði.
3. Á aðfangadaginn var miðdegismatur oft kálfskjöt og fleira kjötkyns ásamt kökubita með smjöri og floti.
4. Þá var hverjum gefið jólakerti.
5. Yngra fólkið spilaði, oftast alkort, sem ungum og gömlum þótti einna tilkomumest spil í þá daga.
6. Á jóladagsmorgun var gefið sætt kaffi með sykruðum lummum. Í morgunmat var hafður þykkur bankabyggsgrautur með samfenginni mjólk eða rjóma út á.
7. Sumardagurinn fyrsti var einn hátíðisdagurinn.

Daglegt líf á Suðurnesjum.

Húsakynni

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

1. Töðuhlöður voru víða við sjóinn og miklu almennari en í sveitum, voru þær kallaðar heyhús. Þá voru þurrkhús og hjallar víða við sjó, en mjög sjaldséð í sveitum. Hins vegar áttu sumir sjávarbændur ekki hús yfir kindur sínar og hross, því að það gekk sjálfala, og var því ætlað lítið fóður eða ekkert.
2. Þrátt fyrir lélega meðferð á fénu á Suðurnesjum, sáust þar laglegar kindur hjá sumum. Fjörubeit var ágæt, og í heiðarlöndunum var kjarngott beitiland, þótt snöggt sé þar og hrjóstugt. Þar var talsvert af beitilyngi.

Þangskurður

Þari

Þari.

1. Að loknum slætti fóru menn að afla sér eldsneytis, en það var aðallega þang.
2. Flestir reyndu að fá sér eitthvert eldsneyti með þanginu, ef þess var nokkur kostur, og var flest tínt, sem brennanlegt var, svo sem torfusneplar, afrakstur af túnum, hrossatöð og kúaklessur. Sumir menn úr Garði, Leiru og Keflavík fóru á skipum sínum inn til Reykjavíkur og keyptu þar mó.

Sjósókn
1. Vetrarvertíð hófst á kyndilmessu, 2. febrúar, og stóð fram til 12. maí. Þá komu útróðramenn víðsvegar að, og fylgdi þeim fjör og tilbreyting, en einnig mikið slark.

Verbúð

Framármaður – málverk Bjarna jónssonar.

2. Þegar lent var, fóru framímenn, sem stundum voru nefndir stafnbúar, út úr skipinu og héldu því á floti meðan menn seiluðu fiskinn út úr skipinu. Hver háseti hafði seilaról.
3. Eins og fyrr segir stóð vetrarvertíð á Suðurlandi frá 2. febrúar til 12. maí, og eru það um 100 dagar að helgidögum meðtöldum.
4. Vanalega fengu lagsmenn einhvern til að hirða umsjófang sitt, útgerðarmenn eða aðra, þegar þeir fóru heim að vorinu. En stundum var annar lagsmaðurinn eftir og reri vorvertíðina.

Hjallur

Dæmigerður fiskhjallur við býli fyrrum.

5. Fiskur var hertur þannig, að fyrst var hann flattur og látinn í smáhrúgur, lagður þannig saman, að roðið sneri út. Þegar þerrir kom, var hann breiddur á steinaraðir og grjótgarða og roðið látið snúa niður. Var honum snúið eftir því sem þörf krafði, ef þurrkur hélst. En á nóttum var roðið ætíð látið snúa upp.
6. Hausum var raðað á slétta möl, steinaröð eða sléttagrund, ef lítið var um þurrkpláss.

-Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld – Finnur á Kjörseyri – 1945 – rituð á þriðjungi huta 20. aldar. Þjóðhættir um og eftir miðja 19. öld.

Torfbær

Torfbær 1924.

Veðursteinn

„Sá sem les sögu Íslands með athygli kemst varla hjá að sjá samhengið milli loftslags og lífskjara.“

„Veðurfar á Íslandi“ – Páll Bergþórsson:

Páll Bergþórsson

Páll Bergþórsson, veðurfræðingur (1923 – 2024).

1. Frá sjónarmiði landbúnaðar er sannmæli, sem oft hefur verið haldið fram, að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims. Það er aðallega kuldinn sem veldur. Þess vegna hafa bæði skammvinn og langvinn verðabrigði haft mikil áhrif á kjör þjóðarinnar og mótað hugsunarhátt hennar og menningu að mörgu leiti.
2. Hafísinn móta loftslag og loftlagsbreytingar meira á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Það stafar af sérstökum aðstæðum hafstrauma.
3. Veðurlagið á hverjum tíma mótast talsvert af hálendinu og fjallgörðunum sem skipta veðrum.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli. Væntanlega kornskáli Ingólfs; með elstu minjum landsins.

4. Margir telja að allt að helmingur landsins hafi verið gróinn á landnámsöld, en helmingur þess gróðurlendis hafi blásið upp. Þó er erfitt að segja að hvað miklu leyti sá uppblástur hefur stafað af loftlagsbreytingum eða ágangi manna og búfjár.
5. Síðustu áramilljónir hafa skipts á hlýskeið og ísaldir og þeirra síðustu mun hafa lokið fyrir um 10.000 árum.
6. Aldirnar frá landnámi og fram undir 1200 ættu að hafa verið mildar, með litlum undantekningum, og líkar því hlýindaskeiði 20. aldar sem nútímamenn þekkja.

Hekla

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta var 1104. Síðan hefur fjallið gosið 1158, 1206, 1222, 1294 (1300), 1341, 1389-1390, 1440, 1510, 1554, 1597, 1636, 1693, 1725, 1766, 1845, 1878, 1913, 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000.

Undir 1200 fer að kólna og svipað loftslag helst allt fram undir 1400. Um fimmtándu öldina eru svo litlar heimildir að þar er eyða. Sextánda öldin er álíka köld og sú 13. og 14. Um 1600 kólnar nokkuð og þótt sú breyting sýnist ekki mikil sýnir reynsla síðari tíma að jafnvel svo lítil loftslagsbreyting getur orðið örlagarík. Eftir það eru mikil harðindi öðru hvoru fram undir 1920.

7. Það er eftirtektarvert að þrátt fyrir allar frásagnir af landnámsöld, einkum í Landnámu, eru varla meinar sagnir af því að hafís hafi orðið til trafala svo líflegar sem siglingar voru þá.
8. Í landnámu er frásögn sem má kalla samantekt á veðurfari tveggja fyrstu aldanna í sögu landsins. Þar segir frá hallæri á tíundu öld, svonefndri óöld í heiðni, og að 80 árum síðar hafi komið annað hallæri.

Skálafell

Gullakur neðan Skálafells.

Þetta bendir til þess að loftslag hafi yfirleitt ekki verið kaldara en menn þekkja frá miðri þessari öld.

9. Örnefni, sagnir og fornleifar eru til vitnis um kornrækt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
10. Beinfundir sýna að meðalhæð íslenskra karla var um 172 sc á miðöldum, en var orðin 169 cm á 18. öld. Þetta er í samræmi við vaxandi fjölda hungurfelliára á þessu tímabili.

Fjallkóngur

„Fjallkóngur“ norðvestan Mávahlíða.

11. Sá sem les sögu Íslands með athygli kemst varla hjá að sjá samhengið milli loftslags og lífskjara.
12. Til forna var talið að eitt kúgildi, eina kú eða sex ær loðnar og lembdar þyrfti til að framfleyta hverjum heimilsmanni ef bóndi átti að teljast þingfarakaupsskyldur.
13. Beint samhengi ætti að vera á milli lofthita og fjölda búpenings í landinu.
14. Þetta vekur þá spurningu hvaða áhrif fækkun búpenings hafi haft á fólksfjölda í landinu.

-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).

Veðursteinn

Veðursteinninn við Sólbakka.