Húshólmi – áburðardreifing

Húshólmi

FERLIR hefur átt ágætt samstarf við Landgræðslu ríkisins um uppgræðslu í Húshólma. Eins og mörgum er kunnugt hafði orðið mikil jarðvegseyðing í hólmanum, sem nú hefur tekist að stöðva. Landhelgisgæslan flaug með fræ og áburð inn á svæðið á síðastliðnu ári (2005) og markmiðið var fara eina umferð um hólmann á því ári og síðan að ljúka dreifingunni nú í sumar (2006).
Húshólmi

Nú var ætlunin að fara lokaferð í Húshólma og klára það sem eftir er. Mæting var undir Mælifelli þar sem haldið var um slóða niður að Húshólmastíg. Allar hjálpendur voru velkomnar.
Þegar afrakstur liðins árs var skoðaður kom í ljós annars vegar mjög góður árangur og hins vegar árangursleysi. Fyrri áburðar- og frædreifingin hafði heppnast vonum framar. Gott gras hafði myndast í rofsvæðum og myndað gott skjól fyrir annan gróður, auk þess sem það bindur raka í jarðveginum. Mófuglar, s.s. lóa og músarrindill, höfðu verpt í nýorðnu skjólinu. Geldingarhnappur, holurt, blóðberg og lambagras, og jafnvel einir, döfnuðu af áburðargjöfinni sem aldrei fyrr. Þarna mun grasið innan skamms tíma mynda sinu, sem aðrar „heimjurtir“ munu nýta sér og svæðið mun smám saman gróa upp. Að ca. fjórum árum liðnum væri ágætt að gefa því svolítinn áburð yfir allt og þá mun heimagróðurinn ná yfirhöndinni.
Seinni áburðar- og frædreifingin hafði hins vegar misheppnast að mestu. Sjá mátti einstaka grasstúfa upp úr, en þeir væru varla tilefni frekari útbreiðslu. Ástæðan mun líklega vera sú að ofanvert svæðið var of seint sáð. Fræin hafa ekki náð að festa sig nægilega vel í sessi og frostlyftingin því átt auðvelt með að rífa þau upp og eyða.

Húshólmi

Orkunni var beint að efra svæðinu að þessu sinni. Áburði var dreift yfir gróið svæðið, auk þess sem fræjum var sáð í gloppur. Ætlunin er að fara aðra ferð í Húshólma innan skamms og þá dreifa fræjum og áburði aftur yfir neðra svæðið.
Engin ástæða er til að óttast að frædreifingin geti haft áhrif á fornar minjar í Húshólma, enda eru þær að mestu leyti vestan og utan við hólmann sjálfan.
Tíminn þessa kvöldstund, að dreifingu lokinni, var notaður til að skoða minjasvæðið í og við Húshólma. Þegar hin heillega skálatóft næst nyrst ofan við Kirkjulág var gaumgæfð kom í ljós ferköntuð vegghleðsla. Þessi hleðsla hefur væntanlega gert það að verkum að hraunið, sem rann 1151, náði ekki skálanum. Það hefur hins vegar náð að eyða nyrsta skálanum, en veggur þessi hefur haldið hlífiskyldi yfir þeirri neðri. Holtagrjótið sést vel í hleðslunni.
Þegar Kirkjuflötin var skoðuð þetta lengsta kvöld (lengsti dagur reyndar) ársins sást gerðið innan garðs mjög vel í kvöldsólinni. Hlaðinn garður, nær jarðlægur, liggur sunnan þess, þvert á bogadreginn langgarð, þó innan megingarðsins, sem er skammt austar og norðar. Hvað þetta gerði hefur haft að geyma er enn hulin ráðgáta. Gerðið hefur að mestu verið gert úr torfi.

Stoðhola

Gat hafði myndast í jörðina nyrst í Húshólma. Eftir að nokkrir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós grunn hraunrás. Hún er í hrauni, sem runnið hefur áður en hraunið 1151 rann. Umhverfis má víða sjá slík göt, niður í grunnar og stuttar rásir.
Í kvöldsólinni mátti sjá tóft norðvestan við hlaðinn stekk nyrst í hólmanum. Ekki er óraunhæft að ætla að þarna kunni að leynast forn seltóft.
Frábært veður; lyngt, hlýtt og bjart í frábæru umhverfi með fuglasöng á báðar hendur. Villtur ameríkani, með myndavél framan á bumbunni, birtist skyndilega í hólmanum undir það síðasta. Í fyrstu var talið það þarna væri álfur á ferð, en þegar hann tjáði sig á útlensku hvarf sú birtingarmynd skyndilega. Maðurinn, greinilega einn af hinum síðustu varnarliðsmönnum af Vellinum, Levisgallabuxnaklæddur og í Nikestrigaskóm, gaut sitthvoru auganu samtímis til austurs og vesturs og spurði án þess að hugsa hvort „puffins“ væri þarna einhvers staðar nálægur. Honum var bæði bent til suðurs og til vinstri. Maðurinn var ánægður með svarið og hvarf að því búnu niður í Hólmasundið. But what a heck – in this time of the year. Og það einn af þeim, sem var að hverfa hvort sem er.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

 

/https://ferlir.is/husholmi-sagan/