Ögmundarhraun – Brúnavörður – stígur – Húshólmi – minjar
Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann.
Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks Jóhannessonar og Sigmunds Einarssonar á þeim síðla hausts 1987. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist m.a. í Jökli nr. 88 árið 1988. Í greininni er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.
Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.
Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.
Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að.
Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.
Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.
Þekktaskta gjóskulagið á þessums lóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.
Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Miðaldaöskulagið er talið geta verið frá 1226/27.
Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.
Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.
Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.