Þorbjarnarstaðir

Gengið var áleiðis inn í Brunntorfur, að Þorbjarnastaðaborginni, stórri fjárborg er börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum hlóðu um aldarmótin 1900.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borgargerð.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ofar, suðaustar, í Brunntorfum er hlaðinn inngangur að tvískiptu fjárskjóli. Þrjú önnur fjárskjól eru í Brunntorfum. Sunnar er Fornasel og Gjásel vestar; hvorutveggja gömul sel frá Þorbjarnarstöðum. Í Önefnalýsingum um Straum er einungis getið um Fornasel og því þá ruglað saman við ónefnt Gjásel.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Gengið var að Fornaseli. Við selstöðuna er fallegt vatnsstæði, stekkur í lægð og tóftir. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í Fornasel fyrir skömmu. Taldi hann minjarnar vera frá því á 14. eða 15. öld. Gjáselið er einnig á hæð líkt og Fornasel. Þar við er einnig vatnsstæði, en það var þurrt að þessu sinni. Norðvestan undir hraunholtinu er stekkur í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Gránuskúti er sunnan selsins. Svæði þetta tilheyrir allt svonefndum Almenningi. Samkvæmt gömlum bókum á það að vera ein fermíla að stærð, en ein dönsk míla er nú 7.5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Náði Almenningur niður að alfaraveginum. Stiftamtmaður heimilaði Hraunabæjunum einum afnot af Almenningi árið 1848, en það segir í raun lítið um eignarréttinn á svæðinu.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var norðvestur eftir Gjáselsstíg þangað til hann sameinast Straumsselsstíg skammt þar frá er sá síðarnefndi beygir inn í hraunið, áleiðis að Straumseli. Þar skammt sunnar eru tvö fjárskjól, Kápuskjól og Kápuhellir.
Þaðan var haldið til norðurs um austanverðar Flár með stefnu á Kolbeinshæð. Í því er fjárskjól, Kolbeinshæðaskjól, hlaðið fyrir slútandi hraunskúta mót austri. Vel gróið er í kringum skjólið og óvíða eru stærri krækibær að finna á Reykjanesinu.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Frá Kolbeinshæðaskjóli eru vörður til norðurs, að Gerðastíg undir vesturkanti Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Þar undir háum kletti eru Efri-hellar (hellrar), fjárskjól undir hraunþaki. Hlaðið er fyrir munnann og einnig skammt austan hans. Skjólið er fremur lágt, enda hefur safnast talsverð mold í gólfið. Nýjahraun er talið hafa runnið um 1151 (um svipað leyti og Ögmundarhraun). Síðar var það nefnt kapelluhraun eftir kapellunni í hrauninu, en hún kemur við sögu eftirleiks dráps Jóns Arasonar, biskups (1550). Kristján Eldjárn gróf í kapelluna ásamt fleirum um 1952 og fann þar marga gripi. Þegar álverið var byggð í upphafi sjöunda áratugs 20. aldar var kapellan eyðilögð, en ný hlaðin í hennar stað á hraunhól við leifar Alfaraleiðarinnar. Vel færi því á því að nefna hraunið aftur Nýjahraun.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Skammt norðvestan Efri-Hella, sem sumir telja að hafi verið nefnda Efri-Hellrar eftir hellunni ofan við fjárskjólið, er Vorréttin (Rauðamelsréttin), heilleg og fallega hlaðin utan í hraunkantinum. Ofan við hana er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Þegar stígnum er fylgt áleiðis að Gerði ofan Fagurgerðis er m.a. komið að Neðri-Hellum (skammt sunnan við stíginn). Þar er einnig fjárskjól í skúta og hlaðið fyrir. Norðan hans er hlaðið ferkantað gerði utan í hraunkantinum. Vestan við Neðri-Hella er talsvert af fornum, nú jarðlægum, minjum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur merkt hluta þeirra. Flestar þeirra eru norðan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel, sem nú hefur verið grafinn í sundur með stórvirkum vinnuvélum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Haldið var áfram og stígnum fylgt í gegnum Selhraunið að Þorbjarnarstaðaréttinni eða -stekknum, norðan undir háum hraunhól. Réttin er enn heilleg og hefur verið fallega hlaðinn. Inni í henni er heilleg lambakróg. Hún ber því merki fyrrum heimastekks sem þróast hefur í fjárrétt. Vestar er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða (eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum). Skammt norðar er bæjarstæðið. Hægra megin við suður frá bænum er há varða á hraunhrygg; Hádegisvarðan.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi.

Straumur

Straumur 1935.

Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt Innnesjamenn.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Mosastígur, Brunnstígur, Jónsbúðarstígur, Lónakotsgata, Réttarstígur og Péturskotsstígur.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaði í kringum árið 1200. Þar er getið um hálfkirkju og grafreit.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.

Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk.

Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Heimildir m.a. af:
http://www.simnet.is/utivera/text/saga.htm

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Við Hvaleyrarvatn, neðan tófta Hvaleyrarsels, er upplýsingaskilti frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Á skiltinu er eftirfarandi texti, auk teikninga:

„Við Hvaleyrarvatn voru selstöður frá bújörðunum Hvaleyri, Ási og Jófríðarstöðum. Hér sjást rústir Hvaleyrarsels en þar var selstaða frá Hvaleyrarbændum allt fram til síðari hluta 19. aldar. Í Hvaleyrarseli höfðu Hvaleyrarbændur jafnan selstúlku og smala. Selstúlkan annaðist mjaltir og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau en smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða.

Hvaleyrarvatn
Tóftir Hvaleyrasels er þrjár, í miðjutóftinni hefur verið aðalhúsið og hinar tvær gætu hafa verið búr og útihús. Austasta tóftin er vel greinileg og hefur sennilega verið notuð sem útihús, inngangur snýr í suður. Aðalrústin er fyrir miðju og eru í henni a.m.k. þrjú hólf og tveir inngangar til austurs, innangengt er frá miðjurými í syðsta rýmið. Vestasta rústin hefur sennilega verið búr, þar er inngangurinn úr vestri. Aðeins vestar er stekkur sem talið er að hafi tilheyrt Hvaleyrarseli.

Seljabúskapur
Hvaleyrarvatn
Á seinni öldum stóð seljabúskapur frá miðjum júní og allt til loka ágúst. Selin voru byggð þar sem hagar voru betri og kjarnmeiri en heimahagarnir. Smali og selráðskona störfuðu í selinu og unnu hörðum höndum við að nytja mjólk ánna og kúnna til osta og smjörgerðar, afurðirnar voru svo fluttar heim til bæjar á nokkra daga fresti. Sérstakur kofi var stundum hafður handa kúnum ef þær voru í selinu en ærnar voru mjaltaðar í kvíum sem rúmaði bæði ærnar og lömb þeirra. Lömbin voru höfð í lambakró frá því seint á kvöldi til morguns en á morgnana var lömbunum aftur hleypt til ánna.

Nykurinn í Hvaleyrarvatni
Hvaleyrarvatn
Sagan segir að í lok selbúskapar í Hvaleyrarseli hafi verið á sjöunda áratug 19. aldar eftir að smali fann seljastúlku Hvaleyrarsels við vatnið rifna á hol eins og eftir óargadýr og hringlaga stór hófaför allt í kring. Nykurinn sem bjó í Hvaleyrarvatni annað hvert ár, og hitt árið í Urriðakotsvatni, var talinn hafa verið að verki. Seljastúlkan var jörðuð í garðakirkjugarði. Eftir þetta mátti oft sjá grábleikan hest á beit í selhrauni en ekki þarf að óttast nykur þennan lengur þar sem hann á að hafa frosið í hel frostaveturinn mikla árið 1918 þegar Hvaleyrarvatn botnfraus.“

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Hvaleyrarsel og Ássel handan vatnsins.

Kolviðarhóll

Í Fréttabréfi Ættfræðingafélagsins 2021 tók Guðfinna Ragnasdóttir m.a. saman eftirfarandi fróðleik um „Kolviðarhól„:

Fréttabréf Ættfræðingafélagsins 2022

Fréttabréf Ættfræðingafélagsins 2022.

„Þegar farið var forðum úr Árnessýslu vestur yfir heiðar, var lengst af um þrjár leiðir að velja. Syðsta leiðin var yfir Grindaskörð, milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Miðleiðin var yfir Ólafsskarð, sem lá austan Geitafells í Þrengslum, en lang algengast var að fara yfir Hellisheiðina. Sú leið er um 35 km og var talin tæp þingmannaleið. Þar má enn sjá götur sem járnslegnir hesthófarnir hafa markað í hraunið, sumar svo djúpar að þær ná manni í ökla, eða allt að 20 sm. Enginn veit hvenær fyrst voru hlaðnar vörður yfir Hellisheiðina, en þeirra er fyrr getið 1703. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af þessari gömlu leið er enn varðaður. Oftast voru 60-80 faðmar á milli varðanna, eða 115-150 m.

Margir kunna vísuna um vörðurnar og hlutverk þeirra:

Kerling ein á kletti sat
kletta byggði stræti.
Veginn öllum vísað gat
var þó kyrr í sæti.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Á Hellisheiðinni mun ekki hafa verið neitt húsaskjól að finna fyrr en 1830, þegar Þórður bóndi á Tannastöðum í Ölfusi hlóð byrgi eða kofa uppi á heiðinni, sem enn stendur, og við þekkjum sem Hellkofann. Hann er mikil listasmíð og enn í besta ástandi. Hann er eins og nafnið gefur til kynna alfarið byggður úr hraunhellum og er þakið einnig stór hraunhella. hann er tæpir tveir m á hvorn veg og tveir m til lofts. Þar geta 4-5 menn sofið. Hann mun hafa verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“. Hún var ævafornt mannvirki, um sex fet á hæð, krosshlaðin, þannig að menn og hestar gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Biskupsvarðan stóð fram á 19. öld, en ehnni var ekki haldið við, og var svo notuð til þess að byggja Hellukofann. hann var friðaður 1. jan. 1990.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann, í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:

„Á norðanverðum Hvannavöllum, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Þetta hús stóð í nánd við Húsmúla og gæti það örnefni bent til þess að þar hafi hús staðið allt frá fyrtu öldum byggðar og verið ævafornt ferðamannaskýli. Þetta sæluhús var um einn og hálfan km norðvestan við Kolviðarhól.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á þetta sæluhús, átt í öld síðar, árið 1873, og segir að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.

Grjótbálkur og gluggabora

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Jón Vídalín lýsir smæð manna í skammdegismyrkri og hríðarkófi vel í vísu sinni:

Fyrir þreyttum ferðasegg
fölskvast ljósin brúna,
ráði guð fyrir odd og egg,
ekki rata ég núna.

Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Frægar eru lýsingar Nesjavalla-Gríms Þorleifssonar sem hitti þar mann sem tók ofan hausinn fyrir honum og hvarf svo!

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum á Mosfellsheiði 1896 – Daniel Bruun. Sæluhúsið við Húsmúla var frá svipuðum tíma.

Þótt Draugatjarnarkofinn væri ísköld og ömurleg vistarvera, var hann þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2.5 m og breiddin 1.5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar, á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla. þarna fundust merkar minjar við fornleifagröft 1958, m.a. járn af reku, til að moka snjó, járnfleygur, til að gera vök á tjarnarísinn. flatsteinn til að kveikja á eldspýtu og blátt bóluglas undir brjóstbirtu. Allir þessir munir eru varðveittir á Byggðasafni Árnesinga.

Húsið á Hólnum

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhúsið 1844.

Þar kom að mönnum þótti litli kofinn undir Húshólmanum ófullnægjandi og hafist var handa um söfnun fyrir nýju húsi. Það var svo árið 1844 að reist var sæluhús á hólnum undir Hellisskarði, en svo nefnist skarðið ofan af heiðinni vestanverðri við Kolviðarhól. Þar var þá engin búseta eða eftirlitsmaður. Kolviðarhóll þótti ákjósanlegur staður, en þó var vatnsskortur þar viðloðandi lengi. Hóllinn er heitinn eftir Kolviði sem bjó á Elliðavatni, en var drepinn við Kolviðarhól af Búa Andríðarsyni, eins og segir í Kjalnesingasögu. Til gamans má geta þess að Ólafur Árnason, einn gestgjafanna á Hólnum löngu síðar, skírði son sinn Búa Kolvið.

Kolviðarhóll.Nýja sæluhúsið var timburhús sem stóð á álnardúpri grjóttótt með hellugrjóti á gólfi. Í húsinu gátu gist 24 menn á loftinu og 16 hestar lausar niðri. Þetta þótti gríðarleg framkvæmd og húsið var svo griðastaður ferðalanga yfir Svínahraun og Hellisheiði á fjórða áratug, en um 1855 var það rifið.

Um 1878 var vegur lagður yfir Svínahraun og um Hellisheiðina og kambana um 1880. Þar var mikil samgöngubót, þótt vegurinn yfir hraunið þætti lengi grýttur og hrjúfur.

Söfnun og draumar
KolviðarhóllUm 1870 var sæluhúsið orðið mjög lélegt og hafist var handa um að safna fé til byggingar nýs húss. Þá var það enginn annar en Sigurður Guðmundsson málari sem var hvatamaður að söfnun fyrir nýju húsi. Hann sá fyrir sér veitingahús sem gæti fullnægt flestum þörfum ferðamanna. Hreyfði hann því á fundi í Kveldfélaginu 1871 og lagði þar fram teikningar af húsi. Á miðju þakinu átti að vera turn með gluggum og í gluggunum átti að loga ljós. Blása átti í lúðra þriðja hvern tíma til þess að vísa mönnum veginn og hundar áttu að vera til taks við leit að mönnum. Aldrei sá hann þann draum sinn rætast, því hann lést 1874, þrem árum áður en nýtt hús reis á Kolviðarhóli.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leiðin.

Bændur austanfjalls, sem mest mæddi á, gáfu flestir eina krónu og stórbændur tíu krónur. Söfnunin gekk þó hægt. Að lokum fengust þó eitt þúsund krónur úr Landsjóði og árið 1877 reis nýtt sæluhús á Hólnum og sértakur sæluhúsvörður var ráðinn.

Klukkan góða

Kolviðarhóll

Á Kolviðarhóli var fyrst reist sæluhús 1844. Sigurður Guðmundsson málari var hvatamaður að söfnun fyrir nýju húsi á Kolviðarhóli 1870. Þar vildi hann hafa ljós í gluggum, lúðra sem blésu og hunda sem leituðu manna. Þótt draumur Sigurðar málra um lúðrana rættust ekki, þá var í nýja sæluhúsinu þessi koparklukka, sem hring var í dimmviðrum, vegfarendum til leiðbeiningar heim á Hólinn. Varð hún mörgum til bjargar. Hún hringdi frá 1885 allt til ársins 1907, var geymd á Hólnum, týndist svo í 30 ár. 1927-1957, fannst þá af tilviljun og er geymd á Byggðasafni Árnesinga á Eyrabakka.

Þótt draumur Sigurðar málara um lúðrana rættust ekki þá var í þessu sæluhúsi klukka sem hringt var í vondum veðrum til þess að vísa mönnum á húsið. varð hún mörgum til bjargar. Hún hringdi allt fram til ársins 1907, var þá geymd á Hólnum, týndist svo í 30 ár, 1927-1957, og fannst þá af tilviljun og er nú geymd á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka.

Lengst af voru flestir sem komu yfir heiðina gangandi eða ríðandi, margir með lausa hesta eða taglhnýtta í lest, oftast með bagga. Þannig gekk það uns hestvagnatómabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp og niður Hellisskarðið, ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur.

Koparklukkan; barmavídd 24.0 cm og hæð 24.0 cm, þyngd 7.8 kg. Hún var notuð í gamla sæluhúsinu á Kolviðarhóli og hringt í dimmviðrum, vegfarendum til leiðbeiningar heim á Hólinn. Hún var sett þar upp 1885 og tekin niður mörgum áratugum seinna, en þó lengi geymd á Hólnum, uns hún hvarf þaðan og enginn vissi um hana. Skúli Helgason hélt uppi spurnum um hana um skeið og til ellefu manna var leitað upplýsinga, uns hún kom loksins fram hjá Jóni Sigurðssyni smið á Laugavegi 54 í Reykjavík. Hún hafði þá legið lengi í járnhrúgu í smiðju hans. Einhvern tíma hafði verið komið með klukkuna til Jóns og hún boðin sem brotakopar til bræðslu.

Kolviðarhóll

Koparklukkan, varðveitt í Byggðasafni Árnesinga.

Jón keypti hana en tímdi ekki að bræða hana. Þá falaði bóndi ofan úr Borgarfirði klukkuna og vildi fá hana við heimagrafreit hjá sér. „En ég hummaði það fram af mér“, sagði Jón. Og á síðustu árum var hún geymd, uns Jón var spurður um gripinn. Þá rifjaðist allt upp. Kólfinn vantaði í klukkuna og smíðaði Jón hann sjálfur, þá orðinn áttatíu og sex ára. Renndi hann í rennibekk sínum og gaf klukkuna síðan til Byggðasafns Árnesinga þar sem Skúli var lengi safnvörður. Mælti þá „Það er mikið að hún skyldi ekki vera glötuð fyrir fullt og allt. það er eins og það hafi verið yfir henni einhver hulinn verndarkraftur“.

Gestgjafarnir
EbeneserÁ Kolviðarhóli var búið í 75 ár. Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður, var fyrsti gestgjafinn sem var búsettur á Hólnum, stundum kallaður sæluhúsvörður. Hann var aðeins í hálft annað ár. Með honum var kona hans Sesselja Ólafsdóttir. Eftir henni er haft að hvergi hafi henni liðið verr en á Kolviðarhóli, þar hefði hún þolað bæði hungur og kulda. Þau hjónin þóttu bæði gestrisin og greiðvikin og það oftast um efni fram. Af hjónunum tóku við, árið 1880, Ólafur Árnason og Málfríður Jónsdóttir til 1883.

Þriðji gestgjafinn var Sigurbjörn Guðleifsson og kona hans Soffía Sveinsdóttir, en hún var dóttir Hallberu gestgjafa í Lækjarbotnum, svo hún var svæðinu kunnug.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir.

Þau héldu aðeins út í þrettán mánuði. 1883-1895 eru gestgjafar Jón Jónsson og Kristín Daníelsdóttir, síðan dóttir þeirra Margrét og Guðni Þorbergsson maður hennar, 1895 til 1906. Þá tóku við Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar þekktu eða könnuðust við. Þau urðu síðustu gestgjafarnir á Hólnum.

Þegar Margrét og Guðni tóku við gestgjafahlutverkinu 1895 var nýtt tímabil í samgöngum og hestvagnaöld gengin í garð.
Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt og lítið og um aldamótin 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var út steinsteypu.
Guðni ræktaði tún og fékk að gera Kolviðarhól að bújörð í Ölfushreppi, og var svo til 1936.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1900.

Endalokin
KolviðarhóllEn allt tekur enda, tímarnir breytast, þörfin fyrir athvarf og skjól gegn veðri og vindum er ekki lengur fyrir hendi, vegurinn austur yfir fjall liggur ekki lengur fram hjá, Sigurður dáinn og Valgerður eldist.

Árið 1970, eftir margra ára niðurlægingu staðarins, moluðu stórvirkar vinnuvélar niður sköpunarverk Guðjóns Samúelssonar, með burstunum þrem, á Kolviðarhóli. Allt sem minnir á fortíðina er horfið, gamla koparklukkan löngu hætt að hringja og ísa mönnum veginn, en milli gufustrókanna glittir í lítið leiði, leiði þar sem síðustu gestgjafarnir á Hólnum fengu sína hinstu hvílu, að loknu ómetanlegu dagsverki. Aðeins sagan er eftir, saga merkrar starfsemi á nokkrum gulnuðum blöðum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðingafélagsins, 3. tbl. 39. árg., sept. 2021, Kolviðarhóll – Guðfinna Ragnarsdóttir tók saman, bls. 3-10.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1940.

Ratleikur 2023

Þetta er 26. Ratleikur Hafnarfjarðar. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfréttar, lagði leikinn og Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur, veitti aðstoð við val á stöðum og skrifaði fróðleik.

1. Greni

Eyrarhraun

Eyrarhraun ofan Langeyrar.

Húsið Eyrarhraun var byggt ofan Langeyrar árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni. Íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði áður staðið mannlaust í eitt ár. Varða er á kletti í hrauninu skammt frá þar sem bærinn stóð til minningar um fólkið sem þar bjó og/eða ólst upp. Sunnar eru miklir hlaðnir grjótgarðar.

Ótrúlega margar tegundir eru til af greni. Sumir segja að þær séu allt að 80 en venjulega er talað um 50 tegundir. Greni er það sem krakkar kalla oft jólatré enda mikið notað um jólin víða um heim – sérstaklega rauðgreni og normannsþinur.

Eyrarhraun

Eyrarhraun ofan Langeyrar – grenitré.

Hér á landi er algengasta grenitegundin sitkagreni, en blágreni og rauðgreni eru líka algengar tegundir. Rauðgreni er smágerðara en hinar tvær tegundirnar og getur orðið ótrúlega gamalt allt að 1000 ára. Blágreni hefur dálítið bláleitan blæ og er heldur grófgerðara en sitkagreni. Til eru margir blendingar af greni og eru þau tré oft kölluð bastarðar. Hæð grenis er 30 til 50 metrar svo allir sjá að þau henta tæplega mörg saman í húsagarða, þau geta líka lifað svo miklu lengur en húsin. Hér á landi finnst mörgum tré vera gömul ef þau eru 50 ára eða eldri.

Greni er sígrænt og er af þallarætt.

2. Gata – vegur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Kirkjuvegur 1925.

Áður fyrr var sjaldan talað um götur þegar leiðir voru annars vegar, miklu fremur stíga og traðir. Leiðir að einstökum kirkjum voru þó taldar til gatna, sbr. „kirkjugata“. Vegir komu síðan til sögunnar við gerð vagnvega seint á 19. öld. Frá Hafnarfirði lá Garðavegur, kirkjuvegur Hafnfirðinga, út að Garðakirkju, eða allt þangað til kirkjur (fríkirkjan 1913 og Hafnarfjarðarkirkja, vígð 1914) voru byggðar í Hafnarfirði.

Löngum fetaði fólkið við Hafnarfjörð, allt vestur að Lónakoti, Garðakirkju fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var fyrrnefndur Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.

Garðavegur

Garðavegur sunnan Sævangs 12.

Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma). Enn má þó í byggðinni greina þar stuttan kafla sunnan húss nr. 12 við Sævang. Svæðið hefur verið sléttað og sáð í það, en vestast má sjá hluta gamla vegarins. Gömul gata liggur þarna upp hraunið inn á Garðaveginn frá Langeyrarbæjunum. Hún sést mjög vel.

Garðavegur

Garðavegur á Víðistöðum – v.m. við göngustíginn.

Fornar götur eru merkileg fyrirbæri. Þannig er a.m.k. háttað með leiðirnar í Selvogi. Útvogsstígur upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornastíg (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðaleið), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.

Fornistígur lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sjást enn nokkuð glögglega enda helsta skreiðarflutningsleið millum verstöðvanna á vestanverðum Reykjanesskaga og Skálholtsstóls.

Garðavegur

Garðavegur og gamla sjávargatan að Görðum.

Hinar fornu þjóðleiðir milli byggða eru víða enn markaðar í hraunhelluna eftir þúsund ára langa umferð. Selstíganir eru og enn allgreinilegir. Stígarnir og göturnar fyrrum virðast hafa fallið fyrir ofan garð og neðan þegar kemur að skráningum fornleifa á Reykjanesskaganum. Dæmi um slík er Fornaselsstígur/Gjáselsstígur frá Straumi um Þorbjarnarstaði að Fornaseli í Hraunum sem og Straumsselstígurinn vestari.

3. Fura

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun.

Í Stekkjarhrauni, eitt af Búrfellshraununum, hafa einstaklingar plantað greni og furu, einkum nyrst og næst gömlu byggðinni, sem í fyrstu voru einungis sumarbústaðir. Tré hafa síðan sáð sér um nágrennið. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Hraunið tekur nafn sitt af stekk nyrst í hrauninu. Það var friðlýst árið 2009.

Furan er fjölskrúðugust og mikilvægust af ætt barrtrjáa. Hún getur bæði verið tré og líka vaxið eins og runni. Það eru til um 80 tegundir af furu á norðurhveli jarðar. Furan er sígræn eins og grenið en nálar hennar eru mun stærri og eru margar saman í knippum.

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – furutré.

Furur eru vinsælar í garða vegna þess að það er hægt að stýra vexti þeirra með því að klípa brumin af á vorin og svo fara þær líka vel við steina og þess háttar og svo er hægt að velja afbrigði sem geta verið mjög lengi að vaxa. Furur geta orðið allra trjáa elstar venjulega 300-600 ára en sagt er að þær geti jafnvel orðið allt að 4000-5000 ára gamlar.

Stekkjarhraun

Fura í Stekkjarhrauni.

Fræ furunnar eru í könglum og eru könglarnir hnatt- eða egglaga. Könglarnir geta verið árum saman á trénu án þess að haggast. Sumir könglar opnast ekki nema við skógarelda, það hefur sennilega verið til þess að hún fjölgaði sér ekki nema í neyð.

Fura er mikið notuð í húsgögn og húsasmíða. Á Íslandi eru margar furutegundir ræktaðar s.s. broddfura, lindifura, stafafura, skógarfura og bergfura. Bergfura var flutt til landsins 1899 og vex t.d. í Heiðmörk og í Öskjuhlíð.

4. Stekkur

Hádegisskarð

Stekkur norðan Hádegisskarðs.

Í Hádegisskarði milli Grísaness og Ásfjallsaxlar er stekkur frá Ási. Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum á meðan á mjöltum stóð. Áður fyrr voru ær mjólkaðar í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk heim á bæ. Víða má sjá stekki nálægt gömlum bæjum sem og örnefni þeim tengdum, s.s. Stekkjarlág, Stekkholt eða Stekkurinn.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Upp úr sumum stekkjanna voru og hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið bæjastekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að leifar gömlu grónu stekkjanna eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

5. Lerki

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Í námunda við minningarskjöld um Guðmund Þórarinsson kennara og skógræktarfrömuð má sjá há furu- og og grenitré. Í norður frá steininum, sem skjöldurinn er festur á, má sjá fallegt lerkitré.
Lerki (Larix), áður kallað lævirkjatré eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt.

Engin lerkitegund er ættuð úr mjög hafrænu loftslagi og því skortir nokkuð á að þær séu aðlagaðar íslensku veðurfari. Hins vegar virðast þær kunna mjög vel við íslenska eldfjallajarðveginn og vaxa því betur í rýru landi en aðrar ættkvíslir trjáa.

Gráhelluhraun

Minningarlundur um Guðmund Þórarinsson í Gráhelluhrauni.

Síberíulerki hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki, náskylt síberíulerki eða afbrigði af sömu tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku loftslagi og sjúkdómum. Rússalerki er nú eitt algengasta skógræktartré á Íslandi og hefur náð yfir 23 metra hæð. Evrópulerki hefur einnig verið notað á Íslandi. Tré af þeirri tegund gróðursett snemma á 20. öld hafa tvisvar verið útnefnd tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands.
Blendingur af evrópulerki og rússalerki hefur verið þróaður hjá Skógræktinni og kallast ‘Hrymur’. Flestar ef ekki allar tegundirnar geta blandast innbyrðis. Annar blendingur sem reyndur hefur verið á Íslandi er sifjalerki. Sifjalerki er blendingur á milli japanslerkis og evrópulerkis. Það erfir gjarnan góða eiginleika foreldranna og sýnir mikinn blendingsþrótt. Það merkir að vaxtarhraðinn er meiri en hjá báðum foreldrunum.

Lerki

Lerki í Gráhelluhrauni.

Lerki hefur þá sérstöðu að fella barrið á haustin. Því getur lerki myndað glæsilega, gula haustliti. Aðrar ættkvíslir af þallarætt, sem ræktaðar eru á Íslandi, gera það ekki. Reyndar er það svo að ekki er mikill munur á fjölda barrnála sem falla til jarðar árlega í lerkiskógum og öðrum skógum ættarinnar. Önnur tré svo sem furur, þinur og greni, fella jafn mikið barr árlega en þar verður hver barrnál nokkuð eldri á hverju tré. Þau eru því sígræn.

Allt lerki er ljóselskt og margar þrífast við rýran kost. Því er það mjög gjarnan nýtt sem frumherjatré á Íslandi. Tré sem veita öðrum gróðri gott skjól og bæta bæði jarðveg og staðviðri. Að jafnaði eru lerkiskógar bjartari en aðrir barrskógar. Þeir hleypa meira ljósi í gegnum sig þannig að gróður í botni þeirra getur verið fjölbreyttur og gróskumikill.

Lerki

Lerki.

Allar mynda lerkitegundirnar einstofna og hávaxin tré ef aðstæður leyfa. Hér á landi láta sumar tegundir blekkjast af umhleypingum og eiga því á hættu að verða fyrir endurteknu kali. Því er það svo að því fer fjarri að öll lerkitré á landinu séu með einn beinan og hávaxinn stofn. Ef og þegar lerkitré eru beinvaxin mynda þau mjög eftirsóttan við sem er til margra hluta nýtanlegur. Viðurinn þolir vel raka og ásókn fúasveppa. Því má vel nota þá í glugga, pallaefni og margt fleira.

Lerkitré hafa lengi verið ræktuð á Íslandi og eru enn mjög mikilvæg skógartré. Það sem helst hefur komið í veg fyrir að þau séu enn meira ræktuð er skortur á heppilegu fræi.

6. Skógur

Vatnshlíð

Vatnshlíð 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Hákon Bjarnason (13. júlí 1907 – 16. apríl 1989) var skógræktarstjóri frá 1. mars 1935 til 30. júní 1977. Um miðjan sjötta áratuginn var Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns lítið annað en berangurslegir grágrýtismelar með einstaka, ofbeittum rofabörðum, þegar Hákon Bjarnason fékk úthlutað gróðursetningarlandi þar árið 1955, sem er rétt um 8 ha. að stærð. Hvergi var skjól að finna og í leysingum á vorin beljaði vatn niður hlíðina, og settu djúpar vatnsrásir sterkan svip á landið. Þegar Hákon sýndi konu sinni, Guðrúnu, landið í fyrsta skipti, féllust henni hendur, leit á mann sinn og spurði: »Hvað ætlar þú að gera hér?«

Vatnshlíð

Vatnshlíð og nágrenni.

Landið var girt undir haust 1955, því að allmargt fé var þá þar í haga. Árið 1968 var girðingin stækkuð til vesturs. Bústaðurinn var reistur sumarið 1958 en stækkaður rúmum áratug síðar. Lítið gróðurhús var reist 1975 norðvestur af bústaðnum og hafa þar einkum verið ræktuð jarðarber þau ár, sem það hefur fengið að standa í friði fyrir skemmdarvörgum. Fyrstu trén voru gróðursett vorið 1956, bæði á hólnum ofan við bústaðinn og austan við hann. Allar götur síðan var einhverju plantað á hverju ári. Langmest hefur verið gróðursett af sitkagreni, stafafuru, bergfuru og alaskaösp. Í dag er þarna í Vatnshlíðinni hinn myndarlegasti skógur – ágætt dæmi um staðfestu manns, sem trúði á hið mögulega við ómögulegar aðstæður.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Við landnám var 66% landsins gróið grasi og blómgróðri og 33% skógi. Aðal frætegundirnar voru það sem kallaðar eru íslensku trjátegundirnar, víðir, birki og reynir. Hér voru fáar tegundir vegna einangrunar landsins. Eftir landnám eyddust skógar landsins af ágangi mannsins, dýra og veður- og náttúrufars s.s. eldgosa. Menn notuðu trjávið til upphitunar og kindurnar gæddu sér á birkinu. Það var ekki fyrr en Danir fóru að benda landsmönnum á að fara að rækta skóg að menn tóku við sér en enginn Íslendingur hafði í raun trú á að hér væri hægt að rækta skóg. Árið 1899 hófst skipulögð skógrækt hér á landi en þá var plantað á Þingvöllum. Fyrstu lögin um skógrækt og landgræðslu voru svo sett árið 1907 og þá var farið að friða þá skóga sem enn voru eftir.

Hvaleyrarvatn

Skógurinn í Vatnshlíð.

Til að efla skógræktina stofnaði ríkið skógræktarstöðvar víða um land og sáu þær um að framleiða plöntur og um útplöntun. Margir hugsjónamenn fóru víða um heim til að safna fræjum og taka stiklinga til að finna nýjar tegundir sem gætu dafnað á Íslandi. Fjölgaði tegundum fljótt en fyrst og fremst var þetta greni, fura, ösp og lerki en fjölmargar tegundir hafa líka verið ræktaðar hér á landi.

Hvaleyrarvatn

Skógurinn í Vatnshlíð – aspir.

Skipta má skógræktinni í tvennt, annars vegar útivistarskóga eða yndisskóga og hins vegar nytjaskóga. Í dag er ríflega 1% landsins skógi vaxið en markmið skógræktarinnar er að það verði 5%. Fólk þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af því að skóglendi muni byrgja útsýn þeirra sem ferðast um landið. Upp á síðkastið hefur umræða um skógrækt í tengslum við mengun aukist vegna þess að skógurinn sér um að binda kolefni sem er nauðsynlegt fyrir lífið á jörðinni.

7. Varða

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarðan á Bleiksteinshálsi. Jarðvegstippurinn nálgast.

Á Bleiksteinshálsi er varða. Þetta er landamerkjavarða millum Hvaleyrar, Áss og Jófríðastaða. Frá henni liggur línan til austurs í vörðu á Miðhöfða. Þannig verður Hvaleyrarsel sunnan Hvaleyrarvatns í landi Hvaleyrar, Ássel skammt austar í landi Áss og Jófríðasel í Húshöfða í landi Jófríðarstaða. Flóknara er það nú ekki – nema ef vera skyldi staðsetning vörðunnar í nútímanum. Þegar jarðvegstippur var ákveðinn austan Grísaness höfðu einhverjir a.m.k. vit á að staðnæmast með framkvæmdir við vörðuna.

Bleiksteinsháls

Varðan á hálsinum. Lönguhlíðar fjær.

Vörður verða aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.

Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.

Bleiksteinsháls

Varðan á Bleiksteinshálsi.

Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu skipulega ofan á annað, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna. Snarpir jarðskjálftar, hörkufrost með umhleypingum og illvilji hafa leikið mörg þessara mannvirkja grátt í gegnum tíðina.

8. Mosi

Mosi

Mosi í Selhrauni.

Byggðin á Ásvallasvæðinu stendur á Hellnahraununum. Hraunin runnu frá hlíðunum austan Lönguhlíða með þúsund ára millibili. Hið yngra er um 1200 ára. Ofan Valla nefnist hraunið Selhraun – langleiðina upp að Snókalöndum gegnt Brunntorfum. Það var á síðustu öld að hluta notað fyrir fiskhjalla, auk þess sem því hefur á síðustu áratugum að hluta verið spillt af efnistöku og með jarðvegstipp. Dúfnakofar standa nú við Hrauntungustíg, þar sem áður voru hjallar (trönur).

Ratleikur

Merki komið fyrir í Hellnahrauni.

Mosar eru áberandi gróðurtegund í upplandi Hafnarfjarðar. Tegundin er með litlar grænar plöntur, sem flestar hafa blöð og stöngul. Mosar hafa engar rætur og því halda þeir sér föstum og sjúga upp næringu með þráðum. Mosar fjölga sér með gróum. Upp af gróinu sprettur forkímsþráður og mosinn sjálfur upp af honum. Þegar eggfruman er frjóvguð, vex upp af henni stafur með bauklaga gróhirslu. Mosajurtin er hinn kynjaði ættliður, en gróhirslan og þráðurinn kynlaus.

Ratleikur

Merki 8 í mosavöxnu Hellnahrauni.

Mosum er skipt í soppmosa, hornmosa og baukmosa. Í öllum heiminum er talið að séu 35 þúsund tegundir mosa, sem skiptast í 177 ættir og 1822 ættkvíslir.
Mosar eru mjög algengir á Íslandi. Þeir finnast innan um nær allan gróður en eru stundum sjálfir aðalgróðurinn, einkum í ófrjórri jörð, bæði til fjalla og á láglendi, t.d. í hraunum og móum. Þeim nægir örlítil fokmold, sem sest í holur, jafnvel í nýlegum hraunum. Fáir hafa haft áhuga á mosafræði, en flestir þekkja þó grámosann á hraununum, fagurgræna dýjamosann við kaldar uppsprettur og svo bústinn gamburmosann. Hér á landi vaxa um 600 tegundir mosa, eða álíka margar og allar villtar háplöntutegundir á landinu.

9. Reynir

Reynir

Reynir í hraunsprungu.

Reynivið má sjá víða í hraunum í og við Hafnarfjörð, einkum þar sem fræ ná rótum í jarðföllum og sprungum. Hafnarfjarðarhraunin runnu frá Búrfelli fyrir u.þ.b. 8000 árum. Skjólsæl svæði, s.s. Hellisgerði, Víðistaðir og í Hleinum hafa fóstrað ófáa græðlingana.

Reyniviður er fyrsta tréð sem Íslendingar ræktuðu, þeir gróðursettu reynisfræ við bæi sína allt frá landnámsöld.

Reynir

Reynir að hausti.

Reynir er algengur í skógum og varð í seinni tíð sérstaklega algengur við heimahús – þá einkum ilmreynir. Hann vex fremur hægt. Það er auðvelt að þekkja reyniviðinn á blöðunum sem eru lítil og tennt. Blöðin raðast á stilka og eru á hverjum þeirra tíu til fimmtán saman.

Reynir blómstrar miðsumars og ber þá falleg hvít blóm sem verða síðan að rauðum berjaklösum sem geyma fræ trésins.

Selhóll

Reynihrísla vex upp úr sprungu í Selhól í Selhrauni vestan Hvaleyravatns.

Reynirinn er oftast einstofna og er bolurinn sver og sterklegur en börkurinn er frekar ljós og þunnur. Reynir verður ekki mjög gamall. Þegar hann er orðinn 70 ára fer hann oftast að falla innan fárra ára. Til eru margar tegundir af reynivið á Íslandi, algengustu tegundirnar eru: ilmreynir, gráreynir, silfurreynir og koparreynir sem reyndar er runni. Talið er að allt að 120 tegundir af reyni séu á norðurhveli jarðar.
Vestan Hvaleyrarvatns er sprungumyndað hraunhveli; Selhóll. Upp úr hólnum hefur reynihrísla náð vaxa upp úr skjólsællri sprungunni.

10. Fjárskjól

Stórhöfði

Fjárskjól við Stórhöfða.

Undir Stórhöfða, skammt vestan við Stórhöfðastíg er heillegt fjárskjól í Selhrauninu. Fjárskjól þetta hefur enn ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Það er í landi Hvaleyrar og hefur væntanlega tengst minjunum umhverfis Hvaleyrarsel, s.s. stekkjum o.fl., sem þar eru á og við Selhöfða og í Seldal. Líklegt má telja að skjól þetta hafi verið nýtt sem nátthagi, a.m.k. að hluta til.

Fjárskjól eru 163 á Reykjanesskaganum, flest í hraununum ofan Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Um eru að ræða leifar fyrri búskaparhátta þegar fjárbúskapur var önnur af tveimur stoðum samfélagsins. Hin var útræðið.

Stórhöfði

Fjárskjól við Stórhöfða.

Enn má víða sjá minjar fjárskjólanna, langflestar í skútum, hellum eða undir slútandi klettum. Fyrirhleðslur eru jafnan úr tilfallandi efni; grjóti með dyraopum. Skjólin eru algengari í hraununum á vestanverðum Skaganum, enda aðstæður þar sérstaklega hagstæðar til skjóls fyrir fénað en á berangri og jökulsorfnum hlíðum hans að austanverðu, að Þingvallasvæðinu slepptu. Þau má gjarnan finna nálægt bæjum eða við aðra nýtingarstaði, s.s. selin.

Hús voru ekki byggð sérstaklega yfir fé á þessu landsvæði fyrr en á 20. öld. Þangað til var notast við náttúruleg skýli með smávægilegum lagfæringum.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Skjól nálægt bæjum voru jafnan nefnd ból, sauðahellir eða lambakró. Við selin voru þau yfirleitt nefnd eftir örnefnunum, sem hýsti þau, s.s. Þúfuhólsskjól, Grænhólsskjól, Sjónarhólsskjól, Tóhólaskúti, Skógarnefsskjól, Vatnagarðahellir, Katlahraunsskjól, Sauðabrekkuskjól og Hrauntunguskjól, eftir staðarheitinu; Eimuselsskjól, Setbergsselshellir, Litlalandsfjárskjól, Hamarskotsselshellir, Fornaselshellir, Kálffellskjól og Þingvallahellir, eftir ábúandanum; Oddshellar, Þorsteinshellir og Gvendarhellir (Arngrímshellir) eða eftir tiltekinni kind; Gránuskúti og Kápuskjól. Þar sem hellar voru langir var hlaðið fyrir rásina innanverða til að takmarka frekari aðstöðu fjárins, s.s. í Bjargarhelli og Strandarhelli í Selvogsheiði og Rauðshelli í Helgadal.

Fjárskjól nálægt byggð hafa nánast öll verið eyðilögð vegna byggingaframkvæmda. Nýjasta dæmið er fjárskjólið í Dalnum milli Grísaness og Hamraness við Hafnarfjörð.

11. Beitarhús

Húshöfði

Húshöfði – Beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns eru beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins eru allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins er norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Útihús voru ýmist nálægt bæjum eða allfjarri. Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulega hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi.

Beitarhús eru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku.

Húshöfði

Húshöfði – beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Hugmyndin með staðsetningunni var að dreifa beitarálaginu, líkt og í seljunum fyrrum. Beitarhús stóðu víða, stundum við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit. Rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Merkið er undir furutré skammt vestan við beitarhústóftina.

12. Vör

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Útræði var annar meginatvinnuvegur fólks á Reykjanesskaganum fyrrum. Því má segja að vör hafi verið neðan sérhvers bæjarstæðis við ströndina, bæði notuð til fiskjar og aðdrátta. Straumsvörin er ein þeirra. Í henni sést vel hvernig brimgrjót hefur verið hreinsað úr henni og notað í garða ofar. Þar má og sjá bátarétt auk nausts.

Verstöðvar voru heimaver og útver. Þau voru hvoru tveggja ofan við ákjósanlega lendingarstaði.

Eftirfarandi um varir og bryggjugerð birtist “Úr skýrslu erindreka innanlands” í Ægi 1918: „Að skaganum leggja hinar feikiþungu haföldur langt sunnan úr höfum og koma með ómælanlegu afli að ströndinni, rótandi öllu fjöruborði sem ekki er bjargfast, gerir hún öllu fjöruborði sömu skil með ströndinni.

Straumsvör

Straumsvör – uppsátur.

Mörg af þessum fiskiverum eru fremur fámenn mestan hluta ársins, þótt á vertíðinni talsverður útvegur sé rekinn þaðan, anna því oft ekki þessir fáu heimilisföstu menn að halda við lendingunum, sem allvíða eru ekki annað en geilar í kletta, sem smásteinum hefir verið rutt úr, til að koma upp og ofan skipum sínum, þegar gott er sjólag. Fyrr á tímum þótti sjálfsagt að vör væri undan hverjum bæ, en aukinn útvegur stærri skipa og meiri vöruflutningar hafa breytt þessu þannig, að nú þykir og er nauðsynlegt að eiga að minsta kosti eina góða lendingu í hverju fiskiveri, sem hægt sé í öllu bærilegu veðri að afgreiða til að á öllum tíma árs að geta veitt móttöku skipum þeim, er vörur flytja og lent með afla sinn.“

13. Fjárborg

Kaldársel

Borgarstandur við Kaldársel.

Fjárborgir á Reykjanesskaganum eru 142 talsins. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Borgirnar voru jafnan hringlaga byrgi hlaðið úr torfi eða grjóti sem notuð var fyrr á öldum til að skýla sauðfé fyrir veðri og vindum. Þær voru framhald fjárskjóla og undanfari fjárhúsa, en ekki voru byggð hús sérstaklega yfir sauðfé á svæðinu fyrr en í byrjun 20. aldar.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Oftast voru aðeins háir veggir á fjárborgum en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Aðeins ein dyr var og þær oftast aðeins fjárgengar. Leifar einnar slíkrar eru á Borgarstandi norðan Kaldársels. Um er að ræða topphlaðna fjárborg, sem með tímanum hefur fallið saman. Áhrif aðdráttarafls jarðar gildir jú um þær líkt og annað. Borgin er tiltölulega lítil umleikis, en það var forsenda þess að hægt var að hlaða í topp. Önnur sambærileg fjárborg var áður skammt austar á Borgarstandi, en Hafnfirðingar hirtu nærtækt grjótið úr henni í garða sína, auk þess sem líklegt má telja að eitthvað af því hefur farið undir vatnsleiðsluna í Lambagjá.

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar“, útgefna 1990, má lesa eftirfarandi: „Kaldársel;
1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni.

Kaldársel

Fjárborgin á Borgarstandi.

2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit.
4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Djúpudal

Djúpudalaborg.

Topphlaðna fjárborg má enn sjá í Djúpudölum ofan Selvogs. Markmiðið með hleðslu Þorbjarnarstaðaborginni í Brunntorfum var að hlaða hana upp í topp, en hætt var við verkið í miðjum kliðum, enda umfaðmur borgarinnar allt of mikið til að þakið gæti haldist uppi, jafnvel með ætluðum miðvegg til stuðnings.

Þótt fjárborgir hafi oft verið hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruns af Borgarstandi í lok 19. aldar.

Opin hringlaga fjárskýli eru líka kölluð borgir eða fjárbyrgi, jafnvel þótt hleðslan halli ekki inn á við. Hugtakið fjárbyrgi er reyndar notað frjálslega í heimildum, um allskonar skýli fyrir fé, bæði þau sem eru náttúruleg, eins og t.d. hella, smáskúta og líka mannvirki eins og beitarhús og jafnvel stekki.

14. Hrauntröð

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá.

Víða í hraununum á Reykjanesskaganum má berja tilkomumiklar hrauntraðir augum; margar bæði langar og breiðar. Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum út frá gígopum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir eða á yfirborðinu.

Lambagjá

Lambagjá – merkið er í vörðu við haft yfir hrauntröðina.

Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunna hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Lambagjá er afurð Búrfellshrauns, líkt og Búrfellsgjá, Selgjá og Kringlóttagjá norðaustar. Miklar hrauntraðir eru í ofanverðu Svínahrauni. Þessar traðir eru taldar til stórbrotnustu hrauntraða Reykjanesskagans.

Lambagjá var friðlýst sem náttúruvætti árið 2009 ásamt Kaldárhrauni og Gjánum utan Kaldársels. Yfir gjána lá vatnsleiðslan frá Kaldárbotnum til Hafnarfjarðar. Undirstaða hennar er enn áberandi mannvirki þótt tréstokkurinn, sem var ofan á henni, sé horfinn. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919.
KaldárhraunVatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Gráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þaðan var vatnið leitt í lokuðum tréstokk til Hafnarfjarðar.

Helluhraun er búið til í eldgosum úr eldborgum, dyngjum og gígaröðum. Hægt er að líkja Helluhraun við seig vökva þar sem það rennur fremur hratt, 5-20 km á klukkustund er algengur hraði. Hitastigið er í kringum 1120-1230°C. Einstakir hraunstraumar geta farið yfir 100 km áður en þeir storkna og mynda þá gjarnan traðir á hluta leiðarinnar.

15. Sel

Helgadalur

Rauðshellir – stekkur.

Fyrrum, eða allt til loka 19. aldar, var selstaða frá nánast hverjum málsmetandi bæ. Í dag má sjá 401 slíka á Reykjanesskaganum skv. upplýsingum FERLIRsfélaga – sjá ferlir.is. Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Garðar höfðu selstöður og við Kaldársel, enda áttu Garðar nálægt allt Hafnarfjarðarsvæðið fyrrum. Hvaleyrarbóndi hafði selstöðu við Hvaleyrarvatn og síðar í Kaldárseli. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866, þótt búskapur hafi verið þar með slitrum um skamma hríð eftir það. Garðabæirnir höfðu auk þess selstöður í Selgjá og nágrenni.

Helgadalur

Rauðshellið – selið er í jarðfallinu.

Ein selstaðan er í Helgadal, við svonefndan Rauðshelli. Önnur, umfangsmeiri, er þar skammt sunnar. Ekki er ólíklegt að þessar selstöður hafi um tíma ýmist verið nýttar stakar eða saman. Hlaðinn stekkur er ofan við selstöðuna í grónu jarðfalli Rauðshellis, auk þess sem hellirinn hefur verið nýttur sem fjárskjól. Í jarðfallinu leynast hleðslur undir sverðinum.

Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag.

Helgadalur

Merki í stekk við Rauðshelli.

Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.

Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Þau voru jafnan staðsett við læk, á, vatn eða vatnsstæði. Stekkur var og jafnan í selinu, auk nátthaga. Á Reykjanesskaganum voru þau gjarnan í skjóli fyrir suðaustanáttinni (rigningaráttinni).

16. Gervigígur

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Litluborgir sunnan Helgafells mynduðust þegar glóandi hraun rann yfir vatn eða tjörn, sem þar var vestan Strandartorfu. Auk hraunstöpla og hellna mynduðust í jaðrinum nokkrir fallegir dæmigerðir gervigígar.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig; hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið. Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagosmyndunum.
Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

17. Gígaröð

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Hraungígar á Reykjanesskaganum eru af þrennum toga; Dyngjur (10.000-5000 ára), s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, stakir gígar (5000-2000 ára), s.s. Búrfell í Ölfusi, Búrfell ofan Garðabæjar og Leiti austan Bláfjalla, og gígaraðir á sprungureinum, s.s. Sundhnúkar; Eldvörp og Ögmundarhaunsgígaröðin frá sjó að Helgafelli.
Víða ofan Hafnarfjarðar má sjá gíga á gígaröðum. Horfa þarf til þess að yngri hraunin hafa í gegnum tíðina runnið yfir þau eldri og því breytt landslaginu frá einum tíma til annars.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Talið er að gosið hafi á sprungunni um miðja 12 öld og þá verið hluti af Krýsuvíkureldunum (Ögmundarhraun, Traðarfjallahraun, Sanddalshraun).

Gossprungan nær frá frá sjó í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígarnir sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum skammt sunnar verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.
Leiddar hafa verið að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Líklegt þykir að gosið hafi nokkrum sinnum á gossprungunni allri á nokkurra ára tímabili.

18. Brunnur

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnurinn í Brunntjörn.

Brunnar voru grafnir þar sem vatnsból skorti. Á Reykjanesskaganum, þar sem fátt er um ár og læki, voru brunnar grafnir svo til við hvern bæ, stundum fleiri en einn. Víða má enn sjá fallega hlaðna brunna við gömul bæjarstæði.

Brunnurinn við Þorbjarnarstaði í Hraunum er í svonefndri Brunntjörn. Hann er hlaðinn úti í tjörninni nálægt bakka þar sem ferskt vatn kemur undan hrauninu. Brunnurinn sá hefur ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Vestan við brunninn er hlaðin „þvottabrú“ þar sem ull var þvegin. Þaðan liggur brunngatan heim að bæ. Tröðin er hlaðin görðum beggja vegna.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði.

Um brunna var skrifað í Eir árið 1899: „Neysluvatn á að vera boðlegt til drykkjar og óskaðvænt heilsu manna. Vatnið er því að eins boðlegt til drykkjar, að það sé bragðgott, litlaust, tært og lyktarlaust og hæfilega kalt bæði sumar og vetur. Vatnið er gómtamara ef ögn er í því af kolsýru (uppsprettuvatn). Vatnið er óskaðvænt heilsu manna, ef ekki eru saman við það nein þau efni, dauð eða lifandi, er sýkt geti líkamann, ef vatnsins er neytt, en um þetta verður oft ekki dæmt í fljótu bragði. Hvergi á jörðunni finnum vér alveg hreint vatn. Á leiðinni úr skýjunum niður á jörðina tekur regnvatnið i sig ýmis efni úr loftinu, bæði loftkennd efni, ryk og gerla; þá er niður er komið, fær vatnið í sig ýmis efni úr jarðveginum, leysir þau upp, eða blandast þeim.

Þorbjarnastaðir

Brunnurinn í Brunntjörn.

Þar sem engar lindir eru, má engu að síður víðast hvar ná i jarðvatnið, ef jarðvegurinn er þannig gerður, að hægt er að vinna hann og vatnið ekki afar-djúpt í jörðunni; ekki þarf annað en gera gang beint niður í jarðveginn, þar til er kemur niður í jarðvatnið. Vatnið safnast þá á gangbotninn. Slíka ganga köllum vér brunna. Þeir eru tvenns konar, leggbrunnar og strokkbrunnar. Það or strokkbrunnur, ef gangur er grafinn niður í jarðveginn, en leggbrunnur ef járnpípa er rekin niður í jörðina. Allir brunnar hér á landi eru strokkbrunnar, enginn leggbrunnur til.

Þorbjarnarstaðir

Brunnurinn í Brunntjörn.

Strokkbrunnar eiga að vera hlaðnir innan úr grjóti, og er mjög áríðandi, að hleðslan sé vatnsheld, til þess að óhreina vatnið í efstu jarðlögunum (leysingavatn, regnvatn) komist ekki inn í gegn um hleðsluna og niður í brunninn. Ef brunnurinn or mjög grunnur, 4 – 8 fet, og byggt ból í kring, þá er ávallt hætt við, að óhreinindi geti komist niður í jarðvegsvatnið kringum brunninn og runnið inn í hann undir hleðsluna. Ef kostur er á vatni djúpt í jörðu, 20—40 fet eða meira, og brunnurinn gerður svo djúpur, þá má treysta því, að vatnið sé hreint.“

19. Skotbyrgi

Straumselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Við Straumsselsstíg vestari er grjóthlaðið U-laga skotbyrgi. Annað sambærilegt er vestan við Straum. Hið þriðja á Smalaskálahæð skammt sunnar. Svona mætti lengi telja. Um eru að ræða skjól refaskyttu, ýmist skammt frá grenjum eða á útsýnisstað um ferðir lágfótunnar.

Byssur komu hingað til lands á 15. öld. Þeir sem skoða Þjóðminjasafnið sjá þess þó hvergi merki að hér hafi nokkru sinni verið skotið úr byssu hvað þá að þær hafi verið notaðar til lífsbjargar, hins vegar er mikið til sýnis af verkfærum til sjósóknar og landbúnaðar. Það er helst á söfnum úti á landi að maður sjái gripi sem tilheyra skotveiðum, byssur, púðurhom og haglapunga. Innan um eru hinir merkilegustu gripir, til dæmis haglabyssur og rifflar sem hafa verið notaðir hér á landi.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgið við vestari Straumsselsstíg.

Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara. Allt frá upphafi var litið á refinn sem ógagnsemisdýr, sem þyrfti að halda í skefjum. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.

Meðal veiðiaðferða í upphafi voru reykbræling og grjótgildrur, dýrabogar komu síðar og byssur til almennra nota komu um aldamótin 1700 og voru orðnar aðalvopnið í lok 18. aldar.

Setberg

Setberg – stríðstímaskotbyrgi.

Skotbyrgi eru af tvennum toga; annars vegar lítil hlaðin refaskyttuskjól inn til landsins við ströndina fyrir fuglaveiðimenn eftir að byssur komu til sögunnar og hins vegar ýmist hlaðin eða steyp byrgi frá því á Styrjaldarárunum síðari. Síðarnefndu byrgin má finna víða á Reykjanesskaganum, s.s. á Ásfjalli, Á Garðaholti og í Öskjuhlíð. Þau voru gerð til að hlífa hermönnum fyrir meintum árásum óvina.

Skotbyrgin við ströndina eru flest fallin vegna sjávargangs. Hlaðin byrgi refaskytta má þó enn sjá víða við greni. Í þessum byrgjum lágu refaveiðimenn fyrir ref, jafnvel dögum saman – allan ársins hring.

20. Kolagröf

Brennisel

Brennisel – hleðslur.

Ummerki eftir kolagrafir má sjá víða – þótt nú til dags séu þær torséðar flestum. Örnefnin og minjar þeim tengdum vísa þó veginn. Brennisel í Hraunum er eitt skýrasta dæmið. Í því má bæði sjá heillegar grjóthleðslur sem hýstu geymslu, kolagröf og skjól fyrir athafendur. Varða er á jarðfallsbrúninni er vísar veginn. Skammt norðar er önnur kolagröf, eldri og óljósari.

Viðarkol voru unnin úr kurluðu birki, fjalldrapa eða öðrum við sem settur var í gröf, oftast hringlaga, kveikt í og hún byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að viðnum. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol. Þau voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Kolin voru líka mikilvæg til upphitunar og járngerðar, en auk þeirra var ýmsu öðru til tjaldað er verma þurfti híbýli og óna, s.s. mosa, beingörðum, taði og þangi.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Á Íslandi var stunduð kolagerð frá upphafi byggðar, víða allt fram á 20. öld.

Víða í Heiðmörk má t.d. finna kolagrafir sem sýna að á svæðinu hefur verið mikill skógur. Um miðja sextándu öld voru, skv. heimildum, jarðirnar Elliðavatn, Hólmur og Vatnsendi í konungseign og ábúendur greiddu hluta leigugjaldsins í viðarkolum, samtals 36 tunnur á ári. Til svo mikillar kolagerðar hefur þurft mikinn við og að auki nýttu ábúendur skóginn til eigin þarfa. Hvergi eru þó tilnefndar kolagrafir staðsettar á svæðinu. Líkum er saman að jafna í Almenningum ofan Hraunabæjanna vestan Hafnarfjarðar, að framangreindu undanskildu.

Ekki er gert lengur til viðarkola hér á landi.

21. Skjól

Bekkjarskúti

Bekkjarskúti.

Við Óttarsstaðaselsstíg eru nokkrir staðir, sem nýttir hafa verið tímabundið sem skjól fyrir fé og fólk með tilfallandi fyrirhleðslum. Má þar t.d. nefna Bekkjaskúta, Sveinsskúta og Meitlaskjól. Ofar Óttarsstaðasels eru Tóhólaskúti, Sauðabrekkuskjól og Sauðabrekkuhellar. Enn ofar er svo Húshellir.

Hellar eru sérhver holrými sem leynast neðanjarðar. Hellar á Íslandi eru aðallega þrennskonar, íshellar, manngerðir hellar (í móbergi) og hraunhellar, en einnig eru önnur holrými í jörðu oft kallað hellar, t.d. skútar í sjávarbjörgum eða árfarvegum. Hellar voru áður fyrr notaðir sem mannabústaðir, og sjálfsagt verið fyrstu skýli mannsins fyrir veðri og vindum. Seinna með þróun mannkyns urðu hellar aðeins að skjóli fyrir skepnur, og jafnvel innréttaðir sem slíkir.

Bekkjarskúti

Inni í Bekkjaskúta.

Hraunhellar eru alls konar rásir í hrauni neðan yfirborðs jarðar. Hraunhellar geta verið af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir, hellar í hraundrýlum og hraunbólum. Þeir geta einnig myndast við svokallaðan troðhól, þá treðst kvika úr eldfjalli undir storknað hraunyfirborðið og lyftir því, þannig að holrými myndast. Móbergshellar og -skútar eru og á Reykjanesskaga, s.s. undir Hellunni við Kleifarvatn, í Grænudyngju og á Sveifluhálsi.

Til þess að teljast hellir er gjarnan við það miðað að holrýmið sé a.m.k. 20 metrar að lengd en annars er talað um skúta eða hraunskúta. Hraunhellar og skútar á Reykjanesskaganum eru u.þ.b. 600 talsins. Einn sögulegasti hellirinn er Fjarðarhellir í Hellisgerði.

Leiðarendi

Leiðarendi.

Litadýrð í mörgum hraunhellum er vegna útfellinga og efnasambanda sem leka úr veggjunum. Margs konar myndanir finnast í hraunhellum, þar á meðal dropasteinar (dropsteinar), kleprasteinar, hraunfossar og hraunstrá, stundum líka mannvistarleifar. Mest áberandi eru dropsteinarnir úr hraunbráð. Þeir myndast þegar hraun er hálfstorknað og svokölluð afgangsbráð er á hreyfingu í æðum inni í hrauninu og þrýstist út í holrúm í hrauninu og þar með inn um veggi og loft hellanna. Afgangsbráð sem lekur niður úr hellisloftinu myndar ‘hraunstrá og spena, en á gólfinu hlaða droparnir upp dropsteina.“

Sums staðar á Íslandi eru hraunhellar nálægt bæjum enn notaðir sem fjárhús.

22. Nátthagi

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Í nálægð selja voru nátthagar þar sem smalar héldu fjárhópnum saman að næturlagi. Ýmist er um að ræða náttúrulegar hvilftir, skjólsælar lautir eða skjól undir hraunbrúnum.

Nátthagar voru nauðsynlegir fyrrum, hvort sem um var að ræða nálægt bæjum eða í seljum. Á síðarnefndu stöðunum var þeim gert að gæta að fénu frá síðdegismjalta til morgunmjalta. Hvað var því ákjósanlegra fyrir þá en að geta hvílt bæði féð og þá sjálfa. Smalarnir hljóðu sér gjarnan skjól úr grjóti þar sem þeim var hlíft fyrir veðri, vindum og regni, líkt og sjá má í Efri-Traumselshellum (nr. 23).  Þessi smalaskjól má í dag víða finna fallin á hæðum, ásum eða undir hraunveggjum.

23. Smalabyrgi

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Í eða við einstaka náttúruleg eða manngerð skjól má sjá bæli fyrir smala, s.s. í Efri-Straumsselshelli, Fjárskjólshraunsfjárhelli og við Gvendarhelli í Krýsuvíkurhrauni. Skjólið við Efri-Straumsselshelli er einstaklega heillegt. Ágætt skjól er einnig í hellinum, enda augljóst að smalinn hefur nýtt séð það. Umleikis framanverðan hellinn er hlaðið gerði, líklega nátthagi. Fyrirhleðsla er innst í hellinum til varnar því að féð leitaði innar en þörf var á.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar – smalaskjól.

Hér á landi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt, t.d. norðvestan Kaldársels. Smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól að fá frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og vera á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga.

Smalaskjól

Smalaskjól.

Samheiti við smalaskála er smalahreysi. Seint á 19. öld kemur fyrst fram í heimildum orðið smalabyrgi. Sér til skemmtunar í tómstundum las smalinn, byggði byrgi, hlóð vörður, hitti oft smala á næstu bæjum, og fór þá við þá í leiki, m.a. blámannaleik. Smalinn átti skýli, oft nefnt smalaskáli. Smalaskáli er gott dæmi um það hvernig löngu aflagt fyrirbæri lifir í örnefnunum.

Smalinn þurfti að gera sér að góðu það er umhverfið bauð upp á – og nýta það sjálfum sér til handa. Skilaði hann ekki öllu fénu, er hann bar ábyrgð á, var hann látinn „eta skömmina“, þ.e. hann fékk ekkert í mál þann daginn.

24. Vatnsból

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Bæir voru jafnan byggðir við góð vatnsból, auk þess sem alfaraleiðir lágu jafnan nálægt slíkum gæðum. Sel voru gjarnan byggð upp við vatnsból, líkt og sjá m.a. t.d. í Fornaseli, Straumsseli og Óttarsstaðaseli. Vatnsbólið í Fornaseli er dæmigert fyrir „gott“ vatnsból. Þegar vatn þraut í seli á góðviðristímum varð frá að hverfa. Oftar en ekki var ágangi drauga kennt um. Það þótti skiljanlegri ástæða en sú raunverulega.

Ár og vötn eru ekki hentug vatnsból. Vatnið verður oft volgt á sumrum, og kalt á vetrum. Í leysingum og úrkomutíð verður það óhreint (gruggugt, skolótt); loks er hætt við, að saurindi komist i það nærri byggð. Skal jafnan gæta þess, að hafa ekki peningshús, hauga eða forir nærri bæjarlæknum, fyrir ofan þann stað, þar sem vatn er sótt í hann.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Jarðvatn er besta neysluvatnið; það er hreinast og jafnkaldast. Viða kemur það sjálfkrafa upp úr eða út úr jörðinni; það köllum vér uppsprettur eða lindir. Vatnið í þeim ei álíka kalt sumar og vetur, aldrei volgt á sumrum, aldrei ískalt á vetrum. Er hitinn í þessu vatni mjög líkur meðalárs-hitanum i héraðinu kring um uppsprettuna. Lindirnar frjósa þess vegna ekki á veturna og eru því oft kallaðar kaldavermsl. Lindirnar gruggast ekki í leysingum á vorin; þær eru jafn-hreinar allan ársins tíma. Lindir eru því miklu betri vatnsból en ár og lækir, og lindarvatn er besta, hreinasta og ljúffengasta vatnið, sem hægt er að fá.

25. Misgengi

Fjallsgjá

Fjallsgjá – misgengi.

Stórhöfðastígur, í átt að Fjallinu eina frá hraunhólunum norðaustan Fremstahöfða, liggur með fram norðanverðu tilkomumiklu misgengi. Þar sem það er hæst verpir smyrill. Misgengið er hluti af víðfeðmu landsigi milli Fjallgjárinnar og Sauðabrekkna. Vestar heldur það áfram eftir miðjum skaganum, milli Hrafnagjár og Brunnastaðaselgjár í Vatnsleysu- og Vogaheiði. Vestar er misgengið áberandi í Hábjalla norðan Snorrastaðatjarna. Norðaustan Fjallgjárinnar heldur misgengið áfram um Helgadal, Smyrlabúð og Hjalla í Heiðmörk.

Misgengi má sjá víða hér á landi þar sem jarðskorpan hefur ýmist gengið í sundur (gliðnað) eða sigið (risið). Þau eru af ýmsu tagi en megingerðirnar eru þrjár; siggengi vegna gliðnunar (til dæmis Almannagjá), ris- eða þrýstigengi vegna samþjöppunar (engin dæmi hér á landi, en fræg í fellingamyndunum) og sniðgengi vegna hliðrunar (til dæmis Suðurlands- og Tjörnes-brotabelti).

Fjallsgjá

Merkið við Fjallsgjá.

Þverbrotabelti“ er notað um sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja. Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn og með því að flæði möttulefnis undir Íslandi út frá þessari miðju er helsti drifkraftur flekahreyfinga, þá „leitast“ rekbeltin við að vera yfir heita reitnum. Í 15 milljón ára jarðsögu Íslands hefur slíkur gosbeltaflutningur orðið að minnsta kosti þrisvar.

Þverbrotabelti einkenna allt rekhryggjakerfi jarðar, sem er um 60.000 km langt, og skiptist í búta sem hnikað er til hverjum miðað við annan. Almennt tengjast þverbrotabeltin ekki heitum reitum, heldur virðast þau hafa myndast um leið og rekhryggurinn sjálfur og haldast síðan nokkuð stöðug. Myndun þeirra er sennilega háð spennusviðinu sem ríkti þegar hryggurinn var að myndast.

26. Hraunreipi

Hraunreipi

Hraunreipi.

Helluhraun er afurð eldgosa úr eldborgum, dyngjum og gígaröðum. Hægt er að líkja helluhrauni við seigan vökva þar sem það rennur fremur hratt um stund, en storknar síðan smám saman – fyrst á yfirborðinu.

Í Skúlatúnshrauni sunnanverðu, norðan Melkraka vestanverðan, hefur áður runnið lækur úr óbrennishólmum. Vatnið hefur skolað hraunskorpuna og opinberað á henni falleg, margvísleg, hraunreipi.

Ratleikur 2023

Merki 26 á reipuðu helluhrauni.

Á helluhraunum sem hafa náð að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Undir því rennur hraunin heitt uns það nær jaðrinum.

Svoleiðis myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. „Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast svokölluð reipi ofan á hrauninu en þau myndast vegna núnings deigrar skorpunnar við fljótandi hraunbráðina.“

Merkið er á Stóra-Bollahrauni, nokkuð sléttu helluhrauni. Í suður má líta Tví-Bollahraun, úfið apalhraun.

Hraunreipi

Hraunreipi.

Skammt suðvestar er hraunhellirinn Leiðarendi með öllum þeim dásemdum og litadýrð er góður hraunhellir hefur upp á að bjóða.
Í vestri glittir í Skúlatún, óbrinnishólma, sem Stóra-Bollahraun hefur umlukið. Í norðri er Helgafell og í austri Þríhnúkar.  Nær er Markraki og sést vel hvar uppþornaður lækjarfarvegur hefur runnið ofan frá honum áleiðis að Skúlatúni.

27. Birki

Ker

Kerin.

Meðlimir Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafa verið duglegir að planta trjám, birki, greni og furu, á afmörkuðum svæðum i Undirhlíðum. Einn er þó sá staður í Hlíðunum þar sem birki hefur fengið að vaxa villt um alllangt skeið. Það er birkið ofan við Kerin svonefndu, hraungíga norðaustan Bláfjallavegar. Þar má í dag finna hávöxnustu villtu birkihríslurnar á Reykjanesskaganum.

Kerin

Birki ofan við Kerin.

Birki er ættkvísl jurta af birkiætt sem vaxa víða um norðurhvel jarðar. Birki er skylt elri (ölur) og hesli sem teljast einnig til birkiættar. Birkitegundum er skipt í fimm undirættkvíslir. Birkið er auðþekkt á smágerðu tenntu laufi og ljósum pappírskenndum berki.

Á Íslandi eru tvær birkitegundir innlendar og jafnframt mjög einkennandi fyrir íslenska náttúru: ilmbjörk (birki í daglegu tali) og fjalldrapi. Ilmbjörkin er eina innlenda tré landsins sem myndar skóga. Við landnám er talið að allt að þriðjungur Íslands hafi verið þakinn birkiskógi.

Kerin

Merki ofan við Kerin.

Talið er líklegt að vaxtarlag birkiskóga hafi breyst frá landnámi vegna búskaparhátta og gangið hafi verið á birkiskóga svo skógarleifar eru núna yfirleitt kræklóttar hríslur. Fjalldrapi getur æxlast við birki og nefnist blendingurinn skógviðarbróðir en hann er kræklóttur runni.

Árið 1987 hófust birkikynbætur á Íslandi og var markmið að rækta beinvaxin há þróttmikið birkitré og endurheimta forna reisn íslenska birkisins.

Sjá meira undir Ratleikur Hafnarfjarðar 2023.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar 2023 – kort.

Kaldársel

Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Sögu Kaldársels„. Þau birtust í bók hans „Áður en fífan fýkur„, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

„Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.

Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.

Áður en fífan fýkur

Kápa bókarinnar „Áður en fífan fýkur“.

Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.

Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – „sigurljóð og raunabögu“. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.

Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel.

Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist „Útilegumenn“ og heitir aðalkvæðið „Kaldársel„. Fyrsta erindið er svona:

Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.

Næsta erindi var svona:

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.

Selstöð í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel – túnakort 1903.

Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: „Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott“. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.

Kaldársel

Kaldársel – uppdrættir og ljósmyndir Daniel Bruun.

Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun 1897.

Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.

Þegar Þórunn dvaldist í „Selinu“ á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í „Selið“, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.

Kaldárstígur

Kaldársel – Kúastígur.

Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.

Kaldársel verður fastur bústaður

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.

Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.

Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.

Þorsteinn í Selinu

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Standinum; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.

Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli. Fjárborg efst og stekkur og fjárskjól undir að vestanverðu.

Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.

Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið (tilgáta) sett inn á ljósmyndia.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1897.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.

Kaldársel

Kaldársel

Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.

Kaldársel

Kaldársel – loftmynd.

Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.

Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins ( lambhúss Kristmundar) sjást enn suðaustan við húsið.

Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.

Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.

Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús Kristmundar undir Fremstahöfða.

Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.

Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel

Lambagjá

Hleðsla undir vatnsstokkin í Lambagjá.

Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.

Kaldársel

Vatnsstokkurinn norðan Kaldár.

– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.

Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.

Kaldárselsrétt

Kaldárselsrétt.

Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.

Niðurlagsorð

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – loftmynd.

Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.“

Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

 

 

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg undir Krýsuvíkur-Mælifelli og áleiðis yfir Ögmundarhraun milli þess og Latsfjalls.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Staðnæmst var við dys Ögmundar, sem er þarna í austurjarðri hraunsins. Þar er eini hluti hins gamla Ögmundarstígs, sem enn er óbreyttur. Öðrum köflum stígsins í gegnum hraunið hefur verið breytt eftir því sem ökutækin hafa tekið breytingum. Þannig var hann endurruddur að nýju í byrjun fjórða áratugs 20. aldar er hann var gerður ökufær á kostnað Hlínar Johnsens í Krýsuvík. Stígurinn ber þess merki, enda orðinn bæði nokkuð beinn og breiður. Nýi akvegurinn liggur svo til samhliða honum skammt sunnar í hrauninu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Dysin er skírskotun til þjóðsögunnar um Ögmund og áhuga hans á að eignast dóttur Krýsuvíkurbónda (aðrir segja Njarðvíkurbónda). Bóndi samþykkti eftirgjöfina gegn því að Ögmundur ruddi stíg yfir hraunið á tilskyldum tíma. Ögmundur hófst handa að vestanverðu, en þegar hann kom austur yfir hraunið sat bóndi fyrir honum, drap hann þar í lægð og dysjaði. Þar er nú Ögmundardys. Enn má sjá hlöðnu dysina við stígkantinn.
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Hraunið er talið hafa runnið um 1151 eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.

Latur

Latur. Latsfjall ofar.

Ögmundarstíg var fylgt yfir að Latsfjalli og síðan gengið suður með því að austanverðu, niður Latstöglin. Franskur ferðamaður, sem leið hafði átt gangandi um Krýsuvíkurveg, slóst með í förina, en hann var á leið til hins mikla og margfræga menningarbæjar Grindavíkur. Þegar hann frétti af fyrirhugaðri göngu FERLIRs vildi hann ólmur slást með í för. Eftir gönguna sagðist hann varla trúa því enn að landið byggi yfir slíkum töfrum sem raun ber vitni. Var honum tjáð að lykillinn að þessum töfrum væri í höndum bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Sunnan við Lat var komið við í sæluhúsi í hraunskúta. Hlaðið er fyrir munnann. Op er á skútanum og hlaðið umhverfis það að ofanverðu. Þarna leituðu ferðalangar skjóls á leiðum þeirra milli Krýsuvíkur og Grindavíkur fyrrum.
Stígur liggur ofan sæluhússins áleiðis í og neðan við Óbrennishólma. Stígurinn heldur áfram til austurs sunnan hólmans, en að þessu sinni var götu fylgt inn í hólmann og staðnæmst þar við stóra forna fjárborg á hæð í honum sunnanverðum. Í lægð vestan við borgina mótar fyrir fornu garðlagi frá norðri til suðurs. Austar er tóft, annað hvort af minni fjárborg er hringlaga topphlöðnu húsi. Hár hraunkanturinn er skammt austan hennar.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Haldið var upp í hólmann og skoðaðir garðar þeir er hraunið hafði staðnæmst við. Greinilega sést hvar þunnfljótandi hraunið hefur runnið yfir hlaðinn garð. Grjótið í honum er úr grágrýti en ekki hraungrýti, sem er allt umhverfis. Líkast til er þarna um tvö hraun, mismunandi gömul, að ræða. Garðurinn hefur verið hlaðinn á eldra hraunið, en það yngra runnið að honum. Grjótið í garðinum er svipað og á holtinu hjá stóru fjárborginni og í borginni sjálfri.

Óbrennishólmi

Skjól eða fjárborg ofan Óbrennishólma.

Ofar í hrauninu er hlaðið hringlaga gerði, líklega nýrra, enda úr hraungrýti. Þá er hlaðið gerði og garður út frá því neðst og syðst í hólmanum. Hann virðist vera nýrri, enda hlaðinn að hraunkantinum, en hraunið ekki yfir honum líkt og efra.

Gengið var austur yfir úfið hraunið áleiðis að Húshólma. Af efstu brún þess er fallegt útsýni yfir hólmann og nærliggjandi hraun. Þaðan sést vel hvernig skipting hraunsins hefur verið, annars vegar þynnfljótandi og hins vegar úfið og seigt. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa að öllum líkindum verið hæðir í fyrrum landslaginu og því staðið upp úr þegar hraunin runnu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Í suðri sést vel í Brúnavörður, en við þær liggur stígur frá suðurbrún úfna hraunsins áleiðis í Húshólma. Stígurinn er flóraður á kafla.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka móta fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Skiptar skoðanir eru um aldur Ögmundarhrauns en nýjustu niðurstöður benda til þess að það hafi runnið 1151. Myndast hafa nokkrir landhólmar í hraunrennslið og kallast þessir hólmar óbrennishólmar.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Húshólmi er þeirra stærstur. Í honum eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum skammt vestan við Húshólma, eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því. Leifar einnar byggingarinnar eru nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Er það nær einstakt í heiminum að fornleifar hafi varðveist með slíkum hætti, mótaðar inn í storknaðan hraunstraum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þegar komi er að rústunum í Húshólma, eða öllu heldur í hrauninu skammt vestan við hólmann, má fyrst sjá minjar skála, sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt torfveggina. Eftir stendur stoðholuröð. Í þeim hafa verið stoðir, sem haldið hafa þakinu uppi. Sést vel hvernig hraunið hefur brennt timburverkið svo eftir standa holurnar í hrauninu, í miðri tóftinni. Áhrifaríkt.

Húshólmi

Húshólmi – veggur og tóftir.

Sunnan við þennan skála er annar heillegri. Snýr hann eins og sá efri. Lag hans sést vel, lítillega sveigðir veggir og þverhýsi við austurnendann. Hleðslurnar sjást vel. Grjótið er grágrýti, ólíkt hraungrýtinu umhverfis. Norðaustar móta fyrir tveimur tóftum sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt.

Húshólmi

Skálatóft í Ögmumdarhrauni við Húshólma.

Sunnan við þessar tóftir er bogadreginn veggur, alllangur. Innnan hans er tóft, líklega þriðji skálinn. Garðstubbur er vestan hans og annar bogadreginn út frá honum að austanverðu. Innan hans er skeifulaga tóft. Þar er hin forna kirkja við Kirkjuflöt. Í henni eru m.a. hleðslur úr sjóbörðu grágrýti. Auðvelt er að draga þá ályktun að tóftir húsa í Húshólma, sem enn sjást, hafi verið byggð niður við sjóinn. Þarna gæti hafa verið (og hefur að öllum líkindum verið) vík inn í landið (Krýsuvík, Krossvík eða annað líkt – annars er merking Krýsuvíkur sú að deildur hafi staðið þar, annað hvort um víkina eða annað) og góð lending. Eftir að hraunin runnu hafi þau fyllt upp í víkina.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjustígur.

Kirkjustígurinn liggur til austurs, yfir í Húshólma. Þar mótar fyrir hringlaga mannvirki, nokkuð stóru. Segir sagan að þarna hafi verið forn grafreitur. Lítið sem ekkert hefur verið grafið í Húshólma. Bæði er það vegna þess að talsverður gangur er þangað, auk þess er hætt við að niðurstaðan kunni að breyta í einhverju sögunni um búsetu manna hið fyrsta hér á landi.
Garður liggur frá hraunkantinum, og reyndar inn í hann einnig, nokkuð ofar (móts við efsta skálann) og til suðausturs, en sveigir síðan til suðurs og aftur að hraunkantinum mun sunnar. Á hann liggur beinn þvergarður, skammt sunnan við hringalaga gerðið. Allt hafa þetta verið mikil mannvirki á sínum tíma. Ytri garðurinn er að mestu úr torfi, en þvergarðurinn hefur verið hlaðinn úr grjóti að hluta. Sést það vel miðsvæðis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Samkvæmt rannsóknum er aldur garðsins a.m.k. frá því að landnámsöskulagið lagðist yfir landið því sjá má það í pælunni við garðinn. Líklegt má telja að landnámsmenn þarna hafi fyrst byggt hús og nauðsynlega garða, en síðan tekið til við gerð stærri og fjarlægari mannvirki. Ekki er ólíklegt að hraunið hafi runnið yfir fleiri byggingar, sem hafa staðið þarna lægra. Minjarnar í Óbrennishólma, sem þó eru í nokkurri fjarlægð, og minjarnar í Húshólma, bera með sér að þarna hafi verið talsverð byggð. Fjárborgin í Óbrennishólma virðist hafa verið nokkuð há, auk þess sem ummál hennar er með því meira sem gerist í fjárborgum á Reykjanesi. FERLIR hefur þegar skoðað tæplega áttatíu slíkar. Þá er jarðlægi garðurinn í Óbrennishólma svipaður görðunum í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúð ofan Hólmasunds.

Syðst í Húshólmanum er tóft, skammt ofan við rekastíginn. Líklega tengist hún rekavinnslu í hólmanum. Neðan undir honum er Hólmasundið.
Efst í Húshólma er forn fjárborg og minjar selsstöðu, s.s. stekkur og kví. Þar er og hlaðið byrgi refaskyttu við eitt grenjanna. Stígur liggur út úr Húshólma efst í honum, en hann er sagður hafa verið gerður vegna þess að kirkjan í hólmanum hafi verið notuð eftir að hraunið rann. Aðrir benda á að hann kynni að vera tilkominn vegna selstöðunnar eða annarrar nýtingar, sem verið hefur í Húshólma í gegnum tíðina.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum.

Gengið var austur eftir stíg syðst í Húshólma, neðan undir gamla berginu og með stórkostlegt útsýni yfir að Krýsuvíkurbergi. Ofan bergins á þessu svæði vottar einnig fyrir garðlögum innan óbrennishólma.
Með austurjaðri Ögmundarhrauns er hlaðið stórt gerði, líklega fyrir hesta. Ofar, upp undir Borgarhól, er hlaðin fjárborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Brynjólfur Jónsson. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903. Rvk.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson. „Krísuvíkur eldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins.“ Jökull 38, 1988
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd.is/2/Fridlystar_fornleifar/Reykjanes%20og%20Reykjavik/husholmi.htm

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

/https://ferlir.is/husholmi/

Gufunes

Kristján H. Kristjánsson skrifaði eftirfarandi nýlega (2023) um „Gufunesið“ á samfélagsmiðlunum:

Gufunes

Gufunes.

„Ég kannaði Gufunesið sem er ógeðslegasta svæði Reykjavíkur. Mikið af drasli og vond lykt enda er umhverfissóðinn SORPA með starfsemi þarna. Ég tók eftir krossi við hól skammt frá Sorpu og kom þá í ljós að þarna eru margar líkamsleifar grafnar skv. minnisvarða, sem voru áður í kirkjugarð Maríukirkju, þar sem áburðarverksmiðjan var. Í Þorláksmáldaga sem kenndur var við Þorlák Þórhallsson biskup og gerður árið 1180 segir að Maríukirkja sé í Gufunesi. Prestur í Gufunesi á þeim tíma var Ásgeir Guðmundsson en hann lést kringum 1180. Kirkjan var lögð niður 1886. Kirkjan stóð um nokkra hríð og var notuð sem skemma en var svo rifin og kirkjugarðurinn sléttaður. Staðsetning kirkjunar glataðist með tímanum en við byggingaframkvæmdir við Áburðaverksmiðjuna 1978 komu upp mannabein sem reyndust tilheyra gamla kirkjugarðinum.

Gufunes

Gufunes.

Ákveðið var að láta grafreitinn víkja fyrir framkvæmdum og voru beinin flutt í nýjan grafreit í túninu og hófst verkið 6. ágúst 1968. Mjög víða í garðinum voru “leiðin” hvert ofaná öðru. Sumsstaðar mátti greina 3 beinagrindur hverja niður af annarri. Einnig mátti sjá það að engin kista hafði verið utan um líkið, heldur bara “fjöl” undir. Líka leit svo út fyrir að ekkert hafi verið, annað en líkaminn lagður í moldina. Engin kista var heil, utan ein barnskista, sem náðist heilleg, en mjög fúin. Á öllum kistunum var lokið fallið niður að botnfjöl og yfirleitt voru þessar kistufjalir svo fúnar að þær duttu í sundur þegar hreyft var við þeim. Við uppgröftinn komu upp 748 mannabein eða höfuðkúpur, sem taldar voru, auk barnskistunnar.

Gufunes

Gufunes.

Beinin voru látin í 125 kassa, sem voru allir af sömu gerð og stærð. Ekki fundust legsteinar eða brot af þeim. Undir lokfjöl einnar kistunnar lá silfurskjöldur áletraður, Páll Jónsson, sýslumaður, Elliðavatni, settur sýslumaður Gullbringu- og Kjósasýslu 1801-1803 og síðar 1818, dáinn 1819. Og í annarri kistu fundust tvö silfurlauf af sömu gerð, en mismunandi stærð. Þessi lauf voru á höfuð- og fótagafli. Í þriðju kistunni lá naglbítur. Þessi gripir og bein Páls fóru í Þjóðminjasafnið. Varðveist hefur altari úr kirkjunni. Það barst að Úlfarsfelli eftir að kirkjan í Gufunesi var aflögð.

Gufunes

Gufunes.

Þar var það lengi notað sem búrskápur, þar til séra Hálfdán Helgason á Mosfelli rakst á það og flutti heim að Mosfelli og notaði það við hjónavígslur. Síðar var það flutt að Reykjalundi og gert upp af Magnúsi Ingvarssyni, sem málaði rósamynstur á það, sem hann lærði í Noregi og er það núna notað þar við guðþjónustur. Ég fékk leyfi til þess að taka þessar myndir af altrarinu. – Ég tel rétt að flytja beinin í Gufuneskirkjugarðinn vegna þess að þetta er allt of ógeðslegur staður fyrir látna.“

Heimild:
-Kristján H. Kristjánsson.

Gufunes

Gufunes.

Heiðarvegur

Haldið var eftir slóð upp og austur yfir Bláfjallahorn. Þar blasir við varða á Heiðarveginum, h.y.s 591m. Vörðubrot er sunnar út undir Bláfjallahorninu.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Gengið var austur framhjá stórri vörðu hlaðinni úr hraunhellum. Framundan eru leirsléttur og eru nokkrar grjóthrúgur á þeim (hugsanlega fallnar vörður). Síðan tekur við vörðuð leið austur fyrir Kerlingarhnjúk. Fljótlega kemur stikaða leiðin um Reykjaveg á Heiðarveginn og hafa vörðurnar verið hlaðnar upp á þeim kafla. Við 14. vörðu eða vörðubrot beygir Reykjavegurinn í norð-austur í skarð á milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks. Áfram var haldið þvert fyrir dalkjaftinn milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks og fram á brúnir austan við hnjúkinn. (Taldar voru 7 vörður og vörðubrot á þeim kafla). Vörðubrot er á brúninni.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarvegi.

Vegalengd frá Bláfjallahorni er um 2 km. Héðan sést austur til jökla og suður til sjávar. Nokkuð bratt er beint niður brekkuna en meira aflíðandi rétt norðar utan í Kerlingarhjúk og einnig sunnar í hrauninu og er þar hugsanlega gata (steinar ofan á steinum). Mikið úrrennsli er hér og djúpir vatnsfarvegir í þykkum jarðvegi niður dalverpi í aflíðandi halla. Fljótlega sér fyrir götum í grasi og er mikið úrrennsli úr þeim. Lækjarfarvegur er hér með hraunbrún Heiðarinnar há og sjást götur norðan við farveginn. Virðist fylgja honum niður á Hrossahryggi og Hrossaflatir þar sem þær koma á Ólafsskarðsveginn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Þegar neðar dregur verða göturnar greinilegri, liggja í vallendi á bökkum vatnsfarvegsins sem orðinn er að árfarvegi. Þessi farvegur virðist taka við miklu af leysingarvatni af Heiðini há og Bláfjöllum austanverðum. Nú er komið að vörðu. Gatan virðist skiptast nokkrum sinnum. Önnur fer áfram niður með ánni en hin fer stytting yfir móa og virðist þræða valllendisræmur í gegnum móana. (Getur verið að vallendið hafi myndast við umferðina?). Næst er komið fram á brekkubrún og sést þá klettaborg framundan með þrem vörðum. Tvær eru syðst á klettinum og ein á norðurbrún og er hún stærst. Stór hella er neðarlega í hleðslunni og skagar út úr henni og virðist hún vísa á götuna norðan með klettinum.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Í holtinu er fallegt vatnsstæði eða drykkjarsteinn í berginu. Vörðurnar gætu hafa verið merki um það. Framundan sést steinn á kletti (varða) og er gatan sunnan við hana. Enn er varða á leið okkar nærri árfarveginum. Vegamót virðast vera á Hrossaflötum. Beint áfram er lækjarfarvegur sem hefur stefnu á Þúfnavelli austan við Geitafell. Hraun er hér undir og suður í átt að Geitafelli.
(Frá því að gengið var á brúnir í júní virðist eitthvað hafa verið átt við vörðurnar síðan þá).
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 2 klst og 20 mín.

Heiðarvegur

Varða við Heiðarveg.

Krýsuvík

Austan í Bæjarfellshálsi sunnanverðum er rétt; Krýsuvíkurétt. Réttin sú er augljós og hefur því veriðs kráð sem fornleif í opinberum skráningum. Skammt ofan við vestanverða réttina er húsatóft. Þessarar tóftar er hins vegar hvergi getið, hvorki í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningum.

Krýsuvíkurrétt

Bæjarfellsrétt (Krýsuvíkurrétt) í Bæjarfellshálsi.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a: „Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við. Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin.“

Krýsuvíkurrétt

Tóftin á Bæjarfellshálsi.

Þegar FERLIR var að skoða bæjarsvæðin rákust augu í forna tóft á Bæjarfellshálsi. Tóftin er grjóthlaðin, um 6.00×4.80m. Op er mót suðri. Yfir henni liggur mosi og lyng. Hleðslur eru greinilegar. Að sjá virðist hún vera mjög gömul.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Í fyrstu mætti ætla að þarna hefði verið fjárborg, en lögun hennar sem og hleðsla í vesturenda benda til annarra nota. Þessarar fornleifar er hvorki getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg, sem á að liggja þarna skammt frá.

Tóftarinnar er, líkt og áður sagði, ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þar segir einungis: “Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin. Hér vestur undan fellinu er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði.”
Tóft þessi er hins vegar allgreinileg. Telja verður því líklegt að á Krýsuvíkursvæðinu kunni enn að leynast ófáar fornleifar, sem ekki hafa verið skráðar.

Heimild:
-Krýsuvík – örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík. Tóftin er efst til vinstri.

Bali

„Bali var austasta jörðin í Garðahverfi og er hún í Garðahrauni, en svo nefnist hraunið Garðamegin við merkin, en Hafnarfjarðarhraun hinum megin. Áður mun allt hraunið hafa verið nefnt Garðahraun.

Bali

Bali – bæjarteikning 1903.

Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún (ÖS-KE). Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hafði Bali verið tómthús og hafði það verið uppbyggt u.þ.b tíu árum áður en jarðirnar voru skráðar. Það var þó komið í eyði þegar Jarðabókin var skráð og samkvæmt henni myndi það aldrei byggjast aftur nema mikill fiskigangur kæmi inn í Hafnarfjörð.“ (Jarðabók ÁM-PV).

Í Lesbók Morgunblaðsins 1977 er m.a. fjallað um bæi í Garðahverfi. Þar segir: „Bali er austastur bæja í Garðahverfi og stendur á hraunbrúninni, þar sem hraunið hefur runnið lengst í vestur. Þar var örlítið tún, en landið er aðeins rúmir 6 hektarar og allt í hrauni. Skammt er niður í fjöru og Hallgrímur sá er þar bjó framundir 1916 hafði bátkænu og veiddi mikið, bæði þorsk og grásleppu. Venjulega var aðeins 1 kýr í Bala en eftir 1930 fór Ólafur H. Jónsson kaupmaður í Hafnarfirði að búa í Bala. hann hafði þar um tíma 8 kýr og nokkrar kindur og keypti þá hey. En á seinni árum var hann hættur að hafa skepnur. Nú er Bali í eigu Garðabæjar og íbúðarhúsið er leigt Elísabetu Brand íþróttakennara, en Ingi Guðmundsson leigir gripahúsin og hefur þar hesta.“

Bali

Bali 1977.

Ari Gíslason skráði örnefni í Garðahverfi: „Hluti af Garðahreppi er það, sem fyrr var prestssetrið Garðar og hjáleigur þess. Þetta eru nú margar jarðir með samliggjandi túnum. Upplýsingar eru aðallega frá Guðmanni Magnússyni, Dysjum.
Eins og fyrr segir, eru þessar jarðir samtúna, og hallar þeim frá hæðinni, sem heitir einu nafni Garðaholt, og mót vestri niður til sjávar. Fyrst við merkin móti Hafnarfirði er Bali. Þar er klettur, sem heitir Balaklettur. Þar upp af er Balatjörn, og úr henni er Balatjarnarlækur. Upp með hraunbrúninni, ofan við Balatjörn, skerst hraunnef fram í tjörnina. Það heitir Mónef. Þar ofan við veginn í hraunjaðrinum er græn flöt, sem heitir Hvítaflöt og hraunnef þar ofar. Bakkastekksnef. Ofar er gamall stekkur, sem heitir Bakkastekkur. Mýrin öll, sem nær frá Garðaholti að hrauninu heitir Dysjamýri. Nú hefur henni verið skipt milli býla í hverfinu.“

Bali

Bali – loftmynd I.

Kristján Eiríksson skráði örnefni í Garðahverfi: „Stuðzt var við lýsingu Gísla Sigurðssonar á Garðahverfi, og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra. Þessir voru heimildarmenn: Guðmann Magnússon, fv. hreppstjóri, á Dysjum (Austur-Dysjum). Hann er fæddur á Dysjum 5. desember 1908 og hefur búið þar alla tíð, og ætt hans hefur verið á Dysjum síðan fyrir 1860.

Bali

Bali – liftmynd II; örnefni og minjar.

Jósef Guðjónsson í Pálshúsum. Hann er fæddur á Aðalbóli í Fremri-Torfustaðahreppi, V-Hún., 16. júní 1899. Hann kom að Pálshúsum árið 1919 og hefur búið þar síðan. Feðgarnir í Miðengi, Kristján Eyjólfsson og Ágúst Kristjánsson. Kristján er fæddur 9. september 1892 í Sviðholti á Álftanesi, og þar var hann alinn upp. Hann flutti í Miðengi 1928 og hefur búið þar síðan. Ágúst er fæddur í Miðengi 15. september 1931 og hefur alla tíð átt þar heima. Gísli Guðjónsson í Hlíð. Hann er fæddur á Setbergi 10. júlí 1891. Árið 1919 flutti hann að Hlíð og hefur búið þar síðan.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Tryggvi Gunnarsson í Grjóta. Hann er fæddur 14. janúar 1899 að Ragnheiðarstöðum í Flóa. Hann kom þriggja ára gamall að Miðengi í Garðahverfi, og var þar til 25 ára aldurs eða þar um bil. Þá flutti hann í Grjóta og hefur búið þar síðan. Ólafía Eyjólfsdóttir á Hausastöðum. Hún er fædd að Holti í Garðahverfi 17. desember 1890. Hún kom í Hausastaði 1895(?) og hefur að mestu átt þar heima síðan. Hefur sumt af henni verið fellt inn í þessa lýsingu, orðrétt eða því sem næst. Kristján Eiríksson skráði lýsinguna veturinn 1976 – 77.

Garðahverfi

Balastekkur.

Landamerki Garðahverfis eru úr steyptri vörðu á Balaklöpp vestan við Skerseyrarmöl. Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrði á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal Austasta jörðin í Garðahverfi er Bali, og er hún í Garðahrauni, en svo nefnist hraunið Garðamegin við merkin, en Hafnarfjarðarhraun hinum megin. Áður mun allt hraunið hafa verið nefnt Garðahraun.

Bali

Bali – matjurtargarður.

Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. Beint framan hans var lítil tjörn, nefnd Innritjörn. Vestan Innritjarnar og Bala er Balatjörn, dálítil tjörn innan við malarkampinn. Hér áður ruddi tjörnin sig í gegnum kampinn, sem kallaður er Balamöl, þegar mikið var í henni. Var hún þá kölluð Balasíki. Svo sagði afi Guðmanns á Dysjum, og einnig nefnir Sveinbjörn Egilsson Balasíki í sjóferðasögu sinni. Balaklettur gengur í sjó fram innan (austan) við Balamöl. Vestan við hann var lending frá Bala.

Bali

Bali – húsgrunnur.

Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u. þ. b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar. Álatjörn er suður af Bala, niður við malarkampinn. Í hana hefur borizt mikil möl á seinni árum. Austan hennar er Balaklöpp, áðurnefnd, og landamerkjavarða á henni. Lítil tjörn er fast vestan markalínunnar, fast austan við Balaklöpp. Skammt austan við þá klöpp lá gamli vegurinn til Hafnarfjarðar upp á hraunið og síðan niður af hraunbrúninni og með sjónum til Hafnarfjarðar. Út af Balaklöpp er skerjarani langt úti í sjó, sem nefnist Torfasker.

Bali

Balarétt.

Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts. Þessi örnefni eru á hraunjaðrinum með henni: Norðan við Bala gengur Mónef fram í mýrina. Hér áður var tekinn upp mór í Dysjamýri, en því var hætt, þegar Guðmann man eftir. Mórinn mun hafa verið þurrkaður á Mónefi. Áður lá vegur af Mónefi yfir Dysjamýri. Hann var nefndur Dysjabrú. Hvítaflöt er gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á hraunið. Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G. S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“

Bali

Nýliðar í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fengu að spreyta sig við slökkvistörf og reykköfun í bænum Bala, rétt fyrir utan Hafnarfjörð, í gær [Mbl. 2004].

Í „Fornleifaskráningu í Garðabæ“ árið 2009 má lesa eftirfarandi um Bala: „“Bali hefur verið tómthús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. … Nú er þetta býli öldungiss eyðilagt og í tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskiganga inn á Hafnarfjörð komi,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703.
„Sýslumaður nefnir eigi býli þetta, en jarðabækurnar telja hér 3 smábýli, sem sé Garða kirkjueign (Lángeyri, Bali og Skerseyri), en prestur nefnir Lángeyri eingaungu,“ segir jarðaskrá Johnsens frá 1847.
„Balatún: Tún býlisins Bala. Er eiginlega í Garðahverfi, en þar sem hann er á Hrauninu verður hann hér með. Balatúngarður: Túngarður austan túnsins aðallega,“ segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar.

Bali

Fiskhjallurinn, sem lengi stóð eftir og var einu leifar í Bala síðustu árin, var brenndur á sjómannadaginn 4. júní 2023.

„Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. .. Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u.þ.b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931 og brennt á æfingu nýliða slökkviliðsins 2004. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar,“ segir í örnefnaskrá Garðahverfis. Nákvæm staðsetning býli þess
sem getið er í jarðabók er ekki þekkt, en samkvæmt lýsingu hefur það sennilega verið skammt frá hjalli sem er nú á þessum slóðum og er á hraunbrúninni.
Í lægð í hrauninu, um 220 m N af hjalli sem er við Balakletta skammt frá þar sem býlið Bali var áður, er lítil rétt hlaðin úr hraungrýti.

Bali

Bali – fjárhús.

Réttin er skammt vestur af Balaafleggjaranum sem liggur af Garðavegi, um 90 m SV af útihúsi, 15-20 m N af útihúsi. Réttin er í grasigrónu hrauni. Nokkuð þýft er inni í aðhaldinu og í kring. Réttin er eitt hólf, sem er í laginu eins og hálfur hringur, en frá hólfinu liggur garðbrot til norðurs. Aðhaldið er hlaðið upp við hraunbrún ofan í lægð, og myndar hraunbrúnin austurvegg réttarinnar. Þó er búið að hækka og bæta í hraunbrúnina með hleðslum á tveim stöðum. Aðhaldið er um 15×9 m N-S að utanmáli. Það er hlaðið úr hraungrýti af öllum stærðum og er tilgengið og yfirgróið. Þykkt hleðslanna er 0,5-1 m og mest hæð er 1 m, en er víðast nokkuð minni.“

Heimildir:
-Jarðabók ÁM og PV 1703.
-Lesbók Morgunblaðsins – 31. tölublað (28.08.1977)
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Garðahverfi.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Garðahverfi.

Bali

Bali – fiskhjallurinn 2022.